Færsluflokkur: Bloggar
14.7.2018 | 13:38
Friðunarárátta úr böndunum
Ef beita á náttúrufriðunarvaldinu til að stöðva virkjunaráform, sem hlotið hafa blessun Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun um vernd og nýtingu orkulinda, hafa fengið samþykki Alþingis og Skipulagsstofnunar, sem skrifað hefur upp á með skilyrðum, þá jafngildir það því að slíta í sundur það friðarferli, sem stjórnvöld landsins hafa reynt að mynda um auðlindanýtingu á landi.
Það er alveg dæmalaust, að umhverfis- og auðlindaráðherra skuli ljá máls á tillögu Náttúrustofnunar Íslands frá 25. júní 2018 um friðlýsingu á væntanlegu athafna- og nýtingarsvæði Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði. Um er að ræða stækkun friðlandsins á Hornströndum til suðurs, um 1281 km2 svæði suður um Ófeigsfjarðarheiði.
Það er ósvífni að hálfu ríkisstofnunar og ólýðræðislegt í hæsta máta af Náttúrustofnun að leggja það til, að ríkið grípi fram fyrir hendur heimamanna, Vestfirðinga og íbúa í Árneshreppi sérstaklega, sem unnið hafa í mörg ár samkvæmt lögskipuðum ferlum að undirbúningi 55 MW, 400 GWh/ár, vatnsaflsvirkjunar á Ströndum, með því að biðja ráðherra um að leggja nýja náttúruminjaskrá um téð svæði fyrir Alþingi í haust. Þessa aðför að sjálfbæru mannlífi og atvinnulífi á Vestfjörðum á að kæfa í fæðingunni, og það mun Alþingi vonandi gera, því að til þess hefur ráðherra þessi ekki bein í nefinu.
Hann skrifaði 13. júní 2018 í Fréttablaðið grein um áhugamál sitt:
"Stórfelld tækifæri við friðlýsingar"
"Síðastliðinn föstudag [08.06.2018] kynnti ég í ríkisstjórn áform um átak í friðlýsingum, en í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um það. Átakið felur í sér að friðlýsa svæði, sem njóta eiga verndar gegn orkunýtingu (verndarflokkur rammaáætlunar) sem og svæði á eldri náttúruverndaráætlunum, sem ályktað hefur verið um að friðlýsa, en hefur ekki verið lokið."
Friðlýsing svæða í nýtingarhluta Rammaáætlunar er þarna ekki á dagskrá ráðherrans, enda eru slík endemi ekki í sáttmála núverandi ríkisstjórnar, þótt þar kenni ýmissa grasa. Ráðherrann er á pólitísku jarðsprengjusvæði með því að gefa undir fótinn með friðlýsingu á téðu landsvæði. Hann ætti að forðast að fara fram með offorsi í hinar friðlýsingarnar án samstarfs við og samþykkis viðkomandi sveitarstjórna, bænda og annarra landeigenda. Friðlýsingu má ekki troða upp á heimamenn af ríkisvaldinu.
Það mun fara eins lítið fyrir Hvaleyrarvirkjun í náttúrunni og hugsazt getur. Hún verður neðanjarðar að öðru leyti en stíflunum. Aflið frá henni verður flutt um jarðstreng. Flúðarennsli verður áfram, þótt það minnki á meðan vatnssöfnun í miðlunarlón á sér stað. Hönnun er sniðin við lágmarks breytingar á umhverfinu, þannig að útivistargildi svæðisins verður nánast í fullu gildi áfram, þótt verðmætasköpun aukist þar skyndilega úr engu og í meira en 2,4 miaISK/ár, sem gæti orðið andvirði raforkusölunnar frá virkjun m.v. núverandi markaðsverð. Þessi starfsemi getur orðið fjárhagsleg kjölfesta sveitarfélagsins, sem hýsir mannvirkin, á formi fasteignagjalda og auðlindargjalds o.fl.
Þann 26. júní 2018 staðfesti Skipulagsstofnun loksins breytingu á Aðalskipulagi Árneshrepps vegna framkvæmdanna. Skipulagsstofnun setti sem skilyrði, að vegagerð yrði í algjöru ágmarki og henni sleppt, þar sem hægt væri. Þetta er þó ekki til þess fallið að bæta mikið aðgengi ferðamanna að svæðinu, svo að áfram munu þá þeir einir komast þar víða um, sem fráir eru á fæti.
Þann 7. júní 2018 birtist ágæt grein í Morgunblaðinu eftir Kristin H. Gunnarsson, fyrrverandi Alþingismann, undir fyrirsögninni:
"Hvalá: stórstígar framfarir fyrir Vestfirðinga".
Hún hófst þannig:
"Hvalárvirkjun í Árneshreppi mun verða mikið framfaraskref fyrir Vestfirðinga. Afhendingaröryggi raforku mun batna mikið, framboð af raforku mun opna möguleika á nýrri atvinnustarfsemi, og útblástursmengun mun minnka verulega. Þessu verður hægt að ná fram með litlum tilkostnaði hins opinbera, þar sem einkaaðilar munu standa straum af framkvæmdum. Hvalárvirkjun er 55 MW virkjun og hefur tvisvar verið samþykkt í nýtingarflokk og staðfest af Alþingi."
Þetta eru sterk rök fyrir nytsemi þessarar virkjunar. Virkjunin er ekki "nice to have" fyrir Vestfirðinga, heldur bráðnauðsynleg til þess, að raforkukerfi Vestfjarða standi undir nafni, en sé ekki hortittur út úr hringtengingu landsins frá Hrútatungu í Hrútafirði. Til að halda uppi rafspennu í víðfeðmu raforkukerfi, eins og á Vestfjöðum, þarf öflugar virkjanir, og núverandi virkjanir þar hrökkva engan veginn til. Mikið spennufall jafngildir tiltölulega háum töpum og óstöðugri spennu. Aðeins hækkun skammhlaupsafls í raforkukerfi Vestfjarða getur dregið þar úr orkutöpum og gefið stífari spennu. Þetta er síðan skilyrði þess, að tæknilega verði unnt að færa þar loftlínur í jörðu; aðgerð, sem draga mun úr bilanatíðni kerfisins og bæta ásýndina. Þessar umbætur eru útilokaðar án framkvæmda á borð við Hvalárvirkjun. Jarðstrengir framleiða síðan rýmdarafl, sem virkar enn til spennuhækkunar og aukinna spennugæða á Vestfjörðum, en aukning skammhlaupsafls með nýjum virkjunum á svæðinu verður að koma fyrst.
Kristinn nefnir framtíðar möguleika til enn meiri styrkingar kerfisins, sem aukin raforkunotkun á Vestfjörðum mun kalla á. Þar er t.d. Austurgilsvirkjun í Skjaldfannardal, sem er í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3. Þannig eru 85 MW í nýtingarflokki og um 50 MW enn ekki þar. Alls eru þetta 135 MW með áætlaða vinnslugetu 850 GWh/ár.
Kristinn benti ennfremur á mikilvægi öflugs vestfirsks raforkukerfis fyrir raforkuöryggi landsmanna. Þar hefur hann mikið til síns máls, því að á Vestfjörðum þarf hvorki að búast við tjóni af völdum jarðskjálfta né eldgosa. Ofangreint rafafl mundi duga fyrir algera lágmarksnotkun landsmanna í mikilli neyð, þar sem skömmtun yrði að viðhafa. Vinnslugeta margra virkjana landsmanna getur skyndilega rýrnað verulega, t.d. í jarðskjálftum, þar sem gufuholur verða óvirkar, og/eða í eldgosum, þar sem aska og vikur leggst á miðlunarlón, stíflar vatnsinntakið eða skemmir hverflana. Vesturlína getur flutt um 100 MW hvora leið.
Af öðru sauðahúsi er annar höfundur um sama efnivið, Tómas, nokkur, Guðbjartsson, "læknir og náttúruverndarsinni". Hann hefur um hríð fundið hjá sér hvöt til að finna virkjunaráformum í Hvalá allt til foráttu og verið stóryrtur í garð virkjunaraðilans og eigenda hans. Umfjöllun Tómasar hefur verið mjög einhliða og gildishlaðin, þótt siðferðislega virðist hann ekki hafa úr háum söðli að detta, ef marka má fréttaskýringu Guðrúnar Erlingsdóttur í Morgunblaðinu 29. júní 2018,
"Háskólinn hefur beðist velvirðingar".
Þar gaf m.a. þetta á að líta:
"Í nóvember 2017 komst sænska siðanefndin að þeirri niðurstöðu, að Macchiarini og meðhöfundar hans [Tómas Guðbjartsson var þeirra á meðal-innsk. BJo] að vísindagreininni í The Lancet hefðu gerzt sekir um vísindalegt misferli."
Það er mikill áfellisdómur yfir manni, óháð stétt, þegar slíkur aðili sem téð siðanefnd lýsir tilteknum starfsháttum hans sem "vísindalegu misferli". Væntanlega má almenningur draga af því þá ályktun, að brestur sé í siðferðiskennd þeirra, sem slíkt drýgja.
Síðan segir í tilvitnaðri frétt Guðrúnar Erlingsdóttur:
"Í júní 2018 úrskurðar rektor Karólínsku stofnunarinnar með 38 blaðsíðna rökstuðningi, að Tómas Guðbjartsson ásamt 6 öðrum læknum sé ábyrgur fyrir vísindalegu misferli vegna greinaskrifa í The Lancet árið 2012, en áður en greinin birtist hafði New England Journal of Medicine hafnað greininni."
Þann 19. júní 2018 birtist ein af fjölmörgum greinum téðs Tómasar um fyrirhugaðar framkvæmdir Vesturverks á Ströndum. Hún hófst þannig:
"Fyrirhuguð Hvalárvirkjun hefur mikið verið til umræðu undanfarið, enda vægast sagt umdeild framkvæmd. Ástæðan er sú, að með virkjun er verið að fórna stórkostlegri íslenzkri náttúru í hendur HS Orku-jarðhitafyrirtækis í meirihlutaeign umdeildra kanadískra fjárfesta. Auk þess er ávinningur virkjunar vægast sagt óljós fyrir Vestfirðinga og þá ekki sízt íbúa Árneshrepps."
Það er með endemum, að maður, með slíka umsögn á bakinu og fram kemur í tilvitnunum frá Svíþjóð hér að ofan, skuli fara á flot í blaðagrein hérlendis með svo gildishlaðna frásögn og hér getur á að líta. Þótt ekki séu allir sammála um, að rétt sé að fara í þessar framkvæmdir, er gert of mikið úr ágreininginum, þegar gætt er að afgreiðslum Alþingis á málinu og afstöðu sveitarstjórnarinnar fyrir og eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Þá eru líklega langflestir Vestfirðingar fylgjandi því, að framkvæmda- og virkjanaleyfi verði veitt. Það er hins vegar engu líkara en allir tilburðir Tómasar í þessu máli séu til þess ætlaðir að magna upp ágreining um mál, sem víðtæk sátt hefur þó náðst um.
Að halda því fram, að fyrir þeim fjölda fólks, sem fylgjandi eru þessum framkvæmdum, sem og yfirvöldum landsins, sé ávinningurinn óljós, er mjög afbrigðilegt, enda hefur ávinningurinn oft komið fram opinberlega, og er að nokkru saman tekinn í þessum pistli. Í ljósi þess, að virkjun þessi verður algerlega afturkræf, er fjarstæðukennt að skrifa, að um fórn til kanadískra fjárfesta sé að ræða á íslenzkri náttúru. Slík skrif Tómasar eru marklaus.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.7.2018 | 12:42
Umhverfisverndarstefna í skötulíki
Stefna íslenzkra yfirvalda um verndun umhverfis er óbeysin. Þau hafa skuldbundið landsmenn til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda mikið, eða um 20 % árið 2020 og 40 % árið 2030 m.v. 1990. Reyndin er sú, að hún verður um 30 % meiri árið 2020 en 1990, og engin trúverðug áætlun hefur litið dagsins ljós um að ná 40 % markinu árið 2030.
Gróðurfarslegt ástand landsins er slæmt, og hægagangur á að hamla skemmdum lands af völdum ferðamanna, sem víða eru miklu fleiri en takmarkaðar eða engar mótvægisaðgerðir réttlæta.
Við þessar aðstæður mátti lesa þetta í frétt Fréttablaðsins, 25. júní 2018,
"Hefji undirbúning til að kaupa losunarheimildir fyrir Ísland":
"Vinna við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er einnig á eftir áætlun, en hún átti að liggja fyrir á vormánuðum [2018]. Vinnan er leidd af umhverfis- og auðlindaráðherra, en fulltrúar 6 annarra ráðherra koma að vinnu verkefnisstjórnar."
Það er engu líkara en stjórnvöld telji að sinni hálfu nóg að gert með því að leggja á kolefnisgjald og hækka það árlega. Jafnvel þetta kolefnisgjald er illa ígrundað. Það er ekki eyrnamerkt, þannig að það veitir engin sóknarfæri á sviðum, þar sem virkilega mundi muna um það í umhverfisvernd, eins og síðar verður að vikið. Kolefnisgjaldið er lagt á fljótandi jarðefnaeldsneyti, s.s. dísilolíu, svartolíu og benzín. Gjaldið var sett á í neyzlustýringarskyni, fyrst til að örva kaup á dísilbílum og síðan til að flýta fyrir orkuskiptum. Þar sem það hefur verið lagt á erlendis, hafa þar af leiðandi aðrir skattar verið lækkaðir á móti, svo að tekjuöflun ríkissjóðs stæði óbreytt. Segja má, að gjaldalegar ívilnanir til rafbílakaupenda hafi verið vísir að slíkri mótvægisaðgerð hérlendis (u.þ.b. 1 miaISK/ár).
Gera má ráð fyrir, að kolefnisgjald skili ríkissjóði miaISK 5,5 í ár og miaISK 6,6 árið 2020. Stuðningsaðgerðir við orkuskiptin, sem kostaðar eru af ríkissjóði, nema árlega mun lægri upphæðum. Stjórnvöld eru enn á villigötum með innheimtu og ráðstöfun kolefnisgjalds. Skortur á stefnumörkun tefur fyrir orkuskiptum. Stjórnvöld eru enn sem komið er hemill fremur en hvati á orkuskiptin, enda hafa þau ekki einu sinni getað tryggt næga raforku til allra landshluta. Á meðan slíkt herfilegt misrétti er við lýði í landinu, að sum héruð séu í raforkusvelti, eru stjórnvöld með allt á hælunum í orkuskiptamálum.
Einn er sá gjaldstofn kolefnisgjalds, sem bæði er ósanngjarnt og óskynsamlegt að nota, ef álagningin er í þágu orkuskipta. Þetta eru eldsneytiskaup sjávarútvegsins hérlendis. Að nota þennan gjaldstofn ósanngjarnt af tveimur ástæðum:
Í fyrsta lagi hefur sjávarútvegurinn einn allra atvinnugreina nú þegar náð markmiðum ríkisstjórnarinnar um 40 % minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 en 1990. Fyrir þetta ber að umbuna honum með því að fella kolefnisgjöld af eldsneytiskaupum hans niður og mynda þannig árangurshvata fyrir aðra. 50 % hækkun kolefnisgjalds um síðustu áramót leiddi til 4 % hækkunar á eldsneytiskostnaði sjávarútvegsfyrirtækja, sem er annar stærsti útgjaldaliður sjávarútvegsfyrirtækja á eftir launakostnaði. Á tímum 50 % hækkunar á heimsmarkaðsverði eldsneytis sýnir þessi gjörningur óvitaskap stjórnvalda, sem láta stjórnast af þokukenndri hugmyndafræði í stað markaðsstaðreynda.
Í öðru lagi nýtur fiskiskipafloti flestra hinna EES-landanna, t.d. Noregs, Danmerkur, Þýzkalands og Portúgals, undanþágu frá kolefnisgjaldi, eða þeir njóta endurgreiðslna úr viðkomandi ríkissjóði. Stjórnvöld veikja með þessu alþjóðlega samkeppnisstöðu íslenzka sjávarútvegsins og höggva þar með tvisvar í sama knérunn, sem þykir ógæfulegt.
Það er ennfremur óskynsamlegt að haga sér með þessum hætti, því að kolefnisgjaldið dregur úr fjárfestingargetu sjávarútvegsins, en fjárfestingar í nýjum fiskiskipum og verksmiðjubúnaði hafa verið undirstaðan að frábærum árangri hans í umhverfisvernd hingað til.
Þá að markvissri ráðstöfun kolefnisgjaldsins í því skyni að draga úr magni kolefnis í andrúmsloftinu:
Kolefni, C, berst þangað eftir ýmsum leiðum og ekki einvörðungu við bruna jarðefnaeldsneytis. Kolefni í andrúmslofti nemur nú 790 Tg (teragrömmum, tera er milljón milljónir), og til samanburðar er um 620 Tg af C í gróðri á jörðunni og 3000-4000 Tg í mold. Í mold er magn C meira en fjórfalt magn C í andrúmslofti, svo að brýnast er að binda C í vistkerfum jarðar. Þessar upplýsingar koma fram í grein prófessors Ólafs Arnalds,
"Moldin og hlýnun jarðar",
í Fréttablaðinu, 27. júní 2018. Af þessu má ráða, hvernig forgangsraða á fjármunum hins opinbera og annarra til að ná mestum árangri fyrir hverja krónu, en íslenzk stjórnvöld hafa enn ekki markað stefnu í þessa átt. Það er hneisa. Í greininni sagði m.a.:
"Það er ekki aðeins notkun jarðefnaeldsneytis, sem hefur aukið styrk gróðurhúsalofttegunda; vænn hluti aukningar þeirra í andrúmsloftinu á rætur að rekja til hnignunar vistkerfa. Ofnýting landbúnaðarlands leiðir til þess, að gengið er á lífrænan forða jarðvegsins, sem getur losað ógrynni CO2 til andrúmsloftsins. Nýleg skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands leiðir í ljós, að losun af þessu tagi hérlendis er af sambærilegri stærðargráðu og losun frá iðnaði, samgöngum og sjávarútvegi samtals, jafnvel mun meiri. [Þetta þýðir losun a.m.k. 3500 kt CO2 á ári, ef einvörðungu er átt við samgöngur á landi-innsk. BJo.]
Þá er áætlað, að losun á gróðurhúsalofttegundum frá framræstum votlendum á Íslandi sé meiri en losun frá iðjuverum og samgöngum landsins. [Þetta þýðir a.m.k. 3000 kt CO2 og er lægra en áður hefur sézt. Hérlendir vísindamenn hafa varað við flausturslegri endurheimt votlendis. Ef nýja vatnsstaðan nær ekki yfirborðshæð, er verr farið en heima setið-innsk.BJo.] Það er ákaflega hollt að hafa þetta samhengi hlutanna í huga við ákvarðanatöku á mótvægisaðgerðum vegna hlýnunar andrúmsloftsins."
Því miður virðist Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, vera að miklu leyti úti á þekju í störfum sínum og ekki hafa "samhengi hlutanna í huga við ákvarðanatöku á mótvægisaðgerðum". Hann hefur tekið tillögu frá Náttúrufræðistofnun Íslands um friðlýsingu lands sunnan Hornstranda og Drangajökuls til athugunar, þótt slík tillaga sé allt of seint fram komin, setji Rammaáætlun um vernd og nýtingu orkuauðlinda í uppnám og fyrirbyggi að líkindum virkjun Hvalár í Ófeigsfirði, sem ásamt fleiri aðgerðum á að draga stórlega úr olíubrennslu í kyndistöðvum (uppsett afl 24 MW) og neyðarrafstöðvum (20 MWe) á Vestfjörðum og mun draga úr raforkutöpum á landsvísu vegna flutnings raforku um langar vegalengdir.
Í frétt Fréttablaðsins, 25. júní 2018,
"Hefji undirbúning til að kaupa losunarheimildir fyrir Ísland",
var eftirfarandi haft eftir ráðherranum um viðbrögð við lélegum árangri í loftslagsmálum hérlendis:
""Við munum þó væntanlega þurfa að kaupa heimildir vegna fyrri skuldbindinga, sem miðast við árið 2020, en hversu miklar liggur ekki ljóst fyrir að svo stöddu", bætir Guðmundur Ingi við. "Ég vil hefja undirbúning kaupa á heimildum sem fyrst, þannig að Ísland sé í stakk búið til þess fyrr en á eindaga eftir 4-5 ár. Ljóst er þó, að fjárheimildir þarf fyrir slíkum kaupum.""
Þessi forgangsröðun ráðherrans er fyrir neðan allar hellur. Það á ekki að koma til mála að henda fé úr ríkissjóði Íslands til greiðslu á koltvíildiskvótum frá útlöndum (ESB). Hér getur hæglega verið um að ræða upphæð fyrir tímabilið 1990-2020, sem nemur um miaISK 10. Það ber þess í stað þegar í stað að setja afrakstur kolefnisgjaldsins, þann hluta, sem ekki hefur farið í mótvægisaðgerðir gegn koltvíildislosun hingað til, til að hefja kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri af miklum krafti.
Það verður að láta ESB vita, að við getum ekki samtímis greitt háar sektir og farið í skilvirkar mótvægisaðgerðir og að við höfum ákveðið að fara seinni leiðina samkvæmt vísindalegri ráðgjög Landbúnaðarháskóla Íslands og Skógræktar ríkisins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.7.2018 | 10:57
Norskir rafbílaeigendur fá að kenna á því
Norska ríkið hefur með alls konar gylliboðum lokkað bifreiðakaupendur til að velja sér rafknúna bifreið. Þetta ásamt tiltölulega lágu rafmagnsverði í Noregi og þar af leiðandi lægri rekstrarkostnaði rafmagnsbíla en jarðefnaeldsneytisknúinna bíla, ásamt ýmsum fríðindum, hefur leitt til mikillar forystu Norðmanna við innleiðingu orkuskiptanna. Hlutfallslega eru hreinrafbílar og tengiltvinnbílar samtals um 7 sinnum fleiri í Noregi en á Íslandi.
Í Noregi er "augnabliksmarkaður" á raforku. Framboð, eftirspurn og kerfisálag ræður verðinu. Í júní 2018 rauk verðið skyndilega upp að deginum, og er það óvenjulegt um hásumarið í Noregi, en stafar vafalaust af miklum útflutningi raforku um sæstrengi til útlanda og hugsanlega þurrkatíð. Norskum rafbílaeigendum brá í brún, þegar verð frá hleðslustöð nam sem svarar til 16,2 ISK/km (1,2 NOK/km), á meðan verð frá eldsneytisdælu nam 12,2 ISK/km (0,9 NOK/km). Þarna er raforkukostnaðurinn skyndilega orðinn 33 % hærri en eldsneytiskostnaðurinn og meira en þrefalt hærri en á Íslandi.
Á Íslandi er þokkalegur stöðuleiki í raforkuverði, en eldsneytisverðið sveiflast með markaðsverði hráolíu. Um þessar mundir nemur orkukostnaður rafbíls um 5 ISK/km og eldsneytisbíls um 20 ISK/km. Orkukostnaður rafbíls er 25 % af orkukostnaði jarðefnaeldsneytisbíls. Þetta myndar sterkan hvata til orkuskipta í umferðinni hérlendis, þótt innkaupsverð rafbíla sé enn þá hærra en hinna vegna lítils fjölda. Rafbílar eru einfaldari að gerð, og viðhaldskostnaður þeirra þar af leiðandi lægri. Rafgeymakostnaðurinn vegur þarna á móti, en hann hefur hins vegar lækkað um 80 % á kWh á einum áratugi.
Það var aflgjaldið í raforkuverðinu við rafgeymahleðslustöð, sem sums staðar í Noregi hafði hækkað um 60 % og hleypt raforkukostnaðinum 33 % upp fyrir eldsneytiskostnaðinn, þ.e. úr 2,5 NOK/mín upp í 4,0 NOK/min.
Hér sjáum við angann af því, hvað verðsveiflur á orku geta haft mikil áhrif á orkuskiptin. Grundvöllur skjótra orkuskipta er lækkun orkukostnaðar notenda, auk þjóðhagslegs gildis gjaldeyrissparnaðarins, sem af þeim hlýzt. Fyrirsjáanleiki um þróun innlends orkuverðs er lykilatriði í þessu sambandi, svo að litlir og stórir fjárfestar meti fjárhagsáhættuna litla af því að stíga þau skref til orkuskipta, sem eru nauðsynleg til að ná mjög metnaðarfullum markmiðum stjórnvalda. Ef stjórnvöld stíga vanhugsuð skref í orkumálum, sem leiða til jafnvægisleysis þar og jafnvel meðalverðshækkana, þá tefja þau þar með orkuskiptin.
Nú vinnur Landsnet að undirbúningi einhvers konar uppboðsmarkaðar fyrir raforku á Íslandi. Hvaða vandamál á hann að leysa ? Ef hann bætir ekki kjör almennings á Íslandi, er verr farið en heima setið. Það er öruggt, að verðsveiflur á raforku munu aukast við innleiðingu uppboðsmarkaðar, en óvíst er um ársmeðalverðið. Þessa tilraun ætti um sinn að takmarka við markað ótryggðrar raforku, því að ella getur tilraunin orðið of dýru verði keypt, jafnvel þótt markaður utan langtímasamninga hérlendis nemi aðeins um 20 % af heild.
Varnaðarorð Elíasar Elíassonar, sérfræðings í orkumálum, eiga vel við hér, en grein eftir hann birtist í Morgunblaðinu 26. júní 2018 undir fyrirsögninni:
"Lög og raforkumarkaður" .
Hún hófst þannig:
"Fyrir frjálsan raforkumarkað er afar mikilvægt, að lagaramminn sé rétt hannaður eftir aðstæðum, einkum þar sem vatnsorka er ráðandi. Nokkur dæmi eru um, að óheppilegur lagarammi valdi slæmum verðsveiflum á slíkum mörkuðum og jafnvel hruni. Þetta er alþekkt."
Síðan snýr hann sér að líklegum afleiðingum þess að innleiða hérlendis Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB, þótt rafkerfið sé ótengt útlöndum:
"Skoðun mín er hins vegar sú, að hönnun þriðja orkupakka ESB, sem er rammi um markað fyrir raforku úr gasi og kolum, sé óheppileg fyrir okkar vatnsorkukerfi og veiti hvorki raforkumarkaði hér rétt aðhald né tryggi nauðsynlega hvata. Þetta getur bæði valdið hærra orkuverði hér en ella og kallað á óhagkvæmar fjárfestingar og annan kostnað hjá notendum. Ekki er tímabært að skoða málin eftir komu sæstrengs."
Það er áríðandi á þessum tímapunkti, að stjórnvöld og landsmenn allir átti sig á því, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB, sem Sameiginlega EES-nefnd EFTA og ESB hefur samþykkt til innleiðingar í löggjöf EFTA-landanna, illu heilli, nema Sviss, er miðaður við raforkukerfi, sem í grundvallaratriðum er ólíkt íslenzka raforkukerfinu. Framhjá þessari staðreynd hafa bæði iðnaðarráðuneytið og utanríkisráðuneytið horft, þegar þau í blekkingarskyni og/eða af vanþekkingu á því um hvað málið snýst, hafa haldið því fram, að áhrif innleiðingarinnar muni verða lítil fyrir Íslendinga, á meðan enginn er aflsæstrengurinn. Þetta er afneitun á því, að búrókrötunum í Brüssel hefur eðlilega ekki dottið það í hug að líta til hagsmuna Íslands, þegar þeir smíðuðu téðan orkumarkaðslagabálk, og íslenzkum kunnáttumönnum á sviði "vatnafærni" var ekki veitt neitt tækifæri til að koma þar sjónarmiðum sínum að. (Vatnafærni er ekki kunnáttan um það, hvernig bezt er að fara yfir ár, heldur samsafn fræða, er lúta að rekstri vatnsorkuvera.)
Eitt hefur áhrif á annað. Stórir lagabálkar frá ESB, sem innleiddir eru sem lög hér, hafa áhrif á öllum sviðum þjóðlífsins og á hag allra. Þess vegna verður að vanda til verka. Þar sem enginn kostur er á að sníða agnúana af og laga bálkana að íslenzkum aðstæðum, á Alþingi ekki að hika við að nota stjórnskipulegan rétt sinn og hafna gjörðum ESB, sem bersýnilega valda landsmönnum meira tjóni en gagni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.7.2018 | 15:24
"Alþingi gekk of langt"
Persónuverndarlöggjöf ESB, "General Data Protection Regulation-GDPR", er sniðin við miklu stærri samfélög en hið íslenzka, og verður þess vegna ofboðslega dýr í innleiðingu hér sem hlutfall af tekjum fyrirtækja og stofnana. Sá kostnaður er svo hár, að koma mun niður á almennum lífskjörum almennings á Íslandi. Yfirvöld hérlendis hafa kastað höndunum til kostnaðaráætlana fyrir þessa innleiðingu og rekstur kerfisins, eins og berlega kom fram í Morgunblaðsgrein Gunnhildar Erlu Kristjánsdóttur, 12. júní 2018, lögfræðingi og sérfræðingi í persónurétti hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, SFV,
"Áhrif nýrra persónuverndarlaga á ríkissjóð".
Að margir Alþingismenn líti á það sem skyldu sína að samþykkja hvaðeina inn í íslenzka lagasafnið, sem Evrópusambandinu (ESB) þóknast að merkja sem viðeigandi fyrir EFTA-löndin, er þyngra en tárum taki, því að þeim er tryggður synjunarréttur í EES-samninginum, og hann felst líka í fullveldi landsins, sem þingmenn saxa ískyggilega á með þessu háttarlagi. Þá er samfélagslegur kostnaður af innleiðingu og rekstri viðamikilla orkubálka og aragrúa tilskipana og reglugerða svo mikill, að hann nær þjóðhagslegum stærðum, sem hamla hér lífskjarabata. Það er litlum vafa undirorpið, að EES-aðildin er byrði á hagkerfi landsins en ekki léttir, eins og mönnum var talin trú um í upphafi. Hvergi á byggðu bóli, nema á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein, tíðkast að verða að taka upp löggjöf nágrannans í eigin löggjöf til að mega eiga við hann viðskipti, enda eru annars konar tengsl við hann á formi fríverzlunarsamnings, e.t.v. á milli EFTA og ESB, fyllilega raunhæf.
Viðskiptaráð Íslands hefur áætlað, að beinn og óbeinn árlegur kostnaður landsins af opinberu regluverki nemi miaISK 175, uppfærður til verðlags 2018. Mikið af þessu stafar af gagnrýnislítilli innleiðingu gjörða ESB, en hluti af þessu opinbera regluverki er auðvitað nauðsynlegur. Ef áætlað er, að 60 % falli illa að þörfum íslenzks samfélags og mætti losna við að ósekju, nemur óþörf kostnaðarbyrði fyrirtækja og hins opinbera af regluverki um 105 miaISK/ár. Regluverkið má vafalaust grisja verulega og aðlaga smæð þjóðfélagsins. Það er sjálfsagt að ráðast í það, eftir "Iceexit", ári eftir uppsögn EES-samningsins.
Með nýju persónuverndarlögunum er verið að auka mikið við þetta bákn með stofnkostnaði, sem gæti numið um miaISK 20 m.v. kostnaðaráætlun ESB (miaISK 17,6) og danska áætlun um kostnað fyrirtækja, en enn hærri upphæð m.v. sænska áætlun. Að viðbættum kostnaði sveitarfélaga og stjórnarráðs fást alls um miaISK 20. Sveitarfélögin áætla stofnkostnaðinn 0,2 % af tekjum og árlegan rekstrarkostnað 56 % af stofnkostnaði, sem þá þýðir 11 miaISK/ár, ef þessi áætlun er yfirfærð á landið allt. Við þennan kostnað þarf að bæta óbeinum kostnaði, sem aðallega stafar af þunglamalegri stjórnsýslu, minni afköstum og minni framleiðniaukningu. Þessi rekstrarkostnaður mun þess vegna árlega vaxa mun meir en almennum verðlagshækkunum nemur.
Þessi kostnaðarauki er grafalvarlegt mál í ljósi þess, að hann leiðir aðeins til minni verðmætasköpunar á tímaeiningu og aukið öryggi gagna er vafasamt, að náist í raun með gríðarlegu auknu skrifræði. Samþykkt Alþingis á innleiðingu GDPR var misráðin, enda mun hún óhjákvæmilega rýra lífskjörin á Íslandi og líklegast lífsgæðin líka. Þetta hefst upp úr því að afrita löggjöf hálfs milljarðs manna ríkjasambands gagnrýnislaust fyrir 0,35 milljóna manna smáríki. Það er ekki öll vitleysan eins í henni versu.
Upplýsingar um þetta má lesa í úttekt Viðskiptablaðsins, 21. júní 2018,
"GDPR gæti kostað milljarða".
Í úttektinni segir á einum stað:
"Alþingi leiddi efni reglugerðarinnar í íslenzk lög fyrir rúmlega viku, en þar sem vernd persónuupplýsinga er talin [vera] hluti af EES-samninginum, bar Alþingi skylda til að taka GDPR upp í íslenzkan rétt, nánast eins og hún kemur fyrir af skepnunni."
Þetta er útbreiddur misskilningur. Sameiginlega EES-nefnd EFTA og ESB ræðir upptöku mála í réttarkerfi EFTA-ríkjanna þriggja, sem ESB ætlast til, að spanni allt EES-svæðið. Þessi nefnd úti í Brüssel getur þó ekki skuldbundið þjóðþingin til eins né neins, en í reynd hefur verið mjög lítið um, að þau synji gjörðum ESB samþykkis. Af þeim sökum er eina ráðið til að losna undan lagasetningarvaldi ESB að segja upp EES-samninginum, og það er orðið brýnt af fullveldisástæðum og af kostnaðarástæðum. Í staðinn koma fríverzlunarsamningar EFTA við ESB og Bretland, eða tvíhliða samningar. Styrkur yrði að Bretlandi innan EFTA, en Neðri-málstofa brezka þingsins aftók, að Bretland gengi í EES, enda færu Bretar þá úr öskunni í eldinn.
Það virðist hafa verið fljótaskrift á afgreiðslu Alþingis, sem er ámælisvert. Undir millifyrirsögninni,
"Alþingi gekk of langt",
stóð þetta í téðri úttekt:
"GDPR hefur að geyma ýmis ákvæði, sem heimila þjóðþingum aðildarríkja ESB og EES að setja sérreglur ásamt því að takmarka eða útfæra nánar tiltekin ákvæði reglugerðarinnar. Íslenzka ríkið hafði þannig svigrúm til að ákveða með hversu íþyngjandi hætti GDPR var innleitt. Davíð [Þorláksson, forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins] segir Alþingi þó hafa gengið lengra í innleiðingu reglugerðarinnar en nauðsyn bar til.
"Íslenzka ríkið ákvað að innleiða reglugerðina með mjög íþyngjandi hætti fyrir atvinnulífið með setningu sérreglna og takmarkaðri nýtingu á undanþáguheimildum", segir Davíð. Dæmi um slíkar sérreglur eru vinnsla persónuupplýsinga látinna einstaklinga, leyfisskylda til vinnslu, dagsektir, og að fyrirtæki í landinu standi undir kostnaði við Eftirlit Persónuverndar.
" Þannig er reglugerðin dýrari fyrir íslenzk fyrirtæki en í flestum öðrum ríkjum. Þar með hefur Alþingi ákveðið að grafa undan samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja á alþjóðavettvangi, sem hefur farið versnandi.""
Hér eru firn mikil á ferð. Embættismannakerfið íslenzka með ráðherra í forystu leggur svimandi byrðar á atvinnulíf og stofnanir án þess að huga nokkurn skapaðan hlut að því að reyna að búa svo um hnútana, að byrðar þessar verði sem léttbærastar. Ósóminn rennur síðan á leifturhraða gegnum Alþingi. Hér bregðast þeir, er sízt skyldi. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð, sem sýna svart á hvítu, að íslenzka stjórnkerfið ræður ekki við EES-aðildina. Eina lausnin á þessu stjórnkerfisvandamáli er að losa Ísland úr hrammi ESB með uppsögn EES-samningsins áður en stjórnkerfið íslenzka í glópsku sinni og vanmætti glutrar niður leifunum af fullveldinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2018 | 11:42
Gagnrýni á aðferðafræði við embættisveitingu
Ráðningar í æðstu embætti ríkisins þurfa að vera hafnar yfir gagnrýni. Landsmenn eiga heimtingu á því, að val í þessi embætti sé hlutlægt, en ekki persónulegt, og að aðferðafræði valsins sé til þess fallin að finna hæfasta einstaklinginn í embættið. Því miður virðist pottur vera brotinn í þessum efnum hjá ríkinu við val á Vegamálastjóra, sem ráðinn var 2. júlí 2018. Þar af leiðandi virðist vera allt of mikill losarabragur á þessum mikilvægu málum, sem brýnt er að bæta úr hið snarasta.
Fyrsta sjáanlega misfellan í umræddu ráðningarferli kom í ljós við birtingu auglýsingar eftir nýjum Vegamálastjóra í apríl 2018. Í stuttu máli var hún með öllu óviðeigandi, en hefði sómt sér ágætlega sem auglýsing eftir sveitarstjóra. Sem dæmi þá var ekki krafizt háskólamenntunar af umsækjendum. Samt eru 37 % starfsmanna Vegagerðarinnar eða 109 manns með háskólapróf. Þetta má ekki verða reglan hjá ríkinu.
Að sleppa þessari sjálfsögðu kröfu í auglýsingu vekur tortryggni. Fram hefur komið, að hæfnisnefnd ákvarðaði hæfnisþætti út frá aulýsingunni. Dýralæknir hefði líklega fengið 0 % fyrir hæfnisþáttinn "háskólamenntun, sem nýtist í starfi", en verkfræðingur á sviði samgöngumannvirkja eða samgöngutækni hefði jafnvel fengið 100 % fyrir þennan þátt og þar með náð forskoti á dýralækninn, sem dygði til að fá hæstu einkunn í þessu hæfnismati.
Án þess að fara út í innbyrðis mat á umsækjendum þá er óskiljanlegt, að dýralækninum skyldi hlotnast hæsta einkunn í þessu mati. Önnur menntun hans var markaðsfræði frá Chartered Institute of Marketing, sem ekki verður séð, að nýtist neitt í starfi Vegamálastjóra, og Rekstrar- og viðskiptafræði frá Endurmenntun HÍ, sem hefur lítið gildi fyrir þetta starf. Umsækjandinn hefur 20 ára stjórnunarreynslu, en úr gjörólíku starfsumhverfi, sem á lítið skylt við stjórnun starfsemi á borð við Vegagerðina og vegur þar af leiðandi mun minna en t.d. verkefna- eða deildastjórnun úr starfsemi eða umhverfi Vegagerðarinnar.
Í frétt af þessari ráðningu á bls. 2 í Morgunblaðinu þann 3. júlí 2018 stóð þetta:
""Við teljum, að það hefði þurft að horfa til fagþekkingar og reynslu í tengslum við verkefni Vegagerðarinnar við auglýsingu og ráðningu forstjórans", segir Páll Gíslason, formaður Verkfræðingafélags Íslands, í samtali við Morgunblaðið.
Stjórn félagsins hafði gert skriflega athugasemd við auglýsingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins eftir nýjum forstjóra Vegagerðarinnar í apríl sl. og lagði til, að staðan yrði auglýst upp á nýtt. VFÍ vildi, að gerð yrði krafa um viðeigandi háskólamenntun umsækjenda. Ekki var gerð krafa um sérstaka menntun.
"Ef ekki er gerð krafa um fagþekkingu í auglýstri stöðu sem þessari, þá byrjar ráðningin að lykta pólitískt, og margir hæfir einstaklingar halda sig þá til hlés", segir Páll."
Kvörtun VFÍ við ráðuneytið út af meingallaðri auglýsingu var fyllilega réttmæt. Kvörtunin var hunzuð, sem gefur til kynna, að ekki var um slys að ræða, heldur var auglýsingin hönnuð með eitt í huga, sem síðar kom á daginn, þ.e. að matsnefndin reisti matsþætti sína og jafnvel innbyrðis vigtun þeirra á þessari auglýsingu. Með þessum ófaglegu vinnubrögðum hefur ráðuneytið gefið almenningi fullt tilefni til að halda, að um einbeittan brotavilja hafi verið að ræða gegn réttindum allra umsækjenda, nema eins.
Vinnubrögð af þessu tagi eru ólíðanleg hjá ríkisvaldi. Fyrir veigamikil embætti á vegum ríkisins hlýtur að vera til starfslýsing. Auglýsinguna á að sníða eftir þessari starfslýsingu. Starfslýsing Vegamálastjóra er ekki aðgengileg opinberlega, en af lýsingu á hlutverkum og gildum Vegagerðarinnar, eins og þau koma fram á heimasíðu hennar, má álykta um, hvað einkennir þessa starfslýsingu.
Á vefsetri Vegagerðarinnar getur t.d. að líta þetta:
Hlutverk: vegagerð, þjónusta og viðhald vega.
Að þróa og sjá um vegakerfið á sem hagkvæmastan hátt með þarfir samfélagsins, öryggi vegfarenda og umhverfissjónarmið að leiðarljósi.
Samgönguráðherra hefur yfirstjórn vegamála. Hann skipar Vegamálastjóra til að veita Vegagerðinni forstöðu og stjórna framkvæmdum á sviði vegamála.
GILDI:
Fagmennska [undirstr. BJo]. Við búum yfir sérþekkingu og vinnum af fagmennsku.
Öryggi: Við höfum öryggi ávallt í fyrirrúmi.
Framsýni: Við byggjum á reynslu og horfum til framtíðar.
Fréttablaðið birti 3 hæstu vægistuðlana af 9 í matskerfi hæfnisnefndarinnar í frétt á bls. 2 þann 4. júlí 2018. Ráðherra hefur lofað að birta öll gögn þessarar ráðningar, og þá hlýtur einkunnagjöfin að verða birt. Það er ómögulegt að átta sig á því af matsþáttum og vægi þeirra, að fremur sé verið að leita að Vegamálastjóra en t.d. sveitarstjóra, og má rekja það til gallaðrar auglýsingar. Fréttinni lauk þannig:
"Umsækjendur um starfið voru metnir út frá 9 hæfnisþáttum, sem sérstök hæfnisnefnd skilgreindi út frá þeim kröfum, sem fram komu í starfsauglýsingunni [1]. Mest vægi hafði stjórnunarreynsla eða 25 % [2], reynsla af rekstri og áætlanagerð vóg 20 % [3] og þekking á samgöngum eða atvinnulífi 15 % [4]."
[1] Til að eitthvert vit sé í hæfnisþáttum og vægi þeirra, verða þeir að endurspegla áherzluatriði starfslýsingarinnar. Það er mjög lítil samsvörun á milli hlutverka- og gildislýsingar Vegagerðarinnar hér að ofan (rauðletraðar) og hæfnisþáttanna. Það er svo lítill skyldleiki, að matið verður marklaust.
[2] Stjórnunarreynsla er af svo ólíkum toga, að í starfsmati verður að afmarka hana, svo að hún hafi skírskotun til stjórnunarverkefna Vegamálastjóra.
[3] Brýnt er við starfsmat að afmarka reynslu af rekstri og áætlanagerð við keimlíka starfsemi og leitað er að starfsmanni í. Hér er það rekstur tæknidrifinnar starfsemi í almannaþágu og mótun áætlanagerðar hennar vegna.
[4] Í eina skiptið, sem minnzt er á kröfur um þekkingu á samgöngum, þá er sú krafa útþynnt með því að bæta atvinnulífi við, sem gerir kröfuna marklausa.
Það eru svo alvarlegir gallar á þessu ráðningarferli frá upphafi til enda, að því verður vart í einu orði lýst, nema sem hneyksli. Ráðuneytin verða að endurskoða ferli sín á þessu sviði, hætta þessum lausatökum og koma þessum málum í fastar skorður. Á endanum er það almenningur, sem líður fyrir fúsk á þessu sviði. Þjóðin þarf á því að halda, að hæfasta fólkið, sem á sér gefur kost á hverjum tíma til mikilvægra embætta, fái brautargengi þangað og aðrir ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.7.2018 | 10:41
Undanhaldsmenn vorra tíma
Alþingi samþykkti nýlega gríðarlegan lagabálk frá Evrópusambandinu, ESB, um persónuvernd. Það eru áhöld um, hvort persónuvernd Íslendinga verði markvert betur komið eftir innleiðingu þessa lagabálks en áður. Það er líka ástæða til að staldra við og athuga, hvort s.k. persónuvernd sé komin út í öfgar. Kári Stefánsson, læknir, hefur t.d. bent á, hversu öfugsnúin persónuverndarlagaflækjan er orðin, þegar hún kemur í veg fyrir, að bjargað sé lífi með upplýsingagjöf til þeirra, sem búa að áhættusömum erfðaeiginleikum.
Það er engum vafa undirorpið, að beinn fjárhagslegur kostnaður þjóðfélagsins er allt of hár m.v. ávinning samfélagsins af risaumgjörð um lítið. M.v. kostnaðaráætlanir, sem sézt hafa, t.d. í Viðskiptablaðinu 21. júní 2018, má ætla, að heildarstofnkostnaður á Íslandi muni nema miaISK 20 og rekstrarkostnaður kerfisins verði 11 miaISK/ár. Þetta höfum við upp úr því að kokgleypa lagasetningarvald búrókratanna í Brüssel, sem ýja ekki hálfri hugsun að aðstæðum í 0,35 M manna samfélagi, þegar þeir semja sín lög. Það er fáheyrt, að ráðamenn hér skuli hafa afnumið lýðræðið hérlendis að stórum hluta og sett landsmenn í spennitreyju stjórnlauss kostnaðarauka, sem lítið sem ekkert gefur í aðra hönd. Ekki sízt í ljósi veikrar samkeppnisstöðu fyrirtækjanna verður að stöðva þessa öfugþróun hið snarasta. Á aldarafmælisári fullveldis er afmælisbarnið, óskabarn þjóðarinnar, að verða hjómið eitt. Það verður holur hljómur frá sömu stjórnmálamönnum, sem í hátíðarræðum munu berja sér á brjóst og dásama fullveldið.
Stofnkostnaður á við 65 MW virkjun og rekstrarkostnaður á við 950 MW vatnsaflsvirkjun, sem fer beint út um gluggann, er þyngri en tárum taki, enda mun þessi gjörningur óhjákvæmilega draga niður lífskjörin hér í okkar smáa samfélagi. Þegar af þeirri ástæðu er þetta óverjandi gjörningur, en verra er þó, að í innleiðingu hans í íslenzka lagasafnið felst skýlaust Stjórnarskrárbrot og að auki brot á upphaflega EES-samninginum, sem kvað fortakslaust á um tveggja stoða fyrirkomulag, jafnréttisstöðu EFTA og ESB, við innleiðingu nýrra gjörða frá ESB. Það sýnir sig, að þrýstingur frá hinum tveimur EFTA-löndunum og ESB er íslenzkum valdsmönnum ofviða. Við þessu er aðeins eitt svar. Róttæk breyting á tengslum Íslands við ESB.
Þetta kom allt fram í greinargerð prófessors Stefáns Más Stefánssonar, sérfræðings í Evrópurétti til utanríkisráðherra, sem fékk Stefán ráðuneytingu til halds og trausta í undirbúningi innleiðingar, en hunzaði síðan ráðleggingar hans fullkomlega. Svona gera menn ekki.
Það var ekki að ófyrirsynju, að Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, reit á innlendan vettvang sinn í Morgunblaðinu 16. júní 2018 greinina:
"Er sjálfstæðisbaráttan að gleymast ?"
"Í stórmerkri ræðu, sem Bjarni, heitinn, Benediktsson, síðar formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, flutti á Landsfundi flokksins á Þingvöllum 18. júní 1943, ræddi hann um fullveldið 1918, sem við minnumst á þessu ári, og sagði:
"En sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar að þessu leyti lauk með sigri 1918, segja sumir. Vissulega má til sanns vegar færa, að þá hafi ánauð hennar verið lokið. En var fullt stjórnskipulegt frelsi hennar þar með fengið ? Var verkefni hinnar eiginlegu sjálfstæðisbaráttu þar með úr sögunni ?
Mundi sá bóndi telja sig að fullu frjálsan, sem að vísu mætti ákveða sjálfum sér og heimafólki sínu reglur til að fara eftir, en þyrfti þó að leita samþykkis óðalsbónda á fjarlægri jörð til þess að fyrirmælin hefðu nokkra þýðingu ? Ef hann mætti ekki hafa skipti við nágranna sína, nema fyrir milligöngu óðalsbóndans eða öllu heldur vinnumanna hans, yrði að hafa einhvern þessara vinnumanna með í förinni, ef hann skryppi í kaupstað, og engin þessara viðskipta hefðu lögformlegt gildi, nema óðalsbóndinn samþykkti ? Ef hann að vísu mætti hafa eigin hund til að reka úr túninu, en hefði þó, til þess að víst væri, að fjárreksturinn færi fram eftir öllum listarinnar reglum, jafnframt sérstaklega vaninn hund frá óðalsbóndanum til túngæzlunnar ? Og mundi bóndi telja þann eignarrétt á jörð sinni mikils virði, sem því skilyrði væri háður, að 30 menn aðrir mættu hafa af henni öll hin sömu not og sjálfur hann ?
Slíku frelsi mundi enginn íslenzkur bóndi una til lengdar. Auðvitað þættu honum þessi kjör betri en alger ánauð, en honum mundi þykja það furðulegt, ef honum væri sagt, að nú væri frelsisbaráttu hans lokið. Og honum mundi þykja það óþörf spurning, ef hann væri að því spurður, hvort hann vildi ekki una þessum kjörum sínum enn um sinn, þegar sá tími væri kominn, að hann ætti rétt á algeru frelsi. En aðstaða íslenzku þjóðarinnar er eftir sambandslögunum einmitt hin sama og bónda þess, sem nú var lýst."
Þetta var áhrifarík lýsing á aðstöðu íslenzku þjóðarinnar árið 1943 hjá dr Bjarna Benediktssyni. Það er sláandi, að mörg atriði í þessari dæmisögu eiga við aðstöðu Íslendinga á 100 ára afmælisári fullveldisins, þótt lýðveldið sé orðið 74 ára, vegna þróunarinnar á EES-samninginum, sem Alþingi samþykkti í ársbyrjun 1993. Viðskiptaaðgangur að Innri markaði EES er einfaldlega allt of dýru verði keyptur. HINGAÐ
Þingmenn samþykkja nú hvern stórgjörninginn frá Brüssel og telja það skyldu sína, sem er alrangt í þeim tilvikum, þegar þessir gjörningar virða ekki upprunalegt tveggja stoða samkomulag EFTA og ESB og/eða þegar innleiðing þessara gjörninga felur í sér brot á Stjórnarskrá Íslands, sem að beztu manna yfirsýn var í tilviki nýsamþykktrar persónuverndarlöggjafar.
Styrmir skrifar:
"Og hvernig má það vera, að forystusveit þess flokks, sem óumdeilanlega hafði algera forystu í lokakafla sjálfstæðisbaráttu íslenzku þjóðarinnar, hafi haft þær athugasemdir um stjórnarskrárbrot að engu, sem fram komu ?"
Í lok gagmerkrar greinar sinnar skrifaði Styrmir og skal taka undir hvert orð:
"Það er hægt að krefjast breytinga á EES, og það er líka hægt að segja þeim samningi upp. Á Þingvöllum fyrir 75 árum talaði Bjarni, heitinn, um "undanhaldsmenn" þeirra tíma. Getur verið, að undanhaldsmenn okkar tíma séu þeir, sem hörfa skref af skrefi undan ásókn Brüssel ?
Hvað ætla þeir að gera með orkumálapakka ESB í haust ? Ætla þeir að opna leiðina fyrir yfirráð Brüssel yfir þeirri auðlind, sem felst í orku fallvatnanna ?"
Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er: undanhaldsmenn vorra tíma eru þeir, sem hörfa skref eftir skref undan ásókn Brüssel. Þessa skulu landsmenn minnast, þegar þeir heyra væmnar skjallræður um baráttumennina fyrir sjálfstæði Íslands á aldarafmæli fullveldis þjóðarinnar.
Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki beðið eftir niðurstöðu nefndar um reynsluna af EES. Sú reynsla liggur í augum uppi. Flokkurinn verður nú sjálfur að rísa undir nafni og móta stefnu gagnvart EES samkvæmt því. Að öðrum kosti er hætt við, að flokkurinn missi hreinlega fótanna í íslenzku samfélagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
2.7.2018 | 10:45
Hlutverk raforkugeirans
Íslenzki raforkugeirinn gegnir auðvitað margháttuðu hlutverki, en efst á blaði hlýtur að vera þjónustuhlutverk við fólk og fyrirtæki í landinu (Íslandi, en ekki Englandi eða annars staðar). Þessi stuðningur við mannlíf og atvinnustarfsemi verður að vera óháður búsetu fólks og staðsetningu fyrirtækja. Ef viðskipti þessara aðila við íslenzk raforkufyrirtæki bæta ekki lífskjör fólks og samkeppnisstöðu fyrirtækja í samanburði við útlönd, þá er maðkur í mysunni.
Á sólstöðum, 21. júní 2018, birtist í Morgunblaðinu frétt, sem bendir til, að þingmenn þurfi að fara að hrista upp í raforkugeira á villigötum. Fyrirsögn fréttarinnar var þannig:
"Hátt raforkuverð neyðir bónda til að hætta ræktun":
Fréttin hófst þannig:
""Það borgar sig að loka fremur en að vera með opið á veturna"(1), segir Gísli Hallgrímsson, eigandi garðyrkjustöðvarinnar Brúnulaugar í Eyjafirði, sem mun í haust hætta ræktun paprika á veturna. Að sögn Gísla veldur hátt raforkuverð því, að lítill sem enginn hagnaður skapast af starfseminni(2). Þá geri reglur RARIK, sem er með einkaleyfi á dreifingu raforku á svæðinu, garðyrkju afar erfitt fyrir. "Gjaldskráin hefur hækkað mikið undanfarin ár. (3) Auk þess eru reglurnar þannig, að þar sem íbúar eru færri en 50 talsins, er verðið talsvert hærra en á stöðum, þar sem íbúarnir eru fleiri.(4) Það er að mínu mati mjög undarleg skýring, og ég veit ekki, hvað liggur þar að baki", segir Gísli og bætir við, að hátt verð neyði hann til þess að loka fyrirtækinu á veturna."(5)
- Þegar rafmagnsverð til garðyrkjubænda hérlendis er orðið svo hátt, að þeir treysta sér ekki til að framleiða grænmeti á samkeppnishæfu verði, þá er það vísbending um, að íslenzki raforkugeirinn sé kominn út af sporinu sem þjónustuaðili við almenning í landinu. Raforkufyrirtækin hafa tekið það upp hjá sjálfum sér, að mikilvægara sé að skila eigendunum arði en að halda raforkuverðinu stöðugu eða jafnvel að lækka það. Þar sem um fyrirtæki í almannaeigu er að ræða í flestum tilvikum, er þetta meinloka, sem fulltrúar eigendanna, sveitarstjórnarfulltrúar og Alþingismenn, þurfa að leiðrétta. Hækkun raforkuverðs jafngildir þá skattahækkun.
- Framboð ótryggðrar raforku í landinu er allt of lítið. Slíkir viðskiptaskilmálar geta hentað garðyrkjubændum og fiskimjölsverksmiðjum með olíukatla til vara. Það þarf að virkja meira til að auka þetta framboð, en sáralítið er á döfinni núna af nýjum virkjunum. Fyrir ótryggða orku er nóg fyrir viðkomandi virkjun að fá rekstrarkostnaðinn greiddan, en hann er lágur í íslenzkum virkjunum, einkum vatnsaflsvirkjunum, og til að spanna hann ætti að vera nóg að verðleggja ótryggða orku á 1,5 ISK/kWh að jafnaði, frá framleiðanda.
- Það skortir haldbærar skýringar á gjaldskrárhækkunum raforkufyrirtækja undanfarin ár, og Orkustofnun verður að standa meir á bremsunum gagnvart einokunarfyrirtækjunum. Raforkuframleiðendum hefði átt að vera í lófa lagið að hækka minna en verðbólgu nemur, vegna skuldalækkana, og hinum, flutnings- og dreifingaraðilunum, að halda sig við almennar verðlagshækkanir.
- Að sama dreifingarfyrirtæki mismuni viðskiptavinum sínum eftir búsetu, er hneyksli og stenzt varla jafnræðisreglu laga og stjórnlaga landsins. Þingmenn hafa rætt þetta ramma óréttlæti, en ekki drifið í að gefa út þingsályktun eða samþykkja lög, ef nauðsyn krefur, sem fyrirskrifa, að allir viðskiptavinir sama dreififyrirtækis skuli búa við sams konar gjaldskrá, óháð búsetu, en auðvitað eiga "stórnotendur" á borð við garðyrkjubændur að búa við lægri gjaldskrá en almenn heimili vegna margfaldra viðskipta, óháð staðsetningu. Eftirlitsaðili dreififyrirtækja raforku þarf að gæta þess, að einokunarfyrirtækin "svíni" ekki á viðskiptavinum sínum, sem ekki geta leitað annað.
- Orkustofnun þarf að meta, hvort dreifingarfyrirtækin sýna nægt kostnaðarlegt aðhald gagnvart viðskiptavinunum til að verðskulda sérleyfið, eða hvort fela á sérleyfið öðrum aðila, sem getur veitt betri þjónustu. Sérleyfi á einokun til dreifingar rafmagns á ekki að vera sjálfsagt mál til eilífðarnóns. Það er grafalvarlegt, ef verðlagning á rafmagni er svo há, að lýsing í gróðurhúsum, sem er stöðugt og jafnt álag, borgi sig ekki á Íslandi.
Á undanförnum misserum hafa komið fram kvartanir fleiri aðila undan háu verði ótryggðs rafmagns. Hefur þar hæst borið hitaveitur með rafskautakatla og olíukatla til vara og fiskimjölsverksmiðjur, sem rafvætt hafa þurrkferlið, en til vara haldið gömlu olíukötlunum. Á sama tíma og Landsvirkjun gasprar yfir umframorku í landinu upp á 2,0 TWh/ár, sem tiltækt yrði til sölu inn á sæstreng með "litlum" tilkostnaði, sem er tóm vitleysa, þá er tilfinnanlegur hörgull búinn að vera á tiltækri umframorku fyrir innlenda markaðinn. Hér skýtur mjög skökku við.
Eins og málum er nú háttað, er jafnframt mjög óljóst, hvort nokkur aðili í landinu ber raunverulega ábyrgð á því, að jafnan sé svo mikið framboð raforku í landinu, að ekki verði skortur á forgangsorku. Einna helzt virðist ábyrgðin á þessu liggja hjá Orkustofnun, en hún hefur ekki vald til að skipa neinum að virkja eitt eða neitt.
Það er brýnt að auka orkuöryggið í landinu samfara orkuskiptunum. Það þarf að gera með tvennum hætti:
- Efla þarf flutningsgetuna á milli landshluta og innan landshluta. Á milli landshluta er brýnast að tengja saman Suðurland og Norðurland með um 500 MW jafnstraumsjarðstreng á Sprengisandsleið. Með því verður hægt að spara miklar línubyggingar í og nálægt byggð á Suð-Austurlandi og víðar. Það er líka brýnt að tengja saman Austurland og Norðurland með 220 kV loftlínu á milli Hryggstekks í Skriðdal og Kröflu.
- Auka uppsett afl og miðlunargetu orkuvinnslufyrirtækjanna, svo að árleg orkuvinnslugeta þeirra fari aldrei niður fyrir að vera 5 % yfir árlegum forgangsorkuskuldbindingum þeirra. Þetta gæti jafnframt stækkað markað ótryggðrar raforku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.6.2018 | 14:55
Ofríki gagnvart undirstöðugrein
Stjórnmálamenn og allir aðrir hérlendir menn verða að gera sér grein fyrir þjóðhagslegu mikilvægi samkeppnishæfni atvinnuveganna, sérstaklega fyrirtækja í útflutningi. Alþingismenn hafa mikil áhrif til góðs eða ills á samkeppnishæfni atvinnuveganna, því að með lagasetningu eru þau starfsskilyrði, sem ekki ráðast beinlínis á markaði, ákveðin. Þetta á t.d. við um skattlagningu og gjaldtöku.
Að undirlagi stjórnarandstöðuþingmanna tók þingheimur mjög illa ígrundaða og skaðlega ákvörðun undir lok vorþings 2018 um að láta meingallaða og mjög íþyngjandi gjaldtöku af sjávarútveginum viðgangast áfram til ársloka 2018. Þetta ábyrgðarleysi gagnvart hagsmunum grundvallar atvinnuvegar á Íslandi er þungur áfellisdómur yfir stjórnarandstöðunni á Alþingi.
Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, skrifaði þarfa hugvekju um samkeppnishæfni í Morgunblaðið, 4. júní 2018:
"Samkeppnishæf lífskjör":
"Mikil samkeppnishæfni er nauðsynlegt hráefni í þjóðarkökuna, enda hafa nær engin ríki háa landsframleiðslu [á mann], en laka samkeppnishæfni. Það, sem meira er, þá helzt mikil samkeppnishæfni einnig í hendur við það, sem ekki verður metið til fjár.
Gott dæmi um það er vísitala félagslegra framfara (SPI). Sú vísitala var sköpuð vegna þess, að efnahagslegir mælikvarðar segja ekki alla söguna um raunveruleg lífskjör og lífsgæði. SPI tekur því ekki til neinna fjárhagslegra mælikvarða. Þess í stað notar vísitalan mælikvarða á borð við aðgengi að hreinu vatni, barnadauða, aðgengi að húsnæði á viðráðanlegu verði, glæpatíðni, lífslíkur, sjálfsmorðstíðni, jafnrétti, fordóma í garð hinsegin fólks og innflytjenda og svo mætti lengi telja.
Staðreyndin er sú, að það er samband á milli samkeppnishæfni og mikilla félagslegra framfara. Nær ekkert ríki í heiminum hefur litla samkeppnishæfni og miklar félagslegar framfarir. Af efstu 20 ríkjunum í samkeppnishæfni IMD eru 17 einnig á topp 20 lista yfir félagslegar framfarir. Sömu sögu má rekja, þegar kemur að hamingjuvísitölunni samkvæmt "World Happiness Report". Þó að orsakasamhengið geti verið í báðar áttir, sýnir reynslan, að án samkeppnishæfs atvinnulífs er ómögulegt að byggja upp viðunandi lífskjör."
Nú um stundir dynja á okkur fréttir úr atvinnulífinu, sem gefa vísbendingar um versnandi samkeppnisstöðu landsins, og það þarf enginn að velkjast í vafa um versnandi stöðu, því að IMD-háskólinn hefur nýlega birt mæliniðurstöður sínar fyrir 2018. Í hópi 63 ríkja fellur Ísland niður um 4 sæti síðan 2017. Ísland er nú í 24. sæti og lækkar í fyrsta sinn síðan 2013.
Allar hinar Norðurlandaþjóðirnar eru ofar á listanum yfir samkeppnisstöðu þjóða. Samtímis er Ísland nálægt toppi OECD þjóða um skattheimtu á mann. Þarna er samhengi, og þetta verður að laga.
Slæm samkeppnisstaða boðar ekkert gott fyrir þróun samfélagslegra innviða samkvæmt ofansögðu. Versni samkeppnisstaðan, minnkar atvinnan og skattstofnar rýrna. Við þessar aðstæður verður að telja það fullkomna glópsku af þingmönnum stjórnarandstöðunnar að grafa undan "félagslegum framförum" með því að verða þess valdandi, að grafið er undan samkeppnishæfni undirstöðuatvinnugreinar landsins með því að gera Atvinnuveganefnd Alþingis afturreka með lágmarkslagfæringu til bráðabirgða á veiðigjöldum útgerðanna í landinu.
Það er ekki einvörðungu, að ríkisvaldið sé að innheimta auðlindagjald af atvinnugrein, þar sem engin auðlindarenta er núna, heldur er sjávarútveginum mismunað herfilega innanlands og utan, þar sem engin önnur atvinnugrein, sem náttúruauðlindir nýtir hérlendis, greiðir enn auðlindagjald til ríkisins, og erlendur sjávarútvegur, sem Íslendingar keppa við erlendis, greiðir yfirleitt engin veiðigjöld, heldur fær hann styrki úr sjóðum ESB og/eða úr ríkissjóðum viðkomandi landa, jafnvel sá norski.
Með þessu móti er íslenzki sjávarútvegurinn ekki aðeins settur í erfiða stöðu erlendis, heldur veikir ríkisvaldið með þessu framtaksleysi sínu viljandi samkeppnisstöðu hans innanlands um fé og fólk. Ríkisvaldið verður að hrista af sér slenið og setja á laggirnar samræmt kerfi, sem skerðir ekki jafnræði atvinnugreina og skerðir ekki samkeppnisstöðuna erlendis. Með núverandi fyrirkomulagi eru þingmenn að saga burt greinina, sem við öll sitjum á. Að þeir geri það með almannaheill á vörunum og stéttastríðstali um "eign þjóðarinnar", toppar tvískinnung og/eða flónsku stjórnmálanna.
Katrín Olga orðaði þetta vel í lok téðrar greinar sinnar:
"Oft er látið sem svo, að fyrirtækin og fólkið í landinu eigi í baráttu, að velgengni annars sé á kostnað hins. Fyrir mér er ekkert fjær sanni, því að eins og rannsóknir og mælingar gefa svo sterklega til kynna, haldast lífsgæði og rekstrarumhverfi fyrirtækja hönd í hönd. Stöndum vörð um hag okkar allra og vinnum að aukinni samkeppnishæfni."
Almennt og sanngjarnt veiðigjald þarf að vera tvíþætt. Annars vegar aðgangsgjald að auðlindinni og hins vegar aðlindagjald, þegar auðlindarenta er fyrir hendi í greininni. Nota má framlegð, EBITDA, fyrirtækjanna sem mælikvarða á það, hvort þau hafi notið auðlindarentu, en hún er hagnaður náttúruauðlindahagnýtenda umfram hagnað annarra, sem rekja má til hinnar sérstöku aðstöðu. Sjávarútvegsfyrirtækin eru í fjármagnsfrekri starfsemi, og þess vegna má ekki setja viðmið EBITDA síðasta árs fyrir auðlindagjald í ár lægra en 18 % af tekjum þeirra. Almennt gæti þá einföld formúla tvískipts veiðigjalds litið þannig út:
- Fyrri hlutann verða allir að greiða sem gjald fyrir aðgang að auðlindinni, en aðgangsgjaldið er samt tekjuháð: AÐG=0,5 % x MVxm, þar sem MV er meðalverð, ISK/kg, á óslægðum afla og m er veiðimassinn (aflaþungi upp úr skipi).
- Seinni hlutann verða þeir að greiða, sem voru með meðalframlegð (EBITDA) á sama árshelmingi í fyrra yfir 18 % af tekjum, enda er auðlindarenta annars ekki talin vera fyrir hendi í fyrirtækinu: AUG=5,0 % x MVxm x MV/500
- Heildarafnotagjaldið, HAG=AÐG + AUG
Þessa einföldu reglu má nota til að leggja á hvers konar afnotagjöld af náttúrunni. Fyrir jafnræðissakir er brýnt að koma á samræmdu álagningarkerfi.
Skaðar þetta samkeppnisstöðuna við útlönd ? Árin 2016-2017 var meðalverð af óslægðum þorski 248 ISK/kg. M.v. þetta verð hefðu veiðigjöldin orðið:
AÐG=1,2 ISK/kg, sem mundi svara til um 3 % af framlegð, ef hún er 15 %. Þetta er ekki sligandi, þótt rekstur kunni að vera erfiður að öðru leyti:
AUG=6,2 ISK/kWh og HAG=7,4 ISK/kg, sem mundi svara til um 15 % af framlegð, ef hún er 20 %. Þetta er umtalsvert, en ekki sligandi fyrir þokkalegan rekstur.
Með þessu móti greiða allir fyrir aðgang að fiskveiðiauðlindinni, og þjóðin fær auðlindarentuna í sinn hlut eða a.m.k. drjúgan hluta hennar. Það, sem meginmáli skiptir er, að það er ekki verið að blóðmjólka mjólkurkúna, heldur getur hún fitað sig í haganum og haft þannig borð fyrir báru, ef harðnar á dalnum. Sjávarútvegurinn er fjármagnsfrek starfsemi, sem verður að geta fjárfest mikið án þess að hleypa sér í skuldir, svo að hann viðhaldi og helzt styrki samkeppnisstöðu sína á alþjóðlegum mörkuðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.6.2018 | 11:20
Engin ógn við Ísland ?
Sendiherra Evrópusambandsins (ESB) á Íslandi, herra Michael Mann, hefur fundizt þörf á að hlaupa undir bagga með þeim hérlendum mönnum, sem eru málsvarar þess, að Íslendingar gangi Orkusambandi ESB á hönd með samþykki Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB. Óþarfi er að kveinka sér undan slíku, heldu fagna því að fá innsýn í hugarheim sendiherrans.
Í ávarpi sínu til Íslendinga um Orkusamband ESB nefnir sendiherrann sérstaklega til sögunnar ráðgjafa iðnaðarráðherra í þessu máli, en hún virðist því miður hafa gert skoðanir þessa ráðgjafa síns í þessu máli að sínum, þótt þær stangist á við staðreyndir máls í veigamiklum atriðum. Öll atriðin í málflutningi þessa ráðgjafa, sem þýðingu hafa fyrir fullveldisframsal, sem af samþykki þessa orkulagabálks mundi leiða, hafa verið hrakin í pistlum á þessu vefsetri. Þá hefur hér og víðar verið sýnt fram á, að sjónarmiðið um lítil áhrif innleiðingar bálksins á framkvæmd raforkumála á Íslandi án sæstrengs er haldlaust. Um niðurstöður téðs ráðgjafa, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, skrifaði sendiherrann í grein sinni í Fréttablaðinu 7. júní 2018,
"Orkupakkinn er engin ógn við Ísland":
"Það var okkur [stjórnendum ESB-innsk. BJo] ánægjuefni, að óháður ráðgjafi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skyldi komast að þeirri niðurstöðu, að Íslendingar þurfi ekki að óttast þessar nýjustu breytingar."
Ráðherrann, sem hér um ræðir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hefur á opinberum vettvangi varið afstöðu sína með því að gera á allan hátt lítið úr áhrifum Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á mótun orkustefnu Íslands, þótt Alþingi mundi staðfesta innleiðingu hans í EES-samninginn. Þá má spyrja, hvort þessi gjörð séu mistök að hálfu ESB, því að henni var vissulega ætlað það hlutverk að verða brimbrjótur ESB við öfluga samtengingu raforkukerfa allra ESB-landanna og alveg sérstaklega, þar sem tæknilegar og/eða stjórnmálalegar aðstæður hafa hagað því þannig, að litlar eða engar slíkar tengingar hafa verið við önnur lönd hingað til.
Það er hámark barnaskaparins og/eða blekkingarleiks í þessu ACER-máli, að núverandi einangrun íslenzka raforkukerfisins frá öðrum löndum valdi því, að téð löggjöf muni nánast engu breyta á Íslandi. Á þessu vefsetri hefur verið sýnt fram á, að hún getur gjörbreytt þróun íslenzkra orkumála með fullkomlega ólýðræðislegum hætti.
Hér skal þess vegna fullyrða, að téð afstaða ráðherrans stríðir gegn ályktun Atvinnuveganefndar Sjálfstæðisflokksins, sem samþykkt var einróma á Landsfundi flokksins í marz 2018:
"Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."
Ef ráðherrann ætlar að halda áfram að vinna að því að yfirfæra ráðstöfunarrétt á raforku Íslands til raforkumarkaðar ESB, sem starfar undir eftirliti Orkustofnunar ESB-ACER, þá grefur hún þar með undan trúverðugleika Sjálfstæðisflokksins gagnvart þjóðinni og grefur jafnframt undan stöðu sinni innan flokksins, því að hér er um stórmál að ræða, sem ekki er hægt að gera lítið úr.
Nú skal vitna frekar til herra Michaels Mann:
"Þriðji orkupakkinn, svokallaði, sem Íslendingum er skylt að innleiða samkvæmt EES-samninginum [1], er rökrétt framhald fyrri orkupakkanna tveggja, sem hafa verið innleiddir á Íslandi án vandkvæða. [2]
Megintilgangurinn með orkupakkanum er að veita neytendum ódýra og örugga orku með tilstilli markaðsafla, og hann er ekki nokkur ógn við framkvæmd íslenzkrar orkustefnu.[3] Þar sem Ísland er eyja, einangruð frá öðrum orkumörkuðum, mun landið njóta víðtækra undanþága frá flestum helztu skyldum, sem fylgja nýju löggjöfinni."[4]
- Það, sem einkennir EES-samninginn og var óspart hampað á sínum tíma (1992-1993) af málsvörum hans, og gerir hann frábrugðinn beinni aðild að ESB, er einmitt rétturinn til að hafna ESB-reglum á leið þeirra inn í EES-samninginn. Það er rangt hjá sendiherranum, að Alþingi beri einhver skylda til að skrifa upp á allt, sem frá Sameiginlegu EES-nefndinni kemur. Þjóðþingum EFTA-landanna í EES er tryggður synjunarréttur í EES-samninginum. Á þeim grundvelli hefur fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins tjáð þá skoðun sína í pontu Alþingis, að enginn geti á fundi í Brüssel (aðsetur Sameiginlegu EES-nefndarinnar) bundið hendur Alþingis. Slíkt væri í blóra við Stjórnarskrá Íslands, enda væri þá fullveldi Íslands farið fyrir lítið. Sendiherra ESB verður að gæta orða sinna, þegar hann ávarpar Íslendinga í blaðagrein. Að skrifa, að "Íslendingum [sé] skylt að innleiða [Þriðja orkupakkann] samkvæmt EES-samninginum" má líta á sem ögrun að hálfu ESB. Ef ESB ætlar út í einhvers konar refsiaðgerðir gegn Íslandi í kjölfar synjunar Alþingis, verður slíkt skýlaust brot á EES-samninginum og ber að kæra fyrir EFTA-dómstólinum.
- Það er ekki rétt, að Annar orkumarkaðslagabálkur ESB hafi verið innleiddur á Íslandi "án vandkvæða". Margir hérlendis eru þeirrar skoðunar, að vegna smæðar íslenzka raforkumarkaðarins henti fjórskipting hans að hætti ESB illa hérlendis. Hún hefur tekið langan tíma, og nú, 14 árum eftir innleiðinguna, er henni enn ólokið. T.d. er eignarhald Landsnets enn mjög afbrigðilegt og fjarri því að vera, eins og fyrirskrifað er af ESB. Hitt er vafalaust rétt hjá sendiherranum, að Þriðji bálkurinn er "rökrétt framhald" hinna tveggja, og þessum útgáfum er alls ekki lokið enn. Með útgáfu Fjórða bálksins, sem er í bígerð, er talið, að völd ACER verði aukin enn meir. Hin dæmigerða aðferðarfræði ESB er kennd við spægipylsu. ESB færir sig stöðugt upp á skaptið.
- Með öflugum samtengingum á milli aðildarlandanna ætlar ESB að jafna orkuverðið innan sambandsins og tryggja, að engir flöskuhálsar komi í veg fyrir gjörnýtingu á virkjunum endurnýjanlegrar orku. Viðmiðun ESB er, að þar sem verðmismunur á milli landa er meiri en 2,0 EUR/MWh (0,25 ISK/kWh), þar skuli auka flutningsgetuna á milli. Verðmunur raforku á Íslandi og ESB er miklu meiri en þetta, og þess vegna mun ESB/ACER beita öllum tiltækum ráðum til að raungera sæstrenginn "Ice Link".
- Þarna veður sendiherrann reyk. Samkvæmt Þriðja bálkinum verður stofnuð Ný orkustofnun á Íslandi, NOS, einnig nefnd Landsreglarinn. Hún á að verða algerlega óháð íslenzkum yfirvöldum og hagsmunaaðilum hérlendum, en mun lúta stjórn ACER með ESA sem millilið. Þetta er einstætt fyrirkomulag, ólýðræðislegt og andstætt Stjórnarskrá Íslands. Meginhlutverk NOS verður að fylgjast með því, að Ísland fylgi eftir Kerfisþróunaráætlun ESB, en þar er einmitt Skotlandsstrengurinn "Ice Link" eitt skráðra verkefna. Með innleiðingu Þriðja bálksins hefur Ísland skuldbundið sig til að hlýða Kerfisþróunaráætluninni, og það verður staðfest með stofnun NOS, sem verður á íslenzku fjárlögunum. Af þessum ástæðum mun Ísland engra undanþágna njóta, sem máli skipta.
Bloggar | Breytt 30.6.2018 kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.6.2018 | 11:16
Viðhorf Fionu Reilly til verðmætasköpunar
Fiona Reilly er framkvæmdastjóri enska fyrirtækisins Atlantic Superconnection, sem kynnt hefur fyrir íslenzkum stjórnvöldum viðskiptahugmynd um einpóla sæstreng til flutnings á um 650 MW rafafls og þar af leiðandi flutningsgetu á 5000 GWh/ár raforku frá Íslandi til Englands (ekki Skotlands). Það er áhugavert, hvernig hún kynnir Íslandsstrenginn fyrir Englendingum, og mættu sumir Íslendingar draga lærdóm af því, sem hún kveður vera notagildi rafmagns frá Íslandi á Englandi.
Hér fer á eftir lausleg þýðing á enskum texta Fionu á heimasíðu Atlantic Superconnection:
"Með einstöku samstarfi við Ísland um endurnýjanlega orku getum við flutt næstum takmarkalausa uppsprettu hreinnar raforku frá vatnsaflsvirkjunum og jarðgufuvirkjunum til Bretlands - og samtímis skapað starfa-, vaxtar- og fjárfestingartækifæri í alþjóðlegu iðnaðarvaxtarsprotahéraði Bretlands."
Þetta er mergurinn málsins í sambandi við raforkusölu til útlanda. Þar verður rafmagnið þá notað til verðmætasköpunar. Er þá ekki nær að nota það til atvinnusköpunar hér innanlands, þar sem má nota það til mun meiri verðmætasköpunar en fæst fyrir það með sölu inn á sæstreng til útlanda og með miklu minni orkutöpum í ferlinu ?
Með því að nota rafmagnið frá íslenzkum virkjunum til að efla atvinnu um allt land og skapa grundvöll að samkeppnishæfum útflutningi á vörum til útlanda eða þjónustu við erlend fyrirtæki, t.d. í gagnaverum, verða meiri líkur á sátt landsmanna um mannvirkjagerð á orkusviði í þágu þessarar verðmætasköpunar en nokkur von er til, að nokkurn tímann verði náð um virkjanir og loftlínulagnir fyrir raforkusölu inn á sæstreng. Á þessu tvennu er siðferðislegur reginmunur.
Þegar lögð eru saman orkutöp í endabúnaði sæstrengs og í strengnum sjálfum, má búast við a.m.k. 10 % á leiðinni frá Íslandi til Englands, 1500 km. Orkunotkun í flutningum með aðföng og afurðir fyrir orkukræf iðnfyrirtæki á Íslandi er vissulega mikil, en flutningatækin, t.d. skipin, eru yfirleitt samnýtt fyrir aðra flutninga, svo að heildarkostnaður á hverja einingu verður lægri vegna aukins magns. Við þetta má bæta, að eftir 10-15 ár gætu skip til millilandaflutninga verið knúin með rafmagni, sem þá að mestu leyti mun koma frá sjálfbærum orkugjöfum.
Fyrir sæstreng Fionu Reilly þarf að virkja að lágmarki 600 MW á Íslandi. Hvað verður um fjárfestingar í öllum mannvirkjum hérlendis, virkjunum, aðveitustöðvum og flutningslínum að landtökustað, ef verðlækkun eða jafnvel verðfall verður á raforku á Innri orkumarkaði ESB ? Þá munu þessi sæstrengsviðskipti verða óarðbær með öllu, og það tekur allmörg ár að fá not fyrir mannvirkin hérlendis aftur. Tækniþróunin getur valdið slíku verðfalli. Þóríum kjarnorkuver af fjölbreytilegum stærðum hafa verið nefnd sem mögulegur orsakavaldur slíks verðfalls, en á nokkrum stöðum er unnið hörðum höndum að því að gera þau markaðs- og samkeppnishæf.
Að beintengja íslenzka raforkumarkaðinn við raforkumarkað Englands eða meginlandsins er hættulegt fyrir þjóðhagslega hagkvæman rekstur íslenzka raforkukerfisins. Verðmyndunin á þessum tveimur gerðum markaða er gjörólík, og orkumálin geta á augabragði snúizt í höndunum á okkur, svo að ekki sé nú minnzt á þau ósköp, ef Alþingi samþykkir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB og ACER-Orkustofnun ESB. Þá mun leyfisveitingavaldið fyrir lagningu millilandasæstrengs aðeins að forminu til verða hjá íslenzkum stjórnvöldum, en í raun hjá ACER og útibúi hennar á Íslandi, "landsreglaranum", ásamt ESA og EFTA-dómstólinum. Það er algerlega þarflaust af Alþingi að samþykkja rússneska rúllettu sem aðferð við ráðstöfun á rafmagni úr íslenzkum orkulindum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)