Færsluflokkur: Bloggar
11.5.2018 | 09:30
EES og þjóðarhagur
Á Íslandi hefur tekizt að skapa velferðarþjóðfélag og almenn lífskjör í fremstu röð, betri en í löndum ESB. Þá má spyrja sig; eru þessi góðu lífskjör hér þrátt fyrir veru landsins á Evrópska efnahagssvæðinu-EES eða vegna þess. Skoðum fyrst, hvað Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar á Sjónarhóli Morgunblaðsins, 19. apríl 2018, um getu fyrirtækjanna, sem undir þessum góðu lífskjörum standa:
"Það er dýrt að hækka laun á Íslandi":
"Allur alþjóðlegur samanburður ber með sér, að efnahagsástand á Íslandi er með því bezta, sem þekkist. Á undanförnum árum hafa laun og kaupmáttur hækkað mun meira hér á landi en í þeim löndum, sem við berum okkur helzt saman við. Það kann að koma á óvart, að laun á vinnustund eru hærri hér á Íslandi en í Danmörku, Þýzkalandi og meira að segja Noregi. Eina landið, sem býður hærri laun en Ísland um þessar mundir, er Sviss."
Ef aðild að Evrópusambandinu er slíkt töframeðal, sem áhangendur aðildar Íslands að ESB vilja vera láta, hvernig stendur þá á því, að öll aðildarlöndin, þ.m.t. Lúxemborg, eru eftirbátar Íslands, þegar kemur að launum fyrir hverja vinnustund ? EFTA-landið, sem utan EES stendur, Sviss, státar af hærri launum á vinnustund en Ísland. Þetta bendir alls ekki til, að við getum þakkað góð lífskjör hérlendis aðildinni að EES.
Það er reyndar svo, að Viðskiptaráð hefur komizt að því, að aðild Íslands að EES leggi atvinnulífinu svo þunga bagga á herðar, að dragi vel merkjanlega úr getu atvinnulífsins til framleiðniaukningar. Íslenzk fyrirtæki eru yfirleitt lítil í evrópskum samanburði, og reglugerðar- og eftirlitsbyrðin, bæði innri og ytri, leggst þyngst á minnstu fyrirtækin. Gæti framleiðniaukning verið um 0.5 %/ár minni fyrir vikið að mati Viðskiptaráðs, sem safnast upp í 13,3 % á 25 ára gildistíma EES-samningsins hér. Framleiðniaukning stendur undir raunlaunahækkunum til launþeganna, og það er líklegt, að kaupmáttur lægstu launa gæti verið a.m.k. 15 % hærri hér, ef landið hefði einfaldlega áfram búið við fríverzlunarsamning við ESB og ekki þurft að taka upp þær yfir 9´000 gerðir frá ESB, sem raun er á.
Stjórnlagalega séð hefur aðild Íslands að EES reynzt vera hrein mistök, eins og krystallast í persónuverndarlöggjöfinni frá ESB. Yfirstjórn persónuverndarmála færist til Persónuverndarráðs ESB-"European Data Protection Board"-EDPB, þar sem Ísland á engin ítök, og stjórna mun "Persónuvernd", stofnun á Íslandi, sem verður óháð íslenzkum yfirvöldum. Úrskurðarvald í íslenzkum persónuverndarmálum, sem ná yfir landamæri innan EES, færist til ESB-dómstólsins. Tveggja stoða grunnregla samstarfs EFTA og ESB í EES er þverbrotin, og þar með fær yfirþjóðleg stofnun stjórnvald hérlendis. Þessi meðferð á Stjórnarskrá lýðveldisins nær engri átt, og hún hlýtur að merkja, að gríðarleg lagaleg óvissa um lögmæti þessarar innleiðingar í EES-samninginn skapast. Stjórnvöld arka að óþörfu út í fúafen réttaróvissu.
Mörg fyrirtæki munu þurfa að bæta við sig persónuverndarstarfsmanni til að sjá um innra eftirlit þessara mála, vera tengiliður fyrirtækisins við "Persónuvernd" og til að framfylgja persónuverndarlöggjöf, sem fáir þekkja og enn færri skilja til hlítar. Hér er verið að skjóta spörfugl með kanónu að hætti ESB, sem gefur út tilskipanir, sem verða að henta 80 milljóna þjóð. Slík föt verða allt of stór og dýr fyrir 0,35 milljón manna þjóð. Við búum við alræði búrókrata í Brüssel, sem eyða öllum ávinningi tæknivæðingar í hagræðingarátt með því að drekkja litlu þjóðfélagi í rándýru skrifræðisflóði án sjáanlegs ávinnings. Jafnvel Bretar, sem þó telja 65 milljón manns, fengu sig fullsadda af þessu og sögðu skilið við það.
Eftir 1. maí 2018 ræður nokkurra verkalýðsforingja mætti ætla, að fjárhirzlur fyrirtækjanna væru fullar fjár, svo að nú sé skaðlaust að heimta enn meira og jafnvel að beita skæruhernaði til að knýja þau til að láta meira af hendi. Þetta stéttastríðstal er óráðshjal, fávíslegur pólitískur vindgangur og ekki í neinum tengslum við raunveruleikann og þá efnahagsþróun, sem nú blasir við.
Nú þarf hins vegar að "pakka í vörn" og létta byrðum af atvinnulífinu til að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækjanna. Að öðrum kosti hrynur atvinnustigið og þar með lífskjör almennings. Slíkt getur gerzt hratt, eins og dæmin sanna. Þá munu lýðskrumarar hlaupa út um víðan völl undan ábyrgð sinni sem halaklipptir kálfar. Um stöðu fyrirtækjanna skrifaði Ásta Fjeldsted:
"Nú heyrast háværar raddir vinnuveitenda um erfiðleika vegna hárra launagjalda og aukinnar erlendrar samkeppni. Þessar áhyggjur kunna að koma ýmsum á óvart í ljósi þess, hversu gott efnahagsástandið er. En þær eru raunverulegar, og í þeim felast alvarleg viðvörunarmerki fyrir íslenzkt samfélag. Fyrirtækin í landinu sjá einfaldlega ekki fram á að geta borið kostnaðinn af þeim launahækkunum, sem krafizt er."
Síðan sýnir hún fram á, að launþeginn fær innan við helming af launakostnaði vinnuveitans greiddan út sem laun eftir skatt með sýnidæmi:
- útgreidd laun f. skatt: kISK 500 (100 %)
- trygg.gj. & lífeyr.: kISK 120 ( 24 %)
- orlof & annað: kISK 120 ( 24 %)
- launakostnaður: kISK 740 (148 %)
- greidd laun e. skatt kISK 350 ( 70 %)
Greidd laun eftir skatt nema aðeins 47,3 % af launakostnaði vinnuveitandans.
Þetta er mjög slæm staða fyrir atvinnulífið, því að launakostnaður fyrirtækisins er orðinn svimandi, þótt launamaðurinn sé ekki ofhaldinn af sínum hlut. Ráðið við þessu er að hraða framleiðniaukningu með bættri stjórnun og tæknivæðingu og að draga úr skattheimtu, bæði á vinnuveitandann og launþegann. Til þess þarf að draga úr yfirbyggingu fyrirtækja og hins opinbera, grisja reglugerðarfrumskóginn og minnka eftirlitsiðnaðinn. Þetta verður ekki gert á meðan landið er í EES. EES er berlega hluti þessa vandamáls. Þess vegna þarf að tryggja viðskiptakjörin með fríverzlunarsamningum við ESB, Bretland o.fl. og segja upp EES-samninginum, enda hefur hann nú gengið sér til húðar. Ef þingmenn vilja glöggva sig á þjóðarviljanum áður en þessi skref eru stigin, geta þeir samþykkt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málefnið.
Þorsteinn Víglundsson vill fara þveröfuga leið, auka skriffinnskuna og þar með yfirbygginguna enn meir með því, að Ísland gangi í ESB og þurfi þar með að taka upp meira en 2800 gerðir á ári sem löggjöf og reglugerðir. Það er þá eðlilegt, að hann styðji veru landsins í fordyri ESB, EES, því að þannig aðlagast íslenzka þjóðfélagið stöðugt að ríkjasambandinu, og nú er svo komið, að við sogumst með sívaxandi hraða inn í það vegna þess, að við tökum upp stjórnkerfi ESB-landanna, eins og það kemur af skepnunni, með innleiðingu nýrra ESB-gerða í EES-samninginn. Þar fer gamli varnaglinn um tveggja stoða kerfið forgörðum, eins og t.d. við upptöku persónuverndargerðarinnar, þar sem Persónuverndarráð ESB verður hæstráðandi þessara mála á Íslandi og ESB-dómstóllinn æðsti úrskurðaraðili, en Stjórnarskrá lýðveldisins liggur hins vegar óbætt hjá garði. Þetta nær náttúrulega engri átt. Of margir hafa verið stungnir líkþorni og fljóta nú þegjandi að feigðarósi.
Þann 10. apríl 2018 hnykkti Þorsteinn Víglundsson á óbeysnum skoðunum sínum með skrifum í Morgunblaðið:
"Hvað græðum við eiginlega á EES ?".
Þorsteinn kveður það "fagnaðarefni, að lögð hafi verið fram á Alþingi beiðni um skýrslu um kosti og galla aðildar Íslands að EES. Mikilvægt er þó, að þar verði vandað til verka."
Það má taka undir þetta, en veldur, hver á heldur. Til að skýrslan komi landinu að gagni, verður að velja til verka hæfa fræðimenn, sem leggja sig fram um að koma á framfæri hlutlægu mati. Líta má til Noregs um fyrirmynd, en þar er líka víti til að varast.
Þorsteinn skrifar:
"Norðmenn létu vinna úttekt á EES-samningnum og samskiptunum við Evrópusambandið, og var niðurstaðan birt í skýrslunni Udenfor og Indenfor árið 2012. Niðurstaða skýrsluhöfunda var, að áhrif samningsins væru mjög mikil á norskt samfélag, en þau áhrif væru heilt yfir mjög jákvæð."
Síðasta setningin er umdeilanleg og spannar ekki viðhorf almennings í Noregi né allra stjórnmálaflokkanna þar. Sérstaklega hafa efasemdir fræðimanna, stjórnmálamanna og almennings aukizt síðustu misserin vegna þess, að áhrif samrunaþróunar ESB-ríkjanna smitast yfir í EES-samstarfið. Það lýsir sér með því, að ESB virðir sérstöðu EFTA-ríkjanna að vettugi með því að sniðganga tveggja stoða fyrirkomulagið, sem upphaflega var lagt til grundvallar EES-samninginum. Stjórnlagafræðingar, íslenzkir og norskir, sjá mikla meinbugi á því, að stofnanir ESB fari með yfirstjórn málaflokka í EFTA-löndunum, t.d. ACER á orkuflutningssviðinu og EDPB á persónuverndarsviðinu. Skiptir þá litlu máli, þótt ESA í Brüssel sé sett upp til málamynda sem milliliður ACER í Ljubljana og útibús hennar í Reykjavík. Varðandi persónuverndina virðist ESB-dómstóllinn eiga að útkljá deilumál, og er það alveg nýtt af nálinni fyrir EFTA-ríkinn um úthýsingu dómsvalds úr landinu, og gróft brot á Stjórnarskrá.
Það var sá alvarlegi ljóður á forskrift norskra yfirvalda til ritnefndar "Utenfor og innenfor"- EES-skýrslunnar, að hún fékk ekki það hlutverk að bera EES-aðild Noregs saman við aðra valkosti landsins í viðskiptalegum efnum. Þess vegna var samin önnur skýrsla, "Alternativrapporten" eða "Valkostaskýrslan", og er aðalhöfundur hennar Sigbjörn Gjelsvik, sem nú situr á Stórþinginu fyrir Miðflokkinn. Þetta er mjög nytsöm, fróðleg og efnisrík skýrsla, einnig fyrir Íslendinga. Á henni má reisa vitrænar umræður um, hvernig skipulagi utanríkisviðskipta Íslands verður bezt hagað.
Í skipunarbréfi nefndar, sem stjórna á gerð téðrar íslenzku skýrslu, er nauðsynlegt að taka samanburð valkosta með í reikninginn. Að öðrum kosti mun skýrslan hanga í lausu lofti.
Þorsteinn Víglundsson hrapar að niðurstöðu slíkrar valkostagreiningar, þegar hann skrifar:
"Ekki er ástæða til að ætla, að niðurstaða íslenzkrar úttektar yrði önnur [en sú norska. Það er ekki hægt að gefa sér neitt fyrirfram um það. Norðmenn er 14,2 sinnum fleiri en Íslendingar og hagkerfi þeirra að sama skapi stærra. Olíu- og gasiðnaður landsins gerir hagkerfi þeirra talsvert frábrugðið okkar hagkerfi. Við þurfum að fara betur með opinbert fé en þeir, því að þeir taka nú árlega ávöxtun olíusjóðsins inn í ríkissjóð, og stendur hún undir um 18 % ríkisútgjaldanna-innsk. BJo].
Áhrif samningsins hafa verið mikil og að langstærstum hluta jákvæð. [Það eru svo margar skuggahliðar á áhrifum EES-samningsins, að þetta er ótæk fullyrðing. T.d. hefði Hrunið 2008 ekki orðið jafnsvakalegt og varð, ef Ísland hefði ekki haft samning við ESB um frjálst flæði fjármagns-innsk. BJo.]
Raunar væri óhugsandi fyrir íslenzkt atvinnulíf að standa utan EES-svæðisins í dag, enda hefur vægi EES-svæðisins í utanríkisviðskiptum aukizt verulega frá gildistöku samningsins. [Þessari illa rökstuddu fullyrðingu verður að vísa til föðurhúsanna. Það er ekkert, sem bendir til, að Íslendingum mundi vegna verr með fríverzlunarsamninga við ESB og Bretland en þvingandi, valdlausa og dýrkeypta annexaðild að ESB, og nægir að benda á Sviss því til sönnunar-innsk. BJo.]
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.5.2018 | 10:30
Prófsteinninn á stórborgarstjórn er skipulag samgangna
Það er hægt að leggja ýmsar mælistikur á árangur stjórnkerfis stórborgar, en einn þeirra er vafalaust, hvernig tekst að sinna ferða- og flutningaþörf íbúa borgarinnar og þeirra, sem þangað eiga erindi. Skipulag samgönguinnviða er þar lykilatriði. Þegar litið er á þróunina síðustu 4 árin, á kjörtímabilinu, sem nú er að renna sitt skeið, er vart annað hægt en að gefa núverandi valdhöfum borgarinnar falleinkunn fyrir hálfkák, lélega þjónustu og kolranga forgangsröðun fjármuna og verkefna.
Meðalferðatíminn í Reykjavík hefur á tímabilinu 2014-2018 lengzt um 26 % eða um 6 % á ári að jafnaði. Í lok næsta kjörtímabils, 2022, mun hann með sama áframhaldi hafa lengzt um 60 %, og árið 2026 mun hann hafa tvöfaldazt. Þetta er auðvitað óviðunandi öfugþróun fyrir alla vegfarendur á höfuðborgarsvæðinu, en m.v. málflutning og stefnumið Dags B. Eggertssonar og Hjálmars Sveinssonar, sem eru hinir pólitísku ábyrgðarmenn þessarar stefnu borgarinnar og báðir í framboði fyrir Samfylkinguna í borginni í kosningunum 26. maí 2018, mun þessi óheillaþróun halda áfram með sívaxandi hraða og tvöföldun ferðatíma sennilega verða náð fyrir 2026, t.d. vegna fáránlegra fyrirætlana um þrengingu mikilvægra umferðaræða vegna Borgarlínu.
Þeir félagar hafa engin önnur áform uppi til úrbóta á umferðaröngþveitinu en ófjármagnaða draumsýn um mia ISK 100 Borgarlínu, sem ekkert bætir úr skák og er að verða úrelt hugmynd vegna tækniþróunar 21. aldarinnar, og að setja Miklubraut í stokk, sem kosta mundi um miaISK 20. Hér er um að ræða stofnbraut á vegum ríkisins, og framkvæmdin er ekki á 12 ára Vegaáætlun þingsins. Þess vegna mun ekkert verða úr þessu hjá Degi & Co.
Reykjavíkurborg mun að óbreyttu lenda í fjárhagslegri gjörgæzlu tilsjónarmanns ríkisins 2022 og ekki hafa neitt fjárhagslegt olnbogarými til fjárfestinga á borð við neðanjarðar stokka fyrir bílaumferð.
Þessir pólitísku stjórnendur skipulagsmála Reykjavíkur hafa sett á svið það fáránleikaleikhús að hafna öllum meiriháttar fjárfestingum ríkisins í samgöngubótum höfuðborgarinnar. Þetta var gert með því að fjarlægja allar brýr fyrir mislæg gatnamót af Aðalskipulagi borgarinnar. Þannig var t.d. girt fyrir umbætur, sem Vegagerðin var tilbúin að fara út í á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar. Þetta er alveg dæmalaust framferði, og aðeins forpokaðir rauðliðar geta gert sig seka um annað eins.
Þegar íbúar kvarta undan þéttingu byggðar og skorti á bílastæðum, t.d. í grennd við Útvarpshúsið, og óska eftir viðtali við Borgarstjóra, er þeim svarað með skætingi um, að þeir geti komizt leiðar sinnar á reiðhjólum eftir nýlögðum hjólreiðastígum, t.d. þar sem áður var tvíbreiður Grensásvegur. Hér er um óboðlega embættisfærslu að ræða. Svona yfirvöld, gjörsamlega úr tengslum við raunveruleikann og þarfir íbúanna, eru náttúrulega ekki á vetur setjandi. Því miður hafa þau nú þegar með fíflagangi valdið óafturkræfu tjóni, og það verður að slá forkólfana af í næstu sveitarstjórnarkosningum og síðan að grisja stjórnkerfið, sem þanizt hefur út samkvæmt lögmáli Parkinsons, þ.e. þjónustan við borgarana versnar um leið og kostnaður "miðlægrar stjórnsýslu", sem enginn hefur yfirsýn yfir, vex úr hófi.
Hvað gæti tekið við ? Eyþór Arnalds gerði stuttlega grein fyrir því í Morgunblaðsgrein 24. apríl 2018, "Okkar lausnir í Reykjavík":
"Við leggjum til fjölþættar aðgerðir til að leysa þennan vanda [umferðarinnar]: fækka ljósastýrðum gatnamótum [væntanlega með hringtorgum og mislægum gatnamótum-innsk. BJo], bæta [umferðar]ljósastýringu, [Komið hefur fram, að Reykjavík á tölvubúnað til miðlægrar stýringar umferðarljósa, en hefur trassað að setja hann upp og tengja-innsk. BJo.], efla almenningssamgöngur. [Án stalínistískra randýrra framkvæmda á borð við Borgarlínu, sem er tímaskekkja og verður fjárhagsleg hengingaról fyrir þann, sem fjármagnar fyrirbærið-innsk. BJo.] Bæta borgarskipulagið þannig, að fleiri stofnanir og fyrirtæki fái lóðir austar í borginni. [Þetta er liður í því að draga úr tveimur álagstoppum í umferðinni, sem vara alls í allt að 4 klst á virkum dögum-innsk. BJo.] Allt þetta mun hafa stórbætandi áhrif á umferðina og þar með stytta vinnuvikuna, enda fer allt of mikill tími í tafir."
Bara það, að borgarstjóraefni D-listans skuli sýna vandamálinu skilning og leggja fram raunhæfar hugmyndir að úrbótum, getur gefið kjósendum von um, að raunhæfur möguleiki sé á að snúa hnignun borgarinnar upp í blómaskeið, ef "rauðu khmerunum" verður veitt lausn frá störfum, sem þeir ráða alls ekki við.
Ef innanlandsflugið verður eflt með því að búa því sómasamlegan og tryggan sess á Vatnsmýrarvellinum í Reykjavík og lækka á því opinber gjöld, þá getur það dregið úr landumferð og eflt bæði landsbyggð og höfuðborg. Þessu sýnir Samfylkingin engan skilning, heldur hefur um langt árabil sýnt innanlandsfluginu banvænan fjandskap. Það mun aðeins starfa í mýflugumynd, ef stefna hennar um lokun Reykjavíkurflugvallar eigi síðar en 2024 nær fram að ganga. Fái D-listinn í Reykjavík nægilegt traust í komandi borgarstjórnarkosningum, mun hann snúa bökum saman við ríkisvaldið um framtíð Vatnsmýrar.
Guðni Ágústsson, fyrrverandi Alþingismaður og ráðherra, reit 26. apríl 2018 grein í Morgunblaðið, sem hann nefndi:
"Verður Reykjavíkurvöllur hrakinn burt og allt flug laskast ?":
"Það hefur verið ömurlegt að fylgjast með valdhroka meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur undir forystu Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra, gagnvart flugvelli allra landsmanna í Vatnsmýrinni. Og í rauninni fáheyrt, hvernig ríkisstjórn og Alþingi hafa án aðgerða horft á, hvernig verið er að þrengja að fluginu með því að ætla að byggja rándýr íbúðarhverfi allt í kringum völlinn. Einn daginn verður svo hrópað: "Það er lífshætta að lenda flugvélum í Reykjavík, flugið verður að fara strax !"
Skipulagsvaldið er í höndum sveitarfélaganna, en um það eru mörg fordæmi, að þegar um almannahagsmuni er að ræða, eins og í þessu tilviki, þá leyfir Stjórnarskráin Alþingi að grípa til sinna ráða, ef gjörðir sveitarfélagsins stangast á við almannahagsmuni. Þess vegna væri réttmætt, að Alþingi myndi setja lög um Reykjavíkurflugvöll til að festa þar 3 flugbrautir í sessi til framtíðar, enda hafa mælingar sýnt, að skýr meirihluti er í öllum kjördæmum landsins fyrir áframhaldandi starfsemi hans.
""Völlurinn gegnir mikilvægu öryggishlutverki fyrir flugsamgöngur landsins sem bezti varaflugvöllur millilandaflugsins." [Þetta hefur Guðni eftir Ingvari Mar Jónssyni, flugmanni, og efsta manni á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík.] Hann segist oft sem flugmaður hafa stefnt þotunni frá ófærum Keflavíkurflugvelli í skjólið í Vatnsmýrinni og skilað farþegunum heilu og höldnu heim."
Ekki má gleyma ómetanlegri nytsemi flugvallarins fyrir sjúkraflugið í landinu. Flugvöllurinn er steinsnar frá miðstöð bráðalækninga í landinu, Landsspítalanum, ásamt beztu Fæðingardeild landsins og annarri öflugri heilbrigðisþjónustu. Það er ekki hægt að umbera slíkt ábyrgðarleysi, sem felst í að gera hlut þess fólks enn verri með stjórnvaldsákvörðun, sem lífsnauðsynlega þarf að komast fljótt undir læknishendur við beztu skilyrði, sem landið býður. Ábyrgðarleysið felst í að loka Reykjavíkurflugvelli, sem er einhver versta stefnumörkun sveitarfélags gegn almannagagsmunum í manna minnum.
Í lok greinarinnar birtist ákall Guðna til landsmanna um þetta efni:
"Ég bið alla landsmenn að hugleiða, hvers virði flugvöllurinn er öllu flugi og mannslífum í háska stöddum. Flugvöllurinn er enn stærra kosningamál en nokkru sinni; nú snýst það um, hvort hann verður hrakinn eða ekki hrakinn á braut. Brotavilji og ásetningur Dags B. Egertssonar og hans manna er einbeittur gegn flugvellinum, og þar með er allt flug í landinu sett í uppnám."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.5.2018 | 11:35
Óðs manns æði
Talsverð umræða hefur nú skapazt í landinu um Orkusamband ESB og Orkustofnunina ACER, sem skilgreind eru í Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB frá 2009 og Sameiginlega EES-nefndin í Brüssel samþykkti 5. maí 2017 að beina til þjóðþinganna þriggja á Íslandi, í Noregi og í Liechtenstein, að "aflétta stjórnlagalegum fyrirvara á" um innleiðingu í EES-samninginn, þ.e.a.s. gjörningurinn er þegar kominn inn í orkukafla samningsins, 4. viðauka, en skortir lagagildi í hverju þessara þriggja landa, þar til síðasta þjóðþingið hefur veitt gjörninginum blessun sína.
Í þessu tilviki er Alþingi síðasti löggjafinn til að fjalla um málið; hinir hafa báðir samþykkt, sá norski með braki, brestum og eftirmálum. Pólitísku drunurnar í Noregi af gjámyndun á milli þings og þjóðar í þessu máli eru síður en svo þagnaðar og munu líklega vara allt þetta kjörtímabil, sem hófst haustið 2017, og taka undir í fjöllunum í sveitarstjórnarkosningum á næsta ári, nema Stórþingið snúi af villu síns vegar við boðaða endurupptöku málsins í Stórþinginu, ef Alþingi vinnur það þarfaverk að synja þessu samkomulagi Sameiginlegu EES-nefndarinnar samþykkis.
Umræðan hérlendis er misjöfn að gæðum, eins og gengur. Fram fyrir skjöldu hefur stigið iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, með þann boðskap helztan, að umrædd staðfesting Alþingis mundi varla nokkru breyta á Íslandi. Til að finna þessum áróðri stað hefur hún látið iðnaðarráðuneytið kaupa minnisblað af innlendum lögmanni, sem áður var framkvæmdastjóri hjá ESA-Eftirlitsstofnun EFTA í Brüssel.
Ráðherrann hefur dregið niðustöður þessa minnisblaðs saman í 7 liði, sem allir eiga að sýna, að hún eigi alls ekki við ályktanir þeirra tveggja stjórnarflokka, sem ályktað hafa um málið, og að hún mundi engu breyta, sem máli skiptir um íslenzka stjórnsýslu. Hvort tveggja er kolrangt hjá ráðherranum og má furðu gegna, að hún skuli fara á flot með aðra eins vitleysu gagnvart fólki, sem kann að lesa. Fyrst verða flokksályktanirnar skoðaðar, og síðan verður sérfræðingur um orkumál leiddur fram á sviðið til að aðgæta, hvort um lítils háttar breytingar er að ræða:
a) ályktun Framsóknarflokksins frá 11. marz 2018 hljóðaði svona (aldrei er góð vísa of oft kveðin): "Framsókn stendur vörð um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnar því, að orkulöggjöf Evrópusambandsins verði tekin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið."
Það er óyggjandi, að hluti fullveldis Íslands í orkumálum mundi glatast og færast til yfirþjóðlegrar stofnunar, ACER, þar sem Ísland ekki er fullgildur aðili, ef Þriðji orkubálkurinn verður innleiddur í EES-samninginn. Það er jafnframt ljóst, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB er hluti af orkulöggjöf sambandsins. Þar af leiðandi fer ekki á milli mála, að ofangreind samþykkt Framsóknarflokksins á við um væntanlega þingsályktun utanríkisráðherra og frumvarp iðnaðarráðherra um innleiðingu téðs lagabálks í EES-samninginn. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa skýra viðmiðun frá síðasta Flokksþingi sínu.
b) Ályktun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins 18. marz 2018 um þetta mál hljóðaði þannig:
"Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."
Það, sem hér er átt við, er, að samkvæmt Öðrum orkumarkaðslagabálki ESB hefur ESB, og í EFTA-löndunum þremur ESA, eftirlit með, að settum viðskiptareglum sé fylgt, þ.e. fjórskiptingu raforkumarkaðarins sé við haldið (frjáls samkeppni orkuvinnslu og sölu, einokunarfyrirtæki raforkuflutninga sé óvilhallt einstökum aðilum á markaði og sérleyfi dreifingarfyrirtækja, t.d. um verðlagningu, sé undir opinberu eftirliti. Þá hefur ESB/ESA eftirlit með, að langtímasamningar um raforkusölu séu í samræmi við markaðsaðstæður og feli ekki í sér undirboð, sem skekki samkeppnisstöðu). Ekkert nýtt, sem er umfram þetta, mega fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja.
Það ætti hverju mannsbarni að vera ljóst, sem kynnir sér málin, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn felur einmitt í sér viðbótar framsal valds yfir íslenzka orkumarkaðinum til ESB/ESA, sbr útibú ACER á Íslandi og skuldbindingu landsins með innleiðingunni um að vinna að því að raungera Kerfisþróunaráætlun ESB.
Það er hulin ráðgáta, hvernig iðnaðarráðherra dettur í hug að reyna að fara á flot með kenningu um hið gagnstæða í veikri von um, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins telji sig óbundna af ofangreindri skýru ályktun gegn Þriðja bálkinum. Allar efasemdir um, að áhrifin af téðum lagabálki verði mikil, ættu þó að gufa upp sem dögg fyrir sólu við lestur Morgunblaðsgreinar Elíasar B. Elíassonar 28. apríl 2018:
"Á að stofna nýja Orkustofnun til að gera ekkert ?":
"Hin nýja Orkustofnun skal skipuð samkvæmt tilskipun nr 72 frá 2009, en þar segir í grein 35, að sérhvert ríki skuli skipa eina stofnun með reglugerðarvald sem landsstofnun. Nú fjalla þessi lög um fleiri lönd en Ísland, og íslenzki textinn liggur ekki fyrir, svo að hér verður enska orðið "regulator" þýtt sem reglari. [Norðmenn kalla þessa stofnun hjá sér "Reguleringsmyndighet for energi-RME", og virðist hún verða sjálfstæð deild í NVE, þeirra Orkustofnun, OS-innsk. BJo.] Á Íslandi mun hin nýja Orkustofnun verða landsreglari. [Landsreglarinn tekur við núverandi reglusetningarhlutverki ráðuneyta og OS um orkuflutninga og mun þess vegna hafa yfirstjórn Landsnets með höndum. Hvernig er hægt að kalla það léttvæga breytingu ?-innsk. BJo.]
Það vekur fyrst athygli, hvað reglarinn skal vera óháður öllum stjórnvöldum og stofnunum, jafnt opinberum sem einka. Starfsfólk reglarans má hvorki leita eftir né þiggja fyrirmæli frá öðrum um neitt það, er við kemur valdi hans eða beitingu þess. Þá er langur kafli um stefnumörkun, sem einkum gengur út á, að reglarinn fylgi stefnu ESB í einu og öllu í nánu samstarfi við ACER, Orkustofnun Evrópu. [Stefna ESB í orkuflutningsmálum krystallast í Kerfisþróunaráætlun ESB, þar sem Ice Link sæstrengurinn er á forgangslista yfir 170 verkefna - innsk. BJo.] Hann á t.d. að sjá til þess að efla tengingar á milli landa, þróa virka svæðisbundna samkeppnismarkaði, að kerfisstjórar [hér Landsnet-innsk. BJo] hafi hæfilega hvata til að bæta virkni kerfisins og fleira.
Þó svo, að landsreglarinn stjórni með því að setja öðrum reglurum reglur, þá munu gerðir hans vissulega snerta einkaaðila. Þar fór sú afsökunin. [Þetta er mjög mikilvægt atriði í stjórnlagalegum skilningi málsins, því að erlent vald yfir einkaaðilum á Íslandi er grundvallarbrot gegn Stjórnarskrá lýðveldisins - innsk. BJo.] Grein 37 telur síðan upp skyldur reglaranna, sem eru auðvitað fyrst þær að hafa samráð við og hlýða stofnunum ESB; með öðrum orðum að fara að lögum ESB.
Eitt dæmið er að viðhafa baunatalningu á hestaflafjölda nýrra aflstöðva í því skyni að að tryggja afhendingaröryggi. Þetta dæmi, sem og dæmið um, að hér skuli koma á virkum samkeppnismarkaði með rafmagn, lýsir algerri vanþekkingu á aðstæðum hér hjá hverjum þeim, sem lætur sér detta í hug að fara eftir þessu." [Að fulltrúi Íslands í Sameiginlegu EES-nefndinni, sem væntanlega var undir stjórn utanríkisráðherra, skyldi samþykkja þessi ósköp inn í EES-samninginn 5. maí 2017, vitnar um óafsakanlega yfirsjón og vanmat á því, sem hér er undir, þ.e. ráðstöfun rafmagnsafurða orkulinda Íslands, inn á orkumarkað ESB. Ef í þessu máli er ekki ástæða fyrir þjóðkjörna fulltrúa að grípa í neyðarhemilinn, leiðrétta stórfelld mistök utanríkisþjónustunnar og synja þessum afarkosti staðfestingar, þá verður væntanlega aldrei ástæða til þess og leiðin greið fyrir Ísland inn í ESB. Þetta er kjarni langvinnra átaka um Ísland - innsk. BJo.]
Elías fjallar síðan um sérstöðu Íslands sem vatnsorkulands og færir fyrir því sterk rök, að tæknilega eigi reglur ESB um raforkumarkaði mjög illa við Ísland og geti valdið hér stórtjóni, sé reynt að beita þeim. Hann heldur því fram, að það verði að vera hægt að setja reglur um það, hvernig vatn er tekið úr lónum, og að þær reglur verði að standa framar reglum "landsreglarans" (útibús ACER á Íslandi):
"Miðlunarlónum þarf að stýra þannig, að þau fylgist að, þegar lækkar í þeim, í samræmi við þá áhættu, sem við blasir, ef lón tæmist. Það verður með öðrum orðum af þjóðhagslegum ástæðum að stýra þeim eftir samræmdu áhættumati. Slíkt mundi jafngilda markaðsmisnotkun á sérhverjum samkeppnismarkaði.
Vegna aðstæðna getur þurft að takmarka vatnsborðssveiflur miðlunarlóna við þröng mörk. Dæmi um slíkt hér á landi er Þingvallavatn.
Vegna aðstæðna getur þurft að takmarka mjög sveiflur í vatnsrennsli frá miðlunarlónum. Bæði getur það ógnað lífi veiðimanna og skaðað lífríkið í ánni. Hraðar breytingar á markaðsverði mundu auka mjög tilhneiginguna til að fara út í slíkar sveiflur.
Allar þessar ástæður eiga við um vatnsorkuver og eru í andstöðu við frjálsan samkeppnismarkað að vilja ESB. Augljóst er, að hvorki [nýja] Orkustofnun, vegna sambands síns við ACER og ESB, né aðrir reglarar, sem starfa eftir hennar reglugerðum [t.d. Landsnet] mega hafa vald til að véla um þessa hluti. Þeir gætu [þá] jafnvel í vissum málum þurft að ganga gegn hagsmunum þjóðar sinnar."
Hér eru færð skýr rök fyrir því, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB henti engan veginn íslenzka raforkukerfinu og yrði reyndar stórskaðlegur, ef reynt yrði að beita honum hér, þ.e. ef reynt yrði að koma hér á markaðsfyrirkomulagi með raforkuna að hætti ESB.
Þessu hefur iðnaðarráðherra heldur engan gaum gefið, þegar hún hefur reynt að greiða götu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB hérlendis með því að reyna með útúrsnúningum, rangtúlkunum og hálfkveðnum vísum um efni lagabálksins, með aðstoð lögmanns, sem áður gegndi framkvæmdastjórastöðu hjá ESA, að telja mönnum trú um, að áhrif innleiðingarinnar yrðu lítil, sbr eftirfarandi: Ólafur Jóhannes Einarsson:
"ACER hefði engin áhrif á leyfisveitingar hér og stjórnsýslu hér á landi, né heldur valdheimildir gagnvart einkaaðilum. Valdheimildirnar gagnvart EFTA-löndunum verða hjá Eftirlitsstofnun EFTA-ESA, en ekki hjá ACER."
Síðan koma sterk aðvörunarorð frá Elíasi B. Elíassyni til Alþingismanna í lokin:
"Ef þessum og fleiri atriðum tengdum auðlindum okkar er ekki gefinn hæfilegur forgangur, getur reynzt skaðlegt að reyna að koma hér á samkeppnismarkaði, eins og landsreglarinn á að hafa sem eitt meginmarkmiðið. Það væri því í anda við málflutning stjórnvalda að fresta lögfestingu þriðja áfangans, þar til semja þarf um sæstreng og semja þá um þriðja áfangann í leiðinni. Í sannleika sagt þá er ekkert vit í öðru.
Ef sæstrengur kemur, er samkeppnisstöðu alls okkar iðnaðar hætt, nema helzt stóriðju, sem getur varið sig í einhvern tíma. Samningar um sæstreng eru hreint út sagt óðs manns æði, hafandi lögfestingu þriðja áfangans á bakinu." [Undirstrikun BJo.]
Hér verður vart bætt um betur í röksemdafærslu fyrir íslenzkum hagsmunum gagnvart Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB, sem mundi valda íslenzka hagkerfinu og nýtingarstjórnun orkulinda landsins stórtjóni, ef hann verður innleiddur í EES-samninginn, á meðan Ísland er enn í EES.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.5.2018 | 10:33
Stórkarlaleg hugmyndafræði borgaryfirvalda
Einkennandi fyrir stjórnsýslu núverandi borgaryfirvalda er aðgerðarleysi, eins og rakið verður hér á eftir. Það er engu líkara en stórkarlalegir loftkastalar eigi að bera í bætifláka fyrir doða stjórnkerfisins. Algert áhugaleysi um hag atvinnulífsins og þjónustu við borgarbúa, hvað þá aðra landsmenn, skín út úr stefnumörkun og aðgerðarleysi borgarstjórnarmeirihlutans. Einkenni hans er doði, en nú þarfnast höfuðborgin einmitt dugandi karla og kvenna í meirihluta borgarstjórnar. Kjósendum í borginni er nú boðið upp á kosti, sem vert er að reyna.
Doðinn og loftkastalarnir eru skýr merki um, að fulltrúar meirihlutans eru ekki í pólitík til að þjónusta einn eða neinn, nema þá að þjóna lund sinni með því að troða meingallaðri, vanhugsaðri, rándýrri og afar óhagkvæmri hugmyndafræði sinni upp á höfuðborgarbúa og þar með landsmenn alla. Borgarstjórinn er utan gátta um rekstur borgarinnar, sem safnar miaISK 8 skuldum á ári og kann engin skil á slysum í rekstrinum, t.d. saurgerlum við baðströnd borgarinnar og skolpúrgangi í grennd, enda er hann ekki til viðtals fyrir sauðsvartan almúgann. Hjá Reykjavík mun ekkert breytast til batnaðar fyrr en í borgarstjórastól sezt skeleggur maður með báða fætur á jörðunni og lætur verkin tala. Hann verður að snúa hnignun fjármála og framkvæmda við. Eyþór Arnalds sýndi og sannaði í Árborg, að hann kann þetta.
Fyrsta dæmið um bjálfalega stjórnarhætti núverandi borgarstjórnarmeirihluta, sem hér verður tekið, er fyrirhuguð lokun Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni, eigi síðar en 2024. Þessi stefna var tekin án nokkurrar tilraunar til að leggja raunhæft mat á afleiðingarnar. Enginn flugvöllur kemur í staðinn, enda næmi slík fjárfesting miaISK 100-200. Lokun flugvallarins þýðir gríðarlega afturför varðandi eftirfarandi þætti:
- Flugkennsla í landinu missir langmikilvægustu aðstöðu sína. Starfsemin á Keflavíkurflugvelli og flugkennsla fara mjög illa saman. Flugkennslan í landinu er í uppnámi, á meðan hótun stjórnmálamanna um lokun Vatnsmýrarvallar vofir yfir.
- Flugfélögin, sem nota Keflavíkurflugvöll, missa mjög hentugan varafluvöll, sem þýðir minna öryggi, meiri eldsneytiskostnað og minni lestunargetu fólks og varnings um borð. Þetta mun gera flug til landsins og frá því dýrara. Ekki er víst, að stærsta atvinnugrein landsins, ferðaþjónustan, megi við því. Nú þegar eru teikn á lofti um, að aukning erlendra ferðamanna minnki einn mánuð eftir annan og gæti hæglega stefnt á samdrátt í fjölda á þessu ári m.v. 2017. Kemur hann á versta tíma fyrir greinina að miklu fjárfestingarskeiði afstöðnu. Ef samkeppnisstaða Íslands versnar m.v. önnur lönd nyrzt á norðurhveli, þá getur slíkt leitt yfir landið efnahagskreppu.
- Sjúkraflugið verður aðeins svipur hjá sjón. Forsenda þess, að landsbyggðarfólk geti reitt sig á neyðarþjónustu Landsspítalans er öflugt og öruggt sjúkraflug, sem aðeins er mögulegt með góðan flugvöll nærri honum, eins og nú háttar til. Að stefna sjúkrafluginu, nema þyrlunum, til Keflavíkur er svívirðileg framkoma við þá, sem í nauðum lenda fjarri höfuðstaðnum.
Samgöngumál höfuðborgarinnar, bæði við hana og innan hennar, eru í algerum ólestri, og fær borgarstjórnarmeirihlutinn falleinkunn fyrir málsmeðferð sína á þeim málaflokki. Hann hefur unnið gegn hagsmunum allra, sem þurfa að komast leiðar sinnar á höfuðborgarsvæðinu, með því að hlutast til um, að Vegagerðin haldi að sér höndum með umbætur á stofnæðum Reykjavíkur, en leggi þess í stað tæplega 1,0 miaISK/ár í Strætó. Þá innspýtingu taldi vinstri meirihlutinn 2011 duga til að auka hlutdeild Strætó í umferðinni, en hún stendur samt nánast í stað við 4 %. Þessum ríkisfjármunum er þess vegna mjög illa varið miðað við það, sem verið gæti. Þá hefur núverandi meirihluti Dags, borgarstjóra, unnið skemmdarverk á undirbúningi Sundabrautar með því að girða fyrir ódýrari leiðina með lóðaúthlutun. Engu er líkara en Dagur og hinn pólitíski kommissar skipulagsmálanna, svo nefndur Holu-Hjálmar, sem er enginn andans maður, eins og Bólu-Hjálmar var, stundi skæruhernað gagnvart íbúunum í nafni sérvitringslegrar hugmyndafræði. Það er pólitískt stórslys, að sérvitringar og faglegir viðvaningar skuli hafa vélað svo lengi um borgarskipulagið, sem raun ber vitni um.
Sem lausn á umferðarvandanum berjast þeir fyrir miaISK 100 fjárfestingu í s.k. Borgarlínu, sem er sérrein fyrir liðvagna, eftir að sporvagn var lagður á hilluna. Er nú hótað að setja veikburða borgarsjóð á hausinn með stórfelldum lántökum í þetta vonlausa verkefni, því að ríkið hefur að öllum líkindum önnur áform í Samgönguáætlun sinni 2019-2021, sem bíður birtingar.
Vandamál Borgarlínu er hár stofnkostnaður og rekstrarkostnaður miðað við íbúafjöldann á "upptökusvæði" vagnanna. Úr þessu reyna Dagur og Holu-Hjálmar að bæta með þéttingu byggðar. Þessi stefna hefur þegar valdið ómældu tjóni. Þessi byggingarmáti er tafsamur og dýr. Árið 2017 voru aðeins 322 íbúðir byggðar í Reykjavík, sem er aðeins rúmlega 15 % af þörfinni. Þetta kemur mjög harðlega niður á kaupendum fyrstu íbúðar sinnar, því að lítið framboð m.v. eftirspurn spennir verðið upp. Um þetta húsnæðishallæri af mannavöldum skrifar Baldur Arnarson baksviðsfrétt í Morgunblaðið 24. apríl 2018,
Nýju íbúðirnar of dýrar:
"Fátt bendir til, að skorti á smærri og ódýrari íbúðum miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu verði eytt á næstu misserum. Nýjar íbúðir, sem eru að koma á markað, eru enda of dýrar.
Síðan vitnar hann í tvo sérfróða um húsnæðismarkað:
"Tilefnið er, að fyrstu íbúðirnar í nýju hverfi í Vatnsmýri fóru í sölu. Haft var eftir Brynjari Harðarsyni, framkvæmdastjóra Vals, í fréttum Stöðvar 2 sl. laugardag, að íbúðirnar hentuðu fyrstu kaupendum. Verð íbúðanna er 39,8 til 72,9 milljónir. Meðalstærð þeirra er 71 m2, og meðalverð á m2 er um 666 þúsund krónur."
Hér er yfirleitt um of stórar íbúðir fyrir fyrstu kaupendur að ræða. Engum þarf að koma á óvart, að íbúðir í Vatnsmýri séu dýrar. Við því var varað í upphafi umræðu um byggingarland þar, því að mjög djúpt er niður á fast undirlag. Að skáka í því skjólinu, að Reykjavíkurflugvelli verði brátt lokað, og að Neyðarbrautinni hafi verið lokað, eru of veik rök fyrir því að setja strax niður íbúðabyggð í Vatnsmýrinni. Þetta er rétt eitt glóruleysið, og þessar íbúðir geta hrapað í verði, ef nýr meirihluti festir flugvöllinn í sessi og jafnvel opnar Neyðarbrautina.
Síðan kemur afsprengi sérlundaðrar skipulagsstefnu, sem rýrir óhjákvæmilega gildi nýrra íbúða:
"Allur gangur er á því, hvort bílastæði fylgja nýjum íbúðum á þéttingarreitum í borginni. T.d. er hægt að kaupa bílastæði í kjallara með ódýrustu íbúðunum á Frakkastíg."
Það er ein af frumskyldum bæjarstjórna að skipuleggja nægt framboð íbúða af réttum stærðum m.v. þarfir hvers tíma. Reykjavíkurborg hefur gersamlega brugðizt þessu hlutverki, haft allt of lítið framboð ódýrra lóða, sem skipulagðar eru fyrir litlar íbúðir. Skilningur á þörfum íbúanna heldur ekki máli og er brottrekstrarsök úr borgarstjórn. Þegar borgaryfirvöld mæta íbúum Furugerðis, sem kvarta undan allt of mikilli þéttingu og of fáum bílastæðum, með því, að þeir geti notað reiðhjól, af því að nú sé búið að gera góða aðstöðu fyrir reiðhjól við Grensásveg, er ljóst, að ósvífni "rauðu khmeranna" eru engin takmörk sett og að nú er mælirinn fullur.
"Lýðfræðileg þróun síðustu áratuga hefur aukið eftirspurn eftir smærri íbúðum. Á sama tímabili hefur verið byggt hlutfallslega meira af stærri íbúðum, sem eru 110 m2 eða stærri. Það eru ekki íbúðir, sem ætla má, að fyrstu kaupendur séu alla jafna að horfa til.
Elvar Orri segir þessa þróun hafa skapað skort á smærri eignum, 30-60 m2, sem eru á viðráðanlegu verði fyrir fyrstu kaupendur.
Þá á ég við smærri íbúðir, sem kosta undir 30 milljónum króna. Ég held, að fyrstu kaupendur séu ekki endilega að horfa til íbúða, sem eru 60 m2 eða stærri. Það væru eflaust margir tilbúnir að fara úr foreldrahúsum og í íbúðir, sem eru minni en 60 m2, segir Elvar Orri og bendir á, að mikil eftirspurn eftir litlum íbúðum í skammtímaleigu til ferðamanna hafi dregið úr framboði smærri og ódýrari íbúða."
Fílabeinsturninn:
Vinstri menn hafa mikla tilhneigingu til að þenja út stjórnkerfi sín, einnig borgarinnar, og fjölga silkihúfum. Þeir hafa hins vegar enga þekkingu á því úr fyrirtækjarekstri, hvernig skipuleggja þarf starfsemi, svo að hún virki. Fjölgun embættismanna hefur fylgt lögmáli Parkinsons um, að ein staða kalli á aðra, og þjónustan hefur hríðversnað. Stjórnsýslan er orðin svo flókin, að enginn virðist botna í henni. Þetta spillta, gagnslitla og dýra kerfi þarf að skera upp, hrista upp í því og búa til einfaldar boðleiðir, þar sem íbúunum, sem þjónustunnar eiga að njóta, er ljóst, hver ber ábyrgð á hverju, og hvert þeir eiga að snúa sér með erindi sín.
Yfirmennirnir virðast núna ekki vera í neinu sambandi við íbúana. Ef óskað er viðtals við æðsta strump, er vísað á undirtyllu. Þessi "elítuuppbygging" að hætti "Brüsselvaldsins" á auðvitað engan veginn við í okkar litla samfélagi, þar sem ekki er pláss fyrir aðgerðarlausa kónga, sem er sama um lýðinn, heldur verða allir að vera virkir.
Það, sem sparast þá við þessa uppstokkun, á að veita til að bæta grunnþjónustuna við íbúana, t.d. yngstu íbúana, hverra foreldrar eru á skeiði mestu fjárþarfar lífs síns og þurfa þess vegna bæði á tekjum að halda, enda er slíkt í anda jafnréttis. Að bjóða yngstu íbúunum gott atlæti er grundvallarmál.
Eldri borgarar:
Um allt land fer eldri borgurum hlutfallslega mest fjölgandi allra aldurshópa. Það á í sérstökum mæli við í Reykjavík, þar sem frá dögum R-listans hefur verið rekin beinlínis fjandsamleg stefna í garð ungs fólks, sem er að stofna heimili. Þetta er fádæma skammsýni fyrir hönd borgarinnar, og vonandi munu nýir valdhafar í borginni snúa þessari öfugþróun við.
Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins, ritaði þann 24. apríl 2018 grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:
"Okkar lausnir í Reykjavík".
Einn kaflinn hét: "Bætum kjör eldri borgara" og var merkileg tillaga að stefnumörkun fyrir borgina og önnur sveitarfélög:
"Borgin hefur hækkað gjöld á íbúana á síðustu 8 árum. Á sama tíma hafa eldri borgarar orðið fyrir skerðingum. Við viljum koma til móts við eldri borgara og veita 100 % afslátt fyrir þá, sem eru orðnir 70 ára. Þetta er réttlætismál, þar sem hér er verið að draga úr tekjuskerðingum. En þetta er jafnframt skynsamlegt, þar sem það er mun hagstæðara, að þeir, sem geta og vilja búa heima, eigi þess kost. Það er dýrt og óskynsamlegt að stofnanavæða heilu hópana. Og það er engin lausn í húsnæðismálum að skattleggja eldri borgara út úr húsum sínum."
Vinstri menn hafa brugðizt öndverðir við þessum sjálfsögðu þjóðfélagsumbótum Eyþórs Arnalds og beitt fyrir sig hefðbundnum músarholusjónarmiðum úr öfundargenunum um, að hér sé verið að umbuna þeim ríku. Þannig bregðast þeir alltaf við tillögum um skattalækkanir og kasta þar með á glæ fjölmörgum kostum skattalækkana, sem allt þjóðfélagið nýtur, jafnvel stundum á formi tekjuhækkana opinberra sjóða, og það er einmitt útgjaldalækkun opinberra sjóða, sem Eyþór hefur í huga hér, svo að allir græði.
Það er rík ástæða til að hvetja alla, sem annt er um góða þjónustu í nærsamfélaginu og ráðdeild við stjórnun fjármála þar, til að kjósa D-listann, ekki sízt í Reykjavík. Höldum okkur hægra megin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.5.2018 | 11:03
Nýstárleg kenning um nytsemi ACER
"ACER og þriðji orkumálapakki Evrópusambandsins" er yfirskrift Morgunblaðsgreinar eftir Skúla Jóhannsson, verkfræðing, þann 24. apríl 2018. Það er ætíð fengur að greinum Skúla. Hann hefur t.d. ritað í Morgunblaðið um aflsæstreng til Skotlands og sýnt fram á, að undir því verkefni hefur ekki verið viðskiptagrundvöllur hingað til. Nú er vitað, að úr sjóðum ESB hafa komið styrkir til samtengiverkefna á orkusviðinu, sem eru í Kerfisþróunaráætlun ESB. Það er einnig vitað, að á forgangslista ESB um samtengiverkefni er "Ice Link", sem er samtenging íslenzka og skozka raforkukerfisins, eins og "NorthConnect", sem á að tengja saman norska og skozka kerfið. Sá strengur er mörgum Norðmönnum þyrnir í augum, því að þeir óttast, að með honum verði vatnsorkuforða Noregs eytt og þar með hækki raforkan í Noregi mikið í verði.
Skúli Jóhannsson hefur líka í Morgunblaðsgrein sýnt fram á, að tal Landsvirkjunar um vatnsmiðlunarorku, sem ekki náist að nýta með núverandi virkjunum, er mjög orðum aukið, og erum við á sama máli um þessi efni.
Nú bregður hins vegar svo við, að við Skúli erum á öndverðum meiði varðandi það, hvort Alþingi eigi að hafna eða samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn. Ég hef á þessu vefsetri margoft, svo og tvisvar í Morgunblaðinu, rakið, hvers vegna Alþingi á að hafna þessum gjörningi, svo að nú er bezt að velta fyrir sér þeim rökum, sem Skúli færir fyrir hinu gagnstæða.
Hann leitar reyndar til Noregs og til þeirra, sem studdu inngöngu Noregs í Orkusamband ESB. Þeir urðu ofan á í Stórþinginu 22. marz 2018, en sú skoðun virðist samt aðeins njóta stuðnings um 10 % þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnunum. Þar er gjá á milli þings og þjóðar, sem aldrei er gott fyrir lýðræðið í stórmálum, sem m.a. snerta Stjórnarskrána.
Skúli tiltekur 6 atriði úr norsku umræðunni og heimfærir hingað. Fyrst telur hann þó, að "töluvert flókin staða gæti komið upp, ef Ísland hafnaði ACER eftir samþykkt Norðmanna." Í EES-samninginum er þó gert ráð fyrir, að til höfnunar löggjafans í einu aðildarlandi geti komið, og þar er útlistað, til hvaða gagnaðgerða ESB má grípa í slíkum tilvikum. Þær eru þess eðlis, að hagkerfum og viðskiptum EFTA-landanna stafar engin ógn af. ESB gæti reyndar sagt EES-samninginum upp í refsingarskyni, en til þess þarf samþykki allra ríkjanna 28, sem er mjög hæpið að náist.
- "ACER fjallar ekki um, hvort eigi að leggja sæstreng frá Íslandi til Bretlands. Ákvörðun um það er alfarið á hendi íslenzkra stofnana, sem til þess eru bærar." ACER og ENTSOE, samtök raforkuflutningsfyrirtækja í Evrópu, hafa þegar fjallað um og lagt til, að "Ice Link", sæstrengur á milli Íslands og Skotlands, verði lagður og gangsettur árið 2027. Verði Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn leiddur í lög hér, mun það fela í sér skuldbindingu íslenzkra yfirvalda til að framfylgja Kerfisþróunaráætlun ESB, þar sem "Ice Link" er eitt verkefnanna. Völd íslenzkra yfirvalda á raforkuflutningssviði verða eftir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB aðeins form án innihalds.
- "ACER fjallar ekki um rekstur raforkusæstrengja milli landa, þ.e. hvaða straumur er sendur hverju sinni og í hvaða átt. Það ákvarðast eingöngu af framboði og eftirspurn í einstökum aðildarríkjum, sem þau hafa full tök á sjálf." Eigendur sæstrengsins, sem að hluta gætu verið Landsnet og National Grid á Bretlandi eða dótturfélög þeirra (Landsvirkjun eða aðrir beinir aðilar á orkumarkaði mega þó ekki koma að eignarhaldi orkuflutningsmannvirkja) munu reyna að koma sér saman um rekstur mannvirkjanna, t.d. hversu stór hluti flutningsgetunnar verður nýttur undir hin ýmsu samningsform, t.d. árssamninga, vikusamninga, sólarhringssamninga og augnabliksafl. Ef samkomulag tekst ekki, fer deilan til úrskurðar hjá ACER. Öryggismörk um varaforða orku í miðlunum á Íslandi koma einnig til úrskurðar ACER, ef ekki næst samkomulag. Elías B. Elíasson, verkfræðingur, benti í Morgunblaðsgrein sinni 28.04.2018, "Á að stofna nýja Orkustofnun til að gera ekkert ?", á þá hættu, sem blasir við íslenzkum orkubúskapi, ef sæstrengur verður lagður eftir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB. "Samningar um sæstreng eru hreint út sagt óðs manns æði hafandi lögfestingu þriðja áfangans á bakinu.", skrifaði hann.
- "ACER fjallar ekki um að hækka orkuverð til almennings á Íslandi, við ákveðum það sjálf. Við munum áfram sem hingað til taka þátt í þróun raforkumarkaða með ACER, þar sem verðlagning á losun gróðurhúsalofttegunda skiptir mestu máli." Með Ísland á raforkumarkaði ESB mun verðið ráðast í samningum aðila á markaði, orkuseljenda á Íslandi og kaupenda annars staðar í EES, þegar flutt er út, og öfugt, þegar flutt er inn. Þar sem Skúli vitnar til Noregs, má geta þess, að bæði fylgjendur og andstæðingar inngöngu Noregs í Orkusamband ESB voru þeirrar hyggju, að sú innganga mundi hafa í för með sér raforkuverðshækkun. NVE (norska OS) áætlaði þriðjungshækkun á verði frá virkjun, og Statnett þarf að fjárfesta mikið, e.t.v. um miaNOK 22 í flutningsmannvirkjum, aðallega loftlínum, að nýjum sæstrengjum, t.d. NorthConnect. Slíkt hækkar flutningsgjaldið hjá Norðmönnum sjálfum. Raforkuverðhækkun á Íslandi verður sennilega mun meiri, allt að tvöföldun heildarrafmagnsverðs, þar sem Ísland var ótengt áður og hér er miðlunargeta lóna hverfandi í samanburði við Noreg. Um hækkanir í Noregi sagði Sigbjörn Gjelsvik, Stórþingsmaður í viðtali á RÚV 17.04.2018: "Stefnt er að því að útrýma svo kölluðum flöskuhálsum í orkuflæðinu, sem mun þrýsta á Noreg að leggja fleiri sæstrengi, og það mun valda hækkun á orkuverði. Það hefur svo áhrif á samkeppnisstöðu iðnfyrirtækja í Noregi." Elías B. Elíasson var sama sinnis fyrir Ísland í tilvitnaðri grein sinni.
- "ACER fjallar ekki um framsal á forræði í eftirliti með raforkumálum á Íslandi til EBE, það verður áfram sem hingað til hjá Eftirlitsstofnun EFTA, sem nefnd er ESA ("EFTA Surveillance Authority")." Á opnum fundi í Valhöll í vor á vegum Atvinnuveganefndar Sjálfstæðisflokksins lýsti lagaprófessor Stefán Már Stefánsson efasemdum sínum um, að þetta fyrirkomulag með ESA sem millilið fyrir stofnanir ESB héldi gagnvart Stjórnarskrá Íslands. ESA er þarna leppur án nokkurra heimilda til að breyta fyrirmælum frá ACER. ESA í þessu hlutverki er blekkingarfyrirbæri til að draga dul á Stjórnarskrárbrot. Stimplarnir frá ESA mundu sennilega ekki halda gagnvart dómstólum. Í þessu sambandi er rétt að minna á ummæli Sigbjörn Gjelsvik í fyrrnefndum útvarpsþætti, Speglinum: "Það, sem er nýtt í sambandi við orkustofnunina ACER, er, að hún getur tekið ákvarðanir í ágreiningsmálum, sem ganga þvert á hagsmuni Noregs."
- "ACER fjallar ekki um framsal á forræði yfir íslenzkum virkjunum til EBE, hvorki hvað varðar byggingu nýrra virkjana né rekstur þeirra." Þetta er aukaatriði í sambandi við Orkusamband ESB, því að forræðisréttur raforkunnar mun flytjast frá lýðræðislega kjörnum íslenzkum fulltrúum til raforkumarkaðar ESB undir eftirliti ACER. Þar að auki er ómögulegt að segja, hvernig völd ACER munu þróast. Þau munu líklegast aukast með Fjórða orkumarkaðslagabálki ESB, 4000 blaðsíðna doðranti, sem nú er í smíðum.
- "ACER fjallar ekki um aukið álag á vatnsaflsvirkjanir, sem gæti haft spillandi umhverfisáhrif, t.d. með því að breyta vatnsstöðu í miðlunum tíðar og meira." ACER vill fá endurnýjanlega og umhverfisvæna raforku frá Íslandi inn á stofnkerfi meginlandsins (frá Bretum) til að fylla upp í eyður framboðsins, sem verða, þegar lygnir og dregur fyrir sólu þar. Þá hækkar verðið þar og tilhneigingin verður að keyra hámarksafl frá Íslandi og Noregi inn á stofnkerfi meginlandsins. Þetta hlýtur að leiða til hraðari lækkunar í miðlunarlónum en þekkzt hefur hér og síðan hækkunar nóttina eftir, þegar orka verður flutt inn um strenginn.
Nýstárlegastan við tilvitnaða grein Skúla Jóhannssonar verður að telja eftirfarandi texta:
"Hér á landi er hvorki geta né skilningur á því að halda uppi fullnægjandi gæðastjórnun í raforkukerfinu, og samstarf við stærra og viðurkennt batterí, eins og ACER, væri bara af hinu góða. Við ráðum varla við að þróa allt frá botni og viðhalda í síbreytilegum heimi."
Það er ekki ljóst, hvað Skúli er að fara með þessari hörðu gagnrýni á starfsmenn raforkugeirans, sem væntanlega beinist aðallega að Landsneti og Orkustofnun. Það vantar frekari skýringar, til að hægt sé að nýta þessa gagnrýni á uppbyggilegan hátt.
Gæði rafmagns spanna venjulega afhendingaröryggi og spennugæði. Þessir þættir eru í viðunandi ástandi hérlendis m.v. lítið kerfi með lágt skammhlaupsafl, nema á Vestfjörðum, og með Hvalárvirkjun og hringtengingu Vestfjarða eygja menn viðunandi úrbætur þar. Eitt er víst, að aflsæstrengur mun hvorki auka afhendingaröryggi né spennugæði á Vestfjörðum.
Hins vegar munu spennugæðin um land allt líklega versna, því að afriðlastöð og áriðlastöð, sem verða á milli sæstrengs og flutningskerfisins, eru gríðarlegir truflanavaldar (yfirsveiflur - "harmonics") í litlu raforkukerfi, eins og því íslenzka, þar sem skammhlaupsaflið við tengistaðinn verður e.t.v. aðeins tvöfalt hærra en hámarksafl sæstrengsins. Allir rafmagnsnotendur á landinu munu verða varir við það, þegar mikið sæstrengsálag hrekkur út.
Í íslenzka raforkugeiranum starfar hæft fólk með margháttaða menntun og reynslu, sumir gagnmenntaðir á sviði rafmagnsverkfræði og eru í samstarfi við kollega sína erlendis, t.d. á Norðurlöndunum innan Nordel og Nordpool. Höfundur þessa pistils hefur þess vegna ekki hugmynd um, hvað Skúli Jóhannsson á við með orðunum: "Hér á landi er hvorki geta né skilningur á því að halda uppi fullnægjandi gæðastjórnun í raforkukerfinu ... ", og lausnin, sem hann bendir á, er fráleit að dómi þessa blekbónda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.4.2018 | 09:47
Goðsögnin um gagnsemi EES
Hér á landi étur hver upp eftir öðrum, að Íslendingar eigi velmegun sína nú um stundir aðild landsins að Evrópska efnahagssvæðinu að þakka. (Gleymist þá Hrunið, sem segja má, að sé því að kenna ?) Hér er heldur betur ruglað spilunum, og þessi áróður er til þess eins fallinn að draga úr sjálfstrausti og sjálfstæðisvitund landsmanna. Það er reynt að koma því inn hjá þeim, að til að lifa í nútímalegu velferðarþjóðfélagi með tiltölulega góð lífskjör á evrópskan mælikvarða þurfum við að binda trúss okkar við stóra skonnortu, sem siglir undir bláum fána með 28 gulum stjörnum núna. Þetta er rangtúlkun á staðreyndum málsins. Það, sem Ísland þarf til velferðar, er viðskiptafrelsi og óskert fullveldi, og þetta samrýmist ekki vistinni í EES.
Sams konar sjónarmið um gallana við ESB hafa vafalaust legið að baki hjá mörgum þeirra, sem mynduðu meirihluta á Bretlandseyjum í júní 2016 fyrir úrsögn úr Evrópusambandinu, ESB. Sannleikurinn er sá, að miðstýring ESB eykst hröðum skrefum, þ.e. að segja flutningur á hefðbundnu valdi þjóðríkjanna til framkvæmdastjórnar ESB, og þessi samrunaþróun sogar EFTA-ríkin til sín, eins og svarthol (samanhrunin sól) sogar til sín allt sólkerfið og allt, sem í grenndinni er, einnig ljósið, sem þó er massalaust, samkvæmt lögmáli Max Plancks, ef rétt er munað úr eðlisfræðinni forðum daga.
Gott dæmi um þessa háskalegu þróun fyrir EFTA-löndin þrjú í EES-"samstarfinu", sem vilja halda sjálfstæði sínu í líkingu við fjórða EFTA-landið, Sviss, með sinn tvíhliða samninga við ESB, er Orkusamband ESB. Þegar þjóðþing EFTA-landanna þriggja samþykktu EES-samninginn 1992-1993, var ekkert í líkingu við núverandi stofnanavæðingu og flutning málefnasviða frá stjórnvöldum aðildarlandanna til Framkvæmdastjórnarinnar á döfinni.
Allar þrjár æðstu stofnanir ESB samþykktu árið 2009 að setja á laggirnar Orkustofnun ESB, ACER. Þar var viðtekin skoðun, að stórbæta þyrfti samtengingar á milli rafkerfa og gaskerfa aðildarlandanna til að auka afhendingaröryggi orkunnar, til að flýta fyrir orkuskiptum (ná markmiðum ESB um koltvíildislosun) og til að jafna orkuverð á ESB-svæðinu.
Ekkert af þessu á við á Íslandi, og þar af leiðandi eigum við ekkert erindi í ACER. Við mundum einskis ávinnings njóta, brjóta Stjórnarskrána og taka gríðarlega áhættu vegna ólýðræðislegrar ákvarðanatöku um raforkuflutningsmál landsins. Þróun slíkrar aðildar er ennfremur algerlega í þoku, því að stöðugt bætir Framkvæmdastjórnin við gerðum. Þannig er nú 4000 blaðsíðna viðbót í gerjun, sem mun kallast Fjórði orkumarkaðslagabálkurinn. Það er talið öruggt, að með honum munu völd ACER aukast enn. "Salami" eða sneiðaðferðin er hluti af stjórnlist ESB til sálrænnar aðlögunar aðildarþjóðanna að "hinni óhjákvæmilegu þróun" að "Sambandsríki Evrópu". Í þessu samhengi gerir Framkvæmdastjórnin engan greinarmun á EFTA-ríki og ESB-ríki. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Í Noregi og á Íslandi vita hins vegar margir, að ESB er hvorki upphaf né endir alls. Það er ágætislíf utan við EES, eins og Bretar munu brátt komast að.
Einkennandi fyrir málflutning stuðningsmanna inngöngu Íslands í Orkusamband ESB er að fimbulfamba um það, sem ekki skiptir máli, eða um aukaatriði eða hrein formsatriði, á meðan efnisatriði máls liggja óbætt hjá garði. Dæmi um þetta eru öll 7 atriði iðnaðarráðuneytisins í samantekt þess á minnisblaði lögmannsins Ólafs Jóhannesar Einarssonar, dags. 12. apríl 2018, sem Heimssýn mótmælti kröftuglega 23. apríl 2018
- Eignarréttur orkuauðlinda skiptir engu máli í sambandi við ACER, því að ráðstöfunarréttur (Norðmenn kalla þetta "styringsretten".) raforkunnar fer til raforkumarkaðar ESB, sem mun geta boðið í alla raforku á markaði á Íslandi samkvæmt Þriðja orkubálkinum.
- "Þriðji orkupakkinn haggar í engu rétti Íslands til að ákveða með hvaða skilyrðum orkuauðlindir landsins eru nýttar, og hvaða orkugjafar eru nýttir hér á landi." Það hefur varla nokkur haldið því fram, að Þriðji orkubálkurinn hefði áhrif á Rammaáætlun, en hitt er víst, að ásókn í íslenzkar orkulindir mundi vaxa mjög með tilkomu aflsæstrengs. Það er jafnframt undir hælinn lagt, hvað úr þessu Orkusambandi verður, nema telja má öruggt, að valdsvið ACER víkki, jafnvel út fyrir orkuflutninga.
- Að "ACER myndi þrátt fyrir aðild Íslands að stofnuninni [áheyrnaraðild] ekki hafa neitt að segja um atriði á borð við fyrirkomulag leyfisveitinga og stjórnsýslu hér á landi", kemur efnisatriðum málsins ekki við, því að hið formlega vald OS verður án innihalds, og úrskurður getur aðeins orðið ACER þóknanlegur. Annars fer málið til ESA/EFTA-dómstólsins.
- Það er beinlínis rangt, að ACER hafi aðeins valdheimildir gagnvart opinberum eftirlitsaðilum, því að útibú ACER á Íslandi verður ekki opinber stofnun, heldur óháð íslenzkum yfirvöldum og undir stjórn ACER um strengjabrúðuna ESA.
- ESA er lögræðilegt skálkaskjól fyrir stjórnarskrárbrot á Íslandi og í Noregi, sem felst í völdum yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem löndin njóta ekki jafnstöðu á við ESB-löndin, yfir málefnum á Íslandi, sem spanna allt þjóðfélagið (raforkuflutningar).
- Það er gróf rangtúlkun, að valdheimildir ACER eigi ekki við á Íslandi "svo lengi sem hér eru engin slík orkumannvirki", þ.e. aflsæstrengir til útlanda. Með því að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, mundi Alþingi skuldbinda Íslendinga til að aðlaga flutningskerfi raforku landsins að Kerfisþróunaráætlun ESB. Þar er "Ice Link" eitt rúmlega 170 samtengiverkefna á milli landa. Sjá menn ekki skriftina á veggnum ?
- "Þriðji orkupakkinn haggar því ekki, að það er á forræði Íslands að ákveða, hvaða stjórnvald myndi veita leyfi fyrir lagningu sæstrengs ... ."Hvaða máli skiptir þetta, þegar aðrir ákveða, hvort og hvenær strengurinn verður lagður ?
Að þvílíku fyrirbrigði sem ACER-málinu skuli skola upp að ströndum Íslands sem afrakstri EES-"samvinnunnar" sýnir, hversu dýrkeyptur þessi EES-samningur er. Upptaka um 500 ESB gerða hér á ári hverju veldur auk þess íslenzku atvinnulífi og stjórnsýslu miklum óþarfa erfiðleikum og þar af leiðandi óþarfa kostnaði, sem beint og óbeint gæti numið yfir 80 miaISK/ár. Fjárfestingaþörf Landsnets vegna orkuflutninga að og frá fyrsta sæstreng, 1200 MW, gæti numið svipaðri upphæð. Það má hiklaust draga þá ályktun af öllu þessu, að vist smáríkis langt norður í Atlantshafi með "stórveldum" meginlandsins henti alls ekki og verði alger tímaskekkja á tímum "BREXIT".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.4.2018 | 17:28
Fyrir hverja er raforkukerfið ?
Raforkukerfið er undirstaða nútímalífs á heimilum landsins og undirstaða allrar atvinnustarfsemi og þar af leiðandi verðmætasköpunar í landinu, þótt það leiki misveigamikið hlutverk eftir tækjabúnaði og starfsemi.
Því miður hefur Alþingi enn ekki mótað landinu orkustefnu, og sumpart þess vegna hefur leiðandi fyrirtæki landsins á sviði raforkumála, ríkisfyrirtækið Landsvirkjun, leiðzt inn á ankannalegar brautir í stefnumótun. Þar hefur síðan 2010 setið á forstjórastóli maður, sem boðað hefur hámörkun arðs af auðlindum, þar sem Landsvirkjun á nýtingarrétt. Sú stefna hefur aldrei verið rædd, hvað þá samþykkt af fulltrúum eigandans á Alþingi. Forstjórinn hefur boðað 10-20 miaISK/ár arð f.o.m. 2019, en fyrirtækið greiðir þó enn aðeins 1,5 miaISK í arð á ári. Virðist hann í sjálfbirgingshætti hafa tekið of mikið upp í sig og þá horft framhjá óskrifuðum skyldum langstærsta virkjunarfyrirtækis landsins um að anna lunganum af nýrri raforkuþörf á hverjum tíma. Til slíkra fjárfestinga er rétt að nota drjúgan hluta hagnaðarins í stað þess að slá lán og gera þannig vinnslukostnað virkjananna hærri.
Stjórn Landsvirkjunar virðist túlka raforkulögin frá 2003, sem kveða á um frjálsa samkeppni á sviði raforkuvinnslu og sölu rafmagns, þannig, að ætlazt sé til hámörkunar arðs til eigendanna. Þetta er órökstudd og skrýtin túlkun ríkisfyrirtækis og í raun algerlega óþörf stefnubreyting, sem virðist eiga rætur að rekja til sérvizku forstjórans um "evrópskt" orkuverð á Islandi í stað þess að lágmarka orkuverð til almennings, eins og var upprunalegt stefnumið Landsvirkjunar.
Miklu nær er að móta fyrirtækinu þá eigandastefnu, að hagnaður fyrirtækisins skuli ganga til nýfjárfestinga og lækkunar á raforkuverði til almennings, ef afgangur verður. Jafnframt verði Landsvirkjun lagðar þær skyldur á herðar að tryggja, að aldrei verði forgangsorkuskortur á landinu. Það gæti skert samkeppnishæfni fyrirtækisins og þess vegna brotið í bág við Annan orkumarkaðslagabálk ESB, sem er hluti EES-samningsins. Þetta er eitt dæmið um óhagræðið, sem hlýzt hérlendis af að innleiða reglur meginlandsins í lög hérlendis.
Þetta síðasta atriði hefur óneitanlega kostnaðarauka í för með sér, en er þjóðhagslega nauðsynlegt, því að forgangsorkuskortur er 10-1000 sinnum dýrari per kWh en vinnslukostnaður raforkunnar, háð starfseminni, sem fyrir barðinu verður á orkuskortinum.
Landsvirkjun kýs fremur að leysa öryggismálið með sæstreng til Bretlands. Það er mjög slæm lausn af eftirtöldum ástæðum:
- Rekstur slíks sæstrengs felur í sér orkusóun og þar með auðlinda- og fjársóun. Það má hiklaust reikna með 10 % töpum frá virkjunum á Íslandi og inn á flutningskerfi í Skotlandi, þaðan sem reyndar er flöskuháls til Englands. M.v. 1200 MW Ice Link, verða afltöpin 120 MW og orkutöpin tæplega 1,0 TWh/ár. Þetta er svipað og varaafl og varaorka þyrftu að vera til að girða fyrir afl- og orkuskort, ef ófyrirséðir atburðir verða.
- Sæstrengur upp á 1200 MW getur fyrirvaralaust bilað, og bilanatíðni sæstrengja og tengibúnaðar þeirra virðist vera talsvert hærri en gengur og gerist með virkjanir, aðveitustöðvar og línur á landi. Fyrir heilt landskerfi er algert óráð að reiða sig á slíkt. Ef 1200 MW álag fellur skyndilega brott af landskerfinu íslenzka, verða gríðarlegar spennu- og tíðnisveiflur. Til að draga úr tjóni af þeirra völdum, jafnvel víðtæku straumleysi, hugsanlega altæku hruni stofnkerfisins ("black-out"), þarf rándýran búnað hjá Landsneti. Hver borgar hann ? Samkvæmt Orkusambandi ESB lendir kostnaðurinn á innlendum viðskiptavinum Landsnets.
- Sæstrengur þessi mundi taka land fjarri þeim stöðum, þar sem stofnkerfið er sterkt. Þar af leiðandi mundi þurfa að styrkja flutningskerfið verulega vegna sæstrengs, líklega með 400 kV loftlínum frá helztu virkjunum landsins. Andstæðingar þessara framkvæmda verða miklu fleiri (og argvítugri) en andstæðingar bráðnauðsynlegra línulagna til héraða á landinu, sem eru í orkusvelti. Það gæti þurft að skipta um þjóð í landinu til að fá þessa framkvæmd samþykkta af þjóðinni. Framkvæmdin er þess vegna óraunhæf án einhvers konar ólýðræðislegrar valdbeitingar yfirþjóðlegs valds.
- Ice Link, 1200 MW, útheimtir líklega nýjar virkjanir að vinnslugetu 6,0 TWh/ár, en flutningsgeta strengsins nemur um 9,0 GWh/ár. Tal um bætta nýtingu orkukerfisins um 2,0 TWh/ár vegna sæstrengs er út í loftið. Þannig væri hægt að flytja inn 3,0 TWh/ár, og það er líklegt, að svo yrði gert til að mæta þörfum landsmanna fyrir aukna raforku, þ.m.t. orkuskiptanna fyrirhuguðu, en það yrðu þá sýndarorkuskipti að leysa hér jarðolíueldsneyti af hólmi með rafmagni, sem framleitt er með jarðefnaeldsneyti niðri í Evrópu og flutt hingað með ærnum tilkostnaði. Þannig mundi raforkuverðið stórhækka hérlendis og orkuskiptin verða tafsamari, enda varla hagkvæm lengur fyrir þá, sem að þeim standa.
Vilja landsmenn þessi býti ? Nei, það er nánast öruggt, að mikill meirihluti þeirra yrði hundóánægður, jafnvel miður sín, með þessi býti, enda er engin vitglóra í þeim. Heilbrigð skynsemi hefur verið gerð útlæg úr landinu, ef þessi ósköp verða ofan á. Raforkukerfi Íslands er ætlað landsmönnum sjálfum til hagsbóta, en ekki ríkissjóði eða öðrum sjóðum til að græða á í viðskiptum með rafmagn, hvað þá til að framleiða og flytja rafmagn til útlanda til að flýta örlítið fyrir orkuskiptum þar. Af þessum sökum er landsmönnum hollast að viðhalda óskertum yfirráðarétti yfir raforkunni og óskertu ákvarðanavaldi um það, hvort sæstrengur verður lagður frá Íslandi til útlanda eða ekki.
Íslenzka raforkukerfið er vel rekið, en við þurfum fleiri virkjanir, öflugra flutningskerfi, styrkt og endurnýjað dreifikerfi, til aukinnar verðmætasköpunar innanlands, sem staðið getur undir a.m.k. 3,0 % hagvexti á ári og 50 miaISK/ár auknum útflutningstekjum.
Raforkuvinnslan árið 2017 nam um 18,7 TWh, og var hlutur Landsvirkjunar 75 %. Aukið rennsli í ám gaf metvinnslu í stærstu virkjun landsins, Fljótsdalsstöð, ásamt í þremur virkjunum á Þjórsár/Tungnaársvæðinu, Sigöldu, Búðarhálsi og Sultartanga og í Steingrímsstöð í Soginu. Aukin orkuvinnsla án fjárfestinga bætir auðvitað nýtingu virkjananna; framhaldi á því má búast við á næstu árum.
Til að nýta yfirfall á stíflu miðlunarlóns þarf hins vegar að fjárfesta, og það gerir Landsvirkjun nú með Búrfelli 2. Þegar hún verður tekin í rekstur síðar á þessu ári, 2018, verður hægt að draga úr vinnslu jarðgufuvera og taka þær í viðhald á meðan gnótt er vatns í lónum. Oft er það hins vegar þannig, að ekki er gott vatnsár samtímis um allt land, og þá er nauðsynlegt að geta flutt mikið afl á milli landshluta til að koma í veg fyrir staðbundinn orkuskort. Til að sæstrengur mundi nýtast sem varaaflgjafi, þarf að sjálfsögðu að afnema alla flöskuhálsa í flutningskerfinu innanlands.
Hæsti klukkustundartoppur Landsvirkjunar í fyrra var 1831 MW þann 15. desember 2017. Þá var tiltækt afl í virkjunum fyrirtækisins 1881 MW. Mismunurinn er aðeins 50 MW eða 2,7 %. Þetta er allt of lítið varaafl, til að fullnægjandi afhendingaröryggis sé gætt, og þarf a.m.k. að tvöfalda. Það er ljóst af þessu, að Landsvirkjun má ekki láta deigan síga, heldur verður strax að ráðast í nýja virkjun eftir Búrfell 2 og Þeistareyki, en hún hefur dregið lappirnar og virðist ætla að gera virkjanahlé og bíða aflskorts.
Nokkuð hefur verið litið til Vindorkugarða til að bæta úr fyrirsjáanlegum orkuskorti. Engin reynsla er af slíkum hérlendis. Það er annars konar áreiti af þeim en fallvatns- og jarðgufuvirkjunum. Sjónmengun er talsverð, og hljóðmengunin er algerlega ný af nálinni. Af þessum sökum ætti leyfisveiting fyrir vindorkugarð ekki að koma til greina innan 10 km frá byggðu bóli.
Litlum og meðalstórum vatnsvirkjunum mun örugglega fjölga talsvert á næstu áratugum, eins og nú á sér stað í Noregi. Slíkar virkjanir geta malað eigendum sínum gull, er frá líður, og aukið staðbundna orkulega sjálfbærni. Slíkt dregur úr orkuflutningsþörf inn á svæðið, en útrýmir henni aldrei. Dæmi um þetta er fyrirhuguð 55 MW Hvalárvirkjun á Ströndum. Virkjunin er gríðarlegt hagsmunamál fyrir Vestfirðinga og þar með landið allt. Hún veitir Vestfirðingum möguleika á sambærilegu afhendingaröryggi raforku og flestir aðrir landsmenn njóta, ef Vestfirðir verða samtímis hringtengdir um nýja aðveitustöð á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi. Með þessu móti yrði skotið traustri stoð undir byggðir Vestfjarða og öfluga atvinnustarfsemi á sviði fiskeldis, ferðaþjónustu, sjávarútvegs og landbúnaðar. Fyrst um sinn yrðu Vestfirðingar aflögufærir um raforku inn á landskerfið um Vesturlínu, og veitir ekki af, en fljótlega mun þurfa að bæta við virkjunum á Vestfjörðum til að anna þörfum orkuskiptanna og vaxandi mannafla.
Bloggar | Breytt 29.4.2018 kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.4.2018 | 18:19
Fundur í Valhöll um ACER-málið 10.04.2018
Sjálfstæðisflokkurinn lætur ekki embættismannakerfið mata sig á upplýsingum um flókin mál, til þess síðan að gleypa þær hráar, þótt þær séu ættaðar innan úr EES-samstarfinu. Af málflutningi utanríkisráðuneytisins er þó ljóst, að ráðuneytið ætlaðist til, að þingsályktunartillaga þess rynni gagnrýnislítið gegnum Alþingi. Embættismönnum verður þó ekki kápan úr því klæðinu, og þeir komast ekki upp með að dreifa hálfsannleika um "óbreytt ástand", sem við nánari skoðun er í raun formið eitt, því að inntak valdaframsals ESB/EES landanna til Framkvæmdastjórnarinnar og stofnana hennar er einmitt að miðstýra ákvarðanatöku um hvern málaflokkinn á fætur öðrum. Dæmi um stórgallaða upplýsingagjöf embættismannakerfisins er minnisblað fyrrverandi framkvæmdastjóra Eftirlitsstofnunar EFTA-ESA til iðnaðarráðherra, dags. 12. apríl 2018, en útdráttur ráðherra úr því hefur verið veginn og léttvægur fundinn á þessu vefsetri.
Ef embættismenn í þessum tveimur íslenzku ráðuneytum hefðu haft örlítið víðara sjónarhorn, hefðu þeir lagt saman 2+2 og áttað sig á, út frá látunum, sem urðu út af þessu máli í Noregi, og afstöðu meirihluta Alþingismanna til ESB, að ekki mundi duga að beita hér blekkingum og hálfsannleika. Þeir bitu höfuðið af skömminni með hræðsluáróðri um tjón Norðmanna, ef þeir kæmust ekki í Orkusamband ESB. Embættismennirnir virðast vera ólesnir um það, sem nákvæmlega er fyrirskrifað í EES-samninginum, að við taki eftir synjun þjóðþings. Þar eru viðskiptalegar refsiaðgerðir sannarlega ekki á dagskrá.
Landsmálafélagið Vörður og Atvinnuveganefnd Sjálfstæðisflokksins héldu fróðlegan fund um Orkusamband og Orkustofnun ESB, ACER, 10. apríl 2018. Fundarstjóri var formaður þingflokks sjálfstæðismanna, Birgir Ármannsson, og frummælendur voru Óli Björn Kárason (ÓBK), Alþingismaður, Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor við HÍ, og Elías B. Elíasson, fyrrverandi sérfræðingur hjá Landsvirkjun.
Það er næsta víst, að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins leggur sig í framkróka við að komast til botns í því, hvort hagsmunum Íslands muni verða betur borgið innan eða utan Orkusambands ESB. Var ekki annað á ÓBK að heyra en hann hefði gert upp hug sinn um það, að Íslendingar ættu ekkert erindi inn í þetta Orkusamband, enda snertir það ekki "frelsin fjögur" á Innri markaði EES, sem EES-samningurinn upphaflega var gerður til að þjóna. Verður að vona, að sú verði niðurstaða þingflokksins af frekari umræðum um málefnið þar. Er einkar hrósvert, hvernig þingmenn sjálfstæðismanna hafa fengizt við þetta viðfangsefni.
ÓBK taldi ennfremur, að orkumálin hefðu ekkert erindi átt inn í EES-samninginn, enda voru þau utan hans í fyrstu. Hann er meira en nógu viðamikill og þunglamalegur að fylgja honum, þótt þar séu aðeins málefni, er varða frelsin fjögur. Blekbónda dettur í hug, að hin EFTA-ríkin í EES-samstarfinu hafi verið þess fýsandi að taka orkumálin með, þegar ESB þrýsti á um það, og íslenzk yfirvöld á sínum tíma látið það eftir þeim, enda hafa Noregur og Liechtenstein nú samþykkt innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn, en ýmislegt bendir til, að Alþingi muni snúa þeirri ákvörðun við, þótt blikur séu á lofti.
Stefán Már Stefánsson var annar frummælenda. Hann benti á fjölmörg atriði varðandi EES-samninginn frá upphafi og þó einkum við þróun hans, sem orka tvímælis m.t.t. Stjórnarskrár lýðveldisins. Hann benti á, að enginn hefði getað séð þróun EES-samningsins fyrir og að enn sé þróun hans algerlega ófyrirsjáanleg. Það vantar s.k. gagnsæi, sem þýðir, að menn vita ekkert, hvað þeir eru að samþykkja. Þetta á t.d. við um Orkusamband ESB, en málsvarar þess, t.d. í Noregi, vilja auka völd Orkustofnunar ESB, ACER, enn, og nú er í bígerð hjá ESB Fjórði orkumarkaðslagabálkurinn upp á 4000 blaðsíður, þannig að þetta er sagan endalausa. Fyrir þjóð, sem stendur utan ESB, er þessi ófyrirsjáanleiki um þróun EES-samningsins óásættanlegur. Hann gengur fyrir þjóðir, sem gengið hafa í ESB, þannig samþykkt framsal fullveldis og taka þátt í þróun "gerðanna" og undirbúningi tilskipana og lagasetningar, þótt ekki sé hægt að tala um jafnræðisgrundvöll þar heldur.
Tveggja stoða fyrirkomulagið er stjórnlagalega mikilvægt, sagði Stefán Már, "en bjargar ekki öllu". Þegar það er hins vegar þverbrotið, eins og ESB ætlast til, að EFTA-löndin láti yfir sig ganga ganga í ACER-málinu og öðrum stórmálum, þar sem alls engin EFTA-stofnun svarar til stofnana ESB á borð við Orkustofnunina, ACER, þá er skörin tekin að færast upp í bekkinn, svo að staða EFTA-ríkjanna, a.m.k. Íslands, verður óviðunandi. Í Noregi er staðan dálítið önnur, því að Stórþingið samþykkti EES-samninginn með auknum meirihluta 1992, yfir 75 % viðstaddra þingmanna. ESB-sinnar á norska Stórþinginu segja síðan, að allar breytingar á EES-samninginum séu svo lítilfjörlegar, að einfaldur meirihluti Stórþingsins nægi til að leiða þær í lög. Þessi afstaða meirihluta Stórþingsins veldur hatrömmum deilum um allt norska þjóðfélagið. Fjölmargir norskir lagaprófessorar töldu nauðsynlegt að afgreiða ACER-frumvarpið með auknum meirihluta.
Hér á Íslandi var sett á laggirnar nefnd þriggja stjórnlagafræðinga 1992 til að leggja mat á það, hvort upphaflegi EES-samningurinn stæðist kröfur Stjórnarskrár um varðveizlu fullveldis. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að það væri á mörkunum, en slyppi. Síðan þá hefur mjög sigið á ógæfuhlið í þessum efnum, svo að telja má fullvíst, að hunzun ESB á jafnréttiskröfunni (tvær jafnréttháar stoðir) geri EES-samstarfið kolólöglegt hérlendis. Þetta er háalvarlegt, og Alþingismenn verða á þessum grundvelli að setja ESB-gerningum skorður.
Stefán Már sagði, að ósambærilegt væri talið, hvort stjórnvald ESB-stofnunarinnar næði aðeins til viðkomandi ríkisvalds eða til lögaðila og lögpersóna, þ.e. fyrirtækja og einstaklinga. Í tilviki ACER nær hið erlenda vald til útibús stofnunarinnar í viðkomandi landi, sem er algerlega óháð ríkisvaldinu og öðrum hagsmunaaðilum.
Hin stjórnlagalega staða ACER-málsins er svo slæm, að hún ein og sér dugir fyrir Alþingi til að synja málinu brautargengis að mati blekbónda. Þá breytir engu, þótt reynt sé að fegra fullveldisframsalið með því að láta samskipti ACER og útibús þess í viðkomandi EFTA-landi fara um hendur ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA. Hún getur ekkert annað gert en að framsenda fyrirmælin óbreytt til útibúsins, því að ESA hefur ekki þegið neitt vald til að breyta eða hafna ákvörðunum ACER, og það er ekkert svigrúm veitt fyrir sáttafundi á milli EFTA og ESB.
Þriðji og síðasti framsögumaðurinn, Elías B. Elíasson, taldi íslenzka raforkumarkaðinn og raforkumarkað ESB vera ósamrýmanlega, því að eðli þeirra væri ólíkt. Á Íslandi er meginhluti raforkuvinnslukostnaðar fólginn í uppsettu afli, en orkan, stöðuorka vatns í miðlunarlónum, jarðgufa og vindur, eru mun minni kostnaðarþættir. Þessu er öfugt farið í ESB, þar sem enn er mest notazt við jarðefnaeldsneyti. Elías varaði sterklega við skaðlegum áhrifum aflsæstrengs á raforkumarkaðinn á Íslandi.
Ekki var að heyra annað á öllum fyrirspyrjendum á fundinum en þeir hefðu áhyggjur af skaðlegum áhrifum þess á íslenzka hagkerfið og íslenzka stjórnsýslu að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn. Ekki varð blekbóndi þess var, að nokkur fundarmanna væri hlynntur inngöngu Íslands í Orkusamband ESB eða aflsæstrengstengingu við útlönd.
Það er áreiðanlegt, að sá póll, sem Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að taka í ACER-málinu á meirihlutafylgi að fagna á Íslandi, enda virðast allir ríkisstjórnarflokkarnir vera sama sinnis í málinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2018 | 10:49
Að binda sitt trúss á rangt hross
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varaði í viku 16/2018 við mikilli hættu, sem hann taldi heimsbúskapnum stafa af skuldsetningu þjóða. Skuldahlutfall þjóða er í sögulegu hámarki eða 225 % af heimsframleiðslu. Staða ríkissjóða ESB-ríkjanna er slæm, nema Þýzkalands og Hollands. Bæði lönd eru með um 6 % viðskiptaafgang af VLF, og skuldir ríkissjóða þessara landa eru um 60 % af VLF. Ísland er nú í þessum úrvalsflokki Evrópuþjóða, hvað hagstjórn varðar, með ríkisskuldir 35 % af VLF og viðskiptaafgang 4 %.
Mikill vandi blasir við löndum Evrópusambandsins, einkum evrusvæðisins. Ofangreind tvö lönd halda í raun verðgildi evrunnar uppi, en hún gæti orðið fyrir áfalli á næstu misserum vegna slæmrar skuldastöðu nokkurra ríkissjóða, og er sá ítalski stærstur þeirra. Komið er í ljós, að ný ríkisstjórn Þýzkalands ætlar ekki að ganga í ábyrgð fyrir önnur evrulönd. Ríkisstjórnin í Berlín endurspeglar að þessu leyti vilja mikils meirihluta Þjóðverja, sem vinna og spara fyrir því, sem þeir veita sér, og til elliáranna. Þeim, og forráðamönnum Bundesbank, hefur gramizt mjög lágvaxtastefna Evrubanka Ítalans Draghis og telja sig greiða meira en nóg í þágu ESB.
Á fundi Angelu Merkel og Emmanuels Macron í Berlín í apríl 2018 kom í ljós gjá á milli ríkisleiðtoganna tveggja, hvað sýn á þróun evrusvæðisins varðar. Iðnir og sparsamir Þjóðverjar vilja ekki deila fjárhagslegum örlögum sínum með öðrum þjóðum evrusvæðisins, sem kannski má kalla lata og eyðslusama í samanburði við Hollendinga og Þjóðverja, a.m.k. eru hagkerfi sumra ríkjanna í megnasta ólestri. Fyrir vikið eru horfur evrunnar dökkar, þegar næsta kreppa ríður yfir. Hvers vegna í ósköpunum ættu Íslendingar að binda sitt trúss við þessa skepnu, sem líklega fellur úr hor næst, þegar syrtir í álinn ? Hagkerfi Íslands á svo fátt sameiginlegt með hagkerfi evrunnar, að á þessum ólíku stöðum er hagsveiflan aldrei í fasa. Evran sjálf var hagfræðilegt glapræði, eins og í pottinn var búið, og pólitísk tilraunastarfsemi hugsjónamanna um Sambandsríki Evrópu. Hvað má þá segja um kenningar hér uppi á Íslandi um, að keppa beri að því að taka upp evru ? Sennilega má lýsa slíkri afstöðu sem áhættusækni, sem jaðrar við ábyrgðarleysi. Það þarf mjög vandaða áhættugreiningu hinna beztu manna áður en tekið verður róttækt skref í gjaldmiðilsmálum, hvort sem það verður í átt að EUR, GBP, NOK, USD eða öðrum gjaldmiðli.
Nú virðist vera að hefjast samdráttarskeið á evrusvæðinu. Iðnaðarframleiðsla Þýzkalands hefur ekki vaxið frá í desember 2017, og í febrúar 2018 dróst hún saman um 1,6 % m.v. mánuðinn á undan að teknu tilliti til dagafjölda. Samkvæmt Samtökum evrópskra bílaframleiðenda dróst framleiðsla þeirra saman um 5,3 % í marz 2018 m.v. sama mánuð 2017. Hagsveiflumælir þýzku hagstofunnar, IMK, þykir einna áreiðanlegastur hagvísa. Núna metur hann 30 % líkur á kreppu, en þær voru undir 10 % í marz 2018. Þegar hagvísar snúast niður á við um leið og neikvæðar fréttir berast af pólitíkinni, þá er ekki von á góðu:
- Þjóðverjar munu ekki fallast á sameiginleg fjárlög fyrir evrusvæðið til að mæta efnahagslegum skakkaföllum.
- Ekkert verður úr áformum um sameiginlega ríkisskuldabréfaútgáfu evruríkjanna.
- Það verður ekkert sameiginlegt innistæðutryggingakerfi.
- Sameiginlegu eftirlitskerfi með bankakerfinu hefur verið komið á, og voru Íslendingar þvingaðir í það dýra samkrull á vettvangi EES-samstarfsins, en að koma á sameiginlegu evrópsku bankakerfi er verkefni, sem sennilega lýkur aldrei.
Um þessa stöðu skrifar Wolfgang Münchau í Financial Times og Morgunblaðið fimmtudaginn 26. apríl 2018:
"En að það skuli fara saman að það dragi úr hagvexti eða jafnvel verði samdráttur í myntbandalagi, og það vilji ekki taka á vandamálum sínum, er einn stærsti áhættuþátturinn, sem alþjóða hagkerfið stendur frammi fyrir um þessar mundir."
Síðan tekur Münchau dæmi af mesta áhyggjuvaldinum á evrusvæðinu um þessar mundir, Ítalíu:
"Á Ítalíu hefur framleiðni varla aukizt, svo að nokkru nemi, frá því að landið gerðist eitt af stofnríkjum evrusvæðisins árið 1999. Samt var árið 2017 tiltölulega gott í efnahagslífinu. Það skiptir töluverðu máli fyrir land með ríkisskuldir, sem nema 132 % af landsframleiðslu, hvort hagvöxtur er að jafnaði minni en 1 % eða um 2 %. Bilið þar á milli er munurinn á því, hvort landið er gjaldfært eða á leið í greiðsluþrot."
Af þessu að dæma er vissast að búa sig undir slæm tíðindi frá Ítalíu. Ítalía gæti hrökklast út úr myntbandalaginu, og þá verður gríðarlegt rót á öllu evrusvæðinu. Fullyrða má, að gengi hennar mun taka tímabundna dýfu, en um jafnvægisgengið fer eftir atburðarásinni.
"Ítalía er bezta dæmið um, hvers vegna umbætur á evrusvæðinu eru spurning um líf og dauða. Evrópusambandið hefur engin úrræði til að bregðast við, ef ítalska ríkið getur ekki lengur greitt af skuldum sínum. Ítalía er of stór til að falla, og of stór til að hægt sé að bjarga. Efnahagsstöðugleikastofnun ESB, sem á að leysa vandann, er ekki nægilega stór til að ráða við slíkan skell. Ég efast ekki um, að evran sem slík mundi ná að lifa áfram í einhverri mynd, en ef engar umbætur eiga sér stað, þá stóraukast líkurnar á, að myntbandalagið bútist í sundur."
Evrópusambandið á við yfirþyrmandi vandamál að etja og miklar heimiliserjur í þokkabót. Við slíkar aðstæður reyna stjórnendur þess og 33´000 búrókratar að sækja fram á öðrum sviðum, þar sem hagræðingar er að vænta af sameiginlegri stjórnun frá Brüssel. Eitt þessara sviða eru orkumálin, þar sem í upphafi á að einbeita sér að auknum flutningum á milli landa. T.d. eiga raforkuflutningar að aukast um 50 %, fara úr 10 % 2015 í 15 % af raforkuvinnslu árið 2030 og stefnt er á 30 %. Þetta á að flýta fyrir orkuskiptum og jafna raforkuverðið á milli landa. Ráðast á á markaði, hverjir fá hversu mikið af orku og á hvaða verði. Ætlun Framkvæmdastjórnarinnar er, að þetta auki verðmætasköpun innan ESB og örvi þannig hagvöxt.
Það getur vel verið, að svo verði í ESB, en á Íslandi mundi það hins vegar draga úr hagvexti að taka þátt í slíku, og það mundi örugglega tefja orkuskiptin. Ástæðurnar eru, að hækkun raforkuverðs dregur úr samkeppnishæfni fyrirtækjanna við útlönd, og minni og dýrari raforka verður til ráðstöfunar til orkuskiptanna.
Krafan frá ESB um inngöngu EFTA-landanna í EES í Orkusamband ESB er dæmigerð fyrir minna umburðarlyndi og minni skilning að hálfu Framkvæmdastjórnarinnar og búrókrata hennar á sérþörfum EFTA-ríkjanna en áður var. EES-samningurinn er orðinn helsi á Íslendingum í þeim skilningi, að ESB treður stjórnkerfi sínu upp á landsmenn í blóra við EES-samning og Stjórnarskrá landsins, og gjörðir ESB eru allar íþyngjandi fyrir landsmenn, aukið skrifræði og reglugerðafargan dregur úr getu fyrirtækja og stofnana til framleiðniaukningar, og byrðarnar geta orðið svo svæsnar, eins og í tilviki Orkusambandsins, að þær dragi beinlínis úr hagvexti og valdi atvinnuleysi. Það má hiklaust halda því fram, að EES-samningurinn sé orðinn úreltur. Stjórnvöld ættu ekki að berja lengur hausnum við steininn, heldur að skipuleggja útgöngu úr þessu ólýðræðislega, óhentuga og rándýra viðskiptalega og stjórnmálalega samkrulli.
Þann 4. maí 2018 skrifaði Elías Elíasson, sérfræðingur í orkumálum, grein í Morgunblaðið um afleiðingar þess að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn. Hann lauk grein sinni þannig:
"Enginn hefur getað sagt, hvað við höfum upp úr því að samþykkja, en það væri algerlega ástæðulaust fyrir ESB að knýja á um samþykkt þriðja orkupakkans, ef ekki væri ætlunin, að sæstrengur fylgdi í kjölfarið. Allar umsóknir um sæstreng og tengdar virkjanir yrði Ísland að meðhöndla af ýtrustu sanngirni og í samræmi við aðrar reglur ESB, eins og Ólafur Jóhannes Einarsson, lögmaður, minnir á í minnisblaði sínu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 12. apríl 2018 og minnir þar á þjónustutilskipunina. Þau rök, að sjálfræði Íslands sé í svo litlu skert með samþykkt þriðja orkupakkans, að það skaði okkur ekki, sneiða hjá þessum kjarna máls."
Þessar fórnir í þágu aukins samruna ESB og þar með EES til að viðhalda aðgangi að Innri markaði ESB eru í raun unnar fyrir gýg, því að jafnvel betri viðskiptaskilmálum virðist vera unnt að ná með fríverzlunarsamningum við ESB og Bretland, ef tekið er mið af fríverzlunarsamningi Kanada og ESB frá haustinu 2017. Málflutningur áköfustu stuðningsmanna ESB/EES einkennist af nauðhyggju, þar sem litið er framhjá þeirri staðreynd, að markaður ESB-ríkjanna vegur minna með hverju árinu, sem líður, af heimsviðskiptunum og mun senn aðeins verða 440 milljón manna markaður samfélaga, sem eldast hraðar en flest önnur samfélög, að hinu japanska undanskildu.
Bloggar | Breytt 6.5.2018 kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2018 | 10:29
Valkostir við EES
Um allt þjóðfélagið gera menn sér grein fyrir því, að EES-samstarfið er komið að leiðarlokum í sinni núverandi mynd. Alþingi, sem er einhvers konar þversnið þjóðarinnar, hefur ekki farið varhluta af alvarlegum efasemdum um, að núverandi fyrirkomulag gangi lengur. Frægar eru ræður fjármála- og efnahagsráðherra um þetta efni 6. febrúar og 22. marz 2018.
Breyting á afstöðu manna á Íslandi og í Noregi til EES-samstarfsins stafar af þeirri samrunabraut, sem ESB er á, og afar takmörkuðu umburðarlyndi þar á bæ gagnvart sjálfstæði EFTA-ríkjanna. Forsendur upprunalega EES-samningsins eru þar með brostnar. Kemur þetta fram bæði í Sameiginlegu EES-nefndinni með því, að s.k. "tveggja stoða" samstarf er í raun virt að vettugi, og í framkvæmd með stjórnunarfyrirkomulagi, sem stríðir gegn Stjórnarskrám Íslands og Noregs og er fólgið í því, að stjórnvald á afmörkuðum sviðum þjóðfélagsins er flutt frá aðildarlöndum EES og til stofnunar ESB, sem hefur hlotið víðtækar valdheimildir frá Framkvæmdastjórninni.
Ágætt dæmi um slíkan málaflokk eru flutningsmál rafmagns og jarðgass. Um valdatilflutning á þessum sviðum er fjallað í Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB frá 2009, þar sem völdum Orkustofnunar ESB, ACER, er lýst, hvers vegna hún er sett á stofn og til hvers starfsemi hennar á að leiða. Völd ACER í ESB-löndunum voru innsigluð í ráðherraráðinu 2009 og staðfest á ESB-þinginu sama ár.
Það gekk erfiðlega að troða þessum orkubálki niður um kok EFTA-landanna í sameiginlegu EES-nefndinni, en eftir 6 ára þref tókst það 5. maí 2017. Þann 22. marz 2018 var gjörningurinn leiddur í lög af Stórþingi Noregs við griðarleg mótmæli hagsmunaaðila, verkalýðsfélaga, Alþýðusambandsins og alls almennings. Hérlendis hefur utanríkisráðuneytið rekið undarlegan áróður fyrir þessari innleiðingu á Íslandi, gert lítið úr mikilvægi málsins hérlendis og mikið úr tjóni, sem Norðmenn geti orðið fyrir við höfnun Alþingis. Sjá viðhorf alþýðu til þessa í viðhengi með þessari færslu. Þá hefur iðnaðarráðuneytið lagt sig í framkróka við að reyna að sannfæra mann og annan um, að samþykki Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn muni nánast engu breyta varðandi fullveldi Íslands yfir raforku úr virkjunum á Íslandi. Þetta er fjarstæða, sem hefur verið hrakin rækilega hér á vefsetrinu og af Heimssýn, sjá: https://heimssyn.blog.is/blog/heimssyn/entry/2215324 .
Í EES-samstarfinu þurfa allir aðilar, 3 EFTA þjóðir og ESB, að vera sammála, og hver EFTA-þjóð hefur neitunarvald gagnvart innleiðingu á gjörð ESB í EES-samninginn. Áróður téðra tveggja ráðuneyta fyrir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB á ekki við nein rök að styðjast, landið hefur af honum ekkert gagn, en tekin er mikil stjórnlagaleg og stjórnskipuleg áhætta, áróðurinn gengur algerlega fótalaus og kemur úr hörðustu átt, þar sem flokkur utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra samþykkti á Landsfundi sínum 16.-18. marz 2018 eftirfarandi ályktun:
"Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."
Það er pólitískt glapræði af þessum ráðherrum að reyna að grafa undan alvörunni í þessari ályktun og óskiljanleg sú vegferð, sem þeir hafa tekizt á hendur í þessum efnum, þegar litið er til líklegrar afstöðu kjósendanna, en skoðanakönnun mun bráðlega leiða það í ljós. Hinir ríkisstjórnarflokkarnir eru líka algerlega á móti innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn. Það kom fram á Flokksþingi Framsóknarflokksins 11. marz 2018, og afstaða talsmanns VG í þessu máli, Kolbeins Proppé, bendir eindregið til, að VG sé ekki aðeins á móti þriðja bálkinum, heldur hafi að auki efasemdir um annan bálkinn, sem er afar skiljanlegt. Það er mjög æskilegt að sníða af honum alvarlega vankanta fyrir íslenzkar aðstæður, en þar verður ESA og EFTA-dómstólinum að mæta. Því mætti taka því fagnandi, ef Sameiginlega EES nefndin myndi fella Annan orkumarkaðslagabálkinn úr gildi að kröfu ESB sem andsvar við höfnun Alþingis.
Að mörgu leyti er heppilegast, að EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein, ákveði sameiginlega að slíta EES-samstarfinu, og að þessi ríki ásamt Sviss bjóði Bretum aðild að EFTA. Síðan taki þessi öfluga samsteypa upp samningaviðræður við ESB um fríverzlunarsamning.
Að svo komnu er þó ekki stjórnmálalegur grundvöllur fyrir þessu, svo að skynsamlegt væri af utanríkisráðuneytinu að kanna jarðveginn hjá ESB og hjá Bretum fyrir fríverzlunarsamningi með fyrirmynd í samninginum á milli ESB og Kanada frá 2017.
Einn ávinningur af því að losna af klafa EES er að létta byrðum af athafnalífi og opinberri stjórnsýslu, sem stafa af reglugerða- og eftirlitsbákni, sem sniðið er við tugmilljónaþjóðir, en er hér með sama hætti og annars staðar í EES, því að ESB vinnur samkvæmt "one size fits all", þ.e. engar sérsniðnar lausnir, enda yrði slíkt stjórnkerfi óviðráðanlegt, jafnvel fyrir 33´000 búrókrata í Berlaymont.
Annar ávinningur af að losna undan EES eru hagstæðari viðskiptakjör við ESB. Kanadamenn njóta nú lægri tolla fyrir sjávarafurðir sínar en Íslendingar og Norðmenn.
Þriðji ávinningurinn er að taka aftur stjórn á landamærum ríkisins, sem getur losað þjóðfélagið undan miklum beinum og óbeinum kostnaði af frjálsu flæði fólks og er í raun nauðsynlegt í sjálfsvarnarskyni fyrir smáþjóð, þegar ytri landamæri ESB eru hriplek á tímum vaxandi flóttamannaþrýstings.
Í fjórða og síðasta lagi losnar löggjafinn þá undan því óviðunandi ástandi að vera afgreiðslustofnun við innleiðingu yfirþjóðlegrar löggjafar í EES-samninginn, sem þá um leið öðlast lagagildi á Íslandi. Nú er svo komið, að stjórnkerfi ESB krefst þess í sumum tilvikum, að með samþykkt sinni brjóti Alþingi Stjórnarskrá lýðveldisins. Þetta á t.d. við, þegar stjórn innlendra málefna er færð í hendur stofnana sambandsins, þar sem Ísland að sjálfsögðu á engan fullgildan fulltrúa. Þetta er ekkert minna en frágangssök, sem réttlætir að endurskoða þessi samskipti frá grunni. Lágmarks viðspyrna er, að utanríkisráðuneytið og Alþingi setji ESB skorður í EES-samstarfinu, þegar valtað er yfir grunnregluna um EFTA og ESB sem tvo jafnréttháa aðila í tveggja stoða samstarfi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)