Færsluflokkur: Bloggar

Línur að skýrast á Alþingi til ACER-málsins

Í Noregi er gjá á milli þings og þjóðar í afstöðunni til ESB og til færslu norskra valdheimilda undir lýðræðislegri stjórn til yfirþjóðlegra stofnana.  Stórþingsmenn á bandi ESB afneita Stjórnarskránni í þessu sambandi, sem kveður á um, að fullveldisframsal til erlends ríkis eða erlendra stofnana, þar sem Noregur ekki er fullgildur aðili, geti aðeins farið fram, ef að lágmarki 75 % mættra Stórþingsmanna samþykkja það, og að lágmarki 50 % heildarfjölda Stórþingsmanna, sem þýðir, að 2/3 verða að mæta.

Vegna hunzunar ríkisstjórnar og meirihluta Stórþingsmanna á ákvæðum Stjórnarskráar Noregs við afgreiðslu lagafrumvarps orkuráðherrans um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, er nú að grafa um sig ólga á meðal norsks almennings, sem gæti á endanum orðið minnihlutastjórn Noregs að falli. Ef Alþingi hafnar sama gjörningi, verður lögð fram tillaga á norska Stórþinginu um endurupptöku málsins, og þá mun heldur betur hitna í kolunum á lóð æsanna, Ósló.     

Innganga Noregs í Orkusamband ESB og áheyrnaraðild Noregs í ACER-Orkustofnun ESB er dæmi um gjá á milli þings og þjóðar, sem vonandi mun ekki birtast á Íslandi.  Ólga var í Noregi í aðdraganda samþykktar Stórþingsins á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, og hún er engan veginn horfin.  Verkamannaflokkurinn er klofinn í herðar niður í málinu, þótt farið hafi verið að tilmælum Landsstjórnar flokksins til þingflokksins um einhuga stuðning við frumvarp ríkisstjórnarinnar, enda voru tilmæli LO, norska Alþýðusambandsins, þau að fella frumvarpið.  Um 100 oddvitar Verkamannaflokksins í sveitarstjórnum Noregs og meirihluti fylkisþinga Noregs hvöttu Stórþingsmenn til að fella frumvarpið.  Rætt er um að kæra forystu Stórþingsins til Hæstaréttar fyrir Stjórnarskrárbrot, og fer nú fram söfnun í Noregi til þeirra málaferla.  Mikill meirihluti norsku þjóðarinnar, sem afstöðu hafa tekið til ACER-málsins, 80 %-90 %, er andsnúinn því, að ACER fái síðasta orðið um skipan orkuflutningsmála Noregs, enda flyzt ráðstöfunarréttur raforkunnar þá í hendur markaðsaðila á sameiginlegum raforkumarkaði ESB, sem ACER hefur eftirlit með. Á Íslandi fer nú fram tímabær skoðanakönnun um sama mál.

Á Íslandi eru línur teknar að skýrast varðandi afstöðuna til inngöngu Íslands í Orkusamband ESB.  Tveir stjórnmálaflokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, hafa nánast einróma lýst yfir andstöðu sinni við að fela ACER ráðstöfunarrétt yfir raforku úr íslenzkum orkulindum.  Talsmaður Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs í þessu máli, Kolbeinn Proppé, Alþingismaður, hefur í viðtali við Spegil RÚV lýst andstöðu sinni við gildistöku Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi og þar að auki efasemdum sínum og síns flokks um Annan orkumarkaðslagabálk ESB, sem hér var lögfestur 2003 og núverandi raforkulög eru reist á.

Nú hefur iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir komið með opinbert útspil, sem virðist snúast um að sýna fram á, með rökstuðningi fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, að ályktanir stjórnarflokkanna eigi bara alls ekki við um samþykki Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB.  Þetta hefur verið hrakið hér á vefsetrinu, búast má við mótmælum frá Heimssýn, og þessi höfundur hefur sent grein til prentútgáfu Morgunblaðsins, þar sem komizt er að algerlega öndverðri niðurstöðu við lögmanninn, sem ráðherrann fékk minnisblað frá.  Nú er verið að gera mælingu á afstöðu almennings til þessa máls.  Ef niðurstaðan verður í líkingu við norskar skoðanakannanir um sama mál fyrir Noreg í stað Íslands, þá mun sannast, hvílíkt pólitískt glapræði vegferð varaformanns Sjálfstæðisflokksins er í þessu máli.  Hverra hagsmunum er hún eiginlega að þjóna ?  Það hefur ekki verið bent á einn einasta ávinning fyrir Ísland af téðri innleiðingu ESB-gerðar í lög hér, en henni fylgir stórkostleg áhætta fyrir landið.  Hér er um fádæma lélega frammistöðu hérlendra embættismanna og ráðherra að ræða, að þeir skyldu að lokum samþykkja þessi ósköp í Sameiginlegu EES-nefndinni.  Heldur ráðherrann, að framganga hennar í þessu máli fari framhjá kjósendum í NV-kjördæmi ?  Alþingismenn verða að þrífa í neyðarhemilinn til að forða meiriháttar stjórnlagalegu slysi.    

Ef Alþingi hafnar Þriðja bálkinum og Sameiginlega EES-nefndin samþykkir ógildingu Annars bálksins í kjölfarið að tillögu ESB, þá mun Alþingi bjóðast tækifæri til að lappa upp á helztu veikleikana í þeirri lagasetningu m.v. íslenzkar aðstæður, án þess að ESA geti fýlt grön.  

Þar má nefna hættuna á raforkuskorti í landinu sökum þess, að enginn aðili utan Orkustofnunar (OS) er ábyrgur  fyrir því að koma í veg fyrir tímabundinn eða varanlegan raforkuskort í landinu, og OS hefur ekki vald til að skipa neinum að virkja.  Það má hugsa sér að fara ýmsar leiðir til að bæta úr þessu.  Ein leið er sú að skylda fyrirtækið með stærstu markaðshlutdeildina til að tryggja nægan varaforða í orkukerfinu á hverjum tíma, t.d. að lágmarki 15 % af árlegri raforkunotkun í landinu, sem mundi nú samsvara tæplega 3 TWh/ár og gæti tekið um áratug að mynda.  Þetta kostar auðvitað sitt, en bagginn mundi virka til að jafna samkeppnisstöðu raforkuvinnslufyrirtækjanna í landinu. 

Það virðist óhætt að búast við því, að flestir ráðherrarnir muni á Alþingi snúast öndverðir gegn innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn ásamt yfirgnæfandi meirihluta í þingflokkum stjórnarflokkanna.  Þá hefur formaður Miðflokksins tjáð andstöðu sína í "Reykjavík síðdegis" á Bylgjunni og líklegt, að allir þingmenn flokksins séu sama sinnis og formaðurinn.  Blekbónda er ókunnugt um afstöðu þingmanna Flokks fólksins, en búast má við, að ESB-flokkarnir, Samfylking og Viðreisn, muni styðja þessa víkkun EES-samstarfsins út fyrir frelsin 4 á Innri markaðinum sem lið í aðlögun Íslands að æ nánara samstarfi og meiri miðstýringu ESB.  Píratar eru líklegir til að sitja hjá, enda málið stórt og þykir sumum torskiljanlegt.

Ef fer sem horfir, stefnir í, að Alþingi hafni því, að Ísland gangi í Orkusamband ESB, enda fæli sú innganga í sér skýlaust Stjórnarskrárbrot (2. gr).  

Í Viðskiptablaðinu 28. marz 2018 gaf að líta texta, sem gefur innsýn í blekkingarheim eða sýndarveruleika utanríkisráðuneytisins.  Er utanríkisráðherra þessarar skoðunar ?:

"Þar sem engum grunnvirkjunum (svo ?!), sem ná yfir landamæri, er til að dreifa hér á landi, fellur íslenzki orkumarkaðurinn ekki undir valdheimildir ACER.  Í svari ráðuneytisins er bent á, að í stað ACER sé Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) falið úrskurðarhlutverk gagnvart EFTA-ríkjunum, ef á myndi reyna.  Þannig sé ACER-gerðin aðlöguð að tveggja stoða kerfi EES-samningsins."

Það er einfeldningslegt af utanríkisráðuneytinu að halda þessu blekkingarhjali á lofti.  Það náði engum undanþágubeiðnum fram í "samningaviðræðunum" við ESB í sameiginlegu EES-nefndinni, og þar af leiðandi munu ákvæði Þriðja orkumarkaðslagabálksins gilda á Íslandi, eins og Ísland væri ESB-aðildarland, nema Alþingi hafni Þriðja orkubálkinum í heild sinni.

Það er grundvallar misskilningur, að valdheimildir ACER í löndum Orkusambands ESB nái aðeins til orkuflutningsmannvirkja á milli landa.  Þær ná til allra mannvirkja, sem skilgreind eru sem orkuflutningsmannvirki og til allra fyrirtækja, sem starfa í orkuflutningsgeiranum.  Hvernig hefur þessi fluga komizt inn í höfuð embættismanna utanríkisráðuneytisins íslenzka ?  Hvernig ætti ACER annars að takast ætlunarverk sitt um að tengja saman öll lönd Orkusambandsins með svo rækilegum hætti, að verðmunur á raforku verði í mesta lagi 2,0 EUR/MWh (<0,25 ISK/kWh) á milli landa.  Í ráðuneytinu ríkir illvíg meinloka, og allir vita, hvað hún heitir.

Hvernig á ESA að gegna "úrskurðarhlutverk[i] gagnvart EFTA-ríkjunum" án þess að hafa hlotið nokkrar sjálfstæðar valdheimildir til að úrskurða gegn ACER ?  ESA er einvörðungu upp á punt í hlutverki ljósritandi milliliðar fyrir fyrirmæli frá ACER og til OS.  Það er til vanza, hvernig utanríkisráðuneytið reynir að slá ryki í augun á fólki og telja því trú um, að stjórnskipulega feli aðild Íslands að Orkusambandinu ekki í sér neinar breytingar á EES-samstarfinu.  Þær eru einfaldlega svo miklar, að ekki er lengur hægt að tala um samstarf, heldur samband húsbónda og þræls. 

Þann 4. apríl 2018 skrifaði Óli Björn Kárason, Alþingismaður, merka grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Merkingarlaus stjórnskipulegur fyrirvari".

Þar skrifaði hann m.a. um mikilvægi raforkumálanna fyrir íslenzkan þjóðarhag:

"Skipulag orkumála skiptir okkur Íslendinga miklu, hefur veruleg áhrif á samkeppnishæfni atvinnulífsins og bein áhrif á lífskjör almennings. Verði af lagningu sæstrengs - líkt og margir vonast til - mun íslenzki orkumarkaðurinn falla undir valdsvið ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), eftirlitsstofnunar Evrópusambandsins. [Hér er þess að geta, að ACER mun fá vald til að ákveða tímasetningu og tilhögun téðs Ice Link, ef Alþingi ákveður, að Ísland skuli ganga í Orkusamband ESB með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn - innsk. BJo.]  ACER fær meðal annars vald til að úrskurða í ágreiningsmálum. [Þeim úrskurði verður ekki hægt að áfrýja til íslenzkra dómstóla, heldur aðeins til ESA og EFTA-dómstólsins, sem reisir úrskurði sína á dómafordæmum frá ESB-dómstólinum, ef til eru - innsk. BJo.]  (Sæstrengur á milli Íslands og Bretlands er á lista Evrópusambandsins yfir mikilvæg innviðaverkefni í orkumálum.)  [Þingmenn þyrftu að komast að því, hvernig í ósköpunum hann komst þangað - innsk. BJo.] 

Hrein orka er ein dýrmætasta auðlind okkar Íslendinga.  Raforkuvinnsla á íbúa [54 MWh/íb] er hvergi meiri en hér á landi og yfir helmingi meiri en í Noregi [25 MWh/íb].  Í skýrslu ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um raforkumál, sem lögð var fram í marz, koma þessar upplýsingar fram.  Kanada og Finnland eru í þriðja og fjórða sæti, langt á eftir okkur Íslendingum.  Að fullyrða, að skipulag orkumála, hvernig og hvort við aðlögum íslenzkt regluverk að orkutilskipunum Evrópusambandsins, hafi ekki mikil áhrif hér á landi, er í bezta falli sérkennilegt og í versta falli hættulegt."

Í ljósi þess, að staðhæfingin í lokin í hinum tilvitnuðu orðum þingmannsins, er ættuð frá utanríkisráðuneyti Íslands, verður ekki kveðið vægar að orði um hana en hún sé í senn hneykslanleg og þjóðhættuleg.  Hvernig er hagsmunagæzlu þessa ráðuneytis fyrir Íslands hönd eiginlega háttað ?  Er metnaður starfsmanna ráðuneytisins bundinn við að vera stimpilpúði fyrir skoðanir ráðamanna ESB og túlkanir skósveina þeirra ?  Það er ástæða til að krefjast stjórnsýsluúttektar á starfsemi þessa ráðuneytis og kostnaði þess vegna EES-aðildar Íslands (ferðalög, fundarsetur, launakostnaður vegna þýðinga, reglugerðasetninga og innleiðinga gjörða ESB í EES-samninginn).

Ísland á ekkert erindi í Orkusamband ESB, af því að hagsmunir landsins í raforkumálum stangast algerlega á við hagsmuni ESB á því sviði.  Þegar allir keppast við að auka hlutdeild endurnýjanlegra og kolefnisfrírra orkugjafa í orkunotkun sinni, þá skyti skökku við, ef Íslendingar tækju upp á að flytja inn rafmagn frá kola- og gaskyntum orkuverum meginlandsins, því að slíkt yrði óhjákvæmilegt til að vega upp á móti útflutningi raforku.  Það verður ókræsilegt að baksa hér við orkuskipti upp á þau býti og rafmagnsverð í hæstu hæðum.  Það er óhjákvæmilegt, að slíkt ráðslag mundi tefja orkuskiptin og draga verulega úr hinum fjárhagslega ávinningi af þeim.  Þessar ábendingar hljóta að vega þungt gegn sæstreng.

Annað, sem mælir gegn því að tengjast raforkumarkaði ESB, er, að slíkt skapar mikla óvissu um framlengingu langtímasamninga um raforku.  Samkvæmt reglum raforkumarkaðar ESB verður að selja tiltæka raforku hæstbjóðanda.  Verði gerðir langtímasamningar eftir valdatöku ACER hér, skal bera þá undir ESA, (hefur reyndar gilt frá upptöku Annars orkumarkaðslagabálksins), sem úrskurðar, hvort um undirboð m.v. sameiginlegan markað ESB/EES er að ræða. 

Í Noregi eru gríðarlegar áhyggjur út af þessu og út af hækkun markaðsverðsins, en norska stóriðjan kaupir hluta af raforku sinni á skammtímamarkaði (þó ekki augnabliksmarkaði). Þetta er aðalástæða þess, að nánast gjörvöll norska verkalýðshreyfingin lagðist eindregið gegn samþykkt Stórþingsins á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. 

Norðmenn og Íslendingar vilja nýta raforku sína í þjóðhagslegu augnamiði, þ.e. til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar um allt land, en ekki sem viðfang spákaupmanna.  Þess vegna eru hagsmunir Íslendinga og Norðmanna ósamrýmanlegir hagsmunum ESB-ríkjanna í orkumálum.  

 

 


Raforkuframboð og orkuskipti

Nýlega var lýst í fjölmiðlum þeirri niðurstöðu BS nema í rafmagnstæknifræði við HR, að með álagsstýringu myndi núverandi rafkerfi veitna hjá OR (Orkuveita Reykjavíkur) duga fyrir 50´000 rafmagnsbíla.  Forstjóri OR greip þetta á lofti og fullyrti í fjölmiðlum, að Veitur þyrftu ekki að fjárfesta eina krónu til að anna orkuþörf 50 þúsund rafbíla. 

Þetta er rangtúlkun á niðurstöðu hákólanemans og ábyrgðarleysi af hálaunamanni á jötu almennings að halda slíkri vitleysu fram á opinberum vettvangi. Einhverjir mundu segja, að téður forstjóri ynni varla fyrir helmingnum af kaupinu sínu með slíku háttalagi. 

Sannleikurinn er sá, að búast má við álagi á veitukerfið a.m.k. 500 MW, ef allir 50´000 rafbílarnir eru hlaðnir í einu, og er hér þó reiknað með einvörðungu fólksbílum, en talsverður fjöldi strætisvagna, langferðabíla og vinnuvéla mun senn verða tengdur við rafdreifikerfi OR/Veitna.  Það er tvöföld núverandi aflgeta veitukerfis OR, en núverandi hámarksálag þar er um 220 MW.

Það er hins vegar ólíklegt, að nokkurn tíma séu öll rafmagnsfartækin samtímis í hleðslu, og m.v. núverandi meðalakstur, 13´000 km/ár, meðalorkunýtni 0,25 kWh/km og meðalrafgeymastærð 50 kWh, þá má búast við meðalálagi þessara 50´000 hleðslutækja 90 MW á veitukerfið.  Því fer fjarri, að dreifikerfi Veitna ráði við þetta á daginn, en þar sem meðalálag Veitna yfir árið er um þessar mundir aðeins 133 MW og 133+90=223 MW<250 MW, sem er líkleg geta dreifikerfisins, þá má með snjalllausn koma þessu viðbótar álagi fyrir án samsvarandi styrkingar dreifikerfisins. Það verður þó ekki óhætt að reiða sig einvörðungu á orkuverðslækkun, til að bíleigendur hlaði á nóttunni, heldur verður að hanna rofmöguleika og bjóða upp á roftaxta. Vonandi flýtur OR ekki með sofandi forstjórann að feigðarósi.    

Því fer víðs fjarri, að OR geti setið með hendur í skauti og flotið með forstjóra sínum að feigðarósi.  Veitur verða strax að hefjast handa við 5-10 ára áætlun um snjallorkumælavæðingu allra heimila og fyrirtækja á veitusvæði sínu.  Þetta mun útheimta breytingar á mörgum rafmagnstöflum, því að sértengja þarf greinar með rofrétti fyrir snjallorkumælinn og í leiðinni er rétt að þrífasa töflurnar til að minnka straumtöku og spennufall.

Hér er um fjárfestingu upp á um miaISK 10 að ræða og óskiljanlegt er, að OR-forstjórinn skuli stöðugt reyna að draga dul á, að fjárfestinga er vissulega þörf vegna orkuskipta, t.d. í virkjunum, eða hefur téður forstjóri með sinn jarðfræðibakgrunn fundið upp eilífðarvél ?  Sinnuleysi í þessum efnum getur aðeins endað á einn hátt: með yfirálagi á veitukerfið, flutningskerfið og virkjanir með gríðarlegum óþægindum og samfélagslegu tjóni vegna straumleysis.  Það er mikið í húfi, og ábyrgðarleysi að hálfu forstöðumanna orkufyrirtækja er ólíðandi. 

Raforkuþörfin fyrir téða 50´000 rafmagnsbíla (fólksbíla) verður að lágmarki 163 GWh/ár (bílaleigubílar eru ekki inni í þessum útreikningum), sem er 14 % aukning við orkuna um kerfi Veitna. Á að virkja til að mæta þessari auknu þörf eða á að búa til orkuskort ?  Lítum á, hvað Þorsteinn Þorsteinsson, rekstrarhagfræðingur og framkvæmdastjóri Markaðsrýni skrifar um þetta á Sjónarhóli Morgunblaðsins 8. marz 2018 í greininni:  

"Orka og samkeppnishæfni":

"Orkuskortur er nýtt og alvarlegt vandamál, sem nú blasir við Íslendingum.  Sú tíð er liðin, að ríkið sendi (svo !) nefndir út af örkinni í leit að erlendum raforkukaupendum til að nýta umframorku í landinu. Ljóst er, að eftirspurnin verður meiri en framboðið í náinni framtíð, ef ekkert verður að gert.  Óbreytt ástand mun hamla atvinnuuppbyggingu í landinu.  Markaðir, sem búa við skort, hafa einnig þá tilhneigingu, að verð hækkar, þannig að sú staða gæti blasað við almennum notendum í landinu innan ekki svo langs tíma."

Það stefnir í óefni með raforkukerfi landsins, því að þröngsýni og einstrengingsháttur veldur því, að enginn meginþáttanna þriggja, raforkuorkuvinnslu, flutnings og dreifingar, heldur í við þróun raforkuþarfar þjóðfélagsins, heimila, fyrirtækja og opinberra stofnana. Verst hafa Vestfirðingar, Eyfirðingar og íbúar/fyrirtæki á NA-horninu orðið fyrir barðinu á þessu, en nú síðast ráku Hafnfirðingar upp ramakvein vegna niðurstöðu úrskurðarnefndar um ógildingu framkvæmdaleyfis til Landsnets vegna þess formgalla að taka ekki jarðstreng með í reikninginn yfir fagrar hraunmyndanir og vatnsverndarsvæði, þótt í augum uppi liggi, að jarðstrengur sé miklu síðri lausn í þessu tilviki í umhverfislegu og kostnaðarlegu tilliti.  Löggjöf um þessa úrskurðarnefnd þarfnast endurskoðunar í nafni almannahagsmuna, og svo er um löggjöf framkvæmda frá fyrstu stigum til hins síðasta. Hér stefnir í öngþveiti.

Orkumálastjóri hefur varað við þróun orkumálanna, og fenginn hefur verið erlendur ráðgjafi:

"Fyrir ári sagði dr Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, í viðtali við mbl.is, að komið væri að þolmörkum varðandi raforkukerfið hér á landi og orkuöryggi.  Tilefni þessara orða voru niðurstöður skýrslu, sem þá voru kynntar af Orkustofnun.  Skýrslan var unnin af sérfræðingum frá háskólastofnunum MIT í BNA og IIT Comillas á Spáni fyrir Orkustofnun, Landsvirkjun og Landsnet.

Helztu niðurstöður skýrslunnar voru þær, að sá vöxtur, sem er í raforkunotkun hérlendis, kalli fljótlega á frekari raforkuframleiðslu til að mæta þörfinni.  Í skýrslunni er því kallað eftir langtímastefnu varðandi virkjanakosti, raforkuframleiðslu og raforkuflutning.  

Mögulegur sæstrengur til Bretlands og áhrif hans á orkuöryggi var einnig til umfjöllunar í skýrslunni.  Þar kom m.a. fram, að slíkur strengur væri það bezta, sem væri í boði varðandi fullkomið orkuöryggi, þar sem þá yrði til aðgangur að raforku frá Evrópu, ef skortur verður hér á landi. [Hér verður að gera þá athugasemd, að rekstraröryggi slíks aflsæstrengs kemst ekki í samjöfnuð við rekstraröryggi íslenzka stofnkerfisins, og þess vegna batnar rekstraröryggi íslenzka kerfisins því aðeins með sæstreng, að hann sé notaður til að viðhalda svo hárri stöðu í miðlunarlónunum, að örugglega komi ekki til orkuþurrðar að vori- innsk. BJo.]

Sæstrengur kalli hins vegar á 1000 MW raforkuframleiðslu til að verða raunhæfur kostur.  Þetta þýði, að ódýrari lausn sé fólgin í því að byggja upp frekari raforkuframleiðslu hérlendis án sæstrengs.  Sæstrengurinn var því ekki talinn góður kostur, nema verðið, sem Bretar eða hugsanlega aðrir kaupendur eru tilbúnir til að greiða, væri mjög gott.  Skýrsluhöfunfar töldu sig ekki geta svarað því, hvort það væri raunhæft."

Bretar eru á leið úr ESB og þar með úr Orkusambandi ESB.  Þeir eru ekki lengur fúsir til að greiða yfirverð frá útlöndum fyrir græna orku.  Ef ACER, Orkustofnun ESB, fær tögl og hagldir á orkumálasviði hér, mun hún láta leggja sæstreng á milli Íslands og Bretlands, og verða Bretar þá milliliðir um orkumiðlun frá Íslandi og inn á raforkumarkað ESB.  Þar yrðu viðskiptin á grundvelli markaðsverðs fyrir annars vegar jöfnunarorku, sem gerðir eru samningar um til e.t.v. ársfjórðungs í senn, og hins vegar augnabliksorku til að fylla upp í ófyrirséð brottfall vistvænnar orkuvinnslu (sól, vindur). Augljóslega er hér um mun meiri áhættufjárfestingu í sæstreng og virkjunum að ræða en við fjárfestingu fyrir innanlandsmarkað.

"Einn helzti ókostur sæstrengs væri, að verð hér innanlands myndi hækka, bæði til fyrirtækja og almennra notenda.  Þetta kemur einnig heim og saman við reynslu Norðmanna.  Hækkað verð gæti m.a. haft þau áhrif, að samkeppnisstaða íslenzkra fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum myndi veikjast.  Á hinn bóginn myndi sá orkuskortur, sem blasir við á næstu árum, einnig leiða til hækkaðs verðs og þar með hafa sambærileg áhrif á samkeppnisstöðuna."

Hér hafa verið leiddir fram á völlinn erlendir og innlendur ráðgjafi.  Þeir hafa allir komizt að þeirri niðurstöðu, að aflsæstrengur,Ice Link, sé óheillavænlegur kostur fyrir raforkukerfi og efnahagskerfi Íslands.  Það er hlutverk íslenzkra stjórnvalda á orkumálasviði að stýra skútunni framhjá þeim brimboðum, sem hér hafa verið nefndir til sögunnar, þ.e. því að færa eigin völd yfir raforkuflutningum í hendur ACER og því, að á landinu verði raforkuskortur.  Alþingi þarf að koma að báðum viðfangsefnunum með því að fella ACER-frumvarpið/þingsályktunartillöguna um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, og með því að búa til hrísvönd (skyldu) og gulrót (hvata) fyrir virkjanafyrirtækin að hafa á hverjum tíma lágmarks afgangsorku í kerfinu.   

 

 

 

 


Ráðuneyti tekur afstöðu

Svo er að sjá sem ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, sem jafnframt er varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hafi tekið sér það fyrir hendur að sýna þingheimi og öðrum fram á, að eftirfarandi ályktun, sem einróma var samþykkt á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins í 18. marz 2018, eigi alls ekki við innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins, ESB, í EES-samninginn:

"Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."

Til þess pantaði ráðherrann minnisblað frá fyrrverandi framkvæmdastjóra "innra markaðssviðs ESA" (Eftirlitsstofnunar EFTA með framkvæmd EES-samningsins), Ólafi Jóhannesi Einarssyni, lögmanni.  Ráðuneytið dró niðurstöður lögmannsins saman í 7 liði, sem verða tíundaðir hér á eftir, og athugað, hvernig til hefur tekizt:

  1. "Þriðji orkupakkinn haggar í engu heimildum íslenzkra stjórnvalda til að banna framsal á eignarrétti að orkuauðlindum, sem eru í opinberri eigu, eins og nú þegar er gert í íslenzkum lögum."  Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn spannar aðeins flutningskerfi fyrir jarðgas og raforku.  Orkulindirnar eru þar ekki undir, hvað sem verða kann um framhaldið, t.d. 1000 blaðsíðna 4. orkumarkaðslagabálk, sem nú er í vinnslu hjá ESB.
  2. "Þriðji orkupakkinn haggar í engu rétti Íslands til að ákveða með hvaða skilyrðum orkuauðlindir landsins eru nýttar, og hvaða orkugjafar eru nýttir hér á landi." Þetta er rétt svo langt sem það nær.  Ef hins vegar Ísland gengur í Orkusamband ESB (án þess að eiga atkvæðisrétt í ACER, Orkustofnun ESB), þá mun ACER (ESB) að öllum líkindum þrýsta á um tengingu landsins við sameiginlegan raforkumarkað ESB um sæstrenginn Ice Link, sem stofnunin hefur þegar sett á forgangsverkefnalista sinn.  Eftir slíka tengingu hverfur ráðstöfunarréttur allrar tiltækrar orku á íslenzka raforkumarkaðinum óhjákvæmilega til ESB-raforkumarkaðarins, því að öllum raforkukaupendum þar verður heimilt að bjóða í íslenzka raforku. Kemur þá innlend stjórnun auðlindanýtingar og virkjana fyrir lítið.
  3. "Samstarfsstofnun evrópskra [svo ?!] orkueftirlitsaðila, ACER, myndi, þrátt fyrir aðild Íslands að stofnuninni, ekki hafa neitt að segja um atriði á borð við fyrirkomulag leyfisveitinga og stjórnsýslu hér á landi, og upptaka þriðja orkupakkans hefði í för með sér óverulegar breytingar í því sambandi."  Þetta er alrangt, og villan liggur í því, að ekki er minnzt á útibú ACER á Íslandi, sem ætlað er mikilvægt stjórnsýslulegt hlutverk á sviði raforkuflutninga. Útibúið (Norðmenn kalla það RME hjá sér-Reguleringsmyndighet for energi) verður sjálfstæð stofnun gagnvart hagsmunaaðilum á Íslandi og algerlega óháð vilja íslenzkra yfirvalda.  Útibúið verður undir stjórn ACER með ESA sem millilið á milli ACER og útibúsins á skipuritinu, en ESA hefur alls engar heimildir hlotið til að breyta út af ákvörðunum ACER.  Útibúið tekur aðeins við fyrirmælum frá ACER, og er ætlað að hálfu ESB að ryðja brott öllum staðbundnum hindrunum á vegi ætlunarverks ACER að bæta raforkutengingar á milli landa, þar til verðmunur þeirra á milli verður undir 2,0 EUR/MWh.  Þetta er gert með því að fela útibúinu allt reglugerðar- og eftirlitsvald á sviði raforkuflutninga. Leyfisveitingavaldið verður áfram hjá Orkustofnun,OS, en ef OS hafnar leyfisumsókn, sem uppfyllir öll skilyrði útibúsins, verður höfnun vísast kærð til ESA/EFTA-dómstólsins. Ráðuneytinu skjátlast þess vegna algerlega um valdaleysi ACER á Íslandi.  Til að bæta gráu ofan á svart, verður Ísland valdalaust innan ACER án atkvæðisréttar.
  4. "ACER hefur engar valdheimildir gagnvart einkaaðilum, heldur eingöngu opinberum eftirlitsaðilum."  Þessi túlkun ráðuneytisins stenzt ekki.  Útibú ACER er ekki opinber eftirlitsaðili, því að útibúið verður algerlega óháð opinberu valdi á Íslandi, ráðuneyti, OS og innlendum dómstólum.  Landsnet mun verða að "sitja og standa", eins og útibúið fyrirskrifar.  Landsnet hefur mikil áhrif á almannahagsmuni á Íslandi, viðskiptavini og birgja, og þannig myndi stofnun ESB, ACER, fá óbeinar valdheimildir gagnvart einkaaðilum á Íslandi án þess, að ríkisvaldið fái rönd við reist.  Slíkt er gróft Stjórnarskrárbrot.
  5.  "Við upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn var um það samið, að valdheimildir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í EFTA-ríkjunum yrðu ekki hjá ACER, heldur hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA)."  Með því að troða ESA inn í stjórnunarferli ACER í EFTA-löndunum þremur er gerð ósvífnisleg blekkingartilraun.  Reynt er að láta líta svo út, að ESA gegni hliðstæðu hlutverki og ACER EFTA-megin og fullnægi þannig kröfum EES-samningsins um tveggja stoða lausnir allra sameiginlegra viðfangsefna ESB og EFTA.  ESA getur ekki gegnt þessu hlutverki vegna skorts á sérfræðingum á orkusviði, og ESA hefur heldur engar heimildir til að ráðskast neitt með ákvarðanir ACER.  ESA verður þess vegna ekkert annað en miðlari boða og banna frá ACER til útibúa ACER í EFTA-löndunum.  Norðmenn kalla ESA í þessu sambandi "dýrustu ljósritunarvél í heimi".  Stjórnlagafræðingar þar í landi telja þetta aumkvunarverða fyrirkomulag engu breyta um það, að yfirþjóðleg stofnun, ACER, þar sem EFTA-ríkin eru ekki fullgildir aðilar, fær völd yfir mikilvægum málaflokki í EFTA-löndunum, þar sem hún hefur tækifæri til áhrifa á lífshagsmuni almennings.  Þetta er í Noregi óleyfilegt að heimila, nema með a.m.k. 75 % greiddra atkvæða í Stórþinginu, og á Íslandi leyfir Stjórnarskráin þetta alls ekki.  Því til staðfestu eru álitsgerðir prófessora í stjórnlögum við Háskóla Íslands. Að ráðuneytið skuli bera þessa blekkingu á borð fyrir almenning, sýnir, hversu slæman málstað það nú hefur opinberlega gert að sínum.
  6. "Heimildir ACER til að taka bindandi ákvarðanir eru að meginstefnu bundnar við ákvæði, sem gilda um orkumannvirki, sem ná yfir landamæri (t.d. sæstrengi); eðli málsins samkvæmt eiga slíkar valdheimildir ekki við á Íslandi svo lengi sem hér eru engin slík orkumannvirki." Þetta er alrangt.  ACER fær hér valdheimildir strax og innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn hlýtur lagagildi á Íslandi, enda næði ESB aldrei fram vilja sínum um greið orkusamskipti á milli svæða og landa, þar sem tengingar vantar við gildistöku Þriðja orkumarkaðslagabálksins, ef túlkun ráðuneytisins væri rétt. ACER var stofnað til að ryðja burt staðbundnum hindrunum, eins og andstöðu ríkisstjórna og/eða þjóðþinga við tengingar af þessu tagi.  Þegar þrýstingur frá ACER hefur leitt til ákvörðunar um lögn Ice Link, mun Landsnet bera skylda til að styrkja flutningskerfið innanlands í þeim mæli, að það geti flutt fullt afl, t.d. 1300 MW að meðtöldum töpum, frá virkjunum að afriðlastöð sæstrengsins.  Hér er um gríðarleg mannvirki að ræða, eins og menn geta séð af því, að flutningsgeta 132 kV byggðalínu er aðeins 1/10 af þessari þörf og flutningsgeta 220 kV línu er minni en 1/3 af þessari þörf.  Valdsvið ACER á Íslandi getur þannig leitt til gjörbreytinga á raforkuflutningskerfi landsins.  Það er þannig helber uppspuni, að bindandi ákvarðanir ACER á Íslandi nái aðeins til sæstrengja frá Íslandi til útlanda.  
  7. "Þriðji orkupakkinn haggar því ekki, að það er á forræði Íslands að ákveða, hvaða stjórnvald myndi veita leyfi fyrir lagningu sæstrengs og eins, hvort íslenzka ríkið ætti að vera eigandi að honum."  Kjarni málsins liggur óbættur hjá garði hér að ofan.  Látið er í það skína, að íslenzk yfirvöld muni ráða því, hvort sæstrengur verði lagður frá Íslandi til útlanda, eftir að ACER hefur verið leidd hér til valda.  Þetta er þó hrein blekking, þótt að forminu til virðist rétt.  Ástæðan er sú, að forsendur leyfisveitinga á þessu sviði verða ekki lengur í höndum íslenzka ríkisins, heldur verða þær samdar af útibúi ACER á Íslandi. Ef sæstrengsfélagið, sem um leyfisveitinguna sótti til handhafa íslenzka ríkisvaldsins, t.d. OS, sættir sig ekki við úrskurðinn, verður deilan ekki útkljáð fyrir íslenzkum dómstóli, heldur ESA og EFTA-dómstólinum, sem auðvitað munu líta til þess, hvort umsóknin uppfyllti kröfur útibús ACER.  Í Noregi er Statnett aleigandi að sæstrengjum til útlanda.  Í umræðunum í aðdraganda afgreiðslu Stórþingsins á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB kom fram, að hann gerir ráð fyrir, að eignarhaldið á nýjum sæstrengjum ráðist á markaði, en flutningsfyrirtækjunum verði ekki tryggð einokunaraðstaða.  Verkamannaflokkurinn gerði það að skilyrði fyrir sínum stuðningi, að allir sæstrengir frá Noregi yrðu áfram að fullu í eigu Statnett, sem er alfarið í beinni eigu norska ríkisins.  Engin trygging hefur samt fengizt fyrir slíku frá ACER(ESB). Fullyrðing um, að íslenzka ríkið geti tryggt sér tilgreint eignarhald á aflsæstreng til útlanda, er fleipur eitt.

Tilraun iðnaðarráðuneytisins til að sýna fram á, að samþykkt Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn breyti litlu sem engu um íslenzk orkumál, hefur algerlega fallið um sjálfa sig, enda stríðir hún gegn heilbrigðri skynsemi.  Sá, sem ekkert veit um ACER, hlýtur að spyrja sig, til hvers stofnað er til Orkustofnunar ESB, ef hún á lítil sem engin áhrif að hafa í landi, sem rafmagnslega er ótengt við umheiminn ?  Sá, sem eitthvað veit um ACER, veit, að hún er stofnuð gagngert til að auka orkuflutninga á milli landa og þá auðvitað að koma þeim á, þar sem þeir eru ekki fyrir hendi.  Ætlunin er göfug: að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa og að jafna orkuverðið innan ESB.  Fyrir Ísland og Noreg verður þetta allt með öfugum formerkjum.  Hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í raforkuvinnslunni hérlendis mun rýrna úr 99 % í e.t.v. 85 %, og raforkuverðið mun stórhækka.  Það eru engir kostir  fyrir Ísland fólgnir í framsali mikilvægs fullveldis yfir ráðstöfun raforkunnar til markaðsafla ESB-landanna; aðeins gallar.  Að ráðuneyti orkumála skuli reyna að draga fjöður yfir það, jaðrar við kjánaskap og er líklega pólitískt glapræði.        


Er EES á skilorði ?

Ásteytingarsteinum EFTA-landanna í EES-samstarfinu við ESB fjölgar, og þeir verða tíðari með tímanum, og árekstrarnir verða alvarlegri.  Ástæðurnar eru af tvennum toga.  Stefnan um sameiginlegt stjórnkerfi ESB-ríkjanna tekur nú til æ fleiri sviða, nú síðast orkusviðsins, sem upphaflega var ekki með í EES-samninginum, og við brotthvarf Breta minnkar vilji ESB til að semja við EFTA-ríkin um sérlausnir á grundvelli tveggja jafnrétthárra aðila.  ESB-mönnum þykir einfaldlega vera tímasóun að hefja samningaferli við 3 smáríki eftir að hafa loksins náð samstöðu um málefni í eigin röðum.  Það gætir vissulega aukinnar ágengni, sem nefna mætti óbilgirni, að hálfu ESB gagnvart EFTA, en sá fyrrnefndi merkir upp á sitt eindæmi málaflokka viðeigandi fyrir EES, sem eru alls óskyldir viðmiðun upprunalega EES-samningsins um frelsin fjögur á Innri markaðinum.  Það fjölgar þess vegna þeim, sem telja tímabært að fara fram á endurskoðun EES-samningsins bæði á Íslandi og í Noregi.   

Þann 1. marz 2018 tók nýr maður við starfi aðalritara framkvæmdastjórnar ESB, sem áreiðanlega á eftir að láta að sér kveða og reka hart trippin.  Hann er Þjóðverji og heitir Martin Selmayr.  Selmayr var áður starfsmannastjóri Jean-Claude Junckers, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og ræður nú yfir 33´000 manna her búrókrata í Berlaymont. Þessi her verður notaður til að berja saman Sambandsríki, með illu eða góðu, og við atganginn mun kvarnast úr hópnum og fleiri fylgja í kjölfar Breta, og hugsanlega ganga í EFTA.

Aðdragandinn að stöðuhækkun Selmayrs var ævintýralegur og hefur verið kallað "valdarán" í Berlaymont.  Þjóðverjinn Martin Selmayr er nú í raun valdamesti maður ESB.  Hann mun ekki hafa þolinmæði gagnvart sérþörfum EFTA-ríkjanna, heldur heimta, að þau taki við því, sem að þeim er rétt, möglunarlaust, eins og þau væru í ESB. Þessi afstaða er þegar komin fram, t.d. í ACER-málinu. Upprunalegar forsendur EES-samstarfsins (um tvo jafnréttháa aðila) eru virtar að vettugi. Staða EFTA-ríkjanna er þó enn verri en ESB-ríkjanna að því leyti, að þau geta lítil sem engin áhrif haft á þróun mála á undirbúningsstigum. Ísland hefur ekki einu sinni mannafla í að fylgjast með öllu því, sem á döfinni er. Vanmáttugar tilraunir í þá veru eru sýndarmennska og sóun opinbers fjár.

Þetta þýðir, að samstarfsgrundvellinum, sem upprunalega var lagður á milli EFTA og ESB í EES-samninginum, hefur verið kippt undan.  

Þegar sjást merki um þetta, og er Orkusamband ESB gott dæmi.  Orkusambandið og Orkustofnun ESB, ACER, kom sem tilskipun beint í kjölfar samþykktar Lissabonsáttmálans 2009, þar sem kveðið var á um nána samvinnu ESB-ríkjanna á sviði orkumála.  Yfirstjórn ESB á orkumálum þjóðanna skyldi tryggja árangur í loftslagsmálum, koma í veg fyrir orkuskort í ESB og auka skilvirkni orkuvinnslu, orkuflutninga og dreifingar. Þessi grundvöllur Orkusambandsins á engan veginn við á Íslandi, og t.d. mundu heildarorkutöpin í raforkuflutningskerfinu þrefaldast, þegar afltöp um 120 MW vegna flutnings innanlands að landtaki sæstrengs, töp í endabúnaði og í sæstrengnum sjálfum, mundu bætast við núverandi afltöp. Í Noregi er m.v. 10 % heildarorkutöp vegna sæstrengja, og þau verða ekki minni hér vegna miklu lengri sæstrengs en þar fyrirfinnst. Þetta er hreinræktuð orkusóun.  

Gagnvart EFTA er sá hængurinn á, að orkusviðið stendur alveg utan við Innri markaðinn, sem skilgreindur er í upphaflega EES-samninginum um frelsin fjögur.  Þróun EES-samningsins átti einvörðungu að varða frelsin fjögur á Innri markaðinum.  Þar að auki eru hagsmunir EFTA-ríkjanna, a.m.k. Íslands og Noregs, í orkumálum gjörólíkir hagsmunum ESB-ríkjanna.  Þarna eru í raun djúptækir hagsmunaárekstrar á ferð, sem skýra það, að EFTA-ríkin móuðust við í 6 ár, eftir að ACER tók til starfa, að ganga í Orkusamband ESB, sem alltaf var þó  vilji ESB, enda hefur Framkvæmdastjórnin lýst því yfir, að vilji hennar standi til að samþætta Noreg í orkumarkað ESB.  Það voru mikil mistök að láta undan þrýstingi ESB í Sameiginlegu EES-nefndinni 5. maí 2017 og samþykkja þar innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn. Þann 22. marz 2018 staðfesti norska Stórþingið þennan gjörning gegn háværum mótmælum almennings og verkalýðshreyfingar, en Alþingi Íslendinga á eftir að taka afstöðu til málsins. Sé tekið mið af andstöðu Íslendinga við inngöngu landsins í ESB, má reikna með, að a.m.k. 70 % þjóðarinnar séu andvíg inngöngu landsins í Orkusamband ESB.     

Meginástæðu undanlátssemi Sameiginlegu EES-nefndarinnar í þessu máli má rekja til þess, að við völd í Noregi er ríkisstjórn, sem höll er undir ESB-aðild Noregs og stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Verkamannaflokkurinn, vill sömuleiðis, að Noregur gangi í ESB.  Þannig er meirihluti á Stórþinginu fyrir því að sækja um aðild að ESB, en sá er hængurinn á fyrir þingið, að norska þjóðin er því algerlega fráhverf.  Þetta er meginskýringin á því, að Stórþingið samþykkti 22. marz 2018 inngöngu Noregs í Orkusamband ESB með 43 % gegn 14 %, en 43 % voru annaðhvort fjarverandi eða skiluðu auðu. Stórþingsmenn munu vafalaust hljóta kárínur að launum frá kjósendum, og þess sjást reyndar þegar merki, að fylgið hrynji nú af Verkamannaflokkinum, sbr nýlega skoðanakönnun í fylkinu Troms.  Á næsta ári verða sveitarstjórnarkosningar í Noregi, og þá mun afstaða stjórnmálaflokkanna á Stórþinginu vafalaust verða dregin fram, enda telur norskur almenningur, að innganga Noregs í Orkusambandið muni hafa neikvæð áhrif á atvinnuframboð um allan Noreg vegna hækkandi raforkuverðs.

Athyglisvert er, að samkvæmt skoðanakönnun á meðal norsku þjóðarinnar voru aðeins 9 % hlynnt þessum gjörningi, 52 % á móti og 39 % óákveðin.  Ef að líkum lætur, mun þessum stóra meirihluta Norðmanna að lokum verða að vilja sínum, því að á Alþingi Íslendinga er minnihluti þingmanna hlynntur því, að aftur séu teknar upp aðlögunarviðræður við ESB með aðild sem lokamark, en aðild Íslands að ACER yrði ekkert annað en enn einn áfanginn í aðlögun Íslands að regluverki ESB. Sýnir það í hnotskurn, hversu ólýðræðisleg þessi vera landsmanna í EES getur orðið, ef menn eru ekki á varðbergi.   

Það eru greinilega að myndast sprungur í EES-samstarfið, sem eru aðallega afleiðing af þróun mála innan ESB.  Þar af leiðandi var eðlilegt, að utanríkismálanefnd Landsfundar Sjálfstæðisflokksins 16.-18. marz 2018 liti lengra fram á veginn:

"Nú, þegar aldarfjórðungur er liðinn frá undirritun EES-samningsins, er tímabært að gera úttekt á reynslu Íslands af honum.  Áríðandi er, að haldið verði áfram að efla hagsmunagæzlu innan ramma EES og tryggja, að möguleikar Íslands til áhrifa á fyrri stigum EES-mála verði nýttir til fulls.  

Sjálfstæðisflokkurinn gerir verulegar athugasemdir við, að tekin sé upp löggjöf í EES-samninginn, sem felur í sér valdheimildir, sem falla utan ramma tveggja stoða kerfis samningsins."

Norðmenn hafa gert skýrslu um reynslu sína af aldarfjórðungsreynslu af verunni í EES, og það er fagnaðarefni, ef slík rannsókn verður gerð hérlendis. Að auki hefur Sigbjörn Gjelsvik, Stórþingsmaður norska Miðflokksins, samið merka skýrslu um valkosti Noregs við EES-samninginn.

Í upphafi þeirrar skýrsluvegferðar er vert að gæta vel að því, hvað rannsaka á, og hver rannsakar.  Í janúar 2018 gaf utanríkisráðuneytið út skýrslu, sem Hagfræðistofnun, HHÍ, gerði um nytsemi aðildarinnar, en hún hafði ákaflega lítið notagildi til ákvarðanatöku um framhald veru Íslands í EES. Um rannsóknarefnið skrifaði Björn Bjarnason í téðri Morgunblaðsgrein:

"Eigi að hefja svipað úttektarstarf núna [og 2004-2007], er skynsamlegt að hafa hliðsjón af því, sem leiðir af útgöngu Breta úr ESB (BREXIT), því að hún kann að geta af sér nýtt samstarfslíkan ESB við þriðju ríki."

Þetta er hverju orði sannara hjá Birni og aðalástæða þess, að "Nú eru nýir tímar", eins og hann endar grein sína á.  Í væntanlegri skýrslu verður að leggja nákvæmt og hlutlægt kostnaðarlegt mat á annars vegar áframhaldandi veru í EES og hins vegar fríverzlunarsamning við ESB og Bretland.  Árið 2017 luku Kanadamenn gerð fríverzlunarsamnings við ESB, og ganga má að því sem vísu, að Íslendingum standi slíkur samningur til boða.  

Þegar aðildin að Innri markaðinum verður metin, verður ekki hjá því komizt að meta beinan kostnað af greiðslu í sjóði EES og ESB, útlagðan kostnað fyrri ára við þýðingar og innleiðingu reglugerða og laga ESB, sem engin vinna færi í hérlendis, ef staðið væri utan EES, ásamt styrkjum til ýmissar starfsemi hérlendis frá EES/ESB. Þá þarf að meta kostnað ríkissjóðs og atvinnulífsins vegna eftirlitskerfa, sem hér hafa verið sett upp, en mætti losa sig við utan EES. Síðast, en ekki sízt, verður að leggja mat á óbeina kostnaðinn, sem af innleiðingu óþarfs og íþyngjandi reglugerðafargans hlýzt hérlendis. Hann er fólginn í hægari framleiðnivexti fyrirtækjanna hérlendis vegna vinnu við innleiðingu og framfylgd reglugerða og laga, sem eingöngu eru hér vegna aðildarinnar að EES.

Athugun Viðskiptaráðs Íslands 2015 leiddi til þeirrar niðurstöðu, að langhæsti kostnaður atvinnulífsins af reglugerðafarganinu væri fólginn í þessum þætti, og gætu sparazt 80 miaISK/ár á verðlagi 2018 við grisjun á reglugerða- og lagafrumskóginum frá ESB að mati höfundar þessa pistils. Jafnframt var komizt að því, að þessi kostnaður ykist um 1,0 %/ár.  Þennan þátt er nauðsynlegt að greina nákvæmlega í væntanlegri rannsókn.

Þá er bráðnauðsynlegt að framkvæma stjórnlagalega greiningu á EES-samninginum og afleiðingum þeirrar þróunar, sem nú á sér stað með stofnanavæðingu ESB og hunzun tveggja stoða forsendunnar fyrir samstarfi jafnrétthárra aðila.  Það þýðir ekkert að tippla á tánum í kringum þetta verkefni.  Ef nauðsynlegri endurskoðun fæst ekki framgengt vegna stefnu ESB um einsleitni allra þeirra gjörða, verður ekki hjá því komizt að segja EES-samninginum upp og leiða á önnur mið.  Af því verður að öllum líkindum hagræðing hjá ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum, bættir viðskiptaskilmálar og í heildina þjóðhagslegur ávinningur. 

Þar sem Ísland og Noregur eru utan við hina sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB, njóta löndin ekki tollfrjáls aðgengis að Innri markaðinum fyrir sjávarafurðir.  Kanadamenn njóta aftur á móti tollfrjáls aðgengis í krafti nýgerðs fríverzlunarsamnings.  Í fljótu bragði virðist það vera Íslendingum til mikilla hagsbóta að segja EES-samninginum upp, og þess vegna er vissulega tímabært að fara ofan í saumana á þessum málum. Það hefur verið gert í Noregi.  Þar hefur Stórþingsmaðurinn Sigbjörn Gjelsvik samið "Alternativrapporten" eða Valkostaskýrsluna, sem til er bæði á norsku og ensku, þar sem fram fer vönduð greining á því, hvaða fyrirkomulag viðskiptamála er hagkvæmast fyrir Noreg.  Það er alveg áreiðanlegt, að það er líf utan við EES, og það hafa Svisslendingar sannað, og það munu Bretar sanna.  

Þróun EES-samstarfsins virðist í meiri mæli snúast um að fela stofnunum ESB forræði á málefnasviðum hérlendis, sem innlendar stofnanir hafa haft með höndum.  Má þar nefna Fjármálaeftirlitið og Orkustofnun.  Í fyrra tilvikinu náðist viðunandi tveggja stoða lausn eftir mikið þjark á fundum EFTA og ESB, þótt Fjármálaeftirlit ESB hafi æðsta valdið, en í síðara tilvikinu er ekki við það komandi að hálfu ESB.  Það er stjórnlagalega óviðunandi lausn, að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) virki sem stimpilstofnun fyrir fyrirmæli frá ACER til valdamikillar undirstofnunar sinnar hérlendis á sviði raforkuflutninga, sem íslenzk stjórnvöld þá hafa engin áhrif á, því að hún á að vera "óháð" samkvæmt reglum ACER. 

Það eru nánast engar líkur á, að stjórnlagalega verjandi fyrirkomulag fáist í samskiptum EFTA-ríkjanna við ESB, og þess vegna er þetta samstarf nú komið að fótum fram.  Það samræmist ekki stjórnarskrá fullvalda ríkja. Þess vegna er nú búizt við dómsmáli fyrir Hæstarétti Noregs, þar sem  Stórþingið verður ákært fyrir stjórnarskrárbrot.

Stjórnlagafræðingar þurfa að fá tækifæri til að tjá sig um stjórnlagaþáttinn í væntanlegri uppgjörsskýrslu við EES á Íslandi.  Á grundvelli þessarar skýrslu þarf Alþingi að taka ákvörðun og getur auðvitað valið þann kost að leita álits þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu.  Má telja víst, að þingið fylgi þjóðarviljanum í kjölfarið.  

 

 

 

 


Köttur í kringum heitan graut

Grautargerð utanríkisráðuneytisins í ACER-málinu svo nefnda tekur á sig ýmsar myndir.  Ein þeirra birtist í Viðskiptablaðinu 28. marz 2018 og var andmælt á sama vettvangi af þessum höfundi 12. apríl 2018.

Þann sama dag birtist í Morgunblaðinu sviðsljósgrein Ómars Friðrikssonar:

"Efasemdir þrátt fyrir verulegar undanþágur".

Þessi fyrirsögn er mjög villandi um eðli og stöðu málsins, sem fjallar um inngöngu Íslands í Orkusamband ESB og þar með valdframsal frá íslenzka ríkinu til Orkustofnunar ESB, ACER, sem er undir stjórn framkvæmdastjórnar ESB.  Í fyrsta lagi eru ekki efasemdir um þessa ráðstöfun, heldur rökstudd vissa um, að þessi ráðstöfun væri þjóðhagslegt og stjórnlagalegt glapræði.

Að EFTA-ríkin eða Ísland sérstaklega hafi fengið "verulegar undanþágur" frá Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB er einhver mesta oftúlkun og upphafning, sem lengi hefur sézt á prenti og minnir á "sáuð þið, hvernig ég tók hann" grobb.  Sannleikurinn er sá, að engin undanþága fékkst fyrir Ísland, sem nokkru máli skiptir, enda er það í anda núverandi starfshátta ESB, að útþynna ekki gerðir, sem aðildarlöndin hafa öll komið sér saman um eftir erfiða samningafundi. 

EFTA-löndin verða einfaldlega að taka við því, sem að þeim er rétt, einnig þótt slíkt feli í sér brot á grundvallarreglu EES-samningsins um tveggja stoða samkomulag jafnrétthárra aðila.  Innan EFTA er einfaldlega engin stofnun mótsvarandi ACER, og þess vegna er komið alvarlegt stjórnlagalegt ójafnvægi í framkvæmd samningsins.  Allt ber að sama brunni: EFTA-ríkin hafa ekki stjórnskipulega getu vegna smæðar sinnar til að standa að EES-samstarfinu án þess að ganga í berhögg við stjórnarskrár sínar.  Þetta á a.m.k. við Ísland og Noreg.

Það er stöðugt tönglast á því, að einhverju breyti varðandi yfirráð ACER, að engin tenging er á milli íslenzka raforkukerfisins og erlendra.  Þarna er horft algerlega framhjá þeirri skipulagsbreytingu, sem mun eiga sér stað í íslenzka orkugeiranum, ef/þegar lögfesting Þriðja orkumarkaðslagabálksins tekur gildi.

Hún er í stuttu máli sú, að stofnað verður útibú ACER á Íslandi, sem verður algerlega óháð íslenzkum stjórnvöldum og hagsmunaaðilum. (Norðmenn kalla þetta RME hjá sér, "Reguleringsmyndighet for energi".) Útibúið fær öll reglusetningar- og eftirlitsvöld yfir raforkuflutningsgeiranum (Landsneti), sem nú er að finna hjá Orkustofnun (OS) og ráðuneyti.  ACER skipar forstjóra þessarar stofnunar, en hún mun samt fara á íslenzku fjárlögin.  Þótt ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) sé á skipuritinu sett á milli útibúsins og ACER, breytir það stjórnlagalega engu í raun um það, að hér er stefnt á, að yfirþjóðleg stofnun (ACER) fari að stjórna á mikilvægu málefnasviði á Íslandi, framjá ríkisvaldinu.  Þetta er grafalvarlegt stjórnlagabrot.

Til að sýna fram á haldleysi kenningarinnar um sakleysi aðildar Íslands að Orkusambandi ESB nægir að rekja, hvernig ACER með þessum völdum sínum getur fengið sínu framgengt um Ice Link, þótt leyfisvaldið sé áfram í höndum OS (undir stjórn ráðuneytis).  Það er vegna þess, að í höndum útibús ACER verður að semja tæknilega og viðskiptalega tengiskilmála fyrir sæstrenginn.  Uppfylli væntanlegt sæstrengsfélag þessa skilmála í umsókn sinni til OS, getur OS ekki synjað honum um leyfið, nema vera gerð afturreka með synjunina með úrskurði ESA og dómi EFTA-dómstólsins.  Þannig er ekkert haldreipi í því, að Ísland er einangrað raforkukerfi núna. Sú skoðun gengur fótalaus og styðst ekki við staðreyndir máls. Hún er ímyndun eða óskhyggja reist á vanþekkingu um valdsvið ACER og útibú þess í hverju landi.  

Í téðri sviðsljósgrein stendur þetta m.a. og hlýtur að vera haft eftir Katli, skræk, af innantómum gorgeirnum að dæma:

""Að mati utanríkisráðuneytisins skiluðu tilraunir íslenzkra stjórnvalda til að ná fram viðunandi aðlögun góðum árangri, og voru Íslandi veittar mikilvægar undanþágur.  [Það er ótrúlegt að lesa þetta sjálfshól, því að mála sannast er, að engar undanþágur, sem máli skipta, fengust frá Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, enda er barnaskapur að búast við slíku - innsk. BJo.]

Ísland fékk, í fyrsta lagi, undanþágu frá kröfum tilskipunar 2009/72/EB um sameiginlegar reglur um innri markað raforku varðandi eigendaaðskilnað vinnslu- og söluaðila annars vegar og flutningskerfa hins vegar.  Þetta telst umtalsverður ávinningur fyrir Ísland í ljósi eignarhalds Landsnets og vandkvæða á að breyta því fyrirkomulagi.""

Í raun var reglan um eigendaaðskilnað innleidd með Öðrum orkumarkaðslagabálki og raforkulögum árið 2003. Þar er lögbundin einokunarstaða Landsnets á flutningskerfinu, og hvaða annað eignarhald en ríkiseign tryggir þá jafna samkeppnisstöðu allra þeirra, sem vilja setja orku inn á flutningskerfið eða taka út af því orku ?  Núverandi eignarhald Landsnets með fulltrúa Landsvirkjunar, OR, RARIK og OV í stjórn fyrirtækisins er einfaldlega óviðunandi, ef tryggja á jafnstöðu allra markaðsaðila eftir föngum. Þetta hefur Ríkisendurskoðun margbent á, nú síðast með skýrslu frá febrúar 2018.

Það er þess vegna stórt skref aftur á bak og vekur furðu að ætla að festa núverandi óeðlilega ástand í sessi.  Vandræðagangurinn er með ólíkindum, að ríkið eigi erfitt með að breyta núverandi eigendafyrirkomulagi, þegar ríkið er að 93 % óbeinn eignaraðili að Landsneti og er þar þess vegna mestan part að semja við sjálft sig um skuldabréf til núverandi eigenda, svo að ríkið eignist fyrirtækið að fullu beint. 

Það er furðulegt að sækja um undanþágu fyrir þetta óeðlilega fyrirkomulag til ESA.  Í lagafrumvarpi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sem nú liggur fyrir Alþingi, er breyting á raforkulögum þess efnis, að ekki er lengur stefnt að ríkiseign á Landsneti, heldur geti jafnvel nýir aðilar komið þar inn.  Þetta fellur afar illa að einokunarhlutverki Landsnets, og verður Alþingi fyrr en seinna að vinda ofan af þessari undarlegu hugmyndafræði, sem virðist vera ættuð utan úr geimnum, en finnst hvergi í samþykktum ríkisstjórnarflokkanna.

"Framkvæmdastjórn ESB hafnaði beiðni Íslands um að verða skilgreint lítið, einangrað raforkukerfi, þar sem raforkunotkun landsins er langt umfram viðmiðunarmörk tilskipunarinnar."

Af þessu má ráða, að tilraun íslenzkra embættismanna til að fá raunverulega undanþágu frá að lenda í klóm ACER hefur gjörsamlega mistekizt, og hún sýnir algeran skilningsskort á því, sem Orkusamband ESB snýst um.  Það snýst einmitt um öfluga samtengingu allra landa ESB/EES, nýjar samtengingar og eflingu þeirra, sem fyrir eru, til að bæta afhendingaröryggi raforku í ESB og flýta fyrir orkuskiptunum.  Hér á við "to be or not to be", þ.e. annaðhvort eru menn með eða á móti.

Á Íslandi hefði samtenging hins vegar þveröfug áhrif, því að samrekstur landskerfisins við 1200 MW sæstreng (50 % af uppsettu afli í virkjunum) yrði tæknilega erfiður, t.d. í bilanatilvikum), og útflutningur á "kolefnisfrírri" raforku og innflutningur á raforku úr jarðefnaeldsneytisorkuverum mundi tefja fyrir orkuskiptum hérlendis.  

"Íslandi verður þó heimilt að sækja um undanþágu frá ákvæðum um aðskilnað dreififyrirtækja (svo ?!), aðgengi þriðja aðila og markaðsopnun o.fl., ef sýnt er fram á erfiðleika í rekstri raforkukerfisins."

Þessi texti kemur ærið spánskt fyrir sjónir.  Hvaða aðskilnað dreififyrirtækja skyldi vera átt við ?  Er átt við bókhaldslegan aðskilnað dreifingar á vatni (heitu og köldu) og rafmagni ?  Sá aðskilnaður er ekki fyrir hendi hérlendis, en dreififyrirtækin starfa samkvæmt sérleyfi, sem Orkustofnun gefur út, og að flækja þessu inn í viðræður við ESB er alveg út í hött.  

Þarna er líka vísað til heimildar um að stöðva orkuviðskipti um samtengingar við útlönd, ef neyðarástand myndast í raforkukerfinu innanlands.  Þetta ákvæði fékk EFTA-fram sem heild í viðræðum við ESB, og það gildir ekki frekar fyrir Ísland en önnur lönd.  Að draga þetta fram hér, sýnir, að menn (væntanlega beggja vegna samningaborðsins) hugsa sér Ísland samtengt sameiginlegum raforkumarkaði ESB/EES í framtíðinni.  

Það virðist því miður ríkja þekkingarleysi eða a.m.k. gróft vanmat hérlendis á eðli ACER og til hvers innganga Íslands í Orkusamband ESB mundi leiða hér.  Fullyrðingar frá embættismönnum ráðuneyta o.fl. um lítil áhrif á rafmagnslegt eyland benda til alvarlegrar meinloku í þessum efnum, og að fólk hafi einfaldlega ekki ráðið við heimaverkefnin. 

 

 

     

 


Yfirlýsing frá Noregi

Málflutningur íslenzka utanríkisráðuneytisins í s.k. ACER-máli, sem fjallar um afstöðuna til inngöngu Íslands í Orkusamband ESB, hefur vakið hneykslun hér heima og í Noregi.  Hér er átt við það, sem haft er eftir fulltrúum utanríkisráðuneytisins í fréttaskýringu Viðskiptablaðsins 28. marz 2018 í fréttaskýringunni:

"Mikilsverðir orkuhagsmunir ekki í húfi".  Að rakalausum málflutningi um tjón, sem Íslendingar gætu bakað Norðmönnum með höfnun Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, er vikið í yfirlýsingu Trúnaðarráðs norsku samtakanna "Nei til EU", dags. 08.04.2018.  Hér er þýðing höfundar á tveimur af 9 greinum yfirlýsingarinnar, en hún er í heild sinni á norsku í viðhengi með þessari vefgrein:

"Norsk yfirvöld, höll undir ESB, hafa vanizt því að fá vilja sínum  framgengt sem "stóri bróðir" í EES-samstarfinu.  Erna Solberg, forsætisráðherra, fullyrðir, að orkustofnunin ACER "sé ekki mikilvæg" fyrir Ísland, því að landið hefur enn ekki verið tengt evrópska orkumarkaðinum, eins og Noregur.  Á milli línanna gefur hún til kynna, að hún ætlast til, að Ísland muni láta undan norskri kröfugerð í samningum um að innleiða orkubálkinn.

Íslenzk synjun mun ekki hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir Ísland eða Noreg.  ESB getur í mesta lagi ógilt hluta af viðhengi 4 í EES-samninginum, sem fjallar um orku, og slíkt þjónar ekki hagsmunum ESB. Þvert á móti mun íslenzk synjun beinlínis verða til stuðnings þjóðarhagsmunum Noregs.  Baráttan gegn ACER hefur verið einkar öflug á meðal starfsmanna norsks  orkusækins iðnaðar, sem bera ugg í brjósti um störf sín og stöðvun á starfsemi, ef rafmagnsverð nálgast það, sem tíðkast í ESB.  

Miklu máli skiptir, að allir átti sig á alvarlegum afleiðingum þess að samþykkja innleiðingu á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, þótt raforkukerfi landsins sé ótengt við raforkukerfi ESB. Í yfirlýsingu norsku samtakanna "Nei til EU" um tilraun norskra stjórnvalda til að hafa áhrif á stjórnmál Íslands í ACER-málinu, sem Alþingi á eftir að fjalla um, kemur skýrt fram, að Ísland mun alls ekki bera hagsmuni norsku þjóðarinnar fyrir borð með synjun á ACER-löggjöfinni, sem þá um leið jafngildir höfnun EFTA á þessari ESB-samruna löggjöf. Þvert á móti mun mikill meirihluti norsku þjóðarinnar fagna synjun Alþingis. Það er hið eina, sem máli skiptir fyrir hina norsku hlið á þessu máli Íslendinga.

Misskilnings gætir um það, hvenær valdframsals íslenzka ríkisins tæki að gæta hér á landi til ACER.  Þá er ruglað saman völdum til ákvarðanatöku um málefni innlendra raforkuflutningsmála og áhrifum hins sameiginlega raforkumarkaðar ESB á íslenzka raforkumarkaðinn.  Síðar nefndu áhrifin koma vitaskuld ekki fram fyrr en við gangsetningu aflsæstrengs til útlanda.  Kryfjum hins vegar eina hlið á áhrifum  valdframsalsins:

ESB hefur samið kerfisþróunaráætlun fyrir raforkukerfi EES.  Þar er Ice Link örlítill hluti.  Með því að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB inn í EES-samninginn, mundi Alþingi skuldbinda sig til að styðja við framkvæmd þessarar kerfisþróunaráætlunar að sínu leyti.  Eftir téða samþykkt, verður fyrsta verk ACER hér á landi að stofnsetja útibú sitt, sem samkvæmt þriðja orkubálki ESB fær í hendur bæði reglugerðar- og eftirlitshlutverk með Landsneti.  Í fyllingu tímans koma fyrirmæli frá ACER um stimpilstofnunina ESA þess efnis að semja tæknilega og viðskiptalega skilmála fyrir lagningu, tengingu og rekstur Ice Link.  Þegar þeir eru tilbúnir, verður stofnað félag um Ice Link, sem semur og sendir umsókn um lagningarleyfi, tengileyfi og rekstrarleyfi fyrir Ice Link til Orkustofnunar, OS, þess hluta hennar, sem verður undir íslenzkum yfirvöldum. 

Verður OS stætt á að hafna umsókn eiganda sæstrengsverkefnis, ef hann uppfyllir alla skilmála ?  Það skortir allar lagalegar forsendur fyrir slíkri höfnun.  ESB mun strax saka íslenzk stjórnvöld um samningsrof (EES-samningurinn) og ágreiningsmálið væntanlega fara sína leið um ESA til EFTA-dómstólsins í Lúxemborg.  Dómstóllinn mun vafalaust dæma í samræmi við skuldbindingar í EES-samninginum.  Þar með verður eiganda sæstrengsins veitt leyfi til að leggja hann, tengja og reka, jafnvel í blóra við vilja íslenzkra stjórnvalda.  

Í kjölfarið munu áhrifin af strengnum á raforkukerfið og á hagkerfið koma í ljós.  Raforkureikningurinn mun hækka um á að gizka 75 %, sem leiða mun til meiri ásóknar í virkjanaleyfi, verri samkeppnisstöðu fyrirtækja, minni spurnar eftir vinnuafli og rýrnandi lífskjara.  Miklar sveiflur verða á rennsli virkjaðra vatnsfalla, enda verða virkjanir þandar á fullu álagi á daginn og reknar á sáralitlu álagi á nóttunni, þegar raforka verður flutt inn. 

Það er ekki spáð svo háu raforkuverði í Evrópu, að gróði verði mikill af þessum raforkuviðskiptum, en ESB fær með þessu aukna hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda í sinn hlut.  Botninn getur svo skyndilega dottið úr þessum viðskiptum, ef/þegar tækninýjungar gera ESB-ríkjunum kleift að leysa kolakynt orkuver sín af hólmi með áhættulitlum, kolefnisfríum orkuverum, t.d. þóríum-verum.  Þá sitja landsmenn uppi með ónýtanlegar, miklar fjárfestingar, sem geta ógnað fjármálastöðugleika hérlendis, .  

ACER-málið er sýnidæmi um stórvægilega galla EES-samningsins:

  • hann líður fyrir vaxandi ójafnræði á milli EFTA og ESB.  Samkomulags er ekki lengur freistað í Sameiginlegu EES-nefndinni, þ.e. ekkert svigrúm er lengur veitt að hálfu ESB fyrir sáttaferli á milli EFTA/ESB.
  • hann er ógagnsær og þróun hans er ófyrirsjáanleg. EFTA-ríkin vita ekki, hvað þau samþykkja, því að breytingar og viðbætur eru tíðar.  T.d. er í bígerð 1000 blaðsíðna viðbót við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, sem væntanlega verður kallaður Fjórði orkumarkaðslagabálkurinn.  Þetta verður sagan endalausa. 
  • dómsvaldið er framselt úr landi varðandi öll ágreiningsatriði, þar sem ACER eða útibú þess lenda í ágreiningi hérlendis.
  • framkvæmdavaldið er framselt úr landi, því að útibú ACER á Íslandi verður í gjörðum sínum óháð íslenzka framkvæmdavaldinu (sem og dómsvaldinu).  Útibúið tekur aðeins við fyrirmælum frá ACER. Það er hvorki stjórnlagalegt né siðferðislegt haldreipi fólgið í því að láta ESA afrita þessi fyrirmæli og senda áfram, enda hafa ESA ekki verið veitt nein völd til að breyta ákvörðunum ACER.
  • ákvarðanir ESB verða bindandi fyrir einstaklinga, fyrirtæki og ríkið, því að útibú ACER á Íslandi mun hafa síðasta orðið um flutningsgjald Landsnets, og ákvarðanir í þágu sæstrengsins munu óhjákvæmilega varpast yfir í gjaldskrá Landsnets.

Til að tveggja stoða kerfið verði virt, þarf að stofna sams konar stofnun EFTA-megin.  Fyrir því er pólitískur vilji hvorki í ESB né í EFTA.  Án tveggja stoða kerfisins verður bráðlega gengið af EES-samstarfinu dauðu.  

Hver og einn þessara 5 ásteytingarsteina EES-samningsins við Stjórnarskrá lýðveldisins er alvarlegur, en þegar þeir koma allir saman, mynda þeir frágangssök fyrir þetta fyrirkomulag.  Það er affarasælast fyrir utanríkisráðuneytið að viðurkenna staðreyndir og að hefja þegar í stað undirbúning að því að finna eðlilega valkosti fyrir landið við EES-samninginn.  Hann ber dauðann í sér.  Í þessu skyni er t.d. hægt að fara í smiðju til norska Stórþingsmannsins Sigbjörn Gjelsvik, sem hefur ritað yfirgripsmikla skýrslu um þetta efni.  Gjelsvik er væntanlegur til landsins 16.04.2018.  

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nú eru nýir tímar

Gríðarleg umræða varð í Noregi um aðild landsins að Orkusambandi ESB í febrúar og fram til 22. marz 2018, er atkvæðagreiðsla fór fram í Stórþinginu um málefnið.  Úrslit hennar urðu 72 atkvæði með (43 %) og 23 atkvæði á móti (14 %), en 74 þingmenn tóku ekki afstöðu (43 %).

Ef gert er ráð fyrir, að Liechtenstein samþykki, þá velta örlög þessa stórmáls á Alþingi Íslendinga.  Á Stórþinginu virtist afstaða þingmanna að mestu ráðast af því, hvort þeir eru fylgjendur aðildar Noregs að ESB eða andstæðingar slíkrar aðildar.  Norska þjóðin er allt annars sinnis en þessi úrslit gefa til kynna, og ekki er ólíklegt, að þessi afstöðumunur kjósenda og fulltrúa þeirra á Stórþinginu muni hafa pólitískar afleiðingar. Með þessari vefgrein er tengill yfir í yfirlýsingu, sem Trúnaðarráð "Nei til EU" sendi frá sér 8. apríl 2018.  

Ef afstaða Alþingismanna til þess, hvort leiða á Orkustofnun ESB til valda yfir raforkuflutningsmálum á Íslandi, ræðst af afstöðu þeirra til aðildar Íslands að ESB, þá munu þeir fella frumvarpið um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.

Fyrrverandi ráðherra og Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, Björn Bjarnason, valdi föstudagsgrein sinni í Morgunblaðinu, 23. marz 2018, eftirfarandi fyrirsögn:

"Sjálfstæðisflokkurinn krefst fullveldis í orkumálum".

Þar vísar hann til Landsfundarályktana 18.03.2018, en krafan í fyrirsögninni gæti jafnframt verið höfundarins af efni greinarinnar að dæma.  Er slíkt mikið ánægjuefni þeim, sem tjáð hafa sig með eindregnum hætti  gegn því að brjóta Stjórnarskrána og hleypa yfirþjóðlegri stofnun inn á gafl hér.  Verður nú vitnað til merkrar greinar Björns:

"Aðild að ESB-stofnuninni ACER (Agency for the Cooperation of energy regulators-Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði) var tekin upp í EES-samninginn 5. maí 2017.  Alþingi hefur ekki enn fjallað um aðild Íslands að ACER, en hart hefur verið barizt um málið í Noregi.  Innan ESB kalla menn stefnu sambandsins og framkvæmd hennar í orkumálum "orkusamband Evrópu", og innan þess ramma gegnir ACER vaxandi hlutverki. [Þetta vaxandi hlutverk mun halda "endalaust" áfram.  Nú er í smíðum 1000 blaðsíðna viðbót við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, sem er um 600 síður.  Búizt er við útvíkkun á verkefnasviði ACER með viðbótinni, en það er nú bundið við markaðsfyrirkomulag og flutninga á raforku og eldsneytisgasi.  Með þessu hefur ACER þegar verið tryggður ráðstöfunarréttur yfir allri tiltækri raforku og gasi - innsk. BJo.]  Að stefnan sé kennd við "orkusamband", sýnir, hvert er stefnt: ESB vill ná tökum á orkuauðlindinni. [Rétt ályktun, enda var orkusviðið skilgreint öryggislega mikilvægt árið 2009 fyrir ESB, eftir að orkuskortur hrjáði sum bandalagsríkin 2008 - innsk. BJo.]

Það var misráðið undir lok 20. aldarinnar að láta undir höfuð leggjast af Íslands hálfu að gera fyrirvara um aðild að því, sem nú er kallað "orkusamband Evrópu", fyrirvara, sem tæki mið af þeirri staðreynd, að Ísland á vegna legu sinnar ekki aðild að sameiginlegu orkudreifingarkerfi ESB-landanna og Noregs.  Hagsmunir Norðmanna eru allt aðrir en Íslendinga í þessu efni vegna margra tenginga norsks raforkumarkaðar við ESB-svæðið.  [Það er of djúpt í árinni tekið, að hagsmunir Íslendinga og Norðmanna séu ólíkir varðandi raforkuna.  Bæði löndin njóta sérstöðu í Evrópu fyrir hátt hlutfall, næstum 100 %, raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, og í báðum löndum er umtalsverður hluti raforkunnar bundinn langtímasamningum við iðjuver, t.d. álver. Ef öll EFTA-löndin í EES samþykkja að ganga í Orkusambandið, þá munu lýðræðislega kjörin stjórnvöld í löndunum missa forræðið yfir orkustofnunum sínum og þar með raforkuflutningsfyrirtækjunum til ACER.  Hlutverki sínu um aukna millilandaflutninga trú mun þá ACER hefjast handa við að fjölga millilandatengingum með fyrsta sæstrengnum frá Íslandi, Ice Link, og fjölgun sæstrengja frá Noregi, t.d. NorthConnect til Skotlands.  Þannig er enginn grundvallarmunur á aðstöðu Íslands og Noregs í þessum efnum, en áhrifin munu þó fyrr koma fram í Noregi, af því að eftirspurnarhlið raforkumarkaðarins mun aukast gríðarlega, séð frá Noregi.  Þetta mun tvímælalaust valda raforkuverðshækkun í Noregi, sem ríða mun samkeppnishæfni sumra fyrirtækja að fullu, t.d. stóriðjufyrirtækja, sem að hluta eru á skammtímamarkaði fyrir raforku - innsk. BJo.]

Verði Ísland aðili að ACER, tekur þessi ESB-stofnun að líkindum við eftirlitshlutverki Orkustofnunar, t.d. með Landsneti, og fær þar með lokaorð um ákvörðun flutningsgjalds raforku til almennings og stóriðju á Íslandi.  [Ráðuneytið býr nú í haginn fyrir þessa valdatöku ESB með lagafrumvarpi um að færa hluta eftirlitsins, sem er nú hjá því, til Orkustofnunar - innsk. BJo.]

Að andstæðingar yfirþjóðlegs valds í orkumálum skuli hafa flutt mál sitt með þeim árangri, sem við blasir á landsfundi sjálfstæðismanna, verður vonandi til þess, að þingmenn flokksins stigi ekkert skref í þessu máli, sem sviptir Íslendinga fullveldisréttinum yfir orkuauðlindunum."

Sú staðreynd, að Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, 16.-18. marz 2018, mótaði flokkinum einarða stefnu gegn téðu valdaframsali til yfirþjóðlegrar stofnunar, sýnir, að sú andstaða hlaut hljómgrunn á meðal sjálfstæðismanna, og hér skal fullyrða, að yfirlýsingar Landsfundar Sjálfstæðisflokksins og Flokksþings Framsóknarflokksins 11.03.2108 njóta víðtæks stuðnings á meðal íslenzku þjóðarinnar.  Í raun verður það táknmynd um sigur lýðræðisins yfir embættismannakerfi ESB/EES og tilætlunarsemi þess um gagnrýnislausa færibandaafgreiðslu örlagamála umræðulítið, ef Alþingi hafnar frumvarpi ráðuneytisins um umrædda viðbót við EES-samninginn.  

Í umræðum um sama mál í Noregi, komu engin rök fram um gagnsemi þess fyrir Noreg að samþykkja sams konar ríkisstjórnarfrumvarp þar.  Þar var haldið uppi hræðsluáróðri um refsiaðgerðir ESB gegn Noregi, ef ESB fengi ekki vilja sínum framgengt. Sá áróður er gjörsamlega tilhæfulaus, því að samkvæmt EES-samninginum hefur ESB ekki heimild til annars en að fella úr gildi ákvæði í núverandi orkukafla samningsins, og þar sem ESB hagnast ekkert á því, nema síður sé, er afar ólíklegt, að til þess verði gripið.  Það, sem réð afstöðu meirihluta Stórþingsmanna við afgreiðslu ACER-málsins 22. marz 2018 var löngun þeirra til að hnýta Noreg enn nánari böndum við stjórnkerfi ESB.  Málið snerist í þeirra huga ekki um neitt annað en aðlögun Noregs að stjórnkerfi ESB á ímyndaðri leið Noregs inn í ESB.  Ef þjóðarviljinn fær að ráða í Noregi, og hann hefur þegar ráðið tvisvar í þeim efnum, er landið alls ekki á leið inn í ESB.  

Munurinn á stjórnmálastöðunni á Íslandi og í Noregi er aðallega sá, að á Íslandi er meiri samhljómur með afstöðu þingmanna og þjóðarinnar en í Noregi.  Þar af leiðandi má segja, að lýðræðið sé virkara á Íslandi. 

 

 

 

  

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Samflot Íslands með ESB í loftslagsmálum

Yfirvöld á Íslandi hafa ekki útskýrt með viðhlítandi hætti fyrir almenningi, hvaða kostir felast í því fyrir Ísland að hafa samflot með Evrópusambandinu, ESB, í loftslagsmálum.  ESB naut góðs af viðmiðunar árinu 1990, en þá voru margar eiturspúandi verksmiðjur án mengunarvarna og brúnkolaorkuver vítt og breitt um Austur-Evrópu, sem lokað var fljótlega eftir fall Járntjaldsins. 

ESB-löndin eru hins vegar í vondum málum núna, því að hvorki hefur gengið né rekið við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda undanfarinn áratug, og orkuskipti Þjóðverja, "die Energiewende", eru hreinn harmleikur. Hér er enn eitt málefnasviðið, þar sem EFTA-löndin taka auðmjúk við stefnunni frá ESB, þegar hún loks hefur verið mótuð, án þess að hafa af henni nokkurt gagn, en aftur á móti ýmislegt ógagn og óhagræði vegna ólíkra aðstæðna.

Íslendingar eiga fjölmargra kosta völ til að fást við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda upp á eigin spýtur, sem fólgnir eru í miklu og gróðurvana landrými. Í þessu sambandi er skemmst að minnast merks framtaks Landgræðslunnar við að græða upp Hólasand o.fl. eyðimerkur með seyru.  Það hefur og verið bent á mikil flæmi uppþurrkaðs lands, sem ekki eru í ræktun, og að með þeirri einföldu aðgerð að moka ofan í skurði í óræktuðu landi megi draga úr losuninni um:

DL=19,5 t/haár x 357 kha = 7,0 Mt/ár af CO2ígildi

Þetta jafngildir 56 % af allri losun af Íslendinga, 12,4 Mt/ár (án framræsts lands).

Hér er þó nauðsynlegt að gæta varúðar og huga vel að vísindalegri þekkingu, sem aflað hefur verið á þessu sviði.  Dr Guðni Þorvaldsson og dr Þorsteinn Guðmundsson, sérfræðingar í jarðrækt og jarðvegsfræði, rituðu grein um þetta efni í Bændablaðið, 22. febrúar 2018,

"Meira um losun gróðurhúsalofttegunda úr votlendi".

Þeir rökstyðja í greininni, "að þekkingu skorti til að hægt [sé] að fara út í jafnvíðtækar aðgerðir og stefnt er að án þess að meta betur, hverju þær [geta] skilað í raun og veru.", og eiga þar við endurbleytingu í landi.

Vísindamennirnir halda því fram, að til að stöðva losun koltvíildis þurfi að sökkva hinu þurrkaða landi algerlega, og þá getur hafizt losun metans, CH4, sem er yfir 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2.  Þannig er endurbleytingunni sjaldnast varið, og þá er ver farið en heima setið.  Þá halda þeir því fram, að í mólendi stöðvist losun CO2 tiltölulega fljótt eftir framræslu. Þessar niðurstöður eru nógu skýrar til að rökstyðja að leggja á hilluna alla stórfellda endurheimt votlendis til að draga úr losun.  Skal nú vitna í vísindamennina:

"Ef lokað er fyrir aðgang súrefnis að jarðveginum, verður mjög lítil losun á koltvísýringi vegna rotnunar á uppsöfnuðu lífrænu efni, en til að stöðva losunina þarf að hækka grunnvatnsstöðuna upp undir yfirborð.  Ýmsar rannsóknir hafa sýnt, að við grunnvatnsstöðu á 40-50 cm dýpi er full losun á koltvísýringi og hún eykst ekki endilega, þó að grunnvatnsstaða sé lækkuð og getur jafnvel minnkað.

Þetta þýðir, að ef grunnvatnsstaðan er ofan 40 cm, en nær ekki yfirborði jarðvegsins, getur orðið töluverð losun á koltvísýringi.  Hið sama á við um hláturgas, ef grunnvatnsstaða er há, en ekki við yfirborð.  Þá geta skapazt skilyrði fyrir myndun þess, en hláturgas [NO2] er mjög áhrifamikil gróðurhúsalofttegund.

Til að tryggja, að endurheimt votlendis dragi verulega úr losun á koltvísýsingi og hláturgasi, þarf því sem næst að sökkva landinu.  Losun á metani eykst hins vegar, þegar landi er sökkt.  Það er ekki alls staðar auðvelt að breyta þurrkuðu landi til fyrra horfs.

Víða hefur framræsla, byggingar, vegir og önnur mannvirki breytt vatnasviði landsvæða og skorið á vatnsrennsli úr hlíðum, sem áður rann óhindrað á land, sem lægra liggur. Við þessar aðstæður er ekki gefið, að lokun skurða leiði til þess, að grunnvatn hækki nægilega til að endurheimt hallamýra eða flóa takist.  Þá kemur að hinum þættinum í röksendafærslu tvímenninganna, sem er lítil sem engin losun frá vel þurrkuðu mólendi:

"Móajarðvegur inniheldur oft 10-15 % kolefni í efstu lögunum.  Það má því vel ímynda sér, að framræst votlendi nái smám saman jafnvægi í efstu lögum jarðvegsins, þegar kolefni er komið niður í það, sem gerist í móajarðvegi.  Í neðri jarðlögum getur þó enn verið mór, og það er spurning, hvort hægt sé að koma í veg fyrir, að hann rotni."

Ályktunin er sú, að í stað endurheimta votlendis eigi að beina kröftunum að landgræðslu, einkum með belgjurtum, og að skógrækt.  Varðandi hið síðar nefnda runnu þó tvær grímur á blekbónda við lestur greinar Önnu Guðrúnar Þórhallsdóttur, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands, í Bændablaðinu, 22. febrúar 2018.  Greinin bar yfirskriftina:

"Skógrækt - er hún rétta framlag Íslands til loftslagsmála ?"

Þar bendir hún t.d. á þátt endurkasts sólarljóssins, sem lítið hefur verið í umræðunni:

"Eðlisfræðilegu þættirnir eru aðallega endurkast sólarljóssins (kallast á fræðimáli albedo) og uppgufun/útgufun plantna og þar með vatnsbúskapur.  Hversu mikið hlutur endurkastar eða tekur upp af sólarljósi hefur gríðarleg áhrif á hitastig hans - svartur kassi hitnar mikið í sól, en hvítur helzt nokkuð kaldur.  Sama gildir um dökka skógarþekju barrskóga - skógur tekur mjög mikið upp af sólarorkunni, og hitinn helzt að landinu, en endurkastast ekki.  Snjór, aftur á móti, getur endurkastað nær öllu sólarljósinu - við finnum greinilega fyrir margföldum sólargeislunum á skíðum."

"Fjölmargar vísindagreinar hafa birzt á undanförnum árum, þar sem verið er að greina áhrif skóga á loftslag.  Þeim ber öllum saman um, að nauðsynlegt sé að vernda, viðhalda og auka umfang hitabeltisskóga og skóga á suðlægum breiddargráðum.  Á norðurslóðum eigi hins vegar alls ekki að planta skógi, því að hann hækki hitastig jarðar.  

Fjölmargar rannsóknir sýna nú, að það eru mörk, hvar skógrækt leiði til kólnunar - norðan við þau mörk leiði skógrækt til hlýnunar.  Mörkin hafa verið sett við 40°N breiddar - eða við Suður-Evrópu og jafnvel enn sunnar í Bandaríkjunum."

Halda mætti, að þessi grein Önnu Guðrúnar yrði rothögg á skógrækt hérlendis sem mótvægisaðgerð við losun gróðurhúsalofttegunda.  Öðru nær.  Kenningin var hrakin í næsta tölublaði Bændablaðsins m.v. ríkjandi aðstæður á Íslandi.  Það var gert með greininni:

"Skógrækt er mikilvægur hluti af framlagi Íslands til loftslagsmála", sem Pétur Halldórsson, kynningarstjóri Skógræktarinnar, dr Brynhildur Bjarnadóttir, lektor við Háskólann á Akureyri og dr Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, rituðu.  Þau benda á, að niðurstöður Önnu Guðrúnar séu úr hermilíkönum, en ekki raunverulegum mælingum, og forsendur hermilíkananna eigi ekki við á Íslandi.

"Hafrænt loftslag, stopul snjóþekja á láglendi og hlutfallslega lítil og dreifð snjóþekja benda ekki til þess, að hægt sé að yfirfæra forsendur umræddra hermilíkana beint á íslenzkar aðstæður."

"Þegar kolefnisbinding þessara svæða [ólíkra vistkerfa] er tekin með í dæmið, er greinilegt, að svartar sandauðnir á Íslandi bæði gleypa í sig mikinn hita yfir sumarið og þar verður engin kolefnisbinding.  Þær hafa því í raun tvöföld neikvæð áhrif á hlýnun jarðar, og það að láta þær standa óhreyfðar hefur sennilega "verstu" áhrifin á hlýnun jarðar.  Á öllum hinum svæðunum fer fram kolefnisbinding um vaxtartímann með jákvæðum loftslagsáhrifum."

Að græða sandana upp, fyrst með harðgerðum jarðvegsmyndandi jurtum og síðan með skógrækt, er stærsta tækifæri Íslendinga til mótvægisaðgerða við losun gróðurhúsalofttegunda.  Jafngildisbinding, að teknu tilliti til aukins endurkasts sólarljóss og CO2 bindingar í jarðvegi og viði, gæti numið 12 t/ha á ári.  Í niðurlagi greinar skrifa þremenningarnir:

"Í ljósi frumniðurstaðna endurskinsmælinga hérlendis er óhætt að fullyrða, að skógrækt á Íslandi sé góð og skilvirk leið til að vinna gegn loftslagsbreytingum.  Í raun ætti keppikefli okkar að vera, að breyta sem mestu af svörtu sandauðnunum okkar í skóg, bæði til að auka endurskin og kolefnisbindingu.  Um leið og við bindum kolefni, aukum endurskin og drögum úr sandfoki, byggjum við upp auðlind, sem getur með tímanum minnkað innflutning á timbri, olíu og ýmsum öðrum mengunarvöldum og bætt með því hagvarnir þjóðarinnar.  Svarið er því: já, skógrækt er rétt framlag Íslands til loftslagsmála."

Ekki verður séð, að slagtogið með ESB í loftslagsmálum sé til nokkurs annars en að auka skriffinnskuna óþarflega, gera aðgerðaáætlun Íslendinga ósveigjanlegri og auka kostnaðinn við mótvægisaðgerðirnar.  Að íslenzk fyrirtæki séu að kaupa koltvíildiskvóta af ESB, eins og hefur átt sér stað og mun fyrirsjáanlega verða í milljarða króna vís á næsta áratugi í stað þess að kaupa bindingu koltvíildis af íslenzkum skógarbændum, er slæm ráðstöfun fjár í nafni EES-samstarfsins og ekki sú eina.  

 

 

 

 

 

  

 

 


Sendiherra kveður sér hljóðs

Það var ánægjulegt að sjá grein í Morgunblaðinu þann 10. marz 2018 um sameiginleg viðfangsefni okkar og Norðmanna í EES-samstarfinu.  Grein Cecilie Landsverk, sendiherra Noregs á Íslandi, bar heitið:

"EES-samningurinn, okkar sameiginlega velferð",

og þar tjáir sendiherrann bæði opinbera stefnu ríkisstjórnar Noregs og sína eigin.  Það er fengur að þessari grein núna á tímum vaxandi efasemda í Noregi og á Íslandi um gildi og framkvæmd EES-samningsins.  Efasemdirnar stafa aðallega af vaxandi tilætlunarsemi ESB (Evrópusambandsins) um, að EFTA-ríkin 3 í EES hagi sér eins og ESB-ríki. 

Það ríkir þó alls ekkert jafnvægi á milli EFTA og ESB í EES-samstarfinu.  EFTA-ríkin eru í hlutverki niðursetningsins á höfuðbólinu. Það átti að vara til bráðabirgða, en hefur nú varað í aldarfjórðung, svo að kominn er tími til að binda endi á þetta óeðlilega samband; ekki með inngöngu í ESB, heldur með uppsögn EES-samningsins.  Stefna norsku ríkisstjórnarinnar er þó fremur hið fyrrnefnda, en góður meirihluti norsku þjóðarinnar er á öndverðum meiði.  Jafnframt virkar lýðræðið með ófullkomnum hætti í Noregi að þessu leyti, því að þar er staðfest gjá á milli þings og þjóðar.

EFTA-ríkin hafa ekki atkvæðisrétt í stofnunum ESB á borð við ACER-Orkustofnun ESB, sem ESB heimtar, að fái að ráðskast með orkuflutningsmál EFTA-ríkjanna innanlands og á milli landa, eins og um ESB-ríki væri að ræða.  Það er þó óhugsandi án þess að framselja ríkisvald til yfirþjóðlegrar stofnunar, sem stjórnarskrár Íslands og Noregs heimila ekki. Stjórnskipulegar gervilausnir á borð við ESA sem millilið fyrir fyrirmæli ACER til útibúa sinna (Norðmenn kalla það RME-reguleringsmyndighet for energi) á Íslandi og í Noregi eru hlálegur kattarþvottur.

Sendiherrann skrifar:

"EES-samningurinn veitir okkur einnig aðgengi að 900 milljörðum norskra króna úr Evrópusambandskerfinu, gegnum hins ýmsu verkefni, sem Noregur er hlutaðeigandi í."

Fjárupphæðin, sem sendiherrann nefnir, 900 miaNOK/ár, dreifist á öll EES-ríkin.  Norðmenn eru um 1,0 % af mannfjöldanum á EES-svæðinu, en því fer fjarri, að í hlut þeirra komi nokkurn tíma 9,0 miaNOK/ár, því að ríkustu þjóðirnar í EES fá tiltölulega lítið í sinn hlut.  Hlutfallslega mest af fjármunum ESB fer til Austur-Evrópu.  Það er alls ekki hægt að búast við, að hlutur Noregs sé hærri en 0,3 %, þ.e. 2,7 miaNOK/ár, en hver eru þá bein útgjöld norska ríkisins til EES/ESB samstarfsins:

  • EES-fjármunir til Austur-Evrópu: 3,8 miaNOK/ár
  • ESB-verkefni og stofnanir:       3,2 miaNOK/ár
  • Interreg-samstarf á milli svæða: 0,2 miaNOK/ár
  • ESA og EFTA-dómstóllinn:         0,1 miaNOK/ár

_____________________________________________________

  • Alls norsk rík.útgj. til EES/ESB:7,3 miaNOK/ár

Niðurstaðan er sú, að Norðmenn greiða a.m.k. 4,6 miaNOK/ár (=60 miaISK/ár) meira til EES/ESB en þeir fá þaðan. Norðmenn greiða bróðurpartinn af kostnaði EFTA-landanna af verunni í EES, en Íslendingar greiða víst aðeins 3,0 % af heildarkostnaðinum þangað, sem þá eru um 3,0 miaISK/ár og fá líklega svipað andvirði til baka á formi rannsóknarstyrkja o.fl.

Þetta eru hins vegar algerar smáupphæðir í samanburði við kostnað þjóðfélagsins af vist í viðskiptabandalagi, þar sem miklu fjölmennari þjóðir ráða ferðinni.  Það er allt of dýrt fyrir smáþjóð að kaupa aðgangsleyfi inn á Innri markað EES því verði að verða að taka upp lög og reglugerðir aðildarþjóðanna.  Eru einhver önnur dæmi um slíkt fyrirbrigði sem EES ?

Viðskiptaráð Íslands gaf út skýrslu 7. október 2015 undir heitinu: "Vilji er ekki allt sem þarf".  Þar er komizt að því, að beinn og óbeinn kostnaður atvinnulífsins af eftirlitsstofnunum hins opinbera, og lögum og reglum, sem atvinnulífinu er gert að starfa undir, nemi 175 miaISK/ár á verðlagi uppfærðu til 2018.  Mest munar um minni getu atvinnulífsins til framleiðniaukningar sökum afar íþyngjandi opinbers regluverks, og kostnaðurinn er talinn aukast um 1,0 %/ár. Þetta er ískyggileg og lífskjarahamlandi byrði til þess eins að mega verzla á Innri markaði EES. Það stefnir þess vegna í óefni fyrir Íslendinga að vera njörvaða í þetta EES-samstarf, sem æ meir einkennist af því, að ESB er að þróast til sambandsríkis, sem sífellt minna tillit tekur til sérþarfa og réttinda EFTA-landanna. Í ACER-málinu um Orkusamband ESB tókst EFTA t.d. ekki að semja um neinar sérlausnir eða undanþágur.  

Auðvitað verður athafnalífið hér að vinna eftir tæknilegum stöðlum og viðskiptareglum, en vægt reiknað mætti minnka þennan kostnað (175 miaISK/ár) um 84 miaISK/ár, ef EES-samninginum verður sagt upp. Slíkur léttir á atvinnulífinu mundi strax virka framleiðniörvandi og treysta þar með undirstöður tekjuöflunar íbúa landsins. Í því samhengi ber að hafa í huga, að þar sem Íslendingar og Norðmenn eiga ekki aðild að sameiginlegu fiskveiði- og landbúnaðarstefnu ESB, njóta þeir ekki fullra tollfríðinda fyrir sjávarafurðir og landbúnaðarvörur.  Kanadamenn njóta þar betri viðskiptakjara, eftir að hafa gert fríverzlunarsamning við ESB árið 2017, og nú hefur ESB boðið Bretum sams konar samning.  Við þurfum enga skýrslu um reynsluna af EES.  Hún blasir við.  Það þarf að stika út auðveldustu leiðina úr þessu dæmalausa og stjórnlagalega þrúgandi samneyti sem einhvers konar varta á líkama búrókrataskrímslis.   

Fljótt á litið virðast sterk efnahagsleg rök styðja uppsögn EES-samningsins, og því fylgir fjöldi annarra kosta, t.d. að losna undan oki óhefts innflæðis fólks frá EES og hverja kvöðina á fætur annarri um að hlíta stjórn stofnana ESB á afmörkuðum sviðum.  Þetta síðasta getur hreinlega boðið upp á fjárhagslegan óstöðugleika hérlendis, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri í mörgum greinum um ACER, og er klárt stjórnarskrárbrot í leikmannsaugum.  

 

 

 

 


Mikilsverðir orkuhagsmunir eru í húfi

Þann 28. marz 2018 birti Viðskiptablaðið fréttaskýringu um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn með fyrirsögninni:

"Mikilsverðir orkuhagsmunir ekki í húfi". 

Þar er utanríkisráðuneyti Íslands borið fyrir furðutúlkunum á áhrifum af innleiðingu þessarar gjörðar ESB hérlendis og á áhrifum höfnunar Alþingis á gjörninginum í Noregi og á EES-samstarfið í heild sinni. 

Í stuttu máli er þarna um að ræða áróðursblöndu (hanastél) af léttvægi áhrifanna hér innanlands og hræðsluáróður um áhrifin á hag Noregs og á EES-samstarfið. Hér að neðan verður þessi þynnka metin og léttvæg fundin. Það er alveg dæmalaust, að utanríkisráðuneytið undir stjórn sjálfstæðismanns skuli hljóma eins og málpípa búrókratanna í Berlaymont í Brüssel. Þeir reyna markvisst að flækja EFTA-ríkin í net ESB á hverju sviðinu á fætur öðru, og eftir að Bretar urðu áhrifalausir innan ESB í kjölfar BREXIT, brestur búrókrata Berlaymont allt umburðarlyndi gagnvart sérstöðu EFTA-ríkjanna.  Þeir neita að semja um undanþágur við EFTA-ríkin um málefni, sem þeir eftir langa mæðu hafa náð samstöðu um innbyrðis á milli ESB-ríkjanna. Búrókratana virðist ekki skipta það neinu máli, að orkumálin eru utan við fjórfrelsi Innri markaðarins, sem EES-samningurinn var upphaflega gerður til að viðhalda.  Það er alls ekki í þágu íslenzkra hagsmuna að útvíkka EES-samninginn, svo að hann spanni orkumálin einnig.  Að dómi fjölmargra Norðmanna, þ.m.t. stór verkalýðsfélög og Alþýðusamband Noregs, LO, er þessi útvíkkun gildissviðsins heldur ekki í þágu norskrar alþýðu.  Höfundi er ekki kunnugt um, hver afstaða manna í Liechtenstein er, en innleiðing gjörðarinnar mun a.m.k. ekki hafa farið fram þar.  Það ber æ meir á því, að búrókratar Berlaymont komi fram við EFTA-ríkin sem hornrekur í ESB. Það er kominn tími til að spyrna við fótum.  

Boðskap utanríkisráðuneytisins dregur Snorri Páll Gunnarsson, blaðamaður, saman með eftirfarandi hætti:

"Þriðji orkupakki ESB mun hafa lítil áhrif hér á landi, samkvæmt utanríkisráðuneytinu [1].  Pakkinn felur ekki í sér framsal á yfirráðum yfir íslenzkum orkulindum og grunnvirkjum til stofnana ESB [2].  Hafni Alþingi pakkanum, gæti það haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir EES-samstarfið."[3].

Hér verður þetta hrakið lið fyrir lið:

[1 & 2]:  Það er með endemum að halda því fram, að sá gjörningur að færa Orkustofnun Íslands (OS), eða þann hluta hennar, sem fæst við reglusetningu og eftirlit með raforkuflutningsfyrirtækinu Landsneti, undan íslenzku ráðuneyti og undir eina af stofnunum ESB, ACER-Orkustofnun ESB, með Eftirlitsstofnun EFTA-ESA sem ljósritandi millilið, sem enga raunverulega þýðingu hefur, muni "hafa lítil áhrif hér á landi", þótt hér sé um augljóst Stjórnarskrárbrot að ræða (gr.2). 

Í raun þýðir þetta, að raforkuflutningsmál Íslands eru færð frá því að vera á forræði íslenzka ríkisins í það að verða á forræði ESB.  Þetta er stórmál vegna þess, að með þessum gjörningi færist ráðstöfunarréttur raforkunnar frá Reykjavík til Ljubljana í Slóveníu, þar sem ACER hefur aðsetur.  Eignarhald virkjana og flutningsmannvirkja verður óbreytt, en ráðstöfunarréttur yfir raforkunni verður færður til raforkumarkaðar ESB. Til hvers heldur utanríkisráðuneytið, að til ACER hafi verið stofnað ?  Það var til að ryðja úr vegi hindrunum við snurðulausum flutningum á jarðgasi og raforku frá svæðum með gnótt orkulinda, t.d. endurnýjanlegra orkulinda til raforkuvinnslu, og til svæða innan ESB, þar sem skortur er á slíkum orkulindum. Þessar hindranir voru ekki tæknilegs eðlis, heldur stjórnmálalegs og efnahagslegs eðlis. Með stuðningi af stjórnarskrárígildi ESB, Lissabon-samninginum, hafa ESB-ríkin samþykkt að færa allt vald yfir innviðum orkuflutninga til ACER, sem þegar hefur sett sæstreng á milli Íslands og Bretlands, sem ACER kallar Ice Link, á forgangsverkefnaskrá sína með áætlaðri tímasetningu gangsetningar árið 2027.  

Ef Alþingi samþykkir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB, þá mun ACER hrinda af stað þessu verkefni og skylda Landsnet til að taka þátt. Það verður gert með meirihlutaákvörðun í ACER, sem send verður ESA.  Þessi Eftirlitsstofnun EFTA er valdalaus á orkusviðinu og  hefur ekki annað val en að ljósrita fyrirmælin og senda þau til útibús ACER á Íslandi, sem er Orkustofnun, OS, eða sá hluti hennar, sem hefur eftirlit með Landsneti. Landsnet mun þá verða að styrkja raforkuflutningskerfið innanlands, til að unnt verði að tengja um 1200 MW sæstreng við það. Það verður mjög kostnaðarsamt, og sá kostnaður lendir alfarið á landsmönnum samkvæmt reglum ACER.  

Kostnaðarhlutdeild Landsnets í Ice Link verður ákvörðuð af ACER samkvæmt valdheimildum hennar.  Íslenzk yfirvöld verða ekki virt viðlits í öllu þessu ferli, enda verður Alþingi þá búið að samþykkja algert áhrifaleysi þeirra á raforkuflutningsmál landsins, og OS, eða sá hluti hennar, sem fæst við raforkuflutningsmál, verður þá ekki lengur undir boðvaldi ráðuneytis, heldur aðeins undir boðvaldi ACER. ESB kallar það, að OS verði óháð hagsmunaöflum. 

Þetta er í framkvæmd að ryðja hindrunum úr vegi til að útrýma flöskuhálsum í orkuflutningskerfi ESB/EES.  Ætla menn að stinga hendinni í gin ljónsins ?  Hvað í ósköpunum rekur menn til þess, þegar ávinningur Íslands er alls enginn, en áhættan svakaleg og um að ræða Stjórnarskrárbrot í þokkabót ?

Þegar tengingin (Ice Link) verður komin á, verður íslenzkur raforkumarkaður innlimaður í raforkumarkað ESB.  Það þýðir, að hver sem vill getur boðið í alla tiltæka raforku á Íslandi, og hún mun fara til hæstbjóðanda.  Þannig glatar Ísland smátt og smátt ráðstöfunarrétti yfir allri framleiðanlegri raforku á Íslandi, því að við þessar aðstæður verða hvorki gerðir nýir langtímasamningar um afhendingu raforku til atvinnustarfsemi hérlendis né er líklegt, að þeir gömlu verði framlengdir.  Rafmagnsverðið mun rjúka upp hérlendis, og samkeppnishæfni atvinnuveganna mun hríðversna með slæmum afleiðingum fyrir atvinnustig í landinu og lífskjör almennings.  Með atvinnuvegina í rúst munu Íslendingar síðan standa berskjaldaðir, ef/þegar raforkuverð í ESB lækkar með auknu framboði kolefnisfrírra orkugjafa.  Er þetta léttvægt mál ?  Nei, fullveldisafsal er það aldrei.

[3]: Það er einkennilegt, að ESB-sinnar skuli ekki treysta EES-samninginum, og að ESB haldi sig við ákvæði hans.  Það er óumdeilanlegt, að hvert EFTA-ríki í EES hefur neitunarvald gagnvart innleiðingu nýrra gjörða í EES-samninginn. Það er meginmunurinn á EFTA-ríkjunum og ESB-ríkjunum í EES-samstarfinu.  Þetta kemur fram í kafla 93 í samninginum og kafla 6 í samninginum um fastanefnd EFTA-ríkjanna.  

Alveg sérstaklega gildir þetta um málaflokka, sem standa utan við fjórfrelsið á Innri markaði EES, sem samningurinn var upphaflega gerður um. Hér hefur engin umræða farið fram um að útvíkka gildissvið hans.  Hvers konar meðvirkni og sofandaháttur er þetta eiginlega ?

ESB hefur upp á sitt eindæmi ákveðið, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur þess frá 2009 skuli verða hluti af EES-samninginum, þótt hér sé í raun verið að innleiða 5. frelsið á Innri markaðinn.  Þessi merking ESB á þessum málaflokki er í samræmi við yfirlýsingu Framkvæmdastjórnarinnar um það, að Noregur skyldi verða hluti af sameiginlegum orkumarkaði ESB.  Ríkisstjórn Noregs er höll undir aðild Noregs að ESB, og hið sama er að segja um Landsstjórn og formann Verkamannaflokksins, stærsta stjórnarandstöðuflokksins á Stórþinginu, þótt flest verkalýðsfélög og Alþýðusamband Noregs, LO, hafi ályktað harðlega gegn stuðningi þingflokks Verkamannaflokksins við frumvarp ríkisstjórnarinnar.

Ef ESB gangsetur refsiaðgerðir gegn EFTA-ríkjunum á viðskiptasviðinu, brýtur ESB um leið EES-samninginn, og brotið verður kæranlegt til ESA og EFTA-dómstólsins.  Samkvæmt EES-samninginum má ESB í mesta lagi svara höfnun EFTA-ríkis með ógildingu þess hluta EES-samningsins, sem hafnaða innleiðingin átti að hafa áhrif á.  Í því tilviki, sem hér um ræðir, þ.e. orkumálaflokkinn, sbr kafla 102 um ógildingu í EES-samninginum.  Orka er í viðhengi 4 af 22 viðhengjum samningsins, og Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn færi þangað, ef samþykktur yrði.  Það er hins vegar ekki á færi ESB að ógilda neitt einhliða, heldur er ógilding umfjöllunarefni Sameiginlegu EES-nefndarinnar, þar sem EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein eiga sæti ásamt ESB, og ákvörðun er aðeins tekin einróma.

Þó að þessi ákvörðun verði tekin, verður ekki séð, með hvaða hætti ógilding á ákvæðum Annars orkumarkaðslagabálksins, sem í þessu tilviki koma til álita, geti skaðað hagsmuni Íslands og Noregs. Noregur mun áfram selja ESB-ríkjum rafmagn úr norskri fossaorku og olíu og jarðgas úr efnahagslögsögu sinni, eins og ekkert hafi í skorizt, enda eru mikilvægir hagsmunir hins orkuhungraða ESB í húfi.  Fullyrðing um, að höfnun Íslands muni hafi ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir EES-samstarfið, er algerlega úr lausu lofti gripin.   

  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband