Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
27.5.2022 | 21:12
Orkan er undirstaða hagkerfanna
Vegna stríðs í Evrópu herjar orkuskortur víðast hvar í álfunni vestan Rússlands með Ísland og Noreg sem undantekningu. Á fyrsta degi svívirðilegrar innrásar Rússa í Úkraínu voru allar raforkutengingar Úkraínu við Rússland rofnar og landið fasað saman við stofnkerfi Evrópu. Í framtíðinni er líklegt, að Úkraína muni selja "kolefnisfría" raforku til Evrópusambandsins. Rússar hafa rofið raforkuflutninga sína til Finnlands í refsingarskyni fyrir, að Finnar hafa gefið hlutleysisstefnu sína upp á bátinn og óskað eftir inngöngu í varnarbandalagið NATO. Svíar hafa hlaupið í skarðið með að sögn 10 % af finnsku raforkuþörfinni, en eru varla aflögufærir að vetrarlagi vegna lokunar nokkurra kjarnorkuvera sinna. Evrópusambandslöndin hafa lokað á innflutning kola frá Rússlandi og ræða að binda endi á olíuinnflutning þaðan. Að draga úr eldsneytisgasinnflutningi frá Rússlandi er kappsmál margra, en Rússar hafa nú þegar lokað á gasflutning til Póllands og Búlgaríu, af því að ríkisstjórnir þessara landa bönnuðu greiðslur með rúblum. Evrópusambandslöndin stefna á að stöðva öll orkukaup frá Rússum. Í Úkraínu er eldsneytisgas í jörðu, og líklega verður borað þar og öflugar lagnir lagðar til vesturs og tengdar inn á gasstofnlagnir í ESB.
Vegna orkuskorts og mjög mikillar hækkunar orkuverðs í Evrópusambandinu, ESB, siglir sambandið inn í efnahagskreppu vegna minnkandi framleiðslu, enda falla hlutabréf nú ískyggilega. Ef lokað verður senn fyrir rússneska olíu til ESB, spáir "die Bundesbank"-þýzki seðlabankinn yfir 5 % samdrætti hagkerfis Þýzkalands 2022, og hann gæti tvöfaldazt við lokun fyrir rússneskt gas. Bundesbank spáir mrdEUR 180 nettó tapi fyrir þýzka hagkerfið 2022, ef bráðlega verður hætt að kaupa gas af Rússum, sem hefur numið um 45 % af gasþörf Þýzkalands. Eystrasaltslöndin hafa hætt öllum orkukaupum af Rússum, og nú standa spjótin á Þjóðverjum fyrir slælegan hernaðarstuðning við Úkraínumenn og fyrir það að fjármagna tortímingarstríð Putins, alvald Rússlands, með gaskaupum á gríðarháu verði.
Stuðningur Vesturveldanna við Úkraínu frá 24.02.2022 nemur í fjármunum aðeins broti af þessari þýzku tapsfjárhæð. Hún sýnir í hvílíkt óefni Þjóðverjar hafa stefnt efnahag sínum með því að flytja allt að 45 % af gasþörf sinni frá Rússlandi eða tæplega 43 mrdm3/ár. Þeir hafa vanrækt aðrar leiðir, af því að þær eru dýrari, en verða nú að bregðast við skelfilegri stöðu með því að setja upp móttökustöðvar fyrir LNG (jarðgas á vökvaformi) í höfnum sínum og flytja það inn frá Persaflóaríkjunum og Bandaríkjunum (BNA) með tankskipum. Nú stóreykst gasvinnsla með leirsteinsbroti í BNA, og Norðmenn framleiða sem mest þeir mega úr sínum neðansjávarlindum úti fyrir norðanverðum Noregi, en Norðursjávarlindir þeirra, Dana, Hollendinga og Breta, gefa nú orðið lítið.
Þessi efnahagskreppa í ESB og á Bretlandi af völdum orkuskorts er þegar farin að valda verri lífskjörum í Evrópu (Noregur meðtalinn vegna innflutnings á evrópsku raforkuverði til Noregs sunnan Dovre). Á Íslandi hefur eldsneytisverð hækkað gríðarlega og matvælaverð og áburðarverð líka, svo að ekki sé talað um hörmungarástandið á fasteignamarkaðinum af innlendum ástæðum (kreddum). Nautakjötsframleiðendur á Íslandi sjá sína sæng út breidda við þessar aðstæður. Í nafni matvælaöryggis verður ríkisvaldið að grípa inn með neyðarráðstöfunum á innflutningshlið (minnkun innflutnings, tollar), svo að bændur geti forðazt taprekstur og flosni þá ekki upp af búum sínum.
Verðbólgan rýrir lífskjör almennings, en að auka launakostnað fyrirtækja á hverja unna klukkustund umfram framleiðniaukningu til að vega upp á móti rýrnandi kaupmætti virkar einfaldlega sem olía á eld verðbólgunnar.
Á Íslandi er þó allt annað uppi á teninginum í orkulegum og efnahagslegum efnum en erlendis. Það er að vísu raforkuskortur í boði afturhalds, sem ber fyrir sig umhverfisvernd, sem er reist á geðþótta hins sama afturhalds, en ekki á staðlaðri kostnaðar- og ábatagreiningu virkjunarkosta. Það verður bæði að virkja og vernda, svo að þetta er val og lempni er þörf. Í ljósi aðstæðna í heiminum er það siðferðislega og fjárhagslega óverjandi að standa gegn nánast öllum framfaramálum á orkusviðinu hérlendis, sem auðvitað kyrkir möguleika landsmanna til orkuskipta á þeim hraða, sem stjórnvöld dreymir um.
Þann 27. apríl 2022 birtist í Morgunblaðinu baksviðsfrétt, sem varpar ljósi á eina hlið þessa stórmáls. Fyrirsögnin var dæmigerð um ástandið:
"Ekki næg raforka til að knýja orkuskiptin".
Hún hófst þannig:
"Um ein milljón lítra af olíu er flutt til landsins á hverju ári [þetta er 3 stærðargráðum minna en í raun - innsk. BJo]. Það er ígildi allrar orkuvinnslu Landsvirkjunar í dag. [Orkuinnihald þessarar olíu er um 11,1 TWh/ár, en nýtanlegt orkuinnihald er aðeins um 4 TWh/ár. Raforkuvinnsla Landsvirkjunar (nýtanleg) er um 14 TWh/ár, svo að í raun nemur olíuinnflutningurinn aðeins tæplega 30 % af orkuvinnslu Landsvirkjunar - innsk. BJo.] Í umsögn um drög að stefnu stjórnvalda um orkuskipti í flugi bendir fyrirtækið [Landsvirkjun] á, að ekki sé næg raforka til í landinu til að knýja orkuskipti í samgöngum, og það krefjist margra ára undirbúnings og framkvæmdatíma.
Innviðaráðuneytið kynnti á dögunum í samráðsgátt stjórnvalda drög að stefnu og aðgerðaáætlun um orkuskipti í flugi á Íslandi. Grundvallast hún á tillögum nefndar, sem falið var þetta verkefni. Á [m]eðal þess, sem lagt er til, er, að kannaður verði möguleiki á samstarfi við framleiðendur nýrra flugvéla með það að markmiði, að Ísland verði vettvangur prófana á nýrri tækni í flugi. Lagt er til, að unnið verði að því, að allt innanlandsflug verði knúið með endurnýjanlegu eldsneyti fyrir árið 2040. Einnig, að stuðlað verði að uppbyggingu innviða fyrir slíkt eldsneyti á flugvöllum, svo [að] nokkuð sé nefnt."
Miklu skiptir að velja fjárhagslega öflugan samstarfsaðila á sviði tækniþróunar, til að þetta gangi eftir. Það liggur ennfremur beint við, að græna flugvélaeldsneytið, hvert sem það verður, verði framleitt á Íslandi. Það er líklegt, að hið nýja eldsneyti muni innihalda vetni, og þess vegna þarf að koma hérlendis á laggirnar vetnisverksmiðju. Samkeppnishæfnin er háð stærð verksmiðjunnar, og þess vegna er ekki úr vegi að fá vetni í flugvélaeldsneyti og flutningabíla- og vinnuvélaeldsneyti frá verksmiðjunni, sem framleiða á vetni fyrir nýja hérlenda áburðarverksmiðju, en Úkraínustríðið hefur valdið miklum verðhækkunum á áburði, sem enginn veit, hvort eða hvenær gangi til baka vegna viðskiptabanns á útlagaríkið Rússland.
"Í þessu samhengi má minna á, að í uppfærðri orkuspá frá síðasta ári [2021] er sem fyrr ekki gert ráð fyrir raforkuþörf vegna framleiðslu á rafeldsneyti fyrir orkuskipti í flugi. Það er rökstutt með óvissu um það, hvaða tegund rafeldsneytis verði ríkjandi, hvort það verði innflutt eða framleitt innanlands, og hver raforkuþörfin til framleiðslu rafeldsneytis verður, verði það framleitt innanlands. Starfshópur um stöðu og áskoranir í orkumálum benti á það í skýrslu, sem út kom í síðasta mánuði [marz 2022], að til þess að ná fullum orkuskiptum m.a. í flugi og áframhaldandi hagvexti, þyrfti að tvöfalda núverandi orkuframleiðslu í landinu og rúmlega það."
Það er villandi á þessu umbreytingaskeiði á orkusviði, að Orkuspárnefnd sé með vífilengjur, dragi lappirnar og láti líta út fyrir, að orkuvinnsluþörfin sé minni en hún er m.v. áform stjórnvalda í orkuskiptum. Nú verður hún einfaldlega að styðjast við útreikninga starfshóps um stöðu og áskoranir í orkumálum um raforkuþörf innanlandsflugsins og láta hana hefjast árið 2025 og stíga síðan línulega í 15 ár, þar til fullri þörf er náð. Þessi orkuskipti munu tryggja stöðu innanlandsflugsins til langrar framtíðar, og miðstöð þess í Vatnsmýrinni í Reykjavík á ríkisvaldið að tryggja. Útúrboruleg sérvizka einstakra pólitíkusa í Reykjavík verður að víkja fyrir meiri hagsmunum í þessum efnum.
"Þess vegna sé mikilvægt að horfa til annarra áætlana stjórnvalda, sem hafa áhrif á orkuöflun, s.s. heildarendurskoðunar á rammaáætlun og leyfisferlis virkjana og stækkunarverkefna þeirra. Sérstaklega verði horft til leyfisferla vindorkukosta.
Einnig sé mikilvægt að huga að því, að aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum nái í dag ekki yfir það, sem gera þarf til að ná fram þjóðfélagi án jarðefnaeldsneytis árið 2040 - og þar með orkusjálfstæði landsins."
Á þetta hefur verið bent á þessu vefsetri. Téð aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar stendur ekki undir nafni. Nú hefur loftslags-, orku- og umhverfisráðherra lagt fyrir þingið frumvarp um að létta virkjanafyrirtækjum róðurinn við stækkun virkjana í rekstri. Komið hafa fram mótbárur við þetta frumvarp, sem reistar eru á ágizkunum og vænisýki, algerlega í anda tilfinningaþrungins afturhalds í landinu, sem gerir allt til að kynda undir ranghugmyndum um óafturkræft náttúrutjón af mannavöldum og leggja stein í götu orkuframkvæmda í landinu. Fái þau ráðið, verða orkuskiptin hérlendis í skötulíki og hagvöxtur ófullnægjandi fyrir vaxandi þjóð. Það yrði hörmuleg niðurstaða m.v. möguleikana, sem landið býður íbúum sínum upp á, ef skynsemi og bezta tækni fá að ráða för.
Morgunblaðið gerði í baksviðsfrétt 17. maí 2022 grein fyrir þessu undir fyrirsögninni:
"Telja, að horft sé til Kjalölduveitu".
Fréttin hófst þannig:
"Náttúruverndarsamtökin Náttúrugrið telja ekki unnt að rökstyðja aflaukningu þriggja virkjana Landsvirkjunar á Þjórsár-Tungnaár svæðinu, sem gert er ráð fyrir í stjórnarfrumvarpi, að verði heimiluð án þess að fara í gegn um rammaáætlun. Telja félagasamtökin, að sú viðbót við orkuframleiðslu, sem fengist, sé allt of lítil til að standa undir fjárfestingunni. Þess vegna telja þau, að það hangi á spýtunni hjá Landsvirkjun, að samhliða yrði farið í Kjalölduveitu úr Þjórsá."
Þessi málflutningur er reistur á sandi. Þessi áform Landsvirkjunar má skýra í ljósi skortstöðu afls og orku, sem blasir við á næstu 5 árum, þar til meðalstór virkjun (Hvammsvirkjun) tekur til starfa 2027, og er afleiðing athafnaleysis virkjanafyrirtækja og sofandaháttar yfirvalda. Viðbót afl- og orkugetu af þessu tagi við þessar aðstæður er miklu verðmætari en nemur verðinu, sem Landsvirkjun fær núna fyrir afl og orku, því að hún getur komið í veg fyrir afl- og orkuskerðingu, sem kostar viðskiptavinina 10-1000 sinnum meira en núverandi verð á þessari þjónustu. Þar að auki má benda á, að Landsvirkjun væntir aukins vatnsrennslis næstu áratugina vegna hlýinda og meiri úrkomu. Aukið vatnsrennsli hefur þó ekki verið áberandi enn þá.
Landsvirkjun óskar eftir að fá að stækka 3 virkjanir án umhverfismats, Hrauneyjar, Sigöldu og Vatnsfell, um 210 MW (47 % aukning) og býst við að fá út úr því aðeins um 34 GWh/ár (1,3 % aukning). Þessi litla aukning orkuvinnslugetu sýnir, hversu fáránleg þau rök fyrir raforkuútflutningi um sæstreng héðan voru, að þessi útflutningur gerði kleift að nýta allt vatn, sem að virkjununum (Þórisvatni) bærist. Á það var bent á þessu vefsetri, að þessi aukning væri allt of lítil til að geta staðið undir viðskiptum um sæstreng. Þá var reyndar hugmynd Landsvirkjunar að nota aflaukninguna til að selja afl til útlanda á háálagstímanum og flytja inn orku á lágálagstíma. Þetta afl er svo lítið á erlendan mælikvarða, að hæpið er, að nokkur áhugi sé á slíkum viðskiptum og áfram hæpið, að langur og dýr sæstrengur geti reynzt arðbær með svo lítilli notkun.
25.5.2022 | 11:11
Stríðið veldur hungursneyð
Árásarstríð Kremlarstjórnar á hendur Úkraínu hefur snúizt upp í niðurlægingu hennar og Rússahers. Þar með er ljóst, að zarinn er ekki í neinu, þegar hann gortar af sögulegum "mikilleik Rússlands". Hernaður Rússa í Úkraínu er ömurlegur og frammistaða þeirra hræðileg, bæði á vígvöllunum sjálfum og gagnvart almennum borgurum, sem þeir níðast á. Engu er líkara en villimannlegum hernaði forseta Rússlands á hendur fullvalda, lýðræðislegu menningarríki vestan Rússlands sé ætlað að valda sem mestu tjóni á nútímalegum innviðum Úkraínu og menningarverðmætum og drepa fjölda almennra borgara. Allar hliðar þessa hernaðar Rússlands eru viðbjóðslegar og óverjandi og sýna, að engin friðsamleg samskipti eru hugsanleg við hrokafull og grimm yfirvöld þessa ríkis. Herstjórn Rússa er í skötulíki, eins og hún hefur oftast verið í sögulegu ljósi, sbr Fyrri heimsstyrjöld, þegar Austurríksmenn og Þjóðverjar unnu hvern sigurinn á fætur öðrum, en alltaf sendi keisarinn nýtt herútboð, og nýliðunum var skipað á vígvöllinn og leiddir þar til slátrunar. Þetta endaði reyndar með stjórnarbyltingu.
Það er liður í hernaði Rússlands að loka fyrir aðgengi Úkraínu að Svartahafi fyrir útflutningsvörur sínar, aðallega landbúnaðrvörur. Rússar hafa goldið þetta dýru verði, því að Úkraínumönnum hefur tekizt að sökkva nokkrum rússneskum herskipum á Svartahafi, þótt þeir eigi engan flota sjálfir, þ.á.m. forystuskipi Svartahafsflotans, Moskvu, með tveimur eldflaugum. Rússar beita þessu lúalega bragði í því skyni að koma höggi á Úkraínu, sem verður af útflutningstekjum, og á Vesturlönd, bandamenn Úkraínumanna, sem verða fyrir barðinu á miklum verðhækkunum. Nú er Royal Navy hennar hátignar, Bretadrottningar, á leiðinni inn á Svarthahafið til að rjúfa þetta svívirðilega, rússneska hafnbann. Verður ruddinn að gjalti, þegar stór strákur kemur til að skakka leikinn ?
Upplýst hefur verið, að í heiminum séu nú aðeins til hveitibirgðir, sem endast til júlíloka 2022, og verð birgðanna mun væntanlega stöðugt hækka, þar til framboð eykst að nýju. Nokkrar þjóðir munu ekki hafa ráð á lífsnauðsynlegum lanbúnaðarvörum á núverandi verði, hvað þá sumarverðinu 2022, og verðinu 2023, og þar mun fjölga í hópi þeirra, sem verða hungursneyð að bráð, um tugi milljóna á ári vegna þessa viðurstyggilega stríðs. Rússnesku stríðsglæpamennirnir í Kreml hafa framkallað þennan vanda og neita að létta á honum með því að hleypa kornflutningum frá Úkraínu um Svartahaf. Þetta ábyrgðarlausa framferði Rússa sýnir, að núverandi yfirráð Rússa við Svartahafið eru óviðunandi. Hrekja verður rússneska herinn austur fyrir landamæri Úkraínu, eins og þau voru staðfest með Búdapest samkomulagi Rússa, Úkraínumanna, Bandaríkjamanna og Breta 1994.
Hveiti hækkaði um 53 % frá ársbyrjun 2022 til 15.05.2022, og 16.05.2022 hækkaði það um 6 %, þegar Indverjar tilkynntu um stöðvun útflutnings á því vegna hitabylgju, sem er líkleg til að skemma uppskeru ársins 2022. Rússland og Úkraínu hafa samtals selt um 28 % af hveitinu á heimsmarkaðinum og 29 % af byggi, 15 % af maís og 75 % af sólblómaolíunni. Þessir atburðir ættu að vekja framleiðendur og yfirvöld hérlendis upp til meðvitundar um þörfina á stóraukinni akuryrkju hérlendis vegna fæðuöryggis þjóðarinnar, en einnig er innlend framleiðsla ýmissa korntegunda nú orðin fyllilega samkeppnishæf í verði. Yfirvöld ættu að steinhætta að hvetja til og greiða fyrir moldarmokstur ofan í skurði, þar sem land hefur verið þurrkað upp, sem ýmist má nýta undir akuryrkju, skógrækt eða aðra ræktun, sem einnig bindur koltvíildi.
Starfsmenn Landbúnaðarháskólans eru vel meðvitaðir um stöðuna og hafa gert matvælaráðuneytinu viðvart. Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, ritaði umhugsunarverðan pistil á leiðarasíðu Morgunblaðsins 20.05.2022 undir fyrirsögninni:
"Eflum fæðuöryggi".
Hún endaði þannig:
"Í greinargerð með tillögunum [Landbúnaðarháskóla Íslands] er bent á, að innlend akuryrkja leggi aðeins til um 1 % af því korni, sem nýtt er á Íslandi. Það er óásættanlegur árangur, þegar það liggur fyrir, að hér er hægt að rækta korn, hvort sem er til manneldis eða til fóðurgerðar. Raunar var stunduð kornrækt á Íslandi um aldir, en vegna breytinga í atvinnuháttum varð hagkvæmara að flytja það eingöngu inn. Fyrir liggja skýrslur og stefnur um, að auka skuli akuryrkju. Til staðar eru rannsóknarinnviðir, þekking og reynsla bænda af því, hvernig eigi að rækta korn við norðlægar aðstæður. Það, sem þarf, er aðgerðaáætlun, sem virkjar þann kraft, sem ég tel, að búi í möguleikum akuryrkju. Greina þarf þá markaðsbresti, sem komið hafa í veg fyrir, að kornrækt eflist af sjálfu sér, þannig að á næstu árum fari af stað metnaðarfull uppbygging í akuryrkju á Íslandi. Að þessu verður unnið á komandi misserum. Þannig verði bleikir akrar stærri hluti af landslagi íslenzkra sveita."
Nú þarf aðgerðir, en ekki meiri skriffinnsku á þessu sviði, þ.e.a.s. bændur þurfa að brjóta nýtt land undir akuryrkju. Það er of seint núna að sá, en næsta vor þarf að gera það. Innflutningsverð hefur væntanlega í venjulegu árferði verið lægra en kostnaður hérlendis við akuryrkju og þreskingu o.fl, og þess vegna hefur innlend markaðshlutdeild verið jafnsáralítil og raun ber vitni um, en nú er það væntanlega breytt, ef fræin eru til reiðu.
Hins vegar kunna bændur að vera hikandi við að taka áhættuna, því að kornrækt getur vissulega brugðizt vegna tíðarfars, og þar þurfa stjórnvöld að stökkva inn á sviðið núna í nafni fæðuöryggis og veita tryggingar gegn mögulegu tjóni bænda og annarra aðila í þessu framleiðsluferli. Hvers vegna eru engar lausnir kynntar til sögunnar af hálfu ríkisins í þessu greinarkorni matvælaráðherrans ?
22.5.2022 | 12:09
Sleggjudómar stjórnarandstöðu hafa orðið henni til skammar
Lögmannsstofa hefur hrakið tilhæfulausar aðdróttanir nokkurra stjórnarandstöðuþingmanna og fjölmiðlunga um brot Bankasýslu ríkisins á jafnræðisreglu laga um sölu ríkiseigna. Þar með er botninn hruninn úr innantómu glamrinu, sem tröllreið Alþingi og fjölmiðlum, ekki sízt RÚV "okkar allra", þar sem reglur um óhlutdræga umfjöllun fréttaefnis voru þverbrotnar og glott við tönn um leið. Ósvífnin og faglegt metnaðarleysi fréttamanna reið ekki við einteyming. Skyldu þeir hafa gengið þannig fram, ef hvarflað hefði að þeim, að þessi ósvífni áróður þeirra mundi helzt verða vatn á myllu Framsóknarflokksins ? Enn einn afleikur vinstri slagsíðunnar ?
Þann 18. maí 2022 birtist í ViðskiptaMogganum frétt um skýrslu lögmannsþjónustu um málsmeðferð Bankasýslunnar undir fyrirsögninni:
"Salan í samræmi við jafnræðisreglu".
Fréttin hófst þannig:
"Ákvörðun Bankasýslu ríkisins um að takmarka þátttöku í útboði á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka við hæfa fjárfesta án viðbótar skilyrðis um lágmarkstilboð fól ekki í sér brot gegn jafnræðisreglu [í skilningi laga um sölu ríkiseigna - innsk. BJo]. Auk þess voru fullnægjandi ráðstafanir gerðar af hálfu Bankasýslunnar til að tryggja jafnt aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu.
Þetta er niðurstaða í lögfræðiáliti, sem Logos lögmannsþjónusta vann fyrir Bankasýsluna. ViðskiptaMoggi hefur álitið undir höndum."
Það er mikilsvert að fá þetta lögfræðiálit nú, því að það staðfestir, að lætin og moldviðrið fyrir kosningarnar út af þessari sölu voru farsi af ómerkilegustu gerð, þar sem þátttakendurnir hafa nú orðið að gjalti. Það verður fróðlegt að bera þetta lögfræðiálit saman við skýrslu Ríkisendurskoðunar. Niðurstaða Seðlabanka á líka eftir að birtast. Stjórnarandstaðan mun ekki ríða feitu hrossi frá þessari viðureign.
"Því hefur verið haldið fram í þjóðfélagsumræðu, m.a. af þingmönnum, að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu í útboðinu. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði m.a. í grein í Morgunblaðinu í byrjun maí [2022], að framkvæmd sölunnar hafi verið brot á jafnræðisreglu laga um sölumeðferð ríkis í fjármálafyrirtækjum. Aðrir þingmenn hafa talað á sambærilegum nótum, og vart þarf að rifja upp þá gagnrýni, sem varpað hefur verið fram í kjölfar sölunnar, en hún beinist annars vegar að Bankasýslunni og starfsaðferðum hennar við útboðið, en ekki síður að stjórnmálamönnum og þá sérstaklega Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsmálaráðherra."
Téður þingmaður, Helga Vala, mun vera lögfræðingur að mennt og svo er um fleiri, sem tjáð hafa sig digurbarkalega um þetta mál og fellt sleggjudóma. Þau hafa nú sýnt, að það er ekkert meira að marka þau um lögfræðileg álitaefna í pólitíkinni en hvern annan skussa á þingi eða á fjölmiðlunum. Fjöldi manns hefur gjaldfellt sig með sleggjudómum, en ráðherrann stendur keikur eftir með hreinan skjöld. Hann mismunaði engum, sem þýðir, að hann dró heldur ekki taum neins, eins og lágkúrulegir gagnrýnendur fullyrtu þó.
"Í beiðni Bankasýslunnar var Logos falið að svara þremur spurningum:
1) Hvort skilyrði um að takmarka þátttöku í útboðinu við hæfa fjárfesta án skilyrðis um lágmarkstilboð hafi falið í sér brot gegn jafnræðisreglu;
2) Hvort fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu Bankasýslu ríkisins til að tryggja aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu og
3) Hvort ákvörðun um að skerða að fullu tilboð tveggja fjárfesta hafi verið andstæð jafnræðisreglu.
Sem fyrr segir kemst Logos að þeirri niðurstöðu, að ákvörðun um að takmarka þátttöku í útboðinu við hæfa fjárfesta án viðbótar skilyrðis um lágmarkstilboð hafi ekki falið í sér brot gegn jafnræðisreglu. Þá telur Logos, að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu Bankasýslunnar til að tryggja jafnt aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu í lagalegu tilliti og að ákvörðun Bankasýslunnar um að skerða að fullu tilboð tveggja fjárfesta hafi stuðzt við málefnaleg sjónarmið og verið í samræmi við jafnræðisreglu."
Upphrópanir og dylgjur ýmissa þingmanna og fjölmiðlunga af ódýrari endanum falla þar með dauð og ómerk, því að líklegt má telja, að Ríkisendurskoðun verði sama sinnis. Eins og sést af niðurlagi fréttarinnar, sem birt er hér að neðan, falla svigurmæli sömu aðila í garð fjármála- og efnahagsráðherra sömuleiðis niður dauð og ómerk, og kemur það höfundi þessa vefpistils ekki á óvart, enda hefur verið borðleggjandi frá upphafi, að hér væri á ferðinni stormur í vatnsglasi að undirlagi manna lítilla sæva og lítilla sanda, sem ættu að skammast sín, ef þeir kynnu það:
"Þá er einnig farið yfir aðkomu fjármálaráðherra að málinu og ákvörðun um söluna að loknu útboði, og er það niðurstaða Logos, að það [hún] hafi verið í samræmi við stjórnsýslulög og góðar venjur."
Don Kíkóti Alþingis er ekki ánægður með þessa niðurstöðu, heldur sezt niður í fýlukasti og skrifar samhengislausan pistil í Moggann 19.05.2022 með fyrirsögn, sem sýnir, að hann heyrir bara í sjálfum sér:
"Að gelta og gjamma".
Björn Leví Gunnarsson skrifar m.a.:
"Já, það er áhugavert að vera kallaður hælbítur fyrir að finnast það ámælisvert, að enginn axli ábyrgð á þessum málum [sölu á 22,5 % hlut í Íslandsbanka - innsk. BJo]. Að vera sakaður um að dreifa áróðri fyrir að benda á spillinguna."
Þarna krystallast hundalógikk Píratans. Hann gefur sér fyrirfram, að um saknæmt athæfi sé að ræða, og rótar síðan og bölsótast eins og naut í flagi og heimtar, að þeir sem hann af fullkomnu dómgreindarleysi sínu er búinn að klína sök á, axli ábyrgð. Svona málflutningur eru ær og kýr þessa Pírata og fleiri á Alþingi og á fjölmiðlum, sem virðast aldrei hafa þroskazt upp fyrir sandkassastigið, með fullri virðingu fyrir því þroskaskeiði, sem er bæði skemmtilegt og gefandi, en verður ámáttlegt fyrir þá einstaklinga, sem festast í því.
19.5.2022 | 10:59
Orkan er orðin enn verðmætari
Eftir árás útþenslusinnaðra og fullkomlega glæpsamlegra yfirvalda Rússlands á Úkraínu 24. febrúar 2022 er Evrópa í stríðsástandi. Stríð Rússa við Úkraínumenn er nýlendustríð heimsvaldasinna gegn fullvalda lýðræðislegri menningarþjóð, sem er svo óheppin að búa við drottnunargjarna kúgara í austri. Viðurstyggilegar og níðangurslegar baráttuaðferðir rússneska hersins gagnvart almennum borgurum, íbúðabyggingum, skólum, sjúkrahúsum og fólki á ferðinni á götum úti hafa vakið slíkan viðbjóð, hneykslun og hatur á Rússum, að langur tími mun líða, þar til vestræn ríki munu geta hugsað sér að létta viðskiptaþvingunum af Rússum og að hefja við þá einhver vinsamleg samskipti að nýju. Það mun ekki gerast, á meðan mafíuforinginn og lygalaupurinn, Vladimir Putin, er við völd í Kreml.
Á meðan svo er, verður stöðugt dregið úr viðskiptum Vesturlanda við Rússa með gas og olíu, en kolakaupum mun að mestu vera þegar hætt. Þetta mun leiða til orkuskorts um sinn í Evrópusambandinu (ESB) og á Bretlandi, og í staðinn koma dýrari vörur, fluttar lengra að og jafnvel á öðru formi og miklu dýrara, eins og LNG, sem er kælt gas undir þrýstingi á vökvaformi. Þetta hleypir auðvitað raforkuverðinu enn upp og kyndir undir verðbólgu í viðskiptalöndum Íslands, og íslenzkar orkulindir og rafmagn verða af þessum sökum mjög verðmæt á næstu árum. Er eitthvað að gerast til að mæta aukinni spurn eftir orku á Íslandi ? Það er satt að segja ótrúlega lítið, enda hvílir ríkishrammurinn yfir þessum geira, og hann er lítt næmur á raunveruleg verðmæti, en veltir sér ótæpilega upp úr sýndarverðmætum (og sýndarmennsku).
Einangrun hins skammarlega og ósvífna Rússlands mun hafa áhrif á ýmsum öðrum sviðum viðskiptalífsins. Rússar hafa selt talsvert af fiski inn á evrópska markaði, og fiskverð er þegar tekið að hækka vegna minna framboðs. Svipaða sögu er að segja af málmframleiðslunni, enda er málmverð, þ.m.t. álverð og einnig járnblendi og kísilverð, nú í sögulegum hæðum. Allt styrkir þetta viðskiptajöfnuð Íslands og vegur upp á móti hækkun korns, matarolíu, fóðurs og flestra matvæla. Gengi EUR/ISK < 140, þ.e. styrkur ISK er nú svipaður og í ársbyrjun 2020, fyrir Kóf. Gengið mun enn styrkjast, eftir því sem orkuskiptunum vindur fram, en til þess að framfarir verði á þessu sviði og í atvinnulífinu almennt, sem um munar, þarf virkjanaleyfi fyrir allt að 20 TWh/ár næstu 3 áratugina.
Ýmsar þjóðir hafa nú ákveðið að slá 2 flugur í einu höggi, þ.e. að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og draga úr raforkuáhættu og raforkukostnaði sínum, með stórtækum áætlunum um að reisa kjarnorkuver. Bretar eru gott dæmi um þetta, en þar er nú ekkert rafmagn framleitt með kolaorku í fyrsta sinn í um 140 ár.
Auðvitað eru góðar hugmyndir uppi á Íslandi um aukna raforkuvinnslu, enda er engum blöðum að fletta um þörfina og fjárhagslega ávinninginn af því, en ríkisvaldið hefur lagt sinn lamandi hramm á framkvæmdaviljann. Það er hægt að finna öllum framkvæmdum, einkum utan þéttbýlis, eitthvað til foráttu, og ekki hefur skort úrtöluraddirnar á Íslandi, sem fyllast heilagri vandlætingu beturvitans, þegar að nýjum framkvæmdum á orkusviðinu kemur. Það er hins vegar beint samhengi á milli nútímalegs velferðarsamfélags og raforkunotkunar, og nægir þar að vísa til arðgreiðslna Landsvirkjunar til eiganda síns, ríkissjóðs, 15 mrdISK/ár, sem nægja til að standa straum af árlegri fjárfestingu ríkisins í nýjum Landsspítala við Hringbraut um þessar mundir.
Öfugt við það, sem skýjaglópar predika, er Íslendingum nauðsyn að nýta orkulindir sínar til að knýja atvinnulíf sitt, sívaxandi fjölda heimila og samgöngutæki sín. Þröngsýnispúkar í röðum núllvaxtarsinna setja samt á sig spekingssvip og kasta hnútum og innantómum frösum á borð við tugguna um, að náttúran verði að njóta vafans. Svar tæknigeirans er að kynna vandaðar lausnir, þar sem lágmörkunar inngrips í náttúruna m.v. afköst mannvirkjanna er gætt í hvívetna. Framkvæmdirnar má telja umhverfisvænar og afturhverfar að mestu eða öllu leyti.
Á meðal fórnarlamba ráðleysis hérlendra orkuyfirvalda eru Vestfirðingar. Þeir búa ekki við hringtengingu við landskerfið, og raforkuvinnslugeta þeirra er ófullnægjandi fyrir landshlutann. Þetta kemur sér sérlega illa núna á tímum grózkumikilla fjárfestinga í fiskeldi, sem hefur hleypt nýju blóði í Vestfirðinga í orðsins fyllstu merkingu. Það er algerlega óviðunandi, að ríkisvaldið með doða og sinnuleysi sínu komi í veg fyrir, að fjárfestar virki þar vatn og vind, ef heimamenn sjálfir telja virkjanatilhögun ásættanlega. Þar þarf að láta hendur standa fram úr ermum að settum skynsamlegum og sanngjörnum skilyrðum ríkisvaldsins.
Í Morgunblaðinu 11. apríl 2022 var frétt undir fyrirsögninni:
"Kallað eftir stórri virkjun vestra".
Hún hófst þannig:
"Starfshópur um orkumál á Vestfjörðum telur heppilegt að stefna að því, að raforkukerfi fjórðungsins verði byggt upp að lágmarki með einni öflugri virkjun á vestfirzkan mælikvarða, 20-50 MW að afl[getu]. Einnig verði byggðar fleiri minni virkjanir. Telur hópurinn, að setja mætti það markmið, að búið yrði að byggja virkjanir með a.m.k. 40 MW afl[getu] fyrir árið 2030.
Vestfirðir hafa setið eftir varðandi afhendingaröryggi raforku, og vitnar starfshópurinn til orkustefnu [ríkisins-innsk. BJo] með, að hann eigi að njóta forgangs um úrbætur. Að mati hópsins verður markmiðið að vera það að ná hið minnsta sambærilegu [orku]afhendingaröryggi og stjórnvöld hafa sett sem viðmið fyrir landið í heild."
Undir þetta allt skal taka. Nú er afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum allsendis ófullnægjandi. Það stafar af því, að tenging landshlutans er á einum geisla (132 kV) frá stofnrafkerfi landsins og að innan Vestfjarða skortir 60 kV hringtengingu flutningskerfisins í jörðu.
Að öllu virtu, þ.e. gæðum rafmagns (spennu- og tíðnistöðugleiki, árlegur roftími hjá notendum), umhverfisinngripum og kostnaði (að meðreiknuðum kostnaði óafhentrar orku til notenda)), hefur starfshópurinn mjög sennilega rétt fyrir sér um, að bezta lausnin á orkuvanda Vestfjarða sé, að um 2030 hafi bætzt a.m.k. 40 MW aflgeta við virkjanir svæðisins og á tímabilinu 2022-2030 fari allt raforkuflutnings- og dreifikerfi landshlutans í jörðu, nema 132 kV Vestfjarðalínan frá Glerárskógum. Hún verði áfram eina flutningskerfistengingin við landskerfið. Jafnframt verði hafizt handa við hringtengingu flutningskerfisins innan Vestfjarða. Með þessu móti verður landshlutinn sjálfum sér nógur með rafmagn, nema í bilunartilvikum og e.t.v. í þurrkaárum, en getur selt raforku inn á landskerfið, þegar vel árar í vatnsbúskapnum þar.
Útflutningsverðmæti Vestfjarða frá fiskeldi, fiskveiðum og -vinnslu, ferðaþjónustu o.fl., munu aukast mikið á næstu 15 árum og gætu numið 200 mrdISK/ár eftir 10-20 ár, ef innviðir, sem eru á höndum ríkisins, eins og flutningskerfi rafmagns og vöru og þjónustu (Landsnet, Vegagerðin ásamt leyfisveitingaferli ríkisins fyrir framkvæmdir) hamlar ekki þróun byggðarlagsins, sem þegar er hafin. Ætlar ríkisvaldið að verða dragbítur mikilvægrar byggðaþróunar ? Nú reynir á ráðherra.
Lok fréttarinnar voru þannig:
"Tvær stórar virkjanir á vestfirzkan mælikvarða eru í undirbúningi í landshlutanum, Hvalárvirkjun á Ströndum og Austurgilsvirkjun í Ísafjarðardjúpi. Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki í núgildandi rammaáætlun og Austurgilsvirkjun er í tillögum 3. áfanga rammaáætlunar, sem er til umfjöllunar á Alþingi. Þá er EM orka langt komin með undirbúningsvinnu við vindorkuver í Garpsdal í Gilsfirði. Það er í nýtingarflokki í drögum verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar.
Í tillögum starfshópsins er þó lögð áherzla á Vatnsfjarðarvirkjun, sem Orkubú Vestfjarða hefur verið að skoða. Til þess að hægt sé að ýta hugmyndinni inn í umfjöllun í rammaáætlun þarf að lyfta friðlýsingarskilmálum Friðlandsins í Vatnsfirði, og leggur starfshópurinn til, að umhverfisráðherra skoði það. Einnig leggur hópurinn til, að virkjað verði í Steingrímsfirði, eins og Orkubúið hefur verið með til athugunar."
Hér stendur upp á ríkisvaldið, Alþingi og yfirvöld orkumála. Nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum. Sérstaklega þarf að huga að þessum virkjunarkosti í Vatnsfirði og athuga, hvort væntanleg virkjunartilhögun þar fellur nægilega vel að umhverfinu og hefur nægilega lítið rask í för með sér á framkvæmdaskeiðinu, til að laga megi friðunarskilmála svæðisins að nýrri virkjun þar. Íbúar Vestfjarða ættu að eiga síðasta orðið um slíkar breytingar.
Það er ekki sami hugurinn í Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Orkubúi Vestfjarða (OV) til orkuöflunar, en hjá OR er sú skoðun við lýði, að engin þörf sé á nýrri orkuöflun. Þetta kom fram í frétt í Morgunblaðinu 7. apríl 2022 undir fyrirsögninni:
"Engar nýjar virkjanir í farvatninu".
Hún hófst þannig:
""Það eru engar stórar virkjanir á borðinu hjá okkur", segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, sem var staddur í stórhríð á Fjarðarheiði á leið til Seyðisfjarðar. Á borgarstjórnarfundi á þriðjudag var samþykkt að vísa tillögu Eyþórs Arnalds, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um, að Orkuveitunni verði falið að skoða virkjunarmöguleika á starfssvæði OR til stjórnar OR. Eyþór Arnalds er í stjórn OR og benti á í tillögunni, að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar hafi markmiði um jarðefnaeldsneytislaust Ísland verið flýtt til 2040."
Það er til vitnis um doðann innan OR, að þar á bæ skuli ekki einu sinni vera fyrir hendi vitneskja um "virkjunarmöguleika á starfssvæði OR". Fyrirtækið er greinilega ekki að spila með ríkinu við að auðvelda landsmönnum að losa sig undan klafa jarðefnaeldsneytisins. Síðan lætur forstjórinn í veðri vaka, að bætt nýting aflaðrar orku geti komið í stað öflun nýrrar orku, sem er rangt. Bætt nýting er góð og gild, en vegur lítið í heildina:
""Það er ekki stefna Orkuveitunnar að virkja mikið, en við fylgjum fullnýtingarstefnu og viljum nýta betur þá orku, sem kemur frá gufu og heitu vatni. Við eigum möguleika á að nýta betur, það sem við tökum upp, t.d. í Hverahlíð, þar sem er mikið og öflugt háhitasvæði, sem við nýtum í Hellisheiðarvirkjun. Við leiðum gufuna þaðan rúmlega 5 km, og það mætti hugsanlega byggja þar 15 MW virkjun til að fullnýta þá gufu og aðra sams konar á Nesjavöllum", segir Bjarni og bætir við, að það væri þá verið að auka rafmagnsvinnslu, en ekki að virkja."
Þessi flutningur á gufu úr Hverahlíð til Hellisheiðarvirkjunar var björgunarráðstöfun gagnvart niðurdrætti í gufuforðabúri Hellisheiðarvirkjunar vegna ofnýtingar gufuforðans (meira tekið en inn streymdi). Þessi tregða forstjórans við að virkja ný gufuforðabúr er áhættusöm, því að hún getur leitt til vandræða (afl- og orkuskorts), ef aðstæður breytast í virkjuðu gufuforðabúri, svo að það verði ofnýtt, eins og reyndin var með Hellisheiðarvirkjun.
16.5.2022 | 11:24
Votlendisvitleysan
Loftslagsstefna stjórnvalda er botnlaust fúafen, á meðan stjórnvöld hafa jafnóskýra stefnu í virkjunarmálum og reyndin er. Orkufyrirtækin treysta sér ekki til að semja við nýja viðskiptavini eða gamla um viðbótar forgangsorku, sem nokkru nemi. Sú staða bendir til, að aflgeta kerfisins sé fullnýtt, þegar tekið er tillit til nauðsynlegs reiðuafls og varaafls, sem jafnan verður að vera fyrir hendi í kerfinu til að hindra of mikið spennu- og tíðnifall eða beinlínis skort, ef óvænt atvik verða.
Samt er engin ný virkjun á döfinni yfir 10 MW. HS Orka vinnur að bættri nýtingu, sem gæti aukið afl til ráðstöfunar á næstunni um u.þ.b. 35 MW. Hér verður engin græn orkubylting, eins og stjórnvöld dreymir um, án verulegra nýrra virkjana. Með aðgerðaleysi stjórnvalda í virkjunarmálum og "rammaáætlanir" stjórnar og þings í tómarúmi mun raforkuskortur í landinu hamla hagvexti og orkuskiptum.
Einn þátturinn í "loftslagsstefnu" stjórnvalda er reistur á mjög ótraustum þekkingarlegum grunni, eins og rannsóknir íslenzkra vísindamanna eru nú að leiða í ljós. Þessi þáttur er "endurheimt votlendis" með því að moka ofan í skurði. Þessi aðgerð er aðallega kostuð af ríkissjóði á vegum s.k. Votlendissjóðs. Rökin eru gripin úr lausu lofti, þ.e. frá búrókrötum IPCC (International Panel on Climate Change-undirstofnun Sameinuðu þjóðanna).
Notaðir eru stuðlar frá IPCC til að reikna út minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda við "endurheimt votlendis" án þess að sannreyna þá við íslenzkar aðstæður. Þegar vísindamenn taka nú til við mælingar sínar á bindingu og losun CO2-jafngilda hérlendis, komast þeir að allt annarri niðurstöðu, sem gerir að verkum, að þegar í stað ætti að stöðva fjárútlát úr opinberum sjóðum til þessa flausturslega verkefnis.
Í nýlegri skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands, "Langtímatap kolefnis í framræstu landi" er gerð grein fyrir áfanga í rannsóknum hérlendis á losun úr þurrkuðum mýrum, en miklu fleiri mælingar þarf til að fá heildarmynd af þessari losun fyrir landið allt að teknu tilliti til aldurs skurðanna og frágangs ofanímokstursins. Bændablaðið gerði rækilega grein fyrir þessum tíðindum 7. apríl 2022, og er hér stuðzt við þá umfjöllun:
"Í rannsóknum, sem gerðar voru bæði á framræstu og óröskuðu landi, má greina, að áhrif gosösku í jarðvegi eru umtalsverð á kolefnisbindingu, rotnun og gaslosun. Lofthiti er einnig veigamikill þáttur. Þar kemur líka fram, að "engar losunarrannsóknir hafa verið gerðar á framræstu akurlendi (þ.m.t. framræstum túnum) hér á landi". Samt hafa stjórnvöld og aðrir sett ítrekað fram hástemmdar fullyrðingar um losun á framræstu landi á Íslandi, og byggja þær tölur alfarið á erlendum stuðlum IPCC."
Samkvæmt IPCC losar framræst land mólendis 20,9 t/ha CO2 og 29,0 t/ha túns og akurlendis. Samkvæmt Umhverfisstofnun nam heildarlosun á ábyrgð ríkisstjórnar Íslands og samkvæmt viðskiptakerfi ESB árið 2019 4,7 Mt CO2eq og frá landi 9,1 Mt CO2eq, þar af 8,4 Mt CO2eq frá framræstum mýrum. Þessi háa tala er aðalástæða þess, að stjórnvöld hafa fallizt á að veita fé til að moka ofan í skurði. Fullyrða má, að hún er allt of há, þótt ekki sé unnt enn þá að setja fram áreiðanlega meðaltölu fyrir landið allt.
Núverandi niðurstöður íslenzkra vísindamanna sýna, að losun úr framræstu ræktarlandi sé 3 t/ha CO2 í samanburði við 29,0 t/ha CO2 hjá IPCC. IPCC-stuðullinn er 7 sinnum hærri en sá íslenzki fyrir mólendi, þannig að leiðrétta þarf tölur Umhverfisstofnunar með margföldunarstuðlinum 0,14, þ.e. losun frá þurrkuðu landi gæti verið nálægt 1,2 Mt CO2/ár í stað 8,4 Mt CO2/ár. Mismunurinn er 7,2 Mt CO2/ár, sem er yfir 50 % meira en öll losun Íslands, sem telja á fram samkvæmt Parísarsamkomulaginu 2015.
Með flaustri hafa landbætur á vegum landbúnaðarins verið settar í slæmt ljós í umhverfislegu tilliti, nánast settar í skammarkrókinn. Það er líklegt, að umhverfislegur ávinningur af endurheimt votlendis sé hverfandi og jafnvel neikvæður, því að eftir er að draga frá losun endurmyndaðs votlendis. Þar er um að ræða meira CH4 (metan) á flatareiningu en frá þurrlendinu, en CH4 er um 25 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2 fyrstu 3 áratugina í andrúmsloftinu (tekur efnabreytingum með tímanum). Svona fer fyrir loftslagsstefnunni, þegar blindur leiðir haltan og sýndarmennskan ræður för.
Sýndarmennska fallins borgarstjórnarmeirihluta reið húsum í kosningabaráttunni. Það var m.a. talið "borgarlínu" til gildis, að hún mundi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þessu er þó alveg öfugt farið. Hvað halda menn, að upprif gatna og endurmalbikun muni valda mikilli losun CO2 eða að tafir bílaumferðar muni valda mikilli losun. Bílaflotinn er á leið til rafvæðingar, svo að það er ekki hægt að telja ímyndaða minnkun aksturs fjölskyldnubíls borgarlínunni til tekna í loftslagsbókhaldinu.
Afturhaldið í borginni hefur misbeitt skipulagsvaldi sínu til að tefja mjög fyrir Sundabraut og gösslaðist áfram með Vogahverfið í veg fyrir Sundabraut, en gleymdi að byggja skóla í hverfinu í flaustrinu. Afturhaldið ímyndar sér, að Sundabraut auki losun gróðurhúsalofttegunda, af því að hún "fjölgi" bílum. Sannleikurinn er sá, að orkunotkun umferðarinnar mun minnka umtalsvert vegna styttingar akstursvegalengda og greiðara umferðarflæðis. Stjórnendur Reykjavíkur hafa vaðið áfram í villu og svíma ímyndana, sem falla að hugmyndafræði kratanna og vinglanna, sem með þeim hafa hangið við völd.
13.5.2022 | 11:22
Geðshræring, þegar yfirvegunar er þörf
Ótrúlegu moldviðri hefur verið þyrlað upp vegna sölu á 22,5 % eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Þar eru lítilsigldir stjórnmálamenn að fiska í gruggugu vatni í ljósi sveitarstjórnarkosninganna 14. maí 2022, og ofan á bætist innbyrðis ómerkingakeppni þeirra um athygli og vegsemd innan eigin stjórnmálaflokka. Þetta er frumhlaup stjórnarandstöðunnar í ljósi þess, að Seðlabankinn og Ríkisendurskoðun eru með undirbúning og söluferlið sjálft til skoðunar. Ófáir gagnrýnendanna hefðu notað hvaða fjöður, sem þeir komust yfir, til að búa til 10 hænsni, svo að úthúða mætti þeim gjörningi per se að selja ríkiseignir. Forstokkaðir sameignarsinnar eru ófærir um að draga rökréttar ályktanir af atburðum, gömlum og nýjum, sem sýna glögglega, að binding á ríkisfé í banka í miklum mæli er engu þjóðfélagi til heilla, enda er slíkt yfirleitt ekki tíðkað.
Kolbrúnu Bergþórsdóttur blöskrar framganga stjórnarandstöðunnar í þessu bankasölumáli, enda í raun ótímabær, þar til málið hefur verið krufið til mergjar af til þess settum aðilum. Skýring á þessari hegðun gæti verið tilraun til að draga athygli kjósenda frá gjörsamlega óboðlegum kreddum meirihluta borgarstjórnar, sem hafa valdið stórvandræðum á húsnæðismarkaðnum og fullkominni stöðnun í umferðarmálum, sem auðvitað jafngildir afturför. Gatnakerfi Reykjavíkur er með öllu óboðlegt fyrir þá umferð, sem það þarf að þjóna, það er tæknilega aftarlega á merinni og býður hættunni heim með frumstæðum gatnamótum. Hugmyndafræði meirihluta borgarstjórnar um að fækka bílunum með ofurstrætó á miðju vegstæði eru andvana fæddar skýjaglópahugmyndir. Ofan á þessa hörmung bætist óstjórn fjármála og leynibrall borgarstjóra með "útrásarvíkingi", sem nú er stærsti hluthafi Skeljungs.
Kolbrún ritaði forystugrein Fréttablaðsins 6. maí 2022, sem hún nefndi því lýsandi nafni:
"Vanstilling".
Forystugreinin hófst þannig:
"Það er örugglega ekki vinsæll þankagangur nú um stundir, en samt skal spurt, hvort æsingurinn vegna sölunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka sé ekki fullmikill ? [Þetta mætti Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingar, hugleiða sérstaklega, en hún hefur flestum öðrum átt auðveldan leik við ávöxtun hlutabréfa, sem henni hafa áskotnazt á sérkjörum sem starfsmaður í banka - innsk. BJo.]
Djöfulgangur stjórnarandstöðunnar er skiljanlegur, þótt erfitt sé að hafa þolinmæði með honum. Stjórnarandstaðan þráir ekkert meir en að fella ríkisstjórnina og virðist tilbúin að grípa til hvaða ráða sem er til að það markmið náist. Um leið verða ýkjur, gífuryrði og útúrsnúningar sjálfsagður hluti af málflutninginum. Einmitt þetta gerir stjórnarandstöðuna ótrúverðuga í þessu ákveðna máli, eins og reyndar ýmsum öðrum.
Vissulega blasir við, að í Íslandsbankamálinu var sumu klúðrað. Það jafngildir hins vegar ekki siðleysi, spillingu og svikum við þjóðina, þótt fjölmargir haldi því fram. Það hentar stjórnarandstöðunni t.d. afskaplega vel að nota sem sterkust orð um söluna og sá fræjum tortryggni [á] meðal almennings.
Í mótmælum á Austurvelli sjást margir þeir, sem höfðu sig hvað mest í frammi í skrílslátum á þessum stað eftir bankahrun ["the usual suspects"-innsk. BJo]. Það hvarflar jafnvel að manni, að þetta fólk sakni tímans, þegar það gat æpt sem hæst og barið í potta og pönnur, og sé nú að reyna að endurskapa hann. Þótt slatti af fólki sé á Austurvelli, þá eru mótmælin nú ekki verulega fjölmenn. Það hljóta að vera umtalsverð vonbrigði fyrir æsingafólkið."
Þessi mótmæli í hlaðvarpa Hallveigar og Ingólfs eru óttalega hvimleið og skilja ekkert annað eftir sig en svigurmæli og annan sóðaskap. Þetta fólk hefur lítið fyrir stafni, úr því að það finnur sér ekkert annað til dundurs en að misþyrma vikulega þessum hlaðvarpa fyrstu skrásettu landnámshjónanna á Íslandi og verða til almennra leiðinda með ópum og skrækjum. Það ætti að finna sér einangrað rými og fá þar útrás með því að syngja "Nallann" nokkrum sinnum. Boðskapurinn er enginn, nema almenn samfélagsleg vonbrigði.
Lok þessarar forystugreinar Kolbrúnar voru þannig:
"Spyrja má, hvort það hafi ekki alltaf legið fyrir, að þetta fólk færi upp á háa c-ið, hvernig sem hefði verið staðið að sölu Íslandsbanka. Það hefði ætíð þefað uppi tækifæri til að öskra uppáhaldsorð sín: Spilling ! Vanhæf ríkisstjórn ! [meinar líklega "óhæf ríkisstjórn" !?-innsk. BJo]. Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að fara ofan í saumana á sölu Íslandsbanka, en þeir, sem fá það hlutverk, verða að búa yfir yfirvegun, en ekki lifa í stöðugri vanstillingu."
Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa opinberað vangetu sína (óhæfni) til að taka við upplýsingum og vinna úr þeim, en það er grundvallar atriði fyrir þingmenn að ráða við þetta. Þeir hafa eftir söluna komið eða þótzt koma af fjöllum um aðferðina, sem beitt var, en formaður og forstjóri Bankasýslunnar voru þó búnir að gera þingnefndum ítarlega grein fyrir aðgerðinni og þingmenn ekki gert athugasemdir, nema til að gera sölu ríkiseigna yfirleitt tortryggilega. Morgunblaðið gerði grein fyrir þessu 7. maí 2022 undir fyrirsögninni:
"Fengu kynningu á tilboðsleiðinni".
Fréttin hófst þannig:
"Á fundum með fjárlaganefnd Alþingis 21. febrúar [2022] og með efnahags- og viðskiptanefnd þremur dögum síðar kynntu fulltrúar Bankasýslu ríkisins með ítarlegum hætti, hvaða leið stofnunin legði til við við sölu á frekari hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þar var helzt lagt til, það sem kallað er "tilboðsfyrirkomulag", sem var sú leið, sem farin var í útboðinu 22. marz [2022], þegar ríkið seldi 22,5 % hlut í bankanum fyrir um mrdISK 53."
Það er þess vegna helber hræsni stjórnarandstöðunnar á Alþingi, að sú leið, sem farin var, hafi komið þinginu í opna skjöldu. Að einhverju leyti kann sofandaháttur og misskilningur þingmanna að hafa ráðið för, en árásir á ríkisstjórnina í kjölfar útboðsins bera aðeins vitni ómerkilegri tækifærismennsku. Í sumum tilvikum notuðu sameignarsinnar tækifærið til að koma höggi á ríkisstjórnina fyrir yfirleitt að dirfast að koma eigum ríkisins í verð í stað þess að liggja aðgerðalitlar og með talsverðri áhættu sem eigið fé banka. Engum rekstri hentar ríkiseign og ríkisafskipti, og bankastarfsemi er þar engin undantakning.
"Eins og fram kom í úttekt ViðskiptaMogga, fór mikil umræða fram um málið á fundum nefndanna, en enginn nefndarmaður gerði þó efnislega athugasemd við þá leið, sem farin var, þ.e. tilboðsfyrirkomulagið. Þá var heldur ekki gerður fyrirvari um það, hverjir mættu eða mættu ekki fjárfesta í útboðinu.
Í fyrrnefndum glærum kemur fram, að bankasýslan leggi til tilboðsfyrirkomulag í þeim tilgangi að fá sem hæst verð fyrir eignarhlutinn með sem minnstum tilkostnaði. Þótt deilt hafi verið um fyrirkomulagið eftir á, þá gekk þetta markmið eftir."
(Undirstr. BJo) Þar sem söluferlið var með blessun Alþingis og megináformin gengu eftir, er engin málefnaleg ástæða fyrir þingmenn að hneykslast á ferlinu eftir og því síður er ástæða fyrir þingið að haga sér, eins og himinninn hafi hrunið, og að þingið þurfi strax að skipa "óháða" rannsóknarnefnd með öllum þeim tilkostnaði. Rétt bærir eftirlitsaðilar ríkisins fara nú yfir þessa hnökra. Geðshræring þingmanna og vanstilling hefur smitað út frá sér. Fullyrðingar loddara í þeirra röðum um, að fjármála- og efnahagsráðherra hafi átt að hindra föður sinn í að neyta réttar síns til viðskipta í þessu tilviki eru svo ósvífnar og heimskulegar, að engu lagi er líkt. Bankasýslan upplýsti engan um viðskiptamenn á meðan á viðskiptunum stóð og taldi sig ekki einu sinni mega upplýsa ráðuneytið eftir á. Ráðherrann sjálfur skarst þá í leikinn, fékk skrá um kaupendur og opinberaði hana umsvifalaust. Hvernig getur nokkur verið svo skyni skroppinn, að kaup þessa ættmennis ráðherrans hafi farið fram með vitund hans og vilja ? Uppþotið væri of dýru verði keypt. Upphæðin var lág, en öllum mátti vera ljóst, að það er fátt og lítið, sem hundstungan finnur ekki.
11.5.2022 | 10:30
Stríð valda verðbólgu
Framleiðsla Úkraínu hefur lamazt vegna nýlendustríðs Rússa, sem telja sig eiga tilkall til þessa auðuga lands af náttúrunnar hálfu, þvert á alþjóðalög, en Úkraína er fullvalda ríki, og íbúarnir hafa einfaldlega fengið sig fullsadda af nýlendukúgurunum í austri og vilja ekkert frekar en reka þá af höndum sér út fyrir landamærin. Nýlendukúgarinn hefur augastað á fleiri fyrrverandi nýlendum sínum í Evrópu. Þetta er fornfálegt og óverjandi viðhorf á 21. öldinni, en minnir á stríð Breta við Bandaríkjamenn 1812, þegar Bretakóngur reyndi að endurheimta nýlendurnar með vopnavaldi.
Kínaforseti beitir tröllheimskulegum aðferðum við að fást við kórónaveiruna SARS-CoV-2, þ.e. lokunum heilla borgarhluta. Þetta tefur aðeins fyrir veirunni, en hún verður að hafa sinn gang, og staðan lagast ekkert fyrr en hjarðónæmi hefur verið náð, því að kínversku bóluefnin gefast ekkert betur en þau vestrænu frá Pfizer/BioNTech, Moderna og Astra Zeneca. Allt er það húmbúkk til að græða á óttanum og örvæntingunni, sem í flestum tilvikum var jafnástæðulaus og ótti við inflúensu. Hún getur drepið, en dánarhlutfallið er lágt. Bezta mótvægisaðgerðin er að hlaða vítamínum inn í líkamann.
Efnahagslegar afleiðingar sóttvarnaaðgerða Kínaforseta, sem leitar endurkjörs á flokkþingi Kommúnistaflokksins í haust, eru svo slæmar, að hagvöxtur í Kína gæti hrapað niður í 0 árið 2022. Fyrir vikið er minni orkunotkun í Kína nú en undanfarin ár, sem dregur úr verðhækkunum jarðefnaeldsneytis.
Eldsneytisverðhækkanir knýja verðbólguna upp í methæðir, en þær eiga eftir að verða meiri. Nú hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) lagt til við ráðherraráð sambandsins að draga strax úr olíuinnflutningi frá Rússlandi og binda endi á hann fyrir árslok 2022 með fáeinum undantekningum (Ungverjaland o.fl.), en áður hefur kolainnflutningur verið bannaður þaðan. Þetta mun valda nýjum hækkunum á olíuvörum, ef samþykkt verður. Þýzkaland greiðir Rússlandi núna 116 MEUR/dag (tæplega 16 mrdISK/dag) fyrir vörur, sem er hærri upphæð en fyrir svívirðilega innrás Rússahers í Úkraínu. Þetta gerist þrátt fyrir víðtækt viðskiptabann. Eldsneytisverðhækkanir vegna stríðsins meira en vega upp á móti skerðingu eða afnámi annars innflutnings. Sú staða, sem Þýzkaland hefur komið sér í með sífelldu smjaðri og friðþægingu gagnvart útþenslusömum nýlendukúgara, er algerlega óviðunandi fyrir landið og bandamenn þess. Þýzkaland verður enn á ný að færa fórnir í stríði við Rússland. Nýbirtar upplýsingar þýzka stjórnarráðsins um afstöðu Kohls, kanzlara, og Genschers, utanríkisráðherra, bera vitni um skaðlegan undirlægjuhátt þýzkra stjórnvalda gagnvart rússneskum stjórnvöldum, þar sem þeir m.a. lögðust gegn því að samþykkja inntökubeiðni Eystrasaltsríkjanna í NATO. Þjóðverjarnir misreiknuðu Rússa herfilega. Friðsamlega sambúð við hina síðar nefndu er ekki unnt að reisa á viðskiptum, heldur einvörðungu fælingarmætti, sem felst í varnargetu. Það er rétt, sem Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, segir: ef Úkraínu hefði að eigin ósk verið hleypt inn í NATO 2008, þá væru ekki stórfelld hernaðarátök í Evrópu núna, og siðblindur, veruleikafirrtur einvaldur í Kreml hótandi kjarnorkuárásum, þar sem hvorki gengur né rekur hjá rotnum rússneskum her í Úkraínu.
Það er eðlilega víða meiri verðbólga en á Íslandi, því að hérlendis er aðeins um 15 % heildarorkunotkunar úr jarðefnaeldsneyti, en þetta hlutfall er víðast yfir 70 %. T.d. spáir Englandsbanki nú 10 % verðbólgu á Bretlandi í árslok 2022, en hún muni síðan fljótlega hjaðna. Bankinn hækkaði stýrivexti sína um þriðjung, úr 0,75 % í 1,00 %, um sama leyti og Seðlabanki Íslands hækkaði sína stýrivexti um rúmlega þriðjung, úr 2,75 % í 3,75 %. Til þess erum við með sjálfstæða mynt, að vaxtastigið dragi dám af efnahags- og atvinnuástandinu á Íslandi, en ekki t.d. af vegnu meðaltali á evrusvæðinu. Þar er verðbólga og atvinnuástand nú með mjög mismunandi hætti, og vaxtastig evrubankans í Frankfurt hlýtur að koma mörgum ESB-ríkjum illa. Verðbólgan er t.d. yfir 10 % í Hollandi, af því að vaxtastigið er allt of lágt m.v. efnahagsstöðuna þar, og Þjóðverjum, með sinn mikla sparnað, er ekki skemmt með háa neikvæða raunvexti í Þýzkalandi, af því að þýzk viðhorf til peningamálastjórnunar hljóta ekki brautargengi um þessar mundir í bankaráði evrubankans í Frankfurt, enda Frakki bankastjóri.
Morgunblaðið fjallaði um verðbólguna innanlands og utan í leiðara 5. maí 2022, sem hét:
"Verðbólga á uppleið".
Hann hófst þannig:
"Verðbólga er komin á kreik hér á landi og er einnig farin að láta á sér kræla í löndunum í kringum okkur, sums staðar, svo [að] um munar. Á Spáni [evruland] jaðrar verðbólgan við 10 %, og Pólverjar eru þar skammt frá. Verðbólga mældist í marz [2022] 8,5 % í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu 7,4 %. Ísland var þar rétt fyrir neðan með 6,7 %, en ekki má miklu muna. Reyndar mældist verðbólgan hér á landi 7,2 % í apríl [2022]."
Sá er munurinn á Íslandi og þessum upp töldu löndum og landsvæðum, að hagvöxturinn er hér þokkalegur og vaxandi, en kreppuhorfur víða annars staðar. Útflutningstekjurnar eru tiltölulega háar og líklega bæði hærri og meira vaxandi en innflutningskostnaður vegna metverðs á vörum málmiðnaðarins (stóriðju), hás fiskverðs (minna framboð vegna viðskiptabanns á Rússa) og útlits fyrir álíka marga erlenda ferðamenn og 2016, en þó betur borgandi (Asíubúa vantar að mestu). Viðskiptajöfnuður mun sennilega styrkjast á árinu, þrátt fyrir dýrari innflutning en áður og mikla ferðagleði Íslendinga erlendis (svipuð og rétt fyrir Kóf). Þess vegna mun gengið fremur styrkjast en hitt, sem hægir á verðbólgunni.
Það er hins vegar alveg bráðnauðsynlegt til að viðhalda samkeppnisstöðu Íslands, að verðbólgan hér sé ekki hærri en yfirleitt erlendis. Til þess verða allir að leggjast á eitt, og er þar verkalýðshreyfingin engin undantekning. Hún getur ekki spilað sóló. Orð formanns VR eftir stýrivaxtahækkun Seðlabankans í byrjun maí 2022 um, að hún væri stríðsyfirlýsing gegn verkalýðshreyfingunni, eru alveg eins og út úr kú, gjörsamlega óábyrg og órökstudd. Gera verður kröfu um, að verkalýðsleiðtogar setji sig vel inn í málin, kynni sér í þaula orsakir og afleiðingar verðbólgu og vaxta áður en þeir móta stefnuna í kjarasamningum og séu ekki bara eins og hverjir aðrir flautaþyrlar í pissukeppni um breiðastar yfirlýsingar og hæstu kröfugerðina. Slíkt er háskalegt, óábyrgt og heimskulegt framferði.
Áfram með leiðarann:
"En innri þrýstingur hefur einnig skapazt vegna ófremdarástands á húsnæðismarkaði. Húsnæði hefur hækkað jafnt og þétt í verði með tilheyrandi þrýstingi á vísitölu. Ein meginástæðan fyrir þessu ástandi er, hvernig húsnæðismál hafa verið látin reka á reiðanum í höfuðborginni. Þar annar framboðið engan veginn eftirspurninni, og þetta dáðleysi er beinlínis farið að hafa áhrif á þjóðarhag.
Tekizt hefur að halda verðbólgu í skefjum þrátt fyrir ástandið á húsnæðismarkaði, en nú, þegar ytri aðstæður hafa snúizt við, gætu þær reynzt æði dýrkeyptar."
Undirliggjandi skýring á dáðleysi meirihluta borgarstjórnar við að bregðast með raunhæfum hætti við fjölgun þjóðarinnar og brjóta nýtt land undir lóðir og gatnagerð er þráhyggjan við að þétta byggð meðfram fyrirhugaðri legu "þungu" borgarlínunnar. Þar er allt of fátt fólk búsett til að nokkur minnsti rekstrargrundvöllur geti orðið fyrir stórfjárfestingu af tagi "þungu" borgarlínunnar. Vonleysið verður algert, þegar í ljós kemur, að þéttingin dugar borgarlínunni ekki, þótt "þéttingin" verði svipt bílastæðum. Nú er áætlað minna en eitt bílastæði á íbúð þéttingarsvæða. Allt er þetta ráðabrugg kenjótts þráhyggjufólks fullkomlega óeðlilegt og stríðir gegn hagsmunum Reykvíkinga og landsmanna allra. Ríkið hefur yfrið nóg af öðrum hagkvæmari og nauðsynlegri samgönguverkefnum til að fjárfesta í en þetta og ætti alls ekki að taka þátt í fjármögnun þessa fráleita verkefnis.
"Hinar dökku verðbólguhorfur gefa einnig tilefni til þess að fara með gát, þegar kemur að næstu kjarasamningum. Þótt í síðustu tveimur samningum hafi tekizt að ná fram miklum kjarabótum og þær hafi haldið að mestu, er ekki þar með sagt, að komið sé fram nýtt lögmál um, að það sé ávallt hægt að hækka laun rækilega án þess að hækkunin hverfi í verðbólgu."
Þvergirðingar í forystu verkalýðshreyfingar láta eins og þeir geti stundað "business as usual" og þurfi ekki að draga saman seglin, þótt stríð geisi í Evrópu. Á þessum örlagatíma gengur ekki að láta kjánalega í kjarasamningum og gera landið ósamkeppnisfært í ferðageiranum og á erlendum vörumörkuðum. Þá mun atvinnuleysi bætast ofan á verðbólguvandræðin. Fíflagangur íslenzkra verkalýðsleiðtoga er einstæður á Norðurlöndunum og þótt víðar væri leitað. Þegar raunstýrivextir voru orðnir -4,5 %, æpti formaður VR að þjóðinni, að 1,0 % hækkun stýrivaxta væri stríðsyfirlýsing gegn verkalýðshreyfingunni og að aðrir seðlabankar væru ekki að hækka stýrivexti. Hvort tveggja var kolrangt, eins og æði margt hjá þessum manni, sem virðist hafa asklok fyrir himin.
Téðri forystugrein lauk þannig:
"Það er góðs viti, að verðbólga hér á landi sé enn undir meðaltali evrusvæðisins (og sýnir kannski enn akkinn af því að standa utan þess, þótt það sé önnur saga). Það er fyrir öllu, að svo verði áfram, og því þurfa allir að leggjast á árar til að freista þess að halda aftur af verðbólgunni eins og framast er unnt. Ógerningur er að hafa áhrif á þann þrýsting, sem kemur utan að, en það er mikið í húfi að sjá til þess, að þrýstingurinn inni í íslenzka hagkerfinu verði ekki til þess að bæta gráu ofan á svart."
Nú er stríð í Evrópu, og framvinda atburða getur orðið allt frá allsherjar tortímingu til friðsamlegra samskipta og enduruppbyggingar Úkraínu innan landamæra hennar, sem Rússar, Bandaríkjamenn og Bretar ábyrgðust með Búda-Pest-samkomulaginu 1994. Við þessar aðstæður láta verkalýðsleiðtogar í Evrópu hvergi eins og óð hænsni, nema á Íslandi, þótt verðbólgan sé þar hærri, orkuverðið óbærilega hátt og seðlabankar teknir að hækka stýrivextina. Hvers vegna ? Evrópskir verkalýðsleiðtogar stunda raunverulega hagsmunagæzlu fyrir sína skjólstæðinga og vita, hvað kemur þeim bezt, enda hafa þeir víða náð góðum árangri. Þar er ekki skylduaðild að verkalýðsfélögum, eins og í raun er hér. Ef launþegarnir fá ávæning af einhverjum pólitískum bægslagangi félagsleiðtoganna, þá segja þeir einfaldlega skilið við þessi félög. Íslenzkir verkalýðsleiðtogar hafa ekkert slíkt aðhald, og virðast sumir hverjir ekki hafa til að bera nægan þroska og ábyrgðartilfinningu til að fara með vald sitt, heldur eru komnir á bólakaf í pólitískan boðskap. Þetta er hrapallegt, því að þeir styðjast við mjög lítið fylgi í kosningum í sínar ábyrgðarstöður.
8.5.2022 | 10:14
Leðjuslagur þingmanna stjórnarandstöðu og ráðherra
Þingmönnum stjórnarandstöðu tókst í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga að ná nýjum lágpunkti í málefnafátækt, dylgjum og rangfærslum í umræðum um sölu Bankasýslunnar á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka. Bankasýsla ríkisins framkvæmdi þessa sölu, og armslengd fjármálaráðherra frá sölunni þýðir, að hann hafði engin áhrif á það, hvernig "hæfir fjárfestar" voru skilgreindir, eða hvaða tilboðum var tekið.
Stjórnarandstaðan virtist hins vegar telja, að hann hefði átt að rýna bjóðendalistann og vinza úr að eigin geðþótta. Það kemur heim og saman við spillt hugarfar þessarar stjórnarandstöðu og veikleika gagnvart afskiptum ráðherra af smáu og stóru. Þetta er auðvitað löngu úrelt viðhorf.
Einn ráðherrann varð skyndilega vitur eftir á og þóttist hafa lýst andstöðu fyrirfram við þessa útboðsleið, en enginn kannast við slíkt, hvorki í ríkisstjórn né í þingflokki Framsóknar. Hér er mikill draugagangur á ferð, enda kosningar á næsta leiti.
Björn Leví Gunnarsson, minnipokamaður og pírati, varð þinginu enn til skammar með göturæsislegu tali í þingnefnd. Téður minnipokamaður heldur, að hann sæki sér einhverja upphefð í því að láta eins og bjáni á Alþingi. Aðeins bjána getur dottið í hug að fara með staðlausa stafi í þingnefnd á borð við það, að ráðherra hafi lagt sig niður við að hafa milligöngu um, að Bankasýslan eða verktakar á hennar vegum seldi nánu skyldmenni hans hlut í bankanum. Hvorki söluráðgjafar né Bankasýslan höfðu heimild til að hafna viðskiptum á grundvelli ætternis, og Bankasýslunni var ekki heimilt að spyrja ráðherrann ráða í þessu sambandi vegna eðlilegrar armslengdar, sem á að ríkja á milli ráðherra og viðskiptanna. Þetta skilur ekki vænisjúkur Björn Leví, sem sér skrattann í hverju horni. Til þess er armslengdin (Bankasýslan), að ráðherra þurfi ekki að annast gjörninga, þar sem hægt er að efast um hæfi hans. Út af þessum heilaspuna stjórnarandstöðunnar er búið að þyrla upp miklu moldviðri, og rykið mun ekki setjast fyrr en eftir sveitarstjórnarkosningar 14.05.2022.
Dramadrottningar stjórnarandstöðunnar hefur þrástagazt á nauðsyn þess að skipa "óháða" rannsóknarnefnd Alþingis til að rannsaka þetta margtuggna söluferli. Það er augljóslega ótímabært að leggja út í þann mikla kostnað, úr því að Ríkisendurskoðun telur, að fenginni beiðni frá ráðherra, að rannsóknin sé á sínu verksviði. Þá tók Seðlabankinn frumkvæðisákvörðun um að fela Fjármálaeftirliti sínu að fara ofan í kjölinn á vinnubrögðum söluverktakanna, sem Bankasýslan fól verkið, og þóknuninni til þeirra. Það hefur verið látið, eins og þessir söluverktakar hafi handvalið kaupendur að eigin geðþótta, en það er auðvitað tóm vitleysa. Allir hæfir fagfjárfestar, án tillits til stærðar, gátu gert tilboð í hlut. Jafnræðis er talið gætt á milli kaup- og söluaðila, þegar fagfjárfestir gerir tilboð í eignarhlut. Einstaklingar eru þess vegna ekki fagfjárfestar. Hvers vegna átti að útiloka litla fagfjárfesta ? Í ljós kom, að þeir lyftu fremur verðinu upp en hitt. Það er misskilningur, að útboðið hafi átt að einskorða við "kjölfestufjárfesta". Þvert á móti var áherzla lögð á að trufla markaðinn sem minnst, og þess vegna voru engar hömlur lagðar á endursölu keypts hlutar.
Stærstir voru íslenzku lífeyrissjóðirnir. Þeir kröfðust afsláttar, líklega magnafsláttar. Hversu heilbrigt er það, að lífeyrissjóðirnir eigi stóran hlut í bankanum ? Þeir eru nú þegar ráðandi í stjórnum ýmissa fyrirtækja, sem eru í viðskiptum við bankann, þ.e.a.s. þeir munu sitja beggja vegna borðs.
Flestir telja þó, að gott verð hafi fengizt fyrir bankann. Undantekning eru þeir, sem alls ekki vilja selja hluti ríkisins í bönkunum, þ.e. ríkisafskiptasinnar (aðallega sameignarsinnar). Halda menn, að það auki samkeppni og rekstrarhagkvæmni bankakerfisins hérlendis, að ríkissjóður eigi meirihlutann í tveimur af þremur stærstu fjármálastofnunum á markaði hérlendis ? Erlendis er ríkisrekstur meginhluta fjármálakerfisins hvorki talinn þjóna hagsmunum neytenda né skattborgara (að mestu sniðmengi). Hvers vegna ætti annað að gilda hérlendis ?
Eftir útboðið kynti ráðherrann Lilja Dögg Alfreðsdóttir undir æsing stjórnarandstöðunnar með því að halda því fram, að hún hafi verið andvíg því að fara að ráði Bankasýslu ríkisins um þá aðferð, sem var viðhöfð. Til hvers í ósköpunum var hún að þessu ? Hún sat í ráðherranefnd með forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, sem undirbjó verkið. Hinir ráðherrarnir í nefndinni kannast ekki við slíka gagnrýni Lilju þar. Hún er því í ógöngum og gróf sína holu enn dýpri með því síðar að halda því fram, að hinir ráðherrarnir hefðu líka haft sínar efasemdir.
Hvernig brást fjármála- og efnahagsráðherra við þessum flóttalegu ummælum á opnum fundi fjárlaganefndar Alþingis 29.04.2022 ? Morgunblaðið skýrir frá því daginn eftir undir fyrirsögninni:
"Þráspurðu Bjarna um útboðið".
Þar gat eftirfarandi að líta undir undirfyrirsögninni "Kannast ekki við efasemdirnar":
"Þá þótti einnig eftirtektarvert, þegar fjármálaráðherra sagðist ekki kannast við að hafa haft miklar efasemdir í ráðherranefnd gagnvart útfærslu sölunnar, þegar Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Pírata, spurði hann út í það.
Daginn áður hafði Lilja Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra, sagt á Alþingi, að forsætisráðherra og fjármálaráðherra hefðu deilt áhyggjum, sem hún hafði áður greint frá í ráðherranefnd, sem vörðuðu aðferðafræðina, sem varð ofan á við söluna á bréfum í bankanum.
Að sögn Bjarna fór fram umræða um kosti og galla sölunnar, og fannst honum ekki lýsandi að talað væri um efasemdir.
Þegar Þorbjörg spurði, hvort Lilja hefði verið að fara með rangt mál daginn áður, sagði Bjarni, að hann teldi Lilju ekki hafa verið að viðra lagalegar áhyggjur, heldur pólitískar áhyggjur af því, hvernig menn geti viðhaldið góðum stuðningi meðal þjóðarinnar eftir því, hvaða leið væri farin."
Spyrja má, hvað viðskipta- og menningarmálaráðherra gangi til með því að skálda upp eigin mótbárur við þá söluaðferð á ríkiseign í Íslandsbanka, sem Bankasýslan lagði til, 2 nefndir Alþingis lögðu blessun sína yfir og ríkisstjórnin samþykkti að lokum. Á Alþingi voru engar sérstakar efasemdaraddir um aðferðina sem slíka fyrr en eftir á, heldur kunnugleg gagnrýni sameignarsinna á sölu ríkiseigna yfirleitt. Síðan kórónar viðskipta- og menningarmálaráðherra vitleysuna með því að gera samnefndarmönnum sínum í viðkomandi undirbúningsnefnd sölunnar, forsætis- og fjármála- og efnahagsráðherra, upp, að þau hafi líka verið með böggum hildar út af þessari sölu. Þessi skrýtni ráðherra virðist vera algerlega úti á þekju og ekki gera sér grein fyrir þeim vandræðum, sem hún veldur ríkisstjórninni með þessari hegðun sinni, nema hún vilji hana feiga. Framsókn er jafnan söm við sig.
5.5.2022 | 10:16
Rotnir stjórnarhættir öfugmælaskálda borgarinnar
Sem bornum og barnfæddum Reykvíkingi, þótt annars staðar hafi nú búið í hálfa öld, rennur höfundi þessa pistils til rifja, hvernig komið er málefnum höfuðborgarinnar. Fjárhagur borgarinnar sígur stöðugt á ógæfuhlið vegna skuldasöfnunar til þess eins að halda útbólgnu borgarbákninu gangandi. Þegar greiða þarf af lánum vegna "þungu" borgarlínunnar og standa undir tapinu af rekstri hennar, mun borgarsjóður fyrirsjáanlega komast í þrot. Það verður greiðslufall hjá borgarsjóði, og Reykjavík verður að segja sig til sveitar.
Óráðsía í fjármálum endar alltaf með ósköpum. Hinn alræmdi braggi, þar sem borgin henti um hálfum milljarði ISK (mrdISK 0,5) út um gluggann til að fjölga veitingastöðum í Reykjavík, var að sjálfsögðu bara toppurinn á ísjakanum. Verkefnastjórnun borgarinnar er í skötulíki og fagmennskunni hefur hrakað undir stjórn Dags B. Eggertssonar. Dæmi er Gaja, gasgerðar- og jarðvegsgerð (moltuvinnsla) úr sorpi, kostaði rúmlega mrdISK 6,0 og fór langt fram úr kostnaðaráætlun, en gæði moltunnar eru allsendis ófullnægjandi vegna efnainnihalds, sem er yfir skaðlegum mörkum samkvæmt fjölþjóðlegum viðmiðunum. Svona fer, þegar kenjar óráðþægra og einstrengingslegra stjórnmálamanna eru látnar ráða ferðinni, en góð verkfræðileg þekking látin sigla sinn sjó. Í öllum verklegum framkvæmdum og skipulagsmálum, ekki sízt á sviði samgöngumála, er þetta alvarlegur löstur á stjórnarháttum borgarinnar.
Djúpstæð spilling á auðveldan leik, þegar fagmennskunni er ýtt purkunarlaust til hliðar af duttlungafullum stjórnmálamönnum, eins og þeim, sem skipa núverandi meirihluta borgarstjórnar. Í forystugrein Morgunblaðsins, 28. apríl 2022, var drepið á þetta undir fyrirsögninni:
"Hrópar á dagsljós".
Forystugreinin endaði þannig:
"Þessi grein þingmannsins [Ásthildur Lóa Þórsdóttir] úr Flokki fólksins er einkar athyglisverð. En ýmsum gæti þótt millikaflinn, sem ekki komst fyrir í svo stuttri grein, ekki vera síður merkilegur. Skeljungur var keyptur. Hluthöfum var skömmu síðar boðið að selja nýjum eigendum bréf á nokkru, en þó mjög varfærnu, yfirverði. Ýmsir lífeyrissjóðir héldu að sér höndum í þeim efnum, og nú er talað um, að "þeir hafi lokazt inni", eins og kallað er.
Nú virðist vera að koma smám saman í ljós, að stóri hluthafinn hafi staðið í miklu leynibralli við borgarstjórann í Reykjavík. Það brall hafi aldrei verið rætt uppi á borðum borgarstjórnar, sem sætir miklum tíðindum, ef rétt er. Ljóst er þó, að einhverjir úr hópi borgarfulltrúa hafa komið að málinu ásamt Degi B. Eggertssyni og hafa vitað meira um málið en aðrir borgarfulltrúar og hvað þá almenningur í borginni. Það verður varla hægt að kalla það annað en samsæri af hálfu borgarstjórans og þeirra, sem að brugginu standa, að láta eins og ekkert sé, á meðan borgarbúar eru plataðir að kjörborðinu.
Mikið hefur verið fundið að söluaðferðum á Íslandsbanka og virðist óneitanlega óhönduglega hafa verið haldið um sölu hans. En umrætt milljarðatugabrask undir handarjaðri borgarstjórans og söguhetjunnar í grein Ásthildar Lóu, þingmanns, virðist enn síður þola dagsljósið. Hlýtur að teljast með miklum ólíkindum, ef forráðamenn Kauphallarinnar standa ekki þegar í stað fyrir trúverðugri rannsókn á málinu og því, hvernig almennir hluthafar voru leyndir flestu af því, sem fram fór og kostaði þá fúlgur fjár, þótt mest af því sé mun dreifðara en hitt, sem verður eftir í höndum köldu karlanna." [Undirstr. BJo.]
Hér er stórmál á ferðinni, spillingarmál borgarstjórans í Reykjavík og flokks hans, Samfylkingarinnar, sem furðu gegnir, að ekki sé komið í hámæli í kosningabaráttunni í Reykjavík. Samfylkingin hefur undanfarnar vikur kastað reyksprengjum út af meintum ávirðingum í tengslum við sölu á um mrdISK 50 hlut ríkisins í Íslandsbanka. Nú er komið í ljós, að það var til að kæfa umræðuna um þeirra eigin hneyksli í Reykjavík fram yfir sveitarstjórnarkosningarnar.
Hvers vegna í ósköpunum er ekki hrópað á "óháða rannsóknarnefnd" til að fletta ofan af óboðlegum og óheiðarlegum vinnubrögðum borgarstjórans í Reykjavík, þar sem ráðabruggið snýst um tugmilljarða verðmæti í Reykjavík ? Hvers vegna hrópar ekki útibú Samfylkingarinnar, furðufuglarnir í píratahreyfingunni, sem styðja gjörspilltan borgarstjórann, á opinbera útskýringu á því, sem fram hefur farið á milli borgarstjórans og refsins Jóns Ásgeirs Jóhannessonar ? Hvers vegna vekja konfektkassar til sölufulltrúa á snærum Bankasýslu ríkisins meiri áhuga þingmanns pírata, Björns Levís Gunnarssonar, en brask borgarstjórans með eignir Reykvíkinga ? Það hljóta að vera til fleiri skýringar á því en sú, að sá ósvífni eintrjáningur sér aldrei skóginn fyrir trjánum. Hann missir allan trúverðugleika sem vindmylluriddari gegn "spillingunni", ef hann ekki heimtar öll spil á borðið nú í þessu borgarstjórahneyksli, því að sporin hræða.
Af hálfu Samfylkingarinnar gætir hér sams konar þöggunar og hún beitti fyrir Alþingiskosningar í september 2021. Þá var vitað, að vonarstjarna hennar, Kristrún Frostadóttir, hafði breytt MISK 3,0, sem hún sem bankastarfsmaður þáði að gjöf, í MISK 80-100. Virði hlutabréfa, sem hún óverðskuldug þáði að gjöf frá bankanum, þar sem hún starfaði, þrítugfaldaðist á skömmum tíma.
Það var eðlilegt, að hún ryki upp eins og naðra að aflokinni sölu á ríkisbréfum í Íslandsbanka, þótt ekkert heyrðist í henni á undirbúningsstigunum, og fjargviðraðist út af nokkurra % gróða smárra fjárfesta, sem höfðu leyst út bréf sín. Hér er helber hræsnin í öllu sínu veldi. Siðlaust fólk reynir með upphrópunum og innistæðulausum aðdróttunum að rýra mannorð heiðvirðs fólks, en leikur sjálft tveimur skjöldum og er í raun með allt á hælunum í siðferðislegum efnum.
Undir langvinnri leiðsögn Samfylkingarinnar er fjárhagur höfuðborgarinnar nú svo veikur, að hún er ekki til neinna stórræða. Við þessar aðstæður hefur Samfylkingin sprengt aðra reyksprengju, sem á að hylja veikan fjárhag með draumsýn um stórverkefni, sem hún lætur sem Reykjavík hafi efni á, en mun leiða til greiðsluþrots borgarinnar, af því að verkefnið mun skila stórtapi og aðeins auka vandann, sem því af draumaprinsinum í stóli borgarstjóra er ætlað að leysa. Með umferðarlausnum Samfylkingarinnar í borginni kórónar hún mistök sín við stjórnun borgarinnar. Í Morgunblaðinu, 29. apríl 2022, birtist forystugrein þessu lútandi undir fyrirsögninni:
"Mikill vandi, lítið um lausnir".
Þar stóð m.a.:
"Hann [borgarstjórinn í Reykjavík] nefndi, að á næsta kjörtímabili "fara borgarlínan og Miklubrautarstokkur í framkvæmd, margar framkvæmdir klárast, en aðrar fara í gang" og bætti því við, að hætta væri á, að framkvæmdir tefðust, ef fólk, sem er með "óljósa framtíðarsýn" kæmist að. Og hann nefndi einnig, að ef ætti að kollvarpa stefnunni, væri hætt við, að húsnæðisuppbygging tefðist og tafirnar í umferðinni yrðu meiri."
Um þessi orð duglauss borgarstjóra má segja, að þarna taki moldin að rjúka í logninu. Nú er einmitt bráðnauðsynlegt "að kollvarpa stefnunni" í Reykjavík til að fá hreyfingu á framfaramálefnin. Þegar í stað á að hverfa frá rándýrri og hægfara "þéttingu byggðar", sem er ætlað að fjölga fólki í grennd við væntanlega borgarlínu og þrengja að einkabílnum með fáum bílastæðum á íbúð og fækkun akreina fyrir bíla.
Í staðinn á að brjóta nýtt land undir byggð, en Reykjavík á nóg af landi, og þar á að skipuleggja fjölbreytilega byggð með fjölbreytilegum byggingaraðilum, en umfram allt að fjölga íbúðum mun meira en nú er gert árlega til að bæta úr brýnni þörf, sem er orðið ekki aðeins þjóðfélagsvandamál á Íslandi, heldur líka efnahagsvandamál (verðbólga). Aðalskipulagi þarf að bylta, festa Reykjavíkurflugvöll í sessi (er Framsókn í Reykjavík á móti Reykjavíkurflugvelli ?) og tryggja rými fyrir umferðarlausnir, sem virka til að bæta umferðaröryggi og eyða óþarfa umferðartöfum (mislæg gatnamót, fjölgun akreina). Lausnirnar eru fyrir hendi og margreynt að virka, en það þarf pólitískan vilja til að draga Reykjavík út úr forneskjunni (frumstætt gatnakerfi og umferðarstýring).
Borgarlínudellunni á að breyta úr "þungri" borgarlínu á miðju vegstæði í "létta" borgarlínu á hægri kanti, eins og "Samgöngur fyrir alla" hafa lagt til. Þann 29. apríl 2022 birtist í Morgunblaðinu fróðleg grein eftir prófessor Jónas Elíasson:
"Kreppa í samgöngum höfuðborgarsvæðisins".
Þar kenndi margra grasa, en 2 tilvitnanir verða látnar duga:
"Í fljótu bragði má áætla, að umframeldsneytiseyðsla vegna umferðartafa sé 10.000-20.000 t/ár. Þetta samsvarar kolefnislosun allt að 60 kt/ár af CO2; til viðbótar kemur ryk og önnur mengun [t.d. níturoxíð og brennisteinn - innsk. BJo]. Það verður að ætlast til, að Reykjavík komi með mótvægisaðgerðir, sem virka. Ef ekki, geta þessar tölur þrefaldazt á tiltölulega stuttum tíma."
Dyntótt og ófagleg stefnumörkun í málefnum höfuðborgarinnar, eins og sú, sem þar hefur nú fengið að viðgangast allt of lengi, er auðvitað ekki útlátalaus, heldur kostar stórfé og kemur niður á lífsgæðum almennings. Kostnaður vegna slysa í umferðinni vegna frumstæðra gatnamóta og þrengsla ásamt tímasóun í óþarfa umferðartöfum, nemur um þessar mundir um 100 mrdISK/ár. Við þetta bætast nokkrir milljarðar ISK/ár vegna eldsneytiskostnaðar í lausagangi vegna óþarfa umferðartafa. Hér er um að ræða a.m.k. 600 kISK/ár á hvern þann, sem verður fyrir barðinu á afleiðingum frumstæðs gatnakerfis í Reykjavík. Þetta er ekkert smáræði, og varpar upphæðin ljósi á nauðsyn þess að kjósendur í Reykjavík noti nú tækifærið og varpi af höndum sér stjórnmálamönnum, sem enga burði hafa til að stjórna borginni í þágu almannahags.
"Hún [borgarlínan] er framlenging á núverandi strætókerfi á mjög dýrum sérakbrautum, sem geta ekkert gert, nema koma í veg fyrir seinkanir [strætó]; þær eru [þó] mjög litlar. Strætó stendur sig vel og seinkar mjög lítið. Hvernig á þá að bæta kerfið ?
Bandarískur sérfræðingur lýsti því í fyrirlestri 2015 (sjá Þórarin Hjaltason, Mbl. 12. apríl 2022), en enginn hjá Reykjavíkurborg virðist muna eftir þeim fyrirlestri í dag, sem verður að teljast slæm fagleg villa. Aðalatriðið í hans tillögum til að bæta almenningssamgöngur var einfalt: þétta ferðir og láta reynsluna af því segja til um næsta skref í ferlinu. Enga nýja stóra vagna, engar sérbrautir, nema samkvæmt þörf og þá hægra megin. Og hér má bæta við: ekkert í hans fyrirlestri ýtti undir stórt borgarlínustökk í anda Mao Tse [Tung], þ.e.a.s. þreföldun á farþegafjölda í einni svipan."
Það ættu að hringja margar aðvörunarbjöllur hjá sveitarstjórnum höfuðborgarsvæðisins og í samgönguráðuneytinu út af því, að ráð virtra sérfræðinga eru hundsuð í þessu borgarlínumáli. Engu að síður er verkefnið nú komið á sjálfstýringu framjá kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum. Þeir, sem verða með bein í nefinu í sveitarstjórnum höfuðborgarsvæðisins eftir kosningarnar 14. maí 2022, verða að berja í borðið og stöðva ferlið, þar til fengizt hefur samþykki viðkomandi bæjarfélaga fyrir nákvæmri legu, og þar til fengizt hefur á hreint, hver á að reka borgarlínu. Það hefur hvorki verið áætlað almennilega, hver rekstrarkostnaðurinn verður né hverjar verða tekjurnar. Vagnakaup eru í lausu lofti. Strætó er rekinn með tapi og nokkrir mrdISK/ár munu bætast við tap almenningssamgangnanna með tilkomu borgarlínu.
Hér er um að ræða mjög alvarlega mynd af gæluverkefni stjórnmálamanna, sem hvorki tæknilegur né fjárhagslegur grundvöllur er fyrir. Þetta er óásættanleg staða, því að fjárveitingar til verkefnisins lenda í svelg, sem verður langvarandi byrði á íbúum höfuðborgarsvæðisins og tekur fé frá arðsömum fjárfestingum um allt land. Þetta heitir óráðsía.
2.5.2022 | 10:18
Kyndugur og hættulegur borgarstjórnarmeirihluti
Í Reykjavík eru viðhafðir stjórnarhættir, sem sæma ekki höfuðborg Íslands. Þetta stafar af þröngsýni og afturhaldssemi núverandi meirihluta í borgarstjórn. Þessi meirihluti undir borgarstjóranum, Degi Bergþórusyni, lækni, hefur bitið það í sig, að of margir bílar séu á götum Reykjavíkur, þeir valdi óþrifum, loftmengun og vegsliti. Til að vinna bug á þessu vandamáli þurfi að fá íbúana, með illu eða góðu, til að nota Strætó í mun meiri mæli. Þetta er kolröng, úrelt og óviðeigandi hugmyndafræði.
Bílaflotinn notar minna jarðefnaeldsneyti á ekinn km með hverju árinu, sem líður, vegna sparneytnari véla og fjölgunar rafmagnsbíla. Með greiðara umferðarflæði og vetnisvögnum má auka loftgæðin enn meir. Þar sem vegslit fylgir öxulþunga í 4. veldi, munar mjög mikið um vegslit strætisvagnanna. Þótt borgaryfirvöld hafi lagt sig í líma við að tefja umferðina í Reykjavík með þrengingum gatna, fækkun akreina og frumstæðum ljósastýringum, m.a. á gangbrautum yfir akreinar, þar sem ætti fremur að vera undirgangur, hefur þeim ekki tekizt ætlunarverk sitt að auka hlutdeild Strætó í heildarfjölda einstaklingsferða í höfuðborginni. Hún er enn 4 %.
Með furðuverkinu borgarlínu er með ærnum kostnaði ætlunin að þrefalda þessa hlutdeild. Það eru draumórar einir og má benda á aðrar borgir því til stuðnings, t.d. Bergen í Noregi, þar sem ekkert hægðist á fjölgun einkabíla í umferðinni við rekstur borgarlínu þar. Sá rekstur er þar með bullandi tapi, sem bílaumferðin er látin standa undir með veggjaldi (bompenger), um 1000 ISK/dag.
Liður í forneskjunni í Ráðhúsinu úti í Reykjavíkurtjörn er að standa gegn nútímalegum framkvæmdum Vegagerðarinnar, sem mundu bæta umferðarflæðið (draga úr töfum í umferðinni) og stórbæta öryggi vegfarenda. Það er ljóður á ráði Vegagerðarinnar, að hún hefur fórnað hagsmunum vegfarenda í átökum við afturhaldið í Reykjavík. Þar þarf dýralæknirinn í forystu Vegagerðarinnar að taka sér tak.
Það er verr farið en heima setið að gefa nauðsynleg mislæg gatnamót upp á bátinn, en innleiða í staðinn forneskjulegar og stórhættulegar umferðarlausnir á fjölförnum gatnamótum, eins og ljósastýringar og vinstri beygjur, sem þvera umferð. Forneskjulegur meirihlutinn í borgarstjórn misnotar skipulagsvald sitt hvað eftir annað til að hamra fram einstrengingsleg og fordómafull viðhorf, kenjar, sem eiga engan rétt á sér, því að lífi og limum borgaranna er stefnt í voða með þessu framferði. Ábyrgðarleysið ríður ekki við einteyming, og nú verða Reykvíkingar að losa sig og aðra landsmenn við þessa óværu í sveitarstjórnarkosningunum í maí 2022.
Bjarni Gunnarsson, umferðarverkfræðingur, gerði skilmerkilega grein fyrir þessu og baráttu sinni í nafni hagsmuna vegfarenda í Morgunblaðinu, 25. marz 2022, í greininni:
"Ógöngur gatnamóta".
Þar mátti m.a. lesa eftirfarandi:
"Vegagerðin, Reykjavíkurborg, Samgöngusáttmálinn og samgönguáætlun setja aukið umferðaröryggi og aukið umferðarflæði í fyrsta sætið, þegar hugað er að nýjum samgönguframkvæmdum. Þess vegna er það óskiljanlegt, að núna, þegar ráðast á í eitt af fyrstu verkefnum Samgöngusáttmálans, er útfærslu gatnamóta Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar breytt frá því, sem var samþykkt í mati á umhverfisáhrifum árið 2003. Breytingin felst í því að hætta við mislæg gatnamót, eins og Vegagerðin lagði til í matinu 2003, og byggja í staðinn ljósastýrð gatnamót, sem Vegagerðin taldi árið 2003, að ekki kæmu til greina.
Þessi breyting hefur í för með sér eftirfarandi:
- Fleiri umferðarslys
- Meira eignatjón
- Minni afkastagetu gatnamótanna
- Meiri umferðartafir
- Lengri akstursleiðir
- Meiri loftmengun
- Meiri umferðarhávaða við Nönnufell og Suðurfell
- Stærri mannvirki (fjögurra akreina brú í staðinn fyrir 2ja akreina)
- Breiðari rampa við Suðurfell (4 akreinar í stað 2)
- Litla breytingu á framkvæmdakostnaði
Ef horft er á afleiðingar breytingarinnar, sést, að þær eru þvert á öll framsett markmið samgönguframkvæmda.
Þetta er ótækt. Það er óviðunandi niðurstaða, að útúrboruleg viðhorf borgarstjóra og meirihluta borgarstjórnar skuli fá að ráða því, að skilvirkni þessarar fjárfestingar, þ.e. árlegur þjóðhagslegur arður, skuli verða umtalsvert minni en fengizt hefði með mannvirkjalausninni, sem Vegagerðin lagði fram í upphafi og taldi bæði nauðsynlega og nægjanlega. Lausn Reykjavíkur er hvorki nauðsynleg né nægjanleg. Hún er út úr kú og fullnægir ekki gæðaviðmiðum samgönguáætlunar Alþingis og ætti þar af leiðandi ekki að fá fjárveitingu úr ríkissjóði. Það er kominn tími til að láta af undanlátssemi við fúsk og yfirgang borgarstjóra og hyskis hans. Tafakostnaður umferðarinnar samkvæmt Hagrannsóknum sf. er um þessar mundir talinn vera allt að 60 mrdISK/ár, og á hann er ekki bætandi.
"Vegagerðin á að gera umferðaröryggismat fyrir fyrirhugaðar samgöngubætur, og var það gert vegna breytingar umræddra gatnamóta. Slíkt umferðaröryggismat á að vera grundvöllur þess, þegar bezti valkostur er valinn af Vegagerðinni og lagður fram í mati á umhverfisáhrifum. Umferðaröryggismat breytingarinnar (dags. jan. 2021) telur breytinguna slæma, og í niðurstöðum þess segir:
"Niðurstöður rýnihópsins eru, að mislæg gatnamót séu mun betri m.t.t. umferðaröryggis. Sú lausn að aðskilja akstursstefnur, losna við stöðvun umferðar á umferðarljósum, og engar vinstri beygjur, þar sem þvera þarf gagnstæða umferðarstrauma, felur í sér mun öruggari umferðarmannvirki."
Þessi niðurstaða umferðaröryggismatsins virðist hundsuð af vegagerðinni sjálfri og er ekki kynnt fyrir Skipulagsstofnun, þegar Vegagerðin sendir sitt erindi um, að ekki þurfi að gera nýtt mat á umhverfisáhrifum gatnamótanna. Og ekki kynnir Vegagerðin Skipulagsstofnun þær neikvæðu breytingar, sem upp eru taldar hér á undan, þegar gatnamótin verða ljósastýrð."
Þarna virðist vera á ferðinni "monkey business" hjá Vegagerðinni að undirlagi borgarinnar. Forstjóri Vegagerðarinnar má ekki láta borgarstjóra draga virðingu og faglegan metnað Vegagerðarinnar ofan í svaðið. Borgin hefur um alllanga hríð gert sig seka um undirmálsvinnubrögð, þar sem farið er á svig við góð og gild vinnubrögð og beztu fáanlegu tæknilausnir. Þetta skemmda epli hefur skemmt út frá sér í stjórnkerfinu, þar sem gæðastjórnun og faglegum vinnubrögðum er gefið langt nef, en innleidd molbúavinnubrögð og sukk og svínarí við verkefnastjórnun. Þetta skemmda epli fáfræði, þröngsýni og ofstækis, verða kjósendur að uppræta í næstu kosningum, nema þeir vilji áfram "lausnir", sem kosta mikið, en gera lítið gagn annað en að fullnægja duttlungum sérvitringa, sem eru aftarlega á merinni.
Að lokum skrifaði Bjarni Gunnarsson:
"Samantekið í stuttu máli: Reykjavíkurborg tefur lausn málsins vegna 2ja akreina rampa við Nönnufell og endar á því að þröngva fram lausn með 4-akreina rampa við Nönnufell. Vegagerðin gefst upp með sína útfærslu á mislægum gatnamótum og leggur til lausn, sem kom ekki til greina áður, og Skipulagsstofnun tekur við ófullnægjandi upplýsingum frá Vegagerðinni og túlkar svo lög um mat á umhverfisáhrifum á rangan hátt til að hleypa þessum skelfilegu breytingum gatnamótanna í gegnum kerfið.
Svo verða vegfarendur gatnamótanna fórnarlömbin."
Hér er lýst undirmálsvinnubrögðum ríkisstofnana að boði Reykjavíkurborgar, molbúavinnubrögðum með misbeitingu skipulagsvalds höfuðborgarinnar. Niðurstaðan verður, að enn sígur á ógæfuhlið öryggismála umferðarinnar í Reykjavík, og er þó ekki á þá hörmung bætandi. Ástæða þess, að Ísland trónir næsthæst á ógæfulista umferðarslysa á Norðurlöndunum, eru aðallega ófullnægjandi umferðarmannvirki; þau eru í raun frumstæð m.v. bílaflotann og þarfir almennings og atvinnulífs og þar af leiðandi úrelt.
Með núverandi meirihluta áfram við völd og óbreytta afstöðu til umferðarmenningar þá mun Ísland lenda efst á þessum ógæfulista Norðurlandanna á næsta kjörtímabili.
Í Morgunblaðinu 2. apríl 2022 var gerð grein fyrir umferðarslysum undir fyrirsögninni:
"Umferðarslysum fjölgar umtalsvert".
"Athyglisvert er að bera saman tölur um fjölda látinna á hverja 100 þús. íbúa hér á landi við nágrannalöndin. Að meðaltali létust 3,5 í umferðarslysum hér á landi ár hvert síðustu 10 árin. Aðeins í Finnlandi láta fleiri lífið eða 4,2 að meðaltali. Í Danmörku er meðaltalið 3,1, í Noregi er það 2,4 og í Svíþjóð 2,6."
Á meðan Reykvíkingar íhuga ekki betur en raun ber vitni um í höndum hvaða stjórnmálamanna hagsmunum þeirra er bezt borgið, er ekki von á góðu. Þeir ættu að hafa í huga við kjörborðið, að kostnaður vegna umferðarslysa í Reykjavík nemur rúmlega 50 mrdISK/ár og tafakostnaður í umferðinni er jafnvel hærri upphæð. Kostnaður vegna rangrar stefnu í umferðarmálum í Reykjavík er þannig a.m.k. 100 mrdISK/ár, og hann má skrifa á núverandi meirihluta borgarstjórnarinnar. Það er óskiljanlegt, að þetta viðgangist í höfuðborg landsins.