Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kúvending við örlagaþrungna atburði

Í fyrsta sinn frá Heimsstyrjöld 2 hefur stórveldi ráðizt með hervaldi á fullvalda nágranna sinn í því skyni að ná tökum á öllu landinu. Það gerðist 24.02.2022 með innrás Rússlands í Úkraínu, þrátt fyrir fullyrðingar forseta Rússlands um, að liðssafnaðurinn við landamæri Úkraínu væri þar í æfingaskyni. Sannleikurinn vefst ekki fyrir þessum fyrrum leyniþjónustumanni, sem Kasparof, fyrrum heimsmeistari í skák, líkti nýlega við mafíuforingja. 

Sovét-Rússland réðist að vísu með her inn í Ungverjaland og hertók Búda-Pest 1956 og inn í Tékkóslóvakíu árið 1968, en varla er hægt að kalla fórnarlömbin þá fullvalda ríki, enda voru þau á bak við járntjald alræðis kommúnismans í þá daga.  Þá horfði Evrópa og upp á hin hræðilegu Balkanstríð á 10. áratugi 20. aldarinnar, þegar Serbar reyndu að sameina ríkin, sem áður voru hluti Júgóslavíu, undir veldi sitt, en Serbar voru ekki stórveldi.  Þannig er hinn voveiflegi atburður að næturlagi 24. febrúar 2022 einstakur í sögunni og mun eðlilega hafa gríðarlegar, jafnvel geigvænlegar, afleiðingar. Miklar afleiðingar hafa þegar komið í ljós.  Núverandi atburðir munu móta söguna í mannsaldur eða meir. Af afstöðu Kínverja að dæma til hinnar villimannlegu innrásar í Úkraínu, er Rússland að einangrast á öllum sviðum.  Ríkisstjórn og herráð Rússlands hafa gert herfileg mistök með innrásinni í Úkraínu, herinn hefur lent í kviksyndi stríðsglæpa með árásum, einnig eldflaugaárásum, á saklausa borgara, íbúðarhús, skóla og sjúkrahús, og vakið viðurstyggð umheimsins. Óskandi væri, að bardagaþrek þessa rússneska innrásarhers þryti alveg og að hann hundskaðist heim til sín með skottið á milli lappanna.  

Við sjáum nú, að glæpsamlegt atferli lygalaupsins og ómerkingsins, sem situr enn með valdataumana í Kreml, hefur ekki aðeins náð að sameina Úkraínumenn í blóðugri baráttu gegn ofurefli liðs einræðisseggsins, heldur einnig Vesturlönd og bandamenn þeirra. Þau hafa sameinazt um hörðustu refsiaðgerðir á fjármálasviðinu, sem þekkjast, með þeim afleiðingum, að rússneska rúblan hefur hrunið ásamt rússneska verðbréfamarkaðinum, ýmsum ólígörkum í kringum forseta Rússlands hefur verið meinaður aðgangur að fjárhirzlum sínum á Vesturlöndum, bankaviðskipti Rússa hafa verið torvelduð verulega (SWIFT-takmarkanir) og síðast en ekki sízt hafa eigur rússneska seðlabankans á Vesturlöndum verið teknar eignarnámi um sinn (á meðan Vladimir Putin er við völd). Það er athyglisvert, að Svissland, með alla sína bankaleynd, tekur þátt í ströngum refsiaðgerðum gegn téðum Pútin og hirðinni í kringum hann. 

Téður Vladimir Pútín greip þá til vitlausasta svarsins, sem hugsazt gat, þ.e. að hóta kjarnorkustríði.  Rússar eiga nú engra annarra kosta völ en að fjarlægja þennan mann úr valdastóli. Æ fleiri valdamönnum í Rússlandi hlýtur að verða það ljóst, að héðan af liggur leiðin bratt niður á við fyrir Pútín, og Rússland má ekki við því að verða dregið lengra ogan í svaðið. Það er þó hægara sagt en gert að losna við einræðisseggi, eins og sannaðist með hetjulegri tilraun Claus von Stauffenbergs og félaga 20. júlí 1944 í Úlfsgreninu í Austur-Prússlandi. 

Vesturlönd standa nú sameinuð gegn Rússlandi.  Þjóðverjar hafa gert sér grein fyrir áhættunni, sem fylgir kaupum á jarðeldsneytisgasi frá Rússlandi og stöðvað leyfisveitingaferli fyrir Nord Stream 2 gasleiðslu Gazprom á botni Eystrasalts.  Þeir hafa kappkostað viðskipti við Rússa í nafni friðsamlegrar samvinnu, en hafa nú áttað sig á því, að hagsmunirnir fara ekki saman.  40 % af orkunotkun Þjóðverja á uppruna sinn í jarðgasi, og u.þ.b. helmingur þessa gass kemur frá Rússlandi.

Skyndilega er rússneska ríkið orðið fjandmaður Sambandslýðveldisins, þar sem sú ógn liggur í loftinu eftir ritgerðaskrif og ræðuhöld forseta Rússlands undanfarna mánuði, að hann sé haldinn einhvers konar köllun um að endurreisa rússneska ríkið með landvinningum, þar sem taka Úkraínu væri bara forsmekkurinn að því, sem koma skal.  Fyrir vikið hefur Sambandslýðveldið nú orðið við beiðnum Úkraínustjórnar um að senda Úkraínuher öflug varnarvopn, og munar þar e.t.v. mest um handhæg flugskeyti gegn skriðdrekum og herflugvélum/herþyrlum. Ekki hefur þó frétzt af Leopard 2. skriðdrekanum enn í Úkraínu. Er þó um að ræða hressilega viðbót við þá 5000 hjálma, sem ríkisstjórn Olaf Scholz áður sendi, og sumir litu á sem lélegan brandara, en reyndist síðasti liðurinn í friðþægingarferli Þjóðverja gagnvart Rússum, sem mafíósar túlka bara sem veikleikamerki.  Friðþægingarstefnan heyrir nú sögunni til. 

Þá var sunnudaginn 27. febrúar 2022 tilkynnt í Berlín um, að ríkisstjórnin hygðist leggja fram fjáraukalagafrumvarp fyrir Bundestag, sem kveður á um mrdEUR 100 eða rúmlega 14 trilljóna ISK (tæplega 5-föld VLF Íslands) viðbótar fjárveitingu til Bundeswehr á örfáum árum til að fullnægja strax viðmiðum NATO um a.m.k. 2,0 % af VLF til hermála á ári.  Það mundi svara til mrdISK 60 til varnarmála hérlendis. 

Þjóðverjar gera það ekki endasleppt, þegar þeir finna, að að þeim er sorfið.  Um þessa sömu helgi söðlaði ríkisstjórnin í Berlín um í orkumálunum.  Í stað þess að hvetja til fjárfestinga í vindmyllum og sólarhlöðum, sem eru í senn lítilvirk, plássfrek og óáreiðanleg framleiðslutæki, sem krafjast gasorkuvera með til að fylla í eyður slitrótts rekstrar, þá var ákveðið að leysa raforkuvanda landsins með því að flýta fyrir því að reisa kjarnorkuver, en eins og mörgum er kunnugt, ákvað Bundestag 2011 að tilhlutan fyrrverandi kanzlara CDU, Angelu Merkel, í kjölfar Fukushima hamfaranna í Japan, að loka öllum kjarnorkuverum Þýzkalands í síðasta lagi 2022.  Þarna hafa Þjóðverjar loksins tekið raunhæfa stefnu um að verða sjálfum sér nógir með rafmagn án þess að brenna jarðefnaeldsneyti. 

Með þessum 3 ákvörðunum ríkisstjórnar og þings í Berlín, þ.e. að senda vopn til stríðandi aðila, að gera Bundeswhr vel bardagahæfan á ný og að reisa kjarnorkuver, hafa Jafnaðarmenn (SPD) kastað friðþægingarstefnu sinni gagnvart Rússum á haugana, og Græningjar hafa kastað friðarstefnu sinni (uppruni þessa flokks eru friðarhreyfingar í Þýzkalandi á 8. og 9. áratug 20. aldar) og hatrammri andstöðu við kjarnorkuver fyrir róða.  Miklir atburðir hafa orðið, og er þó innan við vika síðan hinir örlagaþrungnu atburðir hófust.   


Stríð í hjarta Evrópu 2022

Sá fáheyrði atburður hefur nú gerzt í febrúar 2022, að stórveldi hefur ákveðið að ræna nágrannaríki sitt í Austur-Evrópu réttmætu fullveldi sínu með hervaldi. Þessi siðlausi og ólögmæti ofbeldisgjörningur hófst aðfararnótt fimmtudagsins 24. febrúar 2022, þegar rússneski herinn hóf eldflaugaárásir, stórskotaliðsárásir, flugárásir og skriðdrekaframrás úr norðri, austri og suðri, á Úkraínu. 

Úkraínski herinn og úkraínskur almenningur berst hetjulegri baráttu gegn ofureflinu og sýnir þar með umheiminum, að Úkraínumenn eru tilbúnir til að berjast til þrautar fyrir sjálfstæði og fullveldi lands síns.  Ef þjóð, sem tilbúin er til að færa slíkar fórnir sem Úkraínumenn fyrir fullveldi sitt og sjálfstæði þjóðarinnar, á ekki skilið að halda fullveldi sínu, hver á það þá skilið ? 

Úkraínumenn hlutu fullveldi 1917 með sama hætti og Finnar í kjölfar rússnesku byltingarinnar, en urðu síðar hluti Ráðstjórnarríkjanna og hlutu þar slæma útreið, því að hlutskipti þeirra var að framleiða matvæli ofan í íbúa borga Ráðstjórnarríkjanna.  Stalínstjórnin tók jarðir sjálfstæðra bænda eignarnámi og drap eða flutti þá nauðungarflutningum til Síberíu eða annað, sem ekki vildu taka þátt í samyrkjubúskapinum.  Við þetta hrundi landbúnaðarframleiðsla Úkraínu, og eftirlitsmenn ráðstjórnarinnar tóku matarbirgðir bændanna og færðu þær til borganna. 

Árið 1933 varð svo hungursneyð í Úkraínu og "Holodomer", sem er úkraínska fyrir hungurdauði, þegar ráðstjórn Stalíns lét 4 milljónir manna deyja drottni sínum úr hungri.  Þessir voðaatburðir líða ekki úkraínsku þjóðinni úr minni.

Þótt Rússar og Úkraínumenn sé skyldar þjóðir, hafa Úkraínumenn margoft sýnt, að þeir vilja ekki vera í ríkjasambandi við Rússa.  Þessar þjóðir eiga ekki samleið, og Úkraínumönnum vegnar mun betur sem fullvalda þjóð en í ríkjasambandi, þar sem þeir njóta sín ekki. 

Úkraínumenn kjósa fullveldi sér til handa og lýðræðislegt stjórnarfar, sem reist er á þingræði. Þeir eru vestrænir í hugsun og háttum. Herinn, forsetinn, ríkisstjórn og þing Úkraínu hafa barizt hetjulegri baráttu við ofurefli liðs, og þjóðin hefur staðið að baki þeim, og tugir þúsunda óbreyttra borgara hafa vopnazt og barizt gegn kúgunaraflinu úr austri. 

Allar þjóðir eiga rétt á að öðlast sjálfstæði, kjósi þær það, og að velja sér vini og bandamenn.  Þannig ákváðu Finnar á sínum tíma að ganga í Evrópusambandið (ESB) til að efla tengsl sín við lýðræðisríki Evrópu, en þeir hafa ekki treyst sér til að ganga í NATO, enda hafa Rússar jafnan lýst sig andvíga því. Hins vegar gengu Eystrasaltsríkin bæði í ESB og NATO.  Það hefur nú sýnt sig, að bezta og eina vörn lítilla og meðalstórra ríkja gegn grímulausri árásargirni stórveldis er aðild að NATO.

Vladimir Putin, einvaldur Rússlands, hefur á undanförnum mánuðum sent frá sér ritgerðir og haldið ræður, þar sem fram koma stórhættuleg viðhorf og söguskýringar, sem gefa til kynna, að þar sé einvaldur, haldinn landvinningahugmyndum.  Hann telji hlutverk sitt að færa út yfirráðasvæði Rússa í það horf, sem það mest hefur verið.  Þetta er vitfirringsleg hugmyndafræði á okkar tímum og mun verða þess valdandi, að lýðræðisríki Evrópu munu hervæðast, eins og mest þau mega. Allt er nú gjörbreytt í Evrópu, þar sem stríð hefur brotizt út á ný. 

Þegar ríki sitja uppi með stríðsglæpamenn sem stjórnendur, verða þau að taka afleiðingunum af því.  Það er eðlilegt, að þeim, sem nú ofbýður framferði Kremlverja gagnvart Úkraínu, skeri tengsl við Rússland niður við trog, á meðan glæpsamleg hegðun gagnvart friðsömu nágrannaríki einkennir valdhafa þess. 

Lýðræðisríkin eiga að veita Úkraínumönnum alla þá aðstoð, sem verða má á meðan á þessu stríði stendur, á meðan á hernáminu stendur og á uppbyggingarskeiði landsins í kjölfarið.  Eftir að Úkraínumenn endurheimta frelsi sitt, verður að hjálpa þeim við að tryggja öryggi sitt eftir þeim leiðum, sem þeir kjósa helzt sjálfir. 

Vesturlönd hafa sofið á verðinum gagnvart yfirvofandi hættu og ekki rumskað fyrr en bjallan glumdi að morgni 24. febrúar 2022. Þetta er svipuð sviðsmynd og haustið 1939.  Líklega er meiri hætta nú á 3. heimsstyrjöldinni en nokkru sinni áður.  Eins og áður stafar hættan aðallega af einum manni, siðblindingja, sem virðir lög og reglur einskis, heldur virðir aðeins vald og styrk til valdbeitingar.  Þess vegna ríður nú á, að NATO safni liði og hergögnum í Evrópu hið snarasta og komi sem mestu af vopnabúnaði í hendur Úkraínumanna hið fyrsta.  Þótt NATO lendi ekki í beinum vopnaviðskiptum við fjandmanninn, er þó alveg ljóst, að Vesturlönd og bandamenn þeirra verða að færa fórnir í viðureigninni við árásargjarnt stórveldi til að halda frelsi sínu.    

ukrainian-cloth-flags-flag-15727

 

  

 


Áhyggjur þingmanna af orkumálum í öngstræti

Það er huggun harmi gegn, að loksins hefur runnið upp fyrir þingheimi, þó auðvitað ekki græningjum, sem leggjast gegn flestum framkvæmdum á þessu sviði af ótrúlegri glámskyggni og ábyrgðarleysi í efnahagslegu tilliti, því að tjónið af völdum raforkuskorts 2022 mun fara yfir mrdISK 20 og fara vaxandi á næstu árum, þar til nýjar virkjanir, sem um munar, stakar sæmilega stórar og litlar nægilega margar, fara að framleiða inn á landskerfið. 

 Ingibjörg Ólöf Ísaksen, Alþingismaður, ritaða góða grein um þetta viðfangsefni stjórnmálanna, sem birtist í Morgunblaðinu 29. janúar 2022.  Hún hét:

"Orkuskortur - sorgleg staða, sem varðar okkur öll".

Þar gat að líta þetta undir millifyrirsögninni "Neyðarkall" (einstakt bréf Orkustofnunar til orkuvinnslufyrirtækjanna):

"Þetta [olíubrennsla vegna raforkuskorts-innsk. BJo] er sorgleg og ótrúleg staða, sem við eigum ekki að þurfa að búa við sem íslenzk þjóð með allar okkar endurnýjanlegu orkuauðlindir. Þetta getur ekki verið svona til frambúðar.  Þetta er ástand, sem við viljum ekki búa við, svo einfalt er það."

Það er ástæða fyrir þingmenn að fá svar við því frá stjórnarformanni Landsvirkjunar, hversu langt á veg kominn undirbúningur að stækkun virkjana fyrirtækisins sé kominn til að nýta aukið vatnsrennsli vegna hlýnunar, og hvers vegna umsókn um virkjanaleyfi fyrir Hvammsvirkjun hafi ekki verið send Orkustofnun fyrr en í fyrra (júní 2021).  Þá þurfa þingmenn að gera það, sem í þeirra valdi stendur til að greiða götu þeirra eigenda vatnsréttinda, sem flýta vilja undirbúningi, byggingu og tengingu smávirkjana við dreifikerfin.

Undir millifyrirsögninni "Ástandið er alvarlegt"

skrifaði Ingibjörg Ólöf m.a.:

"Staðan í orkumálum er alvarleg og kom meginþorra landsmanna líklegast verulega á óvart.  Þessi staða hefur hins vegar haft sinn aðdraganda.  Landsnet varaði í skýrslu um afl- og orkujöfnuð 2019-2023 við mögulegum aflskorti árið 2022.  Þar var bent á, að á tímabilinu myndi ekki nægilega mikið af nýjum orkukostum bætast inn á kerfið til að duga fyrir sívaxandi eftirspurn eftir rafmagni samkvæmt raforkuspá."

Það er mikilvægt að draga þá staðreynd rækilega fram í dagsljósið, eins og Ingibjörg Ólöf gerir, að vandamálið er aflskortur, og aflskortur er óháður vatnshæð miðlunarlóna. Forstjóri Landsvirkjunar stagast á lágri vatnshæð Þórisvatns vegna lélegs vatnsárs 2021, en þetta vatnsár var ekki sérlega slæmt, enda hitastig 0,2°C yfir meðallagi á SV-landi. Álag kerfisins var hins vegar mikið, sem kallar á mikla vatnsnotkun, og þá er of lítið borð fyrir báru til að mæta snöggri álagsaukningu eða brottfalli rafala af kerfinu. Þetta skýrir núverandi aflskort kerfisins. 

Önnur meinloka forstjórans er, að vegna takmarkaðrar flutningsgetu eftir Byggðalínu frá Austurlandi til Suð-Vesturlands hafi ekki verið hægt að beita Fljótsdalsvirkjun nægilega til að draga úr miðlunarþörf Þórisvatns.  Í þessu eru 2 villur.  Í fyrsta lagi skortir Fljótsdalsvirkjun vélarafl til að anna fullu vetrarálagi á Austurlandi og framleiða yfir 150 MW fyrir Suð-Vesturland samtímis, en flutningsgeta gömlu 132 kV línanna til norðurs og suðurs frá Fljótsdalsvirkjun er líklega um 150 MW. Í öðru lagi leyfir miðlunargeta Hálslóns ekki slíka flutninga til Suð-Vesturlands, eins og sýnir sig með því, að núverandi staða Hálslóns er lægri en á sama tíma í fyrra og langt undir meðallagi.  Væntanlega var þess vegna gripið til þess að neita fiskimjölsverksmiðjum Austurlands og (og í Vestmannaeyjum) um ótryggða orku.

Það er ástæða til að útskýra hugtakið ótryggð orka, því að jafnvel orkumálastjóri, Halla Hrund Logadóttir, skriplar á skötunni, þegar að því kemur að útskýra það fyrir almenningi.  Hún var beðin um það í viðtali á Gufunni (RÚV-Rás 1) í þættinum Morgunvaktinni fimmtudagsmorguninn 3. febrúar 2022.  Hún greip þar til þeirrar yfirborðslegu skýringar, að ástæðan fyrir ótryggðri orku væri sögulegs eðlis.  Það er ekki rétt.  Ástæðan er enn í fullu gildi og er af eðlisfræðilegu tagi eða nánar tiltekið veðurfræðilegs eðlis. Til ákvörðunar framleiðslugetu vatnsorkuvirkjunar eru lagðar rennslismælingar nokkurra ára eða áratuga til grundvallar og búið til rennslislíkan til að auka öryggi rekstrar virkjunarinnar.  Út frá lágmarksársrennsli um virkjunina er lágmarksorkuvinnslugeta hennar reiknuð.  Það er sú orka, sem óhætt er að selja frá virkjuninni sem forgangsorku, og út frá þeirri orkusölu er arðsemi virkjunarinnar reiknuð.  Síðan fer það eftir stöðugleika álagsins, s.k. nýtingartíma toppálagsins, hversu mikið vélarafl þarf að setja upp til að mæta toppálaginu. 

Til að koma hluta af umframorkunni í verð, er vélaraflið aukið, svo að það ráði við vatnsrennslið í 27 af 30 árum, og var sú umframorka áður kölluð afgangsorka (secondary energy) til aðgreiningar frá forgangsorkunni (primary energy, firm power), en er nú oftast nefnd ótryggð orka (unsecerud energy). Þetta þýðir, að búast má við skerðingu ótryggðrar orku á 3 af 30 árum.

Verð forgangsorkunnar tryggir arðsemi virkjunarinnar, svo að ótryggðu orkuna er hægt að selja á mun lægra verði, t.d. 20 % af verði forgangsorku með þeim skilmálum auðvitað, að hana megi skerða samkvæmt umsömdum reglum.  Þetta er einfölduð mynd af hugtökunum ótryggð orka og forgangsorka. 

Af þessu sést, að það er misskilningur hjá orkumálastjóra, sala ótryggðrar raforku frá vatnsorkuverum sé orðin úrelt.  Hún er enn í fullu gildi, enda mun eðli vatnsorkuvera ekkert breytast með orkuskiptunum. Það getur hentað fyrirtækjum, sem geta dregið tímabundið úr framleiðslu sinni með fyrirvara að kaupa ótryggða orku, og það getur borgað sig fyrir fyrirtæki, sem notað geta aðra frumorku í staðinn 9 af hverjum 10 árum  að kaupa ótryggða orku.  Með afnámi jarðefnaeldsneytis kemur lífolía, t.d. repjuolía, eða rafeldsneyti, sem er blanda vetnis og annarra efna, í staðinn. 

Undirgrein með millifyrirsögn:

 "Glötum bæði orku og tækifærum" ,

  hófst þannig:

"Styrking flutningskerfis raforku þolir enga bið.  Í viðtali við fjölmiðla áætlaði forstjóri Landsnets, að orkan, sem tapast í flutningskerfinu á hverju ári samsvari afkastagetu Kröfluvirkjunar sökum annmarka flutningskerfisins. Á hverju ári tapast milljarðar ISK vegna þess og enn meira vegna glataðra atvinnu- og uppbyggingartækifæra um allt land."   

Annmarkar flutningskerfisins, sem Ingibjörg Ólöf gerir þarna að umræðuefni, eru of lág kerfisspenna á Byggðalínu m.v. nauðsynlegar flutningsvegalengdir og afl.  Byggðalínan er barn síns tíma af vanefnum gerð, en nú er verið að reisa nýja með kerfisspennu 220 kV í stað 132 kV.  Þegar hún hefur öll verið tekin í notkun, munu orkutöp hennar aðeins verða um 36 % af orkutöpum gömlu Byggðalínunnar í sambærilegum rekstri.  Þetta jafngildir þá um 320 GWh/ár eða 1,6 % af heildarkerfisflutningunum eða helmingi af orkunotkun heimilanna.  Ef þessi orka væri til reiðu nú, þyrfti að líkindum ekki að grípa til neinna orkuskerðinga í vetur.  Verðmæti þessarar orku á heildsölumarkaði er tæplega 2 mrdISK/ár.  Af þessu sést, hversu brýn og arðsöm efling flutningskerfis raforku er, og enginn vafi er um þjóðhagslegt mikilvægi hennar. 

Samt hefur ríkisvaldið látið endalausar tafir á þessari uppbyggingu viðgangast. Andmælaréttur er nauðsynlegur og ber að vernda í þeim tilgangi að fá að lokum fram beztu lausnina, sem dregur úr tjóni einstaklinga að teknu tilliti til viðleitni til hámörkunar þjóðarhags.  Þetta er s.k. beztunarverkefni og er auðvitað leysanlegt innan ásættanlegs tímaramma, ef almennilega er að verki verið. 

Lokakafli greinar Ingibjargar Ólafar var undir fyrirsögninni:

"Tími aðgerða er núna":

"Mikilvægt er að ráðast í eflingu fyrirliggjandi virkjana, þar sem það er hægt, hefja undirbúning að þeim orkukostum, sem auðveldast er að hrinda í framkvæmd fljótlega, og einfalda svo ferlið frá hugmynd að framkvæmd, þannig að nýting orkukosta, sem samfélagið þarfnast, gangi betur og hraðar fyrir sig í framtíðinni. 

Á Íslandi hefur það sýnt sig, að tíminn, sem það tekur frá hugmynd um hefðbundna orkukosti, þar til framkvæmdir verða að veruleika, er um 10-20 ár.  Sagan sýnir, að það er of langur tími, ef tryggja á orkuöryggi þjóðarinnar.  Vissulega eru til aðstæður, þar sem það er vel skiljanlegt, og alltaf þarf að vanda til verka.  En oft og tíðum eru óþarfa tafir, sem sóa dýrmætum tíma án þess, að það skili sér í betri framkvæmd m.t.t. umhverfisins.  Við okkur blasir, að úrbóta er þörf og tími aðgerða er núna."

Núverandi regluverk ríkisins er óskynsamlegt, af því að það virðist hannað til að letja virkjunaraðila til framkvæmda fremur en að hvetja þá til að vanda sig.  Nefna má, að stækkun virkjunar, þ.e. aflaukning, er háð nýju lögformlegu umhverfismati.  Þessi krafa verndar ekki umhverfið, en hamlar framkvæmdum, enda hefur verið lítið um þetta hérlendis.  Nú mun ætlunin að ráða bót á þessu, og verður þá auðveldara að mæta skammtíma álagi og að nýta offramboð vatns á sumrin (draga má þá niður í gufuorkuverunum).

Nú vantar allt að 200 MW af nýjum virkjunum inn á kerfið til að anna eftirspurn og hafa borð fyrir báru í viðhalds- og bilunartilvikum. Fyrir 2030 þarf 2000 GWh/ár og 500 MW einvörðungu fyrir orkuskiptin.  Megnið af þessu þyrfti að vera fullhannað núna og með virkjanaleyfi, ef nokkur von á að vera til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar í losunarmálum koltvíildis, en það er fjarri lagi, að svo sé.  Það verður að gera orkufyrirtækjunum kleift að leggja fyrir Orkustofnun raunhæfar áætlanir 10-20 ár fram í tímann um framkvæmdir, svo að Orkustofnun geti gætt hagsmuna notenda gagnvart orkuskorti.  Tjón notenda af orkuskorti er nefnilega margfalt á við tjón orkufyrirtækjanna af tapaðri orkusölu.   

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Smávirkjanir geta linað verkina núna

Nú strax virðist bráðvanta 100-200 MW aflgetu í íslenzka raforkukerfið.  Til að uppfylla óraunsæ loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar þarf ný 500 MW á tímabilinu 2022-2030.  Þá er eftir að uppfylla vaxandi raforkuþörf hagkefisins á þessu tímabili, sem gæti numið 1,5 TWh/ár eða 300 MW árið 2030, alls 3,5 TWh/ár eða 800 MW. Eftir 5 ár gætu fyrirsjáanlega hafa bætzt við um 200 MW eða fjórðungur þarfarinnar 3 árum seinna.  Fáum getur dulizt í hvers konar óefni stefnir, og hagvaxtarspár standa á brauðfótum með viðvarandi raforkuskort yfirvofandi. 

Afkomu almennings er ógnað, þegar orkudrifið samfélag fær ekki þá orku, sem það þarf.  Skynsamleg viðbrögð verkalýðshreyfingar eru ekki að heimta, að fyrirtækin í landinu taki af því, sem ekki er til, til að vega á móti verðbólgu gagnvart launþegum, því að slíkt framferði magnar aðeins verðbólgubálið, heldur að leggja lóð sín á skálar aukinnar verðmætasköpunar í landinu. Aukin verðmætasköpun fer nú á tímum ekki fram án aukinnar raforkunotkunar, þótt í mismiklum mæli sé í ISK/kWh reiknað.

Í þessari ólánlegu stöðu er eðlilegt að reyna að lina sársaukann með hraðari fjölgun smávirkjana inn á kerfið.  Það er t.d. hægt með því að draga úr kostnaði við undirbúninginn og spara um leið tíma, þótt tæknileg gæði og öryggi mannvirkjanna verði áfram að vera í fyrirrúmi. Þessi hugmynd hefur þegar náð inn á Alþingi, eins og Fréttablaðið gerði grein fyrir 27.01.2022:

"Vilja, að slakað verði á skilyrði um umhverfismat fyrir smávirkjanir".

Fréttin hófst þannig:

"Halla Signý Kristjánsdóttir og 4 aðrir þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vilja einfalda landeigendum að koma upp smávirkjunum.  Mikil umræða hefur verið um virkjanir og orkuskort í landinu undanfarið, og Halla vonast til þess, að þingsályktunartillagan, sem hún leggur nú fram í 3. skiptið, verði samþykkt í ljósi þess, að núverandi stjórn hafi lagt mikla áherzlu á orkumál."

Þessi þingsályktunartillaga og afdrif hennar getur orðið prófsteinn á vilja þingsins til að létta landsmönnum róðurinn á tímabili illvígs sjálfskaparvítis, sem þingheimur með aðgerðarleysi sínu á síðasta kjörtímabili hefur leitt yfir þjóðina. Þjóð, sem býr yfir ríkustu sjálfbæru orkulindum í Evrópu á hvern íbúa, engist nú af raforkuskorti.  Þetta er auðvitað merki um ófyrirgefanlega óstjórn á okkar tímum orkuskipta og ríkismarkmiða um minnkun á losun koltvíildis, sem sömu stjórnvöld hafa skuldbundið landið til á alþjóðavettvangi.  Það er ekki öll vitleysan eins. 

Sérstaklega verður horft til afstöðu umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, við afgreiðslu þessarar tillögu, en hann leitar nú logandi ljósi að fáanlegri orku undir leiðsögn orkumálastjóra, sem er þó með böggum hildar í leit að lausnum.

""Smávirkjanir eru mjög mikilvægar til þess að styrkja dreifikerfið.  Ég kem að vestan, þar sem ekki er vanþörf á að huga að þessu", segir Halla, sem er úr Önundarfirði.  Þar eru 4 smávirkjanir, og Orkubú Vestfjarða hefur hagað málum þannig, að ef rafmagn fer af svæðinu, er hægt að loka af, þannig að smávirkjanirnar vinni fyrir fjörðinn.

Smávirkjanir eru af stærðinni 0,2 MW - 10,0 MW, en flestar [eru] undir 1,0 MW að stærð.  Fyrir [þær] þarf umhverfismat, sem fylgir nokkuð mikið umstang, tími og kostnaður."

Virkjanlegt afl lítilla (óvirkjaðra) vatnsorkulinda er umtalsvert, þegar allt er talið saman, eða líklega um 1000 MW.  Þær geta þannig saman hjálpað til við að mæta vaxandi afl- og orkuþörf á landsvísu, þótt þær séu rjúfanlegar frá landskerfinu og geti þá þjónað nærumhverfinu einvörðungu í bilunartilvikum.  Ef ráðherra beitir sér fyrir að fjarlægja "rauða dregilinn" að þessum virkjunum, fjarlægir "rauða límbandið" af undirbúningsferlinu, þ.e. einfaldar leyfisveitingaferlið og beitir sér fyrir því, að dreifiveiturnar tengi nýjar smávirkjanir snurðulaust og jafnharðan við dreifikerfið, þá gæti hér verið komin fljótvirkasta búbótin fyrir orkubúskap landsmanna. 

Í téðri frétt var getið um mat á aflgetu smárra virkjanakosta:

"Smávirkjanakostir hafa verið greindir á undanförnum árum.  Á Norðurlandi voru t.a.m. 500 kostir kortlagðir í sumar með samanlagt heildarafl upp á tæplega 830 MW [1,7 MW að jafnaði].  Fyrr á árinu 2021 voru 70 valkostir á Vesturlandi greindir með samanlagt afl upp á 59 MW [0,8 MW að jafnaði].  Auk þess eru margir kostir í boði á Austurlandi og Vestfjörðum, þar sem flestar smávirkjanir eru nú þegar.

Halla lítur til Noregs sem fyrirmyndar um, hvernig  [leyfisveitingaferli smávirkjana á Íslandi ætti að vera]. Þar í landi sjái sérstök stofnun, NVE [þetta er Orkustofnun Noregs-innsk. BJo], um leyfisveitingarnar og skilyrðin séu almenn."

Nú getur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra látið hendur standa fram úr ermum til að auðvelda land- og vatnsréttindaeigendum undirbúning smávirkjana til að flýta fyrir því, að tugir eða jafnvel hundruðir smávirkjana komist í gagnið og verði tengdar við næstu dreifiveitu á ódýran hátt og án tafa.  Þetta gæti orðið fljótvirkasta aðferðin til að bæta úr brýnum orkuvanda landsmanna, en þá verður að slá striki yfir það, sem flækjufætur kerfisins hafa sett upp sem hindranir fyrir áhugasöm virkjanafélög.

Það var eins og við manninn mælt, að hjartaskurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson og félagi hans Ólafur Már Björnsson, augnlæknir, fengu birta grein eftir sig í Fréttablaðinu 27. janúar 2022, sem hét "Heilagur Vatnsfjörður", strax í kjölfar þess, að rafveitustjóri Orkubús Vestfjarða tjáði sig um það, að hann teldi núna einna vænlegast fyrir Vestfirðinga að reisa 20-30 MW vatnsaflsvirkjun í Vatnsfirði.  Tómas þessi hefur beitt sér með öfgafullum hætti undanfarin misseri gegn virkjanaáformum Vestfirðinga.  Nú fordæmir hann virkjanahugmynd rafveitustjórans án þess að hafa hugmynd um virkjunartilhögunina eða um áhrif hennar á umhverfið í Vatnsfirði eða á mannlífið á Vestfjörðum.  Þetta gerir öfgafulla virkjanaandstöðu þeirra félaganna algerlega ótraustverða. 

Það er kominn tími til að hætta að ljá eyra við illa ígrundaðri andstöðu við framfaramál Vestfirðinga.  Þeir eru bezt til þess fallnir að fjalla um þessi mál sjálfir, vega þau og meta, og fyllilega treystandi til þess án afskipta og hortugheita "besserwissera" úr fjarlægum sveitum.  

Dæmi um ofstækið í skrifum þeirra félaga um náttúruna getur að líta í téðri Fréttablaðsgrein.  Sem betur fer er það ekki í þeirra höndum, hvað framkvæmt verður á Vestfjörðum eða hvað fellt verður undir þjóðgarð þar.  Það er og verður málefni Vestfirðinga sjálfra, en ekki þröngsýnna lækna af höfuðborgarsvæðinu, sem setja velferð og lífsafkomu íbúanna á Vestfjörðum ekki í öndvegi, þegar hugmyndir koma fram um að nýta hreinar og endurnýjanlegar orkulindir Vestfjarða:

"Fossarnir í Vatnsfirði búa ekki aðeins yfir einstakri fegurð, heldur býr í þeim orka, sem gírug raforkufyrirtæki ásælast nú sem aldrei fyrr.  Virðast þau engu skeyta um, að árnar og fossarnir í Vatnsfirði eru friðaðir, auk þess sem friðlandið verður hjartað í Þjóðgarði á Vestfjörðum, sem átti að opna síðastliðið sumar og verður lyftistöng fyrir Vestfirði alla."

Vestfirðingar þurfa ekki á að halda hortugum fyrirmælum "besserwissera" úr fjarlægum sveitum um það, hvernig þeir nýta auðlindir á sínu landssvæði, enda er nóg komið af töfum og stöðvunum orkuframkvæmda í landinu.  

Frétt í Morgunblaðinu 28. janúar 2022 undir fyrirsögninni:

"Segir stöðuna í orkumálum vera slæma",

hófst þannig:

"Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir stöðuna í orkumálum líta illa út, en Morgunblaðið greindi í gær frá greiningu Landsnets á afl- og orkuþörf, sem gefur til kynna viðvarandi orkuskort á næstu árum. 

"Um leið og ég frétti af þessu, þá kallaði ég á fulltrúa Orkustofnunar og Landsvirkjunar á minn fund og setti af stað vinnu til að bregðast við vandanum, þ.e.a.s. skammtímavandanum."" 

Það er athyglisvert, að upplýsingar um það, hvert margra ára aðgerðarleysi í virkjanamálum samhliða upphafi orkuskipta nútímans, hafa leitt yfir þjóðina, virðast ekki hafa náð inn á borð ráðuneytisstarfsmanna, og fer þá ekki á milli mála, að þar sofa menn á verðinum, og hrökkva svo upp af værum blundi, þegar raunveruleiki raforkuskortsins skellur á þjóðfélaginu.  Þetta er náttúrulega engan veginn boðleg stjórnsýsla, sem landsmenn búa við.

  Orkulöggjöf landsins er reyndar sniðin við frjálst markaðskerfi og treystir á (og tekur þar með allt of mikla áhættu fyrir þjóðarhag), að orkufyrirtækin sjái sér hag í því að koma í veg fyrir orkuskort með því að vera tilbúin með nýjar virkjanir í tæka tíð.  Þannig er ekki raunveruleikinn í íslenzku umhverfi, þar sem sérvitringar, sem hafa borið fyrir sig umhverfisvernd, en eru í raun umhverfissóðar, sem valda olíubruna til raforkuvinnslu fyrir vikið, hafa komizt upp með að þvælast fyrir hverju orkuöflunar- og -flutningsverkefninu á fætur öðru með þeim afleiðingum, að allt er nú komið í óefni.

Að kalla á fulltrúa téðrar ríkisstofnunar og téðs ríkisfyrirtækis til að bregðast við bráðavandanum minnir á haldleysi þess að fara í geitarhús að leita ullar.  Vonandi hefur þessi ráðherra þó haft rænu á að spyrja fulltrúa Orkustofnunar, hvers vegna hún sé ekki þegar búin að afgreiða umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun.

Nú eru góð ráð dýr.  Samhliða því að veita nú þegar leyfi fyrir verkhönnuðum virkjanakostum í nýtingarflokki Ramma 3 með lagasetningu, ef nauðsyn krefur, þarf strax að liðka fyrir og hvetja til smávatnsaflsvirkjana í landinu, en örvæntingin má ekki verða slík, að hlaupið verði til að reisa hér vindmylluskóga, jafnvel í grennd við byggð.  Ásýnd landsins mundi bíða mikinn hnekki við slíkt, og landið mundi tapa sérstöðu sinni sem land endurnýjanlegra orkulinda með orkumannvirkjum, sem falla vel að umhverfi sínu.

Það er ekkert vit í því að reisa vindmylluorkuver í vatnsorkulandi, þar sem ekkert borð er fyrir báru með aflgetuna.  Auk umhverfissjónarmiðanna er ástæðan sú, að ekki er unnt að reiða sig neitt á afl frá vindorkuverum, og þess vegna verður að reisa vatnsorkuver á móti vindmyllunum til að grípa inn, svo að ekki verði skammtíma aflþurrð í kerfinu.  Undir slíkum tvöföldum fjárfestingum er enginn fjárhagsgrundvöllur vegna lágs nýtingartíma. 

Þannig hefur raforka vindmylla minna verðgildi á markaðinum en forgangsorka vatnsafls- og jarðgufuaflsvera.  Það þýðir, að varla er annar markaður fyrir orku vindorkuveranna en markaður fyrir ótrygga orku, og fyrir hana fæst í mesta lagi  helmingsverð á við forgangsorkuna.  Við núverandi aðstæður dugar þetta ekki fyrir arðbæran rekstur vindorkuvera. 

 Varmaorka

 

 

 

 

   

 

 

 

 

 


Köttur í kringum heitan graut

Viðbrögð umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, gagnvart orkuvanda þjóðarinnar, sem í vetur veldur tugmilljarða ISK tekjutapi í hagkerfinu og mun draga úr hagvexti á þessu ári og næstu árum, eru ekki að öllu leyti uppörvandi fyrir þá, sem eldurinn brennur heitast á, þótt jákvæð tíðindi berist nú einnig. 

Ráðherrann virðist að nokkru leyti koma af fjöllum sorglegt ástand orkumála landsins, og hið eina bitastæða, sem fyrir vorþinginu liggur af verkefnum frá honum, er að draga úr óþarfa skriffinnsku við endurnýjun og jafnvel aflaukningu virkjana og að auðvelda fólki á rafhitunarsvæðum að setja upp hjá sér varmadælu til húshitunar og spara þannig um 60 % raforku til húshitunar.  Hvort tveggja er þó gott og blessað, en annars einkennast gjörðir ráðherrans af því að geta sagzt hafa brugðizt hratt við með nefndaskipunum til upplýsingaöflunar um mál, sem fullnægjandi þekking er á nú þegar í ráðuneytinu, hjá Orkustofnun og síðast en ekki sízt hjá Landsneti. Þó hefur nú frétzt af því, að Rammaáætlun 3 verði tekin á dagskrá vorþingsins, og er það gleðiefni, þótt mey skuli að morgni lofa. Það er vert að gefa gaum að því í þessu sambandi, að virkjanafyrirtækin hafa ekki séð sér hag í því enn að hefja framkvæmdir við öll verkefni í nýtingarflokki Rammaáætlunar 2.  Ætla má, að nú væri enginn raforkuskortur í landinu, ef allur nýtingarflokkur Ramma 2 væri nú kominn í gagnið.

Í Markaði Fréttablaðsins 26.01.2022 birtist umfjöllun um orkuskortinn og frásögn af viðbrögðum téðs ráðherra undir fyrirsögninni:

"Ráðherra lítur mögulega skerðingu á raforku alvarlegum augum".

Sennilega á kaldhæðni Helga Vífils Júlíussonar þátt í þessari fyrirsögn, þannig að hann hæðist að máttleysislegum viðbrögðum ráðherrans.  Umfjöllunin hófst þannig:

"Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, lítur tilkynningu Landsvirkjunar um, að mögulega verði dregið úr afhendingu raforku, alvarlegum augum.  Um leið og ráðuneytið varð þess áskynja, voru fulltrúar Landsvirkjunar og Orkustofnunar kallaðir á fund, og í kjölfar þess var sett af stað vinna við að bregðast við vandanum." 

Þetta hljómar eins og texti í fáránleikaleikhúsi.  Allir landsmenn vita, að þegar á þessum tíma var í gangi skerðing á ótryggðri orku, af því að raforkukerfið hefur ekki undan þörfinni, og við því er lítið hægt að gera annað en að veita framkvæmdaaðilum framkvæmdaleyfi við fullhannaðar virkjanir í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3, þegar Alþingi hefur afgreitt hana.  Landsvirkjun sótti 10. júní 2021 um virkjanaleyfi fyrir Hvammsvirkjun til Orkustofnunar. Orkustofnun svaraði meira en hálfu ári síðar með beiðni um meiri gögn.  Kerfið heldur tafaleikjum sínum áfram.  Þetta er stjórnsýsla án jarðsambands.   

Einhverjir gætu misst neðri kjálkann niður á bringu af undrun yfir því, sem ráðherrann lætur út úr sér:

""Staðan kom mér satt að segja á óvart. Um leið og ég varð þess áskynja, hvernig málin stæðu, þá leit ég það mjög alvarlegum augum.  Fundaði ég þegar í stað með aðilum, sem lýst höfðu yfir áhyggjum vegna stöðunnar til skamms tíma, og er unnið að lausn málanna.  Þá fundaði ég með Orkustofnun vegna stöðunnar, en stofnunin sendi í kjölfarið bréf á raforkufyrirtækin, eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum í vikunni", segir hann."

Þetta er lítið annað en sjálfshól ráðherra, sem kemur fram sem álfur út úr hól.  Er eitthvert annað raunhæft ráð við orku- og aflskorti en að virkja ?  Umrætt bréf Orkustofnunar er sennilega tilgangslausasta bréf sögunnar frá þeirri virðulegu stofnun hæfra stjórnenda, en þá var öldin önnur, er Gaukur bjó á Stöng. 

Áætlanir um orku- og aflþörf og framboð hins sama hafa frá árinu 2019 sýnt fram á yfirvofandi skort.  Kófið olli frestun vandans til 2022.  Morgunblaðið gerði rækilega grein fyrir málinu í forsíðufrétt og baksviðsfrétt 27. janúar 2022.  Baksviðsfréttin bar skuggalega fyrirsögn:

"Frekari skerðingar á næstunni".  

 

Föstudaginn 28. janúar 2022 bilaði tengivirki ON/Landsnets við Nesjavelli.  Þann dag kom til stórfelldra skerðinga á raforku og heitavatnslaust varð hjá tugþúsundum manna. Kólnaði verulega í húsum vegna gats, sem kom á stofnlögn Veitna vegna yfirþrýstings. Talverðar truflanir urðu á afhendingu raforku í kjölfar bilunarinnar á Nesjavöllum, t.d. hjá Norðuráli.  Þetta sýnir, að menn treysta á Guð og lukkuna, en hafa engin úrræði, þótt aðeins ein eining bili, í þessu tilviki tengivirki ON/Landsnets við Nesjavelli. 

Það er endalaust hummað fram af sér að styrkja kerfið til að gera það þolið gagnvart einni bilun, og aflgetan er nú nýtt til hins ýtrasta.  Þessir rekstrarhættir bjóða hættunni heim með óábyrgum hætti, og Orkustofnun virðist hvorki hafa faglega getu né áhuga á eða heimildir til að leggja mat á afhendingaröryggið og krefjast úrbóta af orkufyrirtækjunum.  Naglafægjarar og baunateljarar virðast móta stefnuna og ráða ferðinni varðandi raforkukerfið.  Afhendingaröryggið liggur þar óbætt hjá garði. 

Téð baksviðsfrétt hófst þannig:

"Ef miðað er við venjubundna aukningu raforkunotkunar samkvæmt raforkuspá eru líkur á, að draga þurfi úr afhendingu skerðanlegrar orku í meðalvatnsári, ekki aðeins í lélegu vatnsári, strax á næsta ári.  Staðan verður mun verri, ef áform um orkuskipti eða aukning á fyrirtækjamarkaði verður umfram spár. Í greiningu Landsnets kemur fram, að nauðsynlegt sé að bæta við afli með nýjum virkjunum og styrkja flutningskerfið."

Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar voru september og nóvember úrkomusamir á Suð-Vesturlandi árið 2021, og meðalhitastig ársins var 0,2°C yfir meðallagi áranna 1991-2020 með tilheyrandi meiri jökulbráðnun.  Það stendst því varla, að lág staða Þórisvatns stafi af sérlega lélegu ári fyrir vatnsbúskapinn, heldur stafar óvenju lág staða þar af einhverju öðru, og munar þar vafalaust mest um metálag á raforkukerfinu. Spár EFLU miða við meðalvatnsár, og kerfislíkan fyrirtækisins greindi þegar árið 2019 yfirvofandi skort í kerfinu.  Kófið gaf gálgafrest, en nú árið 2022 er fyrirsjáanlegur orkuskortur skollinn á, og orkuyfirvöldin eru með allt á hælunum. Það er lakari frammistaða en þjóðin á að þurfa að búa við.

Áfram með téða baksviðsfrétt:

"Landsnet gerir reglulega greiningar á afl- og orkujöfnuði landsins.  Í síðustu birtu greiningu, sem EFLA-verkfræðistofa gerði á árinu 2019, voru taldar líkur á aflskorti á árinu 2022 og enn frekar á árinu 2023.  Aflskortur þýðir, að ekki er nægt afl tiltækt í virkjunum til að fullnægja aflþörf.  Líkurnar á aflskorti aukast, ef litið er til kalds vetrardags, sem reikna má með, að komi á 10 ára fresti.  Þetta hefur gengið eftir, eins og komið hefur fram í ákvörðunum Landsvirkjunar að undanförnu um að takmarka afhendingu á orku samkvæmt samningum um skerðanlega orku vegna lélegrar vatnsstöðu á Suðurhálendinu."

Orkustofnun og þáverandi atvinnuvegaráðuneyti mátti vera ljóst í síðasta lagi fyrir 3 árum, að í óefni stefndi með orkujöfnuð landsins og að þar af leiðandi væru loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar í uppnámi.  Samt var setið með hendur í skauti og látið sem orkumálin væru í himnalagi og jafnvel enn bætt í loftslagsmarkmiðin.  Um þetta er það aðeins að segja, að þetta er glórulaus stjórnsýsla, þar sem sýndarmennskan ræður ferðinni.    

 

   

 

 

 

 

 

 

 

 

 


"Gríðarleg olíubrennsla"

Orkustefna og þar með loftslagsstefna stjórnvalda eru staddar í öngstræti vegna lamandi áhrifa græningja á vinstri kanti stjórnmálanna á stjórn landsins, en hugmyndafræði þeirra virðist hafa snúizt upp í afturhvarf til fortíðar.  Fyrirhyggjuleysið í orkumálum og hræsnin um náttúru og hlýnun andrúmslofts haldast hönd í hönd, því að samhliða öfgakenndri andstöðu við orkuframkvæmdir yfir 10 MW og jafnvel minni hafa græningjarnir tekið þátt í að semja loftslagsmarkmið fyrir Ísland, sem kynnt hafa verið á alþjóðavettvangi af núverandi forsætisráðherra sem skuldbindingar Íslands (55 % minnkun losunar 2030 m.v. 2005). 

Hið veigamesta í þessum markmiðum er reist á orkuskiptum í landumferð og hjá fiskiskipaflotanum, en forsenda þessara orkuskipta er nægt raforkuframboð frá endurnýjanlegum orkulindum.  Nú er staðfest, að raforkukerfi landsins er orðið yfirlestað, því að það ræður ekki við álag allra viðskiptavina að vetrarlagi.  Þurrkaár í fyrra er bara smjörklípa.  Fyrirsjáanlegur er orku- og aflskortur fram að næstu verulegu virkjun, þ.e. a.m.k. til 2027, þannig að loftslagsstefna stjórnvalda er ekki pappírsins virði og hefur aldrei verið annað en helber hræsni. 

Hlutur Orkustofnunar (OS) er skrýtinn í þessu máli.  Eðlilegt væri, að hún linnti ekki látunum, þegar fyrirsjáanlegt er, að spár hennar um þróun orkunotkunar fara fram úr spám um orkuframboð. Það hefur verið ljóst í nokkur ár, að yrði, þegar allt færi í gang eftir Kófið.

Fyrrverandi orkumálastjóri varaði iðulega við allt of þunglamalegu og óskilvirku leyfisveitingaferli fyrir nýjar virkjanir. Núverandi orkumálastjóri virðist vilja laga fyrirtækin að viðvarandi orkuskorti, því að hún hefur hvatt orkuseljendur til að selja ekki hæstbjóðanda raforkuna, nema hann styðji við orkuskiptin innanlands. Þetta er kúvending, sem gengur í berhögg við markaðslögmálin og getur framkallað ólögmæta mismunun mismunandi atvinnustarfsemi.

Þessi orkumálastjóri sendi um miðjan janúar 2022 bréf til allra raforkuframleiðenda landsins og spurði þá efnislega á þá leið, hvort þeir lumuðu á orkuvinnslugetu, sem þeir gætu hugsað sér að setja í gang í vetur. Þetta er afar sérkennileg spurning, því að enginn getur haft hag af því að halda aftur af orkuvinnslugetu fyrirtækis síns við núverandi aðstæður.  Eiginlega hlýtur fiskur að liggja undir steini hjá orkumálastjóra.  Vitað er um niðurdrátt í ýmsum jarðgufuvirkjunum, og hefur hann verið einna mestur í Hellisheiðarvirkjun, en til að vega upp á móti slíku þarf annaðhvort að tengja virkjun við annað jarðgufuforðabúr, auka niðurdælingu til að fá meiri gufu eða til bráðabirgða að fjölga vinnsluholum, en allt tekur þetta tíma.  Gefnir voru 2 sólarhringar til að svara.  Hefði ekki verið nær að hringja í forstjórana og fá uppgefna orkuvinnsluna vikuna á undan, bera saman við málgetuna og leita síðan skýringa á hugsanlegum frávikum ?  

 

Þann 21. janúar 2022 gerði Morgunblaðið nokkrar afleiðingar yfirstandandi orku- og aflskorts að umfjöllunarefni á forsíðu sinni með sömu fyrirsögn og á þessum pistli.  Umfjöllunin hófst þannig:

"Orkubú Vestfjarða og RARIK búa sig undir að brenna milljónum lítra af olíu á komandi mánuðum til þess að tryggja húshitun á Vestfjörðum og á Seyðisfirði.  Forstjóri Orkubúsins telur raforkuskort leiða tæplega MISK 500 kostnað yfir fyrirtækið á komandi þremur mánuðum, og að honum verði óhjákvæmilega velt yfir á neytendur á Vestfjörðum til lengri tíma litið.  Höggið jafngildi kISK 70 reikningi á hvert mannsbarn á svæðinu."

Hér eru mikil firn á ferð, sem skrifa má á öfgafulla virkjanaandstæðinga, sem lagt hafa sig í líma við að leggja stein í götu nýrra vatnsaflsvirkjana á Vestfjörðum, sem þó eru í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3.  Slíkar öfgar eru hrein skemmdarverkastarfsemi gegn velferð almennings á Vestfjörðum, þegar árlegur reikningur á hverja 4 manna fjölskyldu þar mun nema a.m.k. 280 kISK/ár vegna raforkuskorts.  Slíkar viðbótar byrðar eru ekkert gamanmál fyrir íbúa, sem mega una við háan vöruflutningakostnað og þ.a.l. væntanlega hærra verðlag en á höfuðborgarsvæðinu. Er ekki eðlilegt, að ríkið hlaupi undir bagga með íbúunum í ljósi þess, að handhafar ríkisvaldsins hafa brugðizt þeirri skyldu sinni (enginn þykist ábyrgur) að sjá íbúum landsins fyrir nægu framboði raforku (álagsgeta kerfisins er við þolmörk á vetrum) ?  Kostnaðurinn er lítilræði í hlutfalli við væntanlegar arðgreiðslur Landsvirkjunar til ríkissjóðs í ár. 

"Orkuskerðingin, sem fyrirtækin standa frammi fyrir, kemur í kjölfar þess, að Landsvirkjun hafði einnig tilkynnt öllum fiskimjölsverksmiðjum landsins, að þær myndu ekki fá keypta skerðanlega orku úr kerfum fyrirtækisins.  Hafa forsvarsmenn fyrirtækjanna áætlað, að það leiði til þess, að 20 Ml af olíu verði brennt við bræðsluna á yfirstandandi vertíð." 

Þessi raforkuskerðing til fiskimjölsverksmiðjanna ríflega tvöfaldar orkukostnað þeirra, sem þýðir ríflega mrdISK 1 í viðbótarkostnað og ríflega 1 % aukningu á koltvíildislosun Íslands á árinu 2022.  Tekjutap stóriðjunnar vegna orkuskerðinga við hana getur orðið einni stærðargráðu meira eða um mrdISK 20 á árinu 2022.  Þetta er herfilegur minnisvarði um misheppnaða orkustefnu stjórnvalda undanfarinna ára, gjörsamlega að þarflausu, og nú verður umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Kötustjórnar 2 að setja hæl undir nára merarinnar til að afla orku fyrir landsmenn á þessu kjörtímabili, ef áratugurinn á ekki allur að markast af misráðinni orkulöggjöf, sem dregur niður lífskjörin og veldur atvinnuleysi í landinu, er fram líða stundir.

"Gögn, sem Landsvirkjun hefur veitt Morgunblaðinu aðgang að, sýna, að skammtímamarkaður með raforku hefur tekið miklum breytingum á örfáum vikum.  Á 90 dögum hafa s.k. mánaðarblokkir á þeim markaði hækkað um 46 %.  Í svari fyrirtækisins við fyrirspurn blaðsins segir, að vatnsbúskapur hafi ekki verið lakari um árabil vegna þurrka, og á sama tíma sé eftirspurn eftir raforku mikil.  "Raforkukerfið er fulllestað um þessar mundir, og Landsvirkjun hefur ekki getað annað allri eftirspurn frá núverandi viðskiptavinum."

Þarna kemur fram, að raforkukerfið sé fulllestað.  Skýringin á því er ekki slæm staða miðlunarlóna, heldur aflskortur í kerfinu, þ.e. það vantar nýjar virkjanir inn á kerfið.  Miðlunarstaða Hálslóns hefur verið góð í haust og vetur, en samt er fiskimjölsverksmiðjum á Austfjörðum og reyndar í Vestmannaeyjum neitað um ótryggða orku, um 180 GWh.  Skýringin er ekki vatnsskortur fyrir austan, heldur aflskortur í kerfinu.  Hér sunnan heiða var hvorki sérlega þurrt né kalt árið 2021, svo að skýringar á lágri miðlunarstöðu Þórisvatns er ekki að leita í veðrinu, heldur í miklu álagi á vatnsorkuverum Tugnaár/Þjórsár m.v. miðlunargetuna.  

Iðnaðurinn framleiddi á fullum afköstum og e.t.v. hafa önnur orkuver framleitt minna en vant er af illviðráðanlegum ástæðum.  Þessi staða kann að boða árlegan orkuskort fram að næstu virkjun, sem um munar. 

Daginn eftir, 22.01.2022, rakti Morgunblaðið fleiri afleiðingar raforkuskortsins á forsíðu sinni undir fyrirsögninni:

"Skortur hefur víða áhrif".

Af lýsingunni varð enn skýrara, að orkuskiptin hafa steytt á skeri, og það er urgur í sveitarstjórnarmönnum út af því, að miklar orkuskiptafjárfestingar nýtast ekki, heldur lendir nú mikill viðbótar rekstrarkostnaður á fjárfestum og/eða rekstraraðilum, þar sem olíuverð er nú í hæstu hæðum. Téð umfjöllun hófst þannig:

"Forsvarsmönnum Vestmannaeyjaferjunnar hefur verið tilkynnt, að komið geti til skerðingar á afhendingu raforku til rekstrar Herjólfs.  Fyrirtækið hefur keypt skerðanlega raforku til starfseminnar.  Mun olíunotkun skipsins margfaldast, verði skerðingin að veruleika. 

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri á Ísafirði, kallar eftir tafarlausum úrbótum á raforkumálum Vestfjarða.  Tómt mál sé að tala um orkuskipti, þegar fjórðungurinn standi frammi fyrir því að þurfa að brenna milljónum lítra af olíu á komandi mánuðum til að tryggja húskyndingu.  Þá komi ekki til greina að samþykkja stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum fyrr en tryggt verði, að slík stofnun girði ekki fyrir nauðsynlegar virkjanaframkvæmdir.  Forstjóri Orkubús Vestfjarða ítrekar, að hagfelldasti kosturinn væri að reisa 20-30 MW virkjun í Vatnsfirði í Vestur-Barðastrandasýslu."

Hér skal taka eindregið undir með bæjarstjóranum á Ísafirði.  Það hefur verið einstaklega ógeðfellt að fylgjast úr fjarlægð með því, hvernig ofstopa-umhverfisafturhald utan Vestfjarða hefur rekið  skefjalausan áróður gegn því, að vilji Vestfirðinga og Verkefnisstjórnar Rammaáætlunar 3 um vatnsorkuver á Vestfjörðum nái fram að ganga.  

 

 

 

 

 


Vandræði í Noregi vegna raforkumarkaðarins

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sá áfangi í orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB), sem gengur undir heitinu Orkupakki 3, var samþykktur af Stórþinginu í Ósló í marz 2018 við víðtæk mótmæli í landinu, og enn er í gangi rekistefna fyrir dómstólum um lögmæti þeirrar samþykktar, því að ekki var krafizt aukins meirihluta (3/4 greiddra atkvæða, þar sem a.m.k. 2/3 þingmanna greiði atkvæði), eins og stjórnarskrá Noregs áskilur, þegar um er að ræða valdframsal til útlanda, sem varðar hag almennings beint. 

Alþingi samþykkti sömu löggjöf ESB haustið 2019 við fögnuð í norska stjórnarráðinu, en sorg um endilangan Noreg, en með þeim mikilsverða fyrirvara þó, sem líklega brýtur í bága við EES-samninginn, að Alþingi áskilur sér rétt til að eiga síðasta orðið um tengingu aflsæstrengs frá útlöndum við raforkukerfi Íslands. Það eru einmitt öflugar sæstrengstengingar á milli Noregs, Englands, Þýzkalands og Hollands, sem eru rót gríðarlegrar óánægju almennings í Noregi með raforkuverðið þar, sem hefur margfaldazt síðan 2020. 

Samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum vill meirihluti Norðmanna nú segja skilið við ACER-Orkuskrifstofu ESB og ganga úr Orkusambandinu við ESB, sem lögfest voru í EFTA-löndunum þremur, sem eru í EES, með Orkupakka 3. Svo mikil er óánægjan í Noregi, að u.þ.b. helmingur landsmanna vill nú gera fríverzlunarsamning við ESB í stað EES-samningsins.  Fríverzlunarsamningur EFTA, með Svisslendinga innanborðs, gæti þjónað hagsmunum Íslendinga vel. 

Það er þannig í norska markaðskerfinu, að raforkuverð á heildsölumarkaði Nord Pool er breytilegt frá einni klukkustund til annarrar og það er ólíkt eftir landshlutum.  Sunnan við Þrándheim er það tífalt á við verðið í Mið- og Norður-Noregi.  Þann 9. febrúar 2022 var raforkukostnaður um 2,0 NOK/kWh=28,2 ISK/kWh (raforkuverð+flutnings- og dreifingargjöld og rafskattur og vsk).   Í Þrándheimi nam heildsöluverðið þann dag að meðaltali aðeins 12,6 Naur/kWh=1,8 ISK/kWh, og lætur þá nærri, að einingarkostnaður þar hafi numið 3,0-4,0 ISK/kWh, sem er aðeins um fimmtungur þess, sem íslenzkar fjölskyldur borga fyrir kWh.  Norska fjölskyldan kaupir hins vegar fimmfaldan fjölda kWh á við þá íslenzku, því að hún rafhitar íbúðina sína.  Í Suður- og Vestur-Noregi er þess vegna um verulega lífskjaraskerðingu að ræða eða um 500 kISK/ár, sem alfarið er hægt að rekja til raforkuviðskiptanna við útlönd. 

Þetta hefur valdið almennri óánægju með markaðskerfi raforku í Noregi.  Statkraft (norska Landsnet, ríkisfyrirtæki), sem á allar millilandatengingarnar við Noreg, ræður ekki lengur yfir flutningunum (eftir OP3), heldur ACER, sem leyfir markaðinum að ganga svo á miðlunarlónin í Suður- og Vestur-Noregi, þaðan sem millilandatengingarnar eru, að verðið helzt tífalt á við það, sem það annars væri.

Íbúar Mið-Noregs óttast að verða fórnarlömb þessa orkuokurs í kjölfar bættrar tengingar við Vestur-Noreg, sem nú stendur yfir.  Fyrirtæki í Suður- og Vestur-Noregi, sem ekki hafa langtímasamninga, hafa orðið fyrir gríðarlegum kostnaðarauka, og þessi fáránlega staða í vatnsorkulandinu Noregi virkar hagvaxtarhamlandi, en á sama tíma græðir norski olíusjóðurinn á mikilli gassölu, og olíuverði er nú spáð yfir 100 USD/tunnu áður en langt um líður. Ríkisstjórnin getur stundað dýrar millifærslur úr ríkissjóði án skuldsetningar með því að ganga á ávöxtun olíusjóðsins.  

Ríkisstjórnin hefur t.d. aukið s.k. búsetustuðning við hina verst settu vegna hækkaðs orkukostnaðar og lækkað rafskattinn. 

Norskt rafmagn hefur verið flokkað sem vara, sem er keypt og seld á Nord Pool markaðinum. Þetta er í samræmi við orkulöggjöf ESB. Raforkuvinnslufyrirtækin stórgræða á viðskiptunum við fjölskyldurnar, orkufyrirtæki án langtímasamninga og sveitarfélög, sem ekki eiga hlutdeild í virkjunum. Lengi vel var sá áróður hafður uppi í Noregi, að millilandaraforkutengingar væru Norðmönnum nauðsynlegar í slökum vatnsbúskaparárum, en fjárhagsleg sjónarmið annarra en alþýðunnar sátu í raun í fyrrúmi, enda eru nú téðar millilandatengingar orðnar fleiri og öflugri en þörf er á afhendingaröryggisins vegna. Afleiðingin er innflutningur á ógnvekjandi háu raforkuverði og útflutningur á orkuforða miðlunarlóna vatnsorkuvirkjananna, einkum í Suður- og Vestur-Noregi.  Ofan á dræman vatnsbúskap sumarið 2021 lagðist mikil spurn eftir raforku frá útlöndum, svo að vatnsstaða miðlunarlóna í þessum landshlutum er langt undir meðallagi, sem endurspeglast í tíföldun raforkuverðsins núna. 

Statnett stendur nú að eflingu raforkuflutningskerfisins á milli norðurs og suðurs á svipaðan hátt og Landsnet á Íslandi.  Þetta er mikilvægt til að styrkja núverandi vinnustaði í báðum  löndunum og til að gera kleift að stofna til nýrra, en eins og kunnugt hefur á Norðurlandi, t.d. í Eyjafirði, orðið að fresta framkvæmdum, og atvinnutækifæri hafa jafnvel tapazt fyrir vikið.  Þetta er gjörsamlega ólíðandi fyrir almannahag á Íslandi, en í Noregi eru uppi miklar áhyggjur af því, að efling af þessu tagi verði aðeins til að auka útflutning raforku og hækka raforkuverð í Mið- og Norður-Noregi, sem þá gerir atvinnuuppbyggingu þar að engu.  Brostnar vonir kynda undir þjóðfélagsóánægju, og hún mun brjótast fram í mótmælum í Noregi 15. febrúar 2022.

Rafmagn er hluti innviða þjóðfélagsins, sem nota ber til að búa til atvinnu og að tryggja trausta og grózkumikla byggð um allt land.  Með þessu áframhaldi í Noregi eiga Norðmenn á hættu, að orkusækinn iðnaður í dreifðum byggðum landsins flytjist til landa, þar sem orkukerfið er alfarið reist á jarðefnaeldsneyti.   Sams konar eyðilegging á samkeppnishæfni bíður fyrirtækja á Íslandi, ef yfirvöld glepjast á að innleiða hér spákaupmennsku á raforkumarkaði, eins og viðgengst í Noregi, og almenningur þar á fjölmennum  landssvæðum sýpur nú soðið af. Nú er verið að rafvæða olíu- og gasborpalla á norska landgrunninu, sem þá keppa um rafmagn á markaði við heimilin, sem kynda húsnæði sitt með rafmagni.  Hátt raforkuverð gerir vindorkuver hagkvæm í Noregi, en þau eru eðlilega náttúruunnendum í Noregi mikill þyrnir í augum, og vaxandi andstaða er gegn þeim, þegar fólk sér afleiðingarnar, enda eiga Norðmenn enn mikið óvirkjað vatnsafl. 

Orkupakkar ESB leggja grunn að samkeppnismarkaði með rafmagn í kauphöll og ófyrirsjáanlegu raforkuverði.  Orkuskrifstofa ESB, ACER, gegnir því meginhlutverki að koma á flutningskerfi og regluverki, sem valda nokkurn veginn sama raforkuverði í Noregi (og Íslandi og Liechtenstein) og í ESB. Ísland er sem betur fer enn ótengt erlendum raforkukerfum, en hér stefnir hins vegar í óefni, af því að þeirrar forsjár hefur ekki verið gætt að bæta við nægum virkjunum, svo að hér sé alltaf borð fyrir báru, hvernig sem tíðarfarið er.

Aðalkrafa mótmælendanna í Noregi 15. febrúar 2022 verður, að Noregur endurheimti fullveldi sitt yfir orkumálunum úr höndum ESB.  Það er svo mikill hiti undir þeirri kröfu, að hrikt getur í stoðum EES-samstarfsins.  Það er verkalýðshreyfing Noregs sem fer fyrir þessari kröfugerð, og stærri stjórnarflokkurinn í ríkisstjórn Noregs er nú Verkamannaflukkurinn, sem jafnan hefur sveigt stefnu sína að stefnumörkun Alþýðusambands Noregs og/eða stærstu verkalýðsfélaganna.  Hinn stjórnarflokkurinn, Miðflokkurinn, barðist á Stórþinginu og í grasrótinni gegn innleiðingu Orkupakka 3 í Noregi.  

Baráttufólk iðnaðarins í Noregi mun í samstarfi við verkalýðsforystuna í Björgvin og grennd taka frumkvæði að því að virkja almenning til að krefjast mikillar lækkunar raforkuverðs.  Það jafngildir því, að stjórnvöld afnemi núverandi verðlagskerfi raforku og að stjórnmálamenn ákvarði raforkuverðið út frá heildarkostnaði og arðsemi í líkingu við meðalarðsemi atvinnulífsins.  Norðmenn líta upp til hópa á vatnsaflið sem sitt erfðasilfur, sem þjóna eigi almenningi og eigi að skapa iðnaðinum og atvinnulífinu almennt samkeppnisforskot.  Til bráðabirgða er farið fram á niðurfellingu rafskatts og virðisaukaskatts á rafmagni. 

Til þess að lækka raforkuverðið með viðráðanlegum og sjálfbærum hætti eru kröfur baráttufólksins róttækar og skiljanlegar:

  • Við rekstur raforkukerfisins skal leggja áherzlu á að halda miðlunargetunni ofan hættumarka á tæmingu.  Stöðva ver útflutning rafmagns, þegar miðlunargetan fer niður að meðaltali árstímans.
  • Ganga úr ACER og Orkusambandi ESB, en halda áfram að eiga raforkuviðskipti við nágrannalöndin Svíþjóð og Danmörk. 
  • Gera skal langvarandi raforkusamninga við norskan iðnað og landbúnað um fyrirsjáanleg verð og veita heimilum kost á tvíverðssamningum, t.d. dagtaxta og næturtaxta. 

Þegar höfð er í huga þykkjan, sem er í Norðmönnum vegna þess, hvernig spákaupmenn komast upp með að leika sér með erfðasilfur þeirra, orkuafurð vatnsaflsins, undir verndarvæng löggjafar, sem flutt er inn frá ESB, nú síðast undir heitinu Orkupakki 3, er engin furða, að stjórnarflokkarnir hafi einfaldlega komið sér saman um að taka Orkupakka 4 af dagskrá í Noregi.  Norðmenn vissu, að íslenzka ríkisstjórnin yrði fegin að þurfa ekki að leggja út í orrahríð út af Orkupakka 4, og þess vegna var ákveðið innan vébanda EFTA að salta OP4 í nefnd út þetta kjörtímabil og ESB tilkynnt þar um.  Nú er hins vegar spurningin, hvort meirihluti myndast senn á Stórþinginu fyrir því að kasta OP3 í ruslakörfuna.  Ef nógu margir Stórþingsmenn komast á þá skoðun, að hann vinni gegn hagsmunum Noregs, þá verður það gert.  Alþingi mun varla sýta það, en spurning er, hvernig Framkvæmdastjórnin í Brüssel bregst við.  Sem stendur eru Norðmenn í lykilstöðu sem einn af aðalbirgjum Evrópu fyrir jarðgas.  Skrúfi Noregur fyrir, frýs í húsum Evrópu, og fyrr mun sennilega frjósa í Helvíti. 

 lv-kapall-kynning-april-2011

 


Opinberar sóttvarnaraðgerðir hafa valdið tjóni, en hafa þær gert gagn ?

Hér birtist þýðing á grein sænska læknisins Sebastians Rushworth á vefsetri hans undir fyrirsögninni:

"Covid opinberlega afstaðin í Svíþjóð"

Við eigum eftir að standa andspænis öðrum og alvarlegri sjúkdómsfaröldrum en C-19.  Þess vegna er nauðsynlegt að gera hlutlæga athugun á viðbrögðum hins opinbera og einkaaðila við þessum tiltölulega væga faraldri, t.d. í samanburði við ebólu, svo að móta megi hagkvæm og skilvirk og fumlaus viðbrögð við næstu faröldrum.  Hefst nú grein Sebastians:

"Sænska ríkisstjórnin hefur ákveðið að binda enda á allar hömlur tengdar covid 9. febrúar 2022.  Þar að auki verður samkomuhöldurum og atburðastjórnendum óheimilt að krefja gesti um bólusetningarvottorð. Ennfremur mælir landlæknir með, að covid verði ekki lengur flokkað sem "ógn við lýðheilsu".  Svíþjóð er 3. í röð Norðurlandanna til að afnema covid-hömlur og fylgir þar á hæla Danmerkur og Noregs.

Ákvörðunin felur í sér viðurkenningu á þeirri staðreynd, að covid hefur breytzt úr því að vera heimsfaraldur í hefðbundna umgangspest.  Landlæknir áætlar, að 500´000 Svíar hafi smitazt í viku 04/2022 [18´500 á íslenzkan mælikvarða-innsk. BJo] (sem er tvöfaldur fjöldi greindra tilvika ).  Á sama tíma dó aðeins 181 af/með covid [7 á íslenzkan mælikvarða] (mögulega fleiri "með" en "af").  Það setur núverandi dánarhlutfall af covid í sömu stíu og kvef.  Eins og margir hafa spáð, hefur C-19 nú orðið 5. "kvef"- kórónuveirusjúkdómurinn.

Nú þegar faraldurinn er opinberlega afstaðinn, finnst mér áhugavert að líta til baka og athuga, hversu slæmur hann raunverulega var.  Áður en við gerum það skulum við minnast þess, að Svíþjóð beitti vægum úrræðum gegn faraldrinum allan tímann. Það þýðir, að Svíþjóð er gagnleg "viðmiðun" til að skilja, hvað mundi hafa gerzt, ef yfirvöld (í mörgum löndum) hefðu ekki beitt aflokunum (lockdowns), lokað skólum og þvingað alla til að setja upp grímu. 

Ef við viljum skilja, hversu mikil lífsógn faraldurinn var, þá er bezti mælikvarðinn fjöldi heildardauðsfalla.  Það er eini mælikvarðinn, sem ekki er auðveldlega hægt að föndra með í annarlegu augnamiði.  "Coviddauðdagar" er ekki góður mælikvarði, af því að hann er túlkunaratriði.  Ólíkir læknar, ólík sjúkrahús og ólík lönd, skilgreina coviddauðdaga með ólíkum hætti.  Oft sést í opinberri tölfræði, að "dauðdagar með covid" (þ.e. dánarorsök önnur, en sá látni var með covid eða a.m.k. hafði slíkt próf reynzt jákvætt) eru skilgreindir sem "coviddauðdagar", sem gerir erfitt um vik að ákvarða hina raunverulegu dánartíðni af völdum covid. [Þetta á nánast örugglega við um Ísland einnig-innsk. BJo.]

Tölfræðistofnun sænsku ríkisstjórnarinnar (SCB) [Hagstofan] vinnur fyrirtaks tölfræðigögn, mögulega áreiðanlegustu opinberu tölfræðigögn  í heiminum.  "Harold on Twitter" hefur útbúið afar hjálpleg gröf á grundvelli þessarar tölfræði. 

Á "harold-graph-1" í viðhengi koma fram heildardauðsföll í Svíþjóð 1991-2021.  Við sjáum hægt fallandi dánartíðni á þessu 30 ára skeiði, frá u.þ.b. 1´100 dauðsföllum á 100´000 í byrjun 10 áratugarins niður í að meðaltali u.þ.b. 900 dauðsföll á 100´000 íbúa síðastliðin 5 ár.  Þessi lækkun er líklega aðallega út af því, að vænt ævilengd í Svíþjóð hefur lengst töluvert á þessu 30 ára skeiði eða úr 78 árum 1991 í 83 ár núna. 

Næst sjáum við óvenju lága dánartíðni 2019.  Þess vegna var viðbúið, að árið 2020 yrði verra en meðalár af þeirri einföldu ástæðu, að árum með dánartíðni undir meðaltali fylgja vanalega ár með yfir meðaltals dánartíðni (af því að ár með undir meðaltals dánartíðni þýðir, að þá eru margir heilsuveilir við dauðans dyr í upphafi næsta árs).  Við getum séð þetta á grafinu - þegar dánartíðni lækkar umtalsvert á einu ári, fylgir því venjulega hækkun dánartíðni árið eftir. Þannig verður árið 2020 líklegt til að vera með hærri dánartíðni en meðaltals dánartíðni áður en C-19 varð vart. 

Þá komum við að árinu 2020, og þar sjáum við áhrif faraldursins (ásamt viðbúinni dánartíðni aðeins yfir meðaltalinu), með heildardauðsfallafjölda u.þ.b. 945 á 100´000 íbúa í samanburði við meðaltal síðustu 5 ára, sem er 900 á 100´000 íbúa.  Þannig voru árið 2020 45 viðbótar dauðsföll á 100´000 íbúa í samanburði við meðaltal undanfarinna 5 ára, sem jafngildir u.þ.b.    4´600 manns.  Það þýðir, að faraldurinn ásamt þeirri staðreynd, að 2020 sigldi í kjölfar árs með óvenju lága dánartíðni, olli um 4´600 viðbótar dauðsföllum, sem er 0,04 % af íbúafjölda Svíþjóðar. 

Hvað getum við ályktað ?

Jú, það varð smáfjölgun dauðsfalla 2020 út af covid, en hún varð ósköp lítil.  Ég segi ekki, að covid sé ekki hættulegur sjúkdómur fyrir suma hluta þjóðfélagsins, en allar fullyrðingar um, að þetta væri afar lífshættulegur faraldur á við spænsku veikina eru greinilega gríðarlega orðum auknar.  Það kemur einkar vel í ljós, þegar við höldum áfram og lítum á árið 2021. Eins og fram kemur af grafinu, var dánarhlutfall það ár ekkert umfram meðaltalið.  Raunar var 2021 með næstminnstu dánartíðni í sögu Svíþjóðar !

Þetta er svo þrátt fyrir þá staðreynd, að opinberar tölur sýna 6000 dauðsföll með/af covid í Svíþjóð 2021 [þetta eru 220 á íslenzkan mælikvarða].  Greinilega voru þá flest þessara 6000 dauðsfalla fremur "með" en "af" covid, eða fólkið, sem dó af covid var flest komið svo að fótum fram, að það hefði látizt árið 2021 hvort eð var, jafnvel án covid.

Þegar við skoðum gögnin mánuð fyrir mánuð (aftur leyfi frá Harold og SCB, sjá viðhengi þessa pistils), sjáum við dálítið áhugavert [harold-graphs-2-1].

Við sjáum dauðsföll yfir meðaltali í Svíþjóð frá apríl til júní 2020 og síðan aftur frá nóvember 2020 til janúar 2021.  Í öllum öðrum mánuðum þessa tveggja ára tímabils voru dauðsföllin færri en búast mátti við.  Þannig voru umframdauðsföll af völdum þessarar veiru í reynd aðallega á tveimur stuttum tímabilum, og var annað vorið 2020 og hitt veturinn 2020/2021.  Utan þessara tveggja tímabila voru áhrif veirunnar lítil.  Sænska ríkisstjórnin hefur opinberlega lýst yfir lokum faraldursins nú, en sé litið á tölfræði mánaðarlegra heildardauðsfalla, lítur út fyrir, að honum hafi lokið fyrir einu ári [líklega með hjarðónæmi í Svíþjóð - innsk. BJo].

Jæja, þetta var um það, hvernig covid lék Svía, þjóðina, sem aldrei var beitt aflokunum á starfsemi og sem margir gerðu lítið úr sem "útlagaþjóð" á fyrri hluta faraldursskeiðsins.  Þegar við hins vegar skoðum tölfræði heildarandláta og sjáum fjöldann, sem raunverulega dó af völdum covid, er alveg ljóst, að Svíþjóð var e.t.v. landið, sem brást viturlegast við faraldrinum með aðgerðum, sem voru að mestu í samræmi við ógnina, sem við blasti.  Aðrar þjóðir á hinn bóginn gengu fram með slaghömrum gegn flugum. 

Eitt er það, sem áhugavert er að hugsa um í ljósi þessa, og það er heildardauðsfallafjöldi á 100 k íbúa í öðrum löndum.  Fyrst Svíþjóð, sem skellti ekki í lás, var aðeins með örlítið fleiri dauðsföll 2020 en að meðaltali 5 árin á undan og engin umframdauðsföll 2021, er ljóst, að covid-19 hefur í sjálfu sér ekki valdið umtalsverðu tjóni.  Það þýðir, að tíðni dauðsfalla umfram smáræðið í Svíþjóð í löndum, sem skelltu í lás (lockdown), getur ekki verið vegna veirunnar.  Orsakanna hlýtur að verða að leita annað. Fyrst hið hina, sem skildi að Svíþjóð og þessi önnur lönd um þetta 2 ára skeið, var höfnun [Svíþjóð] og notkun [aðrir] aflokana, er næstum örugglega hægt að skýra umframdauðsföll með aflokunum.  

Tökum Bandaríkin (BNA) sem dæmi.  Ólíkt Svíþjóð var víða í BNA gripið til stórtækra aflokana.  Komu þessar aflokanir í veg fyrir einhver covid-dauðsföll ?  Ja, ef við lítum bara á hráar tölurnar, þá sjáum við enga slíka fækkun dauðsfalla m.v. Svíþjóð.  Samkvæmt opinberum tölum hafa 0,27 % bandarísku þjóðarinnar látizt af/með covid [Ísland 0,01 %] í samanburði við 0,16 % Svía - þrátt fyrir aflokanir hafa Bandaríkjamenn mátt þola marktakt fleiri covid-dauðsföll en Svíar m.v. 100 k íbúa !

Þetta er í samræmi fjölda gagna, sem sýna fram á, að opinberar aflokanir og hömlur á samkomum og rekstri voru óskilvirkt úrræði gagnvart SARS-CoV-2.  Nú fyrst við vitum, að höftin eru óskilvirkt úrræði til að stöðva veiruna, mundum við búast við, að í BNA væru áhrif faraldursins á heildarandlátsfjöldann svipuð og í Svíþjóð - þ.e. smávegis aukningu í fjölda heildarandláta má búast við.  Ef á hinn bóginn aukningin er miklu meiri í BNA en í Svíþjóð, þá er hún líklega sökum haftanna.  Hvað sjáum við á grafinu "image-1", sem reist er á gögnum CDC (Sóttvarnastofnun BNA) í viðhengi ? 

Við sjáum aukningu í heildarfjölda andláta í BNA 2020 og 2021, sem er markvert meiri en í Svíþjóð.  Í Svíþjóð er hlutfallsleg aukning heildarfjölda andláta 1 % í samanburði við meðaltal áranna 5 á undan (frá 900 dauðsföllum á 100 k árin 2015-2019 til 912 dauðsföll á 100 k árin 2020-2021).

Í BNA er hlutfallsleg aukning heildardauðsfalla 18 % ! (frá 860 dauðsföll á 100 k árin 2015-2019 til 1016 dauðsföll á 100 k árin 2020-2021).  Það er 18-föld meiri aukning dauðsfalla á þessum 2 árum farsóttarinnar í BNA en í Svíþjóð !

Samantekt: BNA er með innan við tvöfalt fleiri [1,7 sinnum fleiri] covid-dauðsföll en Svíþjóð (0,27 % af bandarísku þjóðinni m.v. 0,16 % af sænsku þjóðinni), en 18 sinnum fleiri umframdauðsföll [frá meðaltali] !  Greinilega er ekki hægt að útskýra þann gríðarlega mun með veirunni.  Það verður að útskýra hann öðruvísi.  Eina haldbæra skýringin frá mínu sjónarhorni eru hrikalegar afleiðingar haftanna á frelsi fólks og fyrirtækja fyrir heilsufar almennings.  Það verður áhugavert að fylgjast með því, hvort bandaríska þjóðin lætur stjórnmálaforystu sína á næstu árum gjalda fyrir gríðarlegan skaða, sem hún hefur valdið þjóðinni með dómgreindarleysi sínu."  Undirstrikun þýðanda. 

 Sóttvarnaryfirvöld hérlendis sitja við sinn keip og fullyrða án þess að hafa rannsakað það neitt nánar, að alls konar dýrkeyptar hugdettur þeirra, sem framkvæmdar hafa verið umhugsunarlítið með útgáfu reglugerða heilbrigðisráðherra, hafi gert eitthvert gagn.  Þá er því oftast kastað fram, að höftin hafi dregið úr álagi á heilbrigðiskerfið.  Hér skal kasta fram þeirri tilgátu, að málinu sé öfugt farið.  Höftin hafi aukið álag á heilbrigðiskerfið, og er þá vísað til þessarar athugunar Sebastians Rushworth hér að ofan.  Öfgar sóttvarnaryfirvalda hafa verið yfirgengilegar með því t.d. að skikka einkennalausa og börn í sóttkví og hvetja foreldrana til að láta bólusetja börn sín í miðjum ómíkrón faraldri, sem bóluefnin eru frá upphafi gagnslaus gegn, og varnarmáttur þeirra hvarf á hálfu ári gagnvart fyrri afbrigðum. 

Það er rík ástæða fyrir Alþingi til að verja almenning gegn öfgum lækna og annarra, sem blygðunarlaust hræða almenning til fylgilags við öfgafullar skoðanir sínar um frelsissviptandi  forsjárhyggju sína.  Það verður að beizla sóttvarnarlækni á hverjum tíma með víðsýnu sóttvarnaráði, skipuðu fólki úr öllum lögum samfélagsins, eins og núverandi heilbrigðisráðherra hefur nú í hyggju.  Ný sóttvarnarlög ættu að taka völdin af ráðherra til frelsissviptinga almennings með reglugerð.  Aðeins Alþingi á að geta veitt ráðherra slíkar heimildir, sem hann síðan útfærir í samráði við sóttvarnarráð, en hvorki landlækni né sóttvarnalækni eina.  

 

 

 

 

 

 

 

   

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Örvænt um vitræna orkumálaumræðu

Framkvæmdastjóri félagsskapar, sem kallaður er Landvernd, Auður Önnu Magnúsdóttir, hefur gengið fram af mönnum fyrir sinn útúrborulega málflutning um íslenzkar virkjanir til raforkuvinnslu, einkum þær, sem enn hafa ekki komið til framkvæmda, en eru í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3 og nauðsynlegt er að færa af undirbúningsstigi yfir á framkvæmdastig eina af annarri á næsta aldarfjórðungi, ef hér á að verða hagvöxtur, næg atvinna og ef orkuskiptin eiga að verða barn í brók. Svipaða sögu er að segja af baráttu hennar gegn 220 kV flutningslínum raforku.

Téð mannvitsbrekka sá sig knúna til að hella úr vizkuskálum sínum yfir landslýð 16.01.2022 af því tilefni, að forstjóri Landsvirkjunar hafði þá nýlega tjáð sig um virkjanaþörf fyrir orkuskipti Íslendinga.  Hún er um 50 % af núverandi orkugetu að hans mati, sem eru um 10 TWh/ár ný orkuvinnslugeta.  Á þessum og næsta áratugi verður vonandi hagvöxtur og íbúum landsins fjölgar, þannig að orkuþörfin mun vaxa umfram það, sem orkuskiptin útheimta, e.t.v. um 35 % á 20 árum, enda skapa orkuskiptin viðskiptatækifæri til útflutnings á "grænu" eldsneyti.   

Framkvæmdastjóri Landverndar talar vafalaust í nafni félagsins, þegar hún tilkynnir, að nóg sé komið af virkjunum á Íslandi.  Spurð, hvernig eigi þá að uppfylla markmið ríkisstjórnarinnar um losun gróðurhúsalofttegunda, koma svör, sem sýna, að hún talar í senn af fullkomnu þekkingarleysi og ábyrgðarleysi gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum landsins. 

Hún segir lausnina vera orkusparnað, en raunhæfur orkusparnaður fæst sjaldnast án fjárfestinga, og raforkan, sem hægt er að spara hérlendis með tækniframförum, mun aðeins nema broti af raforkuþörf orkuskiptanna.  Einna stærsta orkusparnaðarverkefnið, sem nú er í gangi, er ný 220 kV Byggðalína í stað 132 kV línu, en Landvernd hefur einmitt lagt steina í götu þeirrar framkvæmdar og tafið hana stórlega.  Þá hefur hún nefnt nýtingu á varmatöpum stóriðjunnar, en hitastigið er yfirleitt svo lágt í strompum verksmiðjanna, að enga raforku er hægt að vinna með þeirri orku, en e.t.v. með ærnum kostnaði hægt að nýta hana í fjarvarmaveitu. 

Ef/þegar álverin söðla yfir í kolefnisfría rafgreiningu súráls, mun orkuþörf álveranna aukast að öðru óbreyttu, því að raforka þarf að koma í stað varmaorku frá bruna kolaforskautanna til að viðhalda hitastigi raflausnarinnar. 

U.þ.b. 1 TWh/ár kann að fara núna til gagnaveranna í landinu.  Fundið hefur verið að þessari sölu vegna þess, að talsvert af orkunni fer í "námugröft" eftir Bitcoin og öðru slíku. Eru slíkar aðfinnslur í samræmi við einstæða hvatningu nýs orkumálastjóra til orkufyrirtækjanna um að láta ekki viðskipti við fyrirtæki ráðast af því, hver býður hæsta verðið, heldur að setja orkuskiptaverkefni í forgang. Standast þessar hvatningar orkumálastjóra ákvæði orkulaga (Orkupakka 3) varðandi frjálsa samkeppni og jafnræði ?

Allt er þetta krepputal afleiðing af þeim raforkuskorti, sem fyrirhyggjuleysi stjórnvalda hefur leitt yfir þjóðina.  Landsmenn standa nú frammi fyrir fulllestuðu raforkukerfi, sem þýðir, að vegna aflskorts (vöntun á nýjum virkjunum) mun verða að neita öllum óskum um raforku til nýrra verkefna og sennilega að neita fyrirtækjum um afhendingu ótryggðrar raforku, sem er 5-10 % af heildargetu raforkukerfisins, næstu 5 árin, eða þar til ný virkjun, sem eitthvað kveður að á landsvísu, kemst í gagnið.  Augljóslega setur þessi staða loftslagsmarkmið stjórnvalda í uppnám, enda voru þau orðin tóm, þar sem það vantaði, sem við átti að éta. 

Staksteinar Morgunblaðsins gátu ekki orða bundizt 20. janúar 2022 um delluna, sem upp úr framkvæmdastjóra Landverndar vellur:

"Þar [í viðtali á RÚV 16.01.2022 um virkjunarþörf versus orkusparnað Landverndar - innsk. BJo] nefndi hún t.d. strandsiglingar til vöruflutninga, sem lognuðust út af um aldamót.  En hvað er Landvernd að segja ?  Að fólk úti á landi sé ekki of gott til þess að neyta tveggja vikna gamallar dagvöru og geti vel beðið eftir sendingum ?"

Þessi málflutningur framkvæmdastjóra Landverndar er aðeins ein birtingarmynd þeirra afturhaldsviðhorfa, sem eru grundvöllur stefnu Landverndar yfirleitt.  Ekki ber þó að útiloka strandsiglingar.  Þungaflutningar valda megninu af vegslitinu og þar með viðhaldsþörf þjóðveganna.  Þegar þetta ásamt aukinni slysahættu af völdum þungaflutninga á vegum er tekið með í reikninginn, kann vel að vera, að strandsiglingar með annað en dagvöru neytenda, t.d. með rusl að nýrri sorpbrennslustöð, sem gefur frá sér varmaorku og raforku, verði senn hagkvæmar, en bæði þungaflutningar á landi og sjó munu þurfa sitt rafeldsneyti, sem engin raforka er nú til í landinu til að framleiða.

"Aðalmálið sagði hún samt millilandaflugið.  "Þar verðum við að sætta okkur við, að við getum ekki verið að fljúga til útlanda þrisvar á ári hver einasta manneskja, eins og við gerðum fyrir Covid."  Þar fer hún með rangt mál.  Árin fyrir plágu lætur nærri, að það hafi verið 1,7 ferðir á hvert mannsbarn." 

Hvers vegna gerir framkvæmdastjóri Landverndar svo mikið úr utanlandsferðum Íslendinga ?  Þær skipta ekki sköpum fyrir heildarlosun millilandaflugs til og frá Íslandi, og millilandaflug í heiminum skiptir ekki sköpum fyrir losun koltvísýrings á heimsvísu. Þar að auki er afar sennilegt, að 2030-2040 muni koma fram tækni, sem leysir jarðefnaeldsneyti af hólmi í millilandaflugvélum. Ef hugarfar Auðar Önnu Magnúsdóttur yrði hins vegar ráðandi í heiminum, yrðu engar framfarir í þessa veru.  Afturhaldssjónarmið Landverndar hefja neyzlusamdrátt og núllvöxt til skýjanna.  Þetta er hins vegar vís leið til fjöldaatvinnuleysis og fjárhagslegra vandræða um allt þjóðfélagið og um allan heim, ef því er að skipta. Enginn ábyrgur stjórnmálamaður getur léð máls á slíku, en engu að síður smjaðrar nánast öll vinstri slagsíða stjórnmálanna á Íslandi fyrir þessum útúrboruhætti. 

Gervifjölmiðlar gera heldur enga athugasemd við delluna frá Landvernd, en það gerir alvörufjölmiðill á borð við Morgunblaðið aftur á móti:

"En það, sem Landvernd þarf að útskýra, er, hvernig þessum markmiðum skal náð, því [að] leiðirnar eru ekki margar.  Með átthagafjötrum ?  Með skömmtunarstofu utanlandsferða ?  Með skattheimtu, svo [að] aðeins efnafólk hafi efni á utanlandsferðum ? 

Í leiðinni mætti Auður segja okkur, hversu margar flugferðir hafa verið farnar á vegum Landverndar, nú eða fráfarins umhverfisráðherra hennar eða annarra í svipuðum erindum á ráðstefnur úti í heimi árin fyrir fraldurinn, og þess vegna [á] meðan á honum stóð." 

Þarna varpa Staksteinar ljósi á hræsnina, sem umlykur öfgagræningja. Getur verið, að kolefnisfótspor öfgagræningjans sé stærra en meðalkolefnisspor landsmanna ?  Ef við tökum tillit til afleiðinga baráttu þessara græningja gegn orkutengdum framkvæmdum undanfarinn áratug nú í raforkuskortinum, þá er engum vafa undirorpið, að kolefnisfótspor öfgagræningja er risastórt í öllum samanburði.   

 


Tvær mikilvægar útflutningsgreinar í upphafi árs 2022

Sjávarútvegurinn nýtur velgengni á erlendum mörkuðum um þessar mundir, sem endurvarpast í hátt verð hér innanlands, t.d. er slægður þorskur nú á skrifandi stundu á tæplega 600 ISK/kg.  Allt veltur á afkomu sjávarútvegsins í þorpum og kaupstöðum við strandlengju landsins, og hann gegnir lykilhlutverki fyrir hagsæld allrar þjóðarinnar. Það er áfram svo, að velgengni sjávarútvegs tryggi hagsæld þjóðarinnar, og vandræði þar og trosnandi eigið fé ógni velsæld hennar að sama skapi, þótt gjaldmiðillinn dansi ekki lengur eftir pípu sjávarútvegsins; svo er hinni stóru útflutningsgreininni, afurðum þungaiðnaðarins, fyrir að þakka. 

Þróun íslenzka sjávarútvegsins á 21. öldinni hefur verið ánægjuleg og athyglisverð.  Hann hefur nýtt aukna fjárfestingargetu sína í kjölfar fækkunar togara á Íslandsmiðum til tæknivæðingar á sjó úti og í landi, svo að greinin hefur reynzt vera samkeppnishæf erlendis, sem er algert lykilatriði fyrir grein, sem flytur út um 95 % framleiðslu sinnar.  Greinin hefur líka í krafti vísindalegrar þróunar rutt braut bættri nýtingu hráefnisins, svo að hún er nú í stakkin búin til fullnýtingar hráefnisins. Það er afar virðingarvert og umhverfisvænt að taka þessa stefnu, og þetta mun reynast arðsöm fjárfesting, sem þegar veitir fjölbreytilegum hópi starfsfólks vinnu. Má kalla þetta einkenni íslenzks atvinnulífs, að grunnatvinnuvegirnir, sjávarútvegur, iðnaður og landbúnaður, mynda kjarnann í klösum fjölbreytilegrar starfsemi, sem oft nær að þróa sprota, sem framleiða bæði fyrir innlendan og erlendan markað.  Þetta er heilbrigt og kvikt (dýnamískt) samfélag, eins og önnur fræg slík.

Það væri arfavitlaus hugdetta stjórnmálamanna að fara nú út í vanhugsaða og þarflausa tilraunastarfsemi með sjávarútveginn, sem reyndar hvergi hefur gefið góða raun.  Því fjær sem stjórnmálamenn halda sig frá málefnum sjávarútvegsins, þeim mun betra. Þeir skópu núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi í góðu samstarfi við auðlindahagfræðinga o.fl. til að gera atvinnugreinina sjálfbæra, sem hún var fjarri því að vera, enda er þessi atvinnugrein víðast hvar stunduð með ósjálfbærum hætti, líffræðilega og/eða fjárhagslega. 

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, reifaði sjávarútveg nútímans í Morgunblaðsgrein á gamlaársdag 2021 og nefndi hana:

 "Það veltur margt á íslenzkum sjávarúvegi".

Þar gerði hún m.a. nýlega skýrslu um sjávarútveginn að umtalsefni:

"Skýrsla, sem gerð var að beiðni sjávarútvegsráðherra um stöðu og horfur í íslenzkum sjávarútvegi og fiskeldi, var kynnt í vor.  Ritstjóri er Sveinn Agnarsson, prófessor við Háskóla Íslands. Í henni kemur m.a. fram, að:

"Sjávarútvegur hefur verið uppspretta helztu tækniframfara og nýsköpunar í hinu íslenzka hagkerfi, og samvinna fyrirtækja í sjávarútvegi, vísindasamfélagsins og yfirvalda, hefur verið mikil og öflug."  Þarna er ekkert ofsagt og benda má á, að Nýsköpunarverðlaun Íslands hafa á tímabilinu 2011-2020 6 sinnum  komið í hlut fyrirtækja, sem með einum eða öðrum hætti tengjast sjávarútvegi."

Vafalaust hafa þau Sveinn og Heiðrún Lind traust gögn við höndina, sem sýna þetta svart á hvítu, því að djúpt er tekið í árinni.  Það er stórmerkilegt, að sjávarútvegur nútímans á Íslandi er nú orðin "uppspretta helztu tækniframfara og nýsköpunar í hinu íslenzka hagkerfi", og skákar þar með t.d. hefðbundnum iðnaði og stóriðnaði og landbúnaði, þar sem gríðarleg sjálfvirknivæðing og framleiðniaukning í krafti hugbúnaðar- og vélbúnaðarlausna hefur átt sér stað  undanfarna 3 áratugi. 

Þessi þróun mála sýnir einfaldlega, að sjávarútvegur nútímans á Íslandi hefur fundið fjölina sína í samfélaginu. Þessu jafnvægi mega óánægju- og öfundaröfl, sem lítt eru til nokkurs uppbyggilegs fallin, ekki ná að raska.  Af því hlytist þjóðhagslegt tjón, reyndar efnahagsslys. 

"En á hitt skal bent, að sjávarútvegur er ekki eingöngu skip á sjó og vinnsla í landi.  Hann er margfalt umsvifameiri en svo, og það eru svo ótrúlega margir, sem reiða sig á sterkan sjávarútveg, sem er í efnum til að fjárfesta.  Og einmitt þarna verða til mikil og arðbær tækifæri.  

Vilji fólk sjá heildarsamhengið, þá ætti að blasa við, að hlúa beri að þeim sprotum, sem vaxa í kringum sjávarútveg á Íslandi.  Sumir hafa náð miklum styrk og gert sig gildandi á erlendum markaði; aðrir eru að skjóta rótum.  Hug- og handverki eru engin takmörk sett, og nú þegar nemur útflutningur þeirra tugmilljörðum króna á ári, og í þessum fyrirtækjum starfar vel menntað fólk í góðum og verðmætum störfum."

Ef farið verður í hægfara þjóðnýtingu á sjávarútvegi með einhvers konar innköllun veiðiheimilda, sem reyndar mundi væntanlega varða við eignarréttarákvæði Stjórnarskrár (nýtingarréttur er ein tegund eignarréttar), og veiðiheimildum endurúthlutað með kostnaðarsömum hætti fyrir útgerðirnar, þá blasir við, að sprotar sjávarútvegs verða fyrsta fórnarlambið og síðan minnka fjárfestingar í nýjum búnaði á sjó og á landi.  Núverandi kerfi hefur vel gefizt, og stjórnmálamenn (þetta er þó alls ekki algilt) ættu að láta af löngun sinni til að hræra í atvinnuvegum, sem vel ganga.  

Hin meginútflutningsgreinin, orkusækinn iðnaður, gengur líka vel um þessar mundir, enda skortur á vörum hans á heimsmarkaði vegna breyttra aðstæðna í Kína og "mengunartolla" inn á Innri markað ESB. LME-markaðsverð á hrááli er nú um 3000 USD/t, sem er tvöföldun verðs í upphafi Kófs, og fyrirtæki með sérhæfða gæðaframleiðslu á borð við ISAL hafa verið að fá allt að 1000 USD/t til viðbótar (premía) fyrir sína sívalninga.

Akkilesarhæll álveranna nú á tímum er koltvíildislosunin, þótt álið spari reyndar meiri losun koltvíildis á endingartíma sínum en nemur losuninni við framleiðsluna, ef það er t.d. notað til að létta farartæki.  Í þróun er ný tækni rafgreiningar súráls með eðalskautum, sem eru án kolefnisinnihalds.  Þangað til sú tækni verður fjárhagslega fýsileg að teknu tilliti til kolefnisgjaldanna, sem Evrópusambandið (ESB) leggur á í sínu ETS-viðskiptakerfi, væri hægt að fara leið kolefnisbindingar með skógrækt og landgræðslu, ef ESB hefði samþykkt slíkt sem staðlað mótvægi, því að Ísland nýtur sérstöðu nógs landrýmis fyrir skógrækt og uppgræðslu lands. Þrátt fyrir miklar umræður á COP-26 í Gljáskógum í vetur, fékkst ekki niðurstaða í málið.

Hins vegar hefur ISAL ákveðið að freista annarrar leiðar til að draga úr gróðurhúsaáhrifum og fjárhagsbyrði af kolefnisgjöldum ESB.  Sú leið er tæknilegur og fjárhagslegur vonarpeningur enn, enda dýr m.v. skógræktina og krefst mikillar auðlindanotkunar á formi lands, vatns og rafmagns.  Einhverjum gæti orðið að orði, að hér væri verið að skjóta spörfugl með kanónu, enda er ekki vitað til, að álver erlendis séu ginnkeypt fyrir þessu.  Rio Tinto lítur reyndar á þetta sem "pilot plant" fyrir aðrar verksmiðjur sínar, en aðstæður eru þó misjafnar á hverjum stað.

Þann 6. janúar 2022 birti Sigtryggur Sigtryggsson baksviðsfrétt í Morgunblaðinu um þetta mál undir fyrirsögninni:

  "Höfnin í Straumsvík stækkuð":

"Þessar framkvæmdir [við hafnargerð] tengjast áætlunum um stórauknar skipakomur í Straumsvík á komandi árum vegna innflutnings og niðurdælingar á kolefni í svonefndu Carbfix-verkefni.

Í fjárfestingaráætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2022 og langtímaáætlun er gert ráð fyrir fjármunum til hönnunar og undirbúnings uppbyggingar á hinu nýja hafnarsvæði í Straumsvík [norðan núverandi stórskipabryggju-innsk. BJo].  Stefnt er að því, að verklegar framkvæmdir á svæðinu geti hafizt ekki síðar en árið 2024 og svæðið verði tilbúið árið 2027. "Þetta er mjög spennandi verkefni, sem vinna þarf hratt og skipulega", segir Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri."

  Vonandi er hafnarstjórinn með tryggingar í höndum um framtíðar viðskipti, þ.e. skip í flutningum á koltvíildi til Íslands og kannski vetni frá Íslandi, því að kynningar á viðskiptahugmyndum Carbfix bera sterkan keim af skýjaborgum.  Opinberir aðilar verða að fá meira en loftkenndan fagurgala áður en farið er út í viðamiklar framkvæmdir. 

Það hljómar ótrúlega, að traustir viðskiptaaðilar fari að leggja í mikinn kostnað við að draga CO2 út úr afsogi sínu, flytja það að hafnarbakka t.d. í norðanverðri Evrópu, kosta upp á siglingu nokkur þúsund km leið og að lokum aflestun skipstanka í Straumsvík og niðurdælingu í berg þar í grennd.  Þetta hljómar ekki, eins og það sé lífvænleg viðskiptahugmynd.  Þessu lýsir téður Sigtryggur þannig í fréttinni:

"Þetta stefnumótandi samstarf felur í sér, að á lóð Rio Tinto við álverið í Straumsvík verður komið upp fyrstu móttöku- og förgunarstöð í heimi fyrir CO2, svokallaðri Coda Terminal.  Þangað verður koldíoxíð einnig flutt í fljótandi formi sjóleiðina frá iðjuverum í Norður-Evrópu og því breytt í stein með Carbfix-aðferðinni við Straumsvík."

 Það má mikið vera, ef þessi hugarleikfimi á eftir að verða barn í brók, þ.e. arðvænleg viðskiptahugmynd.  Fróðlegt væri að sjá áhættugreininguna fyrir þetta verkefni og úrvinnslu á þeim hindrunum, sem þar koma fram.  Hversu hreint verður niðurdælt koltvíildi ?  Er verið að menga jarðveginn í Straumsvík ?  Umhverfisstofnun þarf að komast til botns í því, en rúmtak hvers tonns af CO2 í jarðveginum mun verða 10 m3 af steindum í basalti.  

Verkefnið sýnir þó svart á hvítu, að Rio Tinto/ISAL er full alvara með að draga úr gróðurhúsaáhrifum á hvert framleitt áltonn.  Rio Tinto er nú með í tilraunastöð sinni í Frakklandi (áður í eigu ríkisálfélagsins Pechiney) í gangi tilraunaker í einum kerskála, sem í eru eðalskaut (keramík), sem ekkert koltvíildi losa út í andrúmsloftið við rafgreininguna.  Það verður hin endanlega lausn á þessu viðfangsefni. Sú tækni þarf nokkru meiri raforku á hvert framleitt áltonn en gamla Hall-Heroult-tæknin, og þá styrkist samkeppnisstaða landa með "græna" hagstæða raforku.

Eigandi gengur betur um eign sínaÍ réttum 2013


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband