Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Innflutt orkulöggjöf hefur steytt á skeri í Noregi

Þriðjudagurinn 15. febrúar 2022 var mótmæladagur um þveran og endilangan Noreg.  Þann dag voru haldnar blysfarir á a.m.k. 20 stöðum í Noregi til að mótmæla háu raforkuverði.  Mótmælendur tengja þetta háa orkuverð beint við útflutning raforku um aflsæstrengi, sem lækkað hafa yfirborð miðlunarlóna á Vesturlandinu og Suðurlandinu, þ.e. sunnan Dofrafjalla, með þeim afleiðingum, að heildsöluverð á Nord Pool-raforkumarkaðinum er 8-10 sinnum hærra sunnan við Dofrafjöll en norðan þeirra. 

Þetta er óyggjandi merki um áhrif millilandatenginganna á raforkuverðið, því að allir aflsæstrengirnir koma á land á Suðurlandinu eða Vesturlandinu og flutningsgetan yfir Dofrafjöll er svo takmörkuð, að hún dugar ekki til að hafa marktæk áhrif á raforkuverðið norðan við þau.

Allir aflsæstrengirnir eru í eigu og reknir af Statnett, sem er sambærilegt fyrirtæki Landsneti á Íslandi, en frá því að Þriðji orkupakkinn, OP3, tók gildi í EFTA-hluta EES eftir innleiðingu Alþingis á þessari löggjöf með fyrirvörum þó haustið 2019, hefur Statnett stjórnað orkuflæðinu um þá samkvæmt reglum OP3 og forskrift frá ACER - Orkustofu ESB, þar sem orkulandsreglarar Noregs, Íslands og Liechtenstein sitja sem áheyrnarfulltrúar með málfrelsi, en án atkvæðisréttar.

Þetta veldur því, að norskum stjórnvöldum er óheimilt að skipta sér af þessum orkuviðskiptum, þótt þau kunni að telja, að afhendingaröryggi raforku til Norðmanna sjálfra, eigenda orkulindanna, sé stefnt í voða.  Þau mega heldur ekki hlutast til um að draga úr nettóútflutningi raforku, þótt verðhækkanir raforku til almennings, sem kyndir húsnæði sitt með rafmagni, ógni afkomu almennings. Það hefur þó enn þá verið látið óátalið af ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, að ríkisstjórnin niðurgreiði raforkuverð til almennings.  Hún hefur nú samþykkt að borga 80 % af þeim hluta heildsöluverðsins, sem er yfir 0,7 NOK/kWh (9,8 ISK/kWh). 

Þann 15.02.2022, á degi mótmæla Norðmanna gegn háu raforkuverði, var heildsöluverðið í Ósló 1,14 NOK/kWh eða 16,0 ISK/kWh, sem er meira en þrefalt heildsöluverðið hér til almenningsveitna.  Þá nam heildarraforkuverðið án niðurgreiðslu til almennra notenda í Ósló 2,0 NOK/kWh eða 28 ISK/kWh, sem er tæplega 50 % hærra en hér á höfuðborgarsvæðinu.  Með niðurgreiðslunum verður heildarverð til notenda hins vegar mjög svipað og á höfuðborgarsvæðinu, en þess ber að geta, að vegna húshitunar eru rafmagnskaup Ola Nordmanns 5-falt meiri en Óla Íslendings.

Allt annað er uppi á teninginum, þegar litið er til Þrándheims.  Þar er heildsöluverð raforku aðeins 0,14 NOK/kWh eða 2,0 ISK/kWh og heildarverðið er þar 0,8 ISK/kWh eða 11,2 ISK/kWh, eða tæplega 60 % af heildarverðinu í Ósló og Reykjavík.  Hlutfall heildsöluverðsins í Ósló og Þrándheimi var 8,1 þennan tiltekna dag og skýrist að mestu leyti af raforkuviðskiptunum við útlönd.  Íbúar norðan Dovre óttast yfirvofandi raforkuverðshækkun hjá sér, af því að styrking raforkutengingar á milli norðurs og suðurs stendur yfir. 

Í norskri löggjöf er kveðið á um, að "vatnsorkulindir landsins [séu] þjóðareign og þær [beri] að nýta í almanna þágu". Raunveruleikinn hins vegar er sá, að Stórþingsmeirihluti hefur fært umsetningu þessara auðlinda til kauphalla og samtengds ESB-markaðar, sem eru fullkomlega laus undan stjórnmálalegu innlendu valdi samkvæmt innfluttri löggjöf, sem Stórþingið samþykkti í marz 2018 og Alþingi með afbrigði haustið 2019 að fengnum hvatningum að utan, þar sem norskir almannahagsmunir voru sagðir í húfi. 

F.o.m. desember 2021 hafa veður hins vegar skipazt svo í lofti, að til að verja almenning er talin þörf á að verja fúlgum fjár úr ríkissjóði, sem styrktur er af olíusjóði Norðmanna, til niðurgreiðslna (meðalniðurgreiðsla í desember 2021 nam 21,8 Naur/kWh = 3,1 ISK/kWh). 

Reglugerðin um raforkuviðskipti á milli landa (EB 714/2009) með viðhengjum og undirstöðu reglugerðum er nú norsk og íslenzk löggjöf og þ.a.l. fyrirmæli um framkvæmd þessara viðskipta.  Afleiðingarnar valda nú stórtjóni í Noregi, þar sem heimilum og fyrirtækjum blæðir. 

Á Íslandi er í gangi fáránleika leikhús um raforkuna, þar sem látið hefur verið reka á reiðanum í 5 ár varðandi öflun nægilegrar raforku til að svara eftirspurn með þeim afleiðingum, að landsmenn munu þurfa að búa við annars óþarfa stórfellda olíubrennslu, nýir viðskiptavinir hafa farið bónleiðir til búðar, orkuskiptin eru í uppnámi, og raforkuverðið hefur hækkað, algerlega að óþörfu, á sama tíma og ríkisfyrirtækið Landsvirkjun ætlar að greiða mrdISK 15 í arð fyrir árið 2021. 

Orkulandsreglari ESB (Orkumálastjóri á Íslandi, í Noregi RME=Reguleringsmyndighet for energi) hefur það hlutverk að framfylgja þessari löggjöf.  Hann má ekki bera hagsmuni síns lands fyrir brjósti umfram hinna EES-landanna m.t.t. afhendingaröryggis raforku eða annarra þátta.  Þess vegna lækkar ískyggilega í lónum sunnan Dovre-fjalla, og 8-10 földun raforkuverðs þar m.v. Þrændalög og þar fyrir norðan endurspeglar þessa ábyrgðarlausu stöðu, og orkulandsreglari hérlendis  hefur enga heimild til að skipa orkufyrirtækjum að virkja.  Orkulandsreglari (RME) getur ekki og á ekki að hafa neitt boðvald yfir eða lúta boðvaldi innlendra yfirvalda. Innlend yfirvöld geta ekki haft nokkra raunverulega stjórn á raforkumarkaðinum, nema orkulandsreglari (RME) verði deild í Orkustofnun (NVE), og Orkumálastjóri verði alfarið settur undir pólitíska stjórn ríkisstjórnar (Orkumálaráðherra, í Noregi Olje- og Energidepartementet).

Þessa reglugerð, EB 714/2009, þarf að taka út úr lagasafninu og EES-samninginum.  ESA-getur hvenær sem hentar gert athugasemd við innleiðingu OP3 á Íslandi, þar sem samþykki Alþingis var áskilið fyrir heimild til tengingar aflsæstrengs við íslenzka raforkukerfið, sem var ekki minnzt á í afgreiðslu Sameiginlegu EES-nefndarinnar á OP3 árið 2017.  Norðmönnum er þetta nauðsyn, til að ríkið öðlist á ný stjórnunarrétt á raforkuviðskiptunum við útlönd.  Þannig má tryggja stöðugt lágt og fyrirsjáanlegt raforkuverð fyrir almenna notendur og atvinnurekstur.  Noregur og Ísland þurfa jafnframt að endursemja við ESB um aðrar reglugerðir og tilskipanir, sem skuldbinda löndin til að gefa eftir samfélagslega stjórnun sína á nýtingu orkulindanna. 

Rafmagn á ekki að vera frjáls markaðsvara eða markaðsþjónusta.  Raforkukerfið var ekki hannað og fjármagnað með það fyrir augum í upphafi í Noregi og á Íslandi, og markaðskerfi í anda Evrópusambandsins er sniðið við örugga aðdrætti eldsneytis, en hvorki dynti náttúrunnar né skort á eldsneyti, eins og núna hrjáir Evrópu vestan Rússlands. Ein af fáum náttúruauðlindum Íslands og Noregs er orkan í fallvötnum og iðrum jarðar (fyrir utan jarðefnaeldsneytið á norsku landgrunni og e.t.v. innan íslenzkrar lögsögu einnig). Þessar orkulindir á að nýta íbúunum til hámarks hagsbóta með því að selja þeim hana samkvæmt kostnaði við öflun, flutning og dreifingu með arðsemi í samræmi við arðsemi fjárfestinga með svipaða áhættu.  Ástæðan fyrir þessu er, að verðmætasköpun með rafmagninu er margfalt meiri en fæst með umsetningu þess á erlendum mörkuðum, iðulega 5-10 sinnum meiri. Lagabann við slíkri ráðstöfun innlendra auðlinda með EES-skuldbindingum er fráleitt og hefur nú þegar örlagaríkar afleiðingar á meðal frænda vorra, Norðmanna. 

Markaðssetning raforku í kauphöll, ef menn endilega vilja innleiða slíkt fyrirbrigði á Íslandi, ætti einvörðungu að vera á ótryggðri orku, og jafnvel hún orkar mjög tvímælis, því að slík kauphallarviðskipti geta knúið fyrirtæki til brennslu jarðefnaeldsneytis af kostnaðarástæðum.   

  


Höfuðborg í gíslingu einstrengingsháttar

Stjórn höfuðborgarinnar virðist hverfast um þá köllun meirihluta borgarstjórnar að umbylta samgönguháttum í borginni.  Meirihlutinn vill smala fólki út úr einkabílunum og inn í almenningsvagna. Til þess eru notuð óvægin meðul á borð við myndun tafa og umferðarhnúta. Þá er lóðaúthlutun sniðin við þessa hugmyndafræði með því að hún eigi sér aðallega stað á s.k. þéttingarreitum, helzt á upptakasvæði Borgarlínu, sem allt borgarskipulagið hverfist um núna og hefur smitað yfir í nágrannasveitarfélögin.  

Tafirnar auka orkunotkunina og mengunina í borginnieru óþægilegar fyrir borgarana og kosta stórfé, sennilega um 30 mrdISK/ár (tíminn er peningar) um þessar mundir og fara hratt vaxandi.  Þessum töfum er ætlað að hrekja bílstjóra og farþega þeirra út úr bílunum og upp í almenningsvagnana, þótt þeir verði víðast hvar líka fyrir töfum.  Til að ráða bót á þessu og auka hraða almenningsvagnanna ætla þessir hugmyndafræðingar forræðishyggjunnar að búa til 2 sérakreinar fyrir miðju gatnanna, þar sem Borgarlínu er ætlað að fara um, og tvínóna þá ekki við að gera þetta á kostnað flutningsgetu núverandi gatna, þ.e. með því að fækka akreinum. Umferðarkerfi borgarinnar er þegar meðal hins frumstæðasta, sem finnst á meðal þróaðra iðnaðarþjóða í sambærilegum bæjarfélögum, og veldur auðvitað alltof hárri slysatíðni og feikilegu tjóni.

Gatnakerfi Bergen er miklu nútímalegra en gatnakerfi Reykjavíkur frá sjónarmiði bílstjóra. Fyrir nokkrum árum var sett á laggirnar keimlík borgarlína þar og ætlunin er að gera á höfuðborgarsvæðinu.  Hún átti að draga úr bílaumferð, en reyndin varð sú, að hún gerði það alls ekki.  Þar með brast rekstrargrundvöllur undan borgarlínu Bergen.  Hvað gerðu borgaryfirvöld þar þá ?  Þau settu á "bompenger" eða gatnagjöld á bílana, sem nú þurfa að borga um 1000 ISK/dag fyrir að fara þar um.  Sú von borgarstjórans í Reykjavík, að borgarlínan muni flytja 12 % þeirra, sem eru á ferðinni í Reykjavík, á eftir að verða sér rækilega til skammar, því að þjónustustigið fyrir almenning vex ekki nóg m.v. það, sem það er nú, þegar Strætóhlutdeild ferða er 4 %.  Borgarlínan er fjárhagslegt kviksyndi, sem auðvelt er að forðast með "léttri" borgarlínu.   

Þetta er algerlega fráleit samgöngustefna, því að höfundar hennar reyna með öllu móti að taka ráðin af fólki, hafa vit fyrir því um samgöngumáta þess.  Að baki býr ólýðræðislegur hugsunarháttur forræðishyggjunnar. 

Með samningi borgarinnar og samgönguráðherra 2011 voru þau afglöp framin að setja allar áformaðar samgöngubætur Vegagerðarinnar á ís í 10 ár með slæmum afleiðingum fyrir umferðaröryggi, mengun og þjóðhagslegan kostnað umferðarinnar.  Í staðinn átti ríkissjóður að leggja fram um 1 mrdISK/ár til almenningssamgangna innan borgarinnar og í rútuferðir á milli borgar og landsbyggðar (opinber samkeppni við einkafyrirtæki er afleit hugmynd, en ær og kýr vinstri sinna). Þetta gerræðislega tiltæki fól í sér aðför að umferðaröryggi, því að nú er leitun að jafnlélegu gatnakerfi í um 150 þús. manna borg og í Reykjavík, og er þá ekki átt við viðhaldið, heldur lélegt umferðarflæði. 

Það er þyngra en tárum taki, hvernig sérvizka sértrúarhóps veldur stöðnun (hlutfallslegri afturför með fjölgun bíla) umferðarmála og kreppu (gríðarlegum skorti á viðeigandi og hagkvæmum íbúðum) á húsnæðismarkaði.

Með eflingu Strætó með ríkisstuðningi átti að tvöfalda hlutdeild almenningsvagna í heildarfjölda vegfarenda í borginni, en niðurstaðan var næsta fyrirsjáanleg.  Hlutdeildin var 4 % í upphafi tímabilsins og var 4 % í lok þessa tilraunatímabils að áratug liðnum.  Draumóramenn borgarlínu ætla, að með henni megi þrefalda þessa hlutdeild og að þannig muni hún standa undir rekstrarkostnaði sínum, en það er af og frá.  Til þess er óhagræðið fyrir íbúana, sem vanizt hafa einkabil, allt of mikið.  Fjárfestingin mun þannig aldrei skila sér, öfugt við mislæg gatnamót og Sundabraut, og reksturinn verður þungur baggi á sveitarfélögunum, sem að þessu gönuskeiði standa. Lífsskilyrði á höfuðborgarsvæðinu munu versna með borgarlínu, en ekki batna, eins og draumóramenn gaspra um.   

Fyrri forystugrein Morgunblaðsins 13. desember 2021 hét:

"Blekkingar í borginni".

Þar stóð m.a.:

"Hann [meirihluti borgarstjórnar-innsk. BJo] segist hafa "grænt plan" um uppbyggingu, en staðreyndin er sú, að hann má hvergi sjá grænan blett í borginni án þess að vilja reisa þar nokkurra hæða hús.  

Meirihlutinn segist ekki vera á móti einkabílnum, en hann þrengir allar götur, sem hann kemst yfir og fjarlægir bílastæði af miklu kappi.  Og þegar hann skipuleggur nýja byggð á grænu blettunum, þá gætir hann þess að hafa vel innan við eitt stæði á íbúð, þannig að flestir íbúarnir, bæði þeir nýju og hinir, sem fyrir voru í hverfinu, lenda í vandræðum.

Auk þessa vill meirihlutinn leggja borgarlínu, sem á víða að taka burt akreinar með þeim augljósu afleiðingum, að umferðin verður enn hægari og teppurnar verri.  En það er eins með borgarlínuna og Bústaða- og Fossvogshverfið; hún er ekki endanlega útfærð, þannig að hægt er að halda því fram, að niðurstaðan verði ekki endilega jafnslæm og við blasir.  Þetta verður seint talinn heiðarlegur málflutningur í aðdraganda kosninga, en það er ekki hægt að útiloka, að hann verði árangursríkur." 

Verkin tala, og flestir íbúar Reykjavíkur á kosningaaldri ættu að geta sannreynt, að núverandi borgarstjórnarmeirihluti siglir undir fölsku flaggi.  Hann ætlar af fordild sinni og forstokkun að troða upp á Reykvíkinga lífsháttum, sem eru bæði síðri að gæðum og dýrari en tíðkazt hafa í höfuðborg Íslands.  Af siðlegum ástæðum á að losa sig við stjórnmálamenn úr valdastöðum, sem sigla undir fölsku flaggi, hvar í flokki sem þeir standa. 

Stjórnmálamennirnir í núverandi meirihluta borgarstjórnar uppfylla ekki lágmarkskröfur um heilindi við hag borgarbúa og raunar landsmanna allra.  Andstaðan við að brjóta nýtt land undir byggð hefur framkallað alvarlegan lóðaskort fyrir húsnæði af öllu tagi, sem framkallað hefur hrikalegan framboðsskort húsnæðis (vantar a.m.k. 3000 íbúðir á ári upp á framboðið á höfuðborgarsvæðinu á næsta kjörtímabili, og munar þar mest um þéttingarstefnu byggðar í Reykjavík meðfram borgarlínu).

Angi af sömu þröngsýnu fordildinni (mjög slæmur eiginleiki stjórnmálamanns) er að bægja Vatnsmýrarvellinum burt.  Nú lítur út fyrir, að 19 sæta rafknúnar flugvélar verði á markaðinum innan fáeinna ára.  Þær verða í upphafi dýrari í innkaupum en sambærilegar vélar knúnar sprengihreyfli, en viðhalds- og orkukostnaður rafknúnu flugvélanna verður miklu lægri, svo að farmiðaverð getur lækkað talsvert.  Þessi tækni getur bætt samgöngur á milli margra staða og Reykjavíkur án mengunar og með minni hávaða en verið hefur.  Það verður að stöðva aðför borgarstjóra og fylgifiska hans að flugvellinum og hefja þar uppbyggingu á aðstöðu til framtíðar. 

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, ritaði stórgóða grein í Morgunblaðið 17. febrúar 2022 um óboðlega stjórnun Reykjavíkur um þessar mundir, þar sem allt snýst um að fjölga fólki í grennd við fyrirhugaða borgarlínu, sem er auðvitað fráleit forsenda að borgarskipulagi og lóðaúthlutunum.  Ósvífni vinstri meirihlutans í garð íbúa Reykjavíkur og raunar landsins alls á sér engin takmörk, enda verður að flokka valdastöðu þeirra sem slys á lýðræðislegri vegferð.

Fyrirsögn téðrar greinar Mörtu var:

"Húsnæðisskortur í boði borgaryfirvalda".

  Þar stóð m.a.:

"Borgarstjórn sér um lóðaúthlutanir í Reykjavík og hefur það því í hendi sér, hvort yfirleitt sé byggt í borginni, hvar, á hversu mörgum lóðum og á hversu dýrum lóðum.  Þéttingarstefna meirihlutans fækkaði mjög lóðaúthlutunum og margfaldaði verð á byggingalóðum.  Þegar borgaryfirvöld úthlutuðu lóðum úr eigin landi, var það lengi viðmið, að lóðaverð væri um 4 % af heildarbyggingarkostnaði íbúðar.  Nú hefur þetta verð margfaldazt og víða tífaldazt.  Það gefur því auga leið, að skortur á byggingarlóðum í Reykjavík og margfalt verð á þeim m.v. fyrri tíð eru helztu langtímaástæður fyrir núverandi hækkunum á fasteignamarkaðnum."

Þessi skort- og okurstefna á lóðum undir íbúðir er ófagur vitnisburður um skeytingarleysi borgarstjórnarmeirihlutans gagnvart húsnæðislausu fólki og þeim, sem þurfa að stækka eða minnka við sig. Það er grundvallar mælikvarði á frammistöðu sveitarstjórnarmeirihluta, hvernig honum tekst upp við að skipuleggja nýja íbúðabyggð og svara spurn fólks eftir nýjum lóðum og húsnæði innan sveitarfélagsins.  Fyrir frammistöðu sína á þessu sviði og fleiri sviðum, s.s. við meðferð fjár og fjármálastjórnun borgarsjóðs, verðskuldar núverandi borgarstjórnarmeirihluti falleinkunn með lægstu mögulegu einkunn, því að ömurlegri getur frammistaðan vart orðið á þessu sviði.

Með undirfyrirsögninni:

 "Framboð og eftirspurn hvað" ,

hélt Marta áfram:

"Hjá borgarstjórn Reykjavíkur blikka hins vegar engin ljós.  Hún kærir sig kollótta um framboð og eftirspurn sem og þá spurningu, hvort ungir Reykvíkingar geti keypt þar sína fyrstu íbúð. 

Á borgarstjórnarfundi sl. þriðjudag [15.02.2022] fóru fram umræður um fasteignamarkaðinn og húsnæðismálin í Reykjavík að beiðni okkar sjálfstæðismanna.  Ýmsar þær tölur, sem hér hefur verið drepið á, komu þar til álita.  En það var ekki að sjá, að þær röskuðu ró meirihlutans.  Stefnan er skýr: Það, sem byggt verður í Reykjavík, verða sviplaus excel-skjalteiknuð fjölbýlisstórhýsi meðfram Borgarlínu svo há og þétt, að sjaldan sér til sólar á jörðu niðri né glittir í gróður.  Einbýlis- og tvíbýlishús eru ekki í boði.  Þetta heitir á máli borgaryfirvalda sérlega fjölbreytileg íbúðabyggð."

Þessi frásögn staðfestir, að áttaviti borgarstjórnarmeirihlutans við uppbyggingu í Reykjavík er kolruglaður.  Samfylkingin og fylgifiskar hennar í borgarstjórn láta andvana fædda draumsýn um forneskjulegt fyrirkomulag umferðar í borginni stjórna lóðaúthlutunum og skipulagi borgarinnar.  Þegar málsvarar þessa steinrunna stjórnmálaflokks taka þátt í umræðum um hinn geigvænlega húsnæðisskort í höfuðborginni, neita þau einstrengingslega að viðurkenna stórfelld stjórnunarleg mistök borgarstjórans, en draga óðar fram blóraböggla á borð við bankana og jafnvel Seðlabankann, sem örvaði hagkerfið í Kófinu með vaxtalækkun. 

Þetta heitir að neita að horfa í eigin barm.  Slíkum er alls varnað og er alls ekki treystandi til að fara með forræði yfir málefnum almennings, t.d. að stjórna einni höfuðborg.  Hinum illa áttaða borgarstjóra Reykjavíkur verður að gefa frí frá borgarstjórastörfum í maí 2022, ef ekki á að verða stórfellt skipulagslegt og pólitískt slys í borginni.

 

 

 

 

 


Einvaldur kastar grímunni

Aðfararnótt 24. febrúar 2022 gaf forseti Rússlands, sem er einvaldur og stjórnar í skjóli leynilögreglunnar FSB að hætti Jósefs Stalín og rússneskra einvalda á undan honum, rússneska hernum fyrirskipun um að ráðast á fullvalda ríkið Úkraínu og leggja það undir Rússland. Mistækur einvaldurinn mun hafa ætlazt til leifturstríðs (Blitzkrieg að hætti Þriðja ríkisins) af hálfu Rússahers, en er nú staddur í hernaðarlegu og pólitísku kviksyndi, blóðugur upp að öxlum. Einvaldurinn er kominn í hóp verstu þorpara mannkynssögunnar, en enginn efast lengur um rétt og vilja úkraínsku þjóðarinnar til sjálfstæðis og fullveldis.  Vesturveldin eiga að taka Úkraínumönnum opnum örmum í sinn hóp og í samtök sín.

Hér er um gjörsamlega óviðunandi landvinningastríð Rússa í Evrópu að ræða að hætti fyrri einvalda Rússlands. Í Kreml hefur alltaf blundað draumur um landvinninga. Síðan 24.02.2022 hefur þessi sami rússneski hér framið fleiri stríðsglæpi gegn almennum borgurum og með árásum á kjarnorkuver en tölu verður á komið. Orðstír rússneska hersins er í tætlum, og hann á sér ekki viðreisnar von. 

Af illvirkjum rússneska hersins að dæma er einvaldur Rússlands gjörsamlega misheppnaður stjórnandi, kaldrifjaður illvirki, sem hefur haft leiðtoga Vesturveldanna að fíflum, það sem af er öldinni.  Hann hefur að hætti KGB (Leyniþjónustu Ráðstjórnarríkjanna (sovézka kommúnistaflokksins)) stundað undirróður og lygar á Vesturlöndum og tekizt að vinna auðtrúa sálir á sitt band, sem jafnvel enn enduróma áróðurinn frá honum gegn Vesturlöndum. (Ætli spákerlingin, sem kom á flug hugarórunum um "Endurræsinguna miklu" hafi  aðsetur í Moskvu ?  Nú er því nefnilega haldið fram, að Vladimir Putin standi helzt í veginum fyrir þessari endurræsingu heimsins.  Það er ekki öll vitleysan eins.) 

Rafael Grossi, forstjóri IAEA (International Atomic Energy Agency-Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar) sagði á 8. degi innrásarinnar, þegar Zaporizhzhia kjarnorkuverið varð fyrir skothríð rússneska hersins, sem áður hafði hertekið Chernobyl-kjarnorkuverið, að  hernaður gegn kjarnorkuverum sé stríðsglæpur að alþjóðalögum:

"The IAEA principles should never be compromised, and therefore our agency must back up words with actions."

Hann ásamt teymi frá IAEA lagði síðan upp í ferð til Úkraínu, og var ætlunin að fara um öll kjarnorkuver landsins til að yfirfara rekstraöryggi veranna og varnir gegn skaðlegri geislun.

Morgunblaðið birtir dagbækur Úkraínubúa.  Fyrirsögnin 22. marz 2022 var:

"Og þeir kalla okkur nasista".

Færsla Karínar í Karkív hófst þannig

"Í dag er 26. dagur innrásar Rússa.  Við erum enn á lífi.  Stöðugar loftárásir voru í alla nótt, og við vorum mjög hrædd.  Rússar eru að skjóta langdrægum eldflaugum á borgina, og hávaðinn glymur hérna rétt hjá okkur og í fjarska.  Þessir villimenn halda óbreyttum borgurum í skelfingu.  Þeir eru að eyðileggja allt, drepa fólk og beita sálfræðilegum þrýstingi til að þvinga okkur til að ganga að kröfum þeirra.  Hræðilegar fréttir bárust á laugardaginn, þegar Boris Romanchenko, sem var 96 ára, lézt í loftárás á Karkív. Hann lifði af helförina í útrýmingarbúðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni, en var drepinn af rússneskri eldflaug, og þeir kalla okkur nasista !

 Samkvæmt upplýsingum frá Ígor Terekóv, borgarstjóra Karkív, voru 972 byggingar eyðilagðar og þar af 778 íbúðabyggingar.  Það er ekki hægt að semja neitt við þetta fólk.  Eina, sem hægt er að samþykkja, er, að þessi villimannaþjóð, Rússland, verði afvopnuð og afnasistavædd.  Þeir þurfa að fara eftir samningum, sem gerðir voru eftir seinni heimsstyrjöldina."

Það eru mikil líkindi með stríðsglæpamönnunum Adolf Hitler og Vladimir Putin. Hvorugur virðir nokkra samninga, ef honum býður svo við að horfa.  Engin vettlingatök dugðu á þann fyrrnefnda, og Rússar verða að losa sig við þann síðar nefnda og hverfa síðan með öllu út fyrir landamæri Úkraínu.  Einangraður einvaldurinn virðist lífhræddari en rotta í búri, hefur sett af æðsta mann hersins, skipt um 1000 manna þjónustulið sitt og hneppt 2 háttsetta FSB-menn í stofufangelsi.  Seðlabankastjórinn er á öndverðum meiði við Putin og jafnvel hættur og sverfa tekur að Rússum víða, enda hefur kvalarinn í Kreml nú leitað á náðir forseta Kína um aðstoð. Sá leitar nú eftir 5 ára framlengingu umboðs síns frá kínverska kommúnistaflokkinum og hefur slegið úr og í.  Hvers vegna ætti hann að veita böðlinum í Kreml liðsstyrk við óhæfuverkin ?

Margar átakanlegar fréttir og myndir hafa borizt frá Úkraínu undanfarið. Ein var frá Maríupol, þar sem verið var að forða gömlum manni.  Hann mundi eftir hernaði Wehrmacht fyrir um 80 árum á sömu slóðum.  Hann hafði þá sögu að segja, að Wehrmacht og Waffen SS hefðu látið óbreytta borgara að mestu í friði, en einbeitt sér gegn Rauða hernum, en Rússaher Putins virtist mest í mun að ráðast á varnarlaust fólk. Her, sem framfylgir skipunum um níðingsverk, eins og Rússaher hefur gert sig sekan um, er dauðadæmdur.  Ekki bætir úr skák fyrir honum, að fórnarlömbin eru flest með rússnesku að móðurmáli.  Stríðið sýður saman eina úkraínska þjóð án tillits til móðurmáls. 

Nürnberg-réttarhöld blasa við forseta, ríkisstjórn og herstjórn Rússlands. Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, ritaði um þetta í Morgunblaðið 22. marz 2022 undir fyrirsögninni:

 "Ísland styðji sérstaklega við rannsókn á stríðsglæpum Rússlands":

"Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur sagt sannanir fyrir, að rússneski herinn hafi beitt klasasprengjum.  Notkun slíkra sprengja er bönnuð samkvæmt Genfarsamningunum.  

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kallaði eftir því, að stríðsglæpir Rússa yrðu rannsakaðir.  Síðast en ekki sízt hefur Karim A.A. Khan, saksóknari hjá Alþjóðlega sakamáladómstólnum, sagt ástæðu til að ætla, að stríðsglæpir hafi verið framdir af hálfu rússneska hersins í Úkraínu.  Hinn 28. febrúar [2022] lýsti saksóknarinn því svo yfir, að rannsókn vegna stöðunnar í Úkraínu væri hafin."

Þann 22. marz 2022 bárust svo fréttir af því, að Rússar væru farnir að beita fosfórsprengjum gegn borgum í Úkraínu. Slíkt er stríðsglæpur og glæpur gegn mannkyni samkvæmt Rómarsamkomulaginu (Rome Convention). 

Hegðun Rússa gagnvart almennum borgurum Úkraínu verður því níðingslegri þeim mun verr sem þeim gengur á vígvöllunum í átökunum við úkraínska herinn.  Rússlandi er augljóslega stjórnað af mafíósum, sem einskis svífast og eru viðbjóðslegar skepnur í mannsmynd.  Við slíka er hvorki hægt að semja við né eiga við þá viðskipti. Það ber að einangra þá með öllu.

Það er með öllu óviðunandi, að ríki Evrópu með Þýzkaland í broddi fylkingar fóðri þessa mafíósa með um 800 MUSD/dag fyrir eldsneytisgas. (40 %-50 % gasnotkunarinnar er jarðgas frá Rússlandi, 55 % í Þýzkalandi.) Nú hefur þýzka ríkisstjórnin gert samning við Qatar um afhendingu LNG (Liquid Natural Gas) í stað rússneska gassins og ætlar að minnka gaskaup 2022 um 2/3 m.v. árið áður. Bygging móttökustöðva fyrir LNG í þýzkum höfnum er í undirbúningi. Það verður að einangra Rússland á öllum sviðum, þar til þar verður gerð vorhreingerning.  Peningarnir fyrir gasið hindra, að rúblan hrynji til grunna, en hún mun hafa fallið um 30 %- 40 % frá upphafi stríðs. Svartamarkaðsbrask að hætti kommúnistatímans blasir nú við almenningi í Rússlandi.   

Þann 21. marz 2022 skrifaði pastor emeritus Geir Waage grein í Morgunblaðið, sem vekur fleiri spurningar en svör.  Hún hét:

"Sýn Kissingers á Úkraínu árið 2014".

 

 

"Hann [Kissinger] heldur því fram, að Úkraína eigi hvorki að halla sjer til austurs nje vesturs, heldur að brúa bil þar á milli.  Rússar verði að virða landamæri Úkraínu og Vesturveldin verði að gæta þess, að Úkraína geti í þeirra augum aldrei orðið útland."

Það er réttur fullvalda Úkraínu að ákveða það sjálf, hvort hún hallar sér til austurs eða vesturs. Rússneskumælandi Úkraínumenn berjast nú við hlið úkraínumælandi landa sinna gegn innrásarliði Rússlands, sem með fantabrögðum reynir að leggja landið undir Rússland.  Með hetjulegri vörn sinni hefur Úkraínuher og úkraínska fólkið úthellt blóði sínu, ungra og aldinna, fyrir sjálfstæða, fullvalda og lýðræðislega Úkraínu.  Þjóðin sjálf og ríkisstjórn hennar hafa sýnt, að þau vilja allt til vinna að mega halla sér til vesturs.  Vestrið á að taka þeim fagnandi inn í samtök sín, hverju nafni sem þau nefnast, og gera Úkraínumenn fullgilda aðila þar. 

Það er fullreynt frá 2014 og 2022, að Rússum er ekki treystandi til að virða landamæri Úkraínu. Árið 1994 var gert samkomulag, kennt við Búdapest, á milli Úkraínumanna, Rússa, Bandaríkjamanna og Breta, um, að Úkraínumenn létu af hendi við Rússa kjarnorkuvopn sín, sem voru arfur frá Ráðstjórnarríkjunum 1991, gegn því, að hin ríkin tryggðu öryggi Úkraínu og virtu landamæri hennar.  Úr því að þetta samkomulag var svívirt af Rússum, hvernig á þá að tryggja öryggi Úkraínu með öðru móti en t.d. öryggi Póllands og Eystrasaltsríkjanna, þ.e. með inngöngu Úkraínu í NATO ?  

"Evrópusambandið verði að skilja, að kröfur þess um samræmingu og aðild að reglum og stefnu Evrópusambandsins setji alla samninga í uppnám."

 

"Kissingar leggur [lagði] til [2014], að allir aðilar gæti eftirfarandi sjónarmiða:

  1. Úkraínumenn velji sjálfir viðskipta- og stjórnmálatengsl sín, þ.m.t. gagnvart Evrópusambandinu.  [Þetta á við í enn ríkara mæli eftir hina örlagaþrungnu atburði 2022 - innsk. BJo.]
  2. Úkraína gangi ekki í NATO.  [Þetta á alls ekki við 2022 - innsk. BJo.]
  3. Úkraínumenn ráði sjálfir stjórnarfari sínu í samræmi við vilja þjóðarinnar.  Skynsamir leiðtogar muni leita samkomulags andstæðra fylkinga.  Á alþjóðasviði skyldu þeir fara að fordæmi Finna, sem sjeu eindregnir sjálfstæðissinnar, en starfi með vestrænum þjóðum og gæti þess að sýna Rússum enga óvild. [Kenningin um rétt Rússa til að eigna sér áhrifasvæði í kringum sig á ekki við lengur.  Hún er skálkaskjól til hernaðarlegrar atlögu, þegar Rússar telja sér henta.  Þess vegna vega og meta Finnar núna, hvort þeir eigi að ganga í NATO.  NATO er opið gagnvart þeim, sem þangað leita - innsk. BJo.]
  4. Ekki verði á það fallizt, að Rússar hafi innlimað Krím.  Þeir verði að virða fullveldi Úkraínu yfir Krím, en Úkraína verði að styrkja sjálfstjórn Krímverja, sem borin verði undir atkvæði undir alþjóðlegu eftirliti.  Staða flotastöðvar Rússa í Sevastopol verði ekki vefengd. [Þetta getur staðið áfram - innsk. BJo.]

Sýn hins reynda stjórnmálamanns og margra annarra bandarískra diplómata og háskólamanna var síðan gjörsamlega fyrir borð borin.  Evrópusambandið og NATO reri þá og æ síðan að innlimun Úkraínu í Evrópusambandið og NATO.  Sú stefna hefur nú leitt til árangurs, sem seint verður bættur."

Með þessum lokaorðum höfundarins horfir hann algerlega framhjá glæpsamlegu eðli forseta Rússlands, sem gekk á lagið og nýtti sér það, að Úkraína var ekki gengin í NATO.  Eina raunhæfa vörn Úkraínu til lengdar er NATO-aðild.  ESB-aðild dugar landinu ekki til varnar, en mun hjálpa því mikið við uppbygginguna.  Réttast er, að Rússland verði auk þess látið greiða landinu stríðsskaðabætur. 

Þann 22. marz 2022 gerði Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur, stutta athugasemd við ofannefnda grein Geirs Waage undir fyrirsögninni:

"Hverju var lofað ?".

Greininni lauk Þorsteinn þannig:

"Þótt Gorbatsjov segði í viðtalinu, að hann væri ósáttur við síðari þróun mála og fjölgun NATO-ríkja, væri ekki um samningsbrot eða svik að ræða.  Fullyrðingar Pútíns um hið gagnstæða fá því ekki staðizt.  Eins og Anthony Blinken, núverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði nýverið, var það höfuðatriði í stofnsáttmála NATO frá 1949, að bandalagið skyldi hafa opnar dyr.  NATO hefði aldrei gefið loforð um að neita nýjum aðilum um inngöngu.  Slíkt væri útilokað."

Málflutningur Kremlar er reistur á lygavef, og lygunum hefur bæði verið beint að íbúum Rússlands og Vesturlanda. Rússar sjálfir hafa verið heilaþvegnir, enda ríkir þar nú skoðanakúgun og einokun ríkisins á  fréttum og túlkun atburða.  Þolinmæði Rússa gagnvart einvöldum, sem tapa í vopnuðum átökum við önnur ríki, hefur aldrei verið mikil, og það mun vonandi fljótlega renna upp fyrir mörgum Rússum, að þeir hafa verið hafðir að fíflum af eigin stjórnvöldum og að mistökum þessara sömu stjórnvalda er um að kenna, að lífskjör fara nú hratt versnandi í Rússlandi, og ófarir rússneska hersins í Úkraínu verður ekki lengi hægt að dylja úr þessu.  Lygamerðir Rússlandsstjórnar á borð við Dimitry Peshkov, talsmann forsetans, sem viðtal birtist nýlega við á vestrænum fjölmiðli, er til vitnis um, að stjórn Rússlands er heillum horfin. 

 

 ukrainian-cloth-flags-flag-15727


Afleiðingar tengingar raforkukerfis Íslands við Bretland

Vegna hás raforkuverðs á Bretlandi og orkuskorts á Íslandi eru menn enn á þeim buxunum, að gullgraftrarhugmynd felist í að flytja út rafmagn frá Íslandi til Bretlands og möguleikanum á innflutningi rafmagns þaðan. Það er lærdómsríkt í því sambandi að líta til reynslu Norðmanna í þessum efnum.  Þeir eiga nú raforkuviðskipti við Englendinga, Þjóðverja, Hollendinga, Dani, Svía og Finna. Í Suður- og SV-Noregi, þ.e. sunnan Dofrafjalla, hefur heildsöluverð  raforku í vetur til heimila og fyrirtækja án langtímasamninga verið 8-13 sinnum hærra en í mið- og norðurhluta Noregs, þ.e. í Þrándheimi og þar fyrir norðan.  Þetta er svo mikil hækkun, að markaðsbrestur hefur orðið, þ.e. ríkisstjórnin hefur gripið inn í með niðurgreiðslum til almennings, því að sum heimili og fyrirtæki voru að kikna undan fjárhagsbyrðunum.

Ástandið hefur valdið mikilli reiði í Noregi, því að almenningur lítur svo á, að hann eigi að njóta hagkvæmni norskra vatnsorkulinda beint í eiginn vasa með lágu raforkuverði.  Hann sættir sig ekki við, að mismunur markaðsverðs og kostnaðar við vinnsluna m.v. venjulega arðsemi renni allur í vasa fyrirtækjanna, sem reka orkuverin, jafnvel þótt þau í mörgum tilvikum séu að megninu í eigu ríkissjóðs eða sveitarfélaga.  Þetta er eðlilegt sjónarmið, enda eru lífskjör almennings (ráðstöfunartekjur) og samkeppnishæfni fyrirtækjanna háð raforkuverði. Þess skal geta hér, að vegna almennrar rafhitunar húsnæðis í Noregi eru raforkukaup almennings um 5-falt meiri þar en hér í MWh/ár að orku til rafbíla slepptri. Þess ber þó að gæta í samanburðinum, að raforka er drjúgur kostnaðarþáttur í hitaveituverði hérlendis, líklega um 15 %. 

Ástæðan fyrir því, að raforkuverðið hefur ekki hækkað jafnt um allan Noreg er, að flutningsgeta raforkukerfisins norður-suður um Dofrafjöll er takmörkuð, og það er fjöldi virkjana og miðlunarlóna í mið- og norðurhlutanum, sem sjá þeim landshlutum fyrir raforku á verði, sem er ákvarðað á markaði út frá vatnsgildi (vatnshæð) miðlunarlónanna þar.  Millilandasæstrengirnir eru tengdir við Noreg sunnanverðan, og þess vegna er þessi mikli verðmunur suðurs og norðurs í landinu bein afleiðing raforkuviðskiptanna við útlönd.

Þann 15. marz 2022 var heildsöluverðið í Ósló 2,13 NOK/kWh=31,2 ISK/kWh, sem er rúmlega 5-falt heildsöluverð hérlendis, og 0,164 NOK/kWh=2,4 ISK/kWh í Þrándheimi, sem er rúmlega 40 % af heildsöluverðinu hérlendis um þessar mundir.  Verðhlutfallið á milli landshlutanna er 13.  

Hvaða raforkuverð má geta sér til, að Íslendingar þyrftu að greiða, ef landið væri nú tengt við raforkukerfi Englands með t.d. einum 1000 MW sæstreng ?  Raforkuverð á Englandi var 15. marz 2022 í heildsölu 260 GBP/MWh eða 45 ISK/kWh. M.v. núverandi stöðu á markaðnum má gera ráð fyrir, að heildsöluverð til almenningsveitna hérlendis væri um 40 ISK/kWh eða tæplega 7-földun núverandi heildsöluverðs raforku hérlendis.  Heildareiningarverðið með VSK mundi hækka úr 18,8 ISK/kWh í þéttbýli í 60,3 ISK/kWh eða 3,2 faldast að því gefnu, að dreifingar- og flutningskostnaður verði óbreyttur.  Þetta þýðir, að árlegur meðalrafmagnsreikningur einbýlishúss með rafmagnsbíl hækkar um 446 kISK/ár, sem er mikil kjaraskerðing. 

Dettur einhverjum í hug, að skattheimtan muni lækka á móti vegna aukinna arðgreiðslna orkufyrirtækjanna ?  Þau munu þurfa að fara í fjárfestingar upp á a.m.k. mrdISK 400 til að geta boðið sæstrengseigandanum upp á alvöru viðskipti.  Þetta mun minnka hagnað þeirra verulega, á meðan greiðslubyrði lánanna varir, og þar af leiðandi verður arðgreiðslugetan lítil fyrstu 15 árin.  Eftir það veit enginn, hvernig kaupin gerast á eirinni á Englandi.  Englendingar verða sennilega langt komnir með orkuskiptin með uppsetningu hagkvæmra kjarnorkuvera í einingum víðs vegar um landið (SRU-Small Reactor Units) og alls ekki víst, að þeir hafi hug á að kaupa rafmagn langa leið, sem er rándýrt að flytja (a.m.k. 65 USD/MWh = 50 GBP/MWh). Þannig er þetta ævintýri mjög áhættusamt fyrir bæði sæstrengsfjárfesta og virkjanafjárfesta. 

Í Morgunblaðinu 12. marz 2022 birtist grein um útflutning raforku eftir Egil Benedikt Hreinsson, prófessor emeritus, og Gunnar Tryggvason, verkfræðing. Margt orkar tvímælis í þeirri ritsmíð, og verður hér stiklað á stóru.  Yfirskriftin var:

"Er orkuútflutningur góður fyrir Ísland ?"

"Eingöngu um fimmtungur eða 20 % af raforkunni er hins vegar nýtt af hinum almenna markaði, en 80 % af stóriðjunni. Þetta tvennt gerir það að verkum, að almenn verðhækkun raforku er almenningi á Íslandi í hag !" 

Þessi framsetning er óraunhæf, vegna þess að verðbreytingar á íslenzka raforkumarkaðinum fara fram með tvennum hætti.  Þessi 80 %, sem höfundarnir nefna, eru afhent samkvæmt langtímasamningum, og gjaldskrárbreytingar orkuseljenda ráða verðinu á um 20 %.  Samkvæmt Orkupakka 3 á heildsöluverð þessa fimmtungs að ráðast af framboði og eftirspurn í orkukauphöll.  Ef orkuseljendur ætla að láta verðhækkanir á almenna markaðinum eftir tengingu landsins við enska raforkukerfið ráða för við endurnýjun samninga, er hægt að fullyrða, að ekkert verður úr orkusamningum á slíkum forsendum.  Af þessum sökum og þeim, sem raktar eru að framan um kostnað orkuiðnaðarins af fjárfestingum, er það rangt, að almenn verðhækkun raforku verði almenningi í hag.

"Á undanförnum árum hefur verið nokkur umræða um mögulegan orkuútflutning frá Íslandi.  Annars vegar hafa verið hugmyndir um beinan raforkuflutning um sæstreng til Bretlands og hins vegar um útflutning rafeldsneytis til Evrópu og e.t.v. Norður-Ameríku, tengt möguleikum á hraðari orkuskiptum.  

Það er að okkar mati skynsamlegt að huga að báðum þessum leiðum, bæði af efnahagsástæðum, eins og reifað var hér að framan, en ekki síður sökum umhverfismála og samfélagslegrar ábyrgðar."

Fyrsta spurningin, sem þarf að svara í sambandi við orkuútflutning, er, hvort endurnýjanlegar orkulindir Íslands duga landsmönnum bæði til innanlandsnotkunar og orkuútflutnings.  Af nýlegri grænbók umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að dæma, þar sem fram kemur, að allt að 25 TWh/ár þurfi í orkuskipti og vöxt atvinnustarfsemi fyrir vaxandi þjóð og hóflegan hagvöxt næstu 2-3 áratugi, verður harla lítið eða ekkert eftir til beins útflutnings. 

Ef við föllumst ekki á að gjörbreyta ásýnd Íslands með vindmyllum, sem er of hár fórnarkostnaður, þá verður áreiðanlega ekki orka fyrir hendi til að standa undir orkusölu um sæstreng, en í nafni hagkvæmni stærðarinnar kann að reynast grundvöllur fyrir takmörkuðum útflutningi rafeldsneytis.

"Með auknum tengingum og viðskiptum batnar nýting auðlinda og sóun minnkar."

Þetta er alls ekki víst. Sem dæmi má taka jarðhitaauðlindina.  Nýting virkjaðs jarðgufuforða fylgir ekki stærð virkjunar.  Þvert á móti getur of stór virkjun m.v. gufuforðann valdið tjóni á honum, svo að hann minnki.  Það hefur gerzt hérlendis, t.d. á Hellisheiði.  Það þarf að stækka jarðgufuvirkjun rólega til að komast að þolmörkum jarðgufuforðans. 

Mest hefur verið talað um orkusóun í sambandi við umframvatn á sumrin í góðum vatnsárum, þegar miðlunarlón yfirfyllist. Þetta er þó ekki sóun á fé, því að vélarafl skortir til að nýta vatnið, og markað kann að skorta líka.  Hér er þá frekar um tækifæri að ræða til aflaukningar í virkjun, en nýting hennar verður tilfallandi í góðum vatnsárum, sem er ekki góð nýting á fjármagni.   

Byggðalínan er búin að vera flöskuháls lengi og standa atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum í aldarfjórðung vegna lítillar flutningsgetu.  Með spennuhækkun hennar úr 132 kV og upp í 220 kV munu töp hennar minnka um rúmlega 300 GWh/ár, og hægt verður að draga verulega úr yfirflæðisvatni framhjá virkjun með góðri skipulagningu og samhæfingu á milli virkjana.  

Sæstrengur væri glannalegt yfirskot í fjárfestingu til að bæta tiltölulega litlu við vatnsrennsli gegnum virkjanir með því að draga úr yfirflæði.

"Þannig hafa frændur okkar í Noregi og Danmörku lagt marga strengi, bæði sín á milli og til flestra nágrannaríkja og leggja á ráðin um fjölgun þeirra.  Með þessu auka þeir orkuöryggi sitt og í tilfelli Norðmanna auka þeir þjóðartekjur og hag almennings, en auðlindarentan af orkuauðlindinni rennur að langmestu leyti til hins opinbera í Noregi, eins og hér á landi, þegar um opinbert eignarhald er að ræða." 

Það eru tvær hliðar á þessum peningi og yfirborðslegt að fjalla ekki um báðar. Höfundarnir skrifa, að frændur vorir leggi á ráðin um fjölgun þeirra.  Í Noregi ríkja nú svo miklar efasemdir um þjóðhagslega hagkvæmni fleiri aflsæstrengja til útlanda, að nýjasta verkefnið á þessu sviði, Nord Link á milli SV-Noregs og Skotlands (Petershead) hefur legið í "salti" sem leyfisumsókn hjá Orkustofnun Noregs (NVE) í 4 ár.  Þessi strengur er á vegum einkafyrirtækis, en ekki Statnetts, eins og allir starfræktir aflsæstrengir Noregs eru.

  Norðmenn horfa upp á geigvænlegar orkuverðshækkanir af völdum utanlandstenginganna, sem allt að 13-falda heildsöluverð raforku í Noregi.  Þegar arðurinn af orkuflutningunum á milli landa rennur ekki til ríkisfyrirtækis, vega gallar verðhækkananna meir en kostirnir að mati Norðmanna.  Hvernig fá þeir það út ? Jú, samkeppnisgeta fyrirtækjanna rýrnar gríðarlega og getur hæglega riðið þeim að fullu.  Fyrirtækin hafa getað borgað há laun og verið kjölfesta í sínu byggðarlagi, en ef þau leggja upp laupana, verður skarð fyrir skildi og atvinnuleysi skellur á í byggðarlaginu.  Kostnaður af slíku lendir á ríkissjóði, og kostnaður af niðurgreiðslu raforku til heimilanna lendir líka á ríkissjóði. 

Þetta þykir almenningi í Noregi vera óheilbrigt ástand og vilja einfaldlega nýta sjálfbærar orkulindir sínar (vatnsföll) til að halda uppi góðum lífskjörum í eigin landi án gríðarlegra millifærslna úr ríkissjóði af völdum brests á raforkumarkaði.  Senterpartiet lofaði í kosningabaráttunni veturinn og sumarið 2021 að ráða bót á þessu, en hefur enn ekki orðið ágengt með það í ríkisstjórn með Verkamannaflokkinum.  Til þessa er að mestu rakið 2/3 fylgistap Sp í nýlegum skoðanakönnunum. 

Þannig er ekki hægt að fullyrða án rökstuðnings, að aflsæstrengir auki þjóðartekjur og hag almennings.  Hið síðar nefnda er kaldranalegur sleggjudómur í ljósi þess, sem hér var rakið.

"Árið 2016 gáfu ráðgjafar ríkisstjórnar Íslands út skýrslu um áhrif lagningar sæstrengs til Bretlandseyja á íslenzkan efnahag og samfélag.  Niðurstaðan var sú, að slík tenging gæti verið arðsöm, ef brezk stjórnvöld tryggðu íslenzkum orkufyrirtækjum hagstætt verð fyrir græna orku. 

Almennt var þá talið, að slík ábyrgð væri í boði, ef Ísland sæktist eftir því.  Þess má einnig geta, að raforkuverð á Bretlandseyjum er um þessar mundir mun hærra en það var, þegar þessi úttekt var gerð."

Skýrslurnar, sem gerðar hafa verið um tengingu raforkukerfis Íslands við raforkukerfi annarra landa, aðallega Bretlands, eru allar fremur einhæfar, af því að þær skortir allar faglega dýpt á tæknisviðinu.  Baunateljarar láta aftur á móti gamminn geisa um kostnað og hugsanlegt verð, en allt er það í lausu lofti, af því að verkfræðilega greiningu á viðfangsefninu skortir. 

Það þarf að finna út, hversu mikil flutningsgeta sæstrengs og jaðarbúnaðar má vera til að raforkukerfi Íslands fari ekki á annan endann við rof á flutningskerfi undir fullu álagi.  Sömuleiðis þarf að ákvarða nauðsynlegan síubúnað fyrir yfirsveiflur, því að hann hefur talsverð áhrif á kostnaðinn, og einnig þarf að ákvarða spennustigið, því að spennan hefur áhrif á orkutöpin og allan kostnað.

Ábyrgð brezkra stjórnvalda á lágmarksverði fyrir græna orku eftir sæstreng frá Íslandi eða öðrum ríkjum hefur aldrei staðið til boða. Brezk stjórnvöld tóku ekki slíka áhættu og munu enn síður taka hana, eftir að ákvörðun um að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með kjarnorku hefur verið tekin.  Verðið, sem rafmagnsseljendur á Íslandi fá fyrir rafmagn sent til Englands, ákvarðast af markaðsverði í Englandi að frádregnum töpum í flutningskerfinu og flutningsgjaldinu. Um þessar mundir gætu orkuseljendur á Íslandi fengið um 200 GBP/MWh eða um 260 USD/MWh í sínar hirzlur, ef þeir væru í stakk búnir til að selja þangað raforku. Þetta líta út fyrir að vera mjög arðbær viðskipti, en sá er gallinn á gjöf Njarðar, að núverandi raforkuverð á Englandi er ósjálfbært; það stafar af jarðgasskorti af völdum stríðs á meginlandi Evrópu, sem hófst án stríðsyfirlýsingar 24. febrúar 2022.  Atvinnulífið getur ekki til lengdar staðið undir svona háu raforkuverði, enda er það hagvaxtarhamlandi, og heimili fá orkustyrki. Öryggisleysið í þessum viðskiptum er of mikið til að leggja í fjárfestingar í virkjunum, flutningslínum og sæstreng með endabúnaði.

"Í skýrslunni kom fram, að áætluð áhrif slíkrar tengingar á losun gróðurhúsalofttegunda næmi um 1,0-2,9 Mt/ár, eftir að tengingin væri komin í gagnið."

 Það er ekki hægt að réttlæta verkefni af þessu tagi með vísun til baráttunnar við hlýnun jarðar af 4 ástæðum. (1) kolefnisfótspor framkvæmda og framleiðslu  búnaðarins er talsvert; (2) orkutöpin við að breyta orkunni í jafnstraum og aftur yfir í riðstraum ásamt flutningi um 1000 km leið eru mun meiri en vegna nýtingar sömu orku innanlands; (3) kolaorkuver munu hafa verið aflögð á Englandi, þegar þetta verkefni kæmist í gagnið, svo að íslenzka rafmagnið mundi aðallega leysa jarðgas af hólmi.  Það er hægt að ná miklu meiri árangri við að draga úr losun CO2 með notkun þessarar raforku á Íslandi; (4) Englendingar munu draga hratt úr gasþörf sinni með litlum stöðluðum kjarnorkuverum (SRU), sem raforka frá Íslandi mun eiga fullt í fangi með að keppa við. 

"Fyrrum forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, benti á það í viðtali fyrr í vetur, að Norðmenn hefðu sannað það, að þetta væri góð leið til að veita Evrópu græna orku, og taldi rétt, að við skoðuðum þennan möguleika frekar.  Undir þessi orð er vert að taka."

Dr Ólafur er gjarn á að slá um sig með ýmsum óraunhæfum hugmyndum.  Í fersku minni er, þegar hann hvatti til aflsæstrengslagnar frá Grænlandi um Ísland og áfram til annarra Evrópulanda, þótt ekki sé vitað um minnsta áhuga Grænlendinga fyrir slíkum orkuútflutningi.  Ef Norðmenn væru nú spurðir út í það, hversu góð viðskiptahugmynd slíkur orkuútflutningur er, mundu þeir vísast flestir vilja vera án hans, því að raforkumarkaðurinn þar innanlands er í uppnámi vegna hans og afkomu margra heimila og fyrirtækja er stefnt í hreinan voða fyrir vikið.

Annars er þessi sífelldi samanburður við Noreg illa grundaður, því að norska raforkukerfið er a.m.k. 7-falt stærra orkulega séð en hið íslenzka, Statnett á allar millilandatengingarnar og sæstrengirnir eru yfirleitt innan við helmingur að lengd á við hugsanlega aflsæstrengi til Íslands, og þeir liggja allir á grunnsævi.  Þar að auki er bæði miðlunargeta lóna og aflgeta virkjana mun meiri en 7-föld á við íslenzka kerfið, því að húsnæði er yfirleitt rafkynt og álagssveiflur þar af leiðandi meiri en hér.  Norðmenn eiga engin jarðgufuorkuver, sem óháð eru sveiflukenndum vatnsbúskapi frá einu ári til annars. 

"Um þessar mundir erum við Íslendingar að fást við  skerðingar á raforkuafhendingu vegna lágrar stöðu helztu uppistöðulóna vatnsaflsvirkjana.  Slíkar skerðingar eru mun sjaldgæfari í vel tengdum raforkukerfum með skilvirkum markaði og mundu líklega heyra sögunni til, ef Ísland tengdist slíkum markaði um sæstreng." 

Það er kolröng nálgun við að leysa þetta viðfangsefni að einblína á lausnir á meginlandi Evrópu. Hér erum við á orkuríkri eyju lengst norður í Atlantshafi, og það er nærtækast að sníða lausnir okkar að þeirri staðreynd.  Núverandi raforkuskortur á Íslandi er ekki náttúrulögmál, heldur sjálfskaparvíti, sem stafar af fullkomnu fyrirhyggjuleysi orkuyfirvalda landsins og Landsvirkjunar.  Þetta sést bezt af því, að hefði Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá verið tekin í gagnið sumarið 2021, þá hefði ekki þurft að grípa til neinna langtíma orkuskerðinga, eins og hófust strax haustið 2021. 

Að lokum er rétt að taka undir lokaorð höfunda greinarinnar, sem hér hefur verið rýnd, en það er bezt að gera með virkjun að jafnaði 100 MW/ári næstu 2 áratugina til nýtingar alfarið innanlands:

"Um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna:

"Aðalsmerki heimsmarkmiðanna er, að þau eru algild, og hafa aðildarríkin skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra." 

Við skorum á íslenzka stjórnmálamenn að fylgja heimsmarkmiðunum í verki, eins og að ofan greinir, því að Heimsmarkmið nr 7 er "Sjálfbær orka" og nr 13 er "Aðgerðir í loftslagsmálum"."      

 

 

 

 

 

 


Stórhuga hugmyndir um vindorkuver

Markaðsdrifin fyrirtæki hafa fyrir löngu eygt mikil viðskiptatækifæri í ömurlegum vandræðagangi íslenzkra stjórnvalda við að gegna þeirri sjálfsögðu skyldu sinni með vísun til þjóðaröryggis að tryggja hér nægt framboð raforku, þ.m.t. til upphitunar húsnæðis, þar sem íbúarnir verða að reiða sig á rafmagn ellegar að brenna olíu. 

Vindorkufyrirtæki hafa látið í ljós áhuga sinn á því að stíga með skjótum hætti inn í skortstöðuna, sem stjórnvöld hafa með aðgerðarleysi leyft að myndast. Orku, sem kemur inn í skortstöðu, er hægt að selja á hærra verði en ella, og það getur skapað vindorkuverum á Íslandi rekstargrundvöll, sem þau annars hefðu ekki. Vindorkufyrirtækin hafa sennilega einnig gert sér grein fyrir, að til langs tíma er miðlunargeta íslenzkra miðlunarlóna of lítil til að anna álaginu og þannig eygt möguleika á að selja Landsvirkjun alla þá raforku, sem þeir geta látið af hendi, svo að Landsvirkjun geti sparað vatn. Sama árangri má ná með gufuvirkjunum.  Vindorkufyrirtækin hafa kynnt áhuga sinn fyrir vindorkugörðum m.a. á Hróðnýjarstöðum við Búðardal, í Gilsfirði, á Laxárdalsheiði, á Melrakkasléttu og á Mosfellsheiði. 

Nú er komin fram hugmynd frá bandarísku félagi um að reisa risavaxið vindorkuver úti fyrir strönd Íslands með uppsettu afli alls  10 GW. Þetta er um ferfalt allt uppsett afl á landi og gæti framleitt um 35 TWh/ár, sem er 75 % meira en framleiðslugeta virkjana á Íslandi um þessar mundir.  Viðskiptahugmyndin snýst um að selja orkuna til Bretlands. Aðalmálið í þessu sambandi hlýtur að verða, hvaða áhrif slíkir vindmyllugarðar, 20-40 km frá landi, hafa á öryggi sæfarenda.  Af kynningu að dæma gætu þessar vindmyllur orðið tæplega 1000 talsins, og líklega verða reistir dreifistöðvarpallar til að safna orkunni inn á safnskinnur, spenna hana upp og breyta í jafnspennu fyrir flutningsstrengi til Bretlands. Það hljómar sem undarleg viðskiptahugmynd að leita alla leið til Íslands til að setja upp orkuver á hafi úti til að framleiða raforku fyrir Bretland.  Eru ekki aðrir kostir nærtækari, t.d. skozku eyjarnar eða Færeyjar ?  Líklega kæra íbúarnir þar sig ekki um þessi ferlíki úti fyrir sínum ströndum, sem óhjákvæmilega hafa áhrif á aðra nýtingu hafsvæðanna, s.s. til siglinga og veiða.

Það er fagnaðarefni, hversu áhugasöm ritstjórn Morgunblaðsins er um orkumál, og 12. febrúar 2022 birtist þar frásögn Gunnlaugs Snæs Ólafssonar af þessum áformum og umfjöllun norsku Hafrannsóknarstofnunarinnar (Havforskningsinstituttet-HI) um umhverfisáhrif slíkra mannvirkja:

"Aukinn áhugi hefur verið á uppbyggingu vindmyllugarða í Noregi á undanförnum árum, ekki sízt vegna síhækkandi raforkuverðs, en miklum efasemdum hefur verið lýst um ágæti slíkra áforma.  

"Vindorkuver á hafi úti framleiða hljóð, sem flestir fiskar og sjávarspendýr heyra.  Hljóðunum má skipta í byggingarhljóð, þ.e. hljóð frá byggingu vindmyllanna og framleiðsluhávaða, hljóð frá vindmyllum, sem eru í gangi", segir í inngangi kafla skýrslunnar um áhrif vindmyllugarða."

Lágtíðnihljóðið smýgur inn um veggi bygginga og er ein af ástæðum þess, að ekki ætti að leyfa staðsetningu vindmylluvera á landi í grennd við íbúðarhúsnæði eða útihús, eins og t.d. á Hróðnýjarstöðum við Hvammsfjörð.  Ekki er ólíklegt, að sjávardýrin geti beðið tjón af þessu hljóði líka, en þau hafa tilhneigingu til að safnast að slíkum mannvirkjum.

Þarna er minnzt á Noreg.  Óhugnanlegt er að sjá viðurstyggileg vindorkuver upp um fjöll og firnindi Noregs, og hvernig stórum flæmum óspilltrar náttúru hefur verið rótað upp vegna slóðagerðar, skurðgraftar fyrir rafstrengi og graftar fyrir gríðarlegar steyptar undirstöður fyrir hverja burðarsúlu rafala og spaða. Þá er ekki gott til þess að vita, að plasttrefjaagnir slitna frá spöðunum og dreifast um óspillta náttúruna og menga fæðu fugla og spendýra og drykkjarvatn.

Frá HI kom þetta í téðri frásögn blaðamanns:

"Stöðugur lágtíðnihávaði frá túrbínunum [spöðunum-innsk. BJo], á meðan þær [þeir] eru í rekstri, mun fyrst og fremst hafa áhrif á dýrin í og nálægt vindmyllugörðunum.  Þar sem botndýr koma sér fyrir á svæðinu og fiskar laðast oft að svæðinu, verða þessir hópar fyrir framleiðsluhávaða í lengri tíma.  Stöðugur lágtíðnihávaði getur haft áhrif á hegðun eins og botnblöndun, beit, æxlun, hegðun gegn rándýrum og samskipti, en hversu mikil áhrifin eru m.v. jákvæð áhrif aukins fæðuframboðs og skjóls í vindorkuverum er óþekkt.  Einnig eru þekkingareyður um getu sjávardýra til að laga sig að hávaðaáhrifum með tímanum." 

 Rannsóknir á umhverfisáhrifum vindmylla á hafi úti virðast ekki hafa leitt til neinnar niðurstöðu, þótt um 20 ára reynsla sé af rekstri þeirra úti fyrir ströndum Evrópu og Bandaríkjanna.  Þegar við bætast öryggis- og mengunarsjónarmið virðist að svo stöddu gamla slagorðið, sem í öðru samhengi er ekkert annað en skálkaskjól, að náttúran skuli njóta vafans, eiga við. 

Norska hafrannsóknarstofnunin er raunverulega bara að velta upp þeim atriðum, sem þarf að rannsaka áður en heimild er veitt til að reisa vindorkuver á hafi úti:

 "Hávaði getur, ásamt öðrum áhrifum vindorkuvirkjana (t.d. breytingum á rafsegulsviðum og straummynztri), leitt til breytinga á búsvæðum, sem geta hugsanlega haft neikvæð áhrif, eins og minni æxlun og/eða aukna dánartíðni."  

Síðan kemur fram í þessari umfjöllun, að norska ríkisstjórnin er raunverulega að beina vindmyllufjárfestingum á haf út, líklega af því að vaxandi andstaða er á meðal norsks almennings við vindmylluver á landi, enda spara þau Norðmönnum enga jarðefnaeldsneytisbrennslu, eins og reyndin er á meginlandi Evrópu og á Bretlandi. Skilvirkni vindmylla til raforkuvinnslu er lítil m.v. fjármagnsþörf og landþörf.  Þess vegna er vindmyllurekstur til raforkuvinnslu hérlendis líklegur til að þrýsta verði raforku upp, sem leiða mun til veikingar á samkeppnishæfni Íslands.  Þannig virðist það vera meinloka spákaupmanna, að vindmyllur eigi heima í íslenzku raforkuumhverfi.  

"Ríkisstjórnin vill stórfellda fjárfestingu í vindorku á hafi úti, en sýnir engan vilja til að rannsaka afleiðingar þess fyrir nokkra af stærstu fiskistofnum heims.  Á Noregur að fjárfesta í blindni, eða ættum við í staðinn að afla vitneskju um afleiðingarnar og tryggja áframhaldandi sjálfbæra stjórnun fiskveiðiauðlinda okkar ?", spyrja talsmenn samtaka norskra útgerðarmanna, Fiskebåt, í grein á vef sínum."

Svipaðs andvaraleysis hefur gætt í Noregi varðandi leyfisveitingar fyrir vindmyllum úti í fallegri fjallanáttúru, þar til þjóðin vaknar nú upp við vondan draum.  Þrýstingur hefur verið mikill í Noregi frá vindmyllufyrirtækjunum, því að þau hafa getað flutt raforkuna utan við háu verði, og þá hefur verið hægt að halda því fram, að þessi endurnýjanlega orkuvinnsla dragi úr losun koltvíildis út í andrúmsloftið.  Það er næsta víst, að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi munu að svo stöddu hafa uppi svipuð varnaðarorð gegn risavindmyllum úti fyrir Suð-Austurlandi og norskir útgerðarmenn hafa haft uppi gegn vindmyllum við strandlengju Noregs, enda á Noregur, eins og Ísland, enn talsvert eftir af óvirkjuðu vatnsafli og mun verða að bæta við virkjunum vegna orkuskipta og þjóðar í vexti.  Að treysta á innflutning raforku utan mesta álagstímans veitir ófullnægjandi afhendingaröryggi raforku fyrir Ísland.  Íslendingar eiga einfaldlega að beina fjárfestingargetu raforkuiðnaðar síns í virkjanir á jarðgufu og vatnsafli, þannig að á Íslandi verði alltaf borð fyrir báru á framboðshlið raforkunnar m.v. eftirspurn almenningsveitna og fyrirtækja, sem geta staðið undir arðbærum samningum fyrir íslenzk raforkufyrirtæki.  Með þessu móti verður bæði tryggð hámarkshagkvæmni við nýtingu orkulinda landsins og lágmarks unhverfisrask.  Er það ekki augljóst ? 


Herstjórn í handaskolum

Það er kolröng ályktun Viðreisnarforkólfa, sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, kynnir um þessar mundir af áfergju, t.d. í Silfri RÚV 13. marz 2022, og Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, predikar líka, að nú hafi þeir atburðir orðið í Evrópu, sem geri einboðið fyrir Íslendinga að sækja um aðild að Evrópusambandinu (ESB), þ.e. að biðja viðkomandi "kommissar" í ESB um að dusta rykið af þeirri gömlu.  Halda þau virkilega, að ESB telji ekki mikilvægara að fást við brýnni mál en þetta núna ?  Engum alvöru norskum stjórnmálaleiðtoga dettur í hug að fara á flot með jafnfjarstæðukennda hugmynd og þessa þar í landi. Þannig hefur formaður Hægri, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, og fylgjandi ESB-aðild, ekki fitjað upp á þessu, enda ekki vinsælt í Noregi, að norskir hermenn gangi í Evrópuherinn.  Norski herinn er NATO mikilvægur í vörnum Norður-Evrópu. Þessir íslenzku formenn tveir eru úti að aka.

Það er alveg rétt, að allt gjörbreyttist í Evrópu 24. febrúar 2022 með villimannlegri innrás Rússahers í Úkraínu, sem lygnu siðblindingjarnir í Kreml kalla ekki sínu rétta nafni og hafa bannað rússnesku þjóðinni að kalla sínu rétta nafni, heldur skuli viðhafa hugtakarugling að hætti Kremlar og kalla ófögnuðinn "sértæka hernaðaraðgerð".  Þá er skírskotað til þeirrar vitfirrtu átyllu, að nauðsynlegt hafi verið að hreinsa nazista út úr valdastöðum í nágrannaríkinu, af því að rússneskumælandi fólk ætti þar í vök að verjast.  Sjúklegri lygaþvættingur hefur sjaldan sézt eða heyrzt. Rússar eru nú flæktir í eigin lygaþvælu, þar sem yfirmenn hafa logið að undirmönnum um "strategíu" hernaðarins, og undirmenn hafa logið að yfirmönnum um getu hersins.  Leyniþjónustan, arftaki KGB, laug að Pútín um hug Úkraínumanna til innrásarhersins og sagði honum aðeins, það sem hann vildi heyra.  Þetta er dæmigerður veikleiki einræðisríkis.  

Viðbrögð ESB-ríkjanna urðu snögg og samstæð, mikil aukning hernaðarútgjalda, miklar hergagnasendingar til Úkraínu og viðamiklar fjármálalegar og viðskiptalegar refsiðgerðir gegn Rússum undir forystu Bandaríkjamanna. Við Rússlandi blasir gjaldþrot með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.  

Mikil aukning fjárveitinga til hermála er ekki til að styrkja hernaðararm ESB, heldur til að gera Evrópuríkin í stakk búin til að uppfylla hernaðarlegar skuldbindingar sínar gagnvart NATO, enda gera þau sér mætavel grein fyrir, að þau geta ekki varið sig sjálf gegn Rússlandi, heldur verða að reiða sig á NATO.  Þetta varð enn ljósara við brotthvarf öflugasta herveldis Vestur-Evrópu úr ESB, og Bretar hömruðu jafnan á því, á meðan þeir voru innanborðs, að stofnun ESB-hers yrði NATO ekki til framdráttar, nema síður væri, því að sömu fjármunina er ekki hægt að nota tvisvar.  Þegar af þessari ástæðu er Úkraínustríðið engin hvatning fyrir Ísland til að ganga í ESB. Málflutningurinn sýnir fremur málefnalegt gjaldþrot ESB-sinna hérlendis, þar sem þeim hefur mistekizt að sýna fram á gagnsemi aðildar fyrir hinn almenna mann. Það er ekki hægt að sýna fram á neina gagnsemi af aðild fyrir land, sem er með þjóðartekjur á mann hátt yfir meðaltali ESB-ríkjanna.  

Staðan sýnir hins vegar öllu hugsandi fólki í sjónhendingu, hversu mikilvægt varnarbandalagið NATO er fyrir varnir lýðræðisríkja hins vestræna heims, enda mælist nú meira en helmingsfylgi almennra flokksmanna VG við NATO-aðild Íslands, þótt forstokkaðir flokksbroddarnir japli enn á andstöðu sinni við veru Íslands í hvers konar hernaðarbandalögum. Þau eru óskiljanleg og verulega vandræðaleg.  Þegar fólk hefur verið einu sinni slegið blindu, á það sér ekki viðreisnar von.  Á hinum Norðurlöndunum eru systurflokkar VG ekki svona forstokkaðir, heldur endurmeta nú stöðuna, t.d. SV í Noregi.

Spurt hefur verið, hvort Ísland eigi við núverandi aðstæður að fara fram á stöðuga viðveru herliðs á vegum NATO.  Varnarbandalagið hefur nú nóg á sinni könnu í austanverðri Evrópu, þar sem það gæti lent í beinum bardaga við rússneska herinn fyrirvaralaust.  Á meðan átökin hafa ekki færzt út á Atlantshafið, verður að líta svo á, að stöðug viðvera varnarliðs hér á vegum NATO hafi litla þýðingu. 

Það gæti þó breytzt, og fari NATO fram á slíkt, t.d. eftir að hafa komizt á snoðir um einhver áform óvinarins, þá er það helzta mótframlag, sem Íslendingar geta lagt að mörkum gegn hervernd NATO, að ljá land, aðstöðu og alla mögulega þjónustu við herlið, sem NATO telur æskilegt eða nauðsynlegt að staðsetja hér. 

Stríðið í Úkraínu hefur komið flatt upp á flesta.  Aðdáun hefur vakið frækileg vörn Úkraínumanna, sem láta ekki bilbug á sér finna þrátt fyrir hrottalega stríðsglæpi rússneska hersins gegn almennum borgurum, íbúðarhúsum, sjúkrahúsum, fæðingardeildum, elliheimilum o.s.frv. 

Rússneski herinn sýnir öll merki þess gerspillta ríkis, sem hann þjónar.  Búnaður stendur sig illa og er óáreiðanlegur, varahluti, eldsneyti og mat handa hermönnunum skortir, þ.e. aðföng hersins eru í lamasessi.  Þar sem spilling ríkir, þykir þetta dæmigert einkenni.  Af fjárveitingum til hermála er m.ö.o. ótæpilegu stolið á öllum stigum.  Ólígarkar fá  framleiðslusamninga á hertólum, en illa er gengið frá samningum, svo að ólígarkar sleppa með að afhenda gallaða vöru. 

Herstjórnarlist Rússa virðist ekki vera upp á marga fiska.  Hún virðist í sumum tilvikum miðast við að hrúga saman sem flestum skriðdrekum á lítil svæði í von um, að ógnin af þeim leiði til uppgjafar, en Úkraínuher virðist hafa átt ágæt svör við þessari ógn, sem leitt hefur á 2 vikum til þriðjungs af mannfalli Rússa í öllu Afghanistan-stríðinu og svo mikils taps stríðstóla, að rússneski herinn virðist ekki fá það bætt með varaliði.  Afleiðing af þessu öllu er slæmur andi og minni bardagageta rússneska hersins en búizt var við.  Orðstýr rússneska hersins er farinn norður og niður, hann virðist vera siðferðislegt flak.   

Þessi innrás Rússa í Úkraínu hefur valdið ólýsanlegum mannlegum harmleik þar í landi, en út úr viðbjóði óréttlætanlegrar innrásar með tugþúsundum látinna og hundraða þúsunda særðra auka efnalegs tjóns, sem hleypur á hudruðum milljarða evra, gæti komið samstæðari Úkraínuþjóð en nokkru sinni áður í sögunni, sem mun ákveðin kjósa sér vestræna lifnaðarhætti, eigi hún þess kost.  Vesturveldin fá vonandi tækifæri til að aðstoða við uppbyggingu vestræns þjóðfélags úr þeim rústum, sem Rússar hafa valdið.  

Rússa bíður ekkert annað en skömm og fyrirlitning heimsins í einangrun.  Stjórnarfarið þar er nú farið að minna mjög á Stálínstímann.  Hversu lengi heimurinn mun þurfa að lifa í nýju "Köldu stríði", verður undir Rússum komið. 

Skjaldarmerki lýðveldisinsukrainian-cloth-flags-flag-15727


Kjarnorkuver eru forsenda orkuskipta víðast hvar í Evrópu

Frakkar hafa aldrei lagt kjarnorkuna á hilluna og Bretar ekki heldur.  Þjóðverjar veðjuðu á mikil og örugg jarðgaskaup frá Rússlandi til að fylla upp í eyður verðleika vindmyllna og sólarhlaða. Nú hafa þeir vaknað upp með andfælum og áttað sig á, að orkuna er ekki unnt að eiga undir Rússum, hverra valdamenn eru haldnir sjúklegum landvinningahugmyndum, eins og tröllriðið hafa rússneskum valdamönnum um aldaraðir, sem og landakortið ber vott um.  Hið eina, sem komið getur af fullum krafti í stað jarðefnaeldsneytis til raforkuvinnslu í flestum löndum Evrópu, er kjarnorkan. 

Íslendingar eru í sérstöðu, hvað þetta varðar, með orku fallvatna og jarðgufu auk jarðhita undir 100°C til húsahitunar.  Þá bregður hins vegar svo við, að einstrengingslegt úrtölufólk, eintrjáningar, sem er fyrirmunað að sjá heildarmyndina og varðar ekkert um þjóðarhag, leggjast af offorsi, af því að rök vantar, gegn frekari nýtingu þessara eftirsóknarverðu orkulinda og hafa fengið þá flugu í höfuðið, að búið sé að virkja nóg.  Þau eru í raun að berjast gegn orkuskiptum og aukinni hagsæld í landinu, enda fléttast inn gasprið hugmyndir um, að þjóðin verði að hætta að sækjast eftir hagvexti, en kappkosta í staðinn núllvöxt. Einkabíllinn er óvinur þessara voluðu sálna, líka sá rafvæddi.  Afleiðingarnar af  glapræði þessara afturhaldsviðhorfa eru sérkapítuli.

Í samningaviðræðunum, sem leiddu til Rio-umhverfisráðstefnunnar árið 1992, eyddi Saudi-Arabía miklum tíma í að fá sett inn orðin "umhverfislega örugg og traust" (environmentally safe and sound) framan við "orkulindir" (energy sources) og "orkuframboð" (energy supplies).  Þar sem olía Saudi-Arabíu, sem íbúarnir pumpa upp úr jörðunni í meira mæli en annars staðar þekkist,  er nú á dögum ekki talin vera umhverfislega örugg, virðist þetta keppikefli Saudanna þokukennt. Í þá daga var þó ætlun Saudanna öllum, sem létu sig málin varða, ljós: orðalaginu var ætlað að halda kjarnorkunni utan við dagskrá Rio.

Olíukreppur 8. áratugar 20. aldarinnar höfðu hleypt lífi í þróun, hönnun og uppsetningu kjarnorkuvera í mörgum löndum.  Á áratugnum fyrir 1992 hafði orðið aukning í notkun raforku frá kjarnorkuverum um 130 %. Það, sem meira var; það voru umræður um að nota raforkuna frá kjarnorkuverunum til að rafgreina vatn og fá þannig vetni í gervieldsneyti.  Hvort sem Saudarnir báru umhverfið fyrir brjósti eða ekki, þá gerðu þeir sér ljóst, hvaðan vænta mætti samkeppni.

Varnarviðbrögð þeirra reyndust óþörf.  Öfugt við olíukreppurnar hefur baráttan við hlýnun jarðar ekki framkallað hrifningu á kjarnorkunni. Notkun hennar náði hámarki 2006, en árið 2019 var hún aðeins 18 % meiri en en árið 1992.  Sem hlutfall af frumorkunotkun heimsins féll hún úr 6.1 % árið 2006 í 4,3 % árið 2019.  Skýringarinnar er að leita í því, að eftirlitsaðilar kjarnorkumála hafa stöðugt verið að hlaða utan á regluverkið um kjarnorkuverin nýjum kröfum, sem allar hafa bætt við kostnaði, sem dregið hefur úr fjárhagslegri arðsemi þeirra, en skaðleg áhrif jarðefnaeldsneytis hafa yfirleitt ekki verið látin endurspeglast í verði þess. Þar að auki hafa umhverfisverndarsinnar af tilfinningalegum ástæðum lagzt gegna kjarnorkuverum. 

Róttæk lækkun á vinnslukostnaði vindmyllna og sólarhlaðna síðasta áratuginn hefur varðað leið Vesturlanda til kolefnislausrar raforkuvinnslu, en hún leiðir ekki til ákvörðunarstaðarins, af því að raforkukerfin eru órekanleg með þeim án varaafls, og þá er gripið til jarðgasknúinna raforkuvera. Nú hefur orðið kúvending á viðhorfi margra þjóða, t.d. Þjóðverja, til jarðgasöflunar, því að ríkið, sem afhenti þeim áður gas, hefur reynzt vera glæpsamlegt  útþensluríki, sem einskis svífst í grimmdarlegri aðför, villimannslegu stríði, við nágrannaríki, sem alls ekki vill aftur lenda undir yfirráðum þessa frumstæða nágranna, sem lýtur forystu siðblindingja af verstu sort, höldnum lygaáráttu og allra handa ranghugmyndum í sínum bunker. 

Kjarnorkan hefur sína galla, eins og allar orkulindir.  Þegar hún er hins vegar undir eðlilegu faglegu eftirliti, þar sem hönnunin er reist á vönduðum áhættugreiningum, svo að þau eru í raun "fail safe", þ.e. örugg í bilunartilvikum, þá eru þau mjög örugg.  Þess vegna er við núverandi aðstæður heimskulegt að loka kjarnorkuverum þessarar gerðar, sem enn hafa ekki lokið öruggu rekstrarskeiði sínu, eins og t.d. Diablo Canyon í Kaliforníu vegna lítils annars en fordóma, eins og einnig átti við um Þýzkaland, sem nú hlýtur að söðla um í þessum efnum, þegar landið sér "skriftina á veggnum".  Þess vegna hafa nokkur lönd, í mestum mæli Kína, nú þegar hafið mikið uppbyggingarskeið kjarnorkuvera.  Ekki er víst, að þau fullnægi þó öll vestrænum öryggiskröfum, en orkuneyðin og mengunin knýr á um þessa stefnu í Kína.  Jafnvel Saudi-Arabarnir hafa nú hoppað á þetta hross. 

Þess vegna er nú aukinn þrýstingur á markaðinum, t.d. á Bretlandi og í Frakklandi, að lækka kostnaðinn við kjarnorkuverin.  Frakkar, sem nota kjarnorku í ríkum mæli (> 50 %), byggja stór kjarnorkuver, en þeim hefur á seinni árum ekki tekizt að halda sig innan kostnaðaráætlana og tímamarka með þau. Þeir eru nú með ný áform um lítil ver í einingum (SMR), sem eru miklu viðráðanlegri verkefni en hin stóru.  Þann 4. nóvember 2021 skrifaði bandarískt félag, NuScale, undir samning um afhendingu 6 slíkra kjarnakljúfa til Rúmeníu, svo að ýmsir sjá nú ljósið.

Að hanna kjarnorkuver í fremur litlum einingum er góð hugmynd, því að þannig má koma við stöðlun á öllum sviðum hönnunar, framleiðslu, flutninga og uppsetningar, sem veitir kost á hagræðingu, er hefur í för með sér sparnað.  Regluverkið þarf að vera sveigjanlegt og faglegt, svo að það veiti svigrúm til samkeppni ólíkra framleiðenda.  Þetta mun gera kjarnorkuiðnaðinn aftur að góðum jarðvegi fyrir líflega tækniþróun, eins og var raunin á árum áður en reglufarganið lamaði þróunina, svo að kjarnorkan gat ekki veitt jarðefnaeldsneytinu verðuga samkeppni. 

Evrópa 1945      

 Evrópa og umhverfi utan úr geimnum


Orkan og stríðið

Frá Rússlandi kemur um fjórðungur olíunnar og helmingur jarðgassins, sem Evrópa vestan Úkraínu notaði áður en Rússaher réðist með offorsi inn í Úkraínu. Þann 7. marz 2022 birtist í Morgunblaðinu og sjálfsagt víða um heim áhrifarík grein eftir Oleg Ustenko, efnahagsráðgjafa Volodimirs Zelenski, forseta Úkraínu, frá maí 2019, og Simon Johnson (Project Syndicate).  Greinin hét:

"Sniðgöngum rússneska orku strax".

 "En engin af þessum refsiaðgerðum (frysting þess hluta rússneska gjaldeyrisvarasjóðsins, sem geymdur er utan Rússlands, lokun á SWIFT hjá nokkrum rússneskum bönkum, ekki öllum) hefur stöðvað innrás Rússa í Úkraínu af einni ástæðu, og engin þeirra mun gera það. 

Ástæðan er einföld: Rússar halda áfram að flytja út olíu og gas.  Reyndar hefur stríðið hækkað verðið á þessum vörum, mikilvægasta þætti rússneska hagkerfisins, til mikilla hagsbóta [fyrir þá]. Þannig er því, viku eftir að [stríðið] hófst, vestræn orkunotkun enn að fjármagna innrás Rússlands í Úkraínu, og rússneska yfirstéttin (elítan) hagnast meira en nokkru sinni fyrr.  Það er engin hjáleið í kringum verkefnið.  Það eina, sem mun stöðva yfirgang Vladimirs Pútíns, Rússlandsforseta, er að sniðganga alfarið allar rússneskar orkuafurðir.

Orka er burðarásinn í útflutningi Rússlands.  Aðallega sala á gasi til Vestur-Evrópu  [um lagnir] á langtíma viðskiptasamningum og sala á olíu á opnum heimsmarkaði."

Ekki þarf að draga í efa þetta mat Oleg Ustenko, enda eru Vesturveldin sama sinnis, en hafa mismunandi mikið svigrúm til athafna í þessa veru.  Bandaríkjamenn brugðust fyrstir við og tilkynntu 8. marz 2022 bann við innflutningi jarðgass, olíuvara og kola frá Rússlandi, sem nema um 8 % af notkun þeirra á þessum efnum.  Bretar búa enn að nokkru streymi gass og olíu úr botni Norðursjávar, bæði úr eigin lögsögu og Norðmanna, og ætla á nokkrum mánuðum að hætta þessum innflutningi frá Rússum. 

Þjóðverjar hafa lagt mest undir í þessum orkuviðskiptumvið Rússa og ætluðu að vaða lengra út í ófæruna með Nord Stream 2.  Þeir hafa líka sagzt ætla að hætta þessum viðskiptum við Rússa, en í áföngum og ekki að ljúka þeim fyrr en 2027.  Það mun þó sennilega verða miklu fyrr í raun.

"Undanfarinn mánuð hefur daglegt verðmæti rússnesks olíuútflutnings aukizt um nærri 100 MUSD/dag (reiknað út frá mati IEA á daglegum útflutningi Rússa [og] margfaldað með mati okkar á hækkun á raunverði fyrir Úralhráolíu).  Gjaldeyrishagnaður Rússa sl. janúar var um mrdUSD 19 eða um 50 % hærri en vanalega á sama tíma.  Oft er mánaðarlegur hagnaður mrdUSD 9-12."

Það er athyglisvert, hversu köldu andar nú frá Sádi-Arabíu til Bandaríkjanna, en þetta mikla olíuútflutningsríki gæti fyrirvaralítið aukið framleiðslu sína, a.m.k. um nokkurra mánaða skeið, álíka mikið og nemur olíuútflutningi Rússa, um 0,7 Mt/dag (4-5 Mtu/d). Það kann að stafa af gagnrýnum ummælum háttsettra bandarískra stjórnmálamanna um stjórnarfarið í þessu Arabalandi. 

Nú reyna Bandaríkjamenn að strjúka kommúnistanum Maduro í Venezúela meðhárs, en þar er allt í niðurníðslu, eins og mikill fjöldi flóttamanna frá Venezúela til Íslands er til vitnis um. Það yrði saga til næsta bæjar, ef konungsfjölskyldan í Riyadh bregst Vesturveldunum á ögurstundu og mun vart verða henni til framdráttar. 

Það er svo að sjá, að rússneska ríkið muni ekki eiga sér viðreisnar von um áratugaskeið vegna villimannslegra aðfara rússneska hersins í Úkraínu.  Líklega er pólitískur óstöðugleiki framundan í Garðaríki, og í vestrænum fjölmiðlum er farið að gera greiðslufalli rússneska ríkisins skóna.  Lífskjör um allan heim hafa þegar versnað vegna afleiðinga þessa viðbjóðslega og óafsakanlega stríðs Kremlarherranna gegn friðsamri, fullvalda og lýðræðislega þenkjandi þjóð, sem sækist eftir vestrænum lifnaðarháttum.  Í Rússlandi munu rýr lífskjör almennings hrapa, þegar VLF lækkar um 6 % eða meir og rúblan missir mikið af verðgildi sínu.  Ætli ólígarkarnir í kringum forsetann megi þá ekki fara að biðja Guð að gleypa sig ? 

"Stöðvun á orkusölu Rússa getur hafizt með algeru viðskiptabanni Bandaríkjamanna [gerðist 08.03.2022] auk afleiddra þvingana eða sekta, sem hægt er að leggja á þriðju aðila eða þjóðir, sem ekki falla beint undir viðskiptabannið, en eiga í viðskiptum, sem fara gegn tilgangi þess.

Heimsmarkaðsverð á olíu mun hækka, en verði refsiaðgerðunum að fullu framfylgt, mun hagnaðurinn af því ekki enda hjá rússneskum framleiðendum.  Í slíkri atburðarás áætlar IEA, að olíuframleiðsla um allan heim verði aukin mjög hratt - Rússland flytur út 5 Mtu/dag, en viðbótar framboð heimsins gæti orðið a.m.k. 3 Mtu/dag. Ráðstafanir til orkusparnaðar geta og ættu einnig að verða innleiddar, þar sem við á." 

Markaðsöflin munu vafalaust knýja á um aukna framleiðslu nú, þegar raunverð olíu er hærra en nokkru sinni áður og notendur munu sjá sér mikinn hag í að spara olíuna á öllum sviðum, ekki sízt bílaeigendur. Við þessar aðstæður kemur vel í ljós glámskyggni þeirra, sem bera ábyrgð á því, að á Íslandi er raforkuskortur.  Af hagkvæmniástæðum og af þjóðaröryggisástæðum ætti alltaf að vera borð fyrir báru í raforkuframboðinu, svo að hægt sé að verða við allri eftirspurn forgangsorku gegn verði, sem skilar hóflegri arðsemi raforkugeirans. Nú er Landsvirkjun að fyllast örvæntingu yfir því að verða e.t.v. að draga úr forgangsorkuafhendingu í vor vegna eigin fyrirhyggjuleysis.  Hún býðst til að greiða forgangsorkunotanda stórfé fyrir að draga úr raforkunotkun sinni nú.  Hvílíkt sjálfskaparvíti ! Nýtur slík endemisstjórn Landsvirkjunar enn stuðnings Alþingis ? 

"Auðvitað þyrfti Evrópusambandið að fylgja fast í kjölfarið.  Til að vera ekki að skafa neitt utan af hlutunum þá er það bara spurning um tíma. ESB getur annaðhvort hætt að kaupa rússneskt gas strax til að stöðva innrásina eða það getur beðið í mánuð, þar til þúsundir til viðbótar hafa fallið - og skelfilegar myndir af mannfalli óbreyttra borgara hafa flætt um alla miðla.  Það kemur að því, að Evrópubúar geti ekki lengur lifað með þeirri staðreynd, að þeir eru að fjármagna grimmdarverk Pútíns í Úkraínu." 

 Innrás Rússa í Úkraínu er fullkomlega fráleit.  Þeir eiga ekkert tilkall til landsins, og skiptir sagan þá engu máli.  Það, sem öllu máli skiptir í þessu sambandi, er, að Úkraína var frjálst og fullvalda ríki, og það hlutskipti völdu íbúarnir sér sjálfir í kosningum.  Nú hafa þeir sýnt og sannað fyrir sjálfum sér og umheiminum með hetjulegri baráttu sinni við ofureflið, sem vill leggja þá undir sig, að þeir eru tilbúnir að fórna öllu fyrir land sitt, fullveldi ríkisins og frelsi íbúanna til að ráða málum sínum sjálfir.  Það mun aldrei gróa um heilt á milli Úkraínumanna og Rússa, og þess vegna hafa hinir síðarnefndu algerlega eyðilagt alla möguleika sína til pólitískra áhrifa í landinu nú og í fyrirsjáanlegri framtíð. Rússneskir hermenn berjast þess vegna tilgangslausri baráttu í Úkraínu, og með svívirðilegum grimmdarverkum sínum leiðir rússneski herinn þjóð sína æ lengra út í fúafen, sem hafa mun svo slæm áhrif á rússneska þjóðarsál (sjálfsvitund almennings), að langvarandi kreppa og jafnvel upplausnarástand, verra en eftir fall hins kommúnistíska þjóðskipulags árið 1991, gæti hæglega orðið reyndin í Rússlandi. Sýnir þetta glögglega í hvers konar ógöngur einræðisskipulag getur leitt þjóðir og gerir oftar en ekki, sbr Þriðja ríkið.

"IEA [International Energy Agency] hefur birt áætlun um, hvernig megi draga úr notkun Evrópu á rússnesku gasi, og teymi hjá Brügel [hugveita] hefur birt tillögur um það, hvernig hægt sé að þrauka næstu mánuði án rússnesks gass.  Allir evrópskir stjórnmálamenn þurfa að horfast í augu við verkefnið."

Evrópuþjóðirnar verða að setja í algeran forgang að fást við skrímslið í Kreml.  Nú vorar í Evrópu, og það er hægt með mótvægisaðgerðum að komast af án rússneskrar olíu og gass.  Því fyrr sem þjóðirnar í ESB lýsa sig reiðubúnar að taka á sig þær fórnir, sem til þarf til að stöðva stríðsvél Kremlarmafíunnar, þeim mun betra. Nokkur ríki innan ESB gerðu sig sek um að fóðra bjarndýrið og tóku með því allt of mikla áhættu, af því að þau vanmátu grimmd bjarndýrsins og ranghugmyndir um yfirráð þess.  Þau verða um skeið að súpa seyðið af því.  

"Áhrifin takmarkast heldur ekki aðeins við Evrópu.  Úkraínskur landbúnaður mun t.d. mjög fljótlega hrynja.  Enginn getur plægt akra eða sáð fræjum undir skothríð rússneskra hersveita.  Þetta mun ýta undir hækkun matvælaverðs á heimsmarkaði vegna þess, að Úkraína er 5. stærsti útflytjandi hveitis í heiminum, og hafa neikvæð áhrif á efnahag og lífskjör í lágtekjulöndum."

Úkraína er kornforðabúr Evrópu, og var sú staðreynd notuð til að telja íbúum Þriðja ríkisins trú um nauðsyn "Drang nach Osten für Lebensraum", þ.e. útþenslustefnu nazista í austurveg. Í Kreml hefur í aldaraðir ríkt útþenslustefna í allar áttir, en nú er rússneska ríkið komið að leiðarlokum í þeim efnum.  Að missa kornvörur Úkraínu út af markaðinum mun hækka verða landbúnaðarafurða, kynda enn meir undir heimsverðbólgu og auka hungursneyð í heiminum, en Bandaríkjamenn o.fl. munu e.t.v. geta aukið framleiðslu sína eitthvað á móti.  

Grein Olegs Ustenko lauk þannig:

"Það er tími kominn til að horfast í augu við þann harðneskjulega veruleika, að Pútín og félagar hans hafa gengið berserksgang.  Heimurinn getur annaðhvort sniðgengið rússneska orku með öllu til að stöðva innrásina strax eða haldið áfram að fylgjast með rússneskum hersveitum fremja hverja svívirðuna á fætur annarri - og fikra sig á hverjum degi nær yfirráðasvæði ESB-ríkja. 

Enginn í veröldinni ætti að kaupa rússneska orku.  Útskúfun fyrir það ætti að vera meiri og verri en fyrir viðskipti með blóðdemanta.  Heimurinn er að vopnavæða og hvetja grimmt og stjórnlaust skrímsli. Það verður að hætta."

Nú er rússneski flugherinn tekinn til við að gera loftárásir í Úkraínu vestanverðri.  Þar er mikið af flóttamönnum.  Þá er ekki seinna vænna fyrir NATO að setja flugbann á vestanverða Úkraínu af mannúðarástæðum og sökum nálægðar við landamæri aðildarlandanna.  

 

  

 

 

 


Stríðshörmungar

Forseti Rússlands hefur með því að etja rússneska hernum á nágrannann í vestri, Úkraínu, valdið ólýsanlegum mannlegum harmleik og ofboðslegu efnislegu tjóni.  Þetta er slíkt fólskuverk, að þessi viðbjóðslegi maður hefur á fáeinum sólarhringum áunnið sér fordæmingu alls heimsins, og Rússland er að taka á sig mynd hryðjuverkaríkis. Það er líka þyngra en tárum taki.

Honum má ekki verða kápan úr því klæðinu að breyta landamærum í Evrópu með hervaldi. Vladimir Putin er siðblindur ómerkingur, sem enga samninga virðir, ef honum býður svo við að horfa. Hann hefur nú (reyndar 2014 með hertöku Krímskaga) rofið samkomulag frá 1994 (The Budapest Memorandum of 1994), þar sem Bandaríkin, Rússland og Bretland hétu að ábyrgjast landamæri Úkraínu gegn því, að hún léti af hendi kjarnorkuvopn, sem hún tók að erfðum frá Ráðstjórnarríkjunum. 

Árið 1854 var 35 ára Breti að nafni Roger Fenton skipaður konunglegur stríðsljósmyndari á Krímskaga til að gera Krímstríði Breta og Rússa skil með ljósmyndum.  Nú þegar í 2. viku árásarstríðs Rússa í Úkraínu er  þessi mannlegi harmleikur líklega orðinn sá mest myndaði í sögunni, bæði mest ljósmyndaði og kvikmyndaði, og hörmungarnar eru jafnóðum færðar inn á heimili almennings um allan heim.  Þessar hörmungar vekja slíkan óhug, að fólk getur vart á heilu sér tekið.  Að brjálæði eins manns geti rétt einu sinni valdið svo miklum þjáningum, dauða og tjóni, sem þessar myndir og lýsingar stríðsfréttaritara greina frá, er með ólíkindum á 21. öldinni og sýna, að herfileg pólitísk mistök hafa átt sér stað, þar sem Vesturlönd eru einnig undir sök seld, aðallega fyrir dómgreindarleysi gagnvart hættunni, sem frá Rússlandi undir gjörspilltum einvaldi stafar. Pólverjar voru lengi búnir að vara við þessari hættu, en töluðu fyrir daufum eyrum í Evrópusambandinu, ESB, og NATO.

Mikil bjartsýni og baráttugleði ríkti hjá sendiherra Úkraínu, Olgu Díbrovu, á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu í Reykjavík, sem Morgunblaðið gerði skil 2. marz 2022:

"Olga Díbrova, sendiherra Úkraínu gagnvart Íslandi, segist vera örugg um það, að Rússar nái ekki Kænugarði á sitt vald, þar sem hún segir stríð ekki unnin með skotvopnum eða sprengjum, heldur með anda þjóðarinnar. Ef þörf krefur, muni úkraínska þjóðin berjast til síðasta blóðdropa." 

Orð sendiherra Úkraínu fáum við staðfest daglega á fjölmörgum myndbandsupptökum stríðsfréttaritara í Úkraínu. Birt hafa verið viðtöl við rússneska stríðsfanga, þar sem þeir upplýsa, að þeir hafi farið yfir landamæri Úkraínu á fölskum forsendum.  Þeim hafi verið sagt, að leiðangurinn væri til að frelsa úkraínskan almenning undan oki nazista, sem réðu ríkisstjórn Úkraínu.  Fáránlegri lygaþvættingur hefur ekki heyrzt í háa herrans tíð, en nú bregður svo við, að nokkrir kvislingar Rússlandsstjórnar hérlendis gleypa við þessum sjúklega málflutningi (forseti Úkraínu er rússneskumælandi Gyðingur frá austurhéruðunum). Hermönnunum var jafnframt sagt, að þeim yrði fagnað með blómum, en reyndin varð sú, að almenningur kastaði Mólotoffkokkteilum að rússnesku skriðdrekunum. 

""Úkraínska þjóðin er innblásin og sameinuð sem aldrei fyrr; meira að segja á samfélagsmiðlum sér maður, að þjóðin er tilbúin að berjast.  Já, íbúar fela sig vegna sprengjuárásanna, en þeir eru ekki hræddir", sagði Díbrova í samtali við Morgunblaðið að loknum blaðamannafundi í gær." 

Brent-olíuverðið hækkaði að morgni 7. marz 2022 um 6,1 % og fór í 125,3 USD/tunnu, sem er 80 % hækkun síðan 01.12.2021. Hækkunin á eftir að verða enn meiri út af þessu stríði, og hún mun smita yfir í plastið og nánast allar aðrar vörur, sem eiga uppruna sinn í olíu eða eru orkukræfar í framleiðslu.  Skortur verður á hveiti og öðrum korntegundum, þegar um þriðjungur framboðsins dettur út.  

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, BNA, tilkynnti sunnudaginn 06.03.2022, að á milli BNA og Evrópusambandsins, ESB, færu nú fram viðræður um innflutningsbann á rússneska olíu og jarðgas. Forseti BNA tilkynnti 08.03.2022, að BNA væri að setja slíkt innflutningsbann á. Innflutningur BNA á þessu eldsneyti er þó lítill, en 27 % af olíuinnflutningi ESB er frá Rússlandi, og  tæplega helmingur af jarðgasnotkun ESB er rússneskt gas.  Það er kaldhæðni örlaganna, að Evrópa heldur uppi fjárhagslegu bolmagni Rússlands til að halda úti stríði af því tagi, sem nú er háð í Úkraínu með eldsneytiskaupum (gas, olía, kol) af Rússum fyrir um 700 MUSD/dag eða 256 mrdUSD/ár.  Sennilega er hægt að lama efnahag Rússlands með því að hætta þessum viðskiptum við landið, en það er hægara sagt en gert. ESB tilkynnti þó 08.03.2022, að dregið yrði úr þessum innflutningi um 2/3 á örfáum árum og honum alfarið hætt fyrir 2030.  Stórtíðindi þar á ferð.  

Hvorki er hægt að hætta gaskaupunum, eins og hendi sé veifað, né geta Rússar fundið aðra viðskiptavini strax, því að það tekur tíma að leggja flutningslagnirnar annað. Þeir verða nú að fjárfesta í nýjum lögnum.  Hvar fá þeir fé til þess ?  Olíuútflutningur Rússa nam 4,5 Mtunna/dag fyrir þetta  stríð.  Það eru 5 % af heimsneyzlunni á olíu, og önnur lönd með Saudi-Arabíu í broddi fylkingar geta aukið framleiðsluna að sama skapi.  Tankskip eru líklega tiltæ, enda rýkur nú hlutabréfaverð upp í útgerðum þeirra.

Putin hefur nú hótað að draga úr streyminu eftir Nord Stream 1 til Evrópu, ef innflutningsbann verður sett á rússneska olíu.  Það kann að verða látið reyna á þá hótun einvaldsins.  

Þjóðverjar voru svo blindaðir af friðþægingarþörf sinni við Rússa, að þeir hafa ekkert plan B gagnvart bresti á gasafhendingu. Þannig er enginn búnaður í þýzkum höfnum til að taka á móti jarðgasi á vökvaformi (LNG) og breyta því aftur á gasform.  Það er samt umframafkastageta slíks búnaðar fyrir hendi í Evrópu, en hann er aðallega á Spáni.  Sennilega mætti auka jarðgasinnflutning frá öðrum á gas- og vökvaformi um jafngildi 20 % af þörfinni, og þá liggja 30 % þarfarinnar óbættar hjá garði í Evrópu, ef skrúfað verður alfarið fyrir gasið frá Rússlandi.  Það gæti komið sem LNG frá BNA og Persaflóaríkjunum, þegar móttökustöðvar LNG hafa verið reistar víðar, en þetta mun leiða til hærra gasverðs til neytenda.  Allt mun þetta flýta fyrir kjarnorkuveravæðingu rafkerfisins til að draga verulega úr gasþörfinni.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Íslands kynnti virkjanaþörf hérlendis næstu áratugina fyrir heildarorkuskipti, þörf vaxandi þjóðar og hagvöxt.  Eru það um 25 GWh/ár eða ríflega tvöföldun núverandi virkjaðrar orku.  Hvernig hennar verður aflað, verður mikilsvert rannsóknarefni.  

ukrainian-cloth-flags-flag-15727

  

 


Skefjalaus útþenslustefna Rússlandsforystunnar

Það hefur nú loksins runnið upp fyrir forystu Evrópu, Bandaríkjanna og heimsins alls, hversu stórhættuleg fyrir framtíð heimsins alls forysta Rússlands er vegna skefjalausrar útþenslustefnu sinnar, þar sem hún reynir á vitfirringslegan hátt að skrúfa rás tímans aftur um rúmlega 30 ár og jafnvel langt aftur fyrir byltingu mensévíka gegn keisaranum og bolsévíka gegn þeim.  

Það er forneskjuleg og glæpsamleg hugmyndafræði, sem forseti Rússlands hefur kynnt í ritgerðum og ræðum, að Rússlandi beri að sameina slavneskar þjóðir undir ríki sitt með svipuðum hætti og var í blóma rússneska keisaraveldisins. Frá Kalíningrad, gömlu Königsberg í Prússlandi, sem er víghreiður Rússlands við Eystrasaltið, getur rússneski herinn sótt inn í Eystrasaltslöndin, sem reyndar eru ekki slavnesk að stofni, og inn í Pólland. Þessi yfirvofandi hætta hefur nú sameinað Evrópu, Bandaríkin og nánast allan heiminn. (Kínverskur stórbanki í Shanghai, sem hefur haft milligöngu um mikil eldsneytisviðskipti Rússa, hefur nú stöðvað þau. Indverski herinn er búinn rússneskum hergögnum og hefur nú miklar áhyggjur af "gæðum" þeirra.)

Það er með ólíkindum og með öllu óviðunandi fyrir Evrópuþjóðir vestan Úkraínu, að tekin sé ákvörðun um það í Moskvu að leggja frjálst og fullvalda Evrópuland undir Rússland með villimannslegu hervaldi. Við þessa iðju sína beita Rússar ógnaraðferðum og gera óbreytta borgara að skotmörkum flugskeyta sinna og sprengjuvarpa með því að beina þeim að skólum, sjúkrahúsum, stjórnarbyggingum, torgum o.fl., þótt lygalaupurinn Pútín haldi öðru fram og sendimönnum ógnarstjórnar fyrrverandi KGB-manns sé falið að ljúga öðru upp í opið geðið á Vesturlandamönnum, sem búnir eru nú að fá upp í kok af lygaþvættingi stríðsglæpamanna ríkisstjórnar Rússlands og útsendara hennar. Að þvættingurinn frá Moskvu sé enn bergmálaður á Íslandi, er ekki einleikið.

Úkraínumenn hafa með hetjulegum varnarviðbrögðum sannað fyrir umheiminum með óyggjandi hætti, að þeir hafa fengið sig fullsadda af að vera undirsátar Rússa í eigin landi.  Þeir eru tilbúnir að berjast til þrautar við Rússa fyrir fullveldi sínu og sjálfsákvörðunarrétti. Fjöldi mæðra ungra barna hafa flúið eða eru á flótta til nágrannalanda, en feðurnir verða eftir til að berjast við ofureflið.  Fyrrverandi hermenn fara unnvörpum til föðurlands síns til að taka þátt í baráttunni.  Úkraínska hernum hefur orðið ótrúlega vel ágengt gegn fjandmanninum, sem virðist ekki vita sitt rjúkandi ráð. 

 

 

Úkraínska ríkisstjórnin og forsetinn hafa ákallað Vesturveldin um aðstoð gegn ofureflinu, og Vesturveldin hafa svarað með því að einangra Rússland á öllum sviðum og með vopnasendingum, læknabúnaði og matarsendingum, þ.e. með flestu öðru en því, sem þarf til reka fjandmanninn á flótta með skjótum hætti. Það verður samt að vona, að Rússar, sem horfast nú í augu við þá fáránlegu staðreynd, að einn maður hefur nú breytt "móður Rússía" í útlagaríki í heiminum, ýti óþokkanum frá völdum og dragi rússneska herinn inn fyrir landamæri Rússlands. 

Úkraínumenn munu hins vegar seint gleyma því eða fyrirgefa, það sem þessi nágranni þeirra hefur á hlut þeirra gert, og Úkraínumenn eiga siðferðilegan rétt á því eftir þetta, að Vesturlönd ábyrgist landamæri þeirra og þeir fái sérstakt samband við Evrópusambandið og aðgang að Innri markaðinum, eins og þeir hafa ítrekað beðið um.  Evrópa verður að standa saman að uppbyggingu Úkraínu eftir stríðið með aðstoð Bandaríkjanna. Hið gegnumrotna stjórnkerfi Rússlands, þar sem auðjöfrar og stjórnmálamenn með Vladimir Putin, gamlan leyniþjónustumann KGB á toppi pýramídans, stela auði stritandi alþýðu Rússlands, má hreinlega ekki til þess hugsa, að vestan landamæranna þróist grózkumikið hagkerfi og lýðræðislegt stjórnarfar.   

Nina L. Khrushcheva, prófessor alþjóðamála hjá "The New School", á rætur að rekja til Úkraínu, því að langafi hennar, Nikita Khrushchev, var aðalritari sovézka kommúnistaflokksins 1953-1964. Eftir hana birtist í Morgunblaðinu 28.02.2022 greinin:

"Hvað er Pútín að hugsa ?"

Þar stóð m.a. þetta:

"Aðeins slík hugsun [Mao Zedong:"pólitískt vald vex úr byssuhlaupi"-innsk. BJo] getur útskýrt aðgerðir Pútíns í Úkraínu. Hann segist vilja "afnazistavæða" Úkraínu, en merkingarleysi þeirrar fullyrðingar ætti að vera augljóst ekki sízt vegna þess, að forseti Úkraínu, Volodimir Zelenski, er Gyðingur.

Hvert er markmið Pútíns ?  Vill hann refsa NATO með því að eyðileggja hernaðarinnviði Úkraínu ?  Vonast hann til að koma á fót leppstjórn, hvort sem er með því að skipta Zelenskí út eða með því að breyta honum í úkraínskan Philippe Pétain, samstarfsleiðtoga [leppstjóra] Frakklands í síðari heimsstyrjöldinni ?

Svarið við báðum þessum spurningum gæti verið já. En raunveruleg ástæða Pútíns fyrir innrás í Úkraínu er mun óraunsærri og meira ógnvekjandi.  Pútín virðist hafa fallið fyrir sjálfhverfri þráhyggju sinni um að endurheimta valdastöðu Rússlands með eigið greinilega skilgreinda áhrifasvæði."

Sennilega hefur Khrushcheva rétt fyrir sér um það, að vitfirringsleg löngun forseta Rússlands til að endurvekja yfirráð Moskvustjórnar yfir löndum, sem zarinn réði fyrir forðum tíð, þegar veldi hans var mest, ráði gjörðum hans.  Þá varð hann að byrja á Úkraínuen Úkraínumenn hafa nú sýnt og sannað, að þeir kjósa að berjast til þrautar fyrir frelsi sínu og fullveldi landsins. 

Það hafa verið hæg heimatökin hjá þeim að bera saman þjóðfélagsgerð, tæknilegar framfarir og lífskjör austan og vestan við sig, þ.e. í Rússlandi og t.d. í Póllandi.  Þessi samanburður hefur leitt til þess, að þeir vilja eindregið horfa til vesturs, og glæpsamleg innrás Rússa í landið þeirra hefur farið langt með að sameina þá í þeirri afstöðu, og Vestrið hefur loksins vaknað upp við vondan draum.  Það verður að stöðva stríðsglæpamennina í Kreml. Jafnvel Svisslendingar hafa nú fryst eigur þeirra í Sviss.

Úkraínski flugherinn þarf nú flugvélar og flugmenn og gagneldflaugakerfi, eins og t.d. Ísraelsmenn eiga.  Flugbannssvæði yfir Úkraínu mundi þýða stríð NATO við Rússland, ef að líkum lætur. Ef vitfirringin fær að grassera í stjórn Rússlands, verður stríð við hana þó  óhjákvæmilegt.  

"Í ljósi þess, að Pútín treysti á Kína til stuðnings við að skora heimsmynd og yfirráð Bandaríkjanna á hólm, myndi það ekki hafa góð pólitísk eða stefnumótandi áhrif á Xi að ljúga að honum. Það, sem veldur svo miklum áhyggjum, er, að Pútín virðist ekki lengur fær um þá rökhugsun, sem ætti að stýra ákvarðanatöku leiðtoga.  Langt frá því að vera jafningi er Rússland nú á góðri leið með að verða eins konar kínverkst leppríki."

 Þarna lætur Khrushcheva í ljós áhyggjur margra um, að forseti Rússlands sé ekki lengur með "fulle fem", að hann gangi ekki á öllum.  Það er alveg ljóst, að  heilbrigð skynsemi hefur yfirgefið hann, hafi hann einhvern tímann búið svo vel.  Hann er búinn að keyra Rússland niður í siðferðislegan, pólitískan og efnahagslegan ruslflokk og verður nú að sitja og standa, eins og Xi Jinping þóknast.  Hann er með stórveldisdraumum sínum og landvinningastefnu að drekkja Úkraínumönnum í blóði.  Hann mun fyrir vikið uppskera fyrirlitningu og viðbjóð landsmanna sinna og alls umheimsins.  Hann er búinn að vera. 

Ungur skriðdrekahermaður, sem féll í fyrstu viku átakanna, hringdi úr farsíma sínum í móður sína skömmu áður og sagðist vera kominn í stríð í Úkraínu, en hún hélt hann vera á heræfingu á Krím.  Hann sagði, að hermönnunum hefði verið sagt, að Úkraínumenn mundu taka þeim fagnandi, en raunin væri allt önnur.  Hann skammaðist sín svo mikið fyrir hlutskipti sitt, að hann sagðist helzt vilja binda enda á eigið líf.  Þegar vika var liðin frá upphafi innrásarinnar höfðu 9000 rússneskir hermenn fallið í átökunum samkvæmt upplýsingum Úkraínustjórnar.  Þessi villimannslega innrás rússneska hersins gengur á afturfótunum. 

"Innrásin í Úkraínu hefur einnig myndað gjá [á] milli fyrrverandi bandamanna og Pútíns.  Sumir af trúföstustu lærisveinum hans á Vesturlöndum, frá forseta Tékklands, Milos Zeman, til Viktors Orbáns, forsætisráðherra Ungverjalands, hafa fordæmt aðgerðir hans.  En, kannski enn mikilvægara, þá hafa óráðsræður Pútíns hliðsett rússnesku þjóðina.  Með villimannslegri árás á Úkraínu hefur hann fórnað áratuga langri félagslegri og efnahagslegri þróun og eyðilagt vonir Rússa um betri framtíð.  Rússland verður nú alþjóðlegt úrhrak í áratugi."

Í ljósi þessa mats, sem er ekki langsótt, heldur liggur beint við, er stórfurðulegt að sjá nokkrar hræður á samfélagsmiðlum hérlendis bera í bætifláka fyrir stríðsglæpamanninn Vladimir Putin og jafnvel ganga svo langt í fáránleikanum, að hann sé með svívirðilegum stríðsrekstri sínum að uppræta spillingu í Úkraínu.  Fólk, sem lætur svona þvætting frá sér fara, er ekki með öllum mjalla. 

Hver er afstaða forsætisráðherra Íslands og flokks hennar, Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs, til varnarbandalags lýðræðisríkja, NATO ?  Síðast, þegar fréttist, var hún og flokkurinn andsnúin veru Íslands í NATO.  Við núverandi aðstæður gengur það alls ekki, að forsætisráðherra Íslands hafi þessa afstöðu eða sé óheil í afstöðu sinni, beri kápuna á báðum öxlum.  Hvers vegna hefur hún ekki manndóm í sér til að fara að dæmi Svía og Finna, sem nú eru að endurskoða sína afstöðu, og viðurkenna villur síns vegar ?  Ætlar hún enn að halda því fram, að eitthvert hald sé að hlutleysisstefnu ríkis í varnarmálum ? Vitleysa vinstri manna á Íslandi ríður ekki við einteyming nú frekar en fyrri daginn.

"Sömuleiðis er fullyrðing um, að 73 % Rússa styðji aðgerðir Pútíns í Úkraínu, hreinn áróður.  Þúsundir safnast saman í rússneskum borgum og segja "nei við stríði", þrátt fyrir fangelsanir og lögregluofbeldi. Í þetta sinn virðast Rússar ekki líklegir til að gefast upp án andmæla.  Á næstu dögum og vikum getur heimurinn búizt við mörgum vísbendingum til viðbótar um, að Rússar vilji ekki þetta stríð."

 Það er vafalaust þyngra en tárum taki fyrir almenning í Rússlandi að sitja uppi með böðul frænda þeirra vestan landamæranna. Það þarf enga mannvitsbrekku til að átta sig á, að engin glóra er í því fyrir Rússa að standa blóðugir upp fyrir axlir við að þvinga fram sameiningu Rússland og Úkraínu.  Það vissi alþýða Rússlands fyrir 24. febrúar 2022.  

Það er sömuleiðis ótæk hegðun með öllu að láta börn eða fullorðna, sem eru af rússnesku bergi brotin hérlendis, gjalda fyrir framferði ríkisstjórnar lands þeirra, en að mótmæla framferði þessarar rússnesku ríkisstjórnar í Úkraínu með friðsamlegum hætti er hins vegar sjálfsagt mál.

ukrainian-cloth-flags-flag-15727

 

 

    


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband