Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
6.6.2024 | 17:03
Rotið ráðhús í boði Samfylkingar
Nýr formaður Samfylkingar fer mikinn í því skyni að búa til ímynd jafnaðarflokks með kjörþokka, en Samfylkingin féll ekki af himnum ofan. Hún er með hugmyndafræðileg og persónuleg lík í lestinni, sem nýr formaður hefur ekki losað sig við. Því fer fjarri, að æðstu fulltrúar flokksins vinni af einlægni að bættum hag almennings. Flokkurinn hefur tekið ábyrgð á borgarstjóranum fyrrverandi, Degi B. Eggertssyni, og ekki fett út í ámælisverð vinnubrögð hans, en það hefur aftur á móti fyrrverandi borgarstjóri séð ástæðu til að gera í fjölmiðli, sem hann ritstýrir.
Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins 10.05.2024 bar fyrirsögnina:
"Ráðhúsinu breytt í spillingarbæli ?"
Þar var fáheyrður gjafagjörningur borgarinnar til handa olíufélögum, sem láta af sölu jarðefnaeldsneytis á tilteknum lóðum í borginni, gerður að umfjöllunarefni, og birtist þar í hnotskurn spillingareðli jafnaðarmannaflokksins, sem af hræsni reynir að breiða yfir sitt rétta eðli með orðskrúði:
"En samningarnir við þessi félög [olíufélögin] byggðust allir á því, að myndu olíufélögin láta af þeim rekstri, gengju lóðirnar til borgarinnar á ný og hún gæti skipulagt þær að sínum hentugleikum og úthlutað eftir eðlilega samkeppni. Í Morgunblaðinu hefur margoft verið á það bent, að þessi mál hafi þróazt illa og bragðarefir beggja vegna borðs ákveðið að koma málinu í farveg, sem algjörlega væri sniðinn að persónulegum hagsmunum þeirra félaga, sem bar að skila lóðunum til borgarinnar á ný, þegar eldsneytisstarfsemi þeirra væri úr sögunni. Stórundarleg væri sú framganga Dags B. Eggertssonar að koma þessu vonda máli "í gegn" og troða því niður kok borgarbúa í fullkomnu heimildarleysi."
Það er grafalvarlegt spillingareinkenni á fyrrverandi borgarstjóra og samverkamanna hans og í raun á Samfylkingunni, hverrar formaður lætur þessa ósvinnu viðgangast í höfuðborginni, að færa gróðapungum eign borgarbúa á silfurfati gjörsamlega að þarflausu viðskiptalega og lagalega séð. Þetta verður bautasteinninn yfir ráðsmennsku Samfylkingarinnar í Reykjavík. Flokkurinn ætti ekki að eiga sér viðreisnar von í borginni eftir þetta baktjaldamakk við peningapúka á kostnað borgarbúa. Þetta er jafnaðarstefnan í reynd. Þess vegna flæðir alls staðar í heiminum undan henni.
"Kerfið, sem þáverandi borgarstjóri lét klambra saman í kringum tilbúning þessa máls, er algerlega óþekkt í borgarkerfinu, þótt einstök dæmi séu til um slíka aðgerð í þinginu [á dögum vinstri stjórnar Samfylkingar og VG - innsk. BJo], en þau lúta öðrum lögmálum. Hér var allt byggt á því, að koma þyrfti tugum milljarða [ISK] frá borgarbúum til gæðinga og með hinni skrítnu aðferð. Sett var upp lokað herbergi, sem borgarfulltrúar gátu farið inn í einir (!) og án þess, að neinar upplýsingar væru veittar, eða þeir fengju að bera sig saman við sína samstarfsmenn. Minnihlutinn átti þannig ekki nokkur tök á því að ræða þetta mikla mál í sínum ranni. Og engin rök lágu til þessara undarlegheita."
Þessi ólýðræðislegu vinnubrögð eru kennimörk jafnaðarmanna og annarra sameignarsinna, sem hvorki skilja né virða grundvallaratriði lýðræðisins, og við slíkar aðstæður skýtur alltaf óhugnanlegum krumlum Leníns og Stalíns upp á yfirborðið. Jafnaðarmenn játast lýðræðinu aðeins af illri nauðsyn á yfirborðinu. Annars gildir bara hið sama og hjá löglausum einræðisherrum: "Tilgangurinn helgar meðalið". (Der Erfolg berechtigt das Mittel.)
Það er óskiljanlegt, að minnihluti borgarstjórnar skyldi láta beita sig þessum fantatökum. Þetta mál hefði átt að fara til sveitarstjórnaráðuneytisins og til dómstóla.
Höfundur Reykjavíkurbréfsins dregur reyndar ekkert undan og af uppljóstruninni má álykta, að víðar þurfi að hreinsa til og lofta út. Sérhagsmunagæzla af þessu tagi er dauðasök í pólitík:
"Það sárgrætilega var svo til viðbótar, að leiðtogi stærsta minnihlutaflokksins í borgarstjórn tók þátt í því að leiða málið hjá sér, en greiða atkvæði sitt með því á lokapunkti. Ekki verður séð, að nein önnur skýring sé á svo óábyrgri hegðun en eiginmaður leiðtogans sé sérstakur sendiboði og hlaupastrákur Jóns Ásgeirs Jóhnnessonar, eins af stóru þiggjendunum í þessu sóðalega svindli. Öllum öðrum borgarfulltrúum var vorkunn, þótt þeim fipaðist, enda refirnir til þess skornir, að hver og einn þeirra gæti ekki rætt þetta mikla mál í sínum hópi, nema eftir minni úr stuttu stoppi í "leyniherberginu".
Sjálfstæðisflokkurinn glataði þarna gullnu tækifæri til að sýna kjósendum, að hann hefði burði til að leiða nauðsynlega siðbót í borgarstjórn eftir áralangt sukk Samfylkingar við kjötkatlana.
Leiðtogi borgaralegs flokks, sem vill sýna, að í honum sé einhver veigur, en tekur þátt í "sóðalegu svindli" á kostnað skattborgaranna, fremur þar með pólitíska kviðristu og glatar siðferðislegum grundvelli til að leiða sjálfstæðismenn til sigurs í borginni. Sá hjalli er nógu erfiður samt.
""Í viðtengdri frétt segir af lítilsvirtri fréttakonu á RÚV. María Sigrún, fréttamaður, fékk þá umsögn frá yfirmanni, að hún væri skjáfríð, en kynni ekki "rannsóknarfréttamennsku", eins og það heitir í Efstaleiti. Hugtakið nær einnig til byrlunar og stuldar, samkvæmt viðurkenndu verklagi ríkisfjölmiðilsins. Fréttir án rannsóknar eru trúlega réttum megin við lögin. En þær má ekki segja.
María Sigrún vann frétt, sem kom við kaunin á Degi, fyrrum borgarstjóra, og vinstri meirihlutanum í ráðhúsinu við Tjörnina. Stefán, útvarpsstjóri, hefur ekki tjáð sig um meferðina, sem María Sigrún sætir. Áður en Stefán varð útvarpsstjóri fyrir 4 árum var hann staðgengill Dags, borgarstjóra, og bar titilinn borgarritari.""
Í téðu Reykjavíkurbréfi er ofangreind tilvitnun í Pál Vihjálmsson, bloggara og kennara. Höfundur þessa pistils hér sá umræddan þátt Maríu Sigrúnar og getur vitnað um, að honum þótti vera um afbragðs fréttamennsku að ræða, og þess vegna er úthúðun einhverra montinna "Kveikjara" út í hött og næg ástæða til, að taka ætti í hnakkadrambið á ófaglegum monthananum. Ummæli af þessu tagi um samstarfsmann eru með eindæmum ruddaleg og í þessu tilviki út í hött. Þau ættu því að öðru jöfnu að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir fyrir þann, sem lét sér þau um munn fara, en í ormagryfju fréttastofu RÚV gerist það ekki. Þetta opinbera hlutafélag er ekki hafið yfir siðræn viðmið. Það er löngu tímabært að draga verulega úr umsvifum þarna, kostnaði skattborgaranna og vandræðum einkarekinna fjölmiðla vegna risans, sem gín yfir markaðinum.
5.11.2023 | 14:30
Heimsátök
Nú fer fram blóðug barátta á milli einstaklingsfrelsis og lýðræðis annars vegar og miðaldastjórnarfars einræðis, kúgunar og ofstopatrúarbragða hins vegar. Barátta Úkraínumanna snýst um að varðveita fullveldi sitt og sjálfsákvörðunarrétt með því að berjast af alefli við rússneskan innrásarher síðan 24. febrúar 2022 og rússneska hermenn í dulargervi í Donbass og Krím síðan 2014. Ætlun einræðisherrans í Kreml er að brjóta úkraínsku þjóðina á bak aftur með skefjalausum árásum og ofbeldi gegn almennum borgurum. Stríðsrekstur Rússa má kalla þjóðarmorð, og óhugnanlegar hörmungar mundu bíða Úkraínumanna, ef her þeirra lýtur í lægra haldi fyrir rússneska hernum. Þess vegna leggur úkraínska þjóðin sig alla fram núna með tilstyrk vestrænna vopna og upplýsingastarfsemi, en því miður hafa vestræn ríki verið rög við að fara að óskum Úkraínumanna af ótta við rússneska björninn. Þetta er röng og lítilmannleg afstaða, sem kostað hefur mörg mannslíf þeirra, sem ofbeldisöflin réðust á, og dregið mjög úr árangri gagnsóknar þeirra á hendur morknum og að mörgu leyti furðumistækum rússneskum her, sem auðvitað hefur ekki roð við NATO, ef út í það fer.
Þann 7. október 2023 réðust menn frá Hamas-fylkingunni, sem haft hefur völdin á s.k. Gasaströnd, syðst í Ísrael, yfir mörkin og inn í Ísrael. Árásinni var ekki beint gegn ísraelska hernum, heldur gegn óbreyttum borgurum, sem Hamas-liðarnir tóku af lífi á hinn svívirðilegasta hátt samkvæmt upptökum þeirra sjálfra, og þeir tóku einnig gísla. Þetta var með öðrum orðum hryðjuverkaárás.
Hvaða fyrirbrigði er þá þetta Hamas ? Þetta eru hryðjuverkasamtök af versta tagi, hópur öfgafullra og heilaþveginna trúmanna, sem fylgja verstu miðaldaöfgum íslamstrúarinnar og kynþáttahatri. Hvort þeir eru af grein shíta innan Múhameðstrúarinnar skal ósagt láta, en þeir fylgja a.m.k. klerkaveldinu í Íran að málum. Teheran-klerkarnir eru fyrirlitlegt miðaldafyrirbæri, sem gerir út siðgæðislögreglu, sem gengur í skrokk á konum, sem ekki hylja hár sitt eða hold að hætti fyrirskipana klerkanna. Það er alveg ótrúleg formyrkvun í sálarlífi fólks, sem á 21. öldinni getur aðhyllzt jafnforheimskulegar kennisetningar úr eldgömlum trúarritum og þessar eða tekið þessa viðbjóðslegu kúgun upp hjá sjálfum sér.
Klerkarnir í Íran eru yfirstjórnendur ofstækisíslamistanna í Hamas og Hezbollah í Líbanon o.fl. hryðjuverkahópa, fjármagna þá og búa þá vopnum til að koma á óstöðugleika fyrir botni Miðjarðarhafs, enda stunda þeir valdatafl gegn súnnítum, hinni megingrein Múhameðstrúarinnar, sem t.d. Egyptar og Saudi-Arabar tilheyra. Hamas hefur á stefnuskrá sinni að afmá Ísraelsríki af yfirborði jarðar, hvorki meira né minna. Þetta eru þannig argvítugir kynþáttahatarar á borð við valdhafa Þriðja ríkisins í Evrópu 1933-1945, sem þarna ganga ljósum logum og gegna erindum Persanna. Atburðirnir 7. október 2023 hefðu ekki átt sér stað án leyfis æðsta klerks Íran eða jafnvel fyrirskipunar hans.
Það hefur myndazt öxull hins illa á milli Moskvu og Teheran. Rússneski herinn hefur fengið mikið af hernaðardrónum frá Íran gegn loforðum um rússneskar orrustuþotur. Það er ekki ólíklegt, að Pútín, alræðisherra Rússlands, hafi talið sér hag í því að hleypa öllu í bál og brand fyrir botni Miðjarðarhafs á þessum tíma og talið æðsta klerkinn á það.
Það er í gildi varnarsamningur á milli Ísraels og Bandaríkjanna. Bandaríkin hafa heitið Ísraelsmönnum vopnasendingum, og 2 bandarískar flotadeildir undir forystu tveggja flugmóðurskipa hafa verið send inn á Miðjarðarhaf til að undirstrika bandalag BNA og Ísraels. Bandaríkjamenn hafa þess vegna í mörg horn að líta núna, og þessi staða reynir á getu þeirra og hernaðarlegt og fjárhagslegt þanþol, sem kemur sér illa fyrir Úkraínumenn, enda hefur Fulltrúadeild Bandaríkjaþings stöðvað síðasta hjálparpakka Bandaríkjastjórnar við Úkraínumenn í meðförum þingsins. Afstaða hins margákærða Donalds Trumps, sem ætlar að bjóða sig fram til forseta 2024, er þekkt, en hann hefur sagzt mundu stöðva alla aðstoð við Úkraínumenn, verði hann kosinn forseti aftur. DT er þannig eitthvert versta þý stríðsglæpamannsins Pútíns á Vesturlöndum.
Það er afar þungbært fyrir heimsbyggðina að horfa upp á hörmungarnar, sem dynja yfir almenning á Gasa vegna hernaðarátakanna á milli Ísraelsmanna og Hamas, en það má ekki gleyma því, að Ísraelsmenn vöruðu almenning við (með flugritum) og hvöttu hann til að forða sér úr Norður-Gasa, þar sem verstu átökin hafa geisað. Hamas-hryðjuverkasamtökin nota hins vegar óbreytta borgara sem mannlegan skjöld og hafa staðið gegn brottflutningi fólksins. Allt virðist vera leyfilegt í hugum heilaþveginna ofstækisíslamista, þegar baráttan við Ísraelsmenn er annars vegar.
Þegar horft er á þessa voveiflegu atburði er nauðsynlegt að setja þá í eitthvert samhengi, og rétta samhengið eru átökin, sem nú fara fram um heimsyfirráðin á milli einræðisríkja, þar sem Kína er vissulega öflugast með sitt "Belti og braut" og fjölmenna og vel búna her, og lýðræðisríkjanna, sem því miður eru mörg hver hálfsofandi enn þá og styðja t.d. við Úkraínumenn með hangandi hendi. Hvers vegna hefur íslenzka ríkisstjórnin ekki afþakkað boð Kínverja um, að Ísland verði þátttakandi í "Belti og braut". Línur verða að vera skýrar í þessum átökum.
Þjóðverjar hafa enn langt í frá staðið við skuldbindingar sínar innan NATO um fjárhagsútlát til hermála, og þeir hafa ekki enn látið Úkraínumenn hafa Taurus-eldflaugarnar, sem Úkraínumenn hafa þrábeðið um til að jafna leikinn í lofthernaðinum. Hvað dvelur orminn langa ? Drátturinn á afhendingu vestrænna orrustuþota hefur einnig tafið fyrir frelsunaraðgerðum Úkraínumanna á landi sínu og er til skammar.
Lýðræðisríkin virðast alltaf vera tekin í bólinu af einræðisöflunum. Það er nauðsynlegt, að almenningur átti sig á, hvað býr að baki atburðum, sem hann horfir á í fréttunum. Þar er ekki allt, sem sýnist. Þetta er tilvistarbarátta friðsamra lýðræðisríkja við útþenslustefnu árásargjarnra illmenna, sem stjórna einræðisríkjunum, sem vilja útbreiða forneskjulegt kúgunarveldi sitt.
Í þessu samhengi var efri forystugrein Morgunblaðsins 1. nóvember 2023 athyglisverð og þörf lexía fyrir þau, sem ættu að taka hana til sín. Hún bar fyrirsögn, sem verður vart skilin í þessu sambandi, nema lesa forystugreinina:
"Vanhugsuð krafa er verri en gagnslaus".
Þar skrifar reyndur maður og víðsýnn:
"Þjóðarleiðtogum, sem hafa litla sem enga aðkomu að þessum miklu atburðum [fyrir botni Miðjarðarhafs - innsk. BJo], eða nokkur raunveruleg tök til að leggja mat á þróun þeirra, hættir til að detta í hvern pyttinn af öðrum, þótt þeim gangi aðeins gott til með afskiptasemi sinni. Til samanburðar er fróðlegt að sjá, hvernig reynsluboltinn Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi, metur slíkan málatilbúnað. Hillary Clinton lét hafa þetta eftir sér í blaðaviðtali:
"Það fólk, sem krefst vopnahlés, sýnir, að það hefur lítinn skilning á því, hvers konar fyrirbæri Hamas-samtökin eru. Fyrrnefndar kröfur eru í raun óhugsandi."
Og [frú] Clinton bætti við: "Slík ákvörðun væri bein gjöf til Hamas-samtakanna. Þau gætu nýtt sér vopnahléstímann rækilega í sína þágu til að byggja upp vopnabúnað sinn, skapað sér sterkari stöðu hernaðarlega, og það gæti hugsanlega gefið þeim mun sterkari stöðu til að standa af sér hernaðaraðgerðir Ísraelshers."
Upphaflega lýsingin á gjömmurum í hópi forystufólks ríkisstjórna á algerlega við um Katrínu Jakobsdóttur. Framlag hennar gerir ekkert annað en að rugla umræðuna, enda er engu líkara en hún leggi lýðræðislega kjörin yfirvöld Ísraels að jöfnu við hryðjuverkasamtökin, sem hafa það að stefnumiði sínu að eyða Ísrael. Það er heldur ódýrt að reyna að slá sér upp með lýðskrumi og tilfinningavellu um skelfilega atburði, sem HAMAS hefur kallað yfir vesalings íbúana á Gasa.
Hillary Rodham Clinton er hins vegar eldri en tvævetur og mælir þarna af raunsæi þess, sem greint hefur stöðuna og tekið afstöðu með lýðræðisþjóð, sem varð fórnarlamb óvæntrar hryðjuverkaárásar og á rétt til sjálfsvarnar, en hryðjuverkamennirnir eru slíkir heiglar að leynast innan um almenning og í göngum undir fjölmennum og viðkvæmum stöðum á borð við sjúkrahús.
7.1.2017 | 14:22
Alvarlegar ásakanir
Mjög óþægilegt mál fyrir þjóðina hefur undanfarin misseri grafið um sig varðandi 3. stoð ríkisvaldsins, dómsvaldið, en það eru ásakanir hæstaréttarlögmanns og fyrrverandi dómara við Hæstarétt, Jóns Steinars Gunnlaugssonar, JSG, í garð fyrrverandi meðdómara sinna, sem eftir öllum sólarmerkjum að dæma hafa verið vanhæfir til að dæma um lögbrot fyrrverandi bankamanna og virðast hafa beitt sér með ósæmilegum hætti gegn honum í aðdraganda skipunar hans í stöðu hæstaréttardómara.
Jón Steinar hefur birt nokkrar greinar í Morgunblaðinu og skrifað bækur um efnivið, sem er þess eðlis, að ekki er hægt að láta liggja í þagnargildi, nema enn meira tjón hljótist af. Ef Alþingi og Innanríkisráðherra ætla á nýju ári, 2017, að stinga höfðinu í sandinn, þegar jafnalvarlegar ásakanir eru hafðar uppi af fyrrverandi innanbúðarmanni í Hæstarétti í garð nokkurra dómara æðsta dómstigs landsins, einkum þess áhrifamesta og langvarandi forseta réttarins, þá bregðast hinar stoðir ríkisvaldsins líka skyldum sínum. Er þá fokið í flest skjól, og ekki verður þá önnur ályktun dregin en alvarleg meinsemd (rotnun) hafi náð að grafa um sig á æðstu stöðum. Það er óhjákvæmilegt að stinga á slíku kýli, þótt sársaukafullt verði, og fjarlægja gröftinn.
Grein JSG í Morgunblaðinu 2. janúar 2017:
"Hvað láta Íslendingar bjóða sér ?",
hefst þannig:
"Fráfarandi forseti Hæstaréttar og samdómarar hans hafa brotið gegn lagaskyldum sínum og misfarið með vald sitt. Þá þarf að kalla til ábyrgðar."
Fram kemur í greininni, að staðfest leyfi rétt bærs aðila til handa hæstaréttardómara að eiga ákveðin hlutabréf og fjalla samtímis um málefni sakborninga í sama eða tengdum félögum (banka), hafi ekki verið lagt fram. Síðan segir:
"Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu, að vísa skyldi ætluðum sökum hinna ákærðu í þessum málum frá dómi í stórum stíl. Allir sáu, að hér voru á ferðinni úrlausnir, sem engu vatni héldu. Er gerð grein fyrir þessu á bls. 378-384 í bók minni, "Í krafti sannfæringar", sem út kom á árinu 2014."
Síðan er drepið á málaferli gegn bankamönnum fyrir verknaði, er talið var, að veikt hefðu bankana í Hruninu og e.t.v. átt þátt í því:
"Sumir dómaranna höfðu verið þátttakendur í fjármálaumsvifum á vettvangi bankanna fyrir hrunið, mismiklum þó. Þar virðist fráfarandi forseti réttarins hafa verið sýnu stórtækari en aðrir. Þeir urðu svo fyrir umtalsverðu fjártjóni af völdum þess. Um þetta vissi enginn.
Þetta aftraði þeim ekki frá að taka sæti í þessum málum og fella þunga dóma yfir hinum ákærðu. Það hefur vakið athygli, að í mörgum þessara mála hafa hinir ákærðu verið sakfelldir fyrir umboðssvik án þess, að fyrir hafi legið ásetningur þeirra til auðgunar á kostnað viðkomandi banka og án þess að sérstök hætta hafi einu sinni verið á slíku."
Í augum leikmanns eru dómarar við Hæstarétt hér sakaðir um að hafa látið sín viðskiptatengsl við fjármálastofnun hafa veruleg áhrif á úrskurð sinn í mikilsverðum dómsmálum. Eins og allt er í pottinn búið, gefur augaleið, að ekki verður undan því vikizt að fá botn í málið og leiða það til lykta, svo að þeir axli sín skinn, sem brotið hafa af sér, en hinir verði sýknir saka.
Síðan skýrir JSG frá illvígri aðför dómara við Hæstarétt að sér í þremur liðum til að hræða hann frá að sækja um embætti hæstaréttardómara 2004 með hótunum um misbeitingu meirihluta dómaranna á umsagnarrétti sínum um umsækjendur. Þetta er gjörsamlega siðlaust athæfi dómaranna, ef satt er, og rýrir svo mjög traust til þeirra, að Alþingi og Innanríkisráðherra er með engu móti stætt á öðru en að hleypa opinberri rannsókn af stokkunum til að komast til botns í málinu.
Nú skal ekki fella dóm hér, enda engin efni til þess, en ef samsæri á vinnustað gegn umsækjanda um starf á sama vinnustað kæmist upp og sannaðist, væri það hvarvetna talið ólíðandi óþokkabragð, þar sem vegið væri freklega að borgaralegum réttindum einstaklings og að orðstír hans, og einnig vinnur einelti af þessu tagi augljóslega gegn hagsmunum vinnustaðarins og vinnuveitandans, sem kappkostar að ráða starfsmann með eftirsótta hæfileika, getu og þekkingu, en alls ekki þann, sem líklegastur er til að falla bezt í klíkukramið á vinnustaðnum og láta bezt að stjórn klíkustjórans á hverjum tíma, ef slíkur er á viðkomandi vinnustað. Ef rökstuddur grunur kemur upp um, að eitthvað þessu líkt viðgangist í Hæstarétti Íslands, eins og nú hefur komið á daginn, eru viðkomandi stjórnvöld, Alþingi og Innanríkisráðherra, að lýsa yfir blessun sinni á slíku ófremdarástandi með aðgerðarleysi. Slíkt hlýtur þá að lokum að hafa stjórnmálalegar afleiðingar.
"Dómarar við Hæstarétt hafa ekki hikað við að brjóta gegn lagaskyldum sínum og misfara með vald sitt til að koma fram niðurstöðum, sem þeim hafa fundizt æskilegar, hvað sem réttum lagareglum líður. Þeir hafa þá að líkindum treyst því, að þeir gætu farið fram í skjóli leyndar um atriði, sem skipt hafa meginmáli fyrir dómsýslu þeirra."
Nú stendur svo á, að þetta er líklega harðasta og alvarlegasta gagnrýni, sem komið hefur fram á störf hæstaréttardómara frá stofnun Hæstaréttar Íslands. Væri þá ekki við hæfi, að yfirvöldin rækju af sér slyðruorðið og gripu til réttmætra aðgerða til að komast til botns í málinu og bæta orðstír Hæstaréttar í bráð og lengd ?
Lokahluti greinar JSG ber einmitt yfirskriftina:
"Glataður orðstír":
"Það er nauðsynlegur þáttur í aðgerðum til að endurvekja traust þjóðarinnar til Hæstaréttar Íslands, að dómarar við réttinn verði, þar sem það á við, látnir bera ábyrgð á afar ámælisverðu háttalagi sínu á undanförnum árum."
27.5.2015 | 09:46
Múhameðstrú og Vesturlönd
Múhameðstrúarmenn, Islamistar, hafa eldað grátt silfur við kristna Evrópumenn síðan Márar réðust inn í Spán og lögðu megnið af Pýreneaskaganum undir sig á árunum 711-718. Kristnir höfðingjar náðu ekki að jafna hlut sinn þar fyrr en á 13. öld, og nokkru lengur héldu Márar nokkrum borgum í Andalúsíu.
Á 8. öld og lengur má hiklaust telja, að Márarnir hafi haft á valdi sínu meiri þekkingu en kristnir Evrópumenn. Ástæðan er sú, að þeir höfðu í herförum sínum, t.d. í Norður-Afríku, tekið menningarborgir herskildi og slegið eign sinni á forn bókasöfn og tileinkað sér speki fornaldar, sem þar var að finna, þ.á.m. um byggingarlist.
Afrakstur þessa var meiri þekking á stærðfræði, eðlisfræði, stjörnufræði og verkfræði en þá var fyrir hendi í Evrópu. Áhrifaríkt dæmi um þetta er kastalinn, Alhambra-Rauði kastalinn, í Granada, sem engan lætur ósnortinn, sem áhuga hefur á húsagerðarlist og verkfræði. Þar var og er rennandi vatn notað á snilldarlegan hátt til loftkælingar.
Á miðöldum stóð kristinni Evrópu mikil ógn af Ottomanaveldinu, tyrkneska, sem stundaði útþenslustefnu og gerði usla á Balkanskaga, þar sem leifar áhrifa þeirra eru enn. Hluti af illindunum á milli þjóða og þjóðabrota þar stafar af því, að þeir, sem gengu á mála hjá Tyrkjum tóku upp trú þeirra, og voru hataðir sem svikarar eftir það af öðrum íbúum svæðisins.
Eftir Heimsstyrjöldina síðari hófst mikill straumur Múhameðstrúarmanna til Evrópu, t.d. sem "Gastarbeiter" (farandverkamenn) til Vestur-Þýzkalands frá Tyrklandi og frá frönskum áhrifasvæðum í Austurlöndum nær og Norður-Afríku til Frakklands. Er nú svo komið, að fjöldi Múslima í nokkrum ríkjum Evrópu er eins og að neðan greinir sem hlutfall af íbúatölu viðkomandi lands. Í svigum er hlutfallið, sem aðrir íbúar landanna telja, að eigi við fjölda Íslamista í sínu heimalandi:
- Frakkland 8 % (31 %)
- Belgía 6 % (29 %)
- Þýzkaland 6 % (19 %)
- Bretland 5 % (21 %)
- Svíþjóð 5 % (17 %)
- Ítalía 4 % (20 %)
- Spánn 2 % (16 %)
Tvennt vekur athygli við þessa töflu. Annars vegar gríðarlegur fjöldi múhameðstrúarmanna í fjölmennustu löndum álfunnar og hins vegar, hversu gríðarlegt ofmat ríkir í öllum þessum löndum, og reyndar, þar sem mælt hefur verið, á fjölda múhameðstrúarmanna í viðkomandi landi. Aðrir íbúar telja múslima í sínu landi vera þrefalt til áttfalt fleiri en þeir þó enn eru, en það ber að hafa í huga, að fæstir tileinka þeir sér vestræna siði alfarið, og sumir alls ekki, svo að þeim fjölgar margfalt hraðar en kristnum frumbyggjum landanna. Þetta vekur mörgum ugg í brjósti, og er PEGIDA-hreyfingin í Evrópu skilgetið afkvæmi islamvæðingar Evrópu. Hugmyndin er sú, að það sem herjum soldánsins í Miklagarði ekki tókst með innrás í Evrópu, það eigi nú að raungera með því að taka völdin innanfrá.
Þetta ofmat á núverandi fjölda islamista í Evrópu má þannig skýra með almennri tortryggni íbúanna í garð fólks með framandi og í augum margra Vesturlandabúa frumstæða trúarsiði. Evrópumenn finna sig í varnarstöðu gagnvart ágengum trúarbrögðum, sem beita miskunnarlausu ofbeldi í baráttu sinni við vestræna menn og vestræna menningu, sem þeim þykir einkennast af trúleysi. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga, að íslam eru engin venjuleg trúarbrögð, heldur blanda af stjórnkerfi heimilis og þjóðfélags með fastmótuðum siðum, t.d. um klæðaburð, og trúarsiðum. Þetta veldur því, að í ríkjum múslima eru engin skil á milli ríkis og trúarbragða, nema helzt í Tyrklandi. Þetta stendur þessum ríkjum fyrir þrifum, því að fyrir vikið verða þau auðveldlega fórnarlömb afturhalds og ofstækis, sem hamlar þróun í anda Vesturlanda eða Kína. Stjórnmál og trúmál eru eldfim blanda.
Bretar voru spurðir að því árið 2003 og aftur árið 2013, hvort Bretar mundu glata þjóðareinkennum sínum, ef fleiri múhameðstrúarmenn flyttust til landsins. Í fyrra skiptið svöruðu 48 % þessu játandi og í seinna skiptið 62 %. Þetta undirstrikar gríðarlega samskiptaörðugleika "frumbyggja" við þetta aðkomufólk, sem heldur fast í sína trúarsiði og neitar að laga sig að almennum siðum innfæddra, t.d. klæðaburði, svo að áberandi einkenni sé nefnt.
Það, sem alvarlegast er við skort á aðlögun múhameðstrúarmanna að háttum, siðum og löggjöf Vesturlanda, er að viðhalda forneskjulegum lögum Kóransins, s.k. sjaría-lögum. Beiting þeirra er grimmdarleg, í mörgum tilvikum níðingsleg, og felur í sér mannréttindabrot af grófasta tagi. Það er algerlega óásættanlegt, að einhver trúarhópur taki upp á því að stunda lögbrot og mannréttindabrot að því er virðist vegna sjúklegrar kúgunarþarfar og ofbeldishneigðar gagnvart safnaðarmeðlimum. Það er enn í fullu gildi, sem Þorgeir, Ljósvetningagoði, kvað upp úr með á þingi forðum, að ef við slítum í sundur lögin, þá munum við og friðinn í sundur slíta. Þarna ættu Vesturlönd að draga línu í sandinn, og einfaldlega að vísa þeim til föðurhúsanna, sem ekki vilja þíðast þessi skilyrði.
Í Evrópu hafa stjórnmálaleiðtogar, margir hverjir, lagt sig í framkróka við að breiða yfir það ginnungagap, sem skilur að gildismat múhameðstrúarmanna og flestra annarra íbúa Evrópu, hvort sem þeir telja sig kristna eður ei. Dæmi um slíkt eru ummæli fyrrverandi forseta Sambandslýðveldisins Þýzkalands, Christian Wulff, árið 2010, nokkru áður en hann hrökklaðist úr embætti sökum spillingarmála á meðan hann var forsætisráðherra eins þýzka fylkisins. Wulff sagði í ræðu:
"Íslam er hluti af Þýzkalandi".
Margir Þjóðverjar eru ósammála þessari fullyrðingu, og til marks um það er hin sjálfsprottna grasrótarhreyfing, PEGIDA - Patriotische Europäer gegen die Islamisierung des Abendlandes - Föðurlandsvinir í Evrópu gegn Íslamsvæðingu Vesturlanda. Síðan í október 2014 hefur hún nánast á hverjum mánudegi staðið fyrir fjöldagöngum og útifundum í mörgum borgum Þýzkalands, þar sem lýst er áhyggjum af Íslam sem ríki í ríkinu, þar sem íbúunum fjölgar mun hraðar en öðrum hópum Þýzkalands. PEGIDA leggur áherzlu á friðsamleg mótmæli. Það er ekki hægt með hlutlægum hætti að kalla þetta öfgahreyfingu, þó að hún tjái þá skoðun með áberandi hætti, að islamistum ætti ekki að líðast að mynda ríki í ríkinu, heldur verði að gera þá kröfu til þeirra, að þeir lagi sig að lögum og rétti Vesturlanda og afleggi þá kvennakúgun og karlaharðræði, sem nú viðgengst í "gettóum" islamista í Evrópu.
Kanzlari Þýzkalands, Angela Merkel, ávarpaði þjóðina 11. janúar 2015, þegar hún var í losti eftir hryðjuverkin í París, sem framin voru sem hefndarráðstöfun i nafni Allah fyrir skopteikningar, sem islamistar tóku ákaflega nærri sér. Þar rákust illilega saman vestrænar hugmyndir um tjáningarfrelsi og trúartilfingar múhameðstrúarmanna og sú hefð þeirra, að láta vera að gera hvers konar myndir eða eftirlíkingar af Múhameð spámanni og Allah.
Eðlilega vissu Evrópumenn ekki í kjölfar hryðjuverkanna, hvaðan á þá stóð veðrið, og ótti greip um sig. Frú Merkel sagði við það tækifæri:
"Ég er kanzlari allra Þjóðverja"
og átti þar greinilega við islamista, búsetta í Þýzkalandi, 4-5 milljónir talsins. Samt gætir ótta og haturs i garð islamista í Evrópu, en það er einmitt keppikefli jihadistana, sem eru i heilögu stríði gegn kristnu fólki og vestrænum gildum, að skapa andrúmsloft tortryggni og heiftar. Það verður að sigla á milli skers og báru, ef ekki á að sjóða illilega upp úr, og þess vegna er ástæðulaust að storka islamistunum á trúarsviðinu, en standa þeim mun keikari á kröfum um jafnræði kynjanna, almenn mannréttindi öllum til handa og, að allir séu jafnir fyrir lögunum.
Það hefur vakið furðu margra i Evrópu, hversu margt ungt fólk, fætt og uppalið í Evrópu af kristnum eða trúlausum foreldrum, hefur gengið til liðs við ISIS, hryðjuverkasamtök, sem fremja hryllilega glæpi og skemmdarverk á fornum menningarverðmætum í nafni Múhameðstrúarinnar, og styður baráttu þessa hryllingsanga jihadistanna með vopnavaldi við að koma á kalífadæmi í Írak, Sýrlandi og víðar. Hvernig í ósköpunum má þetta vera ?
Böndin berast að trúboði islamistanna og þeim heilaþvotti, sem fram fer í sumum moskum Evrópu. Það setur óneitanlega að manni ugg varðandi fyrirhugaða mosku í Reykjavík, að frétzt hefur, að hún verði fjármögnuð af Saudi-Aröbum, en í Saudi-Arabíu hefur ofstækisfullur islamista-söfnuður töglin og hagldirnar í trúarlegum og veraldlegum efnum. Sjeikarnir óttast þennan söfnuð og stunda grimmdarstjórnun í anda Kóransins, eins og margoft hefur komið fram varðandi refsingar fyrir meint afbrot. Má þá geta nærri, hvers konar boðskapur kann að verða fram reiddur í téðri Reykjavíkur-mosku. Það er furðulega grunnfærið af borgaryfirvöldum Reykjavíkur að setja, að því er virðist, engin skilyrði fyrir byggingu þessarar mosku, önnur en hefðbundna lóðaskilmála og byggingarreglugerð. Þetta er alvarlegt mál, því að vitað er, að moskur eru bæði andlegar og veraldlegar miðstöðvar múhameðsmanna og hættan er sú, að þetta verði einhvers konar útungunarstöð ofbeldis og ofstækis, eins og dæmin um stuðninginn við ISIS á hinum Norðurlöndunum, á Bretlandi og víðar, sanna.
Þann 22. apríl 2015 birtist í Morgunblaðinu fréttaskýring eftir Boga Þór Arason, sem varpar ljósi á, að jihadistar islamistanna eru í útrýmingarherferferð gegn kristnu fólki. Þeir myrða fólkið og eyðileggja kirkjurnar. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, að islamistar samþykkja ekki, að kristnir söfnuðir reisi kirkjur í löndum islamista, svo að engin gagnkvæmni á sér stað varðandi það að veita leyfi fyrir tilbeiðslubyggingum. Það ætti að gjalda mikinn varhug við moskum á Vesturlöndum um þessar mundir. Verður nú vitnað í frétt Boga Þórs:
"Óttast að samfélög kristinna hverfi".
"Milljónir manna hafa þurft að flýja heimkynni sín í Sýrlandi, þeirra á meðal hundruð þúsunda kristinna manna, sem hafa flúið stríðshörmungar og árásir liðsmanna Ríkis islams, samtaka islamista, sem hafa náð svæðum í Sýrlandi og Írak á sitt vald. Óttast er, að samfélög kristinna manna hverfi í löndunum tveimur, m.a. trúarhópar, sem tóku kristni á fyrstu öld eftir Krist og eiga sér því um 2000 ára sögu. Á meðal þeirra er hópur, sem talar aramísku, forna tungumálið, sem kristur talaði.
Á yfirráðasvæðum islamistanna hafa vígamenn samtakanna drepið kristna íbúa, sem hafa neitað að snúast til islamskrar trúar. Óttast er, að vígamennirnir hafi rænt hundruðum kristinna manna í árásum í norðurhluta landsins [Írak] í febrúar [2015]. Önnur samtök islamista, Nusra-fylkingin, er einnig talin hafa rænt kristnum prestum í Sýrlandi."
Það dylst engum, sem horfir yfir sviðið, að islamistar eru nú í jihad-hami, heilögu stríði gegn kristnum mönnum hvarvetna um heim. Islamistaríki hafa ekki lyft litla fingri til að stöðva þessar vitfyrringslegu ofbeldisaðgerðir trúbræðra sinna, hafa ekki heyrzt fordæma þær heldur og virðast þar með styðja þær.
Aftur á móti stóð ekki á súnnítunum í Sádi-Arabíu að beita hervaldi í Jemen nú um daginn, þegar önnur grein islamista, sótti þar fram til áhrifa með hervaldi, sjítar, studdir af ajatollum í Íran.
Í þessu ljósi ber að skoða gjörninginn í Feneyjum, þar sem íslenzka ríkið tók þátt í fjármögnun á uppsetningu mosku í afhelgaðri kirkju í þessari sökkvandi borg. Þetta var gert í trássi við vilja borgaryfirvalda þar, sem ásamt kaþólsku kirkjunni höfðu sett skilyrði fyrir afnotum kirkjubyggingarinnar, sem þarna voru brotin. Endaði þetta með þeirri hneisu, að íslenzka sýningarskálanum í Feneyjum var lokað af yfirvöldum með skömm.
Það er alveg dæmalaust, að íslenzka ríkið skuli með þessum hætti taka þátt í að storka kirkjunni og Feneyingum, sem um aldir bárust á banaspjótum við Ottómanaveldið, og urðu iðulega fyrir blóðsúthellingum af völdum hins ottómanska ríkis Tyrkja.
Við þessar aðstæður eru Ísraelsmenn, þótt mannfræðilega séu skyldir aröbum, einu bandamenn vestrænna þjóða í Austurlöndum nær. Á sama tíma hefur kastazt í kekki á milli Bandaríkjamanna, hefðbundinna bakjarla Gyðinga, og Ísraelsmanna. Staðan í samskiptum kristinna og frjálslyndra Vesturlanda annars vegar og forstokkaðra islamista í miðaldamyrkri er einstaklega viðkvæm og flókin. Þá er rétt af Vesturlandamönnum að átta sig á því, að yfirleitt greina islamistar ekki á milli ríkis og trúarbragða (Kemal Ataturk reyndi þó að koma á þessum aðskilnaði í Tyrklandi), og þess vegna birtist útþenslustefna islamista sem heimsyfirráðastefna, sem Vesturlandamönnum er nauðugur einn kostur að andæfa á heimavelli og alls staðar annars staðar.
4.12.2013 | 18:53
Af hlerunum og fleiri óyndisúrræðum
Engir atburðir hafa haft verri áhrif á samskipti forystumanna Vesturveldanna og reyndar um heimsbyggð alla um áratuga skeið en uppljóstranir Bandaríkjamannsins Edwards Snowdens. Edward vann hjá verktaka á mála hjá NSA, National Security Agency, sem mun hafa verið stofnað til eftir 9/11 2001, en þá losnaði djöfullinn úr grindum.
Uppljóstranir ES bera vott um væskilsleg viðhorf í Washington DC, þar sem svikizt er aftan að nánustu bandamönnum, hvað þá öðrum, með vægðarlausum hlerunum frá kanzlara og niður úr. Þeir, sem njósnað er um, eru auðvitað ekki allir hvítþvegnir englar, og stunda vafalítið margir hverjir svipaða iðju sjálfir, þó að líklega ekki í svo miklu umfangi sem bandarísk stjórnvöld.
Hvar er keppnisandinn og íþróttamennskan að gera sig sekan um slíka lágkúru ? Siðleysið og tvískinnungurinn í Guðs eigin landi ríður ekki við einteyming. Sízt skal þó halda því fram hér, að aðrir séu með englavængi. Sé svo, eru þeir a.m.k. anzi sviðnir orðnir. Í Lundúnum hafa menn t.d. löngum ærið kræfir verið á sviði njósna og afkóðunar dulmáls, eins og frægt er frá viðureigninni við Þriðja ríkið, en radarinn, leyniþjónustan og ráðning á dulkóða Wehrmacht áttu drjúgan þátt í að snúa taflinu við í hildarleik Síðari heimsstyrjaldarinnar.
Edward Snowden virðist nú vera orðinn óvinur Bandaríkjanna nr 1 og var fyrir vikið um tíma eins og hundeltur héri, og forkólfur Pírata hérlendis lét um tíma sem hún ynni að því að útvega honum landvistarleyfi á Íslandi. Hvers konar stjórnmálaástand hefði þá myndazt á milli BNA og Íslands ? Frá því að Bandaríkjaher hvarf af Miðnesheiði, hefur vinskapurinn ekki verið upp á marga fiska, og engu var líkara en Íslendingar væru í ónáð hjá Seðlabanka Bandaríkjanna árið 2008, þegar hæst átti að hóa og landið var skilið eftir á flæðiskeri statt á meðan aðrar Norðurlandaþjóðir, sem um það báðu, fengu opna lánalínu frá "Federal Reserve" og til seðlabanka sinna.
Framkoma Engilsaxa í Whitehall, í Englandsbanka, í Hvíta húsinu og Seðlabanka BNA gagnvart íslenzku ríkisstjórninni og Seðlabanka Íslands í október 2008 var fyrir neðan allar hellur og hefur enn ekki verið skýrð að neinu marki fyrir íslenzku þjóðinni.
Það verður ennfremur að fást útskýring á því, hvers vegna brezka Verkamannaflokksstjórnin gerði sér far um að gera Íslendingum allt til miska, sem hún gat, og magna þann vanda, sem að fjármálakerfi Íslands steðjaði. Brezka ríkisstjórnin lagði lykkju á leið sína með virkjun hryðjuverkalaga til að koma Íslandi á kné, á sama tíma og hún bjargaði öllum öðrum bönkum á brezkri grundu. Þetta er almenningi enn ráðgáta. Bretar verða að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum til að um heilt geti gróið á milli þjóðanna. Hafði brezka leyniþjónustan upplýsingar, sem mönnum eru ekki haldbærar á Íslandi enn þann dag í dag ? Það er ekki allt sem sýnist og ekki unnt að útiloka neitt í þessum efnum.
Bandaríkjastjórn reyndi mikið til að hafa hendur í hári téðs Snowdens, en án árangurs, og leikur kattarins að músinni endaði með því, að sjálfur Vladimir Putin skaut yfir Snowden tímabundnu skjólshúsi. Niðurlæging hins hnignandi vesturheimska stórveldis varð enn sárari fyrir vikið.
Það þarf enga mannvitsbrekku til að geta sér til um fyrirætlun Rússa. Hún er að reka fleyg í samstöðu Vesturveldanna. Þjóðverjar eru mjög sárir vegna þess vantrausts og jafnvel tortryggni, sem njósnir NSA og MI5 sýna, að ríkir í garð endursameinaðs Þýzkalands á meðal Engilsaxa, þrátt fyrir fagurgala þeirra. Þeir íhuga þess vegna að skjóta yfir Snowden skjólshúsi, þegar tími hans hjá Rússum verður á enda runninn. Það yrði óneitanlega sterkur leikur í þeirri refskák, sem uppljóstranir Snowdens hafa fram kallað, en yrði fleinn í holdi vestrænnar samvinnu, sem leitt gæti til upplausnar NATO. Slíkur gjörningur þjónar varla langtíma hagsmunum Þýzkalands.
Nú er komið í ljós, hverju þessi ákafi við að handsama þrjótinn Snowden sætti. Það er svo mikið í húfi, að nauðsynlegt er að koma þeim boðskapi greinilega til skila, að þeir, sem íhuga að leka viðkvæmum upplýsingum út um hegðun bandarískra stjórnvalda, skuli hundeltir, ofsóttir og handteknir og Guð má vita hvað, hvar sem til þeirra næst. Þetta er ófélegt viðhorf forystumanna forysturíkis lýðræðisríkjanna í heiminum, ef satt er.
Um mánaðamótin nóvember-desember 2013 kynntust Íslendingar því á eigin skinni, hvað það getur þýtt, að persónulegar upplýsingar um fólk verði fyrir hunda og manna fótum. Ábyrgðarlaus varzla persónulegra gagna er hneyksli, en hvað má þá segja um tilraun til að breiða yfir ósómann, sem virtist vera á ferðinni í upphafi ? Allt verður þetta mál mun ömurlegra, þegar fréttir berast af því 3. desember 2013, að tvisvar - þrisvar sinnum á tveggja ára tímabili hafi með nokkrum árangri verið ráðizt til atlögu við tölvukerfi viðkomandi símafyrirtækis án þess að gripið væri til teljandi varna í kjölfarið. Slíkt andvaraleysi er vítavert og verður að draga hæfni stjórnenda, sem slíkt láta henda sig, til að bera ábyrgð á tæknilegri starfsemi og umsýslu viðkvæmra gagna fyrir fjölda fólks, í efa. Enn og aftur opinbera opinberir eftirlitsaðilar algert haldleysi sitt. Vissi Póst-og fjarskiptastofnun ekkert um fyrri árásirnar ? Póst- og fjar virðist ekki hafa rennt grun í slælega frammistöðu undir sínum verndarvæng. Svarið á ekki að vera að ausa fé í eftirlitið. Þvert á móti. Það á að draga úr fjárveitingum þangað, en auka kröfur um innra eftirlit og herða viðurlög við brotum leyfishafa. Lagarammi starfsemi símafyrirtækjanna ber vott um veiklyndi. Fyrir vanrækslu af þessu tagi eiga að liggja viðurlög um háar fébætur til viðskiptavina og heimild til sviptingar rekstrarleyfis, ef allt keyrir um þverbak. Markaðurinn mun reyndar vafalaust refsa viðkomandi grimmilega fyrir amlóðaháttinn.
Bandaríkjamenn hafa bakað grundvelli vestræns lýðræðis, frelsi einstaklingsins til athafna án þess yfirvöldin horfi beinlínis yfir öxlina á honum, ómælanlegt tjón. Stóri bróðir Orson Wells frá 1984 er á meðal vor í öllum sínum ömurleika. Hvílík niðurlæging og siðleysi.
Leyniþjónustur hafa stundað þennan óskunda að hlera símtöl frá því, að nýting á gagnmerkri uppfinningu Bells hófst. Margir fleiri hafa gerzt sekir um hleranir og einnig sá, er hér knýr lyklaborð. Það var fyrir hálfri öld, þegar stráksi af einhverjum ástæðum var inni í bæ og ekki sást til. Þá var lyft upp tóli og hlustað á samtöl, einkum ef hringt var á vissa bæi þar í Vatnsdalnum, og förum ekki nánar út í það, að hætti Kristjáns Ólafssonar.
Hérlendis þarf að sýna dómara fram á, að ríkir hagsmunir séu í húfi við rannsókn sakamáls og að líklegt sé, að hlerun símtala einstaklinga geti auðveldað rannsókn og/eða sönnunarfærslu. Ef rök eru tilfærð um, að ríkir almannahagsmunir séu í húfi, er líklegt, að dómari hlusti á það og taki tillit til í dómsúrskurði.
Það gefur auga leið, að hlerun hins opinbera á símtölum og samtölum innan veggja heimila með upptökutækjum, er alvarleg árás á friðhelgi einkalífs. Persónuvernd er á yfirborðinu með strangar kröfur um lögmæti símtalaupptöku og myndatöku hvers konar, en þegar til kastanna kemur, er einkalíf almennings berskjaldað og nánast ekkert einkalíf, ef einhverjum þursum dettur í hug, að það kunni að vera áhugavert fyrir hið opinbera að komast að, hvers kyns er. Þursar misnota hér tæknina skefjalaust, og hérlendis hafa ýmsir á tilfinningunni, að dómarar séu nokkuð lausbeizlaðir, þegar saksóknarar standa andspænis þeim með beiðni um rof á friðhelgi einkalífs. Hér eru menn komnir út á hættulega braut, og ekki sér fyrir endann á þessari öfugþróun.
Þjóðverjar eru mörgum öðrum viðkvæmari í þessum efnum, þó að þeir láti sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Það stafar af fortíð þýzku þjóðarinnar á 20. öldinni, sem var rysjótt og stormasöm undir heimsveldissinnuðum keisara, foringja og þýlyndra alræðissinnaðra stjórnmálaflokka, enda lénsskipulagið þá að líða undir lok, og hinar vinnandi stéttir borgara og verkamanna að taka við valdataumunum. Miðstéttin var að brjótast til valda og ýta aðlinum til hliðar. Það kostaði blóð, svita og tár.
GESTAPO (Leyniþjónusta ríkislögreglunnar) hélt uppi öflugri upplýsingaöflun og persónunjósnum í Þriðja ríkinu og hernumdum löndum Wehrmacht undir stjórn Heinrichs Himmlers, Ríkislögreglustjóra og æðsta stjórnanda SS-varnarsveitanna (Schutzstaffel). Með þessum hrikalegu valdatækjum Þriðja ríkisins var megnið af Evrópu tekin hreðjataki á stríðsárunum og þjóðernishreinsanir framkvæmdar. Það eimir enn eftir af hugarfari þjóðernishreinsana í Evrópu, sbr Balkanstríðið, hræðilega, í lok 20. aldarinnar, og meðferðina á Sígaunum (Rómafólki) víða um Evrópu í upphafi 21. aldarinnar.
STASI (Öryggislögregla ríkisina) í leppríki Ráðstjórnarríkjanna á hernámssvæði Rússa í Þýzkalandi var með nefið ofan í hvers manns koppi í DDR og hélt uppi miklu snuðri vestan megin einnig. Almenningur fór ekki varhluta af þessu og var ákaflega var um sig og varkár í orðavali. Að búa í einræðisríki er þrúgandi, af því að engum er að treysta, og Stóri bróðir gat leynzt alls staðar, og það hefur verið gríðarlegur léttir fyrir þýzku þjóðarsálina að losna við þessa andlegu kúgun. Allt var það framferði valdhafanna fyrirlitlegt.
Þess vegna hefur það verið reiðarslag fyrir Þjóðverja nútímans að frétta af hlerunum Bandaríkjastjórnar á einkasíma kanzlara Þýzkalands, hvað þá öðrum, öflugasta og einum nánasta bandamanni sínum. Hvað mega kaþólikkar heimsins segja núna, þegar komið hefur í ljós, að páfinn í Róm er einnig fórnarlamb þessara dæmalausu hlerana ? Hvað á þetta eiginlega að þýða ? Er þetta fíflagangur óvita, sem kunna ekki með öfluga tækni að fara, svo að siðlegt sé ?
Allt spratt þetta upp eftir hryðjuverk ofstækisfullra hatursmanna vestræns frelsis og lýðræðis, en viðbrögðin, hnýsnin, sem nú hefur verið flett ofan af, grefur undan grunngildum hins vestræna heims. Það eru grunngildin, sem hryðjuverkamenn vilja feig. Sjálfir eru þeir andlega á steinaldarstigi. Það mun reynast skammgóður vermir að hafa yfirburði í tækni, vísindum og hergögnum, ef sálarlífið er morkið og andinn vesæll.
Umfang hlerana Bandaríkjamanna er með ólíkindum og opinberar siðlausa embættismenn í Guðs eigin landi. Þetta framferði vitnar um rotnun og heigulshátt í forysturíki hins vestræna heims. Málið er þess vegna grafalvarlegt, vegna þess að engrar iðrunar og yfirbótar sér merki, eins og Þjóðverjar þó höfðu manndóm til að sýna, eftir að þeir stofnuðu sitt Sambandslýðveldi árið 1949, Bundesrepublik Deutschland. Forystumenn Þjóðverja með Dr Konrad Adenauer, kanzlara og fyrrverandi borgarstjóra í Köln, tóku af skarið og lýstu óbeit og andúð á gjörðum fyrirrennara sinna, og þjóðin tók undir með þeim. Engrar iðrunar verður á hinn bóginn vart í Hvíta húsinu. Slíkt er ills viti. Forseti BNA varð sér og þjóð sinni til minnkunar, þegar hann sagðist vera hættur í bili að hlera síma Angelu Merkel, en ekki sýndi hann iðrun, þó að hann léti sem hann mundi ekki taka upp sömu háttsemi á ný. Það er vel skiljanlegt, að Þjóðverjar kunni ekki að meta þessa framkomu.
Heimurinn allur er nú í hlutverki indíánanna, frumbyggja Norður-Ameríku, sem áttu sér stórmerkilega menningu, en kúrekarnir léku hörmulega og kúguðu illilega. Í þetta sinn er þó líklegast, að hin svívirðilega árás á einkalíf bandamanna Bandaríkjamanna verði að bjúgverpli, sem hitti þá sjálfa illa fyrir. Hver þarfnast óvina, sem á slíka vini ? Siðbótar er þörf. Hvar er Marteinn Lúther nútímans ? Er hann á róandi lyfjum og mun þess vegna aldrei hafa sig neitt í frammi ? Gerilsneyðing, andleysi og flatneskja rétttrúnaðarins tröllríður húsum.
Nú á vel við Heimsósómakvæði Skáld-Sveins frá 1614 með þessu erindi:
"Vesöl og snauð er veröld af þessu klandri,
völdin efla flokkadrátt í landi,
harkamálin hyljast mold og sandi,
hamingjan bannar, að þetta óhóf standi."
23.12.2012 | 12:21
Nýtt upphaf
Jólahátíðin markar nýtt upphaf. Hún er haldin á árstíma stytzta sólargangs. Héðan í frá mun sól hækka á lofti, sem að lokum mun duga til að kveikja nýtt líf; náttúran mun lifna við enn á ný. Þetta er guðdómleg endurnýjun og hringrás.
Jólasaga kristinna manna snýst um þetta; fæðingu barns, sem reyndar hafði orðið til með yfirskilvitlegum hætti í móðurkviði. Barn þetta óx og dafnaði og tók út mikinn andlegan þroska, eins og sögur herma.
Eðlilega hefur boðskapur Jesú, Krists, haft mikil áhrif í mannheimi, en hann hefur samt ekki breytt eðli mannsins. Það eru þó fjölmörg dæmi um breytta hegðun vegna kristins boðskapar, en mikil illska er þó í kristnum samfélögum, eins og öðrum, og ókristileg hegðun.
Kristnir menn verða líka að viðurkenna, að sterkar siðferðiskenningar eru boðaðar af fleirum en kristnum mönnum, og ekki má fordæma guðleysingja. Þeir geta verið siðavandir, tillitssamir við meðborgara sína og hinir mætustu menn ekki síður en kristnir. "Homo sapiens", hinn viti borni maður, hefur náð þroskastigi siðvædds dýrs, þó að siðmenning hans sé brotakennd á köflum.
Út af fyrir sig ættu allir að geta sameinazt um fegurð jólaboðskapar kristinna manna. Sannleiksgildi sögunnar er aðalatriði fyrir trúaða, en boðskapurinn getur orðið hinum aðalatriði. Fólk á að geta tekið sér til fyrirmyndar kristilegan boðskap um umburðarlyndi, miskunnsemi, tillitssemi og stuðning við sína minnstu bræður, þó að það trúi ekki biblíunni. Það er vegna þess, að slík hegðun höfðar til þess í manninum, sem honum þykir vera gott og rétt.
Þetta er út af því, að maðurinn hefur samvizku. Hann getur greint á milli góðs og ills, þó að hann geri það ekki alltaf. Þess vegna getur maðurinn tileinkað sér góða siði og lifað í siðuðu samfélagi.
Annað mjög athyglivert við manninn er, að samfélög hans geta auðveldlega lent í höndum kúgara, en hann virðist að lokum alltaf ná að slíta af sér heljarfjötrana. Þetta upplifðum við í ríkum mæli á 20. öldinni, sem var öld öfganna. Lénsskipulagið, sem verið hafði við lýði frá upphafi fastrar búsetu, leið undir lok í Evrópu í heimsstyrjöldinni fyrri, 1914-1918, og eðlilega tóku þá við umbrotatímar eftir slík Ragnarök. Einræði skólagenginna kaffihúsasnata, sem smjöðruðu fyrir verkalýðnum, tók við í Rússlandi, sem leiddi af sér hræðilegar hörmungar fyrir rússnesku þjóðina og allar þjóðir Ráðstjórnarríkjanna.
Í öðru höfuðríki Evrópu, Þýzkalandi, var keisaranum steypt af stóli, og við tók lýðræði með miklu frelsi einstaklinganna í Weimarlýðveldinu, tækniþróun og þjóðfélagslegri gerjun, þar sem borgarastéttin náði þjóðfélagslegum undirtökum af aðlinum. Versalasamningurinn 1919 batt þó Þjóðverjum slíka skuldaklafa, að ríkið átti sér ekki viðreisnar von. Saman fór geigvænlegt atvinnuleysi og óðaverðbólga, sem varð Weimarlýðveldinu að falli í lok janúar árið 1933.
Upp úr þessum jarðvegi spratt þjóðernisjafnaðarstefnan. Adolf Hitler, formaður þjóðernisjafnaðarmanna, lofaði Þjóðverjum hefnd eftir ófarir heimsstyrjaldarinnar fyrri og hefnd fyrir Versalasamningana. Þjóðernisjafnaðarmenn kyntu undir ólgu með svikabrigzlum í garð Reichswehr, hers keisaradæmisins, og í garð samningamanna Þjóðverja, sem voru þvingaðir til að skrifa undir Versalasamningana. Þjóðernisjafnaðarmenn náðu um þriðjungi atkvæða, sem dugði þeim til að hrifsa til sín völdin árið 1933 vegna veiks forseta, Hindenburgs, hershöfðingja. Reichstag undir stjórn þjóðernisjafnaðarmanna hætti strax að greiða stríðsskaðabætur, og ríkisstjórn þeirra sett alla menn til verka. Þjóðverjar hófu framleiðslu Volkswagen, alþýðuvagnsins, handa verkamönnum Þýzkalands, og reistir voru verkamannabústaðir.
Í stefnu þjóðernisjafnaðarmanna voru hins vegar efnisatriði, sem áttu eftir að leiða til tortímingar og óþarft er að rekja hér. Þriðja ríkið, sem stundum var kallað þúsund ára ríkið, stóð aðeins í 12 ár. Því var tortímt. Í grundvöll ríkisins vantaði algerlega hin kristnu gildi, sem tíunduð eru hér að ofan og eru nauðsynleg í hverju siðuðu samfélagi. Þau geta heitið eitthvað annað en kristni, en innihaldið er ætíð hið sama. Þau eru hverjum manni nauðsyn, ef hann og hans fjölskylda á að eiga möguleika á að ná nokkrum þroska og að lifa hamingjusömu lífi. Við þurfum ætíð að huga að hinu siðræna, þegar við hrífumst af einhverjum boðskap, og setja frelsi einstaklingsins ofar réttindum ríkisins í nafni einhverja stjórnmálakenninga.