Færsluflokkur: Evrópumál
21.3.2019 | 12:14
Enn er líf í ACER umræðunni í Noregi
Haustið 2018 höfðuðu samtökin "Nei til EU", sem eru systursamtök Heimssýnar í Noregi, mál gegn Ernu Solberg, forsætisráðherra, fyrir málsmeðferð Stórþingsins, að undirlagi ríkisstjórnarinnar, á atkvæðagreiðslu um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.
Stjórnarskrá Noregs kveður á um, að við valdframsal ríkisins til erlendra stofnana án aðildar Noregs, þar sem milliríkjasamningurinn, sem í hlut á, getur ekki talizt vera þjóðréttarlegs eðlis, eins og aðild að Sameinuðu þjóðunum, Alþjóðabankanum eða NATO, svo að dæmi séu tekin, skuli 3/4 af mættum þingmönnum, sem ekki mega vera færri en 2/3 allra kjörinna þingmanna, þurfa að fallast á framsalið, svo að það hljóti samþykki.
Það er hins vegar einfaldur meirihluti þingsins sjálfs, sem sker úr um eðli málsins og þar með, hvort viðhafa skuli regluna um aukinn meirihluta. Þetta má kalla veikleika við annars ágætt ákvæði, sem nú hefur leitt til málaferla.
Dómsmálaráðherrann sendi þinginu í fyrravetur álitsgerð, þar sem ekki var talin vera þörf á auknum meirihluta til að samþykkja Þriðja orkupakka ESB, af því að hann væri "lite inngripende", þ.e. hefði lítil áhrif á þjóðlífið. Þar stendur þó hnífurinn í kúnni. "Nei til EU" nýtur sérfræðilegs stuðnings fjölda norskra lagaprófessora í því, að málið hafi svo víðtæk áhrif á stjórnsýslu Noregs og heimili Landsreglara að hlutast til um gjaldskrár Statnetts og dreifiveitnanna og að heimta alls konar orkutengdar upplýsingar af fyrirtækjum að viðlögðum sektum, að áskilja hefði átt aukinn meirihluta við atkvæðagreiðslu Stórþingsins um málið samkvæmt Stjórnarskránni. Þá kynni málið að hafa fallið á Stórþinginu, því að innan við 2/3 mættra þingmanna greiddu því atkvæði sitt, en það hlaut að vísu yfir 3/4 greiddra atkvæða.
Ríkislögmaðurinn krefst frávísunar stefnunnar á þeim grundvelli, að verið sé að flytja pólitískan ágreining inn í réttarsal, en "Nei til EU" lítur á það sem lýðræðislegan rétt sinn að fá úr því skorið af dómstóli, hvort Stjórnarskráin hafi verið brotin. Dómsúrskurðar er að vænta nú í apríl/maí um frávísunarkröfu ríkislögmanns. Haldi málið áfram fyrir dómi, má vænta dóms í Þingréttinum (fyrsta dómstig) síðla árs 2019. Málið mun varla fara fyrir Lagmannsretten, heldur beint fyrir Hæstarétt, sem líklega kveður þó ekki upp dóm fyrr en á síðasta ársfjórðungi 2020. Það er fullkomlega óeðlilegt, að Alþingi taki Þriðja orkupakkann til formlegrar afgreiðslu fyrr en lyktir fást í þessu dómsmáli.
Vinni "Nei til EU" málið (fyrir Hæstarétti), mun Stórþingið verða að fjalla um það að nýju. Þá verður uppi ný staða í norskri pólitík. Það var Verkamannaflokkurinn, sem fyrir ári réði úrslitum um afdrif þessa máls. Á meðal þingmanna hans var talsverð óánægja með Orkupakka #3, og hún er enn meiri nú, en Landsstjórn flokksins samþykkti fyrirmæli til þingflokksins um að greiða sem blokk atkvæði með pakkanum. Þar réð gamalkunnug hollusta flokksins við ESB.
Slíkt mun ekki endurtaka sig, komi Orkupakkinn aftur til kasta þingsins. Ástæðan er sú, að í millitíðinni er norska Alþýðusambandið búið að taka afstöðu gegn innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn og norska löggjöf, og norski Verkamannaflokkurinn hefur líklega aldrei gengið í berhögg við verkalýðshreyfinguna í grundvallar hagsmunamáli, eins og hér um ræðir. Á Stórþinginu mun málið að líkindum falla við endurupptöku, aðallega vegna sinnaskipta Verkamannaflokksins.
Hver eru rök norsku verkalýðshreyfingarinnar í þessu máli ? Þau eru, að atvinnuöryggi margra verkamanna, iðnaðarmanna og tæknimanna og heilu sveitarfélaganna á landsbyggðinni, er stór hætta búin, ef stefnumörkun í orkumálum Noregs flyzt til ESB. Þetta eru ekki getgátur verkalýðsforingja, heldur hefur norska verkalýðsforystan látið sérfræðinga áhættugreina stöðuna fyrir sig, og þeir hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að norskur útflutningsiðnaður muni í miklum mæli gefast upp á samkeppninni, ef raforkuverðið hækkar uppundir það, sem gengur og gerist á Bretlandi og í iðnaðarmiðju meginlands Evrópu. Að sjálfsögðu yrði slík staða alvarleg ógnun við atvinnuöryggi og kjör skjólstæðinga verkalýðshreyfingarinnar, og þess vegna er þessi pólitíska afstaða norska Alþýðusambandsins mikilvægur þáttur í varnarbaráttu þess fyrir áframhaldandi góðum lífskjörum verkafólks í Noregi.
Hvers vegna ætti gildistaka Þriðja orkupakkans í Noregi að grafa undan samkeppnishæfni Noregs ? Hún hefur verið reist á tiltölulega lágu raforkuverði, sem hefur verið jákvætt mótvægi við hærri flutningskostnað og starfsmannakostnað norsku verksmiðjanna en samkeppnisaðila á Bretlandi eða niðri í Evrópu. Það hefur sýnt sig, að með hverjum nýjum aflsæstreng hefur raforkuverð í Noregi dregið meira dám af raforkuverðinu við hinn enda sæstrengsins. Því stjórna markaðslögmálin. Því meiri flutningsgeta millilandatenginga, þeim mun meir mun innanlandsverði raforku svipa til verðsins erlendis, sem tengingarnar ná til.
Í Noregi nemur útflutningur raforku nú um 10 % af almennri raforkunotkun innanlands. Norska verkalýðshreyfingin óttast, og ekki að ástæðulausu, að útflutningur raforku muni vaxa enn frekar, þegar hann verður ekki lengur á forsendum Norðmanna sjálfra, heldur stjórnað af markaðnum, Landsreglara Noregs og reglum ACER. Þetta muni ekki sízt koma niður á orkukræfum iðnaði Noregs, sem myndar samfélagslegt hryggjarstykki í mörgum dreifðum byggðum Noregs.
Þar að auki horfir norska verkalýðshreyfingin nú á straum tilskipana og gerða frá ESB, sem hún telur réttindum og kjörum norsks verkafólks stafa hætta af. Nefna má Járnbrautarpakka #4, gerð um millilandaflutninga, og nýja vinnumálalöggjöf ESB auk gerðar, sem skyldar stjórnvöld, einnig sveitarstjórnir, til að tilkynna Framkvæmdastjórninni um allar væntanlegar ákvarðanir varðandi þjónustutilskipun ESB.
Búizt er við, að EES-aðild Noregs verði til umfjöllunar á næsta þingi Alþýðusambandsins 2021 og að m.v. núverandi þróun mála kunni uppsögn EES-samningsins að verða samþykkt þar. Þetta mun vafalaust lita mjög kosningabaráttuna fyrir þingkosningarnar 2021 í Noregi. Þessi atburðarás eykur líkur á, að Stórþingið muni fella Orkupakka #3 árið 2021. Það er óþarfi fyrir Íslendinga að trufla þessa norsku atburðarás með því að taka orkupakkann til afgreiðslu fyrir þennan tíma.
Það er enn meiri ástæða til að óttast rafmagnsverðhækkanir hérlendis en í Noregi af völdum aflsæstrengs, því að á Íslandi mun flutningsgeta fyrsta sæstrengsins verða tvöföld almenna raforkunotkunin. Verðhækkunin innanlands mun þess vegna verða enn meiri en í Noregi, og heildsöluverð til almenningsveitna hérlendis mun verða svipað og verðið, sem orkuseljendur hér fá fyrir orkuna inn á strenginnn. ESB sjálft gerir ráð fyrir sáralitlum raforkuverðmun á milli landa eða 0,25 EUR/MWh (=0,034 ISK/kWh), þegar flutningsgeta millilandatenginga nær 30 % af uppsettu afli innan sambandsins.
Af aflsæstreng mun einvörðungu hljótast þjóðhagslegt tap, því að norski hagfræðingurinn Anders Skonhoft hefur sýnt fram á, að allur aukinn gróði innlendra orkuseljenda af útflutningi raforku stafar af hærra orkuverði innanlands vegna nýrrar utanlandstengingar, en gróðinn af útflutninginum sjálfum, þ.e. orkuviðskiptunum við útlönd, fer allur til sæstrengseigandans.
Þau, sem vilja innleiða hér erlenda löggjöf, sem er sniðin til að greiða fyrir millilandatengingum orku og til að stjórna orkuflæðinu, ekki sízt úr endurnýjanlegum orkulindum, eru að leggja drögin að svikamyllu, sem beint er að landsmönnum öllum. Í flestum tilvikum ræður fávísi för og í mörgum tilvikum trúin á, að það, sem er gott fyrir ESB, sé líka gott fyrir Ísland. Það er hins vegar herjans mikill misskilningur, og í raun einfeldningsháttur, eins og iðulega hefur verið fjallað um á þessu vefsetri.
Það er sem sagt engan veginn hægt að ganga út frá því sem vísu, að ný umfjöllun um Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB á Stórþinginu muni leiða til afgreiðslu, þar sem fylgjendur fái 3/4 greiddra atkvæða. Af þessum sökum er í raun ótímabært fyrir ríkisstjórn Íslands að hefja viðræður á vegum EFTA við ESB um undanþágur frá þessum ólánslagabálki fyrir Ísland, eins og Miðstjórn Framsóknarflokksins samþykkti í vetur. Hvernig í ósköpunum stendur á því, að ríkisstjórnin tekur ekki þennan pól í hæðina og lýsir yfir frestun málsins, þar til lyktir fást í dómsmál "Nei til EU" gegn Ernu Solberg ? Í staðinn móast ráðherrarnir tveir við, sem aðllega véla um þetta mál, staddir úti á túni.
Í dag, 21.03.2019, kl. 1730, mun Morten Harper, sérfræðingur hjá "Nei til EU" í Noregi, flytja fyrirlestur um EES og Orkupakka #3 á Háskólatorgi HÍ, sal 105. Verður áhugavert að kynnast viðhorfi hans til þessara mála og mati á þróun sambands EFTA-ríkjanna við ESB.
19.3.2019 | 11:40
Fjórði orkupakkinn
Fjórði orkumarkaðslagabálkur Evrópusambandsins er enn í umsagnar- og umræðuferli innan sambandsins, enda sýnist þar sitt hverjum. Pakkinn hefur þó verið reifaður opinberlega, og fylgir stutt lýsing hér í viðhengi (á ensku).
Tveimur árum eftir gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, EES, kom út Orkupakki #1, eða 1996. Hlutverk hans var að rífa niður einokunaraðstöðu nokkurra risa á raforkumarkaðinum, sem áttu bæði flutningskerfið, orkuver og jafnvel dreifiveitur. Með Orkupakka #1 fyrirskrifaði ESB, að dreifiveiturnar skyldi gera sjálfstæðar frá hinum þáttum orkugeirans, og aðaldreifiveitunum á hverju svæði var veitt sérleyfi á skilgreindum athafnasvæðum, og þannig var komið í veg fyrir tvöfalt eða þrefalt kerfi á sumum svæðum. Ætla mátti, að einfalt dreifikerfi myndi draga úr sóun og þar með verða neytendum hagkvæmara, enda skyldu orkuyfirvöld fara í saumana á gjaldskránum og þurfa að staðfesta þær. Dreifiveiturnar í Evrópu eru nú yfir 2000 talsins. Samkeppni dreifiveitna er með þessu móti lítil sem engin, en þær geta misst sérleyfið sitt og mörk sérleyfissvæðisins má endurskoða.
Flutningsfyrirtækið átti að vera óháð virkjanafyrirtækjunum og dreifiveitunum, og er það málefnalegt sjónarmið til að tryggja öllum, einnig nýliðum, t.d. vindorkufyrirtækjum, frjálsan aðgang að stofnkerfinu. Á Íslandi var farin sú leið að stofna flutningsfyrirtækið Landsnet með því að skilja flutningshluta Landsvirkjunar, RARIK, OR og OV frá þeim, og þessi fyrirtæki urðu þannig stofneigendur Landsnets í hlutfalli við eignamat á framlaginu til hins nýja fyrirtækis.
Þetta eignarhald er óeðlilegt fyrir lögbundið einokunarfyrirtæki, enda hafa nýir aðilar á markaðnum kvartað undan þessu og talið samkeppnishindrandi. Nú hefur ríkisstjórnin loks tekið þá stefnu, að ríkið kaupi Landsnet. Það er fagnaðarefni og óþarfi að gera því skóna, að með þessu sé verið að undirbúa sölu á Landsvirkjun. Verði Orkupakka #3 hafnað hér, er ólíklegt, að tillaga um sölu Landsvirkjunar verði lögð fyrir Alþingi og enn ólíklegra, að Alþingi samþykki slíkt.
Ef Alþingi glepst á að samþykkja Orkupakka #3, þá verður stofnað hér embætti Landsreglara. Erlend fyrirtæki gætu þá vissulega fengið augastað á Landsvirkjun með útflutning raforku fyrir augum, en hún verður þá væntanlega seld í bútum á samkeppnisforsendum, óháð eignarhaldi sínu í Landsneti. Það er líka óvíst, að undanþága ESA um núverandi eignarhald Landsnets verði áfram í gildi eftir sölu ríkissjóðs á hluta af Landsvirkjun.
Þannig lagði Orkupakki #1 grunninn að frjálsri samkeppni á orkumarkaði (þetta átti líka við eldsneytisgaskerfi), enda var rafmagn skilgreint þarna í fyrsta kipti á Íslandi sem vara. Noregur hafði innleitt þetta fyrirkomulag um 1990, e.t.v. að fordæmi Breta, og hafa vafalaust verið þess mjög fýsandi í Sameiginlegu EES-nefndinni, að hin EFTA-ríkin, Ísland og Liechtenstein, samþykktu og innleiddu þetta fyrirkomulag, þótt á ýmsu hefði gengið í Noregi við innleiðinguna (sum gamalmenni höfðu ekki ráð á rafmagnsreikninginum). Íslenzk stjórnvöld sáu þess vegna ekki ástæðu til að streitast á móti þessum Fyrsta orkupakka. Í okkar litla samfélagi leiddi þessi uppskipting orkugeirans 2003 hins vegar til meiri yfirbyggingar (fleiri silkihúfur) og dýrara kerfis, sem endurspeglaðist í rafmagnskostnaði almennings og síðar í langtímasamningum um raforku. Að þessu leyti höfðu t.d. vinstri grænir á þingi rétt fyrir sér, en þeir voru á móti þessum orkupakka á Alþingi, e.t.v. vegna markaðsvæðingarinnar, sem að baki lág.
Með Orkupakka #2 var orkumarkaðurinn skilgreindur nákvæmlega og mælt fyrir um það fyrirkomulag, sem gæfi orkukaupendum beztu kjörin til lengdar. Mælt var með uppboðsmarkaði fyrir raforku og gas í Orkukauphöll, þar sem afleiðuviðskipti með orkuna væru leyfð. Ekki var gert að skyldu að innleiða þetta. Sýnt hefur verið fram á, að þetta kerfi hentar afleitlega á Íslandi til að lágmarka orkuverð og hámarka afhendingaröryggi innan skynsamlegra marka. Þvert á móti býður þetta fyrirkomulag upp á skjótfenginn gróða orkuseljenda og spákaupmanna, þótt hinir síðarnefndu geti snögglega tapað háum fjárhæðum líka á orkuviðskiptum, jafnvel orðið gjaldþrota, eins og dæmin sýna erlendis frá.
Mismunurinn á Íslandi og meginlandi Evrópu að þessu leyti er fákeppnismarkaður hér, dyntótt náttúruöfl sem frumorka í stað þróaðra eldsneytismarkaða. Bann við sameiginlegri auðlindastýringu samkvæmt þessum orkupakka getur valdið misnotkun markaðarins á orkulindunum, miðlunarlónum, árrennsli og jarðgufuforðageymunum. Orkupakki #2 hefur verið innleiddur hér, en hann felur að þessu leyti í sér alvarlega anmarka fyrir íslenzkar aðstæður.
Með Orkupakka #3 var gert að skyldu að innleiða þetta frjálsa markaðskerfi, jafnframt skal stofna embætti Landsreglara, sem verður hæstráðandi orkumála í hverju landi, óháður stjórnvöldum hvers lands, og þjónar hann beint undir ACER, sem er Orkustofnun ESB og er beint undir Framkvæmdastjórninni. Fyrir EFTA-löndin verður ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) milliliður Landsreglara og ACER, en breytir engu um skilyrðislausa hlýðniskyldu Landsreglara við stofnanir ESB og Evrópurétt. Með Orkupakka #3 tekur Evrópulöggjöf gildi um millilandatengingar, en gildir um allan innlenda raforkugeirann frá og með orkulögum 2003 og um frjálsan orkumarkað frá innleiðingu Orkupakka #2 2007. Lög frá Alþingi verða eftir innleiðingu Orkupakka #3 sett til hliðar í öllum orkugeiranum, ef þau stangast á við Evrópuréttinn. Þetta er ekki ásættanlegt, þegar litið er til mikilvægis orkuvinnslu og orkusölu fyrir hagkerfi landsins. Ef ágreiningur verður við ESB á raforkusviðinu, er næsta víst við þessar aðstæður, að hagsmunir þeirra verða ofan á.
Orkupakki #4 mun sennilega taka gildi í ESB 2020. Hann er saminn af ríkri þörf Evrópusambandsins til að ná tökum á orkuskiptunum, sem fólk þar á bæ telur forsendu fyrir því, að ESB geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsamkomulaginu 2015, þ.e. 20 % heildarorkunotkunar verði frá endurnýjanlegum lindum 2020 og 27 % árið 2030, og síðan verði kolefnishlutleysi náð 2050.
Það horfir nú mjög illa með að ná þessum markmiðum. Hitt veldur meiri áhyggjum í Berlaymont, hversu einhæfir orkuaðdrættirnir eru, og hversu háð ESB-löndin eru og verða á næstu árum Rússum um eldsneyti. Þess vegna er gríðarleg áherzla lögð á að komast í endurnýjanlegar orkulindir, hvar sem hönd á festir. Norðurlöndin Svíþjóð, Noregur og Ísland eiga öll miklar endurnýjanlegar orkulindir, og tvö hin síðarnefndu eru talin vera aflögufær.
Auðvitað hefur ESB nákvæmar upplýsingar um Rammaáætlun um orkulindir hérlendis, nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk, svo og um verkefni, sem þangað hafa ekki ratað, s.s. djúpborunarverkefni með tífalt afl í holu. Hvernig á að koma í veg fyrir, að fyrirtæki einhvers staðar að, innan EES, komi höndum yfir orkulindir og hefji nýtingu á þeim, þegar bannað er að mismuna einstaklingum og lögaðilum innan EES, þegar hvers konar viðskipti og leyfisveitingar eiga í hlut ? Það er jafnframt þannig, að náttúruvernd er ekki lögmæt ástæða fyrir útflutningshindrun á vöru, en ESB og Þórdís Kolbrún hafa skilgreint rafmagn sem vöru, illu heilli fyrir okkur, þótt slíkt sé fjarri skilningi almennings á rafmagni. Það hefur lengi verið skilningur almennings á Íslandi og í Noregi, að rafmagnið sé afurð náttúruauðlinda, sem nýta eigi til að bæta hag heimila og fyrirtækja hvarvetna á landinu til samkeppnishæfrar verðmætasköpunar.
"Hrein orka fyrir alla Evrópumenn" er slagorð Fjórða orkupakkans. Fjárfestingar í endurnýjanlegum orkulindum í ESB-löndunum á tímabilinu 2015-2030 eru áætlaðar TriEUR 1,0 eða tæplega 70 mrdEUR/ár. Að leggja einn 1200 MW sæstreng frá Íslandi um 1200 km leið til Bretlands er áætlað, að muni kosta tæplega mrdEUR 6. Fjárfesta í endurnýjanlegum orkulindum mun því lítið muna um að leggja í slíka sæstrengslög. Fái þeir áhuga, sem margt bendir til, m.a. sú staðreynd, að "Ice-Link" hefur komizt gegnum nálarauga ESB inn á PCI-forgangsverkefnaskrá ACER/ESB og inn á Kerfisþróunaráætlun sambandsins, getur í raun ekkert stöðvað þá framkvæmd, eftir að Alþingi hefur innleitt Evrópurétt á sviði millilandatenginga fyrir orku (Þriðji orkupakkinn).
Þau, sem halda því fram, að slíkt valdaafsal innlends ákvörðunarvalds í hendur yfirþjóðlegrar stofnunar, ACER/ESB, skipti sáralitlu máli, eru algerlega úti að aka um það, sem ESB gengur til með umfangsmikilli löggjöf og stjórntækjum til að fylgja henni eftir. Þar ræður ekki illur hugur, heldur brýn þörf, en augljósir hagsmunaárekstrar við eyjarskeggja norður í Atlantshafi fá þá hins vegar marga hverja til að reisa burst gegn því arðráni, sem flutningur á orku frá eyjunni eðli máls samkvæmt mun hafa í för með sér.
Í Fjórða orkupakkanum eru höfð uppi áform um að stofna svæðisstjórnstöðvar fyrir raforkuflutninga. Væntanlega þýðir það, að Stjórnstöð Landsnets (á Gylfaflöt í Reykjavík), þaðan sem helztu virkjunum, aðveitustöðvum og raun- og launaflsflæði stofnkerfisins, er stýrt, yrði sett undir slíka ROC-Regional Operational Centre, í norðanverðri Evrópu. Með þessu á að fást betri stjórn á millilandaflutningum og e.t.v. að ryðja einhverjum hindrunum fyrir þeim úr vegi.
Það kemur jafnframt fram í viðhengdu skjali með þessum pistli, að þessar svæðisstjórnstöðvar kunni í framtíðinni að ryðja kerfisstjórn hvers lands úr vegi og yfirtaka hlutverk þeirra í löndunum, sem svæðisstjórnin spannar. Hvernig hugnast mönnum það, að Landsnet, sem ríkisstjórnin vill núna, að verði í ríkiseign, verði gleypt með húð og hári og að stofnkerfi landsins ásamt millilandatengingum rafmagns verði stýrt frá stjórnstöð á meginlandi Evrópu, t.d. í Hamborg ?
Ef Alþingi samþykkir Orkupakka #3, mun engin fyrirstaða verða fyrir Orkupakka #4, og þá verða hagsmunir "heildarinnar" að ráða, þar sem heildin er allt EES, og sá sem framkvæmir hagsmunamatið, verður ACER.
Í viðhengdu skjali segir svo um framtíðaráformin, sem Alþingismenn eru nú að velta fyrir sér, hvort sé ekki bara allt í lagi, að Íslendingar verði hluti af:
"Stronger regulatory cooperation within ACER is seen as a prerequisite to achieving the EU Energy and Climate goals."
Höfundur þessa pistils túlkar þennan texta þannig, að öflugri miðstýring á orkumálum aðildarlandanna að hálfu ACER (Orkustofnunar ESB) sé talin forsenda þess að ná orku- og loftslagsmarkmiðum ESB. Nú hníga öll vötn til Dýrafjarðar. Tilhneigingin er öll til að færa lýðræðislega ákvarðanatöku í aðildarlöndunum til landsreglaranna og búrókrata Framkvæmdastjórnarinnar í ACER. Vilja Alþingismenn fara inn á þessa braut ? Til þess hafa þeir enga heimild. Stjórnarskrá lýðveldisins bannar þessa þróun mála. Samt hóta 2 ráðherrar ríkisstjórnarinnar enn að óska eftir því við þingið, að það lyfti stjórnskipulegum fyrirvara af máli, sem búrókratar þeirra í blindni eru búnir að samþykkja í Sameiginlegu EES-nefndinni. Þetta heitir að skíta í eigið hreiður.
Samkvæmt Fjórða orkupakkanum á að styrkja millilandasamstarf dreifiveitnanna. Með endurnýjanlegum orkulindum í eigu almennra viðskiptavina dreifiveitnanna, á borð við sólarhlöður og vindmyllur, er komið fram nýtt hugtak, "prosumer", framleiðandi og notandi, í sama viðskiptavini. Koma á á laggirnar nýrri stofnun innan ESB við hlið ACER fyrir "Distribution System Operators"-DSOs, samstarfsstofnun dreifiveitna. Ekki er ólíklegt, að með tímanum þróist þetta samstarf í átt að samræmingarstöð og að lokum verði til einhvers konar yfirstjórn dreifiveitnanna í anda ESB-stjórnkerfisins. Það er greinilega sannfæring fyrir því innan Berlaymont, að bezt fari á því að miðstýra flutnings- og dreifikerfum orku innan EES af Framkvæmdastjórninni og stofnunum hennar. Höfundur þessa pistils hefur aldrei verið á móti fjölþjóðasamvinnu, en þetta stjórnkerfi ESB á einfaldlega ekki heima á Íslandi.
Eignarhald dreifiveitnanna á endurhleðslustöðvum rafmagnsfartækja verður bannað eftir innleiðingu Fjórða orkumarkaðslagabálksins. Það er af samkeppnisástæðum. Dreifiveiturnar starfa samkvæmt sérleyfum hins opinbera, Orkustofnunar, og gjaldskrár þeirra mun Landsreglarinn rýna. Samkvæmt Fjórða orkupakkanum eiga aðeins einkafyrirtæki að þjónusta endurhleðslumarkaðinn. Að opinbert fyrirtæki á borð við dótturfyrirtæki OR hérlendis leiki talsvert hlutverk á þessum vettvangi, skekkir frjálsa samkeppni. Dreifiveitur eiga að halda sig við sitt hlutverk, og Veitum væri nær að gera rausnarlegt átak í að styrkja heimtaugar fjölbýlishúsa, svo að þær beri fyrirsjáanlega aukið álag af völdum endurhleðslu rafgeyma.
Almennt er ekki von á auknum framförum með aukinni miðstýringu. Sízt af öllu á það við, þegar um er að ræða að fjarstýra þróun raforkukerfis á eyju lengst norður í Atlantshafi frá meginlandi Evrópu. Stöðva ætti þessa óheillaþróun með því að hafna Orkupakka #3. Til þess þurfa Alþingismenn örlítið hugrekki til að feta nýjar slóðir. Til þess virðast þeir njóta stuðnings kjósenda, sem ætlast til slíks sjálfstæðis af þeim. Heybrækur eiga lítið erindi á þing. Það verður enginn fyrir tjóni, þótt ESB felli þá úr gildi Orkupakka #1 og #2 í EES-samninginum. Alþingi getur eftir það hagað orkumálunum eins og því sýnist.
Evrópumál | Breytt 21.3.2019 kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2019 | 10:54
Aukin ásókn í leyfi fyrir vindorkuverum
Samhliða fjölgun millilandatenginga við raforkukerfi Noregs hefur orðið gríðarleg fjölgun vindmyllna í landinu. Við árslok 2018 voru vindmyllur með framleiðslugetu um 4 TWh/ár í rekstri (svipað og öll almenn notkun á Íslandi), en vindmyllur að framleiðslugetu 22 TWh/ár eru annaðhvort í byggingu eða hafa fengið virkjanaleyfi frá NVE (Orkustofnun Noregs). Þessi viðbót er meiri en öll núverandi raforkuvinnsla á Íslandi.
NVE hefur ennfremur kunngert hugsanlegan ramma fyrir frekari virkjun vindorku í Noregi upp á 30 TWh/ár. Í lok næsta áratugar gæti þannig orkuvinnslugeta vindmyllna í Noregi numið um 50 TWh/ár, sem er svipuð heildarvinnslugetu vatnsorkuvera og jarðgufuvera Íslands, eins og hún er talin geta orðið mest í reynd. Vindorkuver munu þá nema yfir fjórðungi af raforkuvinnslu í Noregi. Þetta svarar til þess, að hérlendis mundu rísa vindorkugarðar með 7 TWh/ár framleiðslugetu um 2030.
Hver er skýringin á þessum skyndilega áhuga á vindorkuverum í Noregi, sem hingað til hafa ekki verið arðsöm þar ? NVE og Anders Skonhoft, hagfræðiprófessor, eru sammála um, að skýringarinnar sé að leita í væntingum um hærra raforkuverð í Noregi. Þetta hefur reyndar leitt til kaupa fjárfesta frá ESB-löndum á smávatnsvirkjunum, vindmyllum og til umsókna þeirra um leyfi til að reisa slíkar virkjanir.
Í Noregi hafa vindmylluleyfi verið gefin út fríhendis, þ.e. án þess að um þau gildi nokkur heildar rammaáætlun fyrir landið allt. Það þýðir að mati prófessors Anders Skonhoft, að slík virkjunarleyfi hafa verið gefin út, án þess að leggja sérstakt mat á "gildi náttúru og umhverfis".
Svipaðrar tilhneigingar gætir hérlendis frá fjárfestum. Þeir hafa sýnt áhuga á að reisa vindorkuver, sem í fljótu bragði virðist ekki vera fjárhagsgrundvöllur fyrir. Þannig reiknaði höfundur þessa pistils út vinnslukostnað 130 MW vindorkuvers í landi Hróðnýjarstaða, í grennd við Búðardal við Hvammsfjörð, 53 USD/MWh eða 6,4 ISK/kWh, fyrir um ári. Þetta er um 30 % yfir núverandi heildsöluverði hérlendis. Ef til Íslands verður lagður aflsæstrengur erlendis frá með flutningsgetu um 1200 MW og raforkukerfi landsins tengt við raforkukerfi, þar sem raforkuverðið er, segjum, tvöfalt hærra en hér, þá mun heildsöluverðið allt að því tvöfaldast hérlendis og vindmyllur augljóslega verða mjög arðsamar.
Það er engum blöðum um það að fletta, að íslenzkar virkjanir og virkjanaleyfi munu verða enn verðmætari en nú í augum fjárfesta með tilkomu millilandatengingar og jafnvel þegar við innleiðingu uppboðsmarkaðar raforku í Orkukauphöll, sem Landsreglari mun fylgja stranglega eftir, að stofnsett verði hér eftir innleiðingu Orkupakka #3. Hvað þýðir það, að hér verði vindmyllugarðar upp á 7 TWh/ár ?
M.v. reynslutölur frá Noregi þá jafngildir þetta 600 vindmyllum á Íslandi, sem leggja munu undir sig 300 km2; 0,3 % af heildarflatarmáli landsins, en áhrifasvæði þeirra er langtum víðáttumeira, því að hæð þeirra verður allt að 250 m, og hávaðinn getur orðið gríðarlegur. Athafnasvæðið sjálft flokkast sem iðnaðarsvæði með vegi þvers og kruss, sem mælast munu í hundruðum km.
Orkan frá þessum vindmyllum, 7 TWh/ár, nemur nokkurn veginn því, sem reiknað er með að flytja utan um téðan sæstreng, því að með þessari miklu hækkun raforkuverðs innanlands verður afgangsorkuflutningsgeta sæstrengsins nýtt til að flytja inn rafmagn að næturþeli á lægra verði en hér verður þá, eins og gerzt hefur í Noregi, e.t.v. 2 TWh/ár.
Þessi þróun mála er landsmönnum óhagfelld, því að frá sjónarmiði innlendra orkukaupenda er afleiðingin sú að heildarrafmagnsreikningurinn gæti hækkað um 60 %. Hagnaður orkuvinnslufyrirtækjanna vex einvörðungu vegna sölu innanlands á hærra verði, en samkvæmt prófessor Anders Skonhoft verður enginn hagnaðarauki hjá þeim af útflutningi raforkunnar um sæstreng, heldur hirðir strengeigandinn allan hagnaðinn af útflutninginum, enda verða innlend orkuvinnslufyrirtæki fyrir kostnaðarauka af viðbótar orkuöflun (til útflutnings). Frá hagsmunamati innlendra raforkukaupenda er hér um svikamyllu að ræða. Prófessor Anders Skonhoft orðar þetta þannig í þýðingu pistilhöfundar:
"Veitið því annars athygli, að hagnaður orkuvinnslufyrirtækjanna er einvörðungu tengdur verðhækkun innanlands vegna útflutningsins. Án hækkaðs verðs innanlands hafa orkuvinnslufyrirtækin þar með enga fjárhagslega ástæðu til að fagna orkuviðskiptum við útlönd."
Þetta ætti að færa eigendum íslenzku orkuvinnslufyrirtækjanna (þau eru flest í opinberri eigu) endanlega heim sanninn um, að það er þjóðhagslega óhagkvæmt að hefja slík viðskipti. Aukinn hagnaður þeirra verður allur á kostnað innlendra raforkunotenda, þvert á það, sem ýmsir stjórnmálamenn og talsmenn orkufyrirtækja o.fl. hafa haldið fram. Ástæðan er aukinn kostnaður þeirra við öflun útflutningsorkunnar, og að sæstrengseigandinn hirðir allan ávinninginn av millilandaviðskiptunum. Þá er ótalið fjárhagstjónið, sem leiðir af verri samkeppnisstöðu allra atvinnufyrirtækja í landinu. Afleiðingin á frjálsum markaði verður óhjákvæmilega, að fyrirtæki munu gefast upp á rekstrinum og geta hinna til að greiða laun verður minni en áður.
Ætlun Evrópusambandsins með Orkupakka #3 var að færa völd á sviði orkumarkaðar og milliríkjaviðskipta með raforku (og gas) frá aðildarlöndunum og til Framkvæmdastjórnarinnar til að ná markmiðum ESB um aukinn millilandaflutning orku, og Orkupakki #4 leggur áherzlu á, að þetta verði í vaxandi mæli orka úr endurnýjanlegum orkulindum. Eftir samþykkt Orkupakka #3 verður möguleiki á því, að samskipti ESB og Íslands á orkusviðinu verði leikur kattarins að músinni, þar sem lokahnykkur þess að ganga orkustefnu ESB á hönd verður þar með tekinn. Hana móta æðstu stofnanir ESB út frá hagsmunum þungamiðju evrópsks iðnaðar.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.3.2019 | 21:24
Litlu verður vöggur feginn
Málefnafátækt og lítt eða ekki rökstuddar fullyrðingar einkenna málflutning þeirra, sem mæla með samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki Evrópusambandsins, ESB. Sneitt er hjá að færa óyggjandi rök fyrir því, að samþykktin standist Stjórnarskrá, t.d. um framsal ríkisvalds til erlendrar stofnunar, þar sem Ísland á ekki fullgilda aðild, og á valdsvið Landserglara ("National Energy Regulator"), sem skal í störfum sínum verða algerlega óháður íslenzkum stjórnvöldum, er sjaldan minnzt á þeim bæjum.
Áhrif inngöngu Íslands (með áheyrnaraðild aðeins) í ACER-Orkustofnun ESB, t.d. á málsmeðferð umsókna um leyfi til að leggja aflsæstrengi til Íslands, eru afgreidd í fljótheitum sem engin og fullyrt, gegn málflutningi sérfræðings í Evrópurétti, norska lagaprófessorsins Peter Örebech, sem alltaf vísar mjög nákvæmlega í gerðir og tilskipanir ESB um þessi efni máli sínu til stuðnings, sbr ritgerð eftir hann í viðhengi með þessum pistli, að Alþingi og íslenzk yfirvöld muni eiga síðasta orðið um afgreiðslu sæstrengsumsókna hingað.
Eitt af því, sem "fylgjendur" Þriðja orkupakkans hengja sig í, þegar kemur að fullveldisframsalinu, er, að við framkvæmd þessa lagabálks hérlendis verði tveggja stoða kerfi EES-samningsins haldið í heiðri. Þetta er rétt, en aðeins að nafninu til, því að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) hvorki getur né er til þess ætlazt af henni í þessu tilviki, sbr tilvitnun hér á eftir í greinargerð með norska lagafrumvarpinu um innleiðingu Orkupakka #3, sinnt sjálfstæðu hlutverki sem Orkustofnun EFTA, spegilmynd ACER.
Upplýsingar, tilmæli og skipanir frá ACER til embættis Landsreglara, fulltrúa ESB yfir orkumálum á Íslandi samkvæmt Orkubálki #3, munu þess vegna verða afritaðar og kannski þýddar hjá ESA og sendar áfram til Landsreglarans, og sama gildir um boð til baka. Hér er um að ræða tveggja stoða kerfi í orði, en ekki á borði. Er hér með ólögmætum hætti verið að fara á svig við stjórnarskrár Íslands og Noregs ? Hvað Noreg varðar verður því vonandi svarað í norska réttarkerfinu senn hvað líður (mál er þar fyrir þingrétti), og vonandi mun prófessor emeritus, Stefán Már Stefánsson, svara því fyrir sitt leyti í skýrslu, sem hann mun eiga að skila til utanríkisráðuneytisins og er sennilega þegar búinn að.
Tilvitnun á bls. 26 í Frumvarp 4 S (2017-2018) um staðfestingu á ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar nr 93/2017 frá 5. maí 2017 (þýðing pistilhöfundar):
"Eftirlitsstofnun EFTA [ESA] skal grundvalla samþykkt sína á drögum frá ACER, þegar hún [ESA] gerir slíka samþykkt. Slík drög eru ekki lagalega bindandi fyrir Eftirlitsstofnun EFTA. Það er undirliggjandi forsenda fyrir þessu umsamda fyrirkomulagi, að Eftirlitsstofnun EFTA skuli, skömmu eftir móttöku slíkra draga frá ACER, gera samhljóða eða næstum samhljóða samþykkt."
Hér fer ekki á milli mála, að ekki er ætlazt til, að ESA taki neina sjálfstæða ákvörðun á grundvelli Þriðja orkumarkaðslagabálksins, heldur er hún hrein afgreiðslustofnun fyrir ESB/ACER, enda er grundvallaratriði fyrir ESB, að framkvæmd stefnumótunar hjá ESB sé sú sama alls staðar innan EES. Að halda því fram, eins og fylgjendur Orkupakka #3 gera, að ESB/ACER fái engin völd hér, af því að við séum í EFTA, er einhvers konar lögfræðilegur kattarþvottur, og það fær varla staðizt fyrir dómi, að þetta fyrirkomulag sé í samræmi við Stjórnarskrá.
Önnur aðalfullyrðing þeirra, sem mæla með téðri orkupakkainnleiðingu, er, að á meðan Ísland ekki er tengt við raforkukerfi ESB, þá hafi ACER engin völd hér, og ESB/ACER geti ekki komið fram þeim vilja sínum, sem þó virðist vera fyrir hendi, sbr forgangsverkefnaskrána PCI (Projects of Common Interest) með "Ice-Link" innanborðs, að hingað verði lagður sæstrengur frá ESB-ríki. Þessi óraunsæja staðhæfing er hrakin í ritgerð prófessors Peter Örebech, sjá viðhengi með þessum pistli, bls. 11.
Sannleikurinn er sá, að orkuauðlindir ESB-landanna og tengdra EFTA-ríkja , þ.e. innan EES, skulu verða meðhöndlaðar samkvæmt stefnumörkun í hverju landi, en hún verður hins vegar að vera í samræmi við markmið ESB um Innri markaðinn fyrir orku. Höfuðstefnumið ESB í þessum efnum er að "tryggja hátt stig afhendingaröryggis rafmagns", sbr gerð 714/2009, kafla 1 b, og að koma á "vel starfhæfum" markaði (formálinn, atriði 24) og "samkeppnishæfum verðum" (formálinn, atriði 1). Eftir að Orkupakki #3 hefur tekið gildi hér, munu íslenzk stjórnvöld ekki geta mótað og rekið orkustefnu hér, sem ekki tekur tillit til stefnu ESB um að auka notkun endurnýjanlegra orkulinda í heild, eins og kostur er, og að samtengja alla afkima EES við hið miðlæga raforkukerfi ESB, sem allt snýst um, að fái næga orku. Fjórði orkupakkinn leggur áherzlu á, að raforkan sé úr umhverfisvænum orkulindum.
Í gerð nr 713/2009, kafla 8 (4) stendur: "Framkvæmdastjórnin getur samþykkt reglur um þau tilvik, að stofnunin [ACER] fái völd til að taka ákvörðun um skilmála og skilyrði fyrir aðgangi að [stofnkerfi] og rekstrarlegu öryggi í sambandi við innviði á milli landa."
Hér stendur "skilyrði fyrir aðgangi að .... innvið[um] á milli landa". Það stendur hins vegar ekkert um, að ACER geti aðeins skipt sér af millilandatengingum, sem þegar eru komnar á, enda væri slíkt í mótsögn við fyrirætlunina með Orkupakka #3, sem er að fjölga þeim, svo að flutningsgeta þeirra nemi a.m.k. 20 % af orkuvinnslugetu ESB árið 2030.
Setjum sem svo, að Bretar gangi úr ESB og ACER og Ísland samþykki Þriðja orkupakkann. Síðan komi tvær tillögur um sæstreng frá Íslandi, önnur til Englands og hin til Írska lýðveldisins. Þá getur ACER sagt sem svo, að öll "umframorka" á Íslandi eigi að fara inn á Innri markað ESB/EES, og þar með skuli aðeins tengja Írlandsstrenginn við íslenzka raforkukerfið.
Þeim hræðsluáróðri hefur verið beitt hérlendis, að með því að beita neitunarvaldi sínu gagnvart samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar 05.05.2017 sé Alþingi að setja EES-samninginn í uppnám og jafnvel að brjóta hann, svo að búast megi við refsingum af hendi ESB. Þessi áróður er úr lausu lofti gripinn, enda var honum t.d. aldrei beitt í Noregi, þótt harðar deilur stæðu þar nánuðum saman um sama efni fram til 22.03.2018. Sannleikurinn er sá, að Alþingi er fullkomlega frjálst að beita neitunarvaldinu, þegar því sýnist, og ESB getur ekki með neinu móti refsað Íslandi fyrir það, enda fengu Norðmenn engar kárínur fyrir slíka synjun á sinni tíð. Það, sem ESB getur gert, er að ógilda Viðauka IV í EES-samninginum gagnvart Íslandi, en þar eru aðallega Orkupakki #1 og #2. Það þýðir, að Alþingi getur að eigin vild sniðið þessa löggjöf að íslenzkum aðstæðum. Er það verra ?
Að "samningaviðræður" fari fram í Sameiginlegu EES-nefndinni, takmarkar á engan hátt neitunarvald Alþingis, enda fer samþykkið í téðri Brüsselnefnd fram með fyrirvara um samþykki Alþingis (þjóðþinga EFTA-landanna þriggja í EES). Þingið hefur alls ekki veitt samþykki sitt, þótt 3 þingnefndir hafi verið upplýstar um gang mála af embættismönnum. Þannig er þetta líka í Noregi. Hví skyldu aðrar reglur gilda um þetta hér en þar. Það er hreinn skáldskapur, að þetta upplýsingaferli hafi á einhvern hátt bundið hendur Alþingis.
Aðalatriðið er, að þetta neitunarvald Alþingis er grundvallaratriði EES-samningsins fyrir EFTA-löndin og kann að hafa ráðið úrslitum á sinni tíð um, að Alþingi staðfesti samninginn í janúar 1993. Ef neitunarvaldið væri ekki áskilið, þá væri EES-samningurinn einfaldlega annars eðlis, þ.e.a.s. hann væri "yfirþjóðlegur" í þeim mæli, að hann hefði ekki staðizt Stjórnarskrá, eins og hann var í upphafi, hvorki hérlendis né í Noregi, og síðan hefur hallazt á merinni. Vegna neitunarvaldsins er það samt svo, að Alþingi og Stórþingið eru hinir formlegu löggjafar.
Að neitunarvaldið hefur verið svo lítið notað stafar einfaldlega af því, að meirihluti Stórþingsins hefur lengst af frá gildistöku EES-samningsins, 01.01.1994, oftast verið hallur undir aðild Noregs að ESB, þótt norska þjóðin hafi að meirihluta allan tímann verið andvíg aðild. Þannig hefur myndazt þrýstingur á íslenzka fulltrúann í Sameiginlegu EES-nefndinni frá báðum hliðum, ESB og EFTA, að samþykkja tillögu Framkvæmdastjórnarinnar um innleiðingu viðbóta í EES-samninginn. Nú ber nauðsyn til að stinga við fótum. Mikill meirihluti Norðmanna yrði því feginn, og Noregur myndi einfaldlega gera tvíhliða samning um orkuviðskipti án þess að vera bundinn aðild að ACER. Slíkt veitir Noregi vafalaust meira svigrúm í samningaviðræðum, svo að ekki þurfa Íslendingar að óttast, að þeir geri á hlut frænda sinna í Noregi með því að beita neitunarvaldi á Þriðja orkupakkann.
Þann 9. marz 2019 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Einar S. Hálfdánarson, hæstaréttarlögmann, sem hann nefndi:
"Til Michaels Manns, sendiherra ESB á Íslandi".
Einar hælir sendiherranum fyrir Morgunblaðsgrein hans 15. nóvember 2018 um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, þar sem Íslendingar voru að sjálfsögðu hvattir til að láta af andstöðu sinni við hann og innleiða hann vafningalaust í íslenzk lög. Flestum Íslendingum hefur sennilega þótt grein sendiherrans óviðeigandi afskipti af innanríkismálum hér, sem sendiherrar jafnan forðast. Einar S. Hálfdánarson tekur hins vegar þennan sendiherra sem fullgilda heimild um það, sem rétt er í þessu máli, en ber ekki við að vísa í neina gerð eða tilskipun "pakkans" máli sínu til stuðnings. Það er vissulega nýtt af nálinni síðan á dögum vinstri stjórnarinnar 2009-2013 að gera sendiherra ESB svo hátt undir höfði. Þannig reit Einar:
"Þannig staðfesti hann (sem vitað var), að Íslandi er ekki skylt að opna raforkumarkað sinn né að veita þriðja aðila aðgang hér að fjárfestingartækifæri. Jafnframt, að þar sem Ísland er ekki aðili að ESB, muni ACER ekki hafa neitt vald hér á landi. Þau málefni, er lúta að Íslandi, séu á hendi ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA), en ekki ACER."
Hér að ofan eru sett fram haldföst rök um hið gagnstæða við það, sem þarna er haldið fram. Pistilhöfundur hefur ýmist vitnað til gerða ESB, norska lagaprófessorsins Peter Örebech eða greinargerðar með frumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar um innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn, en Einar S. Hálfdánarson hefur vitnað í sendiherra Evrópusambandsins sem heimild. Lesendum er eftirlátið að bera þetta saman og mynda sér skoðun.
Síðan skrifar Einar:
"Það skiptir ESB ekki nokkru, hvort Ísland innleiðir þriðja orkupakkann og Ísland væntanlega minnstu."
Ef þetta er rétt, hvers vegna skrifaði Michael Mann þá umrædda grein í Morgunblaðið 15.11.2018 ?
Eins og vænta mátti, vitnaði Björn Bjarnason, formaður nefndar utanríkisráðherra um mat á reynslu Íslands af EES, í þessa grein Einars í dagbókarfærslu sinni 10. marz 2019, og má um það segja, að litlu verður vöggur feginn. Björn hefur ekki komið fram með neinar skýringar á því, hvers vegna Íslendingar eigi að innleiða Þriðja orkupakka ESB, sem ekki hafa verið marghraktar, m.a. hér að ofan. Hann er samt nógu ósvífinn til að skrifa eftirfarandi undir fyrirsögninni,
"Þegar haldföstu rökin skortir":
"Þetta [grein Einars] er athyglisverð staðfesting á því, sem hér hefur verið margítrekað. Haldið hefur verið fram órökstuddum fullyrðingum um afleiðingar þess að innleiða 3ja orkupakkann. Þessi blekkingarherferð er ekki reist á neinum "haldföstum rökum", svo að tekið sé undir orð Einars ... "
Hér kastar Björn Bjarnason steinum úr glerhúsi, enda færir hann sjálfur aldrei nein bitastæð rök fyrir því, að Íslendingar eigi að samþykkja Orkupakka #3. Hann hefur hins vegar látið sig hafa það að kasta fýlubombum á við þá sjúklegu samsæriskenningu, að hérlendir andstæðingar Orkupakka #3 séu á mála hjá norska Miðflokkinum til að stoppa það, sem þessum stjórnmálaflokki mistókst að stoppa fyrir ári í Noregi. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem sigraði téðan Björn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á sinni tíð, en virðist treysta honum núna, hefur lapið þessa bölvuðu vitleysu upp eftir Birni.
Þegar Miðflokkurinn, norski, var hins vegar inntur eftir þessu, kannaðist enginn þar á bæ við að gera slíka útsendara út á Íslandi, og engin skjöl fundust þar um. Þegar greint var frá því, að utanríkisráðherra Íslands héldi þessu þó blákalt fram, kváðu við þvílík hlátrasköll í Ósló, að annað eins hefur ekki heyrzt í Víkinni síðan Haraldi, hárfagra, var greint frá því þar á sinni tíð, að höfðingjar Vesturlandsins, norska, sem eigi vildu þýðast ríki hans, hygðust hafa sig á brott með fjölskyldur sínar og búsmala til nýfundinnar eyjar norður við Dumbshaf.
Síðan lætur Björn Bjarnason í ljós undrun á því, að hann skuli ekki hafa hlotið nokkurn hljómgrunn fyrir áróður sinn fyrir innleiðingu Þriðja orkupakkans. Téður Björn er þó ekki óvanur því að hljóta dræmar undirtektir á meðal flokksfélaga og á meðal almennings. Það gerðist t.d., er Friðrik Sófusson sigraði hann í kjöri um formann Sambands ungra sjálfstæðismanna og í borgarstjórnarkosningum, þar sem hann galt afhroð sem borgarstjóraefni.
Þessa undarlegu undrun sína tjáir Björn með eftirfarandi ósmekklega hætti í téðri dagbókarfærslu:
"Í raun er ótrúlegt, hve margir hafa kosið að elta þá, sem kveiktu villuljósin vegna 3ja orkupakkans. Sýnir sú vegferð, hve auðvelt er að leiða menn í ófærur með aðstoð samfélagsmiðla og í andrúmslofti, sem einkennist af því, að menn telja sig hafa höndlað dýpri sannleika en sjá [má] með því einu að kynna sér staðreyndir."
Er skrýtið, þótt sá, sem sendir frá sér þennan yfirlætisfulla texta, hljóti engan hljómgrunn ?
12.3.2019 | 21:46
Umhverfismál, aflsæstrengur og þróun raforkuverðs
Í margra augum er umhverfisvernd mál málanna, og það er hægt að fallast á, að sérhvert nýtt verkefni verði að meta út frá umhverfisáhrifum á land, loft, ár, stöðuvötn og sjó, en auðvitað líka út frá samfélagslegum áhrifum á byggðaþróun og hag íbúa nær og fjær. Allt þetta verður að meta saman, ef vel á að vera.
Þann 18. febrúar 2019 birtist athygliverð grein í Morgunblaðinu eftir Hjörleif Guttormsson,
"Loftslagsháskinn, uppreisn æskufólks og íslensk viðhorf".
Grein sinni lauk Hjörleifur þannig:
"Æskufólk hérlendis veitir því eflaust athygli, sem er að gerast handan Atlantsála vegna loftslagsmála, enda sízt minna í húfi hér en annars staðar. Þrátt fyrir ríkulegar endurnýjanlegar orkulindir er kolefnisfótspor Íslands, ekki sízt vegna stóriðju, með því hæsta, sem gerist, og því mikið verk að vinna. Íslendingar eiga flestum þjóðum meira undir náttúrulegum auðlindum, og því er hófleg nýting þeirra og verndun lykilatriði fyrir framtíðarafkomu.
Í því sambandi skiptir mestu, að Ísland, sem fullvalda ríki, haldi óskertum yfirráðum sínum yfir auðlindum lands og hafs innan efnahagslögsögunnar.
Annað nærtækt atriði er verndun íslenzkrar tungu og menningararfs, sem henni tengist, og einnig það brothætta fjöregg er í höndum þeirra, sem nú eru ungir að árum." (Undirstr. BJo.)
Þetta er þörf brýning, einkum undirstrikaði textinn nú um stundir. Varðandi losun koltvíildis frá stóriðju á Íslandi er þess að geta, að hýsing orkukræfs iðnaðar er stærsta framlag Íslendinga til þess að halda aukningu koltvíildisstyrks andrúmsloftsins í skefjum. Bæði er, að Íslendingum hefur tekizt afar vel upp með tækniþróun kerrekstrar og vandlega vöktun óeðlilegra kera og ofna til að lágmarka þessa losun á hvert framleitt tonn málms, og vegna lítillar losunar gróðurhúsalofttegunda við orkuvinnsluna fyrir stóriðjuna er heildarlosunin aðeins um 1/10 af heildarlosun vegna sambærilegs iðnaðar erlendis. Þá er ótalinn eldsneytissparnaðurinn við notkun afurða álvera og kísilvera. Íslendingar þurfa þess vegna síður en svo að bera kinnroða fyrir orkukræfum iðnaði í landi sínu.
Sumir hérlendir menn ganga með þær grillur í kollinum, að samfélagslega hagkvæmara sé að selja raforku til útlanda um sæstreng en að selja hana framleiðslufyrirtækjum hérlendis. Íslenzki orkugeirinn hefur haldið þessari firru að fólki, aðallega núverandi forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson.
Norski orkuiðnaðurinn hefur ekki lagzt svona lágt, en talsmenn hans, t.d. hjá NVE (norsku orkustofnuninni) og hjá Statnett (norska Landsneti), hafa aðeins fullyrt, að sala á rafmagni til útlanda um millilandatengingar væri þjóðhagslega arðsöm, af því að þar hefur verið til nóg umframorka til að flytja út. Þess ber að geta, að þrátt fyrir rúmlega 6 GW flutningsgetu núverandi sæstrengja og loftlína yfir landamærin, nemur nettó raforkuflutningur Norðmanna til útlanda aðeins um 10 TWh/ár. Þetta er aðeins um 10 % af almennri raforkunotkun í Noregi og 7,1 % af raforkuvinnslunni.
Í viðhengi með þessum pistli er birt greining prófessors Anders Skonhoft við Þjóðhagfræðideild NTNU (Norska tækni- og náttúruvísindaháskólans í Þrándheimi) á áhrifum nýrra aflsæstrengja frá Noregi til útlanda á þjóðarhag, þ.e. á hag raforkuseljenda og á hag raforkukaupenda.
Í stuttu máli er niðurstaða greiningarinnar sú, að áhrif sæstrengjanna á norskan þjóðarhag séu neikvæð. Nýir sæstrengir muni leiða til enn meiri raforkuverðshækkunar en þegar er orðin af þeirra völdum. Útflutt magn raforku fari eftir verðmuninum í sitt hvorum enda. Munurinn sé svo mikill á raforkuverði á Englandi (nú er verið að leggja sæstreng á milli Noregs og NA-Englands, North Sea Link) og í Noregi, að flutningur muni nánast stöðugt verða í sömu áttina eftir strengnum. Því meira sem flutt er út, þeim mun meira hækkar raforkuverðið í Noregi, því að það sneiðist um umframorkuna, þótt bætt sé við smávatnsvirkjunum og vindmyllum.
Prófessor Skonhoft kemst að þeirri niðurstöðu, að ávinningur orkuseljenda af útflutninginum felist einvörðungu í sölu raforku í heimalandinu á hærra verði, sem útflutningurinn veldur. Hagnaðinn af raforkuútflutninginum sjálfum gleypir sæstrengurinn og kostnaðarhækkanir vegna nýrra virkjana. Eftir sitja raforkunotendur innanlands, Kari og Ola Nordmann með sárt ennið, með hækkaðan rafmagnsreikning, fyrirtækin í landinu (raforkunotendur) með laskaða samkeppnisstöðu við útlönd og orkukræfan iðnað í tilvistarhættu.
Á Íslandi yrði uppi sú afspyrnu slæma staða, að orkuútflutningur um einn streng myndi verða um 50 % meiri en nemur allri almennri raforkunotkun í landinu (þ.e. utan langtímasamninga), og umframorku af mjög skornum skammti og alls enga í sumum árum. Í Noregi nemur útflutningur raforku aðeins um 10 % af almennri notkun (7,1 % af heildarraforkuvinnslu).
M.v. hækkanir rafmagnsverðs í Noregi má búast við tvöföldun á raforkuverðinu frá virkjun við íslenzkar aðstæður, yfir 50 % hækkun flutningsgjalds til almennings og stóriðju vegna mannvirkja til að flytja orkuna frá stofnkerfi landsins að sæstreng (endabúnaður sæstrengs ekki innifalinn) og 20 % hækkun dreifingargjalds vegna aukinnar arðsemiskröfu Landsreglara á hendur dreifiveitunum. Alls næmi þessi verðhækkun rafmagns tæplega 60 %.
Afleiðingar af hækkun tilkostnaðar hjá fyrirtækjum í núverandi árferði eru samdráttur, hagræðing, fækkun starfsfólks eða jafnvel stöðvun rekstrar. Afleiðingarnar verða alltaf grafalvarlegar. Þess vegna er aflsæstrengur til útlanda þjóðhagslega óhagkvæmur og verður það alltaf.
Í úrdrætti greinarinnar segir höfundur í snörun pistilhöfundar:
"Mikilvæg áhrif af fleiri aflstrengjum til útlanda eru, að raforkuverðið í Noregi mun hækka. Þetta þýðir, að hagnaður virkjanafyrirtækjanna mun vaxa, en að sama skapi munu raforkunotendur (fyrirtæki og heimili) tapa. Hækkað rafmagnsverð íþyngir almennt norsku atvinnulífi og alveg sérstaklega orkusæknum iðnaði. Hærra raforkuverð mun gera vindorkuverkefni, sem áður voru óarðbær, bókhaldslega arðsöm. Niðurstaðan verður fjölgun vindmyllna og meiri eyðilegging norskrar náttúru og víðerna."
Nú segir stuðningsfólk innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Íslandi, að engin hætta sé á, að landið verði tengt við útlönd með aflsæstreng, þótt þessi ólánspakki verði innleiddur. Þetta er í meira lagi barnalegur málflutningur, sem sýnir óverjandi áhættusækni ráðamanna fyrir hönd þjóðarinnar og algert skilningsleysi á stöðu orkumála í ESB, hvers vegna og til hvers Framkvæmdastjórnin, Ráðherraráðið og ESB-þingið, börðu saman og gáfu út Orkupakka #3 og eru með Orkupakka #4, Vetrarpakkann, í burðarliðnum.
Hvað skyldi verkfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, Elías Elíasson, hafa um fyrirætlanir ESB að segja ? Sýnishorn af því má sjá í Morgunblaðsgrein hans, 25. febrúar 2019,
"Að svara "röngum" spurningum":
"Með þriðja orkupakkanum er mörkuð stefna í átt til miðstýringar í raforkumálum af hálfu ESB, eins og kemur enn betur fram í þeim reglugerðum, sem við bætast fram að fjórða orkupakkanum. Þessum viðbótum líta boðendur pakkans fram hjá, þegar þeir fullyrða, að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér svo mikið afsal fullveldis, að um sé að ræða brot á stjórnarskrá.
Það er ekki nóg að meta stefnumörkunina aðeins út frá þeim hluta pakkans, sem nú skal leggja fyrir Alþingi, heldur verður að lesa öll gildandi lög og reglur þriðja orkupakkans og hafa jafnframt til hliðsjónar þau ákvæði um fjórfrelsi, samkeppni og viðskipti milli landa, sem stuðzt verður við, þegar koma skal stefnunni í framkvæmd.
Þetta verður að gera núna. Það er of seint að fara fram á undanþágur, þegar komið er að ákvörðunartöku um einstakar framkvæmdir; að ekki sé talað um, þegar búið er að framselja réttinn til að taka þessar ákvarðanir fyrir okkar hönd, eins og varðandi sæstrenginn."
Það þarf enginn að velkjast í vafa um það, að eftir mögulegt samþykki Alþingis á Orkupakka #3, mun ESB leggja áherzlu á, að EFTA-ríkin samþykki allar gerðir og tilskipanir um orkumál, sem komið hafa í kjölfar orkupakkans, t.d. gerð #347/2013, og koma munu, en Orkupakki #4 er í burðarliðnum. Þar er enn aukin miðstýring ESB á orkumálum aðildarlandanna réttlætt með því, að öðruvísi muni ESB ekki takast nógu hratt að innleiða raforku úr endurnýjanlegum orkulindum og að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins.
Allmargir hérlendis hafa velt fyrir sér framtíð orkukræfs iðnaðar á Íslandi. Það er tímabært, að Samálsmenn og Samtök iðnaðarins átti sig á því, að eftir hugsanlega innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn mun verða farið að fetta fingur út í langtímasamninga við stóriðju hérlendis, og látið verður sverfa til stáls við hver tímamót, t.d. endurskoðun þessara samninga. Þá munu hvorki Landsreglari né ESA taka lengur í mál, að íslenzk stóriðja fái lægra raforkuverð en gerist og gengur á markaði meginlandsins. Við það mun einfaldlega samkeppnihæfni stóriðjunnar hérlendis hverfa vegna óhagræðis staðsetningarinnar fyrir flutninga að og frá.
Um þetta skrifaði Elías í téðri grein sinni:
"Það kom Norðmönnum á óvart, þegar þeir ætluðu að endursemja um orkusölu til stóriðju, að ESA-nefndin taldi, að fjarlægð frá mörkuðum væri ekki lögmæt ástæða afsláttar [á raforkuverði-innsk. BJo]. Þar skyldi miða við markaðsverð. Eins verður [það] hér, þó [að] við séum fimm daga siglingu frá Evrópu."
ESB mun einskis svífast við að klófesta raforku frá endurnýanlegum orkulindum Noregs og Íslands. Svigrúm til þess verður skapað með því að eyðileggja samkeppnisstöðu orkukræfra framleiðslufyrirtækja í þessum löndum. Þau geta ekki keppt á heimsmarkaði, ef þau þurfa að borga markaðsverð raforku á meginlandi Evrópu, því að flest annað er þeim mótdrægt, flutningaleiðir og mönnunarkostnaður. ESB löndin geta keypt vörurnar á heimsmarkaði, sem ekki munu lengur berast frá Íslandi og Noregi. Um þetta snýst Orkupakki #3 m.a.
10.3.2019 | 10:44
Mögnuð umvöndun Morgunblaðsins
Frægar eru magnaðar umvandanir meistara Jóns Vídalíns við leika, lærða og höfðingja, úr predikunarstóli á sinni tíð. Fann hann að líferni almúgans, grautarlegum boðskap geistlegra, óvandaðri málafylgju höfðingja og níðangurslegri meðferð á fátækum og umkomulausum. Er ekki að efa, að undan hefur sviðið á sinni tíð, enda mun orðstír meistara Jóns verða uppi, svo lengi sem land þetta byggist.
Sjaldan hafa valdsmenn borgar og ríkis á seinni tíð fengið aðra eins yfirhalningu frá ritstjórn Morgunblaðsins og gaf að líta í forystugrein þann 5. marz 2019. Hún hét:
"Verðskuldað vantraust",
og hófst þannig í nafni ritstjórans:
"Síðustu kannanir um trúverðugleika opinberra stofnana eru eftirtektarverðar. Þær sýna, að minnst álit alls hafa menn sameiginlega á stjórn höfuðborgar landsins. Hvorki meira né minna en 84 % þeirra þykir ekki mikið til hennar koma. Og verður ekki sagt, að þessi hraksmánarlegi dómur þurfi að koma á óvart. Hvert dæmið rekur annað um stjórnleysi, áhugaleysi, skort á þjónustulund hjá fyrirtæki, þar sem fyrsta boðorðið og flest hinna eiga að snúast um að veita eigendum sínum, borgarbúum, góða þjónustu. Sú krafa á meira en fullan rétt á sér, og þá ekki sízt, þar sem gjaldtaka fyrir hana hækkar stöðugt og langt umfram þróun verðlags í landinu."
Það þarf ekki að orðlengja það, að stjórnun Reykjavíkurborgar er í molum og að þar er skattfénu sólundað purkunarlaust í gæluverkefni, sem ekki þjóna almannahagsmunum, heldur einvörðungu sérvizku borgarfulltrúa meirihlutans og e.t.v. í einhverjum mæli duttlungum æðstu embættismanna borgarinnar.
Nú hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt fram tillögu um sparnað í borgarrekstrinum, lækkun gjaldskráa fyrirtækja OR, og minnkun arðgreiðslna frá samsteypunni og til borgarsjóðs ásamt útsvarslækkun, og borgarstjórnarmeirihlutinn hefur af fullkomnu ábyrgðarleysi gagnvart íbúum borgarinnar og kjaraviðræðunum hafnað þessum ágætu tillögum.
Þeim gafst þarna tækifæri til samstillts átaks borgarstjórnar við að bæta stjórnarhætti borgarinnar og gera yfirbót eftir gegndarlaust sukk og svínarí með skattfé borgarbúa. Nú er ljóst, að Dagur Bergþóruson, borgarstjóri, verður við sama heygarðshornið, sem í hans tilviki er reyndar úti á þekju. Óli Björn Kárason, Alþingismaður, reifaði málið í Morgunblaðsgrein sinni, 6. marz 2019:
"Sveitarfélögin og kjarasamningar":
"Í heild greiðir íslenzkt launafólk meira í útsvar en tekjuskatt. Árið 2017 fengu sveitarfélögin nær 193 milljarða [króna] í sinn hlut af launatekjum í formi útsvars, en ríkissjóður 139 milljarða, að teknu tilliti til barna- og vaxtabóta. Lækkun útsvars er því stærra hagsmunamál fyrir flesta en að lækka tekjuskattsprósentu ríkisins.
Launamaður með 300 þúsund krónur í mánaðarlaun greiðir helmingi meira í útsvar en í tekjuskatt til ríkisins, ef hann greiðir þá nokkuð, að teknu tilliti til bóta. Þannig hefur skattastefna sveitarfélaga meiri áhrif á ráðstöfunartekjur launafólks en stefna ríkisins í álagningu tekjuskatts. Lagfæringar á tekjuskattskerfi ríkisins bera takmarkaðan árangur gagnvart þeim, sem hafa lág laun."
Borgarstjórnarmeirihlutinn kýs að halda uppteknum hætti með útsvar í toppi og að blóðmjólka fyrirtæki sín með arðgreiðslum, sem skapast af okri á rafmagni og hitaveitu, þótt íbúarnir ættu réttu lagi að njóta arðs af auðlindum sínum með tiltölulega lágu verði á þessum lífsnauðsynjum.
Reykjavík beitir íbúa nágrannasveitarfélaganna fjárkúgun með okri á einokunarstarfsemi á borð við hitaveitu og dreifingu rafmagns, þegar afrakstur sölunnar rennur í borgarsjóð. Orkustofnun verður að grípa í taumana, þegar hitaveituvatn OR á höfuðborgarsvæðinu er orðið dýrara en á "köldu" svæði á borð við Egilsstaði. Er hitaveitan látin greiða niður dýra raforkuvinnslu á Hellisheiði, sem er í samkeppni ?
Óli Björn heldur áfram:
"Ekkert sveitarfélag er í betri stöðu en Reykjavík til að leggja sitt af mörkum, þegar kemur að kjarasamningum. Ekki aðeins vegna þess, að í höfuðborginni er útsvar í hæstu hæðum, heldur ekki síður vegna eignarhalds á Orkuveitu Reykjavíkur. ....
Á mánudag [04.03.2019] kynnti borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins tillögur um lækkun útsvars og lækkun rekstrargjalda heimilanna. Með þessu eigi höfuðborgin að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að greiða fyrir samningum á vinnumarkaði. Það er því ekki tilviljun, að sjálfstæðismenn tali um "kjarapakkann", þegar þeir kynna tillögurnar.
Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka útsvarið úr 14,52 % niður í 14,0 %. Árlega skilar lækkunin um 84 þúsund krónum í vasa fjölskyldu með tvo sem fyrirvinnu á meðallaunum. Lagt er til, að aðgerðin verði fjármögnuð með bættum innkaupum, sem felast í auknu aðhaldi og útboðum á öllum sviðum borgarinnar. Þrátt fyrir þessa lækkun yrði útsvarið í Reykjavík nokkru hærra en það er í Garðabæ og á Seltjarnarnesi.
Þá leggja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til, að árleg rekstrargjöld heimila verði lækkuð um 36 þúsund krónur með lækkun á hitunarkostnaði, raforkuverði, sorphirðugjaldi og vatnsgjaldi. Það kemur eflaust einhverjum á óvart, að í Reykjavík er hitun húsa dýrari en á Selfossi, Akureyri og Egilsstöðum. Kostnaður við að kynda hús í Reykjavík er 30 % hærri en á Egilsstöðum. ( Í Reykjavík er raforkuverð einnig hærra.) Í tillögunum er lagt til, að 13 milljarða [króna] áformaðar arðgreiðslur frá fyrirtækjum borgarinnar verði að mestu nýttar til að standa undir lækkuninni."
Það virðist vera að krystallast út sá munur á stefnumörkun hægri og vinstri manna í orkumálum, að hægri menn vilja skapa markaðsforsendur fyrir sem lægstu orkuverði til almennings og almennrar atvinnustarfsemi og samkeppnishæfu orkuverði til stóriðju, en vinstri menn (og ESB-sinnar) vilja okra á orkuverði til almennings og stóriðju, þannig að þessar náttúruauðlindir landsins veiti ekki lengur landinu neitt samkeppnisforskot.
Hægri menn telja með öðrum orðum, að inngrip í náttúru landsins, sem allar virkjanir eru, séu aðeins verjanleg til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar í landinu sjálfu, en vinstri menn vilja varpa auðlindarentunni inn í orkufyrirtækin, m.ö.o. orkan skal vera svo dýr, að hún verði skorin við nögl, en orkufyrirtækin græði samt á tá og fingri.
Jafnaðarmenn vilja flestir, að Íslendingar gangi í ESB, og þar er við lýði uppboðskerfi á raforku, sem við fákeppnisaðstæður á Íslandi og dyntóttar orkulindir náttúrunnar útheimtir samræmda auðlindastýringu, ef nýting orkulindanna á ekki að fara úr böndunum, notendum mjög í óhag. Slík samræmd auðlindastýring samræmist hins vegar ekki samkeppnisreglum ESB á frjálsum markaði, og þess vegna er glapræði að innleiða hér uppboðskerfið, sem Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn skyldar aðildarþjóðirnar til að gera. Alþingi verður að gera einhvern ábyrgan fyrir því, að lágmarka hér hættu á orkuskorti. Eðlilegast er, að Landsvirkjun fái það hlutverk, en hún virðist nú vera búin að verðleggja sig út af markaðnum, svo að hún stendur ekki í neinum virkjanaframkvæmdum núna. Er hún að framkalla orkuskort til að fá átyllu til að hækka raforkuverðið ?
Aftur að téðri forystugrein Morgunblaðsins:
"Því fer fjarri, að gengið sé um landið af þeirri hófsemi, sem það á skilið. Og meira en það, landið á til þess kröfu, sem ekki verður andmælt með neinum sanngjörnum rökum. Það hefnir sín, verði sú krafa hunsuð.
Það þarf ekki að taka nema örskotsstund að laska mynd Íslands mjög, og þar með eyðileggja sjálft aðdráttaraflið með óafturkræfum hætti. Það gildir það sama og um landráð gegn landinu, sem ístöðulausir ráðamenn segjast neyddir í af erlendum dómstólum, sem ekki hafa lögsögu hér. Árið 2006 nýttu menn færið, þegar aginn var farinn úr herbúðunum, til að færa EES-samninginn yfir ómengaðan íslenzkan landbúnað, þvert ofan í það, sem þjóðinni hafði verið lofað við samningsgerðina. Verði sú ógæfugata gengin til enda, má augljóst vera, að samningurinn sá er orðinn þjóðinni verri en enginn."
Þetta er hárrétt mat hjá ritstjóra Morgunblaðsins, EES-samningurinn verður þjóðinni þá verri en enginn, ef auka á innflutning á verksmiðjuframleiddum matvælum hingað frá löndum með gríðarlega sýklalyfjagjöf og þar af leiðandi fjölónæma sýkla, sem er mikill vágestur hér, auk aukinnar hættu á dýrasjúkdómum.
Um annan vágest, sem EES-samningurinn býður nú upp á hér á Íslandi, hafa einnig verið viðhöfð þau orð af ráðamönnum, að þeir "eigi bara ekki neitt val". Þar er um að ræða Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB, og alveg dæmalausa nauðhyggju, sem fellur vel að yfirborðslegum málflutningi utanríkisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem aldrei virðist kryfja nokkurt mál að gagni, heldur láta duga að fara með frasa.
Ein vitleysan er sú, að EES sé miklu betra fyrir Ísland en ESB, af því að EFTA-ríkin hafi aðeins þurft að innleiða 13,4 % af gerðum og tilskipunum ESB. Það, sem máli skiptir er auðvitað ekki fjöldinn, heldur umfangið. Gerðirnar, sem ESB ætlast til að EFTA-ríkin innleiði, fara sístækkandi (og fjöldinn vex líka hratt). Nú er farið að vöðla tilskipunum og gerðum saman í lagabálka, sem löndunum er gert að samþykkja, og vöndlarnir eru meira að segja framhaldssögur, sem enginn veit, hvernig enda.
Gott dæmi um það eru orkumarkaðslagabálkar ESB. Sá fyrsti kom út 1996 og var innleiddur hér samhliða nýjum orkulögum 2003. Þar er áskilinn aðskilnaður orkuvinnslu, flutnings, dreifingar og sölu. Flutningsfyrirtækið, Landsnet, hefur þó enn ekki verið gert fyllilega sjálfstætt frá hinum. Ríkisstjórnin hyggur fyrst núna á að bæta úr því.
Hefur orðið merkjanlegur árangur af þessu brölti á Íslandi ? Hann er ekki merkjanlegur í smásöluverði raforku, sem hefur heldur hækkað að raungildi. Þess var aldrei að vænta á stórmarkaði raforku (langtímasamningar), enda er Landsvirkjun ríkjandi þar. Líklega hefur þetta brölt ekkert gagnast almenningi.
Annar orkumarkaðslagabálkurinn var gefinn út 2003 og innleiddur hér 2007. Þar er frjáls samkeppni með raforku í orkukauphöll skilgreind sem það fyrirkomulag, sem gagnast muni raforkukaupendum bezt. Það hafa ekki verið bornar brigður á, að það eigi við um aðstæður meginlands Evrópu, en það hafa hins vegar verið leidd sterk rök að því í ritgerð eftir Elías Elíasson, verkfræðing, sem fylgir þessum pistli í viðhengi, að slíkt uppboðskerfi geti orðið stórskaðlegt almennum raforkunotendum á Íslandi, hækkað meðalverðið og aukið hættu á orkuskorti. Landsnet er samt með innleiðingu slíks markaðskerfis raforku í undirbúningi, þótt það sé valfrjálst nú, en það verður hins vegar skylda samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, eins og lesa má um í Orkumarkaðstilskipun 2009/72/EB, kafla 6.
Í 2009/72/EB, kafla 37, er greint frá hlutverki og verkefnum Landsreglarans, og þar fer ekkert á milli mála, að Landsreglarinn verður æðsta embætti orkumála landsins. Það er raunalegt að horfa upp á hæstaréttarlögmanninn Einar S. Hálfdánarson hengja sig í formsatriði og halda því fram, að ACER muni engin völd fá hér, af því að Ísland er ekki í ESB.
Í grein sinni,
"Til Michaels Manns, sendiherra ESB á Íslandi",
skrifar Einar S. Hálfdánarson m.a.:
"Þannig staðfesti hann [MM] (sem vitað var), að Íslandi er ekki skylt að opna raforkumarkað sinn né að veita þriðja aðila aðgang hér eða fjárfestingartækifæri. Jafnframt, að þar sem Ísland er ekki aðili að ESB, muni ACER ekki hafa neitt vald hér á landi. Þau málefni, er lúta að Íslandi, séu á hendi ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA), en ekki ACER."
Til hvers heldur téður Einar eiginlega, að ESB gerð nr 714/2009 sé samin og gefin út ? Hún fjallar um Kerfisþróunaráætlun ESB, og þar er útlistað, að aðildarlöndin (EES) skuli aðlaga stofnkerfi sín að Kerfisþróunaráætlun ESB. Landsreglarinn getur krafizt þess af Landsneti að gera þetta og á að tilkynna öll frávik til ACER. Með samþykkt Orkupakka #3 skuldbindur Alþingi landsmenn til að hlýða því, sem í honum stendur, þótt allt sé þar ekki enn lagalega skuldbindandi, t.d. 714/2009. Þá má benda á grein 12 í EES samninginum, sem bannar útflutningshömlur á vörur innan EES. Rafmagn er vara að Evrópurétti og að neita sæstrengsfyrirtæki um aðgang að íslenzka raforkumarkaðinum er brot á grein EES #12.
Á bls 26 í frumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar 4 S (2017-2018) um samþykkt á ákvörðun Sameiginlegu EES nefndarinnar nr 93/2017 frá 5. maí 2017, segir svo á frummálinu um nánast algert valdaleysi ESA gagnvart ákvörðunum og beiðnum/skipunum frá ACER:
"EFTAs overvåkningsorgan skal, når det fatter slike vedtak, basere vedtaket på et utkast fra ACER. Et slikt utkast er ikke rettslig bindende for EFTAs overvåkningsorgan. Det er en underliggende forutsetning i den fremforhandlete modellen, at EFTAs overvåkningsorgan, kort tid etter mottak av et slikt utkast fra ACER, vil fatte et likelydende eller tilnærmet likelydende vedtak."
Hér fer ekkert á milli mála, hvor ræður, ACER eða ESA, þegar ACER vill koma málum áfram til Landsreglarans, og sama gildir til baka. Að taka Michael Mann, sendiherra ESB, til vitnis um valdaleysi ACER hérlendis eftir innleiðinu á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, er röksemdafærsla, sem engan veginn heldur máli í þessari umræðu.
8.3.2019 | 14:48
Gaslögn veldur uppnámi í Evrópu
Með Nord Stream 2 (NS2-steypuhúðuð stállögn fyrir jarðgas, yfir 1,1 m í innra þvermál, á botni Eystrasalts) er rofin samstaða ESB-ríkjanna í orkumálum og á pólitíska sviðinu. Reglur Fyrsta orkumarkaðslagabálks ESB um aðskilnað eigenda flutningsmannvirkja og orkuvinnslu eru brotnar. Afkastageta núverandi gaslagna inn í hjarta iðnaðarframleiðslunnar í Evrópu kallar ekki á viðbótar gaslögn á næstunni. Það er maðkur í mysunni, og Vladimir Putin, hinn gerzki, er grunaður um græzku.
Í janúar og framundir miðjan febrúar 2019 tókust ríkisstjórnir og þingmenn ESB á um breytingar á tilskipun ESB um gaslagnir frá öðrum ríkjum inn í ESB, af því að Þjóðverjar vildu aðlaga reglurnar að þörfum NS2-verkefnisins. Eftir snerru ("contretemps") á milli Þjóðverja og Frakka var síðan í viku 7/2019 gert samkomulag um, að samkeppnisreglur ESB fyrir gas skuli gilda um NS2, eftir að lögnin kemur á land í ESB-landi, og þýzka landsreglaranum var falið að útfæra þessar samkeppnisreglur.
Undanþágur frá ströngum ákvæðum í samkeppnisreglum ESB má veita, en Framkvæmdastjórnin verður þó að staðfesta þær. Þetta getur gert Gazprom, eiganda lagnar og linda, lífið leitt og seinkað gangsetningu gasflutninganna. Rosneft, rússneskur olíurisi, svermir fyrir að hlaupa í skarðið með því að kaupa lögnina á þýzku landi og víðar, ef þýzki landsreglarinn heimtar annað eignarhald. Einhverjir mundu segja, að með slíku ráðslagi fari frjáls samkeppni með eldsneytisgas í Evrópu úr öskunni í eldinn. Yfirburðastaða Rússa á orkusviðinu í Evrópu veita þeim gríðarlega sterka pólitíska og í næstu umferð hernaðarlega stöðu gagnvart Evrópu, eins og Bandaríkjamenn hafa opinberlega bent á.
Sannleikurinn er sá, að Nord Stream 2 brýtur reglur Fyrsta orkumarkaðslagabálks ESB um eigendaaðskilnað flutningsfyrirtækis og orkuvinnslufyrirtækis, af því að hvort tveggja er í eigu Gazprom, sem er að meirihluta í eigu rússneska ríkisins. Nord Stream 2 er stórverkefni, 1200 km löng gaslögn, sem mun kosta mrdUSD 11. Hún liggur frá Vyborg á vesturströnd Rússlands til Greifswald í austurhluta Þýzkalands. Verkið hófst 2018 og gæti lokið um áramótin 2019/2020.
Þótt gríðarleg óánægja sé á meðal gömlu austantjaldslandanna og norrænu ríkjanna innan ESB með staðsetningu lagnarinnar og þessi viðskipti yfirleitt, er ekki talið, að ESB muni stöðva verkefnið og viðskiptin. Það sýnir, að Þjóðverjar hafa nú komið ár sinni þannig fyrir borð, að þeir ráða því, sem þeim sýnist, þar á bæ. Nú hafa þeir hvorki aðhald frá Bretum né stuðning, þegar "dirigiste"-miðstjórnartilhneiging Frakka ætlar allt að kæfa. Norðursjávargas Breta og Hollendinga er á þrotum, en Norðmenn viðhalda framleiðslu sinni með því að bora stöðugt norðar úti fyrir strönd Noregs við æ háværari mótmæli umhverfisverndarsinna.
Rússar og Þjóðverjar hafa ekki samið um NS2 vegna hörguls á flutningsgetu fyrir jarðgas til Þýzkalands. Lagnirnar frá Rússlandi um Úkraínu og Pólland ásamt Nord Stream 1, sem liggur líka beint til Þýzkalands, munu anna þörfinni um fyrirsjáanlega framtíð.
Það liggur fiskur undir steini. Pútín hefur ekki hikað við að loka fyrir gasstreymi til að ógna Úkraínu og Póllandi. Eftir NS2 getur hann ógnað þessum þjóðum og kúgað með því að stjórna gasstreyminu til þeirra, án þess að slíkt ógni beint hagsmunum Þjóðverja, og þegar NS2 kemst í gagnið, tapa Úkraínumenn og Pólverjar af flutningsgjaldi fyrir gasið til Þýzkalands. Í Úkraínu nemur það um þessar mundir 2 % af VLF landsins, sem jafngildir 55 mrdISK/ár tapi fyrir þjóðarbúið á íslenzkan mælikvarða (þetta er mun meira en tvöfalt höggið af loðnubrestinum, því að töluverður kostnaður er við að afl loðnunnar, en sáralítill fyrir Úkraínumenn vegna gaslagnarinnar).
Með þessu móti lækkar verðið á gasinu til Þýzkalands og flutningarnir verða öruggari. Þetta er mikilvægt fyrir Þjóðverja nú, þegar á að loka síðustu kjarnorkuverum Þýzkalands 2021. Með Nord Stream 2 verður hagkvæmara að reisa gaskynt orkuver en kolakynt orkuver í stað kjarnorkuveranna, og mengun mun minnka ásamt losun gróðurhúsalofttegunda, ef gaskynt raforkuver munu þar að auki leysa kolakyntar rafstöðvar af hólmi, eins og gerzt hefur í Bandaríkjunum.
Helmingur húsnæðis í Þýzkalandi er hitaður upp með gasi. Gasverð hefur hefur af þessum sökum veruleg áhrif á lífskjör almennings í Þýzkalandi. Með Nord Stream 2 eftir miðjum Eystrasaltsbotni fá Rússar átyllu til aukinnar hernaðarlegrar viðveru úti fyrir Eystrasaltsríkjunum. Í ljósi árásar Rússa á Úkraínu 2014 er slíkt eðlilega mikill þyrnir í augum Eystrasaltsþjóðanna.
Þessi staða hefur valdið ágreiningi innan ESB, þar sem Rússum hefur tekizt að reka fleyg á milli Þjóðverja og annarra ríkja ESB. Stefna ESB hefur verið sú að fá orku eftir fjölbreytilegum aðdráttarleiðum. Nú hefur einhæfnin aukizt og einn birgir, rússneska ríkisfélagið Gazprom, verður með yfirgnæfandi markaðshlutdeild.
ESB skipaði norskum gasbirgjum eftir samþykkt Orkupakka #2 að hætta að koma fram sem ein heild og heimtaði aðskilið eignarhald lagna og linda. Nú hafa Þjóðverjar brotið Orkulagabálk ESB #1, sem fjallar um aðskilnað eignarhalds, og #2, sem fjallar um frjálsa samkeppni, en með einn aðila með bróðurpart markaðshlutdeildar, verður ekki frjálsri samkeppni við komið.
Þjóðverjar reyna nú að klóra í bakkann og vona, að áætlun þeirra um að byggja 2 móttökustöðvar fyrir LNG (eldsneytisgas á vökvaformi) á norðurströnd Þýzkalands, sem samþykkt var um miðjan febrúar 2019, muni lægja öldurnar, einnig í Washington DC. Þetta eldsneyti er hins vegar 20 % dýrara en eldsneytisgasið frá Rússlandi, svo að bandaríska gasið mun eiga erfitt uppdráttar við venjulegar aðstæður, en er bráðnauðsynlegt af öryggisástæðum. Verður það greitt niður ? Slík ríkisafskipti eru bönnuð á Innri orkumarkaði ESB. Hvað rekur sig á annars horn í ESB núna.
Þetta ævintýri Rússa og Þjóðverja er eitur í beinum Bandaríkjamanna af öryggisástæðunum, sem að ofan eru taldar, og af þeim viðskiptalegu ástæðum, að þeir eru aflögufærir um jarðgas og vilja gjarna selja það bandamönnum sínum í Evrópu, sem eru algerlega háðir öðrum um orkuaðdrætti. Þjóðverjar snúa nú upp á hendur Frakka til að kaupa gas frá NS2. Þannig nær klofningur út af Nord Stream 2 inn í NATO.
Frú Merkel viðurkenndi í byrjun febrúar 2019 hina pólitísku vídd NS2 og hefur nú krafizt þess, að gas haldi áfram að streyma um lagnir í Úkraínu eftir gangsetningu NS2. Það er þó engin trygging komin fyrir slíku. Víð áhættugreining á áhrifunum af NS2 er ekki fyrir hendi í Berlín. Þjóðverjar virðast hafa einblínt á viðskiptalega þáttinn, sem reistur er á trausti gagnvart Rússum. Slíkt kemur öðrum á óvart, og Þjóðverjar eru nú um síðir að fá kalda fætur út af þessu máli, þar sem jafnaðarmenn eru í aðalhlutverki, hafa stutt málið í ríkisstjórninni og í sambandsþinginu í Berlín og í viðkomandi fylkisþingi, og fyrrverandi leiðtogi þeirra, Gerhard Schröder, er stjórnarformaður í NS2 félaginu, sem Gazprom á að mestu.
Stefan Meister í þýzka utanríkismálaráðinu segir: "Þetta mál ber vott um sjálfhverfa afstöðu, og það hefur skaðað ímynd Þýzkalands í Evrópu".
Hvað getum við Íslendingar lært af þessu ? Það verður allt undan að láta, þegar orkumál orkuhungraðra þjóða eru annars vegar. "Der Erfolg berechtigt das Mittel"-tilgangurinn helgar meðalið-í þessu tilviki eru samdar nýjar reglur og meginreglur jafnvel sveigðar, ef hagsmunir valdamikilla ríkja í ESB eru taldir krefjast þess. Slíkir hagsmunir eru t.d. að flýta sem mest orkuskiptunum í Þýzkalandi án þess að gera iðnaði landsins erfitt fyrir á samkeppnismörkuðum.
Það gefur auga leið, hversu hættulegt er fyrir fámenna þjóð norður í Dumbshafi í landi mikilla og verðmætra orkulinda að láta teygja sig út í þá ófæru að fela slíku ríkjasambandi lykilstöðu á orkumálasviði landsins og játast undir löggjöf þess, sem er sífelldum breytingum undirorpin, en oftast sveigð að hagsmunum fjölmennustu ríkjanna þar.
Þær breytingar eru allar á sömu bókina lærðar, því að allar miða þær að auknum völdum Framkvæmdastjórnarinnar á kostnað þjóðríkjanna. Framkvæmd EES-samningsins er með þeim ósköpum að hálfu íslenzkra stjórnvalda, að þeim er hreinlega ekki treystandi til að standa gegn sífelldum þrýstingi frá EFTA/ESB. Þess vegna má alls ekki færa ESB tangarhaldið á mótun orkustefnu hér.
5.3.2019 | 18:47
Háskaleg tilhneiging til kæruleysis
Loftslagsmál og orkumál eru óaðskiljanleg nú á dögum. Það er beint samband á milli aukningar í orkunotkun heimsins og losunar gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Þótt Íslendingar losi tiltölulega lítið af gróðurhúsalofttegundum við raforkuvinnsluna, nota þeir tiltölulega mikið jarðefnaeldsneyti á mann vegna samgöngutækja á láði, á legi og í lofti og vegna fastra og hreyfanlegra atvinnutækja. Varðandi losun málmiðnaðarins, sem notar mikið af kolum í sínum framleiðsluferlum, verður jafnan að hafa í huga, að það er stærsta framlag Íslendinga, enn sem komið er, til að hægja á aukningu styrks koltvíildisjafngilda í andrúmsloftinu, og þar með að hægja á súrnun sjávar, að hýsa ál- og kísiliðnað, því að sú framleiðsla erlendis hefur í för með sér allt að 10 sinnum meiri losun gróðurhúsalofttegunda á hvert framleitt tonn Al eða Si en hérlendis.
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi ráðherra, reit hugvekju um vána, sem að lífi á jörðunni í núverandi mynd steðjar, í Morgunblaðið 18. febrúar 2019:
"Loftslagsháskinn, uppreisn æskufólks og íslenzk viðhorf".
Hann beindi orðum sínum að gefnu tilefni sérstaklega að æskunni, en það er þó óvíst, að varnaðarorð Hjörleifs hafi náð til hennar, því að hún virðist vera föst inni í farsímanum sínum í tíma og ótíma við ólíklegustu athafnir frá 5 ára aldri og beinir athyglinni hvorki að bókum né blöðum, enda tíminn eðlilega takmarkaður eftir langdvalir í netheimum. Þetta er ógæfuleg þróun, sem er varla fallin til víðsýni og gagnrýninnar hugsunar. Slík þróun er hættuleg lýðræðinu, og óprúttnir náungar kunna að notfæra sér slíkt til eigin framdráttar.
Um loftslagsvána skrifaði Hjörleifur m.a.:
"Samkvæmt Parísarsamkomulaginu á árið 2030 að vera viðmiðun fyrir þjóðir heims, sem þá eiga að hafa náð tökum á aukningu í losun, þannig að meðalhiti [meðalhitastigsaukning frá 1850-innsk. BJo] fari ekki yfir 1,5°C fyrir miðja öldina og framvegis. Aðeins áratugur er þannig til stefnu, og hann verður að nota til markvissra ákvarðana, eigi ekki allt að fara á versta veg. Enn er allt í óvissu um, hversu til tekst, og á síðasta ári mældist meðalhiti hærri en nokkru sinni fyrr. Nýlegir útreikningar brezku veðurstofunnar (MetOffice) benda til, að á næstu 5 árum kunni meðalhiti eitthvert þessara ára að ná umræddum 1,5-gráðu mörkum, og eykur það ekki bjartsýni á framhaldið."
Það er vonlaust að halda hitastigshækkuninni innan við 1,5°C, því að til þess hefði viðsnúningur í losun gróðurhúsalofttegunda þegar þurft að hafa átt sér stað, en losunin eykst hins vegar enn, eins og fram kemur hér að neðan. Það þarf kraftaverk til að halda hlýnuninni innan 2°C markanna. Slíkt kraftaverk væri t.d. gegnumbrot í þróun nýrra orkugjafa, sem fjárfestar eru tilbúnir til að ráðstafa um 100 mrdUSD/ár í smíði og uppsetningu á í a.m.k. tvo áratugi.
Það er þess vegna úr þessu viturlegt að verja fjármunum í varnaraðgerðir gegn afleiðingum mikillar losunar CH4-metans úr freðmýrum Síberíu, en sú gastegund er öflug gróðurhúsalofttegund, yfir 20 sinnum öflugri en CO2. Þetta mun leiða til mikillar bráðnunar jökla og pólíssins með hækkun sjávarborðs og kólnun sjávar, minni seltu og hugsanlega minni krafts í Golfstraumnum sem afleiðingu.
Árið 2017 varð eftirtalin breyting á losun þeirra 5, sem minnkuðu mest, og þeirra 5, sem juku hana mest, samkvæmt "BP Statistical Review of World Energy, 2018", í milljónum tonna CO2:
- Minnkuðu losun mest 2017, Mt/ár:
- Bandaríkin 40
- Úkraína 20
- Mexíkó 15
- Bretland 10
- Suður-Afríka 7
- Alls 92
- Juku losun mest 2017, Mt/ár:
- Íran 35
- ESB 45
- Tyrkland 50
- Indland 95
- Kína 120
- Alls 345
Mismunurinn, þ.e. nettóaukning losunar þessara 10 ríkja og ríkjasambanda, er um 50-föld öll losun frá orkutengdri starfsemi Íslendinga, sem sýnir, að hún hefur engin merkjanleg áhrif á hlýnun jarðar.
Kína og Indland geta hins vegar með ábyrgðarlausri fjölgun kolakyntra orkuvera sinna komið í veg fyrir, að heimsbyggðinni takist að halda hlýnun andrúmslofts jarðar undir 2°C. Athygli vekur árangur Bandaríkjamanna á fyrsta valdaári Donalds Trumps, sem þó hefur lýst sérstakri velþóknun sinni á kolanámum og kolabrennslu. Markaðurinn hefur hins vegar ekkert hlustað á þetta lýðskrum, heldur leyst fjölmörg kolaorkuver af hólmi með gasorkuverum, sem menga minna, eru ódýrari í stofnsetningu og rekstri, og álagsstýring þeirra spannar auk þess víðara svið en kolaorkuveranna. Sem dæmi var 11,2 GW afkastageta í kolaorkuverum tekin úr rekstri 2018 í BNA, sem er um 4,5-föld afkastageta núverandi íslenzkra orkuvera.
Þannig dró úr losun Bandaríkjanna á CO2 árið 2017 um 2,7 %, en losun ESB jókst mun meira að tiltölu. Samt var hagvöxtur meiri í BNA en í ESB. Hverju sætir þetta ? Það eru 2 meginskýringar. ESB-löndin hafa skekkt orkumarkað sinn (Innri markaðinn) með niðurgreiðslum á vind- og sólarorku, sem hafa hrakið gasorkuverin út af markaðnum, því að þau eru þar ekki til að sinna grunnaflsþörf, heldur toppaflsþörf. Hins vegar ríkir ótti í ESB-löndunum við að verða enn háðari erlendum ríkjum, t.d. Rússlandi, um gasaðdrætti, en Bandaríkjamenn hafa ekki vílað fyrir sér að þróa nýja tækni, "fracking", leirsteinsbrot, sem gefið hefur af sér mikið jarðgas og jarðolíu, en nýtur ekki velvildar í ESB af umhverfisástæðum.
Í ESB eykst nú örvænting yfir skuldbindingum sambandsins á Parísarráðstefnunni í desember 2015, sem eru í uppnámi, eins og nærri má geta. Þess vegna eykst ásókn sambandsins í endurnýjanlegar orkulindir, hvar sem þær er að finna, t.d. á Norðurlöndunum. Við þessar aðstæður er hættulegt og skaðlegt fyrir orkuskiptin hérlendis að afhenda ESB ákvörðunarvald, hverju nafni sem það nefnist, yfir orkumálum hérlendis og yfir tengingum raforkukerfis landsins við útlönd. Þrýstingur úr þessari átt um virkjanir hérlendis til stórfellds raforkuflutnings utan þjónar ekki hagsmunum landsmanna, því að nýting orkulindanna innanlands er landsmönnum mun hagfelldari.
Í Bandaríkjunum hefur þróun losunarmála verið miklu jákvæðari en í Evrópu, sem er áfellisdómur yfir orkustefnu ESB. Árið 2007 var notað svipað magn af kolum og eldsneytisgasi í BNA, en nú er framleitt tvöfalt meira af rafmagni með gasi en kolum þar. Þetta gas kemur að mestu leyti úr iðrum jarðar í BNA. Hins vegar standa endurnýjanlegar orkulindir undir aðeins 10 % raforkuvinnslunnar í BNA, en t.d. tæplega 30 % í Þýzkalandi. Það er ekkert einhlítt í þessum efnum.
Frá árinu 2010 hefur 40 % bandarískra kolaorkuvera verið lokað eða lokun þeirra er ákveðin á næstunni, en í ESB-löndunum hefur kolaorkuverum í rekstri fjölgað á sama tímabili. Þetta er þungur áfellisdómur yfir orkustefnu ESB. Með sama áframhaldi verður koltvíildislosun Bandaríkjamanna 17 % minni árið 2025 en árið 2005. Minnkunin nær þó ekki markmiði Parísarsamkomulagsins um 26 %-28 % minnkun á þessu tímabili, enda losaði Donald Trump Bandaríkin undan þessum skuldbindingum, en árangur Bandaríkjamanna skín samt eins og gull af eiri í samanburði við ömurlegt árangursleysi ESB-ríkjanna, sem hafa barið sér á brjóst með hástemmdum viljayfirlýsingum, sem reynzt hafa verið orðin tóm.
Ef Bandaríkin mundu setja á kolefnisskatt, þá gætu kjarnorkuver orðið þar hagstæðari en gasorkuverin. Núverandi húsbóndi í Hvíta húsinu hefur ekki léð máls á því, en nú eru nýkjörnir þingmenn demókrata á Bandaríkjaþingi farnir að vinna að mótun "Grænnar nýbreytni", "Green New Deal", þar sem boðskapurinn er að gera Bandaríkin kolefnishlutlaus árið 2030. Fyrir þessum hópi fer Alexandria Ocasio-Cortez, sem hefur verið orðuð við forsetaframboð árið 2020. Hér er um gríðarlega metnaðarfullt markmið að ræða, næstum ofurmannlegt, en þannig leit líka markmið Bandaríkjamanna út um að verða fyrstir til að lenda mönnuðu geimfari á tunglinu og ná geimförunum til baka heilum og höldnum, sem tókst árið 1969.
Það eru þrátt fyrir allt ekki öll sund lokuð í loftslagsmálunum, ef menn eru fúsir til að ganga á hólm við vandamálin og að beita beztu tækni fordómalaust við lausn viðfangsefnanna. Fyrir okkur hér ríður á að nýta endurnýjanlegar orkulindir okkar af skynsamlegu viti í þessu augnamiði og að beita beztu tækni við þá iðju. Að fá fleiri kokka til að hræra í þeim potti, kokka með gjörólíkan bakgrunn og hagsmunavörzlu á vegum Evrópusambandsins, kann ekki góðri lukku að stýra og mun verða þeim ófagur bautasteinn, sem að slíku standa. Sérstaklega yrði slíkt skammarlegt fyrir sjálfstæðismenn, ef ráðherrar Sjálfstæðisflokksins standa að slíku glapræði á níræðisafmæli flokks þeirra, sem er í ár.
3.3.2019 | 10:55
BREXIT og kunnuglegt bitbein
BREXIT-ferlið hefur tekið dapurlega stefnu, þar sem nú er útlit fyrir óreiðukennda útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, ESB. Hún kann þó að verða Bretum skárri kostur en hálfvelgjulegur viðskilnaður, þegar upp verður staðið. Bretar hafa átt í höggi við forystu ESB, sem er í vörn og óttast um framtíð sambandsins og vill gjarna, að útganga Stóra-Bretlands verði öðrum innanborðs víti til varnaðar. Hvort forystan sér að sér og hægir ótilneydd á samrunaferlinu, er þó alls óvíst. Vitað er, að þjóðir, sem lengi hafa skipt mikið við Breta og hafa fylgt þeim að málum innan ESB, t.d. Danir, Svíar og jafnvel Hollendingar, gætu séð sér hag í að fylgja Bretum, ef Bretum mun vegna vel utan við ESB.
Ekki þarf að orðlengja vanda Ítala. Skuldir ríkissjóðs Ítalíu nema yfir 130 % af VLF, og Ítalir hafa flotið á lágum vöxtum hingað til, því að hagkerfið hefur ekkert vaxið í áratug. Nú hækkar skuldatryggingarálagið ört á Ítölum; eru vextirnir, sem ítalska ríkið greiðir, nú um 4 % hærri en þeir, sem þýzka ríkið greiðir. Með sama áframhaldi mun ítalska ríkið lenda í greiðsluþroti (við 7 % álag) síðar á þessu ári. Þá hrynur evran, og þá mun hrikta í innviðum Evrópusambandsins.
Pólitísk sameining Evrópu gengur ekki upp, og hún er í raun algerlega óþörf frá praktísku sjónarmiði. Skynsamlegra hefði verið að halda sig við hugmyndir Breta um samstarf á viðskiptasviðinu, sem einskorðist við tollabandalag og staðlasamræmingu á öllum sviðum.
Eitt þeirra sviða, sem pólitískir hugsuðir ESB töldu nauðsynlegt að fella undir yfirstjórn ESB, var orkusviðið. Þar hafði um áratugaskeið ríkt valfrjálst samstarf á milli grannþjóða um orkuviðskipti yfir landamæri, ekki sízt með raforku. Norðurlandaþjóðirnar stofnuðu til slíks samstarfs innan NORDEL einna fyrstar í Evrópu, og buðu Íslendingum að fylgjast með því samstarfi.
Á Evrópugrundvelli starfaði félagsskapur raforkuflutningsfyrirtækja, ENTSO-E, og er Landsnet aðili þar, en þegar ESB ákveður að taka stjórn þessa málaflokks í sínar hendur með útgáfu Fyrsta orkumarkaðslagabálksins 1996, breyttist samstarf Evrópuþjóða frá valfrjálsri tæknilegri samvinnu yfir í þvingað, miðstýrt samstarf, sem lýtur pólitískri stefnumörkun æðstu stjórnar Evrópusambandsins. Þá hættir málið að vera áhugavert fyrir eyþjóð, lengst norður í Atlantshafi, þótt það kunni að þjóna hagsmunum þjóða í miðri Evrópu.
17 milljón kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni á Bretlandi í júní 2016 voru þeirrar hyggju, að ókostir ESB-aðildar Bretlands væru meiri en kostirnir, og mörgum þóttu ókostirnar fara vaxandi með aukinni miðstýringu, eftir því sem samrunaferlinu til sambandsríkis Evrópu vatt fram. Steininn tók úr 2009 eftir innleiðingu stjórnarskrárígildis ESB, Lissabon-samningsins. Það var löngum vitað, að slík þróun var Bretum ekki að skapi, hvorki verkalýðsstétt Bretlands né húsráðendum í Whitehall, sem löngum hafa í utanríkismálum haft að leiðarljósi orðtak Rómverja, "divide et impera", að deila og drottna í Evrópu.
Það er reyndar sáralítið fylgi á meginlandinu við hugmyndina um sambandsríki. Ferlið er rekið áfram af búrókrötum í Brüssel á grundvelli stjórnarskrárígildisins, Lissabonsáttmálans. Fjármálamógúlar Evrópu hafa barið bumburnar. Mikillar og vaxandi óánægju gætir á meginlandinu með það, hvernig forréttindastéttin rekur trippin. Franska þjóðfylkingin, (Norður) bandalagið á Ítalíu, Alternative für Deutschland og Svíþjóðardemókratarnir eru skýr dæmi um þetta.
Í BREXIT-viðræðunum tókst ekki að ná samkomulagi um fiskveiðistjórnun innan brezku lögsögunnar. Það er eftirtektarvert fyrir Íslendinga, að samninganefnd ESB krafðist áframhaldandi fiskveiðiréttinda fyrir togaraflota ESB-landanna innan brezku lögsögunnar upp að 12 sjómílnum, brezkum sjómönnum til mikillar gremju og tjóns fyrir þá og útgerðirnar.
Þetta ber vott um óbilgirni að hálfu Barnier & Co. í ljósi þess, að fiskveiðar nema aðeins um 0,1 % af VLF ESB-landanna. Jafnvel í útgerðarhéruðum ESB, skozku hálöndunum og eyjunum, Galicíu á Spáni og grísku eyjunum á Jónahafi, er hlutdeild sjávarútvegs litlu meiri en 2 % af viðkomandi hagkerfum. Sjávarútvegurinn hefur hins vegar mun meiri pólitísk áhrif en fjárhagslegi styrkurinn gefur til kynna, og kann það að hvíla á mikilvægi greinarinnar til fæðuöflunar fyrir Evrópu, og að mikil innflutningsþörf er á fiski til flestra ESB-landanna.
Hagsmunir brezks sjávarútvegs höfðu töluverð áhrif á úrslit BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslunnar, þótt sömu viðhorf endurspeglist ekki í afstöðu meirihluta þjóðþingsins. Brezkir sjómenn kröfðust brottvikningar erlendra togara úr brezkri lögsögu, þar sem þeir veiða 8 sinnum meira en Bretar í erlendri lögsögu. Lausn ágreiningsins var frestað til sumars 2020, en aðlögunartíma útgöngunnar á að ljúka þá um haustið. Þessu reiddust báðar brezku fylkingarnar, og um 20. nóvember 2018 skrifuðu Íhaldsþingmenn frá Skotlandi (Skotland kaus með veru í ESB) Theresu May, forsætisráðherra, þar sem þeir lýstu sig andvíga hvers konar samkomulagi, sem gengi skemur en að ná fullum yfirráðarétti yfir brezkri lögsögu ("full sovereignty over our waters").
Það verður þó á brattann að sækja, því að ríkisstjórnir strandríkja innan ESB, þ.á.m. Frakklands, Belgíu og Portúgals, heimta tryggingu fyrir áframhaldandi aðgangi togara sinna landa. Frakkar hafa gengið lengst í yfirganginum og heimta, að slík trygging verði skilyrði fyrir útgöngusamningi. Allt þetta þref er sett á svið vegna um 6000 sjómannsstarfa á meginlandinu og geira í brezka hagkerfinu, sem skapar svipuð verðmæti og skógarhögg eða framleiðsla á leðurvörum.
Þessi deila hefur áhrif á hagsmuni Íslendinga. Verði gengið að kröfum ESB, mun brezkum fiskimiðum og brezkum sjávarútvegi enn hrörna. Eins dauði er annars brauð. Þetta mun skapa öðrum fiskveiðiþjóðum, Íslendingum, Norðmönnum, Rússum og Kínverjum, ný viðskiptatækifæri á Bretlandi. Hafi Bretar sitt fram, sem verður að vona þeirra vegna, gæti útflutningsmarkaður þeirra fyrir fisk á meginlandinu lokazt um sinn, en um 2/3 aflans fara þangað. Þessi fiskur mun þá fara á innanlandsmarkaðinn í Bretlandi, sem herða mun samkeppnina á fiskmörkuðum þar til muna. Jafnframt lokast þá sú leið Íslendinga að landa í Grimsby og Hull og flytja fiskinn á teinum undir Ermarsundið til Frakklands og víðar. Í staðinn munu beinir flutningar frá Íslandi með fisk í lofti og á sjó inn til meginlands Evrópu aukast, því að þörfin þar fyrir "villtan" fisk og eldisfisk eykst stöðugt.
1.3.2019 | 13:32
Hversu teygjanleg er Stjórnarskráin ?
Merkingu textans í Stjórnarskránni er auðvitað ekki hægt að teyggja og toga endalaust í þá átt, sem valdhafar á hverjum tíma óska. Þetta var Viðeyjarstjórninni ljóst 1992, er hún fékk hóp valinkunnra lögfræðinga til að rýna drög að EES-samninginum m.t.t. Stjórnarskrárinnar. Lögspekingarnir komust að þeirri sameiginlegu niðurstöðu, að samningurinn reyndi til hins ýtrasta á þanþol Stjórnarskrárinnar.
Lögfræðihópur á vegum þáverandi stjórnarandstöðu komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, að þáverandi EES-samningur væri handan þolmarka Stjórnarskrárinnar. Síðan hefur mikið bætzt við þennan samning af atriðum, sem höggva í frelsi landsmanna til að haga málum að eigin vild, en þvinga þá undir ákvörðunarvald erlends ríkjasambands, á leið til sambandsríkis, og stofnana þess, þar sem Ísland á ekki aðild. Með einfaldri almennri rökfræði má nú álykta, að mælirinn sé löngu fullur og að lengra verði alls ekki gengið í frelsisskerðingu landsmanna að óbreyttri Stjórnarskrá.
Nú hefur ríkisstjórnin boðað framlagningu þingmáls, sem enn heggur í þennan knérunn. Er þar um að ræða innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn. Hér á þessu vefsetri hefur því verið haldið fram með tiltækri röksemdafærslu, að samþykkt Alþingis á þessu væntanlega þingmáli myndi fela í sér kúvendingu á íslenzkri orkustefnu frá lágorkuverðsstefnu til háorkuverðsstefnu, og er þá nærtækt að vísa til nýjustu fórnarlamba þessarar stefnu, frænda okkar og frænkna í Noregi.
Ein aðferðin til að réttlæta samþykkt þessa Orkubálks #3 er að gera lítið úr honum. Það er barnaleg afstaða og ber annaðhvort vitni um þekkingarskort á viðfangsefninu eða dómgreindarskort. Tómas Ingi Olrich skrifar bitastæða grein í Morgunblaðið 12. febrúar 2019, þar sem hann kemur víða við og ritar á grundvelli yfirgripsmikillar þekkingar og reynslu, t.d. af samskiptum við ESB-"apparatið", einnig á sviði orkumála:
"Hvað er í pakkanum ?".
Greinin hófst þannig:
"Nú eru skiptar skoðanir um hinn svokallaða orkupakka. Þeir, sem aðhyllast innleiðingu pakkans, virðast byggja afstöðu sína einkum á tvenns konar fullyrðingum. Annars vegar eru þeir, sem halda því fram, að í tilskipuninni sjálfri sé ekki að finna það, sem þar stendur. Aðrir halda því fram, að flest, ef ekki allt, sem í þriðju orkutilskipuninni stendur, hafi þegar verið í fyrri tilskipunum, sem Íslendingar hafa innleitt án athugasemda."
Þegar menn hafa tekið trú á eitthvað, í þessu tilviki Evrópusambandið, ESB, er það jafnan háttur þeirra að afneita því, sem óþægilegt er við átrúnaðargoðið. Sú strútshegðun er alþekkt og er áberandi í umræðu um Orkupakka #3. Hinum, sem halda því fram, að í Orkupakka #3 felist ekki nýmæli, má benda á embætti Landsreglara, sem verður einsdæmi á Íslandi, og, að með innleiðingu Orkupakka #3 mun Evrópurétturinn spanna nýtt svið á Íslandi, sem hvorugur fyrri orkupakka spannaði, sem eru millilandatengingar fyrir orkuflutninga. Fjallað verður nánar um þann þátt síðar í þessari vefgrein.
Um þessi atriði skrifar Tómas Ingi:
"Ef sá skilningur er réttur, þýðir það, að Íslendingar hafa ekki vald yfir sínum orkumálum."
Þetta er hárrétt athugað, og þar með er fullveldið rokið út í veður og vind. Landið verður einfaldlega ekki lengur fullvalda, ef landsmenn verða háðir Evrópusambandinu um ráðstöfun auðlinda sinna eða orkunnar úr orkulindunum.
Nokkru síðar í greininni hnykkti Tómas Ingi á þessu:
"Ég hygg, að stjórnvöldum sé ekki heimilt að koma í veg fyrir tengingu um sæstreng og í þriðja orkupakkanum séu ákvæði, sem styrkja þá fullveldisþrengingu. Hilmar Gunnlaugsson, lögmaður með LLM í orkurétti, staðfestir þann skilning minn. Telur hann, að það sé með öllu óheimilt að setja reglur, sem banna fyrirtækjum eða ríkjum ESB aðgang að íslenzkri orku, en bendir mér kurteislega á, að svo hafi verið lengi."
Það hefur ekki verið svo lengi (eða frá innleiðingu orkubálks ESB #2 eða #1), að fyrirtæki í ESB hafi getað öðlazt aðgang að íslenzkum orkulindum með því að leggja hingað sæstreng, en þann rétt öðlast þau með Orkupakka #3. Það staðfestir dágóður fjöldi norskra lagaprófessora, t.d. Peter Örebech, í fyrirlestri hérlendis 22. október 2018.
Hins vegar hafa fyrirtæki af EES-svæðinu mátt sækja um virkjunarleyfi hér til jafns við innlend fyrirtæki frá innleiðingu Orkubálks #1. Þau munu þó varla fá áhuga á því fyrr en orkukauphöll að hætti ESB hefur tekið hér til starfa, en slíkt verður skylda og undir eftirliti Landsreglara eftir samþykkt Orkupakka #3 (og var valfrjálst eftir Orkupakka #2).
Næst gerði Tómas Ingi frelsisafsal í orkumálum og Stjórnarskrána að umræðuefni og tók Ara Guðjónsson, yfirlögfræðing Icelandair Group, til bæna.
"Engu að síður finnst lögmanninum, sem telur, að valdaframsal orkupakkans standist ekki skoðun, vissara að leggja til, að í stjórnarskrá Íslands verði mælt skýrt fyrir um heimild til þess að framselja vald til tollabandalagsins. Sú varfærni lögfræðingsins kann að benda til þess, að honum finnist hann hafa farið örlítið fram úr sjálfum sér. Alla vega finnst mér það."
Það er nokkuð ljóst, að lögfræðilega má ekki við svo búið standa. Upptaka hverrar gerðar ESB á fætur annarri brýtur Stjórnarskrána. Lausnin á því viðfangsefni er hins vegar ekki að gefast upp á sjálfstæði landsins og veikja fullveldisvarnir Stjórnarskrárinnar, heldur að leita hófanna innan EFTA um að endursemja við ESB um aðganginn að Innri markaði þessa tollabandalags.
Ýmsar furðuhugmyndir um Stjórnarskrárbreytingar hafa sézt á þessari öld, s.s. um að gera Ísland að fylki í Noregi og önnur af svipuðum toga um að fastbinda EES-aðild Íslands í Stjórnarskrá. Um hina síðari ritaði Sigurbjörn Svavarsson, formaður Frjáls lands, grein í Morgunblaðið, 4. janúar 2019:
"Að beygja stjórnarskrána undir EES samninginn":
"Það er ljóst, að stjórnvöld vilja ekki styggja miðstjórnina í Brussel; það sést bezt á sjálfvirkri afgreiðslu mála inni í Sameiginlegu EES-nefndinni; samþykkt þar er skuldbindandi fyrir Ísland, þrátt fyrir stjórnmálalegan fyrirvara um samþykkt Alþingis. Gagnrýni á málið er afgreidd með tilvísun um fyrri samþykkt utanríkismálanefndar. Þessa ólýðræðislegu, sjálfvirku afgreiðslu ESB-gerða vilja ráðamenn kalla stjórnskipunarhefð eða reglu til að réttlæta ferlið. Með þessu eru íslenzkir ráðamenn í raun að leiða þjóðina hægt og bítandi inn í ESB, án þess að hún fái nokkru um það ráðið."
Síðan er Sigurbjörn ómyrkur í máli um hina fáránlegu tillögu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra, "að festa aðildina að EES eina í stjórnarskrána":
"Greininni [Björns Bjarnasonar-innsk. BJo] í heild er ætlað að draga fjöður yfir gagnrýni á, að þróun til miðstýringar í ESB sé verið að yfirfæra á Ísland í gegnum EES-samninginn, og í stað þess að ræða og takast á við þá óheillaþróun er stjórnarskránni kennt um að vera fyrir EES-samningnum.
Það er verið að afvegaleiða og blekkja almenning með slíkri umræðu og er hættulegt sjálfstæði landsins þegar fylgispekt ráðamanna við ESB er orðin slík að gera tillögu um, að viðskiptasamningur sé felldur inn í stjórnarskrána, eins og hann verði þar um ókomna framtíð."
Fáránleiki tillögu téðs Björns er slíkur, að enginn viti borinn maður er líklegur til að gefa henni jákvæðan gaum, en hún er hins vegar til þess fallin að sýna flestum á hvaða stig undirlægjuhátturinn við Evrópusambandið er kominn. Hér vantar ekkert annað en að leggjast marflatur og sleikja skósóla búrókratanna í Brüssel.
Þá víkur sögunni að núverandi iðnaðarráðherra Íslands. Tómas Ingi víkur að henni í téðri grein:
"Það má skilja iðnaðarráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, á þann veg í Bændablaðinu 15. nóvember síðastliðinn, að ekki sé útilokað, að grunnreglur EES-samningsins um frjálst vöruflæði geri það að verkum, "að óheimilt sé að leggja fortakslaust bann við lagningu strengs (til Íslands), þó að eftir sem áður yrði hann háður leyfum samkvæmt málefnalegum sjónarmiðum." Án þess að taka afstöðu til málsins bætir ráðherrann við: "Sé það raunin, er sú staða uppi nú þegar, hefur verið það, frá því að EES-samningurinn var samþykktur fyrir um aldarfjórðungi og er með öllu ótengt þriðja orkupakkanum.""
Iðnaðarráðherrann skilur ekki, hvernig EES-samningurinn virkar. Þótt Viðauki IV í EES-samninginum hafi verið fyrir hendi frá upphafi, þá var í Viðaukanum ekkert, sem virkjaði almenn ákvæði samningsins um Innri markaðinn fyrir rafmagn fyrr en Fyrsta orkumarkaðslagabálkinum var komið þar fyrir árið 1996.
Sjö árum síðar bætti Annar orkumarkaðslagabálkurinn um betur, en þar var útfært nánar, hvernig orkumarkaðurinn skyldi virka á Innri markaðinum með uppboði á orku í okkrum orkukauphöllum innan ESB (EES), þar sem einnig færu fram afleiðuviðskipti með orku í anda harðsvíraðrar spákaupmennsku. Við ríkjandi aðstæður innan ESB átti þetta fyrirkomulag að tryggja kaupendum lægsta verðið, en þar sem þessar aðstæður eru ekki fyrir hendi á Íslandi, tryggja þær seljendum hér hæsta verðið.
Það er hins vegar ekki fyrr en með Þriðja orkumarkaðslagabálkinum frá 2009, sem almenn ákvæði EES-samningsins um Innri markaðinn, t.d. bann við inn- og útflutningstakmörkunum, virkjast fyrir milliríkjaviðskipti með orku. Það er kominn tími til, að ráðherrann átti sig á þessu og hætti að tuða um, að Orkupakki #3 breyti sáralitlu fyrir Íslendinga, en miklu fyrir Norðmenn, og þess vegna eigum við einfaldlega að halda lengra út á þá braut, sem er þegar mörkuð. Þetta er algerlega óyfirveguð nauðhyggja, sem er ósæmileg ráðherra og varaformanni Sjálfstæðisflokksins.
Tómas Ingi Olrich greiddi atkvæði með EES-samninginum á Alþingi, og sagðist í téðri grein ekki hafa haft hugmynd um, að með því væri hann að afsala okkur valdi yfir íslenzkum orkumálum. Eins og rakið er hér að ofan, er það kolrangt hjá Þórdísi Kolbrúnu, að Tómas Ingi og allir hinir hafi með samþykkt EES-samningsins gerzt sekir um slíkt á Alþingi í janúar 1993. Sá, sem gerzt ætti um þetta að vita, guðfaðir samningsins að Íslendinga hálfu, Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi utanríkisráðherra, telur það fráleitt, að slíkt afsal hafi farið fram á þeim tíma.
Í lokakafla greinar sinnar, "ESB og örlagahyggja", hittir Tómas Ingi heldur betur naglann á höfuðið. Kaflinn hófst þannig:
"Í samskiptum okkar við ESB sýnist mér, að fleiri Íslendingar en góðu hófu gegnir séu farnir að aðhyllast örlagahyggju. Við erum að missa tökin á því að haga seglum eftir vindum íslenzkra hagsmuna. Í því máli geng ég ekki lengra en að segja: við skulum anda rólega og spyrna við fótum, þar sem það á við. Síðan skulum við leita leiða til að hægja á og stöðva aðlögun Íslendinga að fjölþjóðlegu tollabandalagi, sem þeir vilja ekki verða aðilar að."