Færsluflokkur: Evrópumál
15.2.2019 | 10:39
Kúvending orkustefnu
Upp úr 1960 mótuðu íslenzk stjórnvöld landinu nýja orkustefnu. Hverfa skyldi frá smávirkjanastefnu, en beina kröftunum þess í stað að hagkvæmustu virkjanakostum landsins, stórvirkjunum á íslenzkan mælikvarða, og byggja upp öflugt og áreiðanlegt flutningskerfi raforku til mesta þéttbýlissvæðis landsins, þar sem verið hafði viðvarandi orkuskortur. Með þessu mundi myndast fótfesta til alhliða uppbyggingar raforkukerfisins og viðeigandi iðnaðar um allt land.
Hugmyndin var sú að fjármagna þessar framkvæmdir í orkukerfinu með orkusölu til stóriðju. Það var þáverandi iðnaðarráðherra, Bjarni Benediktsson, sem fór fyrir þessari tímabæru stefnubreytingu. Stór áfangasigur umbótamanna náðist árið 1965, þegar Alþingi samþykkti lög um Landsvirkjun, sem framfylgja skyldi þessari stefnu Viðreisnarstjórnarinnar.
Stefnan var innsigluð á Alþingi árið 1966 með stofnun Íslenzka Álfélagsins og staðfestingu Aðalsamnings við Alusuisse til 45 ára um stofnun og starfrækslu álvers ISAL í Straumsvík og raforkusölusamnings til 45 ára (með endurskoðunarákvæðum), eftir stórpólitískar deilur í landinu á milli ríkisstjórnarflokkanna þáverandi, Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, og stjórnarandstöðuflokkanna, Framsóknarflokks og Alþýðubandalags. Höfundi þessa pistils eru deilur þessar enn í minni.
Starfsemin hófst í Straumsvík í júní 1969, þrátt fyrir bölbænir andstæðinganna, og fékk ISAL raforku fyrst frá einum rafala í Búrfelli og einni línu þaðan, og hefur þessi verksmiðja þess vegna í sumar verið starfrækt í hálfa öld. Þarf ekki að fjölyrða hér um þróun starfseminnar á þessu tímabili, og að afhendingaröryggi raforku, sem var mjög bágborið, hefur síðan tekið stakkaskiptum.
Með ISAL hljóp nýr kraftur í iðn- og tæknivæðingu landsins á heppilegum tíma í atvinnulegu tilliti, því að sjávarútvegurinn og hagkerfi landsins stríddu um þessar mundir við hrun síldarstofnsins, sem var um tíma aðalgjaldeyrislind þjóðarinnar. Orkusækinn iðnaður hefur síðan alla tíð verið sveiflujafnandi í íslenzka hagkerfinu og myndar nú eina af þremur meginstoðum gjaldeyrisöflunar landsmanna. Stefnumörkun Viðreisnarstjórnarinnar gekk upp, en alvarlegustu hrakspár úrtölumanna, bæði um Búrfellsvirkjun, ISAL og áhrif útlendinga á íslenzkt þjóðlíf vegna beinna fjárfestinga þeirra, rættust ekki. Hrakspárnar reyndust reistar á vanþekkingu, vanmetakennd og/eða pólitískum grillum.
Þótt umsamið orkuverð frá Búrfelli væri lágt fyrstu árin, þá hækkaði það smám saman, og nú borgar ISAL hæsta verð orkukræfra verksmiðja á Íslandi, og er það yfir meðalverði til álvera í heiminum. Dugðu tekjur af ISAL reyndar til að greiða upp allan kostnað af Búrfelli, stofnlínum þaðan og tengdum aðveitustöðvum á innan við 30 árum, og notaði ISAL þó aldrei alla orkuna frá Búrfelli á þessu tímabili. Í þessu, ásamt atvinnusköpun, verðmætasköpun, nýrri tækniþekkingu o.fl., fólst ávinningur stóriðjustefnunnar fyrir almenning.
Sumir hagfræðingar hafa samt talið arðsemiskröfuna til virkjanafjárfestinga vera of lága og telja enn. Þar má nefna Þorstein Siglaugsson, sem að eigin sögn er "heimspekingur, hagfræðingur, rekstrarráðgjafi og frjálslyndur frjálshyggjumaður". Ekki lítið punt á nafnspjaldið, það. Gott og vel, en hefði arðsemiskrafan verið hækkuð upp í það, sem algengt er fyrir fjárfestingar með tæknilegan afskriftartíma um 30 ár, þótt öruggari fjárfestingar en í virkjunum með trygga sölu orkunnar áratugum saman finnist vart, þá hefði einfaldlega ekkert orðið af þessum framkvæmdum, og uppbygging raforkukerfisins hefði dregizt von úr viti. Í þessu sambandi er haldlaust að segja, að fjárfesta hefði mátt í einhverju öðru. Mikil notkun endurnýjanlegra orkulinda á hvern íbúa er öruggasta stoðin undir velmegun landsmanna í bráð og lengd.
Hvað gerði mögulegt að hrinda þessari orku- og iðnvæðingarstefnu Viðreisnarstjórnarinnar í framkvæmd ? Það var nægt vinnuafl í landinu, geta og vilji í þjóðfélaginu til nauðsynlegrar innviðauppbyggingar, þ.á.m. næg verkþekking og tæknikunnátta til að Íslendingar, sem að þessu störfuðu, væru nægilega fljótir að tileinka sér og uppfylla kröfur, sem gerðar voru til þeirra á öllum vígstöðvum. Þessari merku sögu hafa ekki verið gerð skil að fullu. Saga ISAL hefur þó verið rituð, en ekki gefin út enn.
Á fjármálalegu hliðinni var, eins og áður segir, eitt grundvallar atriði, sem gerði þessa stefnu mögulega í raunheimum. Það var lág ávöxtunarkrafa fjármagns, sem lagt var í mannvirkin, Búrfellsvirkjun, aðveitustöðvar og flutningslínur Landsvirkjunar. Þar sem fjármagnskostnaðurinn er yfirgnæfandi þáttur heildarkostnaðar slíkra framkvæmda og rekstrarkostnaður þeirra er tiltölulega lágur, var þessi stefnumörkun forsenda þess, að orkusamningur náðist við Alusuisse. Fyrir vikið var unnt að selja þessu fyrirtæki, sem á sama tíma reisti sams konar verksmiðju á Húsnesi sunnan við Björgvin í Noregi, orku á samkeppnishæfu verði þess tíma. Sú tekjutrygging Landsvirkjunar, sem í orkusamninginum fólst, ásamt ríkisábyrgð, sem Landsvirkjun nýtur eðlilega ekki lengur, enda komin á legg, varð jafnframt til þess, að Landsvirkjun fékk lán (hjá Alþjóðabankanum) á tiltölulega hagstæðum kjörum, þótt um væri að ræða frumraun Íslendinga á þessu sviði iðnvæðingarinnar. Ísinn var brotinn.
Allt leiddi þetta til lækkunar raunraforkuverðs til almennings ár eftir ár, er frá leið, svo að Ísland hefur búið við einna lægst raforkuverð í Evrópu ásamt Noregi, áratugum saman, en Norðmenn voru meira en hálfri öld á undan Íslendingum að virkja vatnsföllin til að knýja orkukræfa iðnaðarframleiðslu.
Þeir leyfðu hins vegar í upphafi hinum erlendu iðnfyrirtækjum að virkja og að reka virkjanirnar fyrir verksmiðjur sínar. Segja má, að Íslendingar hafi hafnað þeirri leið um og eftir 1920, er Títanfélagi Einars Benediktssonar, sýslumanns og skálds, var settur stóllinn fyrir dyrnar. Þannig skildu leiðir með frændþjóðunum til iðnvæðingar um sinn.
Norðmenn settu hins vegar á svipuðum tíma fyrstu eignarnámslögin, sem kváðu á um, að virkjanirnar skyldu falla skuldlausar í skaut hins opinbera, viðkomandi sveitarfélags og/eða ríkis, að um 80 árum liðnum. Megnið af raforkukerfi Noregs er þess vegna nú í opinberri eigu og bókhaldslega afskrifað fyrir löngu, en malar áfram gull, þar sem verksmiðjurnar hafa verið endurnýjaðar og/eða raforkan seld til almenningsveitnanna.
Þess vegna hafa Norðmenn lengi búið við lægsta raforkuverð í Evrópu. Nú eru þó blikur á lofti hjá þeim í þessum efnum, þar sem þeir flytja inn hátt raforkuverð frá meginlandi Evrópu gegnum aflsæstrengi sína. Flytja þeir þar með inn afleiðingarnar af misheppnaðri orkustefnu á meginlandinu. Hefur hækkunarhrinan nú leitt til þess, að á tímabili í vetur var dýrara að kaupa rafmagn á rafmagnsbíl í Noregi en jarðefnaeldsneyti á sparneytinn dísilbíl fyrir sams konar akstur. Þetta hefur sett ugg að mörgum Norðmanninum um afkomu sína og þróun orkuskiptanna. Afkoma Ola Nordmann og Kari, sem eru Jón og Gunna Noregs, kann að bíða hnekki af þessari þróun mála, sem leiðir til lakari samkeppnisstöðu fyrirtækjanna, sem Ola og Kari eiga afkomu sína undir.
Árið 2007 kvað EFTA-dómstóllinn upp úrskurð þess efnis, að þessi norsku eignarnámslög stríddu gegn athafnafrelsi og fjárfestingafrelsi EES-samningsins og Evrópuréttarins. Fjárfestingar aðila af EES-svæðinu í virkjunum í EFTA-löndunum eftir þennan dóm eru þannig varðar gagnvart löggjöf um eignarnám, enda hefur mátt greina vaxandi áhuga, t.d. Þjóðverja og Frakka, á fjárfestingum í norskum vatnsorku- og vindorkuverum.
Skuldir Landsvirkjunar fara nú hraðminnkandi og þess vegna vex hagnaður fyrirtækisins hraðfara með hverju árinu. Það eru margvíslegar ástæður fyrir því, að þjóðhagslega er hagkvæmt að byggja atvinnulífið upp með því að krefjast lágrar ávöxtunar af fjárfestingum í orkumannvirkjum og að viðhalda þannig lægra orkuverði til atvinnulífs og almennings, þótt minni hagnaður verði framan af endingartíma mannvirkjanna. Ein ástæðan er einmitt langur endingartími orkumannvirkja, en hann er í sumum tilvikum meira en fjórfaldur bókhaldslegur afskriftartími.
Frá upphafi téðrar stefnumótunar Viðreisnarstjórnarinnar, sem svo frábærlega reyndist landsmönnum, hafa staðið harðar deilur um hana sem fyrr greinir. Fyrst var andstaðan reist á blöndu af sósíalistískri og þjóðernislegri andúð á beinum erlendum fjárfestingum. Þegar sá hræðsluáróður missti marks, beindist áróðurinn að því að varðveita náttúruna án inngripa mannsins. Í ljósi stöðunnar í umhverfismálum jarðarinnar er ábyrgðarlaust að reka hér öfgafulla umhverfisstefnu í anda slagorðsins "náttúran verður að njóta vafans", enda mundi slíkt leiða til stöðnunar hagkerfisins og síðan samdráttar og fjöldaatvinnuleysis í þjóðfélagi, sem reisir afkomu sína á nýtingu náttúruauðlinda. Þess má geta, að náttúruvernd nýtur ekki viðurkenningar sem fullgild ástæða fyrir hömlum á útflutningi eða innflutningi á vörum og þjónustu að Evrópurétti.
Frá upphafi hefur orkuverð til stóriðjunnar einnig verið skotspónn. Um sérhvert þessara atriða gildir, að hefðu þau sjónarmið orðið ofan á í opinberri stefnumörkun, þá hefði ekkert orðið af iðnvæðingunni, sem nú er ein meginundirstaðanna undir útflutningstekjum, góðum lífskjörum, menntakerfi og velferðarkerfi landsmanna. Þeir, sem berjast nú fyrir staðfestingu Alþingis á þeim "mistökum" Sameiginlegu EES-nefndarinnar að fara að kröfu ESB um innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn og íslenzk lög, hvort sem þeir heita Björn Bjarnason eða eitthvað annað, vinna um leið að því að hverfa frá stefnunni um lágt raforkuverð á Íslandi til að knýja hér atvinnustarfsemi, sem stenzt öðrum snúning og hægt er að selja á samkeppnishæfu verði í Evrópu og annars staðar.
Eins og áður getur um, átti fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, mestan þátt í þessari gifturíku stefnumörkun fyrir land og lýð, og Sjálfstæðisflokkurinn hefur fylgt þessari stefnu síðan. Nú eru hins vegar blikur á lofti. Þrátt fyrir eindregna ályktun Landsfundar sjálfstæðismanna í marz 2018 gegn auknum völdum erlendra stofnana yfir íslenzkum orkumarkaði, sem engum blandaðist hugur um, að fól í sér yfirgnæfandi andstöðu Landsfundarfulltrúa við innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn og íslenzka löggjöf, virðast 2 ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, sem með málið fara innan ríkisstjórnarinnar, enn vera við sama heygarðshornið. Verði áform þeirra að veruleika, jafngildir það kúvendingu á stefnu Sjálfstæðisflokksins í orkumálum.
Markaðsvæðing raforkunnar í orkukauphöll að hætti ESB, þar sem litið er á rafmagn sem hverja aðra vöru, þar sem hæstbjóðandi fær forgang að henni, hlýtur að leiða til hærri ávöxtunarkröfu fjármagnsins, sem lagt er í virkjanirnar, og Landsreglarinn er jafnframt líklegur til að krefjast hærri ávöxtunar á féð, sem lagt er í orkuflutnings- og dreifingarkerfið. Þetta þýðir aukin útgjöld allra heimila, fyrirtækja og stofnana í landinu til raforkukaupa.
Ekki nóg með þetta. Í ESB er öll raforka á uppboðsmarkaði. Á Íslandi og í Noregi, hins vegar, er mikill hluti raforkuvinnslunnar bundinn í langtímasamningum, sem voru undirstöður stórvirkjana, og eru grundvöllur samkeppnishæfni orkusækinna fyrirtækja á SV-landi, Norðurlandi, Austurlandi og um dreifðar byggðir Noregs. ESA (Eftirlitsstofnun EFTA)hefur með semingi fallizt á þetta fyrirkomulag um sinn, en það er áreiðanlega þyrnir í augum ESB, sem, eftir gildistöku Orkupakka #3, er líklegt til að gera athugasemd við þetta fyrirkomulag sem dulbúinn ríkisstuðning við fyrirtæki í samkeppnisrekstri í þeim tilvikum, þar sem samningsaðili er ríkisfyrirtæki, t.d. Landsvirkjun.
Hættan á þessu stóreykst, ef Alþingi samþykkir Orkumarkaðslagabálk ESB nr 3, því að hann kveður á um stofnun embættis Landsreglara, sem m.a. á að hafa náið eftirlit með, að orkumarkaðurinn sé starfræktur að hætti ESB; verði aðlagaður innri markaðinum. Þar að auki er alþekkt, að ESB breytir gerðum og tilskipunum og bætir við nýjum um málaflokkinn að eigin geðþótta.
Ein hugsanleg breyting hjá ESA er hreinlega að skipa svo fyrir, að öll orka, sem losnar úr langtímasamningum, skuli fara á uppboðsmarkað og nýir langtímasamningar verði óheimilir. Hnífurinn mun stöðugt standa á íslenzkum stjórnvöldum, eftir að Alþingi hefur samþykkt Orkupakka #3, því að ESB hungrar eftir endurnýjanlegri orku. Það verður ekki linnt látunum fyrr en íslenzk orka hefur verið beizluð með beinum hætti fyrir hagkerfi ESB. Málmana, sem nú eru framleiddir hér með miklum virðisauka fyrir landið, munu verksmiðjur ESB-landanna kaupa annars staðar frá, jafnvel þótt koltvíildislosun þar sé allt að 16 sinnum meiri á hvert framleitt tonn og flutningsvegalengdir verði margfaldar.
Eftir sitja Íslendingar með rústað atvinnulíf og ótrygg rafmagnsviðskipti um sæstrengi, sem verður bundinn endi á, um leið og Evrópa hefur þróað öfluga og sjálfbæra orkugjafa. Til þess eru refirnir skornir með háu orkuverði að mynda nauðsynlega hvata til slíkrar þróunar, sem leyst geti Evrópu, vestan Rússlands, úr þeirri hræðilegu orkuprísund, sem hún nú er í.
12.2.2019 | 18:40
Að falla í gildru
Þingmenn eru greinilega hugsi, margir hverjir, yfir Þriðja orkupakkanum, enda kemur fyrr eða síðar til þeirra kasta að afgreiða hann. Sumir hafa þegar tekið afstöðu, ýmist með eða mót, en aðrir eru í vafa. Vísa þeir gjarna til væntanlegrar niðurstöðu einhvers konar áhættugreiningar, sem mun vera í gangi á vegum ráðuneyta, enda hverju barni ljóst, að um stórfellt hagsmunamál íslenzku þjóðarinnar er að ræða að hafna Orkubálki ESB #3.
Það er helzt þrennt, sem virðist vefjast fyrir þingmönnum við að gera upp hug sinn:
Í fyrsta lagi, hvort skuldbindingar um valdframsal á öllum þremur sviðum ríkisvaldsins til yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem landið á ekki aðild, samræmast Stjórnarskrá. Í þessu sambandi má taka dæmi:
Setjum svo, að færeysk og íslenzk stjórnvöld geri með sér samning um raforkuviðskipti og ríkisstjórnin feli Landsneti að sjá um verkefnið, bjóða það út og hafa eftirlit með framkvæmd, og síðan að reka sæstrenginn, eins og Statnett er falið í Noregi varðandi allar millilandatengingar Noregs.
Eftir innleiðingu Orkupakka #3 fer þetta verkefni vafalaust inn á borð Landsreglara, enda fjallar málið um útflutning á a.m.k. 100 MW afli að jafnaði. Hann mun benda á, að þessi sæstrengur sé ekki inni á Kerfisþróunaráætlun ACER/ESB, Færeyjar séu ekki á innri orkumarkaði EES og orkusala þangað dragi úr getu Íslands til að afhenda orku inn á þennan innri markað, en Alþingi hafi með innleiðingu Orkupakka #3 og innleiðingu gerðar #347/2013 í kjölfarið skuldbundið Ísland til að styðja við Kerfisþróunaráætlunina í hvívetna. Við mat á samfélagslegri arðsemi þessa sæstrengs samkvæmt gerð #347/2013 mun hann sennilega ekki ná lágmarkseinkunn, af því að samfélagið í þessum skilningi er EES, sem Færeyjar standa utan við.
Þessi ágreiningur á milli íslenzkra yfirvalda og ACER/ESB getur hæglega lent hjá ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA), sem mun benda á þær skuldbindingar, sem Ísland hefur undirgengizt gagnvart Innri markaðinum. Ef samkomulag næst ekki, fer þessi ágreiningur til EFTA-dómstólsins, sem dæmir eftir Evrópurétti, því að millilandaorkutengingar heyra undir hann eftir innleiðingu Orkupakka #3.
Fari þetta svona, óháð úrskurði, dylst engum, að Ísland hefur glatað fullveldi sínu í hendur Evrópusambandsins. Ráðin eru tekin af rétt kjörnum stjórnvöldum, og Evrópurétturinn gengur framar íslenzkum lögum.
Fer þetta svona ? Það er skoðun Peters Örebech, prófessors í lögum við háskólann í Tromsö og sérfræðings í Evrópurétti. Þegar hann hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands, þann 22. október 2018, var Stefán Már Stefánsson, prófessor emerítus í lögum, einn fundargesta. Hann stóð upp eftir fyrirlesturinn, ávarpaði Peter, þakkaði honum fyrir og sagðist sammála lögfræðilegri röksemdafærslu hans um kaupin á eyrinni eftir téða innleiðingu. Þarf frekari vitnana við varðandi Stjórnarskrána ?
Þingmönnum verður alltíðrætt um, að þeir vilji alls ekki, að orkulindir landsins rati í erlendar hendur. Þetta er í raun aðeins spurning um tíma, því að eftir innleiðingu Orkupakka #2 á sínum tíma njóta öll orkufyrirtæki og fjárfestar innan EES sama réttar og innlendir menn og fyrirtæki til að eignast vatnsréttindi eða jarðgufuréttindi á Íslandi, svo og til að fá rannsóknarleyfi fyrir beizlun orkulinda og virkjunarleyfi að uppfylltum öllum skilyrðum.
Það, sem breytist hins vegar með samþykkt Þriðja orkupakkans, er markaðurinn fyrir raforkuna, sem unnin er úr íslenzkum orkulindum. Hér verður afdráttarlaust (var valfrjálst) stofnað til frjáls markaðar í orkukauphöll undir umsjón Landsreglara Evrópusambandsins í Reykjavík. Þetta mun gera nýjum, erlendum aðilum auðveldara um vik að athafna sig á markaðinum, og sömuleiðis glæðast líkur verulega á stækkun markaðarins með tengingu við sameiginlegan raforkumarkað ESB um sæstreng, en efling orkusamtenginga á milli landa, og tvöföldun slíkra orkuflutninga upp í 20 % árið 2030 m.v. 2010 og upp í 25 % árið 2035, eru markmið ESB. Þessi mikla fyrirhöfn og fébinding er liður í að auðvelda orkuskipti ESB og að gera ESB-löndin betur í stakk búin að mæta væntanlegum eldsneytishækkunum, sem ESB býr sig nú undir, af völdum minnkandi, þekktra eldsneytisbirgða. Allt mun þetta auka áhuga erlendra fjárfesta á íslenzkum orkulindum.
Ef einhver efast um þetta, ætti sá hinn sami að líta til Noregs, en þar er þessi þróun orðin áberandi. Erlendir fjárfestar hafa þar í miklum mæli fjárfest í vindorkuverum, norskum náttúruunnendum til gremju, og í smávirkjunum vatnsafls. Þessar virkjanir fjárfesta af meginlandinu eru ekki arðbærar á því orkuverði, sem verið hefur í Noregi undanfarin ár. Nú gegnir öðru máli, og þessi erlendu orkufélög geta auðvitað selt orkuna til útlanda, þegar það er hagstæðara. Eftir sitja Norðmenn með lága vatnsstöðu í mörgum af sínum öflugustu miðlunarlónum og hátt orkuverð (yfir 100 % hækkun á vinnsluþættinum í janúar-febrúarbyrjun 2019 m.v. sama tíma í fyrra).
Rauður þráður í málflutningi þingmanna, sem enn gera sér ekki grein fyrir hinni þjóðhagslegu og stjórnlagalegu hættu, sem af Orkupakka #3 stafar, er, að Ísland sé ekki í beinum tengslum við innri orkumarkað ESB núna, og að íslenzk stjórnvöld hafi það í hendi sér að leyfa slíka tengingu. Hér er teflt á tæpasta vað og skákað í því skjólinu, að endanleg ákvörðun um slíka tengingu (sæstreng) muni lúta íslenzkum lögum (ekki Evrópurétti) og vilja íslenzkra yfirvalda. Þannig verður það alls ekki eftir innleiðingu Orkupakka #3, enda eru refirnir til þess skornir að ryðja hindrunum úr vegi fyrir millilandatengingar. Í þessu er fólginn hinn mikli og hættulegi misskilningur um, að þessi innleiðing muni hafa hér lítil áhrif.
Eins og prófessor Peter Örebech hefur sýnt fram á, þá víkur Evrópurétturinn landslögum úr vegi á sviði millilandatenginga við téða innleiðingu. Það felur m.a. í sér, að greinar 11, 12 og 13 í EES-samninginum, um millilandaviðskipti, virkjast fyrir rafmagnsviðskipti. Þar eru hvers konar tálmanir á sviði milliríkjaviðskipta innan EES bannaðar, nema einhvers konar neyðarástand myndist. Hvað er bann Alþingis við sæstrengstengingu við útlönd annað en hindrun á millilandaviðskiptum með rafmagn, sem er vara í skilningi ESB ?
Sömu þingmenn segja, að þetta sé ekki nóg, því að skipulagsvaldið sé í höndum landsmanna. Í þessu felst mikið vanmat á búrókrötunum í Brüssel. Þar eru vanir menn, sem kunna til verka. Árið 2013 gáfu þeir út breytingar og viðbætur við Orkupakka #3, sem þeir kalla Evrópugerð #347/2013. Hún fjallar um innviðauppbyggingu innan ESB og eftir atvikum EFTA. Þar er aðildarríkjunum gert skylt styðja við og fullnusta eftir mætti Kerfisþróunaráætlun ESB.
Landsreglara í hverju landi er falið að fylgja þessu eftir. Þetta þýðir, að Landsneti verður gert skylt að aðlaga Kerfisáætlun sína að Kerfisþróunaráætlun ESB. Ef t.d. ESB hefur sett sæstrenginn "Icelink" í Kerfisþróunaráætlun sína, sem er staðan núna, þá verður Landsnet að setja nauðsynlegar aðveitustöðvar og flutningslínur frá stofnraforkukerfi landsins og niður að lendingarstað "Icelink" inn á Kerfisáætlun sína. Alla misbresti á þessu og á framfylgd áætlunarinnar tilkynnir Landsreglari umsvifalaust til ACER (gegnum milliliðinn ESA). Óeðlileg tregða við veitingu framkvæmdaleyfa verður væntanlega kærð til ESA og úrskurður kveðinn upp af EFTA-dómstólinum.
Efasemdarmenn kunna nú að segja, að millilandatengingar fari ekki inn á forgangsverkefnaskrá (PCI) ESB án samþykkis yfirvalda viðkomandi lands. Þessu er óvarlegt að treysta. "NorthConnect"-sæstrengurinn á milli Noregs og Skotlands er á þessari skrá í óþökk orkuyfirvalda í Noregi. Orkustofnun Noregs, NVE, leggur nú mat á umsókn um leyfi til að leggja þennan streng. Þetta er fyrsta millilandatengingin við Noreg, sem norska ríkið, um fyrirtæki sitt, Statnett, á ekki aðild að, og fulltrúar Statnetts hafa mælt með höfnun á þessu verkefni við NVE í umsagnarferli um verkefnið, eða a.m.k. frestun, þar til í ljós kemur, hvernig orkukerfi Noregs bregst við þeim tveimur stóru sæstrengjum, sem nú eru á framkvæmdastigi; annar til Þýzkalands og hinn til Englands. Í ljósi síaukinnar miðstýringar ESB á sviði orkumála er engan veginn á vísan að róa í þessum efnum.
Ætla þingmenn, t.d. Vilhjálmur Árnason í þingflokki sjálfstæðismanna, að verða valdir að því, að landsmenn kunni að eiga það undir ACER/ESB og Evrópuréttinum, hvort risamannvirki verði reist hérlendis á sviði vinnslu og flutnings raforku til að eiga viðskipti með hana á Innri markaði ESB ?
Skynsamlegra er að hafa vaðið fyrir neðan sig í viðskiptum með orku við ESB, því að þar á bæ er staða orkumála álfunnar réttilega talin alvarleg ógnun við efnahag hennar og öryggi. Óttaslegið (rán)dýr sést ekki fyrir við að gæta hagsmuna sinna. Þá er vissara fyrir hin smærri dýrin að gefa ekki á sér fangstað, sérstaklega, ef þau hafa nóg að bíta og brenna.
10.2.2019 | 11:46
Góð og ill tíðindi úr iðnaðarráðuneyti
Í lok janúar 2019 kynnti iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, "átak" til að flýta þrífösun sveitanna. Um hríð hefur verið við lýði áætlun um að ljúka henni árið 2035. Þetta er afspyrnu metnaðarlaust markmið, enda leiðir dreifing raforku á einum fasa til orkusóunar á formi meiri orkutapa en ella, bæði hjá dreifingarfyrirtækinu og notandanum, og notandanum eru þröngar skorður settar með aflúttak og val á búnaði. Hvort tveggja stendur atvinnurekstri fyrir þrifum.
Það er eitthvað bogið við það að leggja upp með, að sumar sveitir sitji uppi með einn fasa til ársins 2035 í ljósi þess, að orkusalan mun aukast við þrífösunina, og hagræði mun koma fram, sem vafalaust gerir þessa þrífösun þjóðhagslega hagkvæma. Þá má ekki gleyma jákvæðum umhverfisáhrifum, minni rekstrarkostnaði og auknu afhendingaröryggi raforku, sem jarðstrengjavæðing og afnám loftlína hefur í för með sér. Töluverð verðmæti í vír falla til við niðurrifið.
Upphæðin, sem ráðuneytið hyggst verja í þessu skyni næstu 3 ár, 2020-2022, er þó skammarlega lág m.v. þörf og notagildi eða aðeins MISK 240 og mun nema flýtikostnaði RARIK í tveimur sveitarfélögum. Þessa upphæð þarf a.m.k. að tífalda og jafnframt að heimila veitufyrirtækjunum að taka lán með ríkisábyrgð, svo að ljúka megi þessu þarfa verkefni yfir 90 % árið 2025.
Nú er gert upp á milli notenda innan hvers veitusvæðis eftir búsetu. Þetta óréttlæti ætti að afnema með reglugerðarútgáfu ráðuneytisins og/eða lagasetningu, ef þörf krefur, um, að sama dreififyrirtæki megi ekki mismuna viðskiptavinum sínum út frá búsetu, heldur skuli ríkja sama gjaldskrá fyrir dreifingu í þéttbýli og dreifbýli. Þetta er réttlætismál og mun einfalda reikningshald fyrirtækjanna.
Er þetta ekki málefni fyrir þingmann að taka föstum tökum ? Á að trúa því, að ráðuneytið beri fyrir sig Annan orkumarkaðslagabálk ESB, sem er jafnframt í lögum hér, að hann banni slíkan jöfnuð ? Það er ekki verið að ræða um miðstýrða gjaldskrá allra dreifingarfyrirtækjanna. Hins vegar verður það eitt hlutverka Landsreglarans, sem iðnaðarráðherra vill endilega fá til starfa hér á vegum ESA/ACER/ESB, að rýna og samþykkja (eða hafna) gjaldskrár dreifiveitnanna. Hvaða áhrif það hefur á gjaldskrár þeirra, fer eftir arðsemiskröfunni, sem hann leggur til grundvallar fjárfestingunum. Það er engin ástæða til að ætla, að gjaldskrár dreifiveitnanna muni lækka við tilkomu embættis Landsreglara.
Ef miðað er við viðmiðunar húsnæði Byggðastofnunar og Orkustofnunar, 140 m2 og 350 m3, 4,5 MWh/ár í almenna notkun og 28,4 MWh/ár til húshitunar, þá virðist raforkunotkun í dreifbýli án húshitunar kosta 60 kISK/ár meira en í þéttbýli eða 32 % m.v. sömu notkun. Þessi munur er í raun mun meiri vegna þess, að í dreifbýli er yfirleitt um atvinnurekstur að ræða á sveitabýlum, og rafmagnsnotkun er þess vegna engan veginn bundin við íbúðarhúsið. Hjá hverri sveitafjölskyldu gæti rafmagnsnotkunin numið 15 MWh/ár án rafhitunar. Þá nemur kostnaður í dreifbýli án rafhitunar 200 kISK/ár umfram raforkukostnað þéttbýlisfjölskyldu.
Þá er komið að húshitunarkostnaðinum. Umframkostnaður beinnar rafhitunar ofangreinds húsnæðis m.v. sama orku-, flutnings- og dreifingarkostnað virðist nema um 80 kISK/ár umfram hitaveitukostnað eða 46 %. Það er hægt að draga úr þessum mun og spara allt að 60 % rafkyndingarkostnaðar með uppsetningu varmadælu fyrir upphitað húsnæði og spara þannig 48 kISK/ár og í raun mun hærri upphæð vegna stærra húsnæðis, sem er upphitað í dreifbýli, e.t.v. 100 kISK/ár.
Hér er um aðstöðumun fólks á "heitum" og "köldum" svæðum að ræða, sem eðlilegt er, að ríkissjóður leitist við að jafna. Innkaupastofnun ríkisins gæti boðið út varmadælur og afhent þær þeim endurgjaldslaust, sem gera samning um varmadæluvæðingu húsnæðis síns á "köldum" svæðum. Þetta er aðeins raunhæft, þar sem dreifiveita afhendir þriggja fasa rafmagn, því að þriggja fasa búnaður er mun ódýrari í stofnkostnaði og rekstri.
Raforkuviðskiptin minnka við þetta, en á móti koma orkuskiptin, sem munu vega þessa minnkun upp og eru illmöguleg í dreifbýli án þriggja fasa rafmagns.
Nú vaknar spurningin, hvernig orkukostnaðinum mun víkja við, ef Ísland gengur ACER/ESB á hönd og hingað verður lagður sæstrengur frá útlöndum. Flutningsgeta slíks sæstrengs gæti numið 1400 MW eða yfir 50 % af uppsettu afli á Íslandi. Í Noregi er hlutfall flutningsgetu millilandatenginga um 20 %, en samt hefur orðið þar yfir 100 % hækkun í vetur á verði raforku frá virkjun til almennings.
Þar leggjast á eitt minna orkuframboð innanlands vegna þurrka í sumar, mikil upphitunarþörf húsnæðis vegna kulda, vindstillur og miklar raforkuverðshækkanir í ESB. NVE, orkustofnun Noregs, hefur nú fundið það út, að verðlagsáhrif utanlandstenginganna eru tvöfalt meiri í Noregi en stofnunin hafði áður reiknað með. Þegar verðið varð hæst nú í byrjun febrúar, brá rafbílaeigendum heldur betur í brún, því að orkukostnaður þeirra gat jafnast á við orkukostnað sparneytinna eldsneytisbifreiða, nema þeir gættu þess að hlaða bíla sína utan álagstíma.
ACER krefst þess, að flutningsmannvirki innanlands að tengistað millilandatengingar sé kostuð af raforkunotendum innanlands. Þetta mun hækka flutningsgjald Landsnets til almennings og stóriðju um tugi prósenta. Þá er ekki ólíklegt, að Landsreglarinn skipi svo fyrir, að gjaldskrár dreifiveitna verði hækkaðar til að auka arðsemi þeirra og auka hvatann til framkvæmda. Í heild er varlega áætlað, að þessar hækkanir, sem allar má rekja beint til innleiðingar Þriðja orkupakkans, muni að jafnaði yfir árið hækka raforkukostnað almennings hérlendis um 50 %-100 %. M.v. raforkuviðskipti almennings, fjölskyldna og fyrirtækja, næmi þessi hækkun að lágmarki 32 mrðISK/ár eða um 360 kISK/ár á hverja fjagra manna fjölskyldu.
Þetta er svo mikil hækkun, að hún mun klárlega reynast mörgum fjölskyldum þung í skauti og valda stöðvun á rekstri sumra fyrirtækja. Geta þeirra allra til launahækkana og fjárfestinga mun minnka, þannig að lífskjörin í landinu hríðversna. Þau eru m.a. háð lágu raforkuverði. Þess vegna er það almenningi í hag að halda áfram að miða við lága ávöxtunarkröfu orkumannvirkja. Yfir endingartíma þeirra verður ávöxtunin samt mjög góð, því að hann er miklu lengri en bókhaldslegur afskriftartími mannvirkjanna. Stjórnvöldum verður óheimilt að niðurgreiða orkuverðið, því að slík ríkisaðstoð felur í sér óleyfilega mismunun samkvæmt EES-samninginum. Hækkunin er gjörsamlega þarflaus, því að kostnaðaraukinn er óþarfur og ekki í neinu samræmi við verðhækkunina. Hér er um svikamyllu að ræða.
8.2.2019 | 10:39
Ætluð framtíðarsýn ESB í orkumálum
Orkumál skipa veglegan sess hjá Evrópusambandinu, ESB, vegna þess, að þar á bæ hafa menn fyrir löngu skynjað ógnina, sem afkomuöryggi Evrópu vestan Rússlands stafar af orkuskorti í bráð og lengd. Í bráð getur hann stafað af pólitískum refsiaðgerðum Rússlands, eins og dæmin sanna, en um fjórðungur af öllu eldsneytisgasi, sem brennt er í ESB-löndunum, kemur frá Rússlandi, og hlutfallið gæti vaxið, þegar Nord Stream #2 lögnin verður tekin í notkun 2019-2020.
Að frumkvæði ESB er verið að leggja aðra lögn til ESB-landanna í suð-austri frá löndum sunnan Rússlands við Kaspíahafið. Framboð jarðefnaeldsneytis mun dragast saman til lengdar litið, og ESB hefur skapað orkumarkað í aðildarlöndunum, sem með hækkandi orkuverði á að skapa nægilegan sterkan hvata til að þróa sjálfbæra orkugjafa, sem leyst geti jarðefnaeldsneytið af hólmi.
Þannig er langtímastefna ESB sú í orkumálum, að EES-svæðið verði sjálfu sér nægt um sjálfbæra orku. Umhverfisvernd er ekki gild ástæða að Evrópurétti sem útflutningshindrun orku. Með áherzlu ESB á orkupakkann er verið að tryggja Framkvæmdastjórninni tögl og hagldir á orkumarkaði alls Evrópska efnahagssvæðisins, fulla nýtingu allra endurnýjanlegra orkulinda á svæðinu, afnám flöskuhálsa í flutningi orku á milli landa og þar með í raun orkuflutning frá jöðrum EES og inn að miðjunni, þar sem mesta og verðmætasta framleiðslugeta auðjöfranna, sem stjórna ESB í raun, er staðsett.
Stefnumarkendur ESB sjá fyrir sér mikla hækkun eldsneytisverðs, þegar þekktar orkulindir taka að dvína. Þeir vita, að það er kapphlaup við tímann að þróa kolefnisfrí orkuver, sem nýta orkugjafa, sem ekki er hörgull á. Til að flýta þessari þróun er tekið að gera notkun jarðefnaeldsneytis dýrari en efni standa til, markaðarins vegna. Það er gert með úthlutun koltvíildiskvóta og síðan hækkun á verði umframlosunar koltvíildis.
Hlutverk Íslands í þessari ætluðu sviðsmynd ESB er að virkja sem allra mest af endurnýjanlegum orkulindum sínum, þar sem jarðgufan er talin vera endurnýjanleg, og síðan að senda raforkuna út með sæstreng í átt að auðlegðarmiðju Evrópu. Þetta er slæm viðskiptahugmynd vegna þess, að lengsti sæstrengur í heimi, og á að jafnaði mesta dýpinu undir illviðrahafi, býður upp á rekstrartruflanir, langvinnar og dýrar viðgerðir, gríðarleg orkutöp og háan stofnkostnað.
Fyrir Íslendinga verður slíkt verkefni ekki þjóðhagslega hagkvæmt fyrr en evrópskt orkuverð hefur 2,5 faldazt m.v. núverandi stöðu. Það kann að koma að því, en það verður þá áreiðanlega skammært, því að ekkert hagkerfi getur keppt á þeim grundvelli við umheiminn. Orkuskipti Evrópu, reist á umhverfisvænni tækni í einingum á borð við núverandi kjarnorkuver, um 2 GW, munu gera slíkan sæstreng algerlega verðlausan og verkefnalausan.
Ef hérlendir menn vilja taka þátt í orkuskiptunum með Evrópu, létta undir bagga með henni og samtímis stunda arðbæra framleiðslu og viðskipti, er nær að virkja fyrir vetnisverksmiðju og flytja þann hluta framleiðslunnar, sem ekki er þörf fyrir hér, t.d. til Norð-Austur Englands, þar sem áform eru uppi um að leysa jarðgas til húshitunar af hólmi með vetni.
Jónas Elíasson, prófessor emerítus við Verkfræði- og náttúruvísindadeild HÍ, skrifaði athyglisverða grein,
"Þriðja þverbeygjan í orkumálum",
sem birt var í Morgunblaðinu 30. janúar 2019. Þar voru orkumálin reifuð í ljósi Þriðja orkupakka ESB, sem Jónas varar Alþingismenn sterklega við að innleiða á Íslandi. Nú verður gripið niður í grein hans:
"Það er samt greinilegt, að almenningur, einkum sá hluti hans, sem fæst við stjórnmál, botnar ekkert í þessum pakka. Þetta kemur greinilega fram í endurteknum fullyrðingum alþingismanna og ráðherra: Þó [að] við samþykkjum orkupakkann, þarf ekki að leggja neinn sæstreng til útlanda. Hvað er rangt við þetta ? Málinu er þveröfugt farið. Ef við leggjum engan sæstreng til útlanda, þarf engan orkupakka; hann verður bara til trafala. Orkupakkanum er ætlað að undirbúa komu okkar inn á evrópska raforkumarkaðinn, sem er miðstýrt frá Ljubljana í Slóveníu.
Ef við tengjumst ekki þeim Evrópumarkaði, þ.e.a.s. leggjum ekki sæstreng, er bezt að vera utan áhrifasvæðis þeirrar miðstjórnar. Það er bezt fyrir okkur og bezt fyrir Ljubljana. Norðmenn gætu reiðst okkur og rekið landið úr EES, segja einhverjir á Alþingi. Þetta er hræðsluáróður, sem ekkert er á bakvið."
Allt er þetta hárrétt hjá Jónasi. Þingmenn, sem enn hafa ekki tekið afstöðu gegn Orkupakka #3, verða að íhuga þessi orð Jónasar og gera sér grein fyrir eðli málsins. Orkupakkinn er sniðinn til að greiða götu millilandatenginga í ESB til að varna staðbundnum orkuskorti og til að auðvelda og flýta fyrir orkuskiptunum, sem verða ESB-löndunum þung í skauti vegna þess, hversu jarðefna eldsneytisdrifin hagkerfi þeirra eru.
Dágóður meirihluti íslenzku þjóðarinnar virðist vera algerlega andsnúinn tengingu raforkukerfis landsins við útlönd. Þar af leiðandi er ólýðræðislegt með öllu, að þingheimur samþykki lagasetningu, sem auðveldar ríkjasambandi að hafa áhrif, jafnvel úrslitaáhrif, á það, að hingað verði í fyllingu tímans lagður sæstrengur til þess eins að fegra orkubókhald viðtakandans. Þessi gjörningur mun ekki fegra orkubókhald Íslands, heldur þvert á móti, og hleypa raforkuverðinu upp úr öllu valdi, á meðan áhugi er á þessum millilandaviðskiptum með rafmagn.
Það fer að verða tímabært að kryfja þingmennina um afstöðu þeirra til þessa óláns Orkupakka #3, svo að þeir, sem velja fólk á framboðslista fyrir næstu Alþingiskosningar og aðrir kjósendur, viti, hvernig forgangsröðun frambjóðendanna er háttað, þ.e. með hagsmunum almennings eða með hagsmunum ESB, orkuseljenda og braskara.
Um þetta reit Jónas:
"Ef orkupakkinn verður samþykktur, mun skapast mikill og viðvarandi þrýstingur á að leggja sæstreng. Hann mun vara, þangað til sæstrengurinn kemur, því að orkuverð á hinum endanum er mun hærra en hér."
Þetta er laukrétt. Æstustu fylgismenn Þriðja orkupakkans hérlendis halda því jafnvel fram, að Íslendingar geti ekki neitað viðtöku slíks sæstrengs, ef farið verður fram á slíkt nú, væntanlega af einhverjum fjárfesti, með stuðningi ACER.
Þetta er misskilningur, sem stafar af því, að innleiðing Evrópuréttar yfir íslenzkum orkumarkaði náði ekki yfir millilandatengingar með Fyrsta og Öðrum orkumarkaðslagabálkimum. Úr þessu var ráðin bót með Þriðja orkupakkanum, eins og norski lagaprófessorinn, Peter Örebech, hefur sýnt fram á í greinargerð sinni frá 23. september 2018, sjá viðhengi, t.d. bls. 11. Að Evrópurétturinn spanni millilandatengingar fyrir rafmagn, þýðir m.a., að lýðræðislega kjörnum yfirvöldum hvers ríkis EES verður óheimilt að torvelda eða koma í veg fyrir millilandaviðskipti með rafmagn, sem til þess bær aðili kann að vilja koma á, sbr EES-samninginn, gr. 11 og 12.
Þar sem íslenzk löggjöf gildir nú um þetta svið hérlendis, millilandatengingar, geta íslenzk stjórnvöld núna hafnað umsókn um slíkan sæstreng. Orðagjálfur að hálfu þeirra, sem með trúarhita rembast, eins og rjúpan við staurinn, við að "sýna fram á", án nokkurra haldbærra raka, að innleiðing Orkupakka #3 muni nánast engu breyta í lagalegu tilliti hérlendis, er algerlega út í loftið.
Annað mikilvægt atriði, sem Orkupakki #3 breytir, eins og prófessor Peter Örebech leiddi glögglega í ljós í fyrirlestri sínum í Háskóla Íslands, 22. október 2018, er stjórnun innleiðingar á frjálsum uppboðsmarkaði rafmagns í orkukauphöll, og síðan eftirlit með rekstri hennar og virkni. Gapuxarnir, sem hæst láta og telja goðgá að vinda ofan af mistökum Sameiginlegu EES-nefndarinnar 5. maí 2017, með því að Alþingi synji Orkupakka #3 staðfestingar, virðast ekkert botna í því, hvað þetta markaðsmál raforku snýst um, en vaða í villu og svíma áfram, eins og þeir gefi sér, að markaðskerfi ESB hljóti að henta almenningi hér á Íslandi. Það hefur verið sýnt fram á, að við íslenzkar aðstæður er markaðsfyrirkomulag þetta stórvarasamt atvinnurekstri á Íslandi og hag almennings. Þetta skilur hins vegar Jónas Elísson, prófessor emerítus í verkfræði, mæta vel og skrifar:
"Ef svona ástand [enginn ábyrgur fyrir því að eiga vatn í miðlunarlónum] leiðir til þess, að virkjanir standa vatnslausar í einhvern tíma, verður orkuskortur. Síðasta dæmi um slíkt er, þegar RARIK tæmdi Smyrlabjargalón 1976, Hornafjörður varð rafmagnslaus og fullt af fólki flúði heimili sín."
Síðan hélt Jónas áfram að fjalla um markaðsmál rafmagns og um mikinn ábyrgðarhluta iðnaðarráðherra og annarra Alþingismanna, ef þeir hundsa ráðleggingar þeirra, sem gerst mega vita, við afgreiðslu Orkupakka #3, og láta jafnvel nauðhyggju um Alþingi sem óvirka afgreiðslustofnun fyrir nefnd EFTA og ESB í Brüssel ráða för. Meira að segja Stórþingið, norska, virti svo viðundurslegan málflutning að vettugi fyrir nokkrum árum (pósttilskipun) og er líklegt til að endurtaka leikinn við afgreiðslu Járnbrautarpakka #4, sem er illa þokkaður í Noregi og fjallar um frjálsa samkeppni allra járnbrautarfyrirtækja EES á opinberum teinum Noregs og annarra EES-ríkja, þar sem járnbrautarteinar eru í eigu hins opinbera :
"Landsvirkjun hefur sinnt sínu hlutverki með prýði og landið haft nóg rafmagn. Auðvitað þarf að koma málum þannig fyrir, að Landsvirkjun geti selt orku, bæði til iðnaðar og útlanda, án þess að auka hættuna á orkuskorti. Það er lágmarkskrafa, að úr þessu verði bætt með viðeigandi lagasetningu áður en tenging inn á uppboðsmarkað ESB kemur til greina.
Auk þess er sala á rafmagni inn á uppboðsmarkað ESB samkvæmt reglum ACER í Ljubljana varhugaverð. Þá er verið að yfirgefa þá stefnu, að íslenzka orku skuli nota til atvinnuuppbyggingar innanlands fyrir fullt og allt. Fórnarlömbin verða almenningur og iðnaðurinn í heild sinni, ekki bara áliðnaðurinn og landbúnaður í gróðurhúsum. Þessar atvinnugreinar lifa ekki án orku á viðráðanlegu verði, eftir að Ísland verður framleiðandi hráorku fyrir uppboðsmarkað ESB; hann er ófær um að bjóða innlendum iðnaði orku á viðunandi verði. Skipaðar hafa verið nefndir og skrifaðar skýrslur af minna tilefni en þessu. Það verður að fresta þessu orkupakkamáli, svo [að] ríkisstjórnin nái áttum og geti undirbúið málið með fullnægjandi hætti."
(Undirstr. BJo.)
Það eru engin teikn á lofti um, að ríkisstjórnin undirbúi setningu einhverra lagalegra varnagla, sem tryggi hér í sessi nauðsynlega stýringu allra orkulinda landsins, sem nýttar eru til sölu raforku inn á stofnrafkerfi landsins. Hún virðist líka hafa heykzt á boðaðri lagasetningu um, að aflsæstrengur til útlanda útheimti samþykki Alþingis, enda væri slík lagasetning stjórnsýslulegt örverpi, þar sem um er að ræða málefni framkvæmdavaldsins. Um báðar þessar umræddu lagasetningar gildir, það sem prófessor Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, hefur gert grein fyrir, að með gildistöku Orkupakka #3 að vopni geta Landsreglari, ACER og Framkvæmdastjórnin hrundið slíkum lagasetningum Íslendinga fyrir ESA og EFTA-dómstólinum.
Þá vekur furðu sú kokhreysti iðnaðarráðherra að halda því enn til streitu, að ríkisstjórnin stefni að innleiðingu Orkupakka #3 á vorþingi eða haustþingi 2019, þrátt fyrir samþykkt Miðstjórnar Framsóknarflokksins í fyrrahaust um, að leita skuli samninga við EFTA/ESB um allsherjar undanþágu fyrir Ísland á þessum orkupakka gegn því, að hann verði formlega innleiddur án nokkurra skuldbindinga að Íslands hálfu. Þar með mundi hann öðlast gildi í EES utan Íslands. Stendur utanríkisráðuneytið e.t.v. í slíkum samningaviðræðum ? Hvers vegna heyrist hvorki stuna né hósti frá ríkisstjórninni um þessa blessuðu samþykkt ?
5.2.2019 | 15:19
Þrautalending pakkasinna
Stríður straumur umfangsmikillar löggjafar frá Evrópusambandinu-ESB hefur legið til Íslands, Noregs og Liechtensteins um farveg EES-samningsins um Evrópska efnahagssvæðið frá samþykkt ESB-landanna á stjórnarskrárígildi ESB 2007 um æ nánara samstarf ESB-landanna. Undantekningarlaust þýðir þetta aukna miðstýringu Framkvæmdastjórnarinnar í hverjum málaflokkinum á fætur öðrum.
Yfirleitt er hún innleidd með því að setja á laggirnar stofnun á viðkomandi sviði, sem heyrir beint undir framkvæmdastjórnina, t.d. Bankaeftirlitið, sem er hluti af áformuðu sameiginlegu bankakerfi ESB með einum innlánatryggingasjóði (eitur í beinum Þjóðverja), Persónuverndarráð, sem Persónuvernd á Íslandi heyrir undir, og ACER, sem er samráðsvettvangur landsreglara hvers aðildarríkis á sviði orkumála.
Stefnumótendur ESB telja orkumálin réttilega útheimta miðlæga stefnumörkun til langs tíma, því að orkuskortur ógnar meginlandinu vestan Rússlands í bráð og lengd og reyndar Bretlandi einnig vegna dvínandi olíu- og gaslinda neðansjávar í lögsögu Bretlands. Noregur er undantekning frá þessari reglu, enda hefur forysta ESB lagt ríka áherzlu á að ná Noregi inn fyrir sín vébönd (ACER).
Af Kerfisþróunaráætlun ESB að dæma virðist gæta vaxandi áhuga á Íslandi á orkusviðinu í Berlaymont, þótt Íslendingar ráði enn engum þekktum jarðefnaeldsneytislindum. Baráttan um ACER-aðild (Þriðja orkupakkann) er einnig vísbending um þetta, því að sendiherra ESB á Íslandi hefur blandað sér í þrætuna hérlendis. ESB er þess vegna ekki sama, hvernig fer. Það þýðir hins vegar ekki, að ESB eigi að ráða þessum málalyktum.
Rökleysur, orðhengilsháttur og formsatriði án innihalds hafa einkennt málflutning sóknaraðila gegn fullveldi landsins á orkusviði, og þrautalending þeirra hefur verið að grípa til goðsagnarinnar um mikilvægi EES-samningsins fyrir hagsmuni landsins, og rekinn hefur verið hræðsluáróður um, að hann verði í uppnámi, ef Alþingi hafnar Orkupakka #3, þótt slíkt sé af og frá samkvæmt köldu mati út frá hagsmunum ESB í bráð og lengd.
Það er þess vegna rétt að líta á fáein mikilvæg atriði í sambandi við þennan EES-samning. Í ár eru 25 ár liðin frá því, að Norðmenn höfnuðu inngöngusamningi við ESB öðru sinni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Skömmu áður, eða 1992, var EES-samningurinn gerður, og hann var hugsaður sem aðlögunartæki að ESB fyrir eftirlegukindurnar í EFTA, sem þá voru, auk Norðmanna, Íslendinga, Svisslendinga og Liechtensteina, Svíar og Austurríkismenn. Því er vísað á bug af áköfum talsmönnum EES-samningsins að endurskoða þennan samning, og þeir halda því fram, að ekkert jafngott geti komið í staðinn. Þetta er tómur tilbúningur.
Noregur borgar til uppihalds EES-samningsins og í sjóði ESB árlega u.þ.b. mrdNOK 10,9 (sjá viðhengi með þessum pistli), jafngildi um mrðISK 160. Íslendingar borga miklu minna beint þarna inn, en rekstrarkostnaður samningsins fyrir Ísland hefur verið áætlaður 22 mrðISK/ár. Tilfinnanlegastur er þó óbeini kostnaðurinn, sem stafar af risavöxnu reglugerðafargani (a.m.k. 12000 gerðir og tilskipanir ESB hafa verið færðar inn í viðhengi EES-samningsins), sem er svo íþyngjandi fyrir íslenzk fyrirtæki og stofnanir, að taldar eru draga úr árlegri framleiðniaukningu um 0,5-1,0 % (Viðskiptaráð Íslands). Þarna safnast upp gríðarlegar upphæðir, svo að þessi óbeini kostnaður er grafalvarlegur og sýnir, að viðskiptasamningur af þessu tagi er allt of dýru verði keyptur m.v. ávinninginn, eða 150-200 mrðISK/ár nú
Árið 2012 kom út í Noregi skýrslan "Alternativer til dagens EÖS avtale" sem framlag til umræðu um framtíðarstefnumörkun varðandi samskiptin við ESB. Skýrslan leiðir í ljós, að fyrir hendi eru nokkrir valkostir við núverandi EES-samning, sem síðan skýrslan var samin er orðinn miklu víðtækari fyrir EFTA-löndin þrjú. EES-samningurinn er orðinn of víðtækur og allt of íþyngjandi (sjá EES-leiðarvísi á norsku í viðhengi), svo að nauðsyn ber nú til að velja valkost, sem er þjóðréttarlegs eðlis, þ.e. felur ekki í sér framsal fullveldis ríkisins til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Ísland er ekki aðili.
Einn valkostur eru samningaviðræður við ESB, hugsanlega á vegum EFTA, eftir stefnubreytingu í Noregi, um minni EES-samning til að endurheimta lýðræðislega, innlenda ákvarðanatöku á mikilvægum sviðum.
Samkvæmt norskum prófessor í lögum við háskólann í Tromsö (UIT), Peter Th Örebech, er Noregur nú aðili að fjölda alþjóðlegra samninga við Alþjóða viðskiptastofnunina WHO, áður GATT, ásamt EFTA-samninginum. Hið sama er að segja um Ísland, Sviss og líklega Liechtenstein. Ísland og Noregur hafa líka gert tvíhliða viðskiptasamninga við önnur ríki og hafa haft svigrúm til þess, af því að þau eru ekki í tollabandalagi við ESB. Þessir samningar eru virkir, og engar ráðstafanir eru nauðsynlegar, sem að þeim lúta, þótt EES-samninginum verði sagt upp.
Ísland og Noregur gerðu tvíhliða viðskiptasamninga við þáverandi Efnahagsbandalag Evrópu (EBE) árið 1973, sem tryggði tollfrían aðgang að EBE-markaðinum fyrir allan iðnvarning. Þessi samningur er enn í gildi gagnvart ESB, og eftir honum er t.d. farið í viðskiptum með sjávarfang og landbúnaðarvörur. Eftir honum mætti fara að öllu leyti, ef EES-samninginum yrði sagt upp. Nýjan tvíhliða samning við ESB eða EFTA-ESB fríverzlunarsamning þarf að einskorða við afmörkuð svið, og hann verður að vera algerlega þjóðréttarlegs eðlis.
Varðandi samband Noregs við ESB er áhugavert að lesa skrif prófessor Örebechs um málið, því að þau geta að nokkru leyti átt við um Ísland einnig:
"Stefna ESB hefur verið að tryggja hráefnisflutninga til ESB. Veiði ESB-fiskiskipaflotans hefur farið minnkandi. Þetta hefur leitt til, að útflutningurinn til ESB hefur vaxið og ESB hefur vegna fiskiðnaðar síns afnumið tollinn á fiski um ótilgreindan tíma. Við getum þannig slegið föstu, að minnkandi geta ESB-landanna til að afla hráefna á borð við fisk, olíu og gas, fyrir iðnað sinn og neytendur, muni gera ESB háðari Noregi í framtíðinni án tillits til þess, hvað verður um EES-samninginn."
Við þessa vöruflokka, sem æ meiri þörf er á í ESB, má bæta áli og kísli. Samkvæmt prófessor Örebech er vel mögulegt að útbúa heildstæðan samningsramma um samninga Noregs við ESB-án þess að slíkt feli í sér náinn samruna við ESB. Hið sama ætti þá að eiga við um Ísland. Þá verður að fjarlægja sérkenni EES-samningsins, þ.e.a.s. ESA, EFTA-dómstólinn og ákvæðin um, að allt regluverk frá ESB, sem talið er, að eigi við um EFTA-löndin í EES, komi á færibandi til þeirra (meira en 12000 hingað til).
Því fer víðs fjarri, að EES-samningurinn sé upphaf og endir alls í samskiptum Íslands og ESB í viðskiptalegu tilliti. Hræðsluáróðurinn um, að EES-samstarfið verði í uppnámi, ef Alþingi synjar Þriðja orkupakka ESB staðfestingar, er skot villuráfandi sálna út í myrkrið.
3.2.2019 | 13:33
Tvenns konar rök
Í megindráttum hafa komið fram tvenns konar rök gegn innleiðingu Orkupakka #3. Í fyrsta stjórnlagaleg rök, sem snúa að of víðtæku og íþyngjandi framsali ríkisvalds fyrir þegnana, sem íslenzka Stjórnarskráin heimilar ekki, og í öðru lagi fæli innleiðing Evrópuréttar á sviði orkuflutninga á milli landa í sér undirtök Evrópusambandsins, ESB, á raforkumarkaðinum hér, og að því hafa verið leidd traust rök, að markaðskerfi ESB á Íslandi mundi hafa í för með sér viðsjárverða hækkun rafmagnsverðs án sæstrengstengingar og enn meiri hækkun með sæstrengstengingu, eins og dæmin sanna frá Noregi.
Iðnaðarráðherra heldur því blákalt fram, að Orkupakki #3 feli ekki í sér marktækt frávik frá stefnu íslenzkra stjórnvalda hingað til. Þar á hún áreiðanlega við innleiðingu Orkupakka #1 og #2. Þetta er þó mikill misskilningur og vanmat á ætlunarverki ESB hjá henni og ráðuneytisfólki hennar, því að frá Orkupakka #2 og til Orkupakka #3 varð eðlisbreyting á stefnu ESB í orkumálum. Lissabon-samningurinn, stjórnarskrárígildi ESB, þar sem m.a. er kveðið á um tilfærslu valda yfir orkumálunum frá aðildarlöndunum og til stofnana ESB, gekk í gildi. Forskrift ESB um tilhögun orkumálanna varð ekki lengur valkvæð fyrir aðildarlöndin, heldur skylda að viðlögðum refsingum, eins og þegar hafa komið fram sem sektir ACER/ESB í milliríkjadeilum aðildarlandanna um millilandatengingar. Tilgangurinn helgar meðalið hjá Framkvæmdastjórninni ("Der Erfolg berechtigt das Mittel"), þegar um er að ræða forgangsmál á borð við orkumálin hjá ESB. Vegna ógnvænlegrar stöðu orkumálanna í ESB verður einskis svifizt að hálfu Framkvæmdastjórnarinnar við að fá vilja sínum framgengt um að nýta alla tiltæka endurnýjanlega orku í Evrópu vestan Rússlands fyrir vöruframleiðslu sambandsins. Evrópuréttinum verður beitt til hins ýtrasta með ESB- og EFTA-dómstólinum sem úrskurðaraðila og spilað verður á hagsmunaöfl innan hvers ríkis. Öllu, nema vopnaðri innrás, verður beitt.
Með Orkupakka #3 var hert á "samrunaferlinu". Í Orkupakka #2 er hverju ríki eftirlátið að ákveða sjálft með hvaða hætti það aðlagast innri orkumarkaðinum. Í tilviki Íslands þýddi þetta, að svigrúm til að þróa auðlindastýringu að þörfum hins sérstæða íslenzka raforkukerfis var fyrir hendi. Með Orkupakka #3 er miðstýringarvald Framkvæmdastjórnarinnar aukið verulega með stofnun ACER og handlangara hennar í hverju landi, Landsreglaranum, sem þýðir m.a., að engin grið eru gefin við að samræma orkumarkaði aðildarlandanna. Á frjálsum raforkumarkaði í anda ESB telst það vera brot á samkeppnisreglum að viðhafa miðstýrða auðlindastýringu, sem felur í sér að nýta tiltækt miðlunarvatn sem bezt fyrir orkukerfið allt árið um kring og að nýta virkjuð jarðgufusvæði með sjálfbærum hætti. Þess vegna hentar frjáls raforkumarkaður í anda ACER (Orkustofnunar ESB) illa hérlendis og getur leitt til hækkaðs raforkuverðs vegna orkuskorts og fákeppni. Samþykkt Orkupakka #3 jafngildir tilræði við hagsmuni almennings á Íslandi í bráð og lengd.
Ein róttækasta nýjungin með Orkupakka #3 er embætti Landsreglara, sem verður framlengdur reglusetningararmur ESB á Íslandi, hvað sem líður milliliðnum EES (Eftirlitsstofnun EFTA). Landsreglarinn verður í raun með ráðherravald, og til hans færast völd iðnaðarráðuneytisins yfir orkumálum á Íslandi. Hann verður í orðsins fyllstu merkingu Trójuhestur í íslenzkri stjórnsýslu. Meginhlutverk Landsreglarans er að vera farvegur fyrir bein áhrif Framkvæmdastjórnarinnar á alla þætti, er varða viðskipti með rafmagn á innri markaðinum. Slíkt framsal ríkisvalds er í blóra við Stjórnarskrána.
Þótt íslenzki markaðurinn sé ótengdur öðrum raforkumörkuðum með aflsæstreng, verður hann samt að lúta sömu lögmálum og markaðir meginlandsins eftir innleiðingu Orkubálks #3, þannig að hann sé að fullu aðlagaður Innri markaðinum, ef/þegar til kemur, og notendur venjist miklum orkuverðssveiflum. Bæði miðlun vatns um virkjanir úr miðlunarlónum og gufuflæði úr forðageymum jarðgufuvirkjana eru algerlega háð ákvörðunum um raforkuvinnslu, sem teknar eru á ESB-markaðinum. Er þá lengur hægt að halda því fram, að nýting orkulinda Íslands verði í höndum íslenzkra stjórnvalda ? Landsreglarinn hefur daglegt eftirlit með virkni markaðarins og hefur þannig hönd í bagga með auðlindanýtingunni. Markaðshlutdeild Landsvirkjunar verður án efa þyrnir í augum Landsreglarans, enda í blóra við samkeppnisreglur Evrópuréttarins, að eitt fyrirtæki hafi svo ríkjandi stöðu á markaðinum, sem hæglega getur leitt til misnotkunar hans. Verði gengið til bols og höfuðs á fyrirtækinu, opnast auðvitað möguleiki fyrir orkufyrirtæki eða aðra fjárfesta í EES að eignast hér virkjanir. Orkulind og virkjun verður ekki sundur skilin á Íslandi. Ætla þingmenn að bjóða hættunni heim ?
Um muninn á orkustefnu ESB fyrir Orkupakka #3 frá 2009 og eftir hann skrifaði Elías B. Elíasson á minnisverðan hátt í lokaorðum í Morgunblaðsgrein sinni,
"Að misskilja "rétt"",
þann 25. janúar 2019:
"Þegar orkulögin voru samþykkt árið 2003, blasti við allt annar veruleiki en nú á innri orkumarkaði ESB. Þriðji orkupakkinn mun veita ESB raunyfirráð yfir íslenzkum auðlindum, sem gera eignarrétt okkar að sýndarrétti, þegar fram líða stundir.
Við sjáum sívaxandi miðstýringaráráttu ESB í orkumálum, en sjáum enga enda á þeirri þróun. Sú stefna ESB, sem kemur fram í þriðja orkupakkanum, er sjálfræði okkar hættuleg, og því verður að fella pakkann."
Það er engum blöðum um það að fletta af þessum lýsingum, að fullveldisframsalið til Framkvæmdastjórnar/ACER og Landsreglarans verður verulegt á lykilsviði íslenzks efnahagslífs og má líkja við það að afhenda Framkvæmdastjórninni réttinn til fiskveiðistjórnunar í íslenzku landhelginni ásamt yfirstjórn Landhelgisgæzlunnar. Landsreglarinn mun í raun ráða gjaldskrám dreifiveitnanna og Landsnets, og hann getur krafizt upplýsinga frá öllum orkufyrirtækjunum að viðlögðum sektum, ef þau bregðast ekki rétt við í tæka tíð. Valdframsalið er þess vegna verulega íþyngjandi fyrir fyrirtæki og íbúa landsins. Slíkt framsal ríkisvalds er með öllu óheimilt samkvæmt Stjórnarskrá Íslands. Vissara er að taka mark á varúðarráðstöfunum, sem í henni eru fólgnar, en láta ekki skeika að sköpuðu.
Þar að auki flyzt dómsvaldið úr landi með innleiðingu Evrópuréttar á sviði millilandatenginga fyrir rafmagn. Heyrzt hefur um áhuga á Bretlandi fyrir "Icelink", sem er verkefnisheiti aflsæstrengs á milli Íslands og Bretlands, og er þetta verkefni í Kerfisþróunaráætlun ESB. Sem kunnugt er, er Bretland á leið út úr ESB, og það er ekki vitað enn, hvernig aðild þeirra að ACER-Orkustofnun ESB mun reiða af. Það gæti farið svo, að ESB felli þessa sæstrengstengingu út úr Kerfisþróunaráætlun sinni eða flytji syðri lendingarstað strengsins annað, t.d. til Írlands. Ef ESB fellur alfarið frá stuðningi við þetta verkefni, minnka líkur á, að fjárfestar fáist til verksins. Það er þó alls ekki útilokað, því að líkurnar á umtalsverðum orkuverðhækkunum í Evrópu vestan Rússlands eru enn fyrir hendi, og við u.þ.b. 50 % hækkun gætu strengur og orkusala frá Íslandi staðið undir fjárfestingunum, þótt orkusalan verði víðs fjarri því að verða þjóðhagslega hagkvæm hérlendis. Enginn aðili á Bretlandi hefur tjáð sig fúsan til að ábyrgjast fast verð, sem verkefnið þarfnast, og þess vegna er mikil óvissa um þetta verkefni ríkjandi.
Fari hins vegar svo, að umsókn um lagningu og tengingu sæstrengs, sem lýtur reglum Evrópuréttarins, berist íslenzkum yfirvöldum, og þau hafni umsókninni á forsendum, sem Landsreglarinn/ACER telur stangast á við reglur Evrópuréttarins, þá er komin upp réttaróvissa, sem verður varla vísað til íslenzkra dómstóla, heldur til ESA, og deiluaðilar geta þá aðeins afrýjað úrskurði ESA til EFTA-dómstólsins.
Þannig mun innleiðing Orkupakka #3 ásamt seinni gerðum og tilskipunum, sem eru eðlilegt framhald lagasetningar ESB frá 2009, t.d. gerðar 347/2013, leiða til framsals dómsvalds á málefnasviði, sem hefur grundvallar þýðingu fyrir þróun íslenzks efnahagslífs og þar með fyrir hag fólksins í landinu. Það er óásættanlegt, að íslenzkur réttur verði tekinn úr sambandi varðandi deilumál, þar sem svo mikið er í húfi, enda stríðir það að margra mati gegn Stjórnarskránni.
31.1.2019 | 13:46
Talsmenn Orkupakka #3 hér og þar
Einn er sá hagsmunahópur í Noregi og á Íslandi, sem heldur uppi áróðri fyrir innleiðingu EFTA-landanna í EES á Orkupakka #3 á mjög svipuðum nótum í báðum löndunum, en það er orkugeirinn sjálfur eða hluti af honum. Hérlendis hefur t.d. mátt greina hliðholla afstöðu til orkupakkans hjá aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, Rögnu Árnadóttur, sem heldur því jafnan fram, að áhrif innleiðingar verði lítil hérlendis, og hjá forstjóra Landsnets, Guðmundi Inga Ásmundssyni, sem mærði frjálsa samkeppni með raforku í orkukauphöll í Fréttablaðinu, 26. janúar 2019, en það er einmitt fyrirkomulag í anda Þriðja orkupakka ESB.
Norska orkugeiranum er mikið í muna, að Þriðji orkupakki ESB öðlist lagagildi í Noregi, en það gerir hann ekki, nema Alþingi staðfesti hann, þótt hann muni hafa miklu alvarlegri áhrif á Íslandi en í Noregi, þar sem Norðmenn eru nú þegar með orkukauphöll í anda ESB og fjölda millilandatenginga, bæði í lofti og í sjó. Þann 17. janúar 2019 birti Energi Norge, sem eru samtök raforkufyrirtækja í Noregi í vinnslu, flutningum og dreifingu, greinargerð, sem þau hafa líklega keypt af norska lagaprófessornum Henrik Björnebye. Hér verða rýndar 6 fullyrðingar þessa prófessors við lagadeild Óslóarháskóla:
- "EES-löndin halda fullum umráðarétti yfir náttúruauðlindum sínum-alveg eins og öll aðildarlönd ESB. Grein 125 í EES-samninginum tryggir EFTA-löndunum möguleikann á opinberu eignarhaldi á náttúruauðlindum, eins og viðgengst í Noregi með vatnsaflið."----Hér er tvennt að athuga fyrir Ísland. Frumorkan er eignaréttarlega samtvinnuð virkjuninni. Sá, sem kaupir vatnsréttindi eða jarðgufuréttindi fyrir virkjun sína, eignast ráðstöfunarrétt yfir viðkomandi orkulindum. Í ESB er algengast, að eldsneytismarkaðirnir sjái fyrir útvegun frumorkunnar, svo að orkumarkaðslíkan ESB er sniðið við allt aðrar aðstæður en hér. Í annan stað er ekki þjóðareign á orkulindum á Íslandi, svo að það er ekkert gagn að gr. EES 125 á Íslandi til að verjast erlendri ásælni í orkulindirnar. Hið sama gildir í raun í Noregi. Þar hafa þýzkir fjárfestingarsjóðir nýlega keypt fjölda smávirkjana vatnsafls í rekstri og byggingu. Þessar virkjanir hafa vart borið sig til þessa, svo að Þjóðverjarnir veðja augljóslega á mjög hækkandi raforkuverð í Noregi, eins og birtingarmynd hefur sézt af í vetur. Útlendingar hafa líka reist vindorkugarða í Noregi, m.a. á hálendinu, sem eru Norðmönnum mikill þyrnir í augum. Augljóslega er þessi þróun mála hagsmunum almennings andstæð, þótt ríkisfyrirtækið Statkraft framleiði þriðjung norskrar raforku.
- "EES-löndin ráða sjálf ákvörðunum um aflsæstrengi eða ekki - alveg eins öll ESB-aðildarlöndin." ---- Hér er Landsreglarinn greinilega talinn með til stjórnsýslu landanna, þótt líkja megi honum við Trójuhest ESB innan stjórnsýslu hvers lands. Sérstaklega á það auðvitað við um EFTA-löndin. Landsreglarinn á að fylgja því eftir í hverju landi, að Kerfisáætlun Landsnets hvers lands búi í haginn fyrir verkefni í Kerfisþróunaráætlun ESB um samtengingar orkukerfanna. Um þetta er getið í ESB-gerð 347/2013, og hún verður áreiðanlega innleidd í kjölfar Orkupakka #3. Ef sæstrengur til Íslands er í Kerfisþróunaráætlun ESB, sbr Icelink, og framkvæmdaaðili sækir um leyfi til að leggja hann, þá varðar höfnun Orkustofnunar eða bann Alþingis einfaldlega broti á EES-samninginum og Evrópurétti eftir innleiðingu Orkupakka #3. Slíkur ágreiningur lendir endanlega fyrir ESB-dómstólinum í tilviki ESB-landa og fyrir EFTA-dómstólinum í tilviki EFTA-landa. Þetta er óvéfengjanlegt. Björnebye reynir að breiða yfir þessa grafalvarlegu staðreynd með óljósu orðalagi.
- "EES-löndin ákveða sjálf, hvaða innlenda stjórnvald á að bera ábyrgð á að meta og samþykkja ný sæstrengsverkefni eða hafna þeim. Í Noregi er þetta vald hjá Olíu- og orkuráðuneytinu. ACER getur ekki haft áhrif á þetta." ---- Hér er aðeins hálf sagan sögð hjá Björnebye. Landreglarinn fylgist auðvitað náið með afgreiðslu umsóknar um aflsæstrengsleyfi, eins og honum ber að gera, þar sem Kerfisþróunaráætlun ESB á í hlut. Hans fyrsta verk eftir höfnun Orkustofnunar/iðnaðarráðuneytis á slíkri umsókn verður að tilkynna hana til ACER, sem tekur þá ákvörðun um framhaldið í samráði við framkvæmdastjórn ESB. Það liggur beint við að kæra höfnun til ESA sem brot á skuldbindingum Íslands. Lagasetning Alþingis hefur engin úrslitaáhrif í þessu sambandi, þar sem innlend löggjöf víkur fyrir Evrópurétti samkvæmt EES-samninginum.
- "Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn er reistur á grundvallaratriðum, sem þegar hafa verið innleidd og hafa tekið gildi samkvæmt Öðrum orkumarkaðslagabálkinum. Það er sem sagt ekki um að ræða að fara inn á innri orkumarkað ESB, heldur fremur að halda áfram og þróa núverandi tengingu okkar við þennan markað." ---- Það eru ýmsar leiðir færar til að hrekja þessa staðhæfingu. T.d. hefur norski lagaprófessorinn Peter Örebech sýnt fram á, að með samþykkt Orkupakka #3 tekur Evrópurétturinn gildi fyrir millilandaorkutengingar landanna, en hann er ekki við lýði nú fyrir millilandatengingar Noregs, eins og ljóst má vera af rekstri kerfisins og umræðunni í Noregi. Þetta jafngildir grundvallarbreytingu á réttarstöðu EFTA-landanna á þessu sviði. Að öðru leyti er mest sannfærandi í þessu sambandi að vitna í Morgunblaðsgrein Elíasar B. Elíassonar frá 25. janúar 2019:"Að misskilja "rétt"": "Ráðuneytið virðist ekki skynja breytinguna frá stefnu framkvæmdastjórnar ESB í tilskipuninni, sem innleidd var hér með orkulögunum 2003 til þeirrar stefnu, sem boðuð er með þriðja orkupakkanum. Þar er horfið frá því að láta hvert ríki um að aðlagast stefnu innri markaðarins eftir aðstæðum og hagsmunum hvers og eins, en í stað þess skal veita framkvæmdastjórninni síaukið vald til miðstýringar. Þetta er grundvallarbreyting. Þegar orkulögin voru samþykkt 2003, voru rafmarkaðir með allt öðru sniði en nú. Samkvæmt þeim lögum virtist vera svigrúm til að koma á frjálsum uppboðsmarkaði með formi, sem gæti gengið upp hér, en svo er ekki lengur. Með þriðja orkupakkanum kemur landsreglari í öllum ríkjum ESB, sem hvarvetna gegnir því hlutverki að vera reglusetningararmur ACER. Ein meginskylda hans hér verður að vinna að uppsetningu á frjálsum markaði með sömu reglum og formi og nú er á rafmörkuðum ESB, en þeim mörkuðum er lýst í grein undirritaðs, "Rafmagn til heimila og útflutnings á markaði", á heimasíðu HHÍ, hhi.hi.is/vinnupappirar. Með fyrirkomulagi núverandi rafmarkaða Evrópu eru markaðslögmál virkjuð í þágu notenda ESB, en ekki okkar. Niðurstaða greinarinnar er, að vegna sérstöðu íslenzka orkukerfisins þá virkjast þessi sömu markaðslögmál ekki í þágu íslenzkra notenda með sama fyrirkomulagi. Innleiðing þess hér yrði skaðleg. Þetta fyrirkomulag verður samt innleitt hér, ef þriðji orkupakkinn hlýtur samþykki." Þessu vandamáli Íslendinga skautar Henrik Björnebye, hinn norski lögmaður, léttilega framhjá, því að hann er að skrifa fyrir norska hagsmunaaðila í raforkugeiranum, sem eiga þeirra hagsmuna að gæta, að verðið haldist sem hæst á norskum raforkumarkaði, og Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn tryggir þá hagsmuni í Noregi og á Íslandi með innleiðingu Evrópuréttar á sviði milliríkjaviðskipta með orku. Til að sýna enn betur, hversu forkastanlegt ráðslag það er hjá íslenzkum orkuyfirvöldum að berjast fyrir innleiðingu löggjafar, sem sýnt hefur verið fram á, að er hag almennings á Íslandi stórskaðleg, skal halda áfram að vitna í téða grein Elíasar: "Landsreglarinn mun taka yfir alla stjórn raforkumála frá ráðuneytinu, en staða hans er sett upp, svo [að] framkvæmdastjórn ESB hafi auðvelda leið til miðstýringar á öllu, er varðar viðskipti með rafmagn á innri markaðinum. Hér mun sú miðstýring einnig ná yfir auðlindavinnsluna vegna þess, hve nátengd hún er raforkuvinnslu." Þessar upplýsingar svara líka ágætlega klisjunni, sem fram kemur í lið 1 hér að ofan hjá Björnebye og algeng er hérlendis, að Orkubálkur #3 snerti ekki við auðlindastýringunni. Hann mundi vissulega gera það á Íslandi.
- "Nýjar reglur, reistar á Evrópuréttinum, s.s. netmálar og vinnureglur samkvæmt Orkupakka #3 ásamt nýlega samþykktum "Vetrarpakka" (Clean Energy for all Europeans) verða lagðar fram sem sjálfstæð mál til afgreiðslu hjá EES-löndum [EFTA] og ESB [væntanlega á Björnebye við Sameiginlegu EES-nefndina - innsk. BJo]. Þannig er ferlið fyrir allar nýjar ESB/EES-reglur." ---- Það er enginn ágreiningur um þetta, svo að eitthvað hafa boðin frá Íslandi til Energi Norge skolazt til. Því, sem hins vegar hefur verið haldið fram hér, er, að allar orkutengdar reglur, sem ESB hugsar sem viðbót við Orkupakka #3, t.d. gerð nr 347/2013, munu áreiðanlega verða samþykktar í Sameiginlegu EES-nefndinni og væntanlega staðfestar á þjóðþingunum, því að það væri með öllu órökrétt að samþykkja Orkupakka #3, en hafna því, sem við hann á að éta. Það gengur ekki upp.
- "Þótt Ísland muni ekki samþykkja Orkupakka #3, munu samt áfram verða í gildi ákvæði aðalsamnings EES um frjálst flæði vara, þjónustu, fjármagns og fólks ásamt regluverkinu um ríkisstuðning og sameiginlegar samkeppnisreglur." ---- Með þessu er Henrik Björnebye, lögmaður, að segja, að þrátt fyrir höfnun Alþingis á Orkupakka #3, verður samt "business as usual" innan EES. Það er í samræmi við málflutning andstæðinga innleiðingar Orkupakka #3 á Íslandi.
28.1.2019 | 11:07
Af vanhæfi og umkomuleysi á veginum breiða
Tómas Ingi Olrich gerir það ekki endasleppt, heldur ritaði tímamótagrein í Morgunblaðið, 23. janúar 2019, sem hann nefndi:
"Hinn beini og breiði vegur umkomuleysisins".
Þar vakti hann athygli á því, að landsmenn virðast, margir hverjir, fljóta sofandi að feigðarósi Evrópusambandsaðildar með gagnrýnislítilli og að sumra mati sjálfsagðri innleiðingu margra, stórra og smárra, Evrópugerða og ESB-tilskipana í EES-samninginn og þar með í íslenzka löggjöf. Þrátt fyrir stranga Stjórnarskrá, hvað framsal ríkisvalds varðar, hafa þingmenn ekki skirrzt við að samþykkja risastóra ESB-lagabálka, sem fela í sér framsal ríkisvalds til stofnana, þar sem Ísland er ekki fullgildur aðili, og þetta framsal spannar m.a. vald til íþyngjandi aðgerða gegn einstaklingum og fyrirtækjum og snertir þannig hag alls almennings. Hafa þingmenn þá gjarna skýlt sér á bak við aðkeypt lögfræðiálit stjórnarráðsins, þar sem skákað er í skjóli loðmullu um "takmarkað framsal".
Þegar horft er til Þriðja orkumarkaðslagabálksins í þessu sambandi, er erfitt að verjast samsæringskenningum um stórkapítal og skriffinnskubákn Berlaymont (aðalstöðvar ESB) gegn hagsmunum lítillar þjóðar norður í Atlantshafi, sem á miklar endurnýjanlegar og enn ónýttar orkulindir.
Grein sína hóf Tómas Ingi þannig:
"Lögð er áherzla á það af hálfu þeirra, sem vilja, að Ísland samþykki þriðja orkupakkann, að EES-samningurinn hafi reynzt Íslendingum mjög vel. Jafnvel er ýjað að því, að aðild að EES hafi verið forsenda mikils efnahagslegs uppgangs á árunum 1994-2002.
Nú vill svo til, að engin formleg, fræðileg og ítarleg athugun hefur farið fram á því, hve vel EES-samningurinn hafi reynzt Íslendingum. Margt hefur breytzt á þeim tíma, sem samningurinn hefur verið í gildi.
Rétt er að líta til þess árangurs, sem Alþjóða viðskiptastofnunin hefur síðan 1994 náð í viðleitni sinni til að lækka eða fella niður hindranir á viðskiptum landa í millum.
Það er ljóst, að EES-samningurinn hefur haft í för með sér mikinn kostnað fyrir Ísland, og mikið reglugerðafargan hefur fylgt honum, sem í mörgum tilvikum á hingað lítið sem ekkert erindi, en getur verið skaðlegt."
Þetta er tímabær gagnrýni, enda hverju orði sannari. Það hefur verið reynt að skapa goðsögn um gríðarlegan ávinning EES-samningsins, jafnvel, að hann sé okkur ómissandi, sem er fjarstæða. Það er fyrir hendi viðskiptalegur ávinningur, en hann er dýru verði keyptur. Það er tollfrelsi fyrir iðnvarning, en það var fyrir hendi samkvæmt fríverzlunarsamningi EFTA og ESB frá 1973. Fiskafurðir og kjötafurðir eru ekki tollfrjáls inn á Innri markaðinn, af því að Ísland er ekki aðili að sameiginlegri landbúnaðar- og fiskveiðistefnu ESB. Samt hefur Alþingi innleitt ESB-matvælalöggjöf hér, svo að EFTA-dómstóllinn gat í nóvember 2017 ógilt löggjöf Alþingis frá 2009 um varnir gegn sýklalyfjaónæmi og sjúkdómum í mönnum og dýrum. Þar gat dómstóllinn brugðið fyrir sig Evrópuréttinum, og íslenzkur réttur víkur fyrir honum samkvæmt EES-samninginum. Þarna er um líf eða dauða að tefla og helztu sjúkdómaógn næstu áratuga í Evrópu að mati prófessors Karls G. Kristinssonar (banvænir sýklar, ónæmir fyrir lyfjum). Þetta er ekki sýklahernaður gegn landsmönnum, en það er jafngildi rússneskrar rúllettu að flytja matvæli til landsins án öryggisráðstafana, þar sem íslenzkir sérfræðingar á þessu sviði telja þörf á.
EES-aðildin kostar bein útgjöld upp á rúma 20 mrðISK/ár, en óbeini kostnaðurinn, sem hlýzt af íþyngjandi, ofvöxnu reglugerða- og eftirlitsfargani, sem dregur úr krafti fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana til framleiðniaukningar allt að 1 %/ár, hefur verið áætlaður allt að tífaldur þessi beini kostnaður á hverju ári. Þessi kostnaður er meiri en ávinningur aðgengis að Innri markaði EES, ef miðað er við beztu kjör WTO-Alþjóða viðskiptaráðsins.
Langflestir starfsmenn hérlendis starfa hjá fyrirtækjum með undir 50 starfsmenn og margir hjá fyrirtækjum með undir 10 starfsmenn. Reglugerðafargan ESB er sniðið við mjög ólíkar aðstæður og leggst þess vegna með meiri þunga á okkar þjóðfélag en þjóðfélög meginlandsins. Þessir ókostir gera meira en að vega upp viðskiptalega umframhagræðið af fjórfrelsinu m.v. viðskiptaskilmála WTO eða fáanlega skilmála með fríverzlunarsamningi, sem líklegt er að EFTA-geri við Breta og gæti orðið fyrirmynd að samningi við ESB.
Tómas Ingi bendir síðan á nauðsyn þess "að komast að því með hlutlausri rannsókn, hver ávinningur okkar er af þessari samningsgerð". Slík rannsókn verður alltaf í lausu lofti, ef nettó ávinningur EES-aðildar er ekki borinn saman við aðra valkosti, sem fyrir hendi eru. Norðmenn gerðu slíka rannsókn fyrir nokkrum árum, og er gerð grein fyrir henni í "Alternativrapporten" 2012. Sú skýrsla varpar ljósi á, að fagurgalinn um EES-samninginn er aðeins goðsögn, sem hentar bezt þeim, sem vilja sem nánasta aðlögun Íslands og Noregs að Evrópuréttinum með fulla aðild að ESB í huga í fyllingu tímans. Verður þeim kápan úr því klæðinu ?
"Það er ekki viðeigandi að fela þeim þessa athugun, sem hafa þegar komizt að þeirri niðurstöðu, að samningurinn hafi reynzt okkur mjög vel; svo vel, að það eigi að búa honum sérstakt svigrúm með breytingu á stjórnarskrá Íslands. Hætt er við, að sú ótímabæra niðurstaða leiði til þess, sem við höfum hingað til nefnt fordóma og leiða af sér óhæfi til að fjalla hlutlaust um reynsluna af EES."
Hér fjallar Tómas Ingi um það, að formaður hóps utanríkisráðuneytisins um umrætt mat á reynslunni af EES-samninginum hefur tjáð sig opinberlega með þeim hætti um EES þannig, að hæfi sitt til að komast að hlutlægri niðurstöðu hefur hann rýrt svo verulega, að skýrsluna má fyrirfram telja ónýta vegna slagsíðu.
Nokkru síðar í greininni vék Tómas Ingi að Stjórnarskránni, en hún er auðvitað næg ástæða ein og sér fyrir Alþingismenn til að hafna lagabálki frá ESB á borð við Orkupakka #3:
"Þegar aðildin að EES var rædd og undirbúin, var flestum ljóst, að framsal valds til evrópskra stofnana skapaði vandamál varðandi stjórnarskrá Íslands. Á þeim tíma var talið, að framsalið væri á takmörkuðu sviði og því hægt að telja það standast ákvæði stjórnarskrárinnar. Nú hefur þetta framsal aukizt. Er það meginástæða þess, að ákveðin öfl leitast nú við af fremsta megni að breyta stjórnarskránni á þann veg, að hún heimili framsal.
Aðrir vilja huga að því, hvort rétt sé að styrkja stjórnvöld í þeirri viðleitni að athuga gaumgæfilega og með gagnrýnum hætti innleiðingu reglugerða ESB og beita neitun, ef mál ganga gegn hagsmunum Íslands. Enn öðrum finnst kominn tími til að hefja umræður um að endurskoða aðild að EES."
Síðan 1993, þegar EES-samningurinn var samþykktur á Alþingi, hefur mikið vatn runnið til sjávar, og samrunaþróun ESB tekið stakkaskiptum frá samþykkt Lissabonsáttmálans 2007. Þessi þróun reynist EFTA-löndunum, Íslandi og Noregi, þung í skauti, og nú teygir miðstýringarárátta Framkvæmdastjórnarinnar hramma sína inn á eitt meginauðlindasvið Íslands, orkusviðið. Þá hljóta landsmenn að spyrna við fótum, eins og Íslendingar og Norðmenn sameinuðust um að gera 1992 varðandi sjávarauðlindirnar.
Þegar fulltrúar þessara þjóða standa ekki saman í Sameiginlegu EES-nefndinni, eins og gerðist að lokum varðandi Orkupakka #3, þá gefur íslenzka stjórnsýslan eftir, lyppast niður undan fargi þrýstings frá bæði ESB og hinum tveimur EFTA-löndunum í EES. Þetta er grafalvarlegt í ljósi þess, að innleiðing þessa lagabálks um orkuna mun hafa miklu verri afleiðingar í för með sér fyrir Ísland en Noreg. Þessi alvarlegu mistök íslenzku stjórnsýslunnar getur Alþingi leiðrétt með höfnun lagabálksins.
Næst minnist Tómas Ingi á doðann, sem einkennir EES/ESB sinnana:
"Í stað þess að aðhafast er beðið. Sá ágæti lögfræðingur, Hilmar Gunnlaugsson, sem ég vitnaði til í fyrri grein, telur, að það sé hægt að horfa með vonaraugum fram til fjórða orkupakka ESB. Þar verði hugsanlega að finna lausn á orkumálum íslenzkra garðyrkjubænda. Hvers vegna ættum við að hafa áhyggjur af slíkum málum, ef úrlausnar er að vænta frá ESB ? Lögfræðingurinn er setztur í biðstofuna."
Það er rétt athugað hjá Tómasi Inga, að ræfildómur og umkomuleysi hafa heltekið EES/ESB-sinnana, sem ganga með grillur í hausnum um það, að regluverk búrókratanna í Brüssel hljóti að vera klæðskerasniðin að viðfangsefnum okkar hér uppi á Íslandi. Orkupakki #3 er þó prýðisdæmi um, að svo er alls ekki. Þessi lagabálkur snýr ekki að neinu þeirra viðfangsefna, sem við er að etja í íslenzka orkukerfinu. Þvert á móti myndi innleiðing hans hér skapa fjölda vandamála og valda miklum deilum og almennri óánægju í þjóðfélaginu. Sá, sem heldur, að s.k. Vetrarpakki ESB muni verða til einhvers nýtur hér, er algerlega úti á þekju um eðli og hlutverk orkustefnu ESB.
Lokaorðin í þessari ágætu Morgunblaðsgrein voru á þessa leið:
"Höfum við vanizt þeirri afstöðu að samþykkja athugasemdalaust tilskipanir ESB, unz við erum vaxin saman við þær ? Þegar ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins fullyrðir (í Morgunblaðinu 18. september s.l.), að ekki verði séð, að innleiðing þriðja orkupakkans feli í sér meiri háttar frávik frá fyrri stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki og ekki sé ljóst, hvert það myndi leiða, yrði honum hafnað, vaknar áleitin spurning: Erum við að troða farveg, sem víkkar og þjappast með hverju minniháttar fráviki, unz summa frávikanna verður hinn breiði og beini vegur íslenzks uppburðarleysis í stjórnmálum og umkomuleysis í fullveldismálum ?"
Þarna hittir Tómas Ingi Olrich aftur naglann á höfuðið, og svarið við lokaspurningunni er já. Öll sólarmerki á Alþingi undanfarin ár við innleiðingu risalagabálka ESB, sem taka af okkur forræðið á sviði heilsuverndar vegna matvælainnflutnings, fjármálaeftirlits, persónuverndar og nú það dýrkeyptasta af þessu öllu, sem er að setja æðstu stjórn orkumálanna undir ESA/ACER/ESB.
Hvernig stendur á blindingsmálflutningi iðnaðarráðherrans um, að innleiðing Orkupakka #3 feli ekki í sér "meiriháttar frávik frá fyrri stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki" ? Ein skýringin á þessu háttarlagi er sú, að hún hafi enn ekki gert sér grein fyrir þeirri stefnubreytingu í orkumálum, sem átti sér stað frá útgáfu fyrsta orkupakka ESB, sem innleiddur var í lög hér 2003, til útgáfu þriðja orkupakkans árið 2009. Þarna á milli varð til stjórnarskrárígildi ESB, Lissabonssáttmálinn, en hann leggur línurnar um æ nánari samruna, sem endi með stofnun sambandsríkis Evrópu. Þarna á milli varð líka orkukreppa í Evrópu, og það varð í kjölfarið forgangsmál hjá ESB-forystunni að taka orkumál álfunnar í sínar hendur til að forða ríkjum Evrópusambandsins í bráð og lengd frá hörmungum orkuskorts. Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB er afsprengi miklu róttækari stefnumörkunar til miðstýringar en í tilviki fyrri bálkanna tveggja. Það er ekki kyn þótt keraldið leki í iðnaðarráðuneytinu, ef ráðherrann áttar sig ekki á þessu.
25.1.2019 | 15:19
Fyrrverandi ráðherrar gjalda varhug við orkupakkanum
Í ljósi þess, að talsmenn innleiðingar Orkupakka #3 rembast eins og rjúpan við staurinn, hver sem betur getur, við að telja landsmönnum trú um, að Orkupakki #3 breyti nánast engu frá Orkupakka #2, er einkar athyglisvert að fylgjast með fyrrverandi ráðherrum leggja sig í líma við að vara þjóðina og þar með núverandi þingmenn við afleiðingum samþykktar Alþingis á þessum lagapakka frá ESB, hvað sem líður samþykkt nefndar EFTA og ESB í Brüssel, sem kallar sig "Sameiginlegu EES nefndina", enda væri það hámark hins ólýðræðislega ferlis, ef slík embættismannanefnd ætti að ráðskast með lagasetningu hérlendis án þess, að Alþingi fái þar rönd við reist. Alþingi hefur enn ekki afsalað sér valdinu til að hafna gjörningum þessarar nefndar í Brüssel.
Nýjasta dæmið um þessa stöðutöku fyrrverandi ráðherra er nýlegur greinaflokkur Tómasar Inga Olrich í Morgunblaðinu, en greinin:
"Forgjöf Íslendinga",
sem birtist 19. janúar 2019, verður til athugunar hér. Morgunblaðsgrein hans, 23. janúar 2019, er einnig allrar athygli verð og verða gerð skil í öðrum pistli. Báðar greinarnar sýna, að höfundurinn hefur kynnt sér málefnið rækilega áður en hann settist niður við skriftir. Þess vegna er vert að vitna nú í fyrrnefndu greinina og velta fyrir sér því, sem þar stendur. Grein Tómasar Inga hefst þannig:
"Orka er ein af mikilvægustu forsendum efnahagslegra framfara, og hefur svo verið frá öndverðri 19. öld."
Þetta er alveg rétt og er ástæða þess, að forystumenn Evrópusambandsins, ESB, sáu ástæðu til þess 2009 í kjölfar orkuskorts, sem herjaði á Evrópu þá, að gera róttækar ráðstafanir til að byggja upp þá innviði Evrópu, sem flytja orku á milli landa. Með orkupakka #3 eru völdin yfir millilandatengingunum færð frá orkuyfirvöldum hverrar þjóðar og til Landsreglara, sem lagalega er óháður innlendum yfirvöldum, en lýtur þess í stað eftirliti og fyrirmælum Orkustofnunar ESB, ACER og framkvæmdastjórnar ESB. Þetta fyrirkomulag getur komið að gagni á meginlandi Evrópu, sem stríðir við staðbundinn orkuskort, en á augljóslega ekki við hér. Það, sem verra er, viðskiptalíkan ESB með raforku getur ekki þjónað hagsmunum almennings hérlendis. Af þessum ástæðum verður að berjast með kjafti og klóm gegn innleiðingu hins hættulega Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi.
Áður hafði víðast hvar á meginlandinu verið komið á frjálsri samkeppni um orku frá orkubirgjunum í orkukauphöllum. Hugmyndafræðin er sú, að orkan sé vara og að sá skuli hreppa hana, sem borga vill og getur hæsta verðið. Þetta stríðir algerlega gegn því gamla norræna viðhorfi, að orkan, hér raforkan, séu samfélagsgæði, sem nýta eigi til að treysta byggð um allt land og til að ljá framleiðsluatvinnuvegunum samkeppnisforskot við útlönd. Þar með er ekki sagt, að reka eigi orkuvinnsluna með tapi, heldur skuli stilla ávöxtunarkröfu hennar í hóf, enda er notkunartími fjárfestingarinnar miklu lengri en bókhaldslegur afskriftartími, a.m.k. í tilviki vatnsaflsvirkjananna. Þetta endurspeglast í afkomu Landsvirkjunar. Rekstarhagnaður hennar eykst með tvennum hætti: hækkun orkuverðs við endurnýjun langtímasamninga og lækkun skuldabyrðar.
Í engu ríki Evrópu, og þótt víðar væri leitað, er raforkan þjóðhagslega mikilvægari en á Íslandi, enda er raforkuvinnslan hér mest að tiltölu á byggðu bóli, 52 MWh/íb á ári. Hver íbúi notar þó aðeins 1-2 MWh/ár á heimilinu. Hitt fer í atvinnustarfsemi, aðallega til að framleiða útflutningsvarning, eins og til var stofnað í upphafi.
Það er af þessum orsökum Íslendingum þjóðhagslega mikilvægara en nokkurri annarri þjóð Evrópu að þurfa ekki að deila völdum og mikilvægum ákvarðanatökum um orkulindirnar, vinnslu raforkunnar, flutning hennar og dreifingu, og síðast en ekki sízt verðlagningunni, með öðrum þjóðum eða yfirþjóðlegri stofnun, þar sem við eigum ekki jafnréttháa aðild og aðrar þjóðir samstarfsins. Hagsmunir meginlands Evrópu fara alls ekki saman við hagsmuni Íslendinga í orkumálum. Við erum þar á allt öðru róli, og þessu verða ráðamenn þjóðarinnar að fara að gera sér grein fyrir. Það er ekki seinna vænna.
Ef við höldum vel á spilunum, getum við orðið öðrum óháð með orku á 20 árum, en mikil eldsneytisnotkun og hætta á orkuskorti hrjáir og mun sennilega hrjá meginland Evrópu vestan Rússlands fram yfir miðja þessa öld. Að afhenda meginlandsöflum völd yfir íslenzkum orkumálum jafngildir afglöpum, sem fljótt geta breytzt í leik tröllskessa með fjöregg þjóðarinnar. Þingmenn, sem að slíku standa, munu þurfa að standa kjósendum sínum reikningsskap gjörða sinna í þessu máli. Hvernig sagan mun dæma þá hina sömu þingmenn, skal ekki fjölyrða um hér.
Um mikilvægi orkunnar fyrir Íslendinga skrifaði Tómas Ingi:
"Íslendingar eru tiltölulega vel settir, hvað orku varðar. Meginorkulindir þjóðarinnar - vatnsorka og jarðhiti - eru taldar með þeim umhverfisvænstu, sem til eru. Þessar orkulindir eru miklar m.v. mannfjölda á Íslandi, en ekki óþrjótandi. Orkan, sem fæst með nýtingu vatnsfalla og jarðhita, er tiltölulega ódýr og sem slík mikilvæg grundvallarforsenda velferðar Íslendinga, bæði fyrirtækja og einstaklinga. Það, sem sólin er Ítölum og frjósemi jarðvegsins Frökkum, er orkan forgjöf Íslendinga. Það er enn í okkar höndum, hvernig við förum með þá forgjöf [undirstr. BJo]."
Það eru engin rök nógu sterk til að réttlæta það að láta af hendi þessa forgjöf til yfirþjóðlegrar stofnunar með vaxandi völd, ACER. Að stinga hausnum í sandinn og segja, að innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálksins feli svo takmarkað valdframsal í sér, að ekki geti jafngilt afhendingu "forgjafarinnar", eru falsrök, reist á vanþekkingu, dómgreindarleysi eða vísvitandi blekkingarstarfsemi.
Síðan víkur Tómas Ingi að tengingu Íslands við orkumarkað ESB og skrifar:
"Ísland er ekki tengt raforkukerfi ESB og getur ekki orðið hluti af orkumarkaði ESB án slíkrar tengingar."
Nú skulum við gera okkur grein fyrir því, að ætlun iðnaðarráðuneytisins er að setja Orkustofnun undir stjórn Landsreglara, fái ráðuneytið vilja sínum framgengt um innleiðingu Orkupakka #3. Landsreglari, sem verður embættismaður ESB, verður Trójuhestur í íslenzkri stjórnsýslu í dulargervi Orkumálastjóra. Þetta ráðslag iðnaðarráðherra er með ólíkindum, og t.d. Norðmenn, hverra núverandi stjórnvöld eru harla hrifin af flestu því, sem frá ESB kemur, ætla að takmarka völd Landsreglarans, eins og kostur er, með þvím.a. að halda þessum tveimur embættum aðskildum. Er íslenzki iðnaðarráðherrann kaþólskari en páfinn ? Að fela ACER stjórnun Orkustofnunar er of mikið af hinu góða, þ.e. af óverðskuldugu trausti iðnaðarráðherra Íslands á Framkvæmdastjórninni, sem stjórnar ACER.
Samkvæmt drögum norska orkuráðherrans að hlutverkum Landsreglara verður eitt hlutverka hans að rýna og að lokum samþykkja regluverk fyrir orkumarkaðinn. Landsreglarinn á Íslandi mun þá sjá til þess, að hér verði stofnsett orkukauphöll, sem starfi samkvæmt sams konar regluverki og í ESB-löndunum. Fyrsta skrefið verður sem sagt að stofnsetja hér ESB-raforkumarkað, sem snurðulaust getur tengzt öðrum ESB-markaði í fyllingu tímans. Þetta þýðir, að spákaupmennska með íslenzka raforku hefst, og auðlindastýring Landsvirkjunar afleggst, ef núverandi hlutdeild fyrirtækisins á markaði verður talin stangast á við samkeppnislöggjöf ESB.
Allt mun þetta óhjákvæmilega leiða til hækkunar raforkuverðs til neytenda að jafnaði yfir árið og sérstaklega mikillar hækkunar í þurrkaárum og á árinu næst á undan gangsetningu nýrrar virkjunar. Þetta brambolt verður allt á kostnað alþýðunnar í landinu, gjörsamlega að óþörfu. Ástand norska raforkumarkaðarins ætti að vera víti til varnaðar, en þar er verð raforkunnar tvöfalt hærra í síðari hluta janúar 2019 en ári áður. Samt er verðteygni raforku til heimila lítil, þ.e.a.s. rafmagnsnotkun heimila og margra fyrirtækja breytist lítið með verðsveiflum. Þetta er "kapítalismi andskotans". Á Íslandi munu sveiflur markaðarins sízt verða minni en í Noregi, því að miðlunargeta lónanna er tiltölulega lítil og umframorkan er sáralítil. Þessar verðsveiflur koma sér mjög illa fyrir raforkunotendur, verða heimatilbúið vandamál, og eru hér alger óþarfi og ekki til annars en að skemmta skrattanum.
Eftirfarandi texti Tómasar þarfnast skoðunar:
"Með aðild að þriðja orkupakkanum geta Íslendingar haldið áfram að ákveða, með hvaða skilyrðum orkulindir þeirra eru nýttar (en þau skilyrði mega þá ekki mismuna kaupendum orkunnar), hvaða orkugjafa við veljum (t.d. getum við hafnað gastúrbínum og kjarnorku) og almenna tilhögun orkuafhendingar í samræmi við ákvæði TFEU 194 (2). En í þessum ákvæðum er Íslendingum alls ekki tryggður réttur til að ákveða einhliða, hvort aðrir aðilar, fyrirtæki eða ESB-ríki, fái aðgang að íslenzkri orku."
Ef með "skilyrðum" hér að ofan er átt við hönnunarskilyrði, þá er það rétt, eins og staðan er núna. Ef hins vegar er átt við í hvaða augnamiði virkjað er, þá hafa stjórnvöld enga heimild til að mismuna aðilum á markaði, t.d. gagnaveri, álveri eða sæstreng samkvæmt EES-samninginum. Að Evrópurétti verða umhverfisverndarsjónarmið ennfremur að víkja fyrir frelsinu til að flytja út verðmæti. Með Orkubálki #3 verður Evrópuréttur lögleiddur hér á sviði millilandaflutninga á raforku. Ef erlent virkjunarfélag kaupir virkjunarrétt einhvers staðar á Íslandi, verður erfitt að hindra það í að nýta virkjunaraðstöðuna til ýtrustu aflnýtingar, þ.e. hámarksstærð á virkjun, og það verður ekki hægt að stöðva línulögn frá virkjun að lendingarstað sæstrengs á grundvelli neikvæðra umhverfisáhrifa. Það, sem meira er, íslenzkir raforkunotendur verða að standa undir kostnaði við þessar línulagnir með hækkun gjaldskrár Landsnets. Um þetta eru skýr ákvæði í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.
Það er þannig óttalega innihaldslítið að setja á langar ræður um, að Íslendingar muni áfram ráða "með hvaða skilyrðum orkulindir þeirra eru nýttar", eins og er nokkuð áberandi í umræðunni. Það er, og verður í enn meiri mæli með Orkupakka #3, markaðurinn, sem ræður þessari nýtingu. Forræðið yfir orkulindunum verður í raun farið frá íslenzkum stjórnvöldum, þegar hver sem er innan EES getur virkjað og selt orkuna á markað þangað, sem honum sýnist. Þessu gerir Tómas Ingi sér glögga grein fyrir, því að hann skrifar í lok meginmáls síns:
"Með öðrum orðum höfum við ekki lengur forræði yfir ráðstöfun orku úr orkulindum okkar, sem markaðir ESB kunna að að ágirnast, ef fjármagn finnst til að leggja streng til landsins. Slíkur aðgangur að orkumarkaði er eitt af meginatriðum þriðja orkupakkans. Ef við getum ekki ráðstafað orkunni, sem seld yrði hæstbjóðanda, er stutt í það, að við getum heldur ekki stýrt nýtingu orkulindanna, enda hafa orkuframleiðslufyrirtæki landsins mikinn áhuga - svo [að] ekki sé meira sagt - á að framleiða og selja sem mest. [Undirstr. BJo.]
Ég tel það vera rétt hjá fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, að með þriðja orkupakkanum sé alls ekki gert skylt að leggja rafstreng til landsins. En ef þeir aðilar finnast innan EES, sem hafa áhuga á að tengjast íslenzka orkumarkaðinum með sæstreng, þá getum við ekki hafnað því, að sá strengur verði lagður. Það gengur gegn ákvæðum Evrópuréttar, að íslenzk stjórnvöld reyni að hindra það. Komi upp deilur um slíka tengingu, fara sjálfstæðar eftirlitsstofnanir með það mál, sem Íslendingar hafa ekki aðild að [undirstr. BJo].
Það orkar tvímælis með skylduna, sem höfð er eftir Bjarna Benediktssyni hér að ofan. Sú skylda er lögð á herðar Landsreglaranum að láta Landsnet aðlaga Kerfisáætlun sína að Kerfisþróunaráætlun ACER/ESB. Þar liggur sæstrengurinn "Icelink" á fleti fyrir. Landsreglara ber þannig að róa að því öllum árum að tengja íslenzka raforkukerfið við raforkukerfi ESB. Sú skylda er jafnframt ótvírætt lögð á herðar Landsneti að fjármagna þær stórfelldu línulagnir, sem nauðsynlegar verða fyrir u.þ.b. 1200 MW flutning frá stofnkerfinu og niður að lendingarstað sæstrengs.
Það er mjög mikilvægt fyrir þá, sem haldið hafa uppi andófi gegn Orkupakka #3 hér á landi og varað Alþingismenn við afleiðingum innleiðingar hans, að Tómas Ingi Olrich skuli hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að mæli ACER með samþykkt á umsókn félags um að fá að leggja aflsæstreng hingað og tengja við rafkerfi Íslands, þá geta íslenzk stjórnvöld ekki stöðvað það mál, þótt þau geti tafið það með málaferlum, sem enda hjá EFTA-dómstólinum.
Tómas Ingi hefur líka komizt að þeirri niðurstöðu, sem ýmsir hafa flaskað á, að Íslendingar munu missa forræði yfir ráðstöfun orkulinda sinna, "sem markaðir ESB kunna að ágirnast". Vegna þjóðhagslegs mikilvægis orkulinda landsins fyrir rekstur heimila og fyrirtækja og framtíðarnýtingu fyrir orkuskipti, vetnisvinnslu og framleiðsluaukningu af ýmsu tagi, væru þingmenn að tefla hagsmunum þjóðarinnar, ekki sízt komandi kynslóða, í voða með því að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.
23.1.2019 | 14:57
Evran tvítug
Þann 1. janúar 1999 kom sameiginleg mynt Evrópusambandsins, ESB, í heiminn. Hún virtist eiga efnilega bernsku sinn fyrsta áratug og geta keppt við bandaríkjadal sem heimsviðskiptamynt, en þá urðu reyndar atburðir, sem áttu eftir að reynast henni fjötur um fót, og hún verður vart nokkru sinni jafnoki dalsins úr þessu.
Þjóðum, sem ekki fullnægðu Maastricht-skilmálunum um inngöngu í myntbandalagið, var hleypt inn bakdyramegin af pólitískum ástæðum, og hafa þær veikt myntina mikið. Þetta voru Miðjarðarhafsþjóðirnar, Grikkir, Ítalir, Spánverjar og Portúgalir. Talið er, að þýzka markið, DEM, væri a.m.k. 30 % sterkara en evran í bandaríkjadölum talið, ef markið væri enn á dögum. Þetta skýrir hinn gríðarlega kraft í þýzku útflutningsvélinni.
Aðstandendur evrunnar, Frakkar og Þjóðverjar, eru ekki búnir að bíta úr nálinni með hið hagfræðilega fúsk, sem átti sér stað á bernskuárum evrunnar. Það er staðreynd, að hagkerfi, sem binda trúss sitt við fjarlæga seðlabanka, verða oftar fórnarlömb peningalegrar kreppu en hin. Milton Friedman spáði endalokum evrunnar í fyrstu kreppunni, sem hún yrði fyrir. Það gerðist þó ekki, en þá gerðu stjórnendur ESB og ECB (Seðlabanka ESB) mistök, sem evran líður enn fyrir og verður e.t.v. banabiti hennar.
Í úrtakskönnunum segja tæplega 30 % íbúa evrusvæðisins, að evran hafi slæm áhrif á hagkerfi heimalands síns. Hvað skyldi stórt hlutfall Íslendinga telja ISK hafa slæm áhrif á hagkerfi þeirra ? Aftur á móti segja 75 % íbúa evrusvæðisins, að evran sé góð fyrir samheldnina í ESB. Ekki varð sú reyndin með Breta, sem eru á útleið, enda komst ríkisstjórn Bretlands að þeirri niðurstöðu á fyrsta áratug aldarinnar, gegn skoðun Tonys Blair, að of áhættusamt yrði Bretum að fórna sterlingspundinu fyrir evru, því að of mikil misleitni væri í þróun brezka og evru-hagkerfisins.
Helmut Kohl, þáverandi kanzlari Vestur-Þýzkalands, fórnaði DEM fyrir samþykki Mitterands, þáverandi forseta Frakklands, á endursameiningu Þýzkalands. "Die Bundesbank" var á móti, en "Bundestag", Sambandsþingið, samþykkti. Frakkar eiga í mesta basli við að standast Maastricht-skilmálana, og halli ríkissjóðs miðstýrðasta ríkis Evrópu mun sennilega fara yfir mörkin, 3 % af VLF, á árinu 2019. Frakkar eru nú sjálfir komnir í þá spennitreyju, sem þeir ætluðu að færa Þjóðverja í.
Það hefur verið lítill hagvöxtur í ESB eftir hrun peningamarkaðanna 2007-2008. Sum ríki evrusvæðisins fóru hræðilega illa út úr þessu hruni vegna viðbragða framkvæmdastjórnar ESB o.fl., sem tóku meira mið af hagsmunum þeirra, sem hafa efni á að hanga í Berlaymont og reka þar áróður fyrir sínum hagsmunum, en almennings í evru-löndunum. Þetta er skýringin á vaxandi lýðhylli þjóðræknistefnu í Evrópu og vantrú á bákninu, afætunum, sem unga út reglugerðum og tilskipunum, í Brüssel.
Hagur almennings á Ítalíu hefur ekkert skánað síðan árið 1999. Þar hefur ríkt stöðnun, og opinberar skuldir aukizt eftir upptöku evrunnar. Núverandi ríkisstjórn Ítalíu ætlaði að örva hagkerfið með ríkisútgjöldum, sem hleypa myndi ríkissjóðshallanum yfir 3 % af VLF, en var gerð afturreka með fjárlagafrumvarpið af búrókrötunum í Brüssel.
Spánn og Írland njóta nú hagvaxtar eftir kerfisbreytingar hjá sér, en máttu þola langt stöðnunartímabil vegna gríðarlegrar skuldayfirtöku ríkisins frá bankakerfinu að kröfu Framkvæmdastjórnarinnar. Atvinnuleysi ungs fólks á Spáni er nú 35 %, sem vitnar um skelfilegt þjóðfélagsástand. Launahækkanir hafa nánast engar verið á evrusvæðinu frá 2008. Hvers vegna krefjast verkalýðsfélögin þar ekki launahækkana ? Það ætti að verða íslenzkum verkalýðsleiðtogum verðugt umhugsunarefni.
Írland nýtur sérstöðu, því að bandarísk fyrirtæki hafa fjárfest gríðarlega þar, enda njóta þau skattalegs hagræðis á Írlandi, þar sem er aðeins 12 % tekjuskattur á fyrirtæki. Þessi fyrirtæki öðlast auðvitað tollfrjálst aðgengi að EES-markaðinum, hvað sem tollastríði Bandaríkjaforseta við ESB líður.
Verstu mistök ESB í peningamálum voru 2010, er Framkvæmdastjórnin neitaði að viðurkenna, að gríska ríkið gæti aldrei greitt allar skuldir sínar. Þar opinberaðist hið vanheilaga samband búrókratanna í Brüssel og fjármálavafstrara Evrópu. Í stað þess að afskrifa a.m.k. helming skulda gríska ríkisins, þá voru þær fluttar frá þýzkum og frönskum bönkum o.fl. og til opinberra sjóða. Þar með voru skattborgarar lánveitendaríkjanna gerðir ábyrgir fyrir skuldum eins skuldararíkjanna. Þetta er eitur í beinum sparnaðarsinnaðra skattborgara og mun óhjákvæmilega leiða til gliðnunar í evrusamstarfinu, hvað sem líður Aachen-samningi forseta Frakklands og kanzlara Þýzkalands. Ríki Karlamagnúsar sundraðist fljótt, og aðeins kirkjan sameinaði Evrópu um tíma, en hún sundraðist líka. Þjóðverjar þoldu ekki við undir oki Rómar.
Þegar alvarleg fjármálakreppa ríður yfir næst, mun reyna mjög á greiðsluþol skuldugu ríkjanna vegna vaxtahækkana, sem alltaf verða gagnvart illa stæðum ríkjum við slíkar aðstæður. Hvorki evrubankinn né lánadrottnarnir munu hafa bolmagn til að hindra skuldugu ríkin á evru-svæðinu í að fara á hliðina. Evran verður auðvitað ekki söm eftir. Myntsvæðum Evrópu gæti fjölgað. Óvíst er, hvað um Evrópusambandið verður í kjölfarið. Munu Bretar enn einu sinni standa eftir með pálmann í höndunum ?