Færsluflokkur: Evrópumál
20.4.2019 | 21:02
Um valdmörk ACER
Í álitsgerð lögfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst (FÁFH) og Stefáns Más Stefánssonar (SMS) er áhugaverð umfjöllun um valdmörk ACER (Orkustofnunar ESB) á Íslandi eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins, OP#3. Þessi valdmörk hafa mikla þýðingu, því að þau kunna að ógna tveggja stoða grundvelli EES-samstarfsins og þar með að vera brotleg við Stjórnarskrá Íslands.
Lögfræðingar ýmsir hérlendir og fleiri, sem vildu innleiða Orkupakka #3 (OP#3) skilmálalaust áður en fráleit þingsályktunartillaga utanríkisráðherra sá dagsins ljós, hafa fullyrt með þjósti, að rangt sé, að ACER muni fara með valdheimildir á orkusviði hérlendis. Þar með hafa þeir sýnt, hversu lítið vit þeir hafa á þessu máli, ef marka má eftirfarandi tilvitnun í gr. 4.3.1 í álitsgerð ofangreindra lögspekinga:
"Þrátt fyrir að valdið sé þannig formlega hjá ESA, er ljóst, að ACER mun hafa mikið að segja um efni ákvarðana, sem ESA tekur á grundvelli reglugerðarinnar [713/2009], enda semur ACER drög að ákvörðunum og leggur þau fyrir ESA. Það má því velta fyrir sér, hvort ákvörðunarvaldið sé í raun hjá ACER, og að hlutverk ESA sé aðallega formlegs eðlis í því skyni, að fyrirkomulag reglugerðarinnar samræmist betur tveggja stoða kerfinu. Færa má rök fyrir því, að í raun sé ákvörðunarvaldið að hluta til framselt stofnun, sem heyrir undir Evrópusambandið og stendur utan EFTA-stoðarinnar, þ.e. ACER. Í þessu ljósi má leggja til grundvallar, að gera verði enn ríkari kröfur en ella til þess, að valdframsalið, sem felst í 8. gr. reglugerðar nr 713/2009, standist þær stjórnskipulegu viðmiðanir, sem áður hafa verið raktar, m.a. varðandi tveggja stoða kerfi EES-samningsins, sbr einkum kafla 4.2.2 og 4.2.3 hér að framan."
Þau stjórnskipulegu vafaatriði, sem þarna eru nefnd, eru fóður inn í þá réttaróvissu, sem skapast á Íslandi, ef þingsályktunartillaga utanríkisráðherra verður samþykkt. Til viðbótar vafanum með tveggja stoða kerfið og húsbóndavald ACER yfir ESA í orkumálum kemur, að samkvæmt gerð nr 713/2009 tekur ACER lagalega skuldbindandi ákvarðanir fyrir aðildarríkin á sviði millilandatenginga. Þetta vald er óháð því, hvort aflsæstrengur er fyrir hendi eða ekki, þegar innleiðing OP#3 á sér stað. Um þetta skrifa FÁFH og SMS í gr. 4.3.1:
"Framangreint breytir þó ekki því meginatriði, sem áður var gerð grein fyrir, að drög að ákvörðunum eru í grunninn samin af ACER og að áhrif ACER á efni ákvarðana ESA hljóta því að vera veruleg. Virðist þannig gert ráð fyrir því, að stefnumótun varðandi efni og framkvæmd umræddra ákvæða reglugerðar nr 713/2009 muni einkum fara fram á vettvangi ACER, þrátt fyrir að ESA eigi vissulega aðkomu að því ferli og geti haft áhrif á það með þeim hætti, sem að framan greinir."
Það, sem gerir málið alvarlegt og eykur líkur á málarekstri, þar sem íslenzka ríkið stendur á veikum grunni með líklegt Stjórnarskrárbrot fólgið í innleiðingu Þriðja orkulagabálksins áður en stjórnlagalega vafamálið með 713/2009 er leitt til lykta, er, að almannahagsmunir, einstaklingar og lögaðilar, eiga í hlut. Ríkisstjórnin veður vitandi vits út í lögfræðilegt kviksyndi með því að biðja Alþingi að innleiða Þriðja orkupakkann:
"Þótt ákvarðanir ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar beinist að forminu til að eftirlitsyfirvöldum hér á landi (s.s. Orkustofnun), þá breytir það því ekki, að þær geta jafnframt haft áhrif á hagsmuni einstaklinga og lögaðila, bæði þá sem stunda raforkustarfsemi og notendur raforkukerfisins (auk þess að hafa einnig áhrif á almannahagsmuni, tengda nýtingu raforkukerfisins) [t.d. ákvörðun gjaldskráa Landsnets og dreifiveitnanna-aths. BJo]. Það er einkum tvennt, sem tekur af skarið um, að umræddar ákvarðanir muni hafa þessi áhrif. Í fyrsta lagi eru þær teknar á grundvelli reglugerðar, en þær eru bindandi í sérhverju tilliti og fá lagagildi í öllum aðildarríkjum ESB samtímis. Í öðru lagi er sérstaklega kveðið á um það í fyrrgreindri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, að EFTA-ríkin eða hvaða einstaklingur eða lögpersóna sem er geti hafið málarekstur gegn ESA fyrir EFTA-dómstólnum í samræmi við 36. og 37. gr. samningsins um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Þar með er því slegið föstu, að einstaklingar og lögpersónur geti átt aðild að umræddum ákvörðunum ESA á grundvelli 8. gr. reglugerðar nr 713/2009."
Vegna þess að innleiðing Þriðja orkulagabálksins hvílir á veikum lögfræðilegum grunni, þar sem FÁFH & SMS hafa dregið stórlega í efa, að tveggja stoða fyrirkomulagið sé raunverulegt í tilviki ACER, er líklegt, að málaferli muni rísa út af störfum Landsreglarans, sem óhjákvæmilega mun varða hag margra, reyndar alls landslýðs, þar sem Landsreglarinn mun t.d. fá það hlutverk að staðfesta gjaldskrár Landsnets og dreifiveitnanna. Við dómsuppkvaðningu mun fást úr því skorið, hvort valdframsalið til ACER stenzt Stjórnarskrá.
Ef umsókn berst til Orkustofnunar frá sæstrengsfjárfesti um leyfi til að leggja Ice-Link sæstrenginn á grundvelli Kerfisþróunaráætlunar ESB og hún hafnar umsókn á grundvelli banns Alþingis við lagningu aflsæstrengja á milli Íslands og útlanda, þá rís vafalaust upp deilumál á milli ESB/ESA og Íslands, þar sem lagaleg staða Íslands verður veik, vegna þess að innleiðing Þriðja orkupakkans brýtur í bága við EES-samninginn, kafla 7.
Hinn möguleikinn er líka fyrir hendi, að sæstrengsfjárfestir sæki sitt mál vegna höfnunarinnar til íslenzks dómstóls, sem mun þá líklega æskja álitsgerðar frá EFTA-dómstólinum um EES-réttarfarsleg efni. Brot íslenzka ríkisins á skuldbindingum sínum að EES-rétti getur leitt til skaðabótaábyrgðar ríkisins gagnvart lögaðilum og einkaaðilum, sem telja sig hafa orðið fyrir fjárhagstapi af völdum banns Alþingis á lagningu sæstrengs. Þetta tap getur numið tekjum af flutningi rafmagns á tilteknu tímabili og skaðabótaábyrgðin eitthvert hlutfall af þessum tekjum. Þessi upphæð getur fljótt orðið mjög tilfinnanleg fyrir íslenzka ríkið. Það er algerlega óverjandi, að Alþingismenn stofni fjárhag íslenzka ríkissjóðsins í stórhættu með því óþarfa glæfraspili að innleiða Þriðja orkupakkann með þeim hætti, sem utanríkisráðherrann leggur til.
16.4.2019 | 14:17
Eignarhald og ráðstöfunarréttur orkulindanna í húfi
Bornar hafa verið brigður á, að eignarréttur og ráðstöfunarréttur orkulindanna sé í húfi með samþykki Alþingis á þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um afléttingu hins stjórnskipulega fyrirvara á ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar um innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn. Hins vegar tekur álitsgerð lögfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst (FÁFH)og Stefáns Más Stefánssonar (SMS) frá 19. marz 2019 til utanríkisráðuneytisins af öll tvímæli um, að orkulöggjöf Evrópusambandsins leyfir lagasetningu um eignarrétt og ráðstöfunarrétt orkulinda og að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn er þessarar gerðar.
Af þessum ástæðum getum við aldrei orðið aðilar að Evrópusambandinu, ESB, án stórfellds hnekkis, alveg eins og á við um fiskveiðilögsögu landsins og aðildina að ESB. Með samþykkt Þriðja orkupakkans er verið að þrýsta Íslendingum í banvænan náðarfaðm ESB. Að íslenzkir stjórnmálaflokkar, sem hafa á stefnuskrá sinni andstöðu við ESB-aðild, skuli standa að þessu feigðarflani, segir sína sögu um þá Trójuhesta, sem eru á meðal vor og sitja að svikráðum fyrir pokaskjatta, fulla af gulli. Það er gamla sagan.
Sumir íslenzkir lögfræðingar hafa gerzt furðu heimóttarlegir að leggja sig í framkróka við að sýna fram á, að Þriðji orkupakkinn breyti í raun engu fyrir Íslendinga, sízt af öllu um eignarhald auðlindanna og hafa þá vitnað til kafla 125 í EES-samninginum. FÁFH og SMS sýna hins vegar fram á í álitsgerð sinni, að dómaframkvæmd getur stungið í stúf við texta EES-samningsins vegna fjórfrelsisins, sem skal ganga fyrir öðrum ákvæðum:
"Í dóminum [Heimfallsdómi EFTA-dómstólsins gegn norska ríkinu] segir, að sá greinarmunur, sem gerður er í norskri löggjöf á opinberum aðilum annars vegar og einkaaðilum og erlendum aðilum hins vegar, hafi neikvæð áhrif á fjárfestingu síðari hópsins og feli í sér óbeina mismunun, sem hindri bæði frjálst flæði fjármagns og stofnsetningarréttinn. Ástæðan sé sú, að þessir aðilar hafi styttri tíma til að fá arð af fjárfestingu sinni en opinberir aðilar."
Þetta mál sýnir, að sitt er hvað lagatexti og dómaframkvæmd EFTA-ESB-dómstólsins. Í þessu tilviki víkur norsk löggjöf, sem átti að tryggja, að vatnsréttindi og virkjanir féllu til ríkisins að tilgreindum tíma liðnum, 50-80 ár, fyrir fjórfrelsi Innri markaðarins um frjálst flæði fjármagns og áskilda jafnstöðu fjárfesta innan EES. Allar hérlendar tilraunir til að hamla kaupum útlendinga á vatnsréttindum, virkjunum og fyrirtækjum til sölu í raforkugeiranum, yrðu væntanlega kærðar fyrir ESA og EFTA-dómstólnum, og öll innlend löggjöf í þeim efnum viki fyrir Evrópurétti um frjálst flæði fjármagns innan EES, sbr Heimfallsdóminn.
Í álitsgerð FÁFH & SMS er komizt að þeirri niðurstöðu, að það samræmist ekki Stjórnarskrá Íslands, að innleiða 8. gr. reglugerðar 713/2009, "þar sem ACER er veitt heimild til að taka lagalega bindandi ákvarðanir varðandi grunnvirki yfir landamæri, en sem fyrr segir er ráðgert, að ESA muni fara með þær valdheimildir gagnvart EES/EFTA-ríkjunum." [gr. 3.1]
Nú hefur utanríkisráðherra lagt til leið til að sigla framhjá þessari niðurstöðu lögfræðinganna með því að taka allan Orkupakka #3 upp í íslenzkan landsrétt og setja síðan í lög undanþáguákvæði, sem reist er á núverandi stöðu samtengingar raforkukerfisins við útlönd, sem er sú, að samtenging er ekki fyrir hendi. Lögin eiga að afnema reglugerð 713/2009 úr íslenzkum rétti, þangað til Alþingi heimili lagningu aflsæstrengs til landsins og búið verði að leysa úr Stjórnarskrárvandanum. Utanríkisráðherra heldur því fram, að þetta sé tillaga téðra lögfræðinga. Það er alrangt og reyndar gróf aðför að faglegum heiðri mætra manna, sem skilað hafa af sér góðu verki ("Álitsgerð"). Til að sýna fram á þessa fullyrðingu, er í raun nóg að vitna í gr. 4.1 í álitsgerðinni:
"Það breytir því þó ekki, að þriðji orkupakkinn verður ekki tekinn upp í íslenzkan landsrétt nú, nema hann standist stjórnarskrána. Verður ákvörðun Alþingis um, hvort aflétta eigi stjórnskipulegum fyrirvara Íslands við þriðja orkupakkann og innleiða hann í íslenzkan landsrétt að miðast við þá forsendu, að grunnvirkjum yfir landamæri verði komið á fót hér á landi, en við þær aðstæður myndi reyna á umrætt valdframsal til ESA, einkum samkvæmt reglugerð 713/2009."
Utanríkisráðherra fer öfugt að; hann leggur til, að stjórnarskrárvandanum verði sópað undir teppið. Síðan stingur hann hausnum í sandinn og hundsar algerlega hinn gríðarlega "galla" við þessa lögfræðilegu moðsuðu utanríkisráðherrans, sem fram kemur í álitsgerðinni, gr. 6.4, að aflétti Alþingi stjórnskipulegum fyrirvara af Þriðja orkupakkanum, "þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt".
Hvað þýðir þetta ? Það þýðir einfaldlega, að komi vink frá ESA um þennan fordæmalausa málatilbúnað í EES-samstarfinu, þá falla hin lögfræðilegu Pótemkíntjöld og við blasir landsréttur með Þriðja orkupakkann í heild sinni innanborðs og Stjórnarskráin, sem liggur óbætt hjá garði. Þeir Alþingismenn, sem ekki sjá hættuna, sem í þessu felst, eiga uppgjör skilið í aðdraganda næstu þingkosninga og uppsögn, verði þeir áfram í framboði.
Evrópumál | Breytt 17.4.2019 kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.4.2019 | 22:10
Örverpi utanríkisráðuneytisins
Í herhvöt Guðna Ágústssonar, fyrrverandi Alþingismanns og ráðherra, á fundi í fundaröð Ögmundar Jónassonar, sömuleiðis fyrrverandi Alþingismanns og ráðherra, "Til róttækrar skoðunar", í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík laugardaginn 5. apríl 2019, óskaði hann þess, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn yrði að pólitísku fúleggi í hreiðri ríkisstjórnarinnar.
Hér skal taka undir hina frómu ósk hins vígreifa höfðingja Sunnlendinga, sem á þessum fundi steig á stokk, fór með bundið mál sem og kjarnyrt óbundið, og hvatti fundarmenn og landsmenn alla (fundinum var streymt) til dáða í þessu sjálfstæðismáli þjóðarinnar. Það er sjálfstæðismál, af því að það snýst um aðgang að einni helztu auðlind landsins, orkunni. Ætlunin er að ræna landsmenn einum mestu hlunnindum, sem þeir búa við um þessar mundir og myndar undirstöðu velferðarsamfélagsins: tiltölulega ódýru rafmagni.
Þeir eru til á meðal hérlandsmanna, sem berja hausnum við steininn, og þræta fyrir það, að Þriðji orkupakkinn snúist um orkulindir Íslendinga. Hvers konar hagsmunamat ræður þar för ? Þolir það dagsljósið, eða eru á ferðinni handbendi óprúttinna gróðapunga, sem sjá ótæpileg gróðatækifæri handan við sæstrengshornið, þar sem innflutningur á miðevrópsku rafmagnsverði gegnum sæstreng mun leiða til ábatasamrar sölu á raforku til landsmanna sjálfra, sem þó eiga sjálfir núna megnið af virkjuðum orkulindum "með einum eða öðrum hætti".
Þeir, sem rýnt hafa Þriðja orkupakkann einna nákvæmast hérlendis, eru lögfræðingarnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson, sem skrifuðu lögfræðilega álitsgerð um afrakstur rýninnar fyrir utanríkisráðuneytið og skiluðu verkinu 19. marz 2019. Utanríkisráðuneytið launaði verkið með því að snúa álitsgerðinni á haus, þvinga þar inn örverpi, sem er í algerri mótsögn við efnislega niðurstöðu skýrslunnar, og básúna síðan út til þingflokkanna og þjóðarinnar, að það hafi með þingsályktunartillögu sinni valið aðra af tveimur leiðum þessara mætu lögfræðinga, þótt í skýrslunni blasi við, að eina raunverulega tillaga tvímenninganna er að neita að lyfta hinum stjórnskipulega fyrirvara vegna stjórnarskrárbrots, sem í orkupakkanum felst. Með þessum blekkingum átti að smygla orkupakkanum gegnum Alþingi. Þetta minnir á kerlinguna, sem kastaði pokapjötlunni með sál karls síns inn um Gullna hliðið eftir að hafa blekkt Lykla-Pétur.
Ósvífni utanríkisráðuneytisins er þó margfalt verri en að smygla sál karlófétis inn í himnaríki. Kemst utanríkisráðuneytið upp með sína óbilgirni og vanvirðingu í garð Alþingis, sem mun ræna landsmenn yfirráðarétti og afrakstri orkuauðlindanna, er fram líða stundir ? Þetta er ein skammsýnasta og verst ígrundaða ráðstöfun íslenzkra stjórnvalda allan lýðveldistímann, og þau hafa ekki bitið úr nálinni með hana.
Hér verða menn jafnframt að hafa í huga, að löggjöf Evrópusambandsins, ESB, er kvik, og það á í hæsta máta við um orkulöggjöfina, sem er í mótun. Eftir Orkupakka #3 (OP#3) hafa komið út reglugerðir, t.d. #347/2013, sem enn færa völd frá aðildarlöndunum til ACER og Framkvæmdastjórnarinnar, OP#4 kemur út 2020, og nú er víst tekið að efna niður í OP#5. Þróunin er samfelld í átt að lokatakmarki ESB að ná altækri stjórn á orkumálum aðildarlandanna. Þar sem hérlendis eru engin lög um stjórnun orkulindanna, falla þær undir stjórn raforkumálanna, sem verður á höndum Landsreglarans.
Hvað skrifuðu téðir lögfræðingar í álitsgerð sína um orkuauðlindina ?:
"Síðan er þó vikið frá þessu í c-lið 2. mgr. 192. gr. SSEB [Sáttmáli um starfshætti Evrópusambandsins], þar sem gert er ráð fyrir, að ráðinu sé heimilt með einróma ákvörðun að gera ráðstafanir, sem hafi umtalsverð áhrif á val aðildarríkis milli ólíkra orkugjafa og almenna tilhögun orkuafhendingar.
Þetta þýðir, að stofnunum Evrópusambandsins hefur verið fengið vald til að setja afleidda löggjöf um orkumál innan þeirra valdheimilda og með þeim skilyrðum, sem fram koma í fyrrgreindum ákvæðum. Valdheimildir aðildildarríkjanna skerðast þá að sama skapi. Einnig má segja, að í raforkutilskipunum (sem eru hluti af samkeppnisreglunum) sé gert ráð fyrir, að eignarrétti sé skipt upp og að samkeppnisreglur gildi á ákveðnum sviðum. Þó er ekki bannað, að raforkumannvirki eða dreifing orkunnar sé í opinberri eigu, þótt viss aðskilnaður sé ávallt áskilinn.
Niðurstaðan er því sú, að ýmis ákvæði finnast í frumrétti Evrópusambandsins, sem varða eignarrétt á orkuauðlindum og meðferð þeirra, sem þó geta vart talizt víðtæk enn sem komið er. Þau heimila sambandinu að setja afleidda löggjöf, sem kann að hafa áhrif á upphaflegan rétt aðildarríkjanna til að stjórna auðlindum sínum. Það hefur sambandið gert, t.d. með reglum þriðja orkupakkans. Þær fela m.a. í sér, að einstök aðildarríki hafa ekki einhliða ákvörðunarvald um skilyrði og skilmála fyrir aðgangi að grunnvirkjum yfir landamæri, eins og nánar verður rakið síðar." (Undirstr. höf.)
Það er þannig ljóst, að lagagrundvöllur er fyrir hendi hjá Evrópusambandinu til setningar laga um eignarrétt yfir orkulindunum; Sambandið hefur þegar haldið inn á þá braut með Þriðja orkupakkanum að ráðskast með ráðstöfunarréttinn með því að búa til einn sameiginlegan markað og fyrirskrifa síðan öflugar samtengingar innan hans. Meira mun fylgja í komandi lagasmíð ESB á þessu sviði og allt bera að sama brunni: að hinn frjálsi raforkumarkaður ESB hafi aðgang að sem öruggustum endurnýjanlegum orkulindum, sem duga fyrir ESB til að ná markmiðum sínum í loftslagsmálum. Fjórfrelsið tryggir fjárfestum innan EES sama aðgang að auðlindunum og innlendum aðilum, þ.á.m. ríkissjóði, og eignarnámsheimild er óraunhæf leið fyrir ríkið til að tryggja samfélagsleg yfirráð yfir orkulind, sbr eftirfarandi tilvitnun í gr. 2.1.4 í skýrslu FÁFH & SMS:
"Með öðrum orðum má segja, að eignarnámi eða svipuðum aðgerðum verði ekki beitt, nema að gættum reglum sambandsréttar um fjórfrelsið, reglum um samkeppni og e.t.v. fleiri reglum."
Þetta er í samræmi við eina af nokkrum athugasemdum, sem norski lagaprófessorinn Peter Örebech gerði 2018 við álitsgerð íslenzks lögfræðings, sem var hallur undir lögmæti og skaðleysi Orkupakka #3. Þetta stafar af því, að hvorki á Íslandi né í Noregi hefur ríkið áskilið sér einkarétt á orkulindum. Það er auðvitað meiriháttar mál og torsótt leið, að ríkið kaupi öll vatnsréttindi og jarðgufuréttindi á landinu. Þá er nú ólíkt einfaldara að hafna Orkupakka #3. Þar með verða ekki fleiri orkutilskipanir og orkureglugerðir ESB innleiddar hér, ef að líkum lætur, og er það ágætt. Hérlendis þyrfti að setja lög um orkulindir landsins með svipaðs eðlis og lögin um fiskveiðistjórnunina. Þar er tekið fram, að fiskistofnarnir á Íslandsmiðum séu í sameign þjóðarinnar. Á þeim grundvelli fer fiskveiðistjórnunin fram. Hérlendis er nauðsynlegt að stunda orkulindastjórnun, og það er óábyrgt af stjórnvöldum að ljá máls á því, að Evrópusambandið fái að hlaupa í skarðið með "fjórfrelsið" sitt á sameiginlegum raforkumarkaði EES. Þetta er sennilega stjórnarskrárbrot og stórskaðlegt fyrir atvinnulíf og þar með efnahagslíf landsins.
Í sömu grein álitsgerðarinnar stendur þetta:
"Lagasetning sambandsins er síður en svo útilokuð, þótt hún kunni að hafa áhrif á eignarrétt eða stjórnunarrétt að auðlindum. Þetta á sérstaklega við, ef heimild fyrir slíkri lagasetningu er að finna í frumrétti sambandsins. Í slíkum tilvikum teljast aðildarríkin hafa samþykkt þær breytingar samkvæmt stjórnskipunarlögum sínum og þá e.t.v. þrengt gildissvið 345. gr. SSESB að sama skapi."
Það er alveg ljóst af ofangreindum tilvitnunum og fleirum í skýrslu lögspekinganna FÁFH og SMS, að með samþykkt Orkupakka #3 verður ekki aðeins yfirstjórn Landsnets og dreifiveitnanna undirorpin valdi Evrópusambandsins, heldur verður eignarréttur og stjórnunarréttur að orkulindunum í höndum Evrópusambandsins, ef svo er að skipta. Evrópusambandið mun hafa öll ráð Íslendinga í höndum sér á orkusviðinu, er fram líða stundir, ef Alþingi glepst nú á að afhenda Sambandinu þetta fjöregg þjóðarinnar. Að búa við stjórnvöld, sem bregðast algerlega í vörzlu þjóðarhags, er þungbærara en svo, að kjósendur séu tilbúnir til fela slíkum ráð sitt á ný. Reiðin mun krauma fram að næstu kosningum. Þróunin í þessa átt er hafin samkvæmt nýrri skoðanakönnun. Enn er ekki of seint að sjá að sér, en "point of no return" næst, ef/þegar þingmenn samþykkja þingsályktunartillögu utanríkisráðherra.
Þetta allt er utanríkisráðherrann að kalla yfir okkur með vanhugsaðri þingsályktunartillögu sinni, sem hann lætur í veðri vaka, að sé reist á annarri af tveimur tillögum tvímenninganna í álitsgerðinni. Þetta er blekkingartilraun að hans hálfu. Lögfræðingarnir minnast á þessa aðferð, en geta um, að hún sé "ekki gallalaus". Í skýrslunni kemur víða fram, að hún er meingölluð, enda eru með henni framdir líklega þrír lögfræðilegir fingurbrjótar. Hvaða heilvita manni dettur í hug, að tveir af fremstu lögfræðingum landsins á þessu sviði leggi slíkt örverpi til við utanríkisráðuneytið ?
Fingurbrjótur #1:
Það er bannað í EES-samninginum, kafla 7, að innleiða gerðir ESB, sem samþykktar hafa verið af Sameiginlegu EES-nefndinni, í landsrétt með heimatilbúnum skilmálum. Þannig má ekki skilyrða gildistöku gerðar #713/2009 við lagasetningu Alþingis um heimild til að leggja sæstreng til Íslands.
Fingurbrjótur #2:
Ef EFTA-dómstóllinn fær kæru á hendur íslenzka ríkinu vegna ólöglegrar innleiðingar Orkupakka #3 til dómsúrskurðar, má ganga að því sem vísu, að dómur hans verður kærandanum í vil. Þá verður Alþingi að fella skilmálann úr gildi, og þar með sitjum við uppi með 713/2009 í landslögum, sem er stjórnarskrárbrot að mati FÁFH og SMS.
Fingurbrjótur #3:
Það er óheimilt í íslenzkum rétti að setja lög, sem eru brotleg við stjórnarskrá, þótt svo standi á, að þau eigi ekki við, þegar þau eru sett (enginn sæstrengur). Með þessum handabakavinnubrögðum gerir utanríkisráðherra sig sekan um tillögu, þótt hann þykist vilja hafa vaðið fyrir neðan sig og fara að ráðleggingum FÁFH & SMS, um að brjóta stjórnarskrána. Höfundar álitsgerðarinnar taka þó fram í skýrslu sinni, að þetta megi ekki, og þess vegna er þetta augljóslega ekki þeirra ráðlegging. Það verður að leysa stjórnarskrárvandann áður en Orkupakki #3 verður innleiddur.
Lausn þessa stjórnarskrárvanda felst þó ekki í að breyta Stjórnarskránni til að gera erlendum fyrirtækjum hægt um vik að klófesta auðlindir Íslands til lands og sjávar. Hvað eru stjórnarliðar að bauka í þessum efnum ?
11.4.2019 | 13:54
Ólögmætt framsal valds yfir orkukerfinu
Lögfræðingarnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst (FÁFH) og Stefán Már Stefánsson (SMS) skiluðu greinargóðri skýrslu til verkkaupans, utanríkisráðuneytisins, þann 19. marz 2019 "um stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB/EFTA vegna þriðja orkupakka ESB".
Viðfangsefnið var nánar til tekið, "hvort það standist ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr 33/1944, að ESA sé falið vald til að taka lagalega bindandi ákvarðanir um grunnvirki yfir landamæri, sem haft geta bein og óbein áhrif á hagsmuni einstaklinga og lögaðila hér á landi, svo og almannahagsmuni, tengda raforkukerfinu og nýtingu þess".
Hér kveður strax við annan en tón en þær innantómu fullyrðingar margra ráðamanna, lögfræðinga og stjórnmálamanna, að ekkert valdaafsal felist í samþykkt Þriðja orkupakkans. Gagnvart EFTA-löndunum er, eins og kunnugt er, til málamynda gert ráð fyrir, að ESA fari með völd ACER-Orkustofnunar ESB, m.a. valdheimildir, sem ESA eru veittar í reglugerð 713/2009 um "lagalega bindandi ákvarðanir, er varða grunnvirki yfir landamæri". Utanríkisráðuneytið hefur aldrei komið auga á hættuna, sem í þessu felst, og er enn við sama heygarðshornið. Nú hefur það ákveðið að hundsa eftirfarandi meginniðurstöðu hinna mætu lögspekinga í téðri skýrslu:
"Með vísan til framanritaðs er það álit höfunda, að ekki séu að óbreyttu forsendur til þess, að Ísland aflétti stjórnskipulegum fyrirvara við umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að taka þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn, sbr 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins, nema tryggt sé, að reglugerð nr 713/2009 verði innleidd í íslenzkan rétt á þann hátt, að samræmist stjórnarskránni, sjá nánar kafla 4.1 og 4.3.3."
Skoðun höfundanna á þeirri fráleitu aðferðarfræði, sem felst í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í landslög, kemur einmitt fram í grein 4.1, sem þeir vísa til og veitir þingsályktunartillögu utanríkisráðherra í raun og veru falleinkunn, hvað sem öðru líður:
"Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði, sem ekki fá staðizt íslenzka stjórnarskrá, þó að svo standi á, að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn. Verður því að telja rökrétt og raunar óhjákvæmilegt, að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna, sem tengjast þriðja orkupakkanum, nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann.
Verður því að hafna því sjónarmiði, að álitaefni, tengd valdframsali til ESA, skipti ekki máli á þessu stigi, þar sem grunnvirki yfir landamæri eigi enn eftir að líta dagsins ljós hér á landi, og því sé Alþingi fært að samþykkja þriðja orkupakkann, hvað svo sem líði stjórnskipulegum álitaefnum varðandi valdframsal til ESA. Vikið verður nánar að þessu atriði hér síðar."
Utanríkisráðherra göslast samt áfram með þingsályktunartillögu sína, sem snýst einmitt um að innleiða orkubálk #3 í landsrétt, en setja síðan lög, sem eiga að gera gerð 713/2009 óvirka, þar til stjórnlagavandinn hefur verið gerður upp, og þar til Alþingi ákveður, að lagður skuli sæstrengur.
Leið utanríkisráðherrans er rökleysa og lögleysa, hún mun verða okkur til hneisu í EES-samstarfinu við EFTA og ESB, og hún mun baka íslenzka ríkinu stórfelldar skaðabótakröfur, því að Alþingi mun efna til mikillar réttaróvissu með því að fara leið utanríkisráðherrans. Þetta er algerlega óafsakanlegt ábyrgðarleysi.
Hvers vegna utanríkispólitísk hneisa ? Það er vegna þess, að EES-samningurinn, kafli 7, er brotinn með því að innleiða gerð í landsrétt, samþykkta af sameiginlegu EES-nefndinni, en með skilmálum síðar í landslögum. Þetta er fordæmi, sem stríðir gegn anda EES-samningsins, og verður væntanlega ekki látinn óátalinn af ESA, enda getur hvaða hagsmunaaðili sem er kvartað undan þessu við Eftirlitsstofnunina. 7. kaflinn, sem vitnað er til, hljóðar þannig:
"Gerðir, sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samning þennan, eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, binda samningsaðila, og eru þær eða verða teknar upp í landsrétt sem hér segir: a) gerð, sem samsvarar reglugerð EBE, skal sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila; b) gerð, sem samsvarar tilskipun EBE, skal veita yfirvöldum samningsaðila val um form og aðferð við framkvæmdina."
Í þessu sambandi getur vart skipt máli, hver staðan er, þegar innleiðingin á sér stað, í þessu tilviki enginn millilandaaflstrengur fyrir hendi. Það er alveg ljóst, að Evrópusambandið, sem hungrar eftir raforku úr endurnýjanlegum orkulindum og leggur í 4. orkupakkanum sérstaka áherzlu á að tengja jaðarsvæði Evrópu við stofnkerfi meginlandsins í þungamiðju iðnaðarins, mun verða þess hvetjandi, að hagsmunaaðilar, t.d. sæstrengsfjárfestar, muni láta reyna á þessar heimalöguðu undanþágur Íslendinga. Þessar "undanþágur" eru algerlega fordæmalausar í EES-samstarfinu og grafa undan starfsemi Sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem segja má, að sé kjarninn í samstarfi EFTA og ESB vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
Að leggja upp með innleiðingu á reglugerðum og tilskipunum ESB á Íslandi á sviði millilandatenginga fyrir raforku á þvílíkum brauðfótum, sem hér hefur verið lýst, er forkastanlegt og fordæmanlegt. Málið er af slíkri stærðargráðu, að það getur skipt sköpum um afstöðu margra til ríkisstjórnar og stjórnmálaflokka. Eru ríkisstjórnarflokkarnir tilbúnir til að greiða pólitískt ofurgjald fyrir mál, sem hefur enga kosti í för með sér, hvorki pólitíska né fjárhagslega fyrir þjóðarbúið ? Ef svo er, þá er áreiðanlega maðkur í mysunni. Sá maðkur þolir ekki dagsljósið, en það verður "engin miskunn hjá Magnúsi".
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.4.2019 | 10:27
Sálarháski þingmanna
Ef þingmenn stjórnarflokkanna hafa látið tælast af fagurgala ráðherra um, að innleiðing Orkupakka #3 sé í góðu lagi m.v. öll lögfræðiálit um málið, sem fyrir hendi eru, þá ættu þeir að lesa sem fyrst Álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar frá 19. marz 2019. Þar kveður við allt annan tón. Þann tón skynjar líklega almenningur sem þann tærasta og bezta, sem fram hefur komið hjá innlendum lögfræðingum opinberlega í þessu orkupakkamáli. Ef Alþingismenn ætla að breyta allt öðruvísi en ráðlagt er í þessari Álitsgerð, þá munu þeir lenda í alvarlegum hremmingum heima í kjördæmi sínu, ef marka má tæplega ársgamla skoðanakönnun, sem fram fór um Þriðja orkupakkamálið.
Dæmi úr grein 6.2 í Álitsgerðinni:
"Jafnvel þó að lagt væri til grundvallar, að ákvarðanir ESA beindust einungis að innlendum eftirlitsstjórnvöldum (t.d. Orkustofnun), þá verður engu að síður að hafa í huga, að ákvörðunarvald hinnar erlendu stofnunar samkvæmt reglugerð nr 713/2009 tekur a.m.k. óbeint til skipulags og ráðstöfunar á mikilvægri orkuauðlind þjóðarinnar. Slíkt valdframsal getur ekki talizt minni háttar í skilningi viðmiðana, sem líta ber til við mat á stjórnskipulegu lögmæti valdframsals til alþjóðlegra stofnana á sviði EES-samningsins. Þessu má, með einhverri einföldun, líkja við, að ESA væri falið vald til að ákveða leyfilegan hámarksafla ríkja á sviði sjávarútvegs. Af framangreindum ástæðum, og þar sem umrætt valdframsal til ESA lýtur að nýtingu og ráðstöfun orkuauðlinda, verður valdheimildum ESA samkvæmt reglugerð nr 713/2009 ekki jafnað til áþekkra valdheimilda, sem ESA hefur fengið eftir gildistöku EES-samningsins, s.s. á grundvelli reglna um fjármálamarkaði, flugöryggi og losunarheimildir."
Hér eru komin nauðsynleg og nægjanleg rök fyrir Alþingismenn til að hafna þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, því að með henni verður gerð 713/2009 leidd í landsrétt, og síðari löggjöf um, að 713/2009 taki ekki gildi, nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, er lögleysa, brot á EES-samninginum, kafla 7, og hefur ekkert réttarlegt gildi gagnvart ESA og EFTA-dómstólinum, þegar þessir aðilar fá deilumál út af þessum gjörningum Alþingis til úrlausnar og dómsuppkvaðningar. Í þessu verður sálarháski þingmanna fólginn.
Þingmenn hafa verið blekktir hrapallega af ráðherrum og embættismönnum.
Dæmi 1:
"Einu áhrifin hér á næstu árum, sem við verðum vör við, er tilvist nýrrar, sjálfstæðrar eftirlitsstofnunar, sem skorin er út úr Orkustofnun (en verður í sama húsnæði)".
Landsreglarinn verður æðsti embættismaður landsins á sviði orkumála. Hann fer í raun með ráðherravald á þessu sviði, en verður óháður ríkisvaldinu og öllum hagsmunaaðilum í landinu. Landsreglarinn mun lúta boðvaldi ESA, en drög að öllum helztu ákvörðunum og fyrirmælum til hans verða samin hjá ACER-Orkustofnun ESB. Ísland mun ekki hafa atkvæðisrétt í ACER, heldur áheyrnarrétt og málfrelsi. Fyrir þjóð, sem vill ekki vera í ESB, er valdframsal af þessu tagi til ESB yfir raforkumálum landsins, gjörsamlega óviðunandi.
Dæmi 2:
"Gildistöku ákvæða, sem varða tengingu við sameiginlegan orkumarkað ESB, er í reynd frestað. Þau taka ekki gildi fyrr en og ef a) Alþingi ákveður að leggja raforkusæstreng og b) stjórnskipulegri óvissu hefur verið eytt."
Hér er fölsku öryggi hampað. Það er engin frestun á ferðinni, af því að með þingsályktunartillögunni er allur Orkupakki #3 innleiddur, óafturkræft samkvæmt EES-samninginum, sem þýðir, að innlend takmarkandi löggjöf á þessa innleiðingu hefur ekkert gildi að Evrópurétti og er reyndar brot á EES-samninginum, 7. kafla. Þetta er lögfræðilega algerlega haldlaus leið, og það kemur fram í téðri álitsgerð lögfræðinganna tveggja, gr. 6.4. Í þessari álitsgerð kemur jafnframt fram, að engin heimild er í lögum til að innleiða stjórnlagaleg vafaatriði, þótt svo standi á, að ekki reyni strax á þau.
Dæmi 3:
"Það er algerlega á valdi íslenzka ríkisins að taka ákvörðun um, hvort raforkusæstrengur verður lagður. Einungis Alþingi getur tekið slíka ákvörðun."
Þarna stendur nú einmitt hnífurinn í kúnni. Með samþykkt Orkupakka #3 fer fram valdframsal ríkisins til ESA/ACER/ESB til að ákveða, hvort aflsæstrengur verður lagður, og þess vegna er bægslagangurinn með frávikslöggjöf í kjölfar innleiðingarinnar. Sú löggjöf verður hins vegar brot á EES-samninginum og fellur þar með dauð og ómerk frammi fyrir ESA og EFTA-dómstólinum. Þingmenn verða að fara að átta sig á, að samkvæmt Evrópurétti víkja landslög og Stjórnarskráin fyrir ESB-samninginum í tilviki ágreinings.
Dæmi 4:
"EES-samningurinn hefur engin áhrif á reglur samningsaðila um skipan eignarréttar. Þetta kemur skýrt fram í 125. grein samningsins. Af því leiðir, að EES-samningurinn haggar ekki forræði íslenzka ríkisins á náttúruauðlindum í þeim skilningi, að Ísland hefur heimild til þess að ákveða, hvort náttúruauðlindir skuli vera í eigu ríkisins eður ei."
Hér er margs að gæta. Fyrst er þar til að taka, að EFTA-dómstóllinn hefur dæmt gegn norska ríkinu í s.k. "heimfallsmáli", þar sem sett voru lög um, að vatnsaflsvirkjun einkaaðila félli án kvaða í hendur ríkisins að tilteknum tíma liðnum. Þetta var úrskurðuð óleyfileg eignaupptaka að hálfu norska ríkisins. Íslenzka ríkið mætti sennilega setja lög, EES-samningsins vegna,um, að allar orkulindir Íslands skyldu verða í þjóðareign, eins og fiskimiðin, en það er hins vegar ekki ætlun meirihluta þingsins. Samkvæmt EES-samninginum má ekki mismuna fyrirtækjum innan EES um aðgang til nýtingar íslenzkra orkulinda, og ríkið á ekki að hafa neinn forgang í þeim efnum. Því fer þess vegna fjarri, að íslenzka ríkið hafi óskipta stjórn á orkulindunum, og "reglugerð 713/2009 tekur a.m.k. óbeint til skipulags og ráðstöfunar á mikilvægri orkuauðlind þjóðarinnar" að mati lögfræðinganna FÁFH og SMS. Orkulindirnar sjálfar eru í húfi.
Dæmi 5:
"Við drögum umsókn Landsvirkjunar um "Ice-Link" til baka, og hann hverfur af kortum."
Þetta mál er ekki svona einfalt. Það eru samtök orkuflutningsfyrirtækja í Evrópu, sem gera tillögu um millilandatengingar, ACER raðar þeim í forgangsröð og framkvæmdastjórn ESB staðfestir. "Ice-Link" er nú á PCI-forgangslista #3, og það er ekki hægt að taka hann þaðan út. PCI#4 verður afgreiddur 2020, og það er fyrirskrifað í Innviðagerð 347/2013, sem bíður tilbúin til umræðu í Sameiginlegu EES-nefndinni, hvernig meðhöndla á breytingartillögur. Bréf frá ríkisstjórn Íslands er aðeins eitt innlegg í málið, en alls ekki ákvarðandi. (Barnaskapur utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra ríður ekki við einteyming.)
Ríkisstjórnir EFTA-landanna vega ekki sérlega þungt í þessu ferli. Halda menn, að framkvæmdastjórn ESB, sem þessu ræður, muni líta vinsamlega á slíka beiðni frá Íslandi, sem á sama tíma lýsir yfir vilja til að sameinast innri raforkumarkaði ESB (með samþykki pakkans), en vill samt eyða áætlunum um slíkt (í Kerfisþróunaráætlun ESB). Það rekur sig hvað á annars horn hjá stjórnarþingmönnum og ríkisstjórn í þessu máli. Slíkur málatilbúnaður er afar ótraustvekjandi bæði inn á við og út á við.
Hafna ber Orkupakka #3. Þá verður hægt að ræða undanþágur við hann, sem duga, á réttum vettvangi.
6.4.2019 | 21:09
Rúsínan í pylsuenda orkumarkaðstilskipunar
Á þessu vefsetri hefur verið rakið, hvernig Orkumarkaðstilskipun 2009/72/EB, sem er hluti af Þriðja orkupakka ESB, felur í sér valdatöku Evrópusambandsins með embættismann sinn,Landsreglarann, í stafni, yfir Landsneti. Nú verður haldið áfram, þar sem frá var horfið í vefgreininni, "Lýðræðið og Landsreglarinn".
6. Landsreglarinn skal vakta og meta framkvæmd 10 ára Kerfisáætlunar Landsnets.
7. Í þeim tilvikum, að rekstraraðili raforkuflutningskerfisins [Landsnet] af einhverjum öðrum orsökum en óviðráðanlegum, sem liggja utan valdsviðs hans, lætur hjá líða að fara í fjárfestingu, sem hefði átt að raungera á fyrsta 3 ára tímabili 10 ára áætlunarinnar, skulu aðildarríkin tryggja, að Landsreglarinn verði skuldbundinn til minnst einnar af eftirtöldum aðgerðum til að tryggja framgang þeirrar fjárfestingar, sem í hlut á, ef hennar er enn þörf samkvæmt nýjustu 10 ára áætlun:
a) krefjast þess, að Landsnet fari í umrædda fjárfestingu
b) skipuleggja útboðsferli, sem sé opið fyrir fjárfesta i viðkomandi fjárfestingarverkefnum, þannig að þeir geti tekið verkið að sér, eða
c) skylda Landsnet til að auka eigið fé sitt til að fjármagna hinar nauðsynlegu fjárfestingar og láta óháða fjárfesta taka þátt í fjármögnuninni.
Ef Landsreglarinn hefur notað vald sitt til að krefjast verkútboðs samkvæmt lið b að ofan, getur hann skyldað Landsnet til að fallast á einn eða fleiri eftirtalinna valkosta:
a) fjármögnun frá hvaða þriðja aðila sem er
b) verkframkvæmd hvaða þriðja aðila sem er
c) Landsnet reisi mannvirkin
d) Landsnet reki viðkomandi mannvirki
Landsnet skal veita fjárfestunum allar upplýsingar, sem eru nauðsynlegar til að framkvæma fjárfestingarverkefnið, tengja nýju mannvirkin við flutningskerfið og almennt að gera allt, sem í sínu valdi stendur, til að auðvelda framkvæmd fjárfestingarverkefnisins.
Landsreglarinn skal fá valda fjármögnunarleið til samþykktar.
8. Ef Landsreglarinn hefur notað valdheimild sína í lið 7.a, skulu gjaldskrárákvarðanir taka mið af fjármögnun framkvæmdanna, sem Landsreglarinn bætti inn á framkvæmdaáætlun.
Hér eru viðamiklar valdheimildir til að ráðskast með Landsnet færðar Landsreglara. Það er ljóst, að Landsnet mun ekki geta frestað verkum, sem Landsreglarinn er búinn að samþykkja inn á Framkvæmdaátlun til þriggja ára. Það þýðir ekki að bera við fjárskorti, því að þá er gjaldskrárhækkun, alútboð og leiga á mannvirkjum eða skuldabréfaútboð í boði að hálfu Landsreglara.
Það er ljóst, að Landsreglarinn mun t.d. hafa völd til að stjórna því með harðri hendi, að búið verði í haginn fyrir flutning á nauðsynlegu afli, t.d. 1200 MW, frá stofnrafkerfi landsins og niður að lendingarstað aflsæstrengs í tæka tíð áður en taka á strenginn í notkun. Sá kostnaður verður allur fjármagnaður með hækkun á gjaldskrám Landsnets til almennings og stóriðju. Þetta er ótækt framsal valdheimilda til stofnunar, sem rétt kjörnum stjórnvöldum á Íslandi er ekki ætlað að hafa nein áhrif á.
Hið orkuhungraða Evrópusamband hefur sótt fjölgun aflsæstrengja frá Noregi fast, og nú er í afgreiðslu hjá Orkustofnun Noregs (NVE) umsókn frá hlutafélaginu NorthConnect um samnefndan aflsæstreng frá Harðangri í Noregi til Petershead á Skotlandi.
Þessi sæstrengur var til umræðu í Noregi í byrjun árs 2018. Statnett (norska Landsnet) hefur lagzt gegn leyfisveitingu fyrir þennan streng að svo komnu máli, því að fyrst sé nauðsynlegt að sjá efnahagslegar og tæknilegar afleiðingar af tveimur 1400 MW sæstrengjum, sem nú eru á framkvæmdastigi, annar til Englands og hinn til Þýzkalands. Eignarhaldið á NorthConnect er mörgum Norðmönnum þyrnir í augum, því að allar aðrar millilandatengingar við Noreg eru í eigu Statnetts. Fyrir norska Verkamannaflokkinn er eignarhaldið frágangssök. Þannig var það eitt af 8 skilyrðum flokksins fyrir stuðningi á Stórþinginu við Þriðja orkupakkann 22. marz 2018, að eignarhaldið á NorthConnect yrði á hendi Statnetts. ESB hefur engu svarað um þessi 8 skilyrði, enda brjóta þau í bága við reglur Þriðja orkupakkans og/eða EES-samningsins. Skilyrðið, sem utanríkisráðherra Íslands virðist hafa gert munnlegt samkomulag við (handsalað ?) framkvæmdastjóra orku- og loftslagsmála hjá ESB í Berlaymont í Brüssel er af svipuðum toga, lagalega algerlega haldlaust og með eindæmum, að Íslendingum skuli vera boðið upp á svona trúðsleg stjórnmál.
De Facto heitir þekkingarsetur norsku verkalýðshreyfingarinnar. Þar á bæ hefur fólk lagt mat á afleiðingar 3. og 4. orkupakkans í Noregi og komizt að þeirri niðurstöðu, að 12´000 störf verði í hættu í orkukræfum iðnaði og með afleiddum störfum utan verksmiðjugirðinganna verði alls 30´000 störf í uppnámi. Miðað við orkuna, sem fer til þessa iðnaðar í Noregi og á Íslandi, verða um 8´000 störf á Íslandi í stórhættu, ef Orkupakkar #3 og #4 fá að grassera hér með þeim orkuflutningum frá "grænni rafhlöðu" norðursins til orkuhungraðrar "þungamiðju" fjármagns og iðnaðar Evrópu. Hví kvaka ei foglar Samtaka iðnaðarins á Íslandi eilítið hærra. Vita þeir ei, hvað til síns friðar heyrir ?
Í Noregi er nú verið að blása til sóknar fyrir norskan iðnað og byggðir Noregs fram að Stórþingskosningum 2021. Terje Lien Aasland, framámaður í norsku verkalýðshreyfingunni, sagði í ræðupúlti á Landsfundi norska Verkamannaflokksins nýlega: "Ekki eitt einasta kW skal fara úr landi, ef iðnaðurinn okkar þarfnast þess". Svona eiga sýslumenn að vera. Ekkert holtaþokuvæl !
4.4.2019 | 11:40
Lýðræðið og Landsreglarinn
Áður hefur hér í pistli verið minnzt á ágæta grein Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi þingmanns og ráðherra, í Morgunblaðinu 9. marz 2019, "Orkan okkar".
Þar gerði hann m.a. að umræðuefni, að "orkupakkar" ESB, ekki sízt sá þriðji með völdum embættis Landsreglara, sem beint heyrir undir ESA/ACER, aftengja lýðræðið, þ.e. ákvarðanir, sem áður voru hjá ráðherra eða stofnun undir honum/henni, verða á höndum erlendrar stofnunar, þar sem Ísland ekki á aðild:
"Það er vissulega rétt hjá ráðherranum [ÞKRG], að orkupakkarnir eru fyrst og fremst "markaðspakkar", og þriðji pakkinn færir fyrirhugaðan raforkumarkað undir samevrópskt eftirlit, sem nefnist ACER, Agency for the Cooperation of Energy Regulators, sem hefur á hendi úrskurðarvald um ágreining á raforkumarkaði. ACER er ætlað að aftengja allt, sem heitir lýðræði, ákvörðunum á markaði. Út á það gengur þriðji orkupakkinn !"
Ögmundur hefur áttað sig á kjarna málsins. Að skera á tengsl lýðræðis og stefnumörkunar í raforkumálum landsins felur jafnframt í sér ógn við stjórnskipunina sjálfa, því að valdtilflutningurinn verður ekki frá íslenzka ríkisvaldinu til annars aðila innanlands, heldur til yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem Ísland er ekki aðili (ACER). Þetta verður sýnt fram á hér á eftir með því að rekja nokkra liði í Orkutilskipun ESB #2009/72/EB, svo að ekki sé með góðu móti hægt að saka höfund um skáldskap eða "falsfréttir", eins og málefnasnauðir fylgjendur innleiðingar Orkupakka #3 á Íslandi hafa í málefnafátækt sinni haft í frammi.
Að rjúfa þessi tengsl ákvarðanatöku fyrir orkugeirann við ríkisvaldið felur þess vegna í sér alvarlegan árekstur við Stjórnarskrána, eins og nú má lesa um í Álitsgerð lögfræðinganna Friðriks Árna Stefánssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar. Sú hlið málsins var ekki á döfinni við innleiðingu Orkupakka #1 og #2, en ákvæði í Orkupakka #3, t.d. um Landsreglarann, brjóta í bága við fullveldisákvæði Stjórnarskrárinnar að margra dómi, og væri óskandi, að hægt væri að leita til Stjórnlagadómstóls um þann ágreining fyrir afgreiðslu málsins á Alþingi.
Önnur leið er sú að vísa þessu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum. Það væri öflugasta leiðsögn, sem Alþingi gæti fengið um afgreiðslu Þriðja orkupakkans.
Í lok ágætrar greinar sinnar skrifaði Ögmundur:
"Þetta er samfélagið að takast á um, og fagna ég sérstaklega umræðunni, sem sprottin er frá hinum óformlegu, en þverpólitísku samtökum, "Orkunni okkar". Þar á bæ rýna menn í smáatriði tilskipana og reglugerða, sem varða orkupakka Evrópusambandsins, jafnframt því sem horft er vítt yfir. Hvort tveggja þarf að gera. Við afvegaleiðumst, ef við reynum ekki að sjá, hvert stefnir, hvert förinni er heitið. Þess vegna þarf umræðan að fara um víðan völl [þótt ÞKRG kvarti undan því-innsk. BJo]. Annars verður þess skammt að bíða, að orkan verði ekki okkar."
Í Rafmarkaðstilskipuninni, 2009/72/EB, kafla 22, skrifa höfundar Orkupakka #3 um rafkerfisþróun og vald til að taka fjárfestingarákvarðanir:
"1. Á hverju ári skulu rekstraraðilar orkuflutningskerfanna [hér Landsnet] kynna fyrir Landsreglaranum 10 ára Kerfisáætlun sína, reista á núverandi og væntanlegu framboði og eftirspurn orku að höfðu samráði við alla hagsmunaaðila. Kerfisáætlunin skal spanna skilvirkar aðgerðir til að tryggja styrk kerfisins og afhendingaröryggi."
Ekki er að efa, að Kerfisáætlun Landsnets verður háð rýni ACER/Framkvæmdastjórnarinnar, þannig að flutningskerfið verði þannig úr garði gert, að það þjóni hugmyndum Framkvæmdastjórnar ESB um heildarhagsmuni EES. Þetta kann að þýða nokkra stefnubreytingu í átt til öflugri og hraðari kerfisuppbyggingar með hækkun flutningsgjalda. Flutningsgjöldin verða líka háð samþykki Landsreglarans. Þar með má segja, að álagning vissra opinberra gjalda á Íslandi verði undir fjölþjóðlegu valdi komið. Þetta er Stjórnarskrárbrot, enda geta lögfræðingarnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson um þetta vafasama framsal ríkisvalds til eins konar skattlagningar.
"2. Tíu ára Kerfisáætlun Landsnets á einkum:
a) að upplýsa markaðsaðilana um mikilvægustu innviði flutningskerfisins, sem verður að reisa eða styrkja á næstu 10 árum.
b) spanna allar fjárfestingar, sem þegar er búið að ákveða, og telja upp nýjar fjárfestingar, sem fara þarf í á næstu þremur árum, og
c) gefa upp tímabil allra fjárfestingarverkefnanna.
Þeir, sem hug hafa á að virkja á Íslandi eða að leggja hingað sæstreng, geta í Kerfisáætlun fylgzt með, hvernig innviðauppbyggingu fyrir þeirra verkefni miðar og þrýst á Landsreglarann um flýtingu, ef þurfa þykir.
"5. Landsreglarinn skal fara í saumana á því, hvort kerfisáætlun Landsnets spannar allar fjárfestingarþarfir, sem birzt hafa í samráðsferlinu, og hvort hún er í samræmi við 10 ára Kerfisþróunaráætlun Evrópusambandsins, sem nefnd er í gerð ESB #714/2009, kafla 8, grein 3 b. [Þótt Kerfisþróunaráætlun ESB sé ekki lagalega bindandi fyrir aðildarlöndin, er litið svo á, að við gildistöku Orkupakka #3 beri viðkomandi landi að virða hana og fara eftir henni að sínu leyti.] Ef vafi leikur á um, hvort Kerfisáætlun Landsnets sé í samræmi við Kerfisþróunaráætlun ESB, skal Landsreglarinn ráðfæra sig við ACER. Landsreglarinn getur krafizt þess, að Landsnet breyti 10 ára Kerfisáætlun sinni.
Það er ljóst af þessum texta, að Landsnet, sem ríkisstjórnin vill semja um kaup á fyrir hönd ríkissjóðs, verður alls ekki sjálfstætt ríkisfyrirtæki eftir innleiðingu Orkupakka #3, heldur stjórnað að miklu leyti af Landsreglaranum, sem tekur stefnumarkandi ákvarðanir um framkvæmdir fyrirtækisins, og þær verða að taka mið af vilja og áformum ESB um tengingu Íslands við innri raforkumarkað EES. Ofangreindir lögfræðingar beindu aðallega sjónum sínum að gerð 713/2009, sem þeir fundu út, að engan veginn samræmist Stjórnarskrá Íslands, og minntust aðeins á 714/2009, sem bezt væri að fá undanþágu frá líka, ef sezt verður við samningaborðið með EFTA og ESB.
Ef vilji Evrópusambandsins um þróun orkumála Íslands er hundsaður eða lappirnar dregnar af Landsneti/ríkinu, er líklegt, að allt fari í bál og brand á milli Íslands og ESB og ásakanir komi fram að hálfu ESB um brot Íslands á EES-samninginum. ESB getur hvenær sem er einhliða gert Kerfisþróunaráætlun sína lagalega bindandi fyrir EES-ríkin, sé talin þörf á að reka deilumál um hana fyrir dómi. Valdyfirtaka Landsreglarans á Landsneti og þar með hliðsetning hugsanlegrar stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu Landsnets verður enn ljósari við lestur liðar 6, 7 og 8 í þessari Orkumarkaðstilskipun ESB. Verða þeir birtir og rýndir í nýjum pistli:
Rúsínan í pylsuenda orkumarkaðstilskipunar.
1.4.2019 | 14:04
Þingsályktunartillaga í blekkingahjúpi
Margir þingmenn vaða í villu og svíma um afleiðingar samþykkis við þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um Þriðja orkupakkann. Þeir halda jafnvel, að lögfræðileg "Álitsgerð um stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB/EFTA vegna þriðja orkupakka ESB", eftir Friðrik Árna Friðriksson Hirst og Stefán Má Stefánsson, sé grundvöllur þess lögfræðilega klúðurs, sem þingsályktunartillagan er. Því fer víðs fjarri og er ein af blekkingunum, sem haldið er á lofti að hálfu þeirra ráðherra, sem hér eiga hlut að máli. þessu til sönnunar er nóg að benda á grein 6.4 í téðri álitsgerð:
"Fram hefur komið, að ekki standi til að innleiða 8. grein reglugerðar nr 713/2009 í landsrétt, jafnvel þótt þriðji orkupakkinn væri tekinn upp í EES-samninginn (að undangengnu samþykki Alþingis á fyrirliggjandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017), þar sem Ísland sé ekki tengt við innri orkumarkað ESB (t.d. gegnum sæstreng).
Að mati höfunda er þó til þess að líta, að samþykki Alþingi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar óbreytta (og aflétti þar með stjórnskipulegum fyrirvara við hana), þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt með þeim breytingum/aðlögunum, sem leiða af umræddri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr 7. grein EES-samningsins. Myndi Íslandi því bera skylda til að innleiða reglugerðina í landsrétt með aðlögunum, sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þetta þýðir jafnframt, að taka verður afstöðu til þess nú þegar, hvort 8. grein reglugerðar nr 713/2009 (og aðrir hlutar orkupakkans, ef því er að skipta), standist stjórnarskrána, og það áður en Alþingi ákveður, hvort samþykkja skuli umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar."
Utanríkisráðherra hundsar þessa góðu ráðgjöf lagasérfræðinganna og fer öfugt að. Hann leggur til brot á EES-samninginum og stjórnarskrárbrot með þessari dæmalausu þingsályktunartillögu, eins og líka má sjá af athugasemdum lagaprófessors Peter Örebech í viðhengi með þessum pistli. Alþingismenn verða að stöðva þessi afglöp ráðherrans áður en þau valda landsmönnum stórtjóni og álitshnekki í Evrópu. Allt er þetta fallið til að hafa slæm áhrif á þeirra pólitíska feril, sem þessa þingsályktunartillögu munu styðja. Hún er í einu orði sagt hneisa.
Fullyrðing 1:Þriðja orkupakkann er í lagi að innleiða í íslenzk lög, af því að hann hefur enga raunhæfa þýðingu á meðan enginn sæstrengur tengir landið við sameiginlega raforkumarkaðinn:
Á meðan aflsæstrengir eru ekki fyrir hendi til útlanda, getur Ísland haft lágt raforkuverð, sé ekki raforkuskortur. Með því að ganga í orkubandalag Evrópusambandsins, skuldbindur Ísland sig til að láta í té raforku á landamæralausan innri markað ESB, og ACER skal sjá til, að svo verði, enda segir um þetta í ofangreindu lögfræðiáliti tvímenninganna: "Engin heimild er að setja í lög ákvæði, sem fá ekki staðizt íslenzka stjórnarskrá, þó að svo standi á, að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn. Verður því að telja rökrétt og reyndar óhjákvæmilegt, að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna, sem tengjast þriðja orkupakkanum, nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann." Þetta les utanríkisráðherra, eins og fjandinn biblíuna, þ.e. aftur á bak, og snýr öllu á haus.
Fullyrðing 2: Lagatextanum um ACER í gerð 713/2009 skal ekki taka inn í íslenzkan rétt samkvæmt eigin lögum.
Slík lagasetning er merkingarlaus að Evrópurétti, og verður vegin og léttvæg fundin af ESA og EFTA-dómstólinum, ef/þegar ágreiningur rís, sem telja má fullvíst, að verði fljótlega. Þetta staðfesta íslenzku lagasérfræðingarnir tveir í grein 6.4 í Álitsgerð sinni, dags. 19.03.2019.
Fullyrðing 3: Tryggja skal sjálfstæði landsins í orkumálum með lagaákvæði um endurskoðun á íslenzku lögunum, sem nú er ætlað að hindra sæstrengslögn hingað, ef sæstrengur kemst á ákvörðunarstig.
EES-samningurinn leyfir ekki að hverfa frá innleiðingu, sem þegar hefur verið samþykkt. Bann Alþingis við lagningu sæstrengs er þess vegna haldlaust, ef upp koma deilur á milli Íslands og ESB um þetta. ESA og EFTA-dómstóllinn hljóta að telja slík lög vera brot á EES-samninginum, kafla 7, 11 og 12 um bann við einhliða breytingu á ESB-lögum við innleiðingu í landsrétt og bann við útflutnings- og innflutningshindrunum.
Fullyrðing 4: Ákvæði laganna um utanlandstengingar (gerð 713/2009) verða ekki gerð virk fyrr en að lokinni endurskoðun laganna, sem fylgja innleiðingunni.
Við samþykkt þingsályktunartillögunnar verður allur Orkupakki #3 gildandi lög á Íslandi, og falla þau ekki úr gildi, nema ESB felli gerðina úr gildi, eða samningi Íslands við EFTA/ESB um EES verði sagt upp.
Fullyrðing 5: Við endurskoðun laganna, þegar sæstrengur verður á döfinni, skal ganga úr skugga um, hvort reglugerð 713/2009 stangast á við Stjórnarskrá Íslands.
Þriðji orkupakkinn snýst um það að búa til innri orkumarkað ESB-landa og annarra landa, sem ganga í orkubandalagið. Við mat á árekstrum ESB-laganna við Stjórnarskrá þarf að ganga út frá þessu meginatriði, og hvort þetta samræmist Stjórnarskrá verður auðvitað að rannsaka áður en Orkupakki #3 verður innleiddur. Að mati ESB er ESB-löggjöf og ESB-dómstóllinn hafin yfir löggjöf hvers lands að Hæstarétti og Stjórnarskránni meðtöldum. Varðandi EFTA löndin 3 í EES gildir hið sama, nema EFTA-dómstóllinn er æðsta dómstigið á sviðum, þar sem Evrópurétturinn er í gildi.
Fullyrðing 6: Innleiðing Orkupakka #3 hefur ekki í för með sér skyldu eða samþykki við tengingu við innri orkumarkað ESB með sæstreng eða á annan hátt.
Einhliða íslenzkar yfirlýsingar hafa ekkert gildi að Evrópurétti. Samkomulag á milli íslenzks ráðherra og framkvæmdastjóra hjá ESB hefur heldur ekki nokkra réttarlega þýðingu. Með því að innleiða Þriðja orkupakkann í íslenzk lög, mun Alþingi skuldbinda Íslendinga til að taka þátt í að þróa innra orkumarkað ESB án hindrana, "fimmta frelsi" ESB. Að neita að samþykkja sæstreng til landsins er sama og að segja, að þessi "innri markaður" eigi ekki að spanna Ísland. Í þessu felst augljós mótsögn.
Með því að samþykkja Þriðja orkupakkann hefur Alþingi viðurkennt valdsvið ACER-Orkustofnunar ESB og hjáleigu hennar á Íslandi, Landsreglarann. Báðum ber þeim skylda til að fylgjast með, hvort kerfisþróunaráætlun ESB sé fylgt. Ef henni er ekki fylgt, skulu þau fara þess á leit við íslenzk yfirvöld, að henni verði fylgt. Verði íslenzk yfirvöld ekki við þessari málaleitan, þá skal afhenda Framkvæmdastjórn skýrslu um það. Framkvæmdastjórnin getur farið með málið fyrir EFTA-dómstólinn.
Fullyrðing 7: Íslenzk yfirvöld draga "Ice-Link" út úr Kerfisþróunaráætlun ESB, og þar með út af skrá hennar um forgangsverkefni-PCI:
Ekkert hefur heyrzt um viðbrögð við þessu, enda getur ríkisstjórnin ekki tekið þennan sæstreng út af lista, sem gildir 2018-2020, s.k. 3. lista. Árið 2020 verður gefinn út 4. listinn. Um þetta atriði mun ESB fara eftir Innviðagerðinni, #347/2013, sem er tilbúin til afgreiðslu í Sameiginlegu EES-nefndinni, þegar Alþingi hefur innleitt Orkupakka #3. Hvorki Ísland né Noregur hafa ýkja mikil áhrif samkvæmt þessari gerð. Það eru rekstraraðilar stofnkerfisins, hér Landsnet, sem gera tillögur, ACER ráðleggur, og framkvæmdastjórn ESB samþykkir Kerfisþróunaráætlun ESB, og hvaða verkefni þar skal setja í forgang, PCI-verkefni.
Framkvæmdastjórninni ber við mat sitt að virða ósk Íslands, en ber engin skylda til að verða við ósk stjórnvalda landsins. Mun hún kunna að meta erindi frá landi, sem hefur ákveðið að ganga í Orkubandalag ESB, en biður samtímis um viðurkenningu á því, að það skuli ekki spanna Ísland ? Teikn á lofti um, hvernig þetta mál ræðst, er samþykkt ESB-þingsins 26. marz 2019 um endurskoðaða ACER-gerð ST-7711-2019 í Orkupakka #4, þar sem Ísland er greinilega "í skotlínu":
"(6) Þrátt fyrir marktækan árangur við samþættingu og samtengingu innri rafmagnsmarkaðarins, þá eru enn sum aðildarlönd eða svæði einangruð eða ekki nægjanlega vel tengd, einkum eyríki og jaðarríki Sambandsins. Í störfum sínum ætti ACER að taka tillit til sérstakra aðstæðna í þessum ríkjum eða svæðum, eins og við á."
30.3.2019 | 17:44
Ísland og raforkumarkaður ESB
Raforkumarkaðskerfi ESB er skilgreint í Orkupökkum #1 og #2 og gert að skyldu að innleiða það í Orkupakka #3. Hérlendis voru reglur Orkupakka #1 um aðskilnað starfsemi á raforkumarkaði í fernt innleiddar með nýjum orkulögum 2003. Það var til að skapa jafnræði um aðgang að flutningskerfinu og aðstæður fyrir frjálsa samkeppni. Ávinningur fyrir orkukaupendur er ekki merkjanlegur, sé þróun raforkuverðsins skoðuð (raunverð), og sennilega hefur heildaryfirbygging og þar með stjórnunarkostnaður raforkugeirans vaxið við þennan aðskilnað í vinnslu, flutning, dreifingu og sölu.
Nú er Landsnet með í undirbúningi uppboðskerfi á heildsölumarkaði í orkukauphöll samkvæmt forskrift ESB í Orkupakka #2. Innleiðing á kerfi, sem er sniðið við frjálsan eldsneytismarkað, sem sjái raforkuverunum fyrir öruggri frumorku, og miðað við mörg, stór og smá, raforkuvinnslufyrirtæki í frjálsri samkeppni um viðskiptavinina, er augljóslega vandkvæðum háð hérlendis, þar sem aðstæður eru gjörólíkar, frumorkan eðlisólík og markaðurinn verður alltaf "grunnur".
Ef þetta markaðskerfi ESB verður ekki vandlega aðlagað íslenzkum aðstæðum, dyntóttri náttúru, sem ætlazt er til, að veiti áreiðanlegri frumorku inn í vinnslukerfið, og að fákeppnismarkaði með gríðarlegu ójafnræði á markaði vegna stærðarmismunar og mismunandi frumorkusamsetningar, þá mun slysalega takast til, sem mun lýsa sér í miklum verðsveiflum á heildsölumarkaði og smásölumarkaði, hækkuðu meðalverði vegna ófullnægjandi hvata til að hefja virkjanaverkefni í tæka tíð, og, ef allt fer á versta veg, mun valda alvarlegum orkuskorti og tíðari en við höfum átt að venjast.
Vart þarf að efast um, að sérfræðingarnir, sem að innleiðingu þessarar markaðsvæðingar vinna, hafa áhættugreint ferlið, sem þeir eru að skipuleggja, en meira er hægt að óttast, að þeim séu of þröngar skorður reistar til almennilegrar aðlögunar, því að slíkt táknar eðlisbreytingu á kerfinu, sem Landsreglarinn hérlendis mun líta óhýru auga, enda hefur hann bara eina forskrift við að styðjast. Hér er t.d. átt við, að hérlendis krefjast aðstæður samræmdrar auðlindastýringar, sem er nauðsynleg og nægjanleg til að tryggja beztu nýtingu tiltækra orkulinda í því augnamiði að forða vatnsleysi miðlunarlóna að vori og ofnýtingu viðkvæms jarðgufuforða. Slíka auðlindastýringu má hvert fyrirtæki viðhafa undir markaðskerfi ESB, en samræmd auðlindastýring heildarkerfisins er bönnuð, þar sem frjáls samkeppni orkuvinnslufyrirtækjanna er hinn heilagi Graal í Brüssel. Að sumra dómi dæmir þetta bann orkumarkaðskerfi ESB úr leik á Íslandi sem raunhæft markaðsfyrirkomulag.
Elías Elíasson, verkfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, skrifar áhugaverða Morgunblaðsgrein um þetta efni þann 14. marz 2019, undir fyrirsögninni:
"Raforkuöryggi á Íslandi":
"Reglugerðir Evrópusambandsins virka einfaldlega ekki hér, og á grundvelli þeirra verður vel virkur frjáls markaður með rafmagn ekki settur upp hér á landi. Eins og rakið er í ritgerð minni, "Rafmagn til heimila og útflutnings", á síðunni http://hhi.hi.is/vinnupappírar, þá er orkuauðlindinni dreift á marga staði, víðs vegar um landið, og misjafnlega dýrt að nýta hana á hverjum stað. Við þær aðstæður getur samkeppnin ekki tryggt eðlilega verðmyndun, sem hvetur til nýframkvæmda, þegar jafnvægi ríkir [á] milli framboðs og eftirspurnar, heldur myndast hvati til að taka of mikla áhættu á kostnað notenda. Reglur ESB tryggja því ekki orkuöryggi á Íslandi, og öryggið minnkar enn með tilkomu sæstrengs."
Iðnaðarráðuneytið/utanríkisráðuneytið verður að birta áhættugreiningu, sem sýnir hið gagnstæða við lýsinguna hér að ofan, áður en það biður um staðfestingu Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, því að feiknarlegir hagsmunir landsmanna eru í húfi. Meðmælendur Orkupakka #3 hafa skautað léttilega framhjá þessum risaþætti málsins, og það með öðru gefur málstað þeirra ótraustvekjandi blæ.
Með orkulögunum 2003 var ábyrgðin á að viðhalda nægri frumorku í landinu fyrir raforkuvinnsluna tekin af Landsvirkjun, og nú ber enginn þessa ábyrgð og mun trauðla fá hana með Orkupakka #3, því að vísast þykir sú kvöð virka samkeppnishamlandi á markaði ESB. Fyrir raforkunotendur á Íslandi er hættan á orkuskorti hins vegar óviðunandi. Þetta mál er dæmigert fyrir gallana, sem felast í ákvarðanatöku fjarri landsteinum.
Frá 2003 hefur þetta blessazt, þótt skollið hafi hurð nærri hælum, t.d. 2013, því að virkjað hefur verið fyrir stóriðju og almenning í leiðinni, en nú virðist áhugi "stórnotenda" á raforkusamningum við íslenzka orkubirgja hafa dvínað, og sáralítið "í pípunum" af nýju afli inn á kerfið. Þó eru smávirkjanir í undirbúningi, og 18.03.2019 var tilkynnt um staðfest deiliskipulag fyrir 55 MW Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði.
Það er til marks um skilningsleysi orkuyfirvalda hérlendis á sérstöðu íslenzka orkukerfisins og afleiðingum þess að troða Íslandi í ESB-flík, sem er sniðin á annars konar sniðmát, að engin áhættugreining vegna innleiðingar nýs orkumarkaðskerfis hefur verið kynnt til sögunnar. Yfirvöld munu ekki geta skákað í því skjólinu, að þau hafi ekki verið vöruð við, þegar raforkuverðið og afhendingaröryggi raforku fara úr böndunum. Skilja þau ekki, hvað er í húfi ? Mikið er þó búið að predika. Afkoma fjölda fjölskyldna og fyrirtækja er í húfi. Vinnubrögðin eru ekki Sjálfstæðisflokkinum sæmandi.
Að sjálfsögðu mun keyra um þverbak í þessum efnum, ef stórsala hefst á rafmagni úr landi. Þröskuldur í vegi þeirra áforma snarlækkar við innleiðingu Þriðja orkulagabálks ESB, en ætlun Evrópusambandsins með honum er einmitt að örva millilandaflutning orku og færa stjórn þeirra mála undir lögsögu Evrópuréttarins og undir miðstýringu ACER/Framkvæmdastjórnar ESB. Um þetta skrifaði Elías Elíasson í téðri grein:
"ESB stefnir samt á að tvöfalda vægi vindorku í raforkuvinnslu sinni. Við þessar aðstæður er það knýjandi nauðsyn fyrir bandalagið að komast yfir hina hreinu og sveigjanlegu orku Noregs og Íslands og nota hana til að keyra á lognið í Evrópu.
Sæstrengur mun því koma í kjölfar þriðja orkupakkans og tengdra nýrra reglugerða. Þegar orkumálaráðherra fullyrðir, að sæstrengur muni ekki koma, er hún bæði að vanmeta ákveðni Bandalagsins í málinu og lofa upp í ermina á öðrum stjórnmálaöflum, sem munu samþykkja sæstreng orðalaust."
Þess má geta, að Þórdís Kolbrún, iðnaðarráðherra, gaf til kynna á ársfundi Landsvirkjunar í lok febrúar 2019, að hún teldi orkusölu um sæstreng á stóran markað þarfaþing til að losna við "umframorku", sem var reyndar stórlega ofmetin hjá henni, 2 TWh/ár (> 10 %) eftir tilkomu Búrfells #2 og væntanlegrar 220 kV línu frá Fljótsdalsvirkjun til Norðurlands. Nefndi hún hið gildishlaðna hugtak "brottkast" í þessu sambandi og líkti því við það, að vatn rynni framhjá virkjunum, sem er í sjálfu sér ósmekkleg samlíking og út í hött.
Í þessu sambandi er fróðlegt að skoða þankagang búrókrata Framkvæmdastjórnarinnar. Í Orkumarkaðstilskipuninni 2009/72/EB, kafla 6, um eflingu svæðisbundinnar samvinnu, stendur:
1. Aðildarlöndin og landsreglararnir skulu vinna saman í því augnamiði að samþætta orkumarkað hvers lands við eitt eða fleiri svæði sem fyrsta skref til myndunar alfrjáls innri markaðar. Einkum skulu landsreglararnir í aðildarlöndum, sem hafa undirbúið samstarfið, eða aðildarlöndin skulu hvetja til og undirbúa svæðissamvinnu á milli rekstraraðila flutningskerfa [hér Landsnet], og þar innifalin eru viðfangsefni millilandatenginga, í því augnamiði að skapa samkeppnisvæddan innri markað fyrir rafmagn, fá samræmi í lagaumgjörð landanna, rammaregluverk og tæknilega tengiskilmála, og undirbúa jarðveginn fyrir samþættingu einangruðu kerfanna, sem mynda s.k. orkueyjar, sem enn er að finna í ESB [2009], við innri markaðinn."
Það er engum blöðum um það að fletta, að höfundarnir sjá tækifæri fyrir heildina, EES, fólgið í að tengja "orkueyjar" við innri markaðinn. Þarna fara einfaldlega ekki saman hagsmunir "orkueyjar", sem getur breytt endurnýjanlegri orku sinni í eftirsótt verðmæti, og orkuhungraðs "stórveldis". Er þetta ekki augljóst ?
Það vefst ekki fyrir öllum. Þannig ritaði Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, ágæta grein um málefnið í Morgunblaðið, 9. marz 2019:
"Orkan okkar".
Hún hófst þannig:
"Í fjölmiðlum, ekki sízt í Morgunblaðinu, hefur farið fram mikil og oft á tíðum mjög upplýsandi umræða um orkustefnu Evrópusambandsins. Í þessari umræðu hafa kunnáttumenn úr orkugeiranum útskýrt, hvað felist í svokölluðum "orkupökkum" ESB, en samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar hefur staðið til, að Íslendingar samþykki "þriðja orkupakkann" á yfirstandandi þingi. Ekki er þó útséð um það, því [að] Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, vill skoða málið nánar. Það er vel."
Ögmundur Jónasson á heiður skilinn fyrir málefnalega nálgun sína á þessu máli. Hann hefur lagt sig í líma við að átta sig á staðreyndum þessa máls, sem á yfirborðinu kann að virðast bæði flókið og óáhugavert, en þeir sem gefa sér tíma til að hugleiða það,sem dregið er fram í umræðunni á báða bóga, komast margir fljótlega að því, að í grundvallaratriðum er málið ekki flókið og að það varðar mikla framtíðarhagsmuni í þessu landi, snertir hag hvers einasta íbúa landsins og atvinnuöryggi fjölmargra. Það varðar sjálfsákvörðunarrétt landsmanna um orkumál og lýðræðislegt áhrifavald kjósenda í þessu landi á ráðstöfun einnar aðalauðlindar landsins.
27.3.2019 | 10:26
Hundsbit
Það hefur komið fram, að ætlunin er að gera Orkumálastjóra að Landsreglara og þar með væntanlega að sameina embættisskyldur Orkumálastjóra og Landsreglara Evrópusambandsins, ESB, á Íslandi. Þetta er stórfurðulegt uppátæki, því að embættisskyldur orkumálastjóra spanna mun meira en raforkumál, en Landsreglari (National Energy Regulator) verður æðsti maður raforkumála á Íslandi, óháður íslenzkum stjórnvöldum, en Orkumálastjóri er aftur á móti núna beint undir ráðherra. Það fer mjög illa á þessu, enda ætla Norðmenn að viðhafa annað fyrirkomulag, þar sem Stórþingið áskildi, að völd Landsreglara yrðu eins takmörkuð og auðið væri.
Nú er Landsreglari Noregs sjálfstætt embætti innan Orkustofnunar, en verði Þriðji orkupakkinn hluti EES-samningsins, þá verður stofnað sjálfstætt embætti Landsreglara í Noregi. Ekkert slíkt virðist vaka fyrir íslenzka iðnaðarráðherranum. Þvert á móti virðist Landsreglarinn munu verða hér valdameiri en efni standa til.
Hvert verður fyrirsjáanlega hlutverk Landsreglara ? Verkefnum hans er lýst í Raforkumarkaðstilskipuninni 2009/72/EB, sem er hluti af Orkumarkaðslagabálki #3. Hér verður drepið á fáein atriði varðandi flutning og dreifingu raforku úr þessari tilskipun, og fleiri atriði tíunduð við tækifæri:
1 a) ákvarða eða samþykkja, á grundvelli skýrra skilmála, raforkuflutningsgjaldskrár og raforkudreifingargjaldskrár eða aðferðirnar, sem útreikningar þeirra eru grundvallaðar á.
Landsnet hefur hingað til samið sínar gjaldskrár, og rafmagnsdreifingarfyrirtækin sínar, og fyrirtækin hafa síðan lagt þær fyrir Orkustofnun til rýni og samþykktar. Orkumálastjóri hefur starfað í umboði ráðherra, en verður, ef "pakkinn" gengur eftir, starfandi í umboði ESB. Á bara að taka þessu sem hverju öðru hundsbiti ?
1 b) tryggja, að rekstraraðilar flutnings- og dreifikerfanna, og, eins og við á, eigendur þessara kerfa, auk allra fyrirtækja í raforkugeiranum, standi við skuldbindingar sínar samkvæmt þessari tilskipun og öðrum viðeigandi Evrópusambandsreglum, að meðtöldu því, sem varðar millilandatengingar.
Raforkugeirinn í heild sinni skal sýna regluverki Evrópusambandsins hollustu framar öllu öðru. Íslenzk orkulög og íslenzk orkustefna verða að vera í samræmi við gildandi regluverk ESB á hverjum tíma á sviði orkumála, ekki einvörðungu þess hluta, sem fólginn er í Þriðja orkupakkanum. Er þetta ekki of stór biti að kyngja fyrir þjóð, sem stendur ekki í neinum raforkuviðskiptum við ESB og kærir sig ekki um það, eftir því sem bezt er vitað ?
Í kafla 6 er tekið til við að lýsa hlutverkum Landsreglarans við tengingu inn á þessi kerfi:
6 Landsreglarinn skal bera ábyrgð á að ákvarða eða samþykkja, tímanlega fyrir gildistöku, a.m.k. aðferðirnar, sem nota á til að reikna eða ákvarða skilmálana fyrir:
a) tengingu og aðgang að landskerfi, þ.m.t. flutnings- og dreifingargjaldskrár, eða aðferðirnar, sem leggja skal til grundvallar útreikningunum. Þessar gjaldskrár eða aðferðir eiga að vera þannig, að tekjur af þeim standi undir nauðsynlegum fjárfestingum í kerfunum fyrir viðgang þeirra.
Landsreglarinn ákveður þannig tengigjöldin fyrir nýja birgja, t.d. vindorkuver, og notendur raforku. Það er líklegt, að hann muni fá leiðbeiningar frá ACER um þetta, svo að samræmis við ESB-löndin verði gætt. Með þessu fyrirkomulagi getur hvorki Alþingi né ráðherra haft áhrif á hvetjandi og letjandi þætti þessara gjaldskráa.
b) viðskipti með jöfnunarorku.
Allir kaupendur á heildsölumarkaði raforku í landinu senda með minnst sólarhrings fyrirvara inn áætlun um orkukaup sín á hverri klukkustund til síns orkubirgis og þurfa að greiða honum fyrir mismun raunverulegrar notkunar og áætlunar utan vissra marka. Orkubirgjarnir senda jafnframt inn tilboð um að láta þessa jöfnunarorku í té. Þessi jöfnunarorkumarkaður hefur virkað vel, síðan honum var komið á hérlendis. Samkvæmt Orkupakka #3 verður hann settur undir stjórn Landsreglara. Nú stjórnar Landsnet þessum markaði. Ólíklegt er, að til bóta verði að færa stjórn þessa markaðar lengra frá mörkinni, persónum og leikendum.
c) aðgang að innviðum á milli landa, þar með aðferðarfræði við úthlutun flutningsgetu og meðhöndlun yfirálags.
Landsreglarinn mótar regluverkið um það, hvernig orkuvinnslufyrirtækjum og vinnslugetu þeirra verður á hverjum tíma raðað inn á sæstrenginn eða sæstrengina. Þarna munu áreiðanlega samræmdar reglur ACER gilda í þessum efnum. Til þessara kasta kemur sérstaklega, ef strengurinn er fulllestaður. Landsreglarinn ræður því líka, hvaða orkubirgi er kastað fyrst út eða dregið úr flutningi frá, ef mannvirkin verða yfirlestuð. Hér kunna að koma upp hagsmunaárekstrar á milli orkuseljenda og orkukaupenda. Verður sá úrskurður þjóðhagslega hagstæður Íslandi ?
Norski hagfræðiprófessorinn Anders Skonhoft hefur rannsakað þjóðhagslegar afleiðingar fleiri aflsæstrengja á milli Noregs og útlanda. Þjóðhagslegar afleiðingar fyrsta aflsæstrengsins til útlanda hérlendis ættu að verða sams konar, en þó meiri. Skonhoft fann út, að summa ávinnings orkuvinnslufyrirtækjanna og taps orkukaupenda yrði neikvæð. Þetta þýðir, að út frá þjóðhagslegu sjónarmiði er verr farið en heima setið varðandi sæstrengsverkefni hérlendis.
Málið er enn alvarlegra en þetta, því að Skonhoft reiknaði ekki út afleiðingar orkuverðshækkana á fyrirtækin. Samkeppnisstaða þeirra hríðversnar, og hefur formaður samtaka grænmetis- og blómaræktenda lýst þessu á raunsæjan hátt í Bændablaðinu, en gróðurhúsabændur nota tiltölulega mikla orku á hvert kg framleiðslunnar. Svigrúm allra framleiðslufyrirtækja í landinu til launagreiðslna, nýsköpunar og annarra fjárfestinga mun minnka, sem leiða mun til minni hagvaxtar og að lokum stöðnunar. Að jafna raforkuverðið á Íslandi og í Evrópu er þannig stórfelld ógn við lífskjör allra Íslendinga.
Af þessum sökum ætti það að verða þáttur í orkustefnu landsmanna að tengjast ekki erlendum raforkukerfum. Þá vaknar spurningin um sambúð innlendrar orkustefnu við orkustefnu ESB eftir samþykkt Orkupakka #3. Ef í Orkustefnu Íslands verður stefnumörkun um að nýta beri orkulindir Íslands með sjálfbærum hætti og einvörðungu hér innanlands, þá samræmist sú stefnumörkun alls ekki Þriðja orkupakka ESB, sem er sniðinn við að koma öllum slíkum orkulindum ESB/EES á sameiginlegan Innri orkumarkað ESB og hið minnsta að tvöfalda flutningsgetu raforku á milli landa ESB frá 2010-2030. Aðildarríkin eiga að koma sér upp orkustefnu, eins og iðnaðarráðherra hefur upplýst, að nú sé í mótun, en, ef samþykkja á Orkupakka #3, þá verður orkustefna Íslands að verða í samræmi við orkustefnu ESB, eins og hún er sett fram í Viðauka IV í EES-samninginum, t.d. í gerð #714/2009, kafla 1 b, formálanum-atriði 24 og formálanum-atriði 1. Þarna er skrifað um að tryggja "mikið afhendingaröryggi fyrir raforku" í ESB, styðja við "vel virkan" samkeppnismarkað og "samkeppnishæf verð" á ESB markaði. Íslendingar geta þetta ekki án þess að tengjast ESB-markaði beint.
Nú hafa 2 af 4 lagasérfræðingum, sem utanríkisráðherra fékk til að meta, hvort ákvæði Þriðja orkupakka ESB brytu í bága við Stjórnarskrá, komizt að þeirri niðurstöðu, að ein gerð hans, nr 713/2009, samrýmist ekki Stjórnarskrá. Þá hefur hann brugðið á afar einkennilegt ráð. Hann leggur til innleiðingu gerðarinnar "með hefðbundnum hætti", en með lagalegum fyrirvara um, að sæstrengur verði hvorki undirbúinn né lagður, "nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar, og komi ákvæði hennar, sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni."
Samkomulag utanríkisráðaherra við framkvæmdastjóra orku- og loftslagsmála er ekki lagalega skuldbindandi fyrir Evrópusambandið, sem þýðir, að ESB getur litið svo á, að Orkupakki #3 hafi verið innleiddur á Íslandi. Lagasetning um skilyrta innleiðingu verður væntanlega úrskurðuð ólögmæt að Evrópurétti hjá ESA. Leiðin er þess vegna greið fyrir sæstrengsfjárfesta, hafi þeir hug á "Ice-Link", og sá áhugi er fyrir hendi. Yfirlit um þetta er að finna í viðhengi með þessum pistli.
Ef orkustefna Íslands reynist verða sniðin við orkustefnu ESB, er áreiðanlegt, að hún mun vekja upp miklar deilur í landinu og óvíst, hvernig henni reiðir þá af á Alþingi. Hugsanlega verður hún eitt af "kosningamálunum" fyrir næstu Alþingiskosningar, ef drög að henni hafa birzt þá. Ráðstöfun orkulindanna er eitt af mestu hagsmunamálum landsmanna, og afstaða kjörinna fulltrúa á löggjafarsamkundunni til orkumálanna gæti haft drjúg áhrif á beitingu atkvæðisréttarins.