Færsluflokkur: Evrópumál

Helsi og frelsi Evrópu

Evrópa er Íslendingum allhugstæð, enda standa rætur okkar þar.  Margir hérlendir hafa þegið menntun sína í Evrópu og unnið þar tímabundið.  Yfirgnæfandi meirihluti 800 þúsund erlendra ferðamanna á Íslandi í ár er frá Evrópu.  Við höfum öflug viðskiptatengsl við Evrópu, enda erum við á Innri markaði EES (Evrópska efnahagssvæðið). 

Nú er Evrópa enn á leiðinni ofan í öldudal efnahagskreppu og stjórnmálakreppu.  Efnahagskreppan er öllu verri í löndum Evrópusambandsins (ESB) en annars staðar í heiminum vegna flókins opinbers regluverks, sem er atvinnurekstri íþyngjandi, stendur jafnvel frumkvöðlum fyrir þrifum, lítils sveigjanleika á vinnumarkaði og hærri skatta en í helztu viðskiptalöndunum utan Evrópu. 

Verst er staðan í löndum evrunnar þrátt fyrir ýmislegt viðskiptalegt hagræði, sem af henni leiðir.  Annmarkar þess að vera með hágengi án nokkurra tengsla við framleiðnistigið í landinu og almenna samkeppnihæfni ásamt vöxtum slitnum úr samhengi við eigið hagkerfi eru geigvænlegir, og er atvinnuleysið í Suður-Evrópu órækasti votturinn um þetta. Þýzk fyrirtæki njóta þess að vera í umhverfi, sem vegur mest í ákvörðunum evrubankans um peningastefnuna, og þau eru mjög samkeppnihæf eftir þjóðfélagsumbætur jafnaðarmanna og græningja undir forystu Gerhards Schröders 2003 og af því að kostnaðarhækkunum hefur verið haldið í skefjum frá síðustu aldamótum í Þýzkalandi.  Með þýzku skipulagi, einbeitni og dugnaði bættu Þjóðverjar samkeppnihæfni sína stórkostlega á fyrsta áratugi aldarinnar.  Sumar evruþjóðirnar hafa enn ekki sýnt lit og virðast fljóta sofandi að feigðarósi.  Átakanlegasta dæmið þar um eru Gallarnir vestan Rínar.     

Engum blöðum er um það að fletta, að svipað væri uppi á teninginum hérlendis og víðast hvar á evrusvæðinu utan Þýzkalands, ef lögeyririnn á Íslandi væri nú evra eða einhver önnur mynt, nema breyting til batnaðar verði á efnahagsstefnunni hérlendis í aðdraganda myntskipta og agi í ríkisfjármálum, launamálum og efnahagsmálum almennt verði ekki minni en í Þýzkalandi, sem mestu ræður um gengi evrunnar.  Ekki er unnt að útiloka, að Íslendingar sjái ljósið í myrkrinu, af því að neyðin kennir nakinni konu að spinna.   

Kosningar verða í september 2013 til neðri deildar þýzka Sambandsþingsins.  Er þeirra beðið með eftirvæntingu ekki sízt, eftir að Angela Merkel lenti í bullandi vörn í kosningabaráttunni vegna meintrar samvinnu hennar við njósnastofnun Bandaríkjanna.  Slíkt kunna Þjóðverjar ekki að meta, enda ristir starfsemi GESTAPO og STASI djúpt í hugskoti þeirra, en þýzkur almenningur var að sjálfsögðu þrúgaður á velmegtardögum þessara hrollvekjandi stofnana.  Að stórri bandarískri stjórnardeild skuli nú vera líkt við þessar stofnanir, segir mikla sögu um, hvar Bandaríkin eru stödd nú.  Um er að ræða óheyrilega hnýsni í einkahagi fólks undir merkjum öryggis.

  Greinilegt er, að erfiðum ákvörðunum um fjármagnsflutninga frá Þýzkalandi til bágstaddra evruríkja er frestað fram yfir þessar kosningar.  Allt er í raun á suðupunkti í Evrópu núna, og ástæðan er meiri munur á menningu og tæknistigi í evrulöndunum en svo, að þessar þjóðir geti búið við sömu mynt.  Jafnvel járnhönd í Brüssel gæti ekki brúað þetta bil, hvað þá tannlausir búrókratar í Berlaymont.  Meira að segja Prússarnir í Berlín hafa engan hug á því.  Þungamiðja hagsmuna þýzku iðnaðarvélarinnar er ekki lengur á evrusvæðinu (aðeins 36 % útflutnings og minnkandi).

Gætum við Íslendingar búið með Þjóðverjum í myntbandalagi ? Össur Skarphéðinsson, barnalegasti "Machiavelli" allra tíma, hélt það og heldur sennilega enn.  Engar mælingar, rannsóknir eða áætlanir styðja þessa skoðun fyrrverandi utanríkisráðherra.  Sem stendur er fátt, sem bendir til þess, enda uppfylla Íslendingar ekkert grundvallarskilyrðanna, kennd við hollenzku borgina Maastricht, sem sett eru fyrir inngöngu í myntbandalagið.  Við værum ósyndir, og jafnvel vatnshræddir, að stinga okkur til sunds með hákörlum. 

Meira að segja Svíar treystu sér ekki til inngöngu í þetta myntbandalag, og er þó upplag þeirra og þjóðfélag keimlíkt og hjá frændum þeirra sunnan Eystrasaltsins.  Nauðsynlegar forsendur hinnar sameiginlegu myntar eru ekki allar fyrir hendi í mörgum evrulandanna.  Þeim var smyglað inn á fölskum forsendum, af því að stjórnmálamönnum lá ósköpin á.  

Eftir þýzku kosningarnar í haust mun upphefjast að nýju söngur um nýjar björgunaraðgerðir á kostnað Þjóðverja, en slíkt munu þeir tæpast samþykkja í ljósi hinnar alvarlegu andúðar, sem viðtökuþjóðirnar hafa sýnt nýlega á Þjóðverjum.  Skiptir þá engu, hvort CDU/CSU eða SPD fer með völdin.  Það er samstaða í Þýzkalandi um þetta. Að fitja nú upp á stríðsskaðabótum frá Berlín er eins og blautur hanzki, e.t.v. stríðshanzki, í andlit Þjóðverja.  Við þessar aðstæður er óráð fyrir þjóðir að íhuga upptöku evru, því að hún stendur á veikum grunni.

Boris Johnson, borgarstjóri Lundúna, var nýlega gestkomandi í Berlín og bar Þjóðverjum vel söguna, heim koninn.  Ráðlagði hann Englendingum að taka Þjóðverja sér til fyrirmyndar á ýmsum sviðum, t.d. til auka hjá sér framleiðnina.  Það kastar tólfunum, þegar fyrrverandi ritstjóri upphefur raust sína á vefmiðli sínum og tekur til við að líkja Boris Johnson við Neville Chamberlain 1938.  Þessi samanburður er fyrir neðan allar hellur og kastar rýrð á orðstýr ritstjórans.    

Það eru tvær góðar skýringar á afstöðu Þjóðverja til s.k. björgunaraðgerða.  Sú fyrri er, að þeir hafa síðan árið 2006 tapað 20 % af sinni VLF á erlendum fjárfestingum, og var tap þeirra vegna bankahrunsins á Íslandi dálítið brot af þessu.  Sú seinni er, að eignastaða þýzkra heimila er sú lakasta í Vestur-Evrópu.  Hér að neðan er yfirlit um eignastöðu heimila nokkurra Evrópuþjóða, sem þekktar eru úr evrópskri kreppuumræðu undanfarinna missera samkvæmt Seðlabanka evrunnar:

  1. Spánn:        kEUR 180 = MISK 29
  2. Ítalía:         kEUR 170 = MISK 27
  3. Frakkland:   kEUR 115 = MISK 18
  4. Grikkland:   kEUR 100 = MISK 16
  5. Austurríki:   kEUR 75  = MISK 12
  6. Þýzkaland:  kEUR 51  = MISK 8

 Margir Þjóðverjar ferðast til Suður-Evrópu, og þá blasir við þeim ótrúlegur fjöldi af Audi, BMW og Mercedes Benz bifreiðum.  Þýzkir stjórnmálamenn eru meðvitaðir um allt þetta, og þess vegna vilja þeir ekki rugga bátnum fyrir kosningar.  Ef á að nota þýzku ríkishirzluna til björgunaraðgerða fyrir ofangreindar þjóðir, gæti það orðið banabiti viðkomandi þingmanna, sem það samþykkja. 

Það má spyrja sig, hvað valdi þessari undarlega lágu eignastöðu þýzkra fjölskyldna.  Í fyrsta lagi eru þýzkar fjölskyldur minni en víðast annars staðar, og þessi litla viðkoma mun valda þeim gríðarlegum vandamálum í framtíðinni.  Í öðru lagi, og það er meginskýringin, þá búa langflestar þýzkar fjölskyldur í leiguhúsnæði, þó að Bæjaraland sé untantekning frá þessari þýzku reglu eins og ýmsum öðrum.  

Megnið af þýzku húsnæði er í eigu fárra fjölskyldna.  Eignastaða Þjóðverja er mjög misjöfn, því að ofan á þessa misskiptingu leggst "Mittelstand", sem eru fjölskyldufyrirtæki, sem flest standa sig mjög vel á útflutningsmörkuðum.  Þessi gríðarlega misskipting eigna veldur því, að Þjóðverjar eru tiltölulega hallir undir vinstri flokka, og keppa Sjálfstæðisflokkurinn þar, CDU/CSU, og Jafnaðarmannaflokkurinn, SPD, um hylli flestra kjósenda.     

Það þarf ekki að rifja upp úrskurð EFTA-dómstólsins frá 28. janúar 2013, þar sem ESB átti aðild að máli gegn Íslandi, eða þvingunartilraunir Berlaymont-búra varðandi Icesave-ánauðina.  Nú er makríllinn efst á baugi og miklir hagsmunir í húfi fyrir Íslendinga eða 20-30 milljarðar kr á ári í útflutningstekjum.  Svo er nú komið, að heilfrystur makríll er verðmætasta einstaka afurð sjávarútvegsins, 19 milljarðar kr árið 2012, þó að þorskurinn sé verðmætasta tegundin.

Norðmenn og ESB berja enn hausnum við steininn og neita að viðurkenna þá stöðu stofnsins, að hann er nú tekinn að hrygna í íslenzku lögsögunni og a.m.k. ein milljón tonn makríls sækir inn í íslenzku lögsöguna og tvö- til þrefaldar þar þyngd sína.  Það er óviðunandi fyrir hérlandsmenn að láta Norðmenn og Berlaymont segja sér fyrir verkum um það án vísindalegra raka, hvað og hversu mikið má veiða í íslenzkri lögsögu. 

Makríllinn er flökkustofn, sem leitar æ norðar í kaldari sjó, og líklegt er, að tíminn vinni með Íslendingum í þeim skilningi, að æ stærri hluti makrílstofnsins, hvort sem er sunnan úr höfum eða að vestan, muni leita hingað norður í ætisleit og jafnvel til hrygningar.  Það eru full sanngirnisrök fyrir því, að við megum beita sömu aflareglu á makrílinn og á ýmsa aðra stofna í lögsögunni, enda er hún studd vísindalegum rökum.  Þá ætti 200 þús tonna veiði á ári að vera í góðu lagi.  Steingrímur Jóhann, bezti vinur kröfuhafa bankanna, hörfaði úr 150 þús tonna markinu í um 120 þús tonn.  Þar veikti hann samningsstöðu Íslendinga, Icesave-klaufinn. 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarmál eru alfarið á forræði búrókratanna í Berlaymont, og einstök ríki ráða aðeins innsta hluta lögsögu sinnar.  Halda menn, að fulltrúa Íslands í æðstu stjórn ESB yrði mikið ágengt við að halda hagsmunum Íslands til skila varðandi flökkustofn á borð við makrílinn, þegar mætast stálin stinn í framkvæmdastjórninni ?  Augljóslega mundu hin hagsmunaríkin, Írar, Bretar og Danir, mynda blokk gegn Íslandi og bera íslenzka fulltrúann ofurliði. 

Það er ekki víst, hvaða afstöðu Þjóðverjar tækju í þessu máli.   Viðskiptahagsmunir þeirra innan evru-svæðisins eru nú þannig, að aðeins 37 % þýzkra útflutningstekna koma þaðan og fara minnkandi og stefna í 30 % árið 2025.  Orð þeirra og afstaða vega þungt um þessar mundir í öllum ágreiningsmálum innan Evrópu. Verandi strandþjóð utan ESB getum við hins vegar beitt fyrir okkur alþjóðalögum á grundvelli Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og beitt sanngirnisrökum í áróðrinum með vísun til stofnmælinga og áts makrílsins í íslenzku lögsögunni.  Refsiaðgerðir ESB gætu skaðað ESB-löndin meira en okkur.  Við höfum frelsi og sveigjanleika til að gera bandalag við aðra um viðskipti og annað, sem væri ESB þyrnir í augum.

Við þessar aðstæður og á grundvelli úrslita Alþingiskosninganna í apríl 2013 var rökrétt að gera strax hlé á aðlögunarferlinu, sem hófst með samþykkt Alþingis á umsókn hinn 16. júlí 2009, og er verst undirbúna nýbreytni í íslenzkri utanríkisstefnu, sem um getur.  Ef ESB gangsetur refsiaðgerðir gegn Íslandi, ber Alþingi umsvifalaust að afturkalla þessa umsókn. Ef ESB hættir við refsiaðgerðir og samningar nást um makrílinn, þá væri ekki úr vegi, að þjóðin greiddi atkvæði um að endurvekja aðlögunarferlið með það að markmiði að gerast aðili að Evrópusambandinu, en ekki að kíkja í pakkann, sem er innantómur frasi, sem er ekki í boði.  Þar sem þetta verður tvímælalaust mikið átakamál í kosningum, væri það dónaskapur í garð sveitarstjórnarmanna að setja á téð þjóðaratkvæði samhliða sveitarstjórnarkosningum.  Miklu nær væri að kjósa um ESB samhliða Alþingiskosningum.  

ÞýzkalandÁ illa saman                     


Stjórnarandstaða skipuð geimverum

Eftirmæli afturhaldsins, sem ráðherrastólana kvaddi þann 23. maí 2013, verða óbeysin.  Mistökin eru legíó, og kosningaúrslitin innsigla falleinkunn þessa dæmalausa fyrirbrigðis, sem er lægsta einkunn nokkurrar ríkisstjórnar á Íslandi og þótt víðar væri leitað. 

Landsmenn sluppu fyrir horn, eftir að meirihluti í sárum færði óhæfu fólki völdin í apríl 2009. Forsætisráðherrann fráfarandi færði arftakanum einhverja bók um jafnrétti, sem hún sagði honum að lesa vandlega, en hér skal draga í efa, að Jóhanna Sigurðardóttir hafi nokkurn tíma lesið þá bók fremur en mikilvægari stjórnarskjöl, sem hún þó samþykkti og skipaði þingmönnum að gera slíkt hið sama.

Þessi óábyrgasti forsætisráðherra Íslandssögunnar, sem hóf sig aldrei upp fyrir gæluverkefnastigið, hrósaði sér og ríkisstjórn sinni fyrir að hafa aukið jafnréttið á Íslandi.  Þessi lokaræða var tóm vitleysa.  Hún var þá sennilega að vísa til hins illræmda skattpíningarkerfis síns, þar sem skattkerfið sem tekjuöflunarkerfi hins opinbera var herfilega misnotað, en alhæfing hennar var samt allsendis ósönn.  Á tíma Samfylkingarformannsins, fyrrverandi, í forsæti fyrir jafnréttismálum á Íslandi, jókst launamisrétti kynjanna hjá hinu opinbera umtalsvert.  Það fóru aldrei saman orð og efndir. Þessi fyrrverandi forsætisráðherra var svo siðblind, að hún lét sig hafa það að kveðja með ósannindi á vörum.  Nú reynir arftaki hennar á formannsstóli Samfylkingar að blása í glæðurnar og ætlar að vinna sigur í sveitarstjórnarkosningum að ári.  Honum mun ekki verða kápan úr því klæðinu.  Fyrrverandi varaformaður flokksins, Dagur ei meir, er búinn að sjá til þess.

Umsagnir leiðtoga stjórnarandstöðunnar á þingi um stefnuyfirlýsingu Laugarvatnsstjórnarinnar einkennast af nöldri, gremju og furðulegu hugmyndaleysi.  Þau éta það hvert upp eftir öðru, að stefnuyfirlýsingin sé ekki nógu ítarleg og að hún sé óútfærð.  Þetta á líka við um álfinn út úr hól, vinstra megin við velsæmi.

Það er munur á stefnu og markmiðum.  Stefnuyfirlýsing er leiðsögn um það, hvert halda skal, en markmið er mælanlegur og tímasettur áfangi.  Á þessu virðist stjórnarandstaðan ekki kunna skil, enda nokkrir gatistar þar á ferð.

 Það hefði auðvitað verið ábyrgðarleysi af formönnum Laugarvatnsflokkanna að setja á langar fundarsetur síns fólks til að útbúa markmið á hæpnum forsendum upplýsinga úr ranni fráfarandi ráðherra.  Á meðan hefði landið verið stjórnlaust, sem hefði kannski ekki verið stór breyting, segja sumir.  

Formenn Laugarvatnsflokkanna kunna greinilega að vinna.  Þeir stika gróflega leiðina og leggja línurnar.  Síðan er það ráðherranna og þingmannanna að móta, hvað, hvernig, hvar og hvenær á að framkvæma.  Strax í upphafi kemur sem sagt fram gríðarlegur munur á aðferðarfræði stjórnar og stjórnarandstöðu og þarf ekki að orðlengja, hvor er gæfulegri.  Eins og fram er sett ábending um í forystugrein Morgunblaðsins 28. maí 2013 munu formenn stjórnarflokkanna vonandi nota sumarið vel og koma vel skæddir og brýndir til leiks með markmið ríkisstjórnarinnar til haustþings 2013.   

Formaður og varaformaður Samfylkingar halda áfram að klappa evrusteininn og vilja helzt, að evran verði lögeyrir á Íslandi sem allra fyrst, ef rétt er skilið.  Annaðhvort fylgjast þau ekki með hagmálum evrulanda, eða þau eru dómgreindarlaus, þ.e.a.s. þau gera sér ekki grein fyrir því, hvaða efnahagslegu forsendur þarf að uppfylla til að evran sem lögeyrir geti orðið Íslandi til framdráttar í stað þess að verða hræðilegur baggi.  

Efnahagsleg og stjórnmálaleg staða í ESB-Evrópusambandinu stefnir í hreina upplausn.  Það eru meiri líkur en minni á að evran verði ekki til í sinni núverandi mynd að tveimur árum liðnum.  Til marks um þetta er forsíða tímaritsins, The Economist, 25. - 31. maí 2013, en þar er birt mynd af leiðtogum ESB gangandi fram á hengiflugið og þeir kallaðir svefngenglar.  Í undirfyrirsögn er síðan textinn: "A euro disaster waiting to happen"   eða evrukollsteypa á næsta leiti.  Það er til marks um ótrúlega þráhyggju og þrákelkni, sem er komin út fyrir stjórnmálalega rökræðu og þarfnast útskýringa af sálfræðilegum toga, að meginkeppikefli Samfylkingar og Bjartrar framtíðar er enn að ná samningum við ESB til að Ísland geti gengið í ESB og geti öðlazt þar einhvern yfirnáttúrulegan stuðning til að auðvelda Seðlabankanum gjaldmiðilsskipti yfir í evru.  Ef "The Economist" mundi frétta af þessu háttarlagi Samfylkingarforystunnar og hjáleigunnar, sem kannski á eftir að breytast í höfuðból jafnaðarmanna, þá mundu blaðamenn tímaritsins líklega velja sterkari nafngift en "svefngenglar".   Eftir á að hyggja er þetta þó lýsandi nafngift fyrir ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.

Upp er kominn í Þýzkalandi nýr stjórnmálaflokkur, Alternative für Deutschland, AfD, sem hefur það á stefnuskrá sinni, að Þýzkaland gangi úr myntsamstarfinu og endurreisi Deutsche Mark, DEM.  Flokkurinn gæti hæglega orðið í oddaaðstöðu á Sambandsþinginu í Berlín eftir þingkosningarnar í september 2013.  Suðrænu þjóðirnar eru hart leiknar af ESB, ECB og AGS (þríeykinu), en það réttlætir ekki orðbragð þeirra gagnvart núverandi stjórnvöldum Þýzkalands.  Þeim er líkt við leiðtoga Þriðja ríkisins, og slíkt nær náttúrulega ekki nokkurri átt.  Mörgum Þjóðverjum mislíkar þetta svo, að þeir vilja losna úr þessu myntsamstarfi.       

Öxullinn Berlín-París er brotinn og viðhorf Frakka og Þjóðverja til stjórnmálalegra og efnahagslegra viðfangsefna verða nú ólíkari með hverju misserinu, sem líður.  Þetta veldur pólun og innri spennu í ESB, þar sem Frakkar eru að skipa sér í forystu fyrir suðrænu þjóðunum, og Þjóðverjar fyrir norrænu þjóðunum, en Austur-Evrópa á enn erfitt með að fóta sig.  Þróunin á Bretlandi er með þeim hætti, að ljóst er, að þeim vex þar nú ásmegin, sem vilja úrsögn Stóra-Bretlands úr ESB, þó að atvinnurekendasamtökin maldi í móinn.  Frjálslyndi flokkurinn kemur í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu nú um veru Bretlands í ESB, en Cameron lofar Bretum henni, vinni Íhaldsflokkurinn næstu þingkosningar og fái meirihluta á þinginu.  Sjálfstæðisflokkur Bretlands undir formennsku hins snjalla Nigel Farage ógnar nú stöðu Íhaldsflokksins, eins og í ljós kom í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. 

Það hljóta að vera geimverur, sem við þessar aðstæður láta áróður sinn í stjórnarandstöðu á Íslandi hverfast um það, að Ísland gangi sem fyrst í ESB, þó að bilið á milli stefnu Íslands og ESB í málefnum sjávarútvegs og landbúnaðar, svo að tvær greinar séu nefndar, hafi aldrei verið breiðara en nú, þrátt fyrir 4 ár frá umsókn um aðild og einn milljarð kr í kostnað.  Þetta heitir að ganga með steinbarn í maganum, og maður getur fengið skeifu við tilhugsunina.  Slíkir flokkar eru alls ekki í takti við tímann, og þeirra hljóta að bíða þau örlög að verslast upp; geimverurnar munu ekki fá þrifizt á þinginu. 

Hér að neðan eru ekki geimverur, heldur þátttakendur í reiðhjólakeppni fyrirtækja, sem lauk í gær, 28. apríl 2013, og má sjá höfund þarna í fullum skrúða.      

 BJo_GHe_KOM_21_05_2013                                                                     BJo_KOM_DIB_SBH_GNG_21_05_2013 

 

   


Á hvítasunnu 2013

Miðað við tíðar sumarbústaðaferðir í fagurt umhverfi má búast við, að andinn komi yfir formenn borgaralegu flokkanna um hvítasunnuna, þó að hann verði fráleitt heilagur með öllu því kruðiríi, sem sögur fara af, að borið hafi verið á borð fyrir þá.  Slíkt matarræði er ekki afkastahvetjandi, en kallar á vandamál fyrir kyrrsetumenn. 

Þeim hefði verið nær að naga íslenzkar gulrætur, sem komnar eru á markaðinn, og bæta við lífrænt ræktuðum, nýjum innfluttum gulrófum.  Þá hefðu afköstin e.t.v. orðið enn meiri, þó að ekki skuli hér draga í efa aðferðarfræði formannanna til að kalla fram afurðagæði, sem öllu skipta við þessa ríkisstjórnarmyndun.  Það er virðingarvert, að þeir virðast gera sér far um að glöggva sig rækilega sjálfir á vandamálunum og virðast stika út leiðirnar, sem fara á til úrlausnar stórvöxnum þjóðfélagsvandamálum, en meira en 4 ár hafa algerlega farið í súginn, þar sem óhæft fólk hefur setið með hendur í skauti í Stjórnarráðinu, og eiginlega hvorki vitað í þennan heim né annan.  Nú síðast kom Þistilfirðingurinn fram í sjónvarpi, eins og álfur út úr hól, og svaraði út í hött um fjármál ríkisins, sem eru í ólestri enn þá, þ.e. tap er á rekstri ríkissjóðs, og skuldasöfnunin hefur verið geigvænleg.  Sem sagt alger óstjórn.   

Það hefur svo gert illt verra, að þetta óhæfa fólk vinstri flokkanna við stjórnvölinn hefur gert sér sérstakt far um að setja sand í tannhjól athafnalífsins og staðið gegn öllum málum, sem til framfara gætu horft.  Það er ein skýringin á minni fjárfestingum en nokkru sinni á lýðveldistímanum.  Það dugar ekki lengur að æpa, eins og illa upp alinn krakki, á torgum "en hér varð hrun".

Ráðherrar Jóhönnustjórnanna hafa verið holdgervingar stöðnunar þjóðfélagsins og reyndar hreykt sér af "að láta náttúruna njóta vafans", en þetta slagorð hafa þau misnotað fram úr hófi og beitt fyrir sig, þegar auðlindanýtingu hefur borið á góma.  Allir sjá, hversu ábyrgðarlaust það er gagnvart íbúum landsins að slá um sig með slíkum fullyrðingum í stað þess að rökræða áhætturnar.  Nú er að sjá, hversu afdráttarlaus stefnumörkun nýs Alþingis verður til nýrra virkjana og flutningslína.  Það er líka hægt að kynna afleiðingar nýtingar og nýtingarleysis fyrir þjóðinni og óska úrskurðar hennar í einstökum miklum deilumálum.  Hvort vill fólk búa við orkuskort, eins og nú hrjáir landsmenn á Norður-og Austurlandi, eða leyfa lagningu öflugrar línu á milli landshluta, t.d. yfir Sprengisand.  Það þarf að taka lýðræðislega ákvörðun á grundvelli staðreynda í þessu máli sem öðrum.  Nú hefur frétzt af lítilli ákomu jökla í vetur.  Verður raforkuskortur víðar á næsta ári ?     

Hér að ofan var minnzt á afköst við stjórnarmyndun í hálfkæringi, en afköst eru ekki gamanmál, heldur fúlasta alvara.  Til þess að stækka þjóðarkökuna, auka þjóðartekjurnar og það, sem er til skiptanna fyrir heimilin, þ.e. að auka ráðstöfunartekjur heimilanna, er aðeins ein leið fær: að auka afköst allra, sem vettlingi geta valdið, og þar með afköst heildarinnar. 

Það hefur verið lagt tölulegt mat á, hversu langt Íslendingar eiga í land m.v. t.d. Svía, og munar 20 % á framleiðni þjóðanna.  Á meðan svo er í pottinn búið, öflum við of lítils gjaldeyris til að geta búizt við stöðugu gengi gjaldmiðilsins.  Ef við værum með evruna núna, stæðum við frammi fyrir stórvandræðum útflutningsatvinnuveganna, og innlend framleiðsla ætti erfitt með að keppa við innflutning.  Hér væru dæmigerð kreppueinkenni nauðstaddra evrulanda með um 20 % atvinnuleysi.  Gætum við skellt skuldinni á Þjóðverja ?  Auðvitað ekki.  Hver er sinnar gæfu smiður.  Allir, sem tóku upp evruna, máttu þekkja leikreglurnar, og öllum var í lófa lagið að auka framleiðni sína með markvissum aðgerðum.  Þeir, sem höguðu sér samkvæmt Maastricht, hefur gengið vel.  Hinum hefur gengið hroðalega.  Einfeldningar jafnaðarmanna á Íslandi töldu evruna vera himnasendingu fyrir Íslendinga.  Hvílík fásinna !  Hvílík veruleikafirring !

Í ljósi mikilvægis hárrar framleiðni á öllum sviðum þjóðlífsins verða allar ráðstafanir Hvítasunnustjórnarinnar að ýta undir aukna framleiðni.  Það er þó alls ekki svo, að framleiðni í öllum geirum samfélagsins sé lág m.v. aðrar þjóðir, þó að meðaltalið sé allt of lágt.  Íslenzki sjávarútvegurinn er með mestu afköst og verðmætasköpun í heimi á hvern starfsmann.  Það þarf þó að hlúa að honum til að hann haldi forskoti sínu.  Vegna lögmálsins um hagkvæmni stærðarinnar þarf að lyfta kvótaþakinu upp í a.m.k. 20 %, en hjá Norðmönnum er það 25 %.  Þá þarf að afnema gerræðislega og eyðileggjandi gjaldtöku af greininni, en samkeppniaðilarnir erlendis hafa aldrei þurft að búa við þvílíka eignaupptökutilraun sameignarsinna sem íslenzki sjávarútvegurinn.

Íslenzki landbúnaðurinn hefur aukið framleiðni sína alveg gríðarlega með tæknivæðingu, nýjum verkunaraðferðum, ræktunaraðferðum reistum á vísindalegum rannsóknum, stækkun og fækkun búanna.  Höfundi er til efs, að nokkur landbúnaður á sama breiddargráðubili sýni hærri framleiðni en sá íslenzki.  Landbúnaðarins bíða gríðarleg útflutningstækifæri og akuryrkjutækifæri, t.d. á repju og nepju til olíuframleiðslu og fóðurframleiðslu.  Til að landbúnaðurinn geti eflzt þarf hið opinbera að gera stórátak í þrífösun sveitanna, sbr rafvæðingu sveitanna fyrir hálfri öld, um leið og loftlínur dreifikerfanna verði aflagðar á næstu 10 árum, en þær eru víða mjög farnar að líta upp á landið.  Þetta er opinber fjárfesting í innviðum landsins, sem mun skila sér í auknum gjaldeyristekjum og minni gjaldeyrisþörf til innflutnings.

Davíð Þorláksson heitir formaður SUS-Sambands ungra sjálfstæðismanna, hugsanlega hallur undir kruðirí, eins og fleiri, sbr hér að ofan. Hann reit nýlega grein í Morgunblaðið, þar sem hann lagðist gegn opinberri fyrirgreiðslu til stóriðju.  Höfundi þessa pistils er spurn: hvers vegna skyldi hið opinbera, ríki og sveitarfélög, ekki mega fjárfesta í innviðum til að búa í haginn fyrir margföldum tekjum sínum í framtíðinni á við téða fjárfestingu, búa í haginn fyrir ný fyrirtæki, sem greiða tiltölulega há laun, hækka tæknistigið í landinu, auka fjölbreytni atvinnulífsins, hlúa að sprotastarfsemi og auka gjaldeyristækjur landsins ?  Allt þetta hefur stóriðjan leitt af sér, en gegn henni og virkjunum í hennar þágu beindist gagnrýnin.  Raforkukerfi landsins án stóriðju væri ekki nema svipur hjá sjón, og orkuverð til almennings væri þá miklu hærra, en nú nýtur íslenzkur almenningur lægsta orkuverðs í Evrópu.  Þannig fær hann sína auðlindarentu beint í vasann, og allir eru sáttir.  Hvers vegna á að láta úrtölufólk komast upp með að rakka niður, leggjast þvert gegn og hindra, ef það kemst í aðstöðu til, tiltekna atvinnustarfsemi í landinu, sem er landinu ekki síður hagnýt en önnur ?  Að mála skrattann á vegginn er einkenni illa upplýstrar umræðu um athafnalífið, litlu gulu hænuna okkar allra.  

Landsvirkjun hefur verið nefnd í þessu sambandi.  Hún er alfarið í eigu ríkisins.  Hér skal taka undir það, að rétt er að afnema ríkisábyrgð af lánum Landsvirkjunar, því að slíkt getur skekkt samkeppnistöðu orkufyrirtækja hér innanlands, þó að endurgreiðslur komi til, og Landsvirkjun hefur vaxið svo fiskur um hrygg, að engin þörf er á slíkri baktryggingu skattborgaranna. 

Það má spyrja, hvort þetta eignarform hafi í alla staði góð áhrif á reksturinn, þegar viðfangsefnin, þau er hátt fara, eru gaumgæfð.  Þar má nefna sæstreng og vindmyllur, en hér skal fullyrða, að hvorugt þessara gæluverkefna gagnast eigendunum.  Þá hefur núverandi stjórnendum ekki tekizt að landa neinum samningi, sem líklegur sé til að auka virði Landsvirkjunar umtalsvert, og gæti vitlaus verðlagning átt þar hlut að máli.  Fyrir árangursleysi í ávöxtun mikilla opinberra verðmæta verður að refsa.  

Það er mjög líklegt, að fjölbreyttara eignarhald hefði heilbrigð áhrif á stefnumörkun Landsvirkjunar til langs tíma og mundi hraða virðisaukningu fyrirtækisins.  Andvirði sölu á hluta fyrirtækisins, t.d. 40 % í 4 áföngum, mundi bezt varið til lækkunar á skuldum ríkisins og gæti lækkað árlega vaxtabyrði um 10 milljarða kr eða 11 %, og munar um minni árlegan sparnað.  Slíkt er góð fjárfesting, og veldur ekki þenslu á fjármálamarkaðinum hér.

Mjög undarleg sjónarmið settu svip á afgreiðslu Alþingis á svo nefndri Rammaáætlun um verndun og nýtingu orkuauðlinda.  Þar voru borðleggjandi vatnsaflsvirkjanir settar í bið, en jarðgufuvirkjanir hafðar í nýtingarflokki.  Þetta skýtur mjög skökku við, þegar tekið er tillit til einkar lítils tjóns af völdum téðra vatnsaflsvirkjana, t.d. í Þjórsá, en alvarlegs heilsutjóns, sem H2S, brennisteinsvetni, og SO2, brennisteinstvíildi, frá jarðgufuvirkjunum geta haft í för með sér auk gæðarýrnunar á drykkjarvatni og tæringar í andrúmslofti.  Mengun frá jarðgufuvirkjunum á Suðvesturlandi í nágrenni mesta þéttbýlis landsins er nú þegar meiri en við verði unað, veldur vanlíðan og hefur slæm áhrif á heilsufar, sem veldur viðbótar kostnaði í samfélaginu, vinnutapi, lyfja- og lækniskostnaði.  Það hlýtur og verður að vera forgangsatriði viðkomandi orkufyrirtækja að draga stórlega úr þessari mengun.

Í þessu sambandi kemur sér illa fyrir íbúa Norðausturlands og er slæmt fyrir hag landsins, að ekki skuli mega virkja í Jökulsá á Fjöllum.  Ástæða er til fara í áhættugreiningu á öllum hliðum þessa máls, því að tækninni hefur fleygt fram síðan téð friðunarákvörðun var tekin.  Tryggja þarf, að lýðræðislegur vilji heimamanna og þjóðarinnar sé hafður í heiðri í þessum málum sem öðrum. 

Það er vel þekkt, að auðvelt er að sameina hagsmuni orkuöflunar og ferðamennsku.  Það er rangt, að Dettifoss yrði aðeins svipur hjá sjón eftir virkjun.  Það yrði aðeins óveruleg breyting á fossinum, þó að vatnsflæðið um hann yrði minnkað um 2/3 að jafnaði, og stórlega mundi hægja á bergsliti, sem eyðileggur fossinn með tímanum.  Vegna friðunar þessa mikla vatnsfalls er verið að kukla við jarðvarmavirkjanir, sem tæknin er ekki tilbúin fyrir, svo að allrar eðlilegrar varúðar sé gætt, bæði varðandi mengun Mývatns og hollustu andrúmslofts við Mývatn.  Íbúar Mývatnssveitar hafa eðlilega af þessum málum þungar áhyggjur, eins og fjölmennur fundur nýlega fyrir norðan leiddi í ljós.  Það dugar Landsvirkjun ekki að koma með innantómar fullyrðingar.  Henni ber að svara, hvernig hún ætlar að tryggja íbúana gegn heilsutjóni og Mývatn gegn tjóni á lífríkinu af völdum virkjana sinna.  Síðan á að spyrja íbúana, hvort þeir vilji heimila þessar virkjanir.  Landsvirkjun þarf að breyta framkomu sinni. 

Það eru tvær öflugar aðferðir þekktar til að auka framleiðni.  Önnur er miklar og arðsamar fjárfestingar, og hin er að bæta verkmenntun. Norðurál hefur lýst því yfir, að fyrirtækið sé tilbúið að fara á fulla ferð með framkvæmdir í Helguvík, þegar gengið hefur verið frá samningum um orkuafhendingu og orkuflutning.  Þar er sá hængur á, að HS-orka telur sig þurfa hærra verð en upphaflega var áætlað, og er það eðlilegt til að standa straum af nauðsynlegum mengunarvörnum.  Annar kostur er að virkja Neðri-Þjórsá fyrir Helguvík, þó að slík ráðstöfun sé umdeild.  Nýja flutningslínu þarf að reisa, hvaðan sem orkan kemur í upphafi, frá nýrri aðveitustöð í Hafnarfirði til að tengja Suðurnesin við stofnkerfi landsins.  Þar þykir orðið brýnt að færa línur að og frá aðveitustöð í Hamranesi í jörðu vegna nálægðar við byggð.  Það eru þess vegna margir, sem bíða lausnar á þessu máli, og ekki fer á milli mála, að atbeina ríkisins þarf til að leysa þennan Gordíonshnút. Eftir miklu er að slæðast fyrir ríkissjóð og fyrir Suðurnesin.

Mikil fjárfestingarþörf hefur safnazt fyrir í sjávarútvegi. Með því að hvetja til fjárfestinga og gera Ísland meira aðlaðandi fyrir fjárfesta með skattalegum ráðstöfunum og einföldun á fjárfestingarferlinu getur Hvítasunnustjórnin fljótt valdið umskiptum til hins betra í þessum efnum.  

Hitt meðalið til að auka framleiðnina er að fjárfesta í verkmenntun landsmanna.  Stjórnun menntamála hefur, eins og annað hjá vinstri stjórninni, einkennzt af stöðnun, enda versta afturhald landsins, VG, verið þar við stjórnvölinn.  Lítið sem ekkert hefur verið gert til að auka skilvirkni kerfisins, þó að mælingar sýni, að mikil sóun er í kerfinu; áherzlur eru kolrangar með þeim afleiðingum, að félagslegi geirinn útskrifar fleiri en atvinnulífið hefur þörf fyrir, en raungeirinn útskrifar allt of fáa, og áhöld eru um, hvort gæði verkmenntunar séu þau, sem brýn þörf er fyrir í athafnalífinu.  Hvítasunnustjórnin hefur í höndunum gögn til að leiðrétta stefnuna og lyfta hinni köldu hönd ríkisins af menntageiranum og leyfa þúsund blómum að blómstra.                                  

    

  

   

 

 


Hitnar í kolum Evrópusambandsins

Joschka Fischer heitir snarpur náungi og var utanríkisráðherra græningja hjá jafnaðarmannaforingjanum Gerhard Schröder um aldamótin síðustu.  Þeir félagar sniðu agnúa af hagkerfi Þýzkalands, sem dugði til að koma landinu á skrið eftir verð-og eignabólur í kjölfar Endursameiningar Þýzkalands 1990.  Þeir lögðu grunninn að Viðreisn Þýzkalands eftir bóluhagkerfið í kjölfar gríðarlegrar uppbyggingar austurhéraðanna.  Það var gert með ströngum aðhaldsaðgerðum. 

Fischer fylgist vel með og skrifar í blöðin.  Greinin, "Það sem grefur undan Evrópu", sem hér verður vitnað til, sýnir, að stund endalokanna nálgast fyrir ESB, eða ESB verður sambandsríki.  Í nýlokinni kosningabaráttu á Íslandi framdi forysta jafnaðarmanna það axarskapt að láta málflutning sinn hverfast um aðild Íslands að ESB.  Þetta ráðslag Samfylkingarforystunnar sýndi afdrifaríkan dómgreindarskort hennar, enda er þessi aðildarhugmynd sem steinbarn í móðurlífi Samfylkingarinnar. Andstæðingum skefjalauss aðlögunarferlis Ísland að þessu ríkjasambandi á fallanda fæti voru þessi mistök frá upphafi ljós, og jafnaðarmönnum tókst að vonum ekki að selja kjósendum á Íslandi þá hugmynd, að lausn allra vandamála fælist í að hlaupa inn í hið brennandi hús.  Ráðaleysi jafnaðarmannaforystunnar reið ekki við einteyming, og einsmálsflokkurinn á sér nú vart viðreisnar von. 

Það verða allir hérlandsmenn og Berlaymont-bændur guðsfegnir, nema Össur og Árni, beizkur, þegar nýtt Alþingi afturkallar heimild til ríkisstjórnarinnar um aðildarviðræður, sem eru í þessu tilviki rangnefni á aðlögunarferli.  Það mun senn koma í ljós, að þessar furðuviðræður hafa verið hreint húmbúkk. 

Þessi umsókn kom enda undir á röngum forsendum og er þess vegna misheppnuð.  Þegar betur árar hjá ESB og á Íslandi, verður unnt að taka upp þráðinn að nýju, en þá ekki með bjálfalegum formerkjum, eins og að "kíkja í pakkann", heldur á fullri ferð inn eftir samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu um að stefna að inngöngu, þar sem spurningin verður skýr og hnitmiðuð, en ekki loðin og teygjanleg, eins og hjá "Axarskaptinu" varðandi afstöðu þjóarinnar til draga að stjórnarskrá.  Það er nú alveg ljóst, að slík aðildarumsókn verður þá send einhvers konar samtökum, sem verða allt annars eðlis en núverandi ESB.   

Laugardaginn 4. maí 2013 var birt geysifróðleg grein í Morgunblaðinu eftir téðan J. Fischer, sem ekki skóf utan af því.  Hér eru nokkrar tilvitnanir í greinina "Það sem grefur undan Evrópu" eftir Herrn Fischer: "Minniháttar vandamál (að minnsta kosti að umfangi), eins og á Kýpur, var nóg til að gera úlfalda úr mýflugu, þegar saman fór næstum ótrúleg vanhæfni "þríeykisins" (framkvæmdastjórn ESB, Seðlabanka Evrópu og AGS)."  Og nokkru síðar: "Evrópusambandið er að liðast í sundur í kjarnanum.  Skortur Evrópumanna á tiltrú á Evrópu um þessar mundir er mun hættulegri en sá titringur á mörkuðum, sem borið hefur á á ný, enda verður hann ekki leystur með því, að Seðlabanki Evrópu auki peningamagn í umferð."

Þar sem þessi orð koma ekki frá neinum aukvisa, marka þau vatnaskil í stöðumati fyrir Evrópu.  Herr Fischer fullyrðir, að Evrópusambandið muni senn líða undir lok í sinni núverandi mynd, og ástæðan fyrir því er evran.  Forkólfar evrunnar misreiknuðu sig alveg herfilega, þegar þeir lögðu drögin að hinni sameiginlegu mynt.  Þeir litu framhjá þeirri grundvallar staðreynd, að menning þjóðanna er gjörólík, sem auðvitað blasir við þeim, sem ferðast um Evrópu.  Það má kalla þetta mismunandi skipulagshæfileika, aga og dugnað í vinnunni, sem óhjákvæmilega leiðir til mismikillar framleiðniaukningar þjóðanna.  Á þessum 14 árum, sem evran hefur verið við lýði, hefur mismunurinn á framleiðniaukningu Þjóðverja og hinna lökustu á þessu sviði orðið allt að 30 %, sem jafngildir yfirburða samkeppniaðstöðu Þjóðverja.

Joschka Fischer heldur, að hann hafi lausn á þessu á takteinum, en sú lausn er óraunhæf, af því að hún snýst um, að Þjóðverjar borgi brúsann, þ.e. niðurgreiði framleiðslukostnað annarra.  Þjóðverjar munu aldrei fallast á þetta, og þess vegna mun evran splundrast, sennilega eigi síðar en árið 2015.

Á meðan þessi ægilegu umbrot eru í Evrópu, þá grefur  efnahagskreppa um sig þar, og Evrópa sekkur nú þegar ofan í kviksyndið.  Á evrusvæðinu í heild hefur gætt samdráttar síðan í ársbyrjun 2012, og er hann nú um 2 % síðan þá, og evrulöndin gætu jafnvel lent í vítahring verðhjöðnunar.  Spánn og Ítalía eru á langvarandi samdráttarskeiði, sem hlýtur að enda með ósköpum. Á Spáni eru 67 % vinnuaflsins hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, og á Ítalíu er þetta hlutfall 80 %.  Þessi fyrirtæki búa nú við 6 % raunvexti, og það er ljóst, að þau eru að kikna undan þessu háa vaxtastigi.  Stýrivextir evrubankans eru aðeins 0,5 %, svo að sparnaður er í uppnámi, en óvissuálagið í löndum, þar sem framleiðniaukning hefur lökust verið, er þrúgandi hátt. 

Það eru svo miklir þverbrestir í hagkerfi "Evrulands", að það fær ekki staðizt.  Gjálfur hérlendra kaffihúsaspekinga um gósentíð með lága vexti, ef unnt yrði að smygla Íslandi inn um Gullna hliðið og inn í "Evruland", eins og kerlingunni tókst að smygla sálinni hans Jóns síns fram hjá Sankta Pétri, eru innantómir draumórar, fjarri öllum sanni.  Það, sem Ísland þarf, er viti borin og öguð hagstjórn og samtaka athafnalíf (vinnuveitendur og launþegar) um launahækkanir, sem fari ekki fram úr framleiðniaukningu, þannig að um varanlega kaupmáttaraukningu verði að ræða.

Joschka Fischer greindi vanda ESB rétt í téðri grein, en meðul hans munu drepa sjúklinginn, ef þau verða einhvern tímann að veruleika, sem hæpið er, að stjórnmálaleg eining náist um:

"Það hefur lengi verið ljóst, hvað þarf að gera.  Verðmiðinn á því, að myntbandalagið komist af, og þar með Evrópuverkefnið, er nánara samstarf: bankabandalag, fjármálalegt bandalag.  Þeir, sem eru þessu mótfallnir vegna þess, að þeir óttast sameiginlega ábyrgð, tilfærslu fjármuna frá ríkum til fátækra og að missa fullveldið, munu þurfa að sætta sig við endurkomu þjóðríkisins í Evrópu - og þar með brotthvarf hennar af alþjóðasviðinu.  Enginn valkostur - og svo sannarlega ekki óbreytt ástand mun þar duga."

Það er ljóst, að lausn Joschka Fischer jafngildir stöðugum straumi fjár, e.t.v.  um 300 milljörðum evra árlega, frá Þýzkalandi og hinum ríkari þjóðum, til Frakklands og suður á bóginn til hinna fátækari.  Þetta er botnlaus hít, og það veit þýzkur almenningur og mun alls ekki sætta sig við þessa ráðstöfun skattfjár.  Joschka Fischer ógnar stjórnmálamönnum og almenningi með þjóðríkinu, og í þeirri ógnun liggur, að Þjóðverjar muni ella aftur lenda í hernaðarátökum í Evrópu, eins og á dögum keisaradæmisins og Þriðja ríkisins.  Þessi ógnarsviðsetning Joschka stenzt ekki.  Hvers vegna ættu lýðræðisríki Evrópu að taka upp á því, þó að ESB hrynji, að berast á banaspjótum ?  Ríkin eru flest í NATO, og hagsmunir þeirra eru samantvinnaðir.  Hver veit, nema hugmynd Bretanna um þjóðríki, sem keppa á sameiginlegum Innri markaði, verði ofan á ?  

Seðlabankavextir 2007-2013

       

        

 

 


Gleðiríkt samband

Það væri synd að segja, að ráðherrar ríkisstjórnarinnar, sem tók við völdum 10. maí 2009, séu spámannlega vaxnir.  Þeir spáðu hér efnahagslegu alkuli og Íslandi sem "Kúbu norðursins", nema landsmenn létu að vilja Breta og Hollendinga og fylgdu þáverandi stefnu búrókratanna í Berlaymont um ríkisábyrgð á tryggingasjóði innistæðueigenda, sem flestum Íslendingum þótti ærið ósanngjörn og framfylgt af ósvífni á tíðum.  

Annað kom á daginn, 28. janúar 2013, um hinn lagalega rétt málsins, enda stóðu rökfastar álitsgerðir virtra lögspekinga til þess, að engar löglegar kvaðir stæðu á ríkissjóðum EES-landanna um slíkt.  Ráðherrar og allt þinglið jafnaðarmanna og vinstri grænna opinberuðu þarna yfirþyrmandi dómgreindarskort sinn.  Lýðræðisástin var þá ekki meiri en svo hjá vinstri flokkunum, að þeir vildu alls ekki leyfa þjóðinni að tjá vilja sinn í þessum efnum.  Sjálfstæðisflokkurinn barðist hins vegar hart gegn Icesave-samningunum  í sínum verstu myndum, og hann barðist fyrir því á þingi á öllum stigum málsins, að Icesave-málinu yrði vísað í þjóðaratkvæði.  Forseti lýðveldisins reyndist sama sinnis, og þess vegna tókst afturhaldinu við stjórnvölinn ekki ætlunarverk sitt: að smeygja fátæktarfjötrum um háls komandi kynslóða landsins og gera Sjálfstæðisflokkinn að eilífum blóraböggli fyrir vikið. 

Landsmenn hafa búið við þá ógæfu nú frá 1. febrúar 2009, þegar Framsóknarflokkurinn leiddi Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím Jóhann Sigfússon til valda, sem aldrei skyldi verið hafa, að eins máls flokkur hefur síðan farið fyrir stjórn landsins.  Það er óþarfi að tíunda hér, hvert málið eina er hjá eitraða peðinu í íslenzkum stjórnmálum.  Árni Páll Árnason, sem misheppnaðasta pólitíska par seinni tíma á Íslandi, rak úr ríkisstjórn sinni, er beizkur, af því að hann skynjar, að kjörtímabilið, sem nú er við endimark, er tími hinna glötuðu tækifæra.  Árni, beizkur, hefur samt ekki pólitískt þrek til að viðurkenna, að málið eina, flokksins hans, er fallið á tíma.  Hann getur huggað sig við það, að aðlögun Íslands að stjórnkerfi ESB hefur haft sinn gang, og spurning, hversu mikið þrek verður til að vinda ofan af því, þar sem fjölmörg afar brýn stórverkefni bíða nýrrar ríkisstjórnar eftir dáðleysi undanfarinna ára.

Aðlögunarferlið að Evrópusambandinu, ESB, er farið út um þúfur.  Það, sem komið hefur út úr "samningaviðræðunum" hingað til, er, að Íslendingar fá varanlega heimild til að halda í Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, ÁTVR.  Sumir mundu nú segja, að úr því að ekki var einu sinni hægt að fá ESB til að færa verzlun með áfengi í evrópskt horf hérlendis (Noregur og Svíþjóð eru undantekning), þá séu þessar viðræður vita gagnslausar.

Málið er hins vegar, að erfiðu málefnakaflarnir, t.d. um landbúnað og sjávarútveg, voru ekki einu sinni opnaðir, af því að ESB féllst ekki á samningsmarkmið Íslendinga þar.  Alþingi nestaði utanríkisráðherra með samningsmarkmiðum um fiskveiðistjórnun, verndun dýrastofna og sjúkdómavarnir, sem Stefan Füle, stækkunarstjóri ESB, hefur ekki fellt sig við.  Þetta er skýringin á því, að EES-landið Ísland hefur nú staðið í aðlögun að ESB í 4 ár á sviðum, þar sem landið hafði að mestu lagað sig að ESB vegna aðildarinnar að EES, evrópska efnahagssvæðinu, sem er yzta lag ESB.  Þetta er fádæma hægagangur, sem sýnir í hnotskurn, hversu illa var vandað til málsins í upphafi.  Ætíð sannast heilræði Hallgríms Péturssonar: "það varðar mest til allra hluta, að undirstaðan sé réttlig fundin".

Það var í upphafi óðs manns æði að sækja um aðild að ESB af ríkisstjórn með Vinstri hreyfinguna grænt framboð innanborðs.  Á Alþingi, sem kosið var fyrir 4 árum, var ekki meirihluti fyrir því að aðlaga allt stjórnkerfi Íslands að kröfum ESB.  Spurningin, sem Íslendingar verða að gera upp við sig, er sú, hvort þeir vilji fara í aðlögunarferli að ESB.  Það er einfeldningsleg blekkingartilraun að láta, eins og um eitthvað sé að semja. 

Aðlögunin er komin ótrúlega stutt miðað við allan þann tíma og fjármuni, sem veittur hefur verið til viðfangsefnisins, af því að ESB taldi Íslendinga ekki vera tilbúna fyrir erfiðu kaflana.  Hér var allan tímann um að ræða "Mission Impossible", og nú er allt strandað.  Árna, beizk, og utanríkisráðherrann skortir hins vegar djörfung og raunsæi til að játa sig sigraða.  Þá yrðu þeir nefnilega að éta mjög mikið ofan í sig, og kjölfestan færi úr eitraða peðinu.

ESB-þráhyggja jafnaðarmanna, sem ekki er lengur reist á neinum rökum, gerir Samfylkinguna að eitraða peðinu í íslenzkum stjórnmálum um þessar mundir.  Enginn getur unnið með jafnaðarmönnum að hugðarefnum þeirra án þess að bíða afhroð sjálfur.  Þetta gerðist með Sjálfstæðisflokkinn 2007-2009, þegar eitraða peðið heimtaði sinnaskipti af samstarfsflokki sínum, en Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, sem fer með æðsta valdið um málefni flokksins, hafnaði því að söðla um, enda hefði flokkurinn þá hrokkið af undirstöðu sinni, sem lögð var árið 1929.

Íslenzkir jafnaðarmenn virðast vera fúsir til að fórna fullveldi Íslands varðandi auðlindir landsins, þ.e. að Ísland undirgangist CFP, Common Fisheries Policy, eða sameiginlega fiskveiðistefnu ESB, sem er ein af grunnstoðum ESB og þess vegna "aquis", það sem þegar hefur verið samið um og er þess vegna óumsemjanlegt.  Á meðan svo er, verður flokkur Árna, beizks, eitraða peðið í íslenzkum stjórnmálum, sem enginn vill koma nálægt.  Þarna liggur átakalínan um auðlindir Íslands.  Verður síðasta orðið um nýtingu þeirra í Reykjavík eða í Brüssel ?  Spyrjið Breta um, hver reynsla þeirra er af auðlindastjórnun búrókratanna í Brüssel.   

Að þessu sögðu verður að taka fram, að fáránlegt væri hér að fullyrða, að afstaða Íslands til ESB gæti ekki breytzt, t.d. á þessum áratugi.  Ástæðan er sú, að ESB er í gerjun.  Berlaymont og Seðlabanki evrunnar í Frankfurt reka mikla aðhaldsstefnu í fjármálum, sem fellur ýmsum evruþjóðanna illa í geð, einkum rómönskum, keltneskum og grískumælandi þjóðum, en germönsku þjóðirnar ráða ferðinni enn sem komið er.  Engilsaxar, sem Íslendingar hafa náin viðskiptaleg, menningarleg og stjórnmálaleg samskipti við, sitja á gerðinu og hugsa sitt ráð.  Ríkisstjórn Engilsaxa er samsteypustjórn, aldrei þessu vant, þar sem annar flokkurinn, Íhaldsflokkurinn, er mjög gagnrýninn á samþjöppun valds í Berlaymont byggingunni í Brüssel, en hinn flokkurinn, Frjálslyndir, er ESB-sinnaður.  Samt stefnir David Cameron, forsætisráðherra Breta, á að freista þess að semja við ESB um endurheimtur valda til brezka þingsins, og síðan eftir næstu þingkosningar að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Breta að ESB; auðvitað að því gefnu, að Íhaldsflokkurinn vinni þingkosningarnar. 

Það er alveg áreiðanlegt, að vandamál ESB og evrunnar eru svo yfirþyrmandi, að ESB stenzt ekki í sinni núverandi mynd.  Evru-löndin eru að verða argvítugri kreppu að bráð, sem bæði er af stjórnmálalegum og efnahagslegum toga, og ef stjórnmálamönnum tekst ekki að finna lausn, þá verður uppreisn í einhverju landanna, sem síðan mun breiðast út.  Vegna þessa ástands munu allir, búrókratar í Berlaymont meðtaldir, að undanskildum Árna, beizk & Co., verða guðsfegnir, þegar nýtt Alþingi afturkallar heimild til ríkisstjórnarinnar um frekari aðlögun Íslands að ESB.  Þetta sama Alþingi mun svo biðja um umboð þjóðarinnar eða höfnun á því að fara í fulla aðlögun að ESB, en ekki leggja spurningu fyrir þjóðina, sem stríðir gegn reglum ESB um aðildarferlið.

Þorsteinn Þorgeirsson, sérstakur ráðgjafi á skrifstofu bankastjóra Seðlabanka Íslands, ritar athygliverða grein í Morgunblaðið þann 17. apríl 2013, sem útskýrir harða stefnu Bundesbank, þýzka seðlabankans, og ECB, Seðlabanka evrunnar í Frankfurt:

"Það er vel þekkt í hagfræði, að miklar skuldir leiða til þess, að vextir hækka, en það dregur úr hagvexti og velferð.  Rannsókn Carmen Reinhart, Vincent Reinhart og Kenneth Rogoff frá árinu 2012, sýnir, að fari skuldir ríkissjóðs yfir 90 % af landsframleiðslu um fimm ára skeið, hefur það áhrif til að lækka hagvöxt um 1 % á ári.  Sama ár gerðu Pier Carlo Padoan, Urban Sila og Paul van den Noord ítarlega rannsókn á sambandi opinberra skulda og hagvaxtar á grundvelli gagna fyrir öll OECD-ríkin, þ.m.t. Ísland, yfir 50 ára tímabil, 1961-2011.  Þar kom í ljós, að opinberar skuldir geta verið annaðhvort í góðu eða slæmu jafnvægi.  Ef skuldir eru hóflegar og dregur úr þeim, lækka vextir, og hagvöxtur verður meiri, sem síðan leiðir til þess, að skuldirnar minnka meira.  Það er hið góða jafnvægi.  Rannsókn þeirra leiddi einnig í ljós, að verði skuldir of miklar, geta þær orðið óviðráðanlegar.  Þá hækka vextir og hagvöxtur minnkar.  Við það aukast skuldirnar, og ferlið getur orðið stjórnlaust.  Það er hið slæma jafnvægi.  Fórnirnar, sem þarf að færa til að ná tökum á fjármálum í slæmu jafnvægi verða margfalt meiri."

Hér sjáum við í hnotskurn, hvað býr að baki aðgerða þríeykisins, ESB, AGS og ECU, gagnvart jaðarríkjum evrusvæðisins í vanda.  Hvort er betra að fá á sig spennitreyju, sem klæðskerasaumuð er af þríeykinu, eða í krafti fullveldis eigin lands að klæðskerasauma sjálf eigin flík ?  Það eru öll teikn á lofti um, að Ísland sé, eftir fjögurra ára óstjórn efnahagsmála, í hinu "slæma jafnvægi", og okkur ríður á að snúa sem allra fyrst af þeirri ógæfubraut til að lenda ekki í klónum á lánadrottnum okkar og AGS aftur.  Afturhaldið hafði enga burði til að fást við þetta risaverkefni á árunum 2009-2013, þó að ekki vantaði, að það barmaði sér vegna álags í ráðherraembættum.  Þau kunnu ekki að vinna og eyddu orku, tíma og fjármunum hins opinbera í aukaatriði og í niðurrif samfélagsstoðanna. 

Nú standa margir frammi fyrir því að gera upp við sig, hvernig þeir stuðla bezt að farsælli úrlausn á risavöxnum viðfangsefnum íslenzka samfélagsins með atkvæði sínu laugardaginn 27. apríl 2013.  Það er hægt að gefa einfalda uppskrift.  Það er líklegast til árangurs að leysa sem allra mestan kraft úr læðingi í athafnalífinu til að sem mest verði til skiptanna á milli landsins og barna og hins opinbera.      

Listakjör

 

  

         

      

  

      

 


Afstaðan til ESB

Tilvitnun í Olli Rehn, fyrrverandi stækkunarstjóra Evrópusambandsins, ESB:

First, it is important to underline that the term “negotiation”can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate’s adoption, implementation and application of EU rules – some 90,000 pages of them. And these rules (also known as “acquis”, French for “that which has been agreed”) are not negotiable. For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures. For the EU, it is important to obtain guarantees on the date and effectiveness of each candidate’s implementation of the rules.

Finnski framkvæmdastjórinn í ESB, sem nú um stundir mun hafa peningamál ESB á sinni könnu, muni höfundur réttilega, segir hér fullum fetum, að orðið "samningaviðræður" geti valdið misskilningi.  Aðildarviðræður snúist um skilyrði og tímasetningu á upptöku, innleiðingu og notkun ESB-regluverks á u.þ.b. 90 000 blaðsíðum.  Þessar reglur, sem nefndar eru á frönsku "acquis", það sem hefur verið samþykkt, eru ekki umsemjanlegar.  Fyrir umsækjendur snýst málið um upptöku og innleiðingu ESB reglna og verklagsreglna.  Fyrir ESB er mikilvægt að fá tryggingu fyrir tímasetningu og árangri hvers umsækjanda á innleiðingunni.

Svo mörg voru þau tilvitnuðu orð.  Af þessu er ljóst, að Alþingi var haft að ginningarfífli 16. júlí 2009, er forkólfar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs kreistu út úr öfugsnúnu Alþingi heimild til ríkisstjórnarinnar um að hefja samningaviðræður um aðild að ESB.  Það var aldrei minnzt á aðlögun.  Síðan var stofnuð "samninganefnd" og látið var í veðri vaka, að hún væri að semja um aðildarskilmála, en ekkert hefur verið birt opinberlega af þessum samningum enn þá.  Með málið er farið sem ríkisleyndarmál í anda Icesave-samnings I.  Með nýjum utanríkisráðherra eftir komandi Alþingiskosningar fer þó ekki hjá því, að afraksturinn verður birtur fljótlega.  Mun um hann mega segja, að fjallið tók jóðsótt, en fæddist lítil mús.

Af tilvitnuðum texta er alveg ljóst, að aðildarferlið snýst ekki um "að kíkja í pakkann", eins og haldið hefur verið að landsmönnum og ólíklegustu menn ginið við. Þeir, sem trúa þeirri skreytni, vilja margir leiða þessar viðræður til lykta og taka síðan afstöðu til samningsins, þegar hann liggur á borðinu.  Þessir menn hafa verið blekktir, og er tími til kominn að gera sér grein fyrir því.  Það verður ekki samið um neitt annað en skilmála aðlögunar að regluverkinu, samkvæmt Olli Rehn hér að ofan.  Ef menn halda, að ESB hafi svo mikinn hug á að fá Ísland inn, að slegið verði varanlega af kröfunum, og þar með gefið fordæmi og vakin upp óánægja innan ESB, þá eru menn barnalegri í hugsun en þeir hafa leyfi til að vera.  Það eru þvert á móti uppi háværar kröfur innan ESB um að taka ekki fleiri inn fyrr en leyst hefur verið úr vandamálum evrunnar, sem nú ógna sjálfri tilvist ESB.  Þó að áhugi sé í vissum "kreðsum" innan ESB á að fá Ísland inn, verður hann útundan, þegar hvert stórvandamálið rekur annað.

Svo óhönduglega tókst til um úrlausn peningavandamála Kýpverja, að efnahagshrunið stefnir í 20 % af VLF, sem er hlutfallslega meira en tvöfalt stærra en íslenzka Hrunið, og atvinnuleysið stefnir á 25 %.  Ekki nóg með þetta, heldur kippti Brüssel gólfhleranum undan auðvaldskerfinu, sem Íslendingar voru af ESB sakaðir um að gera og ESB reyndi að hengja þá upp í hæsta gálga fyrir, þ.e. að ganga á hlut innistæðueigenda.  Þessi umpólun í Berlaymont átti sér stað eftir ströng skilaboð frá Berlín, þar sem stjórnmálamenn hafa skynjað hug þýzkrar alþýðu til tíðra björgunaraðgerða ("Bail-outs") á kostnað þýzkra skattborgara, og ótti valdamanna um úrslit þýzku Sambandsþingskosninganna fer vaxandi.

Nýjasta brýna úrlausnarmálið er Portúgal, þar sem forseti landsins talar um "neyðarástand".  Þar er kominn upp stjórnlagavandi, þar sem niðurskurðaraðgerðir, sem Berlaymont heimtaði og voru skilyrði neyðarástands, hafa verið dæmdar ólöglegar.  Það er dauðlegum mönnum hulin ráðgáta, hvernig einn stjórnmálaflokkur getur gert það að miðlægu atriði í boðskap sínum nú í apríl 2013, að lausnarorðið fyrir þjóð norður í "Ballarhafi" sé að fórna mynt sinni fyrir þessa mynt, sem svo mikilli ógæfu hefur valdið sem raun ber vitni um.    

Á meðal aðlögunarmála er hin sameiginlega fiskveiðistefna ESB og reglur um frjálsan flutning lifandi dýra og dýraafurða með öllum þeim sýklalyfjum í íslenzkan búsmala, sem slíkt mundi leiða til ásamt hættu á dýrapestum, eins og dæmin sanna.  Aðlögunarferli á þessum sviðum mundi leiða til mikilla breytinga til hins verra hérlendis.  Stjórnvöld hafa reynt að knésetja íslenzkan sjávarútveg á kjörtímabilinu, sem er senn á enda runnið.  Þau ætluðu að brjóta hann á bak aftur með ofurskattlagningu, sem í raun er eignaupptaka, og þau ætluðu að ræna hann undirstöðu sinni, eignarhaldinu á aflahlutdeildinni, og að gera útgerðarmenn að leiguliðum ríkisins, svo geðslegt sem það nú hljómar.  Hið fyrra tókst, en verður vonandi lagfært í byrjun nýs kjörtímabils.  Hið síðara mistókst, þótt kroppað hafi verið í kvótann með lýðskrumsaðferðum, sem dregið hafa úr arðsemi sjávarútvegsins sem heildar fyrir þjóðarbúið. 

Varðandi afleiðingar hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu á sjávarútveginn ættu menn að leita frétta af afleiðingunum fyrir enskan, skozkan, írskan og danskan sjávarútveg.  Orðið hrun lýsir afleiðingunum bezt.  Íslenzki sjávarútvegurinn er með hæstu þekktu framleiðni í heimi og er rekinn sem hágæða matvælaframleiðsla eftir óskum markaða.  Fiskveiðistefnan, sem er reist á vísindalegri ráðgjöf, er tekin að bera árangur fyrir lífríki hafsins, sérstaklega eftir að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar um 20 % aflamark úr hrygningarstofnum var tekið upp árið 2007, svo að nú er hrygningarstofn þorsks í vexti, sem gæti gefið þjóðarbúinu um 10 milljarða kr aukalega á næsta fiskveiðiári, ef úrvinnsla og markaðssetning verður, eins og bezt verður á kosið.    

Óheilindin, sem höfð eru í frammi að hálfu téðra stjórnarflokka í þessu óláns umsóknarferli, er meginskýringin á hertri afstöðu Sjálfstæðisflokksins til málsins, eins og hún var mótuð á Landsfundi hans í febrúar 2013, að mati höfundar.  Það gefur t.d. auga leið, að eftir stöðvun aðlögunarferlisins missir upplýsingaskrifstofa ESB, svo kölluð Evrópustofa, algerlega marks.  Henni verður þá sjálfhætt, og það er nánast öruggt, að Berlaymont mun átta sig á því að fyrra bragði.  Ályktun Landsfundar um Evrópustofu fjallar í raun um, að framkvæmdastjórn ESB verði bent á þetta, ef nauðsyn krefur.  Það er búið að þyrla upp ótrúlegu moldviðri vegna téðrar ályktunar Landsfundar, og sumir sjálfstæðismenn hafa jafnvel virzt fara hjá sér við að útskýra og styðja þessa ályktun.  Það er óþarfi, því að ályktunin er fullkomlega rökrétt og markar engin sérstök þáttaskil í sjálfri sér í samskiptum Íslands við ESB.  Hún er sjálfsögð árétting sjálfstæðs fólks gagnvart ríkjasambandi, enda hafa bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur markað þessa stefnu.     

Hrottaleg meðferð leiðtoga ESB-ríkjanna og búrókratanna í Berlaymont á grískumælandi Kýpverjum er að vissu leyti svakalegri en meðferð ESB-manna á Aþenu-Grikkjum.  Við urðum þarna vitni að því, hvernig smáríki verður fórnarlamb hinna stærri, og farið er mjúkum höndum um stórlaxana á meðan almúganum blæðir.  Peðin verða alltaf fórnarlömb í valdatafli hinna voldugu. Sennilega hefur Vladimir Putin hringt í Angelu Merkel og bent henni á, að Kýpurbanki er með útibú í Moskvu og að Þjóðverjar fá megnið af sínu eldsneytisgasi frá Rússum, því að frú Merkel gaf umsvifalaust fyrirmæli um eða samþykkti opnun útibúsins í Moskvu, og þar tóku rússneskir stórinneignamenn út sínar inneignir eins og þá lysti, en almúginn á Kýpur fær að taka út 300 evrur á dag.  Það er ekki sama Jón og séra Jón.  Við Íslendingar þekkjum þessa harkalegu meðferð ESB á smáríkjum frá hrottafenginni meðferð í kjölfar Hrunsins og frá Icesave-hildarleiknum, en þar urðu kaflaskipti með dómi EFTA-dómstólsins.  Hver veit, nema ESB eigi eftir að sýna brunnar vígtennurnar, þegar næsta ríkisstjórn fer að taka á kröfuhöfum þrotabúa gömlu bankanna.  Mismunurinn á okkur og téðum fórnarlömbum gammanna í Berlaymont er fullveldið, sem reyndar er í stórhættu.    

Á Kýpur eru ekki einvörðungu gjaldeyrishöft, þ.e. bann við gjaldeyrisviðskiptum, heldur peningaleg höft og takmarkanir á kortaviðskiptum.  Jafnvel Íslendingar hafa ekki þurft að sæta slíku, enda bjuggu þeir við sjálfstæðan Seðlabanka, þegar mest á reið.  

Nú er staðfest, að evran er ekki lengur jafngild hvar sem er.  Kýpverskar evrur eru mun verðminni utan Kýpur en t.d. þýzkar.  Það er nýtt af nálinni, að evra sé ekki ein og sú sama óháð því við hvaða evruland hún er kennd.  Þetta er nýjasti naglinn í líkkistu evrunnar.  Hún er dæmd til að klofna eða ríki munu hrökklast úr myntsamstarfinu.  Samt rekur Samfylkingarforystan enn trúboðið um hjálpræði evrunnar á Íslandi, og má slíkt furðu gegna og mun verða talin saga til næsta bæjar, enda er Samfylkingin að breytast í sértrúarsöfnuð með um 10 % fylgi.  Það er auðvitað hægt að taka upp fastgengisstefnu hérlendis, en þá verða menn að vera tilbúnir að taka upp efnahagslægðir með launalækkunum eða atvinnuleysi.  Leiðin til stöðugleika liggur um Maastricht-skilyrðin og að afla meiri gjaldeyris en eytt er.  Ef við getum ekki búið við krónu, þá getum hvorki búið við evru, bandaríkjadal né sterlingspund.  Þá er ræfildómurinn kominn í slíkar hæðir, að ekki er annað eftir en að segja sig til sveitar.   

Um árabil hafa vextir verið ólíkir í evrulöndunum háðir tiltrú fjárfesta á efnahagskerfi viðkomandi landa.  Ef Ísland væri nú með evru, er þess vegna algerlega undir hælinn lagt, hvort raunvextir væru þá lægri eða hærri á Íslandi en raunin er á núna.  Það er líka alveg óvíst, að við gætum notað okkar evrur erlendis.  Við gætum hæglega staðið í sporum Kýpverja.  Hjal einfeldninga hérlendis um bjargræði erlendra mynta sem lögeyrir á Íslandi er algerlega fótalaust.   

Það er þess vegna með eindæmum að bera það á borð í þessari kosningabaráttu, sem lýkur 27. apríl 2013, að hag almennings verði bezt borgið innan vébanda ESB og með evru sem lögeyri.  Leyfum rykinu að falla í Evrópu áður en við fullyrðum slíkt.  Þar á mikið vatn eftir að renna til sjávar áður en jafnvægi hefur komizt á.  Spennan á milli ríkja evrusvæðisins er gríðarleg og fer vaxandi og sannast sagna blasir ekki við, hvernig í ósköpunum öll núverandi evruríki geta verið til lengdar með sömu mynt.  Hún virkar sums staðar sem skelfileg spennitreyja á hagkerfið, en annars staðar sem örvunarlyf.  Að meðaltali er samt útkoman slæm með hagvöxt nálægt núlli og atvinnuleysi 12 % og vaxandi.    

  Kýpur

  Laufblað á steini

  

  

   


Stríð ríkisvalds gegn atvinnulífinu

Helzti lærdómurinn, sem draga má af ömurlegum stjórnarháttum Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, er, að kjarninn í stjórnmálastefnu þessara tveggja vinstri flokka felur í sér óhjákvæmilega þörf á stríðsrekstri gegn athafnalífinu og gegn miðstéttinni í landinu.  Eftir kjörtímabilið, sem nú er að renna sitt skeið á enda, eru afleiðingarnar af þessari bókstafstrú vinstri flokkanna á málstað sameignarstefnu Karls Marx og Friedrich Engels, í útþynntri útgáfu kratisma og vinstri vellings, komnar í ljós.

Raunveruleikinn kemur algerlega heim og saman við sviðsmynd borgaralegra afla, sem fylgismenn einstaklingsfrelsins og einkaframtaks hafa verið óþreytandi að boða.  Um þessa stöðu þarf ekki að hafa mörg orð.  Eitt orð dugir: Stöðnun.

Þetta ástand er fullkomin falleinkunn fyrir stefnu stjórnarflokkanna.  Þeir hafa hækkað neyzluskatta, tekjuskatt fyrirtækja og einstaklinga, fjármagnstekjuskatt og tryggingargjaldið, svo að eitthvað sé nefnt.  Þetta hefur dregið úr neyzlunni án þess að auka tekjur ríkisins að sama skapi, og það er margyfirlýst stefna vinstri flokkanna að draga úr neyzlu, af því að hún sé löngu orðin ósjálfbær, og ofurskattlagning þessi, sem er alls ekki miðuð við hámörkun tekna hins opinbera, heldur "jöfnun tekjudreifingar", hefur drepið fjárfestingarvilja fyrirtækja og einstaklinga.  Þessi "jöfnun tekjudreifingar" er hins vegar engum til gagns, sízt unga fólkinu, sem er að hefja búskap.  Afkoma hinna verst settu fylgir nefnilega þróun hagkerfisins.  Það hafa rannsóknir sýnt.  Þess vegna er "stækkun kökunnar" öllum í hag. 

Aðferðarfræðin við ríkisbúskapinn á þessu kjörtímabili hefur reynzt stórskaðleg, og það var varað við því.  Útgjöld ríkisins voru 69 % hærri árið 2011 en árið 2006, en á sama tímabili hækkaði neyzluvísitalan um 52 %.  Það hefur þess vegna sigið á ógæfuhliðina sem nemur mismuninum, 17 %. Nokkur flatur niðurskurður og gríðarlegar skattahækkanir er eitruð blanda.  Afleiðingin er stöðnun hagkerfisins og skuldasöfnun ríkissjóðs, sem nú hefur leitt til árlegrar vaxtabyrði hans upp á 90 milljarða kr.  Það verður forgangsmál að draga úr þessum vaxtagreiðslum með því að snúa rekstrartapi í afgang, skuldbreytingum og öflugum afborgunum.  Fregnir af Landspítala sýna ábyrgðarleysi stjórnvalda, þar sem fjárveitingar eru skornar niður og spítalanum gert að vinna úr því.  Það er engin stjórnun.  Starfsemi Landspítalans er svo viðkvæm og mikilvæg, að sparnaði verður að ná fram með fjárfestingum í nýjum tækjabúnaði, eflingu heilsugæzlu og byggingu legudeilda til að minnka álagið á háskólasjúkrahúsinu, þar sem kostnaður við hvert rúm per sólarhring er í hámarki.

Skattahækkanir hafa engan veginn skilað sér í ríkissjóð, enda vinna margar skattahækkanir Jóhönnustjórnarinnar beinlínis gegn hagvexti og þar með hagsæld, t.d. stighækkandi tekjuskattur, hærri fjármagnstekjuskattur, auðlegðarskattur og hærra tryggingargjald.  Breiðu bökin hafa flúið úr landi fyrir vikið.  Erfðafjárskatturinn var tvöfaldaður, úr 5 % í 10 % frá ársbyrjun 2011.  Fyrir árið 2010 skilaði erfðafjárskatturinn 2,6 milljörðum kr í ríkissjóð, en hafði árið áður skilað 1,6 milljörðum kr.  Fyrir árið 2011 voru heimturnar hins vegar aðeins 1,3 milljarðar kr.  Fólk gerir augljóslega gagnráðstafanir, þegar stjórnvöld auka skattheimtu fram úr hófi, og þessi skattlagning er einstaklega ósanngjörn.  Afleiðingin verður minni skatttekjur.

Annað dæmi af óréttlátri skattlagningu er fjármagnstekjuskatturinn, sem lagður er á bæði vexti og verðbætur.  Þessi skattheimta hefur tvöfaldazt frá 2008, en hann skilaði þó fyrir árið 2011 aðeins 75 % af skatttekjunum 2006, og auðvitað í mun verðminni krónum. 

Efast einhver um neikvæð áhrif tekjuskatts á vinnufýsi og vinnuframlag fólks ?  Tekjuskattshækkanir "norrænu velferðarstjórnarinnar" hafa engan veginn skilað sér í ríkiskassann fremur en aðrar skattahækkanir.  Hagfræðin hefur sannazt, en vinstri flokkarnir fylgja engri viðurkenndri hagfræði, heldur afdankaðri hugmyndafræði útþanins ríkisrekstrar, úreltum kratisma, sem t.d. Svíar fóru flatt á og eru að hverfa frá. Samkvæmt sömu viðurkenndu hagfræði eiga skattalækkanir að örva hagkerfið.  Aukin umsvif og aukin neyzla valda hagvexti, sem stækka skattgrunninn.  Þetta gerist þó ekki samtímis, og þess vegna þarf að draga úr útgjöldum ríkissjóðs.  Það er ekki hægt sem neinu nemur öðru vísi en að fækka ríkisstarfsmönnum.  Til að unnt verði að greiða niður skuldir ríkissjóðs, svo að vaxtabyrðin minnki merkjanlega, verður bæði að selja ríkiseignir og nota auknar skatttekjur til afborgana og vaxtagreiðslna.  Þetta mundi hleypa blóði inn í hagkerfið.         

Hornótt framkoma við fjárfesta, hótanir um þjóðnýtingu og enn meiri skattlagningu, óvænt skattlagning, eins og rafskatturinn, og svik við fyrirtækin um afnám hans (hann var í staðinn hækkaður) auk algers getuleysis gagnvart gjaldeyrishöftunum, hefur valdið lægsta fjárfestingarstigi á Vesturlöndum og þó víðar væri leitað.  Það hefur þó frétzt af minni fjárfestingum í Burkina Faso.

Afleiðingin af þessu stríði við fyrirtæki og fólk er sú, að landsmenn dragast æ meir aftur úr öðrum þjóðum í lífskjörum, enda er hagvöxtur grundvöllur lífskjarabata, en ekki stéttabarátta, eins og sumir halda enn.  Hagvöxtur er samsettur úr raunverðmætaukningu þjóðarframleiðslunnar og framleiðniaukningu.  Þannig er hagvöxtur tengdur framleiðslumagni, gæðum og afköstum, auk markaðssetningar og markaðsástandi.  Framleiðslukostnaður á hverja framleiðslueiningu er mælikvarði á samkeppnihæfni, og í útflutningsdrifnu hagkerfi eins og því íslenzka verður þessi einingarkostnaður að vera lægri en hjá þeim, sem nær eru markaðinum en við til að vega upp á móti flutningskostnaðinum. Dæmi um greinar af þessu tagi eru sjávarútvegur fyrir rányrkju ríkissjóðs og áliðnaður, þó að rafskattur komi sér illa í slæmu árferði.  

 Langtíma hagvöxtur er þannig mjög háður vel heppnuðum, þ.e. arðbærum fjárfestingum.  Þjóðfélagsstyrjöld er augljóslega afleitur jarðvegur fyrir hagvöxt, enda leiðir slík styrjöld alltaf til ófarnaðar og uppdráttarsýki hagkerfa.  Til að framkalla hagvöxt þurfum við á að halda trúnaðarsambandi og samvinnu á milli ríkisvaldsins, fyrirtækjanna og almennings, ekki sízt miðstéttarinnar.  Þetta er leiðarstef Sjálfstæðisflokksins, sbr slagorð hans, "Stétt með stétt", og hann ásamt Framsóknarflokkinum með sína samvinnuhugsjón, sem er lítið flíkað að vísu, á möguleika á að byggja þessa brú trausts, þessa Bifröst, svo að skírskotað sé til goðafræðinnar.

Óhjákvæmileg afleiðing stöðnunar er starfamissir, fækkun atvinnutækifæra og erfiðari staða launamanna á alla lund.  Stöðnun hagkerfis er versti óvinur launamanna.  Fækkun starfandi fólks á Íslandi á þessu stöðnunartímabili 2009-2013 nemur yfir tvö þúsund manns.  Nettófjöldi þeirra, sem fallið hafa út af vinnumarkaði, er ríflega þrjú þúsund, og vinnuafl, þ.e. starfandi og atvinnulausir, hefur dregizt saman um u.þ.b. tvö þúsund. 

Ef allt hefði verið með felldu og athafnalífinu hefði vaxið svo fiskur um hrygg, að það hefði getað boðið þeim störf, sem þess óskuðu, hefði sá fjöldi, þ.e. vinnuaflið, vaxið um 8000 manns, þ.e. um tæplega 2000 manna fjölgun í landinu og rúmlega 6000 brottflutta til útlanda.  Stríðsrekstur ríkisstjórnarinnar gegn atvinnulífinu hefur þannig rænt 3000+2000+8000=13000 manns, sem er um 8 % af starfandi fólki.  Þetta bitnar harðast á ungu fólki, sem er að koma út á vinnumarkaðinn.  Enginn stjórnmálaflokkanna, nema Sjálfstæðisflokkurinn, gefur nægan gaum að atvinnulífinu með raunhæfum úrræðum til að efla það.  Sjálfstæðisflokkurinn er öflugasta baráttutæki unga fólksins í landinu á aldrinum 18-30 ára.  Sjálfstæðisflokkurinn vill leggja sig í líma til að létta unga fólkinu lífsbaráttuna.

Það eru mjög dökkar atvinnuhorfur framundan vegna þess, að nú er hagkerfið tekið að minnka.  Það mun fljótlega leiða til uppsagna hjá fyrirtækjum og jafnvel til þess, að fyrirtæki leggi upp laupana.  Sú öfugþróun er þegar hafin í sjávarútveginum, sem er sú atvinnugrein, sem ríkisstjórnin hefur ofsótt mest.  Þessi öfugþróun leiðir til minnkandi skatttekna hins opinbera og vaxandi halla á rekstri þess.  Hallinn er fjármagnaður með lántökum, og er þó alls ekki á skuldirnar bætandi.  Stefna vinstri stjórnarinnar í efnahagsmálum er algerlega ósjálfbær og mun leiða til þjóðargjaldþrots um mitt næsta kjörtímabil, verði ekki söðlað um hið snarasta.  Menn sjá nú loforðaflaum vinstri flokkanna.  Hann er algerlega innistæðulaus og gaspur eitt vegna þess, að hann er allur á útgjaldahlið ríkissjóðs, ekkert horfir til tekjuaukningar hans.  Loforðin verða þá fjármögnuð með lánum. 

Á meðan Róm brennur með þessum hætti, leikur Neró, þ.e. vinstri vargurinn á Íslandi, á fiðlu.  Vinstri vargurinn gamnar sér við áhugamál sín, sem almenningur hefur ekki nokkurn áhuga á, þ.e. nýja stjórnarskráarómynd, sbr algert fylgisleysi Lýðræðisvaktarinnar, sem oftar en ekki þykist þó tala í nafni þjóðarinnar, og inngönguferlið í Evrópusambandið, ESB, en um 3/4 hlutar þjóðarinnar tjá ímigust sinn á innlimun landsins í þetta misheppnaða ríkjasamband, sem ber með sér feigðina.

Alþingi samþykkti þann 16. júlí 2009 undir þvingunum formanna ríkisstjórnarflokkanna að heimila ríkisstjórninni að óska eftir aðildarviðræðum við Berlaymontforingjana.  Það var aldrei við umræðurnar á Alþingi við þetta tækifæri minnzt á, að samhliða aðildarviðræðum yrði rekið skefjalaust breytingaferli á stjórnkerfi landsins til að uppfylla kröfur framkvæmdastjórnar ESB um stjórnkerfi aðildarlandanna.  Allt er þetta ferli frá 16. júlí 2009 varðað undirferli og svikum beggja stjórnarflokkanna, enda skal fullyrða hér, að jafnvel hið auma Alþingi, sem kom saman eftir kosningarnar í apríl 2009, hefði ekki samþykkt, að samhliða umsókn um aðildarviðræður hæfist aðlögun og tilraun til heilaþvottar landsmanna með ógrynni fjár úr hirzlum ESB.  Allt er þetta ólánsmál vinstri stjórnarinnar rekið á fölskum forsendum, og hér er ekki um neitt að ræða, sem hægt er að nefna venjulegar samningaviðræður.

Af þessum sökum var það algerlega rökrétt af Landsfundi Sjálfstæðisflokksins í febrúar 2013 að herða andstöðuna við þetta ólánsferli með því að ákveða að stöðva það og loka áróðursmiðstöð ESB, sem rekin er í verktöku og fellur ekki að neinu leyti að eðlilegum samskiptum þjóða.  Það er ekki á nokkurn hátt verið að fjandskapast við ESB með þessari afstöðu til ólánsferlis vinstri flokkanna, hvað þá að agnúazt sé sé út í aðildarþjóðir ESB.  Sjálfstæðismenn vilja áfram kappkosta að vera góðir þegnar á Innri markaði EES, og það er nákvæmlega ekkert, sem hindrar landsmenn í að taka upp þráðinn síðar við Berlaymont, ef þeir svo kjósa.

Það er aðeins eitt skilyrði, sem þarf að uppfylla fyrst.  Meirihluti þátttakenda í þjóðaratkvæðagreiðslu þarf að samþykkja það að hefja alvöruviðræður við framkvæmdastjórnina með einörðum vilja til aðlögunar og inngöngu að fengnu samþykki þings og þjóðar.  Það þarf auðvitað engin samningsmarkmið, því að það verður ekki um neitt að semja, nema aðlögun að regluverki ESB. Núverandi fíflagangur íslenzkra stjórnvalda er hvorki fugl né fiskur og hvorki Íslendingum né Evrópusambandinu boðlegur, þar sem ríkisstjórnin gengur klofin til leiks og annar flokkur hennar segist ætla að berjast gegn samþykkt eigin samnings.  Umboð samninganefndarinnar með slíkt bakland, öfugsnúið Alþingi og andsnúna þjóð, er augljóslega ekkert, og þessar samningsumleitanir eru þess vegna til skammar, eins og bókstaflega allt, sem þessi ríkisstjórn ræfildómsins tekur sér fyrir hendur.

Þá er nú meiri mannsbragur að Sjálfstæðisflokkinum, en stefnuskrá hans má finna hér á síðunni.          

 

     

     

   

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Í kjölfar landsfunda

Nú hafa nánast allir stjórnmálamenn landsins fengið tækifæri til að ráða ráðum sínum við helztu stjórnmálaáhugamenn landsins innan vébanda stjórnmálaflokkanna.  Hver er afraksturinn ?

Það, sem út á við snýr, og stjórnmálamennirnir hafa látið frá sér fara, vitnar um ónóga hugmyndaauðgi og skort á dirfsku, þó að ljóst megi vera, að arfleifð fyrstu tæru vinstri stjórnarinnar er með þeim hætti, að landið færist stöðugt nær gjaldþrotsbarmi, enda allar ráðstafanir vinstri stjórnarinnar kolrangar, hafa magnað vandann, og allt of miklu hefur verið ýtt á undan sér.  Af þekktum dýrategundum hefur þessi dæmalausa ríkisstjórn mest líkzt strútinum.  Hún hefur, eins og hann, stungið hausnum í sandinn, þegar vandi hefur steðjað að. 

Stærri stjórnarflokkurinn, sem er nú aðeins einn af stærri smáflokkunum á vinstri væng stjórnmálanna, enda býður hann fram klofið, verður æ furðulegri eftir því, sem hann eldist.  Hann er ekki lengur flokkur almúgamanna, heldur menntamanna á ríkisjötunni, sem slegnir eru Evrópublindu.  Forysta þessa flokks neitar að viðurkenna staðreyndir varðandi ESB, en hefur reist sér einhvers konar skýjaborg um þennan klúbb, sem horfist nú í augu við illviðráðanlegan vanda innbyrðis sundurþykkju af völdum mjög ólíkra hagsmuna.  Þó að sá, er hér heldur á fjaðurstaf, vildi gjarna ganga í þennan klúbb, þá gæti hann ekki unnið sér það til lífs að útskýra á hvaða vegferð þessi klúbbur er, og er þó sæmilega upplýstur.  Samfylking Árna Páls er einsmálsflokkur.  Öll vandamál eru leidd í jörðu með innihaldslausum fullyrðingum, hreinræktuðu lýðskrumi, sem líkist málflutningi trúarhópa um betra líf eftir dauðann.  Málflutningur af þessu tagi er fullkomlega óboðlegur hérlendis árið 2013.

Efnahagsstefna þessarar flokksónefnu malarbúa á suðvesturhorninu fjallar um frjálsan innflutning matvara og lifandi dýra til landsins og upptöku evru, eins og það er ósmekklega kallað.  Nýleg dæmi sýna í hnotskurn, hversu mikil afturför yrði frá gæða-og heilbrigðissjónarmiði að flytja hingað ótæpilegt magn af kjöti frá Evrópu, en glæpasamtök hafa verið orðuð við viðskipti í þeirri grein, og þá er hvorki spurt um gæði né hollustu, heldur einvörðungu stundargróða.  Þá er reynslan af innflutningi lifandi dýra svo hrikaleg vegna sjúkdómadreifingar, að menn ættu ekki einu sinni að ýja að slíku.

Talsmenn "stærsta" flokksbrotsins á vinstri vængnum, ekki sízt sá, sem nú er kallaður formaður flokksins án þess greinilega að stjórna flokkinum, því að gamla illindaskakið lætur ekki völdin eftir, láta sig hafa það að bera á borð fyrir alþjóð málflutning, sem hverju barni er samt ljóst, að gengur ekki upp.  Það á sem sagt að leysa hvers manns vanda með því að skipta um lögeyri í landinu.  Þetta er eins heimskulegur málflutningur og hugsazt getur.  Menn skipta ekki um lögeyri eins og brókina sína.  Slíkt gera menn einvörðungu eftir vandaða áhættugreiningu að beztu manna yfirsýn, þar sem menn hafa sannfærzt um, að hagvöxtur verði bezt tryggður í hagkerfinu með þeim hætti. 

Hagstjórn á að snúast um að hámarka hagvöxt.  Þetta eiga vinstri menn bágt með að skilja, enda eru margir þeirra hreinlega á móti hagvexti, svo að ekki er kyn, þó að keraldið leki. Ef hagsveiflan hér er ólík því, sem ríkjandi er á myntsvæði, sem Ísland væri aðili að, býður slíkt upp á vandræði; annaðhvort meiri verðbólgu hér út af of lágum vöxtum eða atvinnuleysi út af of háum vöxtum.  Hins vegar dregur hagkerfisþróunin hérlendis æ meira dám af þróuninni í Evrópu eftir því sem iðnvæðingu landsins vindur fram.

Það felur í sér uppgjöf og mikinn blekkingaleik gagnvart kjósendum að halda því fram, að lausn íslenzks efnahagsvanda felist í að skipta um mynt.  Lausnin felst aftur á móti í að þróa og efla hér hagstjórn, sem elur af sér stöðugleika og trausta mynt, þ.e. mynt, sem styrkist smám saman frá því, sem nú er, t.d. í u.þ.b. 100 kr per bandaríkjadal.  Ef ekki er unnt að ná tökum á peningamálastjórninni og samræma hana ríkisbúskapinum, þá mun nauðsynlegar forsendur gjaldmiðilsskipta skorta. 

Andróðurinn gegn formanni Sjálfstæðisflokksins er viðurstyggilegur.  Hælbítar hans setja aðallega fyrir sig þátttöku hans í atvinnulífinu fyrir og í peningakerfishruninu.  Fyrirtæki, sem hann var viðriðinn, lentu í vandræðum og urðu sum gjaldþrota, en það er ekki vitað til, að þau eða eigendur þeirra hafi fengið 1 kr afskrifaða af skuldum sínum.  Eigendurnir, þ.m.t. ættmenni Bjarna Benediktssonar, töpuðu hins vegar stórupphæðum.  Svipað var ástatt um annan formann Sjálfstæðisflokksins, Ólaf Thors.  Kveldúlfur varð gjaldþrota, og áttu Thorsarar lengi vel undir högg að sækja út af því. Báðir voru þessir menn og eru taldir vera stálheiðarlegir. Það er mikill kostur fyrir stjórnmálamann að hafa tekið þátt í viðskiptalífinu.  Við sjáum glópsháttinn og viðvaningsbraginn á öllum málatilbúnaði núverandi ráðherra til samanburðar.  Þeir kunna ekkert til verka.  Landsfundur Sjálfstæðismanna skildi þetta, og 4/5 fulltrúanna studdu formanninn til að verða sitt forsætisráðherraefni.

Formaður Sjálfstæðisflokksins er fremstur á meðal jafningja, "Primus inter Pares", í sínum flokki, og hann ber augljóslega af formönnum hinna flokkanna fyrir sakir menntunar sinnar og staðgóðrar og yfirgripsmikillar þekkingar, sem hann hefur aflað sér á landshögum og helztu hagsmunamálum þjóðarinnar.  Stingur hann algerlega í stúf við gösslarahátt hinna formannanna, svo að ekki sé nú minnzt á forystu ríkisstjórnarinnar, sem veður á súðum í hverju málinu á fætur öðru og skortir augljóslega dómgreind til að leiða nokkurt mál til farsælla lykta. 

Vinstri grænir settu litlausan varaformann til valda, sem óttalega lítið hefur kveðið að til þessa og ekki er hægt að búast við miklu af.  Formaðurinn er kurteis, sem ber að virða, en ferillinn í menntamálaráðuneytinu er markaður tilhneigingunni til einsleitni í rekstrarformi hins opinbera og að þola illa samkeppni frá einkageiranum.  Hér, eins og annars staðar, er rétt að leita sparnaðar með því að leyfa einkaframtakinu að spreyta sig.  Grunnhugsunina um jöfn tækifæri til náms án tillits til efnahags ber þó að virða.  Menntun í vísindum, tækni og iðngreinum, er góð og nauðsynleg fjárfesting fyrir þjóðfélagið, en við núverandi aðstæður er nauðsynlegt að forgangsraða í þágu raunvísindagreina á kostnað hugvísindanna.  Gæði menntunar á sumum sviðum raunvísindanna hérlendis eru óboðleg og standa framfarasókn þjóðfélagsins fyrir þrifum.

Nýlega afhjúpaði nýkjörinn formaður vinstri grænna sig sem ábyrgðarlausan stjórnmálamann, loddara.  Hún lagði fram á síðustu dögum þingsins frumvarp um Lánasjóð íslenzkra námsmanna, sem er slík hrákasmíð, að jafnvel umsögn ráðuneytis nöfnu hennar Júlíusdóttur gefur frumvarpi mennta-og menningarmálaráðherra falleinkunn.  Katrín kastar fram kolrangri og allt of lágri tölu um líklegan kostnað af frumvarpinu.  Katrín, formaður vinstri grænna, vill hlaða undir góða og samvizkusama nemendur og gefa þeim upp skuldir við LÍN.  Fjárlagaskrifstofa fjármála-og efnahagsráðuneytisins áætlar árlegan kostnað af þessu verða tæpa 5 milljarða kr, sem með vöxtum verða um 100 milljarðar að 10 árum liðnum.  Þar sem hér er um útgjaldaauka að ræða hjá ríkisstjóði, sem rekinn er með halla, verður að slá lán fyrir þessu, og þess vegna er eðlilegt að reikna á upphæðina vexti.  Við höfum ekki efni á slíkri greiðvikni við góða nemendur, enda mundi hún fljótt hitta þá fyrir sem bjúgverpill bágstadds ríkissjóðs.  Þarna sjá menn forgangsröðun hinnar undarlegu Katrínar Jakobsdóttur í hnotskurn.  Hún mun verða myllusteinn um háls hennar, það sem eftir er.  Hláleg frammistaða nýs formanns.    

Vinstri grænir með atvinnuvega-og nýsköpunarráðherrann í broddi fylkingar hafa tekið undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar kverkataki í nafni sameignarstefnunnar, og þeir hafa skákað í skjóli túlkunar sinnar á lagaákvæðinu um, að þjóðin eigi fiskveiðiauðlindina.  Þeir hafa túlkað þetta þannig, að ríkið eigi hana, sem er tóm vitleysa, og nú stefnir í, að eigið fé sjávarútvegsins þurrkist upp fyrir tilverknað sameignarsinna, og er það vafalaust í samræmi við ætlun þeirra.  Þessi eignaupptaka mun einnig leiða til stórvandræða lánastofnana.   Þjóðin í heild mun bera skarðan hlut frá borði, ef þetta brölt verður ekki stöðvað og undið ofan af vitleysu vinstri grænna og annarra marða.  Ef svo fer fram sem horfir, þurfa útgerðarfyrirtækin að afskrifa 11 milljarða kr á ári af bókfærðum aflaheimildum, sem hafa verið keyptar.  Það er ekkert tillit tekið til fjárfestingarþarfarinnar í greininni, sem er um 20 milljarðar á ári, til að viðhalda samkeppnihæfninni við erlend fyrirtæki, og ekki heldur tekið tillit til fyrri fjárfestinga, sem vissulega hafa verið undirstaða hagræðingar í greininni, sem hefur haft mjög mikil og góð þjóðhagsleg áhrif.  Tröll leika sér hér með fjöregg þjóðarinnar.  Þau hafa aldrei migið í saltan sjó, en telja sig þó þess umkomin að hafa vit fyrir útgerðinni.  Þetta vit er ekki meira en guð gaf, og það er mjög af skornum skammti, þegar þingmenn ríkisstjórnarinnarinnar og ráðherrarnir sjálfir eiga í hlut.  Sennilega er allur þessi hrærigrautur lögleysa.  

Næsta þing mun kveða upp úr um það, hvort stjórnvöld hafi rétt til að veikja stöðu íslenzks sjávarútvegs í samkeppni við Norðmenn og aðra.  Næsta þing mun kveða upp úr með það, hvort það telji stjórnmálamenn og embættismenn betur til þess fallna en útgerðarmenn að hámarka framleiðni sjávarútvegsins.  Næsta þing mun kveða upp úr um, hvort leita eigi að auðlindarentu í bókhaldi sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtækja og aðeins þar.      

Til að reikna út veiðigjaldið er notuð tölfræði frá Hagstofunni, sem er góð og gild, en hentar engan veginn til skattlagningar á fyrirtæki.  Þá er veiðigjaldið lagt bæði á fiskveiðar og vinnslu, sem skýtur skökku við, því að auðlindarenta er sögð lögð til grundvallar.  Hún hefur hins vegar aldrei fundizt, af því að útgerðin stendur í strangri samkeppni við erlendar útgerðir, sem ekki búa við auðlindagjald, heldur þvert á móti fá þær opinberan stuðning.  Það er þess vegna engin sanngirni í að leggja veiðigjald á íslenzkan sjávarútveg með þeim hætti, sem nú er gert.  Að leggja veiðigjald á íslenzkan sjávarútveg á grundvelli meintrar auðlindarentu er svipuð ósanngirni og að leggja kolefnisgjald á hann, þó að sjávarútvegur í samkeppni við þann íslenzka sleppi við slíkar álögur.  Allt, sem yfirvöld aðhafast og er til þess fallið að draga úr samkeppnihæfni íslenzkra fyrirtækja, er forkastanlegt, enda jafngildir slíkt kjararýrnun hér.    

Það stefnir í, að 65 % af framlegð (EBITDA) fyrirtækjanna verði tekin af þeim með þessum hætti og þar á ofan 20 % tekjuskattur, sem jafngildir þá í heildina yfir 70 % af framlegð.  Þetta er óðs manns æði og mun ganga af sjávarútveginum dauðum með hrikalegum afleiðingum fyrir fólkið í landinu.  Þetta er sósíalismi andskotans. 

Sáttaleið getur falizt í gjaldi, sem er reiknað af tekjuafgangi fyrirtækjanna, en ekki framlegð, og þar sem skattféð sé eyrnamerkt og renni í hafnarsjóð, til Landhelgisgæzlunnar, til Hafrannsóknarstofnunar og til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna.  Með öðrum hætti er ekki hægt að réttlæta sértæka skattlagningu af sjávarútveginum.  Þjóðareignin er hins vegar fólgin í réttinum til að stjórna fiskveiðikerfinu og að ákvarða aflamagnið, sem er inngrip í eignarréttinn, og í lagaákvæðinu um þjóðareign á fiskimiðunum er jafnframt fólginn réttur stjórnvalda til að verjast ásókn erlendra fyrirtækja og ríkja í téða auðlind. 

Nýr Þór heldur úr höfnNý tegund í lögsögu Íslands, makríll 

          

   

     

   

  

  

 


Drög í djúpu feni

Stund sannleikans rann upp varðandi afrakstur Stjórnlagaráðs, þegar dómur Feneyjanefndarinnar var birtur, þótt í drögum væri.  Mat Feneyjanefndarinnar á drögum Stjórnlagaráðs var, að þau væru ótæk sem grunnur að stjórnarskrá.  Slíkur úrskurður að hálfu aðila á borð við Feneyjanefndina er einstæður um stjórnarskráarbreytingu í lýðræðisríki og staðfestir réttmæti innlendrar gagnrýni á fyrirliggjandi drög að stjórnarskrá.  Falleinkunn fær Stjórnlagaráð fyrir moðsuðu sína, og er furðulegt að þverskallast við að leggja þetta ólánsfrumvarp fyrir róða úr þessu.  Allt, sem þessi ríkisstjórn kemur nálægt, er flausturslegt fálm í myrkri og með eindæmum ófaglegt og óvandað.  Stjórnlagaráð var fjarri því að vera þverskurður þjóðarinnar, og jafnvel þó að svo hefði verið, er verið að gera þekkingu stjórnlagafræðinga og annarra lögfræðinga nokkuð lágt undir höfði með því að fá þá ekki til að móta gerð skjals á borð við stjórnlög landsins.    

Allt ferlið var frá upphafi gjörsamlega vonlaust til að skapa nokkuð annað en merkingarlaust moðverk, sem lögfræðinemar á 1. ári hefðu verið miður sín með sem hópvinnuverkefni.  Í bezta lagi er hægt að kalla þetta ferli til að skapa stjórnarskrá barnalegan leikaraskap hégómlegra sálna með ofvaxið egó.  Ferlið er búið að vera fíflagangur frá upphafi til enda og hefur haft í för með sér hræðilega sóun skattfjár og tíma fólks, sem hefur annað og betra við tíma sinn að gera.  Því fyrr, sem endir verður bundinn á lýðskrum þetta, þeim mun betra. Lýðskrum var leirinn, sem ráðið fékk til að hnoða. Drögin eru enda handónýt að dómi innlendra sérfræðinga og fjölmargra leikmanna ásamt nefnd Evrópuráðsins um málefnið og ber að fleygja hið fyrsta út í hafsauga.  Martröð lýðveldisins mætti kalla sull stjórnlagaráðs. 

Núverandi þing er óstarfhæft, enda í alla staði óhæft.  Ef næsta þing verður skárra, þá mun það ganga kerfisbundið til verks í þessum efnum sem öðrum.  Það þarf að byrja á að ræða, hvaða greinum Stjórnarskráarinnar það vilji stefna að breytingum á á kjörtímabilinu 2013-2017, og setja síðan valinkunna hópa sérfræðinga til starfa um mismunandi greinar.  Afrakstur þeirra fari til rýni hjá Feneyjanefnd.  Þannig skapast samkeppni á milli vinnuhópanna um gæði vinnunnar.  Að lokum fái Alþingi nýtt frumvarp til breytinga á stjórnlögum til umfjöllunar.  Að reyna að gera stjórnlagabreytingar einfaldari er til þess fallið að ýta undir stjórnmálalega lukkuriddara á bylgjufaldi stundarhrifningar eða stundarhöfnunar til að breyta grunnlögunum.  Skilyrðið um samþykki á tveimur þingum skapar stöðugleika. 

Það er allt á sömu bókina lært hjá núverandi ríkisstjórn og þingmönnunum, sem hana styðja.  Hún hefur ekkert til gagns gert, heldur stundað niðurrif á öllum sviðum þjóðfélagsins.  Undanfarin 4 ár hafa verið ár hinna glötuðu tækifæra.  Ríkisstjórninni hefur mistekizt allt, sem hún hefur tekið sér fyrir hendur.  Evrópusambandsumsóknin var alveg dæmigert feigðarflan, sem engum heilvita manni hefði dottið í hug að leggja upp í.  Upphafið var með endemum ógæfulegt og lýsti sér í því að snúa upp á eyrnasnepla vingulslegra þingmanna og pína þá til að segja já, því að annars færi ríkisstjórnin fyrir kattarnef. Fráfarandi forsætisráðherra mun hafa farið mikinn í hlutverki harðstjórans.  Það eru engin takmörk fyrir hennar gjörðum, þegar kemur að umsókn þessari, og löngu tímabært að binda endi á skammarlegan farsa, þar sem viðsemjandinn er hafður að fífli, af því að umsækjandinn ætlar ekki inn.  Allt tilstandið er engu líkara en bjölluati, og slíkt er afar hvimleitt.  Aðeins trúðum á borð við Össur og Jóhönnu gat dottið slík endemis vitleysa í hug.  Ef við viljum fara þarna inn, þá fáum við til þess skýrt umboð frá þjóðinni og förum síðan í viðræður af festu og krafti, en ekki með hangandi hendi, eins og lúðulakar, árum saman.  Þetta mál er þegar búið að valda nægu tjóni, og áróðursskrifstofa ESB lokar vonandi sjálf, þegar skýr stefnumörkun kemur frá Íslandi, og ný ríkisstjórn biðst velvirðingar á bjölluati einfeldninga, sem virtu lýðræðislegan vilja þjóðarinnar að vettugi. Að setja þetta ferli í gang til að fá að "kíkja í pakka" ESB vitnar í senn um dómgreindarleysi og þekkingarleysi á ESB.    

Atferli krata- og kommaforystunnar 16. júlí 2009 var eins heimskulegt og ruddalegt og hægt er að hugsa sér, enda algert einsdæmi í sögu Evrópu, þegar um undirbúning ESB-umsókna er að ræða.  Það var ekki einu sinni viðhaft í Saarlandi 1934, þegar sótt var um aðild að Þriðja ríkinu (reyndar stóð valið um að verða hluti af Þýzkalandi eða Frakklandi).  Hvílíkur ofstopi !  Allt þetta umsóknarbrölt er unnið fyrir gýg.  Á það verður endir bundinn þegar á þessu ári, og peningasóun því samfara stöðvuð.  Ráðstöfun mannauðs Utanríkisráðuneytisins þarf að rýna með virðisauka af vinnu hvers og eins í huga eftir það, sem á undan er gengið.  

Ríkisstjórnin valdi óvönduðustu aðferð við niðurskurð ríkisútgjalda, sem hugsazt getur, þ.e.a.s. flatan niðurskurð.  Afleiðingin er alveg skelfileg á ríkisreksturinn.  Viðkvæm starfsemi á borð við spítalarekstur er kyrkt, svo að gæði þessa rekstrar fyrir viðskiptavini og hina, sem þjónustuna veita, eru algerlega óboðleg.  Nota hefði átt tækifærið, sem gafst til hagræðingar, til að fara í skipulagsbreytingar og lítils háttar framkvæmdir til að draga úr sóun í kerfinu á borð við þá, að útskrifaðir sjúklingar teppi pláss á háskólasjúkrahúsi, af því að miklu ódýrari dvalarstaðir eru fullir.  Það á ekki að herða stöðugt sultarólina að Landsspítalanum, heldur að kanna, hvort úthýsing á hluta starfseminnar að uppfylltum gæðakröfum geti sparað ríkissjóði fé.  Miðstýringarárátta kratanna kemur í veg fyrir ávinning með frumkvæði heimamanna á hverjum stað.  Ný tækni getur sparað fé, og þá á ekki að hika við að fjárfesta í henni.  Það eru hins vegar takmörk fyrir því, hversu miklum hluta opinberra fjárveitinga til sjúkramálanna er verjanlegt að verja til kaupa á dýrustu lyfjum, nema ávinningur sé ótvíræður.

Ríkisstjórnin skar framlög til Vegagerðarinnar niður við trog og lét, eins og slík framlög mættu fremur missa sig en önnur framlög.  Viðkvæðið var að þyrma heilbrigðis-og tryggingakerfinu.  Það var ekki gert, og þessi niðurskurður til vegamála var stórhættulegur og hefur haft mikinn kostnaðarauka í för með sér fyrir landsmenn.  Það er alveg hræðilegt, þegar misheppnaðir stjórnmálamenn fara að stjórna ríkiskassanum.

Menntamálin eru í ólestri undir stjórn VG.  Skólum er mismunað eftir rekstrarformi í anda ofurtrúar sameignarsinna á opinbert eignarhald og rekstur.  Skólum er gert illmögulegt að keppa á gæðum, enda hvatinn lítill sem enginn í kerfinu.  Einkunnakerfi er breytt, svo að nemendur eigi erfiðara með að meta árangur sinn og bera sig saman innbyrðis.  Það virðist alls ekki mega ala á heilbrigðum metnaði nemenda.  Afleiðingin er skelfileg.  PÍSA er áminning. Nemendur koma út úr grunnskóla ótalandi og óskrifandi á móðurmáli sínu, hvað þá erlendum tungumálum.  Skólunum virðist hafa hrakað síðan sá, er hér heldur á fjaðurstaf, var þar nemandi, af færni nemenda í grunngreinum að dæma.  Skólakerfið er fjarri því að fullnægja þörfum atvinnulífsins.  Verkmenntun er hornreka og raungreinum er engan veginn gert nógu hátt undir höfði.  Þess í stað er opinberu fé veitt í húmbúkk, sem engin þörf er fyrir í þjóðfélaginu, en fólki er guðvelkomið að eyða tíma sínum í og eigin fé. Ofan á öllu trónir núverandi formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem virðist vera harla metnaðarlítil fyrir hönd íslenzka menntakerfisins, hvers gæðum og skilvirkni hrakar stöðugt. Þessu verður að breyta.  Beina verður opinberu fé í hagvaxtarhvetjandi geira menntakerfisins og hætta dekri við afætur. 

Atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar verður bezt lýst sem afturhaldi.  Hún hefur blóðmjólkað fyrirtækin og þannig eyðilagt vaxtarmöguleika þeirra, svo að atvinnuþátttaka landsmanna hefur stöðugt minnkað á ólánsferli þeirra þröngsýnu púka, sem ráðið hafa ferðinni undanfarin ár.  Stöðnun atvinnulífs og afturför lífskjara miðað við nágrannaþjóðir hefur leitt til atgervisflótta úr landinu.  Afleiðingin er langvinnasta kreppa, sem um getur í heiminum á seinni árum. 

Það verður eitt meginviðfangsefni næstu ríkisstjórnar, ef nógu margir bera gæfu til að kasta ekki atkvæði sínu á glæ í komandi þingkosningum, að blása til sóknar í atvinnumálunum.  Alþjóðlega hagkerfið er í lægð og gjaldeyrishöftin auðvelda ekki leikinn, en með samstilltu átaki þings og atvinnulífs verður fljótlega unnt að þoka hagkerfinu upp úr kviksyndi stöðnunar vinstri flokkanna.  Erlendir fjárfestar fylgjast með og bíða átekta. Nýting náttúrugæða til sjávar og sveita mun enn verða eimreið hagkerfisins með smurningu frá verðmætum mannauði landsins við hækkun á ráðstöfunartekjum hans, ekki sízt fólks undir fertugu, sem losnar úr viðjum við skattalækkanir.

Það er furðulegt að heyra málflutning ráðherra, t.d. fjármálaráðherra, og annarra þingmanna Samfylkingarinnar um gjaldmiðilsmál.  Þeir tala, eins og landsmönnum standi til boða að hálfu ECB, evrubankans í Frankfurt, að taka upp evru á morgun.  Þetta er alger fásinna.  Eftir fjagra ára óstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs eru landsmenn fjær því en nokkru sinni áður að uppfylla Maastricht-skilyrðin, þar sem skuldastaða ríkisins er sett 60 % að hámarki af VLF, en hún verður um 100 % í ár, halli ríkissjóðs skal verða innan við 3 % af VLF (þetta hefur aldrei staðizt í raun hjá ríkisstjórninni), og verðbólga og vextir skulu verða á meðal hins lægsta á evru-svæðinu, en eru í toppi.

Setjum nú svo, að kraftaverk gerðist, og ECB mundi bænheyra Samfylkinguna á Íslandi og bjóða Svörtuloftamönnum upp í dans og kaupa krónuforða hans fyrir evrur og á allan hátt styðja gjaldmiðilsskiptin.  Hvaða gengi á þá að nota ?  Gengi Seðlabanka Íslands, gengi ECB eða eitthvert gengi þarna á milli ?  Svarið við þessu mundi marka þáttaskil varðandi afkomu almennings og samkeppnihæfni íslenzkra útflutningsatvinnuvega.  Er skemmst að minnast endursameiningar Þýzkalands, þegar DDR-mörkum var skipt fyrir D-mörk á genginu 1:1.  Austur-þýzkt efnahagslíf er enn í basli vegna gengis, sem var allt of hátt fyrir framleiðni austurhéraðanna.   

Það er ekki einu sinni vitað til þess, að Samfylkingarfólk hafi spurt þessarar spurningar, hvað þá svarað henni.  Þar á bæ er firringin í öndvegi og raunveruleikaskyn af takmörkuðum skammti.  Það er bara gösslast áfram. Barn lærir að skríða áður en það fer að ganga.  Með sama hætti verðum við að ná tökum á efnahagslífi okkar áður en við förum að semja við Frankfurt, London, Washington eða aðra um tengingu íslenzku myntarinnar við evru, sterlingspund, bandaríkjadal eða aðrar myntir með það að markmiði að gera viðkomandi mynt að lögeyri á Íslandi.  Að fara á fjörurnar við aðrar þjóðir um slíka tengingu í þeirri veiku stöðu, sem við erum í núna eftir óstjórn fákunnandi fólks, er u.þ.b. jafnheimskulegt og hægt er að hugsa sér.  Samfylkingin mundi gera okkur að ómögum.  Við verðum að ná tökum á peningamálunum með því að takmarka peningamagn í umferð og ná verðbólgu niður í um 2 %.  Það er unnt að hafa stjórn á peningamagni í umferð með því að taka "peningaprentunarvaldið" frá viðskiptabönkunum og færa það til föðurhúsanna, Seðlabankans. Þar verður þá að vísu vera fólk með viti, en ekki sporgöngumenn Trotzkys og véfréttarinnar í Delfí. Þegar við höfum gert hreint fyrir okkar dyrum, uppfyllt Maastricht-skilyrðin og náð varanlegum hagvexti, 3 % - 5 % á ári, þá getum við samið af styrkleika við aðra.  Að semja í veikri stöðu um þessi mikilsverðu mál býður hættunni heim, og tvö peningakerfishrun á 10 árum mun hagkerfið ekki þola.  Þá blasir þjóðargjaldþrot við.  

   Á illa samanfalkinn1_444247

 

   

 

 

     

 


Ræða Camerons

Þann 23. janúar 2013 hélt David Cameron, formaður brezka Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Breta, stórmerkilega ræðu í Davos í Sviss.  Cameron sagði, að meginlandsþjóðirnar væru að breyta Evrópusambandinu, ESB, í átt að sambandsríki, sem ekki hefði verið lagt upp með, þegar Bretar samþykktu inngöngu í ESB.  Hann taldi þess vegna, að Bretar væru í fullum rétti að fitja upp á annars konar breytingum.  David Cameron vill halda í þveröfuga átt við helztu sameiningarsinnana.  Hann vill flytja ákvörðunarvald frá Brüssel og aftur heim til Lundúna.  Cameron vann sigur yfir Hollande um daginn varðandi fjárhagsáætlun ESB, þegar samþykkt var að draga saman seglin.  Sannleikurinn er sá, að til langtíma stendur fjárhagur ESB-ríkjanna á brauðfótum, eins og nánar verður minnzt á í þessari vefgrein.

Þessi stefnumörkun Breta virðist vera voguð, hún markar þáttaskil í tilvist ESB, og hún skilaði Bretum og öllum norðurhluta ESB ávinningi 8. febrúar 2013, þegar langtíma fjárlagarammi ESB var í fyrsta sinn lækkaður.  Bretar ætla að óska eftir samningaviðræðum, sem munu verða kosningamál á Bretlandi árið 2015.  Íhaldsflokkurinn ætlar í þeim kosningum að berjast fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu á Bretlandi um aðild að ESB á grundvelli nýrra aðildarskilmála; ella komi til úrsagnar Breta úr ESB.  Það er mjög líklegt, að Bretar muni segja nei við ESB, nema Brüsselvaldið gangi að helztu kröfum þeirra.  Þá kemur upp spáný og spennandi staða í Evrópu.  

Þetta er sterkur leikur hjá Cameron, sem þegar hefur skilað Íhaldsflokkinum marktækri fylgisaukningu í fylgismælingum, en hann á í höggi við Sjálfstæðisflokk Stóra-Bretlands, sem vill úrsögn úr ESB.  Boðuð þjóðaratkvæðagreiðsla setur þrýsting á Brüssel um að sýna Bretum sanngirni og eftirgjöf.  Annars eru þeir farnir, og það vilja Þjóðverjar ekki, þó að Gallarnir geti hugsað sér það. 

Útlínur þess, sem koma skal, komu í ljós í átökunum um fjárlög ESB í viku 6/2013 í Brüssel.  Þá skipuðu Bretar sér í forystu umbótasinna, þar sem eru Norðurríkin, og Frakkar með kratann Hollande í broddi fylkingar, skipuðu sér í forystu rómönsku ríkjanna og annarra Suðurríkja.  Þjóðverjar með sína Angelu Merkel í stafni "sátu á girðingunni", þ.e. horfðu á atgang Engilsaxa og Galla og leituðust við að bera klæði á vopnin.  Hollande er stór upp á sig að hætti Galla og lét sig vanta á boðaðan fund með Cameron og Merkel.  Slíkt atferli kunna Germanir ekki að meta, enda argasti dónaskapur.  Leikar fóru þannig, að Germanir hölluðust á sveif með Engilsöxum, Gallar máttu lúta í gras og gengu niðurlægðir af velli.  Nú sjáum við sögulegan öxul í mótun, öxulinn Berlín - Lundúnir, sem löngu var tímabært að mynda.    

Það vakti athygli eftir stefnumótandi ræðu Camerons um endurheimt völd frá Brüssel, að kanzlari Þýzkalands, Angela Merkel, sem sækist eftir endurkjöri haustið 2013, tók málflutningi Camerons vel.  Sannleikurinn er sá, að Þjóðverjar eru hundóánægðir með "gúrkutilskipanir" frá Brüssel, sem þeir kalla svo, og eiga þá við afskiptasemi búrókratanna í Brüssel um smæstu atriði.  Gúrkutilskipanir eru ær og kýr Frakka, sem búa í miðstýrðasta ríki Evrópu, og hefur svo verið frá dögum Napóleóns Bonaparte frá Korsíku. Gúrkutilskipun Brüssel fjallaði um leyfilegan beygjuradíus á agúrkum, og er nytsemi slíkrar tilskipunar flestum hulin.

AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn) sendi frá sér nýja hagspá fyrir 2013 þann 23. janúar 2013.  Þar kom fram, að verg landsframleiðsla 17 evruríkja mun dragast saman um 0,2 % og vaxa um 0,2 % í öllum ESB-löndunum 27. Á þessu ári hefst óheillavænleg langtímaþróun í ESB, og hún hófst á evru-svæðinu í fyrra.  Fólki á vinnumarkaðsaldri, 20-64 ára samkvæmt skilgreiningu tölfræðinga ESB, mun taka að fækka á árinu 2013 úr hámarkinu í fyrra, 308,2 milljónum manna, og mun á næstu hálfu öld fækka niður í 265 milljónir árið 2060.  Fólki á vinnumarkaðsaldri mun fækka, en gamalmennum mun fjölga.  Þetta mun hækka öldungahlutfallið í ESB úr 28 % í 58 % árið 2060. Öldungahlutfall er skilgreint sem sem fjöldi fólks 65 ára og eldri sem hlutfall af fjölda á téðum vinnumarkaðsaldri.  Þessi hroðalega þróun mun setja hagvexti í ESB þröngar skorður, því að hann er reistur á aukinni atvinnuþátttöku og aukinni framleiðni. Þessi þróun kallar á aukin útgjöld hins opinbera, sem hæpið er, að skuldug ríki ESB standi undir.  Að tengjast slíkum þjóðum ríkjasambandi er alls ófýsilegt.      

Þjóðverjar halda ESB uppi fjárhagslega og hafa orðið fyrir miklum fjárhagslegum útlátum síðustu misserin við björgun banka og ríkissjóða í öðrum löndum evru-svæðisins.  Stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe hefur gefið til kynna, að ákvarðanatakan um þessi fjárútlát hafi á köflum ekki staðizt ákvæði í "die Verfassung", Stjórnarskrá Sambandslýðveldisins, og flokkur Merkel, CDU, tapaði í janúar 2013 völdum í Nieder-Sachsen, Neðra-Saxlandi, þrátt fyrir klaufalegan kanzlarakandidat kratanna, SPD.  Að þessum kratíska kanzlarakandídat er nú gert ótæpilegt grín í Sambandslýðveldinu. Þetta sýnir, að í Þýzkalandi er kraumandi óánægja með stefnuna í Berlín, því að leiðtogi CDU í Nieder-Sachsen naut persónulegra vinsælda.  Allt sýnir þetta kraumandi óánægju í Evrópu.

Skýringin á þessum hræringum í Evrópu eru vandræðin, sem stafa af sameiginlegu myntinni, evrunni.  Menn sjá, að hún stenzt ekki án stjórnmálalegs samruna, og mjög margir Evrópumenn, áreiðanlega drjúgur meirihluti þeirra, verða eins og broddgöltar við tilhugsunina um sambandríki.  Líklegast er, að sameiningartilraunir búrókratanna í Brüssel springi í höndunum á þeim og úr þessari deiglu myndist þrískipt ESB, eins og kenning var sett fram um hér á vefsetrinu fyrir nokkru.

Þessi þrískipting yrði með þremur myntum og leidd af Berlín, París og Lundúnum.  Sameiginlegur öllum hlutum ESB yrði Innri markaðurinn með frelsunum fjórum, en síðan væri mismikil miðstýring og mismunandi peningastefna á hverju svæði.  París mundi fara fyrir Suður-Evrópu, sem búa mundi við veika peningamálastjórn og veikta evru, enda blasir nú þjóðfélagslegt ginnungagap við rómönskum og grískumælandi þjóðum.  Berlín færi fyrir E-marki og sterkri peningamálastjórnun, en líklega minni miðstýringu en í Parísarhópinum.  Lundúna-svæðið yrði með minnsta miðstýringu og nokkrar myntir, sem þó sennilega yrðu tengdar sterlingspundinu með vikmörkum.  Það er ekki ósennilegt, að núverandi EES-lönd sæju hag sínum bezt borgið í þessu laustengda bandalagi með Bretum o.fl.

Fyrir Íslendinga er algerlega út í hött að standa í marklausum aðlögunarviðræðum við ESB í sinni núverandi mynd, enda reiknar Brüssel ekki lengur með aðild Íslands.  Það er svo mikil óvissa uppi um framtíð Evrópusambandsins, að óráð er að sækjast eftir inngöngu þar nú.  Fantabrögðin, sem ESB beitti Ísland frá haustinu 2008 þar til dómur EFTA-dómstólsins var kveðinn upp, 28. janúar 2013, voru til þess fallin að einangra landið stjórnmálalega og fjárhagslega og þannig að koma því á kné, svo að skattborgarar landsins gengjust í ábyrgð fyrir skuldir óreiðumanna og borguðu hundruði milljarða kr í vexti af lánum til að standa skil þar til þrotabúin lykju innheimtu.  

Kló ESB læsti sig um Ísland frá Norðurlöndunum í austri til AGS-Alþjóða gjaldeyrissjóðsins - í vestri.  Stálklónni var stjórnað frá Berlaymont.  Hagsmunum Íslendinga átti að kasta algerlega á glæ og eyðileggja hér lífvænleg búsetuskilyrði vegna ótta búrókrata í Brüssel við bankaáhlaup.  Í kjölfarið yrðu Íslendingar viljalaus verkfæri framkvæmdastjórnarinnar, nákvæmlega eins og Össur & Co. hafa allan tímann verið.  Þetta var svo kaldrifjuð atlaga að smáþjóð í norðri, að augljóslega getur ekki gróið um heilt alllengi.  Þess vegna hefur myndazt gjá á milli þjóðlegra, borgaralegra afla og stjórnarflokkanna, hverjir eru algerlega óstjórntækir af augljósum ástæðum þar til þeir hafa undirgengizt sína hundahreinsun.  Þess vegna ber að slíta þeim aumkvunarverða læðupokahætti, sem utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg nú stundar í Brüssel, og honum mun verða slitið.  Það ferli hefur þegar orðið landsmönnum allt of kostnaðarsamt og lítillækkandi. 

Hlutur innlendra meðreiðarsveina Brüsselvaldsins er viðbjóðslegur og verður þeim til ævarandi minnkunar, svo lengi sem land þetta byggist.  Undirlægjuháttur stjórnarflokkanna tveggja var slíkur, að þyrlað var upp miklu moldviðri um lagalega stöðu Íslands í Icesave-deilunni til að unnt væri að smeygja fátæktarfjötrum utan um íslenzka skattborgara, þannig að svo liti út, að tilskipun ESB um innlánstryggingar héldi vatni, en væri ekki moðsuða, eins og reyndin var.

Stjórnmálaflokkarnir tveir, sem að ríkisstjórnum Jóhönnu Sigurðardóttur hafa staðið, eru Trójuhestar innan borgarmúra íslenzks sjálfstæðis.  Þeir hafa dreift hræðsluáróðri, sem reistur var á lygum og blekkingum frá Brüssel um lagalega stöðu Íslands eftir setningu Neyðarlaganna í október 2008.  Stjórnmálaflokkar þessir eru báðir óalandi og óferjandi og engan veginn tækir í ríkisstjórnarsamstarf, enda hugmyndalegar eyðimerkur báðir tveir. Geir Hilmar Haarde, ríkisstjórn hans og Alþingismenn, sem samþykktu Neyðarlögin, reyndust bjargvættir Íslands, því að annars blasti þjóðargjaldþrot við.  "Guð blessi Ísland" voru orð í tíma töluð, og forsætisráðherra var bænheyrður 28. janúar 2013.  Myllur réttlætisins mala hægt, en mala þó.  

Hér hafa orðið alvarlegir atburðir í innanlandsmálunum, og það er ekki hægt að láta sem ekkert sé, þegar hópur stjórnmálamanna virðist draga taum erlendra ríkja og ríkjasambanda á kostnað hérlendra manna.  Við fyrsta tækifæri þarf að dusta rykið af þingsályktunartillögu um að rannsaka hlut íslenzkra stjórnvalda í þessu Icesave-máli öllu saman, þó að fnykinn leggi af því langar leiðir.  Það verður að leiða hið sanna í ljós, svo að stjórnmálamenn og heilu flokkarnir geti ekki endalaust siglt undir fölsku flaggi.  

Brezki fáninn-Union JackDC-Pókerspilari í janúar 2013 

 

  

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband