Færsluflokkur: Evrópumál

Markaðshyggja andspænis forsjárhyggju

Inngrip stjórnvalda í athafnalífið eru oft stórskaðleg.  Nýlegt dæmi á Íslandi er banvæn skattheimta á sjávarútveginn, sem dregur úr honum allan mátt og hefur þannig neikvæð áhrif á landsframleiðsluna og þar með hagvöxtinn og hag almennings.

Annað sláandi dæmi er munurinn á árangri Bandaríkjamanna og Evrópumanna í loftslagsmálum.  Eins og kunnugt er, tóku Bandaríkjamenn ekki þátt í Kyoto-bókuninni á sínum tíma, en Evrópumenn börðu sér á brjóst og settu sér markmið um 20 % minni losun gróðurhúsalofttegunda 2020 en 1990.

Reyndin er athygliverð.  Í Bandaríkjunum (BNA) er brennt minna af kolum ár frá ári, en í Evrópusambandinu (ESB) meira og meira.  Skýringin er sú, að bandarísk stjórnvöld hafa greitt götu þróunar á vinnslu setlagagass, stundum nefnt leirsteinsgas, en stjórnendur ESB hafa lagt stein í götu slíkrar þróunar og staðið að langtíma samningum við Gazprom, rússneska gasrisann, um afhendingu á miklu magni af gasi til Evrópu.  Afleiðingin er sú, að gasverð í Evrópu er þrisvar sinnum hærra en í BNA.  Þarna kostar forræðishyggjan og stjórnlyndið fyrirtæki og almenning stórfé og veldur aukinni mengun, eins og fram kemur síðar í greininni.  Markaðshyggjan er jafnan almenningi hagfelldari, því að hún framkallar lægra vöruverð vegna meiri framleiðni og vegna meiri hagvaxtar en forræðishyggjan getur framkallað.  Það er tækniþróunin, sem hefur gert kleift að bæta kjör almennings.  Verðmæti hafa aldrei orðið til við samningaborð verkalýðsforkólfa og vinnuveitenda.   

Það er ekki nóg með þetta, heldur hafa þýzk stjórnvöld þröngvað "Energiwende" upp á Þjóðverja, en orðið má þýða sem orkuviðsnúningur.  Þjóðverjar nota oft "die Wende" um endursameiningu Þýzkalands 1989.  Með orkuviðsnúningi er endurnýjanlegum orkugjöfum, t.d. sólarrafhlöðum, vindmyllum og lífmassa, gert hátt undir höfði og veittur forgangur að þýzka stofnkerfinu á kostnað eldsneytisorkugjafa og kjarnorkuvera.  Segja má, að hagkvæmninni sé snúið á haus, enda kemur þetta heldur betur við buddu notenda. 

Eigendur þessara orkugjafa senda þá orku inn á stofnkerfið á daginn, þegar eftirspurn er mest og orkuverðið hæst.  Þetta grefur undan fjárhag orkufyrirtækjanna, því að í raun og veru ýta endurnýjanlegir orkugjafar með þessum hætti gasinu út af markaðinum, svo að Moody´s telur blikur á lofti á fjárhagshimni orkufyrirtækjanna. Viðsnúningur þessi virkar því nokkuð viðundurslega á hagkerfið, eins og vanreifuð inngrip stjórnvalda í markaðinn ætíð gera.    

Til að bjarga sér frá taprekstri reyna orkufyrirtækin nú að framleiða eins mikið og þau geta með kolum og draga úr framleiðslu með gasi, af því að þau tapa 11,70 evrum/MWh á raforkuvinnslu með gasi, en hagnast um 14,22 evrur/MWh með raforkuvinnslu úr kolum.  Kolaverð á heimsmarkaði hefur lækkað vegna minni eftirspurnar frá Kína að undanförnu og vegna um 10 % minni kolanotkunar í BNA árið 2012 en árið 2011, þar sem Bandaríkjamenn eru að skipta yfir í gasið. Frá ágúst 2011 til ágúst 2012 féll heimsmarkaðsverð kola um þriðjung, þ.e. niður fyrir 100 USD/t.  Þetta verð er fýsilegt fyrir evrópsk kolakynt orkuver, en sumarið 2012 var gasverð í Evrópu hins vegar þrefalt á við í BNA, og þó að Gazprom hafi dregizt á 10 % verðlækkun 2013, mun hún litlu sem engu breyta um þessa evrópsku óheillaþróun í orku- og loftslagsmálum.  

Kolakynt raforkuver menga mest og mynda mest af gróðurhúsalofttegundum per MWh (megawattstund raforku), en þau sjá samt íbúum jarðar fyrir 40 % af allri framleiddri raforku, og kolakynt orkuver standa að baki 70 % þeirrar tvöföldunar, sem átt hefur sér stað á heimsvísu á áratuginum 2001-2010.  Árið 2018 verður hlutur kola í heildarorkunotkun heimsins jafnmikill og olíu með sama áframhaldi, eða um 4,6 milljarðar tonna olíujafngilda, en árið 2001 voru kolin aðeins hálfdrættingur á við olíuna.

Meginskýringin er aukning á orkuvinnslu Kínverja, en árið 2011 fóru Kínverjar fram úr Bandaríkjamönnum sem mesta raforkuvinnsluríki heims.  Samkvæmt International Energy Agency nam notkun Kínverja á kolum árið 2001 um 600 milljón tonnum af olíujafngildum (25 exajoule).  Árið 2011 hafði kolanotkun Kínverja þrefaldazt.  Svipaða sögu er að segja af Indverjum.  Árið 2010 framleiddu þeir 650 TWh (terawattstundir) af raforku, Íslendingar um 17 TWh.  Til þess notuðu Indverjar 311 milljón tonn af olíujafngildum af kolum, og kolanotkun vex þar um 6 % á ári.  Í Kína og á Indlandi hafa yfirvöld ekki enn innleitt neina hvata til að draga úr kolanotkun, og lífinu á jörðunni er tekin að stafa ógn af þessu, því að hlýnun jarðar er afleiðingin.  Þarna er umtalsverð umhverfisvá á ferðinni.

Gas er mun umhverfisvænni orkulind til raforkuvinnslu en kol, bæði hvað varðar mengandi rykagnir og gróðurhúsalofttegundir.  Í BNA hafa verið settir inn alls kyns hvatar til að draga úr mengun, og þess vegna hefur framboð á eldsneytisgasi stóraukizt.  Árið 2015 taka t.d. gildi strangar kröfur um lágmörkun á losun kvikasilfurs, brennisteinstvíildis og níturoxíða.  Þá hefur Environmental Protection Agency í BNA í raun bannað ný kolakynt orkuver eftir 2013, nema koltvíildinu sé safnað saman og dælt niður í jörðina.  Kostnaður við slík orkuver er tvöfaldur per MW á við kostnað gaskyntra orkuvera.  Allt þýðir þetta, að á tímabilinu 2012-2017 gæti kolakyntum orkuverum að aflgetu 50 GW (gígawött, tífalt virkjanlegt afl á Íslandi) eða 1/6 allra kolakyntra vera í BNA hafa verið lokað.    

Aukið framboð hefur valdið verðlækkun á gasi.  Í apríl 2012 féll verðið undir 7 USD/MWh varmaorku.  Nú í ársbyrjun 2013 var það um 12 USD/MWh, sem þýðir raforkukostnaðarverð um 30 USD/MWh, sem er lægra verð en til íslenzkrar stóriðju.  Þess vegna hafa orkufyrirtækin tekið upp gasbrennslu í stað kolabrennslu í orkuverum, og þess vegna er verðlagsstefna Landsvirkjunar á raforku úrelt, enda hefur engum samningi í anda hennar verið landað.   

Þegar mest var, 1988, sáu kol BNA fyrir 60 % af raforku þeirra.  Árið 2010 nam þessi hlutdeild kola 42 %, en um mitt ár 2012 hafði hlutdeild kola lækkað niður í þriðjung og var þá svipuð og hlutdeild gass.  Þróunin er önnur og verri í Evrópu.  Um þessar mundir eykst orka, sem framleidd er með kolum í sumum Evrópulöndum, um 50 % á ári.

Á Íslandi ber einn raforkuframleiðandi, Landsvirkjun, höfuð og herðar yfir aðra slíka.  Fyrirtækið er 100 % í eigu ríkissjóðs.  Þar sem fyrirtækið framleiðir sjálfbæra raforku og getur fengið aðgang að miklum umhverfisvænum orkulindum, er framtíð Landsvirkjunar björt, enda gæti fyrirtækið orðið um ISK 500 milljarða virði innan 5 ára. Í ljósi þess, sem að framan er skrifað um loftslagsvanda og orkuiðnað heimsins, er ljóst, að fyrirtækið á og rekur gullmyllur, þar sem eru vatnsorkuver þess. 

Fyrirtækið er mjög skuldugt, og nema skuldir þess um þessar mundir um 350 milljörðum kr, en framlegðin er slík, að það getur greitt upp allar núverandi skuldir sínar á innan við 10 árum.  Allt tal um lága arðsemi fyrirtækisins er reist á skilningsleysi á löngum afskriftatíma tekjuskapandi eigna Landsvirkjunar. Þetta mun koma í ljós, ef farið verður inn á braut markaðsvæðingar Landsvirkjunar, en það er orðið nauðsynlegt, m.a. af þjóðhagslegum og samkeppnilegum ástæðum, eins og rakið verður seinna í grein á þessu vefsetri.    

Ýmislegt bendir til, að um þessar mundir sé stjórnun og stefnumörkun fyrirtækisins ábótavant.  Nefna má verðlagningarstefnu raforku, sem er eins og út úr kú, sbr hér að ofan, enda hafa engir umtalsverðir samningar verið gerðir frá 2010 og hugsanlegir viðskiptavinir hrakizt á brott til BNA.  Það þarf að verða stefnubreyting á mörgum sviðum hjá Landsvirkjun, og róttæk breyting á stefnu og starfsháttum verður varla án einkavæðingar fyrirtækisins.  Það verður þó að stíga varlega til jarðar til að hagur almennings, núverandi eigenda, verði sem bezt tryggður og andvirði sölunnar nýtist sem bezt.  Hluti þess þarf að verða í gjaldeyri, og afsláttarleið Seðlabankans kemur ekki til greina.    

Tvö andvana fædd gæluverkefni hafa orðið fyrirferðarmikil í stefnumörkun Landsvirkjunar, þ.e. vindmyllutilraunir með 2x900 kW myllur við Búrfell og sæstrengsraunir, þ.e. hagkvæmniathugun á hönnun, gerð og lagningu allt að 1000 MW DC sæstrengs á milli Íslands og Skotlands, sem líklega kostar um ISK 500 milljarða eða jafngildi markaðsvirðis Landsvirkjunar í náinni framtíð.

Þessi undarlegu mál gefa furðulega forgangsröðun til kynna og þar með er líklegt, að hagsmuna eigendanna, almennings í landinu, sé ekki gætt sem skyldi.  Af þessum ástæðum má búast við, að ríkissjóður geti grætt á því í bráð og lengd að einkavæða Landsvirkjun.  Ef ríkið selur í vel ígrunduðum áföngum á nokkurra ára bili t.d. 65 % af Landsvirkjun, mundu koma inn um ISK 325  milljarðar kr, sem gætu farið til að grynnka á skuldum ríkissjóðs og minnka ISK 90 milljarða árlega vaxtabyrði um ISK 30 milljarða.

Ef ríkið selur íslenzkum lífeyrissjóðum 35 % af Landsvirkjun fyrir um ISK 175 milljarða kr og setur 30 % á almennan markað, má búast við, að rekstur Landsvirkjunar batni og árlegar tekjur ríkissjóðs á formi arðgreiðslna og tekjuskatts hækki verulega umfram núverandi tekjur ríkissjóðs af fyrirtækinu.  Landsmenn munu þá ekki þurfa að deila um fjárfestingar og stefnumörkun Landsvirkjunar né heldur raforkuverðið, sem hún semur um, enda verður þá tryggt, að starfsemi fyrirtækisins verður alfarið á viðskiptalegum grunni.  Þessi einkavæðing hefði þannig aukna arðsemi fyrirtækisins og auknar tekjur ríkisins af því að leiðarljósi, en það verður samtímis að setja því almennar skorður um verðlagningu á orku til almenningsveitna.

Slík markaðsvæðing hefði góð áhrif á hagkerfið og þar með hag almennings.  Vextir gætu lækkað, því að fjárþörf ríkissjóðs mundi minnka og áreiðanleikamat á ríkissjóði mundi hækka.  Minni hlutdeild ríkissjóðs í hagkerfinu mun ýta undir hagvöxt og framleiðniaukningu, en hvort tveggja er lykilatriði við úrlausn á vanda mjög skuldugra heimila (nota meira en 40 % ráðstöfunartekna til íbúðarhúsnæðis), sem eru um 11 % heimila í landinu, og við úrlausn á vanda ríkissjóðs.  

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur varla haft uppi nokkra tilburði til að leysa vanda ríkissjóðs.  Hún hefur stungið hausnum í sandinn.  Skuldir ríkisins nema nú 1509 milljörðum kr eða 86 % af vergri landsframleiðslu, VLF.  Með mjög bjartsýnni spá um hagvöxt, 4,0 % á ári, tæki 10 ár að koma skuldum ríkissjóðs undir 60 % viðmið Maastrichtsamningsins.  Fyrr mun ESB ekki leyfa okkur að taka upp evru, eða halda menn, að Berlaymont sé áframt ginnkeypt fyrir grísku bókhaldi.  Er ekki heill stjórnmálaflokkur að berjast fyrir inngöngu í ESB strax til að unnt verði að taka upp evru sem fyrst ?  Allt er það tóm endaleysa. 

Það er ekki hægt að ljúka pistli að þessu sinni án þess að minnast á aðdáunarverðan, orkukræfan gjörning, sem var för ungrar, íslenzkrar konu, Vilborgar Örnu Gissurardóttur, á Suðurpólinn, sem lauk í janúar 2013. Þetta er ekki hægt án þess að búa yfir og rækta með sér ýmsa eftirsóknarverða eiginleika, sem æska Íslands getur og ætti að hafa að leiðarljósi.  Sem dæmi má taka skipulagshæfni, áræðni og þrautseigju.  Hún sýndi það líka í Kastljósi í gærkvöld, að hún hefur góða frásagnargáfu og er vel máli farin.     

  Vetur á Íslandi

 

  

 

 

 


Dómur markar þáttaskil

Þann 28. janúar 2013 kvað EFTA-dómstóllinn í Lúxemborg upp tímamótadóm.  Dómurinn virðist vera lögspekilegt meistaraverk og ber með sér, að dómararnir hafa brotið málið til mergjar.  Ekki er víst, að málflutningur varnaraðila hafi skipt sköpum, því að rökstuðningur í dómsorði er frumlegur, og málstaður Íslands var góður.  Það er þess vegna tímaskekkja hjá Steingrími Jóhanni nú eftir dómsuppkvaðningu að halda því fram, að óvissa hafi verið mikil um það, hvort hagstæðara væri að semja eða leggja málið í dóm.  Það er einfaldlega komið í ljós nú, að stuðningsmenn samninga höfðu rangt fyrir sér, en stuðningsmenn dómstólaleiðar höfðu rétt fyrir sér.  Steingrímur talar enn, eins og enginn dómur hafi verið upp kveðinn.   

Dómararnir virðast mjög sjálfstæðir í hugsun og ekki vera undir áhrifum frá hagsmunaaðilum.  Samt voru gríðarlegir hagsmunir í húfi, sérstaklega fyrir minni aðilann, en þetta var í raun viðureign Davíðs og Golíats, endurtekin, þar sem Ísland átti ekki einvörðungu í höggi við ESA, eftirlitsstofnun EFTA, heldur allt Evrópusambandið, ESB, sem gerðist meðflutningsaðili málsins.  Þetta var allan tímann barátta upp á líf og dauða við ESB.  Þess vegna eru svik hér innanlands grafalvarlegt mál, föðurlandssvik. 

Hvers vegna lagði ESB svona ríka áherzlu á þetta mál ?  Það var vegna þess, að búrókratarnir í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB í Brüssel, óttuðust áhlaup á bankana og hrun bankakerfis Evrópu, ef ríkissjóðir í öllum löndum EES stilltu sér ekki upp sem bakhjörlum og ábyrgðust skuldir bankanna.  ESB þvingaði Íra til að gera þetta, enda eru Írar ekki fjarri greiðsluþroti ríkissjóðs.  Nú hefur ESB stofnað til bankasambands, þannig að eitt ríki stendur ekki lengur eitt uppi með hrunið bankakerfi.

ESB beitti öllum ráðum, fortölum, fjárhagsþvingunum með áhrifum sínum innan AGS-Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, og áhrifamætti á meðal Norðurlandanna og víðar, nema Færeyja, og hótunum gagnvart íslenzkum stjórnvöldum um að girða fyrir aðild Íslands að ESB.  Vinstri stjórnin brást Íslendingum, af því að hún lagði ofurkapp á að styggja ekki valdsmenn í Brüssel vegna aðildarumsóknarinnar.

Það var til að þóknast ESB, sem vinstri stjórnin ákvað að semja við Breta og Hollendinga, hvað sem það kostaði.  Til marks um það var, að ráðherrar virðast hafa áritað Svavarssamninginn ólesinn og keyra átti hann gegnum þingið umræðulítið.  Það stóðu engin eðlileg rök til að samþykkja þá afarkosti, sem þá var samið um við Breta og Hollendinga.  Það voru stórhættulegir samningar með vaxtabyrði upp á um 200 milljarða kr og afborganir, sem gátu verið á bilinu 600 - 1000 milljarðar kr, ef heimtur í þrotabúið yrðu slæmar.  Ekkert mark var tekið á rökföstum grasrótarhreyfingum og vel ígrunduðum lögfræðigreinargerðum um, að rétturinn væri okkar megin, og þess vegna ætti ekki að ganga að afarsamningum.  Jafnvel eftir fyrri þjóðaratkvæðagreiðsluna var enn haldið út á foraðið og reynt að semja.  Allt var þetta til að blíðka framkvæmdastjórn ESB. 

Fyrrverandi forsætisráðherra var leiddur fyrir Landsdóm, jafnvel þó að málatilbúnaðurinn væri til þess fallinn að skaða málstað Íslands gagnvart viðsemjendum og dómstólum.  Málafylgja á erlendri grundu var nánast engin til að halda uppi íslenzkum málstað, en forseti lýðveldisins bjargaði því, sem bjargað varð.

Það varð einfaldlega allt undan að láta vegna þess, að á bak við var ESB froðufellandi af ótta við bankahrun, ef smáríkið Ísland mundi brjótast undan oki þess um ríkisábyrgðir á innistæðum einkabanka.  Þetta framferði ríkisstjórnarinnar og einkum forsætisráðherrans, fjármálaráðherrans og utanríkisráðherrans, er slíkur undirlægjuháttur og þjónkun við erlent vald, ofurvald, að hvorki er hægt að láta átölulaust né refsingarlaust.  Það er lágmark, að stjórnarandstaðan leggi fram vantraust á Steingrím Jóhann Sigfússon og helzt á ríkisstjórnina alla.  

Í ljósi þess, að ríkisstjórnin hafði framan af uppi mjög slælegar varnir fyrir Íslands hönd, hvað þá að henni hugkvæmdist gagnsókn, er óhjákvæmilegt að rannsaka gjörðir og vanrækslu stjórnvalda.  Á grundvelli slíkrar rannsóknar kann að verða tilefni til málsóknar fyrir landráð.  

 

 

 

 


Að breyta vatni í vín

Fyrirsögnin á uppruna að rekja til Biblíunnar.  Hér eru þó trúmál ekki viðfangsefnið, heldur auðlindamál.  Athygli landsmanna hefur enn verið vakin á gríðarlegum auðlindum landsins.  Þær eru ekki gríðarlegar á heimsvísu, heldur á hvern íbúa landsins.

Auðvitað er aðalatriðið við nýtinguna, að innviðir landsins styrkist við auðlindanýtinguna.  Að fyrirtæki hagnist, er þó ekki tabú í þessu sambandi. Þrennt er óhjákvæmilegt, ef nýting auðlinda Íslands og lögsögu þess á að heppnast íbúum landsins alls til velfarnaðar:

  1. Tækniþekking:  Hún sprettur ekki af sjálfri sér, heldur er áunnin yfir dágóðan tíma með erfiði.  Það er stórhættulegt og hefur gefizt illa að þykjast þekkja til tæknilegra ferla og látast geta þess vegna unnið við þá eða við að setja þá upp, bæta þá eða bæta við þá.  Það hefur hörmulegar afleiðingar, þegar í ljós kemur, að um einskæra yfirborðsmennsku, mannalæti og gaspur var að ræða.  Í mörgum tilvikum, þegar um auðlindanýtingu er að ræða, þarf að flytja þekkinguna inn, en svo er þó ekki alltaf.  Dæmi má taka af áliðnaðinum.  Árið 1967 var nánast engin þekking fyrir hendi á framleiðsluferlum áls hérlendis. Alusuisse, svissneskur álframleiðandi, reisti þá fyrstu álverksmiðjuna hérlendis.  Í stað þess að flytja inn starfsfólk fyrir verksmiðjuna, ISAL, voru Íslendingar sendir utan til þjálfunar í verksmiðjum Alusuisse.  Þetta urðu brautryðjendur álframleiðslu á Íslandi.  Arftakar þeirra tóku við góðu kefli og hafa, í samstarfi við erlenda starfsbræður og -systur, þróað verksmiðjuna til að verða í fremstu röð á mörgum sviðum.  Sprotafyrirtæki hafa þróazt í samstarfi við áliðnaðinn oftast með því að frumkvöðlar þeirra hafa aflað sér dýrmætrar reynslu innan vébanda áliðnaðarins, t.d. í Straumsvík.  Ef hins vegar tæknifólk hefur ætlað sér um of, þótzt í stakk búið að veita ráðgjöf, án þess að afla sér nauðsynlegrar þekkingar og reynslu af viðkomandi ferlum fyrst, hefur það endað með ósköpum. 
  2. Fjármagn: Á Íslandi námu fjárfestingar 14,9 % af vergri landsframleiðslu árið 2012.  Þetta er mjög lágt, og umsóknin um aðildina að Evrópusambandinu, ESB, hefur þar engu breytt.  Það var rétt eitt innantóma glamrið úr aðildarsinnum.  Þetta er hættulega lágt fyrir íslenzkan þjóðarbúskap, enda svipað og í Grikklandi, þar sem hagkerfið er við dauðans dyr.  Skýringanna er ekki einvörðungu að leita í gjaldeyrishöftunum, heldur ekki síður í öfugsnúnum stjórnvöldum, sem með fjárfestingafjandsamlegri stefnu sinni, miklum skattahækkunum og viðundurslegum aðferðum, hafa fælt frjárfesta frá, svo að ekki sé nú minnzt á gáleysislegt tal á borð við "you ain´t seen nothing yet" fjármálaráðherrans, þáverandi. Bein afleiðing lítillar fjármunamyndunar í landinu er lágur hagvöxtur, en hann hefur aðeins verið um 2,5 % árin 2011-2012.  Þessi litli hagvöxtur er einn versti áfellisdómurinn yfir vinstri stjórninni. Þetta er ótrúlega lélegur árangur í hagstjórn eftir stórfellt samdráttarskeið.  Með vinstri flokkana við völd er engin von um meiri fjárfestingar og hærri hagvöxt, hversu lengi sem þeir þæfa Berlaymont karla og kerlingar.  Stöðnun hagkerfisins er bein afleiðing stjórnarstefnunnar.  Þar má nefna skattpíningu á formi nýrra skatta og skattahækkana, sem nemur 90 milljörðum kr, bæði á einstaklinga og fyrirtæki.  Þar má líka nefna sífellt meiri skriffinnsku ("red tape"), eyðublaðaútfyllingar og gagnslítið eftirlitskerfi opinberra aðila, sem ESB (Evrópusambandið) heimtar í mörgum tilvikum og stjórnarflokkunum þykir sjálfsagt að skella á fyrirtækin, þó að þetta dragi augljóslega úr atvinnusköpun.  Tryggvi Þór Herbertsson ritaði um þetta góða grein í Morgunblaðið 12. janúar 2013, "Rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja".  Hann bendir þar á, að lítil og meðalstór fyrirtæki, líklega frá 1-100 manns, veita 90 % mannaflans vinnu á Íslandi.  Þessi fyrirtæki eiga erfitt uppdráttar í reglugerða frumskóginum, sem forræðishyggjan er búin að koma á.  Þetta er farið að virka hamlandi á fjárfestingar þessara fyrirtækja og þar með atvinnusköpun.  Þess vegna verður einn þáttur í að auka fjárfestingar á Íslandi upp í 20 % - 30 % af VLF, eins og brýna nauðsyn ber til, svo að þjóðarkakan nái að stækka ört, að grisja þetta illgresi, sem engu skilar öðru en skjalaflutningi á milli búrókrata.  Tryggvi skrifar: "Ísland hefur undirgengizt miklar kvaðir með samningum um hið Evrópska efnahagssvæði.  Eftirlitsþátturinn er umfangsmikill og margbrotinn.  Reglugerðir eru flóknar og dýrar í framkvæmd.  Tafsamt og dýrt er að afla opinberra leyfa og uppfylla skilyrði þeirra.  Svona mætti lengi telja.  Þá hafa Íslendingar sjálfir leitt í lög og sett í reglugerðir kröfur, sem enn þyngja rekstrarumhverfið.  Hvaða vit er t.d. í því, að það þurfi 13 leyfi og mikinn eftirlitskostnað, ef einyrki vill fara út í skelrækt, eða af hverju þarf fullkomna slátrunaraðstöðu og ómælt eftirlit, ef bóndi vill slátra búpeningi sínum heima á býli ?  Það hlýtur að vera hægt að fara einhvern milliveg frá því, sem nú er", skrifar TÞH.  Það er auðvitað hægt að skera forræðishyggjuna niður við trog, og það verður að gera það til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast eðlilega.  Það verður líka að stórlækka tryggingargjald, sem er launatengt gjald, sem hamlar fjárfestingum og nýjum störfum.  Lækkun úr um 8 % niður í 5 % mundi skila sér í minni þörf á atvinnuleysisbótum og aukinni veltu í þjóðfélaginu.  Skattaívilnanir vegna hlutafjárkaupa koma til greina, skrifar Tryggvi, og skal taka undir það.  Gjörbreyting verður að eiga sér stað á framkomu stjórnvalda í garð atvinnulífsins til að örva fjárfestingar, og gjörbreytingu verður að gera á auðlindastefnunni.  Núverandi stjórnvöld virðast líta á það sem sitt helgasta hlutverk að gera auðlindanýtingu tortryggilega og eins óaðlaðandi og óhagvæma fyrir þann, sem vill hætta fé sínu í slíka starfsemi, og mest má vera.  Þessi gróðaótti er sjúklegur.  Ávinningsvonin knýr atvinnuþróunina, og gróðinn safnast sjaldan undir kodda. Ofan af þessari afturhaldshugmyndafræði verður að vinda.  Stjórnvöld hérlendis hafa gjörsamlega farið offari gagnvart auðlindanýtendum.  Svo hart er gengið að sjávarútveginum, að fyrirtæki þar eru tekin að leggja upp laupana og önnur fækka fólki, skreppa saman, geta lítið fjárfest og missa slagkraft á erlendum mörkuðum.  Orkuverð til orkukræfs iðnaðar er við hámark þess, sem gerist á meðal slíkra fyrirtækja, sem standa þurfa óstudd á markaðinum, þó að hann taki dýfu, og samt bæta stjórnvöld á Íslandi gráu ofan á svart með því að skella óvænt á tímabundnum rafskatti og bíta svo hausinn af skömminni með því að framlengja hann viðræðulaust.  Þessar aðfarir hafa rýrt mjög traust erlendra fjárfesta til íslenzkra stjórnvalda, og glatað traust tekur alltaf langan tíma að endurheimta, ef það er þá hægt.  Íslendingar eru að tapa að minnsta kosti 100 milljörðum af árlegri landsframleiðslu vegna fjandsamlegra og afturhaldssinnaðra stjórnvalda.  Um þetta segir Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins, í viðtali í Morgunblaðinu 12. janúar 2013 við Hörð Ægisson: "Það er mjög grátlegt, og í raun algjör óþarfi, að við skulum ekki hafa nýtt allan þennan tíma til að leggja grunn að því að efla útflutningsgetu þjóðarbúsins."   Síðasta dæmið um afturhaldssinnuð sjónarmið stjórnvalda er afstaðan til olíuvinnslu á Drekasvæðinu.  Þar hefur íslenzkum stjórnvöldum tekizt að unga út flóknara og illvígara skattkerfi en Norðmönnum, og er þá langt til jafnað, svo að afleiðingin verður sú, að borað verður Noregsmegin og dælt upp úr brunnum Íslendinga.  Ekkert öflugt olíufélag léði máls á þátttöku vegna ofurskattlagningar íslenzku ríkisstjórnarinnar á olíuvinnsluna og hálfvelgju ríkisstjórnarinnar.  Hvers konar endemis barnaskapur er það að hálfu þessarar kjánalegu ríkisstjórnar að leggja öll íslenzku olíuleitareggin í körfu Norðmanna, sem eru nágrannar á Drekasvæðinu og ætla augljóslega að ráða þar framvindunni beggja vegna markalínunnar ?  Við svo búið má ekki standa, ef mönnum er alvara í, að þjóðin auðgist á þessari auðlind.   Með þessu áframhaldi verða allir fundir Noregsmegin.  Vinstri kálfarnir halda, að til þess að ná hámarksarði auðlindarinnar, þurfi að keyra skattheimtuna í botn.  Það er fjarri lagi, eins og kennt er á undirstöðunámskeiðum auðlindanýtingar.  Hér ráða blindingjar, sem virðast hafa dottið ofan úr tunglinu, eru ofan dottnir, og aldrei lært neitt af viti.  Skattheimtan verður að vera lægri en sú norska til að fá alvöru samstarfsaðila, sem skákað geta "Ola Nordmann og Kari".  Á rannsóknarstiginu geta Norðlendingar vafalaust aflað verðmætra þjónustuverkefna.  Það er svo eftir öðru, að Vinstri hreyfingin grænt framboð virðist vera á móti rannsóknum þar norður frá, þó að formaður þeirra hafi látið undan öðrum þrýstingi um úthlutun sérleyfa.  Hláleg eru rökin um, að Íslendingar eigi að láta lindir sínar liggja ónýttar.  Það mun engu breyta fyrir lofthjúp jarðar.  Ofstækismenn, sem blásið hafa á rök stóriðjusinna um minni mengun á Íslandi við álframleiðslu en annars staðar, ættu að hafa hægt um sig í þessum efnum.
  3. Stjórnmálalegur vilji: Hér mun allt hjakka í sama vonleysisfarinu og verið hefur, nema skipt verði um stjórnvöld og stjórnarstefnu.  Ríkisstjórnin þarf að fara út á fjármálamarkaðinn og kynna rækilega breytingu á stjórnarstefnu og stjórnarháttum.  Orðum verða að fylgja athafnir á formi skattalækkana, sem gera landið aðlaðandi fyrir fjárfesta.  Þannig munu skatttekjur ríkisins vaxa vegna öflugri skattstofns.  Þetta skilja vinstri menn ekki.  Annars væru þeir ekki vinstri menn.  Við þurfum að verða á pari við Írska lýðveldið, sem er furðu borubratt þrátt fyrir ægilegar klyfjar, sem Evrópusambandið neyddi ríkissjóð þeirra til að taka á sig til að bjarga einkabönkum á Írlandi frá gjaldþroti.  Ástæða þess, að Írar eru furðu rófusperrtir, er, að erlendir aðilar hafa fjárfest í samkeppniiðnaði á Írlandi, sem boðið hefur upp á hagkvæmt skattaumhverfi.  Vitneskjan ein um gas- og olíulindir í lögsögu þjóða hefur jákvæð áhrif á lánadrottna.  Dæmi um þetta eru Kýpverjar, en þeir eru í raun gjaldþrota núna með sína evru og aðild að ESB.  Kýpur fór nýlega fram á lánveitingu að upphæð 17,5 milljarðar EUR, sem jafngildir hvorki meiru né minnu en einni landsframleiðslu Kýpverja.  Hér yrði þess vegna um risalánveitingu að ræða í krafti þess, að talið er, að árið 2019 muni Kýpverjar geta séð ESB fyrir um 10 % af gasþörf þess.  Á íslenzka hluta Drekasvæðisins eru talin vera vinnanleg olía og gas að jafngildi 10 milljörðum tunna.  Andvirði þessarar auðlindar má meta á 1000 milljarða evra, en hafa ber í huga, að stinninginn kostar að ná þessari auðlind upp og koma henni í hendur viðskiptavinarins.                

Gaslindir í Kanada-sept-2010Olíuborun á ísi


Forgangsröðun forherðingarinnar

Forgangsröðun stjórnvalda hverju sinni er lykilatriði fyrir hagsmuni borgaranna.  Forgangsröðun núverandi stjórnvalda er glórulaus og þess vegna engan veginn í þágu hagsmuna almennings í þessu landi, enda er kjaraþróun í landinu eftir því.  Hagur fólks og fyrirtækja fer í mörgum tilvikum versnandi og með sama áframhaldi horfir til landauðnar vegna spekileka.  Ríkisstjórnin er sökudólgurinn.  Hún þykist vera í "rústabjörgun", en hvar sér þess stað ?  Hún grefur sína eigin gröf, og rekunum verður kastað í lok apríl 2013.  Farið hefur fé betra.

Við Íslendingar megum ekki láta neitt tækifæri fram hjá okkur fara til að hamla gegn því falli á útflutningstekjum okkar, sem offramboð á þorski vegna aukinna veiða Rússa og Norðmanna í Hvítahafi er að valda.  Jafnaðarmenn eru að sigla hér öllu í strand, eins og þeir hafa gert eða eru að gera víðast hvar annars staðar.  Nægir að nefna Svíþjóð í því sambandi, sem komin var að fótum fram, þegar borgaraflokkarnir tóku við og sneru þróuninni við á um 7 árum.  Ef Noregur hefði ekki olíuna og gasið, væri löngu búið að kasta jafnaðarmönnum út úr stjórnarráðinu í Ósló.  Jafnaðarmenn hafa engin svör við vandamálum nútímans.  Þeir eru fastir í kennisetningum forræðishyggju og ríkisbúskapar.  Jafnaðarmenn á Íslandi eru handgengnir ESB og eru búnir að sefja sig upp í, að þaðan muni hjálpræðið koma Íslendingum til handa.  Svo hefur enn ekki orðið og mun auðvitað aldrei verða.  Kommissarar hvorki mega né vilja gefa öðrum fordæmi og bjóða Íslendingum sérkjör. Ef vinstri græni ráðherra atvinnuvega-og nýsköpunar mannar sig ekki upp og stendur í lappirnar gagnvart ofríki ESB og Noregs, þá gefur hann ofbeldisöflum "blod på tanden" og leggur lóð á vogarskálar þeirra, sem vilja hafa af Íslendingum rétt, sem þeir börðust mjög fyrir að fá á sínum tíma til nýtingar auðlinda hafsins, sem hefur orðið undirstaða lífskjarasóknar Íslendinga.   

Kunn er aðför stjórnvalda við Lækjartorg að atvinnuvegunum og sjálfsbjargarviðleitni fyrirtækja og einstaklinga.  Í tilviki sjávarútvegsins bætist nú við verðfall afurða upp á 20 % - 40 %, sem á eftir að valda stórerfiðleikum í íslenzka hagkerfinu, sem er mjög háð gjaldeyristekjum frá sjávarútveginum. Þetta á ekki sízt við um ríkisbúskapinn, t.d. heilbrigðiskerfið, sem nú er komið að fótum fram.  Okkur er það lífsnauðsyn að auka þjóðartekjur til að hindra hrun innviða þjóðfélagsins.

 Velferðarráðherrann kann ekki að skammast sín.  Hann hefur sýnt af sér jafnaðarlegan heybrókarhátt með því að skýla sér stöðugt á bak við forstöðumenn stofnana og látið þá bera hita og þunga dagsins af niðurskurði á starfsemi.  Ekki er það stórmannlegt.  Lengst hefur þetta framferði gengið á Landsspítalanum.  Þar bauð hann forstjóra Landsspítalans ríflega kauphækkun fyrir að bregða stöðugt fyrir sig skildi og vinna ötullega að alls konar hagræðingaraðgerðum til að mæta niðurskurði fjárheimilda Alþingis.  Nú er komið að leiðarlokum.  Jafnaðarmennirnir eru búnir að keyra Landsspítalann og allt heilbrigðiskerfið í strand.  Þeir hafa engar lausnir, sem duga, frekar en venjulega, og starfsfólkið hefur sagt hingað og ekki lengra.  Ef fimmtungur hjúkrunarfræðinga gengur út af Landsspítalanum, þá deyr hann.  Við svo búið má ekki standa.

Jafnaðarmenn eru ófærir um að leita nýrra lausna, af því að þeir eru helteknir af forræðishyggju og miðstýringaráráttu.  Kostnaðarvandinn verður aldrei leystur á kostnað sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga og lækna.  Hann verður leystur með valddreifingu og virkjun einkaframtaks, þ.e. með kaupum ríkisins á þjónustu frá einkafyrirtækjum, sjálfseignarstofnunum og sveitarfélögum, svo að eitthvað sé nefnt.  Reynslan, t.d. frá Svíþjóð, sýnir, að við þetta lækkar kostnaður ríkissjóðs, þjónustan batnar, biðlistar styttast og laun í sjúkrageiranum hækka. Síðast af öllu megum við við atgervisflótta úr sjúkrageiranum. 

  

Þann 18. janúar 2013 bárust þau ótíðindi frá Brüssel, að ESB og hin norska vinstri stjórn jafnaðarmannsins Stoltenbergs, sem hlýtur að verða kosin burt í Stórþingskosningunum í haust, eins og íslenzka vinstri stjórnin í vor vegna ranghugmynda og getuleysis, hefðu ákveðið makrílkvóta handa sér alls upp á 90 % af ráðlögðum kvóta fiskifræðinga þeirra.  Þetta er stríðshanzki ESB í andlit Íslendinga, því að þá bíða okkar 10 %, eða innan við þriðjungur þess, sem Jón, tvírekinn, Bjarnason, úthlutaði okkur árið 2012, þ.e. 140 kt, en þá munu veiðarnar hafa numið um 150 kt.  Þessum 10 % eða 54 kt þyrftum við að deila með Færeyingum, Grænlendingum og Rússum, þannig að við gætum orðið að sætta okkur við um 10 % af veiðum undanfarinna ára.

  Nú sjáum við í hnotskurn, hvílíkum hreðjatökum gömlu nýlenduveldin í Evrópu mundu taka okkur, ef við gengjum þeim á hönd.  Þá yrðum við gjörsamlega varnarlaus, en nú getum við í krafti fullveldis okkar teflt fram rétti okkar sem strandríkis á grundvelli Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Við eigum rétt á að ákvarða okkur aflahlutdeild á grundvelli eigin vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar, þannig að sjálfbærni veiðanna sé tryggð. 

Árið 2012 er talið, að 1,0 Mt (milljón tonn) af makríl hafi komið inn í íslenzku lögsöguna og þyngzt þar um 0,5 Mt og orðið að 1,5 Mt stofni.  Til þess þurfti hann að éta 3,0 Mt af æti, sem þá fór ekki í viðgang annarra nytjastofna lögsögunnar, s.s. síldar og loðnu. Svo kölluð veiðiregla um sjálfbærar veiðar er um stuðul í kringum 25 % af stofnstærð.  Ef við gefum okkur, að fiskifræðingar ákvarði hann 22 % af makrílstofni í íslenzkri lögsögu, þá gæti kvóti Íslendinga orðið 330 kt árið 2013.  Ákvörðun um kvótann 200 kt á makríl 2013 til Íslendinga væri þess vegna bæði sjálfbær og sanngjörn.

Enn hefur ekki heyrzt múkk frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra Íslands út af þessum gerningi.  Öðru vísi mér áður brá, þegar sá þingmaður á í hlut, en hann hefur löngum verið sagður vera með kjaftinn fyrir neðan nefið og er einn mesti kjaftaskur þingsins.  Nú kemur í ljós, að maðurinn er múlbundinn.  Hver á múlinn ?  Hann heitir Stefan Füle.  Málið er grafalvarlegt.  Með hinni bráðfeigu umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) er búið að hleypa ESB hér inn á gafl.  ESB rekur hér áróðursskrifstofu og útdeilir fjármunum, Júdasarpeningum, til að ná hér töglum og högldum.  Það setur ístöðulitla íslenzka stjórnmálamenn og embættismenn upp að vegg.  Enn bendir ýmislegt til, að ríkisstjórnin heykist á að taka afstöðu með hagsmunum Íslendinga.  Við erum þó enn með þessi fyrirbrigði í vinnu, sem aldrei skyldi verið hafa.

Þetta er nákvæmlega sama hegðunin og í Icesave-málinu og skýrir undarlega hegðun í bankamálinu líka, þegar kröfuhöfum voru afhentir bankarnir á silfurfati.  Aldrei er forgangsraðað með hagsmuni íslenzkrar alþýðu að leiðarljósi.  Það er alltaf verið að þóknast kommissörum í Berlaymont.  Það eru vafalaust mikil undirmál á ferðinni, og það, sem fram fer á milli Össurar Skarphéðinssonar og embættismanna ESB, svo og Steingríms, hefur ekki komið upp á yfirborðið.  Þeir eru búnir að setja hausinn upp í gin þursans og þora nú ekki að ganga gegn Damanaki, hinni grísku, sem fer með sjávarútvegsmál, og fylgja fordæmi Tvírekins, sem setti 145 kt kvóta á grundvelli 1,1 Mt stofns þá.  Makrílstofninn í íslenzku lögsögunni fer vaxandi, fiskifræðingar ESB og Noregs minnka ráðlagða veiði samt um 15 %.  Þetta er vegna þess, að makríllinn er að fara af þeirra miðum. 

Þetta er prófmál á fullveldi landsins.  Við vitum, að ESB mun ráða því á Íslandi, sem því sýnist, ef við göngum í ESB, en innan EES höfum við fullan rétt á að fara að ráðleggingum íslenzkra fiskifræðinga um kvóta á makríl og öðrum tegundum innan íslenzkrar lögsögu. 

Afstaða og hegðun norsku vinstri stjórnarinnar er athygliverð.  Hún viðrar sig upp við ESB, enda er jafnaðarmannaflokkurinn þar, Arbeiderpartiet, fylgjandi inngöngu; þó ekki jafneindregið og Samfylkingin.  Þessi afstaða ríkisstjórnarinnar norsku er reist á hagsmunamati hennar fyrir hönd norsks sjávarútvegs og sýnir, að hún telur norskum sjávarútveggi standi ógn af þeim íslenzka.  Hér heima er vel þekkt, að aðalsamkeppniaðili íslenzks sjávarútvegs er sá norski.  Í þessu ljósi er viðbjóðslegt að horfa upp á samfellda aðför íslenzku ríkisstjórnarinnar allt þetta kjörtímabil að íslenzkum sjávarútvegi.  Íslenzka ríkisstjórnin með jafnaðarmenn í broddi fylkingar er Trójuhestur innan borgarmúra hagsmuna íslenzkrar alþýðu.       

  Össur S. og Stefan F. í janúar 2013        Makrílmið                                                                                


Ekkert er nýtt undir sólunni

Því er gjarna haldið fram, að Evrópusambandið (ESB) hafi verið reist á rústum Evrópu eftir heimsstyrjöldina síðari, þegar runnið hafi upp fyrir mönnum, að feta yrði nýjar slóðir í samskiptum Evrópuríkja.

Þeir, sem leggja trúnað á, að hér sé nýtt fyrirbæri á ferð, hafa sofið í mannkynssögutímunum sínum.  Maður var nefndur Karl og kallaður hinn mikli, Karlamagnus eða Charlemagne, af því að hann vann það afrek að sameina ríki Germana, að nokkru leyti Galla og Langbarða á Ítalíu.  Hann gerði þetta með fádæma grimmd og var kallaður afhausarinn fyrir vikið.  Karl mikli stjórnaði ríki sínu frá Aachen í Þýzkalandi, þegar hann lá ekki í hernaði.  Þetta ríki liðaðist í sundur strax eftir hans dag.

Um aldamótin 1500 kemur til skjalanna svissnesk höfðingjaætt, Habsborgarar, sem voru illa séðir í sínu heimalandi fyrir grimmd og fégræðgi.  Þeir náðu völdum í hinu heilaga rómverska ríki þýzkrar þjóðar með höfuðstöðvar í Vínarborg.  Þetta ríki náði yfir svipað landsvæði og ríki Karls, mikla, og var í raun og veru forveri ESB.  Það náði þó ekki að tryggja frið í Evrópu. 

Þrjátíu ára stríðið, 1618-1648, lék sumar Evrópuþjóðir mjög grátt og fækkaði fólki í heild um 30 %, en t.d. Prússum fækkaði um 80 %.  Eftir Þrjátíu ára stríðið var haldinn Reichstag, ríkjaráðstefna, í Regensburg, hinni fögru borg Bæjaralands, og þar komu menn sér saman um samskiptareglur, sem dugðu til að hindra aðra stórstyrjöld.  Habsborgararíkið í þessari mynd stóð til 1806, þegar Frakkar, undir forystu Napóleóns Bonaparte frá Korsíku, tóku völdin í Evrópu tiltölulega mótstöðulítið og héldu þeim til 1812, er þeir fóru feigðarför til Moskvu, og voru síðar gjörsigraðir við Waterloo árið 1814 af enska hernum, undir forystu Wellingtons, og prússneska hernum, undir forystu von Blüchers.

Habsborgararíkið sveiflaðist allan tímann á milli sterkrar miðstjórnar og valddreifingar til prinsa og baróna.  Sérstaklega beittu Prússar sér fyrir valddreifingu, þegar þeim tók að vaxa fiskur um hrygg eftir hildarleik Þrjátíu ára stríðsins.  Nú gæti hið sama verið að gerast með ESB.  Tímabil æ meiri sameiningar, "an ever closer union", gæti nú verið komið á leiðarenda.  Evran hefur misheppnazt, og Bretar o.fl. eru í uppreisn gegn Brüsselvaldinu.  Tíminn virðist vinna með Bretum, því að árangur miðstýringar er langt undir væntingum, og æ fleiri verður ljóst, að miðstýring stenzt valddreifingu ekki snúning.  Einfaldast er í því sambandi að bera saman árangur Þýzkalands og Frakklands á seinni árum.  Í Þýzkalandi ríkir valddreifing, en ekkert ríki Evrópu er svo miðstýrt sem Frakkland. 

Nú er í Evrópu hugað að stefnubreytingu fyrir ESB, því að allir, nema Samfylkingarforkólfar, sjá, að fara verður nýjar leiðir til að finna lífvænlegar lausnir.  Habsborgararíkið var nefnt sem forveri ESB.  Þar voru tvær myntir, ein í norðri og önnur í suðri.  Hér skal gera því skóna, að E-mark verði stofnað af lánadrottnum á núverandi evru-svæði, sem láti skuldunautana róa með evruna, sem geti þá fellt hana að vild.  Lánadrottnar evru-svæðisins eru Þýzkaland, Austurríki, Holland, Lúxemburg og Finnland.

Aðalmunurinn á samsetningu Habsborgararíkisins og ESB felst í því, að Stóra-Bretland, þrátt fyrir Brezka samveldið, er í ESB, en var alltaf utan við ríkjasambönd Evrópu áður fyrr.  Bretar munu af hagfræðilegum og sálfræðilegum ástæðum aldrei fleygja sterlingspundinu og taka upp evru.  Eftir því sem ESB nálgast meira að verða sambandsríki ("an ever closer union"), verða Bretar órólegri sem aðildarríki.  Meirihluti brezku þjóðarinnar vill segja skilið við ESB, og þess vegna eykst þrýstingur brezka þingsins á ríkisstjórnina að finna framtíðarlausn á sambandinu við ESB, sem ekki felur í sér aðild.

Bretar vilja láta sitja við fríverzlunarbandalag Evrópu, þ.e.a.s. þeir vilja vera á Innri markaðinum og njóta frelsanna fjögurra, en sleppa stjórnmálalegum sameiningartilraunum með viðeigandi fullveldisframsali til embættismanna, sem aldrei þurfa að standa brezkum kjósendum reikningsskap gjörða sinna.  Bretar eru eðlilega mjög viðkvæmir fyrir þeim lýðræðishalla, sem þeir verða fyrir með framsali fullveldis brezka þingsins til ókjörinna embættismanna og þings í Brüssel, þar sem sjónarmið Breta verða yfirleitt undir. Það getur vel verið, að Brüssel muni sjá ákveðin tækifæri fólgin í aukaaðildarfyrirkomulagi fyrir Breta og aðra líkt þenkjandi.  Brüssel gæti þá samið við Tyrki um slíka aukaaðild, en langdregið inngönguferli Tyrkja er orðinn stjórnmálalegur baggi á ESB.

Berlaymont vill staðla samninga sína við EES-ríkin og ríki með tvíhliða samninga við ESB. Berlaymont mundi sjá aukna skilvirkni og einföldun felast í sams konar aukaaðild allra þessara ríkja.  Það getur vel verið, að slík aukaaðild í hópi m.a. Noregs, Svisslands og Bretlands geti þjónað hagsmunum Íslands betur en núverandi EES-fyrirkomulag, ef aukaaðildin væri aðeins viðskiptalegs eðlis.  Slíkt mundi sennilega falla að núverandi Stjórnarskrá Íslands, og vangaveltur um að heimila fullveldisframsal í Stjórnarskrá yrðu óþarfar, eins og reyndar allt þetta stjórnarskráarhjal, sem ríkisstjórn vinstri flokkanna notar í vafasömu augnamiði.  Hún er ekki heiðarleg í nokkru máli.

ESB væri þá þrígreint, þ.e. ESB-Berlín, ESB-París og ESB-London.  Það er alveg til í dæminu, að Austur-Evrópa mundi leita aukaaðildar með ESB-London.  Samkeppni mundi líklega skapast á milli þessara þriggja stoða ESB, og slíkt yrði Evrópu hollt.  Þetta eru framtíðar vangaveltur, sem eru ekki að ófyrirsynju, því að núverandi fyrirkomulag ESB gengur ekki upp.  Þróun ESB í átt fjölbreytilegs stjórnarfyrirkomulags er í anda fjölbreytni Evrópu.  Það er borin von, ef horft er til sögunnar, að unnt verði að sameina Evrópu í sambandsríki.  Það gæti gagnast alþýðu manna í Evrópu mun betur að hafa fjölbreytni, þar sem allir keppa á Innri markaðinum, sumir í myntsambandi og aðrir með eigin mynt, sumir í sambandsríki, aðrir í ríkjasambandi og enn aðrir í sínu gamla þjóðríki.  Þetta væri áhugaverð deigla, þar sem þróun væri tryggð með innbyrðis samkeppni og með samkeppni út á við.     

 

 

  

   

 


Aumkvunarverðir umsækjendur

Nú hefur komið á daginn, að áhyggjur og varnaðarorð andstæðinga umsóknar um aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) voru á rökum reistar.  Óskhyggjan réð för í stað vandaðrar rannsóknarvinnu og þreifinga í höfuðstöðvum ESB, Berlaymont, um það, sem í boði væri.  Farið var á flot með þessa afdæmingarlegu umsókn án tilskilins undirbúnings með hefðbundnum gösslarahætti ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í þeirri barnalegu trú, að aðildarviðræður mundu aðeins taka tvö ár og að landið yrði komið í "náðarfaðm" risaríkisins áður en árið 2011 yrði á enda runnið. 

Þess vegna lá þessi ósköp á að fá Alþingi til að samþykkja aðildarumsókn 16. júlí 2009 til að Svíar, sem þá gegndu formennsku í ráðherraráði ESB, gætu sett Ísland á hraðferð ("fast track") inn í ESB.  Alþingi var blekkt, og umsóknin var samþykkt á fölskum forsendum. Allt reyndist talið um flýtimeðferð gaspur eitt, eintómt orðagjálfur  utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, og annarra ráðherra fátæktarstjórnar norrænnar helferðar. 

Það verður að halda því til haga hér, að ráðherrar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, að Jóni Bjarnasyni undanskildum, bera fulla ábyrgð á þessari umsókn og afleiðingum hennar.  Þeir gátu stöðvað feigðarflanið, en voru áður búnir að fara í hrossakaup við Samfylkinguna um þetta feigðarflan gegn slagbrandi á virkjanir og iðnvæðingu.  Aðförin að sjávarútveginum er svo sérkapítuli, þar sem óvitar villta vinstrisins sameinast um aðgerðir, sem nú valda litlum og meðalstórum fyrirtækjum fjörtjóni og draga máttinn úr sjávarbyggðum.

Samkvæmt íslenzkri stjórnskipan verður enginn samningur  lagður fyrir þjóðina án samþykkis ríkisstjórnar og Alþingis á honum fyrst.  Hálmstrá vinstri grænna um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrst var tilbúningur Samfylkingarinnar, þar sem aldrei er hugsað áður en túðrað er.  Vinstri grænir á Alþingi verða að hrökkva eða stökkva í atkvæðagreiðslu undir smásjá kjósenda.  Verður ömurlegt að fylgjast með því, hvort þessi lítilmenni beiti þá svipaðri hundalógik og við samþykkt umsóknarinnar 16. júlí 2009.    

Úr því sem komið er, ber að leggja fram þingsályktunartillögu um stöðvun aðlögunar þar til þjóðin hefur tjáð vilja sinn um framhaldið af eða á.  Ástæðan er sú, að "samningaviðræðurnar" hafa tekið lúalega stefnu og virðast alger tímasóun við samningaborðið, minna á atvinnuþvinganir (Makrílmálið) og féburð á útvalda landsmenn (Evrópustofa).  Allur fer þessi ósómi fram á ábyrgð vinstri grænna.  Þá mun þjóðin geta tekið afstöðu til flokka, manna og málefnis, í komandi Alþingiskosningum.  Mun þá mörg heybrókin við Austurvöll glúpna.  

Téð umsókn hefur steytt á skeri.  Það gengur hvorki né rekur, og aðildarviðræðurnar eru orðnar óeðlilega langvinnar miðað við það, að Ísland er EES-land, þ.e. á Evrópska efnahagssvæðinu.  Árangurinn fram að þessu er enginn, en kostnaðurinn ærinn.  Aðeins hefur verið "samið" um atriði, þar sem Ísland hafði þegar, með illu eða góðu, aðlagað sig ESB vegna EES-aðildarinnar.  Eftir er "að semja" m.a. um sjávarútvegsmálin og landbúnaðarmálin.  Varðandi sjávarútvegsmálin er síðasta útspil kommissars Damanakis, grísku, að Íslendingar verði að átta sig á því, að ætli þeir sér að nýta auðlindir ESB-ríkjanna, verði þeir að hlíta reglum ESB.  Mun hér hafa verið skírskotað til makríldeilunnar.  Hvers konar fíflagangur er þetta eiginlega ?  Sjá menn ekki, hver herfræði ESB er ?  Sjá menn ekki í hendi sér mótleikinn við slíkri herfræði ?  Hvers konar stjórnvöld sitja Íslendingar eiginlega uppi með ?

Þá er eftir að semja um landvarnirnar, en ESB stefnir á sameiginleg her með herskyldu í öllum aðildarlöndunum.  Herskyldan er, eins og alls staðar, hugsuð sem uppeldi og innræting æskunnar á þeim hugsjónum, sem valdhafarnir hafa velþóknun á.  Verður herskylda Íslendinga á meginlandi Evrópu í boði Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs ?  Allir vita, að Samfylkingin kærir sig kollótta.  Engan þarf að undra á því, að fylgi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs stefni nú á 5 % og hins stjórnarflokksins á 15 %.

Aðlögunarferlið hefur tekið á sig þessa viðurstyggilegu mynd, sem hér er dregin upp.  Sannleikanum um aðildarviðræðurnar er haldið leyndum, en tangarsókn er hafin að hálfu ESB að Íslendingum.  Annars vegar er borið fé á útvalda landsmenn samkvæmt kenningunni um, að enginn veggur sé svo hár, að asni klyfjaður gulli komist ekki yfir hann.  Hins vegar er reynt að kúga Íslendinga til eftirgjafar á rétti, sem þeir hafa öðlazt með ærinni baráttu samkvæmt Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem strandríki til að nýta nytjastofna innan lögsögu sinnar.  Það þarf ekki að orðlengja það, að væri Ísland aðildarríki ESB, mundi ráðherraráð ESB að tillögu framkvæmdastjórnarinnar ákvarða Íslandi veiðikvóta, t.d. á makrílnum.  Kvóti Íslendinga á makríl væri þá ekki 150´000 t, eins og árið 2012, heldur e.t.v. 10 % af þeim kvóta.

Þótt undarlegt sé, var gulrótin fyrir þingmenn, á báðum áttum um umsóknina, fyrirbærið "að kíkja í pakkann".  Hverjum datt sú vitleysa í hug ? Sennilega trúðu áróðursmenn umsóknarinnar þeirri dæmalusu dellu, að um eitthvað raunverulegt væri að semja fyrir Íslands hönd í aðildarviðræðum.  Slíkt lýsti þá þegar dæmalausum barnaskap og alvarlegu dómgreindarleysi, eins og andstæðingar aðlögunarinnar gerðu skýra grein fyrir með vísun til nýlegra aðildarsamninga og með vísun til yfirlýsinga málsvara ESB, þ.á.m. stækkunarstjóranna, fyrrum stækkunarstjóra, Ollis Rehns, og núverandi, Stefans Fühles.  Þeir hafa komið hreinlega fram að þessu leyti og lýst því yfir, að engan afslátt væri unnt að gefa frá sáttmálum né lagabálkum ESB.  Er það í samræmi við nýlega yfirlýsingu Hermans Van Rompuy, forseta leiðtogaráðsins,sem minnzt verður á síðar í þessari grein.

Hvers vegna halda menn, að svo illa hafi gengið í "samningaviðræðunum", sem íslenzka ríkisstjórnin ætlaði að skreyta sig með í komandi kosningabaráttu, en verða þess í stað síðustu naglarnir í líkkistu hennar ?  Það er vegna þess, að íslenzka samninganefndin hefur engu fengið áorkað í Brüssel af því, sem Skarphéðinsson var búinn að fela henni.  Þess vegna bíður Össurar nú það eitt að verða að gjalti frammi fyrir þjóðinni.

Nú sjáum við óljósar útlínur af framtíðarþróun ESB.  Þær eru ókræsilegar.  Evran mun enn eiga í langvinnum vandræðum vegna þess, að enn þá hafa engar raunhæfar aðgerðir farið fram, er dragi úr gengisspennunni á milli norðurs og suðurs.  Ósætti Frakka og Þjóðverja um úrlausnir er með þeim stigmagnaða hætti, að kanzlari Þýzkalands, Angela Merkel, lýsir því yfir, samkvæmt þýzka Speglinum (dem Spiegel), að forseti Frakklands, Francois Hollande, mæli gegn öllum hugmyndum, sem hún varpi fram, og að hann (Frakkland) hafi safnað fleiri bandamönnum en hún (Þýzkaland)innan ESB.  Þetta er ákaflega evrópskt stef, sögulega séð.  Ekki er að efa, að Ísland mundi lenda innan áhrifasviðs Þýzkalands, eins og hin Norðurlöndin, yrði af aðild. 

Íslendingum er mikið í mun að varðveita vináttuna við Þýzkaland, en þá vináttu verður unnt að rækta með mun áhrifaríkari hætti utan ESB en innan, af því að staða Íslands í alþjóðlegri samvinnu verður mun öflugri sem sjálfstætt og fullvalda strandríki með svigrúm til samninga á báða bóga en rígbundið á klafa ESB án réttinda strandríkis og án réttinda til samninga við önnur ríki um mikilvæg hagsmunamál.  Norðmenn segja, að á morgun, 4. janúar 2013, verði fyrsti dagur olíuríkisins Íslands.  Verður ekki vænlegra fyrir Íslendinga að hafa frjálsar hendur um nýtingu og markaðssetningu þessarar auðlindar en að eiga slíkt undir blýantsnögurum í Brüssel ?

Samband Stóra-Bretlands við ESB varpar nú ljósi á afstöðu ESB til fullveldis ríkja.  Málið var umfjöllunarefni höfundar forystugreinar Morgunblaðsins 29. desember 2012.  Skoðanakannanir sýna, að meirihluti Breta vill ganga úr ESB.  Brezka ríkisstjórnin vill það ekki og reynir þess vegna að fitja upp á sérlausnum við Berlaymont.  Nú hefur forseti leiðtogaráðs ESB svarað tillögum Davids Camerons:

"Ef hvert aðildarríki færi að velja þá hluta gildandi stefnu, sem því líkaði bezt við, og draga sig út úr þeim, sem því líkaði minnst, myndi sambandið í heild, og sérstaklega Innri markaðurinn, bráðlega liðast í sundur".

Síðan segir í forystugreininni:

"Þessi kýtingur á milli yfirvalda í Bretlandi og Brüssel hefur töluverða þýðingu hér á landi.  Bretar eru að biðja um að fá að losa sig undan ýmsum af reglum Evrópusambandsins, sem er það sama og íslenzkir áhugamenn um að "kíkja í pakkann" telja, að okkur verði heimilað að gera."

Síðan er dregin sú rökrétta ályktun, að íslenzka "kíkja-í-pakkann" viðhorfið gagnvart ESB hafi steytt á skeri, úr því að Bretum verður ekki ágengt.  Í raun er líklegra, að "Ísland" sé í pakkanum og framkvæmdastjórn ESB sé að gaumgæfa, hvaða gagn ESB geti haft af Íslandi en öfugt.  Þar gegnir staða Íslands sem strandríkis og útvarðar í norðri lykilhlutverki.

Ef kastast mun alvarlega í kekki á milli ESB og Stóra-Bretlands, mun landið segja sig úr ESB að aflokinni samþykkt þess efnis í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þá er komin upp spáný staða í Evrópu, sem Íslendingar þurfa að færa sér í nyt.  Annaðhvort munu Bretar þá semja við ESB um aðild að EES, eða þeir munu gera tvíhliða viðskiptasamning við ESB í líkingu við Svisslendinga.  Verði fyrri kosturinn ofan á, mun EES styrkjast í sessi, en verði seinni kosturinn ofan, geta Íslendingar dregið dám af þeim tvíhliða samningi og sagt sig úr EES.  Það yrði mörgum að skapi og mundi leysa úr lögfræðilegum þrætueplum og losa Alþingi undan skafli af lagabálkum ár hvert.  Nú lítur sem sagt út fyrir, að ESB þróist í þrjár áttir, og þarf engan að undra það m.v. spennuna, sem fer stöðugt vaxandi á milli ríkja í ESB, t.d. á evrusvæðinu.  Verður hér á síðunni síðar velt vöngum yfir líklegri þróun ESB í ljósi sögunnar.  Um aðild að hvers konar Evrópusambandi sóttu glóparnir á Alþingi 16. júlí 2009.  Þeir hafa ekki minnstu hugmynd um það sjálfir.  Verður ekki að binda endi á slíka forystu einnar þjóðar hið fyrsta ?     

Landvarnir:

Í vetrarhefti Þjóðmála 2012 birtist fróðleg og á köflum þokkalega samin grein eftir Einar Benediktsson, fyrrverandi sendiherra, "Varnarmál-ný viðhorf": 

"Í dauflegri umræðu um öryggis-og varnarmál kemur lítið fram um, að greinilegir ávinningar (svo !) í öryggislegu tilliti eru, ef samið verður um ESB-aðild, sem tekur tillit til séraðstæðna okkar og þing og þjóð samþykkja."

Hér er sannarlega um að ræða "nýtt viðhorf" til öryggismála Íslands, ef það á að telja til bóta fyrir landvarnir Íslands að ganga í ESB.  Þetta átti við um Finnland, Eystrasaltslöndin og austur-evrópsku löndin, af því að þau voru á áhrifasvæði Rússlands, þar sem þau undu sér illa.  Þess vegna fluttu þau Járntjaldið, gamla, að vesturlandamærum Hvíta-Rússlands, Úkraínu og Rússlands með inngöngu í ESB, við lítinn fögnuð í Moskvu, svo að vægt sé til orða tekið.  

Þetta á ekki við um Ísland.  Á 4. áratuginum mistókst Þriðja ríkinu að færa Ísland undir áhrifasvæði Stór-Þýzkalands, en Ísland var þá hlutlaust land.  Árið 1940 komst Ísland undir áhrifasvæði Stóra-Bretlands við hernám Breta, svo að ekki varð um villzt, og árið 1941 tóku Bandaríkjamenn við landvörnum Íslands, og hefur Ísland síðan verið á áhrifasvæði Bandaríkjanna (BNA).  Þetta var innsiglað árið 1951 með varnarsamninginum við BNA.  Þar að auki er Ísland stofnaðili að varnarsamtökum vestrænna ríkja, Atlantshafsbandalaginu, NATO.  NATO er hryggjarstykkið í landvörnum Evrópu, og herir ESB-ríkjanna eru máttvana án hernaðarsamvinnunnar, sem á sér stað á vettvangi NATO.  Það er þess vegna ómögulegt að viðurkenna það, sem góða og gilda hugmynd, að öryggismál Íslands muni komast í betra horf við inngöngu í ESB.  Það er raunar fráleit hugmynd frá hernaðarlegu sjónarmiði ekki sízt, ef Bretar segja sig af skútunni.

Það er hins vegar góð hugmynd að þróa varnarsamninginn við BNA á vettvangi öryggismála norðurslóða.  BNA og Ísland eru í Norður-heimskautsráðinu, en ESB er þar ekki.  Einboðið er að þróa öryggis-og mengunarvarnaviðbúnað norður af Íslandi í samvinnu við BNA með bækistöðvum á Norðurlandi.  Svandís Svavarsdóttir er reyndar ekki hrifin af því, en hún verður senn sett út af sakramentinu.  Á myndinni hér að neðan má sjá tvo stjórnmálaforingja, sem eigast við, og niðurstaða viðureignar þeirra mun skipta töluverðu máli fyrir hagsmuni Íslendinga.     

Angela Merkel og David Cameron-nóv 2011

 

 

   

   

   

  

 


Hagkerfi drepið í dróma

Talsmönnum Alþýðusambands Íslands, ASÍ, lízt illa á fjárlagafrumvarpið, enda ber það vott um óstjórn á fjármálum ríkissjóðs.  Þeir telja óráðsíuna þar munu verða skjólstæðingum sínum þung í skauti.  Það þarf ekki hagfræðidoktor til að sjá, hversu ábyrgðarlaust kosningafrumvarp hér er á ferðinni, sem mun virka sem olía á verðbólgubálið. 

Hinn gæfusnauði Steingrímur Sigfússon, sem hlaut hvorki meira né minna en 199 atkvæði í prófkjöri nýlega, hefur hellt sér yfir forseta ASÍ vegna réttmætrar gagnrýni formannafundar Alþýðusambandsins á verk og verkleysi ríkisstjórnarinnar.  Þar mun þessi formaður afturhaldsins í landinu hafa sýnt sitt rétta andlit, ef andlit skyldi kalla. 

Þessi volaða vinstri stjórn á nú hvergi höfði sínu að halla, nema í kjöltu Smugunnar, ormagryfju, þar sem ofstækið tröllríður þröngsýninni.  Ráðherrarnir ráða ekki við viðfangsefnin.  Þeir reyna að breiða yfir það, en þjóðmálastaðan leynir sér ekki. Tjaldað er til einnar nætur í einu og öllu.  Allt er í lamasessi, og þetta kjörtímabil er tímabil hinna glötuðu tækifæra.  Á næsta kjörtímabili verður að slá í og láta hendur standa fram úr ermum eftir urðun ESB-daðurs og draumóra og afturhalds í nafni náttúruverndar, þar sem hvað rekur sig á annars horn.  Hefja þarf til vegs kenninguna um að "nýta og njóta með nútímatækni".  Vinstra liðið getur á meðan dundað sér við að berjast við sínar vindmyllur.  

Ráðherrablækurnar eru fallnar á prófinu og ættu að taka hnakk sinn og hest í skyndi.  Meirihluti þeirra í utanríkismálanefnd er fallinn og skyldi engan undra.  Þetta gerðist á meðan furðudýrið í utanríkisráðuneytinu sá jarteikn í Berlaymont.  Á hverju eru menn ? 

Hvort meirihluti er fyrir eyðileggingu ráðherranna á margra ára rándýrri sérfræðivinnu við Rammaáætlun er ólíklegt, og jafnvel fjárlagafrumvarpið stóð tæpt með einn útbyrðis.  Fyrir Samfylkingu og Vinstri hreyfinguna grænt framboð hefur ferðin í Stjórnarráðið orðið mikil sneypuför.  Almenningi er nú orðið ljóst, að téðir stjórnmálaflokkar hafa ekkert fram að færa, nema froðusnakk, blekkingaleik, öfugmæli og versnandi lífskjör öllum til handa, nema "nómenklatúrunni" og handbendum hennar.  Við höfum ekki efni á þessari vitleysu.  

Ríkisstjórnin þykist vera búin að leysa vanda efnahagslífsins, en því fer víðs fjarri; hún hefur ekkert leyst, en eykur nú við skuldavanda þjóðarbúsins með erlendum lántökum, af því að hún rekur enn ríkissjóð með gegndarlausum halla.  Svona gerir aðeins fólk, sem gefizt hefur upp fyrir viðfangsefnunum.  Skuldir ríkissjóðs á valdatíma ríkisstjórna Jóhönnu Sigurðardóttur hafa aukizt um 400 milljarða kr.  Skuldirnar eru um það bil að verða ósjálfbærar, og það má engan tíma missa til að snúa þessari öfugþróun við.  Samt sér þessi aumasta ríkisstjórn allra tíma ekki sóma sinn í að hypja sig, enda hefur forsætisráðherra enga sómatilfinningu.  Það er starað í baksýnisspegilinn og fimbulfambað um Hrunið, en hvorki skilja þau rætur Hrunsins né hafa þau dregið réttar ályktanir af því. 

Hinn alræmdi atvinnuvega-og nýsköpunarráðherra, sem var fjármálaráðherra á árunum 2009-2012, skrifar nú hverja sjálfshólsgreinina á fætur annarri í blöðin.  Kenningar Steingríms hafa aldrei beysnar verið, en nú hefur slegið svo út í fyrir honum, að frá honum koma eintóm öfugmæli og þversagnir.  Þessum manni veitir ekki af hvíldinni.  Hún verður honum veitt.

Er skemmst frá að segja, að þessi orðhvati og á tíðum orðljóti ráðherra, sem bar nýlega lygar upp á forseta ASÍ, fer í téðum greinum sínum að miklu leyti með staðlausa stafi, enda var frammistaða hans í embætti fjármálaráðherra hraksmánarleg.  Í stað þess að ná jöfnuði árið 2012, eins og lagt var upp með í áætlun AGS, þá mun ríkissjóðshallinn nema um 55 milljörðum kr, en fjárlög gerðu ráð fyrir 20 milljörðum kr.  Engar áætlanir Steingríms standast.  Það eru ósannindi hjá Steingrími, að "hvergi í okkar heimshluta, þar sem ríkissjóður hefur lent í vanda vegna efnahagskreppu, hafi náðst viðlíka árangur síðastliðið ár eins og á Íslandi". Samkvæmt hagtölum frá OECD (Economic Outlook 2012) mun t.d. afkoma ríkissjóðs írska lýðveldisins batna mun meira á árinu 2012 m.v. fyrra ár en afkoma ríkissjóðs Íslands.  Allmörg önnur ríki eru talin slaga upp í árangur Íra.  Mont Steingríms er ósvífinn blekkingarleikur, en umgengni þessa stjórnmálalega vindhana við sannleikann er oft þannig, að á milli þeirra tveggja eru himinn og haf.

Afturhaldsstjórnin virðist allt í einu hafa fengið kalda fætur vegna eigin aðgerðaleysis í atvinnumálum landsmanna og lofar þá einu gæluverkefni hér og öðru þar; gott, ef hún er ekki farin að taka vel í olíuboranir á Drekasvæðinu. Þar tala ráðherrarnir reyndar út og suður, svo að engrar stefnumörkunar er að vænta. Ríkisstjórnin er á valdi óttans við atkvæðamissinn.  Hann er óhjákvæmilegur, og barnalegir tilburðir munu engu skila.  Kjósendur munu ekki láta blekkjast í hið annað sinnið.  Flokkar stjórnarinnar stefna í að gjalda afhroð, og þá er reynt að sprikla, en á kostnað framtíðarinnar.  Vinnubrögðin eru fyrir neðan allar hellur og ekki hundi bjóðandi.  Nýjasta fjármögnunarleið vitsmunabrekkna vinstri stjórnarinnar þoldi ekki dagsljósið.  Skattstofninn voru lækningatæki, hjólastólar, bleyjur og getnaðarverjur, svo að fátt eitt sé talið. 

Jafnaðarmönnum tengdum ASÍ þykir sárt að heyra því haldið fram, að ríkisstjórn þeirra sé afturhaldsstjórn.  Það er hún þó samkvæmt skilgreiningunni.  Afturhald er og hefur alltaf verið á móti framförum í atvinnuháttum, iðnvæðingu og tæknivæðingu atvinnuveganna.  Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs uppfyllir öll skilyrði þess að hljóta einkunnina afturhaldsstjórn. 

Ríkisstjórnin hefur í sumum tilvikum borið sig lymskulega að og þvælzt fyrir til að reyna að kasta glýju í augu einhverra, en almenningur sér þó til hvers refirnir eru skornir.  Síðan liggja áhangendur þessarar voluðu vinstri stjórnar á því lúasagi, að allt sé Hruninu að kenna.  Ætla vinstri menn að fara í Alþingiskosningar undir því kjörorði, að landsmönnum séu allar bjargir bannaðar út af Hruninu ?  Það átti að troða Icesave-skuldafjötrum upp á landsmenn og síðan að kenna Sjálfstæðisflokkinum um.  Eymd vinstri manna er ofboðsleg.  Ferill þeirra við landsstjórnina er ein samfelld sorgar- og mistakasaga.  Nú er háskólasamfélaginu jafnvel tekið að blöskra, og má þá segja, að bragð sé að, þá barnið finnur. Til marks um þetta er viðtal við Gunnar Helga Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, í Morgunblaðinu 13. desember 2012, þar sem hann finnur stjórnarskráardrögum Stjórnlagaráðs, sem ríkisstjórnin hefur gert að sínum, allt til foráttu.

Þá birtist í Morgunblaðinu 19. desember 2012 merkilegt viðtal Baldurs Arnarsonar við prófessor emeritus í lögum, Sigurð Líndal, forseta Hins íslenzka bókmenntafélags. Eftir lestur þessa viðtals ætti hverju mannsbarni að verða ljóst, hvílík hrákasmíði téð stjórnarskráardrög eru, og hvílíkt ábyrgðarleysi er að leggja þennan gallagrip fyrir Alþingi til samþykktar.  Slíkt er til vitnis um ríkisstjórn og þinglið á vinstri vængnum, sem ekkert kann til verka, en vinnur allt með öfugum klónum.   

Ný afriðladeild - S1

        

 

 


Moldvörpur að verki

Hvers vegna vinna ríkisstjórnin og handbendi hennar jafneindregið gegn hagsmunum íslenzku þjóðarinnar og raun ber vitni um ?  Hvaða furðulegu sérhagsmunir stjórna gjörðum vinstri flokkanna ?  Þeir eru gjörspilltir, jafnvel rotnir, en hvaða hagsmuni hafa þeir af niðurrifi atvinnuveganna og að standa í vegi allra framkvæmda í landinu, sem einkaframtakið sækist eftir ?  Rikisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur staðið í látlausu stríði við vinnuveitendur og athafnamenn í landinu, frá því að hún vann sinn alræmda kosningasigur í apríl 2009 á gjörsamlega fölskum forsendum.  Þetta fólk gengur ekki heilt til skógar.  Því fer víðs fjarri.  Hagsmunir almennings á Íslandi eiga enga samleið með stefnumálum vinstri flokkanna, eins og þau koma fram við framkvæmd.  Þá er nú komið í ljós, samkvæmt yfirlýsingu ráðherraráðs ESB frá 12.12.12, að aðildarumsóknin að ESB er reist á sandi.  Málið er að hálfu íslenzkra stjórnvalda umlukið blekkingavaðli Samfylkingarinnar.  Íslendingum stendur aðeins til boða að taka upp allan lagabálk ESB, refjalaust.  Fíflagangurinn í kringum pakkann, sem stæði Íslendingum til boða, hefur nú orðið leikritshöfundunum til skammar.  Þeir misskildu allan tímann málið.  Ísland er í pakkanum, og það er ESB, sem skoðar í hann og ætlar að nota sér landið til að opna sér leið að norðurhöfum.  Íslendingar búa nú við heimskustu ríkisstjórn, sem sögur kunna frá að greina.   

Alþekkt er hatur vinstri manna á útgerðarfyrirtækjum með kvótaeign.  Virðast sefasjúkir vinstri menn vera búnir að sefja sig til að trúa því, að útgerðarmenn séu ræningjar, sem rænt hafi frumburðarrétti þjóðarinnar.  Sjávarútvegur er eins og hver önnur atvinnugrein, en rekstur hans hérlendis er á heimsmælikvarða, og komast engir sjómenn með tærnar, þar sem þeir íslenzku hafa hælana varðandi gæði framleiðslunnar og framleiðni.  Stefna ríkisstjórnarinnar er að eyðileggja afkomugrundvöll þessara sjómanna með skattlagningu á greinina, sem er svo grimmileg, að aðeins sameignarsinnum (kommúnistum) dytti slík fásinna í hug til að drepa einkaframtakið.  Ríkisstjórnin er í raun búin að rýra hlut sjómanna, því að kaken verður ekki í senn geymd og hún étin.  Hlutur sjómanna og önnur laun, s.s. orlof, greiðslur til lífeyrissjóða, tryggingargjald og kostnaður við vátryggingar, nema um 37 % af brúttótekjum útgerða að jafnaði samkvæmt ritinu "Hagur veiða og vinnslu 2010".  Veiðigjaldið er ákvarðað með eins bjálfalegum hætti og hugsazt getur út frá sjónarmiðum sjálfbærrar skattheimtu, því að ekkert tillit er tekið til afkomu einstakra fyrirtækja, sem í hlut eiga.  Þessi skaðlega gjaldheimta er í raun skattlagning á hvert þorskígildistonn útgerðar, sem gæti numið um 40 kr/kg.  Svona ganga aðeins þeir fram, sem umturna vilja atvinnurekstri og færa þjóðfélagið niður í fátæktarfen ríkiseinokunar, enda er auðvitað komið á daginn, að minnka verður grundvöll hlutaskipta sjómanna.  Sjálfstæðisflokkurinn mun alveg örugglega leiðrétta þessa eyðileggjandi skattlagningu á útgerðina með afnámi eignaupptökulaganna nr 74/2012.  Sjómenn eru verðugir launa sinna, og Sjálfstæðisflokkurinn mun gera þær ráðstafanir, sem duga til að leysa fjárfestingar og markaðssetningu íslenzka sjávarútvegsins úr læðingi.    

Það ber að sökkva þessu vitlausa og rangláta auðlindagjaldi á hafsbotn, leyfa sjómönnum að halda sínum hlut, eins og áður segir, og samfélaginu að fá sinn skerf af velgengni þeirra og útgerðarmanna með viðskiptum við þá, neyzlu og fjárfestingum þessara aðila auk venjulegrar skattheimtu.  Fikt afturúrkreistinga með potta, strandveiðar, byggðakvóta, línuívilnun og önnur heimskupör stjórnmálamanna er ekki óvitaháttur, heldur aðför að miðstéttinni og ber að grafa með stríðsöxinni, sem forsjárhyggjuflærðin hefur beitt gegn atvinnuvegunum.  Hvernig þeir verða pokaðir, sem á þessari stríðsöxi héldu, mun koma í ljós, en að þeir gangi lausir, er ekki sjálfgefið.   

Leikhús fáránleikans er enn við lýði með Össur og Stefan Fühle í aðalhlutverkum, sbr hér að ofan.  Þetta eru tveir gamlir kommar, sem leika í hinum guðdómlega gleðileik "Að kíkja í pakkann".  Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs vill kokgleypa allar kröfur ESB, því að annað er ekki í boði.  Þar á meðal er innflutningur lifandi dýra til Íslands.  Hvers konar fíflagangur er þetta eiginlega ?  Sjá menn ekki í hendi sér gríðarlega möguleika Íslands sem matvælaframleiðslulands í krafti hreinnar náttúru, óþrjótandi vatnsbirgða, hlýnandi loftslags og heilbrigðra og sérstakra dýrastofna ?  Öllum þessum möguleikum vill ríkisstjórnin fórna fyrir nokkra rassálfa, sem fá tækifæri til að flandra fram og til baka á milli Reykjavíkur og Brüssel í algeru tilgangsleysi.  Í forystu og þingliði vinstri flokkanna er samansafn ábyrgðarlauss, þröngsýns og dómgreindarlauss fólks.  Það sýna verk þess og málflutningur.  Þessu ber að fleygja á ruslahauga sögunnar og dysja það. 

Ferðamennskuna hefur ríkisstjórnin leikið grátt með miklum eldsneytishækkunum og nú síðast skyndilegum áformum um mikla virðisaukaskattshækkun og gjaldtöku af bílaleigubílum, sem sett hefur áætlanir greinarinnar gjörsamlega úr skorðum.  Hrikalegar hækkanir opinberra gjalda hafa verið lagðar á innanlandsflugið.  Ríkisstjórn og borgarstjórn eru samstiga í að útrýma innanlandsfluginu.  Þessum viðundrum hefur með auknum álögum og andúð tekizt að snúa fjölgun farþega innanlandsflugs upp í fækkun. Ríkisstjórnin er skipuð steinrunnum þursum.  Það er alveg sama, hvar hún ber niður.  Hún leggur dauða hönd á starfsemi.  Það er engin tilviljun.  Þetta er voluð vinstri stjórn.  

Hún hefur ekki heyrt um kreppuna í heiminum og veit ekki, hvað verður einna fyrst fyrir barðinu á slíku.  Fólk, sem er að spara og verður fyrir hækkun af þessu tagi, hættir einfaldlega við og fer annað.  Ríkisstjórnin er stórskaðleg, því að hún er atvinnufjandsamleg, og hún grefur undan fullveldi landsins, óbeint með glæfralegum hallarekstri ríkissjóðs og afturhaldsviðhorfum til fjárfestinga, og beint með viðræðum við ESB um inngöngu í ríkjasamband, sem stefnir á að verða sambandsríki.  Þessar viðræður eru gjörsamlega fótalausar, og ríkisstjórnin er í raun umboðslaus í þessum viðræðum með mjög tæpan, ef nokkurn, meirihluta þings að baki sér og aðeins lítinn minnihluta landsmanna, sem vill sameinast þjóðahafi Evrópu í sambandsríki, en þangað er ferðinni heitið.  Hvílík firn, að slík fyrirbrigði skuli hafa sóað fé og tíma landsmanna í heilt kjörtímabil.  Slíkt má aldrei endurtaka sig.  Þetta eiga að vera hornkarlar og hornkerlingar í hverju samfélagi.   

Alþekkt er hatur ríkisstjórnarinnar á iðnaðinum, einkum sé hann orkukræfur.  Samt er raforkuverð lægst á Íslandi innan Evrópu, og þótt víðar væri leitað.  Það er engin tilviljun.  Raforkunotkun á mann er mest á Íslandi á byggðu bóli.  Landsmenn njóta nú hagkvæmni stærðarinnar á þessu sviði. Orkusala til stóriðju hefur staðið undir megninu af fjárfestingum í virkjunum og flutningslínum, og almenningur nýtur þess með lágu orkuverði.  Dreifingin er hins vegar furðulega dýr og aftarlega á merinni, og það er hneyksli, að þrífösun sveitanna skuli ekki vera lokið árið 2012, því að fjölbreytileg atvinnutækifæri opnast með aðgengi að hagkvæmu þriggja fasa rafmagni.  Það ætti að líta á það sem samfélagslega skyldu og jafnræði, að öllum íbúum landsins standi þrífasa rafmagn til boða óháð búsetu eftir þörfum án þess að verða rúnir inn að skyrtunni.  Væri ekki nær, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun legði fé í sjóð til styrktar slíku í stað gæluverkefna á borð við risavaxnar vindmyllur, sem lítið sem ekkert framleiða, og sæstreng til Stóra-Bretlands, sem er andvana fædd hugmynd draumóramanna, sem engum alvöru fjárfesti dettur í hug að koma nálægt, enda verðlag orku erlendis engan veginn nógu hátt til að geta staðið undir 500 milljarða kr fjárfestingu ?   

Nýlega birtist í "Markaðnum" grein undir fyrirsögninni, "Fannst rafmagnið á Íslandi vera of dýrt".  Þar kom berlega í ljós, að verðlagningarstefna Landsvirkjunar er algerlega úr takti við raunveruleikann.  Í stað þess að virka aðlaðandi fyrir fjárfesta er Landsvirkjun nú fráhrindandi.  Þessu verður að breyta.  Með nýrri ríkisstjórn ber höfuðnauðsyn til að hið opinbera taki upp samræmda fjárfestingarstefnu, sem laðar að fjárfesta með lækkun tekjuskatts, afnámi rafskatts og raunhæfri verðlagningu raforku, sem skilar um 10 % arði fjárfestingar til eiganda síns.  

Í stað óskiljanlegra vangaveltna Landsvirkjunar um að koma afgangsorku í lóg í útlöndum um rándýran sæstreng á hún að selja afgangsorku sína á hagfelldum kjörum, sem stendur vel undir breytilegum kostnaði.  Heilbrigða skynsemi, hófsemi og hagfræði vöruframleiðslunnar ber að setja í öndvegi.  Það er eina leiðin til viðreisnar.  Nóg er komið af hlálegri og einfeldningslegri spákaupmennsku.      

    Samorkumenn-7-11-2012-Straumsvik

 

   

 


Haftabúskapur hörmangara

Gjaldeyrishöftin hafa nú varað í 4 ár, en áttu að standa í um 4 mánuði.  Ástæða þess, að þau eru enn við lýði, er sú, að duglaus vinstri stjórn settist hér að völdum 1. febrúar 2009 í skjóli Framsóknarflokksins og hefur stundað slímsetu síðan í óþökk flestra og þ.á.m. Framsóknarmanna.  Þar er ekki einvörðungu um heybrókarhátt að ræða, heldur hefur berlega komið í ljós í hverju málinu á fætur öðru, að ráðherrarnir eru úrræðalausir og mistækir með afbrigðum.  Þetta vinstra fólk getur slegið um sig með innihaldslausum frösum og froðusnakki, og það getur verið fúlt á móti öllum framförum, en það hefur enga hæfileika til að byggja upp og leiða þjóðina út úr ógöngunum.  Þjóðin fór úr öskunni í eldinn.  

Ríkisstjórninni hefur haldizt illa á ráðherrum, en forsætisráðherrann, Jóhanna Sigurðardóttir, sem Árni Páll Árnason, fyrrverandi ráðherra, lætur að liggja, að stigi ekki í vitið, og hún hefur aldrei afsannað það, hefur, dæmd manneskja, ríghaldið í forsætisráðherrastólinn, þrátt fyrir að hún hafi framið reginafglöp í embætti, sýnt ruddalega framkomu, svikið öll loforð, sem aðilum vinnumarkaðarins hafa verið gefin og margítrekað sannað, að hún er algerlega úti að aka eða úti á túni, eins og líka er sagt, en landbúnaðurinn á ekki skilið.

  Hvernig dirfist þetta fyrirbrigði að heimta það nú, að Sjálfstæðisflokkinum verði haldið áfram í stjórnarandstöðu eftir komandi Alþingiskosningar og Samfylkingin leiði ríkisstjórn að þeim afloknum ?  Samfylkingin er nú komin undir 20 % markið sitt og Vinstri hreyfingin grænt framboð stefnir á 10 %.  Sporin hræða, og þessir tveir stjórnmálaflokkar hafa gjörsamlega dæmt sig úr leik.  Kaffihús 101 hæfir þeim, en ekki Stjórnarráð Íslands.  Flokkarnir hafa á að skipa þröngsýnu afturhaldsfólki í þingliði sínu, sem enga samleið á með almannahagsmunum.  Landvættirnir munu tryllast, ef þessum andlegu örverpum tekst að krafla sig upp í valdastólana eftir næstu Alþingiskosningar á hækjum Guðmundar Steingrímssonar eða annarra pólitískra viðrina.

Haftabúskapur leiðir af gjaldeyrishöftum.  Einmitt slík varð þróunin hér eftir 1929, en þá hófst Kreppan mikla (The Great Depression).  Hún stóð í 10 ár, en haftabúskapur varði á Íslandi í 30 ár fram að Viðreisnarstjórninni, sem afnam haftabúskap og hóf mikið framfaraskeið undir forystu Ólafs Thórs og Bjarna Benediktssonar.  Nú mun koma í hlut annars Bjarna Benediktssonar af sama meiði að ganga á milli bols og höfuðs á afturhaldinu, sem grafið hefur um sig í Stjórnarráðinu, og hefja hér frelsisvakningu og framfarasókn eftir næstu Alþingiskosningar. 

"He has got the guts", segir Kaninn, og bíti hann í skjaldarrendurnar og varpi sér af eldmóði fyrirrennara sinna og ættmenna út í þessa baráttu, sem verður blóðug og hörð, þá hefur hann það, sem til þarf, svo að sigur náist. 

Milton Friedman, hagfræðiprófessor, reit í bók sína, "Frelsi og framtak": "Ekki er ofsagt, að atvinnufrelsinu í Bandaríkjunum er mesta skammtímahætta búin af, að Þriðju heimsstyrjöldinni undanskilinni, að sett verði á höft til að "leysa úr" einhverjum greiðslujafnaðarvanda.  Afskipti af alþjóðaviðskiptum eru sakleysisleg að sjá.  Margir, sem annars tortryggja mjög ríkisafskipti af atvinnumálum, aðhyllast þau.  Margir kaupsýslumenn telja þau jafnvel til "bandarískra lífshátta". 

Samt er fátt, sem getur borizt jafnvíða um og orðið að lokum svo skaðlegt einkaframtaki sem þetta.  Reynslan sýnir, að fyrsta skrefið á greiðfærustu leiðinni út úr frjálslyndisskipulagi og í stjórnlyndisskipulag eru gjaldeyrishöft.  Þetta fyrsta skref leiðir óhjákvæmilega til innflutningshafta, til afskipta af innlendum iðnaði, sem þarf innflutningsvörur eða sem framleiðir vörur í staðinn fyrir þær, og að lokum er komið í vítahring."

Þegar ofangreint er lesið, þarf ekki lengur vitnanna við um, hvers vegna höftin eru fremur fest í sessi en losað sé um þau af vinstri stjórninni.  Stjórnvöldin, amlóðarnir í Stjórnarráðinu, svo að ekki sé nú minnzt á garminn Ketil, skræk, þingmeirihlutann, sem var, og trotzkyistarnir á Svörtuloftum, sjá enga meinbugi á gjaldeyrishöftum; þau falla vel að stjórnlyndum lífsskoðunum þeirra, og þeim finnst þau vera að stjórna þjóðfélaginu með útdeilingu gjaldeyris til Péturs á gengi A og til Páls á gengi B.  Illvíg spilling grípur um sig, og stjórnmálamenn skekkja samkeppnisstöðu með tvöföldu gengi, þar sem gamlir bankagullrassar og útrásarsnillingar með erlendan gjaldeyri í fórum sínum fá keyptar krónur á útsölu.  Þetta er dæmigert ríkissukk í boði félagshyggjufólks.  Almenningi blæðir fyrir höftin.  Dæmigerð félagshyggja andskotans.

Íslenzku krónunni stafar mest hætta af núverandi stjórnvöldum.  Þau tala krónuna niður, þau nota bága stöðu hennar sem röksemd fyrir "upptöku evru", sem verður grafskrift ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, enda alheimskulegasta stefnumið í stjórnmálum, sem hægt er að hugsa sér, og þau standa í vegi fyrir erlendum fjárfestingum.  Á öllum vígstöðvum leggjast þau þvers.  Miklar erlendar fjárfestingar eru skilyrði þess, að krónan taki ekki dýfu við afnám gjaldeyrishaftanna, og það kann að þurfa að stjórna útflæðinu í fyrstu á meðan þrýstingurinn er mestur.  Þetta verður eitt af brýnustu verkefnum framfarastjórnar eftir næstu Alþingiskosningar.

Íslendingar standa nú frammi fyrir vali.  Skammtímaáhrif núverandi haftastefnu eru, að vextir verða tiltölulega lágir, og gengið mun veikjast hægt og rólega.  Langtímaáhrif haftanna verða minni hagvöxtur en ella vegna minni og óhagkvæmra fjárfestinga.  Ríkið mun halda áfram að þenjast út, þar sem það hefur aðgang að innilokuðu fjármagni, og sparnaður landsmanna mun lítinn sem engan ávöxt bera vegna lágra vaxta.  Þjóðfélagið hjakkar í sömu förum og sífellt sverfur að vegna atgervisflótta.

Því lengur, sem heykzt er á að afnema höftin, þeim mun erfiðara verður það, því að hagkerfið lagar sig að meininu, eins og líkami að lömuðum útlimi.  Gjaldeyrishöftin ýta mjög undir afskipti stjórnmálamanna af fyrirtækjum og þar með bönkum, og þetta jafngildir viðbjóðslegri spillingu, sem stjórnmálamenn á forsjárhyggjuvængnum upplifa sem eðlilegt og eftirsóknarvert ástand. 

Það er hægt að afnema höftin.  Það mun óhjákvæmilega valda tímabundnum sársauka.  Það kemur til greina að afnema verðtryggingu áður en gjaldeyrishöftin verða afnumin eða samtímis.  Draumórar sveimhuganna í þingflokkum ríkisstjórnarinnar um aðstoð frá ESB við afnám haftanna hafa orðið sér rækilega til skammar.  Yves-Thibault de Siguy færði skýr rök fyrir því í viðtali í Viðskiptablaðinu 27. september 2012, að landsmönnum stæði hvorki til boða flýtimeðferð í evruna né aðstoð við afnám haftanna.    

    

 

         

 


Þeim er alls ekki treystandi

""Menn fóru bara á taugum", segir heimildarmaður Morgunblaðsins, og bætir því við, að þetta séu líkast til "stórkostlegustu mistök Alþingis á síðari tímum"".

Ofangreint gat að líta í ítarlegri fréttaskýringu Harðar Ægissonar, blaðamanns Morgunblaðsins, í blaðinu þann 25. október 2012.  Þarna er verið að lýsa viðskiptum Efnahags-og viðskiptanefndar Alþingis við erlenda kröfuhafa föllnu bankanna.  Ríkisstjórn og þingmenn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, alræmdir kjaftaskar og Morfískeppendur, hafa ekkert bein í nefinu til að standa gegn óbilgjörnum kröfum spákaupmanna, sem keyptu kröfurnar í hræin fyrir 5 % af nafnvirði og geta nú selt þær og hafa verið að selja þær fyrir 25 % af nafnvirði.  Skellurinn hefur þegar lent á upphaflegum lánadrottnum, en vinstri mennirnir, þekkingar- og reynslulausir úr heimi viðskiptanna, sýna hrægömmum takmarkalausa undirgefni og stefna efnahagslegu sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar í voða, eins og berlega kemur fram í téðri frásögn, "Óttast, að hagsmunum Íslands sé stefnt í voða". 

"Formaður nefndarinnar, Helgi Hjörvar, stakk þá upp á því samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, að Seðlabankinn og hinir erlendu kröfuhafar semdu um þetta sín á milli." Þetta er alger uppgjöf Samfylkingarforkólfsins gagnvart erlendum hrægömmum og alveg furðulegt, að miðstýringarmaðurinn skuli fleygja málinu úr höndum Alþingis og ríkisstjórnar og í fang Seðlabankastjóra, sem þar með hefur fjöregg íslenzku þjóðarinnar í höndum sér.  Í tilvitnaðri fréttaskýringu kemur hvað eftir annað fram, að Seðlabankamenn hafa ekki roð við vogunarsjóðunum, sem eru mun fljótari en Seðlabankinn að gera sér rétta grein fyrir skuldastöðu og greiðslugetu Íslands.  Um þetta hefur Hörður Ægisson eftir viðmælendum sínum, "að erlend skuldastaða þjóðarbúsins er tvöfalt hærri en fram kom í Peningamálum fyrr á þessu ári og vinna þeir ( þ.e. Seðlabankinn) nú að því að uppfæra opinberar hagtölur í samræmi við þessar breyttu forsendur".  Sé þetta rétt, er ljóst, að í Seðlabankanum er sofið á verðinum, og fyrir það verða menn að axla ábyrgð í fyllingu tímans.

"Eftir þrýsting frá kröfuhöfum ákvað Helgi (Hjörvar) að leggja fram breytingartillögu við frumvarpið, eins og sjá má í þingskjölum, þar sem kveðið er á um, að innistæður í reiðufé í erlendum gjaldeyri í eigu lögaðila hjá erlendum fjármálafyrirtækjum eða hjá Seðlabankanum, eins og þær stóðu í lok dags 12. marz 2012, skuli undanþegnar bannákvæðinu. Fram kom í máli Helga, þegar hann lagði frumvarpið fyrir Alþingi síðar um kvöldið, að breytingartillagan lyti að "umtalsverðum hagsmunum fyrir slitastjórnirnar"".  

Hér eru hagsmunir erlendra kröfuhafa teknir fram yfir hagsmuni íslenzku þjóðarinnar, því að noti Seðlabankinn þessa heimild, mun gengi krónunnar hrynja og lánshæfið með.  Lánalínur munu þá lokast og ríkissjóður lenda í greiðsluþroti.  Landið verður þar með gjaldþrota.  Hér gæti þess vegna verið efni í nýtt Landsdómsmál.

Hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins eru nú taldar nema um 100 % af vergri landsframleiðslu, og er aðeins staða Portúgals verri af öllum Evrópulöndum, og eru t.d. Grikkir í skárri stöðu.  Afborganir og vextir munu vaxa úr 140 milljörðum kr árið 2012 í 380 milljarða kr árið 2016, sem er algerlega ósjálfbært.  

Árið 2014 ráða Íslendingar ekki lengur við þennan klafa, sem þýðir þjóðargjaldþrot, verði ekki þegar gripið til neyðarráðstafana í anda Neyðarlaganna frá haustinu 2008.  Vinstri stjórnin mun ekki hafa þrek til þess, því að þar liggja dusilmenni á fleti fyrir.  Það mun koma í hlut Sjálfstæðisflokksins að leiða björgunaraðgerðir.  Það er vel vitað, hvað þarf að gera, og kemur það fram í téðri frásögn Harðar Ægissonar:

"Því er það mat heimildarmanna Morgunblaðsins, að það séu gríðarlegir hagsmunir fólgnir í því fyrir íslenzk yfirvöld að koma í veg fyrir, að farin verði áður nefnd leið, sem kröfuhafar hafa talað mjög fyrir - og flest stefnir í, að verði niðurstaðan að öðru óbreyttu.

Sú ráðstöfun mundi verða til þess, að fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar yrði stefnt í tvísýnu, að mati viðmælenda blaðsins.  Því þurfi að grípa til úrræða, sem í sumum tilvikum mundu krefjast lagabreytinga, og fælu í sér umtalsverðar afskriftir á innlendum eignum kröfuhafanna í skiptum fyrir gjaldeyri í eigu þrotabúanna.  Með öðrum orðum, að Seðlabankinn mundi bjóða upp gjaldeyri búanna í því augnamiði að losa um títtnefnda snjóhengju aflandskróna, sem nemur ríflega 1´150´000´000´000 kr. 

Slíkt ferli gæti tekið nokkur ár, en með þessu móti yrði engu að síður tryggt, að allir þeir innlendu aðilar, sem eiga gjaldeyri, stæðu jafnir frammi fyrir lögum um gjaldeyrishöft.  Sumir viðmælendur Morgunblaðsins segja, að hægt yrði að taka sérstakt tillit til gamla Landsbankans og útgreiðslna í tengslum við Icesave með því að haga lagasetningunni með þeim hætti, að forgangskröfur væru geiddar út í erlendri mynt, en aðrar kröfur í krónum."

Þarna er bent á leið út úr vandanum.  Leið Samfylkingarinnar er hins vegar algerlega ófær.  Hún liggur um Hrunadansstað þjóðargjaldþrots og ölmusugöngu beiningamanna þaðan og um völundarhús Berlaymont í Brüssel. Ætlunin er að beygja landsmenn í duftið þar til þeir gefast upp og staulast inn um hlið Berlaymont (ESB).  Það mun aldrei verða. 

Hér eru fjárglæfrar vinstri manna á ferð með hagsmuni þjóðarinnar að veði, en það er fleira, sem verður að gerast til að bjarga landinu:  fjárfestingar og myndun nýrra atvinnutækifæra í landinu.  Til þessa hafa vinstri flokkarnir reynzt til þess algerlega óhæfir, enda eru þeir í stríði við miðstéttina í landinu, sem þeir telja helzt standa í vegi sameignarstefnunnar á Íslandi.  Sjálfstæðismenn eru vel meðvitaðir um það, að það skiptir sköpum um farsæla úrlausn þessa geigvænlega skuldavanda að laða hingað til lands nýtt áhættufjármagn fjárfesta í gjaldeyrisskapandi starfsemi.  Um þetta segir í títt nefndri fréttaskýringu:

"Sigurgeir Örn Jónsson, hagfræðingur og meðeigandi að fjármálafyrirtækinu ARAM Global í New York, segir hins vegar í samtali við Morgunblaðið, að sjálf nettóskuldastaðan mundi skipta minna máli, ef það væri búið svo um hnútana af stjórnvöldum, að Ísland væri spennandi fjárfestingarkostur á sama tíma og mörg ríki í Evrópu glíma við mikla efnahagserfiðleika."

Einmitt þetta er stefna Sjálfstæðisflokksins, og þarna skilur á milli feigs og ófeigs.  Sjálfstæðisflokkurinn mun með ráðstöfunum í skattamálum mynda hvata til örvunar fjárfestinga á Íslandi og þar með til innstreymis erlends fjármagns inn í íslenzka hagkerfið.  Framgangur óbrenglaðrar Rammaáætlunar um verndun og nýtingu náttúruauðæva á Alþingi er frumskilyrði fyrir auknum fjárfestingum í orkugeiranum.  Nýjar virkjanir eru ekki lengur bara æskilegar að mati þeirra, sem telja áframhald iðnvæðingar æskilegt fyrir atvinnuástandið í landinu og líklegt til að laða flóttafólk undan vinstri stjórn heim, heldur eru nýjar virkjanir orðnar efnahagsleg nauðsyn, þjóðarnauðsyn, til að bjarga landinu frá greiðsluþroti, sem annars blasir við árið 2014.  Biðflokkur er enginn valkostur.

Tilvitnunin í Sigurgeir Örn Jónsson, hagfræðing, heldur áfram:

"Þá mætti hugsanlega búast við því, að eignirnar gengju fremur kaupum og sölum á milli erlendra aðila, og nýir fjárfestar kæmu til landsins í stað viðvarandi útstreymis gjaldeyris.  Ef settar væru fram trúverðugar áætlanir um endanlegt afnám hafta og ákjósanlegt efnahags-og lagaumhverfi fyrir erlenda fjárfestingu, þá væri ástæða til að hafa minni áhyggjur af skuldastöðunni en ef við siglum áfram með lokað land."     

 h_my_pictures_falkinn 

 

  

 

    

        


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband