Færsluflokkur: Evrópumál

Af gallagripum

Það er enn í fersku minni, hvernig gallagripum skolaði inn fyrir þröskuld Stjórnarráðsins í kjölfar mestu óeirða í sögu lýðveldisins í ársbyrjun 2009, sem nærri höfðu brotið niður hetjulega vörn ríkislögreglunnar um Alþingishús og Stjórnarráð.  Rómverjar spurðu: "Cuo bono", þ.e. hverjum í hag, þegar þeir leituðu sökudólga.  Þetta ástand var ýmsum í stjórnarandstöðunni í hag, og að torvelda vinnu rétt kjörins löggjafa og að velta valdhöfum með ofbeldi stendur nærri hugmyndafræði stjórnmálaafla á vinstri kantinum hér.  Þó að enn eigi eftir að upplýsa um þessa atburði til fulls, leikur þó vart á tveimur tungum, að vinstri-öfgamenn í landinu æstu margt sárreitt fólk upp, og nokkrir gripu til óyndisúrræða.  Ekki voru allir innan þinghússveggja með hreinan skjöld á þessum gjörningatíma.  Stjórnarskrá lýðveldisins, hins vegar, stóðst þetta "álagspróf" og það, sem fylgdi í kjölfarið, með sóma.  Hún er þess vegna blóraböggull að ósekju.  Hlálegt er, þegar verið er að gera lítið úr henni fyrir danskan uppruna sinn, sérstaklega í ljósi þeirrar moðsuðu, sem nú er búið að kokka upp sem valkost við þá gömlu góðu, sem stendur á evrópskum mergi.  Óskalisti draumórafólks er ónýtt plagg sem Stjórnarskrá lýðveldisins.  Moðsuðan er svo illa úr garði gerð, að lögspekingar hafa tjáð sig á þann veg, að hún muni skapa hér margvíslega réttaróvissu.  Lögspekingarnir hafa fært fyrir þessu haldgóð rök, og þar með hefur stjórnlagaráðið fallið á prófinu.  Aðferðarfræðin við að semja nýja Stjórnarskrá var dæmd til að mistakast.  Plaggið er einskis virði, en úr ríkissjóði mun á endanum  fara yfir einn milljarður kr út af þessari fordild forsætisráðherra.   

Ofstækisöfl stöðvuðu endurreisnarvinnu ríkisstjórnar eftir holskeflu bankagjaldþrota í alþjóðlegri fjármálakreppu, sem var í vissu hámarki haustið 2008, þó að verra ástand sé væntanlegt fyrir hagkerfi heimsins.  Þegar mest reið á að mynda samstöðu á meðal þjóðarinnar til lausnar á aðsteðjandi vanda og til að verjast árásum erlendis frá, þá sýndu forkólfar vinstri aflanna í landinu þarna sitt rétta eðli, og það var sannarlega "skítlegt eðli". 

Gallagripir, sem lengi höfðu gapað um eigið ágæti, án innistæðu, tóku nú við stjórnartaumunum og unnu allt með öfugum klónum, eins og þeim einum er lagið, og hefur ekki linnt niðurrifsstarfsemi þeirra gagnvart atvinnuvegum, skattkerfi, hagkerfi og fullveldi við ríkisstjórnarborðið frá 1. febrúar 2009 og í Alþingishúsinu frá 10. maí 2009. 

Hefur uppstytta ekki orðið á afglöpum gallagripa Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, svo að þjóðfélagið hefur orðið af stórfelldum tekjum og mátt þola bruðl með skattfé.  Tekjutapið gæti numið a.m.k. 300 milljörðum kr á ári eða um einni milljón kr á ári á hvert mannsbarn í landinu.  Icesave-klafinn, sem svikahrapparnir ætluðu að smeygja um háls landsmanna, fæddra og ófæddra, og þegar hefði orðið að greiða, ef veitleysan hefði ekki verið stöðvuð, nemur svipaðri upphæð.  Er þá ótalin öll vinstri-skattheimtan á almenning, sem rýrt hefur kaupmátt hans verulega án þess að hagur ríkissjóðs hafi vænkast þess vegna.  Ríkisstjórnin þykist samt ekki hafa hækkað skatta, af því að skatttekjur hins opinbera hafa lækkað.  Sýnir sá málflutningur annaðhvort fádæma ósvífni að hætti Lyga-Marðar eða ótrúlega vanþekkingu á hugtökunum skattheimta og skatttekjur, svo að ekki sé nú minnzt á boðskap Lafflers og hans Laffler parabólu.   

 

Lýðskrumarar höfðu þegar haustið 2008 hátt um, að blóraböggull Hrunsins væri Stjórnarskrá lýðveldisins, eða hún væri a.m.k. einn af blórabögglunum.  Lýðskrumararnir fundu enga sök hjá sér, enda ekki við því að búast af mönnum lítilla sanda og lítilla sæva.  Hér var hráskinnaleikur ósvífinna afglapa á ferð með óhreint mjöl í pokahorninu.  Ásökunin á hendur Stjórnarskránni er tilhæfulaus og foráttuvitlaus, enda liggur þar fiskur undir steini.  Stjórnarskráin stóðst áraunina í Hruninu, þó að sumir stjórnmálamenn hafi bilað. Neyðarlögin, sem björguðu landinu frá gjaldþroti, stóðust Stjórnarskrána.  Landið hélt fullveldi sínu.

Núgildandi Stjórnarskrá lýðveldisins er helzta brjóstvörn fullveldis landsins, því að hún bannar framsal fullveldis í verulegum mæli.  Þannig girðir hún fyrir, að svikulir þingmenn geti með meirihlutasamþykkt framselt tiltölulega nýfengið fullveldi til annarra ríkja eða ríkjasambanda. Stjórnarskráin girðir fyrir afglöp þings, t.d. inngöngu í ESB. Verulegt fullveldisframsal nú krefst Stjórnarskráarbreytingar, sem útheimtir samþykki tveggja þinga.  Þunglamalegt fyrirkomulag, en í mörgum löndum torsóttara, því að þar er farið fram á aukinn meirihluta þings, og breyting á Stjórnarskrá á ekki að vera auðveld.  

Um þetta snýst sviksamlegt bröltið með "endurskoðun Stjórnarskráarinnar".  Lýðskrumarar og loddarar geta aldrei nefnt hlutina réttum nöfnum.  Þeir, sem harðast berjast fyrir nýrri Stjórnarskrá, sigla undir fölsku flaggi.  Þeir vilja afnema fullveldisvarnir Stjórnarskráarinnar. Í drögum þingskipaðs hóps, sem lætur, eins og hann hafi verið þjóðkjörinn, sem sendi tillögu um nýja Stjórnarskrá til Alþingis, er búið að afnema þennan varnagla fullveldisins. Téð drög, sem með alveg ótrúlega gösslaralegum og ólýðræðislegum aðdraganda hefur nú verið ýtt á flot og kjósa á um 20. október 2012, undir yfirskyni spurningavaðals eða skoðanakönnunar, eru sniðin að áformum Brüsselvina til að unnt verði í fyllingu tímans að auðvelda inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, jafnvel að smygla landinu þar inn í blóra við vilja meirihluta þjóðarinnar, ef samþykki fyrir slíku skyldi nást á Alþingi með einum eða öðrum hætti. 

Þess finnast engin dæmi í heiminum önnur en á Íslandi, að staðið hafi verið svo endemis flausturslega og ólýðræðislega að grundvallarbreytingum á grundvallarlögunum.  Í nokkrum fylkjum Bandaríkjanna hefur sú leið verið valin að fá aðila utan þings til að gera tillögu um stjórnarskráarbreytingar, en þá voru atkvæðisbærir íbúar undantekningarlaust spurðir að því í almennri atkvæðagreiðslu, hvort þeir vildu hafa þann háttinn á.  Auðvitað átti að sýna íslenzkum ríkisborgurum þá lágmarksvirðingu að spyrja þá í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort þeir vildu, að 

  • Alþingi hefði forgöngu um endurskoðun Stjórnarskráarinnar 
  • valinkunnir stjórnlagafræðingar yrðu fengnir til verksins
  • kosið yrði til stjórnlagaþings

Þetta var sjálfsagt upphaf í ljósi þess, að Stjórnarskráin sjálf mælir svo fyrir um, að fyrsti hátturinn hér að ofan skuli viðhafður, og að sjálfsögðu hljóta allar tillögur um breytingu á íslenzku Stjórnarskránni að koma til umfjöllunar Alþingis.  Hroki einstaka stjórnlagaráðsaðila er yfirþyrmandi, þegar þeir leyfa sér að setja Alþingi lífsreglurnar um það, hvernig skuli meðhöndla tillögurnar.  Þessir stjórnlagaráðslimir skilja ekki einu sinni, að þeir eru ekki þjóðkjörnir, og hafa ekki hærri stöðu en aðrar þingskipaðar nefndir.    

Drögin, sem kjósa á um, minna á "sálina hans Jóns míns", sem kerling tróð í skjóðu sína, batt rammlega fyrir og tókst að fleygja inn um Gullna hliðið, framhjá Sankta -Pétri.  Kerlingin er í þessu tilviki þekktur lýðskrumari í þokkabót.

  1. Af þessum sökum er einboðið að segja nei við fyrstu spurningunni á atkvæðaseðlinum og hafna þannig kolrangri aðferðarfræði, flausturslegu fúski og torskilinni moðsuðu, sem setur hvorki löggjafanum né framkvæmdavaldinu nægar skorður.
  2. Önnur spurning fjallar um þjóðnýtingu náttúruauðlinda.  Hér er ætlunin að smygla ákvæði í anda Karls Marx og Vladimirs Leníns inn í Stjórnarskrána, sem sagt gjaldþrota hugmyndafræði.  Er það dæmigert fyrir verk þetta allt að reyna að smygla afar umdeildri og misheppnaðri sameignarstefnu inn í Stjórnarskrána.  Þetta ákvæði stríðir algerlega gegn núverandi eignarréttarákvæði Stjórnarskráarinnar, sem er hornsteinn markaðskerfisins, sem eitt getur tryggt Íslendingum lífskjör, er samkeppnihæf séu við næstu lönd.  Þeir, sem festa fé sitt í vinnslu auðlindarinnar, hver sem hún er, eiga rétt á að nýta hana undir vísindalegri stjórnun hins opinbera, sem tryggir sjálfbæra nýtingu.  Ef sá, sem nýtir, hefur ekki sjálfur mestan hag af góðri umgengni við auðlindina, þá munu almannahagsmunir bíða tjón af. Hér ber þess vegna að segja nei.
  3. Þriðja spurningin er dæmigerð fyrir tvískinnunginn og óheilindin í sambandi við þessa endurskoðun Stjórnarskráar.  Spurt er, hvort kjósandinn vilji, að í nýrri Stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi.  Af hverju er ekki komið beint að efninu og spurt, hvort kjósandinn vilji hafa þjóðkirkju á Íslandi eða ekki ?  Það er stjáklað eins og köttur í kringum heitan graut um afnám þjóðkirkjunnar.  Með því að segja já hér, er ekki einu sinni víst, að þjóðkirkjan haldist, en með neii hverfur hún auðveldlega.  Hér eru mikil óheilindi á ferð.
  4. Fjórða spurningin er um persónukjör, þ.e. hvort kjósandinn vilji heimila persónukjör í meira mæli en nú er.  Spurningin er eins gagnslítil og hugsazt getur um þetta efni, því að komi auknar heimildir, geta þær spannað mjög vítt svið.  Það er rétt að ýta undir persónukjör, svo að litlaust og gagnslaust fólk geti síður flotið inn í skjóli stjórnmálaflokkanna.  Svarið er já.
  5.  Fimmta spurningin virðist í fljótu bragði vera sú skýrasta í þessum spurningavaðli fyrir utan þá fyrstu, en þegar betur er að gáð, er hér flagð undir fögru skinni.  Spurningin vitnar um falskan uppruna sinn, því að það er rétt einu sinni verið að spyrja um allt annað en samkvæmt orðanna hljóðan.  Það er í raun verið að spyrja kjósandann, hvort hann vilji hafa landið eitt kjördæmi, því að það er eina leiðin til að uppfylla skilyrðið, sem spurt er um.   Spurningin fjallar um það, hvort kjósandinn vilji hafa ákvæði í Stjórnarskrá um, að atkvæði allra kjósenda hafi sama vægi.  Um þetta má hafa mörg orð, en í stuttu máli verður ekki böl bætt með því að bæta við öðru verra.  Dreifbýlið stendur veikt gagnvart þéttbýlinu, en það verður ekki fallizt á að bæta úr því með því að láta hvert atkvæði dreifbýlisins vigta langt umfram hvert atkvæði úr þéttbýlinu, þegar riðið er til þings.   Það kemur vel til greina að setja mótvægisákvæði í Stjórnarskrá, sem styður við hagsmunagæzlu á Alþingi í þágu dreifbýlis, sem er aðaltekjuaflvaki landsins, gegn því að gera atkvæðisréttinn jafnari en nú er.  Það kemur þar að auki vel til greina að auka hlut sveitarfélaganna enn í heildartekjum hins opinbera um leið og fleiri verkefni ríkisins verða flutt til sveitarfélaganna.  Ræða þarf, hvaða tekjustofnar og verkefni mundu þá flytjast, en nefna má tekjuskatt af fyrirtækjum, svo að ekki sé nú minnzt á hið umdeilda og stórgallaða auðlindagjald.  Ef spurningin hefði verið opnari, t.d. þannig: vilt þú hafa kosningalöggjöfina þannig, að hlutfall fjölda kjósenda á bak við hvern þingmann geti hvergi orðið hærra en 1:1,15, hefði málið horft allt öðru vísi við en þegar aðeins er boðið upp á eina lausn, þ.e. vægið 1:1.  Rétta svarið hér er þess vegna nei.   
  6. Síðasta spurningin fjallar um beint lýðræði, sem er mikils um vert að fá í Stjórnarskrá, enda tímanna tákn, en þessu er hægt að klúðra líka.  Veldur þar hver á heldur.  15 % atkvæðisbærra manna á að geta krafizt þjóðaratkvæðis um öll mál, einnig varðandi fjárlög og samninga við erlend ríki, og einnig 40 % þingmanna eða 25 þingmenn, en þá er óþarft að halda þessum rétti hjá forseta lýðveldisins. Tímanna tákn er að svara já hér.  

Einkennilegt er, að í þessum spurningavaðli skuli ekkert vera spurt um forsetaembættið.  Samt eru skoðanir manna mjög skiptar um framtíðarskipan forsetaembættisins.  Það felast ákveðin tækifæri til enn skýrari valdmarka hinna þriggja greina ríkisvaldsins, löggjafans, ríkisstjórnar og dómskerfis, með því að endurskilgreina forsetaembættið og koma á laggirnar Stjórnlagadómstóli.  Forsetinn þarf að fá skýrara hlutverk innan stjórnskipanarinnar á kostnað framkvæmdavaldsins, þó að ekki verði horfið frá þingræðisfyrirkomulaginu.  Stjórnlagafræðingar eru betur í stakkinn búnir til að gera skýra tillögu um þetta til Alþingis en glergrísir og froðusnakkar, sem telja sig vinna úr hugmyndum óljóss Þjóðfundar um heilindi, réttlæti og samvinnu, sem endurspeglað hafi vilja þjóðarinnar vegna handahófsvals.  Þetta er raunar óboðleg "hundalógík".  Nær hefði verið að leita í smiðju stjórnlaganefndarinnar, sem gaf út um 500 bls. ritverk og var forveri Þjóðfundar.  Allt þetta afspyrnu ólánlega ferli, sem var illa til stofnað af ógæfufólki, eins og hér hefur verið rakið, mun líklega kosta ríkissjóð yfir einn milljarð króna áður en endir verður á það bundinn.  Er þetta hægt, Matthías ?    

Hlutverk Stjórnarskráar er m.a. að kveða greinilega á um valdmörk allra þriggja greina ríkisvaldsins og um hlutverk, skyldur og ábyrgð innan hverrar greinar.  Þetta er gert með ófullnægjandi hætti í tillögu Stjórnlagaráðs, eins og prófessor emeritus, Sigurður Líndal, o.fl. lögfróðir menn hafa bent á.  Stjórnarskrá á að vera krystaltær, án orðagjálfurs (knöpp) og stefnuyfirlýsinga, auðskilin hverju mannsbarni, enda réttindaskjal almennings í landinu.  Það er tillaga Stjórnlagaráðs ekki, svo að vægilega sé til orða tekið, og þess vegna þarf að taka þessa stjórnlagavinnu nýjum og föstum lýðræðislegum og faglegum tökum í senn.   

  Hraunfoss 1  


Að evru fallinni

Beygur er nú í mörgum Evrópumanninum vegna stöðu illa ígrundaðrar tilraunastarfsemi stjórnmálakokka hinnar sameiginlegu myntar.  Nú eftir að markaðirnir bera ekki lengur traust til evrunnar, munu evruríkin, jafnvel með aðstoð AGS, ekki hafa neitt bolmagn til að hindra hrun gjaldmiðilsins.

Fjármálakreppan, sem hófst með lausafjárþurrð banka árið 2007, olli miklum eignabruna eftir eignabólumyndun vegna mikillar aukningar peningamagns í umferð, og náði hámarki með gjaldþroti Lehman Brothers 15. september 2008, hefur kostað banka og ríkissjóði óhemju fé.  Allt var þetta vegna mjög ógætilegrar peningamálastefnu seðlabanka og lausgirtrar útlánastefnu banka.  Fjárfestingarnar skiluðu litlum sem engum arði, eins og nú er að koma á daginn í Kína og mun valda bæði fjármálalegri og stjórnmálalegri kreppu þar.  Þeir, sem kasta fé á glæ með ógætilegum fjárfestingum eða gæluverkefnum, hljóta sína refsingu.  Sannast bezt þar, að sígandi lukka er bezt.

 Það er ekkert borð fyrir báru lengur.  Valið stendur á milli peningaprentunar Seðlabanka evrulands, ECB, og þess að láta skeika að sköpuðu.  Allur fjárausturinn til að fresta þjóðargjaldþroti Suður-Evrópu ríkjanna er unninn fyrir gýg, og allt er það fé glatað.  Þetta er Jens Weidemann, seðlabankastjóra Þýzkalands, ljóst flestum löndum hans.  Ítalinn, sem nú stjórnar seðlabanka evrunnar, vill fá að blása í glæðurnar.  Mikil barátta stendur yfir innan ECB (seðlabanka evrunnar) og ESB um peningamálin, enda eru Spánn og Ítalía á heljarþröminni.

Mun meira fé mun glatast við gjaldþrotin en nú er búið að verja til björgunaraðgerða, en fallið verður ekki umflúið úr þessu; það verður ekki við neitt ráðið.  Bolmagnið hrekkur ekki til. Ýmsir bankar munu þá rúlla á hliðina og aðrir standa tæpt. Eina lausnin út úr skuldakreppu er að binda endi á skuldasöfnun.  Þetta á ekki sízt við um ríkissjóðina, hverra forráðamenn verða að læra að sníða sér stakk eftir vexti.  Þessi einfalda staðreynd á líka við um íslenzka ríkissjóðinn. 

Þjóðirnar, sem í hlut eiga, munu eiga um sárt að binda í 5-10 ár, enda ekki hafa nokkurt lánstraust.  Kaupmáttur þeirra og lífskjör munu hrynja, sem hefur slæm áhrif á utanríkisviðskipti margra landa, þ.á.m. Íslands.  Íslendingum er betra að fara strax að huga að nýjum mörkuðum í stað Suður-Evrópu, t.d. í Suður-Ameríku og Austur-Evrópu. 

Umsagnaraðilar, sem tjáðu sig um verðbréfafallið 9. ágúst 2007, héldu því fram, að markaðurinn mundi rétta sig af á nokkrum vikum.  Þeir gáðu ekki að því, að fjármálakerfi heimsins var orðið helsjúkt eftir að Nixon, Bandaríkjaforseti, rauf alla viðmiðun bandaríkjadals við gullfótinn.  Eftir það var taumlaust hægt að prenta peninga.  Þetta varð í stuttu máli íslenzka fjármálakerfinu að falli árið 2008.  Þeir, sem kjósa að koma sökinni á tiltekna íslenzka stjórnmálaflokka, skilja ekki eðli málsins og gera sig seka um loddaralega umgengni við sannleikann og hreinræktað lýðskrum.  

Evran hverfur sem mynt, enda hafa engir hag af henni, nema Þjóðverjar.  Þeir munu fá sitt þýzka mark aftur, sem verður sterkara en evran og mun þannig halda aftur af útflutningsgetu Þjóðverja.  Þeir munu verða fyrir efnahagslegu áfalli við hrun evrunnar, enda munu þeir tapa stórfé.  Sunnan Alpa og vestan Rínar verður ekki feitan gölt að flá.  Þjóðverjar munu þess vegna snúa sér til austurs, og í Austur-Evrópu verður fjárfest mun meira en annars staðar í Evrópu.  Austur-Evrópa verður áreiðanlega mjög samkeppnihæf á þessum áratugi.  Þar er talsvert af auðlindum í jörðu, t.d. setlagagasi.

Þeir, sem ekki höfðu látið ginnast til að taka upp evruna, munu sleppa skárst, þegar ósköpin dynja yfir.  Þar ber Bretana hæst, en þeir munu standa með pálmann í höndunum með sitt sterlingspund.  Þessir atburðir munu styrkja London sem fjármálamiðstöð Evrópu, og Frankfurt mun ekki um sinn bera sitt barr.  Brezkir bankar munu að vísu tapa háum upphæðum á óförum Suður-Evrópu, en enska sterlingspundið mun samt styrkjast við brotthvarf evrunnar.  Hagkerfi Bretanna er að sumu leyti fallvalt vegna gríðarlegrar skuldsetningar einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera og mikillar hlutdeildar fjármálakerfisins í efnahagskerfi landsins, en að öðru leyti ætti að vera traustur grundvöllur fyrir brezka hagkerfið að verða hið næst stærsta í Evrópu vestan Rússlands; t.d. er aldurssamsetning Breta hagstæð.  Bretar munu deila og drottna í Evrópu, eins og þeir gerðu þar til járnkanzlarinn, Otto von Bismarck, sameinaði Þjóðverja með blóði og járni.  Í kjölfar sameiningar Þýzkalands 1871 tóku Þjóðverjar mjög að láta að sér kveða í Evrópu, en nú horfir ekki vel fyrir þeim vegna rétt einnar misheppnaðrar tilraunar til sameiningar Evrópu.   

Andrúmsloftið í Evrópu verður væntanlega svo eitrað við hrun peningakerfisins í evrulöndunum 17, að starfsgrundvöllur ESB í sinni núverandi mynd verður ekki lengur fyrir hendi.  Líklegt er, að sjónarmið Breta um það, hvernig ESB á að starfa, sem og á fleiri sviðum, verði ofan á.  ESB mun þess vegna verða skorið niður við trog og breytast í fríverzlunarsvæði.

Líklegt er, að Rússar muni reyna að seilast til meiri áhrifa í Evrópu en verið hefur, einkum á gömlum áhrifasvæðum sínum í Austur-Evrópu.  Ekki er víst, að þeim verði kápan úr því klæðinu, nema í Hvíta Rússlandi og í Úkraínu.  Þeir hafa reynt sig með orkuvopnið og skrúfað tímabundið fyrir gasflæðið til að knýja fram vilja sinn.  Nú eru hins vegar að skipast veður í lofti, og orkumarkaðurinn að breytast úr seljendamarkaði í kaupendamarkað.  Svo er setlagagasinu fyrir að þakka, en með því að þróa tækni við vinnslu þess hefur tekizt að auka mjög gasframboð í heiminum, og orkuverð hefur jafnframt lækkað.

Hvaða áhrif mun þessi þróun hafa á hagsmuni Íslands ?  Það þarf að efla tengslin við Þýzkaland og Bretland, því að í þessum löndum eru mikilvægir markaðir fyrir Íslendinga á sviði áls, sjávarafurða og ferðamennsku.  Jafnframt ber höfuðnauðsyn til að leita nýrra markaða utan Vestur-Evrópu.  Álitlegir markaðir munu t.d. myndast í Austur-Evrópu og í Asíu að ógleymdri Suður-Ameríku.  

Miklir atburðir eru að öllum líkindum framundan í Evrópu.    Hvaða áhrif munu þeir hafa hérlendis, t.d. á stjórnmálin ?  Stefna Samfylkingarinnar um, að alfa og omega íslenzkra stjórnmála eigi að verða að tengja Ísland sem nánustum böndum við stórríki Evrópu, bíður skipbrot. Málflutningur formanns viðræðunefndar ríkisstjórnarinnar við stækkunarstjóra ESB er lítilsigldur, þar sem hann útskýrir, að hann burðist við að skapa Íslendingum sem bezta stöðu til að sækja í styrktarsjóði ESB. Það hefur aldrei verið talið eftirsóknarvert í þessu landi að ganga fyrir höfðingjana með bettlistaf í hendi. Samfylkingin hefur enga aðra hugsjón en þennan betlistaf. Samfylkingin mun þess vegna líða undir lok með evrunni og ESB.  Farið hefur fé betra.  Einsmálsflokkur, sem verður ber að kolröngum boðskap, sem gengur algerlega á skjön við þjóðarhag, er dauðadæmdur.  Ljóst er, að flokkurinn er bráðfeigur, þegar liðsuppstilling hans fyrir komandi kosningabaráttu, er skoðuð.  Flokkur með slíka forystu er auðveld bráð fálka á flugi.   

Hvað verður þá um garminn Ketil skræk, þegar Skugga-Sveinn hrekkur upp af ?  Vinstri hreyfingin grænt framboð, ærulaus, enda með allt á hælunum, hefur tengt örlög sín svo rækilega við örlög Samfylkingarinnar í því ólánsstjórnarsamstarfi, sem að nafninu til lafir enn, að henni verður vart margra lífdaga auðið.  Ný framboð munu kasta rekunum á hræið. 

VG er meðábyrg fyrir þeim undirlægjuhætti, sem verið hefur kennimark ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur gagnvart ESB og fjármálaveldi Evrópu.  Þau færðu erlendum vogunarsjóðum bankana á silfurfati.Líklegt er, að Steingrímur Sigfússon innsigli svikaferil sinn í komandi samningaviðræðum um makrílinn.  Á ferli þessarar ríkisstjórnar hefur engu verið líkara en hún gangi erinda erlendra afla gegn hagsmunum Íslands.  Skeleggasti gagnrýnandi feigðarflans forystu og þingflokks VG, sem allur, utan Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, greiddi atkvæði með því að senda umsókn um inngöngu í ESB til Brüssel, Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, ritaði góða grein í Morgunblaðið 23. ágúst 2012, "Framfylgjum stefnu okkar gegn ESB-aðild í stað orðavaðals":  

Yfirstandandi viðræðum við ESB um aðild Íslands að sambandinu verður ekki líkt við annað en leikhús fáránleikans, þar sem aðeins einn stjórnmálaflokkur í landinu, Samfylkingin, stendur að baki málinu og fullljóst, að meirihluti landsmanna er andvígur aðild.  Enginn botn fæst í viðræður um "kaup og kjör" í Brüssel á þessu kjörtímabili, enda þurfa menn engar viðræður til að setja sig inn í þann grundvöll, sem ESB hefur byggt á til þessa og er forsenda aðildar." 

"Bjarghringurinn, sem litið er til í Berlín og Brüssel felst í yfirtöku ESB á efnahags- og fjármálastjórn aðildarlanda og þannig grundvallarbreytingu í átt að sambandsríki.  Hvers konar vitfirring er það við slíkar aðstæður að standa í aðildarviðræðum af Íslands hálfu og aðlögun íslenskrar stjórnsýslu að ESB ?"   

"Nú reynir á Alþingi að koma böndum á þennan skollaleik, og í þeim efnum þarf VG að tala skýrt.  Forysta flokks verður að geta horfst í augu við fólkið, sem er ætlað að vera burðarásar í stjórnmálastarfi, að ekki sé talað um að skírskota til trausts manna, þegar kemur að kjörklefanum." 

Hér ritar fyrrverandi ráðherra Alþýðubandalagsins tæpitungulausan texta beint úr grasrót Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.  Forysta flokksins er rúin trausti.  Formaður og varaformaður eru aðhlátursefni, hvort með sínum hætti.  Forystan er föst í eigin ósannindavef og getur ekki horfzt í augu við staðreyndir.  Hún snýr öllu á haus, enda er hún búin að eyðileggja stjórnmálaflokkinn, sem Hjörleifur Guttormsson og hans líkar hafa stutt með ráðum og dáð hingað til.  Svo falla krosstré sem önnur tré.

Afleiðing eldingar ágúst 2012

 

  

 

 

 

   

 

 


Samstaða um þjóðþrifamál

Forseta lýðveldisins mæltist að vanda vel í innsetningarræðu sinni 1. ágúst 2012.  Þar vakti hann máls á því, að þau, sem hann færði völdin 1. febrúar 2009, hefðu farið illa með völd sín (þó að það væru ekki hans orð), því að um þverbak hefði keyrt í gerræðislegum stjórnarathöfnum, oft í bullandi ágreiningi innan ríkisstjórnar og við stjórnarandstöðuna. Einkennandi fyrir þessa ríkisstjórn vinstri manna er lömun.  Engar nýjar hugmyndir um framfaraskref fyrir land og lýð koma fram.  Engar hugsjónir eru kynntar til sögunnar um leiðir, er leitt geta til betri afkomu.  Óvíst er, að ríkisstjórnin óski almenningi bættrar afkomu, því að öfl innan stjórnarflokkanna telja hagvöxt vera hættulegan, og "náttúran verði að njóta vafans", enda geta nú sumir einvörðungu hrósað happi yfir að hafa náttúru (enn).

Þetta eru eins ógæfulegir stjórnarhættir og hugsazt getur ekki sízt á tímum sem þessum, þegar þjóðin á við mjög mikla efnahagserfiðleika að etja.  Sumpart markast þessi hegðun af inngrónu forræðishugarfari stjórnarinnar, sem minnir að sumu leyti á einræðissinnaða stjórnmálamenn sameignarsinna eftir valdarán í Austur-Evrópu og að öðru leyti á einvalda síðmiðalda, sem hafðir eru eftir frasar á borð við:"vér einir vitum". Össur talar að vísu oftast um utanríkisráðherrann í 3. persónu, eintölu, þegar 1. persóna eintölu eða jafnvel fleirtölu er auðskiljanlegri.

Það hefur verið sagt um ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, að geti hún efnt til illdeilna um málefni, sem efst eru á baugi hverju sinni, þá láti hún einskis ófreistað að gera það fremur en að leita að sáttagrundvelli.  Þetta kann líka að vera vegna skapgerðargalla ráðherranna og eðlislægrar ófélagslegrar hegðunar ofstækisfólks.  Dæmin eru mýmörg og nægir að nefna Icesave, Stjórnarskráarmálið, auðlindanýtingu s.s. fiskveiðistjórnunarkerfið og Rammaáætlun um verndun og nýtingu orkulinda. Jafnvel kattavinurinn og ljóðskáldið Huang Nubo, fjárfestir, lendir í eldlínunni, skotlínu á milli ráðherra, sem kýta eins og börn í sandkassa.   Þetta eru algerlega úreltir og óboðlegir stjórnarhættir, sem varpa ljósi á þroskastig hrossataðskögglanna, sem ofan á fljóta í spillingunni og vinstra gaufinu.

Ný ríkisstjórn, sem væntanlega verður skipuð borgaralega þenkjandi fólki af miðju stjórnmálanna, verður að taka upp nútímalegri stjórnarhætti; leggja spilin á borðið, segja þjóðinni sannleikann og vinna hana á sitt band í hverju málinu á fætur öðru með vísun til langtíma hagsmuna heildarinnar.  Ný ríkisstjórn ætti eðli málsins samkvæmt auðveldara með þetta en núverandi stjórnvöld, sem skipuð er útúrborulegum sérvitringum og á útjaðri stjórnmálanna með skoðanir og markmið, sem almenningi hugnast illa eftir að hafa kynnzt útfærslu þeirra í tæp 4 ár, enda á þetta fólk sér hvergi skoðanabræður og -systur í ríkisstjórn í Evrópu nú um stundir.  Tíminn hljóp frá þessu fólki við fall Berlínarmúrsins 1989.

Ný ríkisstjórn á ekki að hika við að leggja stórmál í dóm þjóðarinnar í stað þess að láta ofstækisfullan minnihluta á Alþingi egna endalaust til ófriðar "í nafni þjóðarinnar" og jafnvel að taka þjóðþrifamál í gíslingu.  Í stað tímasóandi þrefs á að láta þjóðina höggva á hnútinn. Fiskveiðistjórnunarmálið og Rammaáætlun eru dæmi um þetta. 

Þar með mundi ný ríkisstjórn svara kalli forseta lýðveldisins um aukið beint lýðræði og minni átakastjórnmál, því að úrskurður þjóðarinnar er endanlegur. Það er auðvelt að leggja skýra valkosti um stjórnun fiskveiða og nýtingu orkulinda fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu.

Um mánaðamótin júlí-ágúst 2012 mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins um 37 % í mánaðarlegri skoðanakönnun.  Mörgum þykir þetta of lágt á þessum tímapunkti og skal taka undir það.  Hnjóðað er að því tilefni í forystu flokksins og ýmislegt tínt til.  Hún þykir t.d. deig í baráttunni.  Þá er þess að minnast, að þing stóð fram í júní 2012, og þá tók við kosningabarátta forsetaefnanna.  Óeðlilegt hefði verið að draga athygli frá henni.  Með sumarleyfi flestra að baki myndast nú svigrúm.  Hvers vegna efna formenn og varaformenn borgaralegu stjórnmálaflokkanna ekki til fundaherferðar um landið saman og bjóða landsmönnum upp á raunhæfan og lokkandi valkost við illindapúkana, sem nú sitja á fjósbitum Stjórnarráðsins ? 

Forystu Sjálfstæðisflokksins er brigzlað um svik í Icesave-málinu og bornar á brýn fyrirætlanir um að svíkja Ísland inn í ESB.  Á fundum með forystunni gæfist almenningi kostur á að þýfga hana um Icesave-málið, og henni gæfist þá tækifæri til að gera hreint fyrir sínum dyrum.  Varðandi ESB-málið er auðvitað fordæmi um hrikaleg svik flokksforystu VG í stórmáli, en að ætla forystu Sjálfstæðisflokksins svik í því máli verður að telja til vænisýki.  Með tilraun til slíks mundi hún fremja stjórnmálalega kviðristu á sjálfri sér, Landsfundur flokksins yrði umsvifalaust kallaður saman og forystan sett af.

Sá er munurinn á forystu Sjálfstæðisflokksins og núverandi forystu stjórnarflokkanna, að hin fyrr nefnda tekur rökum, lærir og dregur rökréttar ályktanir af breytingum í umhverfinu.  Hafi einhverjir í forystu Sjálfstæðisflokksins einhvern tímann verið hallir undir inngöngu í ESB og upptöku evru, skal höfundur þessa pistils éta hattinn sinn upp á það, að svo er ekki lengur. Í Sjálfstæðisflokkinum er fyrir hendi þjóðmálaafl til róttækra þjóðfélagsbreytinga, hvað sem hælbítum aftan úr grárri forneskju líður.

Stuðningsmenn stjórnmálaflokka ganga ekki að því gruflandi, að þeir verði misánægðir með frammistöðu og verk fulltrúa flokksins.  Enginn getur ætlazt til að vera alltaf hæstánægður.  Menn sameinast um grundvallarstefnu, og flokksmenn verða síðan að sýna hver öðrum nægt umburðarlyndi til að geta starfað saman.  Hið sama á við í öllum fyrirtækjum og félögum.  Í Sjálfstæðisflokkinum sameinast fólk undir merkjum einstaklingsfrelsis, einkaframtaks og jafnra tækifæra.  Gjör rétt, þol ei órétt. 

Af þessu leiðir ósk um lágmörkun opinberra afskipta og skattheimtu.  Afleiðingin af slíku verður öflug uppbygging athafnalífsins með fullri atvinnu fyrir allar vinnufúsar hendur.

Frelsi fylgir ábyrgð og þar af leiðandi setja sjálfstæðismenn ráðdeild og sparnað í öndvegi.  Skuldasöfnun núverandi ríkisstjórnar er eitur í beinum sjálfstæðismanna, enda er hún siðlaus og í raun tilræði við afkomu barna okkar og barnabarna.  Hún er í andstöðu við stefnumiðið um jöfn tækifæri öllum til handa, af því að með þessari óráðsíu í skuldsetningu ríkisins er verið að dæma afkomendur okkar til fátæktar.  Þessari ósvinnu verður að linna, en henni linnir ekki, nema kjósendur refsi núverandi stjórnarflokkum grimmilega, sem góðar vonir standa til. 

Til að brjóta stöðnun hagkerfisins á bak aftur þarf kerfisbreytingar við stjórn peningamála og ríkisfjármála og miklar fjárfestingar, u.þ.b. 20 % af VLF, innlendar sem erlendar.  Þessar breytingar á þjóðfélaginu til frelsis og framfara munu leiða af sér sjálfbæran hagvöxt grundvallaðan á framleiðslu útflutningsverðmæta í stað þess, að landsmönnum sé vísað til Noregs í atvinnuleit, hent út af atvinnuleysisskrá vegna langtíma atvinnuleysis eða bent á að taka út séreignarlífeyrissparnað langt um aldur fram.  Vinstri stefna er alltaf ósjálfbær, því að hún fær fólk til að éta útsæðið í stað þess að sá, hlúa að uppskerunni og nýta hana til virðisaukningar.  Þetta er sagan um Litlu gulu hænuna.  Kanski má finna stefnumörkun Sjálfstæðisflokksins í þeirri ágætu dæmisögu.

Það getur aldrei orðið friður um fátækt á Íslandi.  Þess vegna getur ekki orðið friður um furðulega ófaglega tilraunastarfsemi með grundvallaratvinnuveginn, sjávarútveginn.  Þess vegna getur ekki orðið friður um afbakaða Rammaáætlun með ofxaxinni verndun og óþörfum biðflokki.  Það getur heldur ekki orðið friður um gæluverkefni í forgangsröð á undan  styrkingu innviða í menntun og lækningum.  Það er hægt að ná miklu betri árangri við stjórnarskráarbreytingar með mun ódýrari hætti en núverandi ríkisstjórn leggur upp með.  Það er hægt að spara stórfé með endurskoðun bótakerfis og með breytingum á utanríkisþjónustunni.  Sjálfstæðismenn munu leiða samskiptin við ESB í farsælan farveg án illinda og sárinda, þar sem báðir aðilar geta gengið hnarreistir frá borði eftir að íslenzka þjóðin hefur sjálf tekið af skarið í þessu endemis vandræðamáli, sem hefur leitt í ljós, að Samfylkingin er ekki í húsum hæf.  Aðeins Sjálfstæðisflokkinum er treystandi til stórræðanna.     

ListakjörLandsfundur Sjálfstæðisflokksins 2011

 

 

    

    


Tekizt á um Evrópu

Nokkrum sinnum hafa geisað heiftúðlegir bardagar um yfirráðin í Evrópu. Nú fara fram harðvítug átök á bak við luktar dyr í Brüssel, Berlín, París, Róm og Madrid.  Þetta má ráða af yfirlýsingum, sem frá þessum stöðum berast bæði fyrir og eftir fundi leiðtoga stærstu ríkjanna, evruríkjanna og ESB-ríkjanna. Síðasta lota átakanna hófst árið 2010, er skuldavandi evruríkjanna tók að ógna evrunni.  Þá óttuðust menn, að gjaldþrot Grikklands mundi leiða til hruns evrunnar.  Það óttast menn vart lengur, og flestir búast við þjóðargjaldþroti þar nú árið 2012.  Svo illa hefur evran leikið Grikkina.  Nú vekur hrun Spánar ESB-mönnum mestan ugg í brjósti.  Það gæti orðið árið 2013 eftir öllum sólarmerkjum að dæma. Gjaldþrot Spánar mun valda svo djúpri efnahagskreppu í Evrópu, að líklega mun verða evrunni um megn.  Björgunarkostnaður er miaEUR 650, og svo mikið fé er ekki í handraðanum.  Af þessum sökum er Evrópa nú þegar í úlfakreppu, peningalegri, ríkisfjármálalegri og stjórnmálalegri.  Upp frá sviðinni jörð evrunnar munu rísa gömlu myntirnar og þjóðirnar munu endurheimta fullveldi sitt frá ESB. Það er öllum til háðungar, að íslenzk stjórnvöld skuli við þessar aðstæður halda áfram aðlögunarviðræðum með ærnum tilkostnaði.  Það hlýtur að vera aðhlátursefni búrókratanna í Brüssel á góðum stundum, sem nú fer fækkandi.     

Vatnaskil urðu í viku 30/2012, er Moody´s tilkynnti um biðleik að lækkun lánshæfismats Þýzkalands, Hollands og Lúxemborgar.  Athyglivert var, að Finnland var ekki í þeim hópi og mun þess vegna standa innan tíðar eitt uppi með hæstu lánshæfiseinkunn innan evrulands.  Það er eðlileg skýring á því.  Finnar hafa ekki sætt sig við þær tryggingar til greiðslu lánanna til Suður-Evrópu og Írlands, sem í boði hafa verið, og fengið betri veð en hinir. Þessir atburðir hafa þegar leitt til þess, að meirihluti Þjóðverja telur hag Þýzkalands betur borgið án evru en með.  Það styttist í endurkomu Deutsche Mark, sem Þjóðverjar syrgðu á sinni tíð. Vegna komandi Sambandsþingskosninga haustið 2013 munu leiðtogar Þýzkalands ekki þora að ganga í berhögg við þjóðarviljann.

Bandaríska matsfyrirtækið, og ýmsir aðrir, er tekið að reikna með, að lunginn úr lánveitingunum til Suður-Evrópu, sem hleypur á hundruðum milljarða, þegar saman fara greiðslur úr björgunarsjóði evrunnar og bankalán, fáist aldrei endurgreidd.  Suður-Evrópa er botnlaus hít, sem rís ekki undir kvöðum myntsamstarfsins. Það er sumpart vegna veikari þjóðfélagslegra innviða suðurfrá en norðurfrá og sumpart vegna of hás gengis evrunnar fyrir hagkerfi Suður-Evrópu, jafnvel enn, þó að gengi evrunnar hafi hrapað.  

Bilið á milli leiðtoga evruríkjanna jókst með kosningu Francois Hollandes, Frakklandsforseta.  Hann stóð fyrir samsæri á leiðtogafundi í lok júní 2012 á milli Frakklands, Ítalíu og Spánar gegn Angelu Merkel, Þýzkalandskanzlara, sem á eftir að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir rómönsku leiðtogana og lönd þeirra í þessu bandalagi germanskra, rómanskra, slavneskra og keltneskra þjóða.  Þetta varð Þjóðverjanum Joschka Fischer tilefni til vangaveltna, og er úrdráttur úr blaðagrein hans birtur hér að neðan.  Það er líklegt, að dagar evrunnar og jafnvel Evrópusambandsins séu nú þegar taldir.     

   

Grein Joschka Fischers, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, í Morgunblaðinu 19. júlí 2012, varpar ljósi á þetta.  Hann skrifar þetta um land sitt, Þýzkaland:

"Landið var orðið að táknmynd hroka og afneitunar í bæði knattspyrnu og stjórnmálum og taldi sig allra manna maka bæði í Evrópumeistaramótinu og í Evrópusambandinu". ...."Stefna Þýzkalands síðan evrukreppan hófst fyrir tveimur árum hafði skilið landið eftir einangrað og það átti sér ekki viðreisnar von gegn bandalagi Ítalíu, Spánar og Frakklands." 

Hér á Fischer við leiðtogafundinn í lok júní 2012, þar sem Angela Merkel var ofurliði borin og mátti lúta í gras fyrir rómanska bandalaginu.  Þar með kom brestur í öxulinn Berlín-París í fyrsta sinn.  Sá verður örlagaríkur og dregur langan dilk á eftir sér.  Almenningur í Þýzkalandi er vel meðvitaður um, hvað gerðist, og hvað það boðar. ESB mun ekki bera sitt barr eftir þetta.  

Vandi Evrópu hófst með bankakreppunni 2007 og þróaðist svo yfir í skuldakreppu ríkjanna vegna þess, hvernig tekið var á bankakreppunni.  Það hefur lítið sem ekkert verið tekið á vandamálum bankanna; aðeins dælt í þá fé skattborgaranna.  Bandaríkjamenn fóru öðru vísi að.  Þeir voru að sjálfsögðu með bankavandamál, enda á bankakreppan upptök sín þar með eitruðum vafningum og vafasömum uppfinningum fjármálasérfræðinga úr virtum háskólum.  Þar voru afskrifaðir miaUSD 800 af slæmum eignum bankanna.  Síðan stefnir allt upp á við hjá þeim, þó að hægt hafi á batanum undanfarið.  Í Evrópu hefur ekkert slíkt uppgjör farið fram, og þess vegna hjakkar Evrópa enn áfram í sama farinu.  Það vantar trausta yfirstjórn til að fást við vanda ESB, af því að fyrir henni er enginn grundvöllur, þar sem íbúar Evrópu kæra sig fæstir um að búa í einu sambandsríki. Draumurinn um Sambandsríki Evrópu, sem sumir af kaldhæðni nefna Fjórða ríkið, á sér aðallega samastað á meðal forstokkaðra búrókrata, sem sumir voru aldir upp í kommúnistaflokkum Austur-Evrópu og á meðal peningafursta Evrópu. 

Í ESB er engin samstaða um nein róttæk úrræði, af því að hagsmunir landanna eru ólíkir.  Hægt og sígandi er verið að þröngva Þjóðverjum til að taka ábyrgð á skuldum ESB-landanna. Slík er talin forsenda þess, að bjarga megi evrunni og veikum ríkjum ESB frá þjóðargjaldþroti. Kosningar eru til Sambandsþingsins haustið 2013, og þessi þróun verður æ ver þokkuð af almenningi í Þýzkalandi.  Ráðamenn Þýzkalands eru þess vegna á milli steins og sleggju. Almenningur þar kann þess vegna að flykkja sér um flokka, sem ekki taka í mál, að Þýzkaland gangi í ábyrgð fyrir skuldir óreiðuríkja. Þetta kann að valda stjórnmálalegri skálmöld í Berlín, sem einnig gerðist í Weimar-lýðveldinu.  Þetta er ósanngjarn samanburður, en sporin hræða.

Fischer skrifar eftirfarandi um samkomulag leiðtoganna í lok júní 2012:

"Samkomulagið í Brüssel var, sem lausn á fjárhagsvanda evrusvæðisins, allt annað en framþróun, því að það náði aldrei að hefja sig ofar þröngri áfallastjórnun.  Það býður ekki upp á neina áætlun til þess að sigrast á kreppunni í Suður-Evrópu, sem þýðir, að ógnin við evrusvæðið er enn fyrir hendi."

Þetta er mergurinn málsins.  Það er ekki tekið nógu róttækt á málum, eins og t.d. í BNA, og þess vegna hefur kreppan versnað stöðugt frá því, að hennar varð vart, og hún er að verða óviðráðanleg.  Hún getur þess vegna riðið Evrópusambandinu að fullu vegna innanmeina, sem líklega eru banvæn.

Fischer:

"Ef öxullinn á milli Frakklands og Þýzkalands virkar ekki, getur samrunaferli Evrópu ekki náð árangri.  Báðir aðilar verða að ákveða sig, hvort þeir vilji Evrópu, þ.e.a.s. fullan efnahagslegan og pólitískan samruna."

Þarna stendur hnífurinn í kúnni.  Þjóðir Evrópu eru ekki fúsar til að sameinast í eitt ríki.  Það verður þess vegna ekkert af því að sinni.  Afleiðing þessa verður sú, að skuldavandinn og evruvandinn verður ekki leystur.  Þjóðargjaldþrot sumra ríkja ESB og upplausn evrunnar blasir við.  Það ætti ekki að ríkja Þórðargleði neins staðar yfir þeirri grafalvarlegu stöðu mála, að stjórnmálamönnum Evrópu hefur rétt einu sinni tekizt að klúðra málum með slæmum afleiðingum fyrir alla heimsbyggðina. Það er hins vegar efni í sjálfstæða hugleiðingu, hvað tekur við í Evrópu.

Hér að neðan er mynd af aðalleikaranum í evrudramanu 2012 og til hægri af þeim manni, sem líklegastur er til að binda endi á dramað.  

 Mario Draghi   

   

  Horst Seehofer, formaður CSU

 


Hagsmunasamtök skattgreiðenda

Það var vonum seinna, að stofnuð voru hagsmunasamtök skattgreiðenda á Íslandi http://www.skattgreidendur.is .

Bæði hefur skattheimtuna á Íslandi tekið út yfir allan þjófabálk og meðferð skattfjárins verið fyrir neðan allar skriður. Segja má, að fjármálastjórnun ríkissjóðs undir vinstri stjórn hafi verið arfaslök og raunar einkennzt af sukki og svínaríi. 

Afleiðing óstjórnarinnar eru vaxtagreiðslur ríkissjóðs til útlanda upp á 220 mia kr á þremur árum samkvæmt forsíðu Morgunblaðsins, 20.07.2012.  Þetta eru blóðpeningar, því að ekki er um að ræða lán til arðsamra fjárfestinga, heldur í rekstrarhít ríkissjóðs. Stöðugt er aukið við skuldastabba ríkissjóðs.  Sú óstjórn er gjörsamlega siðlaus.  Núverandi ráðamenn heykjast á vandanum, sem þeir buðu sig fram til þjónustu við að leysa, en í staðinn vísa þeir vandamálunum á framtíðina.  Gjörðir þeirra og aðgerðaleysi eru allar hinar aumkvunarverðustu, enda mun sagan fara ómjúkum höndum um fólk, sem taldi sig allt geta, var fullt af lofti, en brást algerlega bogalistin.  

 

Útgjöld heimilanna 2012Sneiðmyndin hér til hliðar sýnir skiptingu útgjalda meðalheimilis á Íslandi þessi misserin.  Langstærsti útgjaldaliður heimilisins, 52 %, fer í beina og óbeina skatta til ríkis og sveitarfélaga auk annarra opinberra gjalda.  Þetta gríðarlega háa hlutfall er mikið hættumerki í íslenzku efnahagslífi og ávísun á stöðnun og kjararýrnun.  Það er í engu samræmi við það, sem almenningur fær til baka frá þessu dæmalausa bákni.  Það gefur auga leið, að spyrna verður við fótum, þegar hið opinbera er farið að sjúga til sín yfir helming tekna almennings í landinu. 

Ríkið er rekið með bullandi tapi á meðan sóun á borð við stjórnarskráarendurskoðun, aðildarviðræður við ESB, allt of stórvaxna utanríkisþjónustu og margt fleira, á sér stað. Útflutningstekjur landsins eru svo takmarkaðar, að þær standa ekki undir þeirri háu erlendu vaxtabyrði, sem ríkið hefur bakað sér og er 5 % af VLF.  Þessi mikla umsetning ríkissjóðs er ósjálfbær og verður að lækka.  Allir verða að sníða sér stakk eftir vexti. Ella verður ríkissjóður dragbítur á lífskjörin í landinu um ókomna tíð. 

Verðugt markmið er að lækka hlutfallið úr 52 % og niður fyrir 40 % á 6 árum með sparnaði í ríkisrekstri og aukningu landsframleiðslu.  Ríkið á að reka myndarlega, það sem það tekur að sér, t.d. fjárfesta í nýjum lækningatækjum, sem bjargað geta mannslífum og sparað rekstrarkostnað, en ekki að kreista líftóruna úr allri starfsemi, sem það kemur nálægt, með flötum niðurskurði eða öðrum viðlíka stjórnunaraðferðum.  Stjórnarhættir vinstri stjórnarinnar eru frumstæðir, af því að hún má ekki heyra minnzt á annars konar rekstrarform en ríkisrekstur.  Þingmenn hennar eru forstokkaðir og vonlaust um, að þeir muni nokkru sinni fitja upp á nýjungum.  

Erfðaprins Jóhönnu Sigurðardóttur, Guðbjartur Hannesson, sem frægur varð fyrir, "hve lítið nýtt gerðist hjá honum", þegar hann vann fyrir Jóhönnu að því að smokra Icesave um hálsinn á skattgreiðendum á Íslandi, þó að stórfréttir hefðu birzt, heldur því fram, að velferðarkerfið sé ekkert stærra á Íslandi en á Norðurlöndunum.  Þetta er heimskuleg röksemd manns með asklok fyrir himin fyrir því að ráðast ekki í niðurskurð ríkisútgjalda á Íslandi.  Jafnaðarmaðurinn virðist ekki hafa heyrt af hruni peningakerfisins, sem hér varð, og 100 % skuldabyrði ríkissjóðs af VLF né af miklum kostnaði, sem leggst á íslenzka skattgreiðendur vegna fámennis í stóru landi.  Við á Íslandi erum einfaldlega sem stendur fátækari en hinar Norðurlandaþjóðirnar og verðum þess vegna að sýna ráðdeild í rekstri heimila, fyrirtækja og opinberra sjóða.

Það þarf að endurskilgreina hlutverk ríkisins, og hvernig þessu hlutverki verði gegnt með hagkvæmustum hætti.  Ekki er ósennilegt, að með þeim hætti megi spara a.m.k. 50 mia kr eða 10 %.  Afganginn af gatinu og myndun greiðsluafgangs verður að brúa með aukinni landsframleiðslu.  Til þess þarf að örva hagkerfið, m.a. með lækkun skattheimtu og einföldun skattkerfis. Virkja markaðsöflin og laða fremur hingað auðugt fólk en að flæma það burt, eins og jafnaðarmennirnir gera. Með lágri skattheimtu af háum höfuðstóli fást hærri skatttekjur en með hárri skattheimtu af lágum höfuðstóli.  Þetta hafa vinstri menn aldrei skilið og munu aldrei skilja. Þar í liggur mein þeirra.    

Vinstri stjórnin, svo kallaða, sem hér lafir við völd, hefur eyðilagt skilvirkni skattkerfisins.  Það hefur hún gert með því að flækja tekjuskattskerfið með fjölgun skattþrepa, sem leitt hefur til mikillar hækkunar jaðarskattsins.  Þetta hefur dregið löngun úr fólki til tímabundinnar aukningar á vinnuframlagi sínu og þar með dregið úr hagvexti og gert ungu fólki alveg sérstaklega erfitt fyrir.  Þessi háskattastefna sameignarsinnanna hefur m.a. leitt til læknaskorts á Íslandi, af því að læknar telja sig fá svo lágar ráðstöfunartekjur hérlendis, að þeir hafi ekki efni á að snúa heim úr sérnámi, í sumum tilvikum með skuldabagga á bakinu. 

Hið sama á við um annað hámenntað fólk og þarf ekki hámenntun til. Frumkvöðlar margvíslegir forðast forræðishyggjuna. Við þurfum að laða hingað sem flest menntafólk og framtaksfólk ásamt eignafólki, ef unnt er. Hið nýja hagsmunafélag skattborgara hlýtur að berjast hart fyrir einföldun tekjuskattsins niður í eitt þrep.  Þar með minnkar þrýstingur á laun til hækkunar, sem dregur þá úr verðbólgu. Til greina kemur, að ríkið hafi lága tekjuskattsheimtu, t.d. 15 %-20 %, og engan persónuafslátt, nema til þeirra, sem hafa einstaklingstekjur undir MISK 2,0 á ári. Þá ber að afnema aftur eignaskattinn sem og alla aðra vinstri stjórnar skattheimtu, sem var misráðin, enda viðbrunninn grautur úr austur-þýzku eldhúsi leppanna Walter Ulbrichts og Eric Honeckers.   

Téð vinstri stjórn hefur séð ofsjónum yfir sparnaði landsmanna, svo að hún hefur aukið skattheimtu af vaxtatekjum.  Þetta er hagkerfinu skaðlegt, því að frá sparifénu kemur lánsfé bankanna til fjárfestinga og annars.  Hinu opinbera ber að efla ráðdeild og sparnað, og þess vegna ber að lækka skattheimtu af eignatekjum hvers konar niður í 10 %, nema stjórnin vilji þurrð í bönkum og auknar fjárfestingar í listaverkum.

Tekjuskattur fyrirtækja var hækkaður af vinstri stjórninni, eins og allir aðrir skattar, enda hefur ferill þessarar dæmalausu ríkisstjórnar einkennzt af furðulegum fjandskap við atvinnulífið.  Ríkisstjórnarflokkarnir, sem báðir eru vinstra megin við velsæmi, þó að þeir sleiki óæðri endann á evrópsku auðvaldi hvor sem betur getur, líta nefnilega ekki á skattkerfi sem tekjuöflunartæki fyrir hið opinbera, heldur eins konar útjöfnunartæki á fátækt og beinlínis sem refsivönd á dugnað og velgengni. Öfundin er þeirra Akkilesarhæll. Skattkerfið er stjórntæki vinstri manna til að hafa hemil á þegnunum.  Þetta er viðbjóðsleg forræðishyggja og kjarninn í jafnaðarstefnunni, hverrar ær og kýr eru ekki að hækka meðaltal tekna, heldur að jafna tekjur. Kerfið ber dauðann í sér, en alltaf eru einhverjir kjánar tilbúnir að lyfta þessum tjásulega rauða fána.  

Gallinn við þessa stefnu er sá, að hún leiðir alls staðar til lækkunar meðaltalsins og stöðnunar hagkerfisins.  Sviþjóð "socialdemokratanna" er nærtækasta dæmið um þetta.  Undir stjórn borgaralegu flokkanna hefur Svíþjóð síðan risið úr öskustó á síðustu 6 árum.  Noregur undir stjórn jafnaðarmanna er á sterum olíu-og gaslindanna.  Innviðir norska samfélagsins eru þess vegna tæknilega og félagslega ótraustir og að sumu leyti lélegir, t.d. vegakerfið með aksturstollhlið út um allt og hrikalegur fjöldi innflytjenda, sem margir hafa sagt sig til sveitar, en neita að laga sig að norska þjóðfélaginu.  

Norsk fyrirtæki eru mörg fremur veik vegna hágengis og háskatta.  Venjulegur atvinnurekstur á bágt með að keppa við olíugeirann. Norskur sjávarútvegur er niðurgreiddur.  Spenna ríkir í norska þjóðfélaginu vegna innflytjendafjöldans og lífsafstöðu innflytjenda.  Menn botna ekki í, hvaða erindi þeir eiga til Noregs. Í heilu hverfunum og skólunum í borgum og bæjum er ekki lengur töluð norska. Jafnaðarstefnan er þarna að verki, og sú er stórhættuleg þjóðfélagslegum og efnahagslegum stöðugleika til lengdar.  Einkunnarorð hennar eru: "flýtur á meðan ekki sekkur". 

Margsannað er, að tekjumunur, sem leiðir af hvötum til að leggja meira á sig, virkar hagvaxtarhvetjandi og er þar með öllum í hag, þegar upp er staðið. Tekjuskatt fyrirtækja verður að lækka niður í 10 %-15 % til að draga hingað fjárfestingarfé.  Það þarf að virkja sem allra flesta til sem mestrar þátttöku í athafnalífinu og í þjóðlífinu almennt.  Til þess þarf hvata.

Virðisaukaskattur er líklega hvergi á byggðu bóli hærri en á Íslandi.  Hann er svo hár, að töluverð freisting er að ganga á svig við hann í viðskiptum manna á milli.  Skatttekjur af honum mundu þess vegna líklega til lengdar ekkert lækka, þó að þessi skattheimta yrði lækkuð um ein 5 % til að gera verzlun á Íslandi örlítið meira aðlaðandi fyrir Íslendinga og jafnvel ferðamenn, þó að þeir geti fengið sumt endurgreitt.

Verðlagið á Íslandi er auðvitað allt of hátt og þess vegna ber fjármálaráðherra næstu ríkisstjórnar (enginn ætlast til neins af nokkru viti af núverandi, enda er hún sem lifandi lík) að grisja verulega frumskóg opinberra gjalda, s.s. vörugjöld, og að taka tollskrána til gagngerrar endurskoðunar með lækkun að markmiði.  Það yrði liður í að gera Ísland samkeppnihæfara um fólk.  Ekki má gleyma álögunum á eldsneytið, sem tekið hafa út yfir allan þjófabálk.  Þessar álögur eru mjög íþyngjandi fyrir atvinnulífið og heimilin, ekki sízt í dreifbýli. Vinstri menn hata einkabílinn, en gleyma, að hérlendis eru engar járnbrautarlestir.  Þess vegna má ekki hækka eldsneytiskostnað almennings í forræðishyggjulegri tilraun til að breyta neyzlumynztri hans. Hið nýjasta í þessum efnum kom frá vitsmunabrekkum Jóns Gnarrs.  Þær vilja keppa að lakari nýtingu bílastæðanna í miðborg Reykjavíkur með 50 % hækkun stöðumælagjalds. Úr einfeldningslegu andliti boðbera þessara tíðinda skein, að hann trúir þeirri vitleysu sjálfur, að eftir 50 % hækkun muni fleiri nota stæðin.  Boðskapurinn var ein hringavitleysa.     

Skattalækkanir borgaralegrar ríkisstjórnar mundu aðeins um skamma hríð lækka tekjur ríkissjóðs, því að öll umsvif í þjóðfélaginu mundu taka við sér, sem ylli hagvexti, og skattskil mundu batna, sem er nauðsyn.  Aðgerðirnar mundu stækka skattgrunninn.  Þetta er sú leið, sem sjálfstæðismenn vilja fara til að koma rekstri hins opinbera, ríkis og margra sveitarfélaga, á réttan kjöl, og til að auka ráðstöfunartekjur almennings, sem fyrir löngu er orðið tímabært að losa úr kreppuböndum téðrar óhefluðu vinstri stjórnar.

Hin hliðin á peninginum er ráðstöfun skattfjárins, og líklegt er, að nýstofnað félag skattgreiðenda muni tjá sig verulega um þann þáttinn einnig.  Í höndum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hefur meðferðin á ríkissjóði verið fyrir neðan allar hellur, eins og 90 mia hallarekstur 2011 ber ljósan vott um.  Kostnaðurinn við stjórnarskráarbreytingar er allt of hár m.v. afrakstur.  Ódýrara og árangursríkara er að fá stjórnlagafræðinga til að vinna að breytingum í umboði Alþingis, sem síðan mundi fjalla um breytingarnar.  Það er skynsamlegra að gína ekki yfir öllu, heldur afmarka verkefnið, t.d. við forsetaembættið, stjórnlagadómstól, seðlabanka, fjármálastöðugleika, rekstur ríkissjóðs, þjóðaratkvæðagreiðslur, kjördæmaskipan, fjölda þingmanna og þrígreiningu ríkisvaldsins.

Alla kostnaðarþætti ríkisins þarf að greina og meta nauðsyn þeirra fyrir samfélagið, og hvort lækka megi tilkostnað með markaðslegum ráðum án þess að lífsgæði almennings minnki.

Einu geta þó Íslendingar hrósað happi yfir, en það er að standa utan ESB og evrusamstarfs.  Sú aðild hefði orðið okkur dýrkeypt (og aðildaviðræðurnar eru auðvitað hrein sóun á skattfé og tíma stjórnsýslu-alger skemmdarverkastarfsemi jafnaðarmanna).  Nú er að koma í ljós, að Norður-Evrópa kastar perlum fyrir svín.  Hundruðum milljarða evra er kastað í botnlausa hít.  Lunginn úr fénu til Suður-Evrópu mun aldrei fást endurgreiddur.  Tjón Norður-Evrópu í þjóðargjaldþrotum Suður-Evrópu gæti numið 1000 miö evra. Þess vegna er Moody´s að boða lækkun á lánshæfismati Þýzkalands, Hollands og Lúxemorgar.  Finnar hafa heimtað traustari tryggingar, og þess vegna halda þeir AAA-stöðugum horfum. 

Nú mun andstaðan við þessa fjármunasóun skattborgara Þýzkalands magnast.  Peningaausturinn verður stöðvaður.  Þjóðagjaldþrot sunnan Alpa og Pýreneafjalla og jafnvel vestan Rínar blasir við.  Evran splundrast í tætlur.  Þar með verður ESB ekki svipur hjá sjón.  Bretar draga enn einu sinni lengsta stráið. Á myndinni hér að neðan er íslenzkt afreksfólk statt í höfuðborg Bretaveldis.    Ragna Ingólfsdóttir og Ólafur Ragnar, forseti     

 

 

         

   


ESB-friðarbandalag eða harðsvírað hagsmunabandalag

Hvers konar fyrirbrigði er Evrópusambandið-ESB ?  Forveri þess, Kola-og stálbandalagið, var stofnað af Frökkum, Þjóðverjum og Benelúxmönnum í kjölfar heimsstyrjaldarinnar seinni.  Haft var á orði, að þetta samstarf ætti að hindra um aldur og ævi endurtekningu hildarleiksins 1939-1945.  Var eitthvað hæft í þessu ?  Nei, friðartalið, svo göfugt sem það var, var huliðshjálmur harðsvíraðra hagsmunaafla.  Nú vilja jafnaðarmenn Íslandi ganga þeim á hönd, hvað sem það kostar, en þeim mun ekki verða kápan úr því klæðinu.  Eftirsókn jafnaðarmannanna í auðvaldssamkundu þessa mun verða þeim fjötur um fót um alla framtíð.  

Það var vísast engin þörf á stofnun Kola-og stálbandalagsins og síðar Evrópubandalagsins, nú Evrópusambandsins, ESB, til að varðveita friðinn, því að fælingarmáttur kjarnorkusprengjunnar var nægur gagnvart því að hefja vopnuð stórveldaátök.

Ástæða var til þess fyrir Þjóðverja að sjá á eftir Elsass og Lothringen yfir til Frakklands og undarlegt, að ekki skyldi vera haldin atkvæðagreiðsla um það í þessum héruðum, hvorum megin landamæra Frakklands og Þýzkalands íbúarnir skyldu búa.  Ekki verður hér fjölyrt um þá stóru fláka, sem skornir voru af Þýzkalandi austanverðu og færðir Póllandi, og má þar nefna Slesíu og Austur-Pommern. Hvort sem ESB er á dögum eður ei, er samt útilokað, að til styrjaldar komi í Vestur-Evrópu vegna landamæradeilna.

ESB var í raun ekki stofnað til að varðveita friðinn, heldur til að koma ár Evrópuríkjanna, gömlu nýlenduveldanna, fyrir borð í heimi, þar sem þessi ríki hvert um sig höfðu ekki lengur bolmagn til að láta að sér kveða. Þetta kom ljómandi vel fram í áhugaverðu viðtali við einn af iðnjöfrum Þýzkalands, Carl H. Hahn, í Sunnudags-Mogganum 24. júní 2012.  Þar segir hann m.a.:

"Hins vegar má ekki líta fram hjá því, að fyrir 120 árum bjuggu í Þýzkalandi 7 % af jarðarbúum.  Eftir nokkur ár verðum við, þökk sé fæðingartíðni, sem er í algeru mótvægi við frjósemi Íslendinga, 0,7 % jarðarbúa. Þar sem sama þróun virðist vera að eiga sér stað víðast hvar í Evrópu, er fyrirsjáanlegt, að íbúar álfunnar allrar verði brátt 6-7 % jarðarbúa. Þess vegna er nú svo mikilvægt, að við látum ekki evruna verða til þess, að við förum út af sporinu í samruna Evrópu, ef við viljum gegna hlutverki í heimsskipan morgundagsins, hlutverki, sem við getum ekki gegnt sem stakar þjóðir."

Þetta er kjarni málsins um eðli Evrópusambandsins.  Það er stórveldisbragur og löngunin til að viðhalda stórveldisstöðunni í heiminum að baki þessu fyrirbrigði, og erfitt er að koma auga á, að hagsmunum smáríkja geti verið betur borgið þar innanborðs en sem sjálfstæð og fullvalda ríki.  Betra er að vera barður þræll en feitur þjónn skrifaði Halldór Laxness.  Það er mikið til í því, en samlíkingin við ESB á þó illa við, því að margt bendir til, að afkoma þjóða þar innanborðs verði töluvert lakari en hinna, sem utan við standa. Nákvæmlega þessi er einnig niðurstaða Carls Hahns, því að hann segir í téðu viðtali:

"Ég hefði aldrei sótt um aðild að Evrópusambandinu í ykkar sporum.  Ísland er langt í burtu, en þó stórt í sjálfstæði sínu vegna mikilvægrar stöðu sinnar.  Ísland er með fádæmum ríkt, en sem lítil þjóð getur landið náð hvað beztri ávöxtun þessarar auðlegðar með því að vera sjálfstætt, en ekki 28. landið í Evrópusambandinu, sem á í slíkum vandræðum með sjálft sig og getur örugglega ekki sett vandamál Íslands á oddinn."       

Þetta hagsmunamat hins margreynda og hæfa þýzka iðnjöfurs er í fullu samræmi við hagsmunamat meirihluta íslenzku þjóðarinnar og í fullkominni andstöðu við hagsmunamat ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.  Þetta síðast talda hagsmunamat er sífelld uppspretta furðu, því að það er ekki heil brú í því hagsmunamati, að hagsmunum íslenzku þjóðarinnar sé bezt borgið í ríkjasambandi, sem stefnir á að verða voldugt sambandsríki á borð við Bandaríki Norður-Ameríku.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, gerir langtíma hagsmunamat að umræðuefni af kögunarhóli sínum á síðum Fréttablaðsins á Bastilludaginn 2012. Hann spyr, hvernig andstæðingar aðildar að ESB ætli að forða Íslandi frá einangrun, ef það standi utan ESB.  Svona spyrja aðeins þeir, sem hafa asklok fyrir himin.  Það verður auðvitað að horfa til heimsins alls, þegar samband Íslands við umheiminn er mótað.  Svigrúm íslenzkra stjórnvalda til samskipta út fyrir ESB yrði mjög takmarkað með aðild, en auðvitað yrðu samskiptin við önnur ESB-löndin náin, þegar búið væri að deila með þeim fullveldinu.  Þegar kæmi að hagsmunamálum Íslands, er mjög mikil hætta á, að Íslendingar yrðu ofurliði bornir og hagsmunum Íslands fórnað á altari sáttmála ESB og hausatalningar.  Sverð okkar og skjöldur í hagsmunabaráttunni við aðrar þjóðir er fullveldið, heilt og óskipt, eins og dæmin sanna.  Makríldeilan við ESB ætti að færa mönnum heim sanninn um þetta.

Þá minnist téður Þorsteinn á gjaldeyrismálin.  Hann telur íslenzku krónuna ekki á vetur setjandi, en evruna eina raunhæfa úrræði landsmanna í myntmálum.  Um krónuna er það að segja, að gengi hennar er aðeins mælikvarði á gæði hagstjórnar í landinu í samanburði við hagstjórn annarra þjóða.  Veikleikar íslenzkrar hagstjórnar eru þekktir, og það er líka þekkt, hvað þarf til, svo að stöðugleiki verði í peningamálum landsins og gengið styrkist. Núverandi hagstjórn með bullandi halla á ríkissjóði, 90 miö kr, er dæmi um arfaslaka hagstjórn. Verði peningamálunum hér komið í nýtt horf, sem Frosti Sigurjónsson gerði grein fyrir í sumarhefti Þjóðmála 2012, eða skipað með öðrum árangursríkum hætti, t.d. af næstu ríkisstjórn, skal spá því hér, að evran verði fyrr lögð niður í sinni núverandi mynd en íslenzka krónan.  Engin samstaða er um þau einu úrræði, sem duga innan ESB til bjargar evru í sinni núverandi mynd, en fái borgaralegu flokkarnir myndarlegan meirihluta í næstu Alþingiskosningum, sem skötuhjúin Jóka og Grímsi vinna nú hörðum höndum að, verður hægt að ýta nýju peningamálakerfi úr vör hérlendis undir merkjum stöðugleikans.    

Stofnað var til evrunnar í stjórnmálalegu augnamiði af "pólitískum oflátungum", eins og ritstjóri Morgunblaðsins orðar það í forystugrein 20. júlí 2012.  Hún átti að ryðja brautina frá ríkjasambandi til sambandsríkis.  Þessi þróun hefur orðið hægari en bjartsýnustu sambandssinnar vonuðu, og þess vegna hefur evran lent varnarlítil í ólgusjó spákaupmennsku, svo að henni er ekki hugað líf að óbreyttu.  Af þessu hefur Carl Hahn áhyggjur, og hefur eftirfarandi um málið að segja:

"Ef evran hryndi, mundi vissulega koma bakslag í samruna Evrópu.  Reglan er sú í sögunni, að slíkur samruni hefur verið afleiðing stríðs.  Svo er líka hægt að ná saman með friðsamlegum hætti, eins og við hófumst handa um eftir stríð, sem hefur skilað okkur vel á veg, og við getum verið mjög stolt af árangrinum.  Þess vegna verðum við, tel ég, að bjarga evrunni.  Það snýst ekki um evruna sem slíka, heldur um það bakslag í samruna Evrópu, sem mundi hljótast af falli hennar."

Hér fer ekkert á milli mála.  Þýzka iðnaðinum, fjármálaveldinu, stjórnmálaelítunni, gamla aðlinum, og jafnvel verkalýðshreyfingunni, er umbreyting ESB yfir í sambandsríki mikið kappsmál til að tryggja sér markaði og til að geta haft áhrif á gang heimsmálanna, en Carl Hahn ráðleggur Íslendingum að standa utan við þetta stórríki.  Það er heiðarleg og stórmerkileg ráðlegging manns, sem kemur úr innsta hring þýzkrar hagsmunagæzlu. 

Hér skal ekki fara út í vangaveltur um, hvernig Carl Hahn og hans líkar sjá fyrir sér þetta sambandsríki, en líklega sjá þeir Bandaríki Evrópu, BE, fyrir sér sem útvíkkun á Sambandsríkinu Þýzkalandi.  Öflugasta þjóðin þar innanborðs mun þá verða stefnumótandi fyrir Evrópu að landamærum Hvíta Rússlands, Úkraínu, Rússlands, Tyrklands og suður að Afríku. Ósjálfrátt hvarflar hugurinn þá til Þriðja ríkisins, þó að ósanngjarnt sé að nefna það.   

Íslendingar eru farnir að finna smjörþefinn af hagsmunagæzlu ESB.  Það kom fram í Icesave-málinu, þar sem ríkjandi stefnu ESB um að ausa fé úr ríkissjóðum til að bjarga bágstöddum bönkum var reynt að þröngva upp á Íslendinga. Ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde markaði gjörólíka og miklu farsælli stefnu, en vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur glúpnaði strax undan þrýstingi ESB og bankaveldisins.  Nú virðist nýr aðalbankastjóri ECB, seðlabanka evrunnar, í nauðvörn fyrir evruna vera að móta nýja stefnu, keimlíka stefnu ríkisstjórnar Geirs Hilmars að þessu leyti. 

Ekki eykst nú risið á bönkunum eftir LIBOR hneykslið.  Það sýnir meira svínarí í bankaheiminum en flesta óraði fyrir, og var þó vitað, að bankamenn eru engir englar; jafnvel ekki englar með sviðna vængi. LIBOR-hneykslið hefur þegar framkallað miklar sektir, og fangelsanir munu vafalítið fylgja í kjölfarið.  Einhverjar tennur verða dregnar úr sjálftökuliðinu.   

Maria Damanaki, grískur sjávarútvegsstjóri ESB, var hér á dögunum og var ómyrk í máli.  Ef Íslendingar gefa ekki upp á bátinn sjálfstæða stefnu sína um nýtingu makríls í lögsögu Íslands, þá verður sett á löndunarbann og aðrar viðskiptaþvinganir ásamt stöðvun aðlögunarferlisins að ESB.  Það eru trakteringar að tarna.  Hvernig halda menn, að meðhöndlunin á eyþjóðinni hefði orðið, ef hún hefði við erfiðar aðstæður glæpzt á að gerast aðili að þessum klúbbi ?  Gömul nýlenduveldi kunna hreðjatökin.

Nú sjáum við skína í tennur Brüssel-valdsins enn á ný, og hefur reyndar Stóra-Berta verið dregin fram, því að hvorki meira né minna en hafnbanni er nú Íslendingum hótað fyrir að veiða makríl í eigin lögsögu.  Írar hafa orðið sér til skammar, skrækróma dvergar í fylgd stóru strákanna.

Hvernig bregðast íslenzk stjórnvöld við þessari grafalvarlegu hótun ?  Með flaðri barins hunds.  Þau leggjast á bakið og tifa upp tánum.  Grænlendingum er meinað að landa makríl á Íslandi.  Þó eigum við ekki í neinum deildum við Grænlendinga, nágranna okkar. Þetta er helber lágkúra.

Viðbrögð utanríkisráðherra, formanns utanríkismálanefndar Alþingis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og forsætisráðherra eru til háborinnar skammar, því að þau einkennast af fleðulátum og undirlægjuhætti.  Ný ríkisstjórn verður að endurreisa orðstýr Íslands sem fullvalda þjóðar, sem glúpnar ekki, þó að tannlaust tígrisdýr láti skína í hvoftinn.

Öðru vísi mér áður brá, er vinstri stjórn Hermanns Jónassonar, 1956-1958, með Lúðvík Jósepsson sem sjávarútvegsráðherra, færði landhelgina út í 12 mílur og fékk opna byssukjafta brezka flotans sem svar.  Þá var staðið í ístaðinu og tjaldað því, sem til var, eins og Bretar gerðu sumarið 1940 eftir fall Frakklands.  Við höfðum sigur og Bretar höfðu sigur.  "Aldrei hafa jafnmargir átt jafnfáum jafnmikið að þakka og nú", var nokkurn veginn það, sem WC hafði á orði um The Royal Airforce.  

Á dögum téðrar vinstri stjórnar Hermanns, og seinna, voru uppi kenningar um, að sameignarsinnar væru að espa til átaka á milli Natolanda til að þóknast Sovétherrunum.  Hér skal láta það liggja á milli hluta, en núverandi viðbrögð vinstri stjórnarinnar benda til, að barátta fyrir raunverulegum hagsmunum íslenzku þjóðarinnar sé fjarri vinstri mönnum, en þeir leggi jafnan megináherzlu á að þóknast erlendum valdsmönnum, sem þeir telja sig skuldbundna með einhverjum hætti.

Þetta eitt út af fyrir sig er nægjanleg ástæða til að halda vinstri mönnum utan stjórnarráðsins um aldur og ævi.

Ný tegund í lögsögu Íslands, makríll          

           

 

 


Glöggt er gests augað

Í Sunnudagsmogganum, 24. júní 2012, birtist afar áhugavert viðtal við Þjóðverjann, Carl Hahn, sem er Nestor Volkswagens og stjórnaði þessum iðnrisa um árabil.

Carl Hahn vill aukinn samruna í Evrópu, eins og margir framámenn Þjóðverja, þó að almenningur í Þýzkalandi fylgi þeim ekki að málum þar, nema síður sé.  Allt að 80 % Þjóðverja er andvígur meira framsali fullveldis til hins yfirþjóðlega og ólýðræðislega valds í Brüssel.  Aðhald almennings nær ekki til búrókratanna í Brüssel. Stjórnlagadómstóll Þýzkalands í Karlsruhe hefur varað Bundestag í Berlín við því, að hann kunni að dæma frekara framsal fullveldis Þýzkalands vera í blóra við Stjórnarskrá Sambandslýðveldisins.  Áhugi Þýzkalands á sambandsríki Evrópu er þess vegna beggja blands.  Verður spennandi að fylgjast með þróun mála í Sambandslýðveldinu á næstu misserum hvað þetta varðar.  Brugðið getur til beggja vona.    

Þrátt fyrir skoðun sína á Evrópumálunum hefur hinn reyndi, víðsýni og gjörhygli viðskiptamaður, Carl Hahn, eftirfarandi að segja við lesendur Sunnudagsmoggans

"Ég hefði aldrei sótt um aðild að Evrópusambandinu í ykkar sporum.  Ísland er langt í burtu.  Ísland er lítið, en þó stórt í sjálfstæði sínu vegna mikilvægrar stöðu sinnar.  Ísland er með fádæmum ríkt, en sem lítil þjóð getur landið náð hvað beztri ávöxtun þessarar auðlegðar með því að vera sjálfstætt, en ekki 28. landið í Evrópusambandinu, sem á í slíkum vandræðum með sjálft sig og getur örugglega ekki sett vandamál Íslands á oddinn.  Ef maður horfir raunsætt á málið-og hér er ekki um að ræða ásakanir á hendur neinum á Íslandi-er rétt að segja, eins og Vaclav Klaus í Prag: "Við göngum ekki í evruna".  Þegar Evrópa nær að komast fram á við, skipuleggja sig og reka öfluga viðskipta-og fjármálapólitík, og þá um leið evrupólitík, verður hægt að taka inngöngu til athugunar, en í dag er ljóst, að hið ótrúlega ríkidæmi Íslands, sem er ekki bara fólgið í 720´000 km2 af hafi til fiskveiða og miklu pólitísku sjálfstæði og styrk og hagkvæmri stöðu, eins og kemur fram í því, að kínverskir ráðamenn leita ráða hjá og heimsækja núverandi forseta, sem alls staðar kemur að opnum dyrum, yrði ekki til framdráttar með sama hætti og yrði Ísland enn eitt aðildarríki Evrópusambandsins.  Þá mundu kínverskir valdamenn ekki leita hingað." 

Þetta er löng tilvitnun í hinn gagnmerka Þjóðverja, sem veit hvað hann syngur og er ekki fæddur í gær.  Í ljósi makríldeilu Íslendinga við ESB verður ljóst, hversu hárrétt hinn glöggskyggni Carl Hahn hefur fyrir sér, þegar hann leggur mat á hagsmuni Íslands gagnvart ESB.

Eins og fram kemur, vonast hann til, að Evrópusambandið (ESB) nái sér á strik til að verða framvörður Evrópuríkjanna á sviði viðskipta og fjármála, þó að hann nefni ekki beint, hvað til þess þarf, en það er aukið fullveldisframsal aðildarlandanna til ókjörinna pótintáta í Brüssel, þ.e. til Maríu Damanaki og annarra af því sauðahúsi.  Fyrir slíku er enginn stuðningur á meðal almennings í Evrópu, og þess vegna eru tilburðir til aukins samruna nú í nafni björgunar evrunnar dæmdir til að mistakast.  Viðskiptamenn og peningamenn Evrópu studdu stofnun ESB til að verða tæki í valdabaráttunni í heiminum.  Aðeins jafnaðarmenn á Íslandi vilja binda trúss sitt við slíka stórveldisdrauma, jafnheimskulegir og þeir eru. Jafnaðarmenn á Íslandi höfðu líka miklar efasemdir um réttmæti þess að slíta konungssambandinu við Danmörku, þó að það hafi síðan legið í nokkru þagnargildi.   

Carl Hahn tekur skýrt fram, að hann telur það engan veginn þjóna hagsmunum Íslendinga, að umsókn um aðild að ESB skuli hafa verið lögð fram, og þar með telur hann vafalaust yfirstandandi aðlögunarferli hið mesta óráð.  Hver sá, sem kryfur þetta umsóknarmál að ESB hlutlægt og af þekkingu og víðsýni, hlýtur að komast að sömu niðurstöðu og Carl Hahn.  Nú reynir ESB að nota þessa ólánsumsókn sem vopn í baráttunni við Íslendinga um makrílinn.

Andstæðingar aðildar Íslands að ESB gátu vart fengið betri stuðning erlendis frá við málstað sinn en frá Evrópusinnanum, þýzka, Carl Hahn. Hann verður ekki sakaður um forpokun eyjarskeggjans eða einangrunarhyggju á grundvelli þjóðernishroka.  Nei, afstaða þeirra Íslendinga, sem telja ESB-aðild mundu verða hagsmunum Íslands sízt til framdráttar og jafnvel vera hagsmunum Íslendinga stórhættuleg, er reist á ígrundun, þekkingu og haldgóðum rökum.  Afstaða aðildarsinna er hins vegar reist á innantómri moðsuðu um, að örlög Íslands séu samtvinnuð Evrópu og að það hljóti að vera betra að vera hluti af stærri heild en að standa á eigin fótum.  Þetta er í ætt við ótta heimaalningsins við að hleypa heimdraganum og lifa upp á eigin spýtur.    

Gott dæmi um hagsmunaafsal er makrílmálið.  Á Evrópuvefnum hafa fræðimenn við Háskóla Íslands leitt að því gild rök, að íslenzk stjórnvöld hefðu alls ekki getað sett sér einhliða veiðimagn í lögsögu Íslands árið 2010 upp á 112 000 tonn makríls.  Framkvæmdastjórn ESB hefði þá þvert á móti sett okkur veiðihámark reist á reglu sinni um hlutfallslegan stöðuleika, sem hefði leitt til þess, að við fengjum heimild til að veiða svipað magn og verið hafi sem meðafli, einkum með norsk-íslenzku síldinni, eða um 25 000 tonn eða 3 % aflans, og þar við hefði setið.  Þess í stað veiddu Íslendingar árið 2011 um 16 % aflans.  

Þetta er regla, sem ekkert tillit tekur til gjörbreyttra aðstæðna í hafinu.  Sífellt meira gengur nú af makríl inn í lögsögu Íslands eða tæpur fjórðungur stofnsins.  Það er þess vegna engin goðgá, að við veiðum tæpan fimmtung stofnsins, þegar fjórðungur stofnsins gengur inn í lögsöguna í ætisleit og hverfur síðan á braut og er veiddur annars staðar.  Talið er, að hann þyngist um 650 000 tonn á ári í lögsögu Íslands og éti m.a. sandsíli, sem er mikilvæg fæða ýmissa fugla, þ.á.m. lunda, sem nú eiga erfitt uppdráttar vegna fæðuskorts.  Af þessum sökum er engin goðgá að veiða 200 000 tonn af makríl til manneldis, enda virðist stofninn vera í jafnvægi þrátt fyrir veiði langt umfram ráðgjöf.  

Skipulagt undanhald Íslendinga er hins vegar hafið undan ofríki Noregs og ESB að tilstuðlan afturhaldsstjórnarinnar í Reykjavík, sem er fyrirmunað að standa í ístaðinu, ef ESB er annars vegar.  Minnir afstaða Össurar, Steingríms og handbenda þeirra ekki á neinn annan meira nú um stundir en Neville Chamberlain, forsætisráðherra Breta, sem fórnaði Súdetahéruðum Tékkóslóvakíu í hendur ríkiskanzlara Þriðja ríkisins og taldi sig með því hafa "tryggt frið um vora daga". 

Mun samningamönnum viðundranna, sem nú sitja í Stjórnarráðinu, öllum til óþurftar og engum til gagns, væntanlega verða skipað að leggjast á bakið og tifa upp tánum á samningafundi í haust um veiðarnar 2013.  Mun landið þar verða af um 25 mia kr gjaldeyristekjum á ári, ef svo gengur fram sem horfir undir ríkisstjórn, sem gert hefur versta samning Íslandssögunnar við erlent vald og orðið að gjalti fyrir.  Að fáeinum árum liðnum verður þá tapið af "Münchensamningi" Steingríms J. Sigfússonar komið í Icesave hæðir. 

Evrópusambandið, ESB, er tannlaust tígrisdýr.  Að lyppast niður undan hótunum þess er afstaða, reist á brengluðu hagsmunamati og heybrókarhætti, sem ekki á að líða ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum.  Það eru markaðir austan og vestan við ESB og alþjóðasamningar, sem standa gegn refsiaðgerðum á viðskiptasviðinu vegna hagsmunabaráttu af þessu tagi. 

   Nýr Þór heldur úr höfn 

Ný tegund í lögsögu Íslands, makríll

 

  

    

 


Framtíð áliðnaðarins

Spurn eftir áli er vitaskuld háð efnahagssveiflum.  Hún markast af því, að meira en helmingur álframleiðslunnar fer til bílaiðnaðarins og í byggingarmannvirki.  Nú hefur álverð lækkað um þriðjung á einu misseri vegna skuldavanda Evrópu og brostinnar fasteignabólu í Kína.

Það er samt engin ástæða til að búast við öðru en vænni hækkun álverðsins, þegar Kínverjar ná tökum á hagkerfi sínu á nýjan leik, en þar er reyndar enn meiri hagvöxtur en víðast annars staðar.  Evrópa mun eiga árum saman við að etja mikinn hagkerfisvanda vegna veikleika evrunnar, sem leiðtogar evrulandanna koma sér ekki saman um lausn á.  Af þessum ástæðum hafa búrókratar í Brüssel uppi háværar kröfur um styrka sameiginlega stjórn ríkisfjármála og peningamála.  Skiptar skoðanir eru um fýsileika Bandaríkja Evrópu, BE, á meðal almennings í Evrópu.  Þjóðverjar gjalda t.d. mikinn varhug við ýmsum hliðum slíkrar ríkjastofnunar, og stjórnarskrá Sambandslýðveldisins leyfir ekki slíkt fullveldisframsal. 

Afætur og spillingargreni verða ekki fóðruð til lengdar af samhaldssömum og grandvörum þjóðum.  Þessi hegðunarmunur er óbrúanlegur með peningum.  Þess vegna gæti myntbandalag evrulands hæglega splundrað Evrópusambandinu, ESB, ef svo fer fram sem horfir. 

Á Íslandi er nú mældur mun meiri hagvöxtur en annars staðar í Evrópu.  Fullyrða má, að svo væri ekki, ef Ísland væri í ESB.  Þessi hagvöxtur er þrátt fyrir ríkisstjórnarómyndina, sem nú situr, því að allar hennar aðgerðir hafa dregið úr hagvexti.  Þessi hagvöxtur er tímabundinn vegna framkvæmda á vegum áliðnaðarins í landinu og vegna góðs gengis sjávarútvegs, sem ríkisstjórnin hefur nú bundið enda á með alræmdri ofsköttunarlöggjöf frá Alþingi vorið 2012. Þá hefur ríkisstjórnin sem kunnugt er þvælzt fyrir nýjum stóriðjuverum á Íslandi og virkjunum, svo að ekkert nýtt mannvirki af þessu tagi hefur komizt á koppinn í tíð þessarar afturhaldsstjórnar, sem umturnast, ef minnzt er á framfarir.  

Í Morgunblaðinu 19. maí 2012 birtist fréttaskýring eftir Helga Vífil Júlíusson undir fyrirsögninni, "Vonast til, að nýtt Marel rísi í áliðnaði".  Þarna er vitnað til Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka álfyrirtækja.  Hér er auðvitað skírskotað til þess, hvernig þróun og framleiðsla búnaðar fyrir úrvinnsluiðnað sjávarútvegs og landbúnaðar hefur skotið rótum á Íslandi.  Nákvæmlega hið sama gerðist fyrir um einum áratugi síðan fyrir tilstuðlan áliðnaðarins.  Þar var skilningur og áræðni fyrir hendi til að fara út í þróun á nýjum framleiðslutækjum í samvinnu við íslenzk iðnfyrirtæki með metnað og tæknilega getu.  Þetta bar skjótan ávöxt með útflutningi, enda spyrjast nýjungar og góður árangur skjótlega út í álheiminum.

Það, sem hins vegar er ekki síður áhugavert, er aukin úrvinnsla áls á Íslandi.  Það er aðeins tímaspurning, hvenær hún verður að veruleika.  Sem dæmi má nefna, að Norðmenn flytja út a.m.k. 300 000 t af álvörum, t.d. felgum.  Okkur á ekki að vera neitt að vanbúnaði.  Hingað til hafa verið framleiddir í Straumsvík völsunarbarrar, sem valsaðir hafa verið í risastórum völsunarverksmiðjum í Evrópu niður í plötur, þynnur og álpappír.  Nú er farið að framleiða í Straumsvík jafnaða (homogenised) álsívalninga, þ.e. stengur, sem hæfar eru til þrýstimótunar.  Það er líklegt, að arðsamt gæti verið að framleiða ýmsa prófíla hérlendis úr hluta af þessum stöngum, og yrði af slíku umtalsverður virðisauki.

Framtíð áliðnaðar er björt.  Mikill vöxtur mun verða á álnotkun í þriðja heiminum.  Á Vesturlöndum er álnotkun um 25 kg/íb á ári, en á Indlandi og í Kína aðeins 1 kg/íb á ári.  Ef tekinn er saman fólksfjöldi BRIC-landanna, s.k., Brasilíu, Rússlands, Indlands og Kína, má ætla, að þau muni valda  eftirspurnaraukningu á áli, sem nemur a.m.k. 65 milljón tonnum af áli á ári, 65 Mt/a Al.  Árið 2011 voru framleidd í rafgreiningarkerum 44 Mt Al.  Gríðarleg aukning þessarar framleiðslu er áætluð á þessum áratugi eða um 25 Mt/a árin 2012-2020.  Af þessari aukningu ætti Ísland að geta náð 1 Mt/a Al eða 4 % með því að selja raforku á heimsmarkaðsverði til þessara nota, 30 - 40 mill/kWh.  Þetta mundi veita orkuseljanda 490 MUSD/a í tekjur eða 61 milljarð ISK/a, miaISK 61 á ári.  Til samanburðar má geta þess, að árið 2011 keypti íslenzki áliðnaðurinn vörur og þjónustu af íslenzkum birgjum og verktökum fyrir miaISK 33.  Hlutdeild íslenzka áliðnaðarins í VLF (vergri landsframleiðslu) er um miaISK 100, og landið hefur burði til að tvöfalda þessa upphæð á 10 árum. 

Evrópusambandslöndin eru orðin mjög háð innflutningi áls, því að bílaiðnaður Evrópu kallar á aukið ál, og álframleiðslan í Evrópu hefur dregizt saman um 25 % síðan árið 2011.  Raforkuskortur hefur herjað á Evrópu undanfarið vegna lokunar kjarnorkuvera, og þess vegna steig orkuverðið 2009-2011 með þeim afleiðingum, að framlenging orkusamninga til langs tíma fékkst ekki.  Að vísa álverum á augnabliksmarkað raforku er sama og að vísa þeim á guð og gaddinn.  Þau verða þá strax undir í samkeppninni, því að framleiðslukostnaður þeirra verður allt of hár eða yfir 3000 USD/t.  Á Íslandi er hann allt að 2000 USD/t.

Augljóslega er áliðnaðurinn ein af þremur megingjaldeyrisuppsprettum landsins.  Hinar eru sjávarútvegurinn og ferðamannaiðnaðurinn.  Gríðarleg framleiðni er í áliðnaði og sjávarútvegi, svo að aðeins 6 % vinnuaflsins aflar lungans af útflutningstekjunum.  Þetta veitir þessum greinum mikinn styrk og stækkunarmátt.  Þegar borgaraleg ríkisstjórn kemst hér til valda eftir næstu Alþingiskosningar, verða þessi öfl leyst úr læðingi með því að losa um fjötra ofurskattlagningar á sjávarútveg, liðka fyrir samningum um raforkusölu til erlendra fjárfesta og með áfnámi gjaldeyrishaftanna.  Jafnframt verður stjórnun peningamálanna sett í nýjar skorður til að tryggja verðstöðugleika.  

Með þessu mun fjöldaatvinnuleysið þurrkast út, atvinnuleysi fara niður í 2 %, hallarekstri ríkissjóðs verður snúið við og tekið í staðinn til við að greiða niður skuldir ríkissjóðs í útlöndum. Þessi stefnubreyting mun tryggja varanlega kaupmáttaraukningu almennings, svo fremi gæftir og markaðir leyfi. 

Við þennan viðsnúning atvinnu-og efnahagsmála landsins fer ekki hjá því, að gengi krónunnar mun styrkjast, kaupmáttur vaxa og með því að fylgja traustri og varfærinni peningamálastefnu mun verðbólgan haldast undir 2 %.  Til að varðveita styrkingu kaupmáttar og koma í veg fyrir bólumyndun verður að halda verðbólgu algerlega í skefjum.  Til þess verður að afnema vísitölubindingar og stokka upp fjármálakerfið að fyrirmynd, sem lýst er í ágætri grein Frosta Sigurjónssonar, rekstrarhagfræðings, í sumarhefti tímaritsins Þjóðmála, "Betri króna til framtíðar".      

  germany      

150787boeing

      

   

               


Þrautir Heraklesar

Í æsku var höfundi gefin lítil bók með ofangreindu heiti, og las hann hana oftar en einu sinni sér til ómældrar ánægju.  Ekki þarf að orðlengja, að hér var um grísk ævintýri eða öllu heldur goðsagnir að ræða. 

Grikkir hafa ýmsa fjöruna sopið í sögunni, og harka þeirra, seigla og hátt menningarstig mótaði grundvöll vestrænnar menningar í sinni núverandi mynd.  Nú er öldin önnur og Grikkjum kennt um ófarir Evrópusambandsins, ESB.  Slíkar ásakanir hitta ESB fyrir og lánadrottnana, sem dældu í Grikki lánum á lágum vöxtum.  Þessum lánum var of sjaldan varið til arðsamra verkefna, og því fór sem fór. 

Grikkjum var hleypt inn í evrusamstarfið á veikum forsendum og eru nú gerðir að blórabögglum ófara evrunnar.  Þetta er afar ósanngjarnt, því að evrusamstarfið gat aldrei gengið upp fyrir Grikki né marga aðra.  Barnaskapur var að ímynda sér, að Maastrichtskilyrðin héldu.  Þau héldu ekki einu sinni gagnvart Frökkum og Þjóðverjum, hvað þá gagnvart þjóðum Suður-Evrópu, sem búa við menningu, sem gerir það að list að sniðganga Maastricht.  Þessi afdrifaríku mistök Frakka og Þjóðverja hafa leitt niðurlægingarskeið yfir Evrópu, sem sér ekki fyrir endann á og gæti varað þennan áratug.  Næstu fórnarlömb evrunnar eru á Pýreneaskaganum.  Spánn er kominn að fótum fram, enda fjármálakerfi Spánar ónýtt og reyndar hagkerfið í heild sinni.  Vandræði evrunnar hafa verið metin til fjár. 

Talið er, að fjármagnsflutningar til ríkja í vanda á evrusvæðinu þurfi að nema 200 milljörðum evra á ári. Þetta er ósjálfbært ástand.  Þjóðverjar hafa komizt að þessari niðurstöðu og lízt ekki á blikuna.  Verið er að leita að blóraböggli til að kenna um væntanlegt fall evrunnar og upplausn ESB.  Böndin berast að Þýzkalandi, en slíkt er auðvitað tóm vitleysa.  Þjóðverjar setja krók á móti bragði og heimta sameiginlega stjórn yfir ríkisfjármálum evrulands.  Það verður aldrei samþykkt, að Berlín stjórni Evrópu með þessum hætti.  Þar með munu Þjóðvarjar geta skákað í því skjólinu, að ekki hafi verið farið að ráðum þeirra.  Á máli Breta heitir þetta: "Germany is calling the shots".  Má furðu gegna, hversu yfirburðir Þjóðverja eru miklir í Evrópu núna, en það stafar að miklu leyti af því, hversu lélegir aðrir eru, ekki sízt Frakkar.  Nú verður spennandi að sjá, hvort hið sama á við í Evrópumeistarakeppni landsliða í knattspyrnu.  Höfundur þessa pistils veðjar þar líka á BRD.                 

Evrópumenn upplifa síðan árið 2010 niðurlægingarskeið álfunnar.  Hagkerfi Evrópu eru stöðnuð og eru talin vera dragbítur á hagvöxt í heiminum.  Lækkun á mörkuðum nú um stundir á verðbréfum og vörum, þ.á.m. útflutningsvörum Íslendinga, sjávarafurðum og áli, er rakin til óvissunnar í Evrópu í efnahagslegu og stjórnmálalegu tilliti.  Sjálfur aðalbankastjóri ECB, seðlabanka evrunnar, er ómyrkur í máli um dökkt útlit, og eru yfirlýsingar Draghis í raun ákall drukknandi manns til stjórnmálamanna Evrópu um að koma sér saman um alvöru björgunaráætlun.  Allar aðgerðir stjórnmálamannanna hingað til hafa verið hálfkák eitt vegna ágreinings um meginmál.  Á því verður engin breyting.  

Sameiginlegur gjaldmiðill 17 ríkja Evrópusambandsins, ESB, er að falla.  Atvinnulausum fjölgar ískyggilega í ESB, nemur nú yfir 10 % í heild, og stjórnmálalegur órói dylst engum.  Hérlendis berja áhangendur og viðhlæjendur ESB höfðinu við steininn og eru ófærir um að færa viðhlítandi rök fyrir áframhaldandi aðlögun stjórnkerfis Íslands að ESB ásamt aðlögunarviðræðum, en tönnlast á því, að skoða verði, hvað Brüssel býður.  Þetta sjónarmið er orðið óskiljanlegt í ljósi staðreynda málsins og virðist reist á illa upplýstri óskhyggju þeirra, sem tekið hafa þá trú, að líf landsmanna verði mun einfaldara og auðveldara hinum megin, þ.e. innan vébanda ESB.  Hér er gamla sagan um, að beljan heldur grasið vera grænna hinum megin.  Þessu er öfugt varið í raun.  Formaður utanríkismálanefndar Alþingis hefur nú bitið hausin af skömminni og virðist vera gjörsamlega utan gátta og heillum horfinn.  Upp á landsfeður af þessu tagi er ekki hægt að bjóða Íslendingum.  Algerlega er augljóst, að um er að ræða bæði vitgrannt fólk og illa að sér.   

Fimmtudaginn 24. maí 2012 voru greidd atkvæði um tillögu Vigdísar Hauksdóttur, Alþingismanns, um að gera hlé á viðræðunum  við ESB unz landsmönnum gæfist kostur á að tjá hug sinn til framhalds þessara viðræðna um aðlögun/inngöngu.  Tillagan var kolfelld, sem sýnir jarðsambandsleysi og firringu meirihluta þingheims, því að skoðanakannanir gefa allt aðra mynd af afstöðu þjóðarinnar til málsins.  Að halda því fram, að almenningur viti ekki sínu viti í þessum efnum, en undirlægjur ESB hljóti að vita betur, er mesta fásinna.  Almenningur er með á nótunum, en Trójuhestarnir hafa brotið allar brýr að baki sér.     

Flestir fylgismenn inngöngu Íslands í ESB hérlendis, þ.á.m. á Alþingi, virðast vera þeirrar skoðunar, að efnahagsvandamál ESB-ríkjanna verði skammvinn, og senn muni renna upp bjartari tímar með blóm í haga.   Er eitthvað, sem bendir til, að svo verði ?  Nei, þvert á móti, það er margt, sem bendir til, að ESB sé síðan 2010 á langvinnu hrörnunarskeiði og muni dragast alvarlega aftur úr öðrum þróuðum ríkjum.  Af þessu hafa mannvitsbrekkur Samfylkingar og vinstri grænna ekki frétt enn þá, enda bæði blindir og heyrnarlausir í stjórnmálalegum skilningi.  Verður nú gerð grein fyrir nokkrum þessara áhættuþátta ESB. 

1.     Meðalaldur Evrópubúa er hærri en annars staðar, og hann hækkar hratt.  Afleiðingin af þessu er lítil og minnkandi atvinnuþátttaka og sífellt færri standa undir framfærslu sífellt fleiri þegna.  Þetta leiðir til lífskjararýrnunar heildarinnar.

 2.     Athafnalífið í Evrópu er víðast hvar þrúgað af ósveigjanleika á vinnumarkaðinum, og samningar, reglugerðir og lög um vinnumarkaðinn virka fremur letjandi en hvetjandi til nýráðninga.  Svört vinna er sums staðar landlæg af þessum sökum.  Það er dýrt að ráða nýtt fólk inn vegna hárra launatengdra gjalda, og það er einnig afar kostnaðarsamt að segja upp starfsfólki.

3.     Athafnalíf ESB er í helgreipum reglusmiða í Brüssel, sem í góðri trú unga út alls konar fyrirmælum, tilskipunum og reglugerðum, sem eru meira eða minna íþyngjandi fyrir athafnalífið.  Þetta virkar hamlandi fyrir samkeppnihæfni fyrirtækja í ESB, því að þessi tilhneiging er meira áberandi í ESB en annars staðar í frjálsum löndum.   

4.     Þá er það Akkilesarhæll ESB, evran.  Hún átti að efla athafnalífið með minnkun kostnaðar og greiða fyrir viðskiptum innan ESB.  Hún átti líka að verða heimsmynt og stolt Evrópu.  Allt hefur snúizt á verri veg.  Evran hefur valdið miklu efnahagslegu ójafnvægi innan evruríkjanna og á milli þeirra.  Hún hefur valdið mikilli þenslu, t.d. á Írlandi, Spáni, Portúgal og á Grikklandi vegna lágra vaxta, þegar þýzka hagkerfið átti undir högg að sækja.  Í Suður-Evrópu ríkir nú herfilegur samdráttur. Hún er enn miklu sterkari gjaldmiðill en flest ríki evrusvæðisins þola, og þess vegna hafa útflutningsgreinar þessara ríkja farið halloka.  Þýzka hagkerfið hefur hins vegar notið kosta evrunnar vegna þess, að Þjóðverjar tóku til í eigin ranni eftir fjárfestingar í Austur-Þýzkalandi upp á hátt í tvær trilljónir evra (trilljón=þúsund milljarðar).

5.     Mikill halli er á fjárlögum flestra Evrópulanda, enda eru ríkisútgjöld yfir  40 % af  vergri landsframleiðslu (VLF) í þeim flestum og jafnvel yfir 50 % í sumum og ríkisstarfsmenn um 30 % af fjölda starfandi manna.  Þetta eru hættumerki í hverju þjóðfélagi, sem gefa til kynna, að uppbrots og endurskipulagningar og mikillar einkavæðingar sé víða þörf.   Þá er víða brotalöm í skattheimtunni.  Afleiðingin af þessu öllu er gríðarleg skuldasöfnun Evrópuríkjanna.  Vegna þessa og stöðnunarinnar í hagkerfum ríkjanna, sem lýst er hér að framan, eru nú matsfyrirtæki tekin að lækka lánshæfismat Evrópuríkjanna, nema Þýzkalands og örfárra annarra.  Bankar, jafnvel þýzkir, eru teknir að verða fyrir lækkun lánshæfismats, enda miklar afskriftir fjármuna framundan á Spáni.  Þetta flýtir fyrir hruni evrulands. Lánshæfismat Bretlands mun reyndar ekki hafa verið lækkað enn, og segir það mikla sögu um gagnsemi eigin gjaldmiðils, þegar á móti blæs.  Hátt lánshæfismat Bretlands vekur undrun miðað við miklar skuldir og halla á fjárlögum ríkisins.

Augljóslega er ekki hlaupið að þeirri þjóðfélagslegu uppstokkun, sem nauðsynleg er til að koma Evrópu aftur í gang.  Það virðist ennfremur lítill stjórnmálalegur áhugi fyrir því, eins og kosning kratans Francois Hollande sem forseta Frakklands gefur til kynna, en hann lofaði í kosningabaráttunni að fjölga opinberum starfsmönnum og lækka ellilífeyrisaldurinn úr 62 árum að hætti krata.  Þá virðast hófsamir stjórnmálamenn álfunnar óttalega kraftlitlir, og kjósendur hrekjast til öfgaflokka á báðum vængjum.  Almenn uppgjöf hefur gripið um sig, og nú eru þjóðirnar að venjast skipunum frá Berlín.  Jafnvel franskur almenningur hefur misst trú á eigin stjórnmálamenn, en er tekinn að reiða sig á skynsamleg fyrirmæli frá Berlín.  Öðru vísi mér áður brá.  Þetta getur aðeins gengið að vissu marki, og svo verður sprenging. 

Glíman við evruvandann tekur nú mestan tíma stjórnmálamanna í evrulöndunum.  Evran hefur leitt til efnahagslegra hamfara.  Fátækt hefur sorfið að, og miðstéttin ber ekki sitt barr.  Ljóst er, að núverandi ástand er ósjálfbært.  Eina aflögufæra landið er Þýzkaland, en almenningur í Þýzkalandi telur með réttu, að yfirfærslur peninga frá þeim til bágstaddra evrulanda leysi engan vanda til lengdar.  Stjórnmálamenn Þýzkalands munu t.d. ekki þora að samþykkja sameiginlega skuldabréfaútgáfu, þar sem ábyrgðin mun á endanum falla á þýzka ríkissjóðinn.  Þjóðverjar ætla ekki að fá Evrópu á sitt framfæri.  Þeir hafa einvörðungu hug á að verzla við hana.  

ESB er á hægfara leið til upplausnar evrunnar.  Fjármagnsflótti er hafinn til Þýzkalands og til Bandaríkjanna.  Þjóðverjar fá nú raunvaxtalaus lán.  Evran fellur nú og mun falla svo mikið, að verðbólgan í Þýzkalandi mun verða vel yfir 2 % á ári.  Þá mun Seðlabanki Evrópu, ECB, hækka vextina, og við það verður líklega verðhjöðnun í mörgum jaðarlöndum ESB.  Þetta er langdregið og sársaukafullt ferli.   Það er sama, hvernig velt er vöngum.  Teningunum er kastað.  Þjóðverjar halda yfir Rubricon fljót, en Caesar áður, og  Evrópa er að hefja langdregið hrörnunarskeið, og verður í efnahagslegum lamasessi um mörg ókomin ár með einstaka undantekningum. 

Þetta mun óhjákvæmilega hafa áhrif á íslenzka hagkerfið til hins verra, og þegar er reyndar tekið að brydda á lægri verðum á mörkuðum Íslendinga í Evrópu.  Verð á eldsneyti lækkar líka sem og hráefni, sem vinnur gegn neikvæðu áhrifunum á hagkerfið.  Þetta undirstrikar mikilvægi þess fyrir hagsmuni okkar að hafa ekki öll eggin í einni körfu, heldur leita viðskiptavina um allan heim.  Það verður að vona, og til þess eru góðar líkur, að Evrópa nái vopnum sínum á ný, en það er algerlega út í hött að leita núna eftir inngöngu í klúbb þann, sem Evrópusamband heitir, hvað sem síðar kann að verða um þann klúbb.  Aðlögunarferlið er dýrt og skaðlegt og ber að stöðva hið fyrsta.  Jafnfram ber að brjóta Trójuhestana mélinu smærra og nýta til kyndingar.  Það verður að hleypa hér að "no nonsense" stjórnmálamönnum. 

Ekki má gleyma Bessastaðabóndanum, sem kosinn verður 30. júní 2012.  Ef pistilhöfundi skjöplast ekki, er Ólafur Ragnar Grímsson eini frambjóðandinn, sem lýst hefur yfir andstöðu við inngöngu Íslands í Evrópusambandið.  Er slíkt næg ástæða til að veita frambjóðandanum brautargengi, enda í fullu fjöri.  

Vandamálið og burðarstólpinn


Akkilesarhæll Evrópu

"Evruvandinn mesta ógnin" er fyrirsögn greinar í Morgunblaðinu 23. maí 2012.  Þessi greining var ekki gerð í Hádegismóum, heldur hjá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni.  Síðan degir:

"Helzta ógnin við efnahagsbata í heiminum er skuldavandi og stöðnun í 17 ríkjum evrusamstarfsins, segir í nýrri skýrslu frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD."  Christine Lagarde, forstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, og fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Frakklands, tók á dögunum afstöðu með þeim, sem vilja, að Seðlabanki ESB, ECB, gefi út ESB-skuldabréf.  Þar með hefur hún lagzt á sveif með Hollande og Suður-Evrópublokkinni gegn Þýzkalandi og Norður-Evrópu.  Hljóðið í Þjóðverjum er þannig, að mjög ólíklegt er, að þýzka þingið muni samþykkja þetta fyrir kosningarnar haustið 2013.  Nú er svo komið, að kratar gætu hæglega komizt í ríkisstjórn Sambandslýðveldisins eftir þessar kosningar, og þá óttast margir Þjóðverjar kúvendingu í þessum efnum.

Þýzka þjóðin er ekki lengur haldin sektarkennd stríðskynslóðarinnar og þeirra næst á eftir.  Hún telur ósanngjarnt og algerlega vonlaust verk að ausa úr sjóðum Þýzkalands í botnlausa hít Suður-Evrópu, þar sem er gríðarlegur opinber rekstur og landlæg spilling. 

Hæll Akkilesar er mjög í umræðunni þessi misserin vítt og breitt um heiminn og ekki sízt í Evrópu.  Evrópa er talin sjúklingurinn í efnahagslífi heimsins, og það versta er, að verði, meinið ekki fjarlægt, á sjúklingurinn sér enga batavon. Það, sem átt er þá við, er evran.  Sameiginlega myntin, sem verið hefur 12 ár við lýði, er að ganga af hagkerfi margra Evrópulanda dauðu, en hagkerfi, sem ekki getur séð þegnum sínum nokkurn veginn fyrir fullri vinnu til langframa er einskis nýtt og raunar dautt.  Þessi kunna að verða örlög flestra landa evrusvæðisins, þar sem vextir eru nú hærri en hagkerfin ráða við með örfáum undantekningum.  Nafnvextir á þýzkum ríkisskuldabréfum eru hins vegar komnir niður í 0, og raunvextirnir eru þess vegna neikvæðir.  Þetta ástand er sjúklegt, og hlýtur að enda með ósköpum.  

Íslendingar búa reyndar nú við óskiljanlega háa vexti, þó að þeir hafi ekki tekið upp evru og skorti reyndar allar forsendur til þess undir frámunalega lélegri stjórn peningamála og ríkisfjármála.  Alls staðar sitja þar gamlaðir vinstri menn á fleti fyrir, og furstinn af Svörtu loftum, gamall aðdáandi Trotzkys, byltingarforingja bolsévíka, verður embætti sínu reyndar hvað eftir annað til háborinnar skammar. 

Í evrulöndunum eru svo hrikalegar andstæður, að nánast óhugsandi er, að þetta harðlæsta myntsamstarf fái þrifist að óbreyttu.  Stærstu þjóðirnar munu þurfa að gjörbreyta um stefnu, ef dæmið á að ganga upp.  Með öðrum orðum þarfnast evran umbóta á efnahagskerfi Frakklands, sem er allt of miðstýrt og ríkissjóður Frakklands mergsýgur franska hagkerfið í anda Napóleóns Bónaparte; Þjóðverjar þyrftu að tileinka sér eyðslusemi og sætta sig við mun meiri verðbólgu en nú er í Þýzkalandi og meiri en tíðkast í hinum ríkjunum, og Ítalir þurfa að tileinka sér aukinn stjórnmálaþroska, en þar hefur ríkt stjórnmálalegur óstöðugleiki frá lokum Heimsstyrjaldarinnar seinni, og þeir sitja nú uppi með ókosinn forsætisráðherra í skjóli búrókratanna í Brüssel.

Þjóðverjar bera nú orðið Ægishjálm yfir aðrar þjóðir evrusvæðisins, hvað samkeppnihæfni varðar.  Ástæðan er m.a. sú, að eftir endursameiningu Þýzkalands árið 1990 varð verðbólga í Þýzkalandi meiri en Þjóðverjum þótti góðu hófi gegna.  Það varð því þjóðarsátt í Þýzkalandi um að herða sultarólina og stöðva launahækkanir um hríð.  Ríki og fylki tóku líka til hjá sér.  Þjóðverjar náðu verðbólgunni vel niður fyrir 2,0 %, sem er viðmið ECB, banka Evrópusambandsins, ESB, þó að hún sé um þessar mundir 2,1 % vegna hækkana á eldsneyti, hrávöru og matvælum.

Um miðjan 1. áratug 21. aldarinnar höfðu aðhaldsaðgerðir Þjóðverja staðið í einn áratug og borið svo góðan árangur, að hagkerfi þeirra var orðið hið samkeppnihæfasta á evrusvæðinu.  Er þarna fagurt fordæmi fyrir Íslendinga að leita í smiðju Þjóðverja um styrka hagstjórn, sem nýtur svo mikils trausts fjármálamarkaða, að vextir á skuldabréfum þýzka ríkisins eru engir orðnir. Nú rotta skussarnir sig saman og munu reyna að fá Þjóðverja til að borga sukkið.  Það hriktir í stoðum ESB.   

Aðrar þjóðir sváfu flestar á verðinum og vöknuðu upp við það, að framleiðslukostnaður útflutningsatvinnuvega þeirra var kominn algerlega úr böndunum.  Evran hafði hækkað upp úr öllu valdi vegna hins gríðarlega styrks þýzku útflutningsvélarinnar.  Nú höktir allt evrusvæðið utan Þýzkalands og mænir til Þjóðverja eftir ölmusu.  Það er borin von þessara landa, að Þjóðverjar breyti nú lifnaðarháttum sínum og hætti á, að verðbólgan grafi um sig í þjóðfélagi þeirra.  Hin ríkin munu þess vegna aðeins ná sér á strik, ef verðbólgan hjá þeim verður minni en í Þýzkalandi, og þá eiga þessar þjóðir á hættu vítahring verðhjöðnunar, en út úr honum getur reynzt erfitt að komast.  Evrulöndin eru í illvígum vítahring, en þau skyldu minnast þess, að það voru ekki Þjóðverjar, sem báðu um þessa evru.  Það voru Frakkar, sem gerðu það að skilyrði fyrir samþykkt á endursameiningu Þýzkalands, að Þjóðverjar legðu niður stolt sitt, die Deutsche Mark, DEM. 

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að verst hafa Grikkir farið út úr evrusamstarfinu.  Á 6 ára skeiðinu, 2007-2012, hefur samdráttur gríska hagkerfisins numið um 20 %.  Þetta er með ólíkindum og sýnir, að gríska hagkerfið er að hruni komið.  Þar er atvinnuleysi ungmenna 50 % og í heildina líklega að verða 25 %.  Miðstéttin er að verða fátækt að bráð, og það á við víðar í Suður-Evrópu.  Þess vegna mun allt fara í bál og brand. 

Árið 2013 munu ríkisskuldir Grikklands nema rúmlega 160 % af VLF þrátt fyrir allar niðurfellingarnar.  Það ræður engin þjóð við svo miklar skuldir, sízt af öllu þjóð í stöðugum samdrætti.  Þetta getur aðeins endað á einn veg fyrir Grikkjum; með þjóðargjaldþroti.  Afleiðing núverandi ástands er stjórnmálaleg upplausn, og hún mun valda því, að björgunarsjóður evrunnar mun halda að sér höndum, og þá er evrusagan öll í Grikklandi.

Þar með munu þeir hrökkva út úr evrusamstarfinu.  Þegar tekur að kvarnast úr því, er líklegt, að ekki verði ein báran stök. Löndin á Pýreneaskaganum verða næstu fórnarlömbin á eftir Grikkjum.  Hvorki Portúgalir né Spánverjar geta búið við núverandi vexti Mario Draghi í Frankfurt né ávöxtunarkröfu yfir 6 % á ríkisskuldabréfum, sem nú er reyndin.  Mia EUR 100 vantar inn í spænska banka, því að vanskilin eftir eignabólu og í miklu (yfir 20 %) langvarandi atvinnuleysi eru gríðarleg.

Francois Hollande ætlar að blása lífi í hagvöxt Frakklands með lántökum að hætti krata og með fjölgun opinberra starfa.  Hollande hefur sennilega búrókratana í Berlaymont á sínu bandi og sömuleiðis Suður-Evrópu.  Á móti þessu standa Þjóðverjar og fjármálamarkaðirnir, sem lánað hafa þessum löndum stórfé.  Þeir trúa ekki á aukningu ríkisumsvifa sem lausn á vanda þessara ríkja.  Allt stefnir í átök norðurs og suðurs, og evran í sinni núverandi mynd mun auðvitað ekki lifa þau af.

Inn í þetta öngþveiti eiga Íslendingar náttúrulega ekkert erindi.  Evran var aldrei annað en stjórnmálaleg della.  Landsmenn verða að ná tökum á sínum málum sjálfir.  Að því loknu geta þeir tekið sjálfstæða ákvörðun um, hvaða mynt þeir kjósa að nota.  Það er hjákátlegt að halda viðræðum áfram um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, sem logar stafnanna á milli, en hefur samtímis í margvíslegum hótunum við Íslendinga út af Icesave fyrir Eftadómstólinum og í samkrulli við samkeppniaðila okkar og frændur, Norðmenn, út af makrílnum, sem nýhlaupinn er á snæri okkar Íslendinga og skilar um þessar mundir um 30 milljörðum kr útflutningsverðmætum.  Stuðningsmenn áframhaldandi aðlögunarviðræðna á þingi hafa undarlega innréttað toppstykki, svo að vægt sé til orða tekið.

Það á að binda endi á þessar viðræður strax með fyrirvara, leggja spilin á borðið fyrir kjósendur og leita staðfestingar þeirra á viðræðuslitum samhliða næstu Alþingiskosningum.  Til þess eru næg efnislek rök, sem beita má á þann hátt, að mótaðilinn þurfi ekki að ganga sneyptur frá borði, heldur hafi ástæðu til að skilja, að forsendur "samningaviðræðna", sem í raun eru ekkert annað en aðlögun að kröfum og stjórnkerfi ESB, hafa tekið kollsteypu.            

      Akkilesarhæll 

  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband