Færsluflokkur: Tölvur og tækni
20.8.2016 | 17:56
Fjölhæfni tengiltvinnbíla
Þann 18. ágúst 2016 birtist úttekt á horfum á íslenzka bílaeldsneytismarkaðinum eftir Ásdísi Auðunsdóttur í Viðskiptablaðinu. Þar kom fram, að fjöldi skráðra vistvænna bíla árið 2014 nam 2386 bílum eða aðeins 1,1 % af heild, sem sýnir, hversu skammt á veg komin þessi þróun er.
Í ár, 2016, virðist innflutningur þessara bíla taka umtalsvert við sér, því að samkvæmt téðri úttekt voru hlutfallstölur í bílanýskráningum fram í ágúst 2016 eftirfarandi eftir orkuformi:
- Díselolía 47 %
- Benzín 39 %
- Tvinn benzín/rafmagn 7 %
- Tengiltvinn benzín 3 %
- Rafmagn 2 %
- Benzín/metan 2 %
Frá umhverfis- og heilsufarssjónarmiðum getur hátt hlutfall dísilbíla valdið vonbrigðum, þó að þeir gefi vissulega minna frá sér af gróðurhúsalofttegundum, vegna þess að þeir eru sparneytnari en benzínbílar. Þess vegna hafa evrópskar bílaverksmiðjur lagt höfuðáherzlu á sparneytnar dísilvélar fram að þessu. Breyting á þessu er nú í aðsigi eftir áfall VW-samsteypunnar o.fl. í Bandaríkjunum í fyrra, sem skekur fjárhagslegar undirstöður þessa risa.
Hins vegar sjá t.d. Þjóðverjar fram á leiftursókn bandaríska rafbílaframleiðandans TESLA inn á evrópska markaðinn, og búast um til varnar og gagnsóknar í krafti fjárhagslegra yfirburða og mikilla fjárveitinga til rannsókna og þróunar.
Um þetta fjallar Patrick McGee frá Frankfurt í grein í Financial Times, sem Viðskipta Mogginn birti 18. ágúst 2016:
"Núna fyrst eru þeir þýzku farnir að skipta almennilega um gír og setja aukinn kraft í framleiðslu rafbíla. Og þökk sé mikilli áherzlu á arðbærni í rekstri eru þeir í aðstöðu til að geta hnyklað fjárhagslegu vöðvana og ná í skottið á Tesla að mati margra sérfræðinga.
VW eyddi á síðasta ári miaEUR 11,8 í rannsóknir og þróun, BMW miaEUR 4,3 og Daimler Benz miaEUR 6,0. Samanlögð útgjöld þeirra til þróunardeildanna eru því miaEUR 22,1. Tesla eyddi á sama tíma MUSD 718 [=miaEUR 0,6 eða tæplega 3 % af þýzka rannsóknar- og þróunarfénu - innsk. BJo]. Reyndar snýr aðeins lítill hluti rannsóknar- og þróunarkostnaðar þýzku bílaframleiðendanna að rafbílum, en það mun fljótlega breytast. Arndt Ellinghorst, greinandi hjá Evercore ISI, áætlar, að hlutfallið hafi verið 5 % fyrir 5 árum [2011], en verði líklega 10 % í ár [2016] og 40 % að 5 árum liðnum."
Þetta þýðir, að ofangreindir þýzkir bílaframleiðendur munu setja tæplega miaEUR 9 í þróun rafmagnsbíla árið 2021. Þessi frásögn gefur skýrt til kynna, að Þjóðverjar hafa nú markað þá stefnu að taka forystu í hönnun og smíði rafknúinna farartækja.
Akkilesarhæll rafbílanna eru rafgeymarnir. Þeir þykja dýrir, og orkuinnihald þeirra er of lítið. Liþíumjónarafgeymar eru algengastir í rafbílum um þessar mundir. Þeir kosta nú um 250 EUR/kWh, en spáð er verðlækkun á þeim um 36 % fram til ársins 2021. Það þýðir, að rafgeymarnir í tengiltvinnbíl blekbónda munu lækka um a.m.k. 100 þúsund kr fram að þeim tíma, að hann þarf hugsanlega að endurnýja þá.
Þeim þýzka tengiltvinnbíl er hægt að aka í eftirfarandi 4 orkuhömum:
- Rafmagn
- Rafmagn og benzín
- Benzín
- Benzín og hlaða samtímis inn á geymana
Rafhamurinn er nýttur í þéttbýli og endist 25-35 km, aðallega háð útihitastigi. Orkunýtnin er um 233 Wh/km, þegar mælt er við tengil framan hleðslutækis, þ.e. orkan, sem keypt er frá orkusalanum, er öll mæld í þessu tilviki. Raforkukostnaðurinn er þá 3,3 kr/km.
Rafmagn og benzín saman eru notuð á langakstri. Hemlunarorkan fer þá að stórum hluta inn á rafgeymana og rafhreyfillinn léttir undir með benzínvélinni. Benzínnotkunin á langakstri er 5,8 l/100 km, og orkukostnaðurinn er þá 10,6 kr/km.
Benzínhamurinn er notaður í undantekningartilvikum, t.d. þegar búið er á rafgeymunum og stutt er í áfangastað með hleðsluaðstöðu.
Að láta benzínvélina knýja rafala, sem hleður inn á rafgeymanna, kostar aukna benzínnotkun. Hjá blekbónda nemur hún 3,3 l/100 km eða 57 % aukningu. Við fyrstu sýn virðist þess vegna óráð að nota þennan ham, nema til að tryggja rafmagnsnotkun, þegar komið er í þéttbýli aftur.
Í þessu samhengi er rétt að virða fyrir sér yfirlitið hér að ofan um hlutdeild nýskráðra vistvænna bíla af heildarfjölda nýskráðra. Tvinn benzín/rafmagn er með langhæsta hlutdeild eða 7 %, en tengiltvinnbílar með 3 %. Hvernig má þetta vera í landi hreinnar og ódýrrar raforku ? Borgar sig að framleiða rafmagn með orku benzínvélarinnar ?
Svarið er jákvætt, það borgar sig, vegna þess að orkunýtni rafhreyfilsins er mun betri en benzínvélarinnar, en það er hins vegar mun hagkvæmara á Íslandi að aka á tengiltvinnbíl með möguleika á að láta benzínvélina knýja rafala, sem hleður inn á rafgeymana. Blekbóndi áætlar, að á langakstri sé þá unnt að ná benzínnotkun tengiltvinnbíls niður, úr 5,8 l/100 km í 2,6 l/100 km, en hann á eftir að prófa þetta. Það verður aðeins gert á langakstri. Þá er skipt í hleðsluhaminn, þegar rafgeymar tæmast, en skilyrðið er, að farið sé nógu langt til að aftur tæmist af geymunum áður en komið er í ákvörðunarstað, þar sem hægt er að hlaða með tengiltengingu, því að hleðsla frá tengiltengdu hleðslutæki er mun ódýrari en benzínknúin hleðsla, eins og gefur að skilja.
Tölvur og tækni | Breytt 21.8.2016 kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.7.2016 | 11:28
Vanáætluð raforkuþörf samgöngutækja hérlendis
Í raforkuspá Orkuspárnefndar frá 2015 er reiknað með hægari þróun í innleiðingu rafbíla á Íslandi en umhverfisyfirvöld landsins áætla og sem nauðsynleg er til að standa við skuldbindingar Íslands gagnvart hinu alþjóðlega Parísarsamkomulagi um loftslagsmál frá desember 2015. Það er t.d. aðeins reiknað með raforkuþörf þar fyrir 61 % bílaflotans árið 2050, en þetta hlutfall þarf að verða 100 %, svo að Ísland verði nettó kolefnisfrítt þá, eins og stefna ber að. Hluti bílaflotans kann að verða knúinn vetni eða tilbúnu eldsneyti árið 2050, en það þarf orku úr virkjunum landsins til að framleiða slíkt eldsneytni. Bezta orkunýtnin næst þó með því að nota rafmagnið milliliðalaust á bílinn.
Til að áætla raforkuþörf rafbíla er nauðsynlegt að vita orkunýtni þeirra, og skekkjur þar auka mjög ónákvæmni áætlanagerðar um virkjanaþörf. Tölur framleiðenda eru miðaðar við staðlaðar kjöraðstæður, og raunverulegar aðstæður á Íslandi gefa meira en tvöfalt hærra gildi eða 250 Wh/km +/- 20 Wh/km fyrir um 1650 kg rafmagnsbíl, án farþega og farangurs. "The US Department of Energy" gefur upp orkunýtni "minni fólksbíla" á bilinu 160-250 Wh/km. Ástæða þess, að orkunýtnin á Íslandi er í verri kantinum, er tiltölulega lágt meðalútihitastig yfir árið, en raforkunotkun rafbíla eykst með lækkun útihitastigs. Einnig kann vindasamt veðurfar og mishæðótt landslag að hafa áhrif til sömu áttar. Lágur hámarkshraði á vegum virkar hins vegar til sparnaðar. Töp í hleðslutæki rafgeyma bílsins eru innifalin í ofangreindri nýtnitölu blekbónda, svo að hún endurspeglar raforkukostnað bílsins, sem þá nemur 3,5 kr/km, sem er aðeins fjórðungur af orkukostnaði sambærilegs benzínbíls.
Orkuspárnefnd Orkustofnunar (OSN) notaði gildið 200 Wh/km við áætlanagerð árið 2015, sem er 20 % of lágt. Hún áætlar, að gildið muni hafa hækkað árið 2030 upp í 250 Wh/km vegna þess, að stærri farartæki verði þá knúin rafmagni að meðaltali. Hér er sennilega enn 25 % vanáætlun. Árið 2050 býst Orkuspárnefnd hins vegar við lækkun í 230 Wh/km, en að mati blekbónda getur sú tala þó vegna tækniframfara orðið enn lægri eða t.d. 200 Wh/km. Á móti má búast við auknum akstri á hvern íbúa, er fram líða stundir, af því að rafmagnsbílar eru mun ódýrari í rekstri en eldsneytisbílar og af því að bílaleigubílum mun fjölga hlutfallslega meira en öðrum bílum vegna ferðamannafjölgunar.
Árið 2020 metur OSN raforkuþörf til samgangna á landi aðeins 12 GWh, reist á fjölda rafmagnsbíla 1,5 % af heildarfjölda. Líklegra hlutfall m.v. núverandi þróun er 3 %, og að orkuþörf samgangna verði þá a.m.k. 30 GWh eða 2,6 x áætlun OSN.
Árið 2030 metur OSN raforkuþörf til samgangna á landi aðeins 220 GWh, reist á fjölda rafmagnsbíla 23 % af heildarfjölda. Ef 50 % nýrra bíla verður rafknúinn árið 2025, eins og spáð er, þá er líklegt, að árið 2030 verði þeir a.m.k. 70 % af nýjum, og að af heildarfjölda verði þeir þá 30 %. Raforkuþörf landsamgangna má þá áætla a.m.k. 460 GWh eða 2,1 x áætlun OSN.
Innifalin í spá OSN er samt orkunotkun hraðlestar á milli Reykjavíkur (Vatnsmýrar) og flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, 30 GWh árið 2030. Það er undarlegt að taka þetta verkefni með í reikninginn, því að arðsemi þess er lítil og óviss, hún hefur neikvæð áhrif á umhverfið vegna töluverðrar landnotkunar meðfram ströndinni og hávaða frá teinum, og þar af leiðandi er ósennilegt, að fjárfestar fái á þessu verkefni áhuga. Ef hins vegar þessi hraðlest verður komin í reglubundinn rekstur árið 2030, má út frá massa og meðalhraða reikna með meðalálaginu 10 MW í 20 klst/d, 365 d á ári, sem gefur orkunotkun rúmlega 70 GWh/ár. Blekbóndi reiknar hins vegar ekki með þessu, en reiknar hins vegar með, að árið 2030 verði flestar rútur og bílaleigubílar orðnar umhverfisvænar.
Árið 2040 þurfa allir nýir bílar annaðhvort að vera knúnir umhverfisvænu eldsneyti eða rafmagni, ef allur landtækjaflotinn á að verða án nettó kolefnislosunar árið 2050. Þetta er tæknilega raunhæft markmið og ætti eindregið að stefna að því, að nettó kolefnislosun á íslenzku láði, legi og í lofti verði engin. Þess má geta í framhjáhlaupi, að Norðmenn ræða nú löggjöf, sem banna mundi nýja óumhverfisvæna bíla f.o.m. árinu 2025. Árið 2040 má þá reikna með, að 70 % bílaflotans á Íslandi verði rafknúinn með einum eða öðrum hætti og noti þá 1200 GWh af raforku.
Árið 2050 metur OSN raforkuþörf til samgangna á landi aðeins 885 GWh, reist á fjölda rafmagnsbíla 61 % af heildarfjölda, sem vonandi er allt of lágt hlutfall. Það er ekki einber óskhyggja, að svo sé, heldur mun markaðurinn knýja fram hraðari þróun, þar sem orkukostnaður rafmagnsbíla er nú þegar (júlí 2016) aðeins um fjórðungur af eldsneytiskostnaði jafnstórra bensínbíla (benzínverð tæplega 200 kr/l). Sé miðað við 100 % bílaflotans rafknúinn árið 2050, og að orkunýtnin hafi þá batnað í 200 Wh/km, þá verður raforkuþörfin fyrir landsamgöngur a.m.k. 1500 GWh eða 1,71 x OSN spáin.
Orkuspárnefnd (OSN) hefur lagt fram allt of lága spá um orkuþörf samgöngugeirans, og líkleg skekkja setur áætlanagerð um virkjanaþörf í uppnám, sem getur tafið fyrir rafvæðingunni og valdið því, að á Íslandi verði ekki unnt að ná markmiðum um kolefnislaust land, eins og að er stefnt, þó að slíkt sé bæði tæknilega raunhæft og rekstrarlega og þjóðhagslega hagkvæmt.
Hér hefur ekki verið minnzt einu orði á raforkuþörf annarra samgönguþátta, en telja má líklegt, að árið 2030 hafi umskipti í vélarúmi fiskiskipaflotans hafizt fyrir alvöru, og árið 2040 er líklegt, að tilraunarekstur hafi verið hafinn með aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti um borð í farþegaþotum, þó að hefðbundnir þotuhreyflar verði til vara.
Það er ekki ólíklegt, að á seinni hluta 21. aldar muni þurfa um 4 GWh/ár af raforku fyrir allan íslenzka samgöngugeirann, en það er um 22 % af núverandi raforkunotkun landsins.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2016 | 10:53
Borgaralaun - paradísarheimt ?
Hugmyndin um borgarastyrk úr ríkissjóði til allra (fjárráða) íbúa er ekki ný í heiminum, þó að hún sé ný á stjórnmálasviðinu á Íslandi. Píratar hafa hérlendis gert þessa stefnu að sinni. Hún snýst um að greiða öllum fullorðnum fasta upphæð úr ríkissjóði óháð tekjum þeirra og þörfum. Þá yrðu um leið aðrir styrkir úr ríkissjóði, á borð við ellistyrk og örorkustyrk, afnumdir.
Það eru vissar þjóðfélagsaðstæður uppi núna víða á Vesturlöndum, sem ýta undir umræður af þessu tagi. Þær eru aukin misskipting tekna víðast hvar í heiminum og tækniþróun, sem menn óttast, að auka muni atvinnuleysi, og sé rót atvinnuleysis, sem víða er mikið fyrir, og jafnvel leysa af hólmi ýmis láglaunastörf. Borgarastyrkur kæmi þá í stað atvinnuleysisbóta.
Mælikvarði á téða misskiptingu er Gini-stuðullinn. Fái allir jafnt, er hann 0. Það er ekki æskilegt, því að þá hverfur allur hvati til að gera betur í dag en í gær og til að bæta kjör sín og sinna. Fái einn allar tekjurnar, er Gini-stuðullinn 1,00. Þetta er sízti kosturinn, enda jafngildir þetta ástand þrælahaldi, kúgun og uppreisnarástandi. Vandinn er að finna hinn gullna meðalveg, en hann er líklega nokkuð mismunandi eftir menningu og hefðum hvers lands.
Meðaltalið í OECD-ríkjunum var árið 2013 0,32 og hafði þá hækkað úr 0,29 árið 1985. Mestur jöfnuður allra OECD-ríkjanna árið 2013 var á Íslandi, 0,24 á Gini, og síðan þá hefur jöfnuðurinn enn vaxið á þennan mælikvarða hérlendis. Næst á eftir Íslandi komu Danmörk og Noregur með 0,25 og 0,26 í sömu röð. Á Norðurlöndunum er kjör-Ginistuðull líklega á bilinu 0,22-0,27, og Ísland er sem sagt þar við neðri mörkin um þessar mundir.
Það hefur verið kvartað undan of miklum launajöfnuði á Íslandi og að menntun borgi sig vart fjárhagslega, af því að lífslaun háskólamanna séu lægri en t.d. iðnaðarmanna. Þetta á aðeins við sumar stéttir háskólamanna, og er sennilega undantekning, þó að BHM hafi látið ófriðlega í vinnudeilum í vetur og heimtað hækkanir umfram aðra. Laun fara yfirleitt eftir ábyrgð og spurn eftir því, sem launþeginn hefur fram að færa. Til að fá sérfræðinga til landsins úr námi og starfi, verða ráðstöfunartekjur hérlendis hins vegar að vera sambærilegar við ráðstöfunartekjur erlendis. Líklega má jöfnuðurinn hérlendis ekki aukast úr þessu, svo að hvati til náms verði ekki of lítill og til að samkeppnishæfni landsins versni ekki. Hana þarf að bæta. Styrking gengisins undanfarið bætir hag almennings til skemmri tíma, en samkeppnisstaða útflutningsgreinanna versnar, sem getur hefnt sín í lakari stöðu þjóðarbúsins. Ef viðskiptajöfnuðurinn verður neikvæður, munu lífskjör óhjákvæmilega versna aftur.
Nú verður vitnað til greinar um borgarastyrk í The Economist 4. júní 2016,
"Sighing for paradise to come":
"Sumir segja, að framtíðin sé paradís tæknilegrar gnóttar, þar sem launað starf sé valkvætt og enginn líði skort. Í sjónhendingu gefur að líta í Maricá, hvað þetta getur þýtt, en Maricá er sjávarbær skammt frá Rio de Janeiro. Í desember 2015 öðluðust allir 150´000 íbúarnir rétt til mánaðarlegs framfærslustyrks að upphæð tæplega USD 3,0, sem er fjármagnaður af hlutdeild Maricá í olíuvinnslugjaldi ríkisins.
Upphæðin er lág, en fyrir Washington Quaquá, bæjarstjórann í Maricá og höfund borgarastyrkshugmyndarinnar þarna, er hugmyndin stór í sniðum. Hann segist stjórnast af siðferðiskennd, sem geti raungert ævidraum sinn um jafnréttissamfélag. Verkefni sitt segir hann dæmi um "allsherjar grunnlaun": skilyrðislausa greiðslu til allra í tilteknu lögsagnarumdæmi.
Hugmyndin á sér langa forsögu, og hana studdu miklir menn upplýsingatímans, t.d. Marquis de Condorcet og Thomas Paine. Þremur öldum síðar hafa nokkrar ríkisstjórnir vítt um heiminn, aðallega í ríkum löndum, sett af stað tilraunaverkefni um fyrirkomulag grunnlauna, eða eru að íhuga slíkt. Finnland mun hefja slíkt tilraunaverkefni 2017, þar sem nokkrir borgarar munu fá óskuldbindandi greiðslur í reiðufé allt að EUR 800 (kISK 110) á mánuði. Svipað á sér nú stað í nokkrum hollenzkum borgum."
Þann 5. júní 2016 greiddu Svisslendingar atkvæði um stjórnarskrárbreytingu, sem fól í sér rétt íbúanna til slíks grunnframfærslustyrks. Um 70 % kjósenda, sem atkvæði greiddu, höfnuðu innleiðingu slíks ákvæðis í stjórnarskrá.
Það, sem mælir gegn slíkum borgaralaunum eða -styrk, er, að úr ríkissjóði er þá ausið fé til þeirra, sem enga þörf hafa fyrir slíka sporslu frá ríkinu, til jafns við hina, sem raunverulega þurfa framfærslustyrk, og hvatinn til að vinna sér inn laun er rýrður. Bandaríkjamenn hafa gert kostnaðargreiningu á því, hvað USD 1000 (tæplega kISK 125) á mánuði til allra mundi þýða, þó að á móti væru felldar niður opinberar tryggingar. Við þetta mundu ríkisútgjöldin þenjast út og nema 35 % af VLF, eins og nú er í Þýzkalandi, en í BNA nemur þetta hlutfall aðeins um 26 % um þessar mundir.
Það virðist vera ótímabært að innleiða ákvæði af þessu tagi núna í lög eða stjórnarskrá, því að enn hefur gríðarleg tækniþróun ekki leitt af sér slíkt fjöldaatvinnuleysi, sem sumir hafa spáð. Störf hafa hins vegar breytzt eða flutzt til á milli starfsstétta fyrir atbeina tækninnar. Í öllum vel heppnuðum tilvikum hefur orðið framleiðniaukning og verðmætasköpun hefur vaxið. Þetta hefur samt ekki leitt til almennrar auðsöfnunar í atvinnulífi eða minnkandi heildarframboðs á vinnu. Ástæður fjöldaatvinnuleysis eru oftast raktar til strangs regluverks varðandi ráðningar og brottrekstur og hárrar skattheimtu á fyrirtækin.
Píratar hafa á Íslandi gerzt boðberar borgarastyrks. Fyrirbærið á illa við á Íslandi, þar sem meinið, sem það á að bæta úr, er vart fyrir hendi á Íslandi, þar sem jöfnuður er hvergi meiri og nægt framboð vinnu fyrir alla, sem vilja vinna, þó ekki fyrir alla háskólaborgara. Þeir verða þá tímabundið að sætta sig við vinnu á öðrum sviðum en þeir hafa menntað sig á. Þetta stefnumál pírata, eins og ýmislegt annað hjá þeim, er þess vegna illa ígrundað og yrði líklega þung fjárhagsleg byrði á ríkissjóði, á kostnaðar- og tekjuhlið, þó að sumir aðrir styrkir yrðu felldir niður um leið og þessi yrði innleiddur, sem vonandi verður ekki á vorum dögum.
4.7.2016 | 08:45
Vantar hraðlest ?
Fyrsta spurningin, sem fjárfestir, sem fær kynningu um verkefnið "Hraðlest Reykjavík-Flugstöð Leifs Eiríkssonar", þarf að fá svarað, er þessi: "Er spurn eftir þessari hraðlest ?
Fljótt á litið gætu verið 3 hvatar, sem mundu gera slíka hraðlest eftirsóknarverða:
- Umhverfismál. Lestin yrði rafknúin og mundi hugsanlega nota rúmlega 70 GWh/ár af raforku úr endurnýjanlegum og umhverfisvænum orkulindum. Gallinn er hins vegar sá, að hin samgöngutækin á þessari leið, almenningsvagnar (flugrútan), leigubílar, bílaleigubílar og einkabílar verða líklega að töluverðu leyti knúin með öðru en jarðefnaeldsneyti skömmu eftir, að téð hraðlest á að taka til starfa (2024), svo að loftmengun mun ekkert minnka við þessa framkvæmd. Hins vegar verður hrikalegur brautarhvinur frá lestinni, sem á að ná hámarkshraðanum 250 km/klst. Gerð brautarinnar mun krefjast mikils jarðrasks á 35 km leið, og ætlunin er að sprengja fyrir 14 km löngum jarðgöngum undir Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og Reykjavík. Þetta verða langlengstu jarðgöng á Íslandi, þó að þau verði innan við fjórðungur af nýju Gotthards-lestargöngunum. Þar er hins vegar ólíku saman að jafna með umferðarþungann. Helgunarsvæði brautarinnar mun e.t.v. nema 50 m til hvorrar hliðar, svo að brautin þarf um 4,0 km2 lands.
- Tímasparnaður: Reikna má með, að lestin nái meðalhraðanum 170 km/klst á þessari 49 km leið með stoppum og verður þá 17 mín á leiðinni hvora leið. Langferðabíll verður e.t.v. 45 mín með stoppum frá Flugstöð að Umferðarmiðstöð, eftir að lokið hefur verið við tvöföldun Reykjanesbrautar. Ferðatíminn á þennan áfangastað ferðamannsins styttist þá um 28 mín, sem er umtalsvert, en það er heildartími ferðalangsins á ákvörðunarstað, sem skiptir farþegann máli. Þegar þess er gætt, að flugrútur geta farið beint á hótel með farþega, verður í sumum tilvikum enginn tímasparnaður að taka lestina, og það mun taka farþega lestarinnar lengri tíma aðkomast á ákvörðunarstað en ökumenn og farþega í bílum, sem komast beint þangað. Heildartímasparnaður með þessum nýja ferðamáta næst í fæstum tilvikum.
- Kostnaður: Í viðtali Trausta Hafliðasonar við Runólf Ágústsson (RÁ) í Viðskiptablaðinu 12. maí 2016 kveður RÁ stofnkostnaðinn verða MEUR 730 (miaISK 103). Á þessu stigi má ætla óvissu kostnaðaráætlunar +/- 30 %. Árlegan rekstrarkostnað kveður RÁ munu verða MEUR 44, sem þá felur í sér aðallega viðhald, orku- og starfsmannakostnað. Á tekjuhlið ætlar RÁ að láta meðalfargjald með lestinni kosta 22 EUR/fþ (um 3000 ISK á farþega). Hann ætlar lestinni að ná í 40 % flugfarþega og að auki þá, sem reglubundið eiga leið á milli Reykjanesbæjar og Höfuðborgarsvæðisins. Árið 2015 voru að jafnaði 12´400 bílaleigubílar í útleigu af um 18´200 bíla flota, þ.e. meðalnýtni flotans nam 68 %. Ef að jafnaði voru 2,0 í bíl og meðalleigutími var ein vika, þá voru tæplega 1,3 milljónir í þessum bílaleigubílum árið 2015. Séu um 45 % bílaleigubílanna leigðir frá og að Flugstöð Leifs Eiríkssonar, þá munu 40 % flugfarþeganna taka bílaleigubíl í Flugstöðinni, og ekki mun þeim fækka við rafbílavæðinguna, því að orkukostnaður rafbíls á Íslandi er aðeins um 3,5 kr/km eða um fjórðungur af orkukostnaði sambærilegs bensínbíls. Rafvædd flugrúta með orkukostnað innan við 10 kr/km, verður áreiðanlega skæður keppinautur lestarinnar um hin 60 % farþeganna, og blekbóndi sér ekki, hvers vegna meirihluti þeirra ætti að velja dýrari ferðarmátann, eins og RÁ býst við, þar sem hann áætlar, að 40 % farþeganna taki lestina, en blekbóndi reiknar hins vegar hér með 30 % í arðsemiútreikningum, og 30 % skiptist þá á milli leigubíla, einkabíla og flugrútu. RÁ fullyrðir, að innri ávöxtun verkefnisins muni með kostnaðar- og tekjutölum sínum á 30 ára skeiði nema 15,1 % á ári. Þetta er mjög vafasamt. Blekbóndi notaði hæstu áætlun, sem hann hefur séð ferðageirann tilfæra um árlegan fjölda flugfarþega til landsins í framtíðinni, 5,0 milljónir á ári, sem er ógnvekjandi há tala. Hraðlestin mun þá í hæsta lagi flytja 3,0 Mfþ/ár, en RÁ reiknar með óskiljanlega hárri farþegatölu með lestinni eða 4,5 Mfþ/ár. Árlegur heildarkostnaður m.v. forsendur RÁ mun nema 156 MEUR/ár, og þannig mun meðalkostnaður á farþega m.v. 4,5 Mfþ/ár verða 35 EUR, sem er 59 % hærra verð en RÁ fékk út. Með farþegafjöldanum, sem blekbóndi telur hins vegar hámarksfjölda, 3,0 Mfþ/ár, mun meðalfargjaldið þurfa að kosta 52 EUR/fþ eða 7300 ISK/fþ fyrir 15,1 % ávöxtun fjárfestingarinnar á ári, og er það 2,4 sinnum hærra en RÁ gaf upp í téðu viðtali. Það er maðkur í mysunni hjá RÁ, og hugsanlegir fjárfestar munu fljótlega verða þess áskynja, þegar þeir fara að reikna, og RÁ mun þá sjá undir iljar þeim.
Ef meðalfargjaldið þarf að nema yfir 5000 kr, þá mun farþegafjöldi hraðlestarinnar hrynja m.v. áætlun, og viðskiptagrundvöllur hennar verður alls enginn. Það er með ólíkindum, að ekki skuli vera búið að grafa þessa dauðu viðskiptahugmynd, en draugurinn gengur ljósum logum í stjórnkerfinu.
Téð viðtal við frumkvöðulinn RÁ í Viðskiptablaðinu ber yfirskriftina:
"Hraðlest er orðin mjög raunhæfur kostur".
Þessi lýsing á verkefninu er mjög villandi, eins og fram kemur hér að ofan. Það er mikilvægt, að stjórnmálamenn og embættismenn láti ekki með glamuryrðum slá ryki í augu sér, og fari þannig að leggja út fé skattborgara fyrir undirbúning þessarar framkvæmdar, eða að gefa ádrátt um slíkt.
Um undirbúninginn segir RÁ, að einkafyrirtæki séu komin á fremsta hlunn með að skrifa undir samning um þátttöku, en enn er ekki vitað um neinn, sem í alvöru hyggur á fjármögnun þessa glæfraspils.
"Verkefninu er skipt í þrennt. Það er búið að vera á undirbúningsstigi í 3 ár, og nú er það að færast yfir á annað stig, sem felur í sér skipulagsþáttinn, mat á umhverfisáhrifum, hönnun og fjármögnun. Síðasti fasinn er framkvæmdin sjálf, sem tekur 5 ár.
Kostnaður við þennan annan fasa verkefnisins nemur 1,5 miaISK, og við eigum nú í viðræðum við erlenda fjárfesta um fjármögnun á þessum hluta. Viðræðurnar eru langt komnar, og væntanlega verður skrifað undir eftir u.þ.b. 3 vikur. Þegar því er lokið, verður búið að tryggja fjármagn út þetta ár. Það fé mun standa straum af rannsóknarkostnaði í sumar og haust."
Aðdragandinn að þessu vonlausa verkefni hefur verið langdreginn, og hér skal efast um, að fjármögnun á öðrum þætti þessa leikrits verði, eins og RÁ vonast eftir, en það kemur þá í ljós fyrir miðjan júlí 2016.
Svarið við spurningunni, sem hugsanlegum fjárfesti var lögð í munn í upphafi, er nei; það er enginn að biðja um þessa hraðlest, nema Runólfur Ágústsson.
18.3.2016 | 18:01
Rafgeymar og rafbílar
Framleiðsla og sala á rafbílum hefur enn ekki fengið byr í seglin, þótt að því hljóti senn að koma. Það eru ýmsar ástæður fyrir þessu byrleysi, lognmollu. Þróun eldsneytisverðs frá miðju ári 2014, þegar hráolíuverð var yfir 100 USD/fat, til marz 2016, þegar verðið er rúmlega 30 USD/fat, en að vísu spáð hækkandi, tefur fyrir orkubyltingunni, og sú töf er e.t.v. hluti skýringarinnar á því, að ekki hefur verið dregið úr framboðinu, þótt eftirspurn hafi dvínað. Olíuframleiðendur sjá nú sína sæng út breidda. Nú eru olíubirgðir í heiminum í hámarki eða 1,3 mia föt (milljarðar tunnur), en það er um tveggja vikna olíunotkun heimsins.
Rafmagnsverð í heiminum hefur lækkað, nema á Íslandi, þar sem það hefur hækkað, nema til fyrirtækja með rafmagnssamninga, þar sem orkuverð er tengt markaðsverði á afurðum þeirra. Hefur verið bent á það á þessu vefsetri, að á íslenzka fákeppnismarkaðinum, þar sem ríkisfyrirtæki hefur ríkjandi stöðu gagnvart öðrum orkuvinnslufyrirtækjum, sé þessi öfugþróun með öllu óviðunandi, þar sem hún veikir mjög samkeppnisstöðu íslenzkra fyrirtækja, sem öll nota raforku, en í mismiklum mæli þó. Þessi öfugsnúna þróun raforkuverðs hérlendis tefur jafnframt fyrir orkubyltingunni, t.d. skiptum úr eldsneytisknúnum fartækjum í rafknúin fartæki. Sú nývæðing er ein af forsendum þess, að Ísland nái markmiði sínu um losun gróðurhúsalofttegunda 2030.
Dreifingarfyrirtæki raforku eru einokunarfyrirtæki hvert á sínu svæði, og fyrir því eru þjóðhagsleg rök að koma í veg fyrir offjárfestingu í dreifikerfum á fleiri en einni hendi. Fyrir vikið vantar nýbreytnihvata fyrir dreififyrirtækin, og t.d. hefur hvorki frétzt af snjallmæalaáformum né áformum þeirra um gjaldskrárbreytingu vegna aukins álags á dreifikerfin af völdum hleðslu rafgeyma rafmagnsbíla, sem árið 2030 gætu hafa náð 90 þúsund bíla markinu. Að öðru jöfnu hefst endurhleðsla flestra rafbíla á tímabilinu kl. 1700-2000, þegar notkun dagsins lýkur. Á þessu tímabili er álagstoppur í raforkunotkun flestra heimila, og við hleðsluna má búast við tvöföldun heimilisálagsins og yfir 100 MVA ofan á toppinn árið 2030 á landsvísu.
Það stefnir í óefni um allt land, ef engar ráðstafanir verða gerðar til úrlausnar. Það er hægt að fjárfesta sig út úr vandanum, skipta um dreifispenna, bæta við jarðstrengjum, efla háspennulínur og virkja. Þetta er óhagkvæm leið til að mæta toppi í 3-4 klst á sólarhring.
Mun skynsamlegra er að beina þessu aukna álagi yfir á lágálagstímabil dreifiveitna, sem er nóttin. Það geta dreifiveiturnar gert með innleiðingu næturtaxta, sem sé í heildina u.þ.b. helmingi lægri en dagtaxtinn að því tilskildu, að vinnslufyrirtækin og flutningsfyrirtækið sjái sér hag í verulegri lækkun orkutaxta sinna að næturlagi. Þar með mundi megnið af hleðsluálagi bílarafgeyma færast yfir á tímabilið 0000-0600 og einvörðungu jafna álag dreifiveitnanna. Eina fjárfestingin væri fólgin í endurnýjun orkumæla, en nýju orkumælarnir, stundum nefndir snjallmælar, þyrftu að hafa tvö klukkustýrð teljaraverk. Í mörgum tilvikum er hvort eð er tímabært að endurnýja raforkumælana og setja þá upp örtölvustýrða mæla með aflmælingu (kW, kVA)), raunorkumælingu (kWh) og launorkumælingu (kVArh) á tveimur tímabilum hvers sólarhrings og jafnvel með fjaraflestrarmöguleika. Með þessu móti væri hægt að takmarka toppálag heimila og fyrirtækja með því að beita hárri gjaldskrá fyrir afltöku umfram umsamin mörk. Það er t.d. gert í Noregi, þar sem hár toppur skapast í kuldatíð vegna rafmagnskyndingar húsnæðis. Er þá dregið úr afli rafmagnsofna á meðan eldað er o.s.frv. Þetta er hægt að gera sjálfvirkt eða handvirkt.
Tækniþróun rafgeyma hefur verið tiltölulega hæg, og hefur þetta tafið fyrir orkubyltingu í samgöngugeiranum. Nú eru komnir fram á sjónarsviðið liþíum rafgeymar, sem hafa meiri orkuþéttleika, kWh/kg, en nikkel-kadmíum geymar, svo að ekki sé minnzt á gömlu blý-brennisteinssýrurafgeymana. Eru yfirleitt liþíum geymar í rafbílum nú orðið.
Spurn eftir liþíum jókst gríðarlega á 4. fjórðungi 2015, svo að augnabliksverðið ríflega tvöfaldaðist, úr 6000 USD/t af liþíum-karbonati í 13800 USD/t frá nóvemberbyrjun til desemberloka. Er þetta eina hráefnið, sem vitað er um verulega hækkun á árið 2015. Er hún til vitnis um aukna framleiðslu liþíum rafgeyma, enda eykst framleiðsla rafbíla og tengiltvinnbíla, þó að eftirspurnin sé óþarflega lítil enn, þó að það standi til bóta.
Það eru að vísu fleiri kaupendur liþíum-geyma en rafbílaframleiðendur. Þannig er farið að tengja rafgeyma við sólarhlöður til að geyma sólarorkuna og nota sem raforku að nóttu, eða þegar skýjað er. Stofnkerfisrekendur, t.d. í Suður-Kaliforníu, eru farnir að setja upp risastór liþíum-rafgeymasett, allt að 1,0 GW, til að anna álagstoppum og til að koma fyrirvaralaust inn á netið við brottfall vinnslueininga, við bilun, eða þegar hægir á vindmyllum.
Lönd með þekkta liþíum auðlind í jörðu eru eru talin upp hér á eftir. Hlutfallslegt þekkt magn í hverju landi af vinnanlegum liþíum-samböndum er einnig sýnt:
- Bólivía 23 %
- Chile 19 %
- Argentína 16 %
- BNA 14 %
- Kína 14 %
- Ástralía 4 %
- Önnur 10 %
Það eru þó ekki stórviðskipti með liþíum, því að rúmtak liþíum rafgeyma er aðeins að 5 % liþíum, og kostnaður þess er aðeins 10 % af kostnaði rafgeymanna. Heimsviðskipti með liþíum nema aðeins miaUSD 1,0 á ári. Efnið er samt nauðsynlegt í hinar léttu rafhlöður snjallsíma, fartölva og handverkfæra. Að hálfu fjárfestingarbankans Goldmans Sachs er notuð líkingin "nýja bensínið" um liþíum. Það er enginn hörgull á liþíum í jörðunni, og það er endurvinnanlegt, en að gera það nýtilegt er seinlegt og dýrt.
Kínversk yfirvöld hafa komið auga á mikilvægi liþíums í baráttunni við loftmengun. Þau hvetja mjög til rafvæðingar fartækjanna, einkum strætisvagna og langferðabíla, rútna. Á fyrstu 10 mánuðum 2015 næstum þrefaldaðist sala nýrra rafmagnsfartækja í samanburði við sama tímabil árið áður, og seldust 171´000 slík farartæki, sem svarar til árssölu rúmlega 205´000 rafmagnsfartækja. Þetta var þó aðeins 1,0 % af heildarfjölda nýrra farartækja í Kína. Kínverski bílamarkaðurinn er þannig sá stærsti í heimi, og með þessu áframhaldi verða fljótt seld flest ný rafmagnsfartæki í Kína, enda er kínverski markaðurinn stærsti bílamarkaður í heimi með yfir 20 milljónir seldra nýrra bíla á ári.
Á Íslandi voru árið 2015 seldir 15´420 fólks-og sendibílar. Af þeim voru um 2,0 % alrafknúnir eða tengiltvinnbílar, þ.e. rúmlega 300 talsins. Betra væri, að Íslendingar tækju Kínverja sér til fyrirmyndar og tvöfölduðu innfluttan og seldan fjölda slíkra bíla árlega 2016-2019, þannig að eigi síðar en 2020 nemi innflutningur raf- og tvinnbíla yfir 30 % af heild. Til þess þarf þó kraftaverk. Stjórnvöld ættu að lyfta þakinu, sem nú er MISK 6,0, fyrir innkaupsverð á farartækjum, sem seld eru hérlendis án vörugjalds og virðisaukaskatts, séu þau dæmd umhverfisvæn, og fella þessi gjöld af stórum tækjum á borð við almenningsvagna og langferðabíla til að flýta fyrir rafvæðingu þessara orkufreku tækja. Tryggingafélög bjóða lægri iðgjöld af umhverfisvænum farartækjum, og frítt er fyrir þau í bílastæði í Reykjavík. Þeim fylgja þess vegna ýmis hlunnindi, en þau eru enn þá dýrari í innkaupum en sambærilegir jarðefnaeldsneytisknúnir bílar þrátt fyrir niðurfellingu innflutningsgjalda.
Árið 2030 gæti heildarfjöldi allra farartækja á íslenzkum vegum numið 300´000. Raunhæft markmið ætti að vera, að 30 % þeirra verði rafknúin eða af tengiltvinngerð. Þá þarf að meðaltali að flytja inn 6000 slíka bíla á ári, sem er tæplega 40 % af núverandi heildarinnflutningi. Til að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050, er þessi áfangi nauðsynlegur, en þá þarf nú heldur betur að slá undir nára, víða.
Það vekur athygli, hversu lítið rafmagnsbílum og tengiltvinnbílum er hampað af bílaumboðum hérlendis, þó að talsvert úrval sé nú þegar af slíkum farartækjum, og hversu litla athygli flest bílaumboðin vekja á hagkvæmni þessara bíla fyrir kaupendur nýrra bíla. Bílainnflytjendur þurfa almennt að átta sig á því, að á Íslandi er jarðefnaeldsneyti dýrt, en rafmagnið er ódýrt miðað við það, sem algengast er í hinum vestræna heimi. T.d. virðast kaup á tengiltvinnbíl geta borgað sig á innan við 4 árum vegna lægri rekstrarkostnaðar, þó að hann sé nokkru dýrari en sambærilegur eldsneytisbíll. Þetta er þó nauðsynlegt að sannreyna við íslenzkar aðstæður með mælingum.
Auk þess er raforkuvinnslan á Íslandi umhverfislega og fjárhagslega sjálfbær, en um hvort tveggja gegnir víða öðru máli. T.d. í Evrópu, Japan og Bandaríkjunum (BNA) hefur a.m.k. 60 % raforkuvinnslunnar mikla mengun í för með sér á formi fínna sótagna, örryks, auk myndunar gróðurhúsalofttegunda, og vind- og sólarorka er stórlega niðurgreidd af skattgreiðendum, einkum í Þýzkalandi. Það er þess vegna meira hagsmunamál og umhverfisverndarmál á Íslandi en víðast hvar annars staðar, að innleiðing rafmagnsbíla, með tvinnbíla sem millilausn, gangi bæði fljótt og vel.
Til að innleiðingin gangi snurðulaust verða orkuyfirvöld að leggja hönd á plóginn og laða orkuvinnslufyrirtæki, flutningsfyrirtækið og einkum dreifiveitur og söluaðila raforkunnar, rafvirkjameistara og rafmagnshönnuði, til samstarfs, svo að rafkerfið verði í stakk búið að mæta auknu álagi og nóg verði af viðeigandi tenglum með sölumælingu í borg, bæjum og þorpum, bílageymslum og á bílastæðum fjölbýlishúsa og við flugvellina, svo að dæmi séu nefnd, til að skortur á innviðum verði ekki til trafala við þessa mikilvægu innleiðingu.
Segja má, að fjölgun rafbíla og tvinnbíla sé ótrúlega hæg m.v. hið rausnarlega framlag ríkissjóðs að gefa eftir bæði vörugjöld og virðisaukaskatt á þessum bílum. Vanburða innviðir og e.t.v. efasemdir um nýja tækni í þessum geira eiga sinn þátt í því. Eftirgjöf gjaldanna er auðvitað tímabundin á meðan framleiðslukostnaður umhverfisvænu bílanna er hærri en hefðbundinna eldsneytisbíla og á meðan verið er að koma viðskiptum með þessa bíla á skrið. Þó væri sennilega ráðlegt af stjórnvöldum að marka stefnu til lengri tíma, t.d. áratugar, um þessi gjöld, svo að fjárfestar sjái sér fært að setja fé í innviðauppbygginguna, og geti verið sæmilega öruggir um ávöxtun fjár síns á því sviði.
23.8.2015 | 13:39
Rammi á villigötum
Orkumál Íslands eru á ótrúlegum villigötum miðað við þau gríðarlegu verðmæti, sem virkjanirnar geta malað úr orkulindunum ár eftir ár, ef rétt er haldið á spöðunum. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, 2009-2013, bætti ekki úr skák, þegar hún gróf undan hugmyndafræðinni að baki Rammaáætlun, sem var að fela valinkunnum sérfræðingum uppröðun virkjanakosta eftir hagkvæmni og umhverfisröskun. Ramminn átti þannig til kominn að verða stjórntæki fyrir Orkustofnun, sveitarfélög og ríkisvald við útgáfu virkjanaleyfa og framkvæmdaleyfa til virkjanafyrirtækjanna.
Dæmdur umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, umturnaði Rammanum, sem hún hafði fengið í hendur frá sérfræðingunum, í félagi við iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar, færði borðleggjandi vatnsaflsvirkjanir í biðflokk og setti vafasamar jarðgufuvirkjanir í nýtingarflokk. Þetta var auðvitað gert á ómálefnalegum forsendum einvörðungu til að fækka raunhæfum virkjanakostum og draga þá á langinn. Þessi pólitíski gjörningur dæmds umhverfisráðherra hefur nú haft þær afleiðingar, að orkuskortur blasir við í landi orkugnóttar, jafnvel staðbundinn þegar næsta vetur. Hluti af skýringunni er, að stærstu jarðgufuvirkjanirnar eru ósjálfbærar og dregur niður í þeim um 2 % árlega. Hver jarðvarmasérfræðingurinn eftir annan kemur nú fram opinberlega og fullyrðir, að óvarlega hafi verið farið fram við nýtingu, t.d. á Hengilssvæðinu, allt of mikil áhætta tekin með of stórum virkjunaráföngum. Slík áhætta er óverjandi og ber vitni um dómgreindarbrest og flumbruhátt. Er þáttur R-listans sáluga og vinstri meirihlutans í Reykjavík talsverður í þessari sorgarsögu, sem á eftir að reynast eigendum ON dýrkeyptur.
Enn alvarlegra en biðflokkavitleysa Svandísar með vatnsaflsvirkjanirnar er, að jarðgufukostum hennar er svo þétt skipað, að jarðvísindamenn telja víst, að um ofnýtingu jarðgufuforðans yrði að ræða, ef úr yrði. Þrátt fyrir viðvaranir vísindamanna, láta stjórnmálamenn og virkjanafyrirtækin sér ekki segjast. Er það dæmalaust miðað við, hversu mikið er í húfi. Þetta er grafalvarlegt fyrir framtíðarkynslóðir Íslendinga, því að með þessu ráðslagi lagði Svandís grunn að því að svipta þær jarðvarmanum til upphitunar húsnæðis, sem er verðmætari nýtingarkostur en að framleiða rafmagn með jarðgufu samkvæmt varmafræðilögmáli Carnots. Ofnýting jarðgufuforðans núna er arðrán kynslóðar Svandísar á auðlindum, sem falla áttu framtíðinni í skaut. Hver japlaði mest á, að náttúran ætti að njóta vafans ?
Um þetta ritar Gunnlaugur H. Jónsson, eðlisfræðingur og fyrrum starfsmaður Orkustofnunar, merka grein í Fréttablaðið 13. ágúst 2015 undir fyrirsögninni:
"Rammaáætlun út af sporinu",
og verður nú vitnað í þessa grein:
"Rammaáætlun um jarðvarma fór út af sporinu, þegar hún skipti litlum landsvæðum, eins og Reykjanesi/Svartsengi annars vegar og Hengli hins vegar, upp í marga virkjunarkosti, en hvort þeirra er í eðli sínu aðeins einn virkjunarkostur. Þegar kemur að stórfelldri nýtingu jarðvarma, eins og raforkuvinnsla óhjákvæmilega er, með borholum, sem geta teygt sig allt að 3 km niður í jörðina og mörg hundruð eða þúsundir metra til hliðar frá borsvæðunum, þarf hver virkjun helgunarsvæði, sem nær 10 km út frá virkjuninni og sambærilega virkjun mætti ekki setja nær en í 20 km fjarlægð."
Virkjanafyrirtækin HS Orka og Orka Náttúrunnar (ON) eru greinilega ekki sama sinnis og eðlisfræðingurinn um helgunarsvæði virkjana, og Svandís Svavarsdóttir hjó í sama knérunn og virkjanafyrirtækin, þó að í svo viðurhlutamiklu máli og með færa vísindamenn sem bakhjarla sé vissulega þáttur sjálfbærrar nýtingarstefnu að láta náttúruna njóta vafans. Þegar skynsamlegt var að gera það, gerði téð Svandís það ekki, en þegar rökin fyrir því voru gizka tötraleg, þá gerði hún það. Þetta er hættan við gildishlaðna mælikvarða stjórnmálanna í stað mælanlegra mælikvarða vísindanna.
Af þessum ástæðum telur Gunnlaugur glórulaust að virkja Eldvörp á milli Reykjaness og Svartsengis, enda sé þetta virkjunarsvæði nú þegar ofnýtt, eins og niðurdráttur í borholum ber með sér.
Hann telur Hengilssvæðið með Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun einnig nú þegar vera ofnýtt og á Reykjanesi aðeins vera eitt jarðhitasvæði óvirkjað, þ.e. Krýsuvík með eina 50 - 100 MW virkjun. Það er þess vegna ljóst, að HS Orka er í rauninni ekki í neinum færum til að virkja fyrir álver í Helguvík, og því fyrr, sem sú staðreynd er viðurkennd, þeim mun betra. Fyrir álver ganga í raun aðeins vatnsorkuver, eins og slæm reynsla af allt of hraðri og mikilli nýtingu á Hellisheiði sýnir. Vatnsorkuver og álver falla mjög vel hvort að öðru vegna eðlis álagsins, og vinnslukostnaður vatnsorkuvera verður í lágmarki með álver sem aðalviðskiptavin. Umræðan sýnir, að ekki hafa allir áttað sig á þessari staðreynd, heldur tala og skrifa, eins og vinnslukostnaður sé einn og sami fyrir alla viðskiptavini. Eðlisfræðingurinn heldur áfram:
"Það er góð orkustefna að framleiða rafmagn með jarðhita sem aukaafurð með lághitanýtingu í hitaveitum, en það er orkusóun að láta raforkuframleiðsluna hafa forgang og stýra álaginu á jarðhitasvæðin. Þetta á einkum við á svæðum Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja, þar sem orkuþörf til hitunar vex um tugi MW árlega á sama tíma og gengið er á jarðhitann með því að senda árlega meiri varmaorku út í loftið um kæliturna en sem nemur framleiddri raf- og varmaorku og menga andrúmsloftið óhóflega í leiðinni."
Undir þetta allt saman skal hér taka. Það er þyngra en tárum taki, að misheppnuð stjórnvöld landsins skyldu hvetja til þeirra skammtímalausna, sem fleiri en ein virkjun á hverju jarðgufusvæði felur í sér. Núverandi stjórnvöld þyrftu að leggja sitt lóð á vogarskálar langtíma sjónarmiða við orkunýtingu, t.d. með þingsályktun um sjálfbæra nýtingu og hámörkun nýtni, og hér þarf Orkustofnun að beita sér og núverandi stýrihópur Rammaáætlunar að taka tillit til reglunnar um aðeins eina jarðgufuvirkjun innan hrings með 20 km þvermáli. Hámarks sjálfbæra stærð slíkrar virkjunar, svo að jarðgufuforðinn endist í a.m.k. 100 ár, er aðeins hægt að ákvarða með hægfara álagsaukningu, 10-50 MW á ári, eftir styrk jarðgufuforðans. Þetta eru einföld sannindi, sem fjármálamönnum dugar ekki að hunza, þó að aðferðarfræðin sé dýrari en virkjun í einum áfanga, sé viðskiptavinur fyrir hendi til að taka strax við allri orkunni. Þetta gerir að verkum, að jarðgufuvirkjun hentar stóriðju að jafnaði illa.
Hverfa verður af braut sóunar, sem felst í að láta jarðgufu knýja hverfla, sem snúa rafölum með rúmlega 10 % heildarnýtni og brottkasti lághitagufu og varma. Þetta þýðir, að Alþingi ætti að móta landinu þá auðlindanýtingarstefnu, að með raforkuvinnslunni verði að fylgja lághitanýting til upphitunar húsnæðis eða iðnaðarferla, því að ósjálfbær auðlindanýting komi ekki til greina á tímum auðlegðar núlifandi kynslóða. Af sjálfu leiðir, að áherzla á vatnsorkuvirkjanir verður að vaxa aftur, hugsanlega í samkeyrslu við vindorkugarða, sem minnkað geta stærðarþörf miðlunarlóna.
1.5.2015 | 12:42
Sæstrengsblæti og stendur á fimmtugu
Landsvirkjun á sér gagnmerka hálfrar aldar sögu, en þann 1. júlí 1965 var hún stofnsett með lögum frá Alþingi. Þessi lög voru síður en svo óumdeild, og það átti reyndar við í enn ríkari mæli um lögin, sem sett voru næsta ár á eftir og fjölluðu um stofnun Íslenzka Álfélagsins hf í Straumsvík. Segja má, að afturhaldið í landinu hafi tekizt á flug í umræðunum um stofnun þessara tveggja fyrirtækja, sem hvorugt gátu án hins verið, því að hér var brotið blað í atvinnuþróun landsins og lagður traustur grunnur að iðnvæðingu þess með hagfelldri nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Allt orkar tvímælis, þá gert er, segir máltækið, en fyrir atvinnuþróun og lífskjör í landinu voru hér stigin gæfuspor.
Stofnaðilar Landsvirkjunar voru ríki og borg, og gengu virkjanir borgarinnar, t.d. Sogsvirkjanir, inn í Landsvirkjun, en vegna samninga Landsvirkjunar við Alusuisse um orkusölu til ISAL í Straumsvík varð hún þegar í stað að hefjast handa um hönnun og byggingu stærstu virkjunar Íslands á þeim tíma og fram að Kárahnjúkavirkjun, Búrfellsvirkjun.
Því miður fylgdu bölbænir andstæðinga þessara stórhuga áforma hönnun og byggingu Búrfellsvirkjunar, og fullyrtu andstæðingar hennar, að hún yrði óstarfhæf stóran hluta vetrar vegna krapa og ísingar við inntaksmannvirkin. Hér reyndist skrattinn vera málaður á vegginn, eins og yfirleitt hefur orðið reyndin síðar, þegar afturhaldið hefur þvælzt fyrir mikilvægum framkvæmdum. Á upphafsárunum voru vissulega vandamál vegna grunnstinguls við inntaksristar Búrfellsvirkjunar haust og vor, en starfsmenn hennar og verktakar leystu þessi rekstrarvandamál farsællega.
Annað vandamál frumbýlingsáranna var ofurveik tenging höfuðborgarsvæðisins og álversins í Straumsvík við stofnkerfið, því að aðeins ein háspennulína tengdi þetta meginálag við Búrfellsvirkjun, og hún slitnaði einu sinni vegna ísingar á hafinu yfir Hvítá. Stóð þá glöggt með reksturinn í Straumsvík, en frumkvöðlarnir þar náðu þó með dugnaði og seiglu að takmarka tjónið, eins og kostur var. Má segja, að raforkukerfi landsins hafi á þessum árum og fram um aldamót verið vanbúið fyrir stóriðjuálag, þar sem miklar kröfur eru gerðar til raforkugæða.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta var, og afhendingaröryggi raforku tekið stakkaskiptum, þó að betur megi, ef duga skal samkeppnihæfni Íslands á sviði raforkugæða. Jafnframt hefur Landsvirkjun vaxið fiskur um hrygg, þó að flutningur raforku sé ekki lengur á hennar könnu, heldur Landsnets, vegna tilskipunar Evrópusambandsins, ESB, um að efla samkeppnisumhverfi raforkugeirans með því að kljúfa hann upp í orkuvinnslu, orkuflutning, orkudreifingu og orkusölu.
Velgengni Landsvirkjunar er ánægjuefni og ekki þjóðhagslegt vandamál, því að hún hefur leitt til lægsta raforkuverðs til almennra fyrirtækja og almennings, sem um getur í heiminum. Frjálsri samkeppni stafar hins vegar ógn af hlutfallslegri stærð Landsvirkjunar á raforkumarkaðinum, þar sem hún er markaðsráðandi með um 70 % markaðarins. Hún er þess vegna verðmyndandi á markaði, hvort heldur um er að ræða forgangsorku eða afgangsorku. Hún er reyndar næstum einráð á afgangsorkumarkaðinum og jöfnunarorkumarkaði. Þrátt fyrir þetta hefur forgangsorkumarkaðurinn þróazt með hagfelldum hætti hingað til fyrir neytendur, en á afgangsorkumarkaði hefur hins vegar verið kvartað opinberlega undan framkomu fyrirtækisins við viðskiptavini, sem sumir hverjir hafa fjárfest mikið til að nýta afgangsorku, sem tölfræðilega á að vera fyrir hendi í mismiklum mæli í 27 ár af 30.
Um nokkra hríð og þó aðallega í tíð fyrrverandi og núverandi stjórnar Landsvirkjunar og núverandi forstjóra hennar, Harðar Arnarsonar, hefur Landsvirkjun kynnt áhuga sinn á að stækka markað sinn verulega, og hún hefur lagt í undirbúningsvinnu og kostnað þess vegna, þó að vafi geti leikið á, að sú viðskiptahugmynd sé í samræmi við lögin um Landsvirkjun og mikill vafi sé enn ríkjandi um þjóðhagslega hagkvæmni hennar, en gera verður kröfu um hana til ríkisfyrirtækis.
Þann 18. nóvember 2010 fór fram kynning á vegum Landsvirkjunar á viðskiptahugmynd um 700 MW, 1170 km langan sæstreng á milli Íslands og Skotlands, sem leggja þyrfti að allt að 1100 m dýpi, sem er verulegum tæknilegum annmörkum háð. Helztu röksemdir hennar fyrir þessari 30 % stækkun markaðar síns voru þá:
- vaxandi munur á orkuverði Íslands og grannríkja og því hugsanlegt að auka arð Landsvirkjunar með þessu verkefni. [BJo: Landsvirkjun birti samtímis spá um orkuverð í Evópu til ársins 2035. Samkvæmt þessari spá átti raforkuverð í Þýzkalandi, Bretlandi og Hollandi að hækka úr um 50 USD/MWh í um 115 USD/MWh. Hér er um stigul að ræða, sem nemur 2,6 USD/MWh á ári, sem eftir olíuverðlækkanir 2014 vegna aukins framboðs, t.d. á jarðgasi, og minni aukningar eftirspurnar vegna bættrar nýtni og minnkandi hagvaxtar í heiminum vegna aukinnar öldrunar, er orðin óraunhæf. Það vekur athygli, að í þessari spá var áætlaður sami verðstigull á Íslandi, sem að jafnaði gæfi á téðu 25 ára tímabili 4,3 % árlega raunhækkun raforkuverðs. Þetta er að mati höfundar þessa pistils, BJo, algerlega óásættanlegt markmið hjá markaðsráðandi ríkisfyrirtæki, og eigandinn, með fulltrúa sína á Alþingi, hefur ekki og mun líklega aldrei samþykkja þetta, enda óvíst um þjóðhagslega hagkvæmni. Þetta er væntanlega það, sem Hörður Arnarson á við í grein sinni í Morgunblaðinu, laugardaginn 25. apríl 2015: "Verðmæti til framtíðar - Það er okkar hlutverk að horfa fram á veginn og búa í haginn fyrir afkomendur okkar með því að hámarka afrakstur af þeim orkulindum, sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi."]
- Betri nýting virkjana, einkum vatnsaflsins. [BJo: Nú hefur komið fram hjá Landsvirkjun, að búið sé að selja megnið af ónýttri orku, svo að lítið sem ekkert er þá eftir fyrir sæstreng. Fulltrúar Landsvirkjunar vísa oft til Noregs, því að þaðan hafa verið lagðir nokkrir sæstrengir til nágrannalandanna án þess að virkja nokkuð fyrir þá. Hér er hins vegar verið að bera saman tvö ólík raforkukerfi, því að svipað hlutfall húsnæðis er í Noregi hitað upp með rafmagni og hérlendis með jarðhita. Þar af leiðandi er toppálag í Noregi hlutfallslega ferfalt meira en á Íslandi, og hérlendis, þar sem álag á raforkukerfið er tiltölulega jafnt allan ársins hring, er þess vegna ekkert borð fyrir báru fyrir markaðssókn af þessu tagi. Hlutfall hreins útflutnings raforku og vergrar raforkunotkunar í Noregi hefur verið á bilinu - 9 % (innflutningur) til + 16 % (útflutningur) á ári. Til samanburðar mundi áætlaður orkuútflutningur á 5200 GWh/a um téðan 700 MW sæstreng nema tæplega 30 % af núverandi raforkunotkun á Íslandi. Þetta sýnir í hnotskurn, hversu miklu meiri áhrif íslenzk-brezki sæstrengurinn hefði á íslenzka raforkukerfið og markaðinn en allir sæstrengirnir hafa í Noregi. Málpípum sæstrengs væri sæmra að kynna sér málin áður en þær bera innantóman samanburð á eplum og appelsínum á borð fyrir lesendur sína.]
- Aðgengi að stórum raforkumarkaði. [BJo: Það er draumsýn Landsvirkjunar að stækka markað sinn verulega og geta jafnframt keypt orku til landsins, ef hér verður orkuleysi. Með þessu móti yrði Landsvirkjun ríki í ríkinu, mundi ná nánast einokunarstöðu, og raforkuverðið á innanlandsmarkaði mundi hækka upp úr öllu valdi, enda er óheimilt samkvæmt jafnræðisreglum ESB að mismuna fólki og fyrirtækjum á samtengdum orkumarkaði. Það er freistandi fyrir virkjunar- og lónseigendur að selja orku um sæstrengi til útlanda, t.d. þegar lygnt eða sólarlítið er þar, og miðla fallorku vatnsaflsvirkjana af gáleysi, svo að þau nánast tæmist á útmánuðum. Við slíkar aðstæður yrði Ísland háð orkuflutningi um einn sæstreng, sem er óásættanlega lítið afhendingaröryggi forgangsorku. Um þetta eru dæmi frá Noregi, en Noregur er hins vegar þokkalega vel tengdur við nágrannalöndin um NORDEL-samkeyrslukerfið. Það er vissulega stefna ESB að samtengja orkukerfi ESB-landanna rækilega, og er miðað við flutningsgetu yfir landamæri um 20 % af meðalaflþörf 2020. 700 MW sæstrengur jafngildir 35 % af núverandi meðalaflþörf Íslands, og tækni og kostnaður setja þessu markmiði ESB eðlilegar skorður, hvað Ísland varðar, hvað sem síðar verður.]
- Landsvirkjun áætlaði kostnað af öllum mannvirkjum téðrar strengframkvæmdar að meðtöldum nauðsynlegum virkjunum um 2500 MEUR, sem á þáverandi gengi nam um MUSD 3300. Þetta er miklu lægra en Hagfræðistofnun Háskóla Íslands áætlaði nokkru síðar, og er þess vegna líklega gróf vanáætlun.
- Í téðri kynningu Landsvirkjunar var reiknað með afltöpum í sæstreng til Skotlands 6 %. Að viðbættum töpum í íslenzka flutningskerfinu, afriðlum og áriðlum á landtökustöðum verða heildartöpin ekki undir 10 % með núverandi tækni. Með þessu gildi hefur höfundur þessa pistils reiknað í útreikningum sínum á flutningskostnaði og varðandi tapskostnaðinn reiknað með meintu markaðsverði á Englandi.
- Landsvirkjun reiknaði með ótrúlega háum nýtingartíma toppafls eða 7430 klst/a í kynningu sinni, sem svarar til hámarksálags í 85 % af árinu. Í sömu kynningu var hins vegar boðað, að "horft er til þess að selja toppafl ekki síður en grunnafl". Þetta gengur ekki upp. Miðað við þekkta bilanatíðni og viðgerðartíma, sem getur varað mánuðum saman á biluðum sæstreng á milli Íslands og Skotlands, er óvarlegt að reikna með hærri nýtingartíma en 6000 klst/a.
- Landsvirkjun lagði til grundvallar hagkvæmniútreikningum sínum orkuverð, sem hún taldi hafa verið fáanlegt á Bretlandseyjum árið 2009, 60 EUR/MWh, og taldi það mundu duga fyrir bæði virkjanakostnaði hérlendis á ótilgreindu afli og flutningskostnaði um sæstrenginn. Þó að evran hafi árið 2009 verið mun sterkari en hún er nú, er þetta alveg af og frá hjá Landsvirkjun. Raunhæfur flutningskostnaður um 700 MW sæstrengsmannvirki, þegar lagður er saman stofnkostnaður og rekstrarkostnaður að meðtöldum orkutapskostnaði og með ávöxtunarkröfu 10 % og afskriftatíma 25 ár, sem er ekki of í lagt fyrir svo áhættusama framkvæmd, er 140 USD/MWh.
- Téð markaðsverð, 60 EUR/MWh, er nálægt því að vera markaðsverð raforku á Englandi um þessar mundir, sem er talið vera 45 GBP/MWh eða 67 USD/MWh m.v. gengi 1 GBP=1,49 USD. Verð frá nýju kjarnorkuveri á Englandi er núna 92,5 GBP/MWh eða um 140 USD/MWh. Þetta verð er talið, að Bretar væru tilleiðanlegir að greiða um umsaminn tíma fyrir græna orku frá Íslandi. Það er hins vegar ófullnægjandi fyrir raforkusölu frá Íslandi, því að eftir er að reikna vinnslukostnað raforku á Íslandi og bæta honum við flutningskostnaðinn. Heildarkostnaður orku frá Íslandi er þannig um 170 USD/MWh út af 700 MW streng, sem er of hátt fyrir Bretlandsmarkað um fyrirsjáanlega framtíð. Miðað við beztu upplýsingar nú um kostnað slíks verkefnis, virðist alls enginn viðskiptagrundvöllur vera fyrir verkefninu; ekki einu sinni innan ramma niðurgreiðslna brezka ríkisins á endurnýjanlegri orku.
Af þessum sökum er nú komin fram hugmynd hérlendis um öflugri sæstreng en ofangreindan, sem lækkað gæti flutningskostnaðinn. Var nefndur 1200 MW sæstrengur, sem jafngildir rúmlega 70 % aukningu á flutningsgetu. Var í sömu andrá nefnt, að fyrir þennan streng þyrfti að virkja 600 MW af vatnsafli og 600 MW af jarðgufu. Þetta er ekkert smáræði á íslenzkan mælikvarða, og slagar vatnsaflið upp í aflgetu Kárahnjúkavirkjunar, stærstu virkjunar Íslands, og jarðgufuvirkjanirnar nema tvöfaldri aflgetu núverandi Hellisheiðarvirkjunar, enda nemur þetta hvorki meira né minna en 50 % af núverandi uppsettu afli sjálfbærra virkjana. Þetta sýnir í hnotskurn, að um allt aðra Ellu er að ræða en norsku sæstrengina, sem ekkert hefur verið virkjað fyrir vegna mikillar ónýttrar aflgetu þar í landi, en miðlunargeta lónanna er hins vegar sniðin við að duga í 27 ár af 30 í röð.
Samkvæmt upplýsingum í enska tímaritinu The Economist, 17.-23. janúar 2015, bls. 5 í "Special Report on Energy & Technology", nemur stofnkostnaður þessara flutningsmannvirkja USD 6,0 milljörðum. Þá fæst orkuflutningskostnaður þessara mannvirkja 125 USD/MWh með sömu forsendum og áður eru raktar fyrir 700 MW streng, og hefur þá stækkun strengsins og aukinn orkuflutningur lækkað flutningskostnaðinn um 15 USD/MWh eða 11 %.
Ef áfram er reiknað með, að brezk stjórnvöld mundu vilja greiða sama verð fyrir græna orku frá Íslandi og þau eru fús til að greiða fyrir orku frá nýju kjarnorkuveri um þessar mundir, jafngildi 140 USD/MWh, sem er um 20 USD/MWh hærra en þau þurfa að greiða fyrir orku frá vindorkuverum á landi um þessar mundir, þá fást aðeins 15 USD/MWh fyrir orkuna frá Íslandi, sem er sennilega aðeins um 40 % af kostnaðarverði næstu 1200 MW í vatnsafli og jarðgufu að jafnaði.
Með öðrum orðum þyrftu brezk stjórnvöld að greiða sem svarar til P=125 + 35 = 160 USD/MWh, sem er 14 % hærra en þau þurfa að greiða fyrir innlenda orku, sem ekki veldur gróðurhúsaáhrifum við vinnslu. Miðað við núverandi markaðsaðstæður jafngildir þetta niðurgreiðslum úr brezka ríkissjóðnum um 90 USD/MWh. Viðfangsefnið gagnvart brezku ríkisstjórninni er þá að fá pottþétta skuldbindingu frá henni um kaup á 7200 GWh/a á 160 USD/MWh í 30 ár. Þetta gæti jafngilt MUSD 650 eða um ISK 90 milljörðum á ári. Það er hins vegar enginn umframhagnaður fólginn í þessum viðskiptum Landsvirkjunar eða annarra virkjunarfyrirtækja á Íslandi miðað við að selja þessa orku til atvinnustarfsemi á Íslandi. Þetta virðist vera ferð án fyrirheits.
Í tilvitnaðri grein Harðar Arnarsonar ritar hann eftirfarandi undir millifyrirsögn:
"Viðskiptaforsendur ráða":
"Það er mikilvægt að hafa í huga, að sæstrengur er eins og hver annar viðskiptavinur og hvert annað tækifæri í hugum okkar."
Þetta getur varla verið rétt. Viðskiptahugmyndin að baki sæstrengnum er að gera út á stórfelldar niðurgreiðslur úr brezka ríkissjóðnum á grundvelli stefnumörkunar ESB og brezka þingsins um 40 % orkunotkunar Bretlands á landi úr endurnýjanlegum orkulindum árið 2030. Auðvitað er það ekki venjulegt viðskiptalíkan, að meira en helmingur söluandvirðis viðskiptanna komi sem niðurgreiðslur úr ríkissjóði erlends ríkis.
Það ber að gjalda varhug við málflutningi Landsvirkjunar, sem snýst um, að hún hafi fundið gullgæs. Slíkt er fjarri öllu lagi. Ríkissjóður Bretlands er nú rekinn með halla, og hann er stórskuldugur. Hvað ætlar Landsvirkjun að gera eftir að vera búin að virkja 1200 MW, ef ríkisstjórn Stóra-Bretlands, eða Englands eftir klofning UK, tilkynnir, að hún sjái sér engan veginn fært að standa við skuldbindingar sínar og taki sér neyðarrétt til að rifta samningum um niðurgreiðslur á verði orku frá Íslandi ?
Minnir þetta ekki óþarflega mikið á útrásarvíkingana, sem settu fyrirhyggjulaust á Guð og gaddinn ? Hér er teflt á tæpasta vað, þar sem virkjunarfyrirtæki á Íslandi gætu setið með skeggið í póstkassanum (norskt orðalag), þ.e. staðið uppi með gríðarlegar fjárfestingar, sem lítil not eru fyrir vegna tæknilegra bilana á frumsmíði og/eða samningsbrigða erlendrar ríkisstjórnar. Íslendingar hafa slæma reynslu af fjármálalegum samskiptum við erlendar ríkisstjórnir eftir bankahrunið, þar sem íslenzkir hagsmunir voru fyrir borð bornir, og var þar brezka ríkisstjórnin ekki barnanna bezt í þeim efnum, svo að vægt sé til orða tekið. Sannaðist þar hið fornkveðna, að enginn er annars bróðir í leik.
7.4.2015 | 11:05
Stórstígar framfarir í orkumálum heimsins
Þegar heimsmarkaðsverð á olíu helmingaðist á um 9 mánaða tímabili árið 2014, var tækniþróun að verki, sem knúin er tvenns konar kröftum. Tækniþróunin er á sviði nýrrar gasframleiðslutækni, sem rutt hefur sér til rúms í Norður-Ameríku, og reyndar olíuvinnslu úr tjörusandi, og á sviði bættrar orkunýtni á nánast öllum sviðum orkuvinnslu og orkunotkunar, og síðast en ekki sízt er tækniþróunin á sviði endurnýjanlegar orku. Hér sjáum við "orkuskiptin" í hillingum, þegar endurnýjanlegir orkugjafar munu leysa jarðefnaeldsneyti snurðulítið af hólmi við raforkuvinnsluna að miklu leyti, þó að ekki verði nauðsynlegt að útrýma notkun jarðefnaeldsneytis, enda eru til af því birgðir í a.m.k. 500 ár m.v. helmingun notkunarstigsins 1990.
Kraftarnir að baki þessari þróun eru annars vegar baráttan við að halda hlýnun lofthjúps jarðar undir 2°C að meðaltali á þessari öld m.v. upphaf iðnvæðingar um 1750, en hitastigshækkunin er nú þegar orðin tæplega 1°C, og hins vegar nauðsyn þess að auka stöðugleika og fyrirsjáanleika orkuafhendingar og orkuverðs fyrir hagkerfi heimsins. Megnið af jarðefnaeldsneytinu kemur frá pólitískt óstöðugum svæðum, og stórir olíu- og gasútflytjendur hafa orðið uppvísir að því að nota stöðu sína í þvingunarskyni og til fjárkúgunar, þar sem dregið er purkunarlaust úr framboðinu og verðið spennt úr hófi fram, sem valdið hefur verðbólgu og efnahagssamdrætti. Nægir að nefna Rússland og Sádi-Arabíu í þessu sambandi. Nú síðast er Svarti-Peturinn í Kreml, en Sádar leggja áherzlu á að halda markaðsstöðu sinni, svo að þeir hafa ekki að ráði dregið úr framleiðslu. Það sýnir, að verðlagningarvaldið hefur færzt til Bandaríkjanna, sem skyndilega hafa breytzt úr landi eldsneytisinnflutnings í að verða útflutningsríki eldsneytis. Markaðurinn hefur snúizt frá að vera seljendamarkaður í að vera kaupendamarkaður. Þetta mun hafa góð áhrif á hag flestra ríkja, en mjög slæm áhrif á hag sumra, t.d. Norðmanna, sem búa við hæsta olíu- og gasvinnslukostnað í heimi, jaðarkostnað um 110 USD/tunnu, og horfa nú fram á óhjákvæmilegt hnignunarskeið, þó að olíusjóðurinn þeirra muni hindra brotlendingu.
Bandaríkin og Kanada hafa nú tekið við af Sádum sem ráðandi um verð og sveiflujafnarar. Sé litið á afleiðumarkaðinn á orkusviði, kemur í ljós, að hann býst við verðhækkun á jarðolíu úr núverandi um 50 USD/tunna í 90 USD/tunna um 2022. Að raunvirði er þetta þá svipað verð og fyrir verðfallið 2014, en það er engan veginn víst, að þetta gangi eftir, og tækniþróunin vinnur gegn slíkri verðþróun. Líklegt er, að spákaupmenn vanmeti styrk þeirrar tækniþróunar, sem getið er um í upphafi þessarar vefgreinar. Auðvitað geta atburðir leitt til minna framboðs, en nú bendir ýmislegt til, að Persum verði hleypt inn á olíumarkaðinn. Þeir munu þá hefja verðstríð við Sádana til að afla sér markaða, og við þetta gæti verðið lækkað tímabundið niður í 30 USD/tunnu. Það er hins vegar aðeins spurning um tíma, hvenær Gyðingar eyðileggja þróunarstöðvar Persa fyrir kjarnorku á meðan Persaríki er klerkaveldi, sem er fullkomin tímaskekkja árið 2015.
Undanfarin 5 ár hafa verið fjárfestir 260 milljarðar USD á ári í endurnýjanlegum orkugjöfum, og þetta hefur leitt til mikillar aukningar á raforkuvinnslu með vindmyllum og sólarhlöðum. Í Kína nemur nú uppsett afl vindmylla 200 GW, sem er hundraðfalt meðalálag á Íslandi. Ósjálfbær raforkuvinnsla í Kína hefur þegar leitt til versnandi heilsufars þar og styttingar mannsævinnar auk óþæginda og tæringar mannvirkja. Kínverjar sjá sitt óvænna, og við lok þessa áratugar verður dágóður meirihluti allrar viðbótar raforkuvinnslu án loftmengunar. Í Kína eru sem sagt að verða "orkuskipti". "Neyðin kennir nakinni konu að spinna."
Þegar hér er komið sögu, er eðlilegt að gera sér grein fyrir, hvaðan orkan kemur. Miðað er við neyzlu heimsins árið 2013, og tölurnar í svigum eiga við Ísland:
- Jarðolía: 32,9 % (12 %)
- Kol: 30,1 % ( 2 %)
- Jarðgas: 23,7 % ( 0 %)
- Vatnsafl: 6,7 % (18 %)
- Kjarnorka: 4,4 % ( 0 %)
- Vindur: 1,1 % ( 0 %)
- Jarðvarmi: 0,9 % (68 %)
- Sól: 0,2 % ( 0 %)
Á heimsvísu stendur jarðefnaeldsneytið undir 87 % orkunotkunarinnar, en á Íslandi aðeins 14 %. Ísland er jarðvarmaland. Að afnema jarðefnaeldsneyti er ekki í sjónmáli á heimsvísu, en hlutfallsleg helmingun á þessari öld og þá hreinsun útblásturs á því, sem eftir stæði, mundi bæði auka afhendingaröryggið og koma í veg fyrir hættulega hlýnun jarðar.
Við Íslendingar erum í einstaklega góðri stöðu, hvað heildarelsneytisnotkun varðar, með aðeins 14 % heldar, og þess vegna er óþolandi örverpi í lagasmíð að þvinga olíufélögin til innflutnings á lífdísil, sem eykur eldsneytisnotkun og eykur kostnað á hvern líter. Afnema ber þessa óþörfu og skaðlegu löggjöf, eins og fram komið frumvarp kveður tímabundið á um, og miklu fremur ná markmiðum ESB um 6 % hlut endurnýjanlegrar orku í samgöngum árið 2020 með því að ýta undir rafbílakaup. Mikill fjöldi rafmagnslyftara er í landinu, og ber að reikna dísilolíusparnað þeirra með í þessu átaki. Þannig er ekki óraunhæft að reikna með 6 % sparnaði eldsneytisnotkunar fartækja á landi árið 2020 m.v. 1990 með rafvæðingu bílaflotans, en til þess þarf atbeina stjórnvalda og dreifiveitna.
Akkilesarhæll rafmagnsbílanna hafa verið dýrir og þungir rafgeymar m.v. orkuinnihald. Verksmiðjan Gigafactory mun hanna og framleiða rafgeyma framtíðarinnar fyrir rafbílafyrirtækið Tesla. Hún mun innan 5 ára, ef áætlanir standast, draga úr kostnaði rafgeymanna úr 250 USD/kWh í 100 USD/kWh. Samkvæmt frumkvöðli Tesla, Elon Musk, mun þessi þróun lækka verð rafbíls niður í að verða sambærilegt og verð eldsneytisknúinna bíla (per kg bíls-innsk. höf.). Þegar því stigi verður náð, verður ekki lengur þörf á kostnaðarlækkun í innkaupum að hálfu ríkissjóðs, kolefnisgjaldið og miklu lægri rekstrarkostnaður rafbíla mun gera þá að vænlegri kosti en eldsneytisbílana.
Þegar bíllinn er heima í hleðslu, er algengast, að toppálag verði á heimilinu. Þá verður unnt, samkvæmt merki frá rafveitunni, að keyra allt álag hússins eða hluta þess frá bílrafgeymunum, og fá fyrir verðmismuninn og topporkunotkunina kreditfærslu frá rafveitunni á rafmagnsreikning hússins. Rafveitan og húseigandinn (bíleigandinn) græða á því að draga úr toppálaginu, og samfélagið sparar með því að fresta fjárfestingu í virkjun, flutningskerfi og dreifikerfi. Þetta er ekki draumsýn, heldur er tæknin fyrir hendi til að gera þetta sjálfvirkt nú þegar.
Með sama áframhaldi þyrfti eldsneytisiðnaðurinn að fjárfesta 23 trilljónir USD á næstu 20 árum samkvæmt IEA (International Energy Agency). Vegna samkeppni frá endurnýjanlegum orkugjöfum er þegar komið í ljós, að þetta verður lægri upphæð. IEA áætlar aukningu í orkunotkun á næstu 25 árum 37 %. Umtalsverður skerfur þessarar aukningar verður að koma frá kjarnorkuverum, og munu þá yfirvöld greiða niður orkuverð frá þeim, en nú nemur mismunur markaðasverðs raforku og kostnaðarverðs frá kjarnorkuverum um 80 USD/MWh á Englandi. Ný, öruggari og hagkvæmari gerð kjarnorkuvera er í þróun. Að leysa núverandi eldsneytisorkuver af hólmi er talið mundu kosta 44 trilljónir USD. Fjárhagslega er það hægt á 40 árum án efnahagslegra skakkafalla á heimsvísu.
Til marks um aukna nýtni er, að á tímabilinu 2007-2015 hefur hagvöxtur í BNA numið 9 %, en eldsneytisnotkun hefur minnkað um 11 %, og heimilisnotkun rafmagns í Þýzkalandi er nú minni þar en var árið 1990. Talið er, að mengun andrúmslofts í Kína muni ná hámarki árið 2030 vegna mikilla fjárfestinga í kolaorkuverum með góðum hreinsibúnaði, vegna kjarnorkuvera og orkuvera með endurnýjanlegum orkulindum og vegna nýrra háspennulína, sem flytja jafnstraum langar vegalengdir með minni töpum en riðstraumstæknin býður upp á. Gangi þetta eftir, er um að ræða eftirbreytniverðan árangur hjá Kínverjum fyrir þróunarþjóðirnar. Vesturveldin og Japanir eru þegar á góðu skriði, eins og hér hefur verið lýst.
1.4.2015 | 18:32
Sæstrengur á flæðiskeri staddur
Landsfundur Samfylkingarinnar í marz 2015 leiddi ekki einvörðungu í ljós djúpstæðan klofning flokksins, þar sem flókið fundarboð ruglaði félagana í ríminu og gölluð formannskosning með villutilkynningum í tölvukerfinu leiddi til, að sitjandi formaður hékk í sæti sínu á eigin atkvæði, heldur var söðlað um í olíuleitarmálum og fyrrverandi olíumálaráðherra Íslands, Össur Skarphéðinsson, sem bar olíuleit og -vinnslu innan lögsögu Íslands mjög fyrir brjósti, sennilega vegna eigin hégómagirni, var niðurlægður herfilega með ásökunum í hans garð um gösslaragang og mistök í starfi.Hvers vegna gerði enginn athugasemd á þingi í vetur, þegar lög um ríkisolíufélag voru samþykkt ? Liklega dagar þetta ríkisolíufélag uppi í kerfinu og vonandi áður en Parkinsonslögmálið verður þar í algleymi.
Þetta er nógu slæmt, en enn verri er sá gjörningur Landsfundarins að söðla um á einum fundi og pólitískt ónýta gjörðir ráðherra, sem leitt hafa til stefnumörkunar Orkustofnunar og skuldbindinga fjárfesta. Ef þessi nýja stefna Samfylkingar, og nú áréttingar hennar að hálfu vinstri grænna, yrði að stjórnarstefnu, mundi landið verða fyrir miklum álitshnekki á meðal fjárfesta og á meðal samstarfsþjóða á borð við Norðmenn, en í Noregi mótuðu þarlendir jafnaðarmenn olíunýtingarstefnu Noregs. Þetta er enn eitt dæmið um ábyrgðarleysi stjórnarflokkanna á Íslandi 2009-2013, og hversu leið þeirra er vörðuð mistökum á öllum sviðum. Annar þeirra getur ekki haldið landsfund, skammlaust, og báðir loga þeir nú stafnanna á milli vegna gerræðislegra vinnubragða leiðtoganna. Hins vegar er áhugi fjárfesta fyrir Drekasvæðinu í algeru lágmarki um þessar mundir, af markaðsástæðum, og ekki þarf að búst við beysnum verkefnum hjá hinu nýja ríkisolíufélagi.
Orkumálin eru fjármagnsfrek. Það á ekki einvörðungu við um olíuna, heldur líka rafmagnið. Meira hefur verið fimbulfambað um sæstrengslögn á milli Íslands og Skotlands en góðu hófi gegnir, og lítt er þar af setningi slegið. Fullyrðingasamir menn hafa hent á lofti, að mun arðsamara væri að selja raforku til Bretlands um slíkan sæstreng en að selja hana til iðnaðar hér innanlands. Þessi fullyrðing er reist á vanmati á jákvæðum áhrifum rafmagnssölu innanlands á innviði í landinu og á ofmati á því verði, sem stjórnvöld á Bretlandseyjum eru fús til að tryggja seljendum endurnýtanlegrar orku, eins og rakið verður hér, og til viðbótar á miklu vanmati á kostnaði slíkra flutningamannvirkja, sem The Economist (17. 23. janúar 2015 á bls. 7 í orkumálaúttekt tímaritsins) áætlar, að kosta muni 6 milljarða USD, sem er 50 % hærra en efri mörk Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands fyrir nokkrum árum.
Höfundur þessa pistils hefur verið gagnrýninn á það, sem virzt hafa draumórar um skjótfengið fé með beinni rafmagnssölu til útlanda, af því að tæknilegar og fjárhagslegar röksemdir fyrir slíku hefur skort, en málflutningurinn borið keim af spákaupmennsku, sem engan veginn á heima á þessu sviði. Oft hefur í þessu samhengi verið vísað til annarra sæstrengsverkefna, sem eru ósambærileg Íslandsstrengnum. Það eitt er ótraustvekjandi. Sæstrengsmenn hafa þá komið með getgátur um himinhátt raforkuverð, sem brezk stjórnvöld væru reiðubúin að tryggja sæstrengseigandanum í 20-25 ár. Allt hefur það verið fjarstæðukennt sem viðskiptalíkan, og nú eru komnar fram nýjar upplýsingar frá brezkum stjórnvöldum, sem kollvarpa skýjaborgum þeirra, sem telja téða sæstrengslögn vera fundið fé. Þessar nýju upplýsingar fela í sér hraðstíga þróun í átt til lækkunar á verði raforku úr endurnýjanlegum orkulindum. Í kjölfar þessara upplýsinga er full ástæða fyrir Alþingi að leggja alla rannsóknarvinnu, sem það hefur falið iðnaðarráðherra að láta fara fram á ýmsum afleiðingum téðrar sæstrengslagnar, á ís um sinn, enda er væntanlega lítill stuðningur á meðal almennings við sæstrengsáformin sem vonlegt er.
Þann 24. marz 2015 birti Morgunblaðið grein eftir Elías Elíasson, fyrrverandi sérfræðing í orkumálum hjá Landsvirkjun, undir fyrirsögninni: "Er samkeppnisstaða orku frá sæstreng til Bretlands að versna ?"
Þar segir, að í lok febrúar 2015 hafi brezk stjórnvöld birt niðurstöður uppboðs á opinberum niðurgreiðslum raforkuverðs frá mismunandi endurnýjanlegum orkulindum. Þar voru þó ekki ölduvirkjanir, en afar athygliverð þróun á sér nú stað á þeim úti fyrir Vestur-Ástralíu, þar sem byrjað var á að láta baujur, 1 m undir yfirborði, knýja strokka, sem dældu sjó til lands, þar sem hverfill var knúinn, en nú sendir hins vegar hver bauja rafstraum til lands.
Stærsti flokkurinn í, 1162 MW, í téðu uppboði brezkra orkuyfirvalda eru vindmyllur undan ströndu, er með dýrustu orkuvinnsluna. Ríkið setti fram, að það mundi greiða mismun markaðsverðs raforku, 67 USD/MWh (m.v. 1,49 USD/GBP) og hámarksins, 209 USD/MWh, en fékk hins vegar hámarksverð 179 USD/MWh eða 86 % af áætlun. Brezk stjórnvöld hafa sérstakan áhuga á að þróa þessa tækni, af því að með henni losna menn við marga ókosti vindmyllulunda á landi. Þessi sparnaður yfirvalda með uppboðinu sýnir, hversu hröð þróunin er þessi misserin til kostnaðarlækkunar á raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkulindum.
Næststærsti hópurinn var vindmyllulundir á landi, 748 MW. Þetta er svipað afl og sæstrengnum frá Íslandi er ætlað að flytja. Í þessum flokki setti ríkið hámarksverðið 142 USD/MWh, en fékk hæsta tilboð 124 USD/MWh eða 87 % af hámarkinu. Þetta sýnir líka athygliverða þróun á kostnaðarverði vindorku á landi, þó að verðið sé a.m.k. 40 % hærra en Landsvirkjun gefur upp sem kostnaðarverð frá vindorkulundum á Íslandi. Hugsanleg skýring á því er meiri orkuvinnsla á Íslandi á hvert uppsett MW, en þar koma á móti minni einingar og þar af leiðandi óhagkvæmari á Íslandi. Reynslan af vindmyllum á Íslandi er enn of skammvinn til að ráðlegt sé að slá föstum 40 % lengri nýtingartíma á vindmyllum á Íslandi en t.d. á Bretlandi, þó að lengri nýtingartími sé líklegur m.t.t. mælinga á vindafari. Kostnaðarverðið í þessum flokki er nú orðið lægra en orkuverð frá nýju kjarnorkuveri á Bretlandi, Hinkley Point C, en talið er, að orkumálayfirvöld á Bretlandi séu fús til að greiða allt að 92,5 GBP/MWh eða 138 USD/MWh frá þessu veri, sem er í byggingu. Eru þetta mikil og góð tíðindi fyrir vindmyllutæknina.
Elías skrifar: "Kjarnorkan er því ódýrust af þeim orkuformum, sem eitthvað getur munað um í framtíðinni og það verð því líkleg viðmiðun, þegar að því kemur að semja um verð orku gegnum sæstreng frá Íslandi."
Ennfremur skrifar hann með vísun til lækkandi orkuverðs á Bretlandseyjum: "Orka frá sæstreng lendir þá hugsanlega í samkeppni við orku frá vindmyllum í landi, en ólíklegt er, að Bretar sjái sér fært að niðurgreiða orku frá Íslandi meir en því hámarksverði nemur. Það er einnig spurning, hvort Bretar sjái sér fært að halda þeim niðurgreiðslum áfram, eftir að einhver auðlindarenta er farin að skila sér frá þeim virkjunum, sem þjóna strengnum."
Hér mega sæstrengsmenn sjá skriftina á veggnum. Segja má, að sæstrengur frá Íslandi hafi nú verið metinn og léttvægur fundinn, því að reikna má með flutningskostnaði um þann streng, sem er svipaður og vinnslukostnaðurinn í téðu kjarnorkuveri, og þá talsvert hærri en frá vindorkulundum á landi, og þá á eftir að bæta við orkuvinnslukostnaði á Íslandi. Þróunin er til lækkunar á orkuverði, þveröfugt við það, sem fylgjendur sæstrengslagnar á milli Íslands og Bretlands, hafa haldið fram. Fjárhagsáhættan fer með öðrum orðum vaxandi fyrir þetta verkefni, en ekki minnkandi, og það er vafalaust skýringin á því, að fjárfestar hafa ekki knúið á um þetta verkefni, þó að þeir vilji gjarna fá að fylgjast með til að grípa tækifæri, ef greiðslur úr vösum skattborgara á Íslandi og á Bretlandi skyldu verða rausnarlegar eða vatnaskil verða í tækniþróun sæstrengja og endabúnaðar þeirra í átt til minni afltapa.
Fyrir tæplega tveimur árum reiknaði höfundur þessa pistils út flutningskostnað um sæstreng og endamannvirkin m.v. kostnaðaráætkun Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, 4,0 milljarðar USD. Kunnáttumenn á þessu sviði hafa véfengt þá kostnaðarátlun og talið téð efri mörk hennar helmingi of lág. Bretar sjálfir virðast fara milliveginn og miða við 6 milljarða USD, eins og greint er frá hér að ofan. Þó að strengnum sé leyft að njóta vafans og 4,0 milljarðar USD lagðir til grundvallar, er fjarri lagi, að hann standist viðskiptalegar kröfur. Eftirfarandi aðrar forsendur voru notaðar af höfundi:
- Flutningsgeta 700 MW
- Orkuvinnsla og flutningur inn á strenginn: 4200 GWh/a
- Rekstrarkostnaður: 3,0 % á ári af stofnkostnaði
- Orkutöp frá virkjun til orkukaupanda: 10 %
- Orkutapskostnaður: MUSD 42 á ári
- Ávöxtunarkrafa: 10 %
- Þá fæst flutningskostnaður um þessi mannvirki að lágmarki 140 USD/MWh
- Núverandi listaverð nýrrar orku frá Landsvirkjun er 43 USD/MWh, og samkvæmt nýjustu upplýsingum hennar verður sáralítið tiltækt af ónýttri orku í kerfinu eftir samninga hennar við nýja notendur, svo að m.v. tæknilega tengiskilmála fyrir sæstreng má ætla nauðsynlegt orkuverð með flutningskostnaði frá virkjun að afriðli sæstrengs um 40 USD/MWh.
- Þá er lágmarks kostnaðarverð raforku frá Íslandi um sæstreng og út af áriðli endamannvirkja Bretlandsmegin 180 USD/MWh.
- Samkvæmt tilvitnuðum upplýsingum Elíasar Elíassonar frá nýlegu uppboði brezka ríkisins á verði fyrir orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum stefnir í, að fáanlegt verð frá brezka ríkinu um afmarkaðan tíma verði á bilinu 120-140 USD/MWh.
- Samkvæmt þessu yrði halli á þessum íslenzku viðskiptum á bilinu 40-60 USD/MWh. Hver á að borga hann ?
Það lítur út fyrir, að Landsvirkjun hafi tekið algerlega rangan pól í hæðina á sínum tíma, þegar hún setti sæstrengsmálið á oddinn í tíð núverandi forstjóra, Harðar Arnarsonar, varðandi þróun orkuverðs á alþjóðlegum mörkuðum og á Bretlandi sérstaklega. Stjórn Landsvirkjunar setur ofan gagnvart eigendum og viðskiptavinum, nýjum og gömlum, með því að halda þessum sæstreng í öndunarvél, því að tilvitnun í hann getur engan veginn orðið Landsvirkjun til framdráttar lengur. Þá bendir ýmislegt til, að kostnaðarhugmyndir Landsvirkjunar um fjárfestingu og rekstur á þessum mannvirkjum hafi verið fjarri lagi. Blindur leiðir haltan í þessu máli, og er mál, að linni.
Áhugamenn um aflsæstrengstengingu Íslands við Bretland gera sér nú tíðrætt um steng, sem stofnkerfisrekendur í Noregi og á Bretlandi hafa bundizt samtökum um að leggja á botn Norðursjávar frá Noregi til Englands. Þetta er hins vegar allt önnur Ella en Íslandsstrengurinn, þannig að arðsemi þessa strengs segir ekkert til um arðsemi Íslandsstrengsins. Ensk-norski strengurinn með öllu á að kosta helming af kostnaði Íslandsstrengsins, 2 milljarða USD, en hann á samt að geta flutt tvöfalt afl hans, 1400 MW, og orkuflutningurinn má ætla að verði tvöfaldur líka. Lengdin verður 730 km eða 60 % af þeim íslenzka, og þar af leiðandi dugar 530 kV rekstrarspenna DC til að halda töpunum í skefjum, en núverandi strengjatækni ræður vel við þá rekstrarspennu.
Íslenzka sæstrengsverkefnið stendur á fjárhagslegum og tæknilegum brauðfótum enn sem komið er, og það er ekkert, sem bendir til, að slíkur sæstrengur geti orðið þjóðhagslega hagkvæmur fyrir 2035. Sáttargjörð þarf að fara fram á milli iðnaðar- og náttúruverndar sjónarmiða á Íslandi, t.d. um styrkingu flutningskerfisins til að draga úr orkutöpum, auka afhendingaröryggið um allt land, bæði í bilunartilvikum og í vatnsleysisárum, þar sem Sprengisandslína er bezta tæknilega og fjárhagslega lausnin, og þá er afar ólíklegt, að þróun alhliða framleiðslu í landinu sé samrýmanleg hrávöruútflutningi af versta tagi, þ.e. beinum rafmagnsútflutningi. Skárra væri þá að vinna vetni með rafgreiningu vatns og flytja út, en það ferli virðist þó ekki enn vera samkeppnishæft við vinnslu vetnis úr jarðgasi.
Að setja fé úr ríkissjóði eða úr sjóðum ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar í rannsóknir á téðum sæstreng er álíka gáfulegt á þessum tímapunkti og að verja fé úr borgarsjóði til þrengingar á Grensásvegi fyrir akandi umferð á sama tíma og vegir höfuðborgarinnar minna á myndir frá stríðshrjáðum svæðum, enda bráðnauðsynlegt viðhaldsfé klipið við nögl, þó að borgarstjórnin hafi fundið fé til vegaþrenginga annars staðar og uppsetningar á fuglahúsum, vegfarendum í biðröðum til yndis og ánægjuauka. Það er víða pottur brotinn.
30.7.2014 | 20:10
Kísiliðnaðurinn
Það hefur ekki farið fram hjá neinum, að framleiðendur kísilafurða hafa fengið augastað á Íslandi. Það er engum vafa undirorpið, að meginástæða þess er raforkan á Íslandi, en markaðsaðgengi að Kína og ESB er einnig afar hjálplegt. Þessi áhugi kísilframleiðenda á Íslendi er afar ánægjulegur, en örlítið hefur skort á upplýsta umræðu um þessa starfsemi og jafnvel örlað á því, að álverin í landinu þyki eftirbátar kísilvera, hvað umhverfismál varðar. Álverin þurfa þó ekki að bera kvíðboga fyrir þessum samanburði, eins og hér verður lítillega gerð grein fyrir.
Þorsteinn Ásgrímsson, blaðamaður, gerði því skóna í umfjöllun sinni í Morgunblaðinu 27. júní 2014, að álverin væru eftirbátar kísilmálmveranna, og Ólafur Teitur Guðnason hrakti það að sínu leyti í grein í Morgunblaðinu 24. júlí 2014. Við þennan samanburð ber þó að hafa í huga, að ferlar álvinnslu og kísilmálmvinnslu eru gjörólíkir og eiginleikar efnanna, sem í hlut eiga, eru líka ólíkir.
Sannleikurinn er sá, að kísilmálmvinnslan er í meiri mæli í þróun en álvinnslan. Sú síðar nefnda fylgir í grundvallaratriðum Hall-Herault-ferlinu frá 1886, þó að framleiðni og gæði séu í stöðugri framför. Framleiðsluferli kísilmálms er yngra, það er flókið og beztun ferlisins er vandasöm. Úr kísilmálminum er m.a. unninn sólarkísill, sem er mjög hreint efni og notað í sólarsellur. Silicor Materials, sem ætlar að framleiða sólarkísil á Grundartanga, mun hafa þróað nýja aðferð við vinnsluna, sem virðist mannaflafrekt, því að samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins verða 400 manns starfandi við að framleiða 19 kt/a. Ef þetta er rétt, verður framleiðni vinnuafls við sólarkísilinn aðeins um 10 % af framleiðni álversins í Straumsvík.
Í Noregi er framleitt tiltölulega mikið af kísilmálmi, og þeir hafa verið leiðandi í þróun framleiðsluferlisins. Við tækniháskólann í Þrándheimi, NTNU, eru stundaðar rannsóknir á framleiðsluferlinu með hámörkun framleiðni og lágmörkun mengunar í huga.
Ástæðan fyrir vali framleiðenda á Noregi er sú sama og fyrir valinu á Íslandi nú. Ferlið er orkukræft, 11-13 MWh/t, sem er svipað og fer til rafgreiningar súráls til að mynda ál, en það er í flestum tilvikum 12-14 MWh/t Al. Kísilmálmur er framleiddur í ljósbogaofnum, og framleiðnin er háð hitastiginu í ofninum, sem er yfirleitt um 2000°C, sem er tvöfalt hærra en í rafgreiningarkerum álvera. Ljósbogaofn og rafgreiningarker eru í eðli sínu gjörólík framleiðslutæki.
Í ljósbogaofni verða mikil straumhögg, því að straumurinn frá kolaforskautinu til kolabakskautsins sveiflast á milli núll og skammhlaupsstraums, en í rafgreiningarkerum er straumurinn jafn. Þetta sveiflukennda álag kísilmálmvera útheimtir dýran og viðamikinn álagsjöfnunarbúnað ásamt hreinsibúnað eða síur fyrir yfirsveiflur (harmonics), ef vel á að vera. Að öðrum kosti munu þau menga hið litla (og sæta) raforkukerfi Íslands, sem þá hefur í för með sér aukin töp stofnkerfisins og allra notenda og jafnvel truflanir og tjón á búnaði.
Til álveranna eru gerðar strangar kröfur til mengunarvarna rafkerfisins og verður að gera sömu kröfur til kísilmálmveranna um svo kallaðan bjögunarstuðul. Á svæðum, þar sem rafkerfið er veikt, eins og t.d. á Norð-Austurlandi, er hér um að ræða rafmagnsverkfræðilega heillandi viðfangsefni. Verður að vona, að iðnaðarráðherra gefi þessu gaum og veiti engan afslátt á kröfum um mengunarvarnir, hvorki á rafkerfinu né láði, legi og lofti, þó að hún hafi veitt tímabundnar undanþágur frá opinberum gjöldum til að laða hingað að fjárfesta. Það er í sjálfu sér réttlætanlegt til að fiska þessar fjárfestingar, ef tæknihlið þessara vera verður í lagi. Meðal annarra orða; hefur eitthvað frétzt af umhverfismati kísilmálmveranna og sólarkísilversins ? Einhvers staðar heyrðist því fleygt, að þessi ver þyrftu ekki að fara í umhverfismat, en það er mikill misskilningur. Það verður að kemba öllum með einum kambi í þessum efnum.
Efnahvörfin við kísilmálmvinnsluna eru fjölmörg, en meginefnahvarfið er eftirfarandi:
- SiO2(s,l) + 2C(s) = Si(l) + 2CO(g)
Þar sem koleinildi (CO) er óstöðug lofttegund, verður hér gert ráð fyrir, að allt koleinildi í formúlunni að ofan hvarfist í koltvíildi, CO2. Kolefnið í ferlinu kemur frá forskauti ljósbogaofnsins, en eðlilega mæðir mjög mikið á því í 2000°C hita og í straumrás, sem ýmist er rofin eða skammhleypt. Fyrir hvert tonn af kvarts sandi, sem mokað er í ofninn, þarf 0,4 t af kolum, koksi og biki. Til samanburðar þarf "aðeins" netto 0,2 t af kolefni fyrir hvert tonn af súráli, sem matað er í rafgreiningarker álvera.
Það eru nokkur önnur efnaferli í gangi í ljósbogaofninum, háð hitastigi, svo að losun koltvíildis út í andrúmsloftið er í raun meiri en ofangreind formúla gefur til kynna. Niðurstaðan er sú, að framleiðsluferli kísilmálms er mjög losandi á gróðurhúsalofttegundir. Það myndast samkvæmt aðalformúlunni 3,0 t af koltvíildi fyrir hvert framleitt tonn af kísilmálmi, en er í raun allt að 80 % meira. Samanburðartala fyrir álver með góð, tæknileg tök á rekstrinum, eins og tíðkast á Íslandi, er 1,6 t CO2/t Al. Eftir stendur samt sem áður, að kísilmálmurinn og álið eru umhverfisvæn efni, sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á endingartíma sínum. Ástæðan í tilviki kísilsins er sú, að kísilmálmur er hráefni fyrir framleiðslu á sólarkísli, sem notaður er í sólarrafala, sem breyta sólargeislum í rafstraum, og fer notkun þeirra og nýtni mjög vaxandi, t.d. í Bæjaralandi og í Baden-Würtenberg. Silicor á Grundartanga á að framleiða 19 kt/a af sólarkísli og losa við það aðeins 1 kt/a af CO2 eða 0,05 t CO2/t Si. Framleiðsluferli sólarkísils virðist lítt mengandi, en gríðarlega orkukræft eða 32 MWh/t Si.
Í tilviki álsins er ástæða umhverfisvænleikans lágur eðlisþungi málmsins og mikill styrkur álmelma, svo að hvert kg áls getur leyst 2 kg stáls af hólmi í fartækjum og þar með sparað eldsneyti.
Þessum samanburði á mengun ál- og kísilvera á formi gróðurhúsalofttegundarinnar koltvíildis, CO2, má halda áfram og athuga, hver hún er á orkueiningu í hvoru tilviki. Þá kemur í ljós, að við álvinnslu myndast 0,12 t CO2 / MWh, og við kísilmálmvinnsluna myndast 0,38 t CO2 / MWh. Það er þreföld myndun gróðurhúsalofttegunda á hverja orkueiningu við framleiðslu kísilmálms á við myndun þeirra við álvinnsluna. Talsmenn þessara greina ættu ekki að metast á um mengun iðnaðarins. Báðum verður að treysta til að nota beztu tækni til að lágmarka hana.
Þess ber að geta hér, að upplýsingar um væntanlega 3 framleiðendur kísilmálms á Íslandi benda til mismunandi framleiðsluferla, sem kemur heim og saman við það, sem skrifað er hér að ofan um, að framleiðsluferlið sé enn í mótun. Þetta kemur fram í eftirfarandi samanburði:
- United Silicon:100 kt/a af Si, 3,6 t CO2/t Si, 15,5 kg SO2/t Si, 160 MW toppur, 1200 GWh/a
- Thorsil: 110 kt/a af Si, 4,5 t CO2/t Si, 17,7 kg SO2/t Si, 174 MW, (nýtingartími topps = 7586 klst/a), 1320 GWh/a
- PCC: 66 kt/a af Si, 5,5 t CO2/t Si, 12,6 kg SO2/t Si, 104 MW, (nýtingartími topps = 7615 klst/a), 792 GWh/a
Af sólarkísli ætlar Silicor aðeins að framleiða 19 kt/a, en þarf til þess 85 MW eða á að gizka 600 GWh/a.
Þetta yfirlit sýnir, að framleiðsluferli kísilmálmveranna eru talsvert mikið meira mengandi en framleiðsluferli álveranna, þegar litið er til gróðurhúsalofttegunda. Yfirvöld hérlendis verða að krefjast BAT, beztu fáanlegu framleiðslutækni, af þeim öllum. Þá er ljóst, að sé allt með felldu í orkusamningunum, þá verða kísilmálmverksmiðjurnar að greiða hærra einingarverð fyrir orkuna, af því að þær nýta uppsett afl í virkjunum ver en álverin og hagvæmni stærðarinnar verður ekki við komið í sama mæli og í virkjunum fyrir álverin. Síðan eru alls konar annars konar þættir, t.d. tenging við vísitölur, lágmarkskaup, skipting forgangsorku og afgangsorku, aflstuðull og bjögunarstuðull, sem ætti að gefa upp, þó að verðformúlu orkunnar verði haldið leyndri.
Spurning er, hvort kísilverin verði að kaupa sér koltvíildiskvóta, en ekkert hefur heyrzt um það. Núverandi verð á honum er um 5 EUR/t CO2. Það yrði tilfinnanlegur kostnaðarauki fyrir þessi nýju ver.
Það hefur heldur ekkert verið gefið upp um raforkuverð til kísilveranna, ekki einu sinni, hvort það er tengt við afurðaverðið eða ekki. Það er jafnvel sveipað þoku á hvaða stigi orkusamningar eru. Almenningi er þó kunnugt um í grundvallaratriðum, hvernig þeim málum er háttað hjá álverunum,þó að ekki hafi verið upplýst um sjálft einingarverðið. Það eru orkuseljendurnir, sem vilja viðhalda þessum leyndarhjúpi.
Það er ljóst, að kostnaður orkuframleiðandans á hverja MWh (megawattstund) til kísilmálmvers er hærri en til álvers vegna sveiflukennds álags hins fyrrnefnda, en tiltölulega jafns álags hins síðar nefnda. Jafnframt eru kaupin meiri hjá álverunum, svo að hagkvæmni stærðarinnar er meira ríkjandi í viðskiptunum við þau. Það verður líka að krefjast þess, að krafan um aflstuðul sé ekki lægri en 0,98 og að svokallaður bjögunarstuðull, sem er mælikvarði á mengun raforkukerfisins, verði undir 1,5 % af málspennu á inntaki kísilveranna. Kísilverin munu eiga fullt í fangi með að uppfylla þetta vegna framleiðslutækja sinna, ljósbogaofnanna, sem eru erfitt (sveiflukennt) álag á lítið og veikt raforkukerfi.
Norðmenn eru ekki lengur samkeppnihæfir á sviði raforkuviðskipta við orkukræfan iðnað. Það eru Íslendingar hins vegar, ef rétt er á haldið. Þetta er meginástæða þess, að flóðbylgja kísilmálmvera skellur nú á Íslandi. Evrópu skortir efnið, og það er ánægjulegt, að þessi iðnaður skuli þá hafa leitað til Íslands í stað Noregs, og það ber að taka vinsamlega við honum. Á móti verður að gera þá kröfu, að verkfræðilega verði staðið að framkvæmdum og rekstri, eins og bezt verður á kosið. Fúsk og handabakavinnubrögð skipulagningar, uppdrátta, framkvæmda og rekstrar, munu koma harðast niður á eigendunum, þegar fram í sækir, svo að gæði ber að hafa í fyrirrúmi á öllum sviðum frá upphafi. Það ber að vanda, sem vel og lengi á að standa.