Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
6.1.2022 | 11:39
Væringar í ESB út af sjálfskaparvíti á orkusviði
Hefur ACER (Orkustofa ESB - samstarfsvettvangur orkulandsreglara EES-landanna) rétt fyrir sér ? Er sameiginlegur orkumarkaður ESB nauðsynlegur til að skapa samfélög, reist á endurnýjanlegri orku ? Er hátt raforkuverð kostnaðurinn við þessa orkubyltingu ?
Eins og sést á þessum spurningum, sem fólk á hinum sameiginlega orkumarkaði ESB (Evrópusambandsins) veltir núna vöngum út af, eiga viðfangsefni ACER afar takmarkaða eða enga skírskotun til Íslands. Að álpast til að ganga löggjöf ESB á orkusviðinu á hönd, getur ekki bætt stöðu Íslands á nokkurn hátt, og röksemdafærslan fyrir því á sínum tíma var ýmist út í hött eða hreinn sparðatíningur, en þessi aðild getur valdið vandræðum innan EFTA og í samskiptum við ESB, ef Eftirlitsstofnun EFTA-ESA fer að fetta fingur út í innleiðingu Orkupakka 3, sem var ekki samkvæmt bókstaf EES-samningsins, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri. Flokkarnir, sem að nýju norsku ríkisstjórninni standa, komu sér saman um að leggja 4. orkupakka ESB í saltpækil allt þetta kjörtímabil (2021-2025), og Norðmenn ráða afstöðu EFTA-landanna innan EES.
Frakkland, Grikkland, Ítalía og Rúmenía (allt vatnsorkulönd í nokkrum mæli) vilja, að verðlagning raforku innan Orkusambands ESB fari fram á grundvelli meðaltalsvinnslukostnaðar rafmagns. Á fundi orkuráðherra ESB 02.12.2021 réðust orkuráðherrar þessara 4 landa á grundvöll ACER fyrir verðlagningu raforkunnar, sem er jaðarkostnaðarreglan, þ.e. að síðasta kWh, sem framleidd er í kerfinu, ákvarði verðið. Núna kemur þessi síðasta kWh frá jarðgasi, og gasverðið hefur fjórfaldazt á skömmum tíma.
Þessi 4 lönd hafa mikið til síns máls. Hvers vegna eiga t.d. Norðmenn, heimili og fyrirtæki, sem orðnir eru þræltengdir við raforkukerfi ESB og reyndar Bretlands einnig, að greiða yfir 100 Naur/kWh (14,6 ISK/kWh), þegar meðaltalskostnaðurinn við raforkuvinnsluna í Noregi er undir 10 Naur/kWh (1,46 ISK/kWh) ? Á öllum öðrum sviðum vöru og þjónustu, sem almenningur verður að hafa aðgang að á hverjum degi, ákvarðar meðaltalskostnaður við framleiðsluna verðið. Hvers vegna á annað að gilda um rafmagn, er nú spurt í ráðherraráði ESB ?
Völdin liggja þar hjá Þýzkalandi, sem fékk til liðveizlu við sig 8 önnur lönd í þessu máli. Þarna togast rétt einu sinni á germanskur og rómanskur hugarheimur. Röksemdirnar fengu germönsku þjóðirnar úr hraðsoðinni, en þó viðamikilli skýrslu ACER um verðlagningu á orku, sem er að finna í viðhengi með þessum pistli.
ACER fullyrðir í skýrslunni, að raforkuvinnsla framtíðarinnar verði æ breytilegri eftir því sem vinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum vindur fram. Það þýðir, að orkuvinnslan verður sífellt háðari jöfnunarorku, þegar náttúran bregst með vind- og sólarleysi. Ef á að verða arðsemi í fjárfestingum á borð við rafgeyma, orkugeymslu í miklu magni, vetni og öðrum tæknilausnum, þá verður að ákvarða orkuverðið á grundvelli kostnaðar síðustu kWh, sem þörf er á. ACER er með skýrt mótaða stefnu: verðþak eða meðaltalsverð ógna sameiginlegum orkumarkaði ESB. Þessi stefna hentar Íslendingum illa.
Hefur ACER rétt fyrir sér ? Er sameiginlegur orkumarkaður nauðsynlegur fyrir þróun samfélaga til endurnýjanlegrar orkunotkunar ? Er hátt rafmagnsverð gjaldið, sem greiða verður fyrir sjálfbærnina ?
Taka má dæmi af Noregi, sem hefur nú verið rækilega tengdur, þótt enn bíði umsókn um aflsæstreng til Skotlands afgreiðslu af pólitískum ástæðum. Þegar hafizt var handa um að virkja vatnsföll Noregs, var það gert á grundvelli verðlagningar á raforkunni samkvæmt tilkostnaði. Þegar sama fyrirtæki virkjaði meira, gilti meðaltalskostnaður fyrirtækisins við verðlagningu nýrrar orku. Þegar framboðshliðin ein á að ráða markaðsverðinu, þá verður það dýrasta virkjunin per kWh, sem ræður verðinu. Þessi ófélagslega hlið á þeirri samfélagslegu innviðaþjónustu, sem útvegun rafmagns er, virðist varða leiðina að endurnýjanlegri raforkunotkun á hinum sameiginlega orkumarkaði ESB, og hún er illa til þess fallin að njóta lýðhylli, sem aftur torveldar orkuskiptin. Á Íslandi vofir yfir innleiðing á þessu framandi uppboðskerfi raforku, sem í raun á hingað ekkert erindi og getur aðeins skaðað samkeppnishæfni rafknúins samfélags.
ACER hefur lengi litið hýru auga til Norðurlandanna til orkuöflunar fyrir meginlandið og þá aðallega útvegun jöfnunarorku, sem æ meiri þörf verður fyrir á meginlandi Evrópu og ný gasknúin raforkuver sjá um nú í auknum mæli. Talsmenn ACER halda því fram, og endurómurinn hefur birzt hérlendis, t.d. í skrifum varaformanns Viðreisnar, að verðhækkanir megi að nokkru skýra með því, að sveiflugeta miðlunarlónanna á vatnsforðanum verði verðmætari (með lágum framleiðslukostnaði teygist raforkuverð vatnsorkuveranna auðvitað upp í átt að verðinu á sameiginlega markaðinum, og þetta hefur valdið gríðarlegri óánægju í Noregi). Meðaltal raforkuverðs í Noregi á 3. ársfjórðungi 2021 var 76,3 Naur/kWh eða 11,1 ISK/kWh, sem er tvöföldun m.v. meðaltal síðast liðinna 5 ára, og þetta er tæplega tvöfalt verð frá orkuveri til íslenzkra heimila.
Það geta varla verið aðrir en raforkuframleiðendur, sem sjá sér hag í því að taka þátt í þessum sameiginlega orkumarkaði, hvort sem Ísland eða Noregur á í hlut. Bæði löndin flæktust í Orkusamband Evrópu með lögfestingu Þriðja orkupakka ESB, en aðeins annað landanna sýpur seyðið af því, enn sem komið er, en vonandi ná Norðmenn að losa um klær ACER, svo að þeir geti sjálfir stjórnað raforkuflutningum inn og út úr landinu, sjálfum sér til hagsbóta.
Hins vegar eru óánægjuraddir með þetta Orkusamband víðar innan EES. Þótt ACER búist við lækkun gasverðs í apríl 2022 (allt er það undir hælinn lagt eftir ákvörðun Þjóðverja, með tilstyrk Bandaríkjamanna, að opna ekki fyrir gas frá Rússlandi um Nord Stream 2, nema Rússar haldi sig á mottunni gagnvart Úkraínu), þá mun jaðarkostnaðarregla ACER við verðlagningu raforku leiða til hás raforkuverðs á áratugum orkuskiptanna. Þetta kemur sér sérlega illa fyrir fátæk lönd á borð við Grikkland og er ekki til hagsbóta fyrir lönd, sem eru sjálfum sér nóg um raforkuöflun, eins og Frakkland, Búlgaría og Tékkland eru.
Alls staðar í Evrópu aukast mótmælin gegn þessari stefnu ACER/ESB. ESB, sem hlustar meira á ACER en borgarana í aðildarlöndunum, mun ekki lægja öldurnar.
Því má svo bæta við þetta rifrildisefni innan ESB, að Frakkar, sem nú fara með æðstu stjórn ESB, embætti forseta ráðherraráðsins, hafa nú lagt til, græningjum Evrópu til armæðu, að kjarnorkuknúin og gasorkuknúin raforkuver verði af ESB viðurkennd sem græn og umhverfisvæn mannvirki. Þetta hefur sett ríkisstjórnina í Berlín, með græningja innanborðs, í vanda. Þjóðverjar lokuðu 3 kjarnorkuverum sínum í fyrra [2021], og eru nú enn háðari kolum og jarðgasi en áður. Þetta er gott dæmi um mótsagnakennda loftslagsstefnu. Kjarnorkunni mun verða veitt brautargengi á ný í heiminum, því að hún er hið eina, sem leyst getur kolaorkuver almennilega af hólmi.
25.12.2021 | 14:28
Auðvitað er brýn þörf á nýjum virkjunum
Forstjóri OR hefur lengi þann steininn klappað, að ekki vanti nýjar virkjanir hérlendis, og alls ekki þurfi að virkja til að knýja farartæki á landi með rafmagni eða rafeldsneyti. Þetta er leiðinleg meinloka hjá þessum jarðfræðingi.
Til að knýja tæplega 200 k (k=1000) farartæki (175 k fólksbíla og 10 k vinnuvélar og vagna) um 2030 þarf að framleiða um 2 TWh/ár í virkjun. Álag þessarar raforkunotkunar verður ekki jafndreift yfir sólarhringinn, vikuna og árið, eins og segja má, að eigi við um álverin, og þess vegna þarf tiltölulega mikið uppsett afl að baki orku til fólksbílanna, sem flestir verða knúnir frá rafgeymum, eða um 350 MW, en vinnuvélar og vagnar verða flestar á vetni og afleiðum þess. Framleiðsla þess getur verið tiltölulega jöfn, svo að aflþörf þess er aðeins um 150 MW, þótt orkuþörfin geti orðið svipuð og fólksbílanna árið 2030. Alls eru þetta 2 TWh og 500 MW í orku- og aflþörf vegna farartækja á landi 2030, ef vel á að vera.
Þar að auki kemur orkunotkun í höfnum og lífeldsneyti á fiskveiðiflotann. Orku- og aflþörf verður þar af leiðandi að líkindum meiri en þetta árið 2030 vegna orkuskiptanna, ef nálgast á markmið stjórnvalda. Þeir, sem gera svo lítið úr þessari orkuþörf, að ekkert þurfi að virkja á þessum áratugi, eru algerlega úti að aka í þessum efnum, því að landsmenn munu ekki aka á ótryggðri orku. Þeir verða að geta reitt sig á trausta forgangsorku, ef orkuskiptin eiga einhvern tímann að verða barn í brók.
Virkjunartími ásamt leyfisveitingum er langur á Íslandi, og þess vegna veitir ekkert af því að fara að hefjast handa, enda er aukin spurn eftir orku á öðrum sviðum líka. Til samanburðar er Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá áformuð 95 MW og 720 GWh/ár að uppsettu afli og framleiðslugetu. Það er skammarlegt að halda að sér höndum nú og vilja eða geta ekki fullnægt raforkuþörf í landinu á tímum alvarlegs skorts á endurnýjanlegri orku víðast hvar í heiminum.
Í Fréttablaðinu 10. desember 2021 birtist frétt, sem reist var á speki forstjóra OR um orkuþörf og virkjanaþörf. Fyrirsögnin bar þess merki, að þessi forstjóri virðist telja viðvarandi orkuskort viðunandi og að engin þörf sé á að virkja. Þetta er dæmalaus málflutningur fyrir mann í hans stöðu, og mundu sumir kenna við ábyrgðarleysi gagnvart rafmagnsnotendum. Það hefur t.d. verið upplýst, að ON, dótturfélag OR, hefur séð sér þann kost vænstan í núverandi ástandi að fresta ráðgerðu viðhaldi í gufuaflsstöðvum sínum, væntanlega vegna skorts á vélarafli í landinu. Það er óeðlilegt og býður hættunni heim að grípa til þess óyndisúrræðis, jafnvel þótt vatnsstaða Þórisvatns sé bágborin. Það er aldrei hægt að skáka í því skjólinu, að allt gangi eins og í sögu og að allt vélarafl sé tiltækt, þegar hæst á að hóa. Það er óverjandi að reka raforkukerfi á horriminni, þannig að ekkert megi út af bregða.
"Forstjóri OR telur enga þörf á fleiri virkjunum til orkuskipta"
Fréttin hófst þannig:
"Það vantar vatn til að knýja vatnsaflsvirkjanir, það er vandinn", segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Hann segir umræðuna um skort á rafmagni hér á landi vera undarlega.
"Það er verið að skerða núna rafmagn til stóriðju og fiskimjölsverksmiðja vegna þess, að það er ekki hægt að vinna nógu mikið rafmagn, eins og er. Það er ekki vegna þess, að það vanti virkjanir. Orkuvinnslugetan á venjulegu ári er meira en fullnægjandi. Ástæðan er, að það vantar vatn til að keyra virkjanir, það er eingöngu þess vegna", segir Bjarni."
Maðurinn viðurkennir orkuskortinn, en telur hann ekki stafa af virkjanaskorti. Það má benda honum á, að ekki hefði enn þurft að koma til skerðinga hjá neinum notenda Landsvirkjunar, ef Hvammsvirkjun (95 MW, 720 GWh/ár) hefði tekið til starfa í haust, því að hún mun nota sama vatnið (350 m3/s) og virkjanir í Efri-Þjórsá og Tungnaá. Forgangsorkan er upp urin að mati Landsvirkjunar m.v. upplýsingar fyrirtækisins um að hafa hafnað óskum notenda um viðbótar orku. Með stefnu sinni í virkjanamálum er téður Bjarni að vísa raforkunotendum orkuumskiptanna á ótryggða orku, sem auðvitað nær engri átt. Hvað skyldi manninum ganga til ?
Einu sinni var maður, sem var kallaður Vellygni- Bjarni. Téður Bjarni nær ekki svo langt, en útskýring hans á því, hvers vegna hægt er með gróða að selja stóriðju á borð við álver raforku á lægra verði en heimilinum sýnir fullkomið skilningsleysi á málinu:
"Bjarni segir, að Ísland framleiði 5 sinnum meira rafmagn en aðrar [og] 80 % af því fari til stóriðju. Stóriðja fái rafmagn á lægra verði en heimili vegna þess, að rafmagn til þeirra sé skert í aðstæðum sem þessum. Það vanti ekkert upp á fyrir orkuskipti í samgöngum."
Þetta er bolaskítur (e. bullshit). Hér á eftir koma nokkrar ástæður þess, að forgangsorka til álvera er ódýrari í framleiðslu en forgangsorka til heimila:
- Um er að ræða mikið magn til eins notanda, sem tekur við 220 kV rafmagni af Landsneti og sér sjálfur um niðurspenningu og dreifingu innan verksmiðjusvæðisins, bæði á jafnstraumi og riðstraumi.
- Notkun álvers, sem er uppistaða stóriðjuálagsins, er að jafnaði lítt breytileg yfir sólarhringinn árið um kring, svo að framleiðslutækin í virkjun eru mjög vel nýtt (nýting um 94 % yfir árið) við að framleiða fyrir viðkomandi álver. Hjá heimilum er álagið lítið, nema þar sem rafhitun er, og ójafnt, meira á veturna en á sumrin og yfirleitt með toppi um kl. 1900. Þetta veldur lítilli nýtingu framleiðslutækja í virkjun eða um 60 %.
- Aflstuðullinn, sem er ákveðinn mælikvarði á nýtingu búnaðar í virkjun við að framleiða söluhæfa afurð, er miklu hærri í álverum en í dreifiveitum heimilanna, eða yfir 0,97 m.v. um 0,8 í dreifiveitunum.
- Þegar virkjunareigandinn gerir samning við stóriðju um orkusölu, fær hann kauptryggingu fyrir næstum allri forgangsorku virkjunarinnar í 25-45 ár, háð gildistíma samnings. Slíkt dregur mjög úr áhættu fjárfestingarinnar, sem veitir hagstæðari lánskjör, og þar með verður fjármagnskostnaðurinn lægri, en hann er um 95 % af kostnaði vatnsaflsvirkjana.
- Uppsett afl í vatnsaflsvirkjun borgar sig að hafa umfram það, sem þarf til að framleiða forgangsorku vegna þess, að flest árin á rekstrartíma virkjunar má búast við meira vatni til virkjunarinnar en svarar til forgangsorkunnar, sem myndar hinn fjárhagslega grundvöll virkjunarinnar. Umframorkan kemur ekkert við sögu við verðlagningu forgangsorkunnar, heldur er verðlögð sér, enda nemur kostnaðurinn við framleiðslu hennar aðeins breytilegum kostnaði virkjunarinnar, sem í megindráttum er rekstrarkostnaður hennar. Að tengja verðlagningu forgangsorku við skerðingarheimildir virkjunareiganda á ótryggðri orku er grundvallar misskilningur.
13.12.2021 | 10:30
Sjávarútvegur er kjölfesta efnahagslífsins
Sjórinn umhverfis landið var frá upphafi landnáms kjölfesta lífsafkomu þjóðarinnar ásamt afurðum landsins sjálfs. Erlendar þjóðir voru í aðstöðu til að þróa svo öflug skip á miðöldum, að þau gátu sótt hingað til veiða, á meðan hér voru kænur einar til útróðra. Bróðurpartur veiðanna var þess vegna útlendinganna, en við sátum eftir í rás tímans undir nýlendustjórn Dana og lápum dauðann úr skel.
Jón Arason, Hólabiskup, gerði heiðarlega tilraun til að stöðva Siðaskiptin og kollvarpa veldi Danakóngs hérlendis 1540-1550 með bandalagi við kaþólskan keisara Þýzkalands (Þjóðverjar voru umsvifamiklir kaupmenn og fiskimenn á og við Ísland á þessum tíma), en það mistókst hrapallega, eins og alkunna er. Um þessa miklu atburði hefur Seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, skrifað læsilegt og æsilegt kver og nú sent frá sér upplýsandi rit um aðdraganda landnáms Íslands, Eyjan hans Ingólfs.
Á Heimastjórnartímanum í byrjun 20. aldar hafa Íslendingar sennilega fyrir alvöru gert sér ljóst, hvílík verðmæti væru fólgin í sjávarauðlindinni í kringum landið, því að fljótlega var hafizt handa við að draga landhelgislínu um landið, fyrst 3 sjómílur frá ströndum, þá 4 sjómílur frá annesjum, síðan 50 sjómílur og að lokum 200 sjómílur 1976. Jafnframt hafa Íslendingar verið á varðbergi gagnvart því, að útlendingar klófestu fiskinn til vinnslu og markaðssetningar erlendis með eignarhaldi sínu á útgerðum og fiskvinnslum hérlendis.
Lykilatriði fyrir verðmætasköpunina er fullvinnsla hérlendis fyrir vel borgandi erlenda markaði. Eftir vel heppnuð umskipti íslenzks sjávarútvegs með lögfestingu þess fiskveiðistjórnunarkerfis, sem nú er við lýði, en þokulegar vangaveltur eru um breytingar á, hefur hann haft bolmagn til mikilla fjárfestinga í veiðiskipum beztu gerðar og hátækni fiskvinnslum, sem standa erlendum samkeppnisaðilum snúning þrátt fyrir hjalla hér á borð við hátt launastig, há opinber gjöld og mikla fjarlægð frá mörkuðum.
Um erlendar fjárfestingar í í sjávarútvegi ritaði Guðjón Einarsson í Bændablaðið, 4. nóvember 2021:
"Allt frá dögum landhelgisstríðanna hafa Íslendingar verið á varðbergi gagnvart því, að útlendingar kæmust með klærnar í fiskveiðiauðlind þeirra á ný með verulegu eignarhaldi á sjávarútvegsfyrirtækjunum. Því eru í gildi lög, sem banna, að erlendir aðilar eigi meira en 25 % í íslenzkum fyrirtækjum, sem stunda veiðar eða vinnslu sjávarafurða hér á landi. Með vinnslu sjávarafurða er átt við frystingu, söltun, herzlu og hverja aðra þá verkun, sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þ.m.t. bræðsla og mjölvinnsla, en undanskilin er reyking, súrsun, niðursuða, niðurlagning, umpökkun afurða í neytendaumbúðir o.fl."
Sú spurning vaknar, hvort erlend fyrirtæki eða "leppar" þeirra gætu keypt mikið magn á mörkuðum hér, ef mikil aukning yrði á því, sem fer um markaðina, og flutt fiskinn utan til vinnslu í verksmiðjum sínum og/eða annarra þar. Höfundurinn segir, að nefnd um erlenda fjárfestingu hafi túlkað lögin með þeim hætti, "að beint og óbeint eignarhald í íslenzkum sjávarútvegi [megi] vera allt að 49 %".
Þessi takmörkun á erlendu eignarhaldi í íslenzkum sjávarútvegi brýtur í bága við sáttmála ESB um Innri markaðinn og fjórfrelsið, en þar er frjálst flæði fjármagns innifalin. Hins vegar kvað EES-samningurinn á um það í upphafi og gerir enn, að sjávarútvegur væri undanskilinn samninginum, og hefði betur farið á, að orkumálin væru það líka, eins og síðar kom á daginn.
"En hversu umfangsmikil er erlend eignaraðild að íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum ? Ekki er til samantekt um það á einum stað, en í svari þáverandi ráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar á Alþingi veturinn 2019-2020 kom fram, að í tilefni fyrirspurnarinnar hefðu verið skoðaðir ársreikningar þeirra lögaðila, sem fengið hefðu úthlutað aflamarki [aflahlutdeild] í upphafi fiskveiðiársins 2019/2020. Miðað var við þá aðila, sem fengu úthlutað 50 þorskígildistonnum eða meira. Samkvæmt þeim upplýsingum var enginn erlendur aðili skráður eigandi að yfir 1 % hlut í slíku félagi (m.v. ársreikninga 2018).
Síðan kallar Bændablaðið á kunnáttumann til að útskýra áhugaleysi útlendinga, Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Sannleikurinn er sá, að nú er íslenzkur sjávarútvegur kominn á slíkt stig tækniþróunar, markaðssetningar og framlegðar, að vandséð er, að fjárfestingar útlendinga yrðu honum til nokkurrar framþróunar.
"Ég get þó ekki neitað því, að þess eru dæmi, að erlendir viðskiptavinir okkar hafi sýnt því áhuga að kaupa nokkurra % eignarhlut í Vinnslustöðinni til þess að styrkja tengslin, en ég hef alltaf sagt nei. Það myndi almennt ekki vera vel séð. Hins vegar eru frjáls viðskipti með hlutabréf í fyrirtækjum eins og Vinnslustöðinni, og því gæti einn hluthafi tekið sig til og selt sín bréf til útlendinga, ef honum sýndist svo", sagði Sigurgeir Brynjar. Hann bætti því við, að líklegasta skýringin á litlum áhuga erlendra fjárfesta á íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum væri sú áhætta, sem alltaf vofði yfir vegna hugsanlegra breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu."
Ófriður um fiskveiðistjórnunarkerfið er óviðunandi fyrir almenning á Íslandi, sem á feikilega hagsmuni undir því, að friður ríki um lagaumgjörð vel heppnaðs fiskveiðistjórnunarkerfis, sem ekki hefur verið mótmælt með rökum, að sé skilvirkasta fiskveiðistjórnunarkerfi, sem þekkist. Sök á þessum ófriði eiga óábyrgir stjórnmálamenn, sem leitast við að slá pólitískar keilur með því að ala á sundrungu og öfund um kerfið, sem nú er við lýði án þess að benda á trúverðuga valkosti. Þessu þarf að linna, og mundi þá sennilega fjármagnskostnaður greinarinnar lækka og opinberar tekjur aukast af greininni.
Þann 15. nóvember 2021 birtist í Morgunblaðinu ein af hinum fróðlegu og hnitmiðuðu greinum Jóns Steinars Gunnlaugssonar, lögmanns, um þjóðmálin, sem hann nefndi:
"Bezta kerfið".
Hún hófst með sögulegu yfirliti:
"Á 8. og 9. áratug síðustu aldar var fyrst að ráði farið með lögum að takmarka sókn íslenzkra veiðiskipa í fiskveiðistofnana við landið. Byggðist þessi stjórnun á þeim grunni, sem lagður var við lagasetninguna, að nytjastofnar við Ísland væru sameign íslenzku þjóðarinnar, sem og því, að stofnunum stafaði hætta af ofveiði landsmanna.
Komið var á því, sem við höfum nefnt aflamarkskerfi, sem fólst í að úthluta til fiskiskipa hlutdeild í hámarksafla hinna mismunandi tegunda sjávarfangs, sem heimilt væri að sækja í sjó og ákveðinn væri af stjórnvöldum."
Hér má bæta við, að aflamark, sett af stjórnvöldum, skyldi reist á veiðiráðgjöf vísindamanna Hafrannsóknarstofnunar. Var henni þó ekki fylgt út í æsar fyrstu ár kerfisins, en hin seinni árin má heita, að svo hafi verið gert.
Margvíslegir jákvæðir hvatar eru fólgnir í hinu íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfi, sem ýta undir útgerðarmenn og sjómenn að draga úr kostnaði við að sækja hvert tonn úr sjó og að hámarka verðmæti þess. Þá hvetur varanleg úthlutun aflaheimilda til ábyrgrar umgengni við auðlindir hafsins og til að lágmarka mengun. Enn viðgengst þó umhverfisskussaháttur, sem mál er að linni og nefnist brottkast.
Aðaláhrif kerfisins voru þau að treysta rekstrargrundvöll sjávarútvegsins, sem var ekki fyrir hendi áður, þ.e. að íslenzkur sjávarútvegur var ósamkeppnishæfur á mörkuðum erlendis. Þetta leystu stjórnmálamenn fortíðar með því að míga í skóinn sinn, þ.e.a.s. þeir rýrðu verðmæti þjóðargjaldmiðilsins, sem er svindlaðgerð gagnvart hagsmunum almennings. Öflugur gjaldmiðill er undirstaða velmegunar þjóðar, sem er svo háð innflutningi vara og þjónustu sem Íslendingar, en útflutningur verður að koma á móti, svo að þetta er jafnvægislist. Hún næst aðeins með skilvirkni á öllum sviðum, framleiðni verðmætasköpunar, sem skapar grundvöll að samkeppnishæfni landsins. Þetta hefur náðst með tæknivæðingu á öllum sviðum atvinnulífs og auðlindanýtingu á fleiri sviðum en sjávarútvegi. Enn er hægt að auka framleiðsluverðmæti takmarkaðs sjávarafla og auka sjálfbæra orkunotkun landsmanna, svo að því fer fjarri, að endimörkum vaxtar sé náð á Íslandi.
Jón Steinar gerði síðan eignarhaldið að umræðuefni, en það er eins og það hafi farið mest fyrir brjóstið á gagnrýnendum kerfisins, enda vissulega byltingarkennd breyting innan sjávarútvegs, þó að það sé hefðbundið í öðrum greinum. Gallinn við gagnrýnina er hins vegar sá, að breytingartillögur eru örverpi með alls konar alvarlegum annmörkum. Þetta eru vanhugsaðar afurðir stjórnmálamanna, sem annars staðar hafa gefizt afspyrnu illa.
"Það samrýmist vel meginhugmyndum í lýðræðisríkjum að koma verðmætum atvinnutækjum í hendur þeirra, sem atvinnuna stunda, enda sé gætt að málefnalegu jafnræði við ráðstöfun þeirra. Landsins gæði eru í slíkum ríkjum í einkaeigu borgaranna, svo sem fasteignir og aðrar eignir, námur og land, m.a. það, sem nýtt er í landbúnaði. Bændur eiga ekki bara heimalönd jarða sinna, heldur einnig tilkall til hálendissvæða til samræmis við nýtingu þeirra á slíku landi frá fornu fari. Stjórnskipun, sem byggir á einstaklingseignarrétti, er líka miklu líklegri til að skapa landsins lýð meiri verðmæti og tekjur heldur en fyrirkomulag í ríkjum sameignarsinna, svo sem saga mannkynsins sannar svo vel. Við hikum ekki við að segja, að Ísland sé í sameign þjóðarinnar, sem byggir landið, þó að yfirleitt allt land sé háð eignarrétti einstakra manna."
Einkaeignarrétturinn er rótin að velgengni fiskveiðistjórnunarkerfis, enda beinast misheppnaðar atlögur stjórnmálamanna að honum. Þeir hafa látið sér detta í hug þá fráleitu ofbeldisráðstöfun að þjóðnýta aflahlutdeildir útgerðarmanna án þess að gera sér nokkra grein fyrir grafalvarlegum réttarfarslegum, efnahagslegum og siðferðislegum áhrifum slíks gernings. Stjórnmálamenn fortíðar migu í skóinn sinn, þegar þeir höfðu afskipti af sjávarútveginum, en þessar hugmyndir misheppnaðra stjórnmálamanna nútímans eru af enn verra tagi.
"Þegar fiskveiðistjórnunarkerfi okkar var komið á, var ekki verið að taka eignarréttindi af öðrum borgurum en útgerðarmönnum. T.d. sat ég sem lögmaður í miðbæ Reykjavíkur og varð ekki var við, að neitt væri af mér tekið við lagasetninguna um stjórn fiskveiða við landið og úthlutun aflaheimilda. Ég naut þess hins vegar, eins og aðrir landsmenn, að þessi atvinnugrein við sjávarsíðuna blómstraði og skilaði góðri afkomu landslýð öllum til hagsbóta.
Kannanir sýna, að íslenzka kerfið skilar meiri efnahagslegum ábata en þau stjórnkerfi, sem þekkjast hjá öðrum ríkjum.
Kröfur um sérstaka skattheimtu á þessa atvinnugrein umfram aðrar standast að mínum dómi ekki. Við hljótum að skattleggja íslenzka borgara eftir lagareglum, þar sem jafnræðis er gætt og hið sama látið gilda um alla án tillits til þess á hvaða sviði atvinnulífs þeir afla sér tekna.
Þeir, sem nú gera háværar kröfur um aukna hlutdeild almennings í verðmætum fiskimiðanna, ættu að hugsa sig aftur um. Meginviðhorfin, sem orðið hafa ofan á í lagasetningu okkar á þessu sviði eru þau beztu, sem völ er á, þó að alltaf megi sjálfsagt bæta ýmis smáatriði í lögunum."
Jón Steinar Gunnlaugsson hefur lög að mæla og kemst þarna að kjarna málsins. Jafnræðis verður að gæta, svo í skattheimtu sem öðru. Þess vegna orka s.k. veiðigjöld tvímælis, enda eru þau ekki iðkuð í nágrannalöndum okkar, nema í litlum mæli í Færeyjum. Þessi gjöld eru þar að auki eins konar dreifbýlisskattur, sem skýtur skökku við byggðastefnuna, sem rekin er í landinu, og eru þess vegna fjármagnsflutningur frá hinum dreifðu byggðum landsins til Reykjavíkur. Það er óskynsamlegt, að ríkið þvingi fram fjármagnsflutninga þaðan, sem verðmætin verða til, því að slíkt dregur úr fjárfestingum, sem eru undirstaða velmegunar, byggðastöðugleika og samkeppnishæfni.
10.12.2021 | 21:18
Áfellisdómur yfir loftslagsstefnu ríkisins
Löngu fyrirsjáanlegur raforkuskortur vegna of lítils framboðs raforku til að mæta þörfum vaxandi hagkerfis og orkuskipta er nú brostinn á með þeim afleiðingum, að hagvöxturinn á næstu árum verður minni en ella, því að búast má við raforkuskorti, þar til ný virkjun af sæmilegri stærð (um 100 MW) kemst í gagnið.
Fyrstu fórnarlömbin nú (sem jafnan) eru fyrirtæki með skammtímasamninga um ótryggða orku frá Landsvirkjun, og munar þar langmest um fiskimjölsverksmiðjurnar í afli eða 100 MW. Þegar hafa 75 MW verið skorin af þeim, og sennilega verður allt tekið af þeim um áramótin, þegar hæst á að hóa; brætt hefði verið með að líkindum 100 MW rafmagns í um 1500 klst veturinn 2022. Þetta eru 150 GWh, sem gætu kostað u.þ.b. mrdISK 1, sem orka komin til bræðslnanna, en olían, um 18 kt, kostar um tvöfalt meira komin til sömu notenda (áætlun BJo).
Þessi ákvörðun Landsvirkjunar gæti þannig jafngilt um mrdISK 1 og er þannig mikið fjárhagslegt högg fyrir sjávarútveginn, sem búinn er að fjárfesta a.m.k. mrdISK 3 í rafvæðingunni. Útskýringar forstjóra Landsvirkjunar eru ófullnægjandi. Hann skellir skuldinni á ófullnægjandi flutningsgetu Landsnets á milli landsfjórðunga, en Landsvirkjun hefur ekki burði til að framleiða meiri raforku á Austurlandi en Austurland þarf um þessar mundir að viðbættri flutningsgetu þaðan til norðurs og suðurs eftir úreltri 132 kV Byggðalínu. Þar að auki hefði Landsvirkjun getað hafið þennan flutning fyrr en gert var og sparað þannig meira vatn í Þórisvatni.
Landsvirkjun er með svín á skóginum og ætti ekki að kasta frá sér ábyrgð yfir á Landsnet. Fíllinn í stofunni er svo auðvitað Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá, sem hefði verið tekin í notkun í haust, ef stjórn orkumála Íslands hefði undanfarið verið, eins og hjá mönnum. Hefur Landsvirkjun verið að þrýsta á um að fá framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun ? Opinberlega hefur ekki farið mikið fyrir því.
Til að Landsvirkjun geti nýtt sér flutningsgetu nýrrar 220 kV Byggðalínu frá Fljótsdal til Grundartanga, verður hún að koma sér upp viðbótar framleiðslugetu í Fljótsdalsvirkjun og á Þjórsár/Tungnaársvæðinu, og núverandi vatnsvegir setja slíkum viðbótum skorður. Landsvirkjun hefur áætlað, að orka Hverfanda, yfirfalls Hálslóns, hafi numið 500 GWh sumarið 2021. Ekki þarf að búast við, að nýtanleg viðbótarorka í Fljótsdalsvirkjun með viðbótar hverfli og rafala verði nema þriðjungur af þessari orku í góðum vatnsárum, og mörg ár mundi slík fjárfesting nýtast lítið, nema góðum vatnsárum sé að fjölga þar fyrir austan.
Þann 7. desember 2021 birti Morgunblaðið fjagra dálka fyrirsögn ofarlega á forsíðu sinni með þessum válegu tíðindum, sem þó veru fyrirsjánleg. Nú hefur Murphy blandað sér í málið og slegið út einum rafala í Búrfelli á sama tíma og enn vantar vél í rekstur á Nesjavöllum vegna viðgerða. Háálagstíminn er í vændum á sama tíma og reiðuaflið er stórlega skert. Þetta eykur líkur á alvarlegu straumleysi hjá notendum og jafnvel kerfishruni. Raforkukerfið er í uppnámi vegna óstjórnar. Það er stórlega ámælisvert, að eftirlitsaðili á borð við Orkustofnun skuli ekki opinberlega fyrir löngu hafa varað við því ófremdarástandi, sem athafnaleysi orkufyrirtækjanna á sviði nýrra virkjana er nú að leiða yfir landsmenn. Það hefur verið flotið sofandi að feigðarósi:
"Kemur sér illa fyrir hagkerfið"
Í fréttinni var leitað í smiðju Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins:
"Sigurður segir, að þessi staða komi sér sérstaklega illa á þeim tíma, sem hrávöruverð sé hátt með hliðsjón af því, að græn orkuskipti eru á næsta leiti. "Skerðingin kemur illa við íslenzkt efnahagslíf og við hagkerfi Íslands", segir Sigurður og bætir við, að hún muni draga úr framleiðslu og verðmætasköpun.
Hann bætir við, að það sé rétt að ákveðnu marki, að flutningskerfið sé ekki nógu skilvirkt, en engu að síður sé það staðreynd, að það þurfi að afla meiri orku. "Flutningskerfið er sannarlega eitthvað, sem þarf að skoða og bæta, en það breytir ekki því, að það þarf að afla meiri orku á landinu vegna þess, að eftirspurnin er sannarlega [fyrir hendi] og líka með hliðsjón af loftslagsmálunum, þar sem eftirspurn eftir grænni orku er að aukast á heimsvísu", segir Sigurður."
Þetta er einhver smjörklípa hjá forstjóra Landsvirkjunar að kenna lítilli flutningsgetu Byggðalínu um, að Landsvirkjun skelli á raforkuskerðingu í byrjun desembermánaðar. Enginn með viti dregur það von úr viti að hefja virkjunarframkvæmdir, sem um munar, í von um að geta flutt næga orku á milli landshluta. Það er ekki gefið, að Fljótsdalsvirkjun sé aflögufær, ef vatnsstaðan er lág í Þórisvatni, og 220 kV tenging á milli Austur- og Vesturlands verður varla tilbúin fyrr en um 2030. Ef hendur verða nú látnar standa fram úr ermum, væri hægt að búast við orku frá Neðri-Þjórsá í ársbyrjun 2025.
Þá var komið að 10 ára hrollvekju Landsnets, sem hefur í tímans ráð traðkað í salati landeigenda, en líka orðið fyrir barðinu á afturhaldinu í Landvernd, sem lagzt hefur þversum á leið loftlína, þótt samtökin eigi enga lagalega aðild að slíkum málum:
"Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir í samtali við Morgunblaðið, að það sé rétt, að flutningsgeta Byggðalínunnar, sem tengi saman Norð-Austur hornið og virkjanir fyrir sunnan, sé takmarkandi þáttur. Aðalástæðan fyrir því séu miklar tafir á framkvæmdum Landsnets vegna leyfisveitinga.
"Við höfum lagt áherzlu á, að það þurfi að einfalda ferlið við leyfisveitingar og gera það skilvirkara og tryggja, að niðurstaða fáist í leyfisveitingaferlið", segir Guðmundur og nefnir, að umsóknir hafi tafizt mikið í kerfinu. Séu dæmi þess, að framkvæmdaleyfisferlið geti tekið allt að 10 ár."
4.11.2021 | 09:51
Orkupakki 4 í uppnámi innan EFTA
Nú geisar orkukreppa á Bretlandseyjum og á meginlandi Evrópu, og bera margir kvíðboga fyrir vetrinum, því að ekki munu allir geta staðið straum af orkureikningunum, þar sem einingarverðið hefur jafnvel þrefaldazt og var þó hátt fyrir. Angar þessa teygja sig til vatnsorkulandsins Noregs, sem hefur rækilega tengt raforkukerfi sitt við þessi skortsvæði raforku. Þar sem norska þjóðin lendir þá í beinni samkeppni um sína eigin orku á uppboðsmörkuðum Evrópu (Nord Pool fyrir norðanverða Evrópu), hefur raforkuverðið jafnvel hækkað meira hlutfallslega í Noregi, þar sem það var mun lægra en á Bretlandi og á meginlandinu og góðar tengingar á milli orkusvæða jafna orkuverðið, en stærri markaðurinn verður alltaf ráðandi.
Öflugir norskir sæstrengir voru nýlega teknir í notkun, annar til Þýzkalands og hinn til Bretlands, sem hafa aukið fylgni norsks raforkuverðs við hið brezka og þýzka. Þetta veldur nú eðlilega óánægju í Noregi, og vilja nú sumir, að Norðmenn taki stjórn strengjanna í eigin hendur, en með Orkupakka 3 framseldu þeir völdin til regluverks ESB og markaðarins. Stórþingsmenn vilja margir hverjir niðurgreiðslur á raforkuverði í Noregi, en það rímar illa við Orkupakka 3, og ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) gæti fljótlega veifað refsivendi sínum um samningsbrot í kjölfar slíks inngrips á markaði.
Meirihluti norsku þjóðarinnar var andvígur innleiðingu Orkupakka 3 í norskan rétt 2018, en Stórþingið samþykkti hana samt undanbragðalaust vegna fyrirskipunar frá stjórn Verkamannaflokksins (þá í stjórnarandstöðu) til þingflokksins um að kjósa sem einn maður með innleiðingunni, þótt grasrót flokksins (flokksdeildir í flestum fylkjum) væri því andsnúin.
Samtökin "Nei til EU" höfðuðu síðan mál gegn ríkinu fyrir þá ákvörðun Stórþingsins að beita ekki ákvæði stjórnarskrárinnar um aukinn meirihluta við atkvæðagreiðslu um slíkt valdaframsal, og er málið enn fyrir dómstólunum. Ef Orkupakki 3 kæmi aftur til atkvæðagreiðslu í þinginu og þá með kröfu um 3/4 atkvæða til að teljast samþykktur, yrði hann felldur.
Eftir þrýsting frá Noregi samþykkti Alþingi Orkupakka 3 með undanbrögðum, sem var "skítamix", af því að það stenzt ekki Evrópurétt að innleiða samþykktir Sameiginlegu EES-nefndarinnar með skilyrðum. Evrópuréttur er rétthærri landsrétti samkvæmt EES-samninginum, eins og Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur, fjallaði um í fyrirlestri í Valhöll 28.10.2021. Það brýtur í bága við Stjórnarskrá Íslands, og deilur ríkja innan ESB við Framkvæmdastjórnina um þennan forgangsrétt ESB-réttar ber nú hátt í fréttum. Hefur Framkvæmdastjórnin lagt sektir á pólska ríkið fyrir dóm Hæstaréttar Póllands, sem kveður á um, að stjórnarskrá Póllands sé æðsta löggjöf, sem stjórnvöldum og borgurum í Póllandi ber að fara eftir. Nema sektirnar 1,0 MEUR/dag. Ursula von der Leyen hefur ekki tekið svona hart á Merkelstjórninni í Berlín, þótt Rauðhempurnar í Karlsruhe hafi úrskurðað stjórnarskrá Sambandslýðveldisins æðri réttarheimild en úrskurði ESB-dómstólsins og sáttmála ESB.
Nú er ný ríkisstjórn tekin við í Noregi. Að henni standa Verkamannaflokkur og Miðflokkur. Hún er þess vegna minnihlutastjórn, því að SV, systurflokkur VG hérlendis, hrökk fljótlega úr skapti stjórnarmyndunarviðræðna.
Hvaða stefnu hefur nýja norska ríkisstjórnin um Orkupakka 4 ? Stjórnarsáttmálinn þegir um það. Það bitastæðasta í nýja stjórnarsáttmálanum um EES er þetta:
"Regjeringen skal jobbe mer aktivt for å fremme norske interesser innenfor rammene av avtalen, og handlingsrommet i EÖS-avtalen skal tas i bruk med særlig vekt på å sikre nasjonal kontroll på områder som norsk arbeidsliv, energi og jernbane."
Snörun gæti litið þannig út:
"Ríkisstjórnin ætlar að vinna einbeittar að því að halda á lofti norskum hagsmunum innan ramma samningsins, og virkja skal athafnarými EES-samningsins með sérstakri áherzlu á að tryggja stjórn þjóðarinnar á sviðum s.s. norku atvinnulífi, orku og járnbrautum."
Hin pólitíska staða er þannig, að hygði ríkisstjórnin á innleiðingu Orkupakka 4, þá yrði uppreisn í Miðflokkinum, sem mundi leiða til stjórnarslita eða höfnunar Stórþingsins á þessari ESB-orkulöggjöf áður en málið færi til Sameiginlegu EES-nefndarinnar.
Verkamannaflokkurinn vill ekki fá Orkupakkann til formlegrar afgreiðslu í EFTA, því að þá yrði að beita neitunarvaldi þar af Noregs hálfu áður en hann kemst til Sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þá stöðu vill Verkamannaflokkurinn ekki fá upp á sinni vakt vegna sambúðarinnar við ESB. Verkamannaflokkurinn er enn hallur undir aðild Noregs að ESB, en vaxandi væringar eru innan flokksins vegna þessa.
Hvað gera bændur þá ? Jú, ESB mun fá þau skilaboð, að EFTA vilji fresta innleiðingu Orkupakka 4 út þetta kjörtímabil, og ef hvorki Íslendingar né Liechtensteinar hreyfa þessu máli, mun það liggja í láginni a.m.k. til 2025. Það er harla ólíklegt, að núverandi stjórnarflokkar á Íslandi vilji gerast málsvarar innleiðingar Orkupakka 4 í andstöðu við norsk stjórnvöld, enda yrði slíkt frumhlaup andvana fætt. Norðmenn ráða lögum og lofum í EFTA-hópinum í EES. Þannig gerast nú kaupin á eyrinni á þeim bænum. Íslendingar eru þar í farþegasætinu og valdhafar Noregs í bílstjórasætinu. Frá fullveldissjónarmiði er staða Íslands gagnvart ESB að sumu leyti enn verri en Noregs, enda eru engin dæmi þess, að íslenzk stjórnvöld hafi stöðvað nokkurt mál frá ESB, sem komið hefur til umfjöllunar EFTA. Orkupakki 4 er ekki fyrsta málið, sem Norðmenn stöðva þar.
Það er vaxandi óánægja með EES-samninginn í Noregi. Í stjórnarsáttmálanum er veitt fyrirheit um að leggja mat á valkosti, sem Noregi kunna að standa til boða, aðra en EES. Þar eru menn sennilega að hugsa um fríverzlunarsamninga. Blasa þar aðallega 2 kostir við, þ.e. að Noregur semji á eigin spýtur við ESB um tvíhliða fríverzlun eða að EFTA semji við ESB um fríverzlun við ESB fyrir öll 4 lönd EFTA. Það gæti orðið Íslendingum farsælast, og mundu þá EFTA/EES-þjóðirnar 3 njóta góðs af öflugri og reyndri utanríkisþjónustu Svisslands.
Það er æskilegt, að hérlendis fari fram svipuð úttekt á framtíðar fyrirkomulagi samskipta við ESB á lögfræðilegum, viðskiptalegum og menningarlegum grundvelli. Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur, hélt merkt erindi í Valhöll 28. október 2021, um stöðu íslenzks réttarkerfis gagnvart ESB-réttinum, sem fékk forgangsgildi gagnvart landsrétti með gildistöku EES-samningsins á Íslandi 1. janúar 1994. Á fundinum í Valhöll var áberandi sú skoðun, að sú staða væri óviðunandi til frambúðar, að íslenzka stjórnarskráin yrði að víkja fyrir ESB-rétti, þar sem þessi 2 réttarkerfi greindi á við mat á úrlausnarefnum, og að ekki kæmi til greina að aðlaga stjórnarskrána ESB-rétti.
Sams konar viðhorf eru uppi í Noregi, og alkunn er réttarfarsdeila Pólverja við framkvæmdastjórn ESB, sem lagt hefur dagsektir á Pólverja, eins og áður segirt, á meðan þeir verða ekki við kröfum ESB um að taka af öll tvímæli um, að ESB-réttur hafi hærri réttarstöðu en stjórnarskrá Póllands. Framkvæmdastjórnin telur framtíð ESB hvíla á þessu atriði og líður engin frávik.
Þýzki stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe (rauðhempurnar) hefur sett ofan í við ESB-dómstólinn í Lúxemborg fyrir að fara út fyrir réttarheimildir sínar og kveða upp úrskurði, t.d. um heimildir seðlabanka evrunnar til skuldabréfakaupa, sem skortir lagaheimildir. Þar sem ESB sé ekki sambandsríki, eins og þýzku löndin eru, heldur aðeins ríkjasamband, þá hafi stjórnarskrá Þýzkalands hærri réttarstöðu en t.d. Lissabonsáttmálinn.
Þessi lagalegi ásteytingarsteinn getur orðið ESB og EES erfiður ljár í þúfu. Lénsveldishugarfar meginlandsins um, að lögin komi að ofan og yfirstéttin setji lýðnum þessi lög, gengur þvert á engilsaxneska og norræna hefð um, að lögin komi frá fólkinu og séu m.a. sett til varnar réttindum þess gagnvart ríkisvaldi og yfirstétt. Þessi mikli hugarfarsmunur átti þátt í, að meirihluti kjósenda á Bretlandi var búinn að fá sig fullsaddan af lagaflóðinu frá Brüssel til stimplunar í Westminster og batt enda á það í þjóðaratkvæðagreiðslu 2016. Hrakspár í kosningabaráttunni og jafnvel í kjölfarið og fram á þennan dag hafa orðið sér til skammar. Í þingkosningunum 2019 rauf svo Íhaldsflokkur Borisar Johnson "rauða múrinn" á milli Norður- og Mið-Englands, en norðan hans hefur Verkamannaflokkurinn ráðið lögum og lofum nánast frá styrjaldarlokum (1945). Kjörorð Borisar, "Levelling up", þ.e. að bæta lífskjör á Norður-Englandi til jafns við Suður-England sló í gegn, og stjórn hans vinnur hörðum höndum að þessu.
19.10.2021 | 11:14
Tækifærin bíða, en verða þau gripin ?
Nýlega var haldin í Reykjavík (Hörpu) fjölmenn, fjölþjóðleg ráðstefna um heimskautasvæðin. Þessi ráðstefna er gott dæmi um þá tilhneigingu stjórnmálamanna að nota hlýnun jarðar og hafanna sem tilefni til að slá um sig, tala fjálglega um alvarlegar afleiðingar útblástursins, en valda um leið óþörfum útblæstri. Stjórnmálamenn slá sér á brjóst og gera mikið úr vandanum, en það skortir mikið á, að gjörðir fylgi orðum, sbr aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Í tilviki VG á Íslandi keyrir um þverbak, því að flokkurinn leggst þversum gegn því, að það sé gert á Íslandi, sem allir tala þó um, að jarðarbúar þurfi helzt á að halda til að draga úr gróðurhúsaáhrifum, þ.e. að virkja endurnýjanlegar og nokkurn veginn kolefnisfríar orkulindir, til að unnt sé að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi án þess að fórna hagvexti, hag almennings og velferðarkerfinu, eins og við þekkjum það.
Vaxandi gagnrýni gætir í garð IPCC, sem gefið hefur út sína 6. skýrslu um hlýnun andrúmsloftsins og tengsl hennar við vaxandi koltvíildisstyrk andrúmsloftsins. Útkoman úr reiknilíkönum IPCC passar alls ekki við mælingar gervihnatta á hitastigi andrúmslofts í mörgum þversniðum um alla jörð um a.m.k. 40 ára skeið. IPCC ýkir hitastigulinn verulega, eins og fjallað hefur verið um á þessu vefsetri. Slikar skekkjur reiknilíkana geta orðið afdrifaríkar fyrir þá, sem á þeim taka mark. Fyrir heiminn allan eru gríðarverðmæti undir. Vitlaus stefnumörkun getur leitt til fjárfestinga, sem sliga efnahag viðkomandi þjóða.
Nú hefur prófessor í hagrannsóknum og tölfræði við HÍ gagnrýnt ófræðilega talnameðferð IPCC, sem leitt hafi til rangra ályktana um hitastigulinn og upphrópana um mun örari hlýnun en talnagögnin gefi tilefni til, sbr Morgunblaðsgrein hans 14. október 2021, sem gera þarf betri skil.
Allt tal um "hamfarahlýnun" er illa ígrundað áróðursbragð þeirra, sem eru með óhreint mjöl í pokahorninu. Þess vegna er engin ástæða til örvæntingar, en full ástæða til að hefja nú þegar markvissa sókn hérlendis að aukinni "grænni" raforkuvinnslu um 12 TWh/ár, m.v. núverandi orkuvinnslugetu um 20 TWh/ár, árið 2040, árið, sem stjórnvöld hafa að markmiði, að Ísland verði orðið kolefnishlutlaust.
Í forystugrein Morgunblaðsins, 13. september 2021,
"Tækifærin framundan",
sagði m.a. eftirfarandi:
"En þó að horfur séu góðar, er að mörgu að hyggja og viðfangsefnin fjarri því einföld. Umsvif ríkisins eru meðal þess mikilvægasta, sem þarf að glíma við á næsta kjörtímabili, ef ekki á illa að fara [með] efnahag þjóðarinnar og þá þjónustu, sem landsmenn vilja búa við.
Verkalýðsfélög opinberra starfsmanna auglýsa nú af miklum móð mikilvægi þeirra starfa, sem opinberir starfsmenn vinna, þó að enginn hafi lýst efasemdum um þau störf, sem í þeim auglýsingum eru nefnd [kostnaður við þessa auglýsingaherferð hefur ekki verið upplýstur enn, en kostnaður við auglýsingaherferð ASÍ, þar sem "Nóg er til", mun hafa numið MISK 40. Þessi meðferð fjár ber vott um spillt hugarfar - innsk. BJo].
En það að störfin þarf að vinna, felur ekki í sér, að þeir, sem inna þau af hendi, verði að vera opinberir starfsmenn. Þvert á móti eru líkur á, að mörg þessara starfa væru betur komin hjá einkareknum fyrirtækjum og breytir þá engu, þó að ríkið mundi í flestum tilvikum áfram tryggja, að þjónustan væri í boði."
Alvarlegasta dæmið um ógöngur, sem ríkisrekstur getur ratað í, er heilbrigðiskerfið. Hvert neyðarópið öðru átakanlegra berst nú frá úrvinda starfsfólki Landsspítalans. Hvernig halda menn, að viðbrögð yfirvalda og annarra í þjóðfélaginu væru, ef Landsspítalinn væri einkarekinn og núverandi staða kæmi þar upp ? Það væri allt á hvolfi, en reyndar er afar ósennilegt, að spítalinn hefði ratað í núverandi ógöngur, ef hann væri einkarekinn.
S.k. fráflæðisvandi hefur lengi verið vandamál þar, en nú hefur verið upplýst, að einkaaðili hafi boðizt til að létta á þessum fráflæðisvanda, en hann er búinn að bíða eftir svari frá heilbrigðisráðuneytinu síðan í ágúst 2021.
Það má fullyrða, að núverandi kreppa Landsspítalans stafar af einstrengingshætti í heilbrigðisráðuneytinu, sem virðist hafa horn í síðu einkaframtaksins á heilbrigðissviði og virðist leggja allt í sölurnar til að lágmarka viðskiptin við einkafyrirtæki innanlands. Þetta er forkastanlegt viðhorf í ljósi stöðunnar. Í heilbrigðisgeiranaum liggur fjöldi ónýttra tækifæra með því að virkja einkaframtakið til starfa á grundvelli samkeppni um verð og gæði. Það dugir ekki að stjórna heilbrigðisgeiranum í anda sósíalistískrar hugmyndafræði, heldur verður að létta á Landsspítalanum með samstarfi við einkageirann, þar sem þess er nokkur kostur.
"Kórónukreppan hefur kostað ríkissjóð háar fjárhæðir og skuldsetningu, sem allgóð samstaða var um, að hann tæki á sig, og virðist það hafa heppnazt vel. En skuldasöfnun verður að snúa við á næsta kjörtímabili, og er það ein ástæða þess, hve brýnt er að endurskoða starfsemi ríkisins, straumlínulaga þann rekstur, sem ríkið þarf að halda áfram hjá sér, færa rekstur annarrar starfsemi til einkaaðila og hætta óþarfri starfsemi."
Allt er þetta satt og rétt, en það er auðveldara að ræða en í að komast. Það væri þó stór ávinningur, ef svipaður texti mundi rata inn í næsta stjórnarsáttmála, því að þá yrði það viðfangsefni hæfra stjórnmálamanna að finna á þessu lausnirnar, sem duga. Starfið er e.t.v. hafið með s.k. stafrænu Íslandi, en takist það verkefni vel, getur það bætt þjónustuna og sparað ríkissjóði kostnað.
Það eru gríðarleg tækifæri í sjávarútveginum við fullvinnslu og gjörnýtingu aflans. Þá virðast landsmenn vera að fá umbun nú fyrir að fylgja ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og hlífa loðnustofninum, þegar hann var í lágmarki, því að nú mun hann koma sterkur inn. Morgunblaðið birti um það frétt 2. október 2021 undir fyrirsögninni:
"Risavertíð fram undan í vetur".
Hún hófst þannig:
"Ráðgjöf um loðnukvóta upp á 904 kt á vertíðinni í vetur, þann stærsta síðan í byrjun aldarinnar, voru tíðindin, sem bárust frá Hafrannsóknarstofnun í gærmorgun. Í hlut Íslands komu rúm 662 kt eða hátt í 10 sinnum meira en síðasta vetur, þegar kvóti Íslendinga var um 70 kt. Einnig kom fram á fundinum, að árgangurinn, sem bera mun uppi veiðina 2022-2023, væri sterkur."
Ef vel gengur á væntanlegri loðnuvertíð, munu gjaldeyristekjur hennar nema um mrdISK 60, sem hugsanlega eykur verga landsframleiðslu um 1 %. Hér er því búhnykkur á ferðinni, sem auðvelda mun landsmönnum lífsbaráttuna og gera rekstur ríkissjóðs og sveitarsjóða, þar sem loðnan skapar atvinnu, auðveldari. Ábyrgir forráðamenn þessara sjóða munu flýta greiðslum af lánum, sem hvíla á skuldsettum sjóðum þeirra.
Þessi tíðindi eru jákvæð fyrir lífríki lögsögunnar við Ísland, því að óttazt var, að hlýnun sjávar rýrði lífríkið af nytjastofnum, en loðnan verður jafnframt æti fyrir t.d. þorskinn, sem þá þyngist hraðar en ella og þarf síður að leita út fyrir lögsöguna í leit að æti.
Útflutningsverðmæti sjávarútvegsins munu verða yfir mrdISK 300 árið 2022, útflutningsverðmæti málm- og kísiliðnaðarins gætu orðið mrdISK 500. Vafalítið verður metár hjá meginvaxtarbroddi landsins um þessar mundir, fiskeldinu, þar sem útflutningsverðmætið gæti numið mrdISK 45.
Ef fjöldi erlendra ferðamanna nær 1 M 2022 (fjölgun um 2/3 frá 2021), gætu gjaldeyristekjurnar af þeim numið mrdISK 200. Þarna eru komnar gjaldeyristekjur yfir mrdISK 1000, og er enn ýmislegt ótalið, s.s. hugverkaiðnaðurinn (hugbúnaðarsmíði). Það eru þess vegna góðar horfur, en það þýðir ekki, að nóg sé til að auka enn meir hlutdeild launakostnaðar hjá fyrirtækjum landsins en varð með lífskjarasamningunum, því að þetta hlutfall er í hæstu hæðum á alþjóðavísu, og samkeppnishæfni landsins er í 21. sæti, á meðan hin Norðurlöndin tróna í efstu sætunum. Nú þarf að sýna ráðdeild, gætni og hófsemi, veita fyrirtækjunum ráðrúm til að skapa svigrúm til að bæta kjörin með enn meiri framleiðniaukningu. Að öðrum kosti sögum við í sundur greinina bolmegin, sem við sitjum á.
Nú eru enn uppi raddir um gríðarlegan ávinning, sem hafa mætti af útflutningi rafmagns um aflsæstreng til útlanda, sbr leiðari Vísbendingar, 37. tbl. 2021, og ummæli fyrrverandi forseta lýðveldisins. Þessi málflutningur er þó algerlega úr lausu lofti gripinn, því að það er þjóðhagslega hagkvæmara að nýta orkuna til verðmæta- og atvinnusköpunar innanlands en að flytja hana utan, eins og hvern annan námugröft. Þetta virðast núverandi stjórnarflokkar vera einhuga um, en hjáróma raddir um gullgröft og spákaupmennsku verða lengi við lýði.
Hvaðan á að taka orku fyrir aflsæstreng ? Enginn leggur sæstreng svo langa leið upp á minni flutning en um 8 TWh/ár. Verði sú orka virkjuð til útflutnings um sæstreng, fer heldur betur að sneiðast um hagkvæma orkukosti til orkuskiptanna. Þarna er á ferðinni fótalaus málflutningur spákaupmanna, sem ekki hika við að rústa athafnalífi landsins og hag heimilanna með háu orkuverði innanlands, sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur tengingar við háverðsraforkukerfi erlendis.
Ógæfuleg orkustefna Evrópusambandsins og ýmissa aðildarlanda þess hefur nú leitt það í ógöngur í orkumálum. Áherzla þess á meingallaða orkugjafa vinds og sólar, sem eru mjög óáreiðanlegir, eins og alkunna er, hefur gert þessar þjóðir mjög háðar bruna jarðgass til hitunar og raforkuvinnslu. Þegar á eitt leggjast mikil gasþörf og stopulir aðdrættir, er afleiðingin gasforði í lágmarki og mikil hækkun orkuverðs.
Bretar verða fyrir barðinu á þessu sama. Þeir tímar eru nú liðnir, þegar Bretar voru sjálfum sér nógir með eldsneytisgas. Þá innleiddu þeir húshitun með gasi og reistu mörg gasknúin raforkuver. Þeir hafa rifið megnið af gasgeymum sínum, og forðageymslur rúma nú aðeins 3 % af ársnotkun, sem er 1/30 af því, sem talið er viðunandi fyrir þjóð, sem alfarið er háð innflutningi á gasi.
Bretar hafa líka reitt sig mikið á vindmyllur til raforkuvinnslu og fyllt í skarðið með rafmagni frá gasorkuverum, þegar afköst mylla falla. Þessi orkustefna kemur þeim nú í koll, þegar þeir endurræsa kolaorkuver í neyð sinni, en á Bretlandi eru reyndar líka í byggingu og í undirbúningi kjarnorkuver.
ViðskiptaMogginn birti 13. október 2021 gröf af framvirku verði á raforku frá 13. apríl 2021 til 11. október 2021 í 5 Evrópulöndum og á Nord Pool orkumarkaðinum. Meðaltal upphafsverðsins var 59,7 USD/MWh, og meðaltal lokaverðsins var 123,3 USD/MWh. Hækkunin nemur 2,1-földun. Raforkuverðið stefnir í að verða ósjálfbært, þ.e.a.s. það mun valda efnahagskreppu og verðbólgu, s.k. "stagflation", því að Evrópa verður ósamkeppnisfær á mörgum sviðum, þar sem Evrópumenn stunda framleiðslu nú.
Ef ráðamönnum hér væri einhver alvara með öllu óráðshjalinu um "hamfarahlýnun", þá mundu þeir stuðla að því að aðstoða Evrópu með því að fara í samningaviðræður við evrópsk fyrirtæki um fjárfestingar hér gegn langtímasamningum um kaup á "grænni" orku. Það mundi muna langmest um slíkt framlag Íslendinga til loftslagsviðfangsefnisins.
Eins og fram kemur í grein prófessors Jónasar Elíassonar í Morgunblaðinu, 18.10.2021, er aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið gaf út, hvorki fugl né fiskur. Þar á bæ eru menn algerlega úti á þekju; kalla marklaust plagg aðgerðaáætlun, gefa það út með lúðrablæstri og söng og vona síðan það bezta. Hér mætti kannski segja: "kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða".
Téð orkuverðsfrétt Morgunblaðsins hófst þannig:
"Undanfarna mánuði hefur raforkuverð hækkað jafnt og þétt í Evrópu, og hafa fyrirtæki neyðzt til að draga úr starfsemi vegna þessa.
M.a. ákvað hollenzka álfyrirtækið Aldel að loka álveri sínu í hafnarborginni Delfzijl, líkt og sagt var frá í Morgunblaðinu í gær.
Annað dæmi frá Hollandi er, að zinkframleiðandinn Nyrstar hefur dregið úr framleiðslu af sömu ástæðu, en fyrirtækið framleiðir einnig kopar og aðra málma."
Orsakir framboðsbrests á vörum í heiminum eru ekki BREXIT, eins og flautaþyrlar hafa slengt fram, heldur sóttvarnarráðstafanir og orkukreppa. Í fréttinni var síðan fjallað um raforkuverð, og Ísland sett í það samhengi:
"Til að setja þessar tölur [frá Evrópu] í samhengi kom fram í síðasta ársreikningi Landsvirkjunar, að meðalverð til stórnotenda væri 21,1 USD/MWh, sem svarar 18,2 EUR/MWh. Af ýmsum ástæðum er það ekki með öllu samanburðarhæft við það verð, sem iðnaður í Evrópu greiðir, þá m.a. vegna ríkisstyrkja og hagstæðari langtímasamninga."
Að bera saman framvirkt verð nú í orkukreppu og verð, þegar C-19 lamaði markaðina, er gagnslítið. Fremur ber að líta til núverandi verða á Íslandi. Hjá ISAL í Straumsvík er það komið á 5. tuginn í USD/MWh, og það kveinkar sér enginn undan því, þegar afurðaverðið er yfir 4000 USD/t (virðisaukin vara gefur e.t.v. 1500 USD/t yfir hráálsverðinu á LME). Þetta sýnir, hversu sjálfsagt er að tengja raforkuverðið við skráð markaðsverð framleiðslunnar, þótt núverandi forstjóri Landsvirkjunar hafi af mikilli vanþekkingu talað gegn því alla tíð.
"Sem áður segir, hefur hækkandi verð á jarðgasi komið illa niður á málmbræðslum í Evrópu, en samkvæmt samantekt Bloomberg starfa um 3,2 M manna í orkufrekum iðnaði í Evrópu. Getur það því haft keðjuverkandi áhrif, ef svo fjölmennum vinnustöðum er lokað.
Varðandi hækkun á gasverði er aukin eftirspurn frá Kína, Japan og Suður-Kóreu tengd við hlýtt og þurrt fyrrasumar, og þurrkar hafa sett strik í reikning vatnsafls í Brasilíu, og það aftur aukið spurn eftir jarðgasi. Þá var síðasti vetur kaldur í Evrópu og svo gengið á gasbirgðirnar, að lítið má út af bregða.
Við þetta bætist minni gasvinnsla í t.d. Hollandi og Bretlandi, sem aftur hefur í för með sér, að álfan er háðari innflutningi á gasi."
Kína og Suður-Kórea hafa reist talsvert af kjarnorkuverum á undanförnum árum, og ríkisstjórn Japans hefur lagt það til við þingið, að lokuð kjarnorkuver landsins, sem teljast uppfylla öryggisskilmála, verði endurræst eftir áratug frá Fukushima slysinu. Hlutfall raforkuvinnslu eftir orkugjöfum í Brasilíu og í heiminum (í sviga) eftir orkugjöfum er eftirfarandi:
- Vatnsorka 71,1 % (16,8 %)
- Jarðefnaeldsneyti 21,6 % (65,8 %)
- Vindur 4,5 % ( 4.7 %)
- Kjarnorka 2,8 % (10,4 %)
- Sól 0,0 % ( 1,9 %)
Á Íslandi er hlutdeild vatnsafls u.þ.b. 73 % og jarðgufu 27 %. Víða er tjaldað til einnar nætur í orkumálunum, eins og nú er að koma á daginn. Vindorkan og sólarorkan skipta ótrúlega litlu máli m.v. alla umræðuna og fjárfestingarnar, sem þessir orkugjafar fá. Vegna hins slitrótta rekstrar síns eru þessir orkugjafar hluti af vandamálinu, en ekki þáttur í lausninni. Hún hlýtur að vera fólgin í kjarnorku, vatnsafli og jarðgufu. Á Íslandi eru nánast aldrei þurrkaár samtímis á öllu landinu, og þess vegna er óhætt að virkja meira af vatnsafli samhliða öflugum flutningslínum á milli landshluta. Jarðgufan er ekki föst í hendi til raforkuvinnslu, og fara þarf varlega við að finna sjálfbært jafnvægi á milli innstreymis gufu í virkjað forðabúr og brottnáms gufu til virkjunar.
15.10.2021 | 11:34
Vatnaskil viðskiptakjara og samkeppnishæfni
Orkukreppa hefur skyndilega riðið yfir Evrópu og Asíu, þ.e. lönd, sem háð eru innflutningi á jarðgasi. Bandaríkin eru t.d. ekki í þeim hópi, því að með nýrri vinnsluaðferð, "fracking", leirsteinsbroti, hafa Bandaríkjamenn orðið nettó útflytjendur á gasi. Evrópu, vestan Rússlands, hrjáir aftur á móti orkuhungur. Í sumar voru stillur og hitar, svo að vindmyllur framleiddu lítið og mikil orka fór í loftkælingu húsnæðis. Við þetta dró niður í birgðum Evrópusambandsríkjanna, og þar ríkir nú örvænting vegna lágrar birgðastöðu m.v. árstíma og gríðarlegra orkuverðshækkana, ekki sízt á rafmagni.
Þetta ástand kyndir undir verðbólgu í ESB og hækkar allan framleiðslukostnað, m.a. hjá verksmiðjum, sem Íslendingar keppa við með sínum útflutningsvörum. Íslendingar búa við þá gæfu, enn a.m.k., að rafmagnið er ekki á uppboðsmarkaði, heldur er verðið stöðugt. Allt annað er uppi á teninginum t.d. í Noregi, en Norðmenn keppa við okkur víða, en þar var raforkuverð frá virkjun 1,2 NOK/kWh á heildsölumarkaði, sem á gengi 11.10.2021 nemur 18 ISK/kWh, sem er meira en þrefalt verð til íslenzkra almenningsveitna. Þetta er svipað verð og í smásölu á Íslandi með flutnings- og dreifingarkostnaði. Ætla má, að verð til almennings í Noregi sé a.m.k. samsvarandi 30 ISK/kWh. Í Noregi er flutningsgjaldið og dreifingargjaldið lægra en hér, en Norðmenn borga aftur á móti raforkuskatt pr. kWh.
Kína hefur ekki farið varhluta af orkukreppunni, og þar er orðinn alvarlegur orkuskortur með rafmagnsskömmtun. Gömlum kolaorkuverum hefur þar verið lokað vegna mengunar í nærumhverfinu, þótt enn komi um 80 % kínverskrar raforku frá kolaorkuverum. Þetta hefur leitt til samdráttar í útflutningi Kínverja, m.a. á málmum, og er þetta meginástæða ört hækkandi álverðs. Verð hrááls er komið upp í 3200 USD/t og hefur hækkað í 2,1-falt verð frá C-19 lágmarkinu og 2,7-földun er spáð árið 2022 frá þessu lágmarki, því að eftirspurnin er einnig hratt vaxandi.
Fyrir íslenzkan efnahag hefur þetta mjög jákvæð áhrif. Fyrirtæki á borð við ISAL í Straumsvík, sem selur einvörðungu mjög virðisaukna vöru (sívalninga til þrystimótunar alls konar þversniða (prófíla)), fær fyrir vikið miklu hærra verð og mun sennilega borga upp allt tap áranna 2018-2020 (mrdISK 28,4) með hagnaði ársins 2021, ef Landsvirkjun grípur ekki til skerðingar ótryggðrar orku vegna metlágrar stöðu í Þórisvatni. Þar á bæ virðast menn sitja með hendur í skauti, þótt brýna nauðsyn beri til athafna, þ.e. nýrrar orkuöflunar fyrir Suð-Vesturland.
Alls töpuðu álverin á Íslandi mrdISK 50 undanfarin 3 ár. Nú er öldin önnur, og þau hafa hafið töluverðar fjárfestingar. ISAL mun fjárfesta fyrir mrdISK 1,3 í ár, og Norðurál hefur hafið umbreytingu steypuskála síns fyrir sívalninga fyrir um mrdISK 15. Þá munu fyrirtækin nú hefja aftur greiðslu tekjuskatts til ríkisins af sínum hagnaði. Þá má ekki gleyma kolefnisgjaldi álveranna inn í ETS-viðskiptakerfi ESB, sem gæti farið yfir mrdISK 2 í ár vegna hækkandi verðs á koltvíildiskvóta og vaxandi framleiðslu. Gjaldið rennur á endanum til íslenzka ríkisins. Þannig fjármagnar stóriðjan að nokkru aðgerðaáætlun ríkisins til að ná losunarmarkmiðum Íslands. Allt er þetta ígildi gjaldeyristekna, svo að þróun álmarkaðanna núna eflir hagvöxtinn á Íslandi.
Allur þessi viðgangur og samkeppnishæfni Íslands almennt veltur á aðgangi fyrirtækjanna að "grænni" orku á samkeppnishæfu verði að teknu tilliti til fjarlægðar Íslands frá helztu mörkuðum hráefna og afurða. Nú stendur þar hnífurinn í kúnni. Öll forystugrein Morgunblaðsins 11. október 2021 var helguð þessu viðfangsefni undir heitinu:
"Hér er næg orka".
Hún hófst þannig:
"Ekki þarf að fylgjast mjög með erlendum fréttum til að átta sig á, að orkumál verða vaxandi viðfangsefni á komandi misserum og árum. Jafnvel lengur, þó að viðurkenna verði, að spádómar verða þeim mun vafasamari sem rýnt er dýpra inn í þoku framtíðarinnar. Sumum þykir nóg um að þurfa að spá um fortíðina, eins og þekkt er."
Orkumál heimsins eru á breytingaskeiði, þar sem jarðefnaeldsneyti er á leið út, og kolefnisfríir orkugjafar leysa þá af hólmi. Til marks um þetta eru dvínandi fjárfestingar til leitar að nýjum orkulindum, og á stefnuskrá fleiri stjórnmálaflokka kemur krafan um, að ríkisstjórnir hætti að úthluta leitarleyfum. Það hillir þess vegna undir dvínandi framboð jarðefnaeldsneytis, eins og mjög hátt verð um þessar mundir gefur til kynna. Heimurinn getur þess vegna búizt við, að á meðan engin trúverðug orkulind er í sjónmáli til að standa undir stöðugri raforkuvinnslu á heimsvísu, t.d. kjarnorkuver með ásættanlegt rekstraröryggi og stuttan (geislavirkni undir mörkum innan hálfrar aldar) helmingunartíma geislavirks úrgangs, þá verði bæði olíuverð og gasverð og raforkuverð hátt.
Ef allt væri með felldu, væri þessi staða mála hagfelld Íslendingum, þar sem við búum við endurnýjanlegar orkulindir frá náttúrunnar hendi til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi, og þess vegna getur raforkuverð okkar verið tiltölulega stöðugt. Hér er hins vegar draugagangur á ferðinni, þar sem molbúar ganga aftur og beita öllum hugsanlegum ráðum til að koma í veg fyrir nýjar virkjanir. Þennan draugagang verður einfaldlega að kveða niður, beita hér beztu tækni við hönnun og framkvæmd á virkjunarstað og hefja framkvæmdir af kappi. Ekki veitir af. Ella verðum við að viðundrum alls heimsins.
Nú verður vitnað í síðari hluta forystugreinarinnar:
"Hér á landi eru aðstæður aðrar [en í Kína og Evrópu], nánast einstakar. Ísland er ekki ofurselt evrópska orkumarkaðnum [eins og Noregur - innsk. BJo], þó að stigið hafi verið óþarft skref í átt að honum með orkupakkanum alræmda. En Ísland er ekki með beina tengingu við evrópska markaðinn og lýtur því eigin lögmálum að verulegu leyti, sem er mjög til góðs."
Heildsöluverð raforku í Noregi hefur þrefaldazt á skömmum tíma, og er nú heildsöluverð þar svipað og smásöluverð hér til heimila. Þetta stafar af útflutningi raforku um sæstrengi til Danmerkur, Þýzkalands, Hollands og nú síðast til Englands. Norsk heimili og fyrirtæki keppa nú við neytendur í orkukreppu, sem sér ekki fyrir endann á í vetur, m.a. af því að Nord Stream 2 gaslögnin frá Rússlandi á botni Eystrasalts og til Þýzkalands hefur enn ekki verið tekin í notkun af pólitískum ástæðum, þótt hún sé tilbúin.
Það er ekkert vit í því fyrir hagsmuni almennings á Íslandi að leyfa tengingu aflsæstrengs frá útlöndum til Íslands. Íslenzka raforkukerfið á að styrkja samkeppnishæfni fyrirtækja á Íslandi og Íslands í samkeppni um fólkið, en ekki að verða gróðrarstía skammtíma gróðahugmynda, enda verður sá gróði augljóslega á kostnað rafmagnsnotenda hér á landi.
"Ísland er líka í þeirri stöðu, að hér á landi er næg orka, og það meira að segja sú orka, sem eftirsóttust er nú um stundir, s.k. græn orka. Hér er framleitt úr fallvatni og jarðvarma, svo [að] Ísland er einstakt á heimsvísu.
Íslendingar búa svo vel vegna hitaveitunnar, sem hefur yljað þeim áratugum saman, að þeir eiga erfitt með að skilja ástandið í Evrópu og áhrif hækkandi verðs á orku á hitastig á heimilum. Hér er sama, hversu napurt verður á vetrum, heimilin eru jafnan hlý og notaleg án þess, að kostnaður verði óhóflegur. Þetta eru lífsgæði, sem gjarna gleymast."
Jafnvel í hinum vatnsorkuríka Noregi, þar sem séð er nánast fyrir allri raforkuþörf landsmanna með raforkuvinnslu í vatnsorkuverum og vindorkuverum, einnig til upphitunar húsnæðis, hækkar raforkuverð stundum svo mikið á vetrum, að gripið er til eldiviðarbrennslu með tilheyrandi reykjarsvækju og sóti yfir þéttbýli. Sorglegar sögur eru frá Norður-Noregi um gamalt fólk, sem ekki gat greitt rafmagnsreikninga og króknaði úr kulda. Þegar raforkuskortur verður hérlendis vegna meiri eftirspurnar en framboðs, tekur stóriðjan fyrst á sig skellinn og aðrir, sem kaupa ótryggða orku, en forgangsorka til almenningsveitna verður ekki skert, nema í bilunum eða náttúruhamförum.
"En þetta eru líka lífsgæði, sem þarf að verja og byggja upp áfram. Ísland á að halda áfram að vera til fyrirmyndar að þessu leyti, og þess vegna verður að nýta þær auðlindir, sem landið hefur upp á að bjóða. Hér er töluverð raforkuframleiðsla á íbúa, en hún gæti verið enn meiri, öllum til hagsbóta. Fjöldi virkjanakosta er enn ónýttur, jafnvel kosta, sem taldir hafa verið í nýtingarflokki rammaáætlunar.
Eins og fyrrverandi orkumálastjóri benti á, hefur sú aðferð, sem rammaáætlunin er, ekki dugað, eins og til stóð. Nýr orkumálastjóri er óljósari í tali um þetta efni, þó að hún viðurkenni, að hægt hafi gengið."
[Undirstr. BJo.]
Það eru öfl í landinu, m.a. í Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, sem eru haldin þeirri meinloku, að nóg sé komið af virkjunum í landinu. Er þá gjarna vísað til orkuöflunar á mann hérlendis, en sá mælikvarði sýnir einmitt mikilsverðasta framlag Íslands til baráttunnar við hlýnun jarðar. Á forsendum orkuskiptanna og á grundvelli beztu þekkingar á sviði slíkrar mannvirkjagerðar, sem vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir eru, eigum við að halda ótrauð áfram á þeirri glæstu braut, sem lýst er í tilvitnaðri forystugrein Morgunblaðsins og endaði þannig:
"Óvíst er, að tekizt hefði að koma upp hitaveitu hér á landi eða hefja virkjun fallvatna í stórum stíl, ef þau vinnubrögð, sem tíðkazt hafa á undanförnum árum, hefðu tíðkazt áður fyrr. Endalaus kæruferli hafa tekið við af framkvæmdagleði, og með sama áframhaldi er hætt við, að Ísland nái ekki að nýta með eðlilegum hætti alla þá hreinu og góðu orku, sem landið hefur upp á að bjóða. Það þýðir ekki aðeins, að landsmenn geta lent í ógöngum með fyrirhuguð orkuskipti, heldur líka, að þeir geta lent verr í þeim verðhækkunum, sem aðrar þjóðir standa frammi fyrir, enda kemur hækkandi olíuverð þeim mun verr við landsmenn sem minna er framleitt og nýtt af innlendri orku."
Þetta er kjarni málsins um núverandi stöðu orkumálanna á Íslandi. Það er spurning, hvort núverandi þunglamalega ferli við val á virkjanakostum hafi skilað nokkrum sköpuðum hlut til góðs fyrir náttúru landsins og komandi kynslóðir landsmanna. Það hefur hins vegar verið gríðarlega kostnaðarsamt skrifræðisbákn og náð að leggja dauða hönd á framkvæmdaviljann. Núverandi umhverfis- og auðlindaráðherra er sá, sem í fyrra starfi sem framkvæmdastjóri Landverndar hefur lengst gengið í innihaldslausu þrasi og málaferlum vegna orkuframkvæmda. Það er brýnt að einfalda fyrirtækjum virkjanaundirbúning með skilvirkri stjórnsýslu, sem einfaldlega leggur mat á það, hvort við valda framkvæmdatilhögun hafi verið gætt hófs m.t.t. náttúrunnar og hvort bezta fáanlega tækni hafi verið lögð til grundvallar. Hér er um verkfræðilegt viðfangsefni að ræða, sem flækjufætur af öllu mögulegu tagi eiga ekki að komast upp með að rugla með.
1.10.2021 | 17:14
Misheppnuð kosningabarátta
Af samanburði skoðanakannana og kosningaúrslita 25. september 2021 má álykta, hvaða árangur kosningabarátta stjórnmálaflokkanna hefur borið. Stjórnarflokkarnir toppuðu allir á kjördag, og sama gerði Flokkur fólksins, en aðrir stjórnarandstöðuflokkar, að Miðflokkinum undanskildum, sem aldrei naut meðbyrs, misstu fylgi alla kosningabaráttuna og voru í lágmarki á kjördag. Þetta er mjög áberandi í tilviki Sósíalistaflokksins, en formaður framkvæmdastjórnar hans, Gunnar Smári Egilsson, virðist vera hin fullkomna kjósendafæla, og voru það ein af nokkrum gleðitíðindum kosninganna. Athyglisvert var, að Viðreisn var í sókn í kosningabaráttunni samkvæmt skoðanakönnunum, en hrapaði síðan á kjördag. Má líklega kenna arfaslakri frammistöðu formanns flokksins í formannaumræðum í sjónvarpssal RÚV kvöldið fyrir kosningar um, en spjótum var þar beint að henni með vísun í frétt Morgunblaðsins á bls. 2 daginn fyrir kjördag. Á RÚV afflutti hún ummæli Seðlabankastjóra um aðalkosningamál Viðreisnar. Verður nú fróðlegt að sjá, hvort hún heldur áfram að japla á tengingu ISK við EUR, sem er stefna, sem hefur verið kokkuð upp við eitthvert eldhúsborðið í því augnamiði "að slá í gegn", en stendur á brauðfótum hagfræðilega, eins og hver önnur hagsýn húsmóðir finnur á sér af hyggjuviti sínu. Ósvífni Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur er yfirgengileg, að hún skuli láta eins og um stórmerkilega hagfræðilega hugmynd sé að ræða, þótt hún sé í raun óframkvæmanleg. Þetta mál sýnir, hversu hættulegt yfirborðsfólk án hyggjuvits eða getu til fræðilegrar greiningar á viðfangsefninu verður, þegar það fer út í stjórnmál og vantar málefni til að vekja athygli.
Það var hárrétt hjá Ásgeiri Jónssyni, Seðlabankastjóra frá Hólum í Hjaltadal, að leiðrétta vitleysuna, sem vall upp úr stjórnmálamanninum, og verður nú vitnað í Morgunblaðsfréttina 24. september 2021, sem var undir hógværri fyrirsögn:
"Erfitt að tengja við evru".
"Seðlabankastjórinn telur ómögulegt fyrir bankann að halda fastgengi við evru, en til að það gangi upp, þyrfti m.a. að beita öllum gjaldeyrisforðanum til að viðhalda því. Auk þess yrði ríkisstjórnin ávallt að taka mið af jafnvægi gengisins í fjárlögum, og samkomulag þyrfti að ríkja við verkalýðsfélög um launahækkanir. Að þessum skilyrðum uppfylltum væri þó enn ekki hægt að treysta á, að fastgengið myndi ganga eftir, þar sem aðrir óvissuþættir væru enn til staðar."(Undirstr. BJo.)
Undirstrikaða hlutann skautaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (ÞKG) framhjá á formannakvöldinu og lét þar með í veðri vaka, að Seðlabankastjóri teldi leiðina færa með góðri hagstjórn. ÞKG er fullkomlega óábyrgur stjórnmálamaður, sem lítið kann til verka. Ábyrgur stjórnmálamaður hefði viðrað hugmyndina við stjórnendur Seðlabankans áður en hann færi á flot með hana. Hver treystir ÞKG fyrir horn úr þessu ?
"Telur Ásgeir, að tenging ISK við EUR gæti m.a. leitt til hærri stýrivaxta, þar sem nauðsynlegt gæti orðið að hækka vexti til að verja gengið. Segir hann ekki ráðlegt að bera saman stöðu Íslendinga nú, og þegar ISK var tengd við reiknieininguna ECU árið 1989. Hafi það fyrirkomulag gengið upp í ljósi fjármagnshafta, sem eru ekki til staðar í dag."
Það er í einu orði sagt stórfurðulegt, að stjórnmálaflokkur skuli leyfa sér að fara á flot með svo illa ígrundaða stefnu í kosningabaráttu sem tenging ISK við EUR er. Það gæti ekki gerzt, nema þar væru aðeins innantómir flautaþyrlar á ferð.
Það voru þó fleiri furðumál á ferðinni hjá Viðreisn og bar þar hæst aðförina að sjávarútveginum með uppdiktuðu markaðskerfi fyrir öflun veiðiheimilda. Sjávarútvegsstefna Viðreisnar á þó ekkert skylt við markaðskerfi, því að eignarrétturinn er virtur að vettugi og útgerðirnar holaðar að innan, sem leiða mundi til gjaldþrots þeirra margra hverra innan tíðar. Það, sem þjóðnýtt er, á svo að leyfa þeim að bjóða í. Spurning, hvort ESA mun ekki telja heimildirnar útboðsskyldar á Innri markaði EES ?
Allt verður að öfugmælum hjá Viðreisn, því að þetta kalla þau að auka rekstrarlegan fyrirsjáanleika útgerðanna. Það þarf ekki að vera doktor í hagfræði til að sjá í hendi sér, að þetta mun auka óvissu í útgerð og fiskvinnslu svo mikið, að fjármagnsflótti verður úr greininni og fjárfestingar verða í lágmarki.
Þetta er skólabókardæmi um það, sem er ekki hlutverk stjórnmálamanna, þ.e. að reyna að troða umdeilanlegri hugmyndafræði sinni upp á atvinnugreinar, sem ganga vel, og klæða gjörninginn í umbúðir "réttlætis". Það er ekki hægt að stunda ábátasaman atvinnurekstur til að fullnægja réttlæti, sem margir aðrir kalla argasta óréttlæti.
Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur, ritaði um þessi ósköp í Morgunblaðið 21. september 2021 undir fyrirsögninni:
"Viðreisn ráðstjórnar":
"Maður, sem hefur hampað frábæru fiskveiðistjórnunarkerfi og verið framarlega í að útskýra yfirburði íslenzks sjávarútvegs, sem sé markaðsdrifinn og skili meiri verðmætum en þekkist nokkurs staðar annars staðar í heiminum. Nú í einni svipan á að þjóðnýta auðlindina með því, að ríkið taki veiðiheimildir og setji á uppboð.
Þetta hefur reyndar verið reynt áður í fiskveiðum með hörmulegum afleiðingum. Eignarréttur á veiðiheimildum er einmitt forsenda þess, að fyrirtæki fjárfesti, auki framleiðni og þannig verðmætasköpun, sem er okkur Íslendingum svo mikilvægt. Uppboð á þessum heimildum, þótt það sé gert í mörgum skrefum, er ómöguleiki, sem verður útskýrð[ur] hér seinna."
Þarna gerir Gunnar Þórðarson umskiptinginn Daða Má Kristófersson, varaformann Viðreisnar, að umræðuefni. Sá pólitíski framagosi hefur litið fram hjá þeirri alkunnu staðreynd, að bezta ráðið til verndar takmörkuðum gæðum (auðlindum) yfirleitt er að koma þeim í einkaeign, enda hefur umgengni útgerðarmanna við fiskistofnana verið til fyrirmyndar, eftir að þeir fengu nýtingarrétt á þessari mikilvægu þjóðareign til ráðstöfunar, þótt með fáeinum, ljótum undantekningum sé.
Verði nýtingarrétturinn á hverfanda hveli fyrir tilverknað misviturra stjórnmálamanna, þá mun fara með umgengnina eins og vant er, þar sem "hið opinbera" er eitt ábyrgt fyrir eignarhaldinu. Umgengnin verður eins og enginn eigi auðlindina. Síðan er auðvitað hin lagalega hlið málsins, sem útilokar þessa leið. Það eru engin lagaleg skilyrði uppfyllt fyrir þjóðnýtingu á nýtingarréttinum, þótt auðlindin sé í eigu þjóðarinnar. Þjóðareign í þessu tilviki heimilar aðeins ríkisvaldinu að fara með nýtingarstjórn auðlindarinnar, og ríkisvaldinu hefur farizt það vel úr hendi með tilstyrk vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar. Lagaheimildir ríkisvaldsins standa á hinn bóginn ekki til þess að svipta útgerðir aflaheimildum, nema þær gerist lögbrjótar. Stjórnarskráin ver atvinnuréttindi og eignarrétt (þjóðin er ekki lögaðili, þótt allt opinbert vald komi frá þjóðinni).
"En hvers vegna virka ekki uppboðin ? Ef við tökum 5-10 % af aflaheimildum árlega og setjum á uppboð, munu útgerðir bjóða í þær. Myndi það tryggja rétt verð á kvótanum ? Fyrir útgerð, sem hefur fjárfest í skipi og búnaði og búið [er] að taka 10 % af heimildum af þeim, þá stendur [hún] frammi fyrir ákveðnu vandamáli. Þeir, sem einhvern tímann hafa komið nálægt rekstri, þekkja hugtök eins og fastur kostnaður og breytilegur. Fyrir flugfélag, sem er að selja miða, lítur dæmið út þannig, að þegar búið er að selja dýra miða og komið er [í kassann] fyrir breytilegum kostnaði, getur borgað sig að bjóða miða á verði, sem aldrei myndi duga til rekstrarins, en skilar þó einhverju upp í fastan kostnað. Sama gildir um útgerð, sem þarf að leigja kvóta af ríkinu. Til að fá hann getur borgað sig að bjóða verð, sem [gerir útgerðinni kleift að veiða] fyrir breytilegum kostnaði og [eitthvað] upp í fastan kostnað [útgerðarinnar]. Útgerðin sem slík myndi hins vegar aldrei bera sig með slíku veiðigjaldi, þannig að það verð endurspeglar á engan hátt, hvaða veiðigjald er raunhæft. Er samt hægt að halda því fram, að leiguverðið endurspegli getu útgerðarinnar til að taka á sig hækkun á veiðigjöldum ?"
Hér hefur Gunnar Þórðarson sýnt fram á, að boðað fiskveiðistjórnunarkerfi pólitískra flautaþyrla í Viðreisn, Samfylkingu, Píratahreyfingunni o.fl. er ófær leið til að láta markaðinn ákveða "rétt veiðigjald". Þess vegna hefur sú aðferð alls staðar mistekizt hrapallega og endað að lokum með fjöldagjaldþrotum útgerðarfélaga, ef aðferðin hefur ekki verið slegin af í tæka tíð. Þetta er aðferð þöngulhausa og/eða skemmdarverkamanna. Við þurfum ekki á slíkum stjórnmálamönnum að halda, og þeir ættu eindregið að halda sig frá afskiptum af atvinnugreinum, enda eru þeir ekki til þess bærir. Aðferðin, sem þessir stjórnmálaflokkar hafa blásið sig út yfir, er ekki einnar krónu virði fyrir ríkissjóð og hag þjóðarinnar, heldur mundi grafa undan undirstöðu atvinnuvegi þjóðarinnar, enda hafnaði þjóðin þeim blöðruselum, sem boðuðu þetta fyrir kosningar 25.09.2021.
"Uppboð ríkisins á veiðiheimildum er ekkert annað en sósíalismi, þar sem horfið er frá markaðsbúskapi til ráðstjórnar. Hvernig halda menn, að brugðizt verði við því, þegar eitt sjávarpláss tapar veiðiheimildum ár eftir ár, þar sem útgerðir þar hafa ekki sama bolmagn og öflugustu útgerðirnar til að bjóða hátt verð ? Verður þá brugðizt við því með sértækum aðgerðum ? Sendir sérfræðingar til að ráða bót á vandanum og leysa hann ? Það er ráðstjórn ! Ástæða þess, að veiðigjald er reiknað sem hlutfall af hagnaði, er einmitt að verja veikari útgerðir gagnvart þeim öflugu. [Aðalhvatakona ESB-aðildar Íslands, mannvitsbrekkan á stóli formanns Viðreisnar, segir aftur á móti ástæðuna vera að verja skussana í útgerð. Hún þekkir hvorki haus né sporð á vandamálum útgerðarfélaga og ætti að skammast sín fyrir jafnrakalausar fullyrðingar-innsk. BJo.]
Íslenzkur sjávarútvegur er vel rekinn og á eðlilegum grunni. Þegar búið er að taka rúmlega 30 % af hagnaði í veiðigjöld, er hann á pari við önnur vel rekin fyrirtæki með rekstrarhagnað, en greiðir sér heldur minni arð af hlutafé."
13.9.2021 | 11:29
Blómlegt í álgeiranum
"Eins dauði er annars brauð" ("Eines Tod einem anderen Brot".) sannast einu sinni sem oftar í álgeiranum. Kínverjar hafa valdið álframleiðendum á Vesturlöndum gríðarlegum búsifjum með offramleiðslu, sem leitt hefur til birgðasöfnunar á álmörkuðum heimsins og verðfalls. Nú hafa þeir neyðzt til að taka nýjan pól í hæðina og draga líklega úr framleiðslu sinni um 5 Mt/ár eða 10 % niður í 46 Mt/ár. Ástæðuna má líklega rekja til yfirþyrmandi mengunar í Kína af völdum kolaorkuvera, en einnig er raforkuskortur í Kína af völdum þurrka, en í Kína eru sem kunnugt er mörg og stór vatnsorkuver.
Á Vesturlöndum og víðar er nú verið að endurræsa stöðvaða kerskála, setja öll tiltæk rafgreiningarker í rekstur og hækka kerstrauminn til að hámarka afköst álverksmiðjanna, enda hefur álverð LME hækkað um rúmlega 60 % á einu ári í september 2021 og er nú í um 2900 USD/t og hækkandi. Verðið er nú nægilega hátt til að skila öllum verksmiðjum á Vesturlöndum hagnaði, líka í Evrópu, þar sem koltvíildisgjaldið er hæst í heiminum, um 65 USD/t CO2. Það þýðir, að íslenzki áliðnaðurinn þarf að greiða um 100 MUSD/ár eða tæplega 13 mrdISK/ár í koltvíildisgjöld. Þetta fer inn í ETS-viðskiptakerfi ESB. Hvað verður um þetta fé ? Við þurfum á því að halda hér innanlands í mótvægisaðgerðir á borð við landgræðslu og skógrækt. Íslenzk álver eða kísilver hafa ekki notið fjárhagslegra mótvægisaðgerða af hálfu ríkisins, eins og önnur evrópsk álver, til að styrkja samkeppnisstöðu þeirra gagnvart álverum í ríkjum, þar sem ekkert slíkt kolefnisgjald er lagt á starfsemina. Þess má geta, að kol eru enn niðurgreidd í sumum ríkjum.
Þann 8. september 2021 birti ViðskiptaMogginn athyglisvert viðtal við nýjan forstjóra Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls á Grundartanga, Jesse Gary. Þessi náungi er hress og lætur vel af Íslendingum í þjónustu sinni og kynnum sínum af landi og þjóð. Hann er greinilega opinn fyrir meiri raforkukaupum af Íslendingum til að framleiða enn meira ál en 330 kt/ár, sem brátt verður framleiðslugeta Norðuráls, en hérlendis hefur enginn neitt fram að færa, sem um munar, á framboðshlið raforku. Á ekki að grípa gæsina, á meðan hún gefst, eða á afturhaldinu að lánast að sitja á öllum tækifærunum til frekari nýtingar náttúruauðlindanna, þótt markaðir vilji greiða hærra verð fyrir græna orku til að framleiða "grænt" ál ?:
"Blómaskeið hafið í áliðnaði og eftirspurnin á uppleið".
""Við upphaf faraldursins var dregið verulega úr iðnframleiðslu í heiminum. Allir fóru mjög varlega. Nú höfum við hins vegar horft fram á V-laga niðursveiflu og loks efnahagsbata. Eftirspurnin er á hraðri uppleið, og verðið hefur hækkað á ný", segir Jesse."
Ál fellur vel að þörfum heimsins á tímum orkuskipta, og þess vegna er líklegt, að nýhafið góðæri á álmörkuðum vari lengi, ekki sízt vegna orkuskorts, sem hrjáir heiminn, þar til stórfelld nýting kjarnorku hefst. Frumálvinnslan er orkukræf, en notkun álvara er orkusparandi, og endurvinnsla útheimtir aðeins 5 % af rafgreiningarorkunni. Stöðugt meira er nú endurunnið af notuðu áli, og nemur magnið núna um 20 Mt/ár eða tæplega 24 % af heildarálnotkun (85 Mt/ár).
Jesse er forstjóri tiltölulega lítils álfyrirtækis með starfsemi í Bandaríkjunum (BNA) og á Íslandi. Það hentar Íslendingum að mörgu leyti vel til samstarfs. Hann sagði um Century Aluminium:
"Starfsmennirnir eru rúmlega 2100, og þar af eru rúmlega 600 á Íslandi [29 %]. Því starfa hlutfallslega flestir hjá álverinu á Íslandi [3 álver í BNA], en um 500 starfa hjá hvoru álverinu um sig í Kentucky og um 350 í Suður-Karólína. Við það bætast starfsmenn í höfuðstöðvunum og í rafskautaverksmiðjunni í Hollandi. Starfsmönnum hefur fjölgað að undanförnu, þar með talið á Íslandi, samhliða aukinni framleiðslu."
Það eru mun fleiri launþegar á Íslandi en þessir 600, sem lifa á starfsemi Norðuráls. Nefna má viðskipti við verkfræðistofur, verktaka, sem veita þjónustu verkamanna og iðnaðarmanna og flutningafélög á sjó og landi. Óbein (afleidd) störf eru hjá Landsvirkjun, Landsneti, ON og hinu opinbera. Nokkur sveitarfélög koma þar við sögu, því að vinna er sótt til Norðuráls víða af Vesturlandi og af höfuðborgarsvæðinu.
Hvað segir Jesse um markaðshorfurnar ?:
"En nú hafa Kínverjar greint frá því, að þeir hyggist láta staðar numið við uppbyggingu álvera í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og miða framleiðslugetuna við 46 Mt/á [70 % heimsmarkaðar fyrir hráál]. Til samanburðar hljóðar eftirspurn í heiminum nú upp á 65 Mt/ár. Og ef áform Kínverja ganga eftir, mun í fyrsta sinn í 2 áratugi skapast þörf fyrir að byggja upp framleiðslugetu á Vesturlöndum til að mæta vaxandi eftirspurn."
Einhver mundi segja, að komið væri verulegt eggjahljóð í þennan Íslandsvin, því að Ísland er vissulega eitt af þeim löndum, sem tæknilega og fjárhagslega koma til greina fyrir ný álver í ljósi nýrra markaðsaðstæðna. Það eru þó önnur vatnsorkulönd, sem koma ekki síður til greina, t.d. Kanada, Suður-Ameríka og Noregur. Hérlendis mundi það vafalaust létta slíku verkefni róðurinn, ef eigandinn væri tilbúinn að reisa kolafrítt álver, en slík eru í tilraunarekstri í Kanada og í Frakklandi á vegum vestrænna álfyrirtækja. Eins og jafnan þarf þó pólitískan vilja hérlendis, til að slíkar beinar erlendar fjárfestingar geti orðið að raunveruleika. Engin heildarstefnumörkun er til hérlendis, sem veitir von um, að Ísland muni blanda sér í keppni um slíka fjárfestingu.
"Hvar á Vesturlöndum verður álframleiðslan aukin af þessum sökum ?"
"Það á eftir að koma í ljós. Vonandi, þar sem græn orka er notuð við framleiðsluna. Og framboðið á grænni orku er stöðugt að breytast, enda er hún í vaxandi mæli framleidd á nýjum stöðum með vindorku og sólarorku, sem kemur til viðbótar vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum. Þetta þýðir, að orkuverð er á niðurleið, og það væri því auðveldast að mæta eftirspurninni í Evrópu og Bandaríkjunum með uppbyggingu álvera á þeim mörkuðum."
Í Noregi vex hlutdeild vindorku talsvert.Kannski verður sú uppbygging stöðvuð af nýrri ríkisstjórn Noregs. Þá verður spennandi að fylgjast með viðbrögðum orkustjóra ACER í Noregi og eftirlitsstofnunar EFTA-ESA.
Norðmenn hafa í sínu landi mörg og stór miðlunarlón og mörg vatnsorkuver. Sum þeirra eru með vélasal sprengdan inn í fjöll með svipuðum hætti og Kárahnjúkavirkjun af öryggisástæðum. Þeir eru þess vegna óvanir jafngríðarlegum inngripum í villta náttúru og vindmyllurnar fela í sér. Andstaðan við vindmyllur magnast af þessum sökum í Noregi. Raforkan frá þeim er aðallega flutt út um sæstrengi. Nú er verið að þróa stórar vindmyllur,> 10 MW, sem eru tjóðraðar fastar við hafsbotninn með stögum og án annarrar botntengingar og geta þannig verið á miklu dýpi.
Álverðstenging raforkuverðs hefur undanfarið lyft raforkuverðinu vel yfir 40 USD/MWh hérlendis, sem mundi líklega duga til að gera alla orkuverskostina í 3. áfanga verndar- og nýtingaráætlunar, bið og nýtingu, arðsama.
"Við hjá Century Aluminium teljum okkur vel búin undir að auka framleiðsluna. Við erum að auka framleiðsluna í álverinu við Mt. Holly í Suður-Karólína og í álverinu í Hawesville í Kentucky.
Afkastagetan í Kína var umfram eftirspurn, en er mögulega að ganga til baka nú, þegar eftirspurnin er mikil og vaxandi. Við sjáum því tækifæri til að auka framleiðsluna og erum því að auka hana í þessum tveimur áður nefndu álverum. Fyrir utan það má auka framleiðsluna í Bandaríkjunum enn frekar, og hér á Íslandi höfum við skoðað leiðir til að auka verðmætasköpunina á Grundartanga."
Norðurál ætlar að umbylta steypuskála sínum í líkingu við það, sem ISAL gerði fyrir áratug, þ.e. að taka upp framleiðslu þrýstimótunarsívalninga, sem eru núna og oft með miklu verðálagi ofan á LME-verðið á mörkuðum, svo að afurðaverðið er nú komið yfir 4000 USD/t. Þetta er sennilega mesta gósentíð í sögu ISAL. Steypuskálaumbyltingin á Grundartanga er mrdISK 15 fjárfesting og útheimtir um 10 % fjölgun starfsmanna, en sáralitla viðbótar orku. Hins vegar áformar Norðurál framleiðsluaukningu upp á 10 kt/ár upp í 330 kt/ár.
Hjá ISAL er öllum kerum haldið gangandi og styttist í hámarksstraum í öllum kerskálum, sem gefur ársframleiðslugetu um 215 kt/ár. Tekjuskattur af fyrirtækinu verður drjúgur í ár, því að hagnaður júlí-ágúst 2021 nam um MUSD 40 eða rúmlega mrdISK 5,0.
"Ég get reyndar vart hugsað mér betri stað til að framleiða ál en Ísland. Hér er framleitt hágæðaál og magn kolefnis, sem fellur til við framleiðsluna, er með því minnsta, sem þekkist. Það er jafnframt gott að starfa á Íslandi.
Þróunin á orkumörkuðum mun hafa áhrif í þessu efni. Það er síðan spurning, hvernig Íslendingar sjá fyrir sér orkumarkað sinn í framtíðinni. Ég segi sem framleiðandi, að Ísland er afar ákjósanlegur staður fyrir álframleiðslu."
Skýrar getur Jesse Gary ekki tjáð sig á þá lund, að hann hefur hug á frekari fjárfestingu og framleiðslu áls á Íslandi. Til að samningar náist þarf hins vegar 2 til. Íslandsmegin er vart að sjá nokkurt lífsmark í þá veru að vilja selja álfélagi enn meiri orku og fá hingað tugmilljarða fjárfestingu. Deyfð og drungi afturhaldsins hefur eitrað út frá sér. Nú vantar baráttumenn til að brjóta hlekki hugarfarsins, eins og á 7. áratug 20. aldar, þegar innflutningshöft voru afnumin og stórfelld iðnvæðing hafin með Búrfellsvirkjun og iðjuverinu í Straumsvík.
10.9.2021 | 11:27
Eru nýjar virkjanir feimnismál ?
Botninn er suður í Borgarfirði í loftslagsumræðunni fyrir þessar kosningar. Það er alvarlegt, því að botnlaus umræða leiðir ekki til nokkurs áþreifanlegs árangurs. Botninn felst í að uppfylla raforkuþörfina, sem fyrir hendi er, til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi og jafnframt að standa undir almennt aukinni raforkuþörf vaxandi þjóðar. Þetta knýjandi mál er svo skelfilega vanreifað, að frambjóðendur í þessum þingkosningum fara í kringum það, eins og kettir í kringum heitan graut, hvernig á að afla þessarar orku. Það er algerlega óboðlegt að tala fjálglega um að draga úr eldsneytisnotkun til að uppfylla metnaðarfullt markmið um að draga úr losun CO2 árið 2030 um 55 % m.v. 1990, en þvælast svo fyrir öllum framkvæmdum, sem miðað að því að auka framboð sjálfbærrar raforku og gera kleift að flytja hana til notenda.
Það er ljóst með nægilegri nákvæmni, hver orkuþörfin er. Hún er alls um 9,0 TWh/ár og um 1300 MW til að rafvæða með einum eða öðrum hætti allt það, sem nú notar jarðefnaeldsneyti á Íslandi, að meðtöldu millilandaflugi og millilandasiglingum. Þessi orka jafngildir um 45 % af orkugetu núverandi virkjana. Það er ekki eftir neinu að bíða með að hefjast handa við þetta virkjanaverkefni, sem má ekki standa lengur yfir en til 2045, ef stjórnvöld ætla að standa við markmið orkuáætlunar um að losna við allt jarðefnaeldsneyti fyrir 2050. Það þýðir að taka þarf í notkun 360 GWh/ár eða 65 MW/ár að jafnaði.
Það er versti ljóður á ráði núverandi stjórnvalda að berja sér á brjóst og lofa öllu fögru til að hægja á hlýnun andrúmsloftsins, en láta lykilatriðið til að gera þetta kleift reka á reiðanum. Loddarar tvíeykisins S&P eru auðvitað ekki hjálplegir heldur. Stjórnmálaflokkar, sem segja bara A, en berja svo hausnum við steininn og neita að segja B fyrir loftslagið, eru ótraustvekjandi og ótrúverðugir í alla staði. Þeir meina ekkert með því, sem þeir segja. Loftslagsstefnan er þar á bæ bara meðal til að fylla upp í tómarúmið, sem er þar, sem réttlæting fyrir tilvist flokksins ætti að vera. Loftslagsstefnan er þar á bæ með óprúttnum hætti notuð sem réttlæting fyrir aukinni skattheimtu og ríkisumsvifum. Þessi skattheimta bitnar verst á dreifbýlisfólki og fólki með lágar ráðstöfunartekjur. Það er tímabært að hefja lækkunarferli á þessum eldsneytissköttum.
Þann 26. ágúst 2021 birtist í Morgunblaðinu viðtal við Pál Erland, framkvædastjóra Samorku. Þar á bæ er fullur skilningur á því, hver forsenda orkuskiptanna er, og hversu mikla viðbótar raforkuvinnslu hún útheimtir. Vitneskjan er til um það víða í samfélaginu, en afturhaldsöflin stinga hausnum í sandinn og neita að viðurkenna staðreyndir. Þannig er þeirra pólitík eintóm yfirborðsmennska.
Ef á að takast að standa við markmið ríkisstjórnarinnar og skuldbindingar gagnvart EES/ESB og Parísarsamkomulaginu, verður að fara að hefjast handa við nýjar virkjanir, en þá kemur til kasta Alþingis. Tíminn til að forða öngþveiti í orkumálum er að renna út. Með stækkun Reykjanessvirkjunar um 30 MW veitist nauðsynlegt svigrúm til að reisa yfir 50 MW virkjun, en Alþingi þarf að taka af skarið með hana. Með flokkakraðak þar, sem veit ekki í hvora löppina á að stíga í þessum efnum, horfir málið ógæfulega í landi tækifæranna. Samorka kallar á, að "nýtt lagaumhverfi komi í stað rammaáætlunar". Framkvæmdastjórinn sagði m.a. í téðu viðtali:
"Við þurfum nýja og skilvirkari umgjörð í stað þeirrar, sem við nú búum við í ljósi þess, að það eru 10 ár síðan síðasta rammaáætlun var samþykkt á Alþingi. Síðan þá hafa 3 umhverfisráðherrar lagt 3. áfanga rammaáætlunar fyrir þingið, en það hefur ekki enn treyst sér til að afgreiða hana. Það sjá allir, að þetta fyrirkomulag er ekki líklegt til að stuðla að því, að hér verði nægt framboð af grænni orku til framtíðar. Við getum ekki aðeins horft til okkar kynslóðar, heldur einnig komandi kynslóða."
Það er engum vafa undirorpið, að frekari þróun orkugarða til bættrar orkunýtingar og verðmætasköpunar felur í sér áhugaverð tækifæri fyrir ungt fólk með fjölbreytilegan bakgrunn. Nú hafa veður skipazt í lofti í álheiminum vegna þurrka í Kína (miðlunarlón í lágstöðu) og fyrirskipunar kommúnistaflokksins að draga úr raforkuvinnslu í kolaorkuverum, þar sem loftmengunin er verst af þeim sökum, svo að eftirspurn áls er orðin meiri en framboðið (Áleftirspurnin eykst um 1,5 Mt/ár, sem er 2/3 meira en álframleiðsla Íslands.)
Þá mun fara að styttast í ásókn álframleiðenda eftir sjálfbærri (grænni) orku í Evrópu og Ameríku. Það kann að styttast í, að álframleiðendur verði tilbúnir til að reisa 1. áfanga álverksmiðju með eðalskautum, sem losar ekkert koltvíildi við rafgreininguna. Slíkt ál mun seljast á enn hærra verði en ál unnið með hefðbundnum hætti, enda verður framleiðslukostnaðurinn líklega meiri fyrsta kastið þrátt fyrir hátt kolefnisgjald. Þarna kunna líka að leynast áhugaverð tækifæri fyrir Íslendinga til að skapa tímabundin störf við byggingu virkjana og verksmiðju og varanleg störf við rekstur og viðhald. Hagkerfið hefur enn ekki skapað næga spurn eftir vinnuafli, sem er á atvinnuleysisskrá.
Í Morgunblaðinu 30. ágúst 2021 var áhugaverð grein eftir Björgvin Helgason, oddvita Hvalfjarðarsveitar, og Ólaf Adolfsson, bæjarfulltrúa á Akranesi og formann Þróunarfélags Grundartanga um framtíðar tækifæri á Grundartanga:
"Björt framtíð Grundartanga":
"[Þróunar]Félagið hefur staðið fyrir fjölbreyttum þróunar- og framfaramálum. Þar má nefna skoðun nýrra umhverfisvænna orkukosta, orkuendurvinnslu, hitaveitu og framleiðslu nýrra orkugjafa á borð við rafeldsneyti. Þá hafa ylrækt og fiskeldi verið skoðuð. Markmiðið er að fullnýta virðiskeðju framleiðslunnar, forðast sóun verðmæta og byggja upp grænna iðn- og atvinnusvæði í hringrásarhagkerfi í anda sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna."
Hér virðist vanta herzlumuninn til að hrinda einhverjum verkefnum í framkvæmd. E.t.v. vantar fjárfesti til að hleypa lífi í hugmyndirnar, en kannski sýna arðsemisútreikningar ekki næga arðsemi. Það vantar eitthvað stórtækt. Það gæti t.d. verið fjárfestir, sem vill kaupa "græna" raforku til að hefja tilraunaframleiðslu á "grænu" áli með eðalskautum. Til þess þarf að virkja og að efla flutningskerfi raforku að Klafa. Landsnet er með 400 kV línu frá Blöndu og að Klafa á undirbúningsstigi.
"Tvö þróunarverkefni undir merkjum klasans ber að nefna:
Nú í sumar kynnti félagið vandaða skýrslu um möguleika á framleiðslu rafeldsneytis, en það er umhverfisvænt eldsneyti, sem byggir á þekktri tækni um framleiðslu vetnis með endurnýjanlegri raforku og glatvarma frá Elkem ásamt því að nýta koldíoxíð, sem þegar er til staðar í vistkerfi svæðisins. Þannig verði dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, orkuskipti efld og stuðlað að kröftugri nýsköpun. Með nýtingu þess mikla varma, sem verður til í starfsemi á Grundartanga, væri mögulegt að byggja upp hitaveitu fyrir svæðið og nágrenni þess. Nú er unnið að undirbúningi og rannsóknum á slíkri hitaveitu. Takist samningar um verkefnið og tæknilegar áskoranir leystar, er fyrir séð, að hitaveitan gæti tekið til starfa á næstu árum."
Hér eru nokkuð loftkenndar hugmyndir á ferðinni, og kemur þá í hug hið forna orðtak: "kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða". Byrinn í þessu tilviki eru einfaldlega lögmál varmafræðinnar. Hitastig afgasa frá verksmiðjunum á Grundartanga er ekki nægilega hátt til að hægt sé að setja þar upp orkuver, sem framleiðir rafmagn fyrir vetnisverksmiðju með arðbærum hætti. Svipuðu máli gegnir um hitaveitu. Hún getur varla orðið samkeppnishæf við hitaveitu, sem nýtir heitt vatn úr borholum. Ef ætlunin er að reisa vetnisverksmiðju á Grundartanga, þarf hún að kaupa rafmagn um flutningskerfi Landsnets. Að fanga CO2 úr afgösum verksmiðjanna er dýrt. Styrkur CO2 í afgasi strompa álveranna er tæplega 0,9 %. Að framleiða úr því og vetninu ammoníak er þó ólíkt vitrænna en að dæla fönguðu koltvíildi ofan í jörðina, eins og gert er á Hellisheiði með gríðarlegri vatnsnotkun og orkunotkun að tiltölu. Það verður fróðlegt að fá niðurstöður úr tilraun með föngun koltvíildis úr kerreyk í Straumsvík, þar sem komast á að tæknilegum fýsileika og kostnaði slíkrar aðgerðar. Skógræktin getur veitt förgun CO2 frá verksmiðjunum harða samkeppni á Íslandi - landi tækifæranna í landbúnaði.