Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Er rekstrarárangur refsiverður ?

Furðuleg umræða gaus upp í sumum fjölmiðlum í viku 34/2021, er mánuður var til Alþingiskosninga.  Hún var á þá lund, að hagnaður sumra sjávarútvegsfyrirtækja væri svo mikill, að augljóslega þyrfti að hækka veiðigjöldin. Taka verður fram, að hagnaður sjávarútvegs eftir skatt er hlutfallslega minni að jafnaði en við á að jafnaði um annan atvinnurekstur, enda virka veiðigjöldin sem hver annar tekjuskattur á sjávarútvegsfyrirtæki.

Þetta viðhorf til sjávarútvegsins virðist markast af öfund yfir velgengni þeirra, sem náð hafa góðum árangri með sín fyrirtæki. Viðhorfið stenzt ekki jafnræðisreglu Stjórnarskrár um, að allir skuli njóta jafnræðis gagnvart lögum.  Málflutningurinn er einskært lýðskrum, reist á þeirri vitneskju, að flestum þykja skattahækkanir í góðu lagi, ef þær bitna á öðrum en þeim sjálfum.  Þá gleymist reyndar alveg, að með ofurskattlagningu eða hærri skattlagningu en á samkeppnisaðilana er verið að saga í sundur greinina, sem allir sitja á.  Þetta á sérstaklega við um útflutningsgreinarnar, en það má heldur ekki líta fram hjá því, að sjávarútvegurinn á í samkeppni við aðrar atvinnugreinar hér innanlands um fólk og fjármagn.

Þessi öfundsjúki málflutningur á aðallega rætur að rekja til fólks, sem gengur með þá grillu, að það hafi dottið niður á miklu betra og réttlátara fiskveiðistjórnunarkerfi en nú er við lýði hérlendis.  Hér er oftast um að ræða fólk, sem aldrei hefur migið í saltan sjó, eins og þar stendur, þ.e. hefur enga reynslu af rekstri útgerðarfyrirtækja, hvað þá meira vit á þeirri útgerð en þau, sem hana stunda núna, en gengur hins vegar með "frelsarann" í maganum um réttu trúna í málefnum sjávarútvegsins og hið fullkomna réttlæti.  Allt er það eins fjarri sanni og hugsazt getur og reyndar tómar grillur.

Hvar er réttlætið í því að þjóðnýta aflaheimildir með salami aðferðinni, 5 %-10 % á ári, sem flestar hafa verið keyptar á markaði og búið er að fjárfesta gríðarlega í, til að hægt sé að nýta þær ?  Hjá Evrópusambandinu (ESB) tíðkast ekki sá kvótamarkaður, og stefna þess, sem þó enn hefur ekki verið hrint í framkvæmd, er, að bjóða út allar útgefnar veiðiheimildir í lögsögu ESB. Þá munu gufa upp draumórar um "hlutfallslegan stöðugleika".  Íslenzkar útgerðir bjóða þá á móti öllum öðrum útgerðum í ESB, ef Ísland gengur þarna inn.  Er þetta ekki viðfelldin framtíðarsýn fyrir íslenzkar sjávarbyggðir og efnahag landsins ? 

Stefna ESB-flokkanna á Íslandi í sjávarútvegsmálum er ekkert annað en aðlögun að því, sem koma skal hjá ESB.  Það er engin glóra í því að leggja allt í sölurnar, t.d. að fótumtroða eignarréttinn með þjóðnýtingu keypts og löglega fengins nýtingarréttar á Íslandsmiðum (ath.: enginn á óveiddan fisk í sjó), til að innleiða hér fyrirkomulag, sem alls staðar hefur farið í handaskolum, þar sem það hefur verið reynt. Að halda því t.d. fram, að Færeyingar hafi ekki kunnað að hanna uppboðskerfi, er ósvífin drambsemi.  Þetta fyrirkomulag hefur alls staðar farið með útgerðina í hundana, þar sem það hefur verið reynt, t.d. í Eistlandi og í Rússlandi. 

Til að gefa almenningi kost á að hætta fé sínu í sjávarútveg í von um meiri ávöxtun þar en annars staðar er kjörin leið, að stærstu fyrirtækin í greininni verði gerð að almenningshlutafélögum með skráningu í Kauphöll Íslands. Sú þróun er þegar hafin.  Það er ólíkt meiri sáttasnykur af slíku en að þjóðnýta aflahlutdeildirnar.  Varaformaður Viðreisnar, sem er hagfræðingur að mennt, hefur viðurkennt, að leið flokks hans muni til lengdar ekki leiða til tekjuauka hjá ríkissjóði.  Hann breiðir hins vegar yfir eiginlegt ætlunarverk flokks síns með þeim öfugmælum aldarinnar, að þjóðnýting og uppboð aflahlutdeilda sé leið til sátta um sjávarútveginn.  Eru ekki allir með "fulle fem" ?

Fréttablaðið var með fréttaskýringu um málið 26. ágúst 2021 undir fyrirsögninni:

 "Hugnast ekki útboð aflaheimilda":

"Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, leggjast gegn þeirri tillögu Þjóðareignar að bjóða út 5-10 % aflaheimilda árlega.  Í könnun, sem framkvæmd var á vegum Gallup, kemur fram, að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga eða 76,6 % er hlynntur því, að útgerðin greiði markaðsgjald fyrir afnot af fiskimiðum."

Það er fráleitt að gera skoðanakönnun um það, sem enginn þekkir haus né sporð á.  Enginn veit, hvert þetta markaðsverð verður, og útfærsla uppboðsins er í algerri óvissu, því að hún virðist eiga að vera einhvern veginn öðruvísi en aðrir hafa glapizt á hingað til.  Hér ímynda svarendur sér, að ríkistekjurnar muni hækka án þess, að peningar verði teknir úr þeirra vasa.  Samkvæmt varaformanni Viðreisnar er það misskilningur.  Tekjur ríkissjóðs hækka ekkert við þetta feigðarflan. 

""Uppboð afla hugnast okkur ekki.  Reynsla annarra þjóða hefur sýnt, að þau gefa ekki góða raun. Það er aukin samþjöppun, aukin skuldsetning, verri umgengni við auðlindina, og í ljós kemur, að það eru hinir stærri og sterkari, sem bera sigur úr býtum á uppboðum.  Þannig að ef hugsunin er að halda sjávarútvegi í dreifðri eignaraðild, þá er uppboð ekki ákjósanleg leið", segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS."  

Þetta eru óvéfengjanlegar staðreyndir, en hrakfallasaga uppboða erlendis ku vera vegna þess, að þau eru skipulögð og framkvæmd af imbum, sem ekkert kunna til slíkra, eða svo er að skilja á fulltrúa "Þjóðareignar" í sömu fréttaskýringu.  Þar er auðvitað vaðið á súðum í yfirlæti "besserwissers" um útgerðarmál.  Harla ódýr málflutningur á þeim bæ.

""Samkvæmt lögum greiðir sjávarútvegurinn á Íslandi veiðigjald, sem byggir að nokkru leyti á markaðnum fyrir sjávarfang, er 33 % af aflaverðmæti. Veiðigjaldið hefur að þessu leyti tengingu við markað með sjávarafurðir", segir hann [Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra]." "Þegar vel árar, þá hækkar gjaldið, og þegar illa árar, þá lækkar það."

Þriðjungur hagnaðar er engin smáræðis viðbót við almennan tekjuskatt fyrirtækja.  Það er stundum látið, eins og aðföng útgerða séu ódýrari en annarra fyrirtækja.  Þeir hinir sömu horfa fram hjá því, að útgerð er fjármagnsfrek (góður skuttogari kostar um og yfir mrdISK 6), og rekstarkostnaður við að sækja aflann er hár vegna eldsneytiskostnaðar og aflahlutdeildar sjómannanna.  Þessu til staðfestingar er, að s.k. auðlindarenta, sem var hugmyndafræðilegur grundvöllur veiðileyfagjalda á sínum tíma, hefur ekki fundizt í bókhaldi útgerðanna.  Þetta þýðir, að ríkisvaldið hefur enga fjárhagslega ástæðu til að mismuna útgerðunum í samanburði við önnur fyrirtæki, enda tíðkast veiðigjöld ekki í öðrum Evrópulöndum eða  víðast hvar annars staðar, nema að nokkru leyti í Færeyjum. Þvert á móti eru útgerðir í öllum öðrum útgerðarlöndum Evrópu niðurgreiddar.  Íslenzka ríkið teflir á tæpasta vaðið með þessari háu skattheimtu.  Það má fallast á, að viðbótar skattheimtan gangi á hverjum tíma til rekstrar Hafrannsóknarstofnunar og Landhelgisgæzlunnar. 

"Heiðrún Lind segir, að tilraunir Færeyinga til þess að bjóða upp aflaheimildir hafi ekki heppnazt vel:

"Reynsla Færeyinga er sú, að það var engin nýliðun í þeim uppboðum, sem þeir framkvæmdu.  Ég tel uppboð ekki réttu leiðina til að hámarka verðmæti sjávarauðlindarinnar.  Síðan liggur fyrir, að fyrsta skrefið fælist í því að innkalla þær aflaheimildir, sem á að bjóða út.  Þessar æfingar myndu mjög fljótt þurrka upp eigið fé í sjávarútvegi og auka á samþjöppun.  Það hugnast mér ekki", segir Heiðrún."

  Það var endurskoðunarfyrirtæki, sem sýndi fram á það fyrir nokkrum árum, að þjóðnýting aflahlutdeildanna (nýtingarréttarins) mundi á fáum árum eyða upp eigin fé útgerðanna.  Sú niðurstaða stendur óhögguð, þótt hugmyndafræðingarnir berji hausnum við steininn.  Það er ekkert nýtt.  Þótt sósíalisminn leiði alls staðar til siðferðilegs og fjárhagslegs gjaldþrots, er hann samt boðaður enn á þeim forsendum, að sósíalistarnir hafi brugðizt, ekki sósíalisminn.  Það er afkáraleg sjálfsupphafning þeirra, sem enn boða falskt fagnaðarerindi. Það er alveg áreiðanlegt, að stjórnmálamenn eru ekki betur fallnir til afskipta af atvinnumálum en núverandi eigendur og stjórnendur fyrirtækja. 

Sjávarútvegsfyrirtæki eru nú farin að gefa út s.k. samfélagsskýrslur um starfsemi sína.  Slík útgáfa er til þess fallin að draga tölulegar staðreyndir um þessi fyrirtæki fram í dagsljósið og kynna áform fyrirtækjanna. Slíkt helzt vel í hendur við skráningu þeirra í Kauphöll. Hvort tveggja er til þess fallið að skapa betri frið um starfsemina, sem hlýtur í raun að vera öllum landsmönnum í hag. Laugardaginn 28. ágúst 2021 gerði Karítas Ríkharðsdóttir grein fyrir fyrstu samfélagsskýrslu Eskju með viðtali við Pál Snorrason, framkvæmdastjóra fjármála- og rekstrarsviðs Eskju í Morgunblaðinu:

""Eskja er að gefa út sína fyrstu samfélagsskýrslu, og tilgangur með útgáfu hennar er bæði að auka gagnsæi í okkar starfsemi og gera grein fyrir árangri okkar auk áhrifa á umhverfið og samfélagið", segir Páll Snorrason, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Eskju." 

Skattspor fyrirtækisins, einnig nefnt skattaslóð, nam árið 2020 mrdISK 1,4.  Þetta var 17,1 % af rekstrartekjunum (veltunni).  Þetta háa hlutfall er ástæða þess, að hagfræðingurinn á varaformannsstóli Viðreisnar játar, að uppboðskerfi aflahlutdeilda muni ekki auka tekjur ríkissjóðs. Þar að auki er kerfið  ósjálfbært, eins og komið hefur fram. 

"Samsvarar skattaslóðin um MISK 14 á hvern starfsmann fyrirtækisins og kISK 329 á hvert þorskígildistonn af aflaheimilda, sem fyrirtækið hefur yfir að ráða [á ári]."

Þessi gríðarlega skattaslóð gefur feiknarlega virðisaukningu til kynna í fyrirtækinu og sýnir í hnotskurn, að stjórnmálamenn eiga að láta fyrirtækin í friði og ekki að troða vansköpuðum og fáfengilegum hugmyndum sínum upp á þau í nafni þjóðarinnar og þjóðareignar á miðunum, sem á ekkert skylt við eignarrétt, heldur lögsögu íslenzka ríkisvaldsins yfir miðunum.  Ef fyrirtækin fá frið til verðmætasköpunar úr auðlindinni, þá bera sameiginlegir sjóðir landsmanna, ríkissjóður og sveitarsjóðir, mest úr býtum. Horuð og aðþrengd fyrirtæki eru lítils virði eigendum sínum og þjóðarheildinni. Sumir muna enn þrautagöngu útgerðanna fyrir 1984. Atvinnurekstur er bezt kominn hjá þeim, sem þar hafa skarað fram úr, en alls ekki í höndum stjórnmálamanna eða starfandi í umhverfi, skapað af stjórnmálamönnum, sem ekkert fyrirtæki þrífst í.    

 

  

 

 


Hvað kostar að ná kolefnishlutleysi

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að íslenzk stjórnvöld hafa sett landsmönnum það markmið að verða kolefnishlutlausir, þ.e. að starfsemi þeirra á landi valdi engri nettó losun gróðurhúsalofttegunda (CO2-ígilda), árið 2040. Árið 2019 (2020 var afbrigðilegt ár) nam jarðefnaeldsneytisnotkun Íslendinga 43,3 PJ (Peta Joule samkvæmt talnaefni Orkustofnunar-OS-2021-T008-01) eða 16,2 % af heildarorkunotkun landsmanna.  Mönnum til glöggvunar nam þetta rúmlega 89 % af vinnslu vatnsorkuveranna.  Þetta er ekkert smáræði, þótt það að tiltölu sé mun minna en að jafnaði í öðrum löndum. 

Það verður að koma sjálfbær orka í staðinn, raforka, og þessi lokarafvæðing orkukerfisins á Íslandi mun nema um 6,7 TWh/ár m.v. stöðuna 2019, og nemur þessi rafvæðing um 34 % af raforkunotkun landsmanna 2019.  Gera má ráð fyrir, að uppsett afl slíkra virkjana þurfa að vera um 1000 MW=1,0 GW til að knýja bílaflotann, vinnuvélarnar, skip og báta og innanlandsflugið, og væntanlega tæplega 9 TWh/ár, ef millilandaflugi og millilandasiglingum er bætt við. 

Kostnaður við þessar virkjanir (1000 MW) gæti numið um mrdISK 350 og við flutnings- og dreifikerfið mrdISK 100 að meðtöldum jafnstraumsjarðstreng á milli Norður- og Suðurlands, sem verður að koma samhliða þessari miklu rafvæðingarviðbót, til að tryggja bæði æstæðan og kvikan stöðugleika raforkukerfisins. 

Kostnaður við hleðsluaðstöðu í höfnum, á flugvöllum og við vegi ásamt áfyllistöðvum vetnis og lífeldsneytis, gæti numið mrdISK 100.  Þá er ótalin vetnisverksmiðja og dreifikerfi vetnis.  Alls eru þetta mrdISK 550.  Bretar áætluðu fyrir nokkru, að orkuskiptin hjá sér mundu kosta mrdISK 900 á íslenzkan mannfjöldamælikvarða.  Á Bretlandi verða orkuskiptin tiltölulega umfangsmeiri en hér, því að þeir þurfa að afnema kolaorkuver og gasorkuver og leysa jarðefnaeldsneyti til húsahitunar af hólmi með rafmagni og/eða vetni eða lífeldsneyti. Kostnaðaráætlunin mrdISK 900 þótti mörgum vanáætluð, svo að kostnaður Breta gæti að tiltölu orðið tvöfaldur kostnaður Íslendinga við orkuskiptin. Kostnaðurinn tæplega 30 mrdISK/ár er ekki óyfirstíganlegur, enda lendir hann að mestu á orkugeiranum og einkageiranum. Orkugeirinn er vel í stakkinn búinn. (Tal um að skipta Landsvirkjun upp er út í hött, því að hún er bundin af samningum um að standa við ákveðið afhendingaröryggi, sem hún getur ekki í bútum.)  Svo er mikilli raforkunotkun á íbúa fyrir að þakka (uppsett afl 7,0 kW/íb). 

Tvö risavaxin verkefni bíða jarðarbúa.  Annað er að draga úr orkufátækt, og hitt eru orkuskiptin. Hvort tveggja er óhugsandi án gríðarlegrar rafvæðingar heimsbyggðarinnar, og þessi gríðarlega rafvæðing er óhugsandi án þess að nýta kjarnorkuna í stórum stíl. Þess vegna var kúvending Angelu Merkel, Þýzkalandskanzlara, 2011, glapræði, en hún fékk Bundestag til að samþykkja það í tilfinningalegu uppnámi í kjölfar Fukushima-áfallsins í Japan að loka öllum kjarnorkuverum Þýzkalands fyrir árslok 2022.  Jafnframt á Þýzkaland að verða kolefnishlutlaust 2050.  Þetta tvennt fer einfaldlega ekki saman, enda eru Þjóðverjar nú að ræsa kolakynt orkuver til að ná endum saman á milli framboðs og eftirspurnar raforku.  Bretar fara þá einu leið, sem fær er í þessum efnum, að reisa kjarnorkuver, sem leysa munu öll kolakynt orkuver Bretlands af hólmi fyrir árslok 2025. 

Rannsóknir hafa sýnt, að líkaminn ræður við geislun upp að ákveðnu marki án þess að bíða tjón af.  Enginn lézt af völdum "Three Mile Island" kjarnorkuversbilunarinnar í Bandaríkjunum, og heldur enginn af völdum "Fukushima" áfallsins, sem leiddi af náttúruhamförum við Japansstrendur, utan einn, sem lézt, þegar svæðið í grenndinni var tæmt af fólki. 

Eftirlitsiðnaðurinn á Vesturlöndum hefur lagt þá röngu forsendu til grundvallar, að öll geislun sé hættuleg og fært sig stöðugt upp á skaptið með kröfugerð, sem leitt hefur af sér stórfelldar kostnaðarhækkanir við að hanna og reisa kjarnorkuver. Þetta hefur t.d. leitt af sér aukningu rafstrengja úr 600 km árið 1973 í 1140 km árið 1978 í jafnstórum kjarnorkuverum. Kostnaðurinn við kjarnorkuver var u.þ.b. 3,0 USD/W, þegar uppsafnað uppsett afl þeirra hafði náð 2,0 GW og lækkaði niður í 1,0 USD/W við 32 GW uppsafnað afl um 1970, en þá tóku kröfur eftirlitsiðnaðarins að vaxa. 

Afleiðingin af sívaxandi öryggiskröfum, sem eru komnar fram úr öllu hófi og skynsemi, er, að kostnaðurinn við kjarnorkuver er nú um 6,0 USD/W, þegar uppsafnað uppsett afl þeirra nemur um 256 GW.  Kjarnorkuver framleiða nú aðeins um 10 % raforku heimsins. Til þess að íbúar jarðarinnar, sem hafa aðgang að minna rafafli en íbúar ESB (að meðaltali 0,7 kW/íb), nái ESB-meðaltalinu, þarf að bæta við uppsettu afli, sem nemur 5,0 TW.  Þannig þrefaldast núverandi uppsett afl. Hvaðan á slíkt afl að koma ?

Til þess að leysa allt jarðefnaeldsneyti af hólmi þarf raforkuvinnsla úr kolefnisfríum orkulindum að koma frá 25 TW af virkjuðu afli, sem jafngildir tíföldun á núverandi raforkuvinnslu. Geta vindmylla og sólarsella virkar eins og krækiber í helvíti hjá þessari miklu þörf. 

Aðeins kjarnorkan getur annað henni, en þá stendur heimurinn frammi fyrir því, að hræðsluáróður græningja og annarra slíkra hefur sett þessa tækni sums staðar í skammarkrókinn, og opinberir eftirlitsaðilar á Vesturlöndum hafa með óraunhæfum og öfgafullum hönnunarkröfum gert kjarnorkuverin ósamkeppnisfær við jarðgasorkuver og kolakynt orkuver.  Hvernig á þá að verða við kröfum IPCC um að ná kolefnisjöfnuði sem allra fyrst til að bjarga jörðunni ?  Eina sjáanlega úrræðið er að draga saman seglin, fara úr hagvexti í samdrátt hagkerfanna samkvæmt ráðleggingum græningja og höfunda "Endimarka vaxtar" og áhangenda þeirra, en hversu mikinn samdrátt þarf ?  Sú hugmynd er endileysa og gengur alls ekki upp, enda næst engin samstaða um hana á heimsvísu, og þar með fellur hún um sjálfa sig.

Kostnaður við raforkuvinnslu í jarðgasknúnum orkuverum er 70-80 USD/MWh og í kolaorkuverum 50 USD/MWh.  Ef hægt er að reisa kjarnorkuver á 2,50 USD/W, þá verður raforkukostnaður þeirra 35-40 USD/MWh.  Suður-Kóreumenn geta þetta með skynsamlegum og nægum gæða- og öryggiskröfum, og ekki er ólíklegt, að Kínverjar séu á svipuðum slóðum, en á Vesturlöndum hefur hinn opinberi eftirlitsiðnaður hert eftirlitskröfurnar með hverju tæknilegu framfaraskrefi, sem kjarnorkuiðnaðurinn hefur stigið, svo að kostnaðurinn hefur 2-3 faldazt, gjörsamlega að óþörfu. 

Með raforkukostnaði nýrra  kjarnorkuvera yfir 120 USD/MWh hefur eftirlitsiðnaðurinn kyrkt kjarnorkuiðnaðinn og þannig girt fyrir, að orkuskiptin geti farið fram í löndum, sem að mestu eru háð jarðefnaeldsneyti við raforkuvinnslu og háð eru þessum sjálfseyðandi reglum. 

Þegar svona er í pottinn búið, er ástæða til að spyrja að hætti Rómverja: "cuo bono" eða hverjum í hag ?  Svarið liggur í augum uppi.  Þeir, sem hagnast á, að orkuskiptin geti ekki farið fram samhliða eðlilegri efnahagsþróun og hagvexti, eru jarðefnaeldsneytisiðnaðurinn og samdráttarsinnarnir, sem hafa lengi þann steininn klappað í fávísi sinni, að eina ráðið til að bjarga jörðunni sé "að pakka í vörn", stöðva hagvöxtinn og minnka neyzluna á öllum sviðum, sem leiða mun til fjöldaatvinnuleysis, fjöldagjaldþrota og ríkisgjaldþrota.  Þetta er algerlega vanheilagt bandalag. Það er kominn tími til að leiða sannleikann fram í dagsljósið.  Hver er hin raunverulega hitastigshækkun lofthjúpsins, reist á dæmigerðum gervihnattamælingum hitastigs í mörgum sniðum í mörgum hæðum frá jörðu, en ekki bara yfirborðsmælingum, sem þar að auki eru háðar ýmsum skekkjuvöldum. 

Það þarf að veita leyfi til að reisa kjarnorkuver í lítilli stærð, eins konar líkan, sem gera má tilraunir á, til að komast til botns í því, hvaða öryggiskröfur eru nauðsynlegar, og hverjar er skynsamlegt að afnema. Grundvallarspurningin er þessi: hversu mikil má geislun á tímaeiningu verða áður en hún verður skaðleg (það hefur alltaf verið ákveðin geislavirkni í náttúrunni og er jafnvel í banönum, sem innihalda geislavirkt kalíum). Það þarf að afnema núverandi viðmið eftirlitsyfirvalda: "As low as Reasonably achievable"-ALARA, því að hún er ekki reist á neinum leyfilegum geislunarþröskuldi og eyðileggur alla möguleika kjarnorkuiðnaðarins til að geta keppt við eldsneytisiðnaðinn. 

Máttur peninga 

 

 


Landbúnaður er undirstöðugrein

Nýlega kom fram hjá sérfræðingi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, að á Íslandi væri nú grundvöllur til að efla mjög kornræktina. Þetta taldi hann vera mikilvægt fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar. Það er áreiðanlega rétt hjá honum. 

Auk öryggissjónarmiðsins eru tvenns konar rök í viðbót, sem mæla með eflingu kornræktar, t.d. í stað innflutts skepnufóðurs. Þjóðhagslega er þessi kornrækt æskileg, því að hún sparar gjaldeyri. Aðgerðin er líka umhverfisvæn, því að hún minnkar flutninga til landsins, og hún minnkar þannig kolefnisspor íslenzka landbúnaðarins, en stjórnvöld hafa gert honum að kolefnisjafna sig fyrir árslok 2040. Var það gert í samráði við Bændasamtökin ?

Það er viðamikið verkefni, sem ekki má verða fjárhagslegur baggi á landbúnaðinum, þannig að hans prýðilegu vörur hækki í verði fyrir vikið og hann missi jafnvel markaðshlutdeild. 

Það hlýtur að vera nærtækt fyrir bændur að kolefnisjafna starfsemi sína með skógrækt. Þeir gætu t.d. heimilað Skógrækt ríkisins eða landshlutabundnum skógræktarfélögum að gróðursetja ungplöntur í landi sínu gegn því, að kolefnisbinding skógarins komi kreditmegin í kolefnisbókhald jarðarinnar, en skógræktarfélagið eigi skóginn, sem er á landi bóndans, í tiltekinn árafjölda og skuli halda honum við með grisjun og nýta hann samkvæmt nánara samkomulagi. 

Slík ný nýting á uppþurrkuðu, óræktuðu landi, ásamt kornyrkju, er ólíkt gæfulegri en sú dæmafáa vitleysa að breyta þessu landi í fúamýrar á ný með því að moka ofan í skurði að tilhlutan hins opinbera  Votlendissjóðs eða annarra. 

Þann 22. júlí 2021 birtist í Bændablaðinu fróðleg grein eftir Kára Gautason með fyrirsögninni:

"Bændur standa frammi fyrir tvöfaldri vá".

Þar stóð m.a.: 

"Bændur standa nú frammi fyrir tvöfaldri vá; annars vegar ógn loftslagsbreytinganna sjálfra, og svo hins vegar hugsanlegri ógn vegna vanhugsaðra ákvarðana stjórnvalda í loftslagsmálum. Þess vegna kann að vera ráð að borga strax, grípa til kostnaðarsamra ákvarðana og aðgerða þegar í stað að því gefnu, að það fáist metið í formi sanngjarnra mótvægisaðgerða." 

  Það eru ýmis áform hérlendis um að minnka kolefnislosun með framleiðslu vistvæns eldsneytis, lífdísils, repjuolíu (nepjuolíu) o.þ.h., sem bændur eru eðlilegir kaupendur að til að minnka kolefnisspor sitt, enda verði verð lífræna eldsneytisins samkeppnishæft við dísilolíuna. Sveitarfélagið þarf að losa bændur við úrgang, sem vonandi verður hægt að selja til væntanlegs sorporkuvers, svo að þeir þurfi ekkert að urða, enda er að ganga í gildi bann við slíku. Losun gróðurhúsalofttegunda frá dýrahaldinu er erfiðari viðfangs og þarfnast kolefnisjöfnunar að mestu. 

"Fyrirheit um að kolefnisjafna íslenzkan landbúnað á næstu 19 árum er tröllaukið verkefni, sem mun kosta mikið fé.  Það fé mun bætast ofan á framleiðslukostnað íslenzkra búvara, svo að samkeppnishæfni þeirra mun minnka, komi ekkert annað til. Íslenzkir bændur gætu framleitt kolefnishlutlaust kjöt, en það yrði svo dýrt, að neytendur myndu í hrönnum kaupa ódýrara innflutt kjöt, sem ekki væri framleitt með jafnströngum kröfum.

Niðurstaða þeirrar jöfnu yrði hin versta fyrir þjóðarbúið, kolefnisútblástur minnkaði ekki neitt, en afkomu íslenzks landbúnaðar hefði verið kollvarpað." 

 Það, sem þarna er lýst, er angi af asanum, sem verið hefur á forsætisráðherra og umhverfisráðherra við að skuldbinda landsmenn til að minnka kolefnislosun á undan ýmsum öðrum án þess að kostnaðarmeta áætlunina fyrst.  Óþarft er að taka fram, að engu mundi breyta fyrir hlýnun jarðar, þótt hin örlitla losun Íslands mundi minnka aðeins hægar en sem nemur 0 nettólosun árið 2040.  Flas gerir engan flýti. 

"Landbúnaðarráðherra Þýzkalands lýsti því á hinn bóginn yfir síðastliðinn vetur, að nauðsynlegt yrði að setja græna tolla á innflutt matvæli, til þess að verja lífsviðurværi bænda í Evrópu. Hið sama er uppi á teninginum þar ytra og hér.  Kolefnisjafna á þýzkan landbúnað eigi síðar en 2050 - á meðan Íslendingar stefna að árinu 2040.  Þjóðverjar gefa sér sem sagt 10 árum lengri tíma en Íslendingar."

Forsætisráðherra og umhverfisráðherra er meira í mun að baða sig í sviðsljósinu, einnig erlendis, vegna háleitra markmiða um kolefnisfrítt Ísland og hika ekki við að leggja þær fjárhagsbyrðar á landsmenn, sem þetta gort þeirra kostar.  Það er ábyrgðarlaust að skuldbinda landsmenn fram í tímann án þess að vita, hversu hár reikningurinn verður.  Umgengni vinstri grænna við fé landsmanna er ámælisverð. 

Í lokin skrifaði Kári Gautason:

"Að mínu viti er eina leiðin til þess að koma í veg fyrir, að kostnaður við að kolefnisjafna búvörur hefti íslenzkan landbúnað sú að drífa í boðuðum verkefnum og ná árangri sem fyrst.  Jafnframt þyrfti að setja fram það eðlilega og ófrávíkjanlega skilyrði gagnvart íslenzkum stjórnvöldum, að sömu kröfur séu gerðar til innfluttra matvæla og þeirra, sem framleidd eru hérlendis.

Eitt ber þó að hafa í huga: verði íslenzkur landbúnaður ekki loftslagsvænni en sá, sem við keppum við - þá mun þessi aðferð ekki virka.  Því þarf að kappkosta að ná forskoti í loftslagsmálum; það er einfaldlega lífsspursmál fyrir íslenzkan landbúnað.  Sé ekki hugsað stórt og af framsýni í þessum efnum með því t.d. að auka framleiðni og afurðasemi gripa, koma á fót kolefnissamlagi, tryggja orkuskipti, innleiða græna tækni og gervigreind, munu margar sveitir verða eins og býli bóndans, sem nefndur var í byrjun, eyðibýli." 

Bændasamtökin verða að vinna með stjórnvöldum að því, að kolefnisjöfnunin fari fram án þess að draga úr samkeppnishæfni landbúnaðarins og helzt án þess, að hún leiði til hækkana á landbúnaðarvörum til neytenda. Ekki má taka nein skref án vandaðrar kostnaðaráætlunar og fjármögnunar, sem ekki raskar hag bænda. Bóndi er bústólpi - bú er landstólpi, því skal hann virtur vel. 

Það er mikið undir í kosningunum í haust og mikilvægt, að landsbyggðarfólk velji inn á þing fulltrúa, sem raunverulega bera hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti, en eru ekki ofurseldir hugmyndafræði um að innlima Ísland í ríkjasamband Evrópu eða með brenglaða sýn á samlífi mannsins við íslenzka  náttúru. 

Hrafnseyri við Arnarfjörð júní 2011  

 


Andóf gegn bábiljum getur varla verið hræðsluáróður

Samfylking og Viðreisn vilja komast í ríkisstjórn eftir komandi kosningar, og það er ekki útilokað, að þeim takist það. Það fjölflokka kraðak, sem stefnir í, að verði á Alþingi eftir næstu kosningar, útilokar þó, að slík stjórn geti veitt þjóðinni þann stöðugleika og frið, sem nú er þörf á til að þróa hér enn meiri hagsæld.

Þeirra aðalmál og það, sem sameinar þær, er að fara aftur í aðildarviðræður við Evrópusambandið (ESB), þótt ótrúlegt megi virðast, og leiða þær í þetta skiptið til lykta og fá Alþingi í krafti trausts meirihluta þar til að leggja blessun sína yfir samkomulagið. 

Það, sem mælir gegn því, að þessi glannareið heppnist, er þó þjóðarviljinn og stjórnarskráin.  Stjórnarskránni er hægt að breyta, en þá þarf Alþingiskosningar, þar sem þjóðin getur stöðvað málið.  Að fara inn á þessa braut er tímasóun og sóun fjármuna, sem sagt tímaskekkja.  Það ber að stuðla að því að hindra þessa flokka í að komast í aðstöðu til að leggja út á glæfrabraut, sem þjóðin er andsnúin. Slíkt hafa kjósendur í hendi sér.

Þorsteinn Pálsson, ÞP, fyrrverandi forsætisráðherra, er iðinn við kolann og beitir ýmsum brögðum til afla þeim skoðunum sínum fylgis, sem eru kjarninn í stefnu Viðreisnar, að Íslandi sé bezt borgið í tilvonandi sambandsríki Evrópu (án Bretlands, Færeyja og EFTA-landanna).  Þetta er hreinræktuð bábilja, sem hefur margsinnis verið kveðin í kútinn.  Lítum á Kögunarhólsgrein hans í Fréttablaðinu 15. júlí 2021:

"Hræðsluáróður opnar ekki ný tækifæri": 

"Andófið gegn því, að þjóðin fái sjálf að ákveða, hvort stíga eigi lokaskrefið til fullrar aðildar að Evrópusambandinu byggist fyrst og fremst á að skapa ótta við breytingar.

Þeir, sem eru lengst til hægri, beita nú sömu ráðum í þessari umræðu og þeir, sem voru lengst til vinstri og snerust öndverðir gegn aðildinni að Atlantshafsbandalaginu á sínum tíma."

Þetta eru rangfærslur. Það er enginn ótti við hið óþekkta, sem jafnan er samfara breytingum, sem stjórnar andstöðunni við aðildina að Evrópusambandinu, ESB.  Það er auðvitað mjög vel þekkt, hvað gerast mun við slíka inngöngu, og það er ískalt hagsmunamat, að sú fullveldisfórn mundi verða gríðarlegur baggi fyrir íslenzka þjóðfélagið, og sú gríðarlega aukning innleiðingar erlendrar löggjafar, sem samin er fyrir gjörólíkar aðstæður, yrði til mikils trafala fyrir okkar litla þjóðfélag og íþyngjandi fyrir áframhaldandi framleiðniaukningu. 

Ef vilji er fyrir hendi að spyrja þjóðina, hvort hún vilji ganga í ESB, hefði þingið getað ákveðið að gera það samhliða þingkosningunum í haust, en engin tillaga kom fram um það.  Það er nægilega vel vitað, hvað mundi koma út úr þeim aðlögunarviðræðum, sem vinstri stjórnin gafst upp á 2012. (Hún gafst upp á sjávarútvegskaflanum.)

Það er hins vegar tóm vitleysa að biðja stjórnmálaflokka, sem af grundvallarástæðum eru andvígir því að afsala meira sjálfstæði en orðið er til hins yfirþjóðlega valds í Brüssel, um að styðja það, að aðlögunarviðræður verði teknar upp að nýju, nema þjóðin hafi lýst yfir eindregnum vilja til þess (meirihluti fólks með atkvæðisrétt).  Þetta dróst Vinstri hreyfingin grænt framboð þó inn á veturinn 2009 til að mynda ríkisstjórn með Samfylkingunni. Sú vegferð tókst illa. Allt fór þar í handaskolum, eins og annað hjá þeirri ríkisstjórn. Samanburður ÞP á andstöðunni við aðildina að NATO 1949 og aðild að ESB 2021 er algerlega út úr kú.  Aðeins raunveruleikafirrtum mönnum dettur í hug að setja annan eins "bolaskít" á þrykk.

Síðan gerir hann fullveldið að umræðuefni og heldur áfram að bera saman alls óskyld fyrirbæri.  Tilgangurinn helgar meðalið:

"Fullveldið glatast.  Þetta var og er algengasta staðhæfingin. Reynslan af aðildinni af Atlantshafsbandalaginu sýnir hins vegar, að hún hefur styrkt pólitískt fullveldi landsins.

Reynslan af þátttöku í Fríverzlunarsamtökum Evrópu og síðar aðildinni að innri markaði Evrópusambandsins, sem nú er kjarni Evrópusamstarfsins, hefur með ótvíræðum hætti eflt efnahagslegt sjálfstæði landsins og um leið fullveldi þess. 

Hvers vegna ætti lokaskrefið, sem er minna en aðildin að innri markaðnum, að leiða til fullveldisglötunar ?  Enginn hefur sýnt fram á það með rökum.

Enginn þeirra, sem halda því fram, að Ísland myndi tapa fullveldinu með fullri aðild, treystir sér til að halda því fram, að Danmörk, Svíþjóð og Finnland séu ekki fullvalda ríki."

Það gætir hugtakabrenglunar hjá ÞP, og þá er ekki von á góðu.  Það er skoðun höfundar þessa vefpistils, að enginn vafi sé um öryggislega nauðsyn NATO-aðildarinnar og efnahagslega nytsemi EFTA-aðildarinnar og frjálsum viðskiptum yfirleitt.  Innri markaður ESB snýst hins vegar um miklu meira en frjáls viðskipti.  Hann snýst um frelsin 4 innan yfirþjóðlegs sambands, sem setur aðildarþjóðunum strangar reglur, sem þær verða að lögleiða hjá sér, og lúta síðan dómstóli þessa yfirþjóðlega sambands.  

Til að athuga, hvort þessi aðild að Innri markaðinum með EES-samninginum, sem Ísland hefur undirgengizt, styrki fullveldi landsins, er nú rétt að fara í smiðju til góðs lögfræðings, Arnars Þórs Jónssonar, en hann skrifaði m.a. þetta í Morgunblaðsgrein 10. júlí 2021:

"Fullveldi felur í sér, að íslenzk lög séu sett af lýðræðislega kjörnu Alþingi og að æðsta túlkunarvald um þau lög sé hjá íslenzkum dómstólum."  

Af þessari skilgreiningu að dæma veður ÞP reyk eða  reynir vísvitandi að villa um fyrir almenningi með því að halda því fram, að aðildin að innri markaði ESB/EES hafi eflt fullveldi Íslands.  Allt annað mál er, hvort sú aðild hefur orðið þjóðinni efnahagshaglega hagfelldari en sá fríverzlunarsamningur, sem áður var í gildi á milli EFTA og ESB. Það er sjálfstætt athugunarefni, hvort EES-aðildin hafi leitt til meiri hagvaxtar hér en ella, og þar verður að taka tillit til beinna og óbeinna þátta, t.d. afleiðinga minni árlegrar framleiðni af völdum stórvaxins regluverks, sem sniðið er við stærri fyrirtæki en starfa á Íslandi að jafnaði.  Viðskiptaráð áætlaði, að þetta óhagræði drægi framleiðniaukningu niður um 0,5 %/ár. ÞP getur þannig ekki einu sinni fullyrt með rökum, að íslenzka hagkerfið sé nú stærra en ella vegna aðildarinnar að EES. 

Áhrif Evrópusambandsins á Íslandi mundu auðvitað aukast verulega með fullri aðild að Sambandinu.  Við mundum t.d. þurfa að taka upp 100 % af löggjöf ESB í okkar lagasafn, en hlutfallið er nú innan við 20 %.  Hvernig getur ÞP þá fullyrt, að lokaskrefið sé minna en aðildin að Innri markaðinum, þegar innleidd löggjöf mundi meira en 5-faldast ?  Á grundvelli umfangs og djúpt inngrípandi áhrifa ESB-löggjafarinnar á daglegt líf fólks í aðildarlöndunum er óhætt að segja, að Danmörk, Noregur og Svíþjóð geti ekki talizt vera fullvalda ríki í sígildum skilningi þess orðs. Þótt þau komi að lagasmíði og lagasetningu innan stofnana ESB, eru þau samt minna fullvalda en Ísland og Noregur, enda á meðal fámennari ríkja innan ESB. 

Næst vék ÞP að sjávarútvegsstefnunni, og þá batnaði nú ekki hundalógíkin:

 "Þá er fullyrt, að með fullri aðild fyllist Íslandsmið af erlendum fiskiskipum.  Það er röng fullyrðing.  

Raunveruleikinn er sá, að sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins byggir á reglu um svonefndan hlutfallslegan stöðugleika.  Það þýðir, að engin þjóð fær rétt til veiða, nema unnt sé að sýna fram á veiðireynslu á næstliðnum áratugum. 

Engin þjóð hefur slíka veiðireynslu.  Íslandsmið verða því áfram aðeins fyrir íslenzk fiskiskip.  Og sérhver aðildarþjóð setur sínar eigin stjórnunarreglur.  Ekki þarf því að breyta fiskveiðilöggjöfinni vegna aðildar."

Barnalegar fullyrðingar ÞP hér að ofan um fulla stjórn Íslendinga á Íslandsmiðum eftir inngöngu í ESB hvíla á gildandi bráðabirgðaákvæði "CAP-Common Agricultural Policy", sameiginlegri sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu ESB. Henni getur ráðherraráðið breytt hvenær sem er að tillögu Framkvæmdastjórnarinnar, og nú hefur skapazt mikil þörf fyrir ný fiskimið fyrir stóran ESB-flotann, þar sem hann er að missa aðstöðu sína innan brezku fiskveiðilögsögunnar á næstu 5 árum.  Endanleg fiskveiðistefna ESB kemur fram í hvítbók ESB um efnið.  Þar er gert ráð fyrir jöfnum aðgangi allra útgerða aðildarlandanna að öllum fiskimiðum í lögsögu Sambandsins, og verði veiðiheimildir boðnar út eða upp, þegar aðstæður leyfa. 

Það þarf ekki að fjölyrða um, hvernig ástandið verður á íslenzkum útgerðum og sjávarbyggðum, þegar þær fara að keppa við evrópskar stórútgerðir um veiðiréttinn í íslenzku lögsögunni.  Stórt skarð verður óhjákvæmilega höggvið í gjaldeyrisöflun landsmanna og lífsviðurværi landsbyggðarinnar.  Í þessu ljósi geta menn skoðað fiskveiðistefnu Viðreisnar, sem í stuttu máli er uppboð veiðiheimilda, og þar með ekkert annað en aðlögun íslenzkrar sjávarútvegsstefnu að því, sem koma skal hjá ESB.  Kjósendur í íslenzkum sjávarbyggðum og víðar hljóta nú að hugsa sig um tvisvar áður en þeir ljá Viðreisn atkvæði sitt í Alþingiskosningum. 

Síðan sneri ÞP sér að gjaldmiðilsmálum, og þá tók ekki betra við:

 "Til þess að Ísland geti vaxið út úr kreppunni, þarf fyrst og fremst stöðugan gjaldmiðil.  Opna þarf fleiri tækifæri á erlendum mörkuðum fyrir unnar sjávarafurðir og nýsköpun í þekkingariðnaði.  Viðspyrna ferðaþjónustunnar er líka fólgin í þessu." 

Það er ekki heil brú í því, að Ísland væri betur sett með EUR en ISK til að komast út úr Kófinu.  ISK tók dýfu við upphaf Kófs og fram á haustið 2020, en hefur síðan sótt í sig veðrið og náð nýju jafnvægi, sem er öllum atvinnugreinunum (nema innflutningsverzlun) hagfelldara en gengið fyrir Kóf og dregur væntanlega dám af launahækkunum, sem urðu 2020.

Akkilesarhællinn í sambandi við unnar sjávarafurðir, sem ÞP nefnir, er samkeppnishæfni þeirra við unnar sjávarafurðir í ESB, á Bretlandi, í Bandaríkjunum og á öðrum mörkuðum.  Það þarf enn að auka framleiðnina hér, aðallega með áframhaldandi tæknivæðingu, þar sem launakostnaður á klst er hærri hérlendis en á þessum mörkuðum. 

Hvað ætli seðlabankastjóri ESB-ríkisins Póllands hafi að segja um sjálfstæða gjaldmiðla ?  Það kom fram í grein Adams Glapinski í Morgunblaðinu 13. júlí 2021:

"Þetta er einmitt ástæðan fyrir því, að við höfum okkar eigin gjaldmiðil, pólskt zloty - að hafa möguleikann á að reka sjálfstæða og óháða peningamálastefnu, sem er mikilvægur dempari fyrir okkur.

Við höfum metnaðarfull framtíðaráform, sem öll eiga eitt sameiginlegt - að auðvelda Póllandi að ná efnuðustu löndunum.  Til að ná þessu markmiði verðum við ekki aðeins að beita skynsamlegri peningamálastefnu, heldur einnig að nýta til fulls þau tækifæri, sem skapast vegna aukningar gjaldeyrisforða okkar."

Þetta var niðurstaða Pólverja, og söm varð niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslu Svía á sinni tíð. Þá má minnast á niðurstöðu ríkisstjórnar Tonys Blair með George Brown sem fjármálaráðherra.  Ítarleg rannsókn Breta gaf þá til kynna, að það yrði brezku efnahagslífi og fjármálakerfi ekki til framdráttar, nema síður væri, að fórna sterlingspundinu og taka upp EUR. Áhættan væri meiri en verjanlegt væri að taka.

Þegar pólitískir flautaþyrlar á Íslandi gaspra um, að það hljóti að verða íslenzka hagkerfinu til góðs að fórna ISK fyrir EUR, þá er það marklaust hjal og skortir allan hagfræðilegan og stjórnmálalegan trúverðugleika; er sem sagt algerlega út í loftið. 

Að lokum skrifaði Þorsteinn Pálsson af sínum Kögunarhóli, þar sem hann þó virðist vera eins og álfur út úr hóli í þessum skrifum sínum: 

"Breytt ríkisstjórn gæti horft fram á við og látið vinna heildstætt mat á ríkari möguleikum Íslands í fjölþjóðasamstarfi nýs tíma.

Þannig má leysa hræðslupólitíkina af hólmi og opna málefnalega umræðu um ný tækifæri til verðmætasköpunar og aukins athafnafrelsis."  

ÞP dreymir um, að sjónarmið hans um innmúrun Íslands innan veggja tollabandalags Evrópusambandsins verði ofan á í næstu ríkisstjórn. Það er óþarfi að eyða fé í skýrsluskrif um þetta "heildstæða mat" Þorsteins, því að það er mjög vel þekkt, hvaða áhrif innganga í ESB hefur á viðskiptakjör og annað. Það er hins vegar viðskiptalega mjög óáhugavert að láta múra sig innan "Festung Europa", því að þar fer sífellt minni hluti heimsviðskiptanna fram.  Mun áhugaverðara er að leita eftir fríverzlunarsamningum, gjarna í samfloti innan EFTA, við önnur þróuð svæði í góðum vexti, eins og t.d. Norður-Ameríku.  

Berlaymont sekkur

 

    

 

 

 

 

 

 

 


Uggvænlega horfir með vatnsbúskapinn í vetur

Hagkerfi þróaðra ríkja eru knúin áfram með orkugjöfum.  Það, sem skilur íslenzka orkukerfið og þar með hagkerfið frá öðrum, er mjög mikil orkunotkun á hvern íbúa.  Þetta er í raun undirstaða velmegunarinnar hér, sem er engan veginn sjálfgefin í ljósi staðsetningar og engra hefðbundinna auðlinda í jörðu.  Þær eru hins vegar í hafinu umhverfis landið, og í jarðhitanum er gríðarleg auðlegð fólgin.  Orkukerfi landsins sker sig frá orkukerfum flestra annarra þjóða með því, að það er talið sjálfbært, en veikleiki þess er hins vegar sá, að það er háð duttlungum náttúrunnar. Nú virðist vatnsbúskapur vera með lakasta hætti, þar sem vatnshæð Þórisvatns er undir lágmarki árstímans og hækkar hægt. 

Það er hægt að sjá við minniháttar minnkun á framboði orku í slæmum vatnsárum, eins og núna, með því að hafa borð fyrir báru, bæði í vatnsmiðlunargetu og aflgetu.  Það kostar og undir þeirri orkulöggjöf, sem landsmenn búa við frá 2003, þegar Orkupakki 1 (OP1)frá Evrópusambandinu (ESB) var innleiddur, virðist ekkert orkuvinnslufyrirtækjanna sjá sér hag í slíkum varaforða, en Landsvirkjun bar ábyrgð á raforkuöryggi landsmanna frá stofnun sinni 1965 fram að OP1. 

Alvara þessa máls er hins vegar fólgin í því, að samfélagslegt tjón af raforkuskorti, þótt hann verði með fyrirvara, eins og nú stefnir í, er margfalt meira en tjón orkufyrirtækjanna af minnkaðri raforkusölu.  Orkupakkarnir hafa skilið landsmenn eftir berskjaldaða gagnvart afleiðingum þess að innleiða orkulöggjöf á Íslandi, sem sniðin er við gjörólíkar aðstæður. Þennan yfirþyrmandi veikleika löggjafarinnar hér þarf að sníða af, eins og hverja aðra annmarka á löggjöf, svo að einhver aðili í þessu þjóðfélagi verði ábyrgur fyrir raforkuörygginu og hafi nægileg völd til að knýja á um nýja virkjun í nafni þjóðarnauðsynjar. Engu er líkara en þau þjóðfélagsöfl, sem reyna stöðugt að þvælast fyrir framfaramálum þjóðarheildarinnar, hvort sem um ræðir nýjar virkjanir eða flutningslínur, stingi nú hausnum ofan í sandinn.  Í kosningunum í september 2021 fer bezt á því, að þau hafi áfram hausinn í sandinum. Hvað þarf mikið tjón að hljótast af afturhaldsstefnunni áður en hún missir allan hljómgrunn og horft verður hlutlægum augum á virkjana- og línuáform.   

Það er ekki nóg með, að yfirvofandi sé afnám ótryggðrar raforku vegna vatnsskorts til þeirra, sem hana kaupa nú, heldur er Landsnet tekið að búa viðskiptavinni sína undir skort á s.k. reiðuafli, sem þýðir, að Landsnet sér fram á að geta hvorki annað álagstoppum né brugðizt við brottfalli rafala af kerfinu.  Þetta skapar hættu á tíðnilækkun í kerfinu, sem í sinni verstu mynd leiðir til kerfishruns, nema liðavernd stórra viðskiptavina bregðist rétt við.  Allt mun þetta leiða til framleiðslutaps, en vonandi ekki tjóns á búnaði hjá notendum. 

 Ástand, eins og hér er lýst, ógnar efnahagslegri viðspyrnu landsmanna og mun draga úr hagvexti. Þetta er sjálfskaparvíti og algerlega fyrirséð í hvað stefndi.  Sjálfskaparvítið er virkjanatregða, sem er af pólitískum toga.  Einstrengingsleg náttúruvernd tefur flestar framkvæmdir á sviði orkuöflunar (og flutnings), og er skemmst að minnast áforma HS Orku og Vesturverks um Hvalárvirkjun á Vestfjörðum, um 55 MW að uppsettu afli. 

Enn einkennilegra er, að Landsvirkjun skuli ekki hafa ráðizt í virkjun Neðri-Þjórsár, t.d. Hvammsvirkjun, en hún mun vera fullnaðarhönnuð fyrir meðalrennsli 352 m3/s, orkuvinnslu 720 GWh/ár með uppsettu afli 93 MW. Umhverfisáhrif verða í lágmarki, enda inntakslónið aðeins 4 km2.  Landsvirkjun ætlar að reisa trausta og varanlega brú á staðnum, sem tengja mun Árnessýslu og Rangárvallasýslu á nýjum stað.  Virkjunin mundi leysa úr brýnasta viðfangsefni orkugeirans, sem stafar af álagsaukningu vegna aukinnar eftirspurnar hjá útflutningsiðnaðinum og vegna orkuskiptanna auk fjölgunar íbúða. 

Í baksviðsfrétt Loga Sigurðarsonar í Morgunblaðinu 25. júní 2021 er viðtal við Lárus M.K. Ólafsson, viðskiptastjóra á iðnaðar- og hugverkasviði Samtaka iðnaðarins, SI.  Fyrirsögnin var:

"Fyrirtæki lýsa áhyggjum af stöðu raforkumarkaðarins".

""Við höfum verulegar áhyggjur af þróun raforkuverðs, og auðvitað er ekki á bætandi, ef það er einhver óvissa með framleiðslugetu, sem þar af leiðandi hækkar raforkuverð.  Þetta er viðvarandi, og við höfum lýst yfir áhyggjum af þessu alveg óháð því, hvort einhver túrbína bilaði í Reykjanesvirkjun, eða hvort það sé skert lónsstaða", segir Lárus." 

Hagsmunir atvinnulífsins eru tvímælalaust miklir gagnvart því, að á hverjum tíma sé nægt framboð raforku, og þar eru þjóðarhagsmunir undir. Næg "græn" raforka á hagstæðu verði fyrir kaupendur er eitt helzta samkeppnisforskot Íslands. Ef stjórnmálaöfl í ríkisstjórn eru að þvælast fyrir gerð nýrra virkjana, þegar orkuskortur blasir við, þá er það hreint skemmdarverk og ógn við lífsafkomu fólks. Að þvælast fyrir nýjum vatnsorkuvirkjunum, sem hafa lágmarks umhverfisrask í för með sér, ógnar bæði efnahagsframþróun vaxandi þjóðar og markmiðum ríkisvaldsins um 55 % minnkun losunar koltvíildisjafngilda árið 2030 m.v. 1990 og kolefnishlutleysi árið 2040.  Til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi á láði, legi og í lofti, verður líklega að virkja sem nemur um 2 TWh/ár, og þar að auki kemur vaxandi orkunotkun vegna aukinnar framleiðslu á þessu tímabili. Hvammsvirkjun er nauðsynleg vegna beggja þessara þátta. 

Umhverfisráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs setti sig upp gegn gerð varnargarða gegn hraunrennsli frá Fagradalsgígum. Sýnir það, hversu forstokkað afturhald þar er á ferðinni.  Það mun verða jafnvægi í orkumálum til trafala á Íslandi, ef sá maður verður kosinn á þing sem fulltrúi SV-kjördæmis í september 2021.  Sporin hræða.  Núverandi kyrrstöðu í virkjanamálum á Íslandi verður að skrifa á þá glórulausu hugmyndafræði, sem vinstri flokkarnir með vinstri græna í broddi fylkingar fylgja varðandi auðlindanýtingu á Íslandi.  Þessari sjálfheldu verður að linna í nafni hagsmuna núverandi og komandi kynslóða. 

"Lárus segist heyra mikið frá fyrirtækjum um hækkanir á flutningsgjaldskrá Landsnets, sem hækkaði í janúar [2021] um 5,5 % hjá stórnotendum og 9,9 % hjá dreifiveitunum. 

Svandís Hlín Karlsdóttir, viðskiptastjóri Landsnets, segir hækkunina hafa verið nauðsynlega og bendir á, að flutningsgjaldskráin hafi lækkað frá 2013.  Þetta hafi verið fyrsta hækkunin síðan þá.

Hún bætir við, að reynt hafi verið að koma í veg fyrir hækkunina í samstarfi við stjórnvöld, en það hafi ekki tekizt. Svandís segir eitt af markmiðum Landsnets að halda stöðugleika í flutningsgjaldskránni.  "Við vorum í þeirri stöðu, að annaðhvort þurftum við að hækka gjaldskrána eða draga úr fjárfestingum, og það er eitthvað, sem við töldum ekki ákjósanlegt að gera.  Við erum sérleyfisfyrirtæki, þannig að okkur eru settar ákveðnar tekjur, sem við megum hafa.  Við höfum ákveðið svigrúm til þess að færa tekjur á milli ára, og við vorum að vinna með stjórnvöldum í faraldrinum til að fá aukið svigrum, bæði til þess að geta haldið áfram fjárfestingum og koma í veg fyrir hækkunina á gjaldskránni, en það náðist ekki í tæka tíð", segir Svandís."  

Þarna er varla öll sagan sögð. Stjórnvöld (iðnaðarráðherra) var með frumvarp fyrir þinginu um að breyta reiknireglum fyrir tekjumörk Landsnets, svo að hækkunarþörf gjaldskrárinnar mundi minnka, en fjármagna mætti fjárfestingar í meira mæli með lántökum. Frumvarp þetta virðist illu heilli hafa dagað uppi í þinginu, úr því að þessar urðu málalyktirnar.  Í sambandi við reiknireglur gjaldskráa Landsnets er jafnframt vert að hafa í huga, að Orkustjóri ESB á Íslandi (Landsreglari) á síðasta orðið um hana.  Kannski hefur hann ekki verið hrifinn af, að við reiknireglunum yrði hróflað.  Þótt iðnaðarráðherra beri hina pólitísku ábyrgð á þessum miklu hækkunum á gjaldskrá Landsnets, er hún líklega blóraböggull í þessu máli, en sökudólgana annars staðar að finna. 

Allt of litlar beinar erlendar fjárfestingar eru á Íslandi fyrir eðlilegan vöxt athafnalífsins og atvinnusköpun, og þær eru tiltölulega mun meiri á hinum Norðurlöndunum. Það er athyglisvert, að erlendar fjárfestingar eru mjög litlar frá löndum ESB, nokkrar frá EFTA-ríkjunum, en mestar hafa þær verið frá Norður-Ameríku.  Ein slík býðst landsmönnum núna, en Landsvirkjun stendur sem þvergirðingur gegn henni.  Um er að ræða tæplega mrdISK 15 fjárfestingu Norðuráls á Grundartanga í nýjum búnaði í steypuskála fyrirtækisins til að geta steypt álsívalninga.  Til að leggja í slíka fjárfestingu þarf Norðurál tryggingu fyrir orkuafhendingu á verði, sem er fyrirsjáanlegra en núverandi viðmiðun við Nordpool-markaðinn. Fyrirtækið hefur farið fram á verð, sem er nálægt meðalverði til stóriðju á Íslandi með álverðstengingu.  Að öllu eðlilegu ætti að vera samningsgrundvöllur um þetta, en Landsvirkjun undir núverandi stjórn er ekki með öllu eðlilegt fyrirtæki. 

Þann 30. júní 2021 birtist í Markaðnum viðtal Þórðar Gunnarssonar við Mike Bless, fráfarandi forstjóra Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls:

"Álverðstenging raforkuverðs var ein helzta ástæða þesss, að forsvarsmenn Century Aluninium sáu sér þann leik á borði að kaupa álverið við Grundartanga árið 2004 af Columbia Ventures Corporation. 

Þetta er mat Mike Bless, fráfarandi forstjóra Century Aluminium, sem var staddur hér á landi á dögunum.  Fram kom í kauphallartilkynningu þann 17. maí 2021, að Bless myndi brátt láta af störfum sem forstjóri Century eftir 10 ár á forstjórastólnum."

Álfyrirtækin líta á álverðstengingu raforkuverðs sem  verulega áhættuminnkun fyrir eigendur sína og þess vegna eftirsóknarverða á svipulum markaði. Landsvirkjun áttaði sig fljótlega á, að gagnkvæmir hagsmunir væru fólgnir í álverðstengingunni, en árið 2010 varð afturhvarf til hins verra á þeim bæ.

"Málið snýst ekki endilega um lægra eða hærra verð. Það, sem okkur þótti aðlaðandi, var tengingin við álverð.  Við borgum glaðir hærra raforkuverð, ef okkar afurðaverð er hátt. Century Aluminium er ekki stór álframleiðandi á alþjóðlegan mælikvarða, og samkeppnisaðilar okkar, sem eru með ýmiss konar aðra starfsemi en álframleiðslu, þola betur sveiflur í álverði en við. 

 Þess vegna er álverðstengingin afar mikilvæg fyrir okkur.  Við erum líka með álverðstengingu í aðfangakaupum okkar, t.a.m. við innkaup á súráli.  Á sama hátt og við raforkuinnkaup þá borgum við súrálsbirgjum okkar glaðir hærra verð, ef álverð hækkar. 

En það var aðallega álverðstengingin, sem var aðlaðandi í okkar augum.  Hún þýðir, að við getum haft betri stjórn á okkar rekstraráhættu.  Svo verður líka að nefna, að álverið á Grundartanga er eitt það glæsilegasta m.t.t. stjórnunar, öryggismála, gæðamála og annars.  Eitt er að komast á þennan stað, en annað að viðhalda svo háum gæðastöðlum allan þennan tíma.  Það er stjórnendunum hér heima að þakka."

Þarna lýkur fráfarandi forstjóri móðurfélags Norðuráls lofsorði á árangur Norðuráls, og starfsfólkið verðskuldar hrósið.  Hið sama á við um starfsemina í Straumsvík, þar sem ISAL hefur náð frábærum árangri með verksmiðju, sem er talsvert minni og eldri en Norðurál, en Hafnfirðingar höfnuðu á sinni tíð stækkun ISAL, sem eigandinn var fús til að leggja út í. 

Álverðstenging er einnig hagstæð orkubirginum til lengdar, því að álfyrirtækið er yfirleitt fúst til að fallast á hærra meðalverð, ef það fær lægra verð, þegar á móti blæs á mörkuðunum. Núverandi forstjóri Landsvirkjunar taldi sig vita betur, þegar hann tók við 2010, og gekk þá hart fram í nafni stöðugleika að afnema álverðstenginguna.  Afleiðingin varð ekki stöðugleiki, heldur var Landsvirkjun nærri búin að missa þennan elzta viðskiptavin sinn fyrir vikið. 

"Þrátt fyrir að núverandi markaðsverð á áli myndi auðvitað réttlæta stækkun við Grundartanga, er ekki skynsamlegt að taka slíkar fjárfestingarákvarðanir út frá stundarverði.  Allt ferlið, sem snýr að leyfisveitingum, hönnun, undirbúningi og framkvæmdum, er 4 til 5 ára ferli.

Hins vegar er raunhæfara til skemmri tíma að bæta við virðisaukandi framleiðslu við Grundartanga, t.a.m. álboltaframleiðslu [álboltar hér sívalar álstengur-innsk.BJo].  Þó að álagið á álbolta yfir hrááli sé 1000 USD/t, þá myndum við samt alltaf horfa á 250 USD/t langtímameðaltalið til að ákveða, hvort fjárfestingin borgi sig.  

Það er snúið að taka langtímaákvarðanir út frá skammtímaverði.  Eftirspurn grænna álbolta er hins vegar að aukast í Evrópu og hefur verið um lengri tíma, og því höfum við lagt mikla áherzlu á að koma því verkefni af stað hér heima. En til þess að svo megi verða, þurfum við að hafa betri vissu um raforkuverð okkar til framtíðar." 

Það má ráða af þessu, að rækju stjórnvöld á Íslandi sókndjarfa iðnaðarstefnu, sem reist væri á meiri orkunotkun, þá væru líklega núna komin áleiðis áform um talsverða aukningu framleiðslugetu Norðurálsverksmiðjunnar. Því miður blasir allt annar og afturhaldssamari raunveruleiki við, stöðnun iðnvæðingarinnar og stefnuleysi varðandi nýjar virkjanir.  Það er engu líkara en afturhaldið í stjórnarandstöðunni sé þegar setzt við stjórnvölinn á þessu mikilvæga sviði atvinnuuppbyggingar og gjaldeyrissköpunar. 

Hjá Bless kemur fram, hversu ábatasöm álsívalningaframleiðslan er, því að verðið fyrir hana um þessar mundir er um 3500 USD/t samkvæmt honum. Að framkvæmdir við umbyltingu steypuskála Norðuráls skuli ekki nú þegar vera komnar á flugstig, verður að skrifa alfarið á þvergirðing Landsvirkjunar, sem er framfarahamlandi og einhvern veginn alveg í takti við stjórnarandstöðuna.  Hefur Samfylkingin kverkatak á stjórn Landsvirkjunar ?  Þetta er mjög óeðlilegt ástand, og tal talsmanna Landsvirkjunar um nýtingu grænna tækifæri til eflingar hags Íslands er hrein hræsni í þessu ljósi. 

Þá kemur réttmætt hrós Bless í garð starfsmanna Norðuráls, en svipaða sögu er að segja af ISAL og mjög líklega af fleiri stóriðjuverum á Íslandi: 

"Þessa aukningu í framleiðslugetu [úr 260 kt/ár í 320 kt/ár eða 23 %-innsk. BJo] má rekja til snjallra stjórnenda Norðuráls hér á landi, og það er ástæðan fyrir því, að þau hafa mikið að segja um rekstur álvera okkar í Bandaríkjunum. Þau hafa staðið sig einstaklega vel á Grundartanga." 

Sé horft til íslenzkrar stóriðju og árangurs hennar í alþjóðlegu samhengi, er freistandi að alhæfa þessi orð Mike Bless og færa þau yfir á stóriðjuna í heild.  Þau eru þess vegna beztu meðmælin, sem hægt er að fá fyrir aukningu þessarar starfsemi í landinu.  Til að svo megi verða þarf hins vegar pólitískan vilja, jafnvel eldhug, eins og finna mátti hérlendis á 7. áratug síðustu aldar, aðallega innan vébanda Sjálfstæðisflokksins.   

 

 

 

 

     


Vetnisvæntingar og virkjanaþörf

Við og við berast almenningi fregnir af miklum vetnisáformum. Síðast var það með forsíðuuppslætti forstjóra Landsvirkjunar, Harðar Arnarsonar, um samstarfsverkefni Landsvirkjunar og Rotterdam-hafnar um flutninga á vetni, framleiddu á Íslandi, til Rotterdam. Lesandinn var þó skilinn eftir í þoku með það, hvort þetta samstarfsverkefni spanni einnig vetnisverksmiðju. Aðrar fregnir herma, að Landsvirkjun vilji reisa vetnisverksmiðju við Ljósafossvirkjun.  Sú hugmynd er algerlega út í hött.  Á hvaða vegferð er þetta stóra og mikilvæga ríkisfyrirtæki eiginlega ?  Hafa menn algerlega tapað áttum ? Það eru fleiri, sem eru að rannsaka fýsileika þess að reisa hér vetnisverksmiðjur, og þeir hafa sumir áhyggjur af því, að raforkuverðið, sem slíkum vetnisverksmiðjum býðst, sé ósamkeppnishæft. Landsvirkjun er að villast út í bullandi hagsmunaárekstra ("conflict of interests"). 

Hvað sem því líður samkeppnishæfninni, verður að telja mjög óeðlilegt, að afskipti Landsvirkjunar af vetnisframleiðslu hérlendis séu nokkur önnur en að selja raforku til slíkrar framleiðslu.  Þetta ríkisraforkufyrirtæki, sem er risinn á fákeppnismarkaði stórsölu á rafmagni í landinu, verður að gæta "arms lengdar" við mögulega viðskiptavini sína, til að önnur vetnisfélög eða hvaða annar kaupandi þeirra takmörkuðu gæða, sem íslenzk raforka er, hafi ekki rökstudda ástæðu til að væna Landsvirkjun um mismunun.

Hafa fulltrúar eigenda Landsvirkjunar, Alþingismenn, rætt þessa útvíkkun á starfsemi Landsvirkjunar ?  Það hefur þá farið mjög lágt.  Þetta er grundvallarbreyting á hlutverki Landsvirkjunar, og slík stefnumörkun þarf að koma með lagasetningu eða a.m.k. þingsályktun frá Alþingi.  Það gengur ekki, að fyrirtækið vaði út um víðan völl með þessum hætti. Alþingismenn þurfa að skerpa á hlutverki Landsvirkjunar og bæta við orkulögin lagagrein um, að það sé á ábyrgð Landsvirkjunar að sjá til þess, að aldrei komi til forgangsorkuskorts í landinu, nema náttúruhamfarir hamli raforkuvinnslu.    

Í Morgunblaðinu 15. júní 2021 var forsíðufrétt um Rotterdam-ævintýri Landsvirkjunar og síðan frétt á bls. 4 undir fyrirsögninni:

"Grænt ljós á útflutning á grænu vetni".

Hún hófst þannig:

""Þessar niðurstöður eru mjög uppörvandi, og við hjá Landsvirkjun höfum trú á þessu samstarfi við Rotterdamhöfn", segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.  

Landsvirkjun og hafnaryfirvöld í Rotterdam hafa lokið við forskoðun varðandi möguleika á að flytja grænt vetni frá Íslandi til Rotterdam.  Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun sýna niðurstöðurnar, að tæknin er fyrir hendi jafnframt því, sem verkefnið er fjárhagslega ábatavænt.  Eins telur Landsvirkjun, að verkefnið yrði mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagshlýnun, þegar hagkerfi heimsins skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orku á komandi áratugum."

Þetta er óttalega innantómt hjá forstjóranum, enda auðvelt að verða sér úti um upplýsingar, sem með smáútreikningum sýna, að hagkvæmt muni á allra næstu árum verða að virkja vatnsföll og jarðgufu og jafnvel vind á Íslandi til að framleiða vetni með rafgreiningu (klofnun vatns).  Hins vegar yrði framboð vetnis frá Ísland alltaf hverfandi lítill hluti af heildarframboðinu til orkuskipta, og þess vegna mjög ofmælt og villandi, raunar tóm vitleysa, að halda því fram, "að verkefnið yrði mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagshlýnun".  Réttara er, að það skiptir engu máli í því stóra samhengi.  Það sést á því, að Landsvirkjun áformar að virkja 2-4 TWh/ár í þetta verkefni eða 200-500 MW að eigin sögn, sem gefur mjög háan nýtingartíma á ári, miklu hærri en mögulegur er með vindmyllum. Til samanburðar ætla Þjóðverjar fyrir árið 2030 að nýta vetni frá 80 GW uppsettu afli og miða þá við vindmyllur úti fyrir ströndum með nýtingartíma um 45 %.  Það þýðir, að þetta framlag Landsvirkjunar til vetnisvæðingar Þýzkalands yrði innan við 1 % árið 2030.  "Miklir menn erum við Hrólfur minn."

Fréttin í þessari frásögn er hins vegar sú, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun, sem gæti fengið fyrirspurnir frá nokkrum vetnisframleiðendum um sölu raforku til nokkurra vetnsisverksmiðja á landinu, sé að blanda sér inn í fýsileikakönnun eins aðila um vetnisverksmiðju og vetnisflutninga.  Þar er Landsvirkjun hreint út sagt komin út fyrir heimildir sínar og siðlega framgöngu í viðskiptum út frá samkeppnissjónarmiði.  Hún gefur höggstað á sér gagnvart Samkeppniseftirlitinu og ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, sem líklega telja hér um óeðlilega og samkeppnisskekkjandi ríkisaðstoð að ræða.  Þetta er dómgreindarleysi af hálfu stjórnar Landsvirkjunar. 

Afar áhugaverð grein birtist í Bændablaðinu 27. maí 2021 eftir Herrn Dietrich Becker, sendiherra Þýzkalands á Íslandi.  Hann varpar fram aðlaðandi samstarfsgrundvelli Íslendinga og Þjóðverja á sviði vetnistækni.  Greinin hét:

"Tækifæri fyrir Ísland og Þýzkaland".

Þar stóð í innganginum m.a.:

"Þýzkaland hefur náð miklum árangri í að byggja upp vind- og nýlega sólarorku.  Þegar árið 2020 var meira en helmingur þýzkrar raforkuframleiðslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum: 247 TWh/ár samtals (þar af vindorka 131 TWh/ár, sólarorka 51 TWh/ár, lífmassi 45 TWh/ár, vatnsorka 18 TWh/ár).  Heildar raforkuframleiðsla Íslendinga nam [þá] 19 TWh/ár [og var öll úr "endurnýjanlegum" orkulindum]."

Þetta er frábær árangur Þjóðverja, en dýrkeyptur sem mikil landfórn undir vindmyllur í þéttbýlu landi og hefur valdið háu raforkuverði.  Á næsta ári á að loka öllum starfræktum kjarnorkuverum í Þýzkalandi, og mun sá pólitíski gjörningur auka á losun koltvíildis, og er þess vegna furðuleg friðþæging fráfarandi kanzlara í garð græningja.  Framboðsgapið, ef af verður, verður fyllt með aukinni raforkuvinnslu gasorkuvera, kolakyntra orkuvera og innflutningi rafmagns.  Aðgerðin er þess vegna allsendis ótímabær. 

Nú stendur fyrir dyrum hjá Þjóðverjum að draga úr eldsneytisnotkun á fleiri sviðum en við raforkuvinnslu, og þá horfa þeir til vetnis og vetnisafleiða, s.s. ammoníaks.  Sú aðgerð er raforkukræf, því að þeir einblína á "grænt" vetni, og til að fullnægja áætlaðri vetnisþörf 2030 þarf um 30 % meiri raforku en nú nemur allri raforku Þjóðverja úr endurnýjanlegum orkugjöfum.  Þjóðverjar búast við að geta aðeins annað um 15 % þeirrar raforkuþarfar sjálfir eða um 50 TWh/ár, sem væri þá um 20 % aukning "grænnar" raforku í Þýzkalandi.  Það, sem á vantar af grænu vetni, verða þeir að flytja inn, og þeir hafa nú þegar samið um það við Portúgal, Marokkó og Síle.  Norðmenn hyggja líka gott til glóðarinnar.  Má líta á tilvitnaða grein þýzka sendiherrans sem lið í undirbúningi slíks samnings við Íslendinga.  Í þessu ljósi er afar óskynsamlegt af Landsvirkjun að binda hendur íslenzka ríkisins við samstarf við hollenzkan kaupanda.  Við eigum að hafa frjálsar hendur til þessara viðskipta, og benda má á, að stór markaður er að opnast fyrir grænt vetni á Norður-Englandi líka.

"Frá sjónarmiði þýzkra stjórnvalda og þýzks iðnaðar er greiningin ótvíræð.  Mikilvægasti þáttur umskipta í þýzkum iðnaði verður grænt vetni, vetni framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum.  Rafmagnsþörfin mun aukast mjög mikið vegna vetnisframleiðslu og samgangna með rafmagni.  Frekari uppbygging nálgast efnisleg og pólitísk endimörk.  Þýzkaland heldur áfram að byggja upp endurnýjanlegar orkulindir, en verður árið 2050 að treysta eftir sem áður á umtalsverðan innflutning á orku í formi rafmagns, vetnis og afleiðum þeirra."

Þýzkaland ræður varla við alger orkuskipti með núverandi tækni, þótt landið flytji inn "grænt" rafmagn, t.d. frá Noregi um sæstreng, sem trúlega kemst í gagnið á þessu eða á næsta ári, og "grænt" vetni, jafnvel alla leið frá vatnsorkulöndum Suður-Ameríku.  Árið 2030 verður vafalítið komin til skjalanna ný, umhverfisvæn tækni til raforkuvinnslu, líklega kjarnorkutækni með mun minna geislavirkum úrgangi og styttri helmingunartíma en frá núverandi úraníum-verum.  Hvers vegna taka íslenzk stjórnvöld ekki þýzk stjórnvöld á orðinu og fá þýzkan vetnisframleiðanda til að stofna vetnisfélag á Íslandi með íslenzkri þátttöku áhugasamra, sem mundi semja um raforkukaup við íslenzka orkubirgja og framleiða "rafeldsneyti" hér til útflutnings til Þýzkalands ?

Þann 10. marz 2021 birtist í Morgunblaðinu viðtal við Hafstein Helgason, verkfræðing hjá Verkfræðistofunni EFLU.  Viðtalið bar fyrirsögnina:

"Áform um vetnisgarða á Íslandi".

Þar sagði Hafsteinn Helgason m.a.:

"Með þetta [fyrirhuguð vindorkuver á Íslandi - innsk. BJo] í huga er verið að undirbúa fundarhöld milli Íslands og Þýzkalands, en Þjóðverjar eru farnir að sýna Íslandi áhuga [sem hreinorkulandi - innsk. BJo]. Þeim hefur fundizt sem ekki sé hægt að framleiða nógu mikið af raforku á Íslandi.  Við getum hins vegar vel framleitt 5-8 GW af vindorku án þess að þrengja að ferðaþjónustu eða vera lífríkinu til ama." 

 

""Annað verkefnið snýst um að virkja allt að 1,0 GW á NA-horni landsins og reisa vetnisverksmiðju í Finnafirði.  Við höfum unnið það með Þjóðverjum, en innlendir og erlendir aðilar tengjast þessu verkefni.  M.v. að hvert MW með vindorku kosti MISK 180, þá kosta 1000 MW mrdISK 180.  Þetta er aðeins vindorkuþátturinn.  Svo er vetnisþátturinn eftir.  Í þessu tiltekna verkefni er horft til þess að gera ammoníak úr vetninu, því [að] vetnisgasið er svo rúmfrekt; það kostar töluvert mikið að vökvagera það [kæling undir þrýstingi - innsk. BJo]. Rúmmetrinn af fljótandi vetni vegur aðeins 71 kg, en rúmmetrinn af ammoníaki 600 kg", segir Hafsteinn og leggur áherzlu á, að bezt sé að nýta ammoníakið beint sem orkugjafa [orkubera - innsk. BJo]. 

   Hér er um gríðarlegar fjárfestingar að ræða, sennilega yfir mrdISK 500 í orkuveri, vetnisverksmiðju og ammoníakverksmiðju, hafnargerð og hafnaraðstöðu. Hagsmunir landshlutans og landsins alls af þessu verkefni eru gríðarlegir.  Það er stórskrýtið, að ekki heyrist bofs um stefnumörkun iðnaðarráðuneytisins í málinu.  Hins vegar býst ég við, að tilvonandi 1. þingmaður NA-kjördæmis verði þessu meðmæltur.  Það mun samt verða nóg af andmælendum.  Afturhaldið í landinu hefur allt á hornum sér, þegar verðmætasköpun í dreifbýlinu er á döfinni. 

Það er mjög áhugaverð aukabúgrein, sem af þessu stórverkefni getur spunnizt:

""Svæðið er þar að auki einstaklega hentugt til uppbyggingar á laxeldi, staðsettu á landi.  Jafnvel tugi þúsunda tonna árlega.  Súrefnið við vetnisframleiðsluna færi til íblöndunar við eldissjóinn til að minnka dælingarþörfina [í orkusparnaðarskyni og til að draga úr viðhaldsþörf - innsk. BJo].  Glatvarminn frá iðnferlunum færi í að hita sjóinn til eldisins í kjörhitastig", segir Hafsteinn um hinn gagnkvæma ávinning.  Þá muni vindorkuverin skapa landeigendum tekjur og ammoníakið skapa tækifæri "fyrir hröð orkuskipti fiskiskipaflotans."  

Þetta er mjög áhugaverð viðskiptahugmynd, sem þarna er kynnt til sögunnar.  Byrjunarumfangið nægir til samkeppnishæfs rekstrar, landrými er líklega nægt, og staðsetningin truflar vonandi fáa, og aðstæður fyrir hafnargerð eru fyrir hendi.  Tækniþekking samstarfsaðilanna er væntanlega næg fyrir hönnun, uppsetningu og rekstur alls verkefnisins, og síðast en ekki sízt eru Þjóðverjarnir væntanlega fúsir til að fjármagna öll herlegheitin. 

Hið sama verður ekki sagt um áform Landsvirkjunar.  Fyrirtækið hefur beðið Grímsnes- og Grafningshrepp um aðalskipulagsbreytingu á lóð Ljósafossvirkjunar til að hola þar niður örlítilli vetnisverksmiðju, sem aldrei getur borið sig sökum smæðar og á alls ekki heima í þessu umhverfi.  Verkefnið kallar á vetnisflutninga eftir þröngum vegum, þar sem ferðamannaumferð er mikil.  Þetta virðist algerlega þarflaust verkefni og algerlega utan við verksvið Landsvirkjunar.  Þessi hugmynd er sem út úr kú.

Í baksviðsfrétt Morgunblaðsins 17. júní 2021:

"Vetni framleitt við Ljósafoss",

stóð þetta m.a.:

"Í fyrirhugaðri aðalskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir, að íbúðasvæði vestan við Ljósafossvirkjun, sem er í núverandi aðalskipulagi skilgreint sem íbúðabyggð, verði breytt í iðnaðarsvæði.  Við Ljósafossstöð áformar Landsvirkjun að hefja vetnisvinnslu, og því er þessi breyting á skipulaginu nauðsynleg.  Uppsett afl virkjunarinnar er 16 MW, og Landsvirkjun áformar, að uppsett afl rafgreinis verði 10 MW.  Stærð vetnisstöðvarinnar verður nálægt 700 m2."

 Sveitarstjórnin ætti að hafna þessari ósk um skipulagsbreytingu.  Vatnsorkuverið Ljósafoss er heimsótt af fjölda manns árlega og nær væri að efla þjónustu við ferðamenn á þessum fagra stað en að fæla ferðamenn frá með vetnisframleiðslu, vetnistönkum og vetnisflutningum.  

 

 

 

 


Þráhyggjan er þeirra einkenni

Þegar kommúnisminn hrundi sem siðferðislega og fjárhagslega gjaldþrota þjóðskipulag, þá misstu sósíalistar (sameignarsinnar) hvarvetna fótanna og hafa átt í mesta basli við að fóta sig síðan. Boðskapur þeirra um forræði stjórnmálamanna yfir atvinnurekstri og flestum eignum hefur alls staðar endað með ósköpum og afnámi einstaklingsfrelsis, þar sem þeir hafa komizt í aðstöðu til að láta að sér kveða.

Í kjölfar þessa og þjóðfélagsbreytinga á Vesturlöndum með enn meiri eflingu miðstéttarinnar hefur fylgið einnig reytzt af sósíaldemókrötum (jafnaðarmönnum) á Vesturlöndum, og nægir að minna á niðurlægingu brezka Verkamannaflokksins (Labour) og þýzka Jafnaðarmannaflokksins (SPD), en í fylkiskosningum 6. júní 2021 í Sachsen-Anhalt hlaut hann aðeins 8 % atkvæða. Boðskapur þeirra passar ekki við tíðarandann (Zeitgeist). Græningjar hafa hafa "Zeitgeist" með sér.

Það er ljóst, að íslenzkir vinstri menn þjást einnig af uppdráttarsýki, því að þeir hafa ekki lengur neinar rætur til verkalýðshreyfingarinnar. Í staðinn er blásið um mikilvægi þess, að Íslendingar verði "kolefnishlutlausir". Það mun þó engin mælanleg áhrif hafa á hitastig andrúmslofts jarðar. Sérvizkulegar kreddur, sem lítið sem ekkert höfða til daglegrar lífsbaráttu fólks, einkenna málflutninginn, og nú er að koma í ljós, að tvö mál ætla vinstri menn að halda dauðahaldi í í komandi kosningabaráttu af einskærri þráhyggju og málefnafátækt, fyrir utan loftslagsumræðuna, en það er endurskoðun stjórnarskrárinnar frá grunni, þ.e. ný stjórnarskrá, og umbylting fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Þegar hér er komið sögu, verður að átta sig á því, hverjir þessir vinstri flokkar eru.  Það eru t.d. þeir flokkar, sem sameinazt hafa um meirihlutamyndun til að stjórna Reykjavík, en stjórnun borgarinnar er, eins og sorgarleikur trúða, þar sem þekking á öllum málum, frá umferðartækni til fjármála, er fótum troðin, en fullkomnir fúskarar fá að traðka niður matjurtabeðin.

Eftir að varadekkið Viðreisn gekk til samstarfs við fallistana í Píratahreyfingunni og Vinstri hreyfingunni grænu framboði undir stjórn Samfylkingar, stendur ekki steinn yfir steini í borginni. Það hefur keyrt um þverbak í hænsnabúinu.  Bragginn með sínum dönsku stráum að annars gagnslausu, en risastóru sóunarverkefni, Borgarlínunni, eru á meðal ömurlegra minnisvarða samvizkulausra sérvitringa og bruðlara með almannafé, og hnífurinn hefur ekki gengið á milli þeirra, svo að öllu þessu ásamt Flokki fólksins og Sósíalistaflokkinum má kemba með einum kambi.

Um Lýðveldisstjórnarskrána með áorðnum breytingum er það að segja, að fullveldistrygging hennar, sem ESB-sinnarnir vilja feiga, reyndist sverð og skjöldur þjóðarinnar, þegar hæst þurfti að hóa og mest reið á í ólgusjó fjármálahrunsins 2008-2010. Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur, rakti þetta og ósvífna aðför vinstri stjórnarinnar 2009-2013 að Lýðveldisstjórnarskránni í nýjasta hefti Tímarits lögfræðinga.  Morgunblaðið gerði rækilega grein fyrir þessu og ónothæfum drögum Stjórnlagaráðs í forystugrein 7. júní 2021:

"Vegið að undirstöðu".

Því er m.a. haldið fram af áhangendum þessa Stjórnlagaráðs, að þjóðin hafi samþykkt tillögu þess í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. Þetta er alveg fráleit ályktun.  Lagðar voru fyrir kjósendur nokkrar spurningar og spurt eitthvað á þá leið, hvort leggja ætti tilgreindan texta til grundvallar nýrri stjórnarskrá.  Spurningarnar voru bæði loðnar og leiðandi og fullnægðu engan veginn þeim gæðakröfum, sem gera verður til spurninga í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þar að auki er þessi spurningavaðall ótækur í atkvæðagreiðslu um stjórnarskrá.  Atkvæðagreiðslan var þess vegna ómarktæk sem slík.  Þegar fá á skoðun þjóðar á nýrri stjórnarskrá, ber að leggja hana fyrir þjóðina í heild sinni frágengna með góðum fyrirvara og spyrja síðan, hvort kjósandinn samþykki hana eða hafni henni.  Allt annað er kukl og fúsk. 

Miklar breytingar á stjórnarskrá skapa réttarfarslega óvissu í landinu, hvað þá alger endurnýjun.  Breytingar eiga að stuðla að auknum skýrleika fyrir almenning og dómara.  Sá kafli Stjórnarskrárinnar, sem er einna óskýrastur, jafnvel úreltur, er um forseta lýðveldisins.  Alþingi ætti að fela stjórnlagafræðingum að endursemja hann og fela forseta skýrt vald við stjórnarskipti og þingrof, svo og að setja inn ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Slíkt er í anda nútímalegra lýðræðishugmynda.  Að buxnast við að setja inn alls kyns óþarfa í stjórnarskrá lýðveldisins, er tímasóun og misskilningur.  Það er t.d. alger óþarfi að setja í stjórnarskrá einhver gjaldtökuákvæði fyrir afnotarétt af auðlindum.  Þessum málum getur Alþingi hagað að vild sinni með lagasetningu án atbeina Stjórnarskrár.

Verður nú vitnað í téðan Morgunblaðsleiðara:

"Kristrún [Heimisdóttir, lögfræðingur] rekur þann dapurlega og löglausa farsa, sem í hönd fór, allt í boði vinstri stjórnarinnar, og að auki, hvernig þetta stjórnlagaráð "fór út fyrir umboð sitt, eins og það var ákveðið í þingsályktun".  Þá tók við kosning um "tillögur stjórnlagaráðs", sem Kristrún bendir á, að hafi ekki einu sinni verið tillögur stjórnlagaráðs, enda hafi þær ekki verið fullbúnar "til þinglegrar meðferðar, hvað þá þjóðaratkvæðis".  Mjög var svo óljóst um hvað var kosið í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2012, sem Kristrún segir, að hafi orðið til á "hrossakaupamarkaði" stjórnmálanna og kjósendur hafi verið látnir halda, að þeir væru að kjósa um tillögur stjórnlagaráðs, sem hafi ekki verið raunin.  Og hún talar um, að "orðræða um frumvarp stjórnlagaráðs" og "tillögur stjórnlagaráðs" hafi í meðförum Alþingis orðið "völundarhús hálfsannleikans".  

Í ljósi þessarar úttektar Kristrúnar Heimisdóttur, lögfræðings, blasir við, að sú stjórnarskráræfing, sem þarna fór fram, var slys, og það er tímasóun og rangfærsla að fjalla um hana sem eitthvað, sem Alþingi skuldi þjóðinni. Þeir, sem það gera enn, fiska í gruggugu vatni fórnarlambstilfinningarinnar.  Þetta slys hefur verið afskrifað og bezt er, að það falli í gleymskunnar dá.

Núverandi Stjórnarskrá bjargaði Íslandi frá gjaldþroti 2008-2009 með sínum ótvíræðu fullveldisákvæðum, sem t.d. áhangendur ESB-aðildar vilja nú þynna út.  Með hliðsjón af úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslnanna um "Icesave" er harla ósennilegt, að þjóðin muni samþykkja nokkra útþynningu ákvæða, sem nú tryggja óskorað fullveldi ríkisins.  

Mogginn hélt áfram:

"Í grein sinni lýsir Kristrún því, hve fjarstæðukennt það sé að telja, að stjórnarskráin hafi haft eitthvað með bankahrunið að gera.  Þvert á móti fer hún yfir það, að stjórnarskráin hafi auðveldað Íslandi að komast út úr þeirri orrahríð, sem það lenti í. Um þetta segir í greininni:

"Ísland gat með engu móti bjargað of stóru fjármálakerfi frá þroti haustið 2008.  Því varð lagasetning innan ramma stjórnarskrár, sem sætti endurskoðunarvaldi dómstóla m.t.t. sömu stjórnarskrár, eina bjargræði þjóðfélagsins.  Aðgerðir Íslands skáru sig úr í alþjóðlegu fjármálakreppunni, og hvergi annars staðar var fullveldisrétti beitt á sambærilegan hátt í kreppunni.  Stjórnarskrá Íslands var í eldlínu alþjóðlegra átaka við erlendar ríkisstjórnir, alþjóðastofnanir og erlenda kröfuhafa, því [að] í krafti hennar og í íslenzkri lögsögu breytti Ísland reglum með neyðarlögum, forseti Íslands beitti málskotsrétti til þjóðaratkvæðis tvisvar [þegar honum og tugþúsundum kjósenda ofbauð gjörðir Alþingis - innsk. BJo], og allir ytri aðilar höfðu virt þessar aðgerðir, þegar upp var staðið. Vegna þess að útilokað var stöðva hrunið með íslenzku fjármagni eða lánstrausti að utan, voru stjórnarskráin og fullveldisréttur, byggður á henni, einu úrræðin til að stöðva hrunið. Og það gekk.  Stjórnarskráin stöðvaði hrunið, og íslenzka réttarríkið var nógu sterkt andspænis umheiminum." 

Þráhyggjumenn eru og að sönnu iðnir við kolann að níða skóinn ofan af útgerðarfélögum.  Sagt er, að útgerðarmenn valsi í auðlind þjóðarinnar, á meðan aðrir komist ekki þar að, og greiði allt of lágt gjald fyrir þennan aðgang.  Þeir ættu að greiða markaðsgjald, svo að þjóðin fái sitt og réttlætinu sé fullnægt.  Halda þessir niðurrifsmenn því fram, að leiguverðið, sem er yfir 200 ISK/kg, sýni markaðsverð aflahlutdeildanna.  Þetta sýnir, að þessir spekingar vita ekkert, hvað þeir eru að tala um.  Leiguverðið er s.k. jaðarverð, þ.e. verð á viðbótum við kvóta, sem útgerðarmenn hafa fjárfest í.  Þessi viðbót þarf ekki að standa undir neinum fastakostnaði, heldur aðeins breytilegum kostnaði.

Til að fá fram markaðsverð aflahlutdeilda er sagt, að  þurfi að bjóða þær upp á markaði, og sú útgerð, sem byði jaðarverðið, færi lóðbeint á hausinn á því sama fiskveiðistjórnunarári. Hvort er um fáfræði eða illskeytta rangfærslu að ræða ?  Uppboðskerfið er fyrirskrifað í hvítbók ESB um fiskveiðistefnuna, en á meðan útgerðir ESB-landanna eru niðurgreiddar úr ríkissjóðum landanna, ríkir ekki frjáls samkeppni á þessum markaði, og þess vegna hefur ESB ekki enn sett þetta kerfi á.  Hins vegar hafa einstök lönd gert það, t.d. Eistland, en þau hafa fljótlega horfið frá uppboðskerfinu, af því að það gaf skelfilega raun, gjaldþrot minni útgerða og söfnun aflahlutdeilda til stórútgerða.  Stórútgerðir í ESB og í Noregi eru miklu stærri en þær íslenzku. Það gefur líka auga leið, að með uppboðskerfi er innleidd skammtímahugsun í útveginn, sem leiðir alls staðar til verri umgengni við auðlindina. Til að hvetja útgerðarfélög til skráningar í kauphöll Íslands, svo að þau geti orðið almenningshlutafélög, mætti hækka kvótaþak einstakra tegunda úr 12 % í t.d. 18 % hjá slíkum félögum.  Þá mundi skapast svigrúm til enn meiri hagræðingar, sem mundi styrkja samkeppnishæfni þeirra um fjármagn og um erlenda markaði. 

Um 95 % afla íslenzkra útgerða fer á erlenda markaði, þar sem þær eiga í höggi við niðurgreiddar útgerðir.  Íslenzkar útgerðir eru þær einu í Evrópu, sem þurfa að greiða veiðigjöld, utan þær færeysku.  Samkeppnisstaðan er því nú þegar skökk, því að íslenzkar útgerðir greiða hátt hlutfall hagnaðar í veiðigjöld, en erlendum er bættur upp tapreksturinn.

Íslenzkur sjávarútvegur hefur fjárfest mrdISK 250 á undanförnum 10 árum í veiðum og vinnslu.  Samkeppnin knýr þau til að lækka kostnaðinn per kg, og það hefur þeim tekizt frábærlega. Þjóðhagslega hagkvæmasta fiskveiðistjórnunarkerfið er kerfi, sem hámarkar sjálfbærar veiðar, hámarkar verð á kg og lágmarkar kostnað á kg. Þar með verður mest til skiptanna, sem allir njóta góðs af. Þetta gerir einmitt núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, sem samþættir veiðar, vinnslu og markaðssetningu. Það væri óheillaskref aftur á bak fyrir hagsmuni þjóðarinnar, eiganda sjávarauðlindarinnar, að hrófla nú við kerfi, sem gefur henni hámarksarðsemi af auðlindinni í aðra hönd.

Að stórhækka veiðigjöld með einum eða öðrum hætti virkar eins og að hækka skattheimtu á fyrirtækin.  Fjárfestingargeta þeirra minnkar, og þau neyðast til að draga úr fjárveitingum til rannsókna og þróunar, sem hefur gert þeim kleift að gjörnýta hráefnið og stækka þar með enn kökuna, sem er til skiptanna fyrir alla þjóðina. 

Því hefur verið haldið fram, að óeðlilegar arðgreiðslur eigi sér stað í sjávarútvegi.  Samanburður talna um hlutfallslegar arðgreiðslur til fjármagnseigenda í sjávarútvegi og í öðrum fyrirtækjum sýnir þó, að þetta er hreinn uppspuni.  Sjávarútvegurinn er fjármagnsfrekur, og kostar t.d. góður togari nú um mrdISK 6.  Það er þess vegna eðlilegt og ánægjulegt, að sjávarútvegsfyrirtækin eru nú í auknum mæli skráð í Kauphöll Íslands og almenningi boðin þátttaka í eignarhaldinu og þar með að sjálfsögðu einnig arðgreiðslunum til eigenda.  Að tengja saman hagsmuni almennings og sjávarútvegsins með beinum hætti mun vonandi leiða til aukinnar ánægju almennt með góðan árangur í þessari grein, svo að áróður, reistur á öfund og illvilja, koðni niður.  Arður af eigin fé fyrirtækja hefur verið gerður að skotspæni öfundarmanna einkaframtaksins, en arður eru einfaldlega vextir af því áhættufé, sem lagt er í fyrirtækjastarfsemi.  Án arðsvonar verða engar fjárfestingar í einkageiranum.  Þá mun hagkerfið von bráðar skreppa saman öllum til tjóns. 

Í öllum atvinnugreinum á Íslandi hefur orðið góð framleiðniaukning, einkum í vöruframleiðslugeirunum, á undanförnum árum.  Tækniþróun í krafti öflugra fjárfestinga er undirstaða þessarar tilhneigingar.  Ávinninginum af framleiðniaukningunni er í flestum samfélögum, ekki sízt í lýðræðisríkjum, skipt á milli fjármagnseigenda og launþega.  Hvergi er hlutur launþega í skiptingu verðmætasköpunarinnar stærri en á Íslandi.  Það er þess vegna ljóst, að launþegar hafa mestra hagsmuna að gæta, að fjárfestingar í atvinnulífinu séu sem mestar og skynsamlegastar. Það verður bezt í pottinn búið fyrir fjárfestingar með pólitískum og efnahagslegum stöðugleika og lækkun opinberra gjalda.  Enn meiri hækkun veiðigjalda eða uppboðskerfi aflaheimilda mundi vinna þvert gegn þessum hagsmunum launþega. Það eru falsspámenn, sem fóðra sjúklegar skattheimtuhugmyndir sínar með gluggaskrauti á borð við, að þjóðinni beri að fá eðlilegan arð af auðlind sinni.  Í raun eru þessir falsspámenn að boða þjóðnýtingu sjávarútvegsins.  Bein afskipti stjórnmálamanna af atvinnurekstri leiða alls staðar og alltaf til ófarnaðar.  Ríkisrekstur stenzt einkaframtakinu ekki snúning, og þess vegna bregða stjórnmálamenn ríkisvæðingarinnar alltaf á ráð kúgunarinnar. 

Gott dæmi um framleiðniaukningu undanfarið í sjávarútvegi gat að líta í Viðskiptamogganum 2. júní 2021 undir fyrirsögninni:

 "Síldarvinnslan stefnir á nýja markaði".

 "Gunnþór [Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar] segir fyrirtækið hafa náð fram mikilli hagræðingu í rekstri.  Um það vitni t.d. fækkun fiskimjölsverksmiðja úr 8 í 2, og stóraukin framleiðni í loðnufrystingu á hvern starfsmann.  Afkastagetan farið úr 2 t/dag í 24 t/dag.  Þá geti 1 skip afkastað jafnmiklu á veiðum og 2-3 áður."

 Hér skal fullyrða, að taki stjórnmálamenn upp á því á næsta kjörtímabili, eins og hugur þeirra sumra virðist standa til, að fara að hræra í gildandi stjórnkerfi fiskveiða, þá verður sambærileg framleiðniaukning liðin tíð, og þar með mun sóknarþungi landsmanna til meiri velferðar koðna niður.  Hvernig mun þá fara fyrir þjóð, sem þarf að standa undir stöðugt vaxandi útgjöldum til heilbrigðis- og öldrunarmála, þótt hægi á fjölgun á vinnumarkaði ?  Kukl er enginn kostur.  

 

 

 

 

 


Alþjóðamál í deiglunni

Uppgangur Kína og tilhneiging til yfirgangs við nágranna sína á Suður-Kínahafi og Austur-Kínahafi, og vaxandi ógn, sem Taiwan stafar af Rauða-Kína, hefur ekki farið framhjá neinum, sem fylgjast dálítið með.  Þá hafa tök Kínverja á hrávöruöflun og vinnslu sjaldgæfra málma valdið áhyggjum iðnaðarþjóða frá Japan um Evrópu til Bandaríkjanna.

Framboð kínverskra málma í Evrópu og Bandaríkjunum hefur minnkað frá miðju ári 2020, líklega vegna minni raforkuvinnslu í gömlum og mengandi kolaorkuverum og mikillar málmeftirspurnar í Kína sjálfu.  Olíuverð og hrávöruverð almennt hefur hækkað mikið frá lágmarkinu í Kófinu, og má orsakanna að miklu leyti leita í Kína, þessu gríðarlega vöruframleiðslulandi. Eins og Huawei-málið sýndi, þarf nú að fara að meta viðskiptin við Kína í ljósi þjóðaröryggis.  

Á austurlandamærum Evrópusambandsins (ESB) eru væringar við Rússa og vopnuð átök á milli Úkraínu og Rússlands.  Í gildi er viðskiptabann á vissum vörum á milli Rússlands, EES og BNA.  Við áttum ekkert erindi í það viðskiptabann, því að Vesturveldin einskorðuðu það við tæknivörur, sem hægt væri að nýta við smíði hergagna.  Fyrir vikið misstum við mikilvægan matvælamarkað í Rússlandi.  Á fundi í Reykjavík nýlega óskaði utanríkisráðherra Rússlands eftir því, að Ísland væri dregið út úr þessu viðskiptabanni.  Við eigum að leita samninga um það við bandamenn okkar, enda taka t.d. Færeyingar ekki þátt í því.

Í Vestur-Evrópu hafa miklir atburðir gerzt, þar sem Bretar hafa rifið sig lausa frá ólýðræðislegu skrifræðisbákni meginlands Evrópu.  Engar af dómsdagsspánum hafa rætzt í því sambandi.  Bretar eru langt á undan Evrópusambandinu (ESB) í bólusetningum og hagvöxturinn er á hraðari uppleið á Bretlandi en í ESB. Bretar gera nú hvern fríverzlunarsamninginn á fætur öðrum við lönd um allan heim.  EFTA-ríkið Svissland með sína öflugu utanríkisþjónustu reið á vaðið á meðal EFTA-ríkjanna fjögurra og gerði víðtækan fríverzlunarsamning við Bretland fyrr á þessu ári.  Í kjölfarið sigldu hinar EFTA-þjóðirnar 3, Ísland, Noregur og Liechtenstein, og höfðu samflot, en EES-kom ekkert við sögu.  Íslenzkir hagsmunir voru greinilega ekki hafðir í neinu fyrirrúmi í þessari samningalotu, þannig að viðskiptakjör fiskverkenda hérlendis hafa ekkert batnað, þótt vonir stæðu til þess. Því miður hefur íslenzka utanríkisráðuneytið enn valdið vonbrigðum.  

Kvótinn fyrir innflutning brezks svínakjöts, kjúklinga, eggja, ávaxta og grænmetis er anzi ríflegur og gæta verður þess að draga úr kvóta ESB að sama skapi til að hagsmuna íslenzks landbúnaðar og gæða á markaði verði gætt. Þarna er vonandi fyrirmynd komin að fleiri fríverzlunarsamningum EFTA. Fríverzlunarsamningur þessi sýnir, að það er hægt að ná fríverzlunarsamningi við Evrópuríki, sem er a.m.k. jafnhagstæður EES-samninginum, hvað viðskiptakjör varðar.

Samskipti hinnar hlutlausu EFTA-þjóðar Svisslendinga við framkvæmdastjórn hins Frakkahalla Þjóðverja Úrsúlu von der Layen hafa kólnað verulega undanfarnar vikur.  Framkvæmdastjórnin er óánægð með, að löggjöf Sviss skuli ekki taka "sjálfkrafa" breytingum í takti við þróun Evrópuréttar, þótt Svisslendingar hafi aðgang að Innri markaði EES í krafti um 120 tvíhliða samninga á milli ríkisstjórnarinnar í Bern og framkvæmdastjórnarinnar í Brüssel.  Svisslendingar fallast einfaldlega ekki á það ólýðræðislega fyrirkomulag, sem felst í að afhenda Brüssel þannig  löggjafarvaldið að nokkru leyti. 

Á Íslandi er skeleggasti gagnrýnandi slíkrar ólýðræðislegrar þróunar á Íslandi nú í framboði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi, þar sem hann býður sig fram í 2.-3. sæti. Arnar Þór Jónsson er ekki andstæðingur EES-samningsins, en hann er talsmaður þess að nota allt svigrúm samningsins og innbyggða varnagla þar af þekkingu og rökfestu til að verja hagsmuni Íslands og stjórnarskrá landsins, þegar á þarf að halda.

Ef rétt er skilið, hefur Miðflokkurinn nú tekið gagnrýna afstöðu gegn þessum samningi og Schengen.  Í Noregi er líka mikil gerjun á þessu sviði í aðdraganda Stórþingskosninga í september 2021. Alþýðusamband Noregs hefur lagzt gegn innleiðingu "gerða" ESB um lágmarkslaun og réttindi verkafólks, sem Alþýðusambandið telur rýra kjör verkafólks í Noregi.  Eftir kosningar til þjóðþinga Íslands og Noregs kunna að verða ný sjónarmið uppi á teninginum á meðal stjórnarmeirihlutans á þingi í hvoru landi.  Hann mun þó stíga varfærnislega til jarðar, en að hjakka í sömu sporunum er varla fær leið lengur.  

Hér er við hæfi að vitna í Arnar Þór (Mbl. 03.04.2021):

"Klassískt frjálslyndi byggist á því, að menn njóti frelsis, en séu um leið kallaðir til ábyrgðar.  Það byggir á því, að menn hugsi sjálfstætt, en láti ekki aðra hugsa fyrir sig - ofurselji sig ekki tilbúinni hugmyndafræði."

"Við eigum að virða - ekki misvirða - ákvæði stjórnarskrár um lýðræði og klassískt frjálslyndi."

"Við eigum að virða - ekki misvirða - ákvæði alþjóðlegra sáttmála um neitunarvald Íslands og sjálfstæði gagnvart öðrum þjóðum."

"Við eigum að virða - ekki misvirða - lýðræðislegan grunn íslenzkra laga um skilyrði aðildar Íslands að EES og Mannréttindasáttmála Evrópu."

"Við eigum að virða - ekki misvirða - ákvæði laga um frelsi einstaklingsins og ábyrgð í siðmenntuðu samfélagi."

"Embættismenn hafa ekkert umboð til þess að ganga gegn eða breyta þeim lýðræðislegu forsendum, sem að framan eru nefndar.  Sú freisting er ávallt til staðar og því rétt og skylt að viðhalda vökulli varðstöðu gegn því, að menn seilist ótilhlýðilega til valds og áhrifa."

Í forystugrein Morgunblaðsins 31.05.2021, "Swexit ?" , sagði m.a.:

"Samningarnir [við ESB-innsk. BJo] breyta löggjöf Sviss ekki með sömu sjálfvirkni og gerzt hefur t.d. hér á landi, en þar skiptir einnig máli, að hér á landi hafa stjórnmálamenn ekki verið á varðbergi gagnvart þróun ESB í seinni tíð, þó að full ástæða hafi verið til, þar sem sambandið tekur stöðugum breytingum í átt að auknum samruna og ásælni yfirþjóðlega valdsins."

 Þessi varnaðarorð Morgunblaðsins og gagnrýni í garð stjórnmálamanna, þ.e. þingmanna á núverandi kjörtímabili og á nokkrum fyrri kjörtímabilum, beinist mjög í sama farveg og málflutningur Arnars Þórs Jónssonar.  Hann er ekki einn á báti með sín viðhorf, hvorki hérlendis né í hinum EFTA-löndunum. Það er nauðsynlegt fyrir Íslendinga að vera með á nótunum gagnvart þróun samskipta hinna EFTA-landanna við ESB.

  Í Noregi er að myndast samstaða á meðal stjórnarandstöðuflokkanna gegn Orkupökkum 3 og 4 (OP3, OP4).  Sú andstaða kann að verða stjórnarstefna nýrrar norskrar ríkisstjórnar að afloknum Stórþingskosningum í haust.  Þá verður ómetanlegt að hafa á Alþingi víðsýnan, vel lesinn, grandvaran, nákvæman og vel máli farinn mann á íslenzku sem erlendum tungum til að leggja orð í belg við mótun utanríkisstefnu Íslands í breyttum heimi eftir Kóf.

Morgunblaðið tefldi í téðri forystugrein jafnvel fram Carl I. Baudenbacher, sem utanríkisráðherra fékk til að skrifa rándýra greinargerð með innleiðingu OP3 og mæta fyrir utanríkismálanefnd þingsins og kannski fleiri nefndir til að vitna um, að ESB gæti farið í baklás gagnvart EES-samninginum, ef Alþingi hafnaði OP3.  Nú er þessi fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins orðinn gagnrýninn í garð ESB:

"Baudenbacher segir, að það sé í anda spunavéla Brussel að kenna Sviss um, hvernig fór, en málið sé ekki svo einfalt. Hann segir, að bæði stjórnvöld í Sviss og Brussel hafi reynt að þoka landinu bakdyramegin inn í ESB, en vanmetið hafi verið, hve mikil andstaða sé við slíkt í Sviss. Þar vilji fólk efnahagslega samvinnu, en ekki stjórnmálalegan samruna.  Þegar fólk hafi fundið, að reynt hafi verið að ýta því svo langt inn í ESB, að ekki yrði aftur snúið, hafi það spyrnt við fæti."

Í ljósi ótrúlega slæmrar stöðu í samskiptum Sviss og ESB og vaxandi gagnrýni á stjórnskipulega íþyngjandi  hliðar EES-samningsins m.t.t. stjórnarskrár, fullveldis og alvöru lýðræðis, í Noregi og á Íslandi, er tímabært fyrir allar EFTA-þjóðirnar í sameiningu að freista þess að ná frambúðar lausn á samskiptunum við ESB á viðskipta- og menningarsviðunum.  Þetta gæti orðið einhvers konar nýtt fyrirkomulag á EES-samninginum, þar sem gætt yrði aðlögunar að Innri markaðinum án þess að ógna fullveldi og lýðræði í EFTA-ríkjunum. Augljóslega ekki auðvelt, en ætti þó að vera viðráðanlegt verkefni fyrir hæft fólk með góðan vilja.

Í téðri forystugrein Morgunblaðsins var enskt viðhorf til ESB reifað:

"Fleiri hafa bent á, t.a.m. Ambrose Evans-Pritchard, yfirmaður alþjóðlegra viðskiptafrétta Telegraph, hve hart Evrópusambandið gengur fram gegn nágrönnum sínum, ólíkt t.d. Bandaríkjunum, sem eiga farsæl samskipti við fullvalda nágranna sinn Kanada.  Hann bendir á, að ESB sé stöðugt að reyna að útvíkka regluverk sitt og dómsvald og þvinga hugmyndum sínum upp á aðra.  Nú hafi Sviss hafnað þessari leið og ESB, sem hafi nýlega misst Bretland úr sambandinu, geti einnig verið að ýta Sviss frá sér."

Þetta er lýsing á sífellt víðtækari völdum, sem safnað er til Framkvæmdastjórnarinnar í Brüssel og veldur einnig EFTA-ríkjunum vandræðum. ESB er í eðli sínu tollabandalag, sem ver sinn Innri markað gegn utan að komandi samkeppni með viðamiklu regluverki, sem er íþyngjandi að uppfylla.  ESB er hemill á frjáls viðskipti í Evrópu, en við verðum hins vegar hagsmuna okkar vegna að aðlaga okkur honum.  Við, eins og Svisslendingar, hljótum að stefna á að gera það í sátt við Stjórnarskrána, fullveldi þjóðarinnar og raunverulegt lýðræði í landinu.

 

 

 

 

 

 

 

 

  


Orkumál í öngstræti

Þann 3. júní 2021 birtist forsíðufrétt í Morgunblaðinu:"Raforkuverð tekur kipp".  Tilefnið var mikil verðhækkun á náttúruafurð Landsvirkjunar (LV), þar sem heildsölugjaldskrá LV hafði nýlega verið hækkuð um 7,5 %-15,0 % eftir flokkum.  Þetta er birtingarmynd óstjórnar orkumálanna, sem lengi hefur verið gagnrýnd á þessu vefsetri, þar sem einn þáttur gagnrýninnar snýst um fullkomið fyrirhyggjuleysi um öflun nýrrar og nægilegrar orku til að verða við óskum viðskiptavina um aukin raforkukaup, jafnvel þegar illa árar í vatnsbúskapinum, eins og nú.

Gildandi orkulöggjöf landsins einkennist af Orkupakka 3 (OP3), og samkvæmt honum á markaðurinn að ráða framboði raforku, og ekki má gera neitt fyrirtæki ábyrgt fyrir því að koma í veg fyrir orkuskort, því að það gæti skekkt samkeppnisstöðuna. Nú hefur komið í ljós, eins og ítrekað var varað við, að þetta framandi fyrirkomulag í vatnsorkulandi býður hættunni á alvarlegum orkuskorti heim og er sannarlega mjög andsnúið hagsmunum neytenda og atvinnustarfsemi vegna hærra raforkuverðs en nokkur þörf er á, sem af þessu leiðir. 

Ef hér væri nú komið uppboðskerfi raforku, eins og orkustjóra ACER á Íslandi ber að koma á laggirnar hér, og er í undirbúningi, þá hefði heildsöluverð á markaði í byrjun júní 2021 ekki hækkað um 7,5 %-15,0 %, heldur að öllum líkindum tvöfalt meira og færi enn hækkandi, þegar nálgast haustið meira, ef vatnsbúskapurinn braggast ekki í sumar. Þetta má marka af verðþróuninni í Noregi. 

Markaðurinn hér getur ekki brugðizt við með auknu framboði fyrr en eftir nokkur ár vegna langs aðdraganda nýrra virkjana á Íslandi. Þess vegna er þetta kerfi stórslys hérlendis, þar sem engrar fyrirhyggju gætir.  Á framboðshlið eru örfá fyrirtæki, og eitt þeirra gnæfir yfir önnur.  Það hefur markaðinn í greip sinni og hefur nú gengið á lagið.  Þessi staða mála sýnir, að það er vitlaust gefið og að OP3 hentar ekki hér, heldur gerir illt verra. Hvað segir iðnaðarráðherra nú, sem barðist fyrir innleiðingu OP3 á þeim grundvelli, að hann leiddi til aukinnar samkeppni, neytendum til hagsbóta ? Raunveruleikinn getur reyndar orðið verri en nokkurn grunaði þá, ef Murphys-lögmálið fer að gilda um þessi mál.

Það eru fá rök fyrir því, að ríkisvaldið eigi hér ríkjandi fyrirtæki á raforkumarkaði, nema það beri jafnframt ábyrgð á raforkuöryggi landsmanna ásamt flutningsfyrirtækinu Landsneti að sínu leyti og sérleyfisfyrirtækjunum í dreifingu að þeirra leyti. Réttast væri að setja lög, hvað þetta varðar strax, og láta reyna á þau fyrir EFTA-dómstólinum, ef ESA   (Eftirlitsstofnun EFTA) gerir athugasemd.  Um er að ræða nauðsynlega lagasetningu vegna sérstöðu Íslands.  Almannahagsmunir liggja við. 

Þessi hækkun Landsvirkjunar er bæði óþörf og þjóðhagslega illa ígrunduð.  Landsvirkjun er spáð 14 % tekjuaukningu árið 2021 m.v. árið á undan, og lánshæfismat fyrirtækisins var nýlega hækkað af einu matsfyrirtækjanna.  Þessi hækkun kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum og er atlaga að samkeppnishæfni fyrirtækjanna, sem þessi hækkun bitnar á og hafa verið að krafla sig upp úr öldudalnum.  Það er líklegt, að hinir birgjarnir á heildsölumarkaði raforku fylgi í kjölfarið, og þannig mun hækkunin bitna á öllum heimilum landsins.  Hækkunin mun kynda undir verðbólgu, sem þegar er utan við ytri viðmiðunarmörk Seðlabankans.  Það er svo mikil efnahagsleg áhætta tekin með hækkuninni, að fulltrúi eigandans, fjármála- og efnahagsráðherra, ætti að beita sér fyrir afturköllun hennar, því að hún vinnur gegn efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og peningastefnu Seðlabankans.  Hlutdeild þessa heildölumarkaðar er svo lítill af heildarraforkumarkaðinum, að minni raforkunotkun af völdum þessarar hækkunar mun vart hafa mælanleg áhrif á stöðu miðlunarlónanna auk þess, sem það er fjarri því öll nótt úti um fyllingu þeirra, þótt útlitið sé slæmt núna, einkum með Þórisvatn.

Staðan í Blöndulóni er yfir meðaltali, en miðlunargeta þess er lítil.  Hálslón er 40 m neðan yfirfalls og undir meðaltali.  Þórisvatn er 13 m neðan yfirfalls og nálægt lágmarksstöðu árstímans. 

Morgunblaðið reyndi að leita skýringa á stöðunni, en fékk ekki góð svör:

"Sérfræðingur, sem Morgunblaðið ræddi við, sagði afar óvanalegt, að Landsvirkjun hækkaði raforkuverð á þessum tíma árs og að það væri helzt til marks um, að fyrirtækið teldi hættu á, að framboðshlið markaðarins stefndi í ranga átt.  [Loðið orðalag um minnkandi framboð, en 50 MW brottfall í jarðgufuvirkjun í 3 vikur hefur lítil áhrif, þótt sú orka verði tekin úr miðlunarlónum, og er ekki meira en búast má við vegna venjulegs viðhalds - innsk. BJo.]  Annar sérfræðingur, sem blaðið ræddi við, sagði stöðu lónanna, auk erfiðleikanna í Reykjanesvirkjun, vekja spurningar um, hvort orkufyrirtækin gætu lent í vandræðum með að afhenda ótryggða orku til kaupenda á komandi mánuðum.  Horfa menn þar sértaklega til fiskimjölsverksmiðja, sem hafa verið rafvæddar á síðustu árum, en geta einnig gengið fyrir jarðefnaeldsneyti, ef í harðbakkann slær."

Ekki eru allar fiskimjölsverksmiðjurnar búnar varakötlum fyrir olíu, gas eða kol.  Samningar þeirra um ótryggða orku eru smáræði hjá samningum álveranna þriggja og kísilverksmiðjanna tveggja um ótryggða orku.

Þessi slæma staða orkumálanna var fyrirsjánleg að skella mundi á í nánustu framtíð vegna sleifarlags orkufyrirtækjanna við orkuöflun, og ef vatnsbúskapur þessa árs verður undir meðallagi, þá mun verða orkuskortur og stórtap fyrir atvinnuvegina í vetur.  Vonandi fer þetta ekki á versta veg, svo að skerða þurfi forgangsorkuafhendingu, jafnvel til heimila.  

Hver svarar til saka fyrir þetta ?  Að nokkru er sökudólgurinn Orkupakki 1 frá ESB, en með orkulögunum 2004 í kjölfar hans var afnumin skylda Landsvirkjunar til að sjá þjóðinni fyrir nægri raforku á hverjum tíma.  Það var réttlætt með innleiðingu samkeppni á milli virkjanafyrirtækjanna og smásölufyrirtækjanna.  Það eru ekki góð rök af ástæðum, sem blasa við. Ekkert virkjanafyrirtækjanna virðist vilja reyna að ná stærri markaðshlutdeild með því að virkja.  Það sýnir betur en nokkur orð, að samkeppnin, sem orkupakkarnir áttu að koma á á milli birgjanna, virkar ekki við núverandi aðstæður á Íslandi.  Það eru ekki tíðindi fyrir alla, þótt fólk kunni að vera hissa í iðnaðarráðuneytinu.  

 

 

 

 

 


Sýn iðnaðarráðherra

Þann 16.05.2021 birtist pistill eftir ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar á sunnudagsvettvangi Morgunblaðsins.  Þar reit Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir um tengsl orkumála og loftslagsmála.  Þessi pistill ráðherrans er athyglisverður í ljósi Morgunblaðsgreinar forstjóra Landsvirkjunar og framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins 10 dögum áður, og gerð er grein fyrir í pistlinum á undan þessum á þessu vefsetri, en þar kvarta þeir undan því, að stjórnvöld hafi ekki skapað forsendur fyrir grænni atvinnubyltingu með því að ryðja hindrunum úr vegi á sviði skipulagsmála, umhverfismála, skattamála eða varðandi "hvert annað atriði, sem snertir rekstur fyrirtækjanna". Túlka mátti greinina þannig, að stöðnun sú, sem nú ríkir á sviði nýrrar atvinnusköpunar í krafti grænnar orku Íslands væri sinnuleysi stjórnvalda að kenna og væri grein tvímenninganna ákall um "að ryðja brautina".

Pistill ráðherrans,

"Orka - lykillinn að árangri í loftslagsmálum",

hófst þannig:

"Fyrir nokkrum dögum skoruðu náttúruverndarsamtök á stjórnvöld að standa sig betur í því að ná loftslagsmarkmiðum.  Í yfirlýsingu þeirra var þó ekki vikið neitt að því, sem skiptir einna mestu máli í því sambandi." 

Hvað knýr náttúruverndarsamtök til slíkrar áskorunar á íslenzk stjórnvöld ?  Umhyggja fyrir umhverfinu ?  Ef sú umhyggja er ástæðan, er hún reist á fölskum forsendum, því að það er ekki nokkur leið fyrir íslenzk stjórnvöld eða landsmenn alla að hafa nokkur mælanleg áhrif á hlýnun jarðar.  Þess vegna yrði mjög misráðið af stjórnvöldum að fara nú að beita þjóðina enn frekari þvingunarráðstöfunum á formi t.d. hækkunar gjalds á jarðefnaeldsneyti til ríkisins eða hækkunar aðflutningsgjalda á benzín- og dísilbílum, eins og eru ær og kýr slíkra samtaka.  (Taka skal fram, að pistilhöfundur ekur hreinum rafmagnsbíl síðan 2020.) Hins vegar er sjálfsagt að veita áfram jákvæða hvata til orkuskiptanna.  Frumatvinnuvegirnir sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður, hafa allir staðið sig með prýði á alþjóðlegan mælikvarða við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á hvert tonn framleiðslu sinnar, og það er aðalatriðið.  Tækni orkuskiptanna er í hraðfara þróun núna, svo að það er allsendis ótímabært að verða við beiðni téðra náttúruverndarsamtaka.  Þó verður að hvetja stjórnvöld til að vera kröfuharðari en nú er um vísindalegan grundvöll aðgerða, sem styrktar eru af ríkisfé, og trónir þar endurmyndun mýra með mokstri ofan í skurði efst á blaði.

"Til að ná raunverulegum árangri í að minnka losun og breyta hlutum þarf endurnýjanlega raforku og meiri háttar tækniþróun og nýsköpun.  Ekki bara landverndarverkefni - heldur loftslagsverkefni. Og fjölga þannig stoðum verðmætasköpunar.  

Ég fagna því auðvitað, að minnt sé á nauðsyn þess að draga meira úr losun gróðurhúsalofttegunda.  En til að ná þeim árangri, sem þetta ákall snýst um, þurfum við að verða óháð jarðefnaeldsneyti, eins og segir í nýrri Orkustefnu.  

Til að verða óháð jarðefnaeldsneyti þurfum við nýja græna orkugjafa á borð við rafeldsneyti og fleira.  Og til að framleiða þessa orkugjafa [orkubera-innsk. BJo], þurfum við að framleiða meira af grænni orku [virkja meira - innsk. BJo].

Þeir, sem kjósa að líta framhjá þessu, hafa ekki svörin, sem duga."

Þetta er góður málflutningur hjá iðnaðarráðherra, og það er eðlilegt, að hún taki ekki mark á málflutningi um, að tímabundin umframorka í kerfinu árið 2020 og dökkar horfur um framhald stóriðnaðar í landinu, valdi því, að ekkert þurfi að virkja á næstunni, eins og t.d. forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hélt fram í fyrra.  Nú hefur hagur strympu vænkazt og endurskoðun raforkusamnings Landsvirkjunar og ISAL/Rio Tinto er í höfn.  Árið 2010 heimtaði forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, að álverðstenging við raforkuverðið yrði afnumin.  Með semingi var það látið eftir honum, og samningurinn frá 2011 innihélt einvörðungu tengingu við neyzluverðsvísitölu í Bandaríkjunum, svo gáfulegt sem það nú er.  Við endurskoðun þessa raforkusamnings 2019-2021 þvældist Landsvirkjun lengi vel fyrir tillögu ISAL/Rio Tinto um endurupptöku álverðstengingar, þótt í breyttri mynd yrði, en söðlaði svo skyndilega um síðla árs 2020. 

Strax og raforkuverðið til ISAL skreið yfir verðið samkvæmt eldri samningi, 39 USD/MWh, birtust trúnaðarupplýsingar um verðútreikning eftir endurskoðun í Markaði Fréttablaðsins, 19. maí 2021, og stutt viðtal við Hörð.  Hvaðan komu þessar upplýsingar ?  Það er furðulegt, að forstjóri Landsvirkjunar skuli ekki hafa þvertekið með öllu að ræða um hinn endurskoðaða raforkusamning á grundvelli trúnaðarupplýsinga í höndum Markaðar Fréttablaðsins.

Þar er hann þó enn við sama heygarðshornið og kveður "fast" verð áfram vera fyrsta val Landsvirkjunar, sem er skrýtið í ljósi þess, að lágmarksverðið í þessu tilviki er hátt eða um 30 USD/MWh  (þar fer hann ekki nákvæmlega með).  Fari álverð yfir 1800 USD/MWh, deila ISAL og Landsvirkjun hagnaðinum með sér.

"Ótal fjárfestingarverkefni eru á teikniborðinu, sem snúast um að ná árangri í loftsalgamálum.  Þar má nefna fjölnýtingu orkustrauma (með tilheyrandi orkusparnaði), föngun kolefnis, förgun kolefnis og framleiðsla á rafeldsneyti."  

Þetta er rýrt í roðinu hjá iðnaðarráðherra, nema hið síðast nefnda.  Nú hafa Þjóðverjar boðið Íslendingum upp í dans á sviði vetnistækni. Sjálfsagt er að stíga þann dans undir ljúfri þýzkri "Tanzmusik".  Þetta varð ljóst við lestur greinar sendiherra Sambandslýðveldisins, Herrn Dietrich Becker, í Bændablaðinu 27. maí 2021.  Það er eðlilegt að stofna með þeim þróunar- og framleiðslufélag hérlendis, sem framleiði hér vetni með rafgreiningu og flytji megnið út, en aðstoði hér við að nýta vetnisafurðir á vinnuvélar, skip og flugvélar. Skrýtið, að iðnaðarráðherra skuli ekki geta um þessa þróunarmöguleika í téðri orku- og loftslagsgrein sinni. 

Auðvitað útheimtir verkefnið nýjar virkjanir.  Getur verið, að heimóttarleg afstaða vinstri grænna til þeirra setji landsmönnum stólinn fyrir dyrnar við raunhæft verkefni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu. Þá yrði Vinsri-hreyfingin grænt framboð heimaskítsmát í loftslagsskákinni, eins og sumir áttu von á. Reyndar hefur nú Landsvirkjun dregið lappirnar svo lengi að hefja nýjar virkjanaframkvæmdir, t.d. í Neðri-Þjórsá, að nú stefnir í alvarlegan orkuskort næsta vetur, sem getur þýtt tap útflutningstekna upp á tugi milljarða ISK.  Sleifarlag ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar er óviðunandi.  Hneykslanlegt útspil fyrirtækisins, sem fram kom á forsíðu Morgunblaðsins 03.06.2021 (allt að 15 % gjaldskrárhækkun) er efni í annan pistil. 

Síðan heldur iðnaðarráðherra áfram í tengslum við ótilgreind græn verkefni:

"Ef þessi viðleitni á að geta blómstrað, megum við ekki kæfa hana í fæðingu með sköttum og skrifræði.  Við eigum þvert á móti að greiða götu hennar með einföldu regluverki og jafnvel styrkjum og ívilnunum.  Skref í þá átt hafa þegar verið stigin með verkefninu "Græni dregillinn", nýjum áherzlum og auknum fjárheimildum Orkusjóðs og nýjum lögum um ívilnanir til grænna fjárfestinga.  Auk þess hef ég nýlega hafið frumathugun á því, hvort raunhæft sé að ganga lengra með því að verja a.m.k. hluta af tekjum ríkissjóðs af losunarkvótum til að styðja við fjárfestingarverkefni, sem þjóna loftslagsmarkmiðum okkar."  

Græn verkefni á borð við vetnisverksmiðju og verksmiðjur vetnisafurða á borð við ammoníak, metanól, etanól o.fl. verða arðberandi verksmiðjur, sem nýta þróaða tækni, og þurfa þess vegna ekki styrki úr ríkissjóði, heldur aðeins samkeppnishæft raforkuverð, væntanlega 25-35 USD/MWh.  Þeir, sem lifa í hugmyndaheimi afdankaðs sósíalisma, munu vilja háa skattheimtu af arðgreiðslum þessara félaga sem annarra.  Þeir horfa fram hjá því, að fjármagn kostar, og ef ekki er aðsvon af fjárfestingu í fyrirtækjum, þá verður ekkert af fjárfestingunum, nema ríkissjóður slái lán til áhættufjárfestinga, en ríkisvaldið stenzt einkafyrirtækjum ekki snúning, hvað rekstur varðar, og er þá nánast sama, hvað um ræðir. Iðnaðarráðherra hefur rétt fyrir sér um skattana, en vanmetur e.t.v. vilja einkafjárfesta til fjárfestinga á þessu sviði alfarið á viðskiptalegum grundvelli.  Sjálfsagt er að beina opinberum tekjum af sölu koltvíildiskvóta til þróunar á mörkuðum fyrir vetnisafurðir, skógræktar o.fl.

Síðan kemur iðnaðarráðherra á óþarflega almennan hátt að nauðsyn nýrra virkja: 

"Ef við ætlum að tryggja, að bæði núverandi og nýir notendur grænnar orku geti fengið hana á samkeppnishæfu verði, þurfum við að huga miklu betur að framboðshlið orkunnar og sjá til þess, að hér verði framleidd meiri orka.  Það ætti að öllu jöfnu að stuðla að lægra verði, þó að auðvitað komi samkeppnin þar líka við sögu."

Þetta er rétt hjá iðnaðarráðherra og orð í tíma töluð.  Halda mætti, að einhver valdalaus skrifari úti í bæ hefði párað þetta, því að stjórn stærsta orkufyrirtækis landsins, Landsvirkjunar, sem alfarið er í eigu ríkisins, virðist vera annarrar skoðunar en ritarinn, því að Landsvirkjun er alls ekkert í virkjunarhugleiðingum þessa stundina.  Hvernig í ósköpunum má þetta vera ?  Orkuskortir blasir við næsta vetur. Ef allir núverandi viðskiptavinir Landsvirkjunar hefðu síðastliðinn vetur nýtt samninga sína til hins ýtrasta, sem þeir voru fjarri því að gera vegna deilna við Landsvirkjun og markaðsaðstæðna, hefði komið til stöðvunar á afhendingu allrar orku, nema forgangsorku, frá orkuverum Landsvirkjunar.  Þetta ásamt mjög lágri vatnsstöðu Þórisvatns núna, sýnir, að yfirvofandi er orkuskortur í landinu.  Hvers vegna skipar eigandinn ekki Landsvirkjun að hefjast handa strax til að forða stórfelldu efnahagstjóni árum saman (nokkur ár tekur að reisa virkjun, þótt fullhönnuð sé nú) ?  Þykist ríkisstjórnin ekki hafa til þess vald vegna lagaákvæða Orkupakka 3, sem að forminu gætu virzt draga völd úr höndum ráðherra og til Orkustjóra ACER á Íslandi, sem einnig stjórnar Orkustofnun Íslands, eða svífur andi vinstri grænna yfir vötnunum ? Hvort tveggja er afleitt. "Something is rotten in the state of Danemark", var einu sinni skrifað.  Eru orkumálin í lamasessi vegna stjórnmálaástandsins ?  Það er of dýrt til að vera satt.

Iðnaðarráðherra hélt áfram hugleiðingum sínum um orkumálin:

"Því miður hefur hagkvæmni orkukosta nánast horfið út úr ferli rammaáætlunar, því að þetta grundvallaratriði hefur fallið í skuggann af flóknari spurningum um þjóðhagslega hagkvæmni - spurningum, sem ekki er hægt að svara, þegar ekki er vitað, hver muni kaupa orkuna.  Þetta ferli þarf augljóslega að laga, og ég hef áður sagt, að svo virðist sem skynsamlegt væri að stíga skref til baka og huga betur að kostnaðarverði nýrra orkukosta, eins og gert var á fyrstu árum rammaáætlunar."

 Í ljósi alvarlegrar stöðu orkumálanna er þetta tilþrifalítið hjá iðnaðarráðherra í lok kjörtímabils hennar.  Það er alveg sama, hvaða virkjanakost menn velja núna - hann verður þjóðhagslega hagkvæmur vegna þeirrar einföldu ástæðu, að hann mun koma í veg fyrir orkuskort, og hver megawattstund, sem raforkubirgjar ekki geta afhent, kostar viðskiptavini á bilinu 100-1000 USD/MWh (12-120 ISK/kWh).  Þótt ekki stafaði bráðavandi að núna, þá eru horfur á orkumarkaði hér nú þannig, að núvirði hagnaðar af hverri ISK í líklega öllum virkjanakostum í framkvæmdaflokki gildandi Rammaáætlunar er að líkindum hærra en af öðrum fjárfestingarkostum, sem eigendum virkjanafyrirtækjanna standa til boða.  Þess vegna eru þessi skrif iðnaðarráðherra um flóknar spurningar um þjóðhagslega hagkvæmni virkjana torskiljanlegar. Við þurfum ekki flækjufætur, við þurfum framkvæmdafólk. Það hvílir óþarflega mikil þoka yfir iðnaðarráðuneytinu. 

Næst víkur hún sér að vindorkunni:

 "Vindorkan er síðan annar og mjög þýðingarmikill kapítuli, en hún hefur á fáum árum orðið sífellt ódýrari og er núna farin að veita okkar hefðbundnu orkulindum, vatnsafli og jarðvarma, mjög harða samkeppni.  Þar eru tækifæri, sem við eigum að nýta."

Hefur iðnaðarráðherra séð einhverja samanburðarútreikninga, sem skjóta stoðum undir þessa fullyrðingu hennar um samkeppnihæfni vindorku á Íslandi, eða er þetta bara enn eitt dæmið um, að hver étur þessa fráleitu fullyrðingu upp eftir öðrum ?  Vindorkuverin þurfa tiltölulega mikið landrými á hvert uppsett MW, og kostnaður landsins hefur áhrif á vinnslukostnað vindmylluversins.  Gríðarlegir steypuflutningar kosta sitt.  Niðurtekt og eyðingu þarf einnig að taka með í reikninginn.  Dreifing trefjaplasts frá spöðunum, sem slitna í regni og sandbyljum, þarf að taka með í umhverfiskostnaðinn. 

Kolefnisspor vindmyllna á framleiddar megawattstundir endingartímans, sem er styttri en hefðbundinna íslenzkra virkjana, er tiltölulega stórt, þegar allt er tekið með í reikninginn.  Í íslenzku samhengi eru vindmyllur þess vegna ekki svo fýsilegar, að ástæða sé fyrir iðnaðarráðherra að hvetja til þeirra. 

Lokatilvitnun í ráðherrann:

 "Loks höfum við nú þegar gert gangskör að því að greina tækifæri til að lækka flutningskostnað raforku.  Þær tillögur voru unnar hratt, en þó faglega og birtust í frumvarpi mínu til nýrra raforkulaga, sem miðar ótvírætt að því að lækka flutningskostnað með breyttum forsendum um útreikning á gjaldskrám eða nánar tiltekið tekjumörkum."

Þetta brýna mál fyrir allan atvinnurekstur í landinu hefur tekið ráðherrann allt of langan tíma.  Hún hefði átt að vinda sér í málið á fyrsta ári ráðherradóms síns yfir orkumálunum, og á hvaða vegi er jöfnun flutningsgjalds á milli þéttbýlis og dreifbýlis statt, það brýna réttlætismál til að jafna stöðu íbúa í þéttbýli og dreifbýli m.t.t. þjónustu sérleyfisfyrirtækja ? 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband