Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Ferskur vorblær í stjórnmálunum

Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, býður sig fram í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi (Kraganum) á þessu vori.  Þetta er mikið fagnaðarefni þeim, sem sakna umræðna og afstöðu til grundvallar stjórnmálanna, einstaklingsfrelsis, hlutverks ríkisins og síðast, en ekki sízt, stöðu Íslands á meðal þjóðanna. 

Áhugi á meðal almennings í þessa veru er ekki einsdæmi á Íslandi.  Hann er t.d. ríkur í Noregi, þar sem mikil umræða á sér stað um afstöðu Noregs til Evrópusambandsins (ESB), en eins og gildir um Ísland og Liechtenstein, fara samskipti Noregs við ESB í höfuðdráttum fram á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Í Noregi og á Íslandi eru efasemdir á meðal leikra og lærðra, þ.e. löglærðra og hinna, um það, hvort innleiðing sumra gerða (tilskipana og reglugerða), þar sem framsal ríkisvalds til stofnana ESB á sér stað, brjóti í bága við stjórnarskrár ríkjanna eða ekki.  Er deila um réttmæti afgreiðslu 3. orkupakka ESB (OP3) í Stórþinginu nú til úrlausnar í dómskerfi Noregs. 

Frost, lávarður, sem leiddi samninganefnd Bretlands í útgönguviðræðunum við ESB, sagði nýlega, að nú væri Bretum brýnast að einfalda opinbert regluverk fyrir  atvinnulífið, sem að megninu til er komið frá Brüssel (ESB), og jafnhliða ættu embættismenn brezku stjórnsýslunnar að venja sig af að hugsa eins og embættismenn ESB. Þetta er mjög umhugsunarvert fyrir EFTA-þjóðirnar í EES, sem taka gagnrýnilítið við löggjöf Evrópusambandsins á vettvangi EFTA og síðan í Sameiginlegu EES nefndinni, þar sem ESB á líka fulltrúa, en þar er ákveðið, hvað innleiða skal.  

Þetta átti t.d. við um OP3, þótt hlutverk hans sé aðallega að fá stjórnun orkuflutninga (rafmagns, olíu og gass) á milli EES-landanna í hendur Orkustofnun Evrópusambandsins - ACER og framkvæmdastjórn ESB. Spyrja má, hvort einhver rökrétt ástæða hafi verið til að innleiða nánast allan OP3 á Íslandi í ljósi þess, að engar slíkar lagnir liggja til Íslands, og stjórnvöld hafa opinberlega engin áform um að samþykkja slíkar tengingar við Ísland. 

Þegar svona er í pottinn búið, er eðlilegt, að margir fyllist tortryggni um, að fiskur liggi undir steini.  Hins vegar setti Alþingi m.a. það skilyrði við lögleiðingu OP3 að áskilja samþykkt Alþingis fyrir tengingu aflsæstrengs við íslenzka raforkukerfið.  Þótt áhöld séu um, hvort þetta afbrigði við innleiðingu ESB löggjafar sé í samræmi við EES-samninginn og haldi fyrir EFTA-dómstólinum, er ákvæðið þó góðra gjalda vert og óbeinn afrakstur andófs "Orkunnar okkar" o.fl. við OP3. 

Arnar Þór Jónsson (AÞJ) hefur einmitt fjallað um útþynningu lýðræðisins við innleiðingu löggjafar ESB, sem Alþingismenn hafa nánast engin áhrif á, þegar hún er mótuð, enda er hún á engan hátt sniðin við  íslenzkar aðstæður. Það er andstætt lýðræðislegri hugsun, að löggjöf sé tekin hrá upp erlendis frá og lögleidd hér á færibandi.  Með þessu má segja, að Alþingi sé breytt í stimpilstofnun og löggjafarvaldið fært í hendur erlendra embættismanna. Þetta fyrirkomulag grefur undan þingræðinu.

Bretar vildu ekki taka upp þetta kerfi eftir útgönguna, þ.e. ganga í EES, heldur stefna þeir á að gera víðtækan fríverzlunarsamning við ESB.  Spurningin er fyrir EFTA þjóðirnar, hvort ekki fari að verða tímabært að óska viðræðna við framkvæmdastjórn ESB um endurskoðun EES-samningsins. Auðvitað verður að fara að öllu með gát og skipulega, því að miklir viðskiptahagsmunir eru í húfi. 

Eftir Stórþingskosningar í haust er líklegt, að í Noregi verði þingmeirihluti fyrir ríkisstjórn, sem setur a.m.k. alvöru valkostagreiningu í þessum efnum á dagskrá sína, enda er óánægja með núverandi framkvæmd EES-samningsins að magnast í Noregi, ekki sízt innan verkalýðshreyfingarinnar, sem þykir áunnin réttindi sinna félagsmanna fyrir borð borin við innleiðingu ýmissa gerða ESB. Ef norska alþýðusambandið verður afhuga EES-aðild Noregs, mun norski Verkamannaflokkurinn í kjölfarið söðla um til samræmis.  

AÞJ hefur ritað bækur um hugðarefni sín, t.d. "Lög og samfélag", sem gefin var út árið 2016 af Háskólanum í Reykjavík og Háskólaútgáfunni.  Þá hefur hann ritað greinar í tímarit, t.d. Þjóðmál, og í Morgunblaðið.  Ein slík birtist þar 3. apríl 2021 undir fyrirsögninni:

      "Útgangspunktar og forsendur til íhugunar".

Hún gefur í stuttu máli allgóða mynd af hugmyndafræði og boðskap þessa frambjóðanda í prófkjöri sjálfstæðismanna í Kraganum að þessu sinni.  Það er mat höfundar þessa vefseturs, að gagnrýnin og rökföst hugsun AÞJ geti orðið Sjálfstæðisflokkinum til heilla og bætt vinnubrögð þingflokks sjálfstæðismanna án þess, að kastað sé rýrð á núverandi þingflokk.  Hér verða tíundaðir 6 fyrstu punktar AÞJ:

  1. "Lýðræðisbarátta - og sjálfstæðisbarátta - okkar tíma snýst um að verja innviði og auðlindir þjóða gagnvart ásælni erlends valds.  Þetta verkefni snýst um að verja grunnstoðir velsældar og almannahags."  Íslendingar munu varla nokkurn tímann samþykkja að gangast undir CAP-sameiginlega landbúnaðar- og fiskveiðistefnu ESB af þessum ástæðum, því að samkvæmt Hvítbók Framkvæmdastjórnarinnar um þessi mál er ætlunin að bjóða fiskimiðin innan lögsögu ESB-landanna upp, og geta þá útgerðir ESB-landanna boðið í fiskveiðikvótana.  Útgerðir ESB-landanna eru margar hverjar stærri en þær stærstu íslenzku, svo að íslenzku útgerðirnar mundu áreiðanlega missa vænan spón úr aski sínum.  Þessi uppboðsstefna er einmitt sú, sem ESB-flokkarnir, Viðreisn og Samfylking, boða hérlendis.  Það var lán, að sjávarútvegsmál voru undanskilin valdsviði EES-samningsins.  Það voru orkumálin hins vegar ekki, og þess vegna krafðist ESA-Eftirlitsstofnun EFTA þess í byrjun síðasta áratugar, að vatnsréttindi ríkisins, aðallega Landsvirkjunar, yrðu leigð út á markaðskjörum á Evrópska efnahagssvæðinu.  Stjórnarráðið framdi þau hrapallegu mistök árið 2016 að fallast á allar röksemdir ESA og kröfugerð.  Þegar norska ríkisstjórnin fékk sams konar kröfugerð ESA 2019, var henni hafnað samstundis.  Ekki er ljóst, hvort samþykktarbréf íslenzku ríkisstjórnarinnar frá 2016 hefur verið dregið til baka.  Af þessu sést, að þörf er fullrar aðgæzlu í viðskiptunum við ESB og ESA.
  2. "Á slíkum tímum höfum við þörf fyrir sjálfstæða einstaklinga og sjálfstæða hugsun.  Annars getum við ekki verið sjálfstæð þjóð."  Það kom í ljós árið 2016, að botninn var þá suður í Borgarfirði hjá ráðherrum og utanríkisráðuneyti, þegar að sjálfstæðum einstaklingum og sjálfstæðri hugsun kom.  Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, að AHJ leggur áherzlu á þetta til að varðveita sjálfstæði þjóðarinnar. 
  3. "Sem sjálfstætt ríki á Ísland að vera fullgildur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi eftir því, sem við á, og hafa rödd, en ekki vera þögull og óvirkur farþegi eða strengjabrúða."  Íslandi tókst vel upp á sviði hafréttarmála og leiddi þróun alþjóðaréttar að mörgu leyti á því sviði.  Landvörnum landsins er vel fyrir komið með herverndarsamningi við Bandaríkin og aðild landsins að NATO. Landið er með fjölmarga fríverzlunarsamninga við lönd um allan heim og stendur frammi fyrir gerð víðtæks fríverzlunarsamnings við Bretlands.  Fjölþætt samband landsins við meginland Evrópu fer fram samkvæmt samninginum um Evrópska efnahagssvæðið, EES, frá 1993, sem gildi tók 01.01.1994.  Sá samningur er einstakur að því leyti, að stöðugur straumur nýrrar löggjafar streymir frá ESB til lögleiðingar í EFTA-löndunum í EES, án þess að íslenzkir þingmenn komi þar að nokkru leyti að stefnumörkun.  Til Alþingis berst löggjöf til innleiðingar í íslenzka lagasafnið, sem ekki er hægt að réttlæta sem aðlögun að Innri markaði ESB, eins og t.d. lagabálkar um orkumál.  Þegar ofan á bætist valdframsal til stofnana ESB, hlýtur slíkur málatilbúnaður að valda deilum í landinu, enda jafnvel Stjórnarskrárbrot. Það er þess vegna æskilegt að leita af varfærni endurskoðunar á EES-samninginum, a.m.k. ef samstaða næst um það með Norðmönnum eftir haustkosningarnar í ár. 
  4. "ESB byggist ekki á grunni hefðbundins þjóðréttarlegs samstarfs, heldur gefur sig út fyrir að vera "sérstaks eðlis" (sui generis).  Reynslan hefur sýnt, að smáþjóðir hafa þar lítil sem engin áhrif."  ESB er yfirþjóðlegt ríkjasamband, sem Frakkar og Þjóðverjar ráða nú lögum og lofum í.  Forkólfar þessara þjóða stefna leynt og ljóst að því að endurvekja ríki Karlamagnúsar með stofnun sambandsríkis, en alþýða manna í þessum ríkjum eða annars staðar er ekki hrifin. Áður fyrr höfðu aðildarþjóðirnar neitunarvald í flestum málum, en þeim málaflokkum fækkar óðum, og atkvæðagreiðslur með vegnum atkvæðastyrk eftir íbúafjölda ryðja sér til rúms.  Það væri algert óráð fyrir Íslendinga að færa ráðstöfunarrétt náttúruauðlinda sinna til framkvæmdastjórnar ESB.
  5. "Sem fullvalda ríki á Ísland ekki að leyfa erlendum ríkjum, ríkjasamböndum eða stórfyrirtækjum að ráðskast með innri málefni íslenzka lýðveldisins."    Það er mikilvægt að gefa þessum orðum gaum.  Íslenzka utanríkisráðuneytið virðist stundum verða fyrir þrýstingi frá því norska vegna málefna, sem norsku ríkisstjórninni er í mun að fái framgang á vettvangi EFTA í EES.  Nýjast af þessum toga er sameiginleg yfirlýsing EFTA-ríkjanna í EES, sem er í skjalasafni norska stjórnarráðsins, en hefur ekki fengizt birt, um, að EFTA-ríkin fallist á einnar stoðar meðferð Járnbrautarpakka 4, sem þýðir, að járnbrautarmálum Noregs og Liechtenstein verður stjórnað frá ERA, ESB-stofnun fyrir járnbrautir, en ekki með milligöngu ESA.  Þá eru nokkur dæmi um inngrip ESA í íslenzk málefni, sem varða þjóðarhagsmuni, eins og krafa ESA um markaðssetningu vatnsréttinda í eigu ríkisins eða ríkisfyrirtækja.  Þetta mundi þýða uppboð vatnsréttinda innan EES.  Hið alvarlega í þessu máli er, að íslenzka ríkisstjórnin féllst á þetta 2016, en þegar norsku ríkisstjórninni barst sams konar krafa frá ESA nokkrum árum síðar, var henni einfaldlega hafnað, og batt núverandi ríkisstjórn þá sitt trúss á þann sama hest.  Nú er eftir að sjá, hvort ESA muni kæra Ísland og Noreg til EFTA-dómstólsins fyrir samningsbrot. Kann það að ráðast af dómi ESB-dómstólsins í svipuðu máli Framkvæmdastjórnarinnar gegn einum 8 vatnsorkulöndum í ESB. Þetta sýnir, hversu bráðnauðsynlegt er að vinna að hugarfarsbreytingu hérlendis á meðal stjórnmála- og embættismanna, þegar kemur að spurningum um fullveldi landsins.   
  6. "Lýðræðislega kjörnir fulltrúar eiga sjálfir að mæta þeirri ábyrgð og valdi, sem þeim hefur verið falið; ekki afhenda hlutverk sitt embættismönnum, sem svara ekki til lýðræðislegrar ábyrgðar."  Það er einkenni á vinnubrögðum ESB að draga völd úr höndum stjórnmálamanna aðildarlandanna og færa þau í hendur embættismanna Sambandsins.  Þetta smitar óhjákvæmilega yfir á EFTA-ríkin í EES.  Nægir að nefna sem dæmi Orkustjórann ("The National Energy Regulator"), en hérlendis var Orkumálastjóra falið að fara með þessi völd, sem eru umtalsverð samkvæmt Orkupakka 3 og aukast enn með Orkupakka 4, ef hann verður innleiddur hér, en nauðsynlegt er að rýna þörfina á því gaumgæfilega. Nýjasta dæmið er líklega fyrirkomulag stjórnar sóttvarna hérlendis.  Þegar tillögur Sóttvarnalæknis fela í sér meiriháttar inngrip í daglegt líf fólks og takmarkanir á starfsemi fyrirtækja, þá er augljóst, að líta verður til fleiri átta en sóttvarnanna einna við ákvarðanatöku.  Sóttvarnaráð hefur verið sniðgengið, en með nýrri sóttvarnalöggjöf ætti að endurskipuleggja það með þátttakendum, sem veita því breiða skírskotun í þjóðfélaginu, og það geri tillögur til ráðherra í sóttvarnaskyni.  

Eru stjórnvöld með á nótunum ?

Þann 6. maí 2021 mátti sjá sjaldgæfa sjón á 38. síðu Morgunblaðsins, þ.e.a.s. sameiginlega afurð Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, og Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, um iðnaðar- og orkumál.  Þeir virtust þarna taka höndum saman um gagnrýni á stjórnvöld orku- og iðnaðarmála í landinu fyrir sinnuleysi um umgjörð ríkisins fyrir þennan mikilvæga málaflokk fyrir hagvöxt og atvinnutækifæri í landinu. Þeir telja, að tregða stjórnvalda við að ryðja hindrunum úr vegi fjárfesta standi nú framförum á Íslandi stórlega fyrir þrifum.  Þetta er saga til næsta bæjar á kosningaári. Greinina nefndu þeir:

"Græn framtíð orkuvinnslu og iðnaðar".

Hún hófst þannig:

"Lausn loftslagsmála felst aðallega í þrennu.  Í fyrsta lagi að stórauka endurnýjanlega orkuvinnslu.  Í öðru lagi að minnka kolefnisspor framleiðslu og þar með neyzlu okkar með nýsköpun og nýjum eða breyttum framleiðsluferlum. Í þriðja lagi þarf að fanga og nýta eða farga þeirri kolefnislosun, sem eftir stendur.  Ótal tækifæri leynast á Íslandi til grænnar atvinnuuppbyggingar í tengslum við framangreindar lausnir, þ.á.m. fullkomið orkusjálfstæði landsins." 

Óstöðug raforkuvinnsla, mikil landþörf og landlýti eru megingallarnir við þær tvær aðferðir, sem flest lönd hafa aðeins úr að moða við raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkulindum, þ.e. raforkuvinnslu með vindmyllum og sólarhlöðum.  Skýjafar og stuttur sólargangur útilokar síðar nefndu aðferðina á Íslandi, nema í litlum, afmörkuðum mæli, og aðferð til að geyma orkuna og taka hana út, þegar þörf er á, er nauðsynleg í nútímasamfélagi til að vindorkan komi að fullum notum sem endurnýjanlegur orkugjafi.  Í vatnsorkulöndum er þetta hægt með því að spara vatn, þegar vindur blæs og ekki er þörf fyrir alla orkuna.

Hins vegar er þröskuldur umhverfisverndar mun hærri hér fyrir vindmyllur en víðast hvar annars staðar, af því að hérlendis spara vindmyllurnar ekkert jarðefnaeldsneyti.  Þá er landþörfin á hverja framleidda kWh á endingartímanum miklu meiri fyrir vindorkuver en okkar hefðbundnu vatnsorkuver og jarðgufuver, og það er gríðarlegur galli, sem framkallar árekstra við aðra hagsmuni. Þetta er viðkvæmt mál, því að meiri raunverulegir hagsmunaárekstrar ferðamennsku og útivistar eiga sér stað í tilviki vindorkuvera en vatnsorku- og jarðgufuvera. Ferðamenn dragast hinum síðar nefndu, en forðast vindorkuverin. Auk þess þarf að gefa gaum að áhrifum spaðanna á hljóðvist og fuglalíf í grennd og áhrif slits þeirra á efnamengun umhverfis.  Að öllu virtu liggur beinna við að anna aukinni orkuþörf atvinnulífs og heimila hérlendis með nýjum virkjunum vatnsafls og jarðgufu en með vindmyllum enn um sinn, enda vindmyllurnar vart samkeppnishæfar, hvað vinnslukostnað varðar.

Nú er svo komið, að vegna batnandi alþjóðlegra markaða eru verksmiðjur hér á leiðinni til fullnýtingar orkusamninga sinna, og þá verður ekkert eftir fyrir nýja notendur.  Það skýtur þess vegna skökku við málflutning forstjóra Landsvirkjunar um orkusjálfstæði landsins, að fyrirtækið skuli ekki nú vera að hleypa framkvæmdum við nýja, umtalsverða virkjun af stokkunum. Hvaða hindranir eru þar í veginum ?  Það þarf að tala og skrifa skýrt. 

Stöðugt er unnið að minnkun kolefnisspors í öllum atvinnugreinum á Íslandi, og mest hafur munað um iðnaðinn og sjávarútveginn, en landbúnaðurinn hefur einnig staðið sig afar vel. Réttust viðmiðana í þessum efnum er þróun losunar á framleidda einingu, og þar á sennilega áliðnaðurinn vinninginn, því að verkfræðingum og öðrum sérfróðum þar á bæ hefur tekizt að lágmarka spennuris (tíðni og tímalengd) í rafgreiningarkerunum, en við þau verða m.a. til gastegundirnar CF4 og C2F6, sem eru mjög öflugar gróðurhúsalofttegundir. 

Fleiri umbótaaðgerðir starfsmanna iðnaðarins hafa leitt í sömu átt, og það er ekki grobb að halda því fram, að fyrir tilstilli íslenzkra hugbúnaðarmanna og annarra sérfræðinga, rafgreina o.fl. íslenzku álveranna séu þau í fremstu röð í heiminum, hvað þetta áhrærir.  

Þriðja atriðið, sem höfundarnir nefna, föngun og förgun kolefnis, FFK, er algerlega vanþróuð enn og á sér tæplega nokkra framtíð í sinni núverandi mynd vegna mikillar auðlindaþarfar á hvert tonn CO2 á formi orku og vatns, sem endurspeglast í háum kostnaði við föngun og förgun hvers tonns CO2. 

Hjá ISAL í Straumsvík hyggja menn á tilraunir með föngun CO2 úr kerreyk reykháfanna og telja 20 USD/t CO2 efri mörk viðunandi kostnaðar.  Erlendis er þessi kostnaður jafnvel tvöfalt hærri.  Með heildarkostnað FFK á bilinu 40-70 USD/t CO2 er FFK hvorki samkeppnishæf við bindingu kolefnis með ræktun eða hreinlega við kolefnisfríar virkjanir, og það er engan veginn á vísan að róa með svo hátt gjald fyrir losunina af þessum ástæðum. Höfundarnir gera þessari vanburða og dýru aðferð allt of hátt undir höfði. 

"Tækifæri okkar byggjast á, að við eigum þegar öflugt orkukerfi með hverfandi kolefnisspor og lítið vistspor, en landnýting í þágu vinnslu og flutnings endurnýjanlegrar orku á Íslandi er í dag áætluð um 0,4 % af landinu.  Sambærilegt umfang er um 1,5-2 í Noregi og Danmörku."

Þessi tiltölulega litla landnotkun undir virkjanir, miðlunarlón og flutningslínur á Íslandi, sýnir í hnotskurn, hversu vel hefur verið staðið að þessum framkvæmdum m.t.t. lágmörkunar vistsporsins, þegar höfð er í huga sú staðreynd, að raforkuvinnsla á mann hérlendis er sú mesta, sem þekkist í nokkru landi.  Sú staðreynd myndar trausta undirstöðu lífskjara í landinu, enda er jákvætt samband á milli rafvæðingar lands, raforkunotkunar, hagvaxtar og lífkjara í hverju landi.

Þótt raforkunotkunin sé mikil að tiltölu, gefur lítil landnotkun til kynna, að landið þoli tvöföldun hennar, án þess að líða tiltakanlega fyrir í ásýnd lands m.v. hin Norðurlöndin, enda eru fleiri virkjanir og öflugra flutningskerfi raforkunnar frumforsenda þess, að hugmyndir stjórnvalda um orkuskipti geti orðið að raunveruleika.  Þetta var áréttað í Morgunblaðspistli iðnaðarráðherra 16.05.2021. Loftlínum fer mjög fækkandi á lægri spennustigum, og með hækkun 220 kV flutningsspennu í 400 kV má fjórfalda flutningsgetuna.

Að tiltölulega lítilli landnotkun var ýjað í grein Harðar og Sigurðar, en hrifning þeirra á vindorkuverum er illskiljanleg í ljósi kostnaðar, lélegrar nýtingar mannvirkja, mikillar og mjög lýtandi landnotkunar og mengunar af alvarlegu tagi (hljóð, efni). 

"Tækifæri okkar er að byggja á þessum öfluga grunni og bæta við orkukerfi okkar með áframhaldandi ábyrgri nýtingu íslenzkra orkulinda, ekki sízt vaxandi vindorku, aukinni grænni framleiðslu í núverandi og nýjum iðngreinum og nýtingu hugvits okkar og reynslu, sem getur orðið öðrum fordæmi um, hvernig bæta megi efnahagslega velsæld, samfélag og umhverfi."

Það er ofmetið, að við getum orðið öðrum þjóðum fyrirmynd.  Til þess eru aðstæður okkar of ólíkur aðstæðum annarra þjóða.  Hið bezta mál er þó, ef hægt er að flytja út tækniþekkingu á viðskiptalegum grunni til að virkja orkulindir náttúrunnar, en það getur aldrei skipt miklu máli, og skrýtið, að höfundarnir skuli nefna það.  Það er eins og kækur í stássræðum, einhvers konar gluggaskraut, að hér fljóti út úr vizkubrunni, þótt vel sé staðið að verki.

Höfuðatriðið á þessu sviði hérlendis núna er að hefja markvissan undirbúning að aukningu framboðs raforku með nýjum vatnsorkuverum og jarðgufuverum og hætta þessum gælum við stórkarlaleg mannvirki vindorkuvera, sem yrðu stórfellt lýti á landslaginu, eru dýr og óáreiðanleg. Ef hendur verða ekki látnar standa fram úr ermum, verður hér mikil hækkun raforkuverðs samkvæmt lögmálum framboðs og eftirspurnar, sem tefja mun framgang orkuskiptanna.  Framboð hitaveituvatns þarf líka að auka, svo að "kuldaboli" taki ekki völdin í mestu frosthörkunum, eins og óttazt var síðastliðinn vetur.  

"Stjórnvöld verða þó að vera hér í fararbroddi, tala fyrir tækifærum, framkvæma til samræmis og ryðja hindrunum úr vegi. 

Það eru sameiginlegir hagsmunir Landsvirkjunar og Samtaka iðnaðarins að benda á þau orkutengdu tækifæri, sem felast í grænni framtíð.  En við ætlum að gera meira.  Við ætlum saman að taka virkan þátt í að auka það, sem verður til skiptanna í samfélagi okkar.  Þar liggja sameiginlegir hagsmunir allra Íslendinga."

Þarna virðist koma fram sú raunverulega ætlun með þessari grein höfundanna tveggja að vera gagnrýni á sinnuleysi og aðgerðaleysi iðnaðarráðuneytisins. M.ö.o. finnst höfundunum forystu iðnaðarráðherra í orku- og atvinnumálum vera ábótavant.  Þeir eru ekki einir um þessa skoðun.  Þó er ekki skýrt kveðið á um í gagnrýni tvímenninganna, hverju þeir vilja, að ráðherrann beiti sér fyrir. 

Ráðherrann hefur haft forgöngu um myndun orkustefnu, sem sumum þykir þó vera rýr í roðinu, en það vantar hvata af hálfu hins opinbera, til að orkufyrirtækin gangi rösklega fram við virkjanaundirbúning.  Þvert á móti hvílir sá grámi yfir vötnunum, að þau bíði eftir orkuskorti, svo að þau fái ástæðu til að hækka orkuverðið.  Það mun auðveldlega gerast, eftir að Landsnet og Orkustjóri ACER á Íslandi hafa komið hér á laggirnar framboðs- og tilboðsmarkaði (uppboðsmarkaði) fyrir raforku að evrópskum hætti, en iðnaðarráðherra taldi það mundu verða búbót fyrir neytendur, þegar Orkupakki 3 var til umræðu.  Það á eftir að koma í ljós og verður e.t.v. látið bíða fram yfir Alþingiskosningar í haust. Frestur er á illu beztur.

"Heimurinn er nú á hraðferð inn í nýjan veruleika rafbíla, vetnisskipa og -flugvéla og annars græns samgöngumáta, og við eigum alla möguleika á að vinna matvæli og fisk með því að nýta grænu orkuna okkar."

Það er dæmalaus tvöfeldni af hálfu forstjóra Landsvirkjunar að eiga þátt í þessum skrifum í ljósi þess, að garðyrkjumenn hafa kvartað sáran undan stífni Landsvirkjunar í samningagerð um raforkuverð til ylræktunar.  Þar, eins og annars staðar, hefur Landsvirkjun hundsað upphaflegt hlutverk sitt um að sjá íslenzkum atvinnufyrirtækjum fyrir nægri og ódýrri raforku, sem þó að sjálfsögðu þarf að standa undir öllum kostnaði við framleiðslu, flutning og dreifingu. Lækkun raforkuverðs til fiskvinnslu mundi t.d. auka samkeppnishæfni hennar við aðrar evrópskar fiskvinnslur, sem mundi leiða til þeirrar æskilegu þróunar að auka hlutdeild fullunninnar vöru sjávarútvegsins í útflutningi.

Loksins er í bígerð hjá iðnaðarráðuneytinu að gera ráðstafanir til að skapa forsendur til lækkunar gjaldskráar Landsnets og til jöfnunar á gjaldskrám dreifingarfyrirtækjanna á milli þéttbýlis og dreifbýlis.  Slíkt er einfaldlega í anda þess að styrkja matvælaöryggi landsmanna og samkeppnishæfni atvinnulífsins almennt. Það er því vonum seinna, að þetta kemur fram.

"Öll okkar rafrænu samskipti kalla á vinnslu og vörzlu gagna í gagnaverum, sem þegar hafa risið hér, og getur sá iðnaður haldið áfram að vaxa og dafna með tilheyrandi útflutningstekjum og þekkingu fyrir þjóðarbúið.  Þessi græna framtíð kallar bæði á orkuvinnslu og uppbyggingu græns iðnaðar."

Þetta er hræðilegur moðreykur í ljósi þess, hvernig Landsvirkjun hefur komið fram við eigendur gagnavera hérlendis, og formaður samtaka þeirra hefur gert grein fyrir opinberlega.  Landsvirkjun hefur ekkert hlustað á þá um endurskoðun raforkusamninga í ljósi lækkunar raforkuverðs í nágrannalöndunum, sem leitt hefur til minni viðskipta og stöðnunar á sviði fjárfestinga í þessum geira hérlendis.  Fagurgali forstjóra  Landsvirkjunar er fullkomlega raunveruleikafirrtur. Þetta tengslaleysi við raunveruleikann nálgast siðleysi. Hvað gengur honum til ?  Hefur hann eða stjórn Landsvirkjunar söðlað um ? Mun Norðurál og umbylting steypuskála fyrirtækisins á Grundartanga fyrir allt að mrdISK 15 njóta góðs af því ?  Eiga ekki kjósendur, eigendur Landsvirkjunar, að fá haldbetri upplýsingar um framkvæmd orkustefnu iðnaðarráðherra en þessi óljósu reykjarmerki ? Svarið kemur í framhaldi greinar tvímenninganna hér að neðan.  Boltinn er í fangi iðnaðarráðherra samkvæmt þeim.  Þar ríkir ákvarðanatregða og forystuleysi, ef marka má höfundana.  Þá vita kjósendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi það, nema ráðherrann leiðrétti misskilning þeirra tvímenninga snarlega.

"Ekkert af þessu gerist, nema þau, sem halda um stjórnvölinn, séu sammála okkur um mikilvægi þess að stefna í þessa átt.  [Undirstr. BJo.]

Vissulega hafa mörg skref verið stigin á þeirri braut, en betur má, ef duga skal.  Við eigum í harðri  samkeppni við önnur lönd, sem einnig bjóða græna orku.  Sú samkeppni harðnar enn meira, nú þegar beizlun vinds og sólar verður enn algengari um allan heim, og saxar á forskotið, sem orka vatnsafls og jarðvarma tryggði okkur áður."

Óhjákvæmileg aðgerð hérlendis til að bregðast við þeirri harðnandi samkeppni, sem nú er um að selja raforku úr "grænum" orkulindum í heiminum, er að lækka arðsemiskröfur á hendur íslenzkra orkufyrirtækja, ekki sízt Landsvirkjunar, svo að fyrirtækin geti í senn lækkað verð sín og fullnægt kröfum eigendanna.  Einnig þarf að einfalda stjórnsýsluna um nýjar virkjanir, framkvæmdaleyfi og virkjanleyfi, sem flækjufætur hafa komizt í og skapað öngþveiti, sem leiðir til hás kostnaðar og orkuskorts, ef svo heldur fram sem horfir.  

Það blasir við, að Hæstiréttur veitti fordæmi um, hvernig meðhöndla á virkjanamannvirki m.t.t. álagningar fasteignagjalds "orkusveitarfélaga", þegar hann dæmdi Fljótsdalshreppi í vil gegn Landsvirkjun í deilumáli um Kárahnjúkavirkjun.  Þetta mun leiða til hærri rekstrarkostnaðar virkjanafyrirtækjanna, en líta má svo á, að verið sé að deila virkjanávinninginum með viðkomandi sveitarfélögum, sem hýsa þær, og það er eðlilegt, enda lækki arðgreiðslukrafa eigendanna á móti. 

Síðan koma hugleiðingar höfundanna um framtíðina, sem ekki verða skildar öðruvísi en svo, að sú græna framtíð, sem þeir þykjast vilja beita sér fyrir, geti ekki orðið að veruleika, nema stjórnvöld landsins taki til hendinni.  Þetta verður ríkisstjórnin að taka alvarlega og gera hreint fyrir sínum dyrum nú á kosningaári:

 "Erum við reiðubúin að taka á móti þeim, sem vilja byggja hér næstu gagnaver ?  Rafhlöðuverksmiðju til að mæta þörfum rafbílaframleiðenda ?  Stór gróðurhús, sem tryggja ferskt grænmeti allan ársins hring ?  Getum við tryggt aðstöðuna, orkuna, samstarf við önnur fyrirtæki, sveitarstjórnir og aðra hagaðila ?

Því miður skortir enn töluvert upp á.  Landsvirkjun er reiðubúin að mæta þessari áskorun, og það eru Samtök iðnaðarins og íslenzk iðnfyrirtæki líka.  En stjórnvöld verða að ryðja brautina, tryggja, að löggjöf sé með þeim hætti, að við missum ekki forskot okkar, hvort sem þar er rætt um skipulagsmál, umhverfismál, skattamál eða hvert annað atriði, sem snertir rekstur fyrirtækjanna.  Frumkvöðlar eru vissulega tilbúnir til að taka ýmsa áhættu og skapa grundvöll undir starfsemi sína, en það þarf að ryðja hindrunum úr vegi.  Ef við getum tryggt snör viðbrögð og fyrirsjánleika í rekstrarumhverfinu, eru allar líkur á, að hér byggist upp enn öflugri grænn iðnaður til framtíðar." [Undirstr. BJo.]

Halló, er iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ekki heima ?  Er allt froðusnakkið undanfarið ekkert meira en það, froðusnakk ?  Hefur hún átt samtöl við þessa herramenn um hindranirnar, sem þeir telja stjórnvöld þurfa að ryðja úr vegi, svo að hér verði blómleg nýsköpun á sviði nýtingar grænnar orku ?  Er það svo, að stjórnvöld standi eins og bergþurs gegn sköpun þeirra nýju atvinnutækifæra, sem ráðherrum verður svo tíðrætt um til að skapa ný störf og verðmæti, sem skotið geti stoðum undir núverandi lífskjör, sem ella munu hrynja, því að þau eru um efni fram.  Það er eitthvað mikið óútskýrt fyrir kjósendum í þessu máli.  Stendur einhver ríkisstjórnarflokkanna þversum gegn nauðsynlegum umbótum, eða hvers vegna í ósköpunum hefur ríkisstjórnin ekki látið verkin tala í kjölfar skrúðmælgi ?

Það verður þó að setja spurningarmerki við eina verksmiðjutegund, sem höfundarnir nefna hér að ofan sem æskilega fyrir Íslendinga að sækjast eftir, en það er rafgeymaverksmiðja.  Hugmyndin er komin frá Landsvirkjun, en viðskiptalega er hún gjörsamlega fótalaus og umhverfislega gæti hún reynzt bjóða upp á illvíg vandamál.  Ísland, með sínar miklu fjarlægðir frá hráefnum og mörkuðum rafgeyma, getur tæplega verið fýsileg staðsetning í augum slíkra fjárfesta.  Við sjáum staðsetningu Tesla á risaverksmiðju í grennd við Berlín.  Það verksmiðjuverkefni hefur reyndar lent í miklum mótbyr af umhverfisverndarástæðum vegna sjaldgæfs dýralífs, sem þar þarf að víkja. 

Slík verksmiðja notar ýmsa sjaldgæfa málma, og verði þeir hreinsaðir hér, getur það leitt til mengunar, sem við viljum ekki sjá, t.d. geislavirkni.  Megnið af þessum sjaldgæfu málmum, t.d. kobalt, sem í sumum tilvikum eru unnir með vafasömum hætti úr jörðu í Kongó, er reyndar flutt til Kína til vinnslu þar.  Kínverjar ráða lögum og lofum á hráefnamarkaði bílarafgeyma og framleiða reyndar mest allra af þeim sjálfir.  Þetta er ekki sérlega traust atvinnugrein að innleiða hérlendis, enda líklegt, að um bráðabirgða tækni verði að ræða.

Eftir þetta spark forstjóra Landsvirkjunar og framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins í mark ríkisstjórnarinnar, verða ráðherrar, t.d. iðnaðarráðherra, að gera hreint fyrir sínum dyrum.  Ella situr ríkisstjórnin uppi ómarktæk með Svarta-Pétur efnahagslegrar stöðnunar og rýrnandi lífskjara.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


ETS-kerfi ESB er óþörf byrði

Það er ekki aðeins á sviði bóluefnaútvegunar, sem hérlendum búrókrötum, höllum undir Evrópusambandið, ESB, ásamt óstyrkum stjórnmálamönnum, tókst að hengja íslenzku þjóðarskútuna aftan í draugaskip Evrópu, heldur var það einnig gert í loftslagsmálunum á sinni tíð, þótt hér séu losunarmál koltvíildis með allt öðrum hætti en í ESB. Þessi undarlega staða gæti hafa myndazt vegna þrýstings frá hinum EFTA-ríkjunum í EES (Evrópska efnahagssvæðinu) um að fylgja leiðsögn búrókratanna í Brüssel, svo gáfulegt sem það nú er, en í Noregi og Liechtenstein er stjórnkerfið undirlagt af fólki, sem hrifið er af þeirri tilhugsun að verða hluti af stórríki Evrópu, þótt t.d. norska þjóðin deili ekki þeim hagsmunatengdu viðhorfum "elítunnar" með henni. Það er vert að hafa í huga núna á þjóðhátíðardegi Norðmanna, frænda okkar, "Grunnlovsdagen".  Í íslenzka utanríkisráðuneytinu er ekki fúlsað við slíkum "trakteringum" téðra búrókrata, hvað sem líður drýldni og sjálfshóli fyrir sjálfstæðisviðleitni þar á bæ.  

Þann 8. maí 2021 birtist baksviðsfrétt Þórodds Bjarnasonar í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Fanga kolefni en greiða samt".

 Hún hófst þannig:

"Ef íslenzk álver taka þátt í þróun og nýtingu tækni, sem fangar koldíoxíð varanlega, þá þurfa þau engu að síður að greiða milljarða í losunargjöld innan ETS-kerfisins, viðskiptakerfis ESB um losunarheimildir.  Að sögn Péturs Blöndals, framkvæmdastjóra Samáls, samtaka álframleiðenda, vantar hvata í ETS-kerfið til að þróa og tefla fram nýjum lausnum, þrátt fyrir að slíkur hvati hafi verið frumforsendan fyrir því, að kerfinu hafi verið komið á fót."

Þetta sýnir, að ETS-kerfið hentar illa við íslenzkar aðstæður, enda er það sniðið við að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í raforkuvinnslunni, þar sem skórinn kreppir einmitt í ESB.  Sá hlutur er sem kunnugt er næstum 100 % á Íslandi. 

Fyrir álver eru ýmsir kostir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en róttækasta leiðin er að leysa kolaskaut rafgreiningarkeranna af hólmi með eðalskautum (t.d. úr keramik).  Ef tilraunir risanna, Rio Tinto og Alcoa, sem þeir hafa sameinazt um, takast með þetta, má búast við, að þeir muni reisa nýjar verksmiðjur með þessari nýju tækni, þótt raforkunotkunin per áltonn muni að öllum líkindum verða meiri en nú er til að vega upp á móti hitamyndun  frá bruna kolaskautanna.

Að óbreyttu gerir ETS gjaldkerfið íslenzku álverin væntanlega ósamkeppnishæf við ný kolefnisfrí álver.  Risafjárfesting af þessu tagi er ekki fýsileg fyrir álverseiganda, sem er aðeins með raforkusamning til 2036. Hefur Landsvirkjun reynt að hvetja til þessarar þróunar á Íslandi með því að bjóða hagstæða langtímasamninga til kolefnisfrírra álverksmiðja ?  Í mekki fagurgalans heyrist þó ekkert um raunhæf verkefni.  Þess vegna ríkir stöðnun í íslenzkri iðnvæðingu.  Orðin ein duga skammt.

"Losun gróðurhúsalofttegunda frá álframleiðslu er hvergi minni en á Íslandi [vegna innlendrar þróunar kerstýritækni og árvekni starfsmanna - innsk. BJo]. Þrátt fyrir það bera álverin kostnað af sinni losun, en ekki álver í Kína, sem knúin eru með kolaorku og losa því tífalt meira.  Ástæðan er sú, að ETS-kerfið nær einungis til evrópskra álvera.  Hættan, sem skapast við það, er, að álframleiðslan flytjist út fyrir álfuna, þar sem kolefnisfótsporið er stærra, en ekki þarf að greiða fyrir losunina."

ETS-kerfið hentar illa iðnaði, sem er færanlegur og stendur í alþjóðlegri samkeppni.  Kerfið hefur unnið gegn upphaflegum stefnumiðum með þessum "kolefnisleka"; það er vanhugsað, af því að gríðarlegar fjárfestingar og tækniþróun þarf til orkuskipta í iðnaði.  Á sama tíma er ETS mikil byrði á fyrirtækjunum, og þau hafa þess vegna ekki bolmagn til orkuskiptanna.  (Meginstarfsemi Rio Tinto og Alcoa er utan EES.) 

Það væri mun eðlilegra að umbuna fyrirtækjum, sem hafa lágmarkað sína losun niður í tæknilega mögulegt gildi, með því að sleppa þeim undan ETS um hríð (einn áratug) til að auðvelda þeim að þróa og innleiða nýja, kolefnisfría tækni.  

Síðan í apríl 2020 hefur álverð á markaði LME hækkað um 75 % og nálgast þá 2600 USD/t Al.  Spár hafa sézt um 3000 USD/t Al árið 2021.  Skýringin er sú, að framleiðsla hvers kyns varnings, þ.á.m. bifreiða, er með vaxandi hlutdeild áls af orkusparnaðar ástæðum, og Kínverjar hafa dregið úr álframleiðslu sinni af mengunarástæðum og eru nú orðnir nettó innflytjendur áls.  Öðru vísi mér áður brá.

Álver hvarvetna eru þess vegna að fara upp í fulla framleiðslugetu og jarðvegur að skapast til að auka framleiðslugetuna.  Hvernig bregðast Íslendingar við þeirri nýju stöðu ?  Á að grípa gæsina á meðan hún gefst, eða á að sitja á gerðinu, horfa í gaupnir sér og tauta, að orkulindir landsins séu að verða uppurnar ?  Hvar er sóknarhugurinn í verki ? Það væri mesta fásinna að gefast þannig upp fyrir afturhaldssjónarmiðum hérlendis, sem einkennast af svartagallsrausi í hvert sinn, sem taka á til hendinni við framkvæmdir, sem leiða til nýrrar verðmætasköpunar, sem veigur er í. Verði slík sjónarmið ofan á, geta atvinnuvegir landsins ekki veitt vaxandi þjóð atvinnu og þá velmegun, sem mikil spurn er eftir.

  


Orkumálin hornreka

Til að feta okkur út úr Kófinu þurfum við á að halda öllu því, sem landið og miðin hafa á boðstólum innan marka sjálfbærrar nýtingar.  Þar með þurfum við að auka orkunýtinguna til að auka gjaldeyrissköpun og gjaldeyrissparnað.  Til þess er óhjákvæmilegt að reisa fleiri virkjanir.  Væntanlega mun orkuvinnslukostnaður hverrar virkjunar ráða röðinni, svo að engin meginaðferðanna þriggja við vinnslu rafmagns verður fyrirfram útilokuð, þ.e. raforkuvinnsla með vatnsafli, jarðgufuafli eða  vindafli. 

Umhverfisráðuneytinu hefur verið falið stærra hlutverk en það ræður við undir forystu þjóðgarðaráðherrans Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Hann er fulltrúi afturhalds, sem er haldið meinloku um, að eitthvað óviðjafnanlegt fari endanlega forgörðum við hverja virkjun, sem hljóti að vega þyngra en þjóðarhagur af nýtanlegri, endurnýjanlegri orku.  Þetta músarholusjónarmið, sem ráðherrann hefur forystu fyrir, passar engan veginn í nútímanum, sem leggur höfuðáherzlu á að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með kolefnisfrírri raforkuvinnslu. Í ljósi þeirrar sameiginlegur umhverfisváar, sem boðuð er við 3°C hækkun meðalhitastigs lofthjúps niðri við jörðu, er óverjandi að standa gegn öllum vatnsaflsvirkjunum hérlendis, eftir að þær hafa komizt í gegnum nálarauga yfirvalda og framkvæmdaleyfi verið gefið.

Ráðherrann hefur framið skemmdarverk á undirbúningsferli orkuvera, eins og fram kom í jólaávarpi fráfarandi orkumálastjóra 2020, sem sá síðarnefndi leggur til, að verði endurskoðað með róttækum hætti.  Á meðan vinstra græna afturhaldið liggur á fleti fyrir í ríkisstjórn, mun líklega ekkert vitrænt gerast að þessu leyti.  Það getur aðeins endað með ósköpum á formi orkuskorts í landinu.  Hvílíkt sjálfskaparvíti í landi með gnótt "grænnar" orku.   

 

Nú er borin von, að fjöldi erlendra ferðamanna nái viðmunartölu fjárlaga þessa árs, þ.e. 700 k.  Þá þarf að reiða sig í meiri mæli á auðlindir hafs og lands.  Óli Björn Kárason, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, átti að vanda góða grein í Morgunblaðinu miðvikudaginn 24. marz 2021:

"Úr vörn í sókn".

Sjálfstæðismenn hafa margoft predikað það, að leið landsmanna út úr Kófinu skuli liggja um hagvaxtarleiðina.  Það er mikil fylgni á milli aukningar orkunotkunar í landinu og hagvaxtar.  Þess vegna ættu sjálfstæðismenn alls ekki að sætta sig við það, að dauð hönd músarholuafturhalds sé lögð á undirbúningsferli nýrra virkjana í landinu. Óli Björn skrifaði m.a:

"Jafnvægi í ríkisfjármálum er alltaf áskorun, en um leið ein frumskylda stjórnmálamanna, þegar til lengri tíma er litið.  Í aðdraganda kosninga er ekki ólíklegt, að ungt fólk krefji frambjóðendur og stjórnmálaflokka um skýr svör í þeim efnum."

Kófstímabilið er fordæmalaust hallatímabil ríkissjóðs, þar sem samanlagður halli mun sennilega verða yfir mrdISK 1000.  Þetta er svo alvarlegt, sérstaklega fyrir unga fólkið, að þegar verður að grípa til gagnráðstafana.  Skattahækkanir eru alltaf fyrsta og oft eina úrræði vinstri flokkanna, en þar sem þær munu dýpka og lengja kreppuna, eru þær síðasta úrræði Sjálfstæðisflokksins.  Hann vill auka tekjur hins opinbera með auknum umsvifum í þjóðfélaginu, og þau koma aðeins með aukinni framleiðslu.  Hún krefst meiri orkuvinnslu, og fyrir hana eru nýjar virkjanir nauðsyn, en þar stendur hnífurinn í kúnni eða vonandi spjótið í drekanum ógurlega, sem riddarinn mun vinna bug á.

Búið er að steingelda "Rammann".  Sennilega er bezt að fela Orkustofnun forvalið. Þegar tilhögun virkjana yfir 500 GWh/ár er fyrir hendi og umsögn Skipulagsstofnunar tilbúin, geta slíkar farið til afgreiðslu Alþingis. 

Áfram með tilvitnun í grein Óla Björns:

"Önnur áskorun, sem við verðum að takast á við, er atvinnuleysið.  Ég hef haldið því fram, að íslenzkt samfélag geti aldrei sætt sig við umfangsmikið atvinnuleysi, ekki aðeins vegna beins kostnaðar, heldur ekki síður vegna þess, að atvinnuleysi er sem eitur, sem seytlar um þjóðarlíkamann.  Atvinnuleysi er vitnisburður um vannýtta framleiðslugetu, minni verðmætasköpun og meiri sóun.  Allir tapa, en mest þeir, sem eru án atvinnu í lengri eða skemmri tíma."

Þetta er rétt, og til að ráða bót á atvinnuleysinu þarf að virkja orkulindir ásamt öðrum aðgerðum.  Við þurfum ný atvinnutækifæri.  Ef þingið ætlar að láta afturhaldsöflin ná fram vilja sínum, þá verður hér einfaldlega stöðnun og viðvarandi atvinnuleysi og/eða landflótti.  Hér er um þjóðarhag að tefla, eins og fyrri daginn. 

Gunnlaugur Snær Ólafsson birti í Morgunblaðinu 3. apríl 2021 fróðlega frétt undir yfirskriftinni:

"Rammaáætlunarferli í uppnámi":

""Starfsumhverfi verkefnisstjórnar og faghópa varð allt annað en að var stefnt í upphafi.  Engan grunaði, að þingsályktunartillaga byggð á vinnu við 3. áfanga rammaáætlunar yrði enn ekki samþykkt af Alþingi, þegar skipunartími verkefnisstjórnar og faghópa 4. áfanga rynni út - fjórum árum eftir skipun", skrifar Guðrún Pétursdóttir, formaður verkefnisstjórnar 4. áfanga, í formála skýrslu hópsins, sem birt var 31. marz [2021]."  

Hér er um að ræða moldvörpustarfsemi sitjandi umhverfisráðherra gagnvart undirbúningi nýrra virkjana á landinu.  Til þessa framferðis hefur hann enga heimild og bregst lögformlegum skyldum sínum með þessum ósvífna drætti á afgreiðslu 3. áfanga. Slík skemmdarverkastarfsemi í stjórnsýslunni er ólíðandi og er út af fyrir sig næg ástæða til að stöðva öll hans mál í þinginu.  Þar ber auðvitað ríkisvæðingu hálendisins hæst. 

"Guðrún segir í formálanum, að vegna þeirrar óvissu, sem skapaðist um framvindu rammaáætlunar, hafi Orkustofnun ekki auglýst eftir nýjum virkjunarkostum fyrstu rúm tvö ár[in] frá skipun verkefnisstjórnarinnar, en hún var skipuð til fjögurra ára 5. apríl 2017."

Vinna faghópa verkefnastjórna Rammaáætlunar hefur ekki haft verulegt raunhæft gildi og yfirleitt verið með slagsíðu í átt til verndunar.  Samkvæmt fráfarandi Orkumálastjóra hefur þessi vinna einkennzt af sparðatíningi gegn því að setja virkjunarkost í framkvæmdaflokk.  Það er engin eftirsjá að þessu þunglamalega ferli, enda ekki raunhæft að taka faglega afstöðu til virkjunar fyrr en drög að virkjunartilhögun hafa verið kynnt á stigi lögformlegs umhverfismats.  Úr því að vinstri græninginn í ráðherrastóli umhverfismála er búinn purkunarlaust að gelda ferlið, er um ekkert annað að ræða en að slá það af. 

"Niðurstaða verkefnisstjórnar vegna 3. áfanga var afhent ráðherra 2016, en þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða var lögð fyrir Alþingi 30. nóvember 2020 og var afgreidd til umhverfis- og samgöngunefndar 26. janúar [2021]. 

"Menn eru komnir langt fram úr þeim tímaramma, sem lögin tilgreina.  Það er búinn að vera mikill vandræðagangur síðan 2016, og ég hef tengt þetta við afgreiðslu frumvarpsins um hálendisþjóðgarð.  Mér þykir fráleitt að nálgast málið með þeim hætti, að það sé hægt að leiða hálendisþjóðgarðsmálið til lykta áður en rammaáætlunin er kláruð.  Í henni eru verkefni, sem eru innan fyrirhugaðra þjóðgarðsmarka", segir Bergþór Ólason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar og þingmaður Miðflokksins.

"Ég hef gagnrýnt það, hversu seint rammaáætlun kemur fram.  Við erum á vorþingi síðasta þings kjörtímabilsins og erum núna að fá málið til meðferðar í nefndinni. Það er ekki gott", bætir hann við."

Þarna liggur fiskur undir steini.  Ráðherrann býr til frumvarp um hálendisþjóðgarð sem andsvar við niðurstöðu verkefnisstjórnar um 3. áfanga Rammaáætlunar og ætlar að troða hugðarefni sínu fram fyrir 3. áfanga til að hafa aðstöðu til að kæfa nokkra af þeim virkjanakostum, sem þar eru lagðir til. Nefna má Skatastaðavirkjun. Þetta eru með eindæmum ólýðræðisleg vinnubrögð hjá vinstri græningjanum, sem Alþingi á alls ekki að láta bjóða sér, heldur að setja þennan hálendisþjóðgarð í frost, þar til Alþingi hefur veitzt ráðrúm til að fjalla um alla auðlindanýtingu á þessu svæði, sem nú er í kortunum.

Morgunblaðinu er auðvitað umhugað um, að umhverfisráðherra fylgi gildandi lögum um orkumál, en komist ekki upp með lögbrot, sem felast í að setja sand í tannhjól matsins á því, hvaða orkulindir á að nýta á næstu árum og hverjar ekki.  Forystugrein blaðsins 6. apríl 2021 var valið heiti, sem endurspeglar stöðuna í orkugeiranum:

  "Uppnám í orkunýtingu".

Henni lauk þannig:

"Þegar allt það grjót, sem finna má, er lagt í veg rammaáætlunar, er ekki við því að búast, að hún geti gengið fram, eins og lög gera ráð fyrir.  Augljóst er, að ferlið gengur ekki upp, og að finna þarf nýja, einfaldari og skilvirkari leið til að taka ákvarðanir um vernd og nýtingu orkuauðlinda Íslands."

Þetta er niðurstaða Morgunblaðsins, sem taka má heilshugar undir.  Orkumálin heyra ekki undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, nema Rammaáætlunin.  Orkumálin eru á ábyrgðarsviði iðnaðarráðherra, og það er ófagur bautasteinn yfir starfi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í iðnaðarráðuneytinu á kjörtímabilinu, sem lýkur 2021, að lykilatriði málaflokks á hennar ábyrgð skuli vera í uppnámi.  Slíkt er óviðunandi fyrir varaformann Sjálfstæðisflokksins. 

Ríkulega hlutdeild orkulinda landsins í auðlegð þjóðarinnar má þakka forystu Sjálfstæðisflokksins allt aftur til fyrsta formanns flokksins, Jóns Þorlákssonar, Landsverkfræðings.  Stórvirki unnu síðan dr Bjarni Benediktsson og Jóhann Hafstein á Viðreisnaráratuginum og dr Gunnar Thoroddsen á 8. áratuginum, en hann var iðnaðarráðherra Sjálfstæðisflokksins, þegar stórfelldri hitaveituvæðingu var hleypt af stokkunum í kjölfar tveggja olíukreppa með margföldun olíuverðs sem afleiðingu.  Núverandi iðnaðarráðherra verður að láta verkin tala fljótt og örugglega.

Jón Gunnarsson, ritari Sjálfstæðisflokksins og Alþingismaður, var ötull maður á stuttum ferli sínum sem samgönguráðherra m.m.  Hann hikar ekki við að leggja til atlögu við afturhaldið í landinu til að ryðja framfaramálum landsins braut.  Á þingi hefur hann reynzt skeleggur framfarasinni, og ræður hans og blaðagreinar eru fullar af eldmóði.  Ef sjálfstæðismenn fá aðstöðu til, þarf að setja slíka menn til verka að afloknum næstu þingkosningum.  Jón ritaði stuttan og hnitmiðaðan pistil á ritstjórnarsíðu Morgunblaðsins 7. apríl 2021, mætti gera meira af því og leggja þar fram sitt "manifesto" framfaranna:

"Tækifærin maður".

"Okkur hefur gengið betur en flestum þjóðum að eiga við óværuna, sem dunið hefur á heiminum.  Efnahagsleg áhrif eru mikil, og atvinnuleysi er ömurleg afleiðing.  Við verðum að beita öllum vopnum okkar til að endurheimta efnahagslegan styrk, treysta stöðugleika og skapa ný tækifæri til verðmæta- og atvinnusköpunar."

Þetta er mergurinn málsins hjá Jóni Gunnarssyni.  Þarna krystallast staða stjórnmálanna fyrir kosningarnar í haust.  Undir þessum gunnfána og fálkanum eiga sjálfstæðismenn að berjast.  Við verðum að rífa okkur laus úr fjötrum stöðnunar og setja allar vinnandi hendur og hugi til arðsamra verka. 

"En beztu tækifærin liggja í þeim greinum, þar sem menntun, þekking og reynsla okkar fólks er til staðar.  Má þar nefna fiskeldi, sem í senn hefur gríðarleg byggðarleg áhrif og efnahagsleg fyrir samfélagið allt.  Við stefnum að því að verða fremst meðal þjóða í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og höfum þar alla möguleika. Við eigum líka mikil tækifæri í framleiðslu á eldsneyti svo sem vetni, sem mun leika lykilhlutverk í orkuskiptum.  Orkufyrirtækin eru þegar farin að skoða þessi tækifæri."  

Það er hverju orði sannara, að gjöfulast og eðlilegast er einfaldlega að leggja meiri rækt við þá starfsemi, sem fyrir hendi er.  Sífellt skvaldur stjórnmálamanna um nýsköpun er oft innantómt.  Fyrirtækin sjálf stunda öflugustu nýsköpunina á gömlum meiði, og þarf ekki að orðlengja þá feikilegu aukningu verðmætasköpunar, sem þannig hefur átt sér stað í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði.  Í lokin skrifaði Jón Gunnarsson:

 ""Við viljum græna atvinnubyltingu byggða á nýsköpun, rannsóknum og þróun."  Þetta eru að mínu mati ofnotuðustu frasar í pólitískri umræðu um þessi mál.  Þetta segir ekki nema hálfa söguna.  Þau tækifæri, sem ég hef farið hér yfir, eiga það sammerkt að þurfa mikla orku, græna orku, til að geta orðið að veruleika.  Það þarf að svara því, hvaðan sú orka á að koma.  Frumvarp umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð gerir það ekki.  Sú stefna, sem þar birtist, er reyndar til þess fallin, að tækifærum til að spila í efstu deild er fórnað."

Þetta er hárrétt mat hjá Jóni.  Það þarf orku til að knýja þá framleiðsluferla, sem koma þarf á laggirnar í kjölfar Kófsins í viðleitni til að endurreisa efnahaginn.  Ef á að slá slagbrandi fyrir öll ný virkjanaáform og orkunýtingarfyrirætlanir, þá mun slíkt strax koma niður á lífskjörum landsmanna. Jón Gunnarsson er líklegur til að höggva á hnút þeirra banda, sem afturhaldið í landinu er búið að reyra utan um orkumál landsmanna.  

 

 


Að taka upp þráðinn við ESB-smjörklípa ?

Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Nú vill Viðreisn endurræsa viðræður um myntsamstarf og aðlögunarviðræður við Evrópusambandið (ESB).  Þetta er svo ótrúleg pólitísk glópska á kosningaári til Alþingis, að tiltækinu hlýtur að vera ætlað að slá ryki í augu kjósenda - sem sagt smjörklípa til að draga athyglina frá ægilegum vandræðum ESB í kjölfar BREXIT, en Sambandið mátti lúta í gras í viðureigninni við Breta út af bóluefnaútvegun, og ríki Sambandsins og reyndar EFTA-hækjunnar innan EES standa Bretum langt að baki, hvað framvindu bólusetninga við C-19 varðar og þar af leiðandi þróun heimsfaraldursins og hags almennings í kjölfarið. 

Að tengja gengi ISK við EUR með þröngu leyfilegu sveiflubili er undarlegt keppikefli, því að mikill hluti viðskipta Íslendinga innanlands og utan á sér stað með USD.  Nefna má, að raforkuviðskiptin við álverin og bókhald Landsvirkjunar og álfyrirtækjanna er í USD, og svo er um fleiri fyrirtæki.  Eldsneytisinnflutningurinn er í USD og sama gildir um ýmis önnur viðskipti.  Evrópusambandið er tollabandalag, og innan þess er ekki eftirsóknarvert að festast, því að Íslendingar vilja eiga viðskipti vítt og breitt um heiminn, auðvitað einnig við evrusvæðið og önnur ríki Evrópusambandsins, en meiri vöxtur er þó á flestum öðrum svæðum heimsins.

Þetta var ein af mörgum ástæðum þess, að Bretar kusu að yfirgefa ESB.  Þeir standa frjálsir að viðskiptasamningum við önnur ríki, og það vilja flestir Íslendingar líka fyrir sína parta.  Það er nauðhyggja að sækjast eftir að binda trúss sitt við stórríki Evrópu, þar sem stjórnarhættir eru ekki til fyrirmyndar í ESB, og lýðræðið er þar í skötulíki.  Áhrifaleysi okkar um eigin málefni yrði meira en flestir Íslendingar mundu sætta sig við, en næstum ómögulegt virðist vera að komast skaðlaust út úr þessum nána félagsskap. Það er ótrúlega barnalegt af Viðreisnarforystunni að reyna nú að sannfæra landsmenn um, að nú sé rétti tíminn til að gera gangskör að því að bæta hag sinn með því að innlima Ísland í Evrópusambandið og fela þar með embættismönnum og stjórnmálamönnum á meginlandinu öll örlög landsins.  Lýðræðislegt vald almennings á Íslandi færi þá fyrir lítið.  Það er með ólíkindum, að Viðreisn, Samfylking o.fl. skuli ætla að kyrja þennan kveðskap á árinu 2021.  Þeim er ekki sjálfrátt. 

Morgunblaðið er gáttað.  1. apríl 2021 var fyrri forystugreinin með fyrirsögnina:

"Furðutillaga".

"Önnur tillagan [Viðreisnar til þingsályktunar] kveður á um það, að ríkisstjórnin skuli óska eftir viðræðum við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum.  Þessi tillaga virðist, ef marka má texta tillagnanna, eiga að vera viðbragð við ímynduðum bráðavanda í þessum efnum, og samkvæmt henni á ríkisstjórnin að kynna viðræðurnar fyrir þinginu fyrir 1. júní n.k.."

Eins og áður segir fjallar þetta um að festa gengi ISK við EUR.  Það er ígildi fastgengisstefnu, sem hefur aldrei gefizt vel á Íslandi, og stjórnmálamenn hafa gefizt upp á henni, þegar þeir hafa staðið frammi fyrir afleiðingunum, sem eru ósamkeppnishæfir útflutningsatvinnuvegir, samdráttur gjaldeyristekna og fjöldaatvinnuleysi.  Þess vegna höfnuðu Svíar þessu gjaldmiðilssamstarfi SEK og EUR á sínum tíma.  Halda menn, að Íslendingar stæðu eitthvað betur að vígi nú með ISK rígneglda við EUR eftir þriðjungssamdrátt útflutningstekna ?  EUR fór þá úr tæplega 140 ISK í rúmlega 160, sem er breyting um tæplega 20 %, en nú er EUR komin undir 150 ISK.  Flestir gjaldmiðlar hafa verið á rússíbanareið undanfarið ár.  Er ekki ósköp eðlilegt, að verðmæti gjaldmiðils taki mið af viðskiptajöfnuði lands og eigna- skuldastöðu í útlöndum ?

"Hin tillagan, sem þingmennirnir vilja gefa heldur rýmri tíma, kveður á um "endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu", hvorki meira né minna.  Það er gert ráð fyrir að skipa nefnd og hefja mikinn undirbúning að aðild, og svo verði aðildarviðræður bornar undir þjóðaratkvæði eigi síðar en í janúar á næsta ári [2022]."

Óbeint hafnaði þjóðin áframhaldandi aðildarviðræðum við ESB með því að henda Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni grænu framboði út úr Stjórnarráðinu með tilþrifum vorið 2013.  Það er fáránlegt núna í djúpri Kófskreppu að vilja þá eyða tíma, kröftum og fjármagni, í dauðadæmda og útjaskaða hugmynd.  Forgangsröðun Viðreisnar er fyrir meðan allar hellur og sýnir fullkomið ábyrgðarleysi og dómgreindarleysi.  

"Falsrökin, sem fram koma í greinargerð með tillögunum, eru margvísleg og kunnugleg.  Þar segir t.d., að tilgangurinn sé "að styrkja fullveldi landsins", sem er þekkt öfugmæli þeirra, sem berjast fyrir aðild að Evrópusambandinu, en hafa áttað sig á, að almenningur hér á landi kærir sig ekki um að láta stjórna Íslandi frá Brussel.  Í stað þess að viðurkenna, að fullveldi landsins myndi skerðast verulega við inngöngu í ESB, þá kjósa þessir talsmenn aðildar að rugla umræðuna með því að halda fram hreinni firru í þeirri von, að einhhverjir bíti á það auma agn."

Aðildarsamningur við ESB er ekki þjóðréttarlegs eðlis, heldur felur hann í sér að selja landið undir erlenda löggjöf, sem hefur bindandi og endanlegt lagagildi hér.  Nýtt réttarfar yrði tekið upp, þar sem Alþingi yrði í algeru aukahlutverki.  Dómstóll ESB mundi dæma í fjölmörgum málum Íslendinga, og dómar hans eru ekki áfrýjanlegir.  Það er mjög léleg kímnigáfa fólgin í því og raunar alger uppgjöf að halda því fram, að þetta jafngildi "styrkingu" fullveldis lýðveldisins Íslands.  Þau verða að finna annan betri. 

Íslendingar eiga nákvæmlega ekkert erindi inn í Evrópusambandið, þeir munu ekkert gagn hafa af aðild þar, og hagur þeirra mun versna þar, enda er hagvöxtur evrusvæðisins minni en annars staðar í Evrópu að jafnaði, svo að ekki sé nú minnzt á önnur viðskiptasvæði Íslendinga.  Ef þeir einhvern tímann slysast þar inn, mun verða að áhrínsorðum orðtakið, að þangað leitar klárinn, þar sem hann er kvaldastur.

Mistakaslóði misheppnaðra blýantsnagara í Brüssel, sem ferðinni ráða í þessu gæfusnauða ferlíki, er svo fráhrindandi, að það er sálfræðilegt rannsóknarefni, hvernig heill þingflokkur læmingja getur í alvöru lagt það til á þingi landsins lengst norður í ballarhafi, að mál málanna sé nú aðild þessa lands að ólánsfjölskyldu Frakka og Þjóðverja á meginlandinu og að þjóðin verði að kjósa um, hvort banka beri upp á  þessu ólánsheimili eigi síðar en 2022.  Hvað er að ?

Morgunblaðið telur ekki eftir sér að benda á vankantana, t.d. í forystugrein 26.03.2021:

"Einn bílfarmur - 71 síða !":

"Kommisserar þessa nútíma sovétkerfis, sem klúðruðu bóluefnamálum sínum með sögulegum hætti, náðu hins vegar að bólusetja almenning svo hressilega gegn sér, að það þarf ekki fleiri skammta í bráð gegn þeirri veiru.

En það eru fleiri tilefni til sömu niðurstöðu.  Á það benti Ásgeir Ingvarsson í prýðilegri grein sinni nýlega.  Þar sagði m.a.:

"BBC fjallaði nýlega um það skýrslufargan, sem núna fylgir útflutningi á brezkum fiski til Evrópu.  Mig grunar, að það hafi vakað fyrir blaðamönnunum að sýna, hvers konar reginmistök það voru að ganga úr ESB, en þvert á móti sýnir umfjöllunin, hvað Evrópusambandið er orðið mikið óhræsi.

Í dag þarf, samkvæmt úttekt BBC, að framvísa samtals 71 blaðsíðu af flóknum eyðublöðum og vottorðum til að koma einum bílfarmi af fiski í gegnum tollinn, Evrópumegin.  Að fylla út pappírana kostar ótal vinnustundir, og vitaskuld má ekkert klikka, því [að] minni háttar mistök á einu eyðublaði þýða, að viðkvæm varan situr föst á landamærunum.  Geta brezkir útflytjendur sjávarafurða núna vænzt þess, að vörur þeirra séu u.þ.b. sólarhring lengur að berast í hendur kaupenda í Evrópu.

En það sem Bretar eru að upplifa er einfaldlega það sama og öll heimsbyggðin hefur hingað til þurft að þola af hálfu ESB.  Einu sinni var hún algerlega ómótstæðileg: létt og lipurt bandalag sjálfstæðra þjóða með það göfuga markmið að tryggja frið í álfunni og bæta hag almennings með því að hámarka frelsi í viðskiptum.  Í dag er hún orðin þunglamaleg, eigingjörn og dyntótt, og utan um innri markaðinn er búið að reisa háa múra reglugerða og formkrafa til að verja evrópska framleiðendur fyrir erlendri samkeppni."

Sú gamaldags kaupauðgistefna (merkantílismi), sem þarna er lýst, er runnin undan rifjum Frakkanna, sem eru verstu miðstýringarsinnar Evrópu, og skilja illa mátt valddreifingar og samkeppni.  Fyrir þjóðfélög innan þessa múrs, sem reyndar hefur hlotið þýzka stríðsheitið "Festung Europa" eftir gríðarlegum mannvirkjum  "des Dritten Reiches" á vesturströnd Evrópu, ber slík stefna í sér stöðnun.  Hagkerfin verða ósamkeppnishæf við umheiminn, og þjóðfélögin hrörna.  Íslenzka hagkerfið er allt öðru vísi saman sett en hagkerfi evru-landanna.  Hagsveiflan hérlendis er og verður þess vegna ekki alltaf í fasa við hagsveiflu evrusvæðisins, og peningamálastefna evru-bankans í Frankfurt am Main mun þess vegna hafa tilhneigingu til að auka sveiflur hagkerfisins hér í báðar áttir, sem er ekki eftirsóknarvert. 

Meginstefnumál Viðreisnar eru öll því marki brennd að fela í sér aðlögun Íslands að stjórnkerfi Evrópusambandsins að svo miklu leyti, sem sú aðlögun hefur ekki átt sér stað með aðild landsins að EES.  Verður sýnt fram á þetta í pistli síðar með hliðsjón af Morgunblaðsgrein formanns og varaformanns Viðreisnar um auðlindastjórnun og Stjórnarskrárbreytingar 25. marz 2021.  Þannig fara þar úlfar í sauðargæru, því að auðlindastjórnun ESB felur í sér markaðsvæðingu auðlindanna á Innri markaði Evrópusambandsins. Eftir þann hráskinnaleik mun lítið standa eftir af íslenzkum nýtingarrétti orku- og sjávarauðlinda.    

 

 


Orkuvinnslukostnaður Landsvirkjunar

Talsmenn Landsvirkjunar halda því fram, að fyrirtækið þurfi að fá um 30 USD/MWh fyrir raforkuna við stöðvarvegg frá orkukræfri starfsemi í landinu, sem fyrir er.  Ársskýrsla Landsvirkjunar ber með sér, að það er of í lagt, en kann að vera nærri lagi, þegar um nýja starfsemi frá viðbótar virkjunum í kerfinu er að ræða. 

Það er þjóðhagslega óhagkvæmt, að ríkisfyrirtækið bíti þetta óþarflega háa verð í sig, því að með því verðleggur það Ísland út af markaðinum að óþörfu, þegar um endurnýjun raforkusamninga er að ræða.  Langdregið þref við eigendur ISAL í Straumsvík sýndi þetta, og þrjózka við að semja við Norðurál um verð fyrir forgangsorku nálægt 25 USD/MWh með álverðstengingu undirstrikar vandann.  Langtímasamningur við Norðurál mundi leysa úr læðingi fjárfestingu á Grundartanga án verulegrar orkuaukningar upp á allt að MUSD 15, eins og fram hefur komið hjá forstjóra fyrirtækisins.  Átakanlegust og hættulegust innlendum iðnaði um þessar mundir er þó líklega staða Elkem á Íslandi í viðskiptunum við Landsvirkjun. 

Meðalverð Landsvirkjunar til orkusækins iðnaðar 2020 var 21,1 USD/MWh samkvæmt ársskýrslu fyrirtækisins. Þetta er lægra en undanfarin ár, m.a. vegna Kófsafsláttarins, en samt nam EBITDA fyrirtækisins MUSD 326 (=mrdISK 42) og hagnaðurinn MUSD 139 (mrdISK 18).  Hrein eign fyrirtækisins nemur MUSD 2235 og hagnaðurinn nemur 6,2 % af henni, svo að arðsemi fyrirtækisins er góð m.v. litla áhættu fjárfestinganna.  Á grundvelli þessa er ljóst, að Landsvirkjun spennir bogann alltof hátt með því að krefjast 30 USD/MWh.  Það er verulegt borð fyrir báru hjá fyrirtækinu, sem fyrirtækið á að nýta til aukinnar sölu á verði, sem gerir atvinnustarfsemi á Íslandi samkeppnishæfa á evrópskum mörkuðum og á öðrum hátt borgandi mörkuðum.  Líklega er slíkt verð forgangsorku um 25 USD/MWh, sem gæti sveiflazt upp á við og niður á við (lágm. 20 USD/MWh) með afurðaverði á heimsmörkuðum. 

Í viðtali við Markað Fréttablaðsins 10.03.2021 við Álfheiði Ágústsdóttur, forstjóra Elkem á Íslandi, kom margt fram, sem sýnir allt annað en vingjarnlegt viðmót íslenzka ríkisorkufyrirtækisins Landsvirkjunar gagnvart iðnaðinum í landinu.  Þetta stingur í stúf við fagurgala fyrirtækisins og stjórnvalda.  Er ástæða til fyrir Samtök iðnaðarins að láta ekki deigan síga, þegar um réttlætismál og stórfellt hagsmunamál iðnaðarins er að ræða:

"Elkem er meðal stærstu viðskiptavina Landsvirkjunar og kaupir ríflega 1 TWh/ár, sem svarar til um 7 % af raforkuframleiðslu fyrirtækisins.  Upphaflegur raforkusamningur Elkem og Landsvirkjunar tók gildi árið 1979 og var til 40 ára.  Þegar endalok þess samnings nálguðust, nýtti Elkem sér ákvæði í samningnum um, að hann yrði framlengdur til 10 ára. Raforkuverð á þessu 10 ára tímabili var svo ákveðið af gerðardómi. 

"Þar var ákvarðað verð, sem hvorki við né Landsvirkjun vorum ánægð með.  Við erum hins vegar með kaupskyldu í þessum samningi og erum bundin af honum til ársins 2029.  Við erum augljóslega opin fyrir að tengja raforkuverðið okkar afurðaverði og erum boðin og búin til að finna einhverjar lausnir á því máli.""

  Hér kemur fram, það sem virðist einkenna núverandi forystu Landsvirkjunar, þ.e. að henni virðist vera fyrirmunað að semja við viðskiptavini sína á eðlilegan hátt.  Fyrir vikið er salan minni og viðskiptin í uppnámi, svo að ekki sé minnzt á fjárfestingar viðskiptavinarins, sem eru fyrir vikið í algeru lágmarki.  Téður upphaflegur samningur Landsvirkjunar og Íslenska járnblendifélagsins mun hafa verið á þá lund, að aðeins helmingur umsaminnar heildarraforkuafhendingar á ári var forgangsorka; hinn helmingurinn var s.k. afgangsorka, sem Landsvirkjun átti rétt á að skerða alfarið tímabundið og allt að 50 % m.v. heilt ár.  Afgangsorkan kostar Landsvirkjun líklega innan við fjórðung af vinnslukostnaði forgangsorkunnar, því að kostnaður við uppsett afl (MW) er yfirgnæfandi í virkjunarkostnaði, og rekstrarkostnaður vatnsorkuvera er lítill.  Þannig gæti blanda af forgangsorku og ótryggðri orku verið lykillinn að lausn þessarar þrætu á Grundartanga. Það er ótækt að grafa undan þessari iðnaðarstarfsemi á Grundartanga með því, að Elkem á Íslandi þurfi að fella orkukaup sín að kaupskyldunni, næst þegar að sverfur, vegna hás raforkuverðs. 

"Stefna Landsvirkjunar síðastliðinn áratug hefur verið að miða samningaviðræður við kostnaðarverð raforkunnar, sem Landsvirkjun áætlar um 30 USD/MWh.

"Landsvirkjun vill fá sambærilegt verð og aðrir raforkuframleiðendur í Evrópu.  Það er fullkomlega skiljanlegt sjónarmið.  Hins vegar viljum við líka fá sambærilegt verð og kaupendur í þeim löndum, sem við berum okkur saman við, t.a.m. í Noregi.""

Kostnaður við orkuvinnslu í núverandi raforkukerfi er ekki áætlunaratriði, heldur reikningsdæmi.  Veigamikil breyta í dæminu er ávöxtunarkrafan, og hún er einfaldlega allt of há, m.v. að ávöxtun eigin fjár var 6,2 % árið 2020, þegar miklir Kófsafslættir voru þó veittir.  Nýtingartími hámarksafls skiptir líka miklu máli fyrir kostnað Landsvirkjunar í USD/MWh sem og aflstuðull kaupandans.  M.v. þessa þætti hjá Elkem á Íslandi og 50 % forgangsorku og 50 % ótryggða orku og núverandi afurðaverð ætti Landsvirkjun að geta sætt sig við um 20 USD/MWh meðalverð og sveiflur upp og niður á forgangsorku með afurðaverði.

""Aðstöðumunurinn liggur í stuðningi við stóriðju. Þar er ég bæði að tala um endurgreiðslur vegna kostnaðar á kaupum á ETS-einingum í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda, en líka sjóði, eins og hinn norska Enova.  Þar er um að ræða framtakssjóð á vegum norska ríkisins, sem fjármagnar grænar lausnir fyrir mengandi iðnað.  Enova fjármagnar t.a.m. þriðjung af fjárfestingu í tengslum við endurnýtingu orku frá kísilmálmverum Elkem í Noregi.  Elkem er núna að vinna fýsileikakönnun á því að fanga koltvísýring og endurvinna orku fyrir allar sínar verksmiðjur, og starfsemin hér á Íslandi er mjög hentug í þetta verkefni.  

Hins vegar erum við neðst á forgangslistanum hjá Elkem, þar sem opinber stuðningur við grænar lausnir fyrir stóriðjuna er mikill í Noregi, en nánast enginn hér.  Stjórnendur Elkem velja auðvitað þá kosti fyrst, sem eru hagkvæmastir.  Sem sakir standa er það í Noregi.  Elkem er mjög framsækið fyrirtæki í umhverfismálum, en við hér á Íslandi sitjum svolítið eftir, þar sem hið opinbera hefur ekki sýnt þessum málum sama áhuga og yfirvöld í Noregi og Kanada.""

Þetta er mikill áfellisdómur yfir íslenzkum yfirvöldum, sem sofa á verðinum við að líta eftir samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja og láta "græn" þróunarverkefni í samstarfi við iðnaðinn sitja á hakanum, þótt ráðherrar, t.d. iðnaðarráðherra, sé sífellt með á vörunum, hvað hún leggi mikla áherzlu á "græna" nýsköpun.  Það er hins vegar líklegt, að ef Elkem á Íslandi væri búið að tryggja sér raforku til langs tíma á samkeppnishæfu verði, þá mundi Elkem ekki bíða boðanna, heldur fjárfesta til framtíðar í verksmiðju sinni á Grundartanga í ýmiss konar verkefnum, þ.á.m. "grænum". 

Af frásögn forstjórans er jafnframt ljóst, að Elkem ætlar sér að vera áfram með mikla starfsemi í Noregi hér eftir sem hingað til og að norsk yfirvöld eru með raunhæfa stefnu í iðnaðarmálum til að gera orkusæknum iðnaði kleift að starfrækja arðbærar verksmiðjur áfram í Noregi í samkeppni á alþjóðlegum markaði.  Það væri margt vitlausara, sem íslenzki iðnaðarráðherrann gæti tekið sér fyrir hendur, en að kynna sér rækilega iðnaðarstefnu Noregs og framkvæmd hennar.  Henni virðist ganga illa að ná jarðsambandi, en í Noregi hafa stjórnvöld rekið raunhæfa iðnaðarstefnu í meira en heila öld og tengt hana við byggðastefnu. 

 

Síðan kom kjarni viðtalsins, sem ríkisstjórnin vonandi leggur hlustir við og mótar viðeigandi úrbætur, ef landið á ekki að glutra niður góðum iðnaðartækifærum vegna dauðyflisháttar og iðnaðarillvilja:

 ""Framtíðaruppbygging í þessari grein er fjárfrek, og því verður ekki farið í fjárfestingar með aðeins 8 ára raforkusamning [raforkusamning til aðeins 8 ára].  Við þurfum samkeppnishæfara raforkuverð, sem er sambærilegt við það, sem er í Noregi, og lengri samningstíma.  Við erum dýrasta verksmiðjan í Elkem í launakostnaði, þannig að það er ýmislegt, sem vinnur á móti okkur í þessum efnum.  Staðsetning okkar vinnur líka gegn okkur, þar sem við þurfum að flytja inn allt hráefni", segir Álfhildur."

Rauð ljós blikka, en hvað er aðhafzt í iðnaðarráðuneytinu ? Það eru öll teikn á lofti um, að að óbreyttu muni Elkem loka þessari Grundartangaverksmiðju við fyrsta tækifæri.  Með einu pennastriki er hægt að snúa þeirri óheillaþróun við.  Fyrirtækið þarf hagstæðan, langtíma raforkusamning.  Þá mun Elkem fjárfesta í Elkem á Íslandi í grænum lausnum og framleiðniaukandi verkefnum til að draga úr téðum launakostnaði á hvert tonn. 

Síðan koma upplýsingar frá forstjóranum um fjárhagsstuðning norska ríkisins við iðnrekstur undir ETS-loftslagsskilmálum Evrópusambandsins.  Hann er leyfilegur í EES til að koma í veg fyrir "kolefnisleka" til þriðja heims ríkja.  Hérlendis hættir orkupakkapólitíkusum til að vera kaþólskari en páfinn. 

 ""Það var alltaf raforkuverðið, sem gaf samkeppnisforskot hér á Íslandi.  Þetta er hreinlega ekki lengur fyrir hendi, og þessi verksmiðja yrði aldrei byggð í dag á þeim raforkuverðum, sem eru í boði.  Ég ítreka, að ég skil afstöðu Landsvirkjunar vel, en ef þetta á að ganga upp til lengri tíma, þá þarf að skoða hluti eins og endurgreiðslur vegna kaupa á ETS-einingum.  CO2-kostnaðurinn getur numið allt að 1/3 af orkuverðinu, og er stuðningur Norðmanna við sín fyrirtæki vegna þessa allt að 2/3 af CO2-kostnaðinum á MWh.  Þeir nýta mengunarkvóta, sem greiddir eru í ríkissjóð, til að styrkja svona verkefni, sem mér þykir skynsamlegt til að koma í veg fyrir kolefnisleka.""

Með öðrum orðum nemur ríkisstyrkur við járnblendiverksmiðjur í Noregi allt að 22 % af raforkuverðinu.  Hvers vegna hreyfir íslenzki iðnaðarráðherrann hvorki legg né lið ?

Síðan minntist Álfheiður á þróunarverkefni, sem gætu orðið hluti af auðlindagörðum Grundartanga. Hefur iðnaðarráðherra eitthvað kynnt sér þetta í kjördæmi sínu ?:

"Möguleikar á virkjun affallsgufu verksmiðju Elkem gæti verið lykill að aukinni samkeppnishæfni verksmiðjunnar hér á landi að sögn Álfheiðar. Við framleiðslu á kísilmálmi myndast hitaorka, sem fer út í andrúmsloftið.  "Hér væri hægt að setja upp orkuendurvinnslu, sem væri um 25 MW af uppsettu afli, sem samsvarar ríflega fimmtungi orkunotkunar okkar á hverju ári. Auk þess er hægt að nýta hann [varmann] til hitaveitu.  Mjög spennandi valkostir, en það kostar mikla peninga að fjárfesta í orkuendurvinnslu af þessu tagi.""

 

""Þetta snýst ekki um það [niðurgreiðslu ríkissjóðs á starfseminni], heldur að okkur sé ekki refsað tvisvar með koltvísýringstollum.  Við erum nú þegar að kaupa ETS-einingar fyrir þeirri koltvísýringslosun, sem verksmiðjan hér er ábyrg fyrir, og erum að nota hreina raforku til framleiðslunnar.  Hins vegar er raforkuverðið hér að nálgast það, sem tíðkast í Evrópu, en þar eru það kolaorkuverðin, sem eru á jaðri kostnaðarkúrfunnar og hækka raforkuverðið með öllum sínum koltvísýringsrefsitollum.  Við erum því að borga tvisvar fyrir okkar losun, beint með kaupum á mengunarkvótum og svo óbeint, því [að] kolaorkuverðið smitar yfir á evrópska raforkumarkaðinn. 

Ef þessari verksmiðju verður lokað hér, þá verður hún opnuð aftur í Kína, þar sem kol eru brennd til að framleiða sömu vöru, því [að] eftirspurnin eftir kísilmálmi mun ekki minnka, þó að Elkem á Grundartanga verði lokað. 

Að óbreyttum raforkusamningi er líklegt, að eigendur skoði að loka henni.  Við erum hins vegar að gera allt, til að láta þetta ganga, og það er mitt verkefni hér.  En það segir sig sjálft, að ef það er tap ár eftir ár, þá mun verksmiðjunni verða lokað", segir Álfheiður Ágústsdóttir."   (Undirstr. BJo.)

Glóruleysi verðlagsstefnu Landsvirkjunar blasir við, þegar ofangreint er lesið.  Raforkuverð í Evrópu hækkar með verðinu á koltvíildiskvótanum, sem ESB úthlutar orkufyrirtækjunum, og Landsvirkjun miðar sitt verðlag við þetta.  Það er engin viðleitni uppi hér  til að ýta undir, að iðnfyrirtæki noti "hreina" raforku Íslands landsmönnum og umheiminum öllum til hagsbóta. 

 

 


Iðnaðarstefna í skötulíki

Íslenzkt vatnsafl var virkjað að mestu af fyrirtækjum í almannaeigu í tvennu augnamiði: annað var að tryggja íslenzkum heimilum nægt rafmagn til lýsingar, eldunar og húshitunar við vægu verði til lengdar, þótt hitaveitur tækju víða við síðast nefnda hlutverkinu, og hitt var að útvega stöðugt og hagkvæmt afl til að knýja alþjóðlega samkeppnishæfan atvinnurekstur til að þróa íslenzkt atvinnulíf og skapa fjölskyldunum afkomuöryggi.  Þessi íslenzka iðnaðarstefna, sem átti sér hliðstæðu í vatnsorkulandinu Noregi og einnig í Svíþjóð, hafði í för með sér byltingu í lífskjörum landsmanna.

Landsvirkjun var stofnuð til að gegna síðar nefnda hlutverkinu, og engin lýðræðisleg ákvörðun hefur verið tekin um að breyta því hlutverki.  Fyrirtækið hefur engu að síður síðastliðinn áratug lent á algerum villigötum með óljósu tali um hámarksarðsemi.  Slíkt stingur algerlega í stúf við upphaflega, lýðræðislega og sígilda stefnumörkun fyrir þetta ríkisfyrirtæki, enda hlýtur stefna um hámarksarðsemi á fáokunarmarkaði að leiða til algers ófarnaðar atvinnulífsins. Er ámælisvert, að stjórnvöld skuli ekki hafa gert gangskör að því að leiðrétta þessa afdrifaríku skekkju í stefnu fyrirtækisins.     

Á vakt núverandi ríkisstjórnar, eins og það er stundum orðað, virðist þessa farsælu upphaflegu stefnu hafa steytt á skeri, án þess að lýðræðisleg stefnumótun hafi þó  farið fram um valkosti, eins og t.d. átti sér stað á Alþingi við mótun téðrar iðnaðarstefnu að frumkvæði Viðreisnarstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks á 7. áratugi 20. aldarinnar og kostaði reyndar hörð stjórnmálaátök við afturhaldið í landinu.  

Langstærsta orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, hefur verið í almannaeign frá stofnun þess með lögum frá Alþingi 1965, þó ekki alla tíð alfarið í eigu ríkisins, eins og nú, heldur komu Reykjavík og Akureyri að eignarhaldinu í byrjun.  Stærðar sinnar vegna nú virðist hún geta, a.m.k. tímabundið, hagað sér eins og ríki í ríkinu. Lýðræðisleg mótun eigendastefnu fyrirtækisins virðist ekki liggja að baki kúvendingu á verðlagningarstefnu Landsvirkjunar, sem kemur með núverandi forstjóra fyrirtækisins, Herði Arnarsyni, árið 2010 og stjórnarformanni, Jónasi Þór Guðmundssyni, frá 2014, ásamt háum arðsemiskröfum frá eigandanum.

Þar er um þröngsýna stefnubreytingu að ræða frá því að reka verðlagsstefnu, sem lagði grunn að samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja, að hámörkun arðsemi Landsvirkjunar, sem er öndverð hagsmunum atvinnulífsins og þar með eigendanna, almennings í landinu. 

Þessi stefna hefur gert íslenzkum fyrirtækjum róðurinn erfiðan undanfarin ár, og því erfiðari þeim mun meiri, sem orkunotkun á hverja framleiðslueiningu hefur verið hjá viðskiptavinum Landsvirkjunar.  Stefnan hefur fælt nýja viðskiptavini frá fyrirtækinu og valdið samdrætti í orkukaupum viðskiptavinanna, sem hafa farið halloka í samkeppninni á alþjóðlegum mörkuðum.  Þeir hefðu flúið til annarra orkubirgja, ef kostur væri, en á íslenzkum fákeppnismarkaði eru valkostir í mörgum tilvikim engir. 

Sem kunnugt er lá við lokun verksmiðjunnar í Straumsvík vegna þessarar verðlagsstefnu Landsvirkjunar, en á síðustu stundu í vetur tókst að forðast stórslys, sem okurstefna Landsvirkjunar gat hæglega valdið í Straumsvík.  Á Grundartanga liggja miklar fjárfestingar í steypuskála Norðuráls á ísi vegna þrákelkni Landsvirkjunar við að semja á skynsamlegum nótum við fyrirtækið um alþjóðlega samkeppnishæft verð.  Íslenzka raforkukerfið getur látið það í té með nægum hagnaði, og eigandinn, ríkissjóður, tekið ávinninginn út með skattlagningu á hinum endanum, eins og Roosevelt sagði um "New Deal" stefnu sína.  Þannig er þetta gert í rótgrónum iðnríkjum, en hér ríkir einhvers konar andi spákaupmennsku og barnalegrar iðnaðarfælni.  

Þann 10. marz 2021 birtist athyglisvert viðtal í Markaði Fréttablaðsins við forstjóra Elkem á Íslandi, Álfheiði Ágústsdóttur.  Fyrirtæki hennar, áður þekkt sem járnblendiverksmiðjan á Grundartanga, er e.t.v. aðalfórnarlamb aðfarar Landsvirkjunar að iðnaðinum í landinu um þessar mundir.  Það er makalaust, að ríkisorkufyrirtæki þetta skuli komast upp með það ár eftir ár að grafa undan atvinnurekstri og gjaldeyrisöflun í landinu.  Það er ekki vanzalaust, að þetta skuli gerast á vakt varaformanns Sjálfstæðisflokksins í iðnaðarráðuneytinu, því að t.d. orkukræfur iðnaður væri líklega enginn í landinu, ef forysta hans hefði aldrei haft þrek til að berjast fyrir tilvist orkusækins iðnaðar, og flokkurinn hefur aldrei á landsfundum sínum breytt um þá grundvallarstefnu í iðnaðarmálum, sem mótuð var á Viðreisnaráratuginum af dr Bjarna Benediktssyni og Jóhanni Hafstein.  Ríkur þáttur í henni var einmitt að virkja orkulindir landsins til að selja útflutningsiðnaði og gjaldeyrissparandi iðnaði raforku á samkeppnishæfu verði.  Fyrir kosningar til Alþingis í ár þarf Sjálfstæðisflokkurinn að sýna í verki, að hann hafi afl og einurð til að láta þá stefnu sína rætast, að raforkan skapi samkeppnishæft rekstrarumhverfi fyrir íslenzkan iðnað.  

Fyrirsögn áhrifaríks viðtals Fréttablaðsins við Álfheiði Ágústsdóttur var:

"Erfitt ár að baki á Grundartanga".

Þetta er vægt til orða tekið, því að um verstu afkomu í sögu fyrirtækisins var að ræða, og lögðust þar á eitt þrengingar Kófsins og íþyngjandi raforkukostnaður:

"Um 170 manns starfa hjá Elkem Ísland, en svo eru aðrir 50-60 verktakar, sem starfa á verksmiðjusvæðinu á hverjum degi, að sögn Álfheiðar.

"2020 var hins vegar afkoma verksmiðjunnar verst frá upphafi.  Verð voru lág á markaði, og kostnaður okkar vegna raforkukaupa hefur verið síðan afar hár, eftir að gerðardómur um raforkuverð okkar lá fyrir."

Álfheiður segir, að fyrirtækið sé ýmsu vant.  "Við lítum á þetta sem áskoranir, og við leitum sífellt lausna og reynum að nýta tækifæri, sem nýjar aðstæður skapa okkur", segir hún ennfremur."

Deilur Elkem á Íslandi og Landsvirkjunar um raforkuverðið voru komnar í öngstræti, og þess vegna var þrautalending að setja þrætuna í gerðardóm.  Þetta er mikill áfellisdómur yfir ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun og stjórnarformanni hennar, sjálfstæðismanninum Jónasi Þór Guðmundssyni, sem þarna hefur gefið forstjóranum, Herði Arnarsyni og ósanngirni hans í garð stóriðju, lausan tauminn.  Það væri hins vegar í samræmi við hefðbundna iðnaðarstefnu Sjálfstæðisflokksins að beita sanngjarnri verðlagsstefnu m.v. samkeppnisaðilana.  Þetta má gera með því að láta raforkuverðið draga dám af afurðaverðinu hverju sinni.  Það er nánast iðnaðarfjandsemi að beita sér af hörku gegn slíku.  Iðnaðarfjandsemi af hálfu langstærsta orkufyrirtækis landsins, sem stofnað var til að iðnvæða landið og byggja upp traust, tæknivætt atvinnulíf, mun hins vegar rústa iðnaðinum. 

Nýr raforkusamningur á milli Landsvirkjunar og Rio Tinto/ISAL í Straumsvík gefur þó veika von um, að eyðimerkurgöngu iðnaðarins muni senn linna og að hér verði tekin upp iðnvæn stefna, sem er hefðbundin stefna Sjálfstæðisflokksins.  Forstjóri Elkem áÍslandi á lof skilið fyrir þrautseigju sína og bjartsýni í þessum ólgusjó af mannavöldum, sem Landsvirkjun átti að forðast.     

"Verðin [á afurðum Elkem á Íslandi-innsk. BJo] eru á fínum stað núna og hafa verið að stíga hratt á síðustu mánuðum.  Verðið stendur núna í 1360 EUR/t [1625 USD/t], sem er ágætt verð fyrir okkur.  Væntingar standa til þess, að verðið haldist út 2. ársfjórðung [2021].  Lagerstaðan á heimsvísu er anzi lág um þessar mundir, en það mun eflaust breytast á síðari hluta ársins, eftir því sem framleiðsla eykst víða um heim í kjölfar rekstrarstöðvana á síðasta ári.  

Við erum hins vegar vön miklum verðsveiflum.  Eins og ég horfi á þennan rekstur, þá koma góð ár og slæm ár, og þess vegna þarf að horfa á meðalarðsemina yfir lengra tímabil. Ef núverandi verð á kísilmálmi [kísiljárni] helzt, verður arðsemi [arður] á verksmiðjunni í ár.  Hins vegar er spurning, hvort arðsemin í ár verði nægilega mikil  til að bæta upp fyrir tap síðustu tveggja ára (rekstrartap ársins 2018 var MNOK 135 [=mrdISK 2,1].

Ársreikningur síðasta árs [2020] er tilbúinn, og rekstrartap ársins var um MNOK 150 [=mrdISK 2,3]. Það hefur verið saga þessarar verksmiðju, að það koma slæm ár og góð ár, en meðalarðsemin yfir lengri tíma hefur verið viðunandi.  En m.v. okkar kostnaðarumhverfi núna, sérstaklega m.t.t. raforkuverðsins, þá lítur út fyrir, að góðu árin verði töluvert magrari en við eigum að venjast." 

Hér er á kurteislegan hátt sagt, að búið sé að kippa rekstrargrundvellinum undan þessari kísiljárnverksmiðju með raforkuverði, sem verksmiðjan ræður ekki við.  Þetta er grafalvarlegt; ekki sízt í ljósi þess, að af hálfu Landsvirkjunar var því lýst yfir eftir uppkvaðningu gerðardómsins, að raforkuverðið væri óviðunandi fyrir Landsvirkjun og að fyrirtækið myndi beita sér fyrir hækkun þess að gildistíma gerðardómsins liðnum.  Með þessari skilningsvana afstöðu kveður Landsvirkjun í raun dauðadóm upp yfir þessu iðnfyrirtæki. 

Þessi framkoma af hálfu ríkisfyrirtækisins í garð iðnaðarins í landinu er gjörsamlega óviðeigandi og óviðunandi.  Vonandi beita ráðherrar sér fyrir því að koma vitinu fyrir Landsvirkjun með því að minnka arðsemiskröfuna til fyrirtækisins.  Það þarf að helminga hana. Það er síðan hlutverk Landsvirkjunar frá fornu fari að leitast við að treysta framtíð þessa viðskiptavinar síns, svo að hann hefji fjárfestingar af krafti, auki framleiðsluna og verðmæti hennar og þurfi fleira fólk í vinnu.  Til þess þarf langtíma raforkusamning með tengingu við afurðaverðið, sem tekur tillit til óhagræðis staðsetningar á Íslandi.  Enginn vafi er á, að Landsvirkjun mundi hagnast á samningi, sem Elkem á Íslandi getur staðið undir með samkeppnishæfum hætti.  

"Nýlega náðust samningar á milli Landsvirkjunar og Rio Tinto um breytingar og viðauka við raforkukaupasamning álversins í Straumsvík.  Álverðstenging var aftur tekin upp í samninginn, en stefna Landsvirkjunar síðustu ár [frá 2010-innsk. BJo] hefur verið að tengja raforkuverð því, sem gengur og gerist á evrópskum orkumörkuðum fremur en að tengja raforkuverðið við álverð.  Nú er hins vegar komið annað hljóð í strokkinn, og Landsvirkjun hefur lýst sig reiðubúna til að taka aukna verðáhættu með viðskiptavinum sínum."

Að kröfu Landsvirkjunar hvílir leynd yfir nýja raforkusamninginum við ISAL, þótt Rio Tinto vilji gjarna opinbera hann, enda er leyndarhyggjan farin að rakna upp á þessu sviði. Búast má við, að verð fyrir orku og flutning til ISAL losi nú 30 USD/MWh.  Þá er orkuverð frá virkjun vel undir 30 USD/MWh, sem veitir Landsvirkjun samt þokkalega arðsemi af hreinni eign sinni.  Nýja orkuverðið til ISAL er vel yfir meðalverði Landsvirkjunar til orkusækins iðnaðar, sem var 21,1 USD/MWh árið 2020. Þetta lága meðalverð gaf Landsvirkjun samt vel viðunandi arðsemi. 

Það lýsti hins vegar fullkomnu skilningsleysi á samkeppnisstöðu íslenzkra iðjuvera að heimta tengingu orkuverðs til þeirra við markaðsverð á Nord Pool uppboðsmarkaði, sem ræðst töluvert af veðurfari í norðanverðri Evrópu og olíuverði, en stórsamningar um raforkuviðskipti til langs tíma hafa allt aðrar viðmiðanir.  Haldið verður áfram að fjalla um þetta merka viðtal við forstjóra Elkem á Íslandi í næsta pistli hér á vefsetrinu.  

 

 


Ný innviðareglugerð Evrópusambandsins

Nú er Orkupakki 4 (OP#4) frá Evrópusambandinu (ESB) til rýni og mats innan EFTA í því augnamiði að móta sameiginlega stefnu Íslands, Noregs og Liechtensteins til þeirrar málaleitunar framkvæmdastjórnar ESB, að þessi EES ríki innleiði í lagasafn sitt þá viðamiklu orkulöggjöf, sem stundum er kölluð Vetrarpakkinn, en er í raun OP#4, af því að hún leysir af hólmi OP#3.  Gagnvart Innri orkumarkaði ESB eru þessi 3 ríki mjög ólík og eiga þess vegna ólíkra hagsmuna að gæta.  Þar að auki eru skoðanir mjög skiptar og tilfinningar blendnar á Íslandi og í Noregi til þeirrar tilhneigingar ESB að sveigja orkumál aðildarríkjanna í sífellt auknum mæli undir vaxandi miðstjórnarvald Sambandsins.  Fyrir utan vafasamar tæknilegar afleiðingar af slíku tiltæki og einskis sýnilegs ávinnings af slíku leikur mjög mikill vafi á því, bæði á Íslandi og í Noregi, hvort stjórnarskrár landanna leyfi slíkt framsal ríkisvalds til erlendrar stofnunar, þar sem ríkin eiga ekki aðild, eins og felst í innleiðingu OP#4.  

Málið er hins vegar fjarri því svo einfalt, að nóg sé að einblína á eina reglugerð, eina tilskipun eða jafnvel lagabálk, eins og OP#4, þegar afleiðingarnar fyrir sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar eru metnar.  Það eru fleiri tilskipanir og reglugerðir, sem getur þurft að taka tillit til, því að þær vinna saman að því að styrkja enn miðstjórnarvaldið, sem felst í öðrum gerðum, t.d. OP#4.  

Ein slíkra gerða er innviðareglugerð nr 2020/0360(COD), sem er endurskoðun á 347/2013, sem ESB af einhverjum ástæðum, sem ekki hefur verið upplýst um, hætti við að gera að EES-máli, en sú nýja verður það þó mjög líklega. Þess vegna verður íslenzka utanríkisráðuneytið að vinna vandaða heimavinnu nú til að verða ekki tekið sofandi í bólinu, þegar kemur að innleiðingu innviðareglugerðarinnar hérlendis. Undirbúningsvinnan felst í að vega og meta frá hvaða atriðum reglugerðarinnar nauðsynlegt er, hagsmuna og stjórnarskrár landsins vegna, að leita eftir undanþágu og beita neitunarvaldi, ef það ekki fæst.

Endurskoðunina skýrir ESB með því, að laga eigi innviðareglugerðina að "Green Deal" Sambandsins, sem nú er allt um lykjandi.  Aukið er við hana, svo að hún auk flutningskerfis fyrir rafmagn og jarðgas, spanni græn gös, s.s. vetni, og flutningskerfi fyrir koltvíildi, sem á að geyma (og halda frá andrúmsloftinu), annaðhvort til niðurdælingar og bindingar eða til framleiðslu lífeldsneytis.  

Á rafmagnshlið miðar reglugerðin við 4 stjórnsvæði Orkusambands Evrópu; þar af er Norð-Vestursvæðið eitt, og tekur Framkvæmdastjórnin sem dæmi: "e.g. from wind farms in the North and Baltic Seas to storage facilities in Scandinavia and the Alps".  Þarna er hugmyndin sú, að vindorkuver úti fyrir ströndu vinni með vatnsorkuverum Skandinavíu og Alpanna, svo að vatn sparist.  Síðan er hægt að taka mikið afl út úr vatnsorkuverunum, hugsnlega með viðbótar búnaði þar o.fl, þegar aflskortur verður í ESB-löndunum. Þannig verður hægt að leysa gasorkuver í Orkusambandinu af hólmi sem varaorkuver fyrir jöfnunarafl og -orku inn á kerfið.  Að sjálfsögðu mundi Ísland falla inn í þessa hugmyndafræði, ef Icelink-sæstrengurinn verður lagður og allir nauðsynlegir innviðir reistir innanlands til að þjóna þessum sæstreng.  Ísland yrði þá eins konar orkunýlenda ESB. Innviðareglugerðin snýst um að útbúa stjórnkerfi í hverju aðildarlandi, sem sé sniðið til að raungera þessa hugmyndafræði, og að það verði gert sem erfiðast að þvælast fyrir markmiðum Orkusambands Evrópu.

ÓLJÓST ER, HVORT MILLILANDATENGINGAR OG FLUTNINGSKERFI INNANLANDS GETA ORÐIÐ PCI-VERKEFNI, ÁN ÞESS AÐ RÍKISVALDIÐ Í VIÐKOMANDI LANDI MÆLI MEÐ ÞVÍ (PCI=Project of Common Interest, forgangsverkefni Orkusambandsins):

Það eru svæðisstjórnstöðvar Orkusambands Evrópu sem leggja til, að verkefni fari á PCI-skrána samkvæmt gr. 3 í þessari innviðareglugerð.  Ísland er á norð-vestur svæðinu með Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Hollandi, Þýzkalandi og Eystrasaltsríkjunum. Meirihluti þeirra tekur ákvörðun um verkefni inn á PCI-skrána við atkvæðagreiðslu.  Ísland og Noregur hafa ekki atkvæðisrétt í svæðisstjórninni. Þetta er alveg óaðgengilegt fyrir Ísland án neitunarvalds.  Tillaga svæðisstjórnarinnar fer til ACER til umsagnar og síðan til Framkvæmdastjórnarinnar annað hvert ár. 

Fyrsta PCI-verkefnaskráin eftir þessari nýju forskrift á að hljóta samþykki 30.11.2023.  Hægt er að túlka gr. 3.3.a í þessari innviðareglugerð þannig, að Ísland og Noregur hafi neitunarvald um þau verkefni, sem beint snerta þessi ríki.  Ef Ísland hafnar verkefni, skal orkustjóri Íslands leggja fram í svæðisstjórninni rökstuðning fyrir höfnun. Það er óljóst, hvað verður um PCI-verkefnið, ef önnur ríki eða meirihluti þeirra í svæðisstjórninni fallast ekki á röksemdirnar.  Þetta verða íslenzk stjórnvöld að fá á hreint núna, á meðan svigrúm er til að koma athugasemdum að hjá EFTA/ESB, og utanríkisráðherra þarf að gera það ljóst, að skilyrði fyrir innleiðingu Íslands á þessari reglugerð sé, að landið fái skýlaust neitunarvald um verkefni, er varða landið beint og tillaga er uppi um, að fari inn á PCI-skrána. Það er mjög líklega hægt að fá Noreg til að standa með Íslandi að slíkri stefnumörkun EFTA.

GÆTI ICELINK AFTUR ORÐIÐ PCI-VERKEFNI ?:

  Samkvæmt gr. 3c skal PCI-verkefni uppfylla eftirtaldar 2 kröfur hið minnsta:

1. Það fer yfir landamæri tveggja aðildarríkja hið minnsta.

2. Það er á umráðasvæði eins aðildarríkis og hefur marktæk jákvæð áhrif á orkuflutning á milli landa.

Nú eru hvorki Ísland né Bretland aðildarríki ESB, þótt Ísland sé í Orkusambandi Evrópu eftir innleiðingu OP#3, og þess vegna ætti ekki að vera hætta á endurlífgun Icelink á vegum ESB.  Hins vegar gerir tækniþróunin kleift að leggja og reka æ lengri háspennta jafnstraumsstrengi neðansjávar. Mögulega mun þó ESB kjósa að líta á Ísland sem aðildarland vegna EES-samningsins og þeirrar þýðingar, sem vatnsafl Íslands hefur fyrir Orkusamband Evrópu. Þetta verður utanríkisráðherra að fá á hreint.  

ESB GRÍPUR INN Í LEYFISVEITINGAFERLI, SEM Í GILDI ER Í HVERJU LANDI:

Samkvæmt gr. 10 á allt ferlið áður en umsókn um leyfisveitingu fyrir verkefni, sem innviðareglugerðin spannar, t.d. orkumannvirki, er send, að taka að hámarki 2 ár. Innan þessara tímamarka á að gera áhættugreiningu fyrir náttúru og þjóðhagslega arðsemi verkefnisins og Skipulagsstofnun að afgreiða umhverfismatið.  Frá því að umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir t.d. virkjun eða flutningsmannvirki er send til sveitarstjórnar skulu að hámarki líða 18 mánuðir að ákvarðanatöku.  Allt ferlið má mest taka 42 mánuði.  Frestunarslakinn er mest 9 mánuðir, svo að heildartíminn getur allra mest orðið 51 mánuðir eða 4 ár og 3 mánuðir frá rannsókn á fýsileika og forhönnun að framkvæmdaleyfi.  Þetta er mun þrengri tímarammi en við eigum að venjast hérlendis, en mjög langur undirbúningstími og afar seinvirkar opinberar stofnanir hafa verið gagnrýndar hérlendis, m.a. af fráfarandi orkumálastjóra, enda tekur þar út yfir allan þjófabálk.  Þarf blýantsnagara í Brüssel til að vekja iðnaðarráðherra o.fl. upp af Þyrnirósarsvefni um þetta ófremdarástand ? 

Hvað sem því líður er ótækt, að ESB grípi með þessum hætti inn í leyfisveitingaferli hjá ríki, sem er ekki í Sambandinu.  Utanríkisráðherra verður að vera á varðbergi gagnvart þessu og verja fullveldi landsins.  

INNVIÐAREGLUGERÐIN GERIR YFIRVÖLDUM ÞAÐ ERFITT AÐ HAFNA LEYFISUMSÓKN UM PCI-VERKEFNI:

Samkvæmt gr. 3 á PCI-verkefni að hafa hæsta forgang í kerfisáætlunum orkuflutningsfyrirtækja landanna.  

Samkvæmt gr. 5 eiga þeir, sem eiga verkefnið, að skila ársskýrslu fyrir 31.12. árið, sem verkefnið fór inn á PCI-skrána og síðan áfram.  Orkustjóri landsins sendir hana til ACER og gerir grein fyrir orðnum og fyrirsjáanlegum seinkunum á leyfisveitingaferlinu.  

Samkvæmt gr. 6 getur framkvæmdastjórn ESB, eftir samkomulag þar um við viðkomandi aðildarland, útnefnt ESB-samræmanda í allt að eitt ár, og þetta tímabil má framlengja tvisvar, ef PCI-verkefni steytir á skeri.  

Samkvæmt gr. 8 skal hvert ríki útnefna opinbera stofnun, sem skal hafa það hlutverk og heimildir til að auðvelda og samræma leyfisveitingaferlið fyrir PCI-verkefni. Það skal gera í síðasta lagi 01.01.2022. 

 Formlega er það áfram Ísland, sem samþykkir leyfi eða synjar um leyfisveitingu, en hér hefur ESB sett upp alls konar hliðarkerfi, sem eiga að gera synjun PCI-verkefnis fjarlægan möguleika.  Það er ótækt fyrir fullvalda ríki, að ESB geti skipað samræmanda, sem geti auðveldað leyfisveitingaferlið og jafnvel skipað Orkustofnun eða sveitarstjórn að auðvelda samþykktarferlið fyrir verkefnið.  Utanríkisráðherra verður að fá undanþágu frá þessu fyrir Ísland. 

HINDRAR GR. 7 EINHLIÐA STÖÐVUN PCI-VERKEFNIS ?:

 Samkvæmt gr. 7 skal framkvæma PCI-verkefni fumlaust, þótt því hafi seinkað af ástæðum, sem eru taldar upp í rafmagnstilskipuninni 2019/944, gr. 51.a, b eða c.  Mismunandi aðferðir við að koma verkefninu á réttan kjöl eru tíundaðar, en það er ómögulegt að stöðva verkefni, sem er komið á þennan rekspöl.  Þáverandi olíu- og orkumálaráðherra Noregs, Freiberg, svaraði spurningu í Stórþinginu í ágúst 2019, að gr. 51 í ofangreindri rafmagnstilskipun ætti ekki við um Noreg vegna þess, að átt væri við lönd, sem ekki byggju við Statnett-fyrirkomulagið, sem er hið sama og Landsnetsfyrirkomulagið hérlendis.  Þessi túlkun er langsótt.  Norskur lagaprófessor, sem hér hélt fyrirlestur í HÍ um OP#3 2018, Peter Th Örebech, telur túlkunina ranga í skýrslu sinni:

"EUs Energibyrås Energipakke 3 & 4 og Kongeriket Norges Grunnlov", september 2020. 

ESB OG VINDMYLLUR ÚTI FYRIR STRÖNDU:

Samkvæmt gr. 14 eiga ríki með land að hafi að gera áætlun um nýtingu hafsvæðis til raforkuvinnslu.  Það skal gera í samstarfi við Framkvæmdastjórnina og á grundvelli orkumarkmiða ESB.  Skuldbindandi áætlun á að vera tilbúin í síðasta lagi 31.07.2022 og tilgreina skal þar markmið fyrir árin 2030, 2040 og 2050. 

Virkjun hafvinds hefur lítið verið í umræðunni á Íslandi, enda mjög dýr aðferð fyrir raforkuvinnslu og getur rekizt á ýmsa aðra hagsmuni.  Fyrir Ísland á þetta ekki að vera málefnasvið, sem stjórnað er af ESB, og þess vegna er nauðsynlegt að fá undanþágu frá þessu. Nú mun reyna á utanríkisráðuneyti Íslands að verja hagsmuni Íslands á orkusviðinu fyrir ásælni og miðstýringaráráttu Evrópusambandsins.  Það er ekki til of mikils mælzt.   

 

 

 

 


Gagnslaus hreinorkupakki - eykur framsal fullveldis

Með Hreinorkupakka Evrópusambandsins (ESB), sem ESB nefnir líka stundum Vetrarpakkann, en er í raun Orkupakki 4, enda arftaki OP#3, verða völd fulltrúa ESB á Íslandi á sviði raforkumála aukin mikið, ef ekki verður spyrnt við fótum. Orkustjórinn, æðsti fulltrúi ESB á Íslandi á sviði orkumála, er nú þegar með Orkupakka 3 (OP#3) utan valdsviðs ráðherra og óháður ráðherravaldi og í raun æðsti maður raforkumála á Íslandi. Hann hefur með öðrum orðum ígildi ráðherravalds. Það er hið versta mál og skref aftur á bak, að þessi orkustjóri landsins (National Energy Authority) skuli ekki lúta lýðræðislegri stjórn löggjafar- og framkvæmdavalds í landinu. Þessi grundvallarbreyting var gerð að þjóðinni forspurðri vegna þróunar á Evrópusamstarfinu, sem ekki var fyrirséð árið 1993, þegar Alþingi staðfesti gjörning þáverandi ríkisstjórnar um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, EES.

OP#4 er mikill lagabálkur 8 gerða, þar af 4 reglugerða og 4 tilskipana.  Megininnihaldið er fólgið í tilskipun þings og ráðherraráðs ESB nr 2019/944 frá 05.06.2019 um fleiri sameiginlegar reglur fyrir Innri raforkumarkað ESB en áður og aukin völd orkustjóra ESB ásamt aukinni miðstýringu, og reglugerð þings og ráðherraráðs ESB nr 2019/942 frá 05.06.2019 um valdeflingu ACER-Orkustofnunar ESB og samráðsvettvangs allra orkustjóra EES og um að koma á fót stjórnstöðvum nokkurra landfræðilega afmarkaðra svæða innan Orkusambands Evrópu ásamt fleiru.  Þriðja skjalið, sem verið hefur í umræðunni á vettvangi EFTA undanfarið er reglugerð þings og ráðs ESB nr 2019/943 frá 05.06.2019 og er í raun samsuða úr ofangreindum tveimur gerðum, sem þýðir t.d., að ef ACER-reglugerðin hér að ofan verður dæmd óleyfileg til innleiðingar á Íslandi vegna árekstra við Stjórnarskrána, þá gildir hið sama um reglugerð 2019/943.  

Kjarninn í þeim 4 reglugerðum, sem í OP#4 eru, er sá, að stofnaðar eru svæðisstjórnir, sem orkustjórar í hverju landi á svæðinu heyra undir, og ACER er síðan yfir öllum þessum stjórnstöðvum og úrskurðar í ágreiningsmálum á milli landanna.  Norðurlöndin, nema Færeyjar og Finnland, Eystrasaltslöndin, Þýzkaland og Holland verða undir stjórnstöðinni, sem Ísland mundi heyra undir, en það verður alls ekki séð, að Ísland eigi neitt erindi inn í þetta stjórnkerfi, á meðan Alþingi ekki hefur heimilað tengingu Íslands við rafkerfi þessa svæðis, en eins og kunnugt er sló Alþingi þann varnagla við innleiðingu OP#3.  Þótt samskipti orkustjórans á Íslandi við svæðisstjórnstöðina verði látin fara um hendur starfsmanna ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, af því að Ísland er aðili að EFTA, sem er viðskiptabandalag og ekkert í líkingu við ríkjasambandið ESB, er mikið vafamál, að þetta stjórnunarfyrirkomulag raforkumálanna standist Stjórnarskrá. 

Svæðisstjórnstöðin ákveður líka, hversu mikið afl og orka í landinu skal standa til reiðu fyrir millilandatengingar.  Ábyrgðin á afhendingaröryggi rafmagns mun færast smátt og smátt úr landi, þótt enginn sé aflsæstrengurinn.

Núna rýnir orkuhópur Fastanefndar EFTA OP#4 og hefur byrjað á eftirfarandi 3 gerðum:

ACER-reglugerð 2019/942:  Á meðan sá varnagli er í gildi frá innleiðingu OP#3, að enginn sæstrengur verði lagður til Íslands til tengingar raforkukerfis landsins við Innri orkumarkað ESB án samþykkis Alþingis, þá á þessi reglugerð ekkert erindi inn í lagasafn Íslands, enda liggur í leikmannsaugum uppi, að þessi reglugerð felur í sér meira fullveldisframsal en Stjórnarskrá og önnur lög landsins leyfa. Þess vegna þarf að krefjast undanþágu fyrir Ísland frá þessari reglugerð. Þeir, sem vilja innleiða þessa reglugerð hérlendis, hafa óhreint mjöl í pokahorninu, t.d. það að ætla sér að fjarlægja alla varnagla, sem settir hafa verið gegn slíkri sæstrengstengingu.

Það er óþarfi að spyrja um afstöðu þeirra, sem vilja, að Ísland verði aðildarland Evrópusambandsins, því að með innleiðingu þessarar gerðar og hinna tveggja gengur Ísland í raun í ESB á sviði orkumála, þ.e. gengur í Orkusamband Evrópu, og öðlast þar með stöðu nýlendunnar á þessu sviði, missir sjálfstjórn í hendur búrókrata í Brüssel, sem ekkert umboð hafa þegið frá íbúum þessa lands. Í viðhengi með þessum pistli er að finna nánari greinargerð fyrir þessum sjónarmiðum.

Raforkutilskipun 2019/944: Hún felur í sér óaðgengilegar kvaðir um, að íslenzk löggjöf megi ekki hindra framgang stefnu ESB um millilandatengingar og um raforkumarkaðinn innanlands.  Þá felur þess tilskipun í sér gríðarlegt eftirlit með Landsneti og möguleika á því, orkustjórinn setji stjórn Landsnets til hliðar.  Hér er þess vegna líka um algerlega óaðgengilega skilmála að ræða.  Þess vegna er ekki stætt á öðru gagnvart lýðræðislegum stjórnunarrétti almennings í landinu og Stjórnarskránni en að krefjast undanþágu frá þessari tilskipun í Fastanefnd EFTA og í Sameiginlegu EES nefndinni, ef málið fer þangað.  Í viðhengi með þessum pistli er að finna nánari greinargerð fyrir þessum sjónarmiðum.

Reglugerð nr 2019/943: Þessi reglugerð er blanda af tveimur ofangreindum gerðum.  Þar sem þær eru báðar óalandi og óferjandi að íslenzkum rétti að mati þessa höfundar, er þessi það líka.

Í Fastanefnd EFTA, þar sem þessar 3 gerðir eru til umfjöllunar um þessar mundir, er nauðsynlegt, að fulltrúar Íslands geri fulltrúum hinna EFTA-landanna skilmerkilega grein fyrir því, hvers vegna Íslandi er ekki fært að innleiða þessar 3 gerðir í íslenzkan rétt.  Ef ekki fæst skilningur á því, verður Ísland að beita neitunarvaldi á þessar 3 gerðir í Fastanefndinni, og munu þær þá ekki koma til efnislegrar umfjöllunar í Sameiginlegu EES-nefndinni.  Þar verður ESB-fulltrúunum hins vegar formlega tilkynnt um afstöðu EFTA. 

Í Noregi er uppi stjórnarskrárdeila í dómskerfinu um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu í Stórþinginu í marz 2018 um Orkupakka 3.  Á meðan svo er, er fullkomlega óviðeigandi, að EFTA, ráðuneyti og þingnefndir í EFTA-löndunum, vinni að undirbúningi innleiðingar arftakans, Vetrarpakkans eða OP#4.  Málið verður sennilega ekki útkljáð fyrr en 2022 í dómskerfinu, og þá gæti orðið ný atkvæðagreiðsla um OP#3 í Stórþinginu, en þá yrði innleiðing hans í norsk lög aðeins samþykkt, ef 3/4 viðstaddra þingmanna samþykkja hana.  Ef mið er tekið af norskum stjórnmálum núna og horfum eftir Stórþingskosningar í september 2021, mun það ekki gerast, heldur verður Orkupakki #3 þá felldur.  Hann fellur þá og úr gildi á Íslandi og í Liechtenstein.

Strax í apríl 2021 er að vænta vísbendingar frá Hæstarétti Noregs um það, sem koma skal í "ACER-málinu", því að þá er búizt við svari frá honum við fyrirspurn Stórþingsins um það, hvort við atkvæðagreiðslu um innleiðingu Járnbrautarpakka 4 frá ESB eiga að láta einfaldan meirihluta duga eða krefjast aukins meirihluta.  Í þessu máli er líka deilt um umfang fullveldisframsals, sem felst í að færa æðsta vald yfir járnbrautum Noregs til ERA, Járnbrautarstofnunar ESB. 

Með leikmannsaugum séð er líklegt, að Hæstiréttur Noregs áskilji aukinn meirihluta, því að varðandi samninga við útlönd má aðeins beita einföldum meirihluta við atkvæðagreiðslu um þjóðréttarlega samninga, og innleiðing á gerðum ESB er það ekki, heldur er þar um að ræða valdframsal frá ríkinu um innanlandsmálefni til ESB, nánar tiltekið stofnunar, þar sem Noregur er ekki fullgildur aðili.  Þetta hefur í EES-samninginum verið fóðrað með því að stilla ESA upp sem millilið, en hún (Eftirlitsstofnun EFTA) er í þessu viðfangi aðeins ljósritunarstofa fyrir ACER, eins og prófessor í réttarfari við Háskólann í Ósló, Eivind Smith, hefur sýnt fram á.  Slík ljósritunarstofa jafngildir beinu streymi fyrirmæla og upplýsinga í báðar áttir og getur ekki fullnægt formlegum kröfum um meðferð fullveldis.      

 

 

  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nýir möndlar

BrandenborgarhliðiðÁ þessu vefsetri hefur verið fjallað um nýju gaslögnina Nord Stream 2, sem liggur frá Síberíu til Þýzkalands á botni Eystrasalts án viðkomu í öðrum löndum.  Nú virðist þetta verkefni munu verða að stórpólitísku bitbeini, sem valda muni klofningi á meðal Vesturveldanna og myndun nýrra pólitískra öxla.  Lögnin markar þáttaskil í Evrópu fyrir 21. öldina.  

Undir hinum írsk- og þýzkættaða Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, versnaði sambúð Þýzkalands og Bandaríkjanna til muna, en stirðleikinn hófst fyrr og má rekja aftur til forsetatíðar Ronalds Reagans.  Í tíð Trumps sannfærðust þýzk stjórnvöld um, að Evrópa gæti ekki lengur treyst á skilyrðislausan vilja Bandaríkjanna til varna, og fóru að taka undir málflutning Frakka, sem allt frá Charles de Gaulle, stofnanda 5. lýðveldis Frakka, hafa þann steininn klappað, að Evrópa yrði að vera sjálfri sér nóg á flestum sviðum og ekki sízt í varnarmálum.  Í þeim anda vinna nú Þjóðverjar, Frakkar og Spánverjar sameiginlega að þróun næstu kynslóðar orrustuflugvélar, sem ætlað er að veita þeim yfirburði í lofti.

Fyrir NATO er þessi klofningur grafalvarlegt mál, þar sem grundvallarregla þessa varnarbandalags er, að árás á eitt aðildarlandann verður í höfuðstöðvum þessa hernaðarbandalags skoðuð sem árás á öll aðildarlöndin og á bandalagið sjálft.  Bandaríkjamenn telja Þjóðverja stefna Evrópu í hættu með því að gera hana háða eldsneytisgasviðskiptum við Rússa.  Þjóðverjar hafa áreiðanlega unnið heimavinnuna sína og gert sínar áhættugreiningar.  Hafa ber í huga, að þessi gaskaup munu ekki standa til eilífðarnóns, heldur aðeins á meðan á orkuskiptunum (die Energiewende) stendur.

Frakkar eru hins vegar algerlega á móti Nord Stream 2, og þar krystallast munurinn á Þjóðverjum og Frökkum varðandi sjálfstæði gagnvart Bandaríkjunum.  Þjóðverjar láta verkin tala, en Frakkar tala mikið og oft fylgja ekki gerðir orðum.  Austur-Evrópa og Eystrasaltslöndin eru líka algerlega á móti Nord Stream 2, og þing Evrópusambandsins (ESB) ályktaði eftir handtöku og dómsuppkvaðningu yfir Alexei Navalny, rússneska stjórnarandstöðuleiðtogans, að stöðva skuli vinnu við þessa lögn, sem er 95 % tilbúin. Skellt var skollaeyrum við þeirri samþykkt.

Þjóðverjar sitja við sinn keip og neita að bregðast Rússum, enda sitja ýmsir þekktir Þjóðverjar í stjórn verkefnisins, og skal fyrstan frægan telja Gerhard Schröder, fyrrum kanzlara og formann SPD (Jafnaðarmannaflokksins). Forseti Sambandslýðveldisins, Walter Steinmeier, sósíaldemókrati, hefur opinberlega sagt, að Þjóðverjar hafi valdið Rússum miklu tjóni með því að rjúfa griðasáttmálann frá ágúst 1939 með "Operation Barbarossa" 1941 og beri nú að treysta þeim og efla við þá viðskiptin.  Í Bundestag er mikill meirihlutastuðningur við Nord Stream 2.   

Í Bandaríkjunum er nú til endurskoðunar, hverja beri að líta á sem trausta bandamenn í Evrópu.  Nú er talið, að Bretar muni verða valdir mikilvægustu og traustustu bandamenn Bandaríkjamanna í Evrópu og að myndaður verði möndullinn Washington-London, þótt forkólfar í Biden-stjórninni hafi ekki verið hrifnir af BREXIT. BREXIT er hins vegar afgreidd nú. Þrátt fyrir gildandi viðskiptabann ESB-BNA á Rússland og gagnkvæmt virðist vera jarðvegur fyrir myndun mönduls á milli Berlínar og Moskvu.  Það er stórpólitísk nýjung, sem sýnir í raun og veru miklu nánari og vinsamlegri samskipti Þýzkalands og Rússlands en flestir gerðu sér grein fyrir.  

Ástæðuna fyrir gashungri Þjóðverja má rekja til 2011, þegar Angela Merkel beitti sér fyrir því á þýzka þinginu í Berlín, að starfsemi þýzkra kjarnorkuvera yrði bönnuð frá árslokum 2022.  Jarðvegur fyrir þetta myndaðist eftir Fukushima-kjarnorkuslysið í Japan, en var mesta óráð og hefur valdið gríðarlegu umróti í orkumálum Þýzkalands og nú einnig hjá Svíum, sem urðu í vetur að loka einu kjarnorkuvera sinna vegna hertra öryggisreglna ESB.  Þetta gerðist á kuldaskeiði og olli gríðarlegri hækkun raforkuverðs í Svíþjóð vegna ójafnvægis á milli framboðs og eftirspurnar. Þess má geta, að árið 2011 var sænska orkufyrirtækið Vattenfall neytt til að loka 2 kjarnorkuverum sínum í Þýzkalandi.    

Sú leið, sem Þjóðverjar sjá vænsta til að forða sér frá orkuskorti, er að halda ótrauðir áfram með orkusamstarfið við Gazprom, hvað sem tautar og raular í Brüssel, París, Washington eða Varsjá. Þessi stefnufesta Þjóðverja er afrakstur "kalds mats" þeirra.  Bandaríkjamenn hafa boðizt til að sjá þeim fyrir jarðgasi, t.d. af leirbrotssvæðum sínum (fracking zones), sem þeir mundu flytja til þeirra yfir Atlantshafið á LNG-skipum (Liquid Natural Gas). Þetta gas er talsvert dýrara komið í þýzka höfn en rússneska gasið, og Þjóðverjar treysta því einfaldlega betur, að rússneska viðskiptasambandið haldi en það bandaríska.  Þjóðverjar vita sem er, að Rússa bráðvantar gjaldeyri, en Bandaríkjamenn hafa ekki mikla hagsmuni af slíkum gasútflutningi, þótt hann sé vissulega búbót.  E.t.v. mun Evrópa fá jarðgas bæði úr austri og vestri sem einhvers konar málamiðlun.  

Bandaríkin hafa bannfært fyrirtæki, sem eiga viðskipti við Nord Stream 2, og lokað fyrir viðskipti á þau.  Þetta hefur hrifið.  Svissneska sælagnafyrirtækið Allseas dró sig út úr samningum við Nord Stream 2, en þá hönnuðu og smíðuðu Rússar lagnaskipið Akademik Cherskiy. Það lagði fyrir rúmum 2 mánuðum úr höfn á þýzku eyjunni Rügen til að klára gaslögnina. 

Þingmaður Republikanaflokksins, Ted Cruz, hefur reyndar sagt, að 95 % kláruð lögn sé 0 % tilbúin, og Bandaríkjamenn eru teknir að beita talsverðum þrýstingi til að koma í veg fyrir það, sem að þeirra mati gerir Evrópu allt of háða Rússum.  Zürich Insurance endurtryggingafélagið og dönsk og norsk tryggingafélög hafa dregið sig út úr viðskiptum við Nord Stream 2 vegna þessa. 

Þjóðverjar beittu krók á móti bragði Bandaríkjamanna.  Fylkisstjórn Mecklenburg-Vorpommern, þar sem gaslögnin verður tekin í land, stofnaði félag með kEUR 2 stofnfé í því augnamiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.  Nord Stream 2 hefur lagt MEUR 20 til þessa fyrirtækis og skuldbundið sig til að hækka framlagið í MEUR 60.  Þetta félag er leppur fyrir Nord Stream 2, og um það fara öll viðskipti vestrænna fyrirtækja við Nord Stream 2.  Þannig reyna þau að sneiða hjá refsiaðgerðum Bandaríkjamanna, sem annars mundu bíta illilega.  Er bæði hægt að éta kökuna og eiga hana áfram ?

Angela Merkel hefur samúð með Alexei Navalny, en hún er ekki tilbúin til að fórna pólitískri innistæðu Þjóðverja hjá Rússum fyrir Navalny eða Krím.  Valdhafar í stjórnmálum og á vinnumarkaði Þjóðverja styðja þessa stefnu, því að orkuhagsmunirnir eru ríkir, og rússneski markaðurinn getur tekið við miklu meiru af afurðum þýzks iðnaðar, ekki sízt bílaiðnaðarins, vélaiðnaðarins og efnaiðnaðarins.  Armin Laschet, arftaki Annegret Kramp Karrenbauer í formannsstóli CDU, flokks Angelu Merkel, er Rússavinur, þótt ekki sé hann persónulegur vinur Pútíns, eins og Gerhard Schröder, sem kveður Pútin vera "óaðfinnanlegan lýðræðissinna". Þetta er dæmigert oflof, sem Snorri Sturluson jafnaði við háð. 

Sagan hangir yfir okkur.  Einn pólskur ráðherra hefur líkt samstarfi Rússa og Þjóðverja um Nord Stream við hinn alræmda Mólotoff-Ribbentrop griðasamning á milli ríkisstjórnanna í Berlín og Moskvu í sumarið 1939.  Það er ósanngjarn samanburður, en sá neisti er í honum, að Þjóðverjar fórna nú hagsmunum Austur-Evrópu og treysta á stuðning Rússa í viðureigninni við Vesturveldin. Hér er um algeran vendipunkt að ræða í Evrópusögunni. 

Það er athyglisvert í þessu ljósi að virða fyrir sér bóluefnafarsann vegna C-19.  Þjóðverjar hallmæltu nýlega hinu brezk-sænska bóluefni frá AstraZeneca, og bönnuðu það fyrir 65 ára og eldri í Þýzkalandi.  Jafnframt hældu þeir Sputnik V og hafa falazt eftir samvinnu um það við Rússa.  Efnafræðilega eru þetta svipuð bóluefni, og virknin þar af leiðandi væntanlega keimlík. 

Nýleg skoðanakönnun í Þýzkalandi um afstöðu manna til Evrópusambandsins sýnir, að traust Þjóðverja til ESB undir forystu Þjóðverjans Úrsúlu von der Leyen hefur beðið hnekki.  "Der Zeitgeist" - tíðarandinn - er mjög mótdrægur Evrópusambandinu. Fyrir okkur Íslendinga er þessi þróun mála í Evrópu mjög lærdómsrík.  Til að tryggja hagsmuni okkar eigum við að rækta sambandið við allar þjóðirnar, sem hér koma við sögu, við Breta o.fl. og nýta fullveldisrétt okkar í hvívetna. Þannig mun oss bezt vegna.   

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband