Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Ný innviðareglugerð Evrópusambandsins

Nú er Orkupakki 4 (OP#4) frá Evrópusambandinu (ESB) til rýni og mats innan EFTA í því augnamiði að móta sameiginlega stefnu Íslands, Noregs og Liechtensteins til þeirrar málaleitunar framkvæmdastjórnar ESB, að þessi EES ríki innleiði í lagasafn sitt þá viðamiklu orkulöggjöf, sem stundum er kölluð Vetrarpakkinn, en er í raun OP#4, af því að hún leysir af hólmi OP#3.  Gagnvart Innri orkumarkaði ESB eru þessi 3 ríki mjög ólík og eiga þess vegna ólíkra hagsmuna að gæta.  Þar að auki eru skoðanir mjög skiptar og tilfinningar blendnar á Íslandi og í Noregi til þeirrar tilhneigingar ESB að sveigja orkumál aðildarríkjanna í sífellt auknum mæli undir vaxandi miðstjórnarvald Sambandsins.  Fyrir utan vafasamar tæknilegar afleiðingar af slíku tiltæki og einskis sýnilegs ávinnings af slíku leikur mjög mikill vafi á því, bæði á Íslandi og í Noregi, hvort stjórnarskrár landanna leyfi slíkt framsal ríkisvalds til erlendrar stofnunar, þar sem ríkin eiga ekki aðild, eins og felst í innleiðingu OP#4.  

Málið er hins vegar fjarri því svo einfalt, að nóg sé að einblína á eina reglugerð, eina tilskipun eða jafnvel lagabálk, eins og OP#4, þegar afleiðingarnar fyrir sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar eru metnar.  Það eru fleiri tilskipanir og reglugerðir, sem getur þurft að taka tillit til, því að þær vinna saman að því að styrkja enn miðstjórnarvaldið, sem felst í öðrum gerðum, t.d. OP#4.  

Ein slíkra gerða er innviðareglugerð nr 2020/0360(COD), sem er endurskoðun á 347/2013, sem ESB af einhverjum ástæðum, sem ekki hefur verið upplýst um, hætti við að gera að EES-máli, en sú nýja verður það þó mjög líklega. Þess vegna verður íslenzka utanríkisráðuneytið að vinna vandaða heimavinnu nú til að verða ekki tekið sofandi í bólinu, þegar kemur að innleiðingu innviðareglugerðarinnar hérlendis. Undirbúningsvinnan felst í að vega og meta frá hvaða atriðum reglugerðarinnar nauðsynlegt er, hagsmuna og stjórnarskrár landsins vegna, að leita eftir undanþágu og beita neitunarvaldi, ef það ekki fæst.

Endurskoðunina skýrir ESB með því, að laga eigi innviðareglugerðina að "Green Deal" Sambandsins, sem nú er allt um lykjandi.  Aukið er við hana, svo að hún auk flutningskerfis fyrir rafmagn og jarðgas, spanni græn gös, s.s. vetni, og flutningskerfi fyrir koltvíildi, sem á að geyma (og halda frá andrúmsloftinu), annaðhvort til niðurdælingar og bindingar eða til framleiðslu lífeldsneytis.  

Á rafmagnshlið miðar reglugerðin við 4 stjórnsvæði Orkusambands Evrópu; þar af er Norð-Vestursvæðið eitt, og tekur Framkvæmdastjórnin sem dæmi: "e.g. from wind farms in the North and Baltic Seas to storage facilities in Scandinavia and the Alps".  Þarna er hugmyndin sú, að vindorkuver úti fyrir ströndu vinni með vatnsorkuverum Skandinavíu og Alpanna, svo að vatn sparist.  Síðan er hægt að taka mikið afl út úr vatnsorkuverunum, hugsnlega með viðbótar búnaði þar o.fl, þegar aflskortur verður í ESB-löndunum. Þannig verður hægt að leysa gasorkuver í Orkusambandinu af hólmi sem varaorkuver fyrir jöfnunarafl og -orku inn á kerfið.  Að sjálfsögðu mundi Ísland falla inn í þessa hugmyndafræði, ef Icelink-sæstrengurinn verður lagður og allir nauðsynlegir innviðir reistir innanlands til að þjóna þessum sæstreng.  Ísland yrði þá eins konar orkunýlenda ESB. Innviðareglugerðin snýst um að útbúa stjórnkerfi í hverju aðildarlandi, sem sé sniðið til að raungera þessa hugmyndafræði, og að það verði gert sem erfiðast að þvælast fyrir markmiðum Orkusambands Evrópu.

ÓLJÓST ER, HVORT MILLILANDATENGINGAR OG FLUTNINGSKERFI INNANLANDS GETA ORÐIÐ PCI-VERKEFNI, ÁN ÞESS AÐ RÍKISVALDIÐ Í VIÐKOMANDI LANDI MÆLI MEÐ ÞVÍ (PCI=Project of Common Interest, forgangsverkefni Orkusambandsins):

Það eru svæðisstjórnstöðvar Orkusambands Evrópu sem leggja til, að verkefni fari á PCI-skrána samkvæmt gr. 3 í þessari innviðareglugerð.  Ísland er á norð-vestur svæðinu með Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Hollandi, Þýzkalandi og Eystrasaltsríkjunum. Meirihluti þeirra tekur ákvörðun um verkefni inn á PCI-skrána við atkvæðagreiðslu.  Ísland og Noregur hafa ekki atkvæðisrétt í svæðisstjórninni. Þetta er alveg óaðgengilegt fyrir Ísland án neitunarvalds.  Tillaga svæðisstjórnarinnar fer til ACER til umsagnar og síðan til Framkvæmdastjórnarinnar annað hvert ár. 

Fyrsta PCI-verkefnaskráin eftir þessari nýju forskrift á að hljóta samþykki 30.11.2023.  Hægt er að túlka gr. 3.3.a í þessari innviðareglugerð þannig, að Ísland og Noregur hafi neitunarvald um þau verkefni, sem beint snerta þessi ríki.  Ef Ísland hafnar verkefni, skal orkustjóri Íslands leggja fram í svæðisstjórninni rökstuðning fyrir höfnun. Það er óljóst, hvað verður um PCI-verkefnið, ef önnur ríki eða meirihluti þeirra í svæðisstjórninni fallast ekki á röksemdirnar.  Þetta verða íslenzk stjórnvöld að fá á hreint núna, á meðan svigrúm er til að koma athugasemdum að hjá EFTA/ESB, og utanríkisráðherra þarf að gera það ljóst, að skilyrði fyrir innleiðingu Íslands á þessari reglugerð sé, að landið fái skýlaust neitunarvald um verkefni, er varða landið beint og tillaga er uppi um, að fari inn á PCI-skrána. Það er mjög líklega hægt að fá Noreg til að standa með Íslandi að slíkri stefnumörkun EFTA.

GÆTI ICELINK AFTUR ORÐIÐ PCI-VERKEFNI ?:

  Samkvæmt gr. 3c skal PCI-verkefni uppfylla eftirtaldar 2 kröfur hið minnsta:

1. Það fer yfir landamæri tveggja aðildarríkja hið minnsta.

2. Það er á umráðasvæði eins aðildarríkis og hefur marktæk jákvæð áhrif á orkuflutning á milli landa.

Nú eru hvorki Ísland né Bretland aðildarríki ESB, þótt Ísland sé í Orkusambandi Evrópu eftir innleiðingu OP#3, og þess vegna ætti ekki að vera hætta á endurlífgun Icelink á vegum ESB.  Hins vegar gerir tækniþróunin kleift að leggja og reka æ lengri háspennta jafnstraumsstrengi neðansjávar. Mögulega mun þó ESB kjósa að líta á Ísland sem aðildarland vegna EES-samningsins og þeirrar þýðingar, sem vatnsafl Íslands hefur fyrir Orkusamband Evrópu. Þetta verður utanríkisráðherra að fá á hreint.  

ESB GRÍPUR INN Í LEYFISVEITINGAFERLI, SEM Í GILDI ER Í HVERJU LANDI:

Samkvæmt gr. 10 á allt ferlið áður en umsókn um leyfisveitingu fyrir verkefni, sem innviðareglugerðin spannar, t.d. orkumannvirki, er send, að taka að hámarki 2 ár. Innan þessara tímamarka á að gera áhættugreiningu fyrir náttúru og þjóðhagslega arðsemi verkefnisins og Skipulagsstofnun að afgreiða umhverfismatið.  Frá því að umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir t.d. virkjun eða flutningsmannvirki er send til sveitarstjórnar skulu að hámarki líða 18 mánuðir að ákvarðanatöku.  Allt ferlið má mest taka 42 mánuði.  Frestunarslakinn er mest 9 mánuðir, svo að heildartíminn getur allra mest orðið 51 mánuðir eða 4 ár og 3 mánuðir frá rannsókn á fýsileika og forhönnun að framkvæmdaleyfi.  Þetta er mun þrengri tímarammi en við eigum að venjast hérlendis, en mjög langur undirbúningstími og afar seinvirkar opinberar stofnanir hafa verið gagnrýndar hérlendis, m.a. af fráfarandi orkumálastjóra, enda tekur þar út yfir allan þjófabálk.  Þarf blýantsnagara í Brüssel til að vekja iðnaðarráðherra o.fl. upp af Þyrnirósarsvefni um þetta ófremdarástand ? 

Hvað sem því líður er ótækt, að ESB grípi með þessum hætti inn í leyfisveitingaferli hjá ríki, sem er ekki í Sambandinu.  Utanríkisráðherra verður að vera á varðbergi gagnvart þessu og verja fullveldi landsins.  

INNVIÐAREGLUGERÐIN GERIR YFIRVÖLDUM ÞAÐ ERFITT AÐ HAFNA LEYFISUMSÓKN UM PCI-VERKEFNI:

Samkvæmt gr. 3 á PCI-verkefni að hafa hæsta forgang í kerfisáætlunum orkuflutningsfyrirtækja landanna.  

Samkvæmt gr. 5 eiga þeir, sem eiga verkefnið, að skila ársskýrslu fyrir 31.12. árið, sem verkefnið fór inn á PCI-skrána og síðan áfram.  Orkustjóri landsins sendir hana til ACER og gerir grein fyrir orðnum og fyrirsjáanlegum seinkunum á leyfisveitingaferlinu.  

Samkvæmt gr. 6 getur framkvæmdastjórn ESB, eftir samkomulag þar um við viðkomandi aðildarland, útnefnt ESB-samræmanda í allt að eitt ár, og þetta tímabil má framlengja tvisvar, ef PCI-verkefni steytir á skeri.  

Samkvæmt gr. 8 skal hvert ríki útnefna opinbera stofnun, sem skal hafa það hlutverk og heimildir til að auðvelda og samræma leyfisveitingaferlið fyrir PCI-verkefni. Það skal gera í síðasta lagi 01.01.2022. 

 Formlega er það áfram Ísland, sem samþykkir leyfi eða synjar um leyfisveitingu, en hér hefur ESB sett upp alls konar hliðarkerfi, sem eiga að gera synjun PCI-verkefnis fjarlægan möguleika.  Það er ótækt fyrir fullvalda ríki, að ESB geti skipað samræmanda, sem geti auðveldað leyfisveitingaferlið og jafnvel skipað Orkustofnun eða sveitarstjórn að auðvelda samþykktarferlið fyrir verkefnið.  Utanríkisráðherra verður að fá undanþágu frá þessu fyrir Ísland. 

HINDRAR GR. 7 EINHLIÐA STÖÐVUN PCI-VERKEFNIS ?:

 Samkvæmt gr. 7 skal framkvæma PCI-verkefni fumlaust, þótt því hafi seinkað af ástæðum, sem eru taldar upp í rafmagnstilskipuninni 2019/944, gr. 51.a, b eða c.  Mismunandi aðferðir við að koma verkefninu á réttan kjöl eru tíundaðar, en það er ómögulegt að stöðva verkefni, sem er komið á þennan rekspöl.  Þáverandi olíu- og orkumálaráðherra Noregs, Freiberg, svaraði spurningu í Stórþinginu í ágúst 2019, að gr. 51 í ofangreindri rafmagnstilskipun ætti ekki við um Noreg vegna þess, að átt væri við lönd, sem ekki byggju við Statnett-fyrirkomulagið, sem er hið sama og Landsnetsfyrirkomulagið hérlendis.  Þessi túlkun er langsótt.  Norskur lagaprófessor, sem hér hélt fyrirlestur í HÍ um OP#3 2018, Peter Th Örebech, telur túlkunina ranga í skýrslu sinni:

"EUs Energibyrås Energipakke 3 & 4 og Kongeriket Norges Grunnlov", september 2020. 

ESB OG VINDMYLLUR ÚTI FYRIR STRÖNDU:

Samkvæmt gr. 14 eiga ríki með land að hafi að gera áætlun um nýtingu hafsvæðis til raforkuvinnslu.  Það skal gera í samstarfi við Framkvæmdastjórnina og á grundvelli orkumarkmiða ESB.  Skuldbindandi áætlun á að vera tilbúin í síðasta lagi 31.07.2022 og tilgreina skal þar markmið fyrir árin 2030, 2040 og 2050. 

Virkjun hafvinds hefur lítið verið í umræðunni á Íslandi, enda mjög dýr aðferð fyrir raforkuvinnslu og getur rekizt á ýmsa aðra hagsmuni.  Fyrir Ísland á þetta ekki að vera málefnasvið, sem stjórnað er af ESB, og þess vegna er nauðsynlegt að fá undanþágu frá þessu. Nú mun reyna á utanríkisráðuneyti Íslands að verja hagsmuni Íslands á orkusviðinu fyrir ásælni og miðstýringaráráttu Evrópusambandsins.  Það er ekki til of mikils mælzt.   

 

 

 

 


Gagnslaus hreinorkupakki - eykur framsal fullveldis

Með Hreinorkupakka Evrópusambandsins (ESB), sem ESB nefnir líka stundum Vetrarpakkann, en er í raun Orkupakki 4, enda arftaki OP#3, verða völd fulltrúa ESB á Íslandi á sviði raforkumála aukin mikið, ef ekki verður spyrnt við fótum. Orkustjórinn, æðsti fulltrúi ESB á Íslandi á sviði orkumála, er nú þegar með Orkupakka 3 (OP#3) utan valdsviðs ráðherra og óháður ráðherravaldi og í raun æðsti maður raforkumála á Íslandi. Hann hefur með öðrum orðum ígildi ráðherravalds. Það er hið versta mál og skref aftur á bak, að þessi orkustjóri landsins (National Energy Authority) skuli ekki lúta lýðræðislegri stjórn löggjafar- og framkvæmdavalds í landinu. Þessi grundvallarbreyting var gerð að þjóðinni forspurðri vegna þróunar á Evrópusamstarfinu, sem ekki var fyrirséð árið 1993, þegar Alþingi staðfesti gjörning þáverandi ríkisstjórnar um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, EES.

OP#4 er mikill lagabálkur 8 gerða, þar af 4 reglugerða og 4 tilskipana.  Megininnihaldið er fólgið í tilskipun þings og ráðherraráðs ESB nr 2019/944 frá 05.06.2019 um fleiri sameiginlegar reglur fyrir Innri raforkumarkað ESB en áður og aukin völd orkustjóra ESB ásamt aukinni miðstýringu, og reglugerð þings og ráðherraráðs ESB nr 2019/942 frá 05.06.2019 um valdeflingu ACER-Orkustofnunar ESB og samráðsvettvangs allra orkustjóra EES og um að koma á fót stjórnstöðvum nokkurra landfræðilega afmarkaðra svæða innan Orkusambands Evrópu ásamt fleiru.  Þriðja skjalið, sem verið hefur í umræðunni á vettvangi EFTA undanfarið er reglugerð þings og ráðs ESB nr 2019/943 frá 05.06.2019 og er í raun samsuða úr ofangreindum tveimur gerðum, sem þýðir t.d., að ef ACER-reglugerðin hér að ofan verður dæmd óleyfileg til innleiðingar á Íslandi vegna árekstra við Stjórnarskrána, þá gildir hið sama um reglugerð 2019/943.  

Kjarninn í þeim 4 reglugerðum, sem í OP#4 eru, er sá, að stofnaðar eru svæðisstjórnir, sem orkustjórar í hverju landi á svæðinu heyra undir, og ACER er síðan yfir öllum þessum stjórnstöðvum og úrskurðar í ágreiningsmálum á milli landanna.  Norðurlöndin, nema Færeyjar og Finnland, Eystrasaltslöndin, Þýzkaland og Holland verða undir stjórnstöðinni, sem Ísland mundi heyra undir, en það verður alls ekki séð, að Ísland eigi neitt erindi inn í þetta stjórnkerfi, á meðan Alþingi ekki hefur heimilað tengingu Íslands við rafkerfi þessa svæðis, en eins og kunnugt er sló Alþingi þann varnagla við innleiðingu OP#3.  Þótt samskipti orkustjórans á Íslandi við svæðisstjórnstöðina verði látin fara um hendur starfsmanna ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, af því að Ísland er aðili að EFTA, sem er viðskiptabandalag og ekkert í líkingu við ríkjasambandið ESB, er mikið vafamál, að þetta stjórnunarfyrirkomulag raforkumálanna standist Stjórnarskrá. 

Svæðisstjórnstöðin ákveður líka, hversu mikið afl og orka í landinu skal standa til reiðu fyrir millilandatengingar.  Ábyrgðin á afhendingaröryggi rafmagns mun færast smátt og smátt úr landi, þótt enginn sé aflsæstrengurinn.

Núna rýnir orkuhópur Fastanefndar EFTA OP#4 og hefur byrjað á eftirfarandi 3 gerðum:

ACER-reglugerð 2019/942:  Á meðan sá varnagli er í gildi frá innleiðingu OP#3, að enginn sæstrengur verði lagður til Íslands til tengingar raforkukerfis landsins við Innri orkumarkað ESB án samþykkis Alþingis, þá á þessi reglugerð ekkert erindi inn í lagasafn Íslands, enda liggur í leikmannsaugum uppi, að þessi reglugerð felur í sér meira fullveldisframsal en Stjórnarskrá og önnur lög landsins leyfa. Þess vegna þarf að krefjast undanþágu fyrir Ísland frá þessari reglugerð. Þeir, sem vilja innleiða þessa reglugerð hérlendis, hafa óhreint mjöl í pokahorninu, t.d. það að ætla sér að fjarlægja alla varnagla, sem settir hafa verið gegn slíkri sæstrengstengingu.

Það er óþarfi að spyrja um afstöðu þeirra, sem vilja, að Ísland verði aðildarland Evrópusambandsins, því að með innleiðingu þessarar gerðar og hinna tveggja gengur Ísland í raun í ESB á sviði orkumála, þ.e. gengur í Orkusamband Evrópu, og öðlast þar með stöðu nýlendunnar á þessu sviði, missir sjálfstjórn í hendur búrókrata í Brüssel, sem ekkert umboð hafa þegið frá íbúum þessa lands. Í viðhengi með þessum pistli er að finna nánari greinargerð fyrir þessum sjónarmiðum.

Raforkutilskipun 2019/944: Hún felur í sér óaðgengilegar kvaðir um, að íslenzk löggjöf megi ekki hindra framgang stefnu ESB um millilandatengingar og um raforkumarkaðinn innanlands.  Þá felur þess tilskipun í sér gríðarlegt eftirlit með Landsneti og möguleika á því, orkustjórinn setji stjórn Landsnets til hliðar.  Hér er þess vegna líka um algerlega óaðgengilega skilmála að ræða.  Þess vegna er ekki stætt á öðru gagnvart lýðræðislegum stjórnunarrétti almennings í landinu og Stjórnarskránni en að krefjast undanþágu frá þessari tilskipun í Fastanefnd EFTA og í Sameiginlegu EES nefndinni, ef málið fer þangað.  Í viðhengi með þessum pistli er að finna nánari greinargerð fyrir þessum sjónarmiðum.

Reglugerð nr 2019/943: Þessi reglugerð er blanda af tveimur ofangreindum gerðum.  Þar sem þær eru báðar óalandi og óferjandi að íslenzkum rétti að mati þessa höfundar, er þessi það líka.

Í Fastanefnd EFTA, þar sem þessar 3 gerðir eru til umfjöllunar um þessar mundir, er nauðsynlegt, að fulltrúar Íslands geri fulltrúum hinna EFTA-landanna skilmerkilega grein fyrir því, hvers vegna Íslandi er ekki fært að innleiða þessar 3 gerðir í íslenzkan rétt.  Ef ekki fæst skilningur á því, verður Ísland að beita neitunarvaldi á þessar 3 gerðir í Fastanefndinni, og munu þær þá ekki koma til efnislegrar umfjöllunar í Sameiginlegu EES-nefndinni.  Þar verður ESB-fulltrúunum hins vegar formlega tilkynnt um afstöðu EFTA. 

Í Noregi er uppi stjórnarskrárdeila í dómskerfinu um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu í Stórþinginu í marz 2018 um Orkupakka 3.  Á meðan svo er, er fullkomlega óviðeigandi, að EFTA, ráðuneyti og þingnefndir í EFTA-löndunum, vinni að undirbúningi innleiðingar arftakans, Vetrarpakkans eða OP#4.  Málið verður sennilega ekki útkljáð fyrr en 2022 í dómskerfinu, og þá gæti orðið ný atkvæðagreiðsla um OP#3 í Stórþinginu, en þá yrði innleiðing hans í norsk lög aðeins samþykkt, ef 3/4 viðstaddra þingmanna samþykkja hana.  Ef mið er tekið af norskum stjórnmálum núna og horfum eftir Stórþingskosningar í september 2021, mun það ekki gerast, heldur verður Orkupakki #3 þá felldur.  Hann fellur þá og úr gildi á Íslandi og í Liechtenstein.

Strax í apríl 2021 er að vænta vísbendingar frá Hæstarétti Noregs um það, sem koma skal í "ACER-málinu", því að þá er búizt við svari frá honum við fyrirspurn Stórþingsins um það, hvort við atkvæðagreiðslu um innleiðingu Járnbrautarpakka 4 frá ESB eiga að láta einfaldan meirihluta duga eða krefjast aukins meirihluta.  Í þessu máli er líka deilt um umfang fullveldisframsals, sem felst í að færa æðsta vald yfir járnbrautum Noregs til ERA, Járnbrautarstofnunar ESB. 

Með leikmannsaugum séð er líklegt, að Hæstiréttur Noregs áskilji aukinn meirihluta, því að varðandi samninga við útlönd má aðeins beita einföldum meirihluta við atkvæðagreiðslu um þjóðréttarlega samninga, og innleiðing á gerðum ESB er það ekki, heldur er þar um að ræða valdframsal frá ríkinu um innanlandsmálefni til ESB, nánar tiltekið stofnunar, þar sem Noregur er ekki fullgildur aðili.  Þetta hefur í EES-samninginum verið fóðrað með því að stilla ESA upp sem millilið, en hún (Eftirlitsstofnun EFTA) er í þessu viðfangi aðeins ljósritunarstofa fyrir ACER, eins og prófessor í réttarfari við Háskólann í Ósló, Eivind Smith, hefur sýnt fram á.  Slík ljósritunarstofa jafngildir beinu streymi fyrirmæla og upplýsinga í báðar áttir og getur ekki fullnægt formlegum kröfum um meðferð fullveldis.      

 

 

  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nýir möndlar

BrandenborgarhliðiðÁ þessu vefsetri hefur verið fjallað um nýju gaslögnina Nord Stream 2, sem liggur frá Síberíu til Þýzkalands á botni Eystrasalts án viðkomu í öðrum löndum.  Nú virðist þetta verkefni munu verða að stórpólitísku bitbeini, sem valda muni klofningi á meðal Vesturveldanna og myndun nýrra pólitískra öxla.  Lögnin markar þáttaskil í Evrópu fyrir 21. öldina.  

Undir hinum írsk- og þýzkættaða Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, versnaði sambúð Þýzkalands og Bandaríkjanna til muna, en stirðleikinn hófst fyrr og má rekja aftur til forsetatíðar Ronalds Reagans.  Í tíð Trumps sannfærðust þýzk stjórnvöld um, að Evrópa gæti ekki lengur treyst á skilyrðislausan vilja Bandaríkjanna til varna, og fóru að taka undir málflutning Frakka, sem allt frá Charles de Gaulle, stofnanda 5. lýðveldis Frakka, hafa þann steininn klappað, að Evrópa yrði að vera sjálfri sér nóg á flestum sviðum og ekki sízt í varnarmálum.  Í þeim anda vinna nú Þjóðverjar, Frakkar og Spánverjar sameiginlega að þróun næstu kynslóðar orrustuflugvélar, sem ætlað er að veita þeim yfirburði í lofti.

Fyrir NATO er þessi klofningur grafalvarlegt mál, þar sem grundvallarregla þessa varnarbandalags er, að árás á eitt aðildarlandann verður í höfuðstöðvum þessa hernaðarbandalags skoðuð sem árás á öll aðildarlöndin og á bandalagið sjálft.  Bandaríkjamenn telja Þjóðverja stefna Evrópu í hættu með því að gera hana háða eldsneytisgasviðskiptum við Rússa.  Þjóðverjar hafa áreiðanlega unnið heimavinnuna sína og gert sínar áhættugreiningar.  Hafa ber í huga, að þessi gaskaup munu ekki standa til eilífðarnóns, heldur aðeins á meðan á orkuskiptunum (die Energiewende) stendur.

Frakkar eru hins vegar algerlega á móti Nord Stream 2, og þar krystallast munurinn á Þjóðverjum og Frökkum varðandi sjálfstæði gagnvart Bandaríkjunum.  Þjóðverjar láta verkin tala, en Frakkar tala mikið og oft fylgja ekki gerðir orðum.  Austur-Evrópa og Eystrasaltslöndin eru líka algerlega á móti Nord Stream 2, og þing Evrópusambandsins (ESB) ályktaði eftir handtöku og dómsuppkvaðningu yfir Alexei Navalny, rússneska stjórnarandstöðuleiðtogans, að stöðva skuli vinnu við þessa lögn, sem er 95 % tilbúin. Skellt var skollaeyrum við þeirri samþykkt.

Þjóðverjar sitja við sinn keip og neita að bregðast Rússum, enda sitja ýmsir þekktir Þjóðverjar í stjórn verkefnisins, og skal fyrstan frægan telja Gerhard Schröder, fyrrum kanzlara og formann SPD (Jafnaðarmannaflokksins). Forseti Sambandslýðveldisins, Walter Steinmeier, sósíaldemókrati, hefur opinberlega sagt, að Þjóðverjar hafi valdið Rússum miklu tjóni með því að rjúfa griðasáttmálann frá ágúst 1939 með "Operation Barbarossa" 1941 og beri nú að treysta þeim og efla við þá viðskiptin.  Í Bundestag er mikill meirihlutastuðningur við Nord Stream 2.   

Í Bandaríkjunum er nú til endurskoðunar, hverja beri að líta á sem trausta bandamenn í Evrópu.  Nú er talið, að Bretar muni verða valdir mikilvægustu og traustustu bandamenn Bandaríkjamanna í Evrópu og að myndaður verði möndullinn Washington-London, þótt forkólfar í Biden-stjórninni hafi ekki verið hrifnir af BREXIT. BREXIT er hins vegar afgreidd nú. Þrátt fyrir gildandi viðskiptabann ESB-BNA á Rússland og gagnkvæmt virðist vera jarðvegur fyrir myndun mönduls á milli Berlínar og Moskvu.  Það er stórpólitísk nýjung, sem sýnir í raun og veru miklu nánari og vinsamlegri samskipti Þýzkalands og Rússlands en flestir gerðu sér grein fyrir.  

Ástæðuna fyrir gashungri Þjóðverja má rekja til 2011, þegar Angela Merkel beitti sér fyrir því á þýzka þinginu í Berlín, að starfsemi þýzkra kjarnorkuvera yrði bönnuð frá árslokum 2022.  Jarðvegur fyrir þetta myndaðist eftir Fukushima-kjarnorkuslysið í Japan, en var mesta óráð og hefur valdið gríðarlegu umróti í orkumálum Þýzkalands og nú einnig hjá Svíum, sem urðu í vetur að loka einu kjarnorkuvera sinna vegna hertra öryggisreglna ESB.  Þetta gerðist á kuldaskeiði og olli gríðarlegri hækkun raforkuverðs í Svíþjóð vegna ójafnvægis á milli framboðs og eftirspurnar. Þess má geta, að árið 2011 var sænska orkufyrirtækið Vattenfall neytt til að loka 2 kjarnorkuverum sínum í Þýzkalandi.    

Sú leið, sem Þjóðverjar sjá vænsta til að forða sér frá orkuskorti, er að halda ótrauðir áfram með orkusamstarfið við Gazprom, hvað sem tautar og raular í Brüssel, París, Washington eða Varsjá. Þessi stefnufesta Þjóðverja er afrakstur "kalds mats" þeirra.  Bandaríkjamenn hafa boðizt til að sjá þeim fyrir jarðgasi, t.d. af leirbrotssvæðum sínum (fracking zones), sem þeir mundu flytja til þeirra yfir Atlantshafið á LNG-skipum (Liquid Natural Gas). Þetta gas er talsvert dýrara komið í þýzka höfn en rússneska gasið, og Þjóðverjar treysta því einfaldlega betur, að rússneska viðskiptasambandið haldi en það bandaríska.  Þjóðverjar vita sem er, að Rússa bráðvantar gjaldeyri, en Bandaríkjamenn hafa ekki mikla hagsmuni af slíkum gasútflutningi, þótt hann sé vissulega búbót.  E.t.v. mun Evrópa fá jarðgas bæði úr austri og vestri sem einhvers konar málamiðlun.  

Bandaríkin hafa bannfært fyrirtæki, sem eiga viðskipti við Nord Stream 2, og lokað fyrir viðskipti á þau.  Þetta hefur hrifið.  Svissneska sælagnafyrirtækið Allseas dró sig út úr samningum við Nord Stream 2, en þá hönnuðu og smíðuðu Rússar lagnaskipið Akademik Cherskiy. Það lagði fyrir rúmum 2 mánuðum úr höfn á þýzku eyjunni Rügen til að klára gaslögnina. 

Þingmaður Republikanaflokksins, Ted Cruz, hefur reyndar sagt, að 95 % kláruð lögn sé 0 % tilbúin, og Bandaríkjamenn eru teknir að beita talsverðum þrýstingi til að koma í veg fyrir það, sem að þeirra mati gerir Evrópu allt of háða Rússum.  Zürich Insurance endurtryggingafélagið og dönsk og norsk tryggingafélög hafa dregið sig út úr viðskiptum við Nord Stream 2 vegna þessa. 

Þjóðverjar beittu krók á móti bragði Bandaríkjamanna.  Fylkisstjórn Mecklenburg-Vorpommern, þar sem gaslögnin verður tekin í land, stofnaði félag með kEUR 2 stofnfé í því augnamiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.  Nord Stream 2 hefur lagt MEUR 20 til þessa fyrirtækis og skuldbundið sig til að hækka framlagið í MEUR 60.  Þetta félag er leppur fyrir Nord Stream 2, og um það fara öll viðskipti vestrænna fyrirtækja við Nord Stream 2.  Þannig reyna þau að sneiða hjá refsiaðgerðum Bandaríkjamanna, sem annars mundu bíta illilega.  Er bæði hægt að éta kökuna og eiga hana áfram ?

Angela Merkel hefur samúð með Alexei Navalny, en hún er ekki tilbúin til að fórna pólitískri innistæðu Þjóðverja hjá Rússum fyrir Navalny eða Krím.  Valdhafar í stjórnmálum og á vinnumarkaði Þjóðverja styðja þessa stefnu, því að orkuhagsmunirnir eru ríkir, og rússneski markaðurinn getur tekið við miklu meiru af afurðum þýzks iðnaðar, ekki sízt bílaiðnaðarins, vélaiðnaðarins og efnaiðnaðarins.  Armin Laschet, arftaki Annegret Kramp Karrenbauer í formannsstóli CDU, flokks Angelu Merkel, er Rússavinur, þótt ekki sé hann persónulegur vinur Pútíns, eins og Gerhard Schröder, sem kveður Pútin vera "óaðfinnanlegan lýðræðissinna". Þetta er dæmigert oflof, sem Snorri Sturluson jafnaði við háð. 

Sagan hangir yfir okkur.  Einn pólskur ráðherra hefur líkt samstarfi Rússa og Þjóðverja um Nord Stream við hinn alræmda Mólotoff-Ribbentrop griðasamning á milli ríkisstjórnanna í Berlín og Moskvu í sumarið 1939.  Það er ósanngjarn samanburður, en sá neisti er í honum, að Þjóðverjar fórna nú hagsmunum Austur-Evrópu og treysta á stuðning Rússa í viðureigninni við Vesturveldin. Hér er um algeran vendipunkt að ræða í Evrópusögunni. 

Það er athyglisvert í þessu ljósi að virða fyrir sér bóluefnafarsann vegna C-19.  Þjóðverjar hallmæltu nýlega hinu brezk-sænska bóluefni frá AstraZeneca, og bönnuðu það fyrir 65 ára og eldri í Þýzkalandi.  Jafnframt hældu þeir Sputnik V og hafa falazt eftir samvinnu um það við Rússa.  Efnafræðilega eru þetta svipuð bóluefni, og virknin þar af leiðandi væntanlega keimlík. 

Nýleg skoðanakönnun í Þýzkalandi um afstöðu manna til Evrópusambandsins sýnir, að traust Þjóðverja til ESB undir forystu Þjóðverjans Úrsúlu von der Leyen hefur beðið hnekki.  "Der Zeitgeist" - tíðarandinn - er mjög mótdrægur Evrópusambandinu. Fyrir okkur Íslendinga er þessi þróun mála í Evrópu mjög lærdómsrík.  Til að tryggja hagsmuni okkar eigum við að rækta sambandið við allar þjóðirnar, sem hér koma við sögu, við Breta o.fl. og nýta fullveldisrétt okkar í hvívetna. Þannig mun oss bezt vegna.   

 

 


Vindmylluriddarar í Noregi og á Íslandi

Bæði Ísland og Noregur eiga nóg afl fólgið í vatnsföllum sínum til að anna orkuþörf sinni um fyrirsjáanlega framtíð, þótt þjóðirnar útrými notkun jarðefnaeldsneytis sem orkugjafa.  Íslendingar búa þar að auki að jarðvarma til húshitunar og raforkuvinnslu.  Það dregur að vísu tímabundið og staðbundið úr honum við notkun, svo að sífellt þarf að sækja á ný mið, en aukið vatnsrennsli vegna hlýnandi loftslags veitir hins vegar færi á meiri orkuvinnslu í þegar virkjuðum ám en upphaflega var reiknað með.

Þessar gerðir virkjana eru sjálfbærar og afturkræfar, ef rétt og nútímalega er staðið að hönnun og rekstri þeirra.  Það er þess vegna skrýtið, þegar upp kemur ásókn í þessum löndum í að virkja vindinn, sem hingað til hefur verið neyðarbrauð þeirra, sem ekki hafa úr ofangreindum orkulindum að spila.  Þjóðverjar hófu að virkja vindinn af miklum móði, eftir að Sambandsþingið í Berlín hafði samþykkt stefnu græningja, sem kanzlarinn Merkel gerði að sinni árið 2011 eftir Fukushima-slysið, að leggja niður öll kjarnorkuver sín fyrir árslok 2022. Vindorkan var niðurgreidd, sem veitti henni forskot inn á markaðinn og skekkti samkeppnisstöðuna.  Gasorkuver verða að standa ónotuð tilbúin að taka við álaginu, ef vinda lægir.  Þetta veldur óhagkvæmni innan orkugeirans. 

Óánægja og mótmæli gegn vindmyllurekstri og vindmylluuppsetningu hafa vaxið í Þýzkalandi og í allri norðanverðri Evrópu á síðustu árum, þegar ljóst hefur orðið, hversu lítill umhverfislegur ávinningur er af vindmyllunum m.v. fórnirnar. Kolefnisfótspor þeirra er stórt. Það eru ekki bara ofangreindir ókostir við vindmyllurnar, heldur geta þær verið hættulegar flugvélum í grennd við flugvelli og stórhættulegar svifflugmönnum í grennd við athafnasvæði þeirra.  Um það fjallaði frétt í Fréttablaðinu 30. desember 2020:

"Svifflugmenn telja vindmyllur á Mosfellsheiði stórhættulegar".

Fréttin hófst þannig:

"Hæð vindmylla í fyrirhuguðum vindorkugarði Zephyr Iceland ehf á Mosfellsheiði skapar stórfellda árekstrarhættu fyrir svifflug að sögn stjórnar Svifflugfélags Íslands.  

Zephyr Iceland ehf, sem er dótturfyrirtæki norska vindorkufyrirtækisins Zephyr AS, hyggst byggja allt að 200 MW vindorkugarð á Mosfellsheiði.  Rætt er um 30 vindmyllur, sem yrðu 150-200 m háar með spaða í hæstu stöðu.

Meðal þeirra, sem sendu inn athugasemdir til Skipulagsstofnunar er stjórn Svifflugfélags Íslands (SFÍ).  Segir stjórnin fyrirhugaða staðsetningu vindorkugarðsins vera í miðju skilgreinds æfingasvæðis lítilla loftfara og steinsnar frá skilgreindu svæði svifflugs á Sandskeiði og Bláfjöllum ásamt Sandskeiðsflugvelli og mikilvægu svifflugssvæði við Hengil.

"Ljóst er, að öll truflun á flugskilyrðum og takmörkun á flugfrelsi, sem kann að stafa af fyrirhuguðu vindorkuveri, mun skerða stórkostlega eða eyðileggja möguleika á svæðinu [til flugæfinga], ef af byggingu vindorkugarðsins verður.  Hæð vindmylla í fyrirhuguðum vindorkugarði skapar einnig stórfellda árekstrarhættu fyrir svifflug", segir í athugasemdum stjórnar Svifflugfélagsins.  

Matsáætlun fyrir vindorkugarðinn nái á engan hátt til mats á neikvæðum áhrifum á veðurfarslegar forsendur til svifflugs og möguleika félagsins á að halda áfram starfsemi á Sandskeiði.

"Enn fremur eru gerðar alvarlegar athugasemdir vegna þeirrar hættu, sem vindorkugarður á þessum stað myndi valda flugumferð, og vegna þess rasks, sem garðurinn myndi valda á starfsemi flugíþrótta á Íslandi í víðu samhengi", segir í (umsögn] stjórn[ar] SFÍ.  Mörg atriði, sem tengist flugi, séu órannsökuð, t.d. áhrif loftiða og ókyrrðar, sem vindmyllurnar geti skapað, eins og erlendar rannsóknir gefi til kynna."

Það er ljóst af þessu, að Zephyr Iceland ehf hefur kastað höndunum til undirbúnings og staðarvals fyrir stórt athafnasvæði, sem fyrirtækið girnist.  Við staðarvalið er flugöryggi hundsað og ekki vílað fyrir sér að eyðileggja athafnasvæði flugíþróttafólks í grennd við höfuðborgarsvæðið. Þessi vinnubrögð vitna um ósvífni og tillitsleysi, og slíkum á ekki að líðast að smeygja löppinni á ísmeygilegan hátt á milli stafns og hurðar, þegar almannahagsmunir eru annars vegar.  

Um miðjan febrúar 2021 varð allsherjar straumleysi í Texasríki í Bandaríkjunum, sem varði í nokkra daga.  Ástæðan var óvenjulegt vetrarveður á þessum slóðum með -10°C til -20°C og snjókomu, sem leiddi til rafmagnsleysis og vatnsleysis hjá um 120 M manns í Suðurríkjum Bandaríkjanna.  Í Texas sjá vindmyllur íbúunum fyrir um 20 % orkuþarfar á ári, og þær stöðvuðust.  Aflþörfin óx í kuldakastinu, því að húsnæði er í mörgum tilvikum hitað upp með rafmagni.  Gasorkuver, sem áttu að vera bakhjarl vindmyllanna, fóru ekki í gang vegna frosins vökva í gaslögnum.  Við þetta allt saman hrundi raforkukerfi Texas, og það fór ekki í gang fyrr en fór að hlýna aftur.   Þetta var skelfilegur atburður, sem sýnir hræðilega veikleika vindmylla í raforkukerfi. 

Annar enn alvarlegri atburður m.t.t. mannfjölda var næstum orðinn í Evrópu 8. janúar 2021.  Þá var þar kalt, og lygndi var um álfuna vestanverða.  Smám saman lækkaði tíðnin ískyggilega um álfuna vestanverða, en á Balkanskaga og á Grikklandi hækkaði hún, enda var þar blástur og varð þar offramboð rafmagns.  Flutningslínur á milli þessara svæða rofnuðu af þessum sökum, og í vestanverðri álfunni blasti svartnætti allsherjar straumleysis ("black-out") við.  Undirtíðnivarnir rufu þá stórt álag í Frakklandi og á Ítalíu frá kerfinu, svo að jafnvægi komst á.  Þetta sýnir, að í tilraun Evrópumanna til að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis er teflt á tæpasta vað með þeim afleiðingum, að fréttum af hér um bil straumleysi, afmörkuðu straumleysi (brown-out) og straumleysi (black-out) mun fjölga.  Vindmyllur svíkja, þegar mest ríður á. Þær eru ekki einvörðungu háðar vindafari, heldur líka viðkvæmar fyrir ísingu.  

Um miðjan febrúar 2021 barst viðvörun frá Noregi til Íslands, reist á norskri harmsögu um viðskipti landeigenda við vindmyllufyrirtæki:

"Ágætu vinir og frændur á Íslandi !

Þetta er kveðja og viðvörun frá eyju, sem er mun minni en Ísland, Háramarseyju við Noreg. Háramarsey er hluti af fallegum eyjaklasa úti fyrir vesturströnd Noregs í sveitarfélaginu Ålesund í fylkinu Möre og Romsdal.  Á eyjunni búa tæplega 600 manns.

Norskt fyrirtæki, Zephyr, lítur nú girndaraugum til Íslands.  Fyrirtækið vill reisa vindmyllur á Íslandi og lætur sem sú ósk sé liður í orkuskiptunum í iðnaði og raforkuvinnslu.  Við, sem búum á Háramarsey og höfum vofandi vindmyllur yfir okkur, lítum hvorki á starfsemi þessa fyrirtækis sem græna né umhverfisvæna, heldur sem mengandi og eyðileggjandi og keyrða áfram af gróðahvötum.  

Fyrst af öllu viljum við vara landeigendur við heimsóknum fulltrúa fyrirtækisins, sem lofa gulli og grænni framtíð !  Fyrirtækið hefur duglega sölumenn, það mega þeir eiga.  Þeir vilja sölsa undir sig jarðeignir ykkar fyrir iðnaðarstarfsemi sína.  Krafa er um, að allir samningar séu leynilegir, - svo leynilegir, að hvorki má ræða þá við ættingja, nágranna né aðra.  Undirritaður samningur er bindandi án möguleika á endurskoðun eða uppsögn.  Grunnt er svo á hótuninni um, að sért þú ekki fús til að afsala þér landareign þinni, hafi fyrirtækið ýmis ráð með að ná henni af þér eftir öðrum leiðum. 

Fyrirtækið Zephyr segist styðja opna og lýðræðislega viðskiptahætti.  Í reynd vill fyrirtækið sem minnst afskipti almennings og umhverfissinna.  Fyrirtækið dregur upp glansmynd af áætlunum sínum, og þeir eru flinkir við að aðlaga og túlka sér í vil gagnrýnar skýrslur, - þar sem bent er á áhættuna fyrir náttúru og heilsu almennings, svo að henta megi eigin uppbyggingaráformum. Þeir hafa reiknað út, að hávaðinn frá vindmylluspöðunum sé rétt undir leyfilegum mörkum [hér er mikilvægt að sýna allt tíðnirófið í dB - innsk. BJo] - en fari þeir yfir mörkin við raunmælingar, kaupa þeir sig bókstaflega frá vandanum - án þess að skammast sín. Þeir senda atvinnumenn í faginu til að sannfæra sveitarstjórnarmenn um að veita undanþágur og staðbundnar aðlaganir.  Fyrirtækið lofar atvinnutækifærum, tekjum og hlunnindum, - en loforðin eru svo loðin, að þau er auðvelt að svíkja, og það er gert glottandi.  

Mótmæli fólk, skaltu ekki ganga að því gruflandi, að Zephyr kann tökin á fjölmiðlunum.  Vel launaðir kynningarfulltrúar (almannatenglar) og fjölmiðlaráðgjafar standa fyrirtækinu til boða.  Þeir lýsa fyrirtækinu sem framsæknu og framsýnu, sem boðbera heilbrigðrar skynsemi og umhverfisverndar, en mótmælendur, hins vegar, séu á valdi tilfinninganna og séu haldnir móðursýki.  Því er haldið fram, að vindmylluandstæðingar séu samfélagslega hættulegir og að ekki beri að taka þá alvarlega.

Kæru nágrannar og frændur.  Við biðjum ykkur þess lengstra orða að vera vel á varðbergi.  Vaktið verndun fugla- og annars dýralífs, náttúruna og lýðheilsu. 

Áttið ykkur á kaldrifjuðum fyrirætlunum vindmylluiðnaðarins.  Gerið kröfu um, að stjórnvöld hlýði á almenning.  Krefjizt þess að mega ráða yfir eigin landi - refjalaust !

Með kveðjum frá íbúum Háramarseyju.

Þessi kveðja frá íbúum lítillar eyjar við Noregsstrendur, sem orðið hafa fyrir ásælni frekra og ósvífinna vindmyllumanna, á sennilega erindi til fleiri hérlandsmanna en þeirra, sem átt hafa viðskipti við Zephyr Iceland, enda mun þessi kveðja hafa verið send til flestra stjórnmálamanna á Íslandi. Hvað gera þeir við þessa einlægu og alvarlegu viðvörun ? 

 

 

    


Dýrkeyptur slaki í orkunotkun

Loðnan kom á miðin á öðru Kófsári.  Íslenzkar útgerðir fá aðeins í sinn hlut rúmlega helming aflamarksins samkvæmt ráðleggingu Hafró og reglugerð sjávarútvegsráðherra vegna skiptisamninga við aðrar þjóðir á þeirra miðum, en áætluð aflaverðmæti til Íslands eru samt áætluð tæplega mrdISK 20. Þetta er mjög vel þegin búbót í efnahagskreppu Kófsins.  Markaðir sjávarútvegs og laxeldis hafa látið undan síga í Kófinu, svo að ekki veitir þjóðarbúinu af þessum tekjuauka m.v. fyrri 2 ár.  

Málmmarkaðir hafa aftur á móti hjarnað við síðan síðsumars 2020, og útlitið er gott.  Merki um viðsnúning á heimsvísu er jarðolíuverðið, sem hefur hækkað úr 40 USD/tunna í 60 USD/tunna á um hálfu ári.  Málmar í bílarafgeyma hafa hækkað gríðarlega í verði síðasta hálfa árið og álverðið hefur hækkað um 20 % á um hálfu ári, og á álmörkuðum eru væntingar nú þannig, að álframleiðendur með samkeppnishæfa og trausta raforkusamninga eru farnir að auka framleiðslu sína, en hinir sitja á sér. Álverð stefnir nú á 2100 USD/t. Hið síðar nefnda á enn við um ISAL í Straumsvík, en í dag, 15.02.2021 var kunngert, að samið hefði verið um viðauka við raforkusamning ISAL/Rio Tinto og Landsvirkjunar, sem gilda á til 2036. Þar með getur starfsemin í Straumsvík aftur komizt í eðlilegt horf, og verður verksmiðjan vonandi sett á full afköst í þeim mæli, sem markaðir leyfa.    

 Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, hefur í Fréttablaðinu vakið athygli á þjóðhagslegu mikilvægi ISAL og undirstöðuhlutverki fyrirtækisins fyrir vinnumarkað og verkefnastöðu ýmissa fyrirtækja í bæjarfélaginu, sem þýðir, að í Straumsvík er aðaltekjulind bæjarsjóðs, beint og óbeint.  Þetta er eðlilegt, þar sem um 600 manns eru stöðugt að vinna fyrir ISAL, og þar af búa líklega um 60 % í Hafnarfirði. Hafnfirðingar, fyrirtæki þar og bæjarsjóðurinn, svo og aðrir starfsmenn og ríkissjóður, munu nú njóta góðs af því, þegar öll ker verða sett í rekstur og kerstraumur hækkaður í Straumsvík. Viðbótar útflutningstekjur geta numið hálfri loðnuvertíð, sbr hér að ofan, og hver veit, nema fjárfestingar, sem setið hafa á hakanum í Straumsvík, verði nú settar í gang. 

Upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, Ragnhildur Sverrisdóttir, var send fram á ritvöllinn til að svara fyrstu grein Ágústar Bjarna, og gerði það með sinni útgáfu af orðhengilshætti, sem engu gat bætt við upplýsingagildi umfjöllunarinnar.  Ágúst Bjarni svaraði þessum skætingi þó kurteislega í Fréttablaðinu, 5. febrúar 2021, með neðangreindu.  Blaðurfulltrúinn hélt áfram á braut hártogana og orðhengilsháttar í Fréttablaðinu 10.02.2021. Það er slæmt, að sveitarfélög landsins skuli þurfa að búa við framkomu ríkisfyrirtækis af þessu tagi. Nú verður vitnað í grein formanns bæjarráðs Hafnarfjarðar:

""Hér eru aðeins 3 rangfærslur leiðréttar af mörgum ...""

"Þá segir hún mjög algengt, að raforkuverð í orkusölusamningum sé tengt við neyzluverðsvísitölu í Bandaríkjunum og vitnar í gagnaveitu, sem er ekki opinber.  Staðreyndin er hins vegar sú, að í þeim sömu samanburðarlöndum og nefnd eru hér að ofan, er ekki notazt við tengingar við neyzluverðsvísitölu." 

Þessi krafa forstjóra Landsvirkjunar um að tengja raforkuverð til álvers í Evrópu við vísitölu neyzluverðs í Bandaríkjunum (BNA), á sér enga þekkta hliðstæðu, enda er hún fáheyrð.  Öll meginviðskipti með aðdrætti til álvera eiga sér stað í bandaríkjadölum, USD, og afurðirnar eru seldar í sömu mynt.  Með því að tengja raforkuverð við álverð, eins og var í fyrri samningi Landsvirkjunar og ISAL og er í flestum öðrum samningum álveranna hérlendis við sína raforkubirgja, fæst þessi sama verðtrygging til lengdar, en þó er tryggt, að ekki verði raforkuverðshækkun á tímum lækkandi afurðaverðs álveranna vegna verðbólgu í BNA.  Ef vel tekst til um slíka afurðaverðstengingu, verður hún báðum samningsaðilum til hagsbóta, enda hefur hún nú verið tekin inn í téðan samningsviðauka, þótt leifar verðbólgutengingar muni áfram verða fyrir hendi samkvæmt tilkynningu.  

Áhyggjur hafnfirzka bæjarfulltrúans lutu hins vegar að afleiðingum þess fyrir Hafnarfjörð og þjóðarbúið, ef  þessar samningaviðræður hefðu farið út um þúfur.  Kaldranalegar kveðjur til Hafnfirðinga úr háhýsinu við Háaleitisbraut eru ekki til að bæta ástandið.  Ef samningaviðræðurnar hefðu ekki endað með samkomulagi um nýjan raforkusamning, hefði það orðið meiri háttar áfall fyrir afkomu fjölda manns og áfall fyrir ríkisstjórnina og stjórnarflokkana, ekki sízt í SV-kjördæmi.  ISAL hefði þá ekki átt sér lífvænlega framtíð, og rekstur fyrirtækisins hefði bráðlega farið í þrot, eins og hjá öðrum orkukræfum verksmiðjum, sem búa við ósveigjanlega orkubirgja. Samkomulagið er þess vegna fagnaðarefni, en öll kurl um tildrög þess eru enn ekki komin til grafar.  Það er þó eðlilegt, að kjósendur í SV-kjördæmi og aðrir landsmenn fái fregnir af því.   

Það þarf ekki að orðlengja það, að þröngsýn og ofstopafull verðlagsstefna, eins og Landsvirkjun hefur ástundað síðan 2010 í skjóli raunverulegrar einokunar á Íslandi, er þjóðhagslega skaðleg.  Hún hefur átt verulegan þátt í samdrætti í orkusölu fyrirtækisins, sem gæti numið 8 %/ár, og hún leiðir til minni eða jafnvel engra fjárfestinga hjá orkukaupendunum, og nýir fjárfestar halda að sér höndum.  Fyrir vikið ríkir stöðnun á sviði orkueftirspurnar og nýrrar orkuöflunar á tíma, þegar landinu ríður á að ná fram hagvexti eftir djúpa kreppu.  Landsvirkjun hefur verið dragbítur á efnahagslega viðreisn landsins, og sú staða er til þess fallin að hafa neikvæðar pólitískar afleiðingar á kjörfylgi ríkisstjórnarflokkanna.  Hvers vegna eru áhyggjur þingmanna af þessu máli ekki látnar í ljós með áberandi hætti ? 

8 % samdráttur í sölu rafmagns hjá Landsvirkjun m.v. orkuvinnslugetu fyrirtækisins nemur um 1,2 TWh/ár.  Á heildsöluverði jafngildir það tekjutapi fyrirtækisins upp á rúmlega 4 mrdISK/ár, sem sennilega jafngildir um 12 mrdISK/ár minni verðmætasköpun á ári í landinu en ella. Sú þrákelkni ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar að laga sig ekki að alþjóðlegri orkuverðsþróun, þegar hún passar ekki við hugmyndir forystu fyrirtækisins í fílabeinsturni sínum, hefur orðið að alvarlegu efnahagsvandamáli á Íslandi. 

Bæjarfulltrúinn reit:

"Til að fá svar [frá Landsvirkjun - innsk. BJo] við spurningu minni, þá spyr ég aftur: Hefur Ísland efni á því að tapa yfir 60 milljörðum [ISK] í gjaldeyristekjum, sem leiða til u.þ.b. 25 mrdISK/ár beins ávinnings fyrir þjóðarbúið ?"

Ef tekið er mið af Orkupakka 3 frá Evrópusambandinu varðar orkufyrirtæki ekkert um þjóðarhag.  Þau eiga bara að verðleggja sína vöru (flokkun ESB) m.v. að hámarka sinn arð.  Á einokunarmarkaði blasir við til hvers slíkt leiðir.  Þess vegna leiðir þessi stefna í ógöngur á Íslandi.  Fyrirtækið missir viðskipti, og viðskiptavinirnir draga saman seglin eða leggja upp laupana, af því að þeir komast ekki í viðskipti annars staðar.  Þetta mun leiða til tortímingar framleiðslustarfsemi á Íslandi, ef ríkisvaldið, eigandi bróðurpartsins af raforkufyrirtækjum landsins, grípur ekki almennt í taumana.  Það líður að því, að þingmenn verði krafðir svara við því, hvers vegna þeir hafi látið þessa ósvinnu viðgangast. Það er heldur ekki mikill bragur að því, ef Landsvirkjun verður nú að leggja nýtt samkomulag við ISAL/Rio Tinto fyrir ESA-Eftirlitsstofnun EFTA til samþykktar.

Í lokin skrifaði formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar þetta:

"Ég vona og trúi, að aðilar séu með augun á boltanum og finni farsæla lausn, sem tryggi starfsemi og starfsumhverfi álversins í Straumsvík.  Staðreyndin er sú, að mér er það mikið hjartans mál að vernda innviði, störf og framfærslu Hafnfirðinga - samfélaginu hér og landinu öllu til heilla."

Fyrir þessi hlýju orð er hellt úr hlandkönnu yfir bæjarfulltrúann úr háhýsinu við Háaleitisbraut.  Það er bæði kaldrifjað og vanhugsað framferði af hálfu einokunarfélags í eigu ríkisins.  Landsvirkjun er ekki ríki í ríkinu.  Fyrsti þingmaður Kragans ætti að láta stjórnarformann Landsvirkjunar vita, að svona gera menn ekki. Hann er í góðri aðstöðu til þess. 

isal_winterS1-ipu_dec_7-2011 


Munur á raforkuverði borgar og ríkis

Fimmtudaginn 28. janúar 2021 bar það til tíðinda í íslenzka orkugeiranum, að OR (Orkuveita Reykjavíkur) opinberaði samning um 18 % (47,5 MW) af rafmagnssölu sinni til Norðuráls (NA), sem nemur að meðalafli 264 MW af meðalrafaflgetu virkjana fyrirtækisins, sem er um 432 MW.  Það vekur alveg sérstaka athygli á hvaða verði borgaryfirvöld í Reykjavík töldu sér fært að selja raforku, aðallega frá jarðgufuverinu á Hellisheiði, til NA. 

Orkuverð með flutningsgjaldi í þessum samningi ræðst af líkingunni:

  • CP=LME*p/14,2
  • p=0,172 ef LME<1900 USD/t
  • p=0,177 ef 1900=<LME<2300
  • p=0,182 ef 2300=<2300 USD/t
  • LME er meðalstaðgreiðsluverð 99,7 % Al í USD/t mánuðinn á undan.  

Síðastliðin 3 ár hefur álverðið verið fremur lágt eða um 1800 USD/t Al að meðaltali.  Það þýðir orkuverð frá virkjun 15,5 USD/MWh og 21,8 USD/MWh með flutningsgjaldi til Landsnets. Það er mjög athyglisvert, að þetta verð og jafnvel lægra, því að hvorki er gólf né þak í samninginum, skuli hafa verið talið skila OR arðbærum viðskiptum.  Ef ON hefur hagnazt á þessu verði, er fyrirtækið mjög samkeppnishæft.  Stjórnmálamennirnir í meirihluta borgarstjórnar, þegar samningurinn var gerður, hljóta að hafa vitað, hvað þeir voru að gera, en þeir virðast þó tvímælalaust hafa tekið mikla áhættu fyrir hönd borgarinnar og annarra eigenda OR með því að sleppa gólfinu. Með gólfi gátu þeir tryggt, að orkuverðið færi ekki undir það, sem kostar að framleiða rafmagnið með lágmarksarðsemi. 

Eftirfarandi er haft eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra OR, á vefsetri samsteypunnar:

"Þetta verð [núverandi 18,9 USD/MWh frá virkjun - innsk. BJo] er alltof lágt og stendur ekki undir þeirri eðlilegu arðsemiskröfu, sem eigendur OR gera."

Hvað skyldi hann þá segja um 15,5 USD/MWh ? M.v. háan rekstrarkostnað Hellisheiðarvirkjunar vegna nýrrar gufuöflunar sökum niðurdráttar í neðanjarðarforða virkjunarinnar, má kraftaverk kalla, ef ekki er tap á virkjuninni á neðsta hluta verðbilsins 14,2 USD/MWh-29,5 USD/MWh, sem svarar til álverðsbilsins 1700 USD/t-2800 USD/t.  Það er sérstaklega athyglisvert, að forstjórinn skuli ekki hafa kvartað undan tapi undanfarin misseri með meðalverð 15-16 USD/MWh. Það hljóta að vakna grunsemdir um bókhaldið í virkjun, sem jafnframt selur íbúum höfuðborgarsvæðisins heitt vatn.  Þar er um að ræða eina hæstu gjaldskrá á landinu fyrir heitt vatn. Það er óþægileg tilfinning fyrir viðskiptavini einokunarhluta ON, að þeir séu látnir greiða niður verð í samkeppnisrekstri ON, þ.e. á rafmagninu. 

Það þarf að taka með í reikninginn, að samningurinn, sem hér er til lítillegrar umfjöllunar, er að afli til aðeins 18 % af viðskiptum OR við NA, og 82 % viðskiptanna kunna að gera gæfumuninn fyrir OR.  Forstjóri OR segir þennan orkusamning ekki uppfylla núverandi arðsemiskröfur OR.  Það er hægt að fallast á það, þegar álverðið er undir 1900 USD/MWh, en þá fer orkuverðið undir 23,0 USD/MWh.  Þarna hefði borgarstjórnarmeirihlutinn 2008 (samningurinn er frá 30.12.2008 og gildir til 30.12.2033) átt að fá sett gólf í samninginn. 

Á vefsíðu OR er sagt, að spá um álverð 2021 hljóði upp á 2800 USD/t.  Það þykir álframleiðendum vera gott verð, og mikil bjartsýnisbirta yfir slíkum væntingum m.v. núverandi stöðu framboðs og eftirspurnar.  Með þessu verði fæst samkvæmt téðum  samningi OR og NÁ orkuverðið 29,5 USD/MWh án flutningsgjaldsins 6,35 USD/MWh, sem ofan á leggst.  Slíkt verð er ásættanlegt fyrir báða aðila.  Hins vegar gefur auga leið, að flutningsgjaldið nær engri átt, og þarf að lækka það um a.m.k. 22 % niður fyrir 4,5 USD/MWh, svo að það verði í námunda við samkeppnisland Íslands, Noreg, þar sem einnig er yfir miklar vegalengdir að fara og yfir fjöll og heiðar í strjálbýlu landi.  Orkustofnun verður að endurskoða arðsemiskröfu sína til mannvirkja Landsnets og leyfa mun lengri endurgreiðslutíma en hún gerir nú. Landsreglir orkumála, sem jafnframt er Orkumálastjóri, kann að leita ráða hjá ACER um þessa endurskoðun, en þessi Orkustofnun ESB samræmir störf allra landsreglanna, þótt ekki verði séð, hvað ESB varði um þessi mál hérlendis, þar sem engin samtenging er fyrir hendi eða fyrirhuguð.   

Sá raforkusamningur, sem hér er til lauslegrar umfjöllunar, var opinberaður að beiðni orkukaupandans, Norðuráls.  Hann sýnir ótrúlega hagstæð kjör, sem Reykjavíkurborg hefur veitt þessum viðskiptavini sínum til 25 ára.  Nú hlýtur að tvíeflast krafa annars stórs orkunotanda, ISAL, á hendur sínum viðsemjanda, ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun, um opinberun núgildandi orkusamnings þessara fyrirtækja, en Landsvirkjun hefur þumbazt við með ýmsum undanbrögðum og er nú að daga uppi sem steintröll í nútímanum.  Opinberun mun leiða í ljós, að þegar álverðið var 1700 USD/t, þá var munurinn á orkuverði frá stöðvarvegg þessara tveggja fyrirtækja, ON og LV, 130 % af verði OR, og þegar álverðið var 2025 USD/t, var mismunurinn 68 % af verði OR. Samningarnir voru gerðir á svipuðum tíma, OR-NÁ árið 2008 og LV-ISAL 2011. Það er vitað, að vatnsorkuver Landsvirkjunar eru mun hagkvæmari en jarðgufuver ON.  

Þessi samanburður sýnir tvennt: verðlagning LV keyrir fram úr öllu hófi, er hreint okur í krafti yfirburðastöðu á markaði (ISAL gat ekki leitað neitt annað), og OR hefur flaskað á að fá gólf í samning sinn við NÁ, sem veldur því, að rafmagnsverðið stendur varla undir vinnslukostnaði þess, þegar álverð er lágt. 

Í grundvallaratriðum er vandi ríkisins sá að hafa ekki skilgreint eigendastefnu sína gagnvart Landsvirkjun. Núna stendur ríkisvaldið alls ekki frjálst að þessari stefnumörkun vegna þess, að stefnan er mörkuð af Orkupakka 3 (OP#3) frá Evrópusambandinu, sem hefur forgang á íslenzk lög um sama efni.  Frjáls markaður skal ráða verðlagningunni samkvæmt OP#3, en á Íslandi getur enginn frjáls markaður ríkt með rafmagn, á meðan Landsvirkun gín yfir markaðnum.  Annaðhvort verður að höggva Landsvirkjun í a.m.k. þrennt og selja a.m.k. 2 búta eða það verður að gefa hugmyndafræði ESB um rafmagn sem vöru upp á bátinn, og hugnast höfundi þessa pistils sú leið miklu betur og vafalaust landsmönnum flestum. 

Íslenzk raforka er náttúruafurð, og vinnslan algerlega háð duttlungum náttúrunnar.  Víðast hvar erlendis sjá markaðsöflin að mestu um að sjá orkuverum fyrir frumorku á formi kola, jarðgass, uraníums o.fl.  Öflun frumorkunnar hérlendis er því miður í mörgum tilvikum mjög umdeild.  Þær deilur munu aðeins magnast, ef almenningur fær á tilfinninguna, að hið opinbera og atvinnulífið sé farið að flokka rafmagn sem vöru.  Eina frambærilega leiðin til sátta um orkunýtingu úr íslenzkri náttúru er, að þessi orka verði nýtt til að efla hag fjölskyldnanna og fyrirtækjanna í landinu, sérstaklega framleiðslufyrirtækjanna, og skapa hér erlendan gjaldeyri, sem er undirstaða velmegunar í landinu.  Þetta þýðir, að arðsemiskrafan á orkufyrirtækin má aðeins vera mjög hófleg.  Þjóðhagslega verður það mjög hagkvæmt, því að heildararðsemi fjárfestinga í landinu verður miklu meiri með því að dreifa arðseminni þannig um allt þjóðfélagið í stað þess, að orkufyrirtækin okri á viðskiptavinum sínum, eins og reyndin hefur verið með sum ríkisfyrirtækjanna, s.s. Landsvirkjun og Landsnet.

 

 


Nýr orkumarkaður

Á kjörtímabilinu, sem rennur sitt skeið á enda á þessu ári, 2021, hefur ekki verið fitjað upp á umtalsverðri nýbreytni á orkusviðinum, sem fallin er til að stækka orkumarkað íslenzkra virkjunareigenda, nema sú merkilega verkfræðilega þróun í átt til mjög aukinnar nýtni frumorkunnar, sem átt hefur sér stað hjá HS Orku í Reykjanesvirkjun, þar sem afl- og orkuaukning um 30 % frá virkjun mun eiga sér stað að óbreyttri gufuöflun, ef kynnt áform ganga eftir. Áður hafði Landsvirkjun hafið endurbætur á virkjunum sínum í Soginu og í Þjórsá/Tungnaá til bættrar nýtingar og stýringar.  

Þetta er ljómandi dæmi um þá verkfræðivinnu, sem á sér stað á meðal allra virkjanafyrirtækja og stórorkunotenda á Íslandi til að auka orkunýtni, straumnýtni og nýtingu búnaðar til aukinnar framleiðslu.  Höfundur þessa pistils vann með góðum samstarfsmönnum ekki aðeins að framleiðsluaukningu með nýjum viðbótar búnaði, heldur einnig að bættri nýtingu gamals búnaðar til framleiðsluaukningar með uppsetningu þéttavirkja til hækkunar aflstuðulsins, cosphi, auknum símælingum og sjálfvirknivæðingu. Með því móti var hægt að flytja meira raunafl til spenna og afriðla.  

Það hefur hins vegar ekki verið fitjað upp á nýjum markaði hérlendis á kjörtímabilinu og alennt ríkt deyfð yfir orkugeiranum. Landsnet og orkuvinnslufyrirtækin hafa fjárfest fremur lítið, enda mannvirkin ekki verið fullnýtt vegna slæmrar samkeppnisstöðu orkukaupendanna.  Grunnur að kísilverinu á Bakka var lagður áður, og fjarað hefur undan orkukaupum gagnaveranna.  Orkukerfi landsins er alls ekki keyrt á fullum afköstum.  Þar munar sennilega um 10 % eða 2 TWh/ár.  Þar gæti verið um að ræða 8 mrdISK/ár tekjutap m.v. meðalorkuverð frá virkjun (án flutningsgjalds).  Fyrir utan Kófið er meginskýringin á ófullnægjandi nýtingu fjárfestinganna í orkukerfinu í heild yfirverðlagning á raforku.  Þetta hefur komið fram hjá talsmönnum iðnfyrirtækja í áliðnaðinum, járnblendinu og kísiliðnaðinum auk talsmanna gagnaveranna.  

Þetta er algerlega ótæk staða.  Þegar efnahagskreppa er í landinu með metatvinnuleysi, þá sjá stórir raforkukaupendur sig tilneydda að draga saman seglin m.a. út af ósamkeppnishæfu raforkuverði, sem sumir þeirra búa við.  Þetta hefur magnað efnahagssamdráttinn og aukið við atvinnuleysið.  Í ljósi þess, að ríkið er aðalgerandinn á birgjahlið orkumarkaðarins á Íslandi, verður að skella skuldinni að miklu leyti á ríkisstjórnina. Hún sem fulltrúi eigendanna verður að taka að sér að leiðrétta þann vitlausa kúrs, sem tekinn hefur verið og leiddur er af hinu markaðsráðandi fyrirtæki, Landsvirkjun. Nú hefur komið í ljós, að núverandi verðlagningarstefna Landsvirkjunar leiðir til verðs til stóriðju, sem er 75 % hærra en núverandi verð til ON til NA (án flutningsgjalds). Er undarlegt, þótt LV hafi verið kærð til Samkeppniseftirlits fyrir markaðsmisnotkun ?Til að koma hjólunum aftur á fullan snúning hjá stórum raforkukaupendum þarf að lækka hæsta raforkuverðið til samræmis við það, sem gerzt hefur hjá samkeppnisaðilum, t.d. annars staðar í Evrópu. 

Dæmi um þvermóðskuna, sem þarf að yfirstíga, er, að Norðurál hefur óskað eftir raforkusamningi við Landsvirkjun til a.m.k. 15 ára m.v. grunnverð nálægt núverandi meðalverði til stóriðju á Íslandi og álverðstengingu raforkuverðsins.  Slíkur samningur leysi af hólmi samning um Nord Pool verð, sem á s.l. ári var mun lægra en þetta meðalverð.  Gangi þetta eftir mun Norðurál treysta sér til að hefja þegar í stað fjárfestingar á Grundartanga í steypuskála sínum upp á allt að mrdISK 15 til að auka verðmæti afurðanna (álsívalningar).  Þetta mun skapa heilmikla vinnu á Grundartanga, bæði á framkvæmda- og rekstrartíma. Það er reginhneyksli í núverandi stöðu atvinnumála, að þetta mál skuli ekki hafa notið atbeina ríkisvaldsins til að verða að veruleika nú þegar. Efnahagslífið sárvantar beinar erlendar fjárfestingar.

Ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Skagamanna, Borgfirðinga, Snæfellinga, Dalamanna, Vestfirðinga, Húnvetninga og Skagfirðinga, ritaði áferðarfallegan helgarpistil í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins 24.01.2021, m.a. til að sýna, að lífsmark væri með iðnaðarráðuneytinu.  Það er þægilegt að hafa áferðarfalleg áform, en það er enn mikilvægara fyrir ráðherra, ekki sízt í Kófinu, að framkvæma í núinu. 

Heiti pistilsins vísaði til framtíðar og var (auðvitað):

"Einstök tækifæri í orkumálum".

Hann hófst þannig:

"Grænar orkulindir eru ein dýrmætasta náttúruauðlind okkar Íslendinga. [Þá gefur auga leið, að nýta verður þessa auðlind sem allra bezt, annars er ekki um auðlind að ræða - það er ekki gert nú á vakt höfundar - innsk. BJo.]  Þær hafa fært okkur ómældan ávinning, sparað okkur stjarnfræðileg eldsneytiskaup til húshitunar, skapað dýrmæt störf og útflutningstekjur, hlíft andrúmslofti jarðar við gróðurhúsalofttegundum, skapað forsendur fyrir þróun hugvits og þekkingar á heimsmælikvarða og sett Ísland í fremstu röð þjóða heims, hvað varðar sjálfbæra orkunotkun."

Þetta er rétt hjá ráðherranum, þegar frá eru skilin hástemmd lýsingarorð eins og ómældur og stjarnfræðilegur.  Ávinningurinn af orkulindum landsins er frá fyrstu virkjun þekktur með sæmilegri nákvæmni og sparnaðurinn, sem felst í að leysa jarðefnaeldsneyti til húsahitunar af hólmi með rafmagni vatsfalla og jarðhita úr iðrum jarðar er ekki stjarnfræðilegur, þótt hann sé mikill, enda var um að ræða viðameiri orkuskipti en framundan eru.

Árið 2018 stóð jarðhiti undir 64 % frumorkunotkunar á Íslandi, en notkun hans skiptist á milli hitaveitu til húsnæðishitunar og raforkuvinnslu með jarðgufu.  Vatnsorka til raforkuvinnslu stóð undir 18 % frumorkunotkunar, olíuvörur stóðu undir 16 % og kol 2 %.  Verkefni orkuskiptanna framundan nemur þannig aðeins 18 % heildarorkunotkunar landsmanna.  Hjá mörgum þjóðum er þessu öfugt farið.  Þær þurfa að leysa um 80 % frumorkunotkunar sinnar af hólmi með endurnýjanlegum orkugjöfum.  

"Áhugi á möguleikum græns vetnis og rafeldsneytis fer líka hratt vaxandi, og víða er mikill þungi í þeirri þróun.  Þetta er fagnaðarefni frá sjónarhóli loftslagsmála, en minnir okkur líka á, að sterk staða okkar í alþjóðlegum samanburði er ekki sjálfgefið náttúrulögmál." 

Þarna drepur ráðherrann á vetnisvinnslu, en því miður er ekki nokkurt kjöt á beinunum.  Ýmislegt bendir þó til, að næsta umfangsmikla þróun markaðar fyrir íslenzka frumorku geti verið vetnisvinnsla með rafgreiningu vatns.  Það er bágborið, að ráðherrann skuli ekki geta minnzt á hugmyndir sínar um þessa þróun, sem gæti verið á næstu grösum, þegar litið er til nágrannalandanna.  Norðmenn eru með áform á prjónunum, ekki um hefðbundna vetnisvinnslu úr sínu jarðgasi, heldur um "græna" vetnisvinnslu. 

Á Englandi er að opnast stór markaður fyrir íslenzkt vetni, því að Englendingar ætla að leysa jarðgas af hólmi með vetni til húsnæðishitunar.  Iðnaðarráðuneytið hlýtur að hafa einhvern metnað í þessum efnum.  Næg er óvirkjuð frumorka á Íslandi til að hasla sér völl á þessum markaði, hvort sem eru vatnsföll, jarðgufa eða vindur, eða á að láta ofstækismenn komast upp með að friða allt saman.  Þá fer að styttast í að friða þurfi íslenzka "homo sapiens"-stofninn og hafa til sýnis sem víti til varnaðar. 

"Rammaáætlun er auðvitað fíllinn í herberginu.  Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína, að það ferli þurfi að endurskoða og einfalda, til að það geti þjónað tilgangi sínum."

 Orkumálastjóri varpaði ljósi á það í jólahugvekju sinni 2020, hvers konar örverpi ríkisvaldinu hefur tekizt að unga út til að aðgreina virkjanakosti í 3 flokka.  Þetta stjórnkerfi er óskilvirkt, torskiljanlegt og með slagsíðu í átt að vernd.  Iðnaðarráðherra samþykkti megingagnrýni Orkumálastjóra.  Kerfið er ónothæft, t.d. vegna óskilvirkni.  Það er ekki nóg, að ráðherrann bíði með hendur í skauti, sáróánægð með þennan flöskuháls, henni ber þá að koma með tillögu að öðru og betra fyrirkomulagi.  Það hefur hún ekki boðað. Það er einboðið að auka við hlutverk Orkustofnunar við útstikun virkjanakosta.  Ef hlutlægt mat hennar sýnir, að lítil sem engin óvissa sé um, að rök fyrir virkjun vegi þyngra en verndun, megi halda áfram með virkjanaundirbúning og lögformlegt umhverfismat, en ef vafi leikur um, hvort vegi þyngra virkjunar-eða verndarrök, skal þverfaglegur hópur á vegum iðnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis vinna að rannsóknum, sem eytt geti óvissunni.  Alþingi staðfesti allar niðurstöður um virkjanakosti að afli 50 MW eða meira.

"Orkustefnan felur m.a. í sér tímamóta-framtíðarsýn um, að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050, sem er risastórt hagsmunamál, bæði umhverfislega, en ekki síður efnahagslega.  Mér vitanlega er Svíþjóð eina landið, sem hefur sett fram sambærileg markmið.  Þetta er því markmið á heimsmælikvarða, og nú veltur það á okkur að fylgja því eftir. Við eigum raunhæfa möguleika á að verða algjörlega orkusjálfstæð, sem væri stórkostlegt, bæði í efnahagslegu og umhverfislegu tilliti. 

Hitaveituvæðingin var eins konar "tunglskot" okkar Íslendinga á sínum tíma; gríðarlega metnaðarfullt verkefni, sem tók nokkra áratugi að framkvæma.  Framtíðarsýnin um að verða óháð jarðefnaeldsneyti er okkar næsta tunglskot í orkumálum." 

Það er skot hátt yfir markið að jafna því við "tunglskot" og hitaveituvæðingu að gera 18 % frumorkunotkunar landsmanna sjálfbæra á 30 árum.  Það er líka villandi að gefa í skyn, að þessi mál velti nú algerlega á "okkur".  Framvindan veltur á tækniþróuninni, og hún er ekki í höndum Íslendinga.  Rafvæðing bílaflotans er hafin (pistilhöfundur keypti sér alrafknúna eðalreið 2020), en tæknin er enn ekki tilbúin til að leysa dísilvélar vinnuvélanna af hólmi, og enn lengra er í, að millilandaskip og millilandaflugvélar sigli og fljúgi um án þess að losa koltvíildi út í andrúmsloftið.  Tilraunir með hvort tveggja munu líklega hefjast af krafti á þessum áratugi. 

 

Til þess að fá hjól efnahagslífsins til að snúast aftur af krafti á Íslandi þarf fernt: orku, fjármagn, þekkingu og markað. Af frumorku er nóg og einnig af margs konar þekkingu, en það vantar fjármagn tengt sérhæfðri framleiðsluþekkingu og markaðssamböndum.  Hins síðast nefnda afla þjóðir sér með beinum erlendum fjárfestingum, og þær bráðvantar á Íslandi, og hefur svo verið um hríð.  Það eru ýmsar skýringar á því, s.s. dýrir flutningar, dýrt vinnuafl og hátt orkuverð.  Hinu síðast nefnda getur eigandi helztu orkufyrirtækjanna, t.d. Landsvirkjunar og Landsnets, kippt í liðinn án   vandkvæða, því að raforkan er hér að nokkru leyti verðlögð hátt yfir því marki, sem nauðsynlegt er vegna kostnaðar við öflun hennar, og arðsemiskrafan á Landsnet er allt of há.  Aðgerðarleysi í þessum efnum er dýrkeypt, því að það seinkar raunverulegum viðsnúningi í hagkerfinu.

Nú er að verða ljóst, að vetni mun leika talsvert hlutverk í orkuskiptum 21. aldar, þegar mannkyn segir skilið við jarðefnaeldsneytið, sem olli byltingu í lífskjörum þess frá iðnbyltingu 18. aldar og fram á vora daga.  Menn hafa ekki verið vissir um, hvernig þetta mætti eiga sér stað í fluginu, en nú eru línur þar að skýrast. 

Það er ekki nýtt af nálinni að nota vetni til að knýja flugvélar.  1950-1960 gerði bandaríski flugherinn leynilegar tilraunir með þetta á Flórída í verkefninu "Suntan".  Þær tókust að miklu leyti, því að þotuhreyflarnir voru knúnir með bruna vetnis, en vetnisvinnslan, flutningur og geymsla þess, reyndust vera of dýr á þeim tíma. 

Vetni er í eðli sínu álitlegt fyrir flugið, því að orkuþéttleiki þess í kWh/kg er þrefaldur á við flugvélaeldsneytið kerosen (steinolíu).  Tilraunir héldu þess vegna áfram.  Tupolev flugvélaverksmiðjurnar gerðu tilraunir í Rússlandi á síðasta áratugi Ráðstjórnarríkjanna (1981-1990), og Boeing gerði tilraunir upp úr síðustu aldamótum.  Ekkert heppnaðist, enda er vetni rúmtaksfrekt.  Það þarf að geyma það undir þrýstingi eða að breyta því í vökva (kæla og þrýsta), og engir innviðir eru til að framleiða grænt vetni og flytja það. 

Nú hafa aðstæður breytzt.  Þrýstingur er á flugfélögin að draga úr losun koltvíildis með því að brenna minnu af kerosen.  Mikill árangur hefur náðst við að auka nýtni hreyflanna.  Hafinn er undirbúningur að því að koma á legg innviðum fyrir aðra notkun, t.d. húshitun og fyrir samgöngutæki á landi og e.t.v. á sjó líka.  Einkum hafa asískir bílaframleiðendur sýnt vetni áhuga og á engan er hallað, þótt Toyota sé nefnt í því sambandi.  Þetta hefur vakið áhuga frumkvöðla innan flugvélasmíði. 

Verkefnið Suntan nýtti vetnið, eins og kerosenið er notað, en margar flugvélar eru knúnar skrúfuhreyflum, og rafhreyflar geta knúið þá.  Rafhreyflana má straumfæða frá rafgeymum eða efnarafölum (fuel cells), þar sem orka vetnis er leyst úr læðingi við bruna.  Það er 19. aldar tækni, vel þekkt og stöðugt í framþróun varðandi nýtnina.  

Brezkt fyrirtæki, ZeroAvia, breytti Piper M flugvél, setti í hana rafhreyfil, knúðan vetnisrafala, og mun hafa prufuflogið henni 400 km í desember 2020, og í vor á að fljúga henni á milli Orkneyja og fastalands Skotlands.  Fyrirtækið áformar að hafa 20 sæta flugvél tilbúna til reynslu í ár, 2021.  Stefnt er að flughæfnisskírteini til farþegaflutninga á viðskiptagrundvelli árið 2025. 

Á hæla Bretanna koma Þjóðverjar í H2Fly-félaginu, sem er sprotafyrirtæki DLR, Rannsóknarmiðstöðvar þýzkra flugrannsókna.  Í Bandaríkjunum hefur rafhreyflafyrirtækið magniX gert samstarfssamning við Universal Hydrogen í Los Angeles um að breyta 40 sæta Havilland Canada Dash 8-300 vél fyrir vetnisrafala og rafhreyfla.  Áætlunin er að vera tilbúin á markað árið 2025.  Það er mjög líklegt, að á þessum áratugi muni koma vetnis- og rafknúnar flugvélar til Íslands og hefja flug með almenna farþega, jafnvel áætlunarflug.  Það mun styrkja innanlandsflugið í sessi, ekki sízt Reykjavíkurflugvöll.  

Stærri flugvélar þarfnast fjölbreytilegra lausna, því að hvorki rafgeymar né vetnisrafalar geta gefið nægilegt afl fyrir flugtak og lendingu þeirra.  Fyrir lendingu og flugtak þarf að hverfa aftur til Suntan verkefnisins og nýta vetnisbruna í hverflum, en fljúga þess á milli með orku frá vetnisrafölum.  Þetta fyrirkomulag er nú komið í þróunarferli hjá Airbus með verkefninu ZEROe, þar sem hannaðar eru 3 flugvélar með einum gangi í farþegarými fyrir stuttar vegalengdir.  Fyrsta flugvélin á að geta flutt 100 farþega allt að 2000 km, önnur á að geta tvöfaldað þessar tölur.  Sú þriðja er enn á hugmyndastigi, en hún á að vera þríhyrningslaga til að geta flutt nægt vetni langar leiðir.  

Airbus ætlar að setja fyrstu vetnisknúnu farþegavélarnar á markað 2035.  Fyrirtækið á að njóta ríkisstuðnings frá Bretlandi, Þýzkalandi, Frakklandi og Spáni við þessa þróun.  Boeing hefur enn ekki sett sig í sömu stellingar, enda enginn hljómgrunnur í Hvíta húsinu til skamms tíma til að vinna að minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.  Þar varð kúvending 20. janúar 2021, og Bandaríkin hafa aftur lýst vilja sínum til skuldbindinga við Parísarsáttmálann 2015.  Það er nú líklegt, að bandaríski ríkissjóðurinn muni styrkja rannsóknir og þróun Boeing á vetnisknúnum flugvélum, og þá mun nú færast fjör í leikinn, þegar Bandaríkin fara að nýta sitt gríðarlega vísindalega og tæknilega afl á sviði orkuskipta fyrir flugið.  

 

 


Kolin kvödd

Eldsneytiskol innihalda lítið annað en frumefnið kolefni, C, og þess vegna myndast meira CO2, koltvíildi, við bruna hvers tonns (t) kola en t.d. olíu og jarðgass, sem auk C innihalda H, vetni, o.fl. Þrátt fyrir þetta hafa þjóðir ekki skirrzt við að knýja iðnvæðingu sína með kolum, jafnvel eftir að gróðurhúsaloftskenningin varð vel þekkt. 

Til eru ljósmyndir af Reykjavík frá um 1930, þar sem kolamökkur grúfir sig yfir bæinn. Á seinni hluta 20. aldar nýttu Íslendingar sér gæði orkuríkrar náttúru sinnar til að afnema að langmestu leyti húshitun með jarðefnaeldsneyti, og nú er komið að afnámi afurða jarðolíunnar, sem knýja vélar fartækja á láði, legi og í lofti.

Við eigum ekki að hika við að leggja Evrópuþjóðunum lið við orkuskipti sín með því að virkja orkulindir áfram hér með sjálfbærum hætti (það eru reyndar grafalvarlegar undantekningar á þessu hjá Reykjavíkurborg, eins og lesa má um í grein Árna Gunnarssonar, fyrrverandi yfirverkfræðings Hitaveitu Reykjavíkur í Fréttablaðinu 29. desember 2020), og framleiða t.d. vetni, aðallega til útflutnings.

Það má greina viss veðrabrigði í orkumálum heimsins um þessar mundir, enda ekki seinna vænna fyrir mannkynið sem heild að hefja minnkun losunar CO2 út í andrúmsloftið. Xi Jinping hefur samþykkt markmið um núll nettólosun Kína á koltvíildi árið 2060, þótt ótrúleg aukning hagvaxtar Kínverja sé sennilega enn knúin með jarðefnaeldsneyti.  Það eru þó óljós merki um, að Kínverjar taki þetta fjarlæga markmið alvarlega, enda er mengun í Kína grafalvarlegt vandamál og sennilega pólitísk byrði fyrir kommúnistaflokkinn.   

Undir Joe Biden munu Bandaríkjamenn aftur skuldbinda sig til að virða Parísarsáttmálann frá 2015.  Á fjármálamörkuðum njóta hreinorkufyrirtæki nú orðið velvildar umfram hin. Hreinorkufyrirtækin munu þó ekki geta vaðið yfir héruð á skítugum skónum, eins og t.d. með uppsetningu 200 MW vindorkuvers í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins, á Mosfellsheiði, þar sem margir munu þurfa að líða fyrir ljóta ásýnd, flugöryggi verður ógnað og aðstaða til svifflugs yrði eyðilögð.  Þótt vindafar kunni að vera hagstætt á Mosfellsheiði, eru þessar fórnir meiri en ávinningurinn í landi hreinorkunnar, þar sem enginn hörgull ætti að öllu eðlilegu að vera á tiltæku vatnsafli til að virkja fyrir komandi eftirspurnaraukningu. Til hvers í ósköpunum ætti þá að samþykkja slíka yfirtroðslu, sem klárlega rýrir lífsgæði íbúanna ? 

Í Bandaríkjunum (BNA) og í Evrópu hefur notkun kola, mesta losunarvaldsins, minnkað um 34 % síðan 2009.  Samt standa kol enn undir 27 % heildarfrumorkunnar, sem maðurinn nýtir.  Frá kolabrennslu koma hins vegar 39 % af árlegri losun frá bruna alls jarðefnaeldsneytis. Þess vegna er árangursríkast fyrir baráttuna gegn of mikilli hlýnun jarðar að draga úr kolabrennslu um allan heim.  Íslendingar geta lagt sitt lóð á þessar vogarskálar með virkjunum og orkukræfum verksmiðjurekstri og hafa vissulega gert það, en s.k. umhverfisverndunarsinnar, sem í mörgum tilvikum horfa framhjá þessu heildarsamhengi, vanþakka þetta framlag hérlandsmanna algerlega. Þeir hafa asklok fyrir himin.

Kolanotkunin jókst gríðarlega í iðnbyltingunni, sem knúin var af gufuvél James Watt, og náði hámarki á 4. áratugi 20. aldar eftir tæplega 200 ár.  Notkun kola á Vesturlöndum hefur nýlega hrunið.  Bretar, upphafsmenn iðnbyltingarinnar, ríða á vaðið við að losna undan oki kolabrennslunnar og munu sennilega loka sínu síðasta kolaorkuveri árið 2022, löngu á undan flestum Evrópusambandsríkjunum.  Bretar skjóta nú Evrópusambandinu ref fyrir rass á hverju sviðinu eftir annað. 

Peabody Energy, stórt bandarískt kolanámufélag, hefur sent út viðvörun um, að það geti bráðlega farið á hausinn í annað skiptið á 5 árum.  Þótt ríkisstjórn Donalds Trump hafi hyglað kolaiðnaðinum leynt og ljóst, fær enginn stöðvað tímans þunga nið.

Í Evrópu hefur koltvíildisskattur ýtt undir aflagningu kolaorkuvera, og þrátt fyrir ýmsa hvata og pólitíska hvatningu Trump-stjórnar BNA til kolaiðnaðarins hefur notkun kola minnkað þar líka. Auðvitað vita Bandaríkjamenn, hvað klukkan slær, hvað sem tautar og raular í Hvíta húsinu. Ein ástæðan er framboð á ódýru jarðgasi, sem framleitt er með leirsteinsbroti í BNA og hefur gert Bandaríkjamenn aftur að nettóútflytjendum jarðefnaeldsneytis .

Skattaafslættir og niðurgreiðslur hafa hvatt orkufyrirtæki til að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa, og með hagkvæmni fjöldans hefur verð þeirra lækkað.  Sólarhlöður og vindmyllur á landi geta nú framleitt ódýrasta nýja rafmagnið fyrir a.m.k. 2/3 mannkyns samkvæmt BloombergNEF, gagnasafnara.  Þar sem kolin mæta nú samkeppni hreinna orkulinda og þar sem útlit er fyrir stífari reglusetningu fyrir kolanotkun, snúa bankar og fjárfestar nú baki við kolafyrirtækjum. Þau sjá nú skriftina á veggnum, enda eykur slík staða óhjákvæmilega fjármagnskostnað þeirra. 

Þetta er áfangasigur, en samtímis hefur snarazt á merinni víða annars staðar.  Undanfarinn áratug, þegar Evrópa hefur að nokkru snúið af braut kolabrennslu, hefur notkun þeirra í Asíu aukizt um fjórðung.  Í Asíu eru nú notuð 77 % af heimsnotkun kola, þar af brenna Kínverjar nú 2/3, og Indverjar lenda í 2. sæti.  Kol eru ríkjandi orkugjafi í nokkrum miðlungs stórum, hratt vaxandi hagkerfum, eins og Indónesíu og Víetnam. Kínverjar, sem eru á leiðinni að verða stærsta hagkerfi jarðar (í kringum 2028), gætu gegnt forystuhlutverki við að snúa ofan af þessari öfugþróun í Asíu með orkuskiptum þar.  Annars mun ekki mikið gerast þar í þessum efnum.  Með öðrum orðum hafa Kínverjar það í höndum sér að stöðva hlýnun jarðar. Þeir geta ekki orðið forysturíki í heiminum, ef of mikil hlýnun andrúmslofts verður á endanum skrifuð á þeirra reikning.  

Sé ætlunin að halda hlýnun andrúmslofts undir 2,0°C frá því fyrir iðnbyltingu, er ófullnægjandi að bíða aðgerðalaus eftir, að kolanotkun minnki í Asíu. Þar eru enn reist kolaorkuver. Mörg nýleg ver eru enn ekki fullnýtt og munu verða nokkra áratugi í brúki að óbreyttu.  Það er heldur ekki nóg að búast við lausn frá "hreinkolatækni", sem fangar CO2 úr útblæstrinum og geymir það á öðru formi en gasformi, t.d. neðanjarðar.  Sú tækni kann að gagnast iðnaðinum, t.d. stálverksmiðjum, en hún er of dýr fyrir orkuiðnaðinn. Líklega er þessi aðferð líka of dýr fyrir áliðnaðinn.  Þar er hins vegar "lokalausn" senn í vændum.  Í tilraunaverksmiðju Rio Tinto í Frakklandi mun í ár  hefjast rekstur tilraunakera, sem losa ekkert koltvíildi út í andrúmsloftið við rafgreiningu súrálsins. Tilraunakerin eru afrakstur einbeittrar rannsóknarvinnu álfyrirtækjanna Rio Tinto og Alcoa, og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu. 

 

 

 

    

   


Um kuldabola og annað illþýði

Í desember 2020 komu í ljós óviðunandi veikleikar á innviðum lands og höfuðborgar. Hitaveita ON, dótturfyrirtækis OR (Orkuveita Reykjavíkur) varaði við ófullnægjandi upphitunarafköstum, sem hefði leitt til kólnunar í húsum, nema gripið yrði til arinelds eða kamínufíringar, þar sem það er hægt, og/eða rafhitunar.  ON/Hitaveita brá á það ráð að hækka hitastig vatnsins, og virtist inntakshitastigið hækka um 8°C hjá pistilhöfundi í Garðabæ, sem leiddi sjálfvirkt til minna rennslis.  Lítil starfsemi var í sundlaugum svæðisins á þessu tímabili vegna umdeilanlegra sóttvarnarráðstafana.  Enginn fimbulkuldi varð, og allt forðaði þetta vandræðum.  Það er hins vegar með öllu óviðunandi, að rekstri Hitaveitu ON (Orku náttúrunnar) skuli vera þannig háttað, að hann þoli mjög litla ágjöf. Þar verður að vera borð fyrir báru til að mæta óvæntri ágjöf, eins og allar vel reknar veitur reyna að haga málum.

Hinn veikleikinn er heldur ekki nýr af nálinni, en var mjög svæsinn núna.  Þetta voru tjörublæðingar í Þjóðvegi 1, aðallega frá Borgarnesi til Akureyrar.  Þó að vikuþíða og rigning komi eftir frostakafla á þetta ekki að gerast.  Það þarf að rýna gerð undirlags og olíumalar.  Kannski hentar engin olíumöl fyrir þær aðstæður og umferðarþunga, sem ríkjandi eru á milli Borgarness og Akureyrar.  Þá þarf að fara yfir í gott malbik, þótt það sé dýrara en olíumölin, því að samfélagslega er það sennilega hagkvæmast á þessari leið að teknu tilliti til rekstrarkostnaðar Vegagerðar og vegfarenda, svo að ekki sé nú minnzt á öryggi vegfarenda. Klæðningin er aðeins einn af mörgum kostnaðarþáttum nútíma vegagerðar.

Ýmsir hafa klórað sér í hausnum út af þeirri vegferð, sem Orkuveita Reykjavíkur undir stjórn jarðfræðingsins Bjarna Bjarnasonar virðist vera á.  Hann hefur t.d. básúnað opinberlega, að engin þörf sé á að fjárfesta nokkuð í orkuöflun né styrkingu dreifikerfa til að bregðast við fyrirsjáanlegri álagsaukningu (bæði aukning afls- og orkuþarfar) af völdum orkuskiptanna, nema e.t.v. í snjallorkumælum.  Þetta er viðsjárverður áróður forstjórans og stingur í stúf við heilbrigða skynsemi, ráðleggingar Samorku og viðhorf Landsvirkjunar.  Ef viðhorf forstjórans um að fresta fjárfestingum í orkuöflun og dreifikerfum vatns og rafmagns, þar til allt er komið á yztu nöf, eins og virðist vera að einhverju leyti hjá ON, síast niður í dótturfyrirtækin, þá er ekki kyn, þótt keraldið leki, því að, eins og Bakkabræður sögðu: botninn er þá suður í Borgarfirði.  

Morgunblaðið gerir þessi mál að umræðuefni í forystugrein á jólaföstu, 17. desember 2020, undir fyrirsögninni:

"Gallar á grunnþjónustu":

"Ekkert bar út af hjá Veitum vegna kuldakastsins.  Það gæti verið vegna þess, að almenningur fór sparlega með vatnið, en ekki hefur síður skipt máli, að ekki varð jafnkalt og spáð hafði verið.

Þessi tilkynning varð hins vegar til þess, að margir fóru að velta fyrir sér, hvort eitthvað væri að hjá veitum.  Það er í verkahring fyrirtækisins að sjá borgarbúum fyrir heitu vatni [ON aflar þess, Veitur dreifa því - innsk. BJo].  Það ætti ekki að koma á óvart, að kólni í veðri og gæti orðið kalt í nokkra daga.  Það ætti því ekki að teljast mikil tilætlunarsemi að gera ráð fyrir, að Veitur séu undir slíkt búnar.

Í frétt um helgina kom fram, að spurn eftir heitu vatni hefði farið vaxandi og við það hefði vatnsborð á jarðhitasvæðum farið lækkandi.  Slík þróun á ekki að koma aftan að hitaveitu.  Innan fyrirtækisins er enginn skortur á þekkingu, og því vaknar sú spurning, hvað valdi því, að þegar spáð er köldu veðri, þurfi það að senda út slíkt ákall til viðskiptavina sinna.  Sú spurning vaknar, hvort lykilástæða fyrir því sé sú, að slíkt kapp sé á að ná peningum út úr fyrirtækinu vegna bágrar fjárhagstöðu Reykjavíkur, að Veitur hafi ekki nægilegt fé til nauðsynlegra rannsókna og þróunar. 

Talsmenn ON hafa opinberlega kennt Kófinu um aukið álag húshitunar.  Það er rétt, að sjaldan hafa fleiri Íslendingar dvalið samtímis á landinu og í Kófinu, því að allmargir með búsetu erlendis sneru heim, og mjög fáir hafa ferðazt utanlands.  Á móti koma hins vegar sárafáir erlendir ferðamenn, svo að margir gististaðir hafi staðið auðir. Þar er áreiðanlega dregið úr húshitun eftir föngum. Þótt óvenjumargir hafi dvalið á heimili sínu lungann úr sólarhringnum, hefur óskitastig í íbúðunum varla verið hækkað út af því.  Fremur, að vinnuveitendur hafi sparað vatn á vinnustaðnum, eins og hlýtur að hafa átt sér stað í sundlaugunum líka. 

Það er þess vegna ekki trúlegt, að vatnsnotkun hjá einni dýrustu hitaveitu landsins hafi aukizt umfram fjölgun skráðra notenda.  Líklegra er þá, að leki sé farinn að hrjá Veitur.  Með rennslismælingum og samanburði við selt vatn geta Veitur komizt að þessu. 

Árni Gunnarsson, fyrrverandi yfirverkfræðingur Hitaveitu Reykjavíkur, furðar sig á þeirri stöðu, sem hitaveitumál höfuðborgarsvæðisins virðast hafa ratað í.  Hann ritaði grein í Fréttablaðið 15. desember 2020, sem hann nefndi:

"Kuldaboli enduruppvakinn".

Hún hófst þannig:

"Opið bréf til stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur [hér greinir Árni ekki á milli ON og Veitna, heldur snýr sér beint að móðurfyrirtækinu, sem segir sína sögu-innsk. BJo].  

Þriðja árið í röð mega höfuðborgarbúar búa við að vera af stjórnendum OR varaðir við yfirvofandi vatnsskorti hjá Hitaveitunni vegna þess, að spáð er frostdögum næstu daga. Í fjölmiðlum er slegið upp fyrirsögnum um, að viðbragðsáætlun veitunnar hafi verið virkjuð; geta kerfisins komin að þolmörkum þess, sem er sögð vera um 18.000 [m3/klst] í hámarks rennsli, samsvarandi um 1.015 [MW] í varmaafli (m.v. nýtingu vatnsins 80/30°C)."

Af svari Guðmundar Óla Gunnarssonar, starfandi forstöðumanns hitaveitu Veitna, við grein Árna Gunnarssonar, má ráða, að það eru ekki nógu róttækar mótvægisaðgerðir á döfinni þar á bæ til að vega upp á móti notkunaraukningu, sem lýsir sér með yfirlýsingu 3 ár í röð frá Veitum um yfirvofandi hitavatnsskort.  Hann horfir til Krýsuvíkur sem framtíðarnýtingarsvæðis, en skrifar svo:

"Við getum enn aukið heitavatnsvinnsluna á Hengilssvæðinu.  Það eru þó dýr mannvirki, varmastöðvarnar í virkjununum, og að byggja þær áður en þörf er á þeim er enn dýrara.  Við þurfum að fara næstum hálfa öld aftur í tímann, aftur í olíukreppuna upp úr 1970, þegar uppbygging hitaveitu í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur var á fullu, til að sjá viðlíka aukningu á heitavatnsnotkun og við höfum séð nú í ár.  Sennilegasta ástæðan er breytt notkun okkar á húsnæði í faraldrinum.  Þetta hefur hugsanlega líka þýtt það, að aukningin í kuldakastinu á dögunum var ekki eins mikil og við óttuðumst."

 

Þetta eru ósannfærandi útskýringar, og það skín í gegn, að stjórnendur ON tefla á tæpasta vaðið með, hvort Hitaveitan annar hámarksþörf eða ekki.  Það eru dregnar lappirnar með að reisa nýjar varmastöðvar, þar til full nýting fæst á þær, og þar með má ekkert út af bregða í rekstrinum.  Svona reka menn einfaldlega ekki veitur.  Þar þarf jafnan að vera svo stórt borð fyrir báru, að stærsta eining kerfisins megi falla úr rekstri við verstu aðstæður, eins og gerist, þar sem Murphy ræður ríkjum (það slæma, sem gerist, gerist jafnan á versta tíma), án þess að viðskiptavinir verði fyrir skakkaföllum af þeim sökum.  Þessir atburðir hafa opinberað einhvers konar rússneska rúllettu með OR, sem forstjórinn hlýtur að bera höfuðábyrgðina á.

Gagnrýni Árna Gunnarssonar á þannig rétt á sér.  Hann hélt áfram:

"Spurt er, hvernig getur það staðizt, að aflgeta Hitaveitunnar nægir nú ekki til að standa undir álagi, þegar frost er úti samfellt í nokkra daga ?

Á sama tíma hefur veitan aðgang að margfalt meiri varmaorku á Nesjavöllum og Hellisheiði, óbeizlaðri, svo [að] ekki sé minnzt á þá, sem þar er sóað vegna ágengrar raforkuvinnslu, langt umfram þarfir Hitaveitunnar."

Sóunin, sem Árni minnist á, á sér einkum stað á Hellisheiði og kann að vera óafturkræf, a.m.k. ef miðað er við núlifandi notendur hitaveitu OR.  Orkusóun af þessu tagi er óviðunandi framganga gagnvart komandi kynslóðum.  Í stað þess að predika um, að óþarft sé að virkja nokkuð á næsta áratugi fyrir orkuskiptin, væri forstjóra OR nær að skapa jafnvægi í nýttum gufuforðabúrum Hellisheiðarvirkjunar og Nesjavallavirkjunar, þ.e. að taka þaðan ekki meira en streymt getur inn. Hann þarf kannski að sníða sér stakk eftir vexti. 

Kostnaðarskiptingin á milli hitaveitu og rafveitu ON vekur grunsemdir um, að einokunarstarfsemi hitaveitunnar greiði niður samkeppnisstarfsemi ON, rafveituna.  Hvernig má það annars vera, að snarazt hefur algerlega á merinni, hvað gjaldskrá hitaveitunnar varðar frá 2003, er ný orkulög og Orkupakki 1 frá ESB tóku gildi á Íslandi ?

Árni Gunnarsson skrifaði undir lok greinar sinnar:

"[Hvernig er] [þ]essi staða upp komin, þrátt fyrir að gjaldskrá Hitaveitunnar er nú hærri borin saman við helztu hitaveitur landsins ?" 

Þetta er mjög mikilvæg spurning. Til að leita svara þarf sennilega að kryfja stofn- og rekstrarkostnað Hellisheiðarvirkjunar og fara rækilega í saumana á bókhaldi ON, sérstaklega Nesjavallavirkjunar og Hellisheiðarvirkjunar, þar sem bæði er einokunar- og samkeppnisstarfsemi. Þá þarf einnig að kanna, hvort eigendur OR blóðmjólka samstæðuna, t.d. með óeðlilegum arðgreiðslukröfum.  Slíkt eru mjög óeðlilegir stjórnarhættir hjá fyrirtæki í eigu sveitarfélaga, sem einnig þjónustar íbúa annarra sveitarfélaga, t.d. með heitt og kalt vatn.  Sennilega fær sannleikurinn ekki að koma í ljós fyrr en nýir valdhafar taka við stjórnartaumunum í Reykjavík og endurskipuleggja stjórn Reykjavíkur og fyrirtækja hennar, en fjárhagur höfuðborgarinnar stefnir nú í algert óefni með glórulausri skuldasöfnun, skattheimtu uppi í rjáfri og lélegri þjónustu að mati borgarbúa sjálfra. 

Gleðilegt nýár.  

 

 

   


Orkumál valda hagsmunaárekstrum

Lengi hafa pólitísk átök orðið hérlendis tengd virkjunum og orkunýtingu, og hófust þau líklega að ráði með ágreiningi í þjóðfélaginu og inni á Alþingi um Títanfélagið á upphafsárum fullveldisins og áform þess um virkjun í Þjórsá, þar sem nú er Búrfellsvirkjun 2, og nýtingu orkunnar þaðan til stóriðju, líklega aðallega áburðarframleiðslu.  Átökin um Þjórsá blossuðu upp að nýju eftir stofnun Landsvirkjunar af ríkissjóði, Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ árið 1965 og þeirra áforma Viðreisnarstjórnarinnar að framselja þessu nýja fyrirtæki vatnsréttindin í Þjórsá (aðallega komin frá Títanfélaginu) með það fyrir augum að virkja þetta mikla vatnsfall, fyrst með þá langstærstu og hagkvæmustu virkjun landsins við Búrfell.  Ákvörðunin um þetta og um ráðstöfun stórs hluta orkunnar til dótturfyrirtækis svissneska félagsins Alusuisse í Straumsvík var mjög umdeild í þjóðfélaginu, og það varð mjótt á mununum á Alþingi, þegar til atkvæðagreiðslunnar kom.  Sú framfarahugmynd að byggja upp öflugt raforkukerfi á Íslandi með gjaldeyri frá stórsölu rafmagns til útflutningsiðnaðar í eigu Svisslendinga varð ofan á og hefur reynzt giftudrjúg. Úrtöluraddir heyrast enn í dag, en hvað bjóða þær upp á annað en atvinnuleysi og hor í nös ?

Nú er enn komið að því að virkja Þjórsá, í þetta sinn með virkjanastækkunum upp frá og síðan í Neðri-Þjórsá með s.k. Hvammsvirkjun, sem á að verða tæplega 100 MW.  Raforkan frá henni færi til að knýja fyrsta hluta orkuskiptanna á næstu árum fram undir 2030, vetnisverksmiðjur og rafmagnsfartæki.  

Í heiminum olli olían, sem nú þarf að leysa af hólmi á Íslandi og annars staðar, oft spennu í samskiptum þjóða, einnig í okkar heimshluta.  Þrennt lá t.d. aðallega að baki

"Aðgerð Rauðskegg - Operation Barbarossa" 1941:

að berja bolsévismann niður, að tryggja fæðuöflun Þriðja ríkisins og að fá öruggt aðgengi að og umráð yfir olíulindum fyrir Stór-Þýzkaland.  Þessi hernaðaráætlun mistókst hrapallega, eins og kunnugt er, af ástæðum, sem ekki verða tíundaðar hér.  

Nú á dögum hefur vakið athygli, að þýzka ríkisstjórnin hefur gert samninga við eldsneytisgasfélög í Rússlandi, sem ráða miklum lindum í Síberíu og leggja og reka miklar gaslagnir.  Þjóðverjar hafa gert þessa samninga við Rússa í trássi við bandamenn sína í Austur-Evrópu, t.d. Pólverja, og einnig gegn vilja Frakka og Bandaríkjamanna.  Sýnir þetta, hvað þeir leggja mikla áherzlu á að fjölga orkuaðdráttum, jafnvel þótt Rússar, sem enn sæta viðskiptabanni af hálfu Vesturveldanna eftir hernám Krímskagans, nái þar með tangarhaldi á gasknúinni starfsemi þeirra, húsnæðisupphitun og eldamennsku.  

Kína sækir nú í sig veðrið sem stórveldi og sækir ekki sízt fram á orkusviðinu.  Hernaðarumsvif Kínverja hafa aukizt mjög á Suður-Kínahafinu, og það er aðallega vegna olíulindanna, sem þar liggja undir hafsbotni.  Olían er grunnefni í öllu plasti og þar af leiðandi undirstaða mikils iðnaðar, en hún er líka undirstaða mikilla valda og auðs einstaklinga, félaga og þjóða.  Sagt er, að völd Vladimirs Putin flæði úr rússneskum olíulindum.  Hálfri annarri öld eftir, að John D. Rockefeller myndaði fyrstu olíuauðlegðina í heiminum, njóta afkomendur hans enn afrakstursins.  Miðað við mikilvægi olíunnar fyrir nútíma siðmenningarþjóðfélög er ekki skrýtið, að erfitt reynist að vinda ofan af umsvifum umboðsmanna hennar og slæmum áhrifum á loftslagið.

Enn sem komið er, er enginn augljós arftaki olíunnar í sjónmáli, þótt ýmsir séu nefndir.  Það er þó orðið ljóst, að þróunin er í átt til enn víðtækari rafvæðingar, t.d. í samgöngum, með betri rafgeymum en áður.  Gríðarlegur auður mun myndast á næstu árum og áratugum við framleiðslu á ofurrafgeymum, rafmagnsfartækjum og við vinnslu málma og steinefna, sem til þeirrar framleiðslu þarf.

Stríð um rafmagnsfartæki og rafgeyma mun væntanlega ekki minna á viðskiptastríð 16.-19. aldar með herskipum og herjum, sem gengu hér og þar á land, en það verða líklega spennuþrungin tæknileg átök með stolnum teikningum, uppgötvunum og stjörnustarfsmönnum (verkfræðingum) samfara útsmognum aðferðum við að komast yfir sjaldgæfa málma s.s. kobalt og nikkel. 

Bandaríkjamenn eru nú að búa sig undir að styrkja stöðu sína verulega á þessu sviði.  Undirstaðan er öruggt aðgengi að miklu magni liþíummálmsins, sem er lykilefni fyrir nútíma rafgeyma í rafmagnsfartæki.  Nýlega komust þeir að því, að með jarðvökvanum í borholum fyrir 11 jarðgufuvirkjanir, sem nýta 260°C heitan jarðvökva við suð-austur jaðar Salton Sea í Suðaustur-Kaliforníu, kemur upp liþíum.  Rannsóknarskýrsla SRI International í marz 2020 gaf til kynna, að þar mætti vinna 600 kt/ár af Li, en það er tæplega áttföld notkun ársins 2019.  Þarna eru þá einhverjar mestu birgðir af Li, sem þekktar eru í heiminum, en aðalnámurnar eru núna í Ástralíu, Kína og Suður-Ameríku.  

Blómaskeið rafmagnsbílsins er framundan, og Kína leiðir inn á þetta blómaskeið.  Á heimsvísu eru nú aðeins 3 % allra nýrra bíla rafknúnir, en hlutfallið er mun hærra á Íslandi, en alrafbílar eru um 3 % af heildarfjölda bíla á Íslandi (um 6200 talsins).  Árið 2021 er búizt við, að hlutfall rafknúinna nýbíla í heiminum verði 5 % og 10 % árið 2025. Þjóðverjar taka fullan þátt í þessu kapphlaupi, og hlutdeild alrafbíla í fólksbílaframleiðslu stærstu þýzku bílaframleiðendanna árið 2025 á að verða um fjórðungur. 

Þróunin í þessa átt er hröð, og studdir af ríkissjóði leiða kínverskir bílkaupendur þessa þróun í heiminum, en þeir kaupa um helming allra nýrra rafmagnsbíla í heiminum um þessar mundir, og iðnjöfrar landsins hafa byggt upp mestu framleiðslu bílarafgeyma í heiminum.  Rafgeymagerðirnar ganga undir skammstöfununum NMC og LFP.  Þær voru þróaðar í Bandaríkjunum, en Kínverjar hafa skotið Bandaríkjamönnum og öllum öðrum aftur fyrir sig í framleiðslumagni fyrir rafbíla. Ýmislegt bendir til, að Bandaríkjamenn vilji verða með í þessari keppni. 

Bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla, aðalrafbílaframleiðandinn núna, er að koma sér fyrir í Kína.  Gigafactory 3 í eigu Tesla, þar sem settir eru saman rafbílar fyrirtækisins og rafgeymar,  er staðsett í Shanghai.  Model 3 frá Tesla er mest seldi rafbíllinn í Kína, og nýlega ákváðu yfirvöld í Beijing að niðurgreiða Model Y jeppann frá Tesla. Tesla gæti selt 40 % af framleiðslu sinni í Kína.

Tesla reisir nú nýja rafbílaverksmiðju og rafgeymaverksmiðju í Þýzkalandi sunnan Berlínar.  Þar með er lagður grunnur að baráttu um evrópska og einkum þýzka rafbílamarkaðinn.  Þar liggur VW-samsteypan á fleti fyrir með mjög mikil áform á þessu sviði undir merkjum VW, Audi og Porsche. "Festung Europa" verður ekki auðsótt frekar en fyrri daginn. Þannig verður harðvítug samkeppni á rafbílamörkuðum heimsins á milli Kínverja, Bandaríkjamanna og Þjóðverja. 

Á Íslandi munu neytendur, eins og annars staðar, njóta góðs af þessari samkeppni.  Hérlendis er umhverfislega og þjóðhagslega meiri ávinningur af rafmagnsbílum en víðast hvar annars staðar vegna raforku alfarið úr "hreinum" og innlendum orkulindum.  Samkeppni er líka um raforkusöluna.  Þann 15. desember 2020 birtist baksviðsfrétt um það í Morgunblaðinu, að Orka náttúrunnar, ON, dótturfyrirtæki veitufyrirtækisins Orkuveitu Reykjavíkur (OR), hygðist starfrækja 44 hraðhleðslustöðvar fyrir árslok 2020 og 57 fyrir árslok 2021. 

ON sætir kæru til Samkeppniseftirlitsins vegna þess, sem kalla má misnotkun fyrirtækisins á markaðsstöðu sinni.  Í Morgunblaðinu, 17. desember 2020, var frétt undir fyrirsögninni:

"Óvíst hvenær rannsókninni á samkeppnismáli ON lýkur".

Þar stóð þetta m.a.:

"Haft var eftir framkvæmdastjórum N1 og Ísorku [í Morgunblaðinu 16.12.2020-innsk. BJo], að ON hefði með niðurgreiðslum hamlað uppbyggingu einkaaðila á hraðhleðslustöðvum."

ON er nú umsvifamest á markaði fyrir hleðslu rafmagnsbíla hérlendis.  Það sætir undrun, að fyrirtækið skuli leggja svo mikla áherzlu á þennan markað, því að augljóslega vofir inngrip Samkeppniseftirlitsins inn í þessa markaðssókn yfir.  Ef litið er til Evrópusambandsins (ESB), sést á Orkupakka 4, að orkufyrirtækjum og veitufyrirtækjum ESB er bannað að keppa á þessum markaði, því að þau njóta yfirburða og geta hæglega misnotað aðstöðu sína á markaði, eins og ON er uppvís að núna með því að veita viðskiptavinum sínum á almennum raforkumarkaði afslátt af verði hleðslurafmagns. 

Landsvirkjun undirbýr sig fyrir álagsaukningu vegna orkuskiptanna.  Fyrirtækið ætlar að auka aflgetu sína og geta þannig sinnt álagstoppum, sem fyrirsjáanlega munu myndast vegna hleðslu rafmagnsfartækja á kvöldin.  Landsvirkjun býst jafnframt við að geta sparað vatn í miðlunarlónum sínum, m.a. Þórisvatni, þegar vindorkuver koma til skjalanna, en undirstaðan að hagkvæmni þeirra er rekstur á hámarksafköstum, sem vindur leyfir hverju sinni, og þá verður dregið úr afköstum vatnshverflanna á móti. 

Í Morgunblaðinu 4. marz 2020 birtist frétt Helga Bjarnasonar um þetta:

"Þarf að auka sveigjanleika orkukerfisins".

Hún hófst þannig:

"Áform Landsvirkjunar um að stækka 3 aflstöðvar sínar á Þjórsár/Tungnaár svæðinu snúast um að auka uppsett afl og þar með sveigjanleika í orkuöflun til þess að geta mætt orkuskiptum í samgöngum, breytingum vegna væntanlegrar uppbyggingar vindorkuvera og aukins rennslis til virkjana vegna hlýnunar andrúmsloftsins.

Landsvirkjun hefur tilkynnt áform um stækkun Hrauneyjafossstöðvar, Sigöldustöðvar og Vatnsfellsstöðvar til yfirvalda vegna vinnu verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar við mat á orkukostum.  Snúast verkefnin um að auka uppsett afl stöðvanna, en orkuvinnsla eykst tiltölulega lítið."

 

 Þessar aðgerðir eru af sama toga og Búrfellsvirkjun 2, þar sem aflgetan var aukin um 100 MW fyrir fáeinum árum.  Ofangreint eykur aflgetu Landsvirkjunar e.t.v. um 200 MW og mun vinna gegn orkusóun á formi framhjárennslis, því að með öflugra flutningskerfi má draga niður í öðrum virkjunum og keyra hinar á fullu afli, á meðan miðlunarlón þeirra eru full.  Þetta er hagstætt, því að vatn framhjá virkjun er verðlaust. 

Kvöldtoppurinn stækkar með fleiri rafmagnsbílum, og þá þarf að reiða sig á aukna aflgetu.  300 MW duga lengi í þeim efnum, en auðvitað þarf orku líka.  Hún kemur fyrst um sinn frá smávirkjunum vatnsafls og frá vindrafstöðvum, en almennileg viðbótar orkugeta þarf að koma inn á kerfið til að anna orkuskiptum og nýjum iðnaði um miðjan komandi áratug, ef orkuskortur á ekki að hamla þeim hagvexti, sem nauðsynlegur verður til að reisa hagkerfið við og snúa af braut skuldasöfnunar til uppgreiðslu á lánum.

"Tilgangur framkvæmdanna er að auka sveigjanleika í orkuöflun virkjana Landsvirkjunar til þess að mæta orkuskiptum í samgöngum, væntanlegri uppbyggingu vindorkuvera og auknu rennsli að virkjunum vegna hlýnunar loftslags.  Til útskýringar bendir Ólafur Grétar [Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri Þróunarsviðs Landsvirkjunar] á það, að þegar stór hluti ökutækja verði rafknúinn, muni þau gjarna vera í hleðslu á sama tíma, þ.e.a.s. á kvöldin og nóttunni.  Þá sé framleiðsla vindorkuvera mjög sveiflukennd, eins og eðlilegt er.  Þetta hafi þær breytingar í för með sér, að framleiðsla virkjana Landsvirkjunar verði ekki eins jöfn [og áður]. Það kalli á aukið afl með fjölgun véla í virkjunum. 

Ekkert vatn rennur framhjá virkjunum Landsvirkjunar á Þjórsár-Tungnaár svæðinu nú.  Því verður sama vatnsmagnið notað við framleiðsluna og til taks er nú.  Hins vegar eykst framleiðslan nokkuð vegna betri nýtni nýju vélanna en þeirra eldri."

Það eru tíðindi, ef engin umframorka rennur óbeizluð til sjávar framhjá virkjunum í Þjórsá-Tungnaá, því að það var ein helzta röksemd Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, fyrir aflsæstreng til Bretlands, að koma þyrfti umframorku Landsvirkjunar í lóg. Höfundur þessa pistils benti reyndar á, að hún væri svo lítil og óstöðug, að hún gæti ekki réttlætt þessa viðskiptahugmynd, en þrákelknin sat við sinn keip, og vitleysan var margendurtekin.  Það er samt ótrúlegt, að Búrfell 2 hafi dugað til að nýta vaxandi afrennsli síðsumars.

Í lokin stóð í þessari frétt:

"Spurður, hvort stækkun aflstöðvanna dragi úr þörf fyrir áformaður virkjanir í Neðri-Þjórsá, segir Óli Grétar svo ekki vera.  Ef þörf verði á aukinni orku inn á raforkukerfið, gætu virkjanir í Neðri-Þjórsá komið til greina.  Þær henti hins vegar ekki til að auka afl til að auka sveigjanleika, eins og þörf verði á næstu árin."

Þetta er rétt, svo langt sem það nær.  Aflgetu virkjana í Neðri-Þjórsá þarf hins vegar að miða við mesta rennsli, sem verður, þegar allar vélar virkjananna í Efri-Þjórsá og Tugnaá eru keyrðar á fullu, því að annars þarf að veita vatni framhjá virkjunum í Neðri-Þjórsá.  Þess vegna er líklegt, að aflgeta Hvammsvirkjunar muni verða valin yfir 100 MW. Til að nýta umframorku í kerfinu, sem þannig verður til, kemur vetnisverksmiðja vel til greina, sem hönnuð væri fyrir ákveðið grunnálag, en væri í stakk búin til að taka við ódýrri umframorku. 

Brandenburger Tor 

 Olíuborun á ísi

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband