Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Metnaðurinn einn og sér hrekkur skammt

Forsætisráðherra hefur tilkynnt þjóð sinni og þjóðum heims um enn torsóttari markmið en áður varðandi samdrátt í losun Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum.  Hérlendir stjórnmálamenn ættu þó að vera brenndir af því að spenna bogann allt of hátt án þess að hafa nokkra getu til að stjórna aðgerðum til að uppfylla loforðin.  Afleiðingu þess barnalega hégómaskapar að vera hinn góði riddari loftslags jarðar, sem drepur drekann ógurlega, sem ógnar lífi á jörðunni, eins og við þekkjum það, sjáum við í hörmunginni, sem kallast "annað skuldbindingartímabil Kýótó-bókunarinnar".  Skortur á efndum þar mun kosta íslenzka skattborgara stórfé.  Hvað mun þetta síðasta gönuhlaup Katrínar Jakobsdóttur kosta mig og þig ? 

Nú verður vitnað í nýjustu "Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda (e. "National Inventory Report-NIR") til Evrópusambandsins (ESB) og loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations Framework Convention on Climate Change - UNFCCC") frá Umhverfisstofnun sumarið 2020:  

"Ísland og ESB hafa gert með sér tvíhliða samning um sameiginlegar efndir á skuldbindingum Íslands og ESB við UNFCCC á öðru skuldbindingartímabili Kýótóbókunarinnar (undirritað af ESB og Íslandi 1. apríl 2015), þar sem Ísland fékk úthlutaðar 15.327.217 losunarheimildir [t], sem samsvara losun af 15,33 Mt CO2-íg. af gróðurhúsalofttegundum á tímabilinu 2013-2020 [8 ár-innsk. BJo].  Árið 2023 mun Ísland gera upp annað tímabil Kýótóbókunarinnar við ESB, og ef Ísland hefur losað meira en það fékk úthlutað, mun landið þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir mismuninum."

Ísland fór mjög mikið fram úr þessum losunarheimildum sínum á Öðru Kýótó-skuldbindingartímabilinu eða um 8,35 Mt CO2-íg., sem er um 55 % af úthlutuðum heimildum, og var enn að auka losun sína á árinu 2018, sem er lokaár skýrslunnar með þekktum gildum.  Hvaðan í ósköpunum kemur forsætisráðherranum þá sú vitrun (líklega í draumi), að raunhæft sé að ætla Íslendingum að auka enn snúninginn ?  Engar aðgerðaáætlanir til 2030 hafa verið birtar, hvað þá, að þær séu fjármagnaðar.  Allt er í lausu lofti hjá forsætisráðherra, en hégómagirninni er fullnægt.  Það væri svo sem ekki orð á því gerandi, ef það gæti ekki kostað skattborgarana stórfé, og auðvitað er það þarflaust með öllu að binda skattgreiðendum þessar byrðar.  Þurfum við ekki á öðru að halda núna en leikaraskap af þessu tagi ?

Hvað mun framúrkeyrslan á Öðru skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar kosta ?  Ef reiknað er með lágmarksverði koltvíildiskvótans, sem gilti á þessu tímabili, 5 EUR/t CO2, mun kostnaðurinn nema:

  • K2K=8,35 Mt * 5 EUR/t = MEUR 42 = mrdISK 6,5

Meginástæða þess, að það reynist Íslendingum svo torsótt sem raun ber vitni um að standa við Kýótóbókunina og Parísarsáttmálann er sú, að viðmiðunar árið, 1990, er okkur óhagfellt og óhagfelldara en mörgum öðrum.  Þá var mesta átak í hitaveituvæðingu landsins nýlega um garð gengið í kjölfar olíukreppa og margföldunar olíuverðs frá 1970. Til að sýna umfang skuldbindinganna í tonnum (enginn veit, hverjar þær verða í evrum) er rétt að vitna aftur í Landsskýrslu UST 2020:

"Árið 2018 var heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi (án losunar frá alþjóðaflugi, alþjóðasiglingum, landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt) 4.857 kt af CO2-ígildum, sem er aukning um rúmlega 30 % frá árinu 1990 (3.733 kt CO2-íg.) og aukning um 0,4 % frá árinu 2017 (4.836 kt CO2-íg.)."

Okkur miðar þannig ekki nokkurn skapaðan hlut í heild í átt að markmiðum ársins 2030, hvort heldur átt er við 40 % samdrátt eða 55 %. Einn er sá samanburður, sem forsætisráðherra gæti skákað í skjólinu af, en það er "losun, sem fellur undir beina ábyrgð íslenzkra stjórnvalda" með viðmiðunarárinu 2005, en það er einmitt upphafsár kvótaúthlutunar Evrópusambandsins á losunarheimildum koltvíildis.  Það, sem forsætisráðherra er mjög líklega að gera, er að skuldbinda Íslendinga til að greiða fyrir það, sem þeir munu ekki standa við tímabilið 2021-2030 samkvæmt þessari skuldbindingu forsætisráðherra og væntanlega ríkisstjórnarinnar. 

Þetta er þó hvorki meira né minna en Stjórnarskrárbrot.  Stjórnarskráin bannar fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins, nema með lögum, og það er mjög hæpið, að stjórnvöldum sé yfirleitt heimilt að skuldbinda skattborgara til greiðslu á óvissum erlendum skuldum.  Forsætisráðherra og ríkisstjórn hennar eru hér stjórnlagalega á hálum ísi.

Í tilvitnaðri Landsskýrslu UST stendur þetta um losun á beinni ábyrgð íslenzkra stjórnvalda:

"Losun, sem fellur undir beina ábyrgð stjórnvalda hérlendis, samkvæmt tvíhliða samninginum við ESB, er öll losun Íslands að undanskilinni losun, sem fellur undir viðskiptakerfi ESB (ETS), LULUCF, flug (alþjóðaflug og innanlandsflug) og millilandasiglingar, og er þar viðmiðunarárið 2005.  Losun, sem fellur undir beina ábyrgð stjórnvalda, nam 2978 kt CO2-íg. árið 2018."

Viðmiðunargildið er 3178 kt CO2 árið 2005, sem þýðir, að markgildið er 1787 kt CO2 með 40 % markmiðinu, en 1430 kt CO2 með 55 % markmiðinu.  Mismunurinn er 347 kt CO2, sem er 11,7 % af losunargildinu 2018 (nýjasta þekkta gildi).  Það þarf með nýja markmiðinu að draga úr losun orkuferla, iðnaðarferla, landbúnaðar og úrgangsferla um 1548 kt á tímabilinu 2021-2030. 

Ef við hugsum okkur, að hver liður þurfi að draga hlutfallslega jafnmikið úr losun, falla 975 kt á orkuferlana, aðallega vegaumferð og fiskiskip, 93 kt á iðnaðarferla, 325 kt á landbúnaðinn og 155 kt á úrgangsferlana.  Undir "vegasamgöngur" falla 51 % af losun orkuferlanna, sem jafngilda tæplega 500 kt/ár CO2 minni losun árið 2030 en nú.  Hvað jafngildir það mörgum farartækjum ?

Á vegsamgöngur er nú skrifuð um 960 kt/ár CO2 losun, svo að krafa um minnkun nemur um 52 % af öllum flotanum, stórum og smáum tækjum, eða um 150 k.  Það er ólíklegt, að þetta náist, enda tæknin hreinlega ekki tilbúin fyrir vinnuvélarnar, en það er þó ekki útilokað.  Stjórnvöld mega halda betur á spilum orkuskiptanna á komandi áratug en þau hafa gert til þessa, svo að þetta takist. 

Hvað gæti gönuskeið forsætisráðherra kostað íslenzka skattborgara, þegar kostnaðaruppgjörið fer fram fyrir komandi áratug ?  Gönuskeið er það að hlaupa út í óvissuna algerlega að þarflausu, en auðvitað fyrir ímyndaða stundarhagsmuni hégómagirninnar.  Viðbótarskuldbindingin vegna gönuskeiðsins nemur 347 kt/ár CO2.  Koltvíildiskvótaverðið innan ETS-viðskiptakerfisins mun verða miklu hærra á tímabilinu 2021-2030 en 2011-2020.  Það gæti að meðaltali tífaldazt.  Gerum ráð fyrir, að það verði að jafnaði 40 EUR/t CO2.  Þá mun verðmiði "gönuskeiðsins" verða: VGSK=347 kt/ár * 0,5 * 10 * 40 EUR/t = MEUR 69,4 eða á núverandi gengi: VGSK=mrdISK 11. 

Reikningur vegna gönuskeiðs forsætisráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs gæti þannig orðið 70 % hærri en reikningur vegna óleyfilegra búrókratískra afglapa annars uppgjörstímabils Kýótó-samkomulagsins.  Er ekki mál að linni, eða hvað verður um allt þetta fé ?

Téður forsætisráðherra birti þjóðinni predikun um áform sín í Morgunblaðinu 10. desember 2020 undir fyrirsögninni:

"Metnaður fyrir framtíðina".

Að leita þar að leiðsögn um, hvers vegna í ósköpunum hún ákvað að herða skuldbindingarólina um háls þjóðarinnar, eða hvernig á að framkvæma hin "göfugu" áform, er jafngilt því að fara í geitarhús að leita ullar.  Þetta er fullkomið ábyrgðarleysi.  Þessi forsætisráðherra er allt of dýr á fóðrum.  Hún bakar framtíðinni bara vandræði.  Lítum á skrifin:

"a) Aukinn samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda. Úr núverandi markmiði um 40 % samdrátt m.v. árið 1990 í 55 % eða meira til ársins 2030, en það markmið tengist samfloti Íslands með ESB og Noregi."

Það er óskiljanlegt að stíga þetta skref, og til að það takist, þarf kraftaverk.  Slíkt kraftaverk gæti t.d. verið, að a.m.k. tveimur af orkukræfu iðjuverunum yrði umbylt yfir í kolefnisfría framleiðslu með s.k. eðalskautum, þannig að í stað CO2-losunar komi O2 losun út í andrúmsloftið, og að engin nettólosun verði vegna bruna á jarðefnaeldsneyti í vélum.  Markmið Katrínar jafngildir, að heildarlosun Íslands verði undir 1680 kt árið 2030, sem þýðir minnkun losunar um a.m.k. 3177 kt/ár.  Þetta er ótrúlega fífldjarft uppátæki, og það eru innan við 5 % líkur á, að það takist að mati pistilhöfundar (ágizkun).

"b) Efldar aðgerðir, einkum í landnotkun, sem munu auðvelda Íslandi að ná settu markmiði um kolefnishlutleysi fyrir 2040 og að auki áfangamarkmiði um kolefnishlutleysi losunar á beinni ábyrgð íslenzkra stjórnvalda í kringum árið 2030."

Svo virðist hér sem forsætisráðherra ætli að bjarga sér fyrir horn með landnotkun, binda koltvíildi og draga úr losun lands á jafnvel sterkum gróðurhúsagösum, en hvað segir Landsskýrsla UST 2020 um þetta ?:

"Losun, sem kemur frá flokkinum landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (LULUCF) fellur ekki undir skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og er þess vegna ekki talin með í umfjölluninni um heildarlosun fyrir ofan.  Það er ennþá takmörkuð þekking á þessum losunarflokki og vantar meiri rannsóknir á alþjóðavísu.  Þar af leiðandi er mjög mikil óvissa í losunartölunum, sem verið er að gera úrbætur á.  Ísland getur talið fram ákveðna bindingu frá LULUCF að einhverju leyti á móti losun frá öðrum geirum, en það er að mjög takmörkuðu leyti."

Á grundvelli þessa texta er mjög óvarlegt að búast við, að ræktun og mokstur ofan í skurði geti skilað nokkru, sem heitið geti, á tímabilinu 2021-2030, enda er t.d. endurheimt votlendis mjög vandmeðfarin og getur snúizt í höndunum á mönnum þannig, að losun aukist.  Það borgar sig alls ekki að setja fé í þann vonarpening á komandi reikningstímabili, en landgræðsla og skógrækt munu vonandi skila sínu síðar meir inn í þetta bókhald. 

"c) Aukin áherzla á loftslagstengd þróunarsamvinnuverkefni, einkum á sviði sjálfbærrar orku."

Það er mjög í þoku, hvernig forsætisráðherra hugsar sér aðkomu ríkisins að þessu, enda hefur einkageirinn aðallega séð um þennan þátt, og þessi starfsemi er bezt komin hjá honum.

"Í upphafi þessa kjörtímabils ákvað ríkisstjórnin að forgangsraða loftslagsmálunum og kynnti fyrstu aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum strax haustið 2018. Flaggskip aðgerðaáætlunar eru samdráttur í losun frá samgöngum með orkuskiptum og landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis.  Þar settum við okkur það markmið að verða kolefnishlutlaus ekki seinna en árið 2040."

  Þarna vantar alveg hjá forsætisráðherra, hvernig á að láta orkuskiptin fara fram með svo hröðum hætti sem markmið hennar útheimtir.  Með núverandi hraða orkuskiptanna nást markmið hennar alls ekki, og hún er jafnvel á undan tækniþróuninni með sín markmið, sem gerir þau ekki aðeins ótrúverðug, heldur óraunhæf.  Þá blandar hún þarna landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis inn, sem er að mestu ótímabært samkvæmt Landsskýrslu UST 2020. 

"Til að ná markmiði um kolefnishlutlaust Ísland fyrir árið 2040 er kolefnisbinding með skógrækt og landgræðsla lykilatriði til að ná árangri auk annarra aðgerða í landnotkun, s.s. endurheimt votlendis.  Efla þarf slíkar aðgerðir, sem geta samhliða frumkvöðlastarfi við bindingu kolefnis í berglögum markað Íslandi sérstöðu meðal fremstu ríkja varðandi upptöku kolefnis úr andrúmslofti, sem er ein megináherzla í Parísarsamningnum.  Þær eru einnig til þess fallnar að auka samkeppnishæfni Íslands, skapa störf og styrkja byggðir auk þess að vera "náttúrulegar loftslagslausnir", sem stuðla að vernd og endurheimt vistkerfa og landgæða.  Með auknum aðgerðum á þessu sviði getur Ísland náð þeim áfanga að verða kolefnishlutlaust varðandi losun á beinni ábyrgð Íslands í kringum árið 2030."

Hér hefur óskhyggjan náð tökum á forsætisráðherra og leitt hana í gönur.  Endurheimt votlendis er tóm vitleysa.  Hún breytir nytjalandi, sem komið er í CO2-jafnvægi eða nálgast það, í fúamýrar með CH4-losun, sem er sterk gróðurhúsalofttegund.

Víða í heiminum eru gerðar tilraunir með niðurdælingu koltvíildis, en ferlið er dýrt og verður sennilega ekki arðsamt fyrr en við kvótaverð á CO2 um 100 USD/t.  Þá er miklu hagkvæmara að binda CO2 með skógrækt, en ríkið hefur dregið lappirnar í stuðningi sínum við skógrækt alveg frá hruni bankakerfisins.  Styðja þarf við skógarbændur. Sú grein verður fljótt lífvænleg.  Í stað þess að greiða nokkra milljarða ISK til Evrópusambandsins vegna óraunhæfra skuldbindinga væri nær að láta féð renna til skógræktar á Íslandi í samkomulagi við ESB.   

 

 

 

 

 

 


Beinar erlendar fjárfestingar eru nauðsyn

Það hefur lengi verið alið á ótta hérlendis í garð þeirra útlendinga, sem vilja fjárfesta í íslenzku atvinnulífi.  Samt er þar iðulega um að ræða brautryðjendastarfsemi hérlendis, sem færir nýja þekkingu inn í landið og ný störf, sem ekki hefur veitt af á tímum atvinnuleysis. Ný áhættulítil verðmætasköpun fyrir landsmenn í erlendum gjaldeyri á sér stað. Viðkvæðið er, að "gróðinn verði fluttur úr landi".  Þá gleymist, að fjármagn kostar, og fyrir hérlandsmenn er mun áhættusamara að standa í öllu sjálfir, taka þess vegna tiltölulega dýr lán erlendis, kaupa nýja þekkingu, sem sumpart er illfáanleg, og síðast en ekki sízt að berjast inn á nýja markaði með viðeigandi undirboðum og aukakostnaði. 

Beinar erlendar fjárfestingar eru í mörgum tilvikum eftirsóknarverðar, en þurfa ekki að vera það í öllum tilvikum.  Af sögulegum ástæðum komst Alþingi að þeirri niðurstöðu, að beinar erlendar fjárfestingar í íslenzkum sjávarútvegi væru óæskilegar og setti þeim þröngar skorður.  Þróunin hefur sýnt, að þetta var rétt stefnumörkun.  Þessi auðlindanýting hefur staðið undir hraðri og metnaðarfullri tækniþróun, þannig að íslenzkur sjávarútvegur stendur öðrum á sporði, og sömu söguna er að segja af veiðiskipulagningu, vinnslu og markaðssetningu.  Órofin keðja frá veiðum til markaðar, aðallega erlends markaðar, ásamt nærliggjandi gjöfulum miðum, gefur íslenzkum sjávarútvegi það markaðslega forskot, sem þarf til, ásamt öðru, að standa undir samkeppnishæfum lífskjörum hérlendis. 

 Dæmi um vel heppnaða stefnumörkun á sviði beinna erlendra fjárfestinga er sú stefnumörkun Viðreisnarstjórnarinnar undir forystu dr Bjarna Benediktssonar að skapa innviði hérlendis til stórsölu ríkisins á raforku til erlendra fjárfesta á sviði málmframleiðslu, aðallega álvinnslu.  Sú hugmynd rættist, að með þessu móti yrði hluti af orkulindum landsins virkjaður og flutningskerfi og dreifikerfi reist til að afla almenningi ódýrrar raforku með þokkalegu afhendingaröryggi.  Kröfur um hið síðar nefnda aukast eðlilega stöðugt eftir því sem tjón af straumleysi eykst. 

Með stóriðjunni fluttist margvísleg þekking til landsins á sviði tækni og stjórnunar, t.d. gæða- og öryggisstjórnunar, og alls konar þjónusta spratt upp við þessa nýju framleiðendur í landinu.  Landsmenn hefðu ekki haft bolmagn í þessa uppbyggingu sjálfir, enda er þetta sama leiðin og Norðmenn fóru rúmri hálfri öld fyrr við iðnvæðinguna þar í landi. 

Vaxtarbroddur erlendrar fjárfestingar á Íslandi um þessar mundir er í laxeldinu, þar sem Norðmenn miðla af beztu fáanlegu þekkingu á sviði sjókvíaeldis með frábærum árangri að því, er bezt verður séð.  Engu að síður kom fram í Morgunblaðsfrétt Stefáns E. Stefánssonar 2. desember 2020, að "[á] tímabilinu 2018 - 2020 minnkaði bein erlend fjárfesting á Íslandi um mrdISK 180." Þessi staðreynd er ávísun á daufara atvinnulíf í nánustu framtíð, minni hagvöxt og þar af leiðandi jafnvel lífskjaraskerðingu þjóðar, sem fjölgar tiltölulega mikið. 

Við athugun OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar) hefur komið í ljós, að hérlendis eru tæplega þrefalt meiri (þungvægari) hömlur á beinar erlendar fjárfestingar en að meðaltali innan OECD, tæplega tvöfalt meiri en í EFTA/EES-landinu Noregi og rúmlega tvöfalt meiri en í EFTA-landinu Sviss.  Ísland sker sig algerlega úr öðrum EES-löndum, hvað þetta varðar.  Á mælikvarðann 0-100 hjá OECD hafa hömlur Hollendinga ekkert vægi, 0, en hömlur Íslendinga 17.  Hvers vegna er þetta svona ?

Frétt Stefáns,

"Örva þarf erlenda fjárfestingu",

hófst þannig:

""Til þess að auka erlenda fjárfestingu á Íslandi þarf að auka tiltrú og traust á fjárfestingarkostinum Íslandi".  Þetta segir Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, en ráðið hefur nú tekið saman tillögur í 7 liðum, sem ætlað er að ýta undir erlenda fjárfestingu hér á landi.  Bendir það á, að það sé ekki aðeins nauðsynlegt til þess að halda uppi lífsgæðum hér á landi, heldur einnig til þess að tryggja getu lífeyrissjóða til þess að auka fjárfestingar utan landsteinanna. Án erlendrar fjárfestingar til mótvægis við útflæði fjármagns sjóðanna skapist þrýstingur til lækkunar gengis krónunnar, sem aftur leiði til verðbólgu og óstöðugleika."   

Allt er þetta satt og rétt, og skortur á "tiltrú og trausti" var t.d. talsverður þröskuldur í upphaflegum samningaviðræðum á vegum Viðreisnarstjórnarinnar við erlenda fjárfesta um stóriðju og við Alþjóðabankann um fjármögnun Búrfellsvirkjunar og tengdra mannvirkja.  Þessi skortur var vegna reynsluleysis Íslendinga á þessum sviðum þá, en Íslendingar áunnu sér fljótlega traust og tiltrú með verkum sínum, sem aftur leiddi til meiri orkusölu og hærra verðs fyrir raforkuna.  

Það er ekki vel til þess fallið að auka tiltrú og traust erlendra fjárfesta til Íslands sem fjárfestingarkosts, þegar í kjölfar frétta af kaupum í félagi við Íslendinga á Hjörleifshöfða og sandnámum þar til atvinnurekstrar taka að heyrast úrtöluraddir um jarðasölu til útlendinga, sem ríkisvaldið ætti að girða fyrir með því að ganga inn í kaupin.  Þar með mundi hvati til framkvæmda og verðmætasköpunar þar verða úr sögunni, svo að þetta er dæmi um of dýrkeypta varfærni. 

Orkunýting í stórum stíl á Íslandi hefur ætíð verið nátengd beinum erlendum fjárfestingum. Landsmenn standa nú frammi fyrir dýpstu efnahagskreppu í heila öld, og sem liður í að koma af stað góðum hagvexti á ný er fullkomlega eðlilegt að reyna að örva erlendar fjárfestingar.  Það verður enn og aftur unnt að gera í tengslum við orkunýtinguna; í þetta skipti með því að færa verðið fyrir orkuna niður í samkeppnishæft verð m.v. önnur ríki í EES, ekki sízt Noreg með framleiðslugetu um 1,5 Mt Al/ár.  Norðmenn vinna úr 0,3-0,4 Mt Al/ár, t.d. hjólfelgur, og flytja þess vegna meira en 1,0 Mt Al/ár sem hálfunna vöru, eins og Íslendingar, hverra framleiðslugeta er um 0,9 Mt Al/ár.

Þórður Gunnarsson hefur birt fróðlegar greinar í Markaði Fréttablaðsins um orkumál og stóriðju.  Þann 2. desember 2020 hélt hann uppteknum hætti með greininni:

"Stóriðjan njóti sömu kjara og í Noregi".

Hún hófst þannig:

"Landsvirkjun hefur komið því á framfæri við atvinnuvegaráðuneytið, að tryggja verði getu íslenzka ríkisins til að styðja við orkufrekan iðnað með sama hætti hér á landi og gert er í Noregi, svo að tryggja megi samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi.  Norskir álframleiðendur munu á þessu og næsta ári fá sem nemur á bilinu 10-12 USD/MWh til niðurgreiðslu á kostnaði vegna kolefnislosunar frá norska ríkinu á næsta ári, en norska Stórþingið hefur málið nú til meðferðar.  Engar líkur eru á öðru en málið fái samþykki þingsins, enda um að ræða framlengingu á fyrirkomulagi, sem þegar er í gildi.  Samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) liggur þó ekki enn fyrir.  Endurgreiðslur vegna kostnaðar, sem tengist kolefnislosun (ETS-einingum) hafa tíðkazt í Noregi allt frá árinu 2013, en hækkandi verð á ETS-einingum frá árinu 2018 hefur aukið getu norskra stjórnvalda til að styðja við orkufrekan iðnað í Noregi."

Tómlæti iðnaðarráðuneytisins íslenzka undir stjórn núverandi ferða-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra er við brugðið, en kólfunum kastar, þegar svefnhöfginn er svo djúpur, að Landsvirkjun sér sig knúna til að benda ráðuneytinu á, hvernig Norðmenn styrkja samkeppnisstöðu síns orkukræfa iðnaðar.  Niðurgreiðslan er ekkert smáræði eða svipuð og Rio Tinto fer fram á við Landsvirkjun, að orkuverðið til ISAL verði lækkað vegna taprekstrar í slæmu árferði.  11 USD/MWh niðurgreiðsla norska ríkissjóðsins til álveranna í Noregi er ekkert smáræði og er í raun ferföld á við það, sem tæknilega vel rekið álver á borð við íslenzku álverin borgar fyrir ETS-kolefniskvóta, ef hann kostar 25 USD/t CO2.  Norska ríkið er í raun að viðurkenna, að orkuverðið í Noregi sé 9 USD/MWh of hátt vegna tengingar Noregs við eldsneytisknúin raforkukerfi Evrópu. Það er löngu kominn tími til, að íslenzki iðnaðarráðherrann rumski og að hún og fjármála- og efnahagsráðherra hlutist til um lækkun óeðlilega hárrar ávöxtunarkröfu ríkisins á hendur Landsvirkjun.

Svo virðist sem 25 % tollur ESB á ál frá löndum með mikla losun koltvíildis samfara álframleiðslu (frá raforkuvinnslu og rafgreiningu) hafi slegið á framboð áls frá Kína inn á Innri markaðinn, því að álverðið hefur hækkað um 40 % frá lágmarkinu í Kófinu (komið yfir 2000 USD/t).  Þetta hefur valdið því, að álfyrirtækin eru að auka framleiðslu sína.  Dæmi um það er endurræsing annars kerskálans í verksmiðju Norsk Hydro á Husnes í Vestur-Noregi, sem er systurverksmiðja ISAL í Straumsvík frá dögum Alusuisse, sem reisti báðar verksmiðjurnar 1965-1972. ISAL aftur á móti eykur ekki framleiðslu sína fyrr en raforkusamningurinn hefur verið endurnýjaður.  Það er óþolandi, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun skuli enn draga lappirnar, þegar hagkerfi landsins ríður á, að öll framleiðslugetan sé fullnýtt, ef markaðirnir leyfa.  

Þann 25. nóvember 2020 birtist frétt efst og með fyrirsögn þvert yfir forsíðu Morgunblaðsins:

"Þokast í átt að samkomulagi".

Var þar átt við samningaviðræður á milli Rio Tinto/ISAL og Landsvirkjunar um endurskoðun raforkusamnings þeirra.  Lyktir þessara samningaviðræðna hafa dregizt á langinn, og er það ljóður á ráði ríkisfyrirtækisins og ríkisstjórnarinnar að hafa ekki tryggt farsæla lausn á þessu deilumáli í Kófinu, svo að ISAL geti með öflugum hætti lagt hönd á plóg við endurreisn hagkerfisins úr Kófinu í líkingu við hið öfluga fjárfestingarátak eiganda ISAL í kjölfar kerfishrunsins 2008. Ef allt fer á versta veg, mun lokun ISAL hins vegar magna atvinnuleysi og efnahagskreppu.  Það er eðlilegt, að Morgunblaðið láti sér annt um þetta mál, sem varðar þjóðarhag. Fréttin á forsíðunni hófst þannig:

"Nokkur gangur hefur verið í viðræðum milli Landsvirkjunar og Rio Tinto varðandi endurskoðun þess raforkuverðs, sem síðar nefnda fyrirtækið greiðir í tengslum við framleiðslu sína í Straumsvík. Eru vonir bundnar við, að samkomulag um verulega lækkun orkuverðsins náist fyrir áramót, og herma heimildir Morgunblaðsins, að raforkuverðið til verksmiðjunnar kunni að lækka um 30 % í kjölfar endurskoðunarinnar.  Hafa forsvarsmenn Rio Tinto verið skýrir um það, að verksmiðjunni verði lokað, ef raforkusamningurinn verður ekki endurskoðaður hið fyrsta." 

Það er einkennilegt og gæti borið vitni um forystuleysi, sem oft leiðir til eitraðs andrúmslofts, að ekki skuli hafa verið gefin út opinber yfirlýsing um það, sem hér er á seyði.  Það er búið að draga stjórn og forstjóra Landsvirkjunar "að samningaborðinu" (fjarfundir, bréf og skeyti), því að framtíð Straumsvíkurverksmiðjunnar, örlög Hafnarfjarðar og afkoma fjölda fólks innan og utan verksmiðjulóðarinnar, er í húfi.  Efnahagsleg endurreisn eftir Kófið verður miklu torsóttari án öflugrar viðspyrnu alls iðnaðarins. 

Á sama tíma og þessu vindur fram, undirbýr flutningsfyrirtækið Landsnet hækkun á gjaldskrá, sem er þegar of há m.v. raunverulegar þarfir fyrirtækisins.  Þórður Gunnarsson gerði ágæta grein fyrir þessu í Markaði Fréttablaðsins 25. nóvember 2020.  Grein hans hófst þannig:

"Landsnet hefur tilkynnt stórnotendum flutningskerfis raforku á Íslandi, að f.o.m. janúar n.k. muni gjaldskrá fyrirtækisins hækka um 5,5 %.  Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, segir, að ráðgert sé að leggja fram breytingar á raforkulögum á komandi vorþingi, þar sem byggt verður á yfirstandandi greiningarvinnu [Deloitte], sem snýr að tekjumörkum Landsnets."

Eins og fyrri daginn er þessi ráðherra á seinni skipunum með sín mál.  Hún er það, sem Englendingar kalla "reactive", en manneskja í hennar stöðu þarf að vera "proactive".  Hún hlýtur að hafa vitað fyrir löngu, ef hún hefur ekki verið steinsofandi á vaktinni, að hjá Landsneti er borð fyrir báru, og það hefði getað liðkað fyrir samningum í Straumsvík og á Grundartanga að lækka flutningsgjaldið.  

Það var vel til fundið hjá Þórði að leita í smíðju hjá SI:

"Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins [SI], segir algerlega óskiljanlegt, að Landsnet ætli að hækka gjaldskrá sína í janúar.  "Hækkunin leggst á öll heimili og fyrirtæki landsins, langt umfram almenna hækkun verðlags á Íslandi, og tímasetningin er með ólíkindum.  Í fyrsta lagi vegna þess, sem sýnt hefur verið fram á, að arðsemi fyrirtækisins er langt umfram það, sem ætla má hjá fyrirtæki með lögbundnum tekjumörkum.  Í öðru lagi vegna þess, að nýútkomin skýrsla Fraunhofer um íslenzka raforkumarkaðinn sýndi með óyggjandi hætti, að flutningskostnaður raforku á Íslandi er allt of hár. Í þriðja lagi vegna þess, að iðnaðarráðherra hefur nýlega óskað eftir úttekt á fyrirkomulagi flutnings raforku á Íslandi m.t.t. kostnaðar notenda, sem er nú þegar mjög íþyngjandi.  Ástæða þess er, að allir eru sammála um, að vandinn sé raunverulegur, en ekki er vitað, hvar hann liggur nákvæmlega.  Það þarf að greina til hlítar og gera viðeigandi ráðstafanir.""

 Búðarhálsvirkjun úr lofti 10072012

   


Aukið rekstraröryggi laxeldis í sjókvíum

Það er leitun að jafnefnilegri útflutningsgrein á Íslandi um þessar mundir og laxeldi.  Að megninu til er það um allan heim stundað í sjókvíum, en í haust bárust óvænt og ánægjuleg tíðindi af því, að Samherji væri að rannsaka fýsileika þess að kaupa kerskálana í Helguvík á Suðurnesjum af Norðuráli og breyta þeim í fiskeldisskála, líklega aðallega fyrir laxeldi.  Tæknilega virkar það spennandi hugmynd, ef viðskiptahliðin reynist vera arðbær, en kostnaður hefur staðið landeldi fyrir þrifum.  

Laxeldi úti fyrir Íslandsströndum býr við ótrúlega tilfinningaþrunginn og á köflum ofstækisfullan andróður á opinberum vettvangi, sem stundum má jafnvel flokka undir atvinnuróg. Einkennandi fyrir málflutninginn eru dylgjur og órökstuddar fullyrðingar eða jafnvel frásagnir um atburði erlendis, sem almennur lesandi á Íslandi hefur varla tíma til að sannreyna.  Gagnrýnin er aðallega af fernum toga:

1) Að hætta sé á erfðablöndun íslenzkra laxastofna við eldisstofninn, sem er annað afbrigði Norður-Atlantshafslaxins, en norskrar ættar.  Þessi hætta er útbásúnuð, en það er búinn til úlfaldi úr mýflugu, og enn hefur ekki frétzt neitt um, að blendingar íslenzkra stofna og eldislaxins hafi fundizt. Með erfðarannsóknum er þó hægt að ganga úr skugga um þetta.  Þótt eldislax sleppi, þá er ólíklegt, að honum takist að eignast lifandi afkvæmi í íslenzkum ám, og mjög ólíklegt, að slíku fyrirbrigði yrði langra lífdaga auðið. 

2) Að úrgangur frá eldiskerum skaði lífríki eldisfjarða.  Þessar áhyggjur eru óþarfar, eftir að Hafrannsóknarstofnun þróaði þá mótvægisaðgerð gegn þessu að meta burðarþol fjarðanna, þar sem fiskeldi er leyfilegt.  Þar sem náttúrulegri hreinsun er ábótavant, er kveðið á um árshvíld eldissvæða. Hafró fylgist síðan með þessu og getur endurmetið burðarþolið upp eða niður eftir þörfum. 

3) Að laxalús berist úr eldiskvíum í göngulax.  Laxalús er miklu minna vandamál í íslenzkum eldiskvíum en í færeyskum, skozkum eða norskum (nema norðurnorskum) eldiskvíum vegna þess, að hún þrífst illa í svölum sjó.  Gagnráðstafanir við lús án kemískra efna eru í þróun, enda er lúsin skaðræði, þar sem hún nær sér á strik.

4) Að sjónmengun sé af sjókvíum og starfseminni við þær.  Þetta er smekksatriði, sem er ekki hægt að fallast á sem neikvæðan umhverfisþátt við þessa starfsemi, því að kvíarnar og þjónustubúnaður þeirra eru lágreist.  Til að sýna um hversu persónubundin sjónarmið er að ræða, þegar "sjónmengun" ber á góma, má geta þess, að sumir gagnrýnendur sjókvíanna láta sér í léttu rúmi liggja farþegaskipin, sem liggja við í sumum íslenzkum fjörðum, gnæfandi mjög áberandi upp yfir hafflötinn og eru reyndar sum hver án góðra mengunarvarna. Mengun er mikil frá 3000 manna skipum, eins og nærri má geta, nema um borð séu mengunarvarnir á útblæstri og losun úrgangs frá þeim.

Helgi Bjarnason birti fróðlega baksviðsfrétt í Morgunblaðinu 28.11.2020 með fyrirsögninni:

"Laxar raktir til heimakvíar".

Henni lauk þannig:

"Hafrannsóknastofnun vaktar nokkrar ár sérstaklega m.a. með myndavélum, sem hægt er að skoða á netinu.  Margir fylgjast með þessum myndböndum, þannig að starfsmenn Hafró og Fiskistofu fá mikla hjálp við að greina, hvort laxar, sem ganga upp í árnar, eru líklegir eldislaxar.  Enginn slíkur sást á myndböndunum í ár að sögn Ragnars [Jóhannssonar, sviðsstjóra fiskeldis hjá Hafró]. Einnig fær Hafró margar ábendingar um hugsanlega eldislaxa frá veiðimönnum m.a. með ljósmyndum í umræðum í hópum þeirra á samfélagsmiðlum.  Ekki eru því líkur á, að eldislaxar sleppi framhjá þessu eftirliti. 

Frá árinu 2018 hefur Hafró látið greina 76 laxa vegna gruns um, að þeir væru úr eldi.  Reyndust 20 þeirra [26 %] vera eldislaxar, en afgangurinn "Íslendingar".   12 þúsund seiði hafa verið tekin úr laxveiðiám til rannsóknar frá árinu 2017.  Verið er að rannsaka þau m.t.t. þess, hvort þau eru undan eldislöxum eða blendingar eldislaxa og laxa af stofni viðkomandi ár. Unnið er að þessum rannsóknum í samvinnu við norsku náttúrufræðistofnunina og er ekki lokið.  Enn sem komið er hafa ekki fundizt nein dæmi um lax af annarri kynslóð undan eldislaxi í íslenzkum ám." 

Undirstr. BJo.  Á meðan hin undirstrikaða fullyrðing er í gildi, verður að vísa orðræðu um hættu á skaðlegri erfðablöndun íslenzkra laxastofna við eldisstofninn á bug sem hverjum öðrum hugarburði. Eldislaxar sleppa í mun minni mæli upp í árnar nú en áður.  Árið 2018 var staðfest, að 12 eldislaxar hefðu verið veiddir í íslenzkum laxveiðiám, árið 2019 voru þeir 6 og árið 2020 2.  Bættur tæknilegur rekstur og traustari búnaður eldisfyrirtækjanna á hér hlut að máli.  Það er mikilvægt að muna, að þótt eldislax sleppi upp í á, er engan veginn hægt að álykta, að þar með hljóti erfðablöndun hans við villtan lax að eiga sér stað. 

Fiskeldi hefur hleypt alveg nýju blóði í þær byggðir, þar sem það er stundað.  Húsnæðisverð hefur náð húsnæðiskostnaði, skólar og félagslíf hafa gengið í endurnýjun lífdaganna.  Íbúarnir geta með gildum rökum krafizt sómasamlegra innviða á sviði samgangna og raforku, enda er fiskeldið búið að ná þjóðhagslegri stærð, sem munar verulega um í þjóðarbúskapinum.  Til marks um þetta hafði Baldur Arnarson eftirfarandi eftir Jóni Bjarka Bentssyni, aðalhagfræðingi Íslandsbanka, í Morgunblaðinu 2. desember 2020:

""Það er í raun með nokkrum ólíkindum í ljósi þess, hvað höggið á útflutningstekjurnar er mikið, að ekki skuli vera meiri halli á utanríkisviðskiptunum", segir Jón Bjarki.

Uppgangur í fiskeldi eigi þar hlut að máli.  "Fiskeldið hefur bjargað heildartekjum sjávarútvegsins.  Þróunin hefur verið mótdræg í sumum sjávarafurðum og verðið gefið eftir, en aðrar hafa haldið sér í verði.  Selt magn dróst saman, en nú eru markaðir með sjávarafurðir að jafna sig aftur.  Það ásamt veikari krónu vegur upp verðlækkun í sumum afurðum", segir Jón Bjarki.

Niðurstaðan sé, að útflutningsverðmæti sjávarafurða sé nánast jafnmikið fyrstu 9 mánuði ársins og [á] sama tímabil[i] í fyrra."

 

 

 


Skaðleg verðlagning ríkisfyrirtækis

Seðlabankinn spáir nú meiri samdrætti íslenzka hagkerfisins árið 2020 en hann gerði í sumar, þ.e. -8,5 %.  Þetta er meira en áður á lýðveldistímanum, og verður að leita heila öld aftur í tímann til að finna dýpri kreppu.  Jafnframt spáir hann minni viðsnúningi, þ.e. hagvexti, árið 2021 en áður, aðallega vegna færri erlendra ferðamanna en hann gerði áður ráð fyrir. Fjöldi þeirra er reyndar algerlega undir hælinn lagður , á meðan stjórnvöld ekki boða afnám skilyrðislausrar sóttkvíar fyrir innkomandi erlenda ferðamenn.

Af þessum sökum lækkaði bankinn stýrivexti sína úr 1,00 % í 0,75 %.  Á sama tíma eru stýrivextir sums staðar í Evrópu undir 0, sem þýðir að bankar þurfa að greiða fyrir að geyma fé hjá viðkomandi seðlabanka, a.m.k. á pappírnum. 

Á Íslandi ganga meira en 20 þúsund manns atvinnulaus síðla árs 2020 og fer fjölgandi. Sóttvarnaraðgerðir á landamærum gætu verið valdar að fjórðungi þessa atvinnuleysis og 80 % fækkun ferðamanna, sem voru fáir fyrir.  Er hægt að rökstyðja þessa afdrifaríku aðgerð á landamærunum með sóttvarnarlegum rökum, sem yfirgnæfi neikvæðar heilsufarslegar afleiðingar af tvöfaldri PCR-skimun með 5 daga sóttkví á milli.  Nei, það er ekki hægt með réttu, og fram á það verður sýnt í öðrum pistli.

Við þessar aðstæður ber ríkisvaldinu að beita öllum ráðum til að örva atvinnulífið, sem er lamað í Kófinu af stjórnvaldsaðgerðum hérlendis og erlendis.  Eitt af því, sem örvar framleiðslu landsmanna, sem öll er rafknúin að meira eða minna leyti, er að lækka raforkuverð.  Ríkið á markaðsríkjandi fyrirtæki á sviði raforkuvinnslu og -sölu, Landsvirkjun, og þar er borð fyrir báru til lækkunar álagningar á orku og afl. Markaðsaðstæður eru þar nú þannig, að offramboð er á orku og afli og hæfileg lækkun raforkuverðs mundi tafarlaust setja af stað framleiðsluaukningu og nýjar fjárfestingar. Fjármála- og efnahagsráðherra getur skapað grundvöll fyrir þessum aðgerðum með því að lækka ávöxtunarkröfu Landsvirkjunar úr 7,5 %.  Er hann búinn að því ?

Skýrsla Fraunhofer Institut fyrir iðnaðarráðherra um samkeppnishæfni raforkuverðs til íslenzkrar stóriðju er vönduð, en nær ekki nógu langt, þ.e. ekki til einstakra félaga vegna leyndar og aðeins til 2019, en árið 2020 hefur snarazt á merinni hérlendis. Þá er of þröngt sjónarmið bera einvörðungu raforkuverðin saman, eins og aðrir samkeppnisþættir skipti ekki máli. Þannig kveður Fraunhofer meðalraforkuverð til stóriðju á Íslandi hafa verið samkeppnishæft árið 2019, en sá er gallinn á gjöf Nkarðar, að þetta meðaltal stendur engum til boða.  Fyrirtæki, sem búa við raforkuverð ofan meðaltalsins, t.d. Elkem Ísland og ISAL, eru að krebera. Álverðið hefur þó hækkað um 30 % frá lágstöðu Kófsins og er að verða viðunandi, þannig að Kínverjar virðast ekki vera enn farnir að hella áli inn á vestræna markaði í sama mæli og fyrir Kóf. Því má bæta við sem skýringu, að í október 2020 lagði Evrópusambandið (ESB) 40 % toll á vissar gerðir áls frá Kína á grundvelli veikrar samkeppnisstöðu evrópskrar álframleiðslu vegna miklu kostnaðarsamari mengunarkrafna stjórnvalda á Innri markaði ESB til álvera þar en kínversk álver þurfa að búa við.  

Þórður Gunnarsson gerði orkuverðsmálum góð skil í Markaði Fréttablaðsins 18. nóvember 2020 undir fyrirsögninni:

"Mun lægra verð býðst í Noregi":

"Sökum þessara markaðsaðstæðna er nú þegar hægt að gera 5 ára orkusölusamninga í Noregi á verði undir 30 USD/MWh að flutningskostnaði meðtöldum.  Þetta er mat Helge Haugland, sem er orkumiðlari hjá norska fyrirtækinu Energi Salg Norge AS, sem hefur milligöngu um kaup og sölu [á] um 30 TWh/ár, sem er u.þ.b. tvöfalt meira en öll framleiðsla Landsvirkjunar [og rúmlega fimmtungur af raforkuvinnslu Noregs - innsk. BJo]. 

Samkvæmt Helge Haugland standa kaupendum nú til boða viðskipti með raforku samkvæmt samningi til 2-5 ára fyrir minna en 30 USD/MWh með flutningsgjaldi.  Til að vera samkeppnishæf við þetta verð þarf Landsvirkjun að bjóða rafmagnið, komið til notanda, á um 27 USD/MWh eða á rúmlega 20 USD/MWh frá virkjun (ef flutningsgjaldið er 6 USD/MWh, sem er allt of hátt).  Landsvirkjun hefur kynnt eitthvað, sem hún kallar "kostnaðarverð" og er á bilinu 28-35 USD/MWh, væntanlega háð tæknilegum skilmálum á borð við nýtingartíma toppafls og aflstuðul (cosphi) hjá kaupanda.  Álver býður hagstæðustu tækniskilmála fyrir orkuver á markaðinum, svo að það fengi væntanlega tilboð um 28 USD/MWh frá virkjun Landsvirkjunar.  Þetta er hins vegar 5-7 USD/MWh of hátt m.v. norska verðið.

Hvað gera bændur þá til að búa til verðmæti úr endurnýjanlegum íslenzkum orkulindum, sem forráðamenn Landsvirkjunar hafa lýst yfir, að þeir eigi að hámarka ?  Þeir bregðast eigendunum og stunda sóun með því að nýta ekki virkjaða orku.  Þeir verða þá væntanlega að lækka verðið niður fyrir 23 USD/MWh til að koma orkunni í lóg.  Það telja þeir sig ekki geta gert, af því að ríkissjóður (eigandinn) áskilji sér 7,5 %/ár arðsemi og hún útheimti verðið 28-35 USD/MWh. 

Það, sem ríkið þarf að gera, er að lækka arðsemiskröfuna niður í 4,0 %, sem er fullkomlega eðlilegt við núverandi vaxtastig Seðlabanka Íslands (0,75 %).  4,0 % arðsemi næst við verðið 22 USD/MWh  til álvera, svo að dæmi sé takið.  Með þessu móti fengist svigrúm til að tryggja rekstur álversins í Straumsvík út samningstímann (til 2036) og til að tryggja mrdISK 15 fjárfestingar Norðuráls á Grundartanga og fjölda nýrra starfa þar á framkvæmdatíma og samfara aukinni verðmætasköpun.  Að sitja með hendur í skauti í Kófinu og láta þessi tækifæri hjá líða er brottrekstrarsök.  Svo einfalt er það. 

Síðan var rætt um orkumál á hinum Norðurlöndunum, en þau varða samkeppnisstöðu Íslands miklu:

"Að sama skapi sé mikil framboðsaukning vindorku í pípunum, en framleiðsla vindorku mun aukast um meira en 50 % á Norðurlöndunum fram til ársins 2024 og heildarframleiðsla [vindorkuvera] ná hátt í 100 TWh/ár samkvæmt spá orkugreiningarfyrirtækisins Wattsight."

Þessi þróun orkumála einkennir Evrópu alla og mun móta orkuverðsþróunina í samkeppnislöndum okkar. Ef ný og öruggari gerð kjarnorkuvera kemur fram á sjónarsviðið á næstunni, verður þessi þróun innsigluð, þ.e. tímabil hás orkuverðs er ekki fyrirsjánlegt, heldur ofgnótt orku og síminnkandi hluti hennar með uppruna í jarðefnaeldsneyti.

Að vísu mun eftirspurnin aukast frá því, sem nú er, en hagkerfin verða þó lengi að ná sér eftir Kófið.  Álverðið hefur braggazt mjög og hillir nú undir 2000 USD/t Al.  Þá er stutt í, að spurn eftir meiri orku til álframleiðslu aukist hvarvetna. Laugardaginn 21.11.2020 birtist frétt um, að kísilverksmiðja PCC mundi endurræsa ofna sína með vorinu 2021.  Það er alveg áreiðanlegt, að bæði ál og kísill eiga sér framtíð í "græna hagkerfinu" og framleiðsla þessara efna (málmur og málmleysingi) mun verða ábátasöm, a.m.k. þar sem raforkan er "græn". Að hrekja þessa starfsemi úr landi með okri á orkunni er ábyrgðarhluti og heimskulegt í ljósi þess, að önnur eins atvinnusköpun og verðmætasköpun er ekki í sjónmáli.

"Samtök álframleiðenda á Íslandi sögðu í tilkynningu eftir útkomu [Fraunhofer] skýrslunnar, að "Landsvirkjun hefði gefið út, að fyrirtækið sé bundið "kostnaðarverði", en í því er m.a. tekið tillit til 7,5 % arðsemiskröfu ríkisins.  Það kostnaðarverð sé á bilinu 28-35 USD/MWh og því mun hærra en það meðalorkuverð, sem stuðzt er við í skýrslu Fraunhofer". 

Forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa einnig talað um, að stefnan sé að selja raforku, sem fyrirtækið framleiðir á 30-45 USD/MWh, en sú tala inniheldur ekki flutningskostnað, sem er jafnan 6 USD/MWh."  

Samkvæmt þessu uppáleggur fulltrúi eigendanna, í þessu tilviki fjármála- og efnahagsráðherra, Landsvirkjun að verðleggja sig m.v. 7,5 %/ár arðsemi.  Hér fara ekki saman hljóð og mynd.  Sami ráðherra leggur höfuðáherzlu á viðspyrnu út úr Kófinu, og að við fjárfestum og framleiðum sem mest við megum til að skapa störf og gjaldeyri. Undir það skal taka, en þessi arðsemiskrafa á hendur Landsvirkjun stendur gjörsamlega í vegi fyrir því, að sækja megi fram á þessum vígstöðvum. Þessi ráðherra hefur algerlega í hendi sér að koma hjólunum í gang aftur með hjálp rafmagnsins. Það hefur verið gert áður, annars staðar ("New Deal"). Því verður ekki trúað, að hann láti hjá líða að lagfæra það, sem hér hefur verið bent á, í ljósi þess, að allt þjóðarbúið á nú í vök að verjast vegna sóttvarnaraðgerða.    

"Aðspurður, hvort breyttar horfur á norrænum raforkumarkaði kalli á endurskoðun verðstefnu Landsvirkjunar, segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, svo vera til skemmri tíma, en ekki endilega til lengri tíma. "Til skemmri tíma erum við að koma til móts við viðskiptavini okkar með verðlækkunum og auknum sveigjanleika í samningum."

 Hin mikla umframorka, sem sé í boði á [hinum] Norðurlöndunum, muni dragast saman, enda borgi það sig ekki fyrir nokkurn framleiðanda að selja rafmagn á núverandi stundarverðum (e. spot).  "Fyrir mánuði voru t.d. framvirk raforkuverð um 25 EUR/MWh, en búast má við, að verðin sveiflist áfram.  Ef verðið helzt mjög lágt, er líka líklegt, að lokun kjarnorkuvera í Svíþjóð verði flýtt og þar af leiðandi mun draga úr þessu offramboði.  Tveir stórir sæstrengir frá Noregi til Þýzkalands og Bretlands munu líka fljótlega verða teknir í notkun.  En því er hins vegar ekki að neita, að árin 2020 og 2021 eru mun erfiðari viðfangs en árið 2019; það á við alla markaði, og þar eru Landsvirkjun og viðskiptavinir hennar ekki undanskilin."" 

Þetta er skrýtinn málflutningur og vitnar ekki um djúpstæða þekkingu á eðli orkumarkaða.  Það eru öfugmæli, að Landsvirkjun hafi almennt lækkað verð eða sýnt sveigjanleika í samningum.  Landsvirkjun dró t.d. lappirnar með Kófslækkun á verði rafmagns til ISAL, og forstjórinn hefur sýnt fádæma óbilgirni í nýlegum og fyrri samningaviðræðum við þetta fyrirtæki, Elkem Ísland og Norðurál, eins og nýlegar fréttir sumpart bera með sér.  

Hvers vegna heldur þessi forstjóri, að raforkuframleiðendur á Norðurlöndunum selji raforkuna á lágu verði, ef það borgar sig ekki fyrir þá ?  Enginn þvingar þá, og þeim er í lófa lagið að neita viðskiptum.  Það er auðvitað vegna þess, að breytilegi kostnaðurinn er mjög lágur hjá þeim.  Hvorki vindur né vatn kosta mikið fé. Kjarnorkuverin eru með langtíma samninga, og jaðarkostnaður þeirra er ekki hár, þ.e. hver viðbótar MWh er ódýr í vinnslu.  Á tímum loftslagsbaráttu og koltvíildisskatts mun þess vegna lokun kjarnorkuvera ekki verða flýtt meira en orðið er.

Forstjórinn heldur, að viðbótar sæstrengir muni hækka raforkuverðið í Noregi.  Hvers vegna eru þá núverandi sæstrengir ekki reknir á fullum afköstum ?  Það er vegna skorts á eftirspurn.  Evrópumarkaðurinn er ekki lengur seljendamarkaður, heldur kaupendamarkaður, m.a. vegna mikils framboðs á koltvíildislausri raforku. Umframframboð raforku á hinum Norðurlöndunum 2020-2024 er áætlað tæplega 26 TWh/ár vegna áformaðrar aukningar á orkuvinnslugetu kjarnorkuvera og vindorkuvera. Þetta er rúmlega 6 % af áætlaðri notkun og mun duga til að halda verðinu niðri.  Blautir draumar forstjóra Landsvirkjunar um tímabil hás orkuverðs hafa fyrir löngu orðið sér til skammar. 

Þrátt fyrir að raforkuvinnsla kjarnorkuvera innan ESB hafi minnkað um fimmtung á 10 árum til 2018, er raforkuverð þar lágt um þessar mundir.  Þótt Þjóðverjar ætli að loka öllum sínum eftirstandandi kjarnorkuverum árið 2022, er ekki víst, að framboð kjarnorku í ESB, sem nú annar 28 % raforkuþarfarinnar,  muni minnka, því að ný kjarnorkuver eru í byggingu í þremur landanna, Finnlandi, Frakklandi og Slóvakíu. Þrátt fyrir vaxandi andúð almennings á vindorku í Evrópu vegna umhverfisspjalla á stórum flæmum vex þó hlutdeild vindorkuvera enn á raforkumarkaðinum, enda er vindorkan, sem verið hefur niðurgreidd, að verða samkeppnishæf við t.d. gasorkuver.

Það var nauðsynlegt á síðari helmingi 20. aldarinnar að nýta orkulindir Íslands til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar.  Kófið hefur nú árið 2020 flett ofan af því, að gjaldeyrisöflun og verðmætasköpun landsmanna stendur ekki á nægilega traustum fótum, og þá verða stjórnvöld að bregðast við því með því að stuðla að nýtingu náttúruauðlindanna út í yztu æsar.

  

 

 


Fraunhofer og samkeppnishæf framleiðsla

Það er einkenni stjórnarhátta núverandi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að skipa nefndir eða kaupa skýrslugerð af ráðgjafarfyrirtækjum, iðulega útlendum, þegar komast þarf til botns í málum.  Við þetta setur ráðuneytið nokkuð niður, því að það ætti að vera í stakkinn búið til að leiða slíka vinnu hérlendis og kalla til aðstoðar við sig sérfræðinga eftir þörfum. 13. nóvember 2020 birti ráðuneytið skýrslu, sem var ekki af lakara taginu, enda verktakinn rannsóknarfyrirtækið Fraunhofer Institut í Karlsruhe.  Væri fróðlegt að vita, hvað afurðin, skýrsla um samkeppnishæfni orkukræfs iðnaðar á Íslandi m.t.t. raforkukostnaðar, kostaði íslenzka skattgreiðendur. Mun þessi skýrsla borga sig ?

Í skýrslunni er mikill fróðleikur, en hún er með böggum hildar frá verkkaupanum.  Hún fjallar ekki um heildarsamkeppnishæfni fyrirtækjanna orkukræfu, og hversu hár raforkukostnaður hvers þeirra eða hvers geira má vera, að öðrum liðum óbreyttum m.v. ákveðna tímasetningu, til að fyrirtækin skili lágmarks arðsemi að mati ráðgjafans. Sú arðsemi er við núverandi aðstæður sjálfsagt talsvert lægri en 7,5 %/ár, sem ríkissjóður krefst af Landsvirkjun. Fyrir vikið er óvíst, að skýrslan komi að miklum notum, og fyrstu ummæli iðnaðarráðherra um niðurstöðu skýrslunnar lofa ekki góðu í þeim efnum.

Til að setja stóriðjuna í sögulegt samhengi er nytsamlegt að skoða ritsmíð prófessors Jónasar Elíassonar í Morgunblaðinu 3. júní 2020: 

"Raforkuvinnsla á Íslandi: Aftur á byrjunarreit ?"

"Það, sem öðru fremur skipti sköpum, var sú ákvörðun að selja rafmagnið á rúmu kostnaðarverði gegn tryggum greiðslum í formi kaupskyldu. Þetta losaði Ísland nánast algerlega undan allri áhættu, en takmarkaði gróðann um leið. Í þessu skjóli hafa nánast engin vandamál komið upp, gagnrýnisraddir þagnað, nema hjá einstaka furðufuglum, og eignauppbygging í raforkukerfinu verið ótrúlega hröð. 

Þessi stefna á sér rætur í New Deal stefnu F.D. Roosevelt, forseta BNA. Svo hefur raforkuverðið hækkað með tímanum og endurnýjun samninga. Stóriðjan hefur reynzt ágætur viðskiptavinur og allir fordómar um stórfellda eitrun umhverfis og yfirvofandi fjárhagstap, jafnvel gjaldþrot, löngu dottnir fyrir borð."

Viðreisnarstjórnin og Seðlabankastjóri þess tíma, dr Jóhannes Nordal, stóðu að og framkvæmdu þá stefnumörkun á 7. áratug 20. aldarinnar að semja við erlenda fjárfesta um stórsölu á rafmagni og fjármagna þannig uppbyggingu íslenzka raforkukerfisins til langrar framtíðar.  Þetta tókst vel, en það var erfitt að komast yfir þann háa þröskuld, að Ísland og Íslendingar voru þá óþekkt stærð varðandi afhendingu á raforku.  Íslendingar stóðust prófið, þótt oft reyndist mjög mótdrægt að útvega verksmiðjunum nægt rafmagn í erfiðu tíðarfari, þegar veikir innviðir brustu, t.d. Búrfellslína 1 á hafinu yfir Hvítá.   

Þegar traustið jókst með öflugri innviðum og meiri þekkingu, myndaðist svigrúm til að sækja á um hærra raforkuverð, og það var hækkað á 9. áratuginum. Á 10. áratuginum hækkaði það enn meir, og þá var jafnframt tekin upp verðtenging við nokkra álmarkaði, sem gerði tvennt fyrir íslenzku orkubirgjana.  Hún tryggði þeim lágmarksverð til að standa straum af fjárfestingum sínum í mögrum árum, og hún tryggði þeim hlutdeild í hagnaði álfyrirtækjanna í góðæri.  

Það ríkti góð sátt um þetta fyrirkomulag til 2010, þegar nýir valdhafar komu að Landsvirkjun. Því var ranglega haldið fram, að álverðstenging við raforkuverð skapaði orkubirgjunum of mikla áhættu.  Því var þveröfugt farið.  Hún skóp stöðugleika. Hinir nýju stjórnendur Landsvirkjunar höfðu ekkert umboð til að kollvarpa farsælli stefnu, sem Alþingi hafði mótað og aldrei breytt.  Nú er þessi markaður í uppnámi og gæti lent aftur á byrjunarreit, eins og prófessor Jónas Elíasson getur um. 

"Aðrir [en Kínverjar - innsk. BJo] reyna að þrauka á lágmarksgangi.  Þessi þróun er sýnileg hjá ISAL, sem var í viðkvæmri stöðu fyrir [COVID-19]. Þeir eru með nýjasta raforkusamninginn [svo ?], og samkvæmt honum hefur orkuverð til þeirra hækkað talsvert, en verðmæti framleiðslunnar minnkað.  Þeir íhuga stöðvun, en eiga ekki hægt um vik, því [að] stærsti hlutinn af raforkusamninginum er háður kaupskyldu."

Það hefur hvorki gengið né rekið í samningaviðræðum um endurskoðun raforkusamningsins á milli ISAL og Landsvirkjunar, sem gekk í gildi 2011 með afl- og orkuminnkun árið 2014, af því að Rio Tinto guggnaði á straumleiðaraeflingu í kerskálum 1 & 2, sem gert hefðu kleift að hækka kerstrauminn upp í um 200 kA. Norðurál samdi við Landsvirkjun um Nordpool-viðmiðun 2016, og árið 2019 kvað gerðardómur upp úrskurð um verð í orkusamningi Elkem Ísland og Landsvirkjunar. Nú býður Norðurál Landsvirkjun verðhækkun frá gildandi Nordpool og upp í meðalverð stóriðju, um 26 USD/MWh samkvæmt Fraunhofer, gegn langtímasamningi og álverðstengingu, en Landsvirkjun þursast við.  Samt hangir allt að mrdISK 15 fjárfesting á spýtunni.  Málið er svo alvarlegt, að fjármála- og efnahagsráðherra verður að grípa inn í þessa atburðarás, svo að útkoman verði vitleg.

Landsvirkjun hélt því fram í sumar (2020), að hún hefði lækkað verðið tímabundið til stórnotenda vegna Kófsins.  Það raungerðist ótrúlega seint í Straumsvík, en átti þó ásamt álverðshækkun þátt í viðsnúningi afkomunnar til hins betra í ágúst-október 2020, og vonandi verður seinni árshelmingurinn jákvæður fyrir reksturinn.  Fyrirtækið er í raun óseljanlegt með núverandi raforkusamning í gildi, og segir það alla söguna um, hversu samkeppnishæft raforkuverðið er. Með þessu áframhaldi mun eigandi ISAL segja raforkusamninginum upp við fyrsta tækifæri, sem þýðir líklega endanlega stöðvun 2024 samkvæmt ákvæðum orkusamnings.  Er skynsamlegt af ríkisfyrirtækinu að halda svona á spöðunum gagnvart hinum erlenda fjárfesti ? Vonandi sjá menn að sér fyrr en seinna.

"Stjórn Landsvirkjunar hefur lýst því yfir, að markmið þeirra sé að auka verðmæti auðlindarinnar.  Þetta er illframkvæmanlegt, nema hækka rafmagnið, en sú stefna er þvert á tilganginn með stofnun Landsvirkjunar, sem var að tryggja raforku á sem lægstu verði til almennings og iðnaðar.  Þetta hefur tekizt, þó að ekki hafi verið eins langt gengið og hjá FDR á sínum tíma, sem nánast gaf rafmagnið, en fékk í staðinn skattana af gríðarlegri iðnaðaruppbyggingu, sem reif Ameríku upp úr kreppu þriðja áratugarins á undraverðum hraða."

Nú er Kófskreppa og atvinnulífið þarfnast sárlega innspýtingar.  Þetta skilja stjórnendur á hinum Norðurlöndunum og víða annars staðar. Í Noregi getur stóriðjan nú gert 5 ára samninga upp á 28 USD/MWh með flutningsgjaldi.  Það þýðir, að hér þarf verð frá virkjun að vera um 22 USD/MWh með viðmiðunarálverð LME um 1900 USD/MWh. Íslenzka ríkið verður að vera sjálfu sér samkvæmt um ráðstafanir til viðspyrnu í Kófinu og lækka ávöxtunarkröfu sína til Landsvirkjunar verulega, t.d. um helming. Vextir í Evrópu eru við 0, og almennt raforkuverð hefur hríðlækkað á hinum Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu og víðast hvar annars staðar í ár, og stjórnvöld hafa niðurgreitt langtímasamninga.  Íslenzk stjórnvöld hins vegar hreyfa hvorki legg né lið, e.t.v. af ótta við að brjóta EES-samninginn, en aðrir hafa látið hann lönd og leið í Kófinu. Þetta heitir að vera kaþólskari en páfinn. 

Í lok greinar sinnar dró prófessor Jónas upp sviðsmyndina, sem leiðir af aðgerðarleysi íslenzkra stjórnvalda:

"Eftir situr þjóðin á reit nr 1 með um 20.000 manns án fyrirvinnu [í rústum íslenzks áliðnaðar - innsk. BJo].  Auðvitað er þetta helstefna.  Það þarf að reyna að koma eitthvað til móts við þennan iðnað, sem er búinn að þjóna landinu vel í 50 ár, gera einhverja marktæka tilraun til þess a.m.k. Núverandi ríkisstjórn er búin að taka fyrir það að leggja sæstreng til Evrópu, enda er raforkumarkaðurinn í Evrópu algerlega glataður fyrir Íslendinga, strengurinn alltof langur  og dýr og reglur uppboðsmarkaðar ESB, sem búið er að skylda okkur inn á (Nordpool), fjárhagslegt fen. 

Að sigla hingað með hráefni og vinna fyrir erlendan markað með umhverfisvænni náttúruorku er það, sem stefna ber að. Hér eftir sem hingað til.  Ef á að henda þeirri stefnu fyrir borð, verður að spyrja: hvað veldur ?" 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, skrifaði pistil í Morgunblaðið 15.11.2020.  Það, sem þar kemur fram, bendir ekki til, að ný skýrsla Fraunhofer Institut að hennar beiðni hafi opnað augu hennar fyrir því, að raforkuverð á Íslandi er ósamkeppnishæft um þessar mundir og fyrirsjáanlega á næstu árum.  Að tala um, að meðaltalið sé samkeppnishæft, er orðhengilsháttur og engum til góðs, því að þetta meðalverð, um 26 USD/MWh, stendur engum kaupanda til boða.  Hvers vegna brettir ráðherrann ekki upp ermarnar og fer að moka flórinn ?  Hún ætti að hefjast handa í Landsvirkjunarfjósinu.  

Nú verður vitnað í téðan pistil ráðherrans:

 

 

"Samkeppnishæfni Íslands snýst um bætt lífskjör":

"Meginniðurstaða úttektarinnar [Fraunhofer] er, að raforkukostnaður stóriðju á Íslandi skerðir almennt ekki samkeppnishæfni hennar gagnvart samanburðarlöndunum, sem voru Noregur, Kanada (Quebec) og Þýzkaland.  Fyrri löndin tvö eru stærstu álframleiðendur Vesturlanda og því ljóst, að við samanburðinn var ekki ráðizt á garðinn, þar sem hann er lægstur."

Um þennan texta má segja, að þeir, sem ekki kunna að lesa skýrslur, ættu ekki að kaupa þær fyrir skattfé. Hvers vegna er gjörsamlega marklaust að draga þá ályktun af meðalorkuverði til stóriðju á Íslandi, að það sé samkeppnishæft ?  Það er  vegna þess, að það stendur engum til boða.  Hvers vegna gerir verkkaupinn, ráðherrann, það þá að aðalályktun sinni út frá þessari Fraunhofer-skýrslu, að Ísland sé samkeppnishæft á þessu sviði ?  Önnur skýring en sú að afsaka aðgerðaleysi iðnaðarráðherra á meðan Róm brennur er ekki í sjónmáli. Þurfum við á svona fulltrúum að halda á Alþingi ?  

Það hefur komið opinberlega fram hjá forstjóra Norðuráls, að fyrirtæki hans vill ráðast í allt að mrdISK 15 fjárfestingar í steypuskála sínum til að auka verðmæti framleiðslu sinnar með stangasteypu, en þarf til þess traustan raforkusamning a.m.k. til 15 ára og orkuverð í nánd við núverandi meðalverð Landsvirkjunar til orkukræfs iðnaðar.  Opinberar undirtektir Landsvirkjunar hafa ekki verið uppörvandi, og skýtur það skökku við orðagjálfur ráðherranna um nauðsyn nýsköpunar og nýrra fjárfestinga til að skapa efnahagslega viðspyrnu í Kófinu. Hér er ekki um umtalsvert aukna orkuþörf að ræða, og raforkuverð til fyrirtækisins mundi hækka verulega frá núverandi "Nordpool" verði, ef af slíkum samningum yrði.  Í þessu ljósi er aðgerðarleysi ráðherranna gagnvart ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun algerlega óboðlegt. Það sjá menn, hvar í flokki sem þeir standa. 

"Engum dettur í hug að gera lítið úr þeim áskorunum, sem stóriðja á Vesturlöndum stendur frammi fyrir vegna aðstæðna á heimamörkuðum og samkeppni frá öðrum heimshlutum.  Við ættum ekki eingöngu að hafa áhyggjur af þeirri stöðu út frá efnahagslegu sjónarhorni, heldur líka umhverfislegu.  Ef stóriðja hér á landi flyttist til annarra landa og yrði þar knúin jarðefnaeldsneyti, yrði það skelfilegt bakslag fyrir baráttuna við loftslagsbreytingar; öll viðleitni okkar í orkuskiptum myndi blikna í samanburði við slíka þróun."

Þetta er einkennilegur útúrdúr í ljósi grafalvarlegrar stöðu atvinnu- og efnahagsmála hérlendis.  Ef t.d. starfsemi allra álveranna flyttist utan, þangað sem jarðgas knýr raforkuvinnsluna, mundi heimslosun koltvíildis aukast um u.þ.b. 10 Mt/ár, sem er um tvöföld heildarlosun frá starfsemi á Íslandi (án flugs).  Það er um 0,03 % af heildarlosun frá starfsemi á jörðunni. Að kalla það "skelfilegt bakslag fyrir baráttuna við loftslagsbreytingar" er anzi djúpt í árinni tekið og má telja til "upplýsingaóreiðu" eða "fake news". 

Uppbyggilegra en þetta þvaður úr ráðuneytinu var viðtal við Gunnar Guðlaugsson, forstjóra Norðuráls, o.fl. í Fréttablaðinu 14. nóvember 2020:

"Telja að úttekt gefi ranga mynd af stöðu raforkumarkaðar innanlands". 

"Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls, segir, að meðalverð til stóriðju, eins og það kemur fram í uppgjörum Landsvirkjunar, sé vissulega samkeppnishæft, og að skýrsla Fraunhofer staðfesti það:

"Hins vegar hefur ítrekað komið fram í skrifum forsvarsmanna Landsvirkjunar, að það verð er einfaldlega ekki í boði lengur við endurnýjun samninga; nú síðast hjá upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar í fjölmiðlum fyrir helgi.  Með þeirri verðstefnu er augljóst, að samkeppnishæfni íslenzkrar stóriðju til framtíðar er ógnað", segir Gunnar."

Þetta er rétt mat á stöðu orkumarkaðarins núna, og Fraunhofer-skýrslan var óþörf til að komast að þeirri niðurstöðu.  Endalausar skýrslupantanir iðnaðarráðherra eru tafaleikir og skálkaskjól fyrir úrræðalítinn ráðherra.  Þessi skortur á samkeppnishæfni Íslands er hins vegar óþarfur tilbúningur og afleiðing okurstefnu fáokunarfyrirtækisins Landsvirkjunar, sem er að rústa íslenzkum iðnaði og getur leitt til eyðileggingar Landsvirkjunar sjálfrar.

"Bjarni Már Gylfason, samskiptafulltrúi ISAL í Straumsvík, segir, að fyrirtækið muni ekki tjá sig um einstök atriði í skýrslu Fraunhofer.  "En almennt getum við sagt, að hún endurspeglar ekki þann veruleika, sem ISAL býr við.  Það er gott, að stjórnvöld beini sjónum að orkuverði, sem er lykilþáttur í samkeppnishæfni áliðnaðar.  ISAL og áliðnaðurinn á Íslandi vegur þungt í efnahagslífi þjóðarinnar, og það er mikilvægt, að ISAL geti orðið fjárhagslega sjálfbært og samkeppnishæft", segir Bjarni."

Verðið til ISAL um þessar mundir er um 40 % hærra en meðalverðið, sem Fraunhofar kveður samkeppnishæft.  Ofan á þetta bætist svo flutningsgjald til Landsnets.  Ef raforkuverð í Noregi lækkaði um allt að 67 % árið 2020 í Noregi, eins og Fraunhofer skrifar, er það um þessar mundir um 15 USD/MWh, sem er rúmlega 40 % af raforkuverðinu til ISAL án flutningsgjalds.  Það er óskiljanlegt, að íslenzk stjórnvöld skuli ekki grípa í taumana hér. 

Hér verður svo að taka með í reikninginn, að vegna lengri flutningaleiða verður stóriðja á Íslandi ekki samkeppnishæf við stóriðju í Noregi, nema raforkuverðið sé hér lægra.  Í fljótu bragði verður ekki séð, að Fraunhofer-skýrslan skipti sér af því, enda virðist ráðuneytið (verkkaupinn) ekki hafa ætlazt til, að öll sagan væri sögð.

Ekki tekur betra við, þegar kemur að gagnaverunum, enda hefur starfsemi þeirra á Íslandi dregizt saman vegna okurs á raforkumarkaði:

""Það er ákveðið áhyggjuefni, að ráðuneytið skuli í tilkynningu sinni draga þá ályktun, að raforkuverð til gagnavera á Íslandi sé samkeppnishæft við t.d. Noreg, þegar það er hreinlega tekið fram í skýrslunni, að raforkuverð í Noregi sé töluvert lægra en á Íslandi, eins og allir þeir vita, sem eru að skoða raforkuverð á þessum tveimur mörkuðum", segir Jóhann Þór Jónsson, formaður stjórnar gagnavera á Íslandi.  Jóhann nefnir einnig, að heimildavinnu skýrslunnar sé oft og tíðum ábótavant. Á einum stað í skýrslunni sé þannig talað um langtíma raforkuverð til norskra gagnavera í Noregi, en eina heimildin, sem þar er stuðzt við, er blaðagrein frá 2013.  "Stærsta áhyggjuefnið er hins vegar sú staðreynd, að orkunotkun íslenzkra gagnavera hefur dregizt saman um næstum því helming síðan 2018 og aðrir stórnotendur á landinu virðast stefna í svipaða átt. Það er ekki að gerast vegna þess, að raforkuverð er svo samkeppnishæft", segir Jóhann."

Þrátt fyrir fagurgala iðnaðarráðherra og forstjóra Landsvirkjunar verður ekki hjá því komizt að lýsa íslenzkum raforkumarkaði sem sviðinni jörð um þessar mundir.  Það versta er, að hvorki ráðuneytisfólk né stjórn Landsvirkjunar virðast átta sig á hættunni, sem við blasir, heldur telja við hæfi að fremja hundakúnstir og barbabrellur til að slá ryki í augu almennings. Það verður skammgóður vermir.

 ipu_dec_5-2011

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Fyrirmyndar fiskeldi

Þann 12. nóvember 2020 birtist stutt frétt í Morgunblaðinu, sem gefur til kynna, að laxeldi við Íslandsstrendur beinist nú í ríkari mæli en áður að framleiðslu hágæðavöru í hæsta verðflokki.  Þetta voru mjög ánægjuleg tíðindi.

Fyrirsögn fréttarinnar var:

"Fá lífræna vottun á lax".

Hún hófst þannig:

"Fiskeldi Austfjarða hefur fengið lífræna vottun samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins.  Tryggir þetta fyrirtækinu eftirsóttan markað fyrir hágæða laxaafurðir í Evrópu. 

 

Aðeins 4 önnur fyrirtæki í heiminum standast þessa vottun, enda gilda um hana afar ströng skilyrði að sögn Jónatans Þórðarsonar, þróunarstjóra Fiskeldis Austfjarða.  Þannig má ekki nota lyf eða önnur efni og aðeins hágæða fóður og aðrar vistvænar aðferðir við eldi laxins.  Sem dæmi má nefna, að litarefni fóðursins er framleitt úr brúnþörungum, og er það jafnframt afar öflugt andoxunarefni úr náttúrunni.  Raunar eru öll hráefni í fóðrið lífrænt vottuð.  Jónatan segir, að vissulega sé meiru til kostað en í hefðbundnu sjókvíaeldi, en á móti fáist mun hærra verð fyrir afurðirnar." 

Rík ástæða er til að óska starfsfólki Fiskeldis Austfjarða til hamingju með þessa verðmætu vottun á gæðastjórnunarkerfi fyrirtækisins.  Hún fæst aðeins með gæðameðvituðu hugarfari starfsmanna, ekki sízt stjórnendanna.  Hún útheimtir í aðdragandanum að velta við hverjum steini í rekstri og stefnu fyrirtækisins ásamt skjalfestingu allra ferla fyrirtækisins.  Nú tekur við nýtt tímabil agaðra vinnubragða til að viðhalda þessari gæðavottun, sem vottunarfyrirtækið mun reglubundið rýna. 

Það er markaðurinn, sem knýr fram þessa þróun gæðastjórnunar.  Fiskeldi Austfjarða hefur selt vörur sínar m.a. til heilsuvörukeðjunnar Whole Foods í Bandaríkjunum.  Þar er greitt fyrir skjalfest gæði.  Þessi nýfengna vottun opnar nýjar dyr, þ.e. að hæst greiðandi hluta Evrópumarkaðarins. Í lok fréttarinnar er greint frá því, hvaða hluta starfseminnar þessi vottun spannar:

"Vottunin nær til sjókvíaeldis Fiskeldis Austfjarða í Berufirði og Fáskrúðsfirði og seiðastöðvarinnar Rifóss í Kelduhverfi."

Hagsmunaaðilar á borð við Félag veiðiréttarhafa virðast telja hagsmunum sínum ógnað af sjókvíaeldi þess afbrigðis Norður-Atlantshafslaxins, sem stundað er við Ísland.  Ekki verður betur séð en málflutningurinn einkennist af tröllasögum um sjúkdóma, mengun fjarðanna og dreifingu laxalúsar í villta stofna, og síðast en ekki sízt er skrattinn málaður á vegginn, þegar kemur að erfðabreytingum af völdum sleppilaxa úr kvíunum.  Þetta eru mest ímyndanir og dylgjur án vísunar til staðreynda úr íslenzku umhverfi.  Oft fellur þetta undir "ólyginn sagði mér", að svona væri þetta í útlöndum.  Það eru nánast engar líkur á, að sleppilax úr þessum eldiskvíum geti breytt erfðamengi villtu íslenzku laxastofnanna varanlega.  Til þess þarf stórar sleppingar, meira en 15 % af árstofninum, að ná að eignast lifandi afkvæmi með íslenzkum löxum í mörg ár í röð.  Slíkt gerist einfaldlega ekki með því verklagi, sem nú er viðhaft, og þeim búnaði og eftirliti, sem nú tíðkast við sjókvíaeldi í íslenzkum fjörðum.  Hælbítar þessarar efnilegu atvinnugreinar á Íslandi hafa ástæðu til að hafa meiri áhyggjur af öðru, er varðar laxveiðar í íslenzkum ám, en sjókvíaeldinu.

Teitur Björn Einarsson, lögmaður og 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norð-Vesturkjördæmi, birti athyglisverða lögfræðilega greiningu á því í Morgunblaðinu 11. nóvember 2020, hvaða skilyrði verða að vera fyrir hendi, til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti tekið lögmæta ákvörðun um að loka svæði fyrir fiskeldi, en umræða hefur spunnizt um lokun Eyjafjarðar, Jökulfjarða og sunnanverðs Norðfjarðarflóa fyrir laxeldi.  Framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga, Elías Blöndal Guðjónsson, gagnrýndi fyrstu grein Teits á síðum Morgunblaðsins um þetta efni 7. nóvember 2020.  Önnur grein Teits Björns bar fyrirsögnina:

"Um valdheimildir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra".

 

 Nú verður vitnað til þessarar vönduðu greinar:

"Málið, sem hér um ræðir, er nokkuð sértækt, en aðalatriðin snúa að því, hvaða valdheimildir ráðherra hefur til að takmarka eða stöðva lögbundna atvinnustarfsemi og mikilvægi vísinda í allri ákvarðanatöku."  

Teitur Björn boðar, að í stað duttlunga, tilfinninga og annarra ómálefnalegra kennda skuli ráðherra reisa ákvarðanir sínar um leyfilega staðsetningu fiskeldis í sjó á vísindalegum rannsóknum og ályktunum, sem leiða má beint af þeim. Þetta þýðir t.d., að auglýsing ráðherra frá 2004 um leyfileg eldissvæði í sjó við Ísland víkur fyrir nýjum fiskeldislögum og ákvörðunum ráðherra um leyfileg eldissvæði, sem á þeim eru reist. 

"Matskenndar stjórnvaldsákvarðanir og stjórnvaldsfyrirmæli verða samkvæmt lögmætisreglunni að eiga sér næga lagastoð og vera byggð á málefnalegum sjónarmiðum; ella telst ákvörðunin ólögmæt. Að baki sérhverri ákvörðun verða að búa málefnaleg sjónarmið.  Ákvarðanir, sem byggjast á geðþótta, óvild eða öðrum persónulegum sjónarmiðum, eru ólögmætar." 

Bæjarstjórn Akureyrar er stjórnvald.  Engan veginn verður séð, að samþykkt hennar um að beina því til ráðherra að banna laxeldi í Eyjafirði, sé reist á öðru en geðþótta og óvild í garð þessarar atvinnustarfsemi. Margir virðast því miður haldnir sömu kenndum, og það verður lítið við því gert, en stjórnvöld hafa ekki leyfi til að haga sér þannig og alls ekki, þegar um lögmæta starfsemi er að ræða, mikla hagsmuni margra og atvinnufrelsi, sem varið er af Stjórnarskrá.   

"Niðurstaðan er því sú, að leggja verður til grundvallar matskenndri ákvörðun ráðherra þá málefnalegu og lögbundnu aðferðafræði fiskeldislaga, sem felst í burðarþolsmati og áhættumati erfðablöndunar, til að ákvarða, hvort fiskeldisstarfsemi hafi neikvæð áhrif á umhverfið eða lífríki á ákveðnu svæði stafi hætta af starfseminni."

Í raun ætti að leggja þessa aðferðarfræði til grundvallar ákvörðun um nýtingu allra náttúruauðlinda á og við landið, sem ekki eru í einkaeign.  Þetta hefur um árabil verið hornsteinn fiskveiðistjórnunarinnar, og það þarf að festa þetta sjónarmið enn betur í sessi, væntanlega með lagasetningu, um orkunýtingu, flutning orku og vegagerð, svo að sérhagsmunir, sérvizka, geðþótti eða óvild fái ekki dregið nauðsynlegar framkvæmdir í almannaþágu von úr viti eða jafnvel alfarið komið í veg fyrir þær.  Ný verðmætasköpun og atvinnusköpun varðar þjóðarhag, og almenn lífskjör í landinu varða almannahag. 

"Meginregla stjórnsýsluréttar um rannsóknarskyldu, sbr 10. gr. stjórnsýslulaga, sem kveður á um, að stjórnvald skuli sjá til þess, að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, rennir frekari stoðum undir þá niðurstöðu, að ráðherra beri að afla allra gagna og horfa til lögbundinna rannsókna um burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar áður en mat er lagt á, hvort tiltekin svæði teljast sérlega viðkvæm fyrir starfsemi fiskeldis.  Meginreglan um meðalhóf kemur hér einnig til álita."

 

 


Blekkingartilburðir um Borgarlínu

Flestir þeir, sem leið eiga um umferðaræðar höfuðborgarsvæðisins á virkum dögum á hefðbundnum ferðatíma í og úr vinnu, telja umferðarmannvirkin óviðunandi, því að þau anna engan veginn toppálaginu. Það er sennilega ekki samfélagslega arðbært að fjárfesta svo mikið í innviðum umferðarinnar, að hún geti gengið jafngreiðlega allan sólarhringinn allan ársins hring, en árlegur tafakostnaður nú, yfir mrdISK 40, gæti verið orðinn tífaldur á við það, sem hagfræðilega er verjanlegt. Hið sorglega í málinu er, að þessi mikli viðbótar kostnaður við að búa á höfuðborgarsvæðinu er ekki óhjákvæmileg söguleg þróun þéttbýlis og almennrar bíleignar, heldur hreinræktað sjálfskaparvíti og bein afleiðing stefnumörkunar Reykjavíkurborgar um fjölgun ferða gangandi, hjólandi og með almenningsvögnum á kostnað ferða með einkabílum.  A.m.k. 80 % allra ferða um götur og stíga höfuðborgarsvæðisins á milli húsa er með einkabílum eða atvinnubílum (ekki almenningsvögnum).

 Þann 29. október 2020 birtist í Morgunblaðinu snörp úttekt Ragnars Árnasonar, prófessors emeritus í Hagfræði við HÍ, þar sem hann kippti stoðunum undan félagshagfræðilegri greiningu COWI og Mannvits á Borgarlínu, sem gerð mun hafa verið fyrir "Verkefnastjórn Borgarlínu". Hún mun væntanlega falla inn í nýstofnað félag ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um umbætur á samgöngum höfuðborgarsvæðisins.

Daginn eftir birtist furðusamtíningur tveggja trúboða Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur um blessun Borgarlínu, þar sem vitnað var til COWI/Mannvitsskýrslunnar sem heilags sannleika um þjóðhagslega arðsemi þessa samfélagsverkefnis.  Þann 6. nóvember 2020 gerðu síðan höfundar fagnaðarerindisins grein fyrir sinni hlið málsins.  Þær telja sig hafa farið eftir stöðlum og forskrift Evrópusambandsins (ESB) við gerð skýrslunnar.  Ekki skal hér og nú brigður á það bera, en blekkingin mikla felst í því, að það er beitt ólíkri aðferðarfræði hérlendis og í Danmörku (líkanið er danskt) við slíka útreikninga.  Félagshagfræðileg greining hefur nánast ekkert gildi, nema til að bera saman arðsemi opinberra verkefna í því skyni að forgangsraða verkefnum, þar sem fjármunir eru jafnan af skornum skammti, og stjórnmálamönnum ber skylda til að beita beztu fáanlegu hlutlægu aðferðum við forgangsröðun sambærilegra verkefna á framkvæmdastig innan sama svæðis. 

Grein sína hóf Ragnar þannig:

"Umferðartafir hafa farið mjög vaxandi á höfuðborgarsvæðinu allmörg undanfarin ár.  Nú er svo komið, að talsverður hluti vegfarenda situr meira og minna fastur í umferðinni á helztu álagstímum að morgni og síðdegis.  Fárra km ferðir, sem m.v. hæfileg umferðarmannvirki ættu að taka innan við 10 mín taka oft tvöfalt lengri tíma eða meira."

Þetta er kjarni vandans, sem við er að etja.  Ástæðan er fjölgun ökutækja af öllu tagi á götunum án nokkurra viðhlítandi fjárfestinga í viðeigandi umbótum á samgönguleiðunum undanfarinn rúman áratug.  Þvert á móti hafa borgaryfirvöld fjandskapazt í verki við akandi vegfarendur með þrengingum gatna, ljósastýrðum göngubrautum yfir umferðaræðar, hjárænulegum umferðarljósastýringum og sérreinum strætisvagna, sem nýtast mundu miklu betur, ef þar mættu fleiri aka.  

Ástæðan, sem tilfærð er fyrir þessum hjárænuskap borgaryfirvalda, er, að íbúarnir eigi að leggja einkabílnum sínum, en nýta hans í stað hina miklu "afkastameiri" almenningsvagna og draga um leið úr mengun andrúmsloftsins.

Eru almenningsvagnarnir "afkastameiri" en einkabílarnir ?  Ef afköstin eru mæld í ferðakm/klst, yfirleitt frá einu húsi til annars, þá kemur vafalítið í ljós, að fyrir þorra fólks eru ferðaafköst með einkabílum meiri en fólks í almenningsvögnum, a.m.k. við eðlilegar aðstæður, þegar tafir eru ekki óeðlilegar vegna umferðar. Það er vegna þess, að biðtími er enginn eftir einkabílnum, nema þegar þarf að skafa og hreinsa af honum snjó, og hann kemst yfirleitt mun nær ákvörðunarstað en almenningsvagninn, svo að ekki sé minnzt á Borgarlínuna.  Þegar fólk er klyfjað af pinklum eða innkaupapokum, hafa þessi atriði mikil áhrif á val fólks á samgöngutækjum.  Allir vita, að rándýrt er að eiga bíl, og það er ekki að ástæðulausu, að fólk fer út í slík kaup, þótt almenningsvagnar séu í boði. Almenningur hefur val og hefur þegar valið fyrir sig. Gríðarfjárfesting í langvögnum í tíðum ferðum á sérreinum breytir litlu um helztu áhrifaþætti við ákvörðun fólks í þessum efnum.   

Mun Borgarlínan draga úr mengun andrúmsloftsins ? Núverandi "strætó" mengar gríðarlega.  Það er vegna þess, að flestir vagnarnir eru dísilknúnir, og þeir eru gríðarlega þungir.  Vegslitið fylgir öxulþunga í 4. veldi. Þótt Borgarlína verði rafknúin með rafgeymum eða vetnisrafölum, er ekki sjálfgefið, að hún muni menga minna en einkabílarnir, því að á þeim vettvangi eiga sér nú stað orkuskipti, og ferðir þungra vagna Borgarlínunnar verða tíðar, og hún mun því valda miklu vegsliti og þar með svifryki. 

Trúboðar Borgarlínunnar halda því fram, að þeir hafi höndlað stóra sannleik um tilhögun umferðar á höfuðborgarsvæðinu. Þeir halda, að almenningur hérlendis verði ginnkeyptur fyrir ferðamáta, sem fólk á miklu þéttbýlli og fjölmennari svæðum og með stöðugra veðurfari en við eigum að venjast, telur sér henta betur en einkabíllinn, enda einkabílaeign ekki jafnalmenn þar og hér. 

Í þessu trúboði er einkabíllinn í hlutverki hins vonda.  Honum er auðvitað ekki við bjargandi með mislægum gatnamótum og nýjum akreinum, af því að innan tíðar munu þá þessi mannvirki fyllast af ökutækjum, og þá sitji bílstjórar í sömu súpunni og áður, en Borgarlínufarþegar líði áfram hindrunarlaust í alsælu um ókomin ár. Þess vegna gerum við ekkert fyrir einkabílinn, segja trúboðarnir hver við annan, og fórnarlömb einkabílsins munu þá örugglega flýja yfir á betri staðinn, Borgarlínuna.  Þannig reiknum við með 12 % heildarferða á höfuðborgarsvæðinu með almenningsvögnum eftir tilkomumu Borgarlínu í stað 4 % nú.  Þessi þróun mála er reist á trú sérvitringa.  Ekki væri hægt að telja nokkrum alvörufjárfesti trú um þetta. 

Trúboðarnir skjóta sig svo í fótinn með því að halda því fram, að ekkert bæti úr skák að bæta við mislægum gatnamótum eða nýjum akreinum, af því að þau fyllist strax af ökutækjum.  Ef það er svo, að nýting nýrra umferðarmannvirkja verði frá upphafi góð og fullnýting fyrr en áætlað var, þá er þjóðhagslegur ábati verkefnisins, þ.e. núvirði mismunar árlegs ávinnings og kostnaðar yfir afskriftatímabilið, enn þá hærri upphæð en áætlun gerði ráð fyrir, sem eru ein beztu meðmæli, sem ein framkvæmd getur fengið. Þar með verður þjóðhagslega hagkvæmt að hafa nýju mannvirkin enn afkastameiri en ella.

Trúboðarnir boða heimsendi við fullnýtingu mannvirkjanna.  Þar flaska þeir á eigin þröngsýni og þekkingarleysi. Þeir hafa asklok fyrir himin. Verkfræðingar framtíðarinnar munu finna ráð.  Sé plássleysi á yfirborðinu, má bora jarðgöng eða byggja vegi í hæðina. Öllum er hins vegar ljóst, að Borgarlínan mettast aldrei.  Gallinn við hana er hins vegar þjóðhagslegt tap af verkefninu samkvæmt prófessor emeritusi Ragnari Árnasyni.  Slíkum verkefnum á aldrei að gefa grænt ljós á framkvæmdastig. Slíkt jafngildir því að fleygja peningum út um gluggann. Til þess eru félags- hagfræðilegar greiningar að vinza hafrana frá sauðunum.

Ragnar skrifaði þetta um tafakostnaðinn í umferðinni:

"Þjóðhagslegur kostnaður við þessar tafir er mjög mikill.  M.v. opinber gögn um umferð á höfuðborgarsvæðinu er hann líklega yfir 100 MISK á hverjum virkum degi og yfir 30 mrdISK/ár [við þennan kostnað almennings má bæta tjóni fyrirtækjanna - innsk. BJo] ."

M.v. þennan gríðarlega kostnað, sem leggst á vegfarendur á höfuðborgarsvæðinu og jafngildir 10 %-20 % hækkun á útsvars- og fasteignagjöldum þeirra til sveitarfélaga sinna og yfir 1 % af VLF, þá er löngu orðið tímabært (þjóðhagslega arðbært) að ráðast í framkvæmdir til að stytta þennan tafatíma um a.m.k. 80 %. Spurningin er, hvaða framkvæmdir á að velja fyrst.  Þá er upplagt að beita ábata-kostnaðargreiningunni.  Það er engum vafa undirorpið, að Borgarlínan lendir þá mjög aftarlega í röðinni, ef beitt er sams konar aðferðarfræði á öll verkefnin, enda er núvirði þessarar greiningar neikvætt fyrir hana, ef marka má niðurstöðu Ragnars Árnasonar.  Líklega mun samræmd ljósastýring, göng undir umferðaræðar fyrir gangandi og einhver mislæg vegamót verða efst á verkefnalistanum. 

"Öfugt við það, sem fullyrt hefur verið, sýnir athugun á skýrslu COWI og Mannvits, að þjóðhagslegt núvirði þessa fyrsta áfanga borgarlínunnar er verulega neikvætt.  Með því einu að leiðrétta mistök í skýrslunni eða að færa eina af lykilforsendum hennar í raunsæisátt er niðurstaðan, að þetta núvirði sé neikvætt.  Þá hefur ekki einu sinni verið tekið tillit til þeirrar áhættu, sem í framkvæmdinni felst." 

Það verður að næmnigreina alla valkostina til að sjá, hversu viðkvæmir þeir eru gagnvart forsendubresti.  Forsendan um fjölgun farþega með strætó við tilkomu Borgarlínu úr 4 % allra ferða á höfuðborgarsvæðinu í allt að 12 % stendur á brauðfótum og er í raun ekkert annað en ágizkun og trú trúboðanna. Hversu mikið mun Borgarlínan draga úr bílaumferð er aðalatriðið hér, og vitrænar greiningar (Þórarinn Hjaltason, umferðarverkfræðingur) benda til, að það verði vart merkjanlegt. 

Hins vegar vita allir, og trúboðarnir hafa viðurkennt það, að mislæg gatnamót nýtast strax mjög vel við að greiða fyrir umferð og minnka slysahættu stórlega.  Þar af leiðandi munu þau draga til sína aukna umferð, og verða hönnuðurnir að taka það með í reikninginn, þegar þeir ákvarða afkastagetu mannvirkjanna.  Þau þurfa þess vegna að vera vel við stærð.

Greinarlok sín nefndi Ragnar "Aðrir valkostir",

og voru þau á þessa lund:

"Aldrei er skynsamlegt að leggja í framkvæmdir, sem hafa neikvætt núvirði.  [Það jafngildir að kasta peningum á glæ-innsk. BJo.]  Það er jafnvel álitamál, hvort leggja beri í framkvæmdir, sem hafa jákvætt núvirði.  Slíkt er aðeins skynsamlegt, ef engin önnur framkvæmd hefur hærra núvirði.  Opinber gögn benda til þess, að á höfuðborgarsvæðinu séu allmargar framkvæmdir í samgöngumálum, sem bæði hafa verulega jákvætt núvirði og tvímælalaust miklu hærra en borgarlínan og munu nýtast öllum vegfarendum.  Það væri skynsamlegt að framkvæma þessar samgöngubætur áður en meira skattfé er ausið í borgarlínu."

 Þetta er hógvær og rökföst ráðlegging til yfirvalda samgöngumála.  Stjórnmálamenn munu engan sóma hafa af þessari dýru og skaðlegu framkvæmd fyrir umferðarflæðið á höfuðborgarsvæðinu.  Borgarlínan verður grafreitur skattfjár og pólitískur grafreitur þeirra, sem ábyrgir eru fyrir svo ábyrgðarlausri meðferð skattfjár mitt í alvarlegri heilbrigðis- og efnahagskreppu. 

Tveir trúboðar Borgarlínunnar tjáðu sig strax daginn eftir á síðu 14 í Fréttablaðinu með furðugrein, sem vísaði til opinna skolpræsa við hlið drykkjarvatnsbrunna í Reykjavík fyrrum.  Þetta voru borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Ragna Sigurðardóttir og Hjálmar Sveinsson, þekktur áhugamaður um borgarskipulag sem dagskrárfulltrúi á RÚV.  Greinin hét auðvitað:

"Borgarlína - já, takk".

"Nú er árið 2020.  Samkvæmt Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni látast um 3,5 M manna af völdum loftmengunar árlega - enn fleiri en látast af völdum ökuslysa.  Þegar samfélagið fer að skríða út úr COVID-19 faraldrinum og umferð á höfuðborgarsvæðinu eykst á ný, þá þurfum við að horfa fram á veginn.  Huga að því, hvernig við getum með beinum hætti minnkað svifryksmengun og útblástur höfuðborgarsvæðisins, ásamt því að að stórbæta afkastagetu fólksflutningakerfisins."

Svifryk í Reykjavík fer nokkrum sinnum á ári yfir ströng heilbrigðismörk.  Óloftið, þar sem megnið af dauðsföllum verður vegna loftmengunar, í Kína og á Indlandi, er þó aldrei sambærilegt við það, sem er í Reykjavík, nema einstaka sinnum á fjölförnum gatnamótum í Reykjavík, þar sem fyrir löngu ættu að vera komin mislæg gatnamót, svo að farartæki í lausagangi spúi þar ekki sóti og eimyrju.  Þessir borgarfulltrúar hafa hindrað Vegagerðina í að reisa þessi nauðsynlegu mannvirki.  Borgarfulltrúarnir kasta steinum úr glerhúsi, því að þau hafa líka látið undir höfuð leggjast að hreinsa götur Reykjavíkur almennilega til að stórminnka svifrykið.  Þá má ekki gleyma fjölmörgum ökutækjum Reykjavíkurborgar á götum borgarinnar, sem eru þung og dísilknúin, t.d. strætisvagnar, og eiga talsverðan hlut í öllu svifrykinu.  (Hluti þess er foksandur, gjóska og  uppfok af árfarvegum.)  Framtíðin er hins vegar rafvæðing einkabílanna á næstu 20 árum.  Þessi málflutningur borgarfulltrúanna er þess vegna mjög yfirborðslegur, svo að ekki sé meira sagt. Vindhögg væri nær lagi.

"Samkvæmt nýrri félagshagfræðilegri greiningu dönsku verkfræðistofunnar COWI og verkfræðistofunnar Mannvits er Borgarlína þjóðhagslega arðbært verkefni.  Áætlað er, að fyrsta lota hennar skili mrdISK 25,6 samfélagslegum ábata á næstu 30 árum (umfram stofn- og rekstrarkostnað).  Heildarábatinn, þegar borgarlínan er öll komin í gagnið, er metinn vera mrdISK 93,6.  Ferðatími styttist og biðtími sömuleiðis, enda eykst afkastageta gatnanna, sem hingað til hafa verið þéttsetnar mjög plássfrekum og mengandi einkabílum.

Það er því margt líkt með vatnsberakerfi fortíðarinnar og fólksflutningum nútímans.  Á höfuðborgarsvæðinu eru um 80 % ferða farnar með einkabílum.  Það er þvert á vilja íbúa Reykjavíkur."

Þarna er umrædd dansk-íslenzk skýrsla misnotuð , og síðan birtist herfilegur hugarheimur höfundanna.  Allt er þetta tilfinnanlegt tilberasmjör.  Það er alveg út í hött að birta niðurstöðu slíkra útreikninga eina og sér.  Þetta fé hlotnast engum.  Þessi aðferðarfræði er aðeins nothæf við samanburð á verkefnum til að velja á milli þeirra.  Samkvæmt því, sem kennt er í Háskóla Íslands, er beitt í skýrslunni röngum aðferðum, sem gefa mjög villandi niðurstöður að mati prófessors emeritus í hagfræði.  

Ferðatími styttist í um 8 % tilvika (4 %-12 %), afar mismunandi mikið, oft hlutfallslega lítið, en hann mun lengjast mjög mikið í allt að 80 % tilvika vegna þrenginga gatna og forgangs Borgarlínu.  Þetta tímatap hefur áreiðanlega ekki verið rétt reiknað inn í téð  félags-hagfræðilíkan.  Það er einhver misskilningur eða mistúlkun á ferðinni, að notkun einkabíls sé þvert á vilja íbúa Reykjavíkur að því gefnu, að yfirvöld setji ekki allar alvöruumbætur á ís í heilan áratug. 

Afkastageta gatnanna eykst aðeins á pappírnum með tilkomu Borgarlínu, því að hún getur aðeins þjónað fáum.  Hún getur þjónað þeim, sem búa nálægt henni og eiga aðeins erindi á staði nálægt henni.  Engir aðrir hafa áhuga á henni. 

Enn hélt bullið í borgarfulltrúunum áfram:

"Bílaumferðin er mengandi fyrir nærumhverfið, líkt og skolpræsin, sem voru stundum við hlið neyzluvatnsbrunnanna forðum.  Afkastageta bílaumferðarinnar er lítil, þegar tekið er tillit til þess gríðarlega pláss, sem hún tekur í borginni."

Afkastageta bílaumferðar er mikil, þegar tekið er tillit til þess, að farþeginn (bílstjórinn) kemst yfirleitt alla leið án mikils gangs, að því tilskildu, að vegakerfið sé hannað og því við haldið (ekki holótt) í samræmi við umferðarþungann. Téðir borgarfulltrúar virðast sjá ofsjónum yfir flatarmálinu, sem göturnar þekja.  Í hvaða heimi lifir þetta fólk ?  Hvernig á að byggja húsin, ef götur vantar ?  Hvernig á að flytja búslóð inn og út án gatna að húsum ?  Hvernig verður aðgengi slökkvibíla og sjúkrabíla án gatna ?

Alla megininnviði þarf að hanna m.v. hámarksálag.  Það er ekkert vit í því að hanna umferðaræðar, raforkukerfi og vegakerfi, flugvelli eða hafnir m.v. meðalálag.  Málflutningur borgarfulltrúanna er alveg út í hött. Þau eru fulltrúar afturhalds, sem ekki vill, að almenningur njóti þeirra þæginda og tímasparnaðar, sem nútíminn bíður upp á. 

"Hraðvagnakerfi Borgarlínunnar er aftur á móti mjög afkastamikið, þegar kemur að því að flytja mikinn fjölda fólks á skömmum tíma í og úr vinnu og skóla.  Og mengun er hlutfallslega lítil."   

Þetta er úrelt sjónarmið og hefur aldrei átt við íslenzkar aðstæður.  Fjarvinna mun hægja á umferðaraukningunni, og fjölmennið vantar.  Borgarlínan verður alls ekki mengunarlaus vegna mikils þunga og gatnaslits, þótt rafknúin verði.  Með sómasamlegum gatnaþrifum verður loftmengun vegna umferðar ekki vandamál. 

Höfundar umræddrar COWI-skýrslu skriðu út úr fylgsni sínu með Morgunblaðsgrein 6. nóvember 2020, sem augljóslega á að vera svar við gagnrýni prófessors emeritus Ragnars Árnasonar.  Hann svaraði svo í Morgunblaðinu 9. nóvember 2020, og verða þeirri grein o.fl. gerð skil hér á vefsetrinu síðar.  Grein Ólafar Kristjánsdóttur og Meta Reimer Brödsted, verk- og hagfræðinga, hét:

"Félagshagfræðileg greining borgarlínu".

"Greiningin var framkvæmd með danska arðsemislíkaninu TERESA, sem hannað var fyrir samgönguráðuneyti Danmerkur til að samræma aðferðafræði við gerð kostnaðar- og ábatagreininga á samgönguverkefnum.  Líkanið hefur m.a. verið notað fyrir uppbyggingu metrókerfisins [neðanjarðarlestir-innsk. BJo] í Kaupmannahöfn.  Líkanið var þróað af samgönguhagfræðingum í Danmörku út frá kröfum Evrópusambandsins um gæði kostnaðar- og ábatagreininga."

Komið hefur fram hjá prófessor emeritusi Ragnari Árnasyni, að varasamt geti verið að notast við erlend líkön af þessu tagi hérlendis.  Aðalatriðið í þessu sambandi er að nota sama líkanið, þegar bera á saman mismunandi fjárfestingarkosti.  Ragnar hefur bent á, að rangt sé að telja fargjöld farþega verkefninu til samfélagslegra tekna, eins og stöllurnar gera, enda verði engin ný verðmæti til með þeim hætti, heldur minnki gjaldið aðra neyzlu Borgarlínufarþeganna.  Spyrja má, hvort gerð hafi verið næmnigreining á áhrifum gjaldupphæðarinnar á fjölda farþega, og hvernig gjaldið sé ákvarðað.  Með sama hætti væri þá hægt að setja vegtoll á mislæg gatnamót til að fegra fjárhagsstöðu þeirra verkefna, en slíkt er augljóslega óháð hinu samfélagslega verðmæti verkefnisins.  Aðferð COWI er til þess fallin að kasta ryki í augu fjárveitingavaldsins og almennings. 

Dæmi um réttmæti athugasemdar Ragnars um gagnrýnislausa notkun erlends samgöngulíkans á Íslandi er, að "[s]amkvæmt niðurstöðum samgöngulíkansins mun ferðum með almenningssamgöngum fjölga um 20 % á dag árið 2024 vegna tilkomu borgarlínu".  Hverjir eru þessir nýju farþegar ?  Eru það fyrrum gangandi vegfarendur, hjólreiðamenn, farþegar í bíl eða bílstjórar ?   Þetta skiptir miklu máli fyrir áhrif Borgarlínu á bílaumferðina.  Hér vantar íslenzka greiningu.  

Í lokin skrifuðu verk-hagfræðingarnir:

"Íbúum höfuðborgarsvæðisins mun fjölga mikið á næstu áratugum. Niðurstöður samgöngulíkans benda til, að umferðartafir myndu aukast til muna á næstu áratugum, þó að fjárfest yrði eingöngu í innviðum fyrir bílaumferð.  Margþætt lausn í samgöngum og þétting byggðar varð því fyrir valinu í sviðsmyndagreiningu svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins 2015-2040.  Lausnin fælist í fjölbreyttum samgönguvalkostum, sem auka afköst í samgöngum og gæði hins byggða umhverfis."  

Það er ástæða til að efast rækilega um þá niðurstöðu þessa samgöngulíkans, að "umferðartafir myndu aukast til muna á næstu áratugum", ef einvörðungu yrði fjárfest í afkastaaukandi mannvirkjum fyrir alla bílaumferð. Með réttum fjárfestingum fyrir lægri upphæð en áætlað er, að 1. áfangi Borgarlínu þurfi, er hægt að stytta meðaltafatíma í ös um a.m.k. 80 % í a.m.k. 20 ár.  Þar að auki má búast við sveigjanlegum vinnutíma í auknum mæli, sem minnkar umferðartoppinn, þótt meðalumferð á sólarhring sé óbreytt.  Strætó mun njóta mjög góðs af minni töfum í umferðinni, sem mun gera hann vinsælli. 

Hvorki þetta né önnur samgöngulíkön er hægt að nota til að spá af nokkru viti um umferðarþungann eftir 20 ár eða meira.  Tækninýjungar munu ryðja sér til rúms í umferðinni og umferðardreifingin um höfuðborgarsvæðið og yfir daginn gæti orðið jafnari en núna, ef rétt er haldið á spöðunum. Borgarlína í fyrirhugaðri mynd gæti þá orðið algerlega úrelt, þótt strætó í einhverri mynd verði áfram við lýði, og sjálfakandi skutlur kunna að verða hluti af umferðarþunganum á kostnað reiðhjóla, bíla og strætisvagna.  Það er alls ekki rétti tíminn núna í Kófi og óvissu um stefnuna í tækniþróun umferðar að taka stefnumarkandi ákvörðun til langrar framtíðar um lausn, sem virðist ekki vera í neinum tengslum við tækniþróunina né þarfir almennings. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Verða málmar og melmi áfram framleidd í Evrópu ?

Því hefur verið slegið fram í bríaríi, að málm-og melmisframleiðsla eigi enga framtíð í Evrópu (melmi er málmblanda eða blanda málms og kísils).  Sú fullyrðing er alveg út í loftið.  Evrópa þarf og mun þurfa á að halda hreinum málmum og melmum af öllu tagi fyrir sína framleiðslu.  Þessi evrópska framleiðsla verður hins vegar með æ minna kolefnisspori, enda vex hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda stöðugt í Evrópu, og kostnaður þeirrar raforku fer jafnframt lækkandi.  Lönd með sjálfbæra raforkuvinnslu nú þegar, eins og Ísland og Noregur, standa og munu standa sterkt að vígi á öllum framleiðslusviðum.  Þess vegna eru þau samkeppnishæf frá náttúrunnar hendi, en svo er annað mál, hversu færir íbúarnir eru við að nýta sér í hag það samkeppnisforskot, sem náttúran færir þeim. Við þessar aðstæður getum við hrósað happi yfir því, að raforkukerfi Íslands er ótengt við stofnkerfi, þar sem flutningarnir ráðast af reglum Evrópusambandsins, sem það setur til að þjóna orkuþörf sinna meginiðnaðarsvæða. Jaðarsvæðin virka þá sem hráefnisútflytjendur.  Slíkt er óheillavænlegt fyrir gjaldeyrisöflun og atvinnusköpun. 

Á Íslandi eru uppi háværar raddir um, að nóg sé komið af virkjunum, og í hvert skipti, sem undirbúa á nýja virkjun, eða flutningslínu fyrir raforkuna á markaðinn, upphefst draugakór um náttúruspjöll eða útsýnisspjöll, jafnvel óafturkræf.  Þetta fólk er að kalla yfir samborgara sína minni hagvöxt, lægra atvinnustig, minni gjaldeyrisöflun og lakari lífskjör, jafnvel landflótta úr stöðnuðu þjóðfélagi, þegar Kófinu linnir. 

Með Rammaáætlun átti að þróa aðferðarfræði til að vega fórnarkostnað nýtingar á móti ávinningi og flokka landsvæði orkulinda samkvæmt því í vernd, bið (óvissa) og nýtingu.  Verndarpostular, sem telja smekk sinn eiga að verða ríkjandi í þjóðfélaginu, sætta sig ekki við þær leikreglur.  Þá eru þeir að troða lögunum um tær sér og hafa þar með fyrirgert trúverðugleika sínum.

Þann 23. september 2020 ritaði Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, Sjónarhólsgrein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Af samkeppnishæfni álframleiðslu í Evrópu".

Greininni lauk þannig:

"Evrópusambandið er að skoða fleiri leiðir til að viðhalda samkeppnishæfni álframleiðslu og annars orkusækins iðnaðar í Evrópu.  Á meðal þess, sem er til skoðunar hjá ESB, er kolefnisskattur á innflutning til Evrópu, enda er kolefnisfótspor evrópskrar álframleiðslu lægra en í öðrum heimsálfum og gjöld vegna losunar hvergi hærri. Stingur það einkum í stúf hér á landi, þar sem álframleiðsla losar hvergi minna.

Ál er á lista ESB yfir hráefni, sem eru mikilvæg "græna samkomulaginu", sem felur í sér, að Evrópa verði kolefnishlutlaus árið 2050, eins og fram kom hjá Hilde Merete Asheim, forstjóra Norsk Hydro, í gær, þegar hún fagnaði ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB.  Það skiptir því máli fyrir loftslagið í heiminum, að álframleiðsla haldist í Evrópu, auk þess sem hún skapar störf og verðmæti fyrir þjóðarbúið.  En til þess, að álframleiðsla í Evrópu eigi sér sjálfbæra framtíð til langs tíma, þarf að tryggja samkeppnishæfnina.  Framkvæmdastjórn ESB sýndi með ákvörðun sinni í vikunni, að hún er meðvituð um það."

Það fer ekki á milli mála, að þróun alþjóðamála undanfarið ýtir fremur undir það, að Evrópa verði sem mest sjálfri sér nóg um ál og kísil.  Þegar þessi "strategískt" mikilvægu efni eru framleidd með lágmarks kolefnisspori, munu þau eiga greiða leið inn á Innri markað EES, hvernig sem allt veltur.

Það er hins vegar rétt að búa rækilega í haginn fyrir það að geta gripið önnur tækifæri orkuskiptanna, t.d. sölu á "grænu" vetni til meginlands Evrópu og til Bretlands.  "Grænt" vetni er framleitt með rafgreiningu vatns í vetni og súrefni með rafmagni frá kolefnisfríum orkulindum.  Ef bætt verður um 10 % við núverandi orkuvinnslugetu Íslands eða 2 TWh/ár fyrir vetnisvinnslu, sem er ágætisbyrjun, þegar hagkvæmir markaðir finnast fyrir "grænt" vetni, verður hægt að framleiða um 30 kt/ár af vetni undir þrýstingi, sem hæfir til flutninga.  Um 10 % af þessu mun innlendi  markaðurinn þurfa til að knýja þung landfartæki og enn meira, þegar kemur að vetnisvæðingu skipa og flugvéla. Þess má geta, að innanlandsflug hérlendis hentar vel fyrir rafknúnar flugvélar vegna fremur stuttra vegalengda.

Nú fer um 8 GW afl í að rafgreina vetni í heiminum.  Allt uppsett afl núverandi virkjana á Íslandi er um 30 % af þessu afli, en rafgreiningin annar um þessar mundir aðeins 4 % af heimsmarkaði vetnis.  

Englendingar eru með áform um að vetnisvæða húsnæðiskyndingu og eldun á Norður-Englandi og leysa þannig jarðgas af hólmi með "grænu" vetni, og svo er vafalítið um fleiri. "Grænt" vetni mun gegna lykilhlutverki í Evrópu við að ná markmiðum um nettó kolefnislaus samfélög 2040 (Bretland) eða 2050 (ESB) (mismunandi eftir ríkjum). 

Það er þegar orðinn skortur á "grænu" vetni í Evrópu, og þessa sér stað í verðþróuninni.  Vetni á markaði hefur hingað til að mestu leyti verið unnið úr jarðgasi og verðið löngum verið undir 1,0 USD/kg, en nú er verð fyrir "grænt" vetni farið að greina sig frá og fer stígandi á milli 1,0-2,0 USD/MWh.  Í ljósi þess, að hluti orkukaupa vetnisverksmiðju getur verið "ótryggð" orka, sem er ódýrari en "forgangsorka", er vafalaust hægt að byrja með orkuverð að viðbættum flutningskostnaði undir 32 USD/MWh, sem mundi útheimta verð frá vetnisverksmiðu allt að 2,0 USD/kg.  Þar við bætist flutningskostnaður á markað í þrýstingsgeymum á skipum.  Innan 5 ára mun þetta markaðsverð "græns" vetnis nást, og þess vegna er ekki seinna vænna að hefja nú þegar undirbúning virkjana og samninga við væntanlega vetnisframleiðendur. 

Við sjáum nú þegar í fjölmiðlum móta fyrir áhuga innan orkufyrirtækjanna hérlendis á þessum markaði, en enn sést ekkert til áhugasamra fjárfesta í vetnisverksmiðju.  Í Morgunblaðinu 1. október 2020 var eftirfarandi fyrirsögn á baksviðsfrétt:

"Tækifæri eru í útflutningi á vetni".

Hún hófst þannig:

"Í Auðlindagarði HS Orku á Reykjanesi eru fjölmörg verkefni í undirbúningi, en fyrirtækið stefnir nú á að auka framleiðslugetu Reykjanesvirkjunar um 30 MW á næstu 2 árum.  "Nokkur erlend og innlend fyrirtæki eru að skoða uppbyggingu í auðlindagarðinum.  Eitt er að breyta raforku með rafgreiningu í annað form, s.k. Power to X, þ.e. vetni eða metan, t.d.", segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku.  "Við teljum líka, að mikil tækifæri séu í tengslum við fiskeldi, þörungarækt og hátæknivædd gróðurhús.  Á svæðinu er nægt framboð á heitu og köldu vatni auk hreins koltvísýrings, sem skiptir miklu við hvers konar ræktun".  

HS Orka gegnir nú lykilhlutverki í atvinnumálum og verðmætasköpun á Suðurnesjum (á meðan Bláa lónið er lokað) eins og sést á því, að nú gegna um 1500 manns störfum í auðlindagarði HS Orku. Því ber að fagna, að það er framfarahugur í fyrirtækinu, og forstjóri þess er vafalaust vel tengdur við ýmsa fjárfesta, sem hann getur bent á fjárfestingartækifæri hérlendis, sem skapa munu enn fleira fólki störf.  Gefum Tómasi Má orðið:

"Ég var um árabil í stjórn samtakanna Business Europe, þar sem saman koma forstjórar stærstu fyrirtækja álfunnar.  Á þeim vettvangi er reglulegt samtal við æðstu ráðamenn ESB, sem fóru fyrir allnokkru að tala opinskátt um mikilvægi þess, að álfan væri sjálfri sér næg um græna orku.  Ekki gengi að eiga allt undir duttlungum OPEC eða annarra ráðandi afla", segir Tómas Már og heldur áfram: "Mótleikurinn er m.a. bygging vindorkugarða og framleiðsla vetnis með vindorku.  Í þessari byltingu eru bæði ógnir og tækifæri fyrir okkur Íslendinga.  Það dregur úr samkeppnisforskoti okkar, að orkuverð í Evrópu hefur lækkað, sem ég tel þó vera tímabundið.  Við getum hæglega nýtt okkur þessa þróun og farið að framleiða vetni eða aðra orkugjafa [orkumiðla-innsk. BJo].  Ekki bara til að vera sjálfum okkur nóg um alla orkugjafa [orkumiðla] í samgöngum, heldur líka til útflutnings."

Vetnisframleiðsla og slitrótt orkuvinnsla vindmyllna geta tæknilega farið vel saman.  Sama er að segja um nýtingu umframorku í vatnsorkukerfinu til vetnisvinnslu á sumrin.  Líklega verður arðsemi vindorkuvera við orkusölu til vetnisverksmiðja lítil sem engin fyrstu árin, en gæti braggast, ef orkuverðið verður tengt verði "græns" vetnis á markaði, eins og eðlilegt er. 

Hvað segir Tómas Már um vindorkuverin ?:

"Sú var tíðin, að kostnaður við hvert uppsett MW var meira en tvöfaldur á við það, sem kostar að virkja fallorku eða jarðhita.  Þetta er gjörbreytt.  Nú er kostnaður við hvert MW í vindorku um fjórðungur af því, sem kostar að byggja vatnsafls-eða jarðvarmavirkjanir.  Þessi kostur verður því mun áhugaverðari en áður, sérstaklega hér á landi, þar sem lognið fer hratt yfir."

Hafa verður í huga, að meginsöluvara virkjana er orka, en ekki afl.  Þess vegna segir fjárfestingarupphæð á MW aðeins hálfa söguna og taka verður tillit til orkuvinnslugetu uppsetts vél- og rafbúnaðar.  Hún er meiri en tvöföld í vatns- og jarðgufuverum á hvert MW á við vindorkuverin. Þar að auki verður að taka rekstrarkostnað með í reikninginn, sem fyrir vatnsorkuver er tiltölulega mjög lágur.  Ef upplýsingarnar að ofan eiga við heildarfjárfestingar per MW, þá gætu ný vindorkuver á Íslandi verið  fjárhagslega samkeppnishæf við a.m.k. jarðgufuver.

Landsvirkjun er líka með í þessari vegferð, og virðist horfa til byggingar tilraunaverksmiðju við Ljósafoss í Bláskógabyggð.  Sú staðsetning kemur spánskt fyrir sjónir, en gæti helgast af eigin fersku vatni Sogsins og eigin virkjun, þannig að flutningsgjald til Landsnets verði í lágmarki, en á móti kemur flutningskostnaður vetnis frá Ljósafossi að höfn til útflutnings og á innlendan markað.  

Landsvirkjun hefur aflað sér fremur undarlegs samstarfsaðila á meginlandi Evrópu, sem er fyrirtækið, sem á og rekur Rotterdam-höfn.  Væntanlega ætlar hafnarfyrirtækið að nota og dreifa vetni, en varla að framleiða það.  Hefði þá ekki verið nærtækara að semja við gasdreifingarfyrirtæki á Norður-Englandi ?

Haraldur Hallgrímsson, núverandi forstöðumaður sölu- og viðskiptaþróunar Landsvirkjunar sagði þetta við Moggann 23. október 2020:

""Við horfum á þetta sem stórt tækifæri úti við sjóndeildarhringinn", segir Haraldur um vetnismarkaðinn í Evrópu.  Hann segir erfitt að tímasetja nákvæmlega, hvernig málin þróist; mikilvægast í þessu sé að starfa með aðila, sem er leiðandi og hefur mikla þekkingu á flutningum, sem muni vega þungt við hugsanlega framleiðslu vetnis hér á landi.  Rotterdam-höfn sé mjög framsækin á þessu sviði, og þaðan liggi leiðir ekki bara til Hollands, heldur lengst inn í Evrópu, þar sem krafan um orkuskipti er hvað sterkust.  Holland sé vel staðsett og ætli sér að vera leiðandi á þessu sviði og því um mikilvægan samstarfsaðila að ræða fyrir Landsvirkjun sem orkufyrirtæki í endurnýjanlegri orku."

Það er dálítið kindugt, að orkufyrirtækið skuli ekki fremur leita til framsækins rafgreiningarfyrirtækis á sviði vetnisframleiðslu en til flutningafyrirtækis.  Hröð þróun hefur á síðustu árum orðið í rafgreiningartækni vatns og töpin í ferlinu minnkað umtalsvert frá 25 % og stefna á 14 % fyrir 2030.  Töpin vega þungt í framleiðslukostnaðinum, og þess vegna er mikilvægt, vetnisframleiðendur hérlendis noti beztu fáanlegu tækni ("state of the art").  HS Orka virðist hafa tekið forystu hérlendis um atvinnusköpun og gjaldeyrissköpun hérlendis við framleiðslu á vetni. 

 Þríhyrningur

 

 

 

  

 

 

 

 

 

 

 

 


C-19 breytir nútímasamfélaginu

Enginn veit, hvenær við öðlumst hjarðónæmi gagnvart SARS-CoV-2 veirunni frá Wuhan í Kína.  Það er undir hælinn lagt, hvenær nægt framboð á viðráðanlegu verði verður á öruggu og skilvirku bóluefni, sem veitir varanlegt ónæmi.  Viðbrögðin við veirunni hafa valdið heimskreppu, sem sér ekki fyrir endann á á Vesturlöndum.  Eina stóra hagkerfið, sem virðist ætla að ná V-lögun hagvaxtar, er hið kínverska.  Þar er spáð dágóðum hagvexti 2020. 

Kenningin um "svörtu svanina" er um það, að ófyrirséðir og afdrifaríkir atburðir breyti samfélaginu varanlega.  Þannig gæti löngum ferðalögum og vöruflutningum fækkað varanlega.  Almenningssamgöngur munu líða fyrir það vegna smithættu og fjarvinna að heiman aukast að sama skapi.  Mikið fall hefur t.d. orðið í farþegafjölda Strætó, verður ekki til að auka áhuga á Borgarlínunni.  Líklegt er, að aukin áherzla verði á að skapa vinnu í hverju landi fyrir sig og að efla framleiðsluiðnað og matvælaframleiðslu. 

 

Líkanasmiðir höfðu gert gert ráð fyrir heimsfaraldri vegna nýs öndunarsjúkdóms með uppruna í Asíu á borð við Spænsku veikina, sem reyndar hófst í Bandaríkjunum.  Líkön spáðu 71 M dauðsfalla í heiminum og 5 % samdrætti landsframleiðslu á heimsvísu.  

Hvaða áhrif hefur C-19 á þróunina ?  Vöruflutningar og fólksflutningar gætu minnkað, af því að aukin áherzla verður á heimaframleiðslu, og fjarvinna og fjarfundir ásamt aukinni meðvitund um heilsuvernd draga úr umferð á landi og í lofti. Þessa sér þegar stað t.d. hjá íslenzkum grænmetisbændum, sem hafa orðið varir við talsverða aukningu eftirspurnar.  Mörg teikn eru á lofti um blómlega framtíð íslenzks landbúnaðar yfirleitt, enda er leitun að sambærilegum vörugæðum og jafnlitlu kolefnisspori. Íslenzkur fjölskyldulandbúnaður er náttúrulegri en verksmiðjulandbúnaðurinn, sem gerir út á styrkjakerfi Evrópusambandsins og er knúinn áfram af mikilli áburðargjöf, skordýraeitri og sýklalyfjum.  

Þótt flytja þurfi yfir 95 % íslenzks sjávarafla á erlenda markaði mislangan veg, eru íslenzkar sjávarafurðir samt mjög samkeppnishæfar, hvað gæði og kolefnisspor tilbúinnar neytendavöru varðar.  Það er vegna tæknivæðingar í fremstu röð og metorkunýtni íslenzks sjávarútvegs og kolefnisfrírrar raforku við vinnslu í landi.  Ef vel tekst til í samningum EFTA og ESB um tollamál, þegar Bretland gengur úr tollabandalagi Evrópu um áramótin 2020/2021, er engum blöðum um það að fletta, að íslenzks sjávarútvegs bíður vaxandi markaður, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum, ef fiskflutningar um langan veg frá Kína minnka. Þetta er auðvitað háð því, að fiskgengd á Íslandsmiðum dragist ekki saman af völdum umhverfisbreytinga í hafinu, en slíkt er nú vaxandi óvissuþáttur fyrir íslenzka hagkerfið. 

Stórmerkilegt viðtal birtist í Morgunblaðinu 24. október 2020 við Rúnar Björgvinsson, framkvæmdastjóra Íslensks sjávarfangs í Kópavogi, sem vissulega ætti að geta leitt íslenzkum ráðamönnum fyrir sjónir, að þeir geta liðkað til fyrir stórfelldri atvinnusköpun og verðmætasköpun með því að jafna samkeppnisstöðu íslenzkrar fiskvinnslu við evrópskar, en þar hallar nú mjög á, m.a. vegna markaðsskekkingar Evrópusambandsins, sem þó er með frjálsa samkeppni á vörunum:

"Rúnari hugnast ekki sú þróun, sem orðið hefur í útflutningi á óunnum fiski, og er nú svo komið, að fiskvinnslur, sem reiða sig á að geta keypt hráefni á markaði, eru margar í erfiðri stöðu. 

"Þetta hefur höggvið skarð í þennan hóp fyrirtækja, sem mörg hver hafa verið starfandi um langt skeið, rutt brautina í útflutningi ferskra afurða og veitt fjölda manns atvinnu. Hvert á fætur öðru hafa þessi fyrirtæki lagt upp laupana og dýrmæt störf horfið með þeim." 

Reiknast Rúnari til, að í kringum 60 kt af bolfiski hafi verið flutt óverkuð úr landi á síðasta fiskveiðiári.

"Fyrir það magn gætu fiskvinnslurnar skapað þúsundir starfa með afleiddum störfum.  Eitt er svo að missa þessi störf, og annað, að með hverju fyrirtækinu, sem hættir rekstri, tapast markaðir fyrir íslenzkan fisk, því [að] erlendar vinnslur selja fiskinn sem íslenzkan og skaða stundum gæðaímynd íslenzka fisksins."

Bendir Rúnar á, að íslenzkir fiskverkendur sitji ekki við sama borð og kollegar þeirra í Evrópu og því ekki hægt að segja, að þróunin sé afleiðing eðlilegrar hagræðingar á frjálsum markaði.  Fiskurinn er t.d. ekki allur að fara til láglaunasvæða í Austur-Evrópu, og endar töluvert magn í Hollandi, þar sem Evrópusambandið greiðir keppinautum okkar háa stofnstyrki. Er eðlilegt að spyrja, hvort íslenzk stjórnvöld eigi ekki að grípa til aðgerða til að hamla þessum útflutningi, ef hann er afleiðing inngripa af hálfu Evrópusambandsins, sem skekkja eðlilega samkeppni." 

Nú eru uppi breyttar aðstæður á íslenzka vinnumarkaðinum, þar sem yfir 20 þúsund manns ganga nú atvinnulaus.  Að fá fólk til starfa ætti þess vegna ekki að vera vandamál, og ISK hefur gefið eftir út af m.a. litlum jákvæðum viðskiptajöfnuði og slæmum horfum.  Ríkissjóður gæti sparað sér greiðslur atvinnuleysisbóta með því að hleypa á ný lífi í fiskvinnslufyrirtækin og tryggja, að þau geti keppt um nægan fisk á markaði.

"Mikið af þeim fiski, sem seldur er óverkaður úr landi, fer framhjá markaði, og hafa innlendu vinnslurnar því ekki tækifæri til að kaupa hráefnið.  Raunar er hætt við, að ef þessi þróun fær að halda áfram, þá muni verð á fiskmörkuðum fara lækkandi, enda fækkar kaupendum, þegar fiskvinnslur þurfa að hætta rekstri, því [að] þær geta ekki tryggt sér nægt hráefni.  Þetta gerir markaðinn einsleitari, svo [að] hallar á seljendur og viðbúið, að fiskverð leiti niður á við."

 

 Við þær tvísýnu aðstæður í hafinu, sem uppi eru, er algerlega einboðið fyrir okkur að stórauka fiskeldi og feta þar með í fótspor "nágranna" okkar í Noregi, í Færeyjum og á Skotlandi.  Þótt hafið hér við land sé svalara en þarna (nema við Norður-Noreg) og vaxtarhraðinn þar með minni, býður Ísland samt að ýmsu leyti upp á hagstæð skilyrði fyrir fiskeldi.  Svalari sjór þýðir að öðru jöfnu, að minna verður um fisksjúkdóma og óværu, hafið er tiltölulega hreint og sjóskipti næg til náttúrulegrar hreinsunar yfirleitt. Raforkan er úr endurnýjanlegum orkulindum, afhendingaröryggi hennar batnandi, víða er jarðhiti, en verð orkunnar þarf að vera hagstæðara fyrir neytendur. Fiskeldisframleiðslan 2019 nam um 30 kt, en áhættumat fiskeldisleyfa nemur nú um 100 kt. Þessi vænta aukning fiskeldis jafngildir rúmlega 1000 nýjum störfum og um 70 mrdISK/ár í gjaldeyristekjur.  Tekjur hins opinbera á Íslandi af hverju t eldisfisks eru mun meiri en í Noregi, eins og fram kom í fróðlegri grein Einars K. Guðfinnssonar í Morgunblaðinu 26.10.2020.  

Ísland á að geta séð fiskeldinu fyrir megninu af fóðrinu, sem það notar, bæði kornræktendur, repjuræktendur, fiskvinnslur og kjötvinnslur. Við 100 kt/ár eldisfiskframleiðslu er líklegt, að hagkvæmni innlendrar fóðurframleiðslu verði næg, og minnkar þá kolefnissporið enn.

Burðarþol íslenzkra fjarða til fiskeldis er líklega um 200 kt/ár, og með nýjustu tækni og mótvægisaðgerðum á að vera unnt að ná því marki innan 15 ára.  Með landeldi og úthafseldi, sem Norðmenn feta sig nú áfram með í risakvíum, á að vera unnt að framleiða um 500 kt/ár af eldisfiski eftir 25 ár.  Hugsanlega mun þetta gefa hreinar gjaldeyristekjur upp á 500 mrdISK/ár, sem er svipað og brúttótekjur ferðamannageirans náðu hæst.

 Framtíð ferðamannageirans er í uppnámi, bæði vegna óhóflegra sóttvarnaaðgerða íslenzkra yfirvalda, en einnig vegna mjög mikilla farartálma inn á Schengen-svæðið. Uppnáminu hérlendis af þessum sökum lýkur ekki fyrr en hjarðónæmi næst, annaðhvort með eðlilegum hætti eða bólusetningu.  Ekkert er fast í hendi með bóluefni, hvað sem fagurgala líður.  Ferðageirinn mun hægt og sígandi jafna sig, og langan tíma tekur að ná sömu hæðum á ný.

Þann 2. október 2020 birtist stutt, en athyglisvert viðtal við Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við HÍ: 

""Við þessar aðstæður væri rétt að stofna fjárfestingarsjóð til að fjárfesta í vænlegum ferðafyrirtækjum.  Og, ef það er rétt, sem allir virðast halda, að það sé framtíð í ferðaþjónustu á Íslandi, þá ætti svona sjóður að geta skilað hagnaði.  Það þarf hins vegar að fjármagna hann. Sú leið hefur þann kost, að í stað þess, að stjórnmálamenn séu að taka ákvarðanir um ríkisaðstoð meira og minna á hlaupum og af mikilli vanþekkingu, myndu sérfræðingar í fjárfestingum úthluta þessum fjármunum.  Þetta yrði ekki ólíkt Framtakssjóði Íslands  á sínum tíma", segir Ragnar."

Þessi "Ragnarssjóður" ætti einnig að fá leyfi til að reisa fiskvinnslufyrirtæki við, sem Kófið hefur farið illa með.  Þegar tekjur fyrirtækja dragst saman um meira en 80 % m.v. árið á undan, þá er afkomugrundvellinum kippt undan flestum fyrirtækjanna, og þau tóra ekki án opinberrar aðstoðar.  Nú þegar er ríkissjóður orðinn skuldum vafinn, og skuldaklafinn verður mjög íþyngjandi, þegar vextir hækka aftur.  Vextir og afborganir munu þá sníða ríkisstjórnum framtíðarinnar þröngan stakk, og þær munu rýra kaupmátt almennings með skattahækkunum.  Þess vegna er hugmynd Ragnars um sjóðsstofnun, sem kæmi í stað ríkisstuðnings við í sumum tilvikum dauðvona fyrirtæki, góðra gjalda verð. Þörf fyrir slíkan ríkisstuðning minnkar dálítið, ef stjórnvöld láta eina skimun duga fyrir komufarþega aðra en íbúa hérlendis. Vonandi tekst að fjármagna Kófssjóð og stofna hann .

"Ragnar gagnrýnir, að ekki skuli sýnt meira aðhald í ríkisrekstrinum.  "Við þessar aðstæður hefði kannski verið ástæða til að draga úr umsvifum ríkissjóðs.  Það er að mæta þessari kreppu með niðurskurði á útgjöldum, sem eru ekki beinlínis notuð til að hjálpa íslenzkum þegnum.  Þá t.d. skuldbindingar erlendis, og skuldbindingar gagnvart útlendingum, sem koma til landsins.  

Skera niður fituna, en forðast þó að skera niður laun til starfsmanna á þessum atvinnuleysistímum.  Það er ekki skynsamlegt að reka fólk, sem fer svo á atvinnuleysisbætur.  

Útgjöld ríkissjóðs í ár hafa mörg verið illa hugsuð, illa undirbúin og ekki nýtzt vel.  Það er gripið til þeirra í örvæntingu, tel ég vera", segir Ragnar um aðgerðapakkana."

Þessi gagnrýni á útgjöld ríkissjóðs á þessu ári á fullan rétt á sér, vegna þess að það stefnir í algert óefni með rekstur ríkissjóðs, þegar útgjaldafylliríi Kófsins lýkur.  Það er ekki nóg að segja, að hagvöxtur og auknar tekjur muni bjarga málinu.  Sá vöxtur er engan veginn í hendi. Áhyggjur markaðarins um fjármögnun hallans eru þegar komnar fram sem hækkun á langtímaávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa.

Hald manna er, að í Evrópu verði kreppan langvarandi, en eitthvað skammvinnari í Bandaríkjunum.  Landsvirkjun hefur enn ekki verið beitt af krafti til að koma hjólum iðnaðarins í gang. Bráðabirgða Kófslækkun á rafmagni fyrirtækisins náði t.d. aldrei til ISAL.  Neikvæð afstaða fyrirtækisins til endurnýjunar orkusamninga við ISAL, Norðurál og Elkem Ísland sýnir svart á hvítu, að þar á bæ þekkja menn ekki sinn vitjunartíma, enda hafa nú bæði álfyrirtækin kvartað undan markaðsmismunun Landsvirkjunar við Samkeppnisstofnun.  

Ekki er hljóðið betra gagnvart Landsvirkjun á sviði kísiliðnaðar, svo að ekki sé nú minnzt á bændur eða fiskimjölsverksmiðjurnar.  Alls staðar er kvartað undan framkomu Landsvirkjunar á markaðinum.  Núverandi forstjóri hennar veður um eins og fíll í postulínsbúð. Þingmenn verða að veita stjórn fyrirtækisins aðhald, og þeir verða að fá fyrirtækinu leiðsögn um hlutverk þess gagnvart atvinnulífinu.  Núverandi forstjóri þess er á villigötum.

Þann 28. september 2020 birtist athyglisvert viðtal í Morgunblaðinu við nýjan forstjóra Elkem Ísland, Álfheiði Ágústsdóttur, en Elkem á og rekur járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga.

Viðtalið hófst þannig:

""Fjölbreytileiki í verðmætasköpun er afar mikilvægur.  Sú staðreynd finnst mér hafa komið vel í ljós á þessu ári, þegar aðstæður hafa gjörbreytzt, og ferðaþjónustan - sú atvinnugrein, sem hvað mestu skilaði á efnahagsreikning samfélagsins - er nánast dottin út", segir Álfheiður Ágústsdóttir, nýr forstjóri Elkem Ísland á Grundartanga. 

"Okkur hjá Elkem er metnaðarmál að starfa í góðri sátt við samfélagið og taka þátt í sameiginlegum verkefnum heimsins á sviði umhverfismála.  Nýting vistvænna orkugjafa, t.d. í framleiðslu á íblöndunarefni fyrir vel leiðandi rafmagnsstál, er e.t.v. stærsta framlag Íslands til alþjóðlegra loftslagsverkefna.  Við teljum okkur leggja mikið af mörkum."

Fjölbreytileiki fæst einmitt með stóriðjunni.  Það vita þeir, sem til þekkja, en til eru þeir, sem gaspra annað af vanþekkingu og molbúahætti.  Stóriðjan þarf á margs konar sérþekkingu að halda, og hún hefur fóstrað sprotafyrirtæki á sviði hugbúnaðar, rafmagns- og vélahönnunar.  Hún hefur þróað sjálfvirknibúnað í samstarfi við sprotafyrirtæki, sem síðan hafa haslað sér völl á sérhæfðum mörkuðum erlendis.  Orkukræfu fyrirtækin eru öflugir bakhjarlar og viðskiptavinir alls konar innlendra birgja. 

Stóriðjufyrirtækin eru brautryðjendur á sviði vinnustaðamenningar, öryggis- og gæðastýringar hérlendis.  Umhverfismál þeirra eru yfirleitt til fyrirmyndar.  Kolefnisspor íslenzkrar stóriðju per framleitt tonn er eitt hið minnsta í heiminum.  Að framleiða járnblendi, kísil eða ál á Íslandi felur í sér umhverfisvernd á heimsvísu og sjálfbæra verðmætasköpun landsmanna. 

""Helzta verkefni mitt sem forstjóri er að virkja sem bezt þekkingu og sterka liðsheild innan fyrirtækisins", sagði Álfheiður, þegar Morgunblaðið hitti hana í Hvalfirðinum fyrir helgina.  Þar kynnti hún blaðamanni helztu drættina í starfseminni, en hjá Elkem vinna um 180 manns.  Það er fólk, sem að stærstum hluta býr á Akranesi og í Borgarfirði.  Þá koma verktakar að mörgum þáttum starfseminnar hér.

"Ég tel, að starfsfólk okkar geti verið sátt með sitt, og við borgum ágætlega.  Launakostnaður Elkem Ísland er sá hæsti innan samstæðunnar, sem rekur alls 27 verksmiðjur víða um heim.""

Launakerfin á Íslandi mættu taka meira mið af afkomu fyrirtækjanna og launasamningar vera sveigjanlegri eftir breytingum í umhverfinu.  Stífar kröfur og stífir samningar ógna nú samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækjanna.  Þessi staða ýtir mjög undir aukna framleiðni, sem iðulega næst bezt með aukinni sjálfvirkni.  Það þýðir, að óbreyttri framleiðslu, færra starfsfólk.  Bezt er, ef fyrirtækin geta aukið framleiðslu sína samfara aukinni sjálfvirkni. Þá þarf ekki að fækka fólki. Til þess þurfa stóriðjufyrirtækin hins vegar meira rafmagn, og það hefur ekki verið fáanlegt undanfarið frá Landsvirkjun að sögn forstjóra Norðuráls.  Ef það er rétt, er tal forstjóra OR um 7,5 % umframorku í landinu núna þvættingur.  

""Þetta er háþróuð framleiðsla, sem við erum stolt af, ekki sízt vegna sterkrar markaðshlutdeildar í rafmagnsstáli, sem heldur viðnámi í orkuflutningum í lágmarki og sparar mikla og dýrmæta orku.  Á þessu sviði erum við stærsti framleiðandinn innan Elkem-samstæðunnar.  Þessar afurðir eru notaðar í spenna og mótora rafmagnsbíla, hástyrktarstál fyrir vindmyllur, hnífapör, kúlur, legur og bara allt milli himins og jarðar", eins og Álfheiður komst að orði."

Svipaða sögu má segja af öllum orkukræfu fyrirtækjunum.  Þau hafa náð langt í sérhæfingu og skilvirkni framleiðsluferla, þannig að tæknilega standa þau vel að vígi, en það er einn þáttur hér innanlands, sem veikir þau mjög, og það er skortur á rafmagni á samkeppnishæfum kjörum.  Það tekur því varla að minnast á hælbíta íslenzkrar stóriðju.  Þar eru blind afturhaldsöfl á ferðinni.  Ef þau hefðu alla tíð fengið með uppivöðslusemi sinni að ráða ferðinni, væri hér mun fámennara og fátækara samfélag með viðvarandi miklu atvinnuleysi.  Áróður þeirra hefur reynzt innistæðulaust froðusnakk.

""Úrskurður um rafmagnsverðið, sem gerðardómur kvað upp í maí í fyrra, eftir árangurslausar samningaviðræður við Landsvirkjun, hefur gjörbreytt samkeppnishæfni okkar til hins verra.  Því er að ýmsu að huga við að tryggja áframhaldandi rekstur til framtíðar", segir Álfheiður."  

Landsvirkjun var sett á legg til að tryggja samkeppnisstöðu fyrirtækja á borð við Elkem Ísland til langs tíma og samtímis að breyta fallorku vatns í gjaldeyri þjóðinni til handa með arðbærum hætti.

  Síðan núverandi forstjóri Landsvirkjunar tók þar við störfum 2010 á tímum vinstri stjórnarinnar alræmdu, hefur þessu hlutverki Landsvirkjunar verið snúið á hvolf.  Fyrirtækinu virðist nú vera ætlað að að ganga á milli bols og höfuðs á þeirri starfsemi, sem það var áður undirstaðan fyrir.  Þetta hefur aldrei verið vitlausari stefnumörkun en nú á tíma Kófsins, þegar samfélaginu er meiri nauðsyn en oft áður að nýta orkulindir sínar til að viðhalda vinnu og skapa fleiri störf og meiri gjaldeyri.

Það er stórfurðulegt, að svo virðist sem þingkjörin stjórn fyrirtækisins láti þessi ósköp gott heita, þótt Alþingi hafi raunar aldrei breytt upphaflegri stefnumörkun sinni við stofnun Landsvirkjunar 1965.  Að þessi hafvilla Landsvirkjunarskipstjórans skuli ekki vera leiðrétt nú í Kófinu af viðkomandi ráðherrum orku- og fjármála og þinginu öllu, er óskiljanlegt, því að öllum má ljóst vera, að Landsvirkjun grefur undan þjóðarhag með okurstefnu sinni. 

Samkvæmt upplýsingum fyrirrennara Álfheiðar í starfi forstjóra, er ekki lífvænlegur rekstrargrundvöllur fyrir starfseminni eftir téðan gerðardóm.  Sá dómur fór þó milliveg á milli deilenda.  Af stakri ósvífni sinni lýsti Landsvirkjun yfir, eftir uppkvaðningu úrskurðarins, að hún stefndi á að ná sínu takmarki, þegar gildistími úrskurðarins rennur út um 2028.  Af þessum sökum ákvað Elkem Ísland að leggja ýmis fjárfestingaráform sín til hliðar.  Þessi staða er stórskaðleg fyrir íslenzkt efnahagslíf og umsvifin á Vesturlandi og sérstaklega slæm núna í Kófinu.   

Núna heldur Landsvirkjun þremur stóriðjufyrirtækjum í gíslingu: Elkem Ísland og Norðuráli á Grundartanga og ISAL í Straumsvík.  Þegar hagkerfinu bráðliggur á að fá til sín allar fjárfestingar, sem völ er á, þá kemst ríkisfyrirtækið Landsvirkjun upp með að hindra vöxt og viðgang þessara fyrirtækja, og eru þá ekki öll upp talin. 

"Fyrirtækið hefur m.a. gefið út, fyrst stórra iðnfyrirtækja á Íslandi, að það stefni á að verða kolefnishlutlaust framleiðslufyrirtæki fyrir árið 2040.  Áherzlna að því markmiði sjái stað í öllum rekstrinum."   

Við skulum vona, að fyrirtækinu endist aldur til að raungera þetta fyrirmyndarmarkmið.  Það er fyrir neðan allar hellur, að ríkisfyrirtæki skuli vera helzti þrándurinn í götu Elkem Ísland og fleiri fyrirtækja að vinna að markmiðum, sem krefjast vinnuskapandi þróunarvinnu hér í landinu.  Áherzlur ríkisins eru á röngum stöðum í Kófinu. 

 

 

 

 


Fjárfestingar í raforkukerfinu

Nú er lag að fjárfesta í arðbærum verkefnum og samfélagslega nauðsynlegum verkefnum.  Ástæðurnar eru sögulega lágir vextir og slaki í hagkerfinu af völdum alþjóðlegra sóttvarna, sem hafa leitt til gríðarlegs atvinnuleysis, enda er nú hugur í mönnum hjá orkufyrirtækjunum, sbr þrífösun sveitanna og fækkun loftlína með jarðstrengjum.  Þó er Orkuveita Reykjavíkjur (OR) sér á báti í þessum efnum, og boðskapur forstjóra hennar, Bjarna Bjarnasonar, stingur í stúf við t.d. boðskap Samorku og áform annarra orkufyrirtækja. 

Bjarni Bjarnason bendir réttilega á, að spurn eftir raforku hafi á þessu ári dregizt saman um 1,5 TWh/ár (terawattstund á ári), sem nemur 7,5 % af framleiðslugetu raforkukerfisins.  Hann staðhæfir, að raforkuverð á Íslandi sé ekki lengur samkeppnishæft á alþjóðlegum markaði.  Þessi yfirlýsing hans er mjög mikilvæg, og það er hið markaðsleiðandi fyrirtæki á íslenzka raforkumarkaðinum, sem ber höfuðsök þessarar þróunar, sem er atlaga gegn íslenzku atvinnulífi.

Þótt Ísland sé ekki beintengt við erlend raforkukerfi, er íslenzk raforka samt í samkeppni á t.d. Innri markaði EES, af því að þangað fer mikið af íslenzkri framleiðslu, sem notar rafmagn. 

Þrátt fyrir að óbjörgulega horfi nú um stundir á raforkumarkaðinum, verður að vona og gera ráð fyrir, að viðkomandi ráðherrar, þ.e. formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sem ásamt öðrum Alþingismönnum, sem eru fulltrúar eigendanna, komi vitinu fyrir stjórn Landsvirkjunar eða leysi hana frá störfum ella, því að yfirverðlagning Landsvirkjunar er að valda þjóðfélaginu stórtjóni og mun halda aftur af þeirri viðspyrnu, sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur boðað og er öllum nauðsynleg. 

Nú er atvinnuleysi orðið svo víðtækt á Íslandi af völdum sóttvarnaraðgerða, að horfir til þjóðarböls.  Þetta böl er verra en Kófssjúkdómurinn sjálfur.  Með öllum ráðum þarf að létta þetta böl.  Það er m.a. hægt að gera með því að beita Landsvirkjun til að lækka orkukostnað fyrirtækja og heimila í landinu.

Nú verður vitnað í Markaðinn frá 24. september 2020 undir fyrirsögninni:

"Telur orkuverðið til stóriðju orðið of hátt".

Þessi frétt Fréttablaðsins hófst þannig:

"Raforkusamningar við stórnotendur á Íslandi, sem hafa verið endurnýjaðir á síðustu árum, hafa gert það að verkum, að raforkuverð er ekki lengur samkeppnishæft við verð erlendis.  Af þeim sökum er einsýnt, að fleiri stórnotendur á Íslandi lendi í rekstrarvanda á næstunni.  Þetta er [á] meðal þess, sem kemur fram í umsögn Bjarna Bjarnasonar, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, um Kerfisáætlun Landsnets fyrir árin 2020-2029, sem Fréttablaðið hefur undir höndum.

Í umsögninni segir, að bæði kísilverin á Íslandi, við Helguvík á Suðurnesjum og á Bakka við Skjálfanda, hafi nýlega stöðvað starfsemi.  Þar að auki hafi álver Rio Tinto við Straumsvík dregið mjög úr framleiðslu, og að gagnaverin á Íslandi hafi dregið úr rafmagnskaupum sínum um þriðjung."

Hér gætir mikillar svartsýni á þróun efnahagsmála á Íslandi.  Svona skipstjóri í stórsjó mundi telja tilgangslaust að ausa skektuna og að róa lífróður. Fjármála- og efnahagsráðherra aftur á móti boðar viðspyrnu.  Ástandið á raforkumarkaðinum er að miklu leyti afleiðing af ofurverðlagningu Landsvirkjunar á raforku, sem er úr öllum takti við það, sem gerzt hefur undanfarið ár, t.d. í Noregi og Svíþjóð.  Verðlagning og stirðbusaháttur Landsvirkjunar gagnvart álverunum hér SV-lands og Elkem Íslandi á Grundartanga, gagnaverum o.fl., hefur þegar valdið hér stórtjóni, minni umsvifum og minni fjárfestingum en ella. 

"Að þessu samanlögðu nemur samdráttur í raforkukaupum á Íslandi um 1,5 TWh/ár eða um 7,5 % af árlegri vinnslugetu raforku á Íslandi. Bjarni bætir því jafnframt við í umsögn sinni, að "ekki sé ólíklegt, að álveri Rio Tinto verði lokað á  næstunni", en það myndi þýða, að um 22 % af því rafmagni, sem hægt er að vinna á landinu m.v. núverandi uppsett afl, verði hreinlega óseld."

Hérna er farið frjálslega með.  Hvaðan hefur Bjarni Bjarnason það, að búast megi við lokun ISAL "á næstunni", og hvað er "á næstunni" í hans huga ?  Þótt Rio Tinto hafi afskrifað ISAL í bókum samstæðunnar, hefur stjórn hennar enn hug á að framleiða þá hágæðavöru á Íslandi, sem nú er framleidd í Straumsvík.  Rio Tinto/ISAL-samstæðan  telur sig hins vegar misrétti beitta af hálfu Landsvirkjunar og hefur kært framferði hennar til Samkeppnisstofnunar. Landsvirkjun kann að gera  Rio Tinto ókleift að starfa hér með því að þverskallast við að aðlaga raforkuverðið að heimsmarkaði, og þá verður lokun eigi síðar en 2024, en þá opnast gluggi til endurskoðunar samninga. Deilur við verkalýðsfélögin núna kunna reyndar að setja nýtt strik í reikninginn.  Verkföll eru viðurkennd "force majeure" leið til að stöðva starfsemi.  Það er mjög dýrt að endurgangsetja álver, og slíkt verður ekki farið út í, nema horfur séu á arðbærum rekstri.  

Hlutfallið 22 % af orkuvinnslugetu landsins til Straumsvíkur er löngu úrelt.  Þegar Rio Tinto hætti  við að styrkja straumleiðara kerskála 1 & 2 í Straumsvík, var hluta af umsaminni afl- og orkuaukningu skilað til baka og greiddar skaðabætur vegna óseldrar orku á samningstíma.  Hlutfall ónotaðrar orku í kerfinu vegna lokunar ISAL mundi nema tæplega 17 %. Landsvirkjun má hins vegar ekki ráðstafa 85 % af þessari orku, á meðan hún rukkar Rio Tinto/ISAL fyrir hana (kaupskylda eftir lokun), svo að það er allsendis ótímabært að flækja þessu máli inn í vangaveltur um virkjanaþörf o.þ.h. Hvað téðum forstjóra gengur til með því að vaða á súðum, eins og hann gerir, er óljóst: 

"Í umsögn Bjarna segir jafnframt, að "taumlaus uppbygging áliðnaðar í Kína" valdi því, að alþjóðlegur álmarkaður sé afar erfiður um þessar mundir og að ekkert bendi til þess, að landið fari að rísa í bráð.  Forstjórinn nefnir einnig, að áliðnaður á Vesturlöndum gæti hreinlega lagzt af, ef staða álmarkaða lagist ekki á næstu árum, og eigi það hugsanlega einnig við um álver Alcoa á Reyðarfirði og Norðurál við Grundartanga."

Þetta er svartagallsraus í forstjóra OR.  Álverðið hefur braggazt síðsumars og í haust.  Dettur nokkrum  heilvita manni í hug, að hinum strategískt mikilvæga áliðnaði í Evrópu verði leyft að lognast út af eða hann verði fluttur annað.  Evrópusambandið mun vinna gegn slíku, og þar á bæ er nú þegar rætt um að setja kolefnistoll á innflutt ál inn á Innri markaðinn.  Slíkt mun skakka leikinn, sem er mjög ójafn og ósanngjarn núna.

Þá má benda á nýlegt viðtal í Fréttablaðinu við Gunnar Guðlaugsson, forstjóra Norðuráls, þar sem hann lýsir bjartsýni sinni um framtíð álframleiðslu í Evrópu á grundvelli gæða, sérhæfingar og "grænnar" raforku. Líklegt má telja, að Evrópa verði í fararbroddi þróunar kolefnisfrírrar álframleiðslu, en tilraunaverksmiðja með s.k. eðalskaut mun hefja starfrækslu í rannsóknarmiðstöð Rio Tinto í Frakklandi á næsta ári. 

"Tilefni umsagnar Bjarna er fyrirætlun Landsnets um að fjárfesta fyrir um mrdISK 90 í flutningskerfi raforku á Íslandi á næstu 10 árum.  Bjarni segir í samtali við Fréttablaðið, að þetta myndi þýða, að efnahagsreikningur Landsnets myndi u.þ.b. tvöfaldast.  Flutningskostnaður, sem Landsnet rukkar viðskiptavini sína um, ákvarðast aðallega af eignastofni fyrirtækisins, og þar af leiðandi myndi flutningskostnaður viðskiptavina óumflýjanlega hækka."

Hér er ýmislegs að gæta.  Framkvæmdir Landsnets á síðasta áratugi lágu að miklu leyti í láginni, og þess vegna er brýnt að stöðva fyrirtækið ekki núna með áform sín um að meðaltali 9,0 mrdISK/ár fjárfestingar næsta áratuginn.  Það veitir ekki af þeirri miklu aukningu, sem þar er áformuð, til að reisa nýja og öflugri Byggðalínu frá Hvalfirði til Skriðdals og til að styrkja flutningskerfi Vestfjarða verulega, en þar er afhendingaröryggi raforku óviðunandi og reyndar ekki mannsæmandi. Landsnet getur bætt verulega úr skák, en vegna veikleika í Vesturlínu þurfa Vestfirðingar að verða sjálfum sér nógir um rafmagn fyrir vaxandi íbúafjölda, sífellt öflugra atvinnulíf og orkuskiptin. Þetta eru bara 2 dæmi um fjölmargar áætlaðar framkvæmdir í Kerfisáætlun Landsnets.   

Það er rangt, að flutningsgjald Landsnets þurfi óhjákvæmilega að hækka vegna þessarar innspýtingar í framkvæmdir.  Núna eru einfaldlega óeðlilega miklar arðsemiskröfur gerðar til fyrirtækisins.  Þær þurfa að lækka, og það þarf að leyfa fyrirtækinu að dreifa fjármagnskostnaði á fleiri ár en nú er gert.  Þetta er í höndum Landsreglarans í Orkustofnun (hann á sæti í tæknistjórn ACER-Orkustofnunar ESB).  Hvers vegna ætti Evrópusambandið ekki að leyfa flutningsfyrirtæki raforku á Íslandi að draga úr tjóni þar með því að auka afhendingaröryggið og minnka orkutöpin án þess að krefjast fljóttekinnar arðsemi mannvirkjanna ?  Allt eru þetta þjóðhagslega hagkvæmar framkvæmdir, og Ísland og Noregur gegna lykilhlutverki í aðfangakeðju ESB á sviði framleiðslu úr áli.   

""Sumir stórnotendur rafmagns á Íslandi eru þegar við sársaukamörk, þegar kemur að raforkukostnaði, og það er einsýnt, að hækkandi flutningskostnaður myndi þýða minni kaup á raforku.  Þá þarf Landsnet að hækka verðskrána, sem myndi enn frekar draga úr eftirspurn.  Þarna gæti myndazt spírall, sem ekki endaði vel", segir hann og bætir við, að fjárfestingaáætlun Landsnets byggist á forsendum um vöxt, sem ekki byggi á veruleikanum, eins og hann blasir nú við.  Allverulegar líkur séu á því, að offramboð rafmagns verði á Íslandi til skamms eða langs tíma. "Það þýðir mikið tekjutap fyrir þjóðina, því [að] það getur tekið mörg ár að koma þessu rafmagni í vinnu aftur."" 

Þarna er um að ræða blöndu vanþekkingar og misskilnings.  Sumir stórnotendur, þ.m.t. sá, sem nú á erfiðast uppdráttar, töldu hyggilegra við samningsgerð að tryggja sig gegn hækkun gjaldskráar Landsnets, sem Bjarni Bjarnason telur nú hættu á, með því að semja við Landsvirkjun um, að hún mundi greiða flutningskostnaðinn hverju sinni.  Það var líka sanngjarnt í ljósi mikillar eignaraðildar Landsvirkjunar að Landsneti.  

Það er misskilningur, að hægt sé að fresta bráðnauðsynlegum framkvæmdum Landsnets vegna samdráttar í sölu rafmagns, sem að miklu leyti er sjálfskaparvíti Landsvirkjunar, sem þrjózkast við að aðlaga sig breytingum í nálægum löndum á raforkumarkaði, þegar þær breytingar eru til lækkunar, en taldi sjálfsagt að víkja frá upphaflegri stefnu fyrirtækisins um að beita rafmagninu til að laða að fjárfestingar og auka með því verðmætasköpun í landinu mjög með því að lækka verðið rétt niðurfyrir það, sem þá tíðkaðist í samkeppnislöndunum. Samt var rekstur Landsvirkjunar ætíð arðsamur.  

Síðan kemst Bjarni Bjarnason í mótsögn við sjálfan sig:

"Að mati Bjarna ættu fjárfestingar Landsnets að miðast við að bæta afhendingaröryggi til almennings.  [Gera þær það ekki ? - innsk. BJo.] Með því væri komið í veg fyrir aðstæður, eins og mynduðust á Norðurlandi í vetur, þar sem mikið óveður sló út rafmagni á m.a. stórum svæðum í Eyjafirði.  

Kerfisáætlun Landsnets byggist m.a. á spá Orkustofnunar um þróun raforkunotkunar á Íslandi til næstu áratuga.  Í nýjustu skýrslu orkuspárnefndar stofnunarinnar mun aukin eftirspurn raforku kalla á nýjar virkjanir til ársins 2050, en árleg aukning eftirspurnar raforku er talin munu verða um 1 % fram til ársins 2050."

Auk þess að styrkja flutningslínur og leggja jarðstrengi til að auka ófullnægjandi afhendingaröryggi þarf Landsnet að anna flutningsþörf hámarksafls.  Landsnet leitast líka við að halda orkutöpum flutningskerfisins innan hóflegra marka.  Þannig eru margvíslegar tæknilegar ástæður að baki framkvæmdaþörf Landsnets.  Það getur ekki verið of í lagt að miða við 1 %/ár aukna raforkunotkun landsmanna, þegar þess er gætt, að raforkunotkun og landsframleiðsla haldast í hendur.  Þótt nú sé slaki í hagkerfinu um sinn og þar af leiðandi minni spurn eftir raforku en áður (fallið er óeðlilega mikið vegna okurs einokunarfyrirtækisins Landsvirkjunar), þá er ekkert vit í að draga úr fjárfestingum Landsnets af þeim sökum, enda hafa þær flestar dregizt úr hömlu.

Ofan á aukningu eftirspurnar rafmagns, sem tengist fjölgun fólks og aukinni verðmætasköpun, kemur nú aukning vegna orkuskiptanna, og þar munar fyrst um sinn mest um einkabílaflotann, en hann nemur nú um 280 k (k=þúsund) bifreiðum. Meðalakstur er um 13 kkm/ár, og við íslenzkar aðstæður þarf að reikna með 0,3 kWh/km að meðtöldum töpum frá virkjun.  Ársnotkun hvers einkabíls er þannig 3,9 MWh/ár, og alls flotans 1,1 TWh/ár.   Þetta er nálægt tvöföldun núverandi heimilisnotkunar og 5,5 % aukning m.v.  meðalvinnslugetu núverandi virkjana. 

Það er ekki ólíklegt, að rafvæðing bílaflotans og fleiri tækja á næstu 10 árum muni útheimta þessa orku.  Ef veitufyrirtækjunum tekst vel til við að dreifa álaginu yfir sólarhringinn, mun aðeins þurfa 200 MW uppsett afl til að anna álagstoppinum, en líklegra er, að 400 MW virkjað afl þurfi til þess.  Mikil endurhleðsla að nóttu mun aðeins fara fram, ef hvati til þess kemur fram á markaðnum.  Forsenda er uppsetning snjallorkumæla hjá notendum, og hún hefur enn ekki hafizt í umtalsverðum mæli. 

Hin stærri farartæki munu verða knúin með eldsneyti, sem þarf raforku til að framleiða, t.d. vetni.  Það er líklegt, að á næstu 5 árum komi fram fjárfestir, sem vilji hefja vetnisframleiðslu hér á landi með rafgreiningu á vatni fyrir innlendan og erlendan markað.  Þá margfaldast ofangreind orkuþörf.  Allt tal um, að ekkert þurfi að virkja hér á landi á næstu árum, er úr lausu lofti gripið.  Þeir, sem vilja halda sig við þann afturhaldsboðskap, eru að fórna tækifærum til hagvaxtar og gjaldeyrissköpunar, sem eru undirstaða þess, að hér verði sæmileg lífskjör og unnt að greiða niður Kófsskuldina (yfir mrdISK 1000) tiltölulega hratt.  Til að borð verði fyrir báru ber að stefna að opinberum skuldum undir 25 % af VLF. Það sannast bezt á því, hversu tiltölulega skaðlítil veira getur snarað fjárhag ríkis og sveitarfélaga á fáeinum mánuðum undir kvið. 

"Forsendur Landsnets um 2,2 % aukningu á ári miðast við, að orkuskipti muni ganga hratt fyrir sig, m.a. með örri fjölgun rafbíla.  Bjarni bendir á, að rafbílar kalli ekki á stórtækar fjárfestingar, hvorki í dreifikerfum né virkjunum.  "Ef öllum einkabílum landsins yrði ekið á rafmagni á morgun, þá myndi það kalla á u.þ.b. 3,5 % af því rafmagni, sem við framleiðum í dag.  Nú þegar eru 7,5 % af rafmagni í landinu á lausu og því engin þörf á að virkja til að knýja rafbíla. Þar að auki eru rafbílar í langflestum tilfellum hlaðnir á nóttunni, sem dregur úr álagi á flutningskerfi Landsnets, og því þarf ekki að fjárfesta í flutningskerfinu til að anna eftirspurn vegna rafbíla."

Forstjóri OR fer hér létt yfir sögu og vanmetur orku- og aflþörf vegna rafbíla, sem er alls ekki til eftirbreytni fyrir þá, sem ábyrgir eru fyrir afhendingaröryggi raforku.  Við áætlun sína á raforkuþörf rafbíla virðist hann taka mið af uppgefnum notkunartölum framleiðenda.  Hann gæti hafa notað 0,19 kWh/km og sleppt töpum í dreifikerfi, flutningskerfi og í virkjunum. Fyrir íslenzkar aðstæður (lágt útihitastig, vindasamt) er ráðlegast að reikna með 0,3 kWh/km séð frá virkjun, og þá nemur orkuþörfin ekki 3,5 % af núverandi orkuvinnslugetu, heldur 5,5 %, og á þessum tölum er marktækur munur. 

 Enn óráðlegra er að taka mark á málflutningi Bjarna Bjarnasonar um, að núverandi orkuvinnslugeta í kerfinu umfram eftirspurn á markaði, 7,5 %, sé ástæða til að halla sér á hliðina og virkja ekkert um sinn.  Á fáeinum mánuðum geta aðstæður á markaði gjörbreytzt, og m.v. aðdraganda að virkjun, sem að lágmarki eru 3 ár, en með leyfisveitingum og verkhönnun a.m.k. tvöfalt lengri, er þessi stefna forstjórans ekki ávísun á annað en afl- og orkuskort í landinu, sem ber að forðast í lengstu lög.

Athyglisvert er, að forstjórinn telur enga þörf á umtalsverðum fjárfestingum í veitukerfum OR eða í öðrum dreifiveitum, og heldur ekki í flutningskerfi Landsnets vegna rafbílavæðingar.  Þetta rökstyður hann með innleiðingu snjallorkumæla.  Ánægjulegt er, að OR ætlar að setja háar upphæðir í flýtingu verkefna vegna bágborins atvinnuástands á næsta ári.  Þ.á.m. á að hefja uppsetningu stafrænna orkumæla árið 2021.  Þetta og hagkvæmur næturtaxti fyrir neytendur er alger forsenda fyrir því, að dreifiveitum takist að draga úr fjárfestingarþörf vegna rafbílavæðingar.  Hins vegar getur endurhleðsla utan heimahúsa ekki farið fram að næturlagi, svo að nokkru nemi, og orkan, sem fer á bílana á s.k. hraðhleðslustöðvum, er áreiðanlega umtalsverður hluti heildarorkuþarfar rafmagnsbíla.

Bjarni Bjarnason virðist vera einn á báti innan orkugeirans  með kenningar sínar um virkjanaþörf í nánustu framtíð. Þannig var frétt með eftirfarandi fyrirsögn í Morgunblaðinu 24. september 2020:

"Stækka Reykjanesvirkjun um 30 MW".

Hún hófst svona:

"HS Orka hyggst hefjast handa við 30 MW stækkun Reykjanesvirkjunar á næstunni, og með því verður framleiðslugeta aukin úr 100 MW í 130 MW. Verkfræðingar HS Orku hafa unnið að hönnun og undibúningi þessa síðustu misseri ásamt ráðgjöfum, og eru öll formsatriði í höfn.  Auglýst verður eftir tilboðum í verkið á næstu dögum."  

Í þessu jarðhitavirkjunarfyrirtæki er enginn bilbugur á mönnum.  Þarna eiga úrtölumenn ekki upp á pallborðið, jafnvel ekki þótt jörðin skjálfi undir þeim og kvikuinnskot hækki Þorbjörn, sem er í hlaðvarpa Svartsengisvirkjunar.  Þar er HS Orka með aðra 30 MW stækkun á prjónunum.  Fjárfestingar þar í öðru en hraunvörnum bera þó keim af ofdirfsku, eins og sakir standa.

Því miður er flutningsgerfi Landsnets vanbúið að taka við verulegri viðbótar flutningsþörf til Suðurnesja, ef allt fer á versta veg, og landskerfið getur ekki séð Suðurnesjum fyrir nauðsynlegu og öruggu afli, ef náttúruöflin slá 175 MW afli út úr framleiðslukerfinu.  Það eitt sýnir, hversu fánýtur málflutningur Bjarna Bjarnasonar er um, að engin þörf sé núna á nýjum virkjunum.  Það er þvert á móti mikil þörf fyrir þær afhendingaröryggisins vegna.

Fréttin endaði svona:

""Að stækka virkjanir, sem fyrir eru, eða [að] fá orku frá smávirkjunum, sem framleiða 1-10 MW, er mjög heppilegt m.v. núverandi aðstæður á Íslandi.  Almennt eykst eftirspurn eftir orku [þ.e. afli - innsk. BJo] um 10-20 MW á milli ára, og þessar litlu virkjanir falla vel að þeirri aukningu", segir Tómas Már."    

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband