Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
29.9.2020 | 10:34
Ríkisvaldið er fjötur um fót
Það virðast illa fara saman hljóð og mynd, þegar kemur að þætti ríkisvaldsins við að liðka fyrir um afgreiðslu ýmiss konar umsókna um leyfi til framkvæmda eða aukningar rekstrarumsvifa, svo að ekki sé nú minnzt á hugmyndir um endurskoðun raforkusamninga sem forsendu fyrir fjárfestingum.
Baksviðsfrétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 9. september 2020 fjallaði um tilraunir Jóns Gunnarssonar við að ýta við ráðherrunum, sem sumum hverjum virðist vera tamara að tala um það, sem þarf að gera til að skapa viðspyrnu til að komast út úr Kófskreppunni, en að láta hendur standa fram úr ermum. Þetta er þýfgað hér, því að tíminn er dýrmætur:
"17 umsóknir frá árunum 2015-2018 til fiskeldis og fiskvinnslu voru óafgreiddar hjá Matvælastofnun, þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svaraði fyrirspurn Jóns Gunnarssonar, alþingismanns, um stöðu umsókna um starfsleyfi [á líklega að vera rekstrarleyfi, sem eru á könnu MAST-innsk. BJo]. Þá voru 23 umsóknir frá árinu 2019 óafgreiddar og 19 frá 2020. Flestar umsóknirnar eru um rekstrarleyfi vegna fiskeldis.
Í svari iðnaðarráðherra kom fram, að 21 umsókn um nýtingarleyfi og virkjanaleyfi er óafgreidd hjá Orkustofnun; þær elztu frá janúar 2019.
Umhverfisráðherra hefur ekki svarað fyrirspurn þingmannsins."
Það er sleifarlag af hálfu umhverfis- og auðlindaráðherra að svara ekki fyrirspurn um málefni, sem miklu skiptir, að sé í lagi núna, þegar kreppa hefur lagzt yfir efnahagslífið og mest ríður á, að ríkisvaldið þvælist ekki fyrir fjárfestingum einkaframtaksins, sem hafa illu heilli dregizt mikið saman. Á þeim tíma leggur þessi ráðherra meiri áherzlu á friðlýsingar og að koma fram opinberlega og tengja nafn sitt við það, sem hann telur til vinsælda fallið, enda maðurinn á leið í framboð til Alþingis.
Þessi öfugsnúna forgangsröðun ráðherrans vitnar um ábyrgðarleysi og léttúð gagnvart atvinnu fólks og verðmætasköpun í landinu, sem hann margoft áður á ferli sínum hefur gerzt sekur um, t.d. sem framkvæmdastjóri Landverndar. Þessu hampar Vinstri hreyfingin - grænt framboð. Verði henni að góðu. Stórtækar bremsur á framfarir í landinu undir hans ráðuneyti eru Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun. Kannski þolir syndalistinn ekki dagsljósið.
Það er auðvitað gjörsamlega óviðunandi, að Matvælastofnun skuli hanga yfir starfsleyfisumsóknum í hálfan áratug. Séu umsóknirnar formlega ófullnægjandi, ber að leiðbeina og hjálpa umsækjanda og koma honum á sporið. Ef það, sem sótt er um, uppfyllir ekki efnislegar kröfur laga, reglugerða eða aðrar viðmiðanir stofnunarinnar, á hún að hafna umsókninni með rökstuddum hætti. Sú afgreiðsla er þá kæranleg af hagsmunaaðilum.
Athygli vekja margar óafgreiddar umsóknir um virkjana- og nýtingarleyfi auðlinda, þótt ekki séu þær ýkja gamlar. Nú verða þær væntanlega afgreiddar á grundvelli Þriðja orkupakka Evrópusambandsins af Landsreglaranum ("National Energy Regulator") og þess vegna allar samþykktar á endanum, ef þær uppfylla kröfur um vistvæna orkuvinnslu. Á þeim bænum hefur "græn" orkuöflun forgang fram yfir verndun óbreyttra árfarvega o.s.frv.
"Hann [Jón Gunnarsson] segist hafa kallað eftir því, að áætlun um það, hvað hægt sé að gera til að koma atvinnuverkefnum hraðar í gegnum frumskóg leyfisumsókna, án þess að slaka á kröfum, sem til þeirra eru gerðar."
Það ætti að vera höfuðviðfangsefni stjórnsýslunnar núna að vinda bráðan bug að afgreiðslu leyfisumsókna, sérstaklega í þeim tilvikum, þar sem "strax" er hægt að fara í framkvæmdir, þ.e. fjármagn til fjárfestinga er til reiðu. Ekki er átt við að stimpla eigi slíkar umsóknir rýnilaust, heldur að leiða þær til lykta, fá nauðsynlegar viðbótar upplýsingar strax og samþykkja eða hafna umsókn eftir atvikum.
"Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir í svari sínu, að Matvælastofnun hafi ekki getað afgreitt hluta af þeim rekstrarleyfum fyrir fiskeldi, sem sótt hafi verið um, vegna þess að umsækjandi hafi ekki skilað fullnægjandi gögnum.
Ráðherra lætur þess einnig getið, að [á] meðal aðgerða ráðuneytisins til að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins hafi verið að flýta afgreiðslu rekstrarleyfa í fiskeldi, og sé sú vinna í gangi hjá Matvælastofnun."
Frumkvæði ráðuneytisins til að laga það, sem hallast hefur á merinni, er lofsvert, en afsökun Matvælastofnunar er dæmigerð fyrir búrókrata. Ef gögn eru ófullnægjandi að mati búrókratans, þá leggur hann umsóknina á ís. Það er ekki nóg að vanda um við hina búrókratísku stofnun; það verður að leggja henni lífsreglurnar, þegar kemur að verklagi, og ráðuneytið þarf að fylgjast með málahala þessarar stofnunar, því að tafir hennar eru kostnaðarsamar og jafngilda í mörgum tilvikum töpuðu fé. Kannski Matvælastofnun þurfi hvatakerfi frá ráðuneytinu ? Þetta snýst þó aðeins um, að allir starfsmenn vinni vinnuna sína af kostgæfni.
Jón Gunnarsson nefndi þrautagöngu Kalkþörungafélagsins og sagði síðan:
""Ég á líka við laxeldið. Þar eru gríðarleg tækifæri fyrir íslenzkt samfélag til sköpunar verðmæta og atvinnu og einnig í byggðaþróun. Ég tel, að við þurfum að finna leiðir til að greiða verkefnum leið. Það er okkar svar við þeim erfiðu aðstæðum, sem við erum í, og hvernig við eigum að vinna okkur út úr þeim", segir Jón og bætir því við, að hann hafi fulla trú á því, að ferðaþjónustan komi sterk inn aftur, þegar löndin opnast."
Varðandi hið síðast nefnda er rétt að benda á þá staðreynd, sem ekki hefur sézt í umræðunni, að senn verða 30 milljón manns í heiminum, sem engin smithætta stafar af, hafa bólusett sig sjálfir gegn COVID-19 með því að vinna bug á veirunni. Þeir hafa myndað mótefni sjálfir gegn SARS-CoV-2-veirunni og geta fengið skírteini um það. Íslenzk yfirvöld viðurkenna engin slík skírteini enn þá, en þau gætu samt boðið þetta fólk velkomið til Íslands í lögmætum erindum með skírteinið sitt gegn blóðprufu á landamærunum og að hámarki eins dags sóttkví, þar til óyggjandi niðurstaða fæst, sem staðfestir skírteinið.
Nú fer því fólki ört fjölgandi í heiminum, sem náð hefur bata eftir COVID-19. Það verður varla öðru trúað en Schengen-stjórnin (framkvæmdastjórn ESB o.fl) veiti þessu fólki fararleyfi inn fyrir Schengen-landamærin gegn framvísun viðurkennds skírteinis og e.t.v. gegn viðbótarskilyrðum, sem hvert land ákveður. Staða ferðaþjónustunnar hérlendis er skelfileg, og allt er hey í harðindum.
26.9.2020 | 13:48
Tækifærin í hrönnum, en doðinn veldur stöðnun
Hagkerfi Íslands, eins og annarra landa, er mjög illa leikið eftir "Wuhan-veiruna", sem þó er ofmetnasta veira, hvað hættu áhrærir, sem um getur. Þótt hún hafi verið viðkvæmum skeinuhætt, er samt barnaleikur að eiga við hana í samanburði við það, sem skotið getur upp kollinum veirukyns, og nægir að nefna hina skelfilegu ebólu, sem olli mörgum fjörtjóni í Vestur-Afríku fyrir nokkrum árum og var með 10-100 sinnum hærra dánarhlutfall sýktra en SARS-CoV-2-veiran, sem fyrst varð vart við í Wuhan-borg í Kína, svo að vitað sé, í nóvember-desember 2019.
Fjármála- og efnahagsráðherra Íslands hefur sagt, að rétta leiðin út úr kreppunni sé að auka tekjur þjóðarbúsins, auka gjaldeyristekjur og verga landsframleiðslu. Undir þetta er hægt að taka, en vandinn og e.t.v. vonbrigðin eru þau, að ríkisvaldið skuli ekki liðka til fyrir einkaframtakinu, þar sem það liggur beint við og er ríkinu útlátalítið, á heildina litið.
Áliðnaðurinn er einn af þeim geirum, sem býður upp á þetta, þótt það stingi í stúf við ýmsar fréttir að undanförnu. Álverðið hefur verið að braggast, og vaxandi skilningur er á því á Innri markaði EES, að sanngjarnt og umhverfislega æskilegt á heimsvísu sé að tollleggja vöru með hliðsjón af kolefnisspori hennar. Er þá ekki að orðlengja, að staða álvera á Íslandi og í Noregi á markaðinum mundi batna, enda verða samkeppnisskilyrðin þar með eðlilegri.
Njáll Trausti Friðbertsson, Alþingismaður, ritaði góða grein í Morgunblaðið 1. september 2020, sem hann nefndi:
"(Ál)iðnaður, ein af grunnstoðum íslensks efnahagslífs".
Það er mjög ánægjulegt, að þingmaður skuli skilmerkilega í blaðagrein vekja athygli á útflutningsgrein, sem moldvörpur hafa af kunnri smekkleysu sinni grafið undan um langa hríð.
Því miður hefur sá og höggvið, er hlífa skyldi, en fjandskapur ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar við þessa atvinnustarfsemi frá 2010 hefur fáum dulizt. Á sama tíma og mætir þingmenn benda á fjárfestingar einkaaðila, t.d. í laxeldi, sem eru strandaðar í leyfisveitingafrumskógi hins opinbera, þvermóðskast Landsvirkjun við að hleypa nýju lífi í fjárfestingar í íslenzkum áliðnaði.
Ef samið verður um lækkun orkuverðs til ISAL úr hæstu hæðum, verður hleypt lífi í framkvæmdir í Straumsvík, sem frestað hefur verið í nokkur ár vegna slæms fjárhags, en lágt afurðaverð og mjög hátt raforkuverð hefur sligað fjárhaginn með alvarlegum afleiðingum fyrir stöðu ISAL innan samsteypu Rio Tinto.
Á Grundartanga eru merkileg fjárfestingaráform á döfinni, sem eru þó skilyrt við endurnýjaðan raforkusamning við Landsvirkjun. Landsvirkjun hefur dagað uppi með stefnu sína um stórgróða og arðgreiðslur eftir því. Hvernig stendur á því, að nú, þegar hæst þarf að hóa, skuli eigandinn, ríkissjóður, ekki beita sér fyrir því, að Landsvirkjun liðki með verðlagningu raforku fyrir nýjum fjárfestingum í landinu, eins og hún var stofnuð til að gera ? Það væri algerlega í anda boðskapar fjármála- og efnahagsráðherra nú um leið landsmanna út úr kreppunni.
Grípum niður í grein Njáls Trausta:
"Það er þó staðreynd, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að stóriðjan á Íslandi og raforkuframleiðsla hefur byggt mikilvægan grunn undir íslenzkt efnahagslíf. Sem dæmi má nefna mikilvægi álframleiðslunnar í framhaldi af bankahruninu, þar sem gjaldeyristekjur af álframleiðslu ásamt vexti í ferðaþjónustu kom okkur Íslendingum á undraskömmum tíma út úr erfiðri kreppu."
Það munaði mjög mikið um fjárfestingar Rio Tinto í Straumsvík á tímabilinu 2010-2013. Þá var þar fjárfest fyrir MUSD 500, sem á núverandi gengi nemur tæplega mrdISK 70. Fjárfest var í stækkun afriðlastöðvanna þriggja og nýju þétta- og síuvirki til að hækka aflstuðul við inntak aðveitustöðvar yfir 0,98, keyptir voru viðbótar straumteinar til að kerskálar gætu tekið við hærri straumi frá afriðlastöðvum og framleiðslubúnaði steypuskála var umbylt, svo að í stað álbarra (rétthyrningslaga í þversnið allt að 30 t) yrðu framleiddar álstengur (hringlaga í þversnið), o.fl. var gert til að styðja við aukna og verðmætari framleiðslu. (Hár aflstuðull bætir nýtingu búnaðar virkjana og flutningskerfis.)
Þá voru og reistar 2 nýjar hreinsistöðvar fyrir kerreykinn til að uppfylla nýjar og strangar kröfur um hámarkslosun flúoríðs í ögnum út í andrúmsloftið og vetnisflúoríðs á gasformi á hvert framleitt tonn áls. Hefur þetta allt reynzt vel, en Rio Tinto hætti við uppsetningu straumteinanna, þótt slíkir hafi verið settir upp í systurverksmiðjunni, SÖRAL, í Noregi, og sú ákvörðun hefur takmarkað framleiðsluaukninguna og þar með þá framleiðniaukningu, sem að var stefnt með fjárfestingunni.
Þegar ISAL tók til starfa 1969, var síldin horfin, svo að þessar miklu og stefnumarkandi fjárfestingar í Straumsvík og í Búrfellsvirkjun linuðu kreppuna, sem af síldarleysinu leiddi, og iðnvæðingin, sem í hönd fór, bætti lífskjörin og dró úr efnahagssveiflum í landinu. ISAL hefur þannig alla tíð frá 1967 (framkvæmdir) jafnað hagsveiflurnar á Íslandi. ISAL getur enn stuðlað að viðspyrnu, ef fyrirtækið fær raforkuna á samkeppnishæfu verði, sem er fjarri lagi nú (tæplega 40 USD/MWh með flutningsgjaldi).
Nú skal enn vitna í Njál Trausta:
"Álframleiðslan á Íslandi er í dag um 16 % af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar [2019: 214/1344], eins og við þekkjum síðustu árin, og kostnaður álvera á Íslandi í fyrra nam um mrdISK 91 innanlands. Það eru beinharðar gjaldeyristekjur fyrir íslenzkt þjóðarbú. Samkeppnishæfni íslenzkrar álframleiðslu snýr því einna helzt að tveimur þáttum; annars vegar að því, að Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og hins vegar að aðgengi að grænni raforku á hagstæðum kjörum."
Raforkuverðið, sem ISAL býr við, er um þessar mundir hið hæsta í Evrópu, og þótt víðar væri leitað. Það er fjarri lagi, að rafmagnið sé á hagstæðum kjörum fyrir alla stórkaupendur, og það er ekki hagfellt fyrir seljandann heldur, því að kaupendur hafa af þessum sökum dregið úr kaupunum sem mest þeir mega, og í Straumsvík mun eigandinn neyðast til að stöðva verksmiðjuna löngu áður en samningstímabilið rennur út (2036), ef svo heldur fram sem horfir.
Rio Tinto/ISAL hefur nú fært ágreining sinn við Landsvirkjun til Samkeppnisstofnunar, og það kann að verða aðeins fyrsta skrefið í langvinnri lögfræðilegri þrætuvegferð, sem getur vel borizt alla leið til ESA í Brüssel. Það er tæplega eftirsóknarvert fyrir einokunarfyrirtækið Landsvirkjun, sem er sem bergþurs á íslenzkum orkumarkaði. Frá sjónarmiði ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA gæti þörfin á að skapa raunverulega samkeppni á íslenzka raforkumarkaðinum blasað við og liður í því verið að búta Landsvirkjun niður, en er það þjóðhagslega hagkvæmt ? Varla.
Áfram hélt Njáll Trausti:
"Í umræðunni, eins og vill oft gerast, þegar um orkusækinn iðnað er að ræða, gleymist að huga að því, að á bak við framleiðsluna er fólk, sem dregur lífsviðurværi sitt af því að starfa þar. Árið 2019 voru tæplega 1500 manns, sem störfuðu í álverum. Þá voru stöðugildi verktaka innan álvera 435 og starfsmenn í stóriðjuskóla 105."
Á meðal þessara 1500 á launaskrá álveranna eru mjög fjölbreytilegar starfsgreinar, sérhæfðir starfsmenn, iðnaðarmenn, iðnfræðingar, verkfræðingar, viðskiptafræðingar o.fl. Fjölmargir verktakar starfa einnig utan verksmiðjanna auk þessara 435 innan verksmiðjanna, e.t.v. 200-300 ársverk, svo að alls gætu verið 2200 ársverk unnin hérlendis á vegum álveranna, og til viðbótar eru s.k. óbein störf. Það munar um minna á íslenzka vinnumarkaðinum, því að meðallaun hverrar starfsgreinar í álverunum eru tiltölulega há. Vaktavinnufólk hefur þar mjög góð kjör, bæði á tvískiptum og þrískiptum vöktum, og bakvaktir drýgja tekjurnar, en eru oft erilsamar.
Að lokum skrifaði Njáll Trausti:
"Verkefnið, sem við stöndum frammi fyrir, hlýtur þar af leiðandi að felast í því að treysta samkeppnisstöðu íslenzks áliðnaðar. Ég vil því taka undir orð fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, um, að það er orðið löngu tímabært að fara fram á það í þeirri Evrópusamvinnu, sem Ísland er þátttakandi í, að staðinn verði vörður um [framleiðslu] iðnaðarvöru innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem augljóslega fer fram með mun umhverfisvænni hætti en sú framleiðsla, sem seld er inn á svæðið.
Okkar verkefni er að tryggja orkusæknum iðnaði hér á landi sjálfbærar rekstrarforsendur. Ég mun því á nýju löggjafarþingi, þegar það kemur saman 1. október n.k., leggja fram skýrslubeiðni til utanríkisráðherra, þar sem óskað verður umfjöllunar um stöðu íslenzkrar álframleiðslu á Íslandi gagnvart EES-samningnum, auk umfjöllunar um framleiðslu og sölu á umhverfisvænni iðnaðarvörum innan Evrópska efnahagssvæðisins."
Evrópusambandið (ESB) er á pappírnum mjög metnaðarfullt f.h. aðildarlanda sinna og samstarfslanda á Innri markaði EES um, að engin nettólosun verði þaðan á gróðurhúsalofttegundum 2050. Vegna hættu á s.k. kolefnisleka til slóða á þessu sviði er sjálfsagt, að ESB leggi á kolefnistolla, eins og Bjarni Benediktsson og Njáll Trausti Friðbertsson eru talsmenn fyrir. Ef utanríkisviðskiptaráðherra getur ásamt Norðmönnum veitt þessu máli þann stuðning, sem dugir til að leiða þetta mál til lykta í Brüssel, mun það leiða af sér verðhækkun á áli í Evrópu. Hafa ber í huga, að megnið af áli Kínverjanna í Evrópu fer í umbræðslu, en t.d. ISAL selur einvörðungu vöru, sem er tilbúin til að fara beint í þrýstimótunarverksmiðjur, þar sem alls konar prófílar, pípur, burðarbitar og rammar, verða til.
Þann 2. september 2020 birtist viðtal í Markaði Fréttablaðsins við Gunnar Guðlaugsson, rafmagnsverkfræðing og forstjóra Norðuráls á Grundartanga, undir fyrirsögninni:
"Tilbúið að fjárfesta fyrir 14 milljarða".
Af þessu viðtali er ljóst, að það er hugur í mönnum í áliðnaðinum, enda vaxandi markaður fyrir ál, sem tengist orkusparnaði. Það má ekki láta ríkisfyrirtækið Landsvirkjun þursast áfram og eyðileggja þann vaxtarsprota, sem hagkerfinu nú býðst með erlendri fjárfestingu, áhættulausri fyrir Íslendinga, að koma á legg á Grundartanga. Ef verkefnið fer í vaskinn vegna ósveigjanleika Landsvirkjunar, þá meina stjórnvöld ekkert með fagurgala um að hvetja til sem mestra fjárfestinga í Kófinu til að slá á atvinnuleysið og leggja grunn að framtíðartekjum. Verður það ófagur minnisvarði um feril núverandi ráðherra, ekki sízt nýsköpunar-, iðnaðar- og ferðamálaráðherra:
Viðtalið var mjög fróðlegt.
Þar stóð m.a.:
""Það er eðlilegt, að það sé tekizt á um þetta mál [verðlagningu raforku til stóriðju]", nefnir Gunnar. "Við erum í þeirri sérstöku stöðu hér á Íslandi, að fá fyrirtæki eru að kaupa langstærstan hluta raforkunnar í gegnum langtímasamninga. Það segir sig auðvitað sjálft, að ef eitthvert þessara fyrirtækja hættir starfsemi, þá er enginn til þess að taka við þeirri raforku, sem þá losnar. Markaðurinn hér á Íslandi gæti ekki tekið við allri þeirri raforku, sem þá losnar. Markaðurinn hér á Íslandi gæti ekki tekið við allri þeirri raforku með stuttum fyrirvara.
Við þessu hefur verið brugðizt með því að taka upp ríka kaupskyldu í samningum. En þá er í sjálfu sér búið að aftengjast hefðbundnum markaðslögmálum. Það er frumréttur á markaði að geta ákveðið að kaupa ekki þá vöru eða þjónustu, sem verið er að bjóða til sölu.
En þegar þetta hefur verið tekið úr sambandi, þarf að finna einhverja aðra aðferð til að ákvarða verðið. Við höfum viljað tengja þetta álverði, og ég held, að það hafi gefið mjög góða raun. Það hefur afar sjaldan gerzt, að álfyrirtæki hér dragi úr framleiðslu, þegar álverð er lágt vegna þesss, að rafmagnsverðið hefur lagað sig að álverðinu. Svo þegar álverð er hátt, þá njóta raforkufyrirtækin þess líka.
Með þessu kerfi hafa byggzt upp stór og öflug orkufyrirtæki á grunni álverðstengdra orkusölusamninga. Mín skoðun er einfaldlega sú, að það kerfi hafi reynzt okkur vel, og við eigum að hugsa okkur vel um áður en við köstum því fyrir róða."
Allt er þetta satt og rétt metið hjá Gunnari Guðlaugssyni. Það fylgdu kaupskyldunni fleiri kostir fyrir orkuseljanda en hann nefnir. Einn var tekjutrygging yfir allt greiðslutímabil lána vegna fjárfestingar. Út á hana fengust mun hagstæðari lánakjör en ella, þar sem áhætta lánveitenda var sáralítil. Þar sem kostnaður virkjunar lækkaði umtalsvert við að auka byrðar orkukaupandans með þessum hætti, var og er sanngjarnt að aðilar deili með sér ávinninginum með lækkuðu raforkuverði. Auk mjög jafns álags álvera á raforkukerfið, sem færir því betri nýtingu fjárfestinganna, má nefna háan aflstuðul álvera, sem eykur framleiðslugetu virkjana á raunafli og þar með seljanlegum MWh (megawattstundum).
Allt gerir þetta álver að ákjósanlegum viðskiptavinum íslenzkra orkufyrirtækja, en þorri kostnaðar þeirra eru afborganir og vextir af stofnkostnaði, en rekstrarkostnaður er tiltölulega lágur. Á öllu þessu ríkti góður skilningur innan Landsvirkjunar á tímabilinu 1965-2010. Árið 2010 varð óheillavænleg stefnubreyting innan fyrirtækisins, reist á vanþekkingu á eðli íslenzka orkugeirans og kolröngum viðhorfum til verðlagningar raforku og þar með skilningsleysi á hlutverki Landsvirkjunar frá upphafi.
"Samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar 2019 var meðalverð til stóriðju 23 USD/MWh; eitthvað í kringum þá tölu yrði ásættanlegt fyrir Norðurál. Þó að Nord Pool-verðið sé lægra en það í augnablikinu, þá værum við reiðubúin að ganga út úr núgildandi samningi við Landsvirkjun gegn því að fá nýjan samning til lengri tíma á þessu bili, t.d. til 20 ára.
Gunnar bætir því við, að ef hægt væri að klára langtíma raforkusamning upp á í kringum 23 USD/MWh, sé Norðurál tilbúið að ráðast í fjárfestingar á Grundartanga."
Til að varpa ljósi á hina gríðarlegu mismunun Landsvirkjunar á álversviðskiptavinum sínum, sem Rio Tinto hefur kært til Samkeppnisstofnunar sem markaðsmisbeitingu í skjóli einokunaraðstöðu og mun vafalítið halda áfram með til ESA, ef ekkert vitrænt ætlar að koma frá þessari stofnun, þá er verðið (án flutningsgjalds) til ISAL tæplega 60 % hærra en meðalverðið. Þarna er ríkisfyrirtækið sekt um að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja í sömu grein herfilega.
Á Grundartanga bjóðast Íslendingum um 85 störf á meðan framkvæmdir standa yfir við að breyta framleiðslulínum steypuskála Norðuráls, svo að þar verði unnt að framleiða álstengur, eins og nú er gert í Straumsvík. Við þessar nýju framleiðslulínur verða síðan til 40 ný ársverk hjá Norðuráli. Hér er enn eitt tækifærið, sem ríkinu stendur til boða að liðka fyrir, að verði að raunveruleika. Allt hjal ráðamanna, iðnaðarráðherra þar á meðal, um nauðsyn fjárfestinga einkaframtaksins til að skapa ný störf og aukin verðmæti fyrir þjóðarbúið, er út í loftið og aðeins marklaust hjal, ef þau skella skollaeyrum við þessu kostaboði.
Gunnar nefnir, að álverðstenging við orkuverð sé æskileg, sem er alveg rétt. Hér hlýtur að vera samningsgrundvöllur með 23 USD/MWh m.v. núverandi markaðsverð og síðan hækkandi raforkuverð með hækkandi álverði eftir umsaminni formúlu. Ríkisstjórnin getur ekki látið steingervinga í Landsvirkjun koma í veg fyrir stækkun þjóðarkökunnar sem leið landsmanna út úr vandanum. Það verður að beita Landsvirkjun fyrir vagninn, sem nú er fastur í forarpytti. Þar er nóg afl.
Gunnar Guðlaugsson er með ákveðna sýn á framtíð álvera á Vesturlöndum í samkeppninni við lönd á borð við Kína. Hann telur, að gæðaál, framleitt með "grænni" raforku og með eins umhverfisvænum hætti og tæknin leyfir hverju sinni, sé "hugsanlega bezti möguleiki álframleiðenda staðsettra á Vesturlöndum". Við þetta þarf að bæta, að þessi "græna" orka verður að vera til reiðu á verði, sem endurspeglar kostnaðinn við öflun hennar, en ekki á okurverði, sem einokunarfyrirtæki dettur í hug til að geta skilað eigandanum sem hæstum arði. Arðurinn á að koma fram "í hinum endanum" til ríkisins, eins og Franklin Delano Roosevelt sagði um "New Deal".
Í lok viðtalsins sagði Gunnar:
"Ég er sannfærður um það, að orkuverð verði mjög samkeppnishæft hér á Vesturlöndum til frambúðar. Ég get líka nefnt það, að áliðnaður í Noregi er á mjög góðum stað í augnablikinu; því er þetta líka spurning um það, hvernig ríkisstjórnir einstakra landa búa um hnútana, þegar kemur að samkeppnishæfu orkuverði."
Þarna gæti Gunnar verið að vísa til þess, að íslenzka ríkisstjórnin þarf ekki að óttast viðbrögð ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA við ráðstöfunum, sem hér hafa verið viðraðar, því að sambærilegar tilhliðranir hafa átt sér stað annars staðar í EES, m.a. í Noregi, án athugasemda af hálfu ESA, að því bezt er vitað. Hvers vegna ríkir þessi ægilegi doði í íslenzka stjórnarráðinu ? Skyldu eyru ráðherranna vera köld ?
21.9.2020 | 10:27
Í verkfærakistu orkuskiptanna
Beðið er tíðinda af sviði þróunar kjarnorku. Brýn þörf er á nýrri kynslóð kjarnorkuvera, sem tekið geti við af hefðbundinni tækni núverandi kjarnorkuvera, sem kljúfa ákveðna samsætu (ísótóp) frumefnisins úran. Slík kjarnorkuver hafa í sér innri óstöðugleika við alvarlega bilun í verinu, eins og mörgum er í fersku minni frá "Three Mile Island" í Bandaríkjunum, Chernobyl í Úkraínu og Foukushima í Japan. Slík þróun nýrrar gerðar kjarnorkuvera er að líkindum langt komin, jafnvel á verum, sem nýtt geta plútónium, sem er mjög geislavirkt úrgangsefni frá hefðbundnum kjarnorkuverum, og fáein önnur frumefni, t.d. þóríum. Þróun vind- og sólarorkuvera hefur gengið mjög vel, þannig að kostnaður við raforkuvinnslu þeirra hefur náð niður að kostnaði raforkuvinnslu í jarðgasorkuverum eða í um 40 USD/MWh, þegar bezt lætur.
Þessir tveir "hreinu" orkugjafar eru samt með miklum böggum hildar, því að þeir eru óáreiðanlegir. Þegar sólin skín og vindur blæs, getur orðið offramboð raforku, og þá dettur raforkuverð jafnvel niður fyrir 0, þ.e. raforkunotendum er borgað fyrir að kaupa rafmagn. Þegar þannig stendur á, er kjörið að ræsa vetnisverksmiðjur á fullum afköstum og rafgreina vatn. Við það myndast vetni, H2, og súrefni, O2. Vetnið mun sennilega leika stórt hlutverk í orkuskiptunum og eftir þau, því að markaður verður fyrir vetni til að knýja þung ökutæki, vinnuvélar, skip og flugvélar.
Vetnið getur líka leyst jarðgas af hólmi, þar sem það er notað til upphitunar húsnæðis. Fyrir slíka vetnisnotkun er að myndast stór markaður núna á Norður-Englandi. Bretar hafa sett sér markmið um að verða kolefnisfríir árið 2050. Fyrir Íslendinga geta innan tíðar skapazt viðskiptatækifæri sem framleiðendur vetnis með umhverfisvænum og endurnýjanlegum orkulindum, sem Bretar sækjast eftir. Í stað þess að leita hófanna hjá brezkum yfirvöldum um viðskipti á milli landanna með rafmagn með talsverðum orkutöpum á langri leið, ættu utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra að taka upp þráðinn við brezk stjórnvöld um vetnisviðskipti. Íslenzk orkufyrirtæki ættu að geta fengið allt að 30 USD/MWh, að viðbættu flutningsgjaldi til vetnisverksmiðju, fyrir raforkuna m.v. núverandi orkunýtni rafgreiningarbúnaðar og markaðsverð á vetni. Það er vel viðunandi verð, því að meðalkostnaður íslenzkrar raforkuvinnslu er undir 20 USD/MWh.
Ýmis bílafyrirtæki, t.d. Hyundai í Suður-Kóreu, eru að undirbúa markaðssetningu á fólksbílum með vetnisrafala um borð í stað rafgeyma. Orkuþéttleikinn á massaeiningu er um 33 kWh/kg, en í rafgeymunum um 50 Wh/kg, þ.e. 0,2 %, og orkuþéttleiki jarðefnaeldsneytis (benzín, dísel) er um 13 kWh/kg, þ.e. 39 % af orkuþéttleika vetnis.
Unnið er að því að leysa kol og kox af hólmi með vetni við stálframleiðslu. Ef allar hugmyndir um vetnisnotkun heppnast, má tala um vetnishagkerfi í stað hagkerfa, sem nú eru knúin áfram með jarðefnaeldsneyti. Nú er aflþörf rafgreiningar vatns í heiminum um 8 GW og annar aðeins 4 % markaðarins. Megnið af vetni heimsins er framleitt úr kolum, olíu og jarðgasi, sem er ósjálfbær aðferð. Allur núverandi heimsmarkaður mundi þurfa 200 GW og þennan markað má sennilega tvöfalda á 20 árum. Hann þarf þá 400 GW, sem er 80-föld afkastageta íslenzkra orkulinda, sem líklegt er, að virkjaðar verði.
Það hefur þótt ljóður á ráði vetnisnotkunar, hversu lág orkunýtnin er við framleiðslu og notkun þess, en hún er um þessar mundir 70 %-80% við framleiðsluna og lægri í vetnisrafölum. Nú á sér stað mikil þróunarvinna til að auka nýtnina, og er búizt við, að hún verði 82 %-86 % við framleiðsluna árið 2030. Þar að auki fer kostnaður rafgreiningarbúnaðarins í USD/MW lækkandi. Þegar við þetta bætist viðurkennd þörf á að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis í heiminum, þá er kominn verulegur hvati til vetnisnotkunar.
Það er ljóst, að víðast hvar krefjast orkuskiptin styrkingar raforkukerfanna; ekki aðeins nýrra virkjana endurnýjanlegra orkulinda eða kjarnorkuvera, heldur einnig nýrra og öflugri flutningsmannvirkja (loftlína, jarðstrengja, aðveitustöðva). Ef hitun húsnæðis á að fara fram með rafmagni, krefst hún enn meiri eflingar flutningskerfisins, sums staðar tvöföldunar flutningsgetunnar. Það gæti þess vegna víða verið þjóðhagslega hagkvæmast að nota vetni til þess, þar sem nú er notað jarðefnaeldsneyti.
Fram að árinu 2019 unnu stjórnvöld Bretlands að því markmiði að hafa dregið úr losun jarðefnaeldsneytis um 80 % árið 2050 m.v. árið 1990. Árið 2019 setti ríkisstjórnin markið enn hærra og vildi, að brezka hagkerfið yrði fyrsta stóra hagkerfi heimsins til að verða 100 % kolefnisfrítt árið 2050. Nú er þetta aðeins talið mögulegt með verulegri vetnisnotkun.
Á Íslandi er markaður fyrir vetni m.a. í flutningageiranum í vinnuvélum, vörubílum, langferðabílum (rútum), skipum og flugvélum. Rafvæðing fólksbílaflotans sækir hratt í sig veðrið og fylgir þar fordæmi frá Noregi, sem einnig býr við lágt raforkuverð úr vatnsfallsvirkjunum þar í landi. Nú, (ágúst 2020) eru rúmlega 5000 fólksbílar alrafknúnir hérlendis. Það er lágt hlutfall eða um 2 %, en fjölgunin er hröð, því að á 5 árum hefur fjöldinn 21 -faldazt, en með bjartsýni um þróun efnahagsmála og viðvarandi hvata til kaupa á rafmagnsbílum má gizka á, að fjöldi alrafknúinna bíla muni tífaldast á næstu 5 árum. Þeir munu þurfa um 222 GWh/ár frá virkjunum, sem er rúmlega 1 % aukning frá núverandi vinnslu.
Vetnismarkaðurinn í landinu árið 2025 gæti numið 2,8 kt, ef 10 % langferðabíla og vörubíla og 15 % sendibíla verða þá vetnisknúnir að óbreyttri nýtni vetnisrafala. Til þess að framleiða það með rafgreiningu og núverandi nýtni rafgreiningarbúnaðar þarf 183 GWh. Heildarraforkuþörf fartækjageirans mæld við virkjanir verður þá um 405 GWh/ár, sem er aðeins um 2 % aukning núverandi raforkuvinnslu. Samt útheimtir þessi aukning nýjar virkjanir, ef umtalsverðir notendur falla ekki úr skaptinu. Til samanburðar er þetta aðeins um 13 % raforkunotkunar ISAL í Straumsvík í góðu árferði.
Núverandi meginframleiðsluaðferðum vetnis verður að breyta, ef vetnisnotkun á að gagnast loftslaginu. Samkvæmt skýrslu "International Energy Agency", "The Future of Hydrogen", sem út kom 2019, nam CO2 losun vetnisvinnslu út í andrúmsloftið svipuðu magni og öll samanlögð losun Bretlands og Indónesíu á koltvíildi.
Vetnisverksmiðjur henta vel til að taka við umframafli frá orkuverum endurnýjanlegrar orku. Kjörstærð þeirra fyrrnefndu er talin vera 25 %-30 % af uppsettu afli hinna síðarnefndu.
Það, sem að auki ræður staðsetningu vetnisverksmiðja, er nánd við markað og opinbert regluverk í viðkomandi landi. Talað er um Chile, Bandaríkin og Spán sem líkleg hýsingarlönd. Ef þetta hlutfall er heimfært á Ísland, fæst uppsett aflþörf vetnisverksmiðja hér um 350 MW (jarðgufuvirkjunum sleppt). Með því að nýta umframorku í vatnsorku- og væntanlegu vindorkukerfi mætti flytja út 85 % framleiðslunnar í slíkum vetnisverksmiðjum og nýta 15 % innanlands.
Ísland býr við orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB), og það er æskilegt og fróðlegt að fylgjast með fyrirætlunum Framkvæmdastjórnar Úrsúlu von der Leyen á orkusviðinu. Í ljós kemur, að hún ætlar vetninu stórt hlutverk í framtíðinni. Þannig hefur hún nýlega gefið út skýrsluna "Powering a climate-neutral economy: an EU Strategy for Energy System Integration" og einnig skýrsluna "A hydrogen strategy for climate-neutral Europe".
Höfundarnir sjá fyrir sér hæga uppbyggingu á framleiðslugetu vetnisverksmiðja í Evrópu, sem nýta umhverfisvæna orku. Á árabilinu 2020-2024 verði reistar slíkar verksmiðjur í Evrópu að aflþörf a.m.k. 6 GW og framleiðslu a.m.k. 1 Mt/ár. Í öðrum áfanga (2025-2030) er ætlunin að setja upp rafgreiningarverksmiðjur með aflþörf 40 GW og framleiðslu allt að 10 Mt/ár. Á lokatímabilinu (2030-2050) verði svo tekin enn stærri skref með framleiðslu gríðarlegs magns vetnis með rafmagni frá kolefnisfríum orkuverum.
Hlutdeild Íslendinga í þessum markaði verður lítil, en traustur vetnismarkaður mun verða til. Það virðist þannig verða tiltölulega áhættulítið að fjárfesta í ísenzkum orkulindum og breyta orkunni frá þeim í vetni og beinharðan gjaldeyri með útflutningi á því frá Íslandi til Bretlands og/eða meginlands Evrópu.
Vetnisvæðinguna á að styrka með stofnun "European Clean Hydrogen Energy Alliance". Þessi samtök munu hafa innan sinna vébanda iðnaðinn, opinberar stofnanir og frjáls félagasamtök til að styðja við bakið á Stefnumörkuninni ("The Strategy") og til að mynda farvegi fyrir fjárfestingar. Það er einboðið fyrir íslenzka aðila á orkusviði og jafnvel áhugasama fjárfesta að ganga í þessi samtök til að vinna að framgangi vetnisvæðingar á Íslandi.
6.9.2020 | 10:31
Olíuvinnsla á hverfanda hveli
Nú bendir allt til, að "peak oil", þ.e. hámarki olíuvinnslu hafi verið náð árið 2019 með um 35 mrdtu vinnslu úr jörðu (35 milljarðar tunna). Nú sjást merki þess, að olíurisar á borð við BP og Shell hafi áttað sig á vatnaskilunum og séu að selja óhagstæðari olíulindir sínar og lækka verðmæti óunnins olíuforða síns í bókhaldi. Þetta stafar af verulega lækkuðum spám þeirra um framtíðar olíuverð og lækkuðum spám þeirra um eftirspurn. Grundvöllur slíkra spáa eru minni væntingar um hagvöxt í heiminum, og valda þar nokkru um ýfingar Bandaríkjanna og Kína, en orkuskiptin leika einnig orðið stórt hlutverk.
Dæmi um þessi umskipti er ákafi BP í að selja hinar fyrrum gjöfulu olíulindir sínar í Prudhoe-flóa, en 1300 km olíulögn þaðan og til Valdez þótti tæknilegt afrek árið 1977, þegar starfsemin þar hófst. BP og Royal Dutch Shell afskrifuðu í viku 28/2020 olíulindir að verðmæti mrdUSD 17,5 og mrdUSD 22,0.
Skýringin á þessu er sú, að fyrirtækin telja, að borun og dæling úr þessum olíu- og gaslindum verði aldrei arðbær. Með öðrum orðum telja þau, að verðið muni aldrei ná sömu hæðum og fyrr, heldur verða á bilinu 40 USD/tu - 60 USD/tu fram yfir miðja þessa öld eða þar til tímabili jarðefnaeldsneytis lýkur. Þetta er afar athyglisverð breyting, sem gefur von um, að takast muni að hemja loftslagshlýnunia, en aðalsökudólgurinn, kolin, eru þó ekki nefnd hér.
Bretar höfðu áform um að hætta kolanotkun árið 2025 og Þjóðverjar rúmum áratug síðar. Aðalkolabrennararnir, Kínverjar, hafa þó enn ekki birt slíkar áætlanir, svo að vitað sé. Kófið setur þó strik í reikninginn í þessum efnum sem öðrum, þar sem öll hagkerfi veikjast af þess völdum, og það mun seinka fjárfestingum í orkuskiptunum. Hefur það þegar komið fram við áætlunargerð Evrópusambandsins, ESB, en orkupakkar þess hvetja til hás orkuverðs til að fjármagna ný orkuver, aðallega af vistvænni tegundinni.
Samkvæmt Rystad Energy, sem er ráðgjafarfyrirtæki um orkumál, mundi verða unnt að vinna úr 90 % af þekktum olíubirgðum heimsins með a.m.k. 10 % arðsemi, ef Brent-verðið færi yfir 100 USD/tu. Nú er Brent-verðið rúmlega 40 USD/tu, og við slíkt verð fellur u.þ.b. helmingur þekktra olíubirgða út sem óarðbær.
Í síðustu ársskýrslu sinni gerði Shell ráð fyrir, að Brent-verðið næði USD 60/tu, en í Kófsfárinu gerir fyrirtækið ráð fyrir 40 USD/tu árið 2021 og 50 USD/tu árið 2022. BP gerir ráð fyrir, að meðal-Brent-verð á tímabilinu 2021-2050 verði 55 USD/tu. Aðeins fyrir nokkrum mánuðum var meginspá fyrirtækisins sú, að á næstu 20 árum yrði þetta verð að jafnaði 70 USD/tu. Þetta jafngildir verðlækkunartilhneigingu um a.m.k. 20 %.
Gasverð frá Henry Hub, sem er viðmiðunarstaður fyrir eldsneytisgas, er spáð hjá BP, að lækki til langs tíma úr 4,0 USD/MBThU í 2,9 USD/MBThU (MBThU=milljón brezkar hitaeiningar) eða um tæplega 30 %. Þessi snöggu umskipti eru merkileg, og olíufélögin ætla ekki að brenna inni með verðlausar eignir. Þessi þróun verður hagkerfum iðnþróuðu ríkjanna hagstæð, en hvati orkuskiptanna dvínar. Sú þróun er nú komin á skrið, sem ekki verður stöðvað.
Sums staðar, þar sem olíufyrirtæki eru í ríkiseigu, er núverandi verð nógu hátt til arðsamrar vinnslu, en ekki nógu hátt til að koma jafnvægi á ríkisreksturinn, t.d. í Miðausturlöndum, þar sem staðan krefst róttækra samfélagsbreytinga. Annars staðar þýðir núverandi verð, að olíunni verður einfaldlega ekki dælt upp. Í Kanada verður aðeins unnt að nýta 42 % olíuforða í jörðu á meðan Brent-verðið er undir 60 USD/tu, og hlutfallið fellur í 16 % við 40 USD/tu. Orkan, sem þarf til að nýta og vinna þykkan olíusand Kanada gerir þennan olíusand (Bitumen) verðlítinn. Angóla hefur á síðustu árum beitt skattaívilnunum til að örva olíuvinnslu undan ströndum sínum, en hár kostnaður hindrar fjárfestingar. Norski olíusjóðurinn gæti tekið að skreppa saman, því að norska ríkið er farið að jafna reksturinn með honum.
Allt eru þetta merki um, að halli undan fæti hjá olíuiðnaðinum vegna dræmrar eftirspurnar. Það eru ný tíðindi, sem olíurisarnir hafa brugðizt merkilega fljótt við. Þeir kjósa að eiga aðeins lindir, sem þola verðsveiflur og hægt verður að nota áfram, þótt yfirvöld setji strangari mörk á mengun við bruna jarðefnaeldsneytis. Risarnir hafa einnig lækkað hjá sér rekstrarkostnaðinn. Árið 2019 var verðið, sem dugði 5 stærstu fyrirtækjunum - ExxonMobil, Shell, Total, Chevron og BP - fyrir nægri framlegð upp í fjárfestingar og arðgjöf aðeins helmingur þess, sem þurfti árið 2013 samkvæmt Goldman Sachs. Þetta er stórkostlegur árangur, og nú hafa neikvæð áhrif COVID-19 faraldursins dregið enn úr fjárfestingum fyrirtækjanna. Fyrir sum fyrirtækjanna á þessi þróun sér stað samhliða því, að þau hafa lagt fyrir sig nýtingu hreinni orkugjafa. "Við snúumst ekki um magn - við snúumst um verðmæti", sagði Bernard Looney, aðalforstjóri BP nýlega.
Þessi saga bendir til, að háorkuverðstímabilið sé liðið. Íslendingar þurfa auðvitað að laga sig að þessari stöðu, en ekki að ríghalda í úreltar spár um sívaxandi orkuverð, eins og okkar stærsta orkufyrirtæki, Landsvirkjun, því miður virðist gera, landinu til stórtjóns, því að samkeppnishæfni landsins líður undir lok, ef ekki verður strax söðlað um og tekin einfaldlega upp upphaflega verðlagsstefna Landsvirkjunar. Hún snerist um það að verðleggja orkuna rétt ofan við meðalkostnað fyrirtækisins við orkuöflunina, en ekki m.v. jaðarkostnað orkuöflunar (næstu virkjun). Arðinn af orkuöflun og orkuvinnslu fær ríkið þá með skattlagningu fyrirtækja, sem nýta þessa orku til framleiðslustarfsemi og með skattlagningu starfsmanna, sem þar vinna, og af þeirra neyzlu. Þetta var kjarni "New Deal", sem reif Bandaríkin upp úr eymd Kreppunnar miklu og mörg önnur ríki tóku upp með góðum árangri.
20.8.2020 | 20:59
Að kasta barninu út með baðvatninu í Kófinu
Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem hún boðaði 14. ágúst 2020 um sóttvarnir á landamærum landsins, sætir tíðindum. Á sama tíma og nýgengisstuðull smita á landinu í heild fer frekar lækkandi, er gripið til einna harkalegustu og dýrkeyptustu verkfæranna í verkfærakistu Sóttvarnalæknis (ÞG), sem hann skenkti ríkisstjórninni í viku 33/2020 og sagði "vessgú", nú getið þið, en hann hefur hingað til lagt tillögu fyrir heilbrigðisráðherra, sem ríkisstjórnin hefur jafnan samþykkt. Nú var það eins og við manninn mælt. Ríkisstjórnin féll á prófinu; hún gein við einum dýrkeyptasta kostinum, sem var alger óþarfi, þar sem farsóttin var þegar í rénun á Íslandi í viku 33/2020.
Valkostir sóttvarnalæknis voru 9 talsins:
- Aðgangur ferðamanna óheftur. Þessum valkosti mælir ÞG ekki með, enda er þetta öfgakostur, sem á ekki við m.v. gang heimsfaraldursins og nútíma tækni.
- Ýtrustu hömlur á komur til landsins. ÞG telur þetta óraunhæft í framkvæmd og ekki koma að fullu í veg fyrir dreifingu innanlands. Þetta er öfgakostur, sem á alls ekki við núna, þegar faraldurinn er í hjöðnun innanlands. Það má ekki gleyma því, að atvinnulíf landsins er háð opnum fólksflutningum til og frá landinu, og það er hæpið, að framkvæmdavaldið hafi lagaheimild til þessarar ákvörðunar. Aðgerðin felur í sér frelsisskerðingu, sem framkvæmdavaldið án atbeina löggjafarvaldsins á ekki að hafa heimild til. Landinu hefur enn ekki verið lokað í þessum faraldri, þótt farþegaflug hafi að mestu lagzt af í 3 mánuði, og það er óeðlilegt, að framkvæmdavaldið véli eitt um slíka ákvörðun, heldur verði hún reist á þingsályktun eða beinum lagafyrirmælum.
- Allir í 14 daga sóttkví án skimunar. Þetta telur ÞG, að myndi fækka ferðamönnum verulega og að erfitt verði um eftirlit með, að sóttkví verði virt. ÞG telur, að líkur á dreifingu veirunnar innanlands minnki, en hverfi ekki. Ferðamönnum myndi fækka svo mjög, að engum vandkvæðum verður háð að hafa með þeim eftirlit, enda hlýtur að mega setja á þá ökklaband. Kostnaður sóttkvíar lendir á ferðamönnum, en tekjutap ferðageirans yrði nánast algert. Þessi aðgerð er meira íþyngjandi en búast má við, að sóttvarnalög heimili, og kemur ekki til greina m.v. núverandi tæknistig.
- Allir skimaðir við komuna. Hér er ekkert getið um, hvort viðhafa ber heimkomusmitgát eða sóttkví á tímabilinu frá skimun og þar til niðurstaða er tilkynnt, en væntanlega er sóttvarnalega árangursríkara að viðhafa sóttkví. Ef farþeginn er sýktur, eru taldar um 80 % líkur á, að niðurstaða skimunar verði "jákvæð". Þetta er þar af leiðandi viðunandi örugg aðferð, ef farþegum frá löndum með nýgengisstuðul yfir 100 verður meinaður aðgangur að landinu og á meðan summa nýgengis innanlands og á landamærum er undir 40. Skimunargetan verður þá næg í þessa aðgerð utan sumarannar m.v. núverandi stöðu og tempra má álag skimunar með þeim málefnalega hætti að hnika til kröfum um nýgengi í brottfararlandi. Við núverandi stöðu er þess vegna eðlilegt að velja þennan valkost Sóttvarnalæknis fyrir fólk frá öllum löndum heims, þar sem nýgengið er undir 100.
- Allir skimaðir við komuna, sóttkví í 4-6 daga, þá önnur skimun. Þetta er fyrirkomulagið, sem gildir f.o.m. 19. ágúst 2020. Þetta telur ÞG, að sé áhrifaríkast út frá sóttvarnarsjónarmiði, en er það nóg ? Kostnaður er mikill fyrir ríkissjóð og fyrir ferðamennina, sem standa straum af sóttkvínni, enda segir ÞG, að aðferðin krefjist mikillar rannsóknargetu, skipulags og mannafla, og sé þar að auki kostnaðarsöm. Hann bætir við þeim annmarka, að eftirlit með sóttkví gæti reynzt erfitt. Það er þó misskilningur, því að sóttkvíarhræður verða fáar. Líklegast er, að þessi aðgerð gangi af ferðaþjónustunni dauðri. Þetta er að kasta barninu út með baðvatninu og hefur þótt skýrt merki um dómgreindarleysi. Ríkisstjórnin hefur í núverandi stöðu hjaðnandi faraldurs og takmarkaðs álags á heilbrigðiskerfið (1 á spítala, enginn í gjörgæzlu) tekið skakkan pól í hæðina með því að mikla fyrir sér neikvæða þróun víða erlendis, vaðið út í fenið án vandaðrar ígrundunar valkosta m.t.t. til efnahagsþróunarinnar hérlendis. Þegar ríkissjóður safnar 1 mrdISK/dag í skuldir, má ekki drepa niður neina tekjulind landsins með móðursýkislegum ráðstöfunum.
- Fólk frá áhættusvæðum skimað, aðrir ekki. Þessi aðferð hefur reynzt vera ófullnægjandi smitvörn m.v. eftirlitið á landamærunum. Fólk þykist hafa verið í öruggu landi í 14 daga, en er að koma frá svæðum með hátt nýgengi. Þá er auðvitað ekkert svæði "öruggt", eins og sóttvarnayfirvöld brenndu sig illilega á í vetur, þegar þau trúðu því, að sum svæði Alpanna væru "örugg".
- Allir skimaðir á landamærum, 5-7 daga sóttkví og önnur sýnataka fyrir fólk af áhættusvæðum. Ekki er ljóst, hvers vegna sóttkvíin á að vara lengur í þessu tilviki en þegar allir eru settir í sóttkví. Þessi aðferð getur verið réttlætanleg við verri aðstæður en nú eru uppi.
- Sóttkví allra í 7 daga, sem lýkur með sýnatöku. Enn misreiknar sóttvarnalæknir áhrifin á ferðamannastrauminn, því að hann heldur, að erfitt verði að hafa eftirlit með "fjöldanum" í sóttkví. Þetta er ein af aðferðunum til að nánast stöðva veiruflutning til landsins.
- Skimun frá lágáhættusvæðum, en 14 daga sóttkví frá áhættusvæðum.Hér er spurning, hvernig áhættusvæði er skilgreint. Almennt felur þessi aðferð í sér mikið óréttlæti og mismunun ferðamanna, sem vilja heimsækja landið.
Þann 13. ágúst 2020 birtist í Morgunblaðinu þörf hugvekja eftir Arnar Þór Jónsson, héraðsdómara, þar sem hann leggur áherzlu á vandað og fjölþætt mat yfirvalda áður en frelsisskerðandi ákvarðanir eru teknar, og nauðsyn aðkomu löggjafans til að sannprófa, að meðalhófs hafi verið gætt af hálfu framkvæmdavaldsins. Þetta eru orð í tíma töluð. Greinin, "Réttarríkið og Covid-19", hófst þannig:
"Fréttaflutningur af Covid-19 (C19) veldur mér stöðugum ónotum, sem hafa ágerzt eftir því, sem liðið hefur á sumarið, sérstaklega þegar ég mæti grímuklæddu fólki á víðavangi eða sé grímuklædda bílstjóra eina á ferð í bifreiðum sínum. Frammi fyrir slíkri sjón get ég ekki varizt þeirri hugsun, að óttinn hafi yfirtekið dómgreindina. Ójafnvægi, sem af því leiðir, samræmist illa klassískum hugmyndum um dyggðugt líf, þ.e. um meðalhóf milli tveggja lasta. Skeytingarleysi um eigið líf og annarra er augljóslega löstur, en það er ofsahræðsla einnig."
Í sumar hefur borið á skeytingarleysi, sem sýnir, að almenningur er orðinn þreyttur á 2 m reglunni og öðrum sóttvarnartakmörkunum. Mest ber á því, þar sem áfengi er haft um hönd. Þá ríður á, að ráðamenn sýni gott fordæmi og að eitt gangi yfir alla. Á þessu hafa verið brotalamir. Þegar um þingmenn og ráðherra er að ræða, kemur augljóslega til kasta stuðningsmanna þeirra, þegar þing kemur saman, Landsfundur verður haldinn eða við undirbúning framboðs fyrir næstu Alþingiskosningar. Hins vegar getur vitleysan líka gengið í ofstækisátt, sem kenna má við óttann, og eru mýmörg fáránleg dæmi um slíkt, eins og við er að búast.
"Hafa má skilning á því, að stjórnvöld hafi viljað hafa vaðið fyrir neðan sig, þegar C19 skaut fyrst upp kollinum. Í ljósi staðreynda, sem síðan hafa skýrzt, m.a. um dánartíðni og meðalaldur látinna, þarf stöðugt að leita endurmats í því skyni að afstýra því, að viðbrögð stjórnvalda valdi meira tjóni en veiran sjálf. Í því samhengi sakna ég þess að hafa ekki heyrt fleiri íslenzka lækna tjá sig um málið. Með sama hætti hefur samfélag íslenzkra lögfræðinga verið gagnrýnislaust á aðgerðir stjórnvalda hingað til. Þá hefur stjórnarandstaðan engu bætt efnislega við umræðuna.
Í stuttu máli virðist mér umræðan um C19 einkennast af gagnrýnisleysi og áherzlu á hlýðni. Fjölmiðlar, sem í upphafi fluttu fregnir af dánartíðni, hafa í seinni tíð fjallað meira um fjölgun tilfella. Slík nálgun getur haft þær afleiðingar, að almenningur ofmeti hættuna, sbr nýlega könnun Kekst CNC, sem gefur vísbendingu um, að 29 % Breta telji, að 6-10% eða jafnvel stærri hluti dauðsfalla á Bretlandseyjum megi rekja til C19. Slíkt mat er þó fjarri opinberri tölfræði, sem sýnir 0,1 % dánarhlutfall."
Þess má geta, að hérlendis hefur dauðsföllum fækkað á tímabilinu, sem SARS-CoV-2 hefur geisað, enda eiga allar smitandi pestir erfiðara uppdráttar á tímum samkomutakmarkana, sótthreinsunar og félagslegrar fjarlægðar (handaböndum og faðmlögum fækkar). Fjöldi látinna af smituðum er tæplega 0,5 %, og álagið á heilbrigðiskerfið í bylgju 2 er fremur lítið, enda er tiltölulega stór hluti sýktra í yngri kantinum.
Það hafa ýmsar efasemdarraddir heyrzt úr þjóðfélaginu um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að velja valkost 5. Sú borðleggjandi spá ferðaþjónustunnar, að straumur ferðamanna til landsins mundi þurrkast upp, er að rætast. Ríkisstjórnin situr nú uppi með Svarta-Péturinn. Hún getur ekki lengur skákað í skjóli sterkrar stöðu ríkissjóðs. Hún er orðin veik, og versnandi lánshæfismat ríkissjóðs blasir við. Ríkisstjórnin verður að fara að ná skynsamlegu jafnvægi á milli sóttvarna og tekjustreymis. Hvers vegna heyrist ekkert um að opna á ferðalög til fleiri landa utan Schengen, svo fremi nýgengi sjúkdómsins sé þar viðunandi (NG<100) ?
Þingmenn ríkisstjórnarinnar eru farnir að tjá sig opinberlega um málið, og er það vel. Sigríður Á. Andersen, Óli Björn Kárason og Birgir Ármannsson, þingflokksformaður, hafa efasemdir um núverandi stefnumörkun. Ríkisstjórnin stefnir efnahag landsins í algert óefni, og stjórnarandstaðan virðist í hvoruga löppina geta stigið. Annað mun kannski koma í ljós, þegar þingið kemur saman.
Síðasti hluti greinar Arnars Þórs var svohljóðandi:
"Aðrir eru betur til þess fallnir að meta, hversu alvarleg heilsufarsógn C19 er í reynd, en sem almennur borgari hlýt ég að hafa rétt og skyldu til að horfa á tölfræðilegar upplýsingar og draga sjálfstæðar ályktanir, fremur en að samþykkja umyrðalaust, að vísindamönnum og ráðherrum séu falin öll völd.
Í fljótu bragði virðist mér t.d., að sóttvarnalög nr 19/1997, sem auglýsing heilbrigðisráðherra um samkomutakmarkanir byggist á, skorti ákvæði um, að ákvarðanir ráðherra skuli koma til umræðu og endurskoðunar hjá löggjafarþinginu við fyrsta tækifæri, en slíkt ákvæði er t.d. að finna í sóttvarnalögum í Noregi. Miðað við allar þær upplýsingar, sem nú liggja fyrir, hlýtur að mega vega öryggissjónarmið gagnvart öðrum mannlegum og samfélagslegum hagsmunum, þannig að feta megi farsælustu leið. Hvað verður t.d. um heilbrigðiskerfið, ef atvinnuleysi eykst úr öllu hófi með þeim afleiðingum, að skatttekjur dragast saman og erfitt verður að fjármagna sjúkrahúsin ? Slík þróun hefði í för með sér sjálfstæða ógn við heilsu og líf borgaranna. Framangreind sjónarmið um lög og landsstjórn eru til áminningar um, að við reglusetningu í lýðræðisríki ber að ræða mál út frá fleiri hliðum en einni og leita viðunandi jafnvægis milli allra þátta, sem máli skipta.
Þótt öryggisþátturinn sé mikilvægur, ber okkur í lýðræðislegu tilliti að leggja skynsamlegt mat á hættuna og hafa burði til að mæta því, sem vekur kvíða og ótta. A.m.k. má öllum vera ljóst, að til langframa getum við ekki látið stjórnast af óttanum einum. Hver eru mörkin, sem miða ber við í þessu samhengi ? Ef öryggissjónarmið eiga ein að ráða ferð - og ef bíða á þar til covid-smit hafa með öllu horfið - þurfum við að búa okkur undir gjörbreytta tilveru. Þolir sálarlíf og efnahagur þjóðarinnar slíkt til langframa ?"
Undir þetta skal heilshugar taka. Það er einmitt kjarni gagnrýninnar á ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem gildi tók á landamærunum 19. ágúst 2020, að "öryggisþátturinn" hafi hlotið of mikið vægi og efnahagsþátturinn of lítið vægi. Í raun má segja, að ríkisstjórnin hafi misnotað neyðarhemilinn og gripið til hans að óþörfu. Það var alls ekkert neyðarástand í uppsiglingu í landinu. Bylgja 2 var farin að hjaðna, aðeins 1 COVID-19 sjúklingur á sjúkrahúsi, og hann var ekki í gjörgæzlu.
Það er misskilningur, að hægt sé að útrýma veirunni í landinu við núverandi aðstæður. Það ber að taka upp sem eðlilegasta lifnaðarhætti með viðeigandi sóttvörnum, eðlilega starfsemi skóla með grímuskyldu í framhaldsskólum. Grímuskyldu alls staðar, þar sem hópazt er saman, og þar gildi 1,0 m fjarlægðarregla og fjöldamark við 1000.
Á landamærunum er eðlilegast að skima alla eða senda ella í 14 daga sóttkví. Afnema núverandi takmörkun á þjóðerni ferðamanna, en stýra ferðamannafjöldanum að skimunargetunni með kröfum um nýgengi smita í viðkomandi landi undir tilgreindum mörkum. Það er málefnaleg aðferð, sem lagar sig að ástandinu erlendis.
13.8.2020 | 14:09
Veiran verður á meðal vor
Sigríður Á. Andersen, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, hefur að mati höfundar þessa vefpistils verið rödd skynsaminnar í afstöðunni til aðgerða gegn veirunni og umtals um þróun farsóttarinnar. Hún varar við að "dramatísera" þróunina með orðum eins og "bakslagi". Það verður að halda starfsemi þjóðfélagsins sem eðlilegastri og þar með skólunum með þeim varúðarráðstöfunum, sem tiltækar eru á borð við andlitsgrímur og hanzka. Áherzlu ber að leggja á að verja viðkvæma hópa, sem sóttvarnaryfirvöld hafa rækilega upplýst um, hverjir eru.
Við verðum að lifa með þessari veiru, þangað til nægilega mikið af bóluefni berst til landsins til að skapa hjarðónæmi. Rússar hafa tilkynnt, að þeir hyggist hefja bólusetningu á framlínufólki sínu í baráttunni við COVID-19 í október 2020. Það mun létta þeim róðurinn, ef vel tekst. Enn er undir hælinn lagt, hvenær öruggt bóluefni kemur á markaðinn á Vesturlöndum. Enn hefur ekki tekizt að þróa bóluefni gegn HIV-veirunni eftir 20 ára rannsóknarvinnu, og sagt er, að SARS-CoV-2 svipi til HIV-veirunnar. Ekkert bóluefni er enn til gegn eldri gerðum kórónuveirunnar (flensuveiru).
Skimun á landamærum gegnir sjálfsagt vísindalegu hlutverki, en það, sem hún hefur skilað til smitvarna, er ekki í neinu samræmi við tilkostnaðinn. Í viku 32/2020, sem var fyrsta heila vikan í ágúst, höfðu frá 15.06.2020 greinzt 32 virk smit í meira en 75´000 sýnum úr fólki að koma til Íslands. Sýktir innkomandi ferðamenn, að heimamönnum meðtöldum, námu þannig um 0,04 % af þýðinu, sem er lægra hlutfall en nemur hlutfalli COVID-19-sýktra í íslenzka þjóðfélaginu samkvæmt nálgunarmælingum Íslenskrar erfðagreiningar, ÍE. Hlutfallið þar á milli er marktækt eða 2,5. Þar á ofan verður að taka tillit til smithættunnar. Talið er, að hver smitaður íbúi í landinu smiti að jafnaði 2,5 aðra, en erlendir ferðamenn eru mun minna smitandi, af því að þeir eru í nánum samskiptum við miklu færri hérlendis. Þetta smitnæmi gæti vefpistilshöfundur ímyndað sér, að væri undir 1,0. Takmarka mætti fjölda ferðamanna hingað með kröfu um nýgengisstuðul í landi þeirra undir 100, þegar þeir bóka ferð. Að þessu öllu virtu, geta erlendir ferðamenn ekki haft nein úrslitaáhrif á gengi veirunnar hér. Þegar sóttvarnarráðstafanir eru gerðar í landinu, einkum á landamærunum, verður að taka tillit til staðreynda, sem nú eru fyrir hendi um þennan nýlega vágest, í stað þess að ofvernda íbúa landsins með öllum þeim kostnaði og tekjutapi, sem slíkt leiðir af sér.
Skimun á landamærum orkar tvímælis m.v. hversu lágt hlutfall ferðamanna greinist smitaður. Ef kostnaður við hverja skimun er kISK 15, þá nemur kostnaðurinn við að finna hvern sýktan ferðamann MISK 40 eða kUSD 300. Þetta er mun hærri upphæð en búast má við, að nemi kostnaðinum af að hleypa hinum sýkta inn í landið. Fækka mætti skimunum með því að einungis ferðamenn frá löndum með hátt nýgengi, t.d. 50-100, væru skyldaðir í skimun eða sóttkví. Þá mundi fólk frá t.d. Frakklandi (NG=57) og Spáni (NG=122) af Schengen-löndunum þurfa að fara í skimun m.v. stöðuna 1.-6. ágúst 2020.
Það er mjög æskilegt, að skólakerfið starfi sem mest óraskað. Þar af leiðandi ber að fagna tilslökun á fjarlægðarreglu fyrir framhaldsskólanemendur úr 2,0 m í 1,0. Hvers vegna ekki að minnka smithættuna þar með grímuskyldu, ef fjarlægð er minni en 2,0 m.
Sundlaugum og öðrum heilsueflandi stöðum, eins og þrekmiðstöðvum, ber að halda opnum fram í rauðan dauðann með nauðsynlegum fjöldatakmörkunum og grímunotkun, ef fjarlægð er undir 2,0 m. Fyrir utan almenna fjölatakmörkun ætti að setja hámarksfjölda á m2 á veitingastöðum, því að þar er grímunotkun óraunhæf. Hvers vegna ekki að leyfa starfsemi kvikmyndahúsa, leikhúsa og tónleikahaldara með 1,0 m reglu og grímuskyldu fyrir gesti, og tíðri innköllun hluta starfsfólks til skimunar ?
Í sunnudags Moggagrein sinni 9. ágúst 2020,
"Þetta veltur á okkur",
ritaði Þórdís Reykfjörð, ferðamálaráðherra, þetta m.a.:
"Bakslag reynir jafnvel enn meira á þrautseigju okkar og þolinmæði en þær hörðu aðgerðir, sem gripið var til [til] að kveða fyrstu bylgjuna niður. Samheldnin, sem ríkti á mestu ögurstundum í baráttunni og gleðin yfir sameiginlegum árangri víkur fyrir vonbrigðunum með bakslagið. Við sjáum í samfélaginu, að þetta veldur vanlíðan, óþoli og leit að sökudólgum."
Hér gerir ráðherrann mikið úr meintu bakslagi, sem er hugtak, sem Sigríður Andersen, Alþingismaður, telur óviðeigandi í þessu sambandi á þeim tíma, þegar ljóst er, að veiran verður ekki kveðin niður fyrr en hjarðónæmi hefur skapazt og að við verðum að búa við þessa veiru í samfélaginu. Eftir á séð virðast sóttvarnarráðstafnir við fyrstu bylgju hafa verið of strengar og íþyngjandi (dýrkeyptar), því að fyrsta bylgjan hjaðnaði svo hratt, að kom sóttvarnayfirvöldum á óvart.
Í næsta bút greinarinnar kemur skoðun ráðherrans á þessu raunverulega fram, og pistilhöfundur vill þar taka undir með Þórdísi:
"Þetta er skiljanlegt og þarf ekki að koma á óvart. En það þarf ekki heldur að koma á óvart, að þetta bakslag skyldi koma. Það hefur allan tímann verið talað á þeim nótum, að það væri líklegt. Það hefur verið sagt alveg skýrt, að við gætum þurft að læra að "lifa með veirunni" í töluvert langan tíma. Við þurfum að setja okkur andlega í þann gír. Öðru vísi komumst við ekki með góðu móti í gegnum þetta tímabil."
Síðasta málsgreinin er kjarni málsins, en hvað felst í "að lifa með veirunni". Í stuttu máli er átt við, að þjóðlífið geti að mestu gengið sinn vanagang að viðhöfðum lágmarks sóttvörnum. Í þessu gæti t.d. falizt að leyfa þéttsettna bekki á tónleikum og í kvikmyndahúsum (með 1 sæti á milli ótengdra), ef grímuskylda yrði virt.
Síðan tekur Þórdís tvo hagfræðinga til bæna, en þeir þykjast hafa fundið það út, að betur borgi sig fyrir þjóðfélagið að hindra ferðir innlendra og erlendra um landamæri Íslands. Þótt alls ekki megi vanmeta skaðleg heilsufarsáhrif þess vágests, sem allt þetta umstang snýst um, þá telur höfundur þessa vefpistils, að hagfræðingarnir hafi ekki hitt naglann á höfuðið við þessar vangaveltur sínar, enda er ekki vitað um neitt eyland, sem hefur lokað sig af vegna smithættu af SARS-CoV-2. Segja má, að lokunarstefnan og "að lifa með veirunni" sjónarmiðið takist á.
Þórdís skrifar:
"Tveir hagfræðingar, Þórólfur Matthíasson og Gylfi Zoëga, hafa nýlega kvatt sér hljóðs og lýst þeirri skoðun, að tilslakanir á landamærunum hafi verið misráðnar og gefa í skyn, að fjölgun smita núna undanfarið sé afleiðing þeirra ákvarðana. Það á ekki við rök að styðjast."
Það er rétt hjá Þórdísi, að hagfræðingarnir virðast fremur vera á tilfinninganótunum með þennan málflutning sinn. Það er ekki hægt að útiloka, að smit berist til landsins, af þeirri einföldu ástæðu, að það er ekki hægt að útiloka landsmenn frá samskiptum við útlendinga. Þar með sitjum við uppi með innanlandssmit og enga ferðamenn, hvorki innkomandi né útfarandi. Innanlandssmit hefur um hríð verið greint í 0,1 % þýðisins. Sýnaþýðið á landamærunum er að 0,04% smitað, og eru Íslendingar þar á meðal innkomandi ferðamanna. Lítil smithætta af ferðamönnum veldur því, að sú tilgáta hagfræðinganna, að stöðvun ferðamennskunnar borgi sig fjárhagslega fyrir þjóðarbúið eða auki við lífsgæðin í landinu virðist vera og er sennilega alveg út í hött. Þessi tillaga þeirra, ef tillögu skyldi kalla, nýtur varla nokkurs fylgis, og íslenzk yfirvöld mundu ekki ríða feitum hesti frá fjarfundum, þar sem þau reyndu að útskýra, hvernig sú einangrunarniðurstaða hefði verið fengin, sérstaklega þar sem tillagan hefur alls ekki komið frá sóttvarnaryfirvöldum landsins.
Að lokum reit Þórdís, ferðamálaráðherra m.m.:
""Stjórnmálamaður gerist hagfræðingur" gæti nú einhver sagt. Já, ég leyfi mér að hafa áhyggjur af stöðu ríkissjóðs, efnahagslífsins, fyrirtækja og einstaklinga. Ég leyfi mér líka að benda á, að þótt það sé rétt hjá Gylfa, að atvinnuleysisbætur örvi eftirspurn, þá er það ekki sjálfbært.
Við þurfum núna á öllu okkar að halda. Öllum þeim tekjum, sem við getum aflað með ábyrgum hætti. Allri okkar sérfræðiþekkingu á sóttvörnum. Öllu því aðhaldi, sem við getum beitt í ríkisfjármálum, sérstaklega með nýsköpun í ríkisrekstri og snjöllum lausnum ásamt því að örva efnahagslífið, eins og kostur er. Allri okkar árvekni gagnvart vágestinum. Og allri okkar þrautseigju, þolinmæði og samtakamætti."
Það er vert að taka undir þetta með ráðherra ferðamála, nýsköpunar og iðnaðar. Rökrétt framhald af þessu er að hleypa ferðamönnum utan Schengen-svæðisins til Íslands með einni skimun á landamærunum, ef Nýgengisstuðullinn í landi þeirra eða brottfararlandinu er á bilinu 50-100, en hleypa fólki ekki inn, ef það hefur á undanförnu 14 daga tímabili dvalið í landi með nýgengisstuðul yfir 100.
Gylfi Zoëga settist niður við skriftir eftir lestur sunnudagspistils ráðherrans og úr varð grein, sem birt var í Morgunblaðinu 10. ágúst 2020 undir fyrirsögninni:
"Í tilefni af grein ráðherra".
Höfundi þessa vefpistils finnst holur hljómur í boðskap Gylfa, sem gæti stafað af því, að sterk rök skorti og að hann hafi ekki ígrundað málefnið nægilega vel. Það ber að fagna andstæðum sjónarmiðum, en smithættan, sem hann telur stafa af tiltölulega fáum ferðamönnum í haust og vetur er stórlega ofmetin. Gylfi vill pakka landinu inn í bómull, ofvernda þjóðina. Þetta er skrýtinn málflutningur hjá hagfræðingi og nefndarmanni í Peningastefnunefnd Seðlabankans:
"Stjórnvöld þurfa að ákveða, hversu mikið eigi að örva eftirspurn eftir ferðaþjónustu á næstu mánuðum með því að auðvelda ferðir um landamæri. En þá er einnig við því að búast, að Íslendingar ferðist meira til útlanda, sem dregur úr innlendri eftirspurn. Ferðir innlendra sem erlendra ferðamanna yfir landamæri auka hættuna á, að farsóttin komi til landsins aftur, eftir að núverandi bylgja er gengin niður. Það þarf ekki sóttvarnalækni til þess að skilja, að því meiri, sem hreyfanleiki fólks er, þ.e.a.s. því fleiri Íslendingar, sem ferðast til útlanda og því fleiri erlendir ferðamenn, sem hingað koma, þeim mun meiri hætta er á, að farsóttin berist til landsins."
Við þetta er ýmislegt að athuga. Eftir að þessi árstími er genginn í garð, eru litlar líkur á, að Íslendingar, sem vilja "lengja hjá sér sumarið" með sólarlandaferð, en komast ekki vegna smitsjúkdómshindrana yfirvalda, muni eyða meiru fé innanlands fyrir vikið. Ætli séu ekki meiri líkur á, að þeir auki sparnað sinn og hyggi gott til glóðarinnar, þegar lífið færist í eðlilegra horf ?
Að fara með almennar og óskilyrtar eða magnteknar staðhæfingar, eins og hagfræðingurinn gerir um samband "hreyfanleika ferðamanna" og smithættu innanlands er villandi og býður hættunni á röngum ályktunum lesandans heim. Þessi staðhæfing Gylfa er álíka nytsamleg, og ef pistilhöfundur tæki sig til og skrifaði blaðagrein um það, að hættan á, að ekið verði á bíl hans stóraukist við það að fara á honum út á vegina í stað þess að láta hann standa á hlaðinu.
Í lýðræðisþjóðfélagi ber stjórnvöldum að gæta meðalhófs við ákvarðanatöku, eins og Arnar Þór Jónsson, héraðsdómslögmaður, bendir á í mjög þarfri hugvekju í Morgunblaðinu 13. ágúst 2020, og huga um leið að beztu þekkingu í þessum efnum. Slíka ákvarðanatöku er t.d. hægt að reisa á því sjónarmiði, að öllum, sem hingað vilja koma í lögmætum tilgangi sé heimil för með skilyrðum, sem snúa að nýgengi COVID-19 í heimalandi þeirra eða þaðan, sem þeir koma. Nýgengisstuðullinn 20 reisir óskynsamlega háar skorður við frjálsri för. Talan NG=100 virðist réttlætanlegri, enda séu ferðamenn skimaðir, ef NG>50. Þar sem fólk búsett á Íslandi er mun meira smitandi en almennt ferðafólk, er eðlilegt að beita það strangari sóttvarnaákvæðum, t.d. tvöfaldri skimun og sóttkví á milli við komu til landsins. Með þessu móti væri gætt meðalhófs, en með núverandi fyrirkomulagi á landamærunum er ekki gætt meðalhófs.
"Ef aukið flæði ferðamanna hefur í för með sér, að farsótt geisi innanlands, verður efnahagslegt tjón þjóðarbúsins margfalt meira en sá ávinningur, sem fjölgun ferðamanna hefði í för með sér. Hagkerfi margra Vesturlanda hefur orðið fyrir miklu áfalli í ár; ekki vegna þess, að ferðamönnum hefur fækkað, heldur af því, að fólk getur ekki mætt til vinnu og margvísleg viðskipti geta ekki átt sér stað. Ekki þarf að horfa mikið lengra en til Bretlands til þess að sjá slæmar efnahagslegar afleiðingar farsóttar og harkalegri sóttvarna en Íslendingar hafa hingað til kynnzt."
Hagfræðingurinn getur varla verið þekktur fyrir að senda frá sér slíkan texta. Hann getur ekki fullyrt, að efnahagstjónið af völdum geisandi farsóttar innanlands af völdum ferðamannafjölgunar verði margfalt á við ávinninginn af fjölgun ferðamanna. Hér er verið að mála skrattann á vegginn til að skapa andrúmsloft ótta, sem fær stjórnvöld til að hálfloka landinu, og efnahagslegar afleiðingar farsóttar eru algerlega háðar sóttvarnarviðbrögðunum. Þessi ráðgjöf er ekki upp á marga fiska.
Enn heggur Gylfi í sama knérunn:
"En þeir, sem taka ákvarðanir fyrir hönd þjóðarinnar, verða að hafa heildarhagsmuni skýra. Ekki má horfa framhjá þeim mikla efnahagslega skaða, sem verður, ef farsóttin herjar á samfélagið í vetur. Efnahagslegt tap af völdum farsóttar innanlands getur verið mikið, eins og sést í mörgum nálægum ríkjum."
Við verðum að lifa með veirunni, og óttinn er mjög slæmt vegarnesti í langferð. Miklu nær er að blása til gagnsóknar, reyna að auka tekjurnar á öllum sviðum, svo að stöðva megi skuldasöfnun, sem hefur verið mikil það, sem af er árinu, og efla mótvægisaðgerðir, sem gefizt hafa vel, á borð við skimun fyrir veirunni og smitrakningu með sóttkví, sem stytta má í 5 daga með skimun. Það má heita líklegt, að heimurinn þurfi að glíma við miklu hættulegri veiru en SARS-CoV-2 síðar, og þess vegna vert að þjálfa varnarviðbrögð og færa reynsluna inn í hönnun nýja spítalans við Hringbraut, sem verður að vera í stakk búinn til að fást við skæða veirufaraldra.
9.8.2020 | 20:50
Var iðnaðarráðherra gert rúmrusk ?
Tímamót hafa orðið í deilum Rio Tinto/ISAL og Landsvirkjunar um skilmála raforkuviðskipta fyrirtækjanna. Ráða má af yfirlýsingu hinna fyrrnefndu, að eigendur ISAL hafi gefizt upp á samskiptunum og samningaumleitunum við Landsvirkjun. Þessi staða er grafalvarleg fyrir framtíð ISAL, sem með skynsamlegum sveigjanleika af hálfu Landsvirkjunar hefði annars getað starfað út gildistíma raforkusamningsins, þ.e. í 16 ár enn. Landsvirkjun virðist skáka í því skjólinu, að hún þurfi lítinn sem engan gaum að gefa yfirlýsingu Rio Tinto um, að stöðva verði stórfelldan taprekstur í Straumsvík með því að lækka kostnað ISAL, af því að hún geti gengið að greiðslum 85 % forgangsorkunnar sem vísum. Sá leikur Rio Tinto í þessari stöðu að kæra Landsvirkjun fyrir Samkeppniseftirlitinu er aðeins upphafið að stórfelldu lögfræðiþrefi á milli fyrirtækjanna. Kæra til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, liggur í loftinu, ef þörf verður á, og allt er þetta til að undirbyggja hina lagalegu stöðu fyrir þeirri afstöðu, að Landsvirkjun hafi í raun með hegðun stjórnendanna fyrirgert rétti sínum til téðra 85 % greiðslna, neyðist eigendurnir til að loka dótturfyrirtæki sínu í Straumsvík.
Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir birti þann 23. júlí 2020 frétt undir fyrirsögninni:
"Kæra Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins".
Hún hófst þannig:
"Rio Tinto kærði í gær Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins vegna "misnotkunar Landsvirkjunar á yfirburðastöðu fyrirtækisins gagnvart ISAL. Álframleiðandinn segir Landsvirkjun hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína á raforkumarkaði. Í yfirlýsingu frá Rio Tinto segir, að láti Landsvirkjun "ekki af skaðlegri háttsemi sinni", hafi Rio Tinto ekki annan kost en að íhuga að segja upp orkusamningi sínum og virkja áætlun um lokun. Um 500 manns starfa hjá fyrirtækinu. Rio Tinto óskar eftir því, að Samkeppniseftirlitið skoði "samkeppnishamlandi háttsemi Landsvirkjunar með mismunandi verðlagningu og langtímaorkusamningum, svo að álver ISAL og önnur íslenzk framleiðsla og fyrirtæki geti keppt á alþjóðavettvangi."
Alf Barrios, forstjóri Rio Tinto á heimsvísu, segir í tilkynningunni, að ISAL "greiði umtalsvert meira fyrir orku sína en aðrir álframleiðendur á Íslandi, sem grefur undan samkeppnisstöðu fyrirtækisins." Þá segir Barrios, að ISAL geti ekki haldið álframleiðslu sinni á Íslandi áfram, sé verðlagning orkunnar ekki "gagnsæ, sanngjörn og alþjóðlega samkeppnishæf".
Það hlaut að koma að því, að alvarlegar brotalamir á íslenzkum raforkumarkaði yrðu leiddar fram í dagsljósið, og það gerðist á vettvangi Samkeppniseftirlitsins. Sú staða, sem nú er uppi, að í hópi raforkubirgjanna sé einn aðili með yfirburðastöðu, sem fylgir miskunnarlaust fram því stefnumiði orkupakka Evrópusambandsins, ESB, að orkufyrirtækin eigi einvörðunga að hugsa um eigin hag, reyna að hámarka eigin arð, gengur ekki upp, því að forsenda þess, að orkupakkar ESB geti gengið upp, er frjáls samkeppni, þar sem viðskiptavinir orkufyrirtækjanna hafa frjálst val. Hér hafa stórnotendur raforku ekkert val. Ekki verður annað séð en Alf Barrios hafi mikið til síns máls, þannig að úrskurður Samkeppniseftirlitsins gæti orðið örlagavaldur í sögu orkufyrirtækja og stóriðju á Íslandi. Verst, að sú stofnun þykir svifasein. Landsvirkjun í sinni núverandi mynd fær ekki staðizt, nema hún taki upp gjörbreytta verðlagsstefnu, hverfi aftur til fyrri stefnu um að halda raforkuverðinu í landinu í lágmarki til hagsbóta fyrir heimilin og fyrirtækin, en arður orkuveranna verði "tekinn út í hinum endanum", eins og F.D. Roosevelt, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sagði um "New Deal" stefnu sína, þ.e. á notendahliðinni, sem ríkið, eigandi kjölfestufyrirtækja orkugeirans, skattleggur þá með sínum hætti.
Það, sem við horfum á núna, gæti verið upphafið að skipbroti stefnu Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, sem undir núverandi orkulöggjöf með lögsögu ESA og EFTA-dómstólsins í ágreiningi um samkeppnismál, getur leitt til sundrunar Landsvirkjunar. Þessi sviðsmynd er grafalvarleg fyrir hagsmuni íslenzka ríkisins og eigandans, þjóðarinnar. Tveir ráðherrar hafa tjáð sig um málið, og er tjáningin í öðru tilvikinu viturleg, en í hinu tilvikinu óviturleg. Hér eiga í hlut formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, enda spratt Landsvirkjun á 7. áratug 20. aldar út frá hugmyndafræði forystumanna Sjálfstæðisflokksins, framar öðrum dr Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, sem var einn mesti framfaramaður þeirrar aldar á Íslandi.
Með ofangreindri frétt birtist í Morgunblaðinu stutt viðtal við fjármála- og efnahagsráðherra undir fyrirsögninni:
"Framhaldið verði að koma í ljós".
Þetta er nokkuð véfréttarlegt, en framhaldið var gott:
"Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segist ekki gera athugasemdir við kæru Rio Tinto til Landsvirkjunar [þ.e. Samkeppniseftirlitsins-innsk. BJo]. "Við búum í landi, þar sem menn geta látið reyna á rétt sinn; það er lítið við því að segja, þegar menn gera það", sagði Bjarni í samtali við mbl.is í gær. Rio Tinto kærði í gær Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins, en í tilkynningu frá álframleiðandanum segir, að Landsvirkjun hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á raforkumarkaði, og láti Landsvirkjun ekki af "skaðlegri háttsemi sinni", hafi fyrirtækið ekki annan kost en að íhuga að segja upp orkusamningi sínum og virkja áætlun um lokun [verksmiðjunnar].
Bjarni segir, að koma verði í ljós, hvernig málum vindur áfram. Bendir hann á, að fjölda álvera í Evrópu hafi verið lokað á undanförnum árum og að á sama tíma hafi ekkert nýtt álver verið reist í álfunni. "Kína hefur tekið til sín æ stærri hluta heimsframleiðslunnar, sem brýzt út í því, að fyrirtæki, sem eru í rekstrarvanda út af breyttri heimsmynd, láta reyna á sína stöðu", segir Bjarni. Þá segist hann telja, að ákveðinn tvískinnungur ríki í alþjóðapólitík. Hann segir það tímabært "að fara fram á það, t.d. í Evrópusamvinnu, að staðinn verði vörður um iðnaðarvöru innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem augljóslega fer fram með mun umhverfisvænni hætti en sú framleiðsla, sem er seld inn á svæðið."
Þetta er hárrétt athugað hjá Bjarna Benediktssyni, og gefa orð hans vonir um, að hann muni beita sér fyrir gerð raforkusamnings, sem gerir áframhaldandi framleiðslu í Straumsvík fjárhagslega lífvænlega.
Af allt öðrum meiði var sunnudagsgrein iðnaðarráðherra, Þórdísar K.R. Gylfadóttur, í Morgunblaðinu 26.07.2020, en hún einkenndist af málefnafátækt og þunglyndislegu nöldri þess, sem gert hefur verið rúmrusk. Afstaða þessa ráðherra er að hafa sem minnst afskipti af þjóðmálum, þótt þau heyri undir hana. Ekki er vitað til, að hún hafi beitt sér neitt til sátta á milli ISAL og Landsvirkjunar. Róbóti í ráðherraembættinu mundi ekki gera minna gagn. Grein sína nefndi ráðherrann:
"Staða Rio Tinto og ISAL":
Hún hófst þannig:
"Rio Tinto tilkynnti í vikunni, að fyrirtækið hefði kvartað til Samkeppniseftirlitsins vegna þess, sem það telur vera misnotkun á markaðsráðandi stöðu af hálfu Landsvirkjunar. Jafnframt segir Rio Tinto, að láti Landsvirkjun ekki af þeirri háttsemi, verði fyrirtækið að íhuga að segja upp orkusamningnum við Landsvirkjun. Með því er gefið í skyn, að álveri fyrirtækisins, ISAL, kunni að verða lokað eftir rúmlega 50 ára starfsemi hér á landi.
Samkeppniseftirlitið mun fara yfir sjónarmið Rio Tinto, hvað varðar samkeppnislöggjöfina. Yfirlýsing Rio Tinto um mögulega uppsögn orkusamningsins er hins vegar ekki síður alvarleg. Yfirlýsingin framkallar að sjálfsögðu óvissu um lífsviðurværi hundraða starfsmanna ISAL og einnig starfsmanna þeirra mörgu fyrirtækja, sem byggja afkomu sína að verulegu leyti á viðskiptum og þjónustu við álverið. Hún kallar líka á vangaveltur um áhrifin á Landsvirkjun, sem er í eigu þjóðarinnar í gegnum ríkið, og á Hafnarfjörð og íslenzkt efnahagslíf almennt."
Hér tekur iðnaðarráðherra rangan pól í hæðina, eins og fyrri daginn. Hún ruglar saman orsök og afleiðingu. Orsök þess, hvernig komið er, eru gjörbreyttar aðstæður á álmörkuðum og orkumörkuðum, en Landsvirkjun hefur samt þverskallazt við að aðlaga sig breyttri stöðu og hlaupa undir bagga í Straumsvík og gefa starfseminni þar líf. Það er rangt, sem talsmenn Landsvirkjunar halda fram, að verð raforkunnar hafi verið lækkað til ISAL vegna Kófsins. Þetta hefði ráðherrann átt að kynna sér.
Það lítur út fyrir, að samúð ráðherrans sé öll með Landsvirkjun. Hún virðist ekki vita eða ekki vilja vita, hversu dólgsleg framkoma manna þar á bæ gagnvart Rio Tinto / ISAL hefur verið. Það örlar ekki á skilningi þessa ráðherra á því, sem raunverulega er að gerast og rakið er í inngangi þessa vefpistils. Rio Tinto er að skapa sér lagalega stöðu til að komast undan kaupskyldu raforkunnar í því tilviki, að verulega verði dregin saman seglin eða starfseminni jafnvel hætt í Straumsvík.
Þess í stað gerir þessi ráðherra tilraun til að þvo hendur sínar af atvinnumissi og efnahagstjóni, sem samdráttur eða stöðvun í Straumsvík leiðir til. Ætlar hún að bjarga málunum með sæstreng til útlanda ? Hún veit líklega ekki, að borga þyrfti með orkunni þangað. Er ekki heil brú í þessum orkupakkaráðherra ?
"Sem fyrr segir varpar Rio Tinto með yfirlýsingu sinni skugga óvissu yfir atvinnu hundraða starfsmanna og mikilvægar framtíðarþekjur Landsvirkjunar, sem er í eigu allrar þjóðarinnar. Í mínum huga orkar tvímælis að varpa slíkum skugga óvissu án þess að varpa á sama tíma ljósi á uppsagnarákvæði orkusamningsins. Fyrirtækið kýs að gera mögulega uppsögn að umtalsefni. Þá er eðlilegt að gera ráð fyrir, að fyrirtækið upplýsi, hvaða skilyrði gilda um slíka uppsögn."
Af þessum texta er ljóst, að ráðherrann hefur vaknað upp með andfælum, þegar slitnaði upp úr samningaviðræðum Rio Tinto/ISAL við Landsvirkjun og hinir fyrrnefndu kærðu hina síðarnefndu til Samkeppniseftirlitsins. Þórdísi Kolbrúnu er það mikið kappsmál að gera blóraböggul úr Rio Tinto/ISAL og sannar þar með, að hún glórir hvorki í þróun alþjóðlegs orkuverðs til stóriðju eða samkeppnishæfni álvera á alþjóðamörkuðum. Hún er bundin í viðjar þess hugsunarháttar orkupakka ESB, að orkufyrirtækin eigi að kappkosta hámarksverð fyrir "vöruna" rafmagn, sama hvað tautar og raular. Þórdís dæmir sig algerlega úr leik með þessum málflutningi. Hún hefur ekki unnið heimavinnuna sína sem iðnaðarráðherra, sem er að greina eðli þeirrar stöðu, sem orku- og iðnaðarmál Íslands nú eru í. Hún skákar í því skjólinu, að ákvæðið um kaupskylduna í raforkusamninginum standi naglfast, sama hvernig samningsaðilar haga sér. Hana skortir hugmyndaflug til að stilla upp nýjum sviðsmyndum, svo að Íslendingar geti lágmarkað tjónið af efnahagsástandi heimsins og komið í veg fyrir yfirvofandi altjón í Straumsvík. Það altjón er ekki óumfjýjanlegt, þótt Rio Tinto hafi lagt niður mörg álver á undanförnum árum. Rio Tinto hefur ekki mótað stefnu um að hverfa alfarið frá álframleiðslu í Evrópu, nema starfsskilyrðin þar verði óaðgengileg.
"Ákvörðun Norsk Hydro um að kaupa ISAL fyrir um tveimur árum endurspeglar líka trú á starfsskilyrðunum á Íslandi, þó að kaupin hafi ekki gengið eftir af öðrum ástæðum."
Þetta er villandi texti hjá ráðherranum. Innan stjórnar Norsk Hydro ríkti eftirsjá eftir að sleppa miklum iðnaðartækifærum á Austurlandi í byrjun þessarar aldar, og það varð meirihluti innan stjórnarinnar fyrir því að ná loks fótfestu á Íslandi. Hins vegar voru þar miklar efasemdir um arðbærni ISAL með þáverandi og núverandi kostnaðarmynztri, og efasemdarmenn urðu ofan á, þegar framkvæmdastjóri samkeppnismála ESB lýsti yfir efasemdum um yfirburðastöðu Norsk Hydro á markaði álstanga í Evrópu eftir kaupin. Það gengur ekki, að ráðherra vaði á súðum, eins og ráðherra iðnaðarmála á Íslandi gerir um þessar mundir.
Í lokin skrifaði Þórdís K.R. Gylfadóttir:
"Ástæða er til að ætla, að umhverfisvænar orkulindir Íslands verði áfram eftirsóttar. Við viljum bjóða upp á samkeppnishæft umhverfi, en við gerum að sjálfsögðu líka kröfu um, að sala á orkuafurðum úr sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar sé arðbær. Við erum nýbúin að ganga í gegnum langvinna umræðu um þriðja orkupakkann, sem snerist að miklu leyti um nauðsyn þess að standa vörð um sameiginlegar orkuauðlindir okkar. Af þeirri umræðu hlýtur að leiða, að talað sé gegn því, að við seljum þær á útsölu."
Þetta er fullkomin froða hjá ráðherranum, og orkupakkaumræðunni snúið á haus. Hvaða ástæða er til að halda, að orkulindir Íslands séu eftirsóttar ? Hafa orkuvinnslufyrirtækin gert nokkur ný stórviðskipti með rafmagn, síðan samningurinn við PCC á Bakka var gerður ? Er ráðherrann að skírskota til áhuga Breta eða annarra á að tengja raforkukerfi Íslands risamarkaði, sem hefði fyrir aðeins einu ári stillt innlendri starfsemi upp við vegg í samkeppninni um rafmagnið, en myndi nú valda öllum viðriðnum aðilum stórtjóni, bæði sæstrengseigendum og virkjunaraðilum á Íslandi, sem lagt hefðu í fjárfestingar vegna slíks ævintýris.
Hverjir eru "við", þegar ráðherrann skrifar, að við viljum bjóða upp á "samkeppnishæft umhverfi". Það er a.m.k. ekki Landsvirkjun, því að forráðamenn hennar hafa barið hausnum við steininn og þverskallazt við að horfast í augu við blákaldar staðreyndir orkumarkaðarins. Hvað hefur þessi ráðherra gert til að koma í veg fyrir stórfellt þjóðhagslegt tjón í Straumsvík ? Það er ekki vitað til, að hún hafi hreyft legg né lið, og það er henni til stórvanza sem stjórnmálamanni. Ráðherra er reyndar settur á hliðarlínuna með orkupakkalöggjöf ESB, enda markaðinum ætlað að leysa málin. Vandinn, sem iðnaðarráðherra hefur aldrei skilið, er sá, að hérlendis er enginn markaður í skilningi ESB og orkulöggjafar Sambandsins. Þess vegna er nú komið sem komið er á vakt Þórdísar K.R. Gylfadóttur, að Landsvirkjun situr á sakabekk hjá Samkeppniseftirlitinu, sökuð um misbeitingu yfirburðastöðu, les einokunarstöðu, á markaði. Þetta mál getur hæglega lent hjá ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, sem ekki er ólíklegt, að muni þá benda stjórnvöldum hérlendum á, að staða og hlutfallsleg stærð Landsvirkjunar samræmist engan veginn samkeppnislöggjöf Innri markaðar EES. Iðnaðarráðherra er eins og álfur út úr hól í þessu stórmáli.
7.8.2020 | 09:02
Lífeyrissjóðirnir eru kjölfesta velferðarkerfisins
Það hefur verið óviðkunnanlegt, jafnvel hráslagalegt, að fylgjast með gjamminu í sumum verkalýðsleiðtogum landsins gagnvart t.d. Icelandair, sem er hryggjarstykkið í íslenzkri ferðaþjónustu. Þar róa stjórnendur og starfsfólk nú lífróður. Heyrist þá ekki það hljóð úr horni, að verkalýðsleiðtogar muni beita áhrifum sínum til að refsa Icelandair fyrir aðgerðir sínar á vinnumarkaði með því að lífeyrissjóðir, t.d. Lífeyrissjóður verzlunarmanna, muni ekki fjárfesta meira í Icelandair ? Þessi málflutningur er fyrir neðan allar hellur, er brot á stjórnarháttayfirlýsingu lífeyrissjóðsins, og slíkt athæfi varðar sennilega við lög. Sumir verkalýðsleiðtogar nútímans virðast vera úti á þekju og ekki skilja núverandi stöðu íslenzka hagkerfisins. Þeir virðast ennfremur telja sig hafna yfir lög og rétt eða geta tekið geðþóttaákvörðun um það, hvenær þeim þóknast að hunza lagafyrirmæli og aðrar leikreglur þjóðfélagsins. Slíkt vitnar um alvarlega persónuleikabresti, sem eru lítt til forystu fallnir.
Seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, er hins vegar réttur meður á réttum stað. Hann er með fingurinn á þjóðarpúlsinum og hefur tjáð sig opinberlega með snöfurmannlegum hætti um, að tilburðir verkalýðsforkólfa til að skuggastjórna lífeyrissjóðunum séu fullkomlega óboðlegir og að girða verði með lögum fyrir möguleika þeirra til ógnarstjórnar, en þeir hafa hótað nú og áður látið verða af hótun sinni um að afnema umboð stjórnarmanna í lífeyrissjóðum, af því að gjörðir þeirra væru verkalýðsforkólfum ekki þóknanlegar.
Eftir nýjasta frumhlaup Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, í þessum efnum hefur hann að vísu dregið í land og virðist nú vera einhvers konar ómerkingur á flæðiskeri staddur. Þetta varð Herði Ægissyni tilefni leiðaraskrifa í Fréttablaðið 24. júlí 2020 undir yfirskriftinni:
"Skaðinn skeður".
Þar stóð m.a.:
"Ákvörðun lífeyrissjóðanna, sem komu síðast að endurreisn Icelandair fyrir hartnær áratug, að leggja félaginu til aukið fjármagn, getur aðeins verið tekin á viðskiptalegum forsendum með arðsemismarkmið að leiðarljósi. Hagsmunir sjóðsfélaga, sem treysta stjórnendum sjóðanna fyrir því ábyrgðarmikla hlutverki að ávaxta skyldusparnað sinn, eru þar undir.
Sumir eiga erfitt með að gera sér grein fyrir þessu samhengi hlutanna. Forystufólk verkalýðshreyfingarinnar, sem er hvað öðru vanstilltara í ofstæki sínu, hefur lagt sitt af mörkum í að leggja stein í götu björgunartilrauna flugfélagsins [Icelandair]. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur þar farið fremstur í flokki með því að beina því til fulltrúa stéttarfélagsins í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að sniðganga eða greiða atkvæði gegn fjárfestingu í útboði Icelandair vegna óánægju með, hvernig staðið var að kjaraviðræðum við FFÍ. Færu fulltrúar VR ekki að þeim tilmælum, yrði þeim skipt út. Engu breytir, þótt formaður VR hafi síðar dregið í land, eftir að samningar náðust við flugliða. Skaðinn er skeður, og vegið hefur verið að sjálfstæði stjórnar lífeyrissjóðsins. Það má ekki standa án eftirmála.
Augljósir tilburðir formanns VR til skuggastjórnunar með því að reyna að taka beina stjórn á sjóðnum eru ekki nýmæli. Aðeins rúmt ár er síðan Fjármálaeftirlitið beindi því til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að endurskoða samþykktir sjóðsins sérstaklega með það í huga, hvort og við hvaða aðstæður hægt væri að skipta út stjórnarmönnum. Var það gert, eftir að fulltrúaráð VR hafði afturkallað umboð stjórnarmanna stéttarfélagsins í stjórn og sett inn nýja stjórnarmenn til bráðabirgða vegna ákvörðunar um vexti verðtryggðra sjóðfélagalána, sem stjórn og fulltrúaráð VR voru ósammála um. Með því að ætla enn á ný að hafa áhrif á ákvörðunartöku lífeyrissjóðs, sem er ekki í eigu eða undir stjórn VR, hefur Ragnar Þór sýnt Fjármálaeftirliti Seðlabankans lítilsvirðingu og skeytt ekkert um þau tilmæli, sem stofnunin hefur sent frá sér."
Það er jafnan eins og téður Ragnar Þór sé nýdottinn ofan úr tunglinu, því að annaðhvort skilur hann ekki þær leikreglur, sem gilda í samfélaginu, eða hann vill ekki skilja þær. Téðum Ragnari verður hins vegar tíðrætt um spillinguna í samfélaginu. Hvað er spilling ? Felst hún ekki einmitt líka í því að gefa skít í leikreglurnar með eigin hag eða skjólstæðinga sinna í fyrirrúmi ? Hvað er þá hegðun þessa verkalýðsforkólfs annað en spilling, því að hann er augljóslega að slá sig til riddara í augum félagsmanna sinna og annarra verkalýðsfrömuða með athæfi sínu ? Þetta eru auðvitað ótæk vinnubrögð af hálfu formanns verkalýðsfélags, enda hefur nú Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri, brugðizt við þessum flumbruhætti. Við hann var viðtal í Fréttablaðinu 24. júlí 2020 undur fyrirsögninni:
"Höfum slæma reynslu af skuggastjórn":
Ásgeir Jónsson er ómyrkur í máli, enda hefur verkalýðsforkólfurinn Ragnar Þór Ingólfsson orðið að gjalti. Óprúttið framferði hans er VR til skammar:
""Að mínu áliti þarf að stíga miklu fastar til jarðar í því að tryggja sjálfstæði sjóðanna. Ég tel, að regluumhverfi þeirra sé allt of veikt og að Fjármálaeftirlitið þurfi öflugri heimildir til inngripa", segir í samtali við Fréttablaðið."
Miðað við einarða afstöðu Óla Björns Kárasonar, Alþingismanns Sjálfstæðisflokksins og formanns Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, í Morgunblaðsgrein hans, 22. júlí 2020:
"Grafið undan lífeyrissjóðum",
má hiklaust reikna með, að þingið verði góðfúslega við óskum Seðlabankastjóra um lagasetningu til að girða fyrir sóðaleg vinnubrögð varðandi það gríðaröfluga og mikilvæga velferðarkerfi, sem lífeyrissjóðir landsmanna eru orðnir. Aðeins í Danmörku og Hollandi, af öllum löndum heims, er lífeyrissparnaður meiri m.v. verga landsframleiðslu, og hún er enn tiltölulega há hér.
"Ásgeir segir, að tilmæli stjórnar VR séu þörf áminning um mikilvægi þess að þétta varnir í kringum sjálfstæða ákvarðanatöku innan lífeyrissjóðanna."
Þetta er hverju orði sannara hjá Seðlabankastjóra í ljósi þess feiknamikilvæga þjóðhagslega hlutverks, sem lífeyrissjóðirnir eiga að gegna. Að lýðskrumandi fúskarar úti í bæ geti fjarlægt stjórnarmenn og sett aðra sér þóknanlega þar í staðinn áður en skipunartíminn rennur út, býður hættunni heim fyrir hagsmuni sjóðfélaganna.
"Það er óþolandi, ef sjóðsfélagar, sem eru að safna fyrir ævikvöldi sínu, geti ekki gengið að því vísu, að fjárfestingarákvarðanir séu teknar í samræmi við hagsmuni þeirra",
sagði Seðlabankastjóri. Þegar furðufuglar, sem skolað hefur á fjörur stjórna verkalýðsfélaga fyrir tilstilli lítils minnihluta félagsmanna vegna lítillar kosningaþátttöku, fá þá flugu í höfuðið, að þeir séu handhafar eignarhalds á lífeyrissjóðunum, þá verður Fjármálaeftirlitið auðvitað að geta sett þeim stólinn fyrir dyrnar. Þá þýðir nú lítið sú aumkvunarverða vörn, sem téður Ragnar hefur uppi með allt á hælunum, að hann hafi málfrelsi.
""Það mega ekki skapast nein tækifæri til að stofna sjálfstæði stjórnarmanna í hættu. Það má ekki vera auðveldara að skipta út stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum en í öðrum einingum tengdum almannahagsmunum. Sérstaklega í ljósi þess, hve sjóðirnir eru stórir og umsvifamiklir í íslenzku atvinnulífi", segir Ásgeir."
Þetta er kjarni málsins. Ábyrgðarlausir aðilar á þessu sviði, verkalýðsformenn og aðrir "úti í bæ", geta gasprað að vild, en það á ekki að hafa áhrif á fjármálavafstur stjórnenda lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðirnir eru allra aðila umsvifamestir í fjármögnun íslenzks atvinnulífs og mynda hryggjarstykkið í mörgum öflugum félögum. Stjórnir þeirra sinna vandasömum og ábyrgðarmiklum störfum og verða þess vegna að fá starfsfrið.
Að lokum verður hér vitnað í fróðlega og skelegga grein Óla Björns, sem áður var nefnd til sögunnar:
"Okkur Íslendingum hefur tekizt það, sem fáum öðrum þjóðum hefur auðnazt; að byggja upp lífeyriskerfi, sem launafólk hefur getað treyst á. Styrkleiki lífeyriskerfisins er einn mikilvægasti hornsteinn efnahagslegrar velferðar þjóðarinnar. Hrein eign lífeyrissjóðanna í lok síðasta árs nam tæpum mrd ISK 5000. Samkvæmt nýlegri úttekt OECD nemur lífeyrissparnaður á vegum lífeyrissjóðanna (samtrygging og séreign) um 167 % af vergri landsframleiðslu og um 177 % að meðtöldum sparnaði á vegum innlendra og erlendra vörzluaðila séreignarsparnaðar. Aðeins í Danmörku og Hollandi er lífeyrissparnaðurinn meiri."
4.8.2020 | 11:07
Orkumál og orkunýting á umbreytingaskeiði
Það hefur komið fram, að rekstur álvers ISAL í Straumsvík er orðinn fjárhagslega ósjálfbær. Meginástæðan er hrun álmarkaðanna, en við þær aðstæður verður hár innanlandskostnaður að óbærilegum klyfjum fyrir eigandann, eins og mrdISK 13 í tap árið 2019 ber vitni um. Mjög hátt raforkuverð, hið langhæsta til stóriðjustarfsemi á Íslandi um þessar mundir, vegur þar þyngst á metunum.
Sömu sögu er að segja úr kísilgeiranum, bæði járnblendinu og kísilmálmframleiðslunni. Elkem á Íslandi berst í bökkum með orkuverð, sem gerðardómur dæmdi og Landsvirkjun er óánægð með og hefur lýst áformum um hækkunarkröfur við fyrsta tækifæri. Verði þeirri ósanngjörnu kröfu haldið til streitu, mun Elkem á Íslandi stöðva starfsemi sína á Grundartanga, ef rétt er ráðið í yfirlýsingu nýs forstjóra fyrirtækisins. PCC á Bakka hefur dregið stórlega saman seglin mun nú jafnvel hafa verið lokað alveg tímabundið, þótt kaupskylda raforku sé þar við lýði.
Nú hafa gagnaversrekendur bætzt í hóp bónbjargarmanna. Af frétt Markaðarins 15. júlí 2020 að dæma óttast þeir yfirvofandi hækkun raforkukostnaðar á Íslandi á næstunni. Í öllum tilvikum er hér um að ræða viðskiptavini Landsvirkjunar. Verðlagsstefna hennar er hörð og ósveigjanleg og virðist beinlínis ætluð til að ganga af starfsemi viðskiptavinanna dauðri. Landsvirkjun er í krafti stærðar sinnar einokunarfyrirtæki, sem nýtur einskis aðhalds frá samkeppni vegna þess, að aðrir leikendur á sviðinu hafa ekki bolmagn til að taka við stórum viðskiptavinum. Við þessar aðstæður blasir við, hversu forkastanlegt það er af stjórn Landsvirkjunar að taka upp þann þátt orkustefnu Evrópusambandsins, ESB, í Orkupakka #3, sem fjallar um, að hvert fyrirtæki eigi að haga starfsemi sinni til hámörkunar tekna sinna. Þetta felur reyndar í sér fjárfestingar til að mæta aukinni aflþörf og um leið að auka markaðshlutdeild sína, en undarlega lítið ber á nýjum virkjunaráformum Landsvirkjunar nú, þótt ytri aðstæður séu hinar hagstæðustu til þess. Gælt er við vindorkuver, sem er fáránleg fjárfesting á Íslandi með gríðarlegum umhverfisspjöllum og stóru kolefnisspori á orkueiningu yfir endingartímann.
Nú hafa Rio Tinto Tinto/ISAL kært Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins fyrir misnotkun á markaðsráðandi aðstöðu sinni. Að þessu hlaut að koma. Tímasetningin tengist slitum á samningaviðræðum fyrirtækjanna um endurskoðun raforkusamnings og kann að vera upphafið að miklu lögfræðiþrefi fyrirtækjanna í tengslum við uppgjör þeirra á milli vegna lokunar ISAL áður en núgildandi raforkusamningur rennur sitt skeið á enda árið 2036.
Erfiðleikar orkukræfs iðnaðar eru alþjóðlegir. Álverksmiðjur á Nýja-Sjálandi hafa aðallega selt ál til Japans, en kínverskar álverksmiðjur eru nær þeim markaði, svo að þær hafa náð þar undirtökunum. Er það ólíkt Japönum að láta Kínverja komast í ríkjandi stöðu með svo öryggislega mikilvæga vöru sem ál er. Engu að síður hefur Rio Tinto nú lokið við úttekt sína á rekstraraðstæðum verksmiðju syðst á syðri eyjunni við Tiwai Point og komizt að þeirri niðurstöðu, að verksmiðjan beri sig ekki með núverandi raforkukostnaði á MWh, sem er mjög svipaður og í Straumsvík. Verksmiðjurnar eru á svipuðum aldri, en Tiwai Point er líklega með töluvert lægri rekstrarkostnað á framleiðslueiningu, því að hún er með 77 % meiri framleiðslugetu og aðdráttarleiðir hennar fyrir aðalhráefnin eru miklu styttri en Straumsvíkurverksmiðjunnar, þar sem Ástralía er á næsta leiti. Launakostnaður á hvert framleitt t er nánast örugglega lægri á Nýja-Sjálandi en hérlendis, enda er árlegt tap í Tiwai Point miklu lægra en í Straumsvík.
Sams konar úttekt á rekstraraðstæðum ISAL er sennilega lokið og þess vegna vitað, hvert er hámarksraforkuverð, sem verksmiðjan getur staðið undir. Það hefur greinilega enn ekki náðst samkomulag á milli RT/ISAL og Landsvirkjunar um að framlengja líf verksmiðjunnar til 2036, þegar gildistíma raforkusamnings lýkur. Lýsir það vel öngstrætinu, sem íslenzk iðnaðar-, orku- og atvinnustefna er í, að framtíð þessa stóra vinnustaðar og gjaldeyrislindar skuli hanga á bláþræði stefnu Landsvirkjunar, sem á sér engan bakhjarl í eigendastefnu frá Alþingi. Er alveg stórfurðulegt og ámælisvert, að iðnaðarráðherra skuli við þessar grafalvarlegu aðstæður í atvinnumálum landsins skýla sér á bak við sinn Orkupakka #3, sem setur Landsreglara í þá stöðu, sem ráðherra gegndi áður varðandi orkumálin. Með hliðsjón af miklum afskiptum ríkisstjórna innan EES á þessum Kófstímum á hún ekki að hika við að láta til sín taka í þessu máli, ef hún hefur bein í nefinu til sáttaumleitana.
Þórður Gunnarsson á Fréttablaðinu var með umfjöllun um þessi mál í Markaðnum 15. júlí 2020 undir fyrirsögninni:
"Rekið með minna tapi en Straumsvík".
Þar gat m.a. að líta þetta:
"Miklar deilur áttu sér stað á Nýja-Sjálandi fyrir byggingu álversins, en ráðast þurfti í miklar virkjanaframkvæmdir á Manapouri-vatnasvæðinu til að útvega álverinu rafmagn. Álverið er kaupandi um 13 % allrar framleiddrar raforku á Nýja-Sjálandi, en nú þarf að finna þeirri orku nýjan farveg. Að sama skapi er þetta skellur fyrir hið staðbundna hagkerfi álversins, en talið er, að um 2500 bein og óbein störf muni tapast vegna lokunar álversins."
Þarna er sem sagt um að ræða meðalstórt álver, sem knúið er raforku frá vatnsorkuveri. Álverseigandinn fær líklega ekki hærra verð fyrir sína vöru, þótt hún sé framleidd með sjálfbærum hætti. Á Nýja-Sjálandi er hins vegar nóg af kaupendum raforkunnar, sem verður á lausu, öfugt við það, sem hér á Íslandi verður uppi á teninginum, ef ISAL verður lokað. Í grein Þórðar Gunnarssonar er haft eftir ónafngreindum, að í Kanada greiði Rio Tinto 26 USD/MWh að flutningsgjaldi meðtöldu til álvera sinna. Það er ívið lægra en RT/ISAL hefur farið fram á við Landsvirkjun og reyndar gert að úrslitaatriði fyrir áframhaldandi rekstri verksmiðjunnar og fjárfestingum í henni til að halda henni vel gangfærri í 16 ár. Að Landsvirkjun skuli þrjózkast við sýnir, að hún er að verðleggja sig og þar með Ísland út af markaðinum. Standa ríkisstjórn og Alþingi að baki þeirri stefnumörkun ríkisfyrirtækisins ?
Að lokum þessi tilvitnun í greinina:
""Við höfum ekki enn náð samkomulagi við Landsvirkjun um raforkusamning, sem gerir ISAL samkeppnishæft", sagði Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi."
Þessi stutta tilvitnun sýnir, að skessur Landsvirkjunar leika sér nú með fjöregg iðnaðarins á Íslandi af fullkominni léttúð og skilningsleysi á þjóðhagslegu mikilvægi hans og raunverulegu hlutverki Landsvirkjunar.
Eitt af uppátækjum núverandi forstjóra Landsvirkjunar var að heimta afnám tengingar raforkuverðs við álverð við endurskoðun samninga. Þetta er þó eina eðlilega tengingin, sem miðar að því að tryggja sem mest raforkukaup álversins í niðursveiflu og hlutdeild orkusalans í ávinningi uppsveiflunnar. Þessi tenging tíðkast út um allan heim og er jafnan með gólfi og þaki. Landsvirkjun álpaðist til að leysa þessa tengingu af hólmi í samningum við Norðurál árið 2016 með tengingu við norðvesturhluta Nord Pool raforkumarkaðarins í Evrópu, sem hefur sáralitla tengingu við hinn alþjóðlega álmarkað. Í ár hefur Landsvirkjun goldið fyrir þetta og tapað stórlega, enda ekki gert neinar ráðstafanir til að jafna út sveiflurnar á þessum markaði með tryggingum. Það er eins og viðvaningar í fjármálastjórnun séu í sandkassaleik í háhýsinu ofarlega á Háaleitisbraut.
Í Markaðnum 1. júlí 2020 var m.a. fjallað um þetta undir fyrirsögninni:
"Tekjufall gæti orðið töluvert á árinu":
"Mikil lækkun á Nord Pool-raforkumarkaðinum í Evrópu kemur illa við Landsvirkjun, en nýjasti raforkusamningur fyrirtækisins við Norðurál, sem tók gildi í nóvember sl. [samkvæmt samningi frá 2016] tekur mið af því verði. Meðalverð í nóvember sl. var um 42 EUR/MWh, en meðalverð í júní á þessu ári [2020] var ríflega 3 EUR/MWh. Landsvirkjun hefur ekki keypt neinar áhættuvarnir gegn sveiflum á Nord Pool-verðinu, sem hefur lækkað um meira en 90 % síðastliðið hálft ár."
""Norðurál kaupir u.þ.b. 1,6 TWh af okkur á hverju ári og eru því kaupandi um 11 % af okkar framleiðslu, þó [að] þeir hafi aldrei náð sama hlutfalli í okkar tekjum. En það hefur komið mjög á óvart, hvernig Nord Pool hefur þróazt.
Þarna er ákveðinn forsendubrestur, sem hefur átt sér stað, sem tengist inngripum stjórnvalda með að loka mörkuðunum", segir Hörður.
Auk fullra miðlunarlóna, einkum í Svíþjóð og í Noregi, hefur mikill samdráttur eftirspurnar rafmagns í Evrópu þrýst rafmagnsverði niður á við."
Lækkun raforkuverðs var hafin í Evrópu áður en kórónuveiran hélt innreið sína þar og stafaði af niðursveiflu efnahagslífsins, sem viðskiptastríð Kína og Bandaríkjanna átti þátt í að framkalla, og af auknu framboði umhverfisvænnar orku. Þetta hefur veikt samkeppnisstöðu gagnavera á Íslandi, en gagnaver í Evrópu kaupa þar eðlilega raforku á verði, sem dregur dám af Nord-Pool heildsöluverði. Í Markaðnum 15. júlí 2020 var fjallað um þetta undir fyrirsögninni:
"Staða gagnavera fer versnandi".
Upphaf umfjöllunarinnar var þannig:
"Lágt raforkuverð á samkeppnismörkuðum íslenzkra gagnavera skapar talsverðar áskoranir fyrir atvinnugreinina, sem horfir fram á versnandi samkeppnishæfni.
"Hagstætt og fyrirsjáanlegt raforkuverð hefur í gegnum tíðina verið einn af stóru þáttunum, sem hafa skapað íslenzkum gagnaverum það samkeppnisforskot, sem hefur skilað þeim á þann stað, sem þau eru í dag, en til viðbótar við aðgengi að hreinni orku þurfa þau einnig góðar nettengingar og aðgengi að frábæru starfsfólki. Öll þessi atriði þurfa ætíð að vera samkeppnishæf við það, sem bezt gerist erlendis. Stór hluti af þeim áskorunum, sem við stöndum frammi fyrir núna, er hins vegar, að Ísland er ekki lengur samkeppnishæft, þegar kemur að raforkuverði, en sú staða er grafalvarleg, sérstaklega í ljósi hægari umsvifa í öðrum útflutningsgreinum", segir Jóhann Þór Jónsson, formaður Samtaka gagnavera, í samtali við Markaðinn."
Aðvörunarbjöllurnar glymja allt um kring. Vitlaus orkulöggjöf hér m.v. aðstæður á Íslandi og túlkun og fylgni risans á íslenzkum orkumarkaði á henni er að steypa stórnotendum og miðlungsnotendum í fjárhagslega glötun. Það eru alls engar markaðslegar forsendur fyrir því á Íslandi að reka þá verðlagsstefnu, sem Landsvirkjun gerir, þ.e. að hámarka arð sinn og margtuggnar arðgreiðslur. Eigandum, ríkissjóði, kemur á hinn bóginn bezt, að hér starfi öflugur og samkeppnisfær iðnaður og önnur atvinnustarfsemi, knúin ódýru gæðarafmagni (mikið afhendingaröryggi og spennu- og tíðnistöðugleiki). Þá verður arður af eignum ríkisins í raforkukerfinu tekinn út "á hinum endanum", eins og F.D. Roosevelt, Bandaríkjaforseti, orðaði eitt sinn svar sitt við spurningu um lágorkuverðsstefnu "New Deal", sem kippti BNA upp úr kreppufeni 4. áratugar 20. aldarinnar.
"Jóhann segir, að til viðbótar við lægra orkuverð erlendis, sé mikill munur á kostnaði við flutning og dreifingu á raforku á Íslandi samanborið t.d. við Noreg og Svíþjóð, sem leiðir til þess, að heildarorkukostnaður verði umtalsvert lægri í þessum löndum samanborið við Ísland. Þá áformar Landsnet fjárfestingu upp á tugi milljarða í flutningskerfi sínu í tengslum við kerfisáætlun til að bæta raforkuöryggi, en það getur orðið til þess, að raforkuverð til stórnotenda hækki umtalsvert á næstu árum."
Einmitt vegna hins háa flutnings- og dreifingarkostnaðar raforku á Íslandi leiðir orkupakkastefnan um hámörkun arðsemi orkuvinnslufyrirtækjanna óhjákvæmilega til þess, að Ísland verður ósamkeppnishæft á orkusviðinu. Þess vegna ber að lágmarka verðið m.v. lágmarksarðsemi í stað þess að hámarka það. Í gamla daga var flutningur og vinnsla á einni hendi, þ.e. Landsvirkjunar, og fyrirtækið notaði einfaldlega hagnaðinn af vinnslunni til að fjármagna flutningsmannvirkin. Það er hið eðlilega, "með einum eða öðrum hætti", m.v. íslenzkar aðstæður.
"Við erum nú þegar í ósamkeppnishæfu umhverfi, og frekari hækkanir á flutningskostnaði veita samkeppnishæfni íslenzkra gagnavera þungt högg."
20.7.2020 | 10:01
Vönduð fréttamennska af atvinnulífinu
Það er skoðun höfundar þessa vefpistils, að umfjöllun Morgunblaðsins, bæði vef- og ritmiðils, um viðskipti og atinnulíf, sé sú ítarlegasta og vandaðasta á Íslandi um þessar mundir. Þetta virðist stafa af því, að blaðamennirnir eru með fingurinn á þjóðarpúlsinum, og af góðri ritstjórn með heilbrigt fréttamat m.t.t. hagsmuna þjóðarinnar. Fyrir lýðræðisþróun er gríðarlega mikilvægt, að mikilvægir atburðir, tilhneiging og þróun innan atvinnulífsins séu þar ekki innilokaðir og sótthreinsaðir, þar til einhver sprenging verður eða ráðamönnum þar þóknast að láta einhverja matreiðslu í té að eigin smekk. Illmögulegt er þá fyrir almenning að mynda sér raunhæfa mynd af stöðu mála og þróun.
Almenningur á Íslandi á allt undir velgengni atvinnuveganna komið, einnig ríkis- og bæjarstarfsmenn, því að hjá atvinnuvegunum, í raunhagkerfinu, verður öll verðmætasköpun þjóðfélagsins til, sem heimilin fá síðan væna sneið af, eina þá stærstu í hlutfalli og verðmætum talið um þessar mundir, og hið opinbera heggur síðan í, bæði hjá heimilunum og fyrirtækjunum. Dæmi eru um skelfilega sóun verðmæta hjá hinu opinbera. Hjá Sjúkratryggingum Íslands stingur í augun kerfisóreiða, sem hvetur til utanfarar sjúklinga í stað aðgerðar á einkareknum fyrsta flokks stofum fyrir 1/3 kostnaðar við utanförina. Hjá Reykjavík er fjármálaóreiðan slík, að skuldirnar nema MISK 10 á hverja 4 manna fjölskyldu. Þar mun óreiðan enda með ósköpum, verði ekki fljótlega gripið í taumana. Borgarlína höfuðborgarsvæðisins er hugarfóstur, sem hentar engan veginn hér vegna mannfæðar, veðurfars og krafna almennings um lífsgæði.
Stefán E. Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, hefur látið sér annt um áliðnaðinn og flugstarfsemina og heyjað sér mikillar þekkingar á þessum sviðum. Laugardaginn 27. júní 2020 birti hann Baksviðsfrétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Enn ber talsvert í milli".
Með greininni birtist mjög viðeigandi mynd af fyrsta hverfilshjóli Landsvirkjunar í Búrfelli, sem Landsvirkjun gaf ISAL við hátíðlegt tækifæri, þegar gott talsamband ríkti á milli fyrirtækjanna, sem yfirleitt var á tímabilinu 1966-2010. Nú er öldin önnur, eins og Stefán flettir ofan af í téðri baksviðsfétt. Hún hófst þannig:
"Enn ber talsvert á milli í viðræðum Landsvirkjunar og Rio Tinto um endurmat á raforkuverði til verksmiðju síðarnefnda fyrirtækisins í Straumsvík. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins.
Greint var frá því í Viðskipta-Mogganum á miðvikudag [24. júní 2020], að Rio Tinto hefði lýst yfir vilja til þess að auka framleiðslu sína í álverinu að nýju, en fyrirtækið hefur dregið talsvert úr framleiðslunni, það sem af er ári. Álverð hefur haldizt mjög lágt á heimsmarkaði síðustu mánuði, og flest bendir til þess, að ástandið muni haldast þannig á komandi mánuðum. Verksmiðjan í Straumsvík var rekin með nærri mrdISK 14 tapi í fyrra [2019]."
Þarna er frásögnin af yfirstandandi samningaviðræðum um raforkusamning á milli fyrirtækjanna í véfréttastíl, enda kunna menn að leggja mismunandi mat á stöðu og horfur í flókinni stöðu. Hitt dylst engum, að það mun ráða örlögum ISAL, hvort samningar nást eða ekki. Rio Tinto hefur lýst yfir, að lengra verði ekki haldið á sömu tapsbraut og einnig, að náist viðunandi samningar, sé samstæðan tilbúin að nýta framleiðslugetu ISAL til fullnustu, sem er um 240 kt/ár af söluhæfu áli út úr steypuskála (m.v. aðkeypt ál um 25 kt/ár). Þetta er að sjálfsögðu miðað við, að framlegð fyrirtækisins sé yfir 0. Eftir verðlækkun helztu aðfanga gerist það sennilega við um 1700 USD/t, og þar sem viðbótar verð (premía) fyrir sérvöru hefur verið í lágmarki á þessu ári, er óvíst, að sú sér raunin enn, þótt álverð fikri sig nú í rétta átt.
Það er ótrúlegt til þess að hugsa, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun virðist ekki tvínóna við það að standa yfir höfuðsvörðum þessarar áhættulausu gjaldeyriskýr á tímum, þegar þjóðfélagið hefur orðið fyrir mesta gjaldeyristapi sögunnar, einnig hlutfallslega. Þetta ríkisfyrirtæki er utan gátta með núverandi forstjóra þar við völd, og þar verður að breyta þegar í stað um stefnu. Fyrirtækið á ekki að vera hágróða fyrirtæki, heldur lággróða fyrirtæki, eins og F.D. Roosevelt mótaði sína "New Deal" stefnu um á 4. áratugi 20. aldarinnar í BNA. Aðspurður um þetta, sagði hann: við tökum gróðann út á hinum endanum.
Síðar í Baksviðsfréttinni skrifaði Stefán:
"Talsverð harka virðist hafa hlaupið í viðræðurnar, og heimildarmenn Morgunblaðsins herma, að stjórnendur Rio Tinto hafi kvartað undan meintri óbilgirni forstjóra Landsvirkjunar í viðræðunum. Svo rammt hefur kveðið að þessari óánægju, að stjórnendur Rio Tinto hafa beint erindum sínum til stjórnar Landsvirkjunar í stað forstjóra, eins og hefð er fyrir í samskiptum milli fyrirtækjanna."
Hér er einstæður texti í sögunni. Aldrei áður hefur frétzt af svo yfirþyrmandi samskiptavandræðum á milli stórs íslenzks ríkisfyrirtækis og eins af stærstu viðskiptavinunum, hvað þá, þegar í hlut á öflugur erlendur fjárfestir, sem ekki vílaði fyrir sér að hlaupa undir bagga með Íslendingum, þegar mest reið á í kjölfar bankahrunsins 2008, með mrdISK 70 fjárfestingu (MUSD 500) í Straumsvík. Rio Tinto hefur lýst yfir vantrausti á Herði Arnarsyni, og hann hefur brugðizt við með þvergirðingshætti og langlokuskrifum til æðstu manna áldeildar Rio Tinto. Þetta er náttúrulega ekki hægt að líða. Maðurinn er skaðvaldur fyrir erlendar framtíðarfjárfestingar í landinu og helzti Þrándur í Götu nýrra raforkusamninga við RT/ISAL. Skyldi hann ekki þurfa hvíld frá miklum önnum ?
Niðurlag Baksviðsfréttarinnar var þannig:
"Endurskoðun rekstrarforsenda álversins töfðust vegna kórónuveirunnar, og Rio Tinto gat ekki staðið við fyrirheit um, að vinnu við hana myndi ljúka á fyrri hluta ársins. Vinnan er þó komin í gang að nýju, og vænta má niðurstöðu samkvæmt heimildum Morgunblaðsins síðar í sumar. Fyrirtækið mun hafa lýst sig reiðubúið til þess að auka framleiðsluna að nýju, náist samningar um nýtt raforkuverð. Að öðrum kosti komi enn til álita að loka verksmiðjunni, annaðhvort tímabundið, eins og eigendur PCC á Bakka hafa gert, eða til frambúðar."
Rio Tinto vill helzt selja ISAL, en hefur ekki enn tekizt það. Aðalástæðan er talin vera raforkusamningurinn við Landsvirkjun, en hann er í raun ávísun á tap verksmiðjunnar m.v. fyrirsjáanlegan álmarkað. Þess vegna eru mestar líkur á lokun verksmiðjunnar, ef stjórnendur Landsvirkjunar þverskallast við að semja um samkeppnishæft raforkuverð. Það yrði feiknarlegur fingurbrjótur og mikill ábyrgðarhluti. Nauðsynlegt er, að forstjórinn og stjórn fyrirtækisins axli þá ábyrgð.