Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Hentar Orkupakki #4 okkar umhverfi ?

Evrópusambandið (ESB) heldur áfram vegferð sinni um samræmingu og yfirtöku stjórnunar orkumála aðildarlanda sinna samkvæmt Lissabonssáttmálanum (stjórnarskrárígildinu), og stórt skref í þessa átt var samþykkt orkulöggjafar undir heitinu Orkupakki #4.

Þetta er orkulöggjöf, sem er samtvinnuð loftslagsstefnu ESB og hönnuð til að auðvelda Sambandinu að ná markmiðum sínum á því sviði.  Ísland glímir ekki við neitt svipuð viðfangsefni í þessum efnum, þar sem næstum 100 % raforkunnar kemur úr endurnýjanlegum orkulindum samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum.  Þegar af þeirri ástæðu á OP#4 ekkert erindi til Íslands, enda höfðu íslenzk stjórnvöld augljóslega engin áhrif á mótun þessarar löggjafar.

 Til að stikla á mjög stóru má nefna eftirfarandi 12 atriði úr OP#4:

  1. Innlend löggjöf má ekki hindra framgang stefnu ESB
  2. Landsreglarinn mun fara með æðsta vald raforkumála í landinu
  3. Landsreglarinn mun handstýra Landsneti
  4. Landsreglarinn mun stjórna raforkumarkaðinum
  5. Völd innlendra stjórnvalda til afskipta af gjaldskrám verða mjög skert
  6. Embætti samræmingarstjóra undir Landsreglara mun tryggja, að Landnet fylgi áætlunum, sem ESB hefur samið og/eða samþykkt.
  7. Erfitt verður að koma í veg fyrir sæstrengi til útlanda
  8. Fjárfestingaráætlun Landsnets, sem ESB hefur samþykkt, er skuldbindandi fyrir Landsnet gagnvart ESB.  Þetta jafngildir valdayfirtöku á Landsneti.
  9. Svæðisbundnar samræmingarmiðstöðvar verða nýtt yfirþjóðlegt verkfæri ESB
  10. Það verður framkvæmdastjórn ESB, sem ákveður, hvernig rafmagnsflutningum um sæstrengi verður háttað, en ekki íslenzk yfirvöld, stofnanir eða Landsnet.
  11. ESB mun móta forsendur leyfisveitinga fyrir ný vind- og vatnsorkuver
  12. Öllum raforkunotendum á að standa til boða kvikur verðsamningur, þar sem verð hverrar klukkustundar ræðst af framboði og eftirspurn.  Þeir, sem velja þetta samningsform, fá upp settan hjá sér snjallorkumæli, sem sýnir einingarverð hverrar klukkustundar, mælir raforkunotkunina og reiknar út raforkukostnaðinn.

Eins og sést á þessari upptalningu, verður ekki um neitt smáræðis valdaafsal að ræða, ef stjórnvöld kokgleypa þetta á samráðsvettvangi EFTA og síðan í Sameiginlegu EES-nefndinni.  Túlkun Stjórnarráðsins er sú, að það jafngildi riftun EES-samningsins, ef Alþingir síðan gerir slíkar samþykktir afturreka.  Slík sjónarmið stangast á við skýran texta EES-samningsins sjálfs um heimild löggjafarvaldsins til að synja gjörðum Sameiginlegu EES-nefndarinnar staðfestingar, ef þingið telur stjórnlagaheimildir skorta til staðfestingar.  Það er leikmanni í lögum ljóst, að samþykkt OP#4 án undanþága varðar broti á Stjórnarskrá Íslands.

Í kjallaragrein á síðu forystugreina Morgunblaðsins þann 16.06.2020 birtist áhugaverð hugleiðing og varnaðarorð Ólafs Ísleifssonar, Alþingismanns, undir fyrirsögninni:

"Fjórði orkupakkinn vofir yfir".

Kjallaragreinin hófst þannig:

"Iðnaðarráðherra hefur svarað fyrirspurn minni á Alþingi um mat á fjórða orkupakkanum.  Þar er lýst hefðbundinni meðferð með skipan vinnuhóps og öðru í þeim dúr, en ekkert minnzt á, að í undirbúningi séu lögfræðilegar álitsgerðir, sem reyndust þýðingarmiklar í umræðum liðins árs um þriðja orkupakkann.  Þær komu fyrst fram fáum vikum áður en málið var rætt á Alþingi vorið 2019. Þá voru tvö ár liðin frá því Ísland skuldbatt sig á vettvangi EES til að innleiða þriðja orkupakkann.  Talið var af hálfu stjórnvalda, að þá skuldbindingu mætti ekki afturkalla þrátt fyrir ákvæði EES-samningsins í gagnstæða átt."

 Þetta eru ill tíðindi af starfsháttum og "verkstjórn" iðnaðarráðherra við stórmál, en koma því miður ekki á óvart, því að hún sýndi Þriðja orkupakkanum hvorki skilning né áhuga.  Sama kæruleysið kemur fram núna og boðar illt, eld og eimyrju.  Um orkupakka 1-2 hélt hún því fram, að þeir hefðu með uppskiptingu raforkugeirans lækkað raforkukostnað neytenda vegna "samkeppninnar".  Þetta var rækilega hrakið af hagfræðiprófessor í riti "Orkunnar okkar, ágúst 2019.  

Það, sem Ólafur Ísleifsson nefnir hér að ofan, að vanti hjá ráðherra, hefur gríðarlega þýðingu.  Ef ekki verður strax fengin bitastæð, fagleg lögfræðileg álitsgerð óvilhallra fræðimanna á borð við Stefán Má Stefánsson og Friðrik Árna Friðriksson Hirst um það, hvort innleiðing OP#4 í landslög á Íslandi standist Stjórnarskrá, þá verður að lýsa yfir vantrausti á iðnaðarráðherra og/eða utanríkisráðherra.  Þau hafa þá brugðizt skyldum sínum sem ráðherrar gagnvart Stjórnarskrá. 

Hin hlið orkupakkamálsins er efnahagsleg.  Það er bráðnauðsynlegt að leggja þjóðhagslegt mat á afleiðingar innleiðingar OP#4 og reikna þá bæði með tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi Innri markaðar ESB og engri slíkri.  Slík skýrsla yrði mikils virði, og leita þyrfti í smiðju höfunda ofannefndrar skýrslu "Orkunnar okkar", sem talizt geta verið sérfróðir um orkumál.  Hér skal fullyrða, að líkan Evrópusambandsins fyrir orkumarkaðinn á illa við hér vegna þess, að orkukerfið á Íslandi er í eðli sínu gjörólíkt hinu miðevrópska, og þess vegna mun innleiðingin virka á Íslandi eins og há skattlagning á fólk og fyrirtæki, sem veikir samkeppnisstöðuna gagnvart útlöndum. 

Í lok kjallaragreinarinnar skrifaði Ólafur Ísleifsson:

"Svar ráðherra ber með sér, að engir lærdómar hafi verið dregnir af þriðja orkupakkanum.  Hinn stjórnskipulega þátt og aðrar lögfræðilegar spurningar þarf að kanna mun fyrr í ferlinu en gert var.  Nú er rétti tíminn til að leita álits sérfræðinga á fjórða orkupakkanum áður en það er orðið of seint."

Íslenzk stjórnvöld verða að reka af sér slyðruorðið í EES-samstarfinu.  Það er lítilmótlegt hlutskipti að reiða sig á leiðsögn Norðmanna, enda er Stjórnarskrá þeirra öðruvísi en okkar.  Hagsmunamat norska stjórnarráðsins er bæði á öndverðum meiði við hagsmunamat norskrar alþýðu og íslenzkrar.  Íslenzka Stjórnarráðið verður að fara að sýna festu og dug, frumkvæði vit og áhuga, þegar kemur að málefnum íslenzkra orkuauðlinda og ráðstöfun þeirra. 

Þann 19. júní 2020 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Elías Elíasson, verkfræðing og sérfræðing í orkumálum, þar sem bent er á mikilvægi öruggrar og ódýrrar raforku fyrir vöxt og viðgang byggðarlaga og hagvöxtinn í landinu.  Orkupakkarnir stefna í þveröfuga átt, enda hefur ESB ekki lágt raforkuverð á sinni stefnuskrá, heldur nægilega hátt til að hvetja til fjárfestinga í endurnýjanlegum orkugjöfum, sem þar á bæ geta þó aðeins framleitt slitrótt eftir duttlungum náttúrunnar.  Þeir henta markaðinum mjög illa.  Grein Elíasar hét:

"Öngstræti orkupakkanna".

Þar gat m.a. að líta:

"Afleiðing hás orkuverðs og ótryggs framboðs raforku lýsir sér þannig, að í viðkomandi byggðarlögum fækkar tækifærum fólks til virðisaukandi starfsemi, fjárfestar koma ekki með fé og verðmætasti mannauður byggðanna, frumkvöðlarnir, leita annað.  Þeim byggðum hrakar, og laun hækka minna."

Áhrif hás orkuverðs, eins og verða mun í fákeppnisumhverfi með markaðsráðandi stöðu eins fyrirtækis, sem reynir að hámarka arð sinn, eru hin sömu og áhrif ótryggrar raforku, sem þekkt eru á Íslandi.  Það verður þess vegna að berjast gegn innleiðingu fyrirkomulags, sem er aðeins örverpi í íslenzku umhverfi, þar sem kostir frjálsrar samkeppni geta ekki notið sín á raforkumarkaði. 

Úrelt raforkuflutnings- og dreifikerfi landsins er landinu að nokkru leyti dulin efnahagsbyrði.  Aðbúnaður Vestfirðinga að þessu leyti er til skammar, en þar á sér nú stað mikil iðnvæðing (sjókvíaeldi og fiskvinnsla), sem krefst stöðugleika á öllum sviðum.  Vestfirðingar geta orðið sjálfum sér nógir með rafmagn, og vegna óstöðugleika Vesturlínu, sem ekki verður jarðsett, munu rafmagnsmál Vestfirðinga standa þeim fyrir þrifum, þar til þeir verða sjálfum sér nógir um rafmagn.  Stuðningur iðnaðarráðherra við Vestfirðinga í orkumálum virðist enginn hafa verið, þótt straumleysistími Vestfirðinga sé sá langhæsti á landinu.  Mun slíkt áhugaleysi ráðherra ekki koma henni í koll, þegar/ef hún leitar eftir endurkjöri í kjördæminu ?  

Fjárfestingar í flutnings- og dreifikerfum eru svo arðsamar, að þær standa vel undir lántökukostnaði.  Þar sem þörfin er brýnust á ekki að hika við slíkt nú á tímum lágra vaxta.  Ráðherra hefur þó beitt sér fyrir verulegri flýtingu á jarðstrengjavæðingu dreifikerfisins, og á því verki að ljúka árið 2025 samkvæmt áætlun stjórnvalda.  Þar með kemst líka á þrífösun sveitanna, sem er forsenda blómlegra byggða og orkuskipta. 

Nokkru síðar í greininni fjallaði Elías um orkulagasetningu ESB í samanburði við stefnu Roosevelts, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í "New Deal" um lágt raforkuverð:

"Orkupakkalög ESB, sem hér hafa verið innleidd, gera okkur erfitt fyrir að gera hliðstæðar ráðstafanir [ríkið taki ekki hagnað af raforkusölu, heldur á formi beinna og óbeinna skatta af virðisaukandi starfsemi í krafti ódýrs rafmagns-innsk. BJo].  Þau lög hindra, að þjóðin, eigandi auðlindafyrirtækjanna og flestra raforkufyrirtækjanna, geti ákveðið, að arðurinn af orkusölunni skuli koma fram á síðari stigum virðisaukakeðjunnar og skuli skattlagður þar. Að minnsta kosti virðast raforkufyrirtækin túlka lögin með þeim hætti, að einhver skilgreind jafnréttissjónarmið, sem þó skapa ójöfnuð, skuli ráða verðlagningu raforku, en eðlileg viðskiptasjónarmið verði að víkja. 

Garðyrkjubændur hafa fengið að finna fyrir þessu og fá nú niðurgreiðslur á rafmagni eftir hinni margfalt dýrari leið gegnum ríkissjóð. Engum má heldur vegna fjórfrelsisákvæða EES-samningsins veita tækifæri, sem ekki standa til boða öllum þegnum Evrópska efnahagssvæðisins."

   Þetta öfugsnúna fyrirkomulag, sem þarna er lýst, framkallast, þegar erlend löggjöf, sem tekur mið af gjörólíkum aðstæðum, er innleidd á Íslandi.  Þeir, sem halda, að slík afglöp veiki ekki efnahaginn, vaða í villu og svíma.  Evrópulöggjöf á sviði orkumála verður óhjákvæmilega þjóðhagslega óhagkvæm á Íslandi og leiðir þar af leiðandi til minni hagvaxtar en ella.  Það er ástæðulaust að taka þessu sem hverju öðru hundsbiti, heldur þarf þegar í stað að vinna að því að fá undanþágur fyrir Ísland frá þessari orkulöggjöf að einhverju eða öllu leyti, og ætti að taka stefnuna á undanþágu frá öllum tilskipunum og gerðum Orkupakka #4.  

Í lokin reit Elías:

"Hætt er við, að með tíð og tíma muni orkupakkarnir og önnur ákvæði EES-samningsins setja Ísland í þá sömu aðstöðu gagnvart hinum stóru iðnaðarsvæðum ESB eins og mörg afskekkt sjávarpláss eru nú í gagnvart stóru útgerðarstöðunum hér á landi.  Stjórnvöld verða að horfa á þessa hættu og vinna landið út úr orkupökkunum, þannig að þjóðin hafi fullt sjálfræði yfir orkuauðlindum sínum og ráðstöfun þeirrar raforku, sem frá þeim fæst."

Það blasir við til hvers refirnir eru skornir hjá ESB.  Í anda Lissabon-sáttmálans er ætlunin að sölsa undir ESB stjórnun orkumála aðildarlandanna og að tryggja framleiðslukjörnum Evrópu næga raforku á hverjum tíma.  Jaðarsvæði Evrópu eiga að sjá kjarnanum fyrir orkunni, sem hann vantar, og borga á hærra verð fyrir orku úr endurnýjanlegum og kolefnisfríum lindum til að örva fjárfestingar í slíkum virkjunum.  Forsendan fyrir því, að ná megi þessu stefnumiði fram, eru öflugar millilandatengingar og öflugt flutningsnet innan hvers lands.  Að kokgleypa þessa stefnu setur Ísland á bekk hjálendu ESB, því að áhrif Íslendinga á stefnumótun ESB eru sama og engin.  


Efnileg nýsköpun mætir sums staðar mótlæti

Laxeldi í sjókvíum og úrvinnsla afurðanna í landi er gríðarlega efnileg viðbót við íslenzkt atvinnulíf og verðmætasköpun.  Nú hefur orðið verulegt tekjutap íslenzka hagkerfisins við brottfall erlendra ferðamanna, sem dregur allt í einu upp nýja mynd af þessari grein, ferðaþjónustunni; sem sagt þá, að framtíð hennar er mikilli óvissu undirorpin; hún gæti hæglega átt sér afar skrykkjótta framtíð og aldrei náð hámarkinu fyrir COVID-19. 

Mengunarsjónarmið og sjálfbærniþörf mæla heldur ekki með þessari grein sem stendur.  Það er viss lúxuslifnaður að ferðast, og ferðalög með núverandi tækni eru ósjálfbær.  Út yfir allan þjófabálk tekur, þegar stjórnmálamenn bulla um, að "náttúran verði að njóta vafans", og þess vegna skuli sjókvíaeldi settur stóllinn fyrir dyrnar, t.d. í Eyjafirði, m.a. til að trufla ekki ferðir stórskipa, eins og farþegaskipa.  Þar tekur steininn úr, því að farþegaskip eru einhverjir verstu mengunarvaldar, sem þekkjast, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri. Ef velja þarf á milli farþegaskipa og sjókvíaeldis í Eyjafirði, er enginn vafi á, hvor kosturinn verður ofan á út frá hagrænum og umhverfislegum sjónarmiðum. 

Á Vestfjörðum hefur fiskeldi í sjó umbylt atvinnuástandi og byggðaþróun til hins betra. Nú er verið að auka úrvinnsluna, og til þess er nýtt nýjasta tækni frá hvítfiskvinnslunni.  Mikil sjálfvirkni kallar á sérfræðinga á staðnum á sviðum hugbúnaðar, rafbúnaðar og vélbúnaðar.  Gæði, framleiðni og aukin verðmætasköpun skjóta stoðum undir styrkari samkeppnisstöðu og veitir ekki af, því að innreið er hafin á verðmætan markað með bullandi samkeppni.

Helgi Bjarnason reit baksviðsgrein í Morgunblaðið 20. maí 2020, sem hann nefndi:

"Aðstaða til að framleiða hágæða afurðir":

"Fiskvinnslan Oddi hefur starfað í um 50 ár.  Skjöldur Pálmason segir, að til þess að stækka fiskvinnsluna á hefðbundinn hátt þurfi að fjárfesta í kvóta fyrir fiskiskipin og í vinnslunni fyrir marga milljarða [ISK]. Hann gefur ekki upp kostnaðinn við að koma upp vinnslu á laxi, en segir hann aðeins brot af kostnaði við að stækka hvítfiskvinnsluna.  Þetta sé því ódýr leið til að stækka og styrkja fyrirtækið.  Laxinn er verðmætari en annar fiskur og er reiknað með, að velta fyrirtækisins tvöfaldist með því að bæta 2,5 kt-3,0 kt af laxi við þau 4,5 kt-5,0 kt af fiski, sem nú fer í gegnum fiskvinnsluna [á ári]."

  Þetta er frábært dæmi um arðbært sambýli hefðbundinnar og rótgróinnar fiskvinnslu annars vegar og laxeldis hins vegar.  Með því að bæta um 60 % við afkastagetuna á ári næst tvöföldun á veltu með aðeins litlum hluta (e.t.v. 25 %) fjárfestingarupphæðar, sem þyrfti að verja í jafnmikla afkastaaukningu í hvítfiski.  Eins og fram kemur hér að neðan, er þar að auki verið að auka verðmæti laxafurðanna frá því, sem áður var, væntanlega um a.m.k. þriðjung.  Þessi nýsköpun er borðleggjandi viðskiptahugmynd.  Það eru furðuviðhorf og afturúrkreistingsleg að hafa allt á hornum sér varðandi atvinnugrein hérlendis, sem býður upp á vaxtarbrodda af þessu tagi.  

"Vegna staðsetningar Fiskvinnslunnar Odda á fiskeldissvæðinu á suðurfjörðum Vestfjarða og nálægðar við stærsta laxasláturhús landsins á fyrirtækið að geta framleitt hágæða flök, sem unnin eru áður en dauðastirðnun laxins hefst.  Afurðir af þeim gæðum eru m.a. eftirsóttar í sushí-rétti um allan heim.

Megnið af íslenzka eldislaxinum er flutt heilt og ferskt í frauðkössum á markaði austan hafs og vestan og einnig til Asíu.  Nokkur fiskvinnslufyrirtæki hafa flakað lax fyrir eldisfyrirtæki eða keypt og flakað á eigin reikning og selt á erlenda markaði.  Fleiri eru að huga að þeim málum. 

Verðmæti laxafurða eykst minna við laxflökun, og kostnaður við hráefnið er hærra hlutfall en við almenna fiskvinnslu.  Þess vegna er mikilvægt, að nýting hráefnisins sé sem bezt og nýttir séu þeir markaðir, sem gefa hæst verð."

Hér er frábært frumkvæði á ferð, þar sem ætlunin er að beita nýjustu tækni til að auka enn verðmæti eldislaxins og skapa um leið fjölbreytileg störf á Vestfjörðum.

"Fiskvinnslan Oddi á Patreksfirði hefur fjárfest í nýjustu og beztu vinnslulínunni, sem nú er völ á hjá Marel, og hefst flökun þar og útflutningur í haust.  Nýting hráefnisins á að verða, eins og bezt verður á kosið.  Vinnslulínan er tölvustýrð og sjálfvirk, allt frá innmötun til hausunar, flökunar, snyrtingar og pökkunar.  Áætlað er, að þörf verði á að bæta við 14-16 starfsmönnum til að vinna úr 2,5 kt - 3,0 kt af laxi á ári."

Það verður góð nýting og nákvæmni búnaðar ásamt hárri framleiðni, sem standa munu undir arðsemi þessara fjárfestinga.  Nýju störfin eru vafalítið ársverk, þ.e. heilsársstörf, með miklu atvinnuöryggi og vel borguð. Framleiðnin, 5,5 störf/kt, er góð. Þetta er ósambærileg atvinnustarfsemi við ferðaþjónustu, sem er gríðarlegri óvissu undirorpin á alla kanta og enda.

Að lokum stóð í þessari frétt: 

"Stjórnendur fyrirtækisins [Odda] og sölumenn eiga mikið verk fyrir höndum. Skjöldur segir, að gríðarlega hörð samkeppni sé á þessum markaði.  Þar eru fyrir á fleti stórar verksmiðjur.  Bindur hann vonir við, að góð nýting og hágæðavara, sem minna framboð er af í heiminum en almennum laxi, skapi fyrirtækinu sérstöðu og hjálpi því að komast inn á markaðinn.  Markaðsstarf er í fullum gangi.  Reiknar Skjöldur með, að hluti af viðskiptavinum fyrirtækisins í hvítfiski kaupi af þeim lax til dreifingar, og vonandi bætist nýir kaupendur við."

 Hér fara saman áræðni frumkvöðulsins, þekking og reynsla af hliðstæðri starfsemi í hvítfiski og skilningur á því, að hagnýting nýjustu innlendrar tækni á þessu sviði sé nægilegt afl til að ryðja nýjum birgi braut inn á bullandi samkeppnismarkað, þar sem meiri gæði vegna hreins umhverfis og minni sýklalyfjagjafar og eiturefnanotkunar (vegna lúsar) geta riðið baggamuninn. 

Þessi viðhorf á Vestfjörðum eru til fyrirmyndar og andstaðan við hjárænuleg viðhorf meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar gagnvart sjókvíaeldi í sjó, sem sami Helgi Bjarnason gerði að umfjöllunarefni tveimur dögum síðar í baksviðsfrétt 22. maí 2020 undir furðufyrirsögninni:

"Bæjarstjórn vill friða fjörðinn".

 Án þess að gefa staðreyndum mikinn gaum hljóp þessi meirihluti upp til handa og fóta og varð að athlægi með yfirlýsingu, sem einkennist af þröngsýni, þekkingarleysi og fordómum í garð sjókvíaeldis á laxi.  Bar hann fyrir sig hinn fáránlega frasa, að náttúran eigi að njóta vafans, en leggur um leið blessun sína yfir komur farþegaskipa til Eyjafjarðar, sem þó eru gríðarlegir mengunarvaldar.  Barninu er þarna kastað út með baðvatninu.  Í stað þess að leita til Hafrannsóknarstofnunar um ráðgjöf, þá er öllu laxeldi, einnig í lokuðum kvíum, einstrengingslega hafnað.  Þar setti yfirvöld Akureyrar, þess góða og snotra bæjar, niður.

Helgi Bjarnason hóf baksviðsfrétt sína þannig:

"Meirihluti fulltrúa í bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt að leggja til við sjávarútvegsráðherra, að Eyjafjörður verði friðaður fyrir sjókvíaeldi.  Meirihlutinn klofnaði við afgreiðslu tillögunnar, því að tveir fulltrúar hans samþykktu tillöguna ásamt öllum fulltrúum minnihlutans, en fjórir fulltrúar úr meirihlutanum sátu hjá og lögðu til mildari leið.

Skoðanir eru skiptar í Eyjafirði um sjókvíaeldi.  T.d. var unnið að því í Fjallabyggð að koma upp aðstöðu til rekstrar fiskeldis frá höfninni í Ólafsfirði.

Nokkurt fiskeldi var í Eyjafirði fyrir nokkrum árum, en því hefur öllu verið hætt.  Tvö fyrirtæki hafa undirbúið stóreldi í sjókvíum og voru komin áleiðis í rannsóknum og matsferli, þegar ferlið var stöðvað með breytingum á fiskeldislögum á síðasta ári." 

Það er fáheyrt, að eitt sveitarfélag skuli ætla að setja öðru stólinn fyrir dyrnar við nýtingu náttúruauðlinda að lögum, þótt það hafi ekki sjálft áhuga á slíkri nýtingu.  Segja má, að með þessari samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar sé hún komin út fyrir sitt verksvið.  Vinnubrögðin eru óvönduð, hvernig sem á þau er litið. 

"Þau áform, sem lengst voru komin, voru borin fram af norska fyrirtækinu AkvaFuture, sem hugðist koma upp lokuðum sjókvíum innarlega í Eyjafirði á grundvelli nýrrar tækni, sem fyrirtækið hefur hannað og notað við eldi í Noregi.  Ætlunin var að framleiða 20 kt/ár.  Telur fyrirtækið, að minni umhverfisáhrif verði af eldi í lokuðum kvíum af þessu tagi."

Það lýsir einstrengingshætti bæjarstjórnar Akureyrar að hafna samstarfi við þetta framúrstefnufyrirtæki og Hafrannsóknarstofnun um þróun á nýrri eldistækni í Eyjafirði, sem veitt gæti allt að 400 manns fasta vinnu allt árið um kring.  Stjórnmálamenn í krossferð eru illa fallnir til leiðsagnar, hvort sem er á Akureyri eða í Reykjavík.

"Umræðan, sem leiddi til bókunar meirihluta bæjarfulltrúa á Akureyri,  kemur til af því, að landeigendur við austurhluta Eyjafjarðar og ferðaþjónustufyrirtæki hafa sent erindi til sveitarstjórna, þar sem varað er við áhrifum sjókvíaeldis á hagsmuni þeirra.  Einnig kveikti það umræðu, að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti í lok marz [2020] aðgerðir á sínu málasviði vegna kórónuveirufaraldursins.  Ein af þeim er að flýta afgreiðslu rekstrarleyfa í fiskeldi, enda gæti það leitt til mikilla fjárfestinga og fjölgunar starfsfólks."

Á tímum, þegar leita þarf öld aftur í tímann til að finna sambærilegan samdrátt hagkerfisins ásamt metatvinnuleysi sökum hruns ferðaþjónustunnar, er alveg einboðið, að stjórnvöld liðki til fyrir efnilegasta vaxtarsprota hagkerfisins, hætti að standa þar á bremsunum, heldur leysi úr læðingi fjármagn, sem bíður eftir að komast í vinnu á þessu sviði.  Það hefur ekki verið sýnt fram á það með haldbærum rökum, að laxeldið skaði aðra starfsemi í landinu.  Starfsgreinar, sem ekki treysta sér til að keppa við laxeldið, t.d. um mannafla, þurfa að hugsa sinn gang áður en vaðið er fram með útilokunarstefnu í afturhaldsanda. 

Helgi Bjarnason hefur eftirfarandi eftir Gunnari Gíslasyni, oddvita sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Akureyrar, flutningsmanni umræddrar tillögu:

"Við viljum frekar láta náttúruna njóta vafans og vernda ásýnd fjarðarins en að taka áhættu, sem við vitum ekki, hver er, og fórna þannig meiri hagsmunum fyrir minni."  

Þessi stefnumörkun var sem sagt skot út í loftið, fullkomlega óupplýst ákvörðun.  Hvernig hefði nú verið að afla sér fyrst þekkingar á téðri áhættu með vandaðri áhættugreiningu í samvinnu við Hafrannsóknarstofnun ?  Ef þessi orð eru ekki algerlega marklaus, hlýtur sami maður að beita sér gegn komu farþegaskipa til Eyjafjarðar, því að þau skemma mjög "ásýnd fjarðarins" og menga ótæpilega, á meðan þau staldra við og sigla inn og út fjörðinn.  Hjá leiðandi stjórnmálamönnum er hægt að gera kröfu um, að það sé "system i galskapet".

Auðvitað er samþykkt af þessu tagi eins og blaut tuska í andlit nágranna, sem vilja þróa sjókvíaeldið.  Í lok téðrar baksviðsfréttar stóð þetta:

"Ólafsfirðingar höfðu vonir um að fá innspýtingu í samfélagið með starfsstöð þar.  Elías Pétursson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, telur bókun bæjarstjórnar Akureyrar nokkuð bratta.  Bæjarstjórn Fjallabyggðar hafi viljað horfa til þessarar greinar, eins og annarra, við fjölgun atvinnutækifæra."

Ríkisstjórn, sem horfir nú framan í ríkissjóðshalla upp á mrdISK 500 á tveimur árum og viðskiptajöfnuð í járnum hlýtur að fagna áhuga stjórnenda Fjallabyggðar á nýrri gjaldeyrissköpun og atvinnueflingu.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  

 


Orkumál í deiglu

Nú hefur olíu- og gasverð á heimsmarkaði rúmlega helmingazt og raforkuverð u.þ.b. helmingazt.  Á þessu verður vart mikil breyting í bráð, því að allir vita, að lágt orkuverð mun mjög flýta fyrir efnahagsbatanum, nema í olíu- og gasframleiðslulöndunum. 

Það hefur lengi verið stefnumið Evrópusambandsins, að orkuverð sé hátt, þótt kalla megi Evrópu orkusnauða af náttúrunnar hendi. ESB hefur því rekið upp á sker í orkumálum, eins og í fleiri mikilvægum málum, þar sem Sambandið virðist vera komið á endastöð. 

Hvers vegna hefur ESB rekið þessa stefnu, sem hefur reynzt íbúunum dýrkeypt og verið dragbítur á hagvöxt innan ESB ?  Hátt orkuverð átti að tryggja nægar fjárfestingar einkageirans í orkuvinnslu til að hindra aflskort.  Eldsneytismarkaðurinn hefur svo séð um, að næg orka væri fyrir hendi.  

Hátt orkuverð átti líka að beina fjárfestingum í endurnýjanlegar orkulindir, sem eru enn dýrari á hverja MWh en eldsneytisstöðvarnar.  Þessi stefna er ágætlega samþættanleg metnaðarfullri markmiðssetningu ESB varðandi losun gróðurhúsalofttegunda.  Ljóst er, að losun gróðurhúsalofttegunda mun minnka miklu meira alls staðar í heiminum en ráð var fyrir gert árið 2020 og líklega einnig 2021 án beitingar skattalegra þvingana á borð við síhækkandi gjald fyrir losun koltvíildis, CO2, umfram heimildir, eða háa opinbera gjaldtöku af rafmagni til almennings.  Hagkerfi heimsins hafa öll veikzt umtalsvert, og þá er spurning, hvort stjórnmálamenn telji sig hafa umboð lengur til íþyngjandi ráðstafana vegna losunar út í andrúmsloftið. Mál málanna víðast hvar verður að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang og fólki aftur til starfa.  Ný verðmætasköpun mun vonandi spretta fram, og jafnvægi verða komið á rekstur ríkissjóðs að nýju á fyrri hluta næsta kjörtímabils ásamt minnkun skulda hans.  Að öðrum kosti stöndum við of berskjölduð gagnvart næsta efnahagsáfalli, sem mun mjög líklega verða innan áratugar af hvaða tagi, sem það verður.  

Elías Elíasson, sérfræðingur í orkumálum, skrifaði fróðlega grein um orkumálin að vanda í Morgunblaðið 13. nóvember 2019, sem hann kallaði:

"Rautt viðvörunarljós".

Segja má, að umfjöllunarefnið sé, hversu illa orkustefna ESB, eins og hún birtist í orkulöggjöf Sambandsins, s.k. orkupökkum 1-4, samræmist íslenzkum þjóðarhagsmunum.  Verður nú vitnað í greinina:

"ESB ásælist ekki eignarrétt yfir orkulindunum, heldur stjórnun orkuvinnslunnar eftir sínum þörfum.  ESB vill ekki takmarka rétt okkar til að nýta orkulindirnar, heldur tryggja, að fjárfestar innan EES hafi þar sömu tækifæri og opinberu íslenzku fyrirtækin."

Þetta er að mati pistilhöfundar kjarni orkupakkamálsins og nauðsynlegt að átta sig á honum.  Með Orkupakka 3 (OP#3) öðlaðist ESB ítök í stjórnkerfi landsins á sviði orkumála með sérstökum fulltrúa sínum, Landsreglara, sem á Íslandi gegnir einnig starfi Orkumálastjóra, en er í Noregi sjálfstætt embætti, RME (Reguleringsmyndighet for energi), til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur.  RME rekur þá stefnu ESB, en norski Orkumálastjórinn mun starfa í anda norsku kenningarinnar um "handlingsrommet", "aðgerðasvigrúm" Norðmanna gagnvart Evrópuréttinum. 

Landsreglarinn situr í samkundu landsreglara allra EES-landanna, sem starfar innan vébanda ACER (Orkustofnunar ESB).  Þar er framkvæmd orkulöggjafar ESB samræmd og ágreiningsmál um fyrirkomulag og rekstur samtenginga á milli landa rædd. Ný reglugerð, (ESB) 2019/942, sem er endurskoðuð reglugerð um ACER, er hluti af OP#4.  EES/EFTA metur nú, hvort hún á erindi inn í lagasafn EFTA-ríkjanna í EES.  Hún felur í sér aukna valdtilfærslu frá aðildarlöndunum til ACER og gæti þar af leiðandi valdið lagalegum og stjórnmálalegum ágreiningi í Noregi og á Íslandi.  Eigi síðar en í september 2021 verða þingkosningar í báðum löndunum, og fáir munu hafa hug á að bæta OP#4 við deilumál í kosningabaráttunni. 

Stjórnun orkuvinnslunnar eftir þörfum ESB þýðir einfaldlega markaðsvæðingu hennar, þannig að orkan fari til hæstbjóðanda hverju sinni. Þeir, sem borið geta hæst orkuverð, eru að öðru jöfnu þeir, sem eru með starfsemi sína næst mörkuðum sínum. Allt ber að sama brunni.  Kerfið þjónar ekki hagsmunum jaðarríkjanna. 

Raforkuverðið hefur að sjálfsögðu hrunið á uppboðsmörkuðum ESB, t.d. Nord Pool, í "Kófinu", enda hefur eftirspurnin lamazt.  Nú er Landsnet að hanna uppboðsmarkað fyrir Ísland með hjálp aðallega erlends ráðgjafa, og hafa margir áhyggjur af því, hvernig til muni takast, í ljósi samsetningar íslenzka markaðarins. Slæm niðurstaða yrði hækkun raforkuverðs til heimila og atvinnurekstrar á þessum markaði. 

Hitt atriðið, að ESB vilji með orkulöggjöf sinni og Landsreglara tryggja jafnræði allra áhugasamra fjárfesta við innlenda aðila, ekki sízt opinber fyrirtæki, er sýnu alvarlegra.  Norska ríkisstjórnin með stuðningi Stórþingsins hefur einarðlega hafnað þessu, en sú íslenzka ekki.  Það er afar slæm staða. 

"Samkvæmt skilningi ESB á EES-samningnum skulu öll samskipti hins opinbera við aðila á raforkumarkaði og í raforkuvinnslu byggjast á markaðslögmálum og tryggt skal vera, að markaðurinn starfi óáreittur af hálfu hins opinbera.  ESB hagræðir síðan viðskiptareglum og kostnaðarforsendum raforkumarkaðarins til að ná fram sínum markmiðum.  Eins og í öllu öðru, sem EES-samninginn varðar, er aðeins tekið eitt skref í einu, þar til við ráðum ekki lengur eign okkar, orkulindunum."  (Undirstr. BJo.)

   ESB aftengir með löggjöf sinni bein áhrif og stjórnun ríkis og sveitarfélaga á raforkumarkaðnum. Norðmenn hafa farið í kringum þetta, væntanlega á grundvelli kenninga sinna um "aðgerðasvigrúm" og niðurgreitt stórlega orkuverð til stóriðju undanfarin misseri úr opinberum sjóðum.  Það er þess vegna engin goðgá, að eignarhaldi hins opinbera á orkufyrirtækjum hérlendis sé beitt í sama augnamiði, enda tíðkast enn ýmis opinber inngrip í orkumarkaðinn í Evrópusambandinu sjálfu. Síðasta málsgrein Elíasar hér að ofan er mjög umhugsunarverð fyrir íslenzka fullveldissinna.  Ísland verður í raun nýlenda þeirra erlendu afla, sem ná að klófesta stjórnun auðlinda landsins, t.d. fiskveiða og orkulinda. 

Síðan gerði Elías að umtalsefni samþykkt ríkisstjórnarinnar 19.05.2016 á kröfu ESA um markaðsvæðingu nýtingarréttar hins opinbera á landi og auðlindum þess, t.d. orkulindum.  Þessi eftirgjöf íslenzkrar ríkisstjórnar er reginhneyksli, enda tóku Norðmenn algerlega öndverðan pól í hæðina gagnvart sams konar kröfu ESA og höfnuðu henni einfaldlega.  Hér hafa Nefjólfssynir sótt í sig veðrið á seinni árum, en Þveræingar andæfa. 

 "Það er erfitt að sjá, hvernig þessum úrskurði [ESA] verður framfylgt án þess að bjóða vinnsluleyfi fyrir raforkuver út innan EES, þannig að erlendir fjárfestar geti keppt á jafnræðisgrundvelli við íslenzk fyrirtæki í almannaeigu.  Það er ekki alveg í samræmi við hugmyndir almennings um full yfirráð yfir orkulindunum."

Þetta er hárrétt athugað, og það er alveg með ólíkindum, ef íslenzk stjórnvöld hafa ekki áttað sig á þessu í maímánuði 2016, þegar þau samþykktu að framfylgja úrskurði ESA á Íslandi, sem jafngildir að gefa öflugum erlendum orkufyrirtækjum tækifæri til að klófesta íslenzkar orkulindir í opinberri eigu í nafni markaðsvæðingar orkugeirans og frjálsrar samkeppni, eins og orkulöggjöf ESB kveður á um.  Íslenzk stjórnvöld eru ekki svo skyni skroppin, að þau hafi ekki áttað sig á afleiðingum þessa ESA-úrskurðar.  Þau skulda Alþingi og þjóðinni allri útskýringar á því, hvað þeim gekk til að gangast við úrskurði, sem opnar greiða leið að afsali yfirráða yfir íslenzkum orkulindum í hendur erlendum lögaðilum, sem lúta lögsögu Evrópuréttar. Föðurlandssvik hafa verið nefnd af minna tilefni.   

Í lok tímabærrar greinar sinnar, reit Elías:

"EES-samningurinn er lifandi samningur og tekur tíðum breytingum með nýjum og breyttum reglugerðum.  Úrskurðir ESA og dómar EFTA-dómstólsins hafa mikið gildi og stundum óvænt áhrif. Alþingi taldi, að orkulindir Íslands hefðu fulla vernd í EES-samningnum, en nú er ESB á annarri skoðun.  Hafi ekki við samþykkt EES-samningsins verið í honum fótfesta fyrir ásókn ESB í íslenzkar orkulindir, þá er svo nú.  Þarna logar stórt, rautt viðvörunarljós.  Við þessar aðstæður verður smáríki, eins og Ísland, að gæta vel að fullveldi og yfirráðum yfir auðlindum sínum." 

Frá tímanum, þegar gengið var frá EES-samninginum, 1992-1993, hefur ESB tekið miklum breytingum, og nægir að nefna stjórnarskrárígildið - Lissabonsáttmálann, þar sem Evrópusambandinu voru færðar heimildir gagnvart orkumálum aðildarlandanna, og er síðari tíma orkulöggjöf Sambandsins reist á þessum heimildum.  Þá má nefna dómsuppkvaðningu EFTA-dómstólsins, sem er bundinn við Evrópurétt og dómafordæmi ESB-dómstólsins, um eignfærslu norskra vatnsréttinda og virkjana frá einkafyrirtækjum, oft í eigu erlendra fyrirtækja, til norska ríkisins, án bóta eftir 65-80 ár í rekstri.  Þetta dæmdi EFTA-dómstóllinn óleyfilega mismunun eignarhaldsfyrirkomulags, en Norðmenn eru sleipir og beittu "aðgerðasvigrúmi" sínu til að taka bitið úr þessum dómi.  Þeir settu lög um lágmarkseignarhaldshlutfall ríkisins í vatnsréttindum og virkjunum yfir ákveðinni stærð, og hvorki ESB né Carl I. Baudenbacher hafa gert opinbera athugasemd við þessa málsmeðferð.  Á Íslandi hefðu þessi gömlu lög um "hjemfallsretten" einfaldlega verið tekin úr sambandi til að þóknast Carl I. Baudenbacher, sbr það að taka lögin frá 2009 um sóttvarnir vegna innflutnings matvæla úr sambandi eftir EFTA-dóm.

Það er hægt að fá það á tilfinninguna, að hérlendis kasti skessur á milli sín fjöreggi fullveldis landsmanna með hlátrasköllum, eins og í þjóðsögunum.  Full yfirráð Alþingis yfir auðlindum Íslands eru grundvöllur raunverulegs fullveldis landsins. 

 


Einhæfni er skaðræði

Hrun ferðaþjónustu á heimsvísu í marz 2020, sem ekki sér fyrir endann á, beinir athyglinni sem aldrei fyrr að mikilvægi fjölbreytilegra gjaldeyristekjulinda landsins.  Þar er hins vegar hægara um að tala en í að komast, enda ber mest á hugmyndum og hugarfóstrum, sem óvíst er, að nokkurn tímann verði barn í brók.  Þess vegna heldur enn fullu gildi sínu sú 60 ára gamla hugmynd að láta orku fallvatnanna knýja orkusækinn iðnað á alþjóðlega samkeppnishæfu orkuverði og skapa þannig landsmönnum verk- og stjórnunarþekkingu, fjárfestingar með erlendu áhættufé og fjölbreytilega vinnu. Málmiðnaðurinn er að vísu um hríð búinn að vera í fjötrum offramleiðslu og niðurgreiðslna frá ríkisverksmiðjum, en hver veit, nema hagur strympu skáni, ef Kínverjar kæra sig ekki um að fara í gamla farið aftur.  

Þann 14. febrúar 2020 gerði Hörður Ægisson, viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins, stríð Landsvirkjunar og ISAL/Rio Tinto að umræðuefni og kallar forystugrein sína:

"Störukeppni" .

Hörður er oft nokkuð skarpskyggn á staðreyndir viðskiptalífsins, en í þessari forystugrein fatast honum víða flugið í ljósi raforkuverðs til ISAL, sem er ekki lengur í neinu samræmi við þróun orkuverðs í heiminum né það, sem kalla mætti samkeppnishæft raforkuverð til áliðnaðar.  "Störukeppnin" hófst þannig:

"Þung staða álversins í Straumsvík (ISAL) er ekki ný af nálinni.  Reksturinn hefur verið óarðbær um langt skeið - tap ISAL frá 2016 nemur yfir mrdISK 20 - og framleiðsla álversins var nýlega minnkuð um 15 % vegna taprekstrarins.  [Hún hefur síðan minnkað til muna vegna kera, sem komizt hafa að lokum endingar sinnar og ekki verið endurnýjuð. Ef lyktir nást í viðræðum um nýtt raforkuverð, má búast við aukinni framleiðslu aftur - innsk. BJo.] Endurnýjaður raforkusamningur við Landsvirkjun fyrir um áratug, þar sem orkuverðið var hækkað og tenging við álverð réttilega [svo ?] afnumin, hefur ekki hjálpað til, en aðrir þættir, einkum erfiðleikar á hrávörumörkuðum, skipta meira máli.  [Álverðstenging er hugsuð að gagnast báðum samningsaðilum, þar sem álverð hefur í sögulegu samhengi verið sveiflukennt.  Þetta afnám var eitt af því, sem veikti samkeppnisstöðu ISAL stórlega - innsk. BJo.] Aðföng hafa hækkað í verði, og á sama tíma hefur heimsmarkaðsverð á áli lækkað verulega.  Með stóraukinni álframleiðslu Kínverja, sem niðurgreidd er af þarlendum stjórnvöldum og stendur nú undir um 60 % af álframleiðslu heimsins, hefur rekstrarumhverfi vestrænna álfyrirtækja versnað til muna.  Útflutningur á áli frá Kína hefur farið vaxandi og haldið niðri álverði.  Ólíklegt er, að þessi staða taki breytingum í náinni framtíð, og álverð verður því áfram undir þrýstingi til lækkunar."

Þetta ritaði Hörður Ægisson um miðjan febrúar 2020 áður en menn á Vesturlöndum fóru almennt að íhuga áhrif COVID-19 heimsfaraldursins.  Verð á aðföngum hefur lækkað m.a. vegna helmingunar olíuverðs.  Evrópa mun leggja áherzlu á að verða ekki háð Kínverjum um ál, sem er "strategískur", þ.e. þjóðhagslega- og öryggislega mikilvægur málmur.  Líklegt má telja, að hömlur verði þess vegna settar á framboð, sem augljóslega ekki er á grundvelli frjálsrar samkeppni, og það er líka óvíst, að Kínverjar telji óbreytta ráðstöfun orkunnar heppilega, en vinnsla þessarar raforku hefur yfirleitt gríðarlega mengun lofts, láðs og lagar í för með sér auk myndunar gróðurhúsalofttegunda. 

 "Er hótun Rio Tinto [um lokun ISAL-innsk. BJo]  trúverðug ?  Fyrir liggur, að álverið er skuldbundið til að kaupa að lágmarki um 80 % raforkunnar af Landsvirkjun fram til 2036 óháð því, hvort álverið verði starfrækt.  Fullvíst má telja, að forsvarsmenn álversins hóti málaferlum, komi Landsvirkjun ekki til móts við kröfur álrisans um lægra orkuverð, þar sem látið verður reyna á ákvæði kaupskyldunnar, og hvort móðurfélagsábyrgð sé fyrir hendi.  Mikilvægt er að hafa í huga þá gríðarlegu hagsmuni, sem eru í húfi.  Verðmæti slíkra langtíma raforkusamninga Landsvirkjunar, sem er í eigu landsmanna, hleypur á mörg hundruð milljörðum [ISK].  Lækkun orkuverðs, jafnvel þótt tímabundin væri, myndi þýða, að Landsvirkjun yrði af umtalsverðum fjárhæðum."

Það er ljóst, að sá markaður, sem Landsvirkjun er á, raforkumarkaðurinn, hefur tekið mikla dýfu á heimsvísu undanfarið.  Framboðið er meira en eftirspurnin, og verðið hefur lækkað mikið á rafmagnsmörkuðum, t.d. Nord Pool, þar sem verðið hefur fallið um a.m.k. helming.  Auðvitað getur Landsvirkjun ekki hagað sér, eins og hún sé óháð þróun til lækkunar, en þurfi jafnan að draga dám af tilhneigingu til hækkunar í nágrannalöndunum.  Viðskiptavinir hennar keppa við fyrirtæki, sem njóta nú mikillar lækkunar orkuverðs.  Ef Landsvirkjun ætlar að halda viðskiptavinum sínum, verður hún að fylgja þróun heimsmarkaðar. 

Ef forráðamenn Landsvirkjunar ætla að skáka í skjóli móðurfélagsábyrgðar á kaupum 85 % forgangsorku, taka þeir gríðarlega áhættu.  Lögfræðingateymi Rio Tinto getur dregið fram margvísleg rök, jafnvel óviðráðanleg öfl heimsfaraldurs, sem valdi því, að félagið eigi rétt að alþjóðalögum á að losna undan skuldbindingum sínum gagnvart viðsemjanda, sem ekki virðist hafa gengið að samningaborði í áratug "í góðri trú". 

"Álverið í Straumsvík er ekki eins og hvert annað fyrirtæki á Íslandi.  Það er einn mikilvægasti og verðmætasti viðskiptavinur Landsvirkjunar - nærri fjórðungur af raforkusölu hennar er til álversins [nær þriðjungur teknanna við fulla framleiðslu-innsk. BJo] -  og verði starfsemi þess hætt hér á landi, yrði það mikið efnahagslegt áfall. Álverið stendur undir um mrdISK 60 í útflutningstekjum á ári, og um 500 manns starfa hjá fyrirtækinu. Vandinn, sem Landsvirkjun kann að standa frammi fyrir, nú þegar minni og stærri viðskiptavinir fullyrða, að orkuverðið sé ekki lengur samkeppnishæft, er, að það verði erfitt að finna aðra kaupendur að því magni af orku, sem gæti losnað á næstu árum - einkum nú, þegar áform um sæstreng til Bretlands virðast því miður [svo !] óraunhæfari en áður.  Það er eins gott, að stjórnendur Landsvirkjunar, sem hafa teflt djarft, séu reiðubúnir með plan B.  Ef ekki, er hætta á, að illa geti farið." 

 Þetta eru að mörgu leyti góðar vangaveltur hjá Herði, en varðandi sæstreng til Bretlands er nauðsynlegt að benda Herði og öðrum á, að hann hefur í raun aldrei verið annað en draumórar fjárplógsmanna og spákaupmanna.  Þeir hafa á seinni árum gælt við það, að Evrópusambandið myndi standa straum af lunga kostnaðarins. Eftir COVID-19 mun ESB varla setja þetta verkefni aftur á forgangsverkefnaskrá sína, þótt verkefnisbakhjarlar verði til að óska þess.  Hvað, sem fjármögnuninni líður, getur verkefnið líklega aldrei orðið þjóðhagslega hagkvæmt fyrir landsmenn, sem eiga megnið af orkunni.  Ástæðan eru mikil töp á leiðinni, og alltaf verður meiri verðmætasköpun við nýtingu orkunnar innanlands en hægt verður að fá fyrir beinan útflutning orkunnar. Hafi Landsvirkjun einhvern tímann haft Plan B í þessu máli, er það farið í vaskinn með COVID-19.

Þann 7. maí 2020 skrifaði Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, grein í Morgunblaðið, sem hún nefndi:

"Landsvirkjun sýnir stuðning í verki".

Hún hófst þannig:

"Viðskiptavinir Landsvirkjunar á stórnotendamarkaði munu njóta sérstakra kjara í 6 mánuði, frá 1. maí til 31. október 2020.  Öllum stórnotendum, sem greiða yfir kostnaðarverði Landsvirkjunar, býðst að lækka raforkuverð niður í kostnaðarverðið.  Þannig sýnir Landsvirkjun stuðning sinn í verki á þessum óvenjulegu tímum.  Samband fyrirtækisins við viðskiptavini þess er hornsteinn starfsemi Landsvirkjunar.

Þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt, að raforka er stór hluti breytilegs framleiðslukostnaðar þeirra.  Raforkuverð er þannig einn af þeim þáttum, sem hafa áhrif á samkeppnishæfni viðskiptavina Landsvirkjunar, en þó ekki sá, sem hefur úrslitaáhrif á fjárhagslega afkomu þeirra.  Þar skiptir afurðaverðið, t.d. verð á áli og kísilmálmi, mestu máli.  Afurðaverð hefur farið lækkandi undanfarin misseri, m.a. vegna offramleiðslu og birgðasöfnunar. 

Raforkuverð á erlendum raforkumörkuðum hefur lækkað talsvert undanfarna mánuði vegna lækkandi verðs á jarðefnaeldsneyti og svo minnkandi eftirspurnar á þessu ári vegna COVID-19."

Hér kveður við annan tón en hjá forstjóra Landsvirkjunar, sem hefur komið svo illa fram við viðskiptavini fyrirtækisins, að þeir forðast hann.  Þeir hafa neyðzt til að sniðganga hann til að fá raunverulega áheyrn fyrir vandamál tengd því, sem hingað til má kalla óraunsæja og þrákelknislega verðlagsstefnu Landsvirkjunar.  

Stefanía Guðrún skrifar hins vegar af meiri fjálgleik um viðmótsþýðleika Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinum en innistæða virðist vera fyrir.  Út frá Ársskýrslu Landsvirkjunar er fljótlegt að finna, að rekstrarkostnaður fyrirtækisins er um MUSD 144 á ári og afborganir og vextir um MUSD 150 á ári.  Heildarkostnaður er þá 294 MUSD/ár.  Með sölu á 14,8 TWh/ár fæst þá meðalkostnaður fyrirtækisins um 20 USD/MWh (=2,9 ISK/kWh). 

Því fer fjarri, að Landsvirkjun hafi hingað til boðið viðskiptavinum þessi kjör.  Hvers vegna fer þetta öfluga ríkisfyrirtæki fram með villandi boðskap ?  Hefur örvænting gripið um sig í háhýsinu við Háaleitisbraut ?

"Öllum stórnotendum, sem greiða yfir kostnaðarverði Landsvirkjunar, mun bjóðast lækkun raforkuverðs niður í kostnaðarverð Landsvirkjunar, sem er á bilinu 28 USD/MWh til 35 USD/MWh eftir því til hvaða virkjana er horft.  Verð til stórnotenda, sem eru núna að borga yfir kostnaðarverði, lækkar því tímabundið um allt að 25 %."

Ekki batnar það.  Framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar vill tengja afsláttinn við virkjanir.  Elztu virkjanir Landsvirkjunar eru allar afskrifaðar, og þar er vinnslukostnaðurinn undir 10 USD/MWh.  Ef t.d. er miðað við elztu verksmiðjuna, ISAL í Straumsvík, þá eru allar virkjanir, sem í samningum hafa verið tengdar henni, afskrifaðar, nema Búðarhálsvirkjun, sem vegur innan við 10 % af heildarþörf verksmiðjunnar.  Þannig má finna út, að meðalkostnaður raforkuvinnslu fyrir ISAL sé um 11 USD/MWh, en raunverð til verksmiðjunnar (án flutningsgjalds) er a.m.k. þrefalt.  Það er mjög mikið, sem fer á milli mála, í málflutningi talsmanna Landsvirkjunar. 

"Markmið aðgerðanna er að verja samkeppnishæfni viðskiptavina Landsvirkjunar og styðja við markaðsstarf þeirra við krefjandi ytri aðstæður.  Horft er til þess, að með aðgerðunum sé verið að hvetja núverandi viðskiptavini á stórnotendamarkaði til þess að styrkja eða auka við starfsemi sína á Íslandi, enda fara langtímahagsmunir Landsvirkjunar og viðskiptavina saman.  Gert er ráð fyrir, að tekjur Landsvirkjunar muni lækka um allt að MUSD 10 vegna þessarar tímabundnu aðgerðar, eða um mrdISK 1,5."

Að orðskrúðinu slepptu er hér fáránleiki nokkur fram settur.  Það er út í hött, að fyrirtækin auki við starfsemi sína á Íslandi á grundvelli 6 mánaða lækkunar, sem er eins og upp í nös á ketti.  Að sýndarmennska Landsvirkjunar sé með eindæmum léttvæg, sést bezt á því, að heildarkostnaður lækkunarinnar fyrir Landsvirkjun er um 1/10 af tapi þess stóriðjufyrirtækis landsins 2019, sem bjó við langhæsta raforkuverðið af hálfu Landsvirkjunar.  

 

 


Stríð Carls Baudenbachers við norska stjórnkerfið

Það hefur lengi verið vitað um óvild á milli Carls I. Baudenbachers (CIB),  fyrrverandi dómara við EFTA-dómstólinn, og norskra dómara, en fáir áttað sig á rótum deilna þeirra í millum.  Nú hefur CIB með eftirminnilegum hætti varpað ljósi á inntak deilumálsins í Morgunblaðsgrein 23. apríl 2020, sem hann nefndi:

"EES í kreppu".

Heiti greinarinnar er réttnefni á ástandinu.  Í EES-samstarfi EFTA-ríkjanna þriggja, Noregs, Íslands og Liechtensteins, fara Norðmenn sínu fram án þess að skeyta um grundvallaratriði Evrópuréttar, ef þau stangast á við túlkun norskra embættismanna, dómara og stjórnmálamanna, á "eðlilegum" norskum hagsmunum. Ríkislögmaður Noregs (Regjeringsadvokaten) gefur tóninn í þessum efnum. Með öðrum orðum reka Norðmenn skefjalausa stórveldisstefnu innan EES-samstarfsins í krafti fjármuna sinna, og er þetta oft á kostnað hinna EFTA-ríkjanna að mati CIB.  Framkvæmdastjórn ESB hefur látið þessi brot viðgangast vegna gríðarlegra fjárframlaga Noregs til sjóða ESB. 

Þessi staða er með öllu óboðleg fyrir Ísland og sýnir með öðru, hversu óeðlilegt þetta EES-samstarf er fyrir sjálfstæða þjóð.

Norðmenn virðast í krafti auðs hafa tekið sér svigrúm til aðgerða.  Þeir kalla þetta sjálfir "handlingsrom", en CIB nefnir þetta fyrirbrigði á ensku "room for manoeuvre", og þýðandi greinarinnar nefnir þetta "svigrúm til mats", sem er ekki bein þýðing, en nær þó norsku hugsuninni þokkalega, þ.e. Norðmenn áskilja sér svigrúm til að meta í hverju tilviki fyrir sig, hvort og hvernig EES-málefni samræmist hagsmunum norska ríkisins.  Þetta svigrúm hafa hinar EFTA-þjóðirnar ekki tekið sér, og þess vegna hafa Norðmenn sett sig skör hærra en okkur Íslendinga innan EES samkvæmt CIB.

Hvað skrifaði CIB um "aðgerðasvigrúm" Norðmanna.  Hann er ekki þekktur fyrir að fara með fleipur á opinberum vettvangi:  

"Undir lok fyrsta áratugar þessarar aldar [á tímum alþjóðlegrar fjármálakreppu - innsk. BJo] var sett fram í Ósló stefna, sem kölluð hefur verið "Svigrúm til mats" (e. room for manoeuvre, RFM) og fól í sér að styðja með virkum hætti við hagsmuni Noregs á öllum sviðum, eins og framast væri unnt.  RFM er heildstæð stefna, sem hefur ekki einungis áhrif á túlkun EES-reglna af hálfu norskra stjórnvalda og dómstóla.  Lögmætir hagsmunir borgara og fyrirtækja mæta afgangi; meintir þjóðarhagsmunir norska ríkisins eru framar öllu.  RFM hefur einnig haft áhrif á samsetningu Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins auk samskipta Norðmanna við þessar tvær stofnanir. Miklu máli skiptir að geta náð samkomulagi um deiluefni án afskipta Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins.  Eftirlitsstofnunin fylgir þessu, þar sem hún hefur í mesta lagi einu sinni á ári höfðað mál gegn einhverju af EES/EFTA-ríkjunum þremur. 

EFTA-dómstóllinn hefur jafnframt verið sniðgenginn með því að óska eftir, að norskir dómstólar haldi þeim málum innanlands, sem tengjast EES, þ.e. að þeir leiti ekki ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum.  Þessi stefna ásamt öðru leiddi til sniðgöngu af hálfu Hæstaréttar Noregs við að afla ráðgefandi álits frá dómstólnum, sem stóð yfir í 2,5 ár (frá 2012-2014).   Ef máli er engu að síður vísað til EFTA-dómstólsins og ríkislögmaður Noregs er ekki sáttur við niðurstöðuna, mun hann, af hvaða átyllu sem er, mælast til þess, að norski dómstóllinn fari ekki eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins.  Með því færir ríkislögmaður sér í nyt þá staðreynd, að norskir dómarar, ólíkt kollegum sínum á Íslandi og í Liechtenstein, eiga erfitt með að samþykkja meðalhófsreglu  Evrópuréttar.  Hið hefðbundna norska viðhorf er, að  nægjanlegt sé fyrir inngripi ríkisins í grundvallarréttindi- og frelsi, að það sé "eðlilegt", en í því felst ekki krafa um, að það sé "nauðsynlegt".  

Grundvallarregla í samskiptum manna og þjóða er, að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum.  Það er frágangssök fyrir þetta dæmalausa EES-samstarf, að nú hefur fyrrverandi dómari við EFTA-dómstólinn afhjúpað, að því fer fjarri innan EES, heldur njóta Norðmenn þeirra sérkjara að ákveða sjálfir, hvenær norskir dómstólar hlíta fordæmi þessa dómstóls.  Norðmenn hafa komizt upp með þessa hegðun, af því að þeir borga 97 % af gjaldkröfu ESB á hendur EFTA-ríkjunum fyrir EES-samstarfið. Þetta er um 10 % meira en þeim ber skylda til samkvæmt höfðatölu. 

Íslendingar hafa margir hverjir verið sáróánægðir með suma úrskurði EFTA-dómstólsins, og hann hefur m.a. hnekkt lagasetningu Alþingis, sem hefði verið ástæða til að reisa burst við. Embættismannakerfinu íslenzka hlýtur að hafa verið ljóst, hvernig málum var háttað í Noregi, en það fýldi ekki grön við dóminum, heldur bukkaði sig og beygði.  Nú er komið að því að vinda ofan af þessari vitleysu með vísun til fordæma frá Noregi. 

Nefna má EFTA-dóminn um, að íslenzku lögin frá 2009 um bann við innflutningi á ófrosnu keti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum, brjóti í bága við EES-samninginn og fjórfrelsið.  Þegar í stað á að innleiða inntak þessara laga að nýju með vísun til þjóðaröryggis í tengslum við varnir gegn smitsjúkdómum. Því er spáð, að fjölónæmir sýklar verði á næstu árum skaðræðislegri vágestir en veirur á borð við SARS-CoV-2 í manntjóni mælt.

 Það er hafin deila á milli ESA og Noregs um úthlutun nýtingarréttar á náttúruauðlindum í eigu ríkisins.  ESA mun líklega vísa deilumálinu til EFTA-dómstólsins og hann dæma Noregi í óhag, en norski ríkislögmaðurinn mun vafalítið beina því til norskra dómstóla, að í nafni RFM skuli þeir virða dóminn að vettugi.  Þar með verður hægt að skera Íslendinga úr snörunni, sem íslenzkir embættismenn og ráðherrar flæktu landsmenn í með klaufaskap og undirlægjuhætti 2016. 

Nokkru síðar ritar CIB:

"Þar sem dómstólar á Íslandi og í Liechtenstein hneigjast til þess að hlíta niðurstöðum EFTA-dómstólsins, er ójafnvægi innan EFTA-ríkjanna þriggja, sem kemur niður á þeim tveimur smærri."

Hér er mjög vægt að orði kveðið um grafalvarlegt mál.  CIB hefur flett ofan af gegnumrotnu samstarfi tveggja kotkarla við höfðingja, sem heldur kónginum góðum með fjárfúlgum til hans.  EES-samstarfið er ólífvænlegt með öllu fyrir sjálfstæðar þjóðir.  Þetta "samstarf" þarf að leysa af hólmi með víðtækum fríverzlunarsamningum við Breta og ESB í fyllingu tímans. Við það er reyndar vaxandi stuðningur í Noregi. Ef EFTA vill ekki beita sér fyrir slíkum samningum, eins og Stórþingið kann þó að verða áfram um eftir þingkosningarnar haustið 2021 í Noregi, þá verður íslenzka utanríkisþjónustan að girða sig í brók og fara með slíka samningagerð fyrir Íslands hönd gagnvart Bretlandi og ESB. 

 


Stefnubreyting hjá Landsvirkjun er þjóðhagsleg nauðsyn

COVID-19 umræðan yfirgnæfir annað nú um stundir.  Með samstilltu átaki þjóðarinnar og ofboðslega kostnaðarsömu hefur sóttvarnaryfirvöldum og heilbrigðisstarfsfólki með Landsspítalann í broddi fylkingar tekizt ágætlega upp í baráttunni við vágestinn.  Til marks um það er aðallega þetta:

   Sýkingum fjölgaði mjög ört í upphafi faraldursins hérlendis, og fjöldi sýkinga sem hlutfall af mannfjölda hérlendis var um hríð sá hæsti í heimi, en fjöldi sýkinga á sólarhring sveigði mjög af uppleið vegna ráðstafana til að draga úr smithættu, svo að hámarksfjöldi sjúklinga (virkra smita af SARS-CoV-2) varð aldrei meiri en 1096.  Það var 06.04.2020.  Þá nam fjölgun smitaðra 76 og fjölgun sjúklinga 42. Þá nam fjöldi á sjúkrahúsum (af völdum C-19) 37, en sá fjöldi varð mestur 45, dagana 3. og 4. apríl, en nam aðeins 4,4 % af af fjölda sjúkra, og á gjörgæzlu varð fjlöldinn mestur 13, þann 7. apríl. 

Af þessum tölum er ljóst, að ráðstafanir til fækkunar smitum hafa leitt til viðráðanlegs álags á heilbrigðiskerfið, og hlutfallslegur fjöldi sjúkra, sem þurfti innlögn, þegar mest mæddi á, var aðeins 4,4 %, sem er óvenjulág tala á heimsvísu.  Hún er til vitnis um árangursríka stjórnun, þ.e. fylgzt var með sjúklingum í einangrun.  Það var stjórnunarlegt snilldarbragð.  Fjöldi látinna er líklega lægstur hér sem hlutfall af sýktum, eða innan við 0,6 %, og hann er aðeins 27 á milljón íbúa, sem er á meðal þess lægsta, sem þekkist. Nú er fyrsta bylgja þessa faraldurs afstaðin, þótt sjúklingar séu enn 18 talsins.  Áhrif sóttvarnaaðgerðanna voru meiri en yfirvöldin reiknuðu með, en faraldurinn hér hefur fylgt vel kenningunni um 40 daga að toppi og 70 daga varanleika alls.  Á meðan landið er enn "einangrað", er óþarft að hafa uppi íþyngjandi takmarkanir á starfsemi í samfélaginu.  Staðfest smit í samfélaginu eru um 0,5 % af mannfjölda, sem er lægra hlutfall en búast mátti við.  Raunveruleg smit gætu verið um 1 %, þannig að landsmenn verða viðkvæmir fyrir næstu bylgju sýkinga, komi hún á undan almennri bólusetningu.  Ekkert hjarðónæmi hefur myndazt.  Það er afleiðing mótvægisaðgerðanna.  Á tímabili faraldursins á Íslandi hefur dauðsföllum fækkað m.v. meðaltal 2017-2019.  Þannig er það sjaldnast, og sum lönd, einnig í Evrópu, hafa orðið hrottalega illa úti í faraldrinum.  Þar hafa heilbrigðiskerfin farið á hliðina.  Það vildi enginn sjá þá stöðu uppi hér.  

 Sársaukafyllstu afleiðingar þessa veirufaraldurs á Íslandi verða á efnahagssviðinu, og þær verða langvinnar.  Aðallega stafar þetta af ósamræmdum ákvörðunum einstakra þjóða um lokun flugvalla fyrir farþegaflug.  Íslendingar verða fyrir sérlega hörðum skelli af þessum sökum, þar sem landið heimsóttu  meira en 5 erlendir ferðamenn á hvern íbúa landsins á ári, en leitun er að svo háu eða hærra hlutfalli í heiminum, þótt þau dæmi finnist. 

Það er vandasamt að setja réttar hömlur á þjóðfélög á réttum tíma, en það er ekki síður vandasamt að aflétta þeim til að lágmarka byrðar samfélagsins. Þá má hafa hliðsjón af niðurstöðu stærðfræðingsins í Ísrael, Isaac Ben-Israel, sem samkvæmt "Times of Israel" 14. apríl 2020 komst að því, að COVID-19 fjaraði út eftir 70 daga frá fyrsta staðfesta smiti.  Það þýðir, að leyfa ætti atvinnustarfsemi hérlendis að hefja venjulegan rekstur að viðhafðri almennri smitgát (um hreinlæti og snertingu), þegar eftir v.19 2020, sem endar 9. maí 2020.  Hópsamkomur þarf þó áfram að banna, þar til engin smit hafa greinzt á landinu í a.m.k. 2 vikur. 

Efnahag landsmanna ríður á að önnur starfsemi en ferðaþjónusta, sérstaklega gjaldeyrisskapandi eða gjaldeyrissparandi starfsemi, geti gengið á þeim afköstum, sem markaðurinn leyfir. Það er líklegt, að fiskmarkaðirnir taki fljótlega við sér, þegar lífið færist í samt horf, og vonandi taka álmarkaðir við sér, þegar bílaverksmiðjurnar og byggingariðnaðurinn fara í gang aftur.  Það er veik von um, að Kínverjarnir hrúgi ekki sinni niðurgreiddu framleiðslu inn á markaðinn, og e.t.v. verður nú tekið fyrir það.

Jónas Elíasson, prófessor, reit merka grein í Morgunblaðið 14. apríl 2020 um heimatilbúinn vanda álvinnslunnar á Íslandi, sem gert hefur illt verra:

"Raforkuvinnsla á Íslandi: Aftur á byrjunarreit ?"

Þar gat m.a. á að líta eftirfarandi:

"Íslendingar báru til þess gæfu að setja í forystu þessa verks afburðamann, Jóhannes Nordal, seðlabankastjóra, sem stjórnaði aðgerðum úr stóli formanns stjórnar Landsvirkjunar.  Hann markaði stefnu uppbyggingarinnar að öðrum ólöstuðum, sem líka lögðu hönd á plóginn.  Sú stefna markar reit nr 1 í nútímavæðingu raforkukerfis Íslands."

Sú stefna að beita stórsölu raforku til langs tíma (45 ára með endurskoðunarákvæðum) til að fjármagna stórvirkjanir á íslenzkan mælikvarða, sem sæju viðsemjandanum, öðrum iðnaði, öllum atvinnugreinum um allt land ásamt heimilunum, fyrir ódýru rafmagni, var mörkuð af Viðreisnarstjórninni og líklega öðrum framar dr Bjarna Benediktssyni, iðnaðarráðherra og síðar forsætisráðherra, og Jóhanni Hafstein, iðnaðarráðherra og síðar forsætisráðherra.  Þessir menn fengu dr Jóhannes til að gegna stöðu formanns samninganefndar um stóriðju, sem náði að brjóta ísinn í samskiptum við erlenda fjárfesta og gera samning við svissneska álfélagið, Alusuisse, um raforkukaup til ISAL í Straumsvík, sem stofnað var 1966, ári á eftir Landsvirkjun.  Dr Jóhannes náði vissulega góðu sambandi við Svisslendingana, sem treystu honum, og það hafði úrslitaþýðingu um, að samningar tókust.

"Það, sem öðru fremur skipti sköpum, var sú ákvörðun að selja rafmagnið á rúmu kostnaðarverði gegn tryggum greiðslum í formi kaupskyldu.  Þetta losaði Ísland nánast algerlega undan allri áhættu, en takmarkaði gróðann um leið.  Í þessu skjóli hafa nánast engin vandamál komið upp, gagnrýnisraddir þagnað, nema hjá einstaka furðufuglum, og eignauppbygging í raforkukerfinu verið ótrúlega hröð. 

Þessi stefna á sér rætur í New Deal stefnu F.D. Roosevelt, forseta BNA. Svo hefur raforkuverðið hækkað með tímanum og endurnýjun samninga.  Stóriðjan hefur reynzt [vera] ágætur viðskiptavinur, og allir fordómar um stórfellda eitrun umhverfis og yfirvofandi fjárhagstap, jafnvel gjaldþrot, löngu dottnir fyrir borð." 

  Það var ekki uppfinning dr Jóhannesar í "stóriðjunefndinni" að selja Svisslendingunum rafmagnið "á rúmu kostnaðarverði".  Þetta var þá alsiða, einnig í Evrópu, og t.d. vel þekkt frá Frakklandi og Noregi.  "Stóriðjunefnd" dr Jóhannesar náði einfaldlega hagstæðustu samningum, sem þá stóðu Íslendingum til boða.  Íslendingar voru óskrifað blað á meðal iðnjöfra þess tíma, og slíkt er stór óvissuþáttur, sem virkaði til lækkunar rafmagnsverðs miðað við markaðsverð til álvera á sinni tíð, t.d. í Noregi.  Íslenzka raforkukerfið var á þessum tíma vanþróað, og það voru efasemdir um, að Íslendingar gætu veitt rafmagninu nægt afhendingaröryggi m.v. þarfir álvers. Það var þá einsdæmi í Evrópu, að treysta þyrfti á eina flutningslínu 100-200 km leið fyrir heilt álver í storma- og ísingasömu landi, enda kom fljótlega að því, að Búrfellslína 1 slitnaði (á hafinu yfir Hvíta í ísingarveðri) með þeim afleiðingum, að nokkurra sólarhringa framleiðslustöðvun varð í Straumsvík og mörg ker voru "svæfð" (ekki þó svefninum langa), en nokkur töpuðust (frusu). 

Ofan á línuvandræðin bættist svo innrennslistregða Búrfellsvirkjunar vegna ísingar við inntaksmannvirkin.  Mikið svartagallsraus hafði farið fram um þetta vandamál, sem reyndist samt ekki jafnalvarlegt fyrir rekstur virkjunarinnar og svartsýnir höfðu spáð, enda náðu starfsmenn Landsvirkjunar smám saman undirtökunum í viðureigninni við þetta viðfangsefni.  Þegar Íslendingar höfðu náð tökum á þeim byrjunarörðugleikum, sem hér hafa verið tíundaðir, skapaðist grundvöllur til að leita hófanna um að hækka raforkuverðið, enda hafði heimsmarkaðsverð hækkað mikið í fyrstu olíukreppunni 1973. 

"Stjórn Landsvirkjunar hefur lýst því yfir, að markmið þeirra [hennar] sé að auka verðmæti auðlindarinnar.  Þetta er illframkvæmanleg[t], nema hækka rafmagnið, en sú stefna er þvert á tilganginn með stofnun Landsvirkjunar, sem var að tryggja raforku á sem lægstu verði til almennings og iðnaðar.  Þetta hefur tekizt, þó [að] ekki hafi verið eins langt gengið og hjá FDR á sínum tíma, sem nánast gaf rafmagnið, en fékk í staðinn skattana af gríðarlegri iðnaðaruppbyggingu, sem reif Ameríku upp úr kreppu þriðja áratugarins á undraverðum hraða."

Hér er komið að aðalásteytingarsteininum núna varðandi Landsvirkjun.  Árið 2010 setti "fyrsta tæra vinstri stjórnin" til valda í Landsvirkjun nýtt fólk, sem kúventi upphaflegri og þágildandi stefnu Landsvirkjunar og aðlagaði hana að gildandi orkulöggjöf landsins, sem mótaðist af orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB), s.k. orkupökkum 1 og 2, sem miða að einkavæðingu orkuvinnsluhluta raforkukerfisins, og að hvert fyrirtæki innan hans eigi að miða alla sína starfsemi við að hámarka hagnað sinn án tillits til annarra hagsmuna, s.s. atvinnuþróunar og hámörkunar verðmætasköpunar í landinu.  

Þessi stefna er sniðin við frjálsan orkumarkað, þar sem frjáls samkeppni margra fyrirtækja ríkir um viðskiptavinina, og samkeppnin heldur þá verðlagi orkunnar í skefjum til hagsbóta fyrir neytendur, en bezt reknu orkufyrirtækin ná að auka markaðshlutdeild sína og fjárfesta í nýjum orkuverum.  Ef þetta markaðskerfi er hins vegar innleitt í einokunarumhverfi, eins og íslenzki raforkumarkaðurinn er í raun og veru á sviði stórsölu raforku og að miklu leyti á öllum heildsölumarkaði raforku, þá losnar fjandinn úr grindum.  Það er einmitt það, sem hefur gerzt á Íslandi, með voveiflegum afleiðingum fyrir atvinnulífið og þar með heimilin í landinu. 

Reynslan hérlendis hefur sýnt, að ávöxtun arðs af orkulindunum er ekki bezt komin hjá Landsvirkjun, heldur hjá almenningi, rafmagnsnotendum, atvinnulífi og heimilum, með því að halda rafmagnsverði í landinu samkeppnishæfu, þ.e. lægra en yfirleitt er annars staðar í boði, óniðurgreitt þó, og standandi vel undir meðalkostnaði Landsvirkjunar, jafnvel að næstu virkjun meðtalinni. 

"Nú stefnir í, að Rio Tinto vilji loka Ísal [ISAL].  En það er bara byrjunin, hin álverin sitja í sömu súpunni, þó [að] minna heyrist frá þeim.  Þau geta líka tekið ákvörðun um að loka, þó [að] þau hjari e.t.v. út kaupskyldutímann.  Taki þau slíka ákvörðun, verður öll viðhaldsvinna lágmörkuð, og menn fara frá útkeyrðum, verðlausum iðjuverum.  Eftir sitja Íslendingar með gríðarlega verðmætar orkulindir, en enga kaupendur og engar tekjur.

Við verðum aftur komin á reit nr 1, árið 1969.  Er þetta stefnan að klára núverandi samninga og hætta svo ?  Hvernig er öðruvísi hægt að skilja skæting frá Landsvirkjun um arðgreiðslur og kjarasamninga hjá Ísal; mál, sem henni kemur ekkert við ?  Er það stefnan að hækka rafmagnið fram í rauðan dauðann ?  Sitja út samningstímann, [á] meðan kaupskyldan varir, og fara svo ánægðir á eftirlaun ?"

Þetta er hárrétt athugað hjá Jónasi. Mesti viðhaldskostnaður álvers er fólginn í endurfóðrun kera.  Sú starfsemi hefur verið aflögð í Straumsvík.  Með fækkandi rafgreiningarkerum í rekstri minnkar rafmagnsnotkunin vikulega og framleiðslan og þar með raforkunotkunin.

ISAL verður ekki einsdæmi, heldur kanarífuglinn í námunni, fyrsta fórnarlambið, af því að Straumsvíkurverksmiðjan er elzt, og þar var orkusamningurinn útrunninn og þarfnaðist endurnýjunar fyrst.  Iðnaðarráðherrann og ríkisstjórnin ásamt Alþingi verða að gera sér grein fyrir þeirri háskalegu þróun, sem nú á sér stað yfir hausamótunum á þeim.  Núverandi stefna Landsvirkjunar mun leiða til þess, að hún stendur yfir höfuðsvörðum allra orkusæknu fyrirtækjanna í landinu.  Er það virkilega þróun, sem Íslendingar þurfa á að halda, að hefjist nú, þegar umsvifamesta atvinnugrein landsins er í rúst og mun fyrirsjáanlega ekki ná vopnum sínum á næstunni ?

 

 


Lítil frétt um stórmál og klúður

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur í um 3 áratugi reynt að koma í kring innan Sambandsins markaðsvæðingu á ríkiseignum í náttúrunni, t.d. ríkisjörðum, námum og orkulindum. Framkvæmdastjórn ESB telur sig hafa lögsögu um nýtingu náttúruauðlinda, sbr sameiginlega fiskveiði- og landbúnaðarstefnu Sambandsins (CAP), en styr hefur staðið við einar 8 aðildarþjóðir um nýtingu vatnsréttinda til raforkuvinnslu.  Ætlaði Framkvæmdastjórnin með ágreininginn við Frakka, sem eru mesta vatnsorkuþjóðin innan ESB, fyrir Evrópudómstólinn.  Nú er spurning, hvort þetta stefnumál verður eitt þeirra, sem lendir undir exi Úrsúlu von der Leyen í kjölfar COVID-19.  Ástæðan er sú, að aðferðarfræði ESB hefur óhjákvæmilega í för með sér orkuverðshækkanir, og það er einmitt ætlun ESB til að knýja á um frekari fjárfestingar í dýrum mannvirkjum endurnýjanlegrar orku.  Hagkerfi ESB-landa þarf hins vegar nú, eins og annars staðar, framar öðru á að halda ódýrri orku til að knýja endurreisn hagkerfa aðildarlandanna, sem eru mjög veikburða eftir lömun af völdum aðgerða til að hamla smiti á COVID-19, og loftslagsmarkmiðin verða einfaldlega að sitja á hakanum á meðan hjól atvinnulífsins eru að komast aftur á fyrri snúningshraða hið minnsta. 

 Innan EFTA-ríkjanna í EES (Evrópska efnahagssvæðinu) er staðan lítið eitt önnur að því leytinu til, að EES-samningurinn fjallar ekki um orkulindirnar og reglur um stjórnun þeirra, en Lissabon-sáttmálinn veitir Framkvæmdastjórninni víðtækar heimildir til yfirstjórnunar á orkumálum ríkjanna.  E.t.v. þess vegna hefur EFTA-dómstóllinn teygt sig ískyggilega langt inn á þetta svið, og dæmdi hann t.d. gegn norska ríkinu, að það væri að mismuna einkafyrirtækjum og ríkisfyrirtækjum með gamalli lagasetningu um það, sem Norðmenn kalla "hjemfall av vannkraftsressurser" eða þjóðnýtingu vatnsréttinda og vatnsaflsvirkjana eftir fyrst 80 ár og nú 60 ár í rekstri. Norðmenn breyttu þessari lagasetningu sinni, nýttu sér "frelsissvigrúmið", sem Carl Baudenbacher hefur gagnrýnt þá fyrir, og gerðu 2/3 eign ríkisins á þessari auðlind landsins að meginreglu, þannig að ekki gæti misréttis gagnvart einkaaðilum, og sú skipan hefur haldizt athugasemdalaust af hálfu ESA. Ríkisstjórnarlögmaðurinn (regjeringsadvokat) Sejersted, tefldi fram sínu "frelsissvigrúmi" og komst upp með það. Það sorglega er, að Íslendingar eiga engan Sejersted enn þá.  

ESA, sem EFTA-megin er spegilmynd Framkvæmdastjórnar ESB, ákvað að ráðast á garðinn, þar sem hann var lægstur hjá EFTA  með afskiptm af úthlutunarreglum nýtingarréttinda auðlinda á landi í eigu ríkisins með bréfi til íslenzku ríkisstjórnarinnar á þeim tíma, þegar hún átti fullt í fangi með að lágmarka neikvæðar afleiðingar bankahrunsins með undirbúningi Neyðarlaganna.  Fyrsta bréfið var dagsett 14.10.2008.

Síðan gengu mörg bréf á milli, en varnir ríkisstjórnanna, sem í hlut áttu á Íslandi, hafa verið vegnar og léttvægar fundnar í Brüssel, enda alls ekki reynt að nýta sér neitt "frelsissvigrúm".  Bréf ríkisstjórnanna íslenzku til ESA hafa ekki verið gerð aðgengileg almenningi, en af bréfum ESA, sem aðgengileg eru á vefsvæði Eftirlitsstofnunarinnar, má ráða í efni þeirra. Þessum ríkisstjórnum virðist ekki hafa hugkvæmzt sú djarfa og árangursríka leið Norðmanna, þegar þeir síðar fengu bréf svipaðs efnis, að efast hreinlega um lögsögu ESA yfir ráðstöfun náttúrulegra orkulinda til raforkuvinnslu. Vonandi sér íslenzka ríkisstjórnin að sér með aðstoð Alþingis og gengur í skóla prófessors Sejersteds.  Atbeini Alþingis er eðlilegur og nauðsynlegur í stórmáli, sem stjórnvöld hafa frá upphafi gert sér far um að drepa á dreif. 

Úrskurður ESA, nr 075/16/COL, í þessu máli var gefinn út 20.04.2016, og íslenzk stjórnvöld vöktu ekki sérstaka athygli þjóðarinnar á honum, þótt hann fæli í sér kröfu um fullveldisafsal á megninu af orkulindum Íslands með því að fyrirskrifa markaðssetningu á Innri markaðinum á nýtingarrétti orkulinda í ríkiseigu.  Hvernig í ósköpunum ríkisstjórninni kom til hugar að fallast alfarið á þetta fullveldisframsal er eftir að útskýra fyrir þjóðinni.  Tveir ráðherranna, sem þá áttu hlut að máli, sitja í núverandi ríkisstjórn, svo að þingmönnum er í lófa lagið að leita skýringa hjá þeim.  Þessir ráðherrar fá falleinkunn, ef þau svara þannig, að embættismenn hafi sagt þeim, að EES-samningurinn legði Íslendingum þær skyldur á herðar að framselja markaðnum nýtingu orkulindanna eða að embættismenn hafi haldið því fram, að Stjórnarskráin eða almenn löggjöf bannaði stjórnvöldum það ekki. Kenningar Sejersteds voru þá löngu kunnar.

Þessir ráðherrar eru: 

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, 07.04.2016-11.01.2017

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, 08.04.2016-11.01.2017.

Þann 15.12.2016 fór síðan bréf frá ríkisstjórninni með tímasettri framkvæmdaáætlun, og skyldi lúkning verða 30.05.2017.  Á þessum grundvelli lauk þessu máli af hálfu ESA með bréfi til ríkisstjórnar: 010/17/COL, en ekkert hefur verið framkvæmt í málinu og verður sennilega ekki úr þessu.  Þessi vinnubrögð íslenzkra stjórnvalda eru afspyrnuléleg og gæti kæra ESA fyrir EFTA-dómstólinum þar af leiðandi verið yfirvofandi fyrir skort á efndum.  

Um hvað fjallaði litla fréttin í Mogganum 11.04.2020 ?  Hún bar fyrirsögnina:

"Fresta frumvarpi um nýtingu auðlinda"

og hófst þannig:

"Upp hafa komið rökstuddar efasemdir um, að tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins um þjónustu á innri markaðinum, og til vara grein EES-samningsins um staðfesturétt, eigi við um raforkuframleiðslu.  

 Því hafa íslenzk stjórnvöld ákveðið að fresta fyrirhuguðum lagabreytingum uns betri vissa verður fengin fyrir því, hvaða þjóðréttarlegu skuldbindingar hvíla á íslenzka ríkinu að þessu leyti.  Frumvarpið verður því ekki lagt fyrir Alþingi á þessum vetri."

Frestur er á illu beztur má um þessa niðurstöðu ríkisstjórnarinnar segja. Hún vísar augljóslega beint til málatilbúnaðarins gegn Noregi og snöfurmannlegs svars Sejersteds eða a.m.k. í anda "frelsissvigrúms".  Málatilbúnaðurinn gegn gegn Íslandi var af öðrum toga, þótt afleiðingarnar yrðu hinar sömu, næði ESA sínu fram. 

Það vafðist ekki eitt andartak fyrir norskum stjórnvöldum, hvort Noregur væri að þjóðarétti bundinn við að hlýða ESA og framselja náttúrulegar orkulindir sínar, aðallega virkjaðar vatnsorkulindir, í hendur Innri markaði EES, sem í einu og öllu lýtur regluverki ESB. Þegar mikilvægir ríkishagsmunir eru í húfi, grípa Norðmenn til "frelsissvigrúmsins", sem þeir reyndar nefna "handlingsrommet". 

Bréf ESA til norsku ríkisstjórnarinnar (orku- og olíumálaráðuneytisins) barst ekki fyrr en 30.04.2019.  Málatilbúnaður þar var af öðru tagi en gegn Íslandi, en krafan þó sams konar, og afleiðingar uppgjafar yrðu eins.  ESA kvað norska ríkið verða að finna óyggjandi markaðsverð á vatnsréttindum í eigu ríkisins og leyfa jafnan aðgang allra fyrirtækja, óháð eigendum og rekstrarformi.  Ljóslega er hér átt við allan Innri markað EES.  Var vitnað í þrenns konar lögskýringargögn ESB kröfunni til fulltingis:

  • Þjónustutilskipun nr 2006/123/EB
  • Tilskipun um opinber innkaup nr 2014/23/EB
  • TFEU (stofnsáttmáli ESB) gr. 49 og 56

Norska ríkisstjórnin svaraði snöfurmannlega rúmum mánuði síðar, bar svarið undir Stórþingið og fékk fullan stuðning þess.  Bréf orku- og iðnaðarráðuneytisins var vel ígrundað og stutt sannfærandi lagalegum rökum.  Niðurstaða þess var höfnun á þeim grundvelli, að ofangreindar tilskipanir og greinar stofnsáttmála ættu ekki við raforkuvinnslu og Norðmenn hefðu tekið það fram á sínum tíma, þegar þjónustutilskipunin var í burðarliðnum, að þeir teldu orkuvinnslu úr náttúruauðlindum Noregs alls ekki falla undir gildissvið hennar.   

Svona eiga sýslumenn að vera.  Það er eitthvað annað en klúðursleg vinnubrögð íslenzka Stjórnarráðsins í þessu máli.  Hvað skyldi valda því, að hér eru flækjufætur einar settar til verka og dagskipun ráðherra virðist vera að bukka sig og beygja fyrir Brüssel (einnig aðsetur ESA).  Þessu verður að linna, og það verður að draga línu í sandinn. Það er Sejersted-línan.  EES-samningurinn snertir ekki stjórnun auðlinda landsins. 

Í viðhengi er ítarlegri grein um þetta mál eftir pistilhöfund.  

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Breytt heimsmynd

Mannskæðir alheims sjúkdómsfaraldrar breyta heiminum.  Afleiðingar spænsku veikinnar, sem var víst amerísk, ef nánar er að gáð, hafa vafalaust haft djúptæk áhrif, en þau hurfu í skugga hrikalegrar lífsreynslu af Heimsstyrjöldinni fyrri og þeirra feiknarlegu þjóðfélagsátaka, sem af henni leiddu, en þá missti kirkjan mikil völd í Evrópu, og aðallinn missti fótanna. Þessir aðilar höfðu fram að því talið alþýðunni trú um guðlegt boðvald sitt yfir henni, en helvíti skotgrafanna leysti alþýðuna úr viðjum, því að guðlegur vilji og vald gat ekki legið að baki slíkum hörmungum. Byltingarástand ríkti víða, og hún tókst í Rússlandi 1917 að undirlagi þýzku hérstjórnarinnar, sem sendi kaffihúsasnatann Lenín frá Sviss til Rússlands. Þessi bylting át börnin sín, eins og sú franska 1789. Aðeins sú borgara- og bændabylting, sem varð á Englandi öld áður, tókst.  Efldist þá þingræðið á Englandi á kostnað konungsvalds, en aðlinum tókst að laga sig að breytingunum og flaut ofan á (eins og hrossataðskögglarnir).

Það er mörgum umhugsunarefni, hvað taka muni við í heiminum eftir COVID-19.  Það er líklegt, að talsvert af þeirri framleiðslu, sem vestræn fyrirtæki hafa á undanförnum áratugum flutt að heiman og til Kína og annað, muni snúa í heimahagana á næstu árum, a.m.k. sú, sem talin er varða miklu fyrir öryggi og heilsufar þegnanna.  Þetta gæti táknað endalok alþjóðavæðingarinnar, eins og við þekktum hana, þar sem þjóðir reiða sig ekki lengur á aðdrætti frá útlöndum í sama ríka mæli og verið hefur. Traust til Kínverja hefur beðið hnekki vegna upphaflegra viðbragða þeirra við SARS-CoV-2 veirunni, sem voru í ætt við viðbrögðin við SARS-CoV-1 rúmum hálfum öðrum áratugi fyrr.  Stórveldistilburðir þeirra eru líka að verða ruddalegri en góðu hófi gegnir.  Vestræn ríki munu draga úr viðskiptasamstarfi við Kínverja á "strategískum" sviðum, en vonandi getum við nýtt fríverzlunarsamninginn við þá meira til matvælaútflutnings.  Þeir eru háðir matvælainnflutningi.   

Þetta hlýtur að styrkja innlenda framleiðslu á Íslandi á nauðsynlegu viðurværi, t.d. matvælum.  Það er heldur ekki í kot vísað fyrir landsmenn að snúa sér í auknum mæli að innlendum matvælum.  Það er leitun að sambærilegum gæðum og hollustu, t.d. vegna hreins lofts, gæðavatns og mjög lítillar notkunar sýklalyfja. Hvers vegna að fara yfir lækinn til að sækja vatnið ?

Auðvitað á ríkisfyrirtækið Landsvirkjun að teygja sig langt í að bjóða ódýra raforku, bæði ótryggða orku og forgangsorku, og þursahátt stjórnenda þar í garð viðskiptavina á ekki að líða. Óljósar fréttir um verðafsláttarhugmyndir þar á bæ eru ófullnægjandi.

Guðlaugu Kristinsdóttur, stjórnarformanni Límtré-Vírnets o.fl., eru greinilega þessi mál hugleikin.  Þann 8. apríl 2020 birtist frábær grein eftir hana í Markaði Fréttablaðsins, undir fyrirsögninni:

"Sveigjanleiki skiptir sköpum"

"Hagkerfi heimsins eru nær öll á hnjánum.  Ísland er þar engin undantekning, og fram undan er mikið verk til að tryggja upprisu lands og þjóðar.  Íslenzkt hugvit og handverk mun ráða miklu um árangurinn, en ekki síður stefnan, sem við tökum í þessum skrýtnu aðstæðum.  

Á undanförnum vikum hefur komið í ljós, að þjóðir heims hugsa fyrst um sjálfar sig, þegar hætta steðjar að.  Virðiskeðja alþjóðaviðskipta er rofin, vöru- og fólksflutningar eru afar takmarkaðir, og alþjóðasamningar eru í hættu.  Aðstæðurnar kalla víða á breytt viðhorf, ekki sízt hvað varðar sjálfbærni hagkerfa. Skyndilega sjá allir mikilvægi þess, að þjóðir geti framleitt mat fyrir sjálfar sig og forgangsröðun fjármuna í þágu heilbrigðiskerfa. Allir virðast sammála um, að ríki grípi til umfangsmikilla efnahagsaðgerða, svo [að] hjól samfélagsins snúist, þrátt fyrir vírusa og innilokanir."  [Undirstr. BJo]

Staðan er einstök, því að öll hagkerfi heimsins eru í lamasessi samtímis og öll verða nú fyrir gríðarlegum tekjumissi og munu þurfa á miklu lánsfé að halda í kjölfarið.  Seðlabankar prenta peninga, og ríkisstjórnir ætla að láta verðbólguna rýra höfuðstólinn á verðbólgubáli.  Lántakendur í erlendum gjaldmiðli verða fórnarlömbin.

COVID-19 tímabilið hefur í eymd sinni verið lærdómsríkt.  Þjóðir heims hafa borið sig misjafnlega að og orðið mjög misjafnlega vel ágengt í baráttunni við SARS-COV-2 veiruna. Má nefna Suður-Kóreu sem dæmi um góðan árangur utan Evrópu, en í Evrópu virðist Þýzkaland bera af í hópi hinna fjölmennari og þéttbýlli landa.  Er munurinn rétt einu sinni sláandi á Þjóðverjum og nágrönnum þeirra, Frökkum, hinum fyrrnefndu í vil.  Þjóðverjar voru undirbúnir með fjölda sjúkrarúma og mikinn varnar- og sjúkrabúnað, þ.m.t. öndunartæki, og gripu leiftursnöggt inn í atburðarásina.  Gott skipulag, góður undirbúningur og öguð viðbrögð, gerðu gæfumuninn.  Þess vegna urðu tiltölulega fá smit í Þýzkalandi og hlutfallslega fá dauðsföll.  Fyrir vikið mun atvinnulífið fyrr verða drepið úr dróma, og heildarkostnaðurinn mun verða lægri hjá Þjóðverjum en Frökkum. Í Belgíu virðist heilbrigðiskerfið gjörsamlega hafa farið á hliðina.  Um það vitnar gríðarhátt hlutfall látinna af smituðum.  Hérlendis er þetta hlutfall aðeins um 0,6 %, en þar sem sérlega illa hefur tekizt til, er þetta hlutfall 20-40 sinnum hærra.  

Það, sem þó háir Íslendingum í þessari baráttu er skortur á hentugu húsnæði og aðbúnaði, þar sem nýi Landsspítalinn er enn í byggingu og kemst a.m.k. 5 árum of seint í gagnið m.v. þörfina.  Þar verður að  hafa til reiðu fjölda sjúkrarúma og gera ráð fyrir snöggri stækkun á gjörgæzluaðstöðu.  Það munu ekki líða 100 ár að næstu alvarlegu kórónuveiru, og aðrir enn hættulegri heimsfaraldrar gætu hæglega blossað upp á þessum áratugi.  Hin hrikalega ebóla var kveðin niður í Afríku með miklu harðfylgi vestræns heilbrigðisstarfsfólks á fyrsta áratugi þessarar aldar. Veirur eru til rannsókna og þróunar í misjöfnu augnamiði á rannsónarstofum heimsins og geta sloppið þaðan af ýmsum orsökum. Forseti Bandaríkjanna hefur fjálglega viðrað grunsemdir um uppruna Wuhan-veirunnar á rannsóknarstofu þar í borg, en hann er að vísu alræmdur blóraböggulsframleiðandi.  Það eru ekki öll kurl komin til grafar með þessa SARS-CoV-2 veiru, uppruna hennar, og hvernig hún dreifðist út fyrir Kína, til skíðasvæðanna í Ölpunum og víðar.  Seinagangur Kínverja í upphafi á sök á útbreiðslunni.  Lokun Kína í desember 2019 hefði væntanlega þýtt, að kostnaður heimsins í baráttunni við óværuna hefði aðeins orðið brot af þeim hundruða trilljóna USD kostnaði, sem heimurinn situr uppi með.  

Í þessum kórónafaraldri hefur komið í ljós, að virðiskeðjur fyrir inn- og útflutning landsins rofna auðveldlega og samkomulag og sambönd halda illa.  Nægir að nefna, að framleiðsla í "Verksmiðju heimsins", Kína, stöðvaðist á mörgum sviðum og framkallaði það skort á þessum "just-in-time" tímum, þegar enginn vill halda birgðir.  Jafnvel þýzka hernum var bannað að halda birgðir af skammsýnum stjórnmálamönnum, og hefur það valdið því, að megnið af kafbátum og orrustuþotum landsins voru ekki bardagahæf, þegar til átti að taka á æfingum. Ursula von der Leyen var landvarnarráðherra, þar til Þjóðverjar sendu hana til Brüssel.  Hún rýrði bardagahæfni hersins til muna með aðgerðum af þessu tagi, en hún gekk lengra.  Hún vildi uppræta hefðir hersins, eins og að ganga fylktu liði og syngja marsa, siði, sem rekja má allt aftur til prússneska hersins fyrir daga Friðriks, mikla, sem margan frækinn sigurinn vann í Evrópu. Þá fyrirskipaði hún að taka niður mynd af Helmut Schmidt, fyrrum kanzlara Vestur-Þýzkalands, þar sem hann var í herbúningi Wehrmacht (barðist á Austurvígstöðvunum).  Ekki þarf að spyrja að því, að forystuhæfileika í ESB sýndi téð von der Leyen enga, þegar til átti að taka, þegar SARS-CoV-2 herjaði sem verst á Evrópu í marz-apríl 2020.  Er Evrópusambandið ekki búið að bíta úr nálinni með lömun sína og aðgerðaleysi til varnar íbúunum, þegar hæst átti að hóa.  Þetta er einn naglinn í líkkistu ESB.

Nú hefur heimsmarkaðsverð olíu hrapað niður í 20-30 USD/tunnu.  Jafnframt hefur raforkuverð heimsins hrapað, og er á heildsölumörkuðum yfirleitt undir 10 USD/MWh.  Þetta grefur undan orkustefnu ESB í bráð og lengd.  Margir hljóta að spyrja sig í Evrópu: hvers vegna erum við að halda uppi gráðugu skrifstofubákni í Brüssel og víðar, sem virðist ekki vera til neins gagns, þegar mest ríður á ?  Þótt Bretar hafi farið illa út úr COVID-19, er ekkert, sem bendir til, að aðild að ESB hefði verið hjálpleg.  

 Schengen samningurinn fór fyrir lítið, því að hvert ríkið á fætur öðru lokaði landamærum sínum í trássi við von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Um síðir samþykkti ESB að loka ytri og innri landamærum sínum.

Alvarlegastur er ágreiningurinn innan Evrópusambandsins (ESB) um sameiginlegar hjálparaðgerðir við nauðstödd ríki innan ESB vegna kostnaðarins og tekjutapsins af völdum COVID-19.  Suðurríkin, sem Frakkar styðja, vildu, að Seðlabanki evrunnar gæfi út "Kórónubréf", en Norðurríkin snerust öndverð við því af skiljanlegum ástæðum, sbr "við greiðum ekki skuldir óreiðumanna".  Úr varð, að úr björgunarsjóði verða mrdEUR 500 til ráðstöfunar inn á við í ESB út af COVID-19. Viðtakendur verða aðallega Ítalir, Spánverjar og Frakkar, ef að líkum lætur, en upphæðin mun ekki duga til að koma efnahag þessara ríkja í samt lag.  Norðurríkin verða langt á undan Suðurríkjunum við að koma hjólum efnahagslífsins aftur á góðan snúning. Þetta mun enn auka á efnahagslega og pólitíska sundrungu á milli suðurs og norðurs, sem getur endað með ósköpum og talsverðri veikingu evrunnar. 

"Á sama hátt er ómetanlegt fyrir þjóðir að ráða sjálfar sínum efnahagsmálum, reka sína eigin peningastefnu, og eiga sinn eigin gjaldmiðil.  Kostir þess hafa sýnt sig í fyrri kreppum, og þeir munu gera það núna.

Íslenzkur iðnaður þekkir þetta vel.  Líkt og aðrar þjóðir hafa Íslendingar tekizt á við miklar efnahagssveiflur, en með sjálfstæði og sveigjanleika í farteskinu hefur okkur tekizt að að vinna vel úr áföllunum.  Nái ég kjöri sem formaður Samtaka iðnaðarins, mun ég beita mér fyrir auknu alþjóðasamstarfi iðnaðarins.  Ég vil, að iðnaðurinn efni til meira samstarfs út fyrir Norðurlöndin og Evrópu, við systursamtök í öðrum heimsálfum og löndum, sem hafa náð langt.  Tækifærin eru víða og einskorðast sannarlega ekki við innri markað Evrópusambandsins."

Fyrsti hluti þessarar tilvitnunar er hárrétt athugaður hjá Guðlaugu, en skilningi á þessu hefur verið ábótavant hjá mörgum formönnum SÍ.  Síðari hlutinn sýnir vel víðsýni Guðlaugar, og að hún er vel meðvituð um þróun viðskiptatækifæranna á næstunni.  Hún hefði orðið mikill fengur fyrir forystu Samtaka iðnaðarins. Því miður átti það ekki fyrir SI að liggja að þessu sinni.   

Sumir eru þeirrar skoðunar, að SARS-COV-2 veiran verði banabiti ESB í sinni núverandi mynd (án Breta).  Morgunblaðið fylgist vel með þessum málum, sem öðrum, og þar var 7. apríl 2020 frétt undir fyrirsögninni:

""Mesta prófraun" ESB".Hún hófst þannig:

"Angela Merkel, Þýzkalandskanzlari, varaði við því í gær, að aldrei hefði reynt jafnmikið á samheldni Evrópusambandsríkjanna og nú.  Hvatti hún ríki álfunnar til þess að vinna saman að því að endurreisa efnahag aðildarríkjanna, þegar heimsfaraldurinn verður liðinn hjá. 

"Ég tel, að Evrópusambandið standi nú frammi fyrir mestu prófraun sinni frá stofnun", sagði Merkel og bætti við, að öll ríkin hefðu fundið fyrir faraldrinum, og því væri það hagur allra, að Evrópuríkin kæmu styrkum fótum frá þessari raun."

 

 "Stjórnvöld í Frakklandi vöruðu við því í gær, að yfirvofandi væri versta efnahagskreppa, sem Evrópa hefði séð frá lokum síðari heimsstyrjaldar.  Sagði Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, að tryggja þyrfti, að ríkari ríki sambandsins næðu sér ekki af áhrifum kórónaveirunnar fyrr en hin verr settu, því [að] annars yrði eining aðildarríkjanna, sem og evrusvæðið [evrusvæðisins-leiðr. BJo], fyrir miklu höggi."

Þarna segja Frakkar, að þeir muni koma lamaðir út úr viðureigninni við SARS-COV2, enda ekki borð fyrir báru þar á bæ frekar en fyrri daginn.  Fjármálaráðherrann segir í raun, að Þjóðverjar megi ekki nýta hlutfallslega yfirburði sína, þegar hagkerfi þeirra kemst í gang aftur, til að auka enn forskot sitt og auka hagvöxtinn hjá sér langt umfram það, sem hin ríkin munu verða fær um. Af þessu er ljóst, að vandamálin hrannast upp fyrir ESB úti við sjónarrönd, einkum vegna þess, hversu ólíkar aðildarþjóðirnar eru að upplagi.  Evran var ótímabær og illa ígrunduð tilraun.  Framtíð hennar er í meiri óvissu núna en í kjölfar fjármálakreppunnar 2007-2008 og Grikklandsfársins 2012, enda hefur lítið verið gert til að skjóta undir hana fótum, nema brauðfótum.  

 

 Evran krosssprungin

  

 


Heimilisbölið er verst

Vágestur frá borginni Wuhan í Kína hefur sett heimsbyggðina á annan endann.  Við sérstakar aðstæður á matarmarkaði í Wuhan er sagt, að veiran SARS-CoV-2 hafi borizt úr leðurblöku í hreisturdýr og þaðan í menn, þar sem hún hefur stökkbreytzt oft.  Það er líka orðrómur um, að þessi veira hafi sloppið út af lífefnafræðistofu í Wuhan, sem starfrækt er af kínverska hernum. Þykir uppbygging veirunnar styðja þá sviðsmynd, þar sem hún virðist vera samsett úr SARS-CoV-1, sem gekk í Kína og nágrannalöndum, og HIV-eyðniveirunni, sem var meira smitandi en hin.  Það er einmitt smitnæmi veirunnar, sem gerir hana viðsjárverða og hefur valdið örvæntingarfullum viðbrögðum þjóða, sem hafa reynzt ofboðslega kostnaðarsöm og hagkerfin eru ekki búin að bíta úr nálinni með.  Þetta ástand hefur líka leitt hugann að því, hversu tortímandi veiruhernaður getur verið í höndum hryðjuverkamanna eða ríkisvalds, sem einskis svífst. Slíkt ríkisvald gæti t.d. þróað skæða veiru og bóluefni gegn henni og bólusett eigin þjóð og bandamenn sína og sleppt svo veirunni lausri.  Það er voðalega hætt við því, að alþjóðaviðskiptin bíði varanlegan hnekki við C-19 og að ferðaþjónustan verði stærsta fórnarlambið.  Það er óhætt að leggja stækkunarhugmyndir ISAVIA vegna FLE á ís. 

Það hverfur allt í skugga frétta af C-19, enda munu daglegir fundir sóttvarnalæknis, landlæknis og almannavarna hafa verið vinsælasta sjónvarpsefnið, þegar veiran geisaði, þótt ótrúlegt megi heita. 

Það eru örlagaríkir tímar nú hjá ISAL í Straumsvík, og ber ekki á öðru en stefnt sé að lokun verksmiðjunnar 30.06.2020, en þá renna kjarasamningar við starfsmenn fyrirtækisins út.  Álag verksmiðjunnar á raforkukerfið dvínar með hverri vikunni, sem líður, enda er áreiðanlega hætt að endurnýja rafgreiningarker, sem falla úr rekstri.  Þetta er þyngra en tárum taki nú, þegar landið þarf á allri sinni framleiðslugetu að halda til útflutnings og gjaldeyrissköpunar, þegar engir erlendir ferðamenn koma til landsins.  

Það er fyrir neðan allar hellur, ef ríkisstjórnin ætlar að láta þetta gerast fyrir framan nefið á sér, því að Landsvirkjun er að fullu í eigu ríkisins.  Það er enginn að tala um fúlgur fjár úr ríkissjóði til ISAL, heldur að varðveita tekjustreymi frá fyrirtækinu og starfsmönnum þess til hins opinbera með lækkun á einu hæsta raforkuverði í heimi til starfandi álvers.

Sérfræðingur í orkumálum og orkusamningum Landsvirkjunar, enda stoð og stytta stjórnarformanns og forstjóra fyrirtækisins um orkusamninga þess um langa hríð, Elías B. Elíasson, ritaði grein um þessi málefni, sem birtist í Morgunblaðinu 16. apríl 2020 undir neðangreindri fyrirsögn.  Hann gerði fyrst að umræðuefni sláandi upplýsingar um stöðu ISAL og samskiptin við Landsvirkjun, sem var efniviður mjög athygliverðrar forsíðufréttar og baksviðsgreinar Stefáns E. Stefánssonar í Morgunblaðinu 7. apríl 2020. :

 "Að þrasa frá sér viðskiptavin":

"Hið síðara var svar Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, þar sem hann m.a. fárast yfir arðgreiðslum Ísal fyrir þrem árum og býsnast yfir því, að kjarasamningar þar voru ekki samþykktir lengur en fram á sumar.  Skýrar verður því varla kastað yfir borðið til viðsemjanda, að það sé ekkert við hann að tala.  Svona einfaldlega gerir maður ekki, þegar um er að ræða samninga, sem eru jafn þjóðhagslega mikilvægir og þessir, allra sízt á svo viðsjárverðum tímum sem nú."

Þetta er hárrétt mat hjá Elíasi.  Viðbrögð forstjóra Landsvirkjunar við bitrum sannleikanum, sem þarna birtist þjóðinni umbúðalaust, báru vott um dómgreindarleysi og voru forstjóraembættinu ósamboðin með öllu.  Þennan forstjóra varðar ekkert um fjárstreymi, sem fram fer á milli móðurfyrirtækis og dótturfyrirtækis, sem kaupir af Landsvirkjun orku.  Fjárstreymi þetta er búið að vera margfalt í hina áttina, og munar þar mestu um MUSD 500 fjárfestingu Rio Tinto í Straumsvík í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2008.  Þá er hreinn dónaskapur af forstjóranum að blanda sér í efni eða tímalengd kjarasamninga í Straumsvík.  Allt sýnir þetta, að þessi forstjóri er bara í bullandi pólitík gegn erlendum iðnaðarfjárfestum á Íslandi.  Á slíkum þurfum við sízt á að halda nú á þessum síðustu og versu tímum með tæplega 20 % atvinnuleysi og sums staðar 40 %.

"Áður fyrr var það reglan, að viðræður fóru fram í "góðri trú", eins og það heitir á lagamáli.  Landsvirkjun virðist hafa vikið af þeirri braut, en tímabært er að taka þá góðu siði upp aftur.  Það er svo annað mál, hvort hægt sé að koma upp því trausti, sem ríkja þarf [á] milli aðilanna án þess að skipta um í brúnni." 

Í góðri trú í þessu sambandi merkir, að báðir aðilar eru staðráðnir í að ná samkomulagi, sem báðir mega við una, og báðir eru sannfærðir um, að gagnaðilinn sé í viðræðunum af fullum heiðarleika og án undirmála.  Þetta felur auðvitað í sér, að hvorugur aðilinn hótar hinum og komið er fram af fullri hreinskilni.  

Nú er öldin önnur.  Síðan vinstri stjórnin réð Hörð Arnarson til starfa, hefur forstjóri Landsvirkjunar verið herskár í garð viðskiptavina sinna og látið í veðri vaka við þá, að ef þeir gangi ekki að skilmálum hans, hafi Landsvirkjun þann möguleika að selja rafmagn inn á sæstreng, sem tengja myndi Íslandskerfið við Innri orkumarkað ESB. Þá hefur verið skellt hurðum og komið þar með fram af ókurteisi við viðsemjendur.  Það þarf minna til en þetta til að hleypa illu blóði í gagnaðilann, kannski ekki sjóaða samningamennina, heldur þá, sem þeir starfa í umboði fyrir.  Þegar ríkisfyrirtæki á í hlut, sem er langstærsta raforkufyrirtæki landsins, þá hefur framkoma af þessu tagi pólitískt inntak, sem er grafalvarlegt fyrir þingmenn og þjóðina alla. 

 "Búast má við miklum breytingum í öllum viðskiptum milli þjóða í kjölfar COVID-19-faraldursins.  Sterkar raddir eru uppi í vestrænum ríkjum um, að tryggja þurfi örugg aðföng mikilvægra vöruflokka betur en nú er, jafnframt því sem hert er aftur á hjólum efnahagslífsins.  Þó að nú sé mest rætt um vörur til heilbrigðisgæzlu, fer ekki [á] milli mála, að ál er grundvallar hráefni fyrir þessar þjóðir.  Þjóðirnar verða að tryggja iðnaði sínum greiðan aðgang að þessu hráefni, hvað sem líður öllum ófriðarblikum og tilraunum annarra, eins og Kína, til að ná yfirráðum á þeim markaði."

Elías skrifar þarna um ýmis merki um aukinn stuðning við kaupauðgistefnu ("merkantílisma"), sem núverandi forseti Bandaríkjanna virðist reyndar vera fulltrúi fyrir, þegar hann ræðir ekki um hreinsiefni í æð eða útfjólubláa geislun í heilsuverndarskyni "í kerskni". Það getur verið, að sú verði raunin um lykilvörur fyrir næringaröryggi, sóttvarnaöryggi og landvarnir, en meginstefnan verður vonandi áfram frjáls viðskipti með sem minnstum tollahindrunum. Hvernig Kínverjar hafa hagað sér á álmarkaðinum jafngildir grófri misnotkun viðskiptafrelsis, og hundsun á mikilvægum sjónarmiðum, sem þjóðir heims hafa sammælzt um til að draga úr áhrifum mannsins á náttúruna.  Þeir hafa ekki hikað við að reisa kolaorkuver hundruðum saman til þess m.a. að framleiða ál með niðurgreiddum kostnaði af hálfu opinberra aðila, sem sent er á vestræna markaði til þess eins að valda þar offramboði og að drepa af sér samkeppni á þessu sviði á Vesturlöndum.  Það skaðar ekki frjálsa samkeppni að stöðva þetta framferði. Hvers vegna eigum við svo að beygja okkur í duftið fyrir Huawei og kaupa af þeim 5 G tækni ?  Varaforseti BNA varaði okkur við því í heimsókn sinni hingað í fyrra, þar sem forsætisráðherra varð heldur betur á í messunni, eins og eftirminnilegt er. 

 "Vesturlöndum er líka ljóst, hvaða þýðingu lágt orkuverð hefur, þegar byggja þarf upp hagvöxt þjóða, eins og nú þarf.  Það er því líklegt, að baráttan gegn loftslagsvánni muni færast yfir á önnur svið en það að hækka verð á rafmagni upp úr öllu valdi.  Sú sviðsmynd, sem Landsvirkjun hefur boðað, að orkuverð, og sérstaklega verð hreinnar orku, muni hækka og hækka er því orðin afar varasöm."

Þarna skyggnist Elías af skarpskyggni sinni inn í heim orkumála nánustu framtíðar.  Atburðir, sem gerðust á olíumörkuðum heimsins eftir birtingu greinarinnar og á síðustu dögum nýliðins vetrar, veita smjörþefinn af því, sem koma skal og sýna, að Elías á kollgátuna.  Hann kveður helzt til veikt að orði um stefnu Landsvirkjunar við orkuverðlagningu.  Stefna, sem er útúrboruleg sérvizka, verður þjóðhættuleg, þegar hún er gerð að stefnu helzta orkufyrirtækis landsins.  Að svo skyldi vera gert, er gjörsamlega ólíðandi, því að stefnumörkunin var ekki aðeins röng, heldur fór hún fram á rangan hátt.  Ef gæta átti lýðræðishagsmuna, eins og vera ber um ríkisorkufyrirtæki, mátti það ekki gerast, að stefnumörkun Alþingis fyrir Landsvirkjun væri snúið á haus án umræðu, hvað þá samþykkis, á Alþingi.  Hvaðan kom stjórn og forstjóra umboð til að kúvenda stefnu Landsvirkjunar ?  Ef umboðið var ekki fyrir hendi, ætti slíkt að geta leitt til brottvikningar. 

"Það er stefna Landsvirkjunar að hámarka verðmæti þeirra auðlinda, sem fyrirtækinu er trúað fyrir, en túlkun Landsvirkjunar virðist vera, að verðmætin komi í ljós í tekjustreymi hennar einnar án tillits til þess virðisauka, sem lágt orkuverð veldur í þjóðfélaginu.  Þetta er röng túlkun.  Þjóðin stofnaði þetta fyrirtæki til að skapa sjálfri sér tækifæri til að hagnast, og Landsvirkjun er því ætlað að hámarka þjóðhagslegt verðmæti auðlindanna, svo [að] öll þjóðin njóti góðs af. Þá túlkun þarf að marka með eigendastefnu fyrirtækisins."

 Allt er þetta satt og rétt hjá Elíasi, og góð vísa er aldrei of oft kveðin, segir máltækið.  Hér skal fullyrða, að lágt orkuverð auki hagvöxt í landinu, en hátt orkuverð hægi á hagvexti.  Þar af leiðandi verður miklu meiri þjóðhagslegur ávinningur í landinu af, að Landsvirkjun gæti hófs í verðlagningu sinni, gæti þess að skila góðri framlegð til fjárfestinga sinna, en algerlega verði hætt við að skila sem mestum arði í þjóðarsjóð, sem mun vera hugarfóstur forstjórans, Harðar Arnarsonar.  Hann hefur haft forgöngu um kolranga verðlagsstefnu, sem valdið hefur tjóni á þjóðarbúinu.  Ætla má, að ókunnugleiki hans á orkumálum og rótgróin andúð á stóriðjufyrirtækjum í erlendri eigu hafi ráðið þarna mestu um.  Þessi stefna hans er nú komin á leiðarenda, og endurupptaka fyrri stefnu Landsvirkjunar, sem alltaf hefur verið stefna Alþingis, svo bezt er vitað, hlýtur að verða eitt af endurreisnarverkefnum ríkisstjórnar og þingmanna á næstunni.  


Hagkerfi á heljarþröm

Kórónaveiran SARS-CoV-2 er ekki jafnbráðdrepandi og SARS-CoV-1, sem gekk í Kína og fáeinum öðrum ríkjum 2003-2004, en var ekki jafnsmitandi.  Þekkt er frá þessari öld önnur og bráðdrepandi veira, sem olli EBÓLU-veikinni á afmörkuðu svæði Afríku, en hana tókst að hefta og kveða niður sem betur fór. 

 Mjög mismunandi dánarfregnir berast frá löndum um hlutfall dauðsfalla af af smituðum af SARS-CoV-2 veirunni.  Á Íslandi virðist hlutfall látinna af fjölda sýktra vera einna lægst eða tæplega 0,6 %.  Yfirleitt er hlutfallið 10-20 sinnum hærra.  Á meðan svo er, er ekki hægt að áfellast stjórnun sóttvarna hérlendis, heldur vera þakklátur stjórnendunum og öllu heilbrigðisstarfsfólki.

 Hins vegar er ljóst, að efnahagsleg fórnarlömb hérlendis og á alþjóðavísu verða fjölmörg, og íslenzka hagkerfið og hagkerfi heimsins verða lengi að ná sér, enda gæti verið um að ræða versta efnahagsáfall hérlendis síðan í Móðuharðindunum, þótt ólíku sé saman að jafna um fjárhagslegan og heilsufarslegan viðnámsþrótt. Verst er, að nægilega skelegga forystu virðist vanta á landsvísu og á meðal launþega til að sammælast um nauðsynleg neyðarlög til að draga úr  reiðarslaginu á atvinnulífið. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur þó á Alþingi viðrað það, að æðstu menn ríkisvaldsins gengju á undan með góðu fordæmi um launalækkanir. Verkalýðsforingjar virðast sumir halda, að ríkissjóður einn geti séð um að létta byrðum í nægilegum mæli af fyrirtækjum, sem nú brenna upp eigin fé sínu, til að þau tóri nógu lengi til að ná bata, þegar rofar til.  Það er dýrkeypt strútshegðun. 

Af grunnatvinnuvegunum mun matvælaframleiðslan braggast fyrst, iðnaðurinn mun vonandi braggast síðar á þessu ári eftir miklar fórnir, en ferðageirinn mun koma með gjörbreytta ásýnd, og þar verða ekki veruleg umsvif fyrr en 2021.  Allt hefur þetta sýnt ofboðslega veikleika nútíma þjóðfélags.  Það hlýtur að verða sett í framhaldinu mikið fé til höfuðs veirum til að draga úr líkum á faröldrum af þessu tagi.  Þær virðast flestar gjósa upp í Kína, og hefur athyglin beinzt að matarmörkuðum þar, sem eru varla mönnum bjóðandi nú á tímum.  Þar á ofan bætist hættan á, að hættulegar veirur sleppi út af rannsóknarstofum.  Kínverski herinn mun t.d. reka eina slíka í borginni Wuhan, en veirur eru þróaðar í nokkrum löndum í hernaðarskyni. 

Ragnar Árnason, prófessor emeritus við HÍ, ritaði þann 21. apríl 2020 eina hinna fróðlegustu greina í Morgunblaðið um hagfræðilegar afleiðingar COVID-19, sem birzt hafa í fjölmiðlum landsins. Hún hét:

"Covid-kreppan: Mesta efnahagshögg í heila öld"

Þar var boðskapurinn sá, að þegar upp verður staðið, mun tjónið af völdum veirunnar markast af viðbrögðunum.  Sem fyrr erum við okkar eigin gæfu smiðir.  Þá kvað hann "mikilvægt að átta sig á því, að hið opinbera, þ.e. ríki og sveitarfélög, getur ekki verið hjálpræði í þessari stöðu.  Þessir aðilar eru ekki framleiðendur.  Þeir ráðstafa einungis þeirri framleiðslu þjóðarinnar, sem hún lætur þeim í té með sköttum."  Þess vegna er það arfavitlaus leið, sem þingmaður Samfylkingar lagði til sem lausn á atvinnuleysinu, að nú skyldi ríkið hefja stórfelldar ráðningar.  Það eru villuljós af þessum toga, sem eru til þess eins fallin að lengja í hengingaról landsmanna.  Það vantar framsæknar tillögur, sem lágmarka tjónið og flýta endurreisninni, sem jafnframt verður að fela í sér hraða uppgreiðslu lána til að vera í stakk búin að mæta næsta áfalli án þess að renna á rassinum í fang AGS. 

 "Afleiðingar Covid-faraldursins bitna á flestum höfuðgreinum íslenzks efnahagslífs. Ferðaþjónustan, sem lagt hefur beint um 8 % til íslenzkrar þjóðarframleiðslu og e.t.v. 10-12 %, þegar allt (beint og óbeint) er talið, hefur því nær verið þurrkuð út.  Sjávarútvegur og stóriðja hafa orðið að þola verulegar verðlækkanir og sölutregðu.  Framlag þessara atvinnugreina til þjóðarframleiðslunnar minnkar að sama skapi.  Svipaða sögu má segja um fjölmargar iðnaðargreinar.  Margar þjónustugreinar og verzlun hafa orðið að þola enn meiri samdrátt."

 Þessar hörmungar hafa opnað augu manna fyrir því, að ferðaþjónustan er ekki venjuleg atvinnugrein, heldur stóráhættu grein ("high risk activity").  Fjárfestingar í þessari grein hljóta að draga dám af því.  Greinin, sem hefur státað af að draga hlass "íslenzka efnahagsundursins" eftir 2009, er nú að miklu leyti við dauðans dyr í fangi ríkisins sem aðalfórnarlamb veirunnar.  Það verður mjög áhættusamt að láta þessa grein áfram í framtíðinni verða stærstu gjaldeyristekjulind landsins.  Það verður að þróa aðrar gjaldeyrislindir, sem eru ekki jafnsveiflugjarnar, og umfram allt þarf að fjölga stoðum gjaldeyrisöflunar.  Bent hefur verið á fiskeldið í því sambandi, og yfirvöld landsins verða fremur að liðka þar fyrir nýjungum en að þvælast fyrir, t.d. varðandi þróun úthafskvía, sem t.d. Norðmenn eru með á tilraunastigi núna.

"Eins og staðan er núna, má fullvíst telja, að þjóðarframleiðsla Íslands minnki mjög mikið á þessu ári.  Nánar tiltekið eru nú horfur á, að hún minnki um 10-15 % frá árinu 2019.  Þetta merkir, að þjóðin hefur mrdISK 300-450 minna af raunverulegum verðmætum til að ráðstafa til neyzlu og fjárfestinga.

Ástæða er til að undirstrika, að hér er um gríðarmikið efnahagshögg að ræða, sennilega það mesta í heila öld.  Þarf að leita aftur til ársins 1920 til að finna svipaða samdráttartölu í þjóðarbúskapnum.  Jafnvel í kreppunni miklu 1931 og fjármálakreppunni 2008-2009, sem mörgum er í fersku minni, var samdrátturinn ekki svona mikill."

Af nýjustu fréttum má ráða, að efri mörk Ragnars, 15 % samdráttur þjóðartekna m.v. 2019, verði nær sanni.  Það gefur til kynna, hver niðurfærsla launa í landinu þarf að verða til að aðlaga launastigið raunhagkerfinu í stað verðbólgu vegna gengissigs.  Um 10 % m.v. meðallaunataxta 2019 er lágmarks tímabundin lækkun, sem æðsta stjórn ríkisins ætti að ganga á undan með til að vera fordæmisgefandi.  Þetta mun létta og flýta fyrir endurreisninni.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband