Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Útflutningsdrifinn hagvöxtur

Íslenzkum sóttvarnaryfirvöldum og landsmönnum virðist hafa tekizt betur upp við að hemja útbreiðslu SARS-CoV-2 veirunnar en flestum öðrum, og miðað við staðfestan fjölda sýktra ("virk smit") á hverjum tíma hefur fjöldi á sjúkrahúsi verið tiltölulega lágur, og sama er að segja um fjölda dauðsfalla m.v. önnur lönd. Þann 2. apríl 2020 hætti fjöldi sjúkra að aukast og fór síðan lækkandi.  Það þýðir hjöðnun faraldursins um 5 vikum frá fyrsta greindu smiti, sem er ágætur árangur á alþjóðavísu.

Hugmyndafræðin, sem Sóttvarnalæknir beitir, virðist hafa haldið dreifingu sjúkdómsins í skefjum, eins og kostur var, en starfsfólk heilbrigðiskerfis og umönnunarstofnana á stóran hlut að góðum árangri, sem hefur t.d. lízt sér í tiltölulega mjög fáum dauðsföllum, en með það var lagt af stað í upphafi vegferðar. Síðan 26.03.2020 hefur dagleg hlutfallsleg aukning smita verið vel undir 10 % og iðulega undir 5 %.  Fjöldi sjúklinga á sjúkrahúsi af völdum COVID-19 fór fyrst í 5,0 % 13. apríl, eftir að hjöðnun sjúkdómsins hafði staðið yfir í eina viku, þ.e. sjúklingum farið fækkandi, og það er líklega einstakt í heiminum.  Ástæðan er stjórnunarlegt meistarastykki, sem var fólgið í að sinna sjúklingum í einangrun, aðallega heima hjá sér, með símtali eða heimsókn heilbrigðisstarfsmanns.   

Það skiptir máli fyrir orðspor Íslands, hvernig til tekst við að ráða niðurlögum þessa COVID-19 faraldurs, og það kann aftur að hafa áhrif á viðreisn viðskiptanna, aðallega á matvæla- og ferðamannasviðunum.  Ferðageirinn mun koma illa laskaður út úr nánast allsherjar stöðvun mánuðum saman, og ferðamannastraumurinn ekki ná sér á strik fyrr en e.t.v. árið 2022, þótt reytingur geti orðið á næsta ári.  

Hins vegar verður fólk að borða, og ef þessi reynsla hefur kennt fólki eitthvað, þá er það um mikilvægi hollrar næringar og heilsusamlegra lífshátta til eflingar ónæmiskerfinu. Þetta gæti létt undir með íslenzkum útflutningsaðilum matvæla og auðveldað þeim að hasla sér völl að nýju bæði á mörkuðum fyrir veitingahús og heimiliskaup. 

Í Fiskifréttum 26. marz 2020 var fróðleg umfjöllun um matvælamarkaðina í ljósi faraldursins:

""Eftirspurn eftir ferskum fiski er lítil sem engin í Evrópu, og sambærileg staða er í Bandaríkjunum", segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra.  Hann ræddi áhrif COVID-19 á bæði sjávarútveg og landbúnað á ríkisstjórnarfundi á þriðjudagsmorgun [24.03.2020].  Undanfarið hefur hann reglulega upplýst ríkisstjórnina um stöðuna." 

Það er ljóst, að útgöngubann eða samkomubann hefur áhrif á sölu matvæla, en eitthvað mun fólk kaupa sér til viðurværis, þegar það hefur gengið á birgðirnar (í frystinum).  Í þessu ljósi eru eftirfarandi orð ráðherrans umhugsunarverð:

"Hann segir þetta ástand mögulega gett sett strik í reikninginn til lengri tíma.  "Það er ekkert ólíklegt, að neyzluhegðun fólks breytist í framhaldinu, og í því eru bæði tækifæri og miklar ógnanir og áskoranir.""

Ef þetta mat ráðherrans er rétt, þá ætti breytingin á matarvenjum fólks eftir sjúkdómsfaraldur fremur að verða í átt til hollustusamlegra mataræðis.  Þar ætti íslenzkur fiskur, kjöt og grænmeti, að koma sterklega til skjalanna, enda hljóta íslenzkir matvælaútflytjendur nú að hamra á hollustunni frá Íslandi.  Vissulega getur tiltölulega góð útkoma COVID-19 sjúklinga hérlendis styrkt þessa ímynd af Íslandi, því að, þrátt fyrir tiltölulega útbreitt smit á meðal landsmanna framan af, lenda fáir smitaðra á sjúkrahúsi og dauðsföll eru tiltölulega fá.  Auðvitað má draga þá ályktun, að ónæmiskerfið í landsmönnum eigi þátt í því, hvernig til hefur tekizt.

Ráðherra virðist vera svartsýnn á framhaldið, eins og neðangreind tilvitnun ber með sér.  Það kann að stafa af vissunni um lægri kaupmátt almennt á erlendum (og innlendum) mörkuðum eftir fárið en áður var, og þá ríður á að geta haft áhrif á forgangsröðun neytandans:

""Hins vegar hef ég áhyggjur af markaðssetningu íslenzkra sjávarafurða erlendis og því umhverfi, sem þar er.  Það er atriði, sem við þurfum að gaumgæfa vel, hvernig við getum farið til þess verks", segir Kristján og bætir því við, að Atvinnuvegaráðuneytið sé að vinna að aðgerðapakka, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði.  Hann verði kynntur fljótlega eða öðru hvoru megin við næstu helgi."

Tók fjallið jóðsótt og fæddist lítil mús ?

Ásgeir Ingvarsson tók Ásdísi Kristjánsdóttur tali í 200 mílum mbl.is 25. marz 2020.  Það er alltaf fengur að boðskap Ásdísar:

"Umræðan um íslenzkan sjávarútveg er ólík umræðunni um flestar aðrar atvinnugreinar. Hún litast af deilum um allt frá grunnforsendum fiskveiðistjórnunarkerfisins; hvernig kvótanum er skipt, eða hve mikið má veiða; yfir í, hvernig sjávarútvegsfyrirtækin starfa, og með hvaða hætti á að skattleggja afnot þeirra af auðlindinni.  Virðist stundum, að því betur sem árar í greininni, þeim mun háværari verði deilurnar, og segir Ásdís Kristjánsdóttir, að svipður tónn hafi komið í umræðuna um ferðaþjónustu, þegar uppgangur varð í þeirri grein."

Það er ekki deilt um góða skilvirkni fiskveiðistjórnunarkerfisins á sviði bæði umhverfisverndar, fjárfestinga og rekstrar.  Í kerfinu er lágmarkssóun, það hvetur til gjörnýtingar hráefnisins.  Má segja án þess að skreyta mikið, að enginn komist með tærnar, þar sem Íslendingar hafa hælana í þessum efnum.  Þess vegna eru deilur um þetta stjórnunarfyrirkomulag á auðlindanýtingu sjávar í raun deilur um keisarans skegg, sem litlu máli skipta. 

"Þegar vel gengur hjá fyrirtækjunum, í sjávarútvegi sem í öðrum greinum, er efnahagslegur ábati m.a. fólginn í aukinni verðmætasköpun, fjölgun starfa og hærri skatttekjum.  "Lífsgæði okkar eru í grunninn byggð á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.  Ísland er dropi í hafi heimshagkerfisins og því mikilvægt, að útflutningsgreinar okkar geti sótt inn á stærri markaði." 

Sjávarútvegurinn er ekki aðeins undirstöðugrein fyrir lífsafkomu landsbyggðarinnar.  Hann er meginundirstaða hagkerfis landsins, eins og COVID-19 hefur berlega leitt í ljós, en þessi heimsfaraldur hefur drepið ferðamennskuna sem atvinnugrein hvarvetna í dróma og lamað áliðnað og aðra málmframleiðslu. Þótt veiran hafi svæft fiskmarkaði Íslendinga erlendis, standa engin rök til annars en þeir verði langt á undan flestum öðrum mörkuðum að hjarna við og ná sér á strik.  Á meðan hjarðónæmi hefur ekki náðst, hvorki í hinum vestræna heimi né í Austur-Asíu, er hætta á, að faraldurinn gjósi upp aftur, og þessi hætta gæti haldið ferðamennskunni í heljargreipum mánuðum saman. 

"Lífskjör eru góð á Íslandi, raunar ein þau beztu í heimi, og forsenda þess, að við getum bætt lífskjör okkar áfram er, að hér vaxi og dafni áfram útflutningsgreinar, sem standa framarlega á sínum sviðum." 

Það er tómt mál á allra næstu árum að bæta hér lífskjörin.  Eftir stórfellt efnahagsáfall af völdum veirunnar SARS-CoV-2, sem leiða mun til samdráttar hagkerfisins um allt að 15 % í ár (mrdISK 450), eru versnandi lífskjör óhjákvæmileg af þeirri einföldu ástæðu, að miklu minna er til skiptanna en áður. Launþegar verða að taka á sig hluta af þessu áfalli og fjármagnseigendur hluta. Til að vinna svo þetta tap upp er grundvallaratriði að treysta undirstöður vöruútflutnings frá landinu til bezt borgandi markaða heims og að komast framhjá tollmúrum þeirra.  Til þess þurfum við víðtækan fríverzlunarsamning við Engilsaxana, Breta og Bandaríkjamenn, tollaafnám fyrir sjávarafurðir á Innri markaði Evrópu, að nýta betur fríverzlunarsamninginn við Kínverja og að opna aftur vinsamlegt viðskiptasamband við Rússland. 

"Ásdís bætir við, að á Norðurlöndunum vegi umræðan um samkeppnishæfni útflutningsgreina þungt, þegar skattheimta og launaþróun eru ræddar.  "Við þurfum á hverjum tíma að spyrja okkur, hvort verið er að ganga of langt í skattheimtu, og hvort laun séu í samræmi við undirliggjandi verðmætasköpun atvinnulífsins og getu þess til að standa undir hækkandi launakostnaði.  Nú, þegar atvinnulífið stendur frammi fyrir verulegum samdrætti í efnahagslífinu vegna kórónuveirufaraldursins, blasir við, að höggið verður þeim mun meira á útflutningsgreinar okkar, enda eru landamæri víða að lokast, útflutningur á ferskum fiski hefur dregizt saman um tugi prósenta, og fiskvinnslustöðvar búa sig undir frekari samdrátt." 

 Þetta er rétt, og sá ósveigjanleiki, sem einkennt hefur afstöðu Alþýðusambandsins (ASÍ) gagnvart viðbrögðum, sem sniðin eru til að minnka tjón launþeganna, mun hitta verkalýðshreyfinguna illilega fyrir.  Kjaramál á Íslandi eru í ólestri, og nú er eigið fé íslenzks atvinnulífs að brenna upp.  Hraði þess bruna jókst 1. apríl 2020, þegar umsamdar launahækkanir tóku gildi á almenna vinnumarkaðinum, eins og enginn væri morgundagurinn. Hryggjarstykki ríkisvaldsins er með þeim hætti, að það hafði ekki bolmagn til að tefja kollsteypuna (með lagasetningu). Það blasir við, að lífskjör á Íslandi eru nú fölsk og munu hrapa.  Verkalýðshreyfingin bætir ekki úr skák með því að stinga hausnum í sandinn.  Atvinnuleysið og lífskjaraskerðingin verða meiri fyrir vikið.  Atvinnulífið getur ekki staðið undir núverandi launatöxtum.  

"Ásdís segir mikilvægt að bregðast skjótt við þeim aðstæðum, sem nú eru uppi og taka breytingum dag frá degi. Þegar faraldurinn hefur gengið yfir, tekur við tímabil uppbyggingar, og þá skiptir öllu máli að styðja við sjávarútveginn og aðrar útflutningsgreinar, þannig að þær nái viðspyrnu á sem skemmstum tíma. 

Fyrirsjáanlegt er, að rekstur ríkisins verði þungur næstu misserin samfara minni efnahagsumsvifum og fallandi skatttekjum, en viðbrögð stjórnvalda megi hins vegar ekki vera af sama meiði og eftir síðustu efnahagskrísu, þegar skattar á atvinnulífið voru hækkaðir. 

"Verkefnið framundan er að leggja grunninn að áframhaldandi hagvexti; það verður ekki gert með aukinni skattheimtu á atvinnulíf, sem er nú þegar verulega laskað eftir þessar efnahagsþrengingar"

 

"Ásdís minnir á, að það sé þessi fjárfesting í bættum veiðum og vinnslu, sem hafi hjálpað sjávarútveginum að dafna.  "Samfara aukinni fjárfestingu í tækjum og tækni hefur tekizt að bæta nýtingu og auka verðmæti sjávarafurða, svo að við stöndum vel í samanburði við helztu samkeppnisþjóðir okkar.  Árið 1985 var t.d. nýtingarhlutfall þorsks 58 %, en í dag [2020] er það rúmlega 80 %.  Á sama tíma er nýtingarhlutfall þorsks 53 % í Færeyjum og 46 % í Kanada."

  

 

 

 

 

    

 

 

 


Lengi getur vont versnað

SARS-CoV-2 veiran herjar á alla markaði íslenzkra útflutningsatvinnuvega og líklega á alla markaði í henni versu. Á fiskmörkuðum Kína, Evrópu og Bandaríkjanna, hefur þannig orðið verðfall.  Verðin gætu orðið lengi að ná hæstu hæðum, því að fiskætur, eins og almenningur allur, hefur orðið fyrir kaupmáttarrýrnun, sem mun taka tíma að jafna sig.  Hún mun ekki hverfa, eins og hendi sé veifað. Sízt af öllu í skuldsettum þjóðfélögum. Tíminn, sem það tekur að endurreisa hagkerfið, fer alveg eftir því, hvernig efnahagslegar björgunaraðgerðir munu ganga, en búast má við, að gríðarleg verðmæti fari í súginn, og þar af leiðandi verður efnahagsáfallið ekki V-laga, eins og bjartsýnismenn vonuðu, en var vonlaust í ljósi umfangs tekjutapsins, heldur U-laga, þ.e. sennilega stöðnun fram á næsta ár eftir feikilegan samdrátt (mrdISK 300-500 í ár). Samt veittu nýjar fréttir frá Kína í lok marz 2020 von um, að þar yrði tiltölulega hraður viðsnúningur á framleiðslukerfinu, en það er ekki nóg fyrir okkur, þegar aðalmarkaðirnir eru í Evrópu og í Vesturheimi, og þar sér ekki fyrir endann á ósköpunum.

Ekki þarf að orðlengja, að ferðaiðnaður heimsins hefur stöðvazt.  Undirstrikar það, hversu viðkvæm þessi grein er og áhættusöm. Fjárfestingar í þessari grein verða taldar áhættusamar, því að nýr áhættuþáttur er kominn til skjalanna, sem getur raungerzt hvenær sem er aftur.   Hérlendis var fleyttur rjóminn af þessari grein, þegar vel áraði og áhugi var á norðurslóðum jarðar, m.a. vegna loftslagsumræðunnar,  en vegna hás og hækkandi kostnaðar á Íslandi var samdráttur hafinn hérlendis í þessari grein áður en botninn féll gjörsamlega úr henni í marz 2020. Sennilega er búið að offjárfesta í greininni, og gæti orðið mjög erfitt að ná aftur 2 M ferðamanna til landsins, hversu háum fjárhæðum, sem varið er úr ríkissjóði til að auglýsa landið.  Því fé kann að verða kastað á glæ.  Það er gagnslaust að sá í ófrjóan jarðveg. Vegna efnahagsáfallsins um allan heim mun fólk ekki endurheimta ferðaáhuga sinn upp til hópa á þessu ári.  Ofvaxin grein mun verða að endurskipuleggja sig í ár, því að hún getur ekki verið í fangi ríkissjóðs í heilt ár.  Lokun, eftirgjöf gjalda og greiðslustöðvun kemur til greina, en þennan leik verður tæplega hægt að endurtaka, næst þegar landinu verður lokað að kröfu þeirra, sem reka Schengen-samninginn.  

Segja má líka, að botninn sé dottinn úr áliðnaðinum, þegar LME-markaðurinn fyrir ál til endurbræðslu er staddur í kringum 1450 USD/t Al, eins og um þessar mundir.  Þótt framboðið hafi vafalaust minnkað, t.d. frá Kína, þá hefur eftirspurnin minnkað enn meir vegna þjóðfélagslömunar víða af völdum aðgerða sóttvarnayfirvalda.  Sama gildir um þessa eftirspurn og aðra.  Hraði endurreisnarinnar verður háður því, hvernig fjárhagur fyrirtækja, alþýðu og ríkissjóða, verður útleikinn eftir rothöggið. Til skamms tíma hækkar verðið ekki fyrr en bílaverksmiðjurnar opna aftur.  

Fólk verður að nærast á hollum og góðum mat, hvernig sem allt veltur.  Áður en fólk fer aftur í sitt hefðbundna neyzlufar er afar líklegt, að það veiti sér kaup á dýrum fiski úr Norðurhöfum. Ef hægt verður að koma því á framfæri, að neyzla þessarar vöru efli ónæmiskerfið, er leiðin greið.  Það er þess vegna líklegt, að fiskmarkaðir verði einna fyrstir til að ranka úr rotinu og spurn eftir eldislaxi muni aftur aukast hratt.  Þess vegna var ánægjulegt að lesa grein Kjartans Ólafssonar, sjávarútvegsfræðings og stjórnarmanns í Arnarlaxi, í Morgunblaðinu 21. marz 2020,

"Margföldum útflutningsverðmæti sjávarafurða Íslands".

Hún hófst svona:

"Nú þegar við stöndum andspænis nýjum áskorunum í efnahagslífinu og útlit er fyrir samdrátt í einni stærstu atvinnugrein landsins, þá þykir væntanlega mörgum athyglisvert að heyra, að Íslendingar geti á næstu árum margfaldað verðmæti þeirra sjávarafurða, sem við flytjum út. Hvernig ?  Jú, með því að rækta bláu akrana, sem finnast í efnahagslögsögu landsins.  Við Íslendingar urðum ein fremsta fiskveiðiþjóð á nýliðinni öld.  Ræktun fisks er hins vegar í dag orðinn stærri hluti sjávarútvegs en fiskveiðar á heimsvísu."

Það, sem Kjartan skrifar um þarna, er eina markverða hálmstráið, sem Íslendingar geta gripið til núna til að mynda nýjan og eftir atvikum traustan grunn fyrir nýja atvinnu- og gjaldeyrissköpun í landinu, en á henni veltur framtíð landsins. Greinin er þegar búin að slíta barnsskónum, tækniþekkingin og viðskiptasamböndin eru fyrir hendi og áhættufjárfestar eru reiðubúnir til að grípa tækifærið. Ferðaáhugi heimsbyggðarinnar verður ekki endurreistur í einni sviphendingu, og heimskreppa mun halda aftur af málmeftirspurn, en spurn eftir mat á borð við villtar og ræktaðar sjávarafurðir hlýtur að glæðast tiltölulega fljótt.  Þess vegna eiga stjórnvöld að gefa þessum lífvænlegasta sprota atvinnulífsins lausan tauminn innan marka áætlaðs burðarþols fjarða á leyfðum svæðum, nema vel rökstuddur grunur sé um óviðunandi áhættu fyrir lífríkið á viðkomandi stað. 

"Burðarþol þeirra fjarða og flóa, sem Hafrannsóknastofnun hefur þegar metið, er í heildina rúm 140 kt, margfalt það magn, sem fiskeldisfyrirtækin hafa nú leyfi til að ala í þessum fjörðum. Enn er eftir að meta nokkra firði, þannig að burðarþol þeirra svæða, sem henta og þola fiskeldi að mati vísindamanna og eftirlitsstofnana, gæti verið nær 200 kt.  Heildarburðarþol strandlengjunnar er þó líklega mun meira eða um 500 kt ársframleiðsla.  Með 500 kt ársframleiðslu af laxfiski mætti margfalda útflutningsverðmæti sjávarafurða og fylgja þar með farsælli vegferð vinaþjóða okkar. Með því væru Íslendingar að byggja ofan á aldalanga reynslu sína af fiskveiðum, vinnslu og markaðssetningu sjávarafurða.  Það er bæði skynsamlegt og gæti einnig verið nauðsynlegt til að verja stöðu okkar, nú þegar eldi sjávarafurða er orðið umfangsmeira en fiskveiðar í heiminum."   

 Hér er um efnilegasta vaxtarsprota íslenzks atvinnulífs að ræða um þessar mundir. Það þarf í ljósi aðstæðna í atvinnulífi landsmanna að hraða áhættugreiningum, sem eftir eru og endurskoðun bráðabirgða greininga, sem gefa eiga til kynna ráðlegan hámarks lífmassa í eldiskvíum á leyfilegum eldisstöðum við Ísland m.t.t. lífríkisins, sem þar er fyrir, aðallega laxfiska. Þetta verður sú grein, sem borið getur uppi atvinnusköpun og hagvöxt framtíðarinnar og tekið við af ferðaþjónustunni í þeim efnum.  

Það, sem Kjartan Ólafsson líklega á við, þegar hann nefnir burðarþol strandlengjunnar, eru risakvíar, sem hægt er að staðsetja úti fyrir fjörðum.  Slíkar kvíar eru Norðmenn farnir að prófa hjá sér.  Hérlend stjórnvöld þurfa nú endilega að hefja athugun á því, hvar ráðlegt er að leyfa þessar risakvíar. Norðmenn eru þegar búnir að koma fyrir a.m.k. einni slíkri risakví til reynslu.  Hún var smíðuð í Kína og dregin í sjónum til Noregs.

Ef hérlendis verður árlega slátrað 500 kt (k=þúsund) af eldislaxi, má búast við, að gjaldeyrisverðmæti hans muni nema a.m.k. 500 mrdISK/ár, sem er um 40 % aukning útflutningsverðmæta undanfarinna ára og meira en nam gjaldeyristekjum ferðaþjónustunnar í fyrra.  Til þess að viðhalda hér hagvexti til að halda uppi lífskjörum, að áfalli vegna SARS-CoV-2 slepptu, þá þarf þessi aukning útflutningstekna að eiga sér stað á 10 ára tímabili að hámarki. Það er engin önnur atvinnugrein í sjónmáli, sem afkastað getur lunganum af þessari verðmætaaukningu.  Þess vegna á að veðja á hana, nú þegar komið hefur í ljós, hversu hættulegt er, að ferðaþjónustan sé aðalgjaldeyrisskapandi landsins.

 Auðvitað á að þróa fóðurframleiðslu fyrir þetta eldi hérlendis.  Hráefnið í það kemur bæði úr hafi og af landi.  Það kemur t.d. úr fiskbræðslum og tilvonandi repjuræktun.  Sú síðarnefnda getur þannig orðið mjög ábatasöm, því að stönglarnir og hratið fara í fóðrið, en fræolían í eldsneyti, t.d. fyrir togaraflotann.  

Fiskeldið skapar um 7 bein störf/kt og 14 óbein störf/kt eða alls 21 starf/kt samkvæmt norskum viðmiðunum.  Þannig gæti þessi framleiðsla skapað tæplega 11 þúsund heilsársstörf og raunar meira m.v. reynsluna hérlendis og með áðurnefndri fóðurframleiðslu. Greinin mun ekki hafa í för með sér nein ruðningsáhrif á vinnumarkaðnum, heldur skapa kærkomin tækifæri.   

Þann 10. febrúar 2020 skrifaði Einar K. Guðfinnsson, starfsmaður SFS og fyrrverandi ráðherra, mjög upplýsandi grein í Morgunblaðið,

"Búhnykkur nú þegar þörf krefur".

Undirgreinin, "Fiskeldi vex fiskur um hrygg",

hljóðaði þannig:

"Sem betur fer sjáum við mikilsverð dæmi um aukinn útflutning.  Þannig hefur fiskeldi svo sannarlega  "vaxið fiskur um hrygg", svo [að] vitnað sé í fleyg orð úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. 

Framleiðsla í fiskeldi hefur aldrei verið meiri en á síðasta ári.  Alls var slátrað um 34 kt.  Árið 2018 nam þessi framleiðsla rúmum 19 kt.  Þetta er 80 % aukning á milli ára, og á laxeldi þar langstærstan hlut að máli.  Laxeldisframleiðslan tvöfaldaðist á milli ára, fór úr rúmum 13 kt í 27 kt.  Framleiðsla á bleikju jókst sömuleiðis myndarlega, var tæp 5 kt árið 2018, en 6,3 kt í fyrra, sem er 29 % aukning.

Útflutningsverðmæti fiskeldisins nam á síðasta ári um mrdISK 25.  Það svarar til um MISK 100 hvern einasta virkan dag ársins.  Þetta er um 90 % aukning - nær tvöföldun - á milli ára.

Til þess að setja þetta í annað samhengi má benda á, að útflutningsverðmæti fiskeldisafurða var um 10 % af verðmæti sjávarafurða í fyrra, og hefur hlutfallið aldrei verið hærra."

Það eru gríðarlegir vaxtarmöguleikar fólgnir í fiskeldinu, eins og sjá má af því, að á næstu tveimur áratugum gæti framleiðslan 20-faldazt með því að taka úthafskvíarnar í brúk.  Þetta mun veita mörgum vinnufúsum höndum og hugum eftirsóknarverða vinnu, eins og fram kemur í næstu tilvitnun, sem er úr undirgrein Einars:

"80 % launateknanna falla til á landsbyggðinni":

"Tæplega 500 manns unnu í fiskeldi hér árið 2018, sem er þreföldun á einum áratug.  Launagreiðslur námu um mrdISK 3,5 á því ári.  Um 80 % launatekna í fiskeldi falla til á landsbyggðinni.  Varlega talið, samkvæmt því, sem Byggðastofnun reiknaði út og rímar við það, sem við þekkjum frá öðrum löndum, má ætla, að afleidd störf séu annað eins.  Ljóst er, að störfum fjölgaði umtalsvert og launatekjur jukust í fyrra með stóraukinni framleiðslu, og sú þróun mun halda áfram.  Þetta er fagnaðarefni, ekki sízt við efnahagsaðstæðurnar núna."

Einar tiltekur þarna fjölda launþega, en ekki ársstörf, svo að um hlutastörf kann að vera að ræða í einhverjum mæli.  Alla vega jafngilda þessar upplýsingar 26 manns/kt árið 2018, sem er mjög hátt m.v. 7 bein ársstörf/kt í Noregi.  Þar eru afleiddu störfin talin vera 14 ársstörf/kt eða alls 21 ársstarf/kt, en á Íslandi um 50 starfsmenn/kt samkvæmt upplýsingum Einars.  Það er áreiðanlega meiri framleiðni í Noregi á þessu sviði vegna hagkvæmni stærðarinnar, en jafnframt er öruggt, að framleiðnin mun vaxa hér með aukinni framleiðslu. Sé gert ráð fyrir, að hér verði 40 ársstörf/kt, þá munu vegna fiskeldisins, beint og óbeint, verða hér 20 k heilsársstörf, ef tekst að koma framleiðslunni í risakvíar úti fyrir úthafinu. 

Í lok greinar sinnar skrifaði Einar K. Guðfinnsson:

"Veruleg tækifæri liggja í frekari vexti.  Miðað við útgefin leyfi og þær forsendur, sem fyrir liggja af hálfu löggjafans, má búast við aukinni framleiðslu og útflutningi í ár og í framtíðinni.  Með minnkandi útflutningstekjum og meira atvinnuleysi er hið aukna fiskeldi því kærkominn búhnykkur, sannkallað búsílag.  Vaxandi fiskeldi mun hjálpa okkur að ná nauðsynlegum markmiðum um auknar útflutningstekjur, hagvöxt, ný og fjölbreytt störf, og veita komandi kynslóðum spennandi tækifæri.  Fiskeldið er sem betur fer þegar orðin þýðingarmikil stoð í efnahagslífi okkar og mun skipta stöðugt meira máli í framtíðinni."

Það er hægt að taka heilshugar undir þessa sýn Einars K. Guðfinnssonar á þessa atvinnugrein, sem lofar góðu um traust og verðmæt störf á þeim svæðum, þar sem Alþingi hefur leyft hana, aðallega á Vestfjörðum og Austfjörðum.  Stjórnvöld mega þá fyrir alla muni ekki draga lappirnar. Þau þurfa að gefa í á öllum sviðum nýsköpunar.  Það verður að koma nýrri, öflugri stoð undir atvinnulífið eftir alkul í ferðaþjónustu. Það á við um umgjörð greinarinnar, leyfisveitingaferli og eftirlitsþjónustuna, en þó sérstaklega þróun innviðanna.  Þeir verða að taka stakkaskiptum. 

Stórfelld starfsemi á þessu sviði útheimtir greiðar samgöngur á landi allan ársins hring og örugga afhendingu raforku af viðunandi spennugæðum (samkvæmt alþjóðlegum staðli).  Þetta þýðir, að 66 kV flutningskerfið og allt dreifikerfi raforku þarf að fara í jörðu.  Áformum um dreifikerfið var flýtt til 2025 eftir norðanáhlaupið í desember 2019, og vonandi bætir Landsnet flutningskerfið verulega á allra næstu árum líka.  Hins vegar verður 132 kV Vesturlínan alltaf vonarpeningur í óveðrum, og þess vegna er bráðnauðsynlegt, að Vestfirðingar verði sjálfum sér nógir um rafmagn, enda eiga þeir næga virkjanakosti til þess í vatnsföllum sínum.  

 

 

  


Verkfræðingur, lyfjafræðingur og veiran

Þann 24. marz 2020 birtust góðar greinar eftir 2 mæta menn á sömu síðu Morgunblaðsins.  Annar skrifaði af miklum þunga um þann mikla vanda, sem blasir við stjórnvöldum og eigendum Landsvirkjunar (landsmönnum öllum) vegna stefnu fyrirtækisins, sem það hefur mótað sér sjálft án aðkomu eigandans, gagnvart smærri og stærri stórnotendum raforku, en hinn fjallaði um hinn gríðarlega vanda, sem nú blasir við heimilum landsmanna, fyrirtækjum og stjórnvöldum, vegna CoVid-19 veirupestarinnar.  Auðvitað yfirgnæfir SARS-CoV-2 veiran og afleiðingar hennar alla umræðu hvarvetna um þessar mundir.

Elías Elíasson, verkfræðingur, skrifaði greinina:

"Ef ÍSAL verður lokað, hvað þá ?"

Þar reifaði hann þær ógöngur, sem Landsvirkjun hefur ratað í síðan 2010 í samskiptum sínum við viðskiptavini sína, þegar aðilar standa frammi fyrir ákvörðunartöku um að endurnýja raforkusamninga eða að slíta viðskiptasambandinu. Hann rifjaði upp spár frá þessum tíma, sem reyndust reistar á sandi, um þróun orkuverðs og álverðs á heimsmörkuðum upp á við.  Kröfuharka Landsvirkjunar var reist á þessum vitlausu spám ásamt nýjum raforkulögum, mótuðum af orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB) og þar af leiðandi sniðnum við annars konar orkukerfi og markaðsaðstæður en hér ríkja.  Gefum Elíasi orðið:

"En hvar stöndum við, ef álverinu verður lokað ?

Þó [að] móðurfyrirtæki álversins ábyrgist að greiða stóran hluta orkunnar þrátt fyrir rof á starfsemi, þá er ekki gefinn hlutur, að lögfræðingar þess finni ekki leið út úr þeim vanda. Alla vega er varla eðlilegt, að þessi orka verði látin óseld og ónotuð fram til 2036 og Landsvirkjun haldi áfram að reisa nýjar virkjanir, þegar eftirspurn vex, en Rio Tinto haldi áfram að borga allan þann tíma. 

Það verða málaferli og óvissuástand, þar til sú deila leysist, og Landsvirkjun verður að leita nýrra viðskiptavina á meðan; ella veikist staða hennar í málinu.  Með öðrum orðum: orkan fer á markað, hugsanlega brunaútsölu." 

Þetta er afar mikilvæg ábending hjá Elíasi um atriði, sem Landsvirkjun virðist hafa flaskað á.  Hún getur ekki komið fram, eins og bergþursi, og skákað í því skjólinu, að þótt ISAL verði lokað, hafi hún nánast allt sitt á þurru, þ.e. greiðslur fyrir 85 % forgangsorkunnar samkvæmt núverandi orkusamningi.  Það væri rétt einn fingurbrjóturinn, framinn á þeim bæ, sem hefði mjög slæmar afleiðingar fyrir nærsamfélag Straumsvíkur og reyndar þjóðfélagið allt.  Jafnframt myndu réttarhöld, sem allt stefnir í nú, setja Ísland í óæskilegt ljós í augum fjárfesta, og þurfum við sízt á því að halda nú.  Stjórnvöld verða hér að koma vitinu fyrir stjórn Landsvirkjunar eða að skipta um stjórn. 

"Markaðshorfur með raforku eru allt aðrar nú en þegar samningar við ÍSAL voru undirritaðir 2011.  Af er sú kenning, að orkuverð muni ekki breytast, nema til hækkunar; meira að segja gefa spár nú til kynna, að orkuverð kunni að lækka, ef tækniþróun verður ör.  

Ljóst er orðið, að spár á fyrri hluta þessa áratugar um síhækkandi orkuverð byggðust á óskhyggju og oftrú á stefnuna í loftslagsmálum, en vaxandi vantrúar gætir nú á því, að þær baráttuaðferðir gegn hlýnun jarðar, sem þá var lagt upp með, skili árangri.  Áhættumatið bak við orkuviðskiptin er gjörbreytt."  

Forstjóra og stjórn Landsvirkjunar hefur dagað uppi.  Þeim varð á sú reginskissa að misskilja þróunina, að rangtúlka skammtímafyrirbæri sem langtíma þróun.  Vestræn þjóðfélög hafa enga burði til að keppa á mörkuðum heimsins búandi við raforkuverð, sem er úr takti við raunkostnað frumorkunnar og raforkuverð í öðrum heimsálfum.

Þetta þýðir, að hin "klassíska" íslenzka orkunýtingarstefna, sem mótuð var á Viðreisnarárunum (7. áratug 20. aldar), stenzt tímans tönn, en viðvaningar á orkumálasviði, sem yfirtóku Landsvirkjun og að einhverju leyti stjórnsýslu orkumálanna á tímum hinnar mistæku "vinstri stjórnar" 2009-2013,  gleyptu orkupakka ESB hráa og tóku upp einhvers konar spákaupmennsku með raforkuna, sem hefur reynzt atvinnulífi landsins og verðmætasköpun hin versta forsending.  Ný orkulöggjöf frá 2003 og síðan orkupakkar 2 og 3 hafa síður en svo reynzt landinu hjálplegir, enda eru þessir ESB-orkupakkar eins og örverpi í íslenzku umhverfi, hvort sem litið er á orkukerfið eða orkumarkaðinn. 

"Þegar endursamið var við ÍSAL snemma á áratugnum, spáðu sérfræðingar hækkandi orkuverði í Evrópu, sem þó var hátt. Á þessum tíma fór Landsvirkjun að mæla fyrir sæstreng og komst þar með í aðstöðu til að setja viðsemjendum úrslitakosti með hótunum.  Nú hefur dæmið snúizt við.  Orkuverð í Evrópu hefur lækkað, svo [að] sæstrengur er fjarlægur möguleiki, WOW lagði upp laupana, ferðaiðnaðurinn er í bakslagi og loðnan að bregðast í annað sinn.  Eftir samningshörku sína á liðnum áratug getur Landsvirkjun ekki búizt við öðru en hörku á móti, nú þegar dæmið er annað.  

Ekki er að efast um, að Rio Tinto leitar allra leiða til að losna undan verulegum hluta greiðsluskyldunnar með öllum ráðum.  Málaferli skapa óvissu, sem kann að hafa áhrif á lánshæfismat Landsvirkjunar og jafnvel orðspor Íslands, þegar þau komast í fréttir.  Þetta bætist ofan á vinnutap slíks fjölda manna, að um munar í hagkerfinu.  Sú staða, sem nú er uppi, hefur greinilega ekki verið ein sviðsmyndin í áhættumati Landsvirkjunar eða stefnumörkun." 

Eins og þessi texti kunnáttumanns á sviði orkumála ber með sér, eru stjórn og forstjóri Landsvirkjunar nú komin á leiðarenda í sinni illa grunduðu vegferð, sem reist var á fádæma röngu stöðumati, sem nú er að koma eigendum fyrirtækisins í koll.  Af þessum sökum eiga stjórnvöld nú ekki annarra kosta völ en að leysa þessa stjórn frá störfum og skipa nýja stjórn, sem er í stakk búin til að leiða hina klassísku orkunýtingarstefnu Landsvirkjunar til vegs og virðingar á ný, því að núverandi forysta fyrirtækisins hefur beðið algert skipbrot.  Þar með væri unnt að gera sér vonir um, að tjón af völdum fráfarandi forystu yrði lágmarkað.  Öðru vísi en að gera hreint fyrir sínum dyrum geta stjórnvöld ekki stýrt Landsvirkjun inn í nýtt tímabil, þar sem horfið verður frá rangsleitni og ranghugmyndum um hlutverk Landsvirkjunar.

"Sú stefna, sem er ráðandi í orkupökkum ESB, að allar ákvarðanir fyrirtækja í raforkugeiranum skuli byggjast á markaðsverðum, er óheppileg fyrir Ísland.  Markaðsverð raforku fyrir stóriðju ræðst á alþjóðamörkuðum, og annar markaður hér er lítill og myndar varla orkuverð, sem mark er á takandi.

  Stefnumótun fyrirtækja tekur mið af reglum orkupakka ESB, en ekki þörfum þjóðfélagsins.  Fyrirtæki orkugeirans leitast helzt við að styrkja stöðu sína hvort [hvert á e.t.v. betur við-innsk. BJo] gagnvart öðru og gagnvart stjórnvöldum, fulltrúum eigenda sinna.  Þetta er ekki farsælt til lengdar, og stjórnvöld þurfa að vinna orkugeirann út úr þessari stöðu."

Að ríkjandi stefna í orkumálum á Íslandi sé "óheppileg fyrir Ísland", er of vægt til orða tekið, eins og raunar má ráða af því, sem á eftir fer í tilvitnuninni. Hún er óviðeigandi og skaðleg, af því að aðstæður á orkumálasviði eru gjörólíkar þeim, sem orkupakkar Evrópusambandsins eru sniðnir við.  Þar af leiðandi fara hagsmunir Íslands og ESB ekki saman í orkumálum.  Það, sem stjórnvöld á Íslandi, utanríkisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið með stuðningi og hvatningu Alþingis, ættu að marka stefnu og "strategíu" (framkvæmdaáætlun) um, er, að fá undanþágu fyrir Ísland frá öllum helztu tilskipunum og reglugerðum orkulöggjafar ESB.  Þannig kýs höfundur þessa vefpistils að túlka lokamálsgreinina í þessari ágætu grein Elíasar.  

Hin greinin hét:

 "Frá sjónarhóli lyfjafræðings" 

og er höfundur hennar Viðar Guðjohnsen, lyfjafræðingur.  Hann hefur réttilega áhyggjur af aðdráttum aðfanga til landsins á tímum lömunar athafnalífs og af langtímaáhrifum CoVid-19 faraldursins.  Ein þessara aðfanga eru vissulega orkugjafar á formi eldsneytis og gefur auga leið, að því fyrr sem orkuskiptin verða til lykta leidd hérlendis, þeim mun minni vá stendur landinu af truflun aðdrátta vegna hvers konar óáránar.  

Viðar reit m.a.:

"Hvað sem öllu líður, er mikilvægt að koma í veg fyrir, að fyrirsjáanlegur samdráttur leiði af sér framleiðslukreppu á nauðsynjum eða keðjuverkandi langtímaáhrif á atvinnuleysi. Innlend matvælaframleiðsla er hluti af þjóðaröryggi, og nú, þegar heimurinn er að lokast, hlýtur öllum að vera það ljóst.  Árásir umrótsmanna á landbúnað og sjávarútveg þarf því að brjóta á bak aftur.  Áform um að heimila innflutning á hráu kjöti, eggjum og mjólkurafurðum, þarf að leggja til hliðar, og þar sem sóttvarnir eru til umræðu, má skjóta því inn, að sýklalyfjaónæmar bakteríur drápu um 33 þúsund manns innan Evrópska efnahagssvæðisins á árinu 2015."

 

"Ísland verður í öllu falli ekki undanskilið yfirvofandi efnahagsáhrifum, en staða íslenzkra fyrirtækja er erfið og var erfið áður en faraldurinn lét á sér kræla.  Verkalýðsforystan virðist gengin af göflunum, og þeirra skollaleikur ásamt ofurgjöldum hins opinbera hefur þrýst fyrirtækjum í að keyra áfram á undirmönnun, og lítið má út af bregða. 

Líklega munu mörg fyrirtæki ekki lifa af næstu misseri.  Stjórnmálamenn þurfa að axla ábyrgð, því [að] ekki verður hægt að huga að neinum innviðum án verðmætaframleiðslu hjá fyrirtækjum og mannauði þeirra."

 

 


Traust Landsvirkjunar

Það hefur komið fram, áður en SARS-COV-2 eyðilegði alla markaði, að Landsvirkjun er að tapa stórfé með því að heimta árið 2016, að í stað álverðsvísitölu á orkuverð til Norðuráls (NÁ) skyldi taka upp viðmiðun við raforkuverð á Nord Pool - uppboðsmarkaði raforku. Ennfremur tapar þessi stærsti orkubirgir landsins  stórfé á framleiðsluminnkun í Straumsvík, sem stafar af viðleitni ISAL til að minnka tap fyrirtækisins, sem stafar af svimandi háu raforkuverði frá Landsvirkjun, verði, sem er algerlega ósamkeppnisfært við núverandi aðstæður og líklega einstætt í heiminum um þessar mundir.  Fram hefur komið, að kjarasamningar fyrirtækisins ná aðeins til 30.06.2020, svo að ljóst má vera, að þá vofir stöðvun fyrirtækisins yfir, eins og væntanlega mun koma í ljós eftir páskana með enn minni orkukaupum fyrirtækisins vegna hægfara framleiðsluminnkunar í átt að stöðvun.    

Framkoma forstjóra Landsvirkjunar við fréttum af því, að kjarasamningurinn í Straumsvík yrði framlengdur fram á næsta ár, ef nýr samningur næðist við Landsvirkjun um orkuverð, er stórfurðuleg í ljósi þess, að fram hefur komið, að slík endurskoðun væri skilyrði áframhaldandi rekstrar.  Hélt þessi forstjóri, að ekkert væri að marka slíkar yfirlýsingar og að aðrar skuldbindingar fyrirtækisins tækju ekkert mið af raunveruleikanum. Það eru vægast sagt ómálefnaleg viðbrögð þessa forstjóra að láta nú eins og alþjóðlegt stórfyrirtæki stilli fyrirtæki íslenzku þjóðarinnar upp við vegg.  Það er engu líkara en þessi dæmalausi forstjóri sé í persónulegu stríði við aðalviðskiptavini Landsvirkjunar. Þá sýna dylgjur hans um óeðlilega fjármagnsflutninga frá dótturfyrirtæki til móðurfyrirtækis 2017, að maðurinn stundar bara sína persónulegu pólitík. Slíkt er með öllu ábyrgðarlaust í þeirri grafalvarlegu efnahagsstöðu, sem þjóðin stendur frammi fyrir núna.  Svona riddarar eru ekki til mikils gagns, þegar á bjátar.

Fleira mætti nefna, sem rýrt hefur traust til þessa fyrrum virta orkufyrirtækis landsmanna undanfarið, og snýr það flest að hegðun og dylgjum forstjóra þessa fyrirtækis,t.d. um misferli helztu viðskiptavina þess gagnvart skattalöggjöf landsins (Kastljósþáttur í marz 2020) og dylgjum um að setja í gang áróðursstríð gegn Landsvirkjun með Straumsvíkuryfirlýsingunni frá 12.02.2020. 

Nú hefur Landsvirkjun að gefnu tilefni lýst yfir fullu traustu sínu í garð CRU (brezks greiningarfyrirtækis á sviði náma-, málma- og áburðarvinnslu) og starfsmanns þess, Martins Jackson.  Sá hélt erindi á opnum fundi Landsvirkjunar í janúar 2020 og komst þar á röngum og úreltum forsendum að villandi niðurstöðu um orkuverð Landsvirkjunar, sem var þó fyrirtækinu þóknanleg.  Samtök iðnaðarins bentu þegar í stað á veikleikana í málflutningi Jacksons, og það gaf Landsvirkjun tilefni til traustsyfirlýsingar á hann.  Þá vaknar spurningin: hvers virði er traustsyfirlýsing þess, sem rúinn er trausti ?

Nú verður rakinn lunginn úr frásögn Fréttablaðsins 18. janúar 2020 undir fyrirsögninni:  

"Landsvirkjun ber fullt traust til Martins Jackson og CRU":

"Landsvirkjun hafnar málflutningi Samtaka iðnaðarins um, að myndin, sem Martin Jackson, álsérfræðingur hjá greiningarfyrirtækinu CRU, dró upp á morgunverðarfundi Landsvirkjunar, sé ekki lýsandi fyrir stöðuna."

Þegar enginn rökstuðningur fylgir slíkri höfnun, er ekki annað um hana að segja en hún lýsir rökþrota og hrokafullum stjórnendum, sem hreiðrað hafa um sig hjá stóru ríkisfyrirtæki í einokunaraðstöðu á þeim markaði, sem hér um ræðir.  Öðru máli gegndi um málflutning gagnrýnandans, SI.  Þar á bæ hafa menn ítrekað bent á, að margt bendir til, að hæsta orkuverðið til stóriðjunnar, svo og það, sem minni stórnotendum býðst, t.d. gagnaverum, sé með öllu ósamkeppnishæft.  Enn hvílir þó leyndarhula yfir verðinu, og á meðan eiga SI erfitt um vik.

"Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær, segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins [SI], að samkeppnisstaða Íslands sé að versna, orkuverð á Íslandi hafi hækkað á sama tíma og það fari lækkandi annars staðar í Norður-Evrópu."

Þetta er staðreynd með þeirri undantekningu þó, að raforkuverð Landsvirkjunar til Norðuráls (NÁ) hefur lækkað frá gildistöku nýs orkusamnings í nóvember 2019 í takti við lækkun á markaði Nord Pool vegna ranghugmynda innan Landsvirkjunar um alþjóðlega þróun orkuverðs, sem leiddi starfsmenn þar á bæ til að veðja á stöðuga hækkun verðs á Nord Pool markaðinum. 

"Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar Landsvirkjunar, segir Landsvirkjun bera fullt traust til Jacksons og CRU.  "Landsvirkjun ber fullt traust til sérfræðiþekkingar CRU og telur, að greiningar fyrirtækisins hafi í gegnum tíðina gefið raunsæja mynd af álmörkuðum og samkeppnisstöðu íslenzkra álfyrirtækja", segir Stefanía."

Spyrja má til hvers Landsvirkjun fékk téðan sérfræðing CRU til að messa hérlendis um samkeppnisstöðu íslenzkra álfyrirtækja.  Eins og staðan er núna er vitað, að ástæðulaust er að kvarta undan raforkuverði Landsvirkjunar til tveggja stærstu álveranna, en vandamálið er hins vegar hjá minnsta álverinu, ISAL í Straumsvík, þar sem mikil hækkun fór fram árið 2011 og raforkuverðið hefur síðan stigið stöðugt vegna tengingar þess við neyzluverðsvísitölu í Bandaríkjunum.  Það er nú meira en tvöfalt verðið til hinna álveranna hérlendis að flutningskostnaði meðtöldum. Á sama tíma hefur álverðið lækkað, svo að einfaldir útreikningar sýna, að til þess að halda óbreyttu kostnaðarhlutfalli raforku og skráðs markaðsverðs áls, þá þarf raforkuverð til ISAL að lækka um 30 % eða um 12 USD/MWh. 

Það er ekki þar með sagt, að samkeppnishæfnin mundi verða, eins og hún var 2011, þótt þessi lækkun færi fram.  Það stafar af því, að heimsmarkaðsverð á orku hefur lækkað síðan þá í bandaríkjadölum talið og sömuleiðis hefur verðlag launa og þjónustu hækkað mikið á Íslandi. Þá þarf að kanna þróun flutningskostnaðar líka. Þetta eru engin geimvísindi, eins og sagt er, og það á að vera óþarfi að fá hingað rándýran ráðgjafa frá útlöndum til að komast að hinu rétta í þessu máli.  Málið versnar verulega, þegar í ljós kemur, að honum mistókst hrapallega við úrlausn og framsetningu málsins. 

Út frá þessari reynslu er e.t.v. skiljanlegt, að iðnaðarráðherra hafi gripið til þess ráðs að fá til liðs við sig annan (rándýran) ráðgjafa, Fraunhofer, til að komast til botns í þessu máli um samkeppnishæfni íslenzkrar raforku til iðnaðar á Íslandi.  Vonandi verður hvorki fljótaskrift né slagsíða á rannsókn Fraunhofers, en það gæti verið orðið einu álveri færra í rekstri hérlendis, loksins þegar iðnaðarráðherra kynnir þessa skýrslu.  Svifasein stjórnsýsla getur verið verri en engin stjórnsýsla.

Vandamál tveggja elztu verksmiðjanna, ISAL og Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga (Elkem á Íslandi), er hins vegar svo brýnt úrlausnar, að ráðherrann og ríkisstjórnin hafa ekki margra mánaða umþóttunartíma.  Því miður hafa nú risavandamál ferðaþjónustunnar bætzt ofan á málahrúgu ríkisstjórnarinnar, en þeim mun mikilvægara er að keyra iðnaðinn á fullum afköstum.  

"Hún segir niðurstöðuna, sem Jackson kynnti á miðvikudag, vera skýra.  "Raforkuverð til álvera á Íslandi er vel samkeppnishæft við það, sem álverum býðst annars staðar í heiminum, og vegna baráttunnar við loftslagsbreytingar mun samkeppnisforskot íslenzku endurnýjanlegu raforkunnar líklega aukast enn meira í framtíðinni, bæði orkufyrirtækjum og stórnotendum á Íslandi til hagsbóta", segir Stefanía." 

Það er rangt, að niðurstaðan sé skýr í þeim skilningi, að hún kasti ljósi á vandamálið, sem nú er við að etja.  Í fyrsta lagi eru notuð gögn frá árinu 2018, og síðan þá hefur raforkuverð til ISAL sætt vísitöluhækkun, gerðardómur hækkað raforkuverðið til Elkem á Íslandi og farið þar bil beggja deiluaðila, og Landsvirkjun og NÁ hafa endursamið um 30 % raforkunotkunar NÁ.  Í síðasta tilvikinu samdi Landsvirkjun reyndar af sér árið 2016, þannig að skörp lækkun hefur orðið á raforkuverðinu til NÁ. 

Eina álverið á Íslandi, sem býr við gjörsamlega ósamkeppnishæft raforkuverð um þessar mundir, er þannig ISAL í Straumsvík, og það var villandi umfjöllun hjá Jackson á téðum morgunverðarfundi Landsvirkjunar að breiða yfir það.  Þar að auki hefði hann átt að gera grein fyrir þeim niðurgreiðslum (á orkuverði), sem tíðkast á meginlandi Evrópu og í Noregi.

Athafnir verða að fylgja orðum hjá Landsvirkjun.  Það er ekki nóg að vegsama framlag Íslands til baráttunnar við loftslagsbreytingar, ef á sama tíma er lagður steinn í götu landsins við framkvæmd áhrifamestu aðgerðarinnar til að draga úr losun koltvíildis á heimsvísu, sem er að framleiða ál með raforku úr kolefnisfríum orkulindum.  

"Áliðnaðurinn í heiminum býr sannarlega við krefjandi markaðsaðstæður um þessar mundir, sem má fyrst og fremst rekja til aðstæðna á alþjóðamörkuðum, minni eftirspurnar og mikils vaxtar í framleiðslugetu álvera í Kína, sem eru fyrst og fremst knúin af mengandi kolaorkuverum", segir Stefanía ennfremur."

Það er rétt hjá téðri Stefaníu, að vandamál álmarkaðarins var ekki eftirspurnarskortur fyrir COVID-19, því að spurn eftir áli hefur að jafnaði aukizt um 4 %/ár undanfarinn áratug og lengur, heldur hefur verið um offramleiðslu að ræða vegna gríðarlegrar ósjálfbærrar framleiðsluaukningar Kínverja.  Ákvörðun um hana er ekki tekin á markaðslegum forsendum, heldur eru þetta klóför kínverska kommúnistaflokksins, sem hefur stjórnað framsókn Kínverja á málmmörkuðum heimsins og námuvinnslu víða um heim. Nú veit enginn, hvað við tekur eftir stöðvun margra verksmiðja í Kína vegna sóttkvíar og einangrunar af völdum pestarinnar.  Gervitunglamyndir sýna, að loftið yfir Kína er nú mun hreinna en í fyrra.  Viðhorf breytast við atburði eins og baráttuna við þessa veiru, og ekki er hægt að útiloka, að Kínverjar dragi nú úr álútflutningi sínum. 

Það er engu að síður þannig, að þróun raforkuverðs hjá ISAL hefur frá gerð nýs samnings 2011 verið allt önnur og óhagstæðari en hjá keppinautunum.  Ef tryggja á áframhaldandi rekstur verksmiðjunnar og fjárfestingar fyrir tímabilið til 2036, þegar samningurinn rennur út, er nauðsynlegt að færa raforkuverðið í það horf, að raforkukostnaður fyrirtækisins á hvert áltonn nemi ekki stærra hlutfalli af skráðu álverði en var við samningsgerðina 2011. Framhjá þessu kemst Landsvirkjun ekki með orðagjálfri stjórnenda hennar.

 


Landsvirkjun ríður ekki feitum hesti frá Nord Pool

Á árunum 2010-2011 birti Landsvirkjun spá sína um raforkuverð næstu tvo áratugina.  Sú var mjög bjartsýn og er löngu komin í vaskinn, en Landsvirkjun hefur samt alveg láðst að laga verðlagsstefnu sína að raunveruleikanum.  Árið 2016 endursömdu Norðurál og Landsvirkjun um raforkuviðskipti, og gildir nýi samningurinn tímabilið 01.11.2019 til jafnlengdar 2023.

Tekur raforkuverð samningsins mið af verðþróun á orkumarkaði Norð-Vestur Evrópu, þ.e. á hinum Norðurlöndunum, í Eystrasaltsríkjunum, Þýzkalandi, Benelúx, Frakklandi og Bretlandi.  Mánaðarlegt meðalverð í EUR/MWh það, sem af er 2020, er 24 í janúar, 14 í febrúar og 9 í marz.  Um þessar mundir er það í kringum 5 EUR/MWh. Meðaltal 1. ársfjórðungs 2020 er tæplega 16 EUR/MWh (=2,5 ISK/kWh = 17 USD/MWh).   Komið hefur fram, að verðið til ISAL í Straumsvík er um 35 USD/MWh að viðbættum flutningskostnaði. Nord Pool er ekki hálfdrættingur á við verð Landsvirkjunar til ISAL, enda er raforkukostnaður fyrirtækisins að gera út af við það, eins og fram kemur í nýbirtri Ársskýrslu ISAL 2019. Þá var botninn þó ekki gjörsamlega dottinn úr álmarkaðinum, eins og núna (nálgast 1400 USD/t Al).  Það hefur orðið verðhrun á Nord Pool síðan 2016, er nýr raforkusamningur var gerður á milli Landsvirkjunar og Norðuráls, og glámskyggni og einþykkni stjórnenda Landsvirkjunar varðandi þróun orkuverðs í heiminum valdið fyrirtækinu umtalsverðu fjárhagstjóni. 

Viðskiptablaðið gerði þessi viðskiptalegu mistök Landsvirkjunar að umræðuefni 27. febrúar 2020 undir fyrirsögninni:

"Landsvirkjun verði af milljörðum":

"Verð á Nord Pool raforkumarkaðnum er í sögulegri lægð.  Það kann að hafa í för með sér, að Landsvirkjun verði af umtalsverðum tekjum vegna tengingar raforkuverðs við markaðinn."

Síðan þetta var skrifað hefur verðið enn lækkað vegna COVID-19 og vegna hruns olíuverðs um meira en helming.  Það er ekkert sem bendir til varanlega hás orkuverðs á alþjóðlegum mörkuðum á þessum áratugi, þótt samtök olíuframleiðsluríkja (OPEC) rembist eins og rjúpan við staurinn (reyndar í öfuga átt núna), og hagkerfi Evrópusambandsins, sem boðar hátt orkuverð til að hvetja til fjárfestinga í dýrum virkjunum endurnýjanlegrar orku, ræður ekki við mun hærra orkuverð til lengdar en aðrir heimshlutar búa við. Lömun hagkerfis heimsins af völdum SARS-COV-2 virkar enn fremur til að halda orkuverði lágu næstu árin.  Landsvirkjun lítur út eins og eintrjáningur í þessu umhverfi.   

 "Raforkuverð á norræna raforkumarkaðnum Nord Pool hefur verið sögulega lágt síðustu daga.  Verðið féll um 50 % í upphafi ársins m.v. í byrjun nóvember, þegar nýr raforkusamningur tók gildi milli Norðuráls og Landsvirkjunar.  Verðið í samningnum er beintengt verðinu á Nord Pool raforkumarkaðnum. Því kann Landsvirkjun að verða fyrir milljarða tekjutapi á þessu ári m.v. verðið í upphafi nóvember.

Í uppgjöri Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls á Grundartanga, kemur fram, að raforkuverðið hafi fallið frá því fyrir áramót úr um 40 USD/MWh í um 20 USD/MWh  ."

Þarna er verið að segja frá stórfelldum stjórnunarlegum mistökum á viðskiptasviðinu af hálfu Landsvirkjunar.  Forstjóri hennar og stjórn hafa bitið í sig algerlega úrelt viðhorf á sviði orkuverðlagningar í heiminum.  Þau virðast ekki enn skilja þá þróun, sem stjórnar orkuverðlagi, og hafa þess vegna gert afleit mistök fyrir hönd eiganda fyrirtækisins, íslenzka ríkisins, við gerð nýs orkusamnings við NÁ. 

Hjá Landsvirkjun er allt of rík tilhneiging til spákaupmennsku.  Þarna hefði verið skynsamlegra að draga inn fleiri vísitölur, og þá hefði verðið ekki helmingazt á nokkrum vikum.  Það er t.d. óvitlaust að hafa nokkrar álverðsvísitölur og nokkrar orkuverðsvísitölur til hliðsjónar, en það er hreinn barnaskapur að leggja aðeins Nord Pool-vísitölu til grundvallar. Auðvitað þarf að setja gólf, svo að raforkuverð geti ekki farið undir framleiðslukostnað raforkunnar, svo að hagnaður verði þrátt fyrir allt af raforkusölunni. 

"Þegar skrifað var undir samninginn milli Landsvirkjunar og Norðuráls árið 2016, sagði Morgunblaðið frá því, að hækkun raforkuverðs með samningnum gæti skilað nærri tveimur 2 mrdISK/ár í viðbótartekjum.  M.v. verðfallið frá því í nóvember [2019] mætti áætla, að tekjur, sem Landsvirkjun kann að verða af m.v. óbreytt raforkuverð, nemi 3-4 mrdISK/ár.  Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun metur fyrirtækið það sem svo, að ólíklegt sé, að lækkunin vari til lengri tíma."  [Undirstr. BJo.] 

Þetta sýnir, hversu skakkan og dýrkeyptan pól forysta Landsvirkjunar hefur tekið í hæðina, og það sárgrætilega er, að hún lemur enn hausnum við steininn og botnar ekkert í, hvað er að gerast í kringum hana. Landsvirkjun hefur með frumhlaupi sínu náð að lækka raforkuverðið til Norðuráls niður úr öllu valdi, þótt viðskiptavinurinn hafi alls ekki farið fram á lækkun.  Stjórn fyrirtækisins hlýtur að láta þann, sem þetta gerir og bað um samþykki hennar, sæta ábyrgð á gerðum sínum.  Hvenær verður mælirinn fullur af axarsköptum Landsvirkjunar, svo að eigandinn neyðist til að grípa í taumana ? 


Tengsl orkupakka ESB við hátt orkuverð á Íslandi

Elias B. Elíasson, verkfræðingur, hefur ritað fróðlegar og skarplegar greinar í Morgunblaðið um orkumál, orkupakka ESB og orkustefnu, sem af þeim leiðir. Undanfarið hafa þessar greinar snúizt um birtingarmynd hrikalegra afleiðinga innleiðingar orkulaggjafar Evrópusambandsins (ESB) á starfsemi stórnotenda raforku, einkum álverksmiðjunnar ISAL í Straumsvík. Er nú fram að koma, hversu umhendis og skaðleg innleiðing orkulöggjafar ESB er á Íslandi. 

Það, sem er einkennandi fyrir skarplega greiningu Elíasar á stöðu orkumálanna á Íslandi, er, að hann tengir hana með skýrum hætti við gildandi orkulög í landinu, sem að meginstofni koma frá ESB, þar sem gjörólíkt orkukerfi og orkumarkaðskerfi eru m.v. íslenzkar aðstæður, og þar með fæst einhver botn í þá kúvendingu á stefnu Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinum sínum, sem átt hefur sér stað síðan 2010. 

Í ESB er aðalorkugjafinn jarðefnaeldsneyti, og á orkumarkaði þess ríkir frjáls samkeppni.  Í orkustefnu ESB eru innbyggðir hvatar til að hækka orkuverð til að örva áhuga á að reisa nýjar virkjanir, aðallega endurnýjanlegra orkulinda, en einnig hinna til að brúa bilið, þegar lygnt er eða sólarlaust. 

Frjáls samkeppni á Innri markaðinum hindrar hins vegar, að verðið rjúki þar upp úr öllu valdi. Reyndar er botninn dottinn þar úr markaðinum (verðinu) núna vegna eftirspurnarleysis. Hérlendis er hins vegar engin samkeppni um stóra viðskiptavini.  Allir ættu að sjá, að löggjöf, sniðin utan um orku- og markaðskerfi ESB hentar ekki á Íslandi.  Nú er þar að auki komið í ljós, að skaðsemisáhrif þessarar löggjafar á Íslandi eru feikileg og sízt minni en varnaðarorð í OP#3 umræðunni kváðu á um.  Orkupakkarnir valda stórtjóni á Íslandi, og er þó ekki bætandi ofan á loðnubrest og CoVid-19, sem er að ganga af mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum dauðum og að setja íslenzka hagkerfið á hliðina um stundarsakir.

Grein Elíasar í Morgunblaðinu 7. marz 2020 bar yfirskriftina:

"Enn um raforkuverð ÍSAL".

Ein fjögurra undirgreina bar fyrirsögnina:

"Áhrif ESB":

"Áhrif ESB á þessa samninga [við álverin-innsk. BJo] eru veruleg. Á ársfundi Landsvirkjunar 2016 birti Hörður Arnarson, forstjóri, stefnu fyrirtækisins, sem lýst var svo: "Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum, sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi."  [Undirstr. BJo.]

Í umfjöllun sinni lét hann þess svo getið, að samkvæmt lögum gæti stefna fyrirtækisins ekki verið langt frá því, sem í þessum orðum felst.  Lögin, sem hann vitnaði til, eru lög ESB innleidd í EES-samninginn.  Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo, að allur arður af þessum auðlindum þjóðarinnar skuli skila sér inn í Landsvirkjun lögum samkvæmt.  [Undirstr. BJo.]

Þjóðin sjálf eða fulltrúar hennar hafa engan rétt til að hlutast til um, hvar í þjóðfélaginu þessi arður komi fram.  Með þessu er þrengt að þeim sveigjanleika, sem hér þarf að vera, til að skapa íslenzku atvinnulífi viðunandi samkeppnisstöðu gagnvart þeim, sem eru nær mörkuðunum á meginlandi Evrópu.  

Forstjórinn gat þess einnig í Kastljósþætti RÚV á dögunum, að fyrirtækjasamstæður hefðu visst svigrúm til að ákveða, hvar arður samstæðunnar kemur fram. Samkvæmt túlkun hans á (ESB)-lögunum hefur íslenzka þjóðin sem eigandi raforkufyrirtækjanna ekki hliðstætt svigrúm til að hlutast til um, hvar arðurinn af orkunni kemur fram.  Þessu þarf að breyta."

Þetta er kjarni málsins varðandi það efnahagslega tjón, sem orkupakkar ESB valda á Íslandi.  Það er vafalaust rétt túlkun hjá Elíasi, að forstjórinn og þá væntanlega stjórn Landsvirkjunar túlka lögin (orkupakkana) þannig, að allur arður orkulindanna í nýtingu hjá Landsvirkjun eigi að falla til Landsvirkjunar. 

Sama dag og grein Elíasar birtist í Mogganum birtist þar önnur góð grein, og var sú eftir Ásmund Friðriksson, Alþingismann.  Þar stóð m.a., að hann liti svo á, að þessi arður væri bezt ávaxtaður hjá samfélaginu sjálfu, þ.e. heimilum og fyrirtækjum.  Undir það er heilshugar hægt að taka, og um þetta snýst meginágreiningurinn um orkumálin.  

Þar sem í ofangreindri stefnuyfirlýsingu Landsvirkjunar er einnig minnzt á verðmætasköpun, er þó ljóst, að túlkun forstjórans á stefnunni er röng.  Hann hámarkar ekki verðmætasköpun úr orkunni hér innanlands með því að hámarka verð hennar, heldur með því að orkuverðið skapi framleiðslufyrirtækjunum lífvænlega samkeppnisstöðu á alþjóðlegum mörkuðum, svo að þau geti framleitt og hagnazt sem mest á að auka virði raforkunnar í vöruútflutningi.  Slíkt verður ætíð helzti virðisaukinn af raforkuvinnslunni.

Þá eru orð forstjóra Landsvirkjunar almennt um flutning arðs innan samstæðu dylgjur einar um stóriðjuna í heild og sýna, að forstjórinn er úti á túni sem faglegur forstjóri stærsta raforkufyrirtækis landsins, kominn langt út fyrir verksvið sitt og er raunar farinn að stunda bullandi pólitík gegn erlendum fjárfestingum í landinu.  Við svo búið má ekki standa hjá Landsvirkjun.  Það eru umbrotatímar og vorhreingerninga er þörf.  

 

 


Á heljarþröm í hörðum bardaga

Fjármála- og efnahagsráðherra lýsti því yfir 10. marz 2020, daginn sem framtalsfresti lauk, að forsendur fjárlaga ríkisins væru fallnar.  Ástæðuna kvað hann efnahagslegar afleiðingar baráttunnar við SARS-CoV-2 veiruna. Merkilegar raðgreiningar Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) leiða í ljós, að á meðan sóttvarnaryfirvöld töldu meginhættuna stafa af skíðasvæðum Norður-Ítalíu og Austurríkis, þá smyglaði veiran sér inn í landið annars staðar frá, t.d. frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Þá voru yfirvöld þessara landa ekki meðvituð um vágestinn hjá sér, sem stafar sennilega af því, að sjúklingarnir hafi sjálfir talið sig vera með "venjulega" inflúensu, enda einkennin í mörgum tilvikum svipuð. Þetta er umhugsunarvert fyrir næsta faraldur.  Á þá að setja alla farþega í sóttkví við komuna strax og vitnast um faraldur til að koma í veg fyrir það, sem nú gerðist, að hlutfallslegur fjöldi sýktra af skeinuhættum faraldri yrði í upphafi langhæstur á Íslandi ?   Ítalir sýndu þessum kínverska vágesti í upphafi linkind og kæruleysi, en seint og um síðir (09.03.2020) hafa yfirvöldin séð sitt óvænna og sett alla þjóðina í sóttkví.  Það mundi Þórólfur seint ráðleggja íslenzkum stjórnvöldum, enda var þessi ráðstöfun einstæð í sögunni, þegar til hennar var gripið.  Það, sem verra er, það sér ekki fyrir endann á sóttkví Ítala.  Til að takmarka heilsufarslegar og efnahagslegar afleiðingar veirufaraldra er lykilatriði að grípa þegar í stað til strangra gagnráðstafana.  

Stjórnvöld hérlendis guma af styrkri stöðu íslenzka efnahagskerfisins og nefna til sögunnar stóran (mrdISK 900) gjaldeyrisvarasjóð og lágar skuldir ríkis og einkageira. Því miður eru undirstöðurnar ótraustar, svo að nú blasir við mikið tekjutap ríkisins og kostnaðarauki þess og þar af leiðandi skuldasöfnun. Ferðabann Bandaríkjastjórnar gagnvart Schengen svæðinu kippti grundvellinum undan fjölda fyrirtækja hér í ferðamennskunni.  Sá geiri er svo fallvaltur og ósjálfbær, að óráðlegt er, að hlutfallslegt umfang hans verði jafnmikið í þjóðarbúskapinum og verið hefur.  Það eru fleiri vaxtarbroddar til, sem verðugt er að gefa meiri gaum. 

Við svo búið í ríkisrekstrinum má ekki standa, svo að við blasir, að endurskoðun fjármálaáætlunar verður ekki áhlaupaverk og líklega sársaukafull.  Undirstöðurnar eru auðvitað atvinnulífið, en við blasir tímabundið hrun í ferðageiranum, sem er búinn að fjárfesta töluvert undanfarið, svo að fækkun fyrirtækja verður ekki umflúin. Vegna efnahagsáfalls heimsins mun ferðageirinn ekki ná sér hratt á strik.

Launakostnaður hins opinbera og atvinnulífsins hefur hækkað langt umfram framleiðniaukningu, sem þýðir, að verkalýðsfélögin hafa með kröfugerð sinni valdið því, að fjöldi atvinnulausra hefur og mun vaxa hratt.  Þau voru búin að verðleggja félagsmenn sína út af markaðinum áður en reiðarslagið reið yfir, eins og stjórn Landsvirkjunar hefur í krafti einokunarstöðu sinnar á stórsölumarkaði raforku verðlagt fyrirtækið út af raforkumarkaðinum, en vegna einokunarstöðu þess tekur það tíma fyrir afleiðingarnar að birtast. Þetta er ógæfulegt og sýnir, að skipulag vinnumarkaðar, kjarasamningagerð og orkustefnan (orkulöggjöfin) eru í ógöngum og þjóna í raun engum, en hjakka í gamla stéttabaráttu- og okurfarinu.  

Veiran hefur jafnvel eyðilagt sjávarvörumarkaðina um hríð, svo að allar bjargir gætu virzt bannaðar sem stendur.  Sjávarútvegurinn hefur einnig orðið fyrir barðinu á breytingum í lífríkinu, sem engan veginn sér fyrir endann á.  Fisksendingar frá Kína til Evrópu hafa stöðvazt, sem skapar fiskskort í Evrópu, en fiskmarkaðir þar og í BNA hafa lamazt.  Óvíst er, hversu ginnkeyptir Evrópumenn munu verða fyrir matvælakaupum frá Kína, þegar fram í sækir, en þeir hljóta að ranka við sér fyrr en síðar og treysta þá á matvælagæði úr norðurhöfum.  Nú stendur fastan sem hæst á meðal kaþólskra, og þá er venjulega hámark fiskneyzlunnar þar á bæ.  Hvað eru Evrópumenn eiginlega að éta nú um stundir ? Framtíð skilvirks, sjálfbærs og tæknivædds sjávarútvegs, fiskiðnaðar og fiskeldis á Íslandi, er þó björt að nokkrum vikum liðnum í samanburði við aðra atvinnuvegi landsins. 

Ekki er sömu söguna að segja af iðnaðinum almennt og allra sízt hinum orkusækna þungaiðnaði.  Þar hafa lagzt á eitt offramboð á mörkuðum og hár tilkostnaður innanlands.  Sérstaklega munar um verðkröfur Landsvirkjunar, sem hafa síðastliðinn áratug verið úr öllum takti við raunveruleikann.  Á meðan alþjóðlegt orkuverð hefur lækkað, hefur raforkuverð til atvinnurekstrar hækkað á Íslandi.  Það er engin skynsamleg skýring til á þessu, en öfugþróunina má rekja til fordildar stjórnenda Landsvirkjunar, skorts á viðeigandi orkustefnu í landinu og orkulaga, sem ekki henta hagsmunum Íslands.  

Í þessu sambandi gefur skelegg afstaða Alþingismannsins Ásmundar Friðrikssonar þó góða von um önnur viðhorf á Alþingi en í stjórn Landsvirkjunar, en Ásmundur skrifaði þetta m.a. í grein sinni í Morgunblaðinu 7. marz 2020, sem bar heitið: 

"Ögurstund í atvinnulífinu":

"Í mínum huga er samfélagið, heimili og atvinnulíf, þjóðarsjóðurinn, sem bezt nýtir hagnað ódýrrar raforku".

Þetta er hverju orði sannara hjá Ásmundi, og þess vegna ætti ríkisstjórnin að láta það verða sem lið í aðgerðum sínum gegn taprekstri fyrirtækja í fordæmalausri stöðu, þar sem heilu löndin hafa verið sett í sóttkví og farþegaflug liggur nánast hvarvetna niðri, að gefa Landsvirkjun fyrirmæli um að lækka raforkuverð sitt á heildsölumarkaði umtalsvert og endursemja við þá aðila, sem búið hafa við mestar hækkanir raforkuverðs frá 2011. 

Þann 27. febrúar 2020 birtist í Viðskiptablaðinu grein eftir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóra, Samáls, með heitinu:

"Þegar Ísland tók fram úr Evrópu í lífsgæðum".

Hún hófst þannig:

"Eftir margra ára taprekstur álversins í Straumsvík er komið að því, að eigendur félagsins hyggist taka stefnumarkandi ákvörðun um framtíð álversins og skoða, hvort forsendur séu til að halda starfseminni áfram, eða hvort hún verði lögð niður.  Ekki þarf að orðlengja, að það yrði mikið högg fyrir íslenzkt efnahagslíf. 

Vitaskuld er ekkert "óviðeigandi" við það að vekja máls á stöðu fyrirtækisins og mikilvægi þess, að það búi við samkeppnishæf rekstrarskilyrði.  Skárra væri það nú." 

Það var búið að reifa vandamál stóriðjunnar á Íslandi svo rækilega í fjölmiðlum áður en SARS-CoV-2 var flutt til landsins, að aðvörunarbjöllur hljóta þá að hafa klyngt í eyrum ríkisstjórnarinnar og þar að auki rauð ljós að blikka á skrifstofu iðnaðarráðherra. Hún fer reyndar líka með málefni ferðageirans, sem yfirgnæfa öll önnur vandamál atvinnulífsins um þessar mundir vegna stöðvunar, sem enginn sá fyrir.  Það á eftir að koma í ljós, hvernig hún og ríkisstjórnin bregðast við sérstökum vanda, sem stafar af ósjálfbærri verðlagningu Landsvirkjunar, en ef sú verður raunin í sumar, að RTA/ISAL tilkynni lokun verksmiðjunnar í Straumsvík, þá mun sú tilkynning koma á versta tíma fyrir hagkerfi landsins og bæta gráu ofan á svart. Ber ekki iðnaðarráðherra pólitíska ábyrgð á því, ef ekkert raunhæft hefur verið gert til að hindra það ? Að sama skapi, ef í ljós kemur, að hún hefur náð að beita áhrifum sínum í þá átt, að samningar takist á milli RTA/ISAL og Landsvirkjunar, sem tryggi rekstur fyrirtækisins áfram út samningstímabilið til 2036, þá fær hún pólitíska rós í hnappagatið fyrir sinn þátt.

RTA hefur mikið reynt til að selja ISAL, en án árangurs.  Fyrirtækið er í raun óseljanlegt á markaðnum með núverandi raforkusamning. Hann er líkið í lestinni.  RTA vill draga sig út úr álgeiranum, og þá er ekki annarra kosta völ en að loka verksmiðjunni.  Það yrði mikið áfall fyrir starfsmenn verksmiðjunnar og nærsamfélagið, aðallega Hafnarfjörð, enda hafa ráðamenn bæjarfélagsins lýst yfir miklum áhyggjum vegna málsins og beita sér vonandi gagnvart þingmönnum SV-kjördæmis, enda um gríðarlegt hagsmunamál fyrir hag kjördæmisins að ræða, að ISAL fái að þróast og dafna eðlilega á sinni lóð á næstu árum. 

Pétur Blöndal skrifaði meira í téðri grein sinni:

"Ekki er langt síðan hætt var við kaup Norsk Hydro á álverinu í Straumsvík, eftir að dregizt hafði hjá evrópskum samkeppnisyfirvöldum að gefa samþykki sitt. Það segir sína sögu um stöðu álversins, að kaupverðið var einungis mrdISK 35 [MUSD 350 - innsk. BJo].  Til að setja það í samhengi má nefna, að Rio Tinto hafði nýlokið við mrdISK 60 fjárfestingarverkefni í Straumsvík, hið stærsta á Íslandi frá hruni.  Sú fjárfesting skilaði 15 kt/ár framleiðsluaukningu, og að allar afurðir fyrirtækisins eru nú virðisaukandi, stangir með sérhæfðum málmblöndum fyrir hátt í 200 viðskiptavini." 

 Norsk Hydro hefur að líkindum misst áhugann á þessum kaupum í líkingu við aðra, sem orðaðir hafa verið við kaup á starfseminni í Straumsvík.  Það er ekki vegna uppsetts verðs og ekki vegna þess, að framleiðslan sé ófýsileg.  Hluti af ofangreindum fjárfestingum voru nýjar mengunarvarnir til að mæta kröfum um losun á enn minna af flúoríðum í gasi og ryki á hvert framleitt áltonn.  Mjög góð tæknileg tök eru á rafgreiningunni, svo að losun koltvíildis er niðri við fræðilegt lágmark. 

Áratuga hefð er fyrir framleiðslu á sérhæfðum vörum í steypuskála ISAL.  Það, sem gert var 2011-2013, var að umbylta framleiðslulínum hans, sem áður framleiddu völsunarbarra eftir pöntun viðskiptavina, yfir í að framleiða sívalninga af ýmsum gildleikum, lengdum og melmum.  Þetta var gert til að skapa sér aukna sérstöðu á markaðinum og enn hærra afurðaverð.  

RTA samþykkti árið 2008 fjárveitingu til gríðarlegrar styrkingar raforkukerfisins í Straumsvík, og 2009 var ákveðið að auka afkastagetu þess til að geta séð kerskálunum fyrir enn hærri straumi til framleiðsluaukningar. Það var þannig mikill hugur í eigandanum á þessum tíma, og hann var staðráðinn í að gera verksmiðjuna eins samkeppnishæfa og unnt væri, en því miður heyktist hann á að stíga skrefið til fulls með því að styrkja leiðarakerfi rafgreiningarkeranna, eins og áformað hafði verið til að auka framleiðsluna upp í a.m.k. 230 ktAl/ár.  Er áreiðanlegt, að framkoma Landsvirkjunarmanna með forstjórann, Hörð Arnarson í broddi fylkingar, í viðræðunum um nýjan raforkusamning, átti þátt í að drepa niður áhuga RTA á þeim auknu raforkukaupum, sem áform voru um.  Er líklegt, að allt verði þetta rifjað upp, ef til málaferla kemur á milli RTA og Landsvirkjunar út af stöðvun starfseminnar og þar með stöðvun orkukaupanna.

Álverin eru stórir kaupendur alls konar annarrar þjónustu innanlands. Þar koma við sögu alls kyns verktakar og birgjar.  Pétur skrifaði um þetta:

"Á hverju ári kaupa íslenzk álver vörur og þjónustu af hundruðum fyrirtækja hér á landi, og nam sá kostnaður mrdISK 23 árið 2018; er þá raforka undanskilin.  Það er því rangt, sem stundum er haldið fram, að sala á orku til íslenzkra álvera jafngildi útflutningi á orku - í raun er minnihluti þess mrdISK 86 kostnaðar álvera, sem til féll hér á landi árið 2018, kominn til vegna raforkukaupa."

Þessi heildarkostnaður innanlands jafngildir um 62 USD/MWh.  Þetta er lágmarksviðmiðun um nettó verðið, sem fást þyrfti fyrir orku um sæstreng til útlanda.  Með nettó verði er átt við markaðsverðið að frádregnum flutningskostnaði og kostnaði vegna orkutapa.  Markaðsverðið á Nord Pool var þann 12.03.2020 8,7 EUR/MWh, sem jafngildir 9,7 USD/MWh.  Það er ekkert, sem bendir til þess, að á næsta áratugi geti orðið hagkvæmt að flytja út orku um sæstreng, þótt Landsvirkjun hóti því jafnan í viðræðum um raforkuviðskipti hérlendis eða láti skína í þann möguleika sem valkost fyrir sig.    

      


Útskýri stefnu á ögurstundu

Kveikjan að þessum vefpistli er stutt frásögn Morgunblaðsins 5. marz 2020 af ályktun Bæjarráðs Akraness undir fyrirsögninni "Útskýri stefnu"  og ljómandi góð og tímabær grein Ásmundar Friðrikssonar, Alþingismanns Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu 7. marz 2020, sem bar hið sláandi heiti:

"Ögurstund í atvinnulífinu".

Víkjum fyrst að frásögn Morgunblaðsins undir áherzluatriðinu: 

"Skagamenn krefja Landsvirkjun svara":

"Útskýringar þarf frá Landsvirkjun á því, hver er stefna fyrirtækisins gagnvart orkusæknum iðnaði á Íslandi.  Þetta segir í ályktun bæjarráðs Akraness, sem vekur athygli á því, að Landsvirkjun hafi í krafti yfirburðastöðu í raforkusölu á stórnotendamarkaði knúið fram mjög miklar hækkanir á raforkuverði til orkusækins iðnaðar.  

Slíkt telja Akurnesingar geta leitt til verulegs samdráttar í starfsemi stórfyrirtækja á Grundartanga með tilheyrandi fækkun starfa. Með slíku sé einvörðungu hugsað um að hámarka arðsemi Landsvirkjunar, en ekki horft til heildarhagsmuna þjóðar." 

Hér er um eðlilega og löngu tímabæra ályktun bæjaryfirvalda Akranesskaupstaðar að ræða, en Elkem á Íslandi (Járnblendiverksmiðjan) glímir nú við afleiðingar raforkuverðshækkunar í kjölfar úrskurðar gerðardóms, sem fór bil beggja, en Landsvirkjun lýsti samstundis yfir óánægju sinni af því offorsi, sem nú einkennir afstöðu einokunarfyrirtækisins Landsvirkjunar til orkuverðs, með þeim afleiðingum, að hún tapar árlega nýjum viðskiptum og gamlir viðskiptavinir eru bókstarflega keyrðir í þrot. Þegar ferðamannageirinn hefur orðið fyrir rothöggi, eins og nú af völdum CoVid-19, ríður á sem aldrei fyrr að keyra allt annað í landinu á fullum afköstum.  Ríkisfyrirtækið Landsvirkjun leggst þversum gegn því með kolvitlausri verðlagsstefnu sinni, sem er algerlega úr takti við þróun orkuverðs í heiminum.

Kannski er einmitt verst af öllu, að Landsvirkjun er ekki með á nótunum um þróun orkuverðs almennt til stórfyrirtækja í heiminum, en það hefur farið lækkandi frá 2011.  Ríkisstjórnir í ESB hafa greitt orkuverðið niður um 10,5 USD/MWh (9,5 EUR/MWh), og norska ríkisstjórnin um 6 USD/MWh.  Á sama tíma okrar ríkisorkufyrirtækið á iðnfyrirtækjum hérlendis, sem berjast í bökkum, og ríkisstjórnin hér, kaþólskari en páfinn að vanda, setur kíkinn fyrir blinda augað og þykist hvergi nærri mega koma (út af EES-samninginum og orkupökkum ESB). Hún bíður nú rétt einu sinni eftir skýrslu.  Núverandi ástand krefst skjótra ákvarðana og leiðtogahæfni.  Yfirvöld, ber að heybrókarhætti, þegar að sverfur, eru ekki á vetur setjandi.  

Viðkvæði forstjóra Landsvirkjunar þess efnis, að henni beri að hámarka ávöxtun náttúrulegra orkulinda þjóðarinnar (í anda orkupakkanna), verður ekki lengur tekið gott og gilt, af því að það á við samkeppnisumhverfi, en Landsvirkjun er hins vegar í einokunaraðstöðu, og þar verður þessi stefna stórskaðleg fyrir atvinnulífið.  Keppinautarnir hefðu einfaldlega hirt viðskiptavinina af Landsvirkjun við þessa hegðun hennar í samkeppnisumhverfi, sem þýðir, að þeir hefðu boðið verð, sem bæði þeir og viðskiptavinir þeirra gætu búið við.  Það þarf að vera sambærilegt verðinu, sem í boði er erlendis, að frádregnum öllum viðbótar kostnaðinum samfara staðsetningu viðskiptavinanna á Íslandi.  Þetta er núna, með flutningsgjaldi, talsvert undir 30 USD/MWh, og er samt vel yfir meðalkostnaði vatnsaflsvirkjana á Íslandi.  Í  gufuvirkjunum er hins vegar úr vöndu að ráða vegna niðurdráttar í virkjuðu gufuforðabúri, og þess vegna erfiðara að slá á meðalkostnað þeirra, en liklega er hann um eða undir 30 USD/MWh.

Í lok frásagnar Morgunblaðsins er þessi tilvitnun í téða ályktun bæjarráðsins:

""Stjórn Landsvirkjunar ber alla ábyrgð á stefnu fyrirtækisins og framgöngu forstjórans, og því kallar bæjarráð eftir því, að stjórnarmenn Landsvirkjunar, og þá sérstaklega stjórnarformaðurinn, Jónas Þór Guðmundsson, stígi fram úr skugga forstjórans og útskýri fyrir íslenzku þjóðinni, hvert stjórn Landsvirkjunar sæki umboð sitt til að ganga fram með þessum hætti", segir bæjarráð Akraness.  Kallar ráðið því eftir útskýringum t.d. á því, hvort ráðagerðir fyrirtækisins samræmist leiðarljósum fyrirhugaðrar orkustefnu um að hámarka samfélagslegan ávinning af nýtingu orku, styðji við atvinnustefnu og jákvæða byggðaþróun."

  Ekkert bólar á svari stjórnar Landsvirkjunar.  Er það með öllu ólíðandi framkoma hjá ríkisfyrirtækinu, ef í ljós kemur, að stjórn Landsvirkjunar ætlar að hundsa ósk Akranesskaupstaðar um útskýringar á því, sem gerzt hefur. Þetta er ekki heilbrigt ástand hjá Landsvirkjun. Eðlilegt væri, að stjórnin mundi skrifa bæjarráðinu svarbréf og bjóðast til að senda formanninn til fundar með bæjarráðinu.  Bréf og fundargerð ættu að vera opinber plögg í lýðræðisþjóðfélagi. Það er rétt hjá bæjarráðinu, að stjórn Landsvirkjunar skuldar þjóðinni skýringar á stefnumörkun sinni.

Sú staða, sem virðist vera að koma upp í samskiptum Landsvirkjunar við landsmenn, er svo alvarleg, að ráðherra iðnaðar verður að kippa strax í taumana, þannig að Landsvirkjun magni ekki upp vanda aukins atvinnuleysis og minnkandi gjaldeyrisöflunar þjóðfélagsins, heldur stuðli að því að koma þeim hjólum atvinnulífsins, sem ekki eru stopp vegna CoVid-19, á fullan snúning.

Ásmundur Friðriksson, Alþingismaður, kom víða við í sinni ágætu grein, sem minnzt var á í upphafi.  Það, sem hann skrifaði um raforkumálin og ráðstöfun orkunnar, kom fram í undirgreininni: 

"Virðisauki raforkunnar":

"Miklu púðri hefur verið eytt í skýjaborgir um sæstreng til Bretlands, verkefni, sem á sér engar efnahagslegar forsendur, nema brezka ríkisstjórnin leggi til stórfelldar niðurgreiðslur í marga áratugi.  Við verðum að átta okkur á því, að draumurinn um sæstreng er áratuga gamall og mun eflaust lifa lengi í huga draumóramanna."

Þetta er hárrétt athugað hjá þingmanninum, og sæstrengsverkefnið missir auðvitað æ meir fótanna með sífelldri raunlækkun orkuverðs síðan 2011.  Undir því er enginn viðskiptagrundvöllur með heildsöluverð rafmagns hjá Nord Pool undir jafngildi 100 USD/MWh (og er þá ekki tekið tillit til virðisaukans, sem rafmagnið myndar við nýtingu á Íslandi), og Nord Pool verðið er jafnvel aðeins 1/10 af þessu lágmarki um þessar mundir. 

Draumar voru bundnir við styrk til verkefnisins frá Evrópusambandinu, ESB, en líkur á slíku dofnuðu verulega við útgöngu Breta úr ESB, enda hefur "Ice-Link"-strengurinn verið tekinn út af forgangsverkefnaskrá ESB um innviðaverkefni innan EES. 

Þá er eftir, það sem Ásmundur nefnir, ríkisstuðningur Breta.  Hann er úr þessu næstum útilokaður, því að þeir hafa einskorðað ríkisstuðning við vindorkuver úti fyrir ströndum Bretlands. Það kom þess vegna eins og skrattinn úr sauðarleggnum, þegar iðnaðarráðherra gat þess um daginn, að hún vildi alls ekki útiloka þátttöku Íslands í enn einni fýsileikarannsókninni á aflsæstreng til útlanda.  Kannski er hún þá með annan lendingarstað í huga en Stóra-Bretland ?  Skattfé eða ráðstöfunarfé íslenzkra ríkisfyrirtækja er hins vegar betur varið í flest annað nú um stundir en sæstrengsdraumsýnina.  Það er ekkert vit í því fyrir stjórnmálamenn að ljá máls á peningum í svo vonlaust verkefni sem hér um ræðir.  Þeir ættu að láta einkaframtakið alfarið um slíkt. 

"Er staða ISAL kannski draumur þeirra, sem vilja [sjá] sæstreng rætast.  Að þar verði störfum og afkomu þúsunda fórnað fyrir rafstreng, sem tengir landið markaðsverði raforku í Evrópu og við flytjum út virðisauka endurnýjanlegrar raforku, sem þjóðin öll á ? Þeir, sem trúa blint á markaðshugsun og telja, að tenging við raforkumarkað Evrópusambandsins sé hin eina sanna lausn, eru að kalla yfir okkur fækkun starfa og stórkostlega hækkun á raforkuverði fyrir íslenzk heimili og atvinnulíf." 

Það er fagnaðarefni, að mætur þingmaður skuli hér velta fyrir sér opinberlega, hvort samhengi sé á milli núverandi orkuverðsvanda í Straumsvík og greinilegum áhuga á að selja raforku um sæstreng til útlanda.  Svo vill til, að þessi mál tengjast bæði einum manni, núverandi forstjóra Landsvirkjunar, sem gekk hart fram gegn RTA/ISAL 2010-2011 og hefur sýnt manna mestan áhuga á, að Evrópumarkaðirnir opnist fyrir Landsvirkjun.  Í ljósi viðbragða hans í febrúar 2020 við neyðarkalli RTA/ISAL 12.02.2020 berast böndin sterklega að forstjóra þessum.

Við þessar aðstæður verður þó að gefa gaum líka að ríkisstjórnarhliðinni, því að Landsvirkjun er alfarið í ríkiseign.  Á stóli iðnaðarráðherra situr nú manneskja, sem virðist "trúa blint á markaðshugsun".  Það kom berlega í ljós í umræðunni um Orkupakka 3 (OP#3), að hún taldi honum það mest til ávinnings, að hann mundi auka samkeppni á raforkumarkaði.  Hún hélt því þá fram, að orkukostnaður almennings hefði lækkað vegna aukinnar samkeppni frá innleiðingu OP#1 árið 2003, en það var hrakið í grein hagfræðiprófessors í skýrslu "Orkunnar okkar" í ágúst 2019.  Hún hefur jafnframt sem iðnaðarráðherra verið jákvæð í garð frekari rannsókna á fjárhagslegum og tæknilegum fýsileika slíks sæstrengs. 

Með sæstreng tengjumst við uppboðsmarkaði Nord Pool í Norð-Vestur Evrópu.  Öll fyrirtæki og heimili munu þá lenda í bullandi samkeppni við fyrirtæki og heimili í NV-Evrópu.  Óneitanlega er þetta raunveruleg samkeppni, því að við munum geta flutt inn raforku, einkum að næturlagi, þegar Landsvirkjun skrúfar verð sitt upp úr öllu valdi.  Er þetta virkilega draumsýn iðnaðarráðherra ?  Almenningur á Íslandi veit lengra en nef hans nær og hefur alltaf gert.  Hann sér í hendi sér, að atvinnulífið á Íslandi verður ein rjúkandi rúst, ef þetta gerist, og að sjálfsögðu mun fólkið fylgja á eftir orkunni, sem þannig er seld úr landi. 

Alþingi endurspeglar ekki nákvæmlega þetta viðhorf, en það er samt að líkindum núna meirihluti gegn sæstrengstrengingu, og ekki væri nú að ófyrirsynju að staðfesta það, iðnaðarráðherra og öðrum til glöggvunar, með því að henda í eina þingsályktunartillögu þess efnis. Hún væri þá innlegg í orkustefnu, sem er í smíðum á vegum iðnaðarráðuneytisins. 

"Í mínum huga er samfélagið, heimili og atvinnulíf, þjóðarsjóðurinn, sem bezt nýtir hagnað ódýrrar raforku.  Ég mun berjast til síðasta manns fyrir því, að virðisauki raforkunnar verði til í landinu, svo [að] samfélagið njóti fjölbreyttra, vel launaðra starfa, sem raforkan mun skapa framtíðarkynslóðum þessa lands."

 "Svona eiga sýslumenn að vera."  Hér talar fulltrúi sannra sjálfstæðismanna, íhaldsmanna, sem vilja halda í upprunalega stefnu flokksins í þessum efnum, allt frá fyrsta formanni flokksins, Jóni Þorlákssyni, landsverkfræðingi, til Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins.  Sú stefna, sem dr Bjarni Benediktsson og Jóhann Hafstein náðu að hrinda í framkvæmd í samstarfi við Alþýðuflokkinn á Viðreisnarárunum, hefur gefizt svo vel, að fullyrða má, að átvinnulíf, raforkukerfi og lífskjör í landinu væru ekki svipur hjá sjón, ef þessi barátta frumkvöðlanna hefði ekki borið árangur.  Atvinnuuppbygging verður að njóta forgangs umfram auðhyggju.  Þá mun landinu vel vegna til lengdar, þótt mótvindar séu óhjákvæmilegir á öllum löngum siglingum.     

 

 


Rangar ákvarðanir í orkumálum verða afdrifaríkar

Ef hrapað er að stefnumörkun í orkumálum, getur það hæglega haft afdrifaríkar afleiðingar á þjóðarbúskapinn, því að nýttar orkulindir landsins leika stórt hlutverk í verðmætasköpun þjóðfélagsins.  Jafnvel Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, sem oft hefur opinberlega sýnt megna andúð á starfsemi stóriðjufyrirtækja í landinu af ástæðum, sem ekki styðjast við rökræna hugsun, þykist þó átta sig á mikilvægi "skynsamlegrar" orkulindanýtingar.  Hætt er þó við, að "skynsamleg orkulindanýting" leiði umræðuna út um víðan völl og út í "eitthvað annað", því að það er eins og gengur; það, sem einum þykir skynsamlegt, finnst öðrum óskynsamlegt.  Að henda inn þessu lýsingarorði án þess að útskýra merkinguna neitt nánar er þess vegna út í hött og leiðir umræðuna aðeins í hringi, sem eru endalausir, eins og kunnugt er.

Björt skrifaði rislitla grein í Morgunblaðið 27. febrúar 2020, sem hún nefndi:

 "Landsvirkjun og Rio Tinto".

Hún kveður "Mining Journal" hafa sagt frá samrunatilraun Rio Tinto og Glencore og heldur, að við það versni samningsstaða einokunarfyrirtækisins Landsvirkjunar við stóriðjuna á Íslandi. Hún lætur sér hins vegar einokunarstöðu Landsvirkjunar á sviði stórsölu raforku í réttu rúmi liggja og horfir algerlega fram hjá því tjóni, sem misbeiting Landsvirkjunar á þeirri einokunarstöðu í landinu hefur haft og mun hafa, ef stjórnendur á þeim bæ ekki bæta ráð sitt.  Miðað við þögn stjórnar Landsvirkjunar  hingað til og hrokafullt framferði forstjórans er slíkt borin von. 

Það hefur reyndar lengi verið ljóst, að boltinn eða öllu heldur "heita kartaflan" er hjá ríkisstjórninni, og hún þarf ekki að halda, að CoVid-19 dragi úr nauðsyn þess, að hún grípi til aðgerða á þessu sviði, því að veiran sú hefur þegar valdið aðalmjólkurkúnni doða (ferðamannastarfseminni), og þá ríður á að gefa hinum kúnum í fjósinu betra hey en hingað til, svo að þær veslist ekki upp og drepist.  Þetta verður einn af prófsteinum ríkisstjórnarinnar á síðari hluta þessa kjörtímabils.  Hún á að geta ráðið við þetta, en til þess nægir þó ekki fagurgali eða reykmerki, heldur verður að hafa bein í nefinu til framkvæmda.  Ef það er ekki fyrir hendi, eru nægir slíkir í þingliði Sjálfstæðisflokksins til að taka við keflinu, þegar á reynir.  Þeim mun ekki vaxa þetta verkefni í augum.

Téð grein Bjartrar Ólafsdóttur hófst þannig:

"Þessa dagana er tekizt á um mikla hagsmuni Íslendinga í deilu Rio Tinto og Landsvirkjunar.  Ég er með raunveruleikann alveg á hreinu.  [Svona skrifa aðeins sanntrúaðir, en þessi sanntrúaði lifir reyndar í sýndarveruleika, eins og fram gengur síðar í þessum pistli - innsk. BJo.] 

Skynsamleg auðlindanýting hefur verið undirstaða allra þeirra ríkja í heiminum, sem hefur í gegnum söguna vegnað vel.  [Það er ekkert annað, en hvað með þær, sem hafa ekki komizt "í gegnum söguna" ?  Þær hafa líklega ekki beitt "skynsamlegri" auðlindanýtingu að mati Bjartrar.  Það mun fara eftir duttlungum Bjartrar, hvað er "skynsamlegt" í þessum efnum, en hvorki mati einkaframtaksins né Skipulagsstofnunar.]  Ef ríkjum hefur svo tekizt að bæta þar ofan á fjölbreyttum leiðum til verðmætasköpunar, í gegnum [svo !?] nýsköpun og aðra snilli, þá hefur þeim áfram vegnað vel, og lífsskilyrði borgaranna hafa verið stöðug og góð."

Þetta er loftkenndur, dönskuskotinn og flatneskjulegur texti, enda vantar raunverulega hugsun í hann, þ.e. að drifkraftur fjárfestinga, atvinnusköpunar og framfara er auðvitað markaðurinn, en ekki stjórnvöld.  Þá gildir einu, hvort um er að ræða nýtingu náttúruauðlinda eða úrvinnsluiðnað, og þessi markaður verður að hafa hvata til að starfa, þ.e. starfsskilyrðin verða að vera samkeppnishæf.  Þar stendur hnífurinn í kúnni núna á Íslandi, og þess vegna er hluti gjaldeyrissköpunarinnar hérlendis að stöðvast um þessar mundir. 

Mannvitsbrekkan, hin stóriðjufjandsamlega Björt Ólafsdóttir, hefur áttað sig á því, að stefna og verk Landsvirkjunar eru nú að rústa stóriðjunni í landinu, sem Björt hefur lengi dreymt um, að gerast mundi, og þess vegna tók hún sig til í lok þessa fimbulfambs og bar lof á Hörð Arnarson og Jónas Þór Guðmundsson, sem eru hetjurnar hennar Bjartrar nú um stundir, en skamma hríð verður hönd höggi fegin.  Grein sinni lauk Björt þannig:

 "Það hefur því miklu meiri áhrif á Rio Tinto að fara fram af ruddaskap [hver er ruddinn ? - innsk. BJo] við Íslendinga, sem lætur þá líta illa út í öllu samstarfi (lækkar þeirra ESG) [= "Environment, Social and Governance" samkvæmt útskýringu Bjartrar] en að lækka raforkusamning hér.  Verkefni stjórnmálanna hlýtur því að vera það að styðja við þá Hörð Arnarson og Jónas Þór Guðmundsson til að standa fast á okkar.  Stjórnmálamenn og hagsmunasamtök geta einmitt gert gagn með því að láta þau skilaboð berast skýrt til þeirra erlendu aðila á mörkuðum, sem Rio Tinto reiðir sig á í miklu stærra samhengi en bara á litla Íslandi.  Svo væri lag að ræða um framtíðina, hvernig ætlum við að halda áfram að auka verðmætasköpunina fyrir auðlindina okkar." 

Þetta er nú meiri endemis samsetningurinn og ekki amalegt fyrir þá Landsvirkjunarkumpána að geta nú hóað í þetta ESG, sem ekkert hefur þó spurzt til áður, þegar mest liggur við.  Ef hins vegar Björt, þessi, Ólafsdóttir hefði snefil af jarðsambandi, þá myndi hún spyrja og svara því í sömu grein, hvernig á að útvega þeim 1250, sem Hagfræðistofnun HÍ kveður hafa beinan og óbeinan starfa af starfseminni í Straumvík, vinnu, sem ekki er síður vel borguð en sú, sem þau hafa nú.

 

 

 

 

 


Styr stendur á milli LV og SI

Það hefur ekki farið framhjá blaðalesendum og sjónvarpsáhorfendum, að styr stendur á milli Landsvirkjunar (LV) og Samtaka iðnaðarins (SI).  Um nokkurra ára skeið hefur stjórn SI verið á öndverðum meiði við orkufyrirtækin um útflutning s.k. upprunaábyrgða fyrir raforku.  Á heimasíðu samtakanna, https://www.si.is, er m.a. greining Samtakanna á þessu fyrirbrigði, frá 19.02.2020, og niðurstaðan er á þann veg, að þessi útrás þjóni ekki hagsmunum íslenzks atvinnulífs í heildina.

Eftir að tilkynning RTA/ISAL í Straumsvík var gefin út þann 12.02.2020 um það, að eigandinn héldi vart lengur út stöðugt og mikið tap af rekstri ISAL, fóru að birtast einkennilegar skeytasendingar frá forstjóra LV um, að orkusamningur LV við ISAL væri sanngjarn og hinn alþjóðlegi eigandi fyrirtækisins væri bara kominn í áróðursstríð við LV, fyrirtæki þjóðarinnar, til að knýja fram raforkuverðslækkun.  Mátti skilja á forstjóranum, að lækkun væri óþörf, enda ætti tapið sér aðrar orsakir.  Þessi málflutningur forstjóra LV er fáheyrður og engu líkara en hann sé kominn í krossferð gegn stærstu viðskiptavinum LV.  Spyrja má, hvort þessi málflutningur sé uppi hafður með samþykki stjórnar LV og eiganda fyrirtækisins, því að forstjórinn er hér kominn langt út fyrir viðskiptaleg mörk og farinn að reka bullandi pólitík.  Allur málflutningur hans er þýddur samstundis og sendur á borð eiganda ISAL og líklega fleiri fjárfesta.  Verður hvorki séð, að hann geti orðið viðskiptahagsmunum LV til framdráttar né orðspori Íslands sem heimahöfn erlendra fjárfestinga til að nýta endurnýjanlegar og kolefnisfríar orkulindir Íslands. Þvert á móti bendir margt til, að málflutningur forstjóra LV verði vegna eignarhaldsins á LV túlkaður erlendis sem stefna stjórnvalda, og það stórskaðar ímynd Íslands sem áhugavert fjárfestingarland.  Skraf forstjóra stærsta orkufyrirtækis landsins getur orðið landinu þungbærari baggi en útflutningur hans á upprunavottorðum orkunnar, sem fyrirtæki hans vinnur úr íslenzkum orkulindum. Stjórnvöld verða tafarlaust að setja forstjóranum stólinn fyrir dyrnar og sýna gjörólíka afstöðu og stefnumörkun í verki.  Linkind og léttúð í þessu máli getur orðið almenningi dýrkeypt.  

Samtök iðnaðarins (SI) hafa með réttu haldið því fram, að raforkuverð til miðlungsstórra og stórra raforkunotenda væri í seinni tíð (frá 2011) ekki lengur samkeppnishæft við alþjóðlega markaði.  Fyrir þetta og fyrir andstöðu SI við útflutning upprunaábyrgða raforku hefur forstjóri LV opinberlega beint spjótum sínum að SI.  Dæmi um þetta gaf á að líta í Morgunblaðinu 22.02.2020 í grein Harðar Arnarsonar undir heitinu:

"Hverra hagsmuna gæta Samtök iðnaðarins ? - Fimm spurningar til samtakanna".

Hún hófst þannig:

"Samtök iðnaðarins og Samál hafa nú um nokkurt skeið staðið í áróðursherferð gegn orkufyrirtækjum í eigu almennings á sama tíma og Rio Tinto, aðildarfyrirtæki þeirra, reynir að fá lækkað raforkuverð. 

Reynt er að halda því að almenningi, að Ísland sé ekki "land endurnýjanlegrar orku, og tilraunir gerðar til að koma í veg fyrir, að orkufyrirtækin geti aukið verðmætasköpun fyrir íslenzkt samfélag með þátttöku í viðskiptum með upprunaábyrgðir." 

Það er með endemum, að forstjóri LV skuli blanda saman þessum tveimur óskyldu málum.  Það er gefið í skyn, að SI og Samál ráðist á LV fyrir útflutning hennar á upprunaábyrgðum, til að hún þurfi að berjast á tveimur vígstöðvum í þeirri von, að Rio Tinto Aluminium verði betur ágengt í viðleitni sinni að draga LV að samningaborðinu.  Þessi málflutningur sæmir ekki forstjóra langstærsta raforkufyrirtækis landsins og bendir til, að forstjórinn sé úti á túni sem slíkur og farinn að stunda sína einkapólitík gegn stóriðjufyrirtækjunum í landinu.  Auðvitað á hann sínar skoðanasystur og -bræður um þetta hugðarefni sitt, en rekur hann erindi stjórnar Landsvirkjunar, þegar hann hagar sér svona, svo að ekki sé nú minnzt á fulltrúa eigandans, ríkisstjórnina og meirihluta þingheims ?

Nú er svo komið, aðallega fyrir tilstilli LV, að í bókahldi EES og Landsreglarans (Orkustofnunar) koma 55 % seldrar raforku hérlendis úr jarðefnaeldsneyti, 34 % úr kjarnorkuverum og aðeins 11 % úr sjálfbærum orkulindum.  Almenn notkun, utan langtímasamninga, nemur um 20 % heildarsölunnar.  Öllum almenningi standa miðað við þetta ekki til boða vottorð um sjálfbæran uppruna raforkunnar, sem hann kaupir, því að ESB leggur bann við tvítalningu sömu orkunnar í þessu bókhaldi, og á því er hnykkt í Orkupakka 4 að viðlögðum sektum. 

Það er grundvallaratriði á Innri orkumarkaði EES, að engum fyrirtækjum sé mismunað á þessum markaði, heldur njóti þau jafnstöðu án tillits til eignarhalds, staðsetningar og starfsemi.  Í Greinargerð SI frá 19.02.2020 er komizt að því, að þessi jafnstöðuregla sé brotin á Íslandi, a.m.k. í tilviki upprunaábyrgðanna:

"Fyrirtækjum á Íslandi er mismunað í kerfi upprunaábyrgða.  Upprunaábyrgðir fylgja raforku til almennings og fyrirtækja á almennum markaði, en orkufyrirtækin undanskilja orkusækin fyrirtæki á borð við álver, kísilver og gagnaver.  Þau fá ekki upprunaábyrgðir, nema greiða fyrir þær.  Það er gagnrýnivert og sætir furðu, að orkufyrirtæki í opinberri eigu mismuni íslenzkum fyrirtækjum með þessum hætti.  Austurríki og Spánn hafa sett lagalegar hindranir fyrir sölu upprunaábyrgða."

 Landsreglaranum ber að líta á jafnstöðu fyrirtækja innan alls Innri markaðar EES.  Hann lætur sig engu varða misskiptingu innan lítils bleðils á því svæði.  Öðru máli á að gegna um Alþingismenn.  Þeir eiga nú að fara að fordæmi þingmanna í Austurríki og á Spáni að þessu leyti og t.d. að semja um það þingsályktunarillögu, að orkufyrirtækjum, sem trúað hefur verið fyrir nýtingu endurnýjanlegra og kolefnisfrírra orkulinda Íslands, og fengið upprunavottorð í samræmi við það (frá Orkustofnun), skuli bjóða viðskiptavinum sínum á heildsölumarkaði "græn skírteini" gegn vægu gjaldi, er spanni kostnaðinn við umstangið af þessum "grænu skírteinum".  

Þannig yrði viðskiptavinum orkufyrirtækjanna sparaður sá kostnaður, sem formaður og framkvæmdastjóri SI hafa fullyrt opinberlega, að hljótist af því að hafa ekki í höndunum þessi skírteini ásamt þeim bletti, sem falli á ímynd Íslands, þegar sjáist þau hlutföll um uppruna orkunnar, sem af útflutningi "grænu skírteinanna" leiðir.  Framkvæmdastjóri SI hefur fullyrt, að heildarkostnaður íslenzks atvinnulís af þessu útrásaruppátæki orkufyrirtækjanna nemi margföldum útflutningsverðmætum þeirra.  Forstjóri LV hefur beðið hann um að sýna fram á þetta, en ekki verður þess vart í svörum SI á heimasíðu samtakanna við 5 spurningum forstjórans.  Ekki verður því trúað, að einvörðungu sé um ágizkun eða huglægt mat framkvæmdastjórans að ræða.

Reynsla höfundar þessa vefpistils er sú, að evrópskir viðskiptavinir hafi verið með á nótunum, en utan Evrópu fylltust menn tortryggni, þegar þeir sáu afleiðingar af útflutningi upprunavottorðanna, og einkum var erfitt að útskýra þessar ankannalegu tölur um uppruna í jarðefnaeldsneyti og kjarnorku fyrir fólki úr Vesturheimi.  Ekki er höfundi þessa pistils þó kunnugt um, að viðskipti hafi tapazt eða viðskiptakjör versnað vegna þess arna.  Það stendur upp á Samtök iðnaðarins að skýra frá því. 

Að lokum er nauðsynlegt að árétta, að verðhækkunarstefna Landsvirkjunar fyrir afurð sína, rafmagnið, er algerlega úr takti við verðþróun orku almennt í heiminum síðan 2011.  Til þess að samkeppnishæfni ISAL nú verði sú sama og á upphafstíma nýja orkusamningsins 2011, þarf raforkuverðið að lækka um 30 %.  Um þetta snýst deilan.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband