Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
4.4.2020 | 14:33
Landsvirkjun ríður ekki feitum hesti frá Nord Pool
Á árunum 2010-2011 birti Landsvirkjun spá sína um raforkuverð næstu tvo áratugina. Sú var mjög bjartsýn og er löngu komin í vaskinn, en Landsvirkjun hefur samt alveg láðst að laga verðlagsstefnu sína að raunveruleikanum. Árið 2016 endursömdu Norðurál og Landsvirkjun um raforkuviðskipti, og gildir nýi samningurinn tímabilið 01.11.2019 til jafnlengdar 2023.
Tekur raforkuverð samningsins mið af verðþróun á orkumarkaði Norð-Vestur Evrópu, þ.e. á hinum Norðurlöndunum, í Eystrasaltsríkjunum, Þýzkalandi, Benelúx, Frakklandi og Bretlandi. Mánaðarlegt meðalverð í EUR/MWh það, sem af er 2020, er 24 í janúar, 14 í febrúar og 9 í marz. Um þessar mundir er það í kringum 5 EUR/MWh. Meðaltal 1. ársfjórðungs 2020 er tæplega 16 EUR/MWh (=2,5 ISK/kWh = 17 USD/MWh). Komið hefur fram, að verðið til ISAL í Straumsvík er um 35 USD/MWh að viðbættum flutningskostnaði. Nord Pool er ekki hálfdrættingur á við verð Landsvirkjunar til ISAL, enda er raforkukostnaður fyrirtækisins að gera út af við það, eins og fram kemur í nýbirtri Ársskýrslu ISAL 2019. Þá var botninn þó ekki gjörsamlega dottinn úr álmarkaðinum, eins og núna (nálgast 1400 USD/t Al). Það hefur orðið verðhrun á Nord Pool síðan 2016, er nýr raforkusamningur var gerður á milli Landsvirkjunar og Norðuráls, og glámskyggni og einþykkni stjórnenda Landsvirkjunar varðandi þróun orkuverðs í heiminum valdið fyrirtækinu umtalsverðu fjárhagstjóni.
Viðskiptablaðið gerði þessi viðskiptalegu mistök Landsvirkjunar að umræðuefni 27. febrúar 2020 undir fyrirsögninni:
"Landsvirkjun verði af milljörðum":
"Verð á Nord Pool raforkumarkaðnum er í sögulegri lægð. Það kann að hafa í för með sér, að Landsvirkjun verði af umtalsverðum tekjum vegna tengingar raforkuverðs við markaðinn."
Síðan þetta var skrifað hefur verðið enn lækkað vegna COVID-19 og vegna hruns olíuverðs um meira en helming. Það er ekkert sem bendir til varanlega hás orkuverðs á alþjóðlegum mörkuðum á þessum áratugi, þótt samtök olíuframleiðsluríkja (OPEC) rembist eins og rjúpan við staurinn (reyndar í öfuga átt núna), og hagkerfi Evrópusambandsins, sem boðar hátt orkuverð til að hvetja til fjárfestinga í dýrum virkjunum endurnýjanlegrar orku, ræður ekki við mun hærra orkuverð til lengdar en aðrir heimshlutar búa við. Lömun hagkerfis heimsins af völdum SARS-COV-2 virkar enn fremur til að halda orkuverði lágu næstu árin. Landsvirkjun lítur út eins og eintrjáningur í þessu umhverfi.
"Raforkuverð á norræna raforkumarkaðnum Nord Pool hefur verið sögulega lágt síðustu daga. Verðið féll um 50 % í upphafi ársins m.v. í byrjun nóvember, þegar nýr raforkusamningur tók gildi milli Norðuráls og Landsvirkjunar. Verðið í samningnum er beintengt verðinu á Nord Pool raforkumarkaðnum. Því kann Landsvirkjun að verða fyrir milljarða tekjutapi á þessu ári m.v. verðið í upphafi nóvember.
Í uppgjöri Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls á Grundartanga, kemur fram, að raforkuverðið hafi fallið frá því fyrir áramót úr um 40 USD/MWh í um 20 USD/MWh ."
Þarna er verið að segja frá stórfelldum stjórnunarlegum mistökum á viðskiptasviðinu af hálfu Landsvirkjunar. Forstjóri hennar og stjórn hafa bitið í sig algerlega úrelt viðhorf á sviði orkuverðlagningar í heiminum. Þau virðast ekki enn skilja þá þróun, sem stjórnar orkuverðlagi, og hafa þess vegna gert afleit mistök fyrir hönd eiganda fyrirtækisins, íslenzka ríkisins, við gerð nýs orkusamnings við NÁ.
Hjá Landsvirkjun er allt of rík tilhneiging til spákaupmennsku. Þarna hefði verið skynsamlegra að draga inn fleiri vísitölur, og þá hefði verðið ekki helmingazt á nokkrum vikum. Það er t.d. óvitlaust að hafa nokkrar álverðsvísitölur og nokkrar orkuverðsvísitölur til hliðsjónar, en það er hreinn barnaskapur að leggja aðeins Nord Pool-vísitölu til grundvallar. Auðvitað þarf að setja gólf, svo að raforkuverð geti ekki farið undir framleiðslukostnað raforkunnar, svo að hagnaður verði þrátt fyrir allt af raforkusölunni.
"Þegar skrifað var undir samninginn milli Landsvirkjunar og Norðuráls árið 2016, sagði Morgunblaðið frá því, að hækkun raforkuverðs með samningnum gæti skilað nærri tveimur 2 mrdISK/ár í viðbótartekjum. M.v. verðfallið frá því í nóvember [2019] mætti áætla, að tekjur, sem Landsvirkjun kann að verða af m.v. óbreytt raforkuverð, nemi 3-4 mrdISK/ár. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun metur fyrirtækið það sem svo, að ólíklegt sé, að lækkunin vari til lengri tíma." [Undirstr. BJo.]
Þetta sýnir, hversu skakkan og dýrkeyptan pól forysta Landsvirkjunar hefur tekið í hæðina, og það sárgrætilega er, að hún lemur enn hausnum við steininn og botnar ekkert í, hvað er að gerast í kringum hana. Landsvirkjun hefur með frumhlaupi sínu náð að lækka raforkuverðið til Norðuráls niður úr öllu valdi, þótt viðskiptavinurinn hafi alls ekki farið fram á lækkun. Stjórn fyrirtækisins hlýtur að láta þann, sem þetta gerir og bað um samþykki hennar, sæta ábyrgð á gerðum sínum. Hvenær verður mælirinn fullur af axarsköptum Landsvirkjunar, svo að eigandinn neyðist til að grípa í taumana ?
1.4.2020 | 11:21
Tengsl orkupakka ESB við hátt orkuverð á Íslandi
Elias B. Elíasson, verkfræðingur, hefur ritað fróðlegar og skarplegar greinar í Morgunblaðið um orkumál, orkupakka ESB og orkustefnu, sem af þeim leiðir. Undanfarið hafa þessar greinar snúizt um birtingarmynd hrikalegra afleiðinga innleiðingar orkulaggjafar Evrópusambandsins (ESB) á starfsemi stórnotenda raforku, einkum álverksmiðjunnar ISAL í Straumsvík. Er nú fram að koma, hversu umhendis og skaðleg innleiðing orkulöggjafar ESB er á Íslandi.
Það, sem er einkennandi fyrir skarplega greiningu Elíasar á stöðu orkumálanna á Íslandi, er, að hann tengir hana með skýrum hætti við gildandi orkulög í landinu, sem að meginstofni koma frá ESB, þar sem gjörólíkt orkukerfi og orkumarkaðskerfi eru m.v. íslenzkar aðstæður, og þar með fæst einhver botn í þá kúvendingu á stefnu Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinum sínum, sem átt hefur sér stað síðan 2010.
Í ESB er aðalorkugjafinn jarðefnaeldsneyti, og á orkumarkaði þess ríkir frjáls samkeppni. Í orkustefnu ESB eru innbyggðir hvatar til að hækka orkuverð til að örva áhuga á að reisa nýjar virkjanir, aðallega endurnýjanlegra orkulinda, en einnig hinna til að brúa bilið, þegar lygnt er eða sólarlaust.
Frjáls samkeppni á Innri markaðinum hindrar hins vegar, að verðið rjúki þar upp úr öllu valdi. Reyndar er botninn dottinn þar úr markaðinum (verðinu) núna vegna eftirspurnarleysis. Hérlendis er hins vegar engin samkeppni um stóra viðskiptavini. Allir ættu að sjá, að löggjöf, sniðin utan um orku- og markaðskerfi ESB hentar ekki á Íslandi. Nú er þar að auki komið í ljós, að skaðsemisáhrif þessarar löggjafar á Íslandi eru feikileg og sízt minni en varnaðarorð í OP#3 umræðunni kváðu á um. Orkupakkarnir valda stórtjóni á Íslandi, og er þó ekki bætandi ofan á loðnubrest og CoVid-19, sem er að ganga af mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum dauðum og að setja íslenzka hagkerfið á hliðina um stundarsakir.
Grein Elíasar í Morgunblaðinu 7. marz 2020 bar yfirskriftina:
"Enn um raforkuverð ÍSAL".
Ein fjögurra undirgreina bar fyrirsögnina:
"Áhrif ESB":
"Áhrif ESB á þessa samninga [við álverin-innsk. BJo] eru veruleg. Á ársfundi Landsvirkjunar 2016 birti Hörður Arnarson, forstjóri, stefnu fyrirtækisins, sem lýst var svo: "Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum, sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi." [Undirstr. BJo.]
Í umfjöllun sinni lét hann þess svo getið, að samkvæmt lögum gæti stefna fyrirtækisins ekki verið langt frá því, sem í þessum orðum felst. Lögin, sem hann vitnaði til, eru lög ESB innleidd í EES-samninginn. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo, að allur arður af þessum auðlindum þjóðarinnar skuli skila sér inn í Landsvirkjun lögum samkvæmt. [Undirstr. BJo.]
Þjóðin sjálf eða fulltrúar hennar hafa engan rétt til að hlutast til um, hvar í þjóðfélaginu þessi arður komi fram. Með þessu er þrengt að þeim sveigjanleika, sem hér þarf að vera, til að skapa íslenzku atvinnulífi viðunandi samkeppnisstöðu gagnvart þeim, sem eru nær mörkuðunum á meginlandi Evrópu.
Forstjórinn gat þess einnig í Kastljósþætti RÚV á dögunum, að fyrirtækjasamstæður hefðu visst svigrúm til að ákveða, hvar arður samstæðunnar kemur fram. Samkvæmt túlkun hans á (ESB)-lögunum hefur íslenzka þjóðin sem eigandi raforkufyrirtækjanna ekki hliðstætt svigrúm til að hlutast til um, hvar arðurinn af orkunni kemur fram. Þessu þarf að breyta."
Þetta er kjarni málsins varðandi það efnahagslega tjón, sem orkupakkar ESB valda á Íslandi. Það er vafalaust rétt túlkun hjá Elíasi, að forstjórinn og þá væntanlega stjórn Landsvirkjunar túlka lögin (orkupakkana) þannig, að allur arður orkulindanna í nýtingu hjá Landsvirkjun eigi að falla til Landsvirkjunar.
Sama dag og grein Elíasar birtist í Mogganum birtist þar önnur góð grein, og var sú eftir Ásmund Friðriksson, Alþingismann. Þar stóð m.a., að hann liti svo á, að þessi arður væri bezt ávaxtaður hjá samfélaginu sjálfu, þ.e. heimilum og fyrirtækjum. Undir það er heilshugar hægt að taka, og um þetta snýst meginágreiningurinn um orkumálin.
Þar sem í ofangreindri stefnuyfirlýsingu Landsvirkjunar er einnig minnzt á verðmætasköpun, er þó ljóst, að túlkun forstjórans á stefnunni er röng. Hann hámarkar ekki verðmætasköpun úr orkunni hér innanlands með því að hámarka verð hennar, heldur með því að orkuverðið skapi framleiðslufyrirtækjunum lífvænlega samkeppnisstöðu á alþjóðlegum mörkuðum, svo að þau geti framleitt og hagnazt sem mest á að auka virði raforkunnar í vöruútflutningi. Slíkt verður ætíð helzti virðisaukinn af raforkuvinnslunni.
Þá eru orð forstjóra Landsvirkjunar almennt um flutning arðs innan samstæðu dylgjur einar um stóriðjuna í heild og sýna, að forstjórinn er úti á túni sem faglegur forstjóri stærsta raforkufyrirtækis landsins, kominn langt út fyrir verksvið sitt og er raunar farinn að stunda bullandi pólitík gegn erlendum fjárfestingum í landinu. Við svo búið má ekki standa hjá Landsvirkjun. Það eru umbrotatímar og vorhreingerninga er þörf.
29.3.2020 | 14:24
Á heljarþröm í hörðum bardaga
Fjármála- og efnahagsráðherra lýsti því yfir 10. marz 2020, daginn sem framtalsfresti lauk, að forsendur fjárlaga ríkisins væru fallnar. Ástæðuna kvað hann efnahagslegar afleiðingar baráttunnar við SARS-CoV-2 veiruna. Merkilegar raðgreiningar Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) leiða í ljós, að á meðan sóttvarnaryfirvöld töldu meginhættuna stafa af skíðasvæðum Norður-Ítalíu og Austurríkis, þá smyglaði veiran sér inn í landið annars staðar frá, t.d. frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Þá voru yfirvöld þessara landa ekki meðvituð um vágestinn hjá sér, sem stafar sennilega af því, að sjúklingarnir hafi sjálfir talið sig vera með "venjulega" inflúensu, enda einkennin í mörgum tilvikum svipuð. Þetta er umhugsunarvert fyrir næsta faraldur. Á þá að setja alla farþega í sóttkví við komuna strax og vitnast um faraldur til að koma í veg fyrir það, sem nú gerðist, að hlutfallslegur fjöldi sýktra af skeinuhættum faraldri yrði í upphafi langhæstur á Íslandi ? Ítalir sýndu þessum kínverska vágesti í upphafi linkind og kæruleysi, en seint og um síðir (09.03.2020) hafa yfirvöldin séð sitt óvænna og sett alla þjóðina í sóttkví. Það mundi Þórólfur seint ráðleggja íslenzkum stjórnvöldum, enda var þessi ráðstöfun einstæð í sögunni, þegar til hennar var gripið. Það, sem verra er, það sér ekki fyrir endann á sóttkví Ítala. Til að takmarka heilsufarslegar og efnahagslegar afleiðingar veirufaraldra er lykilatriði að grípa þegar í stað til strangra gagnráðstafana.
Stjórnvöld hérlendis guma af styrkri stöðu íslenzka efnahagskerfisins og nefna til sögunnar stóran (mrdISK 900) gjaldeyrisvarasjóð og lágar skuldir ríkis og einkageira. Því miður eru undirstöðurnar ótraustar, svo að nú blasir við mikið tekjutap ríkisins og kostnaðarauki þess og þar af leiðandi skuldasöfnun. Ferðabann Bandaríkjastjórnar gagnvart Schengen svæðinu kippti grundvellinum undan fjölda fyrirtækja hér í ferðamennskunni. Sá geiri er svo fallvaltur og ósjálfbær, að óráðlegt er, að hlutfallslegt umfang hans verði jafnmikið í þjóðarbúskapinum og verið hefur. Það eru fleiri vaxtarbroddar til, sem verðugt er að gefa meiri gaum.
Við svo búið í ríkisrekstrinum má ekki standa, svo að við blasir, að endurskoðun fjármálaáætlunar verður ekki áhlaupaverk og líklega sársaukafull. Undirstöðurnar eru auðvitað atvinnulífið, en við blasir tímabundið hrun í ferðageiranum, sem er búinn að fjárfesta töluvert undanfarið, svo að fækkun fyrirtækja verður ekki umflúin. Vegna efnahagsáfalls heimsins mun ferðageirinn ekki ná sér hratt á strik.
Launakostnaður hins opinbera og atvinnulífsins hefur hækkað langt umfram framleiðniaukningu, sem þýðir, að verkalýðsfélögin hafa með kröfugerð sinni valdið því, að fjöldi atvinnulausra hefur og mun vaxa hratt. Þau voru búin að verðleggja félagsmenn sína út af markaðinum áður en reiðarslagið reið yfir, eins og stjórn Landsvirkjunar hefur í krafti einokunarstöðu sinnar á stórsölumarkaði raforku verðlagt fyrirtækið út af raforkumarkaðinum, en vegna einokunarstöðu þess tekur það tíma fyrir afleiðingarnar að birtast. Þetta er ógæfulegt og sýnir, að skipulag vinnumarkaðar, kjarasamningagerð og orkustefnan (orkulöggjöfin) eru í ógöngum og þjóna í raun engum, en hjakka í gamla stéttabaráttu- og okurfarinu.
Veiran hefur jafnvel eyðilagt sjávarvörumarkaðina um hríð, svo að allar bjargir gætu virzt bannaðar sem stendur. Sjávarútvegurinn hefur einnig orðið fyrir barðinu á breytingum í lífríkinu, sem engan veginn sér fyrir endann á. Fisksendingar frá Kína til Evrópu hafa stöðvazt, sem skapar fiskskort í Evrópu, en fiskmarkaðir þar og í BNA hafa lamazt. Óvíst er, hversu ginnkeyptir Evrópumenn munu verða fyrir matvælakaupum frá Kína, þegar fram í sækir, en þeir hljóta að ranka við sér fyrr en síðar og treysta þá á matvælagæði úr norðurhöfum. Nú stendur fastan sem hæst á meðal kaþólskra, og þá er venjulega hámark fiskneyzlunnar þar á bæ. Hvað eru Evrópumenn eiginlega að éta nú um stundir ? Framtíð skilvirks, sjálfbærs og tæknivædds sjávarútvegs, fiskiðnaðar og fiskeldis á Íslandi, er þó björt að nokkrum vikum liðnum í samanburði við aðra atvinnuvegi landsins.
Ekki er sömu söguna að segja af iðnaðinum almennt og allra sízt hinum orkusækna þungaiðnaði. Þar hafa lagzt á eitt offramboð á mörkuðum og hár tilkostnaður innanlands. Sérstaklega munar um verðkröfur Landsvirkjunar, sem hafa síðastliðinn áratug verið úr öllum takti við raunveruleikann. Á meðan alþjóðlegt orkuverð hefur lækkað, hefur raforkuverð til atvinnurekstrar hækkað á Íslandi. Það er engin skynsamleg skýring til á þessu, en öfugþróunina má rekja til fordildar stjórnenda Landsvirkjunar, skorts á viðeigandi orkustefnu í landinu og orkulaga, sem ekki henta hagsmunum Íslands.
Í þessu sambandi gefur skelegg afstaða Alþingismannsins Ásmundar Friðrikssonar þó góða von um önnur viðhorf á Alþingi en í stjórn Landsvirkjunar, en Ásmundur skrifaði þetta m.a. í grein sinni í Morgunblaðinu 7. marz 2020, sem bar heitið:
"Ögurstund í atvinnulífinu":
"Í mínum huga er samfélagið, heimili og atvinnulíf, þjóðarsjóðurinn, sem bezt nýtir hagnað ódýrrar raforku".
Þetta er hverju orði sannara hjá Ásmundi, og þess vegna ætti ríkisstjórnin að láta það verða sem lið í aðgerðum sínum gegn taprekstri fyrirtækja í fordæmalausri stöðu, þar sem heilu löndin hafa verið sett í sóttkví og farþegaflug liggur nánast hvarvetna niðri, að gefa Landsvirkjun fyrirmæli um að lækka raforkuverð sitt á heildsölumarkaði umtalsvert og endursemja við þá aðila, sem búið hafa við mestar hækkanir raforkuverðs frá 2011.
Þann 27. febrúar 2020 birtist í Viðskiptablaðinu grein eftir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóra, Samáls, með heitinu:
"Þegar Ísland tók fram úr Evrópu í lífsgæðum".
Hún hófst þannig:
"Eftir margra ára taprekstur álversins í Straumsvík er komið að því, að eigendur félagsins hyggist taka stefnumarkandi ákvörðun um framtíð álversins og skoða, hvort forsendur séu til að halda starfseminni áfram, eða hvort hún verði lögð niður. Ekki þarf að orðlengja, að það yrði mikið högg fyrir íslenzkt efnahagslíf.
Vitaskuld er ekkert "óviðeigandi" við það að vekja máls á stöðu fyrirtækisins og mikilvægi þess, að það búi við samkeppnishæf rekstrarskilyrði. Skárra væri það nú."
Það var búið að reifa vandamál stóriðjunnar á Íslandi svo rækilega í fjölmiðlum áður en SARS-CoV-2 var flutt til landsins, að aðvörunarbjöllur hljóta þá að hafa klyngt í eyrum ríkisstjórnarinnar og þar að auki rauð ljós að blikka á skrifstofu iðnaðarráðherra. Hún fer reyndar líka með málefni ferðageirans, sem yfirgnæfa öll önnur vandamál atvinnulífsins um þessar mundir vegna stöðvunar, sem enginn sá fyrir. Það á eftir að koma í ljós, hvernig hún og ríkisstjórnin bregðast við sérstökum vanda, sem stafar af ósjálfbærri verðlagningu Landsvirkjunar, en ef sú verður raunin í sumar, að RTA/ISAL tilkynni lokun verksmiðjunnar í Straumsvík, þá mun sú tilkynning koma á versta tíma fyrir hagkerfi landsins og bæta gráu ofan á svart. Ber ekki iðnaðarráðherra pólitíska ábyrgð á því, ef ekkert raunhæft hefur verið gert til að hindra það ? Að sama skapi, ef í ljós kemur, að hún hefur náð að beita áhrifum sínum í þá átt, að samningar takist á milli RTA/ISAL og Landsvirkjunar, sem tryggi rekstur fyrirtækisins áfram út samningstímabilið til 2036, þá fær hún pólitíska rós í hnappagatið fyrir sinn þátt.
RTA hefur mikið reynt til að selja ISAL, en án árangurs. Fyrirtækið er í raun óseljanlegt á markaðnum með núverandi raforkusamning. Hann er líkið í lestinni. RTA vill draga sig út úr álgeiranum, og þá er ekki annarra kosta völ en að loka verksmiðjunni. Það yrði mikið áfall fyrir starfsmenn verksmiðjunnar og nærsamfélagið, aðallega Hafnarfjörð, enda hafa ráðamenn bæjarfélagsins lýst yfir miklum áhyggjum vegna málsins og beita sér vonandi gagnvart þingmönnum SV-kjördæmis, enda um gríðarlegt hagsmunamál fyrir hag kjördæmisins að ræða, að ISAL fái að þróast og dafna eðlilega á sinni lóð á næstu árum.
Pétur Blöndal skrifaði meira í téðri grein sinni:
"Ekki er langt síðan hætt var við kaup Norsk Hydro á álverinu í Straumsvík, eftir að dregizt hafði hjá evrópskum samkeppnisyfirvöldum að gefa samþykki sitt. Það segir sína sögu um stöðu álversins, að kaupverðið var einungis mrdISK 35 [MUSD 350 - innsk. BJo]. Til að setja það í samhengi má nefna, að Rio Tinto hafði nýlokið við mrdISK 60 fjárfestingarverkefni í Straumsvík, hið stærsta á Íslandi frá hruni. Sú fjárfesting skilaði 15 kt/ár framleiðsluaukningu, og að allar afurðir fyrirtækisins eru nú virðisaukandi, stangir með sérhæfðum málmblöndum fyrir hátt í 200 viðskiptavini."
Norsk Hydro hefur að líkindum misst áhugann á þessum kaupum í líkingu við aðra, sem orðaðir hafa verið við kaup á starfseminni í Straumsvík. Það er ekki vegna uppsetts verðs og ekki vegna þess, að framleiðslan sé ófýsileg. Hluti af ofangreindum fjárfestingum voru nýjar mengunarvarnir til að mæta kröfum um losun á enn minna af flúoríðum í gasi og ryki á hvert framleitt áltonn. Mjög góð tæknileg tök eru á rafgreiningunni, svo að losun koltvíildis er niðri við fræðilegt lágmark.
Áratuga hefð er fyrir framleiðslu á sérhæfðum vörum í steypuskála ISAL. Það, sem gert var 2011-2013, var að umbylta framleiðslulínum hans, sem áður framleiddu völsunarbarra eftir pöntun viðskiptavina, yfir í að framleiða sívalninga af ýmsum gildleikum, lengdum og melmum. Þetta var gert til að skapa sér aukna sérstöðu á markaðinum og enn hærra afurðaverð.
RTA samþykkti árið 2008 fjárveitingu til gríðarlegrar styrkingar raforkukerfisins í Straumsvík, og 2009 var ákveðið að auka afkastagetu þess til að geta séð kerskálunum fyrir enn hærri straumi til framleiðsluaukningar. Það var þannig mikill hugur í eigandanum á þessum tíma, og hann var staðráðinn í að gera verksmiðjuna eins samkeppnishæfa og unnt væri, en því miður heyktist hann á að stíga skrefið til fulls með því að styrkja leiðarakerfi rafgreiningarkeranna, eins og áformað hafði verið til að auka framleiðsluna upp í a.m.k. 230 ktAl/ár. Er áreiðanlegt, að framkoma Landsvirkjunarmanna með forstjórann, Hörð Arnarson í broddi fylkingar, í viðræðunum um nýjan raforkusamning, átti þátt í að drepa niður áhuga RTA á þeim auknu raforkukaupum, sem áform voru um. Er líklegt, að allt verði þetta rifjað upp, ef til málaferla kemur á milli RTA og Landsvirkjunar út af stöðvun starfseminnar og þar með stöðvun orkukaupanna.
Álverin eru stórir kaupendur alls konar annarrar þjónustu innanlands. Þar koma við sögu alls kyns verktakar og birgjar. Pétur skrifaði um þetta:
"Á hverju ári kaupa íslenzk álver vörur og þjónustu af hundruðum fyrirtækja hér á landi, og nam sá kostnaður mrdISK 23 árið 2018; er þá raforka undanskilin. Það er því rangt, sem stundum er haldið fram, að sala á orku til íslenzkra álvera jafngildi útflutningi á orku - í raun er minnihluti þess mrdISK 86 kostnaðar álvera, sem til féll hér á landi árið 2018, kominn til vegna raforkukaupa."
Þessi heildarkostnaður innanlands jafngildir um 62 USD/MWh. Þetta er lágmarksviðmiðun um nettó verðið, sem fást þyrfti fyrir orku um sæstreng til útlanda. Með nettó verði er átt við markaðsverðið að frádregnum flutningskostnaði og kostnaði vegna orkutapa. Markaðsverðið á Nord Pool var þann 12.03.2020 8,7 EUR/MWh, sem jafngildir 9,7 USD/MWh. Það er ekkert, sem bendir til þess, að á næsta áratugi geti orðið hagkvæmt að flytja út orku um sæstreng, þótt Landsvirkjun hóti því jafnan í viðræðum um raforkuviðskipti hérlendis eða láti skína í þann möguleika sem valkost fyrir sig.
17.3.2020 | 13:50
Útskýri stefnu á ögurstundu
Kveikjan að þessum vefpistli er stutt frásögn Morgunblaðsins 5. marz 2020 af ályktun Bæjarráðs Akraness undir fyrirsögninni "Útskýri stefnu" og ljómandi góð og tímabær grein Ásmundar Friðrikssonar, Alþingismanns Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu 7. marz 2020, sem bar hið sláandi heiti:
"Ögurstund í atvinnulífinu".
Víkjum fyrst að frásögn Morgunblaðsins undir áherzluatriðinu:
"Skagamenn krefja Landsvirkjun svara":
"Útskýringar þarf frá Landsvirkjun á því, hver er stefna fyrirtækisins gagnvart orkusæknum iðnaði á Íslandi. Þetta segir í ályktun bæjarráðs Akraness, sem vekur athygli á því, að Landsvirkjun hafi í krafti yfirburðastöðu í raforkusölu á stórnotendamarkaði knúið fram mjög miklar hækkanir á raforkuverði til orkusækins iðnaðar.
Slíkt telja Akurnesingar geta leitt til verulegs samdráttar í starfsemi stórfyrirtækja á Grundartanga með tilheyrandi fækkun starfa. Með slíku sé einvörðungu hugsað um að hámarka arðsemi Landsvirkjunar, en ekki horft til heildarhagsmuna þjóðar."
Hér er um eðlilega og löngu tímabæra ályktun bæjaryfirvalda Akranesskaupstaðar að ræða, en Elkem á Íslandi (Járnblendiverksmiðjan) glímir nú við afleiðingar raforkuverðshækkunar í kjölfar úrskurðar gerðardóms, sem fór bil beggja, en Landsvirkjun lýsti samstundis yfir óánægju sinni af því offorsi, sem nú einkennir afstöðu einokunarfyrirtækisins Landsvirkjunar til orkuverðs, með þeim afleiðingum, að hún tapar árlega nýjum viðskiptum og gamlir viðskiptavinir eru bókstarflega keyrðir í þrot. Þegar ferðamannageirinn hefur orðið fyrir rothöggi, eins og nú af völdum CoVid-19, ríður á sem aldrei fyrr að keyra allt annað í landinu á fullum afköstum. Ríkisfyrirtækið Landsvirkjun leggst þversum gegn því með kolvitlausri verðlagsstefnu sinni, sem er algerlega úr takti við þróun orkuverðs í heiminum.
Kannski er einmitt verst af öllu, að Landsvirkjun er ekki með á nótunum um þróun orkuverðs almennt til stórfyrirtækja í heiminum, en það hefur farið lækkandi frá 2011. Ríkisstjórnir í ESB hafa greitt orkuverðið niður um 10,5 USD/MWh (9,5 EUR/MWh), og norska ríkisstjórnin um 6 USD/MWh. Á sama tíma okrar ríkisorkufyrirtækið á iðnfyrirtækjum hérlendis, sem berjast í bökkum, og ríkisstjórnin hér, kaþólskari en páfinn að vanda, setur kíkinn fyrir blinda augað og þykist hvergi nærri mega koma (út af EES-samninginum og orkupökkum ESB). Hún bíður nú rétt einu sinni eftir skýrslu. Núverandi ástand krefst skjótra ákvarðana og leiðtogahæfni. Yfirvöld, ber að heybrókarhætti, þegar að sverfur, eru ekki á vetur setjandi.
Viðkvæði forstjóra Landsvirkjunar þess efnis, að henni beri að hámarka ávöxtun náttúrulegra orkulinda þjóðarinnar (í anda orkupakkanna), verður ekki lengur tekið gott og gilt, af því að það á við samkeppnisumhverfi, en Landsvirkjun er hins vegar í einokunaraðstöðu, og þar verður þessi stefna stórskaðleg fyrir atvinnulífið. Keppinautarnir hefðu einfaldlega hirt viðskiptavinina af Landsvirkjun við þessa hegðun hennar í samkeppnisumhverfi, sem þýðir, að þeir hefðu boðið verð, sem bæði þeir og viðskiptavinir þeirra gætu búið við. Það þarf að vera sambærilegt verðinu, sem í boði er erlendis, að frádregnum öllum viðbótar kostnaðinum samfara staðsetningu viðskiptavinanna á Íslandi. Þetta er núna, með flutningsgjaldi, talsvert undir 30 USD/MWh, og er samt vel yfir meðalkostnaði vatnsaflsvirkjana á Íslandi. Í gufuvirkjunum er hins vegar úr vöndu að ráða vegna niðurdráttar í virkjuðu gufuforðabúri, og þess vegna erfiðara að slá á meðalkostnað þeirra, en liklega er hann um eða undir 30 USD/MWh.
Í lok frásagnar Morgunblaðsins er þessi tilvitnun í téða ályktun bæjarráðsins:
""Stjórn Landsvirkjunar ber alla ábyrgð á stefnu fyrirtækisins og framgöngu forstjórans, og því kallar bæjarráð eftir því, að stjórnarmenn Landsvirkjunar, og þá sérstaklega stjórnarformaðurinn, Jónas Þór Guðmundsson, stígi fram úr skugga forstjórans og útskýri fyrir íslenzku þjóðinni, hvert stjórn Landsvirkjunar sæki umboð sitt til að ganga fram með þessum hætti", segir bæjarráð Akraness. Kallar ráðið því eftir útskýringum t.d. á því, hvort ráðagerðir fyrirtækisins samræmist leiðarljósum fyrirhugaðrar orkustefnu um að hámarka samfélagslegan ávinning af nýtingu orku, styðji við atvinnustefnu og jákvæða byggðaþróun."
Ekkert bólar á svari stjórnar Landsvirkjunar. Er það með öllu ólíðandi framkoma hjá ríkisfyrirtækinu, ef í ljós kemur, að stjórn Landsvirkjunar ætlar að hundsa ósk Akranesskaupstaðar um útskýringar á því, sem gerzt hefur. Þetta er ekki heilbrigt ástand hjá Landsvirkjun. Eðlilegt væri, að stjórnin mundi skrifa bæjarráðinu svarbréf og bjóðast til að senda formanninn til fundar með bæjarráðinu. Bréf og fundargerð ættu að vera opinber plögg í lýðræðisþjóðfélagi. Það er rétt hjá bæjarráðinu, að stjórn Landsvirkjunar skuldar þjóðinni skýringar á stefnumörkun sinni.
Sú staða, sem virðist vera að koma upp í samskiptum Landsvirkjunar við landsmenn, er svo alvarleg, að ráðherra iðnaðar verður að kippa strax í taumana, þannig að Landsvirkjun magni ekki upp vanda aukins atvinnuleysis og minnkandi gjaldeyrisöflunar þjóðfélagsins, heldur stuðli að því að koma þeim hjólum atvinnulífsins, sem ekki eru stopp vegna CoVid-19, á fullan snúning.
Ásmundur Friðriksson, Alþingismaður, kom víða við í sinni ágætu grein, sem minnzt var á í upphafi. Það, sem hann skrifaði um raforkumálin og ráðstöfun orkunnar, kom fram í undirgreininni:
"Virðisauki raforkunnar":
"Miklu púðri hefur verið eytt í skýjaborgir um sæstreng til Bretlands, verkefni, sem á sér engar efnahagslegar forsendur, nema brezka ríkisstjórnin leggi til stórfelldar niðurgreiðslur í marga áratugi. Við verðum að átta okkur á því, að draumurinn um sæstreng er áratuga gamall og mun eflaust lifa lengi í huga draumóramanna."
Þetta er hárrétt athugað hjá þingmanninum, og sæstrengsverkefnið missir auðvitað æ meir fótanna með sífelldri raunlækkun orkuverðs síðan 2011. Undir því er enginn viðskiptagrundvöllur með heildsöluverð rafmagns hjá Nord Pool undir jafngildi 100 USD/MWh (og er þá ekki tekið tillit til virðisaukans, sem rafmagnið myndar við nýtingu á Íslandi), og Nord Pool verðið er jafnvel aðeins 1/10 af þessu lágmarki um þessar mundir.
Draumar voru bundnir við styrk til verkefnisins frá Evrópusambandinu, ESB, en líkur á slíku dofnuðu verulega við útgöngu Breta úr ESB, enda hefur "Ice-Link"-strengurinn verið tekinn út af forgangsverkefnaskrá ESB um innviðaverkefni innan EES.
Þá er eftir, það sem Ásmundur nefnir, ríkisstuðningur Breta. Hann er úr þessu næstum útilokaður, því að þeir hafa einskorðað ríkisstuðning við vindorkuver úti fyrir ströndum Bretlands. Það kom þess vegna eins og skrattinn úr sauðarleggnum, þegar iðnaðarráðherra gat þess um daginn, að hún vildi alls ekki útiloka þátttöku Íslands í enn einni fýsileikarannsókninni á aflsæstreng til útlanda. Kannski er hún þá með annan lendingarstað í huga en Stóra-Bretland ? Skattfé eða ráðstöfunarfé íslenzkra ríkisfyrirtækja er hins vegar betur varið í flest annað nú um stundir en sæstrengsdraumsýnina. Það er ekkert vit í því fyrir stjórnmálamenn að ljá máls á peningum í svo vonlaust verkefni sem hér um ræðir. Þeir ættu að láta einkaframtakið alfarið um slíkt.
"Er staða ISAL kannski draumur þeirra, sem vilja [sjá] sæstreng rætast. Að þar verði störfum og afkomu þúsunda fórnað fyrir rafstreng, sem tengir landið markaðsverði raforku í Evrópu og við flytjum út virðisauka endurnýjanlegrar raforku, sem þjóðin öll á ? Þeir, sem trúa blint á markaðshugsun og telja, að tenging við raforkumarkað Evrópusambandsins sé hin eina sanna lausn, eru að kalla yfir okkur fækkun starfa og stórkostlega hækkun á raforkuverði fyrir íslenzk heimili og atvinnulíf."
Það er fagnaðarefni, að mætur þingmaður skuli hér velta fyrir sér opinberlega, hvort samhengi sé á milli núverandi orkuverðsvanda í Straumsvík og greinilegum áhuga á að selja raforku um sæstreng til útlanda. Svo vill til, að þessi mál tengjast bæði einum manni, núverandi forstjóra Landsvirkjunar, sem gekk hart fram gegn RTA/ISAL 2010-2011 og hefur sýnt manna mestan áhuga á, að Evrópumarkaðirnir opnist fyrir Landsvirkjun. Í ljósi viðbragða hans í febrúar 2020 við neyðarkalli RTA/ISAL 12.02.2020 berast böndin sterklega að forstjóra þessum.
Við þessar aðstæður verður þó að gefa gaum líka að ríkisstjórnarhliðinni, því að Landsvirkjun er alfarið í ríkiseign. Á stóli iðnaðarráðherra situr nú manneskja, sem virðist "trúa blint á markaðshugsun". Það kom berlega í ljós í umræðunni um Orkupakka 3 (OP#3), að hún taldi honum það mest til ávinnings, að hann mundi auka samkeppni á raforkumarkaði. Hún hélt því þá fram, að orkukostnaður almennings hefði lækkað vegna aukinnar samkeppni frá innleiðingu OP#1 árið 2003, en það var hrakið í grein hagfræðiprófessors í skýrslu "Orkunnar okkar" í ágúst 2019. Hún hefur jafnframt sem iðnaðarráðherra verið jákvæð í garð frekari rannsókna á fjárhagslegum og tæknilegum fýsileika slíks sæstrengs.
Með sæstreng tengjumst við uppboðsmarkaði Nord Pool í Norð-Vestur Evrópu. Öll fyrirtæki og heimili munu þá lenda í bullandi samkeppni við fyrirtæki og heimili í NV-Evrópu. Óneitanlega er þetta raunveruleg samkeppni, því að við munum geta flutt inn raforku, einkum að næturlagi, þegar Landsvirkjun skrúfar verð sitt upp úr öllu valdi. Er þetta virkilega draumsýn iðnaðarráðherra ? Almenningur á Íslandi veit lengra en nef hans nær og hefur alltaf gert. Hann sér í hendi sér, að atvinnulífið á Íslandi verður ein rjúkandi rúst, ef þetta gerist, og að sjálfsögðu mun fólkið fylgja á eftir orkunni, sem þannig er seld úr landi.
Alþingi endurspeglar ekki nákvæmlega þetta viðhorf, en það er samt að líkindum núna meirihluti gegn sæstrengstrengingu, og ekki væri nú að ófyrirsynju að staðfesta það, iðnaðarráðherra og öðrum til glöggvunar, með því að henda í eina þingsályktunartillögu þess efnis. Hún væri þá innlegg í orkustefnu, sem er í smíðum á vegum iðnaðarráðuneytisins.
"Í mínum huga er samfélagið, heimili og atvinnulíf, þjóðarsjóðurinn, sem bezt nýtir hagnað ódýrrar raforku. Ég mun berjast til síðasta manns fyrir því, að virðisauki raforkunnar verði til í landinu, svo [að] samfélagið njóti fjölbreyttra, vel launaðra starfa, sem raforkan mun skapa framtíðarkynslóðum þessa lands."
"Svona eiga sýslumenn að vera." Hér talar fulltrúi sannra sjálfstæðismanna, íhaldsmanna, sem vilja halda í upprunalega stefnu flokksins í þessum efnum, allt frá fyrsta formanni flokksins, Jóni Þorlákssyni, landsverkfræðingi, til Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins. Sú stefna, sem dr Bjarni Benediktsson og Jóhann Hafstein náðu að hrinda í framkvæmd í samstarfi við Alþýðuflokkinn á Viðreisnarárunum, hefur gefizt svo vel, að fullyrða má, að átvinnulíf, raforkukerfi og lífskjör í landinu væru ekki svipur hjá sjón, ef þessi barátta frumkvöðlanna hefði ekki borið árangur. Atvinnuuppbygging verður að njóta forgangs umfram auðhyggju. Þá mun landinu vel vegna til lengdar, þótt mótvindar séu óhjákvæmilegir á öllum löngum siglingum.
11.3.2020 | 10:56
Rangar ákvarðanir í orkumálum verða afdrifaríkar
Ef hrapað er að stefnumörkun í orkumálum, getur það hæglega haft afdrifaríkar afleiðingar á þjóðarbúskapinn, því að nýttar orkulindir landsins leika stórt hlutverk í verðmætasköpun þjóðfélagsins. Jafnvel Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, sem oft hefur opinberlega sýnt megna andúð á starfsemi stóriðjufyrirtækja í landinu af ástæðum, sem ekki styðjast við rökræna hugsun, þykist þó átta sig á mikilvægi "skynsamlegrar" orkulindanýtingar. Hætt er þó við, að "skynsamleg orkulindanýting" leiði umræðuna út um víðan völl og út í "eitthvað annað", því að það er eins og gengur; það, sem einum þykir skynsamlegt, finnst öðrum óskynsamlegt. Að henda inn þessu lýsingarorði án þess að útskýra merkinguna neitt nánar er þess vegna út í hött og leiðir umræðuna aðeins í hringi, sem eru endalausir, eins og kunnugt er.
Björt skrifaði rislitla grein í Morgunblaðið 27. febrúar 2020, sem hún nefndi:
"Landsvirkjun og Rio Tinto".
Hún kveður "Mining Journal" hafa sagt frá samrunatilraun Rio Tinto og Glencore og heldur, að við það versni samningsstaða einokunarfyrirtækisins Landsvirkjunar við stóriðjuna á Íslandi. Hún lætur sér hins vegar einokunarstöðu Landsvirkjunar á sviði stórsölu raforku í réttu rúmi liggja og horfir algerlega fram hjá því tjóni, sem misbeiting Landsvirkjunar á þeirri einokunarstöðu í landinu hefur haft og mun hafa, ef stjórnendur á þeim bæ ekki bæta ráð sitt. Miðað við þögn stjórnar Landsvirkjunar hingað til og hrokafullt framferði forstjórans er slíkt borin von.
Það hefur reyndar lengi verið ljóst, að boltinn eða öllu heldur "heita kartaflan" er hjá ríkisstjórninni, og hún þarf ekki að halda, að CoVid-19 dragi úr nauðsyn þess, að hún grípi til aðgerða á þessu sviði, því að veiran sú hefur þegar valdið aðalmjólkurkúnni doða (ferðamannastarfseminni), og þá ríður á að gefa hinum kúnum í fjósinu betra hey en hingað til, svo að þær veslist ekki upp og drepist. Þetta verður einn af prófsteinum ríkisstjórnarinnar á síðari hluta þessa kjörtímabils. Hún á að geta ráðið við þetta, en til þess nægir þó ekki fagurgali eða reykmerki, heldur verður að hafa bein í nefinu til framkvæmda. Ef það er ekki fyrir hendi, eru nægir slíkir í þingliði Sjálfstæðisflokksins til að taka við keflinu, þegar á reynir. Þeim mun ekki vaxa þetta verkefni í augum.
Téð grein Bjartrar Ólafsdóttur hófst þannig:
"Þessa dagana er tekizt á um mikla hagsmuni Íslendinga í deilu Rio Tinto og Landsvirkjunar. Ég er með raunveruleikann alveg á hreinu. [Svona skrifa aðeins sanntrúaðir, en þessi sanntrúaði lifir reyndar í sýndarveruleika, eins og fram gengur síðar í þessum pistli - innsk. BJo.]
Skynsamleg auðlindanýting hefur verið undirstaða allra þeirra ríkja í heiminum, sem hefur í gegnum söguna vegnað vel. [Það er ekkert annað, en hvað með þær, sem hafa ekki komizt "í gegnum söguna" ? Þær hafa líklega ekki beitt "skynsamlegri" auðlindanýtingu að mati Bjartrar. Það mun fara eftir duttlungum Bjartrar, hvað er "skynsamlegt" í þessum efnum, en hvorki mati einkaframtaksins né Skipulagsstofnunar.] Ef ríkjum hefur svo tekizt að bæta þar ofan á fjölbreyttum leiðum til verðmætasköpunar, í gegnum [svo !?] nýsköpun og aðra snilli, þá hefur þeim áfram vegnað vel, og lífsskilyrði borgaranna hafa verið stöðug og góð."
Þetta er loftkenndur, dönskuskotinn og flatneskjulegur texti, enda vantar raunverulega hugsun í hann, þ.e. að drifkraftur fjárfestinga, atvinnusköpunar og framfara er auðvitað markaðurinn, en ekki stjórnvöld. Þá gildir einu, hvort um er að ræða nýtingu náttúruauðlinda eða úrvinnsluiðnað, og þessi markaður verður að hafa hvata til að starfa, þ.e. starfsskilyrðin verða að vera samkeppnishæf. Þar stendur hnífurinn í kúnni núna á Íslandi, og þess vegna er hluti gjaldeyrissköpunarinnar hérlendis að stöðvast um þessar mundir.
Mannvitsbrekkan, hin stóriðjufjandsamlega Björt Ólafsdóttir, hefur áttað sig á því, að stefna og verk Landsvirkjunar eru nú að rústa stóriðjunni í landinu, sem Björt hefur lengi dreymt um, að gerast mundi, og þess vegna tók hún sig til í lok þessa fimbulfambs og bar lof á Hörð Arnarson og Jónas Þór Guðmundsson, sem eru hetjurnar hennar Bjartrar nú um stundir, en skamma hríð verður hönd höggi fegin. Grein sinni lauk Björt þannig:
"Það hefur því miklu meiri áhrif á Rio Tinto að fara fram af ruddaskap [hver er ruddinn ? - innsk. BJo] við Íslendinga, sem lætur þá líta illa út í öllu samstarfi (lækkar þeirra ESG) [= "Environment, Social and Governance" samkvæmt útskýringu Bjartrar] en að lækka raforkusamning hér. Verkefni stjórnmálanna hlýtur því að vera það að styðja við þá Hörð Arnarson og Jónas Þór Guðmundsson til að standa fast á okkar. Stjórnmálamenn og hagsmunasamtök geta einmitt gert gagn með því að láta þau skilaboð berast skýrt til þeirra erlendu aðila á mörkuðum, sem Rio Tinto reiðir sig á í miklu stærra samhengi en bara á litla Íslandi. Svo væri lag að ræða um framtíðina, hvernig ætlum við að halda áfram að auka verðmætasköpunina fyrir auðlindina okkar."
Þetta er nú meiri endemis samsetningurinn og ekki amalegt fyrir þá Landsvirkjunarkumpána að geta nú hóað í þetta ESG, sem ekkert hefur þó spurzt til áður, þegar mest liggur við. Ef hins vegar Björt, þessi, Ólafsdóttir hefði snefil af jarðsambandi, þá myndi hún spyrja og svara því í sömu grein, hvernig á að útvega þeim 1250, sem Hagfræðistofnun HÍ kveður hafa beinan og óbeinan starfa af starfseminni í Straumvík, vinnu, sem ekki er síður vel borguð en sú, sem þau hafa nú.
8.3.2020 | 17:44
Styr stendur á milli LV og SI
Það hefur ekki farið framhjá blaðalesendum og sjónvarpsáhorfendum, að styr stendur á milli Landsvirkjunar (LV) og Samtaka iðnaðarins (SI). Um nokkurra ára skeið hefur stjórn SI verið á öndverðum meiði við orkufyrirtækin um útflutning s.k. upprunaábyrgða fyrir raforku. Á heimasíðu samtakanna, https://www.si.is, er m.a. greining Samtakanna á þessu fyrirbrigði, frá 19.02.2020, og niðurstaðan er á þann veg, að þessi útrás þjóni ekki hagsmunum íslenzks atvinnulífs í heildina.
Eftir að tilkynning RTA/ISAL í Straumsvík var gefin út þann 12.02.2020 um það, að eigandinn héldi vart lengur út stöðugt og mikið tap af rekstri ISAL, fóru að birtast einkennilegar skeytasendingar frá forstjóra LV um, að orkusamningur LV við ISAL væri sanngjarn og hinn alþjóðlegi eigandi fyrirtækisins væri bara kominn í áróðursstríð við LV, fyrirtæki þjóðarinnar, til að knýja fram raforkuverðslækkun. Mátti skilja á forstjóranum, að lækkun væri óþörf, enda ætti tapið sér aðrar orsakir. Þessi málflutningur forstjóra LV er fáheyrður og engu líkara en hann sé kominn í krossferð gegn stærstu viðskiptavinum LV. Spyrja má, hvort þessi málflutningur sé uppi hafður með samþykki stjórnar LV og eiganda fyrirtækisins, því að forstjórinn er hér kominn langt út fyrir viðskiptaleg mörk og farinn að reka bullandi pólitík. Allur málflutningur hans er þýddur samstundis og sendur á borð eiganda ISAL og líklega fleiri fjárfesta. Verður hvorki séð, að hann geti orðið viðskiptahagsmunum LV til framdráttar né orðspori Íslands sem heimahöfn erlendra fjárfestinga til að nýta endurnýjanlegar og kolefnisfríar orkulindir Íslands. Þvert á móti bendir margt til, að málflutningur forstjóra LV verði vegna eignarhaldsins á LV túlkaður erlendis sem stefna stjórnvalda, og það stórskaðar ímynd Íslands sem áhugavert fjárfestingarland. Skraf forstjóra stærsta orkufyrirtækis landsins getur orðið landinu þungbærari baggi en útflutningur hans á upprunavottorðum orkunnar, sem fyrirtæki hans vinnur úr íslenzkum orkulindum. Stjórnvöld verða tafarlaust að setja forstjóranum stólinn fyrir dyrnar og sýna gjörólíka afstöðu og stefnumörkun í verki. Linkind og léttúð í þessu máli getur orðið almenningi dýrkeypt.
Samtök iðnaðarins (SI) hafa með réttu haldið því fram, að raforkuverð til miðlungsstórra og stórra raforkunotenda væri í seinni tíð (frá 2011) ekki lengur samkeppnishæft við alþjóðlega markaði. Fyrir þetta og fyrir andstöðu SI við útflutning upprunaábyrgða raforku hefur forstjóri LV opinberlega beint spjótum sínum að SI. Dæmi um þetta gaf á að líta í Morgunblaðinu 22.02.2020 í grein Harðar Arnarsonar undir heitinu:
"Hverra hagsmuna gæta Samtök iðnaðarins ? - Fimm spurningar til samtakanna".
Hún hófst þannig:
"Samtök iðnaðarins og Samál hafa nú um nokkurt skeið staðið í áróðursherferð gegn orkufyrirtækjum í eigu almennings á sama tíma og Rio Tinto, aðildarfyrirtæki þeirra, reynir að fá lækkað raforkuverð.
Reynt er að halda því að almenningi, að Ísland sé ekki "land endurnýjanlegrar orku, og tilraunir gerðar til að koma í veg fyrir, að orkufyrirtækin geti aukið verðmætasköpun fyrir íslenzkt samfélag með þátttöku í viðskiptum með upprunaábyrgðir."
Það er með endemum, að forstjóri LV skuli blanda saman þessum tveimur óskyldu málum. Það er gefið í skyn, að SI og Samál ráðist á LV fyrir útflutning hennar á upprunaábyrgðum, til að hún þurfi að berjast á tveimur vígstöðvum í þeirri von, að Rio Tinto Aluminium verði betur ágengt í viðleitni sinni að draga LV að samningaborðinu. Þessi málflutningur sæmir ekki forstjóra langstærsta raforkufyrirtækis landsins og bendir til, að forstjórinn sé úti á túni sem slíkur og farinn að stunda sína einkapólitík gegn stóriðjufyrirtækjunum í landinu. Auðvitað á hann sínar skoðanasystur og -bræður um þetta hugðarefni sitt, en rekur hann erindi stjórnar Landsvirkjunar, þegar hann hagar sér svona, svo að ekki sé nú minnzt á fulltrúa eigandans, ríkisstjórnina og meirihluta þingheims ?
Nú er svo komið, aðallega fyrir tilstilli LV, að í bókahldi EES og Landsreglarans (Orkustofnunar) koma 55 % seldrar raforku hérlendis úr jarðefnaeldsneyti, 34 % úr kjarnorkuverum og aðeins 11 % úr sjálfbærum orkulindum. Almenn notkun, utan langtímasamninga, nemur um 20 % heildarsölunnar. Öllum almenningi standa miðað við þetta ekki til boða vottorð um sjálfbæran uppruna raforkunnar, sem hann kaupir, því að ESB leggur bann við tvítalningu sömu orkunnar í þessu bókhaldi, og á því er hnykkt í Orkupakka 4 að viðlögðum sektum.
Það er grundvallaratriði á Innri orkumarkaði EES, að engum fyrirtækjum sé mismunað á þessum markaði, heldur njóti þau jafnstöðu án tillits til eignarhalds, staðsetningar og starfsemi. Í Greinargerð SI frá 19.02.2020 er komizt að því, að þessi jafnstöðuregla sé brotin á Íslandi, a.m.k. í tilviki upprunaábyrgðanna:
"Fyrirtækjum á Íslandi er mismunað í kerfi upprunaábyrgða. Upprunaábyrgðir fylgja raforku til almennings og fyrirtækja á almennum markaði, en orkufyrirtækin undanskilja orkusækin fyrirtæki á borð við álver, kísilver og gagnaver. Þau fá ekki upprunaábyrgðir, nema greiða fyrir þær. Það er gagnrýnivert og sætir furðu, að orkufyrirtæki í opinberri eigu mismuni íslenzkum fyrirtækjum með þessum hætti. Austurríki og Spánn hafa sett lagalegar hindranir fyrir sölu upprunaábyrgða."
Landsreglaranum ber að líta á jafnstöðu fyrirtækja innan alls Innri markaðar EES. Hann lætur sig engu varða misskiptingu innan lítils bleðils á því svæði. Öðru máli á að gegna um Alþingismenn. Þeir eiga nú að fara að fordæmi þingmanna í Austurríki og á Spáni að þessu leyti og t.d. að semja um það þingsályktunarillögu, að orkufyrirtækjum, sem trúað hefur verið fyrir nýtingu endurnýjanlegra og kolefnisfrírra orkulinda Íslands, og fengið upprunavottorð í samræmi við það (frá Orkustofnun), skuli bjóða viðskiptavinum sínum á heildsölumarkaði "græn skírteini" gegn vægu gjaldi, er spanni kostnaðinn við umstangið af þessum "grænu skírteinum".
Þannig yrði viðskiptavinum orkufyrirtækjanna sparaður sá kostnaður, sem formaður og framkvæmdastjóri SI hafa fullyrt opinberlega, að hljótist af því að hafa ekki í höndunum þessi skírteini ásamt þeim bletti, sem falli á ímynd Íslands, þegar sjáist þau hlutföll um uppruna orkunnar, sem af útflutningi "grænu skírteinanna" leiðir. Framkvæmdastjóri SI hefur fullyrt, að heildarkostnaður íslenzks atvinnulís af þessu útrásaruppátæki orkufyrirtækjanna nemi margföldum útflutningsverðmætum þeirra. Forstjóri LV hefur beðið hann um að sýna fram á þetta, en ekki verður þess vart í svörum SI á heimasíðu samtakanna við 5 spurningum forstjórans. Ekki verður því trúað, að einvörðungu sé um ágizkun eða huglægt mat framkvæmdastjórans að ræða.
Reynsla höfundar þessa vefpistils er sú, að evrópskir viðskiptavinir hafi verið með á nótunum, en utan Evrópu fylltust menn tortryggni, þegar þeir sáu afleiðingar af útflutningi upprunavottorðanna, og einkum var erfitt að útskýra þessar ankannalegu tölur um uppruna í jarðefnaeldsneyti og kjarnorku fyrir fólki úr Vesturheimi. Ekki er höfundi þessa pistils þó kunnugt um, að viðskipti hafi tapazt eða viðskiptakjör versnað vegna þess arna. Það stendur upp á Samtök iðnaðarins að skýra frá því.
Að lokum er nauðsynlegt að árétta, að verðhækkunarstefna Landsvirkjunar fyrir afurð sína, rafmagnið, er algerlega úr takti við verðþróun orku almennt í heiminum síðan 2011. Til þess að samkeppnishæfni ISAL nú verði sú sama og á upphafstíma nýja orkusamningsins 2011, þarf raforkuverðið að lækka um 30 %. Um þetta snýst deilan.
5.3.2020 | 11:43
Úr tvenns konar fjósum
Höfundur þessa vefpistils var fjósamaður m.m. í fáein sumur hjá afa sínum og ömmu fyrir hartnær 60 árum í Vatnsdal í A-Húnavatnssýslu. Lánuðust honum mjaltir þokkalega með mjaltavélinni, svo að heimasætur af næstu bæjum áttu það til að kíkja við og líta á undrin, eða svo hugði ungur fjósamaður. Höfundur kann þess vegna vel að meta nú, þegar líkingamál skírskotar til mjólkurkúa eða fjósa.
Elías Elíasson, verkfræðingur, skrifaði merka grein í Morgunblaðið 25. febrúar 2020, þar sem hann gerði "Straumsvíkurdramað" að umræðuefni og setti á skarplegan hátt í samband við orkulöggjöfina, sem hér hefur verið innleidd og er nánast með húð og hári ættuð úr alls ólíku orkuumhverfi því, sem á Íslandi ríkir af náttúrulegum ástæðum, þ.e. úr fjósum hönnuða Innri markaðar Evrópusambandsins, ESB.
Það er augljós fingurbrjótur að innleiða viðskiptakerfi með raforku, sem reist er á virkri samkeppni birgjanna um viðskiptavini, í fákeppnisumhverfi og raunverulega einokaðan markað á sviði stórsölu til iðnaðar. Þessi fingurbrjótur var framinn með innleiðingu Orkupakka 1 og raforkulögunum 2003, og síðan var vaðið lengra út í ófæruna með Orkupakka 2 (2008) og arftaka hans nr 3 árið 2019.
Athugum, hvernig Elías Elíasson hóf téða Moggagrein sína:
"Blóðmjólkun er bágur búskapur":
"Þar kom að því. Stefna ESB í raforkumálum, innleidd hér með orkupökkum, er farin að ýta stóriðjunni úr landi, og fyrst í röðinni er álverið í Straumsvík. Þetta er búið að liggja í loftinu í mörg ár, en Landsvirkjun reynir enn að telja þjóðinni trú um, að það sé ekki raforkuverðinu að kenna, hvernig komið er. Nú er það orðið alveg skýrt. Landsvirkjun telur sér skylt, samkvæmt reglum ESB, að blóðmjólka viðskiptavini sína, svo lengi sem þeir tóra."
Elías hefur manna mesta þekkingu á orkumörkuðum hérlendis, og það eru yfirgnæfandi líkur á því, að ályktun hans sé rétt. Næsta þrep ályktunarstigans mundi fela í sér, að Landsvirkjun skirrist ekki við að láta skeika að sköpuðu um það, hvort atvinnureksturinn í Straumsvík (eða annars staðar) kiknar undan byrðunum eður ei. Landsvirkjun mun einfaldlega segja sem svo, að hún fylgi þeirri meginreglu raforkuvinnslufyrirtækja á Innri markaði EES að verðleggja orkuna eftir jaðarkostnaðarreglunni, sem við hérlendar aðstæður þýðir, að í öllum samningaviðræðum er á þeim bænum sett upp verð, sem er svipað og áætlaður kostnaður við raforkuvinnslu í næstu virkjun með dágóðri ávöxtun, a.m.k. 7,0 % (meðalávöxtun af fjárfestingum Landsvirkjunar frá upphafi hefur verið á bilinu 5,0 %-7,4 %). Þetta er kolvitlaus aðferðarfræði m.v. íslenzkar aðstæður, þar sem stór hluti fjárfestinganna hefur þegar verið bókhaldslega afskrifaður, og skammtíma jaðarkostnaður (kostnaður við næstu MWh) er nálægt 0. Þessi leið Landsvirkjunar er glötunarvegur, sem leiðir til þess, að iðnaðurinn hrekst úr landi og margt dugnaðarfólk með, sem við þurfum umfram allt á að halda til verðmætasköpunar í landinu. Hér er þess vegna í senn um að ræða stórpólitískt mál og efnahagsmál, sem kippt getur stoðunum undan kaupmætti og efnahagslegum stöðugleika hérlendis. Af þeim orsökum á ekki að líða neinar vífilengjur af hálfu ríkisvaldsins við að leiðrétta kúrsinn hjá sínu fyrirtæki.
Það er algerlega undir hælinn lagt, hvernig orkuverð í Evrópu mun þróast á næstu áratugum. Þannig hefur heildsöluverð á Nord Pool orkumarkaði Norð-Vestur Evrópu lækkað um helming nú á 3 mánaða tímabili. Samkvæmt lágspá (orkustefna Bandaríkjanna ríkjandi) US Energy Information Agency mun raunverð á jarðgasi standa í stað á næstu 30 árum, hækka um 50 % samkvæmt grunnspá (talin sennilegasta þróunin) og 2,6 faldast samkvæmt háspá (orkustefna ESB ræður för). Þannig er óásættanlega mikil áhætta fyrir þjóðarbúskap Íslendinga fólgin í því, sem blasir við sem afleiðing af verðlagningu Landsvirkjunar, að leggja iðnaðinn í rúst og flytja orkuna þess í stað út um sæstreng til hæstbjóðanda í Evrópu.
Í hverju er áhættan fólgin, ef lítið þarf að virkja og erlendir aðilar eiga sæstrenginn ?
Það þarf að reisa 400 kV línur og tengivirki (t.d. afriðla- og áriðlastöð við lendingarstað sæstrengsins), og það þarf að afla gjaldeyristekna, sem vega upp á móti verðmætasköpun iðnaðarins, sem verður fórnarlamb ruðningsáhrifa sæstrengsins. Ef þróun raforkuverðsins á Nord Pool, sem verður markaðurinn fyrir raforku til og frá Íslandi, mun fylgja ofannefndri grunnspá fyrir jarðgas, þá verður tap á þessum viðskiptum í samanburði við að halda núverandi iðnaði gangandi í landinu. Þetta þýðir, að núverandi verðlagningarstefna Landsvirkjunar er hreinræktuð ævintýramennska, og það er stórundarlegt, að fyrirtækið skuli komast svona lengi upp með hana. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt og tímabært, að bæjarstjórn Akraness skuli álykta með þeim hætti að fara eindregið fram á það, að stjórnarformaður Landsvirkjunar stígi fram úr skugga forstjórans og geri bæjarstjórninni og landslýð öllum grein fyrir stefnu Landsvirkjunar, og hvaðan stjórninni komi umboð til þeirrar stefnubreytingar, sem átt hefur sér stað hjá Landsvirkjun.
Verðþróun á áli og orku frá 2010 hefur orðið gjörólík því, sem þá var búizt við eða frá þeirri tíð, er samningaviðræður ISAL/RTA við Landsvirkjun stóðu sem hæst. Álverð hefur lækkað um 20 % og gasverð um 50 %. Auðlindin, sem, Landsvirkjun er trúað fyrir, hefur þannig lækkað að verðgildi á alþjóðlegum mörkuðum, en ekki hækkað, eins og búizt var við. Landsvirkjun hefur ekki aðlagað sig þessari þróun, heldur bætt gráu ofan á svart með verðlagsstefnu, sem fælt hefur nýja viðskiptavini frá og knúið gamla til að draga úr orkukaupum sínum. Þetta er mjög ógæfuleg stefna, sem endar með skipbroti, ef ekki fer fram aðlögun að raunveruleikanum.
Höldum nú áfram með Elías:
"Árið 2011, þegar skrifað var undir nýja samninga við Straumsvík, var álverð á uppleið á ný og talið var, að það mundi halda áfram að hækka, eins og búizt var við, að orkuverð mundi gera, en það fór á annan veg. Eftir skammvinnan verðtopp féll álverðið og hefur ekki náð sér á strik síðan."
Það hefur orðið forsendubrestur fyrir þennan umrædda orkusamning frá 2011, og í honum er einmitt endurskoðunarákvæði, sem grípa má til í slíkum tilvikum. Að vísu er það miðað við árið 2024, en með mrdISK 5-10 tap á ári, er ekki hægt að bíða þangað til.
Elías vill taka upp sveigjanlega verðlagningu raforku, eins og reyndar var við lýði til álveranna allra fram að 2011. Hugmyndin var sú, að báðir aðilar deildu með sér súru og sætu eftir þróun álverðsvísitölu, en fleiri vísitölur koma til greina:
"Þegar framangreind áhætta [álverð, orkuverð, ISK/USD] er skoðuð, er ljóst, að sveigjanlegt gengi krónunnar er ekki nóg til að bregðast við þeim áföllum, sem á íslenzka þjóðarbúinu dynja. Sveigjanlegt raforkuverð gæti bætt þarna úr, en það er tómt mál að tala um markaðsvæðingu að hætti ESB í því samhengi.
Íslenzka raforkukerfið gegnir því hlutverki einu að flytja orku fallvatna og jarðvarma til notenda, og virkjanirnar hafa það hlutverk eitt að breyta þessari orku í flutningshæft form, sem er rafmagn. Það er því rétt að eðli máls að líta á virkjanir sem hluta flutningskerfisins fremur en sem framleiðslueiningar fyrir vöru, enda eru þær frá náttúrunnar hendi misdýrar og geta því ekki keppt hver við aðra á grundvelli jafnstöðu [og markaðslögmála-innsk. BJo]."
Það eru þannig bæði hagsmunir fyrirtækjanna, sem í hlut eiga, og þjóðhagslegir hagsmunir, sem virka hvetjandi til að taka upp sveigjanlega verðlagningu raforku, þar sem hún hefur verið afnumin eða hefur aldrei verið fyrir hendi hérlendis.
Það er eðlisólíkt að framleiða rafmagn úr náttúruauðlindum, eins og á Íslandi, eða í kolakyntum, olíukyntum eða gaskyntum orkuverum eða kjarnorkuverum, eins og algengast er á Innri orkumarkaði ESB, og þess vegna gengur ekki upp að flytja hugmyndafræði um rafmagn sem vöru þaðan til Íslands. Uppstilling Elíasar sýnir einnig, að það er eðlilegt hérlendis að flutningskerfi raforku sé í eigu stærsta orkufyrirtækis ríkisins. Það getur þá byggt upp flutningskerfið með ágóðanum af vinnslunni, eins og gert var 1965-2005, og haldið þannig heildarkostnaði raforkunnar í skefjum fyrir notendur.
Í lok greinar sinnar fjallar Elías um íslenzka orkukerfið í samhengi við orkulöggjöf ESB:
"Ísland er afar smátt þjóðfélag, en það merkir, að fall fyrirtækja, sem teljast smá á erlendan mælikvarða, veldur meiri háttar efnahagslegri truflun hér. Við þurfum því meira svigrúm til að bregðast við slíkum hlutum en orkupakkarnir og EES-samningurinn gefa. Íslenzk stjórnvöld þurfa að losa um þær hömlur, sem þar leggjast á okkur, þannig að við höfum fullt frelsi yfir auðlindum okkar, til mörkunar orkustefnu og mótunar á raforkumarkaði. Orkuauðlindir Íslands og orka þeirra eiga að vera utan EES-samningsins, eins og ætlað var við gerð hans."
Fyrir Íslendinga var bæði óþarfi og óheillaspor, sem á eftir að draga langan slóða á eftir sér, að fella orkumálin undir EES-samninginn. Ísland er ekki á Innri markaði ESB fyrir raforku og landsmenn kæra sig ekki um það, enda mundi slíkt hafa skaðleg áhrif á lífskjörin hér. Hvort hægt er að nema orkupakkana úr gildi á Íslandi án uppsagnar EES-samningsins, er pistilhöfundi ekki ljóst, en fordæmalaust er það og ósennilegt.
Hin Morgunblaðsgreinin með skírskotun til fjóss í þessu sambandi birtist einnig 25. febrúar 2020 í Morgunblaðinu og er eftir Magnús Ægi Magnússon, rekstrarhagfræðing og stjórnarmann í hafnarstjórn Hafnarfjarðarbæjar. Grein hans er undir þeirri sláandi fyrirsögn:
"Straumsvík - að slátra mjóljurkúnni":
"Eins og Stefán E. Stefánsson, blaðamaður, bendir á í Morgunblaðinu 19. febrúar síðastliðinn, er ómögulegt að átta sig á því, hvort það er léttúð eða barnaskapur, sem rekur þetta fólk [gagnrýnendur ISAL] áfram. Freistast maður til þess að halda, að um hvort tveggja sé að ræða auk yfirgripsmikillar vanþekkingar á efnahagsmálum, gangverki efnahagsmála [auk] skilningsleysis á því, hvaðan þeir peningar koma, sem greiða alla okkar gríðarmiklu samneyzlu, svo sem rekstur Landspítala, umhverfisráðuneytisins og Umhverfisstofnunar."
Í upphafi snerist gagnrýnin á ISAL um ótta við erlendar fjárfestingar og áhrif erlendra fjárfesta á íslenzkt atvinnulíf. Þetta var heimóttarlegt og ekki reist á mikilli söguþekkingu, því að atvinnusaga síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. mótaðist af erlendum fjárfestingum í atvinnulífi landsmanna, aðallega á vegum Norðmanna, t.d. í hvalstöðvum og síldarverkun. Þá má ekki gleyma gríðarlegum fjármunum, sem Bretar og Bandaríkjamenn vörðu hér til að búa um sig og klekkja á Þriðja ríkinu. Allar þessar fjárfestingar, einnig í iðnaðaruppbyggingu á seinni hluta 20. aldar og í byrjun 21. aldarinnar, hafa umbylt verkþekkingu og leitt til mikillar gjaldeyrisaflandi verðmætasköpunar í landinu, enda sækjast allar velmegandi þjóðir eftir beinum erlendum fjárfestingum.
Næsta ádeiluefnið var mengun, en strax og tæknin leyfði um 1980 var í Straumsvík hafizt handa við umbyltingu í innri og ytri mengunarvörnum með lokun rafgreiningarkera og uppsetningu hreinsibúnaðar fyrir kerreykinn ásamt fitugildrum og rotþróm á allt frárennsli. Um langt skeið hafa ummerki verksmiðjunnar varla greinzt í gróðri sunnan verksmiðjunnar eða í kræklingi úti fyrir ströndinni, en ástand hans er notað sem mælikvarði á mengun í sjó.
Þriðja og síðasta gagnrýnisefnið er mikil koltvíildislosun og raforkunotkun áliðnaðarins. Þessir gagnrýnendur horfa framhjá því aðalatriði málsins, að sé litið á orkuöflun fyrir álframleiðslu og hana sem heild, þá er koltvíildislosunin á Íslandi innan við 14 % á hvert áltonn á við meðaltalið annars staðar í heiminum. Það gengur ekki upp að vera með miklar áhyggjur af loftslagsmálum í öðru orðinu, en í hinu orðinu að gagnrýna virkjun íslenzkra orkulinda fyrir álframleiðslu.
"Lengstum var gott samkomulag milli Landsvirkjunar og álversins í Straumsvík um fyrirkomulag sölu og kaupa á raforku. Báðir aðilar skildu, að það væri hagur beggja, að vel gengi hjá báðum. Svo virðist sem í kringum árið 2010 hafi þarna orðið breyting á. Komin var til valda í landinu "hrein vinstristjórn", en vinstri menn, sumir hverjir alla vega, hafa alla tíð verið áberandi í andstöðu sinni við byggingu og rekstur álversins og fundið því allt til foráttu.
Nýr forstjóri var ráðinn til Landsvirkjunar og nokkuð víst er, að dagskipun hafi komið til Landsvirkjunar frá ríkisstjórninni um, að nú skyldi brjóta upp raforkusamninga stóriðjufyrirtækjanna og láta þau finna til tevatnsins. Enginn velkist í vafa um það, að Landsvirkjun getur hækkað sitt raforkuverð að vild og þarf hvorki að spyrja kóng né prest um það. En það hafa aldrei þótt mikil búvísindi að slátra mjólkurkúnni."
1.3.2020 | 14:01
Á meðan Róm brennur
Sunnudagspistill iðnaðarráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, 23.02.2020, hét að sönnu:
"Miklir hagsmunir undir".
Hann hófst með minningarorðum um heiðursmanninn Jakob Björnsson, rafmagnsverkfræðing, og var upphafið þannig:
"Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, lézt í liðinni viku. Hann var orkumálastjóri í tæpan aldarfjórðung, eða frá 1973 til 1996, og tók eftir það virkan þátt í þjóðmálaumræðu um orkumálefni. Skýr og afgerandi sjónarmið hans um stóriðju voru áberandi í greinaskrifum hans. [Hann var eindreginn stuðningsmaður þess konar orkunýtingar á Íslandi - innsk. BJo.]"
Jakob Björnsson kenndi við Verkfræði- raunvísindadeild Háskóla Íslands, þegar þessi pistilhöfundur nam þar til verkfræðiprófs í s.k. fyrrihlutanámi þar og var einmitt skipaður þar prófessor af ráðherra vorið, sem pistilhöfundur útskrifaðist þaðan, 1972.
Á þriðja og lokaári þessa fyrri hluta naut þessi pistilhöfundur leiðsagnar hins góða læriföður um myrkviði doðrants eins mikils eftir sænskan prófessor, og bar doðranturinn nafnið "Electrisitetslära". Útskýringar, dæmaleiðsagnir og leiðbeiningar í tímum og í föðurlegum samtölum hans við dolfallna stúdenta að kennslustundum afstöðnum féllu í frjóan jarðveg og voru afar uppörvandi yfirhlöðnum stúdentum. Þannig kynntist pistilhöfundur þessum sómamanni og góða kennara og síðan lítils háttar sem ráðleggjanda eftir heimkomu 1976 að loknu embættisprófi í rafmagnsverkfræði frá Norges Tekniske Högskole í Þrándheimi og vinnu við hönnun rafkerfa um borð í stærsta olíubor- og vinnslupalli Noregs fram að þeim tíma, Statfjord. Minningin um framúrskarandi mann og verkfræðing mun lifa.
Iðnaðarráðherra tíndi síðan til "margvíslegan ávinning af stóriðju". Það er þó vonandi ekki þannig, að iðnaðarráðherra ætli að láta skeika að sköpuðu um það, hvort orkusækinn iðnaður heyri brátt sögunni til á Íslandi, en það er engum vafa undirorpið, að sú mun verða raunin, nema ríkisstjórnin grípi strax í taumana og leggi línuna, sem leiða mundi samstarf Landsvirkjunar og viðskiptavina hennar inn á heillavænlegri brautir en raunin hefur verið síðast liðinn áratug.
Ábyrgð og frumkvæðisskylda iðnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra er mest í þessum efnum, en svo vill til, að þar er um að ræða varaformann og formann Sjálfstæðisflokksins. Flokkur þeirra bjó þau út með gott veganesti á síðasta Landsfundi, vorið 2018. Þau þurfa þess vegna ekki að velkjast í vafa um vilja flokksfólks í þessum efnum. Þeirra er nú að láta hendur standa fram úr ermum. Eftirfarandi kom fram í ályktun Atvinnuveganefndar, sem Landsfundur samþykkti nánast einróma:
"Landsfundur stendur heilshugar á bak við hugmyndir um atvinnuuppbyggingu innanlands í tengslum við hagkvæma nýtingu orkuauðlinda. Íslenzk útflutnings- og framleiðslufyrirtæki skulu njóta þess samkeppnisforskots, sem felst í notkun á grænni íslenzkri orku. Landsfundur leggst gegn því, að græn upprunavottorð séu seld úr landi. Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."
Á þessum grundvelli hafa ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fullt lýðræðislegt umboð til þess að vinda ofan af þeirri öfgafullu og hættulegu verðlagsstefnu, sem nú er rekin af hálfu ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinum hennar, þar sem stórtækustu afleiðingarnar verða augljóslega þær að binda enda á nýtingu innlendra orkulinda til framleiðslu á áli og kísilmálmi fyrir erlenda markaði.
Í Kastljósþætti RÚV 24.02.2020 var Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, annar viðmælenda þáttastjórnandans um upprunavottorð raforku. Þar ýjaði téður forstjóri að því, að erlend stórfyrirtæki á Íslandi stunduðu óleyfilegar bókhaldsbrellur með kostnað aðfanga og afurðaverð sín. Með þessu er forstjórinn kominn út í pólitík, sem enginn hefur falið honum að stunda og hlýtur að hafa afleiðingar fyrir hann, því að það að sá fræjum grunsemda opinberlega um ávirðingar almennt um alla þessa skráðu viðskiptaaðila í kauphöllum heimsins er grafalvarlegt mál og stenzt auðvitað ekki gagnrýna hugsun. T.d. RTA/ISAL í Straumsvík framleiðir einvörðungu álsívalninga af ýmsum melmum og gildleikum. Viðskiptavinirnir eru fjölmargir, yfir 200 framleiðendur alls konar álprófíla fyrir bíla- og byggingariðnaðinn o.fl. Hvernig dettur þessum manni í hug að bera það á borð fyrir alþjóð, að hugsanlega sé RTA/ISAL að selja þessum fjölmörgu viðskiptavinum sínum sínum vörur á undirverði ?
Annað úr þessum þætti, sem bendir til illvígrar pólitíkur af hálfu þessa manns í garð viðskiptavina Landsvirkjunar í eigu erlendra félaga, voru viðbrögð hans við gagnrýni Guðrúnar Hafsteinsdóttur á útflutning upprunavottorða "hreinnar" orku. Hann brást við henni með spurningu um, hvort Samtök iðnaðarins vildu færa alþjóðlegum félögum mrdISK 10-20 á 20 árum. Þetta er óburðugur málflutningur og nánast óskiljanlegur. Er Landsvirkjun að selja upprunaheimildir úr landi til að þær standi ekki stóriðjufyrirtækjum á Íslandi til boða ? Þá verða auðvitað fleiri útundan, því að samkvæmt þessu bókhaldi eru aðeins 11 % seldrar raforku á Íslandi úr endurnýjanlegum orkulindum. Um þetta barnalega stríð forstjórans við stóriðjuna í landinu á orðtakið við, að sér grefur gröf, þótt grafi.
Iðnaðarráðherra hefur enn ekki framfylgt skýrum fyrirmælum Landsfundar til sín um að stöðva sölu upprunavottorða úr landi, enda hefur hún ekki heimild til að grípa með svo almennum hætti inn í starfsemi Innri orkumarkaðar EES. Hún getur hins vegar bannað ríkisfyrirtækjum að stunda þessi viðskipti og gæti t.d. lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis til að freista þess að fá stuðning Alþingis við þá stefnumörkun. Hvers vegna hreyfir hún hvorki legg né lið ? Það er sennilega vegna þess, að hún er andstæð slíku banni, en þá er hún sem ráðherra Sjálfstæðisflokksins komin í andstöðu við stefnumörkun flokksins, sem hlýtur að grafa undan hennar pólitíska ferli innan flokksins. Er þingflokki Sjálfstæðisflokksins stætt á að bera ábyrgð á slíkum ráðherra ?
Þetta er ekki eina stefnumörkun Landsfundar, sem ráðherrar flokksins og reyndar megnið af þingflokkinum hefur beinlínis unnið gegn. Í fersku minni er baráttan um Orkupakka 3 frá ESB, en ekki fer á milli mála, að Landsfundarályktunin hér að ofan, sem hafnar frekara framsali yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana ESB, samræmist engan veginn stuðningi flestra þingmanna flokksins við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að staðfesta gjörning Sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017, sem fól m.a. í sér stofnun embættis Landsreglara (falið undir hatti Orkumálastjóra), sem hefur m.a. með höndum eftirlit með virkni íslenzks raforkumarkaðar og eftirlit með stofnun orkukauphallar að forskrift ESB. Landsreglarinn situr samræmingarfundi hjá ACER-Orkustofnun ESB.
Aftur að tilvitnaðri grein ÞKRG. Hún taldi þar fram ýmsa kosti stóriðjustefnunnar, og var einn þessi:
"Stóriðjustefnan hefur því verið jákvætt framlag Íslands til loftslagsmála, ekki neikvætt, eins og sumir halda fram."
Jakob, heitinn, Björnsson var einmitt óþreytandi við að benda á þessa staðreynd. Heimsmeðaltal af myndun koltvíildisjafngilda í álverum (rafgreining, álsteypa, forskautasamsetning og kerfóðrun) ásamt raforkuvinnslu fyrir þessa framleiðslu er um 11 tCO2eq/tAl, en á Íslandi er þessi losun vel undir 2 tCO2eq/tAl. Við núverandi framleiðslustig áls þýðir þetta, að álverin á Íslandi spara andrúmsloftinu að öllum líkindum 9 MtCO2eq/ár, sem er 64 % meira en nemur allri skráðri losun hérlendis. Til þess liggja 3 meginástæður: Aðalástæðan er orkuöflunin, en hún losar sáralítið koltvíildi í samanburði við orkuöflun úr jarðefnaeldsneyti, sem er algengust erlendis. Önnur ástæðan eru góð tæknileg tök á rafgreiningarferlinu hérlendis, sem þýðir, að mjög lítið er losað af sterkum gróðurhúsalofttegundum á borð við CF4 og C2F6. Þriðja ástæðan er, að rafvæðing steypuskálaofna er langt komin hérlendis og einnig rafvæðing forskautavinnslunnar og kerfóðrunar.
"Í fimmta lagi er stóriðja þrátt fyrir allt fremur stöðug. Gríðarleg fjárfesting liggur að baki, sem ekki verður rifin upp með rótum svo glatt, öfugt við ýmsa aðra starfsemi. Og sveiflurnar geta jafnað út aðrar sveiflur í hagkerfinu. Það sýndi sig m.a. eftir bankahrunið, en ISAL var mögulega eina fyrirtækið, sem réðist í tugmilljarða fjárfestingarverkefni [mrdISK 70-innsk. BJo] beint í kjölfar þess."
Álframleiðslan á Íslandi er reyndar dálítið háð duttlungum náttúrunnar, eins og hinir höfuðatvinnuvegir þjóðarinnar, vegna þess að innrennsli í miðlunarlón vatnsaflsvirkjananna er tilviljunum háð. Ráð er fyrir því gert, að orkubirgirinn geti skert bæði afl og orku í þurrkaárum með vissum skilmálum um allt að 10 % frá hámarksnotkun. Nú sjáum við, að orkuviðtakinn, ISAL, skerðir forgangsorkukaup sín um 15 % vegna stöðunnar á álmörkuðum og á íslenzka raforkumarkaðinum.
Það er ekki algengt, að álverksmiðjur séu fluttar á milli staða, en þess eru þó dæmi, a.m.k. að hluta. Hluti af þýzku verksmiðjunni í Töking var t.d. fluttur upp á Grundartanga 1997.
"Lítill vafi er á því, að sjálf orkusalan hefur orðið arðbærari með hækkandi verði. Það er ekki óeðlilegt, að verð hækki með tímanum; að afslættir séu einkum í boði í upphafi. Og það er ekki stefna okkar að nánast gefa stórfyrirtækjum orkuna til þess að fá störf í staðinn, sem hefur verið nálgunin í a.m.k. einhverjum tilvikum í Kanada, svo [að] dæmi sé tekið."
Hér slær út í fyrir höfundinum. Hún athugar ekki, að vinnslukostnaður rafmagns hefur hækkað í tímans rás að raunvirði vegna þess, að fyrst völdu menn að virkja á hagkvæmasta stað, næsti virkjunarstaður var dýrari á orkueiningu og svo koll af kolli. Þess vegna er ekki gefið, að lágt verð í byrjun hafi verið Landsvirkjun óhagstæðara en hærra raforkuverð síðar. Hitt er aftur á móti staðreynd, að með skuldalækkun Landsvirkjunar hefur meðalkostnaður hennar á MWh lækkað og að ágóðinn hefur þá hækkað mikið, því að samtímis hefur verðið hækkað, og þar stendur hnífurinn einmitt í kúnni.
Að hætti ESB hefur verðlagning Landsvirkjunar til stórnotenda tekið mið af jaðarkostnaðarverði, þ.e. kostnaði næstu virkjunar á MWh. Mismunurinn á ESB og Íslandi að þessu leyti er hins vegar sá, að frjáls samkeppni margra birgja heldur aftur af þeim verðhækkunum, sem kaupendur verða að sætta sig við. Hér er ekkert aðhald að seljanda í einokunarstöðu, þegar hann virðist kæra sig kollóttan um það að tryggja langvarandi viðskiptasamband með sjálfbærum samningum. Það dettur engum í hug "að nánast gefa stórfyrirtækjum orkuna". Þótt verðið til ISAL yrði lækkað um 30 %, svo að raforkukostnaður fyrirtækisins sem hlutfall af tekjum yrði svipaður og í upphafi samningsins 2011, yrði samt myljandi gróði af rekstri Landsvirkjunar.
Það er ankannalegur málflutningur af hálfu ráðherrans, að dæmi séu um, að Kanadamenn nánast gefi stórfyrirtækjum orkuna til að fá störf í staðinn. Í Qubeck og í British Columbia eru stór vatnsföll með stórvirkjunum. Algengt er þar, að stórfyrirtæki hafi fengið virkjanaleyfi og sjái starfsemi sinni, t.d. álverum, fyrir raforku, og selji afganginn inn á landskerfið. Þetta er allt annað fyrirkomulag en ráðherrann lýsir.
Nokkru síðar vék Þórdís Kolbrún að aflsæstreng til útlanda:
"Auðvitað er augljóst, að enginn getur látið sér detta það í hug að selja orkuna frekar um sæstreng án þess að taka allan þennan auka-ávinning með í reikninginn. Jafnaugljóst er, að það væri vitleysa að útiloka um alla framtíð, að það reikningsdæmi geti einhvern tímann gengið upp og banna skoðun á því."
Þetta er þversagnakenndur texti hjá ráðherranum, sem bendir til, að hún sé á báðum áttum. Það er einmitt stefna orkupakkanna frá ESB, að orkufyrirtækin skuli við verðlagningu sína einvörðungu horfa í eiginn barm og engan gaum gefa að þeim "auka-ávinningi", sem annars konar, mildari og víðsýnni verðlagsstefna kynni að hafa. Það er sorglegt, að ráðherrann hefur enn ekki skilið inntak orkupakkanna frá ESB. Í umræðunni um Orkupakka 3 hélt hún því fram, að samkeppnisfyrirkomulag orkupakkanna hefði bætt hag neytenda. Þetta var rekið ofan í hana með skýrslu "Orkunnar okkar" í ágúst 2019. Á sviði stórsölu með raforku er nánast engin samkeppni á milli orkubirgjanna á Íslandi, heldur einokunarfyrirkomulag. Þess vegna eru þessi mál nú komin í algert óefni.
Það er kominn tími til, að þessi iðnaðarráðherra fari að skilja kjarna orkumálanna á Íslandi, hætti að daðra við aflsæstreng á milli Íslands og Innri markaðar ESB, sem núverandi forstjóri Landsvirkjunar vissulega hefur rekið áróður fyrir og er þar trúr orkustefnu ESB, eins og hún birtist í Orkupakka 3, og fari að vinna af einurð í þágu hagsmuna íslenzks iðnaðar og þar með íslenzku þjóðarinnar.
Að lokum skrifaði ráðherrann:
"Ég hef áður vakið máls á því, að skynsamlegt væri að auka gagnsæi um orkusamninga. Það er forsenda vitrænnar umræðu í stað misvel ígrundaðra ágizkana um samkeppnishæfni okkar, þar sem gerólík sjónarmið heyrast. Ég hef lagt mitt af mörkum til þess með því að fá óháð erlent greiningarfyrirtæki til að kortleggja samkeppnisstöðu stóriðju með áherzlu á orkuverð. Það verður fróðlegt að rýna í niðurstöður hennar vor."
Nú hafa iðnaðarráðherra og forstjórar ISAL og Landsvirkjunar öll lýst yfir vilja sínum til að opinbera orkusamningana við stóriðju á Íslandi. Hefði ráðherrann verið sjálfri sér samkvæm, þá hefði hún birt erindisbréf ráðuneytisins til ráðgjafans Fraunhofers á vefsetri ráðuneytisins. Þetta er enn því miður leyndarskjal. Hvernig til tekst með að varpa ljósi á samkeppnishæfni íslenzkrar stóriðju, veltur á ýmsu. Hefur Fraunhofer aðgang að bókhaldi annarra stóriðjufyrirtækja í heiminum, sem eru á sama markaði og íslenzku álfyrirtækin ? Mun Fraunhofer gera grein fyrir umframkostnaði íslenzkrar stóriðju vegna staðsetningar hennar á Íslandi (t.d. flutningskostnaði og launakostnaði) ? Þetta eru mikilvæg atriði, og gagnsemi skýrslu frá rándýrum ráðgjafa er alveg undir erindisbréfinu til hans komin. "Það varðar mest til allra hluta, að undirstaðan sé réttlig fundin."
27.2.2020 | 14:21
Af sanngirnis- og viðskiptasjónarmiðum
Morgunblaðið hefur fjallað ítarlega um Straumsvíkurvandamálið, eða væri nær að nefna það Háaleitisvandamálið ? Staksteinar láta sér fátt óviðkomandi vera, og fjölluðu 13.02.2020 um nauðsyn ákvarðanatöku nú til að draga úr efnahagsvandanum fremur en að magna hann með ákvarðanafælni, sem hrjáir suma ráðherra. Téðir Staksteinar um þetta málefni voru undir heitinu:
"Rétti tíminn er nú".
Þeim lauk þannig:
"Hagsmunirnir, sem í húfi eru [í Straumsvík], hlaupa á milljarðatugum á ári [til 2036]. Slíkar tölur kalla á, að staðan sé tekin alvarlega og rætt, hvaða þýðingu fyrirtækið [ISAL] hafi, og hvaða áhrif það hefði, ef þess nyti ekki lengur við.
Hefur Landsvirkjun aðra kaupendur að þeirri orku, sem nú er seld til Straumsvíkur ? Bíða önnur störf þeirra, sem þar starfa ? Landsmenn velta fyrir sér spurningum af þessu tagi, og fyrirtækið þeirra, Landsvirkjun, og ríkisvaldið, geta aldrei orðið stikkfrí í svo stóru máli."
Mogginn er sem jafnan með fingurinn á púlsi þjóðlífsins og víðs fjarri því að vera þar utan gátta, sem því miður er rétta lýsingin á ýmsum öðrum stórum og litlum fjölmiðlum hérlendis, svo að ekki sé nú minnzt á ósköpin í Stjórnarráðinu eða í háhýsinu ofarlega á Háaleitisbrautinni, þeirri góðu götu. Það er hverju orði sannara, að ríkisstjórnin getur ekki setið prúð hjá með hendur í skauti á meðan þessu fram vindur. Vonandi kynna ráðamenn sér rækilega grein Elíasar B. Elíassonar, verkfræðings, í Morgunblaðinu 25.02.2020, þar sem hann m.a. gefur til kynna, að ISK sé ekki nægt sveiflujöfnunartæki fyrir íslenzka atvinnulífið, heldur þurfi raforkuverðið að koma þar jafnframt til skjalanna. Það er skarplega athugað, enda er íslenzka hagkerfið nú þegar raforkuknúið að miklu leyti og verður það alfarið í kjölfar orkuskiptanna.
Til að setja örlítið meira kjöt á beinið má geta þess, að um er að útflutningstekjur upp á 55 mrdISK/ár eða um 5 % af útflutningstekjum landsins, og um 30 % af þeirri upphæð renna til raforkukaupa (af Landsvirkjun) og um 10 % fara í launakostnað. Innlendur kostnaður fyrirtækisins er um 45 % af tekjunum. Samkvæmt Hagfræðistofnun Háskóla Íslands eru um 1250 störf beint og óbeint tengd starfseminni í Straumsvík. Við lokun ISAL mundi atvinnuvandi þeirra bætast við vanda tæplega 10 þúsund atvinnulausra íbúa landsins um þessar mundir. Þeir spanna fjölmargar stéttir, og munu fæstir strax geta gengið í önnur störf í núverandi efnahagslægð, og nánast enginn í betur launuð störf. Vandi Hafnarfjarðar verður mestur af sveitarfélögunum, enda líklega um helmingur starfsmanna ISAL Hafnfirðingar, og verksmiðjulóðin í landi Hafnarfjarðar. Tekjutap Hafnarfjarðarbæjar mundi vafalaust fara yfir 1 mrdISK/ár fyrstu misserin á eftir.
Um er að ræða rúmlega 3,0 TWh/ár, sem Landsvirkjun hefur líklega engan kaupanda að á sömu kjörum í nánustu framtíð og fyrirtækið setur upp gagnvart RTA/ISAL. Þetta er um fimmtungur af orkuvinnslugetu Landsvirkjunar, sem taka mun mörg ár að mjatla út til nýrra og e.t.v. gamalla viðskiptavina. Ef mál þróast á versta veg og Landsvirkjun tapar þar að auki kaupskyldukröfunni á hendur RTA fyrir dómi um megnið af umsaminni orku, þá gæti tjón Landsvirkjunar og Landsnets með vaxtakostnaði orðið um mrdISK 200. Af hálfu Landsvirkjunar er glannalega teflt og óviturleg áhætta tekin með þvergirðingslegri afstöðu í garð gamals viðskiptavinar.
Málflutningur forstjóra Landsvirkjunar frá því, að yfirlýsing RTA var gefin út í Straumsvík 12.02.2020, hefur vakið furðu pistilhöfundar fyrir margra hluta sakir, t.d. vegna þess, að leynd hvílir yfir samninginum, en það aftrar honum ekki frá að kalla hann sanngjarnan, þótt almenningur eigi þess ekki kost að leggja mat á það. Í Kastljósþætti RÚV 24.02.2020 virtist hann túlka tilkynningu RTA/ISAL sem reykbombu í áróðursstríði. Það er hættuleg rangtúlkun á alvarlegri stöðu, sem fyrirtækið varð að gera almenningi og verðbréfamörkuðum kunnuga. Hann hefur, eins og áður segir, verið með fullyrðingar, sem almenningi er ómögulegt að sannreyna vegna leyndarinnar, sem RTA/ISAL að fyrra bragði lagði til, að aflétt yrði. Dæmi um þetta er viðtal Þorsteins Friðriks Halldórssonar í Markaðnum 19.02.2020 við forstjóra Landsvirkjunar og forstjóra Elkem á Íslandi:
"Sanngjarn samningur en ekki ódýr".
Hörður Arnarson sagði þar m.a.:
"Varðandi raforkuverðið teljum við, að samningurinn sé sanngjarn fyrir bæði fyrirtækin [ISAL og LV]. Vissulega er hann ekki ódýr, en hann er sanngjarn. Á heildina litið tel ég álverið ágætlega samkeppnisfært í iðnaði, sem býr við krefjandi aðstæður."
Þetta er undarlegur málflutningur, uppfullur af huglægu mati, algjörlega án rökstuðnings. Það er skákað í því skjólinu, að umræðuefnið er sveipað leyndarhjúpi, sem forstjórinn þykist í orði kveðnu vilja afnema, en efast má um heilindi þeirra orða. Honum verður afar tíðrætt um sanngirni, en hér skal hins vegar fullyrða og rökstyðja hið gagnstæða. Samningur LV við RTA/ISAL 2011 var og er ósanngjarn.
Samningurinn er gerður í einokunarumhverfi, sem er ekki umhverfi Innri orkumarkaðar ESB, þótt aðferðarfræði hans um jaðarkostnaðarverðlagningu í nýjum samningum hafi verið beitt þarna af hálfu LV. Orkukaupandanum var einfaldlega stillt upp við vegg, því að hann gat ekki leitað til samkeppnisaðila LV, því að þeir höfðu ekki "vöruna", sem hann vantaði, á boðstólum, þ.e. 430 MW afl og um 3500 GWh/ár orku. Viðskiptavinurinn (RTA/ISAL) stóð þá frammi fyrir því að taka hatt sinn og staf, stöðva allar fjárfestingar (mrdISK 65), sem hann var þá á miðju kafi í, eða að veðja á bjartsýnar spár um þróun álverðs, sem þá stóð í 2000-2300 USD/t.
Hefði þróun álverðs aðeins fylgt þeirri verðlagsvísitölu, sem LV heimtaði, að orkuverðið fylgdi, hefði hækkunin numið 16 % þar til nú og stæði í 2500 USD/t um þessar mundir, en er í raun undir 1700 USD/t samkvæmt LME-skráningu, sem þýðir lækkun um 21 % frá samningsgerð. Enginn sanngjarn maður kemur auga á snefil af sanngirni í svo einhliða samningi, þar sem annar aðilinn hefur allt sitt á hreinu, en enginn varnagli er settur til að verja hagsmuni hins, ef spár um þróun markaða bregðast.
Nú nemur raforkukostnaður ISAL í USD/tAl um 34 % af skráðu álverði, LME. Ekkert viðskiptalega rekið álver getur skilað nokkurri framlegð við þær aðstæður, og þar af leiðandi eru fyrirtækinu allar bjargir bannaðar í núverandi stöðu. Eigandinn á ekkert val, og að tala um áróðursbrellu í þessu sambandi, eins og forstjóri Landsvirkjunar leyfir sér að gera, ber vott um dómgreindarleysi. Við upphaf samningsins 2011 nam þetta hlutfall um 24 %, sem er við þolmörkin fyrir álver á frjálsum markaði. Samningur, sem veldur slíkri breytingu, er ekki aðeins ósanngjarn; hann er óbærilegur. Nú hefur stjórn RTA misst þolinmæðina gagnvart þvermóðskunni, sem mætir fyrirtækinu af hálfu LV, og mun að öllum líkindum stöðva starfsemina og þar með fjárhagstapið, um leið og málaferli munu hefjast út af kaupskylduákvæðum samningsins, sem LV gæti fyrirgert með því að neita sanngirniskröfum mótaðilans. Ríkisstjórnin, fulltrúi eiganda LV, verður að grípa í taumana til að forða þjóðarbúinu frá stórtjóni.
Í þessari "Markaðsgrein" Þorsteins Friðriks var einnig fróðlegt viðtal við forstjóra Elkem á Íslandi, sem sagði sínar farir ekki sléttar í viðskiptunum við Landsvirkjun. Þar (á Háaleitisbraut) virðist vera eitthvað mikið að stjórnarháttum, því að fyrirtækið hefur borið langt af leið og er alls ekki að ávaxta þær orkulindir, sem því er falið að nýta, með þjóðhagslega hagkvæmasta hætti til langframa litið. Þegar hver viðskiptavinur Landsvirkjunar um annan þveran kemur fram og ber sig afar illa undan fyrirtækinu, er ljóst, að þetta fyrirtæki er ekki að rækta langtíma viðskiptasamband við viðskiptavini sína hérlendis. Þar með er það að rífa niður, það sem byggt hefur verið upp, og setja gríðarlega hagsmuni landsmanna í algert uppnám. Hér skal fullyrða, að stjórn Landsvirkjunar hefur til slíks ekkert umboð nú, jafnvel þótt hún gæti sýnt fram á, að hún gæti selt virkjaða og ónotaða orku úr landi um sæstreng f.o.m. 2028, sem hún ekki getur:
"Forstjóri Elkem á Íslandi segir óljóst, hvað taki við, þegar samningurinn við Landsvirkjun rennur út árið 2029. Raforkuverðið sé komið að þolmörkum."
Það er engu líkara en Landsvirkjun hafi það nú sérstaklega á stefnuskrá sinni að úthýsa stóriðjunni úr landinu og ryðja þannig brautina fyrir útflutning á rafmagni um aflsæstreng. Alþingismenn verða að gera sér grein fyrir því, hvað er raunverulega að gerast. Núverandi ástand er óviðunandi, því að það gerir fyrirtækjunum ókleift að gera fjárfestingaráætlanir, sem leggi grunn að tækniþróun, vöruþróun og jafnvel framleiðsluaukningu þeirra í framtíðinni. Þetta er ein af ástæðum þess, að fjárfestingar fyrirtækja í landinu í heild sinni hafa hrapað, sem mun gera núverandi dýfu hagkerfisins bæði dýpri og langvinnari en ella.
Ekki dettur stjórnendum Statkraft í Noregi, systurfyrirtækis Landsvirkjunar þar, eða Stórþingi og ríkisstjórn, að haga sér með þessum óábyrga hætti, þótt þar séu nú þegar fyrir hendi millilandatengingar, sem nýta mætti í miklu meira mæli til útflutnings raforku en nú er gert, enda er þróun orkuverðs í Evrópu algerlega undir hælinn lögð. Nei, norska ríkið hleypur undir bagga í erfiðleikum stóriðjunnar, m.a. Elkem, og greiðir niður raforkuverð til þeirra með um 6 USD/MWh (20 mrdISK/ár) samkvæmt upplýsingum starfsmanna Landsvirkjunar í nýlegri blaðagrein. Það er enginn að biðja um það hér, heldur aðeins, að ríkisvaldið sýni sanngirni í sinni einokunarstöðu í stórsölu rafmagns og taki tillit til þess, að raforkuverð á Íslandi þarf að nota sem sveiflujöfnunartæki fyrir lítið og viðkvæmt hagkerfi. Sú einokunarstaða er einsdæmi í Evrópu, og þess vegna er stórhættulegt að beita hér hugmyndafræði orkupakka ESB við verðlagningu rafmagns.
""Vandinn er sá, að samkeppnishæfni verksmiðjunnar [á Grundartanga] á Íslandi samanstendur af fleiri þáttum en raforkunni einni og sér, og raforkan var sá þáttur, sem gerði það að verkum, að það borgaði sig að reka verksmiðju á Íslandi", segir Einar Þorsteinsson, forstjóri Elkem á Íslandi í samtali við Markaðinn."
Þarna hittir forstjóri Elkem á Íslandi naglann á höfuðið, en það er einmitt lóðið, að samkvæmt orkupökkunum eiga orkufyrirtækin við samningsgerð sína ekki að taka tillit til þátta eins og meiri flutningskostnaðar og vinnuaflskostnaðar viðskiptavina sinna en samkeppnisaðila þeirra. Ef þessi atriði eru hins vegar ekki höfð í huga í íslenzku einokunarumhverfi á þessu sviði, þá verða stórslys, eins og við erum að horfa upp á núna. Fíllinn í postulínsbúðinni er að leggja hana í rúst, og iðnaðarráðherra horfir þæg á og er þegar byrjuð að tala aftur um æskilegar athuganir á sæstrengslögn til Íslands, sem hún hefur samt þagað um, síðan ríkisstjórnin lét hérlenda bakhjarla Ice-Link, Landsvirkjun og Landsnet, beina því til ESB að fjarlægja hann af verkefnaskrá innviðaverkefna, PCI, sem framkvæmdastjórn ESB síðan gerði. Þetta er engin hemja.
Forstjóri Fjarðaáls, Tor Arne Berg, hafði þetta að segja við Markaðinn:
"Tor Arne Berg, forstjóri Fjarðaáls, segist ekki geta tjáð sig um raforkusamning álfyrirtækisins við Landsvirkjun, enda sé hann trúnaðarmál. "Það er þó alveg ljóst, að álverið var reist hér á landi vegna þess, að hér var í boði langtímasamningur á stöðugri orku", segir hann. "Helzta ógnin, sem steðjar að áliðnaði um þessar mundir, er offramleiðsla í Kína, sem kemur til vegna óeðlilegra niðurgreiðslna frá ríkinu. Þetta hefur orðið til þess, að álverð hefur fallið á alþjóðlegum markaði, sem þrengir mjög að samkeppnisstöðu í þessari grein", bætir forstjórinn við."
Það er rétt hjá þessum forstjóra, að fáanlegir langtíma samningar um raforku úr landskerfi, sem nýtir einvörðungu orkulindir, sem kalla má endurnýjanlegar, hvetja erlenda fjárfesta til að fjárfesta á Íslandi. Þetta er samt ekki nóg. Ef rafmagnsverðið, sem í boði er, er hið sama eða hærra en í Noregi eða í öðrum löndum með fáanlega kolefnisfría raforku, þá fæst fjárfestirinn ekki til að fjárfesta hér, vegna þess að hann lítur á heildarkostnað sinn. Hann verður einfaldlega hæstur á Íslandi, nema rafmagnsverðið lækki niður fyrir samkeppnislöndin. Hversu mikið er rannsóknarefni, en gæti numið 10 USD/MWh. Þetta vissu menn gjörla hjá Landsvirkjun hér áður fyrr, en nú er það greinilega gleymt og grafið og öldin önnur á Háaleitisbrautinni.
Það kom ýmislegt fleira markvert fram í viðtali Þorsteins Friðriks við forstjóra Elkem á Íslandi. Í máli hans kemur fram, að viðhorf Landsvirkjunar til fyrirtækisins veldur því, að stjórnendur fyrirtækisins búast við að þurfa að leggja upp laupana árið 2029, og þess vegna er ekki lengur fjárfest til framtíðar í verksmiðjunni. Höfuðvandi orkukræfs iðnaðar á Íslandi er sá, að hjá langstærsta orkubirgi hans ríkir fjandsamlegt viðhorf í garð stóriðjunnar, sem felst í stuttu máli í að blóðmjólka hana, á meðan hún tórir. Þeir, sem efast um þetta, ættu að hlusta á Kastljósþátt RÚV 24.02.2020 og lesa Morgunblaðsgrein Elíasar B. Elíassonar 25.02.2020. Síðan virðist ætlunin vera að selja orkuna til útlanda um sæstreng. Skipta verður þegar um stjórnarstefnu í þessu ríkisfyrirtæki og taka upp sjálfbæra viðskiptastefnu, svo að báðir aðilar hagnist á viðskiptunum.
"Ef við skoðum þættina, sem hafa áhrif á afkomu okkar, má segja, að sá þáttur, sem vegur þyngst sé markaðsverð á afurðum. Það sveiflar afkomunni upp og niður. En ef við skoðum samkeppnishæfni verksmiðju okkar á Íslandi - Elkem er með 27 verksmiðjur á heimsvísu - þá samanstendur hún af þremur meginþáttum og hefur gert það frá upphafi", segir Einar.
"Þar má fyrst nefna flutningskostnað. Við flytjum öll hráefni inn og allar afurðir út. Þetta hefur veikt samkeppnisstöðu okkar gagnvart keppinautum í Evrópu", segir Einar.
Annar þáttur, sem vegur þungt, er innlendur kostnaður og launakostnaður. Öll þjónusta, sem Elkem kaupir innanlands, er beintengd við launaþróun, og þessi kostnaður er mjög óhagstæður að sögn Einars. Verksmiðja Elkem á Íslandi er sú dýrasta innan samstæðunnar, hvað laun varðar.
"Þriðji þátturinn er raforkan, en hún er ástæðan fyrir því, að verksmiðjan er yfirleitt á Íslandi. Raforkuverðið var hagstætt og gerði það að verkum, að verksmiðja á Íslandi var samkeppnishæf. Eftir niðurstöðu gerðardóms má segja, að þessi samkepnisþáttur sé að miklu leyti horfinn", segir Einar."
Þarna lýsir forstjóri Elkem á Íslandi nákvæmlega sömu aðstæðum og eiga við um álver á Íslandi. Vegna staðsetningarinnar eru flutningar aðfanga og afurða dýrari á hvert tonn fyrir verksmiðjurnar hérlendis en hjá samkeppnisaðilum. Launakostnaður, vörur og þjónusta, eru dýrari hér. Aðeins rafmagnið getur skapað samkeppnisforskot, sem verður a.m.k. að vega upp ofangreindan viðbótar kostnað, svo að erlendir fjárfestar kæri sig um að vera með starfsemi hér. Gróft reiknað má ætla, að rafmagnið (orka+flutningur) verði að vera 10 USD/MWh lægra hjá álverunum hér en hjá samkeppnisálverum. Ofan á þetta koma niðurgreiðslur hins opinbera, sem í Noregi nema um 6 USD/MWh og á meginlandinu um 9,5 EUR/MWh, jafngildi um 10,3 USD/MWh. Fróðlegt verður að sjá niðurstöðu verktakans Fraunhofers, sem iðnaðarráðherra hefur keypt til að semja fyrir sig skýrslu um málið. Því verður samt vart trúað, að iðnaðarráðuneytið búi ekki yfir nægilega haldgóðum gögnum um þetta mál nú þegar.
"Ef við skoðum meðalafkomu síðustu ára - á bilinu 10-13 ár - þá má segja, að raforkuhækkunin hafi að stórum hluta étið upp allan hagnaðinn. Þetta þýðir, að við höfum verið og erum að leita leiða til að hagræða og fækka fólki."
Sama er uppi á teninginum hjá ISAL. Fyrir 2012 var hagnaður samfleytt í a.m.k. 15 ár, en segja má, að með núverandi raforkusamningi sé loku skotið fyrir það, að fyrirtækið geti skilað hagnaði (rafmagn 30 % af tekjum). Þetta kallar Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, "sanngjarnan" samning. Það er frumstæð blekkingartilraun, sem eykur ekki hróður hans.
Spyrja má, hvort nokkurt vit sé í því fyrir eigandann (ríkissjóð), að Landsvirkjun reki nú þá stefnu að blóðmjólka gamla sem nýja viðskiptavini ? Nú er hart í ári hjá viðskiptavinunum, og þá er rétti tíminn til að endurskoða þessa misheppnuðu samninga og hreinlega ekki hægt að bíða með það til 2024.
"Vandinn er tvíþættur að sögn Einars. Annars vegar er fyrirtækið að glíma við skammtímaáhrif af hærra raforkuverði, og hins vegar vakna spurningar um, hvað taki við, þegar samningurinn rennur út árið 2029."
Skammtímaáhrifin af óprúttinni stefnu Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinunum er, að þeir leitast við að fækka starfsmönnum, eins og framast er kostur, og skera öll önnur útgjöld niður við trog. Þetta er ekki þjóðhagslega hagkvæmt hérlendis, þar sem laun í stóriðjunni eru tiltölulega há, og þau þurfa að hafa fjárhagslegt bolmagn til tæknivæðingar og nýsköpunar.
Við uppkvaðningu gerðardómsins um raforkuverð til Elkem á Íslandi lýsti Landsvirkjun yfir óánægju með hann. M.v. þekkt vinnubrögð Landsvirkjunar í seinni tíð má þess vegna gera ráð fyrir því, að Landsvirkjun muni heimta hærra orkuverð af Elkem á Íslandi og sitji við sinn keip, þótt viðskiptavinurinn neyðist þá til að hætta starfsemi. Þetta horfir mjög einkennilega við, því að ekki er vitað til, að Landsvirkjun hafi neinn viðskiptavin í handraðanum, sem geti og vilji borga uppsett verð Landsvirkjunar fyrir þessa orku, sem til Elkem fer. Þetta sýnir í hvers konar ógöngur einokunarfyrirtæki getur ratað, þegar óbilgirni er við stjórnvölinn. Viðskiptasambönd, sem Landsvirkjun átti þátt í að byggja upp áður, rífur hún nú niður af fullkomnu fyrirhyggjuleysi.
""Það, sem hrjáir okkur mest, er spurningin um, hvað tekur við eftir 2029. Ef það stefnir í enn hærra raforkuverð, þá lítur þetta afskaplega illa út, og við þurfum svar við þeirri spurningu mjög fljótt vegna þess, að við höfum stöðvað fjárfestingu í uppbyggingu.
Þegar við fjárfestum í uppbyggingu, þurfum við að horfa meira en 9 ár fram í tímann. Við höfum þurft að setja ýmis góð mál á ís, t.d. verkefni, sem snúa að endurnýtingu á orku og varma, á meðan óvissan er, eins og hún er í dag", segir Einar."
Þegar orkupakkalöggjöfinni er fylgt út í æsar, fylgir henni óvissa af þessu tagi fyrir viðskiptavini orkufyrirtækjanna, vegna þess að þeir hafa ekki í önnur hús að venda með viðskipti sín ólíkt því, sem við á á orkumarkaði ESB. Það er hins vegar falleinkunn fyrir núverandi stjórn ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar, sem er í einokunaraðstöðu á sviði raforkusölu til orkukræfs iðnaðar, að hún skuli halda Elkem á Íslandi í svo illvígri spennitreyju, að fyrirtækið sjái sig neytt til að halda að sér höndum og í raun og veru að stefna á lokun, þegar núverandi raforkusamningur rennur sitt skeið á enda.
Það er lydduháttur af stjórnvöldum að láta stjórn og forstjóra Landsvirkjunar komast upp með þessa fáheyrðu hegðun. Eigandi Landsvirkjunar verður hér að taka í taumana. Nú þarf landið á að halda öllum þeim heiðarlegu erlendu fjárfestingum, sem völ er á, eða eins og máltækið segir: "allt er hey í harðindum". Þá er auðvitað fyrir neðan allar hellur, að Landsvirkjun rói í allt aðra átt. Hvaða hagsmunum telur stjórn Landsvirkjunar sig vera að þjóna með því að stöðva fjárfestingar og síðan að hrekja erlenda fjárfesta úr landi ? Það er ekki einu sinni heil brú í þessu frá þröngu viðskiptalegu sjónarhorni Landsvirkjunar séð.
""Afurðaverðið mun sveiflast upp og niður, en samkeppnishæfnin hefur versnað svo mikið, að við þurfum að reka verksmiðjuna betur en aðrir innan Elkem og líklega betur en flestir okkar keppinautar, til þess að það sé arðbært að vera hérna. En arðsemin til lengri tíma litið er ekki mjög spennandi, og það er ólíklegt, að við myndum byggja verksmiðju á Íslandi í dag." Þá nefnir Einar, að Landsvirkjun hafi ekki verið sátt við niðurstöðu gerðardóms og talið, að raforkuverðið ætti að vera hærra. Því sé líklegt, að Landsvirkjun muni fara fram á hærra verð en rekstur Elkem getur staðið undir, þegar núgildandi samningur rennur út."
Þarna hafa menn það svart á hvítu, hvernig komið er fyrir viðskiptavild Íslands hjá alþjóðlegum framleiðslufyrirtækjum, sem nota mikla orku til starfsemi sinnar. Þau vantreysta Landsvirkjun fullkomlega og hafa engan hug á nýrri starfsemi og mjög takmarkaðan áhuga fyrir áframhaldandi starfsemi. Fyrir Jón og Gunnu, sem horfðu á Kastljósþátt RÚV að kvöldi 24.02.2020 með Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanni stjórnar Samtaka iðnaðarins, og Herði Arnarsyni, þarf þetta ekki að koma á óvart, því að það skein í gegnum málflutning Harðar, að hann leggur fæð á stóriðjufyrirtækin í landinu. Fyrir eigandann er sú staða gjörsamlega óviðunandi.
Ætla má, að gerðardómurinn, sem Einar nefnir, hafi reynt að finna verð, sem væri samkeppnishæft við aðrar verksmiðjur, að teknu tilliti til viðbótar kostnaðar á Íslandi. Sú staðreynd, að Landsvirkjun telur úrskurðað orkuverð of lágt, er góð vísbending um, að hún er á algerum villigötum með verðlagningu sína.
23.2.2020 | 14:18
Orkupakkarnir segja til sín
Sumir halda, að orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB), sem Alþingi hefur innleitt hér í þremur áföngum, og sá fjórði bíður handan við hornið, hafi engin áhrif hér á heimilisrekstur og fyrirtækjarekstur. Það er reginmisskilningur eða vanmat á áhrifum stefnumörkunar í orkumálum, og nægir í því sambandi að benda á skýrslu "Orkunnar okkar", samtaka gegn innleiðingu Orkupakka #3, um þann þriðja áfanga, frá ágúst 2019. Þar var t.d. sýnt fram á, að orkukostnaður almennings (heimila og fyrirtækja án sérsamninga við orkubirgja) á hverja orkueiningu (ISK/kWh) hefði að jafnaði hækkað um tæplega 10 % umfram almennt verðlag frá innleiðingu fyrsta áfangans.
Hækkunina má rekja beint til uppskiptingar raforkugeirans, sem kveðið er á um í öllum áföngunum þremur, en Íslandi bar engin skylda til að innleiða vegna smæðar rekstrareininga orkugeirans. Á þessu tímabili hefði raunorkukostnaðurinn hins vegar að öllu eðlilegu átt að lækka vegna skuldalækkunar raforkugeirans. Nú þurfa flutningur og dreifing að standa undir sér, en áður var hægt að fjármagna framkvæmdir á þessum sviðum með ágóða af orkusölu. Samkeppni um viðskipti á þessu sviði hefur engan veginn vegið upp á móti dýrari og smærri rekstrareiningum, og á sviði stórsölu með rafmagn ríkir nánast einokun, sem er hættuleg í þessu kerfi orkupakkanna, þar sem hver er sjálfum sér næstur í orkugeiranum, og ekki er lagt upp með að taka tillit til þjóðarhags (hámarka verðmætasköpun, gjaldeyrisöflun og atvinnu), eins og áður var viðmiðun við verðlagningu raforku.
Sannleikurinn er sá, að Íslendingar voru ginntir til að innleiða hina svo kölluðu orkupakka ESB á þeim fölsku forsendum, að það yrði landsmönnum til hagsbóta (að efla frjálsa samkeppni). Raforkugeirinn sjálfur var þó á móti því (og vinstri grænir), en skammsýnir stjórnmálamenn létu embættismenn, sem ekki var gefin andleg spektin, leiða sig í gönur, sem síðan hefur valdið vandræðum og deilum í landinu.
Engin þörf var þó á þessari innleiðingu vegna EES-samningsins, eins og Jón Baldvin Hannibalsson, sem ábyrgð bar á gerð þessa einstæða viðskiptasamnings fyrir Íslands hönd, og fjölmargir aðrir, hafa bent á. Samningurinn er einstæður fyrir miklar kvaðir á hendur löggjafarvaldi og dómsvaldi um aðlögun laga og reglna að Innri markaði Evrópusambandsins (ESB). Hann var hugsaður til bráðabirgða, en hefur virkað í meira en aldarfjórðung. Eftir útgöngu Breta úr ESB er ljóst, að vægi fríverzlunarsamninga mun aukast í okkar umhverfi, og á þeim grundvelli mun vafalítið fara fram nýtt hagsmunamat í Noregi og á Íslandi. Kosningaúrslitin í Noregi haustið 2021 munu einnig hafa áhrif á þróun þessara mála á næstu árum.
Vandamálið í þessu orkutilviki er, að orkulöggjöf ESB er sniðin við raunverulegt samkeppnisumhverfi, og hún hvetur raforkuvinnslufyrirtækin til að hámarka hagnað sinn án tillits til annarra hlekkja í virðiskeðjunni. Hagnaðurinn á síðan að virka sem hvati fyrir þau að byggja ný orkuver og koma þannig í veg fyrir aflskort og til að raforkuvinnslan fari jafnan fram með hámarks nýtni (ný orkuver bjóða upp á hærri orkunýtni og lægri rekstrarkostnað en hin eldri). Á Innri markaðinum virkar frjáls samkeppni orkubirgjanna sem hemill á verðhækkanir þeirra, og verðið ákvarðast í skurðpunkti framboðs og eftirspurnar.
Þegar þetta kerfi, sem reist er á jafnvægi samkeppnisumhverfis, er hins vegar innleitt í einokunarumhverfi, eins og íslenzki orkugeirinn er, sérstaklega á sviði stórviðskipta með raforku, þar sem enginn annar en stærsti aðilinn er í færum til að afhenda umbeðinn fjölda GWh/ár, þá endar það auðvitað með ósköpum, eins og gleggst má sjá með hrikalegustu afleiðingum í Straumsvík þessa dagana.
Það er jafnframt pólitískt áfall fyrir þann, sem dáðst hefur að kjarki og framsýni frumkvöðlanna á iðnvæðingarsviðinu hérlendis úr röðum forystu Sjálfstæðisflokksins, að verða vitni að vanhugsaðri og afar óheppilegri yfirlýsingu núverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins og iðnaðarráðherra, sem skilja mátti þannig, að hún sæi ekki muninn á því að flytja út rafmagn um sæstreng (með 10 % töpum) og á föstu formi áls. Í framhaldinu var hún þess hvetjandi, að tekinn væri upp þráðurinn við að kanna fýsileika aflsæstrengstengingar Íslands við erlenda markaði.
Hún horfir þá gjörsamlega framhjá gildi verðmætasköpunar í landinu úr rafmagninu fyrir landsmenn. Þetta er ennfremur sem blaut tuska framan í Straumsvíkurfólk á erfiðri stundu og mjög undarlegt, skömmu eftir að ríkisstjórnin, sem hún á sæti í, gerði gangskör að því við íslenzku bakhjarlana að "Ice-Link", að hann yrði tekinn út af forgangslista ESB um innviðaverkefni, PCI. Slíkar yfirlýsingar geta orðið henni og flokki hennar afar dýrkeyptar, ekki sízt í ljósi eldri og spánýrrar sögu (iðnvæðingin, orkupakki 3).
Við verðlagningu sína á raforkunni til ISAL, þegar gerð nýs raforkusamnings við Rio Tinto Alcan (RTA) stóð yfir 2010-2011, fylgdi Landsvirkjun forskrift orkupakkanna, tók ekkert tillit til áhrifa verðlagningar sinnar á samkeppnishæfni viðskiptavinarins eða áhrifanna á vilja hans til að halda hér uppi fjárfestingum og fullri framleiðslu, sem þó nauðsyn ber til í íslenzku umhverfi einokunar á þessu sviði, heldur lagði mikla áhættu á viðskiptavininn, sem reyndist stórhættulegt og ógnaði framtíðarstarfsemi hans á Íslandi. Þetta var kúvending hjá Landsvirkjun frá drögum að nýjum samingi frá 2008-2009. Ósjálfbærni samningsins er fólgin í stöðugum hækkunum raforkuverðsins með bandarískri neyzluvísitölu (CPI), sem hækkað hefur um 16 % á 10 árum, á meðan alls ekkert tillit er tekið í samninginum til þróunar álverðs eða almenns orkuverðs í heiminum. Svona gera menn ekki, sem rækta vilja langtíma viðskiptasamband.
Þessi einsleitni samningsins reyndist afdrifarík, því að þróun orkuverðs og álverðs varð með allt öðrum hætti í heiminum en Landsvirkjun hafði spáð. Þvergirðingur Landsvirkjunar keyrði svo úr hófi fram, að hún tók ekki í mál að draga úr áhættunni fyrir afkomu viðskiptavinarins með því að tengja raforkuverðið við afurðaverð hans (skráð álverð) með svipuðum hætti og gert hafði verið lengi og er algengt í þessum viðskiptum. Áhættan við slíkt fyrir Landsvirkjun er miklu minni en áhættan við að sleppa tengingunni er fyrir viðskiptavininn, þegar byrjað er á að skrúfa orkuverðið upp í hæðir, sem búizt er við í framtíðinni, eins og þarna var gert. Það er alltaf gólf í slíkri tengingu, þannig að hagnaður af viðskiptunum er orkusalanum í raun tryggður út samningstímabilið.
Blanda af þvergirðingshætti og tilhæfulausum væntingum er rótin að því, að nú vofir lokun yfir starfseminni í Straumsvík, og Landsvirkjun, undir núverandi stjórn, spilar sennilega rassinn úr buxunum núna í viðskiptum við RTA, svo að hún glutrar niður kaupskylduákvæðinu (fyrir dómi), sem er gríðarlega verðmætt (yfir mrdISK 200), því að það gildir til ársins 2036.
Gunnar Snær Ólafsson ritaði áhugaverða baksviðsfrétt um málefni álversins í Straumsvík og Landsvirkjunar í Morgunblaðið, 14. febrúar 2020, undir fyrirsögninni:
"Breyttu rekstrargrunni án greiningar":
"Áratug eftir, að gerð var grundvallar stefnubreyting [á] tilhögun raforkusölu Landsvirkjunar til orkufreks iðnaðar að frumkvæði fyrirtækisins og með stuðningi stjórnvalda, hafa stjórnvöld ákveðið að láta gera úttekt á samkeppnishæfni greinarinnar. Hafði mbl.is eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðarráðherra, í gær, að slík úttekt hefði aldrei verið gerð áður. En nú þegar hefur eitt fyrirtæki, Rio Tinto Aluminium (RTA), ákveðið að hefja endurskoðun á starfsemi álversins í Straumsvík (ISAL) og meta rekstrarhæfi þess.
Í tilkynningu, sem barst fjölmiðlum á miðvikudag [12.02.2020], sagði Alf Barrios, forstjóri RTA, að álverið í Straumsvík væri óarðbært og "ekki samkeppnishæft í krefjandi markaðsaðstæðum vegna hás raforkukostnaðar". Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur hins vegar ekki samþykkt né útilokað, að það sé verðlagningin, sem valdi usla, þar sem ISAL sé afhent orka á að hans mati samkeppnishæfu verði."
Staðan er sorglega einföld: forstjóri Landsvirkjunar lemur hausnum við steininn og neitar að horfast í augu við ömurlegar staðreyndir. Staðreyndir málsins eru, að 2010-2011 voru gerðar spár um þróun álverðs og orkuverðs í heiminum af hálfu Landsvirkjunar o.fl., sem voru hafðar til hliðsjónar við samningsgerð, en stóðust engan veginn, því að í stað hækkana álverðs og orkuverðs komu lækkanir á báðum. Álverð (LME) var þá 2000-2300 USD/t, og hefði það hækkað með vísitölu neyzluverðs í Bandaríkjunum (BNA), eins og raforkuverðið til ISAL, þá væri álverðið núna um 2500 USD/t, en það er í raun aðeins tæplega 1700 USD/t. Í stað væntrar hækkunar um 350 USD/tAl eða 16 % hefur komið raunlækkun um 450 USD/tAl eða 21 % tímabilið 2010-2020. Til að ná raforkukostnaðinum núna niður í sama hlutfall af skráðu álverði og var við lýði í upphafi samningsins 2011, þ.e. tæplega 24 %, þarf að lækka heildar raforkuverðið (orka+flutningur) um 12 USD/MWh eða rúmlega 30 %.
Heimsmarkaðsverð á orku hefur lækkað frá 2010. Sífellt meira af raforku Vesturlanda er nú framleitt með jarðgasi, og verð á því hefur helmingazt á tímabilinu 2010-2020, úr 5 USD/MBtu í 2,5 USD/MBtu, og verður samkvæmt grunnspá US Energy Information Agency um 3,5 USD/MBtu árið 2035, þ.e. lækkar um 30 % frá 2010, sem er svipað og heildarraforkuverð til ISAL þarf að lækka um til að ná jafnstöðu við upphafsforsendur.
Landsvirkjun reiknaði hins vegar með raunhækkun raforkuverðs (meiri en neyzluvísitölunnar) allt samningstímabilið (2011-2036) og heimtaði þess vegna mikla hækkun upphafsraforkuverðs frá fyrri samningi og vísitölubindingu á því við neyzluverð í BNA í stað þess að draga úr óvissu fyrir báða samningsaðila með því að hafa byrjunarhækkunina minni og tengja orkuverðið við álverð og jafnvel einnig við skráð orkuverð (olíu eða gas), en þó með gólfi til að tryggja hag Landsvirkjunar.
Þessi kolranga áætlanagerð og ógætilega og sumir segja hranaalega málsmeðferð hefur nú leitt samningsaðila út í algerar ógöngur, og ber Landsvirkjun mestu ábyrgðina, því að hún mótaði samningsferlið í krafti þeirrar stefnubreytingar að nýta sér einokunarstöðu sína til hins ýtrasta, án tillits til þjóðarhags, sem var eins óráðlegt og hægt er að hugsa sér, og varla hefur hvarflað að höfundum orkupakka ESB, að nokkrum myndi detta slík misbeyting aðstöðu til hugar, enda ekki skilyrði til þess í ESB.
Þessi keyrsla Landsvirkjunar út í skurð lýsir sér í yfirvofandi hættu á tekjutapi upp á 16 mrdISK/ár og í heildina yfir mrdISK 230 á samningstímabilinu. Enginn fæst að samningaborðinu á afarkostum Landsvirkjunar. Þjóðfélagið missir um 1250 störf samkvæmt Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og yfir 50 mrdISK/ár í útflutningstekjur. Þetta högg ofan á fækkun erlendra ferðamanna loðnubrest og efnahagssamdrátt í heiminum (CoVid-19) mun að líkindum snara viðskiptajöfnuði landsins öfugum megin við núllið, og þar með er meginforsenda efnahagsstöðugleikans brostin.
Landsvirkjun tók áhættu, sem getur haft grafalvarlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir landið. Höfuðsök á mistökunum á forstjóri fyrirtækisins, sem hlýtur að axla sín skinn.
Baksviðsgrein Gunnlaugs Snæs lauk þannig:
"Sé það svo, að raforkuverð til ISAL hafi dregið úr samkeppnishæfni þess og þar með stofnað rekstrinum í hættu, má í einhverjum mæli segja, að sú staða hafi skapazt, þegar stjórnvöld og Landsvirkjun lögðust á eitt til að bæta fjárhagsstoðir fyrirtækisins, líklega í von um að tryggja aukna arðsemi, sem síðan myndi skila sér í ríkissjóð. Ekki lá fyrir greining á samkeppnisstöðu orkufreks iðnaðar á Íslandi og spurning, hvort þjóðhagsleg langtímaáhrif í kjölfar breyttra rekstrarforsendna álveranna hafi yfirhöfuð verið metin."
Það er engum vafa undirorpið, að til að gæta að þjóðhagslegum afleiðingum gjörða sinna bar Landsvirkjun að áhættugreina samningskröfur sínar, en það virðist hafa farið í handaskolum 2010-2011 áður en samningur var undirritaður. Annars hefði komið í ljós, að nauðsyn bæri til að setja varnagla inn í samninginn, sem stöðva myndi sjálfvirka árlega vísitöluhækkun raforkuverðsins við stöðuga lækkun álverðs og lækka raforkuverðið, ef hlutfall raforkukostnaðar á hvert áltonn færi yfir t.d. 25 %. Við upphaf samningsins árið 2011 var þetta hlutfall undir 24 % af skráðu álverði LME, en á árinu 2020 er það komið í rúmlega 34 %. Það hefur algerlega snarazt á merinni, sem ætti að sýna í sjónhendingu, að samningurinn er meingallaður og sem slíkur stórhættulegur efnahagslegum stöðugleika á Íslandi. Í ljósi þessa verða ríkisstjórn og Alþingi að grípa inn og sjá til þess, að nýr samningur verði með innbyggðan stöðugleika að þessu leyti og sanngjarna áhættudreifingu beggja aðila. Til þess eru margar leiðir færar.