Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Þokukennd umræða um heildsöluverð raforku

Fáum blandast hugur um, að ágreiningur ríkir á milli Landsvirkjunar og viðskiptavina hennar um það, hvort verðlagning Landsvirkjunar á raforku í heildsölu í langtímasamningum sé samkeppnishæf við verðlagninguna á hinum Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu, hvað þá alþjóðlega. Þessi ágreiningur hefur birzt m.a. í blaðagreinum starfsmanna Landsvirkjunar og framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins.  Starfsmenn Landsvirkjunar bentu reyndar á í blaðagrein, sem vitnað verður til í þessum pistli, að stórfelldar niðurgreiðslur ýmissa ríkisstjórna í EES (utan Íslands) á raforkuverði til iðnaðar ætti sér stað. Er það mjög athyglisvert samkeppnisumhverfi, sem þannig viðgengst í EES, þegar ESA og Framkvæmdastjórn ESB umbera niðurgreiðslur ríkissjóða á orkuverði stóriðju (orkukræfs iðnaðar), t.d. í Noregi. 

Þessi ágreiningur um samkeppnishæfni íslenzks raforkuverðs til stórnotenda birtist einnig í tilkynningu Rio Tinto Aluminium (RTA), sem birt var í Straumsvík á starfsmannafundi kl. 0800 miðvikudaginn 12.02.2020, og yfirlýsingum Rannveigar Rist, forstjóra ISAL, og Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, í hádegisfréttum RÚV þann sama dag.  

Það verður alltaf erfitt að henda reiður á umræðunni um verðlag, ef aldrei eru gefnar upp tölur, nema meðaltal margra fyrirtækja, t.d. allra stóriðjufyrirtækjanna á Íslandi.  Samningsaðilar ættu að geta náð samkomulagi um að opinbera t.d. meðalraforkuverð á ári til hvers kaupanda. Báðir ofangreindir forstjórar lýstu sig hlynnta þessu í ofangreindum fréttatíma.  Hver stendur þá í vegi þess, að raforkuverð og flutningsgjald til ISAL séu birt ?  Kannski stjórnir fyrirtækjanna ?

Þann 5. febrúar 2020 riðu 2 galvaskir riddarar Landsvirkjunar inn á ritvöllinn á vettvangi Fréttablaðsins í því skyni að andmæla staðhæfingum framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins um, að raforkuverð Landsvirkjunar væri í tilviki samninga frá 2010-2011 og síðar ekki samkeppnishæft. Þess má geta, að Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, lýsti í ofangreindum fréttatíma yfir miklum áhyggjum vegna þess, að raforkuverðið til ISAL væri ósjálfbært.  Höfundar Fréttablaðsgreinarinnar, Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptagreiningar, og Sveinbjörn Finnsson, sérfræðingur í viðskiptagreiningu, skrifuðu m.a.:

"Raforkusamningar Landsvirkjunar eru gerðir á viðskiptalegum forsendum.  Það þýðir, að verð í þeim þarf að vera yfir kostnaðarverði fyrirtækisins og samkeppnishæft fyrir viðskiptavini okkar, en stórnotendur á Íslandi starfa almennt á hörðum alþjóðlegum samkeppnismarkaði." 

Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það, að núverandi raforkuverð til ISAL er ósamkeppnisfært, þvert á það, sem forstjóri Landsvirkjunar staðhæfir (út í loftið).  Af ósvífni þess, sem skákar í skjóli leyndar, fullyrðir hann reyndar jafnframt, að verðið sé sanngjarnt, og er það sem blaut tuska framan í elzta viðskiptavin Landsvirkjunar, sem veit betur. Þar sem raforkuverðinu hefur verið leyft að hækka hömlulaust samkvæmt samningi 2011 eftir vísitölu í Bandaríkjunum, CPI, þótt álverðið hafi snarlækkað á sama tímabili (2011-2020), hefur hlutfall raforkukostnaðar af skráðu álverði hækkað úr tæplega 24 % í rúmlega 34 %.  Það er bersýnilega ekki sanngjarn samningur, sem inniheldur engan varnagla við því, að svo mikið halli á annan aðilann, að óbærilegt geti talizt.

Það má nefna 2 aðrar röksemdir fyrir því, að raforkuverðið er ósamkeppnisfært, og eru þær skyldar.  Önnur er, að ISAL er óseljanlegt, og er það orkusamningurinn, sem fælir lysthafendur frá kaupunum.  Hin er, að Landsvirkjun getur ekki bent á neina aðila, sem séu fúsir til að kaupa svipað orkumagn og ISAL með þeim skuldbindingum, sem eru í núverandi raforkusamningi ISAL við Landsvirkjun. 

Landsvirkjun hefur rekið ýtinn áróður fyrir tengingu Íslands með aflsæstreng við stóran raforkumarkað, og þar beittu menn sér fyrir því, að ESB tæki "Ice-Link" inn á forgangs innviðaverkefnaskrá sína, PCI, á sínum tíma.  Til þess voru refirnir skornir að geta við atburði eins og þann, sem varð í Straumsvík 12. febrúar 2020 (tilkynning Rio Tinto Aluminium í tilefni mikils fjárhagstaps ISAL 2012-2019), lýst því yfir, að raunveruleg samkeppni væri um orkuna, sem ISAL kaupir af Landsvirkjun. Sannleikurinn er hins vegar sá, að það er engin spurn eftir um 3000 GWh/ár af raforku með þeim skilmálum, sem Landsvirkjun setur. Þess vegna er núna skák á kónginn, og Landsvirkjun og ríkisstjórnin verða að taka afstöðu til þess á næstu 3 mánuðum, hvort þær vilja missa um 16 mrdISK/ár af raforkusölutekjum og 50-60 mrdISK/ár í útflutningstekjum (gjaldeyri).

  Með því að neita að endurskoða verð, sem er mjög íþyngjandi fjárhagsleg byrði fyrir viðskiptavin og sem nú er langt frá því að vera samkeppnishæft á Íslandi, er hætta á því, að Landsvirkjun glutri niður kaupskylduákvæði raforkusamningsins við ISAL í málaferlum fyrir dómi. Það er leitt upp á að horfa af hversu mikilli óforsjálni Landsvirkjun virðist tefla þessa skák.  Hún hefur verið tekin í bólinu með ofangreindri tilkynningu RTA, og of takmarkaður skilningur virðist vera á alvarleika málsins. 

Þegar hugtakið "kostnaðarverð" er notað í þessu samhengi, verða höfundarnir frá Landsvirkjun að gefa á því útskýringar við hvað er átt. Evrópusambandið (ESB) notar þetta hugtak yfirleitt um jaðarkostnað, þ.e. hvað kostar að framleiða viðbótar kWh, og það er ekki óeðlilegt í raforkukerfum, þar sem meginkostnaðurinn er breytilegur kostnaður.  Þetta viðhorf gegnir því hlutverki þar að hvetja til byggingar nýrra orkuvera til að koma í veg fyrir aflskort í kerfinu. Margt bendir til, að í samningum sínum við nýja  raforkunotendur og við endurskoðun gamalla orkusamninga við viðskiptavini sína, hafi Landsvirkjun lagt þetta viðhorf til grundvallar verðlagningu sinni, og er það í samræmi við orkulöggjöf ESB, sem hér hefur, illu heilli, verið innleidd í þremur s.k. orkupökkum.  Þessi jaðarkostnaðaraðferð er hins vegar með öllu óviðeigandi á Íslandi, og er vísasti vegurinn til að glutra niður alþjóðlegri samkeppnisstöðu Íslands á orkusviðinu með þeim neikvæðu afleiðingum, sem slíkt hefur á hag landsins.

Kerfi ESB getur aðeins virkað, þar sem er virk samkeppni.  Hér er engin samkeppni á framboðshlið, þegar á eftirspurnarhlið er þörf fyrir 3000 GWh/ár eða meira.  Þar ríkir einokun hérlendis, og Landsvirkjun hefur neytt þeirrar stöðu sinnar með þeim afleiðingum að verðleggja raforkuna allt of dýra og taka ekkert tillit til heildarhagsmuna og hámörkunar verðmætasköpunar í landinu, eins og hér verður að gera og var jafnan gert fyrir 2010.  

Afleiðingarnar voru fyrirséðar, og það var varað við þeim í umræðunum hérlendis um Orkupakka #3. Með yfirlýsingu Rio Tinto Aluminium (RTA) frá 12.02.2020 er komið í ljós, að Landsvirkjun hefur setið við sinn keip og að þá sér stjórn RTA sér þann kost vænstan að láta sverfa til stáls.  Verði Landsvirkjun látin komast upp með það að bíta sig fasta við orkustefnu ESB, þá breytist hún úr uppbyggingarafli fyrir íslenzkt atvinnulíf í niðurrifsafl. Að 4 mánuðum liðnum verður þá tilkynnt um lokun ISAL, og að Landsvirkjun verði dregin fyrir dóm, þar sem RTA mun krefjast þess að losna undan kaupskylduákvæði um 85 % forgangsorkunnar á þeim grundvelli, að samningsforsendur séu brostnar og Landsvirkjun hafi sýnt ósveigjanleika, ósanngirni og hafi árin 2010-2011 við samningsgerð misnotað einokunaraðstöðu sína á íslenzka raforkumarkaðinum til að knýja fram skilmála, sem nú séu orðnir óbærilegir. Ætlar iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, að láta þá atburði gerast "á sinni vakt", sem hrinda mundu Íslandi út í kreppu, stóraukið atvinnuleysi, minnkun stóriðjutekna Landsvirkjunar um þriðjung og fall viðskiptajafnaðar undir 0 með þeim afleiðingum, sem það mun hafa á efnahagslegan stöðugleika í landinu.  

Í íslenzka raforkukerfinu er lágur breytilegur kostnaður (rekstrarkostnaður), kostnaður er að mestu fastur (fjármagnskostnaður), og þá er s.k. langtíma jaðarkostnaður kerfisins vinnslukostnaður á hverja kWh í næstu virkjun.  Ef á að nota þessa stærð sem grundvöll nýrra orkusamninga, er Ísland líklega nú þegar orðið ósamkeppnishæft á orkusviðinu. Þessi tegund verðlagningar er reist á þeim boðskap orkupakka ESB, að hvert fyrirtæki eigi að hámarka gróða sinn og ekki að sinna neinu öðru.  Með þessu sjónarmiði er lögð fyrir róða sú hefðbundna íslenzka orkustefna, að orkulindirnar skuli nýta til eflingar atvinnulífi og til bættra lífskjara í landi, auðvitað einnig með hagfelldum hætti fyrir viðkomandi orkufyrirtæki.  Með ESB-leiðinni er sá kostur raforkukerfisins ekki nýttur til öflunar viðbótartekna, að stór hluti orkukerfisins og þar með kostnaðar orkukerfisins er þegar bókhaldslega afskrifaður.  Við gerð langtímasamninga þarf aðeins að ganga úr skugga um, að orkuverðið tryggi alltaf nauðsynlega ávöxtun eignanna. 

Stöplaritið, sem höfundarnir sýna í grein sinni, bendir til, að ofangreind tilgáta um verðlagningarstefnu Landsvirkjunar sé rétt, því að verðið´með flutningsgjaldi, sem þeir sýna þar fyrir meðalstóra notendur, 10-20 MW, er svipað núgildandi verði fyrir alla orkunotkun ISAL, forgangsorku og ótryggða orku.  Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er, en þessi verðlagning á 400 MW til ISAL nær engri átt.

Höfundarnir, Sveinbjörn og Valur, leggja fram í téðri grein sinni athyglisverðar upplýsingar, sem vert væri, að Landsreglarinn á Íslandi (forstjóri OS) spyrði sinn norska starfsbróður um (sá gegnir sjálfstæðu embætti, aðskildu frá NVE, norsku orkustofnuninni, t.d. á vettvangi ACER, Orkustofnunar ESB: 

"Undanfarið hafa sérstakir þættir haft áhrif á raforkumarkaði á Norðurlöndunum, sem rýra tímabundið samkeppnisstöðu raforkusölu til stórnotenda á Íslandi.  Dæmi um það eru beinir ríkisstyrkir stjórnvalda, t.d. í Noregi, til vissra stórnotenda til að lækka raforku kostnað þeirra.  Árið 2019 námu þessir ríkisstyrkir rúmlega 20 milljörðum ISK í Noregi."

  Ef þessari upphæð er deilt með allri orku Noregs til stóriðnaðar, fæst ríkisstyrkur upp á yfir 6 USD/MWh til stóriðju, sem er meira en fimmtungur af meðalverði til stóriðju á Íslandi.  Þarna er verið að veikja samkeppnishæfni Íslands þvílíkt gagnvart Noregi, að ekki er hægt að láta óátalið.  Það er stórfurðulegt, að þessar upplýsingar koma þarna fram hjá Landsvirkjun, eins og ekkert hafi í skorizt.  Þetta er stórmál, sem EES-ríkið Ísland og hagsmunaaðili í málinu getur ekki látið afskiptalaust.  Í sambandi við athugun iðnaðarráðherra á samkeppnishæfni raforkuverðs á Íslandi liggur beint við, að ráðuneyti hennar sendi fyrirspurn til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA um, hverju þetta sæti, og hvernig þetta samræmist samkeppnisreglum Innri markaðar EES. 

Í ljósi þessa er algerlega óþarfi fyrir iðnaðarráðherra Íslands að vera feimin við að tjá þann vilja ríkisins, að fyrirtæki þess, Landsvirkjun, gangi til samninga við RTA til að jafna samkeppnisstöðu ISAL á markaðinum. 

Landsvirkjunarmennirnir, Sveinbjörn og Valur, bættu um betur í grein sinni um niðurgreiðslur frá ríkjum heims á stofnkostnaði vindorkuvera:

"Annað dæmi eru niðurgreiðslur til vindorkuvera, sem selja niðurgreidda raforku í mörgum tilfellum til stórnotenda.  Stjórnvöld víða um heim hafa ráðstafað gríðarlegum fjármunum til þessara styrkja, en Alþjóða orkumálastofnunin áætlar, að árlegir styrkir til vindorkuverkefna í heiminum séu um mrdISK 6000.  Það er rúmlega tvöföld landsframleiðsla Íslands." 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Syrtir í álinn

Nú fara saman minnkandi hagvöxtur á alþjóðavísu og á Íslandi.  Greiningardeildir hérlendar í viðskiptabönkunum og Seðlabankinn voru í fyrra of bjartsýn um efnahagshorfur hérlendis 2020. Fyrir þremur mánuðum spáði Seðlabankinn 1,6 % hagvexti hérlendis í ár, en nú spáir hann aðeins 0,8 % hagvexti, sem er ávísun á vandræði margra fyrirtækja og mikið atvinnuleysi á íslenzkan mælikvarða. Veiran CoV-1-19 mun að öllum líkindum keyra hagkerfi heimsins í kreppuástand, og sumir spá lausafjárþurrð á borð við fjármálakreppuna 2007-2008. 

Það eru í meginatriðum 3 ástæður fyrir líkum á samdrætti íslenzka hagkerfisins, þótt verstu áhrifum veirunnar sé sleppt.  Í fyrsta lagi sveiflur í lífríki hafsins, t.d. minni uppsjávarafli, en aukning þorskveiða og hækkun á verði fiskafurða í erlendri mynt ásamt framleiðsluaukningu fiskeldisins hafa reyndar sveiflazt í hina áttina til útjöfnunar.

Í öðru lagi er minnkandi hagvöxtur í heiminum og áframhaldandi kreppuhætta í Evrópusambandinu (ESB) og Japan með stýrivexti þar niðri við 0 og skuldabréfakaup seðlabankanna.  Nýja kórónaveiran, CoV-1-19, sem upp gaus í Kína í desember 2019 og varð að skæðum faraldri þar mánuði seinna, hefur alla burði til að setja Kína, annnað stærsta hagkerfi heims, á hliðina, og hún hefur þegar borizt til Vesturlanda.  Tölur um sýkta og látna frá Kína eru tortryggilegar.  Opinberar tölur um dánarhlutfallið hélzt lengi vel fast frá degi til dags, 2,1 %, sem vekur grunsemdir um, að það kunni að vera miklu hærra, og fréttir frá Taiwan (Formósu) lúta að því.  Til að gera sér grein fyrir raunverulegu hlutfalli dauðsfalla þarf að reikna hlutfall látinna sem hlutfall af sýktum á sama tíma og hinir látnu.  Þá fæst fimmfalt ofangreint hlutfall, sem setur þessa veiru í flokk, sem er miklu skæðari en spænska veikin 1918-1919, en þá veiktust 63 % íbúa í þéttbýli, og af þeim létust 2,6 %. Þessi óáran hlýtur að hafa mjög neikvæð, tímabundin áhrif á ferðaiðnaðinn í heiminum. Nú sést varla kínverskur ferðamaður á götum Reykjavíkur. 

Þriðja ástæða kólnunar íslenzka hagkerfisins í fyrra kom fram í Baksviðsfrétt Stefáns E. Stefánssonar í Morgunblaðinu, 6. febrúar 2020,

"Hagvöxtur helmingi minni í ár en fyrri spá gerði ráð fyrir".

Vitnað var í fund á vegum Seðlabanka Íslands, SÍ, daginn áður:

"Í máli Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings SÍ, á kynningarfundi í gær kom fram, að útflutningur vöru og þjónustu hefði dregizt saman í fyrra um 5,8 %, og væri það mesti samdráttur frá árinu 1991.  Þá gerir bankinn ráð fyrir, að enn muni [útflutningurinn] draga[st] saman sem nemi 1,4 % í ár.  Gangi sú spá eftir, er það í fyrsta sinn, sem samdráttur mælist samfellt í 2 ár frá árunum 1991-1992."

Þessi rýrnun útflutningstekna landsins stafar að langmestu leyti af færri millilendingarfarþegum og komufarþegum til landsins. Að einhverju leyti stafar þetta af gjaldþroti VOW-air, en þó virðist nægt framboð flugsæta til landsins, enda flugfélögin um 25, sem hingað fljúga.  Ferðamönnum til hinna Norðurlandanna fjölgaði í fyrra, svo að ástæða fækkunar hingað er að mestu leyti hátt verðlag. Eftir er að taka áhrif Kína-faraldursins CoV-1-19 með í reikninginn, en þau verða mikil, ef spá faraldursfræðinga um, að 60 %-80 % jarðarbúa smitist af þessari veiru í ár, rætist, og minni álútflutningur og lækkandi álverð eru heldur ekki þarna meðreiknuð. 

Samkeppnishæfni landsins hefur dalað eftir Lífskjarasamningana, sem þýðir, að þeir voru of dýrkeyptir, a.m.k. fyrir fyrirtæki, þar sem stór hluti starfsmanna er í neðri hluta launastigans.  Það á einmitt við um ferðamannaiðnaðinn.  Verkefni ríkisvaldsins er að leggja drögin að endurheimt samkeppnishæfninnar, en það eru engin teikn á lofti um það, nema yfir Svörtuloftum, og þaðan berast þó blendin boð vegna gamallar ákvörðunar FME, sem nú er stjórnað af Svörtuloftum, um aukna eiginfjárbindingu viðskiptabankanna. 

Að starfsmenn hjá hinu opinbera skuli nú berjast með kjafti og klóm fyrir meiri hækkunum launa en kveðið er á um í téðum Lífskjarasamningum, er atlaga að þanþoli hagkerfisins og lýsir einhvers konar sjálfstortímingarhvöt og/eða veruleikafirringu, nema hér sé um gamalkunna stéttabaráttu eða hreinræktaða skemmdarverkastarfsemi í anda Marx og Leníns að ræða.  Þeir, sem nú skekja sverðin framan í atvinnurekendur, verða að sjá að sér, slíðra þau og sæta betra færis en nú er, þegar hagkerfið riðar til falls vegna fallandi útflutningstekna. Á hinum Norðurlöndunum væri þessi uppákoma útilokuð.  

Baldur Arnarson birti 5. febrúar 2020 opnuviðtal í Morgunblaðinu við Sigurð Hannesson, sem gerir sér grein fyrir vandanum, og hvað þarf að gera.  Kostnaður fyrirtækjanna er of hár, launakostnaðurinn er sá hæsti innan OECD sem hlutfall af verðmætasköpun þeirra.  Við þessu er brugðizt með aðgerðum til að auka skilvirkni fyrirtækjanna og framleiðni vinnuaflsins.  Afleiðingin er uppsagnir starfsfólks og aukið atvinnuleysi, en það eru fleiri kostnaðarþættir, sem hafa hækkað, t.d. raforkan. 

Það er alveg stórfurðulegt og algert sjálfskaparvíti í ljósi þess, að yfir 90 % raforkugeirans er í opinberri eigu, og hagnaður fyrirtækjanna er meiri en nokkru sinni fyrr.  Hið opinbera verður að sýna þá ábyrgðartilfinningu í þessari stöðu að birta stjórnum þessara fyrirtækja þá eigendastefnu að setja samkeppnishæfni íslenzks atvinnulífs ofar á forgangslistann en arðgreiðslur til eigendanna.  Slík eigendastefna yrði öllum landsmönnum að gagni og felur ekki í sér mismunun viðskiptavina, á meðan landið er ótengt innri markaðinum fyrir raforku. Þetta er alls engin niðurgreiðsla rafmagns, eins og þó virðist vera stunduð í samkeppnislöndum okkar, enda skulu allar virkjanir reknar með hagnaði. Flutnings- og dreififyrirtækin þarfnast væntanlega tímabundins fjárhagslegs stuðnings vegna átaksþarfar nú á framkvæmdasviðinu án hækkunar gjaldskráa.

Opnuviðtalið bar þessa fyrirsögn: 

"Það er óveðursský yfir Íslandi".

Úrdrátturinn hljóðaði þannig:

"Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir hagkerfið á krossgötum.  Ef ekki verður gripið til aðgerða, sé hætta á stöðnun í verðmætasköpuninni.  Bezta leiðin til að snúa vörn í sókn sé að styrkja samkeppnishæfni landsins og ráðast í uppbyggingu innviða."

Sigurður ræddi um orkuverðið út frá hagsmunum iðnaðarins, en ítreka ber, að hátt orkuverð skerðir samkeppnishæfni alls athafnalífs, og það er útilokað, að íslenzkt atvinnulíf verði samkeppnishæft við evrópskt atvinnulíf með hærra einingarverð rafmagns í heild (raforka, flutningur, dreifing) en virðist nú vera við lýði t.d. í Noregi, Danmörku og Hollandi (ylrækt), að teknu tilliti til niðurgreiðslna í þessum EES-löndum.

Undir fyrirsögninni:

"Orkuverð skerðir samkeppnishæfni",

gaf þetta á að  líta:

"Sigurður telur rétt, í samhengi við, að blikur séu á lofti í hagkerfinu, að víkja að áhrifum raforkuverðsins á iðnaðinn:

"Orkusækinn iðnaður hefur skipt miklu máli fyrir hagkerfið.  Það var pólitísk ákvörðun á 7. áratugnum að stofna Landsvirkjun, ráðast í uppbyggingu slíks iðnaðar og fá stóra viðskiptavini til landsins.  Þessi uppbygging á mikinn þátt í, að lífskjör hér á landi eru jafngóð og raun ber vitni", segir Sigurður. Máli sínu til stuðnings vísar hann til þeirrar niðurstöðu SI, að framlag álframleiðslu til verðmætasköpunar í hagkerfinu nemi um mrdISK 1150 frá gangsetningu álversins í Straumsvík 1969, eða sem samsvari um 40 % af [núverandi] landsframleiðslu [á ári]."

 

""Þetta hefur því verið vel heppnuð vegferð og skilað þjóðarbúinu miklum verðmætum.  Á síðustu árum hafa gagnaver orðið mikilvægur kaupandi raforku.  Það er hins vegar engin keðja sterkari en veikasti hlekkurinn, og það á líka við um virðiskeðjuna.  Þótt einn hlekkur í keðjunni hámarki sinn styrk, dugar það skammt, ef aðrir hlekkir eru við það að liðast í sundur", segir Sigurður og vísar til hámörkunar á arðgreiðslugetu Landsvirkjunar."

Frá sjónarmiði ríkisins, sem á Landsvirkjun, er það beinlínis óskynsamleg og óhagstæð stefna, sem tekin var upp hjá Landsvirkjun árið 2010 án umræðu á Alþingi, að stórhækka verð á afurð fyrirtækisins, sem eru aðföng þeirra fyrirtækja, sem verðmæti skapa úr orkunni.  Þjóðhagslega er hagkvæmara að skapa grundvöll fyrir samkeppnishæfri framleiðslu í landinu með því að vinna upp það óhagræði, sem felst í framleiðslu á Íslandi miðað við hagstæðustu staðsetningar í Evrópu.  Ísland á ekki að verða hráefnisland, heldur framleiðslu- og úrvinnsluland, sem hámarkar verðmætasköpunina.  Það verður þegar í stað að móta orkufyrirtækjunum þessa eigendastefnu, sem þýðir, að verðlagning raforkunnar ætti að vera sveigjanleg og háð skráðu markaðsverði á afurðum  útflutningsfyrirtækja í hópi viðskiptavinanna.

"Lengi vel tryggði orkuverðið hér á landi samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar.  Þróunin undanfarinn áratug er hins vegar sú, að orkuverðið hér hefur hækkað á sama tíma og orkuverð erlendis hefur heldur lækkað. Þannig að samkeppnishæfnin er ekki sú, sem hún var.  Nú má auðvitað deila um, hvort bilið í orkuverðinu milli landa var allt of mikið, en þetta er í öllu falli staðan núna."

 Í upphafi var raforkuverðið ákvarðað þannig, að það stæði undir kostnaði við Búrfellsvirkjun, sem var afar hagstæð, og 220 kV línur frá henni til þéttbýlisins á SV-landi (höfuðborgarsvæðinu) ásamt gasolíuknúinni neyðarrafstöð í Straumsvík, sem einnig þjónaði höfuðborgarsvæðinu fyrst í stað.  Þetta var gert til að draga hingað fjárfesta í orkukræfum iðnaði.  Síðan var nokkrum sinnum samið um hækkun raforkuverðs til fyrstu verksmiðjanna í Straumsvík og á Grundartanga, og var það ætíð í góðu samkomulagi á milli aðila, enda hafði afhendingaröryggið og þar með gæði raforkunnar tekið stakkaskiptum frá sokkabandsárum Búrfellsvirkjunar.

Samkomulag var um, að raforkuverð til álveranna tæki mið af skráðum alþjóðlegum markaðsverðum áls.  Með því vannst, að álverin mundu geta haldið áfram fullri framleiðslu, þótt í móti blési á mörkuðum, og þyrftu hvorki að fækka starfsmönnum né að draga úr orkukaupum sínum.  Þegar kom að gerð nýs raforkusamnings 2010 við ISAL, var hins vegar komið annað hljóð í strokkinn hjá Landsvirkjun, sem heimtaði afnám verðtengingar við álmarkaðina, en hins vegar aðra vísitölutengingu, sem er óskyld afkomu bæði álframleiðenda og orkuvinnslufyrirtækja.  Þetta reyndist illa, en fjárfestir í álveri er landfræðilega bundinn sinni fjárfestingu, og á þess vegna óhægt um vik, nema verksmiðjan sé talin afskrifuð.  Svo háttar ekki til í Straumsvík. Á afarkosti Landsvirkjunar var fallizt, en þegar markaðsaðstæður þróast á verri veg, eins og raunin hefur orðið vegna feiknarlegrar aukningar á framleiðslugetu Kínverja á áli, þá dregur slíkt dilk á eftir sér.

Það mætti hugsa sér aðra og fjölbreytilegri tengingu raforkuverðs til stórnotenda við alþjóðlegar vísitölur, sem varða bæði viðskiptavininn og birginn, t.d. að hluti raforkuverðsins verði tengdur alþjóðlegri vísitölu afurðaverðsins og hluti við alþjóðlega vísitölu orkuverðs, t.d. olíuverðs, en vitað er, að fylgni er á milli raforkuverðs í heiminum og olíuverðs.  Við slíkt ættu aðilar beggja vegna borðs að geta sætt sig í bráð og lengd. 

"Hyggjast samtök iðnaðarins beita sér fyrir því, að orkuverðið lækki ?  "Nei, það gerum við ekki, en við erum að segja, að við verðum að vera samkeppnishæf á öllum sviðum.  Það yrði auðvitað áfall, ef kaupendur að orkunni myndu frekar sjá sér hag í því að hætta starfsemi hér á landi en að halda henni áfram.  Áhrifin af því yrðu mikil", segir Sigurður.  Telur hann raunhæfar líkur á, að stórnotendur raforku hætti starfsemi hér á landi á næstu árum."

SI er auðvitað ekki samningsaðili, en mjög mikilvægur ráðgjafi fyrir félaga sína og stjórnvöld.  Það hljóta að blikka rauð ljós núna á skrifstofu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðar- og orkuráðherra m.m., þegar framkvæmdastjóri SI telur raunverulega hættu á, að hluti orkukræfrar starfsemi hérlendis, sem Sjálfstæðisflokkurinn barðist farsællega fyrir að fá til landsins á sinni tíð, leggi senn upp laupana.

"Ég verð að segja það hreint út, að ég er mjög ósammála þeim málflutningi Landsvirkjunar, að orkuverð hér á landi sé mjög samkeppnishæft á sama tíma og stórir viðskiptavinir félagsins eru annaðhvort að draga úr framleiðslu eða kjósa að byggja upp starfsemi í öðrum löndum.  Viðbrögð fyrirtækjanna styðja ekki þennan málflutning Landsvirkjunar, sem vísar alltaf til meðalverðs á raforku.  En eins og réttilega hefur verið bent á, stendur engum til boða að kaupa á meðalverðinu.  Það er eðli slíkra meðaltala, að í þýðinu eru sumar tölur hærri og aðrar lægri."

[Undirstr. BJo.]

Dr Sigurður Hannesson fer ekki með neitt fleipur.  Orð hans tala skýru máli um það, að Landsvirkjun hefur neytt einokunaraðstöðu sinnar í samningum um raforkuviðskipti við fyrirtæki með útrunna stórsamninga og farið offari í verðlagningu á afurð náttúruauðlinda Íslands, þótt sanngirnissjónarmið og heilbrigð skynsemi standi til að gæta meðalhófs með atvinnuöryggi og gjaldeyrissköpun að leiðarljósi. Ríkisstjórnin verður að hrista af sér hlekkina og leiðrétta þetta villuráf Landsvirkjunar, og Alþingi, þar sem fulltrúar eigendanna sitja, þarf að ýta henni til verka.  Það verður einfaldlega síðan að sjá til, hvort Landsreglarinn gerir einhverjar athugasemdir við þá framgöngu í nafni ACER (Orkustofnunar ESB). Það er þó enginn að ætlast til niðurgreiðslna af hálfu ríkisins á raforkuverðinu, enda samrýmist slíkt engan veginn samkeppnisreglum Innri markaðar EES.   

  

 


Mistök við verðlagningu orku

Kostnaður raforkuvinnslu á Íslandi er að yfirgnæfandi hluta fjármagnskostnaður, og þess vegna er hægt að áætla hann með góðri nákvæmni langt fram í tímann. Með því að gera langtímasamninga um orkusölu frá íslenzkum virkjunum er hægt að fjármagna þær með lítilli áhættu.  Það þýðir, að þessi verkefni falla í einna lægsta vaxtaflokkinn hjá lánastofnunum.  Vegna þess að framleiðsluháður kostnaður þessara virkjana er tiltölulega mjög lágur, er hagkvæmast að reka virkjanirnar stöðugt á sem næst fullu álagi.  Þetta er einmitt Akkilesarhæll vindorkuveranna.

Þessi kostnaðaruppbygging hefðbundinna íslenzkra orkuvera, vatnsafls- og gufuaflsvera, hefur auðvitað áhrif á það, hvernig hagkvæmast er fyrir virkjunareiganda að semja um orkusöluna.  Í henni þarf að vera hvati til kaupenda til að halda uppi stöðugu álagi og helzt sem næst stöðugu hámarksálagi, hvað sem í skerst á mörkuðum viðskiptavina orkuveranna.  M.ö.o. að þessir viðskiptavinir vatnsafls- og gufuaflsvera haldi einna lengst út, þegar á móti blæs á afurðamörkuðum viðskiptavinanna. Á þessu hefur Landsvirkjun flaskað frá 2010, er upprunalegi rafmagnssamningurinn frá 1966 við Alusuisse, með mörgum viðbótum, var endurnýjaður, þar sem gildistími hans var að renna út. 

Álmarkaðurinn 2019 var lélegri en árið áður, og enn eru engin handföst batamerki komin í ljós. Markaðurinn hefur þróazt til verri vegar en menn grunaði 2010. Afleiðingin er sú, að ISAL neyðist til að halda framleiðslu sinni 2020 við lágmarkið, sem ákvarðast af kaupskyldu raforkusamningsins, til að draga úr rekstrartapinu. Hin tvö álverin á Íslandi sjá ekki  ástæðu til að feta sömu slóð, enda búa þau við umtalsvert lægra raforkuverð samkvæmt eldri samningum. Segir þetta ólíka hátterni sína sögu um áhrif raforkuverðsins á ákvarðanatöku og á afkomuna. Að flíka síðan meðalverðinu og fullyrða, að það sé samkeppnishæft, er ekki lausnarmiðuð nálgun vandamálsins, en Landsvirkjun stingur í hausnum í sandinn og lætur sig hafa þann málflutning.

Nú berast loksins einhver tíðindi ofan úr orku- og iðnaðarráðuneytinu í tilefni af þessu og var ekki vonum fyrr.  Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefur nú ákveðið að komast til botns í þessu máli og hefur fengið til þess erlendan aðila, sennilega af því að hún treystir því ekki, að rannsókn innlendra aðila, sem þónokkrir gætu leyst þetta verkefni, yrði óvilhöll.  Allt er undir því komið, hvernig verklýsing ráðherrans er.  Til að komast til botns í því máli, hvort summa orkuverðs, flutningsgjalds og opinberra gjalda á rafmagnið til íslenzkra fyrirtækja með langtímasamninga við íslenzka orkubirgja sé samkeppnishæft, verður að taka alla kostnaðarþætti viðskiptavina þeirra með í reikninginn.  Að hrapa að niðurstöðu í þessu máli er verra en að láta vera að rannsaka málið.  Hætt er við, að rannsóknin verði æði yfirgripsmikil og dragist á langinn, nema hún sé í upphafi einskorðuð við þann viðskiptavin, sem þyngstar ber byrðarnar af völdum raforkukaupa í þessum hópi, reiknað í USD/MWh.

Nú berast fregnir af því, að viðskiptavinir íslenzks gagnaversfyrirtækis hafi séð sér þann kost vænstan að lækka hjá sér rekstrarkostnað með því að draga úr rafmagnsálaginu.  Ber þá allt að sama brunni.  Raforkubirgjar á Íslandi fara villur vegar um það, hvað er samkeppnishæft raforkuverð til meðalstórra og stórra raforkunotenda á Íslandi.  Þegar þessi mál eru vegin og metin, blasir við, að Landsvirkjun sem langstærsti orkusali landsins á heildsölumarkaði hefur yfirverðlagt afurð íslenzkra orkulinda við gerð nýrra orkusamninga og sérstaklega við endurnýjun gamalla og heldur uppteknum hætti með þeim alvarlegu afleiðingum, sem þessi háttsemi getur haft og er þegar tekin að hafa fyrir íslenzkt þjóðarbú og atvinnustig í bráð og lengd.

Lesendum til glöggvunar verður nú vitnað til fréttar í Markaði Fréttablaðsins, 30. janúar 2020:

"Minnkandi orkukaup í gagnaverum":

""Í okkar tilviki hefur notkun dregizt saman um 10 MW frá því í lok árs 2018 án þess þó, að viðskiptavinum hafi fækkað eða að nýting á plássi sé lakari hjá okkur.  Það er ekki ákvörðun, sem Advania Data Centers tekur, heldur hafa viðskiptavinir, sem leigja hjá okkur aðstöðu, ákveðið að draga úr raforkunotkun sinni", segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri Advania Data Centers, í samtali við Fréttablaðið."

Hér er um viðskiptavini að ræða, sem valið geta auðveldlega um orkubirgja, því að það er samkeppni á milli birgjanna í ólíkum löndum um að fá þá. Þetta er ekki eins og með álverseigendurna, sem hafa fjárfest gríðarlega í starfsemi sinni hér, og flutningur er óraunhæfur. 

Það fer ekki á milli mála, þegar orkuverð og afkoma viðskiptavina orkubirgjanna eru athuguð, að íslenzkir raforkubirgjar hafa yfirverðlagt sig og þannig glutrað niður sterkri samkeppnisstöðu fyrir klaufaskap og/eða græðgi, sem er farin að koma þeim í koll með minnkuðum sölutekjum.  Þetta er algert sjálfskaparvíti, því að auðvitað er vinnslukostnaður raforkunnar ekki hærri hér en á hinum Norðurlöndunum, á Bretlandi eða á Meginlandinu. 

Flutnings- og dreifingarkostnaður er þó hærri hér um þessar mundir vegna smæðar, vegalengda og uppskiptingar raforkugeirans samkvæmt orkulöggjöf Evrópusambandsins, ESB, sem innleidd var hér gjörsamlega að óþörfu, enda Ísland ótengt innri orkumarkaði ESB, en vinnslufyrirtækin hefðu þó getað tekið tillit til þessa við verðlagningu sína, þótt arðgreiðslur þeirra hefðu þá vissulega minnkað. Hér er um dæmigerð mistök birgja á samkeppnismarkaði í verðlagningu að ræða.  Verktakar, sem svona haga sér, missa strax viðskipti og detta að lokum út af markaðinum. Að hinu öfluga ríkisfyrirtæki Landsvirkjun skuli verða á þessi fingurbrjótur, vitnar um alvarlega gloppu í stjórnkerfi þess og meinloku forstjóra og stjórnar fyrirtækisins.  

"Fyrirtækið vinnur nú að uppbyggingu nýs gagnavers í hátæknigarði í Kista-hverfinu í Stokkhólmi.  Gagnaverið er það fyrsta, sem Advania Data Centers reisir erlendis, en fyrir eru gagnaver í Hafnarfirði og Reykjanesbæ.  Eyjólfur segir ástæðuna fyrir því, að viðskiptavinir séu að draga úr raforkunotkun sinni fyrst og fremst vera hækkandi raforkuverð á Íslandi.

"Þau verð, sem bjóðast á íslenzkum orkumarkaði, hafa verið að hækka og eru orðin of há m.v. okkar helztu samkeppnislönd.  Við erum langt frá því að vera samkeppnishæf við Norðurlöndin.  Allir stórnotendur ættu að finna fyrir því í sjálfu sér", segir Eyjólfur og bendir á, að orkuverð í miðborg Stokkhólms sé um 20 % lægra en það, sem fyrirtækinu bjóðist á Íslandi."

Það eru slæm tíðindi fyrir Íslendinga, að raforkuverð til stórnotenda í minni kantinum sé jafnvel yfir 20 % hærra á Íslandi en í miðborg Stokkhólms.  Þetta sýnir í hnotskurn alvarlegar afleiðingar af áherzlu forstjóra Landsvirkjunar á gróða fyrirtækisins og arðgreiðslur, og að hún er kolröng, því að verðlagning hinnar markaðsráðandi Landsvirkjunar er farin að fæla viðskiptavini frá landinu og er á leiðinni að flæma gamla viðskiptavini á brott. Stjórnir Landsvirkjunar frá 2010 hafa búið sér þessa stefnu, en eigandinn hefur aldrei mótað þessa stefnu og mótaði í upphafi aðra og miklu víðsýnni stefnu til heilla fyrir atvinnulíf landsins.   

Gorgeir forstjórans um, að Landsvirkjun muni á næstu árum geta greitt arð í ríkissjóð upp á 10-20 mrdISK/ár er innistæðulaus og ósjálfbær, af því að hann hefur algerlega misreiknað þróun raforkuverðs í nágrannalöndum okkar.  Þetta ríkisfyrirtæki, sem hefur markaðsráðandi stöðu á Íslandi, grefur nú undan hagsæld landsmanna með minnkandi orkusölu í stað þess að skjóta undir hana traustum stoðum, eins og það gerði á sínum fyrstu 45 árum.  Er þetta ekki einnar messu virði á Alþingi og í ríkisstjórn ?

"Almennt séð er mikil eftirspurn eftir raforku, en það er aftur á móti minni eftirspurn eftir raforku á þeim verðum, sem hafa verið að bjóðast á Íslandi.  Gagnaversmarkaðurinn er að vaxa ævintýralega í löndum á borð við Noreg og Svíþjóð, en vöxturinn hefur ekki verið eins mikill á Íslandi.  Það eru einfaldar ástæður fyrir því, og ein af þeim er hátt raforkuverð."

Á upphafsárum Landsvirkjunar var haldgóð þekking í fyrirtækinu um það, hvernig raunhæft væri að efla fyrirtækið með samkeppnishæfri verðlagningu raforku frá fyrirtækinu.  Neðri mörk verðsins eru að sjálfsögðu s.k. kostnaðarverð, þar sem reiknað er með ávöxtun fjárfestinga til verkefna með mjög litla áhættu.  Efri mörkin eru raforkuverð í öðrum löndum, sem sækjast eftir viðkomandi starfsemi, að frádregnu óhagræði og viðbótar áhættu og kostnaði samfara staðsetningu á Íslandi, reiknað á hverja kWh umsaminnar orku. Í upphafi var þessi frádráttarliður stór, því að Íslendingar og Ísland voru óskrifað blað í augum erlendra fjárfesta, og þar af leiðandi var Ísland land mikillar áhættu.

Síðan er mikið vatn runnið til sjávar, en samt eru enn viðbótar kostnaðarliðir, t.d. vegna fjarlægðar frá mörkuðum, sem verður að taka tillit til við verðlagningu raforku hér, ef á að freista fjárfesta til að stofna til og viðhalda atvinnustarfsemi hér.  Bæði er, að tekinn hefur verið rangur póll í hæðina um þróun raforkuverðs ytra, og frádráttarliðirnir vanmetnir.

"Eyjólfur segir, að það sé umtalsverður munur á kostnaði við flutning og dreifingu á raforku á Íslandi samanborið við Noreg og Svíþjóð, sem leiðir til þess, að heildarorkukostnaður verði umtalsvert lægri í þessum löndum samanborið við Ísland.  Auk þess sé í umfjöllun um orkuverð á Íslandi oft dregin upp villandi mynd samanber það, sem kom fram á kynningarfundi Landsvirkjunar nýlega.

"Þar var verið að bera saman verð á stundarmörkuðum (spot) á Norðurlöndum og meðalverð í raforkusamningum, sem gerðir eru til margra ára og jafnvel áratuga.  Raunin er hins vegar sú, að það meðalverð er eitthvert verð, sem enginn getur keypt á og er langt undir þeim verðum, sem okkur og öðrum nýlegum stórnotendum bjóðast.""

Hér er blekkingastarfsemi Landsvirkjunar um boðin orkuverð afhjúpuð.  Meðalverðið er ekki í boði, heldur virðist jaðarkostnaðarverð með hárri ávöxtunarkröfu vera lagt til grundvallar bæði til nýrra viðskiptavina og gamalgróinna, þar sem komið er að endurnýjun samninga.  

Hér gætir áhrifa frá löggjöf Evrópusambandsins, ESB, s.k. orkupökkum, en fyrsta innleiðingin átti sér stað hérlendis 2003 og sú seinasta 2019.  Þar er einmitt kveðið á um aðgreiningu orkuvinnslu, flutnings og dreifingar, og síðan þá hefur heildarorkuverðið hækkað verulega vegna fjármögnunar Landsnets með gjaldskrá sinni, en áður rann fé frá raforkuvinnslunni til uppbyggingar flutningskerfis og dreifiveitna.  Nú er í staðinn greiddur arður út úr orkuvinnslufyrirtækjunum til eigenda, og þannig er fé tekið út úr greininni, sem auðvitað hefur sín áhrif á verðlagninguna.  Snúa þarf af þeirri braut, hugsanlega með sjóðsstofnun fyrir þennan arð, sem síðan veiti styrktarfé til þess átaks, sem fara þarf í vegna flutningskerfisins (t.d. Byggðalínu) og dreifiveitnanna (afnám loftlína með jarðstrengjum). 

Það er reginmisskilningur hjá forstjóra Landsvirkjunar, að íslenzka raforkukerfið sé nú orðið svo burðugt, að hægt sé að taka út úr því stórfé án þess að skaða samkeppnishæfni þess.  Hann lét hafa eftirfarandi eftir sér í viðtali við Morgunblaðið 22. janúar 2020:

"Það ræðst auðvitað af fjárfestingarstiginu hjá okkur, hvað fyrirtækið getur greitt í arð.  Þær [svo ?] tvöfölduðust á síðasta ári, og þær eiga að geta gert það aftur í ár. Innan eins til tveggja ára geta þessar arðgreiðslur numið 10-20 milljörðum á ári.  Ef við ráðumst í stóru verkefnin, sem hér hafa verið nefnd, þá kann það að hafa einhver áhrif, og eins hefur það áhrif, hvernig okkar stærstu viðskiptavinum vegnar á alþjóðamörkuðum.  En heilt yfir ætti þessi mynd að geta litið svona út."

Þessi stefna ríkisfyrirtækisins er reist á einokunarstöðu þess um þessar mundir, og hún skilur eftir sig sviðna jörð, eins og hér hefur verið rakið.

 burfellmgr-7340

 

 

 

 

 


Drottningarviðtal og forsíðufrétt

Þann 22. janúar 2020 birtist langt viðtal Stefáns E. Stefánssonar við forstjóra Landsvirkjunar, Hörð Arnarson, í Morgunblaðinu.  Þar gætir ósamkvæmni og ranghugmynda um samkeppnishæfni viðskiptavinar Landsvirkjunar með hæsta raforkuverðið í langtíma samningi við fyrirtæki forstjórans. Hugmyndaheimur hans á ekki samleið með raunveruleikanum.  Það birtist síðan svart á hvítu á forsíðu Morgunblaðsins þremur dögum síðar.  Þar gaf á að líta í frétt sama Stefáns E. Stefánssonar:

"Draga úr raforkukaupum-Álver Rio Tinto í Straumsvík hefur ákveðið að draga úr framleiðslu sinni um 15 % á þessu ári-Samdrátturinn jafngildir 28 þúsund tonnum-Landsvirkjun verður af 20 milljónum dollara". 

Þar birtist hin nöturlega afleiðing stórtaps álversins undanfarin ár.  Það er raforkuverðið til ISAL, sem er að sliga fyrirtækið.  Markaðurinn vill ekki greiða fyrirtækinu verð fyrir afurðir sínar, sem duga því fyrir breytilegum kostnaði. Ástæðan er offramboð hrááls á markaðinum, sem vonandi er tímabundið, því að hin gríðarlega framleiðsluaukning Kínverja er ósjálfbær (niðurgreiðslur, mengun). ISAL bregst nú við með því að lágmarka breytilegan kostnað sinn, og það er gert með því að draga úr raforkukaupum niður að kaupskyldumarkinu, en kaupskylduna verður fyrirtækið að inna af hendi til Landsvirkjunar samkvæmt upprunalegum og núverandi raforkusamningi, þótt það myndi nota minni orku en henni nemur. Þetta var ein af forsendum lágs raforkuverðs í upphafi, og hlutfallið, 85 % af forgangsorku, hefur ekki verið lækkað þrátt fyrir meira en tíföldun upphaflegs orkuverðs í bandaríkjadölum talið á hálfrar aldar rekstrartíma ISAL.

Málflutningur forstjóra Landsvirkjunar er hins vegar á allt öðrum nótum, og jarðsambandsleysi hans er grafalvarlegt og sýnir, að stjórn fyrirtækisins og ráðherrar verða að grípa í taumana með nýrri stefnumörkun fyrir þetta kjölfestufyrirtæki ríkisins.  Forstjórinn gaf í skyn, að breytilegur kostnaður álveranna á Íslandi væri undir 1800 USD/t Al.  Þetta er ekki rétt gagnvart þeim, sem hæst borgar orkuverðið.  Þar er einfölduð staða þessi: Ksúrál+Kskaut+Krafmagn=3x600 USD/t Al=1800 USD/t Al.  Þá er launakostnaður o.fl. eftir. 

Úr drottningarviðtalinu:

"Á meðan verðið er 1800 USD/t, þá hafa fyrirtækin upp í breytilegan kostnað, en til þess, að menn sjái ástæðu til þess að auka framleiðslu að nýju, þá þarf heimsmarkaðsverðið að fara í 2200 eða 2300 USD/t."

Þetta eru skrýtnar fullyrðingar m.v. kostnaðartölurnar hér að ofan, þar sem eftir er að bæta við launakostnaði, verktakakostnaði og efniskostnaði viðhalds, og allir þessir kostnaðarliðir eru háðir framleiðslumagni og teljast því til breytilegs kostnaðar. Ekkert hefst upp í fasta kostnaðinn við þessar aðstæður. 

Meðalverð á LME-markaðinum var nálægt 1800 USD/t árið 2019 og lækkaði töluvert frá árinu áður, en framleiðsla ISAL er hins vegar öll sérvara (stengur), sem viðbótar verð fæst fyrir. Hefur sú sérhæfing haldið fyrirtækinu fjárhagslega á floti að undanförnu. Engu að síður mun tap ársins 2019 hafa verið nálægt 325 USD/t Al. 

Við þessar aðstæður er hæsta raforkuverð á Norðurlöndum til álvera einu fyrirtæki augljóslega sem drápsklyfjar, og endurskoðun raforkusamninga þess brýn nauðsyn.  Landsvirkjun verður að gæta að stöðu sinni. Hlutverki fyrirtækisins sem kjölfestu iðnvæðingar, atvinnu- og gjaldeyrissköpunar hefur ekki verið breytt af fulltrúum eigendanna, Alþingi, þótt stjórn fyrirtækisins virðist vera á allt öðru róli.

  Við endurskoðun langtímasamninga er Landsvirkjun í einokunaraðstöðu, því að viðskiptavinirnir hafa ekki í önnur hús að venda, nema fyrir brot af þörfinni.  Við slíkar aðstæður er ótækt, að ríkisfyrirtækið stilli erlendum viðskiptavinum, sem starfað hafa hér áratugum saman og vilja halda samstarfinu við landsmenn áfram, þreyja þorrann og góuna, upp við vegg, "take it or leave it", eins og virðist hafa átt sér stað hjá Landsvirkjun síðan 2010.  Síðan hafa markaðsaðstæður hríðversnað vegna vaxandi álútflutnings frá Kína. Fátt fælir nýja fjárfesta meira frá landinu en hegðun af þessu tagi að hálfu ríkisfyrirtækis og er það síðasta, sem Ísland þarf á að halda á fjárfestingasviðinu. Erlendar fjárfestingar á Íslandi eru hlutfallslega mjög litlar í samanburði við önnur Vesturlönd.   

Hörður Arnarson ver framgöngu sína með nauðsyn þess, að Landsvirkjun greiði háan arð, en málið er ekki svo einfalt.  Þessi arður er ósjálfbær sem stendur og þar af leiðandi ótraustur, þar sem hann er fenginn með því að blóðmjólka viðskiptavinina.  Það er þó enginn að tala um að selja orku Landsvirkjunar með tapi.  Síður en svo, en það er óeðlilegt að fara fram á það, að gamlir viðskiptavinir greiði jaðarkostnaðarverð fyrir alla orkuna, sem þeir kaupa, þótt eðlilegt megi telja, að þeir greiði jaðarkostnaðarverð fyrir viðbótar orkuna, sem samið er um við endurskoðun samninga. 

Þá er það innihaldslaus alhæfing hjá forstjóranum, að álverin muni ekki fara að auka framleiðslu sína aftur fyrr en verð umbræðsluáls á LME-markaði nái 2200-2300 USD/t, þ.e. hækki um fjórðung frá meðalverðinu 2019.  Það fer eftir kostnaðarþróun fyrirtækjanna, viðbótarverði þeirra á sérvörur sínar og markaðshorfum, svo og tæknilegri stöðu þeirra, hvenær þau munu auka framleiðslu sína aftur. Aftur gerist téður Hörður sekur um sleggjudóma. Þegar verðið er komið upp fyrir breytilegan kostnað fyrirtækjanna, borgar sig að auka framleiðsluna, og í tilviki ISAL, sem þarf aðeins að hækka kerstraum til að auka framleiðsluna, þarf aðeins um helmingshækkun á við það, sem forstjóri Landsvirkjunar heldur fram til að auka framleiðsluna að nýju.

Ef samningar takast um nýtt fyrirkomulag við ákvörðun raforkuverðsins, þannig að framlegð (EBITDA) fyrirtækisins verði jákvæð, þá er líklegt að fyrirtækið muni sjá sér hag í að auka framleiðsluna strax aftur í kjölfarið, svo að sölutekjur og hagnaður Landsvirkjunar aukist á ný.  Allir tapa á núverandi þvermóðsku forstjórans á grundvelli þess, að hann hefur spennt bogann til hins ýtrasta á vitlausum tíma.  Slíkt er aldrei ráðlegt að gera, nema í blússandi góðæri hjá viðskiptavinunum. Hvort það kemur aftur í áliðnaðinum ræðst af því, hvort Kínverjar halda sínum undirboðum á álmarkaðinum áfram á einhvers konar vegferð til að ná þar varanlegum undirtökum. 

Stefán E. Stefánsson minntist á gagnrýni Samtaka iðnaðarins á framgöngu Landsvirkjunar við endurnýjun langtímasamninga í téðu drottningarviðtali sínu:

"Hörður segir, að nýjar virkjanir, sem nú hafa verið teknar í notkun, styðji enn við getu félagsins í þessa veru [til að greiða eigandanum arð-innsk. BJo].  Það geri einnig nýir orkusölusamningar.  Það eru sömu samningar og hafa verið harðlega gagnrýndir af Samtökum iðnaðarins að undanförnu.  Í málflutningi samtakanna hefur því verið haldið fram, að LV hafi gengið of hart fram í samningsgerðinni og að hátt raforkuverð sé farið að skaða samkeppnishæfni landsins."

"Það verður að minnast þess, hvað þessir nýju samningar þýða fyrir fjárhag félagsins, bætt lánshæfismat og lægri vaxtakostnað.  Þetta hefur gríðarleg áhrif á það, hvernig okkur tókst að bæta fjárhagsstöðu félagsins.  Það hefur mikið að segja upp á trúverðugleika okkar gagnvart fjármálamörkuðum, að menn sjái, að við getum endursamið og náð betri verðum á vöruna, sem við erum að selja.  Auk þess er ábyrgð okkar mikil.  Landsvirkjun er eitt fyrirtæki með fáa starfsmennn, en því er falið að gæta einna mestu hagsmuna Íslands.  Verkefnið felst í að semja við alþjóðleg stórfyrirtæki um verðið á afurðum, sem við fáum úr einni verðmætustu auðlind landsins."

Á meðal nýju virkjananna, sem forstjórinn telur hér, vafalaust með réttu, að séu reknar með hagnaði, er Búðarhálsvirkjun.  Hún var byggð til að anna viðbótar orkuþörf ISAL samkvæmt endurnýjuðum rafmagnssamningi fyrirtækjanna á milli árið 2010 og komst í full afköst 2014.  Það er eðlilegt, að orkusala frá nýjum virkjunum standi undir kostnaði við þær og skili góðri raunávöxtun fjármagns.  Verðið, sem ofan á varð í samningunum, gerir það, en það átti ekki um leið að hækka allt rafmagn frá gömlu, bókhaldslega afskrifuðu virkjununum, sem reistar voru til að standa straum af orkusölu til ISAL (Búrfellsvirkjun, Sigölduvirkjun) á frumbýlingsárunum og annarra.  Þetta er gagnrýnivert og við þessu hafa Samtök iðnaðarins brugðizt.  

Það skal draga í efa, að nýir afarkostasamningar hafi hækkað lánshæfismat Landsvirkjunar. Að trúverðugleiki Landsvirkjunar gagnvart fjármálamörkuðum aukist við að setja viðsemjendum fyrirtækisins afarkosti ("take it or leave it"), er mjög hæpinn málflutningur forstjórans.  Samningarnir eru ósjálfbærir og hafa fælingarmátt fyrir aðra áhugasama fjárfesta.  Þeir eru nú þegar teknir að slá til baka fyrir Landsvirkjun með minni orkusölu, bæði til stóriðnaðarins og til gagnaveranna.  Fulltrúar eigenda Landsvirkjunar verða nú þegar að leiðrétta kúrsinn, því að stefna hennar er tekin að valda þjóðhagslegum skaða með minnkun útflutnings með rætur í innlendri orkuvinnslu.   

Frétt um þetta í Markaði Fréttablaðsins, bls. 8, 30. janúar 2020, hófst þannig:

"Raforkukaup gagnavera á Suðurnesjum hafa dregizt saman á síðasta ári vegna minni eftirspurnar frá viðskiptavinum.  Forstjóri Advania Data Centers segir notkun viðskiptavina fyrirtækisins hafa dregizt saman um 10 MW frá því í lok árs 2018.  Orkuverðið, sem gagnaverum býðst á Íslandi, sé ekki samkeppnishæft og hætta sé á frekari samdrætti, þegar kemur að endurnýjun samninga við stóra viðskiptavini."

Þetta heitir að skjóta sig illilega í fótinn með því að ofmeta gróflega verðmæti afurða auðlindanna, sem fyrirtækinu (Landsvirkjun) er falið að ávaxta.  Betra væri, að forstjóri Landsvirkjunar sýndi sanngirni, hófstillingu og framsýni við samningagerð fyrir hönd fyrirtækisins líkt og forverar hans, en hann vitnaði reyndar í fyrsta stjórnarformann fyrirtækisins í viðtalinu:

"Hann segir, að Landsvirkjun sé um þessar mundir að komast í þá stöðu, sem Jóhannes Nordal skrifaði um á sínum tíma, þegar verið var að hleypa Landsvirkjun af stokkunum.  "Hann sagði, að það myndi taka tíma og mikið fjármagn að byggja fyrirtækið upp.  Það yrði skuldsett, og að greiða þyrfti þær niður, en það myndi hafa mikil jákvæð áhrif ekki sízt, þegar stundir liðu fram.  Hann benti einnig á, að í fyrstu þyrfti að bjóða raforkuna á tiltölulega lágu verði, á meðan við værum að fá fyrirtæki til landsins, sem hefðu áhuga á orkunni.  Hins vegar myndi sú staða breytast, og orkuverðið myndi færast nær því, sem gerist annars staðar.""

Það var rétt hjá dr Jóhannesi Nordal, að greiða varð fórnarkostnað á frumbýlingsárum stóriðjunnar, á meðan landsmenn voru að sýna fram á viðunandi afhendingaröryggi raforku á Íslandi, og að þeir stæðu öðrum á sporði við framleiðslu málma, þ.e. í orkukræfum þungaiðnaði.  Landsvirkjun hefur villzt af leið, skotið yfir markið, og stjórnendur hennar þurfa að lifa eftir þeim gildum, sem forstjórinn heldur fram í eftirfarandi tilvitnun, en passar engan veginn við raunveruleikann:

"Við erum með 3 stóra viðskiptavini af þeim toga, og í mínum huga skiptir mestu máli að styðja vel við þeirra þróun og hóflegan vöxt, sem bætir arðsemi þeirrar framleiðslu, sem þeir standa í."

Ef forstjóri Landsvirkjunar gengur í þeirri dulunni, að ofangreint sé rétt lýsing á framferði hans, þá skortir hann allt raunveruleikaskyn og er sennilega á rangri hillu.

 

 


Efnilegasti vaxtarsprotinn

Það hefur komið fram hjá virtum hagfræðingum, hérlendum, að til að varðveita efnahagslegan stöðugleika og núverandi lífskjör þurfi útflutningstekjur landsins að vaxa um 50 mrdISK/ár að jafnaði næstu 2 áratugina. Að öðrum kosti verður sjálfbær hagvöxtur ekki nægilegur til að hér verði viðunandi atvinnustig með núverandi kaupmætti, þ.e. atvinnuleysi undir 3 % af vinnuaflinu.

Þetta er raunhæft markmið næsta áratuginn, ef stjórnvöld gæta að sér varðandi vöxt ríkisbáknsins og þar með skattheimtu, svo að ekki sé reynt að spá lengra fram í tímann.  Samkvæmt spá Sjávarklasans mun Bláa hagkerfið, sem er haftengd starfsemi í landinu, auka útflutning sinn um 30 mrdISK/ár eða 60 % af því, sem landið þarf á að halda.  Þar inni er fiskeldið með 7 mrdISK/ár eða 14 % af nauðsynlegri heildaraukningu. Öðrum sprotum í Bláa hagkerfinu er spáð minni vexti, framleiðendum sjálfvirknibúnaðar 4,4 mrdISK/ár, fullnýtingu aukaafurða og líftækni 3,7 mrdISK/ár, þara og þörungamjöli 0,8 mrdISK/ár og haftengdri ferðaþjónustu er spáð 0,5 mrdISK/ár vexti.

Það, sem vantað hefur í íslenzkt atvinnulíf upp á síðkastið, og er reyndar bannað í sjávarútveginum, eru fjárfestingar erlendra fagfjárfesta í atvinnulífinu, en þær hafa samt raungerzt í sjókvíaeldi fyrir lax hér við land undanfarinn áratug með ágætum árangri.  Þegar starfseminni hefur vaxið fiskur um hrygg, hefur hún lent í mótbyr öflugs þrýstihóps, sem félag veiðiréttarhafa í ám og vötnum landsins hefur forystu fyrir. Nú síðast er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í skotlínu þessara afla fyrir afnám banns við kvíum nærri árósum, sem verður þó úrelt með reglugerð um áhættugreiningu á undan staðsetningu og starfrækslu slíkra kvía.  Varla telja veiðiréttarhafar, að Hafrannsóknarstofnun kunni ekki að meta áhættu lúsasmits !

Hvað segja kunnáttumenn í Noregi um langa reynslu Norðmanna af þessari starfsemi ?  Í Fréttablaðinu 20. desember 2019 birtist áhugavert viðtal við Íslending, starfandi í Noregi:

"Gunnar Davíðsson starfar sem deildarstjóri fyrir fylkisstjórnina í Troms í Noregi, næstnyrzta fylki landsins.  Þar hefur fiskeldi aukizt jafnt og þétt undanfarin 15 ár og er nú á meðal 10 stærstu atvinnuveganna í fylkinu.  Fylkisstjórnin sér um leyfisveitingu fyrir fiskeldisstöðvarnar, og þekkir Gunnar, sem hefur búið í Noregi síðan 1983, vel til í þeim efnum."

Á Íslandi eru miklu meiri hömlur lagðar á sjókvíaeldi laxfiska en í Noregi.  Á Íslandi er það einvörðungu leyft, þar sem ekki eru taldir vera neinir upprunalegir laxastofnar í ám með ósum að viðkomandi firði, en í Noregi er það leyft meðfram allri strönd landsins.  Á Íslandi eru þetta Vestfirðir, Eyjafjörður og Austfirðir.  Á Vestfjörðum námu markaðssettar afurðir sjókvíaeldis á laxi um 12 kt árið 2019, og má áætla andvirðið 10 mrdISK, og er það nánast allt í erlendum gjaldeyri.  Má ætla, að laxeldi í sjó sé nú þegar aðaltekjulind Vestfirðinga.  Á grundvelli núgildandi áhættumats Hafrannsóknarstofnunar má a.m.k. tvöfalda þessa framleiðslu á Vestfjörðum, og ef stofnunin endurskoðar mat sitt og leyfir laxeldi í Ísafjarðardjúpi, verður hægt að fimmfalda þessa framleiðslu á Vestfjörðum og enn meir, ef tök verða á að setja upp úthafseldisstöð úti fyrir Vestfjörðum í framtíðinni.

Það er slíkur kraftur í þessum vaxtarsprota á Vestfjörðum, að alger nauðsyn er á að hraða innviðauppbyggingu þar. Þar er fyrirferðamest þörfin á öruggri raforkuafhendingu og boðlegum vegtengingum á milli Norður- og Suðurfjarðanna og Suðurfjarðanna við Dalina og Hringveginn vegna þess, að aukin raforkuþörf og flutningaþörf fylgir fyrirsjáanlegum vexti atvinnulífs á Vestfjörðum.

Beita þarf beztu þekkingu við hönnun snjóflóðavarna á Vestfjörðum og sjóflóðavarna alls staðar í þéttbýli á landinu og ekki að einskorða varnirnar við 50 manns eða meira, eins og gert er með reglugerð umhverfisráðherra frá 2014.  Það er nóg fé til í Ofanflóðasjóði til að ljúka þessu verkefni með sómasamlegum hætti fyrir 2030, og stjórnarmaður þar (Halldór Halldórsson) hefur upplýst, að a.m.k. 4 verkefni séu þegar fullhönnuð, en bíði leyfis til framkvæmda frá fjárveitingavaldinu.  Það eru fáheyrðir stjórnarhættir að draga lappirnar við framkvæmdir, sem snúast um líf eða dauða.  Stjórn þessa sjóðs ætti sjálf að vera ábyrg fyrir ráðstöfun þess eyrnamerkta fjár, sem í hann berst.  Nú er kjörtími til slíkra framkvæmda og innviðaframkvæmda, sem nefndar voru.  

Á Austfjörðum námu afurðir sjókvíaeldis á laxi um 10 kt árið 2019 og geta a.m.k. þrefaldazt.  Afurðaverðmætið var þá um 8 mrdISK.  Á Reyðarfirði er stærsta álverksmiðja landsins, og gætu tekjur hennar árið 2019 hafa numið um tífaldri þessari upphæð.  Um samsetningu atvinnulífs á Austfjörðum og Vestfjörðum er þess vegna ólíku saman að jafna, en laxeldið gegnir samt mikilvægu hlutverki á Austfjörðum, einkum á Suðurfjörðunum, þar sem það hefur fyllt í skarð brokkgengs sjávarútvegs og tryggt byggðafestu, t.d. á hinum gamla og undurfagra verzlunarstað Djúpavogi.  

Í Troms er mikið sjókvíaeldi á laxi á íslenzkan mælikvarða, og skal nú áfram vitna í Fréttablaðið:

"Á síðasta áratug hefur eldisframleiðslan [í Troms] tvöfaldazt, úr 110 kt/ár upp í tæplega 200 kt/ár. Að mati Gunnars er svæðið að töluverðu leyti samanburðarhæft við bæði Vestfirði og Austfirði á Íslandi.  Gunnar segir, að fiskeldið þjóni mikilvægu hlutverki, hvað byggðastefnu varðar.

"Áhrif fiskeldisins á svæðið eru mikil.  Með því koma störf, sem ekki er hægt að flytja í bæina eða suður eftir, störf, sem þarf að fylla á í þeim byggðarlögum, þar sem eldið er", segir Gunnar.  Bæði störf, sem þarfnast framhaldsmenntunar, s.s. sjávarlíffræðinga og dýralækna, og önnur.  

"Síðan hefur þetta mikil efnahagsleg áhrif fyrir þau fyrirtæki, sem þjónusta eldið, s.s. fraktflutninga, köfunarþjónustu, bátaþjónustu, viðgerðir o.fl. Hvert starf í eldinu skapar 3 eða 4 störf í nærumhverfinu."

 Á meðan reksturinn gengur vel, fylgir fiskeldinu mikið atvinnuöryggi, meira en sjávarútvegi, því að fiskeldið er í minna mæli háð duttlungum náttúrunnar, og fiskeldið verður ekki auðveldlega flutt í annað byggðarlag.  Störfin eru reglubundin og fjölbreytileg og henta báðum kynjum. Spáð er hækkandi verði afurðanna, sem styrkir fyrirtækin, gerir þeim kleift að fjárfesta og greiða sómasamleg laun til framtíðar litið.  Aldursdreifing byggðanna í kring verður eðlileg með þörf á skólum og kennurum, heilsugæzlu, hjúkrunarfræðingum, læknum og dýralæknum.  Fyrir mannlífið í dreifðum byggðum landsins er gríðarlegur fengur að fiskeldinu.  Hafrannsóknarstofnun, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun tryggja, að starfsemin sé stunduð með sjálfbærum og heilnæmum hætti, enda bjóða aðstæður hérlendis með tiltölulega köldum sjó og sterkum straumum upp á umhverfisvænan rekstur með sáralítilli, ef nokkurri, lyfja- eða eiturefnanotkun.  Þetta er grundvallaratriði, þegar íslenzkt laxeldi er borið saman við t.d. skozkt laxeldi. 

"Hvað Ísland varðar telur Gunnar mikilvægt að hlúa að fiskeldinu, til þess að greinin geti komið undir sig fótunum.  Norðmenn spila stóra rullu í íslenzka eldinu, og eru nú 4 norsk fyrirtæki, sem starfa hér.  Fiskeldi hefur langt í frá verið óumdeilt á Íslandi, sérstaklega á meðal laxveiðimanna, sem telja eldið ógna hreinleika villta laxastofnsins.

Gunnar segir, að líkt og hér séu alltaf einhverjir, sem finni eldinu allt til foráttu í Noregi.  

"Engin atvinnuþróun verður án þess, að það kosti eitthvað í samfélaginu.  Okkar reynsla er, að fiskeldi sé þó sú grein, sem skapi hvað minnsta truflun í kringum sig", segir hann.  "Þó að talið sé, að eldið sé til óþurftar fyrir villtu laxveiðina, þá er samt sem áður staðreyndin sú, að gotstærð allra villilaxastofna er sú sama og fyrir 30-40 árum.  Ef áhrif eldisins eru einhver, þá eru þau a.m.k. ekki mikil, þegar á heildina er litið."  [Undirstr. BJo.]

Í Troms eru fiskar ræktaðir í sjókvíum og landeldi enn ekki hafið.  "Fyrsta landeldisstöðin er rétt að byrja og verður væntanlega komin í gagnið á næsta ári."

Lætin í veiðiréttarhöfum villtra laxa o.fl. eru stormur í vatnsglasi, þegar litið er til þess, að til að hafa einhver (neikvæð) áhrif á erfðaeiginleika villtra íslenzkra stofna þarf strok úr kvíum hér við land að vera margfalt á við það, sem búast má við úr sjókvíaeldi því, sem leyft er samkvæmt áhættumati Hafrannsóknarstofnunar, og standa samfellt yfir í á annan áratug.  Það er reyndar nægilega ólíklegt til þess að líklegt má telja, að áhættumatið hérlendis teygi sig fljótlega upp í burðarþolsmörk viðkomandi fjarðar.

Málflutningurinn um hættuna á erfðabreytingum íslenzkra laxastofna tekur á sig fjarstæðukennda mynd, þegar þess er gætt, að sumir handhafar veiðiréttinda á laxi hafa stundað "kynbætur" í nokkrum ám með íslenzkum laxi af öðrum stofnum.  Þá er virðingin fyrir margbreytileika íslenzkra laxastofna farin veg allrar veraldar.

Hvernig hafa íslenzk yfirvöld hlúð að þessum vaxtarsprota íslenzks atvinnulífs ?  Um það mátti lesa í greininni,

"Auðlindagjald frá áramótum": 

Gunnar Davíðsson, sem mikla reynslu hafur af starfsemi fiskeldisfyrirtækja í Noregi, lagði áherzlu á það í ofannefndu viðtali, að íslenzk yfirvöld yrðu að hlúa að þessum íslenzka atvinnusprota, á meðan hann er að komast á legg.  Því virðast þau því miður ekki alls kostar fús til að fylgja vegna varasamrar skattagríðar sinnar.  Fyrir hönd eldisfyrirtækjanna eru höfð uppi varnaðarorð við því, að yfirvöldin fari offari:

"Fyrstu árin fellur til mikill kostnaður við margvíslega fjárfestingu og uppbyggingu á lífmassa.  Á þessum tíma greiða fyrirtækin þó í Umhverfissjóðinn; á næsta ári [2020] 66 % hærra gjald en í ár.  Slík gjaldtaka bitnar því hlutfallslega þyngra á fyrirtækjum á uppbyggingarskeiði."

Stofn þessa gjalds í Umhverfissjóð eru útgefin leyfi óháð eiginlegri framleiðslu.  Þess háttar skattheimta hvetur vissulega til hámarksnýtingar á eldissvæðinu, sem leyfin (starfs-og rekstrarleyfi) taka til, en  vafamál er, að slíkt sé hlutverk yfirvalda.  Þessu gjaldi ætti þess vegna að þrepskipta eftir fjölda fiska í eldiskvíum sem hlutfall af hámarks leyfilegum fjölda.

Hitt gjaldið er auðlindagjald í Fiskeldissjóð og er það háð massa slátraðs fiskjar á ári og "meðaltali alþjóðlegs markaðsverðs á Atlantshafslaxi frá ágúst til október næst fyrir ákvörðunardag". 

"Þegar fyrirtækin eru komin á þá stöðu að fullnýta leyfi, og hinn nýi, sértæki skattur á fiskeldisfyrirtæki, er að fullu kominn til framkvæmda, má ætla, að sérstök skattheimta ríkisins á fiskeldisfyrirtæki nemi um 27 ISK/kg, staðhæfir SFS.  "Þá er ótalin önnur almenn skattheimta á atvinnurekstur auk margs konar gjaldheimtu sveitarfélaga, sem í ýmsum tilvikum er verulega umfram það, sem þekkist í ýmsum samkeppnislöndum okkar.  

Það gefur auga leið, að skattheimta af þessu tagi mun hafa áhrif á rekstur fyrirtækjanna, samkeppnishæfni þeirra á alþjóðlegum mörkuðum og getu þeirra til fjárfestinga til lengri og skemmri tíma."

Ísland er hákostnaðarland í alþjóðlegu samhengi, og þess vegna verða stjórnvöld að ganga sérstaklega hægt um gleðinnar dyr, þegar kemur að hlut þeirra við að bæta við kostnað fyrirtækja með sértækri skattheimtu.  Þegar tekið er tillit til byrða af bæði Umhverfissjóði og Fiskeldissjóði fyrir fiskeldisfyrirtækin, má ætla, að þessi sértæku gjöld muni nema meiru en 5 % af framlegð fyrirtækjanna og verða þess vegna afar íþyngjandi. Á sama tíma er fyrirtækjunum þröngur stakkur skorinn m.v. samkeppnisaðilana. Fyrirtækjunum er þess vegna nauðsynlegt að fá leyfi til að auka framleiðslu sína og þar með framleiðni upp að burðarþolsmörkum fjarðanna, þar sem þessi starfsemi á annað borð er leyfð, nema skýrar niðurstöður áhættugreiningar Hafrannsóknarstofnunar setji fiskafjölda eða lífmassa frekari skorður.  Núverandi niðurstöður um Ísafjarðardjúp eru t.d. ekki skýrar.

 

 

 


Íslenzkur sjávarútvegur er grundvöllur velmegunar í landinu

Af nýlegri umræðu um fiskveiðistjórnunarkerfið íslenzka mætti ætla, að sumir stjórnmálamenn líti á sjávarútveginn sem leikvöll sinn (eða kannski vígvöll ?). Sporin hræða mjög í þeim efnum.  Affarasælla er að líta á sjávarútveginn, veiðar, vinnslu og markaðssetningu, sem vettvang einkaframtaks, sem hafi það hlutverk að hámarka sjálfbæra atvinnusköpun um allt land og sömuleiðis að hámarka verðmætasköpun úr lífríki hafsins. 

Sjávarútveginum er spáð miklum vexti, en rekstur hans er reyndar undirorpinn meiri óvissu en rekstur flestra greina, því að afkoman veltur að miklu leyti á duttlungum náttúrunnar, og þróun lífríkis hafsins getur tekið óvænta stefnu í nánustu framtíð, eins og reyndar oft áður. 

Í "Á bak við yztu sjónarrönd", riti útgefnu af "Íslenzka sjávarklasanum", eru samt settar fram spár um aukningu veltu veiða og vinnslu úr mrdISK 300 árið 2019 í mrdISK 444 árið 2029 (48 % aukning á 10 árum) og í mrdISK 657 árið 2039 (119 % aukning á 20 árum).  Hvernig er þessi bjartsýna spá rökstudd ?

Til að skýra það skal vitna í 200 mílur Morgunblaðsins, 4. desember 2019:

"Þór Sigfússon er stofnandi íslenzka sjávarklasans og einn af höfundum ritsins.  Hann segir vöxt í veiðum og vinnslu m.a. skýrast af því, að vænta má verulegra hækkana á fiskverði á komandi áratugum í takti við fólksfjölgun í heiminum og vaxandi kaupmátt neytenda í öllum heimshlutum.  Þá megi reikna með, að íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki láti að sér kveða erlendis og taki t.d. þátt í verkefnum af ýmsum toga í Evrópu og Bandaríkjunum.  Sjávarklasinn spáir hins vegar hlutfallslega meiri vexti í fiskeldi og áætlar, að þar aukist veltan nærri sautjánfalt á næstu 20 árum."

Í fyrra hækkaði fiskverð erlendis á mörkuðum íslenzkra fyrirtækja meira en sem nemur fólksfjölgun og hækkun kaupmáttar þar.  Það eru fleiri kraftar en þessir, sem styðja við spádóm Sjávarklasans. Í fyrra gekk mikil svínapest, og skáru Kínverjar niður meira en helming síns svínastofns.  Þeir herða ekki sultarólina að sama skapi, heldur auka innflutning á matvælum, ekki sízt fiskmeti, enda hefur það jákvæða umhverfisímynd og hollustuyfirbragð.  Ekki er ólíklegt, að kolefnisspors vottaðra matvæla verði getið á umbúðum eða í kjöt- og fiskborðum verzlana, og þar mun fiskmetið standa sterkt að vígi í samanburði við margt kjötmeti. Á sama tíma fer framboð villts fiskmetis þverrandi vegna breytinga í hafinu og ofveiði. Afli fiskveiðiflota ESB-ríkjanna minnkaði 2019 m.v. 2018, en eftirspurnin jókst, svo að dæmi sé tekið.  Þetta olli yfir 30 % verðhækkun í evrum talið.  Það er mjög mikið á einu ári og mun ganga til baka, ef framboðið nær fyrri mörkum. 

Sjávarútvegurinn er stundaður út frá útgerðarstöðum í öllum landshlutum hérlendis.  Vöxtur og viðgangur hans mun efla landsbyggðina, góðu heilli, og styrkja jafnframt viðskiptajöfnuð landsins, gengi ISK og þar með hag allra landsmanna.  Dreifing veltunnar er um allt þjóðfélagið, eins og Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, gaf ágætt yfirlit um að gefnu tilefni í grein í Fréttablaðinu, 10. janúar 2020, sem hét:

"Slóð makrílmilljarða rakin".

Þar vísar hann í Fréttablaðsgrein sína 18. desember 2019, þar sem hann áætlaði, "að meðalverð hvers útflutts kílós af makríl hefði numið 130 kr/kg."  Síðan segir:

"Sé skattspor KPMG fyrir Vinnslustöðina yfirfært á íslenzkan sjávarútveg í heild, er skipting útflutningsverðmætis makríls [árin 2006-2018] sýnd í töflu, sem greininni fylgir."

Töfluna birti Sigurgeir til að sýna, að Kári Stefánsson, læknir og frumkvöðull á sviði erfðavísinda, óð reyk, er hann illkvittnislega sáði fræjum tortryggni í garð útgerðarmanna og vændi þá um að stela  frá íslenzka þjóðarbúinu, eins og eftirfarandi tilvitnun í grein Sigurgeirs Brynjars sýnir: 

"Kári birti hér í Fréttablaðinu grein 3. desember [2019] undir fyrirsögninni Landráð ? og taldi líklegt, að útgerðarmenn hefðu stolið 300 milljónum króna af verðmæti makríls af íslenzkri þjóð.  Ég sýndi fram á það með rökum hér á sama vettvangi 18. desember, að sú þjófnaðarkenning stæðist enga skoðun." 

Þeir, sem slá sér á brjóst, uppfullir af heilagri vandlætingu yfir framferði útgerðarmanna og ýja jafnvel að landráðum í því sambandi án þess að hafa krufið málin til mergjar, eru greinilega í einhvers konar krossferð gegn núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og telja sig um leið koma höggi á hóp útgerðarmanna, sem þeir meðhöndla sem þjóðaróvini og sérhagsmunaseggi. Hér er verið að draga upp útlínur sýndarveruleika, sem ætlað er að gagnast í áróðursstríði, en mun hitta þessa ofstækisfullu hatursmenn fiskveiðistjórnunarkerfisins fyrir sem bjúgverpill, þegar þeir verða krafðir um valkostina. Að því verður vikið betur í þessum vefpistli, en næst er að skoða makríltöflu Sigurgeirs Brynjars:

  •                mrdISK   %    Skipting 130 ISK/kg
  • Alm. rekstrark.   88   44      57
  • Laun starfsf.     37   18      24
  • Skattar & lífsj.  47   24      31
  • Afkoma VSV        17    9      11
  • Fjármögnun        10    5       7
  • _______________________________________________
  • Samtals          200  100     130     
 
Stærsti liðurinn, almennur rekstrarkostnaður, er orkukostnaður, kostnaður viðhalds og viðgerða, löndunarkostnaður og útflutningskostnaðurn, nemur 44 %. Næst stærsti útgjaldaliðurinn fer til hins opinbera og samtryggingar okkar í lífeyrissjóðunum, 24 %, og þá koma laun starfsmanna, 18 %. Sá liður, sem hælbítar útgerðarmanna fjargviðrast mest út af, án þess að hafa vit á útgerð, er afkoman.  Hún er í þessu tilviki 11 ISK/kg af þessum 130 ISK/kg, sem fengust að jafnaði fyrir makrílinn, eða 9 %. Hún gengur til afborgana af lánum, til nýfjárfestinga og til arðgreiðslu.  Með sanngirni og samanburði við fyrirtæki utan sjávarútvegs er ekki hægt að halda því fram, að 9 % sé hátt hlutfall fyrir allt þetta.
 
Þetta sýnir, að það er engin auðlindarenta í þessum makrílveiðum.  Þá væri afkoman betri en í öðrum greinum atvinnulífsins.  Það er eins og mörgum finnist útgerðarmenn vera forréttindastétt, sem græði óeðlilega á eign þjóðarinnar, aflahlutdeildum í nytjastofnum við Ísland, sem þeir hafi þegið að gjöf frá ríkinu.  Allt er þetta öfugsnúið í meira lagi, því að útgerðarmenn hafa fjárfest í dýrum búnaði til að nýta stofnana, og langflestir þeirra hafa keypt þessar aflahlutdeildir á frjálsum markaði. Ríkið getur ekki hirt þær af þeim si svona á pólitískum forsendum. Það væru kommúnistískir stjórnarhættir.
Þeir gerðu, það sem ríkisvaldið ætlaðist til af þeim á sinni tíð, kvóti gekk kaupum og sölum og útgerðarmönnum og fiskiskipum fækkaði, svo að hallarekstri var snúið í hagnað í sjávarútveginum sem heild.
Íupphafi (1983) var aflahlutdeildum úthlutað á grundvelli veiðireynslu til þeirra, sem þá stunduðu útgerð. Þetta var aðferð, sem Alþingi samþykkti eftir mikla umfjöllun.  Enginn á óveiddan fisk í sjó, en íslenzka ríkið hefur hins vegar óskoraðar stjórnunarheimildir og gjaldálagningarheimildir á miðunum samkvæmt fiskveiðistjórnunarlögunum og hefur góðu heilli falið Hafrannsóknarstofnun ráðgjöfina og fylgt henni í seinni tíð, en verið ærið mislagðar hendur með gjaldaálagninguna og fjármögnun Hafró. Er ámælisvert, að fjármögnun Landhelgisgæzlunnar og Hafrannsóknarstofnunar skuli skuli vera ábótavant þrátt fyrir nægt fé fyrir veiðileyfin frá útgerðunum til að fjármagna þessar grundvallar stofnanir sómasamlega.   
 
Lok tilvitnaðrar greinar Sigurgeirs Brynjars voru þannig:
""Skylt er að hafa það heldur, er sannara reynist", sagði Ari fróði forðum.  Hér liggur sem sagt fyrir gróflega áætluð skipting tekna af makrílveiðum Íslendinga.  Á grunni talna, en ekki sögusagna eða rakalausra fullyrðinga, geta nú Kári Stefánsson og aðrir rökrætt, hvað teljist "sanngjarn hlutur" hvers og eins.  Þá vænti ég þess, að áframhaldandi blaðaskrif hans byggist á þeirri vísindalegu aðferðafræði, sem fleytt hefur honum í hóp færustu vísindamanna heims."
 
 Á það hefur skort, að gagnrýnendur sjávaútvegsins íslenzka bentu á fýsilegri kosti en núverandi kvótakerfi. Á meðan sú staða er uppi, missir gagnrýnin marks. Þar eru mest áberandi gamlar lummur og afdankaðar stjórnunaraðferðir fyrir þessa mikilvægu auðlind. Allt er þetta óboðlegt.  Aðallega er bent á tvær aðferðir:
  1. Að færa byggðunum (sveitarstjórnum, bæjarstjórnum) kvótann.  Kerfi bæjarútgerða var aflóga, þegar kvótakerfið var samþykkt á Alþingi 1983.  Bæjarútgerðir voru reknar með dúndrandi tapi, enda hvernig á annað að vera ?  Það er ekki hægt að ætlast til þess, að stjórnmálamenn hafi meira vit á útgerð en meðallandkrabbi.  Að setja slíkt fólk yfir útgerðirnar er ávísun á ófaglegan, óskynsamlegan og óskilvirkan rekstur, sem mun enda sem baggi á byggðarlögunum og þjóðhagslegt tap upp á tugi milljarða ISK á ári hverju. Það tap er af slíkri stærðargráðu, að það mun verða dragbítur á hagvöxt og rýra lífskjör allra landsmanna til muna.  
  2. Uppboðskerfi veiðiheimilda.  Samfylking og Viðreisn hafa talað fyrir þessu kerfi á Alþingi, en hætt er við, að ESA-Eftirlitsnefnd EFTA með framkvæmd EES-samningsins muni krefjast þess, að slíkt uppboð fari fram á öllum EES-markaðinum, eins og krafan hljómar frá ESA/ESB um uppboð virkjanaleyfa fyrir vatnsorkuver innan EES.  Sannleikurinn er sá, að þetta fyrirkomulag hefur alls staðar gefizt illa, þar sem það hefur verið reynt, og það hefur verið aflagt eftir misstuttan tíma, þar sem það hefur leitt til samþjöppunar, þ.e. fækkunar útgerða, og aukinnar skammtíma hugsunar fyrirtækjanna, sem hafa veikzt og orðið að minnka nauðsynlegar fjárfestingar í nýjustu tækni.  Dæmi eru Eistland og Rússland og nú síðast Færeyjar.  Hér að neðan er byrjun á frétt úr Fiskifréttum, 9. janúar 2020:

"Færeyingar hætta að bjóða upp kvóta":

 

"Veiðiheimildir hafa að hluta verið boðnar upp á opinberum markaði í Færeyjum undanfarin ár.  Frá þeirri leið verður nú horfið.

Færeyska lögþingið samþykkti stuttu fyrir áramót breytta fiskveiðistjórnunarlöggjöf.  Þar er m.a. fallið frá uppboðsleiðinni, en hún fól í sér, að 15 % uppsjávarkvóta og 15 % botnfiskkvóta í Barentshafi hafa verið boðin upp á opinberum markaði.

Áfram verður sóknardagakerfi í gildi um botnfiskveiðar í færeyskri lögsögu, en veiðileyfakerfið notað sem fyrr í uppsjávarveiðum og veiðum á fjarlægum slóðum."

Sjávarútvegi, eins og öðrum atvinnugreinum, hlýtur að vera bezt fyrir komið þannig, að verðmætasköpun hans með sjálfbærum hætti verði í hámarki.  Þannig verður hagur landsmanna sjálfra bezt tryggður. Til að réttlæta umbyltingu stjórnkerfis, sem í heildina hefur reynzt vel og er horft til sem fyrirmyndar sums staðar erlendis, þarf að sýna fram á yfirburði annars kerfis með gildum rökum og helzt vitna til reynslu annarra.  Erlendis er slík fyrirmynd ekki til, enda hefur engum tekizt að sýna fram á, að annað fyrirkomulag hérlendis en núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi sé þjóðhagslega hagkvæmara. 

Hópur manna stendur á hliðarlínunni og hrópar, að skipting teknanna af sjávarútvegsfyrirtækjum sé ósanngjörn.  Dæmið hér að ofan um makrílinn bendir ekki til, að svo sé, en sínum augum lítur hver á silfrið.  Þegar stjórnmálamenn fara að krukka í tekjuskiptinguna, er sú afskiptasemi oftast til bölvunar, þ.e. til þess fallin að draga úr verðmætasköpun greinarinnar og þar með úr hagvexti á landsvísu í tilviki sjávarútvegsins.

Dæmi um þetta er s.k. veiðileyfagjald.  Hugmyndafræðin að baki því er, að fyrirtæki, sem sækja hráefni í greipar náttúrunnar, búi við minni tilkostnað en hin, sem kaupa hráefni sitt á markaði, og þess vegna verði hagnaður hinna fyrrnefndu meiri en hinna, sem þá þurfi að jafna (með skattheimtu) til að gæta réttlætis.  Mismuninn, s.k. auðlindarentu, eigi ríkisvaldið með öðrum orðum rétt á að hirða. Gallinn við þessa kenningu er tvíþættur:

  Hún er fjarri því að vera algild, og t.d. hefur, að því bezt er vitað, enn engum tekizt að sýna fram á auðlindarentu í íslenzkum sjávarútvegi, og styður makríldæmið hér að ofan þá ályktun, að hún sé þar ekki fyrir hendi.  Þá virkar auðlindagjald á sjávarútveginn sem hver önnur viðbótar skattheimta, og slík dregur alltaf úr verðmætasköpun og nýsköpunarkrafti og veikir samkeppnishæfnina í bráð og lengd um fé, fólk og markaði.  Það er vegna þess, að fjárfestingargeta fyrirtækjanna minnkar með aukinni skattheimtu, og þar með hægir á tækniþróun, sem er grundvöllur aukinnar skilvirkni á öllum sviðum, og fyrirtækin eiga á hættu að dragast aftur úr samkeppnisaðilunum.

Hinn gallinn við auðlindagjald á íslenzka sjávarútveginn er einmitt sá, að það tíðkast yfirleitt hvergi, nema á Íslandi og í Færeyjum, heldur þvert á móti nýtur sjávarútvegur víðast hvar ríkisstyrkja á mismunandi formi, meira að segja í Noregi, sem Ísland keppir við á ýmsum fiskmörkuðum. Stærstu útgerðarfyrirtæki Noregs eru þó talsvert stærri en þau stærstu hérlendis, enda má aflahlutdeild þeirra í hverri tegund verða hlutfallslega meira en tvöfalt stærri (25 %) en hér (12 %), og í heildina eru umsvif (velta) norsks sjávarútvegs a.m.k. þreföld á við umsvif hins íslenzka.  

Að tala, eins og sumir stjórnmálamenn tala hér um veiðileyfagjaldið, að það sé sérstakt réttlætismál fyrir landsmenn í ljósi fiskveiðistjórnunarlaganna að hækka gjaldið verulega, er í raun ekkert annað en að saga í sundur greinina bolmegin við okkur öll, sem á henni sitjum.  Talið er helbert lýðskrum, sem auðvelt er að sjá í gegnum.

 

 

 

 


Mörgu er logið í nafni umhverfisverndar

Komið hefur fram, að margir hinna voveiflegu gróðurelda í Ástralíu í vetur (2019-2020) eru beinlínis af mannavöldum, þ.e. brennuvargar hafa kveikt þá.  Gríðarlegur eldsmatur er þarna, af því að græningjar hafa lagzt gegn grisjun og hreinsun, sem þó hefur verið stunduð frá landnámi þarna, og frumbyggjarnir notuðu þetta sem ráð til að draga úr eldhættunni, því að hún er síður en svo ný af nálinni.  Úrkoman í Ástralíu hefur verið lotubundin, og nú er hún í lágmarki, svo að hættan er í hámarki.  Þar sem eldar geisa í þjóðgörðum Ástralíu eiga slökkviliðsmenn í miklu meiri erfiðleikum en áður, því að græningjar hafa fengið því framgengt, að miðlunarlón, sem þar voru, hafa verið tæmd.  Hvassviðri hefur svo gert eldana óviðráðanlega, en sem betur fer hefur rignt duglega í Ástralíu undanfarna sólarhringa, þar sem eldar hafa verið hvað hræðilegastir. 

Græningjar kenna auknum styrk koltvíildis í andrúmsloftinu um ófarirnar, því að CO2 skermi varmaútgeislun jarðar og valdi þar af leiðandi hlýnun lofthjúpsins.  Því er svarað með því, að þessi útgeislun sé á bylgjulengdarsviðinu 8-12 míkrón, og gastegundin CO2 sjúgi ekki í sig orku á því sviði.  Græningjar hafa jafnvel verið sakaðir um að kveikja í til að æsa til reiði í garð þeirra, sem mest losa af CO2, og Ástralir sjálfir hafa vissulega frekar dregið lappirnar við að draga úr losun. Minnir þetta óhugnanlega á bruna Reichstag 1934, sem Adolf Hitler, kanzlari, notaði sem átyllu til að sölsa undir sig forsetaembætti Þýzkalands og þar með æðstu stjórnun hersins, og varð þannig einvaldur. Ekkert slíkt vofir yfir Ástralíu.

Þann 9. janúar 2020 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Guðna Ágústsson, fyrrverandi Alþingismann og ráðherra, sem hann nefndi:

"Hamfarahlýnun - Dómsdagur eða blekking".

Af greininni má ráða, að hann sé efasemdarmaður um "hamfarahlýnun" og vitnar sér til halds og trausts til hins erna öldungs og veðurspámanns Páls Bergþórssonar, eins og síðar verður getið í pistlinum.  Framarlega í greininni gerir hann ofstæki "koltvíildissinna" að umræðuefni:

"Í umræðunni eru efasemdarmenn, sem einnig styðjast við vísindalegar forsendur, sagðir falsspámenn, og um þá marga er rætt sem boðbera fáfræðinnar.  Ef þú vilt hafa frið, ferðu í umræðuna með kór "rétttrúnaðarins" og velur þér að gráta og fylgja fjöldanum og fullyrðingunni um, að jörðin farist innan 30 ára og hamfarirnar séu manninum einum að kenna."

Það er ekki vænlegt til árangurs að reka trippin með þessum hætti, enda er árangur fjölda blaðurráðstefna nánast enginn, og engin samstaða þjóða heims í nánd, af því að boðskapurinn um afleiðingar aukins styrks koltvíildis í andrúmsloftinu er ótrúverðugur, enda reiknilíkön IPCC eðlilega enn í mótun, þar sem flækjustigið er gríðarlegt. Samstaða þjóða heims er þó skilyrði fyrir árangri við að draga úr styrk koltvíildis í andrúmsloftinu.  Þar er ógnarlangt í land, og fundahöld og ráðstefnur um málið farsakennd. Guðni vitnar í Pál Bergþórsson, fyrrverandi veðurstofustjóra: 

"Ég vil taka undir hógvær orð, sem Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, setti inn á "Fasbókina" sína, en Páll er dáður af þjóð sinni sem rökfastur og stilltur maður í öllum boðskap.  Páll segir: "Hamfarahlýnun jarðar er vonandi markleysa".  Svo rakti hann fjölgun mannkynsins úr 2 milljörðum árið 1950 í 8 milljarða árið 2020. Með sömu þróun væri mannfjöldinn orðinn 14 milljarðar árið 2090.  Og 20 milljarðar árið 2160."

Páll Bergþórsson er vel að sér í veðurfarslegum efnum, og það segir mikla sögu um veikan fræðilegan grundvöll kenningarinnar um "hamfarahlýnun" af mannavöldum, að "nestor" veðurfræðinga hérlendis telur mestar líkur á, að hún sé "markleysa".  Þá er nú engin furða, þótt minni spámenn í þessum fræðum kokgleypi ekki allan "bolaskítinn" frá IPCC og áhangendum. Það þarf ekki annað til en hlutfallslega minna af nýju koltvíildi stigi upp í efstu lög lofthjúpsins ("stratosphere") til að gróðurhúsaáhrif lofttegundarinnar verði minni en IPCC reiknar með. 

Hlýnun frá "Litlu ísöld", sem lauk um 1900, er sem betur fer staðreynd, en enginn veit, hversu mikil hún verður.  Hvers vegna varð "Litla ísöld" ?  Jörðin er nú við lok 10 þúsund ára hlýindaskeiðs, og á næstu 10 þúsund árum verður sennilega mikil kólnun. Málflutningurinn um "hamfarahlýnun" er mjög orðum aukinn. Það er ekki þar með sagt, að óskynsamlegt sé að minnka og að lokum losna við bruna jarðefnaeldsneytis áður en þær orkulindir þrýtur, enda fylgja þeim ýmsir ókostir, en það er ekki sama, hvernig það er gert, sbr vindmyllufárið.  

Það er þegar tekið að hægja mjög á fjölgun mannkyns þrátt fyrir minnkandi barnadauðsföll.  Minni viðkoma fylgir bættum efnahag, en örsnauðum í heiminum hefur fækkað mikið á síðastliðnum 40 árum, og er miklum vestrænum fjárfestingum í "þriðja heiminum" þakkaðar hækkandi tekjur þar, þótt sú jákvæða þróun hafi nú stöðvazt um sinn á meðan "merkantílismi" (kaupauðgistefna) tröllríður húsum tímabundið.

  Það er hægt að taka undir boðskap Guðna um mikilvægi dyggðugs lífernis og virðingar fyrir náttúrunni í umgengni við hana.  Það er þó algjör misskilningur hjá græningjum, að sú virðing verði aðeins sýnd með því að snerta hana ekki.  Hófsemi er hinn gullni meðalvegur í þessum efnum sem öðrum. "Að nýta og njóta." Guðni skrifar:

"Verkefnið er hins vegar eitt: að bjarga jörðinni fyrir komandi kynslóðir.  Mikilvægt er að brauðfæða og mennta allt fólk jarðarinnar og framleiða matinn sem næst hverjum munni.  Í því sambandi ber að minna á, að landbúnaðarvörurnar framleiðist hér heima, en komi ekki til okkar erlendis frá með flugvélum.  Draga þarf úr öllu bruðli og muna, að sjórinn tekur ekki endalaust við.  Þetta er verkefni hverrar fjölskyldu, atvinnulífsins og ríkisstjórna þjóðanna.  En stærsti sigurinn mun vinnast, ef Sameinuðu þjóðirnar koma sér saman um markvissar reglur og þeim verði fylgt."

Ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna hefur hingað til mistekizt að komast að samkomulagi t.d. um jafnháa gjaldtöku af koltvíildislosun um alla jörð.  Ef þessi skattheimta er ólík, flýja fyrirtæki með mikla losun, þangað sem hún er lægri.  Þetta er s.k. kolefnisleki.  Það er svo misjöfn efnahagsleg staða þjóða heimsins, að vel skiljanlegt er, að sameiginlegt samkomulag sé ekki í augsýn um skilvirkar aðferðir, sem innleiða þarf til að draga úr koltvíildislosun með skilvirkum hætti.

Ríkar þjóðir hafa varið háum fjárhæðum til að koma upp hjá sér "vistvænni" raforkuvinnslu, og þar hefur mest borið á fjárfestingum í vindorkuverum og sólarhlöðum. Í Danmörku eru t.d. um þessar mundir um 6100 vindmyllur, sem framleiða 13,9 TWh/ár, um 60 % af raforkuvinnslu Íslands.

Það gleymist í írafári umhverfisumræðunnar að taka kolefnisspor og mengun við framleiðslu á þessum "grænu" orkubreytum með í reikninginn. Sem dæmi má taka 2,0 MW vindmyllu.  Í henni eru um 250 t af stáli, og það fara um 125 t af kolum í að framleiða þetta stál.  Við framleiðslu sementsins í undirstöðuna þarf ekki minna en 25 t af kolum að jafnaði.  Þessi 150 t 

  
  
  

kola á hverja vindmyllu mynda a.m.k. 450 t CO2, sem fara út í andrúmsloftið.  

Vindmylla þarf um 200 sinnum meira af hráefnum per uppsett MW en nútímalegt samtvinnað raforku- og fjarvarmaver með orkunýtni yfir 50 %. Nýting uppsetts afls vindmyllu er lélegt eða um 28 % að jafnaði á landi í heiminum (betri úti fyrir ströndum).  Kolefnisspor vindmyllna á MW, svo að ekki sé minnzt á GWh/ár vegna lélegrar nýtingar, er tiltölulega hátt og þetta val á orkugjafa til að draga úr koltvíildislosun er þess vegna sérlega óheppilegt. Miklu nær er að reisa kjarnorkuver í stað kolaorkuvera eða jafnvel gasorkuver sem millibilslausn, en þrýstihópar kolanámanna hafa haft sitt fram, nema á Bretlandi, þar sem síðasta kolaorkuverinu verður lokað 2025. Í Þýzkalandi var hins vegar nýlega gangsett eitt stærsta kolaorkuver þar í landi, 1 GW að rafafli. Öruggari kjarnorkuver eru í þróun, t.d. s.k. saltlausnarkjarnakljúfur.

Út frá orðum Guðna hér að ofan er það bruðl með hráefni jarðar að nýta þau á svona óskilvirkan hátt fyrir raforkuvinnslu með vindmyllum.  Frá umhverfislegu sjónarmiði er miklu nær að reisa í staðinn gasorkuver, þangað til tæknin býður upp á notkun öruggrar kjarnorku, t.d. með kjarnakljúfum fyrir frumefnið þóríum.  Á Íslandi er umhverfisvænst og hagkvæmast að reisa vatnsorkuver, og jarðgufuver koma þar á eftir, vissulega með miklu lægra kolefnisspori en vindorkuver á hvert MW eða MWh/ár.  Þetta þarf að hafa í huga, þegar kemur að endurmati á virkjanakostum í biðflokki Rammaáætlunar.  Auðvitað á að afgreiða Rammaáætlun á Alþingi á undan frumvarpi um allsendis ótímabæran og reyndar óþarfan hálendisþjóðgarð, sem er ekki til annars en að þenja út ofvaxið ríkisbákn, sem ræður reyndar ekki við verkefni sín þrátt fyrir skattheimtu í hæstu hæðum í alþjóðlegum samanburði. Formaður umhverfis- og auðlindanefndar Alþingis hefur rétt fyrir sér um þessa verktilhögun.   

Í Morgunblaðinu birtist 10. janúar 2020 lítil frétt undir eftirfarandi fyrirsögn:

"Vilja beizla vind á Laxárdalsheiði":

Hún hófst þannig:

"Áform eru um að reisa vindorkugarð í landi Sólheima í Dalabyggð, og gætu 27 vindmyllur risið á svæðinu í tveimur áföngum með hámarksafköst upp á 115 MW.  Fyrirtækið Quadran Iceland Development ehf. hefur lagt fram tillögu til Skipulagsstofnunar að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum vindorkugarðsins.

Samkvæmt matstillögu er verkefninu við Sólheima skipt í tvo áfanga.  Í þeim fyrri yrðu 20 vindmyllur með hámarksafköst upp á 85 MW. Í öðrum áfanga 7 vindmyllur til viðbótar með hámarksafköst upp á 30 MW.  Áfangi 2 yrði í biðstöðu, þar til afkastagetan næst í raforkukerfinu [svo ?]. 

 Hér er um að ræða fremur stórar vindmyllur m.v. stærðir, sem oft hefur verið minnzt á í umræðunni hérlendis, eða 4,25 MW, og er það út af fyrir sig ánægjuefni vegna minni landþarfar á MW, en slíkur "vindmylluskógur" mun sjást úr 40-50 km fjarlægð, því að líklega munu spaðar ná 180 m yfir undirstöðu súlunnar og hver vindmylla þurfa um 0,25 km2.  Sé þetta nærri lagi, þá er landnýting Fljótsdalsvirkjunar (aðallega Hálslón) 35 % betri en Sólheimavindorkugarðsins í GWh/ár/km2, og landnýting virkjananna neðan Þórisvatns reyndar margfalt betri; landnýting jarðgufuvirkjananna er líka betri en vindorkugarðsins.  Spurningin er, hvað rekur menn á Íslandi til að setja tiltölulega mikið land undir vindmyllur í km2/MWh/ár ?

  1. Ekki er það umhverfisvernd, því að kolefnisspor við framleiðslu og uppsetningu vindmyllna er stórt m.v. orkuvinnslugetu þeirra í GWh/ár í samanburði við virkjanir á Íslandi úr þeim tveimur "endurnýjanlegu" orkulindum, sem nýttar eru nú þegar á Íslandi að einhverju ráði.  Hráefnanotkun er tiltölulega mikil og skilar litlu til umhverfisins á endingartímanum. Þá hefur verið bent á hættuna, sem fuglum stafar af spöðunum.  Örninn flýgur e.t.v. hærra en spaðarnir ná, en samt berast fréttir frá Noregi af mjög mörgum dauðum örnum í grennd við vindmyllur, þar sem er arnarvarp í grennd.  Þá kemur lágtíðnihljóð frá vindmyllum, sem er bæði óþægilegt og er talið heilsuskaðlegt fyrir íbúa til lengdar innan 2 km frá vindmyllum.  Því er haldið fram, að í segla vindmyllurafala fari sjaldgæft efni, sem grafið sé upp í Innri-Mongólíu og með því fylgi geislavirk og eitruð efni.  Gera þarf grein fyrir þessu í umhverfismati, ef það á að vera vandað.  
  2. Er afl- eða orkuskortur skýring á vindmylluáhuga hérlendis ? Hvort tveggja gæti verið í vændum á Íslandi á næstu árum, af því að markaðinum hefur verið afhent forsjá orkumálanna með innleiðingu löggjafar Evrópusambandsins (ESB) á þessu sviði, en hún virkar illa hér, af því að hún er ekki hönnuð fyrir raforkumarkað af því tagi, sem hér er.  Því fyrr sem stjórnvöld átta sig á þessu, þeim mun betra fyrir alla aðila, vegna þess að orkuöryggi hefur nú verið viðurkennt að falla undir þjóðaröryggi, og fyrir því eru ríkisstjórn og Alþingi ábyrg.  Ekki er hægt að reiða sig á vindmyllur í aflskorti, þar sem þær gefa aðeins frá sér fullt afl talsvert minna en 3 sólarhringa vikunnar, og stöðva verður þær í hvassviðri og ísingarveðri.  Hins vegar er vissulega unnt að spara dálítið vatn í miðlunarlónum með því að kaupa af þeim raforku inn á stofnkerfið. Sólheimavindorkuverið ætti t.d. að geta framleitt 380 GWh/ár, ef/þegar það nær fullum afköstum.  Þetta er um 2,5 % af orkuvinnslugetu núverandi vatnsorkuvera landsins, og má um það segja, að allt er hey í harðindum, en dýrt er það.
  3. Vindmyllur hafa orðið hagkvæmari í rekstri með tímanum.  Annað vindorkuver hefur verið á döfinni í Dalasýslu, og er það á Hróðnýjarstöðum við Búðardal.  Þar reiknaði höfundur vinnslukostnaðinn 53 USD/MWh, en við bætist tengikostnaður við stofnrafkerfi landsins.  Annaðhvort þarf að leggja jarðstreng frá Sólheimum að aðveitustöð Glerárskógum eða Hrútatungu, því að ólíklegt er, að Landsnet samþykki nýjan tengistað á Laxárdalsheiði.  Þetta verð frá orkuveri er ósamkeppnisfært á Íslandi sem stendur, og verður vonandi svo lengi, og þess vegna er vindorkugarður hér ekki góð viðskiptahugmynd.  Grundvöllur mikilla fjárfestinga í vindmyllugörðum í Noregi er orkusala inn á sæstrengi Statnetts. Góð viðskiptahugmynd, en óvinsæl, í einu landi, getur verið slæm í öðru landi, þótt þeim svipi saman. 

 

 


Öflugt orkukerfi grundvöllur vaxandi verðmætasköpunar

Það er til fyrirmyndar, að kunnáttumenn raforkufyrirtækjanna skrifi greinar í dagblöðin um stefnu þeirra og verkefni í fortíð, nútíð og framtíð, almenningi til glöggvunar á þessum mikilvæga málaflokki, sem snertir hag allra landsmanna.  Slíkt hefur Gnýr Guðmundsson, rafmagnsverkfræðingur og yfirmaður greininga hjá Landsneti, tekið sér fyrir hendur meðal annarra, og birtist ágæt grein hans:

"Hvernig bætum við afhendingaröryggi raforku á landsbyggðinni"

í Fréttablaðinu 7. janúar 2020.

Segja má, að tilefnið sé ærið, þ.e.a.s. langvarandi straumleysi á norðanverðu landinu vegna bilana í loftlínum og aðveitustöðvum vegna óveðurs 10.-12. desember 2019.

Gnýr telur lykilatriði að reisa nýja Byggðalínu með meiri flutningsgetu en sú gamla og að hýsa aðveitustöðvarnar.  Í þessu skyni ætlar Landsnet að reisa 220 kV línu á stálmöstrum í líkingu við nýju línuna frá Þeistareykjavirkjun að kísilverksmiðjunni á Bakka við Húsavík.  Hún þótti standa sig vel í jólaföstuóveðrinu í desember 2019, en þó þurfti að stöðva rekstur hennar í 3 klst til að hreinsa af henni ísingu næst sjónum.

Það var s.k. 10 ára veður á jólaföstunni, og það er ekki ásættanlegt fyrir neytendur, að meginflutningskerfið láti undan óveðri í tugi klukkustunda samfleytt á 10 ára fresti að meðaltali. Engin aðveitustöð í meginflutningskerfinu á að verða straumlaus lengur en 1,0 klst á ári vegna óvænt vegna bilunar. 

Á grundvelli margra ára ísingar- og selturannsókna Landsnets ætti fyrirtækið að geta veitt forsögn um hönnun styrkinga fyrir nýju Byggðalínuna, þar sem mest mæðir á vegna ísingar og vinds (samtímis).  Einnig er mikilvægt að hagnýta þekkingu á seltustöðum til að auka s.k. skriðlengd ljósboga yfir einangrunarskálarnar með því að velja skálar með stærra yfirborði en hefðbundnar skálar og að fjölga þeim eftir þörfum. Möstrin og þverslárnar þurfa að taka mið af þessu.  Fé er ekki vel varið í nýja Byggðalínu, nema hún tryggi viðunandi rekstraröryggi, einnig í 10 ára veðri, en við verðum hins vegar að búast við lengra straumleysi í 50 ára veðri og verra ásamt óvenjulegum jarðskjálftum og eldgosum. Á sumum stöðum (veðravítum) kann þá að vera þörf á hönnun lína m.v. 400 kV rekstrarspennu, eins og reyndar er í 5 220 kV línum á landinu og gefizt hafa vel.  Burðarþol og seltuþol þeirra er meira en venjulegra 220 kV lína.

Verður nú vitnað í grein Gnýs:

"Í kerfisáætlun má m.a. finna langtímaáætlun um nýja kynslóð byggðalínu.  Hún verður byggð úr stálmöstrum, sambærilegum þeim, sem byggð voru á NA-landi [Þeistareykjalínur-innsk. BJo], sem síður brotna þrátt fyrir ísingu, og mun hafa flutningsgetu, sem fullnægir þörfum landsins næstu áratugina. [Það er mikilvægt, að hægt verði án línutakmarkana að flytja orku á milli landshluta eftir Byggðalínu til að jafna stöðu í miðlunarlónum, því að innrennsli er misskipt í þau frá ári til árs eftir landshlutum - innsk. BJo.]

Þegar verkefninu verður lokið, verða virkjanakjarnar í mismunandi landshlutum samtengdir með fullnægjandi tengingum, og þannig minnka líkur á, að einstök svæði verði rekin í s.k. eyjarekstri og þar með í hættu á að verða fyrir straumleysi við truflun.  Einnig mun ný kynslóð byggðalínu gefa nýjum framleiðsluaðilum víða á landinu færi á að tengjast kerfinu og auka þannig skilvirkni og afhendingaröryggi enn frekar."

Með nýjum framleiðsluaðilum á Gnýr sennilega við smávirkjanir og vindmyllugarða, en hængurinn á tengingu þeirra er í mörgum tilvikum hár tengingarkostnaður vegna fjarlægðar.  Viðbótar kostnaðurinn lendir á virkjunaraðilum, en samkvæmt Orkupakka #4 á Landsneti. 

Það er brýnt að flýta framkvæmdum Landsnets frá því, sem miðað er við í núgildandi kerfisáætlun, þannig að ný 220 kV lína frá Klafastöðum (Brennimel í Hvalfirði) til Fljótsdalsvirkjunar verði tilbúin í rekstur fyrir árslok 2025. Til að hindra að sú flýting valdi hækkun á gjaldskrá Landsnets er eðlilegt, að arður af Landsvirkjun fjármagni flýtinguna.  Alþingismenn þurfa að beita sér fyrir þessu á vorþingi 2020, sjá tilvitnanir í tvo stjórnarþingmenn í lok pistils.

"En uppbygging meginflutningskerfis dugir ekki ein og sér til að tryggja afhendingaröryggi.  Samkvæmt stefnu stjórnvalda eiga allir afhendingarstaðir [Landsnets-innsk. BJo] í landshlutakerfum að vera komnir með tvöfalt öryggi eigi síðar en árið 2040 (N-1). 

Eins og staðan er í dag, eru þó nokkrir afhendingarstaðir í flutningskerfinu, þar sem ekki er um að ræða tvöfalt öryggi, m.a. á Norðurlandi, en einnig á Austurlandi, Vestfjörðum og á Snæfellsnesi.  Kerfisáætlun Landsnets hefur m.a. tekið mið af þessari stefnu, og í framkvæmdaáætlun má finna áætlun um tvítengingar hluta af þessum afhendingarstöðum.  Má þar nefna Sauðárkrók, Neskaupstað og Húsavík, en aðrir staðir eru einnig á langtímaáætlun, s.s. Dalvík, Fáskrúðsfjörður og sunnanverðir Vestfirðir."

Það er allt of mikill hægagangur í stefnu stjórnvalda við að tvöfalda orkumötun inn að þéttbýlisstöðum, þ.e. að gera rafmagnsflutninginn innan landshlutakerfa að (n-1) kerfi (hringtenging).  Þá má önnur fæðingin detta út án þess, að neytendur verði þess varir.  Stjórnvöld ættu tafarlaust að breyta markmiðinu um þessa tvítengingu úr 2040 í 2030 og fjármagna flýtinguna, eins og hina, með vaxandi arði af starfsemi Landsvirkjunar.  Allir þessir notendur rafmagns, sem hér um ræðir, eiga fullan rétt á því að sitja við sama borð og aðrir landsmenn með tvítengingu  frá stofnkerfi rafmagns, og það er skylda stjórnvalda, að gera raunhæfar ráðstafanir til að koma því í kring.  Alþingi verður að koma orkuráðherranum í skilning um þetta og/eða styðja við bakið á henni til að svo megi verða á einum áratugi frá jólaföstuóförunum 2019.  

Sem dæmi má nefna, að á Dalvík og á sunnanverðum Vestfjörðum á sér stað mikil og vaxandi  verðmætasköpun, þar sem fjárfest hefur verið í milljarðavís ISK í atvinnutækjum.  Að bjóða íbúum og fyrirtækjum þessara staða upp á bið í allt að tvo áratugi eftir viðunandi rafmagnsöryggi er óásættanlegt, og Alþingi hlýtur að vera sama sinnis.  Þingmenn, sem hafna þessari flýtingu, geta varla horft framan í kjósendur í NV- og NA-kjördæmi í næstu kosningabaráttu.  

"Kostnaður við lagningu jarðstrengja á 66 kV spennu er á pari við loftlínur, og lagning 66 kV jarðstrengja er víðast hvar tæknilega möguleg.  Þó eru svæði, þar sem skammhlaupsafl er það lágt, að ekki er unnt að leggja allar nýjar 66 kV línur í jörðu, og er bygging loftlínu því óhjákvæmileg á þeim svæðum."

Á Vestfjörðum er einmitt ein af orsökum ónógra spennugæða m.v. þarfir nútíma tækjabúnaðar og mikillar sjálfvirkni í atvinnurekstri, að skammhlaupsafl raforkukerfis Vestfjarða er lágt.  Það stafar af langri 132 kV geislatengingu við stofnkerfi landsins og fáum og litlum virkjunum á svæðinu.  Það er auðvelt að bæta úr hinu síðarnefnda, því að hagkvæmir virkjanakostir finnast á Vestfjörðum, og er a.m.k. einn þeirra kominn í nýtingarflokk Rammaáætlunar og er þegar í undirbúningi.  Það er brýnt að virkja sem mest af virkjanakostum í Rammaáætlun á Vestfjörðum.  Þar með eru slegnar a.m.k. tvær flugur í einu höggi.  Skammhlaupsaflið vex þá nægilega mikið til að hægt sé að færa allar loftlínur Vestfjarða í jörðu, og afhendingaröryggi raforku eykst til mikilla muna án þess að þurfa að grípa til olíubrennslu í neyðarrafstöðinni á Bolungarvík.  

Það er vaxandi skilningur á Alþingi fyrir því, að núverandi áform stjórnvalda um uppbyggingu raforkukerfis landsins taka allt of langan tíma.  Sigurður Bogi Sævarsson birti frétt í Morgunblaðinu 27. desember 2019 undir yfirskriftinni:

"Þjóðaröryggi í orkumálum verði tryggt".

Hún hófst þannig:

"Endurskoða þarf löggjöf á Íslandi, þar sem helztu innviðir samfélagsins eru greindir og staða þeirra tryggð m.t.t. þjóðaröryggis.  Vegir, brýr, virkjanir, flugvellir og fjarskipti geta fallið undir þessa löggjöf og síðast en ekki sízt flutningskerfi raforku.  

Þetta segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem eftir nýárið ætlar að óska eftir skýrslu frá stjórnvöldum um stöðu þessara mála.  Sé ástæða til, megi leggja fram lagafrumvarp um málið."

Gríðarleg og vaxandi verðmætasköpun á sér stað á þeim landssvæðum, sem urðu fyrir rafmagnstruflunum á jólaföstu 2019.  Það er ein af forsendum frekari fjárfestinga þar, að nægt raforkuframboð og afhendingaröryggi þess til jafns við Suð-Vesturlandið verði tryggt.  Það er jafnframt réttur íbúanna. Það má skoða þetta í samhengi við fína grein Jóns Gunnarssonar, ritara og þingmanns Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, í Fréttablaðinu, 20. nóvember 2019,

"Nei, er svarið".

Hún hófst þannig:

"Tækifæri okkar í uppbyggingu verðmætasköpunar, sköpun nýrra og fjölbreyttari starfa í tengslum við öfluga byggðaþróun, eru mikil.  En stefnu- og aðgerðarleysi okkar í raforkumálum ásamt heimatilbúnum erfiðleikum við uppbyggingu dreifikerfis raforku gerir það að verkum, að fjölmörg tækifæri fara forgörðum eða eiga mjög erfitt uppdráttar."

Ritari Sjálfstæðisflokksins finnur, hvar skórinn kreppir, og veit, hvað þarf til að koma stöðunni í viðunandi horf.  Það er ástæða til að ætla, að sama eigi við um meirihluta þingheims.  Nú er hagkerfið staðnað og þar af leiðandi vaxandi atvinnuleysi.  Til að brjótast út úr stöðnuninni þarf að hefjast handa sem fyrst við virkjanir, sem komnar eru vel á veg í undirbúningi, setja aukinn kraft í styrkingu flutnings- og dreifikerfa raforku og bæta samgöngukerfi landsins, í þéttbýli og í dreifbýli, af nýjum þrótti.  Til að viðhalda samkeppnisstöðu landsins dugar ekki að láta innviðina grotna niður.

 

 

 

 

 

 

 

 


Innviðabrestir og nútímaþjóðfélag fara ekki saman

Tæknivætt nútímasamfélag reiðir sig algerlega á tæknilega innviði landsins.  Ef þeir bresta, verður stórtjón, og af geta hlotizt slys. Ofmat á áreiðanleika innviða er jafnframt stórhættulegt og leiðir til rangra fjárfestinga með óþarfa áhættu fyrir fólk og fyrirtæki. Sem dæmi er lítið hald í að aflfæða þorp úr tveimur áttum, ef báðar eru frá sömu aðveitustöð í núverandi Byggðalínu. Hún var í upphafi (1974-1976) af vanefnum gerð í tímaþröng til að tengja byggðir Norðurlands, sem orkuskortur blasti við, með sem skjótvirkustum hætti við virkjanir sunnanlands, aðallega Akureyri með viðkomu í Varmahlíð í Skagafirði, á Laxárvatni í Húnaþingi, í Hrútatungu í Hrútafirði og í Vatnshömrum í Borgarfirði. Árið 1978 var Austurland tengt við Byggðalínu um aðveitustöð á Hryggstekk í Skriðdal. Tjaldað var til einnar nætur með stöðugleika,  flutningsgetu og veður- og seltuþol, og sofnuðu menn Þýrnirósarsvefni og sváfu þannig við ljúfan undirleik Landverndar o.fl. í næstum hálfa öld. Veturinn 2019 voru menn vaktir upp með andfælum, en hvað svo ?

Fyrir vikið skipta uppsafnaðar tapaðar tekjur af völdum orkuvöntunar, t.d. í Eyjafirði, tugum milljarða ISK, og tjónið af völdum straumleysis sömuleiðis.  Tjónið af völdum óveðurs og straumleysis á landinu 10.-12. desember 2019 má að töluverðu leyti rekja til veikleika í þessari löngu úreltu 132 kV Byggðalínu. Í heildina gæti þetta óveðurstjón numið mrdISK 5,0.

Það er því eftir miklu að slæðast að hámarka afhendingaröryggi raforku á landinu öllu, ekki sízt frá meginflutningskerfinu, hringtengingunni, sem nú er rekin á 132 kV, ásamt Vesturlínu á sömu spennu. Að velja dýrasta kostinn, sem er 220 kV jarðstrengur alla leið með spóluvirkjum á leiðinni til að vinna gegn rýmdarvirkni jarðstrengs á þessari spennu, er þó ekki þjóðhagslega hagkvæmasti kosturinn. Til þess er hann of dýr m.v. næstdýrasta kostinn og sparnaðurinn vegna minni rekstrartruflana of lítill m.v. hann. Slík jarðstrangslausn kostur kostar e.t.v. 300 MISK/km með spóluvirkjum (að aðveitustöðvum meðtöldum). 

Lækkun tjónkostnaðar með jarðstrengslausn er væntanlega lítil m.v. að reisa Byggðalínu sem 400 kV loftlínu og reka hana á 220 kV. Hefðbundnar 220 kV línur hafa ekki staðið sig nógu vel gagnvart seltu sunnanlands, og sama verður vafalaust uppi á teninginum í Byggðalínu.  Hins vegar hafa 400 kV línur staðið sig mjög vel, og þær eru ekki yfirskot, eins og sannaðist á Hallormsstaðahálsi á jólaföstu 2019, en þar eru nú 2 af 5 slíkum línum á landinu.  Kostnaðarmunur á þeim og hefðbundnum 220 kV línum er innan við 20 MISK/km.  Á innan við 20 árum myndi minni tjónkostnaður vega upp þennan fjárfestingarmun. Þess vegna er hann þjóðhagslega hagkvæmastur. Það verður að leggja áherzlu á það, að ekki verði nú tekin ákvörðun á grundvelli þess, sem hagkvæmast er fyrir orkufyrirtækin, því að þá verður ódýrarari og of óáreiðanleg útfærsla valin, heldur ber að velja lausn að teknu tilliti til tjóns almennings, heimila og fyrirtækja, sem forðast má með traustari lausn. Það heitir að láta almannahagsmuni ráða og velja þjóðhagslega hagkvæmustu lausnina.  

Vestfirðir voru sér á báti í þessu straumleysisveðri. Vesturlína gaf sig sem endranær í óveðrum og ætti Landsnet að undirbúa endurbætur á línunni með jarðsetningu og/eða styrkingu, þar sem reynslan sýnir, að bilunarhættan er mest.  Olíuknúin neyðarrafstöð á Bolungarvík, sem ætlað er að koma í stað Vestfjarðatengingar nr 2 við stofnrafkerfi landsins, var ræst og mun hafa gengið hnökralítið, þar til Vesturlína komst aftur í gagnið, þegar veðrinu slotaði. 

Samt sem áður drápust 400 þúsund laxaseyði á Tálknafirði vegna súrefnisleysis, en sjókvíarnar héldu, reyndar alls staðar á landinu.  Þegar spennuflökt er á orkufæðingunni, er alltaf hætta á, að dæluhreyflar dragi of mikinn straum, svo að varnarbúnaður þeirra rýfur hreyfilinn frá rafkerfinu.  Þetta tjón er mikið og tilfinnanlegt, því að það er hörgull á laxaseyðum í landinu, sem reyndar stendur laxeldinu fyrir þrifum sem stendur.  Fiskeldið þarfnast stöðugleika rafkerfisins, sem ekki fæst með loftlínum á Vestfjörðum.

Að sjókvíar fiskeldisfyrirtækjanna á Vestfjörðum og Austfjörðum skyldu standa af sér óveðrið 10.-12. desember 2019, sýnir, að þessar kvíar eru orðnar miklu traustari en áður, enda hafa fiskeldisfyrirtækin innleitt ströngustu staðla um búnað, rekstur og viðhald, í Evrópu, að fordæmi nýrra fjárfesta í greininni.  Sannast þar enn, að öflugir erlendir fjárfestar koma með nýja verkþekkingu, öryggiskröfur og stjórnunarhætti til landsins, sem annar atvinnurekstur dregur síðan dám af. Vestfirðingar og Austfirðingar hafa af þessu langa (bráðum tveggja alda) og góða reynslu.  Þetta var síðast staðfest í viðtali Morgunbaðsins 13. desember 2019 undir fyrirsögninni:

"Eldisfyrirtæki vel undirbúin":

"Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis á Austfjörðum, sem ræktar lax í sjókvíum á Reyðarfirði, segir, að sjóbúnaður félagsins sé hannaður til að standa af sér mjög vond veður.  "Kvíarnar geta staðið af sér 7-8 m ölduhæð, mun meira en það, sem gekk á núna í vikunni.  Einu áhrifin, sem veðrið hafði, voru, að það var ekki hægt að fara með fisk til slátrunar frá Reyðarfirði og til Búlandstinds á Djúpavogi í 2 daga", segir Jens í samtali við Morgunblaðið."

 

Laxeldi og öll þjónustustarfsemin í kringum það ásamt orkuskiptum krefjast þess, að virkjað verði á Vestfjörðum. Það er bæði vegna mjög aukinnar raforkuþarfar og nútímakrafna um raforkugæði. Þar eru vatnsaflskostir, sem ber að nýta strax í þessu augnamiði til að þjóna vaxandi orkuþörf Vestfjarða og auknum kröfum til afhendingaröryggis raforku, um leið og 66 kV kerfi og lægri spennustig landshlutans eru færð í jörðu. Við þetta þurfa Landsnet og Orkubú Vestfjarða með tilstyrk ríkisins (með arði frá orkusölu) að láta hendur standa fram úr ermum. Þróun innviðanna má ekki standa þróun athafnalífsins fyrir þrifum lengur. Flutningskerfi rafmagns, þjóðvegir og fjarskiptakerfi eiga löggjafarlega og skipulagslega að vera ríkismálefni. Með nútímalegri virkjanatilhögun samkvæmt Rammaáætlun Alþingis verður fórnarkostnaður (vegna minni ósnertra víðerna) mun minni en ávinningurinn.

Fiskeldi er hlutfallslega öflugasti vaxtarsproti íslenzka hagkerfisins um þessar mundir. Söluandvirði afurða fiskeldis hérlendis árið 2019 verður rúmlega mrdISK 20, og á 10 árum er búizt við rúmlega ferföldun upp í mrdISK 85, og á 20 árum er búizt við tæplega fjórtánföldun upp í mrdISK 270 samkvæmt hugmyndum Sjávarklasans.  Það er leitun að grein með viðlíka vaxtarvæntingar. Þetta gæti verið reist á væntingum um 200 kt/ár framleiðslu af laxi 2040 og verðinu 1350 ISK/kg að núvirði.  Vestfirðir gætu hugsanlega staðið undir helmingnum af þessu, hugsanlega með úthafseldi í bland við hefðbundið sjókvíaeldi, en aðeins með öflugum innviðum. Ríkinu ber að greiða götu þeirra.

Ástæða áætlaðrar verðhækkunar (70 %) er sú, að búizt er við skorti á próteinum á markaðinum vegna fólksfjölgunar og rýrnandi fiskveiða, vegna ofveiði, og landbúnaðar vegna rýrnandi jarðvegs af völdum ósjálfbærrar ræktunar (ofnýtingar rætarlands).  Þess vegna muni verð á kjöti og fiski hækka mun meira en almennt verðlag. 

Síðan er ný tækni að ryðja sér til rúms innan laxeldisins, þar sem er úthafseldi í enn stærri og öflugri kvíum en fjarðakvíarnar eru, sem innbyrða tífalt magn af fiski eða 10 kt og þola mikla ölduhæð.  Talið er, að burðarþol íslenzkra fjarða, þar sem laxeldi er leyfilegt, sé 150 kt/ár. Þá þyrfti 7 úthahafskvíar til að komast upp í 200 kt/ár og 270 mrdISK/ár. Einhverjar mætti hugsanlega staðsetja úti fyrir Vestfjörðum, aðrar úti fyrir Austfjörðum, og  myndu Vestmannaeyingar ekki einnig hafa hug á slíkum rekstri í framtíðinni ?   

Íslenzk yfirvöld hljóta að vera farin að huga að svæðum fyrir úthafskvíar.  Þar er að mörgu að hyggja, og fljótt á litið virðist grennd við Vestmannaeyjar koma til greina og einnig úti fyrir núverandi laxeldisfjörðum.  Norsk yfirvöld hafa þegar tekið frá 25 kkm2 (fjórðung flatarmáls Íslands) fyrir úthafskvíar. Í þeim er minni hætta á laxalús og enn minni hætta á erfðablöndun við villta laxa, og sterkari straumar en í fjörðunum hindra uppsöfnun úrgangs.  Þar þarf þess vegna ekki að "hvíla svæði". 

Í 200 mílum Morgunblaðsins, 20. desember 2019, var gerð grein fyrir þessu og birt  viðtal við Friðrik Sigurðsson, ráðgjafa á sviði fiskeldis og sjávarútvegs hjá norska fyrirtækinu INAQ: 

"Aðstæður til laxeldis á Íslandi eru svipaðar og í Norður-Noregi og framleiðslukostnaður í sjó ekki ósvipaður og þar.  Aftur á móti er kostnaðurinn mun hærri á Íslandi, þegar kemur að því að taka laxinn úr kvíunum, slátra honum og koma á markað erlendis, en í krafti stærðarhagkvæmni er vinnslu- og flutningsgeta norska laxeldisins allt önnur og kostnaðurinn lægri."

Í ljósi þessa er tvennt áhyggjuefni.  Leyfisveitingaferlið hérlendis fyrir starfs- og rekstrarleyfi í íslenzkum fjörðum, sem löggjafinn þó hefur afmarkað fyrir laxeldi, er torsótt og hægvirkt, eins og fyrir annars konar framkvæmdir. Stjórnmálamenn verða að gera sér grein fyrir, að með torsóttu leyfisveitingaferli fyrir framkvæmdir er verið að draga úr fjárfestingarhvata, sem er neikvætt fyrir lífskjörin til skamms og langs tíma. Þetta hefur tafið nýja verðmætasköpun hérlendis og þar með veikt vaxtarsprota, þegar grein á borð við laxeldið ríður á að vaxa skjótt fiskur um hrygg. 

Að Hafrannsóknarstofnun skuli hafa dregið lappirnar í Ísafjarðardjúpi, er skrýtið m.v. aðstæður þar.  Er vitað um einhverja sjálfstæða innlenda laxastofna þar, eða eru þeir aðfluttir ?  Líkindi á skaðlegri erfðablöndun í Ísafjarðardjúpi verða hverfandi með nútíma tækni og skaðlegar afleiðingar stroks úr kvíum nánast engar.  Því ber að leyfa að hefja sjókvíaeldi þar í áföngum á grundvelli umhverfismats og reynslu af áföngunum. 

Þá er farið offari við álagningu auðlindagjalds á greinina, þegar heildarsölutekjur á kg í ágúst-október eru lagðar til grundvallar árið eftir.  Fyrir grein í miklu uppbyggingarferli er þessi skattheimta varasöm.  Eðlilegra er að leggja framlegðina (EBITDA) til grundvallar og gæta þess, að ekki sé tekið meira en 5,0 % af henni í auðlindagjald.  

Vonandi mun markaðssetning íslenzks laxeldis verða sem mest reist á fullvinnslu í neytendapakkningar. Þá munu fást svipuð verð og Færeyingar fá fyrir sín tæplega 90 kt/ár, því að heilbrigði eldisfisksins hér er tiltölulega gott.  Þá þarf hérlendis öflug fóðurframleiðsla, eins og í Færeyjum, að komast á legg.

Friðrik Sigurðsson hélt áfram: 

""Við erum að komast á það stig, að umgjörðin fyrir hefðbundið fiskeldi á Íslandi sé jafnlangt á veg komin og í Noregi, en því miður hefur kunnáttuleysi íslenzkra stjórnvalda litað umhverfi greinarinnar.  Stjórnvöld þurfa líka, fyrr en síðar, að marka stefnu um úthafseldi með aðkomu hagsmunaaðila og rannsóknarstofnana, þar sem m.a. væri gætt vandlega að líffræðilegum og umhverfislegum þáttum og þess freistað að greina, hvaða svæði myndu henta bezt til að stunda úthafseldi, s.s. m.t.t. hrygningarsvæða, verðmætra fiskstofna og áhrifa á viðkvæm haf- og botnsvæði á borð við kóralrif", segir Friðrik og bendir á, að sennilega myndu úthafskvíarnar þurfa að vera sunnan og austan við landið, svo að lítil sem engin hætta yrði á skemmdum af völdum hafíss.  "Eins þarf að taka með í reikninginn, að úthafseldið falli vel að umferð bæði fiskiskipa og vöruflutningaskipa, svara ýmsum hafréttarlegum spurningum og greina, hvort úthafseldið gæti haft áhrif á fiskveiðar.""

Það er leitt til þess að vita, að þekking á fiskeldi skuli vera af skornum skammti í atvinnuvegaráðuneytinu.  Þar verða menn að hrista af sér slyðruorðið og marka strax stefnuna til að greiða götu laxeldisins til vaxtar í samræmi við burðarþol og faglega unnið umhverfismat.  Strax á næsta ári (2020) þarf að leggja línuna fyrir úthafseldið, eins og Norðmenn hafa þegar gert.  Það er óþarfi að finna upp hjólið.

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi Alþingismaður, er öllum hnútum kunnugur um fiskeldið.  Hann skrifaði grein í Fréttablaðið 4. desember 2019 undir fyrirsögninni:

"Að spila lottó með sannleikann":

"Landssamband veiðifélaga berst gegn uppbyggingu á laxeldi í sjó.  Erlendir auðkýfingar hafa keypt laxveiðiréttindi og jarðir hér á landi og vinna leynt og ljóst gegn atvinnuuppbyggingunni.  Stjórnvöld hafa frá upphafi verið varkár gagnvart sjókvíaeldinu.  Laxeldið er aðeins leyft á afmörkuðum svæðum, einkum á Vestfjörðum og Austfjörðum.  Annars staðar er það bannað.  Það er gert til að vernda innlenda laxastofna fyrir mögulegri blöndun við eldisstofninn, sem er upprunalega norskur.  Uppbygging sjókvíaeldisins hefur að öllu leyti fylgt þessum ráðstöfunum."

 

 "Laxveiði í vestfirzkum ám er lítil og tekjur óverulegar.  Enda er það ástæða þess, að laxeldið var leyft á Vestfjörðum.  Tekjur af allri stangveiði í landinu eru aðeins 4,9 milljarðar króna á ári.  Það er því ólíku saman að jafna framlagi þessara tveggja atvinnugreina til lífskjara íslenzku þjóðarinnar.  Nái Landssamband veiðifélaga markmiði sínu og kæfi í fæðingu laxeldi á Íslandi, verða afleiðingarnar alvarlegar, og almenningur fer á mis við mjög bætt lífskjör á næstu árum."

Landssamband veiðifélaga reisir andstöðu sína við laxeldið í sinni núverandi mynd á rangri áhættugreiningu.  Þar koma við sögu úrelt líkindi á stroki úr sjókvíunum og öfgakennd hugmynd um afleiðingarnar.  Í fyrsta lagi ná ekki allir stroklaxar upp í árnar; í öðru lagi tekst ekki alltaf hrygning hjá þeim og í þriðja lagi kemur náttúrulegt úrval í veg fyrir, að varanleg erfðablöndun eigi sér stað.  Þess vegna hefur hingað til engin merkjanleg erfðablöndun átt sér stað af völdum sjókvíaeldis hérlendis. 

Samanburður við Noreg er út í hött.  Norðmenn eru á hverjum tíma með um 1,0 Mt (milljón tonn) af eldislaxi í kvíum úti fyrir helztu laxveiðiám Noregs og voru um 40 ára skeið með mun veikari útbúnað, minna regluverk og slappara eftirlit en nú er við lýði.

"Rökin gegn laxeldinu eru veik.  Umhverfismengun er lítil.  Kolefnisspor er lágt.  Hvergi á Íslandi hafa laxastofnar spillzt eða eyðilagzt vegna blöndunar við eldislax.  Þrátt fyrir langvarandi markvissa blöndun innlendra stofna í fjölmörgum laxveiðiám um langt árabil á vegum veiðiréttarhafa, er ekki talin ástæða til að hafa áhyggjur af varanlegri erfðablöndun."

Í ljósi þessara upplýsinga, sem voru kunnar, að veiðiréttarhafar hafa staðið fyrir tilraunastarfsemi með erfðaeiginleika í íslenzkum laxveiðiám, virðast þeir vissulega kasta steinum úr glerhúsi, þegar þeir stunda áróður gegn laxeldi á afmörkuðum svæðum hérlendis í nafni hreinleika íslenzkra laxastofna.  Einhver mundi ávinna sér hræsnaraheitið af minna tilefni.  

"Blöndun milli eldisfiska og villtra á sér stað, en til þess að áhrifin leiði til varanlegra breytinga, þarf hún að vera mjög víðtæk og langvarandi.  Annars ganga áhrifin til baka tiltölulega fljótt fyrir tilstilli náttúruúrvalsins."

Erfðafræðin virðist ekki leika í höndum þeirra veiðiréttarhafa íslenzkra laxveiðiáa, sem harðast hafa gengið fram í gagnrýni sinni á laxeldi í sjókvíum.  Þeim væri sæmst að láta af árásum sínum og gera þess í stað hreint fyrir sínum dyrum um það, sem kalla má fikt þeirra með blöndun laxastofna í laxveiðiám landsins.  

Að lokum fylgir hér tilvitnun í grein Kristins H. Gunnarssonar um, að sífelldar vísanir veiðiréttarhafa til Noregs varðandi áhættuna hérlendis séu úr lausu lofti gripnar:

"Jón Helgi Björnsson vísar til laxeldis í Noregi og setur fram fullyrðingar um laxeldið þar.  Þar er ólíku saman að jafna.  Norskt laxeldi er um 100 sinnum umfangsmeira, og staðsetning eldiskvía þar er víða nálægt gjöfulum laxveiðiám.  Því er mun meiri hætta á varanlegri erfðablöndun í Noregi en á Íslandi.  Laxeldið er bannað á Íslandi nálægt öllum helztu laxveiðiám landsins.  Á Vestfjörðum er nánast engin laxveiði.  Það er ekki hægt að draga ályktanir af stöðu í Noregi og færa þær óbreyttar yfir á Ísland."

Ákvörðun Alþingis á sinni tíð um mjög miklar landfræðilegar takmarkanir á staðsetningu laxeldis í sjókvíum átti að þjóna sátt á milli hagsmunaaðila um þessa tiltölulega nýju atvinnugrein.  Öll þróun síðan þá hefur verið til minni áhættu við þessa starfsemi.  Það er mest að þakka nýjum fjárfestum í laxeldinu hérlendis, sem hafa mikla þekkingu til að bera bæði á starfseminni og markaðssetningunni.  Þessi atvinnustarfsemi er hreinlega að umbylta samfélaginu á Vestfjörðum til hins betra og tryggja sess Vestfirðinga í nútímasamfélaginu.  Svo sterkt er ekki hægt að kveða að orði um austfirzkt laxeldi, þar sem þar var sums staðar fyrir öflugt atvinnulíf, en laxeldið þar hefur þó þegar reynzt byggðum í vörn öflug kjölfesta.  

Þessi öfluga atvinnugrein, sem getur hæglega orðið ein af kjöfestu útflutningsatvinnugreinunum og að 20 árum liðnum skapað svipaðar útflutningstekjur og málmiðnaðurinn núna, sem stundum er kallaður orkukræfi iðnaðurinn.  Grundvallarþörf beggja þessara greina er stöðugleiki.  Þær gera báðar miklar kröfur til raforkugæða, og þær, ásamt fólkinu, sem þar starfar, á sama rétt til raforkugæða og þau fyrirtæki og fólk, sem nú býr við beztu raforkugæðin á landinu.  Það á ekki að slá af þeim kröfum.  Þær eru bæði tæknilega og fjárhagslega raunhæfar.  Vönduð vinnubrögð eru allt, sem þarf.  Fúsk er aldrei fýsilegur kostur.

 

 

 

 

   


Að halda hlýnun undir 2°C er ekki hægt úr þessu

Samkvæmt reiknilíkani IPCC er tómt mál úr þessu að tala um að takmarka hlýnun andrúmslofts við 1,5°C-2,0°C, eins og stefnumörkun Parísarsamkomulagsins 2015 hljóðaði upp á. Ástæðan er sú, að árlega hefur losun á heimsvísu  aukizt um 1,5 % síðan þá og nemur nú 43 mrdt/ár CO2.  Þá gengur hvorki né rekur að þróa viðunandi tækni við að fjarlægja koltvíildi úr andrúmsloftinu, en á næstu 80 árum þarf að fjarlægja mrdt 730 af CO2 úr  andrúmsloftinu samkvæmt miðgildi útreikninga IPCC, og einnig að minnka árlega losun um 7,6 % á hverju ári, þar til nettó-losun verður engin. M.v. undirtektir á alþjóðlegri loftslagsráðstefnu í desember 2019, COP 25, næst þessi minnkun losunar ekki á næstunni.  

Afköstin við að fjarlægja CO2 eru nú aðeins um 40 Mt/ár eða 0,4 % af því, sem nauðsyn er samkvæmt IPCC.  Öll þessi barátta er vonlaus, eins og barátta Don Kíkóta við vindmyllurnar var á sinni tíð.  Skynsamlegra er að veita fé í aðlögun að hlýnun um 3°C til viðbótar við hlýnunina frá kuldaskeiði "Litlu ísaldar" (0,8°C), t.d. með því að búa innviði landsins undir meiri öfgar í veðurfari, sem okkur er sagt, að búast megi við.  Forsætisráðherra sagði á Alþingi 17.12.2019, að búast mætti við óveðri eins því, sem hrjáði norðanvert landið 10.-12. desember 2019, á 10 ára fresti.

Samkvæmt þekktum lotubundnum hitastigssveiflum á jörðunni mun samt e.t.v. á þessu árþúsundi kólna aftur mun meir en þessari hlýnun nemur.  Til lengri tíma verður þá kuldinn skæðari óvinur lífs á norðurhveli en hitinn.

Morgunblaðið hefur gert góða grein fyrir straumum og stefnum í loftslagsmálum, og þann 27. nóvember 2019 flutti það frétt undir ískyggilegri fyrirsögn:

"Losunin eykst enn og nú stefnir í 3,2 stiga hlýnun":

"Ríki heims missa af tækifærinu til að koma í veg fyrir mjög alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga, ef ekki verður gripið til tafarlausra aðgerða til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda að því, er fram kemur í nýrri skýrslu Umhverfisverndarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNEP.

Stofnunin segir, að losun gróðurhúsalofttegunda þurfi að minnka um 7,6 % að meðaltali á hverju ári til 2030 til að koma í veg fyrir, að hlýnun jarðar verði meiri en 1,5°C m.v. áætlaðan hita á jörðinni fyrir iðnbyltinguna.  Sú blákalda staðreynd blasi hins vegar við, að losunin hafi aukizt að meðaltali um 1,5 % á ári á síðustu 10 árum."

Af viðbrögðum þjóða heims við ákalli UNEP má ráða, að ekki sé tekið fullt mark á þeirri stofnun, eða aðrir hagsmunir þjóðanna vega þyngra.  Hvað þýðir það á heimsvísu að draga úr losun CO2 um 7,6 %/ár ?  Það jafngildir 3,3 mrdt/ár CO2 (3,3 milljörðum tonna á ári) eða bruna um 1 mrdt af kolum.  Þetta nemur um 13 % af kolabruna á heimsvísu.  Í ljósi þess, að kolabrennsla á heimsvísu jókst um 0,9 % árið 2018 (um 70 Mt), er algerlega óraunhæft að búast við nokkrum samdrætti á næstu 5-10 árum í námunda við það, sem UNEP telur nauðsynlegt til að halda hlýnun innan 2°C.

"Umhverfisverndarstofnun SÞ segir, að jafnvel þegar loforð aðildarríkja samningsins séu tekin með í reikninginn, stefni í, að hlýnunin verði 3,2°C.  Vísindamenn hafa sagt, að svo mikil hlýnun hafi mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðir heims.  Stofnunin sagði, að þótt horfurnar væru slæmar, teldi hún enn mögulegt að ná því markmiði, að hlýnunin yrði ekki meiri en 1,5°C, en viðurkenndi, að til þess þyrfti að gera fordæmalausar breytingar á hagkerfi heimsins, sem byggðist enn að miklu leyti á notkun olíu og jarðgass."

Þetta er skrýtinn texti, þar sem versta mengunarvaldinum, kolunum, er sleppt.  Að hjá Umhverfisstofnun SÞ skuli enn vera talið, að unnt sé að halda hlýnun undir 2°C m.v. 1850, bendir til, að þar á bæ treysti menn ekki hlýnunarlíkani IPCC, sem reist er á áhrifum gróðurhúsalofttegundanna á hitastig lofthjúpsins.

 Ari Trausti Guðmundsson, Alþingismaður, hefur tjáð sig um loftslagsmál og gerði það t.d. í Morgunblaðinu 11. nóvember 2019 í grein sinni:

"Olía og gas - nei, enn einu sinni".

Hún hófst þannig:

"Til þess að ná því mikilvæga markmiði að halda aftur af hlýnun loftslagsins og jafnvel snúa þróuninni þarf að ríghalda í ákveðið markmið: Aðeins má vinna og nota 30 %-40 % þekktra birgða í jörð af kolum, olíu og gasi.  Um þetta er þarflaust að deila."

Þetta er engin röksemdafærsla hjá þingmanninum, sem slær þarna fram fullyrðingu, sem honum væri í lófa lagið að sanna á grundvelli kenninga IPCC.  Hvers vegna er þarflaust að deila um það, að ekki megi brenna meiru en 30 % -40 % af þekktum birgðum kola, olíu og jarðgass ?  Þessi framsetning hangir í lausu lofti hjá þingmanninum.  

Þekktar birgðir þessa eldsneytis eru u.þ.b. 1500 mrdt olíujafngildi, sem myndu gefa frá sér meira en 4600 mrdt koltvíildi við bruna.  Þriðjungurinn nemur um 1500 mrdt CO2 út í andrúmsloftið.  Það eru 35 ár með núverandi losun og tvöfalt gildið, sem IPCC telur, að draga þurfi út úr andrúmsloftinu til næstu aldamóta til að halda hlýnun innan 2°C markanna frá 1850 eða hækkun um 1,2°C frá núverandi meðalhitastigi andrúmslofts jarðar. 

Ef Ari Trausti Guðmundsson heldur, að óhætt sé að brenna svona miklu jarðefnaldsneyti, þá er hægt að álykta, að hann telji líkan IPCC ofáætla stórlega hlýnun andrúmslofts af völdum koltvíildis. Það gætir víða tvískinnungs í þessari lofthjúpsumræðu.

Á grundvelli þess, sem hér hefur verið tínt til um forða jarðefnaeldsneytis, en ekki á grundvelli greinar Ara Trausta, er þó hægt að samþykkja meginboðskapinn í grein hans, sem er þessi:

"Íslendingar eiga að hafna því að opna á mögulega vinnslu olíu og gass við Jan Mayen.  Gildir einu, þótt hagnast megi á henni."

Það eru bæði siðferðileg, pólitísk, umhverfisleg og efnahagsleg rök, sem mæla með þessari höfnun.  Með því leggjum við okkar litla lóð (max mrdt 10 (6 % af ol.)af áætluðum forða 168 mrdt af olíu og 200 mrdt af gasi) á vogarskálar þess, að stigið verði á bremsur nýtingar þekkts olíu- og gasforða með þróun kolefnisfrírra orkugjafa, við tökum mjög sjaldgæft skref á meðal ríkja, sem ráða yfir lindum jarðefnaeldsneytis, við tökum ekki áhættu af mengunarslysi af eldsneytisvinnslu í íslenzkri efnahagslögsögu, og við tökum enga fjárhagsáhættu vegna uppbyggingar dýrra innviða vegna vinnslu, sem kannski verður aldrei arðsöm.  Fyrir arðsemi þarf olíuverð sennilega að fara yfir 80 USD/tu.

 

 

     

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband