Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
20.1.2020 | 14:03
Mörgu er logið í nafni umhverfisverndar
Komið hefur fram, að margir hinna voveiflegu gróðurelda í Ástralíu í vetur (2019-2020) eru beinlínis af mannavöldum, þ.e. brennuvargar hafa kveikt þá. Gríðarlegur eldsmatur er þarna, af því að græningjar hafa lagzt gegn grisjun og hreinsun, sem þó hefur verið stunduð frá landnámi þarna, og frumbyggjarnir notuðu þetta sem ráð til að draga úr eldhættunni, því að hún er síður en svo ný af nálinni. Úrkoman í Ástralíu hefur verið lotubundin, og nú er hún í lágmarki, svo að hættan er í hámarki. Þar sem eldar geisa í þjóðgörðum Ástralíu eiga slökkviliðsmenn í miklu meiri erfiðleikum en áður, því að græningjar hafa fengið því framgengt, að miðlunarlón, sem þar voru, hafa verið tæmd. Hvassviðri hefur svo gert eldana óviðráðanlega, en sem betur fer hefur rignt duglega í Ástralíu undanfarna sólarhringa, þar sem eldar hafa verið hvað hræðilegastir.
Græningjar kenna auknum styrk koltvíildis í andrúmsloftinu um ófarirnar, því að CO2 skermi varmaútgeislun jarðar og valdi þar af leiðandi hlýnun lofthjúpsins. Því er svarað með því, að þessi útgeislun sé á bylgjulengdarsviðinu 8-12 míkrón, og gastegundin CO2 sjúgi ekki í sig orku á því sviði. Græningjar hafa jafnvel verið sakaðir um að kveikja í til að æsa til reiði í garð þeirra, sem mest losa af CO2, og Ástralir sjálfir hafa vissulega frekar dregið lappirnar við að draga úr losun. Minnir þetta óhugnanlega á bruna Reichstag 1934, sem Adolf Hitler, kanzlari, notaði sem átyllu til að sölsa undir sig forsetaembætti Þýzkalands og þar með æðstu stjórnun hersins, og varð þannig einvaldur. Ekkert slíkt vofir yfir Ástralíu.
Þann 9. janúar 2020 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Guðna Ágústsson, fyrrverandi Alþingismann og ráðherra, sem hann nefndi:
"Hamfarahlýnun - Dómsdagur eða blekking".
Af greininni má ráða, að hann sé efasemdarmaður um "hamfarahlýnun" og vitnar sér til halds og trausts til hins erna öldungs og veðurspámanns Páls Bergþórssonar, eins og síðar verður getið í pistlinum. Framarlega í greininni gerir hann ofstæki "koltvíildissinna" að umræðuefni:
"Í umræðunni eru efasemdarmenn, sem einnig styðjast við vísindalegar forsendur, sagðir falsspámenn, og um þá marga er rætt sem boðbera fáfræðinnar. Ef þú vilt hafa frið, ferðu í umræðuna með kór "rétttrúnaðarins" og velur þér að gráta og fylgja fjöldanum og fullyrðingunni um, að jörðin farist innan 30 ára og hamfarirnar séu manninum einum að kenna."
Það er ekki vænlegt til árangurs að reka trippin með þessum hætti, enda er árangur fjölda blaðurráðstefna nánast enginn, og engin samstaða þjóða heims í nánd, af því að boðskapurinn um afleiðingar aukins styrks koltvíildis í andrúmsloftinu er ótrúverðugur, enda reiknilíkön IPCC eðlilega enn í mótun, þar sem flækjustigið er gríðarlegt. Samstaða þjóða heims er þó skilyrði fyrir árangri við að draga úr styrk koltvíildis í andrúmsloftinu. Þar er ógnarlangt í land, og fundahöld og ráðstefnur um málið farsakennd. Guðni vitnar í Pál Bergþórsson, fyrrverandi veðurstofustjóra:
"Ég vil taka undir hógvær orð, sem Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, setti inn á "Fasbókina" sína, en Páll er dáður af þjóð sinni sem rökfastur og stilltur maður í öllum boðskap. Páll segir: "Hamfarahlýnun jarðar er vonandi markleysa". Svo rakti hann fjölgun mannkynsins úr 2 milljörðum árið 1950 í 8 milljarða árið 2020. Með sömu þróun væri mannfjöldinn orðinn 14 milljarðar árið 2090. Og 20 milljarðar árið 2160."
Páll Bergþórsson er vel að sér í veðurfarslegum efnum, og það segir mikla sögu um veikan fræðilegan grundvöll kenningarinnar um "hamfarahlýnun" af mannavöldum, að "nestor" veðurfræðinga hérlendis telur mestar líkur á, að hún sé "markleysa". Þá er nú engin furða, þótt minni spámenn í þessum fræðum kokgleypi ekki allan "bolaskítinn" frá IPCC og áhangendum. Það þarf ekki annað til en hlutfallslega minna af nýju koltvíildi stigi upp í efstu lög lofthjúpsins ("stratosphere") til að gróðurhúsaáhrif lofttegundarinnar verði minni en IPCC reiknar með.
Hlýnun frá "Litlu ísöld", sem lauk um 1900, er sem betur fer staðreynd, en enginn veit, hversu mikil hún verður. Hvers vegna varð "Litla ísöld" ? Jörðin er nú við lok 10 þúsund ára hlýindaskeiðs, og á næstu 10 þúsund árum verður sennilega mikil kólnun. Málflutningurinn um "hamfarahlýnun" er mjög orðum aukinn. Það er ekki þar með sagt, að óskynsamlegt sé að minnka og að lokum losna við bruna jarðefnaeldsneytis áður en þær orkulindir þrýtur, enda fylgja þeim ýmsir ókostir, en það er ekki sama, hvernig það er gert, sbr vindmyllufárið.
Það er þegar tekið að hægja mjög á fjölgun mannkyns þrátt fyrir minnkandi barnadauðsföll. Minni viðkoma fylgir bættum efnahag, en örsnauðum í heiminum hefur fækkað mikið á síðastliðnum 40 árum, og er miklum vestrænum fjárfestingum í "þriðja heiminum" þakkaðar hækkandi tekjur þar, þótt sú jákvæða þróun hafi nú stöðvazt um sinn á meðan "merkantílismi" (kaupauðgistefna) tröllríður húsum tímabundið.
Það er hægt að taka undir boðskap Guðna um mikilvægi dyggðugs lífernis og virðingar fyrir náttúrunni í umgengni við hana. Það er þó algjör misskilningur hjá græningjum, að sú virðing verði aðeins sýnd með því að snerta hana ekki. Hófsemi er hinn gullni meðalvegur í þessum efnum sem öðrum. "Að nýta og njóta." Guðni skrifar:
"Verkefnið er hins vegar eitt: að bjarga jörðinni fyrir komandi kynslóðir. Mikilvægt er að brauðfæða og mennta allt fólk jarðarinnar og framleiða matinn sem næst hverjum munni. Í því sambandi ber að minna á, að landbúnaðarvörurnar framleiðist hér heima, en komi ekki til okkar erlendis frá með flugvélum. Draga þarf úr öllu bruðli og muna, að sjórinn tekur ekki endalaust við. Þetta er verkefni hverrar fjölskyldu, atvinnulífsins og ríkisstjórna þjóðanna. En stærsti sigurinn mun vinnast, ef Sameinuðu þjóðirnar koma sér saman um markvissar reglur og þeim verði fylgt."
Ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna hefur hingað til mistekizt að komast að samkomulagi t.d. um jafnháa gjaldtöku af koltvíildislosun um alla jörð. Ef þessi skattheimta er ólík, flýja fyrirtæki með mikla losun, þangað sem hún er lægri. Þetta er s.k. kolefnisleki. Það er svo misjöfn efnahagsleg staða þjóða heimsins, að vel skiljanlegt er, að sameiginlegt samkomulag sé ekki í augsýn um skilvirkar aðferðir, sem innleiða þarf til að draga úr koltvíildislosun með skilvirkum hætti.
Ríkar þjóðir hafa varið háum fjárhæðum til að koma upp hjá sér "vistvænni" raforkuvinnslu, og þar hefur mest borið á fjárfestingum í vindorkuverum og sólarhlöðum. Í Danmörku eru t.d. um þessar mundir um 6100 vindmyllur, sem framleiða 13,9 TWh/ár, um 60 % af raforkuvinnslu Íslands.
Það gleymist í írafári umhverfisumræðunnar að taka kolefnisspor og mengun við framleiðslu á þessum "grænu" orkubreytum með í reikninginn. Sem dæmi má taka 2,0 MW vindmyllu. Í henni eru um 250 t af stáli, og það fara um 125 t af kolum í að framleiða þetta stál. Við framleiðslu sementsins í undirstöðuna þarf ekki minna en 25 t af kolum að jafnaði. Þessi 150 t
kola á hverja vindmyllu mynda a.m.k. 450 t CO2, sem fara út í andrúmsloftið.
Vindmylla þarf um 200 sinnum meira af hráefnum per uppsett MW en nútímalegt samtvinnað raforku- og fjarvarmaver með orkunýtni yfir 50 %. Nýting uppsetts afls vindmyllu er lélegt eða um 28 % að jafnaði á landi í heiminum (betri úti fyrir ströndum). Kolefnisspor vindmyllna á MW, svo að ekki sé minnzt á GWh/ár vegna lélegrar nýtingar, er tiltölulega hátt og þetta val á orkugjafa til að draga úr koltvíildislosun er þess vegna sérlega óheppilegt. Miklu nær er að reisa kjarnorkuver í stað kolaorkuvera eða jafnvel gasorkuver sem millibilslausn, en þrýstihópar kolanámanna hafa haft sitt fram, nema á Bretlandi, þar sem síðasta kolaorkuverinu verður lokað 2025. Í Þýzkalandi var hins vegar nýlega gangsett eitt stærsta kolaorkuver þar í landi, 1 GW að rafafli. Öruggari kjarnorkuver eru í þróun, t.d. s.k. saltlausnarkjarnakljúfur.
Út frá orðum Guðna hér að ofan er það bruðl með hráefni jarðar að nýta þau á svona óskilvirkan hátt fyrir raforkuvinnslu með vindmyllum. Frá umhverfislegu sjónarmiði er miklu nær að reisa í staðinn gasorkuver, þangað til tæknin býður upp á notkun öruggrar kjarnorku, t.d. með kjarnakljúfum fyrir frumefnið þóríum. Á Íslandi er umhverfisvænst og hagkvæmast að reisa vatnsorkuver, og jarðgufuver koma þar á eftir, vissulega með miklu lægra kolefnisspori en vindorkuver á hvert MW eða MWh/ár. Þetta þarf að hafa í huga, þegar kemur að endurmati á virkjanakostum í biðflokki Rammaáætlunar. Auðvitað á að afgreiða Rammaáætlun á Alþingi á undan frumvarpi um allsendis ótímabæran og reyndar óþarfan hálendisþjóðgarð, sem er ekki til annars en að þenja út ofvaxið ríkisbákn, sem ræður reyndar ekki við verkefni sín þrátt fyrir skattheimtu í hæstu hæðum í alþjóðlegum samanburði. Formaður umhverfis- og auðlindanefndar Alþingis hefur rétt fyrir sér um þessa verktilhögun.
Í Morgunblaðinu birtist 10. janúar 2020 lítil frétt undir eftirfarandi fyrirsögn:
"Vilja beizla vind á Laxárdalsheiði":
Hún hófst þannig:
"Áform eru um að reisa vindorkugarð í landi Sólheima í Dalabyggð, og gætu 27 vindmyllur risið á svæðinu í tveimur áföngum með hámarksafköst upp á 115 MW. Fyrirtækið Quadran Iceland Development ehf. hefur lagt fram tillögu til Skipulagsstofnunar að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum vindorkugarðsins.
Samkvæmt matstillögu er verkefninu við Sólheima skipt í tvo áfanga. Í þeim fyrri yrðu 20 vindmyllur með hámarksafköst upp á 85 MW. Í öðrum áfanga 7 vindmyllur til viðbótar með hámarksafköst upp á 30 MW. Áfangi 2 yrði í biðstöðu, þar til afkastagetan næst í raforkukerfinu [svo ?].
Hér er um að ræða fremur stórar vindmyllur m.v. stærðir, sem oft hefur verið minnzt á í umræðunni hérlendis, eða 4,25 MW, og er það út af fyrir sig ánægjuefni vegna minni landþarfar á MW, en slíkur "vindmylluskógur" mun sjást úr 40-50 km fjarlægð, því að líklega munu spaðar ná 180 m yfir undirstöðu súlunnar og hver vindmylla þurfa um 0,25 km2. Sé þetta nærri lagi, þá er landnýting Fljótsdalsvirkjunar (aðallega Hálslón) 35 % betri en Sólheimavindorkugarðsins í GWh/ár/km2, og landnýting virkjananna neðan Þórisvatns reyndar margfalt betri; landnýting jarðgufuvirkjananna er líka betri en vindorkugarðsins. Spurningin er, hvað rekur menn á Íslandi til að setja tiltölulega mikið land undir vindmyllur í km2/MWh/ár ?
- Ekki er það umhverfisvernd, því að kolefnisspor við framleiðslu og uppsetningu vindmyllna er stórt m.v. orkuvinnslugetu þeirra í GWh/ár í samanburði við virkjanir á Íslandi úr þeim tveimur "endurnýjanlegu" orkulindum, sem nýttar eru nú þegar á Íslandi að einhverju ráði. Hráefnanotkun er tiltölulega mikil og skilar litlu til umhverfisins á endingartímanum. Þá hefur verið bent á hættuna, sem fuglum stafar af spöðunum. Örninn flýgur e.t.v. hærra en spaðarnir ná, en samt berast fréttir frá Noregi af mjög mörgum dauðum örnum í grennd við vindmyllur, þar sem er arnarvarp í grennd. Þá kemur lágtíðnihljóð frá vindmyllum, sem er bæði óþægilegt og er talið heilsuskaðlegt fyrir íbúa til lengdar innan 2 km frá vindmyllum. Því er haldið fram, að í segla vindmyllurafala fari sjaldgæft efni, sem grafið sé upp í Innri-Mongólíu og með því fylgi geislavirk og eitruð efni. Gera þarf grein fyrir þessu í umhverfismati, ef það á að vera vandað.
- Er afl- eða orkuskortur skýring á vindmylluáhuga hérlendis ? Hvort tveggja gæti verið í vændum á Íslandi á næstu árum, af því að markaðinum hefur verið afhent forsjá orkumálanna með innleiðingu löggjafar Evrópusambandsins (ESB) á þessu sviði, en hún virkar illa hér, af því að hún er ekki hönnuð fyrir raforkumarkað af því tagi, sem hér er. Því fyrr sem stjórnvöld átta sig á þessu, þeim mun betra fyrir alla aðila, vegna þess að orkuöryggi hefur nú verið viðurkennt að falla undir þjóðaröryggi, og fyrir því eru ríkisstjórn og Alþingi ábyrg. Ekki er hægt að reiða sig á vindmyllur í aflskorti, þar sem þær gefa aðeins frá sér fullt afl talsvert minna en 3 sólarhringa vikunnar, og stöðva verður þær í hvassviðri og ísingarveðri. Hins vegar er vissulega unnt að spara dálítið vatn í miðlunarlónum með því að kaupa af þeim raforku inn á stofnkerfið. Sólheimavindorkuverið ætti t.d. að geta framleitt 380 GWh/ár, ef/þegar það nær fullum afköstum. Þetta er um 2,5 % af orkuvinnslugetu núverandi vatnsorkuvera landsins, og má um það segja, að allt er hey í harðindum, en dýrt er það.
- Vindmyllur hafa orðið hagkvæmari í rekstri með tímanum. Annað vindorkuver hefur verið á döfinni í Dalasýslu, og er það á Hróðnýjarstöðum við Búðardal. Þar reiknaði höfundur vinnslukostnaðinn 53 USD/MWh, en við bætist tengikostnaður við stofnrafkerfi landsins. Annaðhvort þarf að leggja jarðstreng frá Sólheimum að aðveitustöð Glerárskógum eða Hrútatungu, því að ólíklegt er, að Landsnet samþykki nýjan tengistað á Laxárdalsheiði. Þetta verð frá orkuveri er ósamkeppnisfært á Íslandi sem stendur, og verður vonandi svo lengi, og þess vegna er vindorkugarður hér ekki góð viðskiptahugmynd. Grundvöllur mikilla fjárfestinga í vindmyllugörðum í Noregi er orkusala inn á sæstrengi Statnetts. Góð viðskiptahugmynd, en óvinsæl, í einu landi, getur verið slæm í öðru landi, þótt þeim svipi saman.
14.1.2020 | 18:28
Öflugt orkukerfi grundvöllur vaxandi verðmætasköpunar
Það er til fyrirmyndar, að kunnáttumenn raforkufyrirtækjanna skrifi greinar í dagblöðin um stefnu þeirra og verkefni í fortíð, nútíð og framtíð, almenningi til glöggvunar á þessum mikilvæga málaflokki, sem snertir hag allra landsmanna. Slíkt hefur Gnýr Guðmundsson, rafmagnsverkfræðingur og yfirmaður greininga hjá Landsneti, tekið sér fyrir hendur meðal annarra, og birtist ágæt grein hans:
"Hvernig bætum við afhendingaröryggi raforku á landsbyggðinni"
í Fréttablaðinu 7. janúar 2020.
Segja má, að tilefnið sé ærið, þ.e.a.s. langvarandi straumleysi á norðanverðu landinu vegna bilana í loftlínum og aðveitustöðvum vegna óveðurs 10.-12. desember 2019.
Gnýr telur lykilatriði að reisa nýja Byggðalínu með meiri flutningsgetu en sú gamla og að hýsa aðveitustöðvarnar. Í þessu skyni ætlar Landsnet að reisa 220 kV línu á stálmöstrum í líkingu við nýju línuna frá Þeistareykjavirkjun að kísilverksmiðjunni á Bakka við Húsavík. Hún þótti standa sig vel í jólaföstuóveðrinu í desember 2019, en þó þurfti að stöðva rekstur hennar í 3 klst til að hreinsa af henni ísingu næst sjónum.
Það var s.k. 10 ára veður á jólaföstunni, og það er ekki ásættanlegt fyrir neytendur, að meginflutningskerfið láti undan óveðri í tugi klukkustunda samfleytt á 10 ára fresti að meðaltali. Engin aðveitustöð í meginflutningskerfinu á að verða straumlaus lengur en 1,0 klst á ári vegna óvænt vegna bilunar.
Á grundvelli margra ára ísingar- og selturannsókna Landsnets ætti fyrirtækið að geta veitt forsögn um hönnun styrkinga fyrir nýju Byggðalínuna, þar sem mest mæðir á vegna ísingar og vinds (samtímis). Einnig er mikilvægt að hagnýta þekkingu á seltustöðum til að auka s.k. skriðlengd ljósboga yfir einangrunarskálarnar með því að velja skálar með stærra yfirborði en hefðbundnar skálar og að fjölga þeim eftir þörfum. Möstrin og þverslárnar þurfa að taka mið af þessu. Fé er ekki vel varið í nýja Byggðalínu, nema hún tryggi viðunandi rekstraröryggi, einnig í 10 ára veðri, en við verðum hins vegar að búast við lengra straumleysi í 50 ára veðri og verra ásamt óvenjulegum jarðskjálftum og eldgosum. Á sumum stöðum (veðravítum) kann þá að vera þörf á hönnun lína m.v. 400 kV rekstrarspennu, eins og reyndar er í 5 220 kV línum á landinu og gefizt hafa vel. Burðarþol og seltuþol þeirra er meira en venjulegra 220 kV lína.
Verður nú vitnað í grein Gnýs:
"Í kerfisáætlun má m.a. finna langtímaáætlun um nýja kynslóð byggðalínu. Hún verður byggð úr stálmöstrum, sambærilegum þeim, sem byggð voru á NA-landi [Þeistareykjalínur-innsk. BJo], sem síður brotna þrátt fyrir ísingu, og mun hafa flutningsgetu, sem fullnægir þörfum landsins næstu áratugina. [Það er mikilvægt, að hægt verði án línutakmarkana að flytja orku á milli landshluta eftir Byggðalínu til að jafna stöðu í miðlunarlónum, því að innrennsli er misskipt í þau frá ári til árs eftir landshlutum - innsk. BJo.]
Þegar verkefninu verður lokið, verða virkjanakjarnar í mismunandi landshlutum samtengdir með fullnægjandi tengingum, og þannig minnka líkur á, að einstök svæði verði rekin í s.k. eyjarekstri og þar með í hættu á að verða fyrir straumleysi við truflun. Einnig mun ný kynslóð byggðalínu gefa nýjum framleiðsluaðilum víða á landinu færi á að tengjast kerfinu og auka þannig skilvirkni og afhendingaröryggi enn frekar."
Með nýjum framleiðsluaðilum á Gnýr sennilega við smávirkjanir og vindmyllugarða, en hængurinn á tengingu þeirra er í mörgum tilvikum hár tengingarkostnaður vegna fjarlægðar. Viðbótar kostnaðurinn lendir á virkjunaraðilum, en samkvæmt Orkupakka #4 á Landsneti.
Það er brýnt að flýta framkvæmdum Landsnets frá því, sem miðað er við í núgildandi kerfisáætlun, þannig að ný 220 kV lína frá Klafastöðum (Brennimel í Hvalfirði) til Fljótsdalsvirkjunar verði tilbúin í rekstur fyrir árslok 2025. Til að hindra að sú flýting valdi hækkun á gjaldskrá Landsnets er eðlilegt, að arður af Landsvirkjun fjármagni flýtinguna. Alþingismenn þurfa að beita sér fyrir þessu á vorþingi 2020, sjá tilvitnanir í tvo stjórnarþingmenn í lok pistils.
"En uppbygging meginflutningskerfis dugir ekki ein og sér til að tryggja afhendingaröryggi. Samkvæmt stefnu stjórnvalda eiga allir afhendingarstaðir [Landsnets-innsk. BJo] í landshlutakerfum að vera komnir með tvöfalt öryggi eigi síðar en árið 2040 (N-1).
Eins og staðan er í dag, eru þó nokkrir afhendingarstaðir í flutningskerfinu, þar sem ekki er um að ræða tvöfalt öryggi, m.a. á Norðurlandi, en einnig á Austurlandi, Vestfjörðum og á Snæfellsnesi. Kerfisáætlun Landsnets hefur m.a. tekið mið af þessari stefnu, og í framkvæmdaáætlun má finna áætlun um tvítengingar hluta af þessum afhendingarstöðum. Má þar nefna Sauðárkrók, Neskaupstað og Húsavík, en aðrir staðir eru einnig á langtímaáætlun, s.s. Dalvík, Fáskrúðsfjörður og sunnanverðir Vestfirðir."
Það er allt of mikill hægagangur í stefnu stjórnvalda við að tvöfalda orkumötun inn að þéttbýlisstöðum, þ.e. að gera rafmagnsflutninginn innan landshlutakerfa að (n-1) kerfi (hringtenging). Þá má önnur fæðingin detta út án þess, að neytendur verði þess varir. Stjórnvöld ættu tafarlaust að breyta markmiðinu um þessa tvítengingu úr 2040 í 2030 og fjármagna flýtinguna, eins og hina, með vaxandi arði af starfsemi Landsvirkjunar. Allir þessir notendur rafmagns, sem hér um ræðir, eiga fullan rétt á því að sitja við sama borð og aðrir landsmenn með tvítengingu frá stofnkerfi rafmagns, og það er skylda stjórnvalda, að gera raunhæfar ráðstafanir til að koma því í kring. Alþingi verður að koma orkuráðherranum í skilning um þetta og/eða styðja við bakið á henni til að svo megi verða á einum áratugi frá jólaföstuóförunum 2019.
Sem dæmi má nefna, að á Dalvík og á sunnanverðum Vestfjörðum á sér stað mikil og vaxandi verðmætasköpun, þar sem fjárfest hefur verið í milljarðavís ISK í atvinnutækjum. Að bjóða íbúum og fyrirtækjum þessara staða upp á bið í allt að tvo áratugi eftir viðunandi rafmagnsöryggi er óásættanlegt, og Alþingi hlýtur að vera sama sinnis. Þingmenn, sem hafna þessari flýtingu, geta varla horft framan í kjósendur í NV- og NA-kjördæmi í næstu kosningabaráttu.
"Kostnaður við lagningu jarðstrengja á 66 kV spennu er á pari við loftlínur, og lagning 66 kV jarðstrengja er víðast hvar tæknilega möguleg. Þó eru svæði, þar sem skammhlaupsafl er það lágt, að ekki er unnt að leggja allar nýjar 66 kV línur í jörðu, og er bygging loftlínu því óhjákvæmileg á þeim svæðum."
Á Vestfjörðum er einmitt ein af orsökum ónógra spennugæða m.v. þarfir nútíma tækjabúnaðar og mikillar sjálfvirkni í atvinnurekstri, að skammhlaupsafl raforkukerfis Vestfjarða er lágt. Það stafar af langri 132 kV geislatengingu við stofnkerfi landsins og fáum og litlum virkjunum á svæðinu. Það er auðvelt að bæta úr hinu síðarnefnda, því að hagkvæmir virkjanakostir finnast á Vestfjörðum, og er a.m.k. einn þeirra kominn í nýtingarflokk Rammaáætlunar og er þegar í undirbúningi. Það er brýnt að virkja sem mest af virkjanakostum í Rammaáætlun á Vestfjörðum. Þar með eru slegnar a.m.k. tvær flugur í einu höggi. Skammhlaupsaflið vex þá nægilega mikið til að hægt sé að færa allar loftlínur Vestfjarða í jörðu, og afhendingaröryggi raforku eykst til mikilla muna án þess að þurfa að grípa til olíubrennslu í neyðarrafstöðinni á Bolungarvík.
Það er vaxandi skilningur á Alþingi fyrir því, að núverandi áform stjórnvalda um uppbyggingu raforkukerfis landsins taka allt of langan tíma. Sigurður Bogi Sævarsson birti frétt í Morgunblaðinu 27. desember 2019 undir yfirskriftinni:
"Þjóðaröryggi í orkumálum verði tryggt".
Hún hófst þannig:
"Endurskoða þarf löggjöf á Íslandi, þar sem helztu innviðir samfélagsins eru greindir og staða þeirra tryggð m.t.t. þjóðaröryggis. Vegir, brýr, virkjanir, flugvellir og fjarskipti geta fallið undir þessa löggjöf og síðast en ekki sízt flutningskerfi raforku.
Þetta segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem eftir nýárið ætlar að óska eftir skýrslu frá stjórnvöldum um stöðu þessara mála. Sé ástæða til, megi leggja fram lagafrumvarp um málið."
Gríðarleg og vaxandi verðmætasköpun á sér stað á þeim landssvæðum, sem urðu fyrir rafmagnstruflunum á jólaföstu 2019. Það er ein af forsendum frekari fjárfestinga þar, að nægt raforkuframboð og afhendingaröryggi þess til jafns við Suð-Vesturlandið verði tryggt. Það er jafnframt réttur íbúanna. Það má skoða þetta í samhengi við fína grein Jóns Gunnarssonar, ritara og þingmanns Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, í Fréttablaðinu, 20. nóvember 2019,
"Nei, er svarið".
Hún hófst þannig:
"Tækifæri okkar í uppbyggingu verðmætasköpunar, sköpun nýrra og fjölbreyttari starfa í tengslum við öfluga byggðaþróun, eru mikil. En stefnu- og aðgerðarleysi okkar í raforkumálum ásamt heimatilbúnum erfiðleikum við uppbyggingu dreifikerfis raforku gerir það að verkum, að fjölmörg tækifæri fara forgörðum eða eiga mjög erfitt uppdráttar."
Ritari Sjálfstæðisflokksins finnur, hvar skórinn kreppir, og veit, hvað þarf til að koma stöðunni í viðunandi horf. Það er ástæða til að ætla, að sama eigi við um meirihluta þingheims. Nú er hagkerfið staðnað og þar af leiðandi vaxandi atvinnuleysi. Til að brjótast út úr stöðnuninni þarf að hefjast handa sem fyrst við virkjanir, sem komnar eru vel á veg í undirbúningi, setja aukinn kraft í styrkingu flutnings- og dreifikerfa raforku og bæta samgöngukerfi landsins, í þéttbýli og í dreifbýli, af nýjum þrótti. Til að viðhalda samkeppnisstöðu landsins dugar ekki að láta innviðina grotna niður.
26.12.2019 | 14:34
Innviðabrestir og nútímaþjóðfélag fara ekki saman
Tæknivætt nútímasamfélag reiðir sig algerlega á tæknilega innviði landsins. Ef þeir bresta, verður stórtjón, og af geta hlotizt slys. Ofmat á áreiðanleika innviða er jafnframt stórhættulegt og leiðir til rangra fjárfestinga með óþarfa áhættu fyrir fólk og fyrirtæki. Sem dæmi er lítið hald í að aflfæða þorp úr tveimur áttum, ef báðar eru frá sömu aðveitustöð í núverandi Byggðalínu. Hún var í upphafi (1974-1976) af vanefnum gerð í tímaþröng til að tengja byggðir Norðurlands, sem orkuskortur blasti við, með sem skjótvirkustum hætti við virkjanir sunnanlands, aðallega Akureyri með viðkomu í Varmahlíð í Skagafirði, á Laxárvatni í Húnaþingi, í Hrútatungu í Hrútafirði og í Vatnshömrum í Borgarfirði. Árið 1978 var Austurland tengt við Byggðalínu um aðveitustöð á Hryggstekk í Skriðdal. Tjaldað var til einnar nætur með stöðugleika, flutningsgetu og veður- og seltuþol, og sofnuðu menn Þýrnirósarsvefni og sváfu þannig við ljúfan undirleik Landverndar o.fl. í næstum hálfa öld. Veturinn 2019 voru menn vaktir upp með andfælum, en hvað svo ?
Fyrir vikið skipta uppsafnaðar tapaðar tekjur af völdum orkuvöntunar, t.d. í Eyjafirði, tugum milljarða ISK, og tjónið af völdum straumleysis sömuleiðis. Tjónið af völdum óveðurs og straumleysis á landinu 10.-12. desember 2019 má að töluverðu leyti rekja til veikleika í þessari löngu úreltu 132 kV Byggðalínu. Í heildina gæti þetta óveðurstjón numið mrdISK 5,0.
Það er því eftir miklu að slæðast að hámarka afhendingaröryggi raforku á landinu öllu, ekki sízt frá meginflutningskerfinu, hringtengingunni, sem nú er rekin á 132 kV, ásamt Vesturlínu á sömu spennu. Að velja dýrasta kostinn, sem er 220 kV jarðstrengur alla leið með spóluvirkjum á leiðinni til að vinna gegn rýmdarvirkni jarðstrengs á þessari spennu, er þó ekki þjóðhagslega hagkvæmasti kosturinn. Til þess er hann of dýr m.v. næstdýrasta kostinn og sparnaðurinn vegna minni rekstrartruflana of lítill m.v. hann. Slík jarðstrangslausn kostur kostar e.t.v. 300 MISK/km með spóluvirkjum (að aðveitustöðvum meðtöldum).
Lækkun tjónkostnaðar með jarðstrengslausn er væntanlega lítil m.v. að reisa Byggðalínu sem 400 kV loftlínu og reka hana á 220 kV. Hefðbundnar 220 kV línur hafa ekki staðið sig nógu vel gagnvart seltu sunnanlands, og sama verður vafalaust uppi á teninginum í Byggðalínu. Hins vegar hafa 400 kV línur staðið sig mjög vel, og þær eru ekki yfirskot, eins og sannaðist á Hallormsstaðahálsi á jólaföstu 2019, en þar eru nú 2 af 5 slíkum línum á landinu. Kostnaðarmunur á þeim og hefðbundnum 220 kV línum er innan við 20 MISK/km. Á innan við 20 árum myndi minni tjónkostnaður vega upp þennan fjárfestingarmun. Þess vegna er hann þjóðhagslega hagkvæmastur. Það verður að leggja áherzlu á það, að ekki verði nú tekin ákvörðun á grundvelli þess, sem hagkvæmast er fyrir orkufyrirtækin, því að þá verður ódýrarari og of óáreiðanleg útfærsla valin, heldur ber að velja lausn að teknu tilliti til tjóns almennings, heimila og fyrirtækja, sem forðast má með traustari lausn. Það heitir að láta almannahagsmuni ráða og velja þjóðhagslega hagkvæmustu lausnina.
Vestfirðir voru sér á báti í þessu straumleysisveðri. Vesturlína gaf sig sem endranær í óveðrum og ætti Landsnet að undirbúa endurbætur á línunni með jarðsetningu og/eða styrkingu, þar sem reynslan sýnir, að bilunarhættan er mest. Olíuknúin neyðarrafstöð á Bolungarvík, sem ætlað er að koma í stað Vestfjarðatengingar nr 2 við stofnrafkerfi landsins, var ræst og mun hafa gengið hnökralítið, þar til Vesturlína komst aftur í gagnið, þegar veðrinu slotaði.
Samt sem áður drápust 400 þúsund laxaseyði á Tálknafirði vegna súrefnisleysis, en sjókvíarnar héldu, reyndar alls staðar á landinu. Þegar spennuflökt er á orkufæðingunni, er alltaf hætta á, að dæluhreyflar dragi of mikinn straum, svo að varnarbúnaður þeirra rýfur hreyfilinn frá rafkerfinu. Þetta tjón er mikið og tilfinnanlegt, því að það er hörgull á laxaseyðum í landinu, sem reyndar stendur laxeldinu fyrir þrifum sem stendur. Fiskeldið þarfnast stöðugleika rafkerfisins, sem ekki fæst með loftlínum á Vestfjörðum.
Að sjókvíar fiskeldisfyrirtækjanna á Vestfjörðum og Austfjörðum skyldu standa af sér óveðrið 10.-12. desember 2019, sýnir, að þessar kvíar eru orðnar miklu traustari en áður, enda hafa fiskeldisfyrirtækin innleitt ströngustu staðla um búnað, rekstur og viðhald, í Evrópu, að fordæmi nýrra fjárfesta í greininni. Sannast þar enn, að öflugir erlendir fjárfestar koma með nýja verkþekkingu, öryggiskröfur og stjórnunarhætti til landsins, sem annar atvinnurekstur dregur síðan dám af. Vestfirðingar og Austfirðingar hafa af þessu langa (bráðum tveggja alda) og góða reynslu. Þetta var síðast staðfest í viðtali Morgunbaðsins 13. desember 2019 undir fyrirsögninni:
"Eldisfyrirtæki vel undirbúin":
"Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis á Austfjörðum, sem ræktar lax í sjókvíum á Reyðarfirði, segir, að sjóbúnaður félagsins sé hannaður til að standa af sér mjög vond veður. "Kvíarnar geta staðið af sér 7-8 m ölduhæð, mun meira en það, sem gekk á núna í vikunni. Einu áhrifin, sem veðrið hafði, voru, að það var ekki hægt að fara með fisk til slátrunar frá Reyðarfirði og til Búlandstinds á Djúpavogi í 2 daga", segir Jens í samtali við Morgunblaðið."
Laxeldi og öll þjónustustarfsemin í kringum það ásamt orkuskiptum krefjast þess, að virkjað verði á Vestfjörðum. Það er bæði vegna mjög aukinnar raforkuþarfar og nútímakrafna um raforkugæði. Þar eru vatnsaflskostir, sem ber að nýta strax í þessu augnamiði til að þjóna vaxandi orkuþörf Vestfjarða og auknum kröfum til afhendingaröryggis raforku, um leið og 66 kV kerfi og lægri spennustig landshlutans eru færð í jörðu. Við þetta þurfa Landsnet og Orkubú Vestfjarða með tilstyrk ríkisins (með arði frá orkusölu) að láta hendur standa fram úr ermum. Þróun innviðanna má ekki standa þróun athafnalífsins fyrir þrifum lengur. Flutningskerfi rafmagns, þjóðvegir og fjarskiptakerfi eiga löggjafarlega og skipulagslega að vera ríkismálefni. Með nútímalegri virkjanatilhögun samkvæmt Rammaáætlun Alþingis verður fórnarkostnaður (vegna minni ósnertra víðerna) mun minni en ávinningurinn.
Fiskeldi er hlutfallslega öflugasti vaxtarsproti íslenzka hagkerfisins um þessar mundir. Söluandvirði afurða fiskeldis hérlendis árið 2019 verður rúmlega mrdISK 20, og á 10 árum er búizt við rúmlega ferföldun upp í mrdISK 85, og á 20 árum er búizt við tæplega fjórtánföldun upp í mrdISK 270 samkvæmt hugmyndum Sjávarklasans. Það er leitun að grein með viðlíka vaxtarvæntingar. Þetta gæti verið reist á væntingum um 200 kt/ár framleiðslu af laxi 2040 og verðinu 1350 ISK/kg að núvirði. Vestfirðir gætu hugsanlega staðið undir helmingnum af þessu, hugsanlega með úthafseldi í bland við hefðbundið sjókvíaeldi, en aðeins með öflugum innviðum. Ríkinu ber að greiða götu þeirra.
Ástæða áætlaðrar verðhækkunar (70 %) er sú, að búizt er við skorti á próteinum á markaðinum vegna fólksfjölgunar og rýrnandi fiskveiða, vegna ofveiði, og landbúnaðar vegna rýrnandi jarðvegs af völdum ósjálfbærrar ræktunar (ofnýtingar rætarlands). Þess vegna muni verð á kjöti og fiski hækka mun meira en almennt verðlag.
Síðan er ný tækni að ryðja sér til rúms innan laxeldisins, þar sem er úthafseldi í enn stærri og öflugri kvíum en fjarðakvíarnar eru, sem innbyrða tífalt magn af fiski eða 10 kt og þola mikla ölduhæð. Talið er, að burðarþol íslenzkra fjarða, þar sem laxeldi er leyfilegt, sé 150 kt/ár. Þá þyrfti 7 úthahafskvíar til að komast upp í 200 kt/ár og 270 mrdISK/ár. Einhverjar mætti hugsanlega staðsetja úti fyrir Vestfjörðum, aðrar úti fyrir Austfjörðum, og myndu Vestmannaeyingar ekki einnig hafa hug á slíkum rekstri í framtíðinni ?
Íslenzk yfirvöld hljóta að vera farin að huga að svæðum fyrir úthafskvíar. Þar er að mörgu að hyggja, og fljótt á litið virðist grennd við Vestmannaeyjar koma til greina og einnig úti fyrir núverandi laxeldisfjörðum. Norsk yfirvöld hafa þegar tekið frá 25 kkm2 (fjórðung flatarmáls Íslands) fyrir úthafskvíar. Í þeim er minni hætta á laxalús og enn minni hætta á erfðablöndun við villta laxa, og sterkari straumar en í fjörðunum hindra uppsöfnun úrgangs. Þar þarf þess vegna ekki að "hvíla svæði".
Í 200 mílum Morgunblaðsins, 20. desember 2019, var gerð grein fyrir þessu og birt viðtal við Friðrik Sigurðsson, ráðgjafa á sviði fiskeldis og sjávarútvegs hjá norska fyrirtækinu INAQ:
"Aðstæður til laxeldis á Íslandi eru svipaðar og í Norður-Noregi og framleiðslukostnaður í sjó ekki ósvipaður og þar. Aftur á móti er kostnaðurinn mun hærri á Íslandi, þegar kemur að því að taka laxinn úr kvíunum, slátra honum og koma á markað erlendis, en í krafti stærðarhagkvæmni er vinnslu- og flutningsgeta norska laxeldisins allt önnur og kostnaðurinn lægri."
Í ljósi þessa er tvennt áhyggjuefni. Leyfisveitingaferlið hérlendis fyrir starfs- og rekstrarleyfi í íslenzkum fjörðum, sem löggjafinn þó hefur afmarkað fyrir laxeldi, er torsótt og hægvirkt, eins og fyrir annars konar framkvæmdir. Stjórnmálamenn verða að gera sér grein fyrir, að með torsóttu leyfisveitingaferli fyrir framkvæmdir er verið að draga úr fjárfestingarhvata, sem er neikvætt fyrir lífskjörin til skamms og langs tíma. Þetta hefur tafið nýja verðmætasköpun hérlendis og þar með veikt vaxtarsprota, þegar grein á borð við laxeldið ríður á að vaxa skjótt fiskur um hrygg.
Að Hafrannsóknarstofnun skuli hafa dregið lappirnar í Ísafjarðardjúpi, er skrýtið m.v. aðstæður þar. Er vitað um einhverja sjálfstæða innlenda laxastofna þar, eða eru þeir aðfluttir ? Líkindi á skaðlegri erfðablöndun í Ísafjarðardjúpi verða hverfandi með nútíma tækni og skaðlegar afleiðingar stroks úr kvíum nánast engar. Því ber að leyfa að hefja sjókvíaeldi þar í áföngum á grundvelli umhverfismats og reynslu af áföngunum.
Þá er farið offari við álagningu auðlindagjalds á greinina, þegar heildarsölutekjur á kg í ágúst-október eru lagðar til grundvallar árið eftir. Fyrir grein í miklu uppbyggingarferli er þessi skattheimta varasöm. Eðlilegra er að leggja framlegðina (EBITDA) til grundvallar og gæta þess, að ekki sé tekið meira en 5,0 % af henni í auðlindagjald.
Vonandi mun markaðssetning íslenzks laxeldis verða sem mest reist á fullvinnslu í neytendapakkningar. Þá munu fást svipuð verð og Færeyingar fá fyrir sín tæplega 90 kt/ár, því að heilbrigði eldisfisksins hér er tiltölulega gott. Þá þarf hérlendis öflug fóðurframleiðsla, eins og í Færeyjum, að komast á legg.
Friðrik Sigurðsson hélt áfram:
""Við erum að komast á það stig, að umgjörðin fyrir hefðbundið fiskeldi á Íslandi sé jafnlangt á veg komin og í Noregi, en því miður hefur kunnáttuleysi íslenzkra stjórnvalda litað umhverfi greinarinnar. Stjórnvöld þurfa líka, fyrr en síðar, að marka stefnu um úthafseldi með aðkomu hagsmunaaðila og rannsóknarstofnana, þar sem m.a. væri gætt vandlega að líffræðilegum og umhverfislegum þáttum og þess freistað að greina, hvaða svæði myndu henta bezt til að stunda úthafseldi, s.s. m.t.t. hrygningarsvæða, verðmætra fiskstofna og áhrifa á viðkvæm haf- og botnsvæði á borð við kóralrif", segir Friðrik og bendir á, að sennilega myndu úthafskvíarnar þurfa að vera sunnan og austan við landið, svo að lítil sem engin hætta yrði á skemmdum af völdum hafíss. "Eins þarf að taka með í reikninginn, að úthafseldið falli vel að umferð bæði fiskiskipa og vöruflutningaskipa, svara ýmsum hafréttarlegum spurningum og greina, hvort úthafseldið gæti haft áhrif á fiskveiðar.""
Það er leitt til þess að vita, að þekking á fiskeldi skuli vera af skornum skammti í atvinnuvegaráðuneytinu. Þar verða menn að hrista af sér slyðruorðið og marka strax stefnuna til að greiða götu laxeldisins til vaxtar í samræmi við burðarþol og faglega unnið umhverfismat. Strax á næsta ári (2020) þarf að leggja línuna fyrir úthafseldið, eins og Norðmenn hafa þegar gert. Það er óþarfi að finna upp hjólið.
Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi Alþingismaður, er öllum hnútum kunnugur um fiskeldið. Hann skrifaði grein í Fréttablaðið 4. desember 2019 undir fyrirsögninni:
"Að spila lottó með sannleikann":
"Landssamband veiðifélaga berst gegn uppbyggingu á laxeldi í sjó. Erlendir auðkýfingar hafa keypt laxveiðiréttindi og jarðir hér á landi og vinna leynt og ljóst gegn atvinnuuppbyggingunni. Stjórnvöld hafa frá upphafi verið varkár gagnvart sjókvíaeldinu. Laxeldið er aðeins leyft á afmörkuðum svæðum, einkum á Vestfjörðum og Austfjörðum. Annars staðar er það bannað. Það er gert til að vernda innlenda laxastofna fyrir mögulegri blöndun við eldisstofninn, sem er upprunalega norskur. Uppbygging sjókvíaeldisins hefur að öllu leyti fylgt þessum ráðstöfunum."
"Laxveiði í vestfirzkum ám er lítil og tekjur óverulegar. Enda er það ástæða þess, að laxeldið var leyft á Vestfjörðum. Tekjur af allri stangveiði í landinu eru aðeins 4,9 milljarðar króna á ári. Það er því ólíku saman að jafna framlagi þessara tveggja atvinnugreina til lífskjara íslenzku þjóðarinnar. Nái Landssamband veiðifélaga markmiði sínu og kæfi í fæðingu laxeldi á Íslandi, verða afleiðingarnar alvarlegar, og almenningur fer á mis við mjög bætt lífskjör á næstu árum."
Landssamband veiðifélaga reisir andstöðu sína við laxeldið í sinni núverandi mynd á rangri áhættugreiningu. Þar koma við sögu úrelt líkindi á stroki úr sjókvíunum og öfgakennd hugmynd um afleiðingarnar. Í fyrsta lagi ná ekki allir stroklaxar upp í árnar; í öðru lagi tekst ekki alltaf hrygning hjá þeim og í þriðja lagi kemur náttúrulegt úrval í veg fyrir, að varanleg erfðablöndun eigi sér stað. Þess vegna hefur hingað til engin merkjanleg erfðablöndun átt sér stað af völdum sjókvíaeldis hérlendis.
Samanburður við Noreg er út í hött. Norðmenn eru á hverjum tíma með um 1,0 Mt (milljón tonn) af eldislaxi í kvíum úti fyrir helztu laxveiðiám Noregs og voru um 40 ára skeið með mun veikari útbúnað, minna regluverk og slappara eftirlit en nú er við lýði.
"Rökin gegn laxeldinu eru veik. Umhverfismengun er lítil. Kolefnisspor er lágt. Hvergi á Íslandi hafa laxastofnar spillzt eða eyðilagzt vegna blöndunar við eldislax. Þrátt fyrir langvarandi markvissa blöndun innlendra stofna í fjölmörgum laxveiðiám um langt árabil á vegum veiðiréttarhafa, er ekki talin ástæða til að hafa áhyggjur af varanlegri erfðablöndun."
Í ljósi þessara upplýsinga, sem voru kunnar, að veiðiréttarhafar hafa staðið fyrir tilraunastarfsemi með erfðaeiginleika í íslenzkum laxveiðiám, virðast þeir vissulega kasta steinum úr glerhúsi, þegar þeir stunda áróður gegn laxeldi á afmörkuðum svæðum hérlendis í nafni hreinleika íslenzkra laxastofna. Einhver mundi ávinna sér hræsnaraheitið af minna tilefni.
"Blöndun milli eldisfiska og villtra á sér stað, en til þess að áhrifin leiði til varanlegra breytinga, þarf hún að vera mjög víðtæk og langvarandi. Annars ganga áhrifin til baka tiltölulega fljótt fyrir tilstilli náttúruúrvalsins."
Erfðafræðin virðist ekki leika í höndum þeirra veiðiréttarhafa íslenzkra laxveiðiáa, sem harðast hafa gengið fram í gagnrýni sinni á laxeldi í sjókvíum. Þeim væri sæmst að láta af árásum sínum og gera þess í stað hreint fyrir sínum dyrum um það, sem kalla má fikt þeirra með blöndun laxastofna í laxveiðiám landsins.
Að lokum fylgir hér tilvitnun í grein Kristins H. Gunnarssonar um, að sífelldar vísanir veiðiréttarhafa til Noregs varðandi áhættuna hérlendis séu úr lausu lofti gripnar:
"Jón Helgi Björnsson vísar til laxeldis í Noregi og setur fram fullyrðingar um laxeldið þar. Þar er ólíku saman að jafna. Norskt laxeldi er um 100 sinnum umfangsmeira, og staðsetning eldiskvía þar er víða nálægt gjöfulum laxveiðiám. Því er mun meiri hætta á varanlegri erfðablöndun í Noregi en á Íslandi. Laxeldið er bannað á Íslandi nálægt öllum helztu laxveiðiám landsins. Á Vestfjörðum er nánast engin laxveiði. Það er ekki hægt að draga ályktanir af stöðu í Noregi og færa þær óbreyttar yfir á Ísland."
Ákvörðun Alþingis á sinni tíð um mjög miklar landfræðilegar takmarkanir á staðsetningu laxeldis í sjókvíum átti að þjóna sátt á milli hagsmunaaðila um þessa tiltölulega nýju atvinnugrein. Öll þróun síðan þá hefur verið til minni áhættu við þessa starfsemi. Það er mest að þakka nýjum fjárfestum í laxeldinu hérlendis, sem hafa mikla þekkingu til að bera bæði á starfseminni og markaðssetningunni. Þessi atvinnustarfsemi er hreinlega að umbylta samfélaginu á Vestfjörðum til hins betra og tryggja sess Vestfirðinga í nútímasamfélaginu. Svo sterkt er ekki hægt að kveða að orði um austfirzkt laxeldi, þar sem þar var sums staðar fyrir öflugt atvinnulíf, en laxeldið þar hefur þó þegar reynzt byggðum í vörn öflug kjölfesta.
Þessi öfluga atvinnugrein, sem getur hæglega orðið ein af kjöfestu útflutningsatvinnugreinunum og að 20 árum liðnum skapað svipaðar útflutningstekjur og málmiðnaðurinn núna, sem stundum er kallaður orkukræfi iðnaðurinn. Grundvallarþörf beggja þessara greina er stöðugleiki. Þær gera báðar miklar kröfur til raforkugæða, og þær, ásamt fólkinu, sem þar starfar, á sama rétt til raforkugæða og þau fyrirtæki og fólk, sem nú býr við beztu raforkugæðin á landinu. Það á ekki að slá af þeim kröfum. Þær eru bæði tæknilega og fjárhagslega raunhæfar. Vönduð vinnubrögð eru allt, sem þarf. Fúsk er aldrei fýsilegur kostur.
18.12.2019 | 11:34
Að halda hlýnun undir 2°C er ekki hægt úr þessu
Samkvæmt reiknilíkani IPCC er tómt mál úr þessu að tala um að takmarka hlýnun andrúmslofts við 1,5°C-2,0°C, eins og stefnumörkun Parísarsamkomulagsins 2015 hljóðaði upp á. Ástæðan er sú, að árlega hefur losun á heimsvísu aukizt um 1,5 % síðan þá og nemur nú 43 mrdt/ár CO2. Þá gengur hvorki né rekur að þróa viðunandi tækni við að fjarlægja koltvíildi úr andrúmsloftinu, en á næstu 80 árum þarf að fjarlægja mrdt 730 af CO2 úr andrúmsloftinu samkvæmt miðgildi útreikninga IPCC, og einnig að minnka árlega losun um 7,6 % á hverju ári, þar til nettó-losun verður engin. M.v. undirtektir á alþjóðlegri loftslagsráðstefnu í desember 2019, COP 25, næst þessi minnkun losunar ekki á næstunni.
Afköstin við að fjarlægja CO2 eru nú aðeins um 40 Mt/ár eða 0,4 % af því, sem nauðsyn er samkvæmt IPCC. Öll þessi barátta er vonlaus, eins og barátta Don Kíkóta við vindmyllurnar var á sinni tíð. Skynsamlegra er að veita fé í aðlögun að hlýnun um 3°C til viðbótar við hlýnunina frá kuldaskeiði "Litlu ísaldar" (0,8°C), t.d. með því að búa innviði landsins undir meiri öfgar í veðurfari, sem okkur er sagt, að búast megi við. Forsætisráðherra sagði á Alþingi 17.12.2019, að búast mætti við óveðri eins því, sem hrjáði norðanvert landið 10.-12. desember 2019, á 10 ára fresti.
Samkvæmt þekktum lotubundnum hitastigssveiflum á jörðunni mun samt e.t.v. á þessu árþúsundi kólna aftur mun meir en þessari hlýnun nemur. Til lengri tíma verður þá kuldinn skæðari óvinur lífs á norðurhveli en hitinn.
Morgunblaðið hefur gert góða grein fyrir straumum og stefnum í loftslagsmálum, og þann 27. nóvember 2019 flutti það frétt undir ískyggilegri fyrirsögn:
"Losunin eykst enn og nú stefnir í 3,2 stiga hlýnun":
"Ríki heims missa af tækifærinu til að koma í veg fyrir mjög alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga, ef ekki verður gripið til tafarlausra aðgerða til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda að því, er fram kemur í nýrri skýrslu Umhverfisverndarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNEP.
Stofnunin segir, að losun gróðurhúsalofttegunda þurfi að minnka um 7,6 % að meðaltali á hverju ári til 2030 til að koma í veg fyrir, að hlýnun jarðar verði meiri en 1,5°C m.v. áætlaðan hita á jörðinni fyrir iðnbyltinguna. Sú blákalda staðreynd blasi hins vegar við, að losunin hafi aukizt að meðaltali um 1,5 % á ári á síðustu 10 árum."
Af viðbrögðum þjóða heims við ákalli UNEP má ráða, að ekki sé tekið fullt mark á þeirri stofnun, eða aðrir hagsmunir þjóðanna vega þyngra. Hvað þýðir það á heimsvísu að draga úr losun CO2 um 7,6 %/ár ? Það jafngildir 3,3 mrdt/ár CO2 (3,3 milljörðum tonna á ári) eða bruna um 1 mrdt af kolum. Þetta nemur um 13 % af kolabruna á heimsvísu. Í ljósi þess, að kolabrennsla á heimsvísu jókst um 0,9 % árið 2018 (um 70 Mt), er algerlega óraunhæft að búast við nokkrum samdrætti á næstu 5-10 árum í námunda við það, sem UNEP telur nauðsynlegt til að halda hlýnun innan 2°C.
"Umhverfisverndarstofnun SÞ segir, að jafnvel þegar loforð aðildarríkja samningsins séu tekin með í reikninginn, stefni í, að hlýnunin verði 3,2°C. Vísindamenn hafa sagt, að svo mikil hlýnun hafi mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðir heims. Stofnunin sagði, að þótt horfurnar væru slæmar, teldi hún enn mögulegt að ná því markmiði, að hlýnunin yrði ekki meiri en 1,5°C, en viðurkenndi, að til þess þyrfti að gera fordæmalausar breytingar á hagkerfi heimsins, sem byggðist enn að miklu leyti á notkun olíu og jarðgass."
Þetta er skrýtinn texti, þar sem versta mengunarvaldinum, kolunum, er sleppt. Að hjá Umhverfisstofnun SÞ skuli enn vera talið, að unnt sé að halda hlýnun undir 2°C m.v. 1850, bendir til, að þar á bæ treysti menn ekki hlýnunarlíkani IPCC, sem reist er á áhrifum gróðurhúsalofttegundanna á hitastig lofthjúpsins.
Ari Trausti Guðmundsson, Alþingismaður, hefur tjáð sig um loftslagsmál og gerði það t.d. í Morgunblaðinu 11. nóvember 2019 í grein sinni:
"Olía og gas - nei, enn einu sinni".
Hún hófst þannig:
"Til þess að ná því mikilvæga markmiði að halda aftur af hlýnun loftslagsins og jafnvel snúa þróuninni þarf að ríghalda í ákveðið markmið: Aðeins má vinna og nota 30 %-40 % þekktra birgða í jörð af kolum, olíu og gasi. Um þetta er þarflaust að deila."
Þetta er engin röksemdafærsla hjá þingmanninum, sem slær þarna fram fullyrðingu, sem honum væri í lófa lagið að sanna á grundvelli kenninga IPCC. Hvers vegna er þarflaust að deila um það, að ekki megi brenna meiru en 30 % -40 % af þekktum birgðum kola, olíu og jarðgass ? Þessi framsetning hangir í lausu lofti hjá þingmanninum.
Þekktar birgðir þessa eldsneytis eru u.þ.b. 1500 mrdt olíujafngildi, sem myndu gefa frá sér meira en 4600 mrdt koltvíildi við bruna. Þriðjungurinn nemur um 1500 mrdt CO2 út í andrúmsloftið. Það eru 35 ár með núverandi losun og tvöfalt gildið, sem IPCC telur, að draga þurfi út úr andrúmsloftinu til næstu aldamóta til að halda hlýnun innan 2°C markanna frá 1850 eða hækkun um 1,2°C frá núverandi meðalhitastigi andrúmslofts jarðar.
Ef Ari Trausti Guðmundsson heldur, að óhætt sé að brenna svona miklu jarðefnaldsneyti, þá er hægt að álykta, að hann telji líkan IPCC ofáætla stórlega hlýnun andrúmslofts af völdum koltvíildis. Það gætir víða tvískinnungs í þessari lofthjúpsumræðu.
Á grundvelli þess, sem hér hefur verið tínt til um forða jarðefnaeldsneytis, en ekki á grundvelli greinar Ara Trausta, er þó hægt að samþykkja meginboðskapinn í grein hans, sem er þessi:
"Íslendingar eiga að hafna því að opna á mögulega vinnslu olíu og gass við Jan Mayen. Gildir einu, þótt hagnast megi á henni."
Það eru bæði siðferðileg, pólitísk, umhverfisleg og efnahagsleg rök, sem mæla með þessari höfnun. Með því leggjum við okkar litla lóð (max mrdt 10 (6 % af ol.)af áætluðum forða 168 mrdt af olíu og 200 mrdt af gasi) á vogarskálar þess, að stigið verði á bremsur nýtingar þekkts olíu- og gasforða með þróun kolefnisfrírra orkugjafa, við tökum mjög sjaldgæft skref á meðal ríkja, sem ráða yfir lindum jarðefnaeldsneytis, við tökum ekki áhættu af mengunarslysi af eldsneytisvinnslu í íslenzkri efnahagslögsögu, og við tökum enga fjárhagsáhættu vegna uppbyggingar dýrra innviða vegna vinnslu, sem kannski verður aldrei arðsöm. Fyrir arðsemi þarf olíuverð sennilega að fara yfir 80 USD/tu.
10.12.2019 | 15:14
Gefið hefur á bátinn, en áfram siglir hann þó
Nú eru rúmlega 7000 manns á atvinnuleysisskrá eða um 4 % af vinnuaflinu og enn hærra hlutfall af starfsmannafjölda einkageirans, en atvinnuleysingjar koma að langmestu leyti þaðan. Svo margir hafa ekki verið án atvinnu hérlendis síðan 2012, sem vitnar um aðlögun atvinnulífsins að tekjutapi og hækkandi kostnaði, þótt verðbólga sé blessunarlega lág.
Allir höfuðatvinnuvegirnir eiga við erfiðleika að stríða, en mismikla. Meðalhagvöxtur heimsins fer minnkandi og er rétt ofan við núllið í Evrópu. Bloomberg metur líkur á samdrætti í stærsta hagkerfi heims á tímabilinu desember 2019-nóvember 2020 vera 26 % og lækkandi, þrátt fyrir íþyngjandi tollastríð Bandaríkjanna (BNA) og Kína. Bandaríkjaforseti skekur enn tollavopnið, en hann virðist halda, að hægt sé að beita því "to make America great again", en Bandaríkjamenn finna þegar á eigin skinni, að tollavopnið virkar sem bjúgverpill.
Stærsta atvinnugreinin á Íslandi, ferðaþjónustan, hefur orðið harðast úti 2019, þrátt fyrir stöðugt vaxandi áhuga ferðamanna hvaðanæva að úr heiminum fyrir norðurslóðum, þökk sé loftslagsumræðunni og myndum af bráðnandi ísbreiðum. Noregur nýtur þessa vaxtar enn, enda er gjaldmiðill þessarar jarðolíu- og -gasþjóðar búinn að vera ótrúlega veikur allt styrkingartímabil ISK. Er það til merkis um ruðningsáhrif olíu- og gasvinnslu Norðmanna í atvinnulífi þeirra.
Ferðaþjónusta er vinnuaflsfrek, var komin yfir 30 k manns áður en hallaði undan fæti 2018. Þess vegna má ætla, að ferðaþjónustan hafi orðið ósamkeppnishæf 2018 og að enn hafi hallað undan fæti við gerð "Lífskjarasamninganna" 2019, því að greinin er dæmigerð lágtekjugrein, og mestar urðu launahækkanirnar á meðal lágtekjufólks. Áætlanir Isavia um farþegafjölgun og þörf á stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar virðast nú hafa verið reistar á sandi. Höfundar þeirra hafa flaskað á mótvægi gjaldmiðilsins ISK við öfgum. ISK rís við "óeðlilega" hratt flæði gjaldeyris inn í landið, þar til útflutningsgreinarnar, þ.m.t. ferðamennskan, verða ósamkeppnisfærar. Með sama hætti fellur ISK við mótlæti og gerir útflutningsgreinarnar aftur samkeppnishæfar. Þetta ferli er þó þyrnum stráð, því að af hljótast verðhækkanir á innflutningi og yfirleitt verðbólga. Á meðan meðan viðskiptajöfnuðurinn er jákvæður, eins og nú, verður þó ekki djúp dýfa.
Fall VOW air varð bæði af of lágum tekjum og of miklum kostnaði. Fækkun ferðamanna í kjölfarið dró úr vinnu innanlands, en tekjur af ferðamönnum lækkuðu samt ekki, því að tekjur af hverjum ferðamanni hækkaði í gjaldeyri og í ISK, sem er merkileg og jákvæð þróun. Nú horfir illa með spurn eftir ferðaþjónustu í vetur, einkum utan höfuðborgarsvæðisins. Einkum fækkar ferðamönnum frá Bandaríkjunum (BNA) og EES-löndunum. Aukning frá Asíu gæti vegið þetta fall upp með tímanum, því að Kínverjar fjölmenna nú til Evrópu. Fljúga þeir beint, m.a. frá Sjanghæ til Helsinki í Finnlandi, og hafa nú tilkynnt áframhaldandi flug þaðan til Keflavíkurflugvallar í vetur. Þarna er komin nýrík miðstétt Kína, sem telur 300-400 k manns, og heimsviðskiptakerfi auðhyggjunnar hefur með samþykki kínverska kommúnistaflokksins lyft úr örbirgð til bjargálna.
Nýtt millilandaflugfél er í undirbúningi hérlendis, en hingað til virðist ekki hafa verið rekstrargrundvöllur fyrir tveimur slíkum flugfélögum hérlendis, enda eru nú um 25 flugfélög, sem keppa á flugleiðum til Íslands. SAS hefur t.d. tilkynnt um áform um reglubundnar ferðir til Keflavíkurflugvallar. Gleðilegt er, að hlutabréfaverð Icelandair er nú að jafna sig eftir áföll þessa árs. Munu evrópsk flugmálayfirvöld leyfa notkun Boeing 737 MAX á fyrsta ársfjórðungi 2020 ? Það er enn á huldu og skiptir marga gríðarlegu máli.
Flugvallarmálin eru í deiglunni hér og víðar. Samgönguráðherra landsins kynnti nýlega sérfræðingaskýrslu "stýrihóps" undir formennsku Eyjólfs Árna Rafnssonar, verkfræðings og formanns Samtaka atvinnurekenda, um flugvallarvalkosti á SV-landi. Hópurinn kvaddi erlenda flugvallarsérfræðinga sér til ráðuneytis. Samgönguráðherra ætlar í kjölfarið að fá fé í rannsóknir á flugvallarskilyrðum í Hvassahrauni og gerði samkomulag við borgarstjóra um áframhaldandi tvær flugbrautir í Vatnsmýri í 15 ár hið minnsta. Fremja á skemmriskírnar rannsóknir á umhverfi (vatnsvernd) og veðurfari í Hvassahrauni. Er það gagnrýnt, að ekki sé ætlunin að fylgja alþjóðlegum stöðlum um tímabil nákvæmra rannsókna á veðurfari á hugsanlegu flugvallarstæði (minnst 4 ár). Millilandaflugvöllur og innanlandsflugvöllur í Hvassahrauni eru sagðir munu kosta samtals mrdISK 300, en innanlandsflugvöllur einn og sér mrdISK 44. Mun ódýrara er þó að fjárfesta í Vatnsmýrarvellinum til notkunar fyrir einkaflug, kennsluflug, sjúkraflug og áætlunarflug innanlands og til Færeyja ásamt því að nota hann sem varaflugvöll fyrir millilandaflugið. Það má þróa Vatnsmýrarvöllinn með lengingu flugbrautar út í sjó. Veðurfarslega er þetta flugvallarstæði líklega hið bezta á landinu, og því má ekki fórna frekar en orðið er á altari lóðaviðskipta undir íbúðir. Slíkt væri aðeins verjanlegt, ef hörgull væri á byggingarlandi á höfuðborgarsvæðinu, sem er alls ekki.
Það er sömuleiðis mun ódýrara en Hvassahraunsvöllur að fjárfesta á Keflavíkurflugvelli til að gera hann hæfan fyrir afgreiðslu allt að 20 M farþega á ári, sem hann er talinn geta annað með nauðsynlegum fjárfestingum. Það hillir ekkert undir, að glíma þurfi þar við þann farþegafjölda, því að áætlanir Isavia hafa reynzt vera alveg út úr kortinu. Það er heldur ekki skynsamlegt að fjárfesta í öðrum flugvelli á sama eldvirka svæðinu, og öruggari kostur að fjárfesta í flugvelli utan eldvirkra svæða, ef/þegar hillir undir, að núverandi flugvellir á SV-horninu verði fulllestaðir. Sá flugvöllur, sem verður fyrir valinu þá, þarf jafnframt að þjóna sem heppilegur varafluvöllur fyrir hina. Isavia hefur nú tilkynnt um fjárveitingar til fyrirhugaðs viðhalds og fjárfestinga í endurbótum á Egilsstaðaflugvelli sem varaflugvelli Keflavíkurflugvallar, sem staðið geti undir nafni. Í kjölfarið getur þá þróazt beint flug erlendis frá til Egilsstaða.
Miðað við þá gríðarlegu fjárþörf, sem er í framtíðar samgöngukerfi með framkvæmdum á Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöllum, jarðgöngum, brúargerð, fjölgun akreina, mislægum gatnamótum og stígagerð fyrir gangandi og hjólandi, er engan veginn verjanlegt að hefja framkvæmdir við langdýrasta flugvallarkostinn, sem er jafnframt illa staðsettur og óþarfur.
Þá að sjávarútvegi: veiði villtra botnfiska fer minnkandi í heiminum, en fer vaxandi á Íslandi, og á næsta ári er spáð um 10 kt aukningu m.v. 2019. Jafnframt er spáð um 17 % heildaraukningu á veiðum íslenzkra skipa á næsta ári. Þá er spáð um 23 % aukningu í vinnslu og útflutningi eldisfisks á Íslandi, og getur sú vinnsla þrefaldazt á einum áratugi að magni. Þokkalegt verð er fyrir afurðirnar, enda eru matvælamarkaðir hvorki næmir fyrir hagsveiflum né sveiflum á hrávörumörkuðum, svo að framtíð sjávarútvegs og fiskeldis á Íslandi virðist björt, og skjóta þessar greinar æ traustari stoðum undir hagstæðan viðskiptajöfnuð, sem er ein af undirstöðum trausts gengis, lágrar verðbólgu og velmegunar í landinu. Vaxandi próteinskortur er í heiminum, sem íslenzkir matvælaframleiðendur geta og eru að nýta sér. Laxeldið er sérlega efnilegt í þessu sambandi, hefur þegar bætt hlut Vestfirðinga og hefur vaxtarstyrk, sem duga mun Vestfirðingum til uppbyggingar fjölbreyttra atvinnuhátta og mikillar velmegunar. Atvinnusaga Vestfjarða er glæst, og nú eru forsendur fyrir nýju blómaskeiði þar fyrir hendi. Athyglisvert er, að aftur knýr norsk þekking og fjármagn þessa þróun áfram.
Jákvætt er, að nú stefnir í meiri viðskiptaafgang við útlönd en í fyrra, og staða þjóðarbúsins gagnvart útlöndum hefur aldrei verið betri í eignalegu tilliti. Þessi tíðindi styrktu gengi ISK um 3 % í byrjun desember 2019, og við það situr enn.
Fiskveiðistjórnunarkerfið er lífseigt umræðuefni hérlendis, og tilefni þótti til að endurlífga þá umræðu í kjölfar umfjöllunar Kveiks/RÚV um starfsemi Samherja í Namibíu, en Samherji virðist hafa komið til skjalanna sem samstarfsaðili namibískra stjórnvalda í sjávarútvegi í kjölfar brottvísunar suður-afrískra útgerða frá Namibíu 2011, en ferill Suður-Afríkumanna í Namibíu er ekki til fyrirmyndar, svo að vægt sé til orða tekið, heldur virðast þeir hafa verið í hlutverki nýlenduherra þar. Vart er að efa, að þeir sækja aftur á sömu mið og þurfa þá að hrekja þá brott, sem Namibíumenn kusu heldur að starfa með. Er þetta sýnidæmi um það, að hollast er nýfrjálsum þjóðum að taka stjórn auðlinda sinna í eigin hendur sem allra fyrst. Frá fullveldi Íslendinga liðu 58 ár, þar til þeir öðluðust óskoraðan yfirráðarátt yfir 200 sjómílna lögsögu sinni. Nú eru 59 ár liðin frá því, að þessi fyrrum þýzka nýlenda öðlaðist sjálfstæði. Á þessu ári hafa þeir atburðir orðið á Íslandi, að löggjöf Evrópusambandsins um milliríkjaviðskipti með rafmagn hefur verið leidd í íslenzk lög. Þótti ýmsum hérlandsmönnum það of áhættusamur gjörningur, en framtíðin mun skera úr um það, hvort fullveldisrétti landsmanna yfir orkulindunum verður með þeim gjörningi og síðari gjörningum í orkusviðinu stefnt í tvísýnu.
Ekki er að efa, að hatrömm barátta stendur yfir um náttúruauðlindir í Namibíu, og gengur ýmislegt á, á meðan Namibíuþjóðin öðlast stjórn á þeim, en langt er í land með að dreifa arði auðlinda til almennings þar í landi. Svo virðist sem Samherji hafi lent í skotlínu hatrammra átaka á milli hinnar nýfrjálsu Namibíu og drottnaranna í Suður-Afríku, þar sem Namibíumenn hafa fengið Samherja til að hjálpa sér við auðlindanýtinguna í kjölfar brottrekstrar Suður-Afríkumanna. Í þessu sambandi ber að spyrja spurningar Rómverja: "cuo bono"-hverjum í hag ? Stöðvun starfsemi Samherja í Namibíu opnar e.t.v. Suður-Afríkumönnum aftur leiðina að sjávarauðlind Namibíumanna. Það er ekki allt sem sýnist.
Á Íslandi hefur betur tekizt til, enda veiðar og vinnsla í höndum landsmanna sjálfra, sem er nauðsynlegt og nægjanlegt skilyrði fyrir því, að náttúruauðlindanýtingin gagnist þjóðinni sem heild, ef réttum leikreglum er fylgt og eftirlitsaðilar vinna vinnuna sína.
Deilt er um kvótaþakið, þ.e. hámarksaflahlutdeild á tegund hjá hverju fyrirtæki. Hún er hér 12 %, en í Noregi er hún tvöfalt hærri. Íslenzku fyrirtækin eru í harðri samkeppni við mun stærri norsk fyrirtæki, og verði kvótaþakið lækkað hérlendis, mun framleiðni íslenzku fyrirtækjanna minnka, sem er ávísun á það að verða undir á alþjóðlegum mörkuðum, og það mun þýða veikingu ISK og lakari lífskjör á Íslandi. Stjórnmálamenn verða að huga vel að gjörðum sínum varðandi fyrirtæki í grimmri alþjóðlegri samkeppni og varast fljótræðislegar aðgerðir til að þóknast hávaðaseggjum. Með því að komast inn á og halda stöðu sinni á bezt borgandi mörkuðunum, fæst hæsta mögulega verð fyrir sjávarauðlind landsmanna, sem seytlar um allt hagkerfið. Það er einmitt það, sem gerzt hefur.
Ásta Björk Sigurðardóttir, hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, upplýsir Gunnlaug Snæ Ólafsson á 200 mílum Morgunblaðsins, eins og birtist 04.12.2019, um vísitöluþróun magns og verðmæta í sjávarútvegi tímabilið 1999-2019. M.v. við vísitölu hvors tveggja 100 í byrjun, er hún 101 í lokin fyrir magnið (t) og 163 fyrir verðmætin í erlendri mynt.
"Ásta Björk Sigurðardóttir, hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, segir það ekki einungis framboð og eftirspurn á mörkuðum, sem ýti undir hærra verð fyrir afurðirnar, heldur geti verð einnig hækkað vegna aukinna gæða. Þessi auknu gæði má m.a. rekja til fjárfestinga í hátæknilausnum, sem gera það að verkum, að meira fæst fyrir þann fisk, sem veiddur er. "Þrátt fyrir að útflutningur sjávarafurða sé að dragast saman að magni til, sem má einna helzt rekja til loðnubrests, er lítilsháttar aukning í útflutningsverðmætum sjávarafurða á föstu gengi á fyrstu 10 mánuðum ársins. Kemur það til af hagstæðri verðþróun sjávarafurða undanfarin misseri. Sem endranær er ekkert gefið í þessum efnum, en þar gegnir fjárfesting í nýsköpun og tækni lykilhlutverki sem og markaðssetning afurðanna erlendis, þar sem hörð samkeppni ríkir", útskýrir Ásta Björk."
Auðlindanýting íslenzkra fiskimiða getur varla fengið betri umsögn en þessa, og hún er beztu meðmæli, sem íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið getur fengið. Það er einfaldlega ekkert betra kerfi þekkt fyrir þessa auðlindanýtingu. Ef auðlindagjaldið hefði verið haft hærra, hefðu fjárfestingarnar óhjákvæmilega orðið minni, og að sama skapi hefði verðmætasköpunin fyrir samfélagið orðið minni. Það hefði verið afar óskynsamleg ráðstöfun.
Hugmyndin um veiðileyfagjaldið er reist á auðlindarentu, sem hefur gengið erfiðlega að sýna fram á. Sjávarútvegurinn er fjármagnsfrekur, og arður af fjármagni þar er ekki hærri en í mörgum öðrum greinum. Honum er nauðsyn á að hafa bolmagn til fjárfestinga. Þær hafa skilað sér í svo miklum eldsneytissparnaði, að sjávarútveginum mun fyrirsjáanlega takast að ná losunarmarkmiðum koltvíildis 2030 um 40 % minnkun frá 1990. Þær hafa líka skilað honum framleiðniaukningu, sem hafa gert honum kleift að greiða góð laun og að standast alþjóðlega samkeppni fram að þessu.
Sjávarútvegurinn er í samkeppni um fjármagn og fólk hér innanlands og á í samkeppni við allar fiskveiðiþjóðir Evrópu, Kínverja og Kanadamenn, á hinum kröfuharða evrópska markaði og víðar. Nefna má fiskútflytjendur á borð við Norðmenn og Rússa. Engin þessara fiskveiðiþjóða, nema Færeyingar, leggja veiðileyfagjald á sinn sjávarútveg, en nokkrar hafa gefizt upp á því, t.d. Rússar, sem gáfust upp á sínu uppboðskerfi, því að útvegurinn var við að lognast út af undir því kerfi. Þvert á móti nýtur sjávarútvegur yfirleitt fjárhagslegra hlunninda eða fjárstuðnings úr hendi opinberra aðila í sínu landi í nafni fæðuöryggis, auðlindanýtingar og byggðastefnu. Við þessar aðstæður er vandasamt að leggja auðlindagjald á íslenzkan sjávarútveg, og stjórnmálamenn og embættismenn geta hæglega gert herfileg mistök, sem vængstífa atvinnugreinina og gera hana ósamkeppnishæfa. Ekki er að spyrja að því, að þá mun verðmætasköpunin koðna niður.
Lengst allra í vitleysunni ganga þeir, sem halda því fram, að leiguverð kvóta endurspegli markaðsverð á endurgjaldi til ríkisins fyrir aðgang að auðlindinni. Leiguverð á bolfiski mun vera yfir 200 ISK/kg og er jaðarverð, sem leigutakinn telur sér hagfellt vegna lágs kostnaðar við að afla viðbótarafla, og eftir atvikum að verka hann og fullvinna. Ef ríkið mundi innheimta þessa upphæð sem auðlindagjald, jafngilti það þjóðnýtingu, og enginn myndi hafa hug á að draga bein úr sjó. Við sætum uppi með ríkisútgerð og bæjarútgerðir með stjórnmálamenn og embættismenn við stjórnvölinn, sem hvorki hafa vit á né áhuga á útgerð, og öll þjóðin myndi stórtapa, af því að þá væri náttúruauðlindin hennar í tröllahöndum getuleysins, sem er ekkert skárra fyrir hana en arðrán útlendinga á sjávarauðlind landsmanna fyrr á tíð. Hvort tveggja leiðir til fátæktar.
Fiskveiðistjórnunarlöggjöfin tryggir ríkisvaldinu óskoraðan rétt til að stjórna auðlindanýtingunni innan efnahagslögsögunnar. Þetta er gott fyrirkomulag, á meðan við völd eru stjórnmálamenn, sem vilja leggja beztu vísindalegu þekkingu til grundvallar hámarksnýtingu nytjastofnanna til langs tíma. Því fer fjarri, að einhugur sé um slíkt í Evrópu, hvað þá annars staðar. Þetta kemur fram við skiptingu flökkustofna. Hún er í ólestri, og niðurstaðan er ofveiði, af því að Evrópusambandið (ESB), Noregur og Færeyjar, hafa myndað skúrkabandalag gegn Íslendingum, Grænlendingum og Rússum. Þegar Bretar hafa gengið úr ESB, geta þeir annaðhvort magnað vandann með því að ganga í skúrkabandalagið, eða þeir geta beitt áhrifum sínum til að kalla alla þessa aðila að samningaborðinu, þar sem tekizt verður á um skiptinguna með tiltækum rökum.
Þriðja undirstaða hagkerfisins, útflutningsiðnaðurinn, má muna sinn fífil fegri, því að verð á málmmörkuðum hefur verið lágt undanfarin ár. Á sama tíma hefur tilkostnaður hans hækkað mjög, hráefni, starfsmannahald og orka. Viðskiptastríð BNA við Kína og ESB hefur orðið til bölvunar, keyrt Evrópu í stöðnun (Þýzkaland í samdrátt), minnkað hagvöxt Kína í 6 % og Bandaríkjunum sjálfum er aðeins spáð 2 % hagvexti 2020. Íslenzkur hátækniiðnaður, sem að miklu leyti er afsprengi sjávarútvegs og málmiðnaðarins, hefur þó dafnað vel og næstum tvöfaldað útflutningsverðmæti sín 2019 m.v. við 2018.
Kraftgjafi iðnaðarins og almennt góðra lífskjara er lágur raforkukostnaður á kWh að flutningi, dreifingu og sköttum meðtöldum. Í þessum efnum hefur sigið á ógæfuhliðina hérlendis með innleiðingu ESB-regluverks, sem á ekki við hér. Uppskipting raforkugeirans olli neytendum miklum kostnaðarauka, vegna þess að hluti gróðans af orkusölunni fór ekki lengur til uppbyggingar flutnings- og dreifikerfis, heldur í arðgreiðslur til eigendanna. Kerfið er í ógöngum, af því að það hefur misst alþjóðlega samkeppnisstöðu sína og í því felast ekki nægilegir hvatar til að virkja. Enginn er ábyrgur fyrir afhendingaröryggi raforku til almennings, og þess vegna getur dregizt á langinn að hefja nýjar virkjanir. Frá iðnaðarráðuneytinu kemur engin leiðsögn út úr þessum ógöngum, heldur vitleysa á borð við það, að samkeppni á milli fyrirtækja (á örmarkaði) tryggi hag neytenda. Þar er étinn upp áróður að utan. Íslendingar eru orðnir bundnir í báða skó á raforkusviðinu vegna innleiðingar þvingandi löggjafar frá Evrópusambandinu, sem hentar landinu engan veginn. Reyna þarf að sníða af þessu kerfi vankantana m.v. íslenzkar aðstæður í samráði við ESB eða leita eftir annars konar samstarfi á viðskipta-, vísinda- og menningarsviðinu. Þegar stærsta orkufyrirtæki landsins, sem jafnframt er að fullu í ríkiseign, telur hagsmunum sínum og eigandans betur borgið með því að láta vatn renna framhjá virkjunum en að selja málmframleiðanda, sem vantar 10 MW, afl og orku á samkeppnishæfu verði, þá er maðkur í mysunni og sýnilega vitlaust gefið.
1.12.2019 | 18:51
Rafmagnsverð til fyrirtækja er ósamkeppnisfært
Fullyrðingin í fyrirsögninni er ekki ótímabær forsögn um þróunina hérlendis á næstu árum, heldur staðreynd um raforkuverð núna til fyrirtækja. Rafmagnsverð til heimila hér er hins vegar lægra en víðast hvar annars staðar. Virðist almenningur erlendis vera fórnarlamb hins frjálsa uppboðsmarkaðar raforku, en nauðsynin á að halda uppi samkeppnishæfri framleiðslustarfsemi virðist hafa veitt fyrirtækjum í samkeppnisrekstri kost á hagstæðari samningum en heimilin búa við, e.t.v. í krafti jafnara álags (betri nýtingar aflgetu virkjana, flutnings og dreifikerfis), meiri orkunotkunar yfir árið frá fyrsta ári og þar af leiðandi vegna fullnýtingar fjárfestinga fyrr, langtímasamninga (tryggar tekjur orkufyrirtækja á afskriftartíma fjárfestinga) og hærri aflstuðuls en heimilisnotkun býður upp á.
Íslenzk heimili njóta hins vegar enn góðs af, að langtímasamningar um raforkusölu við stórnotendur hafa staðið undir uppbyggingu raforkukerfisins á Íslandi. Annars gæti raforkuverð til almennings ekki verið lægst hér. Opinberar niðurgreiðslur, sem kunna að fela í sér mismunun neytenda, eru hins vegar bannaðar innan EES, en þó virðist leyfilegt að hygla neytendum eftir búsetu (dreifbýlisívilnun) og fyrirtækjum líka.
Fyrsta dæmið, sem hér verður tekið til að sýna fram á ósamkeppnisfært innlent orkuverð, er aðalfréttin á forsíðu Fréttablaðsins, 11. nóvember 2019, undir fyrirsögninni:
"Telja orkuverð hér allt of hátt":
""Orkuverð í miðborg Stokkhólms er 20 % lægra en það, sem okkur býðst á Íslandi. Sá munur eykst, ef gagnaver eru byggð uppi í Norður-Svíþjóð. Orkuverð hér er orðið allt of hátt eða 25-40 % hærra en t.d. í Svíþjóð og Noregi", segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri íslenska gagnaversfyrirtækisins Advania Data Centers."
Það er ljóður á ráði þessarar frásagnar, að hvorki er getið umsaminna orkuverða erlendis né boðinna orkuverða hérlendis. Þó er ekki ástæða til að rengja staðhæfinguna um, að boðið orkuverð hér, með flutnings- og dreifingarkostnaði eftir atvikum, sé um þriðjungi of hátt til að geta talizt samkeppnishæft við Svíþjóð.
Ef ekki nást neinir samningar við fjárfesta, erlenda eða innlenda, sem valið geta úr staðsetningum í nokkrum löndum og talizt geta til stórnotenda (E>60 GWh/ár), þá verður ekki hægt að ráðast í meðalstóra virkjun og láta almenning njóta góðs af langtímasamningum fyrir hluta orkunnar þaðan, eins og gert hefur verið hérlendis, heldur verður þá orkuverðið til almennings um 40 % hærra en ella frá þeirri virkjun, af því að hún fullnýtist svo seint.
T.d. munu þá virkjanir í Neðri-Þjórsá leiða til töluverðrar verðhækkunar á markaðinum hér. Verst af öllu er þó að aðhafast ekkert, en nú eru í raun og veru engar virkjanir á framkvæmdastigi, sem ráða við eftirspurnaraukninguna á almenna markaðinum að orkuskiptunum meðtöldum, sem er a.m.k. 130 GWh/ár. Það er mikil vá fyrir dyrum, ef sú skoðun er ráðandi í iðnaðarráðuneytinu, að markaðurinn muni hér leysa vandann. Hann gerir það of seint, því að undirbúnings- og framkvæmdatími virkjana og flutningslína er hér tiltölulega mjög langur.
""Ólafur Adolfsson, formaður Þróunarfélags Grundartanga, hefur einnig áhyggjur af háu raforkuverði. Á Grundartanga vinna um 1100 manns hjá 20 stórum og smærri fyrirtækjum, og um 1000 til viðbótar þjónusta svæðið. "Við höfum miklar áhyggjur af háu raforkuverði. Það er varhugaverð þróun, að verið sé að verðleggja íslenzkan iðnað út af samkeppnismörkuðum. Við höfum ítrekað varað við þessu. Þetta lýtur ekki eingöngu að samkeppnishæfni nýrra verkefna. Verja þarf þau störf, sem fyrir eru", segir Ólafur." [Undirstr. BJo.]
Hér talar maður með góða yfirsýn um annað af tveimur stærstu iðnaðarsvæðum landsins, Grundartangann. Hann segir það berum orðum, að hátt raforkuverð í landinu ógni nú atvinnuöryggi þúsunda manna og kvenna. Á tímum vaxandi atvinnuleysis, þegar atvinnuleysisbótaútgjöld ríkisins eru farin að slaga upp í 20 mrdISK/ár, er þetta algerlega óásættanlegt, af því að að það er þarflaust. Það eru ríkisfyrirtæki, sem standa fyrir þessari óheillaþróun á Grundartanga og annars staðar, Landsvirkjun og Landsnet (ON og LV selja NÁ raforku, LV selur Elkem Íslandi raforku). Báðir þessir raforkubirgjar og flutningsfyrirtækið LN hafa skilað arði undanfarin ár, og forstjóri Landsvirkjunar hefur í a.m.k. 5 ár gumað af því, að fyrirtæki hans myndi á "næstu árum" skila ríkisstjóði 20 mrdISK/ár í arðgreiðslum. Hann þarf þess vegna ekki að ganga jafnhart fram og hann gerir við að hækka verð raforku umfram þanþol gjaldeyrisskapandi og atvinnuskapandi fyrirtækja í landinu, sem vilja þó halda starfsemi sinni áfram í von um betri tíð.
Þess er skemmst að minnast, að forstjóri LV stóð í harðvítugum deilum við stjórnendur Elkem Ísland (áður Íslenska járnblendifélagið), sem varð fertugt í sumar, um endurnýjun rafmagnssamnings, sem hafði runnið sitt skeið á enda. Samningar náðust ekki vegna kröfugerðar Landsvirkjunar um hækkun á raforkuverði, sem stjórnendur Elkem Ísland gátu ekki séð, að fyrirtækið gæti staðið undir við gildandi markaðsaðstæður. Fór þá ágreiningurinn fyrir gerðardóm. Hann hefur því miður ekki verið birtur, en í kjölfar hans lýsti forstjóri Landsvirkjunar yfir megnri vanþóknun og fullyrti, að hann væri undir kostnaði Landsvirkjunar við að framleiða rafmagnið til Elkem Ísland.
Hér er býsna djúpt tekið í árinni, og forstjórinn skákar þar í skjóli leyndarinnar, sem hann vill, að hvíli yfir samningum þessa ríkisfyrirtækis. Hér krystallast verðlagningarstefna Landsvirkjunar og um leið sú kúvending, sem orðið hefur á stefnu fyrirtækisins gagnvart atvinnuuppbyggingu og iðnþróun í landinu með þessum forstjóra og núverandi stjórn Landsvirkjunar, án þess að fulltrúar eigendanna, Alþingismenn, hafi komið nálægt þessari stefnumótun, svo að vitað sé.
Forstjórinn getur ekki átt við raunverulegan (meðaltals) vinnslukostnað Landsvirkjunar, því að upphaflegi rafmagnssamningurinn við Íslenska járnblendifélagið var reistur á Sigölduvirkjun. Lán hennar vegna eru upp greidd, og virkjunin hefur að mestu verið bókhaldslega afskrifuð. Vinnslukostnaðurinn nemur þess vegna aðeins rekstrar- og viðhaldskostnaði virkjunarinnar, sem er líklega innan við 0,5 ISK/kWh, en gizka má á, að úrskurður gerðardómsins hafi jafngilt um 4 ISK/kWh fyrir forgangsorku til verksmiðjunnar. Landsvirkjun malar gull á þessum viðskiptum með raforku, þar sem verðið er um áttfaldur tilkostnaðurinn.
Hvað á forstjóri Landsvirkjunar þá við ? Hann fylgir dyggilega fram stefnu Evrópusambandsins, ESB, um verðlagningu raforku, en hún er í stuttu máli þannig, að raforkuverðið eigi að endurspegla kostnað raforku frá næstu virkjun, þ.e. verðið til neytenda á að endurspegla jaðarkostnað vinnslu, flutnings og dreifingar, til að skapa nægan hvata til fjárfestinga í nýjum mannvirkjum (virkjunum, aðveitustöðvum, loftlínum, jarðstrengjum, dreifistöðvum). Þetta er harðsvíruð markaðshyggja Landsvirkjunar, sem mun eyðileggja samkeppnishæfni landsins, því að erlendis njóta fyrirtæki ívilnana til að varðveita verðmætasköpun og atvinnusköpun. Það er afar ólíklegt, að þessi kúvending Landsvirkjunar frá stefnu, sem Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn lögðu blessun sína yfir við stofnun Landsvirkjunar með lögum frá Alþingi árið 1965, njóti nokkurs fylgis í hinu myndarlega steinhúsi við Austurvöll. Þó virðist iðnaðarráðherra láta sér vel líka. Hverju sætir sú værukærð, á meðan Róm brennur ? Með þessa stefnu við stýrið verður erfitt eða ómögulegt að ná samningum á milli Landsvirkjunar og "Paradise Farm", sem hefur á stefnuskrá að reisa 10 ha ylræktarver á Víkursandi við Þorlákshöfn, þar sem rækta á tómata, papriku og salat fyrst í stað, og síðar meir er ætlunin að bæta við suðrænum ávöxtum á borð við papaja og mangó. Það vantar tengipunkt hjá Landsneti fyrir þessi viðskipti, en það er afar eðlilegt að raforkan komi frá tengivirki við virkjun í Neðri-Þjórsá og hugsanlega frá nýrri aðveitustöð, sem sjá mundi jafnframt hinum vaxandi þéttýlisstöðum Árborg og Hveragerði fyrir nýrri orkuleið. Hér er um gjaldeyrisskapandi hagsmunamál fyrir Sunnlendinga og landsmenn alla að ræða, sem þingmenn ættu að fylgjast með. Á tímum mikils nasablásturs yfir kolefnissporum vegna innflutnings er ekki verjandi, að ríkisfyrirtæki dragi lappirnar við að raungera umhverfisvænt verkefni, sem getur dregið úr innflutningi grænmetis, sem ræktað er með stóru kolefnisspori.
Forstjóri Landsvirkjunar tekur rangan pól í hæðina við verðlagningu raforku. Hann virðist horfa framhjá þeirri staðreynd, að við útreikning á kostnaði raforku frá nýrri virkjun skiptir höfuðmáli, hve langan tíma tekur að fullnýta hana. Ef t.d. 1200 GWh/ár virkjun þarf að fá 5,0 ISK/kWh frá almenningsveitum, þá þyrfti hún aðeins 3,6 ISK/kWh frá notanda á borð við Elkem Ísland til að skila sömu arðsemi. Þetta er grundvöllur þess, að íslenzk heimili í þéttbýli njóta líklega lægsta raforkuverðs í heimi án niðurgreiðslna hins opinbera, en það er hins vegar enn þá "svínað" á notendum í dreifbýli eftir innleiðingu Orkupakka #1 árið 2003.
Þetta á sér þó ekki lagastoð í orkupakkanum, því að leyfilegt er að umbuna neytendum á grundvelli búsetu. Hér er þeim hins vegar refsað, bæði heimilum og fyrirtækjum, og felur þetta í sér ólíðandi mismunun innan sömu dreifiveitu.
Fyrsti þingmaður Norð-Vesturkjördæmis, Haraldur Benediktsson, hefur barizt fyrir leiðréttingu á "svínaríinu" á Alþingi. Annar maður á lista Sjálfstæðisflokksins í sama kjördæmi gegnir embætti iðnaðarráðherra og er þar af leiðandi í lykilstöðu til að hafa forgöngu um breytingar til batnaðar, en hvorki gengur né rekur á þessum bæ. Hvers konar verkstjórn er þar eiginlega við lýði ? Ef embættismenn eru tregir í taumi, þarf einfaldlega að bregða saxi og höggva á hnútinn. Til að bregða saxi þurfti kraft, áræðni og vilja.
Gegndi Haraldur þessu embætti, væri trúlega margt með öðrum brag í þessu ráðuneyti. Góður bóndi, sem kann að taka til hendinni á jörð sinni, getur rekið ráðuneyti með myndarbrag og rekið erindi þess á fundum ríkisstjórnar og Alþingis. Haraldur skrifaði góða grein að vanda í Moggann 17.09.2019,
"Þetta er spurning um sanngirni og jafnræði":
"Afleiðingar af breytingum, sem gerðar voru á raforkumarkaði eftir 2003 hafa sett ljótan blett á breytingar, sem í mörgu voru annars skynsamlegar. En hvað sem hverjum finnst, er samt ekki hægt að segja, að uppstokkun raforkumarkaðar sé um að kenna. Aðskilnaður framleiðslu og flutnings var í sjálfu sér ekki neikvætt skref. En við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að framkvæmdin tókst illa og hefur búið til misvægi milli landsmanna og verið mörgum þungur baggi. Þetta misvægi verður að leiðrétta, og koma á jafnræði milli allra, óháð búsetu."
Það er raunar vafasamt að halda því fram, að uppskipting íslenzka raforkukerfisins í kjölfar innleiðingar Orkupakka #1 frá ESB hafi verið skynsamleg við íslenzkar aðstæður, enda var ESB meðvitað um, að slíkt orkar tvímælis fyrir lítil og einangruð raforkukerfi, og veitti slíkum valfrelsi um þessa framkvæmd. Íslendingum var þess vegna í lófa lagið að leita undanþágu um uppskiptingu Landsvirkjunar og stofnsetningu Landsnets, en slík undanþága var þá Framsóknarflokkinun, sem fór með iðnaðar- og orkumálin, ekki þóknanleg.
Fyrir tíð þessarar uppskiptingar veitti Landsvirkjun ágóða sínum af orkusölu, m.a. til stóriðju, til uppbyggingar flutningskerfisins. Nú greiðir Landsvirkjun arð til ríkissjóðs og Landsnet fjármagnar flutningskerfið með tveimur gjaldskrám, fyrir almenningsveitur og fyrir stórnotendur með langtímasamninga. Af þessum ástæðum er ljóst, að þessi hluti raforkukerfisins er nú neytendum dýrari en hann var. Hið sama á við um dreifikerfið. Þar var áður samþætting raforkuvinnslu og dreifingar, en hún var bönnuð við hina óþörfu innleiðingu Orkupakka #1. Nú þarf dreifikerfið að fjármagna sig sjálft, og það hefur valdið miklum kostnaðarhækkunum fyrir neytendur. Ofan á þetta bætist, að hagkvæmni stærðarinnar, sem þó var fyrir hendi, var fórnað á altari samkeppni, sem aldrei varð og getur ekki orðið í okkar fákeppnisumhverfi. Þetta eru veigamiklar skýringar á hækkun rafmagnsverðs til notenda, sem valdið hefur ósamkeppnishæfni greinarinnar, með alvarlegum afleiðingum fyrir umfang fjárfestinga og afkomu atvinnulífs í landinu.
Um afleiðingarnar á allmarga kjósendur þingmannsins og flokks hans skrifar Haraldur Benediktsson:
"Íbúar dreifðari byggða hafa upplifað miklar hækkanir á orkuverði frá þessum breytingum. Það er staðreynd, sem loksins fékk almennilegt kastljós í umræðu um orkupakka 3.
Veruleikinn er, að íbúar dreifbýlis, á dreifisvæði Rarik, hafa þurft að sæta því, að flutningskostnaður á raforku hækkaði um ríflega 100 % árin 2005-2017. Á sama tíma nutu íbúar á þéttbýlissvæðum Rarik verulegrar raunlækkunar - eða um 44 % hækkunar meðan verðlag hækkaði um 80 %."
Í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019, komst hagfræðiprófessorinn Ragnar Árnason að þeirri niðurstöðu, að meðalhækkun til almennings (raforka, flutningur, dreifing) á ofangreindu tímabili (2004-2018) hefði numið um 8 % að raungildi. Það er meðaltalshækkun fyrir öll heimili landsins og er bein afleiðing af skipulagsbreytingu, sem á ekki við íslenzkar aðstæður. Sú mikla hækkun til dreifbýlis, sem Haraldur gerði grein fyrir, er líka sjálfskaparvíti, en er ekki áskilin í orkupökkunum. Þvert á móti er dreifbýlisívilnun viðurkennd, og ESB er að jafna orkuverðið innan vébanda sinna með því að hvetja til öflugra samtenginga á milli orkusvæða. Hérlendis er samtengingu á milli orkusvæða enn ábótavant, sem veldur miklum aukakostnaði. Sleifarlag stjórnvalda við að leiðrétta þetta óréttlæti er óafsakanlegt.
Hér er þá komin að einhverju leyti skýringin á ósamkeppnishæfni Íslands á raforkusviðinu. Hún á rætur að rekja til innleiðingar Íslands á löggjöf ESB á orkusviðinu, s.k. orkupökkum. Vinnslufyrirtækin spenna upp verðið og rembast við að skila sem mestum arði; flutnings-og dreifingarfyrirtækin verða að fjármagna sig sjálf, en eru óhagkvæmar einingar og dreifingarfyrirtækin flest of lítil.
Hvað er til ráða ? Eigendastefnu opinberra raforkuvinnslufyrirtækja þarf að móta þannig, að þau skuli selja sína orku á verði, sem spannar meðalkostnað þeirra, en ekki jaðarkostnað, og að það sé ekki þeirra keppikefli að skila arði. Arðurinn á þess í stað að fara beint til fólks og fyrirtækja, neytendanna. Fjármálalegt frelsi Landsnets þarf að auka og leyfa fyrirtækinu skuldabréfaútgáfu til að fjármagna dýrar framkvæmdir til að dreifa kostnaði og draga úr hækkunarþörf gjaldskráa. Dreifiveitum þarf að fækka, svo að þær stækki, í von um hagkvæmari rekstur.
Þá aftur að tilvitnuðum Fréttablaðsuppslætti:
"Eyjólfur segir, að raforkuhlutinn hér sé almennt ekki langt frá verðunum á Norðurlöndunum, en flutningshlutinn og dreifingin séu miklu dýrari."
Hætti raforkuvinnslufyrirtækin að stefna að sívaxandi arðgreiðslum, geta þau lækkað raunverðið, eftir því sem skuldastaða þeirra batnar. Það getur að nokkru vegið upp á móti háum flutnings- og dreifingarkostnaði og vonandi gert íslenzka raforku aftur samkeppnishæfa.
""Þegar íslenzkir raforkuframleiðendur bera saman verð hér og í viðmiðunarlöndunum, nota þeir gjarnan verð á stundarmörkuðum (spot) Norðurlanda og bera saman við raforkuverð hér, sem bundið er í langtímasamningum. Slíkur samanburður er rangur, því að í langtímasamningum um orkukaup á Norðurlöndum er verð töluvert ódýrara en stundarmarkaðir segja til um", segir Eyjólfur.
Hann segir, að gagnaver og aðrir nýlegir stórnotendur hér á landi greiði umtalsvert hærra verð en uppgefið meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju sé."
Ef það er rétt, að hérlendir raforkuframleiðendur noti meðalverð á "stundarmörkuðum" Nord Pool til að gefa sér viðmiðun um verðlagningu sinnar orku, þá gefa þeir sér, að sértækir samningar við notendur á borð við gagnaver, t.d. 20 MW, 170 GWh/ár, tíðkist ekki á stöðum, þar sem hluti orkunnar er boðinn upp í orkukauphöll. Það er þá gróf yfirsjón hjá þeim, því að fyrirtækjum á svæði Nord Pool (Norð-Vestur Evrópa) bjóðast mun hagstæðari samningar en heimilum og smánotendum (<20 GWh/ár). Þetta hefur t.d. komið í ljós, þegar garðyrkjubændur hér hafa borið saman bækur sínar við starfsbræður í Hollandi, Noregi og Danmörku, en þeir greiða um 6,3 ISK/kWh fyrir raforkuna komna til sín. Ennfremur verða raforkuvinnslufyrirtæki hér að líta til flutningskostnaðarins, því að heildarverð á afhendingarstað er það, sem skiptir viðskiptavininn máli og ræður úrslitum um það, hvort samningar nást.
Samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar 2018 nemur vegið meðalverð til stóriðju á Íslandi 28,3 USD/MWh. Ef reiknað er með 15 % hærra verði til gagnavera og flutningsgjaldi samkvæmt gjaldskrá Landsnets, fæst orkuverð P=32,5+5,5=38,0 USD/MWh=4,8 ISK/kWh án dreifingarkostnaðar. Þetta verð ætti að vera ásættanlegt fyrir gagnaver, en ef dreifiveita kemur inn sem milliliður, þá getur verðið hækkað um 2,7 ISK/kWh og orðið 7,5 ISK/kWh, sem er áreiðanlega ósamkeppnishæft við löndin, sem Ísland keppir við um hýsingu gagna.
Það eru miklar ranghugmyndir uppi hérlendis um skynsamlega verðlagningu raforku til stóriðju á Íslandi. Sýnishorn yfirborðslegrar umfjöllunar gat að líta í forystugrein Viðskiptablaðsins 14. nóvember 2019,
"Furðulegar hugmyndir um raforkuverð".
Hún hófst þannig:
"Landsvirkjun hefur unnið að því á undanförnum árum að fá hærra verð fyrir raforkuna og draga út tengingum raforkuverðs við sveiflur í álverði. Hlutfall raforku, sem tengd er við verð á áli, hefur lækkað úr tveimur þriðju, og er nú hlutfallið ríflega þriðjungur. Þessi stefna beri [svo ?] þann árangur, að fyrirtækið geti greitt 10-20 milljarða króna í arð til ríkisins á ári næstu árin. Einnig er stefnt að því, að sérstakur þjóðarsjóður verði stofnaður, fyrst og fremst um arðgreiðslur Landsvirkjunar."
Þarna stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Landsvirkjun hefur ekki beitt hófsemi og forsjálni við verðlagningu á "vöru" sinni, en fyrirtækið og margir viðskiptavinir þess eru í samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum. Ljóst er af dæmum, sem rakin hafa verið af fjárfestum, t.d. á sviði gagnavistunar, að um yfirverðlagningu er að ræða, þannig að ekkert hefur orðið af viðskiptum hérlendis, af því að fjárfestirinn fékk mun hagkvæmari orkusamning, t.d. annars staðar á Norðurlöndunum, jafnvel í miðborg Stokkhólms.
Raforkukaup eru verulegur kostnaðarliður, jafnvel 30 % af heild, hjá álverum. Miklar sveiflur hafa alltaf verið á álverði, og ládeyða eða offramboð á álmörkuðum hefur iðulega valdið lokun álvera á Vesturlöndum, stundum tímabundnum. Samt hefur meðaleftirspurnaraukning áls í heiminum numið 4 %/ár.
Álver skapa fjölbreytileg störf, innan sem utan girðingar, og víða mikil útflutningsverðmæti, t.d. á Íslandi, þar sem verðmætasköpunin er miklu meiri en svarar til andvirðis raforkuviðskiptanna. Það ber að hafa í huga, að víða eru álverin og orkuverin, sem sjá þeim og byggðarlaginu í kring fyrir raforku, t.d. vatnsorkuver í Kanada, í eigu sama aðila. Orkukostnaður þessara álvera er í lágmarki, e.t.v. 15 USD/MWh með flutningi, og sama á við stór álver við Persaflóann, þar sem álverin og gasvinnslan oft á tíðum eru á sömu hendi. Gefur auga leið, að þessi staða gerir öðrum álverum, t.d. á Íslandi, mjög erfitt um vik í samkeppninni.
Þau hafa t.d. brugðizt við með fjárfestingum til að geta framleitt dýrari vöru, sérvöru. Þar af leiðandi var þróuð sú leið, að álver og raforkubirgjar þeirra deildu með sér áhættunni á álmörkuðunum þannig, að einingarverð raforkunnar tæki mið af markaðsverði á áli, t.d. ákveðinni vörutegund á LME (London Metal Exchange) markaðinum. Í ljósi aðstæðna er þetta eðlileg ráðstöfun, sem tryggir orkubirginum þá ávöxtun fjárfestingar sinnar, sem hann telur duga í lægðum, og í hæðum fær hann góða ávöxtun og fleytir rjómann af háu afurðaverði álveranna. Þetta tengir aðila saman á gagnkvæmum hagsmunum.
Núverandi forstjóri Landsvirkjunar, örugglega með stuðningi stjórnar Landsvirkjunar, hefur rifið þetta kerfi niður, þegar eldri samningar hafa runnið sitt skeið, þröngvað fram verulegum hækkunum á grunnverði og síðan vísitölubindingu þess við þætti, sem óskyldir eru afkomu birgis og viðskiptavinar, eins og vísitala neyzluverðs í Bandaríkjunum og vísitala raforkuverðs á Nord Pool uppboðsmarkaðinum. Hið síðara þýðir, að sé gott vatnsár og vindar blási vel í Norð-Vestur Evrópu, þá lækkar raforkuverð til Landsvirkjunar. Það er varla glóra í því. Ekki er vitað til, að umfjöllun um þessa afdrifaríku stefnubreytingu Landsvirkjunar hafi farið fram á meðal fulltrúa eigandans, íslenzku þjóðarinnar, og er þar átt við Alþingi.
Við slíka ákvörðun er margs að gæta og dugar ekki, að gæta einvörðungu skammtíma hagsmuna Landsvirkjunar, heldur þarf að huga að langtíma hagsmunum þjóðarinnar. Umfjöllun Viðskiptablaðsins er mjög einhliða, þar sem ekki er gætt að því, að stefnan hlýtur að vera hámörkun virðisauka í landinu við nýtingu orkulinda í eigu opinberra aðila, og til langframa þarf að gæta gaumgæfilega að samkeppnisstöðunni við útlönd. Það er ófullnægjandi að líta á skammtímagróða einstakra fyrirtækja og arðgreiðslna þeirra í ríkissjóð eða í borgarstjóð.
19.11.2019 | 11:18
Farþegaskipin "grænka" hægt
Þann 24. október 2019 birtist aðsend grein í Fréttablaðinu frá aðjunkti nokkrum, þar sem varpað var fram tillögu um að breyta Straumsvík í Hafnarfirði úr athafnasvæði álvers og í viðlegustað fyrir farþegaskip. Var á höfundinum að skilja, að þessi nýting Straumsvíkur væri í senn umhverfisvænni og þjóðhagslega hagkvæmari.
Hið síðara var rækilega hrakið í vefpistlinum ""Arðbærar loftslagsaðgerðir" ?" á þessu vefsetri, og nú verður fyrri fullyrðingin vegin og léttvæg fundin. Þá er fyrst til að taka, að hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands (dr Guðjón Atli Auðunsson) hefur með rannsóknum á kræklingum úti fyrir strönd athafnasvæðis ISAL verið komizt að þeirri niðurstöðu, að engin marktæk ummerki starfseminnar í Straumsvík finnist í lífríkinu þar úti fyrir. Verður erfitt fyrir flota farþegaskipa af misjöfnu sauðahúsi að slá út slíkt heilbrigðisvottorð; sérstaklega má ætla, að það verði erfitt, þegar ummerki farþegaskipa hingað til eru höfð í huga.
Í Bloomberg Businessweek birtist 16. september 2019 greinin:
"The Oh-So-Slow Greening Of Cruises".
Verður hér stuðzt við það, sem þar kom fram, til að vekja athygli á misjöfnu orðspori farþegaskipa á sviði umhverfisverndar.
Vegna mikils ferðamannafjölda og mengunar frá þeim hafa nokkrar borgir Evrópu nú uppi áform um að takmarka fjölda farþegaskipa í hverjum mánuði. Þar á meðal eru Barcelona, vinsælasti viðkomustaður farþegaskipa, og Dubrovnik í Króatíu, einn af tökustöðum "Game of Thrones". Aðalfarþegaskipahöfn Bretlands, Southampton, óskar eftir því, að farþegaskipin verði knúin rafmagni úr landi, þegar þau eru þar í höfn. (Hvenær verða íslenzkar hafnarstjórnir í stakk búnar að fara fram á slíkt ?) Formaður borgarráðs Southamptons, Christopher Hammond, segir, að sveitarstjórnir eigi erfitt með að koma auga á kostina við þessi stóru farþegaskip. "Þetta er mjög sýnilegt: stór reykháfur puðrandi út svörtu sóti og reyk. Fólk hugsar með sér: ég anda öllu þessu að mér."
Flest skipanna brenna þykkri brennisteinshlaðinni blöndu, sem eru afgangar eftir framleiðslu benzíns og annars verðmæts eldsneytis. Þótt sum minni skip gætu gengið fyrir rafmagni, geta rafgeymar enn ekki alfarið knúið áfram hreyfla (mótora) farþegaskipa, sem eru nokkra sólarhringa á hafi úti í einu. Hingað til hefur jarðgas á vökvaformi, LNG, (lágt hitastig, mikill þrýstingur) verið vinsælasti valkosturinn fyrir farþegaskipin, og hann getur minnkað SO2 og NOx mengunina frá skipunum um 90 % og CO2 um 20 %. Stærsta útgerð farþegaskipa, Carnival, hleypti sínum fyrsta LNG-farkosti af stokkunum á þessu ári, 2019, og um 3 tylftir eru í smíðum af slíkum skipum samkvæmt skipaskoðunarfyrirtækinu DNV GL.
Svar útgerðanna við vaxandi kröfum um mengunarvarnir um borð í farþegaskipum hefur hingað til aðallega verið að setja upp hreinsibúnað á útblásturinn, sem fjarlægir megnið af brennisteininum úr reyknum. 268 skip eru gerð út af félögum í "Cruise Lines International Association" og í um helming þeirra er búið að setja hreinsibúnað til að fullnægja alþjóðlegum kröfum um að ná 85 % brennisteinsins úr reyknum. Þetta er þó skammgóður vermir, því að affallið er brennisteinssýra og er varpað í sjóinn.
Hvers konar eftirlit verður með því hérlendis, að farþegaskip hreinsi kerreykinn og varpi ekki sýrunni fyrir borð nærri íslenzkum ströndum ? Tugir borga, þ.á.m. Singapúr og allar kínverskar hafnir, hafa bannað komu slíkra skipa. Hvað gera íslenzk yfirvöld í þessum efnum ? Eru loftslagsmálin mest í nösunum á þeim, eða fylgir einhver alvara öllu orðagjálfrinu um mengunarvarnir og loftslagsvá ?
Frekar virðist gefið í varðandi flugferðir stjórnmálamanna og embættismanna til útlanda. Hvað ætli ein 100 farþegaskip á ári sendi frá sér af koltvíildi og brennisteini út í andrúmsloftið með viðkomu sinni í íslenzkum höfnum og siglingum við strendur landsins ? Hafa umhverfisyfirvöld hérlendis gert mælingar á sýrustigi hafsins í grennd við farþegaskip, sem hreinsa SO2 úr útblæstri sínum ? Er á súrnun sjávar bætandi ? Halda menn, að það sé að tilefnislausu, að sumar hafnir banna komur slíkra skipa og t.d. Norðmenn taka þessi mál föstum tökum, eins og lýst verður síðar í þessum pistli.
Gera má ráð fyrir, að orkunotkun 100 farþegaskipa við strendur Íslands, sem hér leggjast að, sé um 70 GWh/ár. Olíunotkun þeirra er þá um 14,4 kt/ár og losun koltvíildis um 45 kt/ár. Losun brennisteinstvíildis gæti þá numið 0,9 kt/ár (900 t/ár) og losun brennisteinssýru í hafið 1,7 kt/ár. Losun koltvíildis farþegaskipa er þannig aðeins um 5 % af losun vegumferðar á ári, en hafa verður í huga, að hún er aðeins yfir sumartímann og staðbundin loftgæði versna mjög mikið á góðviðrisdögum inni í fjörðum, einkum af völdum SO2 og níturoxíða (NOx), sem eru skaðlegar lofttegundir. Losunin er svo mikil, að íslenzkum yfirvöldum ber að stemma stigu við henni og fylgja í fótspor Norðmanna í þeim efnum.
Til samanburðar losar ISAL í Straumsvík líklega innan við 1,0 kt/ár af SO2 út í andrúmsloftið, sem er svipað og farþegaskipin, en styrkurinn í andrúmslofti er minni, af því að losunin dreifist á þrefalt lengri tíma. Það er ekki geðslegt að fá þrefaldan styrk brennisteinstvíildis og níturoxíð að auki á við það, sem frá álverinu kemur, yfir byggðina í Hafnarfirði, eins og umræddur aðjunkt leggur til. Þetta mundi bætast við sömu gastegundir frá umferðinni á Reykjanesbraut og mundi suma daga hæglega geta farið yfir hættumörk í íbúðabyggð Hafnarfjarðar.
Farþegaskip í höfnum Spánar losa um 14,5 kt/ár SO2, á Ítalíu 13,9 kt/ár, á Grikklandi 7,7 kt/ár, í Frakklandi 5,9 kt/ár, í Noregi 5,3 kt/ár og í Portúgal 5,1 kt/ár, svo að samkvæmt þessu nemur losunin á Íslandi 18 % af sams konar mengun í höfnum Portúgals.
Á síðustu áratugum hafa stóru útgerðarfyrirtækin verið sektuð um tuga milljóna bandaríkjadala fyrir að menga óleyfilega. Í júni 2019 féllst útgerðin Carnival á að borga MUSD 20 (mrdISK 2,5) fyrir að fleygja plastefnum í sjóinn við Bahamaeyjar. Árið 2016 var þetta fyrirtæki sektað um MUSD 40 eftir að hafa játað að hafa í leyfisleysi losað olíublandaðan úrgang í hafið. Það er þess vegna ljóst, að sumar útgerðir farþegaskipa hafa verið umhverfissóðar í slíkum mæli, að það sætir furðu, að aðjunktinn Ingólfur Hjörleifsson skyldi láta sér detta það í hug í Fréttablaðsgrein 24.10.2019 að breyta Straumsvík í Hafnarfirði í viðlegustað farþegaskipa á umhverfisforsendum og af þjóðhagsástæðum. Glóruleysið ríður ekki við einteyming, þegar rétttrúnaðurinn er annars vegar.
Norðmenn hafa nú þegar sett reglur um brennisteinslosun, sem eru mun strangari en nýjar alþjóðlegar reglur. Þeir hafa lýst norska firði brennisteinsfría frá 2026, sem þýðir, að bruni jarðefnaeldsneytis verður þar óleyfilegur. Bátar og skip, sem þar sigla um, verða þar þá knúin árum, seglum, vetni, öðru tilbúnu eldsneyti eða rafmagni frá rafgeymum.
Í marz 2019 sektuðu Norðmenn gríska útgerð farþegaskipa um næstum kUSD 80 (MISK 10) fyrir brot á reglum um brennistein. Íslendingar eru augsýnilega eftirbátar Norðmanna í þessum efnum, því að ekki er vitað um athugasemdir íslenzkra yfirvalda við mengun farþegaskipanna, og þess vegna er almenningur lítt meðvitaður um mengunarhættuna, sem af þeim stafar. Er ekki nauðsynlegt að setja markið á 2030 í þessum efnum, þannig að f.o.m. 2030 ríki nánast brennisteinsbann í íslenzkum fjörðum og flóum gagnvart fartækjum á legi ? Skilyrði er að sjálfsögðu, að þá verði búið að rafvæða hafnirnar fyrir allar stærðir skipa, sem þangað mega koma. Þar verður ríkisvaldið að stíga fram og leggja fram fé úr "kolefnissjóðinum" til styrktar verkefninu.
Norska útgerðarfélagið Hurtigruten vísaði leiðina til framtíðar í þessum efnum með sínu nýja farþegaskipi, MS Roald Amundsen, sem fór í sína jómfrúarferð frá Tromsö, um 320 km norðan við heimskautsbaug, í júlí 2019. Talsmenn Hurtigruten segja, að þessi 530 farþega farkostur sé fyrsta tengiltvinnskipið, sem fær orku frá rafgeymum og er með LNG-knúna vél til vara, þannig að í eldsneytisrekstri losar skipið 20 % minna CO2 en svartolíuskip og 90 % minna SO2 og NOx. Á næstu 2 árum áformar félagið að breyta 11 af 16 skipum sínum í tengiltvinnskip af þessu tagi.
Þetta er hægt, af því að skip Hurtigruten eru tiltölulega lítil, með rúmlega 500 rúm. Það er erfiðara að breyta skipum Carnivals, sem mörg hver taka meira en 5000 farþega. Stærri skipin nota meira afl per tonn eiginvigt en minni skipin, og talsmenn Carnival segja, að rafgeymarnir, sem slík skip útheimta, myndu taka upp megnið af rýminu um borð. Fyrir slík skip er tengiltvinnlausnin ákjósanleg, því að þau mundu þá ganga fyrir rafmagni í höfn og í fjörðunum, en á úthafinu fyrir gasi. Skilyrði er þá, að hafnaryfirvöld hafi nægt rafmagn í boði, allt að 10 MW per skip.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2019 | 14:25
Orkuskýrsla SI - rýni IV (lok)
Þetta er lokaáfangi rýni pistilhöfundar á skýrslu Samtaka iðnaðarins frá 16.10.2019:
"Íslensk raforka - Ávinningur og samkeppnishæfni".
Almennt má segja, að skýrsla þessi hafi valdið vonbrigðum fyrir þær sakir, að engin ný greining virðist búa að baki skýrslunni, sem þó ætti heiti sínu samkvæmt að fjalla um ein mikilvægustu mál íslenzks athafnalífs, mál, sem nú eru í deiglunni. Hins vegar er hvað eftir annað kastað fram fullyrðingum um nauðsyn skefjalausrar markaðsvæðingar raforkuvinnslunnar og uppskiptingu Landsvirkjunar til að auka samkeppni á raforkumarkaðinum.
Hér skal nú fullyrða, með vísun til röksemdafærslu í fyrri rýniritgerðum höfundar um þessa skýrslu, að hvorug aðgerðin mun verða aðildarfélögum Samtaka iðnaðarins (SI) né almenningi í landinu til hagsbóta. Lítið til afleiðinga innleiðingar Orkupakka #1 og #2 frá ESB á Íslandi, sem áttu að auka frelsi og frjálsa samkeppni á raforkumarkaðinum. Afleiðingin er sú, að Ísland er orðið ósamkeppnishæft við nágrannalöndin um raforku, eins og átakanlega er lýst efst á forsíðu Fréttablaðsins 11.11.2019 undir fyrirsögninni:
"Telja orkuverð hér allt of hátt".
Er ástæða fyrir fyrirtæki í þessum samtökum, SI, að krefjast útskýringa frá stjórn samtakanna á þeim vafasama málflutningi, sem þar er að finna. Hann virðist vera úr tengslum við raunveruleikann, en reistur á markaðskreddum, sem eiga ekki við á raforkumarkaðinum, og jafnvel hagsmunagæzlu fyrir orkufyrirtækin, sem er andstæð hagsmunum neytenda og flestra félaga í SI.
Þessi gagnrýni á við veigamestu málin, en um ýmislegt smælki má taka undir með skýrsluhöfundum, t.d. um Orkuspárnefnd:
"Markmið Orkuspárnefndar er mikilvægt og góðra gjalda vert. Hins vegar er mikilvægt að taka til skoðunar, hvort samráð og samtal nefndarinnar við stórnotendur sé í réttum farvegi, eða hvort bæta þurfi þar úr. Mikilvægt er í því samhengi að huga að samtali við stórnotendur um þeirra framtíðaráform, hvað varðar uppbyggingu eða breytingar í sinni starfsemi í þeim tilgangi að tryggja áreiðanlegri tölur um raforkuþörf til lengri tíma litið. Skýr sýn þarf því að liggja fyrir bæði um þróun eftirspurnar eftir raforku í gegnum raforkuspá, sem og mögulega þróun framboðs á raforku og möguleika framleiðenda á að mæta aukinni eftirspurn. Þarfir raforkunotenda þurfa að endurspeglast í spánum."
Orkuspárnefnd þarf að vera kunnugt um bæði þá orku og afl, sem samið hefur verið um við stórnotendur, hvernig hún skiptist í forgangsorku og ótryggða orku og áfangaskiptingu að fullnýtingu. Pistilhöfundur getur staðfest, að gagnrýni á Orkuspárnefnd fyrir samráðsleysi við stórnotendur á við rök að styðjast. Samráðsleysið hefur valdið stærstu skekkjunum í spánum, því að langmest munar um breytingar hjá stórnotendum.
Þá skiptir þróunin til langs tíma ekki aðeins máli, heldur ekki síður til skamms tíma (næstu 2 ár) og meðallangs tíma (næstu 5 ár). Hvort tveggja er þekkt með þokkalegri vissu hjá stórnotendum, en mikil óvissa er um langtímaþróunina (næstu 10 ár). Sem dæmi má taka tilraunir móðurfyrirtækja álveranna hérlendis með eðalskaut. Hugsanlega verður gerð tilraun hérlendis með slíka tækni innan 10 ára, og m.v. sama framleiðslumagn mun þá raforkunotkunin vaxa að óbreyttri framleiðslu, því að engin teljandi hitaorka kemur frá bruna eðalskauta eins og frá kolaskautunum nú, sem brenna upp á tæplega einum mánuði. Mismuninn þarf að vinna upp, ef viðhalda á rafgreiningu í núverandi efnaupplausn, væntanlega með hærri spennu yfir rafgreiningarkerin (auknu spennufalli), sem krefst aukins afls við óbreyttan straum (framleiðslu).
Þá er í skýrslunni næst með réttmætum hætti bent á bresti varðandi fjármögnun Landsnets:
"Allar fjárfestingar í flutningskerfinu eru greiddar af raforkunotendum, og er því lykilatriði, að forsendur fjárfestingarákvarðana séu traustar. Ljóst er, að undirliggjandi þörf á uppbyggingu á raforkuflutningskerfinu er umtalsverð. Við slíkar aðstæður er óeðlilegt, að núverandi raforkunotendur standi undir allri fjárfestingunni."
Í Kerfisáætlun Landsnets eru áform fyrirtækisins tíunduð. Þar er um að ræða fjárfestingar til að mæta aflþörfinni, og leggur Landsnet sína eigin aflspá og skráða bilanatíðni til grundvallar niðurröðun framkvæmda í tímaröð. Er einkennilegt, að í skýrslu SI skuli ekki vera minnzt einu orði á Skammtíma- og Langtímakerfisáætlun Landsnets í samhengi við Orkuspárnefnd. Sýnir það ójafnvægi í skýrslunni, þar sem faglega þyngd á rafmagnssviði virðist vanta í hóp skýrsluhöfundanna. Þar með fær skýrslan hagfræðilega slagsíðu, þar sem rangri hagfræði er beitt á viðfangsefnin.
Af nauðsynlegum umbótaverkefnum í Kerfisáætlun Landsnets má nefna 220 kV línu frá aðveitustöð á Brennimel og norður að Rangárvöllum við Akureyri, þar sem aflskortur hefur allt og lengi háð atvinnuþróun með tilheyrandi tapi fyrir íbúana, sveitarfélagið og hagkerfi landsins.
Þá þarf að spennuhækka 33 kV kerfi Vestfjarða upp í 66 kV (fjórfaldar aflflutningsgetuna) og færa í jörð til að ná viðunandi rekstraröryggi. Hröð og ánægjuleg atvinnuuppbygging á Vestfjörðum með tugmilljarða viðbót gjaldeyristekna kallar á þessar brýnu aðgerðir. Það er til vanza, hversu mikillar olíubrennslu er þörf á Vestfjörðum til raforkuvinnslu í neyðarrafstöðvum. Vesturlína er ótrygg, og þess vegna vilja flestir Vestfirðingar fjölga vatnsorkuverum þar. Þar eiga þeir nokkurra kosta völ. Vilji heimamanna í atvinnumálum og orkumálum á að vega þyngst. Núverandi rafkerfi Vestfjarða stendur atvinnuþróun þar fyrir þrifum. Skýrsla SI minnist ekkert á þetta. Búa höfundarnir í fílabeinsturni ? Til hvers var þessi skýrsla ætluð ? Til að koma á framfæri sérvitringsviðhorfum á sviði, sem höfundarnir hafa ekki vit á ?
Orkustofnun hefur of strangt taumhald á viðhaldi og nýframkvæmdum Landsnets. Fyrirtækið verður að fá að dreifa kostnaðinum á lengra tímabil með lántökum til arðbærra fjárfestinga. Neytendur eru viðkvæmir og óvarðir fyrir hækkunum á gjaldskrám fyrirtækisins vegna einokunarstöðu þess.
Í neðangreindu er komið við kaun stjórnvalda, en þó ekki rætt nægilega opinskátt um flækjurnar, sem stjórnvöld verða að greiða úr, svo að uppbygging innviða geti gengið greiðlegar án þess að flækjufætur þvælist fyrir sjálfsögðum framfaramálum:
"Ljóst er, að þörfin er mikil og nauðsynlegt að ráðast í styrkingu og/eða uppbyggingu kerfisins, og samhliða þarf að rýna, hvað stjórnvöld geta gert til að liðka fyrir slíkum framkvæmdum. Í því skyni þurfa stjórnvöld að koma að vali varðandi uppbyggingu meginflutningskerfisins. Finna þarf leiðir til að leyfisveitingar gangi betur fyrir sig og taki skemmri tíma, og tryggja þarf samræmi í vinnubrögðum milli aðila, sem koma að ferlinu. Bæta þarf vinnu við undirbúning framkvæmda, sem ætti að gera alla málsmeðferð hraðari og skilvirkari. Hér þarf hugsanlega að finna skýrara ferli og einfaldara lagaumhverfi."
Nú vinnur Landsnet að því að straumlínulaga ferli og búa til hraðvirkara ferli fyrir verkefni, sem ekki útheimta nýja virkjun. Öflug tenging Eyjafjarðar var dæmi um það, en þörfin þar og annars staðar hefur vaxið mikið og mun vaxa til 2021-2022, svo að umframafl í kerfinu mun ekki hrökkva til. Afl- og orkuskortir blasir við.
Næst á eftir tengingu Eyjafjarðar frá vestri (2024) og austri (2021), sem dregizt hefur úr hömlu og þarf í raun að flýta, þarf að taka afstöðu til þess, hvernig loka á Byggðalínuhringnum í annað sinn í sögunni. Þar er val um 220 kV línu frá Sigöldu austur um yfir erfitt og viðkvæmt land austur að Hryggstekk í Skriðdal, eða jafnstraumsjarðstreng frá aðveitustöð, t.d. innarlega í Bárðardal, og suður að Þjórsár/Tungnaársvæðinu. Sá kostur er dýr (um mrdISK 40), en ekki mikið dýrari en hinn og hefur marga kosti, rekstrarlega og umhverfislega umfram loftlínukostinn um S-Austurland. Í báðum tilvikum þarf 220 kV línu frá Fljótsdalsvirkjun að Hryggstekk til að anna vaxandi almennri raforkunotkun á Austurlandi (laxeldi o.fl). Ákvörðun um þetta þarf að taka um miðjan næsta áratug.
Sumir hérlendis halda, að orkukræfum iðnaði hafi verið úthýst frá Evrópu m.a. af umhverfisástæðum. Það er öðru nær, enda eru slíkar verksmiðjur mikilvægur stólpi í þekkingarklösum og framleiðslukeðjum, sem veita fjölbreytilegu starfsfólki vinnu og skapa mikil verðmæti. Þess vegna var vel til fundið hjá SI að vekja athygli á, að í Evrópu er reynt að halda verndarhendi yfir orkukræfum verksmiðjum með því í raun og veru að niðurgreiða raforkuverð til þeirra. Nú höfum við jafnframt séð, að einhvers konar ívilnanir fara fram til garðyrkjubænda, t.d. í Hollandi Danmörku og Noregi, sem fá fá rafmagnið mun ódýrar en íslenzkir garðyrkjubændur (40 % munur, Bbl. 07.11.2019). Sýnir það vel villigöturnar, sem Landsvirkjun er á við verðlagningu afurða sinna, sem gerir fyrirtæki hér ósamkeppnishæf við núverandi markaðsaðstæður (20 % lægra í miðborg Stokkhólms til gagnavers en hérlendis (F.bl. 11.11.2019).
"Því er mikilvægt að hafa í huga, að í það minnsta [í] 11 [af] nágrannaríkjum Íslands standa stjórnvöld að endurgreiðslum vegna raforkukostnaðar, og hefur oftar en ekki verið litið framhjá þeirri endurgreiðslu í samanburði á raforkuverði. Þar er um að ræða aðgerðir til að sporna við s.k. kolefnisleka (e. carbon leakage), þar sem tilteknar atvinnugreinar njóta endurgreiðslna vegna orkunotkunar, þ.e. veigamikil[s] kostnaðar, sem orkuver í Evrópu hafa af kaupum á losunarheimildum innan ETS-kerfisins. Með kolefnislekalistanum er markmið ESB að sporna gegn því, að orkusækinn iðnaður færist úr álfunni vegna of hás framleiðslukostnaðar og þá oft til ríkja, sem grundvalla orkuframleiðslu meira og minna á jarðefnaeldsneyti eða óendurnýjanlegum orkugjöfum. Enda væri þá ETS-kerfið farið að vinna gegn markmiðum sínum um að draga úr hnattrænni losun gróðurhúsalofttegunda."
Með því að brjóta eigin reglur um bann við ríkisstuðningi við fyrirtæki á frjálsum markaði skekkir Evrópusambandið samanburð á raforkuverði á milli landa. Fyrir orkukræf fyrirtæki er sem sagt ómarktækt að skoða raforkuverð í orkukauphöll, t.d. Nord Pool, sem getur hæglega samsvarað 56 USD/MWh, heldur getur það verið talsvert lægra, e.t.v. 25 % lægra, og er það þá orðið nálægt verðinu, sem Landsvirkjun hefur þröngvað upp á íslenzku stóriðjufyrirtækin við endurskoðun orkusamninga þeirra. Þetta sýnir svart á hvítu, að þau og verkalýðsfélög, sem hafa af rekstrar- og atvinnuöryggi í verksmiðjunum miklar áhyggjur, hafa rétt fyrir sér, af því að þær verða að búa við talsvert lægra orkuverð hér til að vega upp á móti kostnaðarliðum, sem eru hærri hér. Þetta eru engin ný sannindi, en núverandi forstjóri Landsvirkjunar hlustar ekki, með voveiflegum afleiðingum fyrir atvinnulífið.
Á bls. 18 í skýrslu SI er enn tekið til við að japla á nauðsyn orkuviðskipta hérlendis í orkukauphöll án þess, að nokkur greining á því, hvernig markaðsstýrt kerfi raforkuvinnslu fellur að íslenzkum aðstæðum, sýni jákvæða niðurstöðu. Það er aftur á móti til um þetta greining, sem sýnir, að markaðsstýring hentar Íslendingum alls ekki. Um það er hægt að lesa í skýrslu Orkunnar okkar frá 16.08.2019 á vef samtakanna.
"Ólíkt því, sem hér þekkist, eiga viðskipti með raforku sér stað í gegnum markaði í mörgum nágrannaríkjum Íslands, þar sem verðmyndun er frjáls og gagnsæ. Á Íslandi væri ákjósanlegt að koma á skammtímamarkaði með raforku, sem myndi auka gagnsæi í verðmyndun á raforku. Með slíkum markaði gætu bæði raforkuframleiðendur og -kaupendur varið sig gegn áhættu, auk þess sem skammtímamarkaður með raforku er til þess fallinn að auka skilvirkni og samkeppni."
- Hér er enginn markaður, sem sér fyrir öruggum aðföngum frumorkunnar, sem víðast hvar er jarðefnaeldsneyti, heldur eru Íslendingar háðir duttlungum náttúrunnar varðandi innrennsli í miðlunarlón og innstreymi jarðgufu í gufuforðabúr jarðgufuvirkjana.
- Þessar tvær tegundir virkjana, vatnsfallsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir, hafa gjörólíka eðliseiginleika, sem ekki er tryggt, að markaðskerfi ESB sé hæft til að nýta með sjálfbærum hætti. Hætt er við, að markaðshlutdeild jarðgufuveranna minnki, en vatnsorkuverin munu koma hluta afgangsorku sinnar í verð. Vatnsorkuverin munu þó varla keyra hin í þrot, heldur hækka meðalverðið, svo að þau tóri. Iðnaðurinn mun tapa á dægursveiflum raforkuverðsins, en götulýsingin gæti orðið ódýrari. Iðnaðurinn þarf að móta viðbrögð sín, og þau munu kosta hann nokkuð. Almennt talað er erfitt að láta virkjanir svo ólíkrar gerðar keppa, svo að gagnast megi neytendum til lengdar. Fyrir þessu er t.d. gerð grein í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019.
- Á Íslandi er fákeppnisumhverfi á raforkumarkaði, sem ekki verður breytt með vanhugsuðum ráðum á borð við uppskiptingu Landsvirkjunar. Lögmál frjálsrar samkeppni munu þess vegna ekki virka hér neytendum í hag, eins og predikarar markaðstrúarinnar vilja vera láta. Ef Landsvirkjun verður sundrað, þá verður jafnframt að gefa öllum framleiðendum jafna stöðu á markaði, en nú má Landsvirkjun ekki eiga smásölufyrirtæki. Ef þetta kemst á, verður jarðgufan ósamkeppnishæf við vatnsorkuna vegna skorts á sveigjanleika. Afleiðingarnar eru lítt fyrirsjáanlegar, en munu leiða til enn meira markaðsráðandi stöðu vatnsaflsins. Í stað eins ráðandi vatnsorkufyrirtækis nú, sem hefur tregan aðgang að almenna markaðinum, koma fáein í fákeppni með ráðandi stöðu á markaði, og það getur hæglega leitt til verðhækkana til almennings. Hvorki Samkeppnisstofnun né Landsreglarinn munu ráða við þessar aðstæður, þegar Pandóruboxið hefur verið opnað í óvitaskap.
- Markaðsstýring raforkukerfisins hefur í ESB í sér fólginn nægjanlegan hvata til að orkufyrirtækin leggi út í nauðsynlegar fjárfestingar í tæka tíð. Svo verður ekki hér, því að aðdragandi virkjana er lengri hér og orka og afl næstu virkjunar verður dýrari en frá síðustu virkjun, öfugt við aðstæður meginlandsins. Orkuverðið má ekki lækka í þessu markaðsstýrikerfi, því að þá mun gæta enn meiri tregðu markaðsaðila til að reisa nýjar virkjanir, sem eru dýrari en þær, sem fyrir eru, á hverja kWh.
Í kaflanum "Upprunaábyrgðir raforku" er skrifað af nokkurri skynsemi um þetta fyrirbrigði, sem Evrópusambandið kom á koppinn til að örva orkuskiptin hjá sér, þótt fyrirbærið feli í sér brenglun á frjálsri samkeppni, því að sá sem sendir frá sér koltvíildi við orkuvinnsluna kaupir sér syndaaflausn af þeim, sem hafa fjárfest í vistvænum orkulindum, og viðskiptavinir þeirra sitja uppi með "Svarta-Péturinn". Það er tóm vitleysa, að Íslendingar taki þátt í þessari sýndarmennsku, því að hér standa menn ekki frammi fyrir vali á milli "svartrar" orku og hreinnar, en skýrsluhöfundar taka þó ekki af skarið um, að afnema beri þessi aflátsbréf með öllu hérlendis, enda gerast þessi viðskipti innan vébanda EES:
"Aðstæður eru með öðrum hætti hér í landi endurnýjanlegra orkugjafa, enda hafa orkuskipti í raforkuframleiðslu og raunar húshitun fyrir löngu átt sér stað. Engu að síður hafa íslenzk raforkufyrirtæki verið virk á þessum markaði. Slík sala upprunavottorða út fyrir landsteinana grefur undan ímynd Ísland sem lands endurnýjanlegrar orku.
10.11.2019 | 14:56
Orkuskýrsla SI - rýni III
Hér verður haldið áfram að rýna skýrslu Samtaka iðnaðarins um raforkumál frá 16.10.2019 og tekið til við kaflann "Uppbygging raforkumarkaðar". Þar segir í undirgreininni:
"Orkupakkar ESB og markaðsvæðing raforkukerfisins":
"Orka er skilgreind sem vara í skilningi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Með aðild Íslands að þeim samningi hefur íslenzka ríkið tekið á sig þær skuldbindingar að innleiða svokallaða orkupakka ESB, sem fela í sér regluverk, er viðkemur opnun raforkumarkaða og markaðsvæðingu þeirra."
Nær er að skrifa, að Evrópusambandið (ESB) skilgreinir orku sem vöru, og þar með fellur raforka undir allt regluverk fjórfrelsis Innri markaðar EES. Það er of langt seilzt í þjónkun við ESB að halda því blákalt fram, að aðild Íslands að EES skuldbindi landið til að taka upp og innleiða í sína löggjöf orkulöggjöf ESB, svo nefnda orkupakka. Ef þetta væri rétt, gæti framkvæmdastjórn ESB ákveðið upp á sitt eindæmi, hvaða löggjöf EFTA-löndin 3 í EES tækju upp úr safni ESB-löggjafar. Þar með væri jafnframt Sameiginlega EES-nefndin hreint formsatriði, stimpilstofnum fyrir mál, sem Framkvæmdastjórnin hefur merkt sem EES-mál. Hvað skyldu málsvarar EES hérlendis segja um þetta ? Þetta er alveg af og frá og skrýtið, að þessu skuli vera varpað fram sem túlkun SI á EES-aðild Íslands.
Um raforkumarkaðinn segir í skýrslunni:
"Markmið breytinga á raforkumarkaði endurspeglast í markmiðsákvæði raforkulaga, þar sem segir m.a., að stuðla skuli að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Í því skyni skal skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku með þeim takmörkunum, sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna, stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku, tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda, stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og loks taka tillit til umhverfissjónarmiða."
Hér kveður við nýjan tón í skýrslunni, því að ekki er þarna um að ræða skefjalausa markaðstrú, heldur skuli leitazt við að afhenda neytendum raforku á lágmarksverði (þjóðhagslega hagkvæmu) og beita takmörkunum á frjálsa samkeppni, sem túlka má sem markaðsstýringu með ívafi orkulindastýringar, þegar það á við. Þarna hefði að ósekju mátt skrifa skýrar. Þetta er of mikið, eins og komið hafi frá véfréttinni í Delphi, og er það, ásamt innbyrðis ósamræmi, ljóður á ráði skýrsluhöfunda. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er þessu lagaákvæði illa eða ekki fylgt af fyrirtækinu Orkuveitu Reykjavíkur gagnvart grænmetisbúinu Lambhaga í Reykjavík, eins og gerð verður grein fyrir í síðari pistli.
Í kaflanum "Opinbert eignarhald í orkufyrirtækjum"
er sett fram sjónarmið, sem hægt er að taka undir, og gæti verið lausn á furðulegri stöðu, sem upp er komin, af því að stjórn Landsvirkjunar leikur lausum hala, rekur verðlagsstefnu, sem vafasamt er, að njóti stuðnings á Alþingi, og hefur haldið uppi áróðri fyrir því að selja raforku úr landi um sæstreng, þótt sú afstaða njóti ekki almenns fylgis nú um stundir, enda vantar mikið á, að hún hafi verið rökstudd skilmerkilega (með hagkvæmniútreikningum):
"Mikilvægt er, að í þeim tilvikum, þar sem opinbert eignarhald er á fyrirtækjum, að sett sé samhliða stefnumörkun eigenda hverju sinni, þar sem fram koma með skýrum hætti markmið þeirrar starfsemi, áætlanir og samskipti við viðskiptavini þess, svo [að] dæmi séu tekin. Þess vegna hafa Samtök iðnaðarins kallað eftir eigendastefnu stjórnvalda fyrir orkufyrirtæki í beinni eða óbeinni eigu hins opinbera."
Það er brýnt, að stjórnvöld fari að sýna á spilin í þessari vinnu, og væntanlega mun Landsvirkjun þurfa að snúa við blaðinu, þegar eigandastefna hennar kemur fram, ef hún verður á annað borð bitastæð.
Það er einkennilega mikil áherzla í þessari skýrslu á samkeppni, og nokkur hrifning virðist hjá sumum höfundunum á orkupökkum Evrópusambandsins. Í kaflanum:
"Raforkumarkaður stuðli að samkeppni"
er minnzt á þetta "leiðarljós" orkupakkanna, sem undirstrikað sé í OP#2 frá 2003, en það ár var OP#1 innleiddur á Íslandi. Höfundarnir hafa tekið upp þetta trúaratriði úr orkupökkunum, þótt á Íslandi skorti forsendur fyrir því, að frjáls samkeppni virki í því fákeppnisumhverfi með tiltölulega litlum fyrirtækjum, sem hér er, enda tilfæra höfundarnir engar rannsóknir, er sýni fram á árangur af innleiðingu orkupakkanna á Íslandi.
Þvert á móti sýndi hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands fram á það í grein í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019, að raunorkuverð með flutningi og dreifingu hefði hækkað um 7 %- 8 % á tímabilinu 2003-2018. Þetta er alger öfugþróun, því að á þessu tímabili stórlækkuðu skuldir raforkugeirans sem heildar, en fjármagnskostnaður er stærsti kostnaðarliðurinn. Þetta er til marks um hækkun rekstrarkostnaðar með uppskiptingu fyrirtækjanna og sýnir svart á hvítu, að það gengur ekki upp að reyna að flytja hingað inn hugmyndafræði fyrir orkugeirann, sem sniðin er við allt aðrar aðstæður. Af sömu ástæðum myndi það gera illt verra, sem lagt er til í skýrslunni, að skipta núverandi Landsvirkjun upp. Þeir, sem halda slíku fram, berja hausnum við steininn.
Ekki verður séð, að SI þjóni hagsmunum umbjóðenda sinna með órökstuddum málflutningi, eins og þessum hér í ofangreindum kafla:
"Þegar eitt fyrirtæki á samkeppnismarkaði hefur yfir að ráða verulegri hlutdeild vatnsafls, er vandséð, að ávinningur frjálsrar samkeppni náist fram að fullu. Því þarf að skapa skilyrði til að auka samkeppni á raforkumarkaði, og er aðhald Orkustofnunar og samkeppnisyfirvalda því mikilvægara en ella. Mikilvægt er að skapa skilyrði til að auka samkeppni á raforkumarkaði, en um leið að stuðla að samkeppnishæfni í alþjóðlegu samhengi."
Þessi síbylja um "ávinning frjálsrar samkeppni" á íslenzka raforkumarkaðinum er bábilja. Rafmagnfyrirtækin eru hátæknifyrirtæki, sem ríður á að laða til sín hæfileikafólk og þróa sína tæknilegu innviði. Þetta verður ekki gert með því að sneiða þau niður í enn smærri einingar. Máttur stærðarinnar fyrir samkeppnishæfni þeirra (og viðræðuhæfni) í alþjóðlegu tilliti vegur miklu þyngra en að fjölga þeim. Vandamál Landsvirkjunar er allt annars eðlis og verður betur leyst með öðru móti, eins og drepið hefur verið á.
Fjórði og lokahluti þessarar rýni á nýrri skýrslu SI mun birtast í næsta pistli höfundar þessa vefseturs.
7.11.2019 | 15:08
Stefna SI um raforku - rýni II
Í skýrslu Samtaka iðnaðarins - SI um raforkumál frá 16.10.2019 er næst á eftir Innganginum gerð grein fyrir "Stefnu Samtaka iðnaðarins á sviði raforkumála". Hún er í 11 liðum, og verður hér fjallað um hvern fyrir sig:
- "Raforka framleidd á Íslandi sé nýtt til verðmætasköpunar innanlands, því [að] öflugur iðnaður er undirstaða búsetu og verðmætasköpunar." - Þetta er alveg rétt, en í skýrslunni hefðu þurft að koma fram útreikningar, sem sýna, að andstæðan, útflutningur rafmagns um sæstreng, verður fyrirsjáanlega ekki þjóðhagslega hagkvæmur. Nú er komið í ljós, að verðlagning OR á heitu vatni og rafmagni er framleiðslufjandsamleg í samanburði við verðlagninguna í Noregi og Hollandi, en rafmagnsverðið til garðyrkjustöðvar í Reykjavík er 65 % hærra en til garðyrkjustöðvar í Noregi samkvæmt viðtali við garðyrkjubóndann í Lambhaga í Reykjavík í Bændablaðinu 07.11.2019. Þetta sýnir tvískinnunginn hérlendis í umræðunni um losun gróðurhúsalofttegunda, því að afleiðing óskynsamlegrar orkuverðlagningar er tilfinnanlegur missir markaðshlutdeildar íslenzkra framleiðenda hérlendis.
- "Horft verði til arðsemi af framleiðslu og flutningi raforku á Íslandi í víðu samhengi, ekki eingöngu út frá hagsmunum einstakra orkufyrirtækja, heldur þjóðarbúsins í heild." Þetta er gríðarlega mikilvægt, að hljóti brautargengi sem þáttur í orkustefnu hins opinbera núna, þegar Landsvirkjun predikar hámörkun á arðsemi orkulindanna til að réttlæta gríðarlegar og óverjandi hækkanir til iðnaðarins. Það er forkastanlegt, að ríkisfyrirtæki skuli komast upp með svo þröngsýna stefnu, sem aðeins miðar við að hámarka arðgreiðslur í "þjóðarsjóð", sem vilji er innan ríkisstjórnarinnar til að stofna. Langþráð eigendastefna Landsvirkjunar verður að vinda ofan af þessari sérvizku forstjórans, sem hlýtur þó að njóta stuðnings stjórnar Landsvirkjunar, en hver er stefna iðnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra ? Af hverju láta þau það viðgangast árum saman, að stefna Sjálfstæðisflokksins frá stofnun Landsvirkjunar 1965 um að gera raforkusölusamninga til langs tíma, sem báðir mættu vel við una, sé fótum troðin af manni, sem ráðinn var að Landsvirkjun 2010 í valdatíð Steingríms J. Sigfússonar sem "yfirráðherra" vinstri stjórnarinnar 2009-2013 ? Þessi maður hafði aldrei að orkumálum komið, en tjáð sig opinberlega með neikvæðum hætti um orkusækinn iðnað í tíma og ótíma.
- "Samkeppnishæft raforkuverð í alþjóðlegu samhengi sé tryggt vegna þess mikilvæga ávinnings, sem hlýzt af raforkunýtingu í fyrirtækjum á Íslandi." Hér þarf að taka fram, hvaða "alþjóðleg[a] samhengi þetta er. Fyrir flest iðnfyrirtæki er það væntanlega Innri markaður EES, en einnig Bandaríkin, Rússland, Asía o.fl. Fyrir álverin er samkeppnisumhverfið t.d. Persaflóaríkin og Kína, því að íslenzk álver keppa á mörkuðum við álver þaðan. Orkuverð til þeirra er lægra en það, sem orðið hefur ofan á við framlengingu orkusamninga Landsvirkjunar. Ætti það að klyngja aðvörunarbjöllum, því að allir aðrir kostnaðarliðir eru jafnframt lægri, nema fyrir kælivatnið. Landsvirkjun er í einokunarstöðu, þegar kemur að framlengingu orkusamninga og hefur ekki sýnt næga ábyrgðartilfinningu í þeirri stöðu m.t.t. langtímahagsmuna landsins. ON/Veitur eru að selja Gróðrarstöð í Reykjavík rafmagn á 10,4 ISK/kWh, en norsk gróðrarstöð fær rafmagnið á jafngildi 6,3 ISK/kWh. Hollenzk gróðrarstöð fær rafmagnið á ívið lægra verði en sú norska og dönsk stöð á ívið hærra verði. Verðlagning orku til íslenzkra framleiðslufyrirtækja er komin í algerar ógöngur og er að eyðileggja samkeppnishæfni Íslendinga. SI og öll samtök framleiðenda hérlendis verða að skera upp herör gegn þröngsýnni verðlagsstefnu orkufyrirtækjanna, því að ella mun hún leggja framleiðslustarfsemina í rúst.
- "Efnahagslegur ávinningur raforkuvinnslu og raforkunýtingar á Íslandi verði veginn með umhverfissjónarmiðum og loftslagsávinningi með skynsömum og hagkvæmum hætti". - Það þarf að reikna út þennan efnahagslega ávinning út frá þeirri verðmætasköpun, sem mikil raforkuvinnsla gerir mögulega, og bera hana saman við raforkuvinnslu inn á aflsæstreng til útlanda og/eða "eitthvað annað", sem í seinni tíð hefur verið flutningur og móttaka erlendra ferðamanna. Hefði að ósekju mátt sjást tilraun til þess í þessari skýrslu SI. "Umhverfiskostnaðurinn" við orkuvirkjanir er óvíða meiri en hér vegna inngripa í viðkvæma náttúru, sem eru óhjákvæmilegur fylgifiskur virkjana hérlendis. Þó er fjöldi vindmyllna og sólarhlaða í Evrópu nú kominn að þolmörkum í huga almennings. Í Rammaáætlun er gerð tilraun til að leggja mat á umhverfiskostnaðinn, og eðlileg viðmiðun er, að hann megi aldrei vera meiri en núvirt verðmætasköpun virkjunar. Ef umhverfiskostnaðurinn er hærri, ber að setja virkjunarkostinn í verndarflokk. Ekki er víst, að Landsreglarinn muni virða þessa reglu eftir innleiðingu OP#4 (Hreinorkupakkans), því að eftir það þarf mjög sterk rök til að standa gegn virkjun endurnýjanlegra orkulinda og tengingu þeirra við stofnkerfið gegn föstu gjaldi, óháð vegalengd að virkjun. Loftslagsávinninginn er vissulega hægt að verðleggja líka. Framleiðsla áls á Íslandi sparar t.d. á hverju ári losun gróðurhúsalofttegunda, sem nemur 2,5 faldri losun Íslendinga á landi m.v. framleiðslu áls með rafmagni frá kolakyntu orkuveri. Íslenzki grænmetismarkaðurinn nemur um 25 kt/ár, og reikna má með, að flutningur á slíku magni til landsins mundi valda losun á 100 kt/ár CO2. Þetta er um 10 % af árlegri losun vegumferðar á Íslandi um þessar mundir, og íslenzkir grænmetisbændur eru þá með sinni 52 % markaðshlutdeild að spara losun rúmlega 50 kt/ár CO2 eingöngu vegna minni millilandaflutninga, en þetta má sennilega tvöfalda, af því að flestir erlendir kollegar þeirra fá orkuna til sinnar framleiðslu að mestu leyti frá jarðefnaeldsneyti. Að fá ekki vatni haldið yfir gróðurhúsaáhrifum á hlýnun jarðar og að leggja ylræktina hérlendis í rúst fer ekki saman.
- "Gengið verði lengra í aðskilnaði framleiðslu og flutnings raforku á Íslandi og tengsl milli Landsvirkjunar og Landsnets verði rofin til að tryggja gagnsæi og heilbrigðan raforkumarkað." - Ísland bað um og fékk undanþágu hjá Sameiginlegu EES-nefndinni á eignarhaldslegum aðskilnaði Landsnets, LN, og orkuvinnslufyrirtækjanna LV, ON, RARIK, HS og OV. Til að breyta þessu eignarhaldi þarf að kaupa gömlu eigendurna út, en nýi eigandinn má ekki eiga hagsmuna að gæta sem núverandi eða tilvonandi viðskiptavinur LN. Það má út af fyrir sig hugsa sér að bjóða LN út á EES-markaðinum, en það er ólíklegt, að fjárfestar hafi áhuga, því að LN er einokunarfyrirtæki og starfar undir ströngu eftirliti Orkustofnunar, nú Landsreglarans, um tekjumörk. Gróðavonin þar er varla fyrir hendi. Þá er eiginlega ríkissjóður einn eftir. Hann á að vísu mikilla hagsmuna að gæta í orkuvinnslufyrirtækjunum flestum, en enginn veit, hversu lengi það varir, því að með bréfi ríkisstjórnarinnar 19.05.2016 til ESA samþykkti hún kröfur ESA um að veita einkafyrirtækjum, væntanlega innan EES, jafnstöðu á við ríkisfyrirtæki við úthlutun nýtingarréttinda náttúruauðlinda hvers konar.
- "Ferlið við tekjumörk [afmörkun tekna-innsk. BJo] Landsnets sé gagnsætt og fyrirsjáanlegt, og að sú arðsemi, sem Landsneti er leyfð [afmörkuð], ráðist af raunverulegum fjármagnskostnaði fyrirtækisins, en sé ekki fræðileg stærð, sem byggir á matskenndum þáttum." - Það, sem skiptir máli í þessu sambandi, er, að Orkustofnun fer yfir fjárfestingaráætlanir Landsnets og hefur neitað fyrirtækinu um leyfi til að endurnýja gamlan búnað, þótt nauðsynlegt sé að endurnýja hann til að viðhalda rekstraröryggi fyrirtækisins. Þetta nær engri átt, því að sérfræðiþekkingin er hjá Landsneti, en ekki Orkustofnun, í þessu tilviki. Þess vegna er nú orðin uppsöfnuð fjárfestingarþörf hjá Landsneti, sem væntanlega mun endurspeglast í gjaldskránni, er frá líður. Í nafni afhendingaröryggis raforku verður Landsnet að fá rýmri fjárheimildir. Hvernig tekjumörkin verða reiknuð, er nú viðfangsefni Landsreglarans að gefa út.
- "Skilyrði verði sköpuð til að auka samkeppni meðal raforkuframleiðenda á Íslandi, sem þýðir, að minnka þarf hlutdeild þess fyrirtækis, sem er með yfir 70 % markaðshlutdeild." - Hér slær út í fyrir SI. Það er engin greining fyrir hendi, sem sýnir, að einkavæðing á hluta Landsvirkjunar mundi verða neytendum hagfelld. Þessu afdrifaríka stefnumiði er slegið ábyrgðarlaust fram í trúarhita, en ekki gætt að sérstöðu íslenzka raforkumarkaðarins. Að fjölga birgjum um einn á þessum markaði breytir honum ekki úr fákeppnismarkaði. Það, sem tapast, er hagkvæmni stærðarinnar, sem er veruleg í þessum geira, og þekking tvístrast, t.d. á orkulindastýringu, sem lengi hefur verið aðalsmerki Landsvirkjunar. Landsvirkjun er skuldbundin til orkuafhendingar samkvæmt nokkrum langtímasamningum, og sumir þeirra eru tengdir nokkrum mannvirkjum. Hvernig eiga nýju fyrirtækin að geta staðið við skuldbindingar þess gamla ? Það er óhugsandi, og slík uppskipting er riftunarástæða gagnaðilans án nokkurra skuldbindinga. Hér hafa markaðskálfar hlaupið út um víðan völl og dottið ofan í skurð. Nú fara "loksins" í hönd tímar mikillar arðsemi fjárfestingar í þeirri náttúruauðlind landsins, sem vatnsorkan er. Þá koma fram arfaslakar hugmyndir um stofnun sjóðs fyrir arðgreiðslur ríkisorkufyrirtækja annars vegar og sölu á hluta stærsta fyrirtækisins hins vegar. Miklu nær er að láta þjóðina njóta góðs af beint með lækkun raunorkuverðs. Sjóðsstofnun mun kalla á hækkun raunorkuverðs, og sjóði fylgir ávöxtunaráhætta auk þess, sem fé er tekið út úr hagkerfinu á tímum mikillar uppbyggingarþarfar innviða. Það er út í hött að rökstyðja íslenzkan "orkusjóð" með olíusjóðnum norska. Þar er "námugröftur" á ferð, og Norðmenn miðla auðæfunum með þessum hætti til komandi kynslóða. Sama aðferð á ekki við um endurnýjanlegar náttúruauðlindir. Ef Landsvirkjun verður sundrað, verður að gefa öllum orkuvinnslufyrirtækjunum jafna stöðu á markaði, en nú má Landsvirkjun ekki eiga smásölufyrirtæki, eins og hin fyrirtækin mega. Ef þessi arfaslaka hugmynd verður að raunveruleika, þá verður jarðgufan ósamkeppnishæf við vatnsföllin vegna skorts á sveigjanleika. Orka jarðgufustöðvanna er einfaldlega ekki eins verðmæt og orka vatnsorkuveranna. Þetta mun líklega leiða til verðhækkana á markaði. Þannig leiðir blindur haltan, ef sundrun Landsvirkjunar verður framkvæmd í nafni neytendaverndar.
- "Leitað verði til raforkunotenda á Íslandi við vinnslu orkuspáa, svo [að] ekki komi til þess, að skortur verði á raforku, sem hamlar verðmætasköpun." - Þetta er gott og blessað, en allsendis ófullnægjandi. Hættan á orkuskorti er yfirvofandi, svo lengi sem hvorki gengur né rekur með nýjar virkjanir yfir 10 MW. Þegar Landsreglarinn hefur aðlagað íslenzka raforkumarkaðinn að Innri markaði ESB með því að koma á laggirnar markaðsstýringu raforkuvinnslunnar, þá mun hættan á vatnsskorti miðlunarlóna stóraukast, því að orkulindastýring Landsvirkjunar verður þar með lögð fyrir róða, illu heilli. Þá þarf aðili á vegum ríkisins að hafa vald til að grípa í taumana og stýra vatnstöku úr lónum. Það er hægt að gera með því að beita markaðslögmálum. Ríkið á öll helztu miðlunarlónin, getur yfirtekið þau og verðlagt vatnið eftir aðstæðum. Sem dæmi kostar það ekkert snemmsumars, þegar horfur eru á fyllingu, en tekur að kosta á haustin og verður dýrast á útmánuðum. Hættan á orkuskorti verður þó ekki veruleg með landið ótengt erlendum rafkerfum, því að raforkuframleiðendur eru skuldbundnir til stöðugrar orkuafhendingar samkvæmt veigamiklum (>80 % hlutdeild) langtímasamningum. Freistingin til að tæma lónin getur orðið óviðráðanleg eftir aflsæstrengstengingu við útlönd.
- "Regluverk sé skýrt, og eftirlit með íslenzkum raforkumarkaði sé virkt og skilvirkt, en ekki íþyngjandi." - Ekki er áberandi, að þessu hafi verið ábótavant á undanförnum árum, en með tilkomu Landsreglarans undir stjórn ESA/ACER verður breyting, og þá gæti eftirlitið orðið þyngra í vöfum, nákvæmara og dýrara, t.d. með einokunar- og sérleyfisfyrirtækjunum.
- "Settur verði á fót skammtímamarkaður með raforku líkt og í nágrannaríkjum Íslands, þar sem raforka er keypt og seld á markaði, sem einkennist af frjálsri verðmyndun og gagnsæi." - Það er ekki með ábyrgum hætti hægt að rökstyðja orkukauphöll á Íslandi með vísun einvörðungu til "nágrannaríkja Íslands". Hvers vegna er það ábyrgðarlaust ? Það er vegna þess, að orkukerfi Íslands er einstætt og ólíkt orkukerfum allra annarra Evrópuríkja. Þess vegna þarf að fara fram greining á því, hvers konar fyrirkomulag hentar íslenzkum neytendum bezt. Vísi að henni er að finna í skýrslu Orkunnar okkar frá 16.08.2019. Þar er komizt að þeirri niðurstöðu, að slíkur "skammtímamarkaður" verði að vera með ívafi orkulindastýringar, en sá er galli á gjöf Njarðar, að slík tíðkast ekki á Innri markaðinum og verður sennilega dæmd brjóta í bága við reglur hans um frjálsa samkeppni.
- "Ákvarðanir um uppbyggingu og viðhald raforkuflutningsmannvirkja byggi á skýrum hagkvæmnis- og umhverfissjónarmiðum." - Vandamálið við þetta er, að ákvarðanir eru kæranlegar, sem tafið getur mjög fyrir framkvæmdum og gert þær dýrari en ella, auk þess sem tafirnar geta og hafa valdið búsifjum hjá orkunotendum, sem hafa lent í orkusvelti eða óþolandi truflunum á orkuafhendingu. Hvernig þvælzt er fyrir bráðnauðsynlegum framfaramálum almennings í nafni einkaeignarréttar og jafnvel einstaklingsfrelsis hefur gengið allt og langt og verður að setja þröngar skorður eftir samþykki Skipulagsstofnunar ríkisins og framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarfélaga.