Fjárfestingar í raforkukerfinu

Nú er lag að fjárfesta í arðbærum verkefnum og samfélagslega nauðsynlegum verkefnum.  Ástæðurnar eru sögulega lágir vextir og slaki í hagkerfinu af völdum alþjóðlegra sóttvarna, sem hafa leitt til gríðarlegs atvinnuleysis, enda er nú hugur í mönnum hjá orkufyrirtækjunum, sbr þrífösun sveitanna og fækkun loftlína með jarðstrengjum.  Þó er Orkuveita Reykjavíkjur (OR) sér á báti í þessum efnum, og boðskapur forstjóra hennar, Bjarna Bjarnasonar, stingur í stúf við t.d. boðskap Samorku og áform annarra orkufyrirtækja. 

Bjarni Bjarnason bendir réttilega á, að spurn eftir raforku hafi á þessu ári dregizt saman um 1,5 TWh/ár (terawattstund á ári), sem nemur 7,5 % af framleiðslugetu raforkukerfisins.  Hann staðhæfir, að raforkuverð á Íslandi sé ekki lengur samkeppnishæft á alþjóðlegum markaði.  Þessi yfirlýsing hans er mjög mikilvæg, og það er hið markaðsleiðandi fyrirtæki á íslenzka raforkumarkaðinum, sem ber höfuðsök þessarar þróunar, sem er atlaga gegn íslenzku atvinnulífi.

Þótt Ísland sé ekki beintengt við erlend raforkukerfi, er íslenzk raforka samt í samkeppni á t.d. Innri markaði EES, af því að þangað fer mikið af íslenzkri framleiðslu, sem notar rafmagn. 

Þrátt fyrir að óbjörgulega horfi nú um stundir á raforkumarkaðinum, verður að vona og gera ráð fyrir, að viðkomandi ráðherrar, þ.e. formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sem ásamt öðrum Alþingismönnum, sem eru fulltrúar eigendanna, komi vitinu fyrir stjórn Landsvirkjunar eða leysi hana frá störfum ella, því að yfirverðlagning Landsvirkjunar er að valda þjóðfélaginu stórtjóni og mun halda aftur af þeirri viðspyrnu, sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur boðað og er öllum nauðsynleg. 

Nú er atvinnuleysi orðið svo víðtækt á Íslandi af völdum sóttvarnaraðgerða, að horfir til þjóðarböls.  Þetta böl er verra en Kófssjúkdómurinn sjálfur.  Með öllum ráðum þarf að létta þetta böl.  Það er m.a. hægt að gera með því að beita Landsvirkjun til að lækka orkukostnað fyrirtækja og heimila í landinu.

Nú verður vitnað í Markaðinn frá 24. september 2020 undir fyrirsögninni:

"Telur orkuverðið til stóriðju orðið of hátt".

Þessi frétt Fréttablaðsins hófst þannig:

"Raforkusamningar við stórnotendur á Íslandi, sem hafa verið endurnýjaðir á síðustu árum, hafa gert það að verkum, að raforkuverð er ekki lengur samkeppnishæft við verð erlendis.  Af þeim sökum er einsýnt, að fleiri stórnotendur á Íslandi lendi í rekstrarvanda á næstunni.  Þetta er [á] meðal þess, sem kemur fram í umsögn Bjarna Bjarnasonar, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, um Kerfisáætlun Landsnets fyrir árin 2020-2029, sem Fréttablaðið hefur undir höndum.

Í umsögninni segir, að bæði kísilverin á Íslandi, við Helguvík á Suðurnesjum og á Bakka við Skjálfanda, hafi nýlega stöðvað starfsemi.  Þar að auki hafi álver Rio Tinto við Straumsvík dregið mjög úr framleiðslu, og að gagnaverin á Íslandi hafi dregið úr rafmagnskaupum sínum um þriðjung."

Hér gætir mikillar svartsýni á þróun efnahagsmála á Íslandi.  Svona skipstjóri í stórsjó mundi telja tilgangslaust að ausa skektuna og að róa lífróður. Fjármála- og efnahagsráðherra aftur á móti boðar viðspyrnu.  Ástandið á raforkumarkaðinum er að miklu leyti afleiðing af ofurverðlagningu Landsvirkjunar á raforku, sem er úr öllum takti við það, sem gerzt hefur undanfarið ár, t.d. í Noregi og Svíþjóð.  Verðlagning og stirðbusaháttur Landsvirkjunar gagnvart álverunum hér SV-lands og Elkem Íslandi á Grundartanga, gagnaverum o.fl., hefur þegar valdið hér stórtjóni, minni umsvifum og minni fjárfestingum en ella. 

"Að þessu samanlögðu nemur samdráttur í raforkukaupum á Íslandi um 1,5 TWh/ár eða um 7,5 % af árlegri vinnslugetu raforku á Íslandi. Bjarni bætir því jafnframt við í umsögn sinni, að "ekki sé ólíklegt, að álveri Rio Tinto verði lokað á  næstunni", en það myndi þýða, að um 22 % af því rafmagni, sem hægt er að vinna á landinu m.v. núverandi uppsett afl, verði hreinlega óseld."

Hérna er farið frjálslega með.  Hvaðan hefur Bjarni Bjarnason það, að búast megi við lokun ISAL "á næstunni", og hvað er "á næstunni" í hans huga ?  Þótt Rio Tinto hafi afskrifað ISAL í bókum samstæðunnar, hefur stjórn hennar enn hug á að framleiða þá hágæðavöru á Íslandi, sem nú er framleidd í Straumsvík.  Rio Tinto/ISAL-samstæðan  telur sig hins vegar misrétti beitta af hálfu Landsvirkjunar og hefur kært framferði hennar til Samkeppnisstofnunar. Landsvirkjun kann að gera  Rio Tinto ókleift að starfa hér með því að þverskallast við að aðlaga raforkuverðið að heimsmarkaði, og þá verður lokun eigi síðar en 2024, en þá opnast gluggi til endurskoðunar samninga. Deilur við verkalýðsfélögin núna kunna reyndar að setja nýtt strik í reikninginn.  Verkföll eru viðurkennd "force majeure" leið til að stöðva starfsemi.  Það er mjög dýrt að endurgangsetja álver, og slíkt verður ekki farið út í, nema horfur séu á arðbærum rekstri.  

Hlutfallið 22 % af orkuvinnslugetu landsins til Straumsvíkur er löngu úrelt.  Þegar Rio Tinto hætti  við að styrkja straumleiðara kerskála 1 & 2 í Straumsvík, var hluta af umsaminni afl- og orkuaukningu skilað til baka og greiddar skaðabætur vegna óseldrar orku á samningstíma.  Hlutfall ónotaðrar orku í kerfinu vegna lokunar ISAL mundi nema tæplega 17 %. Landsvirkjun má hins vegar ekki ráðstafa 85 % af þessari orku, á meðan hún rukkar Rio Tinto/ISAL fyrir hana (kaupskylda eftir lokun), svo að það er allsendis ótímabært að flækja þessu máli inn í vangaveltur um virkjanaþörf o.þ.h. Hvað téðum forstjóra gengur til með því að vaða á súðum, eins og hann gerir, er óljóst: 

"Í umsögn Bjarna segir jafnframt, að "taumlaus uppbygging áliðnaðar í Kína" valdi því, að alþjóðlegur álmarkaður sé afar erfiður um þessar mundir og að ekkert bendi til þess, að landið fari að rísa í bráð.  Forstjórinn nefnir einnig, að áliðnaður á Vesturlöndum gæti hreinlega lagzt af, ef staða álmarkaða lagist ekki á næstu árum, og eigi það hugsanlega einnig við um álver Alcoa á Reyðarfirði og Norðurál við Grundartanga."

Þetta er svartagallsraus í forstjóra OR.  Álverðið hefur braggazt síðsumars og í haust.  Dettur nokkrum  heilvita manni í hug, að hinum strategískt mikilvæga áliðnaði í Evrópu verði leyft að lognast út af eða hann verði fluttur annað.  Evrópusambandið mun vinna gegn slíku, og þar á bæ er nú þegar rætt um að setja kolefnistoll á innflutt ál inn á Innri markaðinn.  Slíkt mun skakka leikinn, sem er mjög ójafn og ósanngjarn núna.

Þá má benda á nýlegt viðtal í Fréttablaðinu við Gunnar Guðlaugsson, forstjóra Norðuráls, þar sem hann lýsir bjartsýni sinni um framtíð álframleiðslu í Evrópu á grundvelli gæða, sérhæfingar og "grænnar" raforku. Líklegt má telja, að Evrópa verði í fararbroddi þróunar kolefnisfrírrar álframleiðslu, en tilraunaverksmiðja með s.k. eðalskaut mun hefja starfrækslu í rannsóknarmiðstöð Rio Tinto í Frakklandi á næsta ári. 

"Tilefni umsagnar Bjarna er fyrirætlun Landsnets um að fjárfesta fyrir um mrdISK 90 í flutningskerfi raforku á Íslandi á næstu 10 árum.  Bjarni segir í samtali við Fréttablaðið, að þetta myndi þýða, að efnahagsreikningur Landsnets myndi u.þ.b. tvöfaldast.  Flutningskostnaður, sem Landsnet rukkar viðskiptavini sína um, ákvarðast aðallega af eignastofni fyrirtækisins, og þar af leiðandi myndi flutningskostnaður viðskiptavina óumflýjanlega hækka."

Hér er ýmislegs að gæta.  Framkvæmdir Landsnets á síðasta áratugi lágu að miklu leyti í láginni, og þess vegna er brýnt að stöðva fyrirtækið ekki núna með áform sín um að meðaltali 9,0 mrdISK/ár fjárfestingar næsta áratuginn.  Það veitir ekki af þeirri miklu aukningu, sem þar er áformuð, til að reisa nýja og öflugri Byggðalínu frá Hvalfirði til Skriðdals og til að styrkja flutningskerfi Vestfjarða verulega, en þar er afhendingaröryggi raforku óviðunandi og reyndar ekki mannsæmandi. Landsnet getur bætt verulega úr skák, en vegna veikleika í Vesturlínu þurfa Vestfirðingar að verða sjálfum sér nógir um rafmagn fyrir vaxandi íbúafjölda, sífellt öflugra atvinnulíf og orkuskiptin. Þetta eru bara 2 dæmi um fjölmargar áætlaðar framkvæmdir í Kerfisáætlun Landsnets.   

Það er rangt, að flutningsgjald Landsnets þurfi óhjákvæmilega að hækka vegna þessarar innspýtingar í framkvæmdir.  Núna eru einfaldlega óeðlilega miklar arðsemiskröfur gerðar til fyrirtækisins.  Þær þurfa að lækka, og það þarf að leyfa fyrirtækinu að dreifa fjármagnskostnaði á fleiri ár en nú er gert.  Þetta er í höndum Landsreglarans í Orkustofnun (hann á sæti í tæknistjórn ACER-Orkustofnunar ESB).  Hvers vegna ætti Evrópusambandið ekki að leyfa flutningsfyrirtæki raforku á Íslandi að draga úr tjóni þar með því að auka afhendingaröryggið og minnka orkutöpin án þess að krefjast fljóttekinnar arðsemi mannvirkjanna ?  Allt eru þetta þjóðhagslega hagkvæmar framkvæmdir, og Ísland og Noregur gegna lykilhlutverki í aðfangakeðju ESB á sviði framleiðslu úr áli.   

""Sumir stórnotendur rafmagns á Íslandi eru þegar við sársaukamörk, þegar kemur að raforkukostnaði, og það er einsýnt, að hækkandi flutningskostnaður myndi þýða minni kaup á raforku.  Þá þarf Landsnet að hækka verðskrána, sem myndi enn frekar draga úr eftirspurn.  Þarna gæti myndazt spírall, sem ekki endaði vel", segir hann og bætir við, að fjárfestingaáætlun Landsnets byggist á forsendum um vöxt, sem ekki byggi á veruleikanum, eins og hann blasir nú við.  Allverulegar líkur séu á því, að offramboð rafmagns verði á Íslandi til skamms eða langs tíma. "Það þýðir mikið tekjutap fyrir þjóðina, því [að] það getur tekið mörg ár að koma þessu rafmagni í vinnu aftur."" 

Þarna er um að ræða blöndu vanþekkingar og misskilnings.  Sumir stórnotendur, þ.m.t. sá, sem nú á erfiðast uppdráttar, töldu hyggilegra við samningsgerð að tryggja sig gegn hækkun gjaldskráar Landsnets, sem Bjarni Bjarnason telur nú hættu á, með því að semja við Landsvirkjun um, að hún mundi greiða flutningskostnaðinn hverju sinni.  Það var líka sanngjarnt í ljósi mikillar eignaraðildar Landsvirkjunar að Landsneti.  

Það er misskilningur, að hægt sé að fresta bráðnauðsynlegum framkvæmdum Landsnets vegna samdráttar í sölu rafmagns, sem að miklu leyti er sjálfskaparvíti Landsvirkjunar, sem þrjózkast við að aðlaga sig breytingum í nálægum löndum á raforkumarkaði, þegar þær breytingar eru til lækkunar, en taldi sjálfsagt að víkja frá upphaflegri stefnu fyrirtækisins um að beita rafmagninu til að laða að fjárfestingar og auka með því verðmætasköpun í landinu mjög með því að lækka verðið rétt niðurfyrir það, sem þá tíðkaðist í samkeppnislöndunum. Samt var rekstur Landsvirkjunar ætíð arðsamur.  

Síðan kemst Bjarni Bjarnason í mótsögn við sjálfan sig:

"Að mati Bjarna ættu fjárfestingar Landsnets að miðast við að bæta afhendingaröryggi til almennings.  [Gera þær það ekki ? - innsk. BJo.] Með því væri komið í veg fyrir aðstæður, eins og mynduðust á Norðurlandi í vetur, þar sem mikið óveður sló út rafmagni á m.a. stórum svæðum í Eyjafirði.  

Kerfisáætlun Landsnets byggist m.a. á spá Orkustofnunar um þróun raforkunotkunar á Íslandi til næstu áratuga.  Í nýjustu skýrslu orkuspárnefndar stofnunarinnar mun aukin eftirspurn raforku kalla á nýjar virkjanir til ársins 2050, en árleg aukning eftirspurnar raforku er talin munu verða um 1 % fram til ársins 2050."

Auk þess að styrkja flutningslínur og leggja jarðstrengi til að auka ófullnægjandi afhendingaröryggi þarf Landsnet að anna flutningsþörf hámarksafls.  Landsnet leitast líka við að halda orkutöpum flutningskerfisins innan hóflegra marka.  Þannig eru margvíslegar tæknilegar ástæður að baki framkvæmdaþörf Landsnets.  Það getur ekki verið of í lagt að miða við 1 %/ár aukna raforkunotkun landsmanna, þegar þess er gætt, að raforkunotkun og landsframleiðsla haldast í hendur.  Þótt nú sé slaki í hagkerfinu um sinn og þar af leiðandi minni spurn eftir raforku en áður (fallið er óeðlilega mikið vegna okurs einokunarfyrirtækisins Landsvirkjunar), þá er ekkert vit í að draga úr fjárfestingum Landsnets af þeim sökum, enda hafa þær flestar dregizt úr hömlu.

Ofan á aukningu eftirspurnar rafmagns, sem tengist fjölgun fólks og aukinni verðmætasköpun, kemur nú aukning vegna orkuskiptanna, og þar munar fyrst um sinn mest um einkabílaflotann, en hann nemur nú um 280 k (k=þúsund) bifreiðum. Meðalakstur er um 13 kkm/ár, og við íslenzkar aðstæður þarf að reikna með 0,3 kWh/km að meðtöldum töpum frá virkjun.  Ársnotkun hvers einkabíls er þannig 3,9 MWh/ár, og alls flotans 1,1 TWh/ár.   Þetta er nálægt tvöföldun núverandi heimilisnotkunar og 5,5 % aukning m.v.  meðalvinnslugetu núverandi virkjana. 

Það er ekki ólíklegt, að rafvæðing bílaflotans og fleiri tækja á næstu 10 árum muni útheimta þessa orku.  Ef veitufyrirtækjunum tekst vel til við að dreifa álaginu yfir sólarhringinn, mun aðeins þurfa 200 MW uppsett afl til að anna álagstoppinum, en líklegra er, að 400 MW virkjað afl þurfi til þess.  Mikil endurhleðsla að nóttu mun aðeins fara fram, ef hvati til þess kemur fram á markaðnum.  Forsenda er uppsetning snjallorkumæla hjá notendum, og hún hefur enn ekki hafizt í umtalsverðum mæli. 

Hin stærri farartæki munu verða knúin með eldsneyti, sem þarf raforku til að framleiða, t.d. vetni.  Það er líklegt, að á næstu 5 árum komi fram fjárfestir, sem vilji hefja vetnisframleiðslu hér á landi með rafgreiningu á vatni fyrir innlendan og erlendan markað.  Þá margfaldast ofangreind orkuþörf.  Allt tal um, að ekkert þurfi að virkja hér á landi á næstu árum, er úr lausu lofti gripið.  Þeir, sem vilja halda sig við þann afturhaldsboðskap, eru að fórna tækifærum til hagvaxtar og gjaldeyrissköpunar, sem eru undirstaða þess, að hér verði sæmileg lífskjör og unnt að greiða niður Kófsskuldina (yfir mrdISK 1000) tiltölulega hratt.  Til að borð verði fyrir báru ber að stefna að opinberum skuldum undir 25 % af VLF. Það sannast bezt á því, hversu tiltölulega skaðlítil veira getur snarað fjárhag ríkis og sveitarfélaga á fáeinum mánuðum undir kvið. 

"Forsendur Landsnets um 2,2 % aukningu á ári miðast við, að orkuskipti muni ganga hratt fyrir sig, m.a. með örri fjölgun rafbíla.  Bjarni bendir á, að rafbílar kalli ekki á stórtækar fjárfestingar, hvorki í dreifikerfum né virkjunum.  "Ef öllum einkabílum landsins yrði ekið á rafmagni á morgun, þá myndi það kalla á u.þ.b. 3,5 % af því rafmagni, sem við framleiðum í dag.  Nú þegar eru 7,5 % af rafmagni í landinu á lausu og því engin þörf á að virkja til að knýja rafbíla. Þar að auki eru rafbílar í langflestum tilfellum hlaðnir á nóttunni, sem dregur úr álagi á flutningskerfi Landsnets, og því þarf ekki að fjárfesta í flutningskerfinu til að anna eftirspurn vegna rafbíla."

Forstjóri OR fer hér létt yfir sögu og vanmetur orku- og aflþörf vegna rafbíla, sem er alls ekki til eftirbreytni fyrir þá, sem ábyrgir eru fyrir afhendingaröryggi raforku.  Við áætlun sína á raforkuþörf rafbíla virðist hann taka mið af uppgefnum notkunartölum framleiðenda.  Hann gæti hafa notað 0,19 kWh/km og sleppt töpum í dreifikerfi, flutningskerfi og í virkjunum. Fyrir íslenzkar aðstæður (lágt útihitastig, vindasamt) er ráðlegast að reikna með 0,3 kWh/km séð frá virkjun, og þá nemur orkuþörfin ekki 3,5 % af núverandi orkuvinnslugetu, heldur 5,5 %, og á þessum tölum er marktækur munur. 

 Enn óráðlegra er að taka mark á málflutningi Bjarna Bjarnasonar um, að núverandi orkuvinnslugeta í kerfinu umfram eftirspurn á markaði, 7,5 %, sé ástæða til að halla sér á hliðina og virkja ekkert um sinn.  Á fáeinum mánuðum geta aðstæður á markaði gjörbreytzt, og m.v. aðdraganda að virkjun, sem að lágmarki eru 3 ár, en með leyfisveitingum og verkhönnun a.m.k. tvöfalt lengri, er þessi stefna forstjórans ekki ávísun á annað en afl- og orkuskort í landinu, sem ber að forðast í lengstu lög.

Athyglisvert er, að forstjórinn telur enga þörf á umtalsverðum fjárfestingum í veitukerfum OR eða í öðrum dreifiveitum, og heldur ekki í flutningskerfi Landsnets vegna rafbílavæðingar.  Þetta rökstyður hann með innleiðingu snjallorkumæla.  Ánægjulegt er, að OR ætlar að setja háar upphæðir í flýtingu verkefna vegna bágborins atvinnuástands á næsta ári.  Þ.á.m. á að hefja uppsetningu stafrænna orkumæla árið 2021.  Þetta og hagkvæmur næturtaxti fyrir neytendur er alger forsenda fyrir því, að dreifiveitum takist að draga úr fjárfestingarþörf vegna rafbílavæðingar.  Hins vegar getur endurhleðsla utan heimahúsa ekki farið fram að næturlagi, svo að nokkru nemi, og orkan, sem fer á bílana á s.k. hraðhleðslustöðvum, er áreiðanlega umtalsverður hluti heildarorkuþarfar rafmagnsbíla.

Bjarni Bjarnason virðist vera einn á báti innan orkugeirans  með kenningar sínar um virkjanaþörf í nánustu framtíð. Þannig var frétt með eftirfarandi fyrirsögn í Morgunblaðinu 24. september 2020:

"Stækka Reykjanesvirkjun um 30 MW".

Hún hófst svona:

"HS Orka hyggst hefjast handa við 30 MW stækkun Reykjanesvirkjunar á næstunni, og með því verður framleiðslugeta aukin úr 100 MW í 130 MW. Verkfræðingar HS Orku hafa unnið að hönnun og undibúningi þessa síðustu misseri ásamt ráðgjöfum, og eru öll formsatriði í höfn.  Auglýst verður eftir tilboðum í verkið á næstu dögum."  

Í þessu jarðhitavirkjunarfyrirtæki er enginn bilbugur á mönnum.  Þarna eiga úrtölumenn ekki upp á pallborðið, jafnvel ekki þótt jörðin skjálfi undir þeim og kvikuinnskot hækki Þorbjörn, sem er í hlaðvarpa Svartsengisvirkjunar.  Þar er HS Orka með aðra 30 MW stækkun á prjónunum.  Fjárfestingar þar í öðru en hraunvörnum bera þó keim af ofdirfsku, eins og sakir standa.

Því miður er flutningsgerfi Landsnets vanbúið að taka við verulegri viðbótar flutningsþörf til Suðurnesja, ef allt fer á versta veg, og landskerfið getur ekki séð Suðurnesjum fyrir nauðsynlegu og öruggu afli, ef náttúruöflin slá 175 MW afli út úr framleiðslukerfinu.  Það eitt sýnir, hversu fánýtur málflutningur Bjarna Bjarnasonar er um, að engin þörf sé núna á nýjum virkjunum.  Það er þvert á móti mikil þörf fyrir þær afhendingaröryggisins vegna.

Fréttin endaði svona:

""Að stækka virkjanir, sem fyrir eru, eða [að] fá orku frá smávirkjunum, sem framleiða 1-10 MW, er mjög heppilegt m.v. núverandi aðstæður á Íslandi.  Almennt eykst eftirspurn eftir orku [þ.e. afli - innsk. BJo] um 10-20 MW á milli ára, og þessar litlu virkjanir falla vel að þeirri aukningu", segir Tómas Már."    

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni

Ég kynntist Bjarna Bjarnasyni nokkuð vel fyrir nokkrum árum síðan, er hann var forstjóri eins af stóriðjufyrirtækjum landsins. Eftir þá kynningu hef ég ekki tekið mark á orði af því sem hann segir og virði þann mann lítils.

Það er ekki spurning um hvort einkabílaflotinn rafvæðist, einungis hversu hratt. Og útliti er fyrir að muni ganga hraðar fyrir sig en menn kannski gerðu sér grein fyrir. Orkuskipti í öðrum fartækjum (reyndar í einkabílaflotanum líka að hluta) mun sjálfsagt snúast um vetni. Nýleg frétt flugvélaframleiðenda benda til þess. Aðrir orkugjafar s.s. lífræn olíuframleiðsla og fleira í þeim dúr, mun fljótlega verða aflögð, enda fáviska hrein að taka matvæli til eldsneytisframleiðslu, í ört vaxandi fólksfjölgun heimsins.

Við, með alla okkar orkugetuframleiðslu, þurfum að gæta þess að missa ekki af vagni vetnisframleiðslunnar, bæði til innanlandsnotkunar en ekki síður til útflutnings og gjaldeyrisöflunar. Þar gæti ein stoð enn myndast undir hagkerfi okkar, sem stendur vægast sagt á brauðfótum í dag. Gætum jafnvel orðið stórveldi á því sviði, verði rétt á spilum haldið.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 15.10.2020 kl. 00:55

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Gunnar;

Já, téður jarðfræðingur var forstjóri Járnblendifélagsins um hríð, og deilur hans við Landsvirkjun voru þá mjög í fréttum.  Á Íslandi er svo langur aðdragandi að virkjunum, að það er ekki hægt að skipuleggja virkjunarverkefni út frá skammtíma sveiflum á markaði.  Téður jarðfræðingur tekur oft mikið upp í sig, og það á við um horfurnar í Straumsvík.  Hann lepur upp gróusögur og hleypur með þær í blöðin, bæði Fréttablaðið og Morgunblaðið, og gerir þær að undirstöðu kenningar, sem er ábyrgðarlaust að setja fram, því að, standist hún ekki, mun hún leiða til alvarlegs orku- og aflskorts í landinu, ef t.d. Landsvirkjun fer eftir henni.  HS Orka er með allt aðra og heilbrigðari stefnumörkun.  

Bjarni Jónsson, 15.10.2020 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband