Væringar í ESB út af sjálfskaparvíti á orkusviði

Hefur ACER (Orkustofa ESB - samstarfsvettvangur orkulandsreglara EES-landanna) rétt fyrir sér ?  Er sameiginlegur orkumarkaður ESB nauðsynlegur til að skapa samfélög, reist á endurnýjanlegri orku ?  Er hátt raforkuverð kostnaðurinn við þessa orkubyltingu ?

Eins og sést á þessum spurningum, sem fólk á hinum sameiginlega orkumarkaði ESB (Evrópusambandsins) veltir núna vöngum út af, eiga viðfangsefni ACER afar takmarkaða eða enga skírskotun til Íslands.  Að álpast til að ganga löggjöf ESB á orkusviðinu á hönd, getur ekki bætt stöðu Íslands á nokkurn hátt, og röksemdafærslan fyrir því á sínum tíma var ýmist út í hött eða hreinn sparðatíningur, en þessi aðild getur valdið vandræðum innan EFTA og í samskiptum við ESB, ef Eftirlitsstofnun EFTA-ESA fer að fetta fingur út í innleiðingu Orkupakka 3, sem var ekki samkvæmt bókstaf EES-samningsins, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri. Flokkarnir, sem að nýju norsku ríkisstjórninni standa, komu sér saman um að leggja 4. orkupakka ESB í saltpækil allt þetta kjörtímabil (2021-2025), og Norðmenn ráða afstöðu EFTA-landanna innan EES.

Frakkland, Grikkland, Ítalía og Rúmenía (allt vatnsorkulönd í nokkrum mæli) vilja, að verðlagning raforku innan Orkusambands ESB fari fram á grundvelli meðaltalsvinnslukostnaðar rafmagns. Á fundi orkuráðherra ESB 02.12.2021 réðust orkuráðherrar þessara 4 landa á grundvöll ACER fyrir verðlagningu raforkunnar, sem er jaðarkostnaðarreglan, þ.e. að síðasta kWh, sem framleidd er í kerfinu, ákvarði verðið.  Núna kemur þessi síðasta kWh frá jarðgasi, og gasverðið hefur fjórfaldazt á skömmum tíma. 

Þessi 4 lönd hafa mikið til síns máls.  Hvers vegna eiga t.d. Norðmenn, heimili og fyrirtæki, sem orðnir eru þræltengdir við raforkukerfi ESB og reyndar Bretlands einnig, að greiða yfir 100 Naur/kWh (14,6 ISK/kWh), þegar meðaltalskostnaðurinn við raforkuvinnsluna í Noregi er undir 10 Naur/kWh (1,46 ISK/kWh) ?  Á öllum öðrum sviðum vöru og þjónustu, sem almenningur verður að hafa aðgang að á hverjum degi, ákvarðar meðaltalskostnaður við framleiðsluna verðið.  Hvers vegna á annað að gilda um rafmagn, er nú spurt í ráðherraráði ESB ? 

Völdin liggja þar hjá Þýzkalandi, sem fékk til liðveizlu við sig 8 önnur lönd í þessu máli. Þarna togast rétt einu sinni á germanskur og rómanskur hugarheimur. Röksemdirnar fengu germönsku þjóðirnar úr hraðsoðinni, en þó viðamikilli skýrslu ACER um verðlagningu á orku, sem er að finna í viðhengi með þessum pistli. 

ACER fullyrðir í skýrslunni, að raforkuvinnsla framtíðarinnar verði æ breytilegri eftir því sem vinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum vindur fram.  Það þýðir, að orkuvinnslan verður sífellt háðari jöfnunarorku, þegar náttúran bregst með vind- og sólarleysi.  Ef á að verða arðsemi í fjárfestingum á borð við rafgeyma, orkugeymslu í miklu magni, vetni og öðrum tæknilausnum, þá verður að ákvarða orkuverðið á grundvelli kostnaðar síðustu kWh, sem þörf er á. ACER er með skýrt mótaða stefnu: verðþak eða meðaltalsverð ógna sameiginlegum orkumarkaði ESB. Þessi stefna hentar Íslendingum illa.

Hefur ACER rétt fyrir sér ?  Er sameiginlegur orkumarkaður nauðsynlegur fyrir þróun samfélaga til endurnýjanlegrar orkunotkunar ? Er hátt rafmagnsverð gjaldið, sem greiða verður fyrir sjálfbærnina ?

Taka má dæmi af Noregi, sem hefur nú verið rækilega tengdur, þótt enn bíði umsókn um aflsæstreng til Skotlands afgreiðslu af pólitískum ástæðum.  Þegar hafizt var handa um að virkja vatnsföll Noregs, var það gert á grundvelli verðlagningar á raforkunni samkvæmt tilkostnaði.  Þegar sama fyrirtæki virkjaði meira, gilti meðaltalskostnaður fyrirtækisins við verðlagningu nýrrar orku.  Þegar framboðshliðin ein á að ráða markaðsverðinu, þá verður það dýrasta virkjunin per kWh, sem ræður verðinu.  Þessi ófélagslega hlið á þeirri samfélagslegu innviðaþjónustu, sem útvegun rafmagns er, virðist varða leiðina að endurnýjanlegri raforkunotkun á  hinum sameiginlega orkumarkaði ESB, og hún er illa til þess fallin að njóta lýðhylli, sem aftur torveldar orkuskiptin. Á Íslandi vofir yfir innleiðing á þessu framandi uppboðskerfi raforku, sem í raun á hingað ekkert erindi og getur aðeins skaðað samkeppnishæfni rafknúins samfélags.  

ACER hefur lengi litið hýru auga til Norðurlandanna til orkuöflunar fyrir meginlandið og þá aðallega útvegun jöfnunarorku, sem æ meiri þörf verður fyrir á meginlandi Evrópu og ný gasknúin raforkuver sjá um nú í auknum mæli.  Talsmenn ACER halda því fram, og endurómurinn hefur birzt hérlendis, t.d. í skrifum varaformanns Viðreisnar, að verðhækkanir megi að nokkru skýra með því, að sveiflugeta miðlunarlónanna á vatnsforðanum verði verðmætari (með lágum framleiðslukostnaði teygist raforkuverð vatnsorkuveranna auðvitað upp í átt að verðinu á sameiginlega markaðinum, og þetta hefur valdið gríðarlegri óánægju í Noregi). Meðaltal raforkuverðs í Noregi á 3. ársfjórðungi 2021 var 76,3 Naur/kWh eða 11,1 ISK/kWh, sem er tvöföldun m.v. meðaltal síðast liðinna 5 ára, og þetta er tæplega tvöfalt verð frá orkuveri til íslenzkra heimila. 

Það geta varla verið aðrir en raforkuframleiðendur, sem sjá sér hag í því að taka þátt í þessum sameiginlega orkumarkaði, hvort sem Ísland eða Noregur á í hlut.  Bæði löndin flæktust í Orkusamband Evrópu með lögfestingu Þriðja orkupakka ESB, en aðeins annað landanna sýpur seyðið af því, enn sem komið er, en vonandi ná Norðmenn að losa um klær ACER, svo að þeir geti sjálfir stjórnað raforkuflutningum inn og út úr landinu, sjálfum sér til hagsbóta.   

Hins vegar eru óánægjuraddir með þetta Orkusamband víðar innan EES.  Þótt ACER búist við lækkun gasverðs í apríl 2022 (allt er það undir hælinn lagt eftir ákvörðun Þjóðverja, með tilstyrk Bandaríkjamanna, að opna ekki fyrir gas frá Rússlandi um Nord Stream 2, nema Rússar haldi sig á mottunni gagnvart Úkraínu), þá mun jaðarkostnaðarregla ACER við verðlagningu raforku leiða til hás raforkuverðs á áratugum orkuskiptanna.  Þetta kemur sér sérlega illa fyrir fátæk lönd á borð við Grikkland og er ekki til hagsbóta fyrir lönd, sem eru sjálfum sér nóg um raforkuöflun, eins og Frakkland, Búlgaría og Tékkland eru. 

Alls staðar í Evrópu aukast mótmælin gegn þessari stefnu ACER/ESB.  ESB, sem hlustar meira á ACER en borgarana í aðildarlöndunum, mun ekki lægja öldurnar.

Því má svo bæta við þetta rifrildisefni innan ESB, að Frakkar, sem nú fara með æðstu stjórn ESB, embætti forseta ráðherraráðsins, hafa nú lagt til, græningjum Evrópu til armæðu, að kjarnorkuknúin og gasorkuknúin raforkuver verði af ESB viðurkennd sem græn og umhverfisvæn mannvirki.  Þetta hefur sett ríkisstjórnina í Berlín, með græningja innanborðs, í vanda.  Þjóðverjar lokuðu 3 kjarnorkuverum sínum í fyrra [2021], og eru nú enn háðari kolum og jarðgasi en áður.  Þetta er gott dæmi um mótsagnakennda loftslagsstefnu.  Kjarnorkunni mun verða veitt brautargengi á ný í heiminum, því að hún er hið eina, sem leyst getur kolaorkuver almennilega af hólmi. 

Orkuvinnsla í Evrópu

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk, Bjarni, þetta er hverju orði sannara. Norðmenn eru að missa stjórn á þessu, Þjóðverjar eyða kjarnorkuverum en Frakkar vilja sín staðfest með endurnýjanlega orku. Gasið bíður núna í fullri Nordstream 2 leiðslunni, en Þjóðverjar hleypa því ekki inn! Sjálfskipaða orkukrísan æðir áfram!

Ívar Pálsson, 7.1.2022 kl. 00:10

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Gleðilegt nýár, Ívar. 

Stefna græningja er illa ígrunduð, víðast hvar, og leiðir til öngþveitis, t.d. í orkumálum.  Við þurfum ekki langt að fara til að finna dæmi um það.  Að mínu mati er ástand orkumála á Íslandi hneyksli og tómt mál að tala um orkuskipti, á meðan ekki er nóg framboð raforku í landinu.  

Þegar Rússar drógu saman lið á landamærunum við Úkraínu, létu Þjóðverjar undan kröfum ESB og BNA um að leyfa ekki rekstur Nord Stream 2 að svo stöddu.  Nú eru jól í Rússlandi og Úkraínu, en að þeim loknum óttast margir, að Rússum verði á það axarskapt að breyta landamærum í Evrópu enn einu sinni með vopnavaldi.  Þá gæti orðið fimbulkalt víða innanhúss í Evrópu í vetur.  

Bjarni Jónsson, 7.1.2022 kl. 11:10

3 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Eru vesturlönd að prjóna þessa deilu

Eina íslausa höfn Rússa er Sevastopol frá eins og þeir segja, since the late 1700s.

slóð

Við verðum að muna að Rússar hafa haft yfirráð, yfir flotastöð, í Sevastopol, síðan, eins og þeir segja, since the late 1700s. Munum einnig að Putin rak heimsfjármálakerfið frá Rússlandi, og þá þarf að ráðast á Rússland.

31.12.2021 | 00:59

Muna að á Krim og í austur héruðum Úkraínu

talar meirihlutinn Rússnesku.

Jónas Gunnlaugsson, 8.1.2022 kl. 03:01

4 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Greinarnar þínar eru til fyrirmyndae, þakk fyrir fróðleijkinn.

Það er framleiðslu stýring, verð stýring á olíu, gulli, gimsteinum og fleiru. Skortur hafður á íbúðum á Íslandi, til að halda uppi verðinu. Bankarnir skrifa tölurnar og þykjast lána okkur. Þeir fóru svo að dansa og dilla sér þegar bönkunum var leift að selja peningaprentunina til einkaeigenda. Auðvitað borguðu þeir kaupin á bönkunum með peningaprentuninni fyrir rest. Bankaeigandinn þarf ekki að borga neitt, og lánar aldrei neitt. Bankinn vill helst ekki fá peningana til baka, heldur vill hann fá fasteignirnar. Til þess býr hann til kreppurnar, og getur jafnvel látið fasteigna eigandan halda skuldunum. Bankinn skrifar bara nýjar bókhalds tölur. Þetta er sára einfaldur sannleikur. Auðvitað verður að hætta þessu svindli og koma hlutunum í lag.

Egilsstaðir, 08.01.2022   Jónas Gunnlaugsson 

Jónas Gunnlaugsson, 8.1.2022 kl. 03:30

5 Smámynd: Grímur Kjartansson

Með evruna í sínum efstu verðbólguhæðum þá virðist engin lausn vera í sjónmáli og því líklegra en áður að reynt verði að beina augum almennings að Rússlandi

Nytt inflationsrekord i eurozonen | SVT Nyheter

Grímur Kjartansson, 8.1.2022 kl. 10:58

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Svo háa neikvæða raunvexti hafa Þjóðverjar ekki séð á friðartímum.  Sú staða fer mjög fyrir brjóstið á þeim, enda spara þeir fyrir öllu og til elliáranna.  Með orkuverð í hæstu hæðum og háa neikvæða raunvexti, magnast óánægjan með núverandi Evrópusamstarf.  Ekki batnar það með Frakka við stýrið þetta misserið.  Macron beitir Brüssel fyrir vagn sinn.  Sá vagn fer aðra leið en þýzki eðalvagninn. 

Bjarni Jónsson, 8.1.2022 kl. 17:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband