Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
7.2.2017 | 10:08
Verðmæti náttúruauðlinda
Enn er aðeins innheimt afnotagjald af miðunum við Ísland af öllum náttúruauðlindunum. Aðferðarfræðin við það er of flókin og afturvirk, og niðurstaðan er rekstri margra útgerða þungbær, af því að afnotagjald fyrir aðgang að miðunum getur skorið væna sneið af framlegð fyrirtækjanna.
Þessi skattheimta er óréttlát, af því að hún mismunar atvinnugreinum. Afkoma útgerðanna getur snarbreytzt á einu ári, og þess vegna er ótækt að miða afnotagjald við afkomuna fyrir 2-3 árum. Þar að auki eru engar hömlur á því, hversu stóran hluta framlegðar fyrirtækjanna ríkið haldleggur með afnotagjaldi miðanna. Setja ætti þak við afnotagjald allra náttúruauðlinda við t.d. 6,0 % af framlegð, og sé afkoma útgerðar svo lakleg, að framlegðin nái ekki 20 % af söluandvirði aflans, þá ætti að fella afnotagjaldið niður á því ári, enda borgar útgerðin að öðru leyti opinber gjöld að jöfnu við önnur fyrirtæki, nema tryggingagjaldið er óvenjuhátt á útgerðirnar, og er brýnt að samræma það, um leið það verður almennt lækkað.
Hvers vegna býður ríkið ekki fram samræmingu (lækkun) á tryggingagjaldinu sem lokahnykk í sáttaferli, er e.t.v. feli í sér dagpeningagreiðslur og hefðbundna skattameðferð þeirra á móti ásamt ofangreindu þaki á veiðigjöldin ?
Það hefur dregizt úr hömlu að jafna aðstöðu fyrirtækja í landinu, sem hafa aðgang að náttúruauðlindum í almenningum, þjóðlendum eða í annars konar opinberri umsjá eða eigu. Sú staðreynd hefur ratað alla leið á borð ESA. Þann 20. apríl 2016 kvað eftirlitsnefnd EFTA, ESA,upp úrskurð þess efnis, að ríkisstjórninni bæri að eiga frumkvæði að lögfestingu aðferðarfræði við að meta verðmæti orkulinda í náttúrunni í opinberri eigu eða umsjá, sem nýttar eru til raforkuvinnslu, í þeim tilvikum, sem markaðsverð hefur ekki þegar myndazt; þessi aðferðarfræði skal vera markaðstengd, þ.e.a.s. rafmagnsframleiðendur skulu borga markaðsverð fyrir afnot náttúruauðlinda, þ.e. vatnsréttinda, jarðgufuréttinda og vindréttinda. Ef hafstraumar, haföldur eða sjávarföll verða nýtt í framtíðinni, mun hið sama gilda um þessar orkulindir. Fyrir ólíkar orkulindir er nauðsynlegt að þróa heildstæða aðferðarfræði við verðmætamatið.
Jafnframt ber ríkisstjórninni að sjá til þess með lagafrumvarpi, samkvæmt téðum úrskurði, að öll orkuvinnslufyrirtæki greiði "markaðsverð" fyrir vatnsréttindi, jarðgufuréttindi eða vindréttindi. Þetta á líka við um gildandi orkusamninga, þar til þeir renna út, en ekki afturvirkt. Það þarf þess vegna að drífa í þessu. Spurningin er: hvernig ?
Það eru dæmi um afnotagjald vatnsréttinda í landinu fyrir smávirkjanir. Þar virðist yfirleitt miðað við ákveðinn hundraðshluta af sölutekjum virkjunar. Í mörgum tilvikum stærri virkjana er orkuverðið þó óþekkt. Það er tilgreint í orkusamningi, sem leynd hvílir yfir, og það tengist einhverri annarri breytu, t.d. afurðaverði orkukaupandans eða vísitölu neyzluverðs í Bandaríkjunum, BNA, af því að umsamið raforkuverð er yfirleitt í bandaríkjadölum, BNA.
Það er ósanngjarnt að taka ekki tillit til rekstrarkostnaðar við að breyta fallorku vatnsins í rafmagn, og þess vegna er eðlilegra að leggja framlegð nýrrar virkjunar af sama tagi með sams konar viðskiptavini til grundvallar álagningu afnotagjalds vatnsréttinda.
Það hafa gengið dómsmál á milli Landsvirkjunar og sveitarfélaganna, sem eiga hagsmuni af því, hvernig verðmætamati vatnsréttinda fyrir Fljótsdalsvirkjun er háttað. Hæstiréttur úrskurðaði í október 2015, að sveitarfélög, sem hafa virkjaðar ár í sínu landi og arðgæf vatnsréttindi, geti óskað eftir því við Þjóðskrá Íslands, að hún meti vatnsréttindin til fasteignamats. Þar með opnast möguleiki fyrir sveitarfélögin að leggja fasteignaskatt á fyrirtækin, sem fénýta þessi vatnsréttindi.
Deilur á milli hagsmunaaðila hafa einnig risið um í hvaða fasteignaflokk ætti að skrá vatnsréttindin. Yfirfasteignamatsnefnd kvað upp úrskurð sinn um þetta 15. desember 2016. Fasteignaskatt vegna vatnsréttinda kærenda í Fljótsdalshreppi skal ákvarða samkvæmt a. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga jafnt innan sem utan þjóðlendu.
Ákvæðið tilgreinir skattheimtu allt að 0,5 % af fasteignamati með 25 % viðbót við sérstakar aðstæður. Sveitarfélagið hafði krafizt heimildar til skattheimtu samkvæmt c. lið laganna, sem heimilar þrefalt hærri skattheimtu, en úrskurðurinn ætti að vera vel viðunandi fyrir báða aðila.
Það er hins vegar verðmætamatinu sjálfu, sem er enn þá ábótavant. Í ágúst 2007 komst matsnefnd að þeirri niðurstöðu, að verðmæti vatnsréttinda, sem nýtt eru í þágu Fljótsdalsvirkjunar, skuli vera miaISK 1,54. Þetta er aðeins 1,0 % af upphæðinni, sem aðferðarfræði blekbónda, sem hér er kynnt til sögunnar, leiðir til. Krafa vatnsréttarhafa hljóðaði hins vegar upp á rúmlega miaISK 25, svo að þar er einnig ginnungagap á milli, sem sýnir, að það bráðvantar heildstæða aðferðarfræði við verðmætamat vatnsréttinda. Uppgefin viðmiðun handhafa vatnsréttindanna var líka út í hött, þar sem hún virðist hafa verið meðalverð seldrar orku í landinu við stöðvarvegg árið 2006, sem var gefið á bilinu 2,07 kr/kWh-2,18 kr/kWh, sem m.v. gengi á miðju ári 2006, USD/ISK = 67,5, svarar til 31,4 USD/MWh (bandaríkjadala á megawattstund).
Meðalsöluverð raforku í landinu á ákveðnu ári kemur hins vegar þessu máli ekki við. Það, sem er rökrétt að leggja til grundvallar verðmætamati ákveðinna vatnsréttinda, er "kostnaðarverð" raforku frá sambærilegri virkjun með sambærilegt álag og með venjulega ávöxtunarkröfu slíkra fjárfestinga, hér 7,0 %/ár, venjulegan afskriftatíma slíkra mannvirkja, 40 ár, og hefðbundinn rekstrarkostnað slíkra virkjana, hér 1,0 %/ár af stofnkostnaði. Nota mætti uppfærðan stofnkostnað virkjunar, sem í hlut á.
Síðan skal núvirða árlega framlegð slíkrar virkjunar yfir samningstímabil orkusölunnar, t.d. 25 ár, og fást þá reiknuð verðmæti vatnsréttindanna. Í tilviki Fljótsdalsvirkjunar er niðurstaða blekbónda MUSD 1329 = miaISK 153 (USD/ISK=115), sem er 6-falt verðmætamat sveitarfélaganna Fljótsdalshrepps og Fljótsdalshéraðs, sem eru hagsmunaaðilar ásamt Landsvirkjun.
Árlegur fasteignaskattur til viðkomandi sveitarsjóða: FS=153 miaISK x 0,005=765 MISK, og er eðlilegt, að sveitarfélögin skipti honum á milli sín í hlutfalli við landareignir m.v. hámarks ummál miðlunarlóns og lengd árfarvegar, sem virkjað vatn fer um í viðkomandi sveitarfélagi.
FS er ívið hærri en fæst samkvæmt tíðkaðri markaðsaðferð um smávirkjanir, en þá ber að hafa í huga, að orkuverðið frá Fljótsdalsvirkjun er í lægri kantinum um þessar mundir vegna lágs álverðs.
Verður þessi skattheimta íþyngjandi fyrir Landsvirkjun ? FS mun nema um 5,8 % af árlegri framlegð virkjunarinnar. Sé litið til afnotagjalda sjávarútvegsins af veiðiheimildunum, þá hafa þau undanfarin ár iðulega numið tvöföldu þessu hlutfalli af framlegð útgerðanna eða yfir 10 %, sem er sannarlega íþyngjandi og skekkir (veikir) samkeppnisstöðu sjávarútvegsins verulega. Sú skattheimta af fyrirtækjum, sem nýta rennandi vatn til raforkuvinnslu, sem hér er lögð til, jafnar aðstöðu fyrirtækja í landinu, sem nýta náttúruauðlindir, og það er vissulega gætt meðalhófs. Til að tryggja þetta meðalhóf ætti að setja hámark 6,0 % af framlegð fyrirtækja í afnotagjald af auðlindum náttúrunnar.
Það er grundvallaratriði, að allar greinar orkuvinnslunnar njóti jafnræðis gagnvart skattheimtu, og sama má segja um allar greinar, sem nýta náttúruauðlindir. Þar er ferðaþjónustan ekki undan skilin. Af þessum ástæðum er nauðsynlegt að þróa samræmda og almenna aðferðarfræði við verðmætamat auðlinda, ef markaðurinn hefur ekki nú þegar myndað verð á þeim.
Í næstu vefgrein verður fjallað um verðmætamat jarðgufuréttinda og vindréttinda.
2.2.2017 | 17:58
Fiskeldi og framleiðni
Framleiðniaukning ætti að vera meginviðfangsefni allra atvinnugreina og allra starfsgreina á Íslandi, alveg óháð rekstrarformi eða eignarhaldi á viðkomandi fyrirtæki eða stofnun. Upplýsa ætti um framleiðniaukningu í hverri grein við endurskoðun kjarasamninga. Flestar starfsgreinar á Íslandi þurfa að vinna upp framleiðniforskot, sem sömu starfsgreinar hafa náð, t.d. á hinum Norðurlöndunum.
Hvers vegna að gera sér rellu út af þessu á sama tíma og hagvöxturinn er langmestur á Íslandi ? Um það sagði hinn kunni bandaríski hagfræðingur, Paul Krugman, árið 1994:
"Framleiðni skiptir ekki öllu máli, en til lengri tíma litið skiptir hún eiginlega öllu máli. Geta landsins til að bæta lífskjör til lengdar er algerlega háð því, að takist að auka afköst á hvern starfsmann."
Framleiðni er samsett úr skilvirkni og skynsemi, þ.e. tíma og fjármunum sé varið til örrar verðmætasköpunar. Því meiri verðmætasköpun á tilgreindu tímabili, t.d. einni klst, þeim mun meiri framleiðni. Því miður er framleiðni heimilanna torreiknuð í þessu sambandi, en þar verða mestu verðmætin þó til, þ.e. næsta kynslóð.
Hagvöxturinn á Íslandi að undanförnu á ekki rætur að rekja til heildarframleiðniaukningar, enda hefur hún í heildina staðið í stað síðan 2012, heldur stafar aukin verðmætasköpun aðallega af innflæði fólks til landsins umfram brottflutta. Nam þessi mismunur um 3000 manns árið 2016, sem er meira en náttúruleg fjölgun á vinnumarkaðinum. Atvinnuþátttaka landsmanna sjálfra hefur líka vaxið, fleiri farið á vinnumarkaðinn og færri eru atvinnulausir en nokkru sinni fyrr eða 2,4 %, ef árið 2007 er undanskilið.
Fjölgun erlendra ferðamanna á sinn þátt í þessu, en framleiðniaukning í þjónustugreinum er yfirleitt hæg, þær eru mannaflsfrekar, og ferðaþjónustan er ekki sérlega verðmætaskapandi reiknuð niður á hvert starf þar. Segja má, að ferðaþjónustan á Íslandi sé ein tegund nýtingar á náttúruauðlindum Íslands. Líklega mun um 1,6 M þeirra 2,4 M, sem væntanlegir eru inn í landið erlendis frá, hafa mestan hug á að upplifa sambland elds og ísa og sérstæða norræna náttúru. Sú náttúrunýting var staðbundin komin yfir hættumörk fyrir viðkvæma náttúruna áður en heildarfjöldinn náði 2,0 M, sem þýðir, að þar þarf að hemja ósóknina með gjaldtöku, og dreifa álaginu víðar um landið. Spáð er erlendum ferðamannafjölda árið 2017 um 2,4 M manns, en á sama tíma hrapar verðgildi stærsta ferðaþjónustufyrirtækis landsins á markaði. Donald Trump er kennt um, en hvernig stendur þá á því, að hlutabréf á bandarísku verðbréfamörkuðunum tóku að rísa, þegar hann náði kjöri, og eru nú í hæstu hæðum. Það er ekki allt sem sýnist.
Mikill vaxtarbroddur er í annarri ólíkri grein, sem er þó reist á íslenzkri náttúru, þar sem er sjókvíaeldi við strendur Vestfjarða og Austfjarða. Norðmenn, sem framleiða munu um helming alls eldislax í heiminum um þessar mundir, 1,3 Mt/ár, hafa fjárfest í íslenzku fiskeldi, lyft því í nýjar hæðir, miðlað þangað mikilli þekkingu og reynslu, og hyggja á stóraukið laxeldi hér. Það gæti mest numið 100 kt/ár eða tæplega 8 % af núverandi laxeldi við Noreg, sem mun vera komið nálægt sínum efri mörkum. Hlutfallið er svona lágt vegna þess, að viðlíka verndunarráðstafanir villtra laxategunda og hér eru ekki í Noregi. Allur er varinn góður.
Hér verður að fara að öllu með gát til að raska ekki jafnvæginu í íslenzkri náttúru. Vítin eru til að varast þau. Ein varúðarráðstöfunin er að hvíla uppeldisstöðvarnar í eitt ár af þremur, svo að úrgangur safnist ekki upp, heldur nái að dreifast um og mynda þannig botnáburð á sem stærstu svæði. Lús leggst þungt á eldisfisk við Noreg, og sýklalyfjagjöf er þar töluverð. Það er mikið í húfi að lús nái ekki fótfestu í eldislaxinum hér, svo að hann verði áfram laus við sýklalyfjagjöf og svo að lúsin nái ekki í villta íslenzka laxinn. Hún á erfiðara uppdráttar hér vegna svalari sjávar en við Noreg, nema við Norður-Noreg, en segja má, að eldið nái meðfram allri vestanverðri ströndu Noregs.
Mestar áhyggjur hafa menn þó af erfðablöndun villtu íslenzku laxastofnanna og eldislaxins. Eftirfarandi frétt í Fiskifréttum, 11. febrúar 2016:
"Þriðjungur laus við erfðablöndun",
sýnir svart á hvítu, hvað gæti gerzt á Íslandi við mikið aukið eldi, ef ekki er beitt beztu fáanlegu tækni við laxeldið, sem var ekki fyrir hendi fyrr en eftir síðustu aldamót:
"Aðeins þriðjungur 125 villtra laxastofna í Noregi, sem rannsakaðir voru, reyndist með öllu laus við erfðafræðileg spor frá eldislaxi. Þetta eru niðurstöður rannsóknar, sem Norska hafrannsóknarstofnunin og Norska náttúrurannsóknarstofnunin, NINA, gerðu á 20´000 löxum, sem klaktir voru úti í náttúrunni.
Niðurstöðurnar voru þær, að í 35 % laxastofnanna fundust engin spor, í 33 % laxastofnanna voru vægar breytingar, í 7 % stofnanna voru miðlungs breytingar og í 25 % stofnanna voru erfðabreytingarnar miklar. Einn laxastofn er í hverri á og stundum fleiri.
Erfðablöndunin stafar af því, að eldislax sleppur úr kvíum og blandast villtum laxi. Slík slys eru óhjákvæmileg, þegar þess er gætt, að Norðmenn framleiða meira en milljón tonn af eldislaxi á ári og fjöldi þeirra laxa, sem sleppa, nemur allt að 600´000 fiskum á ári."
Talan, sem nefnd er þarna í lokin, stenzt ekki og er sennilega úrelt. Málið er, að eftir síðustu aldamót var saminn staðall í Noregi fyrir laxeldisstöðvar að fara eftir í hvívetna að viðlögðum refsingum og rekstrarleyfissviptingu til að stórfækka slysasleppingum og þar með að fækka svo mjög eldislaxi á hrygningarstöðvum í norskum ám, að erfðabreytileiki verði ekki merkjanlegur af þeirra völdum. Samkvæmt grein Jóns Arnar Pálssonar, sjávarútvegsfræðings, í Viðskiptablaðinu 6. október 2016, eru líkur á, að eldislax sleppi úr kvíum við Noregsstrendur hjá fyrirtækjum, sem hafa að fullu innleitt NS9415, nú 20 ppm (partar per milljón), og hann segir í þessari grein, að 12´000 eldislaxar hafi leitað í norskar ár veiðitímabilin 2014-2015. Þetta er 1,0 % af fjöldanum, sem sagður er í hinni tilvitnuðu frétt sleppa á ári, og er þetta aðeins eitt af mörgum dæmum um gríðarháar sleppingartölur, sem eru á sveimi, en standast engan veginn, ef sleppingarlíkur hafa nú lækkað niður í 20 ppm/ár. Fróðlegt væri, að Landssamband fiskeldisstöðva á Íslandi mundu kynna nýjustu tölur í þessum efnum og árangurinn hér af innleiðingu NS9415.
Það verður að gera þá kröfu við útgáfu rekstrarleyfa til laxeldisstöðva við strendur Íslands, sem í öryggisskyni eru ekki úti fyrir Vesturlandi, Suðurlandi né Norðurlandi, nema Eyjafirði, að NS9415 sé uppfylltur að öllu leyti.
Árið 2016 voru framleidd um 8 kt af eldislaxi hérlendis, og hugmyndir eru um að tífalda þetta magn á 10-15 árum, þannig að 100 kt/ár er sennilega hámarks magn og verður framleitt í sjóeldiskvíum hérlendis um 2030, þó að eldi í kvíum á landi með hjálp hitaveitu gæti hækkað þessa tölu. Hámarks fjöldi eldisfiska í sjó verður þá 50 M (M=milljón) og með reynslusleppilíkum frá Noregi sleppa þá hér úr sjóeldiskvíum 1000 laxar/ár. Líklega verður aðeins um helmingur þeirra hrygningarhæfur, og hlutfall þeirra af 40 k hrygningarstofni er aðeins 1,3 %. Blekbóndi mundi gizka á, að þetta lága hlutfall dugi ekki til "að skilja eftir erfðafræðileg spor" í villtum íslenzkum laxastofnum, en það hlýtur að verða rannsóknar- og umfjöllunarefni erfðafræðinga og annarra sérfræðinga, hvar mörkin liggja til að vernda erfðafræðilega eiginleika þeirra. Óyggjandi svar við þessari erfðafræðilegu spurningu þarf að birtast á næstu árum, og kannski er það nú þegar á reiðum höndum.
Hreinar gjaldeyristekjur af laxeldinu munu geta numið 80 miaISK/ár að núvirði við hámarksafköstin 100 kt/ár og jafnvel verða þá hálfdrættingur á við sjávarútveginn að þessu leyti. Hlutdeild laxeldisins í vergri landsframleiðslu gæti þá orðið 5 % - 10 %, og ef allt fer að óskum, mun þessi starfsemi leggja drjúgan skerf til hagvaxtarins næstu 10-15 árin. Hún mun einnig leiða til framleiðniaukningar, því að ný störf í greininni munu væntanlega leiða til meiri verðmætasköpunar en flest önnur störf, sem starfsmennirnir koma úr. Þá mun kolefnisspor starfseminnar verða í lágmarki, því að tiltölulega einfalt er að leysa eldsneytisvélar starfseminnar af hólmi með rafhreyflum, og fóðrið er væntanlega að mestu framleitt innanlands á umhverfisvænan hátt.
Hér er um nýtingu á náttúruauðlind að ræða. Sjávarútvegurinn greiðir árlegan skatt af aflahlutdeildum sínum til ríkissjóðs, og stutt er í innleiðingu fasteignaskatts til viðkomandi sveitarfélaga fyrir afnot vatnsréttinda til raforkuvinnslu. Ef markaðurinn hefur ekki myndað verð á verðmætum náttúruauðlindarinnar, þarf að þróa samræmda aðferð til að meta verðmæti auðlindarinnar og árlegt afnotagjald. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur krafið yfirvöld um þetta, og hugmyndir eru uppi um fyrirkomulagið.
Svipaða aðferðarfræði og við mat á orkulindunum má beita á hafsvæðin, sem lögð eru undir sjókvíaeldi. Afnotagjaldið mætti miða við hvert starfsleyfi, og það er brýnt að koma slíku kerfi til útreikninga á árlegu afnotagjaldi á sem fyrst á meðan mörg starfsleyfi eru enn óútgefin.
27.1.2017 | 22:27
Kúreki kveikir upp
45. forseti Bandaríkja Norður-Ameríku, BNA, er búinn að kveikja upp í "Oval Office", embættisskrifstofu sinni, hagar sér eins og villtur kúreki, ríður mikinn í kringum hjörðina og þyrlar upp stórum rykmekki. Þar fer augljóslega óhefðbundinn forseti með slíka lyndiseinkunn, að öruggt má telja, að það á eftir að skerast í odda á milli hins sjálfumglaða húsbónda í Hvíta húsinu og bandaríska þingsins í Washington D.C.
Forsetinn hefur undirritað eina tilskipun á dag, fyrstu dagana í embætti, í kastljósi fjölmiðla, sem hann annars hefur sagt stríð á hendur. Eru þessir stórkarlalegu tilburðir fremur broslegir, en það er ómögulegt að segja fyrir um, hvernig þessu leikriti "hins afburðasnjalla og víðfræga" sonar Fred Trumps, kaupsýslumanns, sem ættaður var frá hinu huggulega vínyrkjuhéraði Þýzkalands, Pfalz, lyktar.
Fyrsta tilskipun Donalds Trumps mun hafa fjallað um að draga BNA út úr viðskiptasamkomulagi Kyrrahafsríkja. Þetta er fyrsta skrefið í að stöðva flóð kínverskra vara og fjármagns til BNA og draga þannig úr samkeppni bandarísks vinnuafls við hið kínverska. Á sama tíma er Donald hvassorður um útþenslu Kínverja á Kínahafi, þar sem þeir eru að koma sér upp flotastöðvum í óþökk allra nágrannanna. Þá ögrar Donald valdhöfum kínverska kommúnistaflokksins í Peking með því að ræða við forseta Taiwan (Formósu). Donald Trump ætlar að stöðva framsókn Kínverja sem alheimsstórveldis, er ógnað geti BNA. Þetta mun ekki ganga átakalaust.
Donald Trump virðist vera upp sigað við Evrópusambandið, ESB, sem er alveg ný afstaða í Hvíta húsinu. Virðist hann helzt vilja sundra Evrópu, e.t.v. svo að hún ógni ekki BNA á viðskiptasviðinu, og hann hefur skotið Evrópumönnum, utan Rússlands, skelk í bringu með þeim palladómi, að NATO sé úrelt þing. Hefur hann gefið í skyn, að NATO þjóni ekki hagsmunum BNA á meðan hinar NATO-þjóðirnar dragi lappirnar í útgjöldum til hermála og taki sér far á vagni, sem Bandaríkjamenn dragi. Krafan er 2,0 % af VLF til hermála, sem á Íslandi þýðir rúmlega miaISK 50 til varnar- og öryggismála. Ætli fari ekki innan við 1/10 af þeirri upphæð í mál, sem má flokka sem slík hérlendis nú ? Hvað gerir Donald, þegar honum verður sagt frá því og hinum sérstaka varnarsamningi á milli Íslands og BNA ? Það er eins gott, að skrifstofan er ávöl, því að annars gæti komið hljóð úr horni.
Donald rekur hornin í ESB úr vestri og virtist í kosningabaráttunni vilja vingast við Vladimir Putin,fyrrverandi KGB-foringja og núverandi Kremlarbónda, sem hefur heldur betur rekið hornin í ESB úr austri. Það á sem sagt að þrengja að ESB úr tveimur áttum á sama tíma og fjandsamlegir vindar blása í átt að BNA úr austri, suðri (Mexíkó) og vestri. Það er sem sagt allt upp í loft.
Upp í loft er líka allt hér í Evrópu, þar sem Bretar eru á leið út úr ESB. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur nú í ræðu í Leicester House gert opinbera grein fyrir því, hvaða línu ríkisstjórnin í Lundúnum ætlar að taka í þessu ferli. Það verður "hreinn" viðskilnaður, sagði hún, sem er rökrétt afstaða ríkisstjórnarinnar eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna og felur í sér, að Bretar munu ekki sækjast eftir veru á Innri markaði ESB/EFTA með "frelsunum fjórum", heldur losa sig algerlega undan tilskipanafargani búrókratanna í Brüssel og taka fulla stjórn á landamærum sínum.
Með þessu móti hafa Bretar frjálsar hendur um viðskiptasamninga við ESB og alla aðra. Það var alger hvalreki fyrir þá að fá yfirlýsingu frá Donald Trump um, að hann mundi liðka fyrir yfirgripsmiklum viðskiptasamningi á milli Bretlands og BNA. Bretar geta þannig orðið stjórnmálalegur og viðskiptalegur milliliður á milli BNA og ESB, sem er draumastaða fyrir þá.
Eftir téða ræðu Theresu May í Leicester House hvein í tálknum í Edinborg. Þjóðarflokkur Skota, sem Sturgeon, yfirráðherra Skota fer fyrir, virðist telja hag sínum betur borgið á Innri markaði ESB en með óheftan aðgang að Englandi, Norður-Írlandi og aðild að öllum viðskiptasamningum Englendinga. Hefur hún hótað aðskilnaði við England, ef verður af "hardest of hard Brexits" og inngöngu í ESB. Þetta er hins vegar kolrangt mat hjá henni, því að það síðasta, sem framkvæmdastjórninni og leiðtogaráðinu í Berlaymont kann að detta í hug er að veita klofningsríki í Evrópu aðild, því að þar með yrði fjandinn laus í fjölda aðildarríkja. Nægir að nefna Katalóníu á Spáni. Skotar munu þess vegna ekki fá aðild að ESB í sinni núverandi mynd, og þar með minnkar hvatinn til að rjúfa sig frá Englandi. Allt er þetta "skuespill for galleriet".
Hvaða áhrif hefur þessi hrærigrautur hérlendis ? Í öryggismálum verðum við að reiða okkur á NATO nú sem endranær og vona, að Bandaríkjaþing slaki ekki á varnarskuldbindingum Bandaríkjastjórnar og bandaríska heraflans gagnvart NATO-ríkjum.
Í viðskiptamálum þurfum við fríverzlunarsamning við Bretland, sem tryggir íslenzkum útflytjendum tollfrjálsan aðgang að Bretlandsmarkaði. Ef Bretar ná hagstæðum fríverzlunarsamningi við ESB, þarf að athuga, hvort við getum fengið tollfrjálsan aðgang að ESB-löndunum, og getum þá gengið úr EES, ef okkur sýnist svo.
Þriðja stoð utanríkisstefnunnar ætti að vera að rækta sambandið við Berlín, því að þar er frjór jarðvegur fyrir náið samstarf og þangað er nú komin valdamiðstöð meginlands Evrópu vestan Rússlands. Ef þessar 3 stoðir eru í lagi, er öryggishagsmunum og viðskiptahagsmunum Íslands borgið.
Varðandi frjálsa fjármagnsflutninga á milli Bretlands og Íslands þarf að gæta að því, að Bretar hafa undir rós hótað ESB því, að ætli samningamenn ESB um viðskilnað Bretlands að verða erfiðir og leiðinlegir, þá geti Bretar breytt hagkerfi sínu í skattaparadís til að stríða ESB-mönnum og draga frá þeim fjármagn. Bretar hafa sterk spil á hendi, af því að öflugasta fjármálamiðstöð Evrópu er í Lundúnum, og þar fara jafnvel mestu viðskiptin með evrur fram.
Um þetta skrifar Wolfgang Münchau á Financial Times í Morgunblaðið 26. janúar 2017:
"Í þriðja lagi á Bretland sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, er meðlimur G-20 hópsins og einnig G-7 hópsins. Ef aðildarríki ESB vilja stemma stigu við skattasniðgöngu alþjóðafyrirtækja, stuðla að sanngjarnari áhrifum hnattvæðingar, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eða finna lausnir til að berjast gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, þá munu þau þurfa á Bretlandi að halda."
Í framkvæmdastjórn ESB eru jaxlar, sem vilja hræða önnur ríki frá að feta í fótspor Breta með því að sýna þeim í tvo heimana, þegar tekið verður til við að semja um viðskilnaðinn. Í leiðtogaráðinu er stemningin önnur. Mikið mun velta á því, hvernig þingkosningar fara í Hollandi í vor, forsetakosningar í Frakklandi í sumar og síðast, en ekki sízt, hver niðurstaða kosninganna til Sambandsþingsins í Berlín verður. Munu Þjóðverjar refsa Merkel ? Þeir virðast vera í skapi til þess núna.
Bretar hafa ýmislegt uppi í erminni. Spenna eykst í Evrópu, en viðskilnaðarsamningar verða ekki leikur kattarins að músinni, heldur miklu líkari viðskiptum Tomma og Jenna. Münchau skrifar:
"Ef til "harðrar útgöngu" kemur, myndi hún ýta Bretlandi í átt að annars konar viðskiptalíkani, eins og Philip Hammond, fjármálaráðherra, komst að orði. Mætti líka orða þetta sem svo, að í stað þess að leiða hinn vestræna heim í baráttunni við skattasniðgöngu, gæti Bretland orðið enn eitt skattaskjólið. Það væri ekki sniðugt fyrir land á stærð við Bretland að taka upp sama líkan og Singapúr, að mínu mati. Síðar nefnda landið er í raun einungis fjármálamiðstöð, en hið fyrr nefnda býr að fjölbreyttu hagkerfi og þarf fyrir vikið að móta víðtækari stefnu. Hyggilegra væri að leggja áherzlu á nýsköpun og marka stefnu til að auka framleiðni. Þótt lágskattaleiðin væri sennilega ekki sú hagkvæmasta, þá skapar hún engu að síður ógn fyrir ESB."
Ekki er ólíklegt, að vinsamleg stefna Trumps gagnvart Rússum og fjandsamleg afstaða hans gagnvart ESB, muni bráðlega leiða til þess, að viðskiptabann Vesturlanda á Rússa og innflutningsbann Rússa á matvörum, verði felld niður. Eftir er að sjá, hvort Íslendingar verða þá fljótir að endurvekja viðskiptasambönd sín við Rússa. Það yrði sjávarútveginum og þjóðarbúinu kærkomin búbót á tímum tekjusamdráttar af öðrum völdum, en árlegt sölutap vegna lokunar Rússlands hefur numið 20-30 miaISK/ár.
Hjörleifi Guttormssyni, náttúrufræðingi, er ástand alþjóðamála hugleikið. Hann varpar fram eftirfarandi útskýringu á óánægju vestrænna kjósenda, t.d. bandarískra, sem komu Trump til valda, í Morgunblaðsgrein, 26. janúar 2017,
"Vesturlönd á afdrifaríkum krossgötum":
"Hnattvæðing efnahags- og fjármálastarfsemi hefur á sama tíma gerbreytt leikreglum í alþjóða viðskiptum og leitt til gífurlegrar auðsöfnunar fárra. Eignir 8 ríkustu manna heims eru nú metnar til jafns við samanlagðan hlut 3´500 milljóna manna eða um helmings mannkyns. Inn í þetta fléttast örar tæknibreytingar, sem gera þorra mannkyns að þátttakendum í samfélagsumræðu óháð hefðbundnum fjölmiðlum."
Hér fellur Hjörleifur í gryfju Oxfam, sem tiltekur heildareignir manna, en ekki hreinar eignir. Hinir auðugri skulda margfalt meira en hinir, eins og nýlega kom fram á Íslandi vegna "skuldaleiðréttingarinnar". Þá ber að halda því til haga, að téð hnattvæðing hefur lyft a.m.k. einum milljarði manna úr fátækt í bjargálnir, og áttamenningarnir hafa sumir hverjir veitt gífurlegum upphæðum til fátækra og sumir ánafnað góðgerðarstofnunum öllum auði sínum. Flestir í þessum átta manna hópi voru frumkvöðlar, m.a. Zuckerberg á Fésbók, sem ekki hafa tekið fé af neinum, heldur orðið auðugir, af því að fólk vildi gjarna kaupa nýjungar, sem þeir höfðu á boðstólum á undan öðrum mönnum. Er það gagnrýnivert ? Að stilla þessum áttmenningum upp sem óvinum almennings og vandamáli er í ætt við Marxisma, sem er algerlega gagnslaus sem þjóðfélagsgreining nú sem áður.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2017 | 17:50
Þrændalög og Vestfirðir
Vestfirðir hafa að mörgu leyti sérstöðu í sögulegu og nútímalegu samhengi. Þar var frá fornu fari matarkista á miðum skammt undan, og þar var jafnan hægt að sækja björg í bú á vorin í fuglabjörg, þegar matarbirgðir voru að verða upp urnar. Vestfirðir eru utan jarðskjálfta- og eldgosasvæða. Hungursneyð heyrði til algerra undantekninga á Vestfjörðum, en sú var ekki reyndin í öðrum landshlutum á erfiðum skeiðum Íslandsbyggðar.
Drottinn gaf og Drottinn tók, eins og átakanlegir og allt of tíðir sjóskaðar eru dæmi um á öllum öldum Íslandsbyggðar. Í seinni tíð, eftir myndun þéttbýlis, minnast menn einnig hræðilegra afleiðinga af snjóflóðum á Vestfjörðum. Allt stendur þetta þó til bóta á okkar tímum með margháttuðum varnaraðgerðum.
Vestfirðingar hafa jafnan verið taldir miklir og góðir sæfarendur, og fornt dæmi um það er Flóabardagi á 13. öld, er mun fámennara lið Vestfirðinga hafði í fullu tré við vel útbúna Skagfirðinga í sjóorrustu á Húnaflóa.
Vestfirðingar voru líka harðsnúnir í hernaði á landi og jafnan hallir undir Sturlunga í átökum á 13. öld, og ætíð verður í minnum haft, er mesti herforingi Íslandssögunnar, Sturlungurinn Þórður, kakali, fór með einvalalið 50 knárra Vestfirðinga um landið og lagði það undir sig í leifturstríði gegn andsnúnum höfðingjum þess tíma.
Saga Vestfjarða í efnalegu tilliti er einnig glæst, og þar voru öflugir kaupmenn með alþjóðleg sambönd, eftir að helsi einokunarverzlunar Danakóngs var aflétt. Á 19. öldinni voru norskir hvalveiðimenn og hvalverkendur aðsópsmiklir, og hvalstöðvarnar urðu fyrsta stóriðja Íslands, og þar fengu íslenzkir verkamenn í fyrsta skiptið greitt með alþjóðlega gildri mynt í seinni tíma sögu landsins.
Ef litið er á þróun fiskvinnslu á Vestfjörðum, kemur í ljós, hún hefur orðið mjög neikvæð á tveimur áratugum í kringum síðustu aldamót. Er kvótakerfinu, sem sett var á 1983 og frjálsu framsali, innleiddu 1991, gjarna kennt um. Í upphafi fengu Vestfirðingar þó ríkulega úthlutaðan kvóta árið 1984 samkvæmt veiðireynslu vestfirzkra fiskiskipa, en þeir frömdu það glappaskot að selja fljótlega frá sér megnið af veiðiheimildum sínum, eftir að heimild var gefin til slíks með löggjöf 1990. Sagt er, að vestfirzkir útgerðarmenn hafi ekki reiknað með langæi kvótakerfisins. Það var rangt stjórnmálalegt og efnahagslegt mat.
Árið 1993 voru 17 kt af uppsjávarfiski verkuð á Bolungarvík, ekkert árið 2013.
Árið 1993 voru 37 kt af botnfiski verkuð á Vestfjörðum, en árið 2013 aðeins 14 kt, og var það allt verkað á Ísafirði og í Hnífsdal. Minnkunin nam 23 kt eða 62 %, og nam minnkunin á Suðurfjörðunum 10 kt. Þetta hefur að sjálfsögðu dregið byggðalegan mátt úr Vestfjörðum, og íbúunum hefur fækkað, en nú hefur orðið gleðilegur viðsnúningur í málefnum Vestfjarða, svo að hillir undir nýja stórveldistíð með drjúgri fólksfjölgun, gjaldeyrisöflun og tekjum á mann yfir meðaltali tekna á landinu.
Þetta er í raun umfjöllunarefni fyrrverandi forseta Alþingis og núverandi formanns stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva, Einars Kristins Guðfinnssonar, EKG, í grein í Fiskifréttum, 15. desember 2016:
"Lítil dæmisaga um byggðamál frá Noregi":
Einar Kristinn hefur frásögnina af ferð sinni til eyjarinnar Freyju í Noregi þannig:
"Fröya er sjálfstætt sveitarfélag, vestasti hluti Syðri-Þrændalaga í Noregi, ekki langt frá Þrándheimi; Niðarósi, sem kemur mjög við sögu í fornsögunum. Ólíklegt er, að margir Íslendingar þekki þar staðhætti."
Blekbóndi verður þó að gera athugasemd við síðustu málsgreinina vegna þess, að Þrándheimur eða Niðarós, sbr Nidarosdomen á norsku fyrir Niðarósdómkirkju, er mikið menntasetur og skólabær. Þar var t.d. lengi rekinn eini Tækniháskóli Noregs, NTH-Norges Tekniske Högskole, nú NTNU eftir sameiningu skóla í Þrándheimi, og þar hafa allmargir íslenzkir námsmenn numið alls konar verkfræði við afar góðar kennsluaðstæður, í góðum tengslum við norskan iðnað, og þar er t.d. Rannsóknarstofnun norskra rafveitna (Elektrisitetsforyningens Forskningsinstitutt-EFI), við búsældarlegt atlæti í fögru umhverfi, og er blekbóndi á meðal fyrrverandi stúdenta þar.
Ljúka þeir flestir upp einum rómi um gæði þessa náms og góð kynni af norskum frændum, sem eiga vilja hvert bein í Íslendingum, ef svo ber undir. Af þessum ástæðum hafa allmargir Íslendingar gengið um Niðarós allt frá dögum Kjartans Ólafssonar frá Hjarðarholti, er hann var þar með fríðu föruneyti ofan af Íslandi og þreytti sundiðkan við knáan Noregskonung kristnitökunnar, Ólaf Tryggvason.
"En hin norræna skírskotun er kannski ekki í dag það, sem fyrst kemur upp í hugann, hvorki í Noregi né á Íslandi. Heldur miklu fremur hitt, að þarna fer fram gríðarlega öflugt laxeldi, sem hefur haft mikil og jákvæð áhrif á byggðina á eyjabyggðinni (sic.). Það blasti við mér, eins og öðrum, þegar ég heimsótti Fröya fyrir skemmstu.
Líkt og margar sjávarbyggðir háði Fröya sína varnarbaráttu. En fyrir um áratug snerist dæmið við, svo að um munaði, með uppbyggingu laxeldisins. Beinum störfum fjölgaði. Mikil fjárfesting átti sér stað með öllum þeim umsvifum, sem því fylgja. Upp spruttu nýjar og áður óþekktar atvinnugreinar, sem leiddu af uppbyggingu í eldinu. Ungt fólk tók að streyma til eyjarinnar. Fólkinu fjölgaði, og sveitarfélagið varð æ eftirsóttara til búsetu."
Síðan lýsir EKG því, að á einum áratugi, eftir að þessi mikla atvinnuuppbygging hófst, hafi fólksfjölgun orðið 20 % - 25 %, sem er tiltölulega mikil fjölgun, en þó ekki meiri en svo, að hún getur farið fram með skipulegum hætti, og sveitarfélagið getur á sama tíma reist nauðsynlega innviði. Markaðsrannsóknir sýna, að markaðurinn getur tekið við enn meira magni af eldislaxi á næstu áratugum og að verðþróun verði framleiðendum hagstæð, eða með orðum EKG:
"Laxeldi í Noregi nemur um 1,4 milljónum tonna, hefur tvöfaldazt á síðustu 8 árum, fer vaxandi og spáð, að svo verði áfram."
Þessi sama þróun er nú nýhafin á Vestfjörðum. Norsk laxeldisfyrirtæki eru að hasla sér þar völl með töluverðum fjárfestingum og færa hinni ungu grein á Vestfjörðum dýrmæta reynslu, þekkingu, öguð vinnubrögð, gæðastjórnun og öryggisstjórnun.
Ótti ýmissa hérlandsmanna er um erfðablöndun norska eldislaxins við villta íslenzka laxastofna. Til þess mega fæstir Íslendinga hugsa, en sjávarútvegsfræðingurinn og framkvæmdastjóri Eldis og umhverfis ehf, Jón Örn Pálsson, hefur í grein í Viðskiptablaðinu, 6. október 2016, fært gild rök fyrir því, að hætta á þessari erfðablöndun þurfi alls ekki að standa þróun greinarinnar fyrir þrifum á Íslandi.
Í Noregi er nú unnið samkvæmt norska staðlinum NS9415 í laxeldisstöðvum, og eru slysasleppingar í svo litlum mæli eftir innleiðingu hans, að villtum stofnum getur ekki stafað erfðafræðileg hætta af. Árin 2014-2015 er talið, að 6000 eldislaxar, eða 0,002 % (20 ppm) af fjölda laxa í kvíunum, hafi sloppið í norskar ár, sem mundi þýða 400 eldislaxa á ári í íslenzkar ár m.v. 100 kt/ár framleiðslu. Jón Örn endar grein sína þannig:
"Af því, sem hér hefur verið dregið fram, má ljóst vera, að ekki þarf að fórna einum einasta villtum laxastofni til að byggja upp mikilvæg störf við fiskeldi á landsbyggðinni."
Leiðin virðist greið fyrir Vestfirðinga að finna fjölina sína á ný með því, að laxeldi og afleiddar greinar þess verði í flestum eða öllum fjörðum Vestfjarða sem kjarnastarfsemi, og ferðaþjónustan sem stuðningsstarfsemi. Með þessu móti skapast skilyrði fyrir ágætis tekjuþróun og innviðauppbyggingu á Vestfjörðum, sem vantað hefur, frá því að vægi fiskveiða og fiskvinnslu minnkaði með þeirri samþjöppun, sem tækniþróun o.fl. hefur knúið áfram. Svo kölluðum "brothættum byggðum", 10-12 talsins, samkvæmt skilgreiningu Byggðastofnunar fækkar nú að sama skapi.
26.12.2016 | 13:53
Raforkumarkaður og opinber orkustefna
Orkumál landsmanna hafa ekki að öllu leyti þróazt, eins og bezt verður á kosið. Ótvíræður styrkleiki er auðvitað, að um áratuga skeið hefur nánast engin raforka verið framleidd hérlendis með jarðefnaeldsneyti, en ágallar kerfisins eru þó nokkrir og alvarlegir.
Fyrst ber þá að nefna, að málefni flutningsfyrirtækisins, Landsnets, eru í ólestri. Framkvæmdir fyrirtækisins eru langt á eftir áætlun með þeim afleiðingum, að flutningskerfið er víða fulllestað, annar ekki því hlutverki sínu að flytja viðbótar afl, þó að það sé til reiðu og mikil þörf sé fyrir það. Þetta hamlar atvinnuuppbyggingu og tefur fyrir orkuskiptum úr jarðefnaeldsneyti í rafmagn, sem stjórnvöld hafa þó skuldbundið landið til að framkvæma býsna hratt. Í þessum efnum er eins og hægri höndin viti ei, hvað sú vinstri gjörir.
Í mörgum tilvikum hafa vandræði Landsnets stafað af deilum og málaferlum við landeigendur og/eða umhverfisverndarsamtök.
Landsnet þarf að fá lagalegt svigrúm og heimildir til að fjármagna nauðsynlegar lausnir með lántökum með ríkisábyrgð, og ríkið á að eignast smám saman Landsnet með framlögum af arðgreiðslum þeirra raforkufyrirtækja, sem ríkið á að einhverju eða öllu leyti. Með þessu móti má draga mjög úr hækkunarþörf á gjaldskrá Landsnets og gera hækkun vegna dýrari lausna, til sátta, tímabundna.
Eignarhald Landsnets er nú óviðunandi, því að nokkur raforkufyrirtæki á markaði og hitaveitufyrirtæki eiga hana. Þetta gerir Landsnet vanhæft til að starfa á frjálsum markaði, þar sem samkeppni á að ríkja á milli orkusölufyrirtækja, sem eiga að standa jafnfætis varðandi inntök og úttök flutningskerfisins. Með því að ríkið eignist smám saman ráðandi hlut í fyrirtækinu, má eyða tortryggni aðila utan eigendahópsins um hlutdrægni Landsnets varðandi t.d. nýja tengistaði við stofnlínukerfið. Einokunarfyrirtæki eru oft bezt komin undir pilsfaldi ríkisins.
Það þarf að hanna raforkumarkað fyrir Ísland. Hlutverk hans á að vera að tryggja raforkuöryggi, raforkuverð til almennings í samræmi við raunkostnað raforkufyrirtækjanna og hagkvæmustu nýtingu orkulindanna á hverjum tíma.
M.a. um þessi mál ritaði Elías Elíasson, fyrrverandi sérfræðingur í orkumálum hjá Landsvirkjun, í Morgunblaðið 20. júní 2016, undir fyrirsögninni:
"Lars Christensen og orkan okkar:
Elías gerði þar nýlega skýrslu Lars Christensens, dansks alþjóðahagfræðings, um íslenzk orkumál að umfjöllunarefni, en Lars lagði þar m.a. til sölu Landsvirkjunar í bútum og stofnun auðlindasjóðs fyrir andvirðið. Elías reit gegn þessu m.a.:
"Það er mögulegt og jafnvel skilvirkara að láta arð af orkunni renna til almennings gegnum lágt orkuverð en með beinum greiðslum."
Hinn valkosturinn, sem Lars Christensen er talsmaður fyrir, er sá að láta arðgreiðslur frá orkufyrirtækjum í eigu ríkisins renna í auðlindasjóð, sem nýta mætti til að halda uppi fjárfestingum að hálfu ríkisins í niðursveiflum hagkerfisins. Með því að setja það í eigendastefnu orkufyrirtækja að meirihluta í eigu ríkisins, að orkufyrirtækið skuli verðleggja orku sína fyrir almennan markað í samræmi við meðalvinnslukostnað sinn, en ekki jaðarkostnað, þ.e. kostnað af næstu mannvirkjum í röðinni, þá munu orkufyrirtæki ríkisins verða stefnumarkandi á markaði um lágverðsstefnu. Slíkt styrkir samkeppnihæfni Íslands.
Það hefur hins vegar jafnan tíðkazt á Íslandi, að stóriðjan greiði verð í samræmi við kostnað virkjunar, sem ráðast þarf í vegna viðkomandi orkusölusamninga, og áfram yrði það svo. Að sjálfsögðu mun almenningur njóta góðs af slíkri stefnu, af því að þá greiða orkufyrirtækin tiltölulega hratt niður skuldir vegna nýrra fjárfestinga, sem almennir notendur njóta jafnframt góðs af. Vegna hárrar nýtni, hás aflstuðuls og langtímasamnings er orkuvinnslukostnaður jafnan í lágmarki til stóriðnaðar á borð við álver, en reynsla er enn ekki komin af álagseinkennum kísilvera, sem samið hefur verið við hérlendis.
Orkufyrirtæki með arðsama stóriðjusamninga munu senn verða í stakkinn búin til umtalsverðra arðgreiðslna til eigenda sinna, þó að lágverðsstefna sé rekin gagnvart almenningi, því að álag almenningsveitnanna er lágt saman borið við stóriðjuálagið. Andvirði slíkra arðgreiðslna til ríkisins verður bezt varið til að kaupa ríkinu beina meirihlutaeign í flutningsfyrirtækinu Landsneti, sem mundi þá geta varið af nýju eigin fé sínu til að greiða viðbótar kostnað, sem hlýzt af "óumflýjanlegum" jarðstrengjum í stofnkerfinu á kerfisspennum 220 kV og 132 kV.
Miklir hagsmunir almennings eru fólgnir í að afnema flöskuhálsa í flutningskerfinu, auka stöðugleika stofnkerfisins í truflanatilvikum og að hindra langvinnar hækkanir á flutningsgjaldinu. Með því að styrkja fjárhag Landsnets með þessum hætti má jafnvel lækka flutningsgjald til almennings með tíð og tíma frá því, sem nú er. Vel má vera, að núverandi eigendur Landsnets vilji við þessar aðstæður selja hlut sinn í fyrirtækinu, og ríkið gæti þar þá gert hagstæð kaup og orðið einrátt, eins og eðlilegt er þar á bæ.
Frá gildistöku núverandi raforkulaga 2003 er enginn virkjunaraðili á Íslandi ábyrgur, ef kemur til skorts á forgangsorku í landinu. Það eru afar veikir hvatar í kerfinu til að virkja, nema fyrir stóriðju, þegar samningur hefur náðst við hana. Þetta leiðir til þess freistnivanda virkjunareigenda að láta skeika að sköpuðu, fresta framkvæmdum við fjármagnsfreka næstu virkjun, því að það er fundið fé að fresta fjárfestingu, auk þess sem orkuverð á markaði hækkar jafnan, þegar orkuforðinn minnkar, t.d. í miðlunarlónum. Þessi staða er virkjunarfyrirtækjunum í hag, á meðan þau geta afhent umbeðna orku, en er áhættusöm fyrir þjóðarhag.
Í langtímasamningum stóriðjufyrirtækjanna og viðkomandi virkjunareigenda kunna að vera refsiákvæði við skerðingu á forgangsorku, og þar er jafnframt kveðið á um, að ekki megi skerða forgangsorku til stóriðju hlutfallslega meira en álag almenningsveitna. Skerðing forgangsorku til ólíkra notenda skal vera hlutfallslega jöfn, "pro rata", stendur þar. Allt er þetta ófullnægjandi neytendavernd almenningi til handa.
Það er þess vegna tímabært að leggja skyldur á herðar fyrirtækis í markaðsráðandi stöðu, segjum með yfir 40 % af raforkumarkaðinum á sinni könnu, um að tryggja landsmönnum alltaf næga forgangsorku á markaðsverði, nema óviðráðanleg öfl ("force majeure") komi í veg fyrir það, eða flutningskerfi og/eða dreifikerfi geti ekki miðlað orkunni til notenda. Í lagasetningu um þetta þarf að kveða á um sektir vegna skorts á forgangsorku í landinu, sem séu í samræmi við þjóðhagslegt tjón vegna orku, sem almenningsveiturnar ekki fá, t.d. tífalt hæsta einingarverð orku frá fyrirtækinu til almenningsveitna, sem þá verði greitt í ríkissjóð fyrir orku, sem vantar á markaðinn.
Fróðlegt er að kynnast viðhorfum Elíasar til þessa málefnis í téðri grein:
"Vatnsorka og jarðvarmaorka nota ekki eldsneyti, og því er orkumarkaður á borð við hina evrópsku ófær um að stjórna orkuvinnslunni á hagkvæmasta hátt. Eini kostnaðarliðurinn, sem er háður álagi (eftirspurn) á orkukerfið, er áhætta vatnsorkuveranna, þegar þau taka vatn úr miðlunarlóni. ....
Yfir veturinn fer seljandinn því varlega og reiknar áhættu sína [nú aðeins vegna stóriðjusamninga - innsk. BJo], sem er því meiri sem miðlunarlón standa lægra [og lengra er til vorleysinga - innsk. BJo]. Með vaxandi áhættu getur hann hækkað verðið á sölutilboðum sínum, þar til hann hefur verðlagt sig að hluta út af markaðinum. Þetta er það, sem hefur gerzt, þegar loðnubræðslurnar kvarta undan því, að rafmagnið er orðið dýrara en olía.
Ef orkusalinn hefur á herðum sér þá skuldbindingu að hafa ætíð tiltekna orku til reiðu að viðlagðri ábyrgð, þá getur verðmyndun farið fram með þessum hætti, annars ekki. Þarna getur uppboðsmarkaður gegnt hlutverki, en dagsmarkaður að evrópskum hætti er óþarfi. Að bjóða í magn einnar viku í einu nægir."
Nú er við lýði uppboðsmarkaður fyrir s.k. jöfnunarorku, sem er mismunur áætlaðrar orkuþarfar og raunorkuþarfar hverrar klst. Þennan markað má útvíkka með tilboðsmarkaði fyrir eina viku í senn, eins og Elías leggur til. Verð frá stærsta raforkuvinnslufyrirtækinu mun þá markast af líkindum þess, að tiltekinn orkuskortur verði, t.d. við væntanlega lágstöðu miðlunarlóna fyrirtækisins og jaðarvinnslukostnaði hans (viðbót við grunnafl hans), og aðrir, aðallega eigendur jarðgufuvera, munu ýmist bjóða hærra eða lægra verð en verðið verður frá þeim stærsta. Verð sölufyrirtækjanna til almennra notenda mundi ekki geta breytzt jafnört og á uppboðsmarkaði fyrr en fjarmælingar hjá almennum notendum verða komnar í gagnið.
Niðurlag greinar Elíasar var eftirfarandi:
"Allt tal um uppskiptingu Landsvirkjunar er ótímabært fyrr en almenn stefna í orkumálum hefur verið mörkuð og markaðsfyrirkomulag, sem virkar við þessar aðstæður, hefur verið hannað. Skort á orkustefnu hér telur Christensen veikleika, og þar hefur hann rétt fyrir sér."
Það er hægt að taka undir þessa ályktun Elíasar að öllu leyti. Verkröðin þarf að vera sú að móta landinu fyrst orkustefnu og sneiða þar með hjá alls konar gryfjum, sem leiða til mikilla deilna og tafa á undirbúningi verka og framkvæmd. Ef í orkustefnunni mun felast, að raforkukerfið skuli vera markaðsdrifið í líkingu við það, sem þekkist á hinum Norðurlöndunum, á Bretlandi og í ESB-löndum meginlandsins, þá þarf að hanna markaðskerfi, sem sniðið er að íslenzkum þörfum og aðstæðum, eins og að ofan er drepið á. Meginhlutverk slíks markaðskerfis verður væntanlega að tryggja jafnan jafnvægi framboðs og eftirspurnar raforku alls staðar á landinu, og að vinnslukostnaður, flutningskostnaður og dreifingarkostnaður raforku verði sá lægsti, sem völ er á á hverjum tíma, að teknu eðlilegu tilliti til umhverfisverndar. (Eðlilegt tillit er mat umhverfisyfirvalda og jafnvel afstaða meirihluta í atkvæðagreiðslu.)
Fyrst að þessu loknu er tímabært fyrir stjórnmálamenn að hafa afskipti af stærð fyrirtækja, ef hún augljóslega virkar hamlandi á virkni markaðarins. Óvíst er, hvort nokkurn tímann verður talið ómaksins vert að leggja aflsæstreng á milli Íslands og annarra landa m.a. vegna of lítillar fáanlegrar orku hérlendis fyrir svo dýra framkvæmd. Íslendingar munu þess vegna verða að reiða sig á, að alltaf verði næg tiltæk raforka til reiðu úr innlendum orkulindum, og þá er skuldbundið kjölfestufyrirtæki hérlendis ómetanlegt.
Á þessu eru þó skiptar skoðanir, og Skúli Jóhannsson, verkfræðingur, ritaði 13. október 2016, grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:
"Hugmynd að uppskiptingu Landsvirkjunar":
Hann nefnir þann möguleika að stofna 2 ný fyrirtæki, þar sem annað mundi yfirtaka eignarhald á og rekstur jarðgufuvirkjananna, og hitt mundi sjá um vindmyllurnar. Bæði þessi nýju fyrirtæki yrðu anzi lítil og léttvæg á markaðinum, þó að með Þeistareykjavirkjun vaxi jarðgufuhluta Landsvirkjunar vissulega ásmegin. Ef Landsvirkjun telur ekki samlegðaráhrif af þessari starfsemi með vatnsorkuverunum vera næg, þá er eðlilegast, að hún selji þessi jarðgufuver og vindmyllur af hagkvæmniástæðum. Ef Landsvirkjun verður fengið það kjölfestuhlutverk að tryggja landsmönnum orkuöryggi, þá er ósennilegt, að samkeppnisyfirvöld muni krefjast minni umsvifa hennar á markaði en reyndin er nú.
Nú eru sveitarfélög að vakna til meðvitundar um hagsmuni sína gagnvart orkuiðnaðinum. Kemur þetta fram í kröfu á hendur Landsvirkjun um greiðslu fyrir vatnsréttindi, og hefur Hæstiréttur úrskurðað, að leggja megi fasteignagjald á þau. Þá hafa sveitarfélögin lagt fram þá réttmætu kröfu, að mannvirki orkugeirans verði ekki lengur undanþegin fasteignagjöldum. Hlýtur þetta einnig að taka til loftlína. Þá eru sveitarstjórnir sumar lítt hrifnar af vindmyllum, nema umtalsverðar greiðslur af þeim falli sveitarsjóðum í skaut.
Vinnslukostnaður vindmylla á Íslandi er 2-3 faldur vinnslukostnaður hefðbundinna vatnsorku- og jarðgufuvera. Þær hafa einnig umtalsvert neikvæð umhverfisáhrif. Vindorkugarðar munu þess vegna eiga erfitt uppdráttar á Íslandi, en það er þó ekki loku fyrir það skotið, að í stað aukins miðlunarforða í uppistöðulónum verði talið ákjósanlegra, að teknu tilliti til kostnaðar og umhverfisáhrifa, að reisa vindorkugarða til að spara vatn í miðlunarlónum.
11.12.2016 | 14:52
Söguleg umbrot
Sé litið yfir Evrópusöguna síðustu 2000 árin, má álykta, að upphaf stefnumarkandi þróunar á hverjum tíma eigi sér jafnan stað í Róm og/eða Lundúnum. Rómarríkið lagði grundvöll að samfélagi og menningu Evrópu fram á þennan dag og mótaði þá landaskipan, sem við nú búum við. Rómarkirkjan klofnaði á fyrri hluta 16. aldar vegna spillingar Páfadóms að tilstuðlan Englendinga og Þjóðverja, og oft hafa Þjóðverjar þróað hugmyndir og aðferðir hinna tveggja af sinni alkunnu skipulagsgáfu, festu og nákvæmni.
Iðnbyltingin hófst á Bretlandi um 1760 með mikilvægri tækniþróun, þar sem gufuvél James Watt markaði tímamót í frelsun manna undan líkamlegu oki erfiðisvinnunnar, og þar með kippti tækniþróunin fótunum undan þrælahaldi, sem hafði afar lengi verið undirstaða auðsköpunar hvarvetna. Um svipað leyti lagði Adam Smith fram fræðilegan grundvöll að markaðshagkerfinu, sem ásamt enska þingræðiskerfinu hefur knúið áfram vestræn þjóðfélög til nútíma velferðarsamfélags og staðið af sér ofstæki einræðisafla, iðulega með miklum blóðfórnum.
Uppruna þjóðernisjafnaðarmanna 20. aldar má rekja til niðurlægingar Fyrri heimsstyrjaldarinnar fyrir nokkur ríki Evrópu, þar sem Bretland og Bandaríkin réðu úrslitum á vígvöllunum, og stjórnmálaflokks Benitos Mussolinis, sem var fyrirrennari og að sumu leyti fyrirmynd þjóðernisjafnaðarmannaflokks þýzkra verkamanna Austurríkismannsins Adolfs Hitlers. Sá flokkur var vissulega vinstri flokkur að nútíma skilningi, þó að hann stillti sér upp sem höfuðandstæðingi kommúnismans, af því að hann vildi spenna auðvaldskerfið fyrir vagn ríkisvaldsins. Einstaklingarnir voru tannhjól í samfélagsvél ríkisins. Það er vinstrimennska. Að sumu leyti svipar kínverskum kommúnisma til þessa kerfis. Þar eru jafnvel stundaðar þjóðernishreinsanir, t.d. í Tíbet, og Han fólkið talinn yfirburða stofn kínverska ríkisins.
Evrópusambandið (ESB) er reyndar hvorki ættað í Róm né í Lundúnum, heldur í Stál- og kolabandalagi Benelux-landanna ásamt Frakklandi og Þýzkalandi um 1950, en stofnsáttmáli Evrópubandalagsins frá 1957 er þó tengdur við og kenndur við Róm. Vatnaskil urðu hins vegar í þróun Evrópusambandsins, þegar Bretar samþykktu 23. júní 2016 að segja sig úr ESB. Brezka þingið hefur nú innsiglað þá stefnumörkun. Þar með stöðvuðu Bretar stöðuga útþenslu þess, og samdráttur yfirráðasvæðis þess hófst. ESB mun ekki bera sitt barr eftir þetta, enda gætu fleiri, t.d. Danir, fylgt í kjölfarið og gengið í viðskiptabandalag með Bretum. Hafinn er nýr kafli í stjórnmálaþróun Evrópu að frumkvæði Lundúna.
Þann 4. desember 2016 gengu Ítalir að kjörborðinu og kusu um stjórnarskrárbreytingar, sem forsætisráðherrann, Matteo Renzi, hafði haft forgöngu um. Þær snerust um að styrkja miðstjórnarvaldið í Róm, og reyndist slíkt eitur í beinum Ítala. Renzi ætlaði að auka skilvirkni og draga úr spillingu með því að draga völd frá héruðunum og til Rómar. Sagðist hann draga burst úr nefi Mafíunnar með slíku, en Ítalir gáfu lítið fyrir það, enda hafa þeir aldrei verið hallir undir Rómarvaldið. Hinir fornu Rómverjar létu sér það í léttu rúmi liggja, svo lengi sem þeir fengu skattfé af íbúunum og liðsmenn í Rómarherinn. Allir kunnu þó að meta vegakerfi og áveitukerfi Rómverja, sem höfðu á að skipa beztu verkfræðingum Evrópu þess tíma, og Pax Romana, friði innan landamæra Rómarveldis.
Samkvæmt lagabreytingu, að frumkvæði Renzis, átti stjórnmálaflokkur, sem hlyti yfir 40 % fylgi í þingkosningum, að fá meirihluta þingsæta í neðri deild þingsins á silfurfati, og efri deild átti bara að verða ráðgefandi. Þetta hugnaðist Ítölum illa.
Renzi sagði strax af sér eftir ósigurinn, og formaður Fimm stjörnu hreyfingarinnar, Beppe Grillo, trúður að atvinnu, krafðist tafarlausra þingkosninga í kjölfarið, en flokki hans er spáð sigri í næstu kosningum. Eftir þær mun trúðurinn trúlega mynda ríkisstjórn á Ítalíu.
Beppe Grillo styður aðild Ítalíu að ESB, en hefur lofað Ítölum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild landsins að myntbandalagi ESB, evrunni, komist hann til valda. Síðan Ítalir tóku upp evruna í byrjun aldarinnar, hefur hagkerfi Ítalíu ekki borið sitt barr, hagvöxtur verið sáralítill, ráðstöfunartekjum almennings hrakað, atvinnuleysi vaxið, einkum á meðal ungviðis og í suðurhlutanum, og skuldsetning allra kima þjóðfélagsins keyrt úr hófi fram, ekki sízt ríkissjóðs. Nú er mikið um vanskil í bönkum, og ítalska fjármálakerfið stendur tæpt, verst þriðji stærsti banki landsins og sá elzti, starfandi, kenndur við hina fögru borg Toscana, Siena. Hlutabréf hans hafa fallið um 85 %, sem segir sína sögu, og hlutabréf hafa almennt fallið á Ítalíu eftir ósigur Renzis og evran tekið dýfu. Fjármálamarkaðir finna á sér óveður í aðsigi.
Berlín hefur frestað gjaldþroti Grikklands og hjálpað Kýpverjum, Írum, Spánverjum og Portúgölum, en Berlín ræður ekki við að bjarga Ítalíu. Greiðsluþrot Ítalíu og brottfall úr myntbandalaginu verður reiðarslag fyrir myntsamstarfið, sem mun leika á reiðiskjálfi, og e.t.v. fá rothögg með heilablæðingu. Mikil atburðarás var þess vegna ræst í Evrópu sunnudaginn 4. desember 2016. Ekki er útlitið björgulegt fyrir íslenzka útflytjendur og ferðaþjónustu, ef svo fer fram sem horfir.
Lítum nú á, hvað fyrsti aðalhagfræðingur Evrubankans, Þjóðverjinn Otmar Issing, sagði um framferði Ítalans Mario Draghi og evrubanka hans ásamt stjórnmálamönnum evrulands haustið 2016 með tilvitnunum í grein Andrésar Magnússonar í Viðskiptablaðinu, 20. október 2016:
"Spilaborg evrunnar mun óhjákvæmilega hrynja:
""Einn dag mun þessi spilaborg hrynja" var á meðal þess, sem Issing sagði í viðtali við Central Banking á dögunum, en það er eitt vinsælasta tímarit seðlabankaheimsins. Hann sagði, að evran hefði verið svikin í tryggðum af stjórnmálunum og harmaði, að tilraunin hefði mistekizt allt frá upphafi, en hefði síðan úrkynjazt í fjármálapólitísk áflog, þar sem engin fantabrögð væru undanskilin.
"Ef við leggjum kalt mat á framhaldið, þá mun evran böðlast áfram, skjögrandi frá einni kreppunni til hinnar næstu. Það er erfitt að spá fyrir um, hversu lengi það mun ganga þannig til, en það getur ekki gengið að eilífu.""
Það er hafið yfir vafa, að hinn skeleggi Otmar Issing hefur lög að mæla. Það, sem hann á við, er, að stjórnmálamenn brutu reglurnar, sem að tilstuðlan þýzkra hagfræðinga voru settar um evruna, þegar hún var grundvölluð, t.d. með því að bjarga bönkum og ríkjum frá greiðsluþroti með ríkisfé og peningaprentun, með því að brjóta reglur Maastricht samkomulagsins um hámarks halla á ríkissjóðum 3 % af VLF ár eftir ár og með dúndrandi viðskiptahalla víða.
Issing spáir hruni evrunnar eftir ótilgreindan tíma, og nú bendir ýmislegt til, að sá tími sé að renna upp með hruni fjármálakerfis Ítalíu og/eða úrsögn Ítalíu úr myntsamstarfinu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar valdatöku yfirtrúðs Ítalíu og Fimm stjörnu hreyfingar hans, sem þegar hefur náð völdum í Róm.
Heyrzt hefur, að eitt af "erfiðu málunum" í stjórnarmyndunarviðræðunum hérlendis í vetur hafi verið krafa tiltekinna stjórnmálaflokka um að setja aðildarumsókn Íslands að ESB á dagskrá aftur. Í ljósi raunveruleikans á Íslandi og í Evrópu er þetta alveg dæmalaus þráhyggja og pólitískur sauðsháttur. Nægir að benda á, að evran er á hverfanda hveli og að Samfylkingin fékk einn mann kjörinn í síðustu Alþingiskosningum (og 2 uppbótarmenn), sem má túlka sem höfnun kjósenda á stefnu hennar, m.a. um aðild Íslands að ESB og upptöku evru sem lögeyris á Íslandi. Aðrir flokkar héldu þessari stefnu lítið sem ekkert á lofti, og þess vegna er í meira lagi ólýðræðislegt og einstaklega óskynsamlegt að eyða púðri á þetta mál í íslenzkum stjórnmálum nú og á næstunni. Hvað hafði Issing að segja um stjórnendur ESB í Brüssel ?:
"Issing, prófessor, úthúðaði framkvæmdastjórn ESB, sagði hana pólitíska ókind, sem gæfist upp á að framfylgja grundvallarreglum sambandsins í öllum meginatriðum. "Freistnivandinn er yfirþyrmandi", segir hann um kommissara framkvæmdastjórnarinnar.
Hann var engu mjúkmálli um Seðlabanka Evrópu, sem hann segir vera á hálli braut til Heljar og hafa í raun eyðilagt hið sameiginlega myntkerfi með því að koma gjaldþrota ríkjum til bjargar þvert á vinnureglur bankans, lög og undirliggjandi milliríkjasáttmála. "Stöðugleikabandalagið hefur meira eða minna misheppnazt, og agi á markaði verið látinn lönd og leið með afskiptum Seðlabanka Evrópu. Fyrir vikið eru engin fjármálaleg stjórntæki lengur tiltæk, hvorki markaðsleg né pólitísk", sagði Issing og bætti við: "Þetta er allt, sem þarf til að kalla hamfarir yfir myntsamstarfið"."
""Efnisgreinin, sem bannar Seðlabanka Evrópu að hlaupa undir bagga með gjaldþrota ríkissjóðum, er þverbrotin daglega", segir Issing. Hann vísar úrskurðum Evrópudómstólsins um, að þær ráðstafanir sé lögmætar, á bug og segir þá einfeldningslega og dómarana blindaða af Evrópuhugsjóninni."
Það er ómetanlegt, að hinn vel upplýsti og hreinskilni Otmar Issing skuli tjá sig opinberlega um morkna innviði bæði ESB og ECB. Hann er í raun og veru að segja, að framkvæmdastjórn ESB og bankastjórn evrubankans, ECB, hafi látið reka á reiðanum og ekki haft bein í nefinu til að halda sjó í stormviðrum og miklum þrýstingi frá stjórnmálamönnum, forstjórum og bankastjórum í aðildarríkjunum, þegar framkvæmdastjórn og bankastjórn bar skylda til að standa vörð um grundvallaratriði, sem njörvuð höfðu verið niður í samningum á milli aðildarríkjanna. Með þessu hafi þeir grafið svo undan trausti á Evrópusambandinu og evrunni, að hvort tveggja sé nú sært til ólífis.
Hér eru þessir tveir sjúklingar, ESB og ECB, úrskurðaðir dauðvona án lífsvonar. Náið samband ólíkra ríkja Evrópu er að leiða til skilnaðar, af því að siðferðiskenndin er ólík og ósamrýmanleg. Það er andstætt mannlegu eðli, að svo ólíkt hugarfar, sem hér um ræðir, geti deilt sömu örlögum. Martin Luther var að breyttu breytanda talsmaður sömu viðhorfa og grundvallarafstöðu og Otmar Issing. Það verður að halda sig við Bókina í fjölþjóðasamstarfi, en prelátarnir mega ekki túlka hana út og suður að eigin vild, og slíkt hefur þá alvarlegar afleiðingar í för með sér.
Upp úr þessu umróti gætu risið "Suður-Kirkjan" og Norður-Kirkjan" með fríverzlunarsvæði og sameiginlega mynt innbyrðis og viðskiptasamning sín á milli. Bretland mun standa utan við báðar Kirkjurnar með sitt sterlingspund og fríverzlunarbandalag með þeim, sem ekki kæra sig um að vera í fyrrgreindum tveimur "Kirkjum" og auðvitað viðskiptasamning við þær.
Hvar halda menn, að Ísland eigi bezt heima í þessu tilliti ? Væri ekki ráð að staldra við, leyfa þróun Evrópu að hafa sinn gang og umrótinu að linna áður en gösslazt er út í viðræður við samband á fallanda fæti ? ESB hefur hvort eð er lýst því yfir, að engin ný ríki verði tekin inn fyrir 2020. Það er fullkomin tímaskekkja af tilteknum stjórnmálaflokkum á Íslandi að ræða það af tilfinningaþrunginni alvöru dag eftir dag í stjórnarmyndunarviðræðum að láta þjóðina kjósa um framhald aðildarviðræðna eða um aðild að ESB. Verði sú reyndin, verður hlegið um alla Evrópu, þótt Evrópumönnum sé sízt hlátur í hug, þegar talið berst að ESB.
28.11.2016 | 11:39
Vafasamt vistspor
Það er hægt að taka undir það, að óvænlega horfi í umhverfismálum heimsins, en með hugtakinu "vistspor mannkyns", sem er þokukennt hugtak í hugum margra, má jafnvel skjóta harðsvíruðum umhverfissóðum skelk í bringu. Samkvæmt þróun vistsporsins á nefnilega mannkynið að óbreyttum lifnaðarháttum aðeins 120 ár eftir á jörðunni, sem þýðir hrun þjóðskipulags að okkar skilningi á fyrri helmingi næstu aldar.
Hér dugir ekki lengur að segja, eins og Frakkakóngur Lúðvík 15. skömmu fyrir byltingu alþýðu gegn aðlinum 1789:
"La duche, après moi"-eða syndafallið kemur eftir minn dag. Til huggunar má þó verða, að aðferðarfræðin við að finna út stærð vistsporsins gefur stundum kyndugar niðurstöður og skrýtinn innbyrðis samanburð, sem draga má stórlega í efa, eins og drepið verður á í þessari vefgrein.
Fjöllum fyrst um hugtakið "vistspor". Þann 15. ágúst 2016 fékk Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, birta eftir sig hugvekju í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Vistspor mannkyns stækkar stöðugt með sívaxandi ágengni í auðlindir jarðar":
"Alþjóðlegar horfur í umhverfismálum eru túlkaðar með ýmsum hætti, en niðurstaðan er ótvírætt á þá leið, að það sígur ört á ógæfuhliðina. Þessa dagana erum við minnt á mælikvarða "Global Footprint Network", GFN, samtaka, sem um alllangt skeið hafa sérhæft sig í að reikna út vistspor þjóðríkja og jarðarbúa sem heild. Þau byggja á upplýsingum, sem fengnar eru úr gagnasöfnum Sameinuðu þjóðanna, og aðferðarfræðin hefur þróazt smám saman og orðið áreiðanlegri.
Á hverju ári gefa samtök þessi út svo nefndan yfirdráttardag ("Earth Overshoot Day"), en það er sú dagsetning, þegar birgðir mannkyns til að framfleyta sér það árið eru upp urnar, og úr því fara menn að ganga á höfuðstólinn. Í ár gerðist það mánudaginn 8. ágúst, og það sem eftir er ársins er mannkynið að eyða um efni fram og "éta útsæðið", svo að gripið sé til annarrar samlíkingar."
M.v. þetta á mannkynið aðeins eftir 60 % af þeim auðlindum, sem því stendur til boða á jörðunni. Ennfremur kemur fram síðar í þessari frásögn Hjörleifs, að undanfarin 6 ár hafi forðinn, varpaður á tímaásinn, minnkað um 13 daga, sem þá samsvarar hraðanum 0,6 %/ár. Með sama áframhaldi verður tími mannkyns, eða auðlindir "þess", upp urinn að öld liðinni eða árið 2116. Hér er ekki ætlunin að gera sérstaklega lítið úr alvarleika þess máls, sem Hjörleifur gerði að umfjöllunarefni í grein sinni, heldur að líta á málið frá íslenzku sjónarhorni með vísun í téða blaðagrein o.fl.:
"Á árinu 2010 skilaði Sigurður Eyberg Jóhannesson meistararitgerð við Háskóla Íslands, sem ber heitið "Vistspor Íslands", en leiðbeinandi hans var Brynhildur Davíðsdóttir. Niðurstöður hans þóttu í hógværari kantinum, en samkvæmt þeim taldist vistspor Íslendinga að frátöldum fiskveiðum vera 12,7 ha í stað 2,1 ha, sem væri sjálfbært, þannig að munurinn er 6-faldur.
Væru fiskveiðar okkar teknar með í dæmið, samkvæmt aðferðarfræði GFN, teldist hver Íslendingur aftur á móti nota 56 jarðhektara, sem væri margfalt heimsmet !"
Þessi lokaniðurstaða er með eindæmum í ljósi þess, að nýting miðanna innan fiskveiðilögsögu Íslands er sjálfbær, enda reist á vísindalegri ráðgjöf, sem nýtur stuðnings Alþjóða hafrannsóknarráðsins, ICES. Ekki er betur vitað en umgengni sjómanna við auðlindina sé, eins og bezt verður á kosið, enda hefur fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga í sér byggðan mikilvægan hvata til umhverfisverndar, sem ekki er að finna í öllum fiskveiðistjórnunarkerfum.
Varla eru veiðarfærin sjálf ástæða meints stórs vistspors fiskveiðanna, skipunum fer fækkandi og megnið af þeim er hægt að endurvinna, þegar þeim er lagt. Vistspor skipanna sjálfra getur þess vegna varla verið stórt.
Skipin nota hins vegar að mestu leyti óendurnýjanlega orku, ýmist svartolíu, flotaolíu eða dísilolíu, en íslenzki sjávarútvegurinn hefur verið til hreinnar fyrirmyndar í orkunýtnilegum efnum, svo að koltvíildislosun flotans er nú þegar um 290 kt/ár minni en hún var viðmiðunarárið 1990, sem jafngildir 37 % samdrætti m.v. við þetta viðmiðunarár Parísarsamkomulagsins frá desember 2015. Atvinnugreinin er u.þ.b. 13 árum á undan marmiðssetningunni um 40 % minnkun losunar árið 2030.
Ekki skal gera lítið úr vistspori þessarar olíunotkunar á hvern íbúa landsins, þar sem Íslendingar eru líklega mesta fiskveiðiþjóð í heimi á eftir Færeyingum þannig reiknað og þriðja mesta fiskveiðiþjóð Evrópu á eftir Rússum og Norðmönnum án tillits til íbúafjölda. Þetta vistspor mun hins vegar halda áfram að minnka á næsta áratugi, með því að í sjávarútveginum verður jarðefnaeldsneyti leyst af hólmi með innlendri olíu úr jurtum og innlendri tilbúinni olíu úr koltvíildi iðnaðar og jarðgufuvirkjana og vetni, sem rafgreint verður úr vatni. Rafknúnar vélar um borð munu ennfremur ryðja sér til rúms á tímabilinu 2025-2035, ef að líkum lætur, svo að um 2040 verður jarðefnaeldsneytisnotkun flotans orðin hverfandi. Sé það rétt, sem er illskiljanlegt, að sjávarútvegurinn 4,4-faldi vistspor Íslendinga, hillir nú undir, að hann stækki vistspor landsmanna sáralítið. Allt er þetta háð því, að útgerðirnar fái áfram frelsi til þróunar og ráðstöfunar á framlegð sinni til fjárfestinga og annars, eins og önnur fyrirtæki, og auðlindin verði ekki þjóðnýtt, eins og alls staðar hefur gefizt illa með auðlindir almennt.
Nú skal skoða kolefnisspor markaðssetningar fisksins með stoð í viðtali Ásgeirs Ingvarssonar við Mikael Tal Grétarsson í sjávarútvegskafla Morgunblaðsins, 20. október 2016,
"Kolefnisspor flugfisksins ekki svo stórt":
"Þegar allt dæmið er reiknað, reynist íslenzkur fiskur, sendur með flugi, hafa minna kolefnisspor en norskur fiskur, fluttur landleiðina. Þá kemur íslenzki fiskurinn mjög vel út í samanburði við próteingjafa á borð við nauta- og lambakjöt."
Þetta kemur þægilega á óvart, því að samkvæmt téðri grein Hjörleifs "er Noregur dæmi um land, sem talið er í jafnvægi í sínum auðlindabúskapi, á meðan Danmörk telst í þrefalt verri stöðu". Það er óskiljanlegt, hvernig "Global Footprint Network" kemst að þeirri niðurstöðu, að Noregur sé hlutfallslegur auðlindanotandi, sem nemur aðeins broti af hlutfallslegri íslenzkri auðlindanotkun, þegar þess er gætt, að Noregur er mesta stóriðjuland Evrópu vestan Rússlands og mesta olíuvinnsluland vestan Rússlands með um 1 % heimsframleiðslunnar. GFN-niðurstöður og samanburður þeirra á milli landa eru svo ótrúlegar, að það er ekki hægt að taka þær alvarlega að svo stöddu. Þessar tölur eru engu að síður alvarlegar fyrir ímynd Íslands í augum umheimsins. Við höfum allar forsendur til að geta keppt að allt annarri ímynd. Í ljósi þessa og af hagkvæmniástæðum er mikilvægt að vinna ötullega að "orkuskiptum" á Íslandi og útjöfnun gróðurhúsalofttegunda með ræktun, einkum skógrækt, og endurheimt votlendis, svo að losun koltvíildisjafngilda á mann komist nálægt OECD-meðaltali um 5 t/íb á ári og lækki þar með um 60 % á 14 árum. Það kostar átak, en það er viðráðanlegt, af því að tækniþróunin gengur í sömu átt.
"Þegar allt dæmið er reiknað, segir Mikael, að íslenzkur flugfiskur, sem kominn er á markað í Belgíu, hafi losað um 1,22 kg af CO2 á hvert kg af fiski, þar af 220 g vegna sjálfs flugsins. Hins vegar megi reikna með, að fiskur, sem komi á belgískan markað alla leið frá norðurhluta Noregs, sé með kolefnisspor upp á 2,55 kg CO2 á hvert fisk kg, þar af 360 g vegna flutningsins. "Íslenzkur fiskur, sem fluttur er með fragtflugvélum, hefur ögn stærra kolefnisspor en sá, sem sendur er með farþegaflugi, en er samt umhverfisvænni en norski fiskurinn.""
Þetta eru merkileg og ánægjuleg tíðindi, sem sýna í hnotskurn, hversu góðum árangri íslenzkur sjávarútvegur hefur náð í umhverfisvernd, þar sem veiðar norsks sjávarútvegs og vinnsla losa 2,2 sinnum meira koltvíildi en íslenzks, og norskur fiskur kominn til Belgíu hefur losað 2,1 sinnum meira.
Áliðnaður er annað dæmi um, að framleiðsla Íslendinga skilur eftir sig minna vistspor eða er umhverfisvænni en sambærileg framleiðsla annars staðar. Yfir helmingur af álframleiðslu heimsins fer fram með raforku frá kolakyntum orkuverum, og flest ný álver undanfarið í heiminum fá raforku frá slíkum verum. Í slíkum tilvikum er myndun koltvíildis á hvert framleitt tonn áls 9,4 sinnum meiri en á Íslandi, sem þýðir, að andrúmsloftinu er þyrmt við 11,5 Mt á hverju ári við framleiðslu á 0,86 Mt af áli á Íslandi.
Álvinnslan sjálf er og umhverfisvænst á Íslandi, þó að áhrifum orkuvinnslunnar sé sleppt, því að starfsmönnum hérlendis hefur tekizt bezt upp við mengunarvarnirnar, t.d. myndun gróðurhúsalofttegunda í rafgreiningarkerunum, og hefur ISAL í Straumsvík iðulega lent efst á lista álvera í heiminum með traustverða skráningu og lágmarksmyndun gróðurhúsalofttegunda. Það stafar af góðri stjórn á kerrekstrinum, þar sem verkfræðingar fyrirtækisins hafa lagt gjörva hönd á plóg með öðru starfsfólki.
Í lok greinar Ásgeirs Ingvarssonar er vistspor fisks af Íslandsmiðum borið saman við vistspor landbúnaðarafurða. Væri líka fróðlegt að bera það saman við vistspor fiskeldisins. Það er líklegt, að fjárfestar líti í vaxandi mæli á vistsporið, þegar þeir gera upp á milli fjárfestingarkosta, því að lítið vistspor auðveldar markaðssetningu og verðmunur eftir vistspori mun aukast, eftir því sem vistspor mannkyns vex, eins og Hjörleifur Guttormsson lýsti, þó að þar kunni ýmislegt að fara á milli mála.
"Er líka forvitnilegt að bera íslenzkan flugfisk saman við aðra próteingjafa, sem neytendum standa til boða. Kemur þá í ljós, að íslenzkur fiskur hefur mun minna kolefnisspor. "Að jafnaði má reikna með, að nautakjöt og lambakjöt hafi 20-30 sinnum stærra kolefnisspor en fiskur, sem fluttur er með flugi, og það eru ýmsir framleiðsluþættir í landbúnaðinum, sem valda þessum mikla mun."
Ofangreindar hlutfallstölur eiga augsýnilega við landbúnað meginlands Evrópu og Bretlands, en ekki Íslands, því að samkvæmt FAO - Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna - gildir talan 2,8 kg koltvíildis á hvert kg fitu og próteins kúastofna, sem framleiða bæði mjólk og kjöt, eins og íslenzki kúastofninn gerir, en á meginlandinu gildir talan 46,2 kg CO2 per kg kjöts af stofni, sem eingöngu framleiðir kjöt. Þá er vistspor íslenzkra lamba hverfandi lítið, þar sem þau ganga með ánum á heiðum uppi eða í úthaga allt sumarið.
Fróðlegt hefði verið að telja upp nokkra þeirra þátta, sem vistspor íslenzks landbúnaðar felst í. Þá kæmi sennilega í ljós, að þeir standa margir hverjir til bóta. Íslenzkir bændur eru nánast hættir að þurrka upp land og farnir að snúa þeirri þróun við. Innan 15 ára verða nýjar dráttarvélar að líkindum knúnar rafmagni. Slíkt, með mörgu öðru, kallar á að hraða þrífösun sveitanna og styrkinu dreifikerfis dreifbýlisins með jarðstrengjum í stað loftlína.
Tilbúinn áburður stækkar sennilega vistspor landbúnaðarins. Markaðstækifæri hins heilnæma íslenzka landbúnaðar felast sennilega öðru fremur í lífrænni ræktun, og þar er tilbúnum áburði úthýst. Íslenzkur fiskur og íslenzkt kjöt er nú þegar með svo lítið vistspor, að íslenzki landbúnaðurinn stenzt samkeppnisaðilum erlendis umhverfislegan og gæðalegan snúning, og það þarf að beita því vopni af meiri einurð við markaðssetninguna til að fá hærra verð. Það mun koma að því, að varan verður merkt með þessari einkunnagjöf á umbúðum eða í kjöt/fiskborðum verzlananna.
5.11.2016 | 15:08
Maðkur í mysunni hjá OR
Viðskiptablaðið (Vb) hefur fjallað ítarlega um fjárhagslegan rekstur Orkuveitu Reykjavíkur, OR, sem samanstendur af orkuvinnsluþættinum innan vébanda Orku náttúrunnar, ON, og deifingarþættinum innan vébanda Veitna. Fengizt er við öflun og dreifingu á heitu og köldu vatni, flutning og hreinsun frárennslis, gagnadreifingu, vinnslu og dreifingu rafmagns. Tekjustoðirnar eru þannig margar undir fyrirtækinu, og áhöld um aðskilnað tekjulinda. Það liggur t.d. ekki í augum uppi, að komið sé í veg fyrir flutning fjármagns frá hitaveituhlutanum, sem í eðli sínu er einokunarstarfsemi, til rafmagnsvinnslunnar, sem er á samkeppnismarkaði með almenning og orkufrekan iðnað sem viðskiptavini.
Boðskapur Vb er sá, að tekjur af raforkusölu ON til álvers Norðuráls á Grundartanga, NÁ, séu óeðlilega lágar m.v. kostnað raforkuvinnslu í jarðgufuverum ON og tekjur af orkusölu ON til almennings. Eins og staðan er núna, er rétt hjá Vb, að raforkuverðið til NÁ er of lágt til að það geti staðið undir kostnaðinum af raforkuöflun fyrir fyrirtækið í jarðgufuverum ON. Núverandi raforkuverð til NÁ er ennfremur allt of lágt m.v. meðalraforkuverð til almennra viðskiptavina ON samkvæmt upplýsingum Vb úr gögnum OR og OS (Orkustofnunar). Þetta er grafalvarlegt fjárhagsmál og sanngirnismál, og spjótin beinast óneitanlega að borgarstjóranum í Reykjavík og borgarstjórnarmeirihluta hans, sem virðist döngunarlaus, þó að almannahagsmunir séu í húfi.
Orkuverð til NÁ 2015, PNÁ:
Samkvæmt Vb 20. október 2016 voru orkusölutekjur ON árið 2015 af viðskiptum með raforku við NÁ MUSD 37,4, sem á meðalgengi ársins 2015, 131 ISK/USD, jafngildir miaISK 4,9. Samkvæmt upplýsingum forstjóra Norðuráls í Vb 27. október 2016, þar sem hann skýrir frá því, að greiðslur NÁ til OR hafi árið 2015 losað mia ISK 6, má ætla, að sú upphæð spanni flutningsgjald frá virkjunum til Grundartanga og andvirði raforkusölu frá jarðgufuvirkjunum ON, Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun, ásamt raforku frá Landsvirkjun, LV, sem ON kaupir og selur. Raforkan frá jarðgufuverunum nam hins vegar 2277 GWh (2476-199=2277, þar sem 199 GWh er orka keypt af LV og seld til NÁ).
Þá er hægt að reikna út meðalverð raforku 2015 frá jarðgufuvirkjunum ON til NÁ:
PNÁ = 37,4/2,277 = 16,4 USD/MWh, jafngildi 2,1 ISK/kWh
Er þetta verð of lágt, eðlilegt eða of hátt ?
Til að svara þessari spurningu, þarf að bera þetta verð saman við endurnýjunarverð jarðgufuvirkjananna, sem í hlut eiga, og raforkuverð til almennings frá sömu virkjunum.
Vinnslukostnaður í jarðgufuvirkjun, KJG:
Hægt er að miða við einingarkostnað Þeistareykjavirkjunar, 2,1 MUSD/MW, og verður þá stofnkostnaður við þann hluta virkjunarinnar, sem NÁ nýtir, þ.e. 265 MW, tæplega MUSD 560.
Ef reiknað með árlegum viðhaldskostnaði og kostnaði við gufuöflun til mótvægis við glataða gufu í gufuforðabúri virkjunar, 5 % af stofnkostnaði, fæst upphæðina MUSD 28, sem er varlega áætlaður jafnaðarlegur árlegur rekstrar- og viðhaldskostnaður ON við sínar jarðgufuvirkjanir. Hann er fremur hár, t.d. MUSD 62 árið 2015, vegna þess, að gufuforðabúrið, sem Hellisheiðarvirkjun nýtir, hefur ekki staðið undir fullu álagi virkjunarinnar. Með öðrum orðum var rennt blint í sjóinn á sínum tíma með sjálfbæra álagsgetu Hellisheiðarvirkjunar, þegar samið var um raforkusölu þaðan. Með 8,0 %/ár ávöxtunarkröfu fjármagns og 30 ára afskriftartíma virkjunar, gefa þessar kostnaðartölur árlegan fjármagnskostnað MUSD 49 og rekstrarkostnað MUSD 28, alls MUSD 77. Raforka frá jarðgufuverunum til NÁ var 2277 GWh árið 2015. Þá fæst einingarkostnaður raforku, sem vinna þarf með jarðgufu fyrir NÁ:
KJG = 77/2,277 = 34 USD/MWh
Samanburður raunverðs NÁ og vinnslukostnaðar raforku:
PNÁ/KJG = 16,4/34 = 0,48 = 48 %
Þetta lága hlutfall gengur ekki til lengdar, enda kemur það þunglega niður á hagsmunum eigenda OR og viðskiptavina dótturfyrirtækja hennar. Ábyrgðin hvílir þyngst á borgarstjórn Reykjavíkur, enda ekki vitað til, að OR hafi óskað eftir viðræðum við NÁ um endurskoðun rafmagnssamnings að hætti Landsvirkjunar, LV, þó að enn ríkari ástæða sé til að bregðast við forsendubresti fyrir OR en LV.
Raunverðið 2015 var aðeins 48 % af nauðsynlegu jafnaðarverði fyrir orku frá jarðgufuvirkjunum ON. Ætla má reyndar, að raunverðið 2015 hafi verið nálægt lágmarki í rafmagnssamningi, af því að raforkuverðið til NÁ er tengt álverði. Það er afar ólíklegt, að þetta raforkuverð sveiflist nokkurn tímann upp í vinnslukostnaðinn frá nýjum, sams konar virkjunum, 34 USD/MWh, og þess vegna getur andvirði orkusölunnar frá NÁ ekki staðið undir endurnýjun eða stækkun kerfisins. Það er ekki þar með sagt, að tap verði allt samningstímabilið á þessari orkusölu. Svo verður þó líklega á meðan á mikilli gufuöflun stendur til að viðhalda afli Hellisheiðarvirkjunar, sbr Vb 20.10.2016:
"Heildarrekstrarkostnaður ON í fyrra [2015] nam tæpum MUSD 62 eða miöISK 8,1, þar af fóru miaISK 1,3 [16 %] í viðhald."
Raforkuverð til almennings frá jarðgufuvirkjunum OR:
NÁ notar um 265 MW/423 MW = 63 % af afkastagetu jarðgufuvirkjananna og 2277 GWh/3211 = 71 % af orkuvinnslunni 2015 og borgaði fyrir þá orku aðeins sem nemur 60 % af rekstrarkostnaði þess árs, miaISK 4,9/miaISK 8,1 = 0,6. Allur fjármagnskostnaður og 40 % af rekstrarkostnaði lendir þá á almenningi, sem nýtir 37 % af afkastagetu virkjananna og 29 % orkuvinnslunnar, og á efnahagsreikningi (skuldsetningu) ON. Þessi misserin er fjárhagurinn bágborinn, en lítum á, hvernig fjárhagsmálin líta út frá bæjardyrum almennra raforkukaupenda af ON:
Samkvæmt Vb 20.10.2016 námu heildar raforkusölutekjur ON 2015 MUSD 91,8, jafngildi miaISK 12,0. Til að finna út söluandvirði raforku til almennings þarf að draga frá heildinni andvirði raforkusölu til NÁ frá jarðgufuverum og söluandvirði raforku frá LV:
SGA = 91,8 - 37,4 - 3,3 = MUSD 51,1 = miaISK 6,7
Raforkan frá jarðgufuvirkjununum til almenningsveitna:
EGA = 3211 - 2277 = 934 GWh/ár
Meðalraforkuverð frá jarðgufuverum til almennings:
PAL = 51,1/0,934 = 54,7 USD/MWh = 7,2 kr/kWh
Samanburður raforkuverðs til NÁ og til almennings:
PNA/PAL = 16,4/54,7 = 0,3 = 30 %
Hægt er að sýna fram á út frá því, sem að ofan er skráð, að eðlilegt hlutfall PNAe/PALe=0,66 (0,64*0,63 + 0,36*0,71 = 0,66), þ.e. núverandi verðhlutfall þarf að tvöfaldast, ef almenningur á ekki að verða hlunnfarinn til lengdar.
Hvaða verðbreytingar á raforku eru sanngjarnar:
Ef miðað er við núverandi verð til almennings, þarf meðalverðið fyrir raforku jarðgufuveranna til Norðuráls, PNA´að verða PNA´= 36 USD/MWh. Annars greiðir almenningur niður raforkuverðið til Norðuráls.
Málið er þó enn verra, því að samkvæmt Vb hefur verð á raforku og dreifingu hækkað um 55 % á tímabilinu 2010-2016, á meðan vísitala neyzluverðs hefur aðeins hækkað um 23 %. Þetta er óásættanleg staða mála, og er nauðsynlegra að leiðrétta þetta með 20 % lækkun raforkuverðs ON en OR fari að greiða Reykjavíkurborg og öðrum eigendum sínum nokkra milljarða ISK í arð, eins og ætlunin er á næstunni.
Þá verður verðið til almennings: 0,794*7,2=5,7 kr/kWh = 43,5 USD/MWh. Til að verðhlutfallið endurspegli hlutfall kostnaðar í jarðgufuvirkjunum fyrir þessa tvo notendahópa, 0,66, þá þarf verðið til NÁ að hækka upp í 29 USD/MWh við þessar aðstæður. Með þessum breytingum næst sanngjörn tekjuskipting fyrir orkuna og hæfileg arðsemi jarðgufuveranna.
Þetta er eðlilegt verð til stóriðjufyrirtækis á Íslandi á tímum eðlilegs afurðaverðs, sem er reyndar ekki um þessar mundir. Álverðið er núna 20 % undir eðlilegu botnverði. Raforkuverð til ISAL án flutningsgjalds er núna um 35 USD/MWh, enda er það ótengt álverði, en er hins vegar tengt neyzluverðsvísitölu í Bandaríkjunum. Þetta verð er of hátt fyrir fjárhag minni álverksmiðju en NÁ við núverandi óvenjulegu markaðsaðstæður, og þyrfti það að lækka til bráðabirgða, þar til LME-álverð verð nær 1850 USD/t (er nú um 1700 USD/t og hækkandi) um 5-10 USD/MWh.
Um gjaldskrárbreytingar OR skrifar Trausti Hafliðason eftirfarandi í Vb 20. október 2016:
"Í haust hefur hækkun gjaldskrárinnar komið inn á borð borgarstjórnar og borgarráðs. Hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt til, að því yrði beint til "Orkuveitu Reykjavíkur að skoða og gera áætlun um, hvernig og hvenær lækka megi orkugjöld á heimili".
Í bókun Sjálfstæðismanna kemur fram, að þeir telji sanngjarnt, að almenningur, sem tók á sig hækkanir, fái að njóta árangurs fyrirtækisins. Hafa fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata, sem mynda meirihluta í borginni, í tvígang fellt tillöguna og í bókun sagt ótímabært að skoða gjaldskrárlækkanir."
Það felst mikill áfellisdómur yfir vinstri meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur í þessu að neita að horfast í augu við þær staðreyndir, sem í Vb hafa verið dregnar fram í dagsljósið og rökstuddar eru enn ítarlegar hér að ofan með arðsemisútreikningum og sanngirnisrökum. Með óyggjandi rökum er hér sýnt fram á, að með ósanngjörnum hætti m.v. notkunarmynztur og vinnslukostnað hafa of þungar byrðar verið lagðar á almenna viðskiptavini OR og of litlar á aðalviðskiptavininn, sem fær yfir 70 % raforkunnar frá jarðgufuvirkjunum OR, en önnur þeirra, Hellisheiðarvirkjun, er aðalorsök þess alvarlega skuldavanda, sem herjaði á OR 2009-2014.
Síðan er haldið áfram í Vb:
"Í byrjun mánaðarins [október 2016] birti Orkuveita Reykjavíkur skýrslu, þar sem farið er yfir fjárhagsstöðu fyrirtækisins og langtímaspá. Í skýrslunni segir, að á tímabilinu frá 2018-2022 sé gert ráð fyrir miaISK 5 arðgreiðslu til eigenda. Reykjavíkurborg á 93,5 % hlut í OR, Akraneskaupstaður 5,5 % og Borgarbyggð 1,0 %."
Af þessu er ljóst, að þegar á næsta ári verður borð fyrir báru í fjárhagslegum rekstri OR þrátt fyrir nauðsynlegt og kostnaðarsamt gufuöflunarátak fyrir Hellisheiðarvirkjun ásamt þróun niðurdælingar m.a. til að losa íbúa á höfuðborgarsvæðinu, í Hveragerði og nærsveitum við skaðlegar lofttegundir úr iðrum jarðar. Þess vegna ætti nú þegar að taka ákvörðun um 20 % lækkun orkuverðs og dreifingargjalds í gjaldskrá OR (ON og Veitna) með virkni frá 1. janúar 2017 til að samræma verðbreytingar OR við vísitölu neyzluverðs frá 2009.
Jafnframt ætti OR nú þegar að leita hófanna við NÁ um stigvaxandi hækkun á raforkuverði til fyrirtækisins upp í a.m.k. 29 USD/MWh, enda virðist heimsmarkaðsverð áls nú vera komið á hækkunarbraut. Forsendur OR fyrir orkusamninginum á sínum tíma eru brostnar, þar sem meðalálverð á tímabilinu 1997-2016 hefur verið mun lægra en búizt var við vegna óvæntrar markaðsþróunar í Kína og ládeyðu í heimshagkerfinu 2008-2016, og af því að rekstrarkostnaður jarðgufuvirkjunarinnar á Hellisheiði hefur reynzt hærri en reiknað var með vegna ónógra undirbúningsrannsókna á jarðgufuforðanum. Tímaskorturinn var aðallega vegna raforkusamningsins við NÁ, þar sem leitast var við að verða við óskum fyrirtækisins um snemmbúna orkuafhendingu til fyrirtækisins.
Það eru ágætisrök, sem liggja til grundvallar raforkuverðlækkun OR til almennings og raforkuverðhækkun til NÁ, eins og hér hafa verið rakin. Hvað dvelur orminn langa í ormagryfju borgarstjórnar Reykjavíkur, þar sem duglausir jafnaðarmenn því miður enn ráða ríkjum ? Hvers vegna draga þeir lappirnar í stjórn OR og láta hagsmuni almennings lönd og leið ?
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2016 | 13:30
Styr um fiskeldi
Efnilegasti sprotinn á meðal útflutningsatvinnugreina landsmanna nú um stundir er fiskeldið. Framleiðslugetan vex með veldishraða. Þannig var slátrað um 8,3 kt 2015 og áformað að slátra 15,2 kt 2016. Starfsemin hefur orðið fyrir aðkasti, sem þessum blekbónda hér sýnist vera illa rökstudd og eiginlega reist á hleypidómum og þekkingarleysi. Hér þarf þó e.t.v. viðbótar rannsóknir til að bæta úr þekkingarleysi.
Nú verður vitnað í dæmigerða gagnrýni á sjókvíaeldi, sem birtist á mbl.is þann 15.10.2016, þar sem var stóryrt viðtal við Hilmar Hansson, stangveiðimann m.m.:
""Norðmenn eru umhverfissóðar - þú mátt hafa það eftir mér", segir Hilmar. Hann segir fjöldamargar ár í Noregi hafa einfaldlega drepizt vegna kynblöndunar eldislaxins við villta laxastofna í ánum þar. [Þetta er svo viðurhlutamikil fullyrðing, að henni er óviðeigandi að slengja fram án rökstuðnings eða að lágmarki að nefna einhverjar ár og tímasetningar í þessu sambandi. - Innsk. BJo.] "Það er nefnilega þannig, að í hverri á er einstakur laxastofn. Þetta er ekki einn villtur laxastofn, sem finnst í ánum og heldur svo á haf út, heldur er þetta einn stofn fyrir hverja á. Áin er heimasvæði fisksins, og ef hann kynblandast, missir laxinn eiginleika sína og hættir að koma í ána sína til að hrygna.""
Annaðhvort er hér um að ræða ósvífinn hræðsluáróður gegn sjókvíaeldi á laxi eða hér eru settar fram sannaðar fullyrðingar, sem ástæða er þá til að staldra við. Hið fyrr nefnda er satt, ef upplýsingar í grein sérfræðings, sem vitnað verður til hér að neðan, standast ekki beztu þekkingu á þessu sviði. Ef hið síðar nefnda er rétt, hefur sérfræðingurinn rangt fyrir sér.
Framtíð sjókvíaeldis er mjög til umræðu núna, einkum á Vestfjörðum, af því að þar hillir nú undir byltingu til hins betra í atvinnumálum í krafti fiskeldis, sem kemur á sama tíma og efling ferðaþjónustunnar. Þetta tvennt ásamt hefðbundnum sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði getur skotið traustum stoðum undir afkomu og viðkomu Vestfirðinga til framtíðar. Austfirðingar, sem einnig eiga rétt á að stunda sjókvíaeldi í sínum fjörðum, hafa nú þegar traustar stoðir að standa á í atvinnulegu tilliti í krafti orkunýtingar og sjávarútvegs auk vaxandi landbúnaðar og ferðaþjónustu.
Helzta gagnrýnisefni veiðiréttareigenda, laxveiðimanna og annarra, á sjókvíaeldi á laxi tengist erfðafræðilegum atriðum og genatækni, sem fæstir leikmenn hafa á valdi sínu, en er þó algert lykilatriði að skilja, þegar meta skal, hvort erfðaeiginleikum villtra laxfiska í ám Íslands stafar hætta af genablöndun við norska eldisstofna. Hvað hafa kunnáttumenn á þessu sviði látið frá sér fara í aðgengilegum ritum ?
Jón Örn Pálsson, sjávarútvegsfræðingur, ritað afar athygliverða og fróðlega grein í Viðskiptablaðið 6. október 2016:
"Erfðablöndun - er raunveruleg hætta af laxeldi ?":
"Þeim, sem annt er um staðreyndir og vilja hafa sannleikann að leiðarljósi, er ljóst, að engar rannsóknir eða heimildir hafa sýnt, að villtir laxastofnar hafi misst hæfni til að fjölga sér eða lifa af í villtri náttúru vegna erfðablöndunar. Í Noregi, Skotlandi, Írlandi og öðrum löndum, sem hafa langa sögu í slysasleppingum, hefur enginn laxastofn horfið eða minnkað vegna erfðablöndunar, eins og áróðursmeistarar veiðiréttarhafa hér á landi halda iðulega fram á opinberum vettvangi."
Þessi orð sérfræðingsins Jóns Arnar stinga algerlega í stúf við stóryrði Hilmars Hanssonar o.fl. Þeir verða að beita röksemdafærslu í stað stóryrðaflaums og órökstuddra fullyrðinga, ef taka á mark á þeim og takmarka stórlega sjókvíaeldi, sem innan örfárra ára getur numið miöISK 50 á Vestfjörðum og miöISK 80, ef/þegar farið verður að framleiða með fyrirsjáanlegum afköstum í Ísafjarðardjúpi. Til samanburðar er velta veiðiréttarhafa sögð vera miaISK 20, en greinin er virðisaukafrí og skilar fremur litlu í opinbera sjóði.
Rök Jóns Arnar eru m.a. eftirfarandi:
"Það hefur vissulega verið staðfest, að genaflæði getur átt sér stað frá eldislaxi yfir til villtra laxastofna, en það segir sig sjálft, að gen, sem draga úr lífsþrótti eða minnka frjósemi, berast ekki á milli kynslóða. Eldislax inniheldur öll þau gen, sem villtir stofnar hafa. Gen hverfa ekki við kynbætur. Kynbætur hafa aðeins áhrif á breytileika innan einstakra gena. Þegar erfðablöndun greinist, eykst erfðabreytileiki; það staðfesta allar rannsóknir. Ratvísi er gott dæmi um erfðafestu í genamengi laxins. Enginn munur er á endurheimtum laxaseiða, sem eru afkvæmi eldislaxa í 10 kynslóðir og villtra foreldra. Eldislax er hins vegar frábrugðinn villtum stofnum að því leyti, að hann hefur meiri vaxtargetu, hærri kynþroskaaldur og litla óðalahegðun. Þessir þættir draga úr hæfni eldislaxa til að lifa af í villtri náttúru, en styrkjast í eldi, þegar nóg er af fæðu og afrán er ekki fyrir hendi. Búast má við því, að af hverjum 4000 hrognum muni aðeins 1 lax skila sér til baka til hrygningar. Það staðfestir, hvað náttúrulegt úrval er sterkur þáttur í afkomu og erfðum laxastofna. Gríðarlegur úrvalsstyrkur (yfir 99,9 %) er náttúrulegt ferli, sem hefur viðhaldið sérkennum einstakra laxastofna í þúsundir ára, þótt 3 % - 5 % villtra laxa hrygni ekki í sinni heimaá.
Áhrif frá erfðablöndun vegna einstakra tilviljanakenndra slysasleppinga fjara því hratt út, nema framandi erfðaáhrif auki lífsþrótt. Engin staðfest dæmi eru um það."
Þarna eru komin erfðafræðileg rök fyrir því, að óhætt sé að leyfa sjókvíaeldi á takmörkuðum svæðum við Ísland að viðhöfðum "ströngustu kröfum Lloyds". Erfðafræðilega rímar þessi röksemdafærsla við þá erfðafræði, sem blekbóndi lærði fyrir löngu í MR, og það hlýtur að vera unnt að beita beztu nútíma þekkingu og reynslu á þessu sviði til að taka af skarið um það, hvort íslenzkum laxastofnum er einhver hætta búin af sjókvíaeldi í fjörðum Austfjarða og Vestfjarða eða ekki. Það ber að halda í allan þann líffræðilega fjölbreytileika, sem fyrirfinnst á og við Ísland, og ógnir við hann af mannavöldum eru óviðunandi. Í þessu tilviki skal náttúran njóta vafans, en þeim vafa má hins vegar strax eyða með vísindalegum hætti. Þar leika mótvægisaðgerðir og öryggisráðstafanir rekstrarleyfishafa lykilhlutverk, og um þær segir í téðri grein:
"Árið 2014 hafði Landssamband fiskeldisstöðva frumkvæði að því, að vinna hófst við endurskoðun á lögum og reglum um fiskeldi með það að markmiði að herða kröfurnar. Nú þurfa fyrirtæki að uppfylla norska staðalinn NS9415, sem hefur skilað miklum árangri við að fyrirbyggja sleppingar í Noregi. Árin 2014-2015 er áætlað, að 6000 eldislaxar hafi leitað í norskar ár á veiðitímabilinu, http://www.nina.no. Það eru um 0,002 % [20 ppm - innsk. BJo] af fjölda laxa, sem haldið er í norskum eldiskvíum. Sé hlutfallið yfirfært til Íslands, má búast við, að um 400 eldislaxar leiti í íslenzkar ár, séu um 100 kt/ár framleidd hér á landi, og ef okkur tækist ekki betur en Norðmönnum að fyrirbyggja strok. Fjöldi eldislaxa, sem reynir hrygningu, gæti því verið um 1 % af hrygningarstofni [villta] íslenzka laxins. Þessar tölur miðast við, að ekkert veiðiátak færi fram, ef grunur um sleppingu vaknaði.
Af því, sem hér hefur verið dregið fram, má ljóst vera, að ekki þarf að fórna einum einasta villtum laxastofni til að byggja upp mikilvæg störf við fiskeldi á landsbyggðinni."
Hér er sannfærandi faglegum rökum sjávarútvegsfræðings teflt fram til stuðnings sjálfbæru sjókvíaeldi norsks eldislax við Ísland. Nú þarf úrskurð líffræðings eða sambærilegs starfsmanns Matvælastofnunar, MAST, um það, að 1 % blöndun norskra eldislaxa við íslenzka laxastofna geti ekki haft nein varanleg áhrif á erfðaeiginleika og hegðun þeirra íslenzku.
Það þarf líka að fá líklegt sleppihlutfall á hreint. Téður Hilmar Hansson kveður 1 lax sleppa úr hverju tonni í sjókvíaeldi. Þetta gefur líkurnar 1/200, sem jafngildir 5000 ppm, samanborið við 20 ppm hjá Jóni Erni Pálssyni. Hilmar telur líkur á sleppingu vera 250 sinnum meiri en Jón Örn. Þarna á milli er himinn og haf, sem kann að skilja á milli feigs og ófeigs í þessu máli, og það er hlutverk íslenzkra yfirvalda að fá þetta á hreint áður en ný rekstrarleyfi verða gefin út.
Annað mál er, að fyrirkomulag á útgáfu starfsleyfa fyrir sjókvíaeldi við Ísland þarfnast gagngerrar endurskoðunar. Um stefnumótun stjórnvalda í þessum málaflokki skrifar Höskuldur Steinarsson, framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva, í Fiskifréttir 13. október 2016,
"Langþráð stefnumótun í fiskeldi undirbúin":
"Eitt af því, sem við höfum lengi kallað eftir, er heildræn stefnumótun í fiskeldi á Íslandi. Atvinnuvegaráðherra hefur nú loks tekið undir þessar óskir okkar og boðað, að sú vinna skuli hafin í vetur [2016/2017-bíður nýs ráðherra]. Þennan árangur viljum við m.a. þakka áberandi umræðu um atvinnugreinina. Það er ljóst, að heildræn stefnumótun í fiskeldi mun, ef vel tekst til, leiða til samhæfðra markmiða fyrir greinina, sem m.a. munu nýtast vel þeim opinberu stofnunum, sem fást við fiskeldisgreinina. Fyrir atvinnugreinina sjálfa er stefnumótunin afar mikilvæg, því að vaxtarmöguleikar hennar í framtíðinni hafa mikið að segja nú þegar, og þarf því að huga sem fyrst að margvíslegum innviðum, eigi hún að geta vaxið og dafnað áfram. Í fiskeldinu er nú þegar uppsöfnuð fjárfestingarþörf í undirbúningi verkefna, og mun sú fjárfesting ekki skila sér til baka fyrr en eftir mörg ár. Fiskeldi er því atvinnugrein, sem þarf mjög á þolinmóðu fjármagni að halda, og svo virðist sem erlendir fjárfestar séu þeir einu, sem tilbúnir eru til að styðja við hana hér á landi."
Það er ljóst, að mikill vaxtarkraftur er í fiskeldi við og á Íslandi, enda er talið, að greinin muni þegar á árinu 2018 framleiða meira af matvælum í tonnum talið en hefðbundinn landbúnaður hérlendis. Raunhæft er að gera ráð fyrir að hámarki sjöföldun núverandi afkastagetu, en enn meiri aukning hefur verið nefnd. Væntanleg stefnumörkun yfirvalda mun leggja línurnar í þessum efnum, en afkastagetan verður að ráðast af óskum fjárfestanna, burðarþoli fjarðanna að mati íslenzkra yfirvalda og kröfunni um sjálfbærni starfseminnar.
Þessi rannsóknarvinna og stefnumótun gæti tekið 2 ár, en það er hins vegar brýnt að taka leyfisveitingarnar strax til endurskoðunar. Þarna er um nýja starfsemi að ræða, svo að úthlutun leyfa á grundvelli starfsreynslu á viðkomandi stað á ekki við. Það er jafnframt ljóst, að í þessari grein er auðlindarentu að finna, því að um takmarkaða auðlind er að ræða, sem færri fá úthlutað af yfirvöldum en vilja.
Viðkomandi sveitarfélög ættu að fá í sinn hlut meirihlutann af andvirði starfsleyfanna, og þar sem ekki er verið að taka nein leyfi af neinum, ætti að úthluta starfsleyfunum til hæstbjóðanda í tilgreindan tíma, sem talinn er duga til að afskrifa fjárfestingarnar á, e.t.v. 25 ár. Við þessar aðstæður er eðlilegast, að íslenzk yfirvöld framkvæmi lögformlegt umhverfismat og veiti forsögn um áskildar mengunarvarnir og mótvægisaðgerðir. Rekstrarleyfi ætti svo að gefa út til skemmri tíma, e.t.v. 5 ára, og það ætti að vera afturkallanlegt, ef rekstraraðili verður uppvís að broti á rekstrarskilmálum.
2.9.2016 | 17:10
Af orkumálum Englands
Bretar, og einkum munu það hafa verið Englendingar, sýndu ótrúlegt stjórnmálalegt sjálfstæði og þrek 23. júní 2016, þegar meirihluti kjósenda þar á bæ, um 52 %, hafnaði áframhaldandi veru Stóra-Bretlands í Evrópusambandinu, ESB, þvert gegn mesta og harðvítugasta áróðursmoldviðri sem sézt hefur frá bæði innlendum og erlendum stjórnmálamönnum, viðskiptamönnum og fræðimönnum.
Var hér s.k. "elíta" eða hin ráðandi öfl saman komin. Minnti þetta moldviðri marga Íslendinga óþyrmilega á hræðsluáróður gegn höfnun "Icesave"-samninganna, þar sem vinstra liðið og rebbarnir, sem nú skríða í "Viðreisnar"-grenið, vildu á ísmeygilegan hátt smeygja drápsklyfjum um háls íslenzkum skattborgurum vegna gjaldþrots einkabanka. Hér, eins og á Bretlandi í aðdraganda "Brexit", máluðu háskólastarfsmenn og forkólfar í samtökum atvinnulífsins skrattann á vegginn í mjög sterkum litum. Þó dró verkalýðsforystan á Bretlandi lappirnar, en hér dró hún ekki af sér.
Blekbóndi vonaðist eftir niðurstöðunni, sem varð á Bretlandi, og telur, að Bretar hafi hér tekið "rétta" ákvörðun, bæði hvað eigin hagsmuni og framtíð Evrópu varðar. Ákvörðunin veldur vatnaskilum í Evrópusögunni, eins og ákvörðun Breta um að stemma stigu við veldi Frakka og berjast gegn Napóleóni, keisara, sem þeir réðu að lokum niðurlögum á í bandalagi við Prússa árið 1815, eftir að franski herinn hafði orðið að hörfa, stórlaskaður, frá Moskvu 1812.
Rúmlega hálfri öld síðar hreyfðu Bretar hvorki legg né lið, þegar Prússar þrömmuðu alla leið inn í París, enda sat þá klækjarefur mikill að völdum í Berlín, Ottó von Bismarck. Um svipað leyti sameinaði hann þýzku ríkin "með blóði og járni", og tók þá að fara um brezka ljónið, hvers mottó var að "deila og drottna" í Evrópu.
Því miður tók ábyrgðarlaus gemlingur, stríðsæsingamaðurinn Vilhjálmur 2. við keisaratign í Berlín, og hann tók sér stöðu við hlið kollega síns í Vín eftir morðið á krónprinsi Habsborgara í Sarajevo 1914. Í oflæti sínu atti hann Reichswehr til að berjast bæði á austur- og vesturvígstöðvum.
Í þetta skipti sneru Bretar við blaðinu og tóku afstöðu gegn Prússum og með Frökkum. Brezki herinn stöðvaði framrás þýzka hersins í Frakklandi og bjargaði þessum forna andstæðingi Englendinga frá falli með ægilegum blóðfórnum í ömurlegum og langdregnum skotgrafahernaði, þar sem eiturgasi var beitt á báða bóga.
Bretar reyndu lengi vel að friðþægja foringja Þriðja ríkisins, en var að lokum nóg boðið með útþenslutilburðum og samningasvikum hans og sögðu Stór-Þýzkalandi stríð á hendur 3. september 1939, sem um hálfum mánuði fyrr hafði gert griðasáttmála við Sovétríkin. Af þessum sökum mættu Þjóðverjar vanbúnir "til leiks", þó að Albert Speer, sem gerður var að vígbúnaðarráðherra í febrúar 1942, hafi náð eindæma afkastaaukningu í framleiðslu hergagna fyrir Wehrmacht, en það var þá of seint, enda mesta iðnveldi heimsins komið í stríðið gegn Þriðja ríkinu.
Leiðtogar Þjóðverja, Angela Merkel, Wolfgang Schäuble og iðnjöfrar Þýzkalands, hafa gert sér grein fyrir vatnaskilunum, sem úrsögn Breta veldur fyrir ESB, þ.e. þróun í átt til stórríkis Evrópu hefur verið stöðvuð, og hér eftir mun ESB líklega þróast meira í þá átt, sem Bretar börðust jafnan fyrir, þegar þeir voru innanborðs, þ.e. í átt til viðskiptabandalags, en hin stjórnmálalega sameining hefur mistekizt. Hið sama má segja um hina fjármálalegu og peningalegu sameiningu. Það eru þverbrestir í peningabandalaginu (monetary union), sem hljóta að leiða til þess, að úr því kvarnast fyrr en síðar. Hvergi þykir lengur eftirsóknarvert að komast í þetta myntbandalag, nema í hópi sérvitringa á Íslandi, sem finna má unnvörpum undir merkjum Píratahreyfingarinnar, Samfylkingar og Viðreisnar.
Hver er staða orkumálanna í Evrópu á þessum umbrotatímum ? Hún er þannig, að verð á allri frumorku, olíu, gasi, kolum og rafmagni, hefur lækkað mikið síðan 2014. Hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda, vinds og sólar, hefur vaxið, en skuldbindingar ríkjanna um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda uxu í flestum tilvikum líka á Parísarráðstefnunni í desember 2015, svo að flest ríkin munu eiga fullt í fangi með að ná markmiðum sínum 2030. Hlutdeild kolakyntra orkuvera er há og eykst enn í sumum löndum, því að kolaverð hefur lækkað á markaðinum, eftir að offramboð varð á þeim í Bandaríkjunum, sem þá hófu útflutning, þegar jarðgasvinnslan tók stökk þar í landi með nýrri tækni, leirsteinsbroti (e. fracking). Allar Evrópuþjóðir, sem nú nota kjarnorku til raforkuvinnslu, virðast stefna á að draga úr hlutdeild hennar eða að leggja niður öll sín kjarnorkuver af ótta við kjarnorkuslys og óviðráðanlega geislun á þéttbýlum svæðum. Ekki bætir úr skák, að meðferð geislavirks úrgangs úran-kjarnakljúfanna er ábótavant.
Af þessum sökum er ekki ljóst, hvernig ýmsar Evrópuþjóðir ætla að brúa bilið á milli gömlu kolefnistækninnar og næstu orkubyltingar. Til að þjóðirnar verði óháðar jarðefnaeldsneyti, verður að öðru óbreyttu að koma ný tækni fram á sjónarsviðið, sem staðið getur undir grunnraforkuvinnslunni. Vonir eru bundnar við þóríum-kjarnakljúfana, sem hægt verði að klæðskerasauma að þörfum notenda, og að þess vegna verði ekki þörf á stórum flutningslínum til viðbótar við núverandi öflugu línur.
Lítum nú á, hvað Bretar eru að hugsa í þessum efnum, og drepum niður í grein í The Economist, 6. ágúst 2016, "When the facts change ... "
"Fyrir tæplega 3 árum gerði brezka ríkisstjórnin samning við EdF, sem er Landsvirkjun og Landsnet Frakka undir einum hatti í eigu franska ríkisins, um að niðurgreiða orkuverð frá fyrsta kjarnorkuveri, sem reist hefur verið á Bretlandi síðan 1995: Hinkley Point C við strönd Somerset.
Þann 28. júlí 2016, nokkrum klukkustundum eftir að stjórn EdF samþykkti með litlum meirihluta að halda áfram með Hinkley Point fjárfestinguna upp á miaGBP 18, jafngildi miaUSD 24 (miaISK 2800), steig ríkisstjórn Theresu May óvænt á bremsurnar og boðaði verkefnisrýni, sem ljúka mundi haustið 2016. Haldið er, að ríkisstjórnin vilji gera samning við China General Nuclear Power, kínverskan risa, sem hefur boðizt til að leggja fram þriðjung fjárfestingarfjár í Hinkley Point og í staðinn fá að reisa eigið kjarnorkuver í Bradwell í Essex, en rýni nýju ríkisstjórnarinnar kann að leiða til kúvendingar.
Hinkley er "stór og þar er um að ræða tækni síðustu aldar, sem er ekki það, sem brezka orkukerfið þarfnast í framtíðinni", segir Michael Grubb í Lundúnaháskóla.
Árið 2012 spáðu brezkir orkuspekingar því, að verðið á öðrum orkuuppsprettum en kjarnorku, t.d. jarðgasi, mundi í fyrirsjánlegri framtíð verða meira en tvöfalt núverandi verð. Þannig spáðu þeir, að heildsöluverð raforku, sem er viðmið fyrir niðurgreiðslur til EdF, mundi verða yfir 70 GBP/MWh eða yfir 110 USD/MWh. Heildsöluverðið er núna undir 40 GBP/MWh eða undir 50 USD/MWh. Í júlí 2016 tilkynnti ríkisendurskoðunin brezka, The National Audit Office, að skekkjan í þessum spám hefði næstum fimmfaldað niðurgreiðsluupphæðirnar yfir 35 ára rekstrartímabil Hinkley Point C-kjarnorkuversins, þ.e. úr miaGBP 6 í miaGBP 30.
Þarna er um gríðarlegar upphæðir að ræða í niðurgreiðslur á orkuverði, svo að eðlilegt er, að ríkisstjórn, sem ber ábyrgð á aðþrengdum ríkissjóði, staldri við.
Hérlendis birti Landsvirkjun árið 2010 svipaða spá um þróun raforkuverðs á Englandi, og stjórn fyrirtækisins mótaði síðan þá fáránlegu stefnu að láta raforkuverð á Íslandi hækka í sama hlutfalli og á Englandi, þ.e. að raunvirði yrði það nú orðið tvöfalt hærra en nú hérlendis, ef þessari stefnu hefði verið fylgt. Hún kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum, og var í raun tilræði við neytendur, sem fór hljótt, enda gekk hún alls ekki eftir.
Liður í að þrýsta upp raforkuverðinu hérlendis átti einmitt að vera að samtengja raforkukerfi Englands og Íslands. Þetta fáránlega uppátæki mun ekki ganga eftir af ýmsum ástæðum, t.d. vegna þróunar orkuverðs og vegna einarðrar andstöðu hér innanlands, en þyngst á metunum vegur þó, að, eins og nú horfir með Rammaáætlun, munu ekki nógu margir virkjunarkostir verða settir í nýtingarflokk til að standa undir vaxandi innanlandsþörf og útflutningi raforku um sæstreng.
Nú verður sýnt, hvernig spár um raforkuverð árið 2025 úr öllum helztu orkulindum, nema úraníum í kjarnakljúfi, hafa lækkað á tímabilinu 2012-2016 í USD/MWh:
- kjarnorka 2025, spá 2012: 110-160; miðg.135
- kjarnorka 2025, spá 2016: 120-190; miðg.155
- vindorka á hafi,spá 2012: 190-260; miðg.225
- vindorka á hafi,spá 2016: 100-160; miðg.130
- vindorka á landi,sp 2012: 110-180; miðg.145
- vindorka á landi,sp 2016: 60-100; miðg. 80
- sólarorka 2025, spá 2012: 200-380; miðg.290
- sólarorka 2025, spá 2016: 60-100; miðg. 80
- jarðgas 2025, spá 2012: 140-150; miðg.145
- jarðgas 2025, spá 2016: 90-100; miðg. 95
Samkvæmt þessu má búast við markaðsverði raforku á Englandi árið 2025 að jafngildi um 90 USD/MWh, sem er 80 % hærra en var í raun árið 2016, að því tilskildu, að Bretar haldi áfram að niðurgreiða raforku frá vindorkuverum úti fyrir ströndinni og að þeir hætti við Hinkley Point C.
Þetta verð, 90 USD/MWh, er fjarri því að geta staðið undir kostnaði við virkjanir og flutningslínur á Íslandi og 1200 km sæstreng ásamt endamannvirkjum og skilað eigendunum ásættanlegum arði. Til þess þarf verðið á Englandi að verða 130 USD/MWh, og það er mjög ólíklegt langvarandi verð þar án uppbóta úr ríkissjóði. Ástæðan er tækniþróunin við vinnslu rafmagns á sjálfbæran hátt og mikið framboð á jarðgasi. Árið 2025 kunna þóríum-kjarnorkuverin að hafa rutt sér til rúms og munu þá um 2030 hafa lækkað markaðsverð raforku frá því, sem er á árinu 2016. Við þetta er að bæta, að þróun rafgeyma tekur nú stórstígum framförum, og verð þeirra lækkar að sama skapi. Risa rafgeymasett munu gera kleift að safna og geyma umframorku frá vindorkuverum og sólarorkuverum og nota hana á háálagstímum.
Á tímabilinu 2016-2030 ætla Bretar að loka öllum kolakyntum orkuverum sínum og öllum, nema einu, kjarnorkuverum. Þannig falla 23 GW á brott úr stofnkerfi Breta eða tæplega helmingur aflgetunnar. Hinkley Point C, 3,2 GW, átti að bæta þetta brottfall upp með því að verða upphafið að byggingu fleiri kjarnorkuvera. Einingarkostnaðurinn er 7,5 USD/MW, sem er þrefaldur einingarkostnaður meðalstórra virkjana á Íslandi.
Ef niðurstaða rýni ríkisstjórnar Theresu May verður sú að hætta við risastór orkuver knúin ákveðinni úraníum-samsætu, þá verður stefnan tekin á gaskynt raforkuver, þó að slíkt þýði, að brezk orkumál verði háðari Rússum en nú er. Gasverin færu þá í gang, þegar vantar vind og/eða sól. Þetta mundi þýða, að Bretar gætu ekki staðið við markmið með lögum frá 2008 um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 80 % árið 2050 m.v. 1990, því að gaskynt raforkuver mundu þurfa að standa undir allt að 75 % af raforkuvinnslunni, þar til ný orkutækni ryður sér rúms. Um er að ræða fjölþrepa ver, CCGTS (Combined-cycle gas turbines), þar sem varmi kælibúnaðarins verður nýttur í mörgum tilvikum.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)