Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Akkilesarhæll Evrópu

"Evruvandinn mesta ógnin" er fyrirsögn greinar í Morgunblaðinu 23. maí 2012.  Þessi greining var ekki gerð í Hádegismóum, heldur hjá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni.  Síðan degir:

"Helzta ógnin við efnahagsbata í heiminum er skuldavandi og stöðnun í 17 ríkjum evrusamstarfsins, segir í nýrri skýrslu frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD."  Christine Lagarde, forstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, og fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Frakklands, tók á dögunum afstöðu með þeim, sem vilja, að Seðlabanki ESB, ECB, gefi út ESB-skuldabréf.  Þar með hefur hún lagzt á sveif með Hollande og Suður-Evrópublokkinni gegn Þýzkalandi og Norður-Evrópu.  Hljóðið í Þjóðverjum er þannig, að mjög ólíklegt er, að þýzka þingið muni samþykkja þetta fyrir kosningarnar haustið 2013.  Nú er svo komið, að kratar gætu hæglega komizt í ríkisstjórn Sambandslýðveldisins eftir þessar kosningar, og þá óttast margir Þjóðverjar kúvendingu í þessum efnum.

Þýzka þjóðin er ekki lengur haldin sektarkennd stríðskynslóðarinnar og þeirra næst á eftir.  Hún telur ósanngjarnt og algerlega vonlaust verk að ausa úr sjóðum Þýzkalands í botnlausa hít Suður-Evrópu, þar sem er gríðarlegur opinber rekstur og landlæg spilling. 

Hæll Akkilesar er mjög í umræðunni þessi misserin vítt og breitt um heiminn og ekki sízt í Evrópu.  Evrópa er talin sjúklingurinn í efnahagslífi heimsins, og það versta er, að verði, meinið ekki fjarlægt, á sjúklingurinn sér enga batavon. Það, sem átt er þá við, er evran.  Sameiginlega myntin, sem verið hefur 12 ár við lýði, er að ganga af hagkerfi margra Evrópulanda dauðu, en hagkerfi, sem ekki getur séð þegnum sínum nokkurn veginn fyrir fullri vinnu til langframa er einskis nýtt og raunar dautt.  Þessi kunna að verða örlög flestra landa evrusvæðisins, þar sem vextir eru nú hærri en hagkerfin ráða við með örfáum undantekningum.  Nafnvextir á þýzkum ríkisskuldabréfum eru hins vegar komnir niður í 0, og raunvextirnir eru þess vegna neikvæðir.  Þetta ástand er sjúklegt, og hlýtur að enda með ósköpum.  

Íslendingar búa reyndar nú við óskiljanlega háa vexti, þó að þeir hafi ekki tekið upp evru og skorti reyndar allar forsendur til þess undir frámunalega lélegri stjórn peningamála og ríkisfjármála.  Alls staðar sitja þar gamlaðir vinstri menn á fleti fyrir, og furstinn af Svörtu loftum, gamall aðdáandi Trotzkys, byltingarforingja bolsévíka, verður embætti sínu reyndar hvað eftir annað til háborinnar skammar. 

Í evrulöndunum eru svo hrikalegar andstæður, að nánast óhugsandi er, að þetta harðlæsta myntsamstarf fái þrifist að óbreyttu.  Stærstu þjóðirnar munu þurfa að gjörbreyta um stefnu, ef dæmið á að ganga upp.  Með öðrum orðum þarfnast evran umbóta á efnahagskerfi Frakklands, sem er allt of miðstýrt og ríkissjóður Frakklands mergsýgur franska hagkerfið í anda Napóleóns Bónaparte; Þjóðverjar þyrftu að tileinka sér eyðslusemi og sætta sig við mun meiri verðbólgu en nú er í Þýzkalandi og meiri en tíðkast í hinum ríkjunum, og Ítalir þurfa að tileinka sér aukinn stjórnmálaþroska, en þar hefur ríkt stjórnmálalegur óstöðugleiki frá lokum Heimsstyrjaldarinnar seinni, og þeir sitja nú uppi með ókosinn forsætisráðherra í skjóli búrókratanna í Brüssel.

Þjóðverjar bera nú orðið Ægishjálm yfir aðrar þjóðir evrusvæðisins, hvað samkeppnihæfni varðar.  Ástæðan er m.a. sú, að eftir endursameiningu Þýzkalands árið 1990 varð verðbólga í Þýzkalandi meiri en Þjóðverjum þótti góðu hófi gegna.  Það varð því þjóðarsátt í Þýzkalandi um að herða sultarólina og stöðva launahækkanir um hríð.  Ríki og fylki tóku líka til hjá sér.  Þjóðverjar náðu verðbólgunni vel niður fyrir 2,0 %, sem er viðmið ECB, banka Evrópusambandsins, ESB, þó að hún sé um þessar mundir 2,1 % vegna hækkana á eldsneyti, hrávöru og matvælum.

Um miðjan 1. áratug 21. aldarinnar höfðu aðhaldsaðgerðir Þjóðverja staðið í einn áratug og borið svo góðan árangur, að hagkerfi þeirra var orðið hið samkeppnihæfasta á evrusvæðinu.  Er þarna fagurt fordæmi fyrir Íslendinga að leita í smiðju Þjóðverja um styrka hagstjórn, sem nýtur svo mikils trausts fjármálamarkaða, að vextir á skuldabréfum þýzka ríkisins eru engir orðnir. Nú rotta skussarnir sig saman og munu reyna að fá Þjóðverja til að borga sukkið.  Það hriktir í stoðum ESB.   

Aðrar þjóðir sváfu flestar á verðinum og vöknuðu upp við það, að framleiðslukostnaður útflutningsatvinnuvega þeirra var kominn algerlega úr böndunum.  Evran hafði hækkað upp úr öllu valdi vegna hins gríðarlega styrks þýzku útflutningsvélarinnar.  Nú höktir allt evrusvæðið utan Þýzkalands og mænir til Þjóðverja eftir ölmusu.  Það er borin von þessara landa, að Þjóðverjar breyti nú lifnaðarháttum sínum og hætti á, að verðbólgan grafi um sig í þjóðfélagi þeirra.  Hin ríkin munu þess vegna aðeins ná sér á strik, ef verðbólgan hjá þeim verður minni en í Þýzkalandi, og þá eiga þessar þjóðir á hættu vítahring verðhjöðnunar, en út úr honum getur reynzt erfitt að komast.  Evrulöndin eru í illvígum vítahring, en þau skyldu minnast þess, að það voru ekki Þjóðverjar, sem báðu um þessa evru.  Það voru Frakkar, sem gerðu það að skilyrði fyrir samþykkt á endursameiningu Þýzkalands, að Þjóðverjar legðu niður stolt sitt, die Deutsche Mark, DEM. 

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að verst hafa Grikkir farið út úr evrusamstarfinu.  Á 6 ára skeiðinu, 2007-2012, hefur samdráttur gríska hagkerfisins numið um 20 %.  Þetta er með ólíkindum og sýnir, að gríska hagkerfið er að hruni komið.  Þar er atvinnuleysi ungmenna 50 % og í heildina líklega að verða 25 %.  Miðstéttin er að verða fátækt að bráð, og það á við víðar í Suður-Evrópu.  Þess vegna mun allt fara í bál og brand. 

Árið 2013 munu ríkisskuldir Grikklands nema rúmlega 160 % af VLF þrátt fyrir allar niðurfellingarnar.  Það ræður engin þjóð við svo miklar skuldir, sízt af öllu þjóð í stöðugum samdrætti.  Þetta getur aðeins endað á einn veg fyrir Grikkjum; með þjóðargjaldþroti.  Afleiðing núverandi ástands er stjórnmálaleg upplausn, og hún mun valda því, að björgunarsjóður evrunnar mun halda að sér höndum, og þá er evrusagan öll í Grikklandi.

Þar með munu þeir hrökkva út úr evrusamstarfinu.  Þegar tekur að kvarnast úr því, er líklegt, að ekki verði ein báran stök. Löndin á Pýreneaskaganum verða næstu fórnarlömbin á eftir Grikkjum.  Hvorki Portúgalir né Spánverjar geta búið við núverandi vexti Mario Draghi í Frankfurt né ávöxtunarkröfu yfir 6 % á ríkisskuldabréfum, sem nú er reyndin.  Mia EUR 100 vantar inn í spænska banka, því að vanskilin eftir eignabólu og í miklu (yfir 20 %) langvarandi atvinnuleysi eru gríðarleg.

Francois Hollande ætlar að blása lífi í hagvöxt Frakklands með lántökum að hætti krata og með fjölgun opinberra starfa.  Hollande hefur sennilega búrókratana í Berlaymont á sínu bandi og sömuleiðis Suður-Evrópu.  Á móti þessu standa Þjóðverjar og fjármálamarkaðirnir, sem lánað hafa þessum löndum stórfé.  Þeir trúa ekki á aukningu ríkisumsvifa sem lausn á vanda þessara ríkja.  Allt stefnir í átök norðurs og suðurs, og evran í sinni núverandi mynd mun auðvitað ekki lifa þau af.

Inn í þetta öngþveiti eiga Íslendingar náttúrulega ekkert erindi.  Evran var aldrei annað en stjórnmálaleg della.  Landsmenn verða að ná tökum á sínum málum sjálfir.  Að því loknu geta þeir tekið sjálfstæða ákvörðun um, hvaða mynt þeir kjósa að nota.  Það er hjákátlegt að halda viðræðum áfram um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, sem logar stafnanna á milli, en hefur samtímis í margvíslegum hótunum við Íslendinga út af Icesave fyrir Eftadómstólinum og í samkrulli við samkeppniaðila okkar og frændur, Norðmenn, út af makrílnum, sem nýhlaupinn er á snæri okkar Íslendinga og skilar um þessar mundir um 30 milljörðum kr útflutningsverðmætum.  Stuðningsmenn áframhaldandi aðlögunarviðræðna á þingi hafa undarlega innréttað toppstykki, svo að vægt sé til orða tekið.

Það á að binda endi á þessar viðræður strax með fyrirvara, leggja spilin á borðið fyrir kjósendur og leita staðfestingar þeirra á viðræðuslitum samhliða næstu Alþingiskosningum.  Til þess eru næg efnislek rök, sem beita má á þann hátt, að mótaðilinn þurfi ekki að ganga sneyptur frá borði, heldur hafi ástæðu til að skilja, að forsendur "samningaviðræðna", sem í raun eru ekkert annað en aðlögun að kröfum og stjórnkerfi ESB, hafa tekið kollsteypu.            

      Akkilesarhæll 

  


Vinna er velferð

Verkalýðshreyfingin gerði ofangreint að kjörorði sínu 1. maí 2012 og eigi að ófyrirsynju.  Fyrir 5 árum hefði engum dottið í hug að fara á flot með þetta kjörorð, en eftir senn fjagra ára afturfararskeið brennur atvinnuleysið á almenningi, og téð kjörorð er þá eðlilegt.

Árið 2011 voru að jafnaði 180000 manns á íslenzka vinnumarkaðinum samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar og fækkaði um 1000 manns frá árinu áður.  Skýringin á því er uppgjöf fólks, landflótti, og það gefst upp á atvinnuleit.  Á árinu 2011 voru 167300 starfsmenn með atvinnu, og 12700 í atvinnuleit.  Þetta gefur 7,1 % vinnumarkaðarins í atvinnuleit, en atvinnuleysið er í raun mun meira og alvarlegra.  Árangursleysi ríkisstjórnarinnar verður bezt lýst með því, að frá 1. ársfjórðungi 2009 til 1. ársfjórðungs 2012 fjölgaði fólki með atvinnu ekki nokkurn skapaðan hlut.  Annað slíkt þriggja ára stöðnunarskeið fyrirfinnst líklega ekki á lýðveldistímanum, og það er furðulegt, að vinstri stjórnin skuli telja sér sætt við þessar aðstæður, þegar eðlilegast væri af hvaða ríkisstjórn sem er við þessar aðstæður að viðurkenna mistök sín og getuleysi við stjórn þjóðfélagsins og leggja upp laupana.  

Að þessari ríkisstjórn genginni munu af þessum ástæðum verða vatnaskil í stjórnmálum á Íslandi, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn mun verða brjóstvörn almennings í sókn hans til bættra lífskjara gegn afturhaldinu í landinu, sem ekki hefur áhuga á öðru en að sleikja skósóla ráðamanna og búrókrata í Berlaymont.  Kratar á Íslandi eru algerlega úti að aka og ekki í neinum takti við krata annars staðar í Evrópu.  Francois Hollande, nýkjörinn forseti Frakklands, boðar andóf Frakka við búrókrötum í Brüssel og vöxt hagkerfisins.  Hann vill leysa brjótast út úr stöðnun með hagvöxt að vopni.  Þetta er í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins á Íslandi.  Franska þjóðin var orðin leið á að taka við tilskipunum frá Berlín úr munni hálfungversks monthana.  Spennandi verður nú að fylgjast með viðureign Berlínar og Parísar.  Líklegt er, að henni lykti með rústum, ekki húsarústum að þessu sinni, sem betur fer, heldur rústum evrunnar.         

Allir, nema skussar meirihlutans á Alþingi vita hins vegar, að ekkert horfir til framfara við það eitt að hrópa á torgum.  Til að breyta núverandi stöðu þarf vilja, þekkingu og skipulag.  Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem er eintrjáningur, illa haldin af doða og  stjórnmálalega séð nánast daufdumb, eins og mælingar á fylgi gefa til kynna, hefur ekkert af þessu þrennu til að bera.  

Ríkisstjórnin hefur engan vilja til að efla atvinnulífið.  Þvert á móti leggur hún hvern steininn á fætur öðrum í götu þess.  Þarf ekki frekari vitnana við en eftirfarandi frá prófessor emerítus, Þráni Eggertssyni, hagfræðingi, í Morgunblaðinu 20. apríl 2012, er hann kvað "algjörlega óskiljanlegt, að þjóð, sem er allt að því á barmi glötunar, skuli spila rússneska rúllettu með undirstöðugrein, eins og sjávarútveginn, með óundirbúnu og vanhugsuðu fikti með skatt- og gjaldheimtu af greininni".

Það er hins vegar allt á sömu bókina lært hjá lökustu ríkisstjórn lýðveldistímans.  Þegar kemur að nýtingu orkulindanna, er allt í frosti hjá ríkisstjórninni, hún umturnar og eyðileggur faglega niðurstöðu Rammaáætlunar um vernd og nýtingu orkulinda, hún framdi lögbrot og var dæmd af Hæstarétti fyrir tafaleiki við undirbúning virkjana í Neðri-Þjórsá, og hún hefur reynt að torvelda hagkvæmustu orkuvinnslu á Íslandi, sem er Hágöngumiðlun, og þannig mætti lengi telja.

Það er loku fyrir það skotið, að hérlendis fjölgi störfum um þau 13000 á næstu 3 árum, sem nauðsyn krefur til að nægt vinnuframboð verði eða velferð fyrir landsmenn, ef hvorki verður fjárfest í sjávarútvegi né orkuvinnslu.  Halda menn, að Hollande tæki slíkt í mál ?  Kratar á Íslandi eru nú málsvar svartasta afturhaldsins. 

Nýjasta dæmið um atvinnufjandsemi ríkisstjórnarinnar gat að líta á 6. síðu Morgunblaðsins, 19. apríl 2012 undir fyrirsögninni, "Greenstone gafst upp á Íslandi".  Þar er mynd af Henk Wiering, stjórnarmanni í Greenstone, og forseta lýðveldisins, Ólafi Ragnari Grímssyni, en þeir áttu með sér fund á Bessastöðum á vordögum 2008 um fjárfestingu Greenstone í gagnaveri á Íslandi.  Sveinn Óskar Sigurðsson, fyrrverandi talsmaður Greenstone á Íslandi sagði um þátt ríkisstjórnarinnar, alræmdu, Jóhönnu Sigurðardóttur, í þessu máli: 

"Hún var óviljug að vinna með félaginu í að fá viðskiptavin þess til að byggja gagnaver við Blönduós.  Ísland hefur verið að heltast úr lestinni, þar sem hið opinbera hefur ekki staðið eðlilega að því að bæta umhverfi fyrir þessa fjárfestingu.  Íslandsstofa, áður Fjárfestingastofa, hefur hins vegar staðið sig vel, en það er ekki nóg; kerfið þarf allt að smella saman."

Ríkisstjórnin siglir undir fölsku flaggi.  Hún liggur þversum gegn öllum framförum í atvinnulífinu.  Hún ræðst hins vegar gegn atvinnulífinu með alls konar heimskupörum og sérvizku.  Sveinn Óskar nefnir sem dæmi, máli sínu til stuðnings, tafir á breytingu laga og reglna varðandi skattamál, væntingar Landsvirkjunar um að hækka raforkuverð umfram það, sem viðskiptavinurinn gat fengið á eigin heimamarkaði (í BNA), sem er kapítuli út af fyrir sig, og of hátt verðlag á gagnaflutningum til og frá landinu vegna lélegrar nýtingar hingað til á nýjum sæstreng. 

Sveinn Óskar minnir á, að "virkjanir í neðri hluta Þjórsár áttu að vera ætlaðar uppbyggingu gagnavera og hinum græna iðnaði.  Það hafi a.m.k. verið fullyrt í þeirra eyru af fyrri yfirstjórn Landsvirkjunar, en þar á bæ hafi verið breytt um stefnu."

"Bæði Landsvirkjun og Farice verðlögðu sig út af þessum markaði á þeim tíma, og nú eru gagnaversfyrirtækin farin að leita annað með stærri verkefni, eins og til Svíþjóðar og Finnlands.  Það kemur hvorki heimilunum í landinu né þessum iðnaði til góða að hækka raforkuverðið.  Það hefur aldrei freistað erlendra fjárfesta að vita til þess, að hækka eigi verð á raforkunni."  Sveinn Óskar "telur eilífan samanburð við aðstæður í Evrópu óraunhæfan, þar sem Ísland sé svo fjarri öllum mörkuðum".

Þetta er hverju orði sannara og undirstrikar, að ríkisstjórnin og Landsvirkjun eru á kolrangri og á algerlega vonlausri braut, enda hafa núverandi forstjóri Landsvirkjunar og stjórn fyrirtækisins ekki gert nokkurn nýjan orkusamning að því bezt er vitað.  Það verk, sem nú stendur yfir, Búðarhálsvirkjun, í tengslum við framkvæmdir við álver ISAL í Straumsvík, sem heldur uppi atvinnustiginu á suðvestur horninu, var ákveðið á dögum fyrrverandi ríkisstjórnar og þáverandi forstjóra Landsvirkjunar, Friðriks Sóphussonar. 

Til að skapa atvinnu verður að söðla algerlega um og stokka forgangsröðunina upp.  Leggja verður gæluverkefni á borð við aflsæstreng, sem Valdimar K. Jónsson, prófessor emerítus við vélaverkfræðiskor Háskóla Íslands, veltir fyrir sér með gagnrýnum hætti í Morgunblaðinu 20. apríl 2012, á hilluna og taka að nýju upp heilbrigt viðskiptavit, sem Landsvirkjun gat sýnt á árum áður og býr að enn, en fær ekki að njóta sín. 

Eins og hér hefur verið rakið, hafa ríkisstjórnin og Landsvirkjun glutrað niður tækifærum til gjaldeyrissköpunar og atvinnueflingar.  Þessar fórnir hafa verið færðar á altari fordómafullrar stjórnmálastefnu vinstri grænna og forstokkaðs hóps sérvitringa innan Samfylkingarinnar.  Í skýrslu Gamma um afleiðingar stefnu ríkisstjórnarinnar kemur fram, að tap Íslands á næstu árum einvörðungu af flónsku ríkisstjórnarinnar í virkjanamálum muni nema 250 milljörðum kr og 5 þúsund ársstörfum.  Eru þá afglöp hennar í öðrum atvinnumálum landsins ótalin.  Vert er að leggja heildarmat á kostnaðinn af afturhaldinu umfram kostnað af t.d. borgaralegri ríkisstjórn.  Það mun þá koma í ljós, að þessi kostnaður árin 2009-2012 er hið minnsta 40 % hærri en kostnaður landsmanna varð af Hruninu.

Fyrir þetta verður ný ríkisstjórn að bæta strax eftir næstu Alþingiskosningar.  Þá þarf að kynna til sögunnar framsækna fjárfestingarstefnu með lækkun skatta og raunhæfa verðlagningu raforku, sem þó tryggir endurgreiðslu fjárfestingar og vaxtakostnaðar á um 2/3 hluta umsamins orkusölutímabils.  Eftir það tímabil mala virkjanirnar gull, heimilum og fyrirtækjum landsmanna til hagsauka.  Allt tal um brask með orkuna og okur á heimilum og fyrirtækjum hérlendis er forkastanlegt og ber að kæfa í fæðingu.

Jón Þorláksson, verkfræðingur og fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, og tveir næstu formenn hans, Ólafur Thórs, og Bjarni Benediktsson, lagaprófessor, mótuðu stefnu hans og skópu stóran stjórnmálaflokk með breiða skírskotun á grundvelli víðsýnna viðhorfa.  Þar var frelsi einstaklingsins hyrningarsteinninn, og burðarstólpar voru lýðræði og athafnafrelsi.  Allt þetta á mætavel við í dag.  Það er almannahagsmunum fyrir beztu, að athafnalífið fái að dafna með sem minnstum opinberum afskiptum, og að skattar séu sem lægstir á fjölskyldur og fyrirtæki. 

Á 6. áratug 20. aldar fóru Vestur-Þjóðverjar langt með að reisa land sitt úr rústum Heimsstyrjaldarinnar síðari.  Þá komu fram á sjónarsviðið tveir menn, sem opinberlega leiddu Þjóðverja á gríðarlegu uppbyggingarskeiði.  Þeir voru Dr Konrad Adenauer, kanzlari, og Dr Ludwig Erhard, efnahagsmálaráðherra, og síðar kanzlari í Bonn.  Þessir tveir menn sameinuðu Þjóðverja undir merkjum "Sozial-Marktwirtschaft" eða markaðshagkerfi með félagslegu ívafi.  Þannig má einmitt lýsa stefnu Sjálfstæðisflokksins. 

Eftir næstu Alþingiskosningar þarf flokkurinn að sameina þjóðina til viðreisnar lands og þjóðar undir merkjum markaðshagkerfis með félagslegu ívafi.  Markaðshyggjan mun fóðra dráttarklár framfaranna, og sameiginlegum sjóðum landsmanna verður beitt til að tryggja öllum landsmönnum öryggisnet. Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi getur reist íslenzka hagkerfið úr rústum hruns heils fjármálakerfis og fjagra ára óstjórnar og ráðaleysis í kjölfarið.    

   

Brandenburger Tor

 

 

     


Versta aðför sögunnar að landsbyggðinni

Nú hafa fjölmargar umsagnir borizt um frumvörp ríkisstjórnarinnar um breytta fiskveiðistjórnun, og eru  þær allar á eina lund.  Frumvörpin eru argvítug aðför að útgerðinni, jafnt togaraútgerð sem smábátaútgerð, og hrikalegust er meðferðin á nýliðum, skuldugum upp fyrir haus af kvótakaupum, og án eigin fiskvinnslu.  Frumvörpin eru rétt eitt klúðrið að hálfu þessarar dæmalausu ríkisstjórnar, sem ekkert kann til verka.

Eftir allt, sem á undan er gengið, er þó ekki hægt að ætla ríkisstjórninni þá reginheimsku að ana áfram í blindni án þess að gera sér grein fyrir gerðum sínum.  Þess vegna verður að álykta, að blint hatur Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á útgerðarmönnum ráði hér för ásamt vilja til að valda einkaframtaki tjóni og færa sífellt meiri völd til hins opinbera og þar með stjórnmálamanna. 

Þarna er líka á ferðinni ótrúlegt þekkingarleysi á því, hvernig verðmæti verða til og dreifast um allt samfélagið.  Í stuttu máli er hér á ferðinni fullkomið fúsk við lagasmíði, svo að aldrei hefur annað eins sézt.  Verður þessarar frumvarpsmíði Steingríms Jóhanns Sigfússonar lengi minnzt sem hins lélegasta í hagfræðilegu og atvinnulegu tilliti, sem farið hefur verið á flot með, og eru þessi vinnubrögð algerlega óboðleg Alþingi Íslendinga. Sjá nú allir viti bornir menn, að stjórnarflokkarnir eru báðir óstjórntækir, enda ofstæki þeirra þjóðhættulegt, eins og rökstutt er hér að neðan.  Nú verða tekin dæmi úr Morgunblaðinu 18. apríl 2012:

  • Útgerðarmaður í Grímsey áætlar, að fyrirhuguð veiðigjöld muni nema 100 milljónum kr í Grímsey eða um einni milljón kr á hvern Grímseying.
  • "Það, sem ég hef náð að kynna mér af þessu, er ótrúlega ósvífið og óforskammað.  Því er auðsvarað, hvað gerist, ef veiðigjöldin verða hækkuð, eins og áformað er.  95 % af flotanum verður bundinn við bryggju.  Það verður ekki hægt að gera út undir þessum kringumstæðum", segir Sigfús Jóhannesson, útgerðarmaður í Grímsey, um viðbrögð sín við frumvörpunum.
  • Prófessor í fiskihagfræði, Ragnar Árnason, telur veiðigjöldin vera "óðs manns æði".  Hann telur frumvarpið um auðlindagjald vera reist á vankunnáttu á hagfræðilögmálum, skilningsleysi og rangtúlkunum á hugtakinu auðlindarenta.  Höfundar frumvarpsins eru óvitar og þar af leiðandi stórhættulegir í stjórnarráðinu.  Allt viðgengst þetta á ábyrgð vinstri manna.  Þeir eru að leggja framleiðslugjald á sjávarútveginn, eins konar aðstöðugjald.  Hvers vegna er ríkisvaldinu misbeitt svona herfilega gegn einni atvinnugrein ?
  • Prófessor Ragnar bendir á, að með frumvörpunum sé samkeppnistaða íslenzks sjávarútvegs á alþjóðlegum mörkuðum veikt mjög.  Þar sem sjávarútvegurinn er grundvallaratvinnuvegur þjóðarinnar, mun þessi veikta samkeppnistaða valda lífskjararýrnun á Íslandi.  Stjórnmálamenn, sem að slíku standa, eru þjóðinni hræðilega dýrir og geta hæglega kollsiglt þjóðarskútunni. 
  • "Slík gjaldtaka", að mati Ragnars, er því "óðs manns æði og mun hafa margvíslegar skaðlegar afleiðingar fyrir fyrir annars vegar fjármálakerfið í heild og hins vegar horfur í efnahagsmálum Íslands almennt."  Veiking fjármálakerfisins vegna afskrifta skulda sjávarútvegsins, sem hann mun ekki hafa burði til að greiða eftir álagningu fruntagjalds sameignarsinnans, mun gera viðreisn athafnalífsins ómögulega, því að fjárfestingar með lántökum að mestu eru óhjákvæmileg forsenda viðreisnar.  Sjávarútvegurinn mun einfaldlega missa lánstraust sitt, gangi þvælan úr sameignarsinnum fram. 
  • Tryggvi Þór Herbersson birtir greinina "Fall Fjallabyggðar" í téðu blaði.  Þetta er átakanleg lýsing á örlögum dæmigerðs sjávarpláss á Íslandi, verði fruntafrumvörp Steingríms að lögum.  Niðurstaða hans er þessi:"Ef ekkert er gert, myndi fjara undan fyrirtækinu og það verða gjaldþrota á 3-4 árum".  

Hinn 19. apríl 2012 birtist svo í Morgunblaðinu frásögn af því, hversu mjög andvígur þessi mistakasmiður úr Þistilfirði var veiðigjaldtöku af sjávarútveginum árið 1997.  Hann er nú orðinn umskiptingur miðað við 10 liði, sem hann nefndi í ræðu þá:

  1.  "Skattstofninn í þessari hugmynd er óskynsamlegur og vitlaus."
  2. "Skatturinn er óréttlátur m.t.t. byggðanna."
  3. "Það er ekki hægt að rökstyðja með sanngirni, að nýting af þessu tagi kalli á skattheimtu í sjávarútvegi, einum atvinnugreina."
  4. "Það virðast margir hafa gleymt því, að sjávarútvegurinn skuldar um 100 milljarða króna."
  5. "Sjávarútvegurinn keppir við ríkisstyrkta grein í nálægum löndum."
  6. "Sjávarútvegurinn hefur mikla þörf fyrir að geta fjárfest á komandi árum."
  7. "Öflug sjávarútvegsfyrirtæki með góða afkomu til fjárfestinga eru helzta, það jaðrar því miður við, að maður verði að segja, eina von landsbyggðarinnar.  Þessi liður einn nægir mér til að vera algerlega andvígur veiðigjaldi", sagði Steingrímur J. Sigfússon.
  8. "Veiðigjald myndi líklega leiða til samþjöppunar og fækkunar eininga; möguleikar smáfyrirtækja og einyrkja yrðu minni.
  9. "Sjávarútvegurinn yrði síðri fjárfestingarkostur með veiðigjaldi.  Það yrðu minni líkur á arði, og það, sem mestu máli skiptir hér, eru fælingaráhrifin."
  10. "Það eru að mínu mati til margar miklu betri leiðir til þess að leysa þau vandamál, sem stuðningsmenn veiðigjalds telja, að eigi að leysa með veiðigjaldi."

Svo mörg voru þau orð Steingríms Sigfússonar, þegar hann var þingmaður í stjórnarandstöðu.  Hvert einasta atriði ofangreindrar upptalningar er enn í fullu gildi, þó að Steingrímur hafi söðlað um, eftir að hann varð ráðherra, í þessu máli sem og ýmsum öðrum stórmálum.  Téður ráðherra er ómerkingur. 

Það er líklegt, að frumvörp Steingríms um þjóðnýtingu kvótans, endurúthlutun til leigu og ofurskattlagning, stríði gegn lögum og Stjórnarskrá.  Þetta var leitt í ljós í skýrri og skeleggri grein Birgis Tjörva Péturssonar, héraðsdómslögmanns, í Morgunblaðinu 7. apríl 2012, "Til varnar eignarrétti í sjávarútvegi".  Þar segir m.a.: "Fiskstofnarnir á Íslandsmiðum hafa aldrei verið í eigu neins frá því að land byggðist.  Þeir hafa farið um miðin, sem teljast enn almenningur í lagalegum skilningi, eigendalausir á meðan óveiddir.  Viðurkennt hefur verið að þjóðarrétti og landsrétti, m.a. í dómum Hæstaréttar, að Alþingi hafi í skjóli fullveldisréttar síns heimild til að setja reglur um nýtingu þessarar auðlindar.  Fullveldisréttur þessi, sem Alþingi fer með í umboði kjósenda, er ekki eignarréttur.  Hann felur ekki í sér sameign þjóðarinnar.  Yfirlýsing 1. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 um, að nytjastofnar sjávar séu sameign þjóðarinnar, hefur enga eignarréttarlega merkingu. ... Það fær ekki staðizt nokkra lögfræðilega skoðun, að þjóðin eigi rétt á leigugjaldi fyrir fiskveiðirétt, eins og t.d. fasteignareigandi fyrir leigu fasteignar sinnar, enda er hún hvorki eigandi nytjastofnanna né réttindanna til að veiða þá.  Að sjálfsögðu getur Alþingi eigi að síður, standi vilji til þess, lagt skatt eða aðrar kvaðir á þá, sem eiga fiskveiðiréttindin, að virtum ákvæðum stjórnarskrár.  En það er ekki á grundvelli eignarréttar þjóðarinnar, svo mikið er víst. ... Útgangspunkturinn í hinum fjölmörgu tillögum ríkisstjórnarinnar er, að ríkið taki til sín hin verðmætu fiskveiðiréttindi og úthluti þeim gegn gjaldi. ... Ekkert skipulag sýnist heppilegra til verðmætasköpunar eða falla betur að meginsjónarmiðum þeim, sem íslenzka stjórnarskráin byggir (á).  Að einstaklingar og fyrirtæki þeirra fari með eignarrétt á gæðunum, nýti þau og ráðstafi.  Ríkið setji reglurnar og hafi eftirlit.  Það, að ríkið sé á hinn bóginn eigandi allra gæða, úthluti þeim til nýtingar gegn himinháu gjaldi, stýri svo takmörkuðum nýtingarrétti að auki með reglusetningu og eftirliti er í anda róttækrar ríkisforsjárstefnu.  Þetta sjá allir, sem vilja.  Slík stefna leiðir til mikillar samþjöppunar valds hjá ríkinu, sem væri alls kostar óheppileg þróun.  Hún væri á skjön við anda þeirrar stjórnskipunar, sem við höfum byggt á, sem gengur út frá því, að vald ríkisins sé takmarkað og temprað, en réttindi einstaklinga tryggð, m.a. til eigna sinna og atvinnufrelsis."  

Þessi lögfræðilega greining á deilunni um fiskveiðistjórnunarkerfið krystallar átakalínuna.  Hún er á milli réttinda einstaklinganna til atvinnufrelsis annars vegar og yfirtroðslu ríkisins á frelsi einstaklinganna og fyrirtækja þeirra til að stunda sjóinn.  Framkvæmdavaldið hefur lagt inn á braut viðamikillar frelsisskerðingar með því að leggja fyrir þjóðþingið frumvörp um yfirtöku grundvallaratvinnuvegar þjóðarinnar.  Af grundvallarástæðum má slíkt aldrei verða, og það væri einsdæmi í hinum vestræna heima, ef ríkisvaldinu tækist að klófesta undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar.

Sú staðreynd, að ríkisstjórnin skuli gera ítrekaðar atrennur að þessu markmiði sínu, sýnir, hversu aftarlega á merinni hún er, og hvílikir steingervingar eru við stjórn.  Með lögfestingu frumvarpanna tækist afturhaldinu í landinu að stöðva framþróun í sjávarútvegi.  Enginn mundi lengur telja hann vænlegan fjárfestingarkost, og hann mundi þess vegna verða undir í samkeppninni á erlendum mörkuðum um sjávarafurðir.  Þessi afturhaldsstefna, verði hún ofan á, mun þess vegna leiða til versnandi lífskjara í landinu og kippa fótunum algerlega undan viðreisn hagkerfisins.

Nú er komið fram vandað lögfræðiálit, sem staðfestir, að efni frumvarpanna varðar við lög, jafnvel Grunnlögin, Stjórnarskrána.  Með öðrum orðum er ekki aðeins siðlaust, heldur varðar við Grunnlögin "að þvinga útgerðirnar í þrot".

"Við horfum til þess, að höggið, sem útgerðirnar yrðu fyrir, yrði það mikið, að farið yrði yfir þau mörk, sem Stjórnarskráin og Mannréttindasáttmáli Evrópu leyfa gagnvart atvinnuréttindum, og það myndi skapa ríkinu bótaskyldu", sagði Karl Axelsson, hæstaréttarlögmaður og dósent við lagadeild Háskóla Íslands við Morgunblaðið.  Blaðið hefur ennfremur eftir honum þann 24. apríl 2012: "Ef spár þessara og annarra umsagnaraðila um mjög neikvæð áhrif frumvarpanna á rekstur margra sjávarútvegsfyrirtækja ganga eftir, er í raun og veru svo hart fram gengið, að það er verið að brjóta atvinnuréttindi.  Sumum er enda gert ómögulegt að stunda atvinnurekstur áfram, öðrum illmögulegt og enn öðrum erfitt.  Þessi réttindi eru varin af 72. grein Stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu." 

Eftir allar þessar tilvitnanir er engum blöðum um það að fletta, að frumvörp mesta klúðrara íslenzkrar stjórnmálasögu, Steingríms Jóhanns Sigfússonar, eru versta atlaga, sem sögur fara af, að sjávarbyggðum Íslands, að atvinnuréttindum útgerðarmanna, að efnahagsstöðuleika á Íslandi og að lífsafkomu almennings.  Frumvörp þessi, flutningsmaður og ríkisstjórnin, sem hann situr í, eru algerlega óalandi og óferjandi, hvernig sem á þau er litið, og ber að kasta þeim hið fyrsta á ruslahauga sögunnar, þar sem þau eiga heima og geta orðið unga fólkinu og öðrum víti til varnaðar.  

Einmana dúfa á loftstreng 

             

Gæði hafsins


Hagsmunavernd

AlþingishúsHverjir eru meginhagsmunir íslenzkrar alþýðu ? 

  • að geta búið að sínu í góðu öryggi í frjálsu landi 
  • að í landinu sé mikil (yfir 80 % af vinnufærum) atvinnuþátttaka og lítið (minna en 3% af launþegum) atvinnuleysi
  • hár kaupmáttur og ráðstöfunartekjur, þ.e. sambærilegur við það bezta, sem gerist á Norðurlöndunum

Ísland er stórt land m.v. mannfjölda, þ.e. aðeins um 3,1 íb/km2. Þetta er einn af kostum búsetu á Íslandi að margra mati, en jafngildir hærri samfélagslegum kostnaði en annars staðar, þó að land sé vissulega ódýrara fyrir vikið.  Landið er fjarri alfaraleið, sem einnig er kostur að sumra mati, en hækkar óneitanlega verðlag í landinu, eins og fámennið sjálft.  Á móti þessum kostnaðaraukum kemur t.d. gnótt endurnýjanlegra orkulinda og þar af leiðandi lágur orkukostnaður.  Til þess að gæta hagsmuna almennings, sem taldir eru upp að ofan, og samtímis að standa undir tiltölulega háum búsetukostnaði í landinu, er aðeins ein leið: að atvinnugreinar landsins sýni hærri framleiðni en víðast hvar þekkist og að auðlindir landsins séu nýttar, eins og sjálfbærni og afturkræfni leyfir.  Þetta hefur eftirfarandi í för með sér:

  1. Orku-og iðnaðarmál:   Það ber að setja vatnsaflsvirkjanir á oddinn samkvæmt hinni raunverulegu Rammaáætlun, en ekki afbökun Svandísar Svavarsdóttur á miklu og faglegu starfi undir stjórn Sveinbjörns Björnssonar, fyrrverandi háskólarektors.  Það er áhugi hjá erlendum stórfyrirtækjum fyrir fjárfestingum hérlendis, t.d. í álgeiranum.  Borgaraleg ríkisstjórn mun vafalaust, eftir næstu Alþingiskosningar, kynna hugsanlegum kaupendum raforku gjörbreytt viðhorf íslenzkra stjórnvalda um eflingu íslenzks atvinnulífs með uppbyggingu iðnaðar í landinu, sem þarf mikla raforku.  Verður þar heilbrigð skynsemi leidd til öndvegis, en sérvizkulegum og hugdettum sérvitringa kastað fyrir róða, enda gjörsamlega framfarahamlandi og þar með ávísun á stöðnun atvinnulífs og lakari lífskjör.  Samkvæmt óbrenglaðri Rammaáætlun má enn virkja og framleiða um 10 TWh/a af vatnsorku án þess að ganga á verðmæt náttúrufyrirbæri.  Þetta er nóg fyrir eitt nýtt stórt álver og viðbætur annars orkukræfs iðnaðar.  Það hlýtur ennfremur að verða settur kraftur í að framleiða metanól og etanól úr repju og öðru til blöndunar í jarðefnaeldneyti og sem hreint eldsneyti á farartæki og fiskiskipaflotann.  Til þess þarf varmaorku og þar kemur jarðgufan til sögunnar sem kjörinn orkugjafi og hráefnisgjafi í slíka framleiðslu.  Með jarðvarmanýtingu til eldsneytisframleiðslu fæst viðunandi nýting á jarðgufunámunni og gjaldeyrissparnaður gæti numið 50 miö. kr á ári.  Tafastefna ríkisstjórnarinnar á þessu sviði er hamlandi fyrir viðreisn lands og þjóðar.
  2. Sjávarútvegsmál:  Stórhættulegt einkenni á stjórnmálamönnum, sem hallir eru undir forræðishyggju, er, að þeir telja sig vita betur en atvinnulífið, hvernig reka ber fyrirtæki, og hvernig hagkvæmast er fyrir þjóðfélagið að haga leikreglum í athafnalífinu.  Algengasta meinloka þessara "besserwissera" eða beturvita, sbr menningarvita, er að taka markaðsöflin úr sambandi í sótthitakenndri tilraunastarfsemi í nafni "sanngjarnrar dreifingar á auðlindaarði (auðlindarentu)". Slagorð er gert að undirstöðu aðfarar að sjávarútveginum og niðurrifi atvinnuöryggis og launatekna fjölda fólks ásamt rýrnandi tekjum til hins opinbera.  Því fer víðs fjarri, að stjórnarflokkar og Hreyfing hafi hugsað þetta mál af viðunandi íhygli og þekkingu né reiknað dæmið til enda.  Með nýja frumvarpinu um stjórnun fiskveiða er verið að saga í sundur greinina, sem þjóðin situr á.  Lýðskrumið endurspeglast í eftirfarandi slagorði: "Þjóðinni tryggður réttmætur arður af auðlindum sjávar".  Um þetta eiga við fleyg orð Sir Winston Churchills, foringja íhaldsmanna Bretlands á örlagastundu: "Socialism is about equal sharing of misery" eða "Jafnaðarstefnan snýst um jafna útdeilingu eymdar".  Hverju er almenningur í þessu landi bættari með þjóðnýtingu aflamarksins og ofurskattlagningu á sjávarútvegsfyrirtækin ?  Eigið fé fyrirtækjanna hverfur, framlegðin hverfur nánast alveg, svo að engin geta verður til fjárfestinga, launagreiðslugeta snarminnkar, atvinnuöryggi minnkar, og tekjuskattur til ríkisins nánast hverfur.  Eftir standa tímabundnar tekjur af veiðileyfagjaldi, sem vinstri stjórnin mun nýta í gæluverkefni svo lengi sem á nefinu stendur.  Þessi fáránleiki er tortímingarárátta vinstri manna gagnvart verðmætasköpun í atvinnulífinu.  Hún hefur alls staðar gefist ömurlega, og það er hreinræktuð heimska að halda lengra inn á þessa braut.  Auðvelt er sýna fram á það reikningslega, að þjóðhagslega verður af þessu tjón, sem færa mun hreinar tekjur landsmanna umtalsvert niður.  Það er verið að undirbúa mikinn verðmætabruna í nafni ofangreinds slagorðs. Þessi árátta vinstri manna hefur haldið sjávarútveginum í spennitreyju óvissunnar allt kjörtímabil núverandi Alþingis.  Þetta brölt stjórnmálamanna með undirstöðuatvinnuveg landsmanna á eftir að koma heiftarlega niður á lífskjörum í landinu, ef þeir ná fram ætlunarverki sínu að afnema afnotarétt útgerðarmanna á aflahlutdeild ásamt frjálsum framsalsrétti og veðsetningarrétti.  Það er margsannað, að frjáls markaður tryggir hámarksarðsemi af auðlindum, og fyrirtæki á frjálsum markaði greiða hærri laun og hærri opinber gjöld en fyrirtæki í spennitreyju opinberra afskipta.  Ef sjávarútvegurinn fær ekki frið fyrir barnalegri tilraunastarfsemi um leigu afnotaréttar og sérskattlagningu, sem nefnd er því vitlausa nafni auðlindagjald, en er sérskattlagning á fyrirtæki í harðri alþjóðlegri samkeppni, svo vitlaust, sem það nú er, þá missir hann stöðu sína til að standa  uppi í hárinu á niðurgreiddum samkeppniaðilum á erlendum mörkuðum.  Þessi þjóðnýting er þjóðhættuleg og gegn henni verður barizt með öllum tiltækum ráðum, ekki sízt í dómssölum.  Það er ekki hægt að saka höfund þessa pistils um að vera handhafa téðs afnotaréttar, en hann telur einsýnt, að þjóðhagsleg hagkvæmni sjávarútvegs muni hrapa með fyrirhuguðu glapræðislegu inngripi stjórnvalda, sem Alþingi hefur nú til umfjöllunar.  Það er kominn tími til í þessu landi að líta raunsætt á rekstrarmál og arðsemi fyrirtækja.  Hagsmunir launþega, ríkissjóðs, sveitarsjóða og alls almennings eru háðir sterkum og vel reknum fyrirtækjum.  Sameignarstefna ríkisstjórnarinnar drepur niður samkeppnihæfni sjávarútvegs, alþjóðlega markaðsstöðu hans, launagreiðslugetu og greiðslugetu í sameiginlega sjóði landsmanna. Hér má bæta við, að sjómannasamtökin eru gegn veiðigjaldinu, eins og höfundur þessa pistils.  Hann er jafnframt þeirrar skoðunar, eins og þau, að gögn um verðlagningu fiskjar eigi að vera aðgengileg og sannreynanleg af endurskoðendum og fulltrúum sjómanna, og e.t.v. eru þau það nú í flestum tilvikum, enda er t.d. hætta á, að ella verði misbrestur á samningsbundnum launagreiðslum til sjómanna. 
  3. Peningamálastefnan: Til að fyrirtækin í landinu og þjóðlíf allt þrífist, verður fullt frelsi að ríkja á peningamarkaðinum.  Núverandi stjórnvöldum vex mjög í augum að afnema gjaldeyrishöftin.  Ferill vinstri stjórna Íslandi er með þeim hætti, að því má gera skóna, að vinstri mönnum sé ekki svo leitt sem þeir láta að viðhalda höftum og treysta þau í sessi.  Má í því sambandi benda á feril þeirra á síðasta haftatímabili, 1930-1960, sem stóð lengur á Íslandi en í nokkru öðru lýðræðisríki.  Notuðu stjórnmálamenn í valdaaðstöðu sér purkunarlaust þetta kerfi til að hygla vinum og vandamönnum og þeim fyrirtækjum, sem þeim voru þóknanleg.  Var svo kölluð höfðatöluregla illræmdust, en hún var til þess fallin að efla kaupfélögin á kostnað kaupmanna, því að fyrirtækin fengu úthlutaðan gjaldeyri í réttu hlutfalli við félagsmenn í samvinnufélaginu eða fjölskyldustærð kaupmanns.  Má gera ráð fyrir, að spilling sé þegar tekin að grafa um sig vegna gjaldeyrishaftanna, og menn farnir að auðgast á gengismismuni hérlendis og erlendis.  Vinstri menn fara hins vegar undan í flæmingi, þegar afnám haftanna ber á góma, og eru þá jafnráðalausir og gagnvart öllum öðrum opinberum viðfangsefnum, sem þeir hafa spreytt sig á. Til að stemma stigu við útstreymi fjár, sem læstist hér inni við Hrunið, þarf að setja löggjöf um hámark útstreymis Jöklabréfa o.þ.h. á ári, þannig að eigendurnir geti farið utan með féð á 10 árum, ef þeir kæra sig um það, en gjaldeyrisviðskipti almennings og fjármagnsflæði á vegum fyrirtækja, innlendra og erlendra, verði gefin frjáls.  Fyrst þarf þó að undirbúa miklar erlendar fjárfestingar í landinu til eflingar krónunni.  Ríkisstjórnin er ófær um að móta peningamálastefnu, sem tryggir stöðugleika til langframa, en ætlar þó inn í ESB og taka upp evru.  Þetta er algerlega ósamrýmanlegt.  Hjá vesalings vinstri stjórninni rekur sig hvað á annars horn.  Stöðugleiki peningamálanna er grundvöllur að öflugu hagkerfi og kjarabótum almennings.  Það er hárrétt hjá verkalýðshreyfingunni, ASÍ, og annað er íbúum þessa lands ekki bjóðandi, enda tæki og tól fyrir hendi til að framkvæma þetta með almennilegum meirihluta á Alþingi. 

Það er ljóst, að núverandi ríkisstjórn gerir allt þveröfugt við það, sem gagnast má hag almennings í þessu landi.  Þetta er öfugmælaríkisstjórn með hagsmuni almennings á vörunum, en öll hennar verk eru til þess eins fallin að útdeila eymdinni jafnt á meðal fólks, eins og íhaldsmaðurinn og leiðtogi Stóra-Bretlands á ögurstundu hafði á orði um jafnaðarmenn. 

Á hinn bóginn er fyrir hendi góð þekking á því, hvaða aðferðir duga bezt til að bæta kjör alls almennings með varanlegum hætti, og hefur það að nokkru verið rakið hér.  Aðeins borgaralegu stjórnmálaflokkarnir eru líklegir til að nýta sér þau tæki og tól með ákvörðunum á Alþingi.

                       h_my_pictures_falkinn


Vesaldómur og vöxtur

Út er komin á vegum Landssambands lífeyrissjóða, LL, viðamikil skýrsla um starfshætti framkvæmdastjóra og stjórna lífeyrissjóðanna í landinu fyrir Hrun.  Tilefnið var brotlending og hrikalegt tap þeirra við fall bankanna haustið 2008, sem nú hefur verið upplýst, að nam 480 miö kr eða um fjórðungi af eignum þeirra.  Þetta er reyndar hlutfallslega svipað og tap norska olíusjóðsins og sýnir í hvílíkar ógöngur íslenzku lífeyrissjóðirnir eru komnir með fjárfestingarstefnu sína, sem reyndar er mótuð með ófélagslegum hætti af löggjafanum, en það ber að hafa efst í huga félagslegt inntak lífeyrissjóðanna við stefnumótun þeirra og lagasetningu um þá.  Lífeyrissjóðirnir eru komnir í öngstræti, lífeyrisþegar rændir lífeyri almannatrygginga að miklu leyti á móri greiðslu úr lífeyrissjóði, stærð og fyrirferð sjóðanna orðið efnahagsvandamál á Íslandi, eins og dæmin sanna.   

Tap sjóðanna nam mest rúmlega helmingi eigna, og var það hjá Lífeyrissjóði verkfræðinga, Lífsverk, og olli átakanlegri skerðingu reiknaðra framtíðar lífeyrisréttinda sjóðsfélaga.  Lífsverk var og er með lýðræðislega kjörna stjórn.  Lýðræði er engin trygging gegn óvönduðum vinnubrögðum, hrösun á vegum dyggðarinnar og mistökum, eins og alkunna er.   

Mest var þó sukkið og svínaríið í Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna, LRS, í krónum talið.  Þar og víðar hefur þó enn ekki verið hreinsað til, og kemur það spánskt fyrir sjónir.  Félagarnir vita, að þeir fá allt bætt með skattfé.  Þetta er óþolandi. Að skattborgarar landsins skuli vera látnir ábekja glannalegar gjörðir þessa sjóðs, nær engri átt.  Slík ábeking leiðir einvörðungu til enn glannalegri meðferðar fjár að hálfu sjóðsins en ella.  Upphæð ábekingarinnar mun vera 8 mia kr á ári næstu 40 árin.  Það verður að vinda ofan af þessum spillingarhvata með lagasetningu, því að hann felur í sér mikið óréttlæti á formi mismununar þegnanna.  Minni hagsmunir verða hér að víkja fyrir meiri.  Ný lagasetning um lífeyrissjóði þarf að losa um heljartök "aðila atvinnulífsins" á lífeyrissjóðunum og lífeyrissjóðanna á félagsmönnum.  Lýðræðisvæðingu og valfrelsi þarf að innleiða hér.   

Þekktur stjórnmálamaður, núverandi innanríkisráðherra, var stjórnarformaður LRS árið 2007.  Skrýtið, að enginn rannsóknarblaðamaður skuli hafa kannað, hversu mikið af þessu stærsta tapi lífeyrissjóðs í sögunni megi rekja til gjörninga ársins 2007.  Sameignarsinnum getur sem sagt orðið hált á svellinu í auðvaldsþjóðfélaginu.  Það þarf reyndar ekki að koma á óvart.  

Þetta ævintýri fjár án hirðis er grafalvarlegt mál fyrir alla þjóðina og hlýtur að hafa miklar afleiðingar í för með sér fyrir þá, er hér eiga hlut að máli.  Hér gæti ljót blanda búið að baki, blanda spillingar og glópsku, þar sem glópagullsmenn gerðu sig seka um vítaverða vanrækslu.

Leitt hefur verið í ljós, að stjórnendur og eigendur bankanna, sem reyndust vera bankaræningjar af verstu sort, gengu um lífeyrissjóðina, skyldusparnað landsmanna, á skítugum skónum, og rændu þá líka.  Þar er um að ræða 324 mia. (250+74 mia.) kr af þessum 480 miö eða 2/3 hluta, þegar tap á bankabréfum og pappírum tengdra félaga eru talin.  Stjórnendur lífeyrissjóðanna reyndust vera svo ósjálfstæðir í starfi, að þeir lýsa sjálfum sér í téðri skýrslu LL sem fórnarlömbum bankamanna.  Í skýrslunni er talað um meðvirka stjórnendur lífeyrissjóðanna.  Hvers konar Disneyland er þetta eiginlega ?  Hafa menn ekkert bein í nefinu ?  

Lítið sem ekkert fór fyrir sjálfstæðu áhættumati Mikka músar, heldur nutu hann og félagar hans ráðgjafar bankanna, "röverbanden", og afleiðingin varð, eins og til var sáð, afspyrnu léleg áhættudreifing og engin áhættustýring.  Starfshættir af þessu tagi eru svik við eigendur lífeyrisins, alger undirmálsframmistaða og ekki unnt að nefna vinnubrögðin annað en hreinræktað fúsk.  Þarna hefur annaðhvort legið að baki (eða á bakinu) mikil einfeldni, trúgirni og fáfræði eða beinlínis óheiðarleiki og maðkað mjöl í pokahorninu.  Úr þessu verður að fást skorið fyrir dómstólum.  Þeir verða að fá mál lífeyrissjóðs til meðferðar.       

Það verður enginn friður í landinu, nema gerð verði gangskör að því fyrir dómstólum að varpa ljósi á atburðarásina, sem leiddi til þess, að lífeyri landsmanna var sólundað á altari Mammons.  Hvar eru þessir peningar okkar núna, 25 % af eignum lífeyrisjóða landsmanna ?  Eru þeir á Tortólu ? Eru þeir á Guernsey ? Eru þeir í vösum Gissurar gullrass eða Jóakims frænda ?  Þó að féð sé líklega týnt og tröllum gefið, er algert lágmark að leita sannleikans fyrir dómstólum. Það er engin hemja, hvað hvítflibbaglæpamenn komast upp með á Íslandi án þess að hljóta makleg málagjöld.  Er réttvísin tannlaus ?  Það er kominn tími til, að hún sýni tennurnar, ef einhverjar eru og þá vonandi ekki falskar.  

Útlínur og meginniðurstöður þessarar sögu eru svo yfirgengilegar, að öllu réttsýnu fólki blöskrar og getur ekki búið við óbreytt fyrirkomulag.  Fram kemur í 800 síðna skýrslunni um 480 milljarðana, að verklagsreglur hafi skort um starfsemi lífeyrissjóðanna.  Mann setur hljóðan.  Menntunarleysið virðist hafa tröllriðið metnaðar- og getuleysi og siðleysið svifið samtímis yfir og allt um kring.  Ekki tók betra við, þegar kom að eftirlitinu.  Úttektarskýrslan gefur endurskoðendum sjóðanna falleinkunn.  Hvernig er nú komið fyrir faglegum metnaði þeirrar stéttar ?  Fyrst útreið í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og svo aftur núna.  Úttektarnefnd Hrafns Bragasonar lagði til, að Fjármálaeftirlitið skipaði lífeyrissjóðunum þessa endurskoðendur, en Fjármálaeftirlitið brást hlutverki sínu gersamlega í þessu reginhneyksli Hrunsins. Kratar og sameignarsinnar halda, að unnt sé að gera við margháttaða galla auðvaldsskipulagsins með regluverki og eftirliti.  Slíku er ekki að treysta. Ekki vantaði hér regluverkið fyrir fjármálageirann, og Fjármálaeftirlitið hafði skyldum að gegna.  Setja þarf lífeyrissjóðunum kröfur um gæðastjórnunarkerfi, innra og ytra eftirlit.  Fjármálaeftirlitið á ekki að láta nægja að taka við pappírum og raða þeim í rétta möppu.  Það verður að framkvæma sjálfstæðar rannsóknir.  

Stjórnarfyrirkomulag og fjárfestingarstefna lífeyrissjóðanna hefur algerlega gengið sér til húðar.  Það verður að finna lífeyrissjóðunum verðug viðfangsefni, en fyrirferð þeirra í íslenzka samfélaginu er orðið sjálfstætt vandamál. Núverandi ríkisstjórn hefur ekkert þrek til að taka á þessum málum.  Ný ríkisstjórn í landinu verður á fyrsta ári sínu við völd að stjórna smíði frumvarps til nýrra laga um lífeyrissjóði í landinu, sem setur sjóðsstarfsmönnum og stjórnum hæfiskröfur og hæfniskröfur og dregur upp útlínur gæðastjórnunar á ávöxtun sjóðanna, sem samræmist félagslegu hlutverki þeirra og útilokar tjón af græðgislegum áhættufjárfestingum, sem fulltrúar vinnuveitenda og launþega, sem nú sitja í stjórnum þeirra flestra með þessari ömurlegu niðurstöðu, hafa blessað yfir.  Það þarf að ræða um ávöxtunarkröfu sjóðanna, þvingaða félagsaðild, og hvernig á að beina ávöxtun sjóðanna í farveg, sem veldur ekki bólumyndun í eignaverði og hagrænum óstöðugleika í landinu. 

Ekki reyndist nokkurt minnsta hald í Fjármálaeftirlitinu, og sannaðist þar enn einu sinni, að eftirlitsstofnanir eru almenningi gagnslausar, þegar hæst á að hóa.  Næsta ríkisstjórn mun vafalaust gjörbreyta Seðlabankanum með nýrri lagasetningu, sem færir Fjármálaeftirlitið til Seðlabankans og leggur grunn að traustri peningamálastjórnun að hætti Bundesbank.  Lífeyrissjóðirnir eru sökum stærðar sinnar ríki í ríkinu og þar verður að ríkja festa, félagsleg ráðdeild, fagmennska og stöðugleiki.

Það er rétt, að lífeyrissjóðir með lýðræðislega kjörnum stjórnum beint af eigendunum urðu sízt fyrir minna tjóni en hinir.  Það er hins vegar tímanna tákn að efla aðkomu almennings að ákvarðanatöku um eigin mál.  Þegar ný og vönduð löggjöf um lífeyrissjóðina, sem eru og verða haldreipi okkar í ellinni, verður samin, verður væntanlega skorið á tengslin við atvinnulífið, því að ekki verður séð, að þessi tengsl hafi gagnast eigendunum, núverandi og tilvonandi lífeyrisþegum, nema síður sé.

Lífeyrissjóðirnir tóku, illu heilli, fullan þátt í bóluhagkerfinu.  Það er út af fyrir sig óskiljanlegt, að mönnum skuli detta sú firra í hug, að breyta lífeyrissjóðum í vogunarsjóði.  Aðalsmerki lífeyrissjóða á að vera mikil áhættudreifing, innan lands og utan, og örugg ávöxtun í stað hárrar ávöxtunar.  Að sjálfsögðu eru lífeyrissjóðir háðir hagsveiflu.  Þeir ganga betur í hagvexti en í stöðnun.  Það er út af því, að þá streymir inn meiri skyldusparnaður frá launþegunum, og hlutafé gefur meiri arð.  Hlutafé, innan lands og utan, ætti þó ekki ekki að nema yfir 25 % af eignum, 10 % innanlands og 15 % erlendis.  Það eru þó um 525 mia. kr alls m.v. núverandi stöðu.   

Nú eru að koma skilyrði til öflugs hagvaxtarskeiðs eftir tímabil samdráttar og stöðnunar.  Þetta má ráða af því, að á árinu 2011 varð dálítill hagvöxtur þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem allar voru hagvaxtarhamlandi, enda eru vinstri grænir, flokkur allsherjarráðherra, á móti hagvexti per se.

Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, telur, að aukning útflutningsverðmæta sjávarútvegs og iðnaðar hafi valdið um 2 % aukningu landsframleiðslu árið 2011, og ferðamenn og þjónusta við heimilin hafi skilað um 1 % aukningu.  Þetta gefur til kynna, að íslenzka hagkerfið geti hæglega náð lífvænlegum hagvexti, 4 % - 6 % á ári á næstu árum, með eðlilegri uppbyggingu atvinnulífsins með erlendum fjárfestingum.  Lífeyrissjóðir geta tekið þátt í uppbyggingu landsins með öruggum hætti, t.d. í orkugeiranum og í sjávarútvegi, með kaupum á hlutabréfum og skuldabréfum.  Þróun fjárhags Landsvirkjunar gefur til kynna, að hún er álitlegur fjárfestingarkostur lífeyrissjóða. 

Takist að ná sjálfbærum hagvexti, mun hagur strympu skána til lengdar, atvinnuleysi minnka, sparnaður, þar með lífeyrissparnaður, aukast, og svigrúm myndast til að grynnka á skuldum hins opinbera, sem er lífsnauðsyn.  Það verður þess vegna að róa öllum árum að öflugum og varanlegum hagvexti.

Téður Ragnar hefur þetta að segja um hagstjórnina:                "Í fyrsta lagi þarf að endurskoða skattkerfið.  Háir skattar draga úr vinnuframlagi einstaklinga og framtaki fyrirtækja.  Í öðru lagi þarf að afnema gjaldeyrishöftin hið fyrsta, þar sem þau standa litlum og meðalstórum fyrirtækjum fyrir þrifum.  Og síðast en ekki sízt þarf að búa svo um hnútana, að lög og reglur ásamt umgjörð efnahagsstefnunnar verði stöðugri en verið hefur síðustu árin.  Það er ljóst, að enginn mun vilja fjárfesta í okkar helztu atvinnuvegum - sjávarútvegi og orkuiðnaði - samfara þeirri pólitísku áhættu, sem nú ríkir í þessum atvinnugreinum."

Prófessor Ragnar mundi ekki halda þessu fram án veigamikilla og traustra hagfræðilegra raka að baki staðhæfingum sínum.  Hinn tilvitnaði texti er efnislega samhljóma stefnu Sjálfstæðisflokksins til viðreisnar þjóðarhag.  Þetta er einfaldlega rödd heilbrigðrar skynsemi, sem Sjálfstæðisflokkurinn mun framkvæma svo skjótlega sem verða má.  Sé rýnt í textann, kemur í ljós, að í hverri málsgrein felst stefnumörkun, sem er algerlega á öndverðum meiði við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Frá lokum kalda stríðsins hafa aldrei verið jafnskýrir valkostir fyrir hendi í íslenzkum stjórnmálum.  Annars vegar er daður við ESB og langdregin og dýrkeypt aðlögun að þessum risa á brauðfótum, sem virðist dæmdur til hnignunar, ásamt klúðurslegri stjórnsýslu, sem einkennist af undirmálum og leyndarhyggju.  Lausatök verða á hagstjórninni undir vinstri stjórn, bæði ríkisfjármálum og peningamálum, skattpíng í algleymingi, atvinnuleysi, verðbólga, landflótti og stöðnun, jafnvel hnignun.

Fái kjósendur sig fullsadda á þessum afurðum villta vinstrisins, verður stefna borgaralegra afla leidd til öndvegis, þar sem hætt verður skammarlegu daðri við ESB, lagaleg og stjórnlagaleg  undirstaða lögð undir trausta hagstjórn, sem skapar ekki minni stöðugleika en Maastrichtskilyrðin, og feitletruðu atriðin hér að ofan framkvæmd.

Afleiðing af nýjum stjórnarháttum verður sanngjarnara samfélag, betra líf í landinu vegna bætts hags heimilanna, færra fólk í þrengingum og örbirgð, fleiri og fjölbreytilegri atvinnutækifæri fyrir karla og konur, unga og aldna, og fleiri fjárfestingartækifæri lítilla og meðalstórra fyrirtækja.  Á einu kjörtímabili verður unnt að gjörbreyta stöðunni, svo að brottfluttir af öllum stigum samfélagsins geti séð sér hag í að snúa heim.  Hvað dvelur orminn langa ?  

 

  

  

 

   

        

      Snaefellsjökull 2                                                                           h_my_pictures_falkinn


Rekur þar allt á reiðanum

Hvað aðhefst hin volaða vinstri stjórn til að bæta hag landsmanna ?  Því er til að svara, að allt, sem til framfara gæti horft í þessu þjóðfélagi, er kæft af ráðstjórninni.  "Norræna velferðarstjórnin" "tók við Íslandi", eins og Svandís Svavarsdóttir komst nýlega að orði, á innsoginu, þann 1. febrúar 2009, með hástemmdum yfirlýsingum, þar sem lofað var öllu fögru, m.a. að útrýma fjöldaatvinnuleysi á árinu 2011. Engin ríkisstjórn í manna minnum hefur troðið loforð sín í svaðið svipað og þessi og verður vonandi bið á öðrum eins ósannindaferli.  

Skemmst er frá því að segja, að ekki stendur steinn yfir steini af upphaflegum vinstri vaðli, enda hefur Svandís "staðið trú vaktina" í Umhverfisráðuneytinu, "látið náttúruna njóta vafans" og lýðinn lepja dauðann úr skel samkvæmt uppskrift bóndans í Kreml.

Þessi stjórnarstefna er reist á gamalli forstokkun á fræðilegum grundvelli bókasafnssnata, sem aldrei heimsótti nokkurt fyrirtæki og hafði þess vegna engin raunveruleikatengsl, en lifði í gerviheimi.  Þetta var höfundur sameignarstefnunnar, Karl Marx, og á grundvelli fáránlegra hugmynda hans var síðan fyrirmyndin "homo sovieticus" smíðuð, sem vinstri stjórnin á Íslandi rembist nú eins og rjúpan við staurinn við að framkalla hér á lokadægrum sinnar óheillaveru í Stjórnarráðinu. Einstaklingarnir eru í augum ríkisstjórnar Jóhönnu ekkert annað en tekjustofn samneyzlunnar.  

Svandís segist ekki vera á móti nýtingu orkulindanna með sjálfbærum hætti, nema orkan sé seld til fyrirtækja í eigu útlendinga á of lágu verði.  Engir aðrir geta þó enn um sinn keypt orkuna í miklum mæli og greitt fyrir hana með gjaldeyri.  Hún er þess vegna algerlega á móti orkunýtingu í stórum stíl. Þar stendur hnífurinn í kúnni.  Forræðishyggjan í Stjórnarráðinu stöðvar með þessari fordild sinnar þessar og aðrar framfarir í landinu án nokkurra haldbærra raka.  Stjórnsýsla af þessu tagi er ekki bjóðandi í landi Skúla, fógeta, Fjölnismanna, Jóns Sigurðssonar, forseta, Hannesar Hafstein og Einars Benediktssonar, sem allir vildu efla hag þjóðarinnar með þróun atvinnuveganna.  Núverandi ríkisstjórn er líklega sú fyrsta í sögunni, sem leggst þversum gegn framförum atvinnuveganna og er beinlínis atvinnufjandsamleg.     

Þessi afturhaldsstefna vinstri manna er rökleysa (tátólógía).  Til að geta slegið fram Svandísarfullyrðingum með rökum þarf  vitneskju um:

  1. Markaðsverð þessarar orku í landinu núna, þ.e. heildsöluverð til nýrrar starfsemi með öllum þeim ströngu skilmálum, sem stóriðjan undirgengst.  Vinstri menn hafa ekki hugmynd um það.
  2. Núverandi meðalorkuverð til stóriðjunnar.  Vinstri menn virðast ekki vita það gjörla, þó að það sé reiknanlegt út frá opinberum gögnum, og eru í skrifum sínum yfirleitt að möndla með of lágt verð í áróðursskyni.
  3. Kostnaðarverð raforku til núverandi stóriðju og jaðarkostnaðarverð.  Vinstri menn gera sér enga grein fyrir því og vanmeta algerlega heildsöluþáttinn, kaupskylduþáttinn, háan aflstuðul, jafnt álag og langan gildistíma samnings, sem lækkar tilkostnað vegna lægri vaxta á lánum til virkjana og stofnlína.  Aðveitustöð til orkudreifingar er eign orkukaupanda í þessu tilviku.  Þeir líta framhjá þessu öllu, bera saman heildsöluverð og smásöluverð, og hneykslast síðan öll ósköp, en átta sig ekki á því, að þeir eru sjálfir hneykslunarhellurnar og verða sér til minnkunar.  

Stöðnun hagkerfisins í tíð vinstri stjórnarinnar á rætur að rekja til fótalausra fordóma og fáfræði hennar.  Þar að auki hefur henni mistekizt allt, sem hún hefur tekið sér fyrir hendur.  Þarna innanborðs eru verstu mistakasmiðir Íslandssögunnar.  Þeir þóttust allt vita og allt geta.  Þarna fóru "besserwisserar andskotans".

Þessi vinstri stjórn getur ekki leitt nokkurt einast mál til lykta, sem til framfara horfir.  Og nú heimtar forsætisráðherra að fá að "klára málin", þó að hún sé búin að koma sér svo út úr húsi hjá þingheimi, að alls óvíst er um þingmeirihluta hennar. Við lá, að undirlægjuháttur forkólfa ríkisstjórnarinnar, amlóðaháttur og einfeldni, yrði þjóðinni fjötur um fót í samningum við Breta og Hollendinga um greiðsluuppgjör bankainnistæðna í föllnum íslenzkum bönkum erlendis.  

Hvorki gengur né rekur í viðræðum ríkisstjórnarinnar við samningamenn ESB um landbúnaðar-og sjávarútvegsmál í aðildarviðræðum við ESB.  Leyndarhjúpur er yfir viðræðunum, en í gegn skín, að búrókratar í Brüssel reyna nú að berja íslenzka ráðherra og aðlögunarmenn (samningamenn væri ofmælt) til hlýðni.  Þetta sýna makrílviðræðurnar, sem sigldu í strand, af því að ESB ætlaði að ræna okkur einum 20 milljörðum kr, og hótuðu Steingrímslufsunni á fundum hans í Brüssel nýverið að hægja mjög á viðræðunum.  Utan fór karlgreyið með yfirlýsingar á vörunum um að taka nú upp alvöru viðræður.  Aðspurður á Alþingi um gang samtala sinna í Brüssel stökk fýlupokinn önugur upp á nef sér, eins og allsherjarráðherra er tamt.  Svo leyfa Trójuhestarnir sér að halda því fram, að aðild Íslands að ESB mundi engin áhrif hafa á auðlindanýtingu landsmanna.  Blindni, einfeldni og undirlægjuháttur eru þeirra einkenni. 

Nú hefur þessi versti fallisti í sögu lýðveldisins í samningaviðræðum við erlend ríki verið leiddur til öndvegis í ráðuneyti þessara málaflokka og efnahagsráðuneytis.  Er eðlilegt, að kvíða setji að mönnum, þegar sá svikahrappur er tekinn að véla um þessi viðkvæmu mál.  Ekki þurfti lengi að bíða slæmra frétta af efnahagsmálum landsins eftir að hann tók að véla um þau.  Verðbólgan hefur ekki verið hærri um langa hríð, og eiga gjörningar jarðfræðingsins í fjármálaráðuneytinu mikinn þátt í því. Skattahækkanir hans undanfarið á eldsneyti og annað fara auðvitað beint út í verðlagið.  Hann er meðvitað að draga úr umferðinni, en það er einmitt eitt af stefnumálum vinstri grænna.

Það eru ríkisstjórnin með skattahækkunum og seðlabankinn með sterkri tengingu krónunnar við sökkvandi evru, sem nú knýja áfram verðbólguna.  Ríkisvaldið er með skammsýnni stefnu sinni að stela umsömdum launahækkunum launþega.  Mál er að koma hér á festu og stöðugleika.  Það mun ekki gerast fyrr en núverandi stjórnvöld verða dysjuð að afloknum þingkosningum, hvenær sem þær verða nú.  

Stjórnmál snúast öðru fremur um sköpun auðæva og dreifingu þeirra.  Mikill meirihluti kjósenda verður að gera sér glögga grein fyrir því, hverjir eru líklegastir til að gæta hagsmuna þeirra. Annars verða engar raunverulegar breytingar; hér getur soðið alvarlega upp úr og landsmenn lent í víli og volæði.      

Téður SJS brást atvinnulífinu algerlega, vinnuveitendum og launþegum, með því að vinna gegn hagvexti í stað þess að örva hann með þeim afleiðingum, að engin innistæða er fyrir umsömdum launahækkunum, sem þá kynda verðbólgubálið í kappi við seðlabankann.

Nefna má endurskoðun Stjórnarskráarinnar, sem ríkisstjórnin hefur klúðrað með ærnum tilkostnaði.  Virtir lögfræðingar eru teknir að tjá sig um regingalla á tillögum Stjórnlagaráðs og næsta víst er, að þær yrðu felldar í þjóðaratkvæði, enda virðast vinnubrögð téðs ráðs hafa einkennzt af því að friða meðlimi með því, að hver kom fram helzta áhugamáli sínu, svo að úr varð bastarður, en ekki stjórnlagalega heildstætt plagg. Vönduð stjórnlög verða ekki samin á handahlaupum Péturs og Páls í hrossakaupum hver við annan, heldur að undirlagi fólks með sérþekkingu á sviði stjórnlaga og þar með víðtæka þekkingu á stjórnlögum annarra þjóða.  Það er óþarfi að finna upp hjólið hér, þó að aðlaga þurfi það þúfnakollunum.

Aldrei hefur nokkurt stjórnarfrumvarp hlotið jafnháðuglega útreið og frumvarpið um þjóðnýtingu aflaheimilda og ofurskattlagningu sjávarútvegs.  Ríkisstjórnin horfir algerlega framhjá þeirri meginstaðreynd, að sjávarútvegurinn er umfram allt annað matvælaframleiðandi í harðri samkeppni við niðurgreiddan erlendan sjávarútveg.  Segja má, að sjávarútvegurinn veiði eftir pöntun viðskiptavina og verði að afhenda rétt gæði í réttu magni á réttum tíma á tilgreindum stað.  Sjá þá allir í hendi sér, sem ekki hafa bitið í sig, að sjávarútvegur skuli verða vagga réttlætis, sem útdeilt sé af búrókrötum og stjórnmálamönnum, hversu viðkvæm staða sjávarútvegsins er.  

Forstokkaðir kjaftaskar á þingi hafa ekki hundsvit á þessari starfsemi, og ekki vit á miklu einfaldari og viðurhlutaminni starfsemi en nútímalegur sjávarútvegur er.  Samt virðast þeir líta sitt hlutverk þeim augum, að þeir, stjórnmálamennirnir, eigi að hlutast til um, hver eigi að fá að draga bein úr sjó, taka frá einum aflaheimildir og færa öðrum eftir geðþótta, og hver á ekki að fá að stunda sjóinn.  Þetta er hin fullkomna veruleikafirring forsjárhyggjunnar, sem alls staðar hefur gefizt hraksmánarlega illa.  Þessir stjórnmálamenn haga sér eins og fílar í postulínsbúð.  Það verður með öllum ráðum að koma í veg fyrir, að þeir vinni skemmdarverk í óráði sínu á sjávarútveginum, sem langan tíma tæki að lagfæra vegna markaðsstöðunnar.  Við vitum, að þetta fólk er til alls víst og sést ekki fyrir.  Það verða þá að mætast stálin stinn.       

Þessi ríkisstjórn er verri en engin.  Skárra væri fyrir Íslendinga að lenda í klónum á ESB með þeim hætti, sem Þjóðverjar leggja nú til, að gert verði við Grikki, þ.e. að Brüssel yfirtaki stjórnun ríkisfjármála, en að búa við innlenda óstjórn af því tagi, sem hér hefur hangið við völd, lömuð af sundurlyndi, fordómum, fáfræði og heimsku, í 3 ár nú.  Hún hangsar og hangir við völd, en áhangendum fækkar þó sorglega hægt.  Stjórnin setur met í lélegri stjórnsýslu.  Er það til að gera yfirráð ESB fýsilegri ? 

Steingrímur J. Sigfússon er tekinn til við að sleikja skósóla Stefans Füle í Brüssel.  Hefur hann líklega þakkað honum fyrir að ráðstafa MEUR 1,4 eða MISK 220 til kynningarstarfa fyrir ESB á Íslandi.  Hér er um algerlega ólíðandi innrás að hálfu ESB í íslenzk þjóðmál að ræða.  Alþingi verður að manna sig upp og stöðva þennan ósóma og þessa yfirtroðslu og inngrip erlends valds í stjórnmálaátökin hér innanlands.  Þetta er í engu frábrugðið því, að Rússar eða Bandaríkjamenn mundu koma hér upp áróðursstofum, t.d. til að koma ár sinni fyrir borð hjá Íslendingum í baráttunni um áhrif í norðurhöfum, en margt bendir til, að ESB ætli að nota aðild Íslands sem stökkpall inn í Norðurskautsráðið.

Gangi Ísland í ESB, glatar landið stöðu sinni sem strandríki í alþjóðasamfélaginu, en ESB tekur við samningsumboði okkar.  Hverjar halda menn, að verða mundu afleiðingarnar af því ?  Er ástæða til að halda, að við það mundi meira falla í okkar hlut, íbúa Íslands, af auðlindum hafsins og hafsbotnsins ?  Nei, auðvitað ekki.  Aðild yrði glórulaus fyrir Ísland.  Þjóðartekjur mundu minnka og útgjöld aukast vegna framlaga til ESB, m.a. til björgunarsjóðs eða stöðugleikasjóðs evrunnar.  Þessi útgjöld ásamt skattgjaldi, sem reiknað er sem hlutfalli af VLF, gætu numið 30-50 miö. kr á ári.  Á móti kemur lægra verð á innfluttum matvælum, segja skósólasleikjur.  Það er hundalógík.  Hvenær sem er getum við leyft innflutning á landbúnaðarvörum frá ónáttúrulegum risabúum Evrópu, sem aldrei komast í samjöfnuð við íslenzkar vörur, hvað heilnæmi varðar. Hvers vegna að búa í hreinu landi, ef ekki á að nýta afurðir þess ?  Til að lækka almennt vöruverð hér þarf að lækka alls kyns gjöld og skattlagningu af innflutningi, t.d. eldsneyti, og ýta undir samkeppni á öllum sviðum, eins og unnt er á örmarkaði.  Yfirvöldin hafa staðið sig illa þar.   

Varðandi matvælin er að ýmsu að hyggja.  Vöxtur evrópsks grænmetis og dýra til manneldis er píndur fram á methraða með óeðlilegum aðferðum, sem spilla hollustunni.  Jarðvegurinn er mengaður vegna þéttbýlis og lítillar fyrirhyggju áður fyrr, vatnið er af skornum skammti, endurunnið og hreinsað með vafasömum hætti.  Sagt er, að Rínlendingar drekki sama vatnið úr Rín 10 sinnum á ævinni. Þá má ekki gleyma loftgæðunum, sem á Íslandi eru í háum sérflokki vegna mikils landrýmis, dreifðrar byggðar, fámennis og hitaveitu, sem er ómetanleg til hagkvæmrar og nánast mengunarlausrar húshitunar.  Þetta gefur Íslendingum gríðarlegt samkeppniforskot á matvælamörkuðum til lengri tíma litið.  Slugs og fúsk innflytjenda, opinberra eftirlitsaðila og að nokkru leyti samtaka matvælaframleiðenda er þess vegna ófyrirgefanlegt frá sjónarmiði neytenda og ber að sæta málsókn að þeirra hálfu.

Ríkisstjórninni er um megn að leiða nokkurt mál til lykta.  Samt hrópar oddviti Samfylkingar yfir hausamótum hundfúlla flokksmanna sinna, að hún verði að fá að "halda áfram til að klára málin".  Ef ekki væri vitað, að forsætisráðherra er gjörsneyddur skopskyni, mætti halda, að hér væri um sjálfsádeilu að ræða.  Á að leyfa þessum skyni skroppna og glórulausa forsætisráðherra að sitja áfram ?  

Hinn hræðilegi atgervisflótti mun þá halda áfram.  Nú er svo komið, að erfitt er að finna hæft starfsfólk í ákveðnar greinar, af því að það er horfið af landi brott.  Atvinnuleysið er samt geigvænlegt, en sérhæft og hámenntað fólk, sem við megum sízt við að missa, er horfið í miklum mæli.  Ungt fólk með háar tekjur, sem þarf að bera mikið úr býtum til að koma undir sig fótunum og borga námslán, finnur ekki afkomugrundvöll hér vegna stöðnunar athafnalífs og hárra skatta, sem fara stighækkandi með tekjuaukningu.  Þetta fólk þjóðnýta vinstri menn í raun með ofurskattlagningu, og það losar sig úr fjötrum villta vinstrisins og flýr land.  Þessi atburðarás er þyngri en tárum taki.  

Með einföldun skattalaganna og lækkun jaðarskattlagningar verður að laða þetta fólk heim til lands tækifæranna til að skapa ný verðmæti öllum til hagsbóta, einnig hinu opinbera.        

Angela kunngjörir sáttmála-feb 2012

  

   


Evrópa 2012

Enn á ný veldur Evrópa vandræðum á heimsvísu.  Vandræðin eiga, eins og oft áður, rót sína að rekja til metnaðar Frakka og Þjóðverja til áhrifa á heimsmál og til óeiningar og samkeppni á milli þeirra. 

Evrópusambandið, ESB, eða öllu heldur forverar þess, Evrópubandalagið og Kola-og stálbandalagið, var ekki stofnað til að verða sambandsríki, eins og búrókratar og seinni tíma stjórnmálamenn hafa þó þróað það í áttina að, heldur til að verða tollabandalag, sem samtvinnaði viðskiptahagsmuni ríkjanna. 

Þetta var raunhæft markmið og þótti vera nóg til að tengja hagsmuni ríkjanna saman.  Tollabandalagið var síðan þróað í Innri markaðinn með frelsunum fjórum, sem ætti að vera nauðsynleg og nægjanleg samtvinnun hagsmuna.  Brezka ríkisstjórnin og fleiri eru þeirrar skoðunar, að framsal valda frá þjóðkjörnum þingum standist ekki lýðræðiskröfur, sé spor aftur á bak, allt of kostnaðarsamt og hlaði undir búrókrata í Brüssel, en komi almenningi að engu gagni. Bretar stefna nú á endurheimt valda frá Brüssel-búrókrötum til þjóðþingsins.   

Miklu fremur gildir þetta um hagsmuni smáríkja en um hagsmuni Bretlands.  Aðild Íslands að Innri markaðinum hefur verið undirstaða hagþróunar á Íslandi síðan 1994 til góðs og ills.  Útflutningsatvinnuvegir okkar hafa haslað sér völl á Innri markaðinum, en einnig fjárglæframenn, sem stunduðu glæfraviðskipti í krafti frelsis fjármagnsflutninga.  

Þegar kemur að því að undirgangast stofnsáttmála ESB með fullveldisafsali, sem því fylgir, t.d. varðandi umráðarétt yfir auðlindum á láði og legi, er einfaldlega of langt gengið til að sú áhætta sé takandi, enda er ekkert, sem knýr á um að úthýsa meiri völdum um lagasetningu og auðlindanýtingu til ESB.  Öndverðar skoðanir við þetta bera merki nauðhyggju og ýmislegs annars, sem óþarfi er að tíunda hér.

Nú stendur ESB á krossgötum.  Hönnuðum evrunnar láðist að reikna með fjárhagsáföllum, eins og fjármálakreppunni 2008 í kjölfar yfirspennts fjármálamarkaðar.  Þá var heldur enginn viðbúnaður við yfirskuldsetningu einstakra ríkissjóða evrulands.  Það er reyndar líklegt, að einhverjum hönnuðanna hafi dottið þessi staða í hug, sem nú er upp komin, en stjórnmálamenn slegið ráðstafanirnar út af borðinu, af því að þá hefði undirbúningurinn tekið mun lengri tíma en ella og jafnvel ekkert orðið úr stofnun evrunnar.

Kanzlari Þýzkalands boðaði þjóð sinni í nýársávarpi enn meiri erfiðleika evrunnar á nýju ári en árið 2011.  Sama gerði forseti Frakklands, en sá er munurinn, að Frakkar munu á árinu 2012 verða stór hluti af vandamálinu vegna ótrúar alþjóðlegs fjármálakerfis á hagkerfi Frakklands, veikrar stöðu franskra banka og forsetakosninga í landinu.

Þjóðverjar eru hins vegar mjög á varðbergi, vegna þess að þeir vita, að allir björgunarleiðangrar verða aðallega kostaðir af þeim.  Væntingar um björgunarleiðangra að norðan muni og slæva sjálfsbjargarviðleitni vandamálaþjóðanna, telja þeir réttilega.  Sambandsþingskosningar verða árið 2013, og þeim stjórnmálamönnum, sem ekki gæta hagsmuna þýzkra skattgreiðenda, mun verða refsað.  Þýzkir stjórnmálamenn eru meðvitaðir um þetta, og þess vegna standa þeir gegn sameiginlegri skuldabréfaútgáfu evrulands, sem Frakkar hafa barizt fyrir.  Evran er þýzku hagkerfi hagfelld, af því að hún er veikari en þýzkt mark væri, og slíkt léttir undir með þýzkum útflutningi.  Hins vegar fer herkostnaður evrunnar vaxandi, og tvær grímur eru að renna á marga Þjóðverja í valinu á milli evru og marks af þessum sökum, og mikill leiði að grípa um sig á meðal þjóðarinnar vegna getuleysis stjórnmálamanna við lausn vandans.

Douglas Mc Williams, forstöðumaður CEBR, Center for Economic and Business Research, telur, að evran muni senn líða undir lok í sinni núverandi mynd.  Hjól gríska hagkerfisins eru að stöðvast, og þjóðargjaldþrot blasir við Grikkjum á þessu ári.  Grikkjum verður ekki vært á evrusvæðinu og verða sennilega fyrstir út úr þessari ægilegu spennitreyju, og líklegt er, að Ítalir muni þá fylgja í kjölfarið.  Ítalir stefna fram af hengifluginu, og það er líklega rétt, sem Tremonti, fyrrverandi fjármálaráðherra Ítalíu sagði: "Ef ég fell, þá fellur Ítalía.  Ef Ítalía fellur, þá fellur evran."  Það mun verða talið henta, að Ítalía segi fyrr skilið við evruland en hún verði gjaldþrota.

Þegar þessi staða verður upp komin, mun allt verða á hverfanda hveli í ESB.  Úrræði Merkozy er sameiginleg stjórn ríkisfjármála allra evrulandanna.  Slíkt fullveldisframsal stenzt vart stjórnarskrá Þýzkalands og fleiri landa, og stjórnmálalegur áhugi á þessari leið er takmarkaður víða.  Loft er því lævi blandið.  Það má líkja Evrópu 2012 við vígvöll, annars konar en 1812 eða 1942, en þessi misheppnaða mynttilraun getur leitt fjárhagslegar hörmungar yfir íbúana.  Skammt er á milli neyðarfunda Merkozys, en nú fer þeim að fækka.  Ekki mun staðan skána eftir valdatöku sameignarsinna í Elysée. 

Bretland hefur dregið sig í hlé og bíður átekta. Það er gott herbragð hjá þeim.  Frakkar hafa stuggað við þeim, en það er viss skilningur á milli Berlínar og Lundúna, eins og stundum áður.  Danir eru í þeirri óþægilegu stöðu að þurfa að bera klæði á vopnin næstu 6 mánuðina í Brüssel.  Sænska hagkerfið blómstrar með sína krónu, og Norðmenn smyrja sitt dýra hagkerfi með olíu úr sinni lögsögu.  Hvað gerir Ísland við þessar aðstæður ?

Evrópa er aðalmarkaðssvæði Íslands um þessar mundir.  Innri markaður ESB er Íslandi mikilvægur, en ESB hefur farið hroðalega að ráði sínu með mynttilraun, sem er um það bil að misheppnast með hrikalegum afleiðingum fyrir hagkerfi álfunnar. Evran er tekin að hefta hagvöxt evrulands, nema í Þýzkalandi og í löndum með svipaða hagstjórn.  Við þessar aðstæður er ekki glóra í því fyrir Íslendinga að binda trúss sitt við ESB.  Auðvitað eigum við að selja þeim það, sem þeir þurfa á að halda og geta greitt samkeppnihæft verð fyrir, en til að tryggja vöxt íslenzka hagkerfisins og samkeppnihæf laun er orðið ljóst, að innganga í ESB og upptaka evru er ekki lausnin, heldur þvert á móti að hafa heiminn allan undir og kappkasta styrka og trausta hagstjórn til langframa.  

Það er rangt mat, að sjálfstæð mynt hafi verið Akkilesarhæll Íslendinga.  Hagvöxtur hefur fram að Hruni verið meiri en víða annars staðar í Evrópu.  Akkilesarhællinn hefur verið ríkisfjármála-og peningamálastjórnunin, sem hefur leitt til óðaverðbólgu og gengisfellinga.  Upptaka erlendrar myntar er eins og að míga í skóinn sinn í kulda.  Hér yrði fljótlega gríkskt ástand.  Það verður að ná tökum á ríkisfjármálunum og peningamálunum, t.d. að uppfylla öll Maastricht skilyrðin til lengdar, og þá verða okkur allir vegir færir. 

Þetta er ekki flókið verkefni, og aðferðirnar eru þekktar.  Vilji er allt, sem þarf, vilji meirihluta Alþingismanna og þar með vilji meirihluta þjóðarinnar, er það, sem þarf.  Þetta snýst um sparnað einstaklinga í stað neyzlusóunar og aðhald með útgjöldum hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga.

Til að ná jákvæðum jöfnuði á ríkisútgjöldin er lausnin ekki að eyðileggja þjónustustigið, t.d. með banni á endurnýjun tækjabúnaðar, heldur að koma að samkeppni um þjónustuna, sem hið opinbera stendur þó straum af.  Til að auka tekjur hins opinbera er vonlaus leið að hækka skattheimtu í kreppu, eins og vinstri stjórnin af þráhyggju einni saman heldur áfram að gera.  Það á að stækka kökuna, breikka skattstofnana með því að tvöfalda fjárfestingar frá því, sem nú er, og koma öllum til vinnu, sem vilja.  

Hvernig verða fjárfestingar örvaðar ?  Stjórnvöld gegna mikilvægu hlutverki við að skapa aðlaðandi fjárfestingarumhverfi. Núverandi stjórnvöld hafa haldið þveröfuga leið, verið eins og umsnúin endagörn í garð fjárfesta og virkað fráhrindandi.  Téð hegðun þarf ekki að koma á óvart.  Vinstri grænir og forverar þeirri í stjórnmálalega litrófinu á Íslandi hafa alla tíð barizt gegn erlendum fjárfestingum og öðru, sem tengir Ísland við Vesturlönd.  Samfylkingin hefur verið mjög vandlát á fjárfestingar og í raun klofin í afstöðunni til erlendra fjárfestinga.  Hún gein þó við kínverska Hólsfjallaskáldinu.  Þessi tvíræða afstaða Samfylkingarinnar til erlendra fjárfestinga er í algerri mótsögn við ákafa baráttu hennar við að troða Íslandi inn í brennandi rústir ESB.  Kjarni Innri markaðarins eru frelsin fjögur; þar á meðal frjáls flutningur fjármagns.  Dálæti Samfylkingarinnar á ESB er þess vegna með öllu óskiljanlegt.  Samfylkingin er langt vinstra megin við leiðarljós ESB.

Undirstaða stefnubreytingar stjórnvalda, er leitt geti landsmenn upp úr táradal vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms, verður skattalækkun, þ.m.t. tekjuskattur fyrirtækja, rafskattur, fjármagnstekjuskattur og að sjálfsögðu tekjuskattur einstaklinga.  Trygging þarf að koma fyrir því, að enginn kolefnaskattur verði hér lagður á iðnaðinn eða aðra atvinnuvegi.  Það ber að afnema hann á öllu eldsneyti í landinu þar til rafknúin ökutæki eða mengunarminna eldsneyti verður raunverulegur valkostur í landinu.  Annars stilla stjórnvöld landsmönnum upp við vegg, þaðan sem þeir eiga sér ekki undankomu auðið, nema að nota strætisvagna, sem í mörgum tilvikum er ekki raunverulegur valkostur. 

Þá situr eftir útblástursgjald, fari útblástur koltvíildis yfir ákveðin mörk.  Þar geta fyrirtæki keppt á grundvelli tækni, og þar er þess vegna hvati innbyggður til minni losunar.

Verðlagning orkunnar er auðvitað lykilatriði fyrir fjárfestana.  Kostnaðarverð raforku er í Rammaáætlun gefið upp sem 2,2 - 3,3 MUSD/MW frá vatnsaflsvirkjunum og 2,5 MUSD/MW frá jarðgufuvirkjunum.  Ef reiknað er með stofnkostnaðinum 3 MUSD/MW og 10 % bætt við vegna tengikostnaðar, þ.e. stofnkerfisins, fæst kostnaðarverð raforku á Íslandi við aðveitustöðvarvegg álvers 20 mill/kWh m.v. 8 % vexti og afskriftir á 30 árum.  

Nú er orkan seld til allra álveranna á Íslandi við mun hærra verði, og þess vegna er bullandi gróði hjá Landsvirkjun, eins og þróun eiginfjárstöðu fyrirtækisins ber vitni um.  Orkuveita Reykjavíkur berst tímabundið í bökkum, en orsakanna fyrir því er varla að leita í orkusamningum við Norðurál, sem er eina álverið, sem kaupir af þeim orku.  Eðli jarðgufuorkuvera er og allt annað en vatnsorkuvera; t.d. er endingartíminn styttri og viðhaldskostnaður miklu hærri.

Meðalverð á raforku til álvera í heiminum er u.þ.b. 35 mill/kWh.  Orkuverð til nýrra álvera er yfirleitt ekki hærra, en sé það borið saman við kostnað við vinnslu og flutning á Íslandi, sést, að það er gott borð fyrir báru til samninga um niðurstöðu, sem getur verið báðum í hag.

Það er athyglivert, að þrátt fyrir aðild Íslands að Innri markaði EES, hefur fjárfestingarfé ekki streymt til Íslands þaðan, heldur hefur sá fjárstraumur að mestu leyti verið lánsfé, þó að undantekning sé Becromal.  Fjárfestingarnar hafa aðallega komið að vestan, t.d. Alcoa, Century og Rio Tinto Alcan og að austan, t.d. fé í Járnblendiverksmiðjunni.  Þessir fjárfestingaraðilar hafa séð sér hag í aðgengi með vörur sínar að Innri markaðinum.  Hvers vegna Evrópumenn hafa ekki séð sér leik á borði að fjárfesta hér, er ekki gott að segja um.  Fjárfestingarumhverfið á Íslandi verður vafalaust meira aðlaðandi, þegar stöðugleika hefur verið náð í hagkerfinu með niðurgreiðslu skulda, jákvæðum jöfnuði í ríkisrekstri og lágri verðbólgu (2 %).  Þar með skapa Íslendingar sér mikla samkeppnihæfni við útlönd.  Við þurfum að hækka í einkunn sem aðlaðandi fjárfestingarland frá því að vera þar í flokki með Zimbabwe Mugabes til að verða í flokki með Svíþjóð Rehns.

Forseti ráðherraráðs ESB 1.7-31.12.2009Þjóðmál vetur 2011        

 

     

       

 

 

          


Viðskiptajöfnuðurinn

Finna má fyrrverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks ýmislegt til foráttu og þ.á.m., að hún lét gríðarlegan, allt að 25 % af VLF, viðskiptahalla viðgangast of lengi.  Af þessum sökum varð hagkerfið veikt fyrir vegna mikillar skammtíma lánsfjárþarfar.  Murphy´s lögmál tók að virka, því að á sama tíma lokuðust lánamarkaðir meira eða minna vegna tortryggni lánastofnana hver í garð annarrar af völdum hinna eitruðu lánavafninga.  Þetta reið innanétnum bönkunum að fullu eftir fall Lehman´s bræðra 15. september 2008.

Nú er öldin önnur.  Árið 2011 verður greiðslujöfnuður viðskipta við útlönd um 123 mia kr.  Þetta er dágóður jöfnuður, en því miður ósjálfbær.  Hann er að sönnu reistur á miklum útflutningi, en meira munar um lítinn innflutning vegna sáralítils hagvaxtar í landinu.  Árið 2008 var hagvöxtur 1,3 %, árið 2009 -6,7 % og árið 2010 -4,0 %, þ.e. samdráttur tvö síðari árin.  Þessar samdráttartölur eru í hnotskurn skýringin á því, að allt að 30 þúsund starfsígildi á ári hafa tapazt út úr hagkerfinu með atvinnuleysi, atgervisflótta og styttingu vinnutíma.

Téður hagstæður viðskiptajöfnuður er kreistur út úr hagkerfinu með því að þrýsta kjörum almennings langt niður fyrir það, sem Íslendingar eiga að sætta sig við eða geta sætt sig við, eins og atgervisflóttinn ber með sér.  Háskaleg stöðnunar- og háskattastefna ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hefur þrýst niður lífskjörum í landinu með þessum afleiðingum.  Af þessum ástæðum er núverandi viðskiptajöfnuður ósjálfbær.  Til að Ísland standi sig í samkeppninni um hæft starfsfólk við nágrannalöndin, ekki sízt Noreg, verður að lyfta lífskjörum almennings upp á norrænt stig.  Það mun óhjákvæmilega leiða til aukins innflutnings.  Hvað er þá til ráða ?  Óbjörgulegar eru í þessu sambandi ráðstafanir Jóhönnu og Steingríms að færa öll atvinnumálin undir VG og auðlindamálin undir Svandísi Svavarsdóttur í umhverfis-og auðlindaráðuneytinu.  Þetta er því miður ekkert annað en ávísun á afturhald og við svo búið má ekki standa.  Að setja bolsévika yfir atvinnulífið er sem eiturbyrlun fyrir það.

Það verður að skipta um ríkisstjórn og gjörbreyta um stjórnarstefnu í landinu.  Í stað afturhaldsstefnu komi framfarasókn.  Í stað skattahækkana komi skattalækkanir.  Í stað fjandsemi í garð fjárfesta, einkum erlendra, komi hvatar og fyrirgreiðslur á almennum grundvelli.  Í stað hálfkáks og lausataka á ríkisfjármálum komi markviss og öguð ríkisfjármálastefna í anda tillagna Tryggva Herbertssonar á Alþingi, er tryggi jákvæða rekstrarafkomu ríkissjóðs strax á árinu 2013.

Peningamálastefnuna verður að stokka upp, losa um verðtrygginguna, ef annar aðili viðskiptanna óskar þess, gefa kost á óverðtryggðum samningum í öllum lánaflokkum á markaðinum, en leyfa verðtrygginguna, ef báðir óska eftir henni, setja Seðlabankanum nýja löggjöf, sem gefur Seðlabankanum sjálfstæði, völd og ábyrgð til að beita öllum tiltækum ráðum til að tryggja peningalegan stöðugleika, þ.e. að drepa hættulegar verðbólur í fæðingunni og að tryggja verðbólgu á bilinu 0-2 % á ársgrunni.

Afnema gjaldeyrishöft og annað neyðarbrauð í hagkerfinu með einu pennastriki, þegar forsendur þess hafa verið skapaðar með samningum um fjárfestingar í landinu, er tryggi sjálfbært  gjaldeyrisflæði inn í landið, sem auka verðmætasköpun.  Slíkt verður helzt að gerast innan árs frá valdatöku borgaralegrar ríkisstjórnar, en bágborið ástand heimshagkerfisins getur hugsanlega seinkað þessu.

Þegar Íslendingar hafa snúið hagþróuninni innanlands sér í vil, þ.e. komið hagvexti á góðan rekspöl, kjör almennings fara að batna og saxast tekur á atvinnuleysið, munu brottfluttir hugsa sér til hreyfings heim á leið, því að ekki er nóg með, að römm sé sú taug, sem rekka dregur föðurtúna til, heldur hefur landið sjálft og fámennið upp á margt að bjóða, sem flestir Íslendingar læra að meta í uppvexti sínum og vilja ekki vera án.   Þetta þekkja allir, sem búið hafa á erlendri grundu um hríð. 

Þetta er hið raunverulega viðfangsefni stjórnmálanna.  Núverandi ríkisstjórn JS+SJS veldur ekki þessu viðfangsefni og hefur raunar ekki uppi neina tilburði til þess.  Hún er áhugalaus um allt, sem til lífskjarabata almennings horfir, en upptekin við að fóðra eigin jötugemlinga og alls kyns þjóðfélagslega tilraunastarfsemi úr bókasafnshugarheimi Karls Marx, sem ekki getur skilað neinu í raunheimi, og sumt er stórhættulegt afkomu almennings.

Úr grilluheimi Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi flugfreyju, má nefna Stjórnlagaþing, hvers kosning var dæmd ólögleg af Hæstarétti. Jóhanna trompaðist og fékk meirihluta Alþingis til að virða þann úrskurð að vettugi, og var það hræðilega skammsýn ákvörðun og niðurbrjótandi fyrir formfestu stjórnvalds og þrígreiningu ríkisvaldsins.

Aðförin að sjávarútveginum er einsdæmi í atvinnusögu Vesturlanda og jafnast á við aðgerðir sameignarsinna í þriðja heiminum á borð við Mugabe.  Gamla Rhódesía var matarkista, og þaðan voru flutt út ógrynni matvæla.  Í Zimbabwe undir Mugabe er nú hungursneyð.  Með sama hætti mundi þjóðnýting íslenzka sjávarútvegsins leiða til fjöldagjaldþrota og hruns bankakerfisins.

Síðast en ekki sízt ber að nefna garminn Ketil, skræk, en utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar er viðrini, alger bastarður.  Ríkisstjórnin hefur asklok fyrir himin og gerir ekki nokkurn skapaðan hlut til umbóta á þessu sviði fremur en á öðrum.  Utanríkisþjónusta Íslands er alger tímaskekkja og allt of dýr í rekstri m.v. ávinning.  Það verður að straumlínulaga hana m.v. líklega framtíðarhagsmuni Íslendinga.  Það þýðir auðvitað fækkun sendiráða, en jafnframt virkjun útstöðva utanríkisþjónustunnar í þágu utanríkis viðskiptahagsmuna.  Þar sem lítil sem engin eru viðskiptin og lítill áhugi á slíkum, þar þarf ekki sendiráð.

Tækifærum til bættra samskipta við Bandaríkin, BNA, t.d. með skírskotun til breytinga í norðurhöfum, sem leiða munu til nýtingar norðursvæðanna og nýrra siglingaleiða, hefur verið kastað á glæ.  Ekki er að sjá, að nein sérstök rækt sé lögð við opinber samskipti við rísandi stórveldi á borð við Kína og Indland né Rússland, sem í krafti auðlinda sinna mun rísa úr öskustó, þegar leifar KGB (Leyniþjónusta Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna) losa um tökin á upplýstu þjóðfélagi.  

Hið eina, sem kemst að hjá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, er uppskafningsháttur, fleðulæti og smjaður fyrir forkólfum ESB, Barroso, Rompoy, Olla Rehn, Stefan Fühle o.fl.  Þetta er grafalvarleg þröngsýni í ljósi þeirrar stöðu, sem landið er í, þ.e. málsvörn fyrir EFTA-dómstólinum út af Icesave og í svo kölluðum samningaviðræðum um inngöngu í ESB, sem er sorgarfarsi með ívafi skrípaleiks í höndum eigi smáfríðs utanríkisráðherra, því að það er ekki um neitt, nema hrein aukaatriði, að semja.  Í aðalatriðum yrði Ísland, eins og öll önnur aðildarríki, að kokgleypa stofnsáttmála og alla seinni sáttmála ESB, þ.á.m. Lissabon-sáttmálann, sem er ígildi stjórnarskráar ESB, til að öðlast inngöngu.  Þetta vefst ekki fyrir neinum, nema Evrópufræðingum, og starfsmönnum fræðaseturs um smáríki í Háskóla Íslands, sem lifa í gerviheimi. 

Nú hefur það frétzt, að fráfarandi efnahagsráðherra, Árni Páll Árnason, hafi s.l. vetur verið í Brüssel til að leggja á ráðin um hraðupptöku evru.  Er það eftir öðru hjá þeim manni og flokki hans að stunda baktjaldamakk í Brüssel um slíkt stórmál, sem er í raun örlagavaldur um hagsmuni landsmanna.  Atburðirnir í ESB 2010-2011 sýna þó í hnotskurn, hvílík reginglópska er í því fólgin að taka upp evru án þess að uppfylla með láði öll Maastricht-skilyrðin.  Innan skamms mundu Íslendingar við slík skilyrði lenda á vonarvöl, eins og Grikkir, Ítalir, Portúgalar og Spánverjar munu gera. 

Það er afar virðingarvert að vilja skapa stöðugleika í peningamálum landsins, en það verður ekki gert með yfirborðslegri hrossalækningu að hætti Samfylkingarinnar, heldur með vandaðri, samhæfðri og agaðri stjórnun ríkisfjármála og peningamála, þar sem leggja ber árangursrík vinnubrögð Þjóðverja til grundvallar.  Að taka upp evru, en vera með allt á hælunum í hagstjórnunarlegum efnum, má líkja við að ætla að laga svöðusár með heftiplástri.  Algert fúsk, sem leiðir til þess eins, að hinum slasaða blæðir út. 

  Halli á ríkisbúskap í 4 evru-löndum     

   Nú hafa forkólfar ríkisstjórnarinnar rekið rétt einn naglann í líkkistu hennar með því að sá fræjum illinda innan beggja þingflokka stjórnarinnar.  Eftir þetta mun þessi ómynd verða algerlega lömuð.  Skipreka ríkisstjórnin er aðeins ríkisstjórn að nafninu til, hana rekur fyrir veðrum og vindum, enda hefur hún engin markmið, nema að hanga við völd og að "leiða samningaviðræður við ESB til lykta", svo fjarstæðukennt sem það markmið er.  Þessar svo kölluðu samningaviðræður eru dýrkeyptasti skrípaleikur í sögu íslenzka lýðveldisins, sem ber að stöðva í góðri samvinnu við ESB, sem yrði guðsfegið að losna við þessa lönguvitleysu, og leggja það fyrir þjóðina samhliða næstu Alþingiskosningum, sem nú fer að styttast í, þó að sumir haldi því fram, að ríkisstjórninni sé jafnvel um megn að binda endi á eigið dauðastríð, hvort halda eigi samningaviðræðum áfram eða að binda endi á þær. 

Nýtt ár mun bera í skauti sér straumhvörf í íslenzkum stjórnmálum.  Horft til baka munu vinstri stjórnar árin 2009-2011 verða talin martröð svika, mistaka, ábyrgðarleysis, hringlandaháttar og getuleysis, sem kom þunglega niður á almannahagsmunum á Íslandi. 

Það mun hins vegar enn sannast, að máttur frelsis til orðs og æðis, einkaframtaks, þekkingar, sanngirni og agaðra vinnubragða, mun enn á ný verða aflvaki stórstígra framfara, losa þjóðfélagið úr klakabrynju hafta, skriffinnsku og forsjárhyggju stjórnmálamanna og búrókrata og gera þjóðfélagslegt kraftaverk.

Gleðilegt nýár !   

 jonsigurdsson 

      Íslenzki þjóðfáninn

 

 

 


"Kerfið sjálft ber dauðann í sér"

Stórmerkileg pistlaröð hefur undanfarið birzt á vefsetri Evrópuvaktarinnar.  Um er að ræða frásagnir Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra, af viðtölum hans við málsmetandi fólk í Þýzkalandi.  Umræðuefnið er aðallega tímaskekkjan mikla og núorðið aðhlátursefni, umsókn Íslands um aðild að ESB (Evrópusambandinu) og afstaða Þjóðverja til evrunnar.

Föstudaginn 4. nóvember 2011 birtist "Berlín V", þar sem skýrt var frá sjálfstæðum skoðunum Nestors þýzks athafnalífs, Hans-Olaf Henkel. Herr Henkel var fylgjandi innleiðingu evrunnar á sinni tíð, en telur þá afstöðu vera ein mestu mistök ferils síns, því að hann hafi síðar áttað sig á því, að nauðsynlegar forsendur sameiginlegs gjaldmiðils væru ekki fyrir hendi.  Maastricht samkomulagið 1992 hafi átt að leggja grunn að evrunni 1999, en komið hafi í ljós, að það hafi verið svikið. Þjóðverjar hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með evrusamstarfið, því að aðeins Austurríkismenn, Hollendingar og Finnar hafi viljað fylgja stefnu Bundesbank í peningamálum.  Hér má skjóta inn, að Þjóðverjar eru ekki alsaklausir gagnvart Maastricht, en þeir bera þó af Suður-Evrópuþjóðunum eins og gull af eiri hvað varðar Maastricht skilyrðin fyrir EMU (evrópska myntsamstarfinu), þ.e. verðbólgu, fjárlagahalla og ríkisskuldir.

Frá stofnum Kola-og stálbandalagsins hefur ríkt sá rétttrúnaður á meðal þýzkra stjórnmálamanna og fréttaskýrenda, að öxullinn Berlín-París mætti ekki bresta.  Nú er að renna upp fyrir Þjóðverjum, að öxull þessi er kominn að álagsþolmörkum.  Öxullinn er tekinn að vindast og getur hrokkið í sundur fyrr en varir.  Ástæðan er m.a. gjörólík sýn Þjóðverja og Frakka á hlutverk ECB (Seðlabanka evrusvæðisins).  Frakkar vilja í raun nota bankann til að prenta peninga með svipuðum hætti og Bandaríkjamenn gera, gefa út skuldabréf í nafni allra evrulandanna og auka peningamagn í umferð, en slíka misnotkun seðlabankans taka Þjóðverjar ekki í mál af ótta við verðbólgumyndun á evrusvæðinu.  Reynslan af Weimar-lýðveldinu er greypt í þýzku þjóðarsálina. Af þessum ástæðum var EFSF (European Financial Stability Facility) eða bjargráðasjóður Evrópu stofnaður. Það skal með öðrum orðum fjármagna peningaflutninginn fyrst.

Franska hagkerfið er suður-evrópskt, og það er svo ólíkt hagkerfum norðurhluta álfunnar, að sameiginleg mynt gengur ekki upp.  Samkvæmt skoðanakönnun Stern vilja nú 54 % Þjóðverja taka upp þýzka markið að nýju.  Það mun verða eilífur rígur á milli Frakka og Þjóðverja um peningamálastefnu evru-svæðisins, og Germanir eru að missa þolinmæðina gagnvart Göllunum.  Eitt nýjasta dæmið um þetta er yfirlýsingin um, að gullforði Þýzkalands verði ekki snertur í björgunarskyni við þjóðir evrusvæðisins, sem nú eru að fara halloka. Þetta er hárrétt afstaða Þjóðverja, því að fjármagnsflutningar suður yfir Alpana leysa engan vanda; þvert á móti magna þeir vandann.

Ástæðan fyrir þessari afstöðu er, að nú er að koma í ljós, að dýrara er fyrir Þjóðverja að vera með evru en eigin gjaldmiðil.  Hið sama á vafalítið við um öll fylgiríki Þýzkalands á evrusvæðinu, og hið sama mundi vafalaust eiga við um Ísland, ef landið tæki upp evru.  Skýringin er EFSF.  Lánsgeta hans nemur nú MiaEUR 440 (milljarðar evra).  Samþykkt hefur verið að auka hana í MiaEUR 1000 án samhliða fjármögnunar.  Evrulöndin eru sprungin á limminu og hafa ekki bolmagn til að bjarga evrunni.  Þau hafa nú biðlað til Kína, Japans og AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðsins).  Evrumistök stjórnmálamanna Evrópu ætla að verða ægilega dýrkeypt. Þá lýsir æðstikoppur í utanríkisráðuneyti Íslands yfir því, að einmitt nú séu kjöraðstæður fyrir Ísland að semja um inngöngu í ESB.  Slík veruleikafirring er með eindæmum og tekur í raun út yfir allan þjófabálk.   

Ítalía er nú komin í gjörgæzlu AGS.  Það kostar langmest að bjarga ítalska hagkerfinu eða a.m.k. MiaEUR 600 (MiaEUR=milljarðar evra).  Spánn er fársjúkur líka, og að bjarga honum mun kosta MiaEUR 300.  Grikkland er þessa stundina mest í fréttum, enda í raun gjaldþrota.  Samt kostar "björgun" þess "aðeins" MiaEUR 200, en ofan á allar þessar tölur þarf svo að bæta afskriftum banka, aðallega einkabanka, á skuldum þessara þjóða, sem geta numið öðrum eins upphæðum.  Með kostnaðinum við Portúgal og Írland, MiaEUR 30 og MiaEUR 20, er fjárþörf EFSF ekki undir MiaEUR 1150.  Ofan á þennan skuldavanda leggst svo hagvaxtarleysi, hækkandi meðalaldur og stirðnað athafnalíf, sem gerir það að verkum, að evruþjóðir í vanda eiga sér ekki viðreisnar von.

Hér hefur ekki verið minnzt á fjárþörfina vegna Frakklands, sem gæti numið a.m.k. MiaEUR 1000.  Það er þess vegna ljóst, að evran í sinni núverandi mynd fær ekki staðizt.  Í Þýzkalandi þarf aðeins að koma fram á sjónarsviðið öflugur stjórnmálamaður, sem tekur upp merki Hans-Olaf Henkel og leiðir Þjóðverjum fyrir sjónir, að Frakkar hafi ginnt þá út í kviksyndi og þeir verði að snúa af þessari braut til að bjarga sér og taka upp sjálfstæða myntstefnu.  Þeir munu þá örugglega segja skilið við Suður-Evrópu í peningalegum efnum.  Við þetta mun ESB sundrast, enda er þetta fyrirbrigði ólýðræðislegt skriffinnaskrímsli.

Evran voru mistök skammsýnna stjórnmálamanna, og þar fóru Frakkar fremstir í flokki.  Áherzla Þjóðverja á sköpun handfastra verðmæta, öflugan útflutningsiðnað, stranga peningamálastjórnun og aðhald með ríkisrekstri gefst bezt, þegar til lengdar lætur, og ætti að geta orðið öðrum af svipuðu sauðahúsi til fyrirmyndar.

Sjálfstæðisflokkurinn er vís til að bera þessa stefnu fram til sigurs í næstu kosningum, enda fellur hún vel að grunngildum flokksins um sjálfstæðan fjárhag einstaklinga, sem tryggður er með atvinnu fyrir alla, lágri verðbólgu og góðri meðferð opinbers fjár. 

Hanna Birna Kristjánsdóttir 

Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu

                

 


Ríkisolíufélag-góð hugmynd eða slæm ?

Fyrir skömmu fleyttu nokkrar mannvitsbrekkur þeirri hugmynd opinberlega að stofna íslenzkt ríkisolíufélag.  Voru rökin þau, að slíkt mundi auka áhuga olíuleitarfélaga á Drekasvæðinu íslenzka, af því að þátttaka ríkisins í olíuleit þætti bjóðendum traustvekjandi.  Einnig voru tíunduð rök atvinnusköpunar við olíuleit og þekkingaröflunar á nýjum miðum kunnáttu fyrir Íslendinga.

Hér klingja þó ýmsar viðvörunarbjöllur og rétt að staldra við.  Með hæfilegum skammti af tortryggni mætti túlka ofangreindan boðskap þannig, að nú eigi að fara "að plata sveitamanninn" rétt einu sinni til að punga út fé í starfsemi, sem hann hefur ekkert vit á og ræður tæknilega ekki við að svo komnu máli.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, að olíuleit á Drekasvæði er ekki fundið fé, heldur tengd töluverðri áhættu, þótt jarðfræðingar hafi áætlað 10 milljarða tunna af olíu undir hafsbotni íslenzka hluta Drekasvæðisins.  Verðmæti þessara birgða, m.v. núverandi olíuverð, nemur u.þ.b. 100xVLF/a eða hundraðfaldri árlegri núverandi landsframleiðslu Íslands.

Það væri algert óráð hjá varðmönnum skuldum hlaðins íslenzks ríkissjóðs að bæta ofan á skuldahrúguna með lántöku erlendis, e.t.v. upp á 10-20 milljarða kr, til að stofna olíufélag til að taka þátt í olíuleit, sem er mjög sérhæfð, kostnaðarsöm og áhættusöm.

Hinn valkosturinn er, að lífeyrissjóðirnir með sína 2000 milljarða kr eign, eða fjárfestingarfélag þeirra, Framtak, leggi fé í olíuleitarfélagið.  Slík ákvörðun mundi þó stappa nærri geggjun.  Nóg er komið af glórulítilli áhættusækni þeirra ólýðræðislegu afla, sem með fjárfestingarákvarðanir lífeyrissjóðanna hafa vélað, með sáru tapi á eignum eigendanna, almennings, og skerðingu lífeyrisréttinda félagsmanna sem afleiðingu.

Olíuleit á Drekasvæðinu og á öðrum líklegum olíulindarsvæðum í lögsögu Íslands er hins vegar mjög áhugaverð, og nauðsynlegt fyrir ríkið að safna þekkingu og stjórna leit og síðar vinnslu af skörungsskap. Hér er um ósjálfbæra auðlindanýtingu að ræða, þannig að vinnslufyrirtæki fá úthlutað ákveðnu svæði og nýtir það síðan með þeim hraða og í þeim mæli, sem því sýnist, nema eigandinn setji einhver vinnsluskilyrði.  Þessi auðlindanýting er þess vegna ekki sambærileg við t.d. nýtingu fiskveiðistofna á Íslandsmiðum, sem er sjálfbær.   

Olíuleit og -vinnslu þarf að gera hærra undir höfðu en að vera skúffa í iðnaðarráðuneytinu.  Það á að flytja þessa starfsemi yfir í olíuvinnsludeild, sem stofna þarf hjá Orkustofnun, sem sjái um reglusmíði um leit og vinnslu ásamt útboðum á leitar-og vinnsluréttindum.  Orkustofnun yrði þá ábyrg fyrir þekkingaröflun á þessu sviði og nýtingu olíulindanna í samræmi við stefnumörkun Alþingis um nýtingarhraða, gjaldtöku og skattheimtu af starfseminni.  Þarna má gera ráð fyrir, að auðlindarentan finnist, þótt hún hafi ekki fundizt enn í íslenzka sjávarútveginum, enda stendur hann í harðvítugri samkeppni við niðurgreiddan sjávarútveg annarra landa. 

Í þessu sambandi þarf að hámarka tekjur ríkissjóðs til langs tíma af starfseminni.  Það verður sannanlega ekki gert með skattlagningu gróðans upp í rjáfur.  Þá missir einkaframtakið áhugann.  Eigendur áhættufjárins verða að eygja sanngjarna gróðavon, ef árangur starfseminnar verður góður. Fjárfestirinn verður að finna hvata til að auka starfsemina og hefja leit og vinnslu á nýjum reitum innan Drekasvæðisins.  Hvatinn verður að vera nokkru meiri en annars staðar, því að áhættan þar norður frá vegna strauma, íss, veðra og dýpis er meiri en víðast hvar annars staðar.

Skynsamlegast er af ríkisvaldinu að byggja upp góða þekkingu á málefnum olíuleitar og vinnslu, taka leyfisgjöld og stunda skattheimtu af starfseminni án þess að festa nokkurt fé í henni.  Þó má hugsa sér, ef stofnaður verður olíusjóður af skatttekjunum, að hann megi fjárfesta í starfseminni á Drekasvæðinu eða annars staðar, þegar áhættan minnkar með aukinni þekkingu og tækni.

Óvarlegt er að ráðgera að hleypa olíutekjum inn í eyðsluhít ríkissjóðs.  Miklu nær er að stofna olíusjóð, eins og Norðmenn hafa gert, og nota hann til fjárfestinga í innviðum samfélagsins, þ.m.t. samgöngumannvirkjum. Af ótta við verðbólgu hafa Norðmenn reyndar lítið fjárfest innanlands, en því meir erlendis og reynzt nokkuð mistækir. Það gæti verið skynsamlegt að nota olíusjóðinn hérlendis til sveiflujöfnunar í hagkerfinu.  

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að núverandi ríkisstjórn, með óhæfan fjármálaráðherra í broddi fylkingar, er búin að gefast upp við stjórn ríkisfjármála.  Hún einkavæddi tvo banka fyrir aftan bak án hefðbundinna viðskiptalegra og lýðræðislegra formála, heldur beitti gerræðistilburðum og virðist sjálf ekki vita, hverjir eiga bankana nú.  Einkavæðingin upp úr aldamótunum sætti rannsókn Ríkisendurskoðunar, sem fann ekkert ólöglegt.  Enn meiri ástæða er til að rannsaka einkavæðingu vinstri stjórnarinnar á þessum ríkiseignum. Það verður að fletta ofan af leynimakki og pukri ráðstjórnarinnar við fjármálafyrirtækin. 

Nú áformar ríkisstjórnin að selja fleiri ríkiseignir til að brúa fjárlagahallann.  Þetta er algert glapræði.  Það verður að ná jafnvægi á milli venjulegra tekna og gjalda ríkissjóðs án þess að pissa í skóinn sinn með eignasölu.  Venjulegt jafnvægi er hins vegar vart gerlegt án þess að auka veltuna í þjóðfélaginu, þ.e.a.s. illgerlegt án hagvaxtar.  Þar stendur nú hnífurinn í kúnni.

Eins og margoft hefur komið fram, er hin heillum horfna vinstri stjórn á móti hagvexti, og þess vegna sígur allt hér á ógæfuhlið í þjóðarbúskapinum.  Ríkisstjórnin nær ekki endum saman og mun aldrei ná með sjálfbærum hætti. 

Hún hefur ráðizt á innviði samfélagsins með þeim afleiðingum, að t.d. heilbrigðisgeirinn er í uppnámi og biðraðir hafa lengzt eftir knýjandi þjónustu.  Sjálfseignarstofnanir létta alls staðar á Vesturlöndum undir með opinbera heilbrigðisgeiranum, og þannig hefur það verið, þó í allt of litlum mæli, á Íslandi.

Vinstri menn hérlendis hafa hins vegar ætíð haft horn í síðu sjálfseignarstofnana, og nú ætla þeir að fremja níðingsleg skemmdarverk á þeim með því að skera niður kaup á þjónustu þaðan.  Gaspra þeir um í fávísi sinni að varðveita grunnþjónustuna og skera niður þjónustukaup af sjálfseignarstofnunum.  Þeir eru svo skyni skroppnir, að þeir skilja ekki, að með kaupum á þessari þjónustu hafa stórupphæðir verið sparaðar á dýrari stofnunum ríkisins.  Þetta heitir að spara eyrinn og kasta krónunni.  Það hafa alltaf verið ær og kýr vinstri manna.  Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.

Dæmi um þetta er Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands.  Hjá HNLFÍ í Hveragerði hefur á undanförnum árum verið reist myndarleg aðstaða til að endurheimta krafta sjúklinga og til andlegrar og líkamlegrar styrkingar með nuddi, leirböðum, sundi og þrekþjálfun o.fl.  Miðstöð HNLFÍ er í grennd við stórkostleg útivistarsvæði og gæti áreiðanlega laðað til sín útlendinga, ef hún væri markaðssett á erlendri grundu. Höfundur þessa vefseturs dvaldi þarna fáeina daga í sumar, er leið, á Hótel Náttúru, á meðan eiginleg starfsemi Náttúrulækningahælisins lá niðri, og getur borið staðnum, hollustufæði, þjónustu, aðstöðu og umhverfi, gott vitni.

Félagshyggjuflónin sjá einhvers konar ofsjónum yfir þessari starfsemi og hyggjast rifta samningum við HNLFÍ.  Þetta er strútshegðunin.  Vandamálið hverfur ekki við þessar flónslegu aðfarir.  Það magnast upp og mun ríða sem holskefla yfir sjúkrahúsin með margföldum kostnaði.  Allt er það eins, liðið hans Sveins. 

Fátt hefur verið skorið jafnillyrmislega niður að hálfu vinstri stjórnarinnar og fé til samgöngumála.  Þetta er eindæma heimskuleg ráðstöfun, enda fáar framkvæmdir jafn þjóðhagslega arðsamar og samgöngubætur, sem eitthvað kveður að.  Þessi samdráttur er þó alveg í anda forystu vinstri manna, sem er á móti einkabifreiðinni sem aðalsamgöngutæki almennings.  Þess vegna ráðast vinstri menn alltaf á fjárveitingar til samgöngumála, einnig þegar hagkerfið þarf nauðsynlega á slíkum framkvæmdum að halda.  

Nú stjórnar vinstri græningi samgöngumálum landsins, enda hefur sjaldan eða aldrei verið unnið jafnsvakalega með öfugum klónum á vettvangi samgönguráðuneytisins gamla og beinlínis gegn hagsmunum vefarenda.  Dæmi um þetta er fordæmalaus fíflagangur ráðherrans varðandi ákvörðun um vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum.  Ráðherrann þóttist leggjast undir alvöru feld til vandaðrar ákvarðanatöku varðandi vegagerð úr Reykhólasveitinni og vestur úr, en útkoman varð hörmuleg, enda bera vinstri grænir ekki hagsmuni almennings fyrir brjósti og alls ekki hagsmuni bíleigenda.  Vinstri grænir hatast við þá.   Ráðherrann er svo aftarlega á merinni, að hann ætlar Vestfirðingum og öðrum að halda áfram að fara upp og niður Hjallaháls, sem er manndrápsleið að vetrarlagi og Ódrjúgshálsinn er engu skárri.  Upphækkun og klæðning og nokkur breikkun skiptir ekki sköpum í þeim efnum. Þá leggur ráðherrann til sukkkennda sóun á almannafé með borun gegnum Hjallaháls eftir varanlega vegagerð yfir í Djúpadalinn yfir hálsinn.  Er ráðsmaður almennings með öllum mjalla ?  Veit hann, að fjöldi hríslna af Teigsskógskvæminu munu verða eyðingu að bráð við vegagerð hans ?

Hagkvæmast væri fyrir byggðina á svæðinu og vegfarendur, að valin yrði leið Vegagerðarinnar nr A um Reykhóla, Reykjanesið og yfir í Skálanes.  Eiga Vestfirðingar það inni, að ríkið einhendi sér í þær framkvæmdir, sem sérfræðingar Vegagerðarinnar mæla helzt með, en fíflagangur ráðherra vinstri grænna verði stöðvaður snarlega.  Það er auðvitað tímabært, að þessir kjöftugu sérvitringar og kaffihúsasnatar, sem nú stjórna landinu án þess að geta það, leggi upp laupana. Stefnumörkun og málsmeðferð öll getur ekki versnað.

           

       

Olíuverð á heimsmarkaði 2009-2010

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband