Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
7.11.2010 | 15:01
Ný stefna á gömlum mergi
Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn boðíð þjóðinni skýran valkost við eymd þá og volæði, sem hringl, ráðleysi og beinn fjandskapur ríkisstjórnarinnar við atvinnulífið hefur og mun í æ ríkari mæli leiða yfir þjóðina.
Í fáum orðum sagt snýst þessi stefna um, að ríkisvaldið vendi nú sínu kvæði í kross og leiti allra leiða til að laða að landinu fjárfesta, sem stofna vilja til framkvæmda og atvinnurekstrar í landinu. Með útrýmingu langtímaatvinnuleysis, lækkun allra skatta, lengingu lána og skattlagningu inngreiðslna í lífeyrissjóði, mun hagur heimila, fyrirtækja og hins opinbera vænkast.
Þessu til viðbótar þarf að greina afleiðingar þess að aflétta öllum höftum á fjármálalífið á einu bretti, þar með að afnema allar vísitölutengingar með ákveðnum skilgreindum fyrirvara. Ákvörðun af þessu tagi tók hin þýzka ríkisstjórn Dr Konrads Adenauers að ráði efnahagsráðherrans, Dr Ludwigs Erhards, um 10 árum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Flestir efnahagsspekingar þess tíma, m.a. í röðum hernámsveldanna, voru á móti þessu og töldu gjörninginn mundu leiða til hruns efnahagskerfis nýstofnaðs Sambandslýðveldis, en það var öðru nær. Á svipstundu hvarf svartamarkaðsbrask, viðskipti og athafnalíf döfnuðu.
Hin lamandi hönd ofsköttunar og ríkisforsjár hefur tafið viðreisnina og valdið heimilum og fyrirtækjm ómældu tjóni. Nú þarf að leysa einstaklingsfamtakið úr læðingi. Stjórnvöld geta það, en þau geta ekki reist landið við með ríkisrekstri.
Hér til vinstri er mynd af veginum til ánauðar. Hann er varðaður grímulausum svikum við þing og þjóð. Nægir í því efni að nefna umsóknina um aðild að Evrópusambandinu, ESB, og ríkisstjórnarsáttmálann, en þar segir, að ríkisstjórnin ætli "að stuðla að beinum erlendum fjárfestingum" til að hægt verði að ná góðum og jöfnum hagvexti, sem sé forsenda þess að afnema gjaldeyrishöft og lækka vexti, verja störf og fjölga þeim á ný, ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um jafnvægi í ríkisfjármálum og verja velferðarkerfið.
Um þetta var ríkisstjórnin mynduð, en hún hefur svikið hvert einasta atriði, sem þarna er talið upp. Hún hefur leynt og ljóst unnið gegn erlendum fjárfestingum, valdið samdrætti í stað hagvaxtar, hækkað raunvexti, þó að nafnvextir hafi lækkað, eytt störfum og hindrað nýja atvinnustarfsemi, aukið skuldasöfnun ríkissjóðs erlendis og ráðizt að grundvelli velferðarkerfisins.
Með vinstri stjórn við völd er ríkisfyrirtækið Landsvirkjun að gæla við þá fáránlegu viðskiptahugmynd að leggja eða leigja afnot af sæstreng til að flytja raforku um til og frá Íslandi, aðallega frá. Beitt er þeirri rökleysu, þegar talað er fyrir þessu, að sæstrengur til útlanda gefi færi á bættri nýtingu raforkukerfisins. Þeir, sem þessu halda fram, afneita staðreyndum málsins og lifa í heimi Lísu í Undralandi. Sæstrengur krefst bindingar á óhemju miklu fjármagni, og eina ráðið til að hann geti skilað arði er að hann sé rekinn á fullum afköstum allan sólarhringinn, flesta daga ársins. Afgangsaflið, sem í þetta þarf, er ekki til og verður aldrei til; hvað þá afgangsorkan. Hins vegar er stórhætta á því, að hið sama mundi gerast hér og í Noregi, að orkufyrirtækin mundu hillast til að tæma lónin, þannig að orkuskortur yrði í landinu, og engin önnur ráð til en að flytja inn rándýra orku frá útlöndum á margföldu verði á við það, sem íslenzkir raforkunotendur, þ.á.m. heimilin, eiga að venjast.
Sæstrengur fyrir slíka vegalengd og dýpi, sem hér um ræðir, hefur aldrei verið hannaður. Af slíkum er þess vegna alls engin reynsla. Hann yrði þess vegna tilraunaverkefni með þeirri rekstraráhættu, sem slíku fylgir. Það verður þess vegna að búast við bilunum og talsverðu viðhaldi. Með bjartsýni mætti að óreyndu búast við 300 rekstrardögum að jafnaði á ári, sem hleypir flutningskostnaðinum verulega upp. Í stað gæluverkefna af þessu tagi er ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun nær að fást við undirbúning raunhæfari verkefna en þessara sæstrengsdrauma.
17.10.2010 | 11:25
Félagshyggjan afhjúpuð
Félagshyggjan er reist á vanþekkingu og skilningsskorti. Hún varð til í hópum afæta á kaffihúsum Evrópu. Misbrestir hennar og hrein heimska hefur hvarvetna komið í ljós, þar sem hún hefur fengið að grassera, nær og fjær. Hún hefur leitt til þjóðargjaldþrots, þar sem forsprakkar hennar hafa verið við völd áratugum saman. Til að bæta kjör alþýðunnar þarf annað og meira en kaffihúsagutl.
Þjóðargjaldþrot átti sér stað í Rússlandi, og það blasti við Svíum við lok valdaskeiðs Jafnaðarmanna. Kratar leiddu Stóra-Bretland, Grikkland og Spán á heljarþröm. Þetta er á góðri leið með að gerast í olíulandinu Venezúela og mun gerast á aðeins einu kjörtímabili hérlendis, ef félagshyggjustjórn Jóhönnu Sigurðardóttur heldur völdum út kjörtímabilið.
Vanþekking á mannlegu eðli og skilningsskortur á mikilvægi tækniþróunar og á lögmálum efnahagslífs og fjármála hafa alls staðar og alltaf staðið forkólfum félagshyggjunnar algerlega fyrir þrifum. Á Íslandi hefur þetta lýst sér með eftirfarandi hætti:
- Afturhaldsöfl Samfylkingar og Vinstri-grænna hafa staðið gegn allri nýsköpun í atvinnustarfsemi. Þetta hefur tafið sumar erlendar fjárfestingar og komið í veg fyrir aðrar. Afturhaldsöflin standa alls staðar gegn tæknivæðingu iðnaðarins, sem hlýzt af alþjóðavæðingunni (erlendum fjárfestingum).
- Skattahækkunum hefur verið dembt yfir fyrirtæki og einstaklinga. Þetta hefur hefur riðið sumum fjölskyldum að fullu fjárhagslega, eyðilagt sum fyrirtæki endanlega og dregið stórlega úr atvinnu og eftirspurn almennt í þjóðfélaginu, þ.e. magnað kreppuna. Skattstofnar hafa þess vegna skroppið saman og tekjur hins opinbera minnkað af sumum sköttum og vaxið aðeins lítillega af öðrum, en eftirtekjan, þ.e. skatttekjur í hlutfalli við skattheimtu, rýrnað gríðarlega.
- Miðstýringaráfergja félagshyggjunnar og ofurtrú á opinbera forsjá hefur leitt til fjölgunar embætta, en lausnir á vanda heimilanna hafa verið í skötulíki, þó að félagshyggjustjórnir Jóhönnu hafi haft yfir 20 mánuði til að fást við vandann. Útrásarafglöpum er hyglað á meðan gengið er á milli bols og höfuðs á illa skuldsettum fjölskyldum og fyrirtækjum.
- Kúgunartilhneiging, kaldlyndi og þekkingarleysi ríkisstjórnar félagshyggjunnar hefur nú leitt til forkastanlegs frumvarps til fjárlaga, þar sem rústa á heilbrigðiskerfi landsins með afnámi tiltölulega hagkvæmra sjúkrarúma á landsbyggðinni, en lengingu biðlista við rándýrt sérhæft sjúkrahús í Reykjavík. Félagshyggjan hefur nú þegar gengið næstum af Landspítalanum dauðum; hann ræður ekki við meira álag og stefnir í að þurfa að leggja af hjartaaðgerðir, sem þó hafa reynzt ríkissjóði og þjóðfélaginu afar hagkvæmar. Læknar flýja landið unnvörpum, en nýjum tækifærum í heilbrigðisþjónustu, t.d. þjónustu við útlendinga, er kastað fyrir róða. Allt er njörvað niður í saman súrrað ríkisbákn, sem félagshyggjuforkólfar trúa á, en er glatað form.
- Félagshyggjuforkólfar eru nú á barmi örvæntingar, því að þeir klúðra öllu, sem þeir koma nálægt. Þá kemur þeim til hugar að éta útsæðið. Það er mjög félagshyggjulegt. Undanfarin ár hafa nytjastofnar á Íslandsmiðum eflzt, af því að aflareglan var lækkuð í 20 %. Þá minnkuðu veiðarnar úr 25 % - 30 % af stofni í 20 % - 25 %. Sóknarþunginn var minnkaður af sjávarútvegsráðherranum, Einari K. Guðfinnssyni, að ráði Hafrannsóknarstofnunar, til að búa í haginn fyrir framtíðina. Nú ætlar hinn skammsýni og þröngsýni þvergirðingur í embætti sjávarútvegsráðherra, félagshyggjumaðurinn Jón Bjarnason, að auka sóknarþungann þvert ofan í ráðleggingar Hafró. Þar með ætlar félagshyggjustjórnin að hefja ósjálfbærar veiðar á Íslandsmiðum. Skerðing aflaheimilda lenti auðvitað á þeim, sem aflaheimildir höfðu, en þeir eiga ekki að fá að bjóða í nýjar heimildir. Þannig er engan veginn tryggt, að hámarks arðsemi náist út úr viðbótar aflanum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að helztu útgerðir landsins eru útflytjendur hágæðamatvæla, sem framleiða samkvæmt pöntun viðskiptavina með svipuðum hætti og álfyrirtækin. Skussar kunna lítt með viðkvæm matvæli að fara, þeir hafa engin markaðssambönd erlendis, og afleiðingin verður sóun verðmæta.
Það ber vitni um algert dómgreindar-
leysi félaghshyggjustjórnarinnar að fjölga afætum á ríkisjötunni, ráða eftir flokksskírteini, láta silkihúfurnar áfram fara sínu fram með gagnslitla vinnu sína í ráðuneytum og stofnunum ríkisins á meðan blýantsnögurum líðzt að brjóta niður grunnþjónustu velferðarkerfisins, sem snýr að umönnun við skjólstæðingana, sem höllustum standa fæti í þjóðfélaginu.
Það er algerlega siðlaust af félagshyggjuforkólfum að ætla á sama tíma að kasta 0,5-1,0 milljarði kr í vanbúið Stjórnlagaþing. Aðferðafræði þessi til að semja nýja Stjórnarskrá er andvana fædd og allt of dýr. Einfaldara hefði verið að fá valinkunna háskólamenn til starfans, t.d. lögspekinga, heimspekinga, stjórnmálafræðinga og siðfræðinga, sem leggja mundu tillögur sínar fyrir Alþingi.
Alþingi þyrfti að koma málum þannig fyrir, að stjórnarskráarbreytingar yrðu lagðar beint fyrir þjóðina, en ekki eins og nú er, að tvö Alþingi samþykki með þingkosningum á milli. Þannig mætti jafnvel leggja fleiri en einn kost fyrir þjóðina.
Á sama tíma og velferðarkerfið er rústað, er fleygt 7 milljörðum króna í glannaför til Brüssel, sem engu mun skila, nema skömminni. Þetta er algerlega óverjanlegt.
Gríðarlegur óbeinn kostnaður hlýzt af þessu feigðarflani félagshyggjunnar, því að embættismannakerfið er undirlagt af aðlögun, sem nú er lætt inn bakdyramegin og ekki var minnzt á einu orði, þegar Alþingi fjallaði um umsóknina í júlí 2009. Félagshyggjumenn eru, eðli málsins samkvæmt, hallir undir forræðishyggjuna, sem tröllríður húsum í Berlaymont. Þeir telja stjórnarhættina á Íslandi munu batna, ef fleiri blýantsnagarar véla um málefni landsins. Ekki er nóg með, að blýantsnagarar Brüssel séu skilningsvana á aðstæður hér og þarfir almennings, heldur eru þeir hallir undir aðra og mun valdameiri hagsmuni en hagsmuni okkar Íslendinga. Bezt er, að valdið sé hjá fólkinu sjálfu.
Við fjárlagagerðina þarf að taka upp núllgrunnsáætlunargerð, þar sem hver útgjaldaliður er rýndur, en ekki aðeins horft á útgjöld síðasta árs. Þessi aðferð hvetur til að skoða, hvort spara megi ríkisútgjöld með öðru fyrirkomulagi á framkvæmdinni. Með steinrunnum aðferðum félagshyggjunnar, þröngsýni og fordómum, næst enginn árangur. Afleiðingin er hrun innviðanna, eins og nú blasir við.
Sé nútímalegri stjórnunarþekkingu beitt, bæði á útgjalda-og tekjuhlið fjárlaga, er auðvelt að ráða við vandann á tveimur árum, þannig að ráðast megi gegn stærsta vandanum, sem er feiknarleg skuldasöfnun ríkis og sveitarfélaga og ráða bug á honum á um einum áratugi. Það er þegar fullreynt, að félagshyggjan ræður hvorki við fjárlagavandann, skuldavandann né peningamálastjórnunina. Þetta grunaði marga, en reynslan ætti að hafa sannfært flesta um, að félagshyggjuleiðin er ófær og hefur aldrei verið annað en draumórar letingja, sem breyttust í martröð.
8.10.2010 | 13:44
Vendipunktur
Þjóðverjar nefna endursameiningu Þýzkalands 1990 "die Wende", og 3. október fögnuðu þeir tvítugsafmæli endursameinaðs Sambandslýðveldis. Með svipuðum hætti má segja, að vendipunktur hafi orðið í viðreisn íslenzks atvinnulífs, þegar alþjóðlega iðnfyrirtækið Rio Tinto Alcan (RTA) tilkynnti haustið 2010 um nýjar fjárfestingar í Straumsvík fyrir tæpa 60 milljarða kr. Hér var ísinn brotinn eftir frystingu fjármálageirans á fjárflæði til landsins eftir Hrun, nema með tilstilli Alþjóða gjaldeyrissjóðsins .
Í grundvallaratriðum er hér um þrígreint verkefni að ræða. Í fyrsta lagi að styrkja innviði raforkuflutnings til allara kerskálanna þriggja. Þetta er nauðsynlegt af tveimur ástæðum.
Í fyrsta lagi vegna öldrunar rafbúnaðarins, en elzti hluti hans er nú orðinn 41 árs gamall og ákveðinn rofabúnaður jafnvel 10 árum betur. Af þessum ástæðum munu bilanalíkindi fara ört vaxandi að óbreyttu álagi. Dregið verður úr álagi á gamla búnaðinn, þegar nýr verður tekinn í notkun, til þess að lengja endingu hans enn meir.
Gjörnýting framleiðslutækjanna er stefna fyrirtækisins, og verksmiðjan framleiðir nú 27 % meir en hún var hönnuð fyrir. Þetta hefur verið gert á kostnað rekstraröryggis, og fyrsti hluti fjárfestinganna er til mótvægis við það. Nýr búnaður mun veita ráðrúm til stórviðhalds á gamla búnaðinum í þeim mæli, sem það verður talið hagkvæmara en endurnýjun.
Annar þáttur fjárfestinganna er fólginn í byltingu straumleiðarakerfis elztu kerskálanna tveggja til að gera kleift að auka strauminn um 320 ker. Grundvöllur þessa er líkangerð og viðamiklir straum-og segulsviðsútreikningar í Rannsóknarmiðstöð RTA í Evrópu. Jafnframt verða innviðir verksmiðjunnar lagaðir að meiri afköstum og framleiðni. Þetta þýðir m.a., að bæta þarf við nýjum rafbúnaði, og verða þannig tveir nýir 200 MVA aðalspennar í aðveitustöð ISAL, sem verða öflugustu spennar landsins.
Þriðji áfanginn verður fólginn í umbyltingu framleiðslunnar úr fljótandi áli kerskálanna. Steyptir verða sívalningar, og þeir glæddir í rafhituðum glæðiofnum. Þessi framleiðsla er arðsamari og veitir meiri markaðsstöðugleika en völsunarbarrarnir.
Jafnhliða skipulagningu og fjármögnun á þessu verkefni í Straumsvík hefur RTA samið um orkuafhendingu til svo langs tíma við Landsvirkjun, að arðsemi fjárfestinganna er tryggð. Jafnframt er atvinnuöryggi a.m.k. 2000 starfa, beinna og óbeinna, tryggt.
Þessi orkusamningur gaf Landsvirkjun byr í seglin á erlendum lánamörkuðum. Deutsche Bank reið á vaðið og keypti skuldabréf af Landsvirkjun við um 6,5 % vöxtum. Vextirnir þykja nú fremur háir, en arðsemi fjárfestinga Landsvirkjunar verður áfram há, og fjárfestingar hennar bera þessa vexti vel. Gegnumbrot Íslendinga á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefur átt sér stað fyrir tilverknað vendipunktsins, sem minnzt var á í upphafi. Þjóðverjar reynast oss enn sem fyrr haukar í horni.
Hvorugt erlendu fyrirtækjanna, sem hér hafa verið nefnd til sögunnar, eru góðgerðarstofnanir. Þau þekkja hins vegar Íslendinga af verkum þeirra. "Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá."
Mjór er mikils vísir. Ofangreindar fjárfestingar þarf að tífalda á næstu fimm árum til að koma íslenzka hagkerfinu á skrið. Nú á að láta kné fylgja kviði. Raforkunotkun landsins nam árið 2009 um 16,8 TWh (terawattstundir). Það er engin goðgá, að framleiða megi 50 TWh/a, ekki sízt, ef djúpvinnsla jarðvarmans tekst, og þess vegna er hægurinn á að þrefalda núverandi raforkuvinnslu með sjálfbærum og afturkræfum hætti.
Þetta mun lítil áhrif hafa á aðra landnotkun vegna víðernis landsins, en fróðlegt verður að sjá, hvernig fjallað er um þetta í svo nefndri "Rammaáætlun" um nýtingu og verndun auðlinda. Skýrslan mun vera nýjasta deiluefni algerlega óhæfrar ríkisstjórnar. Nú er ekki rétti tíminn til að hengja sig í stjórnmálastefnur til hægri eða vinstri, heldur verða hæfileikar að ráða því, hverjir verða settir til verka í stjórnarráðinu. Ráðherrar vinstri stjórnarinnar hafa nú svikið öll sín kosningaloforð, svo að engan veginn verður séð, hvaða erindi þeir eiga lengur í Stjórnarráðið.
Tími er kominn til að bretta upp ermarnar og að spýta í lófana á öllum vígstöðvum.
9.9.2010 | 21:19
Frá Rentukammeri til Ráðstjórnar
Verstu hrakspár um vinstri flokkana við stjórnvöl þjóðarskútunnar íslenzku hafa nú rætzt. Þessi ríkisstjórn gæti verið sú lakasta frá upphafi Heimastjórnar 1904 og jafnvel mun lengra aftur, mælt í þróun landsframleiðslu á hennar valdaferli miðað við nágrannaþjóðir okkar. Þetta er mælikvarði, sem segir til um, hvort hagur landsmanna versnar eða batnar miðað við aðrar þjóðir. Skemmst er frá því að segja, að nýbirt gögn Hagstofunnar sýna, að hagkerfi landsins stefnir í "alkul", og skyldi engan undra eftir aðfarir afturhaldsins. Ferill ríkisstjórnarinnar er ein samfelld hrakfallasaga.
Vinnubrögðin eru enda afleit, sinnuleysið, doðinn og döngunarleysið við viðreisn efnahagslífsins er hræðilegt. Dæmin um spillta og myrka stjórnarhætti eru legíó og spanna bankasýslið, skipan í stjórnir á vegum ríkisins, ráðningar í ráðuneyti og stofnanir, ólýðræðislegar ákvarðanir um stórmál eins og fullveldisframsal til framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs ESB (Evrópusambandsins) auk Evrópuþingsins og Evrópudómstólsins og nú síðast flausturslegt frumvarp um Stjórnarráð Íslands.
Þá má ekki gleyma hörmulegri hagsmunagæzlu í Icesave-málinu og síðan handjárnaðri lögfestingu landráðasamnings um ríkisábyrgð á Tryggingasjóði bankastofnana, sem þjóðin rifti glæsilega í þjóðaratkvæðagreiðslu að undirlagi forseta lýðveldisins þann 6. marz 2010.
Sönnunin um getuleysi vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur við viðreisn efnahagslífsins kom nú í byrjun september 2010 við birtingu Hagstofunnar á þróun VLF (verg landsframleiðsla) á 2. ársfjórðungi 2010. Fjármálaráðherra hafði gumað af, og forsætisráðherra étið upp eftir honum, að botni efnahagslægðarinnar væri náð á Íslandi. Það reyndust innantómar fullyrðingar, sem sýna, að hvorugt þeirra skötuhjúanna ber hið minnsta skynbragð á efnahagsmál landsins. Hvorugt er til nokkurs nýtt á þessu sviði, enda vill hvorugt þeirra nokkuð af lögmálum hagkerfis vita. Þau lifa í sjálfsblekkingu forræðishyggjunnar, sem reist er á löngu afsönnuðum villukenningum um handstýringu hagkerfisins.
Hér skal setja fram þá kenningu, að lélegri árangur við hagstjórn landsins hafi enginn ráðherra náð, sem vélað hefur um fjármál landsins, síðan á dögum Rentukammersins í Kaupmannahöfn forðum daga en núverandi fjármálaráðherra. Það er reyndar athugunarefni hagspekinga, hvort nokkru sinni í sögu landsins hafi orðið jafnmikill samdráttur 7 ársfjórðunga í röð síðan í Móðuharðindunum 1783-1785.
Má með sanni segja, að vinstri stjórnin sé völd að móðuharðindum af mannavöldum, því að í flestum löndum er hagvöxtur 2010 dágóður, en hér hefur ríkt samfelldur samdráttur síðan á 4. ársfjórðungi 2008.
Þegar samsetning samdráttar á 2. fjórðungi 2010, sem nam 3,1 % frá 1. fjórðungi, er skoðaður, verður deginum ljósara, að um heimatilbúinn vanda ráðstjórnarinnar er að ræða; kreppan er bein afleiðing stjórnarstefnunnar, aðgerða og aðgerðaleysis, og er geigvænlega afleiðingu afturhaldsstefnunnar að sjá á grafinu um hlutfall atvinnulausra af fólki á íslenzka vinnumarkaðinum 2007-2010 hér að ofan.
- einkaneyzla dróst saman um 3,1 %. Ástæðurnar eru m.a. hækkanir Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, á bæði tekjutengdum sköttum og neyzlusköttum, og minnkandi framboð atvinnu, t.d. vegna atvinnufjandsamlegrar skattastefnu og fjandsemi Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, í garð atvinnusköpunar, auk vingulsháttar iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, sjá skuggalega þróun atvinnuleysis á grafinu hér að ofan.
- fjárfesting dróst saman um 4,7 %. Ástæðurnar eru moldvörpustarfsemi, sem ríkisstjórnin hefur, illu heilli, rekið gegn íslenzka sjávarútveginum. Ríkisstjórnin hefur gert sig seka um að grafa undan undirstöðuatvinnuvegi landsins með þeim afleiðingum, að svo mikil óvissa hefur skapazt um framtíð greinarinnar, að stjórnendur og eigendur treysta sér ekki til að fjárfesta. Þetta verður að flokka sem skemmdarverkastarfsemi ráðstjórnarinnar gegn einkaframtakinu, en hún vill þjóðnýta greinina, koma hér á bæjarútgerðum að nýju og niðurgreiða greinina að hætti ESB. Ríkisstjórnin áttar sig ekki á, að útgerðirnar eru að afla hágæða matvæla, sem afhenda verður samkvæmt pöntun á tilsettum tíma á tilteknum stað. Ferlið er í raun að verða við kröfum viðskiptavina og krefst stöðugleika, ef ekki á illa að fara, og er miklu flóknara en einvörðungu að draga bein úr sjó, þó að rétt vinnubrögð við það krefjist líka mikillar þekkingar. Þá hefur afturhaldið í Stjórnarráðinu lagt stein í götu erlendra fjárfesta eftir mætti, þvælzt fyrir og stórskaðað trúverðugleika íslenzkra viðsemjenda með framkomu sinni, t.d. í skattamálum, hvort sem um ræðir rafskatt, tekjuskatt eða virðisaukaskatt.
- samneyzla jókst hins vegar um 1,0 %. Það er algert hneyksli að auka samneyzluna með erlendum lánum, eins og tvímælalaust á sér stað með dúndrandi halla á ríkissjóði. Ríkisstjórnarviðrinið gerir nákvæmlega ekkert af viti. Það tefur viðreisnina, og mun gera hana enn sársaukafyllri. Fjármálaráðherra reynir samt að blekkja Alþingi með fullyrðingum um, nýir skattar virki lítt íþyngjandi.
- útflutningsverðmætin jukust um 2,8 % að raunvirði, og innflutningurinn minnkaði um 5,1 %. Ytri skilyrði eru mjög hagstæð, en ríkisstjórnin ræður engan veginn við viðfangsefnin, þ.e.a.s. hún vinnur allt með öfugum klónum, fer vitlaust að öllu, sem hún kemur nálægt, stundar snarvitlausa forgangsröðun viðfangsefna; er í fáum orðum sagt óhæf til að stjórna landinu.
Myndin hér til hægri sýnir verðbólguþróunina á Íslandi sem 12 mánaða meðaltal 2007-2010. Árið 2009 varð verðbólguskot vegna hækkandi innflutningsverðs í kjölfar hruns fjármálamarkaðarins, sem leiddi til helmingunar á verðgildi gjaldmiðilsins, og árið 2010 annað minna vegna skattahækkana. Ríkisstjórninni varð ekkert ágengt við að styrkja krónuna í sessi 2009, og lánshæfi landsins er nú í ruslflokki. Það er fyrst árið 2010, að krónan er tekin að braggast vegna mjög hagstæðra vöruskipta við útlönd og mikilla erlendra lántaka Seðlabanka fyrir brösuglega milligöngu AGS, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, sem gefur ríkisstjórninni langt nef hvað eftir annað. Þrátt fyrir, að öll þessi upptalning hagstærða bendi til hættu á verðhjöðnun, sem er illvígt kreppuástand, viðheldur Seðlabankinn tiltölulega háum vöxtum á sama tíma og seðlabankavextir eru víða um og undir 1 %. Seðlabankinn vantreystir augsýnilega ríkisstjórninni til að gera nauðsynlega uppstokkun á ríkisfjármálunum.
"Landið tekur að rísa" er yfirskrift greinaflokks hugstola fjármálaráðherra um efnahagsþróunina á Íslandi, sem út kom skömmu áður en Hagstofan birti hagtölurnar, sem hér hefur verið vitnað til. Innihaldið reyndust eintómir hugarórar hrakfallabálks, sem ræður engan veginn við viðfangsefni sín í fjármálaráðuneytinu, og mun aldrei gera. Á meðan hann er þar verður enginn viðsnúningur. Hann er kolfallinn á prófinu og hlýtur lægstu einkunn, sem nokkur maður, sem vélað hefur um fjármál íslenzka ríkiskassans, hefur hlotið, og eru rentukammersmenn Danakóngs þá meðtaldir.
Viðskipti og fjármál | Breytt 11.9.2010 kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.9.2010 | 14:31
Langavitleysan lafir enn
Ríkisstjórninni eru ótrúlega mislagðar hendur. Hún stundar einvörðungu heimskulegar leiksýningar, lýðskrum, naflaskoðun og bjálfalegt sjálfshól. Fjármálaráðherra gumar af, að botninum sé náð. Tveimur árum eftir alþjóðlega fjármálakreppu og tæpum tveimur árum eftir hrun útbólginnar svikamyllu furðuverks íslenzkra spákaupmanna í fjármálageiranum, hjakkar íslenzka efnahagskerfið í sömu förunum, sem er einsdæmi, eins og fram kemur með talnagögnum hér að neðan. Verri ríkisstjórn er ekki að finna í þróuðum ríkjum.
Hagstofan hefur birt gögn, sem sýna, að fjármálaráðherra fer með fleipur eitt. Þess vegna komu þau ummæli forsætisráðherra afturhaldsins lítt á óvart, að nú væri ríkisstjórnin farin að huga að því að koma á laggirnar nýrri ríkisstofnun, Þjóðhagsstofnun, til að matreiða ritskoðaðar upplýsingar ofan í lýðinn. Hinír afstyrmislegu stjórnarhættir á Íslandi árið 2010 minna á alþýðulýðveldi Austur-Evrópu á dögum Kremlarbóndans frá Georgíu, Jósefs Djugaschwilis.
Myndin með hagvaxtarstólpum 2007-2009 hér til vinstri sýnir hrikalegan samdrátt í efnahagskerfi Íslands á síðasta ári, og tölur Hagstofunnar sýna nú, að enn á árinu 2010 er efnahagssamdráttur. Þetta er þvert á innantóma fullyrðingu fjármálaráðherra um hagvöxt, sem augljóslega hefur ekkert vit á því, sem hann á að að fjalla um í ríkisstjórninni. Verri fjármálaráðherra hefur landið aldrei haft, þó að farið sé aftur til daga kammerráðsins danska. Þessi samdráttur á Íslandi árið 2010, þó að minni sé en árið á undan, er skilgetið afkvæmi Steingríms J. Sigfússonar og stjórnmálaflokks hans, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Þau hafa drepið hagkerfið í dróma með hrikalegum skattahækkunum, sem engu hafa skilað í ríkissjóð, og með því að þvælast fyrir öllum erlendum fjárfestingum, sem borið hefur á góma hér að fá til landsins.
Myndin hér til hægri með stólpunum 2009-2011 sýnir mun minni samdrátt annars staðar árið 2009 og hagvöxt þegar árið 2010. Þetta sýnir, hversu mjög Íslendingar dragast nú aftur úr öðrum þjóðum. Þetta er gjaldið, sem fólk greiðir fyrir að lyfta steinrunnum vinstri flokkum í valdastóla. Það mun taka taka nokkur ár að vinna upp afspyrnu slæma stjórnarhætti hérlendis.
Myndin hér til vinstri sýnir beina afleiðingu afturhaldsstefnu vinstri stjórnarinnar í prósentum atvinnuleysis af vinnumarkaðinum, og þó er landflóttinn ekki inni í þessu grafi. Að honum meðtöldum næmi fjöldi atvinnulausra á Íslandi yfir 25 þúsund manns. Langtímaatvinnuleysi er að verða að mesta þjóðfélagsböli á Íslandi. Þetta vandamál er skilgetið afkvæmi kolrangrar stefnu í ríkisfjármálum og fjandsemi í garð athafnalífsins. Eins og grafið um atvinnuleysi á Íslandi ber með sér, fer það vaxandi og verður næsti vetur óbjörgulegur með sótsvart afturhald hangandi aðgerðarlaust í brúnni á strönduðu skipi. Þessu verður að linna.
Eins og sést á gröfunum tveimur hér til hægri, er aukning atvinnuleysis mun hægari á evru-svæðinu en á Íslandi, og Þjóðverjum hefur tekizt, með því að herða sultarólina, að snúa vörn í sókn. Þessi þróun, sem er Íslandi mjög í óhag, á sér stað þrátt fyrir mjög hagstætt gengi íslenzka gjaldmiðilsins fyrir útflutningsgreinarnar, en þær hafa bjargað landinu frá gjaldþroti. Þetta kemur fram á næstu mynd.
Þrátt fyrir dágóðan vöruskiptajöfnuð er viðskiptajöfnuður landsins samt enn óhagstæður. Á meðan svo er, er ekki að búast við mikilli styrkingu gjaldmiðilsins. Það mun ekki geta gerzt án mikils innstreymis gjaldeyris til landsins. Heilbrigðast er, að slíkt gerist án áhættu fyrir landsmenn, og lánstraustið mun þá reyndar fylgja í kjölfarið. Þannig er einmitt háttað til með erlendar fjárfestingar í atvinnuvegum landsmanna. Þær útilokar hins vegar afturhaldið, sem nú situr á valdastólunum í Stjórnarráðinu. Viðreisn er útilokuð með vinstri stjórn. Viðundrin verða að víkja. Þá verður unnt að koma hjólum atvinnulífsins í gang aftur. Nóg er komið af ruglinu og tími til að hefjast handa.
7.8.2010 | 13:27
Dansað við úlfa
Iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, fullyrti nýlega í fjölmiðlaviðtali, að aðrir erlendir fjárfestar mundu ekki kippa sér upp við það, þó að Magma Energy hrykki úr skaptinu. Þessi fullyrðing var órökstudd, og hún á sér enga stoð í veruleikanum. Þá má spyrja, hvaða augum Alcoa-menn líti á framkomu iðnaðarráðherra við þá út af Bakkaverkefninu. Sjaldan er ein báran stök.
Framferði ríkisstjórnarinnar er grafalvarlegt og hefur ótvíræð fælingaráhrif. Ríkisstjórnin er skaðvaldur almannahagsmunum og atvinnutortímandi, nema fyrir eigin hlöðukálfa á ríkisjötunni, sem ekkert vinna af almennilegu viti og skapa þess vegna engin verðmæti, nema síður sé. Klúðurstjórnin viðheldur kreppunni.
Til þess eru refirnir skornir hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði og viðlíka mörðum að tefja öll framfaramál í landinu eða að drepa þeim á dreif, þar sem einkaframtakið er annars vegar. Bakkamálið sýndi reyndar, að Samfylkingin hefur lítinn sem engan skilning á nauðsyn iðnvæðingar til að skapa hér traust, evrópskt nútímaþjóðfélag, því að umhverfisráðherra hennar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, hvítabjarnarbani, gerði sitt til að eyðileggja málið með svo kölluðu sameiginlegu umhverfismati.
Nú um stundir háttar þannig til, að eina einkaframtakið, sem dregið getur strandaða íslenzka þjóðarskútu á flot, er erlent. Af einskærri forpokun, fordild og forheimskun mega vinstri grænir ekki heyra á slíkt minnzt. Það er athyglivert, að einu umtalsverðu erlendu fjárfestingarnar á Íslandi eru vesturheimskar enn sem komið er, þ.e. frá Kanada og Bandaríkjunum (BNA). Hvernig víkur því við, að alþjóðleg fyrirtæki Evrópu hafa ekki fjárfest hér neitt að ráði þrátt fyrir EES ? Mundi innganga í ESB og upptaka evru í fyllingu tímans greiða fyrir því ? Það er ekki að sjá, að hin vinstri sinnaða Samfylking sé hrifin af erlendum fjárfestingum. Á hvaða leið er hún eiginlega, ef hún vill fyrir alla muni troða landinu inn í ESB, en er á sama tíma með alls kyns vífilengjur gagnvart frjálsu flæði fjármagns ? Stefna Samfylkingarinnar gengur ekki upp. Hún er í blindgötu og hefur glatað öllum trúverðugleika.
Ísland hefur aldrei efni á slíkum yfirgengilegum hringlandahætti í viðskiptum við erlenda fjárfesta, sem opinberazt hefur undanfarið, og sízt af öllu nú, þegar landinu ríður á skjótri og varanlegri viðreisn atvinnulífsins til að vinna bug á atvinnuleysinu, ná jafnvægi í ríkisbúskapinum, auka gjaldeyristekjur þjóðarbúsins til að greiða niður erlendar skuldir og að skjóta stoðum undir traustan hagvöxt öllum til hagsbóta.
Samskipti stjórnmálamanna í valdastólum og embættismanna þeirra við fjárfesta eru viðkvæm, og oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Í hópi fjárfestanna getur gætt hjarðhegðunar, eins og í öðrum hópum, og verði þeir varir við hringlandahátt eða lítt dulbúna andúð í garð eins, má búast við, að þeir bíði ekki boðanna, heldur leiti annað. Ísland á í harðri samkeppni við mörg önnur lönd um erlent áhættufé, og t.d. lönd, sem óska eftir orkukræfum iðnaði, eru ýmis til, og bjóða þau m.a. orkuverð, sem Ísland getur ekki keppt við. Ísland verður þá að geta boðið eitthvað annað á móti, t.d. úrvals starfsfólk, þróaða innviði, traust stjórnarfar og markaðsaðgengi. Umhverfisvænar orkulindir eru viðbótar kostur.
Traustvekjandi framkoma valdhafa skiptir í þessu sambandi sköpum. Það er t.d. skaðlegt í þessu sambandi, þegar ráðherra, í þessu tilviki Jón Bjarnason, lýsir því yfir, að verja þurfi íslenzkt athafnalíf gegn erlendum fjárfestingum. Hér glittir í þann með horn, hala og klaufir upp úr skurðkjaftinum, en þar mun vera komin afstaða Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til erlendra fjárfestinga á Íslandi í hnotskurn. Það er von, að hrikti í stjórnarskriflinu, þegar svona er í pottinn búið.
Samfylkingin berst í orði kveðnu fyrir bættum stjórnarháttum á Íslandi og kveður bezta ráðið til bættra stjórnarhátta vera að ganga í ESB (Evrópusambandið). Þó er vandséð, að þjóðin þurfi að taka slíkt örlagaskref til að Samfylkingarráðherrar sýni gott fordæmi í þessum efnum. Ráðherrar Samfylkingarinnar eru þvert á móti með asklok fyrir himin og nota aðstöðu sína með óbilgjörnum hætti í þágu hlöðukálfa sinna. Fagmennskan er í sumum tilvikum fólgin í því, að ráðherrann er viðstaddur ráðningarviðtöl ráðningarstofu og getur þannig með nærveru sinni framkallað niðurstöðu með slagsíðu. Í stuttu máli mundu stjórnarhættir Samfylkingarinnar hvergi sóma sér, nema í bananalýðveldi. Hverjum dettur í hug, að þetta ástand mundi batna við inngöngu í ESB ? Ráðherrarnir yrðu þá strengjabrúður Brüssel í öllum hagsmunamálum ríkjasambandsins, en fengju í staðinn að leika lausum hala með frændhygli sína og ofdekur við hlöðukálfa. Á Íslandi yrði tilveran óbærileg öllu heiðvirðu og frjálshuga fólki fyrir vikið.
Það sætir furðu, hversu mjög vinstri grænum hefur tekizt að beygja iðnaðarráðherra afturhaldsstjórnarinnar af leið. Má segja, að hún sé komin í skeifu miðað við það, sem hún lagði upp með í ráðherradómi sínum. Allir vita, að Samfylkingin er eins máls flokkur, þ.e. að troða sálu landsins í poka og fleygja honum inn um gullna hliðið í Berlaymont/Brüssel eru hennar ær og kýr. Þess vegna hefur hún enga stefnu í orkumálum aðra en þá, sem rituð er í sáttmálabók ESB. Þar stendur, að í raforkuvinnslu skuli ríkja frjáls samkeppni og að öll fyrirtæki innan ESB (og þá EES) skuli njóta jafnstöðu í samkeppninni, hvar sem er innan EES, og njóta sömu tækifæra til fjárfestinga. Upphaflega virtist núverandi iðnaðarráðherra "vinna" samkvæmt þessari stefnu, en nú er skeifan staðreynd, þ.e. viðsnúningur. Þessi iðnaðarráðherra mun aldrei leggja grunn að neinum verkefnum, sem um munar fyrir athafnalíf landsins. Hún slær bara úr og í.
Nú segjast formenn Samfylkingar og VG ætla "að vinda ofan af þessari stefnu" og eiga þá við fjárfestingar annarra en opinberra fyrirtækja í orkugeiranum. Forpokun einangrunarsinnanna í VG tröllríður húsum ríkisstjórnarinnar, svo að allt leikur á reiðiskjálfi. Fórnarlamb einokunar í orkuvinnslu verður almenningur nú sem endranær. Þegar rjáfur ríkisstjórnarinnar, en hún er sem fjörulús á tjöruspæni í öllum málum, brotnar, verða framfaraöfl í þessu landi að sameinast um að smyrja athafnalífið í skyndingu með erlendu fé, ekki lánsfé, enda er það illfáanlegt, heldur fjárfestingarfé, og að koma eftirspurn eftir vörum og þjónustu í gang aftur með eftirfarandi hætti:
- Semja við alþjóðlegu álfyrirtækin um nýjar fjárfestingar. Hagur þessara fyrirtækja er nú að vænkast eftir bankahrun, efnahagslægð í kjölfarið og mikla skuldsetningu við fyrirtækjakaup. Spár um álmarkað benda til skorts á áli á markaðinum á næstu 20 árum vegna aukinnar markaðshlutdeildar áls, t.d. í samgöngugeiranum, og þróunar málmfræðinga á nýjum álmelmum.
- Semja um sölu afnotaréttar af orkulindum eða einkaframkvæmd við virkjanir, eins og iðnaðarráðherra mælir með, til að sjá álverunum og öðrum fyrir orku.
- Afnema alla skatta vinstri stjórnarinnar strax og gera áætlun um enn meiri tekjuskattslækkun, er miði að því að laða hingað atgervisfólk, sem flúði kreppu og afturhald, og að hámarka stærð skattstofnsins.
- Ná jafnvægi í ríkisbúskapinum á þremur árum með auknum tekjum frá vaxandi hagkerfi og samkeppni til kostnaðarlækkunar við að veita þjónustu, sem hið opinbera kostar. Dæmi um þetta er stærsti útgjaldaliðurinn, heilbrigðisgeirinn, þar sem snarlega verður að vinda ofan af groddalegum einokunartilburðum sameignarsinnans Álfheiðar Ingadóttur, sem valda mun viðkvæmum innviðum heilbrigðisgeirans og þjóðinni allri stórtjóni, ef svo fer fram sem horfir. Leita má fyrirmynda um þetta innan EES.
- Leggja verður strax fyrir róða fíflagang þann með undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, sem nefndur er "fyrning aflaheimilda" útgerðarinnar, en virkar eins og ofurskattlagning á útgerðina, sem eyðir eiginfé hennar á svipstundu og er þess vegna ígildi þjóðnýtingar, eins og búið er að sýna fram á með óhrekjanlegum, hagfræðilegum rökum. "Fyrning aflaheimilda" er hugarfóstur kaffihúsakomma og annarra afæta á ríkisjötunni án snefils af skynsemi.
- Útgerðin hefur tekið á sig skerðingu aflaheimilda vegna minnkandi hrygningarstofna, t.d. þorsks. Nú er komið að því að snúa við blaðinu með aukningu, sem eitthvað hægir á vexti stofnsins, en stöðvar hann þó ekki að mati Hafrannsóknarstofnunar. Þetta er ekki áhætta, heldur yfirveguð efnahagsleg og stjórnmálaleg aðgerð til stuðnings viðreisn hagkerfisins.
- Stefan Füle, stækkunarstjóri ESB, hefur lýst því yfir, að engar varanlegar undanþágur standi Íslendingum til boða. Ekkert hald er í sérlausnum, þegar farið er með ágreining fyrir Evrópudómstólinn. Þetta sannar reynsla Finna og annarra, sem höfðu skrifað undir samning án skuldbindingar að hálfu samningamanna ESB, er reist væri á Rómarsáttmálanum eða seinni sáttmálum ESB. Því miður gera þessi atriði ESB með öllu ófýsilegt fyrir Ísland til inngöngu. Bezt er, að nýtt Alþingi horfist í augu við þetta strax og feli nýjum utanríkisráðherra að biðja forseta ráðherraráðs ESB afsökunar á frumhlaupi fyrirrennarans um leið og óskað er hlés á viðræðum vegna óvissu um Icesave-deiluna og óvissu um þróun ESB. Síðan fái þjóðin að tjá sig um það í næstu kosningum á eftir, hvort hefja eigi leikinn að nýju eða að afturkalla illa ígrundaða umsókn.
- Engum dylst, að köldu andar til Íslands frá ýmsum ríkisstjórnum Evrópu, jafnvel frá einstökum ráðherrum ríkisstjórnar Noregs, eins og fram hefur komið í Makrílsmálinu, en Evrópuþjóðirnar berjast um veiðihlutdeild í þessum stofni. Svarið við þessu er að afla annarra bandamanna. Kínverjar hafa sýnt okkur vinarþel, t.d. innan AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðsins) og ber að þakka það, svo og Japanir. Það liggur hins vegar beint við að leita til vesturs, til Norður-Ameríku, þ.e. BNA og Kanada, til þjóða, sem aldrei hafa rekið í okkur hornin í líkingu við Evrópuþjóðir ýmsar. Þaðan hafa helztu fjárfestingarnar hérlendis síðustu 20 árin komið, og þar er fjöldi fólks af íslenzku bergi brotið. Í Eystrasaltslöndunum og í Mið-og Austur-Evrópu eru og efnilegir bandamenn. Nauðhyggjan ein rekur okkur í fang kvalaranna. Móta þarf nýja og víðsýna utanríkisstefnu, er tekur mið af hagsmunum okkar í bráð og lengd, en setur ekki öll eggin í eina körfu, sem aðrir halda á en við sjálf.
- Lega landsins reynist enn tromp á hendi. Í þetta sinn eiga í hlut miklar auðlindir í norðurhöfum, t.d. eru taldar þar á umráðasvæði Íslands um 10 milljarðar tunna af jarðolíu undir hafsbotni. Norðmenn eru taldir eiga svipað magn á sömu slóðum. Fylgjast þarf náið með atferli þeirra þar norður frá, en Norðmenn hafa aflað sér gríðarlegrar þekkingar á olíuvinnslu á hafi úti. Við þurfum að vera tilbúin að gera samning við leitarfyrirtæki, þegar tæknin leyfir og markaðir fyrir olíu gera svo dýra vinnslu arðbæra.
- Landbúnaður hefur verið í umræðunni undanfarið. Hér er um að ræða kjarnagrein í íslenzku athafnalífi, og flest bú á Íslandi eru rekin af miklum dugnaði, útsjónarsemi og þekkingu. Þau framleiða hágæða vöru, sem höfundur þessa pistils vill ekki fyrir nokkurn mun skipta á. Kornyrkja fer vaxandi, hana þarf að tífalda á 15 árum og spara þannig mikinn gjaldeyri. Framleiðslu-og markaðskerfi landbúnaðarins er hins vegar niður njörvað í gildandi búvörulögum. Framleiðslukvótinn er hér ekki settur á til að vernda auðlindina, heldur til að hindra offramleiðslu. Hinn tæknivæddi og stórglæsilegi íslenzki landbúnaður þarf nú að hrista af sér þessar viðjar og sækja fram í heimi sívaxandi matarskorts, einnig á meðal þjóða, sem eru að komast í álnir, þökk sé miklum fjárfestingum alþjóðlegra fyrirtækja. Aukin framleiðsla og frjálsari verðmyndun mun leiða til aukinnar framleiðni landbúnaðarins, sem þegar er gríðarleg, neytendum og bændum til hagsbóta.
Viðskipti og fjármál | Breytt 8.8.2010 kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.7.2010 | 17:27
Leiðin til ánauðar
Um þessar mundir rennur fræg bók austurríska hagfræðingsins Friedrich von Hayek út eins og heitar lummur erlendis. Í riti þessu, Leiðinni til ánauðar, er gerð skilmerkileg grein fyrir því, að miðstýring framleiðsluaflanna leiði til ófarnaðar í rekstri fyrirtækjanna og fátæktar almennings, en valddreifing og samkeppni einkaframtaks hins vegar hámarki sjálfbæra nýtingu atvinnutækja, skapi heilbrigðan hagvöxt og bæti almannahag. Þetta hefur afleit reynsla af ríkisrekstri staðfest. Hann ber að forðast eins og heitan eldinn.
Ráðstjórnarríkin, sem voru grundvölluð á samyrkjubúskap og höfðu upprætt einkaeignarréttinn, urðu siðferðilega og fjárhagslega gjaldþrota og sameignarstefnan hrundi þar til grunna. Einkaeignarrétturinn, frjálst framtak og markaðshyggja, hrósuðu sigri. Ríki sameignarsinna voru örgustu fátæktarbæli, og hið sama gildir um þau fáu, sem eftir eru, e.t.v. að Rauða-Kína undanskildu, þar sem reyndar er blandað hagkerfi.
Nú bregður svo við hérlendis, að afturganga sameignarstefnunnar birtist undir heitunum "Attack" og Vinstri hreyfingin grænt framboð. Afturgangan einbeitir sér um sinn að orkugeiranum, þó að orkulindir séu í sameign samkvæmt lögum og aðeins brot af afnotaréttinum í einkaeigu. Orkuvinnslufyrirtækin, eins og önnur fyrirtæki, þurfa fernt: aðföng, mannauð, fjármagn og markað. Sérstaða orkuvinnslufyrirtækjanna er fólgin í mikilli fjármagnsþörf og langri endingu mannvirkja. Málsvarar sameignarfyrirkomulagsins virðast bæði vilja éta kökuna og eiga hana. Það hefur aldrei verið hægt, og arðgreiðslur af virkjun geta ekki hafizt að ráði fyrr en skuldir af henni hafa verið greiddar mörgum árum eftir að starfræksla hófst. Þess vegna hafa arðgreiðslur íslenzkra orkufyrirtækja verið sáralitlar. Stór hluti kostnaðar orkuvinnslunnar, og þar með orkuverðsins, er framan af vegna vaxtakostnaðar fyrirtækjanna, sem að mestu rennur í vasa erlendra fjármagnseigenda.
Viðskiptaáætlun Magma Energy gerir ekki ráð fyrir arðgreiðslum til eigenda á næstu árum, heldur verður framlegð nýtt til frekari fjárfestinga á Íslandi. Þetta er einmitt það, sem Íslendingar þurfa á að halda til að koma hjólum athafnalífsins í gang og til að stækka þjóðarkökuna. Er ekki að efa, að næsta frjálslynda ríkisstjórn, sem mynduð verður í landinu, mun kappkosta einmitt þetta til að efla hagvöxtinn.
Samfylkingarmenn telja sig vera málsvara nútímalegra stjórnarhátta með því að berjast fyrir inngöngu Íslands í ESB (Evrópusambandið). Miðað við stjórnarhætti vinstri grænna er e.t.v. eitthvað til í því. Þó verður að segja alveg eins og er, að stjórnarhættir núverandi ríkisstjórnar Samfylkingar hafa keyrt um þverbak. Þeir vitna um spillingu, og nægir að minna á ráðningu "Umboðsmanns skuldara" og pukrið og potið vegna starfs forstjóra Íbúðalánasjóðs.
Vita Samfylkingarmenn ekki, að sú einokunarstefna í orkugeiranum, sem sameignarsinnar berjast fyrir, stingur algerlega í stúf við stefnu ESB um skipulag, samkeppni og eignarhald orkugeirans ? Þar er kveðið á um samkeppni í orkuvinnsluhlutanum, og ríkið má ekki vera markaðsráðandi á samkeppnimarkaði. Yfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingar um að hindra meirihlutaeigu einkafyrirtækja í orkuvinnslu stangast gjörsamlega á við stefnu ESB.
Á sama tíma berst Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, um á hæl og hnakka við að troða Íslandi inn í ESB. Fær hann ekki mínus í kladdann hjá Brüssel, þegar aðfarir stjórnarinnar í orkumálum berast inn á borð Stefans Füle, stækkunarstjóra ? Sá tók skýrt fram nýlega, að alls engar undanþágur frá lögum og reglum ESB stæðu Íslendingum til boða til lengdar. Þetta er staðfesting á mati andstæðinga ESB-aðildar um þessi efni.
Síðan 1994 hefur Ísland verið á Evrópska efnahagssvæðinu, hvers grundvöllur eru frelsin fjögur, þ.e. frjálsir flutningar fólks, vöru og þjónustu á milli landa og frjálst flæði fjármagns. Með boðaðri skerðingu ríkisstjórnarinnar á frjálsu flæði fjármagns frá EES til Íslands skýtur Samfylkingin sig í fótinn; gott, ef hún skýtur ekki fótinn undan trúverðugleika sínum sem stjórnmálaflokkur með einlægan vilja til aðildar lands síns að tilvonandi ríkjasambandi, ESB. Þegar landbúnaðar-og sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, lýsti því yfir, að verja yrði íslenzkt athafnalíf gegn erlendum fjárfestingum, tók þó fyrst steininn úr. Slíkur málflutningur heyrist aðeins frá Norður-Kóreu nú á dögum.
Fjármálaráðherra "norrænu velferðarstjórnarinnar" heldur sig við yfirborðslegar vísanir til Noregs um eignarhlutdeild ríkis í fyrirtækjum. Norðmenn eru í þeirri einstöku aðstöðu í Evrópu, að ríkið ræður yfir gríðarlegum upphæðum, olíugróða, sem það telur vel varið með fjárfestingu í öflugum fyrirtækjum af ýmsum toga, þ.á.m. í Noregi. Ekkert slíkt á við hér. Þvert á móti er ríkissjóður rekinn á erlendum lánum, og skuldir hans nálgast af þeim sökum að nema heilli landsframleiðslu, VLF. Skuldirnar eru þar með yfir hættumörkum, enda er lánshæfi ríkissjóðs í ruslflokki samkvæmt Fitch. Af þeim sökum, sem hér hafa verið raktar, eru hvorki stjórnmálalegar né fjárhagslegur forsendur fyrir hendi til að stugga við og jafnvel að þjóðnýta einkaeign í orkuvinnslu Íslendinga. Veruleikafirringin ríður ekki við einteyming.
Hvað þýðir þetta fyrir efni þessa máls ? Það þýðir, að verði VG að vilja sínum, munu vaxtagjöld skattborgaranna til útlanda stórhækka, ríkissjóður dregst nær hengifluginu, og ekkert bolmagn verður til framkvæmda í orkuvinnslu né annars staðar. Þetta mun stöðva frekari iðnvæðingu landsins. Með öðrum orðum:
aukin fátækt, stöðnun og landflótti í boði Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.
Ríkisstjórnarflokkarnir fá falleinkunn fyrir framgöngu sína í orkumálum. Það verður að spyrja þjóðina hið fyrsta, hvort hún vilji fara í þessa eyðimerkurgöngu með afturhaldinu, eða hvort hún vill sópa því út í hafsauga með Alþingiskosningum.
Vaðallinn snýst mest um þá moðsuðu, að forðast beri, að arðurinn af orkulindunum lendi í höndum útlendinga. Þeir, sem halda þessu fram um orkufyrirtæki Íslendinga, sem skulda um 600 milljarða króna í útlöndum, hafa annaðhvort ekki kynnt sér málefni orkugeirans af nokkru viti eða þeir tala gegn betri vitund. Hagkvæmast er nú fyrir ríkissjóð að losa um fé, selja eignir, t.d. í orkuvinnslufyrirtækjunum, og grynnka á skuldum í útlöndum. Með þessu lækka vaxtagreiðslur skattborgaranna til útlanda, erlent fjárfestingarfé streymir til landsins, atvinna eykst, hagvöxtur myndast, og ríkið nær jafnvægi á rekstur sinn. Þetta er forsenda þess að lækka skuldabagga hins opinvera erlendis niður fyrir 50 % af VLF, svo að lánstraustið batni og vextir lækki. Þetta er hagsmunamál almennings í landinu.
Þegar orkufyrirtæki í einkaeign taka að skila arði, mun ríkið hirða hluta hans með skattheimtu. Það er ætíð og alls staðar svo, að eigandi fjár, sem hann lánar eða festir í eign, fær af því vexti eða arð, nema skuldunautur lendi í greiðsluþroti eða fjárfesting misheppnist. Ríkið á alls ekki að leggja fé skattborgaranna í áhættufjárfestingar.
Óvissa ríkir um orkuvinnslugetu jarðvarmaorkuvera, og borholur eru viðkvæmar fyrir jarðhræringum í grennd. Einkafyrirtæki nær, að öðru jöfnu, lægri vinnslukostnaði en ríkisfyrirtæki. Ákvarðanataka fyrirtækis með stóra ríkishlutdeild verður mun erfiðari og tregari. Það er ekki hlutverk stjórnmálamanna í Evrópu að hlutast til um rekstur og fjárfestingar orkuvinnslufyrirtækja. Þessi þátttaka ríkisins er með öllu óeðlileg í nútíma þjóðfélagi, og er í andstöðu við reglur Innri markaðar EES.
Nú er mál málanna á orkusviðinu í ESB að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í raforkuvinnslu upp í 20 % árið 2020. Þetta er til að draga úr losun koltvíildis, og hér til hliðar er sýndur kostnaður við þetta með mismunandi aðferðum í GBP/t CO2. Af þessum ástæðum er því spáð, að raunhækkun raforkuverðs muni nema allt að 45 % á þessu tímabili í Evrópu. Í þessu eru fólgin mikil tækifæri fyrir Íslendinga, því að kostnaður við virkjun hérlendis er einvörðungu um 1/10 á við kostnað í Evrópu á hvert MW (megawatt) í endurnýjanlegum orkulindum þar. Þegar afnotaréttur orkulinda hérlendis er seldur, t.d. til 20-30 ára, er rétt að tengja verðið við vísitölu orkuverðs í Evrópu.
Viðskipti og fjármál | Breytt 1.8.2010 kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.7.2010 | 22:28
Sæstrengur
Um allmörg ár hefur lífi verið haldið í umræðu hérlendis um sæstreng frá Íslandi. Því miður hefur ríkisfyrirtækið Landsvirkjun átt þar nokkurn hlut að máli. Hafa þá ýmis viðtökulönd verið nefnd til sögunnar, s.s. Noregur, Þýzkaland, Holland og Stóra-Bretland. Allt eru þetta þó fótalausir draumórar og léleg viðskiptahugmynd.
Til að eitthvað að ráði komi út um móttökuenda sæstrengs, sem er yfir 300 km að lengd, þarf að breyta strauminum úr riðstraumi í jafnstraum áður en hann fer inn í sæstrenginn. Eftir því sem strenglengdin er meiri þarf straumflutningsspennan jafnframt að hækka til þess að flutningstöpin keyri ekki úr hófi fram. Þarna stendur hnífurinn í kúnni. Núverandi jafnstraumsstrengir mestu vegalengda, e.t.v. 600 km, eru olíufylltir og pappírseinangraðir. Slíkir þola ekki að vera lagðir á hið mikla dýpi, sem aðskilur Ísland og t.d. Skotland, en þar fer dýpið í a.m.k. 1000 m. Vegalengdin að landtökustað á Skotlandi er um 1100 km.
Kostnaður við slíkan streng verður gífurlegur, þegar tæknin loks leyfir framleiðslu hans, og töpin verða feiknarleg. Orkusala um slíkan streng mun seint eða aldrei geta keppt við orkusölu til stóriðju, t.d. álvera. Varpað er ljósi á þetta í grein höfundar þessa vefseturs í sumarhefti tímaritsins Þjóðmála, og er tengill að þeirri grein með þessum pistli. Þar er varpað ljósi á þessi sæstrengsmál með dæmi um sæstreng til Færeyja, sem væri tæknilega unnt að leggja nú og sennilega stjórnmálalegur vilji fyrir í báðum löndunum. Um þetta gildir hins vegar hið fornkveðna: "Kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða".
Jafnvel þessi strengur er óarðsamur m.v. núverandi heimsmarkaðsverð á orku, sem markast mest af olíuverði. Afar ósennilegt er, að Færeyingar séu ginnkeyptir fyrir orkukaupum um þennan sæstreng við því verði, sem nauðsynlegt er til að lágmarksarðsemi verði af honum, nema olíuverð hækki verulega, eins og rakið er í greininni, "Gull og grænir skógar".
Það, sem kynt hefur undir þessari glórulitlu sæstrengsumræðu hingað til er andstaðan við orkusölu til stóriðju. Það er hins vegar auðvelt að sýna fram á, að hún er þjóðhagslega mun hagkvæmari en orkusala til útlanda um sæstreng. Þetta helgast auðvitað af þeirri atvinnusköpun, sem á sér stað í landinu við nýtingu orkunnar.
Á tímum, þegar deilur virðast undantekningalítið verða allharðar um hvern einasta virkjunarkost, gefur auga leið, að skapa verður hámarksverðmæti úr virkjuðu afli og framleiddri orku. Þá mun þykja óviðunandi að virkja til útflutnings "hrárrar orku", nema til vina okkar og frænda í Færeyjum, sem þurfa tiltölulega lítla raforku héðan til að losa sig við raforkuvinnslu með olíu.
Hér að ofan var minnzt á tímaritið Þjóðmál. Tímarit þetta hefur á fáeinum árum haslað sér völl sem vettvangur frumlegra og fróðlegra ritsmíða, sem erindi eiga við nútímann, sem oft á tíðum er bundinn í viðjar viðtekinnar og gagnrýnilítillar hugsunar tiltölulega einsleits hóps þokulegra manna og kvenna. Hægt er að kaupa ritið í lausasölu hjá bóksölum, en þægilegast er að gerast áskrifandi hjá Andríki, sem tengill er að hér á síðunni, og fá ritið í póstkassann. Þarf þá enginn "að sitja með skeggið í póstkassanum", en það er orðtak Norðmanna um þá, sem berir verða að vanþekkingu á því, sem þeir ættu að vita betur um.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.6.2010 | 19:52
Stórveldi leitar hófanna
Þann 9. júní 2010 varð allnokkur opinber atburður, kyrfilega sviðsettur. Fulltrúi í stjórnmálaráði miðstjórnar kínverska kommúnistaflokksins var hér með 80 manna fylgd í boði utanríkisráðherra Íslands. Hinn þurftarfreki gamli Trotzky-isti skrifaði undir gjaldeyrisskiptasamning fyrir hönd Seðlabanka Íslands við seðlabanka Kína. Óvíst er, hvaða ávinningur er fólginn í þessum samningi fyrir Ísland, en hins vegar er ljóst, að slíkur samningur getur orðið forleikur að lánalínu og lántökum.
Þá skrifaði hinn nýi forstjóri Landsvirkjunar undir viljayfirlýsingu um fjármögnun Búðarhálsvirkjunar gegn því, að kínverskt verktakafyrirtæki, CWE, öðlist forgang að verkefninu.
Þessum gjörningi hefur verið leikstýrt út iðnaðarráðuneytinu, en dáðleysi og ákvarðanafælni hafa einkennt feril ráðherra Samfylkingarinnar, sem þar situr nú að völdum. Nú gæti hins vegar svo farið, að hún skildi eftir sig sviðna jörð.
Óþarfi er að taka fram, að gjörningar af þessu tagi eru óhugsandi alls staðar annars staðar innan "Festung Europa" eða á Innri markaði Evrópu.
Ljóst er, að Kínverjar hafa gert langtíma áætlun um að öðlast ítök á Íslandi. Kínverskir stjórnmálamenn og embættismenn hugsa ekki í kjörtímabilum, heldur í mannsöldrum. Utanríkisstefna Kínverja er heimsvaldastefna í þeim skilningi, að þeir leggja áherzlu á að ná tökum á auðlindum jarðar, vinna þær úr jörðu eða framleiða landbúnaðarvörur og senda hráefni til Kína til frekari úrvinnslu. Þessi hegðun þeirra er afar áberandi í Afríku, þar sem þeir hafa t.d. keypt mikið land til námugraftrar og landbúnaðar, en þeir láta líka að sér kveða í Suður-Ameríku. Nú stunda 40 % íbúa Rauða-Kína landbúnaðarstörf, en áætlað er að þeim fækki í 24 % á næstu 10 árum. Framleiðni er lág, og Kínverjar óttast matvælaskort, sem gæti valdið miklum innanlandsóróa.
Hvað fyrir þeim vakir hérlendis, er ekki ljóst. Langtíma markmiðið kann að vera að ná tökum á matvælaframleiðslu landsins, en til skemmri tíma beinist áhuginn að orkulindunum og nýtingu þeirra. Í þessu sambandi er vert að minnast, að siglingaleiðin á milli Íslands og Kína mun styttast umtalsvert, þegar norðurleiðin opnast, sem talið er muni verða á þessum áratug. Aðgengi að auðlindum á sjávarbotni, iðnvæðing Íslands og tenging Íslands við markaði ESB kunna og að vekja áhuga þeirra.
Viljayfirlýsingin, sem hinn nýbakaði forstjóri Landsvirkjunar undirritaði, er með algerum ólíkindum og fullkomin fásinna. Yfirlýsingin hlýtur að hafa verið samþykkt af stjórn Landsvirkjunar og er þar með á ábyrgð iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, sem Samfylkingin ber stjórnmálalega ábyrgð á. Þessum ráðherra virðist engan veginn vera sjálfrátt og ómögulegt að sjá, hvaða erindi hún á í ráðherrastól, jafngagnslítil og hún hefur reynzt. Afskipti Samfylkingarinnar af orku-og iðnaðarmálum landsins eru ein samfelld hrakfallasaga. Er skemmst að minnast fáránlegs úrskurðar Þórunnar Sveinbjarnardóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra, um sameiginlegt umhverfismat allra tengdra framkvæmda álveri Alcoa á Bakka við Húsavík. Hefði sá biðleikur ekki verið leikinn, væri öðru vísi umhorfs á atvinnumarkaðinum á Íslandi nú um stundir, og um 100 milljarðar króna í vændum í auknum útflutningstekjum. Dýrir ætla sameignarsinnarnir í Stjórnarráðinu að verða landsmönnum, og mun hið fyrra hrunið verða barnaleikur hjá sjálfskaparvítum vinstri flokkanna við völd.
Þetta síðasta útspil Samfylkingarinnar í orkumálum tekur þó út yfir allan þjófabálk. Verkalýðshreyfingin (ASÍ)hefur fordæmt verknaðinn, og skal taka heils hugar undir þá fordæmingu. Segja má, að betra er heima setið en af stað farið, ef virkja á með kínversku vinnuafli á meðan yfir 20 þúsund Íslendingar hafa ekki vinnu við hæfi. Kínverja má ekki ráða hér til vinnu, ef vinnuafl fæst á Innri markaðinum. Þetta er "Festung Europa".
Kínverjar unnu hér við Kárahnjúkavirkjun og ber ekki að vanþakka framlag þeirra þar, en þá ríkti efnahagsþensla, og ekki fékkst nægt vinnuafl á Innri markaði EES. Þetta er ófrávíkjanleg forgangsregla hins Innra markaðar og með algerum ólíkindum, að ríkisstjórnin hætti nú á hörð viðbrögð frá Evrópu og víðar, þegar okkur ríður á að bæta samskiptin við þessar þjóðir án þess að leggjast þó í duftið og sleikja skósóla "Brüssel-búrókrata", eins og utanríkisráðherra er tamt.
Það verður ekki á Samfylkinguna logið. Ísland er innan "Festung Europa" með kostum þess og göllum, og ESB mun ekki líða það, að kínverskt vinnuafl njóti réttinda til vinnu á Íslandi umfram vinnuafl á innri markaði EES. Þegar horft er til þess með hvaða hætti þessi forréttindi skapast, er ljóst, að gjörningurinn er þar að auki brot á samkeppnireglum Innri markaðarins, þar sem einu fyrirtæki er keyptur aðgangur að verki með lánveitingu eða fjármögnun hins opinbera í viðkomandi landi (Kína) til verkkaupans.
Hér er satt að segja um alveg glórulausan gjörning að ræða og heimskulegan í alla staði. Gjörningurinn, sem viljayfirlýsingin fjallar um, stenzt ekki einfaldasta próf á sviði tilskipana og laga ESB að ekki sé nú minnzt á íslenzk lög og reglur.
Téð viljayfirlýsing er svo vitlaus, að með ólíkindum er, að nokkur hérlandsmaður skyldi ljá nafn sitt við hana. Hún mun þar að auki skaða okkur erlendis, bæði vestan hafs og austan, þar sem menn gjalda mikinn varhuga við ásókn kínverska stórveldisins.
Íslenzka ríkisstjórnin er hins vegar þeirrar gerðar um þessar mundir, að hún telur sér alla viðhlæjendur vini. Allt vitnar þetta mál um ótrúlega skammsýni, þekkingarleysi og dómgreindarleysi, þ.e. óhæfni vinstri stjórnarinnar og trúnaðarmanna hennar. Kostnaðurinn af afglöpum, úrræðaleysi og fordómum vinstri stjórnarinnar er svo hár, að þjóðin hefur ekki lengur efni á, að hún hangi hálfdauð við völd.
24.4.2010 | 22:22
Rætur vandans
Nú hefur rannsóknarnefnd þingsins skilað af sér lærðri ritgerð um orsakir ófara þjóðfélagsins. Ferill nefndar þessarar endurspeglar galla, sem hér eru landlægir, þ.e. vanhæfi og takmarkað tímaskyn. Skilatími nefndarinnar var reyndar bundinn í lög. Hafi þessum lögum verið breytt, hefur það farið fram hjá mörgum. Annars fól dráttur á skilum til 12.04.2010 í sér lögbrot. Þá voru á tímabili áhöld um hæfi eða vanhæfi eins nefndarmannsins vegna þess, sem sumum þóttu vera sleggjudómar í upphafi rannsóknarstarfs. Einn nefndarmanna gegnir stöðu, sem fer með eins konar yfireftirlitshlutverk ríkisbáknsins. Hvorki heyrðist hósti né stuna frá þessu embætti varðandi frammistöðu annarra eftirlitsstofnana með fjármálageiranum. Auðvelt er að vera vitur eftir á.
Í lögum um Umboðsmann Alþingis segir svo: "Ef umboðsmaður verður þess var, að meinbugir séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum, skal hann tilkynna það Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn."
Hér skal setja þá kenningu fram, að sökin á Hruninu og því, hvernig komið er málefnum landsins, liggi hjá Alþingi. Alþingi setur leikreglurnar í þessu þjóðfélagi. Þess vegna berast böndin að Alþingi og vinnubrögðum þess, þegar reynt er að grafast fyrir um rætur hins þjóðfélagslega skipbrots, sem hér hefur orðið. Of margar brotalamir eru í lagasetningunni. Dæmi um þetta eru Baugsmálin svo nefndu. Dómstólar sáu sér ekki fært að verða við kröfum ákæruvaldsins. Í ljósi seinni upplýsinga gefa þau málalok til kynna, að löggjöfin sé gölluð. Seinagangurinn við rannsókn brotamála kann að stafa af lagaflækjum. Engin hemja er, að ákærur skuli enn ekki hafa verið birtar og að enn starfi meintir sökudólgar í athafnalífinu. Afsökunarbeiðni án iðrunar er ófullnægjandi. Dómar verða að ganga, og lögbrjótar að taka út refsingu.
Gríðarlegt flóð reglna rekur á fjörur Alþingis frá Evrópusambandinu, ESB, sem heimtar, að þær séu leiddar í lög í aðildarlöndum Evrópska efnahagssvæðisins, EES. Fullyrða má, að án aðildarinnar að EES hefði ekkert Hrun orðið. Ástæðan er innleiðing fjórfrelsisins með EES, en án frjáls flæðis fjármagns hefði útrásin ekki tekið á sig þá sjúklegu mynd, sem raun varð á, og bankarnir hefðu ekki tútnað út í risavaxin skrímsli. Hér skal þó ei mæla með fjármagnshöftum; þvert á móti ber að afnema núverandi höft strax, en girða verður fyrir æxlismyndun, t.d. með því að skilja að starfsemi fjárfestingarbanka og innlánsstofnana.
Alþingi leiddi hér margt í lög að lítt athuguðu máli. Til að girða fyrir þetta þarf að hægja á lagasetningarflóðinu og vanda betur til verka. Vegna mikilvægis gæða lagasetningar fyrir landsmenn þarf Alþingi að koma sér upp lagastofnun, sem áhættugreinir fyrirmæli ESB, metur kosti og galla lagafrumvarpa og ráðleggur þinginu mótvægisaðgerðir til að draga úr hættu á slysum og annars konar neikvæðum afleiðingum lagasetningar. Þá þarf að grisja lagafrumskóginn og hindra, að ný lög brjóti í bága við eldri lög.
Í raun og veru má segja, að Umboðsmaður Alþingis hefði átt að gegna þessu hlutverki samkvæmt laganna hljóðan um embættið. Það hefur hann augljóslega enga burði haft til að gera, eins og hrikalegir meinbugir á lagasetningu og starfsemi opinberra stofnana hafa leitt í ljós. Vera kann, að heppilegra sé, að sérstök lagastofnun Alþingis hafi með höndum ráðgjöf til að bæta gæði lagasetningar, en Umbinn hafi eftirlit með framkvæmdavaldinu.
Nýlegt dæmi um embættisfærslu fjármálaráðherra hefði átt að framkalla miklu harðari viðbrögð Alþingis, sem hefði átt að draga ráðherrann til ábyrgðar fyrir afglöp í starfi. Fjármálaráðherra sendi yfirlýsingu til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, sem túlka má sem yfirlýsingu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um það, að Íslendingar ætli að tryggja Bretum og Hollendingum greiðslur EUR 20 887 hvers innlánsreiknings með vöxtum. Þetta gerir ráðherrann án nokkurrar lýðræðislegrar umræðu á vettvangi Alþingis, sem er eini aðilinn í landinu, sem skuldbundið getur íslenzka borgara til skattgreiðslna. Jafnframt lætur ráðherrann eins og þjóðaratkvæðagreiðslan í marz 2010 hafi aldrei átt sér stað.
Hér er um að ræða fádæma valdhroka og valdníðslu að hálfu þessa þöggunarráðherra. Það er hneyksli, að Alþingi skuli láta þetta viðgangast. Alþingi verður að taka upp hanzkann fyrir þjóðina, sem tjáð hefur sig greinilega í þessu máli, en ráðherrann hunzar algerlega þann úrskurð. Fyrir slíkt ber ráðherra að gjalda dýru verði. Alþingi verður að reka af sér slyðruorðið og láta Umboðsmann Alþingis fara ofan í saumana á þessum gjörningi.
Alþingi verður að standa betur í ístaðinu en það hefur gert. Hrunið er hægt að skrifa á gjörðir og aðgerðaleysi þingsins. Þess vegna er með eindæmum, að enn skuli sitja í ríkisstjórn sama fólk og sat í ríkisstjórn, er Hrunið varð. Þetta fólk og fleira þar innanborðs er óhæft og ætti að sjá sóma sinn í að taka hatt sinn og staf.
Stóra spurningin er hins vegar, hvernig hægt er að fá Alþingi til að sýna vígtennurnar. Sennilega verður það bezt gert með því að gera þingmenn sjálfstæðari gagnvart stjórnmálaflokkunum. Prófkjör og uppstillingar eru gróðrarstía spillingar. Hvers vegna mega kjósendur ekki sjálfir velja úr hópi þeirra, sem bjóða vilja sig fram undir merkjum stjórnmálaflokkanna eða sjálfstætt ? Til að einfalda þetta má hafa blandað kerfi. Landslista stjórnmálaflokkanna, og þeir, sem vilja, mættu einnig velja tiltekinn fjölda frambjóðenda úr sínu kjördæmi, þvert á stjórnmálaflokka.
Það verður með öllum ráðum að efla sjálfstæði Alþingis. Til starfa þingsins verður að gera mjög háar gæðakröfur, því að velferð landsins veltur á störfum Alþingis.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)