Sæstrengur

Þórshöfn í FæreyjumUm allmörg ár hefur lífi verið haldið í umræðu hérlendis um sæstreng frá Íslandi.  Því miður hefur ríkisfyrirtækið Landsvirkjun átt þar nokkurn hlut að máli.  Hafa þá ýmis viðtökulönd verið nefnd til sögunnar, s.s. Noregur, Þýzkaland, Holland og Stóra-Bretland.  Allt eru þetta þó fótalausir draumórar og léleg viðskiptahugmynd. 

Til að eitthvað að ráði komi út um móttökuenda sæstrengs, sem er yfir 300 km að lengd, þarf að breyta strauminum úr riðstraumi í jafnstraum áður en hann fer inn í sæstrenginn.  Eftir því sem strenglengdin er meiri þarf straumflutningsspennan jafnframt að hækka til þess að flutningstöpin keyri ekki úr hófi fram.  Þarna stendur hnífurinn í kúnni.  Núverandi jafnstraumsstrengir mestu vegalengda, e.t.v. 600 km, eru olíufylltir og pappírseinangraðir.  Slíkir þola ekki að vera lagðir á hið mikla dýpi, sem aðskilur Ísland og t.d. Skotland, en þar fer dýpið í a.m.k. 1000 m.  Vegalengdin að landtökustað á Skotlandi er um 1100 km. 

Kostnaður við slíkan streng verður gífurlegur, þegar tæknin loks leyfir framleiðslu hans, og töpin verða feiknarleg.  Orkusala um slíkan streng mun seint eða aldrei geta keppt við orkusölu til stóriðju, t.d. álvera.  Varpað er ljósi á þetta í grein höfundar þessa vefseturs í sumarhefti tímaritsins Þjóðmála, og er tengill að þeirri grein með þessum pistli.   Þar er varpað ljósi á þessi sæstrengsmál með dæmi um sæstreng til Færeyja, sem væri tæknilega unnt að leggja nú og sennilega stjórnmálalegur vilji fyrir í báðum löndunum.  Um þetta gildir hins vegar hið fornkveðna: "Kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða".

Jafnvel þessi strengur er óarðsamur m.v. núverandi heimsmarkaðsverð á orku, sem markast mest af olíuverði.  Afar ósennilegt er, að Færeyingar séu ginnkeyptir fyrir orkukaupum um þennan sæstreng við því verði, sem nauðsynlegt er til að lágmarksarðsemi verði af honum, nema olíuverð hækki verulega, eins og rakið er í greininni, "Gull og grænir skógar".

SultartangastöðÞað, sem kynt hefur undir þessari glórulitlu sæstrengsumræðu hingað til er andstaðan við orkusölu til stóriðju.  Það er hins vegar auðvelt að sýna fram á, að hún er þjóðhagslega mun hagkvæmari en orkusala til útlanda um sæstreng.  Þetta helgast auðvitað af þeirri atvinnusköpun, sem á sér stað í landinu við nýtingu orkunnar. 

Á tímum, þegar deilur virðast undantekningalítið verða allharðar um hvern einasta virkjunarkost, gefur auga leið, að skapa verður hámarksverðmæti úr virkjuðu afli og framleiddri orku.  Þá mun þykja óviðunandi að virkja til útflutnings "hrárrar orku", nema til vina okkar og frænda í Færeyjum, sem þurfa tiltölulega lítla raforku héðan til að losa sig við raforkuvinnslu með olíu.

Hér að ofan var minnzt á tímaritið Þjóðmál.  Tímarit þetta hefur á fáeinum árum haslað sér völl sem vettvangur frumlegra og fróðlegra ritsmíða, sem erindi eiga við nútímann, sem oft á tíðum er bundinn í viðjar viðtekinnar og gagnrýnilítillar hugsunar tiltölulega einsleits hóps þokulegra manna og kvenna.  Hægt er að kaupa ritið í lausasölu hjá bóksölum, en þægilegast er að gerast áskrifandi hjá Andríki, sem tengill er að hér á síðunni, og fá ritið í póstkassann.   Þarf þá enginn "að sitja með skeggið í póstkassanum", en það er orðtak Norðmanna um þá, sem berir verða að vanþekkingu á því, sem þeir ættu að vita betur um.    


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Bjarni og takk fyrir góðan pistil. Það er mikill ferngur í að fá þessa umfjöllun um tæknileg vandamál varðandi orkuflutning um sæstreng frá fagmanni sem starfað hefur um áratugaskeið  við að breyta raforku í útflutningsvöru.

Ég hef lengi furðað mig á þessum hugmyndum um að selja raforku um svona langan streng með öllum þeim kostnaði og orkutapi sem því fylgir. Endabúnaðurinn til að breyta riðspennu í jafnspennu og síðan aftur jafnspennu í riðspennu er feykidýr og flókinn.  Auk þess þarf hann að vera tvívirkur, ef strengurinn á einnig að geta flutt raforku erlendis frá til Íslands þegar með þarf. Það hækkar kostnaðinn verulega. Rafmagnið sem streymir út um fjarlæga enda strengsins verður því mjög dýrt og ekki samkeppnishæft.

Miklu hagkvæmara er að nýta orkuna hér á landi til að framleiða arðbæra útflutningsvöru. Það skapar atvinnu. Flutningur raforku um sæstreng skapar ekki neina atvinnu eftir að framkvæmdum lýkur.

Ein af röksemdunum fyrir útflutningi raforku um sæstreng er að erlendis séu menn tilbúnir til að greiða miklu hærra verð fyrir "græna orku".  Það er ekki víst að svo verði lengi og eru þess þegar farin að sjá merki varðandi styrki til sólar- og vindorkuvera. Það er allt of áhættusamt fyrir okkur að treysta því að  "grænt rafmagn" verði auðseljanlegt á háu verði í framtíðinni.

"Í upphafi skyldi endirinn skoða".

Ágúst H Bjarnason, 9.7.2010 kl. 08:19

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér kærlega fyrir tilskrifið, Ágúst, sem ég met mikils.  Ég vil líka bera lof á þig fyrir framúrskarandi vefsetur, sem þú hefur alllengi haldið úti mörgum til mikils fróðleiks og yndisauka.  Í fylgiskjalinu, sem ég birti með þessum vefpistli, tók ég dæmi af sæstreng til Færeyja og miðaði þar við flutning aðeins í aðra áttina.  Nauðsynlegt verð fyrir hverja kWh reyndist himinhátt.  Eitt, sem ekki var minnzt á, er, að líklegasta afleiðing sæstrengslagnar til meginlandsins eða Bretlands á rafmagnsverð á Íslandi er sú, að rafmagnsverð til almennings hækki hérlendis, en það er nú hið lægsta á Vesturlöndum, sem ég þekki til.  Þessi hefur orðið reynsla Norðmanna.  Raforkufyrirtækin hillast til að nota mikinn hluta vatnsforðans í miðlunarlónum til útflutnings, sem leiðir iðulega til skorts innanlands og innflutnings á dýrri orku.  Það er glýja í augum sumra út af þessari tengingu íslenzka raforkukerfisins við útlönd, en hún er tæknilega og hagfræðilega algerlega óþörf m.v. hina miklu og jöfnu raforkunotkun áliðnaðarins á Íslandi.

Með góðri kveðju / Bjarni Jónsson

Bjarni Jónsson, 9.7.2010 kl. 11:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband