Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Verður Orkustofnun sjálfstæðari með Landsreglara innanborðs ?

Í Noregi er búið að stofna embætti Landsreglara (Reguleringsmyndighet for energi-RME), eins og þegar sé búið að lyfta hinum stjórnskipulega fyrirvara varðandi Orkupakka #3 í öllum þremur EFTA-löndum EES-samstarfsins.  Embættið er komið á norsku fjárlögin og er einhvers konar viðhengi við norsku orkustofnunina, NVE, en er ekki undir orkumálastjóranum, heldur undir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) og ACER (Orkustofnun ESB).

Ekki er búið að stofna embætti Landsreglara á Íslandi, þó það nú væri, en enn kyndugra fyrirkomulag er fyrirhugað hér en í Noregi, þar sem Landsreglarann á að fella inn í embætti Orkumálastjóra. Sú naumhyggja gengur varla upp fyrir valdamesta embætti landsins á sviði orkumála. Ef hvort tveggja (Landsreglari og önnur viðfangsefni Orkumálastjóra) verður á hendi sömu persónu, verður hún stundum undir lögsögu ráðherra og stundum undir lögsögu ESA/EFTA/ACER/ESB.  Þetta er líklega einsdæmi, þótt víðar væri leitað.  

Í grein Þrastar Ólafssonar, hagfræðings, í Fréttablaðinu 11. janúar 2019,

"Vera með eða ekki",

virtist hann telja, að Orkustofnun yrði sjálfstæðari fyrir vikið.  Hjá Orkumálastjóra hefur þó komið fram, að ekkert vanti upp á sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart ráðuneytunum. Í huga ESB-sinna virðist Ísland fyrst hljóta sjálfstæði við inngöngu í ESB. Þetta er óbjörgulegur hugarheimur, fullur af vanmetakennd gagnvart risavöxnu stjórnkerfi og skilningsleysi á gildi lýðræðis og ákvörðunarréttar sem næst þeim, sem ákvörðunina varðar um.  Er líklegt, að frelsi landsmanna og hagur vænkist við slíkt ?  Nei, af öllum sólarmerkjum að dæma getur innlimun í ríkjasamband ekki orðið til þess.  Þröstur skrifaði þó: 

"Þá gæti þurft að gera Orkustofnun sjálfstæðari en hún er.  Hvað gerist með orkuverð hérlendis, ef svo ólíklega vill til, að íslenzkur orkumarkaður tengist innri orkumarkaði ESB, þá mun þurfa að semja um það, þegar þar að kemur.  Orkupakkinn breytir í engu fullum yfirráðum okkar yfir orkuauðlindinni, um leið og við einir ráðum því á hverjum tíma, hvort orkustrengur verður yfirleitt lagður.  Við höfum öll ráð í hendi okkar."

Þetta er allt tóm vitleysa, eins og nú skal rekja.  Stefnumiðið með Orkupakka #3 var að færa Framkvæmdastjórn ESB völd yfir orkumálum aðildarlandanna, sem dygðu til að koma á nægilega öflugu flutningskerfi raforku og jarðgass á milli landanna til að koma á sæmilegu jafnvægi framboðs og eftirspurnar hvarvetna innan sambandsins, og jafnframt að sjá til þess að setja á laggirnar samræmda orkumarkaði, sem hagnýttu frjálsa samkeppni, svo að orkunotendurnir fengju hagstæðasta mögulega verð á hverjum tíma. 

Þetta er allt saman gott og blessað, en hængurinn á þessu fyrir Ísland er sá, að Íslendingar nota almennt ekki jarðgas (nema í útilegum og í einstaka eldhúsi), og viðskiptakerfi ESB með raforku er m.v., að eldsneytismarkaðir, en ekki náttúran sjálf, eins og á Íslandi, sjái fyrir frumorkuþörfinni.  Þetta misræmi leiðir óhjákvæmilega til þess, að markaðskerfi ESB með raforku getur ekki orðið íslenzkum raforkunotendum til hagsbóta, heldur þvert á móti mundi það einvörðungu virka raforkubirgjunum, virkjanaeigendum og sölufyrirtækjum, til hagsbóta á þeim fákeppnismarkaði, sem verður hér alltaf á raforkumarkaði. Þessu skautar hagfræðingurinn léttilega framhjá, og almannahagur hérlendis liggur þannig óbættur hjá garði. 

Ekki tæki betra við, ef ESB tækist að gera "Icelink" að raunveruleika, því að þá lenda landsmenn í samkeppni við útlendinga um íslenzka raforku.  Það verður "seljendamarkaður", svo að raforkuverð innanlands mun óhjákvæmilega togast í átt að og fylgja sveiflum evrópsks orkuverðs, eins og skýr merki eru um í Noregi.  Þar með fyki einn helzti kostur þess að búa á Íslandi og að stunda þar atvinnurekstur út í veður og vind.

Landsreglarinn gegnir lykilhlutverki hjá ESB við að koma þessu öllu í kring.  Mikilvægir þættir í starfsemi Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytisins munu verða færðir til embættis Landsreglara. Stjórnsýsla þessara mikilvægu mála mun lúta erlendri yfirstjórn, þ.e.a.s. ESA/EFTA að forminu til, en ACER/ESB í raun.  Þetta heitir með ESB-tungutaki "að gera Orkustofnun sjálfstæðari en hún er". Þegar Þröstur skrifar, að "við" munum áfram ráða því, hvort sæstrengur verði hingað lagður, þá á hann í raun ekki við íslenzku ríkisstjórnina eða Alþingi, heldur verður úrslitavald þess máls í raun komið til Framkvæmdastjórnarinnar, sem kært getur allan þvergirðing í þessum efnum hérlendis til EFTA-dómstólsins, eftir að Alþingi hefur leitt Evrópurétt til öndvegis á þessu sviði þjóðmálanna með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.

Elías B. Elíasson, verkfræðingur, varpaði skýru ljósi á þessa stöðu mála í Morgunblaðsgrein sinni, 13. desember 2018:

"Raforkumarkaður Landsvirkjunar":

"Nauðsynlegt er að koma á auðlindastýringu yfir allt landið með þeim hætti, sem Landsvirkjun hefur og taka jarðvarmann þar með.  Ef við síðan ætlum að koma hér á frjálsum markaði, er álitlegast að þróa áfram þann vísi, sem Landsvirkjun kynnti á morgunverðarfundi sínum [haustið 2018] og hafa náið samráð við fyrirtækin á markaðnum.  Samþykkt þriðja orkupakkans mun gera þetta ferli ómögulegt."

Þröstur, hagfræðingur, opinberar skilningsleysi sitt á þessi mál með eftirfarandi skrifum, eða er hann e.t.v. ófær um að gagnrýna nokkuð það, sem úr ranni búrókratanna í Brüssel kemur ?:

"Það er því óskiljanlegt, hvernig hægt er að gera þjóðarógn úr orkupakkanum.  Komið hefur fram sú fullyrðing, að allt sé í lagi að hafna honum.  Ekkert muni gerast.  Það er nú svo.  Þá myndu tveir fyrri orkupakkar að öllum líkindum falla úr gildi, því að þeir mynda eina heild.  Það myndi valda okkur miklu andstreymi innan ESB og EES, kannski endalokum þess samnings."

Hér eru hafðir uppi tilburðir ESB-sinna til hótana gagnvart sjálfstæðri og lýðræðislegri ákvarðanatöku á Íslandi.  Þótt annar orkupakkinn, sem í raun yfirtók þann fyrsta, falli úr gildi, getur Alþingi fest í lög hér, það sem því sýnist ávinningur af að hafa hér í gildi af téðum orkupakka.  Ef EES-samningurinn verður brotinn með einhverjum öðrum aðgerðum gegn Íslandi í kjölfar fyllilega leyfilegrar höfnunar Alþingis á Þriðja pakkanum, þá væri það merki um svo slæman félagsskap, að réttast yrði að binda enda á hann.  Þá tækju við til bráðabirgða viðskiptaákvæði gamla fríverzlunarsamningsins á milli EFTA og ESB og/eða ákvæði WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, á meðan leitað yrði hófanna um nýja, víðtæka fríverzlunarsamninga á milli Íslands og Bretlands og Íslands og ESB.  Áfram yrði Ísland auðvitað í EFTA.

Hugarheimur Þrastar kemur undarlega fyrir sjónir.  Hann spyrðir saman EES-samninginn og aðildina að NATO, sbr hér að neðan.  Honum er þó fullkunnugt um, að á vegum ESB er starfandi vísir að Evrópuher, Leiftursveitin, og uppi er ráðagerð um stofnun alvöru Evrópuhers, sem varizt geti Rússum, Kínverjum og Bandaríkjamönnum, eins og forseti Fimmta lýðveldisins orðaði það svo óhönduglega.  Gangi Íslendingar í ESB, munu íslenzk ungmenni hljóta herþjálfun hjá lautinöntum Bundeswehr, her Fimmta lýðveldisins og öðrum.  Tæpast verður Evrópuherinn til að styrkja samheldnina í NATO, og án Breta verður hann reyndar hvorki fugl né fiskur.

Aðild Íslands að NATO og EES-samninginum eiga ekkert sameiginlegt annað en það, að Ísland og Noregur eru aðilar að báðum samningunum.  NATO-samningurinn er þjóðréttarlegs eðlis til að styrkja öryggi og þar með fullveldi landsins, en EES-samningurinn felur í sér valdframsal til erlendra stofnana, sem hafa bein áhrif á daglegt líf landsmanna framhjá íslenzkum yfirvöldum og dómskerfi.

"Þrátt fyrir hugsanlegt valdaframsal þá styrkir samningurinn fullveldi þjóðarinnar, því [að] hann, ásamt aðildinni að NATO, neglir öryggi þjóðarinnar fast við nágranna okkar beggja vegna Atlantshafs."

Það er ekki heil brú í þessum texta.  Nú er Bretland, sennilega öflugasta herveldi Evrópu, að yfirgefa ESB, en öryggi Íslands haggast ekki hót við það, því að NATO stendur óhaggað.  

ESB-sinnar virðast vera ónæmir fyrir staðreyndum og faglegri röksemdafærslu um áhættuna, sem upptöku ýmissa lagabálka ESB hérlendis fylgir. Það er út af því, að þeir meta fullveldi landsins einskis. Það vanmat er reist á fullkomnu skilningsleysi á hagsmunabaráttu. Þetta á ekki sízt við um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.  Fyrir aðra lesendur en ESB-sinna verður hér klykkt út með tilvitnun í málsvara heilbrigðrar skynsemi í þessum efnum, Elías B. Elíasson, í umræddri Morgunblaðsgrein hans:

"Þegar orkulögin voru sett 2003 og við samþykktum að vera í innri orkumarkaði ESB, grunaði engan, að ESB mundi taka þá stefnu að gera allt svæði innri raforkumarkaðarins að einu verðsvæði og breyta mörkuðunum, svo [að] þeir virki betur í þá átt.  Til að koma þeirri stefnu örugglega fram lætur ESB þjóðþing landanna setja sérstakan yfirmann, landsreglarann, yfir raforkugeirann, utan valdsviðs hverrar ríkisstjórnar, en í reynd með ráðherravald og náin tengsl við ACER.  ESB tryggir síðan með reglugerðum, að landsreglarinn sé fulltrúi þjóðar sinnar í viðræðum, sem jafnvel geta valdið henni verulegum fjárskuldbindingum."

Þetta sýnir, hversu óútreiknanlegt EES-samstarfið er.  EFTA-löndin vita ekkert að hverju þau ganga, þegar þau innleiða Evrópugerð, því að hún getur tekið nýja stefnu, eins og breytingin frá Orkupakka #2 til Orkupakka #3 sýnir.  ACER hefur nú þegar úrskurðað í ágreiningsmálum aðildarlandanna, sem nema tugum milljarða ISK. Í þessu sambandi verður að hafa í huga, að Ísland mun ekki öðlast atkvæðisrétt í ACER án inngöngu í ESB.

"Hráorkan hér, vatn og jarðgufa, getur ekki farið gegnum orkumarkað, eins og eldsneyti aflstöðva Evrópu gerir, og því nær vald landsreglarans einnig yfir vinnslu úr auðlindunum.  Þannig virkar þriðji orkupakkinn hér á landiÞetta fyrirkomulag vegur of mikið að fullveldi okkar, og það er Alþingis að kveða fyrst upp þann dóm.  Þingið á að hafna þriðja orkupakkanum."(Undirstr. BJo.)

Elías hefur lög að mæla hér að ofan.  Það er viðkvæðið hjá þeim, sem eru á bandi búrókratanna um innleiðingu Orkupakka #3, að hann snerti ekki nýtingu orkulinda landsmanna.  Þessu halda þeir fram að óathuguðu máli og hafa ekki áttað sig á, að orkupakkinn snýst líka um afhendingaröryggi, og aðföng virkjananna hafa mikil áhrif á afhendingaröryggi raforku.  Þá hefur verið bent á, að erlend orkufyrirtæki geta hæglega keypt sér aðgang að orkulindunum með því að stofna hér til virkjanafyrirtækja.  Ekki má mismuna eftir þjóðernum við úthlutun virkjanaleyfa.  Ef öll raforkuviðskipti hér utan gildandi langtímasamninga verða sett á frjálsan markað og á meðal kaupenda er öflugur aðili, sem yfirbýður aðra, þá er afleiðingin ekki einvörðungu sú, að hann ryður veikari kaupendum af markaðnum hérlendis, heldur stjórnar hann þá óbeint nýtingu orkulinda landsins.

Líklega hugnast fáum Íslendingum þessi skefjalausi kapítalismi á orkusviðinu, heldur vilja þeir líta á orkuna sem afurð sameiginlegra náttúruauðlinda, sem nýta eigi heimilum landsins og fyrirtækjum til hagsbóta.  Það þýðir, að gæta á mikils hófs í arðsemiskröfum til orkufyrirtækjanna, eins og gert hefur verið fram að þessu, og halda spákaupmennsku með orkuna fjarri.  

 

 

 

 

  


Að skilja ekki - kjarnann frá hisminu

Íslenzka verkalýðshreyfingin hefur að sönnu öðrum hnöppum að hneppa núna en að veita EES-samninginum athygli eða þeirri lagasmíð ESB, sem nú bíður staðfestingar Alþingis, svo að hún rati inn í viðauka samningsins nr IV, sem fjallar um orkumálin.  Íslenzka verkalýðshreyfingin mætti þó að skaðlausu taka sér þá norsku til fyrirmyndar að mörgu leyti, hvað vinnubrögð varðar, ekki sízt í kjarasamningum.  Að gaumgæfa fyrst, hvað er til skiptanna hjá útflutningsatvinnuvegunum, og að láta kröfugerð mótast af því, er ekkert annað en heilbrigð skynsemi.  Að koma með fótalausan óskalista í samningaviðræður hefur á sér yfirbragð fúsks og lýðskrums.  

Norska Alþýðusambandið, LO, og Verkamannaflokkurinn, sem er nátengdur LO (Landsorganisasjonen), hefur frá upphafi EES-samningsins (1993) stutt aðild Noregs að honum. 

Frá samþykkt Lissabonssáttmálans 2009, sem er stjórnarskrárígildi Evrópusambandsins, ESB, hefur virðingarleysi ESB-búrókrata og forkólfa í garð EFTA og tveggja stoða forsendu EES-samningsins orðið meira áberandi.  Þetta hefur leitt af sér kröfur ESB á hendur EFTA ríkjunum þremur í EES (Sviss er fyrir utan) um innleiðingu stórtækra gerða sambandsins í átt að samruna ríkjanna í sambandsríki og einsleita innleiðingu á öllu EES-svæðinu.  Það er að renna upp fyrir norsku verkalýðshreyfingunni, að þetta þýðir iðulega skert réttindi norsks verkafólks, verri lífsafkomu og minna atvinnuöryggi. 

Þetta kom berlega í ljós í vetur, þegar áköf barátta með blysförum í norsku vetrarríki fór fram á vegum almennings gegn samþykkt Stórþingsins á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Norska Alþýðusambandið tók þá  sögulega afstöðu gegn honum ásamt stærstu verkalýðsfélögunum.  Í kjölfarið lá við klofningi í Verkamannaflokkinum út af afstöðu þingflokksins, en landsstjórn flokksins samþykkti að lokum með naumum meirihluta fyrirmæli til þingflokksins um að greiða atkvæði með "pakkanum".  Sú afstaða réði úrslitum á þinginu, en nú er komið annað hljóð í strokkinn. Gerjunin hélt áfram á vinstri vængnum, og nú er talið, að á Alþýðusambandsþinginu næsta, 2022, muni verða samþykkt ályktun um að segja upp EES-samninginum. 

Ef þetta leiðir til stefnubreytingar Verkamannaflokksins í sömu átt, getur innan fáeinna ára myndast nýr meirihluti á Stórþinginu fyrir uppsögn EES-samningsins.  Það eru tíðindi til næsta bæjar, enda mun EES þar með lognast út af. Þá blasir við verkefni fyrir EFTA að fara í samningaviðræður um víðtækan fríverzlunarsamning við ESB.  Ágætis undanfari og æfing verður þá gerð fríverzlunarsamnings EFTA og Bretlands.

  

Engin teikn eru á lofti innan íslenzka Alþýðusambandsins um stöðutöku gegn Orkupakka #3 eða EES.  Samt berjast starfsmenn þess við ýmsa óáran, sem rekja má til fjórfrelsis EES-samningsins um frjálst flæði fólks á milli landa og Schengen samkomulagsins, sem leiddi til opinna landamæra innan EES, sem er veruleg öryggisógn, þegar vitað er, að ytri landamæri EES-eru víða illa vöktuð. Það er vitað og hefur verið sýnt fram á opinberlega, að á vinnumarkaðinum viðgengst svindl og svínarí í talsverðum mæli, sem væntanlega væri ASÍ, lögreglu og skattaeftirliti auðveldara viðfangs, ef Ísland stæði utan EES og Schengen.

Þröstur Ólafsson, hagfræðingur og fyrrverandi starfsmaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, er ósnortinn af göllum hins vanheilaga bandalags embættismanna og fjármálavafstrara, ESB, sem verkalýður Evrópu ber ekki lengur traust til. Hvað skyldi þurfa að ganga á, til að Þröstur Ólafsson missi trú sína á ESB ?   Hann reit lofrullu í Fréttablaðið 11. janúar 2019:  

"Vera með eða ekki".

Skrif þessi vitna ekki um sjálfstæðar rannsóknir höfundarins á efniviðnum og eru líklega óttalegt þunnildi fyrir flesta lesendur, eins og nú skal greina:

"Orkupakkinn er afleiðing EES-samningsins og orðinn hluti hans samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar; sem sagt með okkar samþykki.  Í EES-samningnum er enga undanþágu að finna við því, að orka sé markaðsvara, sem fella má undir regluverk innri markaðsins, hvort heldur hún sé hrein (vatn, vindur, sól) eða unnin úr jarðefnum (kol, olía, gas).

Þröstur gerir enga tilraun til að lýsa því, hvernig á að gera raforku að markaðsvöru í anda ESB á Íslandi, og kannski hefur hann ekki hugmynd um, að þar eru mörg ljón í veginum, sem orðið geta raforkukaupendum á Íslandi dýrkeypt vegna þess, hversu ólíkt íslenzka raforkukerfið er raforkukerfinu, sem markaðskerfi ESB er hannað fyrir.  Bæði lögfræðingar og hagfræðingar úr röðum þeirra, sem tjáð sig hafa um málið og gína við orkupakkanum, virðast skella skollaeyrum við þessu vandamáli. Það má vera almenningi hérlendis áhyggjuefni, því að þetta vandamál mun ekki leysast af sjálfu sér.  Íslendingar þurfa frið fyrir ESB og tíma til að þróa markaðskerfi fyrir raforku, sem viðurkennir nauðsyn auðlindastýringar. Við þurfum svigrúm til að hanna markaðskerfi, sem tryggir hagsmuni orkunotenda, eins og framast er kostur.  Andstæðan við slíka ábyrga nálgun viðfangsefnisins er að demba ónothæfu markaðskerfi ESB yfir landsmenn í algeru hugsunarleysi.  Afleiðingin verður skelfileg fyrir kaupmátt landsmanna og samkeppnishæfni fyrirtækjanna.

Um þetta mál fjallaði Elías Elíasson, verkfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, í Morgunblaðsgrein sinni, 13. desember 2018:

"Raforkumarkaður Landsvirkjunar":

"Form þess markaðar, sem Landsvirkjun er þarna að lýsa [LV undirbýr nýtt markaðskerfi fyrir Ísland-innsk. BJo], er byggt upp á grundvelli þeirrar auðlindastýringar, sem fyrirtækið ástundar í orkukerfi sínu og getur því hentað betur hér en form orkumarkaða í ESB. Það verður hins vegar að segja þá sögu, eins og [hún] er, að þessi markaður [Landsvirkjunar] er hvorki vel virkur í skilningi tilskipunar ESB nr 72/2009 né þjónar hann langtímamarkmiðum ESB, svo [að] Landsreglarinn, sem fylgir með í Þriðja orkupakkanum, getur illa samþykkt þetta markaðsform.  Því svipar meira til markaða Evrópu, eins og þeir voru 2003, þegar Fyrsti orkupakkinn var samþykktur [á Íslandi]."  

Af þessu sést, að það er raunverulegt viðfangsefni að þróa markaðskerfi raforku fyrir Ísland, og slík þróun er í gangi.  Það er nauðsynlegt að gefa henni tíma, og það yrði afdrifaríkt slys, ef Alþingi í flumbruhætti myndi klippa á þessa þróun og setja raforkumarkaðinn hér undir erlenda stjórn, þar sem aðeins ein hugsun kemst að: einsleitni.  Slík einsleitni verður á kostnað skynsamlegrar nýtingar íslenzkra orkulinda og mun koma illa við buddu raforkukaupenda hérlendis.

Rödd skynseminnar í þessum efnum kemur fram í skrifum Elíasar Elíassonar, og hann heldur áfram:

"Það hefur ætíð verið og verður að vera áfram hlutverk raforkufyrirtækjanna hér að tryggja orkuna [til notenda], og það gerir Landsvirkjun fyrir sitt leyti með auðlindastýringu.  Hlutverk Landsreglara er skilgreint af hálfu ESB þannig, að hann getur lítið annað en þvælzt fyrir eða skaðað, þegar reynt er að feta sig áfram að nothæfu markaðsformi, sem tekur mið af auðlindastýringu, eins og Landsvirkjun er að gera.  Landsreglarinn er því óþarfur til allra annarra verka en þeirra, sem kerfisstjórinn Landsnet getur ágætlega unnið án hans."

Þetta er tæknilega grundvallarástæðan fyrir því, að hérlendis ber mönnum að berjast með oddi og egg gegn þessu aðskotadýri, sem ESB reynir að troða upp á okkur gegnum EES-samstarfið.  Þetta er stórmál, því að það varðar nýtingu himnasendingarinnar, endurnýjanlegra orkulinda, og þar með varðar þetta mál grundvallarhagsmuni okkar.  Þeir, sem ekki átta sig á því, hlaupa illilega á sig með skrifum á borð við skrif Þrastar Ólafssonar:

"Tilgangurinn með þriðja orkupakkanum er að styrkja samkeppni með raforku og gas innan EES og gera markaðinn gagnsærri.  Eitt ákvæði lýtur að því að stofna orkustofnun Evrópu.  Í tilskipuninni er ekki að finna neina vísbendingu þess efnis, að ACER hafi nokkurt boðvald yfir íslenzkum íslenzkum orkumarkaði."

Hér er helbert froðusnakk höfundar á ferðinni, sem ekki hefur neina haldbæra þekkingu á þeim efniviði, sem hann hefur glapizt til að fjalla um.  

Nú vill svo til, að Norðmenn hafa þegar sett á laggirnar embætti Landsreglara.  Embættið er  botnlangi á Orkustofnun Noregs, sem ekki heyrir undir Orkumálastjórann, heldur undir ESA, sem fær fyrirmæli frá ACER til Landsreglarans.  Landsreglarinn fær fyrirmæli ACER á bréfsefni ESA, til að svo líti út sem forsenda EES-samningsins, tveggja stoða kerfið, sé haldin í heiðri.

Nú hefur orkuráðuneyti Noregs kynnt drög að reglugerð um Landsreglarann.  Þótt Stórþingið hafi sett það skilyrði fyrir samþykki Þriðja orkupakkans, að völd Landsreglarans skyldu verða eins takmörkuð og EES-samningurinn framast leyfir, er ljóst af drögunum, að norski Landsreglarinn mun fá völd yfir kjarnasviðum norska orkumarkaðarins, og skrif Þrastar um þetta eru þannig túður eitt.  Landsreglarinn verður nýtt stjórnvald, í raun með eins konar ráðherravald, sem framkvæma á tilmæli og kvaðir orkustofnunarinnar ACER.  

Samkvæmt reglugerðardrögunum skal norski Landsreglarinn:

  • samþykkja nýjar orkukauphallir
  • meta fjárfestingaráætlanir Statnetts og veita umsögn í ljósi kerfisþróunaráætlunar ESB
  • gefa skýrslu til ESB, ef Noregur ekki samsamar sig kerfisþróunaráætlun ESB
  • ákvarða gjaldskrár eða aðferðina við að ákvarða þær, ákvarða starfsemi jöfnunarorkumarkaðarins og aðgang að orkuinnviðum á milli landa, og ákvarða aðferðir við að útdeila flutningsgetu þessara mannvirkja til orkuseljenda ásamt því að fastsetja ráðstöfun hagnaðar af þessum mannvirkjum. ESB vill t.d. ekki, að Statnett ráðstafi hagnaði af sæstrengjum til lækkunar flutningsgjalds í stofnkerfi Noregs. Hagnaðinn á að nota til að auka flutningsgetuna enn meir samkvæmt forskrift ESB.
Það má ganga út frá því sem vísu, að fari Statnett og Landsnet ekki að vilja Landsreglarans, t.d. um að reisa flutningsmannvirki frá stofnkerfinu og að endabúnaði sæstrengs, þá muni Framkvæmdastjórnin/ACER kæra þann þvergirðing fyrir ESA.  Hafni sá ágreiningur hjá EFTA-dómstólinum, verður ekki að sökum að spyrja.  Hann mun dæma eftir Evrópuréttinum, sem Alþingi hefur þá innleitt hérlendis á raforkusviðinu.  Samkvæmt sömu reglum er kvöð á Landsnet að fjármagna sjálft nauðsynlega styrkingu flutningskerfisins vegna millilandatenginga.  Það þýðir, að kostnaðurinn, yfir mrðISK 100, mun lenda á raforkunotendum innanlands.
 
Þetta er algerlega ólýðræðislegt ferli, sem leiðir til íþyngjandi kvaða á landsmenn.  Að ræna landsmenn þannig stjórn á eigin orkumálum nær ekki nokkurri átt, er gjörsamlega óviðunandi og er bullandi Stjórnarskrárbrot.  

 

 

 

 

 

 

 


Villuljós Þriðja orkupakkans

Guðjón Sigurbjartsson, fyrrverandi fjármálastjóri Rafmagnsveitu Reykjavíkur, skrifaði grein í Morgunblaðið 1. desember 2018 undir fyrirsögninni:

"Orkupakkinn í stóra samhenginu".

Hann gerir þar að umfjöllunarefni, hverju þarf að breyta á Íslandi til að frjáls samkeppni um rafmagnsviðskipti virki vel.  Hann vitnar í danska hagfræðinginn Lars Christensen, en skilyrðin, sem hann telur upp, eru allsendis ófullnægjandi til að hindra, að viðskiptavinir orkubirgjanna beri skarðan hlut frá borði. 

Skilyrðin, sem þarf að uppfylla til að markaðskerfi með raforku í anda ESB virki notendum til hagsbóta, eru vel þekkt, en þau munu einfaldlega aldrei verða uppfyllt á Íslandi vegna eðlis orkulindanna, því að ESB bannar miðlæga orkulindastýringu, sem er nauðsynleg við íslenzkar aðstæður, ef hlutur notenda á ekki að verða algerlega fyrir borð borinn.  Þessu verða stjórnmálamenn og yfirvöld orkumála í landinu að fara að gera sér grein fyrir.  Rafmagn er ekki eins og hver önnur vara á Íslandi, heldur afurð dyntóttra náttúruauðlinda, sem þarf að stjórna nýtingunni á, ef ekki á illa að fara. Að láta frjálsan markað um stýringu auðlindanna krefst aðhalds. Eldsneytiskerfi ESB-landanna er allt öðru vísi farið en orkulindum náttúru Íslands. 

Guðjón hefur téða grein sína þannig:

"Danski hagfræðingurinn, Lars Christensen, skoðaði ásamt teymi sérfræðinga skilvirkni orkumarkaðarins á Íslandi og gaf út skýrsluna, "Our Energy 2030" í maí 2016 fyrir Samtök iðnaðarins.  Samkvæmt henni þarf þrjár breytingar á okkar raforkumarkaði til að frjáls samkeppni virki vel:

1. Skipta þarf Landsvirkjun upp.  Hún framleiðir um 70 % raforkunnar og er því of markaðsráðandi til að markaðurinn virki fullkomlega.  

Almenningur þarf ekki að eiga orkukerfið til að fá arð af auðlindinni og njóta lágs orkuverðs.  Þjóðin getur fengið sínar tekjur af orkuauðlindunum í formi auðlindarentu og skatta sbr sjávarútveginn."

Við þetta er margt að athuga.  Það er þó engum blöðum um það að fletta, að Landsreglarinn á Íslandi, sem verður eftirlitsaðili með því, að frjáls samkeppni ríki á íslenzka raforkumarkaðinum í skilningi samkeppnislaga Evrópuréttarins, eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, mun ekki linna látunum fyrr en ESA gerir athugasemd við ríkisstjórnina um markaðshlutdeild Landsvirkjunar.  Ríkisstjórn og Alþingi munu standa vanmáttug gagnvart kröfu ESA og að lokum EFTA-dómstólsins um að jafna samkeppnisstöðuna á raforkumarkaðinum; ekkert síður en lög Alþingis frá 2009 um varnir gegn innflutningi skaðræðissýkla í matvælum frá hinum EES-löndunum voru dæmd brot á EES-samninginum af EFTA-dómstólinum 2017.  Þannig verður unnið óhæfuverk á öflugasta orkufyrirtæki landsins, sem stundað hefur hér nauðsynlega auðlindastjórnun til að gæta hagsmuna almennings og verið í stakk búið að byggja upp raforkukerfi landsins í krafti langtímasamninga við erlend framleiðslufyrirtæki.  Með því að höggva Landsvirkjun í spað fer orkulindastjórnun landsins í vaskinn, því að undir ACER er hún óleyfileg, nema innan hvers fyrirtækis. Þetta stóreykur hættu á tæmingu lóna og ofnýtingu virkjaðs jarðgufuforða, enda er markaðskerfi ESB alls ekki sniðið fyrir lokað raforkukerfi með þessum náttúruauðlindum sem ríkjandi orkulindum.  Allar munu þessar hagfræðilegu æfingar auðvitað valda stórhækkun raforkuverðs í landinu, enda eru refirnir til þess skornir að auka arðsemi raforkugeirans, sem sumir hagfræðingar telja of lága.

Það er röng ályktun hjá Guðjóni Sigurbjartssyni, að sala á hluta eða hlutum úr Landsvirkjun til fjárfesta hérlendis eða erlendis og markaðsvæðing raforkuviðskipta með orkukauphöll að forskrift ESB muni leiða til auðlindarentu og lágs orkuverðs til almennings ásamt skatttekjum til hins opinbera.  Þetta þrennt fer ekki saman.  Einkafjármagnið kallar á hærri arðsemi fjárfestinganna en opinber fyrirtæki hafa sætt sig við, eins og hagfræðingar, t.d. á Hagfræðistofnun HÍ hafa bent á.  Þar að auki mun frjáls samkeppni án miðlægrar auðlindastýringar hæglega leiða til tæmingar lóna að vetri og ofnýtingar virkjaðs jarðgufuforða og þar með rýrnunar hans.  Auðlindarenta af nýjum virkjunum fæst auðvitað ekki, nema orkuverðið frá þeim verði hækkað upp fyrir það, sem nægir til að standa undir kostnaði virkjunarinnar.  Að afskriftum loknum fæst auðvitað bullandi auðlindarenta, og það er féð, sem ætlunin er að ráðstafa í varasjóð, Þjóðarsjóðinn.

"2. Fjölga þarf hluthöfum að Landsneti, sem flytur orkuna til kaupenda, til að jafna aðgang orkuframleiðenda að markaðinum.  

Landsvirkjun, sem á núna langstærsta hlutann, getur ráðið mestu um, hvað er framkvæmt við flutningsnetið.  Mikilvægt er, að slíkar ákvarðanir séu teknar út frá heildarhagkvæmni."

Eignaraðilar Landsnets eru 4 orkuvinnslufyrirtæki, og 3 þeirra hafa einnig sérleyfi til raforkudreifingar á sínum athafnasvæðum.  Þau eignuðust Landsnet með því að leggja því til eignir við stofnun fyrirtækisins, Landsvirkjun 65 %, RARIK 22 %, OR 7 % og OV 6 %, en Landsnet fjármagnar sig þó sjálft, m.a. á erlendum mörkuðum.  Landsnet má ekki draga taum neins, heldur eiga allir viðskiptavinir hennar að njóta jafnstöðu á markaði og lúta sama regluverki.  Af sjálfu leiðir, að fulltrúar viðskiptavina mega ekki vera í stjórn kerfisstjórans, og þar sem Landsnet nýtur lögbundinnar einokunaraðstöðu, væri glapræði að hleypa fleiri einkaaðilum í eigendahópinn. 

Af þessu leiðir, að eðlilegast er, að ríkissjóður leysi fyrirtækið strax til sín með útgáfu skuldabréfa.  Ríkisendurskoðun hefur fundið að núverandi fyrirkomulagi, og það er óskiljanlegt, að ríkisstjórn Íslands skuli hafa leitað eftir og fengið undanþágu frá ESB til að varðveita óeðlilegt fyrirkomulag, sem var hugsað til bráðabirgða og er örverpi. Í nágrannalöndunum er reglan sú, að systurfyrirtæki Landsnets eru í ríkiseigu.  

"3. Koma þarf upp spottmarkaði (svo ?) fyrir raforku til þess að laða fram sveigjanlega verðmyndun og nýtingu afgangsorku.  

Þetta varðar t.d. hleðslu á rafmagnsbílum í framtíðinni.  Hleðsla rafbíls getur t.d. verið stillt þannig, að hún fer í gang, þegar verð lækkar í tiltekið verð eða undir morgun, ef það næst ekki."

Það er ekki nauðsynlegt að koma upp uppboðsmarkaði eða orkukauphöll til að nýta afgangsorku í landinu.  Þar nægir, að hver orkubirgir bjóði skilmála sína, t.d. á vefsetri sínu.  Orkubirgjarnir hljóta að sjá sér hag í að selja sem mest af orku og verðleggja hana í samræmi við það, breytilega eftir árstíma, til að auka við notkunina að sumarlagi. 

Ef hins vegar á að beina notendum á mismunandi tíma sólarhringsins, t.d. rafbílaeigendum á tímabil eftir kvöldtoppinn og fram að venjulegum vinnutíma, þá þarf snjallmæli hjá notandanum. Í þeim og uppsetningu þeirra felst mikil fjárfesting, ef skipta á um mæla alls staðar, en í nýjum töflum, og þar sem notkun er mikil (rafhitun, sum fyrirtæki), eru þeir eðlilegir.  Þá er ekki endilega um að ræða að nýta afgangsorku, heldur að bezta nýtingu á innviðum raforkukerfisins, virkjunum, flutningskerfi og dreifikerfi, til að fresta fjárfestingum vegna viðbótar notkunar.  Þá getur verið ódýrara að tengja hleðslutækið við rjúfanlega og fjarstýranlega grein í rafmagnstöflu gegn lækkun taxta í gjaldskrá.  Þá er um samið, að dreififyrirtækið megi hindra eða stöðva notkun á viðkomandi grein, ef hætta verður á yfirálagi einhvers staðar uppstreymis í kerfinu.  

"Styrkja þarf orkuflutningskerfið víða um land með tilkomu sæstrengs.  Fá mætti þann kostnað greiddan hjá sæstrengsfyrirtækinu með eins konar aðgöngugjaldi að flutningskerfinu, ef af yrði."

Það er brýnt verkefni að styrkja flutningskerfi raforku innanlands, hvort sem sæstrengur kemur eður ei.  Brýnast er að tengja Eyjafjörð við Kröflu og Fljótsdal með 220 kV línu og að útrýma flöskuhálsum, sem valda aflskorti hjá fiskvinnslum (mjölverksmiðjum) Norð-Austurlands.  Öllum flöskuhálsum, sem hamla orkuskiptum, þarf að útrýma fyrir 2025, ef markmið  ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum eiga að verða meira en orðin tóm.

Fyrir tengingu um 1200 MW sæstrengs til útlanda við stofnkerfi landsins þarf miklu meiri framkvæmdir. Slík tenging útheimtir tvær 400 kV línur, aðra frá Austurlandi (Fljótsdal) og hina frá Suðurlandi (Sigöldu) og að landtökustað sæstrengsins á Suð-Austurlandi, og gera þarf margháttaðar styrktar- og stöðugleikaráðstafanir með dýrum búnaði.  Sterk tenging á milli Norður- og Suðurlands, t.d. jafnstraumsjarðstrengur yfir Sprengisand, um 500 MW, verður þá óhjákvæmileg fyrir stöðugleika kerfisins.

  Ef Alþingi innleiðir Orkupakka #3 í EES-samninginn og íslenzka löggjöf, þá verður óheimilt að nota tekjur af sæstrengnum til að fjármagna flutningskerfið innanlands, heldur verður að fjármagna þessar miklu framkvæmdir, sem munu nema mrðISK 100-200, með hækkun gjaldskrár Landsnets á notendum innanlands. Þetta gæti þýtt 35 % hækkun gjaldskrár Landsnets umfram það, sem ella væri nauðsynlegt.

 

"Sæstrengur verður ekki lagður, nema í einkaframkvæmd á ábyrgð fjárfesta.  Fjárfestar munu ekki leggja í framkvæmdina, nema stjórnvöld styðji framkvæmdina, því að verkefnið kallar á framkvæmdir við raforkuflutningskerfið og útvegun raforku til að nýta strenginn."

Þetta sjónarmið á aðeins við, á meðan Ísland er utan við Orkusamband ESB (ACER).  Eftir samþykkt Orkupakka #3, sem vonandi aldrei verður, stendur lán frá ESB fjárfestum, íslenzkum eða erlendum, til boða, þar sem sæstrengurinn er nú þegar á forgangsverkefnalista ACER.  Skilyrðið er þó, að Landsreglarinn á Íslandi og í hinu hýsingarlandi strengsins verði sammála um alla tæknilega og viðskiptalega skilmála strengsins.

Er hér verður komið sögu, verður komin orkukauphöll hérlendis, sem verður tengd við orkukauphöll í móttökulandi strengsins, þannig að íslenzkir raforkunotendur lenda í beinni samkeppni við raforkunotendur erlendis við tengingu sæstrengsins.  Versnar þá samkeppnisstaða íslenzkra fyrirtækja og kaupmáttur heimila að sama skapi sem orkuverðið hækkar.  Þetta fyrirkomulag gengur þvert á hagsmuni íslenzks almennings, enda er kerfið hannað fyrir aðra en hann. Hljóta atvinnurekendur og verkalýðshreyfing að geta sameinazt í andstöðu við slíkan óþurftargerning.

  "Þó að verðmæti raforkunnar aukist umtalsvert við opnun nýrra markaða um sæstreng, hækkar verð til 90 % heimila ekki.  Fáir hér munu finna fyrir hækkun raforku aðrir en stórnotendur.  Almenningur mun hins vegar hagnast af auðlindagjöldum og fleiru, ef strengur verður að veruleika."

 Það er undir hælinn lagt, hversu mikið verðmæti íslenzkrar raforku hækkar við þetta.  Verðið fyrir raforkuna inn á endabúnað sæstrengsins ræðst af raforkuverðinu, sem kaupandinn erlendis er fús til að greiða, og frá því verði til kaupanda dregst flutningskostnaður um sæstrenginn og endabúnað hans, sem rennur til sæstrengseigendanna.  Þegar sæstrengurinn hefur verið bókhaldslega afskrifaður, getur raforkuverðið til birgja hér aftur á móti hækkað stórlega. 

Það er alveg út í hött að fullyrða, að raforkuverð til 90 % heimila hækki ekki.  Verðið til allra heimila mun hækka, þótt ekki væri nema bara til að fjármagna nýjar framkvæmdir í virkjunum og stofnlínum og aðveitustöðvum.  Stórnotendur með langtímasamninga munu hins vegar ekki finna fyrir þessu fyrst um sinn, nema þeir þurfi að kaupa viðbótar orku á markaði.  Auðlindagjöldin til ríkisins (Þjóðarsjóðs) munu auðvitað koma úr vösum almennings hérlendis, eins og annarra raforkukaupenda, er fram líða stundir, svo að það er hæpið að færa þau á tekjuhlið almennings. Guðjón Sigurbjartsson bregður þannig upp einskærum villuljósum í sambandi við Orkupakka #3.

"Það fylgja sæstreng ýmsir fleiri kostir. Hann eykur afhendingaröryggi, þannig að ef hér verða náttúruhamfarir, sem gera virkjanir óstarfhæfar, mætti e.t.v. flytja inn orku, þar til úr rætist. Þá bætir strengurinn nýtingu vatnsaflsvirkjana, því að hægt er að flytja inn ódýra næturorku, sem stundum stendur til boða."

Líklega er afhendingaröryggi raforku um sæstreng, eins og "Icelink", minna en nú gerist almennt á Íslandi.  Þess vegna er ólíklegt, að slíkt áhættumannvirki auki almennt afhendingaröryggi raforku á Íslandi.  Þá eru meiri líkur á afhendingartruflun raforku í náttúruhamförum vegna línu- og aðveitustöðvarbilana en virkjanabilana.  Boðaður lendingarstaður aflsæstrengs er á Suð-Austurlandi á áhrifasvæði Vatnajökuls, þar sem a.m.k. er að finna 3 eldstöðvar, sem hafa látið á sér kræla. Katla gæti líka slegið út flutningslínum á Suð-Austurlandi. Þetta gerir að verkum, að það er vart hægt að reikna með nokkurri orkuafhendingu að gagni til Íslands í slíkum náttúruhamförum. Sæstrengur getur jafnvel gert illt verra í þessum efnum, ef menn hafa af óforsjálni lækkað mjög í miðlunarlónum og sett traust sitt á strenginn, en hann eða línurnar að honum bila svo, þegar hæst á að hóa. Slíkt mannvirki veitir falskt öryggi.

Það er slæm viðskiptahugmynd út frá hagsmunum íslenzks almennings að flytja inn rafmagn um sæstreng til Íslands að næturþeli til að selja að deginum hér innanlands.  Sjaldan er nokkurt næturrafmagn fáanlegt í Evrópu á lægra verði en hér ríkir nú allan sólarhringinn, og þegar búið verður að bæta flutningskostnaðinum við um strenginn og hér innanlands, verður það margfalt dýrara en núverandi rafmagnsverð á Íslandi.  Allar hugmyndir í þessa veru eru reistar á stórhækkun raforkuverðs á Íslandi.  Sú hækkun hækkar rekstrarkostnað heimila og fyrirtækja, grefur undan samkeppnisstöðu fyrirtækjanna og getur jafnvel tekið lifibrauðið frá fjölda manns.

"Til að nýta sæstreng þarf að auka orkuframleiðslu um sem nemur tveimur virkjunum á borð við Búrfellsvirkjun eða rúmlega það.  Tilkoma strengsins bætir reyndar nýtingu kerfisins um sem nemur einni slíkri virkjun vegna ódýru næturorkunnar.  Umhverfisvæn orka héðan getur dregið úr notkun meira mengandi orku í Bretlandi"

Búrfellsvirkjun er 270 MW að uppsettu afli og 2300 GWh/ár að vinnslugetu.  Guðjón virðist þannig gera ráð fyrir orkuútflutningi um 5 TWh/ár.  Það er bara helmingsnýting á flutningsgetu 1200 MW sæstrengs.  Ekki er ljóst, hvernig kaup á næturorku frá útlöndum um strenginn geta bætt nýtingu íslenzkra virkjana. Sú nýting getur aðeins aukizt með því að selja meira afl, þegar miðlunarlón fyllast, en til þess þarf að auka aflgetu virkjana, líklega aðallega Fljótsdalsvirkjunar.  Að sæstrengur geti aukið nýtingu núverandi virkjana um 2300 GWh/ár umfram það, sem innlendi markaðurinn getur, að teknu tilliti til orkuskipta og jafnvel vetnisframleiðslu, er útilokað.

Guðjón Sigurbjartsson klykkir út með eftirfarandi, þar sem boðskapurinn er ófélegur:

"Þriðji orkupakkinn varðar reglur um sameiginlegan orkumarkað Evrópu með hagsmuni neytenda í forgrunni. Við höfum tekið skref í átt að markaðsvæðingu orkugeirans og þurfum að ljúka því verki fyrir neytendur í landinu. 

Evrópski orkumarkaðurinn er mikilvægur fyrir frændur okkar Norðmenn og vont að bregða fæti fyrir þá. 

Ef reglur markaðarins liggja fyrir, eru meiri líkur á, að einkaaðilar sýni sæstreng áhuga.  Ef af sæstreng verður, verður það mjög hagfellt fyrir almenning í þessu landi.

Það er því ekkert að óttast við að staðfesta þriðja orkupakkann, heldur mögulegt, að það verði okkur mjög hagfellt."

Þótt Þriðji orkupakkinn kunni að henta íbúum meginlands Evrópu, er ekki hægt að hrapa að þeirri ályktun, að hann henti Íslendingum.  Hér eru aðstæður raforkuvinnslunnar og raforkumarkaðarins svo gjörólíkar, að þvert á móti má fullyrða, að almenningur á Íslandi myndi stórtapa á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.

Almenningur í Noregi hefur miklar áhyggjur af því, að Orkupakki #3 muni leiða til enn frekari hækkana raforkuverðs í Noregi og þar af leiðandi verri samkeppnisstöðu norskra fyrirtækja, einkum orkukræfra framleiðslufyrirtækja, sem að nokkru eru á frjálsum raforkumarkaði, þótt megnið af raforkukaupum þeirra sé samkvæmt langtímasamningum.  Margir óttast, að Landsreglari Noregs, sem er aðeins háður ESA/ACER, muni fetta fingur út í endurnýjun langtímasamninga, af því að meginregla ACER er sú, að öll raforkuviðskipti fari fram í Orkukauphöll.  Þar keppa norsk fyrirtæki um norska orku við fyrirtæki innan ESB vegna millilandatenginganna, sem eru margar og fer fjölgandi. Þessi evrópsku fyrirtæki eru mörg hver betur í sveit sett en norsk fyrirtæki m.t.t. aðdrátta, markaða, launakostnaðar og opinberra gjalda.    

Það er rétt hjá Guðjóni, að innleiðing Orkupakka #3 eykur líkur á, að hingað verði lagður sæstrengur.  ESB/ACER virðist hafa á því áhuga til að krækja í raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, sem mikill hörgull er á um þessar mundir í ESB, svo að nálgast örvæntingu þar á bæ vegna óraunhæfrar markmiðssetningar.  Það er hins vegar algerlega úr lausu lofti gripið hjá Guðjóni, að sala rafmagns úr landi verði "mjög hagfellt fyrir almenning í þessu landi".  Það jafngildir því að flytja vinnu og verðmætasköpun úr landi, og ímyndaður arður af þessum viðskiptum til baka til almennings verður aldrei annað en dropi í hafið hjá þeim gríðarlegu verðhækkunum rafmagns, sem sá sami almenningur mun þurfa að bera.

Trúarjátningunum í garð EES og Orkupakka #3 linnir ekki, en þær eru, eins og önnur trúarbrögð, hvorki reistar á tiltækum staðreyndum annars staðar frá né á rökhyggju.  Þær eru reistar á trú, von og kærleika í garð spákaupmanna, sem hyggjast maka krókinn, eins og t.d. hefur gerzt í Noregi við innleiðingu uppboðsmarkaðar á raforku þar og stækkun markaðarins með millilandatengingunum.  Eins dauði er annars brauð (Eines Tod einem anderen Brot).

 

 

 

 

 

 

 

    

 

 

 

 


Að stinga hausnum í EES-sandinn

Það er háttur margra að bera á borð annaðhvort lofgerðarrullu um kosti EES-samstarfsins eða að lýsa göllunum fjálglega.  Þessi aðferðarfræði er haldlaus á 25 ára afmæli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið-EES, því að þar er um æ flóknara fyrirbæri að ræða.  Þá eru ekki margir hérlendis, sem hafa lagt sig eftir valkostum Íslendinga við EES-samninginn, sem þó er nauðsynlegt innlegg í umræðuna um veginn framundan í ljósi stöðunnar í Evrópu og reynslunnar af EES-samstarfinu.  Þetta mat verður ekki inntak þessa pistils, heldur skal hér þrengja umræðuefnið til að spanna einn anga EES-samstarfsins, Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.

Tilefnið er greinarstúfur á Sjónarhóli Morgunblaðsins 3. janúar 2019 eftir Ara Guðjónsson, lögmann og yfirlögfræðing Icelandair Group, sem hann nefnir:

"EES-samstarfið í uppnámi".

Það olli vonbrigðum við lestur greinarinnar, hversu þröngt sjónarhornið er og takmarkaður eða alls enginn rökstuðningur í greininni færður fyrir skoðun lögmannsins.  Honum þykir málflutningur andstæðinga innleiðingar Þriðja orkupakka ESB digurbarkalegur, en þeir hafa þó uppi góða tilburði, margir hverjir, til að rökstyðja sín sjónarmið. 

Einkennandi fyrir málflutning skoðanasystkina Ara Guðjónssonar um þetta mál eru fullyrðingar um umdeilanleg lögfræðileg atriði, eins og lögmæti fullveldisframsals m.v. íslenzku Stjórnarskrána og áhrif innleiðing Evrópugerðar eða tilskipunar á gildandi réttarfar hér á landi.  Þá ber mikið á sleggjudómum um viðbrögð samstarfsaðila Íslendinga í EES við höfnun Alþingis á "pakkanum", þótt EES-samningurinn sjálfur fjalli um leyfileg viðbrögð við synjun þjóðþings.  Verður nú vitnað í téða Sjónarhólsgrein, sem hófst þannig:

"Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið um hinn svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins í tengslum við fyrirhugaða innleiðingu Íslands á þeirri löggjöf.  Andstæðingar þessarar nýju löggjafar hafa verið heldur digurbarkalegir í umræðunni og hafa haldið því fram, að regluverkið myndi fela í sér of víðtækt valdframsal á fullveldi Íslands og hafa jafnvel kallað eftir því, að Ísland gangi út úr samstarfinu.  Þrátt fyrir að öll umræða um þessi málefni sé góðra gjalda verð, standast þær fullyrðingar, sem fram hafa komið frá helztu andstæðingum þriðja orkupakkaans enga lögfræðilega skoðun."

Á Evrópuréttarfræðinginum Stefáni Má Stefánssyni, fyrrverandi lagaprófessor, er að skilja, að með Orkupakka #3 verði gengið lengra í framsali fullveldis en samrýmist Stjórnarskránni, enda verði að taka tillit til uppsafnaðs framsals ríkisvalds til ESB.  Það eru þess vegna uppi mjög miklar lögfræðilegar vangaveltur hérlendis, sem og í Noregi, um þetta atriði.  Ari Guðjónsson hefur ekkert í höndunum til að sópa áhyggjum af þessu atriði út af borðinu. Þær eiga sér traustan, lögfræðilegan grundvöll.

Lögfræðileg umræða um framsal fullveldis þarfnast jarðtengingar til skýsringar. Það nægir hér að benda á eitt efnisatriði í þessu sambandi, en það er stofnun embættis Landsreglara, eða, sem væri enn þá verra, að breyta embætti Orkumálastjóra í Landsreglara, sem verður að Evrópurétti, sem á þessu sviði verður æðri íslenzkum lögum við innleiðinguna, algerlega óháður íslenzkum yfirvöldum, löggjafarvaldi og hagsmunaaðilum.  Þetta embætti getur orðið íslenzkum lögaðilum og einstaklingum íþyngjandi með sektargreiðslum, fyrirmæli til embættisins eru samin hjá ACER-Orkustofnun ESB, og ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, sem er umsaminn milliliður, hefur enga heimild til að ógna einsleitni regluverks á milli landa EES með því að breyta fyrirmælunum eða hundsa þau til EFTA-landanna.  

Landsreglarinn verður eftirlitsaðili með flutningsfyrirtækinu Landsneti og dreifiveitunum, semur reglugerðir þeim til handa og staðfestir verðskrár þeirra eða hafnar þeim.  Hann getur farið fram á víðtæka upplýsingagjöf frá fyrirtækjum á íslenzka raforkumarkaðinum að viðlögðum fjársektum, ef ekki er orðið við þeim beiðnum. 

Landsreglarinn mun hafa eftirlit með því, að íslenzki raforkumarkaðurinn starfi, eins og ACER bezt telur henta kaupendum á markaðinum, en svo illa vill til, að kjörfyrirkomulag ACER er frjáls samkeppni í orkukauphöll, sem engan veginn tryggir hag orkukaupenda, þar sem orkukerfið er samsett á þann einstæða hátt, sem hérlendis er raunin.  Það getur hins vegar virkað ágætlega við aðstæður, sem það er hannað fyrir (eldsneytiskerfi, margir birgjar).

Þarna er vikið að innihaldi valdframsals yfir orkumálum til yfirþjóðlegs valds, þar sem við ekki höfum atkvæðisrétt.  Það getur blessazt, en það eru mun meiri líkur á, að ákvarðanataka á grundvelli sameiginlegra hagsmuna ESB/EES gagnist illa íslenzkum hagsmunum á þessu sviði, þar sem aðstæður eru gjörólíkar.  Þar af leiðandi á Alþingi að láta það ógert að taka slíka áhættu.  Stjórnarskráin vísar rétta leið.  Framsal ríkisvalds til útlanda er ávísun á verri stjórnarhætti, sem geta orðið landsmönnum dýrkeyptir.  Þetta veit almenningur, enda er sagan ólygnust.

Ari Guðjónsson kýs að gera minni háttar atriði við Orkupakka #3 að aðalatriðum greinar sinnar, og þannig kemst hann aldrei að kjarna málsins, sem er stefnumörkun um málefni íslenzka raforkumarkaðarins út frá hugmyndafræði ESB, sem kallar á árekstra við hagsmuni almennings á Íslandi. 

Hann gerir mikið úr, að íslenzkum yfirvöldum hafi tekizt að fá undanþágu frá skýrum reglum Orkupakka #2 og #3 um, að flutningsfyrirtækið, hér Landsnet, skuli vera óháð öðrum aðilum á orkumarkaði.  Þessa undanþágu telur hann kost, en hún er alvarlegur ókostur, því að Landsnet, RARIK, OR og OV eiga Landsnet.  Þar með er auðvelt að gera því skóna, að Landsnet mismuni aðilum á markaði, t.d. nýjum vindorkufyrirtækjum, sem gjaldi fyrir áhrifastöðu LV, RARIK, OR eða OV í stjórn LN.

  Með miklum tilkostnaði var lítill raforkumarkaður Íslands brotinn upp í vinnslu, flutning, dreifingu og sölu, að fyrirmælum ESB, til að tryggja frjálsa samkeppni, en skrefið hefur aldrei verið stigið til fulls til að formlegum reglum um frjálsa samkeppni sé þó fullnægt. Ari Guðjónsson er hróðugur yfir þessum óskapnaði og skrifar:

"Að þessu leyti mun þriðji orkupakkinn því engin áhrif hafa á gildandi réttarumhverfi hér á landi, og er þar með búið að tryggja, að ekki þurfi að gera breytingar þar á vegna innleiðingarinnar [á Orkupakka #3-innsk. BJo]."

Að hugsa sér, að þetta skuli vera uppistaðan í röksemdafærslu lögfræðingsins fyrir því, að Orkupakki #3 muni engin áhrif hafa hér á landi.  Ekki tekur betra við, þegar kemur að Landsreglaranum, sem við blasir, að verður einsdæmi í stjórnsýslu á Íslandi og í raun Trójuhestur ESB í stjórnkerfinu á Íslandi, þótt hann kunni (umdeilanlega) að vera eðlilegur þáttur stjórnsýslu ESB í ESB-löndunum.  Þessu snýr Ari Guðjónsson á haus og kveður fyrirkomulagið verða sjálfstæðismál fyrir Orkustofnun.  Hver hefur beðið um það ? 

Það er lýðræðislegt fyrirkomulag, að Orkumálastjóri heyri heill og óskiptur undir íslenzkan ráðherra, en ekki stundum undir forstjóra ACER með ESA sem millilið.  Hvernig í ósköpunum á Orkumálastjóri stundum að vera óháður ráðherra og stundum að vera undir boðvaldi hans ?  Ari skrifar:

"Það liggur hins vegar fyrir, að gera þarf ákveðnar breytingar á raforkulögum og lögum um Orkustofnun vegna innleiðingarinnar.  Þær breytingar munu m.a. tryggja frekara sjálfstæði Orkustofnunar með þeim hætti, að ráðherra mun ekki geta gefið stofnuninni fyrirmæli um úrlausn mála, þrátt fyrir að Orkustofnun muni enn heyra undir yfirstjórn ráðherra."

Það er alveg makalaust, að lögfræðingurinn virðist telja ávinning af innleiðingu þessa aukna og ólýðrýðislega flækjustigs í íslenzka stjórnsýslu, þótt við leikmanni blasi, að breytingin feli í sér Stjórnarskrárbrot.  

Þá kemur rúsínan í pylsuendanum með lofrullu um EES-aðildina og hræðsluáróður um, að EES-samstarfið velti á innleiðingu Orkupakka #3.  Það er ekki fótur fyrir slíku.  Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að m.v. gamla fríverzlunarsamninginn, sem í gildi var á milli EFTA og ESB, nemi viðskiptalegur ávinningur EES-samningsins 4,5 mrðISK/ár.  Kostnaðurinn er hins vegar margfaldur ávinningurinn, því að beinn kostnaður er talinn nema 22 mrðISK/ár (Viðskiptaráð Íslands) og óbeinn kostnaður af ofvöxnu reglugerða- og eftirlitsfargani í örsmáu samfélagi og minni framleiðniaukningu um 1,0 %/ár fyrir vikið, þýðir sóun upp á yfir 100 mrðISK/ár. Alls nemur árlegur nettókostnaður EES-aðildar á annað hundrað milljörðum ISK.  Þetta er nú öll margrómuð himnaríkisdýrð EES-aðildar Íslands.

Til að gefa innsýn í hugarheim EES-trúaðra er fróðlegt að birta jarðteiknasögu Ara Guðjónssonar og "Götterdämmerung" eða syndafallið í lokin:

"Það er jafnframt mikilvægt að hafa í huga, að EES-samningurinn felur í sér eina mestu réttarbót, sem íslenzkt samfélag hefur innleitt.  Samningurinn hefur tryggt Íslandi fullan aðgang að innri markaði Evrópu, en þó með þeim takmörkunum, sem taldar voru nauðsynlegar á sínum tíma, sem aðallega varða sjávarútveg.  Það er ekkert launungarmál, að Ísland hefði líklega aldrei náð að landa slíkum samningi án þess að hafa verið í samstarfi með öðrum stærri ríkjum, þegar samningurinn var gerður.  Ef Alþingi tryggir ekki innleiðingu þriðja orkupakkans hér á landi, gæti það sett EES-samstarfið í uppnám."

Í raun og veru er þetta áróður fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið, því að meint "réttarbót" er Evrópurétturinn og synjunarvald þjóðþinganna á ESB-gerðum er það, sem helzt greinir að réttarstöðu EFTA-ríkjanna (í EES) og ESB-ríkjanna gagnvart stofnunum Evrópusambandsins.

Í Noregi gætir vaxandi efasemda um aðild landsins að EES-samninginum, og er þar athyglisverðust þróunin innan norsku verkalýðshreyfingarinnar.  Ekki er ólíklegt, að BREXIT-dramað endi með gerð víðtæks fríverzlunarsamnings á milli Bretlands og ESB.  Þá liggur beint við, að EFTA leiti hófanna um svipaðan samning við Bretland og ESB.  

 

 

 

 

 

 

 


Af mismunandi stjórnarskrárumræðu

Það hefur mikið verið gert úr því, að Stjórnarskrá lýðveldisins væri með böggum hildar vegna aldurs og uppruna hennar.  Höfundi þessa pistils er samt ekki kunnugt um aðra ásteytingarsteina Stjórnarskrárinnar við alþjóðasamninga en EES-samninginn á milli EFTA og ESB um Evrópska efnahagssvæðið frá 1994, þar sem nú aðeins 3 EFTA-ríki eiga aðild, eftir að nokkur EFTA-ríki fylgdu Bretlandi inn í ESB á sínum tíma.  

Það leikur vart á tveimur tungum, að Alþingi hefur heimild til að staðfesta þjóðréttarlega samninga, sem ríkisstjórnin á aðild að eða óskar aðildar að.  Þar er ekki um að ræða samninga, er varða fullveldisafsal til stofnana, þar sem Ísland á ekki fulla aðild, og það verður heldur engin breyting á réttarstöðu lögaðila (fyrirtækja, stofnana) hérlendis eða einstaklinga, sem eru með íslenzkt ríkisfang.  Slíkir samningar, þjóðréttarlegs eðlis, eru taldir réttlætanlegir til að bæta öryggi ríkisins, bæta stöðu þess á alþjóðavettvangi og tryggja réttarstöðu þess á alþjóðavettvangi, svo að eitthvað sé nefnt.  Dæmi eru NATO-aðildin, SÞ-aðildin, AGS-aðildin og Hafréttarsáttmálinn.  

EES-aðildin er allt annað folald.  Um hana skrifaði Ásgerður Ragnarsdóttir, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, í Morgunblaðið, 1. desember 2018:

"Fullveldi og framsal valdheimilda":

"Frá því að EES-samningurinn tók gildi árið 1994, hafa skuldbindingar íslenzka ríkisins aukizt verulega, og hefur samstarfið krafizt þess, að valdheimildir séu framseldar í vaxandi mæli til stofnana EES.  Almennt er viðurkennt, að lögfesting samningsins hafi á sínum tíma reynt verulega á mörk stjórnarskrárinnar, og því fór fjarri, að samhugur væri um, hvort þörf væri á stjórnarskrárbreytingu.  Nefnd þeirra fjögurra sérfræðinga í lögum, sem leitað var til, taldi, að framsal valdheimilda samkvæmt samningnum stæðist stjórnarskrá og vísaði einkum til þess, að framsalið væri "skýrt afmarkað, ekki umfangsmikið eða verulega íþyngjandi fyrir einstaklinga eða lögaðila.""

Hér er þess að geta, að þáverandi stjórnarandstaða leitaði líka eftir áliti valinkunnra lögfræðinga og fékk frá þeim þá niðurstöðu, að lögfesting EES-samningsins bryti gegn Stjórnarskrá.  Eftir á að hyggja virðist sú niðurstaða hafa verið réttari en niðurstaða lögfræðingateymis ríkisstjórnarinnar, því að EES-samningurinn hefur ekki reynzt vera skýrt afmarkaður og reyndar ófyrirsjáanlegt, hvaða stefnu hann tekur; hann er ennfremur mjög umfangsmikill, og hann hefur reynzt vera afar íþyngjandi fyrir fyrirtækin í landinu og gæti reynzt einstaklingum þungur baggi, eins og fjármálaeftirlitslagabálkurinn og persónuverndarlagabálkurinn eru dæmi um og Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn mun reynast dæmi um, ef hann verður innleiddur af Alþingi.  

Um þetta skrifar Ásgerður Ragnarsdóttir með skarplegum hætti:

"Sé litið til stöðunnar í dag, um aldarfjórðungi síðar, má ljóst vera, að íslenzka ríkið hefur framselt valdheimildir í talsverðum mæli til stofnana EES, og hefur þeim jafnframt verið eftirlátið vald til að taka íþyngjandi ákvarðanir gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum hér á landi, svo sem með álagningu sekta og beinum afskiptum af rekstri fyrirtækja. Hér má nefna sem dæmi, að samkvæmt reglum Evrópusambandsins um fjármálaeftirlit, sem voru innleiddar hér á landi haustið 2016, hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) heimild til að taka íþyngjandi ákvarðanir gagnvart íslenzkum stofnunum og fyrirtækjum á fjármálamarkaði, sem geta m.a. náð til þess að stöðva starfsemi þeirra.  Frumkvæði að slíkum ákvörðunum og undirbúningur þeirra er í höndum sérstakra eftirlitsstofnana, sem starfa á vettvangi Evrópusambandsins, og á Ísland ekki aðild að þeim.

Þá má jafnframt nefna, að vegna breytinga á samkeppnisreglum EES-samningsins var með samkeppnislögum nr 44/2005 lögfest ákvæði, sem felur efnislega í sér, að ákvarðanir ESA eru í ákveðnum tilvikum bindandi fyrir íslenzka dómstóla við úrlausn mála, þar sem þeir fara með dómsvald. Hefur löggjafinn þar með bundið hendur dómstóla í ákveðnum skilningi vegna reglna EES-réttar [undirstr. BJo].

Þegar meta á, hvort setja eigi í Stjórnarskrá ákvæði, sem heimila framsal ríkisvalds til erlendra valdstofnana, er ljóst, að setja verður einhver mörk í þeim efnum.  Að mati pistilhöfundar yrði of langt gengið með því að heimila það, sem að ofan er lýst, að þegar hafi verið samþykkt vegna innleiðingar ESB-gerða gegnum EES.  Það á hvorki að ganga svo langt að samþykkja íþyngjandi kvaðir á hendur íslenzkum ríkisborgurum, sem rekja má til stofnana, þar sem Ísland á engin raunveruleg ítök, né kvaðir á hendur íslenzkum dómstólum, eins og raktar eru hér að ofan.

Í Noregi er bann í Stjórnarskrá gegn framsali ríkisvalds til annarra ríkja eða yfirþjóðlegra stofnana, nema framsalið sé þjóðréttarlegs eðlis eða takmarkað, fyrirsjáanlegt og vel skilgreint.  Ef fara ætti þessa leið hérlendis, þyrfti að skilgreina slíkt leyfilegt framsal og krefjast 3/4 atkvæða þingheims til samþykktar, eins og fordæmi er um í norsku stjórnarskránni.  

Ásgerður Ragnarsdóttir hélt áfram:

"Telja verður líklegt, að álitaefni um mörk heimils framsals muni aukast í framtíðinni, og væri það í takti við þróun í regluverki Evrópusambandsins, þar sem sjálfstæðum eftirlitsstofnunum eru í auknum mæli veittar valdheimildir gagnvart einstaklingum og lögaðilum.  Skýrt dæmi um þetta er þriðji orkupakki Evrópusambandsins, sem hefur upp á síðkastið verið til umræðu um mörk heimils framsals valdheimilda hér á landi.  

Það er í öllu falli ljóst, að þær forsendur, sem voru taldar styðja þá upphaflegu afstöðu, að ekki væri þörf á stjórnarskrárbreytingu vegna aðildar Íslands að EES-samningnum, hafa breytzt, og að valdframsal er mun meira en gert var ráð fyrir í upphafi.  Í því sambandi er athyglisvert, að höfundar sumra þeirra álitsgerða, sem aflað hefur verið vegna innleiðingar gerða, hafa lagt áherzlu á, að jafnvel þó að framsal samkvæmt einstakri gerð sé talið standast stjórnskipulega, sé ekki þar með sagt, að breytingarnar, virtar heildstætt, teljist innan ramma stjórnarskrárinnar."

 Það verður mjög vandasamt að skilgreina einstakt leyfilegt framsal og uppsafnað leyfilegt framsal fullveldis í tillögu að Stjórnarskrárbreytingu, og það getur orðið torsótt fyrir Alþingi að komast að niðurstöðu um slíkt, jafnvel þótt valinkunnum stjórnlagafræðingum tækist að gera um slíkt tillögu til Alþingis.  Að óreyndu er ólíklegt, að meirihluti reynist um það á meðal þjóðarinnar að leyfa erlendum stofnunum að leggja kvaðir á landsmenn, eins og gerðir og tilskipanir ESB nú á dögum vissulega fela í sér, og þá ekki sízt Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB.   

Hvað skyldi formaður Sjálfstæðisflokksins, fjármála- og efnahagsráðherrann, hafa um þetta að segja ?  Að nokkru leyti kemur það fram í frétt Morgunblaðsins 17. desember 2018:

"Styður ekki framsal auðlinda":

"Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki barizt sérstaklega fyrir innleiðingu þriðja orkupakkans að sögn Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, í viðtali við Pál Magnússon, þáttstjórnanda Þingvalla á K100 og Alþingismann Sjálfstæðisflokksins, í gærmorgun.

Bjarni sagði, að sér fyndist sumt af því, sem rataði til okkar í gegnum EES-samstarfið, varla vera málefni innri markaðarins.  "Í þessu tilviki er ekki nema von, að menn spyrji, þar sem Ísland er eyland, hvers vegna það sé hluti af þátttöku okkar á Evrópska efnahagssvæðinu að undirgangast evrópska löggjöf á því sviði", sagði Bjarni."

Þetta er hárrétt athugað, og á það hafa fjölmargir bent, t.d. fyrrverandi stjórnmálamenn.  Þar má nefna guðföður EES-samningsins fyrir Íslands hönd á sinni tíð, Jón Baldvin Hannibalsson.  Það á engu að breyta um afstöðu þingsins nú, þótt það hafi á árum áður (2014-2016) fengið upplýsingar um málið frá embættismönnum án þess að gera við þær alvarlegar athugasemdir.  Á grundvelli nýjustu og beztu upplýsinga ber að taka ákvörðun.

Þegar þetta mál er sett í rétt samhengi, þ.e. skoðað í samhengi við ákvæði EES-samningsins, t.d. ákvæði um frjálsa samkeppni og bann við innflutnings- og útflutningshindrunum, svo og nýrri gerðir tengdar orkupakkanum með valdeflingu ACER-Orkustofnunar ESB sem meginstef, t.d. gerð #347/2013, sem áreiðanlega verður samþykkt til innleiðingar af Sameiginlegu EES-nefndinni í kjölfar lögfestingar Þriðja orkumarkaðslagabálksins, þá verður ljóst, að framlengdur reglusetningararmur ACER til Íslands, Landsreglarinn, verður gríðarlega valdamikill á Íslandi, enda mun hann verða óháður íslenzkum yfirvöldum og hagsmunaaðilum, en dansa þess í stað eftir flautu ESB.  Landsreglarinn fær í raun valdstöðu jafnstæða ráðherra hérlendis án þess að njóta aðhalds/eftirlits að hálfu þjóðþingsins, og um gerðir hans gildir Evrópurétturinn, sem íslenzkir dómstólar verða að dæma eftir, og slíkir dómar verða áfrýjanlegir til ESA/EFTA-dómstólsins. 

Í ljósi þessa hefur t.d. norski lagaprófessorinn Peter Örebech sýnt fram á, að eftirfarandi fullyrðing ráðherrans orkar mjög tvímælis og vitnar um óvarkárni í ljósi þeirra gríðarlegu hagsmuna, sem eru í húfi fyrir Íslendinga á sviði orkumála:

"Bjarni sagði samtalið undanfarið hafa snúizt um, hvort verið væri að framselja yfirráð yfir auðlindunum.  "Samkvæmt þeim gögnum, sem hafa verið tekin saman, er ekki svo", sagði Bjarni."

Á meðal gagna, sem iðnaðarráðherra hefur "tekið saman" um málið, er minnisblað og greinargerð tveggja innlendra lögmanna.  Nokkur atriði í skjölum þessum hafa verið vegin og léttvæg fundin af fyrrnefndum norskum sérfræðingi í Evrópurétti.  Það boðar ekki gott, ef stjórnvöld ætla að taka kæruleysislegan pól í hæðina og skoða það á grunnfærinn hátt út frá þröngu sjónarhorni í stað þess að setja það í samhengi við EES-samninginn, síðari gerðir ESB á orkumálasviði og líklega þróun þessara mála innan ESB (Fjórði orkupakkinn).  Sé það gert, blasir við, að réttast er fyrir Íslendinga að stöðva nú þegar samstarfið við ESB á orkumálasviði, sem felst í Viðauka IV við EES-samninginn.  Í þessa átt virðist Bjarni Benediktsson einnig hneigjast af eftirfarandi að dæma:

"Hann rifjaði upp, hvað fylgdi því að taka þátt í EES-samstarfinu og sagðist telja, að af hálfu ESB hefði harkan í að krefjast meiri einsleitni vaxið.  "Ég er þeirrar skoðunar, að Evrópusambandið hafi gengið of langt, í of mörgum málum á undanförnum árum, í því að reyna að fá okkar hóp, þ.e.a.s. EFTA-megin, Íslendinga þar með, til þess að fella sig við einhverja stofnanaumgjörð, sem bara gengur ekki upp.  Mér finnst það vera mjög mikið umhugsunarefni, hversu mikil vinna hefur farið í það að sníða sérlausnir, sem standast íslenzku stjórnarskrána.  Þetta hef ég oft gert að umtalsefni í þinginu og er áhyggjuefni í Evrópusamvinnunni; að það þyki bara boðlegt gagnvart Íslandi að krefjast þess, að vald sé framselt til stofnana, sem við eigum enga aðild að", sagði Bjarni.  Hann sagði, að nú væri því haldið fram um þriðja orkupakkann, að í honum fælist slíkt framsal. "Af minni hálfu stendur ekki til að styðja mál, sem felur í sér framsal, hvorki á auðlindum né á meiri háttar ákvarðanatöku um lagaumgjörð fyrir okkur.  Hins vegar er því haldið fram, að málið mögulega standist ekki stjórnarskrá.  Þetta eru atriði, sem við viljum fara vandlega yfir", sagði Bjarni.  Hann sagði það rangt, að með þriðja orkupakkanum yrði gert skylt að leggja rafstreng til Íslands.  Þriðji orkupakkinn myndi ekki breyta því, að Alþingi setti áfram lögin, sem giltu á Íslandi [Undirstr. BJo]."

Rökrétt niðurstaða af þessum hugleiðingum formanns Sjálfstæðisflokksins er að segja hingað og ekki lengra gagnvart Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Nú er svo mikið í húfi, að sýna verður aðilum EES-samstarfsins, að Íslendingar geti ekki undirgengizt einsleitniáráttu ESB og mótun lagaumgjarðar á hvaða sviði þjóðlífsins sem er, enda væru þeir væntanlega þegar gengnir í ESB, ef engar slíkar takmarkanir fyndust í hugskoti landsmanna.  

Um síðasta atriðið, sem ráðherrann nefnir, er vert að spyrja hann, hversu traustum fótum lagasetning Alþingis standi, ef hún brýtur í bága við Evrópurétt á þeim sviðum, sem Alþingi hefur innleitt Evrópurétt, eins og t.d. um inn- og útflutning á hráu, ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk.  EFTA-dómstóllinn hefur dæmt innflutningsbann Alþingis frá 2009 brotlegt við EES-samninginn, og lá þar lýðheilsa og búfjárheilsa við, en núverandi ráðherra landbúnaðarmála hefur látið á sér skilja, að hlíta verði dómi EFTA-dómstólsins, sem kveður íslenzku lögin stríða gegn EES-samninginum.  Enn hafa lögin þó ekki verið felld úr gildi, góðu heilli. Mætast þar stálin stinn. 

Nákvæmlega hið sama mun gerast eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins, ef fjárfestar sækja um leyfi fyrir lagningu aflsæstrengs til Íslands frá landi, sem er í Orkusambandi ESB (ACER), og Landsreglarar í löndunum, sem strengurinn á að tengja saman, telja umsóknina uppfylla allar kröfur ESB, t.d. gerð #347/2013, og hugsanleg lagasetning Alþingis um bann við strengnum og þar með við milliríkjaviðskiptum með rafmagn verður kærð fyrir ESA og síðar EFTA-dómstólinum.  Þá myndast hagsmunastríðsástand á milli Íslands og hinna EES-landanna, sem yrði Íslandi miklu þyngra í skauti en höfnun á téðum orkubálki á grundvelli mikilvægra þjóðarhagsmuna getur orðið.  

Margt er skrýtið í kýrhausnum.  Furðulegasta tillaga, sem sézt hefur á prenti um breytingu á Stjórnarskrá lýðveldisins, var sett fram í lok greinar Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra,

"Fullveldið, stjórnarskráin og alþjóðasamstarf"

í Morgunblaðinu 28. desember 2018:

"Fræðimenn getur greint á um, hvort EES-gerð sé þess eðlis, að hún rúmist innan stjórnarskrárinnar.  Þeir eru hins vegar allir sammála um, að laga beri stjórnarskrána að alþjóðasamstarfi.  Eftir þeim ráðum fara stjórnmálamenn þó ekki.

Ótti stjórnmálamanna ræðst af andstöðu við aðild Íslands að ESB.  Þar tengjast allir illu andarnir, sem áður er getið.  Þá má kveða niður með því að festa aðildina að EES eina í stjórnarskrána."

 Þetta er gjörsamlega fráleit tillaga, því að með slíku ákvæði í Stjórnarskrá væri verið að slá því föstu, að allar gerðir og tilskipanir Evrópusambandsins, sem Sameiginlega EES-nefndin mun samþykkja til innleiðingar í EFTA-löndunum, væru í samræmi við Stjórnarskrá lýðveldisins, sama hversu víðtækt og stórtækt fullveldisframsal til stofnana ESB fælist í innleiðingunni, eða hversu mjög viðkomandi lagabálkur ESB gengi gegn hagsmunum íslenzka lýðveldisins.  Þingmenn gætu þá ekki hafnað slíkri innleiðingu á þeirri forsendu, að fullveldisframsalið væri Stjórnarskrárbrot.  Aldrei verður nokkur sátt um slíka Stjórnarskrárbreytingu, og tillaga um hana er andvana fædd. Aðeins ESB-sinnar, þ.e. þau, sem berjast leynt og/eða ljóst fyrir inngöngu Íslands í ESB, geta stutt slíka tillögu.  

 

 

 

 

 


Sæstrengur eða iðjuver

Enn er agnúazt hérlendis út í langtíma raforkusamninga við erlend stóriðjufyrirtæki.  Það er kostulegt, því að þessir samningar voru ekki einvörðungu undirstaða stórvirkjana á Íslandi, sem voru mun hagkvæmari í rekstri en smávirkjanir eða margir smááfangar stórvirkjana, heldur urðu þeir líka undirstaðan að öflugu flutningskerfi raforku frá virkjunum til þéttbýlisins á SV-landi.  Þetta kerfi væri bæði veigaminna, þ.e. væri með annmörkum minna afhendingaröryggis raforku til viðskiptavinanna, og væri miklu dýrara fyrir almenna notendur en reyndin er, ef raforkukerfið hefði einvörðungu verið sniðið við almenna markaðinn, sem nú er um 20 % af heild.

  Með samnýtingu stórnotenda og almennings á einu og sama raforkukerfinu, sem stórnotendur hafa fjármagnað að mestu leyti, hefur draumur brautryðjendanna um einna lægst raforkuverð á Íslandi með viðunandi afhendingaröryggi í samanburði við önnur lönd í Evrópu og reyndar víðast hvar í heiminum rætzt.  Við þessi hlunnindi bætast auðvitað hitaveiturnar, þar sem þeirra nýtur við til húsnæðishitunar hérlendis. Hitaveiturnar stórminnka raforkuþörfina eða um allt að 10 TWh/ár, sem er um helmingur núverandi virkjaðrar orku.  Íslendingar hafa þannig með áræðni, framsýni og dugnaði á þessu tæknilega sviði, sem orkunýting er, borið gæfu til að leysa þau viðfangsefni vel af hendi, sem felast í að breyta orkulindum í verðmæta afurð, samfélaginu öllu til mikilla hagsbóta.  Þó má betur, ef duga skal.  

Sem dæmi dugðu greiðslur frá ISAL til Landsvirkjunar fyrir raforku fyrstu 30 ár rekstrarins til að greiða upp allan upphaflegan stofnkostnað Búrfellsvirkjunar, Geithálsstöðvarinnar, tveggja flutningslína á milli Búrfells og ISAL ásamt vararafstöð Landsvirkjunar í Straumsvík.  Þessi mannvirki, nema vararafstöðin, leystu jafnframt úr almennum raforkuskorti á höfuðborgarsvæðinu og víðar, sem tók að gæta í lok 7. áratugar síðustu aldar.  

Sumir hagfræðingar o.fl. eru haldnir þeirri bábilju, sem fyrir löngu komst á kreik, að fjárfestingar í raforkumannvirkjum, virkjunum, aðveitustöðvum og flutningslínum, á grundvelli gerðra langtímasamninga um raforkuafhendingu til iðjuvera, haldi ekki máli, hvað arðsemi varðar.  Þetta er alvarleg villa, sem stafar af því, að hagfræðingarnir hafa ekki tekið með í reikninginn óvenjulangan endingartíma virkjananna í fullri virkni og með litlum rekstrarkostnaði.

  Venjulega er reiknað með bókhaldslegum afskriftartíma 40 ár fyrir virkjanir, en tæknilegur endingartími þeirra getur hæglega varað 100 ár með eðlilegu viðhaldi og endurnýjun.  Ef hagfræðingarnir reikna bara arðsemina yfir afskriftartímann, er ekki kyn, þótt keraldið leki, því að botninn er þá suður í Borgarfirði.  Í neðangreindri tilvitnun í téðan Óðin hafa menn komizt að þeirri niðurstöðu, að arðsemi þessara fjárfestinga sé 5 %.  Réttara er að áætla hana 50 % fyrstu 100 árin að jafnaði, ef gert er ráð fyrir 5 % í 40 ár og 80 % í 60 ár:

"Staðreyndin er sú, að arðsemin af fjárfestingu tengdri stóriðju hefur verið óviðunandi, eins og Óðinn hefur oft bent á.  Þetta kemur fram í skýrslu, sem Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannsson skrifuðu fyrir Hagfræðistofnun Háskóla Íslands árið 2012, "Arðsemi Landsvirkjunar af rafmagnssölu til stóriðju 1966-2010".  Niðurstaða þeirrar skýrslu er, að arðsemi raforkusölunnar sé ekki nema liðlega 5 % fyrir skatta og verðbólgu, sem þýðir, að fjárfestingin stendur ekki undir fórnarkostnaði þess fjármagns, sem bundið er í henni.  Þjóðhagslegur ábati hefði verið meiri, ef ríkið hefði ekki sogað þetta fé til sín og það hefði verið til reiðu í aðra atvinnuvegafjárfestingu."

Málflutningi af þessu tagi er beitt í vanburða tilraun til að færa rök fyrir þeirri skoðun, að erlendar fjárfestingar í orkukræfum iðnaði hérlendis séu óalandi og óferjandi.  Þetta eru fordómar.  Þessi iðnaðarstarfsemi hefur gert íslenzkum orkufyrirtækjum kleift að fjárfesta í virkjunum, sem mala gull í 100 ár.  Bauðst íslenzka ríkinu einhvern tímann viðlíka fjárfestingartækifæri ? 

Jafnvel þótt álverið í Straumsvík muni aðeins starfa í tæplega 70 ár (út núverandi samningstíma um raforku), þá verður meðalarðsemin af fjárfestingum vegna þess samt um 50 %, því að orkuverðið þangað hefur hækkað mjög mikið á rekstrartímabilinu, ekki sízt eftir að afskriftartímabili Búrfellsvirkjunar lauk. 

Starfsemi fyrirtækjanna, sem útlendingar hafa stofnsett hérlendis til að skapa verðmæti úr endurnýjanlegri orku, hefur leitt til mikillar tækniþróunar hérlendis og öryggis- og umhverfisstjórnun hefur tekið stakkaskiptum fyrir þeirra tilverknað og þeirra íslenzka starfsliðs.  Það er þess vegna ekki reist á neinum rökum, að t.d. álverin hafi verið einhvers konar byrði hér, sem haldið hafi aftur af þróuninni vegna þess, að fénu til orkumannvirkjanna hefði getað verið betur varið.  Þetta er algerlega tilhæfulaust og sorglegt að sjá Óðin falla ofan í þennan fúla pytt.

Síðan víkur Óðinn sögunni að sæstrengsviðræðum þáverandi forsætisráðherranna, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Davids Cameron, en Óðinn er ekki sá eini, sem hefur tilhneigingu til að stilla aflsæstreng til útlanda upp sem heppilegum valkosti við málmiðjuverin.  Þar verður þá ekki komizt hjá því að stilla upp þriðja valkostinum, sem er vinnsla vetnis hérlendis úr vatni með rafgreiningu, en í uppsiglingu er á Bretlandi mikill markaður fyrir vetni til að leysa jarðgas af hólmi sem orkugjafi til upphitunar húsnæðis.  

"Ráðherrarnir ræddu einnig samstarf í orkumálum og var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp til að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng.  Sigmundur Davíð sagðist hafa fyrirvara um lagningu sæstrengs.  Forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni væri, að raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækki ekki. Eðlilegt er þó að eiga viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif, sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér."

Hér er meinloka á ferðinni.  Það er útilokað, að tenging íslenzka raforkukerfisins við erlent raforkukerfi, þar sem heildsöluverð raforku er a.m.k. tvöfalt raforkuverðið hérlendis, hafi ekki áhrif á verðlagningu raforku hér til hækkunar.  Eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins hérlendis og tengingu raforkukerfanna mun verðlagningin hér ráðast í "Nord Pool" orkukauphöllinni, þar sem Ísland og Bretland verða.  Íslenzkir raforkukaupendur verða þar í samkeppni við brezka og kannski einnig við kaupendur á meginlandinu, því að Bretland er raftengt þangað og bráðlega við Noreg einnig.  Vilja Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins þetta ?  Þau mega ekki fljóta sofandi að feigðarósi, heldur ber að berjast gegn slíkum kostnaðarauka á sín aðildarfyrirtæki, sem raftenging við útlönd óhjákvæmilega hefur í för með sér.  

Hérlendis hafa heyrzt raddir um, að það muni verða á valdi íslenzkra stjórnvalda, hvert rafmagnsverðið verður til almennings hérlendis eftir slíka tengingu.  Það er tóm vitleysa. Hverjum dettur í hug, að ríkissjóður hafi bolmagn til slíkra niðurgreiðslna ?  Ef hann hins vegar reynir það, gerist hann umsvifalaust brotlegur við reglur EES-samningsins, sem banna slík inngrip ríkisins í samkeppnismarkað, enda eru t.d. engin fordæmi um slík inngrip norska ríkissjóðsins með sinn öfluga bakhjarl, olíusjóðinn, þótt norskum fjölskyldum og fyrirtækjum hafi sviðið mjög undan gríðarlegum verðhækkunum rafmagns þar í landi samfara útflutningi á rafmagni. 

Óðinn hefur furðulega afstöðu til þessa máls, því að hann skrifar, að hann sé sammála Sigmundi um, að "það er óásættanlegt, að íslenzkur almenningur taki á sig þyngri byrðar með tilkomu sæstrengs.  En þetta eru óþarfar áhyggjur Sigmundar bæði fyrr og nú".  Þær eru ekki óþarfar. Það er þvert á móti óhjákvæmilegt, að íslenzkur almenningur  beri kostnað af sæstrengsuppátæki, bæði beinan og óbeinan.  Beini kostnaðurinn felst í að standa undir kostnaði Landsnets við að reisa flutningslínur frá stofnkerfinu og niður að landtökustað sæstrengsins, sennilega tvær 400 kV línur samkvæmt forskrift Orkupakka #3, og óbeini kostnaðurinn felst í hækkun á verðlagningu raforku vegna tengingar við erlendan markað og minna framboðs en eftirspurnar.

Síðan fimbulfambar Óðinn um, að sú lífskjarastefna, sem felst í því að halda raforkuverði lágu til heimila, sem nota aðeins 5 % af heildarraforkunotkun, haldi verði niðri til hinna, þ.e. almenns atvinnurekstrar og stóriðju, og að þar með nái orkuseljendur minni hagnaði en ella.  Hann athugar það ekki, að lágt raforkuverð skapar atvinnurekstrinum í landinu nauðsynlegt forskot í samkeppni við fyrirtæki, sem eru betur staðsett m.v. aðdrætti og flutninga afurða á markað.  Þá dregur lágt raforkuverð til almennings ekkert úr svigrúmi raforkuheildsalanna til að gera hagstæða langtíma raforkusamninga.  

Það fettir enginn fingur út í það, þótt umsamið verð til stóriðju hækki, þegar langtímasamningar eru endurnýjaðir.  Stóriðjan hefur um langa hríð staðið undir fjármögnun raforkukerfisins og lágu raforkuverði til almennings.  Við það er ekkert að athuga.  

Þegar menn draga í efa, að staðan sé þessi, þá gleyma þeir dreifingarkostnaðinum, sem hérlendis nemur tæplega 40 % af heildarkostnaði rafmagns til almennings, en stóriðjan sér sjálf um fyrir sig.  Þá gleyma menn einnig, að fjárfesting á bak við hverja kWh er um 60 % meiri, þegar virkjað er fyrir ójafnt álag, eins og álag almenningsveitna, en fyrir jafnt álag stóriðjunnar, og hagkvæmni stærðarinnar er þá ótalin.  

Óðinn klykkir út með eftirfarandi hvatningu til iðnaðarráðherra:

"Óðinn vonar, að iðnaðarráðherra muni loks láta reyna á það, hvort lagning sæstrengs sé fær leið, enda allir helztu hagfræðingar landsins sammála um áhrif hennar á þjóðarhag."

´Oðinn vill sem sagt kanna til hlítar, hvort hægt sé að þróa álitlega viðskiptahugmynd með Englendingum um raforkuviðskipti við Íslendinga.  Af þeim gögnum, sem þegar eru fyrir hendi, má þó ljóst vera, að alvarlegir meinbugir eru á þessu sæstrengsverkefni, þótt Óðinn telji "alla helztu hagfræðinga landsins" telja verkefnið þjóðhagslega hagkvæmt.  Væri fróðlegt að sjá þá útrikninga, því að þetta stenzt ekki, á meðan heildsöluverð raforku á Englandi er undir 180 USD/MWh, sem er 2,25 x núverandi heildsöluverð þar.  Þetta stafar m.a. af gríðarlegum eða um 10 % afltöpum á leiðinni, sem flutningar um strenginn verða að borga.  Ef 1400 MW fara inn á endabúnaðinn, þá koma aðeins 1260 MW út eða með öðrum orðum 140 MW tap.  Það er tæplega aflgeta Blönduvirkjunar.

Nú er að opnast nýtt viðskiptatækifæri á NA-Englandi fyrir orku.  Leeds-borg hefur áform um orkuskipti við húshitun, og borgarstjórnin vill leysa jarðgas af hólmi með vetni.  Fljótt á litið getur reynzt arðsamt að rafgreina vatn á Íslandi og senda það utan með skipi, en flutningskostnaðinn þarf þó að kanna nánar.  Það er líka annar markaður að opnast fyrir vetni í Evrópu, en það er hluti stáliðnaðarins, sem vill verða kolefnishlutlaus með því að afoxa járngrýtið með vetni í stað jarðgass, sem notað er í sumum stálvinnsluofnum.  Það sparar orku að framleiða vetnið á Íslandi m.v. að gera það með íslenzku rafmagni á Englandi, og vetnisframleiðslan felur í sér verðmætasköpun með rafmagni  ásamt nokkurri atvinnusköpun.  Þá er hægt að leysa benzín og dísilolíu og væntanlega flotaolíu líka af hólmi með amoníum, NH3.  Vetnis- og ammoníumframleiðsla á Íslandi jafngilda að öllum líkindum meiri þjóðhagslegri hagkvæmni en hrár raforkuútflutningur.

ISAL í Straumsvík 

 

 


"Sæstrengurinn og orkupakkinn"

 Höfundurinn "Óðinn" birti afleitan pistil undir ofangreindri fyrirsögn í Viðskiptablaðinu 22. nóvember 2018.  Þetta var miður, því að oftast eru pistlar með þessu höfundarnafni frumlegir og fela í sér réttmæta gagnrýni og góða greiningu á viðfangsefninu.  Í þessu tilviki urðu honum þó á nokkrir alvarlegir fingurbrjótar.  

Hann minnir í upphafi á 3 orkumarkmið ESB fyrir árið 2020, sem sennilega munu ekki nást, aðallega vegna of einhliða áherzlu á slitróttar, endurnýjanlegar orkulindir, sól og vind, á meðan grunnorkugjöfum á borð við kjarnorkuver er lokað. Að berjast þannig á tveimur vígstöðvum samtímis hefur jafnan verið ávísun á ófarir.  Fyrir vikið hefur kolanotkun sumra ESB-landa aukizt og koltvíildislosun orkuiðnaðarins í heild innan ESB líka.  

Fyrsta markmiðið var, að endurnýjanlegar orkulindir stæðu undir minnst 20 % raforkuþarfarinnar.  Það mun ekki nást.  Á Íslandi er þetta hlutfall næstum 100 %.

Annað markmiðið var, að orkunýtni ykist um 20 % (vantar viðmiðunartímann).  Á 10 árum hefur eldsneytisnýtni ökutækja aukizt um a.m.k. 20 %, og líklega hefur orkunýtni raforkuvera í Evrópu aukizt um 20 % á 20 árum.  Á Íslandi eru of mikil orkutöp í raforkukerfinu vegna of lítilla fjárfestinga.  Árið 2015 námu töp og eigin notkun raforkukerfisins 1303 GWh eða 6,9 % af heildarraforkuvinnslu.  Töp og eigin notkun þurfa að fara niður fyrir 5 % eða minnka um 400 GWh/ár.  Þannig sparast um 2 mrðISK/ár.

Þriðja markmiðið var að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 20 % (viðmiðunarár vantar).  Þetta markmið næst alls ekki.  Sé miðað við árið 2005, sem stundum er gert, næst þessi minnkun alls ekki í ESB, og sigið hefur á ógæfuhliðina á Íslandi.  Þess vegna fer koltvíildisgjald losunar hækkandi í ESB, og kolefnisgjald eldsneytis fer hækkandi á Íslandi.  Hið síðara er óréttmætt, því að allsendis ófullnægjandi framboð er enn á rafbílum, til að þeir geti tekið bróðurpart endurnýjunarþarfarinnar, og enginn raunhæfur rafmagnsvalkostur er enn fyrir stórar dísilvélar.  Stjórnvöld eru komin fram úr sér í skattheimtu vegna orkuskiptanna.  Markaðurinn hlýtur að ráða ferðinni, en ekki löngun stjórnmálamanna. 

Óðinn virðist éta upp eftir ráðuneytum utanríkis og iðnaðar, þegar hann skrifar:

"Ekki er ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af þessum [orku] pakka, þó að eðlilegt sé að gjalda varhug við öllum pakkasendingum frá Brüssel.  Þessi löggjöf mun hafa mun minni áhrif á Íslandi en á meginlandi Evrópu og líklega lítil sem engin."

Þessu er einmitt þveröfugt farið.  Þar sem samkeppnismarkaður var fyrir raforku (og gas) og uppfyllti samkeppnisreglur ESB, þegar Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB var lögleiddur í aðildarlöndunum árið 2009, þar varð líklega ekki mikil breyting fyrir orkukaupendur, þegar Landsreglari tók til starfa sem eftirlitsaðili og reglusetningaraðili fyrir orkumarkaðinn, starfandi beint undir ACER-Orkustofnun ESB. 

Þar sem hins vegar ekki er fyrir hendi samkeppnismarkaður, eins og í tilviki Íslands, þar verður að stofna slíkan eftir lögleiðingu Orkupakka #3.  Líklegt er, að á Íslandi verði stofnað útibú frá "Nord Pool" orkukauphöllinni.  Þetta eitt og sér mun hafa miklar breytingar í för með sér fyrir orkuseljendur og orkukaupendur.  Raforkuverðið verður sveiflukennt, og meðalverðið mun hækka, af því að samræmd orkulindastýring verður bönnuð, sem hæglega getur leitt til ofnotkunar miðlunarlónanna í samkeppni við jarðgufuverin og þar af leiðandi mikilla verðhækkana að vetrarlagi og jafnvel orkuskorts.

"Aftur og aftur hefur komið fram, að Landsvirkjun hefur hvorki getu né áhuga á að leggja út í 800 milljarða króna framkvæmd, enda væri slíkt fásinna.  Landsvirkjun hefur á hinn bóginn aftur og aftur greint frá áhuga erlendra aðila á því að leggja sæstrenginn."

Nú er það vel þekkt, að sæstrengurinn "Ice-Link" hefur hlotið náð fyrir augum ESB og er á lista ACER um forgangsorkusamtengingar Evrópulanda.  Það þýðir, að þessi samtenging verður styrkhæf úr sjóðum Evrópusambandsins, sem miða að aukinni hlutdeild sjálfbærrar orku í orkunotkun ESB.  Hvaða áhrif útganga Breta úr ESB hefur á þessi áform, er enn óljóst.  Hitt er þó öruggt, að orkuviðskipti Breta og ESB-landanna munu halda áfram, og hugsanlega verður Bretland aukaaðili (án atkvæðisréttar) að ACER, eins og fyrirhugað er með EFTA-löndin.

Með ofangreindum stofnkostnaði, 2 % árlegum rekstrarkostnaði, 10 % heildartöpum og 8 % ávöxtunarkröfu í 25 ár, mun flutningsgjaldið þurfa að nema 90 USD/MWh, sem gæti lækkað í 80 USD/MWh vegna styrkveitinga frá ESB.  Þetta er svipað verð og nú fæst fyrir raforku á heildsölumarkaði á Englandi.  Ekkert er fast í hendi um, að brezki ríkissjóðurinn muni tryggja ákveðið lágmarksverð raforku um þennan sæstreng, sem sé talsvert hærra en þetta markaðsverð, enda er ekkert slíkt áformað í viðskiptum Norðmanna og Breta með sjálfbæra raforku frá Noregi.

"Nær væri að líta til væntrar arðsemi slíks verkefnis fyrir íslenzka raforkusala, sem flestir eru í opinberri eigu.  Þar hafa verið nefndir 10-40 milljarðar króna á ári eftir því, hvaða forsendur menn hafa gefið sér."

Það virðist alveg út í hött, að svo mikið fáist fyrir íslenzka raforku á Bretlandi, að staðið geti undir greiðslum á 80 USD/MWh til sæstrengseigandans og þar að auki greiðslum til orkuvinnslufyrirtækja á Íslandi, sem ásamt orkusölu innanlands standi undir um 25 mrðISK/ár (10-40 mrðISK/ár) í arðgreiðslum til fyrirtækjanna.  Um slíkar fjarstæður er ekki annað hægt að segja en þær hljóta að vera ættaðar frá skýjaglópum. 

S.k. listaverð Landsvirkjunar fyrir forgangsorku er núna 43 USD/MWh.  Það eru aðeins um 5 TWh/ár eftir virkjanlegir með þessum einingarkostnaði, en 1200 MW sæstrengur þarf 10 TWh/ár frá neti fyrir ofangreindan flutningskostnað.  50 USD/MWh er þannig nauðsynlegt forgangsorkuverð frá Íslandi inn á sæstreng.  Það þýðir V=80+50=130 USD/MWh, sem brezkir kaupendur yrðu að greiða fyrir íslenzkt rafmagn, ef ekki á að verða tap á viðskiptunum.  Það er 63 % hækkun m.v. núverandi markaðsverð á Englandi.  Hvað skyldu draumóramenn segja um þetta ?  Lítum aftur á Óðin:

"Það, sem skiptir arðsemi sæstrengs máli, er, hvort það náist samningur við brezk stjórnvöld um orkuverð, sem gildir út líftíma sæstrengsins eða ekki.  Í upplýsingum, sem Landsvirkjun hefur birt frá orkumálaráðuneyti Bretlands um verð á endurnýjanlegri orku, kemur fram, að það er 3-5 sinnum hærra en listaverð Landsvirkjunar til 15-35 ára.  Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, telur það geta verið hærra eða allt að 6-8 sinnum hærra." 

Hér eru miklar væntingar, en ekkert kjöt á beinunum.  Væntanlega á Óðinn við afskriftartímann fremur en tæknilegan líftíma sæstrengsins.  Höfundur þessa pistils hefur reiknað með 25 ára afskriftartíma, sem er hámark, en annars verður flutningskostnaður raforku enn þá hærri.  Samkvæmt þessu er ríkisstjórn Bretlands fús til að tryggja um 4x43=172 USD/MWh fyrir raforku frá Íslandi.  Hún þyrfti þá að greiða 172-80=92 USD/MWh með henni eða 790 MUSD/ár að jafngildi um 100 mrðISK/ár.   Fyrir slíkan samning fengi Landsvirkjun (fyrir tilviljun) sömu upphæð, en slíkir samningar væru samt ekki þjóðhagslega hagkvæmir, því að upp að 180 USD/MWh (100 USD/MWh til innlendra orkuvinnslufyrirtækja) fæst meiri verðmætasköpun með innanlandsnotkun raforkunnar.  

Er fótur fyrir því, að brezka ríkisstjórnin geti og vilji gera slíka samninga við Íslendinga ?  Nei, það er enginn fótur fyrir því.  Það er allt annað mál, hverju hún og þingið telja verjanlegt að verja til þróunar á kjarnorkuveri (Hinkley 150 USD/MWh) og á vindorkuverum undan ströndinni (200 USD/MWh).  Eins og sakir standa eru nánast engar líkur á, að brezk stjórnvöld vilji eða geti gert samninga um svona hátt verð, hvað þá eins og haft er eftir Katli Sigurjónssyni, því að brezki ríkissjóðurinn er rekinn með miklum halla og í hverjum fjárlögunum á fætur öðrum eru niðurgreiðslur vegna sólar- og vindorku minnkaðar, enda fer kostnaður frá þeim hratt lækkandi vegna tækniþróunar.   Niðurgreiðslur til vindorkuvera undan strönd hafa þó að mestu haldizt.  

Aðeins ef raforkuverð á Englandi hækkar um meira en 60 % verður hagkvæmt fyrir íslenzka virkjanaeigendur að stækka markað sinn, en enginn getur tryggt þeim slíkt verð til frambúðar eða út afskriftartíma nýrra virkjana.  Af þessum ástæðum er viðskiptagrundvöllurinn enginn, nema eitthvað annað komi til, t.d. lokun iðjuvera á Íslandi, en stjórnvöld ættu að vinna gegn slíkum skiptum, því að þau verða ekki í þjóðarhag, eins og hér hefur verið rakið. Hér er vert að benda á, að norska ríkisstjórnin hefur lagt sig í framkróka við að framlengja raforkusamninga við orkukræfan iðnað í Noregi.  Það mundi hún ekki hafa gert, nema hún teldi þjóðhagslega hagkvæmara að nota raforkuna til verðmætasköpunar í Noregi en að flytja hana til útlanda um millilandatengingarnar. Samt hirðir ríkisfyrirtækið Statnett allan ágóða af flutninginum sjálfum, Því að Statnett á allar millilandatengingarnar.    

Í næsta pistli verður haldið áfram að fjalla um þessa grein Óðins og þá m.a. um arðsemi orkusölu til stóriðju. 

 

 

 

 

  

  

 


"Hver veit, nema Eyjólfur hressist ?"

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að á Landsfundi sjálfstæðismanna í marz 2018 var einróma samþykkt ályktun frá Atvinnuveganefnd fundarins um að hafna frekara valdframsali yfir orkumarkaði landsins til evrópskra stofnana.  Það var skilningur langflestra Landsfundarfulltrúa, að þarna væri á ferðinni skýr afstaða Landsfundar gegn innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Síðan hafa þó heyrzt hjáróma raddir fáeinna sjálfstæðismanna um, að það sé misskilningur, að téð Landsfundarályktun eigi við Orkupakka #3.  Eigi er örgrannt um, að ráðherrar iðnaðar og utanríkismála, sem með málið fara í ríkisstjórn, hafi viðhaft slíkar dylgjur, og verður að færa þeim það til hnjóðs, báðum. Hefur þá heyrzt fleygt, að þáttur í grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins sé frjáls samkeppni með vöru og þjónustu, og Orkupakki #3 snúist í raun um frjálsa samkeppni um orku.  Sá hængur er á þessum málflutningi, að það er ekki afstaða Sjálfstæðisflokksins að skilgreina rafmagn sem vöru á markaði í stað afurðar náttúruauðlindar þjóðarinnar, sem nota beri til að styrkja samkeppnisstöðu íslenzkra fyrirtækja um allt land og mynda þannig undirstöðu samkeppnishæfra lífskjara hérlendis m.v. önnur lönd.  

Ýmsir sjálfstæðismenn á þingi hafa tjáð sig um þetta mál, þannig að ætla má, að innan þingflokksins sé í allvænum hópi manna að verða til sameiginlegur skilningur á því, að misráðið hafi verið að hleypa Evrópusambandinu (ESB) inn á gafl íslenzkra orkumála.  Dæmi um þessi sjónarmið komu fram í grein eftir Jón Gunnarsson, Alþingismann, í Morgunblaðsgrein 29. nóvember 2018,

"Orkupakki Evrópusambandsins".

Jón reit m.a.:

"Í huga margra er það grundvallaratriði, þegar kemur að aðild okkar að EES, að í þeim málaflokki [fiskveiðistjórnun] ráðum við sjálf regluverkinu."
 
Til þess að varðveita óskert fullveldi yfir landhelginni og nýtingu auðlinda innan fiskveiðilögsögunnar varð að undanskilja sjávarútvegsmálin frá EES-samninginum við Ísland, og hið sama var gert fyrir Noreg, og Liechtenstein er landlukt. Það var ólán, að orkumálin skyldu ekki vera undanskilin líka.  Líklegasta skýringin á, að svo var ekki gert á sínum tíma, er, að hin EFTA-ríkin hafi viljað hafa orkumálin með í EES-samninginum og íslenzkir samningamenn hafi annaðhvort ekki haft bolmagn til að fá undanþágu á Viðauka IV um orkumál í samninginum eða ekki áttað sig á mikilvægi þess að halda ESB-löggjöfinni frá orkumálum Íslands og látið gott heita að fylgja hinum EFTA-ríkjunum.  Það var misráðið, eins og nú er komið á daginn. Í þeirri stöðu er þá ekki um annað að ræða en að taka í lögbundinn neyðarhemil og beita neitunarvaldi á Alþingi.
 
  Framsóknarflokkurinn vill taka upp samningaviðræður núna við ESB um undanþágu frá Orkupakka #3.  Líklegt er, að fyrst þurfi EFTA að fallast á slíkt og að síðan hefjist samningaviðræður um þetta á milli EFTA og ESB.  Þá er eðlilegast að fara fram á, að Ísland losni algerlega við Viðauka IV um orkumálin í EES-samninginum.  Þetta verður á brattann að sækja.  Einfaldast er að beita neitunarvaldinu á Alþingi.
 
Síðan víkur Jón Gunnarsson að því, að regluverki ESB, sem í ýmsum tilvikum er mjög íþyngjandi fyrir lítið samfélag á tiltölulega afskekktri eyju, og telur, að íslenzkir embættismenn eða stjórnmálamenn hefðu verið þess umkomnir að gera löggjöf ESB okkur eitthvað hagfelldari.  Það er borin von.  Væntingar um slíkt eru algerlega óraunhæfar.  Það ætti öllum að vera ljóst, sem líta á ferli tilskipana og gerða hjá ESB.  Ef átt er við hina Sameiginlegu EES-nefnd, þá er það einfaldlega æ ákveðnari krafa að hálfu ESB, að samræmi verði í framkvæmd tilskipana og gerða innan alls ESB og EES.  Evrópurétturinn á að vera einn og óskiptur.  Að hola hann út er eðlilega illa séð.
 
"Í einhverjum tilfellum skrifast það á okkar reikning, því við stóðum ekki vaktina úti í Brüssel, þegar regluverkið var í smíðum, því það er á því stigi, sem við höfum tækifæri til að koma athugasemdum okkar á framfæri og eftir því, sem við á, að leggja til breytingar, sem við viljum ná fram eða sækja um undanþágur frá einhverjum þeim reglum, sem til stendur að færa í lög."
 
Við verðum aldrei í neinni slíkri aðstöðu, nema við göngum í ESB.  Það er framkvæmdastjórn ESB, sem einhliða ákveður, hvaða tilskipanir og gerðir skuli fara til umfjöllunar í Sameiginlegu EES-nefndinni til innleiðingar í löggjöf EFTA-landanna.  Þar hafa aldrei náðst neinar markverðar breytingar fram á virkni löggjafarinnar.
 
Síðan víkur Jón skrifunum að Orkupakkanum, hvers vegna margir Íslendingar óttast verðhækkanir á raforku, sem fylgi í kjölfar hans, og stjórnun orkumála hér með hliðsjón af hagsmunum alls EES í stað einvörðungu eyjarskeggjanna hér:
 
"Sjálfbær nýting náttúruauðlinda er okkur Íslendingum hlutfallslega mikilvægari en öðrum þjóðum, og þess vegna er eðlilegt, að umræður verði krefjandi.  Þetta á við um orkupakkann.  Íslendingar framleiða u.þ.b. 50 MWh af raforku á hvern landsmann [53 MWh/íb], á sama tíma og Norðmenn framleiða 15 MWh [25 MWh/íb-innsk. BJo].  Þessar tvær þjóðir bera höfuð og herðar yfir aðrar, þegar kemur að þessari framleiðslu.  Það er því eðlilegt, að margir hafi áhyggjur, þegar þeir telja, að innleiðing regluverks ESB geti haft takmarkandi áhrif á ákvarðanatöku okkar um skipulag þessara mála til lengri framtíðar og mögulega kallað fram hækkun á raforkuverði til heimila og almenns fyrirtækjarekstrar í landinu."
 
Það nægir að nefna 2 dæmi um réttmæti kvíðbogans fyrir innleiðingu Orkupakka #3 á hag allra landsmanna:
a) Eftir innleiðingu markaðskerfis ESB á íslenzkum raforkumarkaði, verður bannað að stunda hér orkulindastýringu þvert á fyrirtæki í samkeppnisrekstri. Með þessu er átt við stýringu álags á virkjanir með það í huga að treina vatnið í miðlunarlónunum allan veturinn fram að þeim tíma, er innrennsli lónanna eykst á ný að vorlagi.  Þá verður þess líka gætt að ofnýta ekki virkjuð gufuforðabúr, en hætta er á því, þegar vatnsaflsvirkjanir gefa eftir vegna vatnsleysis.  
b) Prófessor Peter Örebech sýndi fram á það í fyrirlestri sínum í HÍ 22. október 2018, að málsmeðferð umsóknar um leyfi til að leggja aflsæstreng til Íslands og tengja hann við íslenzka raforkukerfið mun bera öll einkenni einnar stoðar lausnar í stað tveggja stoða lausnar, sem áskilin er í EES-samninginum.  Þetta þýðir, að ákvarðanatakan verður alfarið í höndum Landsreglarans á Íslandi og yfirvalda hans, Orkustofnunar ESB-ACER.  Breytir þá engu um niðurstöðuna, þótt Alþingi samþykki bann við slíku, þegar það verður búið að afsala sér völdum á þessu sviði til yfirþjóðlegrar stofnunar, sem landið á ekki aðild að.
 
Síðan harmaði Jón Gunnarsson, að Ísland skyldi ekki hafa verið undanþegið orkumálakafla EES-samningsins, eins og sjávarútvegskaflanum, en það stafar sennilega af mismunandi hagsmunamati Norðmanna á þessum tveimur auðlindasviðum og framsýni hefur skort hjá íslenzku samningamönnunum til að berjast fyrir undanþágu fyrir Ísland frá Viðauka IV um orkumálin:
 
"Þróun regluverks ESB vegna orkumála var ekki fyrirséð [af] þeim, sem á sínum tíma lögðu áherzlu á innleiðingu þess hér á landi, og það sér ekki fyrir endann á þeim málum.  Eftir á að hyggja hefði því verið skynsamlegt, að við þróuðum okkar eigið regluverk til að gæta hagsmuna landsmanna og fyrirtækja í landinu.  Tryggja eðlilegan markað og samkeppni, sem hefði skilað hagkvæmum rekstri og bætt hag neytenda.  
Ég get ekki séð, að það skipti samstarfsþjóðir okkar nokkru máli, þó að við stæðum utan regluverksins um orkumál.  Þrátt fyrir að vera hlutfallslega stórir framleiðendur, er markaðurinn hér örmarkaður í stóra samhenginu, markaður, sem skiptir ekki aðra en okkur máli m.a. vegna þess, hversu langt við erum frá markaði ESB, og við erum ekki að tengjast þeim markaði á næstu árum, hvað sem síðar verður."
 
Það er mikið til í þessu hjá þingmanninum, en samt er hætt við, að hann sé of bláeygur gagnvart hagsmunagæzlu ESB.  ESB hungrar eftir endurnýjanlegri raforku.  Þar á bæ er ekki litið einvörðungu á núverandi orkumarkað hérlendis, heldur eru orkulindirnar allar teknar með í reikninginn, og mikið er óvirkjað hér, bæði í nýtingarflokki, biðflokki og verndarflokki Rammaáætlunar.  Hafa ber í huga hér, að náttúruvernd er ekki tekin gild í Evrópurétti sem útflutningshindrun. 
Nú er búið að virkja aðeins um 40 % þess, sem talið er hagkvæmt að virkja hér fyrir utan vindorkuna.  Alls má meta mögulega verðmætasköpun með allri orkunni yfir 600 mrdISK/ár, svo að þessi auðlind mun skipta sköpum fyrir framtíðina á Íslandi.
 
List stjórnmálanna verður fólgin í því að skapa forsendur í landinu fyrir nýtingu auðlinda landsins til hagsbóta fyrir fólkið í landinu.  Það má fullyrða, að það er ómögulegt með því að deila þessum auðlindum með öðrum með einum eða öðrum hætti.  Listin verður þar að auki fólgin í því að skapa snurðulaust aðgengi fyrir afurðir landsins sem víðast í heiminum, þar sem kaupgeta er.
 
Grein sinni lýkur Jón í sáttatóni, þar sem hann virðist leggja til, að ríkisstjórnin geri stefnumörkun miðstjórnarfundar Framsóknarflokksins að sinni, en miðstjórnarfundurinn lagði til, að leitað yrði hófanna hjá EFTA/ESB um undanþágu allra ákvæða Þriðja orkupakkans fyrir Ísland gegn því, að Alþingi myndi staðfesta innleiðingu pakkans í Viðauka IV við EES-samninginn.  Rökrétt væri hins vegar m.v. grein Jóns að losa Ísland alfarið undan Viðauka IV, því að það hafi verið misráðið í upphafi, að Ísland væri aðili að honum.  Þá renndi íslenzk stjórnvöld líklega ekki í grun, hvað þar myndi verða sett inn með tíð og tíma.  
 
"Mín tillaga er því einföld: setjumst niður með viðsemjendum okkar og förum yfir málin á þessum grunni.  Ég sé ekki, að þær þjóðir hafi, eins og sakir standa, sérstaka hagsmuni af því, að við innleiðum reglur ESB um orkumál."
 
Það er þó hægt að greina hernaðaráætlun ("strategíu") hjá ESB með orkustefnu sinni og með Viðauka IV í EES-samninginum.  Hún er sú, að öll raforkunotkun ESB-landanna verði á grundvelli sjálfbærrar orkuvinnslu og allt ESB-svæðið verði einn orkumarkaður með mjög svipað orkuverð alls staðar.  Tenging allra Norðurlandanna er af augljósum ástæðum (orkuríkidæmi) hluti þessarar hernaðaráætlunar.  Þjónar hún hagsmunum Íslands ?  Nei, þegar kemur að samtengingu íslenzka orkukerfisins við ESB gerir hún það ekki, því að hún eyðileggur samkeppnisforskot Íslands. 
 
Það er miður, að íslenzk stjórnvöld skuli ekki hafa staðið sig betur en raun ber vitni um við hagsmunagreiningu fyrir Íslands hönd og einarðri stefnumörkun á grundvelli hennar.  Það er ekki seinna vænna en að setjast niður með viðsemjendum okkar og útskýra fyrir þeim nýja afstöðu Íslands, og hvers vegna hún er nauðsynleg.  Þetta mál verður prófsteinn á innri styrk stjórnvalda og getu utanríkisþjónustunnar.  
 
 
 
 

Sjálfstæðið á undanhaldi - hver rekur flóttann ?

Það er deginum ljósara, að EES-samningurinn er orðinn stórvarasamur fyrir hagsmuni Íslands vegna þess, að hann hefur þróazt frá s.k. tveggja stoða fyrirkomulagi ákvarðanatöku og yfir í einnar stoðar ákvarðanatöku um mikilvæg málefni, þ.á.m. um ráðstöfun orkulinda og rekstur raforkumarkaðar.

Tveir forystumenn ríkisstjórnarinnar, s.k. Viðeyjarstjórnar, sem beitti sér fyrir lögfestingu EES-samningsins, hafa manna skeleggast bent á, að þróun þessa samnings geti reynzt Íslendingum hættuleg og að brýna nauðsyn beri til að spyrna við fótum á Alþingi, þegar Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB verður þar borinn undir atkvæði.

Ágætis dæmi um þetta gaf að líta í Reykjavíkurbréfi sunnudagsblaðs Moggans 09.12.2018,

"Svör við röngum spurningum hafa aldrei komið að gagni".

Höfundurinn bendir á ömurlegan hlut íslenzka embættismannakerfisins, sem hefur látið sig hafa það að gerast taglhnýtingur forréttindastéttarinnar í Brüssel, sem þar situr við kjötkatlana og semur tilskipanir og reglugerðir, sem nánast allar þjóna stefnumiðum stórauðvalds Evrópu um sameinað eitt Evrópuríki, sem ekki hefur sézt þar síðan á dögum Karlamagnúsar í Aachen forðum, ef stutt ógnartilvist Þriðja ríkis þjóðernisjafnaðarmanna 1933-1945 er undanskilin. Þar stóðu um skeið engilsaxar á Bretlandseyjum einir á móti ofureflinu, og endurtekur sagan sig núna fyrir framan augun á okkur að breyttu breyttanda.

Eftir að hafa skrifað um Neville Chamberlain, Winston Churchill, Adolf Hitler og Tony Blair í inngangi, víkur höfundur Reykjavíkurbréfsins sögunni til Íslands:

"Umræður um þriðja orkupakkann eru gott dæmi um þetta [þ.e. að skynja eða skynja ekki um hvað málið snýst, og hvaða spurning og svar við henni skipti mestu máli (gæti vísað til spurninga og svara um Orkupakka #3 á vefsetri Auðlinda- og nýsköpunarráðuneytisins,ANR)]. Þar hefur ýmsu, sem engu skiptir eða litlu, verið blandað inn í aðdraganda ákvarðanatöku, og snýst það tal gjarna um það, hvort hætta af málinu sé á þessu stigi lítil eða mikil, og hvort Íslendingar geti fengið að hafa einhverja aðkomu að framtíðarstjórnun þess, þótt lokaorðið sé komið annað.  Ekki sé endilega víst, að þetta eða hitt komi upp í málinu og verði vandamál.  Þetta eru allt fjasspurningar.  En spurningarnar, sem þarf að svara, eru þessar:

Er eitthvað í þessu máli fyrir okkur Íslendinga ?  Svarið við því er nei.  Heimilar stjórnarskrá okkar yfirfærslu valds í þessum málaflokki ?  Svarið við því er líka nei.  Af hverju í ósköpunum er þá málið enn að þvælast fyrir stjórnmálamönnum hér á landi ? [Undirstr. BJo - svar BJo: ESB hefur komið ár sinni vel fyrir borð hérlendis.]

Það er hárrétt, að ráðuneytin tvö, sem hafa þetta mál á sinni könnu, hafa afvegaleitt umræðuna um það með kolröngum áherzlum, rangfærslum og hártogunum.  Dæmi um þetta eru fullyrðingar um, að ekkert muni breytast í íslenzka orkugeiranum fyrr en hingað verði lagður sæstrengur og að slíkt hafi Íslendingar í hendi sér. Hið rétta er, að eftir innleiðingu Orkupakka #3 verður ekki komizt hjá fullri markaðsvæðingu raforkuviðskiptanna, og þá er líklegast, að útibú "Nord Pool" orkukauphallar verði fyrir valinu sem vettvangur þessara viðskipta.  Ef þá kemur kvörtun frá markaðsaðila til ESA yfir markaðshlutdeild Landsvirkjunar, mun ESA bregðast við með vísun til ESB-réttar. 

Það er jafnframt engin ástæða til að efast um, að gerð #347/2013 verði innleidd hér í kjölfar innleiðingar pakkans, sem hún er náskyld, og þar með er komin forskrift fyrir Landsreglarann til að leggja mat á sæstrengsumsóknir.  Alþingi hefur þá afsalað sér og yfirvöldum landsins stöðvunarvaldi yfir sæstrengsverkefni, enda er ákvörðunarferlið fyrir sæstreng einnar stoðar fyrirkomulag, eins og prófessor Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, hefur sýnt fram á í fyrirlestri hérlendis.

Síðan tekur höfundur Reykjavíkurbréfs til við að fjalla um þróun EES-samningsins, en sá samningur er auðvitað farvegur orkupakkans hingað til lands.  Fá hérlendir embættismenn, sem um þessi mál fjalla, falleinkunn hjá höfundinum og sömu söguna er að segja af lögfræðilegum álitsgjöfum á vegum ráðuneyta, sem t.d. hafa veitt umsagnir um Orkupakka #3.

"Nú er komið á daginn, að því fer algjörlega fjarri, að þeim embættismönnum, sem treyst var til að halda á hagsmunum Íslands eftir EES-samninginn, hafi risið undir því.  Þeir hafa, eins og frú Thatcher orðaði það fyrir löngu, flutt sitt ríkisfang og trúnað.  Þeir hafa furðu fljótt tekið að líta á sitt hlutverk sem smala í hlutastarfi fyrir ESB.  Er hægt að nefna nokkur dæmi um það.

Þetta þýðir að sjálfsögðu, að þeir stjórnmálamenn, sem fylgdu því eftir í góðri trú, að samþykkja bæri aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, hafa verið illa sviknir.   Embættismannakerfið hefur smám saman unnið að því að koma sér upp lögfræðilegum álitsgjöfum, sem skrifa upp á hvað sem er í efnum sem þessum.  Slíkir sýndu heldur betur á spilin sín í Icesave-málinu sællar minningar."

Það voru forystumenn Viðeyjarstjórnarinnar, Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson, sem fylgdu því manna fastast fram á Alþingi á sinni tíð, að EES-samningurinn yrði samþykktur, sem Alþingi svo gerði í janúar 1993.  Nú lætur annar þeirra í ljós mikil vonbrigði með frammistöðu þeirra embættismanna og stjórnmálamanna, sem rekið hafa þennan samning, og báðir hafa þeir látið í ljós megna óbeit sína á fyrirætlun núverandi ríkisstjórnar um innleiðingu Þriðja orkupakkans frá ESB.

Ef allt er með felldu í Stjórnarráðinu, hljóta varnaðarorð þessara fyrrverandi ráðherra, sem mest véluðu um EES-samninginn á sinni tíð, að reka út í hafsauga allan vafa þar um, að beita beri neitunarvaldi gegn Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB.  

Hérlendum embættismönnum og stjórnmálamönnum er ekki treystandi til að standa í ístaðinu til lengdar gagnvart þeirri viðleitni framkvæmdastjórnar ESB og helztu forkólfa þess að draga sífellt meiri völd frá þjóðríkjunum og til stofnana ESB; ekki frekar en kollegum þeirra í Noregi.  Af þessu leiða æ stærri stjórnlagalegar spurningar á Íslandi og í Noregi, þótt hinir aðkeyptu lögfræðingar ríkisstjórna landanna setji kíkinn fyrir blinda augað og skrifi svo sín minnisblöð og greinargerðir til ráðherra.  Þeir verða þá reyndar að sæta því, að sérfræðingar í Evrópurétti geri alvarlegar athugasemdir við niðurstöður þeirra.  Eitt slíkt mál er nú rekið fyrir þingréttinum í Ósló vegna þeirrar túlkunar norsku ríkisstjórnarinnar, að einfaldur meirihluti dygði til að samþykkja Orkupakka #3 í Stórþinginu, af því að fullveldisframsalið væri minni háttar. Er líklegt, að dómur Þingréttarins verði kveðinn upp haustið 2019 og endanlegur dómur Hæstaréttar Noregs verði birtur haustið 2020.

Ekki er hægt að láta þessa spægipylsuaðferð ganga endalaust, og Orkupakki #3 er að margra dómi hérlendis þannig vaxinn, að gegn honum verður að spyrna við fótum, eins og Grettir gerði forðum, er hann glímdi við drauginn Glám á Þóroddsstöðum í Forsæludal.  Það þarf að bregða saxinu sem fyrst og afhausa drauginn áður en orð hans verða að áhrínsorðum.  

Þegar bent er á vaxandi alvarlega galla við EES-samninginn, er strax tekið að kyrja óttusöng um, að EES-samningurinn sé undirstaða núverandi lífskjara á Íslandi.  Vegna gallanna, sem felast í að taka upp mjög íþyngjandi lagabálka ESB, sem Viðskiptaráð telur virka stórlega hamlandi á framleiðniaukningu landsins, sem er þá dragbítur á lífskjarabata, þarf að skoða með opnum huga möguleikana á fríverzlunarsamningi við ESB og Bretland með víðtækum samstarfsákvæðum í líkingu við samband Svisslands við ESB. 

Nú er gerjun í þá átt í Noregi að segja EES-samninginum upp, því að löggjöf ESB eigi oft á tíðum illa við í Noregi, og þá getur opnazt sá möguleiki, að EFTA og ESB geri slíka fríverzlunarsamninga.  Þetta þarf allt að vega og meta á hagsmunavog Íslands, þar sem markaðsaðgengið auðvitað mun vega þungt. 

"Þegar EES-samningurinn var í umræðu í þinginu, voru lögð fram tvö gagnstæð lögfræðiálit um það, hvort EES-samningurinn stæðist stjórnarskrá landsins.  Meirihluti þingsins byggði á áliti, sem taldi, að málið stæðist.  En það fór ekki á milli mála, að samningurinn kallaði á mikla varfærni og einurð, hvað þetta varðaði.  Ætli menn sér að skoða þróun samningsins, og hvernig á honum hefur verið haldið, þá er óhjákvæmilegt, að það sé gert á grundvelli þessara lögfræðiálita og framganga íslenzkra yfirvalda skoðuð með hliðsjón af því.  Þá væri verra en ekkert, ef að því kæmu að einhverju leyti þeir aðkeyptu lögfræðingar, sem skrifað hafa upp á gerðir embættiskerfisins, sem stjórnmálamenn síðustu ár hafa gersamlega lagzt flatir fyrir, svo að til vanza er."

Höfundur Reykjavíkurbréfs hefur áhyggjur af því, að sú rýni á rekstri EES-samningsins, sem nú stendur yfir á vegum utanríkisráðuneytisins, verði með böggum hildar.  Er ástæða til að búast við óvilhallri og hlutlægri umfjöllun í þeirri skýrslu ?  Áhyggjur um það eru ekki ástæðulausar.

Á aldarfjórðungsrekstrartíma EES-samningsins hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina varðandi íþyngjandi innleiðingar ESB-gerða og tilskipana.  Það eru engin teikn á lofti um breytingu á þessari tilhneigingu, og þess vegna nálgast Ísland stöðugt meir að verða með löggjöf, eins og ESB-ríki.  Það er algerlega borin von, að íslenzkir embættismenn geti haft nokkur umtalsverð áhrif á tilurð þessara samfélagsforskrifta. Þær eru í upphafi mótaðar á lokuðum fundum ESB-ríkjanna, og bolmagn íslenzkra embættismanna til breytinga á síðari stigum er nánast ekkert.  Það er hrein fjármunasóun að vera með tilburði til slíks.  Norðmenn eru með 70 manns í störfum í Brüssel við að fylgjast með öllu moðverkinu og verður lítið ágengt að eigin mati.  Með þessu áframhaldi sogumst við fyrr en síðar inn í svarthol ESB.  Þar verðum við sem "krækiber í helvíti" eða fluga í köngulóarvef. Það er óþarfi nú, þegar kvarnast fer úr Evrópusambandinu og innri mótsetningar þess eru að verða óbærilegar.

 

 

  

 

 


Bindandi áhrif Þriðja orkupakkans

 Seinni hluti fyrirlestrar prófessors Peters Örebech í HÍ 22.10.2018 fjallaði um stöðuga þróun orkulöggjafar Evrópusambandsins, ESB, til meiri miðstýringar og valdframsals aðildarlandanna til framkvæmdastjórnar ESB, og sér engan veginn fyrir endann á þeirri þróun, því að Fjórði orkupakki ESB mun vera í burðarliðnum.  

Þann 1. desember 2018 fékk Heimssýn góðan gest frá Stafangri á Rogalandi.  Sá leiðir starf SV-Sosialistisk Venstreparti í Stafangri.  Hann hélt ræðu að kveldi fullveldisdagsins hjá Heimssýn, og er hún birt í íslenzkri þýðingu í viðhengi þessa pistils.  Þar gat hann um, að SV hefði gert það að tillögu sinni á Stórþinginu, að ríkisstjórnin drægi frumvarp sitt um innleiðingu Þriðja orkupakkans í EES-samninginn til baka, þar til Fjórði orkupakki ESB sæi dagsins ljós.

Það var skynsamleg tillaga, sem ríkisstjórnin hundsaði m.a. af því, að mikil pólitísk gerjun á sér stað um þessar mundir í afstöðunni til orkupakka ESB í Noregi.  Hún á sér aðallega stað innan verkalýðshreyfingarinnar, og hefur Alþýðusamband Noregs, LO, þegar tekið opinbera afstöðu gegn Orkupakka #3. Ekki nóg með þetta, heldur virðist verkalýðshreyfingin vera að fá sig fullsadda af stöðugum straumi gerða og tilskipana frá ESB, sem grafa undan stöðu verkalýðshreyfingarinnar og atvinnuöryggis verkafólks.

Nú er rætt um það í Noregi, að á þingi Alþýðusambandsins árið 2022, muni verða samþykkt tillaga um uppsögn EES-samningsins.  Þetta mun tvímælalaust breyta afstöðu stærsta stjórnmálaflokks Noregs, Verkamannaflokksins, til Evrópu-samstarfsins, en forysta hans hefur hingað til verið höll undir inngöngu Noregs í ESB. Þar með munu valdahlutföllin í Stórþinginu m.t.t. afstöðunnar til ESB snúast við, sem óhjákvæmilega breytir líka afstöðunni til EES og innleiðingar afdrifaríkra Evrópugerða að einhverju leyti.

Peter Örebech, lagaprófessor og sérfræðingur í Evrópurétti, rakti það í 6 liðum í fyrirlestri sínum, hvernig framkvæmdastjórn ESB herðir stöðugt tök sín á orkumálunum.  Fyrir löndin á meginlandi Evrópu kann vel að vera vit í því, en fyrir eyjarskeggja í um 1500 km fjarlægð frá landsvæði þessa ríkjasambands (eftir útgöngu Breta), er alveg út í hött að innleiða reglur ESB, sem stórlega skerða sjálfsákvörðunarrétt þeirra um málefni helztu auðlindar þeirra, endurnýjanlegrar orku, og bjóða jafnframt hættunni heim um tengingu við erlend raforkukerfi og spákaupmennsku, sem leiða mun til mikilla raforkuverðshækkana, algerlega að þarflausu. Þessi voru atriðin 6 hjá PÖ:

  1. Fyrirkomulag orkumarkaðar ESB um sameiginlegar reglur fyrir Innri markað rafmagns, sem samkvæmt tilskipun 2003/54 ESB frá 26.06.2003 var valkvætt, breyttist með stofnun ACER-Orkustofnunar ESB yfir í bindandi fyrirkomulag með gerð 713/2009 o.fl.
  2.  Takmarkið með stjórnun ESB á þessu sviði er að "ná markmiðum evrópsku orkustefnunnar". Til að ná þeim er bent á, að ESB verði að "fjarlægja hindranir á  viðskiptum yfir landamæri með rafmagn og jarðgas".  ACER á ennfremur að "sjá til þess að fylla upp í eyður löggjafarinnar sem hluti af ESB" (ESB-gerð 713/2009, formáli, atriði 5).  ESB hefur ákveðið, að "stofnunin skuli tryggja, að stjórnvaldsaðgerðir í hverju landi ... séu rækilega samhæfðar og, ef nauðsyn krefur, kláraðar á vettvangi ESB" (formálinn, atriði 6). 
  3. Með "á vettvangi ESB" er ekki átt við náið samráð ESB-landanna í þjóðréttarlegum skilningi, heldur er átt við frumkvæði ESB-stofnana, þ.e.a.s. ACER, en einnig aðrar ESB-stofnanir, þ.á.m. ENTSO-E: "Framkvæmdastjórnin og stofnunin vinna náið saman í sambandi við framkvæmd þessarar Evrópugerðar, og slíkt getur einnig átt við um samtök evrópskra kerfisstjóra fyrir rafmagn og gas" (formálinn, atriði 20).  
  4. Uppbyggingu stofnunarinnar [ACER] skal aðlaga sértækum þörfum stýringar á orkusviði. Þar skal taka sérstakt tillit til sérstaks hlutverks landsreglaranna og tryggja sjálfstæði þeirra (formálinn, atriði 20).
  5. Stofnuninni ber að tryggja, að stýringarverkefni  landsreglaranna samkvæmt tilskipun 2009/72/ESB frá 13.07.2009 um sameiginlegar reglur Innri markaðarins fyrir rafmagn og tilskipun 2009/73/ESB frá 23.07.2009 fyrir jarðgas, séu samhæfð með skilvirkum hætti og, ef nauðsyn krefur, sé framfylgt á vettvangi ESB.  Í þessu sambandi er nauðsynlegt að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart rafmagns- og gasframleiðendum, flutnings- og dreifingarfyrirtækjum, hvort sem þau eru í opinberri eða einkaeigu, og gagnvart notendum, og tryggja, að starfsemi stofnunarinnar sé samkvæmt ESB-réttinum, tryggja tæknilega og stjórnunarlega getu stofnunarinnar og aðgengi að henni, móttækileika fyrir lýðræðislega stjórnun og skilvirkni (formálinn, atriði 6).
  6. ESB-gerð #347/2013 frá 17.04.2013 [utan Orkupakka #3, en verður nánast örugglega innleidd á Íslandi í kjölfar hans, af því að hún og gerðir "pakkans" skarast] um leiðbeiningar fyrir orkumannvirki á milli Evrópulanda, sem leysir af hólmi #1364/2006/ESB og felur í sér breytingar á gerðum #713/2009, #714/2009 og #715/2009 [sem allar eru í Orkupakka #3].  Ákvarðanatakan innan stofnananna er takmörkuð við aðildarlönd ESB og Framkvæmdastjórnina.
Norsku lagaprófessorarnir Eirik Holmöyvik og Hallvard Haukeland Fredriksen draga af þessu eftirfarandi ályktun:
"Með þessu yfirtekur ESA stjórnunarvald ríkisstjórnarinnar á þeim hluta norskrar orkustjórnsýslu, sem fellur í hlut Landsreglarans ... Og, ef Landsreglarinn dregur lappirnar, geta trúlega einkaaðilar framkallað framkvæmdina með því að leggja fram gögn fyrir norskum dómstólum um, að norsk lög skyldi Landsreglarann til að framkvæma ákvarðanir ESA."
http://rett24.no/articles/grunnlovsstridig-tilknytning-til-eus-energibyra .
 
"Staðan er þá sú, að allt ákvörðunarvald um orkuflutninga á milli landa er hjá ACER og orkuskrifstofum ESB (með Framkvæmdastjórnina á toppinum."
Þar með hefur prófessor Örebech sannað lögfræðilega, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn felur í sér fráhvarf frá "tveggja stoða lausn" til "einnar stoðar lausnar".  Þetta felur í sér stjórnarskrárbrot bæði í Noregi og á Íslandi.  Formlegt sjálfstæði með ESA sem millilið og raunverulegt ósjálfstæði stríðir gegn Stjórnarskrá, segir prófessor Örebech, og í sama streng hefur prófessor emeritus, Stefán Már Stefánsson, tekið. Sjá þó skoðun annars lögfræðings í lok þessa pistils. 
"Prófessor Johs. Andenæs skrifar (Statsforfatningen i Norge (Tano, 1997), s. 265): fullveldisframsal er löglegt með því skilyrði, að það fari fram í "samvinnu jafnsettra ríkja í þágu sameiginlegra hagsmuna" og samningsaðilar verða í sameiningu að mynda alþjóðlegt félag (stofnun) af fullri gagnkvæmni.  Samkvæmt Andenæs jafngildir ACER aðildin stjórnarskrárbrotlegu valdframsali, "þótt formlegt fullveldi væri virt".  Við aðild að ACER verða ESA og Landsreglarinn tæki fyrir ESB og ekki fyrir Noreg, og ESB fylgir að venju  1-stoðar-lausn í andstöðu við stjórnarskrárgrein #1.  Ríkisstjórnin hefur þannig sett Noreg í aðstöðu, sem  prófessor Andenæs ræðir um sem "lýðríkisstöðu" (bls. 266), andstætt stjórnarskrá."
 
Engum vafa er undirorpið, að sé ACER-aðild Noregs brot á stjórnarskrá þar, þá er ACER-aðild Íslands brotleg við stjórnarskrá Íslands með sömu rökum og að ofan eru tíunduð. 
 
"Inngangan í Orkusamband ESB (þ.m.t. ACER) er reist á því kerfi, að norsk stjórnmálaleg yfirvöld geti ekki gripið í taumana gegn óæskilegegri afritsákvörðun Landsreglarans/ESA, af því að norsk löggjöf setur þá kvöð á Landsreglarann að raungera ákvörðun ESB. Landsreglarinn er fjármagnaður af Stórþinginu og með stjórnendur, sem Oíu- og orkuráðuneytið velur án þess að vera tæki fyrir norska ríkið, heldur tæki fyrir ESB.  Þetta sjálfstæði frá hagsmunaöflum norska ríkisins eða einkaaðilum er fyrirskrifað í tilskipun 2009/207: "Landsreglarinn skal vera algerlega óháður öllum opinberum hagsmunum og einkahagsmunum".  Þetta kerfi afritaðra ákvarðana er-í samræmi við viðhorf prófessors Andenæs-andstætt stjórnarskrá, gr. 1."
 
Hér er hin lögfræðilega niðurstaða skýr, að öll völd varðandi orkuflutninga á milli aðildarlanda ACER, einnig EFTA-landanna, ef þau gerast þar aðilar (án atkvæðisréttar), er hjá ACER.  Vitlausasta viðbáran gegn þessu hérlendis er sú, að þetta gildi ekki um Ísland, af því að landið er ótengt við raforkukerfi annarra landa.  Auðvitað gilda völd ACER um allar sæstrengsmumsóknir, einnig þá fyrstu.
 
Það vekur ekki síður furðu að heyra holtaþokuvæl um valdsvið ACER berast frá innsendri grein til Bændablaðsins 29. nóvember 2018, en höfundur hennar er Hilmar Gunnlaugsson, hrl. og LLM í orkurétti.  Hann er á öndverðum meiði við ofangreinda norska lögspekinga án þess þó að bera sannfærandi rök á borð fyrir lesendur.  Minnir þessi Bændablaðsgrein mest á skæklatog og sparðatíning.  Höfundurinn reynir að telja lesendum blaðsins trú um, að ACER sé áhrifavaldur sem ráðgefandi aðili, en ekki ákvörðunaraðili.  Hilmar skrifar m.a.:
"Hlutverk hennar [ACER] er fyrst og fremst að samræma gerðir raforkueftirlits innan sambandsins, eins og nafnið ber sér.  Að vera ráðgefandi.  ACER hefur takmarkað ákvörðunarvald, en er framkvæmdastjórninni, sem getur innan ESB tekið ákvarðanir, til ráðgjafar um þau málefni, sem tengjast verkefnasviði hennar."
 
 ACER hefur verið falið aðalhlutverkið við að hrinda orkustefnu ESB í framkvæmd, og til þess hafa stofnuninni verið falin völd og sjálfstæði, s.s. til að ryðja úr vegi hindrunum í einstökum löndum á leið orkustefnunnar.  Verkfærið er Landsreglarinn í hverju landi, sem verður óstöðvanlegur í aðgerðum sínum, svo lengi sem hann heldur sig að fyrirmælum ACER og Evrópuréttarins.    
 
 
 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband