Færsluflokkur: Fjölmiðlar
29.5.2019 | 21:54
Miðflokkurinn brýtur í blað
Það hefur vakið athygli pistilhöfundar, þegar hann hefur gripið niður í umræður á Alþingi um Þriðja orkupakkann, OP#3, hversu hófstilltur, vel upplýstur og rökstuddur málflutningur Miðflokksmanna í málinu er.
Einkennandi er skilningur Miðflokksmanna á því, að OP#3 er grundvallarmál og afgreiðsla hans markar ögurstund fyrir fullveldi landsmanna í hefðbundnum skilningi. Hjá stjórnarflokkunum ríkja algerlega öndverð viðhorf. Í þeim herbúðum og að hálfu sumra stjórnarandstöðuflokka er því haldið fram, að OP#3 snúist ekki um neitt annað en að fullgilda skyldur Íslands gagnvart EES-samninginum. Þetta er eymdaróður og svo ómálefnalegur, að hann er óboðlegur. Þessi málflutningur afhjúpar, að viðkomandi botnar hvorki upp né niður í OP#3.
Enginn vafi er um samhljóm Miðflokksmanna með meirihluta þjóðarinnar í þessu máli, sem tilbúinn er til að láta steyta á orkumálunum í samskiptum Íslands við ESB og Noreg. Ástæðan er m.a. sú, að landsmenn vilja ekki eiga á hættu að þurfa að beygja sig undir erlenda stefnumörkun um fyrirkomulag á raforkumarkaði í meiri mæli en orðið er eftir fyrstu orkupakkana tvo, enda er um að ræða ráðstöfun verðmætustu náttúruauðlindar landsins. Vegna loftslagsmálanna mun verðmæti afurðar þessarar auðlindar fara vaxandi á næstu árum allt þar til ný tækni við raforkuvinnslu mun ryðja sér til rúms. Við eigum ekki meira erindi inn í miðstýringarkerfi Evrópusambandsins á sviði orkumála en við eigum inn í Evrópusambandið sjálft sem fullgildir aðilar.
Mikil gerjun á sér stað í evrópskum stjórnmálum um þessar mundir. Um hríð hefur fjarað undan jafnaðarmönnum, og sú þróun hélt áfram í kosningum til ESB-þingsins 23.-26. maí 2019. Græningjar eru að taka við gamalgrónu hlutverki kratanna sem forystuafl vinstra megin við miðju stjórnmálanna. Íhaldsflokkar töpuðu líka fylgi í þessum kosningum, t.d. fór þýzki CDU niður í 29 %, en mest afhroð galt þó brezki Íhaldsflokkurinn, sem fór niður í 9 %. Engum blöðum er um það að fletta, að "haltu mér-slepptu mér" afstaða margra þingmanna flokksins og ríkisstjórnar hans í garð Evrópusambandsins, ESB, er orsök þessa afhroðs. Þetta er lærdómsríkt fyrir Íslendinga, því að samstarfið við EES-þjóðirnar hefur um hríð verið í brennidepli, og margir landsmenn eru óánægðir með "óhreina" leið utanríkisráðherrans og ríkisstjórnarflokkanna í orkupakkamálinu. Hvers vegna er ekki valin "hreinasta" leiðin, sú leið, sem vörðuð er í EES-samninginum sjálfum og sú, sem minnsta lagalega óvissu skapar, þ.e. að neita að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara, svo að leita megi eftir undanþágum á réttum vettvangi, þ.e. í Sameiginlegu EES-nefndinni ? Margir landsmenn finna ekki aðra skýringu á þessu framferði en undirlægjuhátt ríkisstjórnarinnar við samstarfsþjóðir okkar í EES. Það er óviðunandi staða, sem binda verður endi á. Þessir kjósendur munu margir hverjir finna atkvæði sínu nýjan farveg. Miðflokkurinn mun þá gegna hlutverki BREXIT-flokksins á Bretlandi og stjórnarflokkarnir gjalda afhroð, eins og Íhaldsflokkurinn gerði.
Forysta Sjálfstæðisflokksins og langflestir fulltrúar sjálfstæðismanna á Alþingi hafa tekið afstöðu með innleiðingu OP#3 í landsrétt Íslands, og þar með að flestra mati gengið í berhögg við ályktanir Landsfundar Sjálfstæðisflokksins frá marz 2018 og vilja yfirgnæfandi meirihluta sjálfstæðismanna. Það, sem nú hefur gerzt á Bretlandi, kann að gerast í næstu Alþingiskosningum að breyttu breytanda. BREXIT-flokkurinn hlaut 32 % greiddra atkvæða, og Miðflokkurinn er líklegur til að uppskera ríkulega fyrir einarðan og sjálfstæðan málatilbúnað í orkupakkamálinu.
Fleiri eru vingulslegir en forysta Sjálfstæðisflokksins. Í viðtali við RÚV 27.05.2019 þuldi Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, rulluna, sem sett hefur svip á málflutning orkupakkasinna:
- "Allir lögfræðingar eru sammála um, að enginn sæstrengur verði lagður án samþykkis Alþingis." - Hér skýtur forsætisráðherra sér á bak við álit lögfræðinga. Hún virðist ekki kunna að nota lögfræðiálit. Lögfræðingar fullyrða sjaldnast nokkurn skapaðan hlut, nema þeir séu í dómarahlutverki. Ef þeir fullyrða eitthvað, er það að gefnum ákveðnum og oftast tilgreindum forsendum. Raunveruleikinn verður hins vegar oftast allt annar en þessar fræðilegu forsendur. Sérstaklega á þetta við, ef ósérhæfðir lögfræðingar í Evrópurétti eru að fást við Evrópuréttinn, eins og oft hefur verið raunin á í sambandi við OP#3. Fullyrðing forsætisráðherra er þar að auki kolröng. Innlendir lögfræðingar, t.d. í hópi dómara, hafa tjáð efasemdir sínar um, að fyrirvari ráðherranna haldi. Fjölmargir norskir lögfræðingar eru þeirrar skoðunar, að fyrirvarar við innleiðingu OP#3 hafi ekkert réttarfarslegt gildi að Evrópurétti. Þar má nefna Peter Örebech og fleiri norska lagaprófessora. Eyjólfur Ármannsson, íslenzkur lögfræðingur í Noregi, er sama sinnis. Lagasérfræðingarnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst (FÁFH) og Stefán Már Stefánsson (SMS), vara sterklega við að fara þessa leið og alls ekki sé ráðlegt að reiða sig á slíkan fyrirvara, enda geti hann bakað íslenzka ríkinu stórfellda skaðabótaskyldu gagnvart t.d. sæstrengsfjárfestum. SMS hefur borið það til baka, bæði á Útvarpi Sögu og í Kastljósi RÚV, að þessi leið sé frá þeim lagasérfræðingunum komin, heldur sé hún ættuð úr utanríkisráðuneytinu. Gallharðir viðskiptajöfrar á borð við Edi Truell hjá Atlantic Superconnection munu ekki hika við að sækja rétt sinn í hendur íslenzka ríkinu og þannig "soften the Target" fyrir hrossakaup.
- "OP#3 felur ekki í sér afsal yfir orkumálum eða lagningu sæstrengs." - Þegar hér er komið sögu, greinir forsætisráðherra á við FÁFH og SMS, sem töldu hætt við, að valdframsalið til ESA/ACER stæðist ekki stjórnarskrá og að valdframsalið til ACER samkvæmt reglugerð 713/2009 gerði það ekki. Til að koma í veg fyrir réttaróvissu af þessum sökum og hættu á skaðabótakröfum á hendur ríkinu, yrði að leysa úr hinum stjórnskipulega vafa áður en af innleiðingunni yrði. Mað því að banna undirbúning að tengingu sæstrengs í framkvæmdaáætlun Landsnets er beitt þeim hundakúnstum, að aldrei muni reyna á þetta atriði, af því að téð reglugerð fjalli aðeins um millilandatengingar í rekstri. Þetta er stórhættulegur misskilningur. Það er tekið fram á fleiri en einum stað í OP#3, að meginhlutverk hans sé að ryðja hindrunum úr vegi millilandatenginga fyrir orku í ESB/EES. Í OP#4 er lagt blátt bann við því að leggja stein í götu millilandatenginga. Fyrirvari ráðherranna um að áskilja samþykki Alþingis fyrir sæstreng er slíkur steinn í götu millilandatenginga fyrir Ísland. Reglugerð #347/2013, sem reyndar er ekki hluti OP#3, en er eðlilegur þáttur hans og verður vafalaust innleidd hér í kjölfar OP#3, fjallar um Kerfisþróunaráætlun ESB og skuldbindingar aðildarríkjanna til að styðja við framkvæmd hennar. Þessi reglugerð fyrirskrifar líka samræmda málsmeðferð fyrir umsóknir um leyfi fyrir millilandatengingum. Allt ber þetta að sama brunni. ESB beitir samræmdu regluverki sínu til að setja á laggirnar nýjar millilandatengingar. Ef einstök ríki, sem innleitt hafa Evrópurétt á þessu sviði með samþykki OP#3, ætla að hafa aðra stefnu en ESB í þessum málum, þá lenda þau upp á kant við ACER/Framkvæmdastjórn ESB. Þá rimmu geta þau varla unnið.
- "Þá eru allir lögfræðingar sammála um það, að engin skylda verði leidd af orkupakkanum um að heimila lagningu sæstrengs milli Íslands og annars EES-ríkis. Það er ekki svo, að þau ákvæði, sem snúa að þessu máli, taki hér gildi, nema slíkur sæstrengur verði lagður." - Eins og fram kemur hér að ofan, standast þessar fullyrðingar forsætisráðherrans ekki skoðun. Hún teflir á tæpasta vað. Til að hún skrönglist klakklaust yfir þetta vað, mega nokkrir líklegir atburðir ekki eiga sér stað: (a) ESA má ekki taka upp á því að eigin frumkvæði að fetta fingur út í innleiðingu OP#3 með dæmalausum fyrirvara (metin líkindi 50 %). (b) engin umsókn berst um sæstreng til Orkustofnunar (OS) á næstu 5 árum (metin líkindi 10 %). (c) OS hafnar umsókn um leyfi fyrir lagningu aflsæstrengs til Íslands, og engin eftirmál hljótast af (metin líkindi 10 %). Metin líkindi eru pistilhöfundar. Til að finna metin líkindi þess, að engin málsókn verði rekin gegn Íslandi á vettvangi ESA og EFTA-dómstóls á næstu 5 árum út af þeirri ólánlegu innleiðingu á OP#3, sem hér er til umfjöllunar, þarf að margfalda saman metin líkindi hvers atburðar, og koma þá út 0,5 %. Með öðrum orðum er mjög ólíklegt, að Ísland lendi ekki í málaferlum við ESA fyrir EFTA-dómstólinum út af þessari meingölluðu innleiðingu. Þar við bætist, að á næsta 5 ára tímabili verður OP#4 tekinn til rækilegrar umfjöllunar hérlendis, og verði hann innleiddur, aukast enn skuldbindingar Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu í orkumálum.
8.5.2019 | 11:11
Neytendavernd OP#3 eru öfugmæli
Það er óskiljanlegt mörgum, að ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, skuli hafa sammælzt um tvær þingsályktunartillögur og tvö lagafrumvörp um Orkupakka #3, OP#3, sem m.a. skylda ríkisstjórnina til að reka endahnútinn á markaðsvæðingu raforkugeirans með frjálsri samkeppni um raforku á uppboðsmarkaði að hætti Evrópusambandsins, ESB.
Þar með verður enn ríkari ástæða fyrir ESA að hafa afskipti hér af ríkjandi markaðshlutdeild ríkisfyrirtækis og krefjast markaðsvæðingar virkjanaleyfa og einkavæðingar á eignarhaldi og rekstri hluta af virkjunum Landsvirkjunar með sama hætti og framkvæmdastjórn ESB hefur krafizt einkavæðingar af frönsku ríkisstjórninni og haft sitt fram. Það er flestum hulin ráðgata, hvernig ríkisstjórnarflokkarnir geta sammælzt um gjörning, sem færir ESB enn ríkari ástæðu til afskipta af tilhögun eignarhalds og ráðstöfunar orku en þó er við lýði samkvæmt OP#2.
Í grein sinni í Kjarnanum 1. maí 2019,
"Orkan er okkar",
heldur Ari Trausti Guðmundsson, ATG, þingmaður VG, því m.a. fram, að OP#3 feli í sér aukna "neytendavernd og gegnsæi á raforkumarkaði".
Þetta er ekki rökstutt nánar, og þetta étur hver stuðningsmaður OP#3 upp eftir öðrum. Sannleikurinn er sá, að þetta er kostur, sem hægt er að tilfæra við OP#3 á meginlandi Evrópu og á Bretlandi, þar sem raunveruleg samkeppni um hylli neytenda tryggir þeim lágmarksverð á hverjum tíma, þótt það sé hátt á okkar mælikvarða. Þar ræður eldsneytisverð mestu og koltvíildisskatturinn. "Frjáls samkeppni" um raforku á Íslandi getur hins vegar aldrei orðið frjáls vegna fákeppni, og þess vegna mun uppboðsmarkaður með raforku verða mikil afturför fyrir raforkunotendur hérlendis.
Afleiðingin verður sveiflukennt verð og hærra meðalverð, af því að samræmd stjórnun á nýtingu orkulindanna verður bönnuð í "frjálsri samkeppni". Ef aukið gegnsæi hér merkir, að öll viðskipti verði uppi á borðum, þá þarf slíkt ekki endilega að vera kostur fyrir kaupendur, þar sem seljendur hafa undirtökin á markaðinum.
Þá heldur ATG því fram, að "ríki" ákveði sjálf á hverjum tíma, hvaða viðbótar orkuflutningar fari fram "yfir landamæri" eftir innleiðingu OP#3. Ef þetta væri rétt, þá væri ekkert gagn að hinum umfangsmikla lagabálki OP#3, sem innleiðir Evrópurétt á sviði orkuflutninga og orkuviðskipta á milli landa ESB/EES og hefur það hlutverk að ryðja burt hindrunum, sem einstök ríki hafa sett upp og munu setja upp gegn slíkum orkuflutningum.
Það er t.d. alveg skýrt, að markaðurinn á að taka völdin af stjórnvöldum um stjórnun orkuflæðisins. Þannig hafa norsk stjórnvöld hingað til getað stjórnað orkuflæðinu til og frá Noregi og hafa t.d. getað takmarkað útflutninginn, þegar lækkað hefur í miðlunarlónum. Eftir innleiðingu OP#3 mun ACER stjórna þessu orkuflæði og ákvarða hlutdeild hvers orkuseljanda í hámarksorkuflutningsgetu sæstrengsins í þeim tilvikum, að flutningsgetan sé takmörkuð. Reyni yfirvöld þjóðríkis að grípa þarna inn, varðar það við bann við því, að ríkisvaldið hygli innlendum raforkunotendum á kostnað erlendra, og það varðar líka við bann gegn útflutningshindrunum í EES-samninginum, gr. 12.
Í kaflanum, "Ísland og 3. orkupakkinn"
minnist ATG á 5 lögfræðiálit:
"Flest eru álitin í örstuttu máli jákvæð og langt í frá talið, að Ísland missi völd yfir orkulindum sínum."
Engin tvímæli eru tekin af um þetta í álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst (FÁFH) og Stefáns Más Stefánssonar (SMS) í þeirra álitsgerð frá 19. marz 2019, heldur bent á vissar hættur fyrir Íslendinga í þessu sambandi. Öruggast er hér að vitna til aðgerða framkvæmdastjórnar ESB gegn frönsku ríkisstjórninni, sem nú hafa leitt til þess, að hún hyggst selja vatnsorkuver EdF, frönsku Landsvirkjunar, til einkafyrirtækja. Þegar sama lagaumgjörð verður um þessi mál á Íslandi og í Frakklandi með innleiðingu OP#3 hér, mun nákvæmlega hið sama verða uppi á teninginum hér gagnvart Landsvirkjun. Þar með er komin upp stórhætta á því, að orkulindir (og virkjanir) Íslands muni ganga kaupum og sölum á EES-svæðinu. Þessari hættu býður Alþingi heim með innleiðingu OP#3.
"Ríkisstjórnin vinnur m.a. eftir álitinu [FÁFH & SMS] með því að lögfesta samþykki Alþingis fyrir tengingu með rafstreng við umheiminn. Hvorki ESA né ESB getur þvingað fram gerð og lagningu sæstrengs eða lagningu raflína frá nýjum virkjunum eða eldri virkjunum, sem allt í einu myndu framleiða orku á lausu, af því [að] t.d. álver lokar. Hvergi í reglugerð um ACER stendur neitt í þessa veru og þarf vel pælda útúrsnúninga til þess að láta líta svo út, að ESB hafi vald til að skikka Ísland til að selja 1000 MW til meginlandsins. Samningar um sæstreng yrðu ávallt unnir á almennum forsendum EES-samningsins, ekki 3. orkupakkans."
Það kom fram í Kastljósviðtali við SMS að kvöldi 6. maí 2019, að aðferðin við innleiðingu OP#3 í íslenzkan landsrétt með húð og ári og síðar þingsályktun og lagasetning, sem bannar hérlendan undirbúning að lagningu sæstrengs til Íslands án samþykkis Alþingis, er upprunnin í utanríkisráðuneytinu, enda kemur hún eins og skrattinn úr sauðarleggnum í álitsgerð FÁFH & SMS og stingur þar í stúf við allt annað.
Fyrirvarinn um samþykki Alþingis er hins vegar handónýtur um leið og umsókn berst Orkustofnun frá sæstrengsfjárfestum um leyfi til lagningar og tengingar við Ísland. Þá virkjast nefnilega reglugerð 713/2009, og fyrirvarinn um samþykki Alþingis við undirbúning á móttöku sæstrengs að hálfu Landsnets rekst á við hana. Þar með verður fyrirvarinn brotlegur við EES-samninginn, gr. 7, og ESA mun krefjast ógildingar laganna um bann við sæstreng. Þar með lendir Stjórnarskráin í uppnámi. Málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar er þannig algert klúður.
Það er röng fullyrðing, að hvorki ESA né ESB geti þvingað fram gerð og lagningu sæstrengs. ESB hefur til þess næg tæki og tól, eftir að búið verður að fella bann Alþingis úr gildi. Þar vegur fjórfrelsið þungt, og EES-samningurinn, gr. 11 og 12, sem banna hindranir á inn- og útflutningi vöru. Um þetta skrifa FÁFH og SMS í neðanmálsgrein nr 62 í álitsgerð sinni:
"Ekki má þó gleyma, að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis þar að lútandi [um sæstreng], gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru, sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Slík staða gæti reynzt Íslandi erfið."
Eftir að fjárfestir væri búinn að vinna slíkt mál, er engin leið til að standa gegn lagningu flutningslína frá stofnrafkerfinu og niður að lendingarstað sæstrengs. Landsreglarinn mun krefjast þess, að Landsnet aðlagi Kerfisáætlun sína að Kerfisþróunaráætlun ESB, þar sem sæstrengurinn er. Allar hindranir á þessari leið verða kærðar á grundvelli óleyfilegra útflutningshindrana og jafnvel ríkisstuðnings við innlenda atvinnustarfsemi.
Það eru útúrsnúningar hjá ATG, að hvergi í reglugerð um ACER standi,
"að ESB hafi vald til að skikka Ísland til að selja 1000 MW til meginlandsins".
Þess þarf einfaldlega ekki. Markaðnum er ætlað að sjá um framkvæmdina, þegar regluverkið verður búið að opna gáttirnar. Í þessu liggur hið mikla vanmat stjórnmálamanna á áhrifum OP#3. Þeir gleyma markaðskröftunum. Hagnaðarvonin knýr þá áfram. Hverjir munu sitja eftir með sárt ennið ? Íslendingar mundu þurfa að glíma við þríhöfða þurs: OP#3, EES-samninginn og markaðsöflin. Til varnar þessu stendur Stjórnarskráin ein. Á grundvelli hennar væri hægt að dæma þetta allt ólögmætt. EES-samningurinn mun þó varla lifa slíkt af.
"Sæstrengur er á forræði þjóðarinnar sjálfrar og orka til hans sömuleiðis. Hún er ekki til núna og verður ekki framleidd, nema fyrir liggi áætlanir og samþykki stjórnvaldsstofnana. Dreifikerfi orku í viðkomandi sæstreng er líka á forræði þjóðarinnar eða með öðrum orðum á valdi Alþingis, í öllum tilvikum. Úrskurði ESA á næstu árum, sem er afar ólíklegt, að fyrirvarinn gangi ekki upp, verðum við að mæta því með rökum og vörnum."
Eins og sjá má, hengir ATG hatt sinn alfarið á handónýtan fyrirvara Alþingis, sem sízt hefur meira gildi að Evrópurétti en fyrirvari Alþingis um innflutning á ferskum landbúnaðarvörum frá EES. Það er sorglegt að horfa upp á pólitískar skessur leika sér með fjöregg íslenzku þjóðarinnar.
"Orkuverðið hreyfist auðvitað ekki, því að tenginguna við meginlandið vantar."
Þessi málsgrein ATG ber með sér, að hann hefur ekki gert sér grein fyrir, hvernig uppboðskerfi með raforku mundi virka við íslenzkar aðstæður. Alls staðar, þar sem þetta kerfi er notað, verður verðið kvikt með stórri dægursveiflu og árstíðarsveiflu. Hér munu þrjú miðlunarlón keppa við 5 jarðgufusvæði, eins og staðan er núna. Miðlunarvirkjanir eru tæknilega sveigjanlegri og með mun lægri breytilegan kostnað en jarðgufuvirkjanir og munu hafa undirtök á markaðinum á meðan nóg er í miðlunarlónunum, en síðan hækkar kostnaður miðlunarvirkjana upp fyrir jarðgufuvirkjanir. Nýtingin verður ójöfn og þjóðhagslega óhagstæð, af því að auðlindastýringu vantar, og hún verður óleyfileg. Þetta mun leiða til hækkunar á meðalraforkuverði til almennings. Fullyrðing ATG er út í loftið.
"Nú hefur fýsileikakönnun sæstrengs (ICE-Link) verið hætt og könnunarverkefnið afturkallað að skipun íslenzku ríkisstjórnarinnar."
Þetta skrifar ATG að óathuguðu máli. Hvert fór "skipun íslenzku ríkisstjórnarinnar" ? Til aðstandendanna, Landsnets, Landsvirkjunar og National Grid Holding Co. ? Kaupin gerast ekki svona á eyrinni hjá ESB. Á bak við veru "Ice-Link" í Kerfisþróunaráætlun ESB og alla leið upp á forgangsverkefnaskrána PCI er ítarleg undirbúningsvinna og undirskrift margháttaðra skjala innan ESB ásamt samþykki Framkvæmdastjórnar, Ráðs og þings. Aðeins einfeldningar trúa því, að bréf frá Íslandi geti orðið sú litla þúfa, sem velti strax þessu þunga hlassi.
PCI er til endurskoðunar á tveggja ára fresti, næst 2020. Ef Alþingi afléttir í millitíðinni stjórnskipulegum fyrirvara af OP#3, er komin upp alveg ný staða, sem jafngildir viljayfirlýsingu Íslands um að tengjast sameiginlegum raforkumarkaði ESB. Það er alveg undir hælinn lagt, að ESB verði við ósk ríkisstjórnarinnar, ef aðrir hagsmunaaðilar verða á móti því.
"Munum líka, að svo kann að fara, að Bretar standi utan ESB. Samningar um sæstreng væru þá tvíhliða gjörningur fullvalda ríkja án virks, margþjóðlegs eftirlitsaðila, en undir gerðardómi, ef deilur yrðu uppi."
Hér er ATG enn of fullyrðingasamur m.v. staðreyndir málsins. Það veit enginn, hvort Bretar munu standa utan Orkusambands ESB og ACER, þótt þeir fari úr ESB, því að þeir eiga nú í miklum orkuviðskiptum innan EES. Þá er allsendis óvíst, að ESB (ACER) mundi láta það afskiptalaust, ef Íslendingar, eftir samþykkt OP#3, myndu gera sig líklega til að eiga í raforkuviðskiptum við land utan ESB. Það er þvert á móti líklegt, að ESB myndi túlka samþykkt OP#3 sem skuldbindingu að Íslands hálfu til að tengjast innri markaði ESB, og það væri tæknilega hægt með sæstrengslögn til Írlands. Heimurinn er ekki jafneinfaldur og ATG vill vera láta.
Við höfum fyrir sjónum nýlegt dæmi frá samstarfsverkefni Þjóðverja og Rússa um nýja gasflutningslögn á botni Eystrasalts frá Rússlandi til Þýzkalands, sem er hitamál innan ESB. Þjóðverjar og Rússar ætluðu að halda þessu máli sem tvíhliða samstarfsverkefni sínu, og Þjóðverjar lögðu sig í líma við að fá Frakka til að samþykkja slíkt fyrirkomulag. Nú hefur Ráðherraráð ESB hins vegar tekið þá ákvörðun, að það gangi ekki upp á grundvelli OP#3, heldur skuli ACER, Orkustofnun ESB, taka að sér að stjórna þessum gasflutningum, þótt Rússar auðvitað eigi þar enga aðkomu. Þjóðverjar eru í sárum, telja Frakka hafa svikið sig og ekki í fyrsta skipti.
Að lokum kemur hin pólitíska niðurstaða ATG á formi yfirlýsingar:
"Ég tel mikilvægt, að sem flestir sjái í gegnum málatilbúnað og rangfærslur helztu talsmanna gegn 3. orkupakkanum. Orkuauðlindir okkar eru ekki í hættu."
Gallinn við þessa niðurstöðu þingmanns VG er, að honum hefur í þessari grein ekki tekizt að hrekja með haldbærri röksemdafærslu neitt það, sem máli skiptir í málflutningi "Orkunnar okkar" eða þeirra, sem þar mega kallast talsmenn. Það er hægt að sanna hvað sem er út frá röngum eða ófullnægjandi forsendum. Það hefur ATG tekizt að sanna í Kjarnagrein sinni og skipar sér þar á bekk með gríska heimspekinginum, sem sannaði, að héri kæmist aldrei framúr skjaldböku, ef bara skjaldbakan fengi forskot.
4.4.2019 | 11:40
Lýðræðið og Landsreglarinn
Áður hefur hér í pistli verið minnzt á ágæta grein Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi þingmanns og ráðherra, í Morgunblaðinu 9. marz 2019, "Orkan okkar".
Þar gerði hann m.a. að umræðuefni, að "orkupakkar" ESB, ekki sízt sá þriðji með völdum embættis Landsreglara, sem beint heyrir undir ESA/ACER, aftengja lýðræðið, þ.e. ákvarðanir, sem áður voru hjá ráðherra eða stofnun undir honum/henni, verða á höndum erlendrar stofnunar, þar sem Ísland ekki á aðild:
"Það er vissulega rétt hjá ráðherranum [ÞKRG], að orkupakkarnir eru fyrst og fremst "markaðspakkar", og þriðji pakkinn færir fyrirhugaðan raforkumarkað undir samevrópskt eftirlit, sem nefnist ACER, Agency for the Cooperation of Energy Regulators, sem hefur á hendi úrskurðarvald um ágreining á raforkumarkaði. ACER er ætlað að aftengja allt, sem heitir lýðræði, ákvörðunum á markaði. Út á það gengur þriðji orkupakkinn !"
Ögmundur hefur áttað sig á kjarna málsins. Að skera á tengsl lýðræðis og stefnumörkunar í raforkumálum landsins felur jafnframt í sér ógn við stjórnskipunina sjálfa, því að valdtilflutningurinn verður ekki frá íslenzka ríkisvaldinu til annars aðila innanlands, heldur til yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem Ísland er ekki aðili (ACER). Þetta verður sýnt fram á hér á eftir með því að rekja nokkra liði í Orkutilskipun ESB #2009/72/EB, svo að ekki sé með góðu móti hægt að saka höfund um skáldskap eða "falsfréttir", eins og málefnasnauðir fylgjendur innleiðingar Orkupakka #3 á Íslandi hafa í málefnafátækt sinni haft í frammi.
Að rjúfa þessi tengsl ákvarðanatöku fyrir orkugeirann við ríkisvaldið felur þess vegna í sér alvarlegan árekstur við Stjórnarskrána, eins og nú má lesa um í Álitsgerð lögfræðinganna Friðriks Árna Stefánssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar. Sú hlið málsins var ekki á döfinni við innleiðingu Orkupakka #1 og #2, en ákvæði í Orkupakka #3, t.d. um Landsreglarann, brjóta í bága við fullveldisákvæði Stjórnarskrárinnar að margra dómi, og væri óskandi, að hægt væri að leita til Stjórnlagadómstóls um þann ágreining fyrir afgreiðslu málsins á Alþingi.
Önnur leið er sú að vísa þessu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum. Það væri öflugasta leiðsögn, sem Alþingi gæti fengið um afgreiðslu Þriðja orkupakkans.
Í lok ágætrar greinar sinnar skrifaði Ögmundur:
"Þetta er samfélagið að takast á um, og fagna ég sérstaklega umræðunni, sem sprottin er frá hinum óformlegu, en þverpólitísku samtökum, "Orkunni okkar". Þar á bæ rýna menn í smáatriði tilskipana og reglugerða, sem varða orkupakka Evrópusambandsins, jafnframt því sem horft er vítt yfir. Hvort tveggja þarf að gera. Við afvegaleiðumst, ef við reynum ekki að sjá, hvert stefnir, hvert förinni er heitið. Þess vegna þarf umræðan að fara um víðan völl [þótt ÞKRG kvarti undan því-innsk. BJo]. Annars verður þess skammt að bíða, að orkan verði ekki okkar."
Í Rafmarkaðstilskipuninni, 2009/72/EB, kafla 22, skrifa höfundar Orkupakka #3 um rafkerfisþróun og vald til að taka fjárfestingarákvarðanir:
"1. Á hverju ári skulu rekstraraðilar orkuflutningskerfanna [hér Landsnet] kynna fyrir Landsreglaranum 10 ára Kerfisáætlun sína, reista á núverandi og væntanlegu framboði og eftirspurn orku að höfðu samráði við alla hagsmunaaðila. Kerfisáætlunin skal spanna skilvirkar aðgerðir til að tryggja styrk kerfisins og afhendingaröryggi."
Ekki er að efa, að Kerfisáætlun Landsnets verður háð rýni ACER/Framkvæmdastjórnarinnar, þannig að flutningskerfið verði þannig úr garði gert, að það þjóni hugmyndum Framkvæmdastjórnar ESB um heildarhagsmuni EES. Þetta kann að þýða nokkra stefnubreytingu í átt til öflugri og hraðari kerfisuppbyggingar með hækkun flutningsgjalda. Flutningsgjöldin verða líka háð samþykki Landsreglarans. Þar með má segja, að álagning vissra opinberra gjalda á Íslandi verði undir fjölþjóðlegu valdi komið. Þetta er Stjórnarskrárbrot, enda geta lögfræðingarnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson um þetta vafasama framsal ríkisvalds til eins konar skattlagningar.
"2. Tíu ára Kerfisáætlun Landsnets á einkum:
a) að upplýsa markaðsaðilana um mikilvægustu innviði flutningskerfisins, sem verður að reisa eða styrkja á næstu 10 árum.
b) spanna allar fjárfestingar, sem þegar er búið að ákveða, og telja upp nýjar fjárfestingar, sem fara þarf í á næstu þremur árum, og
c) gefa upp tímabil allra fjárfestingarverkefnanna.
Þeir, sem hug hafa á að virkja á Íslandi eða að leggja hingað sæstreng, geta í Kerfisáætlun fylgzt með, hvernig innviðauppbyggingu fyrir þeirra verkefni miðar og þrýst á Landsreglarann um flýtingu, ef þurfa þykir.
"5. Landsreglarinn skal fara í saumana á því, hvort kerfisáætlun Landsnets spannar allar fjárfestingarþarfir, sem birzt hafa í samráðsferlinu, og hvort hún er í samræmi við 10 ára Kerfisþróunaráætlun Evrópusambandsins, sem nefnd er í gerð ESB #714/2009, kafla 8, grein 3 b. [Þótt Kerfisþróunaráætlun ESB sé ekki lagalega bindandi fyrir aðildarlöndin, er litið svo á, að við gildistöku Orkupakka #3 beri viðkomandi landi að virða hana og fara eftir henni að sínu leyti.] Ef vafi leikur á um, hvort Kerfisáætlun Landsnets sé í samræmi við Kerfisþróunaráætlun ESB, skal Landsreglarinn ráðfæra sig við ACER. Landsreglarinn getur krafizt þess, að Landsnet breyti 10 ára Kerfisáætlun sinni.
Það er ljóst af þessum texta, að Landsnet, sem ríkisstjórnin vill semja um kaup á fyrir hönd ríkissjóðs, verður alls ekki sjálfstætt ríkisfyrirtæki eftir innleiðingu Orkupakka #3, heldur stjórnað að miklu leyti af Landsreglaranum, sem tekur stefnumarkandi ákvarðanir um framkvæmdir fyrirtækisins, og þær verða að taka mið af vilja og áformum ESB um tengingu Íslands við innri raforkumarkað EES. Ofangreindir lögfræðingar beindu aðallega sjónum sínum að gerð 713/2009, sem þeir fundu út, að engan veginn samræmist Stjórnarskrá Íslands, og minntust aðeins á 714/2009, sem bezt væri að fá undanþágu frá líka, ef sezt verður við samningaborðið með EFTA og ESB.
Ef vilji Evrópusambandsins um þróun orkumála Íslands er hundsaður eða lappirnar dregnar af Landsneti/ríkinu, er líklegt, að allt fari í bál og brand á milli Íslands og ESB og ásakanir komi fram að hálfu ESB um brot Íslands á EES-samninginum. ESB getur hvenær sem er einhliða gert Kerfisþróunaráætlun sína lagalega bindandi fyrir EES-ríkin, sé talin þörf á að reka deilumál um hana fyrir dómi. Valdyfirtaka Landsreglarans á Landsneti og þar með hliðsetning hugsanlegrar stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu Landsnets verður enn ljósari við lestur liðar 6, 7 og 8 í þessari Orkumarkaðstilskipun ESB. Verða þeir birtir og rýndir í nýjum pistli:
Rúsínan í pylsuenda orkumarkaðstilskipunar.
30.3.2019 | 17:44
Ísland og raforkumarkaður ESB
Raforkumarkaðskerfi ESB er skilgreint í Orkupökkum #1 og #2 og gert að skyldu að innleiða það í Orkupakka #3. Hérlendis voru reglur Orkupakka #1 um aðskilnað starfsemi á raforkumarkaði í fernt innleiddar með nýjum orkulögum 2003. Það var til að skapa jafnræði um aðgang að flutningskerfinu og aðstæður fyrir frjálsa samkeppni. Ávinningur fyrir orkukaupendur er ekki merkjanlegur, sé þróun raforkuverðsins skoðuð (raunverð), og sennilega hefur heildaryfirbygging og þar með stjórnunarkostnaður raforkugeirans vaxið við þennan aðskilnað í vinnslu, flutning, dreifingu og sölu.
Nú er Landsnet með í undirbúningi uppboðskerfi á heildsölumarkaði í orkukauphöll samkvæmt forskrift ESB í Orkupakka #2. Innleiðing á kerfi, sem er sniðið við frjálsan eldsneytismarkað, sem sjái raforkuverunum fyrir öruggri frumorku, og miðað við mörg, stór og smá, raforkuvinnslufyrirtæki í frjálsri samkeppni um viðskiptavinina, er augljóslega vandkvæðum háð hérlendis, þar sem aðstæður eru gjörólíkar, frumorkan eðlisólík og markaðurinn verður alltaf "grunnur".
Ef þetta markaðskerfi ESB verður ekki vandlega aðlagað íslenzkum aðstæðum, dyntóttri náttúru, sem ætlazt er til, að veiti áreiðanlegri frumorku inn í vinnslukerfið, og að fákeppnismarkaði með gríðarlegu ójafnræði á markaði vegna stærðarmismunar og mismunandi frumorkusamsetningar, þá mun slysalega takast til, sem mun lýsa sér í miklum verðsveiflum á heildsölumarkaði og smásölumarkaði, hækkuðu meðalverði vegna ófullnægjandi hvata til að hefja virkjanaverkefni í tæka tíð, og, ef allt fer á versta veg, mun valda alvarlegum orkuskorti og tíðari en við höfum átt að venjast.
Vart þarf að efast um, að sérfræðingarnir, sem að innleiðingu þessarar markaðsvæðingar vinna, hafa áhættugreint ferlið, sem þeir eru að skipuleggja, en meira er hægt að óttast, að þeim séu of þröngar skorður reistar til almennilegrar aðlögunar, því að slíkt táknar eðlisbreytingu á kerfinu, sem Landsreglarinn hérlendis mun líta óhýru auga, enda hefur hann bara eina forskrift við að styðjast. Hér er t.d. átt við, að hérlendis krefjast aðstæður samræmdrar auðlindastýringar, sem er nauðsynleg og nægjanleg til að tryggja beztu nýtingu tiltækra orkulinda í því augnamiði að forða vatnsleysi miðlunarlóna að vori og ofnýtingu viðkvæms jarðgufuforða. Slíka auðlindastýringu má hvert fyrirtæki viðhafa undir markaðskerfi ESB, en samræmd auðlindastýring heildarkerfisins er bönnuð, þar sem frjáls samkeppni orkuvinnslufyrirtækjanna er hinn heilagi Graal í Brüssel. Að sumra dómi dæmir þetta bann orkumarkaðskerfi ESB úr leik á Íslandi sem raunhæft markaðsfyrirkomulag.
Elías Elíasson, verkfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, skrifar áhugaverða Morgunblaðsgrein um þetta efni þann 14. marz 2019, undir fyrirsögninni:
"Raforkuöryggi á Íslandi":
"Reglugerðir Evrópusambandsins virka einfaldlega ekki hér, og á grundvelli þeirra verður vel virkur frjáls markaður með rafmagn ekki settur upp hér á landi. Eins og rakið er í ritgerð minni, "Rafmagn til heimila og útflutnings", á síðunni http://hhi.hi.is/vinnupappírar, þá er orkuauðlindinni dreift á marga staði, víðs vegar um landið, og misjafnlega dýrt að nýta hana á hverjum stað. Við þær aðstæður getur samkeppnin ekki tryggt eðlilega verðmyndun, sem hvetur til nýframkvæmda, þegar jafnvægi ríkir [á] milli framboðs og eftirspurnar, heldur myndast hvati til að taka of mikla áhættu á kostnað notenda. Reglur ESB tryggja því ekki orkuöryggi á Íslandi, og öryggið minnkar enn með tilkomu sæstrengs."
Iðnaðarráðuneytið/utanríkisráðuneytið verður að birta áhættugreiningu, sem sýnir hið gagnstæða við lýsinguna hér að ofan, áður en það biður um staðfestingu Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, því að feiknarlegir hagsmunir landsmanna eru í húfi. Meðmælendur Orkupakka #3 hafa skautað léttilega framhjá þessum risaþætti málsins, og það með öðru gefur málstað þeirra ótraustvekjandi blæ.
Með orkulögunum 2003 var ábyrgðin á að viðhalda nægri frumorku í landinu fyrir raforkuvinnsluna tekin af Landsvirkjun, og nú ber enginn þessa ábyrgð og mun trauðla fá hana með Orkupakka #3, því að vísast þykir sú kvöð virka samkeppnishamlandi á markaði ESB. Fyrir raforkunotendur á Íslandi er hættan á orkuskorti hins vegar óviðunandi. Þetta mál er dæmigert fyrir gallana, sem felast í ákvarðanatöku fjarri landsteinum.
Frá 2003 hefur þetta blessazt, þótt skollið hafi hurð nærri hælum, t.d. 2013, því að virkjað hefur verið fyrir stóriðju og almenning í leiðinni, en nú virðist áhugi "stórnotenda" á raforkusamningum við íslenzka orkubirgja hafa dvínað, og sáralítið "í pípunum" af nýju afli inn á kerfið. Þó eru smávirkjanir í undirbúningi, og 18.03.2019 var tilkynnt um staðfest deiliskipulag fyrir 55 MW Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði.
Það er til marks um skilningsleysi orkuyfirvalda hérlendis á sérstöðu íslenzka orkukerfisins og afleiðingum þess að troða Íslandi í ESB-flík, sem er sniðin á annars konar sniðmát, að engin áhættugreining vegna innleiðingar nýs orkumarkaðskerfis hefur verið kynnt til sögunnar. Yfirvöld munu ekki geta skákað í því skjólinu, að þau hafi ekki verið vöruð við, þegar raforkuverðið og afhendingaröryggi raforku fara úr böndunum. Skilja þau ekki, hvað er í húfi ? Mikið er þó búið að predika. Afkoma fjölda fjölskyldna og fyrirtækja er í húfi. Vinnubrögðin eru ekki Sjálfstæðisflokkinum sæmandi.
Að sjálfsögðu mun keyra um þverbak í þessum efnum, ef stórsala hefst á rafmagni úr landi. Þröskuldur í vegi þeirra áforma snarlækkar við innleiðingu Þriðja orkulagabálks ESB, en ætlun Evrópusambandsins með honum er einmitt að örva millilandaflutning orku og færa stjórn þeirra mála undir lögsögu Evrópuréttarins og undir miðstýringu ACER/Framkvæmdastjórnar ESB. Um þetta skrifaði Elías Elíasson í téðri grein:
"ESB stefnir samt á að tvöfalda vægi vindorku í raforkuvinnslu sinni. Við þessar aðstæður er það knýjandi nauðsyn fyrir bandalagið að komast yfir hina hreinu og sveigjanlegu orku Noregs og Íslands og nota hana til að keyra á lognið í Evrópu.
Sæstrengur mun því koma í kjölfar þriðja orkupakkans og tengdra nýrra reglugerða. Þegar orkumálaráðherra fullyrðir, að sæstrengur muni ekki koma, er hún bæði að vanmeta ákveðni Bandalagsins í málinu og lofa upp í ermina á öðrum stjórnmálaöflum, sem munu samþykkja sæstreng orðalaust."
Þess má geta, að Þórdís Kolbrún, iðnaðarráðherra, gaf til kynna á ársfundi Landsvirkjunar í lok febrúar 2019, að hún teldi orkusölu um sæstreng á stóran markað þarfaþing til að losna við "umframorku", sem var reyndar stórlega ofmetin hjá henni, 2 TWh/ár (> 10 %) eftir tilkomu Búrfells #2 og væntanlegrar 220 kV línu frá Fljótsdalsvirkjun til Norðurlands. Nefndi hún hið gildishlaðna hugtak "brottkast" í þessu sambandi og líkti því við það, að vatn rynni framhjá virkjunum, sem er í sjálfu sér ósmekkleg samlíking og út í hött.
Í þessu sambandi er fróðlegt að skoða þankagang búrókrata Framkvæmdastjórnarinnar. Í Orkumarkaðstilskipuninni 2009/72/EB, kafla 6, um eflingu svæðisbundinnar samvinnu, stendur:
1. Aðildarlöndin og landsreglararnir skulu vinna saman í því augnamiði að samþætta orkumarkað hvers lands við eitt eða fleiri svæði sem fyrsta skref til myndunar alfrjáls innri markaðar. Einkum skulu landsreglararnir í aðildarlöndum, sem hafa undirbúið samstarfið, eða aðildarlöndin skulu hvetja til og undirbúa svæðissamvinnu á milli rekstraraðila flutningskerfa [hér Landsnet], og þar innifalin eru viðfangsefni millilandatenginga, í því augnamiði að skapa samkeppnisvæddan innri markað fyrir rafmagn, fá samræmi í lagaumgjörð landanna, rammaregluverk og tæknilega tengiskilmála, og undirbúa jarðveginn fyrir samþættingu einangruðu kerfanna, sem mynda s.k. orkueyjar, sem enn er að finna í ESB [2009], við innri markaðinn."
Það er engum blöðum um það að fletta, að höfundarnir sjá tækifæri fyrir heildina, EES, fólgið í að tengja "orkueyjar" við innri markaðinn. Þarna fara einfaldlega ekki saman hagsmunir "orkueyjar", sem getur breytt endurnýjanlegri orku sinni í eftirsótt verðmæti, og orkuhungraðs "stórveldis". Er þetta ekki augljóst ?
Það vefst ekki fyrir öllum. Þannig ritaði Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, ágæta grein um málefnið í Morgunblaðið, 9. marz 2019:
"Orkan okkar".
Hún hófst þannig:
"Í fjölmiðlum, ekki sízt í Morgunblaðinu, hefur farið fram mikil og oft á tíðum mjög upplýsandi umræða um orkustefnu Evrópusambandsins. Í þessari umræðu hafa kunnáttumenn úr orkugeiranum útskýrt, hvað felist í svokölluðum "orkupökkum" ESB, en samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar hefur staðið til, að Íslendingar samþykki "þriðja orkupakkann" á yfirstandandi þingi. Ekki er þó útséð um það, því [að] Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, vill skoða málið nánar. Það er vel."
Ögmundur Jónasson á heiður skilinn fyrir málefnalega nálgun sína á þessu máli. Hann hefur lagt sig í líma við að átta sig á staðreyndum þessa máls, sem á yfirborðinu kann að virðast bæði flókið og óáhugavert, en þeir sem gefa sér tíma til að hugleiða það,sem dregið er fram í umræðunni á báða bóga, komast margir fljótlega að því, að í grundvallaratriðum er málið ekki flókið og að það varðar mikla framtíðarhagsmuni í þessu landi, snertir hag hvers einasta íbúa landsins og atvinnuöryggi fjölmargra. Það varðar sjálfsákvörðunarrétt landsmanna um orkumál og lýðræðislegt áhrifavald kjósenda í þessu landi á ráðstöfun einnar aðalauðlindar landsins.
14.3.2019 | 21:24
Litlu verður vöggur feginn
Málefnafátækt og lítt eða ekki rökstuddar fullyrðingar einkenna málflutning þeirra, sem mæla með samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki Evrópusambandsins, ESB. Sneitt er hjá að færa óyggjandi rök fyrir því, að samþykktin standist Stjórnarskrá, t.d. um framsal ríkisvalds til erlendrar stofnunar, þar sem Ísland á ekki fullgilda aðild, og á valdsvið Landserglara ("National Energy Regulator"), sem skal í störfum sínum verða algerlega óháður íslenzkum stjórnvöldum, er sjaldan minnzt á þeim bæjum.
Áhrif inngöngu Íslands (með áheyrnaraðild aðeins) í ACER-Orkustofnun ESB, t.d. á málsmeðferð umsókna um leyfi til að leggja aflsæstrengi til Íslands, eru afgreidd í fljótheitum sem engin og fullyrt, gegn málflutningi sérfræðings í Evrópurétti, norska lagaprófessorsins Peter Örebech, sem alltaf vísar mjög nákvæmlega í gerðir og tilskipanir ESB um þessi efni máli sínu til stuðnings, sbr ritgerð eftir hann í viðhengi með þessum pistli, að Alþingi og íslenzk yfirvöld muni eiga síðasta orðið um afgreiðslu sæstrengsumsókna hingað.
Eitt af því, sem "fylgjendur" Þriðja orkupakkans hengja sig í, þegar kemur að fullveldisframsalinu, er, að við framkvæmd þessa lagabálks hérlendis verði tveggja stoða kerfi EES-samningsins haldið í heiðri. Þetta er rétt, en aðeins að nafninu til, því að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) hvorki getur né er til þess ætlazt af henni í þessu tilviki, sbr tilvitnun hér á eftir í greinargerð með norska lagafrumvarpinu um innleiðingu Orkupakka #3, sinnt sjálfstæðu hlutverki sem Orkustofnun EFTA, spegilmynd ACER.
Upplýsingar, tilmæli og skipanir frá ACER til embættis Landsreglara, fulltrúa ESB yfir orkumálum á Íslandi samkvæmt Orkubálki #3, munu þess vegna verða afritaðar og kannski þýddar hjá ESA og sendar áfram til Landsreglarans, og sama gildir um boð til baka. Hér er um að ræða tveggja stoða kerfi í orði, en ekki á borði. Er hér með ólögmætum hætti verið að fara á svig við stjórnarskrár Íslands og Noregs ? Hvað Noreg varðar verður því vonandi svarað í norska réttarkerfinu senn hvað líður (mál er þar fyrir þingrétti), og vonandi mun prófessor emeritus, Stefán Már Stefánsson, svara því fyrir sitt leyti í skýrslu, sem hann mun eiga að skila til utanríkisráðuneytisins og er sennilega þegar búinn að.
Tilvitnun á bls. 26 í Frumvarp 4 S (2017-2018) um staðfestingu á ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar nr 93/2017 frá 5. maí 2017 (þýðing pistilhöfundar):
"Eftirlitsstofnun EFTA [ESA] skal grundvalla samþykkt sína á drögum frá ACER, þegar hún [ESA] gerir slíka samþykkt. Slík drög eru ekki lagalega bindandi fyrir Eftirlitsstofnun EFTA. Það er undirliggjandi forsenda fyrir þessu umsamda fyrirkomulagi, að Eftirlitsstofnun EFTA skuli, skömmu eftir móttöku slíkra draga frá ACER, gera samhljóða eða næstum samhljóða samþykkt."
Hér fer ekki á milli mála, að ekki er ætlazt til, að ESA taki neina sjálfstæða ákvörðun á grundvelli Þriðja orkumarkaðslagabálksins, heldur er hún hrein afgreiðslustofnun fyrir ESB/ACER, enda er grundvallaratriði fyrir ESB, að framkvæmd stefnumótunar hjá ESB sé sú sama alls staðar innan EES. Að halda því fram, eins og fylgjendur Orkupakka #3 gera, að ESB/ACER fái engin völd hér, af því að við séum í EFTA, er einhvers konar lögfræðilegur kattarþvottur, og það fær varla staðizt fyrir dómi, að þetta fyrirkomulag sé í samræmi við Stjórnarskrá.
Önnur aðalfullyrðing þeirra, sem mæla með téðri orkupakkainnleiðingu, er, að á meðan Ísland ekki er tengt við raforkukerfi ESB, þá hafi ACER engin völd hér, og ESB/ACER geti ekki komið fram þeim vilja sínum, sem þó virðist vera fyrir hendi, sbr forgangsverkefnaskrána PCI (Projects of Common Interest) með "Ice-Link" innanborðs, að hingað verði lagður sæstrengur frá ESB-ríki. Þessi óraunsæja staðhæfing er hrakin í ritgerð prófessors Peter Örebech, sjá viðhengi með þessum pistli, bls. 11.
Sannleikurinn er sá, að orkuauðlindir ESB-landanna og tengdra EFTA-ríkja , þ.e. innan EES, skulu verða meðhöndlaðar samkvæmt stefnumörkun í hverju landi, en hún verður hins vegar að vera í samræmi við markmið ESB um Innri markaðinn fyrir orku. Höfuðstefnumið ESB í þessum efnum er að "tryggja hátt stig afhendingaröryggis rafmagns", sbr gerð 714/2009, kafla 1 b, og að koma á "vel starfhæfum" markaði (formálinn, atriði 24) og "samkeppnishæfum verðum" (formálinn, atriði 1). Eftir að Orkupakki #3 hefur tekið gildi hér, munu íslenzk stjórnvöld ekki geta mótað og rekið orkustefnu hér, sem ekki tekur tillit til stefnu ESB um að auka notkun endurnýjanlegra orkulinda í heild, eins og kostur er, og að samtengja alla afkima EES við hið miðlæga raforkukerfi ESB, sem allt snýst um, að fái næga orku. Fjórði orkupakkinn leggur áherzlu á, að raforkan sé úr umhverfisvænum orkulindum.
Í gerð nr 713/2009, kafla 8 (4) stendur: "Framkvæmdastjórnin getur samþykkt reglur um þau tilvik, að stofnunin [ACER] fái völd til að taka ákvörðun um skilmála og skilyrði fyrir aðgangi að [stofnkerfi] og rekstrarlegu öryggi í sambandi við innviði á milli landa."
Hér stendur "skilyrði fyrir aðgangi að .... innvið[um] á milli landa". Það stendur hins vegar ekkert um, að ACER geti aðeins skipt sér af millilandatengingum, sem þegar eru komnar á, enda væri slíkt í mótsögn við fyrirætlunina með Orkupakka #3, sem er að fjölga þeim, svo að flutningsgeta þeirra nemi a.m.k. 20 % af orkuvinnslugetu ESB árið 2030.
Setjum sem svo, að Bretar gangi úr ESB og ACER og Ísland samþykki Þriðja orkupakkann. Síðan komi tvær tillögur um sæstreng frá Íslandi, önnur til Englands og hin til Írska lýðveldisins. Þá getur ACER sagt sem svo, að öll "umframorka" á Íslandi eigi að fara inn á Innri markað ESB/EES, og þar með skuli aðeins tengja Írlandsstrenginn við íslenzka raforkukerfið.
Þeim hræðsluáróðri hefur verið beitt hérlendis, að með því að beita neitunarvaldi sínu gagnvart samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar 05.05.2017 sé Alþingi að setja EES-samninginn í uppnám og jafnvel að brjóta hann, svo að búast megi við refsingum af hendi ESB. Þessi áróður er úr lausu lofti gripinn, enda var honum t.d. aldrei beitt í Noregi, þótt harðar deilur stæðu þar nánuðum saman um sama efni fram til 22.03.2018. Sannleikurinn er sá, að Alþingi er fullkomlega frjálst að beita neitunarvaldinu, þegar því sýnist, og ESB getur ekki með neinu móti refsað Íslandi fyrir það, enda fengu Norðmenn engar kárínur fyrir slíka synjun á sinni tíð. Það, sem ESB getur gert, er að ógilda Viðauka IV í EES-samninginum gagnvart Íslandi, en þar eru aðallega Orkupakki #1 og #2. Það þýðir, að Alþingi getur að eigin vild sniðið þessa löggjöf að íslenzkum aðstæðum. Er það verra ?
Að "samningaviðræður" fari fram í Sameiginlegu EES-nefndinni, takmarkar á engan hátt neitunarvald Alþingis, enda fer samþykkið í téðri Brüsselnefnd fram með fyrirvara um samþykki Alþingis (þjóðþinga EFTA-landanna þriggja í EES). Þingið hefur alls ekki veitt samþykki sitt, þótt 3 þingnefndir hafi verið upplýstar um gang mála af embættismönnum. Þannig er þetta líka í Noregi. Hví skyldu aðrar reglur gilda um þetta hér en þar. Það er hreinn skáldskapur, að þetta upplýsingaferli hafi á einhvern hátt bundið hendur Alþingis.
Aðalatriðið er, að þetta neitunarvald Alþingis er grundvallaratriði EES-samningsins fyrir EFTA-löndin og kann að hafa ráðið úrslitum á sinni tíð um, að Alþingi staðfesti samninginn í janúar 1993. Ef neitunarvaldið væri ekki áskilið, þá væri EES-samningurinn einfaldlega annars eðlis, þ.e.a.s. hann væri "yfirþjóðlegur" í þeim mæli, að hann hefði ekki staðizt Stjórnarskrá, eins og hann var í upphafi, hvorki hérlendis né í Noregi, og síðan hefur hallazt á merinni. Vegna neitunarvaldsins er það samt svo, að Alþingi og Stórþingið eru hinir formlegu löggjafar.
Að neitunarvaldið hefur verið svo lítið notað stafar einfaldlega af því, að meirihluti Stórþingsins hefur lengst af frá gildistöku EES-samningsins, 01.01.1994, oftast verið hallur undir aðild Noregs að ESB, þótt norska þjóðin hafi að meirihluta allan tímann verið andvíg aðild. Þannig hefur myndazt þrýstingur á íslenzka fulltrúann í Sameiginlegu EES-nefndinni frá báðum hliðum, ESB og EFTA, að samþykkja tillögu Framkvæmdastjórnarinnar um innleiðingu viðbóta í EES-samninginn. Nú ber nauðsyn til að stinga við fótum. Mikill meirihluti Norðmanna yrði því feginn, og Noregur myndi einfaldlega gera tvíhliða samning um orkuviðskipti án þess að vera bundinn aðild að ACER. Slíkt veitir Noregi vafalaust meira svigrúm í samningaviðræðum, svo að ekki þurfa Íslendingar að óttast, að þeir geri á hlut frænda sinna í Noregi með því að beita neitunarvaldi á Þriðja orkupakkann.
Þann 9. marz 2019 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Einar S. Hálfdánarson, hæstaréttarlögmann, sem hann nefndi:
"Til Michaels Manns, sendiherra ESB á Íslandi".
Einar hælir sendiherranum fyrir Morgunblaðsgrein hans 15. nóvember 2018 um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, þar sem Íslendingar voru að sjálfsögðu hvattir til að láta af andstöðu sinni við hann og innleiða hann vafningalaust í íslenzk lög. Flestum Íslendingum hefur sennilega þótt grein sendiherrans óviðeigandi afskipti af innanríkismálum hér, sem sendiherrar jafnan forðast. Einar S. Hálfdánarson tekur hins vegar þennan sendiherra sem fullgilda heimild um það, sem rétt er í þessu máli, en ber ekki við að vísa í neina gerð eða tilskipun "pakkans" máli sínu til stuðnings. Það er vissulega nýtt af nálinni síðan á dögum vinstri stjórnarinnar 2009-2013 að gera sendiherra ESB svo hátt undir höfði. Þannig reit Einar:
"Þannig staðfesti hann (sem vitað var), að Íslandi er ekki skylt að opna raforkumarkað sinn né að veita þriðja aðila aðgang hér að fjárfestingartækifæri. Jafnframt, að þar sem Ísland er ekki aðili að ESB, muni ACER ekki hafa neitt vald hér á landi. Þau málefni, er lúta að Íslandi, séu á hendi ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA), en ekki ACER."
Hér að ofan eru sett fram haldföst rök um hið gagnstæða við það, sem þarna er haldið fram. Pistilhöfundur hefur ýmist vitnað til gerða ESB, norska lagaprófessorsins Peter Örebech eða greinargerðar með frumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar um innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn, en Einar S. Hálfdánarson hefur vitnað í sendiherra Evrópusambandsins sem heimild. Lesendum er eftirlátið að bera þetta saman og mynda sér skoðun.
Síðan skrifar Einar:
"Það skiptir ESB ekki nokkru, hvort Ísland innleiðir þriðja orkupakkann og Ísland væntanlega minnstu."
Ef þetta er rétt, hvers vegna skrifaði Michael Mann þá umrædda grein í Morgunblaðið 15.11.2018 ?
Eins og vænta mátti, vitnaði Björn Bjarnason, formaður nefndar utanríkisráðherra um mat á reynslu Íslands af EES, í þessa grein Einars í dagbókarfærslu sinni 10. marz 2019, og má um það segja, að litlu verður vöggur feginn. Björn hefur ekki komið fram með neinar skýringar á því, hvers vegna Íslendingar eigi að innleiða Þriðja orkupakka ESB, sem ekki hafa verið marghraktar, m.a. hér að ofan. Hann er samt nógu ósvífinn til að skrifa eftirfarandi undir fyrirsögninni,
"Þegar haldföstu rökin skortir":
"Þetta [grein Einars] er athyglisverð staðfesting á því, sem hér hefur verið margítrekað. Haldið hefur verið fram órökstuddum fullyrðingum um afleiðingar þess að innleiða 3ja orkupakkann. Þessi blekkingarherferð er ekki reist á neinum "haldföstum rökum", svo að tekið sé undir orð Einars ... "
Hér kastar Björn Bjarnason steinum úr glerhúsi, enda færir hann sjálfur aldrei nein bitastæð rök fyrir því, að Íslendingar eigi að samþykkja Orkupakka #3. Hann hefur hins vegar látið sig hafa það að kasta fýlubombum á við þá sjúklegu samsæriskenningu, að hérlendir andstæðingar Orkupakka #3 séu á mála hjá norska Miðflokkinum til að stoppa það, sem þessum stjórnmálaflokki mistókst að stoppa fyrir ári í Noregi. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem sigraði téðan Björn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á sinni tíð, en virðist treysta honum núna, hefur lapið þessa bölvuðu vitleysu upp eftir Birni.
Þegar Miðflokkurinn, norski, var hins vegar inntur eftir þessu, kannaðist enginn þar á bæ við að gera slíka útsendara út á Íslandi, og engin skjöl fundust þar um. Þegar greint var frá því, að utanríkisráðherra Íslands héldi þessu þó blákalt fram, kváðu við þvílík hlátrasköll í Ósló, að annað eins hefur ekki heyrzt í Víkinni síðan Haraldi, hárfagra, var greint frá því þar á sinni tíð, að höfðingjar Vesturlandsins, norska, sem eigi vildu þýðast ríki hans, hygðust hafa sig á brott með fjölskyldur sínar og búsmala til nýfundinnar eyjar norður við Dumbshaf.
Síðan lætur Björn Bjarnason í ljós undrun á því, að hann skuli ekki hafa hlotið nokkurn hljómgrunn fyrir áróður sinn fyrir innleiðingu Þriðja orkupakkans. Téður Björn er þó ekki óvanur því að hljóta dræmar undirtektir á meðal flokksfélaga og á meðal almennings. Það gerðist t.d., er Friðrik Sófusson sigraði hann í kjöri um formann Sambands ungra sjálfstæðismanna og í borgarstjórnarkosningum, þar sem hann galt afhroð sem borgarstjóraefni.
Þessa undarlegu undrun sína tjáir Björn með eftirfarandi ósmekklega hætti í téðri dagbókarfærslu:
"Í raun er ótrúlegt, hve margir hafa kosið að elta þá, sem kveiktu villuljósin vegna 3ja orkupakkans. Sýnir sú vegferð, hve auðvelt er að leiða menn í ófærur með aðstoð samfélagsmiðla og í andrúmslofti, sem einkennist af því, að menn telja sig hafa höndlað dýpri sannleika en sjá [má] með því einu að kynna sér staðreyndir."
Er skrýtið, þótt sá, sem sendir frá sér þennan yfirlætisfulla texta, hljóti engan hljómgrunn ?
10.3.2019 | 10:44
Mögnuð umvöndun Morgunblaðsins
Frægar eru magnaðar umvandanir meistara Jóns Vídalíns við leika, lærða og höfðingja, úr predikunarstóli á sinni tíð. Fann hann að líferni almúgans, grautarlegum boðskap geistlegra, óvandaðri málafylgju höfðingja og níðangurslegri meðferð á fátækum og umkomulausum. Er ekki að efa, að undan hefur sviðið á sinni tíð, enda mun orðstír meistara Jóns verða uppi, svo lengi sem land þetta byggist.
Sjaldan hafa valdsmenn borgar og ríkis á seinni tíð fengið aðra eins yfirhalningu frá ritstjórn Morgunblaðsins og gaf að líta í forystugrein þann 5. marz 2019. Hún hét:
"Verðskuldað vantraust",
og hófst þannig í nafni ritstjórans:
"Síðustu kannanir um trúverðugleika opinberra stofnana eru eftirtektarverðar. Þær sýna, að minnst álit alls hafa menn sameiginlega á stjórn höfuðborgar landsins. Hvorki meira né minna en 84 % þeirra þykir ekki mikið til hennar koma. Og verður ekki sagt, að þessi hraksmánarlegi dómur þurfi að koma á óvart. Hvert dæmið rekur annað um stjórnleysi, áhugaleysi, skort á þjónustulund hjá fyrirtæki, þar sem fyrsta boðorðið og flest hinna eiga að snúast um að veita eigendum sínum, borgarbúum, góða þjónustu. Sú krafa á meira en fullan rétt á sér, og þá ekki sízt, þar sem gjaldtaka fyrir hana hækkar stöðugt og langt umfram þróun verðlags í landinu."
Það þarf ekki að orðlengja það, að stjórnun Reykjavíkurborgar er í molum og að þar er skattfénu sólundað purkunarlaust í gæluverkefni, sem ekki þjóna almannahagsmunum, heldur einvörðungu sérvizku borgarfulltrúa meirihlutans og e.t.v. í einhverjum mæli duttlungum æðstu embættismanna borgarinnar.
Nú hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt fram tillögu um sparnað í borgarrekstrinum, lækkun gjaldskráa fyrirtækja OR, og minnkun arðgreiðslna frá samsteypunni og til borgarsjóðs ásamt útsvarslækkun, og borgarstjórnarmeirihlutinn hefur af fullkomnu ábyrgðarleysi gagnvart íbúum borgarinnar og kjaraviðræðunum hafnað þessum ágætu tillögum.
Þeim gafst þarna tækifæri til samstillts átaks borgarstjórnar við að bæta stjórnarhætti borgarinnar og gera yfirbót eftir gegndarlaust sukk og svínarí með skattfé borgarbúa. Nú er ljóst, að Dagur Bergþóruson, borgarstjóri, verður við sama heygarðshornið, sem í hans tilviki er reyndar úti á þekju. Óli Björn Kárason, Alþingismaður, reifaði málið í Morgunblaðsgrein sinni, 6. marz 2019:
"Sveitarfélögin og kjarasamningar":
"Í heild greiðir íslenzkt launafólk meira í útsvar en tekjuskatt. Árið 2017 fengu sveitarfélögin nær 193 milljarða [króna] í sinn hlut af launatekjum í formi útsvars, en ríkissjóður 139 milljarða, að teknu tilliti til barna- og vaxtabóta. Lækkun útsvars er því stærra hagsmunamál fyrir flesta en að lækka tekjuskattsprósentu ríkisins.
Launamaður með 300 þúsund krónur í mánaðarlaun greiðir helmingi meira í útsvar en í tekjuskatt til ríkisins, ef hann greiðir þá nokkuð, að teknu tilliti til bóta. Þannig hefur skattastefna sveitarfélaga meiri áhrif á ráðstöfunartekjur launafólks en stefna ríkisins í álagningu tekjuskatts. Lagfæringar á tekjuskattskerfi ríkisins bera takmarkaðan árangur gagnvart þeim, sem hafa lág laun."
Borgarstjórnarmeirihlutinn kýs að halda uppteknum hætti með útsvar í toppi og að blóðmjólka fyrirtæki sín með arðgreiðslum, sem skapast af okri á rafmagni og hitaveitu, þótt íbúarnir ættu réttu lagi að njóta arðs af auðlindum sínum með tiltölulega lágu verði á þessum lífsnauðsynjum.
Reykjavík beitir íbúa nágrannasveitarfélaganna fjárkúgun með okri á einokunarstarfsemi á borð við hitaveitu og dreifingu rafmagns, þegar afrakstur sölunnar rennur í borgarsjóð. Orkustofnun verður að grípa í taumana, þegar hitaveituvatn OR á höfuðborgarsvæðinu er orðið dýrara en á "köldu" svæði á borð við Egilsstaði. Er hitaveitan látin greiða niður dýra raforkuvinnslu á Hellisheiði, sem er í samkeppni ?
Óli Björn heldur áfram:
"Ekkert sveitarfélag er í betri stöðu en Reykjavík til að leggja sitt af mörkum, þegar kemur að kjarasamningum. Ekki aðeins vegna þess, að í höfuðborginni er útsvar í hæstu hæðum, heldur ekki síður vegna eignarhalds á Orkuveitu Reykjavíkur. ....
Á mánudag [04.03.2019] kynnti borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins tillögur um lækkun útsvars og lækkun rekstrargjalda heimilanna. Með þessu eigi höfuðborgin að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að greiða fyrir samningum á vinnumarkaði. Það er því ekki tilviljun, að sjálfstæðismenn tali um "kjarapakkann", þegar þeir kynna tillögurnar.
Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka útsvarið úr 14,52 % niður í 14,0 %. Árlega skilar lækkunin um 84 þúsund krónum í vasa fjölskyldu með tvo sem fyrirvinnu á meðallaunum. Lagt er til, að aðgerðin verði fjármögnuð með bættum innkaupum, sem felast í auknu aðhaldi og útboðum á öllum sviðum borgarinnar. Þrátt fyrir þessa lækkun yrði útsvarið í Reykjavík nokkru hærra en það er í Garðabæ og á Seltjarnarnesi.
Þá leggja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til, að árleg rekstrargjöld heimila verði lækkuð um 36 þúsund krónur með lækkun á hitunarkostnaði, raforkuverði, sorphirðugjaldi og vatnsgjaldi. Það kemur eflaust einhverjum á óvart, að í Reykjavík er hitun húsa dýrari en á Selfossi, Akureyri og Egilsstöðum. Kostnaður við að kynda hús í Reykjavík er 30 % hærri en á Egilsstöðum. ( Í Reykjavík er raforkuverð einnig hærra.) Í tillögunum er lagt til, að 13 milljarða [króna] áformaðar arðgreiðslur frá fyrirtækjum borgarinnar verði að mestu nýttar til að standa undir lækkuninni."
Það virðist vera að krystallast út sá munur á stefnumörkun hægri og vinstri manna í orkumálum, að hægri menn vilja skapa markaðsforsendur fyrir sem lægstu orkuverði til almennings og almennrar atvinnustarfsemi og samkeppnishæfu orkuverði til stóriðju, en vinstri menn (og ESB-sinnar) vilja okra á orkuverði til almennings og stóriðju, þannig að þessar náttúruauðlindir landsins veiti ekki lengur landinu neitt samkeppnisforskot.
Hægri menn telja með öðrum orðum, að inngrip í náttúru landsins, sem allar virkjanir eru, séu aðeins verjanleg til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar í landinu sjálfu, en vinstri menn vilja varpa auðlindarentunni inn í orkufyrirtækin, m.ö.o. orkan skal vera svo dýr, að hún verði skorin við nögl, en orkufyrirtækin græði samt á tá og fingri.
Jafnaðarmenn vilja flestir, að Íslendingar gangi í ESB, og þar er við lýði uppboðskerfi á raforku, sem við fákeppnisaðstæður á Íslandi og dyntóttar orkulindir náttúrunnar útheimtir samræmda auðlindastýringu, ef nýting orkulindanna á ekki að fara úr böndunum, notendum mjög í óhag. Slík samræmd auðlindastýring samræmist hins vegar ekki samkeppnisreglum ESB á frjálsum markaði, og þess vegna er glapræði að innleiða hér uppboðskerfið, sem Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn skyldar aðildarþjóðirnar til að gera. Alþingi verður að gera einhvern ábyrgan fyrir því, að lágmarka hér hættu á orkuskorti. Eðlilegast er, að Landsvirkjun fái það hlutverk, en hún virðist nú vera búin að verðleggja sig út af markaðnum, svo að hún stendur ekki í neinum virkjanaframkvæmdum núna. Er hún að framkalla orkuskort til að fá átyllu til að hækka raforkuverðið ?
Aftur að téðri forystugrein Morgunblaðsins:
"Því fer fjarri, að gengið sé um landið af þeirri hófsemi, sem það á skilið. Og meira en það, landið á til þess kröfu, sem ekki verður andmælt með neinum sanngjörnum rökum. Það hefnir sín, verði sú krafa hunsuð.
Það þarf ekki að taka nema örskotsstund að laska mynd Íslands mjög, og þar með eyðileggja sjálft aðdráttaraflið með óafturkræfum hætti. Það gildir það sama og um landráð gegn landinu, sem ístöðulausir ráðamenn segjast neyddir í af erlendum dómstólum, sem ekki hafa lögsögu hér. Árið 2006 nýttu menn færið, þegar aginn var farinn úr herbúðunum, til að færa EES-samninginn yfir ómengaðan íslenzkan landbúnað, þvert ofan í það, sem þjóðinni hafði verið lofað við samningsgerðina. Verði sú ógæfugata gengin til enda, má augljóst vera, að samningurinn sá er orðinn þjóðinni verri en enginn."
Þetta er hárrétt mat hjá ritstjóra Morgunblaðsins, EES-samningurinn verður þjóðinni þá verri en enginn, ef auka á innflutning á verksmiðjuframleiddum matvælum hingað frá löndum með gríðarlega sýklalyfjagjöf og þar af leiðandi fjölónæma sýkla, sem er mikill vágestur hér, auk aukinnar hættu á dýrasjúkdómum.
Um annan vágest, sem EES-samningurinn býður nú upp á hér á Íslandi, hafa einnig verið viðhöfð þau orð af ráðamönnum, að þeir "eigi bara ekki neitt val". Þar er um að ræða Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB, og alveg dæmalausa nauðhyggju, sem fellur vel að yfirborðslegum málflutningi utanríkisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem aldrei virðist kryfja nokkurt mál að gagni, heldur láta duga að fara með frasa.
Ein vitleysan er sú, að EES sé miklu betra fyrir Ísland en ESB, af því að EFTA-ríkin hafi aðeins þurft að innleiða 13,4 % af gerðum og tilskipunum ESB. Það, sem máli skiptir er auðvitað ekki fjöldinn, heldur umfangið. Gerðirnar, sem ESB ætlast til að EFTA-ríkin innleiði, fara sístækkandi (og fjöldinn vex líka hratt). Nú er farið að vöðla tilskipunum og gerðum saman í lagabálka, sem löndunum er gert að samþykkja, og vöndlarnir eru meira að segja framhaldssögur, sem enginn veit, hvernig enda.
Gott dæmi um það eru orkumarkaðslagabálkar ESB. Sá fyrsti kom út 1996 og var innleiddur hér samhliða nýjum orkulögum 2003. Þar er áskilinn aðskilnaður orkuvinnslu, flutnings, dreifingar og sölu. Flutningsfyrirtækið, Landsnet, hefur þó enn ekki verið gert fyllilega sjálfstætt frá hinum. Ríkisstjórnin hyggur fyrst núna á að bæta úr því.
Hefur orðið merkjanlegur árangur af þessu brölti á Íslandi ? Hann er ekki merkjanlegur í smásöluverði raforku, sem hefur heldur hækkað að raungildi. Þess var aldrei að vænta á stórmarkaði raforku (langtímasamningar), enda er Landsvirkjun ríkjandi þar. Líklega hefur þetta brölt ekkert gagnast almenningi.
Annar orkumarkaðslagabálkurinn var gefinn út 2003 og innleiddur hér 2007. Þar er frjáls samkeppni með raforku í orkukauphöll skilgreind sem það fyrirkomulag, sem gagnast muni raforkukaupendum bezt. Það hafa ekki verið bornar brigður á, að það eigi við um aðstæður meginlands Evrópu, en það hafa hins vegar verið leidd sterk rök að því í ritgerð eftir Elías Elíasson, verkfræðing, sem fylgir þessum pistli í viðhengi, að slíkt uppboðskerfi geti orðið stórskaðlegt almennum raforkunotendum á Íslandi, hækkað meðalverðið og aukið hættu á orkuskorti. Landsnet er samt með innleiðingu slíks markaðskerfis raforku í undirbúningi, þótt það sé valfrjálst nú, en það verður hins vegar skylda samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, eins og lesa má um í Orkumarkaðstilskipun 2009/72/EB, kafla 6.
Í 2009/72/EB, kafla 37, er greint frá hlutverki og verkefnum Landsreglarans, og þar fer ekkert á milli mála, að Landsreglarinn verður æðsta embætti orkumála landsins. Það er raunalegt að horfa upp á hæstaréttarlögmanninn Einar S. Hálfdánarson hengja sig í formsatriði og halda því fram, að ACER muni engin völd fá hér, af því að Ísland er ekki í ESB.
Í grein sinni,
"Til Michaels Manns, sendiherra ESB á Íslandi",
skrifar Einar S. Hálfdánarson m.a.:
"Þannig staðfesti hann [MM] (sem vitað var), að Íslandi er ekki skylt að opna raforkumarkað sinn né að veita þriðja aðila aðgang hér eða fjárfestingartækifæri. Jafnframt, að þar sem Ísland er ekki aðili að ESB, muni ACER ekki hafa neitt vald hér á landi. Þau málefni, er lúta að Íslandi, séu á hendi ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA), en ekki ACER."
Til hvers heldur téður Einar eiginlega, að ESB gerð nr 714/2009 sé samin og gefin út ? Hún fjallar um Kerfisþróunaráætlun ESB, og þar er útlistað, að aðildarlöndin (EES) skuli aðlaga stofnkerfi sín að Kerfisþróunaráætlun ESB. Landsreglarinn getur krafizt þess af Landsneti að gera þetta og á að tilkynna öll frávik til ACER. Með samþykkt Orkupakka #3 skuldbindur Alþingi landsmenn til að hlýða því, sem í honum stendur, þótt allt sé þar ekki enn lagalega skuldbindandi, t.d. 714/2009. Þá má benda á grein 12 í EES samninginum, sem bannar útflutningshömlur á vörur innan EES. Rafmagn er vara að Evrópurétti og að neita sæstrengsfyrirtæki um aðgang að íslenzka raforkumarkaðinum er brot á grein EES #12.
Á bls 26 í frumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar 4 S (2017-2018) um samþykkt á ákvörðun Sameiginlegu EES nefndarinnar nr 93/2017 frá 5. maí 2017, segir svo á frummálinu um nánast algert valdaleysi ESA gagnvart ákvörðunum og beiðnum/skipunum frá ACER:
"EFTAs overvåkningsorgan skal, når det fatter slike vedtak, basere vedtaket på et utkast fra ACER. Et slikt utkast er ikke rettslig bindende for EFTAs overvåkningsorgan. Det er en underliggende forutsetning i den fremforhandlete modellen, at EFTAs overvåkningsorgan, kort tid etter mottak av et slikt utkast fra ACER, vil fatte et likelydende eller tilnærmet likelydende vedtak."
Hér fer ekkert á milli mála, hvor ræður, ACER eða ESA, þegar ACER vill koma málum áfram til Landsreglarans, og sama gildir til baka. Að taka Michael Mann, sendiherra ESB, til vitnis um valdaleysi ACER hérlendis eftir innleiðinu á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, er röksemdafærsla, sem engan veginn heldur máli í þessari umræðu.
1.3.2019 | 13:32
Hversu teygjanleg er Stjórnarskráin ?
Merkingu textans í Stjórnarskránni er auðvitað ekki hægt að teyggja og toga endalaust í þá átt, sem valdhafar á hverjum tíma óska. Þetta var Viðeyjarstjórninni ljóst 1992, er hún fékk hóp valinkunnra lögfræðinga til að rýna drög að EES-samninginum m.t.t. Stjórnarskrárinnar. Lögspekingarnir komust að þeirri sameiginlegu niðurstöðu, að samningurinn reyndi til hins ýtrasta á þanþol Stjórnarskrárinnar.
Lögfræðihópur á vegum þáverandi stjórnarandstöðu komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, að þáverandi EES-samningur væri handan þolmarka Stjórnarskrárinnar. Síðan hefur mikið bætzt við þennan samning af atriðum, sem höggva í frelsi landsmanna til að haga málum að eigin vild, en þvinga þá undir ákvörðunarvald erlends ríkjasambands, á leið til sambandsríkis, og stofnana þess, þar sem Ísland á ekki aðild. Með einfaldri almennri rökfræði má nú álykta, að mælirinn sé löngu fullur og að lengra verði alls ekki gengið í frelsisskerðingu landsmanna að óbreyttri Stjórnarskrá.
Nú hefur ríkisstjórnin boðað framlagningu þingmáls, sem enn heggur í þennan knérunn. Er þar um að ræða innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn. Hér á þessu vefsetri hefur því verið haldið fram með tiltækri röksemdafærslu, að samþykkt Alþingis á þessu væntanlega þingmáli myndi fela í sér kúvendingu á íslenzkri orkustefnu frá lágorkuverðsstefnu til háorkuverðsstefnu, og er þá nærtækt að vísa til nýjustu fórnarlamba þessarar stefnu, frænda okkar og frænkna í Noregi.
Ein aðferðin til að réttlæta samþykkt þessa Orkubálks #3 er að gera lítið úr honum. Það er barnaleg afstaða og ber annaðhvort vitni um þekkingarskort á viðfangsefninu eða dómgreindarskort. Tómas Ingi Olrich skrifar bitastæða grein í Morgunblaðið 12. febrúar 2019, þar sem hann kemur víða við og ritar á grundvelli yfirgripsmikillar þekkingar og reynslu, t.d. af samskiptum við ESB-"apparatið", einnig á sviði orkumála:
"Hvað er í pakkanum ?".
Greinin hófst þannig:
"Nú eru skiptar skoðanir um hinn svokallaða orkupakka. Þeir, sem aðhyllast innleiðingu pakkans, virðast byggja afstöðu sína einkum á tvenns konar fullyrðingum. Annars vegar eru þeir, sem halda því fram, að í tilskipuninni sjálfri sé ekki að finna það, sem þar stendur. Aðrir halda því fram, að flest, ef ekki allt, sem í þriðju orkutilskipuninni stendur, hafi þegar verið í fyrri tilskipunum, sem Íslendingar hafa innleitt án athugasemda."
Þegar menn hafa tekið trú á eitthvað, í þessu tilviki Evrópusambandið, ESB, er það jafnan háttur þeirra að afneita því, sem óþægilegt er við átrúnaðargoðið. Sú strútshegðun er alþekkt og er áberandi í umræðu um Orkupakka #3. Hinum, sem halda því fram, að í Orkupakka #3 felist ekki nýmæli, má benda á embætti Landsreglara, sem verður einsdæmi á Íslandi, og, að með innleiðingu Orkupakka #3 mun Evrópurétturinn spanna nýtt svið á Íslandi, sem hvorugur fyrri orkupakka spannaði, sem eru millilandatengingar fyrir orkuflutninga. Fjallað verður nánar um þann þátt síðar í þessari vefgrein.
Um þessi atriði skrifar Tómas Ingi:
"Ef sá skilningur er réttur, þýðir það, að Íslendingar hafa ekki vald yfir sínum orkumálum."
Þetta er hárrétt athugað, og þar með er fullveldið rokið út í veður og vind. Landið verður einfaldlega ekki lengur fullvalda, ef landsmenn verða háðir Evrópusambandinu um ráðstöfun auðlinda sinna eða orkunnar úr orkulindunum.
Nokkru síðar í greininni hnykkti Tómas Ingi á þessu:
"Ég hygg, að stjórnvöldum sé ekki heimilt að koma í veg fyrir tengingu um sæstreng og í þriðja orkupakkanum séu ákvæði, sem styrkja þá fullveldisþrengingu. Hilmar Gunnlaugsson, lögmaður með LLM í orkurétti, staðfestir þann skilning minn. Telur hann, að það sé með öllu óheimilt að setja reglur, sem banna fyrirtækjum eða ríkjum ESB aðgang að íslenzkri orku, en bendir mér kurteislega á, að svo hafi verið lengi."
Það hefur ekki verið svo lengi (eða frá innleiðingu orkubálks ESB #2 eða #1), að fyrirtæki í ESB hafi getað öðlazt aðgang að íslenzkum orkulindum með því að leggja hingað sæstreng, en þann rétt öðlast þau með Orkupakka #3. Það staðfestir dágóður fjöldi norskra lagaprófessora, t.d. Peter Örebech, í fyrirlestri hérlendis 22. október 2018.
Hins vegar hafa fyrirtæki af EES-svæðinu mátt sækja um virkjunarleyfi hér til jafns við innlend fyrirtæki frá innleiðingu Orkubálks #1. Þau munu þó varla fá áhuga á því fyrr en orkukauphöll að hætti ESB hefur tekið hér til starfa, en slíkt verður skylda og undir eftirliti Landsreglara eftir samþykkt Orkupakka #3 (og var valfrjálst eftir Orkupakka #2).
Næst gerði Tómas Ingi frelsisafsal í orkumálum og Stjórnarskrána að umræðuefni og tók Ara Guðjónsson, yfirlögfræðing Icelandair Group, til bæna.
"Engu að síður finnst lögmanninum, sem telur, að valdaframsal orkupakkans standist ekki skoðun, vissara að leggja til, að í stjórnarskrá Íslands verði mælt skýrt fyrir um heimild til þess að framselja vald til tollabandalagsins. Sú varfærni lögfræðingsins kann að benda til þess, að honum finnist hann hafa farið örlítið fram úr sjálfum sér. Alla vega finnst mér það."
Það er nokkuð ljóst, að lögfræðilega má ekki við svo búið standa. Upptaka hverrar gerðar ESB á fætur annarri brýtur Stjórnarskrána. Lausnin á því viðfangsefni er hins vegar ekki að gefast upp á sjálfstæði landsins og veikja fullveldisvarnir Stjórnarskrárinnar, heldur að leita hófanna innan EFTA um að endursemja við ESB um aðganginn að Innri markaði þessa tollabandalags.
Ýmsar furðuhugmyndir um Stjórnarskrárbreytingar hafa sézt á þessari öld, s.s. um að gera Ísland að fylki í Noregi og önnur af svipuðum toga um að fastbinda EES-aðild Íslands í Stjórnarskrá. Um hina síðari ritaði Sigurbjörn Svavarsson, formaður Frjáls lands, grein í Morgunblaðið, 4. janúar 2019:
"Að beygja stjórnarskrána undir EES samninginn":
"Það er ljóst, að stjórnvöld vilja ekki styggja miðstjórnina í Brussel; það sést bezt á sjálfvirkri afgreiðslu mála inni í Sameiginlegu EES-nefndinni; samþykkt þar er skuldbindandi fyrir Ísland, þrátt fyrir stjórnmálalegan fyrirvara um samþykkt Alþingis. Gagnrýni á málið er afgreidd með tilvísun um fyrri samþykkt utanríkismálanefndar. Þessa ólýðræðislegu, sjálfvirku afgreiðslu ESB-gerða vilja ráðamenn kalla stjórnskipunarhefð eða reglu til að réttlæta ferlið. Með þessu eru íslenzkir ráðamenn í raun að leiða þjóðina hægt og bítandi inn í ESB, án þess að hún fái nokkru um það ráðið."
Síðan er Sigurbjörn ómyrkur í máli um hina fáránlegu tillögu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra, "að festa aðildina að EES eina í stjórnarskrána":
"Greininni [Björns Bjarnasonar-innsk. BJo] í heild er ætlað að draga fjöður yfir gagnrýni á, að þróun til miðstýringar í ESB sé verið að yfirfæra á Ísland í gegnum EES-samninginn, og í stað þess að ræða og takast á við þá óheillaþróun er stjórnarskránni kennt um að vera fyrir EES-samningnum.
Það er verið að afvegaleiða og blekkja almenning með slíkri umræðu og er hættulegt sjálfstæði landsins þegar fylgispekt ráðamanna við ESB er orðin slík að gera tillögu um, að viðskiptasamningur sé felldur inn í stjórnarskrána, eins og hann verði þar um ókomna framtíð."
Fáránleiki tillögu téðs Björns er slíkur, að enginn viti borinn maður er líklegur til að gefa henni jákvæðan gaum, en hún er hins vegar til þess fallin að sýna flestum á hvaða stig undirlægjuhátturinn við Evrópusambandið er kominn. Hér vantar ekkert annað en að leggjast marflatur og sleikja skósóla búrókratanna í Brüssel.
Þá víkur sögunni að núverandi iðnaðarráðherra Íslands. Tómas Ingi víkur að henni í téðri grein:
"Það má skilja iðnaðarráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, á þann veg í Bændablaðinu 15. nóvember síðastliðinn, að ekki sé útilokað, að grunnreglur EES-samningsins um frjálst vöruflæði geri það að verkum, "að óheimilt sé að leggja fortakslaust bann við lagningu strengs (til Íslands), þó að eftir sem áður yrði hann háður leyfum samkvæmt málefnalegum sjónarmiðum." Án þess að taka afstöðu til málsins bætir ráðherrann við: "Sé það raunin, er sú staða uppi nú þegar, hefur verið það, frá því að EES-samningurinn var samþykktur fyrir um aldarfjórðungi og er með öllu ótengt þriðja orkupakkanum.""
Iðnaðarráðherrann skilur ekki, hvernig EES-samningurinn virkar. Þótt Viðauki IV í EES-samninginum hafi verið fyrir hendi frá upphafi, þá var í Viðaukanum ekkert, sem virkjaði almenn ákvæði samningsins um Innri markaðinn fyrir rafmagn fyrr en Fyrsta orkumarkaðslagabálkinum var komið þar fyrir árið 1996.
Sjö árum síðar bætti Annar orkumarkaðslagabálkurinn um betur, en þar var útfært nánar, hvernig orkumarkaðurinn skyldi virka á Innri markaðinum með uppboði á orku í okkrum orkukauphöllum innan ESB (EES), þar sem einnig færu fram afleiðuviðskipti með orku í anda harðsvíraðrar spákaupmennsku. Við ríkjandi aðstæður innan ESB átti þetta fyrirkomulag að tryggja kaupendum lægsta verðið, en þar sem þessar aðstæður eru ekki fyrir hendi á Íslandi, tryggja þær seljendum hér hæsta verðið.
Það er hins vegar ekki fyrr en með Þriðja orkumarkaðslagabálkinum frá 2009, sem almenn ákvæði EES-samningsins um Innri markaðinn, t.d. bann við inn- og útflutningstakmörkunum, virkjast fyrir milliríkjaviðskipti með orku. Það er kominn tími til, að ráðherrann átti sig á þessu og hætti að tuða um, að Orkupakki #3 breyti sáralitlu fyrir Íslendinga, en miklu fyrir Norðmenn, og þess vegna eigum við einfaldlega að halda lengra út á þá braut, sem er þegar mörkuð. Þetta er algerlega óyfirveguð nauðhyggja, sem er ósæmileg ráðherra og varaformanni Sjálfstæðisflokksins.
Tómas Ingi Olrich greiddi atkvæði með EES-samninginum á Alþingi, og sagðist í téðri grein ekki hafa haft hugmynd um, að með því væri hann að afsala okkur valdi yfir íslenzkum orkumálum. Eins og rakið er hér að ofan, er það kolrangt hjá Þórdísi Kolbrúnu, að Tómas Ingi og allir hinir hafi með samþykkt EES-samningsins gerzt sekir um slíkt á Alþingi í janúar 1993. Sá, sem gerzt ætti um þetta að vita, guðfaðir samningsins að Íslendinga hálfu, Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi utanríkisráðherra, telur það fráleitt, að slíkt afsal hafi farið fram á þeim tíma.
Í lokakafla greinar sinnar, "ESB og örlagahyggja", hittir Tómas Ingi heldur betur naglann á höfuðið. Kaflinn hófst þannig:
"Í samskiptum okkar við ESB sýnist mér, að fleiri Íslendingar en góðu hófu gegnir séu farnir að aðhyllast örlagahyggju. Við erum að missa tökin á því að haga seglum eftir vindum íslenzkra hagsmuna. Í því máli geng ég ekki lengra en að segja: við skulum anda rólega og spyrna við fótum, þar sem það á við. Síðan skulum við leita leiða til að hægja á og stöðva aðlögun Íslendinga að fjölþjóðlegu tollabandalagi, sem þeir vilja ekki verða aðilar að."
8.2.2019 | 10:39
Ætluð framtíðarsýn ESB í orkumálum
Orkumál skipa veglegan sess hjá Evrópusambandinu, ESB, vegna þess, að þar á bæ hafa menn fyrir löngu skynjað ógnina, sem afkomuöryggi Evrópu vestan Rússlands stafar af orkuskorti í bráð og lengd. Í bráð getur hann stafað af pólitískum refsiaðgerðum Rússlands, eins og dæmin sanna, en um fjórðungur af öllu eldsneytisgasi, sem brennt er í ESB-löndunum, kemur frá Rússlandi, og hlutfallið gæti vaxið, þegar Nord Stream #2 lögnin verður tekin í notkun 2019-2020.
Að frumkvæði ESB er verið að leggja aðra lögn til ESB-landanna í suð-austri frá löndum sunnan Rússlands við Kaspíahafið. Framboð jarðefnaeldsneytis mun dragast saman til lengdar litið, og ESB hefur skapað orkumarkað í aðildarlöndunum, sem með hækkandi orkuverði á að skapa nægilegan sterkan hvata til að þróa sjálfbæra orkugjafa, sem leyst geti jarðefnaeldsneytið af hólmi.
Þannig er langtímastefna ESB sú í orkumálum, að EES-svæðið verði sjálfu sér nægt um sjálfbæra orku. Umhverfisvernd er ekki gild ástæða að Evrópurétti sem útflutningshindrun orku. Með áherzlu ESB á orkupakkann er verið að tryggja Framkvæmdastjórninni tögl og hagldir á orkumarkaði alls Evrópska efnahagssvæðisins, fulla nýtingu allra endurnýjanlegra orkulinda á svæðinu, afnám flöskuhálsa í flutningi orku á milli landa og þar með í raun orkuflutning frá jöðrum EES og inn að miðjunni, þar sem mesta og verðmætasta framleiðslugeta auðjöfranna, sem stjórna ESB í raun, er staðsett.
Stefnumarkendur ESB sjá fyrir sér mikla hækkun eldsneytisverðs, þegar þekktar orkulindir taka að dvína. Þeir vita, að það er kapphlaup við tímann að þróa kolefnisfrí orkuver, sem nýta orkugjafa, sem ekki er hörgull á. Til að flýta þessari þróun er tekið að gera notkun jarðefnaeldsneytis dýrari en efni standa til, markaðarins vegna. Það er gert með úthlutun koltvíildiskvóta og síðan hækkun á verði umframlosunar koltvíildis.
Hlutverk Íslands í þessari ætluðu sviðsmynd ESB er að virkja sem allra mest af endurnýjanlegum orkulindum sínum, þar sem jarðgufan er talin vera endurnýjanleg, og síðan að senda raforkuna út með sæstreng í átt að auðlegðarmiðju Evrópu. Þetta er slæm viðskiptahugmynd vegna þess, að lengsti sæstrengur í heimi, og á að jafnaði mesta dýpinu undir illviðrahafi, býður upp á rekstrartruflanir, langvinnar og dýrar viðgerðir, gríðarleg orkutöp og háan stofnkostnað.
Fyrir Íslendinga verður slíkt verkefni ekki þjóðhagslega hagkvæmt fyrr en evrópskt orkuverð hefur 2,5 faldazt m.v. núverandi stöðu. Það kann að koma að því, en það verður þá áreiðanlega skammært, því að ekkert hagkerfi getur keppt á þeim grundvelli við umheiminn. Orkuskipti Evrópu, reist á umhverfisvænni tækni í einingum á borð við núverandi kjarnorkuver, um 2 GW, munu gera slíkan sæstreng algerlega verðlausan og verkefnalausan.
Ef hérlendir menn vilja taka þátt í orkuskiptunum með Evrópu, létta undir bagga með henni og samtímis stunda arðbæra framleiðslu og viðskipti, er nær að virkja fyrir vetnisverksmiðju og flytja þann hluta framleiðslunnar, sem ekki er þörf fyrir hér, t.d. til Norð-Austur Englands, þar sem áform eru uppi um að leysa jarðgas til húshitunar af hólmi með vetni.
Jónas Elíasson, prófessor emerítus við Verkfræði- og náttúruvísindadeild HÍ, skrifaði athyglisverða grein,
"Þriðja þverbeygjan í orkumálum",
sem birt var í Morgunblaðinu 30. janúar 2019. Þar voru orkumálin reifuð í ljósi Þriðja orkupakka ESB, sem Jónas varar Alþingismenn sterklega við að innleiða á Íslandi. Nú verður gripið niður í grein hans:
"Það er samt greinilegt, að almenningur, einkum sá hluti hans, sem fæst við stjórnmál, botnar ekkert í þessum pakka. Þetta kemur greinilega fram í endurteknum fullyrðingum alþingismanna og ráðherra: Þó [að] við samþykkjum orkupakkann, þarf ekki að leggja neinn sæstreng til útlanda. Hvað er rangt við þetta ? Málinu er þveröfugt farið. Ef við leggjum engan sæstreng til útlanda, þarf engan orkupakka; hann verður bara til trafala. Orkupakkanum er ætlað að undirbúa komu okkar inn á evrópska raforkumarkaðinn, sem er miðstýrt frá Ljubljana í Slóveníu.
Ef við tengjumst ekki þeim Evrópumarkaði, þ.e.a.s. leggjum ekki sæstreng, er bezt að vera utan áhrifasvæðis þeirrar miðstjórnar. Það er bezt fyrir okkur og bezt fyrir Ljubljana. Norðmenn gætu reiðst okkur og rekið landið úr EES, segja einhverjir á Alþingi. Þetta er hræðsluáróður, sem ekkert er á bakvið."
Allt er þetta hárrétt hjá Jónasi. Þingmenn, sem enn hafa ekki tekið afstöðu gegn Orkupakka #3, verða að íhuga þessi orð Jónasar og gera sér grein fyrir eðli málsins. Orkupakkinn er sniðinn til að greiða götu millilandatenginga í ESB til að varna staðbundnum orkuskorti og til að auðvelda og flýta fyrir orkuskiptunum, sem verða ESB-löndunum þung í skauti vegna þess, hversu jarðefna eldsneytisdrifin hagkerfi þeirra eru.
Dágóður meirihluti íslenzku þjóðarinnar virðist vera algerlega andsnúinn tengingu raforkukerfis landsins við útlönd. Þar af leiðandi er ólýðræðislegt með öllu, að þingheimur samþykki lagasetningu, sem auðveldar ríkjasambandi að hafa áhrif, jafnvel úrslitaáhrif, á það, að hingað verði í fyllingu tímans lagður sæstrengur til þess eins að fegra orkubókhald viðtakandans. Þessi gjörningur mun ekki fegra orkubókhald Íslands, heldur þvert á móti, og hleypa raforkuverðinu upp úr öllu valdi, á meðan áhugi er á þessum millilandaviðskiptum með rafmagn.
Það fer að verða tímabært að kryfja þingmennina um afstöðu þeirra til þessa óláns Orkupakka #3, svo að þeir, sem velja fólk á framboðslista fyrir næstu Alþingiskosningar og aðrir kjósendur, viti, hvernig forgangsröðun frambjóðendanna er háttað, þ.e. með hagsmunum almennings eða með hagsmunum ESB, orkuseljenda og braskara.
Um þetta reit Jónas:
"Ef orkupakkinn verður samþykktur, mun skapast mikill og viðvarandi þrýstingur á að leggja sæstreng. Hann mun vara, þangað til sæstrengurinn kemur, því að orkuverð á hinum endanum er mun hærra en hér."
Þetta er laukrétt. Æstustu fylgismenn Þriðja orkupakkans hérlendis halda því jafnvel fram, að Íslendingar geti ekki neitað viðtöku slíks sæstrengs, ef farið verður fram á slíkt nú, væntanlega af einhverjum fjárfesti, með stuðningi ACER.
Þetta er misskilningur, sem stafar af því, að innleiðing Evrópuréttar yfir íslenzkum orkumarkaði náði ekki yfir millilandatengingar með Fyrsta og Öðrum orkumarkaðslagabálkimum. Úr þessu var ráðin bót með Þriðja orkupakkanum, eins og norski lagaprófessorinn, Peter Örebech, hefur sýnt fram á í greinargerð sinni frá 23. september 2018, sjá viðhengi, t.d. bls. 11. Að Evrópurétturinn spanni millilandatengingar fyrir rafmagn, þýðir m.a., að lýðræðislega kjörnum yfirvöldum hvers ríkis EES verður óheimilt að torvelda eða koma í veg fyrir millilandaviðskipti með rafmagn, sem til þess bær aðili kann að vilja koma á, sbr EES-samninginn, gr. 11 og 12.
Þar sem íslenzk löggjöf gildir nú um þetta svið hérlendis, millilandatengingar, geta íslenzk stjórnvöld núna hafnað umsókn um slíkan sæstreng. Orðagjálfur að hálfu þeirra, sem með trúarhita rembast, eins og rjúpan við staurinn, við að "sýna fram á", án nokkurra haldbærra raka, að innleiðing Orkupakka #3 muni nánast engu breyta í lagalegu tilliti hérlendis, er algerlega út í loftið.
Annað mikilvægt atriði, sem Orkupakki #3 breytir, eins og prófessor Peter Örebech leiddi glögglega í ljós í fyrirlestri sínum í Háskóla Íslands, 22. október 2018, er stjórnun innleiðingar á frjálsum uppboðsmarkaði rafmagns í orkukauphöll, og síðan eftirlit með rekstri hennar og virkni. Gapuxarnir, sem hæst láta og telja goðgá að vinda ofan af mistökum Sameiginlegu EES-nefndarinnar 5. maí 2017, með því að Alþingi synji Orkupakka #3 staðfestingar, virðast ekkert botna í því, hvað þetta markaðsmál raforku snýst um, en vaða í villu og svíma áfram, eins og þeir gefi sér, að markaðskerfi ESB hljóti að henta almenningi hér á Íslandi. Það hefur verið sýnt fram á, að við íslenzkar aðstæður er markaðsfyrirkomulag þetta stórvarasamt atvinnurekstri á Íslandi og hag almennings. Þetta skilur hins vegar Jónas Elísson, prófessor emerítus í verkfræði, mæta vel og skrifar:
"Ef svona ástand [enginn ábyrgur fyrir því að eiga vatn í miðlunarlónum] leiðir til þess, að virkjanir standa vatnslausar í einhvern tíma, verður orkuskortur. Síðasta dæmi um slíkt er, þegar RARIK tæmdi Smyrlabjargalón 1976, Hornafjörður varð rafmagnslaus og fullt af fólki flúði heimili sín."
Síðan hélt Jónas áfram að fjalla um markaðsmál rafmagns og um mikinn ábyrgðarhluta iðnaðarráðherra og annarra Alþingismanna, ef þeir hundsa ráðleggingar þeirra, sem gerst mega vita, við afgreiðslu Orkupakka #3, og láta jafnvel nauðhyggju um Alþingi sem óvirka afgreiðslustofnun fyrir nefnd EFTA og ESB í Brüssel ráða för. Meira að segja Stórþingið, norska, virti svo viðundurslegan málflutning að vettugi fyrir nokkrum árum (pósttilskipun) og er líklegt til að endurtaka leikinn við afgreiðslu Járnbrautarpakka #4, sem er illa þokkaður í Noregi og fjallar um frjálsa samkeppni allra járnbrautarfyrirtækja EES á opinberum teinum Noregs og annarra EES-ríkja, þar sem járnbrautarteinar eru í eigu hins opinbera :
"Landsvirkjun hefur sinnt sínu hlutverki með prýði og landið haft nóg rafmagn. Auðvitað þarf að koma málum þannig fyrir, að Landsvirkjun geti selt orku, bæði til iðnaðar og útlanda, án þess að auka hættuna á orkuskorti. Það er lágmarkskrafa, að úr þessu verði bætt með viðeigandi lagasetningu áður en tenging inn á uppboðsmarkað ESB kemur til greina.
Auk þess er sala á rafmagni inn á uppboðsmarkað ESB samkvæmt reglum ACER í Ljubljana varhugaverð. Þá er verið að yfirgefa þá stefnu, að íslenzka orku skuli nota til atvinnuuppbyggingar innanlands fyrir fullt og allt. Fórnarlömbin verða almenningur og iðnaðurinn í heild sinni, ekki bara áliðnaðurinn og landbúnaður í gróðurhúsum. Þessar atvinnugreinar lifa ekki án orku á viðráðanlegu verði, eftir að Ísland verður framleiðandi hráorku fyrir uppboðsmarkað ESB; hann er ófær um að bjóða innlendum iðnaði orku á viðunandi verði. Skipaðar hafa verið nefndir og skrifaðar skýrslur af minna tilefni en þessu. Það verður að fresta þessu orkupakkamáli, svo [að] ríkisstjórnin nái áttum og geti undirbúið málið með fullnægjandi hætti."
(Undirstr. BJo.)
Það eru engin teikn á lofti um, að ríkisstjórnin undirbúi setningu einhverra lagalegra varnagla, sem tryggi hér í sessi nauðsynlega stýringu allra orkulinda landsins, sem nýttar eru til sölu raforku inn á stofnrafkerfi landsins. Hún virðist líka hafa heykzt á boðaðri lagasetningu um, að aflsæstrengur til útlanda útheimti samþykki Alþingis, enda væri slík lagasetning stjórnsýslulegt örverpi, þar sem um er að ræða málefni framkvæmdavaldsins. Um báðar þessar umræddu lagasetningar gildir, það sem prófessor Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, hefur gert grein fyrir, að með gildistöku Orkupakka #3 að vopni geta Landsreglari, ACER og Framkvæmdastjórnin hrundið slíkum lagasetningum Íslendinga fyrir ESA og EFTA-dómstólinum.
Þá vekur furðu sú kokhreysti iðnaðarráðherra að halda því enn til streitu, að ríkisstjórnin stefni að innleiðingu Orkupakka #3 á vorþingi eða haustþingi 2019, þrátt fyrir samþykkt Miðstjórnar Framsóknarflokksins í fyrrahaust um, að leita skuli samninga við EFTA/ESB um allsherjar undanþágu fyrir Ísland á þessum orkupakka gegn því, að hann verði formlega innleiddur án nokkurra skuldbindinga að Íslands hálfu. Þar með mundi hann öðlast gildi í EES utan Íslands. Stendur utanríkisráðuneytið e.t.v. í slíkum samningaviðræðum ? Hvers vegna heyrist hvorki stuna né hósti frá ríkisstjórninni um þessa blessuðu samþykkt ?
28.1.2019 | 11:07
Af vanhæfi og umkomuleysi á veginum breiða
Tómas Ingi Olrich gerir það ekki endasleppt, heldur ritaði tímamótagrein í Morgunblaðið, 23. janúar 2019, sem hann nefndi:
"Hinn beini og breiði vegur umkomuleysisins".
Þar vakti hann athygli á því, að landsmenn virðast, margir hverjir, fljóta sofandi að feigðarósi Evrópusambandsaðildar með gagnrýnislítilli og að sumra mati sjálfsagðri innleiðingu margra, stórra og smárra, Evrópugerða og ESB-tilskipana í EES-samninginn og þar með í íslenzka löggjöf. Þrátt fyrir stranga Stjórnarskrá, hvað framsal ríkisvalds varðar, hafa þingmenn ekki skirrzt við að samþykkja risastóra ESB-lagabálka, sem fela í sér framsal ríkisvalds til stofnana, þar sem Ísland er ekki fullgildur aðili, og þetta framsal spannar m.a. vald til íþyngjandi aðgerða gegn einstaklingum og fyrirtækjum og snertir þannig hag alls almennings. Hafa þingmenn þá gjarna skýlt sér á bak við aðkeypt lögfræðiálit stjórnarráðsins, þar sem skákað er í skjóli loðmullu um "takmarkað framsal".
Þegar horft er til Þriðja orkumarkaðslagabálksins í þessu sambandi, er erfitt að verjast samsæringskenningum um stórkapítal og skriffinnskubákn Berlaymont (aðalstöðvar ESB) gegn hagsmunum lítillar þjóðar norður í Atlantshafi, sem á miklar endurnýjanlegar og enn ónýttar orkulindir.
Grein sína hóf Tómas Ingi þannig:
"Lögð er áherzla á það af hálfu þeirra, sem vilja, að Ísland samþykki þriðja orkupakkann, að EES-samningurinn hafi reynzt Íslendingum mjög vel. Jafnvel er ýjað að því, að aðild að EES hafi verið forsenda mikils efnahagslegs uppgangs á árunum 1994-2002.
Nú vill svo til, að engin formleg, fræðileg og ítarleg athugun hefur farið fram á því, hve vel EES-samningurinn hafi reynzt Íslendingum. Margt hefur breytzt á þeim tíma, sem samningurinn hefur verið í gildi.
Rétt er að líta til þess árangurs, sem Alþjóða viðskiptastofnunin hefur síðan 1994 náð í viðleitni sinni til að lækka eða fella niður hindranir á viðskiptum landa í millum.
Það er ljóst, að EES-samningurinn hefur haft í för með sér mikinn kostnað fyrir Ísland, og mikið reglugerðafargan hefur fylgt honum, sem í mörgum tilvikum á hingað lítið sem ekkert erindi, en getur verið skaðlegt."
Þetta er tímabær gagnrýni, enda hverju orði sannari. Það hefur verið reynt að skapa goðsögn um gríðarlegan ávinning EES-samningsins, jafnvel, að hann sé okkur ómissandi, sem er fjarstæða. Það er fyrir hendi viðskiptalegur ávinningur, en hann er dýru verði keyptur. Það er tollfrelsi fyrir iðnvarning, en það var fyrir hendi samkvæmt fríverzlunarsamningi EFTA og ESB frá 1973. Fiskafurðir og kjötafurðir eru ekki tollfrjáls inn á Innri markaðinn, af því að Ísland er ekki aðili að sameiginlegri landbúnaðar- og fiskveiðistefnu ESB. Samt hefur Alþingi innleitt ESB-matvælalöggjöf hér, svo að EFTA-dómstóllinn gat í nóvember 2017 ógilt löggjöf Alþingis frá 2009 um varnir gegn sýklalyfjaónæmi og sjúkdómum í mönnum og dýrum. Þar gat dómstóllinn brugðið fyrir sig Evrópuréttinum, og íslenzkur réttur víkur fyrir honum samkvæmt EES-samninginum. Þarna er um líf eða dauða að tefla og helztu sjúkdómaógn næstu áratuga í Evrópu að mati prófessors Karls G. Kristinssonar (banvænir sýklar, ónæmir fyrir lyfjum). Þetta er ekki sýklahernaður gegn landsmönnum, en það er jafngildi rússneskrar rúllettu að flytja matvæli til landsins án öryggisráðstafana, þar sem íslenzkir sérfræðingar á þessu sviði telja þörf á.
EES-aðildin kostar bein útgjöld upp á rúma 20 mrðISK/ár, en óbeini kostnaðurinn, sem hlýzt af íþyngjandi, ofvöxnu reglugerða- og eftirlitsfargani, sem dregur úr krafti fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana til framleiðniaukningar allt að 1 %/ár, hefur verið áætlaður allt að tífaldur þessi beini kostnaður á hverju ári. Þessi kostnaður er meiri en ávinningur aðgengis að Innri markaði EES, ef miðað er við beztu kjör WTO-Alþjóða viðskiptaráðsins.
Langflestir starfsmenn hérlendis starfa hjá fyrirtækjum með undir 50 starfsmenn og margir hjá fyrirtækjum með undir 10 starfsmenn. Reglugerðafargan ESB er sniðið við mjög ólíkar aðstæður og leggst þess vegna með meiri þunga á okkar þjóðfélag en þjóðfélög meginlandsins. Þessir ókostir gera meira en að vega upp viðskiptalega umframhagræðið af fjórfrelsinu m.v. viðskiptaskilmála WTO eða fáanlega skilmála með fríverzlunarsamningi, sem líklegt er að EFTA-geri við Breta og gæti orðið fyrirmynd að samningi við ESB.
Tómas Ingi bendir síðan á nauðsyn þess "að komast að því með hlutlausri rannsókn, hver ávinningur okkar er af þessari samningsgerð". Slík rannsókn verður alltaf í lausu lofti, ef nettó ávinningur EES-aðildar er ekki borinn saman við aðra valkosti, sem fyrir hendi eru. Norðmenn gerðu slíka rannsókn fyrir nokkrum árum, og er gerð grein fyrir henni í "Alternativrapporten" 2012. Sú skýrsla varpar ljósi á, að fagurgalinn um EES-samninginn er aðeins goðsögn, sem hentar bezt þeim, sem vilja sem nánasta aðlögun Íslands og Noregs að Evrópuréttinum með fulla aðild að ESB í huga í fyllingu tímans. Verður þeim kápan úr því klæðinu ?
"Það er ekki viðeigandi að fela þeim þessa athugun, sem hafa þegar komizt að þeirri niðurstöðu, að samningurinn hafi reynzt okkur mjög vel; svo vel, að það eigi að búa honum sérstakt svigrúm með breytingu á stjórnarskrá Íslands. Hætt er við, að sú ótímabæra niðurstaða leiði til þess, sem við höfum hingað til nefnt fordóma og leiða af sér óhæfi til að fjalla hlutlaust um reynsluna af EES."
Hér fjallar Tómas Ingi um það, að formaður hóps utanríkisráðuneytisins um umrætt mat á reynslunni af EES-samninginum hefur tjáð sig opinberlega með þeim hætti um EES þannig, að hæfi sitt til að komast að hlutlægri niðurstöðu hefur hann rýrt svo verulega, að skýrsluna má fyrirfram telja ónýta vegna slagsíðu.
Nokkru síðar í greininni vék Tómas Ingi að Stjórnarskránni, en hún er auðvitað næg ástæða ein og sér fyrir Alþingismenn til að hafna lagabálki frá ESB á borð við Orkupakka #3:
"Þegar aðildin að EES var rædd og undirbúin, var flestum ljóst, að framsal valds til evrópskra stofnana skapaði vandamál varðandi stjórnarskrá Íslands. Á þeim tíma var talið, að framsalið væri á takmörkuðu sviði og því hægt að telja það standast ákvæði stjórnarskrárinnar. Nú hefur þetta framsal aukizt. Er það meginástæða þess, að ákveðin öfl leitast nú við af fremsta megni að breyta stjórnarskránni á þann veg, að hún heimili framsal.
Aðrir vilja huga að því, hvort rétt sé að styrkja stjórnvöld í þeirri viðleitni að athuga gaumgæfilega og með gagnrýnum hætti innleiðingu reglugerða ESB og beita neitun, ef mál ganga gegn hagsmunum Íslands. Enn öðrum finnst kominn tími til að hefja umræður um að endurskoða aðild að EES."
Síðan 1993, þegar EES-samningurinn var samþykktur á Alþingi, hefur mikið vatn runnið til sjávar, og samrunaþróun ESB tekið stakkaskiptum frá samþykkt Lissabonsáttmálans 2007. Þessi þróun reynist EFTA-löndunum, Íslandi og Noregi, þung í skauti, og nú teygir miðstýringarárátta Framkvæmdastjórnarinnar hramma sína inn á eitt meginauðlindasvið Íslands, orkusviðið. Þá hljóta landsmenn að spyrna við fótum, eins og Íslendingar og Norðmenn sameinuðust um að gera 1992 varðandi sjávarauðlindirnar.
Þegar fulltrúar þessara þjóða standa ekki saman í Sameiginlegu EES-nefndinni, eins og gerðist að lokum varðandi Orkupakka #3, þá gefur íslenzka stjórnsýslan eftir, lyppast niður undan fargi þrýstings frá bæði ESB og hinum tveimur EFTA-löndunum í EES. Þetta er grafalvarlegt í ljósi þess, að innleiðing þessa lagabálks um orkuna mun hafa miklu verri afleiðingar í för með sér fyrir Ísland en Noreg. Þessi alvarlegu mistök íslenzku stjórnsýslunnar getur Alþingi leiðrétt með höfnun lagabálksins.
Næst minnist Tómas Ingi á doðann, sem einkennir EES/ESB sinnana:
"Í stað þess að aðhafast er beðið. Sá ágæti lögfræðingur, Hilmar Gunnlaugsson, sem ég vitnaði til í fyrri grein, telur, að það sé hægt að horfa með vonaraugum fram til fjórða orkupakka ESB. Þar verði hugsanlega að finna lausn á orkumálum íslenzkra garðyrkjubænda. Hvers vegna ættum við að hafa áhyggjur af slíkum málum, ef úrlausnar er að vænta frá ESB ? Lögfræðingurinn er setztur í biðstofuna."
Það er rétt athugað hjá Tómasi Inga, að ræfildómur og umkomuleysi hafa heltekið EES/ESB-sinnana, sem ganga með grillur í hausnum um það, að regluverk búrókratanna í Brüssel hljóti að vera klæðskerasniðin að viðfangsefnum okkar hér uppi á Íslandi. Orkupakki #3 er þó prýðisdæmi um, að svo er alls ekki. Þessi lagabálkur snýr ekki að neinu þeirra viðfangsefna, sem við er að etja í íslenzka orkukerfinu. Þvert á móti myndi innleiðing hans hér skapa fjölda vandamála og valda miklum deilum og almennri óánægju í þjóðfélaginu. Sá, sem heldur, að s.k. Vetrarpakki ESB muni verða til einhvers nýtur hér, er algerlega úti á þekju um eðli og hlutverk orkustefnu ESB.
Lokaorðin í þessari ágætu Morgunblaðsgrein voru á þessa leið:
"Höfum við vanizt þeirri afstöðu að samþykkja athugasemdalaust tilskipanir ESB, unz við erum vaxin saman við þær ? Þegar ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins fullyrðir (í Morgunblaðinu 18. september s.l.), að ekki verði séð, að innleiðing þriðja orkupakkans feli í sér meiri háttar frávik frá fyrri stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki og ekki sé ljóst, hvert það myndi leiða, yrði honum hafnað, vaknar áleitin spurning: Erum við að troða farveg, sem víkkar og þjappast með hverju minniháttar fráviki, unz summa frávikanna verður hinn breiði og beini vegur íslenzks uppburðarleysis í stjórnmálum og umkomuleysis í fullveldismálum ?"
Þarna hittir Tómas Ingi Olrich aftur naglann á höfuðið, og svarið við lokaspurningunni er já. Öll sólarmerki á Alþingi undanfarin ár við innleiðingu risalagabálka ESB, sem taka af okkur forræðið á sviði heilsuverndar vegna matvælainnflutnings, fjármálaeftirlits, persónuverndar og nú það dýrkeyptasta af þessu öllu, sem er að setja æðstu stjórn orkumálanna undir ESA/ACER/ESB.
Hvernig stendur á blindingsmálflutningi iðnaðarráðherrans um, að innleiðing Orkupakka #3 feli ekki í sér "meiriháttar frávik frá fyrri stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki" ? Ein skýringin á þessu háttarlagi er sú, að hún hafi enn ekki gert sér grein fyrir þeirri stefnubreytingu í orkumálum, sem átti sér stað frá útgáfu fyrsta orkupakka ESB, sem innleiddur var í lög hér 2003, til útgáfu þriðja orkupakkans árið 2009. Þarna á milli varð til stjórnarskrárígildi ESB, Lissabonssáttmálinn, en hann leggur línurnar um æ nánari samruna, sem endi með stofnun sambandsríkis Evrópu. Þarna á milli varð líka orkukreppa í Evrópu, og það varð í kjölfarið forgangsmál hjá ESB-forystunni að taka orkumál álfunnar í sínar hendur til að forða ríkjum Evrópusambandsins í bráð og lengd frá hörmungum orkuskorts. Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB er afsprengi miklu róttækari stefnumörkunar til miðstýringar en í tilviki fyrri bálkanna tveggja. Það er ekki kyn þótt keraldið leki í iðnaðarráðuneytinu, ef ráðherrann áttar sig ekki á þessu.
25.1.2019 | 15:19
Fyrrverandi ráðherrar gjalda varhug við orkupakkanum
Í ljósi þess, að talsmenn innleiðingar Orkupakka #3 rembast eins og rjúpan við staurinn, hver sem betur getur, við að telja landsmönnum trú um, að Orkupakki #3 breyti nánast engu frá Orkupakka #2, er einkar athyglisvert að fylgjast með fyrrverandi ráðherrum leggja sig í líma við að vara þjóðina og þar með núverandi þingmenn við afleiðingum samþykktar Alþingis á þessum lagapakka frá ESB, hvað sem líður samþykkt nefndar EFTA og ESB í Brüssel, sem kallar sig "Sameiginlegu EES nefndina", enda væri það hámark hins ólýðræðislega ferlis, ef slík embættismannanefnd ætti að ráðskast með lagasetningu hérlendis án þess, að Alþingi fái þar rönd við reist. Alþingi hefur enn ekki afsalað sér valdinu til að hafna gjörningum þessarar nefndar í Brüssel.
Nýjasta dæmið um þessa stöðutöku fyrrverandi ráðherra er nýlegur greinaflokkur Tómasar Inga Olrich í Morgunblaðinu, en greinin:
"Forgjöf Íslendinga",
sem birtist 19. janúar 2019, verður til athugunar hér. Morgunblaðsgrein hans, 23. janúar 2019, er einnig allrar athygli verð og verða gerð skil í öðrum pistli. Báðar greinarnar sýna, að höfundurinn hefur kynnt sér málefnið rækilega áður en hann settist niður við skriftir. Þess vegna er vert að vitna nú í fyrrnefndu greinina og velta fyrir sér því, sem þar stendur. Grein Tómasar Inga hefst þannig:
"Orka er ein af mikilvægustu forsendum efnahagslegra framfara, og hefur svo verið frá öndverðri 19. öld."
Þetta er alveg rétt og er ástæða þess, að forystumenn Evrópusambandsins, ESB, sáu ástæðu til þess 2009 í kjölfar orkuskorts, sem herjaði á Evrópu þá, að gera róttækar ráðstafanir til að byggja upp þá innviði Evrópu, sem flytja orku á milli landa. Með orkupakka #3 eru völdin yfir millilandatengingunum færð frá orkuyfirvöldum hverrar þjóðar og til Landsreglara, sem lagalega er óháður innlendum yfirvöldum, en lýtur þess í stað eftirliti og fyrirmælum Orkustofnunar ESB, ACER og framkvæmdastjórnar ESB. Þetta fyrirkomulag getur komið að gagni á meginlandi Evrópu, sem stríðir við staðbundinn orkuskort, en á augljóslega ekki við hér. Það, sem verra er, viðskiptalíkan ESB með raforku getur ekki þjónað hagsmunum almennings hérlendis. Af þessum ástæðum verður að berjast með kjafti og klóm gegn innleiðingu hins hættulega Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi.
Áður hafði víðast hvar á meginlandinu verið komið á frjálsri samkeppni um orku frá orkubirgjunum í orkukauphöllum. Hugmyndafræðin er sú, að orkan sé vara og að sá skuli hreppa hana, sem borga vill og getur hæsta verðið. Þetta stríðir algerlega gegn því gamla norræna viðhorfi, að orkan, hér raforkan, séu samfélagsgæði, sem nýta eigi til að treysta byggð um allt land og til að ljá framleiðsluatvinnuvegunum samkeppnisforskot við útlönd. Þar með er ekki sagt, að reka eigi orkuvinnsluna með tapi, heldur skuli stilla ávöxtunarkröfu hennar í hóf, enda er notkunartími fjárfestingarinnar miklu lengri en bókhaldslegur afskriftartími, a.m.k. í tilviki vatnsaflsvirkjananna. Þetta endurspeglast í afkomu Landsvirkjunar. Rekstarhagnaður hennar eykst með tvennum hætti: hækkun orkuverðs við endurnýjun langtímasamninga og lækkun skuldabyrðar.
Í engu ríki Evrópu, og þótt víðar væri leitað, er raforkan þjóðhagslega mikilvægari en á Íslandi, enda er raforkuvinnslan hér mest að tiltölu á byggðu bóli, 52 MWh/íb á ári. Hver íbúi notar þó aðeins 1-2 MWh/ár á heimilinu. Hitt fer í atvinnustarfsemi, aðallega til að framleiða útflutningsvarning, eins og til var stofnað í upphafi.
Það er af þessum orsökum Íslendingum þjóðhagslega mikilvægara en nokkurri annarri þjóð Evrópu að þurfa ekki að deila völdum og mikilvægum ákvarðanatökum um orkulindirnar, vinnslu raforkunnar, flutning hennar og dreifingu, og síðast en ekki sízt verðlagningunni, með öðrum þjóðum eða yfirþjóðlegri stofnun, þar sem við eigum ekki jafnréttháa aðild og aðrar þjóðir samstarfsins. Hagsmunir meginlands Evrópu fara alls ekki saman við hagsmuni Íslendinga í orkumálum. Við erum þar á allt öðru róli, og þessu verða ráðamenn þjóðarinnar að fara að gera sér grein fyrir. Það er ekki seinna vænna.
Ef við höldum vel á spilunum, getum við orðið öðrum óháð með orku á 20 árum, en mikil eldsneytisnotkun og hætta á orkuskorti hrjáir og mun sennilega hrjá meginland Evrópu vestan Rússlands fram yfir miðja þessa öld. Að afhenda meginlandsöflum völd yfir íslenzkum orkumálum jafngildir afglöpum, sem fljótt geta breytzt í leik tröllskessa með fjöregg þjóðarinnar. Þingmenn, sem að slíku standa, munu þurfa að standa kjósendum sínum reikningsskap gjörða sinna í þessu máli. Hvernig sagan mun dæma þá hina sömu þingmenn, skal ekki fjölyrða um hér.
Um mikilvægi orkunnar fyrir Íslendinga skrifaði Tómas Ingi:
"Íslendingar eru tiltölulega vel settir, hvað orku varðar. Meginorkulindir þjóðarinnar - vatnsorka og jarðhiti - eru taldar með þeim umhverfisvænstu, sem til eru. Þessar orkulindir eru miklar m.v. mannfjölda á Íslandi, en ekki óþrjótandi. Orkan, sem fæst með nýtingu vatnsfalla og jarðhita, er tiltölulega ódýr og sem slík mikilvæg grundvallarforsenda velferðar Íslendinga, bæði fyrirtækja og einstaklinga. Það, sem sólin er Ítölum og frjósemi jarðvegsins Frökkum, er orkan forgjöf Íslendinga. Það er enn í okkar höndum, hvernig við förum með þá forgjöf [undirstr. BJo]."
Það eru engin rök nógu sterk til að réttlæta það að láta af hendi þessa forgjöf til yfirþjóðlegrar stofnunar með vaxandi völd, ACER. Að stinga hausnum í sandinn og segja, að innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálksins feli svo takmarkað valdframsal í sér, að ekki geti jafngilt afhendingu "forgjafarinnar", eru falsrök, reist á vanþekkingu, dómgreindarleysi eða vísvitandi blekkingarstarfsemi.
Síðan víkur Tómas Ingi að tengingu Íslands við orkumarkað ESB og skrifar:
"Ísland er ekki tengt raforkukerfi ESB og getur ekki orðið hluti af orkumarkaði ESB án slíkrar tengingar."
Nú skulum við gera okkur grein fyrir því, að ætlun iðnaðarráðuneytisins er að setja Orkustofnun undir stjórn Landsreglara, fái ráðuneytið vilja sínum framgengt um innleiðingu Orkupakka #3. Landsreglari, sem verður embættismaður ESB, verður Trójuhestur í íslenzkri stjórnsýslu í dulargervi Orkumálastjóra. Þetta ráðslag iðnaðarráðherra er með ólíkindum, og t.d. Norðmenn, hverra núverandi stjórnvöld eru harla hrifin af flestu því, sem frá ESB kemur, ætla að takmarka völd Landsreglarans, eins og kostur er, með þvím.a. að halda þessum tveimur embættum aðskildum. Er íslenzki iðnaðarráðherrann kaþólskari en páfinn ? Að fela ACER stjórnun Orkustofnunar er of mikið af hinu góða, þ.e. af óverðskuldugu trausti iðnaðarráðherra Íslands á Framkvæmdastjórninni, sem stjórnar ACER.
Samkvæmt drögum norska orkuráðherrans að hlutverkum Landsreglara verður eitt hlutverka hans að rýna og að lokum samþykkja regluverk fyrir orkumarkaðinn. Landsreglarinn á Íslandi mun þá sjá til þess, að hér verði stofnsett orkukauphöll, sem starfi samkvæmt sams konar regluverki og í ESB-löndunum. Fyrsta skrefið verður sem sagt að stofnsetja hér ESB-raforkumarkað, sem snurðulaust getur tengzt öðrum ESB-markaði í fyllingu tímans. Þetta þýðir, að spákaupmennska með íslenzka raforku hefst, og auðlindastýring Landsvirkjunar afleggst, ef núverandi hlutdeild fyrirtækisins á markaði verður talin stangast á við samkeppnislöggjöf ESB.
Allt mun þetta óhjákvæmilega leiða til hækkunar raforkuverðs til neytenda að jafnaði yfir árið og sérstaklega mikillar hækkunar í þurrkaárum og á árinu næst á undan gangsetningu nýrrar virkjunar. Þetta brambolt verður allt á kostnað alþýðunnar í landinu, gjörsamlega að óþörfu. Ástand norska raforkumarkaðarins ætti að vera víti til varnaðar, en þar er verð raforkunnar tvöfalt hærra í síðari hluta janúar 2019 en ári áður. Samt er verðteygni raforku til heimila lítil, þ.e.a.s. rafmagnsnotkun heimila og margra fyrirtækja breytist lítið með verðsveiflum. Þetta er "kapítalismi andskotans". Á Íslandi munu sveiflur markaðarins sízt verða minni en í Noregi, því að miðlunargeta lónanna er tiltölulega lítil og umframorkan er sáralítil. Þessar verðsveiflur koma sér mjög illa fyrir raforkunotendur, verða heimatilbúið vandamál, og eru hér alger óþarfi og ekki til annars en að skemmta skrattanum.
Eftirfarandi texti Tómasar þarfnast skoðunar:
"Með aðild að þriðja orkupakkanum geta Íslendingar haldið áfram að ákveða, með hvaða skilyrðum orkulindir þeirra eru nýttar (en þau skilyrði mega þá ekki mismuna kaupendum orkunnar), hvaða orkugjafa við veljum (t.d. getum við hafnað gastúrbínum og kjarnorku) og almenna tilhögun orkuafhendingar í samræmi við ákvæði TFEU 194 (2). En í þessum ákvæðum er Íslendingum alls ekki tryggður réttur til að ákveða einhliða, hvort aðrir aðilar, fyrirtæki eða ESB-ríki, fái aðgang að íslenzkri orku."
Ef með "skilyrðum" hér að ofan er átt við hönnunarskilyrði, þá er það rétt, eins og staðan er núna. Ef hins vegar er átt við í hvaða augnamiði virkjað er, þá hafa stjórnvöld enga heimild til að mismuna aðilum á markaði, t.d. gagnaveri, álveri eða sæstreng samkvæmt EES-samninginum. Að Evrópurétti verða umhverfisverndarsjónarmið ennfremur að víkja fyrir frelsinu til að flytja út verðmæti. Með Orkubálki #3 verður Evrópuréttur lögleiddur hér á sviði millilandaflutninga á raforku. Ef erlent virkjunarfélag kaupir virkjunarrétt einhvers staðar á Íslandi, verður erfitt að hindra það í að nýta virkjunaraðstöðuna til ýtrustu aflnýtingar, þ.e. hámarksstærð á virkjun, og það verður ekki hægt að stöðva línulögn frá virkjun að lendingarstað sæstrengs á grundvelli neikvæðra umhverfisáhrifa. Það, sem meira er, íslenzkir raforkunotendur verða að standa undir kostnaði við þessar línulagnir með hækkun gjaldskrár Landsnets. Um þetta eru skýr ákvæði í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.
Það er þannig óttalega innihaldslítið að setja á langar ræður um, að Íslendingar muni áfram ráða "með hvaða skilyrðum orkulindir þeirra eru nýttar", eins og er nokkuð áberandi í umræðunni. Það er, og verður í enn meiri mæli með Orkupakka #3, markaðurinn, sem ræður þessari nýtingu. Forræðið yfir orkulindunum verður í raun farið frá íslenzkum stjórnvöldum, þegar hver sem er innan EES getur virkjað og selt orkuna á markað þangað, sem honum sýnist. Þessu gerir Tómas Ingi sér glögga grein fyrir, því að hann skrifar í lok meginmáls síns:
"Með öðrum orðum höfum við ekki lengur forræði yfir ráðstöfun orku úr orkulindum okkar, sem markaðir ESB kunna að að ágirnast, ef fjármagn finnst til að leggja streng til landsins. Slíkur aðgangur að orkumarkaði er eitt af meginatriðum þriðja orkupakkans. Ef við getum ekki ráðstafað orkunni, sem seld yrði hæstbjóðanda, er stutt í það, að við getum heldur ekki stýrt nýtingu orkulindanna, enda hafa orkuframleiðslufyrirtæki landsins mikinn áhuga - svo [að] ekki sé meira sagt - á að framleiða og selja sem mest. [Undirstr. BJo.]
Ég tel það vera rétt hjá fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, að með þriðja orkupakkanum sé alls ekki gert skylt að leggja rafstreng til landsins. En ef þeir aðilar finnast innan EES, sem hafa áhuga á að tengjast íslenzka orkumarkaðinum með sæstreng, þá getum við ekki hafnað því, að sá strengur verði lagður. Það gengur gegn ákvæðum Evrópuréttar, að íslenzk stjórnvöld reyni að hindra það. Komi upp deilur um slíka tengingu, fara sjálfstæðar eftirlitsstofnanir með það mál, sem Íslendingar hafa ekki aðild að [undirstr. BJo].
Það orkar tvímælis með skylduna, sem höfð er eftir Bjarna Benediktssyni hér að ofan. Sú skylda er lögð á herðar Landsreglaranum að láta Landsnet aðlaga Kerfisáætlun sína að Kerfisþróunaráætlun ACER/ESB. Þar liggur sæstrengurinn "Icelink" á fleti fyrir. Landsreglara ber þannig að róa að því öllum árum að tengja íslenzka raforkukerfið við raforkukerfi ESB. Sú skylda er jafnframt ótvírætt lögð á herðar Landsneti að fjármagna þær stórfelldu línulagnir, sem nauðsynlegar verða fyrir u.þ.b. 1200 MW flutning frá stofnkerfinu og niður að lendingarstað sæstrengs.
Það er mjög mikilvægt fyrir þá, sem haldið hafa uppi andófi gegn Orkupakka #3 hér á landi og varað Alþingismenn við afleiðingum innleiðingar hans, að Tómas Ingi Olrich skuli hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að mæli ACER með samþykkt á umsókn félags um að fá að leggja aflsæstreng hingað og tengja við rafkerfi Íslands, þá geta íslenzk stjórnvöld ekki stöðvað það mál, þótt þau geti tafið það með málaferlum, sem enda hjá EFTA-dómstólinum.
Tómas Ingi hefur líka komizt að þeirri niðurstöðu, sem ýmsir hafa flaskað á, að Íslendingar munu missa forræði yfir ráðstöfun orkulinda sinna, "sem markaðir ESB kunna að ágirnast". Vegna þjóðhagslegs mikilvægis orkulinda landsins fyrir rekstur heimila og fyrirtækja og framtíðarnýtingu fyrir orkuskipti, vetnisvinnslu og framleiðsluaukningu af ýmsu tagi, væru þingmenn að tefla hagsmunum þjóðarinnar, ekki sízt komandi kynslóða, í voða með því að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.