Miðflokkurinn brýtur í blað

Það hefur vakið athygli pistilhöfundar, þegar hann hefur gripið niður í umræður á Alþingi um Þriðja orkupakkann, OP#3, hversu hófstilltur, vel upplýstur og rökstuddur málflutningur Miðflokksmanna í málinu er.

Einkennandi er skilningur Miðflokksmanna á því, að OP#3 er grundvallarmál og afgreiðsla hans markar ögurstund fyrir fullveldi landsmanna í hefðbundnum skilningi. Hjá stjórnarflokkunum ríkja algerlega öndverð viðhorf.  Í þeim herbúðum og að hálfu sumra stjórnarandstöðuflokka er því haldið fram, að OP#3 snúist ekki um neitt annað en að fullgilda skyldur Íslands gagnvart EES-samninginum.  Þetta er eymdaróður og svo ómálefnalegur, að hann er óboðlegur.  Þessi málflutningur afhjúpar, að viðkomandi botnar hvorki upp né niður í OP#3.

Enginn vafi er um samhljóm Miðflokksmanna með meirihluta þjóðarinnar í þessu máli, sem tilbúinn er til að láta steyta á orkumálunum í samskiptum Íslands við ESB og Noreg.  Ástæðan er m.a. sú, að landsmenn vilja ekki eiga á hættu að þurfa að beygja sig undir erlenda stefnumörkun um fyrirkomulag á raforkumarkaði í meiri mæli en orðið er eftir fyrstu orkupakkana tvo, enda er um að ræða ráðstöfun verðmætustu náttúruauðlindar landsins.  Vegna loftslagsmálanna mun verðmæti afurðar þessarar auðlindar fara vaxandi á næstu árum allt þar til ný tækni við raforkuvinnslu mun ryðja sér til rúms. Við eigum ekki meira erindi inn í miðstýringarkerfi Evrópusambandsins á sviði orkumála en við eigum inn í Evrópusambandið sjálft sem fullgildir aðilar.  

Mikil gerjun á sér stað í evrópskum stjórnmálum um þessar mundir.  Um hríð hefur fjarað undan jafnaðarmönnum, og sú þróun hélt áfram í kosningum til ESB-þingsins 23.-26. maí 2019. Græningjar eru að taka við gamalgrónu hlutverki kratanna sem forystuafl vinstra megin við miðju stjórnmálanna. Íhaldsflokkar töpuðu líka fylgi í þessum kosningum, t.d. fór þýzki CDU niður í 29 %, en mest afhroð galt þó brezki Íhaldsflokkurinn, sem fór niður í 9 %.  Engum blöðum er um það að fletta, að "haltu mér-slepptu mér" afstaða margra þingmanna flokksins og ríkisstjórnar hans í garð Evrópusambandsins, ESB, er orsök þessa afhroðs.  Þetta er lærdómsríkt fyrir Íslendinga, því að samstarfið við EES-þjóðirnar hefur um hríð verið í brennidepli, og margir landsmenn eru óánægðir með "óhreina" leið utanríkisráðherrans og ríkisstjórnarflokkanna í orkupakkamálinu.  Hvers vegna er ekki valin "hreinasta" leiðin, sú leið, sem vörðuð er í EES-samninginum sjálfum og sú, sem minnsta lagalega óvissu skapar, þ.e. að neita að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara, svo að leita megi eftir undanþágum á réttum vettvangi, þ.e. í Sameiginlegu EES-nefndinni ?  Margir landsmenn finna ekki aðra skýringu á þessu framferði en undirlægjuhátt ríkisstjórnarinnar við samstarfsþjóðir okkar í EES.  Það er óviðunandi staða, sem binda verður endi á.  Þessir kjósendur munu margir hverjir finna atkvæði sínu nýjan farveg.  Miðflokkurinn mun þá gegna hlutverki BREXIT-flokksins á Bretlandi og stjórnarflokkarnir gjalda afhroð, eins og Íhaldsflokkurinn gerði.

Forysta Sjálfstæðisflokksins og langflestir fulltrúar sjálfstæðismanna á Alþingi hafa tekið afstöðu með innleiðingu OP#3 í landsrétt Íslands, og þar með að flestra mati gengið í berhögg við ályktanir Landsfundar Sjálfstæðisflokksins frá marz 2018 og vilja yfirgnæfandi meirihluta sjálfstæðismanna.  Það, sem nú hefur gerzt á Bretlandi, kann að gerast í næstu Alþingiskosningum að breyttu breytanda.  BREXIT-flokkurinn hlaut 32 % greiddra atkvæða, og Miðflokkurinn er líklegur til að uppskera ríkulega fyrir einarðan og sjálfstæðan málatilbúnað í orkupakkamálinu.

Fleiri eru vingulslegir en forysta Sjálfstæðisflokksins.  Í viðtali við RÚV 27.05.2019 þuldi Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, rulluna, sem sett hefur svip á málflutning orkupakkasinna:

  1. "Allir lögfræðingar eru sammála um, að enginn sæstrengur verði lagður án samþykkis Alþingis." - Hér skýtur forsætisráðherra sér á bak við álit lögfræðinga.  Hún virðist ekki kunna að nota lögfræðiálit.  Lögfræðingar fullyrða sjaldnast nokkurn skapaðan hlut, nema þeir séu í dómarahlutverki.  Ef þeir fullyrða eitthvað, er það að gefnum ákveðnum og oftast tilgreindum forsendum.  Raunveruleikinn verður hins vegar oftast allt annar en þessar fræðilegu forsendur.  Sérstaklega á þetta við, ef ósérhæfðir lögfræðingar í Evrópurétti eru að fást við Evrópuréttinn, eins og oft hefur verið raunin á í sambandi við OP#3.  Fullyrðing forsætisráðherra er þar að auki kolröng. Innlendir lögfræðingar, t.d. í hópi dómara, hafa tjáð efasemdir sínar um, að fyrirvari ráðherranna haldi. Fjölmargir norskir lögfræðingar eru þeirrar skoðunar, að fyrirvarar við innleiðingu OP#3 hafi ekkert réttarfarslegt gildi að Evrópurétti.  Þar má nefna Peter Örebech og fleiri norska lagaprófessora.  Eyjólfur Ármannsson, íslenzkur lögfræðingur í Noregi, er sama sinnis.  Lagasérfræðingarnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst (FÁFH) og Stefán Már Stefánsson (SMS), vara sterklega við að fara þessa leið og alls ekki sé ráðlegt að reiða sig á slíkan fyrirvara, enda geti hann bakað íslenzka ríkinu stórfellda skaðabótaskyldu gagnvart t.d. sæstrengsfjárfestum. SMS hefur borið það til baka, bæði á Útvarpi Sögu og í Kastljósi RÚV, að þessi leið sé frá þeim lagasérfræðingunum komin, heldur sé hún ættuð úr utanríkisráðuneytinu.  Gallharðir viðskiptajöfrar á borð við Edi Truell hjá Atlantic Superconnection munu ekki hika við að sækja rétt sinn í hendur íslenzka ríkinu og þannig "soften the Target" fyrir hrossakaup.  
  2. "OP#3 felur ekki í sér afsal yfir orkumálum eða lagningu sæstrengs." - Þegar hér er komið sögu, greinir forsætisráðherra á við FÁFH og SMS, sem töldu hætt við, að valdframsalið til ESA/ACER stæðist ekki stjórnarskrá og að valdframsalið til ACER samkvæmt reglugerð 713/2009 gerði það ekki.  Til að koma í veg fyrir réttaróvissu af þessum sökum og hættu á skaðabótakröfum á hendur ríkinu, yrði að leysa úr hinum stjórnskipulega vafa áður en af innleiðingunni yrði.  Mað því að banna undirbúning að tengingu sæstrengs í framkvæmdaáætlun Landsnets er beitt þeim hundakúnstum, að aldrei muni reyna á þetta atriði, af því að téð reglugerð fjalli aðeins um millilandatengingar í rekstri.  Þetta er stórhættulegur misskilningur.  Það er tekið fram á fleiri en einum stað í OP#3, að meginhlutverk hans sé að ryðja hindrunum úr vegi millilandatenginga fyrir orku í ESB/EES.  Í OP#4 er lagt blátt bann við því að leggja stein í götu millilandatenginga.  Fyrirvari ráðherranna um að áskilja samþykki Alþingis fyrir sæstreng er slíkur steinn í götu millilandatenginga fyrir Ísland.  Reglugerð #347/2013, sem reyndar er ekki hluti OP#3, en er eðlilegur þáttur hans og verður vafalaust innleidd hér í kjölfar OP#3, fjallar um Kerfisþróunaráætlun ESB og skuldbindingar aðildarríkjanna til að styðja við framkvæmd hennar.  Þessi reglugerð fyrirskrifar líka samræmda málsmeðferð fyrir umsóknir um leyfi fyrir millilandatengingum.  Allt ber þetta að sama brunni.  ESB beitir samræmdu regluverki sínu til að setja á laggirnar nýjar millilandatengingar.  Ef einstök ríki, sem innleitt hafa Evrópurétt á þessu sviði með samþykki OP#3, ætla að hafa aðra stefnu en ESB í þessum málum, þá lenda þau upp á kant við ACER/Framkvæmdastjórn ESB.  Þá rimmu geta þau varla unnið.
  3. "Þá eru allir lögfræðingar sammála um það, að engin skylda verði leidd af orkupakkanum um að heimila lagningu sæstrengs milli Íslands og annars EES-ríkis.  Það er ekki svo, að þau ákvæði, sem snúa að þessu máli, taki hér gildi, nema slíkur sæstrengur verði lagður." - Eins og fram kemur hér að ofan, standast þessar fullyrðingar forsætisráðherrans ekki skoðun.  Hún teflir á tæpasta vað.  Til að hún skrönglist klakklaust yfir þetta vað, mega nokkrir líklegir atburðir ekki eiga sér stað:  (a) ESA má ekki taka upp á því  að eigin frumkvæði að fetta fingur út í innleiðingu OP#3 með dæmalausum fyrirvara (metin líkindi 50 %).  (b) engin umsókn berst um sæstreng til Orkustofnunar (OS) á næstu 5 árum (metin líkindi 10 %). (c) OS hafnar umsókn um leyfi fyrir lagningu aflsæstrengs til Íslands, og engin eftirmál hljótast af (metin líkindi 10 %). Metin líkindi eru pistilhöfundar. Til að finna metin líkindi þess, að engin málsókn verði rekin gegn Íslandi á vettvangi ESA og EFTA-dómstóls á næstu 5 árum út af þeirri ólánlegu innleiðingu á OP#3, sem hér er til umfjöllunar, þarf að margfalda saman metin líkindi hvers atburðar, og koma þá út 0,5 %. Með öðrum orðum er mjög ólíklegt, að Ísland lendi ekki í málaferlum við ESA fyrir EFTA-dómstólinum út af þessari meingölluðu innleiðingu.  Þar við bætist, að á næsta 5 ára tímabili verður OP#4 tekinn til rækilegrar umfjöllunar hérlendis, og verði hann innleiddur, aukast enn skuldbindingar Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu í orkumálum. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir þetta Bjarni.

Það ætti að vera sérstakt rannsóknarefni af hverju Katrín Jakobsdóttir er ekki látin sæta ábyrgð á blekkingum sínum, þá er ég ekki að tala um kæru, heldur að sérstök fréttaskýring sé helguð henni í annað hvort Morgunblaðinu eða Kastljósi.

En það sem mig langar að spyrja, þig eða einhvern lesanda sem veit svarið, hvað heitir sérfræðingurinn sem var í símaviðtali á sama fundi utanríkismálanefndar og þeir Stefán og Friðrik voru á??  Hann varaði við að einhliða fyrirvara héldu ekki, ég las þetta á síðunni Orkunnar okkar, en það er svo ofgnótt efnis þar að ég finn það ekki aftur.

Vil svo taka undir með þér um málefnastyrk Miðflokksmanna, þeir hljóta að enda daginn á að lesa pistla þína yfir til að vara klárir í umræðu næsta dags.

Enn og aftur hafðu þökk fyrir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.5.2019 kl. 14:45

2 Smámynd: Óskar Kristinsson

Hafðu þakkir fyrir þetta Bjarni!

Vonandi tekur þetta fólk rökum og kastar akkeri á orkupakkafeigðarflekanum áður en að ósnum kemur.

TAKK TAKK TAKK.

KV af Suðurlandi

Óskar Kristinsson, 30.5.2019 kl. 15:23

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Eins og ég sé málið í dag ÞÁ ER HELSTI FYRIRVARI UTANRÍKISRÁÐHERRA SKÍTFALLINN MEÐ ORKUPAKKA FJÖGUR.  Þarna finnst mér að séu komin góð rök fyrir þingmenn allra flokka til að endurskoða afstöðu sína til orkupakka þrjú.  EN Í ORKUPAKKA FJÖGUR (sem nú þegar virðist vera kominn til kynningar í Noregi) AÐ ÞAÐ SÉ MEÐ ÖLLU ÓHEIMILT AÐ HAMLA SAMEININGU ORKUMARKAÐARINS Í EVRÓPU.  Verður það kannski kannski helstu rökin fyrir því AÐ ORKUPAKKI FJÖGUR VERÐI SAMÞYKKTUR, VEGNA ÞESS AÐ ORKUPAKKAR EITT TVÖ OG ÞRJÚ HAFI VERIÐ SAMÞYKKTIR OG TIL AÐ SETJA EKKI EES SAMNINGINN Í UPPNÁM?????

Jóhann Elíasson, 30.5.2019 kl. 15:25

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ómar;

Ég veit ekki hver var í símasambandi á téðum fundi utanríkismálanefndar, en af lýsingunni að dæma gæti það hafa verið Eyjólfur Ármannsson, íslenzkur lögfræðingur í Ósló, sem skilaði umsögn um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra til þingsins.  Hann hefur verið í viðtali á Útvarpi Sögu.  

Bjarni Jónsson, 30.5.2019 kl. 18:46

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Óskar;

Stjórnarflokkarnir haga sér eins og feigir læmingjar; arka í halarófu á eftir forkólfinum fram af brúninni.

Ef þeir glepjast á að samþykkja slæman málatilbúnað utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra, þá hefst barátta gegn OP#4. Sá hlær bezt, sem síðast hlær.

Bjarni Jónsson, 30.5.2019 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband