Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar

Flugkennsla á faraldsfæti ?

Það er fáheyrt ábyrgðarleysi og helber ósvífni að hálfu borgarstjórnarmeirihlutans að setja nám æskufólks, sem sérhæfa vill sig á sviði flugsins, í uppnám með því annars vegar að reka alla, sem aðstöðu hafa í Fluggörðum, sem er á borgarlandi, út á Guð og gaddinn, og hins vegar að þrengja að Reykjavíkurflugvelli, á ríkislandi, með óbilgjörnum hætti þar til hann verður órekstrarhæfur, og loka verður honum vegna skorts á áreiðanleika, fyrir kennsluflugi og öllu öðru flugi, enda ætlar Björt framtíð, Samfylking og Vinstri grænir að sprengja upp núverandi mannvirki, keyra burtu til hreinsunar gríðarlegu magni af menguðum jarðvegi, leggja götur og allar nauðsynlegar lagnir fyrir lóðirnar, sem ekki munu nú verða af ódýrara taginu.

"Við teljum ekki raunhæft að byggja upp kennsluflugið á Selfossi.  Fjarlægðin frá höfuðborginni veikir starfsemina þar", sagði Matthías Sveinbjörnsson, formaður Flugmálafélags Íslands í viðtali við Morgunblaðið 12. apríl 2014 undir fyrirsögninni "Aðstaðan stenst ekki skilyrði".

Matthías kvað margar ástæður vera fyrir því, að bezt sé að hafa Reykjavíkurflugvöll áfram sem miðstöð flugmennta á Íslandi.  Flugkennslan verði að fara fram í stjórnuðu loftrými, sem þýði, að fyrir hendi séu blindflugsbúnaður, flugturn og flugumferðarstjórar að störfum. 

Þótt kennsluvélarnar yrðu færðar til Selfoss, kvað Matthías umferð á Reykjavíkurflugvelli lítið minnka við það, því að þangað yrðu nemar að leita til að læra við þessar stýrðu aðstæður.  Ef vel á að vera, þurfi nemendur að búa í grennd við kennsluflugvöllinn, því að verklega kennslan sé veðurháð.

Allir hljóta að skilja, hversu flugið skipar mikilvægan sess í samgöngumálum Íslands bæði vegna legu landsins og þess, að á landinu eru engar járnbrautarsamgöngur.  Af eðlilegum ástæðum eru Íslendingar flugþjóð.  Einkaflugmenn á Íslandi eru þrefalt fleiri en í Bandaríkjunum á hvern íbúa, atvinnuflugmenn 3,7 sinnum fleiri og svifflugmenn 4,2 sinnum fleiri.  Árið 2010 stóð flugrekstur undir 6,6 % af landsframleiðslu og 9200 störfum.  Þessar stærðir hafa vaxið á tímabilinu 2011-2014 og munu enn fara vaxandi, ef forræðishyggjusinnaðir stjórnmálamenn fá ekki tækifæri til að setja sand í tannhjólin. 

Árleg verðmætasköpun hvers starfsmanns í loftferðaþjónustu var 70 % meiri en meðalstarfsmanns á Íslandi samkvæmt upplýsingum Matthíasar Sveinbjörnssonar í Morgunblaðinu 15. aðríl 2014. 

Það er kominn tími til þess fyrir S. Björn og Dag að átta sig á því, að flugkennslan myndar hornstein þessara mikilvægu innviða landsins.  Það er samt ástæða til að óttast, að þeir kumpánar, sem nú ryðjast fram með nýtt aðalskipulag, þar sem Reykjavíkurflugvöllur hverfur af kortinu árið 2022 og með kynningu á hverfaskipulagi í Vesturbænum, sem er endurskoðað deiliskipulag, þar sem freklega á að ganga á eignarrétt íbúanna með því að byggja íbúðarhús, þar sem nú eru bílastæði, bílskýli eða bílskúrar.  Það verður stríðsástand í Vesturbænum, ef þröngsýn og fáfróð borgaryfirvöld keyra þessa stefnu á framkvæmdastig.  

Fyrir hvern er eiginlega þessi þétting byggðar ?  Fyrir skipulagsviðvaninga og sérvitringa, sem gleypa skipulagsklisjur erlendis frá hráar, þar sem skortur er á landrými.  Að nýta hvern óbyggðan blett undir byggingar er að níðast á íbúum, sem þar eignuðust íbúðir í þeirri góðu trú, að "lífsrýmið" héldist nokkurn veginn óbreytt.  Þétting byggðar skerðir lífsgæði fólks.  Um það er engum blöðum að fletta.  Að fækka bílastæðum er liður í þéttingu byggðar, því að fólk borgarstjórnarmeirihlutinn og Sóley Tómasdóttir ímynda sér, að með því muni þau minnka útblástur frá bifreiðum.  Þau ætla að vekja kaupmanninn á horninu upp frá dauðum og breyta Vatnsmýrinni í byggingarland.  Þessi hugmyndafræði er byggð á sandi.  Bílum mun ekki fækka, og fólk mun kjósa að verzla, þar sem vöruval er mikið og vöruverð hagstætt.  Ef Reykjavíkurflugvöllur verður lagður niður eykst aukamagn eldsneytis í flugvélum að og frá landinu um allt að 10 t, sem hafa mun í för með sér mikla aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda og annarri mengun út í andrúmsloftið á hvern farþega.  Í heild yrði lokun Reykjavíkurflugvallar ein sóðalegasta aðgerð í umhverfisverndarlegu tilliti, sem hugsazt getur.  Fáfræði forræðishyggjunnar kemur þannig almenningi illilega í koll, eins og fyrri daginn.   

Fólki er lífsnauðsynlegt að hafa græna bletti innan byggðar sem útivistarsvæði.  Slíkt minnkar þörf á akstri langar leiðir til að njóta útiveru.  Íslendingar verða að geta ferðazt um á bílum vegna veðurfars og flutninga á börnum sínum í gæzlu, skóla eða frístundastarf.  Þétting byggðar og fækkun bíla gengur ekki upp í raunveruleikanum, en lítur þokkalega út á blaði, ef þarfir mannsins eru teknar út fyrir sviga og þeim eytt að hætti sameignarsinna.

Valur Stefánsson skrifaði góða grein í Morgunblaðið, 25. apríl 2014, "Eru flugnemar annars flokks nemar ?".  Hann greinir þar frá því, að í Fluggörðum við Reykjavíkurflugvöll er grasrót almannaflugs á Íslandi, sem er flugkennsla, æfinga- og einkaflug.  Þetta sé 8 ha svæði með yfir 80 flugvélum og 500-600 flugnemum.  Reykjavíkurborg ætti að hýsa slíka starfsemi með myndarbrag og stolti í stað þess að vera eins og naut í flagi og reka í hana hornin. 

Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, hefur upplýst, að fjöldi íslenzkra og erlendra flugnema í bóklegu einkaflugmannsnámi og atvinnuflugnámi, í verklegu námi auk nema í flugkennaranámi, blindflugsnámi, áhafnasamstarfi, sérþjálfun á tilteknar flugvélagerðir, flugvirkjun og flugumferðarstjórn, sé alls 612 hjá Flugskóla Íslands og Flugfélaginu Geirfugli, stærstu flugskólunum á Reykjavíkurflugvelli. Samkvæmt nýju deiliskipulagsdrögunum á að úthýsa þessu öllu og byggja í staðinn kennsluaðstöðu fyrir nemendur í Háskóla Íslands.  Þessi aðför að flugkennslu vitnar um hroðalega grunnfærnisleg áform í skipulagsmálum og hreinan yfirgang og átroðslu yfirvalda Reykjavíkurborgar gagnvart "grasrót almannaflugs á Íslandi".  Hneykslanlegt athæfi !

Sér til málsbóta hafði S. Björn Blöndal, arftaki og hvíslari Gnarrs, að hann hélt, að flugkennsla færi að mestu fram erlendis, upplýsti Valur Stefánsson, formaður Félags íslenskra einkaflugmanna, í téðri grein.  Er fáfræði gild afsökun fyrir stjórnmálamann í valdaaðstöðu ?  Nei, og það er engin afsökun til fyrir því að kjósa slíkt fólk til valda.  Slíkt fólk á alls ekki að véla um almannahagsmuni.  Það getur borað upp í nefið á sér á eigin bleðli og á ekki að kássast upp á annarra manna jússur, eins og þar stendur.

Allt ber að sama brunni.  Núverandi meirihluti borgarstjórnar hefur opinberað sig óhæfan til að stjórna borginni.  Hann hefur gert sig sekan um glapræði í skipulagsmálum, hunzun á 75 000 manna undirskriftasöfnun án nokkurra skýringa og þar með lýst frati á lýðræðið, orðið uppvís að slæmri framkomu við foreldra vegna sameiningar skóla og sett á ruglingslegar breytingar á stjórnkerfi borgarinnar, þannig að of margar silkihúfur vísa erindisleitendum hver á aðra með gríðarlegum töfum á afgreiðslu sem afleiðingu miðað við það, sem áður var.  Nú er hún Snorrabúð stekkur, og  borgarstjórinn hefur auðvitað ekki verið til viðtals lengi, enda fullt starf að hafa reiður á fataskápinum og ákveða klæðnað fyrir næstu uppákomu. 

Listakjör

 

 

 

 

 

 


Flugvöllur í fári

Sú einstæða staða er uppi í samgöngumálum landsins, að borgaryfirvöld þrengja stöðugt að Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni, heimta lokun bráðnauðsynlegrar SV-NA flugbrautar hið snarasta og lokun Fluggarða, þar sem kjarnastarfsemi flugsins fer fram.  Borgarstjórnarflokkur Samfylkingar, Bjartrar Framtíðar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs ganga til borgarstjórnarkosninganna nú í vor undir gunnfána íbúðabyggðar í Vatnsmýrinni í stað flugvallar og flugvallarstarfsemi.  Mörgum finnst ekki heil brú í því, og þeir eiga að veita óánægju sinni farveg í komandi borgarstjórnarkosningum með því að kjósa aðra flokka, sem telja, að varðveita eigi og efla Reykjavíkurflugvöll, þar sem hann er.

Þetta er með öllu óskiljanlegt viðhorf til gríðarlega mikilvægrar starfsemi í borginni, að hún verði hvað sem það kostar að víkja fyrir nýrri byggð, enda er nú svo komið, loksins, að aðrir stjórnmálaflokkar eru að taka við sér í þessu máli.  Betra er seint en aldrei.  Nú ættu Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Dögun að skera upp herör í borginni og hinir tveir fyrst nefndu að láta kné fylgja kviði á Alþingi með löngu tímabærri lagasetningu, sem tryggir Reykjavíkurflugvelli öruggan starfsgrundvöll, svo að þar geti hafizt sómasamleg uppbygging.

Þegar er nóg að gert og meir en nógu fé sóað í "leit" að nýju flugvallarstæði.  Jafngott land og Vatnsmýrin frá flugtæknilegu sjónarmiði hefur ekki fundizt þrátt fyrir áratuga "leit", og nýr flugvöllur gæti kostað 30-50 milljarða kr með öllum sínum mannvirkjum og tækjum.  Það má líta á þann kostnað sem stofnkostnað nýs byggingarlands, og er þá ekki búið að stinga skóflu í jörðu.  Er glóra í slíku ráðslagi ?  Já, ef ekkert annað byggingarland væri fyrir hendi, en í raunveruleikanum nei, því að annars staðar er meira en nóg byggingarland, einnig innan marka Reykjavíkur.  Það er enginn staður jafnvel í sveit settur, m.t.t. þeirrar byggðar og þjónustu, sem farþegarnir þurfa á að halda, og Vatnsmýrin.  Flutningur flugvallarins innan höfuðborgarsvæðisins er þess vegna algerlega óraunhæfur kostur.   

Það segir nokkra sögu í þessum efnum, að í meira en 300 stórum borgum heimsins eru flugvellir.  Það kemst enginn upp með lokun á þessum flugvöllum, þó að minnihlutahópar nöldri, vegna mikilvægis þeirra fyrir samgöngukerfið og öryggismálin.  Segja má, að flugöryggi á Íslandi standi nú um stundir mest ógn af lokun Reykjavíkurflugvallar.  Þetta er staða, sem á sér enga hliðstæðu í Evrópu um háa herrans tíð, og þó víðar væri leitað, að því er bezt er vitað. 

Hörður Guðmundsson, stofnandi flugfélagsins Arna, sagði frá því í viðtali við Morgunblaðið 12. apríl 2014, að þegar þeir flygju með sjúklinga til Stokkhólms, væru þeir beðnir um að lenda á Bromma-flugvelli inni í borginni, af því að þaðan er stytzt á sjúkrahúsið.  Dagur, læknir, sem nú elur með sér drauma um að taka við stöðu borgarstjóra af Gnarrinu eftir komandi kosningar, deilir ekki svipuðum skoðunum með starfsbræðrum sínum í Stokkhólmi fyrir hönd sjúklinga, sem flogið er með til aðgerða í höfuðborg Íslands.  Nei, þar ráða ferðinni einkennileg sjónarmið um byggingarskipulag í Reykjavík, sem útheimti þétta byggð í Vatnsmýrinni, og þess vegna verði flugvöllurinn að víkja.  Það er ekki öll vitleysan eins.  Hvað skyldi þurfa að vera mikilvæg starfsemi í Vatnsmýrinni, svo að hún fengi frið fyrir skipuleggjendum íbúðabyggðar í höfuðborginni ?

Í áðurnefndu viðtali sagði Hörður Guðmundsson ennfremur:

"Reykjavíkurborg þarf að gefa út yfirlýsingu, eins og gert var í Bromma, um, að flugvöllurinn verði hér til næstu 30 ára.  Við, sem rekum þjónustu við byggðir landsins, þurfum að vita til næstu 30 ára, hvað er í gangi.  Bæði við og Flugfélag Íslands erum með áætlunarflug um allt land.  Það er erfitt að byggja upp, ef við vitum ekki, hvað verður á morgun."

Þetta er hverju orði sannara, en slík yfirlýsing úr Ráðhúsinu við Tjörnina er ekki nóg, heldur þarf traustan lagaramma um flugvöllinn í Vatnsmýrinni.  Yfirlýsingar stjórnmálamanna í Reykjavík duga ekki.  Alþingi og landsstjórnin verða að taka af skarið í þessum efnum. 

Margir flugfarþegar hafa furðað sig, hversu óveður og slæmt skyggni á Keflavíkurflugvelli virðist hafa lítil áhrif á áætlun um flugtök.  Ein skýringin á þessu er staðsetning og oftast betri veðurskilyrð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni, sem er einn af varaflugvöllum Keflavíkurflugvallar.  Um þetta sagði Sölvi Axelsson, flugstjóri hjá EVA Air, í Morgunblaðsviðtali, 12. apríl 2014:

"Eitthvað getur farið úrskeiðis í flugtaki, og þá verður að vera hægt að lenda flugvélinni fljótlega aftur.  Sé um tveggja hreyfla flugvél að ræða, er almenna reglan sú, að það taki minna en eina klukkustund að fljúga á flugtaksvaraflugvöllinn á öðrum hreyflinum.  Aðflugshorn að Akureyrarflugvelli er yfir þeim mörkum, sem yfirleitt er miðað við um flugtaksvaravelli.  Til að mega nota sjálfan flugtaksvöllinn sem flugtaksvaravöll eru almennt gerðar kröfur um lágmarksskyggni upp á 1600 m.  Ef Reykjavíkurvöllur verður ekki lengur til vara, mun þetta geta valdið því, að seinka þurfi brottförum frá Keflavík, sé skyggnið ekki nógu gott, þar til það batnar.  Því er viðbúið, að falli Reykjavíkurflugvöllur út, verði seinkanir á brottförum flugvéla frá Keflavík algengari en nú er með tilheyrandi kostnaði og óþægindum fyrir farþega."

Það má telja víst, að hið gríðarlega óhagræði, sem felst í því fyrir millilandaflugið að missa Reykjavíkurflugvöll og dæmi er nefnt um hér að ofan, muni leiða til hækkunar á flugfargjöldum og minnka samkeppnihæfni flugs, sem stundað er út frá Keflavíkurflugvelli, af því að það verður dýrara og óáreiðanlegra.

Þá hefur verið sýnt fram á kostnaðarauka af ferðalögum innanlands upp á um 7 milljarða kr á ári, verði Reykjavíkurvöllur aflagður, sem er lágmark.  Aukin hætta, kostnaður, óhagræði farþega og verri þjónusta sjúkraflugs vega margfalt þyngra á metaskálunum en þétting byggðar í Reykjavík.  Byggð í Vatnsmýri verður alltaf dýr, og þess vegna ekki sérlega fýsilegur íbúðakostur.  Þá orkar það mjög tvímælis, svo að ekki sé nú fastar að orði kveðið, frá skipulagslegu sjónarmiði séð, að gera ráð fyrir meira en 5000 manna byggð á slíku láglendi sem Vatnsmýrin er, nú á tímum hækkandi sjávarstöðu við landið, eins og bent hefur verið á.  Það ber allt að sama brunni með borgaryfirvöldin; þau fórna öryggi borgaranna fyrir ímyndaða stundarhagsmuni.  Það verður að taka af þeim ráðin.  

Bombardier CRáðhús Reykjavíkur

  


Flug í háska

Þegar sótt er að innviðum landsins, er nauðsynlegt að grípa til varna og hefja gagnsókn, ef kostur er.  Til innviða má telja samgönguleiðirnar, vegi, hafnir og flugvelli ásamt raforkukerfinu, t.d. raforkuflutningsmannvirkin, og er þá fátt eitt upp talið. 

Um flesta þessa þætti gildir, að þeir eru í herkví skipulagsvalds í höndum sveitarstjórna, þó að um þjóðveg 1, landshafnir, varaflugvelli millilandaflugsins og flutningslínur á 132 kV spennu og hærri, gildi eindregið, að þau hafa svo mikið þjóðhagslegt gildi, að eðlilegast er að færa skipulagsvald þeirra úr höndum sveitarstjórna og til ríkisins, enda er sá háttur á hafður víða erlendis. Ella er hætta á því, að við mat á skipulagskostum verði meiri hagsmunir, þ.e. þjóðarhagsmunir, látnir víkja fyrir minni hagsmunum, þ.e. meintum hagsmunum viðkomandi sveitarfélags, þar sem mannvirkið er staðsett eða opinber aðili leggur til að staðsetja það.  Hagsmunir sveitarfélags, eins og meirihluti viðkomandi sveitarfélags metur þá, kunna að stangast á við hagsmuni landsins, eins og meirihluti þjóðarinnar metur þá.  

Einmitt þannig háttar til með Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni, að meirihluti borgarstjórnarinnar saumar með óbilgjörnum og hættulegum hætti að starfseminni og stefnir að því að gera flugvöllinn órekstrarhæfan, svo að starfsemi hans lamist og leggist síðan af, og borgin geti þá breytt flugvellinum í byggingarland. 

Þegar litið er til þeirra gríðarlegu hagsmuna, sem hér eru í húfi fyrir heildina, er þessi þróun mála líklega einsdæmi hérlendis og vandfundin sambærileg dæmi erlendis frá, þar sem jafnmiklir þjóðarhagsmunir hafi verið eða séu í húfi, enda er skipulagsmálum víða þannig fyrir komið, að önnur eins staða og hér er uppi, getur ekki komið upp.  Alþingi verður að höggva á hnútinn með lagabót í þessum efnum.

Mesta undirskriftasöfnun Íslandssögunnar til stuðnings óbreyttri starfsemi flugvallarins í Vatnsmýrinni, þar sem 75 þúsund manns lýstu yfir stuðningi við starfsemina, fór fram ekki alls fyrir löngu.  Trúlega styður meirihluti Reykvíkinga veru flugvallarins áfram, og þessu fólki býðst gullið tækifæri til að sýna hug sinn í verki með því að hafna þeim stjórnmálaflokkum í borgarstjórnarkosningunum í maí 2014, sem staðið hafa að lúalegum árásum, hreinni aðför að flugvallarstarfseminni með það að markmiði að svæla hana burt. 

Nú háttar þannig til, að hvort sem menn staðsetja sig á hægri eða á vinstri væng stjórnmálanna, geta þeir stutt flugvöllinn með því að kjósa til hægri eða vinstri.  Hér skal ekki draga dul á, að ágreiningur sé í röðum þeirra flokka, sem hér er átt við, um flugvallarmálið, en þó er það þannig, að forystumenn á listum Sjálfstæðisflokksins og Dögunar eru stuðningsmenn flugvallarins, en forystumenn á listum Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hafa allir staðið að aðför gegn Reykjavíkurflugvelli.  

Það er búið að gera ítarlega grein fyrir því, hvers vegna á að láta Reykjavíkurflugvöll í friði með sínar 3 flugbrautir.  Verði sú stutta, NA-SV, aflögð, rýrnar notagildi vallarins umtalsvert, og hætta á slysum í miklum hliðarvindi eykst. 

Ekki þarf að tíunda mikilvægi flugvallarins fyrir sjúkraflugið, en hann getur hreinlega skilið á milli lífs og dauða í mörgum tilvikum á ári hverju.  Þyrlur geta ekki leyst vængjað sjúkraflug af hólmi, og þær geta ekki lent í mjög litlu skyggni, sem iðulega þarf að gera í Keflavík.  Þyrlurnar þurfa aðflugstæki, sem eru fyrir hendi á Reykjavíkurflugvelli.  Verði honum lokað, komast þyrlurnar ekki að sjúkrahúsunum í slæmu veðri. 

Vængjuð sjúkraflug eru ekki færri en 500 á ári utan af landi til Reykjavíkur.  U.þ.b. helmingur þeirra eru forgangsútköll, og yfir 200 eru bráðatilvik.  Þá er verið í kapphlaupi við tímann.  Að meðaltali getur lokun Reykjavíkurflugvallar þýtt 1,5 klst lengingu á flutningstíma sjúklings, og menn geta ímyndað sér aukið álag á umferðina á Reykjanesbraut, m.a. vegna 300 tilvika um forgangsakstur í misjöfnum veðrum og um þá flöskuhálsa, sem enn eru á þessari leið að sjúkrahúsunum.  Það þarf ekki að tíunda hættuna í flutningi frekar, sem hundruða sjúklinga verður búin á hverju ári til viðbótar við núverandi áhættu.  Lokun Reykjavíkurflugvallar mundi setja sjúkraflugið í algert uppnám.  Enginn stjórnmálamaður getur axlað þá ábyrgð.  Samt berst læknirinn Dagur fyrir eyðileggingu Reykjavíkurflugvallar með oddi og egg.  Þessi lokun hefur svo örlagaríkar afleiðingar, að þjóðaratkvæðagreiðsla kemur vel til greina til að taka af skarið um framtíð flugvallarins.  Til að spara fé gæti hún verið rafræn. 

Kostnaðaraukinn fyrir innanlandsflugið og millilandaflugið af því að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur og að missa Reykjavíkurflugvöll sem varavöll er feiknarlegur og margfaldur á við ávinning byggðar í Vatnsmýrinni.  Á hverjum halda menn, að sá kostnaðarauki lendi ?  Það er ekki nóg með það, heldur mun flugvallarleysi í Reykjavík hreinlega koma niður á samkeppnihæfni landsins, eins og gerð verður grein fyrir.

Í 19 sæta flugvélum innanlandsflugsins mundi þurfa að fækka sætum um 3-4 í hverri ferð eða allt að 21 % vegna meiri eldsneytisþarfar til varaflugvallar fyrir norðan eða austan.  Til þess að fá sömu tekjur þarf að hækka farmiðann um 27 % og vegna lengra flugs frá Keflavík til allra áfangastaða þarf 5 % til viðbótar eða 32 % hækkun kostnaðar per flugsæti hið minnsta.  Þetta auk ferðatímalengingar um 1,5 klst aðra leið telur Hörður Guðmundsson hjá Örnum, að muni kodda innanlandsfluginu, sem nú keppir við einkabíl, rútur og ferjur. 

Hann segir, að Ernir hafi árið 2012 flutt tæplega 40 000 farþega.  Hann kveður ríkið hafa fengið kr 7 713 af hverjum farmiða á formi ýmissa skatta, sem hafi verið um helmingur af farmiðaverðinu.  Þetta gæti þýtt, að meðalmiðaverðið færi í 20 000 kr, sem er hækkun um kr 4600.  Ríkið hirðir þannig um 300 milljónir kr af flugfarþegum Arna yfir árið.  Kæmi til greina í sáttaskyni, að ríkið gæfi smám saman eitthvað eftir af þessum tekjum til borgarinnar ?

Þá er komið að óhagræði, kostnaðarauka og meiri kolefnislosun millilandaflugsins vegna lokunar Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvallar.  Millilandaflugið er orðið svo stórt í sniðum, að lokun helzta varaflugvallar þess hefur í för með sér kostnaðarauka og tekjutap, sem nær þjóðhagslegum stærðum og rýrir samkeppnihæfni landsins frá bæjardyrum landsmanna sjálfra, sem vilja bregða sér af bæ, og frá sjónarmiði gestanna, erlendra ferðamanna, sem mjög horfa í kostnað og þægindi, og hafa fjölmarga aðra kosti um að velja. 

Í meira en 80 % flugferða er Reykjavíkurflugvöllur varavöllur fyrir þotur Icelandair.  Valkostirnir eru Akureyri, Egilsstaðir og Glasgow, sem hafa í för með sér allt að tvöföldun á aukaeldsneyti um borð eða 10 t.  Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair mun kostnaðarauki og tekjutap fyrirtækisins á þessum áratugi nema um 1,0 milljarði kr á ári m.v. núverandi spá um farþegakm og eldsneytisverð.  Að missa Reykjavíkurflugvöll getur fjölgað millilendingum, sem lengir ferð um a.m.k. 1,0 klst og gerir hana miklu dýrari.  Kostnaðarauki og tekjutap vegna alls þessa og fækkunar farþega getur þess vegna hæglega numið 2,0 milljörðum kr á ári.  Svipaða sögu er að segja um hin flugfélögin, sem fljúga til Keflavíkur, svo að tapið fyrir millilandaflugið gæti hæglega numið 3,0 milljörðum kr á ári.

Einar Dagbjartsson, flugstjóri hjá Icelandair, sagði í viðtali við Morgunblaðið, laugardaginn 12. apríl 2014:

"Mér finnst álíka gáfulegt að ætla sér að eyðileggja Reykjavíkurflugvöll og að ætla að fylla upp í Reykjavíkurhöfn, af því að það vanti fleiri kaffihús."

Undir þetta er algerlega hægt að taka.  Það vantar hvorki byggingarland í Reykjavík né á höfuðborgarsvæðinu sem heild.  Þegar Íslandi ríður á að auka samkeppnihæfni sína til að afla meiri gjaldeyris, má ekki rýra hana með því að auka verulega kostnað við eina aðaltekjulind landsins, ferðamannaiðnaðinn, með veikum rökum, sem reist eru á, að væntanlegir íbúar í Vatnsmýri eigi daglega erindi í 101 Reykjavík.  Eiga þeir að fara þangað á reiðhjólum ? 

Síðast en ekki sízt verður að taka til varna fyrir flugkennsluna í landinu, en miðstöð hennar er í Vatnsmýrinni.  Borgaryfirvöld sækja nú með dólgslegum hætti að Fluggörðum og heimta starfsemina þar á brott árið 2015.  Þessi framkoma er einsdæmi að hálfu yfirvalda í einni höfuðborg og verður að brjóta á bak aftur.  Borgaryfirvöld kasta sprengju á Fluggarða og þar með er flugnám í landinu í algeru uppnámi.  Ekki er boðið upp á neina lausn að hálfu borgarinnar frekar en fyrri daginn undir þessum dæmalausu stjórnendum, sem telja sig hafa fullt umboð til að klekkja á einkaframtakinu.  Hafa borgaryfirvöld leyfi til að haga sér svona ?  Nei, þessi yfirtroðsla er gróf misbeiting valds, siðlaus og gjörsamlega ólíðandi.  Hvorki Dagur né S. Björn virðast kunna mannasiði, þegar flugstarfsemi er annars vegar. 

Aukin spurn er eftir flugmönnum á Íslandi.  Icelandair réð í vetur 30 nýja flugmenn og hafði þá ráðið 58 nýja flugmenn á þremur árum og lítið lát á þessari aukningu.  Áhugi fyrir flugnámi er mikill, og allir bekkir í bóklegu námi fullsetnir.  Það verður aðeins talið borgaryfirvöldum til glópsku og/eða mannvonzku að taka ímyndaða hagsmuni borgarinnar af íbúabyggð á þessu svæði fram yfir hagsmuni alls þess unga fólks, sem er þarna í krefjandi námi, og fram yfir fyrirtækin, sem eru grundvöllur vaxtarins í ferðamannaiðnaðinum.  Núverandi staða mála er óskiljanleg.  Eru Rauðu Khmerarnir við völd í Reykjavík ?  Það eru alla vega ekki þjónar fólksins, sem með völdin fara í Ráðhúsinu við Tjörnina.

Engu er líkara en ofstækisfull, þröngsýn og illa ígrunduð skoðun skipulagsviðvaninga, jafnvel amatöra, ráði nú aðför minnihlutahóps borgarbúa að flugöryggi í landinu.  Sérvitringar um þéttingu byggðar í Reykjavík, helzt í póstnúmeri 101 og þar í grennd, hafa bitið í sig, að íbúabyggð í Vatnsmýrinni muni gjörbreyta Reykjavík til hins betra og að með því að ryðja Reykjavíkurflugvelli úr vegi muni hagur strympu vænkast til muna.  Rökin, sem fyrir þessu hafa verið færð, væru ekki einu sinni talin vera gjaldgeng, þar sem skortur er á landrými, hvað þá hérlendis, þar sem mikið landrými og margt ágætlega byggingarhæft, má telja til kosta Íslands umfram mörg önnur lönd. 

Alls staðar kunna borgaryfirvöld að meta flugvöll innan borgarmarkanna, nema á Íslandi, þar sem þröngsýnir og ólýðræðislega sinnaðir sérvitringar hafa náð völdum.  Vinnubrögð þeirra eru ólýðræðisleg, vegna þess að þeim hafa borizt undirskriftir 75 þúsund manns, sem standa vilja vörð um óskerta og örugga starfsemi á Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri, en borgaryfirvöld hafa gefið þeim langt nef og ekki borið við að rökstyðja, hvers vegna hunza á ákall þeirra til borgaryfirvalda.

Málefni Reykjavíkurflugvallar eru málefni ríkisins.  Reykjavíkurborg hefur klúðrað tækifærinu, sem henni gafst til að sýna og sanna, að hún stendur undir hlutverki sínu sem höfuðborg Íslands.  Ríkið verður að yfirtaka skipulagshlutverkið í Vatnsmýrinni.  Þar ber að leiða til öndvegis Flugráð og Skipulagsstofnun ríkisins.  Hér sem endranær verða minni hagsmunir að víkja fyrir meiri.  Almannaheill og lýðræðisleg stjórnskipan landsins krefst þess.  Alþingi á leik.

   

    

 

 

 

 

    

   


Skipulagsmál í skötulíki

Á s.k. höfuðborgarsvæði eru ekki færri en 6 sveitarfélög og voru 7 til skamms tíma, er Garðabær og Álftanes sameinuðust með fremur knöppum meirihluta.  Garðbæingum hraus mörgum hugur við bágbornu hlutfalli skulda og árstekna Álftaness, en sveitarstjórnin þar hafði umgengizt sveitarsjóðinn af léttúð og fullkomnu fyrirhyggjuleysi. 

Er nú svo komið, að hlutfall skulda og árstekna Garðabæjar er u.þ.b. 1,0 og verður ekki unað við það hærra.  Það má ekki slaka á klónni í meðferð skattfjár bæjarbúa og vinstra sleifarlag og sofandaháttur verður ekki liðið.  Bærinn er vel skipulagður og rétt staðið að skipulagningunni og framkvæmd þess, þ.m.t. nýja Álftanessveginum, sem styr hefur staðið um, en hann er stormur í vatnsglasi, enda á þeirri sérvizku reistur, að ekki megi eyða hraunmyndunum, sem frægur listmálari notaði sem fyrirmyndir.  Álfar hafa einnig verið leiddir fram og vitnað um hryggð sína yfir gjörðum mannanna.  Er þá skörin tekin að færast upp í bekkinn og ljóst, að afturhaldið, sem notar hvert tækifæri, sem býðst, til að rísa upp á afurfæturna í nafni náttúrunnar til að slá stjórnmálalegar keilur, er örvæntingarfullt.

Í höfuðborginni sjálfri ríkir ringulreið í skipulagsmálum.  Þar, sem annars staðar, ætti markmið skipuleggjenda að vera að flýta sem mest fyrir för vegfarenda.  Slíkt sparar vefarendum tíma og fé, er þjóðhagslega hagkvæmt og dregur úr mengun.  Hin dæmalausu yfirvöld Reykjavíkurborgar, Besti flokkurinn og Samfylkingin, þar sem saman fara hreinræktaður fíflagangur við stjórn borgarinnar ásamt þröngsyni, hafa þveröfuga stefnu.  Þau leggja stein í götu bílsins með þrengingum, hraðahindrunum og sérakreinum fyrir strætisvagna.  Strætisvagnana þarf að hugsa upp á nýtt.  Nýting þeirra er mjög léleg, þ.e.a.s. allt of stórir vagnar aka utan annatímans.

Það má alls ekki þrengja að stofnleiðum borgarinnar, og það á þegar í stað að rifta fáránlegu samkomulagi borgar og ríkis um 10 ára framkvæmdastopp við stofnleiðir borgarinnar.  Það á að leita lausna til að draga úr umferðarteppum með mislægum gatnamótum og hefjast þegar handa á mótum Kringlumýrar og Miklubrautar.  Sundabrautin er orðin knýjandi til að létta á Ártúnsbrekkunni og Reykjanesbrautin gegnum Hafnarfjörð er til skammar.  Núverandi valdhafar í Reykjavík hafa ekki nokkurn skilning á mikilvægi greiðra samgangna.  Hugarheimur þeirra um borgarlífið er eins sviðsmynd í 100 ára gömlu leikriti. 

Flugsamgöngur við höfuðborgarsvæðið gegna lykilhlutverki í samgöngukerfi landsins.  Það leikur ekki á tveimur tungum, að flugtæknilega og samgöngulega er Vatnsmýrin í Reykjavík bezt fallin til að hýsa flugvöll höfuðborgarsvæðisins.  Þetta er niðurstaða nokkurra faglegra rannsókna, sem draumóramenn eiga erfitt með að viðurkenna. Jafnframt er ljóst, að flutningur starfseminnar á Reykjavíkurflugvelli, t.d. flugstjórnarstarfseminnar, og flugvallarins sjálfs, mundi taka meira fé frá annarri innviðauppbyggingu en við yrði unað.

  Flutningur starfseminnar til Keflavíkurflugvallar yrði dýr, og starfsemin á Reykjavíkurflugvelli samrýmist illa millilanda- og herfluginu, sem fram fer á Keflavíkurflugvelli.  Ómetanlegt öryggi er að Reykjavíkurflugvelli fyrir sjúklinga og slasaða utan af landi eða af sjó.  Í náttúruhamförum er ómetanlegt að hafa möguleika á aðkomu stórra þotna til rýmingar eða aðdrátta.  Ekki þarf að minna á tekjustreymið um flugvöllinn og getu hans til að létta á bílaumferð út frá höfuðborgarsvæðinu, sem minnkar álag á vegina og dregur úr slysatíðni.

Af þessum sökum nær nýgert samkomulag innanríkisráðherra við borgarstjóra (samkomulag ríkis og borgar) allt of skammt til að vera boðlegt í skipulagslegu tilliti.  Músarholusjónarmið um verðmætar húsbyggingarlóðir og þéttingu byggðar eru léttvæg í landi mesta mögulega byggingarlands á íbúa, sem um getur.  Ríkið á flugvallarlandið, en skipulagsvaldið er í höndum borgarinnar.  Er einhver glóra í því ?  Nei, reynslan sýnir, að svo er ekki.  Framtíðarsýn núverandi skipulagsyfirvalda í Reykjavík er músarholusýn, og slíkt gengur ekki.  SV-NA-brautin verður að fá að vera áfram á Reykjavíkurflugvelli af öryggisástæðum, af því að engin trygging hefur fengizt frá yfirvöldum Keflavíkurflugvallar um, að sambærileg braut þar verði tekin í brúkið.

Umsátri músarholuvina um Reykjavíkurflugvöll verður að linna strax.  Í þessari stöðu verður Alþingi að taka af skarið og setja sérstök skipulagslög um landareign ríkisins í Vatnsmýrinni, sem tryggi réttindi starfseminnar þar í 100 ár og kveði á um, hvernig skipulagi þar skuli vera háttað.  Þar með gætu fyrirtæki og opinberir aðilar við Reykjavíkurflugvöll ótrauð hafið löngu tímabæra uppbyggingu þar og Reykjavíkurborg skipulagt háskólasvæði og byggð í grenndinni án óvissu um flugvöllinn.

Annað mál er, að skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins er ekki fyrir komið með bezta hætti.  Ef vel á að vera, þarf að skipuleggja höfuðborgarsvæðið sem eina heild, enda eru hagsmunir sveitarfélaganna þar, fyrirtækja, stofnana og íbúa, samtvinnaðir.  Það er ólíklegt, að hagkvæmasta lausn finnist á skipulagsmálunum, ef margir aðilar eru að bauka hver í sínu horni.   

Samkomulag fulltrúa ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group um Reykjavíkurflugvöll, sem þeir undirrituðu í Hörpu 25. október 2013, kveður á um, að dauðaleit skuli hefja að nýju flugvallarstæði í Reykjavík, því að nú skal "fullkanna aðra kosti til rekstrar innanlandsflugs en framtíðarflugvöll í Vatnsmýri".  Þetta er dæmigerð sóun stjórnmálamanna, sem ýta á undan sér nauðsynlegri stefnumörkun, enda er þetta 4. leit sinnar tegundar.  Þessum vandræðagangi, sem R-listinn magnaði hér upp forðum tíð, verður að linna.

Fyrsta leitin fór fram á vegum skipulagsnefndar Reykjavíkur á árunum 1938-1940.  Í bréfi nefndarinnar, sem starfaði að þessu og skoðaði 7 valkosti, til bæjarstjórnar, dags. 5. marz 1940, er mælt með flugvelli í Vatnsmýri, og samþykkti bæjarráð þá tillögu fyrir sitt leyti á fundi 8. marz 1940 og tilkynnti þá ákvörðun daginn eftir með bréfi til nefndarinnar.  Brezka hernámsliðið valdi Vatnsmýrina fyrir sinn aðalflugvöll á Íslandi, og var völlurinn formlega opnaður fyrir flugumferð 4. júní 1941.

Því fer fjarri, að Vatnsmýrarvöllur sé einsdæmi um flugvöll í borgarlandi.  Í Evrópu, sem þó glímir við landleysi, hafa yfirvöld ekki stuggað við gömlum flugvöllum.  Nægir að nefna Berlín og Lundúni í þessu sambandi.  Það væri skipulagsleg hneisa og mikil mistök með langvarandi áhrif á lífsgæði í þessu landi, ef grafið yrði undan starfseminni á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýrinni í Reykjavík.  

Ráðhús ReykjavíkurStjórnarráðshúsið við Lækjargötu

 

 

 

  

  

  

 


Staða sveitarfélaga

Hið opinbera á Íslandi virkar yfirleitt illa; töluverðri hagræðingu mætti með góðu skipulagi og vilja ná fram í flestum ríkisstofnunum og spara þannig e.t.v. um 10 milljarða kr.  Að spara tífalda þá upphæð, eins og AGS gerir skóna í nýrri skýrslu, kallar á algera uppstokkun ríkisbúskaparins og væntanlega talsverða kostnaðarþátttöku notenda, þegar þeir fá þjónustuna. Stjórn sveitarfélaganna er ögn nær fólkinu, og þar er þess vegna örlítið meira aðhald.  Almennt ætti þess vegna engin starfsemi að vera á vegum ríkisins, sem hægt er að koma fyrir hjá sveitarfélögum eða einkaaðilum.  Franski hagfræðingurinn Frederic Bastiat skrifaði, að ríkið væri tálsýnin, þar sem allir ætluðu sér að lifa á kostnað allra annarra. 

Á Íslandi er fjárhagsstaða margra sveitarfélaga reyndar bágborin, og sum eru þrúguð af fjárhagsvanda, og er höfuðborgin mest áberandi í þessum hópi.  Önnur hafa aldrei sökkt sér í skuldir, t.d. Garðabær, og þriðji hópurinn er á hröðum batavegi, og er Árborg skýrasta dæmið þar um.  Meginreglan, þó síður en svo algild, virðist vera sú, að vinstri meirihlutar í sveitarstjórnum, við hvaða stjórnmálaöfl sem þeir annars kenna sig, sýna af sér óábyrga fjármálastjórnun og keyra í sumum tilvikum viðkomandi sveitarsjóð gjörsamlega í þrot, en stjórnmálaöfl á hægri vængnum sýna meiri ráðdeild við meðferð opinbers fjár og snúa í sumum tilvikum rekstrinum með róttækum hætti til hins betra.

Nýlega hefur í fjölmiðlum verið vakin athygli á ófremdarástandi frárennslismála víða.  Það er algerlega óverjandi að hafa látið síun og hreinsun skolps sitja á hakanum, þar sem frárennsli fer nú ómeðhöndlað út í ár, þó að um safnræsi sé.  Aðalmálið í þessu sambandi er ekki, að þetta framkvæmdaleysi viðkomandi sveitarfélaga og sleifarlag eftirlitsaðila er brot á reglum EES, heldur hitt, að hér er um stórfellt heilsufarsmál að ræða.  Það er stöðugt jarmað um nauðsyn forvarna og alls konar kvaðir hins opinbera við lýði um meðferð matar áður en hann kemst til neytandans, en svo er erkisóðaskapur af þessu tagi látinn líðast.  Það var eftir öðru í embættisfærslu fyrrverandi umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, að ekki er vitað til, að hún hafi haft afskipti af þessu mengunarmáli, en meir var hún upptekin við að hindra framkvæmdir í landinu í nafni umhverfisverndar.  Nú sakar hún iðnaðarráðherra um að vekja upp deilur um virkjanakosti.  Þetta heitir að kasta steinum úr glerhúsi, því að hvað er betur fallið til að efna til deilna en að umturna sérfræðiálitum um nýtingarkosti auðlindanna og endurraða valkostum í þágu sérvizku og þröngsýni ?     

Þó að fjárhagsstöðu margra sveitarfélaga verði bezt lýst með orðinu neyðarástand, er hún þó furðulítið í umræðunni enn, en hlýtur þó að verða dregin upp á yfirborðið í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga að vori, og hér verður aðeins stiklað á stóru.  Lífeyrisskuldbindingar sveitarfélaganna hérlendis eru hrikalegar, eins og víða erlendis.  Á A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga er hallinn t.d. 18 milljarðar kr.  Í eftirtöldum sveitarfélögum eru skuldir á hvern íbúa yfir einn milljarður kr og árstekjur innan við helmingur af skuldunum (skuldir á hvern íbúa í milljónum kr í sviga og tekjur á íbúa í milljónum kr þar á eftir):

  • Reykjavík -         (2,7); 1,0   Hlutfall 2,7
  • Reykjanesbær -   (2,6); 0,6   Hlutfall 4,3
  • Húsavík -           (2,1);  0,9  Hlutfall  2,3
  • Hafnarfjörður      (1,6); 0,6   Hlutfall  2,7
  • Kópavogur          (1,4); 0,6   Hlutfall 2,3

Framlegðin er þó betri mælikvarði á getu sveitarfélaganna til að standa undir skuldabyrðinni.  Hún gefur enn verri niðurstöðu.  Sex sveitarfélög skulda meira en tífalda árlega framlegð sína.  Það er alveg ljóst, að þessi sveitarfélög berjast í bökkum, og þau þurfa innspýtingu tekna.  Reykjanesbær tapaði miklum tekjum við lokun herstöðvar NATO á Miðnesheiði, sem mönnuð var og kostuð af Bandaríkjamönnum, og þar vann fjöldi fólks og aflaði þjóðarbúinu gjaldeyris. Reykjanesbær þarf sárlega á að halda mikilli iðnaðaruppbyggingu og hefur sterka náttúrulega stöðu til þess vegna nálægðar við alþjóðaflugvöll og vegna góðrar hafnaraðstöðu.  Stórt iðnaðarverkefni í Helguvík hefur lengi verið í burðarliðnum og verður súrefnislaust, ef núverandi iðnaðarráðherra tekst ekki á hendur ljósmóðurhlutverkið.  Hún er í fullum færum til þess, en til þess að þörf verði fyrir ljósmóður þarf getnaður óhjákvæmilega að fara fram.  Þó að mannvirki séu risin í Helguvík, sem hýsa eiga rafgreiningarker, eru enn áhöld um, að getnaður hafi átt sér.  Það verður kannski hlutverk ljósmóðurinnar í þessu tilviki að koma honum í kring ?    

Það þarf að losa Orkuveitu Reykjavíkur (OR) við skuldbindingar sínar þarna, enda er hún engan veginn í stakkinn búin, og láta Landsvirkjun hlaupa í skarðið.  Hitaveita Suðurnesja (HS) er rekin með miklu tapi, enda nemur rekstrarkostnaður hennar um 15 % af veltu. 

Landsvirkjun hefur að vísu engan orkusölusamning gert frá grunni við stóriðjufyrirtæki undir núverandi forystu, svo að ríkisstjórnin verður að rétta hjálparhönd (e.t.v. bláu höndina) og gera nauðsynlegar ráðstafanir sem fulltrúi eiganda Landsvirkjunar, ríkissjóðs.  Hér er engan veginn átt við að gera eigi orkusölusamning Landsvirkjun í óhag.  Spurningin er, hversu mikið í hag.  Hæsta verð, sem stóriðjan vill greiða er hærra en kostnaðarverð Landsvirkjunar með hæfilegri arðsemi af öruggri fjárfestingu til margra áratuga. Með góðum vilja eiga báðir aðilar að geta gengið sáttir frá borði með verð, sem sveiflast á milli 30 - 40 USmill/kWh með álverði.  Jarðvarmaorkuver þurfa einfaldlega hærra verð.  

Sérstaka athygli í ofangreindum samanburði vekur bágborin staða höfuðborgarinnar, sem samt nýtur alls konar hlunninda af því að vera miðstöð stjórnsýslu, menningar og samgangna.  Stjórnendur Reykjavíkurborgar frá og með R-listanum og fram á þennan dag hafa engan veginn verið starfi sínu vaxnir.  Forgangsröðun framkvæmda borgarinnar er mjög umdeilanleg m.t.t. notagildis.  Núverandi gatnabreytingar til höfuðs öruggri og greiðri umferð vélknúinna ökutækja eru hrein sóun fjármuna. Stjórnkerfi borgarinnar gæti verið mun skilvirkara, ef silkihúfum og naglafægjurum yrði fækkað.

  Núverandi valdhafar hafa enga tilburði haft uppi til að rétta af fjárhagsstöðu borgarinnar.  Þeir hafa skapað óskilvirkt stjórnkerfi, þar sem embætti borgarstjóra, sem áður var framkvæmdastjóri borgarinnar, er nú trúðsskrifstofa, og mönnum er vísað á milli Pontíusar og Pílatusar, þegar þeir leita eftir afgreiðslu.  Borgarfulltrúar meirihlutans eru uppteknir af einskis nýtum gæluverkefnum, sem hafa aukinn kostnað í för með sér og eru til þess fallin að draga úr tekjunum, en hin eru því miður um of í baksýnisspeglinum og sumir illa haldnir af furðuhugmyndum um Vatnsmýri undir lóðir íbúðarhúsa, þó að hún hýsi bezt flugvöllinn, háskólasamfélagið og aðra vísinda- og þjónustustarfsemi.  Furðustefna í lóðamálum (þétting byggðar) hrekur ungt fólk út fyrir borgarmörkin.  Sá, sem nú gegnir valdamesta embættinu, borgarstjóraembættinu, er upptekinn af að taka þátt í furðufatakeppnum af ýmsu tagi, reyndar í upphlut, þegar síðast fréttist, og þó aðallega hinsegin og að agnúast út í Rússa vegna opinberrar afstöðu þar á bæ til afbrigðilegra kynhvata.  Þessi ósköp er borgarbúum og landsmönnum öllum boðið upp á, blygðunarlaust, og fyrirbrigðin, sem bjóða upp á þetta, ætla að bjóða fram í næstu sveitarstjórnarkosningum.  Þó blasir við öllum öðrum, að þau eru aðeins einnota í stjórnmálunum.           

Ofangreind lýsing er ófögur, en þrátt fyrir þessa bágbornu stöðu er æskilegt til lengdar litið að færa fleiri samfélagsskyldur frá ríkisvaldinu og heim í hérað.  Auðvitað verður þá fjármögnun að fylgja, og ætti að endurskoða útsvarsmörkin, þannig að bæði gólf og þak verði afnumin, og veita sveitarfélögunum meira frelsi um álagningu fasteignagjalda og annarra gjalda.  Þannig munu þau keppa sín á milli um íbúa og fyrirtæki.  Minni og stærri sveitarfélög geta þá valið um að standa á eigin fótum, gera samstarfssamninga við nágrannana eða leita hófanna um sameiningu.  

Mest þörf á sameiningu er þar, sem tekjur á íbúa eru lægstar og skuldabyrðin hæst.  Þar er hætt við, að þjónustan við íbúana verði lakari en íbúarnir fái við unað.  Dæmi um þetta er nýleg sameining Álftaness og Garðabæjar, sem getur orðið farsæl, enda voru jákvæð samlegðaráhrif í augsýn, og gengur hagræðingin samkvæmt áætlun, og var 14 þúsundasta íbúa Garðabæjar nýlega fagnað.  Bærinn er í örum vexti vegna fjölgunar ungs fólks í bænum.     

Í mörgum löndum eru stórfelld fjárhagsleg vandamál á meðal fylkja og/eða sveitarfélaga.  Það er að bera í bakkafullan lækinn að tíunda hér fjárhagsvandann víða á evrusvæðinu, en fjárhagsvandi fylkja, sveitarfélaga og borga í Bandaríkjunum hefur ekki verið á hvers manns vörum.  Ófarir "Motown" eða Detroit í Illinois eru ekki sér á báti, en endurspegla afleiðingar heimsvæðingar viðskiptanna.  Það eru aðeins 4 áratugir síðan General Motors, Ford og Chrysler hönnuðu og smíðuðu í 4. stærstu borg Bandaríkjanna, Detroit, yfir 90 % bifreiða, sem seldar voru í BNA.  Nú eru nýjar bandarískar bifreiðir þar í minnihluta, en reyndar eru margar erlendar bílaverksmiðjur í BNA.

Nú er hún Snorrabúð stekkur og Detroit komin í hendur skiptaráðanda.  Þar vakti athygli, að evrópskir bankar eru í hópi kröfuhafa, en það stafar af bjöguðu regluverki fyrir evrópska banka, Basel III, sem hvetur banka til að lána sveitarfélögum og ríkissjóðum á lægri vöxtum, eins og þar séu trygg viðskipti, en það er önnur saga. Gjaldþrotið sýnir mikilvægi þess fyrir sveitarfélög og lönd að reisa atvinnustarfsemi sína á fjölbreytni.  Detroit safnaði skuldum, þegar hún var fjölmenn og rík.  Íbúafjöldi hennar hefur dregizt saman um 60 % síðan 1950.  Nú hefur hún ekki bolmagn til að standa undir skuldum.  Þetta sýnir áhættuna við mikla skuldasöfnun.  Það, sem sligar mest sveitarfélög í BNA núna, eru lífeyrisskuldbindingar og sjúkratryggingar.  Þetta vandamál er þekkt hérlendis. 

Þannig stafar um helmingur skulda Detroit af skuldbindingum gagnvart starfsfólki hennar um greiðslu lífeyris og sjúkratrygginga.  Fylkin í BNA hafa aðeins fjármagnað 48 % af lífeyrisskuldbindingum sínum.  Þar vestra er víða pottur brotinn varðandi lífeyrinn.  Gatið í lífeyrisskuldbindingum Illinois-fylkis nemur 241 % af árlegum skatttekjum, í Connecticut 190 %, í Kentucky 141 %, og í New Jersey 137 %.  Heildarlífeyrisgat fylkjanna er áætlað að lágmarki 2,7 trilljónir USD eða 17 % af VLF.  Mörg bandarísk fylki hafa þannig reist sér hurðarás um öxl og geta líklega ekki staðið við lífeyrisskuldbindingar sínar á næstu 10 árum.  Þá mun hrikta í.

Hérlendis er einnig stórfelldur lífeyrisvandi fyrir hendi.  Sveitarfélög hafa tekið á sig lífeyrisskuldbindingar, sem sums staðar nema hálfri milljón kr á íbúa. Ríkið hefur þó bakað sér stærsta vandann með ábyrgð á LSR og á Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga.  Þessar skuldbindingar ríkisins þarf að afnema.  Samanlagður halli þessara sjóða er 500 milljarðar kr.  Að auki ber ríkið ábyrgð á stórum hluta mismunar tryggingafræðilegrar stöðu og bókfærðrar stöðu ýmissa lífeyrissjóða upp á 15 milljarða kr.  Hallinn á téðum tveimur lífeyrissjóðum nemur 1,6 milljónum kr á hvern íbúa landsins eða u.þ.b. öllum skatttekjum eins árs.  Ætli ríkið ekki að svíkja loforð sín við opinbera starfsmenn, þarf að ráðast í róttækan niðurskurð á ríkisfjármálum.  Viljum við það heldur ?    

 

Fjár-og efnahagsmálaráðherra Íslands hefur boðað, að ekki verði lengur flotið sofandi að feigðarósi hérlendis í þessum efnum.  Hér, eins og í BNA, er stór þáttur vandans aukið langlífi lífeyrisþega.  Hann hefur þess vegna boðað hækkun lífeyrisaldurs, sem er alveg eðlileg ráðstöfun líka í ljósi þess, að viðkoman fer frekar minnkandi.  Það er nauðsynlegt að gera strax ráðstafanir til að draga úr lífeyrisskuldbindingum ríkisins, því að þær eru ósjálfbærar.  Í gangi eru viðræður um sameiningu lífeyrissjóða, og þáttur í heildarlausninni verður að vera að losa ríki og sveitarfélög við þennan þunga klafa.

Það eru skiptar skoðanir um réttmæti sameiningar lífeyrissjóða.  Verður niðurstaðan risasjóður með ríkissjóð sem eignaraðila ? Eignir lífeyrissjóðanna nema nú um 2800 milljörðum kr.  Ljóst er, að á innlendum fjárfestingarmarkaði eru þeir umsvifamiklir, einkum á tíma gjaldeyrishafta, og þessi stærð gerir að verkum, að ótækt er að sameina þá alla.  Það mundi hins vegar gagnast mörgum að fækka þeim niður í t.d. 5-10 lífeyrissjóði.  Lífeyrissjóðirnir munu þurfa að taka meiri þátt í kostnaði af þjónustu sjúkrakerfisins en reyndin er nú.  Ástæða er fyrir stjórnvöld, sem nú reyna að koma rekstri ríkissjóðs í sjálfbært horf eftir einskis nýtt hjakk vinstri flokkanna og bullandi taprekstur hans, að kanna, hvort vænlegt er að draga dám af fyrirkomulagi Hollendinga varðandi fjármögnun sjúkrakerfisins, en þeim hefur tekizt að búa til markað kaupenda og seljenda á þessu sviði með opinberu öryggisneti.  

Óðinn ritar vikulega af djúphygli um hagræn málefni í Viðskiptablaðið.  Þann 18. júlí 2013 gat að líta eftirfarandi:

Loforð um að lækka höfuðstól lána er ekkert annað en atkvæðakaup og fyrirgreiðslupólitík.  Með því er verið að færa ábyrgðina af þeim, sem tóku áhættuna af láninu og njóta hússins, sem andvirðið fór í að kaupa, yfir á almenning allan.  Með því væri verið að senda röng skilaboð - áhætta borgar sig.  Ef vel gengur nýtur maður ávinningsins, en ef illa fer, hleypur almenningur undir bagga.  Það er hvorki gott að senda bankamönnum né húsnæðiskaupendum þau skilaboð, og afleiðingin verður sú sama: það er tekin aukin áhætta á kostnað almennings." 

Þetta er ómótmælanlegt hjá Óðni.  "Forsendubrestur" fellur undir áhættu á Íslandi.  Það hefur áður orðið meira verðbólguskot á Íslandi en árið 2009, og árið 1983 var vísitölutenging launa afnumin með lögum, fyrirvaralaust, í óðaverðbólgu.  Þá hefði verið hægt að tala um forsendubrest, en það var ekki gert.  Sagt er, að "leiðrétting forsendubrestsins" eigi ekki að koma frá ríkissjóði, heldur kröfuhöfum bankanna. 

Kröfuhafar bankanna taka þessu ekki þegjandi og hljóðalaust.  Nú er komið í ljós, að þeir hafa ekki setið auðum höndum.  Eins og skrattinn úr sauðarleggnum er komið nýtt og lakara lánshæfismat á ríkissjóði Íslands, þar sem horfurnar eru metnar neikvæðar, og ruslflokkur blasir við.  Það eru talsverðar líkur á samráði innan fjármálageirans.  Ekki er ólíklegt, að kröfuhafar íslenzku bankanna hafi haft hönd í bagga um þetta mat, og séu nú farnir að sýna klærnar.  Lánshæfismatið bítur.  Árið 2012 var ávöxtunarkrafa á skuldabréf íslenzka ríkisins í erlendri mynt hæst um 6,1 %, en lækkaði frá miðju árinu 2012 niður í 3,8 % í maí 2013, en tók þá að hækka og var í júlí 2013 um 5,1 %.  Þessi ávöxtunarkrafa skiptir gríðarlegu máli fyrir alla lántakendur á Íslandi í erlendri mynt og fyrir þjóðarbúið allt.  Hvert prósentustig lætur nærri að jafngildi 10 milljörðum kr á ársgrundvelli.  Allar tilkynningar og aðgerðir stjórnvalda á sviði peningamála og/eða ríkisfjármála og ekki sízt varðandi fjármálageirann sjálfan skipta máli og geta haft áhrif á téða ávöxtunarkröfu.  Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins gera sér augsýnilega glögga grein fyrir þessu og eru mun varkárari í orðavali og yfirlýsingum en sumir ráðherrar hins flokks Laugarvatnsstjórnarinnar.  Einkum er traustvekjandi að hlýða á og að fylgjast með framgöngu fjármála- og efnahagsráðherra Laugarvatnsstjórnarinnar.  Hægt er að gera sér góðar vonir um, að efnistök hans í ríkisstjórn muni brjóta blað við gerð fjárlaga. 

Hér að neðan er mynd af núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins og nýkjörinni forystu Heimdallar.        

 

   Forysta Heimdallar 2013-2014

Bjarni Benediktsson, yngri

 

    


Kviðrista í kjölfar kosninga

Öllum er í fersku minni sögulegt afhroð afturhaldsins í Alþingiskosningunum 27. apríl 2013.  Þar fékk afturhaldið ærlega á baukinn fyrir andstöðu sína við öll framfaramál á Íslandi, er til tekjuauka þjóðarbúsins gátu horft, fyrir undirgefni sína og auðsveipni við erlend ríki og Evrópusambandið-ESB og fyrir ósanngjarnt arðrán sitt á formi ósvífinnar skattheimtu, þar sem þeir, sem aukalega leggja á sig erfiði, oft við heimilisstofnun, eru skattpíndir mest.  Mannvitsbrekkur afturhaldsins tala nú um að hafa misst tengslin við fólkið og þykjast horfa upp á handstýrða iðnvæðingu landsins.   Allt er það hlálegt og vandræðalegt tal.

Afturhaldið hugði á hefndir eftir ófarir Alþingiskosninga, og var vettvangurinn valinn sveitarstjórnarkosningar að ári.  Nú hefur Samfylkingin í Reykjavík með fyrrverandi varaformann flokksins í broddi fylkingar, sem er sannkölluð kjósendafæla vegna leiðinda, og er í borgarstjórn með kjölturakka í eftirdragi, hins vegar séð til þess, að lýðum verður ljóst um allt land, að þessi ósköp sinna ekki almannaheill, heldur sérhagsmunum, þ.e. hagsmunum fárra, og aðallega sérgæðingshætti og sérvizku. 

Dagur ei meir hefur kynnt almenningi drög að Aðalskipulagi Reykjavíkur.  Drög þessi eru svo meingölluð, að þau eru ekki pappírsins virði og eiga ekki erindi annað en beint í ruslafötuna. Þau munu verða skólabókardæmi um víti til varnaðar, þar sem þröngsýnir og ýtnir stjórnmálamenn láta meiri hagsmuni víkja fyrir minni.  Það má furðu gegna, að farið skuli nú á flot með mál, sem vænn meirihluta borgarbúa er andsnúinn og landsmenn almennt andvígir.

Ekki nóg með þetta, heldur hefur úttekt á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar leitt í ljós, að stjórnkerfi borgarinnar er í skötulíki.  Ritað var beinum orðum í úttektarskýrslu, að yfir borginni væri enginn framkvæmdastjóri, ábyrgðarskipting væri óljós og boðleiðir flóknar.  Stjórnun borgarinnar og þar með þjónustan við borgarana og meðferð skattfjár er þar af leiðandi óskilvirk.  Með öðrum orðum stundar meirihlutinn í borgarstjórn stjórnleysi og sóun almannafjár.  Svo kallaður borgarstjóri virkar engan veginn sem slíkur, heldur er hann skemmtanastjóri borgarinnar og kemur fram sem slíkur í ýmsum gervum.  Þetta minnir á úrkynjun Rómverja á sinni tíð.  Sá, sem spilar undir á meðan Róm brennur, er hins vegar Dagur ei meir.       

Núverandi borgaryfirvöld reka sérlundaða og þröngsýna stefnu um þrengingu byggðar, sem þau kalla byggðaþéttingu og er ættuð úr erlendum arkitektaskólum, þar sem landleysi er vandamál. 

Þetta á hins vegar ekki upp á pallborðið hjá mörgum hérlendis, sem fremur kjósa gott andrými í kringum sig.  Sérvizka borgaryfirvalda hefur fælt fjölda manns frá því að búa sér bólstað í Reykjavík.  Þessi fjölmenni hópur hefur flutt til nágrannasveitarfélaganna, sem hafa þanizt út, og borgaryfirvöld setið eftir "með skeggið í póstkassanum", eins og Norðmenn taka til orða.  Borgaryfirvöld hafa látið undir höfuð leggjast að skapa framboð hentugra lóða fyrir barnafjölskyldur, og þess vegna fækkar börnum í borginni.  Það er þó ekki vegna úrkynjunar, nema hún sé í borgarstjórn.  Borgin hrörnar undir óstjórn dagdraumamanns um stjörnustríðshetjur og ákvarðanafælins læknis.    

Það er vel skiljanlegt, að fólk á ákveðnu aldursskeiði kjósi að setjast að í vesturhluta borgarinnar, og fínast þykir nú í mörgum borgum að búa á hafnarsvæðum, þar sem áður var mikil atvinnustarfsemi.  Þegar fólk eignast börn, verða straumhvörf, og þá verða oftast önnur viðhorf ráðandi.  Barnafjölskyldur sækja í blómleg úthverfi, en sérvitringarnir í borgarstjórn kæra sig ekki um slíka byggð.  Þessi hrikalega forsjárhyggja er andstæð almannahagsmunum og hefur valdið fólksfækkun í borginni.  Það er vel stætt miðaldra fólk, sem sækir í húsnæði, þar sem þrenging byggðar á sér stað.  Þetta er yfirleitt dýrt húsnæði og hentar illa barnafólki.  Af þessum sökum er það algerlega undir hælinn lagt, hvort spurn verður eftir íbúðum í Vatnsmýrinni.  Það væri nú eftir ráðsmennskunni í Reykjavík að hrekja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni og standa svo uppi með óseljanlegar lóðir þar.  Þessi ráðsmennska borgarstjórnar, sem líklega er að meirihluta til skipuð vesturbæingum, er með slíkum endemum, að réttast er, að Alþingi taki af skarið um það með lagasetningu, að á ríkislóðinni í Vatnsmýrinni skuli stunduð flugstarfsemi, þ.e. farþegaflug með áætlunarflugi og leiguflugi, sjúkraflug, kennsluflug og einkaflug. 

Sveitarfélagið hefur skipulagsvaldið, en ef skipuleggjendunum þóknast að skipuleggja eitthvað nýtt á eignarlóð annarra, þá stöðvast téð skipulag við eignarréttinn.  Úr geta orðið málaferli, en eignarrétturinn ræður, nema þjóðarhagsmunir liggi við.  Í þessu tilviki liggja þjóðarhagsmunir við, að eignarrétturinn fái að halda sér og núverandi starfsemi í Vatnsmýrinni að blómstra.  Svo kann að fara, að skaðabótamál verði höfðað gegn borginni, ef hún torveldar svo rekstrarskilyrði á flugvellinum í Vatnsmýri, að hann verði óstarfhæfur, en það mun gerast með fækkun flugbrauta, ef engin slík kemur í staðinn annars staðar.  Á Lönguskerjum nálgast flugvallarskilyrði mest að verða sambærileg við Vatnsmýrarvöllinn.  Sambærilegur flugvöllur þar gæti kostað um 40 milljarða kr, og þetta er þá væntanlega skaðabótarkrafan, sem óvitar borgarstjórnar baka borginni með samþykkt Aðalskipulags, en enn er aðeins um drög að ræða.  

Með drögum að Aðalskipulagi kastar tólfunum.  Þar kynna Dagur ei meir og skemmtanastjórinn, sem nýlega er þó búinn að skrifa undir samkomulag við fyrrverandi innanríkisráðherra um byggingu flugafgreiðsluhúss fyrir farþegaflug og vöruflutninga, áform sín um að hrekja Reykjavíkurflugvöll, miðstöð innanlandsflugs, einkaflugs og kennsluflugs, ásamt varavelli alþjóðaflugs, úr Vatnsmýrinni, og þar með að lama þessa starfsemi algerlega strax árið 2016, því að fáránlegt er að halda úti Reykjavíkurflugvelli með einni flugbraut, þó að Dagur ei meir telji öðrum það gerlegt.  Þarna á að fórna gríðarlegum almannahagsmunum, atvinnustarfsemi með a.m.k. 1700 störfum, tómstundaaðstöðu, flugöryggi, sjúkraflugi og samgönguæð fyrir óljósa og þokukennda hagsmuni um 4000 íbúðaeigenda, sem kjósa að búa sem næst miðborginni.  Þetta er auðvitað fyrir neðan allar hellur, og engin vitglóra í þessu ráðslagi, enda er það segin saga, að mál, sem Samfylkingin ber fyrir brjósti, eru undantekningarlaust sérvitringsleg gæluverkefni, sem oftar en ekki fela í sér hættu á stórtapi.  Nægir að minna á gjörsamlega misheppnaða lagasmíð Samfylkingar á síðasta kjörtímabili. 

Stór hluti borgarstjórnar er haldinn sjálfstortímingaráráttu.  Reykjavíkurborg er núna samgöngumiðstöð landsins, en hún mun missa fjölmarga erlenda ferðamenn, sem kjósa að fljúga á milli viðkomustaða á Íslandi.  Þeir munu fljúga beint frá Keflavíkurflugvelli.  Innlendum farþegum innanlandsflugs mun stórfækka, sem leiðir til fjölgunar á vegunum.  Það er ekki þjóðhagslega hagkvæmt. 

Þjónustustigið við sjúka og slasaða stórversnar.  Nú eru flogin um 1000 sjúkraflug á ári til Reykjavíkur.  Flutningstími sjúklings mun tvöfaldast hið minnsta við flutning um Keflavíkurflugvöll.  Sjúkraflug fer mjög illa saman með alþjóðaflugi og herflugi og kosta verður upp á hraðafgreiðslu sjúkraflugs þar. 

Að leggja af Reykjavíkurflugvöll setur kennsluflug í algjört uppnám, því að það á engan veginn heima með þeirri umferð, sem er um Keflavík.  Til að viðhalda fullu öryggisstigi Reykjavíkurflugvallar þarf hann á að halda öllum sínum þremur flugbrautum.  Ekkert minna en hámarks öryggi er viðunandi. Um það ætti ofangreind lagasetning Alþingis að fjalla.

Ísland hefur þá sérstöðu í samgöngumálum að vera án járnbrautarlesta.  Þegar um samgöngur á milli landshluta er að ræða, má segja, að flugið hafi komið í staðinn.  Þetta er mjög hagkvæmur valkostur við einkabíl og langferðabíla (rútur), en kannski borgarstjórnin hugsi sér strætóferðir í fjarlæga landshluta sem valkost við flugið.  Hún hefur reynt að þrengja að fluginu með yfirgengilegum hætti, og afturhaldsríkisstjórnin 2009-2013 gerði sitt til að fækka farþegum og kippa afkomugrunninum undan áætlunarfluginu með þreföldun skattheimtu af greininni.  Allt er þetta á sömu bókina lært.  Afturhaldið leggur ábatasamar atvinnugreinar í einelti til að geta komið að eigin sérvizku og niðurgreitt hana.  Nú er komið að því að vinda ofan af vitleysunni og leyfa atvinnulífinu að blómstra, launþegum og samfélaginu öllu í hag. 

  Ráðhús ReykjavíkurBombardier C           

 


Að ná vopnum sínum

Merkasta niðurstaða nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga er, að það sannaðist, að Sjálfstæðisflokkurinn er að ná vopnum sínum.  Fylgi hans nú varð að vísu minna en í sveitarstjórnarkosningunum 2006, en meira en í þingkosningunum 2009.  Þetta sýnir, að hann er á leið upp úr öldudalnum og skyldi engan undra m.v. það, sem í boði er fyrir kjósendur.  Að frambjóðendur flokksins til sveitarstjórna skuli á landsvísu ná u.þ.b. 35 % fylgi eftir það, sem á undan er gengið, veitir von um, að næstu þingkosningar muni færa flokkinum fylgi yfir 40 %, eins og hann naut á sínum beztu stundum. 

GleðigjafiRíkisstjórnarflokkarnir guldu afhroð, og töpuðu t.d. hvor um sig um 12 þúsund atkvæðum í Reykjavík.  Hækja Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingin grænt framboð, galt reyndar afhroð um allt land, og Samfylkingin er á hraðri niðurleið.

Stjórnleysingjarnir, sem unnu sigur í höfuðborginni með tilstyrk fjölmiðlunga, sáu sér strax leik á borði að leggja upp í Dag B. Eggertsson, varaformann, Samfylkingarinnar, sem ella hefði strax hrökklazt út úr stjórnmálum.  Hinn fádæma loðmullulegi og þokulegi Dagur, sem er alræmdur af ákvarðanafælni sinni, rak misheppnaða kosningabaráttu og rak þar nagla í líkkistu síns stjórnmálaferils.  Stjórnleysingjarnir munu hafa hann og flokk hans að háði og spotti, gera hann að hirðfífli sínu og binda enda á stjórnmálaferil hans.  Fíflagangurinn í kringum Bezta flokkinn, sem er allra flokka leiðinlegastur, er rétt að hefjast.

Þetta eru aðrar kosningar ársins 2010, þar sem þjóðin lýsir yfir fullkomnu vantrausti á vinstri flokkana.  Þeir hafa reyndar virzt vera sem lamaðar flugur eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um synjun forseta lýðveldisins um staðfestingu á þrælalögum Steingríms Jóhanns, fjármálaráðherranefnu.  Ekki er ósennilegt, að halda þurfi haustkosningar á þessu ári, því að landið er stjórnlaust.  

Nú ætlar ríkisstjórnin að senda Alþingi heim eftir fáeina daga.  Þingmenn eiga ekki að láta bjóða sér þetta.  Þeir eru að ræða mikilvæg mál, eins og skjaldborg um heimilin, sem ríkisstjórnin hefur með hálfkáki sínu breytt í tjaldborg heimilanna.  Fjöldi fólks og fyrirtækja verður gjaldþrota í haust, ef ekkert verður að gert.  Þá mun ríða yfir hið seinna hrunið, sem verður algert sjálfskaparvíti volaðrar og verklausrar vinstri ríkisstjórnar.  Það er þess vegna nauðsynlegt að flýta skapadægri hennar eins og kostur er.  Hún hefur svikið samninga sína við verkalýðshreyfingu og vinnuveitendur; hún hefur svikið kjósendur sína og landslýð allan með þjónkun sinni við ESB og undirlægjuhætti við Breta og Hollendinga í Icesave-málinu.  Frumvarp hennar um fjármálastofnanir er örverpi og tekur ekki á neinum málum af viti; t.d. er ekki kveðið á um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.  Þá grefur ríkisstjórnin undan öryggi innistæðueigenda, en hyglir skuldabréfaeigendum.  Ríkisstjórnin er trausti rúin innanlands sem utan, þreklaus og getulaus, og það á að kippa undan henni fjölunum hið fyrsta.  

Engin leiðsögn er veitt að hálfu valdhafanna, og enginn veit, hvert stefnt er.  Verkstjórnin á Alþingi er í skötulíki, og þannig hefur þjóðin ekki efni á að halda áfram.  Ríkisstjórnin lafir á eiginn ótta við kosningar og sjúklegri Þórðargleði yfir því að geta haldið borgaralegum öflum frá landsstjórninni og þar með flækzt fyrir raunverulegri viðreisn hagkerfisins. 

Vinstri flokkarnir hafa kennt Sjálfstæðisflokkinum um Hrunið.  Svo heimskuleg ásökun að kenna einum stjórnmálaflokki um hrun fjármálakerfis eins lands þekkist hvergi á byggðu bóli og fær engan veginn staðizt, enda var Sjálfstæðisflokkurinn aldrei einráður hér.  Ef einum aðila er um að kenna, er það meingölluð tilskipun ESB um erlenda banka og bankaútibú erlendis ásamt aðild Íslands að innri markaði EES.  Án þessarar aðildar hefðu bankarnir ekki náð að vaxa hér eins og krabbameinsæxli.  Sjálfstæðisflokkurinn vildi dreifða eignaraðild bankanna, en Framsóknarflokkurinn með bankamálaráðherrann og Samfylkingin með stóran þingflokk vildu kjölfestufjárfesta.  Það fór sem fór, og vítin eru til þess að varast þau.  

Þetta þýðir þó ekki, að lausnin sé einangrunarstefna.  Lausnin er að virkja allar vinnufúsar hendur og efla Ísland sem framleiðslusamfélag fyrir útflutningsvörur sóttar úr hafinu og til íslenzkrar náttúru og orkulinda.  Mun þá hagur strympu skjótt skána og betri dagar birtast með blóm í haga.  Þannig losnum við úr erlendum skuldafjötrum og gjaldmiðillinn mun hjarna við, e.t.v. með svo nefndu myntráði, sem gefizt hefur t.d. Eistlendingum vel.    

Hagvöxtur á heimsvísu er að ná sér eftir fyrra hrunið með hagvöxt upp á 4 % að jafnaði, en honum er afar misskipt.  Eignabóla er nú í Kína og þar af leiðandi vaxandi verðbólga.  Eignabólu verður að hemja til að hindra hrun hagkerfisins, en líklegt er, að verðbólgan hafi nú meira fóður í Kína en við verði ráðið.  Hagkerfi Evrópu er í ömurlegu ástandi og nýting vinnuafls bágborin, sem endurspeglast í 10 %-30 % atvinnuleysi. 

Þungbærastar eru skuldir ríkissjóðanna, sem ríkisstjórnirnar lögðu á þá til að bjarga bönkunum.  Þær munu míga í skóinn sinn með því að prenta peninga, sem verður verðbólguvaldur.  Hérlendis var það lán í óláni, að ríkið hafði ekki burði til að bjarga úttútnuðu bankakerfi.  Hins vegar er skuldasöfnun vinstri stjórnarinnar svo geigvænleg, að hratt stefnir í erlenda skuldasúpu ríkisins yfir 100 % af VLF, en fjárhagshætta hefst við 60 %.  Ríkisstjórnin er þjóðhættuleg, af því að hún flýtur sofandi að feigðarósi.  Alþingi þarf þess vegna að losa þjóðina við þessa óværu hið allra fyrsta og boða þarf til þingkosninga.  Þar munu þingflokkar ríkisstjórnarinnar fá makleg málagjöld og þingmenn þeirra týna tölunni niður í e.t.v. fimmtung þingliðs, en kjósendur halla sér að borgaralegum öflum og e.t.v. stjórnleysingjum um sinn. 

Eitt fullkomnasta dýr jarðar

Þegar pappírstígrisdýrum ríkisforsjárhyggju, sem sífellt mála skrattann á vegginn og sjá fjandann í hverju horni í stað tækifæranna, sem við blasa, hefur verið rutt úr vegi, mun athafnalífið á ný taka að ráða til sín fólk, og atvinnuleysinu verður útrýmt.  Þetta verður ekki gert með því að fá ísbjörn í Húsdýragarðinn, enda varðar það við dýraverndunarlög að pína dýr við svo óeðlilegar aðstæður.  Eftirfarandi er hins vegar bæði nauðsynlegt og nægjanlegt til að koma hjólum efnahagslífsins í gang:

  •  afnema alla skatta vinstri stjórnarinnar
  • afnema öll höft á athafnalíf og fjármagnsflæði
  • fella Fjármálaeftirlitið undir Seðlabankann og setja honum hagvaxtarmarkmið í stað verðbólgumarkmiða.  Þar með lækkar hann vextina.  
  • endurskipuleggja fjármálakerfi landsins, þannig að það þjóni fyrirtækjum og heimilum landsins sem bezt, en ríkið lágmarki vaxtagreiðslur sínar til erlendra fjármagnseigenda.    
  • laða erlenda fjárfesta að íslenzku athafnalífi í miklum mæli og vinna gegn áhrifum ábyrgðarleysis fjármálaráðherra vinstri stjórnarinnar, sem lýsir sér í orðum hans: "you ain´t seen nothing yet".
  • eyða ótta sjómanna og útgerðarmanna með kistulagningu áforma um þjóðnýtingu aflaheimilda, og leggja grunn að nýju framfaraskeiði íslenzks sjávarútvegs með áframhaldandi tæknivæðingu og framleiðniaukningu hans.
  • hætta við auðlindagjald á sjávarútveginn þar til auðlindarentan finnst þar
  • falla umsvifalaust frá öllu flaðri upp um pótintáta Brüsselvaldsins og afturkalla með ákvörðun Alþingis og þjóðaratkvæðagreiðslu hina lánlausu umsókn ríkisstjórnarinnar um aðild að ESB. 
  • hefja "Icesave" málið upp á forsætisráðherrastig, þegar Ísland hefur eignazt forsætisráðherra, sem bæði getur og vill berjast fyrir land sitt.  Þannig voru landhelgisstríðin leidd til lykta.  Samningurinn verði lagður fyrir þing og þjóð.
  • hætta stórhættulegum niðurskurði heilbrigðisgeirans, en spara hinu opinbera fé með einkavæðingu, sjálfseignarstofnunum og samkeppni í þessum geira, sem bæti gæði þjónustunnar við almenning.
  • ýta undir einkarekna skóla til að bæta menntunarstig í landinu, sem er nú svo lélegt, að fjöldi nemenda út úr grunnskóla er ótalandi og óskrifandi á móðurmálinu, hvað þá á öðrum tungum.  
  • koma á persónukjöri til Alþingis, svo að gullgrísir geti ekki smyglað sé upp eftir listum flokkanna í öruggt skjól í krafti gjafa og styrkja, sem gera stjórnmálamenn í raun að mútuþegum.    

Aldrei aftur vinstri stjórn !


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband