Hræðslubandalagið

Núverandi stjórnarandstaða hefur enga sameiginlega sýn á viðfangsefni stjórnmála nútímans og næsta kjörtímabils. Hið eina, sem sameinar hana, er valdafíknin og hatrið á borgaralegum öflum.  Furðumálum sérvitringa er veifað framan í kjósendur annað veifið, en þeim er þó lítt hampað, þegar í ljós kemur, að þau standast illa gagnrýni, eins og t.d. öll vitleysan, sem borin er á borð um stjórnun fiskveiða.  Stjórnarandstaðan hefur gripið til þess hálmstrás að krefjast kosninga strax, sem er bæði ólýðræðisleg afstaða vegna ónógs undirbúnings og óþingræðisleg afstaða, þar sem góður þingmeirihluti er starfhæfur á Alþingi. Samkvæmt þingræðisreglunni má ekki rjúfa þing fyrir lok kjörtímabils, ef starfhæfur meirihluti er fyrir hendi á Alþingi. Það verður hins vegar ekki sagt, að minnihlutinn á Alþingi sé starfhæfur, því að hann einkennist af ráðleysi og hugmyndafátækt, orðhákum, innantómum gífuryrðum og óþingræðislegu atferli.

Þetta undirmálslið rembist nú við að mynda hræðslubandalag gegn borgaralegum öflum fyrir næstu kosningar.  Þessi myrkraöfl samfélagsins reyna nú að rotta sig saman undir einkennisheitinu "umbótaöfl", en slíkt heiti á þessu tætingsliði eru alger öfugmæli, því að miklu nær er að gefa þeim heitið "afturhaldsöflin".  Atvinnustefna þessara lýðskrumara  minnir á eyðimörk, og má þá lýsa erindrekstrinum sem eyðimerkurgöngu. 

Það má t.d. varla reisa nokkra virkjun, þó að æpandi raforkuskortur sé í landinu, og ekki verði staðið við skuldbindingar landsmanna gagnvart Parísarsamkomulaginu í desember 2015 án verulegrar aukningar raforkuvinnslunnar.  Þá er allt gert til að tefja nauðsynlega samtengingu raforkukerfa Norður- og Suðurlands, og þvælzt er fyrir frekari iðnvæðingu.

  Alþjóðlega viðurkennt fiskveiðistjórnunarkerfi er sagt óalandi og óferjandi og verði kastað út í hafsauga, ef trúðarnir komast í færi til þess.  Fórna á hinum heilnæma íslenzka landbúnaði fyrir innflutning á kjöti af sýklalyfjafylltum sláturfénaði, og þar fram eftir götunum. 

Í núverandi stjórnarandstöðu eru ekki umbótaöfl, heldur kostasnauð afturhaldsöfl.  Ætlar almúginn að hverfa af leið stöðugt batnandi lífskjara og verða leiksoppur sundurlyndis, hæfileikaleysis, vanþekkingar, ofstækis og trúðsláta í Stjórnarráðinu að afstöðnum næstu Alþingiskosningum ?  Er fólk búið að gleyma hörmulegu stjórnarfarinu á síðasta kjörtímabili ?  Halda menn, að stuðningur stjórnleysingja við vinstri stjórn gangi raunverulega upp ?  Stefna pírata og vinstri grænna blandast álíka vel saman og olía og vatn. 

Um þessi mál varð Óla Birni Kárasyni, varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins, tíðrætt í Morgunblaðsgrein 20. apríl 2016:

"Klisjur, frasar og umbúðastjórnmál "umbótaaflanna".:

"Reykvíkingar hafa kynnzt "umbótaöflunum" síðustu árin; gatnakerfið er í molum, fjárhagur borgarsjóðs ósjálfbær, enda eytt um efni fram, skorið er niður hjá leik- og grunnskólum, en ráðizt í fjárfrek gæluverkefni, stjórnkerfið þanið út, þjónusta við eldri borgara skert, götur eru skítugar og borgin sóðaleg."

Þegar jafnsundurleitir hópar og vinstri grænir og píratar eru leiddir saman í eina sæng til að stjórna borg eða ríki, þá útheimtir það góða stjórnunarhæfileika að mynda skilvirkt stjórnendateymi.  Stjórnunarhæfileikum er alls ekki fyrir að fara hjá núverandi borgarstjóra, og reynslan af síðasta kjörtímabili á þingi segir okkur, að hæfileikaleysið tröllríði húsum á vinstri vængnum, og píratar eru á móti stjórnun og stjórnendum, eins og stjórnleysingjarnir eru.  Þetta kemur fram í flokkstarfi pírata, en þar má enginn formaður vera og stöðugt er verið að skipta um t.d. þingflokksformann.

Þegar svona er í pottinn búið, myndast engin stjórnarstefna, og engin markmið standast, tekjur hins opinbera aukast lítið þrátt fyrir aukna skattheimtu, útgjöldin þenjast stjórnlaust út og báknið sömuleiðis.  Þjónustan við borgarana koðnar niður, og innviðir grotna niður.  Þetta var reynslan af síðustu ríkisstjórn, og þetta er reynslan af núverandi borgarstjórn.  Ætla kjósendur að setja hag sinn og samborgaranna í uppnám með því að kjósa hæfileikaleysið til valda á ný ?  Það getur orðið dýrt spaug.

Óli Björn vitnar í einn af formannsframbjóðendum Samfylkingarinnar, Magnús Orra, til að gefa lesendum nasasjón af túðrinu og innihaldsleysinu, sem streymir frá lýðskrumurunum á vinstri vængnum.  Þar á bæ telja menn alls ekki vænlegt að sýna sitt hatursfulla stéttastríðsfés fyrir kosningar, sem snýst um að hækka jaðarskattheimtuna og þrúkka þannig niður ráðstöfunartekjum þeirra, sem mikið hafa á sig lagt til aukinnar tekjuöflunar, annaðhvort með löngu og dýru námi eða með löngum vinnutíma, nema hvort tveggja sé.

Þá er auðlegðarskattur vinstri stjórnarinnar, sem borgaralega ríkisstjórnin framlengdi ekki 2014, alræmt dæmi um óréttláta skattheimtu.  Gamalt og tekjulágt fólk hafði sumt hvert önglað saman eignum á starfsævinni, sem vinstri stjórninni þótti refsivert, svo að hún lagði á þetta fólk eignaskatt.  Sú skattheimta gat hæglega á hverju ári numið u.þ.b. öllum tekjum gamlingjans og jafnvel hærri upphæð en tekjurnar námu.  Þá neyddist sá aldraði eða sú aldraða í mörgum tilvikum til að losa um eignir, og stundum varð viðkomandi að selja ofan af sér til að borga "auðlegðarskattinn".  Allt var þetta argasta óréttlæti og tvísköttun í eðli sínu, en samt dirfðust vinstri menn að halda því fram, að með því að framlengja ekki auðlegðarskattinn væri hin borgaralega ríkisstjórn "að afsala ríkissjóði tekjum".  Það er engu líkara, en hinir dómgreindarskertu vinstri menn telji ríkissjóð eiga meiri rétt til eigna fólks og sjálfsaflafjár en sjálfa eigendurna.  Þarna skín gamli Karl Marx í gegn um lygahjúpinn, sem vinstra liðið telur venjulega bezt við hæfi að hylja sig undir. 

"Það eru öfl, sem vilja nýja gerð af pólitík og nýjar áherzlur í stjórn landsmála.  Það er mikill áhugi á að reka nýja gerð af pólitík, segja skilið við þessa gömlu pólitík og reka framtíðarpólitík."

Þetta gól Magnúsar Orra er eitt versta holtaþokuvælið, sem heyrzt hefur frá íslenzkum stjórnmálamanni um langa hríð.  Að bjóða kjósendum upp á fullkomlega innihaldslausar umbúðir af þessu tagi er móðgun við þá. Stjórnmálamaðurinn, sem hér á í hlut, er reyndar svo lítill bógur, að hann er sennilega alls ekki í færum til að útskýra nánar, hvað hann á við.  Þessa heimskulegu frasa lepja vinstri menn og píratar hver eftir öðrum, en það vantar allt kjöt á beinið.  Ætla þeir að fara kviknaktir og kjötlausir í kosningar ?

Ágætri grein sinni lýkur Óli Björn þannig:

"Þannig er "heiðarlegri" pólitík fólgin í því að hafa endaskipti á hlutunum, og ganga gegn meginreglu réttarríkisins um, að enginn sæti ákæru, nema því aðeins, að meiri líkur en minni séu taldar á sakfellingu. (S.b.r. Landsdóm á síðasta kjörtímabili - innsk. BJo.) Dómstólar eru ekki tilraunastofur eða afgreiðslustofnanir, sem gefa "stimpla".

Fundurinn í Iðnó síðasta laugardag (16. apríl 2016 - innsk. BJo) kann að reynast fyrsta skrefið í samvinnu og jafnvel kosningabandalagi fögurra stjórnarandstöðuflokka á Alþingi, sem mynda einnig meirihluta í borgarstjórn.  Þannig skýrst línurnar í íslenzkum stjórnmálum, þótt kjósendur séu lítt fróðari um stefnu "umbótaaflanna", sem hafa tileinkað sér frasa og fagurgala, umúðastjórnmál án innihalds."

Þessi tilraun afturhaldsaflanna til að rotta sig saman bendir til uppgjafar þeirra gagnvart þeirri lýðræðislegu skyldu hvers starfandi stjórnmálaflokks að kynna baráttumál sín fyrir kjósendum fyrir kosningar, því að frá hræðslubandalagi kemur aldrei annað en moðsuða, sem er lítt eða alls ekki upplýsandi um þá stjórnarstefnu, sem kjósendur eiga í vændum, ef þeir styðja þetta moðverk. Þá er það og í hæsta máta ólýðræðislegt, að stjórnmálaflokkar berjist ekki í kosningabaráttu á eigin verðleikum, heldur aðeins til að hindra framgang annarra.  Það er refsháttur, sem kjósendur kunna ekki að meta.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigfús Ómar Höskuldsson

Hollt og gott væri að fá frekari rök fyrir orðunum: " hatrið á borgaralegum öflum".

Hér er væntalega verði fjalla huglægt um efnið af höfundi, ekki hlutlægt.

Sigfús Ómar Höskuldsson, 29.4.2016 kl. 18:09

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Sigfús Ómar;

Hvaða ástæður tilfærði kapteinn pírata, Birgitta Jónsdóttir, fyrir því, að hún ákvað að bjóða sig fram til þings fyrir næstu Alþingiskosningar, þvert ofan í fyrri yfirlýsingu hennar um, að nú væri tímabært að hætta á þingi ?  Var það ekki, að fyrir alla muni yrði að hindra það, að Píratahreyfingin lenti í höndunum á nýfrjálshyggjusinnum ?  Þeir eru sem kunnugt er borgaralega þenkjandi. 

Það endemis galdrafár, sem stjórnarandstaðan hefur magnað upp undanfarinn mánuð út af Panamaskjölunum, þar sem fullyrðingin "hann er í Panamaskjölunum" virðist eiga að duga til sakfellingar, vitnar um ofstæki, sem verður aðeins kynt með hatri.  Reyndar eru nöfn í Panamaskjölunum alls ekki bundin við "borgaraleg öfl", og nægir þá að benda á fyrrverandi gjaldkera Samfylkingarinnar, sem barði gamla olíutunnu að utan á Austurvelli til að mótmæla aflandseyjareikningum Íslendinga, og leigusala Samfylkingarinnar við Hallveigarstíg í Reykjavík, sem er í eigu huldufélags erlendis, en leigir Samfylkingunni a.m.k. 25 % undir markaðsleiguverði. 

Bjarni Jónsson, 30.4.2016 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband