Færsluflokkur: Dægurmál
29.8.2021 | 16:58
Umgjörð sjúkrahúsanna hefur gengið sér til húðar
Af mikilli umræðu um heilbrigðismálin nú í aðdraganda Alþingiskosninga má ráða, að þar sé pottur brotinn. Tvennt ber þar hæst. Fjármögnun sjúkrahúsanna, einkum Landsspítalans, og aðför heilbrigðisráðuneytisins að sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólki með þeirri aukaverkun, að viðskiptavinir þess standa ver að vígi gagnvart Sjúkratryggingum Íslands.
Það er árlegt fréttaefni, að fjárveitingar til Landsspítala hrökkvi ekki fyrir kostnaðinum. Björn Zoëga (BZ), forstjóri Karólínska í Stokkhólmi, hefur nýlega tjáð sig á þá lund hérlendis, að það sé úrelt þing að hafa sjúkrahús á föstum fjárlögum. Það er út af því, að á "stafrænni öld" er tiltölulega einfalt að skrá hvert verk og að reikna út kostnaðinn við það út frá áður tilgreindum einingarkostnaði. Þetta þýðir, að innleiðing afkastahvetjandi og gæðahvetjandi launakerfis fyrir starfsfólkið, sem að verkinu vinnur, liggur tiltölulega beint við nú á tímum. Þetta hefur BZ gert á Karólínska, hann gat fækkað starfsfólkinu um 950 og fjölgað legurúmum samtímis um rúmlega fjórðung. Þegar hann var forstjóri Landsspítalans, undirbjó hann þetta þar. Hvað dvelur orminn langa. Eru þvergirðingar í heilbrigðisráðuneytinu, sem stoppa þetta ? Hafi heilbrigðisráðherra ekkert minnzt á þetta, er það af því, að hún vill ekki heyra minnzt á hvata fyrir starfsfólkið. Hjá henni ríkir flatneskjan.
Til að koma böndum á hömlulausa útþenslu kostnaðar við rekstur sjúkrahúsanna, helzt háskólasjúkrahússins, þarf að reka endahnútinn á undirbúninginn, sem BZ hóf, og innleiða tekjustreymiskerfi að hætti Karólínska í Stokkhólmi, sem er með um tvöfalt fleiri legurúm en Landsspítalinn, svo að þetta eru sambærileg sjúkrahús að stærð.
Landsspítalinn (LSH) nær ekki að nýta öll sín rúm, um 630 talsins, vegna manneklu, þótt bráða nauðsyn beri til. Það er ekki hægt að bera því við, að fjárveitingar til spítalans hafi verið skornar við nögl, því að á verðlagi ársins 2020 hafa þær aukizt úr mrdISK 59,7 árið 2010 í mrdISK 75,5 árið 2020 eða um 26,5 % á 11 árum á föstu verðlagi, og hlutfallið af ríkisútgjöldum hefur hækkað úr 8 % í 9 % á miklu þensluskeiði ríkisútgjalda.
Það eru ýmsir hnökrar á rekstri Landsspítalans, sem væntanlega mundu lagast, ef/þegar réttir hvatar að hætti BZ verða settir inn í rekstur hans. Hér verða fáeinir tíundaðir, sem fram komu í fréttaskýringu Stefáns E. Stefánssonar í Morgunblaðinu 25. ágúst 2021 undir fyrirsögninni:
"Mikilvægt líffæri í þjóðarlíkamanum".
"Á sama tíma er ljóst, að nokkur hluti starfsfólks er í annarri launaðri vinnu utan sjúkrahússins. Á það m.a. við um lækna, sem reka eigin stofur samhliða störfum fyrir spítalann. Þar er ekki aðeins um að ræða hópinn, sem er í hlutastarfi á spítalanum. Í fyrrnefndri fyrirspurn kemur t.d. fram, að 23,5 % þeirra starfsmanna, sem sinna 100 % stöðugildi við spítalann, þiggi einnig laun utan hans."
Þetta er óeðlilegt og ætti að binda endi á. Það er líklegt, að kerfi BZ leyfi ekki slíkt, enda verður eftirsóknarverðara að vera í fullu starfi á spítalanum, eftir að þar verður innleitt afkastahvetjandi vinnuumhverfi. Óánægja virðist krauma á spítalanum með núverandi stjórnkerfi. Um þetta reit Stefán Einar:
"Hitt er ljóst, að margir starfsmenn spítalans, sem ViðskiptaMogginn hefur rætt við, horfa mjög til þess, hvernig mjög hefur fjölgað í hópi þeirra starfsmanna á síðustu árum, sem ekki koma með beinum hætti að umönnun sjúklinga. Telja viðmælendurnir, sem ekki vilja koma fram undir nafni, að sú þróun komi í raun niður á starfsemi spítalans og afköstum."
Ef verkefnamiðaðar greiðslur í stað "fastra fjárlaga" hefðu þegar verið innleiddar við LSH með góðum árangri, eins og á Karólínska, er útilokað að Parkinsonslögmálið gæti þrifizt þar með "paper shufflers" og silkihúfum. Hvort sem heildarkostnaður við spítalann eykst við slíka innleiðingu eður ei, þá mun starfsemi hans verða straumlínulagaðri og afkastameiri án þess, að slíkt komi niður á gæðum spítalans. Forstjóri hans sagði nýlega í viðtali, að skilvirkni á LSH væri tiltölulega góð. Það á þó ekki við um heildarstarfsemina, ef marka má alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki:
"Í árslok í fyrra [2020] var gefin út skýrsla, sem unnin var af ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey, og þar var bent á, að síðasta hálfa áratuginn hefðu afköst á spítalanum farið minnkandi, ekki sízt þegar kom að framlagi lækna til spítalans. Forstjóri hefur þó bent á, að það megi fyrst og fremst [sic] rekja til "tímamóta" kjarasamnings, sem ætlað var að draga úr gríðarlegu álagi á starfsmenn spítalans. Í alþingiskosningum, sem fram undan eru í komandi mánuði, er líklegt, að fjármögnun Landsspítalans verði í brennidepli."
Það er spurning, hvort hér er verið að bera saman epli og appelsínur. Forstjórinn virðist miða afköst við vinnuframlag mælt í klukkustundum, t.d. í mánuði, frá læknunum. Eðlilegur mælikvarði á afköst eru hins vegar afgreiddar verkeiningar á hverja unna klukkustund. Kannski er verkbókhald LSH enn ekki í stakkinn búið að meta vinnuframlagið í þessum verkeiningum. Þess háttar verkbókhald er hins vegar forsenda fyrir innleiðingu hvatakerfis að hætti BZ á LSH. Slíkt kerfi virðist geta greitt úr ýmsum meinsemdum, sem grafið hafa um sig á LSH. Það þarf að stokka stjórnkerfi spítalans upp, fá yfirlæknunum óskoruð völd yfir sínu ábyrgðarsviði og skipa stjórn yfir spítalann. Um samsetningu þeirrar stjórnar ætti að leita fyrirmynda til hinna Norðurlandanna. Heilbrigðisráðuneytið gæti með þessu móti ekki lengur ginið yfir málefnum LSH.
Jafnframt þessum umbótum á stjórnkerfi LSH þarf framkoma ríkisvaldsins við sjálfstætt starfandi starfsfólk heilbrigðisgeirans að gjörbreytast til batnaðar. Viðhorfið þarf að verða, að vinnuframlag sjálfstætt starfandi sé ríkinu verðmætt og mikilvægt, enda er ríkið raunar ekki í stakkinn búið til að veita þjónustu sjálfstætt starfandi með ódýrari hætti, og í langflestum tilvikum bara alls ekki. Þetta á sérstaklega við nú, þar til Nýi Landsspítalinn tekur til starfa. Þar vekur reyndar athygli, hversu lítil aðstaða til klínískrar starfsemi bætist við, t.d. aðeins 210 legurými (nú eru 638 á Lanzanum) og 23 gjörgæzlurými, sem virðist vera allt of lítil viðbót m.v. við kveinstafina frá Landsspítalanum í Deltu-bylgju Kófsins.
Það virðist vera óravegur á milli þjónustu heilbrigðiskerfa Íslands og Svíþjóðar við skjólstæðinga sína. Líklegast er, að sænskir sósíaldemókratar og aðrir hafi haft vit á að virkja mátt samkeppninnar, t.d. á milli hins opinbera og einkarekna geirans. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, drap á þetta í grein í Morgunblaðinu 21. ágúst 2021 undir fyrirsögninni:
"Heilbrigðiskerfi á krossgötum".
"Í Svíþjóð, hins vegar, gildir svokölluð þjónustutrygging fyrir notendur heilbrigðisþjónustu. Þar á fólk rétt á mati á vanda sínum á örfáum dögum, tíma hjá sérfræðingi innan 3 mánaða, og ef aðgerðar er þörf, þá er tryggt, að hún fari fram innan 90 daga. Þessi viðmið eru skýr, skiljanleg og hafa að stórum hluta náðst þar í landi.
Hér ætti vitaskuld að gilda svipað fyrirkomulag. Ef fyrirsjáanlegt er, að ekki verði unnt að veita þjónustuna innan tímamarka, verði viðkomandi gert um það viðvart og honum heimilað að sækja þjónustuna annars staðar - án viðvótar kostnaðar fyrir einstaklinginn."
Það er heilbrigðisráðuneytinu til mikils vanza, að heilbrigðisþjónustan hérlendis skuli ekki komast í nokkurn samjöfnuð við þetta. Það er ekki út af skorti á fjárveitingum úr ríkissjóði, og það er ekki, af því að Ísland "framleiði" of fáa lækna eða aðra heilbrigðisstarfsmenn. Íslenzkir læknar starfa margir erlendis og t.d. hjúkrunarfræðingar eru margir í annars konar störfum hérlendis. Þetta er skipulaginu að kenna. Ef greiðslufyrirkomulag BZ á Karólínska verður tekið hér upp og samið verður við sjálfstætt starfandi sérfræðinga, þá ætti leiðin fyrir íslenzka heilbrigðiskerfið að vera greið að sigla upp að hinu sænska. Þó þarf vafalaust fyrst að hreinsa ranghugmyndirnar út úr heilbrigðisráðuneytinu. Þær hafa keyrt þetta kerfi í þrot.
Það er hægt að taka algerlega undir eftirfarandi greiningu Halldórs Benjamíns Þorgeirssonar, sem greinilega hefur ígrundað þetta mál vel og er jafnvel ýmsum hnútum kunnugur:
"Því er gjarna haldið fram, að fjárskortur standi heilbrigðisþjónustunni fyrir þrifum. Ljóst er, að ef ekki fylgja auknar kröfur um, hvernig fjármunirnir eru nýttir, munu þeir hverfa án þess, að nokkur merkjanlegur munur verði á þjónustunni. Heilbrigðisþjónustan er að langmestum hluta greidd af skattfé, sem fólkið og fyrirtækin greiða. Það er því ríkið og stofnanir þess, sem semja við þá, sem veita þjónustuna, um gæði, öryggi, árangur og hagkvæmni. Því miður er töluverður hluti heilbrigðiskerfisins rekinn án samninga, heldur fær fé beint af ríkinu án þess, að samið sé um nýtingu þess fyrirfram."
Þetta samningsleysi nær engri átt. Á meðan er heilbrigðiskerfið eins og stjórnlaust rekald. Slíka samninga vantar við sjúkrahúsin og samningar við sjálfstætt starfandi eru ekki lengur í gildi. Í staðinn fyrir að semja hefur heilbrigðisráðuneytið valið að fara í stríð við einkaframtakið, þangað til núna, að ákall um hjálp kom frá Landsspítalanum, sem kominn er að fótum fram. Kerfi fastra fjárlaga hefur gengið sér til húðar. Stokka verður upp á nýtt. Sú sama er niðurstaða Halldórs Benjamíns:
"Nú [eftir kosningar-innsk. BJo] er lag að endurskoða samninga og viðmið í íslenzku heilbrigðiskerfi. Létta álagi af Landsspítala, til að hann geti sinnt betur sínum mikilvægustu skyldum. Ríkið ætti að vera kaupandi vel skilgreindrar þjónustu í kerfi, sem byggir á fjölbreyttum rekstrarformum til að ná fram hagræðingu, skilvirkni og auknum gæðum, byggt á faglegum viðmiðum. Ríkið ákveður [hámarks]verð, magn og gæði, en margir aðilar geta boðið í þjónustuna [sem óskað er eftir-innsk. BJo]. Með slík markmið fyrir augum er óhjákvæmilegt, að við nýtum krafta sjálfstætt starfandi sérfræðinga, einkafyrirtækja og félagasamtaka."
Hvaða stjórnmálaflokkar á Íslandi skyldu nú vera fáanlegir til að greiða götu þessara stefnumála ? Munu þeir geta myndað meirihluta á Alþingi um þessi mál ? Ef ekki, þá mun enn síga á ógæfuhlið heilbrigðiskerfisins og óánægja með ófullnægjandi þjónustu magnast.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2021 | 18:21
Er betra að veifa röngu tré en öngu ?
Í lok 9. áratugar 20. aldarinnar voru aðrir við stjórnvölinn hérlendis en sjálfstæðismenn. Þáverandi ríkisstjórn stóð frammi fyrir bullandi tapi á sjávarútvegi, af því að fiskiskipin voru allt of mörg m.v. leyfilegan heildarafla að ráði Hafrannsóknarstofnunar. Ríkisstjórnin gat beitt stjórnvaldsákvörðunum til að aðlaga stærð flotans að ástandi fiskimiðanna í íslenzku lögsögunni, en hún ákvað að láta markaðinn um að leysa vandamálið. Það gerði hún með því að leggja fyrir Alþingi frumvarp um frjálst framsal fiskveiðiheimilda, kvóta á skip, sem ríkið hafði úthlutað 1983-1984 á grundvelli veiðireynslu árin 3 þar á undan. Sjálfstæðismenn, sem þá voru í stjórnarandstöðu, voru sumir hverjir andsnúnir þessu, og flokkurinn átti engan veginn frumkvæði að kerfi, sem aðrir hafa eignað honum og hann tekið upp á sína arma, af því að það reyndist vera þjóðhagslega hagkvæmt (hvergi hefur annað fyrirkomulag reynzt hagkvæmara).
Það kom sem sagt í ljós, að markaðurinn svínvirkaði. Aflahlutdeildir gengu kaupum og sölum á milli útgerða, útgerðum og skipum fækkaði og kaupendur efldust, m.a. af því að þeir náðu smám saman aukinni hagræðingu í krafti stærðar og fjárfestinga í nýrri tækni. Nú er samhljómur á meðal hagfræðinga um, að þessi breyting hafi orðið til góðs, og staðreyndirnar tala sínu máli. Íslenzkur sjávarútvegur er sjálfbær í öllum skilningi (hann notar að vísu enn olíu, en minna af henni á hvert veitt tonn en annars staðar þekkist), og hann stendur sig vel á erlendum mörkuðum, þangað sem yfir 95 % af vöruframboði hans fara.
Sjálfstæðismenn áttuðu sig fljótt á því, að þarna hafði heillaspor verið stigið, enda varð atvinnugreinin nú sjálfstæð, hefur lagt mikið að mörkum til samfélagsins og hefur ekki þurft að leggjast inn á vöggustofu ríkisins, sem áður fyrr hlynnti að veikburða fyrirtækjum. Hins vegar bregður svo við, að sumir aðrir stjórnmálaflokkar, t.d. Samfylking, Viðreisn og líklega hentistefnuliðið, sem kallar sig pírata, hafa nú horn í síðu þessa árangursríka fyrirkomulags sjávarútvegsstefnunnar. Að sjálfsögðu ráðast þeir á Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa tekið þessa vel heppnuðu stefnu upp á sína arma, en hvað hafa þeir á móti kerfinu ? Sjálfstæðisflokkurinn sýndi þarna, að hann er víðsýnn flokkur og næmur fyrir breytingum, sem vel reynast. Hann kastar þó ekki fyrir róða, því sem vel hefur gefizt, nema annað enn betra sé örugglega í boði.
Sagt er, að þeir, sem fjárfest hafa í kvóta og dýrum búnaði til að nýta sjávarauðlindirnar í íslenzku lögsögunni, og þeir af meinfýsni uppnefndir "sægreifar", ausi af auðlind í eign þjóðarinnar. Loddarar hafa alið á tortryggni og jafnvel andúð í garð útgerðarmanna á þeim fölsku forsendum, að þeir græði á því, sem aðrir eiga. Þetta er auðvitað fráleitur málflutningur, sérstaklega þar sem kvótinn hefur að mestu leyti gengið kaupum og sölum samkvæmt landslögum. Vitleysan á rætur að rekja til misskilnings á fiskveiðistjórnunarlögunum.
Þar er því slegið föstu, að fiskimiðin innan íslenzku lögsögunnar séu eign íslenzku þjóðarinnar. Það er góð hugsun að baki þessu ákvæði, því að það tryggir fullveldi íslenzka ríkisins yfir miðunum, en ekki, að ég geti gert kröfu á þá sem eiga afnotaréttinn um u.þ.b. 1/365000 af aflaverðmætunum, þegar kostnaðurinn við að afla verðmætanna hefur verið dreginn frá. Þar sem ríkisvaldið fer með þennan fullveldisrétt þjóðarinnar, merkir þjóðareignarákvæðið, að ríkisvaldið hefur óskoraðan rétt til að fara með stjórnun aðlindarinnar. Það er gert með fiskveiðistjórnarlöggjöf og reglugerðum, reistum á henni.
Þá er mikið gert úr því, að aðgengi nýrra, sem vilja spreyta sig á að afla verðmæta úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, sé heft. Það er markaðurinn, sem myndar þann inngönguþröskuld, að kaupa þarf eða leigja aflahlutdeild. Verðið markast að nokkru af því, að hér er um mjög takmarkaða auðlind að ræða, jafnvel m.v. núverandi afkastagetu fiskiskipastólsins eftir mikla fækkun skipa. Að minnka veiðiheimildir núverandi útgerða og úthluta þeim til annarra á einhverju verði er löglaust athæfi (brot á eignarréttarákvæði stjórnarskrár (afnotaréttur er ein tegund eignarréttar)) og hagfræðilega óverjandi ráðstöfun, því að þar með væri ríkisvaldið að stuðla að óhagkvæmari rekstri allra útgerða, með því að fjölga þeim,og tapi hjá þeim, sem nú eru lítið eitt ofan við bókhaldslegt 0. Að auka heildaraflamarkið til að hleypa öðrum að er ósjálfbær ráðstöfun og óréttlætanleg gagnvart eigandanum, þjóðinni, sem á rétt á því, að bezta þekkta þekking sé nýtt til að hámarka afrakstur miðanna til frambúðar, eins og manninum er fært á hverjum tíma.
Umræðan um sérgjaldtöku af sjávarútvegi umfram aðrar atvinnugreinar, s.k. auðlindagjald, hefur verið á villigötum frá upphafi einfaldlega vegna þess, að engum hefur tekizt að sýna fram á með skýrum hætti, að s.k. auðlindarenta væri fyrir hendi í sjávarútvegi, þ.e. umframhagnaður greinarinnar m.v. aðrar greinar vegna aðgangs hennar að náttúruauðlind. Ef hún væri fyrir hendi hér, hlyti hún að finnast í norskum sjávarútvegi líka, því að í norsku lögsögunni eru gríðarlega auðug fiskimið. Það er öðru nær og stafar m.a. af því, að kostnaðarsamt er fyrir fyrirtækin að sækja sjóinn. Norsk sjávarútvegsfyrirtæki fá fjárhagsstuðning frá hinu opinbera, og þannig háttar til alls staðar annars staðar í Evrópu, nema í Færeyjum.
Kjarni málsins er sá, að íslenzki sjávarútvegurinn á í höggi við þennan niðurgreidda sjávarútveg á evrópskum mörkuðum og víðar. Gjaldtaka af sjávarútveginum umfram venjulega skattheimtu rýrir óneitanlega samkeppnishæfni fjármagnsfrekrar starfsemi eins og sjávarútvegsins. Þess vegna þarf ríkisvaldið að gæta hófs. Núverandi gjaldtaka tekur þriðjung hagnaðar. Það er ekki hófleg gjaldtaka í ljósi almenns tekjuskatts af lögaðilum á Íslandi, sem er fimmtungur hagnaðar.
Evrópusambandið (ESB) stjórnar fiskimiðum aðildarlandanna utan 12 sjómílna. Ef Ísland gengur í ESB, eins og Samfylking og Viðreisn berjast fyrir og píratar virðast vera hlynntir, þá fellur íslenzka lagaákvæðið um þjóðareign fiskveiðiauðlindarinnar fyrir lítið, því að Evrópuréttur er rétthærri landsrétti innan ESB og reyndar EES, en fiskveiðistjórnun er undanskilin í EES-samninginum. Það mun þá verða mikill þrýstingur frá frönskum, spænskum og fleiri útgerðum ESB-landanna á Framkvæmdastjórnina um að hleypa þeim inn í íslenzku landhelgina, enda að missa spón úr aski sínum við Bretlandsstrendur.
Íslenzkir aðildarsinnar, t.d. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, halda því statt og stöðugt fram, að hægt verði að semja um "hlutfallslegan stöðugleika", sem er reistur á veiðireynslu. Spurning er, hvort veiðireynsla Frakka, Spánverja o.fl. á fyrri tíð við Ísland er fyrnd. Alla vega er núverandi fyrirkomulag bráðabirgða fyrirkomulag innan Evrópusambandsins, og samkvæmt hvítbók ESB um þetta efni er stefnt að því, að markaðurinn stjórni aðgangi að öllum miðum aðildarlandanna, er fram í sækir. Það er gert með því að bjóða út eða upp aflaheimildir. Íslenzk fiskveiðistjórnun í lögsögu Íslands mun þá fara veg allrar veraldar, og þjóðarframleiðslan mun minnka að sama skapi með slæmum afleiðingum fyrir hag landsmanna og byggð í landinu. Innganga í ESB mun gera Ísland að óaðlaðandi verstöð með of lágar þjóðartekjur til að keppa um hæfasta vinnuaflið.
Stefna Viðreisnar í fiskveiðistjórnarmálum er þannig aðeins liður í aðlögun Íslands að stjórnkerfi Evrópusambandsins. Stefán Einar Stefánsson birti útdrátt úr Dagmálaviðtali við varaformann Viðreisnar, Daða Má Kristófersson, í Morgunblaðinu, 15. júlí 2021, undir fyrirsögninni:
"Nýtt kerfi skili ekki meiri tekjum".
Frásögnin hófst þannig:
"Ekki standa líkur til þess, að tekjur ríkissjóðs af fiskveiðiauðlindinni muni aukast, nái tillögur Viðreisnar um svo kallaða samningaleið fram að ganga. Þetta segir Daði Már Kristófersson, varaformaður flokksins og prófessor í auðlindahagfræði við Háskóla Íslands. Bendir hann á, að veiðigjöld, sem nú eru lögð á útgerðina, nemi um þriðjungi af hagnaði þeirra, og að kerfisbreytingar þær, sem hann telji nauðsynlegt að ráðast í, muni skila svipuðum tekjum til lengri tíma litið."
Yfirleitt hefur jarmurinn út af fiskveiðistjórnunarkerfinu snúizt um að skattleggja sjávarútveginn enn þá meira en gert er. Oftast er um að ræða fólk útblásið af hugsjónum og réttlætiskennd fyrir hönd þjóðarinnar með afar takmarkað vit á útgerð. Þau slá um sig með slagorðum á borð við: "látum sjávarútveginn greiða markaðsverð fyrir aðganginn að þjóðareigninni". Nú játar varaformaður Viðreisnar, að sjávarútvegurinn muni ekki geta greitt meira í ríkissjóð en hann gerir nú þegar. Með þetta hljóta margir vizkubrunnar að hafa orðið fyrir vonbrigðum. Þeir hafa gjarna bent á leiguverð kvóta sem líklegt markaðsverð hans. Þetta er algerlega fráleit hugmynd, sem sýnir, að þau hafa ekki minnsta vit á því, sem þau bera fyrir brjósti að umbylta. Leiguverð er jaðarverð. Leigður kvóti þarf aðeins að standa undir rekstrarkostnaði við að veiða viðbótarfisk við grunnkvóta skipsins. Þess vegna getur verið hagkvæmt að leigja kvóta á yfir 200 ISK/kg, sem gæti verið 10-20 falt núverandi veiðigjald fyrir þorsk. Þannig er rekinn skefjalaus falsáróður til að vekja öfund og ólund gagnvart útgerðarmönnum.
Síðan var vitnað beint í Daða Má:
"Auðvitað gæti einhver sagt, að verulegur partur [arðsins] væri skilinn eftir hjá útgerðinni. En tilfellið er, að það er mjög mikilvægt, að útgerð sé ábatasöm atvinnugrein [...]; allir skattar valda einhvers konar skaða, og umfangið af þeim skaða, og umfangið af þeim skaða er háð umfangi skattlagningarinnar, og það er mjög mikilvægt, að við séum örugglega réttum megin þar. Ég vil benda á, að sambærileg skattlagning auðlindagreina í nágrannalöndunum er iðulega ekki meiri en þetta með beinni skattlagningu."
Þarna ratast varaformanni rétt orð í mun um skattheimtuna. Sjávarútvegur verður ekki mjólkaður meira með nýju fiskveiðistjórnunarkerfi. Hvers vegna er þá talin þörf á nýju fiskveiðistjórnunarkerfi ? Það er til að aðlaga kerfið stefnu ESB í sjávarútvegsmálum, en það er að sjálfsögðu ekki viðurkennt, heldur skálduð skýring:
"Spurður út í, hvað knýi á um breytt fyrirkomulag í kringum úthlutun fiskveiðiheimilda, fyrst slíku kerfi sé ekki ætlað að skila meiri tekjum í ríkissjóð, segir Daði Már, að innköllun núverandi veiðiheimilda yfir langt tímabil, þar sem hægt væri að bjóða þær upp í kjöldarið, sé líklegri til þess að tryggja sátt um sjávarútveginn."
Þessi útskýring er eins og hver önnur þvæla. Hvaða heilvita manni dettur í hug, að mesta þjóðnýting Íslandssögunnar sé líkleg til að skapa aukna sátt um eina atvinnugrein ? Viðreisn hefði varla getað framreitt heimskulegra og ótrúverðugra yfirklór yfir þá sorglegu staðreynd, að hún starfar hér á Íslandi sem eins konar útibú frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og allar gerðir hennar miða að því einu að flækja Íslandi undir yfirráð hennar.
Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við HÍ, var líka á téðum Dagmálafundi:
"Nýverið birtu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi skýrslu, sem Ragnar Árnason vann fyrir þau og var eins konar "uppfærsla" á ríflega 10 ára gamalli skýrslu Daða Más, sem unnin var fyrir tilhlutan starfshóps um mögulega endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu íslenzka. Þar kemst Ragnar að þeirri niðurstöðu, líkt og Daði Már, að innköllun aflaheimilda fæli í sér eignaupptöku."
Ragnar hefur áreiðanlega ekki hrapað að þessari niðurstöðu, svo vandaður fræðimaður sem hann er. Þetta er "fait accompli" eða þegar framkvæmt, og það er ekki til neins að láta eins og afturkalla megi þennan gjörning og þar með aflaheimildirnar, nema með því að ógilda eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, og það verður aldrei gert með samþykki meirihluta kjósenda, svo mikið er víst. Friður um stjórnkerfi fiskveiða er almenningi fyrir beztu, enda nýtur þetta fyrirkomulag alþjóðlegrar viðurkenningar og er grundvöllur þróunar sjávarútvegsins á öllum sviðum, s.s. öryggis skipverja (gott skipulag veiðanna), orkusparnaðar og orkuskipta (afl til fjárfestinga í nýrri tækni) og gjörnýtingar aflans (hvati til aukinnar verðmætasköpunar úr hverju kg).
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.7.2021 | 18:28
Hjarðónæmi eða ekki hjarðónæmi ?
Tíðindi hafa borizt af því, að ríkisstjórnin í Singapúr, þar sem búið er að fullbólusetja tæplega 70 % í þessum skrifuðum orðum, en hérlendis um 85 %- 90 % 16 ára og eldri, hafi nú ákveðið að meðhöndla C-19 sem hvern annan flensufaraldur, og yfirvöld muni þess vegna hætta að láta þylja yfir íbúunum tölur um dagleg smit, andlát o.þ.h. af völdum alls konar afbrigða af SARS-C0V-2. Þetta er hægt að gera vegna áhrifa bólusetninganna, ekki hjarðónæmis, heldur minni veikinda.
Þetta virðist vera skynsamleg ákvörðun í ljósi þess, að bólusetningarnar hljóta að lækka smitstuðulinn eitthvað, þótt smittíðni bólusettra valdi vonbrigðum, og veikindi bólusettra virðast ekki alvarleg enn sem komið er. Það er einkennandi hér og annars staðar á Vesturlöndum núna, hversu margir bólusettir smitast m.v. það, sem búizt var við á grundvelli tilrauna lyfjafyrirtækjanna. Það veldur vonbrigðum, en aðalatriðið er, að veikindin eru hófleg og hættulítil.
Að mati höfundar þessa vefpistils ætti ekki að koma til mála að bólusetja yngra fólk, vegna þess að það veikist yfirleitt lítið af C-19 og vegna þeirra alvarlegu afleiðinga bólusetninga við sjúkdóminum, sem nú hafa komið fram við tilraunir á dýrum og sagt er frá hér að neðan. Með öðrum orðum væri tekin óþörf áhætta með ungviðið með því að bólusetja það við C-19. Reynslan sýnir, að bóluefnin hindra síður en svo smit og fækkar lítið smitberum. Það væri því mjög ankannalegt að hefja þessar bólusetningar, og slíkt mætti þá hiklaust túlka sem undanlátssemi við lyfjaiðnaðinn, sem virðist hafa komið sér upp gullmyllu, því að fregnir berast frá Ísrael um það, að áhrifamáttur bóluefnanna, sem þar hafa verið reynd, til að draga úr sjúkdómseinkennum eftir smit, dvíni mjög að hálfu ári liðnu frá seinni bólusetningu. Þar í landi mun nú viðbótar bólusetning vera í undirbúningi, svo að mulið er undir lyfjaiðnaðinn í meiri mæli en sézt hefur lengi.
Jóhannes Loftsson, verkfræðingur, ritaði gagnmerka grein í Morgunblaðið 16. júlí 2021 og nefndi hana:
"Hundrað".
Hún hófst þannig:
"Frá maí fram í nóvember 2020 [1/2 ár-innsk. BJo] létust 35 þúsund fleiri Bandaríkjamenn á aldrinum 15-64 ára úr öðru en Covid en í meðalári. Svipuð leitni var víða um lönd. Andlátin eru talin tengjast frestun læknisþjónustu og geðheilbrigði.
Engin slík greining hefur farið fram hérlendis, en upplýsingar um andlát má finna í tilraunatölfræði Hagstofunnar. Andlát yngri en 55 ára eru mjög óvenjuleg. Frá lokum júní 2020 fram fram yfir fyrstu 9 vikur 2021 (8,5 mánuðir) [0,7 ár] hafa 33 fleiri látizt á þessum aldri en meðaltal þeirra 3-4 ára á undan, sem tilraunatölfræðin nær til. Þar af urðu 26 umframandlát bara frá júnílokum fram í september (3 mánuðir) [1/4 ár], sem er 54 % aukning og samsvarar einu viðbótarandláti þriðja hvern dag. Meðalaldurinn var ekki nema 38 ár. Til samanburðar er meðalaldur þeirra 29 Íslendinga, sem látizt hafa úr Covid, um 85 ár. Mælt í töpuðum lífárum er skaði þessara andláta, sem mögulega má rekja til sóttvarnaraðgerða, orðinn tífaldur á við skaða sjúkdómsins Covid-19." [Líklega nær 20-faldur - innsk. BJo.]
Þetta eru sláandi upplýsingar. Þá vaknar spurningin, hverju opinberar sóttvarnaraðgerðir hafi skilað á formi græddra lífára ?
Ef farið hefði verið að ráði Burrington-sérfræðingahópsins og varnaraðgerðir einskorðaðar við viðkvæma hópa, en öðrum hindrunum, lokunum og takmörkunum á starfsemi í þjóðfélaginu, sleppt, er ekki víst, að mannslátum vegna C-19 hefði fjölgað neitt, en þótt töpuð lífár af völdum C-19 hefðu þrefaldazt, hefðu töpuð lífár af völdum C-19 samt aðeins orðið innan við 15 % af þeim töpuðu lífárum, sem með rökum má rekja til opinberra sóttvarnaraðgerða.
Þessar ömurlega staðreyndir benda til, að yfirvöld hérlendis hafi verið á kolröngu róli með sínar aðgerðir. Þetta var fyrirsjáanlegt á grundvelli erlendra rannsókna, og bentum við Þorsteinn Siglaugsson, hagfræðingur, m.a. á þetta í blöðum og bloggi.
Þá vék Jóhannes Loftsson að bólusetningunum:
"Í september 2020 sagði sóttvarnalæknir, að tryggja yrði, að bóluefnin væru örugg og með góða virkni. Í lok árs varð Ísland samt fyrst þjóða til að bólusetja öll elliheimilin, aðeins tveimur dögum, eftir að bóluefnið kom til landsins. Engar mælingar voru þá til um virkni eða öryggi bóluefnanna fyrir svo hrumt fólk. 17 dögum síðar var búið að tilkynna 7 andlát tengd bólusetningunni, sem er ein versta útkoma í heiminum. Í gögnum, sem keypt voru frá Hagstofunni, sést, að andlátum eldri en 85 ára þessa 17 daga fjölgaði um 20 % m.v. meðaltal síðustu 4 áramóta á undan. Þetta eru 10,5 fleiri andlát en meðaltalið og 4 fleiri en mest hafði orðið fram að þessu."
Viðkvæmir hópar voru ekki teknir með í prófunum lyfjafyrirtækjanna á bóluefnum sínum við C-19. Þess vegna tók sóttvarnarlæknir mikla áhættu upp á eigin spýtur, þegar hann ákvað að heimila bólusetningar á þeim. Hann gat farið að ráðum Burrington-sérfræðinganna og fyrirskipað sérstaka verndun þeirra í staðinn gegn C-19.
Ofangreind tölfræði sýnir afleiðingar þessarar ógrunduðu ákvörðunar svart á hvítu. Enginn veit, hvort viðkomandi, sem þarna urðu fórnarlömb bólusetningar, hefðu lifað smit SARS-CoV-2 veirunnar af. Í þessu ljósi er nokkur hræsnisbragur á orðum sóttvarnarlæknis um, að nú óttist hann afleiðingar þess, að kórónuveiran nái til viðkvæmra hópa. Þeir eru nú bólusettir. Til hvers var þá tekin sú áhætta að bólusetja þá ?
"Asinn við þróun Covid-bóluefnanna olli því, að stokkið var yfir mörg þróunarskref og prófunum seinkað. Meðal þeirra voru dýraprófanir á eiturvirkni. Nú liggja niðurstöður þessara prófana fyrir, og þær eru ekki uppörvandi. Tengisprotinn, sem er í öllum bóluefnunum, er eitraður og veldur alls konar blóðrásarkvillum, https://tinyurl.com/fbj8cvkd , og skaða í heila tilraunadýranna, https://europepmc.org/article/ppr/ppr319676 . Ennfremur sýndu dýraprófanir á Pfizer-bóluefninu, að nanóagnir bóluefnisins dreifa sér um allan líkamann og safnast í háum styrk í milta, lifur, nýrnahettum og eggjastokkum, https://tinyurl.com/n9wy2t8e . Eiturvirknin skýrir fjölda aukaverkana, sem fylgja bóluefnunum. Í dag hafa um 2000 aukaverkanir verið tilkynntar og þar af 100 alvarlegar og 26 dauðsföll. Líklega er þetta veruleg vantalning, því [að] eftirfylgni skráninga vantar, og m.v. ísraelska greiningu eru andlátin í dag orðin 45."
Þetta eru stórtíðindi og koma í bakið á fólki. Mundir þú hafa farið í bólusetningu að fengnum þessum upplýsingum um niðurstöður bóluefnaprófana á dýrum og vitandi það, að dauðsföll af völdum bólusetninga hérlendis eru að líkindum 50 % fleiri en eftir sýkingu af veirunni sjálfri ? Gagnið sjáum við líka núna í eftirtíð, að er miklu takmarkaðra en fólki var talin trú um. Þó hefur á skrifandi stundu ekki frétzt af alvarlegum sýkingum bólusettra, en samt er fulltrúi Almannavarna farinn að væla um, að e.t.v. þurfi að hefta frelsi fólks aftur verulega með öllum þeim neikvæðu afleiðingum, sem það hefur, og banna allar útihátíðir, það sem eftir lifir sumri. Frumhlaupin eru legio.
JL vék næst að því í grein sinni, að hagsmunum annarra skjólstæðinga Landsspítalans hefði verið fórnað á altari kórónuveirunnar:
"20. febrúar 2020 kom út skýrsla tveggja sænskra sérfræðinga, sem fóru hörðum orðum um stöðu mála á bráðamóttöku Landsspítalans. Á hverjum degi voru 30 sjúklingar látnir bíða í yfir 24 klst áður en þeir voru fluttir til meðferðardeildar. Þetta þótti þeim stórhættulegt skipulagsleysi, sem tíðkaðist ekki annars staðar. Lagt var til bann við, að sjúklingar mættu bíða lengur en 6 klst á bráðadeildinni áður en leyst yrði úr þeirra málum. Nú 1,5 árum síðar hefur ekkert gerzt og margt versnað, ef marka má neyðarkall 1000 lækna um ófremdarástandið á spítalanum.
Covid-aðgerðir hafa haft mikil áhrif á þetta ástand. Skaðinn vegna Covid-aðgerða innan spítalans er því miklu margslungnari en nokkurn órar fyrir, og heilsu og lífi fjölda manns hefur verið fórnað með því að bregðast ekki við ráðgjöfinni."
Það er mikill hnekkir fyrir framkvæmdastjórn Landsspítalans og heilbrigðisráðuneytið, hvernig komið er öryggi skjólstæðinga hans, en nýlegt neyðarkall 985 lækna spítalans ber vott um, að spítalinn uppfylli ekki lágmarkskröfur nútímans í vestrænu þjóðfélagi til öryggis á sjúkrahúsum. Fjármunum hefur verið hellt úr ríkissjóði og í spítalann, en allt hefur komið fyrir ekki. Að "fráflæðisvandinn" skuli standa starfsemi spítalans fyrir þrifum í a.m.k. áratug, sýnir ranga forgangsröðun í félagsmála- og heilbrigðisgeiranum.
Að lokum vék JL að akkilesarhæl sóttvarnastjórnunarinnar hérlendis, sem er hundsun á heildstæðu mati á félagslegum og fjárhagslegum afleiðingum sóttvarnaaðgerða. Einstefna og þröngsýni sóttvarnarlæknis er alger í þessum málum, og heilbrigðisráðuneytið hefur ekki sýnt neina tilburði til heildstæðs mats eða að fá ráðgjafa í áhættugreiningum til slíks verks. Afleiðingin eru endurtekin yfirskot í sóttvarnaraðgerðum og allt of mikill kostnaður hins opinbera, sem velt er á framtíðina með lántökum. Til að tryggja boðleg vinnubrögð í þessum efnum, þarf að endurskoða sóttvarnarlöggjöfina og draga lærdóma af reynslunni til að lágmarka dauðsföll og samfélagslegan kostnað.
"Eitt stærsta vandamál við beitingu sóttvarnaraðgerða er, að skaði aðgerða er varla metinn. Slíkt mat er aðeins gert í gegnum gleraugu gerandans (sóttvarnaryfirvalda), sem getur eftir á vinsað út óþægilegar upplýsingar. Án eftirlits er engin ábyrgð og án ábyrgðar heldur ekkert aftur af öfgum aðgerðanna. Sjálfrannsóknir sóttvarnayfirvalda eru því ógagnsæjar, og þær litlu upplýsingar, sem gefnar eru, eru vandlega skammtaðar."
Þessi gagnrýni á sóttvarnaraðgerðir var viðbúin, enda er svo mikil slagsíða á þeim, að þær hafa valdið miklu heilsufarslegu tjóni og dauðsföllum af völdum annars en C-19, t.d. atvinnuleysis, andlegs álags og lakari læknisþjónustu en áður. Gagnsemin er einhver á formi færri smita og dauðsfalla af völdum C-19, en kostnaðurinn er yfirþyrmandi. Hafa verður þó í huga, að kostnaðurinn og atvinnuleysið er að miklu leyti af völdum erlendra ráðstafana, sem lömuðu ferðageirann. Nú ættu innlend stjórnvöld að stíga varlega til jarðar og gera ekki svo miklar kröfur til þeirra ferðamanna, sem leggja vilja leið sína til landsins, að þeir kjósi fremur að fara eitthvað annað. Þar sem einkennin eru væg hjá ungviði og bólusettum, skiptir fjöldi smita miklu minna máli en áður.
Dægurmál | Breytt 22.7.2021 kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.7.2021 | 13:49
Fullveldið er fjársjóður
Forfeðrum okkar og formæðrum í Noregi var frelsishugsjónin í blóð borin. Bændur á Vesturlandinu norska börðust gegn valdabrölti kóngsins í Víkinni (nú Ósló (lóð ásanna)), og þegar þeir sáu, að þeir höfðu ekki bolmagn til að verjast hernaðarmætti kóngsa (Haraldar hárfagra), sem vildi sameina Noreg í eitt ríki, þá seldu þeir sumir hverjir jarðir sínar, fjárfestu í rándýrum skipakosti (allt að 400 MISK/stk að núvirði) og freistuðu gæfunnar á Bretlandseyjum, Færeyjum og á Íslandi. Með lævísi, tökum á siglingunum vegna norskra skipasmíða og hervaldi eða hótunum þar um tókst Noregskonungi síðar að ná tangarhaldi á þessum landsvæðum, byggðum afkomendum Norðmanna. Þegar Íslendingar brutust undan oki Danaveldis, sem höfðu vegna konunglegra mægða öðlazt völd í Noregi, í Færeyjum og á Íslandi auk Grænlands, sönnuðu þeir fyrir sjálfum sér og öðrum mátt og styrk sjálfstjórnunarinnar (fullveldisins), sem þeir höfðu barizt svo lengi fyrir. Ekkert hefur breytzt, sem ætti nú að leiða til betra lífs á Íslandi, gerist landið fylki í Noregi (sem ekki er í boði, nema í höfði grillupúka) eða fullgildur aðili að Evrópusambandinu (ESB).
Engu að síður lifir frelsishugsjónin enn á meðal íbúa þessara landsvæða norska ríkjasambandsins, ekki sízt á Íslandi, og fullveldið hefur borið ríkulegan ávöxt hér. Frelsishugsjón forfeðra okkar og formæðra var ekki bara reist á vilja þeirra til að lifa lífi sínu óháð fjarlægu valdi, sem þau höfðu enga stjórn á, heldur hafa þau áreiðanlega talið, að afkomu sinni væri bezt borgið með frelsinu til að haga málum sínum að eigin geðþótta innan marka laganna, sem ákveðin voru á héraðsþingum í Noregi (fyrirmynd íslenzkra héraðsþinga og Alþingis að breyttu breytanda).
Þegar við skoðum stöðu Íslendinga í samfélagi þjóðanna núna, hefur tekizt ótrúlega vel til. Varnarmálunum hefur verið skipað, eins vel og kostur er fyrir herlaust land úti í Atlantshafi, hvers lega skapar talsvert hernaðarlegt mikilvægi. Landið gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum án þess að segja fyrst öxulveldunum stríð á hendur, eins og þó var krafa Vesturveldanna. Það var farsæl ákvörðun fyrir framtíðar samskiptin við Þýzkaland, Ítalíu og Japan.
Landið nýtur góðs af aðild að Fríverzlunarsamtökum Evrópu, EFTA, og á aðild að ýmsum fríverzlunarsamningum EFTA og tvíhliða fríverzlunarsamningum, en afdrifaríkastur er EES-samningurinn, sem EFTA gerði við ESB árið 1992 og 3 af 4 ríkjum EFTA hafa innleitt í sína löggjöf. Þessi samningur er ekki venjulegur fríverzlunarsamningur, heldur gerir hann kröfu um innleiðingu löggjafar ESB, sem framkvæmdastjórn Sambandsins telur varða Innri markaðinn, og er þetta skilyrði fyrir aðild að honum.
Þetta er að sjálfsögðu viðkvæmt mál fyrir fullvalda ríki, sem stendur utan samningsins, því að innleiðing löggjafar ESB á sér alls engar lýðræðislegar rætur í EFTA-ríkjunum, og dómsvaldið er líka að nokkru leyti flutt til EFTA-dómstólsins, sem dæmir samkvæmt löggjöf ESB og fylgir dómafordæmum ESB-dómstólsins. Það eykur vandann, að Framkvæmdastjórnin er tekin að færa út kvíarnar, hvað varðar málefni Innri markaðarins, og eru persónuverndarlöggjöfin og orkulöggjöfin (orkupakkarnir) með eigin stofnunum dæmi um þetta. Í EES-samninginum er þó að finna ýmsa varnagla fyrir EFTA-ríkin. Við innleiðingu OP3 var innleiddur í löggjöfina sá varnagli, að Alþingi skyldi þurfa að samþykkja lagningu aflsæstrengs til Íslands, og var það vel. Í raun og veru eiga þessir orkupakkar ESB ekkert erindi við Íslendinga, á meðan landið er ótengt við raforkukerfi ESB-ríkjanna.
Þann 10. júlí 2021 birtist í Morgunblaðinu grein um mikilvægi þess fyrir Íslendinga að vera á varðbergi gagnvart útþynningu lýðræðis og fullveldis í nafni meints "frjálslyndis", sem eru í raun alger öfugmæli sem lýsing á stefnu þeirra, sem telja nú mestu varða fyrir Íslendinga að fela framkvæmdastjórn ESB völd til að ráðskast með málefni Íslands, eins og ráðherraráði og þingi ESB þóknast hverju sinni. Það er með ólíkindum, að nokkur hérlendis skuli vera svo blindur á staðreyndir, sögulega lexíu og lítilla sanda og sæva að vilja fela ríkjasambandi, sem stefnir á að verða sambandsríki Evrópu, forsjá fullveldis landsins rúmlega 100 árum, eftir að það var endurheimt frá Dönum. Sem betur fer nær áróður fyrir þessari fúlu stefnu litlum hljómgrunni á meðal þjóðarinnar, en þó setja a.m.k. 2 stjórnmálaflokkar á Alþingi, Samfylkingin og Viðreisn, þetta mál á oddinn hjá sér, og píratar virðast hallir undir þennan málflutning líka, þótt þeir virðist hafa lítinn áhuga á öðru en skrumi, pólitískum upphlaupum og "nýrri stjórnarskrá", sem mikil dulúð hvílir yfir.
Téð Morgunblaðsgrein er eftir manninn í baráttusæti Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi, Arnar Þór Jónsson- AÞJ, og nefnist:
"Höfum það sem sannara reynist".
Greinin var rituð af því tilefni, að Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og nú innarlega á gafli hjá Viðreisn, fékk birta í Morgunblaðinu 8. júlí 2021 grein, þar sem hann með útúrsnúningi reynir að kenna baráttumál AÞJ við andstöðu við "fjölþjóðastefnu", "Evrópusamstarf" og skort á frjálslyndi, m.ö.o. einangrunarhyggju. Það er til marks um vondan málstað ÞP og Viðreisnar að gera andstæðingum sínum upp skoðanir og deila síðan á þá fyrir þær:
"Í greininni segir Þorsteinn m.a.: "Sjálfstæðismenn í suðvesturkjördæmi ákváðu nýlega að setja í baráttusæti á lista sínum í þessu sterkasta vígi flokksins einn helzta andófsmann EES-samningsins, sem auk þess var aðalhugmyndafræðingurinn í andstöðunni við þriðja orkupakkann. Áður skipaði þetta sæti talsmaður frjálslyndra viðhorfa í flokknum.""
Þetta er skrýtið hnoð hjá ÞP. Hvaða skilning ætli Þorsteinn leggi í þau hugtök, sem þarna er fleygt fram, eins og t.d. "frjálslyndur". Bezt gæti ég trúað, að sá sé "frjálslyndur" í huga ÞP, sem er alveg sama, hvernig íslenzka stjórnarskráin, lýðveldisstjórnarskráin, sem um 96 % atkvæðisbærra manna samþykkti árið 1944, er teygð og toguð og jafnvel hundsuð. Það er mjög afbrigðilegt viðhorf, sem ekkert erindi á við þorra þjóðarinnar.
Orðabókin skilgreinir hins vegan frjálslyndan þannig: "víðsýnn, umburðarlyndur og í stjórnmálum er sá frjálslyndur, sem beitir sér fyrir frjálsum markaði með sem minnstum afskiptum og er yfirleitt fremur umburðarlyndur í siðferðilegum efnum".
Þessi lýsing á ágætlega við um Sjálfstæðisflokkinn frá fornu fari, og höfuðbarátta AÞJ á stjórnmálasviðinu hefur einmitt snúizt um að hefja upphafsgildi Sjálfstæðisflokksins til vegs og virðingar á ný. Mörgum þykir mjög tímabært að beina flokkinum inn á þær brautir í meiri mæli en verið hefur um sinn.
Meira úr hinni ágætu grein AÞJ:
"Sú "ákvörðun" sjálfstæðismanna, sem Þorsteinn vísar þarna til, er lýðræðisleg niðurstaða prófkjörs, þar sem alls 4772 manns greiddu atkvæði, fleiri í þessu kjördæmi einu en í prófkjörum allra annarra íslenzkra stjórnmálaflokka samtals á landsvísu. Flokkur Þorsteins valdi ólýðræðislega á framboðslista sína."
Sú klíkukennda aðferðarfræði við val á framboðslista fyrir Alþingiskosningar haustið 2021 sýnir, að flokkurinn er hallur undir valdboð að ofan og skortir lýðræðislegan þroska. Klíkunni í Viðreisn hefur farizt verkið einstaklega óhönduglega, t.d. gagnvart fyrrverandi formanni, sem sóttist eftir að leiða flokkinn í einu kjördæmanna. Klíkan bauð honum neðsta sætið í Reykjavík. Síðan fékk klíkan pata af því, að búast mætti við klofningsframboði gamla formannsins, og þá bauð nýi formaðurinn þeim gamla 2. sætið í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Þetta ákvað sá gamli að þiggja, en þá dró sá nýi allt til baka og kvað klíkuna ekki unna honum þessa sætis. Nú er náttúrulega hver höndin uppi á móti annarri í þessu klíkuviðrini, sem Viðreisn nefnist. Eitt er víst, að einkunnin "frjálslyndur" fer viðrininu afar illa.
"Eftir útgöngu Breta hefur þessi straumur [í átt að "æ nánari samruna ESB-ríkjanna"-innsk. BJo] orðið merkjanlega þyngri, sbr. frétt Reuters 8. júní sl. um þau ummæli utanríkisráðherra Þýzkalands, að afnema ætti neitunarvald aðildarríkja ESB í utanríkismálum. Smáríkjum á þannig ekki lengur að leyfast að standa í vegi fyrir meirihlutavaldi innan ESB. Á sama tíma berast fregnir af sambærilegri einstefnuþróun í innanríkismálum aðildarríkjanna, því [að] framkvæmdastjórn ESB hefur tilkynnt, að hún hyggist stefna 7 ríkjum fyrir dómstól ESB vegna brota á Evrópureglum, m.a. Þýzkalandi fyrir að heimila þýzka stjórnarskrárdómstólnum að segja, að skattfé Þjóðverja skuli varið í samræmi við þýzku stjórnarskrána, en ekki samkvæmt Evrópurétti. Þeir, sem harðast vilja halda sig við ESB-draumsýnina [og á Íslandi eru ýmsir kaþólskari en páfinn-innsk. BJo], munu svara þessu með því að segja, að allar þessar málshöfðanir og valdbeiting þjóni göfugum tilgangi. [Í Þriðja ríkinu var svipað haft á orði: "Der Erfolg berechtigt das Mittel"-innsk. BJo.] Fram hjá því verður þó ekki horft, að slíkir einstefnutilburðir Brusselveldisins misvirða ítrekað lýðræðislegan vilja aðildarþjóðanna. Í framkvæmd víkur lýðræðið þar fyrir skrifræðinu og lýðveldin fyrir skrifstofuveldinu.
Íslendingar þurfa ekki að rýna í neina krystalskúlu til að sjá, hver staða smáríkja í slíku fyrirkomulagi kemur til með að vera. Stærstu ríkin, sem leggja fram mest fjármagn, verða ráðandi í öllum meginatriðum."
Þróun stjórnfyrirkomulags ráðherraráðsins er í átt til atkvæðagreiðslna með veginni þyngd hvers ráðherra samkvæmt hlutfallslegum mannfjölda í ríki hans og til afnáms neitunarvalds einstakra ráðherra. Ríki verða því ofurliði borin í atkvæðagreiðslu, og atkvæði okkar ráðherra mundi vigta um 1/1000. Við mundum týnast í mergðinni, og sjálfstæði Íslands mundi heyra fortíðinni til. Hvers konar framtíðarsýn er það ?
Í landsöluáróðrinum hefur verið reynt að draga fjöður yfir þessa náköldu baksviðsmynd ESB-trúboðsins með hagfræðilegum vangaveltum um, að Íslendingum mundi vegna betur með EUR en ISK. Það hefur þó aldrei verið sýnt fram á það, að hagvöxtur og stöðugleiki verðlags muni vaxa í litlu hagkerfi með því að taka upp mynt stórs hagkerfis, sem sveiflast með allt öðrum hætti en litla hagkerfið. Þeim, sem eru í vafa um hagfræðileg rök fyrir því að kjósa ISK fram yfir EUR, er bent á að lesa grein eftir Adam Glapinski, prófessor í hagfræði og forseta ríkisbanka Póllands, í Morgunblaðinu, 13.07. 2021.
"Skrif Þorsteins bera vott um skeytingarleysi gagnvart fullveldi Íslands, því [að] hagsmunir Íslands samræmast illa þeim veruleika að vera jaðarsett og áhrifalaust smáríki gagnvart æðsta valdi innan ESB. Hugsjónir um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og alþjóðlega samvinnu eru ekki í takti við þá vaxandi einstefnu, sem nú blasir við á vettvangi ESB. Fullveldi felur í sér, að íslenzk lög séu sett af lýðræðislega kjörnu Alþingi og að æðsta túlkunarvald um þau lög sé hjá íslenzkum dómstólum. Vilji menn ofurselja íslenzka kjósendur öðru fyrirkomulagi, er sjálfsagt, að viðkomandi láti á það reyna í lýðræðislegum kosningum."
Íslenzka stjórnarskráin takmarkar alþjóðasamvinnu nánast við þjóðréttarlegar skuldbindingar á borð við aðild að Sameinuðu þjóðunum, NATO og Hafréttarsáttmálanum, en þegar kemur að samstarfi, sem felur í sér að lúta yfirþjóðlegu valdi með innflutningi á erlendri löggjöf, sem hefur vel merkjanleg áhrif á daglegt líf íslenzkra ríkisborgara, þá vandast málið augljóslega, ekki aðeins gagnvart íslenzku stjórnarskránni, heldur einnig í Noregi gagnvart hinni norsku.
Á vettvangi EFTA/ESB við gerð EES-samningsins var brugðizt við þessum vanda með því að búa til lögfræðileg lausn, hálfgerða hrákasmíði, enda ætlað standa til bráðabirgða fram að inngöngu í ESB, sem kallast tveggja stoða fyrirkomulagið, þar sem stofnanir EFTA-ríkjanna eiga að spegla ESB stofnanir. Þar speglar ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) Framvæmdastjórnina og EFTA-dómstóllinn ESB-dómstólinn. Evrópusambandið virðist verða æ þreyttara á þessari sérsniðnu lausn, og samhliða fjölgun stofnana þess hefur það krafizt sömu valda þeirra yfir viðkomandi málefnasviðum í EFTA-ríkjunum og á við í ESB-ríkjunum. Dæmi um þessar stofnanir eru Persónuverndarstofnun ESB, Fjármálaeftirlitsstofnun og Orkustofnun ESB (ACER). EFTA-ríkin hafa þó ekki atkvæðisrétt í þessum stofnunum, aðeins áheyrnar- og tillögurétt.
Þessi þróun í átt til aukinnar miðstjórnar í ESB veldur því, að EFTA-þjóðirnar verða að gæta betur að fullveldi sínu en áður var þörf á innan EES og knýja á um undanþágur í meiri mæli. Regluverkið á Íslandi er líka orðið svo íþyngjandi fyrir fyrirtæki og almenning, að það stendur framleiðniaukningu fyrir þrifum og þarfnast stórfelldrar grisjunar, eins og OECD hefur nýlega bent á. Embættismenn hafa af tillitsleysi við hagsmuni almennings plantað frumskógi reglugerða, sem erfitt og kostnaðarsamt er að rata í, sérstaklega fyrir lítil fyrirtæki, og þannig eru flest fyrirtæki á Íslandi.
"Í því samhengi mun mér gefast tækifæri til að draga fram veikleika og misskilning, ef ekki afbökun, í málflutningi Þorsteins og annarra, sem horfið hafa frá sjálfstæðisstefnunni og telja nú "augljóst", að fríverzlun útheimti fullveldisframsal til yfirþjóðlegs embættismannavalds og stofnanaveldis í fjarlægum borgum. Þennan draug hafa Bretar kveðið niður eftir útgöngu sína úr ESB með tvíhliða samningum við önnur ríki [og við ESB-innsk. BJo]. Lausnin felst einfaldlega í gagnkvæmri viðurkenningu framleiðslustaðla, auk synjunar- og neitunarvalds, þar sem það á við.
Hvað sem firrum Þorsteins Pálssonar kann að líða, er Íslandi þessi leið fær sem fullvalda ríki án þess að ofurselja sig erlendu lagasetningar- og túlkunarvaldi. Þetta er hrein skynsemi og stendur nær klassísku frjálslyndi í framkvæmd en ákall Þorsteins Pálssonar um blint íhald, undirlægjuhátt, miðstýringu og órjúfanlega tryggð við ESB, allt á kostnað sjálfsákvörðunarréttar og lýðræðis. Ég treysti kjósendum til að hafna gervistjórnmálum, sýndarlýðræði og gervifrjálslyndi af þeim toga, sem Þorsteinn Pálsson boðar nú."
Það neistar undan hófförum ritfáks AÞJ, þar sem hann ríður á hólm við ÞP. Það er kominn tími til að hrekja af snerpu villukenningar falsspámanna um utanríkismál Íslendinga. Hvað gengur þeim til ? Í Fréttablaðinu 15.07.2021 heldur ÞP sig við firrur sínar og líkir jafnvel aðild Íslands að NATO við þá aðild að ESB, sem hann berst fyrir. Barnalegri málflutning er vart hægt að hugsa sér, og getur hann vart orðið Viðreisnarhrófinu til vegsauka, því að hann sýnir málatilbúnað án tengsla við raunveruleikann, eins og tíðkast innan raða sértrúarsafnaða.
Með NATO-aðild höfum við undirgengizt, að árás á einn er árás á alla, en er hægt að hugsa sér meiri öryggistryggingu fyrir herlaust land en slíkan samning við öflug vestræn herveldi ? NATO semur ekki lög, sem hægt er að þröngva upp á Ísland, enda hafa aðildarlöndin neitunarvald um samþykktir varnarbandalagsins. NATO rekur heldur ekki dómstól, sem er fordæmisgefandi um uppkvaðningu dóma, er varða Ísland. Þessi samanburður er algerlega út í hött og sýnir, að málstaður Viðreisnar er vondur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2021 | 18:01
Sér undir iljar sósíalista
Heilbrigðisráðherra hefur verið rekin á flótta frá stefnu sinni um ríkisvæðingu skimana og rannsókna á sýnum teknum úr konum við leit að krabbameini. Rannsóknir þessar voru áður stundaðar hjá Krbbameinsfélaginu, en Landsspítalinn var alls ekki í stakkinn búinn að taka við þessum rannsóknum, svo að sýnin voru send utan til Danmerkur. Þjónusta Dananna var ófullnægjandi og hætta talin á ruglingi, enda virtust sýni jafnvel týnast.
Gösslaragangur ráðherrans við þessa valdsmannslegu yfirtöku á viðkvæmri þjónustu er yfirgengilegur, og má hiklaust segja, að nú sé mælirinn fullur varðandi mistök þessa ráðherra. Það voru skjólstæðingarnir, konurnar, sem í hlut áttu, sem með einurð sinni og samstöðu hröktu ráðherrann á flótta frá fyrri ákvörðun um ríkisvæðinguna, svo að nú mun Krabbameinsfélagið fá þessi verkefni á ný, ef rétt er skilið.
Þegar ráðherrann tílkynnti uppgjöf sína í þessu máli, fór hún illa að ráði sínu, því að hún axlaði ábyrgðina ekki sjálf, heldur kenndi Kófinu (C-19) um og miklum önnum Heilsugæzlu höfuðborgarsvæðisins þess vegna. Þetta var lítilmannlegur og lúalegur gerningur af hálfu ráðherrans, því að Heilsugæzla höfuðborgarsvæðisins með Óskar Reykdalsson í broddi fylkingar lék ekki aðalhlutverkið í þessum sorgarleik, heldur ráðuneytið. Þessi uppákoma segir meira en mörg orð um trúverðugleika og persónuleika þessa sósíalista á ráðherrastóli.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sami ráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur reynt að svelta stofulækna til uppgjafar. Það er þyngra en tárum taki, að ríkisvaldið skuli grafa undan einni af þremur meginstoðum heilbrigðiskerfisins. Aðförin er ekki bara brot gegn atvinnuréttindum stofulæknanna, heldur hlýtur minni þjónusta þeirra að leiða til verra heilsufars skjólstæðinganna og aukins álags á heilsugæzluna og sjúkrahúsin, sem ekki máttu við meira álagi, sízt í Kófinu.
Þórarinn Guðnason, hjartalæknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur, ritaði m.a. um þetta í Morgunblaðið 1. júlí 2021 undir fyrirsögninni:
"Vandinn sem aldrei var til".
Greinin hófst þannig:
"Því hefur ranglega verið haldið fram af yfirvöldum, að starfsemi stofulækna aukist í sífellu og á hana verði að koma böndum. Stjórnvöld hafa gengið hart fram í því að sauma að þjónustunni með neikvæðni og röngum upplýsingum og hafa ekki hlustað á álit og ráðgjöf lækna. Ferlið við gerð Heilbrigðisstefnu til 2030 og ráðgjöf kvensjúkdómalækna og rannsóknarlækna varðandi leghálsskimanir eru 2 skýr dæmi. Fleiri aðferðum hefur verið beitt, eins og stöðvun á nýliðun stofulækna með ólögmætum hætti árin 2015-2018. Sú aðgerð var svo úrskurðuð ólögmæt í héraðsdómi og henni hnekkt. Einnig hafa stjórnvöld lagt stein í götu starfseminnar með langvarandi samningsleysi, en síðast var samið við stofulækna árið 2013, og enginn samningur hefur verið í gildi frá því í lok árs 2018."
Það er með hreinum ólíkindum, að ríkisvaldið (heilbrigðisráðuneytið) skuli koma fram af slíkri óbilgirni gegn stofulæknum, að halda mætti, að þeir væru afætur, sem þyrfti að fjarlægja. Þessu verður að linna, og það verður að hleypa heilbrigðri skynsemi að. Það verður að setja í opinbera heilbrigðisstefnu, að heilbrigðisgeirinn skuli samanstanda af 3 stoðum, ríkisspítölum, þar af einu háskólasjúkrahúsi, heilsugæzlustöðvum, sem geti verið með frjálst rekstrarform, og einkareknum læknamiðstöðvum/stofum, þótt ríkissjóður fjármagni alla starfsemina og Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) greiði fyrir þjónustu og hafi eftirlit með tveimur síðast nefndu. Hið opinbera skuli jafnframt beina verkefnum í þann farveg, þar sem kostnaður er lægstur að uppfylltum öllum gæðakröfum.
Þetta þýðir, að sjúkrahúsin verða að hafa kostnaðarbókhald, sem gerir SÍ kleift að bera saman kostnað við sérfræðieiningar stofulækna. Tækniþróunin er í þá átt, að tæknilega er hægt að aflétta sífellt fleiri aðgerðum af t.d. háskólasjúkrahúsinu en áður, og það ber hiklaust að gera, ef það er hagstætt fyrir skattborgarana. Þetta ber að njörva niður í nýrri heilbrigðisstefnu. Það er mjög líklegt, að þannig mætti með hagkvæmum hætti útvista aðgerðum af spítölum sem nemur a.m.k. 20 % fjölgun sérfræðieininga árið 2020 eða 4,3 M sérfræðieininga. Með því að ríkisvaldið semji við stofulækna og nýti sér þjónustu þeirra, eins og eðlilegt má telja, gæti sá kostnaður ríkissjóðs hækkað um 50 % með ofangreindri fjölgun sérfræðieininga um 20 %, en hafa verður í huga, að hann yrði samt undir 6 % af heildarútgjöldum ríkissjóðs til heilbrigðismála. Það er líklegt, að finna megi út hagkvæmustu verkaskiptinguna út frá hagsmunum ríkissjóðs og að hún muni jafngilda hlutdeild stofulækna, sem er hærri en 6 %, e.t.v. 6-10 % af heildarkostnaði við heilbrigðiskerfið.
"Nú hefur enginn samningur verið við sérfræðilækna í 2,5 ár, og starfsemin hefur minnkað samfellt frá árinu 2016. Slæmar afleiðingar þessarar stefnu stjórnvalda eru nú að koma fram. Versnandi aðgengi, lenging á biðlistum og aukið álag á aðra þætti kerfisins. Þetta ásamt óvissu um framtíð starfseminnar er meðal ástæðna þess, að gamalgrónar læknastöðvar [t.d. Domus Medica - innsk. BJo] eru að loka. Meðalaldur sérfræðilækna á stofu hækkar sífellt (nálgast 60 ár), og nýliðun lækna og nýjungar í læknisþjónustu verða of hægfara."
Ósjaldan heyrast stjórnmálamenn skjalla þekkingariðnaðinn og telja hann til vaxtarbrodda atvinnulífsins. Í reynd eru þessir sömu stjórnmálamenn dragbítar á þróun læknisfræðinnar á Íslandi, því að einkageirinn knýr oft þá þróun. Nýliðun stéttarinnar hefur verið heft, og íslenzkir sérfræðingar í útlöndum sjá ekki mikla starfsmöguleika, þar sem Landsspítalann vantar nýtt húsnæði með nútímalegri starfsaðstöðu og einkageiranum er haldið í spennitreyju, sem stöðugt er hert á með ruddalegum hætti af forstokkuðum sósíalista, sem vill þessa starfsemi feiga.
"En hvað skyldi þessi niðurskurður skýra mikið af vaxandi álagi, sem nú er á aðra pósta heilbrigðiskerfisins ? Álagi, sem sumir þeirra eru að kikna undan, bráðadeild LSP og geðþjónustan. Áhugavert væri að meta hugsanlegt tjón, sem sjúklingar verða fyrir vegna þessa og eins áhrifin á starfsumhverfið. Hvort tveggja gæti verið verulegt."
Það eru tengsl á milli allra þessara þátta heilbrigðisgeirans og læknastofustarfseminnar. Ef dregið er úr síðast nefndu starfseminni, eins og raunin hefur verið undanfarin ár með sérstakri tilstuðlan heilbrigðisráðuneytisins, eykst álagið á hina þættina. Heilbrigðisráðherra hefur magnað það ófremdarástand, sem nú hrjáir heilbrigðisgeirann. Í lýðræðisþjóðfélagi ætti auðvitað að setja slíkan ráðherra af hið bráðasta, en forsætisráðherra heldur yfir henni hlífðarskildi. Þennan hlífðarskjöld verða kjósendur að rífa burt í kosningunum í haust, ef þeir eiga að eygja von um bætta tíð í þessum efnum, með því að hætta stuðningi við Vinstri hreyfinguna grænt framboð og reyndar aðra vinstri flokka, en færa stuðning sinn yfir á þá flokka, sem lofa stuðningi við sterkt og fjölbreytilegt heilbrigðiskerfi.
Nýjasta hneykslið í ranni heilbrigðisráðherra er kaldranaleg hundsun hennar á ákalli ljósmæðra við Fæðingardeild Landsspítalans, en þar og á öðrum fæðingardeildum ríkisins hefur nú skapazt neyðarástand vegna fjölgunar fæðinga í landinu og fækkunar ljósmæðra. Það er hræðilegt fyrir landsmenn að búa við stjórn, sem engan veginn er vandanum vaxin á viðkvæmu sviði.
Að lokum skrifaði Þórarinn Guðnason:
"Þessari óheillaþróun þarf að snúa við, taka upp nýjungar og liðka fyrir nýliðun. Starfsöryggi og rekstrarumhverfi stofulækna þarf að bæta. Augljóslega þarf að semja við lækna og bæta við verulegum fjármunum í þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar, rétt eins og fjármunir hafa verið auknir til heilsugæzlu og sjúkrahúsa.
Þetta þarf að gera áður en fleiri læknastöðvar loka og áður en fleiri læknar gefast upp á stofurekstri og snúa sér að öðrum verkefnum.
Það má einfaldlega ekki lengur láta reka á reiðanum með sérfræðilæknisþjónustuna utan spítala. Hún hefur setið eftir, og nú er hætt við, að sjúklingarnir verði skildir eftir með sárt ennið vegna heimatilbúins vanda, sem í raun var aldrei til."
Hernaðinum gegn heilbrigðiskerfinu verður að linna. Heilbrigðisráðherra hefur málað skrattann á vegginn af fullkomnu ábyrgðarleysi og hreinræktuðum fordómum í garð starfsemi stofulæknanna. Að þessu leytinu má líkja henni við riddarann sjónumhrygga, don Kíkóta, sem barðist við vindmyllur. Ráðherrann kann ekki að skammast sín. Það er eiginlega þyngra en tárum taki, og ætti aldrei að þurfa að gerast hér, að formaður Læknafélags Reykjavíkur sjái sig knúinn til að skrifa svona grein, en hafi hann þökk fyrir að útskýra stöðuna fyrir almenningi.
Ábyrgir Alþingismenn (þar eru því miður flautaþyrlar líka) hljóta að fylgjast með þeirri grafalvarlegu stöðu, sem heilbrigðisráðuneytið hefur skapað í heilbrigðismálum. Einn þeirra, Óli Björn Kárason, skrifaði grein í Morgunblaðið 14. apríl 2021, undir fyrirsögninni:
"Byggt undir tvöfalt heilbrigðiskerfi".
Þar stóð m.a.:
"Sárast er að horfa upp á, hvernig skipulega er verið að leggja grunn að tvöföldu heilbrigðiskerfi með einkareknum sjúkratryggingum. Almenningur verður að sætta sig við þjónustu innan ríkisrekins tryggingakerfis á sama tíma og efnafólk fær skjóta og góða þjónustu sjálfstætt starfandi lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna. Fyrirheitið um, að allir eigi jafnan og greiðan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag verður án innihalds. Ég óttast, að þá bresti ýmislegt annað í íslenzkri þjóðarsál.
Tregða heilbrigðisyfirvalda til að nýta kosti einkaframtaksins í heilbrigðisþjónustu og vinna að samþættingu og samvinnu opinbers rekstrar og sjálfstætt starfandi aðila er óskiljanleg. Dregið er úr valmöguleikum fólks, unnið gegn hagkvæmri nýtingu fjármuna og álag á opinber sjúkrahús aukið."
Þessi texti þingmannsins gefur vonir um, að Sjálfstæðisflokkurinn standi ekki aftur að ríkisstjórn, þar sem forstokkaður sósíalisti fær að leika lausum hala og rústa heilbrigðiskerfinu í nafni sósíalistískrar hugmyndafræði lítils þingflokks. Næst verður að njörva niður endurreisn heilbrigðiskerfisins með aukinni þátttöku þriðju stoðarinnar, einkarekinna læknastofa og læknamiðstöðva, ef þær verða hagkvæmasti kosturinn fyrir sjúklingana og skattborgarana.
Óli Björn hélt áfram:
"Hægt og bítandi er verið að hneppa heilbrigðisþjónustuna í fjötra fábreytileika og aukinna útgjalda. Við munum eiga stöðugt erfiðara með að fylgja öðrum þjóðum eftir á sviði heilbrigðisvísinda. Samkeppnishæfni okkar við að laða til landsins vel menntað og hæfileikaríkt heilbrigðisstarfsfólk, eftir langt sérnám, verður verri."
Það er ljóst af þessu, að ÓBK gerir sér grein fyrir stöðunni í bráð og lengd, sem upp er komin í íslenzka heilbrigðiskerfinu og er bein ógn við öryggi sjúklinga og hagsmuni skattborgaranna. Hann mun áreiðanlega tala fyrir öflugri viðspyrnu í þingflokki sjálfstæðismanna, enda er hún í anda grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins.
Að lokum skrifaði ÓBK:
"Þegar yfirvöld skilja ekki, að læknavísindin eru þekkingariðnaður, sem nærist á fjölbreytileika, ekki sízt í rekstrarformi, er sú hætta raunveruleg, að í stað framþróunar verði stöðnun. Ríkisvæðing elur ekki af sér nýsköpun, tryggir ekki lífsnauðsynlega nýliðun, gengur gegn atvinnufrelsi heilbrigðisstarfsmanna, og kannski það, sem er verst: dregur úr þjónustu og öryggi við sjúklinga.
Er þetta sú framtíðarsýn, sem ætlunin er að kynna landsmönnum fyrir komandi alþingiskosningar ?"
Óli Björn Kárason hefur greinilega gert sér grein fyrir, hvert ráðherrann stefnir með heilbrigðiskerfið núna, og til hvers það mun leiða fyrir þjónustuna og þann, sem borgar, skattgreiðendur. Þá er góð von til þess, að aðrir þingmenn flokksins og jafnvel aðrir frambjóðendur flokksins muni vekja rækilega máls á núverandi óheillabraut ráðherrans og benda á aðra leið, leið fjölbreytni, betri þjónustu og atvinnufrelsis. Sósíalistar mega ekki komast upp með að smygla stefnu sinni bakdyramegin inn á þjóðina. Ef almenningur vill ríkisvæðingu heilbrigðisgeirans og ganga af stofustarfseminni dauðri með lengingu biðlista og lakari nýtingu fjármagns en með einkarekstri, sem nýtt getur tækniþróunina til að aflesta spítalana, þá kýs hann sósíalistana. Að öðrum kosti kýs almenningur hina, sem eru opnir fyrir möguleikum einkarekstrar til bættrar þjónustu við sjúklinga og sparnaðar fyrir ríkissjóð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2021 | 21:24
Hugmyndafræðilegt skipbrot
Heilbrigðisráðherra hefur rekið skefjalausa ríkisvæðingarstefnu á sviði heilbrigðismála með þeim afleiðingum m.a., að líkja má Landsspítalanum við strandað risaskip (á íslenzkan mælikvarða) og einkareknu læknastofurnar eru í uppnámi. Skjólstæðingar kerfisins í nútíð og framtíð eru meginfórnarlömb þessa stríðsrekstrar ráðherrans í nafni löngu afdankaðrar hugmyndafræði marxismans, en allt starfsfólk Landsspítalans og læknastofanna líður önn fyrir ástandið, eins og nýleg yfirlýsing 985 lækna bar með sér. Það tekur langan tíma að bæta skaðann og koma á góðu jafnvægi, en ágæt byrjun væri að semja við sérfræðilækna og létta á Landsspítalanum með útvistun þaðan til aðila innanlands.
Óli Björn Kárason, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi, hefur ritað mikið um heilbrigðismál og sýnt fram á, að miðstýring og ríkisvæðing að hætti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er fjarri því að vera sjálfsögð eða eðlileg leið til þess að veita sjúklingum hérlendis góða þjónustu. Hann óttast, að núverandi stefnumörkun heilbrigðisráðuneytisins muni kalla fram tvöfalt heilbrigðiskerfi, sem ber að varast til að magna ekki stéttaskiptinguna í landinu. Hann ritaði í Morgunblaðið 3. marz 2021 undir fyrirsögninni:
"Gegn tvöföldu kerfi".
Greinin hófst þannig:
"Hugmyndafræðin að baki lögum um sjúkratryggingar er skýr, "að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag", eins og segir í 1. grein laganna. Markmiðið er "að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustu og hámarksgæðum hennar" og um leið "að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna".
Það var mikilvægt hjá ÓBK að rifja upp þessi grundvallaratriði sjúkratryggingalaganna. Með aðför heilbrigðisráðherra að starfsemi sérfræðilækna á sjálfstæðum læknastofum og í læknamiðstöðvum virðist hún hafa brotið þessi lög, því að hún neitar sanngirniskröfu þessara lækna um hækkun gjaldskrár þeirra til samræmis við hækkun launavísitölu (launakostnaður vegur þyngst í rekstri læknastofa) og neyzluverðsvísitölu. Þar með keyrir hún stofurnar í fjárhagslegt þrot, nema læknarnir taki aukaþóknun af sjúklingum, sem Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa ekki heimild heilbrigðisráðuneytisins til að endurgreiða. Þar með brýtur ráðherra lagaákvæði um "jafnan aðgang" og einnig um "hámarksgæði" þjónustunnar. Um þetta skrifaði Þórarinn Guðnason, hjartalæknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur, í Morgunblaðið 20. maí 2021 undir yfirskriftinni:
"Þúsund orð um einingarverð".
Hún hófst þannig:
"Í langvarandi samningsleysi undanfarinna ára hafa sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar oft upplifað villandi málflutning frá stjórnvöldum. Nýlega var því t.d. haldið fram, að einingarverð sérfræðilækna hafi verið verðbætt að fullu eftir að samningur lækna rann út og reglugerð ráðherra tók við; reglugerð, sem ákvarðar einingarverð einhliða. Sannleikurinn er allt annar, eins og verður rakið hér. Á 13 árum, frá 1. apríl 2008 til 1. apríl 2021 hefur einingarverð hækkað um 65 %, en launavísitalan um heil 134 %. Einingarverðið ákvarðar upphæð greiðslu fyrir ákveðin læknisverk, og er greiðslan notuð til að greiða allan kostnað við rekstur læknastofanna, þ.á.m. laun starfsfólks. Engar aðrar greiðslur koma til."
Það er ríkisvaldinu ósamboðið að reyna með þessum hætti að knésetja starfsemi sjálfstætt starfandi lækna í læknamiðstöðvum og læknastofum, en aðferð heilbrigðisráðherra er að kippa rekstrargrundvellinum undan þeim. Þessi afstaða ráðherrans er óskiljanleg í ljósi þess, að við neyðarástandi liggur á Landsspítalanum og hann annar engan veginn þeim verkefnum, sem hann á að sinna (biðlistar). Það er engum vafa undirorpið, að það er þjóðhagslega hagkvæmt að stórefla starfsemi þessara læknastofa á þeim sviðum, þar sem gæðin eru fullnægjandi, því að einingarkostnaðurinn er lægri þar en t.d. á Landsspítalanum. Nýir valdhafar í heilbrigðisráðuneyti verða að snúa ofan af vitleysunni (sósíalismanum) og auka á næsta kjörtímabili hlutdeild þessarar starfsemi einkageirans í yfir 5,0 % af heildar útgjöldum til heilbrigðismála.
Áfram með Þórarin Guðnason:
"Til að geta haldið rekstri læknastofa áfram, hafa læknar neyðzt til að hækka gjaldskrá sína með því að innheimta s.k. aukagjöld eða komugjöld af sjúklingum - og skyldi engan undra, sem horfir á meðfylgjandi mynd. [Hún sýnir, að hækkun einingarverðs læknastofanna er aðeins um 70 % af hækkun launavísitölu. Þannig rekur heilbrigðisráðherrann sitt stríð gegn einkaframtakinu. Þetta er óásættanleg aðför með öllu og verður að leiðrétta hið fyrsta. Um þetta hneyksli þarf að ræða í kosningabaráttunni í sumar/haust - innsk. BJo.] Þessi aukagjöld eru bein afleiðing þeirrar gliðnunar, sem þar sést. Gjöldin eru í raun aðeins leiðrétting á gamalli úr sér genginni gjaldskrá, sem ekki hefur verið samið um í 8 ár, og yfirvöld hafa síðan valið að láta ekki fylgja verðlagi."
Þegar svona er í pottinn búið, þarf engan að undra, að nýliðun á læknastofunum er ekki sem skyldi, og er meðalaldur þessara lækna að nálgast 60 ár. Það er grafalvarlegt, ef aðstæður á Íslandi eru svo ókræsilegar fyrir tilstilli stjórnvalda, að vel menntaðir og þjálfaðir sérfræðingar veigra sér við að snúa heim til fósturjarðarinnar til að starfa þar. Framkoma stjórnvalda er til að skammast sín fyrir.
"Án gjaldskrárhækkana í formi aukagjalda hefði sennilega verið búið að loka einhverjum læknastöðvum nú þegar. Gjöldin hafa einfaldlega gert læknum kleift að halda rekstri áfram. Lokun læknastöðva hefði verið slæmur kostur, sett sjúklinga, starfsfólk og heilbrigðiskerfið í vanda og hefði getað valdið ófyrirséðum skaða. Skerðing á þjónustu, lengri bið, óvissa og óöryggi meðal sjúklinga eru allt þekktar afleiðingar þess, sem gerist, ef breytingar á heilbrigðisþjónustu eru illa undirbúnar."
Aðför heilbrigðisráðherra að einkarekinni heilbrigðisþjónustu misheppnaðist vegna þessara aukagjalda, sem skjólstæðingarnir tóku á sig. Með þeirri vitneskju, sem við nú höfum um bágborna getu Landsspítalans til að sinna öllum sínum verkefnum (nýleg yfirlýsing 985 lækna) má fullyrða, að heilbrigðiskerfið hefði lagzt á hliðina, ef sósíalistanum á stóli heilbrigðisráðherra hefði heppnazt hugsjónastarf sitt að leggja téðan einkarekstur í rúst. Þá hefði ekki jaðrað við neyðarástand í heilbrigðiskerfinu, heldur hefði það skollið á. Vinstri hreyfingin grænt framboð er ábyrg fyrir þessari ráðsmennsku og verðskuldar makleg málagjöld í komandi Alþingiskosningum.
Nú skal halda áfram að vitna í grein Óla Björns:
"Eftir því sem þjóðin eldist, munum við þurfa að auka útgjöld til heilbrigðismála. Ekki sízt þess vegna er mikilvægt, að fjármunir séu nýttir með skynsamlegum hætti, og þar skiptir skipulagið mestu. Ég hef áður haldið því fram, að innan kerfisins sé inngróin tregða til að nýta kosti einkaframtaksins, auka valmöguleika almenning og stuðla að hagkvæmri nýtingu fjármuna. Vegna þessa hefur aldrei tekizt fyllilega að virkja lögin um sjúkratryggingar - ná markmiðum þeirra um öfluga þjónustu við sjúkratryggða, ná rekstrarhagkvæmni og styrkja ríkið sem kaupanda að heilbrigðisþjónustu fyrir hönd landsmanna. Þessi innbyggða tregða hefur aukizt á síðustu árum. Afleiðingin er veikari og verri þjónusta.
Að óbreyttri stefnu festist íslenzk heilbrigðisþjónusta í sjálfheldu fábreytileika, aukinna útgjalda, verri þjónustu, biðlista og lakari starfsmöguleika heilbrigðisstétta. Með því að vinna gegn samþættingu og samvinnu opinbers rekstrar og einkarekstrar með áherzlu á ríkisrekstrarvæðingu heilbrigðisþjónustunnar verður til jarðvegur fyrir tvöfalt heilbrigðiskerfi og einkareknar sjúkratryggingar."
Þarna tíundar þingmaðurinn ÓBK, hvers vegna ríkisvaldið á þegar í stað að leggja af þjóðnýtingarstefnu sína á heilbrigðisgeiranum, sem ekkert er minnzt á í stjórnarsáttmálanum, en beina þess í stað auknu fé til hins einkarekna hluta heilbrigðisgeirans með útvistun verkefna. Þesssi rök hafa hvergi verið hrakin, en hverjar eru þá röksemdir sósíalista fyrir núverandi feigðarflani heilbrigðisráðuneytisins ?
Þau eru lágkúrulegar dylgjur um, að læknastofurnar misfari með traust, stundi ofgreiningar og oflækningar og rukki þannig SÍ og sjúklinga um of háar fjárhæðir. Þetta er ómerkilegur og einfeldningslegur áróður sósíalista fyrir ömurlegum málstað sínum. Læknastofurnar eru undir eftirliti Landlæknisembættisins og SÍ, sem er farin að gera stikkprufur og sannreyna innsenda reikninga. Enginn sómakær læknir hættir á að fórna starfsheiðri sínum í okkar litla samfélagi með því að stunda óheiðarleg vinnubrögð af þessu tagi.
Ráðherrann hefur jafnvel talað um sjálftöku lækna án þess að færa rök fyrir máli sínu og er þar með farin að dreifa gróusögum um upp til hópa heiðvirða stétt manna og kvenna. Málflutningur hennar er með öllu óboðlegur, og vitleysan er kórónuð, þegar hún jarmar um það, að ósiðlegt sé að græða á sjúklingum. Téður gróði, þar sem hann er fyrir hendi, er, eins og í öðrum atvinnurekstri, ekkert annað en vextir af fjármunum, sem lagðir hafa verið í fyrirtækið, og það er hár stofnkostnaður og miklir bundnir fjármunir í læknastofum og læknamiðstöðvum. Þess vegna eru þessi gróðabrigslyrði fyrir neðan allar hellur og varpa ljósi á ruddalegt framferði ráðherrans gegn læknastéttinni, framferði, sem verður sjúklingum sízt til framdráttar. Það þarf heldur ekki að fara í grafgötur með það, að einokunartilhneiging heilbrigðisráðherra á þjónustu við sjúklinga vinnur gegn hagsmunum skattgreiðenda. Af öllum þessum ástæðum hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að leggja þessi mál á stjórnarmyndunarborðið til að fá stefnubreytingu inn í næsta stjórnarsáttmála. Hversu hart hann getur fylgt því eftir, ræðst þó af gengi hans og VG í komandi Alþingiskosningum.
"Óskilgetið afkvæmi ríkisvæðingar stærsta hluta heilbrigðisþjónustunnar er tvöfalt kerfi. Í nafni jöfnuðar vilja andstæðingar einkarekstrar fremur lengja biðlista en nýta kosti einkaframtaksins. Afleiðingin er hins vegar aukið misrétti. Hinir efnameiri kaupa einfaldlega þjónustu beint hér á landi eða í öðrum löndum. Við hin, sem öll erum þó sjúkratryggð, þurfum að sætta okkur við að bíða mánuðum og misserum saman eftir nauðsynlegri þjónustu og höfum lítið sem ekkert val um hana."
Það er alveg dæmigert fyrir sósíalismann, að hann leiðir til skorts m.v. eftirspurn og síðan ójafnréttis og óréttlætis, eins og ÓBK lýsir slóðanum eftir heilbrigðisráðherrann. Þjóðin er auðvitað ekki ýkja hrifin af þessum ósköpum, enda á hún mikið undir. Í nýlegri skoðanakönnun kom í ljós, það sem engan undrar, að meirihlutinn vill blandað kerfi, þar sem er samkeppni og aukið valfrelsi. Yfirborðssvamlarar og falsfréttadreifarar hafa túlkað niðurstöðuna einokunarsinnum í hag, en það átti einvörðungu við sjúkrahúsrekstur. Hákólasjúkrahús og héraðssjúkrahús verða fyrirsjáanlega ríkisrekin um langa framtíð.
Að lokum skrifaði ÓBK:
"Ólíkt ríkisrekstrarsinnum hef ég verið sannfærður um, að verkefni stjórnmálamanna sé ekki að leggja steina í götur einkaframtaksins, heldur að virkja það öllum til hagsbóta. Valfrelsi um heilbrigðisþjónustu óháð efnahag á að vera markmiðið, og með því eykst aðhaldið og stuðlað er að hagkvæmari nýtingu fjármuna. Um leið viðurkennum við sem samfélag hið augljósa; læknisfræðin og heilbrigðisvísindin öll eru þekkingariðnaður og reist á hæfileikaríku og vel menntuðu starfsfólki. Þannig vinnum við gegn því, að tvöfalt heilbrigðiskerfi verði til með tilheyrandi ójöfnuði."
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2021 | 18:46
Heilbrigðiskerfi í andþröng
Það má flestum vera alveg ljóst, að heilbrigðiskerfið á Íslandi á við verulega erfiðleika að etja, svo að ekki sé nú dýpra í árinni tekið. Ekki þarf að vera tíður viðskiptavinur þessa risakerfis til að gera sér þetta ljóst, heldur er nóg að lesa yfirlýsingar heilbrigðisstarfsfólks, sem innan þess starfar, en það er sumt hvert að þrotum komið. Ástandið á Landsspítalanum er ósamboðið háskólasjúkrahúsi og gæti ekki komið upp með réttri verkaskiptingu ríkisspítalans og einkageirans í heilbrigðiskerfinu og meiri valddreifingu innan spítalans. Þar eru nú þverbrestir að boði heittrúaðs heilbrigðisráðherra og því er nú ófremdarástand á háskólasjúkrahúsinu, svo að læknar hafa varað við, að öryggi sjúklinga geti orðið í uppnámi.
Það er líka ljóst, að ekki er við mannauðinn að sakast. Hann er fær um að leysa flókin og vandasöm verkefni og faglega einfaldari verkefni, sem útheimta góða skipulagshæfni og öguð vinnubrögð. Dæmi um hið síðara er frábær frammistaða sjúkrahúsa landsins og heilsugæzlustöðva í C-19 faraldrinum og við bólusetningu landsmanna, sem í júní 2021 náði því langþráða takmarki að framkalla hjarðónæmi hérlendis gegn leiðinda kórónuveiru SARS-CoV-2, sem í mörgum tilbrigðum veldur C-19 sjúkdóminum, sem reyndar yfirleitt olli aðeins vægum flensueinkennum, en hefur leitt 30 manns til dauða hérlendis.
Því verður þó að halda til haga, að 20-30 manns hafa látizt í kjölfar bólusetningar, flestir þeirra í sömu áhættuhópum og gagnvart C-19. Það er einnig þannig, að bólusettir geta sýkzt og smitað aðra, en með vægari hætti en ella.
Hlutfallslegur fjöldi dauðsfalla hérlendis af völdum C-19 er aðeins um 80 ppm (af milljón), sem eru lítil dánarlíkindi gagnvart faraldri og sennilega þau lægstu í heimi gagnvart C-19. Orsakir eru lágur meðalaldur þjóðarinnar, tiltölulega gott heilsufar hennar þrátt fyrir alls konar "skavanka", og góð þjónusta heilbrigðisstarfsfólks við þá veiku.
Í kjölfar hjarðónæmis innanlands aflétti ríkisstjórnin öllum samkomu- og nándarhömlum á miðnætti aðfararnótt 26. júní 2021 við mikinn fögnuð, en áfram er strangt eftirlit á landamærunum, þótt ferðamannastraumurinn hafi aukizt mjög og eru nú lendingar farþegaflugvéla á Keflavíkurflugvelli um 25 á sólarhring.
Það, sem hrjáir heilbrigðiskerfið, er framar öðru heilbrigðisráðuneytið. Þar situr nú og stjórnar aðgerðum ríkisvaldsins á heilbrigðissviði fólk, sem fórnar hagsmunum skjólstæðinganna og starfsfólksins fyrir úreltar stjórnmálalegar kreddur um nauðsyn miðstýringar ríkisvaldsins, þ.e. stjórnmálamanna og embættismanna, á stóru og smáu, og valddreifing og einkaframtak eru bannfærð þar. Þetta er beinlínis stórhættuleg stefnumörkun, því að hún framkallar stjórnleysi, öngþveiti og gríðarlega óánægju skjólstæðinga og starfsfólks auk sóunar á fjármunum almennings. Þetta var staðfest í yfirlýsingu 985 lækna nýverið, sem er í raun "rautt spjald" á ráðherra.
Þetta kom t.d. hastarlega í ljós, þegar heilbrigðisráðherra ákvað með einu pennastriki að færa krabbameinsskimanir kvenna frá Krabbameinsfélaginu til hins opinbera. Þarna var um að ræða skrifborðsákvörðun af verstu sort, sem sýnir, að ráðherrann er utan gátta og fer illa með vald sitt, og í því er stórhætta fólgin fyrir skjólstæðingana.
Landið ber aðeins eitt háskólasjúkrahús. Það er óumdeilt, en þar er nú hins vegar alls konar starfsemi, sem ekki á heima á háskólasjúkrahúsi og þarf að létta af Landsspítalanum með því að útvista henni til sjúkrahúsa á landsbyggðinni, og einnig er vel hægt að útvista margs konar starfsemi Landsspítalans til einkarekinna læknastofa. Valddreifing og verkaskipting ólíkra staða og stjórnunarfyrirkomulags geta létt álagi af yfirkeyrðum Landsspítala og skapað heilbrigðan samanburð á milli fagfólks og fyrirkomulags, bætt þjónustuna við skjólstæðingana og auðveldað kerfinu að laða til sín íslenzkt starfsfólk, sem lokið hefur námi sínu hérlendis og/eða erlendis. Þetta er vandamál núna, og þarf engan að undra. Starfólkið þarf að geta valið á milli fleiri vinnustaða og vinnuveitenda. Mönnunin mun þá reynast mun auðveldari viðfangs.
Hin dauða hönd heilbrigðisráðuneytisins (ríkisins) er búin að ýta heilbrigðiskerfinu fram á heljarþrömina, og það er nú bara seigla og þrautseigja starfsfólksins, sem heldur því gangandi frá degi til dags, en við svo búið má ekki standa. Það verður strax að stokka spilin upp, hætta að stjórna samkvæmt úreltri og löngu fallinni hugmyndafræði og hleypa heilbrigðri skynsemi á sviði rekstrar að, sem er fordómalaus og nýtir allar góðar leiðir til úrbóta. Ein slík leið er að hlíta ráðum starfsfólksins. Morgunblaðið birti 28. júní 2021 viðtal við dr Theódór Skúla Sigurðsson, lækni, undir fyrirsögninni:
"Þurfum svigrúm til að mæta stórslysi".
Það hófst svona:
""Sjónarmið okkar lækna eru ákall úr grasrótinni", segir Theódór Skúli Sigurðsson, svæfingalæknir á Landspítalanum. Hann er í forsvari þeirra 985 lækna, sem í síðustu viku afhentu fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins undirskriftir sínar, þar sem skorað er "á stjórnvöld að axla ábyrgð á stöðunni í heilbrigðiskerfinu", eins og komizt var að orði.
Læknar telja mikilvægt, að gefin fyrirheit um aukið fjármagn til alls heilbrigðiskerfisins verði efnd. Mikilvægt sé að koma með varanlegar lausnir á öldrunarþjónustu, sbr að á hverjum tíma dvelst á Landspítalanum fólk, sem lokið hefur læknismeðferð, en ekki er hægt að útskrifa, því [að] ekki er í önnur hús að venda. Í raun stífli þetta allt gangvirki spítalans."
Það er í raun og veru að fara í geitarhús að leita ullar að senda bænaskrá til silkihúfanna í heilbrigðisráðuneytinu og biðja þær um að "axla ábyrgð" á því, að undir yfirumsjón sama ráðuneytis er búið að ofkeyra Landsspítalann með nýjum verkefnum, sumpart verkefnum, sem einkaframtakið hefur sinnt fram til þessa, án þess að ganga úr skugga um, að spítalinn sé í stakk búinn til að leysa ný verkefni sómasamlega. Það er tómt mál að ætlast til aukinnar þjónustu Landsspítalans fyrr en hann kemst í nýtt húsnæði. Starfsemi hans er komin yfir þolmörk húsnæðis og starfsfólks. Ríkisvæðingarstefna Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á heilbrigðiskerfinu er óboðleg, enda er hún dæmd til að mistakast. Kerfi ráðstjórnarinnar er vanhugsað og reist á þekkingarleysi og ranghugmyndum. Ríkisvæðingin er ein meinloka og gengur þar af leiðandi hvergi upp. Það mun leiða til verri og dýrari þjónustu og sennilega til tvöfalds heilbrigðiskerfis, þar sem hægt verður að snara út úr eigin vasa til að fá framúrskarandi þjónustu strax.
Sjálfstæðisflokkurinn vill allt annað fyrirkomulag. Háskólasjúkrahúsið verður áfram ríkisrekið og á þess vegum verður áfram bráðadeildin og verkefni, sem hefðbundið er að hafa á háskólasjúkrahúsum. Hins vegar er hægt að nýta kosti einkaframtaksins til að létta byrðar háskólasjúkrahússins, svo að það geti betur sinnt sínu hlutverki. Læknastofur sérfræðinga fái greiðslusamning við Sjúkratryggingar Íslands, enda geta þær veitt ódýrari gæðaþjónustu en opinberar stofnanir. Til að leysa fráflæðisvanda Landspítalans verður ríkisvaldið að horfast í augu við hækkun verðlags í landinu, aðallega vegna kjarasamninga, svo að eftirsóknarvert verði að reka hjúkrunar- og dvalarheimili fyrir aldraða.
""Þó [að] fjárveitingar til Landspítalans séu auknar, sjáum við þess ekki stað. Því teljum við, að hugarfarsbreytingu þurfi um rekstur spítalans. Læknar eru leiðtogar með hugmyndir og mikilvægt er að virkja þá til meiri áhrifa. Læknar eru langþreyttir og tilfinningin sú, að ekki sé hlustað á sjónarmið okkar, þegar varað er við hættulegu ástandi", segir Theódór Skúli og áfram:
Ýmis mál eru í ólestri, s.s. leghálsskimanir og rannsóknir á þeim, sem voru fluttar til Danmerkur með slæmum afleiðingum. Því miður virðist stefna stjórnvalda í heilbrigðismálum vera sú, að gefnar eru út tilskipanir á efstu stöðum; skilaboð, sem virðist eiga að fylgja umyrðalaust. Sjónarmið lækna hafa ekki skilað sér til stjórnvalda. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra.
Erfið staða á bráðadeild Landspítala s.s. mannekla og langur biðtími sjúklinga eftir þjónustu hefur verið til umfjöllunar að undanförnu. Í þeim efnum bendir Theódór á, að í heilbrigðiskerfinu haldist allt í hendur. Engin heildstæð framtíðarstefna sé í öldrunarmálum, þrátt fyrir mikla fjölgun eldra fólks, sem alltaf þarf margvíslega þjónustu heilsugæzlu og sjúkrahúsa."
Læknirinn lýsir þarna afleiðingum skefjalausrar miðstýringar og ríkisrekstrar. Reksturinn er orðinn svo umsvifamikill, að æðstu stjórnendur hafa mjög ófullkomnar upplýsingar um stöðuna, þar sem þjónustan er veitt, enda fjöldi stjórnunarlaga á milli, og framlínufólkið er vonsvikið og uppgefið. Stefna vinstri grænna í heilbrigðismálum býður hættunni heim í þessum efnum. Það verður að draga úr þessari ráðstjórnarlegu miðstýringu, útvista verkefnum og minnka þannig umfangið, svo að hægt sé að sinna betur þeim verkefnum, sem háskólasjúkrahúsið á að sinna.
Í lokin kom hörð ádrepa á stjórnendur Landspítalans, en undirstrika verður, að um kerfisvandamál er að ræða, þannig að ábyrgðin liggur í heilbrigðisráðuneytinu:
"Núverandi stjórnendur Landspítalans hafa setið lengi, hið bezta fólk, sem vill vel, en nær ekki þeim árangri, sem þarf. Maður fær á tilfinninguna núna, að þeir séu algjörlega ráðþrota gagnvart vandanum og finni ekki neinar alvöru lausnir, sem haldi til langframa. Sé staðan þannig, að ekki verði komizt lengra í sparnaði, þyrftu stjórnendur að koma þeirri staðreynd til stjórnvalda. Nái þau skilaboð ekki í gegn, ætti stjórn Landspítalans að íhuga að segja sig frá verkinu til að undirstrika mikla alvöru málsins."
Þegar svona er komið, þ.e. starfsfólkinu finnst stjórnendur spítalans vera búnir að gefast upp gagnvart viðfangsefnunum, þá er komið að leiðarenda þess ríkisbákns, sem hér er um að ræða. Það verður að stokka spilin upp í samráði við starfsmenn, fá einkaframtak heilbrigðisstarfsfólks til að létta undir og sníða Landsspítalanum stakk eftir vexti.
Núverandi heilbrigðisráðuneyti mun aldrei grípa til þeirra róttæku úrræða, sem nú er þörf á, enda skilar það auðu í yfirlýsingu vegna ofangreinds neyðarkalls læknanna. Þar skilur fólk ekki rót vandans, enda hefur það skapað hann með forstokkaðri ríkisrekstrarafstöðu sinni og beinni fjandsemi við einkaframtak á þessu sviði. Morgunblaðið tíundar eftirfarandi viðbrögð ráðuneytisins, sem greinilega kemur af fjöllum:
"Skilaboð lækna um erfið starfsskilyrði eru grafalvarleg, sé litið til aðstöðu starfsfólks og þess, að núverandi ástand veldur stöðnun og jafnvel afturför. Þetta segir í yfirlýsingu heilbrigðisráðuneytisins um yfirlýsingu og undirskriftir læknanna. Sjónarmið læknanna eru sögð tekin alvarlega, þótt þau séu ekki algild lýsing á heilbrigðiskerfinu."
Heilbrigðisráðuneyti Svandísar Svavarsdóttur fær falleinkunn. Lifi Landsspítalinn !
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.6.2021 | 18:50
Úrgangsstjórnun í skötulíki
Í síðasta pistli á þessu vefsetri (24.06.2021-Jónsmessu) var gerð grein fyrir þeim ógöngum, sem stjórn Sorpu hefur ratað í með sína nýju jarð- og gasgerðarstöð, GAJA. Borgin er aðaleigandi Sorpu, og núverandi borgarstjórnarmeirihluta eru mjög mislagðar hendur í verklegum efnum, svo mjög, að í fljótu bragði mætti ætla, að allt, sem borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboð, Píratahreyfingarinnar og Viðreisnar, kemur nálægt, endi með klúðri.
Því miður virðist GAJA vera enn eitt dæmið í þetta safn fúsks og óhæfni. Stjórnmálamenn, sem ánetjazt hafa forsjárhyggjunni, þykjast þess einfaldlega umkomnir að hafa vit fyrir öðrum, þótt þá skorti bæði til þess vit og þekkingu, þegar kemur að tæknilegum verkefnum.
Þeirri aðferð að virkja markaðsöflin til að koma fram með hagkvæma framtíðarlausn á viðfangsefnum í frjálsri samkeppni er hafnað, af því að markaðsöflin eru knúin áfram af hagnaðarvon, sem er ljótt og ófélagslegt hugarfar í huga draumóravingla á vinstri kantinum. Þessir stjórnmálamenn gerir þess vegna hverja skyssuna á fætur annarri til stórfellds tjóns fyrir almenning, sem fær reikninginn, og varla nokkur stjórnmálamaður axlar sín skinn út af óráðsíunni.
Í forystugrein Bændablaðsins, 24. júní 2021, fær vonlaus, pólitísk hugmyndafræði í umhverfismálum ærlega á baukinn og var kominn tími til slíkrar gagnrýninnar umræðu um viðfangsefni, sem er í raun tæknilegt, fjárhagslegt og lagalegt úrlausnarefni, hafið yfir sérvizku og hugmyndafræði sérlundaðra stjórnmálamanna, sem hafa tafið fyrir eðlilegri þróun sorpeyðingarmála hérlendis (eins og þeir núna tefja fyrir eðlilegri þróun umferðarmannvirkja í Reykjavík með hrapallegum afleiðingum).
"Eftir áratuga eyðimerkurgöngu í meðhöndlun sorps á Íslandi berast nú þau tíðindi, að fara eigi að taka til hendi við að "undirbyggja ákvarðanir" um tæknilausnir, staðarval og kostnað við byggingu á 100 kt/ár sorporkustöð, sem væntanlega verður byggð á Suðurnesjum.
Að undirbúningi ákvarðanatöku, sem á að taka 4 mánuði, standa 4 byggðasamlög, þ.e. Sorpa, Kalka á Suðurnesjum, Sorpurðun Vesturlands og Sorpstöð Suðurlands auk umhverfisráðuneytisins. Á starfssvæði byggðasamlaganna fellur til nærri 85 % alls úrgangs á landinu.
Eins og margoft hefur verið fjallað um hér í Bændablaðinu, þá hefur ríkt ótrúlegt úrræðaleysi í sorpmálum Íslendinga líkt og skolpmálum um áratuga skeið. Vandræðagangurinn í sorpmálunum er einkum tilkominn vegna kreddufullrar pólitískrar afstöðu þeirra, sem ráðið hafa ferðinni í umhverfismálum bæði á landsvísu sem og í sveitastjórnarpólitík, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Þar á bæ vildi fólk hreinlega ekki taka mark á þeirri þróun, sem átt hefur sér stað í sorpbrennslumálum á Norðurlöndum og víðar um heim á liðnum áratugum. Gilti þá einu, þó [að] sýnt hafi verið fram á með vísindalegum gögnum og útreikningum ágæti þess að umbreyta sorpi í orku. Þess í stað hefur verið haldið dauðahaldi í þá afstöðu, að öll brennsla á sorpi sé alslæm og ekki í takti við þá hugmyndafræði, sem rekin hefur verið í loftslagsmálum." (Undirstr. BJo.)
Þessi texti sýnir, að stjórnmálamenn með einkennilegar skoðanir, sem illa fylgjast með á þessu sviði og lítt kunna til verka á sviði nútímalegrar meðhöndlunar sorps, hafa vélað um málin með arfaslæmum árangri á höfuðborgarsvæðinu, þar sem Sorpa er í djúpum skít með misheppnaða meira en mrdISK 6 fjárfestingu á bakinu undir formennsku vinstri græningja í borgarstjórnarmeirihluta undir forystu Samfylkingarinnar.
Það verður að snúa af þessari vonlausu braut með því að draga kunnáttumenn á sviði tækni og verkefnastjórnunar að undirbúningi verkefnisins "Sorpknúið orkuver fyrir landið allt", sem finni hagkvæma staðsetningu, helzt þar sem þörf er á orkunni), bjóði verkið út, uppsetningu og rekstur, og velji birgi og semji við hann. Það er að líkindum hagkvæmasta og áhættuminnsta leiðin fyrir skattgreiðendur. Stjórnmálamenn hafa ekki ráðið við verkefnið nútímaleg sorpeyðing hingað til, og með núverandi meirihluta í Reykjavík er algerlega borin von, að þeir finni hagkvæmustu og umhverfisvænstu leiðina í þessu máli.
Halldór Kristjánsson, ritstjóri Bbl., hélt áfram:
"Með þessa sérkennilegu hugmyndafræði að leiðarljósi var m.a. farið út í botnlausan fjáraustur við uppbyggingu á jarðgerðar- og gasstöð í Álfsnesi, sem kostaði skatt- og útsvarsgreiðendur á 7. mrd ISK. Sú stöð getur samt ekki annazt förgun á plasti og ýmsum efnum, sem áfram hefur orðið að urða. Þá hefur verið upplýst, að önnur meginframleiðsluafurð stöðvarinnar, molta, er algjörlega ónothæf vegna mengandi efna, sem í henni eru."
Það er ekki að ófyrirsynju, að varað er við áframhaldi þeirra vinnubragða, sem Sorpustjórnin hefur viðhaft, því að GAJA-verkefnið er alveg dæmigert um afleiðingar fúsks óráðþægra stjórnmálamanna, sem troðið hafa sér í stjórnunarstöður fyrirtækja hins opinbera, sem þeir ráða ekkert við. Umhverfisráðherra er í lykilstöðu til að beina undirbúningi sorporkuversins í réttan farveg, en þar sem hann er af sama sauðahúsi og téð Líf, er borin von, að hann geri það. Þess vegna stefnir í hreint óefni með um mrdISK 30 fjárfestingu. Í stað þess að skuldbinda útsvarsgreiðendur fyrir risaupphæðum í verkefni, sem e.t.v. verður bara til vandræða í höndum óhæfra stjórnmálamanna, á að fela einkaframtakinu verkefnið á grundvelli útboðs, sem vandað verkfræðiteymi með lögfræðinga sér til aðstoðar hefur undirbúið og síðan metið tilboð og samið við hagstæðasta birginn í nafni "sorpsamlags Íslands" um alverk og rekstur. Vonandi nunu sorpflutningar í nýju stöðina verða sjóleiðis, því að 100-200 kt/ár sorpflutningar eru ekki leggjandi á vanbúið vegakerfið.
"Nú segir borgarfulltrúi VG og formaður stjórnar Sorpu [Líf Magneudóttir], sem á og rekur jarðgerðar- og gasstöðina GAJA, í viðtali í Morgunblaðinu sl. þriðjudag [22.06.2021], að þar sé "verið að ná tökum á lífrænum úrgangi". Einnig segir: "Næsta stóra verkefnið er að afsetja brennanlegan úrgang". Fram kemur í þessu viðtali, að nú eigi loks að fara að skoða málin. Allt verði skoðað, m.a. flutningur sorpsins, sótspor þess og staðarval sorporkustöðvar sem og nýting "glatvarma".
"Nýta "fiskeldismykju", mannaseyru, moltu, brennistein og fleira sem áburð".
"Jónas Baldursson og Ragnhildur Friðriksdóttir, starfsmenn Matís, að vinna með moltu. Matís fékk 3 tegundir af moltu til að prófa, m.a. frá gas- og jarðgerðarstöðinni GAJA, sem er í eigu Sorpu. Sú molta reyndist ónothæf vegna aukaefna, sem í henni eru. Þurfti reyndar undanþágu frá reglum til að gera prófanir með notkun hennar á afmörkuðu svæði."
(Undirstr. BJo.)
Samkvæmt þessu heldur stjórnmálamaðurinn, sem ber höfuðábyrgð á GAJA gagnvart eigendum Sorpu, fram blekkingavaðli til að breiða yfir misheppnaða fjárfestingu byggðasamlagsins Sorpu, sem stjórnmálamenn, aðallega í meirihluta borgarstjórnar, stjórna. Þetta hlýtur að hafa stjórnmálalegar afleiðingar í borginni og ætti, ef allt væri með felldu, að leiða huga stjórnvalda að nauðsyn breyttrar aðferðarfræði við stjórnun úrgangsmála landsins. Á því sviði, eins og öðrum, leiðir fúsk til falls fyrr en seinna.
Forsætisráðherra virðist hafa gert loftslagsmálin að aðalmáli sínu fyrir Alþingiskosningarnar 2021, þótt ekki verði séð, að þau geti orðið VG til framdráttar. Hún sagði t.d. nýlega, að sorphirðumálin væru mikilvæg fyrir árangur okkar í baráttunni við losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Er það svo, eða heldur hún það bara ?
Í nýjustu skýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda stendur þetta m.a.:
"Meðhöndlun úrgangs var uppspretta 5 % af losun Íslands árið 2019 (LULUCF)."
Þessi losun nam aðeins 224 kt (4,7 %) CO2íg 2019 og hafði þá minnkað um 2,2 % síðan 1990 og um 12 % frá 2018. Miklar fjárfestingar í sorpeyðingu er ekki hægt að réttlæta með minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Aðrar og mikilvægari ástæður gera nútímavæðingu þessara mála nauðsynlega hérlendis. Evrópusambandið hefur bannað urðun, og sú ESB-löggjöf hefur verið innleidd í EFTA-löndum EES. Það er ekki lengur verjanleg landnotkun út frá landnýtingarsjónarmiðum og mengun, sem getur verið lífríkinu skaðleg, að urða sorp. Urðun þýðir þar að auki myndun metans í mun meiri mæli en þörf er á hérlendis, og metan er meira en tuttugufalt öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíildi, sem stígur upp af sorpknúnum orkuverum. Þetta koltvíldi gæti verið hagkvæmt að fanga og selja gróðurhúsabændum og lífeldsneytisframleiðendum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2021 | 10:23
Svipull er sjávarafli
Ráðlegging Hafrannsóknarstofnunar um afla í íslenzku fiskveiðilögsögunni fiskveiðiárið 2021/2022 kom sem skrattinn úr sauðarleggnum til almennings í landinu. Því hefur verið haldið að almenningi, að með rannsóknum og tölfræðilegum greiningum á mæliniðurstöðum og 20 % aflareglu úr viðmiðunarstofni væri verið að byggja upp vaxandi hrygningarstofn, svo að veiðarnar mundu aukast, þar til stofninn hefði náð þolmörkum umhverfisins, fæðuframboðs o.þ.h. Menn töldu þeim mörkum enn ekki vera náð, en er það svo ?
Nú hefur annað komið á daginn. Vísindamenn telja sig nú hafa ofmetið þorskstofninn um 267 kt eða 28 %. Er það svo, eða er þorskurinn farinn annað, varanlega ? Vísindamenn hafa ekki svör við því, og úr því verður að bæta fljótlega. Þótt Hafrannsóknarstofnun starfi undir rýni alþjóðlegs vísindasamfélags, hefur henni orðið alvarlega á í messunni. Hún verður í sumar að gera raunhæfa áætlun um úrbætur með viðeigandi kostnaðaráætlun, sem ráðuneytin og fjárlaganefnd Alþingis geta þá tekið afstöðu til í haust. Ekki er ólíklegt, að setja þurfi samþykkta kostnaðaráætlun á fjármálaáætlun ríkisins, því að við svo búið má ekki standa.
Sama hvernig á þessa sviðsmynd er litið, er málið grafalvarlegt, því að afar gloppótt þekking fiskifræðinganna á ástandi fiskimiðanna við landið blasir nú við. Hins vegar varaði enginn spekingur utan stofnunarinnar við þessu, og enginn ráðlagði minni veiðar, nema síður sé. Sé gert ráð fyrir, að endurskoðun viðmiðunarstærðar þorskstofnsins frá maí 2021 sé "rétt", blasir við ofmat stofns um 28 %. Samkvæmt aflareglunni minnkar þessi áætlun leyfilegar þorskveiðar á fiskveiðiárinu 2021/2022 niður í um 188 kt eða um 70 kt, sem gæti jafngilt tekjutapi um mrdISK 40. Þetta er höggið, sem sjávarútvegurinn og þjóðarbúið standa frammi fyrir á fiskveiðiárunum 2021/2022-2022/2023 vegna óvænts mats á verðmætasta stofninum, en vegna dempunarreglu helmingast höggið á hvort fiskveiðiárið, og nokkrir aðrir stofnar virðast vera að hjarna við.
Í gamla daga hefðu þessi tíðindi haft í för með sér gengisfellingu ISK, en enn stendur hún alveg pallstöðug, þótt hún hafi hækkað talsvert, eftir að hagur strympu glæddist á málmmörkuðum og í ferðageiranum og þótt Seðlabankinn hafi látið af sölu gjaldeyris. Bæði er, að sjávarútvegurinn er nú stöndugur og sveigjanlegur með mikinn aðlögunarþrótt og þjóðarbúinu hefur nú vaxið fiskur um hrygg með fleiri öflugum gjaldeyrislindum.
Það sýnir sig nú svart á hvítu, að engin glóra er í, að stjórnvöld fari að ráðum sérvitringa og óvita um sjávarútveg og taki að spila einhvers konar rússneska rúllettu með stórhækkun veiðigjalda eða uppboði á þjóðnýttum aflaheimildum. Slíkt er hreinræktuð dilla þröngsýnna pólitískra hugmyndafræðinga og skemmdarverkastarfsemi á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.
Ferðageirinn mun taka vel við sér, þegar sóttkví óbólusettra linnir með viðunandi hjarðónæmi hér, vonandi 01.07.2021, og þá hlýtur að verða nóg að skima aðeins þá, sem ekki eru með ónæmis- eða bólusetningarvottorð. Árið 2021 verður líklega, þrátt fyrir höggið, ár sæmilegs hagvaxtar, eins og annars staðar á Vesturlöndum, enda varð rýrnun þjóðartekna meiri hér árið 2020 en víðast hvar annars staðar eða 6 %-7 %. Samt hækkaði kaupmáttur launa. Það er líklega einsdæmi, en jók örugglega atvinnuleysið. Verkalýðshreyfingin stakk hausnum í sandinn og fórnaði langtímahagsmunum launþeganna fyrir skammtímaávinning þeirra, sem eru í öruggri vinnu. Það er ótraustvekjandi afstaða, enda bera sumar yfirlýsingar forseta ASÍ o.fl. vott um stéttastríðshugarfar, sem reynslan og samanburður við hin Norðurlöndin hefur sýnt, að getur ekki gagnazt launþegum til lengdar. Það, sem gagnast launþegum bezt, er að vinna að hámörkun verðmætasköpunar í friði við vinnuveitendur.
Önnur grein, sem nú getur komið til hjálpar, er fiskeldið, bæði í sjókvíum innan marka áhættugreininga og burðarþolsmats Hafrannsóknarstofnunar, og í landeldiskerum. Eftirlitsstofnanir mega hvorki draga lappirnar né flaustra, heldur skulu þær halda sig innan lögboðinna tímamarka.
Viðbrögð forystu SÍF, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, við leiðréttingu á mistökum Hafró, voru rétt. Það er skárst í stöðunni að fylgja ráðum beztu fáanlegu þekkingar á sviði haf- og fiskifræði, þótt henni sé ábótavant, enda gæti hundsun slíkra ráðlegginga haft slæmar afleiðingar fyrir markaðsstöðu íslenzkrar framleiðslu sjávarútvegsins erlendis, þar sem samkeppnin er hörð. Vonandi dregur nú úr útflutningi óunnins fiskjar, svo að framleiðendur geti haldið markaðsstöðu sinni fyrir unna vöru. Nú er ástæða fyrir utanríkisráðuneytið til að juða í Bretum um lækkun tolla á slíkum vörum.
Gunnlaugur Snær Ólafsson birti frétt í Morgunblaðinu 16. júní 2021 um þessi slæmu tíðindi:
"Gera ráð fyrir samdrætti í útvegi".
Þar stóð m.a.:
""Ég verð bara að segja það, að þetta eru mikil vonbrigði og þungbær tíðindi. Þetta er svo mikill niðurskurður og mjög óvænt. Þetta mun valda tekjusamdrætti hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og ljóst, að menn verða að grípa til aðgerða í sínum rekstri til að mæta þessu.
Ég sé samt ekkert annað í stöðunni en við fylgjum ráðgjöf Hafró. Við verðum að taka á þessu af ábyrgð og fylgja þessari vísindalegu ráðgjöf með langtímahagsmuni í huga", segir Ólafur H. Marteinsson, forstjóri Ramma hf og formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi."
Af sömu ástæðum og Ólafur tilgreinir, mun sjávarútvegsráðherra að öllum líkindum fylgja þessari ráðgjöf Hafró í meginatriðum. Skaðinn er orðinn, og hann verður ekki bættur með hókus-pókus aðferðum.
Um þetta er þó ekki eining, og annan pól í hæðina tók Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, en félagsmenn hans eru mjög háðir þorskveiðum:
"Hann kveðst binda vonir við, að ráðherra sjávarútvegsmála fari út fyrir ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar til að lina höggið, sem fylgir skerðingunni. "Ég held það sé alveg hægt. 13 % niðurskurður í okkar helztu tegund er bara allt of mikið. Smábátarnir eru alveg háðir þorskinum.""
Það er innbyggð dempun á breytingum í ráðgjöf Hafró, því að skerðingin væri 27 %, ef hún kæmi að fullu fram á einu fiskveiðiári. Það er ekki nóg, að hagsmunaaðilar haldi, að óhætt sé að veiða meira, ef viðtekin aflaregla segir allt annað.
Það er eðlilegt og skiljanlegt, að sjávarútvegsfyrirtæki leiti leiða til að vaxa yfir í skylda starfsemi, sem veitir meiri stöðugleika. Það hafa þau gert með því að gjörnýta fiskinn og framleiða úr honum eftirsóttar vörur á grundvelli rannsókna og þróunar. Stórtækastar eru þó fjárfestingarnar á sviði fiskeldis. Samherji kannaði fýsileika þess að kaupa Norðurálshúsin í Helguvík undir landeldi, en hvarf frá því vegna skorts á ferskvatni. Nú hefur fyrirtækið kynnt áform í samstarfi við HS Orku við Reykjanesvirkjun. Morgunblaðið greindi frá þessu 17. júní 2021 í frétt undir fyrirsögninni:
"Ylsjórinn dró Samherja á Reykjanes".
Hún hófst þannig:
"Aðstæður til landeldis á laxi eru góðar í Auðlindagarðinum á Reykjanesi, en þar áformar Samherji fiskeldi ehf að reisa risastóra eldisstöð. Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis, segir, að ylsjórinn geri þessa staðsetningu sérstaka. Ylsjórinn er affall frá kælingu Reykjanesvirkjunar. Jón Kjartan segir, að aðgangur að miklum ylsjó sé forsenda þess, að hægt sé að koma upp hagkvæmu landeldi á stórum skala."
Hér er ætlunin að mynda nýtt lokastig nýtingar varmans úr jarðgufunni og þar með að gjörnýta orkuna úr jarðgufunni til að flýta vexti eldisfiskjarins. Þessi flýting ásamt hagkvæmni stærðarinnar mun sennilega gera þetta fyrirhugaða landeldi samkeppnishæft við sjókvíaeldi, en hár fjármagnskostnaður og rekstrarkostnaður hefur verið Akkilesarhæll landeldisins.
"Áformað er að byggja allt að 40 kt/ár laxeldi á landi í þremur áföngum á næstu 11 árum. Byggð verður seiðastöð og ker fyrir áframeldi. Jón Kjartan segir gert ráð fyrir, að komið verði upp aðstöðu til slátrunar á laxi, en frekari vinnsla og pökkun verði annars staðar á Suðurnesjum. Af því tilefni segir hann, að Samherji vinni afurðir sínar yfirleitt meira en minna. Því verði hluti laxaframleiðslunnar flakaður fyrir útflutning, en hann segir ekki ljóst nú, hversu stór hluti það verði.
Í 1. áfanga stöðvarinnar er gert ráð fyrir 10 kt/ár framleiðslu. Frumvinnsla á laxi og pökkun er mannaflsfrek starfsemi. Þannig er gert ráð fyrir, að bein störf við eldi og frumvinnslu í 1. áfanga verði um 100 og annað eins í afleiddum störfum. Þá muni fjölmörg störf verða við uppbygginguna."
Þetta verkefni Samherja er ekkert minna en hvalreki fyrir Suðurnesjamenn og landið allt. Þarna verða allt að 800 störf til 2032, bein og óbein, heildarfjárfesting verður líklega mrdISK 45 - mrdISK 50, og á verkstað gæti þurft um 1400 mannár á 11 ára skeiði. Þetta er þess vegna stórverkefni, sem er einmitt það, sem íslenzka hagkerfið þarf endilega á að halda núna, því að í landinu ríkir ládeyða í atvinnulífinu. Á sama tíma og umsvif sjávarútvegs minnka vegna niðursveiflu í lífríki hafsins, þá leggur Samherji grunn að hagrænum stöðugleika og vaxandi tekjustreymi til framtíðar, sem verður öllum landsmönnum til góðs. Þetta eru gleðitíðindi.
Fiskeldið er sannarlegur vaxtarbroddur hagkerfisins um þessar mundir. Árið 2020 var slátrað 40,6 kt af eldisfiski í landinu, og útflutningsverðmæti þess nam mrdISK 29,3. Verðmæti útfluttra sjávarafurða nam þá mrdISK 270, svo að hlutfallið var þá orðið 11 % og 5 % af heildarvöruútflutningi. Árið 2032 gæti fiskeldið numið 200 kt alls og hlutfall þess af heildarvöruútflutningi landsins numið 22 %. Það mun þess vegna mynda eina af meginstoðum íslenzka hagkerfisins.
Þann 14. apríl 2021 ritaði væntanlegur 1. þingmaður NA-kjördæmis, Njáll Trausti Friðbertsson, mjög fróðlega grein í Markað Fréttablaðsins:
"Drifkraftur og byggðafesta fiskeldisins".
Þar kom m.a. eftirfarandi fram:
"Nýsamþykkt tillaga Hafrannsóknarstofnunar um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar laxeldis, gerir ráð fyrir, að heimilt sé eldi 106 kt/ár í sjó. Vaxi það [sjóeldið - innsk. BJo] nærri gildandi áhættumati fiskeldisins, gæti útflutningsverðmæti sjóeldisins orðið nærri 80 mrdISK/ár. M.v. 800 ISK/kg greiðslu fyrir útflutninginn. Auk þess verðmætis í sjóeldi er á næstu árum stefnt á landeldi á laxi, bleikju og öðru fiskeldi fyrir um 15 mrdISK/ár. [Þarna voru tíðindin af verkefni Samherja á Reykjanesi ekki komin fram - innsk. BJo.] Það lætur því nærri, að útflutningsverðmæti fiskeldis geti orðið tæplega 100 mrdISK/ár á næstu árum. Gangi þetta eftir, verður fiskeldið stór hluti útflutningsverðmæta íslenzkra sjávarafurða."
Njáll Trausti Friðbertsson hefur öðlazt ríkan skilning á atvinnulífinu og heilbrigðu samspili innlendra og erlendra fjárfestinga þar og í seinni tíð innkomu Kauphallar Íslands við miðlun fjárfestingarfjár frá sparendum til fiskeldisfyrirtækja og sjávarútvegsfyrirtækja. Kveður þar við annan og heilbrigðari tón en heyra má úr ranni sumra annarra á stjórnmálavettvangi, hverra ær og kýr eru niðurrif á trausti almennings til fyrirtækja og að kynda undir stéttastríði launþega og launagreiðenda. Slíkur forheimskandi áróður getur engum orðið til hagsbóta. Ágætri grein sinni í Markaðinum lauk NTF þannig:
"Þrátt fyrir að stór hluti Íslands hafi verið lokaður fyrir fiskeldi [í sjó] frá 2004 og stjórnvöld setji eldinu æ strangari kröfur, óttast menn umhverfisáhrif og vöxt fiskeldisins.
Við skulum gera ríkar kröfur um uppbyggingu eldis í sátt við umhverfið. Innan eldisfyrirtækja er sterk umhverfisvitund, enda sjálfra þeirra hagsmunir að ganga vel um náttúruna. Kröfur alþjóðlegra umhverfisvottana aga einnig starfsemina.
Ótti um aðkomu erlendra fyrirtækja í fiskeldi er ástæðulaus. Þau miðla íslenzku eldi mikilli reynslu og þekkingu og dreifa fjárhagslegri áhættu af innlendri uppbyggingu. Áhugavert er, að flest laxeldisfyrirtæki eru nú skráð á hlutabréfamörkuðum, og íslenzkir fjárfestar, þ.m.t. lífeyrissjóðir, hafa fjárfest í þessari vaxandi atvinnugrein. Óháð eignaraðild er fiskeldið að skilja mikið eftir sig í hinum dreifðu byggðum.
Efnahagsleg hagsæld mun áfram byggja á vexti útflutningsgreina. Þar verður fiskeldið æ mikilvægari drifkraftur atvinnusköpunar og byggðafestu, ekki sízt á Austfjörðum."
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.6.2021 | 17:54
Vetnisvæntingar og virkjanaþörf
Við og við berast almenningi fregnir af miklum vetnisáformum. Síðast var það með forsíðuuppslætti forstjóra Landsvirkjunar, Harðar Arnarsonar, um samstarfsverkefni Landsvirkjunar og Rotterdam-hafnar um flutninga á vetni, framleiddu á Íslandi, til Rotterdam. Lesandinn var þó skilinn eftir í þoku með það, hvort þetta samstarfsverkefni spanni einnig vetnisverksmiðju. Aðrar fregnir herma, að Landsvirkjun vilji reisa vetnisverksmiðju við Ljósafossvirkjun. Sú hugmynd er algerlega út í hött. Á hvaða vegferð er þetta stóra og mikilvæga ríkisfyrirtæki eiginlega ? Hafa menn algerlega tapað áttum ? Það eru fleiri, sem eru að rannsaka fýsileika þess að reisa hér vetnisverksmiðjur, og þeir hafa sumir áhyggjur af því, að raforkuverðið, sem slíkum vetnisverksmiðjum býðst, sé ósamkeppnishæft. Landsvirkjun er að villast út í bullandi hagsmunaárekstra ("conflict of interests").
Hvað sem því líður samkeppnishæfninni, verður að telja mjög óeðlilegt, að afskipti Landsvirkjunar af vetnisframleiðslu hérlendis séu nokkur önnur en að selja raforku til slíkrar framleiðslu. Þetta ríkisraforkufyrirtæki, sem er risinn á fákeppnismarkaði stórsölu á rafmagni í landinu, verður að gæta "arms lengdar" við mögulega viðskiptavini sína, til að önnur vetnisfélög eða hvaða annar kaupandi þeirra takmörkuðu gæða, sem íslenzk raforka er, hafi ekki rökstudda ástæðu til að væna Landsvirkjun um mismunun.
Hafa fulltrúar eigenda Landsvirkjunar, Alþingismenn, rætt þessa útvíkkun á starfsemi Landsvirkjunar ? Það hefur þá farið mjög lágt. Þetta er grundvallarbreyting á hlutverki Landsvirkjunar, og slík stefnumörkun þarf að koma með lagasetningu eða a.m.k. þingsályktun frá Alþingi. Það gengur ekki, að fyrirtækið vaði út um víðan völl með þessum hætti. Alþingismenn þurfa að skerpa á hlutverki Landsvirkjunar og bæta við orkulögin lagagrein um, að það sé á ábyrgð Landsvirkjunar að sjá til þess, að aldrei komi til forgangsorkuskorts í landinu, nema náttúruhamfarir hamli raforkuvinnslu.
Í Morgunblaðinu 15. júní 2021 var forsíðufrétt um Rotterdam-ævintýri Landsvirkjunar og síðan frétt á bls. 4 undir fyrirsögninni:
"Grænt ljós á útflutning á grænu vetni".
Hún hófst þannig:
""Þessar niðurstöður eru mjög uppörvandi, og við hjá Landsvirkjun höfum trú á þessu samstarfi við Rotterdamhöfn", segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Landsvirkjun og hafnaryfirvöld í Rotterdam hafa lokið við forskoðun varðandi möguleika á að flytja grænt vetni frá Íslandi til Rotterdam. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun sýna niðurstöðurnar, að tæknin er fyrir hendi jafnframt því, sem verkefnið er fjárhagslega ábatavænt. Eins telur Landsvirkjun, að verkefnið yrði mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagshlýnun, þegar hagkerfi heimsins skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orku á komandi áratugum."
Þetta er óttalega innantómt hjá forstjóranum, enda auðvelt að verða sér úti um upplýsingar, sem með smáútreikningum sýna, að hagkvæmt muni á allra næstu árum verða að virkja vatnsföll og jarðgufu og jafnvel vind á Íslandi til að framleiða vetni með rafgreiningu (klofnun vatns). Hins vegar yrði framboð vetnis frá Ísland alltaf hverfandi lítill hluti af heildarframboðinu til orkuskipta, og þess vegna mjög ofmælt og villandi, raunar tóm vitleysa, að halda því fram, "að verkefnið yrði mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagshlýnun". Réttara er, að það skiptir engu máli í því stóra samhengi. Það sést á því, að Landsvirkjun áformar að virkja 2-4 TWh/ár í þetta verkefni eða 200-500 MW að eigin sögn, sem gefur mjög háan nýtingartíma á ári, miklu hærri en mögulegur er með vindmyllum. Til samanburðar ætla Þjóðverjar fyrir árið 2030 að nýta vetni frá 80 GW uppsettu afli og miða þá við vindmyllur úti fyrir ströndum með nýtingartíma um 45 %. Það þýðir, að þetta framlag Landsvirkjunar til vetnisvæðingar Þýzkalands yrði innan við 1 % árið 2030. "Miklir menn erum við Hrólfur minn."
Fréttin í þessari frásögn er hins vegar sú, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun, sem gæti fengið fyrirspurnir frá nokkrum vetnisframleiðendum um sölu raforku til nokkurra vetnsisverksmiðja á landinu, sé að blanda sér inn í fýsileikakönnun eins aðila um vetnisverksmiðju og vetnisflutninga. Þar er Landsvirkjun hreint út sagt komin út fyrir heimildir sínar og siðlega framgöngu í viðskiptum út frá samkeppnissjónarmiði. Hún gefur höggstað á sér gagnvart Samkeppniseftirlitinu og ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, sem líklega telja hér um óeðlilega og samkeppnisskekkjandi ríkisaðstoð að ræða. Þetta er dómgreindarleysi af hálfu stjórnar Landsvirkjunar.
Afar áhugaverð grein birtist í Bændablaðinu 27. maí 2021 eftir Herrn Dietrich Becker, sendiherra Þýzkalands á Íslandi. Hann varpar fram aðlaðandi samstarfsgrundvelli Íslendinga og Þjóðverja á sviði vetnistækni. Greinin hét:
"Tækifæri fyrir Ísland og Þýzkaland".
Þar stóð í innganginum m.a.:
"Þýzkaland hefur náð miklum árangri í að byggja upp vind- og nýlega sólarorku. Þegar árið 2020 var meira en helmingur þýzkrar raforkuframleiðslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum: 247 TWh/ár samtals (þar af vindorka 131 TWh/ár, sólarorka 51 TWh/ár, lífmassi 45 TWh/ár, vatnsorka 18 TWh/ár). Heildar raforkuframleiðsla Íslendinga nam [þá] 19 TWh/ár [og var öll úr "endurnýjanlegum" orkulindum]."
Þetta er frábær árangur Þjóðverja, en dýrkeyptur sem mikil landfórn undir vindmyllur í þéttbýlu landi og hefur valdið háu raforkuverði. Á næsta ári á að loka öllum starfræktum kjarnorkuverum í Þýzkalandi, og mun sá pólitíski gjörningur auka á losun koltvíildis, og er þess vegna furðuleg friðþæging fráfarandi kanzlara í garð græningja. Framboðsgapið, ef af verður, verður fyllt með aukinni raforkuvinnslu gasorkuvera, kolakyntra orkuvera og innflutningi rafmagns. Aðgerðin er þess vegna allsendis ótímabær.
Nú stendur fyrir dyrum hjá Þjóðverjum að draga úr eldsneytisnotkun á fleiri sviðum en við raforkuvinnslu, og þá horfa þeir til vetnis og vetnisafleiða, s.s. ammoníaks. Sú aðgerð er raforkukræf, því að þeir einblína á "grænt" vetni, og til að fullnægja áætlaðri vetnisþörf 2030 þarf um 30 % meiri raforku en nú nemur allri raforku Þjóðverja úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Þjóðverjar búast við að geta aðeins annað um 15 % þeirrar raforkuþarfar sjálfir eða um 50 TWh/ár, sem væri þá um 20 % aukning "grænnar" raforku í Þýzkalandi. Það, sem á vantar af grænu vetni, verða þeir að flytja inn, og þeir hafa nú þegar samið um það við Portúgal, Marokkó og Síle. Norðmenn hyggja líka gott til glóðarinnar. Má líta á tilvitnaða grein þýzka sendiherrans sem lið í undirbúningi slíks samnings við Íslendinga. Í þessu ljósi er afar óskynsamlegt af Landsvirkjun að binda hendur íslenzka ríkisins við samstarf við hollenzkan kaupanda. Við eigum að hafa frjálsar hendur til þessara viðskipta, og benda má á, að stór markaður er að opnast fyrir grænt vetni á Norður-Englandi líka.
"Frá sjónarmiði þýzkra stjórnvalda og þýzks iðnaðar er greiningin ótvíræð. Mikilvægasti þáttur umskipta í þýzkum iðnaði verður grænt vetni, vetni framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Rafmagnsþörfin mun aukast mjög mikið vegna vetnisframleiðslu og samgangna með rafmagni. Frekari uppbygging nálgast efnisleg og pólitísk endimörk. Þýzkaland heldur áfram að byggja upp endurnýjanlegar orkulindir, en verður árið 2050 að treysta eftir sem áður á umtalsverðan innflutning á orku í formi rafmagns, vetnis og afleiðum þeirra."
Þýzkaland ræður varla við alger orkuskipti með núverandi tækni, þótt landið flytji inn "grænt" rafmagn, t.d. frá Noregi um sæstreng, sem trúlega kemst í gagnið á þessu eða á næsta ári, og "grænt" vetni, jafnvel alla leið frá vatnsorkulöndum Suður-Ameríku. Árið 2030 verður vafalítið komin til skjalanna ný, umhverfisvæn tækni til raforkuvinnslu, líklega kjarnorkutækni með mun minna geislavirkum úrgangi og styttri helmingunartíma en frá núverandi úraníum-verum. Hvers vegna taka íslenzk stjórnvöld ekki þýzk stjórnvöld á orðinu og fá þýzkan vetnisframleiðanda til að stofna vetnisfélag á Íslandi með íslenzkri þátttöku áhugasamra, sem mundi semja um raforkukaup við íslenzka orkubirgja og framleiða "rafeldsneyti" hér til útflutnings til Þýzkalands ?
Þann 10. marz 2021 birtist í Morgunblaðinu viðtal við Hafstein Helgason, verkfræðing hjá Verkfræðistofunni EFLU. Viðtalið bar fyrirsögnina:
"Áform um vetnisgarða á Íslandi".
Þar sagði Hafsteinn Helgason m.a.:
"Með þetta [fyrirhuguð vindorkuver á Íslandi - innsk. BJo] í huga er verið að undirbúa fundarhöld milli Íslands og Þýzkalands, en Þjóðverjar eru farnir að sýna Íslandi áhuga [sem hreinorkulandi - innsk. BJo]. Þeim hefur fundizt sem ekki sé hægt að framleiða nógu mikið af raforku á Íslandi. Við getum hins vegar vel framleitt 5-8 GW af vindorku án þess að þrengja að ferðaþjónustu eða vera lífríkinu til ama."
""Annað verkefnið snýst um að virkja allt að 1,0 GW á NA-horni landsins og reisa vetnisverksmiðju í Finnafirði. Við höfum unnið það með Þjóðverjum, en innlendir og erlendir aðilar tengjast þessu verkefni. M.v. að hvert MW með vindorku kosti MISK 180, þá kosta 1000 MW mrdISK 180. Þetta er aðeins vindorkuþátturinn. Svo er vetnisþátturinn eftir. Í þessu tiltekna verkefni er horft til þess að gera ammoníak úr vetninu, því [að] vetnisgasið er svo rúmfrekt; það kostar töluvert mikið að vökvagera það [kæling undir þrýstingi - innsk. BJo]. Rúmmetrinn af fljótandi vetni vegur aðeins 71 kg, en rúmmetrinn af ammoníaki 600 kg", segir Hafsteinn og leggur áherzlu á, að bezt sé að nýta ammoníakið beint sem orkugjafa [orkubera - innsk. BJo].
Hér er um gríðarlegar fjárfestingar að ræða, sennilega yfir mrdISK 500 í orkuveri, vetnisverksmiðju og ammoníakverksmiðju, hafnargerð og hafnaraðstöðu. Hagsmunir landshlutans og landsins alls af þessu verkefni eru gríðarlegir. Það er stórskrýtið, að ekki heyrist bofs um stefnumörkun iðnaðarráðuneytisins í málinu. Hins vegar býst ég við, að tilvonandi 1. þingmaður NA-kjördæmis verði þessu meðmæltur. Það mun samt verða nóg af andmælendum. Afturhaldið í landinu hefur allt á hornum sér, þegar verðmætasköpun í dreifbýlinu er á döfinni.
Það er mjög áhugaverð aukabúgrein, sem af þessu stórverkefni getur spunnizt:
""Svæðið er þar að auki einstaklega hentugt til uppbyggingar á laxeldi, staðsettu á landi. Jafnvel tugi þúsunda tonna árlega. Súrefnið við vetnisframleiðsluna færi til íblöndunar við eldissjóinn til að minnka dælingarþörfina [í orkusparnaðarskyni og til að draga úr viðhaldsþörf - innsk. BJo]. Glatvarminn frá iðnferlunum færi í að hita sjóinn til eldisins í kjörhitastig", segir Hafsteinn um hinn gagnkvæma ávinning. Þá muni vindorkuverin skapa landeigendum tekjur og ammoníakið skapa tækifæri "fyrir hröð orkuskipti fiskiskipaflotans."
Þetta er mjög áhugaverð viðskiptahugmynd, sem þarna er kynnt til sögunnar. Byrjunarumfangið nægir til samkeppnishæfs rekstrar, landrými er líklega nægt, og staðsetningin truflar vonandi fáa, og aðstæður fyrir hafnargerð eru fyrir hendi. Tækniþekking samstarfsaðilanna er væntanlega næg fyrir hönnun, uppsetningu og rekstur alls verkefnisins, og síðast en ekki sízt eru Þjóðverjarnir væntanlega fúsir til að fjármagna öll herlegheitin.
Hið sama verður ekki sagt um áform Landsvirkjunar. Fyrirtækið hefur beðið Grímsnes- og Grafningshrepp um aðalskipulagsbreytingu á lóð Ljósafossvirkjunar til að hola þar niður örlítilli vetnisverksmiðju, sem aldrei getur borið sig sökum smæðar og á alls ekki heima í þessu umhverfi. Verkefnið kallar á vetnisflutninga eftir þröngum vegum, þar sem ferðamannaumferð er mikil. Þetta virðist algerlega þarflaust verkefni og algerlega utan við verksvið Landsvirkjunar. Þessi hugmynd er sem út úr kú.
Í baksviðsfrétt Morgunblaðsins 17. júní 2021:
"Vetni framleitt við Ljósafoss",
stóð þetta m.a.:
"Í fyrirhugaðri aðalskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir, að íbúðasvæði vestan við Ljósafossvirkjun, sem er í núverandi aðalskipulagi skilgreint sem íbúðabyggð, verði breytt í iðnaðarsvæði. Við Ljósafossstöð áformar Landsvirkjun að hefja vetnisvinnslu, og því er þessi breyting á skipulaginu nauðsynleg. Uppsett afl virkjunarinnar er 16 MW, og Landsvirkjun áformar, að uppsett afl rafgreinis verði 10 MW. Stærð vetnisstöðvarinnar verður nálægt 700 m2."
Sveitarstjórnin ætti að hafna þessari ósk um skipulagsbreytingu. Vatnsorkuverið Ljósafoss er heimsótt af fjölda manns árlega og nær væri að efla þjónustu við ferðamenn á þessum fagra stað en að fæla ferðamenn frá með vetnisframleiðslu, vetnistönkum og vetnisflutningum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)