Færsluflokkur: Dægurmál
27.6.2021 | 18:50
Úrgangsstjórnun í skötulíki
Í síðasta pistli á þessu vefsetri (24.06.2021-Jónsmessu) var gerð grein fyrir þeim ógöngum, sem stjórn Sorpu hefur ratað í með sína nýju jarð- og gasgerðarstöð, GAJA. Borgin er aðaleigandi Sorpu, og núverandi borgarstjórnarmeirihluta eru mjög mislagðar hendur í verklegum efnum, svo mjög, að í fljótu bragði mætti ætla, að allt, sem borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboð, Píratahreyfingarinnar og Viðreisnar, kemur nálægt, endi með klúðri.
Því miður virðist GAJA vera enn eitt dæmið í þetta safn fúsks og óhæfni. Stjórnmálamenn, sem ánetjazt hafa forsjárhyggjunni, þykjast þess einfaldlega umkomnir að hafa vit fyrir öðrum, þótt þá skorti bæði til þess vit og þekkingu, þegar kemur að tæknilegum verkefnum.
Þeirri aðferð að virkja markaðsöflin til að koma fram með hagkvæma framtíðarlausn á viðfangsefnum í frjálsri samkeppni er hafnað, af því að markaðsöflin eru knúin áfram af hagnaðarvon, sem er ljótt og ófélagslegt hugarfar í huga draumóravingla á vinstri kantinum. Þessir stjórnmálamenn gerir þess vegna hverja skyssuna á fætur annarri til stórfellds tjóns fyrir almenning, sem fær reikninginn, og varla nokkur stjórnmálamaður axlar sín skinn út af óráðsíunni.
Í forystugrein Bændablaðsins, 24. júní 2021, fær vonlaus, pólitísk hugmyndafræði í umhverfismálum ærlega á baukinn og var kominn tími til slíkrar gagnrýninnar umræðu um viðfangsefni, sem er í raun tæknilegt, fjárhagslegt og lagalegt úrlausnarefni, hafið yfir sérvizku og hugmyndafræði sérlundaðra stjórnmálamanna, sem hafa tafið fyrir eðlilegri þróun sorpeyðingarmála hérlendis (eins og þeir núna tefja fyrir eðlilegri þróun umferðarmannvirkja í Reykjavík með hrapallegum afleiðingum).
"Eftir áratuga eyðimerkurgöngu í meðhöndlun sorps á Íslandi berast nú þau tíðindi, að fara eigi að taka til hendi við að "undirbyggja ákvarðanir" um tæknilausnir, staðarval og kostnað við byggingu á 100 kt/ár sorporkustöð, sem væntanlega verður byggð á Suðurnesjum.
Að undirbúningi ákvarðanatöku, sem á að taka 4 mánuði, standa 4 byggðasamlög, þ.e. Sorpa, Kalka á Suðurnesjum, Sorpurðun Vesturlands og Sorpstöð Suðurlands auk umhverfisráðuneytisins. Á starfssvæði byggðasamlaganna fellur til nærri 85 % alls úrgangs á landinu.
Eins og margoft hefur verið fjallað um hér í Bændablaðinu, þá hefur ríkt ótrúlegt úrræðaleysi í sorpmálum Íslendinga líkt og skolpmálum um áratuga skeið. Vandræðagangurinn í sorpmálunum er einkum tilkominn vegna kreddufullrar pólitískrar afstöðu þeirra, sem ráðið hafa ferðinni í umhverfismálum bæði á landsvísu sem og í sveitastjórnarpólitík, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Þar á bæ vildi fólk hreinlega ekki taka mark á þeirri þróun, sem átt hefur sér stað í sorpbrennslumálum á Norðurlöndum og víðar um heim á liðnum áratugum. Gilti þá einu, þó [að] sýnt hafi verið fram á með vísindalegum gögnum og útreikningum ágæti þess að umbreyta sorpi í orku. Þess í stað hefur verið haldið dauðahaldi í þá afstöðu, að öll brennsla á sorpi sé alslæm og ekki í takti við þá hugmyndafræði, sem rekin hefur verið í loftslagsmálum." (Undirstr. BJo.)
Þessi texti sýnir, að stjórnmálamenn með einkennilegar skoðanir, sem illa fylgjast með á þessu sviði og lítt kunna til verka á sviði nútímalegrar meðhöndlunar sorps, hafa vélað um málin með arfaslæmum árangri á höfuðborgarsvæðinu, þar sem Sorpa er í djúpum skít með misheppnaða meira en mrdISK 6 fjárfestingu á bakinu undir formennsku vinstri græningja í borgarstjórnarmeirihluta undir forystu Samfylkingarinnar.
Það verður að snúa af þessari vonlausu braut með því að draga kunnáttumenn á sviði tækni og verkefnastjórnunar að undirbúningi verkefnisins "Sorpknúið orkuver fyrir landið allt", sem finni hagkvæma staðsetningu, helzt þar sem þörf er á orkunni), bjóði verkið út, uppsetningu og rekstur, og velji birgi og semji við hann. Það er að líkindum hagkvæmasta og áhættuminnsta leiðin fyrir skattgreiðendur. Stjórnmálamenn hafa ekki ráðið við verkefnið nútímaleg sorpeyðing hingað til, og með núverandi meirihluta í Reykjavík er algerlega borin von, að þeir finni hagkvæmustu og umhverfisvænstu leiðina í þessu máli.
Halldór Kristjánsson, ritstjóri Bbl., hélt áfram:
"Með þessa sérkennilegu hugmyndafræði að leiðarljósi var m.a. farið út í botnlausan fjáraustur við uppbyggingu á jarðgerðar- og gasstöð í Álfsnesi, sem kostaði skatt- og útsvarsgreiðendur á 7. mrd ISK. Sú stöð getur samt ekki annazt förgun á plasti og ýmsum efnum, sem áfram hefur orðið að urða. Þá hefur verið upplýst, að önnur meginframleiðsluafurð stöðvarinnar, molta, er algjörlega ónothæf vegna mengandi efna, sem í henni eru."
Það er ekki að ófyrirsynju, að varað er við áframhaldi þeirra vinnubragða, sem Sorpustjórnin hefur viðhaft, því að GAJA-verkefnið er alveg dæmigert um afleiðingar fúsks óráðþægra stjórnmálamanna, sem troðið hafa sér í stjórnunarstöður fyrirtækja hins opinbera, sem þeir ráða ekkert við. Umhverfisráðherra er í lykilstöðu til að beina undirbúningi sorporkuversins í réttan farveg, en þar sem hann er af sama sauðahúsi og téð Líf, er borin von, að hann geri það. Þess vegna stefnir í hreint óefni með um mrdISK 30 fjárfestingu. Í stað þess að skuldbinda útsvarsgreiðendur fyrir risaupphæðum í verkefni, sem e.t.v. verður bara til vandræða í höndum óhæfra stjórnmálamanna, á að fela einkaframtakinu verkefnið á grundvelli útboðs, sem vandað verkfræðiteymi með lögfræðinga sér til aðstoðar hefur undirbúið og síðan metið tilboð og samið við hagstæðasta birginn í nafni "sorpsamlags Íslands" um alverk og rekstur. Vonandi nunu sorpflutningar í nýju stöðina verða sjóleiðis, því að 100-200 kt/ár sorpflutningar eru ekki leggjandi á vanbúið vegakerfið.
"Nú segir borgarfulltrúi VG og formaður stjórnar Sorpu [Líf Magneudóttir], sem á og rekur jarðgerðar- og gasstöðina GAJA, í viðtali í Morgunblaðinu sl. þriðjudag [22.06.2021], að þar sé "verið að ná tökum á lífrænum úrgangi". Einnig segir: "Næsta stóra verkefnið er að afsetja brennanlegan úrgang". Fram kemur í þessu viðtali, að nú eigi loks að fara að skoða málin. Allt verði skoðað, m.a. flutningur sorpsins, sótspor þess og staðarval sorporkustöðvar sem og nýting "glatvarma".
"Nýta "fiskeldismykju", mannaseyru, moltu, brennistein og fleira sem áburð".
"Jónas Baldursson og Ragnhildur Friðriksdóttir, starfsmenn Matís, að vinna með moltu. Matís fékk 3 tegundir af moltu til að prófa, m.a. frá gas- og jarðgerðarstöðinni GAJA, sem er í eigu Sorpu. Sú molta reyndist ónothæf vegna aukaefna, sem í henni eru. Þurfti reyndar undanþágu frá reglum til að gera prófanir með notkun hennar á afmörkuðu svæði."
(Undirstr. BJo.)
Samkvæmt þessu heldur stjórnmálamaðurinn, sem ber höfuðábyrgð á GAJA gagnvart eigendum Sorpu, fram blekkingavaðli til að breiða yfir misheppnaða fjárfestingu byggðasamlagsins Sorpu, sem stjórnmálamenn, aðallega í meirihluta borgarstjórnar, stjórna. Þetta hlýtur að hafa stjórnmálalegar afleiðingar í borginni og ætti, ef allt væri með felldu, að leiða huga stjórnvalda að nauðsyn breyttrar aðferðarfræði við stjórnun úrgangsmála landsins. Á því sviði, eins og öðrum, leiðir fúsk til falls fyrr en seinna.
Forsætisráðherra virðist hafa gert loftslagsmálin að aðalmáli sínu fyrir Alþingiskosningarnar 2021, þótt ekki verði séð, að þau geti orðið VG til framdráttar. Hún sagði t.d. nýlega, að sorphirðumálin væru mikilvæg fyrir árangur okkar í baráttunni við losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Er það svo, eða heldur hún það bara ?
Í nýjustu skýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda stendur þetta m.a.:
"Meðhöndlun úrgangs var uppspretta 5 % af losun Íslands árið 2019 (LULUCF)."
Þessi losun nam aðeins 224 kt (4,7 %) CO2íg 2019 og hafði þá minnkað um 2,2 % síðan 1990 og um 12 % frá 2018. Miklar fjárfestingar í sorpeyðingu er ekki hægt að réttlæta með minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Aðrar og mikilvægari ástæður gera nútímavæðingu þessara mála nauðsynlega hérlendis. Evrópusambandið hefur bannað urðun, og sú ESB-löggjöf hefur verið innleidd í EFTA-löndum EES. Það er ekki lengur verjanleg landnotkun út frá landnýtingarsjónarmiðum og mengun, sem getur verið lífríkinu skaðleg, að urða sorp. Urðun þýðir þar að auki myndun metans í mun meiri mæli en þörf er á hérlendis, og metan er meira en tuttugufalt öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíildi, sem stígur upp af sorpknúnum orkuverum. Þetta koltvíldi gæti verið hagkvæmt að fanga og selja gróðurhúsabændum og lífeldsneytisframleiðendum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2021 | 10:23
Svipull er sjávarafli
Ráðlegging Hafrannsóknarstofnunar um afla í íslenzku fiskveiðilögsögunni fiskveiðiárið 2021/2022 kom sem skrattinn úr sauðarleggnum til almennings í landinu. Því hefur verið haldið að almenningi, að með rannsóknum og tölfræðilegum greiningum á mæliniðurstöðum og 20 % aflareglu úr viðmiðunarstofni væri verið að byggja upp vaxandi hrygningarstofn, svo að veiðarnar mundu aukast, þar til stofninn hefði náð þolmörkum umhverfisins, fæðuframboðs o.þ.h. Menn töldu þeim mörkum enn ekki vera náð, en er það svo ?
Nú hefur annað komið á daginn. Vísindamenn telja sig nú hafa ofmetið þorskstofninn um 267 kt eða 28 %. Er það svo, eða er þorskurinn farinn annað, varanlega ? Vísindamenn hafa ekki svör við því, og úr því verður að bæta fljótlega. Þótt Hafrannsóknarstofnun starfi undir rýni alþjóðlegs vísindasamfélags, hefur henni orðið alvarlega á í messunni. Hún verður í sumar að gera raunhæfa áætlun um úrbætur með viðeigandi kostnaðaráætlun, sem ráðuneytin og fjárlaganefnd Alþingis geta þá tekið afstöðu til í haust. Ekki er ólíklegt, að setja þurfi samþykkta kostnaðaráætlun á fjármálaáætlun ríkisins, því að við svo búið má ekki standa.
Sama hvernig á þessa sviðsmynd er litið, er málið grafalvarlegt, því að afar gloppótt þekking fiskifræðinganna á ástandi fiskimiðanna við landið blasir nú við. Hins vegar varaði enginn spekingur utan stofnunarinnar við þessu, og enginn ráðlagði minni veiðar, nema síður sé. Sé gert ráð fyrir, að endurskoðun viðmiðunarstærðar þorskstofnsins frá maí 2021 sé "rétt", blasir við ofmat stofns um 28 %. Samkvæmt aflareglunni minnkar þessi áætlun leyfilegar þorskveiðar á fiskveiðiárinu 2021/2022 niður í um 188 kt eða um 70 kt, sem gæti jafngilt tekjutapi um mrdISK 40. Þetta er höggið, sem sjávarútvegurinn og þjóðarbúið standa frammi fyrir á fiskveiðiárunum 2021/2022-2022/2023 vegna óvænts mats á verðmætasta stofninum, en vegna dempunarreglu helmingast höggið á hvort fiskveiðiárið, og nokkrir aðrir stofnar virðast vera að hjarna við.
Í gamla daga hefðu þessi tíðindi haft í för með sér gengisfellingu ISK, en enn stendur hún alveg pallstöðug, þótt hún hafi hækkað talsvert, eftir að hagur strympu glæddist á málmmörkuðum og í ferðageiranum og þótt Seðlabankinn hafi látið af sölu gjaldeyris. Bæði er, að sjávarútvegurinn er nú stöndugur og sveigjanlegur með mikinn aðlögunarþrótt og þjóðarbúinu hefur nú vaxið fiskur um hrygg með fleiri öflugum gjaldeyrislindum.
Það sýnir sig nú svart á hvítu, að engin glóra er í, að stjórnvöld fari að ráðum sérvitringa og óvita um sjávarútveg og taki að spila einhvers konar rússneska rúllettu með stórhækkun veiðigjalda eða uppboði á þjóðnýttum aflaheimildum. Slíkt er hreinræktuð dilla þröngsýnna pólitískra hugmyndafræðinga og skemmdarverkastarfsemi á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.
Ferðageirinn mun taka vel við sér, þegar sóttkví óbólusettra linnir með viðunandi hjarðónæmi hér, vonandi 01.07.2021, og þá hlýtur að verða nóg að skima aðeins þá, sem ekki eru með ónæmis- eða bólusetningarvottorð. Árið 2021 verður líklega, þrátt fyrir höggið, ár sæmilegs hagvaxtar, eins og annars staðar á Vesturlöndum, enda varð rýrnun þjóðartekna meiri hér árið 2020 en víðast hvar annars staðar eða 6 %-7 %. Samt hækkaði kaupmáttur launa. Það er líklega einsdæmi, en jók örugglega atvinnuleysið. Verkalýðshreyfingin stakk hausnum í sandinn og fórnaði langtímahagsmunum launþeganna fyrir skammtímaávinning þeirra, sem eru í öruggri vinnu. Það er ótraustvekjandi afstaða, enda bera sumar yfirlýsingar forseta ASÍ o.fl. vott um stéttastríðshugarfar, sem reynslan og samanburður við hin Norðurlöndin hefur sýnt, að getur ekki gagnazt launþegum til lengdar. Það, sem gagnast launþegum bezt, er að vinna að hámörkun verðmætasköpunar í friði við vinnuveitendur.
Önnur grein, sem nú getur komið til hjálpar, er fiskeldið, bæði í sjókvíum innan marka áhættugreininga og burðarþolsmats Hafrannsóknarstofnunar, og í landeldiskerum. Eftirlitsstofnanir mega hvorki draga lappirnar né flaustra, heldur skulu þær halda sig innan lögboðinna tímamarka.
Viðbrögð forystu SÍF, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, við leiðréttingu á mistökum Hafró, voru rétt. Það er skárst í stöðunni að fylgja ráðum beztu fáanlegu þekkingar á sviði haf- og fiskifræði, þótt henni sé ábótavant, enda gæti hundsun slíkra ráðlegginga haft slæmar afleiðingar fyrir markaðsstöðu íslenzkrar framleiðslu sjávarútvegsins erlendis, þar sem samkeppnin er hörð. Vonandi dregur nú úr útflutningi óunnins fiskjar, svo að framleiðendur geti haldið markaðsstöðu sinni fyrir unna vöru. Nú er ástæða fyrir utanríkisráðuneytið til að juða í Bretum um lækkun tolla á slíkum vörum.
Gunnlaugur Snær Ólafsson birti frétt í Morgunblaðinu 16. júní 2021 um þessi slæmu tíðindi:
"Gera ráð fyrir samdrætti í útvegi".
Þar stóð m.a.:
""Ég verð bara að segja það, að þetta eru mikil vonbrigði og þungbær tíðindi. Þetta er svo mikill niðurskurður og mjög óvænt. Þetta mun valda tekjusamdrætti hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og ljóst, að menn verða að grípa til aðgerða í sínum rekstri til að mæta þessu.
Ég sé samt ekkert annað í stöðunni en við fylgjum ráðgjöf Hafró. Við verðum að taka á þessu af ábyrgð og fylgja þessari vísindalegu ráðgjöf með langtímahagsmuni í huga", segir Ólafur H. Marteinsson, forstjóri Ramma hf og formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi."
Af sömu ástæðum og Ólafur tilgreinir, mun sjávarútvegsráðherra að öllum líkindum fylgja þessari ráðgjöf Hafró í meginatriðum. Skaðinn er orðinn, og hann verður ekki bættur með hókus-pókus aðferðum.
Um þetta er þó ekki eining, og annan pól í hæðina tók Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, en félagsmenn hans eru mjög háðir þorskveiðum:
"Hann kveðst binda vonir við, að ráðherra sjávarútvegsmála fari út fyrir ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar til að lina höggið, sem fylgir skerðingunni. "Ég held það sé alveg hægt. 13 % niðurskurður í okkar helztu tegund er bara allt of mikið. Smábátarnir eru alveg háðir þorskinum.""
Það er innbyggð dempun á breytingum í ráðgjöf Hafró, því að skerðingin væri 27 %, ef hún kæmi að fullu fram á einu fiskveiðiári. Það er ekki nóg, að hagsmunaaðilar haldi, að óhætt sé að veiða meira, ef viðtekin aflaregla segir allt annað.
Það er eðlilegt og skiljanlegt, að sjávarútvegsfyrirtæki leiti leiða til að vaxa yfir í skylda starfsemi, sem veitir meiri stöðugleika. Það hafa þau gert með því að gjörnýta fiskinn og framleiða úr honum eftirsóttar vörur á grundvelli rannsókna og þróunar. Stórtækastar eru þó fjárfestingarnar á sviði fiskeldis. Samherji kannaði fýsileika þess að kaupa Norðurálshúsin í Helguvík undir landeldi, en hvarf frá því vegna skorts á ferskvatni. Nú hefur fyrirtækið kynnt áform í samstarfi við HS Orku við Reykjanesvirkjun. Morgunblaðið greindi frá þessu 17. júní 2021 í frétt undir fyrirsögninni:
"Ylsjórinn dró Samherja á Reykjanes".
Hún hófst þannig:
"Aðstæður til landeldis á laxi eru góðar í Auðlindagarðinum á Reykjanesi, en þar áformar Samherji fiskeldi ehf að reisa risastóra eldisstöð. Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis, segir, að ylsjórinn geri þessa staðsetningu sérstaka. Ylsjórinn er affall frá kælingu Reykjanesvirkjunar. Jón Kjartan segir, að aðgangur að miklum ylsjó sé forsenda þess, að hægt sé að koma upp hagkvæmu landeldi á stórum skala."
Hér er ætlunin að mynda nýtt lokastig nýtingar varmans úr jarðgufunni og þar með að gjörnýta orkuna úr jarðgufunni til að flýta vexti eldisfiskjarins. Þessi flýting ásamt hagkvæmni stærðarinnar mun sennilega gera þetta fyrirhugaða landeldi samkeppnishæft við sjókvíaeldi, en hár fjármagnskostnaður og rekstrarkostnaður hefur verið Akkilesarhæll landeldisins.
"Áformað er að byggja allt að 40 kt/ár laxeldi á landi í þremur áföngum á næstu 11 árum. Byggð verður seiðastöð og ker fyrir áframeldi. Jón Kjartan segir gert ráð fyrir, að komið verði upp aðstöðu til slátrunar á laxi, en frekari vinnsla og pökkun verði annars staðar á Suðurnesjum. Af því tilefni segir hann, að Samherji vinni afurðir sínar yfirleitt meira en minna. Því verði hluti laxaframleiðslunnar flakaður fyrir útflutning, en hann segir ekki ljóst nú, hversu stór hluti það verði.
Í 1. áfanga stöðvarinnar er gert ráð fyrir 10 kt/ár framleiðslu. Frumvinnsla á laxi og pökkun er mannaflsfrek starfsemi. Þannig er gert ráð fyrir, að bein störf við eldi og frumvinnslu í 1. áfanga verði um 100 og annað eins í afleiddum störfum. Þá muni fjölmörg störf verða við uppbygginguna."
Þetta verkefni Samherja er ekkert minna en hvalreki fyrir Suðurnesjamenn og landið allt. Þarna verða allt að 800 störf til 2032, bein og óbein, heildarfjárfesting verður líklega mrdISK 45 - mrdISK 50, og á verkstað gæti þurft um 1400 mannár á 11 ára skeiði. Þetta er þess vegna stórverkefni, sem er einmitt það, sem íslenzka hagkerfið þarf endilega á að halda núna, því að í landinu ríkir ládeyða í atvinnulífinu. Á sama tíma og umsvif sjávarútvegs minnka vegna niðursveiflu í lífríki hafsins, þá leggur Samherji grunn að hagrænum stöðugleika og vaxandi tekjustreymi til framtíðar, sem verður öllum landsmönnum til góðs. Þetta eru gleðitíðindi.
Fiskeldið er sannarlegur vaxtarbroddur hagkerfisins um þessar mundir. Árið 2020 var slátrað 40,6 kt af eldisfiski í landinu, og útflutningsverðmæti þess nam mrdISK 29,3. Verðmæti útfluttra sjávarafurða nam þá mrdISK 270, svo að hlutfallið var þá orðið 11 % og 5 % af heildarvöruútflutningi. Árið 2032 gæti fiskeldið numið 200 kt alls og hlutfall þess af heildarvöruútflutningi landsins numið 22 %. Það mun þess vegna mynda eina af meginstoðum íslenzka hagkerfisins.
Þann 14. apríl 2021 ritaði væntanlegur 1. þingmaður NA-kjördæmis, Njáll Trausti Friðbertsson, mjög fróðlega grein í Markað Fréttablaðsins:
"Drifkraftur og byggðafesta fiskeldisins".
Þar kom m.a. eftirfarandi fram:
"Nýsamþykkt tillaga Hafrannsóknarstofnunar um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar laxeldis, gerir ráð fyrir, að heimilt sé eldi 106 kt/ár í sjó. Vaxi það [sjóeldið - innsk. BJo] nærri gildandi áhættumati fiskeldisins, gæti útflutningsverðmæti sjóeldisins orðið nærri 80 mrdISK/ár. M.v. 800 ISK/kg greiðslu fyrir útflutninginn. Auk þess verðmætis í sjóeldi er á næstu árum stefnt á landeldi á laxi, bleikju og öðru fiskeldi fyrir um 15 mrdISK/ár. [Þarna voru tíðindin af verkefni Samherja á Reykjanesi ekki komin fram - innsk. BJo.] Það lætur því nærri, að útflutningsverðmæti fiskeldis geti orðið tæplega 100 mrdISK/ár á næstu árum. Gangi þetta eftir, verður fiskeldið stór hluti útflutningsverðmæta íslenzkra sjávarafurða."
Njáll Trausti Friðbertsson hefur öðlazt ríkan skilning á atvinnulífinu og heilbrigðu samspili innlendra og erlendra fjárfestinga þar og í seinni tíð innkomu Kauphallar Íslands við miðlun fjárfestingarfjár frá sparendum til fiskeldisfyrirtækja og sjávarútvegsfyrirtækja. Kveður þar við annan og heilbrigðari tón en heyra má úr ranni sumra annarra á stjórnmálavettvangi, hverra ær og kýr eru niðurrif á trausti almennings til fyrirtækja og að kynda undir stéttastríði launþega og launagreiðenda. Slíkur forheimskandi áróður getur engum orðið til hagsbóta. Ágætri grein sinni í Markaðinum lauk NTF þannig:
"Þrátt fyrir að stór hluti Íslands hafi verið lokaður fyrir fiskeldi [í sjó] frá 2004 og stjórnvöld setji eldinu æ strangari kröfur, óttast menn umhverfisáhrif og vöxt fiskeldisins.
Við skulum gera ríkar kröfur um uppbyggingu eldis í sátt við umhverfið. Innan eldisfyrirtækja er sterk umhverfisvitund, enda sjálfra þeirra hagsmunir að ganga vel um náttúruna. Kröfur alþjóðlegra umhverfisvottana aga einnig starfsemina.
Ótti um aðkomu erlendra fyrirtækja í fiskeldi er ástæðulaus. Þau miðla íslenzku eldi mikilli reynslu og þekkingu og dreifa fjárhagslegri áhættu af innlendri uppbyggingu. Áhugavert er, að flest laxeldisfyrirtæki eru nú skráð á hlutabréfamörkuðum, og íslenzkir fjárfestar, þ.m.t. lífeyrissjóðir, hafa fjárfest í þessari vaxandi atvinnugrein. Óháð eignaraðild er fiskeldið að skilja mikið eftir sig í hinum dreifðu byggðum.
Efnahagsleg hagsæld mun áfram byggja á vexti útflutningsgreina. Þar verður fiskeldið æ mikilvægari drifkraftur atvinnusköpunar og byggðafestu, ekki sízt á Austfjörðum."
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.6.2021 | 17:54
Vetnisvæntingar og virkjanaþörf
Við og við berast almenningi fregnir af miklum vetnisáformum. Síðast var það með forsíðuuppslætti forstjóra Landsvirkjunar, Harðar Arnarsonar, um samstarfsverkefni Landsvirkjunar og Rotterdam-hafnar um flutninga á vetni, framleiddu á Íslandi, til Rotterdam. Lesandinn var þó skilinn eftir í þoku með það, hvort þetta samstarfsverkefni spanni einnig vetnisverksmiðju. Aðrar fregnir herma, að Landsvirkjun vilji reisa vetnisverksmiðju við Ljósafossvirkjun. Sú hugmynd er algerlega út í hött. Á hvaða vegferð er þetta stóra og mikilvæga ríkisfyrirtæki eiginlega ? Hafa menn algerlega tapað áttum ? Það eru fleiri, sem eru að rannsaka fýsileika þess að reisa hér vetnisverksmiðjur, og þeir hafa sumir áhyggjur af því, að raforkuverðið, sem slíkum vetnisverksmiðjum býðst, sé ósamkeppnishæft. Landsvirkjun er að villast út í bullandi hagsmunaárekstra ("conflict of interests").
Hvað sem því líður samkeppnishæfninni, verður að telja mjög óeðlilegt, að afskipti Landsvirkjunar af vetnisframleiðslu hérlendis séu nokkur önnur en að selja raforku til slíkrar framleiðslu. Þetta ríkisraforkufyrirtæki, sem er risinn á fákeppnismarkaði stórsölu á rafmagni í landinu, verður að gæta "arms lengdar" við mögulega viðskiptavini sína, til að önnur vetnisfélög eða hvaða annar kaupandi þeirra takmörkuðu gæða, sem íslenzk raforka er, hafi ekki rökstudda ástæðu til að væna Landsvirkjun um mismunun.
Hafa fulltrúar eigenda Landsvirkjunar, Alþingismenn, rætt þessa útvíkkun á starfsemi Landsvirkjunar ? Það hefur þá farið mjög lágt. Þetta er grundvallarbreyting á hlutverki Landsvirkjunar, og slík stefnumörkun þarf að koma með lagasetningu eða a.m.k. þingsályktun frá Alþingi. Það gengur ekki, að fyrirtækið vaði út um víðan völl með þessum hætti. Alþingismenn þurfa að skerpa á hlutverki Landsvirkjunar og bæta við orkulögin lagagrein um, að það sé á ábyrgð Landsvirkjunar að sjá til þess, að aldrei komi til forgangsorkuskorts í landinu, nema náttúruhamfarir hamli raforkuvinnslu.
Í Morgunblaðinu 15. júní 2021 var forsíðufrétt um Rotterdam-ævintýri Landsvirkjunar og síðan frétt á bls. 4 undir fyrirsögninni:
"Grænt ljós á útflutning á grænu vetni".
Hún hófst þannig:
""Þessar niðurstöður eru mjög uppörvandi, og við hjá Landsvirkjun höfum trú á þessu samstarfi við Rotterdamhöfn", segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Landsvirkjun og hafnaryfirvöld í Rotterdam hafa lokið við forskoðun varðandi möguleika á að flytja grænt vetni frá Íslandi til Rotterdam. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun sýna niðurstöðurnar, að tæknin er fyrir hendi jafnframt því, sem verkefnið er fjárhagslega ábatavænt. Eins telur Landsvirkjun, að verkefnið yrði mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagshlýnun, þegar hagkerfi heimsins skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orku á komandi áratugum."
Þetta er óttalega innantómt hjá forstjóranum, enda auðvelt að verða sér úti um upplýsingar, sem með smáútreikningum sýna, að hagkvæmt muni á allra næstu árum verða að virkja vatnsföll og jarðgufu og jafnvel vind á Íslandi til að framleiða vetni með rafgreiningu (klofnun vatns). Hins vegar yrði framboð vetnis frá Ísland alltaf hverfandi lítill hluti af heildarframboðinu til orkuskipta, og þess vegna mjög ofmælt og villandi, raunar tóm vitleysa, að halda því fram, "að verkefnið yrði mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagshlýnun". Réttara er, að það skiptir engu máli í því stóra samhengi. Það sést á því, að Landsvirkjun áformar að virkja 2-4 TWh/ár í þetta verkefni eða 200-500 MW að eigin sögn, sem gefur mjög háan nýtingartíma á ári, miklu hærri en mögulegur er með vindmyllum. Til samanburðar ætla Þjóðverjar fyrir árið 2030 að nýta vetni frá 80 GW uppsettu afli og miða þá við vindmyllur úti fyrir ströndum með nýtingartíma um 45 %. Það þýðir, að þetta framlag Landsvirkjunar til vetnisvæðingar Þýzkalands yrði innan við 1 % árið 2030. "Miklir menn erum við Hrólfur minn."
Fréttin í þessari frásögn er hins vegar sú, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun, sem gæti fengið fyrirspurnir frá nokkrum vetnisframleiðendum um sölu raforku til nokkurra vetnsisverksmiðja á landinu, sé að blanda sér inn í fýsileikakönnun eins aðila um vetnisverksmiðju og vetnisflutninga. Þar er Landsvirkjun hreint út sagt komin út fyrir heimildir sínar og siðlega framgöngu í viðskiptum út frá samkeppnissjónarmiði. Hún gefur höggstað á sér gagnvart Samkeppniseftirlitinu og ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, sem líklega telja hér um óeðlilega og samkeppnisskekkjandi ríkisaðstoð að ræða. Þetta er dómgreindarleysi af hálfu stjórnar Landsvirkjunar.
Afar áhugaverð grein birtist í Bændablaðinu 27. maí 2021 eftir Herrn Dietrich Becker, sendiherra Þýzkalands á Íslandi. Hann varpar fram aðlaðandi samstarfsgrundvelli Íslendinga og Þjóðverja á sviði vetnistækni. Greinin hét:
"Tækifæri fyrir Ísland og Þýzkaland".
Þar stóð í innganginum m.a.:
"Þýzkaland hefur náð miklum árangri í að byggja upp vind- og nýlega sólarorku. Þegar árið 2020 var meira en helmingur þýzkrar raforkuframleiðslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum: 247 TWh/ár samtals (þar af vindorka 131 TWh/ár, sólarorka 51 TWh/ár, lífmassi 45 TWh/ár, vatnsorka 18 TWh/ár). Heildar raforkuframleiðsla Íslendinga nam [þá] 19 TWh/ár [og var öll úr "endurnýjanlegum" orkulindum]."
Þetta er frábær árangur Þjóðverja, en dýrkeyptur sem mikil landfórn undir vindmyllur í þéttbýlu landi og hefur valdið háu raforkuverði. Á næsta ári á að loka öllum starfræktum kjarnorkuverum í Þýzkalandi, og mun sá pólitíski gjörningur auka á losun koltvíildis, og er þess vegna furðuleg friðþæging fráfarandi kanzlara í garð græningja. Framboðsgapið, ef af verður, verður fyllt með aukinni raforkuvinnslu gasorkuvera, kolakyntra orkuvera og innflutningi rafmagns. Aðgerðin er þess vegna allsendis ótímabær.
Nú stendur fyrir dyrum hjá Þjóðverjum að draga úr eldsneytisnotkun á fleiri sviðum en við raforkuvinnslu, og þá horfa þeir til vetnis og vetnisafleiða, s.s. ammoníaks. Sú aðgerð er raforkukræf, því að þeir einblína á "grænt" vetni, og til að fullnægja áætlaðri vetnisþörf 2030 þarf um 30 % meiri raforku en nú nemur allri raforku Þjóðverja úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Þjóðverjar búast við að geta aðeins annað um 15 % þeirrar raforkuþarfar sjálfir eða um 50 TWh/ár, sem væri þá um 20 % aukning "grænnar" raforku í Þýzkalandi. Það, sem á vantar af grænu vetni, verða þeir að flytja inn, og þeir hafa nú þegar samið um það við Portúgal, Marokkó og Síle. Norðmenn hyggja líka gott til glóðarinnar. Má líta á tilvitnaða grein þýzka sendiherrans sem lið í undirbúningi slíks samnings við Íslendinga. Í þessu ljósi er afar óskynsamlegt af Landsvirkjun að binda hendur íslenzka ríkisins við samstarf við hollenzkan kaupanda. Við eigum að hafa frjálsar hendur til þessara viðskipta, og benda má á, að stór markaður er að opnast fyrir grænt vetni á Norður-Englandi líka.
"Frá sjónarmiði þýzkra stjórnvalda og þýzks iðnaðar er greiningin ótvíræð. Mikilvægasti þáttur umskipta í þýzkum iðnaði verður grænt vetni, vetni framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Rafmagnsþörfin mun aukast mjög mikið vegna vetnisframleiðslu og samgangna með rafmagni. Frekari uppbygging nálgast efnisleg og pólitísk endimörk. Þýzkaland heldur áfram að byggja upp endurnýjanlegar orkulindir, en verður árið 2050 að treysta eftir sem áður á umtalsverðan innflutning á orku í formi rafmagns, vetnis og afleiðum þeirra."
Þýzkaland ræður varla við alger orkuskipti með núverandi tækni, þótt landið flytji inn "grænt" rafmagn, t.d. frá Noregi um sæstreng, sem trúlega kemst í gagnið á þessu eða á næsta ári, og "grænt" vetni, jafnvel alla leið frá vatnsorkulöndum Suður-Ameríku. Árið 2030 verður vafalítið komin til skjalanna ný, umhverfisvæn tækni til raforkuvinnslu, líklega kjarnorkutækni með mun minna geislavirkum úrgangi og styttri helmingunartíma en frá núverandi úraníum-verum. Hvers vegna taka íslenzk stjórnvöld ekki þýzk stjórnvöld á orðinu og fá þýzkan vetnisframleiðanda til að stofna vetnisfélag á Íslandi með íslenzkri þátttöku áhugasamra, sem mundi semja um raforkukaup við íslenzka orkubirgja og framleiða "rafeldsneyti" hér til útflutnings til Þýzkalands ?
Þann 10. marz 2021 birtist í Morgunblaðinu viðtal við Hafstein Helgason, verkfræðing hjá Verkfræðistofunni EFLU. Viðtalið bar fyrirsögnina:
"Áform um vetnisgarða á Íslandi".
Þar sagði Hafsteinn Helgason m.a.:
"Með þetta [fyrirhuguð vindorkuver á Íslandi - innsk. BJo] í huga er verið að undirbúa fundarhöld milli Íslands og Þýzkalands, en Þjóðverjar eru farnir að sýna Íslandi áhuga [sem hreinorkulandi - innsk. BJo]. Þeim hefur fundizt sem ekki sé hægt að framleiða nógu mikið af raforku á Íslandi. Við getum hins vegar vel framleitt 5-8 GW af vindorku án þess að þrengja að ferðaþjónustu eða vera lífríkinu til ama."
""Annað verkefnið snýst um að virkja allt að 1,0 GW á NA-horni landsins og reisa vetnisverksmiðju í Finnafirði. Við höfum unnið það með Þjóðverjum, en innlendir og erlendir aðilar tengjast þessu verkefni. M.v. að hvert MW með vindorku kosti MISK 180, þá kosta 1000 MW mrdISK 180. Þetta er aðeins vindorkuþátturinn. Svo er vetnisþátturinn eftir. Í þessu tiltekna verkefni er horft til þess að gera ammoníak úr vetninu, því [að] vetnisgasið er svo rúmfrekt; það kostar töluvert mikið að vökvagera það [kæling undir þrýstingi - innsk. BJo]. Rúmmetrinn af fljótandi vetni vegur aðeins 71 kg, en rúmmetrinn af ammoníaki 600 kg", segir Hafsteinn og leggur áherzlu á, að bezt sé að nýta ammoníakið beint sem orkugjafa [orkubera - innsk. BJo].
Hér er um gríðarlegar fjárfestingar að ræða, sennilega yfir mrdISK 500 í orkuveri, vetnisverksmiðju og ammoníakverksmiðju, hafnargerð og hafnaraðstöðu. Hagsmunir landshlutans og landsins alls af þessu verkefni eru gríðarlegir. Það er stórskrýtið, að ekki heyrist bofs um stefnumörkun iðnaðarráðuneytisins í málinu. Hins vegar býst ég við, að tilvonandi 1. þingmaður NA-kjördæmis verði þessu meðmæltur. Það mun samt verða nóg af andmælendum. Afturhaldið í landinu hefur allt á hornum sér, þegar verðmætasköpun í dreifbýlinu er á döfinni.
Það er mjög áhugaverð aukabúgrein, sem af þessu stórverkefni getur spunnizt:
""Svæðið er þar að auki einstaklega hentugt til uppbyggingar á laxeldi, staðsettu á landi. Jafnvel tugi þúsunda tonna árlega. Súrefnið við vetnisframleiðsluna færi til íblöndunar við eldissjóinn til að minnka dælingarþörfina [í orkusparnaðarskyni og til að draga úr viðhaldsþörf - innsk. BJo]. Glatvarminn frá iðnferlunum færi í að hita sjóinn til eldisins í kjörhitastig", segir Hafsteinn um hinn gagnkvæma ávinning. Þá muni vindorkuverin skapa landeigendum tekjur og ammoníakið skapa tækifæri "fyrir hröð orkuskipti fiskiskipaflotans."
Þetta er mjög áhugaverð viðskiptahugmynd, sem þarna er kynnt til sögunnar. Byrjunarumfangið nægir til samkeppnishæfs rekstrar, landrými er líklega nægt, og staðsetningin truflar vonandi fáa, og aðstæður fyrir hafnargerð eru fyrir hendi. Tækniþekking samstarfsaðilanna er væntanlega næg fyrir hönnun, uppsetningu og rekstur alls verkefnisins, og síðast en ekki sízt eru Þjóðverjarnir væntanlega fúsir til að fjármagna öll herlegheitin.
Hið sama verður ekki sagt um áform Landsvirkjunar. Fyrirtækið hefur beðið Grímsnes- og Grafningshrepp um aðalskipulagsbreytingu á lóð Ljósafossvirkjunar til að hola þar niður örlítilli vetnisverksmiðju, sem aldrei getur borið sig sökum smæðar og á alls ekki heima í þessu umhverfi. Verkefnið kallar á vetnisflutninga eftir þröngum vegum, þar sem ferðamannaumferð er mikil. Þetta virðist algerlega þarflaust verkefni og algerlega utan við verksvið Landsvirkjunar. Þessi hugmynd er sem út úr kú.
Í baksviðsfrétt Morgunblaðsins 17. júní 2021:
"Vetni framleitt við Ljósafoss",
stóð þetta m.a.:
"Í fyrirhugaðri aðalskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir, að íbúðasvæði vestan við Ljósafossvirkjun, sem er í núverandi aðalskipulagi skilgreint sem íbúðabyggð, verði breytt í iðnaðarsvæði. Við Ljósafossstöð áformar Landsvirkjun að hefja vetnisvinnslu, og því er þessi breyting á skipulaginu nauðsynleg. Uppsett afl virkjunarinnar er 16 MW, og Landsvirkjun áformar, að uppsett afl rafgreinis verði 10 MW. Stærð vetnisstöðvarinnar verður nálægt 700 m2."
Sveitarstjórnin ætti að hafna þessari ósk um skipulagsbreytingu. Vatnsorkuverið Ljósafoss er heimsótt af fjölda manns árlega og nær væri að efla þjónustu við ferðamenn á þessum fagra stað en að fæla ferðamenn frá með vetnisframleiðslu, vetnistönkum og vetnisflutningum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.6.2021 | 16:59
Þráhyggjan er þeirra einkenni
Þegar kommúnisminn hrundi sem siðferðislega og fjárhagslega gjaldþrota þjóðskipulag, þá misstu sósíalistar (sameignarsinnar) hvarvetna fótanna og hafa átt í mesta basli við að fóta sig síðan. Boðskapur þeirra um forræði stjórnmálamanna yfir atvinnurekstri og flestum eignum hefur alls staðar endað með ósköpum og afnámi einstaklingsfrelsis, þar sem þeir hafa komizt í aðstöðu til að láta að sér kveða.
Í kjölfar þessa og þjóðfélagsbreytinga á Vesturlöndum með enn meiri eflingu miðstéttarinnar hefur fylgið einnig reytzt af sósíaldemókrötum (jafnaðarmönnum) á Vesturlöndum, og nægir að minna á niðurlægingu brezka Verkamannaflokksins (Labour) og þýzka Jafnaðarmannaflokksins (SPD), en í fylkiskosningum 6. júní 2021 í Sachsen-Anhalt hlaut hann aðeins 8 % atkvæða. Boðskapur þeirra passar ekki við tíðarandann (Zeitgeist). Græningjar hafa hafa "Zeitgeist" með sér.
Það er ljóst, að íslenzkir vinstri menn þjást einnig af uppdráttarsýki, því að þeir hafa ekki lengur neinar rætur til verkalýðshreyfingarinnar. Í staðinn er blásið um mikilvægi þess, að Íslendingar verði "kolefnishlutlausir". Það mun þó engin mælanleg áhrif hafa á hitastig andrúmslofts jarðar. Sérvizkulegar kreddur, sem lítið sem ekkert höfða til daglegrar lífsbaráttu fólks, einkenna málflutninginn, og nú er að koma í ljós, að tvö mál ætla vinstri menn að halda dauðahaldi í í komandi kosningabaráttu af einskærri þráhyggju og málefnafátækt, fyrir utan loftslagsumræðuna, en það er endurskoðun stjórnarskrárinnar frá grunni, þ.e. ný stjórnarskrá, og umbylting fiskveiðistjórnunarkerfisins.
Þegar hér er komið sögu, verður að átta sig á því, hverjir þessir vinstri flokkar eru. Það eru t.d. þeir flokkar, sem sameinazt hafa um meirihlutamyndun til að stjórna Reykjavík, en stjórnun borgarinnar er, eins og sorgarleikur trúða, þar sem þekking á öllum málum, frá umferðartækni til fjármála, er fótum troðin, en fullkomnir fúskarar fá að traðka niður matjurtabeðin.
Eftir að varadekkið Viðreisn gekk til samstarfs við fallistana í Píratahreyfingunni og Vinstri hreyfingunni grænu framboði undir stjórn Samfylkingar, stendur ekki steinn yfir steini í borginni. Það hefur keyrt um þverbak í hænsnabúinu. Bragginn með sínum dönsku stráum að annars gagnslausu, en risastóru sóunarverkefni, Borgarlínunni, eru á meðal ömurlegra minnisvarða samvizkulausra sérvitringa og bruðlara með almannafé, og hnífurinn hefur ekki gengið á milli þeirra, svo að öllu þessu ásamt Flokki fólksins og Sósíalistaflokkinum má kemba með einum kambi.
Um Lýðveldisstjórnarskrána með áorðnum breytingum er það að segja, að fullveldistrygging hennar, sem ESB-sinnarnir vilja feiga, reyndist sverð og skjöldur þjóðarinnar, þegar hæst þurfti að hóa og mest reið á í ólgusjó fjármálahrunsins 2008-2010. Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur, rakti þetta og ósvífna aðför vinstri stjórnarinnar 2009-2013 að Lýðveldisstjórnarskránni í nýjasta hefti Tímarits lögfræðinga. Morgunblaðið gerði rækilega grein fyrir þessu og ónothæfum drögum Stjórnlagaráðs í forystugrein 7. júní 2021:
"Vegið að undirstöðu".
Því er m.a. haldið fram af áhangendum þessa Stjórnlagaráðs, að þjóðin hafi samþykkt tillögu þess í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. Þetta er alveg fráleit ályktun. Lagðar voru fyrir kjósendur nokkrar spurningar og spurt eitthvað á þá leið, hvort leggja ætti tilgreindan texta til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Spurningarnar voru bæði loðnar og leiðandi og fullnægðu engan veginn þeim gæðakröfum, sem gera verður til spurninga í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar að auki er þessi spurningavaðall ótækur í atkvæðagreiðslu um stjórnarskrá. Atkvæðagreiðslan var þess vegna ómarktæk sem slík. Þegar fá á skoðun þjóðar á nýrri stjórnarskrá, ber að leggja hana fyrir þjóðina í heild sinni frágengna með góðum fyrirvara og spyrja síðan, hvort kjósandinn samþykki hana eða hafni henni. Allt annað er kukl og fúsk.
Miklar breytingar á stjórnarskrá skapa réttarfarslega óvissu í landinu, hvað þá alger endurnýjun. Breytingar eiga að stuðla að auknum skýrleika fyrir almenning og dómara. Sá kafli Stjórnarskrárinnar, sem er einna óskýrastur, jafnvel úreltur, er um forseta lýðveldisins. Alþingi ætti að fela stjórnlagafræðingum að endursemja hann og fela forseta skýrt vald við stjórnarskipti og þingrof, svo og að setja inn ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Slíkt er í anda nútímalegra lýðræðishugmynda. Að buxnast við að setja inn alls kyns óþarfa í stjórnarskrá lýðveldisins, er tímasóun og misskilningur. Það er t.d. alger óþarfi að setja í stjórnarskrá einhver gjaldtökuákvæði fyrir afnotarétt af auðlindum. Þessum málum getur Alþingi hagað að vild sinni með lagasetningu án atbeina Stjórnarskrár.
Verður nú vitnað í téðan Morgunblaðsleiðara:
"Kristrún [Heimisdóttir, lögfræðingur] rekur þann dapurlega og löglausa farsa, sem í hönd fór, allt í boði vinstri stjórnarinnar, og að auki, hvernig þetta stjórnlagaráð "fór út fyrir umboð sitt, eins og það var ákveðið í þingsályktun". Þá tók við kosning um "tillögur stjórnlagaráðs", sem Kristrún bendir á, að hafi ekki einu sinni verið tillögur stjórnlagaráðs, enda hafi þær ekki verið fullbúnar "til þinglegrar meðferðar, hvað þá þjóðaratkvæðis". Mjög var svo óljóst um hvað var kosið í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2012, sem Kristrún segir, að hafi orðið til á "hrossakaupamarkaði" stjórnmálanna og kjósendur hafi verið látnir halda, að þeir væru að kjósa um tillögur stjórnlagaráðs, sem hafi ekki verið raunin. Og hún talar um, að "orðræða um frumvarp stjórnlagaráðs" og "tillögur stjórnlagaráðs" hafi í meðförum Alþingis orðið "völundarhús hálfsannleikans".
Í ljósi þessarar úttektar Kristrúnar Heimisdóttur, lögfræðings, blasir við, að sú stjórnarskráræfing, sem þarna fór fram, var slys, og það er tímasóun og rangfærsla að fjalla um hana sem eitthvað, sem Alþingi skuldi þjóðinni. Þeir, sem það gera enn, fiska í gruggugu vatni fórnarlambstilfinningarinnar. Þetta slys hefur verið afskrifað og bezt er, að það falli í gleymskunnar dá.
Núverandi Stjórnarskrá bjargaði Íslandi frá gjaldþroti 2008-2009 með sínum ótvíræðu fullveldisákvæðum, sem t.d. áhangendur ESB-aðildar vilja nú þynna út. Með hliðsjón af úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslnanna um "Icesave" er harla ósennilegt, að þjóðin muni samþykkja nokkra útþynningu ákvæða, sem nú tryggja óskorað fullveldi ríkisins.
Mogginn hélt áfram:
"Í grein sinni lýsir Kristrún því, hve fjarstæðukennt það sé að telja, að stjórnarskráin hafi haft eitthvað með bankahrunið að gera. Þvert á móti fer hún yfir það, að stjórnarskráin hafi auðveldað Íslandi að komast út úr þeirri orrahríð, sem það lenti í. Um þetta segir í greininni:
"Ísland gat með engu móti bjargað of stóru fjármálakerfi frá þroti haustið 2008. Því varð lagasetning innan ramma stjórnarskrár, sem sætti endurskoðunarvaldi dómstóla m.t.t. sömu stjórnarskrár, eina bjargræði þjóðfélagsins. Aðgerðir Íslands skáru sig úr í alþjóðlegu fjármálakreppunni, og hvergi annars staðar var fullveldisrétti beitt á sambærilegan hátt í kreppunni. Stjórnarskrá Íslands var í eldlínu alþjóðlegra átaka við erlendar ríkisstjórnir, alþjóðastofnanir og erlenda kröfuhafa, því [að] í krafti hennar og í íslenzkri lögsögu breytti Ísland reglum með neyðarlögum, forseti Íslands beitti málskotsrétti til þjóðaratkvæðis tvisvar [þegar honum og tugþúsundum kjósenda ofbauð gjörðir Alþingis - innsk. BJo], og allir ytri aðilar höfðu virt þessar aðgerðir, þegar upp var staðið. Vegna þess að útilokað var að stöðva hrunið með íslenzku fjármagni eða lánstrausti að utan, voru stjórnarskráin og fullveldisréttur, byggður á henni, einu úrræðin til að stöðva hrunið. Og það gekk. Stjórnarskráin stöðvaði hrunið, og íslenzka réttarríkið var nógu sterkt andspænis umheiminum."
Þráhyggjumenn eru og að sönnu iðnir við kolann að níða skóinn ofan af útgerðarfélögum. Sagt er, að útgerðarmenn valsi í auðlind þjóðarinnar, á meðan aðrir komist ekki þar að, og greiði allt of lágt gjald fyrir þennan aðgang. Þeir ættu að greiða markaðsgjald, svo að þjóðin fái sitt og réttlætinu sé fullnægt. Halda þessir niðurrifsmenn því fram, að leiguverðið, sem er yfir 200 ISK/kg, sýni markaðsverð aflahlutdeildanna. Þetta sýnir, að þessir spekingar vita ekkert, hvað þeir eru að tala um. Leiguverðið er s.k. jaðarverð, þ.e. verð á viðbótum við kvóta, sem útgerðarmenn hafa fjárfest í. Þessi viðbót þarf ekki að standa undir neinum fastakostnaði, heldur aðeins breytilegum kostnaði.
Til að fá fram markaðsverð aflahlutdeilda er sagt, að þurfi að bjóða þær upp á markaði, og sú útgerð, sem byði jaðarverðið, færi lóðbeint á hausinn á því sama fiskveiðistjórnunarári. Hvort er um fáfræði eða illskeytta rangfærslu að ræða ? Uppboðskerfið er fyrirskrifað í hvítbók ESB um fiskveiðistefnuna, en á meðan útgerðir ESB-landanna eru niðurgreiddar úr ríkissjóðum landanna, ríkir ekki frjáls samkeppni á þessum markaði, og þess vegna hefur ESB ekki enn sett þetta kerfi á. Hins vegar hafa einstök lönd gert það, t.d. Eistland, en þau hafa fljótlega horfið frá uppboðskerfinu, af því að það gaf skelfilega raun, gjaldþrot minni útgerða og söfnun aflahlutdeilda til stórútgerða. Stórútgerðir í ESB og í Noregi eru miklu stærri en þær íslenzku. Það gefur líka auga leið, að með uppboðskerfi er innleidd skammtímahugsun í útveginn, sem leiðir alls staðar til verri umgengni við auðlindina. Til að hvetja útgerðarfélög til skráningar í kauphöll Íslands, svo að þau geti orðið almenningshlutafélög, mætti hækka kvótaþak einstakra tegunda úr 12 % í t.d. 18 % hjá slíkum félögum. Þá mundi skapast svigrúm til enn meiri hagræðingar, sem mundi styrkja samkeppnishæfni þeirra um fjármagn og um erlenda markaði.
Um 95 % afla íslenzkra útgerða fer á erlenda markaði, þar sem þær eiga í höggi við niðurgreiddar útgerðir. Íslenzkar útgerðir eru þær einu í Evrópu, sem þurfa að greiða veiðigjöld, utan þær færeysku. Samkeppnisstaðan er því nú þegar skökk, því að íslenzkar útgerðir greiða hátt hlutfall hagnaðar í veiðigjöld, en erlendum er bættur upp tapreksturinn.
Íslenzkur sjávarútvegur hefur fjárfest mrdISK 250 á undanförnum 10 árum í veiðum og vinnslu. Samkeppnin knýr þau til að lækka kostnaðinn per kg, og það hefur þeim tekizt frábærlega. Þjóðhagslega hagkvæmasta fiskveiðistjórnunarkerfið er kerfi, sem hámarkar sjálfbærar veiðar, hámarkar verð á kg og lágmarkar kostnað á kg. Þar með verður mest til skiptanna, sem allir njóta góðs af. Þetta gerir einmitt núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, sem samþættir veiðar, vinnslu og markaðssetningu. Það væri óheillaskref aftur á bak fyrir hagsmuni þjóðarinnar, eiganda sjávarauðlindarinnar, að hrófla nú við kerfi, sem gefur henni hámarksarðsemi af auðlindinni í aðra hönd.
Að stórhækka veiðigjöld með einum eða öðrum hætti virkar eins og að hækka skattheimtu á fyrirtækin. Fjárfestingargeta þeirra minnkar, og þau neyðast til að draga úr fjárveitingum til rannsókna og þróunar, sem hefur gert þeim kleift að gjörnýta hráefnið og stækka þar með enn kökuna, sem er til skiptanna fyrir alla þjóðina.
Því hefur verið haldið fram, að óeðlilegar arðgreiðslur eigi sér stað í sjávarútvegi. Samanburður talna um hlutfallslegar arðgreiðslur til fjármagnseigenda í sjávarútvegi og í öðrum fyrirtækjum sýnir þó, að þetta er hreinn uppspuni. Sjávarútvegurinn er fjármagnsfrekur, og kostar t.d. góður togari nú um mrdISK 6. Það er þess vegna eðlilegt og ánægjulegt, að sjávarútvegsfyrirtækin eru nú í auknum mæli skráð í Kauphöll Íslands og almenningi boðin þátttaka í eignarhaldinu og þar með að sjálfsögðu einnig arðgreiðslunum til eigenda. Að tengja saman hagsmuni almennings og sjávarútvegsins með beinum hætti mun vonandi leiða til aukinnar ánægju almennt með góðan árangur í þessari grein, svo að áróður, reistur á öfund og illvilja, koðni niður. Arður af eigin fé fyrirtækja hefur verið gerður að skotspæni öfundarmanna einkaframtaksins, en arður eru einfaldlega vextir af því áhættufé, sem lagt er í fyrirtækjastarfsemi. Án arðsvonar verða engar fjárfestingar í einkageiranum. Þá mun hagkerfið von bráðar skreppa saman öllum til tjóns.
Í öllum atvinnugreinum á Íslandi hefur orðið góð framleiðniaukning, einkum í vöruframleiðslugeirunum, á undanförnum árum. Tækniþróun í krafti öflugra fjárfestinga er undirstaða þessarar tilhneigingar. Ávinninginum af framleiðniaukningunni er í flestum samfélögum, ekki sízt í lýðræðisríkjum, skipt á milli fjármagnseigenda og launþega. Hvergi er hlutur launþega í skiptingu verðmætasköpunarinnar stærri en á Íslandi. Það er þess vegna ljóst, að launþegar hafa mestra hagsmuna að gæta, að fjárfestingar í atvinnulífinu séu sem mestar og skynsamlegastar. Það verður bezt í pottinn búið fyrir fjárfestingar með pólitískum og efnahagslegum stöðugleika og lækkun opinberra gjalda. Enn meiri hækkun veiðigjalda eða uppboðskerfi aflaheimilda mundi vinna þvert gegn þessum hagsmunum launþega. Það eru falsspámenn, sem fóðra sjúklegar skattheimtuhugmyndir sínar með gluggaskrauti á borð við, að þjóðinni beri að fá eðlilegan arð af auðlind sinni. Í raun eru þessir falsspámenn að boða þjóðnýtingu sjávarútvegsins. Bein afskipti stjórnmálamanna af atvinnurekstri leiða alls staðar og alltaf til ófarnaðar. Ríkisrekstur stenzt einkaframtakinu ekki snúning, og þess vegna bregða stjórnmálamenn ríkisvæðingarinnar alltaf á ráð kúgunarinnar.
Gott dæmi um framleiðniaukningu undanfarið í sjávarútvegi gat að líta í Viðskiptamogganum 2. júní 2021 undir fyrirsögninni:
"Síldarvinnslan stefnir á nýja markaði".
"Gunnþór [Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar] segir fyrirtækið hafa náð fram mikilli hagræðingu í rekstri. Um það vitni t.d. fækkun fiskimjölsverksmiðja úr 8 í 2, og stóraukin framleiðni í loðnufrystingu á hvern starfsmann. Afkastagetan farið úr 2 t/dag í 24 t/dag. Þá geti 1 skip afkastað jafnmiklu á veiðum og 2-3 áður."
Hér skal fullyrða, að taki stjórnmálamenn upp á því á næsta kjörtímabili, eins og hugur þeirra sumra virðist standa til, að fara að hræra í gildandi stjórnkerfi fiskveiða, þá verður sambærileg framleiðniaukning liðin tíð, og þar með mun sóknarþungi landsmanna til meiri velferðar koðna niður. Hvernig mun þá fara fyrir þjóð, sem þarf að standa undir stöðugt vaxandi útgjöldum til heilbrigðis- og öldrunarmála, þótt hægi á fjölgun á vinnumarkaði ? Kukl er enginn kostur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2021 | 14:10
Orkumál í öngstræti
Þann 3. júní 2021 birtist forsíðufrétt í Morgunblaðinu:"Raforkuverð tekur kipp". Tilefnið var mikil verðhækkun á náttúruafurð Landsvirkjunar (LV), þar sem heildsölugjaldskrá LV hafði nýlega verið hækkuð um 7,5 %-15,0 % eftir flokkum. Þetta er birtingarmynd óstjórnar orkumálanna, sem lengi hefur verið gagnrýnd á þessu vefsetri, þar sem einn þáttur gagnrýninnar snýst um fullkomið fyrirhyggjuleysi um öflun nýrrar og nægilegrar orku til að verða við óskum viðskiptavina um aukin raforkukaup, jafnvel þegar illa árar í vatnsbúskapinum, eins og nú.
Gildandi orkulöggjöf landsins einkennist af Orkupakka 3 (OP3), og samkvæmt honum á markaðurinn að ráða framboði raforku, og ekki má gera neitt fyrirtæki ábyrgt fyrir því að koma í veg fyrir orkuskort, því að það gæti skekkt samkeppnisstöðuna. Nú hefur komið í ljós, eins og ítrekað var varað við, að þetta framandi fyrirkomulag í vatnsorkulandi býður hættunni á alvarlegum orkuskorti heim og er sannarlega mjög andsnúið hagsmunum neytenda og atvinnustarfsemi vegna hærra raforkuverðs en nokkur þörf er á, sem af þessu leiðir.
Ef hér væri nú komið uppboðskerfi raforku, eins og orkustjóra ACER á Íslandi ber að koma á laggirnar hér, og er í undirbúningi, þá hefði heildsöluverð á markaði í byrjun júní 2021 ekki hækkað um 7,5 %-15,0 %, heldur að öllum líkindum tvöfalt meira og færi enn hækkandi, þegar nálgast haustið meira, ef vatnsbúskapurinn braggast ekki í sumar. Þetta má marka af verðþróuninni í Noregi.
Markaðurinn hér getur ekki brugðizt við með auknu framboði fyrr en eftir nokkur ár vegna langs aðdraganda nýrra virkjana á Íslandi. Þess vegna er þetta kerfi stórslys hérlendis, þar sem engrar fyrirhyggju gætir. Á framboðshlið eru örfá fyrirtæki, og eitt þeirra gnæfir yfir önnur. Það hefur markaðinn í greip sinni og hefur nú gengið á lagið. Þessi staða mála sýnir, að það er vitlaust gefið og að OP3 hentar ekki hér, heldur gerir illt verra. Hvað segir iðnaðarráðherra nú, sem barðist fyrir innleiðingu OP3 á þeim grundvelli, að hann leiddi til aukinnar samkeppni, neytendum til hagsbóta ? Raunveruleikinn getur reyndar orðið verri en nokkurn grunaði þá, ef Murphys-lögmálið fer að gilda um þessi mál.
Það eru fá rök fyrir því, að ríkisvaldið eigi hér ríkjandi fyrirtæki á raforkumarkaði, nema það beri jafnframt ábyrgð á raforkuöryggi landsmanna ásamt flutningsfyrirtækinu Landsneti að sínu leyti og sérleyfisfyrirtækjunum í dreifingu að þeirra leyti. Réttast væri að setja lög, hvað þetta varðar strax, og láta reyna á þau fyrir EFTA-dómstólinum, ef ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) gerir athugasemd. Um er að ræða nauðsynlega lagasetningu vegna sérstöðu Íslands. Almannahagsmunir liggja við.
Þessi hækkun Landsvirkjunar er bæði óþörf og þjóðhagslega illa ígrunduð. Landsvirkjun er spáð 14 % tekjuaukningu árið 2021 m.v. árið á undan, og lánshæfismat fyrirtækisins var nýlega hækkað af einu matsfyrirtækjanna. Þessi hækkun kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum og er atlaga að samkeppnishæfni fyrirtækjanna, sem þessi hækkun bitnar á og hafa verið að krafla sig upp úr öldudalnum. Það er líklegt, að hinir birgjarnir á heildsölumarkaði raforku fylgi í kjölfarið, og þannig mun hækkunin bitna á öllum heimilum landsins. Hækkunin mun kynda undir verðbólgu, sem þegar er utan við ytri viðmiðunarmörk Seðlabankans. Það er svo mikil efnahagsleg áhætta tekin með hækkuninni, að fulltrúi eigandans, fjármála- og efnahagsráðherra, ætti að beita sér fyrir afturköllun hennar, því að hún vinnur gegn efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og peningastefnu Seðlabankans. Hlutdeild þessa heildölumarkaðar er svo lítill af heildarraforkumarkaðinum, að minni raforkunotkun af völdum þessarar hækkunar mun vart hafa mælanleg áhrif á stöðu miðlunarlónanna auk þess, sem það er fjarri því öll nótt úti um fyllingu þeirra, þótt útlitið sé slæmt núna, einkum með Þórisvatn.
Staðan í Blöndulóni er yfir meðaltali, en miðlunargeta þess er lítil. Hálslón er 40 m neðan yfirfalls og undir meðaltali. Þórisvatn er 13 m neðan yfirfalls og nálægt lágmarksstöðu árstímans.
Morgunblaðið reyndi að leita skýringa á stöðunni, en fékk ekki góð svör:
"Sérfræðingur, sem Morgunblaðið ræddi við, sagði afar óvanalegt, að Landsvirkjun hækkaði raforkuverð á þessum tíma árs og að það væri helzt til marks um, að fyrirtækið teldi hættu á, að framboðshlið markaðarins stefndi í ranga átt. [Loðið orðalag um minnkandi framboð, en 50 MW brottfall í jarðgufuvirkjun í 3 vikur hefur lítil áhrif, þótt sú orka verði tekin úr miðlunarlónum, og er ekki meira en búast má við vegna venjulegs viðhalds - innsk. BJo.] Annar sérfræðingur, sem blaðið ræddi við, sagði stöðu lónanna, auk erfiðleikanna í Reykjanesvirkjun, vekja spurningar um, hvort orkufyrirtækin gætu lent í vandræðum með að afhenda ótryggða orku til kaupenda á komandi mánuðum. Horfa menn þar sértaklega til fiskimjölsverksmiðja, sem hafa verið rafvæddar á síðustu árum, en geta einnig gengið fyrir jarðefnaeldsneyti, ef í harðbakkann slær."
Ekki eru allar fiskimjölsverksmiðjurnar búnar varakötlum fyrir olíu, gas eða kol. Samningar þeirra um ótryggða orku eru smáræði hjá samningum álveranna þriggja og kísilverksmiðjanna tveggja um ótryggða orku.
Þessi slæma staða orkumálanna var fyrirsjánleg að skella mundi á í nánustu framtíð vegna sleifarlags orkufyrirtækjanna við orkuöflun, og ef vatnsbúskapur þessa árs verður undir meðallagi, þá mun verða orkuskortur og stórtap fyrir atvinnuvegina í vetur. Vonandi fer þetta ekki á versta veg, svo að skerða þurfi forgangsorkuafhendingu, jafnvel til heimila.
Hver svarar til saka fyrir þetta ? Að nokkru er sökudólgurinn Orkupakki 1 frá ESB, en með orkulögunum 2004 í kjölfar hans var afnumin skylda Landsvirkjunar til að sjá þjóðinni fyrir nægri raforku á hverjum tíma. Það var réttlætt með innleiðingu samkeppni á milli virkjanafyrirtækjanna og smásölufyrirtækjanna. Það eru ekki góð rök af ástæðum, sem blasa við. Ekkert virkjanafyrirtækjanna virðist vilja reyna að ná stærri markaðshlutdeild með því að virkja. Það sýnir betur en nokkur orð, að samkeppnin, sem orkupakkarnir áttu að koma á á milli birgjanna, virkar ekki við núverandi aðstæður á Íslandi. Það eru ekki tíðindi fyrir alla, þótt fólk kunni að vera hissa í iðnaðarráðuneytinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.5.2021 | 13:55
Stjórnmálaþróunin framkallar þingframboð
Í viðtali Stefáns Gunnars Sveinssonar við Arnar Þór Jónsson, héraðsdómara, (AÞJ), í Morgunblaðinu 8. maí 2021, kom fram, að hann hefur alla tíð fylgzt gaumgæfilega með opinberri umræðu og stjórnmálaþróuninni í landinu. Hann íhugar mál sitt rækilega og flanar ekki að neinu. Þess vegna hefur verið áhugavert að fylgjast með skrifum hans og ræðum, og fyrir höfund þessa vefseturs á það ekki sízt við greiningar hans á Orkupakka 3 (OP3) út frá lagalegu viðhorfi og stjórnskipulegum álitamálum.
Það er þröng á þingi og margt hæfileikaríkt fólk, sem býður sig fram í prófkjöri sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi (Kraganum) á þessu vori, en ástæða er til að vekja sérstaka athygli á nýjum frambjóðanda AÞJ í 2.-3. sæti D-listans, af því að málflutningur hans er að mörgu leyti nýstárlegur, en mjög í anda hugsjóna upphafsmanna Sjálfstæðisflokksins, og höfundur þessa vefseturs telur þennan frambjóðanda til þess fallinn að draga nýtt fylgi að Sjálfstæðisflokkinum, en fyrir því er höfuðnauðsyn til að tryggja landinu stjórnmálalegan stöðugleika og stjórnvöldum traust inn á við og út á við til að fást við erfið verkefni.
Viðtal Stefáns Gunnars við Arnar Þór, sem hér verður vitnað til, bar fyrirsögnina:
"Ég kýs að fylgja hjartanu".
"Áhyggjur mínar snúa að því, að það sé verið að þrengja þann ramma [frjálslynds lýðræðis í klassískum skilningi] með stjórnlyndum sjónarmiðum, sem á sama tíma þrengja að borgaralegum réttindum, tjáningarfrelsi og samvizkufrelsi."
Neikvæð þróun af þessu tagi læðist að, jafnvel án þess að margir verði hennar varir. Það er hættulegt, og þess vegna ómetanlegt, að menn á borð við AÞJ bjóði sig fram til að stíga á bremsurnar á Alþingi, þegar vafasöm mál fyrir mannréttindi, atvinnufrelsi einstaklinga og lögaðila, svo og fullveldi þjóðarinnar, fljóta á fjörur Alþingis. Efld varðstaða á þingi um grundvallarréttindin og Stjórnarskrána er landsmönnum nauðsyn.
"Arnar Þór segir, að hann hafi ekki talið sig geta skorazt undan því að tjá sig um þriðja orkupakka ESB. "Ég tel reyndar, að það mál sé, hvernig sem á það er litið, hvort sem það er lagalega, stjórnskipulega eða lýðræðislega, mjög sérstaks eðlis. Ég taldi og tel ennþá, að það hefði verið ábyrgðarlaust af mér að sitja hjá og taka ekki þátt í umræðunni."
Hann rifjar upp, að kveikjan að því hafi verið ýmiss konar afflutningur um orkupakkann, innleiðingu hans og réttaráhrif, sem og fullyrðingar um, að hann stæðist þau skilyrði um fullveldisframsal, sem lögð höfðu verið til grundvallar aðildinni að EES á sínum tíma.
Arnar Þór segir, að sér virðist sem hagsmunagæzla Íslands hafi verið í molum, þegar kom að orkupakkamálinu. "Það var enginn í markinu, þegar málið fór fyrir sameiginlegu EES-nefndina, og boltinn lak inn. [Sama má segja um umfjöllun þingnefnda Alþingis á undirbúningsstigum málsins og undirbúningsviðræður EFTA-landanna í orkunefnd EFTA og Fastanefnd EFTA, þar sem afstaða EFTA-landanna er mótuð áður en málin fara til téðrar nefndar, þar sem ESB líka á fulltrúa - innsk. BJo.]" Íslendingar verði að standa vaktina betur. "Þá virðist mér, að stjórnmálamennirnir hafi talið sig hafa þyngri skyldum að gegna gagnvart erlendum kollegum sínum og mögulega erlendum stofnunum en kjósendum sínum. [Þrýstingur frá norsku stjórnsýslunni skein í gegn í umræðunum, og því var beinlínis haldið fram, að Ísland mundi skaða hagsmuni Noregs með því að hafna OP3. Það var fjarstæða. Á fyrri stigum hefðu fulltrúar Íslands átt að fá undanþágur frá gerðum og tilskipunum, sem vörðuðu ACER og millilandaviðskipti með orku. Slíkt hefði ekki snert Noreg - innsk. BJo.]"
Arnar Þór segir þetta mál hafa vakið sig til umhugsunar um stöðuna. "Hagsmunagæzla Íslands gagnvart ESB var augljóslega ekki í lagi, og því meira sem ég hef skoðað þetta, sýnist mér blasa við, að framsal á íslenzku ríkisvaldi hafi gengið allt of langt", segir Arnar Þór. Hann segir ákveðna þöggun ríkja um það ástand.
"Ég tel, að Ísland standi frammi fyrir mestu stjórnskipunarkrísu og lýðræðiskreppu, sem nokkurt vestrænt lýðræðisríki hefur glímt við frá stríðslokum. Við erum komin í samstarf, þar sem okkur er veittur aðgangur að ákveðnum markaði gegn þeim skiptum, að erlendir aðilar setji okkur lög og taki ákvarðanir fyrir almenning og fyrirtæki hér í sívaxandi mæli. Og þegar það er svo komið, að erlendir aðilar eru jafnvel farnir að seilast í ítök yfir náttúruauðlindum okkar, verða Íslendingar að fara að vakna af þyrnirósarsvefni og taka til ýtrustu varna", segir Arnar Þór. "Við núverandi ástand verður ekki unað." " (Undirstr. BJo.)
Þessi viðvörunarorð verður að taka alvarlega, og þau verðskulda að hljóma innan veggja Alþingis, þar sem efla þarf þann hóp manna, sem lítur málin svipuðum augum og Arnar Þór og er líklegur til að bregðast við "mestu stjórnskipunarkrísu og lýðræðiskreppu" með þeim ráðum í hópi félaga, sem til úrbóta duga.
Mjög svipuð viðhorf og AÞJ lýsir eru uppi í Noregi, og þar hafa einnig mikilsvirtir fræðimenn á sviði lögfræðinnar lagt orð í belg. Það blasir við, að íslenzk og norsk stjórnvöld móti með sér sameiginleg stefnumið eftir kosningar í báðum löndum í haust í viðræðum við framvæmdastjórn ESB um endurskoðun á EES-samninginum til að draga úr langvinnum deilum í báðum löndunum um fyrirkomulag, sem átti í upphafi að vera til bráðabirgða, einhvers konar forleikur að fullri aðild að Evrópusambandinu.
Í lok þessa viðtals við Arnar Þór kom fram, að hann hefur komið auga á slæma veikleika íslenzka menntakerfisins. Menntamálaráðherrann núverandi blaðrar út og suður, en gerðir hennar eru yfirleitt ekki til að hrópa húrra yfir. Síðasta hálfkákið hjá henni var að heykjast á að draga úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði til að auka tekjuöflunarmöguleika einkarekinna fjölmiðla. Í stað þess beit hún í sig ríkisofþenslulausn, þ.e. að veita þeim ölmusu úr ríkissjóði. Það bar ekki vott um hugrakkan stjórnmálamann, eins og hún hefur hælt sér fyrir að vera. Lok viðtalsins:
""Við Íslendingar berum ein ábyrgð á framtíð okkar. Við eigum gríðarlegra hagsmuna að gæta í að kalla ungt fólk til starfa, þar sem hæfileikar þess nýtast sem bezt, og til þess þarf að gera talsverðar umbætur í menntamálum." Hann segir, að drengir eigi undir högg að sækja í grunnskólakerfinu og að mikið áhyggjuefni sé, þegar stór hluti grunnskólanemenda útskrifist illa læs.
Íslenzk lög eiga að vera sett með íslenzka hagsmuni að leiðarljósi. Þá vil ég verja tjáningarfrelsið og leiða umræðu um mikilvægi þess, að við nýtum styrkleika okkar, treystum hvert öðru og byggjum þannig upp gott samfélag.""
Sú óeðlilega staða er uppi, að talsverður hluti lagasetningar hérlendis á sér alls engar rætur hérlendis, heldur er hún reist á hugmyndafræði embættismanna ESB um vöxt og viðgang Evrópusambandsins og jafnvel þróun þess til sambandsríkis. Þetta höfum við undirgengizt með aðild landsins að EES, þar sem fjórfrelsið gengur framar öðru í lagalegu tilliti. Þegar framkvæmdastjórn ESB merkir lagasetningu Sambandsins sem "EEA relevant", þ.e. viðeigandi fyrir EES, hefur í umfjöllun EFTA um slík mál ekki verið í nægilega ríkum mæli tekið tillit til sérstöðu Íslands sem eyjar langt norður í Atlantshafi, t.d. án samtengingar við raforkukerfi ESB, en bæði Noregur og Liechtenstein hafa slíkar tengingar. Það er nauðsynlegt að fá á Alþingi trausta talsmenn, sem eru miklu gagnrýnni á innleiðingu ESB-löggjafar en þar hafa verið síðan vinstri stjórnin framdi það glapræði með hjálp "handjárna" að fá Alþingi til að samþykkja, að sú ríkisstjórn mundi senda umsókn um aðildarviðræður til framkvæmdastjórnar ESB.
Hér er við hæfi að vitna til 12. atriðis af 20 í Morgunblaðsgrein Arnars Þórs Jónssonar 3. apríl 2021:
"Útgangspunktar og forsendur til íhugunar":
- "Klassískt frjálslyndi ber að verja gagnvart ógn gervifrjálslyndis, sem misvirðir grundvöll vestræns lýðræðis. Gervifrjálslyndi virðir ekki einstaklinginn, heldur einblínir á hópa og ýtir þannig undir hjarðhegðun. Gervifrjálslyndi treystir ekki dómgreind einstaklingsins, en vill, að sérvalinn hópur stjórni, ritskoði og hafi eftirlit." Klassískt frjálslyndi er reist á virðingu fyrir frelsi einstaklingsins til orðs og athafna og jöfnun tækifæra einstaklinganna í landinu án tillits til uppruna eða búsetu. Hver er sinnar gæfu smiður. Þetta felur í sér lýðræðislegan rétt einstaklinganna til að velja sér fulltrúa á löggjafarsamkundu, sem setur honum lög. Þessi réttur hefur verið útþynntur með því að innleiða hér stóra lagabálka, sem hafa áhrif á daglegt líf borgaranna og starfsemi fyrirtækjanna. Það er ekki í anda lýðræðishugmyndarinnar um, að ákvarðanir skuli taka sem næst íbúunum af fulltrúum, sem standa ábyrgir gerða sinna gagnvart þeim. Sjálfstæðisflokkurinn hefur með skýrasta hætti allra stjórnmálaflokkanna í landinu komið til móts við óskir margra um persónubundnar kosningar með því að efna til prófkjörs í öllum kjördæmum landsins um röðun í efstu sæti D-listans í hverju kjördæmi. Þetta er í anda klassísks frjálslyndis um jöfnun tækifæra. Nú gefst nýju fólki kostur á að spreyta sig og auðga flokkinn nýju lífi með sínum áherzlum. Ætla má, að ekki aðeins flokksfólkið, heldur og aðrir kjósendur margir hverjir kunni að meta þessa lýðræðislegu aðferð, sem þannig er líkleg til að verða flokkinum til framdráttar í komandi Alþingiskosningum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2021 | 17:05
Brýn skilaboð
Seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, talaði tæpitungulaust í prýðisviðtali við Hörð Ægisson í Markaði Fréttablaðsins 20. maí 2021. Báðir hafa þeir tileinkað sér rökrétta og gagnrýna hugsun, og þess vegna fá skilaboð Seðlabankastjóra þunga vigt. Á þessu undirbúningsstigi fyrir skipun framboðslista í Alþingiskosningum í haust hefur annar maður kveðið sér hljóðs á grundvelli rökréttrar og gagnrýninnar hugsunar, en það er Arnar Þór Jónsson, dómari, sem býður sig fram í 2.-3. sæti á lista sjálfstæðismanna í Kraganum. Verður líka vitnað í hann í þessum pistli.
Viðtalsgrein Harðar bar heitið:
"Getum ekki lifað í einhverri hliðarveröld".
Hún hófst þannig:
"Vaxtahækkunarferli Seðlabankans er hafið, en hversu hratt það verður, fer eftir verðbólguþróuninni. Seðlabankastjóri vill, að ríkið fari að draga sig í hlé og varar við hröðum vaxtahækkunum, verði ákall um frekari launahækkanir. Auðvelt [er] að eyðileggja samkeppnisstöðuna."
Óhætt er að segja, að Seðlabankastjóri segi ríkisstjórninni til syndanna fyrir lausbeizlaða fjármálastjórnun og skuldasöfnun, sem nú þurfi að fara binda enda á, enda atvinnulífið að taka við sér, og spáð er 3,1 % hagvexti í ár og 5,2 % hagvexti 2022. Hann hrósar ríkisstjórninni þó fyrir að hafa deyft höggið, sem á mörgum launþegum og fyrirtækjum reið vegna sóttvarnarráðstafana yfirvalda hér og erlendis, en nú sé tími kominn til að snúa við blaðinu. Verkalýðsleiðtogum, sem grafi undan efnahag almennings með launakröfum, sem reistar eru á sandi, þ.e. helberu óraunsæi, ef ekki einhverju enn verra, hótar hann bannfæringu í anda Jóns Arasonar, Hólabiskups, en uppreisn hans gegn Danaveldi á Íslandi gerði Seðlabankastjóri frábær skil í nýlegri bók sinni.
""Það er engin framtíð í því fyrir landið að ætla að búa til hagvöxt með skuldsetningu og opinberum útgjöldum. Það er mun æskilegra, ef okkur farnast að búa til þannig aðstæður, að ný störf skapist í einkageiranum með hagstæðum fjármögnunarskilyrðum og þannig örva fjárfestingu í atvinnulífinu. Það er hin eðlilega leið að mínu viti, og þess vegna verður ríkið að fara að stefna að því að draga sig í hlé og minnka hallareksturinn", segir Ásgeir Jónsson í viðtali við Fréttablaðið."
Ríkisvaldið er ekki lengur þrískipt á Íslandi, heldur fjórskipt, þar sem Seðlabankinn hefur mikið sjálfstæði gagnvart framkvæmdavaldinu til athafna að þýzkri fyrirmynd. Slíkt gafst Þjóðverjum prýðilega, á meðan die Deutsche Mark var og hét, og nú virka fjármálatól Seðlabankans vel á Íslandi, en fulltrúar die Bundesbank eru nú oftast í andófi gegn meirihluta bankastjórnar ECB, evrubankans.
Nú virðast endurráðningar vera að hefjast í ferðageiranum, og nýting gististaða vex með hverri vikunni, svo að tímabært er nú að hægja á lántökum ríkissjóðs vegna atvinnulífsins. Annars mun hægja á endurreisninni vegna áframhaldandi hækkunar vaxta.
Launin eru aðalkostnaðurþáttur margra fyrirtækja, ekki sízt í ferðaþjónustu. Launakostnaður er einna hæstur hér í heiminum sem hlutfall af verðmætasköpun fyrirtækjanna. Þetta minnkar svigrúm þeirra til fjárfestinga og til framleiðniaukningar. Nú ber nauðsyn til að fylgja fordæmi hinna Norðurlandanna og láta útflutningsatvinnuvegina gefa tóninn varðandi svigrúm til launahækkana. Seðlabankastjóri er ómyrkur í máli:
""Ef við erum t.d. að fara að sjá ákall um launahækkanir til að bregðast við minni kaupmætti vegna aukinnar verðbólgu, þá verður Seðlabankinn neyddur til þess að bregðast við strax. Það er engin spurnig", útskýrir Ásgeir."
Agaleysi verkalýðsfélaga og Alþýðusambands getur hæglega leitt til mjög versnandi lífsskilyrða í landinu og áframhaldandi fjöldaatvinnuleysis. Það er einfalt lögmál framboðs og eftirspurnar á vinnumarkaði. ASÍ getur ekki haldið áfram á braut þess ábyrgðarleysis að krefjast áframhaldandi lántöku ríkissjóðs til að fjármagna hærri atvinnuleysisbætur. Alþýðusambandið hefur engan siðferðislegan rétt til að krefjast þess, að byrðunum verði velt yfir á framtíðina í stað þess að leggja lóð sín á vogarskálar samkeppnishæfs atvinnulífs, sem skapar öllum, sem vilja vinna, vinnu.
Seðlabankastjóri hélt áfram:
"Það er orsakasamband á milli launa og verðbólgu, og það sama má segja um ríkisútgjöldin, en það liggur fyrir, að hið opinbera hefur verið á útopnu til að bregðast við efnahagslegum áhrifum farsóttarinnar."
Menn geta rétt ímyndað sér, hvernig verðbólguþróunin væri hér, ef Ísland væri í ESB og hefði þar af leiðandi orðið að taka upp evru. Stjórn peningamála landsins væri í höndum evrubankans í Frankfurt am Main og stýrivextir þar með við 0. Stjórnendur þar á bæ mundu ekki skeyta nokkurn skapaðan hlut um það, þótt húsnæðisverð ryki hér upp úr öllu valdi knúið áfram af ódýru lánsfé og lóðaskorti aðallega í boði óhæfs meirihluta borgarstjórnar undir forystu Samfylkingar. Þá (við Main-fljótið í Hessen) mundi heldur ekkert varða um það, þótt verkalýðsfélögin á Íslandi heimtuðu hækkun launataxta til að vega upp á móti mikilli verðbólgu. Þeir gætu hins vegar gert athugasemd við hækkun skulda ríkissjóðs umfram 60 % af VLF, þótt hærra skuldahlutfall sé nú fremur regla en undantekning á evrusvæðinu þrátt fyrir Maastricht-skilmálana. Án þess að beita öflugum tólum peningamálastjórnunar, væri hérlendis ríkjandi óstöðugleiki í verðlagsmálum, og samkeppnishæfni atvinnuveganna væri þar af leiðandi í hers höndum.
"Þegar rætt er um ábyrgð aðila vinnumarkaðarins á þeirri stöðu, sem nú er að teiknast upp, bætir Seðlabankastjóri því við, að þeir verði að átta sig á því, "að við getum ekki lifað í einhverri hliðarveröld hérna á norðurhveli jarðar með því að hækka launin á allt öðrum hraða en aðrar þjóðir og telja okkur síðan trú um, að það hafi ekki afleiðingar fyrir verðbólgu og gengisstöðugleika. Þetta er einhver séríslenzk hugsun, sem hefur margoft sýnt sig, að gengur ekki upp.""
Þetta eru einföld sannindi, en vandinn er sá, að skammtíma hugsun virðist vera ráðandi í verkalýðshreyfingunni í stað þess að hugsa um, hvað þjónar bezt hagsmunum félagsmanna verkalýðsfélaganna til langs tíma. Samt er margbúið að reyna að leiða verkalýðsleiðtogunum fyrir sjónir, hvers konar vinnubrögð gagnast skjólstæðingum þeirra bezt. Einhvers konar pissukeppni virðist vera í gangi á milli þeirra um það, hver treystir sér til að ganga lengst í vitlausum og ábyrgðarlausum málflutningi og gerðum. Það er miður, að efnahagslögmál og heilbrigð skynsemi skuli vera litin hornauga á þeim bæ.
Nú setur Seðlabankastjóri hnefann í borðið og hótar að grípa til sinna ráða, ef verkalýðsleiðtogarnir láta sér ekki segjast. Munu þá renna á þá tvær grímur ?
Óveðursský eru úti við sjóndeildarhringinn:
""Ef það verður ekkert lát á hallarekstri ríkissjóðs eftir lok farsóttarinnar eða við sjáum áframhald á launahækkunum, sem eru margfaldar á við það, sem þekkist í öðrum löndum, þá er ljóst, að það verður auðvelt að eyðileggja þá góðu samkeppnisstöðu, sem við njótum núna", segir Seðlabankastjóri."
Lok þessa merka viðtals, sem sýndi okkur skriftina á veggnum, hljóðuðu þannig:
"Sjálfstæð peningastefna hefur létt mikið á ríkisfjármálunum og þannig sparað skattgreiðendum háar fjárhæðir. Að öðrum kosti hefði ríkissjóður þurft að vera einn með fótinn á bensíngjöfinni - og eyða því enn meiri peningum í því skyni að reyna að ýta undir eftirspurn og örva hagkerfið", segir seðlabankastjóri og furðar sig á því, að þetta sé ekki haft í huga, þegar stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir að hafa ekki beitt ríkisfjármálunum af enn meiri krafti en samt var gert."
Það er Samfylkingin, sem ekki hefur skilið þetta samspil og lagt til aukin ríkisútgjöld. Ljóst er af eldræðu Seðlabankastjóra, að stjórnvalda, löggjafarvalds, framkvæmdavalds og Seðlabanka, bíða erfið viðfangsefni á næsta kjörtímabili. Þá þarf að skapa skilyrði öflugs hagvaxtar, ná jafnvægi í opinberum rekstri, hefja lækkun skulda og tryggja samkeppnishæfni atvinnuveganna. Öruggast er þá, að þingflokkur sjálfstæðismanna stjórni för. Borgaraleg ríkisstjórn er bezt hæf til að fást við þessi verkefni, og til þess að auðvelda myndun hennar þarf Sjálfstæðisflokkurinn að hljóta gott brautargengi, talsvert betra en síðast.
Til að auðvelda nýju fólki að styðja flokkinn, er affarasælt fyrir hann að tefla fram fullveldissjónarmiðum og viðhorfum um mikilvægi lýðræðislegra ákvarðana sem næst kjósendum í þeim anda, sem Arnar Þór Jónsson, frambjóðandi í 2.-3. sæti D-listans í Kraganum, hefur verið óþreytandi við að boða. Er þá ekki úr vegi að líta á atriði, sem hann birti í Morgunblaðinu 3. apríl 2021:
- "Allt vald þarf að tempra, embættisvaldið ekki sízt." Forræðishyggjan hefur riðið húsum á kjörtímabilinu. Frumvarp um þjóðgarð á allt að 40 % af flatarmáli landsins, s.k. Miðhálendisþjóðgarð, er dæmi um tilhneigingu til miðstýringar, sem er algerlega óþörf og aðför að skynsamlegri nýtingu náttúrunnar. Þá hefur mörgum ofboðið stjórnfyrirkomulag sóttvarna, þar sem skort hefur á heildarsýn. Dæmi eru að koma fram hér og annars staðar um skaðlegar afleiðingar þröngsýnnar sóttvarnarstefnu.
- "Virða ber sérhvern mann og meta út frá orðum hans og athöfnum, en ekki á grundvelli útlitseinkenna, kynferðis, kynhneigðar o.fl." Hver er sinnar gæfu smiður. Öllum á að gera kleift að ná þeim þroska, sem hugur þeirra og geta stendur til. Þannig tryggjum við bezt streymi hæfileika á milli stétta, sem lágmarkar stéttaskiptingu í landinu. Teikn eru á lofti um, að vaxandi stéttaskiptingar gæti í landinu á milli aðflutts fólks af erlendu bergi brotnu, sem vilja setjast hér að, og borinna og barnfæddra Íslendinga. Sumpart kann þetta að stafa af of miklum straumi útlendinga til landsins á skömmum tíma. Það er sérstaklega mikilvægt, að börnum innflytjenda gefist kostur á því námi, sem hugur þeirra og geta stendur til.
- ""Merkimiðastjórnmál" (e. identity politics) bjóða þeirri hættu heim, að menn taki sér siðferðilegt vald yfir öðrum, brennimerki fólk eins og sauðfé, útiloki og dragi menn í dilka sem "seka" og "saklausa", þar sem sérvöldum einkennum er beitt til alhæfinga, ásakana og sakfellinga. (Saga 20. aldar ætti að hafa kennt okkur að varast fólk, sem talar á síðastnefndum forsendum.)" Eins og AÞJ bendir á, er þetta hvimleiða fyrirbrigði í umræðunni ekki nýtt af nálinni, en á okkar dögum hefur aukið úrval tjáningarmöguleika gert þessa undirmálsumræðu meira áberandi en áður. Þeir, sem halda henni uppi, eru oftar en ekki haldnir andlegum skavönkum, en sagan sýnir, að einnig þeir geta við vissar þjóðfélagsaðstæður haft áhrif á talsverðan fjölda. Grunnhygni, tómleiki og andleg vesöld leynir sér þó sjaldnast.
- "Lýðræðið grundvallast á því, að sérhver einstaklingur sé metinn að verðleikum, en ekki sem hluti af hópi." Það er margþekkt að sigla undir fölsku flaggi og að leika tveimur skjöldum. Slíkt er óheiðarlegt atferli og skapar vantraust á viðkomandi, þegar upp kemst. Þá má hafa þessi orð AÞJ í huga, þegar sóttvarnaraðgerðir eru metnar. Þær hafa komið mörgum mjög illa, t.d. öðrum sjúklingum en C-19 sjúklingum, nemendum, mörgum launþegum og lögaðilum, andlega veikburða fólki o.fl. Heilsufarslegar afleiðingar þessara aðgerða eru þess vegna af margvíslegu tagi. Þess vegna þarf að líta vítt yfir sviðið, þegar stórfelldum frelsisskerðingum er skellt á einstaklingana í nafni sóttvarna hópa (t.d. aldraðra) eða heildarinnar.
- "Lýðræðið hvílir á þeirri forsendu, að við verjum klassískt frjálslyndi, sem viðurkennir málfrelsi, fundafrelsi og frelsi til skoðanaskipta, þ.m.t. frelsi okkar og getu til að skipta um skoðanir." Þetta eru mannréttindi, sem fjarri fer, að öllum þjóðum hafi hlotnazt, eins og allir vita. Órjúfanlega tengd þessum mannréttindum virðast vera atvinnufrelsi, þ.e. frelsi til að stunda þá starfsemi, sem hugurinn girnist og ekki er bannaður eða háður leyfisveitingum með málefnalegum rökum, t.d. á grundvelli mannhelgi, heilsufars eða sjálfbærni. Heilbrigð atvinnustarfsemi og frjálst framtak virðast ennfremur þurfa að njóta verndunar eignarréttarins og löggjafar, sem stuðlar að frjálsri samkeppni og hófsamri skattheimtu. Við þetta má bæta atvinnulöggjöf, sem temprar átök á vinnumarkaði og möguleika aðila vinnumarkaðarins til kúgunar í því skyni að fá kröfum sínum framgengt. Íslenzka vinnulöggjöfin er barn síns tíma frá kreppuárunum fyrir Síðari heimsstyrjöld og þarfnast endurskoðunar eða aðlögunar að nútímanum með hliðsjón af vinnumálalöggjöf hinna Norðurlandanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.5.2021 | 11:24
Loftslagstrúboðið yfirskyggir stéttabaráttuna
Ofstækisfull stjórnmál eiga margt sammerkt með trúarbrögðum. Nú hefur loftslagstrúboðið tekið á sig mynd og er eins konar krossför gegn hlýnun jarðar. Vinstri menn á Íslandi hafa gripið þetta mál fegins hendi, enda staddir í hugsjónalegu tómarúmi eftir skipbrot sameignarstefnunnar hvarvetna. Sá er galli á gjöf Njarðar fyrir þessa trúboða hérlendis, að Ísland er fámennt hreinorkuland á sviði raforkuvinnslu og þess vegna eftir svo litlu að slægjast, að öll núverandi losun Íslands í 100 ár mundi engin teljanleg áhrif hafa á hlýnun jarðar.
Það er sjálfsagt að fara í orkuskiptin með skipulegum hætti, en allt flas þar er ekki til fagnaðar, t.d. nýjasta markmið forsætisráðherrans um 55 % samdrátt 2030 m.v. 2005, sem á eftir að verða efnahagslega íþyngjandi fyrir þjóðina algerlega að þarflausu.
Æðsti prestur loftslagstrúboðsins, umhverfisráðherrann Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður vinstri græningjanna, hefur nú hlotið efsta sætið á lista VG í SV-kjördæmi (Kraganum). Það verður sjón í sólskini að sjá íbúa þessa kjördæmis veita þessum trúboða fánýtra kenninga og bíllauss lífsstíls brautargengi til setu á Alþingi. Maðurinn á ekkert erindi á þing. Framganga hans við ríkisvæðingu miðhálendisins með þjóðgarði til að drepa í dróma alla nýtingu náttúruauðlinda þar er víti til varnaðar. Það er engin þörf á að stofna rétt eitt silkihúfuapparatið til að torvelda landsmönnum með krumlu ríkisvaldsins að nýta og njóta, en það tvennt fer saman, þegar vel er haldið á spilunum. Þetta er montverkefni sófagræningja til að geta státað sig af "stærsta þjóðgarði" Evrópu.
Helzt vill afturhaldið drepa alla nýtingu náttúruauðlinda í dróma og breyta landinu öllu í einn allsherjar þjóðgarð, þar sem fágæt eintök tegundarinnar "homo sapiens" verða til sýnis umheiminum á eldfjallaeyju, sem er í stöðugri mótun, lengst norður í Atlantshafi. Gæluverkefni afturhaldsins í landinu eiga sér engin takmörk, enda hefur þeim verið hossað langt umfram það, sem samræmist fjölbreytilegum atvinnuháttum og gjaldeyrisöflun í landinu. Það verður engin sátt í landinu um fórnir íbúanna, sem engum gagnast.
Þann 27. apríl 2021 reit téður Guðmundur Ingi grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:
"Kyrrstaðan hefur verið rofin á kjörtímabilinu".
Af fyrirsögninni mætti ætla, að maðurinn væri framfarasinni, en framfarir í hans huga eru varla það, sem flestir kjósendur í Kraganum mundu kalla framfaramál. Hann átti við minnkun losunar gróðurhúsagasa, sem hann telur hafa markað tímamót árið 2019:
"Í gær greindi Umhverfisstofnun frá nýjum losunartölum, sem sýna, að á milli áranna 2018 og 2019 dró úr losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands um 2 %. Þetta eru frábærar fréttir. Samdráttur frá árinu 2005 er 8 %."
Litlu verður vöggur feginn. Vaxandi fjöldi rafmagnsbíla fer að vigta inn til minni benzín/dísilolíunotkunar, en mest munar hér um færri ferðamenn í kjölfar falls WOW-air, og þar af leiðandi minni akstur á vegum úti. Það er varla tilefni til fagnaðarláta, þegar minni losun stafar af minni efnahagsumsvifum, minni atvinnu og minni hagvexti, en þar sannast enn andstaða vinstri grænna við hagvöxt. Ef um það er val, er of langt gengið í loftslagstrúboðinu að fórna hagvexti fyrir minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda, sem hvort eð er hefur engin áhrif á hlýnun andrúmslofts.
"Aðgerðir í loftslagsmálum eru stærsta velferðar- og efnahagsmálið á þessari öld. Þær eru grundvöllur fyrir því að geta rétt af misskiptingu og félagslegt óréttlæti í heiminum og stöðvað ósjálfbæra nýtingu auðlinda okkar."
Í íslenzku umhverfi virkar þessi texti mjög framandi og ankannalegur, og í alþjóðlegu samhengi orkar hann tvímælis. Ráðherrann er þess vegna hér að fiska í gruggugu vatni. Þetta er tilraun hans til að skapa VG tilverugrundvöll, eftir að stéttabaráttan varð sjálfdauð með yfirtöku heimspekinga, félagsfræðinga og þvílíkra á vinstri hreyfingunni. Losun Íslands hefur engin mælanleg áhrif á hlýnun jarðar, og megnið af iðnaðarlosuninni á Íslandi veldur beinlínis minni losun á heimsvísu. Losun landsins tengist hagkerfinu beint, svo að valdbeiting ríkisins í anda ráðherrans til að minnka hér iðnaðarlosun mundi koma Íslendingum á vonarvöl og auka heimslosunina. Fyrir landsmenn er þess vegna engin vitglóra í þessum boðskapi ráðherrans. Þarna er um að ræða nýju fötin keisarans.
Asíulönd hafa mörg hver rifið sig upp úr sárri fátækt og til bjargálna með erlendum (mest vestrænum) fjárfestingum, sem leitt hafa til rafvæðingar fjölmennra landa og þar af leiðandi mikillar raforkunotkunar, og þetta viðbótar rafmagn kemur að mestu frá kolaverum og jarðgaskyntum orkuverum, en einnig frá stórum vatnsorkuverum og kjarnorkuverum. Ætlast Guðmundur Ingi til þess, að þessar þjóðir gefi lifibrauð sitt upp á bátinn ?
Kínverjar, svo að dæmi sé tekið, glíma við hroðalega loft- og jarðvegsmengun af völdum stefnu sinnar, og þess vegna leita þeir ráða til að snúa á braut orkuskiptanna. Þeir hafa nú bæði fjárhagslegt og tæknilegt bolmagn til þess, sem þeir höfðu ekki fyrir 30-40 árum. Líklega eru þeir að þróa kjarnorkuver til að leysa kolaverin af hólmi. Það verður ekki séð, að nokkra skynsemi sé að finna í tilvitnuðum orðum íslenzka umhverfisráðherrans. Þau eru falsboðskapur. Þetta er marklaust pólitískt kvak loftslagstrúboða með engar haldgóðar lausnir fyrir hagsmuni alþýðu manna.
"Markmið Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda voru um áramót uppfærð úr 40 % samdrátt til ársins 2030 í 55 % samdrátt. En við þurfum að stefna enn hærra.
Við þurfum að beita skattkerfinu í þágu loftslagsins og hringrásarhagkerfisins og sjá til þess, að það verði auðveldara og ódýrara að gera við og nýta það, sem til er, heldur en að kaupa nýtt.
Við þurfum sérstaka áætlun um vernd víðerna, sem óvíða eru meiri en einmitt hér á Íslandi. Við eigum að vera fremst í því að vernda náttúruna - verða þjóðgarðalandið Ísland. Og, við þurfum stefnu um verndarsvæði í hafi.
Í rauninni mætti draga þetta saman í þessa setningu: Við þurfum að setja náttúruna og loftslagið í fyrsta sæti. Á því byggist velferð samfélags okkar til framtíðar. Svo einfalt er það."
Hér kennir ýmissa grasa og ekki allra kræsilegra. Ráðherrann sýnir þarna, að VG-ráðherrarnir, hann og forsætis, hafa algerlega tapað áttum, þegar þau bleyttu á sér þumal, stungu honum upp í loftið og fundu þannig, að Íslendingar gætu dregið úr losun CO2 um 55 % frá losuninni 2005 fyrir árslok 2030. Það blasir við, að þetta verður þolraun fyrir fjölskyldur og hagkerfið í heild og næst ekki án þungbærra þvingunarráðstafana ríkisins. Ávinningurinn verður enginn fyrir hitastig andrúmsloftsins. Samt ógnar ráðherrann með enn meiri samdrætti. Er ráðherrum vinstri hreyfingarinnar græns framboðs skítsama um lífskjörin í landinu og skeyta ekki um annað en að baða sig í sviðsljósinu með ráðherrum annarra landa ?
Ráðherrann kemur þarna út úr skápnum með það hugarfóstur sitt og VG "að beita skattkerfinu í þágu loftslagsins og hringrásarhagkerfisins". Þetta þýðir m.a. enn meiri hækkanir opinberra gjalda á benzín og dísilolíu og einhvers konar vörugjald á heimilistæki og aðrar fjárfestingarvörur heimilanna, til að heimilin eigi enn erfiðara með að endurnýja tækjabúnað sinn. Stækkandi heimili þurfa að stækka þvottavélar, ísskápa o.s.frv. Hvaða heilvita maður er tilbúinn að taka þátt í þessari gandreið ráðherrans fyrir hégómleika vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og ekkert annað.
Umhverfisráðherrann vill "Þjóðgarðalandið Ísland". Hvers vegna í ósköpunum ? Hugdetta ráðherrans um miðhálendisþjóðgarð er allt of stórkarlaleg til að vera fýsileg. Fyrir hvern er ávinningurinn ? Náttúruna ? Búrókratana ? Hér er um að ræða útþenslu ríkisbáknsins undir umsjón umhverfis- og auðlindaráðherra til að takmarka mjög arðsama nýtingu þessa landsvæðis. Það er engin boðleg stefna um miðhálendið önnur en sú, sem tryggir áframhaldandi stjórnsýslu aðliggjandi sveitarfélaga og hófsama og sjálfbæra nýtingu allra náttúruauðlinda þjóðlendnanna í þágu þjóðarinnar allrar.
Ráðherrann opinberar mannfjandsamleg viðhorf sín með því að skrifa, að "við þurfum að setja náttúruna og loftslagið í fyrsta sæti". Andstæð stefna við þetta er að setja fólkið í fyrsta sæti. Stefna ráðherrans er að hindra alla nýja nýtingu náttúruauðæfa, sem þó er þjóðinni til hagsbóta, og skattleggja almenning í drep í nafni loftslagsguðsins, sem hann tilbiður. Ráðherrann boðar helsi og afturhald. Valkosturinn við stefnu þessa ráðherra er frelsi og framfarir. "Svo einfalt er það."
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.4.2021 | 14:39
Á valdi óttans
Heilbrigðisstjórnvöldin í landinu, sem átt hafa sviðið í á annað ár, hafa orðið uppvís að undirmálsvinnubrögðum, sem verður að kenna við fúsk. Á því ber heilbrigðisráðherrann höfuðábyrgð og má furðu gegna, að hún skuli ekki hafa verið látin sæta pólitískri ábyrgð á mistökum ráðuneytisins. Það vitnar ekki um, að þingmenn taki eftirlitshlutverk sitt með framkvæmdavaldinu ýkja alvarlega, að þingið skuli ekki taka pólitíska stöðu hennar til ítarlegrar umfjöllunar, eftir að hún gerðist brotleg við lög. Það er ekki í fyrsta skipti, sem það gerist í hennar ráðherradómi (áður sem umhverfisráðherra). Það þarf að koma henni í skilning um, að réttarríkið er reist á því, að ríkið og aðrir hafi ekki lögin bara til hliðsjónar, þegar hentar, heldur fari eftir þeim, alltaf. Þó er eftirtektarvert, að nýjasta frumvarp heilbrigðisráðherrans varð mjög umdeilt í þinginu og afgreitt í bullandi ágreiningi undir morgun á Sumardeginum fyrsta.
Svandís Svavarsdóttir virðist vera hræðilegur gösslari í embættisfærslu sinni, sem ekki gefur neinn gaum að þeirri löggjöf, sem henni ber að starfa eftir. Katrín Jakobsdóttir og flokkssystkini hennar þvinguðu fyrr á þessu kjörtímabili dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins til að segja af sér fyrir litlar sem engar sakir eða hreinan tittlingaskít í samanburði við brot heilbrigðisráðherra. Katrínu setur hrottalega niður sem forsætisráðherra sökum þessarar grófu mismununar þessara tveggja ráðherra. Flokkstrýnið skal ráða för hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Þar fara spilltir kerfissnatar.
Heilbrigðisyfirvöldin í landinu hafa farið offari gegn veirufaraldrinum SARS-CoV-2 m.v. aðstæður og notað hvert tilefni til að mála skrattann á vegginn. Í fyrstu mátti fyrirgefa þetta í ljósi þess, að ný staða væri uppi í landinu og að nauðsynlegt væri að ná athygli almennings til að innræta honum persónubundnar sóttvarnaraðgerðir. Það hefur hins vegar bara verið hert á hræðsluáróðrinum um leið og opinberar sóttvarnaraðgerðir á landamærunum og innanlands hafa verið hertar, þótt tilefni þess verði sífellt minni. Meintur ótti sóttvarnarlæknis og landlæknis við 4. bylgjuna, sem enn er ókomin, og rándýrar aðgerðir gegn henni, tóku út yfir allan þjófabálk. Þessu verður að fara að linna og meira jafnvægi verður að komast á aðgerðir, enda eru mikil áhöld um gagnsemi þeirra, en neikvæðar afleiðingar skelfilegar.
Í nýlegri frétt frá Bretlandi var sagt frá því, að fjórðungur dauðsfalla, sem skráður er vegna C-19 sjúkdómsins, hafi verið af öðrum ástæðum, þótt hinir látnu hafi verið sýktir af C-19. Þannig hefur vafasöm og skrýtin tölfræði verið purkunarlaust brúkuð af fréttamönnum og öðrum óttamöngurum.
Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann, var birt í Morgunblaðinu 12. apríl 2021 umhugsunarverð áminning og árétting í þessu sambandi, þar sem hann snertir við ýmsu, sem flogið hefur um hugi margra í gjörningaviðri Kófsins á Íslandi. Fyrirsögnin var:
"Að virkja óttann".
Greinin hófst þannig:
"Á öllum tímum hefur það verið öflugt vopn í heimi mannanna að nýta ótta við utanaðkomandi hættu til að ná pólitískum yfirráðum yfir hinum óttaslegnu."
Þetta er staðreynd, og hana hafa sóttvarnaryfirvöld víða um heim, m.a. hérlendis, nýtt sér í hag til að koma í veg fyrir uppreisn af völdum grófra skerðinga á mikilvægum réttindum fólks og venjum. Samt styðja engar vísindalegar rannsóknir þessar aðfarir ríkisvaldsins gegn borgurunum. Einræðisstjórnin í Beijing reið á vaðið og sviðsetti fréttir af skilvirkni þessara hörðu opinberu sóttvarnaraðgerða. Fréttamenn á Vesturlöndum átu þetta upp og spurðu rugluð yfirvöld Vesturlanda í ríminu, hvað þau ætluðu að gera til að fækka dauðsföllum vegna veirunnar. Þau treystu sér ekki til að segja: nei, út í svona frelsisskerðingar förum við ekki á Vesturlöndum, og því fór sem fór.
Hagkerfin eru í rúst, fjöldaatvinnuleysi, mörg gjaldþrot, persónulegir harmleikir mun fleiri en áður og hratt hrakandi lýðheilsa. Á Íslandi er verðbólgan komin af stað; er nú s.k. kjarnaverðbólga reiknuð 5,2 % á ári, aðallega af því að launþegasamtökin neituðu að fresta launahækkunum í Kófinu, sem engin innistæða var fyrir. Það var varað við því, að fyrirtækin hefðu ekki meira bolmagn, en heimtufrekja, þröngsýni og pólitískt ofstæki tröllreið húsum verkalýðshreyfingarinnar. Hækkanirnar fóru út í verðlagið, sem þó átti að forðast. Verðbólgan er reyndar líka komin af stað í Bandaríkjunum, þó aðeins helmingur af hérlendri, og þar er hagkerfið nú að taka vel við sér, enda yfir 40 % íbúanna bólusettir. Evrópusambandið er Lazarus í þessu sambandi.
"Íslenzka dæmið, sem nú skellur á okkur, er auðvitað ekki jafnalvarlegt og þetta þýzka dæmi [andlegt ástand í Þriðja ríkinu - innsk. BJo]. En það er af sömu tegund. Við Íslendingar erum nefnilega að upplifa það, að stjórnvöld leitast við að nýta ótta þjóðarinnar við veiruna miklu til að fá hana til fylgilegs við ofbeldisfulla stýringu á háttsemi manna í því skyni að ná tökum á veirunni."
"Til liðs við þau kemur svo orðhákur úr röðum vísindamanna, sem kann að gera út á hræðslu almennnings við hina skaðvænlegu veiru. Þetta fremferði mannsins er líka til þess fallið að auka honum persónulegar vinsældir, eins og kemur fram í blaðagreinum og neðanmálsgreinum á netinu.
Hann hallmælir dómstólum fyrir að virða meginreglur laga og uppnefnir þá, sem fallast ekki á ruglið í honum. Sigríður Andersen, alþingismaður, hitti naglann á höfuðið, þegar hún lýsti þversögninni, sem felst í því, að moldríkur orðhákurinn, sem kominn er á elliár og vill reisa múrvegg á landamærum landsins, líkti öðrum mönnum við Trump úr vesturheimi fremur en sjálfum sér."
Það, sem hér og víðar hefur gerzt í þessu Kófi, er alvarleg aðvörun til borgaralega þenkjandi fólks um, hversu auðvelt er með tilfinningaþrungnum áróðri, sem oft er reistur á hæpnum forsendum og jafnvel falsrökum, að ganga freklega á hlut atvinnufrelsis og einstaklingsfrelsis í þágu einhvers málsstaðar með því að vekja ótta. Vesturlönd sóttu fyrirmyndina til einræðisstjórnarinnar í Kína, sem ruddi braut stórfelldra frelsisskerðinga á Vesturlöndum með því að básúna frábæran sóttvarnarárangur sinn með því að loka fólk inni á heimilum sínum með valdi, eins konar herskálalokun.
Það hafa hins vegar ekki verið birtar neinar traustvekjandi niðurstöður vísindarannsókna um gagnsemi alls konar hafta á mannlega hegðun fyrir sóttvarnir. Vísbendingar frá samanburði ríkja með ólíkar hömlur benda ekki til neins sóttvarnarárangurs, en mikilla neikvæðra efnahagsáhrifa og þungbærs atvinnuleysis, þar sem miklum hömlum er beitt. Einn slíkur samanburður er t.d. á milli Norður- og Suður-Dakóta í Bandaríkjunum, en SD beitti afar litlum hömlum og hagkerfið þar dróst ekki saman og er að taka vel við sér núna.
Nýlega var fulltrúi heilbrigðisráðherra Þýzkalands spurður um það, hvort lokunarráðstafanir þýzkra stjórnvalda styddust við vísindalegar rannsóknir. Honum vafðist tunga um tönn og gat engu svarað. Hér er pottur brotinn og allt of mikið af illa ígrunduðum forræðishyggjutilburðum, sem eru mjög íþyngjandi fyrir ungviði og alla aðra og hafa komið niður á lýðheilsu og efnahag.
Á Íslandi er stjórnkerfi sóttvarnarmála veikt, þar sem einn maður mótar tillögugerð til ráðherra. Hann gefur ekki gaum að lagaheimildum tillagna sinna, og hann virðist láta sig litlu varða fjárhagslegar afleiðingar þeirra og lýðheilsulega skaðsemi. Þá virðist hann kikna í hnjánum, þegar "Vatnsmýrar-Trump" kveður sér hljóðs opinberlega með fjaðraþyt og stórkarlalegum spádómum og yfirlýsingum um aðsteðjandi hættu að utan, svo að loka verði bæði landamærunum og allri starfsemi innanlands, sem fólk sækir í, helzt fyrir helgi. Þessi óvandaða stjórnsýsla tók á sig ljóta mynd 1. apríl 2021 með reglugerð, sem Héraðsdómur dæmdi ólöglega. Það virðist alveg vera sama, hvar borið er niður í embættisverkum heilbrigðisráðherra. Henni eru mjög mislagðar hendur, og umgengni hennar við heilbrigðiskerfið má líkja við fíl í postulínsbúð.
Andrés Magnússon skrifaði fréttaskýringu um þetta í Morgunblaðið 12. apríl 2021:
"Stjórnsýsla í molum í heilbrigðisráðuneyti".
Hún hófst þannig:
"Vandræðin vegna reglugerðar Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, um skyldudvöl í sóttkvíarhóteli, sem héraðsdómur úrskurðaði ólögmæta, hafa vakið mikla athygli, jafnvel deilur. Þar hefur verið deilt um sjálfa aðgerðina, að allir ferðamenn frá tilteknum svæðum - þar á meðal fólk, sem hvorki er smitað né grunað um að vera smitað - séu settir í sóttkví í varúðarskyni, þótt þeir hafi í önnur, betri og eigin hús að venda. Hins vegar hafa menn svo staldrað við aðferðina, hvernig það gat gerzt, að heilbrigðisráðherra hafi sett reglugerð, sem augljóslega átti sér ekki lagastoð.
Á hinu fyrrnefnda getur fólk haft ýmsar skoðanir, en það er hið síðarnefnda, hvernig heilbrigðisráðuneytið rataði í þessi ótrúlegu vandræði, sem sennilega er verra og vandasamara mál."
Það er aðeins hægt að draga þær ályktanir af þessu, að hvorki sóttvarnarlög, mannréttindi né Stjórnarskrá megi standa í veginun við setningu íþyngjandi reglugerða á sviði sóttvarna, því að ráðherra og embættismenn geri það til að vernda líf og heilsu almennings. Þessi röksemdafærsla þeirra er stórhættuleg lýðræðislegum stjórnarháttum í landinu og virðingu valdhafa fyrir einstaklingsbundnum réttindum, sem sjálft réttarríkið hvílir á. Málið er þess vegna grundvallarmál. Heilbrigðisráðherra ætti að hafa vit á því að fara með skerðingu á stjórnarskrárvörðum réttindum einstaklinga fyrir Alþingi, en til þess brast hana andlegu spektina, virðingu fyrir lýðræðinu og ráðgjafa með sjálfstæða hugsun. Þess vegna er stjórnsýsla heilbrigðisráðuneytisins í molum. Ef hún verður ekki látin sæta ábyrgð fyrir þetta, þá hljóta kjósendur að grípa til sinna ráða við fyrsta tækifæri, ef/þegar þeir sjá út úr Kófinu.
"Þó vekur mesta athygli í þessum gögnum úr heilbrigðisráðuneytinu [sem þurfti að toga út með töngum - innsk. BJo], að þar er ekkert vikið að lagastoð reglugerðarinnar eða álitaefni um lögmæti hennar, heldur aðallega fjallað um framkvæmdina á reglugerðinni og ýmsan vanda henni samhliða.
Það má heita með ólíkindum, að við reglugerðarsetningu láti ráðherra og starfsmenn hans í ráðuneytinu undir höfuð leggjast að ganga úr skugga um slíkt grundvallaratriði. Það á að vera vinnuregla við alla reglugerðarsetningu og enn ríkari ástæða til en ella, þegar um svo stórtæka og kostnaðarsama íhlutun er að ræða, sem í ofanálag vegur að frelsi borgaranna.
Það eitt bendir til þess, að stjórnsýslan í heilbrigðisráðuneytinu sé í molum. Setning reglugerða er eitt helzta stjórntæki ráðuneyta, og ef þær eru ekki aðeins ekki samkvæmt lögum, heldur kemur í ljós, að ráðherra sýndi ekki minnstu viðleitni til þess að tryggja, að reglugerð hefði við lög að styðjast, þá er eitthvað hræðilegt að."
Þessi lýsing á vinnubrögðum heilbrigðisráðherra ásamt þeirri staðreynd, að viðkomandi ráðherra situr enn í embætti, getur aðeins átt við um ástand, sem kennt er við bananalýðveldi. Í vestrænum lýðræðisþjóðfélögum hefðu háværar viðvörunarbjöllur klyngt, þangað til þessi ráðherra hefði verið látinn taka pokann sinn, enda ljóslega óhæfur til að gegna embætti í réttarríki.
Einræðissinnaðir stjórnmálamenn mega ekki komast upp með að breyta landinu í "sóttvarnarríki", þar sem allt er leyfilegt í nafni sóttvarna. Sízt af öllu má þetta viðgangast, þegar "drepsóttin" er af völdum kórónuveiru, eins og aðrar flensuveirur, sem við verðum að læra að lifa með, enda er hún lítið hættulegri en skæðar flensuveirur og leggst jafnvel vægar en þær á ungviðið.
"Það vekur spurningar um vandvirkni, árvekni og kostgæfni æðstu embættismanna ráðuneytisins, en þó auðvitað sérstaklega æðsta embættismann þess, Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra. Í því samhengi er rétt að minnast þess, að annar ráðherra í þessari ríkisstjórn steig til hliðar af mun minna tilefni. Það er því erfitt að trúa því, að staða heilbrigðisráðherra hafi ekki komið til tals hjá forystumönnum ríkisstjórnarinnar, hvað sem líður öllum traustsyfirlýsingum."
Þetta leiðir hugann að grófri mismunun forsætisráðherra núverandi ríkisstjórnar, sem hamaðist gegn dómsmálaráðherra, Sigríði Andersen, fyrir litlar sem engar sakir. Þar var bakari hengdur fyrir smið, því að tilnefningar dómsmálaráðherra á dómaraefnum í Landsrétt voru í samræmi við lög og vegna afstöðu Alþingis um kynjajafnvægi, og bæði þingið og Hæstiréttur lögðu síðan blessun sína yfir valið. Kæra til Mannréttindadómstólsins og úrskurðir hans um vanhæfi skipaðra dómara áttu ekki að hafa úrslitaáhrif hér, enda hefur hann ekki lögsögu á Íslandi, þótt stjórnsýslan og löggjafinn hafi hann jafnan til hliðsjónar.
Í lok fréttaskýringarinnar stóð þetta:
"Vona verður, að þetta séu ekki viðtekin vinnubrögð í heilbrigðisráðuneytinu, en við blasir, að þetta furðulega mál hlýtur að verða til þess, að þau séu rannsökuð til hlítar og þetta mál sérstaklega. Um það getur heilbrigðisráðherra sjálfur hvorki haft forystu né umsjón."
Hér er kallað eftir stjórnsýsluúttekt, sem er eðlilegt, eftir að stóru og fjölmennu ráðuneyti hefur orðið jafnrækilega á í messunni og hér um ræðir. Þátt og aðkomu ráðuneytisstjórans, aðstoðarmanns ráðherra og lögfræðinga ráðuneytisins að samningu umræddrar reglugerðar og annarra þarf að kanna sérstaklega. Losarabragurinn virðist yfirþyrmandi og ráðherra án stjórnunarhæfileika magnar vandann.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.4.2021 | 11:15
Viðreisn og réttlætið
Formanni og varaformanni Viðreisnar, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og dr Daða Má Kristóferssyni, virðist hafa verið mikið niðri fyrir, þegar þau rituðu grein í Morgunblaðið um fiskveiðistjórnun og Stjórnarskrárbreytingar, enda var heitið hátimbrað:
"Réttlæti og hagkvæmni".
Þau virtust telja sig hafa gert stóra uppgötvun um það, hvernig haga ætti fiskveiðistjórnun, þannig að slá mætti þessar tvær flugur í einu höggi, réttlætið og hagkvæmnina. Sannleikurinn er þó sá, að það, sem þau boða, er sama fyrirkomulagið og Evrópusambandið (ESB) reynir að koma á á Innri markaði sínum, þó ekki enn í sjávarútvegi, þótt einstaka aðildarlönd, t.d. Eistland, hafi reynt það með hörmulegum afleiðingum fyrir sjávarútveginn þar, samþjöppun útgerða og gjaldþrotum.
Núverandi regla ESB um hlutfallslegan stöðugleika á fiskimiðum sem viðmiðun við úthlutun fiskveiðiheimilda er aðeins gildandi vinnuregla ráðherraráðsins, en hún á sér enga stoð í sáttmálum Evrópusambandsins. Lagastoð þessarar vinnureglu, sem væntanlega mundi veita íslenzkum útgerðum forgangsrétt til veiða í lögsögu Íslands, á meðan hún er í gildi, er reglugerð nr 2371/2002. Hana getur Ráðið afnumið í atkvæðagreiðslu með auknum meirihluta, þ.e. Ísland hefði ekki neitunarvald eftir inngöngu. Ráð Íslands væri algerlega í annarra höndum. Hvað er svona eftirsónarvert við það ? Allt túður ESB-sinna hérlendis um, að Íslendingar geti verið öruggir um að halda núverandi fiskveiðiréttindum sínum innan íslenzku lögsögunnar, er algerlega úr lausu lofti gripið og ábyrgðarlaust fals og mjög ámælisvert m.v. það, sem í húfi er. Með slíku dæmir Viðreisn sig út fyrir hliðarlínuna sem ómerking.
Samkvæmt grænbókum Evrópusambandsins er þessi úthlutunarregla fiskveiðiheimilda ekki varanleg, heldur er stefnt á markaðsvæðingu aflaheimilda, eins og Viðreisn boðar í sinni stefnuskrá. Þetta er fastsett í Lissabonsáttmálanum, 2. gr./ 1. og 2. tl., 3. gr. / d-lið og 4. gr. / d-lið.
Þessi stefna ESB þarf engum hérlendis að koma á óvart, enda er þetta samræmd stefna ESB um aðgang að náttúruauðlindum. ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, sem hefur eftirlit með framkvæmd EES-samningsins í EFTA-löndunum, gerði á tímum vinstri stjórnarinnar eftir Hrunið athugasemd við ríkisstjórn Íslands um fyrirkomulag úthlutunar vatnsréttinda eða almennt við fyrirkomulag úthlutunar nýtingarréttar auðlinda á landi ríkisins. ESA taldi íslenzka ríkið einoka þessar orkulindir og halda þeim í óleyfi, m.v. ESB-löggjöfina, frá einkaframtakinu. Þetta skaðaði frjálsa samkeppni að mati ESA.
Árið 2016 varð ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar (utanríkisráðherra þar var Lilja Dögg Alfreðsdóttir) við öllum kröfum ESA í þessum efnum. Þetta voru hrapalleg mistök og óskiljanlegur afleikur, enda hefur framkvæmdin látið á sér standa fram að þessu. Það er auðvitað með öllu ólýðræðislegt, að utanríkisráðherra geti skuldbundið íslenzka ríkið gagnvart ESA/ESB til að bjóða upp vatnsréttindi sín á Innri markaði EES. Hvernig halda menn, að það fari, þegar Landsvirkjun fer að keppa við evrópska risa á meðal einkafyrirtækja á orkumarkaði um réttinn til nýtingar vatnsréttinda í eigu ríkisins ? Hvernig í ósköpunum datt téðri ríkisstjórn í hug að fallast á þetta ? Þetta er hneyksli.
Þegar norska ríkisstjórnin fékk sams konar athugasemd frá ESA allnokkru síðar, var hún fljót að hafna þeim afskiptum ESA af ráðstöfunarrétti erfðasilfurs Norðmanna á þeirri forsendu, að úthlutun nýtingarheimilda orkulinda norska ríkisins væri alls ekki á forræði ESB/ESA, heldur óvéfengjanlegur réttur norsku ríkisstjórnarinnar og Stórþingsins. Við það stendur. Svo ólíkt hafast frændþjóðirnar að, að með ólíkindum er. Hvernig stendur á þessum undirlægjuhætti hér ?
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og dr Daði Már Kristófersson rituðu sem sagt grein í Morgunblaðið 25. marz 2021, undir heitinu:
"Réttlæti og hagkvæmni".
Hún hófst þannig:
"Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi standa einarðlega vörð um reglur, sem tryggt hafa meiri hagkvæmni í rekstri íslenzks sjávarútvegs en þekkist annars staðar. Sú verðmætasköpun, sem þetta kerfi hefur skapað, skiptir miklu máli fyrir efnahagslíf landsins. Hagsmunir heildarinnar og landsbyggðarinnar mæla eindregið með því, að henni verði ekki raskað.
Ágreiningur okkar við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi snýst um annað. Þau telja, að fiskimiðin séu eina auðlindin í þjóðareign, þar sem hagkvæmni og réttlæti geti ekki farið saman. Hér erum við á öndverðum meiði."
Greinin fór vel af stað, og það er allt rétt, sem ofan greinarskilanna stendur, en þegar plægja á akurinn fyrir auðlindastefnu ESB í dulargervi, þá slær strax út í fyrir höfundunum. Þegar Landsvirkjun var stofnuð árið 1965, lagði ríkið inn ótímabundið sem eignarhlut sinn í félaginu vatnsréttindin í Þjórsá/Tungnaá, sem Títanfélagið hafði safnað og keypt af landeigendum (bændum) í kringum 1920. Þegar virkjanaréttindi ríkisins renna út, dettur engum hérlendis í hug að fara að bjóða öðrum þau til kaups, nema þeim, sem vilja búa í haginn fyrir inngöngu Íslands í ESB. Hvers vegna ?
Það er vegna þess, að sé úthlutunin tímabundin, þá verður vinnslukostnaður raforku óhjákvæmilega hærri vegna styttri afskriftatíma mikilla fjárfestinga; viðhald og fjárfestingar í endurbótaverkefnum virkjunar verða hornreka, af því að nýtingarrétturinn er ekki tryggður til frambúðar, og þess vegna eru fjárveitingar til slíkrar virkjunar alger vonarpeningur og betra að verja í annað öruggara.
Þetta mun síðan koma niður á afhendingaröryggi og skilvirkni virkjunarinnar, sem háð er stuttum nýtingarrétti og markaðsvæðingu hans. Allt hlýtur þetta að leiða til verri nýtingar frumorkunnar og lakari umgengni við auðlindina, sem er andstætt hag eigandans, þjóðarinnar. Þar sem íslenzkur raforkumarkaður er fákeppnismarkaður án samkeppniskrafta, sem þrýsta verðinu niður, mun þetta allt til lengdar leiða til hærra raforkuverðs. Þess vegna er engin glóra í þessari ævintýraför Viðreisnar, enda er hún ekki sniðin við íslenzkar aðstæður. Það er einhver meinloka að setja þetta í stefnuskrá íslenzks stjórnmálaflokks.
Hið sama gildir í raun og veru um sjávarauðlindina og orkuauðlindina. Sjávarútvegurinn er kjölfesta landsbyggðarinnar. Stjórnfyrirkomulag hans hefur reynzt vel, eins og forysta Viðreisnar viðurkennir í byrjun greinar sinnar. Hvers vegna að umturna því, sem reynzt hefur vel ? Markaðsvæðing aflahlutdeilda mun hvorki auka réttlæti hérlendis né hagkvæmni sjávarútvegs. Hún er til þess fallin að auka samþjöppun, því að fjársterkustu fyrirtækin munu lifa þennan darraðardans af, en hin munu lognast út af. Hver verða fórnarlömbin ? Það verða sjávarbyggðir meðfram allri strönd Íslands og reyndar hagkerfi landsins alls, því að fé verður dregið út úr greininni til kaupa á aflahlutdeildum, sem þýðir, að of lítið verður eftir til fjárfestinga í nýjustu tækni. Það leiðir strax til hrörnunar og stórhættu á, að íslenzkur sjávarútvegur verði undir í samkeppninni á alþjóðlegum mörkuðum. Ekki þarf að spyrja að leikslokum, þegar niðurgreiddar, erlendar útgerðir fara að bjóða í aflahlutdeildir á íslenzkum fiskimiðum. Það virðist vera lokatakmark Viðreisnar. Þessi stefna er ekkert minna en þjóðarskömm.
Því er haldið fram, að frjálst framsal aflahlutdeilda hafi aukið ójöfnuð á Íslandi og fært mikil verðmæti á fáar hendur. Þetta er þröngsýnt og afturhaldssinnað sjónarmið, einhvers konar fortíðarþrá. Ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags gegn Sjálfstæðisflokki í stjórnarandstöðu (flokki sjálfstæðra útvegsbænda) með þingstyrk sínum á Alþingi setti lög um frjálst framsal aflaheimilda 1989, af því að hún fann ekki aðra leið til að rétta hag sjávarútvegsins, sem glímdi þá við mikla aflaskerðingu í kjölfar lögleiðingar aflahlutdeildarkerfisins (kvótaúthlutunar) 1983-1984 til verndar fiskimiðunum. Þá skiptu aflahlutdeildir um hendur á frjálsum markaði og útgerðum og fiskiskipum snarfækkaði, svo að hagur þeirra, sem fjárfestu í aflahlutdeildum, vænkaðist smám saman. Hvar er óréttlætið í þessu ?
Er óréttlátt að bera úr býtum með áræði og dugnaði ? Það er stórfurðulegt, að þeir, sem annars styðja frjálst framtak, sjái slíkum ofsjónum yfir velgengni annarra. Það er mál til komið að skapa frið um starfsemi sjávarútvegsins, enda greiðir hann meira til samfélagsins en aðrir atvinnuvegir á Íslandi vegna sérsköttunar, og samkeppnisaðilar hans erlendis eru ekki aðeins lausir við þessa sérsköttun (auðlindagjald) í sínu heimalandi, heldur fá þeir veruleg framlög frá hinu opinbera til að stunda sína starfsemi, draga björg í bú til að fæða sína þjóð og viðhalda byggð.
"Lykillinn að þeirri lausn er enginn galdrastafur. Hann er einfaldlega sá sami og notaður er til að tryggja hagkvæmi og réttlæti við nýtingu allra annarra náttúruauðlinda, bæði hér heima og annars staðar.
Þessu tvöfalda markmiði má sem sagt ná með því að veita þröngum hópi einkarétt á auðlindum til nýtingar í tiltekinn tíma gegn gjaldi. Einkaleyfið felur í sér takmörkuð eignarréttindi. Sanngjarnt gjald fyrir slík réttindi endurspeglast síðan í verði þeirra."
Það, sem þarna er ofan greinarskilanna, er fals, eins og rakið er hér að ofan, og það er ósvífin blekking að halda því fram, að annars staðar í heiminum sé markaðsvætt aðgengi náttúruauðlinda viðtekin venja til að fullnægja hagkvæmni og réttlæti. Nægir að nefna vatnsorkulandið Noreg sem dæmi. Þar viðgengst svipað fyrirkomulag og hérlendis með vatnsorkulindirnar, og Norðmenn hafa aftekið með öllu að hlíta valdboði ESA/ESB um breytingu á þessu. Þá tíðkast alls engin markaðsvæðing á aðgengi norskra fiskimiða í anda ESB. Á meginlandinu stendur framkvæmdastjórn ESB í stappi við ein 8 lönd, þar sem vatnsorkuver eru í opinberum rekstri, þ.á.m. Frakkland.
Það, sem kemur þarna neðan greinarskilanna er í raun og veru áferðarfalleg lýsing á markaðsvæðingu náttúruauðlinda, sem lýst er í grænbókum Evrópusambandsins. Það eru tvíefld öfugmæli, að við íslenzkar aðstæður geti þetta stefnumið ESB leitt til aukins réttlætis og hagkvæmni fyrir almenning. Hér er einfaldlega um að ræða aðferð Framkvæmdastjórnarinnar til að veita nýju fjármagni fjársterkra einkafyrirtækja inn í orkugeirann til að létta undir með hinu opinbera við orkuskiptin og almennt til að gera orkugeirann kvikari (dýnamískari) gagnvart breyttu umhverfi. Viðreisn er á algerlega röngu róli, þegar hún heldur því fram, að hugmyndafræði þessarar markaðsvæðingar sé reist á réttlæti og hagkvæmni. Hún flaggar hér með innflutta lausn á viðfangsefni, sem er ekki fyrir hendi á Íslandi. Það hlýtur að fara hörmulega (illa ofan í landann).
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)