Færsluflokkur: Dægurmál

Landamærin

Styrr hefur staðið um, hvernig haga beri móttöku farþega með flugi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og á varaflugvöllunum eða í höfn á Seyðisfirði, þar sem færeyska ferjan Norræna leggur að. Þar sem dæmi eru um það, að farþegar virði reglur um sóttkví að vettugi, hefur sóttvarnarlæknir lagt til og ríkisstjórnin samþykkt, að f.o.m. 1. apríl 2021 fari allir í sóttkví ríkisins undir eftirliti, sem koma frá s.k. rauðum svæðum í ESB og hvorki hafa verið fullbólusettir né veikzt og náð sér af C-19.  Rauð svæði eru með nýgengi sjúkdómsins, NG>50.  Á íslenzkan mælikvarða er þetta nýgengi hátt, og í ljósi þess, að PCR-prófið er ónákvæmt, reyndar í báðar áttir (26 % sýnagjafa reynast neikvæðir í fyrri skimun, en jákvæðir í seinni), þá er ekki óeðlilegt, að sóttvarnaryfirvöld vilji draga úr líkum á "sóttkvíarleka" veirunnar.  Þá má reyndar spyrja sig, hvort ekki sé eðlilegra við íslenzkar aðstæður að miða við nýgengið 25, en undir því flokkast lönd sem "græn". Hins vegar ber yfirvöldum að leita vægustu úrræða til að ná fram ætlun sinni, sem í þessu tilviki virðist vera veirulaust Ísland.  Þetta stefnumið er óraunhæft.  Við verðum þvert á móti að læra að lifa með veirunni, SARS-CoV-2, eins og öðrum veirum af kórónuættinni, sem valda inflúensu og lungnabólgu. Móðursýkinni verður að linna. 

Vægara úrræði er t.d. ökklaband.  Sóttkví ríkisins felur í sér frelsissviptingu, sem er þungbær, einkum fyrir íbúa hérlendis.  Með henni eru allir undir sömu sök seldir vegna líklega örfárra, sem brugðizt hafa trausti yfirvalda og hundsað sóttkvíarskilyrðin. Er það réttmætt og réttlætanlegt í ljósi núverandi aðstæðna í þjóðfélaginu og stöðu faraldursins á Íslandi, þar sem aðeins 1 liggur á sjúkrahúsi vegna C-19 og alls enginn veldisvöxtur er á útbreiðslunni í samfélaginu ?  Frá sjónarhóli leikmanns í lögum fór heilbrigðisráðherra offari, þegar hún setti reglugerð um sóttkví ríkisins fyrir alla frá svæðum með hátt nýgengi C-19, hún virðist ekki hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni um vægari úrræði, og nýju sóttvarnarlögin heimila hreinlega ekki þessa frelsisskerðingu. Á annan páskadag, 05.04.2021, kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í máli nokkurra komufarþega í sóttkví ríkisins, sem vissulega áttu í önnur hús að venda til að fullnusta sóttkvíarskyldum sínum.  Dómurinn var eðlilegur og skiljanlegur á grundvelli gildandi sóttvarnarlaga.  Nú hefur sóttvarnarlæknir hvatt ráðherra til að leggja fyrir Alþingi frumvarp, sem heimili nauðungarvistun vissra komufarþega í sóttkví ríkisins, óháð aðstæðum þeirra varðandi sóttkvíarúrræði hérlendis.  Jafnframt hefur sóttvarnarlæknir áfrýjað dóminum til Landsréttar.  Í báðum tilvikum fer sóttvarnarlæknir offari og fer með óafsakanlegan hræðslu- og falsáróður, þar sem hann lætur að því liggja, að dómurinn muni setja sóttvarnir hérlendis í uppnám og tefja fyrir afléttingu sóttvarnarráðstafana innanlands. Hann verður þá að láta af störfum, ef hann getur ekki starfað eftir lögum landsins. Þessi málflutningur er fullkomlega óboðlegur, og fyrir neðan virðingu læknisins. Frelsisskerðingarúrræðið, sem dæmt var ólöglegt, er óalandi og óferjandi mannréttindabrot hérlendis og stríðir gegn varðstöðu um einstaklingsfrelsi gegn valdníðslu, sem er undirstaða lýðræðislegra stjórnarhátta, hvorki meira né minna.    

Þeir, sem ekki sæta sóttkví undir eftirliti, fara á sóttkvíarstað í 5 sólarhringa að eigin vali, nema þeir geti framvísað gildu bólusetningar- eða ónæmisvottorði.  Þá fara þeir í eina skimun og smitgát. Allt er þetta gríðarlega viðamikið, kostnaðarsamt og sennilega einsdæmi í heiminum. Sennilega er sósíalistinn Svandís Svavarsdóttir hér að skjóta spörfugl með kanónu og ekki í fyrsta sinn.  Kerfið virkar hamlandi á fjölda ferðamanna hingað og veldur þannig miklu tekjutapi og kostnaði.  Spurning er, hvort yfirvöld hafa nægileg gögn í höndunum til að sýna fram á réttmæti sóttkvíarhótela undir eftirliti. Svo reyndist alls ekki vera við málaferlin í Héraðsdómi. 

Um lögmæti þessara aðgerða hafa birzt opinberlega efasemdir, einkum gagnvart fólki, sem heimilisfast er á Íslandi.  Formaður lögmannafélagsins taldi víst, að fljótlega yrði látið reyna á þetta fyrir dómstólum, og það raungerðist 2. apríl 2021 með framlagningu a.m.k. tveggja kæra á hendur sóttvarnaryfirvöldum.  Veronika Steinunn Magnúsdóttir skrifaði frétt um þetta laugardaginn 3. apríl 2021 í Morgunblaðið:

  "Skorið úr um lögmæti dvalar".

"Ómar [R. Valdimarsson, lögmaður] sagði í samtali við mbl.is í gær heldur hæpið, að reglugerð ráðherrans ætti sér lagastoð:

"Ég á erfitt með að sjá, að það sé lagaheimild fyrir setningu [reglugerðarinnar].  Að setja svona mikið inngrip í líf fólks í reglugerð finnst mér heldur hæpið", sagði hann.  "Ef dómari kemst að því í þessu máli, að þetta sé ólögmæt frelsissvipting, þá er þessi reglugerð bara úr sögunni."

Sigríður Á. Andersen, lögfræðingur og Alþingismaður, sat í þeirri þingnefnd, sem fjallaði um frumvarp til nýrra sóttvarnarlaga, sem Alþingi setti í vetur, veit gjörla, hver fyrirætlunin var með þeirri lagasetningu.  M.v. túlkun hennar eru sóttvarnarlæknir og heilbrigðisráðherra algerlega úti á túni eða öllu heldur í kargaþýfi með þessa umdeildu reglugerð sína.  Hún er þess vegna í einu orði sagt valdníðsla:

""Umræða í nefndinni um sóttvarnahús hafi verið á einn veg - tryggja ætti borgurunum samastað, ef á þá yrði lögð skylda til einangrunar, en ekki að skylda þá í sóttvarnahús", segir Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem sat í velferðarnefnd, þegar núgildandi sóttvarnalög voru tekin til umfjöllunar."

""Sóttvarnahús voru ekki tekin fyrir sérstaklega í frumvarpi heilbrigðisráðherra til breytinga á sóttvarnalögum að öðru leyti en því, að til þeirra var vísað í þeim tilvikum, er smitaðir menn eru ekki samvinnuþýðir um eigin sóttkví", segir hún.  Þá hafi frumvarpið kveðið á um, að heimilt væri að vista þá í sóttvarnarhúsi."

Af þessu má ráða, að sóttvarnarlækni með minnisblaði sínu og heilbrigðisráðherra með reglugerð sinni hafi orðið á fingurbrjótur, eða með talshætti Norðmanna hafi þau traðkað í salatinu.  Útgáfa reglugerðar um frelsissviptingu fjölda manns án lagastoðar er grafalvarlegt mál og afsagnarsök fyrir ráðherra.  Kemst Svandís Svavarsdóttir upp með hvað sem er í sinni embættisfærslu, án þess að Alþingi grípi til sinna ráða ?  Enginn býst við neinu af fundarstjóranum Katrínu Jakobsdóttur, viðhlæjanda.  

Það er einnig rætt um litakóðanotkun f.o.m. 01.05.2021, en hún er annars eðlis.  Þá er rætt um að aflétta sóttkvínni fyrir óbólusett fólk frá grænum svæðum með því að láta eina skimun duga við komuna hingað og smitgát fram að niðurstöðu sýnatöku.  Það virðist eðlilegt fyrsta skref til afléttingar hafta við komuna frá útlöndum.   

Þann 20. marz 2021 skrifaði ritstjóri Fréttablaðsins, Jón Þórisson, um sóttvarnareftirlit á landamærunum undir fyrirsögninni:

"Þrætuepli".

Forystugreinin hófst þannig:

"Eitt markverðasta skrefið í heimferðinni til þess lífs, sem við þekktum, eru áform stjórnvalda um að opna ytri landamæri og láta för ferðamanna hingað stjórnast af litakóðunarkerfi Evrópusambandsins og jafnframt, að gilt bólusetningarvottorð eða staðfesting á mótefni tryggi aðgang að landinu, án þess að fara þurfi í sýnatöku og sóttkví. 

Þetta hefur verið ýmsum tilefni til gagnrýni og upphrópana.  Fölsuð vottorð gangi kaupum og sölum á netinu, greið leið fyrir ýmis afbrigði veirunnar hingað verði til o.s.frv..  Þetta er eftir öðru, sem tengt er þessum faraldri.  Allt er dregið í efa og véfengt og farvegir fundnir fyrir þrætur. 

Þrætur eru eins konar þjóðaríþrótt okkar.  Við finnum flöt á alls kyns þrætum um allt og ekki neitt.  Og þannig hefur það verið lengi. 

Um þetta atriði segir Laxness í Innansveitarkroniku: "Því hefur verið haldið fram, að Íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðhengilshátt og deila um tittlingaskít, sem ekki kemur málinu við; en verði skelfingu lostnir og setji hljóða, hvenær sem komið er að kjarna máls."

 Takmarkanir á landamærum eru hins vegar ekki tittlingaskítur.  Hvernig við högum málum á landamærunum, ræður úrslitum um hraða efnahagslegrar endurreisnar landsins." 

Með hverri vikunni sem líður verður minni ástæða til að láta efnahagslega endurreisn landsins lönd og leið, þegar hertar sóttvarnarráðstafanir eru ákveðnar.  Vægi sóttvarnarsjónarmiða hlýtur að dvína, eftir því sem bólusettum fjölgar. Frelsissjónarmiðin vega þyngra, eftir því sem höftin vara lengur.  Líklegt er, að túlkun laganna muni taka mið af þessari þróun.  Erlendis er því haldið fram, að núverandi afbrigði veirunnar hérlendis, hið brezka, sé meira smitandi og valdi meiri veikindum, en á sú lýsing við hérlendis ?  Engin rannsókn á smitstuðlum hefur verið birt hérlendis, svo að erfitt er að fóta sig á þróuninni, en hitt er víst, að undanfarnar 2 vikur hefur enginn veldisvöxtur nýsmita verið merkjanlegur hérlendis. Smitstuðullinn er minni en 0 og hin ströngu höft innanlands út í hött.

Það var mjög jákvætt, þegar ráðherra ákvað að mismuna ekki farþegum eftir því, hvort þeir koma frá landi innan eða utan Schengen-svæðisins. Breytingin tók gildi í dag, 06.04.2021. Nú er Bretum að vísu meinað að fara í skemmtiferðir til útlanda, en  það mun ekki vara lengi, því að bólusetningin gengur a.m.k. þrefalt hraðar þar en í EES. Okkur ber að halda jafnræðisreglu í heiðri, og þetta getur orðið þungvægt hagsmunamál fyrir ferðaþjónustuna og atvinnustigið í landinu í sumar.  Svipaða sögu er að segja af Bandaríkjamönnum. 

    


Ótraustvekjandi opinberar sóttvarnaraðgerðir

Enn á ný hafa ströng höft verið sett á líf landsmanna um allt land vegna fáeinna smita utan sóttkvíar, og í þetta sinn er skólum landsins lokað í þokkabót.  Þessar hörðu aðgerðir eru aðeins réttlættar með því, að brezka afbragðið, sem greinzt hefur undanfarið hérlendis, sé meira smitandi og valdi tiltölulega oftar en áður veikindum barna.  Þetta er með afbrigðum þunnur þrettándi m.v. þá truflun á þjóðlífinu og fjárhagstjón, sem reglugerð heilbrigðisráðherra, reist á minnisblaði sóttvarnarlæknis, veldur. 

Þegar þessar sóttvarnaraðgerðir voru kunngjörðar, 24. marz 2021, voru eftirfarandi tölulegar staðreyndir fyrir hendi frá sólarhringnum áður: 

  • Á sjúkrahúsi lá einn C-19 sjúklingur
  • Sjúkir af C-19 og í einangrun voru 75
  • Nýgengi innanlands var 7,6 og á landamærum 12,5
  • Fullbólusettir voru 19´887 eða um 5,5 % landsmanna

Það er lítið álag á sjúkrahúsunum vegna C-19 og nýgengið innanlands er mjög lágt.  Búið er að bólusetja þann hóp, sem verst hefur farið út úr sýkingu af völdum SARS-CoV-2, og margt framlínufólk í heilbrigðisgeiranum hefur verið bólusett.  Það hefur ekkert verið gefið upp um smitstuðul þess afbrigðis, sem þessum hóflausu viðbrögðum veldur, né um einkennin, t.d. hjá börnum. Frétzt hefur þó, að þau séu væg. Það verður þess vegna að álykta sem svo, að enn einu sinni hafi meðalhófið verið hundsað og rannsóknarskyldunni lítt verið sinnt, þ.e. ekkert kannað, hvort minna heildartjóni mætti valda þjóðfélaginu með vægari aðgerðum. Daginn, sem þessi flausturslega ákvörðun var tekin, greindist ekkert smit á Íslandi utan sóttkvíar, hvorki af brezka afbrigðinu né öðru.  Sóttvarnarlæknir er vanur að þakka ströngum félagslegum takmörkunum sínum góðan árangur í sóttvarnarmálum.  Hann getur það varla í þetta sinnið, því að aðgerðir hans frá 24. marz 2021 eru ekkert annað en flumbrugangur. Það var hrapað að niðurstöðu. Katrínu Jakobsdóttur væri nær að fara að dæmi kanzlara Þýzkalands frá sama degi og afturkalla þessar óþörfu, illa ígrunduðu og stórskaðlegu opinberu sóttvarnaraðgerðir.

Í þessu samhengi er vart orðum eyðandi að þeim sefasýkislegu viðbrögðum, sem sézt hafa á samfélagsmiðlum, einnig nú í kjölfar minnisblaðs sóttvarnarlæknis 24.03.2021, út af þeirri sjálfsögðu ákvörðun dómsmálaráðherra landsins að leggja að jöfnu löglega útgefin bólusetningar- og ónæmisvottorð utan og innan Schengen.  Ákvörðunin er enn ekki komin til framkvæmda. Framkvæmd var frestað fram í byrjun apríl 2021 til að gera eftirlitið öruggara.  Látið er eins og landamæraverðirnir séu auðblekktir með fölsuðum vottorðum.  Þótt hægt sé að kaupa fölsuð vottorð, er ótrúleg einfeldni að gera því skóna, að handhafar slíkra geti komizt í gegnum nálarauga íslenzkra landamæravarða með fölsuð skilríki.  Við slíku skjalafalsi liggur fangelsisvist.  Litlu verður Vöggur feginn, þegar kemur að tylliástæðum til að gera haftaafnám tortryggilegt af hvaða tagi sem er.  Þrælslundin er söm við sig.

Því er haldið fram, að bólusettir geti borið smit.  Samkvæmt athugunum Ísraelsmanna, sem lengst eru komnir í bólusetningum og hafa nú þegar myndað hjarðónæmi gegn þekktum afbrigðum kórónuveirunnar, er það rétt, en í mun minni mæli en ella, þ.e.a.s. smitstuðullinn er nánast örugglega undir 1,0 fyrir slíka ferðamenn án tengsla inn í íslenzka þjóðfélagið.  Svipað má ætla, að eigi við þá, sem náð hafa sér eftir sýkingu af C-19.  

Þá hefur fyrirhuguð beiting fjölþjóðlegs litakóða á landamærum frá 1. maí 2021 orðið mörgum tilefni til upphrópana og hræðslukasta.  Sóttvarnarlækni hefur þó verið falin útfærsla á þeirri framkvæmd.  Ef grænt á að gilda fyrir upprunaland og brottfararland með nýgengi á bilinu 0-20, þá er það býsna breitt bil og ráðlegra að beita einfaldri skimun fyrir slíka óbólusetta og ósýkta farþega.  Ef nýgengið er hærra, gult og rautt, þá gildi sömu reglur og nú (að mati höfundar), þ.e. vottorð um neikvætt PCR-próf og tvöföld skimun með 5 daga sóttkví á milli.  Reynslan sýnir, því miður, að sóttkví undir eftirliti er nauðsynleg, svo að henni megi treysta. Kæmi ökklaband til greina ?

Áhrif opinberra aflokana og frelsisskerðinga hafa verið rannsökuð erlendis, og niðurstaðan í mörgum tilvikum er ekki í samræmi við skoðun sóttvarnarlæknis Íslands um nauðsyn allra þessara ráðstafana "til að ná tökum á faraldrinum".  Það er líka nauðsynlegt að meta heildaráhrif slíkra aðgerða.  Þau eru víðtæk og alvarleg, valda andlegu og líkamlegu heilsutjóni, fátækt og gjaldþrotum, og eru sameiginlegum sjóðum þungur baggi í mörg ár.  Áhugafólki um heildarmyndina var þess vegna mikill fengur að grein Þorsteins Arnalds, tölvufræðings, í Morgunblaðinu 18. marz 2021:

"Gagnslaus greiningarvinna".

"Það var fagnaðarefni, að ríkisstjórn Íslands skyldi stuðla að því, að áhrif sóttvarnaaðgerða á þróun Covid-19-faraldursins væru rannsökuð.  Mikilvægt er að meta áhrif mismunandi aðgerða, helzt með vísindalegum hætti, til þess að þær verði markvissar.  Óhjákvæmilega hafa aðgerðirnar neikvæðar aukaverkanir, og með því að meta áhrif þeirra er hægt að vega og meta, hversu langt eigi að ganga hverju sinni."

Hér hreyfir Þorsteinn Arnalds gríðarlega mikilvægu máli.  Vitað er frá erlendum rannsóknum, að 1 %- 3 % þeirra, sem verið hafa atvinnulausir í meira en 1 ár, bíða alvarlegt tjón á heilsu sinni, verða öryrkjar eða hljóta ótímabæran dauðdaga.  Í lok febrúar 2021 höfðu 4719 manns verið atvinnulausir á Íslandi í meira en 12 mánuði.  Ef gert er ráð fyrir, að þriðjungur þeirra hafi misst vinnuna af völdum innlendra sóttvarnaraðgerða, þá má búast við, að á bilinu 16-47 manns verði öryrkjar eða láti lífið af þeirra völdum.  Meðaltal þessa heiltölubils er 32, sem er vert að bera saman við fjölda látinna hérlendis af völdum C-19 faraldursins, sem er 29, þegar þetta er ritað. 

Hinn fjárhagslegi kostnaður samfélagsins af völdum innlendra sóttvarnaraðgerða er ofboðslegur. Þegar honum er bætt við tekjutap fyrirtækja af þeirra völdum, nemur heildarkostnaðurinn áreiðanlega yfir 100 mrdISK/ár. 

Af þessu sést, að það er gríðarlega mikilvægt að komast að því með áreiðanlegum aðferðum, hver árangur mismunandi sóttvarnaraðgerða er, t.d. mælt í fækkun sjúklinga á sjúkrahúsi.  Frá Bandaríkjunum bendir samanburður á milli ríkja, sem beittu og beita mismunandi sóttvarnaraðgerðum til þess, að gagnsemi ýmissa opinberra sóttvarnarráðstafana sé víða  stórlega ofmetin, þ.m.t. á Íslandi. Um innlenda rannsókn á þessu sviði reit Þorsteinn Arnalds:

"Skýrsla rannsóknarhópsins, sem hlaut MISK 5,0 styrk, kom út í síðustu viku [v.10/2021]. Á Íslandi hefur uppruni smita verið rannsakaður og greint af hvaða stofni veirur séu frá upphafi faraldursins.  Væntanlega hafa safnazt verðmætar upplýsingar um, hvernig smit dreifast, og það ætti að gera mat á smitstuðli mögulegt fyrir mismunandi aðstæður.  Því miður hefur hins vegar skort á, að gögnin, sem safnað hefur verið, væru notuð með þessum hætti, og var lestur skýrslu rannsóknarhópsins því tilhlökkunarefni. 

Í læknisfræðilegum rannsóknum er venjan að bera saman hópa fólks, sem eru í mismunandi aðstæðum og skoða t.d., hve margir veikjast í hverjum hópi, og þess gætt, að hóparnir séu nógu stórir, til að niðurstöður verði tölfræðilega marktækar. Loksins mátti búast við, að slík rannsókn hefði verið gerð á íslenzkum Covid-smitum."     

Til þess að eitthvert vit verði í sóttvarnaraðgerðum, er nauðsynlegt að þekkja til smitstuðulsins, og hvað helzt hefur áhrif á hann, en smitstuðullinn er sá fjöldi einstaklinga, sem hver smitaður smitar.  Sem dæmi má taka, að þar sem hann er undir 1,0 (SS<1,0), þar eru ekki aðstæður, sem sóttvarnaryfirvöld þurfa að skipta sér af með hömlum af neinu tagi.  Það var þess vegna eðlilegt, að yfirvöld settu fé í að vinna nytsamlegar upplýsingar um SS úr þeim gögnum, sem safnað hefur verið.  Hvernig skyldi nú hafa tekizt til ?:

"Því miður olli skýrslan vonbrigðum.  Það er eins og skýrsluhöfundar hafi stungið fingrinum upp í vindinn til að ákvarða smitstuðulinn.  Það vekur furðu, að sjónum sé eingöngu beint að aðgerðum á landamærum, en aðgerðir innanlands ekki greindar.  Auk þess er greiningin á landamæraaðgerðunum í skötulíki.  Gert var hermilíkan, sem metur útbreiðslu smita m.v. gefnar forsendur.  Og ekki verður séð, að reynt hafi verið að greina, hver raunveruleg áhrif mismunandi aðgerða séu."

 Mann setur hljóðan við þennan lestur, því að þarna er lýst hreinræktuðu fúski gagnvart mjög mikilvægu verkefni í almannaþágu.  Ef rannsakendur gefa sér þá niðurstöðu, sem vinnan átti að beinast að að leiða út frá gögnunum, þá er skýrslan um þessa vinnu ekki pappírsins virði.  Málið er alvarlegt, því að annaðhvort kunna þau ekki til verka, sem fengin voru til verksins, eða þau eru að reyna að draga dul á staðreyndir, sem þeim var þó falið að leiða í ljós.  Það verður að komast að því, hvaða gagn er af sársaukafullum og rándýrum höftum sóttvarnarlæknis.  Er niðurstaðan af landamærunum sú, að sóttkvíin sé hriplek ?  Þar með er hún bæði gagnslítil og rándýr, því að hún hefur haft hamlandi áhrif á komur erlendra ferðamanna.  Er fær leið að setja ökklaband á fólk í sóttkví ?

"Í skýrslunni segir: "Í þessu líkani er gert ráð fyrir, að smitstuðull ferðamanna utan sóttkvíar sé 1 og 0,5 í ferðamannasmitgát.  Ferðamanni í sóttkví eða einangrun var gefinn smitstuðull 0."

Ef ætlunin var t.d. annars vegar að mæla raunverulega áhættu af smitgát og hins vegar sóttkví, er niðurstaðan þegar gefin og áframhaldandi reikniæfingar óþarfar.  Það er næsta gagnslaust að ráðleggja, ef eitthvað er svona eða hinsegin, ef menn hafa litla vitneskju um, hvernig það raunverulega er.  

Af hverju er ekki reynt að leggja raunhæft mat á þessa smitstuðla út frá gögnum ?  Hvernig passar það við nýlegan fréttaflutning af smitum, sem stöfuðu af fólki, sem hélt [ekki] sóttkví, að smitstuðull í sóttkví sé 0 ?  Gæti hugsazt, að þeir, sem eru í sóttkví, séu ólíklegri til að halda hana en þeir, sem eru í smitgát, sem er vægara úrræði.  Aðferð skýrsluhöfunda minnir á viðskiptaáætlanir, sem voru í tízku fyrir rúmum áratug; litlu skipti, hvernig raunveruleikinn var, Excel var einfaldlega matað á hagstæðum forsendum."

Metnaðar- eða getuleysi höfundanna við að vinna úr gögnum veldur vonbrigðum.  Ef nemanda væri fengið þetta verkefni, og í stað þess að nálgast viðfangsefnið með kerfisbundnum vinnubrögðum myndi hann gefa sér niðurstöðuna, fengi hann mjög lága einkunn fyrir frammistöðuna.  Þetta blasir við, en hvers vegna þetta sleifarlag ?  Gagnrýni Þorsteins Arnalds er fullkomlega réttmæt.  Eru öll kurl komin til grafar ?

"Síðustu mánuði hefur sú hugsun mín ágerzt, að ákvarðanir um sóttvarnaraðgerðir séu byggðar á hæpnum forsendum og ófullnægjandi túlkun gagna.  Dæmi um þetta er, hvort og með hvaða hætti líkamsræktarstöðvar eigi að vera opnar - en það er efni í aðra grein.  Í ljósi þess, að hvorki sóttvarnaryfirvöld né vísindamenn þeim þóknanlegir hafa reynt að nýta fyrirliggjandi gögn til að meta skilvirkni aðgerða, skora ég hér með á yfirvöld að birta opinberlega öll gögn um uppruna smita, rakningu þeirra, raðgreiningu afbrigða og annað, sem máli skiptir.  Hugsanlega og vonandi munu aðrir (eða sömu) vísindamenn nýta þau í alvöru til að meta áhrif sóttvarnaraðgerða - þótt án ríkisstyrkja verði."

Það ætti að vera alveg sjálfsagt mál af hálfu yfirvalda að birta öll gögn, sem Þorsteinn Arnalds fer þarna fram á.  Sóttvarnaraðgerðirnar, sem gildi tóku 25. marz 2021, staðfesta, að sóttvarnaryfirvöld búa ekki yfir þekkingu á breytilegum smitstuðlum í þjóðfélaginu eða reyna ekki að beita henni.  Það er afleit frammistaða eftir rúmlega heilt ár í baráttunni.  Daginn eftir, að "landinu var skellt í lás", að skólunum meðtöldum í þetta sinnið, birti Morgunblaðið forsíðufrétt um, að dagana 7 þar á undan hefðu greinzt 6 ný smit utan sóttkvíar.  Enginn C-19 sjúklingur var þá á sjúkrahúsi.  Þeirri hugsun verður ekki varizt, að þessar sóttvarnaraðgerðir séu framkvæmdar í bráðræði og einkennist af flausturslegum vinnubrögðum og flumbruhætti án nokkurs tillits til neikvæðra áhrifa.  

Páskafrumhlaup sóttvarnarlæknis og heilbrigðisráðherra varpar ljósi á gallana við að láta einn mann móta stefnuna í sóttvarnarmálum.  Þar þurfa fleiri að koma að undirbúningi ákvarðanatöku, svo að mismunandi sjónarmið verði vegin og metin með rökum.  Þannig eru meiri líkur á, að forðazt megi að hrapa að niðurstöðum á hæpnum forsendum.  Ef vel tekst til um val í t.d. 5 manna sóttvarnarráði, hvers hlutverk og samsetning verði skilgreint af Alþingi, má búast við hópefli, þar sem gæði tillagna til ráðherra verða meiri en gæðin frá hverjum og einum í hópnum samanlögð ("synergy").  Aðalatriðið er, að jafnvægi komizt í tillögugerðina, svo að upphlaupsaðilar geti síður spanað fram ótímabærar aðgerðir og að aðgerðirnar þræði betur meðalhóf en verið hefur, þar sem afleiðingarnar hljóti raunhæfa umfjöllun áður en að tillögugerð (minnisblaði) kemur. Það er eðlilegt, að Landlæknir og Sóttvarnalæknir eigi sæti í hópnum og einnig fulltrúar "aðila vinnumarkaðarins", sem alltaf verða fyrir barðinu á sóttvarnaraðgerðum.  Til að lagalega hlið málsins, persónufrelsi og heimildir yfirvalda, verði ekki hornreka, er eðlilegt, að lögmaður verði og í þessu teymi.  


Orkuvinnslukostnaður Landsvirkjunar

Talsmenn Landsvirkjunar halda því fram, að fyrirtækið þurfi að fá um 30 USD/MWh fyrir raforkuna við stöðvarvegg frá orkukræfri starfsemi í landinu, sem fyrir er.  Ársskýrsla Landsvirkjunar ber með sér, að það er of í lagt, en kann að vera nærri lagi, þegar um nýja starfsemi frá viðbótar virkjunum í kerfinu er að ræða. 

Það er þjóðhagslega óhagkvæmt, að ríkisfyrirtækið bíti þetta óþarflega háa verð í sig, því að með því verðleggur það Ísland út af markaðinum að óþörfu, þegar um endurnýjun raforkusamninga er að ræða.  Langdregið þref við eigendur ISAL í Straumsvík sýndi þetta, og þrjózka við að semja við Norðurál um verð fyrir forgangsorku nálægt 25 USD/MWh með álverðstengingu undirstrikar vandann.  Langtímasamningur við Norðurál mundi leysa úr læðingi fjárfestingu á Grundartanga án verulegrar orkuaukningar upp á allt að MUSD 15, eins og fram hefur komið hjá forstjóra fyrirtækisins.  Átakanlegust og hættulegust innlendum iðnaði um þessar mundir er þó líklega staða Elkem á Íslandi í viðskiptunum við Landsvirkjun. 

Meðalverð Landsvirkjunar til orkusækins iðnaðar 2020 var 21,1 USD/MWh samkvæmt ársskýrslu fyrirtækisins. Þetta er lægra en undanfarin ár, m.a. vegna Kófsafsláttarins, en samt nam EBITDA fyrirtækisins MUSD 326 (=mrdISK 42) og hagnaðurinn MUSD 139 (mrdISK 18).  Hrein eign fyrirtækisins nemur MUSD 2235 og hagnaðurinn nemur 6,2 % af henni, svo að arðsemi fyrirtækisins er góð m.v. litla áhættu fjárfestinganna.  Á grundvelli þessa er ljóst, að Landsvirkjun spennir bogann alltof hátt með því að krefjast 30 USD/MWh.  Það er verulegt borð fyrir báru hjá fyrirtækinu, sem fyrirtækið á að nýta til aukinnar sölu á verði, sem gerir atvinnustarfsemi á Íslandi samkeppnishæfa á evrópskum mörkuðum og á öðrum hátt borgandi mörkuðum.  Líklega er slíkt verð forgangsorku um 25 USD/MWh, sem gæti sveiflazt upp á við og niður á við (lágm. 20 USD/MWh) með afurðaverði á heimsmörkuðum. 

Í viðtali við Markað Fréttablaðsins 10.03.2021 við Álfheiði Ágústsdóttur, forstjóra Elkem á Íslandi, kom margt fram, sem sýnir allt annað en vingjarnlegt viðmót íslenzka ríkisorkufyrirtækisins Landsvirkjunar gagnvart iðnaðinum í landinu.  Þetta stingur í stúf við fagurgala fyrirtækisins og stjórnvalda.  Er ástæða til fyrir Samtök iðnaðarins að láta ekki deigan síga, þegar um réttlætismál og stórfellt hagsmunamál iðnaðarins er að ræða:

"Elkem er meðal stærstu viðskiptavina Landsvirkjunar og kaupir ríflega 1 TWh/ár, sem svarar til um 7 % af raforkuframleiðslu fyrirtækisins.  Upphaflegur raforkusamningur Elkem og Landsvirkjunar tók gildi árið 1979 og var til 40 ára.  Þegar endalok þess samnings nálguðust, nýtti Elkem sér ákvæði í samningnum um, að hann yrði framlengdur til 10 ára. Raforkuverð á þessu 10 ára tímabili var svo ákveðið af gerðardómi. 

"Þar var ákvarðað verð, sem hvorki við né Landsvirkjun vorum ánægð með.  Við erum hins vegar með kaupskyldu í þessum samningi og erum bundin af honum til ársins 2029.  Við erum augljóslega opin fyrir að tengja raforkuverðið okkar afurðaverði og erum boðin og búin til að finna einhverjar lausnir á því máli.""

  Hér kemur fram, það sem virðist einkenna núverandi forystu Landsvirkjunar, þ.e. að henni virðist vera fyrirmunað að semja við viðskiptavini sína á eðlilegan hátt.  Fyrir vikið er salan minni og viðskiptin í uppnámi, svo að ekki sé minnzt á fjárfestingar viðskiptavinarins, sem eru fyrir vikið í algeru lágmarki.  Téður upphaflegur samningur Landsvirkjunar og Íslenska járnblendifélagsins mun hafa verið á þá lund, að aðeins helmingur umsaminnar heildarraforkuafhendingar á ári var forgangsorka; hinn helmingurinn var s.k. afgangsorka, sem Landsvirkjun átti rétt á að skerða alfarið tímabundið og allt að 50 % m.v. heilt ár.  Afgangsorkan kostar Landsvirkjun líklega innan við fjórðung af vinnslukostnaði forgangsorkunnar, því að kostnaður við uppsett afl (MW) er yfirgnæfandi í virkjunarkostnaði, og rekstrarkostnaður vatnsorkuvera er lítill.  Þannig gæti blanda af forgangsorku og ótryggðri orku verið lykillinn að lausn þessarar þrætu á Grundartanga. Það er ótækt að grafa undan þessari iðnaðarstarfsemi á Grundartanga með því, að Elkem á Íslandi þurfi að fella orkukaup sín að kaupskyldunni, næst þegar að sverfur, vegna hás raforkuverðs. 

"Stefna Landsvirkjunar síðastliðinn áratug hefur verið að miða samningaviðræður við kostnaðarverð raforkunnar, sem Landsvirkjun áætlar um 30 USD/MWh.

"Landsvirkjun vill fá sambærilegt verð og aðrir raforkuframleiðendur í Evrópu.  Það er fullkomlega skiljanlegt sjónarmið.  Hins vegar viljum við líka fá sambærilegt verð og kaupendur í þeim löndum, sem við berum okkur saman við, t.a.m. í Noregi.""

Kostnaður við orkuvinnslu í núverandi raforkukerfi er ekki áætlunaratriði, heldur reikningsdæmi.  Veigamikil breyta í dæminu er ávöxtunarkrafan, og hún er einfaldlega allt of há, m.v. að ávöxtun eigin fjár var 6,2 % árið 2020, þegar miklir Kófsafslættir voru þó veittir.  Nýtingartími hámarksafls skiptir líka miklu máli fyrir kostnað Landsvirkjunar í USD/MWh sem og aflstuðull kaupandans.  M.v. þessa þætti hjá Elkem á Íslandi og 50 % forgangsorku og 50 % ótryggða orku og núverandi afurðaverð ætti Landsvirkjun að geta sætt sig við um 20 USD/MWh meðalverð og sveiflur upp og niður á forgangsorku með afurðaverði.

""Aðstöðumunurinn liggur í stuðningi við stóriðju. Þar er ég bæði að tala um endurgreiðslur vegna kostnaðar á kaupum á ETS-einingum í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda, en líka sjóði, eins og hinn norska Enova.  Þar er um að ræða framtakssjóð á vegum norska ríkisins, sem fjármagnar grænar lausnir fyrir mengandi iðnað.  Enova fjármagnar t.a.m. þriðjung af fjárfestingu í tengslum við endurnýtingu orku frá kísilmálmverum Elkem í Noregi.  Elkem er núna að vinna fýsileikakönnun á því að fanga koltvísýring og endurvinna orku fyrir allar sínar verksmiðjur, og starfsemin hér á Íslandi er mjög hentug í þetta verkefni.  

Hins vegar erum við neðst á forgangslistanum hjá Elkem, þar sem opinber stuðningur við grænar lausnir fyrir stóriðjuna er mikill í Noregi, en nánast enginn hér.  Stjórnendur Elkem velja auðvitað þá kosti fyrst, sem eru hagkvæmastir.  Sem sakir standa er það í Noregi.  Elkem er mjög framsækið fyrirtæki í umhverfismálum, en við hér á Íslandi sitjum svolítið eftir, þar sem hið opinbera hefur ekki sýnt þessum málum sama áhuga og yfirvöld í Noregi og Kanada.""

Þetta er mikill áfellisdómur yfir íslenzkum yfirvöldum, sem sofa á verðinum við að líta eftir samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja og láta "græn" þróunarverkefni í samstarfi við iðnaðinn sitja á hakanum, þótt ráðherrar, t.d. iðnaðarráðherra, sé sífellt með á vörunum, hvað hún leggi mikla áherzlu á "græna" nýsköpun.  Það er hins vegar líklegt, að ef Elkem á Íslandi væri búið að tryggja sér raforku til langs tíma á samkeppnishæfu verði, þá mundi Elkem ekki bíða boðanna, heldur fjárfesta til framtíðar í verksmiðju sinni á Grundartanga í ýmiss konar verkefnum, þ.á.m. "grænum". 

Af frásögn forstjórans er jafnframt ljóst, að Elkem ætlar sér að vera áfram með mikla starfsemi í Noregi hér eftir sem hingað til og að norsk yfirvöld eru með raunhæfa stefnu í iðnaðarmálum til að gera orkusæknum iðnaði kleift að starfrækja arðbærar verksmiðjur áfram í Noregi í samkeppni á alþjóðlegum markaði.  Það væri margt vitlausara, sem íslenzki iðnaðarráðherrann gæti tekið sér fyrir hendur, en að kynna sér rækilega iðnaðarstefnu Noregs og framkvæmd hennar.  Henni virðist ganga illa að ná jarðsambandi, en í Noregi hafa stjórnvöld rekið raunhæfa iðnaðarstefnu í meira en heila öld og tengt hana við byggðastefnu. 

 

Síðan kom kjarni viðtalsins, sem ríkisstjórnin vonandi leggur hlustir við og mótar viðeigandi úrbætur, ef landið á ekki að glutra niður góðum iðnaðartækifærum vegna dauðyflisháttar og iðnaðarillvilja:

 ""Framtíðaruppbygging í þessari grein er fjárfrek, og því verður ekki farið í fjárfestingar með aðeins 8 ára raforkusamning [raforkusamning til aðeins 8 ára].  Við þurfum samkeppnishæfara raforkuverð, sem er sambærilegt við það, sem er í Noregi, og lengri samningstíma.  Við erum dýrasta verksmiðjan í Elkem í launakostnaði, þannig að það er ýmislegt, sem vinnur á móti okkur í þessum efnum.  Staðsetning okkar vinnur líka gegn okkur, þar sem við þurfum að flytja inn allt hráefni", segir Álfhildur."

Rauð ljós blikka, en hvað er aðhafzt í iðnaðarráðuneytinu ? Það eru öll teikn á lofti um, að að óbreyttu muni Elkem loka þessari Grundartangaverksmiðju við fyrsta tækifæri.  Með einu pennastriki er hægt að snúa þeirri óheillaþróun við.  Fyrirtækið þarf hagstæðan, langtíma raforkusamning.  Þá mun Elkem fjárfesta í Elkem á Íslandi í grænum lausnum og framleiðniaukandi verkefnum til að draga úr téðum launakostnaði á hvert tonn. 

Síðan koma upplýsingar frá forstjóranum um fjárhagsstuðning norska ríkisins við iðnrekstur undir ETS-loftslagsskilmálum Evrópusambandsins.  Hann er leyfilegur í EES til að koma í veg fyrir "kolefnisleka" til þriðja heims ríkja.  Hérlendis hættir orkupakkapólitíkusum til að vera kaþólskari en páfinn. 

 ""Það var alltaf raforkuverðið, sem gaf samkeppnisforskot hér á Íslandi.  Þetta er hreinlega ekki lengur fyrir hendi, og þessi verksmiðja yrði aldrei byggð í dag á þeim raforkuverðum, sem eru í boði.  Ég ítreka, að ég skil afstöðu Landsvirkjunar vel, en ef þetta á að ganga upp til lengri tíma, þá þarf að skoða hluti eins og endurgreiðslur vegna kaupa á ETS-einingum.  CO2-kostnaðurinn getur numið allt að 1/3 af orkuverðinu, og er stuðningur Norðmanna við sín fyrirtæki vegna þessa allt að 2/3 af CO2-kostnaðinum á MWh.  Þeir nýta mengunarkvóta, sem greiddir eru í ríkissjóð, til að styrkja svona verkefni, sem mér þykir skynsamlegt til að koma í veg fyrir kolefnisleka.""

Með öðrum orðum nemur ríkisstyrkur við járnblendiverksmiðjur í Noregi allt að 22 % af raforkuverðinu.  Hvers vegna hreyfir íslenzki iðnaðarráðherrann hvorki legg né lið ?

Síðan minntist Álfheiður á þróunarverkefni, sem gætu orðið hluti af auðlindagörðum Grundartanga. Hefur iðnaðarráðherra eitthvað kynnt sér þetta í kjördæmi sínu ?:

"Möguleikar á virkjun affallsgufu verksmiðju Elkem gæti verið lykill að aukinni samkeppnishæfni verksmiðjunnar hér á landi að sögn Álfheiðar. Við framleiðslu á kísilmálmi myndast hitaorka, sem fer út í andrúmsloftið.  "Hér væri hægt að setja upp orkuendurvinnslu, sem væri um 25 MW af uppsettu afli, sem samsvarar ríflega fimmtungi orkunotkunar okkar á hverju ári. Auk þess er hægt að nýta hann [varmann] til hitaveitu.  Mjög spennandi valkostir, en það kostar mikla peninga að fjárfesta í orkuendurvinnslu af þessu tagi.""

 

""Þetta snýst ekki um það [niðurgreiðslu ríkissjóðs á starfseminni], heldur að okkur sé ekki refsað tvisvar með koltvísýringstollum.  Við erum nú þegar að kaupa ETS-einingar fyrir þeirri koltvísýringslosun, sem verksmiðjan hér er ábyrg fyrir, og erum að nota hreina raforku til framleiðslunnar.  Hins vegar er raforkuverðið hér að nálgast það, sem tíðkast í Evrópu, en þar eru það kolaorkuverðin, sem eru á jaðri kostnaðarkúrfunnar og hækka raforkuverðið með öllum sínum koltvísýringsrefsitollum.  Við erum því að borga tvisvar fyrir okkar losun, beint með kaupum á mengunarkvótum og svo óbeint, því [að] kolaorkuverðið smitar yfir á evrópska raforkumarkaðinn. 

Ef þessari verksmiðju verður lokað hér, þá verður hún opnuð aftur í Kína, þar sem kol eru brennd til að framleiða sömu vöru, því [að] eftirspurnin eftir kísilmálmi mun ekki minnka, þó að Elkem á Grundartanga verði lokað. 

Að óbreyttum raforkusamningi er líklegt, að eigendur skoði að loka henni.  Við erum hins vegar að gera allt, til að láta þetta ganga, og það er mitt verkefni hér.  En það segir sig sjálft, að ef það er tap ár eftir ár, þá mun verksmiðjunni verða lokað", segir Álfheiður Ágústsdóttir."   (Undirstr. BJo.)

Glóruleysi verðlagsstefnu Landsvirkjunar blasir við, þegar ofangreint er lesið.  Raforkuverð í Evrópu hækkar með verðinu á koltvíildiskvótanum, sem ESB úthlutar orkufyrirtækjunum, og Landsvirkjun miðar sitt verðlag við þetta.  Það er engin viðleitni uppi hér  til að ýta undir, að iðnfyrirtæki noti "hreina" raforku Íslands landsmönnum og umheiminum öllum til hagsbóta. 

 

 


Iðnaðarstefna í skötulíki

Íslenzkt vatnsafl var virkjað að mestu af fyrirtækjum í almannaeigu í tvennu augnamiði: annað var að tryggja íslenzkum heimilum nægt rafmagn til lýsingar, eldunar og húshitunar við vægu verði til lengdar, þótt hitaveitur tækju víða við síðast nefnda hlutverkinu, og hitt var að útvega stöðugt og hagkvæmt afl til að knýja alþjóðlega samkeppnishæfan atvinnurekstur til að þróa íslenzkt atvinnulíf og skapa fjölskyldunum afkomuöryggi.  Þessi íslenzka iðnaðarstefna, sem átti sér hliðstæðu í vatnsorkulandinu Noregi og einnig í Svíþjóð, hafði í för með sér byltingu í lífskjörum landsmanna.

Landsvirkjun var stofnuð til að gegna síðar nefnda hlutverkinu, og engin lýðræðisleg ákvörðun hefur verið tekin um að breyta því hlutverki.  Fyrirtækið hefur engu að síður síðastliðinn áratug lent á algerum villigötum með óljósu tali um hámarksarðsemi.  Slíkt stingur algerlega í stúf við upphaflega, lýðræðislega og sígilda stefnumörkun fyrir þetta ríkisfyrirtæki, enda hlýtur stefna um hámarksarðsemi á fáokunarmarkaði að leiða til algers ófarnaðar atvinnulífsins. Er ámælisvert, að stjórnvöld skuli ekki hafa gert gangskör að því að leiðrétta þessa afdrifaríku skekkju í stefnu fyrirtækisins.     

Á vakt núverandi ríkisstjórnar, eins og það er stundum orðað, virðist þessa farsælu upphaflegu stefnu hafa steytt á skeri, án þess að lýðræðisleg stefnumótun hafi þó  farið fram um valkosti, eins og t.d. átti sér stað á Alþingi við mótun téðrar iðnaðarstefnu að frumkvæði Viðreisnarstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks á 7. áratugi 20. aldarinnar og kostaði reyndar hörð stjórnmálaátök við afturhaldið í landinu.  

Langstærsta orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, hefur verið í almannaeign frá stofnun þess með lögum frá Alþingi 1965, þó ekki alla tíð alfarið í eigu ríkisins, eins og nú, heldur komu Reykjavík og Akureyri að eignarhaldinu í byrjun.  Stærðar sinnar vegna nú virðist hún geta, a.m.k. tímabundið, hagað sér eins og ríki í ríkinu. Lýðræðisleg mótun eigendastefnu fyrirtækisins virðist ekki liggja að baki kúvendingu á verðlagningarstefnu Landsvirkjunar, sem kemur með núverandi forstjóra fyrirtækisins, Herði Arnarsyni, árið 2010 og stjórnarformanni, Jónasi Þór Guðmundssyni, frá 2014, ásamt háum arðsemiskröfum frá eigandanum.

Þar er um þröngsýna stefnubreytingu að ræða frá því að reka verðlagsstefnu, sem lagði grunn að samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja, að hámörkun arðsemi Landsvirkjunar, sem er öndverð hagsmunum atvinnulífsins og þar með eigendanna, almennings í landinu. 

Þessi stefna hefur gert íslenzkum fyrirtækjum róðurinn erfiðan undanfarin ár, og því erfiðari þeim mun meiri, sem orkunotkun á hverja framleiðslueiningu hefur verið hjá viðskiptavinum Landsvirkjunar.  Stefnan hefur fælt nýja viðskiptavini frá fyrirtækinu og valdið samdrætti í orkukaupum viðskiptavinanna, sem hafa farið halloka í samkeppninni á alþjóðlegum mörkuðum.  Þeir hefðu flúið til annarra orkubirgja, ef kostur væri, en á íslenzkum fákeppnismarkaði eru valkostir í mörgum tilvikim engir. 

Sem kunnugt er lá við lokun verksmiðjunnar í Straumsvík vegna þessarar verðlagsstefnu Landsvirkjunar, en á síðustu stundu í vetur tókst að forðast stórslys, sem okurstefna Landsvirkjunar gat hæglega valdið í Straumsvík.  Á Grundartanga liggja miklar fjárfestingar í steypuskála Norðuráls á ísi vegna þrákelkni Landsvirkjunar við að semja á skynsamlegum nótum við fyrirtækið um alþjóðlega samkeppnishæft verð.  Íslenzka raforkukerfið getur látið það í té með nægum hagnaði, og eigandinn, ríkissjóður, tekið ávinninginn út með skattlagningu á hinum endanum, eins og Roosevelt sagði um "New Deal" stefnu sína.  Þannig er þetta gert í rótgrónum iðnríkjum, en hér ríkir einhvers konar andi spákaupmennsku og barnalegrar iðnaðarfælni.  

Þann 10. marz 2021 birtist athyglisvert viðtal í Markaði Fréttablaðsins við forstjóra Elkem á Íslandi, Álfheiði Ágústsdóttur.  Fyrirtæki hennar, áður þekkt sem járnblendiverksmiðjan á Grundartanga, er e.t.v. aðalfórnarlamb aðfarar Landsvirkjunar að iðnaðinum í landinu um þessar mundir.  Það er makalaust, að ríkisorkufyrirtæki þetta skuli komast upp með það ár eftir ár að grafa undan atvinnurekstri og gjaldeyrisöflun í landinu.  Það er ekki vanzalaust, að þetta skuli gerast á vakt varaformanns Sjálfstæðisflokksins í iðnaðarráðuneytinu, því að t.d. orkukræfur iðnaður væri líklega enginn í landinu, ef forysta hans hefði aldrei haft þrek til að berjast fyrir tilvist orkusækins iðnaðar, og flokkurinn hefur aldrei á landsfundum sínum breytt um þá grundvallarstefnu í iðnaðarmálum, sem mótuð var á Viðreisnaráratuginum af dr Bjarna Benediktssyni og Jóhanni Hafstein.  Ríkur þáttur í henni var einmitt að virkja orkulindir landsins til að selja útflutningsiðnaði og gjaldeyrissparandi iðnaði raforku á samkeppnishæfu verði.  Fyrir kosningar til Alþingis í ár þarf Sjálfstæðisflokkurinn að sýna í verki, að hann hafi afl og einurð til að láta þá stefnu sína rætast, að raforkan skapi samkeppnishæft rekstrarumhverfi fyrir íslenzkan iðnað.  

Fyrirsögn áhrifaríks viðtals Fréttablaðsins við Álfheiði Ágústsdóttur var:

"Erfitt ár að baki á Grundartanga".

Þetta er vægt til orða tekið, því að um verstu afkomu í sögu fyrirtækisins var að ræða, og lögðust þar á eitt þrengingar Kófsins og íþyngjandi raforkukostnaður:

"Um 170 manns starfa hjá Elkem Ísland, en svo eru aðrir 50-60 verktakar, sem starfa á verksmiðjusvæðinu á hverjum degi, að sögn Álfheiðar.

"2020 var hins vegar afkoma verksmiðjunnar verst frá upphafi.  Verð voru lág á markaði, og kostnaður okkar vegna raforkukaupa hefur verið síðan afar hár, eftir að gerðardómur um raforkuverð okkar lá fyrir."

Álfheiður segir, að fyrirtækið sé ýmsu vant.  "Við lítum á þetta sem áskoranir, og við leitum sífellt lausna og reynum að nýta tækifæri, sem nýjar aðstæður skapa okkur", segir hún ennfremur."

Deilur Elkem á Íslandi og Landsvirkjunar um raforkuverðið voru komnar í öngstræti, og þess vegna var þrautalending að setja þrætuna í gerðardóm.  Þetta er mikill áfellisdómur yfir ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun og stjórnarformanni hennar, sjálfstæðismanninum Jónasi Þór Guðmundssyni, sem þarna hefur gefið forstjóranum, Herði Arnarsyni og ósanngirni hans í garð stóriðju, lausan tauminn.  Það væri hins vegar í samræmi við hefðbundna iðnaðarstefnu Sjálfstæðisflokksins að beita sanngjarnri verðlagsstefnu m.v. samkeppnisaðilana.  Þetta má gera með því að láta raforkuverðið draga dám af afurðaverðinu hverju sinni.  Það er nánast iðnaðarfjandsemi að beita sér af hörku gegn slíku.  Iðnaðarfjandsemi af hálfu langstærsta orkufyrirtækis landsins, sem stofnað var til að iðnvæða landið og byggja upp traust, tæknivætt atvinnulíf, mun hins vegar rústa iðnaðinum. 

Nýr raforkusamningur á milli Landsvirkjunar og Rio Tinto/ISAL í Straumsvík gefur þó veika von um, að eyðimerkurgöngu iðnaðarins muni senn linna og að hér verði tekin upp iðnvæn stefna, sem er hefðbundin stefna Sjálfstæðisflokksins.  Forstjóri Elkem áÍslandi á lof skilið fyrir þrautseigju sína og bjartsýni í þessum ólgusjó af mannavöldum, sem Landsvirkjun átti að forðast.     

"Verðin [á afurðum Elkem á Íslandi-innsk. BJo] eru á fínum stað núna og hafa verið að stíga hratt á síðustu mánuðum.  Verðið stendur núna í 1360 EUR/t [1625 USD/t], sem er ágætt verð fyrir okkur.  Væntingar standa til þess, að verðið haldist út 2. ársfjórðung [2021].  Lagerstaðan á heimsvísu er anzi lág um þessar mundir, en það mun eflaust breytast á síðari hluta ársins, eftir því sem framleiðsla eykst víða um heim í kjölfar rekstrarstöðvana á síðasta ári.  

Við erum hins vegar vön miklum verðsveiflum.  Eins og ég horfi á þennan rekstur, þá koma góð ár og slæm ár, og þess vegna þarf að horfa á meðalarðsemina yfir lengra tímabil. Ef núverandi verð á kísilmálmi [kísiljárni] helzt, verður arðsemi [arður] á verksmiðjunni í ár.  Hins vegar er spurning, hvort arðsemin í ár verði nægilega mikil  til að bæta upp fyrir tap síðustu tveggja ára (rekstrartap ársins 2018 var MNOK 135 [=mrdISK 2,1].

Ársreikningur síðasta árs [2020] er tilbúinn, og rekstrartap ársins var um MNOK 150 [=mrdISK 2,3]. Það hefur verið saga þessarar verksmiðju, að það koma slæm ár og góð ár, en meðalarðsemin yfir lengri tíma hefur verið viðunandi.  En m.v. okkar kostnaðarumhverfi núna, sérstaklega m.t.t. raforkuverðsins, þá lítur út fyrir, að góðu árin verði töluvert magrari en við eigum að venjast." 

Hér er á kurteislegan hátt sagt, að búið sé að kippa rekstrargrundvellinum undan þessari kísiljárnverksmiðju með raforkuverði, sem verksmiðjan ræður ekki við.  Þetta er grafalvarlegt; ekki sízt í ljósi þess, að af hálfu Landsvirkjunar var því lýst yfir eftir uppkvaðningu gerðardómsins, að raforkuverðið væri óviðunandi fyrir Landsvirkjun og að fyrirtækið myndi beita sér fyrir hækkun þess að gildistíma gerðardómsins liðnum.  Með þessari skilningsvana afstöðu kveður Landsvirkjun í raun dauðadóm upp yfir þessu iðnfyrirtæki. 

Þessi framkoma af hálfu ríkisfyrirtækisins í garð iðnaðarins í landinu er gjörsamlega óviðeigandi og óviðunandi.  Vonandi beita ráðherrar sér fyrir því að koma vitinu fyrir Landsvirkjun með því að minnka arðsemiskröfuna til fyrirtækisins.  Það þarf að helminga hana. Það er síðan hlutverk Landsvirkjunar frá fornu fari að leitast við að treysta framtíð þessa viðskiptavinar síns, svo að hann hefji fjárfestingar af krafti, auki framleiðsluna og verðmæti hennar og þurfi fleira fólk í vinnu.  Til þess þarf langtíma raforkusamning með tengingu við afurðaverðið, sem tekur tillit til óhagræðis staðsetningar á Íslandi.  Enginn vafi er á, að Landsvirkjun mundi hagnast á samningi, sem Elkem á Íslandi getur staðið undir með samkeppnishæfum hætti.  

"Nýlega náðust samningar á milli Landsvirkjunar og Rio Tinto um breytingar og viðauka við raforkukaupasamning álversins í Straumsvík.  Álverðstenging var aftur tekin upp í samninginn, en stefna Landsvirkjunar síðustu ár [frá 2010-innsk. BJo] hefur verið að tengja raforkuverð því, sem gengur og gerist á evrópskum orkumörkuðum fremur en að tengja raforkuverðið við álverð.  Nú er hins vegar komið annað hljóð í strokkinn, og Landsvirkjun hefur lýst sig reiðubúna til að taka aukna verðáhættu með viðskiptavinum sínum."

Að kröfu Landsvirkjunar hvílir leynd yfir nýja raforkusamninginum við ISAL, þótt Rio Tinto vilji gjarna opinbera hann, enda er leyndarhyggjan farin að rakna upp á þessu sviði. Búast má við, að verð fyrir orku og flutning til ISAL losi nú 30 USD/MWh.  Þá er orkuverð frá virkjun vel undir 30 USD/MWh, sem veitir Landsvirkjun samt þokkalega arðsemi af hreinni eign sinni.  Nýja orkuverðið til ISAL er vel yfir meðalverði Landsvirkjunar til orkusækins iðnaðar, sem var 21,1 USD/MWh árið 2020. Þetta lága meðalverð gaf Landsvirkjun samt vel viðunandi arðsemi. 

Það lýsti hins vegar fullkomnu skilningsleysi á samkeppnisstöðu íslenzkra iðjuvera að heimta tengingu orkuverðs til þeirra við markaðsverð á Nord Pool uppboðsmarkaði, sem ræðst töluvert af veðurfari í norðanverðri Evrópu og olíuverði, en stórsamningar um raforkuviðskipti til langs tíma hafa allt aðrar viðmiðanir.  Haldið verður áfram að fjalla um þetta merka viðtal við forstjóra Elkem á Íslandi í næsta pistli hér á vefsetrinu.  

 

 


Lýst eftir stefnumálum stjórnmálanna

Undanfarnar vikur hefur kjósendum birzt metnaður allmargra stjórnmálamanna í flestum stjórnmálaflokkanna til að leiða lista flokka sinna eða verma eitt af efstu sætunum.  Sagt er, að áhugi á stjórnmálum fari nú vaxandi og sömuleiðis traust almennings til Alþingis.  Hvorugt ber að lasta, en það er holur hljómur í þessu öllu, því að stefnumál frambjóðendanna eru óljós.  Það er slæmt.  Auðvitað skipta persónulegir eiginleikar frambjóðandans máli, en hann verður að marka áherzluatriði sín, svo að kjósendur hafi raunverulegt val.

Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, hefur um langt árabil fylgzt náið með stjórnmálum, innanlands og utan. Hann skrifaði grein í Morgunblaðið 23. febrúar 2021, þar sem kenndi ýmissa grasa, m.a. þeirra, sem blekbóndi þessa vefseturs gerir að umræðuefni hér að ofan:

"Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í meginmálum ?".

 Þetta er brýn spurning, og frambjóðendur í prófkjörum og aðrir frambjóðendur verða að gera hreint fyrir sínum dyrum, þegar þeir fara að gera hosur sínar grænar fyrir kjósendum. Kjósendur eiga rétt á að vita fyrir hverju þeir ætla að beita sér, og hverju þeir ætla að vinna gegn á næsta kjörtímabili. Hjörleifur orðaði þetta þannig:

"Flokkarnir hérlendis eru í óðaönn að undirbúa framboð, hver með sínum hætti, og tíðindi af vettvangi þeirra fylla fréttatíma. Minna fer enn sem komið er fyrir málefnaáherzlum af hálfu flokkanna, og formleg starfsemi þeirra hefur eflaust veikzt og riðlazt í skugga veirunnar.  Sem áhorfandi að formlegu stjórnmálastarfi síðastliðin 8 ár finnst mér skorta mjög á, að umræðan snúist um málefni og meginlínur fremur en einstaka leikendur á pólitíska sviðinu.  Er þar með ekki lítið gert úr hlutverki og frammistöðu einstakra stjórnmálamanna, jafnt á þingi og í ríkisstjórnum." 

Við erum enn með samfélagstakmarkanir Kófsins í gildi, þótt engin smit utan sóttkvíar hafi greinzt í um 5 vikur vikur þangað til frétt barst af tveimur smitum um síðustu helgi.  Það hefur komið í ljós erlendis, að fyrir C-19 pestina leikur mikill vafi á gagnsemi strangra samkomutakmarkana og samfélagslegra lokana (lockdowns).  Samanburður á milli ríkja með ólíkar baráttuaðferðir gegn C-19 gefur lítið sem ekkert gagn af þeim til kynna, en samfélagslegur kostnaður er óyggjandi.  Er rétt að beina núverandi fyrirkomulagi ákvarðanatöku um samkomutakmarkanir og samfélagslegar lokanir í lýðræðislegri farveg en nú er, svo að fleiri sjónarmið um lýðheilsu og efnahag fái að njóta sín en sóttvarnarsjónarmið eins manns ?  Skref í þá átt er t.d., að nýtt sóttvarnaráð geri tillögu til heilbrigðisráðherra, og sé það t.d. skipað landlækni (formanni), sóttvarnalækni, lögmanni, og fulltrúa frá SA og ASÍ, alls 5 manns.  Atkvæðagreiðsla skeri úr um ágreining. Auk sóttvarnarlaga verði þingsályktanir Alþingis leiðisnúrur sóttvarnaráðs og ráðherra.  Meiri líkur eru þá á, að sóttvarnaraðgerðir verði innan marka sóttvarnarlaga og stjórnsýslulaga.  Það mun hafa áhrif til minnkunar heildartjóns þjóðfélagsins af sóttinni m.v. núverandi "einstefnu" fyrirkomulag.    

Hvernig á að vinna bug á gríðarlegum fjárlagahalla, og hver á ríkisfjármálastefna næsta kjörtímabils að verða ?  

Atvinnuleysið vex enn.  Hvernig á að minnka það úr um 12 % og niður fyrir 3 % á næsta kjörtímabili ?

Hvernig á að greiða götu atvinnusköpunar á næsta kjörtímabili, t.d. á sviði fiskeldis, landbúnaðar og iðnaðar ?  Er heppilegt í þessu sambandi að ýta undir orkuverðshækkanir með tiltölulega háum arðsemiskröfum á hendur opinberum orkufyrirtækjum, eða er e.t.v. heppilegra að styrkja og efla atvinnureksturinn í landinu með því, að hið opinbera stilli arðsemiskröfum mjög í hóf (haldi þeim í lágmarki) og geri aðrar ráðstafanir, t.d. varðandi flutnings- og dreifingarkostnað, til að lágmarka orkukostnað ? 

Hvernig stendur t.d. á því, að Landsvirkjun hefur ekki tekið tilboði Norðuráls um að hverfa frá Nord Pool-raforkuverði og taka upp meðalorkuverð til stóriðju, eins og það var á 4. ársfjórðungi 2020 á Íslandi, með álverðstengingu ?  Slíkt mundi skapa fjölda starfa á Grundartanga í bráð og lengd og fjárfestingu um allt að mrdISK 15, sem hafizt gæti strax. 

Er æskilegt fyrir Íslendinga að innleiða orkukauphöll, þar sem raforkuverðið ræðst af framboði og eftirspurn.  Texasbúar urðu illilega fyrir neikvæðum afleiðingum þess um miðjan febrúar 2021, þegar mikill orkuskortur varð í ríkinu.  Orkuverðið til neytenda með slíka samninga hækkaði þá úr 0,12 USD/kWh (15 ISK/kWh) í 9,0 USD/kWh (1170 ISK/kWh), þ.e. verðið 75 faldaðist.  Hérlendis getur slíkur uppboðsmarkaður með raforku ekki virkað með einn ríkjandi risa á orkumarkaðinum. 

Eru stjórnmálamenn þá fúsir til að kljúfa Landsvirkjun í a.m.k. tvennt til að freista þess að fá fram vísi að frjálsum orkumarkaði ?  Hérlendis getur hæglega orðið raforkuskortur, og virkjunarfyrirtækin hafa framboðið í hendi sér og þar með verð á markaði.  Mikil tregða er til að hefja virkjun, sem eitthvað munar um á markaðinum, og enginn er ábyrgur gagnvart almenningi um afhendingaröryggi raforku.  Það stefnir í óefni.

Hver er afstaða frambjóðenda til Alþingis til 4. orkupakka Evrópusambandsins, s.k. Hreinorkupakka ESB ?  Með innleiðingu hans í heild sinni mundi Ísland verða niðurnjörvað í Orkusamband ESB með svo róttækum hætti, að fullveldi landsins í orkumálum yrði algerlega liðin tíð, og ekki verður betur séð en stjórnarskrá Íslands yrði algerlega fótum troðin með slíkri innlimun í Orkusamband ESB. 

Hjörleifur hélt áfram:

 

"Í fróðlegri grein Arnars Þórs Jónssonar, héraðsdómara, í Morgunblaðinu 13. febrúar síðastliðinn undir fyrirsögninni Kreppa lýðræðisins ? vekur hann athygli á, að þjóðin hefur með EES-samningnum gefið frá sér mikilvægt stjórntæki í eigin málum.  Arnar Þór spyr m.a.:

"Getum við gengið að því vísu, að Íslendingum sé betur borgið í umsjá erlendra embættismanna og yfirþjóðlegra stofnana en lýðræðislega kjörinna handhafa íslenzks löggjafarvalds og ráðherra, sem bera ábyrgð gagnvart þingi og þjóð ?  Getur örríki, eins og Ísland, ekki tryggt hagsmuni sína í alþjóðlegu samstarfi án þess að fórna fullveldi sínu ?" - 

Nú er viðurkennt, að samþykkt laga um EES-samninginn á Alþingi 1993 hafi gengið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar á þeim tíma og átt síðan þátt í þeirri fjárhagslegu spilaborg, sem leiddi til hrunsins 2008.  Við inngöngu Íslands í EES var því haldið fram, að Ísland gæti hafnað reglum, sem samrýmast ekki þjóðarhagsmunum.  Þrátt fyrir þetta samþykkti Alþingi á yfirstandandi kjörtímabili, eins og einnig norska Stórþingið, þriðja orkupakka ESB og þær tilskipanir, sem hann byggist á.  Norsku samtökin Nei til EU töldu, eins og fleiri, að þurft hefði 3/4 þingheims [3/4 viðstaddra þingmanna.  Viðstaddir verða að nema a.m.k. 2/3 allra þingmanna - innsk. BJo], til að slík samþykkt stæðist ákvæði norsku stjórnarskrárinnar.  Nei til EU reka nú mál fyrir hæstarétti Noregs þar að lútandi.  Úrskurðar réttarins í málinu er að vænta innan tíðar."

Ef vel á að vera, geta frambjóðendur ekki leitt hjá sér þau mikilvægu málefni, sem Arnar Þór Jónsson og Hjörleifur Guttormsson þarna vekja máls á. Síðasta dæmið um aftaníossahátt íslenzkra stjórnmála- og embættismanna gagnvart Evrópusambandinu (ESB) er útvegun bóluefnis við C-19.  Það er ekki gott til þess að vita, að þeir, sem eiga að gæta hagsmuna Íslands, hafa engan metnað í þá veru, ef þeir geta komið verkinu yfir á einhvern annan. Þar með bregðast þeir væntingum þeirra, sem vilja, að stjórnmálamenn og embættismenn hafi bæði vilja og getu til að halda fullveldi landsins á lofti og vinni í anda þess, að fullveldið sé notadrjúgt og meira en orðin tóm.

  Það hefðu átt að hringja aðvörunarbjöllur í Stjórnarráðinu um sólstöðubil í fyrra, þegar forsjálar þjóðir á borð við Ísraela, Breta og Bandaríkjamenn, voru að ganga frá samningum við bóluefnaframleiðendur, en hvorki gekk né rak í samningaviðræðum ESB við þá. 

Nú er líklegt, að allir fullorðnir Ísraelar, sem það kjósa, verði fullbólusettir fyrir apríllok 2021 og að hjarðónæmi náist á Bretlandi og í Bandaríkjunum jafnvel í maí 2021, en það hillir ekki undir það á Evrópska efnahagssvæðinu, EES, vegna bóluefnaklúðurs framkvæmdastjórnar ESB.  Eins og staðan er núna, mega Íslendingar ekki taka gild C-19 ónæmisvottorð, gefin út utan EES.  Það þýðir, að við getum ekki tekið á móti bólusettum Bretum og Bandaríkjamönnum, hvað þá þeim, sem náð hafa sér af C-19 veikindum, nema með skimunum og sóttkví.  Þetta nær engri átt.  Sjálfstæði okkar til að ráða málum okkar á skynsamlegan og heiðarlegan hátt sjálf er stórlega skert með mjög svo íþyngjandi aðild að EES, þar sem ESB mótar stefnu, og Ísland er ekki aðili að þeim ákvörðunum.  

Valkosturinn við þessa EES-aðild er víðtækur fríverzlunarsamningur við ESB. Það kann að verða pólitískur grundvöllur fyrir samningaviðræðum EFTA um slíkan fríverzlunarsamning eftir þingkosningar í Noregi og á Íslandi í haust.  Hvaða afstöðu hafa frambjóðendur til slíkra uppstokkana ?

 Arnar Þór Jónsson áréttaði reyndar afstöðu sína í Morgunblaðsgrein 25. febrúar 2021 undir fyrirsögninni:

 "Kjarnaofnar og hjólaskýli".

"Ég tel ekki, að þjóðin hafi með EES-samningnum gefið frá sér mikilvæg stjórntæki í eigin málum, heldur að meirihluti Alþingis hafi við innleiðingu þriðja orkupakka ESB sleppt höndunum af umræddum stjórntækjum með því að misvirða í framkvæmd þá fyrirvara, sem settir voru í EES-samninginn af hálfu þjóðarinnar - og voru raunar forsenda þess, að Íslendingar gerðust aðilar að EES-samstarfinu. 

Hjörleifur á þakkir skildar fyrir grein sína að öðru leyti, og þá ekki sízt fyrir að draga athygli að því, hvernig staðið  var að innleiðingu þriðja orkupakkans í Noregi, en mál um það efni bíður nú úrlausnar í Hæstarétti Noregs. [Kveðinn var upp dómur 1. marz 2021 - innsk. BJo.]  Ástæða er einnig til að þakka ritstjóra Morgunblaðsins fyrir þétt aðhald gagnvart Alþingi í þessu tilliti, sbr nú síðast leiðara Morgunblaðsins 17. febrúar sl., þar sem varað var við því, að "glannaleg framganga veiklyndra stjórnmálamanna höggvi ekki á mikilvægasta þráðinn", þ.e. hinn lýðræðislega þráð, sem tengir borgarana við valdið og á að tryggja, að valdhafar svari til ábyrgðar gagnvart borgurunum."

Margir þeirra Alþingismanna, sem greiddu götu Þriðja orkupakkans (OP#3) inn í lagasafn Íslendinga, leita nú eftir áframhaldandi stuðningi flokksmanna sinna.  Þeir þurfa að svara kjósendum sínum því, hvers vegna þeir létu hjá líða að grípa til stjórntækjanna, sem í EES-samninginum eru, og hafna þannig að staðfesta gjörðir Sameiginlegu EES-nefndarinnar varðandi OP#3.  Ein af skuldbindingunum með innleiðingu OP#3 er að taka upp markaðskerfi ESB fyrir raforku, sem er uppboðskerfi, sem í vetur hefur leitt til mikilla verðhækkana á raforku í kuldakasti í vetur á hinum Norðurlöndunum, t.d. í Noregi og Svíþjóð.  Eru þingmannsefnin hlynnt því, að stofnað verði til uppboðskerfis á raforku á Íslandi með þeim verðsveiflum, sem slíkt mun hafa í för með sér ? 

Fyrrnefndur dómur í Hæstarétti Noregs í máli Nei til EU gegn ríkinu þess efnis, að Stórþingið hefði ekki viðhaft stjórnarskrárbundna aðferð við atkvæðagreiðslu um mál, sem varða fullveldisafsal til stofnana, þar sem Noregur á ekki fulla aðild, í tilviki atkvæðagreiðslunnar um innleiðingu Orkupakka 3 í norska lagasafnið í marz 2018, féll á þá lund, að héraðsdómi (Tingretten i Oslo) bæri að taka kærumál samtakanna til efnislegrar meðferðar.  Þetta var sigur fyrir NtEu, því að ríkislögmaðurinn hafði krafizt frávísunar málsins frá dómi og héraðsdómur orðið við því.  

Nú mun taka við málarekstur í dómskerfi Noregs, sem endar aftur í Hæstarétti árið 2022.  Þangað til er mjög óviðeigandi að fjalla um arftaka OP#3, Hreinorkupakkann, á vegum EFTA, eins og ekkert hafi í skorizt.  Ef NtEU vinnur sitt mál í dómskerfi Noregs, þá er OP#3 algerlega í lausu lofti í Noregi, því að þá verður að bera hann upp til atkvæða í Stórþinginu á ný, og þá verður krafizt stuðnings 3/4 viðstaddra þingmanna, svo að OP#3 haldi lagagildi sínu.  Þessi atkvæðagreiðsla mun fara fram að öllum líkindum á næsta kjörtímabili.  Talið er, að andstæðingum innleiðingar orkulöggjafar ESB í lagasafn Noregs muni vaxa fiskur um hrygg í kosningum til Stórþingsins í september 2021, svo að OP#3 verður sennilega felldur þar við þessar aðstæður.  Þá fellur hann líka úr gildi á Íslandi og í Liechtenstein.  Að svo komnu ættu íslenzkir þingmenn og ráðherrar að beita sér fyrir því, að fastanefnd EFTA, sem haft hefur Hreinorkupakkann til umfjöllunar að undanförnu, geri hlé á undirbúningi sínum að viðræðum við ESB um málið, þar til málið er til lykta leitt í Noregi, og tilkynni ESB um þá málsmeðferð.  


Dýrkeyptur slaki í orkunotkun

Loðnan kom á miðin á öðru Kófsári.  Íslenzkar útgerðir fá aðeins í sinn hlut rúmlega helming aflamarksins samkvæmt ráðleggingu Hafró og reglugerð sjávarútvegsráðherra vegna skiptisamninga við aðrar þjóðir á þeirra miðum, en áætluð aflaverðmæti til Íslands eru samt áætluð tæplega mrdISK 20. Þetta er mjög vel þegin búbót í efnahagskreppu Kófsins.  Markaðir sjávarútvegs og laxeldis hafa látið undan síga í Kófinu, svo að ekki veitir þjóðarbúinu af þessum tekjuauka m.v. fyrri 2 ár.  

Málmmarkaðir hafa aftur á móti hjarnað við síðan síðsumars 2020, og útlitið er gott.  Merki um viðsnúning á heimsvísu er jarðolíuverðið, sem hefur hækkað úr 40 USD/tunna í 60 USD/tunna á um hálfu ári.  Málmar í bílarafgeyma hafa hækkað gríðarlega í verði síðasta hálfa árið og álverðið hefur hækkað um 20 % á um hálfu ári, og á álmörkuðum eru væntingar nú þannig, að álframleiðendur með samkeppnishæfa og trausta raforkusamninga eru farnir að auka framleiðslu sína, en hinir sitja á sér. Álverð stefnir nú á 2100 USD/t. Hið síðar nefnda á enn við um ISAL í Straumsvík, en í dag, 15.02.2021 var kunngert, að samið hefði verið um viðauka við raforkusamning ISAL/Rio Tinto og Landsvirkjunar, sem gilda á til 2036. Þar með getur starfsemin í Straumsvík aftur komizt í eðlilegt horf, og verður verksmiðjan vonandi sett á full afköst í þeim mæli, sem markaðir leyfa.    

 Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, hefur í Fréttablaðinu vakið athygli á þjóðhagslegu mikilvægi ISAL og undirstöðuhlutverki fyrirtækisins fyrir vinnumarkað og verkefnastöðu ýmissa fyrirtækja í bæjarfélaginu, sem þýðir, að í Straumsvík er aðaltekjulind bæjarsjóðs, beint og óbeint.  Þetta er eðlilegt, þar sem um 600 manns eru stöðugt að vinna fyrir ISAL, og þar af búa líklega um 60 % í Hafnarfirði. Hafnfirðingar, fyrirtæki þar og bæjarsjóðurinn, svo og aðrir starfsmenn og ríkissjóður, munu nú njóta góðs af því, þegar öll ker verða sett í rekstur og kerstraumur hækkaður í Straumsvík. Viðbótar útflutningstekjur geta numið hálfri loðnuvertíð, sbr hér að ofan, og hver veit, nema fjárfestingar, sem setið hafa á hakanum í Straumsvík, verði nú settar í gang. 

Upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, Ragnhildur Sverrisdóttir, var send fram á ritvöllinn til að svara fyrstu grein Ágústar Bjarna, og gerði það með sinni útgáfu af orðhengilshætti, sem engu gat bætt við upplýsingagildi umfjöllunarinnar.  Ágúst Bjarni svaraði þessum skætingi þó kurteislega í Fréttablaðinu, 5. febrúar 2021, með neðangreindu.  Blaðurfulltrúinn hélt áfram á braut hártogana og orðhengilsháttar í Fréttablaðinu 10.02.2021. Það er slæmt, að sveitarfélög landsins skuli þurfa að búa við framkomu ríkisfyrirtækis af þessu tagi. Nú verður vitnað í grein formanns bæjarráðs Hafnarfjarðar:

""Hér eru aðeins 3 rangfærslur leiðréttar af mörgum ...""

"Þá segir hún mjög algengt, að raforkuverð í orkusölusamningum sé tengt við neyzluverðsvísitölu í Bandaríkjunum og vitnar í gagnaveitu, sem er ekki opinber.  Staðreyndin er hins vegar sú, að í þeim sömu samanburðarlöndum og nefnd eru hér að ofan, er ekki notazt við tengingar við neyzluverðsvísitölu." 

Þessi krafa forstjóra Landsvirkjunar um að tengja raforkuverð til álvers í Evrópu við vísitölu neyzluverðs í Bandaríkjunum (BNA), á sér enga þekkta hliðstæðu, enda er hún fáheyrð.  Öll meginviðskipti með aðdrætti til álvera eiga sér stað í bandaríkjadölum, USD, og afurðirnar eru seldar í sömu mynt.  Með því að tengja raforkuverð við álverð, eins og var í fyrri samningi Landsvirkjunar og ISAL og er í flestum öðrum samningum álveranna hérlendis við sína raforkubirgja, fæst þessi sama verðtrygging til lengdar, en þó er tryggt, að ekki verði raforkuverðshækkun á tímum lækkandi afurðaverðs álveranna vegna verðbólgu í BNA.  Ef vel tekst til um slíka afurðaverðstengingu, verður hún báðum samningsaðilum til hagsbóta, enda hefur hún nú verið tekin inn í téðan samningsviðauka, þótt leifar verðbólgutengingar muni áfram verða fyrir hendi samkvæmt tilkynningu.  

Áhyggjur hafnfirzka bæjarfulltrúans lutu hins vegar að afleiðingum þess fyrir Hafnarfjörð og þjóðarbúið, ef  þessar samningaviðræður hefðu farið út um þúfur.  Kaldranalegar kveðjur til Hafnfirðinga úr háhýsinu við Háaleitisbraut eru ekki til að bæta ástandið.  Ef samningaviðræðurnar hefðu ekki endað með samkomulagi um nýjan raforkusamning, hefði það orðið meiri háttar áfall fyrir afkomu fjölda manns og áfall fyrir ríkisstjórnina og stjórnarflokkana, ekki sízt í SV-kjördæmi.  ISAL hefði þá ekki átt sér lífvænlega framtíð, og rekstur fyrirtækisins hefði bráðlega farið í þrot, eins og hjá öðrum orkukræfum verksmiðjum, sem búa við ósveigjanlega orkubirgja. Samkomulagið er þess vegna fagnaðarefni, en öll kurl um tildrög þess eru enn ekki komin til grafar.  Það er þó eðlilegt, að kjósendur í SV-kjördæmi og aðrir landsmenn fái fregnir af því.   

Það þarf ekki að orðlengja það, að þröngsýn og ofstopafull verðlagsstefna, eins og Landsvirkjun hefur ástundað síðan 2010 í skjóli raunverulegrar einokunar á Íslandi, er þjóðhagslega skaðleg.  Hún hefur átt verulegan þátt í samdrætti í orkusölu fyrirtækisins, sem gæti numið 8 %/ár, og hún leiðir til minni eða jafnvel engra fjárfestinga hjá orkukaupendunum, og nýir fjárfestar halda að sér höndum.  Fyrir vikið ríkir stöðnun á sviði orkueftirspurnar og nýrrar orkuöflunar á tíma, þegar landinu ríður á að ná fram hagvexti eftir djúpa kreppu.  Landsvirkjun hefur verið dragbítur á efnahagslega viðreisn landsins, og sú staða er til þess fallin að hafa neikvæðar pólitískar afleiðingar á kjörfylgi ríkisstjórnarflokkanna.  Hvers vegna eru áhyggjur þingmanna af þessu máli ekki látnar í ljós með áberandi hætti ? 

8 % samdráttur í sölu rafmagns hjá Landsvirkjun m.v. orkuvinnslugetu fyrirtækisins nemur um 1,2 TWh/ár.  Á heildsöluverði jafngildir það tekjutapi fyrirtækisins upp á rúmlega 4 mrdISK/ár, sem sennilega jafngildir um 12 mrdISK/ár minni verðmætasköpun á ári í landinu en ella. Sú þrákelkni ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar að laga sig ekki að alþjóðlegri orkuverðsþróun, þegar hún passar ekki við hugmyndir forystu fyrirtækisins í fílabeinsturni sínum, hefur orðið að alvarlegu efnahagsvandamáli á Íslandi. 

Bæjarfulltrúinn reit:

"Til að fá svar [frá Landsvirkjun - innsk. BJo] við spurningu minni, þá spyr ég aftur: Hefur Ísland efni á því að tapa yfir 60 milljörðum [ISK] í gjaldeyristekjum, sem leiða til u.þ.b. 25 mrdISK/ár beins ávinnings fyrir þjóðarbúið ?"

Ef tekið er mið af Orkupakka 3 frá Evrópusambandinu varðar orkufyrirtæki ekkert um þjóðarhag.  Þau eiga bara að verðleggja sína vöru (flokkun ESB) m.v. að hámarka sinn arð.  Á einokunarmarkaði blasir við til hvers slíkt leiðir.  Þess vegna leiðir þessi stefna í ógöngur á Íslandi.  Fyrirtækið missir viðskipti, og viðskiptavinirnir draga saman seglin eða leggja upp laupana, af því að þeir komast ekki í viðskipti annars staðar.  Þetta mun leiða til tortímingar framleiðslustarfsemi á Íslandi, ef ríkisvaldið, eigandi bróðurpartsins af raforkufyrirtækjum landsins, grípur ekki almennt í taumana.  Það líður að því, að þingmenn verði krafðir svara við því, hvers vegna þeir hafi látið þessa ósvinnu viðgangast. Það er heldur ekki mikill bragur að því, ef Landsvirkjun verður nú að leggja nýtt samkomulag við ISAL/Rio Tinto fyrir ESA-Eftirlitsstofnun EFTA til samþykktar.

Í lokin skrifaði formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar þetta:

"Ég vona og trúi, að aðilar séu með augun á boltanum og finni farsæla lausn, sem tryggi starfsemi og starfsumhverfi álversins í Straumsvík.  Staðreyndin er sú, að mér er það mikið hjartans mál að vernda innviði, störf og framfærslu Hafnfirðinga - samfélaginu hér og landinu öllu til heilla."

Fyrir þessi hlýju orð er hellt úr hlandkönnu yfir bæjarfulltrúann úr háhýsinu við Háaleitisbraut.  Það er bæði kaldrifjað og vanhugsað framferði af hálfu einokunarfélags í eigu ríkisins.  Landsvirkjun er ekki ríki í ríkinu.  Fyrsti þingmaður Kragans ætti að láta stjórnarformann Landsvirkjunar vita, að svona gera menn ekki. Hann er í góðri aðstöðu til þess. 

isal_winterS1-ipu_dec_7-2011 


Steinrunninn gúmmídvergur

Almannatengillinn Friðjón R. Friðjónsson er innanbúðarmaður í Sjálfstæðisflokkinum, þótt undarlegt sé m.v. fádæma ruglingslega Morgunblaðsgrein hans í lok janúar 2021, þar sem fram virtist koma djúpstæð óánægja hans með flokkinn.  Helzt er á téðum almannatengli að skilja, að hann vilji toga flokkinn í átt að Viðreisn.  Það er fádæma heimskuleg ráðlegging.  Þar með væri flokkurinn losaður af grundvelli sínum frá 1929, sem er að vinna stöðugt að sjálfstæði og fullveldi Íslands á öllum sviðum í krafti einstaklingsframtaks og frjálsra viðskipta.  Ef Sjálfstæðisflokkurinn færi nú að gera hosur sínar grænar fyrir Evrópusambandinu og evrunni, mundi hann daga uppi sem hvert annað viðundur, þegar einn okkar næstu nágranna, brezka þjóðin, hrósar nú happi yfir að hafa losnað úr klóm ESB í tæka tíð til að losna við klúður ESB í bóluefnamálum, sem kostar mörg mannslíf.

 5. þingmaður Reykvíkinga, Brynjar Níelsson, átti mjög gott svar við þessari gúmmígrein almannatengilsins með greininni:

 "Steintröllin"

í Morgunblaðinu 30. janúar 2021.  Greinin hófst þannig:

"Hinn ágæti sjálfstæðismaður, Friðjón R. Friðjónsson, skrifar grein í Morgunblaðið á fimmtudaginn var, þar sem hann lýsir nokkrum áhyggjum yfir stöðu Sjálfstæðisflokksins í nútímanum."

Almannatenglinum varð einmitt tíðrætt um, að flokkurinn væri ekki nógu nútímalegur, en hefur ekkert fram að færa annað en umbúðastjórnmál og froðukennt fimbulfamb. Það örlar ekki á heilli brú.  Það er þunnur þrettándi á leiksviði lífsins, en gengur kannski á leiksviði firringarinnar, þar sem allt er falt. 

Almannatenglinum mislíkar sennilega, að nokkrir sjálfstæðismenn hafa (fyrir rúmu ári) stofnað með sér félag til að vinna að framgangi mála innan Sjálfstæðisflokksins, sem miða að því að efla fullveldi landsins.  Það kann froðusnökkurum að þykja gamaldags pólitík.  Margir þessara félagsmanna komu við sögu baráttunnar gegn innleiðingu Orkupakka 3 (OP#3) frá Evrópusambandinu í íslenzka löggjöf. Þeir vildu ekki flokka afurð íslenzkra orkulinda, rafmagnið, sem hverja aðra vöru, sem vinnslufyrirtækin ættu að leitast við að selja á verði, sem gæfi þeim hámarkshagnað án tillits til þjóðarhags.  Þannig er OP#3, enda á hann rætur að rekja til allt annars orkuumhverfis en hér ríkir.   

Þvert á móti vildi fólkið í "Orkunni okkar"-OO, sem stóð í hugmyndafræðilegri baráttu við stjórnvöld um þetta, að raforkan yrði verðlögð m.v. lágmarksarðsemi á markaði að teknu tilliti til áhættu við fjárfestingu.  Hagfræðilegu rökin fyrir því eru að styrkja samkeppnisstöðu allra atvinnugreina, sem rafmagn nota, og hafa jákvæð áhrif á afkomu heimilanna.  Slíkt styrkir arðsemi allrar virðiskeðjunnar og heildararðsemin af auðlind íslenzkrar náttúru verður þar með miklu meiri en af dýru rafmagni.  Téður almannatengill var á fundi í Valhöll, þar sem þessu sjónarmiði OO var haldið á lofti og hlaut góðar undirtektir, en almannatenglinum var ekki skemmt. 

Sjálfstæðismenn sneru bökum saman við fólk af öðru pólitísku litarafti í afstöðunni til raforkusölu til útlanda um sæstreng.  Þetta sjónarmið hlaut í raun brautargengi á Alþingi með ýmsum varnöglum í löggjöf gegn samþykki yfirvalda á umsókn hingað um leyfi til lagningar aflsæstengs og tengingar hans við íslenzka raforkukerfið.

Það var rekinn talsverður áróður á Íslandi fyrir beinni raforkusölu til útlanda fyrir innleiðingu OP#3, og ýmsir hagsmunaaðilar, stórir og litlir, koma þar við sögu. OP#3 var talinn geta auðveldað slík viðskipti, enda aðalhlutverk hans að efla raforkuflutninga á milli landa. 

M.a. kom í ljós, að sæstrengsfyrirtæki á Englandi hafði mikinn hug á lagningu sæstrengs til Íslands og hafði í þjónustu sinni almannatengslafyrirtæki á Íslandi, væntanlega til að koma ár sinni fyrir borð.  Þegar einhver torskiljanlegur málflutningur er á ferðinni, liggur oft fiskur undir steini ("hidden agenda").

Verður nú gripið niður í ágæta grein Brynjars:

"Erfitt er að átta sig á, hvað Friðjóni gengur til, þegar hann gefur í skyn í greininni, að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti breytingum á efnahagslífinu, sjávarútveginum, landbúnaðarkerfinu, orkumálum, stjórnarskránni og samfélaginu sjálfu og flokkinn muni daga uppi og verða að steintrölli með sama áframhaldi.   Hefði ekki komið mér á óvart, að þessi grein hefði verið skrifuð í þingflokksherbergi Viðreisnar.  Friðjón notar alla sömu frasana, sem þaðan koma, án þess að segja nokkuð um, hverju eigi að breyta, og hvernig, eða af hverju.  En eitt er víst, að skrif hans endurspegla djúpstæða óánægju með forystu Sjálfstæðisflokksins."

Almannatenglar eru mjög uppteknir af ímyndinni, og hvernig hægt sé að breyta henni, til að hún höfði til sem flestra.  Þeir virðast halda, að stjórnmál snúist um umbúðir, upphrópanir og fyrirsagnir.  Ef stjórnmálaflokkur er ekki nógu nútímalegur, er nauðsynlegt, að þeirra mati, að "poppa upp" stefnumálin.  Þetta er hins vegar hreinræktað lýðskrum, sem er ekki traustvekjandi.  Stjórnmálaflokkur, sem hleypur á eftir slíkum dægurflugum, er ekki á vetur setjandi.

Brynjar telur málflutning almannatengilsins vera skyldan túðrinu í Viðreisn.  Hún er einmitt með aðra stefnu en Sjálfstæðisflokkurinn á þeim sviðum, sem Brynjar nefnir, þ.e. í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum og orkumálum.  Í sjávarútvegsmálum rekur hún dauðvona stefnu, sem allir, sem reynt hafa, hafa gefizt mjög fljótlega upp á, og eru Færeyingar nýlegt dæmi.  Hagur minni útgerðarfyrirtækja varð óbærilegur, og aflaheimildir söfnuðust á stórfyrirtækin, eins og fyrirsjáanlegt var.  Uppboðshald af þessu tagi virkar á fyrirtækin sem stóraukin skattheimta, sem grefur undan samkeppnishæfni og fjárfestingargetu.  Slíkur fíflagangur endar bara með bæjarútgerðum og ríkisafskiptum. 

Með veikan íslenzkan sjávarútveg verður auðveldara fyrir Viðreisn að semja um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, sem krefst þess, að togaraflota ESB verði hleypt inn í íslenzka lögsögu.  Þá fer nú að þrengjast fyrir dyrum íslenzkra útgerða og íslenzks almennings.  Auðlindastjórnun af þessu tagi er nýnýlenduvæðing.  Nútímaleg ?  Kannski, en samt gamalt vín á nýjum belgjum.

Í landbúnaðarmálunum rekur Viðreisn bara stefnu Evrópusambandsins.  Ef hún yrði við lýði hér, yrði ekki lífvænlegt fyrir íslenzka bændur á jörðum sínum.  Gríðarleg nýsköpun fer nú fram í sveitum landsins, og framleiðniaukning bænda með tæknivæðingu búanna er aðdáunarverð. Gæði og hreinleiki afurðanna eru hvergi meiri. Landbúnaðurinn íslenzki er á réttri braut, og það verður að veita honum starfsfrið fyrir ágengni niðurgreiddrar framleiðslu risabúa Evrópu með þeim sýklavörnum, sem þarf að viðhafa í slíkum rekstri. 

Sennilega situr stefnumörkun síðasta Landsfundar Sjálfstæðisflokksins í orkumálum í almannatenglinum.  Alþingi afgreiddi Orkupakka 3 með varnöglum, sem sennilega sitja sem fleinn í holdi hans.  Það fá engir gróðapungar að tengja Ísland við erlend raforkukerfi og flytja út raforku héðan og flytja inn erlent raforkuverð að viðbættum gríðarlegum flutningskostnaði um aflsæstreng.  Brynjar skrifaði eftirfarandi ádrepu um orkumálin:

"Ómögulegt er að átta sig á, hvert Friðjón er að fara, þegar hann segir, að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti breytingum í orkumálum.  Við værum yfirhöfuð ekkert að tala um raforkumál, ef Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki til.  Hann hefur nánast staðið einn fyrir því, að auðlindir séu nýttar til raforkuframleiðslu með skynsamlegum hætti og samhliða því að byggja upp öflugt og öruggt flutningskerfi raforku. 

Við værum ekki að tala um orkuskipti og græna framleiðslu, ef ekki væri fyrir framsýni sjálfstæðismanna.  Í því felst framtíðin, alveg óháð "nútímahyggju" Friðjóns."

Hér er Sjálfstæðisflokkinum hælt upp í hástert, en þeir, sem fylgdust með pólitíkinni, þegar tekizt var á um s.k. stóriðjustefnu á 7. áratugi 20. aldarinnar, vita, að Brynjar fer með rétt mál.  Að vísu skal ekki draga úr því, að Alþýðuflokkurinn var ódeigur í baráttunni við hlið Sjálfstæðisflokksins í Viðreisnarstjórninni gegn Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi.  Stóriðjustefnan, sem kenna má við dr Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra, dr Gylfa Þ. Gíslason, formann Alþýðuflokksins, og dr Jóhannes Nordal, Seðlabankastjóra, snerist um að virkja stórfljót og framleiða rafmagn með eins hagkvæmum hætti og unnt væri til orkukræfra verksmiðja, sem sköpuðu þjóðinni gjaldeyri og stóðu í raun undir uppbyggingu raforkukerfisins. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, en eftir stendur, að stefna þessi reyndist farsæl og efldi hag þjóðarinnar gríðarlega.    

 Á illa saman

 

 h_my_pictures_falkinn

 

 


Munur á raforkuverði borgar og ríkis

Fimmtudaginn 28. janúar 2021 bar það til tíðinda í íslenzka orkugeiranum, að OR (Orkuveita Reykjavíkur) opinberaði samning um 18 % (47,5 MW) af rafmagnssölu sinni til Norðuráls (NA), sem nemur að meðalafli 264 MW af meðalrafaflgetu virkjana fyrirtækisins, sem er um 432 MW.  Það vekur alveg sérstaka athygli á hvaða verði borgaryfirvöld í Reykjavík töldu sér fært að selja raforku, aðallega frá jarðgufuverinu á Hellisheiði, til NA. 

Orkuverð með flutningsgjaldi í þessum samningi ræðst af líkingunni:

  • CP=LME*p/14,2
  • p=0,172 ef LME<1900 USD/t
  • p=0,177 ef 1900=<LME<2300
  • p=0,182 ef 2300=<2300 USD/t
  • LME er meðalstaðgreiðsluverð 99,7 % Al í USD/t mánuðinn á undan.  

Síðastliðin 3 ár hefur álverðið verið fremur lágt eða um 1800 USD/t Al að meðaltali.  Það þýðir orkuverð frá virkjun 15,5 USD/MWh og 21,8 USD/MWh með flutningsgjaldi til Landsnets. Það er mjög athyglisvert, að þetta verð og jafnvel lægra, því að hvorki er gólf né þak í samninginum, skuli hafa verið talið skila OR arðbærum viðskiptum.  Ef ON hefur hagnazt á þessu verði, er fyrirtækið mjög samkeppnishæft.  Stjórnmálamennirnir í meirihluta borgarstjórnar, þegar samningurinn var gerður, hljóta að hafa vitað, hvað þeir voru að gera, en þeir virðast þó tvímælalaust hafa tekið mikla áhættu fyrir hönd borgarinnar og annarra eigenda OR með því að sleppa gólfinu. Með gólfi gátu þeir tryggt, að orkuverðið færi ekki undir það, sem kostar að framleiða rafmagnið með lágmarksarðsemi. 

Eftirfarandi er haft eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra OR, á vefsetri samsteypunnar:

"Þetta verð [núverandi 18,9 USD/MWh frá virkjun - innsk. BJo] er alltof lágt og stendur ekki undir þeirri eðlilegu arðsemiskröfu, sem eigendur OR gera."

Hvað skyldi hann þá segja um 15,5 USD/MWh ? M.v. háan rekstrarkostnað Hellisheiðarvirkjunar vegna nýrrar gufuöflunar sökum niðurdráttar í neðanjarðarforða virkjunarinnar, má kraftaverk kalla, ef ekki er tap á virkjuninni á neðsta hluta verðbilsins 14,2 USD/MWh-29,5 USD/MWh, sem svarar til álverðsbilsins 1700 USD/t-2800 USD/t.  Það er sérstaklega athyglisvert, að forstjórinn skuli ekki hafa kvartað undan tapi undanfarin misseri með meðalverð 15-16 USD/MWh. Það hljóta að vakna grunsemdir um bókhaldið í virkjun, sem jafnframt selur íbúum höfuðborgarsvæðisins heitt vatn.  Þar er um að ræða eina hæstu gjaldskrá á landinu fyrir heitt vatn. Það er óþægileg tilfinning fyrir viðskiptavini einokunarhluta ON, að þeir séu látnir greiða niður verð í samkeppnisrekstri ON, þ.e. á rafmagninu. 

Það þarf að taka með í reikninginn, að samningurinn, sem hér er til lítillegrar umfjöllunar, er að afli til aðeins 18 % af viðskiptum OR við NA, og 82 % viðskiptanna kunna að gera gæfumuninn fyrir OR.  Forstjóri OR segir þennan orkusamning ekki uppfylla núverandi arðsemiskröfur OR.  Það er hægt að fallast á það, þegar álverðið er undir 1900 USD/MWh, en þá fer orkuverðið undir 23,0 USD/MWh.  Þarna hefði borgarstjórnarmeirihlutinn 2008 (samningurinn er frá 30.12.2008 og gildir til 30.12.2033) átt að fá sett gólf í samninginn. 

Á vefsíðu OR er sagt, að spá um álverð 2021 hljóði upp á 2800 USD/t.  Það þykir álframleiðendum vera gott verð, og mikil bjartsýnisbirta yfir slíkum væntingum m.v. núverandi stöðu framboðs og eftirspurnar.  Með þessu verði fæst samkvæmt téðum  samningi OR og NÁ orkuverðið 29,5 USD/MWh án flutningsgjaldsins 6,35 USD/MWh, sem ofan á leggst.  Slíkt verð er ásættanlegt fyrir báða aðila.  Hins vegar gefur auga leið, að flutningsgjaldið nær engri átt, og þarf að lækka það um a.m.k. 22 % niður fyrir 4,5 USD/MWh, svo að það verði í námunda við samkeppnisland Íslands, Noreg, þar sem einnig er yfir miklar vegalengdir að fara og yfir fjöll og heiðar í strjálbýlu landi.  Orkustofnun verður að endurskoða arðsemiskröfu sína til mannvirkja Landsnets og leyfa mun lengri endurgreiðslutíma en hún gerir nú. Landsreglir orkumála, sem jafnframt er Orkumálastjóri, kann að leita ráða hjá ACER um þessa endurskoðun, en þessi Orkustofnun ESB samræmir störf allra landsreglanna, þótt ekki verði séð, hvað ESB varði um þessi mál hérlendis, þar sem engin samtenging er fyrir hendi eða fyrirhuguð.   

Sá raforkusamningur, sem hér er til lauslegrar umfjöllunar, var opinberaður að beiðni orkukaupandans, Norðuráls.  Hann sýnir ótrúlega hagstæð kjör, sem Reykjavíkurborg hefur veitt þessum viðskiptavini sínum til 25 ára.  Nú hlýtur að tvíeflast krafa annars stórs orkunotanda, ISAL, á hendur sínum viðsemjanda, ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun, um opinberun núgildandi orkusamnings þessara fyrirtækja, en Landsvirkjun hefur þumbazt við með ýmsum undanbrögðum og er nú að daga uppi sem steintröll í nútímanum.  Opinberun mun leiða í ljós, að þegar álverðið var 1700 USD/t, þá var munurinn á orkuverði frá stöðvarvegg þessara tveggja fyrirtækja, ON og LV, 130 % af verði OR, og þegar álverðið var 2025 USD/t, var mismunurinn 68 % af verði OR. Samningarnir voru gerðir á svipuðum tíma, OR-NÁ árið 2008 og LV-ISAL 2011. Það er vitað, að vatnsorkuver Landsvirkjunar eru mun hagkvæmari en jarðgufuver ON.  

Þessi samanburður sýnir tvennt: verðlagning LV keyrir fram úr öllu hófi, er hreint okur í krafti yfirburðastöðu á markaði (ISAL gat ekki leitað neitt annað), og OR hefur flaskað á að fá gólf í samning sinn við NÁ, sem veldur því, að rafmagnsverðið stendur varla undir vinnslukostnaði þess, þegar álverð er lágt. 

Í grundvallaratriðum er vandi ríkisins sá að hafa ekki skilgreint eigendastefnu sína gagnvart Landsvirkjun. Núna stendur ríkisvaldið alls ekki frjálst að þessari stefnumörkun vegna þess, að stefnan er mörkuð af Orkupakka 3 (OP#3) frá Evrópusambandinu, sem hefur forgang á íslenzk lög um sama efni.  Frjáls markaður skal ráða verðlagningunni samkvæmt OP#3, en á Íslandi getur enginn frjáls markaður ríkt með rafmagn, á meðan Landsvirkun gín yfir markaðnum.  Annaðhvort verður að höggva Landsvirkjun í a.m.k. þrennt og selja a.m.k. 2 búta eða það verður að gefa hugmyndafræði ESB um rafmagn sem vöru upp á bátinn, og hugnast höfundi þessa pistils sú leið miklu betur og vafalaust landsmönnum flestum. 

Íslenzk raforka er náttúruafurð, og vinnslan algerlega háð duttlungum náttúrunnar.  Víðast hvar erlendis sjá markaðsöflin að mestu um að sjá orkuverum fyrir frumorku á formi kola, jarðgass, uraníums o.fl.  Öflun frumorkunnar hérlendis er því miður í mörgum tilvikum mjög umdeild.  Þær deilur munu aðeins magnast, ef almenningur fær á tilfinninguna, að hið opinbera og atvinnulífið sé farið að flokka rafmagn sem vöru.  Eina frambærilega leiðin til sátta um orkunýtingu úr íslenzkri náttúru er, að þessi orka verði nýtt til að efla hag fjölskyldnanna og fyrirtækjanna í landinu, sérstaklega framleiðslufyrirtækjanna, og skapa hér erlendan gjaldeyri, sem er undirstaða velmegunar í landinu.  Þetta þýðir, að arðsemiskrafan á orkufyrirtækin má aðeins vera mjög hófleg.  Þjóðhagslega verður það mjög hagkvæmt, því að heildararðsemi fjárfestinga í landinu verður miklu meiri með því að dreifa arðseminni þannig um allt þjóðfélagið í stað þess, að orkufyrirtækin okri á viðskiptavinum sínum, eins og reyndin hefur verið með sum ríkisfyrirtækjanna, s.s. Landsvirkjun og Landsnet.

 

 


"Vísindin efla alla dáð"

Bóluefnin, sem í fyrra voru þróuð gegn kórónuveirunni, SARS-CoV-2, sem síðan í nóvember 2019 hefur herjað á mannkynið með viðbrögðum þess, sem eiga sér engan líka, eru ný af nálinni gegn umgangspestum.  Tækninni hefur þó verið beitt í viðureigninni við krabbamein í um áratug. Þessi pistill er reistur á greininni, "An injection of urgency", sem birtist í The Economist, 5. desember 2020, aðallega til að svara hinni brennandi spurningu, hvort nýju bóluefnin væru örugg. 

Um miðjan janúar 2020 fékk Moderna-lyfjafyrirtækið bandaríska senda genasamsetningu kórónuveirunnar SARS-CoV-2 frá Kína, og í byrjun marz 2020 eða um 7 vikum seinna höfðu vísindamenn fyrirtækisins einangrað broddprótein veirunnar í bóluefni, sem þá strax hófust klínískar rannsóknir með. Þetta jafngilti byltingu í gerð bóluefna, bæði hvað þróunarhraða og gerð bóluefnis gegn faraldri áhrærir og markar þáttaskil í viðureign mannkyns við skæðar veirur.  

2. desember 2020 varð brezka lyfjastofnunin "Medicines and Healthcare-products Regulatory Agency (MHRA)  fyrst sinna líka til að leyfa almenna bólusetningu á sínu markaðssvæði á fullprófuðu bóluefni af þessari nýju gerð. 

Bóluefnið, sem leyft var, ber merkið BNT162b2 og var þróað af Pfizer, bandarískum lyfjarisa, og BioNTech, minna þýzku fyrirtæki. Tæknin, þótt ný sé af nálinni, er þannig vel þekkt innan lyfjaiðnaðarins.  Lyfjaiðnaður heimsins hefur ekki verið par vinsæll, en er nú skyndilega "hetja dagsins".

Þetta Pfizer-BioNTech-bóluefni hefur verndarvirkni í 95 % tilvika eftir tvær sprautur gegn téðri veiru, en þess ber að geta, að börn voru ekki prófuð og fólk eldra en 70 ára í mjög litlum mæli.  Það er mjög lítið vitað um virkni bóluefnisins á eldri borgara og á fólk með langvarandi sjúkdóma úr prófunum fyrirtækjanna.  M.a. þess vegna er mjög óvarlegt af Landlækni og öðrum að fullyrða, að a.m.k. 5 dauðsföll fáeinum dögum eftir fyrri bólusetningu sé ekki (eða varla) hægt að rekja til bólusetningarinnar.  Tilvikin eru of mörg og þekking á virkninni úr prófununum of lítil, til að slík niðurstaða sé trúverðug.  Prófunarskýrslur lyfjafyrirtækjanna gefa ekki tilefni fyrir heilbrigðisyfirvöld til að leyfa bólusetningu hrumra einstaklinga.  Ef ónæmiskerfið er veiklað, þarf að ganga mjög varlega fram. Það er öruggara fyrir þessa einstaklinga að skáka í skjóli hjarðónæmis, þegar því hefur verið náð með bólusetningum og sýkingum. 

Aðrar þjóðir litu til Breta í byrjun desember 2020 sem fyrirmyndar við flýtta samþykkt Pfizer-BioNTech-bóluefnisins, og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, sem tekur að sér að samþykkja lyf og bóluefni fyrir þjóðir án lyfjastofnana eða með lyfjastofnanir án bolmagns til vísindalegrar rýni, áttu í samstarfi við MHRA um viðurkenningu bóluefnisins.  Þarna tóku Bretar mikilsvert frumkvæði og skrýtið, að íslenzka lyfjastofnunin skyldi ekki fremur leita í smiðju þangað en til lyfjastofnunar ESB, þar sem Ísland á enga aðild, nema að Innri markaðinum. Svifaseinir íslenzkir búrókratar voru ekki með á nótunum.  Það er eðlilegt, að Lyfjastofnun Íslands geri samstarfssamning við MHRA í stað þess að leita á náðir ríkjasambands, sem Ísland stendur utan við af góðum og gildum ástæðum. 

Hraði bóluefnissamþykktanna var reistur á stöðugu upplýsingaflæði frá viðkomandi lyfjafyrirtækjum til eftirlitsstofnananna í öllum áföngum þróunarferlisins, og tæknin var þekkt þar, þótt hún hafi aldrei verið nýtt gegn veirufaraldri.  

Bandaríska lyfjafyrirtækið Moderna brást hraðast við í upphafi, og prófunarskýrslur fyrirtækisins úr 3. prófunaráfanganum sýna vísindalegustu og trúverðugustu vinnubrögðin, en fyrirtækið varð viku á eftir Pfizer-BioNTech með að tilkynna lok prófunarferlisins.  Bóluefni fyrirtækisins gegn SARS-CoV-2 nefnist mRNA-1273.

Bæði BNT162b2 og mRNA-1273 eru í hópi s.k. mRNA-bóluefna. Þótt þetta sé í fyrsta skipti, sem leyfi er veitt til að sprauta þessari tegund í almenning, eru sérfræðingar samt bjartsýnir um almennt skaðleysi hennar fyrir líkama og sál, því að hún hefur verið reynd gegn ýmsum krabbameinum í yfir áratug.  Varðandi BNT162b2 og mRNA-1273 sérstaklega, voru þau prófuð á 73.000 sjálfboðaliðum alls, þar sem helmingurinn fékk bóluefnið og hinn helmingurinn lyfleysu (Moderna) eða annað bóluefni (Pfizer-BioNTech). Þetta safn gat gefið tölfræðilega marktækar niðurstöður, en gallinn var sá, að þeir, sem nú er lögð mest áherzla á að verja, voru ekki hafðir með í úrtakinu.  Þess vegna stendur stórfelld tilraunastarfsemi enn yfir án þess, að skjólstæðingarnir séu endilega upplýstir um, hvernig í pottinn er búið. 

Hugsunin á auðvitað að vera sú að forðast að gera viðkvæma að tilraunadýrum, nema þeir séu fullkomlega meðvitaðir um það, en leyfa þeim hins vegar að njóta hjarðónæmisins, sem mun myndast í þjóðfélaginu, ef hinir stæltu eru bólusettir.  Ungviði undir tvítugu ætti alls ekki að bólusetja við C-19, enda allsendis ófullnægjandi vitneskja fyrir hendi um virkni þessara bóluefna á það, og því verður yfirleitt lítið um þennan sjúkdóm.  Í heilbrigðisráðuneytinu mun hafa komið fram vilji til skyldubólusetninga við samningu frumvarps til nýrra sóttvarnarlaga.  Hvers vegna ætti ríkisvaldið að ganga freklega á einstaklingsfrelsið og setja fjölda manns í stórhættu ?  Valdbeitingarárátta sumra stjórnmálamanna og búrókrata er stórhættuleg, og henni verður að setja skorður með lögum, sem reist eru á Stjórnarskrá landsins.

Á Vesturlöndum er haldið uppi eftirfylgni með bólusettum, þannig að heilsufarstengd atriði eru skráð og hugsanlegar sýkingar af C-19 bornar saman við sýkingar óbólusettra.  Einn áhættuþáttur við öll bóluefni er, að þau geta aukið smitnæmi sumra hópa.  Önnur áhætta er, að í sjaldgæfum tilvikum koma bóluefni af stað sjálfsofnæmi - nokkuð, sem vírussýkingar geta líka gert.  Miklar rannsóknir á þessu þarf að gera áður en milljarðar manna verða bólusettir. 

Vegna virkni sinnar er reyndar ástæða til að halda, nema eitthvað óvænt gerist, að mRNA-bóluefnin gætu verið öruggari en hefðbundin bóluefni.  Lifandi bóluefni, t.d. gegn lömunarveiki, innihalda veiklaðar veirur.  Hættan við þau er, að veiran breytist í skaðvænlegra afbrigði.  Með mRNA-bóluefni, sem eru nokkrir bútar af genahráefninu mRNA umluktu fituhjúp, getur slíkt ekki gerzt.  Þetta mRNA efni fyrirskrifar ekki, hvernig á að búa til veiru, heldur aðeins, hvernig á að búa til eitt af próteinum hennar, sem kallað er broddur.  Með þessa forskrift úr bóluefninu, framleiða frumur líkamans nú broddinn í miklu magni. Hann veldur viðbragði ónæmiskerfisins til að þróa eyðingu þessu aðskotapróteins.  Ónæmiskerfið mun þá geta brugðizt hratt við næst, þegar vart verður við þessa próteingerð - í þetta sinn sem hluta af broddveiru (kórónuveiru) í innrás. 

Einnig má geta þess, að mRNA er náttúrulegur hluti af lifandi frumum, sem framleiða það og eyða því stöðugt.  Endingartíminn er mældur í dögum.  Þegar mRNA bóluefnisins hefur gegnt sínu hlutverki, er það brotið hratt niður.  Samt ríkir nokkur upplýsingaóreiða um þetta efni.  Sérstaklega skaðleg ósannindi eru, að mRNA í bóluefninu muni breyta DNA samsetningu í frumum bóluefnisþegans.  Þetta er álíka líklegt og eppli Newtons losni úr trénu og fari upp í loftið.  Bullustampar netsins munu ótrauðir halda því fram, að þetta geti gerzt, þótt Isaac Newton hafi sannað hið gagnstæða á 17. öld, en hjátrúarfullir netverjar munu þá óðfluga stimpla hann sem samsærismann.  Það eru engin takmörk fyrir þvættinginum, sem sullast inn á alnetið, en þar er auðvitað einnig ómetanlegur fróðleikur. 

RNA og DNA eru ólíkir hyrningarsteinar gena, og frumur spendýra hafa ekkert efnafræðilegt gangverk til að afrita annan yfir í hinn.

Að mynda og viðhalda trausti almennings til sérhvers vísindalega viðurkennds bóluefnis er mikilvægt.  Slíkt traust er sennilega almennara á Bretlandi en víða annars staðar.  Skoðanakannanir sýna, að 79 % af íbúum landsins hyggjast fá sprautu við C-19, sem er hærra en almennt gerist.  Í Bandaríkjunum t.d. er þetta hlutfall aðeins 64 %.

Þegar allt kemur til alls, eru allar ákvarðanir um, hvort leyfa eigi almenna notkun lyfja teknar á grundvelli mats á áhættu og ávinningi. Við leyfisveitingar á bóluefnum verður hins vegar líklegur ávinningur að vega miklu þyngra en áhættan. Þetta er út af því, að ólíkt lyfjum, sem vanalega eru gefin sjúklingum, eru bóluefnin gefin heilbrigðu fólki. 

T.d. MHRA fær ráðleggingar frá óháðri vísindanefnd fyrir ákvörðun sína.  Þótt nefndarmenn muni hafa vegið og metið marga þætti, þegar ákveðið var að mæla með neyðarsamþykki á BNT162b2, hefur ákveðinn svæsinn útreikningur verið þeim ofarlega í huga, þ.e. hver biðdagur kostar marga lífið.  Á Bretlandi létust 603 úr C-19, daginn sem ríkisstjórnin veitti leyfi til almennrar notkunar á BNT162b2.

Er þessi dánartala há eða lág ?  Á Íslandi deyja að jafnaði 6 manns á dag, sem jafngildir 16,4 ppm þjóðarinnar.  Það hlutfall gefur 1068 látna á dag á Bretlandi í venjulegu árferði.  Viðbótin af völdum C-19 er 56 %, sem er hátt hlutfall, enda hefur verið upplýst, að látnir á Bretlandi vegna C-19 séu nú um 96 k eða 0,15 % þjóðarinnar, sem er hæsta hlutfall, sem sézt hefur í þessum faraldri.  Á Íslandi hafa til samanburðar 79 ppm þjóðarinnar látizt úr C-19.

Þetta gerist á Bretlandi þrátt fyrir mjög strangar sóttvarnarráðstafanir yfirvalda og þar með útgöngubanni og starfrækslubanni af ýmsu tagi og fjöldatakmörkunum af strangasta tagi.  Nú hafa birzt rannsóknir á Bretlandi, sem benda til, að þessar ráðstafanir hafi verið gagnslausar, þ.e. 3 vikum eftir, að þær voru settar á, fækkaði dauðsföllum ekki neitt.  Hafa einhvers staðar birzt marktækar rannsóknir, sem sýna hið gagnstæða ?  Þessar ráðstafanir hafa sjálfar valdið heilsutjóni, eins og rannsóknir sýna líka, og gríðarlegu fjárhagstjóni launþega, fyrirtækja og hins opinbera.  

Hættan við þessa veiru, SARS-CoV-2, er sú, að hún stökkbreytist og verði enn skæðari en þau afbrigði, sem borizt hafa inn í íslenzka samfélagið, bæði meira smitandi og með alvarlegri veikindum og fleiri dauðsföllum á hvern sýktan.  Þekkt er brezka afbrigðið, sem grunur er um, að sé meira smitandi, og nú er komið fram Suður-Afríkanskt afbrigði, sem grunur er um, að valdi meiri veikindum hjá fleiri sýktum.

  Áhyggjur manna hafa t.d. snúizt um það, hvort hin nýsamþykktu bóluefni muni virka í nægilega miklum mæli gegn hinum stökkbreyttu afbrigðum.  Athuganir lyfjafyrirtækjanna (framleiðenda nýju bóluefnanna)  benda til, að bóluefnin virki svipað vel gegn hinum stökkbreyttu afbrigðum.  Það þýðir, að broddpróteinið er enn nægilega lítið breytt eða jafnvel ekkert breytt, til að ónæmiskerfið þekki stökkbreyttan skaðvaldinn, þegar hann gerir innrás í líkamann. 

 

 

                                  

 

 


Afturhald í efnahagsmálum

Svo virðist sem tími stórra jafnaðarmannaflokka í Evrópu sé liðinn.  Þá hefur dagað uppi.  Þeir eiga ekkert stjórnmálalegt baráttuhlutverk í þjóðfélagi samtímans, hvað þá í framtíðinni, þar sem gamla baklandið þeirra er ekki nema svipur hjá sjón.  Sósíalistaflokkur Frakklands er nánast horfinn.  SPD-jafnaðarmannaflokkur Þýzkalands er hugmyndalega steingeldur og undir 20 % í skoðanakönnunum á landsvísu.  Svipaða sögu er að segja frá Svíþjóð, og nú hefur hinn sögufrægi Verkamannaflokkur Noregs (Arbeiderpartiet) misst forystusæti sitt í skoðanakönnunum til Miðflokksins (Senterpartiet) og mælist líka undir 20 %.  Flokksforystan gengur ekki í takti við verkalýðshreyfinguna, sem í Noregi fylgist vel með gangverki tímans og þróun atvinnulífsins með hag umbjóðenda sinna í fyrirrúmi, en hengir sig ekki í afdankaðar stjórnmálalegar kreddur stéttabaráttunnar.  Í þessu sambandi heyrast nú frá Noregi háværar raddir um, að Bretar hafi náð betri kjörum með nýjum fríverzlunarsamningi við Evrópusambandið (ESB) en felist í viðskiptakjörum Norðmanna við ESB með samninginum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Norska verkalýðshreyfingin er afhuga aðild Noregs að ESB, og Verkamannaflokkurinn mun þá, ef að líkum lætur, eiga auðvelt með að söðla um í þeim efnum og ganga í eina sæng með Sp og SV að afloknum næstu kosningum.  Þá verður einfaldlega enginn Orkupakki #4 samþykktur inn í EFTA-löndin og EES-samningurinn verður tekinn til endurskoðunar í heild sinni, og er það löngu tímabært.

Jafnaðarmannaflokkur Íslands (Samfylkingin) er steinrunninn stjórnmálaflokkur, og enn er aðalbaráttumál hans að gera Ísland að hluta þessa ríkjasambands, ESB, þótt það sé með þvílíkum böggum hildar eftir BREXIT, að kvarnast gæti enn meir úr því og myntbandalagi þess á nýbyrjuðum áratugi. Grunnstoðir þar á bæ eru ófullgerðar og standast ekki tímans tönn.  Það er reyndar mjög Samfylkingarlegt. 

Annað aðaláhugamál Samfylkingarinnar er að þenja ríkisbáknið sem mest út, stækka efnahagsreikning ríkisins enn meir og auka tekjur þess með aðgangsharðari skattheimtu; jafnaðarmenn bera í þessu viðfangi fyrir sig réttlæti og snúa þar með staðreyndum á haus, því að ekkert réttlæti getur verið fólgið í því að rífa fé af fólki, sem það hefur unnið sér inn með heiðarlegum hætti í sveita síns andlitis, sem er með margvíslegum hætti, í meiri mæli en þegar á sér stað á Íslandi, sem er með því mesta í OECD.  

Vegna C-19 hefur fjárþörf ríkisins aukizt gríðarlega. Það er alveg öruggt mál, að fái "Reykjavíkurlíkanið" umráð yfir ríkissjóði Íslands í kjölfar komandi Alþingiskosninga, munu skella gríðarlegar skattahækkanir á almenningi, svo að sóknarbolmagn atvinnulífsins út úr C-19 kreppunni verður ekki nægt til að rífa hér upp hagvöxt á ný, sem er forsenda aukinnar atvinnusköpunar.  Atvinnuleysið er nú þjóðarböl, meira en víðast hvar annars staðar í Evrópu, og meginviðfangsefni stjórnmálanna verður að skapa sjálfbærar forsendur atvinnusköpunar.  Nú þegar er yfirbygging ríkisins of stór fyrir þetta litla þjóðfélag, svo að lausnir jafnaðarmanna eru engar lausnir í nútímanum, heldur snara í hengds manns húsi.  Þess vegna fjarar undan þeim hvarvetna á Vesturlöndum um þessar mundir. 

Hörður Ægisson ritaði forystugrein í Fréttablaðið 15. janúar 2021, þar sem á snöfurmannlegan hátt var hrakinn hræðsluáróður jafnaðarmanna gegn því að skrá   Íslandsbanka nú í Kauphöll Íslands og bjóða fjórðung eignarhlutar ríkisins í honum til kaups. Þessi ágæta atlaga gegn afturhaldinu bar þá lýsandi yfirskrift:

"Dragbítar",

og hófst þannig:

"Sumir bregðast aldrei vitlausum málstað.  Talsmenn Samfylkingarinnar, ásamt ýmsum fylgihnöttum þeirra í róttækari armi verkalýðshreyfingarinnar, leggja sig fram um að gera það tortyggilegt, að til standi að hefja sölu á hlut í Íslandsbanka með hlutafjárútboði og skráningu í Kauphöll. 

Röksemdirnar, sem eru fátæklegar, hverfast um, að tímasetningin sé óheppileg og að ríkið fari árlega á mis við tugmilljarða arðgreiðslur með því að draga úr eignarhaldi.  Ekkert er gert með þá staðreynd, að önnur evrópsk ríki hafa fyrir margt löngu talið réttast - jafnvel þótt eignarhlutur þeirra sé hverfandi í samanburði við íslenzka ríkið - að hefja þá vegferð að losa um eignarhluti sína í áhættusömum bankarekstri.  Samfylkingin er á öðru máli og telur, að ríkið eigi áfram að vera með mrdISK 400 bundna í tveimur bönkum."

Nú hefur Alþýðusamband Íslands (ASÍ) stigið það einkennilega skref í stéttabaráttu sinni að mótmæla áformum um að losa um bundið fé félagsmanna og annarra landsmanna í starfsemi, sem ríkisvald er illa fallið til að stunda.  Sannast þar enn, að þar liggja nú dragbítar heilbrigðrar skynsemi á fleti fyrir, sem alls ekki kunna að verja hagsmuni umbjóðenda sinna.

Bankasýsla ríkisins, sem stofnsett var fyrir um 12 árum, hefur það hlutverk m.a. að ráðleggja ríkisstjórninni um ráðlegan eignarhlut ríkisins í bönkum landsins.  Hún mun nú hafa ráðlagt henni að selja fjórðungseignarhlut í Íslandsbanka, og er það í samræmi við Stjórnarsáttmálann.  Fjórðungur af eiginfé bankans nemur nú tæplega mrdISK 50.  Um fjórðungur eiginfjárins er umfram lögbundið lágmark, og þarf auðvitað að fá það á fullu verði við söluna, svo að söluandvirðið gæti orðið tæplega mrdISK 50, þegar tekið er mið af því, að hlutafé Arion-banka er nú í hæstu hæðum þrátt fyrir áföll, sem hann varð nýlega fyrir í útlánastarfsemi sinni.  Arðsemi undanfarinna ára hjá bönkunum er auðvitað engin viðmiðun, þar sem um einskiptiseignamyndun var að ræða í kjölfar fjármálakreppu.

Ef núverandi tími er ekki góður tími til að hefja söluferli bankans, er með öllu óljóst, hvenær ætti að draga úr gríðarlegri og óeðlilegri eignarhlutdeild ríkisins í bönkum landsins.  Hlutafjárútboð Icelandair tókst vel í haust og hlutabréf stíga almennt í verði núna, eins og þau gera venjulega á lágvaxtaskeiðum fjármagns.  Það vantar nýja kosti á markaðinn og styrkur er að nýju skrásettu fyrirtæki í Kauphöll Íslands fyrir hlutabréfamarkaðinn.  Síðast en ekki sízt er rétt, að öðru jöfnu, að innleysa þetta "sparifé" ríkisins núna, þegar fjárþörfin er brýn, því að auðvitað munu vextir hækka aftur. 

Þeir, sem ekki vilja innleysa "sparifé ríkisins" nú, ætla sér sennilega að hækka skatta á almenning og atvinnulíf til að fjármagna Kófið.  Það er mjög skammsýn ráðstöfun, því að hún hægir á efnahagsbatanum, lengir óviðunandi atvinnuleysi enn þá meir, og ástandið verður vítahringur.  Þetta er segin saga með hugmyndafræði jafnaðarmanna.  Hún virkar, eins og að míga í skóinn sinn í frosti, en veldur gríðartjóni til lengdar, enda sjónarsviðið þröngt.  Allir verða fátækari, ef jafnaðarmenn komast í aðstöðu til að gera þjóðfélagstilraunirnar, sem þá dreymir um.

Áfram með Hörð Ægisson:

"Bankakerfið í dag á ekkert sameiginlegt með því, sem féll 2008.  Stundum mætti samt halda annað, ef marka má þá, sem láta eins og ekkert hafi breytzt á tveimur áratugum.  Þannig sá efnahagsráðgjafi VR ástæðu til þess í vikunni að láta að því liggja, að hættan nú væri á, að bankinn kæmist í hendur aðþrengdra stórra fjárfesta, sem þyrftu á aukinni lánafyrirgreiðslu að halda, eins og gerzt hefði í aðdraganda bankahrunsins.  Þessi málflutningur, komandi frá fyrrverandi stjórnarmanni í Arion til margra ára, stenzt enga skoðun, enda hefur allt regluverk um virka eigendur - þeir, sem fara með 10 % eða meira - og hvað þeir mega eiga í miklum viðskiptum við banka, verið hert til muna.  Það er því ekki eftirsótt fyrir fyrirtækjasamstæður og efnameiri fjárfesta að vera stór eigandi, af því að það hamlar viðskiptaumsvifum þeirra."

 Guðrún Johnsen er og var efnahagsráðgjafi VR og í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, þegar verkalýðsfélagið beitti sér gegn kaupum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á hlutabréfum í Icelandair í fyrrahaust. Hún hefur væntanlega með ráðgjöf sinni og afstöðu valdið þessum lífeyrissjóði tjóni.  Ráðgjöf hennar á fjármálasviðinu hefur gefizt afleitlega, eins og Stefán E. Stefánsson rakti í skoðunargrein í Viðskipta Mogganum 20.01.2021:

"Vargur í véum".

Téður efnahagsráðgjafi titlar sig lektor við Kaupmannahafnarháskóla og vitnar gjarna í rannsóknir sínar þar, en aðrir virðast ekki hafa hug á að vitna í þessar rannsóknir, enda virðist lektorinn vera blindaður í baksýnisspeglinum.  SES rifjaði upp skuggalegan feril lektorsins:

"Sá er reyndar víðkunnur fyrir fyrri störf.  Nýtti m.a. aðstöðu sína vel sem starfsmaður rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna, ritaði bók um efnið og fór sem eldibrandur um heiminn og rægði íslenzkt stjórnkerfi og samfélag.  Sú vegferð var launuð með stjórnarsæti í Arion banka, þar sem lektorinn sat keikur í lánanefnd.  Þar var talið forsvaranlegt að lána WOW milljarða króna, og peningarnir runnu í stríðum straumum í svikamylluna svakalegu í Helguvík.  Eitt af síðustu embættisverkum núverandi starfsmanns stærsta stéttarfélags landsins var að samþykkja MISK 150 starfslokasamning við fráfarandi bankastjóra.  Þetta er sannarlega langur afrekalisti og leitt, að samtök viðskiptablaðamanna skuli ekki velja mann ársins, eins og kollegarnir á íþróttadeildinni.  Þyrfti þá ekki að taka til greina afrekalista lektorsins á vettvangi HR og HÍ."

Formaður VR opnar varla ginið án þess að saka einhverja aðila í þjóðfélaginu um samsæri gegn hagsmunum almennings og spillingu.  Þess vegna vekur  ráðning þessa lektors til ráðgjafar hjá VR furðu. Hvað skyldi það hafa verið á ferli lektorsins, sem talið var geta orðið félagsmönnum VR að gagni ? Hvað sem því líður, virðist ráðgjöf þessa lektors á sviði fjármála og fjárfestinga einfaldlega ekki vera 5 aura virði. 

Lektorinn hefur blásið sig út með hræðsluáróðri um vafasama pappíra, sem muni sitja á svikráðum við Íslandsbanka og aðra eigendur hans eftir að hafa klófest hlutafé í honum.  Þetta heitir að kasta steinum úr glerhúsi eftir að hafa átt þátt í að lána til fjárglæfrafélagsins United Silicon og WOW-air á brauðfótum og valda þannig íslenzku viðskiptalífi tjóni.  Lektorinn mun vafalaust beita sér fyrir áframhaldandi hjásetu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, þegar aðrir lífeyrissjóðir munu grípa tækifærið og fjárfesta í banka, sem mun láta að sér kveða í samkeppninni á íslenzka fjármálamarkaðinum, almenningi til hagsbóta. 

Skoðunargrein SES lauk með eftirfarandi hætti, og þarf ei um að binda eftir það:

"Allt er þetta þó sagnfræði, sem litlu skiptir.  Meira máli skiptir, að stjórnarmaður í stærsta lífeyrissjóði landsins skuli blanda sér í málið með þeim hætti, sem gat að líta í liðinni viku.  Væntanlega getur fjármálaráðherrann og Bankasýslan gengið út frá því, að sjóðurinn sitji hjá, þegar útboð í Íslandsbanka fer fram síðar á árinu.  Hætt er við, að sú hjáseta muni kosta sjóðfélaga milljarða, rétt eins og dómadagsdellan í tengslum við flugfélagið."

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband