Færsluflokkur: Dægurmál
22.3.2021 | 11:32
Iðnaðarstefna í skötulíki
Íslenzkt vatnsafl var virkjað að mestu af fyrirtækjum í almannaeigu í tvennu augnamiði: annað var að tryggja íslenzkum heimilum nægt rafmagn til lýsingar, eldunar og húshitunar við vægu verði til lengdar, þótt hitaveitur tækju víða við síðast nefnda hlutverkinu, og hitt var að útvega stöðugt og hagkvæmt afl til að knýja alþjóðlega samkeppnishæfan atvinnurekstur til að þróa íslenzkt atvinnulíf og skapa fjölskyldunum afkomuöryggi. Þessi íslenzka iðnaðarstefna, sem átti sér hliðstæðu í vatnsorkulandinu Noregi og einnig í Svíþjóð, hafði í för með sér byltingu í lífskjörum landsmanna.
Landsvirkjun var stofnuð til að gegna síðar nefnda hlutverkinu, og engin lýðræðisleg ákvörðun hefur verið tekin um að breyta því hlutverki. Fyrirtækið hefur engu að síður síðastliðinn áratug lent á algerum villigötum með óljósu tali um hámarksarðsemi. Slíkt stingur algerlega í stúf við upphaflega, lýðræðislega og sígilda stefnumörkun fyrir þetta ríkisfyrirtæki, enda hlýtur stefna um hámarksarðsemi á fáokunarmarkaði að leiða til algers ófarnaðar atvinnulífsins. Er ámælisvert, að stjórnvöld skuli ekki hafa gert gangskör að því að leiðrétta þessa afdrifaríku skekkju í stefnu fyrirtækisins.
Á vakt núverandi ríkisstjórnar, eins og það er stundum orðað, virðist þessa farsælu upphaflegu stefnu hafa steytt á skeri, án þess að lýðræðisleg stefnumótun hafi þó farið fram um valkosti, eins og t.d. átti sér stað á Alþingi við mótun téðrar iðnaðarstefnu að frumkvæði Viðreisnarstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks á 7. áratugi 20. aldarinnar og kostaði reyndar hörð stjórnmálaátök við afturhaldið í landinu.
Langstærsta orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, hefur verið í almannaeign frá stofnun þess með lögum frá Alþingi 1965, þó ekki alla tíð alfarið í eigu ríkisins, eins og nú, heldur komu Reykjavík og Akureyri að eignarhaldinu í byrjun. Stærðar sinnar vegna nú virðist hún geta, a.m.k. tímabundið, hagað sér eins og ríki í ríkinu. Lýðræðisleg mótun eigendastefnu fyrirtækisins virðist ekki liggja að baki kúvendingu á verðlagningarstefnu Landsvirkjunar, sem kemur með núverandi forstjóra fyrirtækisins, Herði Arnarsyni, árið 2010 og stjórnarformanni, Jónasi Þór Guðmundssyni, frá 2014, ásamt háum arðsemiskröfum frá eigandanum.
Þar er um þröngsýna stefnubreytingu að ræða frá því að reka verðlagsstefnu, sem lagði grunn að samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja, að hámörkun arðsemi Landsvirkjunar, sem er öndverð hagsmunum atvinnulífsins og þar með eigendanna, almennings í landinu.
Þessi stefna hefur gert íslenzkum fyrirtækjum róðurinn erfiðan undanfarin ár, og því erfiðari þeim mun meiri, sem orkunotkun á hverja framleiðslueiningu hefur verið hjá viðskiptavinum Landsvirkjunar. Stefnan hefur fælt nýja viðskiptavini frá fyrirtækinu og valdið samdrætti í orkukaupum viðskiptavinanna, sem hafa farið halloka í samkeppninni á alþjóðlegum mörkuðum. Þeir hefðu flúið til annarra orkubirgja, ef kostur væri, en á íslenzkum fákeppnismarkaði eru valkostir í mörgum tilvikim engir.
Sem kunnugt er lá við lokun verksmiðjunnar í Straumsvík vegna þessarar verðlagsstefnu Landsvirkjunar, en á síðustu stundu í vetur tókst að forðast stórslys, sem okurstefna Landsvirkjunar gat hæglega valdið í Straumsvík. Á Grundartanga liggja miklar fjárfestingar í steypuskála Norðuráls á ísi vegna þrákelkni Landsvirkjunar við að semja á skynsamlegum nótum við fyrirtækið um alþjóðlega samkeppnishæft verð. Íslenzka raforkukerfið getur látið það í té með nægum hagnaði, og eigandinn, ríkissjóður, tekið ávinninginn út með skattlagningu á hinum endanum, eins og Roosevelt sagði um "New Deal" stefnu sína. Þannig er þetta gert í rótgrónum iðnríkjum, en hér ríkir einhvers konar andi spákaupmennsku og barnalegrar iðnaðarfælni.
Þann 10. marz 2021 birtist athyglisvert viðtal í Markaði Fréttablaðsins við forstjóra Elkem á Íslandi, Álfheiði Ágústsdóttur. Fyrirtæki hennar, áður þekkt sem járnblendiverksmiðjan á Grundartanga, er e.t.v. aðalfórnarlamb aðfarar Landsvirkjunar að iðnaðinum í landinu um þessar mundir. Það er makalaust, að ríkisorkufyrirtæki þetta skuli komast upp með það ár eftir ár að grafa undan atvinnurekstri og gjaldeyrisöflun í landinu. Það er ekki vanzalaust, að þetta skuli gerast á vakt varaformanns Sjálfstæðisflokksins í iðnaðarráðuneytinu, því að t.d. orkukræfur iðnaður væri líklega enginn í landinu, ef forysta hans hefði aldrei haft þrek til að berjast fyrir tilvist orkusækins iðnaðar, og flokkurinn hefur aldrei á landsfundum sínum breytt um þá grundvallarstefnu í iðnaðarmálum, sem mótuð var á Viðreisnaráratuginum af dr Bjarna Benediktssyni og Jóhanni Hafstein. Ríkur þáttur í henni var einmitt að virkja orkulindir landsins til að selja útflutningsiðnaði og gjaldeyrissparandi iðnaði raforku á samkeppnishæfu verði. Fyrir kosningar til Alþingis í ár þarf Sjálfstæðisflokkurinn að sýna í verki, að hann hafi afl og einurð til að láta þá stefnu sína rætast, að raforkan skapi samkeppnishæft rekstrarumhverfi fyrir íslenzkan iðnað.
Fyrirsögn áhrifaríks viðtals Fréttablaðsins við Álfheiði Ágústsdóttur var:
"Erfitt ár að baki á Grundartanga".
Þetta er vægt til orða tekið, því að um verstu afkomu í sögu fyrirtækisins var að ræða, og lögðust þar á eitt þrengingar Kófsins og íþyngjandi raforkukostnaður:
"Um 170 manns starfa hjá Elkem Ísland, en svo eru aðrir 50-60 verktakar, sem starfa á verksmiðjusvæðinu á hverjum degi, að sögn Álfheiðar.
"2020 var hins vegar afkoma verksmiðjunnar verst frá upphafi. Verð voru lág á markaði, og kostnaður okkar vegna raforkukaupa hefur verið síðan afar hár, eftir að gerðardómur um raforkuverð okkar lá fyrir."
Álfheiður segir, að fyrirtækið sé ýmsu vant. "Við lítum á þetta sem áskoranir, og við leitum sífellt lausna og reynum að nýta tækifæri, sem nýjar aðstæður skapa okkur", segir hún ennfremur."
Deilur Elkem á Íslandi og Landsvirkjunar um raforkuverðið voru komnar í öngstræti, og þess vegna var þrautalending að setja þrætuna í gerðardóm. Þetta er mikill áfellisdómur yfir ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun og stjórnarformanni hennar, sjálfstæðismanninum Jónasi Þór Guðmundssyni, sem þarna hefur gefið forstjóranum, Herði Arnarsyni og ósanngirni hans í garð stóriðju, lausan tauminn. Það væri hins vegar í samræmi við hefðbundna iðnaðarstefnu Sjálfstæðisflokksins að beita sanngjarnri verðlagsstefnu m.v. samkeppnisaðilana. Þetta má gera með því að láta raforkuverðið draga dám af afurðaverðinu hverju sinni. Það er nánast iðnaðarfjandsemi að beita sér af hörku gegn slíku. Iðnaðarfjandsemi af hálfu langstærsta orkufyrirtækis landsins, sem stofnað var til að iðnvæða landið og byggja upp traust, tæknivætt atvinnulíf, mun hins vegar rústa iðnaðinum.
Nýr raforkusamningur á milli Landsvirkjunar og Rio Tinto/ISAL í Straumsvík gefur þó veika von um, að eyðimerkurgöngu iðnaðarins muni senn linna og að hér verði tekin upp iðnvæn stefna, sem er hefðbundin stefna Sjálfstæðisflokksins. Forstjóri Elkem áÍslandi á lof skilið fyrir þrautseigju sína og bjartsýni í þessum ólgusjó af mannavöldum, sem Landsvirkjun átti að forðast.
"Verðin [á afurðum Elkem á Íslandi-innsk. BJo] eru á fínum stað núna og hafa verið að stíga hratt á síðustu mánuðum. Verðið stendur núna í 1360 EUR/t [1625 USD/t], sem er ágætt verð fyrir okkur. Væntingar standa til þess, að verðið haldist út 2. ársfjórðung [2021]. Lagerstaðan á heimsvísu er anzi lág um þessar mundir, en það mun eflaust breytast á síðari hluta ársins, eftir því sem framleiðsla eykst víða um heim í kjölfar rekstrarstöðvana á síðasta ári.
Við erum hins vegar vön miklum verðsveiflum. Eins og ég horfi á þennan rekstur, þá koma góð ár og slæm ár, og þess vegna þarf að horfa á meðalarðsemina yfir lengra tímabil. Ef núverandi verð á kísilmálmi [kísiljárni] helzt, verður arðsemi [arður] á verksmiðjunni í ár. Hins vegar er spurning, hvort arðsemin í ár verði nægilega mikil til að bæta upp fyrir tap síðustu tveggja ára (rekstrartap ársins 2018 var MNOK 135 [=mrdISK 2,1].
Ársreikningur síðasta árs [2020] er tilbúinn, og rekstrartap ársins var um MNOK 150 [=mrdISK 2,3]. Það hefur verið saga þessarar verksmiðju, að það koma slæm ár og góð ár, en meðalarðsemin yfir lengri tíma hefur verið viðunandi. En m.v. okkar kostnaðarumhverfi núna, sérstaklega m.t.t. raforkuverðsins, þá lítur út fyrir, að góðu árin verði töluvert magrari en við eigum að venjast."
Hér er á kurteislegan hátt sagt, að búið sé að kippa rekstrargrundvellinum undan þessari kísiljárnverksmiðju með raforkuverði, sem verksmiðjan ræður ekki við. Þetta er grafalvarlegt; ekki sízt í ljósi þess, að af hálfu Landsvirkjunar var því lýst yfir eftir uppkvaðningu gerðardómsins, að raforkuverðið væri óviðunandi fyrir Landsvirkjun og að fyrirtækið myndi beita sér fyrir hækkun þess að gildistíma gerðardómsins liðnum. Með þessari skilningsvana afstöðu kveður Landsvirkjun í raun dauðadóm upp yfir þessu iðnfyrirtæki.
Þessi framkoma af hálfu ríkisfyrirtækisins í garð iðnaðarins í landinu er gjörsamlega óviðeigandi og óviðunandi. Vonandi beita ráðherrar sér fyrir því að koma vitinu fyrir Landsvirkjun með því að minnka arðsemiskröfuna til fyrirtækisins. Það þarf að helminga hana. Það er síðan hlutverk Landsvirkjunar frá fornu fari að leitast við að treysta framtíð þessa viðskiptavinar síns, svo að hann hefji fjárfestingar af krafti, auki framleiðsluna og verðmæti hennar og þurfi fleira fólk í vinnu. Til þess þarf langtíma raforkusamning með tengingu við afurðaverðið, sem tekur tillit til óhagræðis staðsetningar á Íslandi. Enginn vafi er á, að Landsvirkjun mundi hagnast á samningi, sem Elkem á Íslandi getur staðið undir með samkeppnishæfum hætti.
"Nýlega náðust samningar á milli Landsvirkjunar og Rio Tinto um breytingar og viðauka við raforkukaupasamning álversins í Straumsvík. Álverðstenging var aftur tekin upp í samninginn, en stefna Landsvirkjunar síðustu ár [frá 2010-innsk. BJo] hefur verið að tengja raforkuverð því, sem gengur og gerist á evrópskum orkumörkuðum fremur en að tengja raforkuverðið við álverð. Nú er hins vegar komið annað hljóð í strokkinn, og Landsvirkjun hefur lýst sig reiðubúna til að taka aukna verðáhættu með viðskiptavinum sínum."
Að kröfu Landsvirkjunar hvílir leynd yfir nýja raforkusamninginum við ISAL, þótt Rio Tinto vilji gjarna opinbera hann, enda er leyndarhyggjan farin að rakna upp á þessu sviði. Búast má við, að verð fyrir orku og flutning til ISAL losi nú 30 USD/MWh. Þá er orkuverð frá virkjun vel undir 30 USD/MWh, sem veitir Landsvirkjun samt þokkalega arðsemi af hreinni eign sinni. Nýja orkuverðið til ISAL er vel yfir meðalverði Landsvirkjunar til orkusækins iðnaðar, sem var 21,1 USD/MWh árið 2020. Þetta lága meðalverð gaf Landsvirkjun samt vel viðunandi arðsemi.
Það lýsti hins vegar fullkomnu skilningsleysi á samkeppnisstöðu íslenzkra iðjuvera að heimta tengingu orkuverðs til þeirra við markaðsverð á Nord Pool uppboðsmarkaði, sem ræðst töluvert af veðurfari í norðanverðri Evrópu og olíuverði, en stórsamningar um raforkuviðskipti til langs tíma hafa allt aðrar viðmiðanir. Haldið verður áfram að fjalla um þetta merka viðtal við forstjóra Elkem á Íslandi í næsta pistli hér á vefsetrinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.3.2021 | 14:04
Lýst eftir stefnumálum stjórnmálanna
Undanfarnar vikur hefur kjósendum birzt metnaður allmargra stjórnmálamanna í flestum stjórnmálaflokkanna til að leiða lista flokka sinna eða verma eitt af efstu sætunum. Sagt er, að áhugi á stjórnmálum fari nú vaxandi og sömuleiðis traust almennings til Alþingis. Hvorugt ber að lasta, en það er holur hljómur í þessu öllu, því að stefnumál frambjóðendanna eru óljós. Það er slæmt. Auðvitað skipta persónulegir eiginleikar frambjóðandans máli, en hann verður að marka áherzluatriði sín, svo að kjósendur hafi raunverulegt val.
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, hefur um langt árabil fylgzt náið með stjórnmálum, innanlands og utan. Hann skrifaði grein í Morgunblaðið 23. febrúar 2021, þar sem kenndi ýmissa grasa, m.a. þeirra, sem blekbóndi þessa vefseturs gerir að umræðuefni hér að ofan:
"Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í meginmálum ?".
Þetta er brýn spurning, og frambjóðendur í prófkjörum og aðrir frambjóðendur verða að gera hreint fyrir sínum dyrum, þegar þeir fara að gera hosur sínar grænar fyrir kjósendum. Kjósendur eiga rétt á að vita fyrir hverju þeir ætla að beita sér, og hverju þeir ætla að vinna gegn á næsta kjörtímabili. Hjörleifur orðaði þetta þannig:
"Flokkarnir hérlendis eru í óðaönn að undirbúa framboð, hver með sínum hætti, og tíðindi af vettvangi þeirra fylla fréttatíma. Minna fer enn sem komið er fyrir málefnaáherzlum af hálfu flokkanna, og formleg starfsemi þeirra hefur eflaust veikzt og riðlazt í skugga veirunnar. Sem áhorfandi að formlegu stjórnmálastarfi síðastliðin 8 ár finnst mér skorta mjög á, að umræðan snúist um málefni og meginlínur fremur en einstaka leikendur á pólitíska sviðinu. Er þar með ekki lítið gert úr hlutverki og frammistöðu einstakra stjórnmálamanna, jafnt á þingi og í ríkisstjórnum."
Við erum enn með samfélagstakmarkanir Kófsins í gildi, þótt engin smit utan sóttkvíar hafi greinzt í um 5 vikur vikur þangað til frétt barst af tveimur smitum um síðustu helgi. Það hefur komið í ljós erlendis, að fyrir C-19 pestina leikur mikill vafi á gagnsemi strangra samkomutakmarkana og samfélagslegra lokana (lockdowns). Samanburður á milli ríkja með ólíkar baráttuaðferðir gegn C-19 gefur lítið sem ekkert gagn af þeim til kynna, en samfélagslegur kostnaður er óyggjandi. Er rétt að beina núverandi fyrirkomulagi ákvarðanatöku um samkomutakmarkanir og samfélagslegar lokanir í lýðræðislegri farveg en nú er, svo að fleiri sjónarmið um lýðheilsu og efnahag fái að njóta sín en sóttvarnarsjónarmið eins manns ? Skref í þá átt er t.d., að nýtt sóttvarnaráð geri tillögu til heilbrigðisráðherra, og sé það t.d. skipað landlækni (formanni), sóttvarnalækni, lögmanni, og fulltrúa frá SA og ASÍ, alls 5 manns. Atkvæðagreiðsla skeri úr um ágreining. Auk sóttvarnarlaga verði þingsályktanir Alþingis leiðisnúrur sóttvarnaráðs og ráðherra. Meiri líkur eru þá á, að sóttvarnaraðgerðir verði innan marka sóttvarnarlaga og stjórnsýslulaga. Það mun hafa áhrif til minnkunar heildartjóns þjóðfélagsins af sóttinni m.v. núverandi "einstefnu" fyrirkomulag.
Hvernig á að vinna bug á gríðarlegum fjárlagahalla, og hver á ríkisfjármálastefna næsta kjörtímabils að verða ?
Atvinnuleysið vex enn. Hvernig á að minnka það úr um 12 % og niður fyrir 3 % á næsta kjörtímabili ?
Hvernig á að greiða götu atvinnusköpunar á næsta kjörtímabili, t.d. á sviði fiskeldis, landbúnaðar og iðnaðar ? Er heppilegt í þessu sambandi að ýta undir orkuverðshækkanir með tiltölulega háum arðsemiskröfum á hendur opinberum orkufyrirtækjum, eða er e.t.v. heppilegra að styrkja og efla atvinnureksturinn í landinu með því, að hið opinbera stilli arðsemiskröfum mjög í hóf (haldi þeim í lágmarki) og geri aðrar ráðstafanir, t.d. varðandi flutnings- og dreifingarkostnað, til að lágmarka orkukostnað ?
Hvernig stendur t.d. á því, að Landsvirkjun hefur ekki tekið tilboði Norðuráls um að hverfa frá Nord Pool-raforkuverði og taka upp meðalorkuverð til stóriðju, eins og það var á 4. ársfjórðungi 2020 á Íslandi, með álverðstengingu ? Slíkt mundi skapa fjölda starfa á Grundartanga í bráð og lengd og fjárfestingu um allt að mrdISK 15, sem hafizt gæti strax.
Er æskilegt fyrir Íslendinga að innleiða orkukauphöll, þar sem raforkuverðið ræðst af framboði og eftirspurn. Texasbúar urðu illilega fyrir neikvæðum afleiðingum þess um miðjan febrúar 2021, þegar mikill orkuskortur varð í ríkinu. Orkuverðið til neytenda með slíka samninga hækkaði þá úr 0,12 USD/kWh (15 ISK/kWh) í 9,0 USD/kWh (1170 ISK/kWh), þ.e. verðið 75 faldaðist. Hérlendis getur slíkur uppboðsmarkaður með raforku ekki virkað með einn ríkjandi risa á orkumarkaðinum.
Eru stjórnmálamenn þá fúsir til að kljúfa Landsvirkjun í a.m.k. tvennt til að freista þess að fá fram vísi að frjálsum orkumarkaði ? Hérlendis getur hæglega orðið raforkuskortur, og virkjunarfyrirtækin hafa framboðið í hendi sér og þar með verð á markaði. Mikil tregða er til að hefja virkjun, sem eitthvað munar um á markaðinum, og enginn er ábyrgur gagnvart almenningi um afhendingaröryggi raforku. Það stefnir í óefni.
Hver er afstaða frambjóðenda til Alþingis til 4. orkupakka Evrópusambandsins, s.k. Hreinorkupakka ESB ? Með innleiðingu hans í heild sinni mundi Ísland verða niðurnjörvað í Orkusamband ESB með svo róttækum hætti, að fullveldi landsins í orkumálum yrði algerlega liðin tíð, og ekki verður betur séð en stjórnarskrá Íslands yrði algerlega fótum troðin með slíkri innlimun í Orkusamband ESB.
Hjörleifur hélt áfram:
"Í fróðlegri grein Arnars Þórs Jónssonar, héraðsdómara, í Morgunblaðinu 13. febrúar síðastliðinn undir fyrirsögninni Kreppa lýðræðisins ? vekur hann athygli á, að þjóðin hefur með EES-samningnum gefið frá sér mikilvægt stjórntæki í eigin málum. Arnar Þór spyr m.a.:
"Getum við gengið að því vísu, að Íslendingum sé betur borgið í umsjá erlendra embættismanna og yfirþjóðlegra stofnana en lýðræðislega kjörinna handhafa íslenzks löggjafarvalds og ráðherra, sem bera ábyrgð gagnvart þingi og þjóð ? Getur örríki, eins og Ísland, ekki tryggt hagsmuni sína í alþjóðlegu samstarfi án þess að fórna fullveldi sínu ?" -
Nú er viðurkennt, að samþykkt laga um EES-samninginn á Alþingi 1993 hafi gengið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar á þeim tíma og átt síðan þátt í þeirri fjárhagslegu spilaborg, sem leiddi til hrunsins 2008. Við inngöngu Íslands í EES var því haldið fram, að Ísland gæti hafnað reglum, sem samrýmast ekki þjóðarhagsmunum. Þrátt fyrir þetta samþykkti Alþingi á yfirstandandi kjörtímabili, eins og einnig norska Stórþingið, þriðja orkupakka ESB og þær tilskipanir, sem hann byggist á. Norsku samtökin Nei til EU töldu, eins og fleiri, að þurft hefði 3/4 þingheims [3/4 viðstaddra þingmanna. Viðstaddir verða að nema a.m.k. 2/3 allra þingmanna - innsk. BJo], til að slík samþykkt stæðist ákvæði norsku stjórnarskrárinnar. Nei til EU reka nú mál fyrir hæstarétti Noregs þar að lútandi. Úrskurðar réttarins í málinu er að vænta innan tíðar."
Ef vel á að vera, geta frambjóðendur ekki leitt hjá sér þau mikilvægu málefni, sem Arnar Þór Jónsson og Hjörleifur Guttormsson þarna vekja máls á. Síðasta dæmið um aftaníossahátt íslenzkra stjórnmála- og embættismanna gagnvart Evrópusambandinu (ESB) er útvegun bóluefnis við C-19. Það er ekki gott til þess að vita, að þeir, sem eiga að gæta hagsmuna Íslands, hafa engan metnað í þá veru, ef þeir geta komið verkinu yfir á einhvern annan. Þar með bregðast þeir væntingum þeirra, sem vilja, að stjórnmálamenn og embættismenn hafi bæði vilja og getu til að halda fullveldi landsins á lofti og vinni í anda þess, að fullveldið sé notadrjúgt og meira en orðin tóm.
Það hefðu átt að hringja aðvörunarbjöllur í Stjórnarráðinu um sólstöðubil í fyrra, þegar forsjálar þjóðir á borð við Ísraela, Breta og Bandaríkjamenn, voru að ganga frá samningum við bóluefnaframleiðendur, en hvorki gekk né rak í samningaviðræðum ESB við þá.
Nú er líklegt, að allir fullorðnir Ísraelar, sem það kjósa, verði fullbólusettir fyrir apríllok 2021 og að hjarðónæmi náist á Bretlandi og í Bandaríkjunum jafnvel í maí 2021, en það hillir ekki undir það á Evrópska efnahagssvæðinu, EES, vegna bóluefnaklúðurs framkvæmdastjórnar ESB. Eins og staðan er núna, mega Íslendingar ekki taka gild C-19 ónæmisvottorð, gefin út utan EES. Það þýðir, að við getum ekki tekið á móti bólusettum Bretum og Bandaríkjamönnum, hvað þá þeim, sem náð hafa sér af C-19 veikindum, nema með skimunum og sóttkví. Þetta nær engri átt. Sjálfstæði okkar til að ráða málum okkar á skynsamlegan og heiðarlegan hátt sjálf er stórlega skert með mjög svo íþyngjandi aðild að EES, þar sem ESB mótar stefnu, og Ísland er ekki aðili að þeim ákvörðunum.
Valkosturinn við þessa EES-aðild er víðtækur fríverzlunarsamningur við ESB. Það kann að verða pólitískur grundvöllur fyrir samningaviðræðum EFTA um slíkan fríverzlunarsamning eftir þingkosningar í Noregi og á Íslandi í haust. Hvaða afstöðu hafa frambjóðendur til slíkra uppstokkana ?
Arnar Þór Jónsson áréttaði reyndar afstöðu sína í Morgunblaðsgrein 25. febrúar 2021 undir fyrirsögninni:
"Kjarnaofnar og hjólaskýli".
"Ég tel ekki, að þjóðin hafi með EES-samningnum gefið frá sér mikilvæg stjórntæki í eigin málum, heldur að meirihluti Alþingis hafi við innleiðingu þriðja orkupakka ESB sleppt höndunum af umræddum stjórntækjum með því að misvirða í framkvæmd þá fyrirvara, sem settir voru í EES-samninginn af hálfu þjóðarinnar - og voru raunar forsenda þess, að Íslendingar gerðust aðilar að EES-samstarfinu.
Hjörleifur á þakkir skildar fyrir grein sína að öðru leyti, og þá ekki sízt fyrir að draga athygli að því, hvernig staðið var að innleiðingu þriðja orkupakkans í Noregi, en mál um það efni bíður nú úrlausnar í Hæstarétti Noregs. [Kveðinn var upp dómur 1. marz 2021 - innsk. BJo.] Ástæða er einnig til að þakka ritstjóra Morgunblaðsins fyrir þétt aðhald gagnvart Alþingi í þessu tilliti, sbr nú síðast leiðara Morgunblaðsins 17. febrúar sl., þar sem varað var við því, að "glannaleg framganga veiklyndra stjórnmálamanna höggvi ekki á mikilvægasta þráðinn", þ.e. hinn lýðræðislega þráð, sem tengir borgarana við valdið og á að tryggja, að valdhafar svari til ábyrgðar gagnvart borgurunum."
Margir þeirra Alþingismanna, sem greiddu götu Þriðja orkupakkans (OP#3) inn í lagasafn Íslendinga, leita nú eftir áframhaldandi stuðningi flokksmanna sinna. Þeir þurfa að svara kjósendum sínum því, hvers vegna þeir létu hjá líða að grípa til stjórntækjanna, sem í EES-samninginum eru, og hafna þannig að staðfesta gjörðir Sameiginlegu EES-nefndarinnar varðandi OP#3. Ein af skuldbindingunum með innleiðingu OP#3 er að taka upp markaðskerfi ESB fyrir raforku, sem er uppboðskerfi, sem í vetur hefur leitt til mikilla verðhækkana á raforku í kuldakasti í vetur á hinum Norðurlöndunum, t.d. í Noregi og Svíþjóð. Eru þingmannsefnin hlynnt því, að stofnað verði til uppboðskerfis á raforku á Íslandi með þeim verðsveiflum, sem slíkt mun hafa í för með sér ?
Fyrrnefndur dómur í Hæstarétti Noregs í máli Nei til EU gegn ríkinu þess efnis, að Stórþingið hefði ekki viðhaft stjórnarskrárbundna aðferð við atkvæðagreiðslu um mál, sem varða fullveldisafsal til stofnana, þar sem Noregur á ekki fulla aðild, í tilviki atkvæðagreiðslunnar um innleiðingu Orkupakka 3 í norska lagasafnið í marz 2018, féll á þá lund, að héraðsdómi (Tingretten i Oslo) bæri að taka kærumál samtakanna til efnislegrar meðferðar. Þetta var sigur fyrir NtEu, því að ríkislögmaðurinn hafði krafizt frávísunar málsins frá dómi og héraðsdómur orðið við því.
Nú mun taka við málarekstur í dómskerfi Noregs, sem endar aftur í Hæstarétti árið 2022. Þangað til er mjög óviðeigandi að fjalla um arftaka OP#3, Hreinorkupakkann, á vegum EFTA, eins og ekkert hafi í skorizt. Ef NtEU vinnur sitt mál í dómskerfi Noregs, þá er OP#3 algerlega í lausu lofti í Noregi, því að þá verður að bera hann upp til atkvæða í Stórþinginu á ný, og þá verður krafizt stuðnings 3/4 viðstaddra þingmanna, svo að OP#3 haldi lagagildi sínu. Þessi atkvæðagreiðsla mun fara fram að öllum líkindum á næsta kjörtímabili. Talið er, að andstæðingum innleiðingar orkulöggjafar ESB í lagasafn Noregs muni vaxa fiskur um hrygg í kosningum til Stórþingsins í september 2021, svo að OP#3 verður sennilega felldur þar við þessar aðstæður. Þá fellur hann líka úr gildi á Íslandi og í Liechtenstein. Að svo komnu ættu íslenzkir þingmenn og ráðherrar að beita sér fyrir því, að fastanefnd EFTA, sem haft hefur Hreinorkupakkann til umfjöllunar að undanförnu, geri hlé á undirbúningi sínum að viðræðum við ESB um málið, þar til málið er til lykta leitt í Noregi, og tilkynni ESB um þá málsmeðferð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.2.2021 | 14:14
Dýrkeyptur slaki í orkunotkun
Loðnan kom á miðin á öðru Kófsári. Íslenzkar útgerðir fá aðeins í sinn hlut rúmlega helming aflamarksins samkvæmt ráðleggingu Hafró og reglugerð sjávarútvegsráðherra vegna skiptisamninga við aðrar þjóðir á þeirra miðum, en áætluð aflaverðmæti til Íslands eru samt áætluð tæplega mrdISK 20. Þetta er mjög vel þegin búbót í efnahagskreppu Kófsins. Markaðir sjávarútvegs og laxeldis hafa látið undan síga í Kófinu, svo að ekki veitir þjóðarbúinu af þessum tekjuauka m.v. fyrri 2 ár.
Málmmarkaðir hafa aftur á móti hjarnað við síðan síðsumars 2020, og útlitið er gott. Merki um viðsnúning á heimsvísu er jarðolíuverðið, sem hefur hækkað úr 40 USD/tunna í 60 USD/tunna á um hálfu ári. Málmar í bílarafgeyma hafa hækkað gríðarlega í verði síðasta hálfa árið og álverðið hefur hækkað um 20 % á um hálfu ári, og á álmörkuðum eru væntingar nú þannig, að álframleiðendur með samkeppnishæfa og trausta raforkusamninga eru farnir að auka framleiðslu sína, en hinir sitja á sér. Álverð stefnir nú á 2100 USD/t. Hið síðar nefnda á enn við um ISAL í Straumsvík, en í dag, 15.02.2021 var kunngert, að samið hefði verið um viðauka við raforkusamning ISAL/Rio Tinto og Landsvirkjunar, sem gilda á til 2036. Þar með getur starfsemin í Straumsvík aftur komizt í eðlilegt horf, og verður verksmiðjan vonandi sett á full afköst í þeim mæli, sem markaðir leyfa.
Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, hefur í Fréttablaðinu vakið athygli á þjóðhagslegu mikilvægi ISAL og undirstöðuhlutverki fyrirtækisins fyrir vinnumarkað og verkefnastöðu ýmissa fyrirtækja í bæjarfélaginu, sem þýðir, að í Straumsvík er aðaltekjulind bæjarsjóðs, beint og óbeint. Þetta er eðlilegt, þar sem um 600 manns eru stöðugt að vinna fyrir ISAL, og þar af búa líklega um 60 % í Hafnarfirði. Hafnfirðingar, fyrirtæki þar og bæjarsjóðurinn, svo og aðrir starfsmenn og ríkissjóður, munu nú njóta góðs af því, þegar öll ker verða sett í rekstur og kerstraumur hækkaður í Straumsvík. Viðbótar útflutningstekjur geta numið hálfri loðnuvertíð, sbr hér að ofan, og hver veit, nema fjárfestingar, sem setið hafa á hakanum í Straumsvík, verði nú settar í gang.
Upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, Ragnhildur Sverrisdóttir, var send fram á ritvöllinn til að svara fyrstu grein Ágústar Bjarna, og gerði það með sinni útgáfu af orðhengilshætti, sem engu gat bætt við upplýsingagildi umfjöllunarinnar. Ágúst Bjarni svaraði þessum skætingi þó kurteislega í Fréttablaðinu, 5. febrúar 2021, með neðangreindu. Blaðurfulltrúinn hélt áfram á braut hártogana og orðhengilsháttar í Fréttablaðinu 10.02.2021. Það er slæmt, að sveitarfélög landsins skuli þurfa að búa við framkomu ríkisfyrirtækis af þessu tagi. Nú verður vitnað í grein formanns bæjarráðs Hafnarfjarðar:
""Hér eru aðeins 3 rangfærslur leiðréttar af mörgum ...""
"Þá segir hún mjög algengt, að raforkuverð í orkusölusamningum sé tengt við neyzluverðsvísitölu í Bandaríkjunum og vitnar í gagnaveitu, sem er ekki opinber. Staðreyndin er hins vegar sú, að í þeim sömu samanburðarlöndum og nefnd eru hér að ofan, er ekki notazt við tengingar við neyzluverðsvísitölu."
Þessi krafa forstjóra Landsvirkjunar um að tengja raforkuverð til álvers í Evrópu við vísitölu neyzluverðs í Bandaríkjunum (BNA), á sér enga þekkta hliðstæðu, enda er hún fáheyrð. Öll meginviðskipti með aðdrætti til álvera eiga sér stað í bandaríkjadölum, USD, og afurðirnar eru seldar í sömu mynt. Með því að tengja raforkuverð við álverð, eins og var í fyrri samningi Landsvirkjunar og ISAL og er í flestum öðrum samningum álveranna hérlendis við sína raforkubirgja, fæst þessi sama verðtrygging til lengdar, en þó er tryggt, að ekki verði raforkuverðshækkun á tímum lækkandi afurðaverðs álveranna vegna verðbólgu í BNA. Ef vel tekst til um slíka afurðaverðstengingu, verður hún báðum samningsaðilum til hagsbóta, enda hefur hún nú verið tekin inn í téðan samningsviðauka, þótt leifar verðbólgutengingar muni áfram verða fyrir hendi samkvæmt tilkynningu.
Áhyggjur hafnfirzka bæjarfulltrúans lutu hins vegar að afleiðingum þess fyrir Hafnarfjörð og þjóðarbúið, ef þessar samningaviðræður hefðu farið út um þúfur. Kaldranalegar kveðjur til Hafnfirðinga úr háhýsinu við Háaleitisbraut eru ekki til að bæta ástandið. Ef samningaviðræðurnar hefðu ekki endað með samkomulagi um nýjan raforkusamning, hefði það orðið meiri háttar áfall fyrir afkomu fjölda manns og áfall fyrir ríkisstjórnina og stjórnarflokkana, ekki sízt í SV-kjördæmi. ISAL hefði þá ekki átt sér lífvænlega framtíð, og rekstur fyrirtækisins hefði bráðlega farið í þrot, eins og hjá öðrum orkukræfum verksmiðjum, sem búa við ósveigjanlega orkubirgja. Samkomulagið er þess vegna fagnaðarefni, en öll kurl um tildrög þess eru enn ekki komin til grafar. Það er þó eðlilegt, að kjósendur í SV-kjördæmi og aðrir landsmenn fái fregnir af því.
Það þarf ekki að orðlengja það, að þröngsýn og ofstopafull verðlagsstefna, eins og Landsvirkjun hefur ástundað síðan 2010 í skjóli raunverulegrar einokunar á Íslandi, er þjóðhagslega skaðleg. Hún hefur átt verulegan þátt í samdrætti í orkusölu fyrirtækisins, sem gæti numið 8 %/ár, og hún leiðir til minni eða jafnvel engra fjárfestinga hjá orkukaupendunum, og nýir fjárfestar halda að sér höndum. Fyrir vikið ríkir stöðnun á sviði orkueftirspurnar og nýrrar orkuöflunar á tíma, þegar landinu ríður á að ná fram hagvexti eftir djúpa kreppu. Landsvirkjun hefur verið dragbítur á efnahagslega viðreisn landsins, og sú staða er til þess fallin að hafa neikvæðar pólitískar afleiðingar á kjörfylgi ríkisstjórnarflokkanna. Hvers vegna eru áhyggjur þingmanna af þessu máli ekki látnar í ljós með áberandi hætti ?
8 % samdráttur í sölu rafmagns hjá Landsvirkjun m.v. orkuvinnslugetu fyrirtækisins nemur um 1,2 TWh/ár. Á heildsöluverði jafngildir það tekjutapi fyrirtækisins upp á rúmlega 4 mrdISK/ár, sem sennilega jafngildir um 12 mrdISK/ár minni verðmætasköpun á ári í landinu en ella. Sú þrákelkni ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar að laga sig ekki að alþjóðlegri orkuverðsþróun, þegar hún passar ekki við hugmyndir forystu fyrirtækisins í fílabeinsturni sínum, hefur orðið að alvarlegu efnahagsvandamáli á Íslandi.
Bæjarfulltrúinn reit:
"Til að fá svar [frá Landsvirkjun - innsk. BJo] við spurningu minni, þá spyr ég aftur: Hefur Ísland efni á því að tapa yfir 60 milljörðum [ISK] í gjaldeyristekjum, sem leiða til u.þ.b. 25 mrdISK/ár beins ávinnings fyrir þjóðarbúið ?"
Ef tekið er mið af Orkupakka 3 frá Evrópusambandinu varðar orkufyrirtæki ekkert um þjóðarhag. Þau eiga bara að verðleggja sína vöru (flokkun ESB) m.v. að hámarka sinn arð. Á einokunarmarkaði blasir við til hvers slíkt leiðir. Þess vegna leiðir þessi stefna í ógöngur á Íslandi. Fyrirtækið missir viðskipti, og viðskiptavinirnir draga saman seglin eða leggja upp laupana, af því að þeir komast ekki í viðskipti annars staðar. Þetta mun leiða til tortímingar framleiðslustarfsemi á Íslandi, ef ríkisvaldið, eigandi bróðurpartsins af raforkufyrirtækjum landsins, grípur ekki almennt í taumana. Það líður að því, að þingmenn verði krafðir svara við því, hvers vegna þeir hafi látið þessa ósvinnu viðgangast. Það er heldur ekki mikill bragur að því, ef Landsvirkjun verður nú að leggja nýtt samkomulag við ISAL/Rio Tinto fyrir ESA-Eftirlitsstofnun EFTA til samþykktar.
Í lokin skrifaði formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar þetta:
"Ég vona og trúi, að aðilar séu með augun á boltanum og finni farsæla lausn, sem tryggi starfsemi og starfsumhverfi álversins í Straumsvík. Staðreyndin er sú, að mér er það mikið hjartans mál að vernda innviði, störf og framfærslu Hafnfirðinga - samfélaginu hér og landinu öllu til heilla."
Fyrir þessi hlýju orð er hellt úr hlandkönnu yfir bæjarfulltrúann úr háhýsinu við Háaleitisbraut. Það er bæði kaldrifjað og vanhugsað framferði af hálfu einokunarfélags í eigu ríkisins. Landsvirkjun er ekki ríki í ríkinu. Fyrsti þingmaður Kragans ætti að láta stjórnarformann Landsvirkjunar vita, að svona gera menn ekki. Hann er í góðri aðstöðu til þess.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2021 | 15:12
Steinrunninn gúmmídvergur
Almannatengillinn Friðjón R. Friðjónsson er innanbúðarmaður í Sjálfstæðisflokkinum, þótt undarlegt sé m.v. fádæma ruglingslega Morgunblaðsgrein hans í lok janúar 2021, þar sem fram virtist koma djúpstæð óánægja hans með flokkinn. Helzt er á téðum almannatengli að skilja, að hann vilji toga flokkinn í átt að Viðreisn. Það er fádæma heimskuleg ráðlegging. Þar með væri flokkurinn losaður af grundvelli sínum frá 1929, sem er að vinna stöðugt að sjálfstæði og fullveldi Íslands á öllum sviðum í krafti einstaklingsframtaks og frjálsra viðskipta. Ef Sjálfstæðisflokkurinn færi nú að gera hosur sínar grænar fyrir Evrópusambandinu og evrunni, mundi hann daga uppi sem hvert annað viðundur, þegar einn okkar næstu nágranna, brezka þjóðin, hrósar nú happi yfir að hafa losnað úr klóm ESB í tæka tíð til að losna við klúður ESB í bóluefnamálum, sem kostar mörg mannslíf.
5. þingmaður Reykvíkinga, Brynjar Níelsson, átti mjög gott svar við þessari gúmmígrein almannatengilsins með greininni:
"Steintröllin"
í Morgunblaðinu 30. janúar 2021. Greinin hófst þannig:
"Hinn ágæti sjálfstæðismaður, Friðjón R. Friðjónsson, skrifar grein í Morgunblaðið á fimmtudaginn var, þar sem hann lýsir nokkrum áhyggjum yfir stöðu Sjálfstæðisflokksins í nútímanum."
Almannatenglinum varð einmitt tíðrætt um, að flokkurinn væri ekki nógu nútímalegur, en hefur ekkert fram að færa annað en umbúðastjórnmál og froðukennt fimbulfamb. Það örlar ekki á heilli brú. Það er þunnur þrettándi á leiksviði lífsins, en gengur kannski á leiksviði firringarinnar, þar sem allt er falt.
Almannatenglinum mislíkar sennilega, að nokkrir sjálfstæðismenn hafa (fyrir rúmu ári) stofnað með sér félag til að vinna að framgangi mála innan Sjálfstæðisflokksins, sem miða að því að efla fullveldi landsins. Það kann froðusnökkurum að þykja gamaldags pólitík. Margir þessara félagsmanna komu við sögu baráttunnar gegn innleiðingu Orkupakka 3 (OP#3) frá Evrópusambandinu í íslenzka löggjöf. Þeir vildu ekki flokka afurð íslenzkra orkulinda, rafmagnið, sem hverja aðra vöru, sem vinnslufyrirtækin ættu að leitast við að selja á verði, sem gæfi þeim hámarkshagnað án tillits til þjóðarhags. Þannig er OP#3, enda á hann rætur að rekja til allt annars orkuumhverfis en hér ríkir.
Þvert á móti vildi fólkið í "Orkunni okkar"-OO, sem stóð í hugmyndafræðilegri baráttu við stjórnvöld um þetta, að raforkan yrði verðlögð m.v. lágmarksarðsemi á markaði að teknu tilliti til áhættu við fjárfestingu. Hagfræðilegu rökin fyrir því eru að styrkja samkeppnisstöðu allra atvinnugreina, sem rafmagn nota, og hafa jákvæð áhrif á afkomu heimilanna. Slíkt styrkir arðsemi allrar virðiskeðjunnar og heildararðsemin af auðlind íslenzkrar náttúru verður þar með miklu meiri en af dýru rafmagni. Téður almannatengill var á fundi í Valhöll, þar sem þessu sjónarmiði OO var haldið á lofti og hlaut góðar undirtektir, en almannatenglinum var ekki skemmt.
Sjálfstæðismenn sneru bökum saman við fólk af öðru pólitísku litarafti í afstöðunni til raforkusölu til útlanda um sæstreng. Þetta sjónarmið hlaut í raun brautargengi á Alþingi með ýmsum varnöglum í löggjöf gegn samþykki yfirvalda á umsókn hingað um leyfi til lagningar aflsæstengs og tengingar hans við íslenzka raforkukerfið.
Það var rekinn talsverður áróður á Íslandi fyrir beinni raforkusölu til útlanda fyrir innleiðingu OP#3, og ýmsir hagsmunaaðilar, stórir og litlir, koma þar við sögu. OP#3 var talinn geta auðveldað slík viðskipti, enda aðalhlutverk hans að efla raforkuflutninga á milli landa.
M.a. kom í ljós, að sæstrengsfyrirtæki á Englandi hafði mikinn hug á lagningu sæstrengs til Íslands og hafði í þjónustu sinni almannatengslafyrirtæki á Íslandi, væntanlega til að koma ár sinni fyrir borð. Þegar einhver torskiljanlegur málflutningur er á ferðinni, liggur oft fiskur undir steini ("hidden agenda").
Verður nú gripið niður í ágæta grein Brynjars:
"Erfitt er að átta sig á, hvað Friðjóni gengur til, þegar hann gefur í skyn í greininni, að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti breytingum á efnahagslífinu, sjávarútveginum, landbúnaðarkerfinu, orkumálum, stjórnarskránni og samfélaginu sjálfu og flokkinn muni daga uppi og verða að steintrölli með sama áframhaldi. Hefði ekki komið mér á óvart, að þessi grein hefði verið skrifuð í þingflokksherbergi Viðreisnar. Friðjón notar alla sömu frasana, sem þaðan koma, án þess að segja nokkuð um, hverju eigi að breyta, og hvernig, eða af hverju. En eitt er víst, að skrif hans endurspegla djúpstæða óánægju með forystu Sjálfstæðisflokksins."
Almannatenglar eru mjög uppteknir af ímyndinni, og hvernig hægt sé að breyta henni, til að hún höfði til sem flestra. Þeir virðast halda, að stjórnmál snúist um umbúðir, upphrópanir og fyrirsagnir. Ef stjórnmálaflokkur er ekki nógu nútímalegur, er nauðsynlegt, að þeirra mati, að "poppa upp" stefnumálin. Þetta er hins vegar hreinræktað lýðskrum, sem er ekki traustvekjandi. Stjórnmálaflokkur, sem hleypur á eftir slíkum dægurflugum, er ekki á vetur setjandi.
Brynjar telur málflutning almannatengilsins vera skyldan túðrinu í Viðreisn. Hún er einmitt með aðra stefnu en Sjálfstæðisflokkurinn á þeim sviðum, sem Brynjar nefnir, þ.e. í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum og orkumálum. Í sjávarútvegsmálum rekur hún dauðvona stefnu, sem allir, sem reynt hafa, hafa gefizt mjög fljótlega upp á, og eru Færeyingar nýlegt dæmi. Hagur minni útgerðarfyrirtækja varð óbærilegur, og aflaheimildir söfnuðust á stórfyrirtækin, eins og fyrirsjáanlegt var. Uppboðshald af þessu tagi virkar á fyrirtækin sem stóraukin skattheimta, sem grefur undan samkeppnishæfni og fjárfestingargetu. Slíkur fíflagangur endar bara með bæjarútgerðum og ríkisafskiptum.
Með veikan íslenzkan sjávarútveg verður auðveldara fyrir Viðreisn að semja um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, sem krefst þess, að togaraflota ESB verði hleypt inn í íslenzka lögsögu. Þá fer nú að þrengjast fyrir dyrum íslenzkra útgerða og íslenzks almennings. Auðlindastjórnun af þessu tagi er nýnýlenduvæðing. Nútímaleg ? Kannski, en samt gamalt vín á nýjum belgjum.
Í landbúnaðarmálunum rekur Viðreisn bara stefnu Evrópusambandsins. Ef hún yrði við lýði hér, yrði ekki lífvænlegt fyrir íslenzka bændur á jörðum sínum. Gríðarleg nýsköpun fer nú fram í sveitum landsins, og framleiðniaukning bænda með tæknivæðingu búanna er aðdáunarverð. Gæði og hreinleiki afurðanna eru hvergi meiri. Landbúnaðurinn íslenzki er á réttri braut, og það verður að veita honum starfsfrið fyrir ágengni niðurgreiddrar framleiðslu risabúa Evrópu með þeim sýklavörnum, sem þarf að viðhafa í slíkum rekstri.
Sennilega situr stefnumörkun síðasta Landsfundar Sjálfstæðisflokksins í orkumálum í almannatenglinum. Alþingi afgreiddi Orkupakka 3 með varnöglum, sem sennilega sitja sem fleinn í holdi hans. Það fá engir gróðapungar að tengja Ísland við erlend raforkukerfi og flytja út raforku héðan og flytja inn erlent raforkuverð að viðbættum gríðarlegum flutningskostnaði um aflsæstreng. Brynjar skrifaði eftirfarandi ádrepu um orkumálin:
"Ómögulegt er að átta sig á, hvert Friðjón er að fara, þegar hann segir, að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti breytingum í orkumálum. Við værum yfirhöfuð ekkert að tala um raforkumál, ef Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki til. Hann hefur nánast staðið einn fyrir því, að auðlindir séu nýttar til raforkuframleiðslu með skynsamlegum hætti og samhliða því að byggja upp öflugt og öruggt flutningskerfi raforku.
Við værum ekki að tala um orkuskipti og græna framleiðslu, ef ekki væri fyrir framsýni sjálfstæðismanna. Í því felst framtíðin, alveg óháð "nútímahyggju" Friðjóns."
Hér er Sjálfstæðisflokkinum hælt upp í hástert, en þeir, sem fylgdust með pólitíkinni, þegar tekizt var á um s.k. stóriðjustefnu á 7. áratugi 20. aldarinnar, vita, að Brynjar fer með rétt mál. Að vísu skal ekki draga úr því, að Alþýðuflokkurinn var ódeigur í baráttunni við hlið Sjálfstæðisflokksins í Viðreisnarstjórninni gegn Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi. Stóriðjustefnan, sem kenna má við dr Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra, dr Gylfa Þ. Gíslason, formann Alþýðuflokksins, og dr Jóhannes Nordal, Seðlabankastjóra, snerist um að virkja stórfljót og framleiða rafmagn með eins hagkvæmum hætti og unnt væri til orkukræfra verksmiðja, sem sköpuðu þjóðinni gjaldeyri og stóðu í raun undir uppbyggingu raforkukerfisins. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, en eftir stendur, að stefna þessi reyndist farsæl og efldi hag þjóðarinnar gríðarlega.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.2.2021 | 11:33
Munur á raforkuverði borgar og ríkis
Fimmtudaginn 28. janúar 2021 bar það til tíðinda í íslenzka orkugeiranum, að OR (Orkuveita Reykjavíkur) opinberaði samning um 18 % (47,5 MW) af rafmagnssölu sinni til Norðuráls (NA), sem nemur að meðalafli 264 MW af meðalrafaflgetu virkjana fyrirtækisins, sem er um 432 MW. Það vekur alveg sérstaka athygli á hvaða verði borgaryfirvöld í Reykjavík töldu sér fært að selja raforku, aðallega frá jarðgufuverinu á Hellisheiði, til NA.
Orkuverð með flutningsgjaldi í þessum samningi ræðst af líkingunni:
- CP=LME*p/14,2
- p=0,172 ef LME<1900 USD/t
- p=0,177 ef 1900=<LME<2300
- p=0,182 ef 2300=<2300 USD/t
- LME er meðalstaðgreiðsluverð 99,7 % Al í USD/t mánuðinn á undan.
Síðastliðin 3 ár hefur álverðið verið fremur lágt eða um 1800 USD/t Al að meðaltali. Það þýðir orkuverð frá virkjun 15,5 USD/MWh og 21,8 USD/MWh með flutningsgjaldi til Landsnets. Það er mjög athyglisvert, að þetta verð og jafnvel lægra, því að hvorki er gólf né þak í samninginum, skuli hafa verið talið skila OR arðbærum viðskiptum. Ef ON hefur hagnazt á þessu verði, er fyrirtækið mjög samkeppnishæft. Stjórnmálamennirnir í meirihluta borgarstjórnar, þegar samningurinn var gerður, hljóta að hafa vitað, hvað þeir voru að gera, en þeir virðast þó tvímælalaust hafa tekið mikla áhættu fyrir hönd borgarinnar og annarra eigenda OR með því að sleppa gólfinu. Með gólfi gátu þeir tryggt, að orkuverðið færi ekki undir það, sem kostar að framleiða rafmagnið með lágmarksarðsemi.
Eftirfarandi er haft eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra OR, á vefsetri samsteypunnar:
"Þetta verð [núverandi 18,9 USD/MWh frá virkjun - innsk. BJo] er alltof lágt og stendur ekki undir þeirri eðlilegu arðsemiskröfu, sem eigendur OR gera."
Hvað skyldi hann þá segja um 15,5 USD/MWh ? M.v. háan rekstrarkostnað Hellisheiðarvirkjunar vegna nýrrar gufuöflunar sökum niðurdráttar í neðanjarðarforða virkjunarinnar, má kraftaverk kalla, ef ekki er tap á virkjuninni á neðsta hluta verðbilsins 14,2 USD/MWh-29,5 USD/MWh, sem svarar til álverðsbilsins 1700 USD/t-2800 USD/t. Það er sérstaklega athyglisvert, að forstjórinn skuli ekki hafa kvartað undan tapi undanfarin misseri með meðalverð 15-16 USD/MWh. Það hljóta að vakna grunsemdir um bókhaldið í virkjun, sem jafnframt selur íbúum höfuðborgarsvæðisins heitt vatn. Þar er um að ræða eina hæstu gjaldskrá á landinu fyrir heitt vatn. Það er óþægileg tilfinning fyrir viðskiptavini einokunarhluta ON, að þeir séu látnir greiða niður verð í samkeppnisrekstri ON, þ.e. á rafmagninu.
Það þarf að taka með í reikninginn, að samningurinn, sem hér er til lítillegrar umfjöllunar, er að afli til aðeins 18 % af viðskiptum OR við NA, og 82 % viðskiptanna kunna að gera gæfumuninn fyrir OR. Forstjóri OR segir þennan orkusamning ekki uppfylla núverandi arðsemiskröfur OR. Það er hægt að fallast á það, þegar álverðið er undir 1900 USD/MWh, en þá fer orkuverðið undir 23,0 USD/MWh. Þarna hefði borgarstjórnarmeirihlutinn 2008 (samningurinn er frá 30.12.2008 og gildir til 30.12.2033) átt að fá sett gólf í samninginn.
Á vefsíðu OR er sagt, að spá um álverð 2021 hljóði upp á 2800 USD/t. Það þykir álframleiðendum vera gott verð, og mikil bjartsýnisbirta yfir slíkum væntingum m.v. núverandi stöðu framboðs og eftirspurnar. Með þessu verði fæst samkvæmt téðum samningi OR og NÁ orkuverðið 29,5 USD/MWh án flutningsgjaldsins 6,35 USD/MWh, sem ofan á leggst. Slíkt verð er ásættanlegt fyrir báða aðila. Hins vegar gefur auga leið, að flutningsgjaldið nær engri átt, og þarf að lækka það um a.m.k. 22 % niður fyrir 4,5 USD/MWh, svo að það verði í námunda við samkeppnisland Íslands, Noreg, þar sem einnig er yfir miklar vegalengdir að fara og yfir fjöll og heiðar í strjálbýlu landi. Orkustofnun verður að endurskoða arðsemiskröfu sína til mannvirkja Landsnets og leyfa mun lengri endurgreiðslutíma en hún gerir nú. Landsreglir orkumála, sem jafnframt er Orkumálastjóri, kann að leita ráða hjá ACER um þessa endurskoðun, en þessi Orkustofnun ESB samræmir störf allra landsreglanna, þótt ekki verði séð, hvað ESB varði um þessi mál hérlendis, þar sem engin samtenging er fyrir hendi eða fyrirhuguð.
Sá raforkusamningur, sem hér er til lauslegrar umfjöllunar, var opinberaður að beiðni orkukaupandans, Norðuráls. Hann sýnir ótrúlega hagstæð kjör, sem Reykjavíkurborg hefur veitt þessum viðskiptavini sínum til 25 ára. Nú hlýtur að tvíeflast krafa annars stórs orkunotanda, ISAL, á hendur sínum viðsemjanda, ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun, um opinberun núgildandi orkusamnings þessara fyrirtækja, en Landsvirkjun hefur þumbazt við með ýmsum undanbrögðum og er nú að daga uppi sem steintröll í nútímanum. Opinberun mun leiða í ljós, að þegar álverðið var 1700 USD/t, þá var munurinn á orkuverði frá stöðvarvegg þessara tveggja fyrirtækja, ON og LV, 130 % af verði OR, og þegar álverðið var 2025 USD/t, var mismunurinn 68 % af verði OR. Samningarnir voru gerðir á svipuðum tíma, OR-NÁ árið 2008 og LV-ISAL 2011. Það er vitað, að vatnsorkuver Landsvirkjunar eru mun hagkvæmari en jarðgufuver ON.
Þessi samanburður sýnir tvennt: verðlagning LV keyrir fram úr öllu hófi, er hreint okur í krafti yfirburðastöðu á markaði (ISAL gat ekki leitað neitt annað), og OR hefur flaskað á að fá gólf í samning sinn við NÁ, sem veldur því, að rafmagnsverðið stendur varla undir vinnslukostnaði þess, þegar álverð er lágt.
Í grundvallaratriðum er vandi ríkisins sá að hafa ekki skilgreint eigendastefnu sína gagnvart Landsvirkjun. Núna stendur ríkisvaldið alls ekki frjálst að þessari stefnumörkun vegna þess, að stefnan er mörkuð af Orkupakka 3 (OP#3) frá Evrópusambandinu, sem hefur forgang á íslenzk lög um sama efni. Frjáls markaður skal ráða verðlagningunni samkvæmt OP#3, en á Íslandi getur enginn frjáls markaður ríkt með rafmagn, á meðan Landsvirkun gín yfir markaðnum. Annaðhvort verður að höggva Landsvirkjun í a.m.k. þrennt og selja a.m.k. 2 búta eða það verður að gefa hugmyndafræði ESB um rafmagn sem vöru upp á bátinn, og hugnast höfundi þessa pistils sú leið miklu betur og vafalaust landsmönnum flestum.
Íslenzk raforka er náttúruafurð, og vinnslan algerlega háð duttlungum náttúrunnar. Víðast hvar erlendis sjá markaðsöflin að mestu um að sjá orkuverum fyrir frumorku á formi kola, jarðgass, uraníums o.fl. Öflun frumorkunnar hérlendis er því miður í mörgum tilvikum mjög umdeild. Þær deilur munu aðeins magnast, ef almenningur fær á tilfinninguna, að hið opinbera og atvinnulífið sé farið að flokka rafmagn sem vöru. Eina frambærilega leiðin til sátta um orkunýtingu úr íslenzkri náttúru er, að þessi orka verði nýtt til að efla hag fjölskyldnanna og fyrirtækjanna í landinu, sérstaklega framleiðslufyrirtækjanna, og skapa hér erlendan gjaldeyri, sem er undirstaða velmegunar í landinu. Þetta þýðir, að arðsemiskrafan á orkufyrirtækin má aðeins vera mjög hófleg. Þjóðhagslega verður það mjög hagkvæmt, því að heildararðsemi fjárfestinga í landinu verður miklu meiri með því að dreifa arðseminni þannig um allt þjóðfélagið í stað þess, að orkufyrirtækin okri á viðskiptavinum sínum, eins og reyndin hefur verið með sum ríkisfyrirtækjanna, s.s. Landsvirkjun og Landsnet.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2021 | 14:18
"Vísindin efla alla dáð"
Bóluefnin, sem í fyrra voru þróuð gegn kórónuveirunni, SARS-CoV-2, sem síðan í nóvember 2019 hefur herjað á mannkynið með viðbrögðum þess, sem eiga sér engan líka, eru ný af nálinni gegn umgangspestum. Tækninni hefur þó verið beitt í viðureigninni við krabbamein í um áratug. Þessi pistill er reistur á greininni, "An injection of urgency", sem birtist í The Economist, 5. desember 2020, aðallega til að svara hinni brennandi spurningu, hvort nýju bóluefnin væru örugg.
Um miðjan janúar 2020 fékk Moderna-lyfjafyrirtækið bandaríska senda genasamsetningu kórónuveirunnar SARS-CoV-2 frá Kína, og í byrjun marz 2020 eða um 7 vikum seinna höfðu vísindamenn fyrirtækisins einangrað broddprótein veirunnar í bóluefni, sem þá strax hófust klínískar rannsóknir með. Þetta jafngilti byltingu í gerð bóluefna, bæði hvað þróunarhraða og gerð bóluefnis gegn faraldri áhrærir og markar þáttaskil í viðureign mannkyns við skæðar veirur.
2. desember 2020 varð brezka lyfjastofnunin "Medicines and Healthcare-products Regulatory Agency (MHRA) fyrst sinna líka til að leyfa almenna bólusetningu á sínu markaðssvæði á fullprófuðu bóluefni af þessari nýju gerð.
Bóluefnið, sem leyft var, ber merkið BNT162b2 og var þróað af Pfizer, bandarískum lyfjarisa, og BioNTech, minna þýzku fyrirtæki. Tæknin, þótt ný sé af nálinni, er þannig vel þekkt innan lyfjaiðnaðarins. Lyfjaiðnaður heimsins hefur ekki verið par vinsæll, en er nú skyndilega "hetja dagsins".
Þetta Pfizer-BioNTech-bóluefni hefur verndarvirkni í 95 % tilvika eftir tvær sprautur gegn téðri veiru, en þess ber að geta, að börn voru ekki prófuð og fólk eldra en 70 ára í mjög litlum mæli. Það er mjög lítið vitað um virkni bóluefnisins á eldri borgara og á fólk með langvarandi sjúkdóma úr prófunum fyrirtækjanna. M.a. þess vegna er mjög óvarlegt af Landlækni og öðrum að fullyrða, að a.m.k. 5 dauðsföll fáeinum dögum eftir fyrri bólusetningu sé ekki (eða varla) hægt að rekja til bólusetningarinnar. Tilvikin eru of mörg og þekking á virkninni úr prófununum of lítil, til að slík niðurstaða sé trúverðug. Prófunarskýrslur lyfjafyrirtækjanna gefa ekki tilefni fyrir heilbrigðisyfirvöld til að leyfa bólusetningu hrumra einstaklinga. Ef ónæmiskerfið er veiklað, þarf að ganga mjög varlega fram. Það er öruggara fyrir þessa einstaklinga að skáka í skjóli hjarðónæmis, þegar því hefur verið náð með bólusetningum og sýkingum.
Aðrar þjóðir litu til Breta í byrjun desember 2020 sem fyrirmyndar við flýtta samþykkt Pfizer-BioNTech-bóluefnisins, og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, sem tekur að sér að samþykkja lyf og bóluefni fyrir þjóðir án lyfjastofnana eða með lyfjastofnanir án bolmagns til vísindalegrar rýni, áttu í samstarfi við MHRA um viðurkenningu bóluefnisins. Þarna tóku Bretar mikilsvert frumkvæði og skrýtið, að íslenzka lyfjastofnunin skyldi ekki fremur leita í smiðju þangað en til lyfjastofnunar ESB, þar sem Ísland á enga aðild, nema að Innri markaðinum. Svifaseinir íslenzkir búrókratar voru ekki með á nótunum. Það er eðlilegt, að Lyfjastofnun Íslands geri samstarfssamning við MHRA í stað þess að leita á náðir ríkjasambands, sem Ísland stendur utan við af góðum og gildum ástæðum.
Hraði bóluefnissamþykktanna var reistur á stöðugu upplýsingaflæði frá viðkomandi lyfjafyrirtækjum til eftirlitsstofnananna í öllum áföngum þróunarferlisins, og tæknin var þekkt þar, þótt hún hafi aldrei verið nýtt gegn veirufaraldri.
Bandaríska lyfjafyrirtækið Moderna brást hraðast við í upphafi, og prófunarskýrslur fyrirtækisins úr 3. prófunaráfanganum sýna vísindalegustu og trúverðugustu vinnubrögðin, en fyrirtækið varð viku á eftir Pfizer-BioNTech með að tilkynna lok prófunarferlisins. Bóluefni fyrirtækisins gegn SARS-CoV-2 nefnist mRNA-1273.
Bæði BNT162b2 og mRNA-1273 eru í hópi s.k. mRNA-bóluefna. Þótt þetta sé í fyrsta skipti, sem leyfi er veitt til að sprauta þessari tegund í almenning, eru sérfræðingar samt bjartsýnir um almennt skaðleysi hennar fyrir líkama og sál, því að hún hefur verið reynd gegn ýmsum krabbameinum í yfir áratug. Varðandi BNT162b2 og mRNA-1273 sérstaklega, voru þau prófuð á 73.000 sjálfboðaliðum alls, þar sem helmingurinn fékk bóluefnið og hinn helmingurinn lyfleysu (Moderna) eða annað bóluefni (Pfizer-BioNTech). Þetta safn gat gefið tölfræðilega marktækar niðurstöður, en gallinn var sá, að þeir, sem nú er lögð mest áherzla á að verja, voru ekki hafðir með í úrtakinu. Þess vegna stendur stórfelld tilraunastarfsemi enn yfir án þess, að skjólstæðingarnir séu endilega upplýstir um, hvernig í pottinn er búið.
Hugsunin á auðvitað að vera sú að forðast að gera viðkvæma að tilraunadýrum, nema þeir séu fullkomlega meðvitaðir um það, en leyfa þeim hins vegar að njóta hjarðónæmisins, sem mun myndast í þjóðfélaginu, ef hinir stæltu eru bólusettir. Ungviði undir tvítugu ætti alls ekki að bólusetja við C-19, enda allsendis ófullnægjandi vitneskja fyrir hendi um virkni þessara bóluefna á það, og því verður yfirleitt lítið um þennan sjúkdóm. Í heilbrigðisráðuneytinu mun hafa komið fram vilji til skyldubólusetninga við samningu frumvarps til nýrra sóttvarnarlaga. Hvers vegna ætti ríkisvaldið að ganga freklega á einstaklingsfrelsið og setja fjölda manns í stórhættu ? Valdbeitingarárátta sumra stjórnmálamanna og búrókrata er stórhættuleg, og henni verður að setja skorður með lögum, sem reist eru á Stjórnarskrá landsins.
Á Vesturlöndum er haldið uppi eftirfylgni með bólusettum, þannig að heilsufarstengd atriði eru skráð og hugsanlegar sýkingar af C-19 bornar saman við sýkingar óbólusettra. Einn áhættuþáttur við öll bóluefni er, að þau geta aukið smitnæmi sumra hópa. Önnur áhætta er, að í sjaldgæfum tilvikum koma bóluefni af stað sjálfsofnæmi - nokkuð, sem vírussýkingar geta líka gert. Miklar rannsóknir á þessu þarf að gera áður en milljarðar manna verða bólusettir.
Vegna virkni sinnar er reyndar ástæða til að halda, nema eitthvað óvænt gerist, að mRNA-bóluefnin gætu verið öruggari en hefðbundin bóluefni. Lifandi bóluefni, t.d. gegn lömunarveiki, innihalda veiklaðar veirur. Hættan við þau er, að veiran breytist í skaðvænlegra afbrigði. Með mRNA-bóluefni, sem eru nokkrir bútar af genahráefninu mRNA umluktu fituhjúp, getur slíkt ekki gerzt. Þetta mRNA efni fyrirskrifar ekki, hvernig á að búa til veiru, heldur aðeins, hvernig á að búa til eitt af próteinum hennar, sem kallað er broddur. Með þessa forskrift úr bóluefninu, framleiða frumur líkamans nú broddinn í miklu magni. Hann veldur viðbragði ónæmiskerfisins til að þróa eyðingu þessu aðskotapróteins. Ónæmiskerfið mun þá geta brugðizt hratt við næst, þegar vart verður við þessa próteingerð - í þetta sinn sem hluta af broddveiru (kórónuveiru) í innrás.
Einnig má geta þess, að mRNA er náttúrulegur hluti af lifandi frumum, sem framleiða það og eyða því stöðugt. Endingartíminn er mældur í dögum. Þegar mRNA bóluefnisins hefur gegnt sínu hlutverki, er það brotið hratt niður. Samt ríkir nokkur upplýsingaóreiða um þetta efni. Sérstaklega skaðleg ósannindi eru, að mRNA í bóluefninu muni breyta DNA samsetningu í frumum bóluefnisþegans. Þetta er álíka líklegt og eppli Newtons losni úr trénu og fari upp í loftið. Bullustampar netsins munu ótrauðir halda því fram, að þetta geti gerzt, þótt Isaac Newton hafi sannað hið gagnstæða á 17. öld, en hjátrúarfullir netverjar munu þá óðfluga stimpla hann sem samsærismann. Það eru engin takmörk fyrir þvættinginum, sem sullast inn á alnetið, en þar er auðvitað einnig ómetanlegur fróðleikur.
RNA og DNA eru ólíkir hyrningarsteinar gena, og frumur spendýra hafa ekkert efnafræðilegt gangverk til að afrita annan yfir í hinn.
Að mynda og viðhalda trausti almennings til sérhvers vísindalega viðurkennds bóluefnis er mikilvægt. Slíkt traust er sennilega almennara á Bretlandi en víða annars staðar. Skoðanakannanir sýna, að 79 % af íbúum landsins hyggjast fá sprautu við C-19, sem er hærra en almennt gerist. Í Bandaríkjunum t.d. er þetta hlutfall aðeins 64 %.
Þegar allt kemur til alls, eru allar ákvarðanir um, hvort leyfa eigi almenna notkun lyfja teknar á grundvelli mats á áhættu og ávinningi. Við leyfisveitingar á bóluefnum verður hins vegar líklegur ávinningur að vega miklu þyngra en áhættan. Þetta er út af því, að ólíkt lyfjum, sem vanalega eru gefin sjúklingum, eru bóluefnin gefin heilbrigðu fólki.
T.d. MHRA fær ráðleggingar frá óháðri vísindanefnd fyrir ákvörðun sína. Þótt nefndarmenn muni hafa vegið og metið marga þætti, þegar ákveðið var að mæla með neyðarsamþykki á BNT162b2, hefur ákveðinn svæsinn útreikningur verið þeim ofarlega í huga, þ.e. hver biðdagur kostar marga lífið. Á Bretlandi létust 603 úr C-19, daginn sem ríkisstjórnin veitti leyfi til almennrar notkunar á BNT162b2.
Er þessi dánartala há eða lág ? Á Íslandi deyja að jafnaði 6 manns á dag, sem jafngildir 16,4 ppm þjóðarinnar. Það hlutfall gefur 1068 látna á dag á Bretlandi í venjulegu árferði. Viðbótin af völdum C-19 er 56 %, sem er hátt hlutfall, enda hefur verið upplýst, að látnir á Bretlandi vegna C-19 séu nú um 96 k eða 0,15 % þjóðarinnar, sem er hæsta hlutfall, sem sézt hefur í þessum faraldri. Á Íslandi hafa til samanburðar 79 ppm þjóðarinnar látizt úr C-19.
Þetta gerist á Bretlandi þrátt fyrir mjög strangar sóttvarnarráðstafanir yfirvalda og þar með útgöngubanni og starfrækslubanni af ýmsu tagi og fjöldatakmörkunum af strangasta tagi. Nú hafa birzt rannsóknir á Bretlandi, sem benda til, að þessar ráðstafanir hafi verið gagnslausar, þ.e. 3 vikum eftir, að þær voru settar á, fækkaði dauðsföllum ekki neitt. Hafa einhvers staðar birzt marktækar rannsóknir, sem sýna hið gagnstæða ? Þessar ráðstafanir hafa sjálfar valdið heilsutjóni, eins og rannsóknir sýna líka, og gríðarlegu fjárhagstjóni launþega, fyrirtækja og hins opinbera.
Hættan við þessa veiru, SARS-CoV-2, er sú, að hún stökkbreytist og verði enn skæðari en þau afbrigði, sem borizt hafa inn í íslenzka samfélagið, bæði meira smitandi og með alvarlegri veikindum og fleiri dauðsföllum á hvern sýktan. Þekkt er brezka afbrigðið, sem grunur er um, að sé meira smitandi, og nú er komið fram Suður-Afríkanskt afbrigði, sem grunur er um, að valdi meiri veikindum hjá fleiri sýktum.
Áhyggjur manna hafa t.d. snúizt um það, hvort hin nýsamþykktu bóluefni muni virka í nægilega miklum mæli gegn hinum stökkbreyttu afbrigðum. Athuganir lyfjafyrirtækjanna (framleiðenda nýju bóluefnanna) benda til, að bóluefnin virki svipað vel gegn hinum stökkbreyttu afbrigðum. Það þýðir, að broddpróteinið er enn nægilega lítið breytt eða jafnvel ekkert breytt, til að ónæmiskerfið þekki stökkbreyttan skaðvaldinn, þegar hann gerir innrás í líkamann.
Dægurmál | Breytt 25.1.2021 kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2021 | 13:45
Afturhald í efnahagsmálum
Svo virðist sem tími stórra jafnaðarmannaflokka í Evrópu sé liðinn. Þá hefur dagað uppi. Þeir eiga ekkert stjórnmálalegt baráttuhlutverk í þjóðfélagi samtímans, hvað þá í framtíðinni, þar sem gamla baklandið þeirra er ekki nema svipur hjá sjón. Sósíalistaflokkur Frakklands er nánast horfinn. SPD-jafnaðarmannaflokkur Þýzkalands er hugmyndalega steingeldur og undir 20 % í skoðanakönnunum á landsvísu. Svipaða sögu er að segja frá Svíþjóð, og nú hefur hinn sögufrægi Verkamannaflokkur Noregs (Arbeiderpartiet) misst forystusæti sitt í skoðanakönnunum til Miðflokksins (Senterpartiet) og mælist líka undir 20 %. Flokksforystan gengur ekki í takti við verkalýðshreyfinguna, sem í Noregi fylgist vel með gangverki tímans og þróun atvinnulífsins með hag umbjóðenda sinna í fyrirrúmi, en hengir sig ekki í afdankaðar stjórnmálalegar kreddur stéttabaráttunnar. Í þessu sambandi heyrast nú frá Noregi háværar raddir um, að Bretar hafi náð betri kjörum með nýjum fríverzlunarsamningi við Evrópusambandið (ESB) en felist í viðskiptakjörum Norðmanna við ESB með samninginum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Norska verkalýðshreyfingin er afhuga aðild Noregs að ESB, og Verkamannaflokkurinn mun þá, ef að líkum lætur, eiga auðvelt með að söðla um í þeim efnum og ganga í eina sæng með Sp og SV að afloknum næstu kosningum. Þá verður einfaldlega enginn Orkupakki #4 samþykktur inn í EFTA-löndin og EES-samningurinn verður tekinn til endurskoðunar í heild sinni, og er það löngu tímabært.
Jafnaðarmannaflokkur Íslands (Samfylkingin) er steinrunninn stjórnmálaflokkur, og enn er aðalbaráttumál hans að gera Ísland að hluta þessa ríkjasambands, ESB, þótt það sé með þvílíkum böggum hildar eftir BREXIT, að kvarnast gæti enn meir úr því og myntbandalagi þess á nýbyrjuðum áratugi. Grunnstoðir þar á bæ eru ófullgerðar og standast ekki tímans tönn. Það er reyndar mjög Samfylkingarlegt.
Annað aðaláhugamál Samfylkingarinnar er að þenja ríkisbáknið sem mest út, stækka efnahagsreikning ríkisins enn meir og auka tekjur þess með aðgangsharðari skattheimtu; jafnaðarmenn bera í þessu viðfangi fyrir sig réttlæti og snúa þar með staðreyndum á haus, því að ekkert réttlæti getur verið fólgið í því að rífa fé af fólki, sem það hefur unnið sér inn með heiðarlegum hætti í sveita síns andlitis, sem er með margvíslegum hætti, í meiri mæli en þegar á sér stað á Íslandi, sem er með því mesta í OECD.
Vegna C-19 hefur fjárþörf ríkisins aukizt gríðarlega. Það er alveg öruggt mál, að fái "Reykjavíkurlíkanið" umráð yfir ríkissjóði Íslands í kjölfar komandi Alþingiskosninga, munu skella gríðarlegar skattahækkanir á almenningi, svo að sóknarbolmagn atvinnulífsins út úr C-19 kreppunni verður ekki nægt til að rífa hér upp hagvöxt á ný, sem er forsenda aukinnar atvinnusköpunar. Atvinnuleysið er nú þjóðarböl, meira en víðast hvar annars staðar í Evrópu, og meginviðfangsefni stjórnmálanna verður að skapa sjálfbærar forsendur atvinnusköpunar. Nú þegar er yfirbygging ríkisins of stór fyrir þetta litla þjóðfélag, svo að lausnir jafnaðarmanna eru engar lausnir í nútímanum, heldur snara í hengds manns húsi. Þess vegna fjarar undan þeim hvarvetna á Vesturlöndum um þessar mundir.
Hörður Ægisson ritaði forystugrein í Fréttablaðið 15. janúar 2021, þar sem á snöfurmannlegan hátt var hrakinn hræðsluáróður jafnaðarmanna gegn því að skrá Íslandsbanka nú í Kauphöll Íslands og bjóða fjórðung eignarhlutar ríkisins í honum til kaups. Þessi ágæta atlaga gegn afturhaldinu bar þá lýsandi yfirskrift:
"Dragbítar",
og hófst þannig:
"Sumir bregðast aldrei vitlausum málstað. Talsmenn Samfylkingarinnar, ásamt ýmsum fylgihnöttum þeirra í róttækari armi verkalýðshreyfingarinnar, leggja sig fram um að gera það tortyggilegt, að til standi að hefja sölu á hlut í Íslandsbanka með hlutafjárútboði og skráningu í Kauphöll.
Röksemdirnar, sem eru fátæklegar, hverfast um, að tímasetningin sé óheppileg og að ríkið fari árlega á mis við tugmilljarða arðgreiðslur með því að draga úr eignarhaldi. Ekkert er gert með þá staðreynd, að önnur evrópsk ríki hafa fyrir margt löngu talið réttast - jafnvel þótt eignarhlutur þeirra sé hverfandi í samanburði við íslenzka ríkið - að hefja þá vegferð að losa um eignarhluti sína í áhættusömum bankarekstri. Samfylkingin er á öðru máli og telur, að ríkið eigi áfram að vera með mrdISK 400 bundna í tveimur bönkum."
Nú hefur Alþýðusamband Íslands (ASÍ) stigið það einkennilega skref í stéttabaráttu sinni að mótmæla áformum um að losa um bundið fé félagsmanna og annarra landsmanna í starfsemi, sem ríkisvald er illa fallið til að stunda. Sannast þar enn, að þar liggja nú dragbítar heilbrigðrar skynsemi á fleti fyrir, sem alls ekki kunna að verja hagsmuni umbjóðenda sinna.
Bankasýsla ríkisins, sem stofnsett var fyrir um 12 árum, hefur það hlutverk m.a. að ráðleggja ríkisstjórninni um ráðlegan eignarhlut ríkisins í bönkum landsins. Hún mun nú hafa ráðlagt henni að selja fjórðungseignarhlut í Íslandsbanka, og er það í samræmi við Stjórnarsáttmálann. Fjórðungur af eiginfé bankans nemur nú tæplega mrdISK 50. Um fjórðungur eiginfjárins er umfram lögbundið lágmark, og þarf auðvitað að fá það á fullu verði við söluna, svo að söluandvirðið gæti orðið tæplega mrdISK 50, þegar tekið er mið af því, að hlutafé Arion-banka er nú í hæstu hæðum þrátt fyrir áföll, sem hann varð nýlega fyrir í útlánastarfsemi sinni. Arðsemi undanfarinna ára hjá bönkunum er auðvitað engin viðmiðun, þar sem um einskiptiseignamyndun var að ræða í kjölfar fjármálakreppu.
Ef núverandi tími er ekki góður tími til að hefja söluferli bankans, er með öllu óljóst, hvenær ætti að draga úr gríðarlegri og óeðlilegri eignarhlutdeild ríkisins í bönkum landsins. Hlutafjárútboð Icelandair tókst vel í haust og hlutabréf stíga almennt í verði núna, eins og þau gera venjulega á lágvaxtaskeiðum fjármagns. Það vantar nýja kosti á markaðinn og styrkur er að nýju skrásettu fyrirtæki í Kauphöll Íslands fyrir hlutabréfamarkaðinn. Síðast en ekki sízt er rétt, að öðru jöfnu, að innleysa þetta "sparifé" ríkisins núna, þegar fjárþörfin er brýn, því að auðvitað munu vextir hækka aftur.
Þeir, sem ekki vilja innleysa "sparifé ríkisins" nú, ætla sér sennilega að hækka skatta á almenning og atvinnulíf til að fjármagna Kófið. Það er mjög skammsýn ráðstöfun, því að hún hægir á efnahagsbatanum, lengir óviðunandi atvinnuleysi enn þá meir, og ástandið verður vítahringur. Þetta er segin saga með hugmyndafræði jafnaðarmanna. Hún virkar, eins og að míga í skóinn sinn í frosti, en veldur gríðartjóni til lengdar, enda sjónarsviðið þröngt. Allir verða fátækari, ef jafnaðarmenn komast í aðstöðu til að gera þjóðfélagstilraunirnar, sem þá dreymir um.
Áfram með Hörð Ægisson:
"Bankakerfið í dag á ekkert sameiginlegt með því, sem féll 2008. Stundum mætti samt halda annað, ef marka má þá, sem láta eins og ekkert hafi breytzt á tveimur áratugum. Þannig sá efnahagsráðgjafi VR ástæðu til þess í vikunni að láta að því liggja, að hættan nú væri á, að bankinn kæmist í hendur aðþrengdra stórra fjárfesta, sem þyrftu á aukinni lánafyrirgreiðslu að halda, eins og gerzt hefði í aðdraganda bankahrunsins. Þessi málflutningur, komandi frá fyrrverandi stjórnarmanni í Arion til margra ára, stenzt enga skoðun, enda hefur allt regluverk um virka eigendur - þeir, sem fara með 10 % eða meira - og hvað þeir mega eiga í miklum viðskiptum við banka, verið hert til muna. Það er því ekki eftirsótt fyrir fyrirtækjasamstæður og efnameiri fjárfesta að vera stór eigandi, af því að það hamlar viðskiptaumsvifum þeirra."
Guðrún Johnsen er og var efnahagsráðgjafi VR og í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, þegar verkalýðsfélagið beitti sér gegn kaupum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á hlutabréfum í Icelandair í fyrrahaust. Hún hefur væntanlega með ráðgjöf sinni og afstöðu valdið þessum lífeyrissjóði tjóni. Ráðgjöf hennar á fjármálasviðinu hefur gefizt afleitlega, eins og Stefán E. Stefánsson rakti í skoðunargrein í Viðskipta Mogganum 20.01.2021:
"Vargur í véum".
Téður efnahagsráðgjafi titlar sig lektor við Kaupmannahafnarháskóla og vitnar gjarna í rannsóknir sínar þar, en aðrir virðast ekki hafa hug á að vitna í þessar rannsóknir, enda virðist lektorinn vera blindaður í baksýnisspeglinum. SES rifjaði upp skuggalegan feril lektorsins:
"Sá er reyndar víðkunnur fyrir fyrri störf. Nýtti m.a. aðstöðu sína vel sem starfsmaður rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna, ritaði bók um efnið og fór sem eldibrandur um heiminn og rægði íslenzkt stjórnkerfi og samfélag. Sú vegferð var launuð með stjórnarsæti í Arion banka, þar sem lektorinn sat keikur í lánanefnd. Þar var talið forsvaranlegt að lána WOW milljarða króna, og peningarnir runnu í stríðum straumum í svikamylluna svakalegu í Helguvík. Eitt af síðustu embættisverkum núverandi starfsmanns stærsta stéttarfélags landsins var að samþykkja MISK 150 starfslokasamning við fráfarandi bankastjóra. Þetta er sannarlega langur afrekalisti og leitt, að samtök viðskiptablaðamanna skuli ekki velja mann ársins, eins og kollegarnir á íþróttadeildinni. Þyrfti þá ekki að taka til greina afrekalista lektorsins á vettvangi HR og HÍ."
Formaður VR opnar varla ginið án þess að saka einhverja aðila í þjóðfélaginu um samsæri gegn hagsmunum almennings og spillingu. Þess vegna vekur ráðning þessa lektors til ráðgjafar hjá VR furðu. Hvað skyldi það hafa verið á ferli lektorsins, sem talið var geta orðið félagsmönnum VR að gagni ? Hvað sem því líður, virðist ráðgjöf þessa lektors á sviði fjármála og fjárfestinga einfaldlega ekki vera 5 aura virði.
Lektorinn hefur blásið sig út með hræðsluáróðri um vafasama pappíra, sem muni sitja á svikráðum við Íslandsbanka og aðra eigendur hans eftir að hafa klófest hlutafé í honum. Þetta heitir að kasta steinum úr glerhúsi eftir að hafa átt þátt í að lána til fjárglæfrafélagsins United Silicon og WOW-air á brauðfótum og valda þannig íslenzku viðskiptalífi tjóni. Lektorinn mun vafalaust beita sér fyrir áframhaldandi hjásetu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, þegar aðrir lífeyrissjóðir munu grípa tækifærið og fjárfesta í banka, sem mun láta að sér kveða í samkeppninni á íslenzka fjármálamarkaðinum, almenningi til hagsbóta.
Skoðunargrein SES lauk með eftirfarandi hætti, og þarf ei um að binda eftir það:
"Allt er þetta þó sagnfræði, sem litlu skiptir. Meira máli skiptir, að stjórnarmaður í stærsta lífeyrissjóði landsins skuli blanda sér í málið með þeim hætti, sem gat að líta í liðinni viku. Væntanlega getur fjármálaráðherrann og Bankasýslan gengið út frá því, að sjóðurinn sitji hjá, þegar útboð í Íslandsbanka fer fram síðar á árinu. Hætt er við, að sú hjáseta muni kosta sjóðfélaga milljarða, rétt eins og dómadagsdellan í tengslum við flugfélagið."
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.1.2021 | 14:02
Bóluefni, heilbrigðisráðuneytið og ESB
Það runnu á marga lesendur Fréttablaðsins tvær grímur á Gamlaársdag, þegar þeir lásu óvænta frétt með viðtalsslitrum við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, ÍE, þar sem komu fram upplýsingar, sem stangast algerlega á við það, sem heilbrigðisráðherra hefur haldið fram um komu bóluefna. Hvort þeirra ætli sé nú merkilegri pappír ? Næstu mánuðir munu leiða það í ljós. Það er líklega leitun að fólki hérlendis með jafngóða sýn yfir lyfjaiðnað heimsins og jafngóðan aðgang að stjórnendum lyfjaiðnfyrirtækja og forstjóri dótturfyrirtækis Amgen í Vatnsmýri Reykjavíkur. Heilbrigðisráðherra, aftur á móti, er eins og hún er úr garði gerð í sínum ranni.
Fyrirsögn téðrar stórfréttar Fréttablaðsins var:
"Lítið brot þjóðarinnar verði bólusett fyrir lok næsta árs".
Fréttin hófst þannig:
"Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur líklegt að óbreyttu, að einungis lítið brot af þjóðinni verði bólusett fyrir COVID-19 fyrir lok næsta árs [2021]. Hann segir það mikið áhyggjuefni, að enginn af þeim samningum, sem Ísland hefur undirritað við lyfjafyrirtækin Pfizer, Moderna og AstraZeneca, innihaldi afhendingardagsetningar. [Hið sama á við samninginn við Janssen. Hins vegar er búið að bóka mikið magn eða 843 k skammta, sem er tæplega 30 % umfram líklega þörf.]
"Það hefur bara verið samið um magn, en ekki um afgreiðslutíma", segir Kári. "Það eru engar dagsetningar í þessu. Þetta byggir náttúrulega á samningum Evrópusambandsins, og enn einu sinni virðist Evrópusambandið vera að klúðra málum. Ef svo heldur fram sem horfir, þá er hætta á því, að við verðum ekki búin að bólusetja, nema pínulítinn hundraðshluta af þjóðinni í lok næsta árs", segir Kári."
Þessar upplýsingar kunnáttumanns eru grafalvarlegar af tveimur meginástæðum:
Þær gætu þýtt framlengingu dýrkeyptra og umdeilanlegra sóttvarnarráðstafana í samfélaginu í megindráttum út 2021, þótt léttir verði hjá framlínufólki í heilbrigðisgeira og á hjúkrunar- og dvalarheimilum vegna forgangsbólusetninga þar. Framlenging sóttvarnarráðstafana, t.d. á landamærum, jafngildir væntanlega nokkur hundruð milljarða tekjutapi samfélagsins, áframhaldandi skuldasöfnun og atvinnuleysi í hæstu hæðum. Afleiðingar sóttvarnaraðgerða á heilsufar margra eru svo alvarlegar, að þær vega líklega upp ávinninginn af sóttvarnaraðgerðunum og rúmlega það mælt t.d. í dauðsföllum. Rannsóknir styðja þetta viðhorf.
Þessi langi afhendingartími mun valda áframhaldandi álagi á heilbrigðiskerfið og enn meiri töfum á s.k. valkvæðum aðgerðum sjúkrahúsanna með lengingu biðlista sjúklinga sem afleiðingu. Þetta þýðir áframhaldandi kvalræði og lyfjaát margra ásamt vinnutapi.
Það eru þess vegna gróf mistök heilbrigðisyfirvalda að binda allt sitt trúss í þessum efnum upp á ESB-truntuna, algerlega að þarflausu, því að þessi mál eru utan EES-samningsins og reyndar gera sáttmálar ESB enn ekki ráð fyrir miðstýringu Framkvæmdastjórnarinnar á heilbrigðismálum aðildarþjóðanna. Það var vanræksla að sýna ekkert eigið frumkvæði við útvegun bóluefna, heldur leggja þau mál Íslendinga öll upp í hendurnar á ESB. Það var dómgreindarbrestur að treysta alfarið á ESB, þótt hafa mætti það bágborna apparat í bakhöndinni.
Íslenzk heilbrigðisyfirvöld máttu vita, hvernig í pottinn er búið hjá ESB. Þar er reynt að gæta jafnræðis á milli Þýzkalands og Frakklands, sem í þessu tilviki þýðir, að ESB-ríkin verða að kaupa jafnmikið af frönskum og þýzkum lyfjafyrirtækjum. Það hefur lengi verið vitað, að franska Sanofi er ekki á meðal hinna fyrstu, eins og þýzka BioNTech, með vörn gegn SARS-CoV-2 á markaðinn. Sanofi er enn í prófunarfasa 2, og þess vegna var ESB jafnseint fyrir og raun bar vitni um. Aðrar ríkisstjórnir, t.d. sú brezka og ísraelska, báru sig upp við framleiðendurna í sumar og tryggðu sér bóluefni.
Ísraelsmenn bólusetja nú u.þ.b. 1 % þjóðarinnar á dag með fyrri skammti, og höfðu bólusett um 11 % þjóðarinnar í byrjun janúar 2021 með fyrri skammti, þegar hér var búið að bólusetja rúmlega 1 % þjóðarinnar með fyrri skammti. Hér virðast afköstin ætla að verða að jafnaði aðeins tæplega 3 % þjóðarinnar á mánuði fullbólusett vegna skorts á bóluefni. Þetta dugar varla til hjarðónæmis fyrir árslok 2021, þótt bót verði í máli, en Ísraelsmenn verða með sama áframhaldi komnir með hjarðónæmi í maí 2021.
Þessi VG-seinagangur (bólusetningaafköst eru meira en 5 föld í Ísrael vorin saman við Ísland m.v. horfurnar) verður samfélaginu ofboðslega dýr að því tilskildu, að engar alvarlegar aukaverkanir komi í ljós við notkun þessarar nýju tækni við ónæmismyndun, sem nú er verið að gera tilraun með á mannkyninu í örvæntingu. Heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra gætu verið sekar um vanrækslu í lífshagsmunamáli þjóðarinnar.
Kári Stefánsson / ÍE vakti enn frekar athygli á þessu stjórnsýslulega og pólitíska klúðri ráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:
"Það er furðulegt að hlusta á fulltrúa heilbrigðismálaráðuneytisins gefa út yfirlýsingar um, að við séum búin að tryggja nægjanlega mikið bóluefni, þegar það lítur út fyrir, að þetta nægjanlega mikla bóluefni komi ekki fyrr en 2022." [Fyrir 3/4 þjóðarinnar 2022 - innsk. BJo.]
"Þessi staða er því að kenna, að við, eins og hin Norðurlöndin, ákváðum að vera samferða Evrópusambandinu, og Evrópusambandið klúðraði þessu. Það var eðlilegt, að við færum í hóp með hinum Norðurlandaþjóðunum. Það hefur oft reynzt okkur gæfuríkt spor, en við erum bara því miður á þeim stað, að Evrópusambandið klúðraði þessu. Við verðum að horfast í augu við það og ekki reyna að sannfæra okkur og aðra um, að þetta sé allt í lagi, því [að] þetta er ekki í lagi."
""Við verðum að leita úti um allt, og við megum ekki núna halda því fram, að það sé lífsbjargarspursmál að halda þennan samning við Evrópusambandið, því [að] það er búið að gera í buxurnar", segir Kári."
"Ef heilbrigðismálaráðuneytið getur upplýst um eitthvað annað og sýnt fram á, að ég hafi rangt fyrir mér, þá yrði ég mjög glaður. Þetta er eitt af þeim augnablikum, sem ég vildi, að ég hefði rangt fyrir mér."
Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki hrakið staðhæfingar Kára. Við búum við vond stjórnvöld á sviði heilbrigðismála. Þessi stjórnvöld leggja allt undir með því að veðja á ESB án þess að sinna rannsóknarskyldu sinni. Evrópusambandið var ekki og hefur aldrei verið traustsins vert. Hvers vegna var ekkert spurt um dagsetningar, þegar íslenzka trússið var bundið upp á ESB-merina ? Heilbrigðisstjórnvöld sýndu þar með dómgreindarbrest og fá í kjölfarið falleinkunn. Um þriðjungur þjóðarinnar bólusettur um næstu áramót er staðan, sem við blasir.
Morgunblaðið reyndi að bregða birtu á staðreyndir málsins gegnum áróðursmökk heilbrigðisyfirvalda, t.d. móttöku tveggja kassa frá Pfizer/BioNTech á milli jóla og nýárs. Þann 2.1.2021 birtist þar frétt með fyrirsögninni:
"Seinvirkt ferli við kaup á bóluefni skapar vandamál".
Fréttin hófst þannig:
"Ugur Sahin, forstjóri þýzka lyfjafyrirtækisins BioNTech, segir, að Evrópusambandið hafi verið hikandi við að útvega bóluefni við kórónaveirunni. "Ferlið í Evrópu var ekki eins hraðvirkt og í öðrum löndum", sagði Sahin við þýzka blaðið Spiegel. "Að hluta til vegna þess, að Evrópusambandið getur ekki veitt leyfið eitt og sér, og aðildarríki geta haft eitthvað til málanna að leggja", sagði Sahin. Hann bætti við, að ESB hefði einnig veðjað á framleiðendur, sem gátu ekki útvegað bóluefnið eins fljótt og BioNTech og Pfizer gerðu."
Íslenzkum heilbrigðisyfirvöldum er ljóst, hversu miklu máli skiptir að skapa hjarðónæmi í samfélaginu á sem stytztum tíma. Þeim mátti vera ljóst, að ESB yrði á seinni skipunum við útvegun bóluefnis vegna þess, sem Herr Sahin segir hér að ofan. Á meðal þessara uppáhaldsfyrirtækja ESB, sem verða sein fyrir, er franska lyfjafyrirtækið Sanofi. Frakkar heimta, að sinn lyfjaiðnaður sé með í spilunum gagnvart Evrópu, og Ursula von der Leyen, forseti Framkvæmdastjórnarinnar, féllst á það.
Hún dró líka taum Frakka sem landvarnaráðherra Þýzkalands. Þá lét hún Luftwaffe gera þróunarsamning við Frakka um nýja fransk-þýzka orrustuþotu í stað þess að festa kaup á nýjustu útgáfu af hinni bandarísku F35. Luftwaffe bráðvantar nýjar flugvélar, og það tekur yfir 10 ár að þróa nýja orrustuþotu og 20 ár að fá nægan bardagahæfan fjölda. Óánægja Bundeswehr með von der Leyen varð að lokum svo mikil, að Kanzlerin Merkel varð að losa sig við hana úr ríkisstjórninni í Berlín. Brüssel tekur lengi við.
""Þorri þjóðarinnar verði bólusettur fyrir sumarið", sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, í samtali við mbl.is um framvindu bólusetninga gegn kórónuveirunni.
Spurð, hvers vegna ekki liggi frekari áætlanir fyrir um afhendingu bóluefnis, segir Svandís, að framleiðsla á bóluefnum standi enn yfir. Í framhaldi af þeim komi áætlanir um dagsetningar afhendinga. Meginmálið sé, að samningar um kaup á bóluefni séu í höfn."
Þetta furðusvar Svandísar sýnir, að keisarinn er ekki í neinu. Vankunnátta hennar og óhæfni á þessu sviði er alger. Hún gefur í skyn, að ekki tíðkist að semja um afhendingartíma fyrr en búið sé að framleiða vöruna. Vantraust hennar á einkaframtakinu er svo mikið, að hún hefur ímyndað sér, að það geti ekki samið framleiðsluáætlun. Hið rétta er, að það er engin alvörupöntun fyrir hendi, nema samið hafi jafnframt verið um afhendingartíma. Iðulega eru settir í samninga skilmálar um dagsektir vegna tafa á afhendingu vöru. Heilbrigðisráðherra fer með helbert fleipur, þegar hún fullyrðir, að "þorri þjóðarinnar verði bólusettur fyrir sumarið" m.v. þær upplýsingar, sem nú eru fyrir hendi, eins og Kári Stefánsson hefur bent á.
Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu, ritaði vandaða hugleiðingu um efnahagsmál í Tímamót Morgunblaðsins undir fyrirsögninni:
"Hinn vandrataði vegur".
Þessum hugleiðingum Stefáns lauk undir millifyrirsögninni:
"Forsætisráðherrann féll á prófinu":
"Ummæli bankastjórans voru látin falla í samhengi við nýlegar fréttir um, að bóluefni væri handan við hornið, sem tryggt gæti hjarðónæmi gegn kórónuveirunni. Þau tíðindi hafa raungerzt og víða um heim er byrjað að bólusetja fólk af miklum móð, sem færir heimsbyggðina nær því marki að færa lífið í eðlilegt horf á ný. Stærsta ógnin á þessum tímapunkti fyrir okkur Íslendinga virðist vera sá sofandaháttur, sem íslenzk stjórnvöld sýndu, er kom að öflun bóluefnis. Virðast þau hafa lagt allt sitt traust á Evrópusambandið [ESB], og að í krafti þess yrði hlutur Íslands í heimsframleiðslunni a.m.k. ekki hlutfallslega minni en annarra þjóða. Nú er því miður komið á daginn, að ESB féll á prófinu - og þar með Ísland. Var hreint út sagt vandræðalegt, þegar fréttist, að forsætisráðherra hefði nokkrum dögum fyrir jól varið heilum degi í að hringja í forstjóra Pfizer og búrókrata í Brussel í veikri von um, að rétta mætti hlut íslenzku þjóðarinnar í þessu efni.
Þau viðbrögð komu alltof seint, mörgum mánuðum eftir, að forystumenn á borð við Justin Trudeau og Boris Johnson höfðu af alefli og með fulltingi embættismanna sinna tryggt löndum sínum veglega hlutdeild í því magni, sem þó hefur tekizt að framleiða og framleitt verður á komandi mánuðum.
Langstærsta verkefni stjórnvalda næstu vikurnar verður að tryggja nægt bóluefni til landsins, koma því í rétta dreifingu og hefja samhliða þeirri vinnu markaðssetningu á Íslandi sem öruggri höfn fyrir ferðamenn. Hvort sem fólki líkar það betur eða verr, mun ekki takast að sigla hagkerfinu úr hinum mikla öldudal, nema með endurreisn ferðaþjónustunnar. Innviðirnir eru til staðar og flugfélagið - jafnvel þótt stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna hafi tekið afstöðu gegn félaginu og hagsmunum sjóðfélaga og íslenzku þjóðarinnar um leið."
Þetta er hörð ádrepa á 2 ráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, en fullkomlega réttmæt í ljósi þeirra gríðarlegu hagsmuna, sem í húfi eru. Vanræksla þessara tveggja ráðherra VG ætti að færa fólki heim sanninn um, hversu hættulegt er að styðja eintrjáningslega og löngu úr sér gengna hugmyndafræði til valda á Íslandi. Í þessum þrönga og þröngsýna stjórnmálaflokki er eðlilega lítið mannval, og fólk kann þar lítt til verka, þegar að krefjandi verkefnum kemur, og er ekki treystandi til stórræða.
Þrátt fyrir hægagang mun á fyrsta ársfjórðungi 2021 takast að bólusetja þá, sem í mestri lífshættu eru við C-19 sýkingu, og framlínustarfsfólk heilbrigðisgeirans. Eftir það er varla nokkur hætta á yfirálagi heilbrigðisstofnana vegna margra C-19 sjúklinga. Þar með falla brott helztu röksemdir fyrir alls konar höftum í samfélaginu í nafni sóttvarna. Þess vegna ættu sóttvarnaryfirvöld í janúar 2021 að gefa út áætlun um afléttingu hamlana innanlands og á landamærum. Það verður grundvöllur endurræsingar þeirra geira athafnalífsins, sem lamaðir hafa verið í Kófinu á meira eða minna hæpnum forsendum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2020 | 13:39
Fullveldi í sviðsljósi
Merkileg bók, Uppreisn Jóns Arasonar, eftir Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóra, er nýkomin út. Höfundur þessa pistils er með hana á náttborðinu og hefur enn ekki lokið við hana. Það er þó ljóst af upphafinu, að Jón Arason, Hólabiskup, hefur verið einstakur maður, og saga hans á sér enga hliðstæðu hérlendis.
Jón Arason fór fyrir vopnaðri uppreisn gegn yfirráðum Danakonungs hérlendis. Hann var í bandalagi við Hansakaupmenn frá Hamborg, sem höfðu stundað frjáls viðskipti við landsmenn í heila öld, öllum til hagsbóta, er Jón lét til sín taka. Danska konungsvaldið var tiltölulega veikt á þessum tíma, og það var alveg raunhæf fyrirætlun Hólafeðga að viðhalda hér katólskri trú, a.m.k. um sinn, og Hólaherinn var í raun svo öflugur, að hann gat náð yfirhöndinni í viðureigninni við konungsmenn, enda höfðu Hamborgarar séð honum fyrir vopnum.
Því miður mættu Hólafeðgar ekki til bardaga, heldur til samningaviðræðna við Daða í Snóksdal um jörðina Sauðafell haustið 1550. Daði, hins vegar, bjóst til bardaga og náði að safna meira liði á Vesturlandi og yfirbugaði þá feðga á Sauðafelli í Dölum, og þar með var úti um stórpólitísk áform Hólafeðga.
Það er að vísu spurning, hvað gerzt hefði á Íslandi árið eftir, ef Hólaherinn hefði haft betur á Sauðafelli haustið 1550, því að Danakonungur, lúterstrúarmaðurinn Kristján III., samdi við Hansakaupmenn um að láta af stuðningi sínum við Jón, biskup, og sendi þýzka "sveitastráka - Landknechten", harðdræga og vel vopnum búna málaliða til Íslands, væntanlega með fyrirmæli um að ganga á milli bols og höfuðs á biskupinum og herforingjum hans.
Jón Arason var æðsti fulltrúi páfa á Íslandi, eftir að lúterskur biskup var settur yfir Skálholtsbiskupsdæmi að Ögmundi Pálssyni gengnum. Jón barðist þess vegna ekki fyrir sjálfstæði landsins, en hann mun hafa talið miklu vænlegra, að það nyti verndar Þýzkalandskeisara, sem þá var hinn kaþólski Karl V., en Danakonungs. Í ljósi þróunarinnar hér í síðaskiptunum og áratugina á eftir, klausturrána og flutnings gríðarlegra verðmæta úr landi, viðskiptahamla, einveldis og einokunarverzlunar, þar sem kóngsi ákvað verzlunarstaði og verð, er líklegt, að landinu mundi hafa vegnað betur undir vernd Þjóðverja og með frjáls viðskipti við umheiminn, aðallega við Hansakaupmenn. Hversu lengi sú skipan mála hefði haldizt, eða hvað hefði tekið við, er óvíst, en staða Jóns Arasonar í sögunni á sér enga hliðstæðu hérlendis. Hann var einstakur og vinsæll af alþýðu manna, enda af alþýðufólki kominn, og almannatengsl hans voru mjög virk með kveðskap hans, sem barst frá manni til manns um landið allt. Enginn maður hérlendur hefur fengið veglegri líkfylgd en hann. Norðlendingar sóttu líkamsleifar þeirra feðga um veturinn fljótlega eftir aftökurnar og fluttu heim til Hóla. Þeir hefndu morðanna grimmilega að áeggjan Þórunnar, dóttur biskups.
Í hausthefti Þjóðmála er ítarleg og ritrýnd grein eftir Arnar Þór Jónsson, dómara, sem hann nefnir:
"Sjálfstæðisbaráttan nýja".
Þar leggur hann út af þróun EES-samstarfsins, sem hann hefur áhyggjur af, að sé á þeirri ólýðræðislegu braut, að íslenzk yfirvöld telji sig skuldbundin til að taka við þeirri ESB-löggjöf, sem Framkvæmdastjórnin telur rétt, að fái lagagildi í EFTA-löndum EES, þótt allt annað sé uppi á teninginum í EES-samninginum sjálfum samkvæmt orðanna hljóðan og Norðmenn líti öðruvísi á málið, þegar þeim býður svo við að horfa.
Þetta eru orð í tíma töluð, og þessi grein þarf að hljóta verðuga umfjöllun. Aðild Íslands að samninginum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) er ekki eina hugsanlega samstarfsform Íslands við ESB á sviði viðskipta. Sviss hefur annan hátt á; hefur gert yfir 100 samninga við ESB á sviði viðskipta, mennta og menningar. Bretar vilja gera víðtækan viðskiptasamning við ESB í stað ESB-aðildar, en samningar hafa strandað aðallega á þrennu:
1) ESB vill halda áfram fiskveiðum sínum innan fiskveiðilögsögu Bretlands, eins og ekkert hafi í skorizt, a.m.k. í einn áratug. Það er fremur ólíklegt, að ESB mundi taka upp þessa kröfu á hendur Íslendingum í samningum um fríverzlun, því að þeir hafa engin fiskveiðiréttindi haft hér í tæplega hálfa öld.
2) Framkvæmdastjórnin vill, að ESB-dómstóllinn verði endanlegur dómstóll í ágreiningsmálum um framkvæmd viðskiptasamningsins. Á slíkt er ekki hægt að fallast hérlendis fremur en í Bretlandi, en gerðardómur á vegum EFTA og ESB gæti komið í staðinn eða WTO-Alþjóða viðskiptastofnunin í ágreiningsmálum Íslands og ESB eftir gerð fríverzlunarsamnings á milli EFTA og ESB.
3) ESB vill samræmdar samkeppnisreglur á milli Bretlands og ESB. Bretar ætla sér að veita ESB-ríkjunum harða samkeppni, en ekki er líklegt, að þetta verði ásteytingarsteinn í samningaviðræðum Íslands/EFTA við ESB.
Það gætu skipazt svo veður í lofti eftir Stórþingskosningar í Noregi haustið 2021, að jarðvegur myndist fyrir því að leysa EES-samninginn af hólmi með víðtækum fríverzlunarsamningi á milli EFTA og ESB. Í Noregi eru miklar áhyggjur og deilur út af fullveldisógnandi áhrifum ýmissar lagasetningar, sem ESB vill, að Stórþingið í Ósló innleiði. Senterpartiet mælist nú með mest fylgi, og ef fram fer sem horfir, verður mynduð ný ríkisstjórn í Noregi næsta haust um gjörbreytta stjórnarstefnu, þar sem afstaðan til ESB verður endurskoðuð. Ef þetta gerist, verður ekki meirihluti í Stórþinginu fyrir Orkupakka 4, og hann er þá dauður gagnvart EFTA-ríkjunum, þ.e. honum verður hafnað í Sameiginlegu EES-nefndinni, ef hann á annað borð verður lagður fram þar.
Við höfum líka séð harkaleg afskipti fjölþjóðlegs dómstóls, þar sem Ísland á aðild, af íslenzkum innanlandsmálum án eðlilegrar og fullgildrar ástæðu. Slíkt verður þá að líta á sem ögrun við íslenzkt fullveldi, eins og Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari, vakti athygli á í hugvekju í Morgunblaðinu 5. desember 2020:
"Með hjartað í buxunum".
Hún hófst þannig:
"Nú hefur Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) lokið dómi á málið, sem þar hefur verið til meðferðar í tilefni af skipun dómara í Landsrétt. Sú furðulega niðurstaða hefur orðið ofan á hjá dómstólnum, að dómurinn, sem dæmdi hér á landi í máli kærandans, hafi ekki verið réttilega skipaður, til að kröfu 6. gr. mannréttindasáttmálans teldist fullnægt. Þessi niðurstaða er að mínum dómi alveg fráleit og felur ekkert annað í sér en afskipti eða inngrip í fullveldisrétt Íslands."
Það er mjög mikill fengur að þessum úrskurði hins lögfróða og reynda manns, því að nákvæmlega hið sama blasir við þeim, sem hér heldur á fjaðurstaf, og mörgum öðrum leikmönnum á sviði lögfræði. Fjaðrafokið, sem dómur neðri deildar MDE í sama máli olli, og sú ákvörðun að áfrýja honum til efri deildar, var ástæðulaus og pólitískt röng. Það sýnir dómgreindarleysi viðkomandi ráðherra (ÞKRG) og ráðgjafa hennar að ímynda sér, að efri deildin, með sama íslenzka dómarann innanborðs og var í neðri deildinni við uppkvaðninguna þar, myndi snúa niðurstöðu neðri deildar við.
Þessi dómstóll hefur ekki lögsögu hér. Svo er Stjórnarskránni fyrir að þakka. Við einfaldlega ákveðum í ró og næði, hvað við teljum bitastætt frá þessum dómstóli. Í þessu tiltekna máli var um þvílíkan sparðatíning að ræða, að furðu sætir, að dómstóllinn skuli ekki hafa vísað kærumálinu frá. Hæstiréttur Íslands hefur kveðið upp þann dóm í málinu, sem þarf að hlíta hérlendis. Það er maðkur í mysunni, og Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, hefur kallað gjörninginn pólitískt at. Þetta at heppnaðist, því að þessi ágæti ráðherra var hrakinn úr embætti. Hafði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, lítinn sóma af því.
"Það er eins og MDE hafi verið að leita að tilbúnum ástæðum til að finna eitthvað athugavert við skipun þessa dómara í embætti. Manni gæti helzt dottið í hug, að einhver dómaranna við réttinn hafi þekkt kæranda eða lögmann hans, ef maður vissi ekki, að sjónarmið af þessu tagi koma auðvitað ekki til greina hjá svona virðulegri stofnun, eins og dómstóllinn er."
Er nema von, að hugur hæstaréttarlögmannsins leiti á fjarlæg mið í leit að skýringu, en það væri reyndar alveg óskiljanlegt, ef þessi vegferð væri einhvers konar greiði íslenzka dómarans við æskuvin sinn. Hvílíkri spillingu og hrossakaupum hjá MDE í Strassborg lýsir það ? Það er ótrúlegra en söguþráður lélegrar skáldsögu í jólabókaflóði á Íslandi. Þeir vinirnir skála líklega og hlæja ótæpilega næst, þegar leyft verður að hittast innan 2 m.
Í lok greinar Jóns Steinars kom rúsínan í pylsuendanum:
"Þegar dómstóllinn ytra kemst að svona niðurstöðu, er hann að brjóta freklega gegn fullveldi Íslands. Þessi erlenda stofnun hefur engan afskiptarétt af efni íslenzkra lagareglna um skipun dómara, svo lengi sem í þeim reglum felst ekki í sjálfum sér beint brot á réttindum sakbornings, t.d. með því að láta verjanda hans eða eiginkonu dæma.
Svo er eins og hjartað sigi ofan í buxur hjá flestum Íslendingum, þegar þessi erlendu fyrirmenni hafa sent frá sér valdskotna ákvörðun sína, sem enga stoð hefur í lögskiptum okkar við þá [þ.e. þau-innsk. BJo]. Í stað þess að velta vöngum yfir því, hvernig bregðast skuli við ofbeldinu með undirgefnum ráðstöfunum, ættu landsmenn að hvetja forráðamenn þjóðarinnar til að mótmæla þessari aðför hástöfum og gera grein fyrir því, sem augljóst ætti að vera, að við lútum ekki ríkisvaldi úr höndum þessarar stofnunar á borð við það, sem nú var að okkur rétt. Sjálfstætt og fullvalda ríki lætur ekki bjóða sér slíkt."
Þetta er hverju orði sannara, og Sjálfstæðisflokkurinn þarf nú að standa undir nafni og hafa forgöngu um það, sem hæstaréttardómarinn fyrrverandi skrifar hér að ofan. Dómsmálaráðherrann er ritari flokksins og henni stendur það næst að hafa forgöngu um verðugt svar til Strassborgar. Pistill hennar í Morgunblaðinu 9. desember 2020 drepur þó í dróma alla von um það. Er það þá svo, að álykta verði, að sú lyddulýsing, sem hæstaréttarlögmaðurinn viðhefur hér að ofan (um líffæri og klæði), eigi m.a. við um hana ?
Það er hins vegar alveg víst, að fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, hefur ekki misst hjartað ofan í buxurnar við þessi tíðindi frá Strassborg og mun taka málstað fullveldisins í þessu máli hér eftir sem hingað til. Hún er með hreinan skjöld í þessu máli, enda varaði hún bæði þingforsetann og forseta lýðveldisins við þeirri aðferð þingsins að greiða atkvæði um alla umsækjendur um dómaraembætti í Landsrétti, sem hún mælti með, í einu lagi, en MDE fetti fingur út í það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.12.2020 | 11:39
Sóttvarnir á brauðfótum
Það er búið að kosta óhemjumiklu til sóttvarna hérlendis á því herrans ári 2020, og áframhald virðist ætla að verða á því 2021. Á Englandi eru þingmenn Íhaldsflokksins farnir að spyrja um heilsufarslegar og fjárhagslegar afleiðingar sóttvarnaraðgerða þar í landi. Lítið fréttist af slíkum umræðum á Alþingi. Spurningin, sem spyrja ætti núna, er sú, hvort ríkisvaldinu hafi ekki verið veitt of mikil völd yfir lífi fólks, eða það hafi jafnvel tekið sér þau í heimildarleysi. Afleiðingin er langavitleysa herðinga og slakana á sóttvarnaaðgerðum samkvæmt geðþótta sóttvarnarlæknis. Nú virðist hann ekki þora að slaka á frelsistakmörkunum, þótt þær séu í engu samræmi við álagið á heilbrigðiskerfið, hvað þá sýkingatíðnina.
Enginn veit, hvenær hjarðónæmi næst gegn SARS-CoV-2-veirunni með bólusetningum, og enginn veit, hversu lengi mótefnin munu vara í mannslíkamanum. Þau vara tiltölulega stutt af "flensusprautunum", en flensuveirurnar eru afbrigði kórónuveiru. Nýþróuð bóluefni, reist á erfðafræðilegu boðefni (mRNA), eru hins vegar eðlisólík fyrri bóluefnum.
Þá er ekki hægt að útiloka, að veiran komi aftur, eitthvað stökkbreytt, og valdi usla, eins og aðrar kórónuveirur hafa gert, sem fylgt hafa mannkyni frá upphafi vega. Sóttvarnaryfirvöldum miðar ekkert áfram í þróun sinna grófgerðu aðgerða (10 manna hópatakmörkun), þau eru eins og færilús á tjöruspæni.
Mjög miklar og dýrkeyptar takmarkanir hvíla á þegnunum núna, eins og mara, en virðast hafa lítil áhrif á smittíðni, því að hún tekur sig upp jafnvel áður en boðaðar tilslakanir koma til framkvæmda. Það eru persónubundnar sóttvarnir og ábyrg hegðun einstaklinganna, sem öllu máli skipta fyrir smitstuðulinn. Því miður hefur sumum í s.k. þríeyki látið betur að predika og hneykslast á lýðnum en að sýna gott fordæmi með alræmdum afleiðingum.
Nýlegar rannsóknir sýna, að flestir sýktra smita engan, en 10 %-15 % smitbera valda yfir 80 % smitanna. Þetta gefur til kynna, að almennar takmarkanir og lokanir séu áhrifalítil úrræði, og þau hafa mjög alvarlegar afleiðingar á fjárhag margra, á geðheilsu, á líkamlega heilsu og munu, er frá líður, leggjast sem mara á heilbrigðiskerfið og valda fleiri dauðsföllum en þær hindra.
Að trufla skólasókn ungmenna út af meintum C-19 sóttvörnum er glapræði. Vernd gegn smitum á að beina að þeim, sem líklegir eru til að fara halloka gegn SARS-CoV-2-veirunni. Það er vitað, hverjir það eru. Dánarhlutfall sýktra í Landakotsáfallinu í október-nóvember 2020 var 15 %. Dánarhlutfall í aldurshópnum 0-35 ára er 0,001 % - 0,01 %. Í öllum aldurshópum eru veikir einstaklingar, sem þarf að verja, en flestum hinna verður lítið meint af þessum sjúkdómi. Þó eru mismikil eftirköst af öllum veirusjúkdómum hjá um 10 % sýktra.
Það er verið að beita kolrangri, klunnalegri og dýrkeyptri aðferðarfræði af þröngsýni og skammsýni í baráttunni við þennan vágest, eins og "Great Barrington"-sérfræðingahópurinn hefur bent á. Þar á ofan bætist, að reglugerðir heilbrigðisráðherra orka lagalega mjög tvímælis, eins og hérlendir hæstaréttarlögmenn hafa bent á. Nú hefur hún látið semja lagafrumvarp um sóttvarnir, sem sætir miklum ádeilum, einkum ákvæði um heimild stjórnvalda til útgöngubanns. Yfirvöldin kunna ekki með heimildir sínar að fara, og það er alveg þarflaust að veita þeim auknar sóttvarnarheimildir. Öllu nær væri að láta reyna á gjörðir þeirra fyrir dómi, eins og gert hefur verið sums staðar erlendis, t.d. í Þýzkalandi, þar sem stjórnvöld máttu lúta í gras fyrir að fara offari.
Fréttablaðið hefur verið gagnrýnið á duttlungafullar og harkalegar samfélagslegar sóttvarnir hérlendis, sem eru eins konar "sagan endalausa" með sífelldum endurtekningum, herða-slaka. Slíkt eyðileggur hvaða þjóðfélag sem er. Þann 30. október 2020 birtist þar forystugrein eftir Hörð Ægisson, sem vert er að gefa gaum. Hún hófst á þessa lund:
"Hvað tefur ?"
"Farsóttin er að dragast á langinn og óvissa um efnahagshorfur að aukast. Þetta var mat fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans í lok september - fyrra mat í vor var, að faraldurinn myndi ganga hratt yfir - en síðan hefur staðan aðeins versnað enn frekar. Það kemur tæpast á óvart."
Hvert sótti Seðlabankinn sér þessa röngu ráðgjöf ? Líklega til "þríeykisins", sem hefur þarna tekið algerlega rangan pól í hæðina einu sinni sem oftar um útbreiðslu þessarar farsóttar.
"Við höfum ákveðið að eftirláta heilbrigðisyfirvöldum að stjórna landinu. Stefnan er að há stríð við veiru með öllum ráðum, sama hvaða skelfilegu afleiðingar það kann að hafa, uns bóluefni verður tiltækt - sem enginn veit þó, hvenær verður né hvaða virkni það mun hafa. Um þetta áhættusama veðmál virðist að mestu samstaða innan ríkisstjórnarinnar - ekkert hefur heyrzt frá formanni Sjálfstæðisflokksins, sem gefur ástæðu til að halda annað - þar sem öll önnur sjónarmið en sóttvarnir eru víkjandi."
Að láta heilbrigðisyfirvöldum eftir stjórn landsins kann ekki góðri lukku að stýra. Það er horft framhjá stórfelldum tekjumissi þjóðarbúsins og fjölda fyrirtækja ásamt atvinnumissi meira en 5000 manns. Samkvæmt tölfræðilegum rannsóknum geta 150 þeirra misst heilsuna vegna atvinnumissisins og jafnvel týnt lífi fyrir aldur fram. Sóttvarnaryfirvöld bjarga varla svo mörgum lífum með öllum sínum samfélagslegu takmörkunum og þvingunum, ef frá eru skildar smitrakningar og sóttkví vegna gruns um smit, og alls ekki með sóttkví og PSR-sýnatöku nr 2 fyrir erlenda ferðamenn. Um innkomandi íbúa landsins gegnir öðru máli. Smitstuðull þeirra er hár, en lágur fyrir hina, sennilega minni en 1,0. Í seinni skimun hafa 90 greinzt jákvæðir þrátt fyrir neikvæðni í fyrri skimun, þegar þetta er ritað. Ef gert er ráð fyrir því, að 60 af þessum 90 séu smitandi erlendir ferðamenn, hafa þeir e.t.v. náð að valda 100 sýkingum innanlands innanlands áður en tekst að komast fyrir upptökin með smitrakningum og sóttkvíum.
Þegar þetta er skrifað, virðast 309/5371=5,75 % af greindum lenda á sjúkrahúsi og 50/5371=0,93 % af greindum lenda í gjörgæzlu. Samkvæmt þessu kynnu 3 af þessum 60 sýktu erlendu ferðamönnum að hafa lent á sjúkrahúsi hér, en enginn í gjörgæzlu vegna hagstæðrar áhættudreifingar í hópnum. Af þessu sést, að verið er að fórna miklu meiri lýðheilsutengdum hagsmunum fyrir minniháttar álagsaukningu á sjúkrahúsin vegna C-19 með illa ígrunduðum aðgerðum á landamærunum.
Fjárhagslega er aðgerðin glapræði, því að hún kann að fækka erlendum ferðamönnum hingað um 300 k árið 2020, sem þýðir tekjutap fyrir þjóðarbúið upp á tæplega mrdISK 80. Hér hefur verið tekin ákvörðun fyrir hönd landsmanna með bundið fyrir augu og eyru.
"Þeir, sem leyfa sér að setja opinberlega fram efasemdir um, að skynsamlega sé að málum staðið, eru umsvifalaust útmálaðir sem brjálæðingar, sem skeyti lítt um líf og heilsu þeirra, sem viðkvæmastir eru fyrir í samfélaginu. Ekki er þetta á mjög háu plani", skrifaði Hörður Ægisson ennfremur. Það er hins vegar augljóst af öllum málflutningi, hvorum megin brjálæðið liggur.
Það er kominn tími til, að aðilar vinnumarkaðarins tjái sig opinberlega af þunga um þau glæfralegu tilræði, sem hér eru framin á degi hverjum við atvinnulífið og daglegt líf landsmanna í nafni misskilinna sóttvarna, sem kasta barninu út með baðvatninu, eins og rakið er að ofan. Frétt í Markaði Fréttablaðsins 26. nóvember 2020 hófst þannig:
""Það er kominn tími til að draga markvisst úr þessari langvarandi óvissu og setja fram skýra áætlun um aðgerðir til loka faraldursins", sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Fréttablaðið. Þannig verði næstu sóttvarnaraðgerðir fyrirsjáanlegri og um leið líklegar til að njóta breiðs stuðnings í samfélaginu öllu.
Samtök atvinnulífsins kalla eftir því, að stjórnvöld nýti reynsluna af baráttunni við útbreiðslu kórónaveirunnar og útbúi skýran ramma um aðgerðir næstu mánaða. Þau telja, að sóttvarnaraðgerðir næstu mánaða þurfi að uppfylla 3 skilyrði.
Í fyrsta lagi, að skýr og tímasett áætlun sé um afléttingu afmarkana. Í öðru lagi þarf að setja fram töluleg viðmið, þar sem frekari liðkun eða hömlur eru tengdar við nýgengi smita.
Og í þriðja lagi, að sóttvarnarráðstafanir séu innbyrðis samkvæmar, skiljanlegar almenningi og höfðað sé til ábyrgðar hvers og eins um að verja sig og aðra.
"Óvissa um síbreytilegar aðgerðir hefur sett skólahald, starfsemi fyrirtækja og öll áform í samfélaginu í uppnám", segir Halldór. Draga þurfi markvisst úr þessari langvarandi óvissu og setja fram skýra áætlun.""
Þetta er hófstillt gagnrýni fulltrúa atvinnurekendasamtakanna á stefnu sóttvarnaryfirvalda, sem er eins og ósýnilegur fíll í postulínsbúð, því að enginn veit, hver þessi stefna er, en hún veldur þjóðfélaginu alveg gríðarlegu tjóni. Halli ríkisstjóð á þessu ári vegna aukinna útgjalda og samdráttar hagkerfisins af völdum sóttvarnaraðgerða hérlendis og erlendis er áætlaður mrdISK 260 og svipaður 2021. Hér er verið að binda ungu kynslóðinni ósæmilegar klyfjar. Almennt má segja, að hún hafi orðið fórnarlamb stjórnvaldsaðgerða hérlendis í þessum kórónuveirufaraldri, því að nám hennar hefur orðið fyrir skakkaföllum algerlega að óþörfu, þar sem ráðherrar heilbrigðis og mennta hafa farið offari í forræðishyggju sinni gagnvart samfélagshópum, sem átti að láta að mestu í friði. Þá eru tveir hópar, sem verst hafa orðið fyrir barðinu á atvinnumissi. Það eru ungt fólk og fólk af erlendum uppruna. Það eru margir í sniðmenginu, þ.e. ungir og erlendir, sem eiga um sárt að binda.
Sóttvarnayfirvöld munu bregðast Halldóri Benjamíni og öðrum landsmönnum í þessum efnum. Þau vilja bara leika af fingrum fram, og líftölfræðingur "numero uno" virðist ekki geta vísað fram á veginn heldur. Það, sem þarf endilega að gera, til að draga úr tjóninu, sem vitlaus viðbrögð hafa valdið, er að:
1) Aflétta fjöldatakmörkunum í skólarýmum, en viðhalda grímuskyldu í framhldsskólum. Kennarar gæti sérstakrar varúðar, einkum hinir eldri.
2) Aflétta hömlum af íþróttastarfsemi og leyfa opnun sundstaða og líkamsræktarstöðva gegn því að viðhafa persónubundnar sóttvarnir.
3) Aflétta fjöldatakmörkunum af verzlunum, en þar verði áfram grímuskylda og sprittun.
4) Leikhús, kvikmyndahús og tónleikahald megi starfrækja eðlilega með allt að 1000 gestum, sem verði með grímur.
5) Matsölustaðir og barir megi hleypa inn jafnmörgum gestum og geta fengið sæti á tímabilinu kl 1800-2400. Grímuskylda á meðan ekki er setið. Sjálfsafgreiðsla ekki leyfð.
6) Á landamærunum þarf strax að liðka til fyrir komum erlendra ferðamanna með því að hleypa ferðamönnum með viðurkennd ónæmisvottorð inn án sýnatöku og láta einfalda sýnatöku duga fyrir fólk með ríkisfang á og komandi frá "grænum eða gulum" svæðum, en aðrir fari í tvöfalda skimun og 2-3 daga sóttkví.
Eldri borgarar ættu að fara varlega og forðast fjölmenni. Skjólstæðinga dvalar- og hjúkrunarstofnana þarf að verja sérstaklega vel. Það á við gagnvart gestum á þessum stofnunum og starfsfólk. Starfsfólk sæti skimun a.m.k. vikulega.
Að lokum skal hér vitna í niðurlag umhugsunarverðrar forystugreinar Harðar Ægissonar í Fréttablaðinu 27. nóvember 2020, sem hét:
"Farið offari".
"Því miður er það að gerast, sem sumir óttuðust. Embættismenn, sem hafa öðlazt gríðarmikil völd á þessum veirutímum, hafa vanizt þeim óþægilega mikið og eru um margt að fara offari í aðgerðum sínum. Við því þarf að bregðast. Nú þegar bóluefni er í augsýn, er ljós við enda ganganna. Við eigum að nýta þá stöðu, eins og m.a. Samtök atvinnulífsins hafa lagt til [með því] að útbúa skýran ramma um sóttvarnarráðstafanir til næstu mánaða, sem verði tengdar við töluleg viðmið um þróun faraldursins hverju sinni. Slíkt væri til þess fallið að auka á fyrirsjáanleika aðgerðanna og um leið létta verulega á þeirri óvissu, sem nú er allt um lykjandi.
Það er ekkert, sem kallar á viðvarandi krísuástand, sem er á góðri leið með að drepa allt samfélagið í dróma fram að þeim tíma, þegar búið verður að að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar. Það stendur á forystumönnum ríkisstjórnarinnar, ekki þríeykinu, að rétta við kúrsinn, þegar teknar verða afdrifaríkar ákvarðanir um næstu skref."
Hörður stingur á meininu í lokin. Ástæðan fyrir því í hvílíkt óefni er komið er einmitt sú, að ríkisstjórnin hefur enga forystu veitt í sóttvarnarlegum efnum, þótt með tillögum sínum fari sóttvarnarlæknir augljóslega offari. Hið eina, sem ríkisstjórnin gerir, er að gera tillögur til Alþingis um að ausa úr ríkissjóði, sem hún hefur raunar þegar tæmt og er nú önnum kafin við að binda unga fólkinu þunga bagga. Þetta heitir að stinga hausnum í sandinn.
Hörður Ægisson nefnir, að ríkisstjórnin ætti að setja aðgerðum sínum töluleg viðmið og vitnar til Halldórs Benjamíns í því sambandi. Sá nefndi reyndar nýgengi smita. Hvers vegna ? Það er fremur lélegur mælikvarði, nema við viljum koma í veg fyrir hjarðónæmi, en það er reyndar hið endanlega markmið, að vísu með bólusetningu. Gallinn er sá, að enginn veit, hversu lengi slíkt ónæmi helzt í blóðinu eða hvort það verður virkt gegn stökkbreyttri veiru.
Betri mælikvarðar en nýgengi smita fyrir ástæðu til samfélagslegra sóttvarnaaðgerða er fjöldi sjúklinga með þungu vægi á fjölda C-19 sjúklinga á sjúkrahúsi og í gjörgæzlu. Í þessum skrifuðum orðum er fjöldi sjúklinga 187 og þar af 41 á sjúkrahúsi og 2 í gjörgæzlu. Samt heldur ríkisstjórnin þjóðinni að tillögu sóttvarnarlæknis í spennitreyju almennra fjöldatakmarkana við 10, lokana á heilsubótarstöðvum og annarra dýrkeyptra takmarkana. Þetta nær engri átt, enda er sóttvarnarleg skilvirkni þessara takmarkana óljós og í engu samræmi við augljósa ókosti. Persónubundnar sóttvarnaraðgerðir er það, sem á að halda í heiðri, óháð stétt og stöðu, hvort sem um er að ræða yfirlögregluþjóna eða aðra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)