Færsluflokkur: Dægurmál

Bóluefni, heilbrigðisráðuneytið og ESB

Það runnu á marga lesendur Fréttablaðsins tvær grímur á Gamlaársdag, þegar þeir lásu óvænta frétt með viðtalsslitrum við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, ÍE, þar sem komu fram upplýsingar, sem stangast algerlega á við það, sem heilbrigðisráðherra hefur haldið fram um komu bóluefna.  Hvort þeirra ætli sé nú merkilegri pappír ?  Næstu mánuðir munu leiða það í ljós. Það er líklega leitun að fólki hérlendis með jafngóða sýn yfir lyfjaiðnað heimsins og jafngóðan aðgang að stjórnendum lyfjaiðnfyrirtækja og forstjóri dótturfyrirtækis Amgen í Vatnsmýri Reykjavíkur. Heilbrigðisráðherra, aftur á móti, er eins og hún er úr garði gerð í sínum ranni.

Fyrirsögn téðrar stórfréttar Fréttablaðsins var:

"Lítið brot þjóðarinnar verði bólusett fyrir lok næsta árs".

Fréttin hófst þannig:

"Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur líklegt að óbreyttu, að einungis lítið brot af þjóðinni verði bólusett fyrir COVID-19 fyrir lok næsta árs [2021].  Hann segir það mikið áhyggjuefni, að enginn af þeim samningum, sem Ísland hefur undirritað við lyfjafyrirtækin Pfizer, Moderna og AstraZeneca, innihaldi afhendingardagsetningar. [Hið sama á við samninginn við Janssen.  Hins vegar er búið að bóka mikið magn eða 843 k skammta, sem er tæplega 30 % umfram líklega þörf.] 

"Það hefur bara verið samið um magn, en ekki um afgreiðslutíma", segir Kári.  "Það eru engar dagsetningar í þessu.  Þetta byggir náttúrulega á samningum Evrópusambandsins, og enn einu sinni virðist Evrópusambandið vera að klúðra málum.  Ef svo heldur fram sem horfir, þá er hætta á því, að við verðum ekki búin að bólusetja, nema pínulítinn hundraðshluta af þjóðinni í lok næsta árs", segir Kári."

Þessar upplýsingar kunnáttumanns eru grafalvarlegar af tveimur meginástæðum: 

Þær gætu þýtt framlengingu dýrkeyptra og umdeilanlegra sóttvarnarráðstafana í samfélaginu í megindráttum út 2021, þótt léttir verði hjá framlínufólki í heilbrigðisgeira og á hjúkrunar- og dvalarheimilum vegna forgangsbólusetninga þar. Framlenging sóttvarnarráðstafana, t.d. á landamærum, jafngildir væntanlega nokkur hundruð milljarða tekjutapi samfélagsins, áframhaldandi skuldasöfnun og atvinnuleysi í hæstu hæðum. Afleiðingar sóttvarnaraðgerða á heilsufar margra eru svo alvarlegar, að þær vega líklega upp ávinninginn af sóttvarnaraðgerðunum og rúmlega það mælt t.d. í dauðsföllum.  Rannsóknir styðja þetta viðhorf.

Þessi langi afhendingartími mun valda áframhaldandi álagi á heilbrigðiskerfið og enn meiri töfum á s.k. valkvæðum aðgerðum sjúkrahúsanna með lengingu biðlista sjúklinga sem afleiðingu.  Þetta þýðir áframhaldandi kvalræði og lyfjaát margra ásamt vinnutapi.  

Það eru þess vegna gróf mistök heilbrigðisyfirvalda að binda allt sitt trúss í þessum efnum upp á ESB-truntuna, algerlega að þarflausu, því að þessi mál eru utan EES-samningsins og reyndar gera sáttmálar ESB enn ekki ráð fyrir miðstýringu Framkvæmdastjórnarinnar á heilbrigðismálum aðildarþjóðanna. Það var vanræksla að sýna ekkert eigið frumkvæði við útvegun bóluefna, heldur leggja þau mál Íslendinga öll upp í hendurnar á ESB.  Það var dómgreindarbrestur að treysta alfarið á ESB, þótt hafa mætti það bágborna apparat í bakhöndinni. 

Íslenzk heilbrigðisyfirvöld máttu vita, hvernig í pottinn er búið hjá ESB.  Þar er reynt að gæta jafnræðis á milli Þýzkalands og Frakklands, sem í þessu tilviki þýðir, að ESB-ríkin verða að kaupa jafnmikið af frönskum og þýzkum lyfjafyrirtækjum. Það hefur lengi verið vitað, að franska Sanofi er ekki á meðal hinna fyrstu, eins og þýzka BioNTech, með vörn gegn SARS-CoV-2 á markaðinn.  Sanofi er  enn í prófunarfasa 2, og þess vegna var ESB jafnseint fyrir og raun bar vitni um.  Aðrar ríkisstjórnir, t.d. sú brezka og ísraelska, báru sig upp við framleiðendurna í sumar og tryggðu sér bóluefni. 

Ísraelsmenn bólusetja nú u.þ.b. 1 % þjóðarinnar á dag með fyrri skammti, og höfðu bólusett um 11 % þjóðarinnar í byrjun janúar 2021 með fyrri skammti, þegar hér var búið að bólusetja rúmlega 1 % þjóðarinnar með fyrri skammti.  Hér virðast afköstin ætla að verða að jafnaði aðeins tæplega 3 % þjóðarinnar á mánuði fullbólusett vegna skorts á bóluefni.  Þetta dugar varla til hjarðónæmis fyrir árslok 2021, þótt bót verði í máli, en Ísraelsmenn verða með sama áframhaldi komnir með hjarðónæmi í maí 2021.

Þessi VG-seinagangur (bólusetningaafköst eru meira en  5 föld í Ísrael vorin saman við Ísland m.v. horfurnar) verður samfélaginu ofboðslega dýr að því tilskildu, að engar alvarlegar aukaverkanir komi í ljós við notkun þessarar nýju tækni við ónæmismyndun, sem nú er verið að gera tilraun með á mannkyninu í örvæntingu. Heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra gætu verið  sekar um vanrækslu í lífshagsmunamáli þjóðarinnar. 

  Kári Stefánsson / ÍE vakti enn frekar athygli á þessu stjórnsýslulega og pólitíska klúðri ráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:  

"Það er furðulegt að hlusta á fulltrúa heilbrigðismálaráðuneytisins gefa út yfirlýsingar um, að við séum búin að tryggja nægjanlega mikið bóluefni, þegar það lítur út fyrir, að þetta nægjanlega mikla bóluefni komi ekki fyrr en 2022." [Fyrir 3/4 þjóðarinnar 2022 - innsk. BJo.]

"Þessi staða er því að kenna, að við, eins og hin Norðurlöndin, ákváðum að vera samferða Evrópusambandinu, og Evrópusambandið klúðraði þessu.  Það var eðlilegt, að við færum í hóp með hinum Norðurlandaþjóðunum.  Það hefur oft reynzt okkur gæfuríkt spor, en við erum bara því miður á þeim stað, að Evrópusambandið klúðraði þessu.  Við verðum að horfast í augu við það og ekki reyna að sannfæra okkur og aðra um, að þetta sé allt í lagi, því [að] þetta er ekki í lagi."

""Við verðum að leita úti um allt, og við megum ekki núna halda því fram, að það sé lífsbjargarspursmál að halda þennan samning við Evrópusambandið, því [að] það er búið að gera í buxurnar", segir Kári."

"Ef heilbrigðismálaráðuneytið getur upplýst um eitthvað annað og sýnt fram á, að ég hafi rangt fyrir mér, þá yrði ég mjög glaður.  Þetta er eitt af þeim augnablikum, sem ég vildi, að ég hefði rangt fyrir mér."

Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki hrakið staðhæfingar Kára.  Við búum við vond stjórnvöld á sviði heilbrigðismála.  Þessi stjórnvöld leggja allt undir með því að veðja á ESB án þess að sinna  rannsóknarskyldu sinni.  Evrópusambandið var ekki og hefur aldrei verið traustsins vert. Hvers vegna var ekkert spurt um dagsetningar, þegar íslenzka trússið var bundið upp á ESB-merina ? Heilbrigðisstjórnvöld sýndu þar með dómgreindarbrest og fá í kjölfarið falleinkunn.  Um þriðjungur þjóðarinnar bólusettur um næstu áramót er staðan, sem við blasir.

Morgunblaðið reyndi að bregða birtu á staðreyndir málsins gegnum áróðursmökk heilbrigðisyfirvalda, t.d. móttöku tveggja kassa frá Pfizer/BioNTech á milli jóla og nýárs.  Þann 2.1.2021 birtist þar frétt með fyrirsögninni:

"Seinvirkt ferli við kaup á bóluefni skapar vandamál".

Fréttin hófst þannig:

"Ugur Sahin, forstjóri þýzka lyfjafyrirtækisins BioNTech, segir, að Evrópusambandið hafi verið hikandi við að útvega bóluefni við kórónaveirunni.  "Ferlið í Evrópu var ekki eins hraðvirkt og í öðrum löndum", sagði Sahin við þýzka blaðið Spiegel.  "Að hluta til vegna þess, að Evrópusambandið getur ekki veitt leyfið eitt og sér, og aðildarríki geta haft eitthvað til málanna að leggja", sagði Sahin.  Hann bætti við, að ESB hefði einnig veðjað á framleiðendur, sem gátu ekki útvegað bóluefnið eins fljótt og BioNTech og Pfizer gerðu." 

Íslenzkum heilbrigðisyfirvöldum er ljóst, hversu miklu máli skiptir að skapa hjarðónæmi í samfélaginu á sem stytztum tíma.  Þeim mátti vera ljóst, að ESB yrði á seinni skipunum við útvegun bóluefnis vegna þess, sem Herr Sahin segir hér að ofan.  Á meðal þessara uppáhaldsfyrirtækja ESB, sem verða sein fyrir, er franska lyfjafyrirtækið Sanofi.  Frakkar heimta, að sinn lyfjaiðnaður sé með í spilunum gagnvart Evrópu, og Ursula von der Leyen, forseti Framkvæmdastjórnarinnar, féllst á það. 

Hún dró líka taum Frakka sem landvarnaráðherra Þýzkalands.  Þá lét hún Luftwaffe gera þróunarsamning við Frakka um nýja fransk-þýzka orrustuþotu í stað þess að festa kaup á nýjustu útgáfu af hinni bandarísku F35.  Luftwaffe bráðvantar nýjar flugvélar, og það tekur yfir 10 ár að þróa nýja orrustuþotu og 20 ár að fá nægan bardagahæfan fjölda. Óánægja Bundeswehr með von der Leyen varð að lokum svo mikil, að Kanzlerin Merkel varð að losa sig við hana úr ríkisstjórninni í Berlín.  Brüssel tekur lengi við. 

""Þorri þjóðarinnar verði bólusettur fyrir sumarið", sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, í samtali við mbl.is um framvindu bólusetninga gegn kórónuveirunni. 

Spurð, hvers vegna ekki liggi frekari áætlanir fyrir um afhendingu bóluefnis, segir Svandís, að framleiðsla á bóluefnum standi enn yfir.  Í framhaldi af þeim komi áætlanir um dagsetningar afhendinga.  Meginmálið sé, að samningar um kaup á bóluefni séu í höfn."

 Þetta furðusvar Svandísar sýnir, að keisarinn er ekki í neinu.  Vankunnátta hennar og óhæfni á þessu sviði er alger.  Hún gefur í skyn, að ekki tíðkist að semja um afhendingartíma fyrr en búið sé að framleiða vöruna.  Vantraust hennar á einkaframtakinu er svo mikið, að hún hefur ímyndað sér, að það geti ekki samið framleiðsluáætlun.  Hið rétta er, að það er engin alvörupöntun fyrir hendi, nema samið hafi jafnframt verið um afhendingartíma.  Iðulega eru settir í samninga skilmálar um dagsektir vegna tafa á afhendingu vöru. Heilbrigðisráðherra fer með helbert fleipur, þegar hún fullyrðir, að "þorri þjóðarinnar verði bólusettur fyrir sumarið" m.v. þær upplýsingar, sem nú eru fyrir hendi, eins og Kári Stefánsson hefur bent á. 

Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu, ritaði vandaða hugleiðingu um efnahagsmál í Tímamót Morgunblaðsins undir fyrirsögninni:

 "Hinn vandrataði vegur".

Þessum hugleiðingum Stefáns lauk undir millifyrirsögninni: 

"Forsætisráðherrann féll á prófinu":

"Ummæli bankastjórans voru látin falla í samhengi við nýlegar fréttir um, að bóluefni væri handan við hornið, sem tryggt gæti hjarðónæmi gegn kórónuveirunni.  Þau tíðindi hafa raungerzt og víða um heim er byrjað að bólusetja fólk af miklum móð, sem færir heimsbyggðina nær því marki að færa lífið í eðlilegt horf á ný.  Stærsta ógnin á þessum tímapunkti fyrir okkur Íslendinga virðist vera sá sofandaháttur, sem íslenzk stjórnvöld sýndu, er kom að öflun bóluefnis.  Virðast þau hafa lagt allt sitt traust á Evrópusambandið [ESB], og að í krafti þess yrði hlutur Íslands í heimsframleiðslunni a.m.k. ekki hlutfallslega minni en annarra þjóða.  Nú er því miður komið á daginn, að ESB féll á prófinu - og þar með Ísland.  Var hreint út sagt vandræðalegt, þegar fréttist, að forsætisráðherra hefði nokkrum dögum fyrir jól varið heilum degi í að hringja í forstjóra Pfizer og búrókrata í Brussel í veikri von um, að rétta mætti hlut íslenzku þjóðarinnar í þessu efni.

Þau viðbrögð komu alltof seint, mörgum mánuðum eftir, að forystumenn á borð við Justin Trudeau og Boris Johnson höfðu af alefli og með fulltingi embættismanna sinna tryggt löndum sínum veglega hlutdeild í því magni, sem þó hefur tekizt að framleiða og framleitt verður á komandi mánuðum.  

Langstærsta verkefni stjórnvalda næstu vikurnar verður að tryggja nægt bóluefni til landsins, koma því í rétta dreifingu og hefja samhliða þeirri vinnu markaðssetningu á Íslandi sem öruggri höfn fyrir ferðamenn.  Hvort sem fólki líkar það betur eða verr, mun ekki takast að sigla hagkerfinu úr hinum mikla öldudal, nema með endurreisn ferðaþjónustunnar.  Innviðirnir eru til staðar og flugfélagið - jafnvel þótt stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna hafi tekið afstöðu gegn félaginu og hagsmunum sjóðfélaga og íslenzku þjóðarinnar um leið."

Þetta er hörð ádrepa á 2 ráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, en fullkomlega réttmæt í ljósi þeirra gríðarlegu hagsmuna, sem í húfi eru.  Vanræksla þessara tveggja ráðherra VG ætti að færa fólki heim sanninn um, hversu hættulegt er að styðja eintrjáningslega og löngu úr sér gengna hugmyndafræði til valda á Íslandi.  Í þessum þrönga og þröngsýna stjórnmálaflokki er eðlilega lítið mannval, og fólk kann þar lítt til verka, þegar að krefjandi verkefnum kemur, og er ekki treystandi til stórræða.

Þrátt fyrir hægagang mun á fyrsta ársfjórðungi 2021 takast að bólusetja þá, sem í mestri lífshættu eru við C-19 sýkingu, og framlínustarfsfólk heilbrigðisgeirans.  Eftir það er varla nokkur hætta á yfirálagi heilbrigðisstofnana vegna margra C-19 sjúklinga.  Þar með falla brott helztu röksemdir fyrir alls konar höftum í samfélaginu í nafni sóttvarna.  Þess vegna ættu sóttvarnaryfirvöld í janúar 2021 að gefa út áætlun um afléttingu hamlana innanlands og á landamærum.  Það verður grundvöllur endurræsingar þeirra geira athafnalífsins, sem lamaðir hafa verið í Kófinu á meira eða minna hæpnum forsendum.

 


Fullveldi í sviðsljósi

Merkileg bók, Uppreisn Jóns Arasonar, eftir Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóra, er nýkomin út. Höfundur þessa pistils er með hana á náttborðinu og hefur enn ekki lokið við hana.  Það er þó ljóst af upphafinu, að Jón Arason, Hólabiskup, hefur verið einstakur maður, og saga hans á sér enga hliðstæðu hérlendis. 

Jón Arason fór fyrir vopnaðri uppreisn gegn yfirráðum Danakonungs hérlendis.  Hann var í bandalagi við Hansakaupmenn frá Hamborg, sem höfðu stundað frjáls viðskipti við landsmenn í heila öld, öllum til hagsbóta, er Jón lét til sín taka. Danska konungsvaldið var tiltölulega veikt á þessum tíma, og það var alveg raunhæf fyrirætlun Hólafeðga að viðhalda hér katólskri trú, a.m.k. um sinn, og Hólaherinn var í raun svo öflugur, að hann gat náð yfirhöndinni í viðureigninni við konungsmenn, enda höfðu Hamborgarar séð honum fyrir vopnum. 

Því miður mættu Hólafeðgar  ekki til bardaga, heldur  til samningaviðræðna við Daða í Snóksdal um jörðina Sauðafell haustið 1550.  Daði, hins vegar, bjóst til bardaga og náði að safna meira liði á Vesturlandi og yfirbugaði þá feðga á Sauðafelli í Dölum, og þar með var úti um stórpólitísk áform Hólafeðga.

Það er að vísu spurning, hvað gerzt hefði á Íslandi árið eftir, ef Hólaherinn hefði haft betur á Sauðafelli haustið 1550, því að Danakonungur, lúterstrúarmaðurinn Kristján III., samdi við Hansakaupmenn um að láta af stuðningi sínum við Jón, biskup, og sendi þýzka "sveitastráka - Landknechten", harðdræga og vel vopnum búna málaliða til Íslands, væntanlega með fyrirmæli um að ganga á milli bols og höfuðs á biskupinum og herforingjum hans.   

Jón Arason var æðsti fulltrúi páfa á Íslandi, eftir að lúterskur biskup var settur yfir Skálholtsbiskupsdæmi að Ögmundi Pálssyni gengnum.  Jón barðist þess vegna ekki fyrir sjálfstæði landsins, en hann mun hafa talið miklu vænlegra, að það nyti verndar Þýzkalandskeisara, sem þá var hinn kaþólski Karl V., en Danakonungs. Í ljósi þróunarinnar hér í síðaskiptunum og áratugina á eftir, klausturrána og flutnings gríðarlegra verðmæta úr landi, viðskiptahamla, einveldis og einokunarverzlunar, þar sem kóngsi ákvað verzlunarstaði og verð, er líklegt, að landinu mundi hafa vegnað betur undir vernd Þjóðverja og með frjáls viðskipti við umheiminn, aðallega við Hansakaupmenn.  Hversu lengi sú skipan mála hefði haldizt, eða hvað hefði tekið við, er óvíst, en staða Jóns Arasonar í sögunni á sér enga hliðstæðu hérlendis. Hann var einstakur og vinsæll af alþýðu manna, enda af alþýðufólki kominn, og almannatengsl hans voru mjög virk með kveðskap hans, sem barst frá manni til manns um landið allt.  Enginn maður hérlendur hefur fengið veglegri líkfylgd en hann.  Norðlendingar sóttu líkamsleifar þeirra feðga um veturinn fljótlega eftir aftökurnar og fluttu heim til Hóla.  Þeir hefndu morðanna grimmilega að áeggjan Þórunnar, dóttur biskups.

Í hausthefti Þjóðmála er ítarleg og ritrýnd grein eftir Arnar Þór Jónsson, dómara, sem hann nefnir: 

"Sjálfstæðisbaráttan nýja".  

Þar leggur hann út af þróun EES-samstarfsins, sem hann hefur áhyggjur af, að sé á þeirri ólýðræðislegu braut, að íslenzk yfirvöld telji sig skuldbundin til að taka við þeirri ESB-löggjöf, sem Framkvæmdastjórnin telur rétt, að fái lagagildi í EFTA-löndum EES, þótt allt annað sé uppi á teninginum í EES-samninginum sjálfum samkvæmt orðanna hljóðan og Norðmenn líti öðruvísi á málið, þegar þeim býður svo við að horfa.  

Þetta eru orð í tíma töluð, og þessi grein þarf að hljóta verðuga umfjöllun.  Aðild Íslands að samninginum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) er ekki eina hugsanlega samstarfsform Íslands við ESB á sviði viðskipta.  Sviss hefur annan hátt á; hefur gert yfir 100 samninga við ESB á sviði viðskipta, mennta og menningar.  Bretar vilja gera víðtækan viðskiptasamning við ESB í stað ESB-aðildar, en samningar hafa strandað aðallega á þrennu:

1) ESB vill halda áfram fiskveiðum sínum innan fiskveiðilögsögu Bretlands, eins og ekkert hafi í skorizt, a.m.k. í einn áratug.  Það er fremur ólíklegt, að ESB mundi taka upp þessa kröfu á hendur Íslendingum í samningum um fríverzlun, því að þeir hafa engin fiskveiðiréttindi haft hér í tæplega hálfa öld.

2) Framkvæmdastjórnin vill, að ESB-dómstóllinn verði endanlegur dómstóll í ágreiningsmálum um framkvæmd viðskiptasamningsins.  Á slíkt er ekki hægt að fallast hérlendis fremur en í Bretlandi, en gerðardómur á vegum EFTA og ESB gæti komið í staðinn  eða WTO-Alþjóða viðskiptastofnunin í ágreiningsmálum Íslands og ESB eftir gerð fríverzlunarsamnings á milli EFTA og ESB.

3) ESB vill samræmdar samkeppnisreglur á milli Bretlands og ESB. Bretar ætla sér að veita ESB-ríkjunum harða samkeppni, en ekki er líklegt, að þetta verði ásteytingarsteinn í samningaviðræðum Íslands/EFTA við ESB. 

Það gætu skipazt svo veður í lofti eftir Stórþingskosningar í Noregi haustið 2021, að jarðvegur myndist fyrir því að leysa EES-samninginn af hólmi með víðtækum fríverzlunarsamningi á milli EFTA og ESB. Í Noregi eru miklar áhyggjur og deilur út af fullveldisógnandi áhrifum ýmissar lagasetningar, sem ESB vill, að Stórþingið í Ósló innleiði. Senterpartiet mælist nú með mest fylgi, og ef fram fer sem horfir, verður mynduð ný ríkisstjórn í Noregi næsta haust um gjörbreytta stjórnarstefnu, þar sem afstaðan til ESB verður endurskoðuð.  Ef þetta gerist, verður ekki meirihluti í Stórþinginu fyrir Orkupakka 4, og hann er þá dauður gagnvart EFTA-ríkjunum, þ.e. honum verður hafnað í Sameiginlegu EES-nefndinni, ef hann á annað borð verður lagður fram þar.

Við höfum líka séð harkaleg afskipti fjölþjóðlegs dómstóls, þar sem Ísland á aðild, af íslenzkum innanlandsmálum án eðlilegrar og fullgildrar ástæðu.  Slíkt verður þá að líta á sem ögrun við íslenzkt fullveldi, eins og Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari, vakti athygli á í hugvekju í Morgunblaðinu 5. desember 2020:

"Með hjartað í buxunum".

Hún hófst þannig:

"Nú hefur Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) lokið dómi á málið, sem þar hefur verið til meðferðar í tilefni af skipun dómara í Landsrétt.  Sú furðulega niðurstaða hefur orðið ofan á hjá dómstólnum, að dómurinn, sem dæmdi hér á landi í máli kærandans, hafi ekki verið réttilega skipaður, til að kröfu 6. gr. mannréttindasáttmálans teldist fullnægt.  Þessi niðurstaða er að mínum dómi alveg fráleit og felur ekkert annað í sér en afskipti eða inngrip í fullveldisrétt Íslands."

Það er mjög mikill fengur að þessum úrskurði hins lögfróða og reynda manns, því að nákvæmlega hið sama blasir við þeim, sem hér heldur á fjaðurstaf, og mörgum öðrum leikmönnum á sviði lögfræði. Fjaðrafokið, sem dómur neðri deildar MDE í sama máli olli, og sú ákvörðun að áfrýja honum til efri deildar, var ástæðulaus og pólitískt röng.  Það sýnir dómgreindarleysi viðkomandi ráðherra (ÞKRG) og ráðgjafa hennar að ímynda sér, að efri deildin, með sama íslenzka dómarann innanborðs og var í neðri deildinni við uppkvaðninguna þar, myndi snúa niðurstöðu neðri deildar við.

Þessi dómstóll hefur ekki lögsögu hér.  Svo er Stjórnarskránni fyrir að þakka.  Við einfaldlega ákveðum í ró og næði, hvað við teljum bitastætt frá þessum dómstóli.  Í þessu tiltekna máli var um þvílíkan sparðatíning að ræða, að furðu sætir, að dómstóllinn skuli ekki hafa vísað kærumálinu frá. Hæstiréttur Íslands hefur kveðið upp þann dóm í málinu, sem þarf að hlíta hérlendis. Það er maðkur í mysunni, og Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, hefur kallað gjörninginn pólitískt at.  Þetta at heppnaðist, því að þessi ágæti ráðherra var hrakinn úr embætti.  Hafði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, lítinn sóma af því.

 "Það er eins og MDE hafi verið að leita að tilbúnum ástæðum til að finna eitthvað athugavert við skipun þessa dómara í embætti.  Manni gæti helzt dottið í hug, að einhver dómaranna við réttinn hafi þekkt kæranda eða lögmann hans, ef maður vissi ekki, að sjónarmið af þessu tagi koma auðvitað ekki til greina hjá svona virðulegri stofnun, eins og dómstóllinn er."

Er nema von, að hugur hæstaréttarlögmannsins leiti á fjarlæg mið í leit að skýringu, en það væri reyndar alveg óskiljanlegt, ef þessi vegferð væri einhvers konar greiði íslenzka dómarans við æskuvin sinn.  Hvílíkri spillingu og hrossakaupum hjá MDE í Strassborg lýsir það ?  Það er ótrúlegra en söguþráður lélegrar skáldsögu í jólabókaflóði á Íslandi.  Þeir vinirnir skála líklega og hlæja ótæpilega næst, þegar leyft verður að hittast innan 2 m. 

Í lok greinar Jóns Steinars kom rúsínan í pylsuendanum:

"Þegar dómstóllinn ytra kemst að svona niðurstöðu, er hann að brjóta freklega gegn fullveldi Íslands.  Þessi erlenda stofnun hefur engan afskiptarétt af efni íslenzkra lagareglna um skipun dómara, svo lengi sem í þeim reglum felst ekki í sjálfum sér beint brot á réttindum sakbornings, t.d. með því að láta verjanda hans eða eiginkonu dæma. 

Svo er eins og hjartað sigi ofan í buxur hjá flestum Íslendingum, þegar þessi erlendu fyrirmenni hafa sent frá sér valdskotna ákvörðun sína, sem enga stoð hefur í lögskiptum okkar við þá [þ.e. þau-innsk. BJo]. Í stað þess að velta vöngum yfir því, hvernig bregðast skuli við ofbeldinu með undirgefnum ráðstöfunum, ættu landsmenn að hvetja forráðamenn þjóðarinnar til að mótmæla þessari aðför hástöfum og gera grein fyrir því, sem augljóst ætti að vera, að við lútum ekki ríkisvaldi úr höndum þessarar stofnunar á borð við það, sem nú var að okkur rétt.  Sjálfstætt og fullvalda ríki lætur ekki bjóða sér slíkt."

Þetta er hverju orði sannara, og Sjálfstæðisflokkurinn þarf nú að standa undir nafni og hafa forgöngu um það, sem hæstaréttardómarinn fyrrverandi skrifar hér að ofan.  Dómsmálaráðherrann er ritari flokksins og henni stendur það næst að hafa forgöngu um verðugt svar til Strassborgar. Pistill hennar í Morgunblaðinu 9. desember 2020 drepur þó í dróma alla von um það.  Er það þá svo, að álykta verði, að sú lyddulýsing, sem hæstaréttarlögmaðurinn viðhefur hér að ofan (um líffæri og klæði), eigi m.a. við um hana ? 

Það er hins vegar alveg víst, að fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, hefur ekki misst hjartað ofan í buxurnar við þessi tíðindi frá Strassborg og mun taka málstað fullveldisins í þessu máli hér eftir sem hingað til.  Hún er með hreinan skjöld í þessu máli, enda varaði hún bæði þingforsetann og forseta lýðveldisins við þeirri aðferð þingsins að greiða atkvæði um alla umsækjendur um dómaraembætti í Landsrétti, sem hún mælti með, í einu lagi, en MDE fetti fingur út í það.  

 Grexit vofir yfir

 


Sóttvarnir á brauðfótum

Það er búið að kosta óhemjumiklu til sóttvarna hérlendis á því herrans ári 2020, og áframhald virðist ætla að verða á því 2021. Á Englandi eru þingmenn Íhaldsflokksins farnir að spyrja um heilsufarslegar og fjárhagslegar afleiðingar sóttvarnaraðgerða þar í landi. Lítið fréttist af slíkum umræðum á Alþingi. Spurningin, sem spyrja ætti núna, er sú, hvort ríkisvaldinu hafi ekki verið veitt of mikil völd yfir lífi fólks, eða það hafi jafnvel tekið sér þau í heimildarleysi. Afleiðingin er langavitleysa herðinga og slakana á sóttvarnaaðgerðum samkvæmt geðþótta sóttvarnarlæknis. Nú virðist hann ekki þora að slaka á frelsistakmörkunum, þótt þær séu í engu samræmi við álagið á heilbrigðiskerfið, hvað þá sýkingatíðnina.

Enginn veit, hvenær hjarðónæmi næst gegn SARS-CoV-2-veirunni með bólusetningum, og enginn veit, hversu lengi mótefnin munu vara í mannslíkamanum. Þau vara tiltölulega stutt af "flensusprautunum", en flensuveirurnar eru afbrigði kórónuveiru. Nýþróuð bóluefni, reist á erfðafræðilegu boðefni (mRNA), eru hins vegar eðlisólík fyrri bóluefnum. 

Þá er ekki hægt að útiloka, að veiran komi aftur, eitthvað stökkbreytt, og valdi usla, eins og aðrar kórónuveirur hafa gert, sem fylgt hafa mannkyni frá upphafi vega. Sóttvarnaryfirvöldum miðar ekkert áfram í þróun sinna grófgerðu aðgerða (10 manna hópatakmörkun), þau eru eins og færilús á tjöruspæni.

Mjög miklar og dýrkeyptar takmarkanir hvíla á þegnunum núna, eins og mara, en virðast hafa lítil áhrif á smittíðni, því að hún tekur sig upp jafnvel áður en boðaðar tilslakanir koma til framkvæmda.  Það eru persónubundnar sóttvarnir og ábyrg hegðun einstaklinganna, sem öllu máli skipta fyrir smitstuðulinn.  Því miður hefur sumum í s.k. þríeyki látið betur að predika og hneykslast á lýðnum en að sýna gott fordæmi með alræmdum afleiðingum.

Nýlegar rannsóknir sýna, að flestir sýktra smita engan, en 10 %-15 % smitbera valda yfir 80 % smitanna.  Þetta gefur til kynna, að almennar takmarkanir og lokanir séu áhrifalítil úrræði, og þau hafa mjög alvarlegar afleiðingar á fjárhag margra, á geðheilsu, á líkamlega heilsu og munu, er frá líður, leggjast sem mara á heilbrigðiskerfið og valda fleiri dauðsföllum en þær hindra.

Að trufla skólasókn ungmenna út af meintum C-19 sóttvörnum er glapræði.  Vernd gegn smitum á að beina að þeim, sem líklegir eru til að fara halloka gegn SARS-CoV-2-veirunni.  Það er vitað, hverjir það eru.  Dánarhlutfall sýktra í Landakotsáfallinu í október-nóvember 2020 var 15 %.  Dánarhlutfall í aldurshópnum 0-35 ára er 0,001 % - 0,01 %.  Í öllum aldurshópum eru veikir einstaklingar, sem þarf að verja, en flestum hinna verður lítið meint af þessum sjúkdómi. Þó eru mismikil eftirköst af öllum veirusjúkdómum hjá um 10 % sýktra.

Það er verið að beita kolrangri, klunnalegri og dýrkeyptri aðferðarfræði af þröngsýni og skammsýni í baráttunni við þennan vágest, eins og "Great Barrington"-sérfræðingahópurinn hefur bent á.  Þar á ofan bætist, að reglugerðir heilbrigðisráðherra orka lagalega mjög tvímælis, eins og hérlendir hæstaréttarlögmenn hafa bent á.  Nú hefur hún látið semja lagafrumvarp um sóttvarnir, sem sætir miklum ádeilum, einkum ákvæði um heimild stjórnvalda til útgöngubanns.  Yfirvöldin kunna ekki með heimildir sínar að fara, og það er alveg þarflaust að veita þeim auknar sóttvarnarheimildir. Öllu nær væri að láta reyna á gjörðir þeirra fyrir dómi, eins og gert hefur verið sums staðar erlendis, t.d. í Þýzkalandi, þar sem stjórnvöld máttu lúta í gras fyrir að fara offari. 

Fréttablaðið hefur verið gagnrýnið á duttlungafullar og harkalegar samfélagslegar sóttvarnir hérlendis, sem eru eins konar "sagan endalausa" með sífelldum endurtekningum, herða-slaka.  Slíkt eyðileggur hvaða þjóðfélag sem er.  Þann 30. október 2020 birtist þar forystugrein eftir Hörð Ægisson, sem vert er að gefa gaum.  Hún hófst á þessa lund:

"Hvað tefur ?"  

"Farsóttin er að dragast á langinn og óvissa um efnahagshorfur að aukast.  Þetta var mat fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans í lok september - fyrra mat í vor var, að faraldurinn myndi ganga hratt yfir - en síðan hefur staðan aðeins versnað enn frekar.  Það kemur tæpast á óvart."

Hvert sótti Seðlabankinn sér þessa röngu ráðgjöf ?  Líklega til "þríeykisins", sem hefur þarna tekið algerlega rangan pól í hæðina einu sinni sem oftar um útbreiðslu þessarar farsóttar.

"Við höfum ákveðið að eftirláta heilbrigðisyfirvöldum að stjórna landinu.  Stefnan er að há stríð við veiru með öllum ráðum, sama hvaða skelfilegu afleiðingar það kann að hafa, uns bóluefni verður tiltækt - sem enginn veit þó, hvenær verður né hvaða virkni það mun hafa.  Um þetta áhættusama veðmál virðist að mestu samstaða innan ríkisstjórnarinnar - ekkert hefur heyrzt frá formanni Sjálfstæðisflokksins, sem gefur ástæðu til að halda annað - þar sem öll önnur sjónarmið en sóttvarnir eru víkjandi."

Að láta heilbrigðisyfirvöldum eftir stjórn landsins kann ekki góðri lukku að stýra.  Það er horft framhjá stórfelldum tekjumissi þjóðarbúsins og fjölda fyrirtækja ásamt atvinnumissi meira en 5000 manns.  Samkvæmt tölfræðilegum rannsóknum geta 150 þeirra misst heilsuna vegna atvinnumissisins og jafnvel týnt lífi fyrir aldur fram.  Sóttvarnaryfirvöld bjarga varla svo mörgum lífum með öllum sínum samfélagslegu takmörkunum og þvingunum, ef frá eru skildar smitrakningar og sóttkví vegna gruns um smit, og alls ekki með sóttkví og PSR-sýnatöku nr 2 fyrir erlenda ferðamenn.  Um innkomandi íbúa landsins gegnir öðru máli.  Smitstuðull þeirra er hár, en lágur fyrir hina, sennilega minni en 1,0.  Í seinni skimun hafa 90 greinzt jákvæðir þrátt fyrir neikvæðni í fyrri skimun, þegar þetta er ritað.  Ef gert er ráð fyrir því, að 60 af þessum 90  séu smitandi erlendir ferðamenn, hafa þeir e.t.v. náð að valda 100 sýkingum innanlands innanlands áður en tekst að komast fyrir upptökin með smitrakningum og sóttkvíum.

Þegar þetta er skrifað, virðast 309/5371=5,75 % af greindum lenda á sjúkrahúsi og 50/5371=0,93 % af greindum lenda í gjörgæzlu.  Samkvæmt þessu kynnu 3 af þessum 60 sýktu erlendu ferðamönnum að hafa lent á sjúkrahúsi hér, en enginn í gjörgæzlu vegna hagstæðrar áhættudreifingar í hópnum.  Af þessu sést, að verið er að fórna miklu meiri lýðheilsutengdum hagsmunum fyrir minniháttar álagsaukningu á sjúkrahúsin vegna C-19 með illa ígrunduðum aðgerðum á landamærunum.

Fjárhagslega er aðgerðin glapræði, því að hún kann að fækka erlendum ferðamönnum hingað um 300 k árið 2020, sem þýðir tekjutap fyrir þjóðarbúið upp á tæplega mrdISK 80. Hér hefur verið tekin ákvörðun fyrir hönd landsmanna með bundið fyrir augu og eyru.  

"Þeir, sem leyfa sér að setja opinberlega fram efasemdir um, að skynsamlega sé að málum staðið, eru umsvifalaust útmálaðir sem brjálæðingar, sem skeyti lítt um líf og heilsu þeirra, sem viðkvæmastir eru fyrir í samfélaginu.  Ekki er þetta á mjög háu plani", skrifaði Hörður Ægisson ennfremur.  Það er hins vegar augljóst af öllum málflutningi, hvorum megin brjálæðið liggur.

Það er kominn tími til, að aðilar vinnumarkaðarins tjái sig opinberlega af þunga um þau glæfralegu tilræði, sem hér eru framin á degi hverjum við atvinnulífið og daglegt líf landsmanna í nafni misskilinna sóttvarna, sem kasta barninu út með baðvatninu, eins og rakið er að ofan.  Frétt í Markaði Fréttablaðsins 26. nóvember 2020 hófst þannig:

""Það er kominn tími til að draga markvisst úr þessari langvarandi óvissu og setja fram skýra áætlun um aðgerðir til loka faraldursins", sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Fréttablaðið.  Þannig verði næstu sóttvarnaraðgerðir fyrirsjáanlegri og um leið líklegar til að njóta breiðs stuðnings í samfélaginu öllu.

Samtök atvinnulífsins kalla eftir því, að stjórnvöld nýti reynsluna af baráttunni við útbreiðslu kórónaveirunnar og útbúi skýran ramma um aðgerðir næstu mánaða.  Þau telja, að sóttvarnaraðgerðir næstu mánaða þurfi að uppfylla 3 skilyrði. 

Í fyrsta lagi, að skýr og tímasett áætlun sé um afléttingu afmarkana.  Í öðru lagi þarf að setja fram töluleg viðmið, þar sem frekari liðkun eða hömlur eru tengdar við nýgengi smita.

Og í þriðja lagi, að sóttvarnarráðstafanir séu innbyrðis samkvæmar, skiljanlegar almenningi og höfðað sé til ábyrgðar hvers og eins um að verja sig og aðra.

"Óvissa um síbreytilegar aðgerðir hefur sett skólahald, starfsemi fyrirtækja og öll áform í samfélaginu í uppnám", segir Halldór. Draga þurfi markvisst úr þessari langvarandi óvissu og setja fram skýra áætlun.""

Þetta er hófstillt gagnrýni fulltrúa atvinnurekendasamtakanna á stefnu sóttvarnaryfirvalda, sem er eins og ósýnilegur fíll í postulínsbúð, því að enginn veit, hver þessi stefna er, en hún veldur þjóðfélaginu alveg gríðarlegu tjóni.  Halli ríkisstjóð á þessu ári vegna aukinna útgjalda og samdráttar hagkerfisins af völdum sóttvarnaraðgerða hérlendis og erlendis er áætlaður mrdISK 260 og svipaður 2021.  Hér er verið að binda ungu kynslóðinni ósæmilegar klyfjar.  Almennt má segja, að hún hafi orðið fórnarlamb stjórnvaldsaðgerða hérlendis í þessum kórónuveirufaraldri, því að nám hennar hefur orðið fyrir skakkaföllum algerlega að óþörfu, þar sem ráðherrar heilbrigðis og mennta hafa farið offari í forræðishyggju sinni gagnvart samfélagshópum, sem átti að láta að mestu í friði.  Þá eru tveir hópar, sem verst hafa orðið fyrir barðinu á atvinnumissi.  Það eru ungt fólk og fólk af erlendum uppruna.  Það eru margir í sniðmenginu, þ.e. ungir og erlendir, sem eiga um sárt að binda. 

Sóttvarnayfirvöld munu bregðast Halldóri Benjamíni og öðrum landsmönnum í þessum efnum.  Þau vilja bara leika af fingrum fram, og líftölfræðingur "numero uno" virðist ekki geta vísað fram á veginn heldur.  Það, sem þarf endilega að gera, til að draga úr tjóninu, sem vitlaus viðbrögð hafa valdið, er að:

1) Aflétta fjöldatakmörkunum í skólarýmum, en viðhalda grímuskyldu í framhldsskólum.  Kennarar gæti sérstakrar varúðar, einkum hinir eldri. 

 

2) Aflétta hömlum af íþróttastarfsemi og leyfa opnun sundstaða og líkamsræktarstöðva gegn því að viðhafa persónubundnar sóttvarnir.

3) Aflétta fjöldatakmörkunum af verzlunum, en þar verði áfram grímuskylda og sprittun. 

4) Leikhús, kvikmyndahús og tónleikahald megi starfrækja eðlilega með allt að 1000 gestum, sem verði með grímur. 

5) Matsölustaðir og barir megi hleypa inn jafnmörgum gestum og geta fengið sæti á tímabilinu kl 1800-2400.  Grímuskylda á meðan ekki er setið.  Sjálfsafgreiðsla ekki leyfð.

6) Á landamærunum þarf strax að liðka til fyrir komum erlendra ferðamanna með því að hleypa ferðamönnum með viðurkennd ónæmisvottorð inn án sýnatöku og láta einfalda sýnatöku duga fyrir fólk með ríkisfang á og komandi frá "grænum eða gulum" svæðum, en aðrir fari í tvöfalda skimun og 2-3 daga sóttkví.  

Eldri borgarar ættu að fara varlega og forðast fjölmenni.  Skjólstæðinga dvalar- og hjúkrunarstofnana þarf að verja sérstaklega vel.  Það á við gagnvart gestum á þessum stofnunum og starfsfólk.  Starfsfólk sæti skimun a.m.k. vikulega. 

Að lokum skal hér vitna í niðurlag umhugsunarverðrar  forystugreinar Harðar Ægissonar í Fréttablaðinu 27. nóvember 2020, sem hét:

"Farið offari".

"Því miður er það að gerast, sem sumir óttuðust.  Embættismenn, sem hafa öðlazt gríðarmikil völd á þessum veirutímum, hafa vanizt þeim óþægilega mikið og eru um margt að fara offari í aðgerðum sínum.  Við því þarf að bregðast.  Nú þegar bóluefni er í augsýn, er ljós við enda ganganna.  Við eigum að nýta þá stöðu, eins og m.a. Samtök atvinnulífsins hafa lagt til [með því] að útbúa skýran ramma um sóttvarnarráðstafanir til næstu mánaða, sem verði tengdar við töluleg viðmið um þróun faraldursins hverju sinni.  Slíkt væri til þess fallið að auka á fyrirsjáanleika aðgerðanna og um leið létta verulega á þeirri óvissu, sem nú er allt um lykjandi. 

Það er ekkert, sem kallar á viðvarandi krísuástand, sem er á góðri leið með að drepa allt samfélagið í dróma fram að þeim tíma, þegar búið verður að að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar.  Það stendur á forystumönnum ríkisstjórnarinnar, ekki þríeykinu, að rétta við kúrsinn, þegar teknar verða afdrifaríkar ákvarðanir um næstu skref."

Hörður stingur á meininu í lokin.  Ástæðan fyrir því í hvílíkt óefni er komið er einmitt sú, að ríkisstjórnin hefur enga forystu veitt í sóttvarnarlegum efnum, þótt með tillögum sínum fari sóttvarnarlæknir augljóslega offari. Hið eina, sem ríkisstjórnin gerir, er að gera tillögur til Alþingis um að ausa úr ríkissjóði, sem hún hefur raunar þegar tæmt og er nú önnum kafin við að binda unga fólkinu þunga bagga. Þetta heitir að stinga hausnum í sandinn.

Hörður Ægisson nefnir, að ríkisstjórnin ætti að setja aðgerðum sínum töluleg viðmið og vitnar til Halldórs Benjamíns í því sambandi.  Sá nefndi reyndar nýgengi smita.  Hvers vegna ?  Það er fremur lélegur mælikvarði, nema við viljum koma í veg fyrir hjarðónæmi, en það er reyndar hið endanlega markmið, að vísu með bólusetningu.  Gallinn er sá, að enginn veit, hversu lengi slíkt ónæmi helzt í blóðinu eða hvort það verður virkt gegn stökkbreyttri veiru.  

Betri mælikvarðar en nýgengi smita fyrir ástæðu til samfélagslegra sóttvarnaaðgerða er fjöldi sjúklinga með þungu vægi á fjölda C-19 sjúklinga á sjúkrahúsi og í gjörgæzlu.  Í þessum skrifuðum orðum er fjöldi sjúklinga 187 og þar af 41 á sjúkrahúsi og 2 í gjörgæzlu.  Samt heldur ríkisstjórnin þjóðinni að tillögu sóttvarnarlæknis í spennitreyju almennra fjöldatakmarkana við 10, lokana á heilsubótarstöðvum og annarra dýrkeyptra takmarkana.  Þetta nær engri átt, enda er sóttvarnarleg skilvirkni þessara takmarkana óljós og í engu samræmi við augljósa ókosti.  Persónubundnar sóttvarnaraðgerðir er það, sem á að halda í heiðri, óháð stétt og stöðu, hvort sem um er að ræða yfirlögregluþjóna eða aðra.  

 

 


Að breyta stjórnarskrá

Stjórnarskrá eru grundvallarlög ríkisins, frelsistrygging einstaklinganna í landinu og fyrirmæli um, hvernig æðstu stjórn ríkisins skuli háttað (þrígreining ríkisvaldsins).  Þar eru líka ákvæði um val þjóðhöfðingjans og valdmörk hans. Rauði þráðurinn í íslenzku stjórnarskránni er stöðugt fullvalda ríki sjálfstæðra einstaklinga, sem með lýðræðislegum hætti velja alla fulltrúana á löggjafarþinginu og sjálfan þjóðhöfðingjann líka.  Samkvæmt núverandi stjórnarskrá geta aðrar ríkisstjórnir eða ríkjasamtök ekki hlutazt til um líf og hagsmuni landsmanna, og löggjafarsamkoman, Alþingi, hefur ekki umboð til að breyta þessu. Þetta felur í sér, að Ísland getur ekki gengið í Evrópusambandið að óbreyttri stjórnarskrá. 

Þótt tæplega 97 % atkvæðisbærra manna á Íslandi hafi samþykkt Lýðveldisstjórnarskrána 1944, var hún þó vitaskuld barn síns tíma, enda hefur hún tekið fjölmörgum breytingum.  Með réttu má halda því fram, að enn séu ákvæðin um völd þjóðhöfðingjans ruglingsleg og þörf sé á að skilgreina völd hans og hlutverk á nýjan leik. 

Ýmsir telja stjórnarskrána standa í vegi fyrir alþjóða samstarfi, sem þeir telja felast í að "deila fullveldinu með öðrum". Þeir vilja, að Alþingi geti samþykkt þröngt afmarkað framsal fullveldis með einföldum meirihluta atkvæða og afmarkað, víðtækt framsal fullveldis með auknum meirihluta atkvæða með svipuðum hætti og í Noregi.  Þar útheimtir innganga í ríkjasamband að auki þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur vakið deilur á stjórnmálasviðinu í Noregi, hvað er þröngt, afmarkað fullveldisframsal ("lite inngripende"), og hvað er víðtækt.  Nú er einmitt rekið mál fyrir Hæstarétti Noregs til að skera úr um það, hvort Þriðji orkupakkinn frá Evrópusambandinu (ESB) hafi verið "lite inngripende" í norska þjóðfélagið, eins og Stórþingið úrskurðaði 2018, eða hvort hann geti haft víðtæk áhrif á samfélagið og hagsmuni lögaðila og einstaklinga samkvæmt laganna bókstaf og raunverulegum aðstæðum, sem upp kunna að koma. 

Það er einmitt eitt aðalviðfangsefni stjórnarskrárgjafa að semja lagalega skýran texta, sem ekki verður túlkaður á mismunandi vegu með gildum rökum.  Þetta mistókst stjórnlagaráði vinstri stjórnarinnar 2009-2013 hrapallega.  Drög ráðsins eru ótækur lagalegur texti, sem minnir of mikið á tætingslegan óskalista eða stefnumið úr sitt hverri áttinni. 

Þessi tilraunastarfsemi vinstri stjórnarinnar reyndist illa.  Það er kolrangt, að þjóðin hafi samþykkt drög ráðsins í þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012. Aðeins 48,3 % atkvæðisbærra manna greiddi gilt atkvæði.  Nokkrar spurningar voru lagðar fram til þjóðaratkvæðagreiðslu og flestar loðnar.  Ein þeirra var, hvort kjósandinn mundi vilja leggja drög stjórnlagaráðsins til grundvallar að nýrri stjórnarskrá.  Þetta er marklaus spurning í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Hverju má henda út, og hvað verður að fá að standa ?  Allt þetta pauf ólöglega valins stjórnlagaráðs og vinstri stjórnarinnar var vindhögg gegn núverandi stjórnarskrá. Samkvæmt henni er það í verkahring Alþingis að breyta stjórnarskránni.  Til að gera breytingarnar sem bezt úr garði er nauðsynlegt fyrir þingið að njóta liðsinnis stjórnlagafræðinga. 

Karfan undir pappírstætaranum geymir tilraunir vinstri stjórnarinnar og stjórnlagaráðs bezt.  Óli Björn Kárason gerði þetta að umræðuefni í miðvikudagspistli sínum í Morgunblaðinu 23. september 2020:

""Tæpitungulaust snerist atkvæðagreiðslan því ekki um neitt", skrifaði Sigurður Líndal, prófessor í lögum, í Fréttablaðið 2 dögum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna.  Hann hélt því fram, að atkvæðagreiðslan hefði verið atkvæðagreiðsla um "ófullburða plagg", sem unnið hefði verið í anda sýndarlýðræðis, "sem er vísastur vegur til að rækta jarðveg fyrir pólitíska spillingu"".

Af mati Sigurðar Líndal má ráða, að sem grunnur að stjórnarskrá fyrir Íslendinga séu drög Stjórnlagaráðs ónothæft fúsk, sem mundu valda jafnvel lagalegu öngþveiti og pólitískum óróleika, ef reynt yrði að búa til úr þeim stjórnarskrá. Þessa tilraun vinstri stjórnarinnar dagaði uppi, og líklega er hún bezt geymd í körfu undir pappírstætara. 

Björg Thorarensen, þá prófessor í stjórnlagarétti við Lagadeild Háskóla Íslands, nú nýskipaður Hæstaréttardómari, sagði á fundi 09.11.2012 í HÍ:

"Það er ekki búið að fara efnislega yfir tillögurnar hjá löggjafanum, og þingmenn hafa þá skyldu samkvæmt stjórnarskrá að ræða þær efnislega.  Síðan er rétti stjórnskipulegi farvegurinn að bera þetta undir þjóðina, þegar búið er að vinna málið á þinginu."

Eins og kunnugt er, er þing rofið eftir samþykkt þess á stjórnarskrárbreytingum, og nýtt þing verður síðan að samþykkja þær óbreyttar, til að þær öðlist gildi. Þannig fær þjóðin aðkomu að málinu og getur krufið frambjóðendur til nýs þings um afstöðu þeirra til stjórnarskrárbreytinganna. 

Mörgum er mikið í mun að koma auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána.  Jón Jónsson, lögmaður, ritaði 2 greinar í Morgunblaðið um núverandi tillögu um auðlindaákvæði í nóvember 2020.  Hann kvað textann í frumvarpsdrögum forsætisráðherra vera of grautarlegan, og bæri brýna nauðsyn til að færa ákvæðið í skýrari lögfræðilegan búning.  Þá taldi hann ákvæði um gjaldtöku fyrir afnot ekki eiga heima í stjórnlögum, heldur í lögum fyrir hvert tilvik.  Undir þessi gagnrýnisefni má taka.  Seinni Morgunblaðsgreininni lauk lögmaðurinn þannig:

"Illframkvæmanlegt er að afmarka, hvenær krafan um skilyrðislausa gjaldtöku [fyrir afnot auðlindar] á við.  Sá vandi birtist m.a. í umfjöllun frumvarpsins um skilgreiningu auðlindahugtaksins og óljós tengsl við það, hvenær löggjafinn grípur til stýringar.  Einnig kemur hann fram í umfjöllun um stöðu almannaréttar gagnvart auðlindanýtingu, t.d. vegna ferðaþjónustu.  Þá verður alltaf verulegt álitamál, hvenær starfsemi telst í ábataskyni.  Það virðist óumflýjanlegt, að krafan um skilyrðislausa gjaldtöku verði ómarkviss.  Hún breytir einnig rótgrónu hlutverki ríkisins að stýra almannarétti og aðgangi að almannagæðum á grunni heildarhagsmuna.

Fjalla þarf frekar um þýðingu auðlindaákvæðis gagnvart eignarréttarákvæði stjórnarskrár við undirbúning málsins.  Eyða þarf vafa um, hvort ákvæðið stjórnarskrárbindi sósíalísk markmið um, að ný verðmæti falli sjálfkrafa til ríkisins.  Ákvæðið ætti heima í kafla stjórnarskrár um löggjafarvaldið við hlið 40. gr. um ráðstöfun fasteigna ríkisins og gæti orðazt á þessa leið: Náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti,  verða engum fengin til eignar eða varanlegra afnota." 

Tillaga Jóns um texta, undirstr. BJo, er til fyrirmyndar um skýra framsetningu á knappan hátt, sem þó segir það, sem segja þarf.  Ef hið sósíalistíska viðhorf ætti að ríkja, væri einkaeignarrétturinn ekki virtur viðlits, og t.d. sandurinn í landi Hjörleifshöfða, sem nú virðist skyndilega vera orðinn auðlind, hefði fallið til ríkisins, og þar með hefði tæplega verið nokkur grundvöllur fyrir frumkvæði og nýsköpun eigenda félagsins, sem nýlega festi kaup á landareigninni Hjörleifshöfða.  Fóstbræðurnir, sem freistuðu gæfunnar með Íslandsför úr Noregi um 874, hefðu orðið hrifnir af verðmætasköpun úr sandi, sem er hér ekki dæmigerður námugröftur, því að skörðin fyllast jafnóðum með sandburði sjávarins. Hér er um að ræða einkaviðskipti þýzk-íslenzks félags við landeigendur, sem ætla sér að hefja atvinnustarfsemi þar á landareigninni.  Bein erlend fjárfesting til atvinnu- og verðmætasköpunar er einmitt það, sem sárlega vantar hér í þessu landi, enda hefur OECD fundið út, að Ísland sé með einnar mestu hindranir á meðal OECD-landanna gegn beinum erlendum fjárfestingum.  Þetta er til þess fallið, að Ísland dragist aftur úr öðrum þjóðum í lífskjörum.  Fjárfesting í landi til atvinnurekstrar er ósambærileg við jarðasöfnun auðkýfinga til að sinna áhugamálum sínum, laxveiðum eða öðru.  Íslenzkir bændur munu varla vilja nytja slíkar jarðir og eiga sennilega ekki kost á því gegn sanngjörnu afgjaldi.  

Sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda í Kófinu 2020 hafa vakið upp efasemdir lögmanna og annarra um, að yfirvöld hafi heimildir samkvæmt sóttvarnarlögum og stjórnarskrá til þeirra gríðarlegu skerðinga á einstaklingsfrelsi fjölda fólks, sem þau hafa gripið til, og má þar nefna sóttkví, einangrun, smitrakningu, takmarkanir og jafnvel sviptingu atvinnufrelsis.  Íslenzkt framkvæmdavald er svifaseint við að afla sér óyggjandi lagaheimilda og samþykkta þjóðþingsins m.v. t.d. dönsk yfirvöld, sem lögðu fram frumvörp þessa efnis í marz og apríl 2020, en íslenzk heilbrigðisyfirvöld í nóvember 2020.

Í nýjum sóttvarnarlögum verður að setja nákvæm skilyrði fyrir vel afmörkuðum sóttvarnaraðgerðum í tíma og rúmi, og ef heimildir skortir fyrir nauðsynlegum aðgerðum að dómi yfirvalda í framtíðinni, verður löggjafinn að fjalla um það. Þegar kemur að jafnfrelsissviptandi aðgerðum framkvæmdavalds og útgöngubann er, verður löggjafinn að gæta mikillar varfærni við heimildargjöf í lögum.  Engin óyggjandi þörf er á afdráttarlausri heimild til útgöngubanns, og hún stríðir líklega gegn stjórnarskrá Íslands. Einnig þarf að aðgæta, hvort í stjórnarskrá þarf að afmarka leyfilegar sóttvarnaraðgerðir og tilgreina, að þær verði að vera reistar á gildandi lögum. 

Hæstaréttarlögmaðurinn Reimar Pétursson ræddi aðgerðir og aðgerðaleysi sóttvarnaryfirvalda í Kófinu á málþingi Órators, félags lögfræðinema við HÍ, 25.11.2020, og sagði m.a:

"Þessum spurningum verður að svara, og sé þeim svarað neitandi, þá þýðir það aðeins óðagot, fum, hroðvirkni og óvönduð vinnubrögð."

Alþingi á aldrei að líða annað eins í líkingu við þetta hjá ráðherrum.  Landbúnaðarráðherrann í Danmörku varð að axla ráðherraábyrgð og segja af sér vegna hins alræmda minkamáls, þegar í ljós kom, að fyrirskipun hans um að aflífa alla minka á Norður-Jótlandi vegna sýkingar af SARS-CoV-2 veirunni, átti sér ekki lagastoð.  Sóttvarnarreglugerðir heilbrigðisráðherra hérlendis virðist skorta fullnægjandi lagastoð, margar hverjar, sbr gagnrýni Reimars Péturssonar o.fl..

Þann 21. október 2020 skrifaði Ari Guðjónsson, héraðsdómslögmaður og yfirlögfræðingur Icelandair Group, Sjónarhólsgrein í Morgunblaðið, sem hann nefndi:

"Árekstur við EES".

Þar stóð m.a.:

"Í ESB-ríkjum öðlast reglugerðir sambandsins bein réttaráhrif innan aðildarríkja án sérstakrar innleiðingar í landsrétt, og þær hafa forgangsáhrif gagnvart öðrum landslögum ríkjanna. Þetta hefur almennt ekki verið talið gilda um EFTA-ríkin, þrátt fyrir að EFTA-dómstóllinn hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að ríkin geti verið skaðabótaskyld vegna rangrar innleiðingar tilskipana í landsrétt. Slíkt tryggir þó ekki bein réttaráhrif eða forgangsáhrif EES-reglna, enda tryggja skaðabætur sem slíkar ekki einsleitni, enda aðstaðan önnur fyrir þann aðila, sem þarf að krefjast skaðabóta."

Það er ljóst, að nærri var höggvið óskoruðu íslenzku löggjafarvaldi við staðfestingu Alþingis á EES-samninginum í janúar 1994.  Það var þó sá varnagli settur þar, að Ísland gæti hafnað óaðgengilegum gerðum Evrópusambandsins í Sameiginlegu EES-nefndinni, og til þrautavara var síðan sett skilyrði um stjórnskipulegan fyrirvara Alþingis við innleiðingu reglna ESB, þ.e. að Alþingi gæti hafnað þeim, ef þær samræmdust ekki stjórnarskrá Íslands. Um þessi og fleiri mikilvæg atriði fjallaði Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, á fjarfundi Fullveldisfélags sjálfstæðismanna í Valhöll 1. desember 2020.  Var sá fundur hinn þarfasti.

Það er engin ástæða til að veita Alþingi heimild til að framselja íslenzkt ríkisvald að einhverju leyti til útlanda.  Hins vegar er réttlætanlegt, að meirihluti á Alþingi, geti vísað slíku framsalsmáli til þjóðarinnar í bindandi atkvæðagreiðslu, þar sem a.m.k. 60 % atkvæðisbærra manna gætu heimilað auknum meirihluta á Alþingi slíkt, en annars félli málið dautt á Alþingi.  Þetta kallar auðvitað á stjórnarskrárbreytingu, enda heimilar núverandi stjórnarskrá ekkert framsal fullveldis.   

    


Fyrirmyndar fiskeldi

Þann 12. nóvember 2020 birtist stutt frétt í Morgunblaðinu, sem gefur til kynna, að laxeldi við Íslandsstrendur beinist nú í ríkari mæli en áður að framleiðslu hágæðavöru í hæsta verðflokki.  Þetta voru mjög ánægjuleg tíðindi.

Fyrirsögn fréttarinnar var:

"Fá lífræna vottun á lax".

Hún hófst þannig:

"Fiskeldi Austfjarða hefur fengið lífræna vottun samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins.  Tryggir þetta fyrirtækinu eftirsóttan markað fyrir hágæða laxaafurðir í Evrópu. 

 

Aðeins 4 önnur fyrirtæki í heiminum standast þessa vottun, enda gilda um hana afar ströng skilyrði að sögn Jónatans Þórðarsonar, þróunarstjóra Fiskeldis Austfjarða.  Þannig má ekki nota lyf eða önnur efni og aðeins hágæða fóður og aðrar vistvænar aðferðir við eldi laxins.  Sem dæmi má nefna, að litarefni fóðursins er framleitt úr brúnþörungum, og er það jafnframt afar öflugt andoxunarefni úr náttúrunni.  Raunar eru öll hráefni í fóðrið lífrænt vottuð.  Jónatan segir, að vissulega sé meiru til kostað en í hefðbundnu sjókvíaeldi, en á móti fáist mun hærra verð fyrir afurðirnar." 

Rík ástæða er til að óska starfsfólki Fiskeldis Austfjarða til hamingju með þessa verðmætu vottun á gæðastjórnunarkerfi fyrirtækisins.  Hún fæst aðeins með gæðameðvituðu hugarfari starfsmanna, ekki sízt stjórnendanna.  Hún útheimtir í aðdragandanum að velta við hverjum steini í rekstri og stefnu fyrirtækisins ásamt skjalfestingu allra ferla fyrirtækisins.  Nú tekur við nýtt tímabil agaðra vinnubragða til að viðhalda þessari gæðavottun, sem vottunarfyrirtækið mun reglubundið rýna. 

Það er markaðurinn, sem knýr fram þessa þróun gæðastjórnunar.  Fiskeldi Austfjarða hefur selt vörur sínar m.a. til heilsuvörukeðjunnar Whole Foods í Bandaríkjunum.  Þar er greitt fyrir skjalfest gæði.  Þessi nýfengna vottun opnar nýjar dyr, þ.e. að hæst greiðandi hluta Evrópumarkaðarins. Í lok fréttarinnar er greint frá því, hvaða hluta starfseminnar þessi vottun spannar:

"Vottunin nær til sjókvíaeldis Fiskeldis Austfjarða í Berufirði og Fáskrúðsfirði og seiðastöðvarinnar Rifóss í Kelduhverfi."

Hagsmunaaðilar á borð við Félag veiðiréttarhafa virðast telja hagsmunum sínum ógnað af sjókvíaeldi þess afbrigðis Norður-Atlantshafslaxins, sem stundað er við Ísland.  Ekki verður betur séð en málflutningurinn einkennist af tröllasögum um sjúkdóma, mengun fjarðanna og dreifingu laxalúsar í villta stofna, og síðast en ekki sízt er skrattinn málaður á vegginn, þegar kemur að erfðabreytingum af völdum sleppilaxa úr kvíunum.  Þetta eru mest ímyndanir og dylgjur án vísunar til staðreynda úr íslenzku umhverfi.  Oft fellur þetta undir "ólyginn sagði mér", að svona væri þetta í útlöndum.  Það eru nánast engar líkur á, að sleppilax úr þessum eldiskvíum geti breytt erfðamengi villtu íslenzku laxastofnanna varanlega.  Til þess þarf stórar sleppingar, meira en 15 % af árstofninum, að ná að eignast lifandi afkvæmi með íslenzkum löxum í mörg ár í röð.  Slíkt gerist einfaldlega ekki með því verklagi, sem nú er viðhaft, og þeim búnaði og eftirliti, sem nú tíðkast við sjókvíaeldi í íslenzkum fjörðum.  Hælbítar þessarar efnilegu atvinnugreinar á Íslandi hafa ástæðu til að hafa meiri áhyggjur af öðru, er varðar laxveiðar í íslenzkum ám, en sjókvíaeldinu.

Teitur Björn Einarsson, lögmaður og 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norð-Vesturkjördæmi, birti athyglisverða lögfræðilega greiningu á því í Morgunblaðinu 11. nóvember 2020, hvaða skilyrði verða að vera fyrir hendi, til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti tekið lögmæta ákvörðun um að loka svæði fyrir fiskeldi, en umræða hefur spunnizt um lokun Eyjafjarðar, Jökulfjarða og sunnanverðs Norðfjarðarflóa fyrir laxeldi.  Framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga, Elías Blöndal Guðjónsson, gagnrýndi fyrstu grein Teits á síðum Morgunblaðsins um þetta efni 7. nóvember 2020.  Önnur grein Teits Björns bar fyrirsögnina:

"Um valdheimildir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra".

 

 Nú verður vitnað til þessarar vönduðu greinar:

"Málið, sem hér um ræðir, er nokkuð sértækt, en aðalatriðin snúa að því, hvaða valdheimildir ráðherra hefur til að takmarka eða stöðva lögbundna atvinnustarfsemi og mikilvægi vísinda í allri ákvarðanatöku."  

Teitur Björn boðar, að í stað duttlunga, tilfinninga og annarra ómálefnalegra kennda skuli ráðherra reisa ákvarðanir sínar um leyfilega staðsetningu fiskeldis í sjó á vísindalegum rannsóknum og ályktunum, sem leiða má beint af þeim. Þetta þýðir t.d., að auglýsing ráðherra frá 2004 um leyfileg eldissvæði í sjó við Ísland víkur fyrir nýjum fiskeldislögum og ákvörðunum ráðherra um leyfileg eldissvæði, sem á þeim eru reist. 

"Matskenndar stjórnvaldsákvarðanir og stjórnvaldsfyrirmæli verða samkvæmt lögmætisreglunni að eiga sér næga lagastoð og vera byggð á málefnalegum sjónarmiðum; ella telst ákvörðunin ólögmæt. Að baki sérhverri ákvörðun verða að búa málefnaleg sjónarmið.  Ákvarðanir, sem byggjast á geðþótta, óvild eða öðrum persónulegum sjónarmiðum, eru ólögmætar." 

Bæjarstjórn Akureyrar er stjórnvald.  Engan veginn verður séð, að samþykkt hennar um að beina því til ráðherra að banna laxeldi í Eyjafirði, sé reist á öðru en geðþótta og óvild í garð þessarar atvinnustarfsemi. Margir virðast því miður haldnir sömu kenndum, og það verður lítið við því gert, en stjórnvöld hafa ekki leyfi til að haga sér þannig og alls ekki, þegar um lögmæta starfsemi er að ræða, mikla hagsmuni margra og atvinnufrelsi, sem varið er af Stjórnarskrá.   

"Niðurstaðan er því sú, að leggja verður til grundvallar matskenndri ákvörðun ráðherra þá málefnalegu og lögbundnu aðferðafræði fiskeldislaga, sem felst í burðarþolsmati og áhættumati erfðablöndunar, til að ákvarða, hvort fiskeldisstarfsemi hafi neikvæð áhrif á umhverfið eða lífríki á ákveðnu svæði stafi hætta af starfseminni."

Í raun ætti að leggja þessa aðferðarfræði til grundvallar ákvörðun um nýtingu allra náttúruauðlinda á og við landið, sem ekki eru í einkaeign.  Þetta hefur um árabil verið hornsteinn fiskveiðistjórnunarinnar, og það þarf að festa þetta sjónarmið enn betur í sessi, væntanlega með lagasetningu, um orkunýtingu, flutning orku og vegagerð, svo að sérhagsmunir, sérvizka, geðþótti eða óvild fái ekki dregið nauðsynlegar framkvæmdir í almannaþágu von úr viti eða jafnvel alfarið komið í veg fyrir þær.  Ný verðmætasköpun og atvinnusköpun varðar þjóðarhag, og almenn lífskjör í landinu varða almannahag. 

"Meginregla stjórnsýsluréttar um rannsóknarskyldu, sbr 10. gr. stjórnsýslulaga, sem kveður á um, að stjórnvald skuli sjá til þess, að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, rennir frekari stoðum undir þá niðurstöðu, að ráðherra beri að afla allra gagna og horfa til lögbundinna rannsókna um burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar áður en mat er lagt á, hvort tiltekin svæði teljast sérlega viðkvæm fyrir starfsemi fiskeldis.  Meginreglan um meðalhóf kemur hér einnig til álita."

 

 


ESA sækir á

ESA (eftirlitsstofnun EFTA) gegnir hlutverki framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) í EFTA-stoð EES-samningsins.  ESA sendir iðulega athugasemdir til íslenzku ríkisstjórnarinnar út af framkvæmd EES-samningsins, sem hér tók gildi 1. janúar 1994. Tvö afdrifaríkustu málin, sem nú eru á döfinni, eru í fyrsta lagi athugasemdir við dómsuppkvaðningar hér, þar sem ekki er sagt gætt að kafla 3 í EES-samninginum ásamt bókun 35 við samninginn. Samkvæmt þessum ákvæðum víkur landsréttur fyrir Evrópurétti. Dómstólar geta ekki tekið mark á því, þar eð Stjórnarskráin bannar þeim það, góðu heilli. Nú stendur upp á ríkisstjórnina að andmæla.  Hún hefur þar íslenzku stjórnarskrána að halda sig við, en slíkt framsal löggjafarvalds er með öllu óheimilt þar, enda allsendis ólýðræðislegt.  

Hitt málið fjallar um reglur um úthlutun nýtingarréttar á ríkislandi og auðlindum þar, t.d. vatnsréttindum.  Árið 2017 framdi ríkisstjórn Íslands það axarskapt að fallast á allar kröfur ESA í þessum efnum.  Þær snerust um, að ríkið yrði að gæta jafnræðis við úthlutun slíkra réttinda og viðhafa aðferð, sem tryggir markaðsverð fyrir nýtingarréttinn.  Að öllum líkindum er ekki  hægt að verða við þessum kröfum ESA öðru vísi en að bjóða nýtingarrétt orkulindanna út á Innri markaði EES, enda væri það í samræmi við kröfur framkvæmdastjórnar ESB á hendur 8 vatnsorkulöndum í ESB.  Sjá þá allir, að  erlendir hagsmunaaðilar í orkugeiranum, loðnir um lófana, geta hér neytt aflsmunar og tryggt sér þessi réttindi.  Þar með er arður erfðasilfurs Íslendinga kominn í annarra hendur.  Að þáverandi utanríkisráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, og forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhansson, skyldu ljá máls á þessu, er óskiljanlegt, enda liggur viðkomandi lagafrumvarp nú á ísi, en af framandlegri ástæðu og ekki á grundvelli innlendrar greiningarvinnu. 

Fari málið um forgang Evrópuréttar fyrir EFTA-dómstólinn, sem er líklegt, verður Ísland í erfiðri stöðu, því að hin EFTA-ríkin í EES-samstarfinu, Noregur og Liechtenstein, hafa viðurkennt þennan forgang í lögum sínum. EES-samningurinn var innleiddur í norskan rétt með s.k. EES-löggjöf, og voru Norðmenn á undan Íslendingum með þennan verknað.  Þar var í gr. 2 svofellt ákvæði um forgang ESB-löggjafarinnar samþykkt af Stórþinginu:

"Bestemmelser i lov, som tjener til å oppfylle Norges forpligtelser etter avtalen, skal i tilfelle konflikt gå foran andre bestemmelser, som regulerer samme forhold.  Tilsvarende gjelder, dersom en forskrift, som tjener til å oppfylle Norges forpligtelser etter avtalen, er i konflikt med en annen forskrift, eller kommer i konflikt med en senere lov."

Lagaákvæði af þessu tagi hefur Alþingi ekki samþykkt, enda bryti slíkt gegn ákvæðum stjórnarskráar Íslands, t.d. gr. 2 og 21.  Ákvæði keimlíkt hinu norska felur í sér framsal löggjafarvalds til ríkjasambands, sem Ísland á ekki aðild að, fótumtreður lýðræðislega stjórnskipun og kemur af þessum sökum ekki til mála hérlendis. 

Á Íslandi bjuggum við við þá stjórnskipun frá 930-1264, að goðarnir sammæltust um lagasetninguna, oft að höfðu samráði við hina gildari bændur, sbr viðkvæðið: "hvað segja bændur", en þaðan í frá og fram að Heimastjórn máttum við búa við lagasetningu, sem meira eða minna kom frá erlendum embættismönnum, og ekki losnuðum við við staðfestingu konungs á lögum fyrr en með nýrri stjórnarskrá og lýðveldisstofnun á Þingvöllum 1944.  Það er þess vegna alger öfugþróun nú, ef Alþingismenn ætla að innleiða aftur það óeðlilega og ólýðræðislega fyrirkomulag, algerlega að þarflausu, að erlendir embættismenn, í þetta skipti niðri á meginlandi Evrópu, semji fyrir oss lög, sem Alþingi er svo ætlað að stimpla inn í íslenzka lagasafnið.

Morgunblaðið birti 5. október 2020 frétt undir fyrirsögninni:

"ESA sendir Íslandi lokaviðvörun":

 

"Sigríður Á. Andersen, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, sagði í samtali við blaðið, að mál þetta hefði áður komið til umræðu, þó ekki hefði fengið sérstaka athygli.  

"Það er enginn vafi í mínum huga, að erlend löggjöf gengur ekki framar íslenzkri löggjöf.  Eitthvert álit frá ESA breytir engu þar um."

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tók í sama streng.  "Mér finnst það blasa við, að kröfugerð ESA samrýmist mjög illa íslenzkri stjórnskipan.  Því þurfa íslenzk stjórnvöld að koma skýrt á framfæri."

Hér er úr vöndu að ráða, því [að] í bókun 35 með EES-samningnum er sagt, að á Evrópska efnahagssvæðinu eigi að gilda sameiginlegar reglur án þess þó að samningsaðila sé gert að framselja löggjafarvald til stofnana þess og að þeim markmiðum skuli náð með málsmeðferð hvers lands um sig.  Á hinn bóginn er þar einnig sagt, að komi til árekstra á milli EES-reglna og annarra settra laga, skuldbindi EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði um, að EES-reglur gildi."

Það er einmitt þetta, sem hefur gerzt og ESA kvartaði yfir, að Hæstiréttur Íslands hefur vikið ESB-rétti til hliðar og tekið íslenzkan rétt framyfir í dómsmálum, og þar með fylgdi hann ákvæðum Stjórnarskráarinnar.  Það sjá allir, að setji Alþingi lög um hið mótsetta, þá er verið að flytja löggjafarvaldið aftur út úr landinu, og við það verður ekki unað, hvað sem tautar og raular í Brüssel eða í hópi innlendra undanhaldsmanna.  

Þann 6. október 2020 birtist viðtal við Ólaf Ísleifsson í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

Forsenda EES var óskert fullveldi.

"Það er fráleitt að gera sér í hugarlund, að [EFTA] dómstóllinn myndi krefjast þess af aðildarríki samningsins [EES], fullvalda ríki, að það grípi til aðgerða, sem ganga gegn stjórnarskránni, nú eða breyti stjórnarskrá sinni."

Að öðru jöfnu væri þetta rétt, en EES-samningurinn er enginn venjulegur samningur.  Með honum eru Íslendingar komnir með aðra löppina inn í ríkjasambandið ESB, þar sem grundvallaratriði þykir, að á þeim sviðum, þar sem stjórnarskrárígildi þess, Lissabon-sáttmálinn, veitir því lögsögu og forræði mála, þar skuli lög þess og reglur gilda ótvírætt.  Í þessu sambandi leggur ESB allan landsrétt að jöfnu, og grundvallarlög aðildarríkja verða að víkja fyrir lögum ESB og lagatúlkunum ESB-dómstólsins. 

Þetta var áréttað í vor, þegar "Rauðhempurnar", stjórnlagadómarar í Karlsruhe, kváðu upp þann dóm, að ESB væri ekki sambandsríki, heldur ríkjasamband, og þess vegna væru stjórnlög Þýzkalands æðri lagasetningu ESB-þingsins.  Þessari túlkun hafnaði ESB-dómstóllinn daginn eftir eða svo, og forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, fyrrverandi varnarmálaráðherra Þýzkalands, áréttaði skömmu síðar, að þannig yrði það að vera, því að annars mundi ESB fljótlega liðast í sundur.  Þarna hafa dómarar EFTA-dómstólsins línuna.  Hið alvarlega fyrir Íslendinga er, að innlendum dómstólum ber að fylgja fordæmi EFTA-dómstólsins samkvæmt EES-samninginum.  Hvað gera bændur þá ?

""Það hlyti að vera mikið umhugsunarefni fyrir slíkan dómstól, ef hann ætlaði að fara að efna til stjórnskipulegs ágreinings við aðildarríki.  Slíkt væri ekki aðeins ögrun við það ríki, heldur öll önnur ríki í því samstarfi", segir Ólafur og bætir við: "Ef Evrópustofnanir vilja grafa undan trausti á því alþjóðlega samstarfi, sem Evrópska efnahagssvæðið er, þá þyrftu þær nú að hugsa sig um tvisvar.""

Allt er þetta satt og rétt hjá Ólafi, svo langt sem það nær.  Trúnaður og skyldur dómara við EFTA-dómstólinn eru hins vegar hvorki við almenn lög né stjórnlög EFTA-ríkjanna, heldur við Evrópurétt, og þeir fylgja jafnan fordæmi ESB-dómstólsins.  Það er þess vegna borin von, að dómsuppkvaðning EFTA-dómstólsins, fari þetta mál fyrir hann, verði Íslendingum í vil. 

 "Ólafur bendir á, að þessar áhyggjur séu ekki nýjar af nálinni.  "Þessi mál voru rædd í kringum þriðja orkupakkann í fyrra.  Þá var margítrekað af hálfu þeirra, sem báru ábyrgð á aðildinni að EES [sennilega er átt við Davíð Oddsson og Jón B. Hannibalsson-innsk. BJo], að það væri alger forsenda aðildar okkar að þeim samningi, að Ísland hefði neitunarvald varðandi þætti, sem snertu fullveldi þjóðarinnar.""

Það er væntanlega svo, að í Sameiginlegu EES-nefndinni hefur Ísland vettvang til að leita eftir undanþágum við lög ESB með traustum rökstuðningi. Þessi vettvangur var hins vegar aldrei nýttur að neinu ráði við umfjöllun neins af fyrstu orkupökkunum þremur. Ísland var í góðri stöðu til að leita eftir allsherjar undanþágu frá orkulöggjöf ESB, en íslenzk stjórnvöld höfðu aldrei hug á því.  Nú er að sjá, hvað gerist með OP#4. 

Forgangsmál löggjafar er hins vegar allt annars eðlis, og meitlað í 3. kafla EES-samningsins, sem Ísland hefur aldrei gert neina athugasemd við.  Það er þess vegna mjög vandræðalegt að setja sig upp á afturfæturnar núna, en betra er seint en aldrei, segir máltækið.  

Hvernig ætli tónninn sé í undanhaldsmönnum á Alþingi núna ?  Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, er þar framarlega í flokki, og eftir honum var þetta haft í sömu frétt:

"En það má spyrja, hvort við verðum ekki, fyrr eða síðar, að fá skýrt framsalsákvæði í stjórnarskrá, sem breið samstaða er um.  Þannig að það liggi fyrir, hvað má og hvað ekki í alþjóðasamstarfi, sem mér sýnist nú, að verði sífellt nauðsynlegra til þess að ná skikki á hlutina í mannheimum."

Logi er eins og álfur út úr hól, þegar hann óskar þess, að breið samstaða geti orðið á Íslandi um að flytja löggjafarvald og dómsvald aftur til útlanda, en um það mundu þær stjórnarskrárbreytingar fjalla, sem hann óskar sér.  Það verður vonandi bið á því, að óskir hans rætist í þeim efnum.

Friðrik Daníelsson og Sigurbjörn Svavarsson í "Frjálsu landi" rituðu grein í Morgunblaðið 13. október 2020  með fyrirsögn, sem ekki er víst, að öll ríkisstjórnin rísi undir:

"Ríkisstjórnin snýst til varnar sjálfstæðinu".

Þar er ofangreint ESA-mál til umfjöllunar, en einnig annað ESA-mál, sem fjallað hefur verið um í a.m.k. tveimur pistlum hér á vefsetrinu.  Það fjallar um þá kröfu ESA, að úthluta skuli afnotarétti af landi í eigu ríkisins ásamt þeim auðlindum, t.d. vatnsréttindum, sem þar er að finna, á markaðsverði til tímalengdar, sem dugi einkafyrirtækjum til ávöxtunar fjármunanna, sem til greiðslu fyrir nýtingarréttinn fara.  Þetta markaðsverð á Innri markaðinum fæst varla, nema með útboði á honum þar, og þá þarf ekki að spyrja að leikslokum.  Íslenzkir aðilar munu verða undir í þeirri samkeppni, og eitthvert orkufyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu mun hreppa hnossið.  Hvernig halda menn, að fari þá með raforkuverðið ?

Við erum þá komin í stöðu vanþróaðra ríkja, sem misst hafa ráðstöfunarrétt náttúruauðlinda sinna úr höndum sér.  Sama mun gerast, ef Ísland gengur alla leið í ESB og fylgt verður stefnu Viðreisnar um uppboð veiðiréttinda í íslenzkri lögsögu á Innri markaði EES. 

 Þetta mál er lengra komið en hið fyrra, því að ESA er fyrir sitt leyti búin að ljúka því.  Hvers vegna ?  Vegna þess að ríkisstjórn Íslands samþykkti 2017 í forsætisráðherratíð Sigurðar Inga og utanríkisráðherratíð Lilju Daggar að verða við öllum kröfum ESA. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir. Núverandi ríkisstjórn lét semja frumvarp til laga til að þóknast ESA, en hún hefur nú lagt það á ís.  Hvers vegna ?  Jú, hún frétti af því, að norska ríkisstjórnin hefði fyrir sitt leyti hafnað sams konar kröfu ESA í garð Norðmanna á þeim forsendum, að ESA kæmi það ekki við, það væri utan valdsviðs ESA að skipta sér af því, hvernig EFTA-ríkin ráðstöfuðu orkulindum sínum. 

Allt er þetta íslenzkri stjórnsýslu og þeim stjórnmálamönnum, sem við hana eru riðnir, til fullkominnar háðungar.  Að íslenzk stjórnvöld skyldu ekki hafa manndóm í sér til að snúast til varnar, eins og Norðmenn, þegar um grundvallarhagsmunamál, eins og úthlutun nýtingarréttar á orkulindum, er að ræða, þýðir, að við höfum enga burði til að standa í krefjandi fjölþjóðlegu samstarfi, eins og EES-samningurinn snýst um.  Grundvallarviðhorfsbreyting til þessa samstarfs þarf að eiga sér stað.  Það hefði ekki verið vitlaust í byrjun að leita í smiðju til Norðmanna, sem eiga sams konar orkuhagsmuna að gæta, til að kanna grundvöll sameiginlegrar afstöðu.  Slíkt dettur tréhestum og undanhaldssinnum ekki til hugar.

Nú verður vitnað í grein Friðriks og Sigurbjörns:

"Frjálst land spurði ríkisstjórnina (26.2.2020), hvort meiningin væri að veita fjárfestum ESB aðgang að íslenzkum orkulindum í framhaldi af "rökstuddu áliti" ESA um, að Ísland virti ekki ákvæði EES um jafnræði íslenzkra og ESB-fjárfesta við útboð virkjunarréttinda.  

Ríkisstjórnin svaraði (2.4.2020), að frumvarp, sem lagt hafði verið fram um málið, hefði verið dregið til baka.       

"Komið hafi upp rökstuddar efasemdir um, að þjónustutilskipunin (nr 123/2006, sem ESA vísaði m.a. til, eigi við um raforkuframleiðslu.  Íslenzk stjórnvöld hafa því ákveðið að fresta fyrirhuguðum lagabreytingum uns betri vissa er fengin fyrir því, hvaða þjóðréttarlegu skuldbindingar hvíla á íslenzka ríkinu að þessu leyti", segir í tilkynningu ríkisstjórnarinnar."

Þetta er aumkvunarvert yfirklór hjá ríkisstjórninni.  Norska ríkisstjórnin lét í ljósi þá skoðun sína við kynningu, sem EFTA-ríkin í EES fengu á þessari þjónustutilskipun, áður en hún gekk í gildi, að tilskipunin gæti ekki spannað nein málefni orkulinda Noregs.  Íslenzku ríkisstjórninni mátti vera þetta ljóst, þannig að afstaða norsku ríkisstjórnarinnar í júní 2019 var ekkert nýnæmi, enda var þar vitnað í upphaflegu bókun Noregs um málið.  Eru íslenzk stjórnvöld algerlega úti á þekju í þessu EES-samstarfi ? 

Aldrei var minnzt á þessi rök í bréfum íslenzku ríkisstjórnarinnar til ESA út af málinu, enda lagði ESA höfuðáherzluna á, að samkeppnisreglur Evrópuréttarins væru brotnar.  Nú vaknar spurningin: var þáverandi ríkisstjórn fús til þess að fórna erfðasilfri Íslendinga í hendur erlendu "auðvaldi", af því að þjóðréttarlegar skyldur hvíldu á Íslandi til þess ?  Hvers konar "eymingjaháttur" viðgengst eiginlega í utanríkisráðuneyti Íslands ?  Hverju mundi það breyta fyrir almenning á Íslandi að leggja þetta utanríkisráðuneyti niður og fela utanríkisráðuneyti Noregs verkefni þess í verktöku ?

 

 

 


Sóttvarnir

Það leikur vart á tveimur tungum, að hegðun borgaranna og persónubundnar mótvægisaðgerðir gegn smiti eru áhrifaríkustu sóttvarnirnar. Skipulag og framkoma vinnuveitenda og þjónustuveitenda leikur jafnframt lykilhlutverk í þessu samhengi sem og mörgum öðrum.  Meir orka hins vegar tvímælis boð og bönn yfirvalda í þessum efnum. Það er sammæli hérlendis, að við inngrip ríkisins í daglegt líf borgaranna eigi yfirvöld að hafa meðalhóf að leiðarljósi, enda ber þeim lagaskylda til þess.  Nauðsyn aðgerða og afleiðingar þeirra verður að vega og meta hverju sinni áður en hlaupið er til og skellt á íþyngjandi aðgerðum. 

Á þessu hefur orðið mikill misbrestur hjá sóttvarnaryfirvöldum og ríkisstjórn að sumra mati.  Öll hamlandi inngrip verður að vera hægt að styðja skýrum rökum og sýna fram á, að vægari inngrip muni verða ófullnægjandi, en þessu er ábótavant. Rökstuðningur sóttvarnaryfirvalda er reyndar í skötulíki, og þess vegna missa aðgerðir marks.

Þá má jafnvel halda því fram, að í þeim veirufaraldri (SARS-CoV-2), sem nú gengur yfir heimsbyggðina, séu inngrip yfirvalda hérlendis gagnslítil a.m.k. í samanburði við gallana (skerðing einstaklings- og athafnafrelsis) og kostnaðinn (ásamt tekjutapinu), sem af þeim leiðir. 

 Það er samt enginn vafi á því, að öflugs atbeina ríkisins er þörf nú, en þó í enn meiri mæli við enn skæðari drepsóttir en um ræðir núna, t.d. ef eitthvað álíka og ebóla gysi upp, þar sem dánarhlutfall sýktra var 40 % og dánarhlutfall á sjúkrahúsum var 60 %.  Við slíkar aðstæður er hyggilegast að loka landinu gagnvart fólksflutningum og reyna að útrýma slíkum vágesti, berist hann til landsins.  Nú eru uppi allt aðrar aðstæður, sem ekki eiga að útheimta neitt í líkingu við einangrun landsins og alls konar skerðingu athafnafrelsis.

Meirihluti sýktra af SARS-CoV-2-veirunni verður lítið var við sýkinguna, 2,3 % hafa lagzt inn á sjúkrahús hérlendis,og dánarhlutfall sýktra má áætla 0,17 % á Íslandi.  Dánarhlutfallið gæti reyndar verið að stefna niður fyrir 0,1 %, sem er þekkt hlutfall í þessum faraldri fyrir aldurshópinn 0-35 ára og er einnig þekkt sem meðaltal allra aldurshópa í flensufaröldrum. Dánarhlutfallið fer væntanlega lækkandi hérlendis með aukinni þekkingu heilbrigðisstarfsfólks á þessum sjúkdómi og lyfjum, sem tekið er að beita gegn honum.

Ýmsar ráðstafanir heilbrigðisyfirvalda eru þó áhrifaríkar til að hefta útbreiðslu og draga úr smittíðni.  Þar er aðallega um að ræða smitrakninguna, sóttkví og einangrun.  Þessum ráðum er hægt að beita til að beina nýgengi sjúkdómsins í átt að getu heilbrigðiskerfisins.  Heildarnýgengi pestarinnar hérlendis fór upp í rúmlega 308 17. október 2020 í Bylgju 3, sem er með því hæsta í Evrópu, en þrátt fyrir það voru þá aðeins 26 á sjúkrahúsi og 4 í gjörgæzlu.  Í Bylgju 3 hefur aðeins 1,5 % þeirra, sem trúlega hafa sýkzt, þarfnazt innlagnar á sjúkrahús, 0,16 % þarfnazt gjörgæzlu, og dánarhlutfallið er 0,02 %.  Þessi tiltölulega lágu hlutföll gefa ástæðu til að íhuga að hverfa frá núverandi bælingarstefnu og að taka upp stýrða vegferð að hjarðónæmi á u.þ.b. 30 vikum.  Margumrætt hjarðónæmi fæst ekki við einhvern fasta sem hlutfall íbúanna með áunnið ónæmi, heldur er hlutfallið breytilegt með smitþættinum.  Ef tekst að halda honum við 1,5, eins og Thor Aspelund taldi hann vera um miðjan október 2020, þá næst hjarðónæmi, þegar 33 % íbúanna hafa öðlazt ónæmi gegn veirunni, sem veldur C-19.

Sóttvarnaraðgerðir hérlendis hafa haft mjög íþyngjandi  áhrif á atvinnulífið, svo að ekki sé nú minnzt á hag ríkissjóðs og sveitarfélagasjóða.  Það hefur verið sýnt fram á austan hafs og vestan mjög mikil tengsl langvarandi atvinnumissis við dánarlíkur þeirra, sem missa vinnuna.  Þannig má á þriggja ára tímabili frá atvinnumissi reikna með 30 ótímabærum dauðsföllum í hverjum 1000 manna hópi, sem vinnuna missir.  Að meðreiknaðri landamæraaðgerðinni að tvískima alla komufarþega f.o.m. 19. ágúst 2020 með 5 sólarhringa sóttkví á milli er líklegt, að 5000 manns missi vinnu sína af völdum innlendra sóttvarnaraðgerða á árinu 2020.  Það þýðir, að ótímabær dauðsföll af þessum völdum verða líklega um 150 á árunum 2020-2022. 

Þótt yfirvöld mundu fella niður seinni skimun á landamærunum fyrir erlenda komufarþega, en halda henni til streitu fyrir íbúa landsins í hópi komufarþega (vegna meints hærri smitstuðuls þeirra), og fella niður allar takmarkanir á löglegum athöfnum manna öðrum en sóttkví og einangrun, en halda öllum kröfum um persónubundnar sóttvarnir til streitu (fjarlægðarregla, gríma, handþvottur, sprittun), þá mundi heilbrigðiskerfið að öllum líkindum anna álaginu og heildardauðsföllum af völdum veirunnar og sóttvarna gegn henni mundi fækka.  Aðgerðir heilbrigðiskerfisins yrðu miklu minna íþyngjandi fyrir atvinnulífið en nú er, og viðspyrna hagkerfisins mundi þá að langmestu leyti markast af ástandinu erlendis.  Mestur dragbítur í þeim efnum er hindrun Schengen-stjórnarinnar á för fólks frá flestum ríkjum utan Schengen inn á Schengen-svæðið. Þetta hefur auðvitað fækkað ferðamönnum mikið í Schengen-löndunum, og því miður hillir ekki enn undir stefnubreytingu í þessum efnum, þótt tvískima mætti þá, þar til almennt leyfi fæst fyrir þá inn á Schengen-svæðið.

Ríkisstjórn og sóttvarnaryfirvöld eiga sér fjölmarga gagnrýnendur, því að það blasir nú við, að bælingarstefna stjórnvalda er endileysa, hún leiðir yfir landsmenn hverja bylgjuna af sóttinni á fætur annarri, og heildaráhrif sóttvarnaraðgerðanna leiða til ofboðslegs tekjutaps og kostnaðar fyrir landsmenn, ekki sízt skattgreiðendur framtíðarinnar.  Þetta er algerlega óábyrgt fyrirkomulag, þegar annað betra býðst.  Hörður Ægisson skefur ekki utan af því frekar en fyrri daginn í leiðara Fréttablaðsins 9. október 2020:

"Versta stefnan":

"Það ætlar að reynast stjórnvöldum erfitt að viðurkenna þau afdrifaríku mistök, sem gerð hafa verið, og meta stöðuna upp á nýtt áður en tjónið verður enn meira.  Ráðstafanir, sem nú hefur verið gripið til, með því að stöðva nánast alla starfsemi í samfélaginu um ófyrirséðan tíma, eru bein afleiðing af lokunarstefnu Skimunarmeistarans, sem þríeykið studdi og ríkisstjórnin innleiddi, sem taldi fólki trú um, að hægt yrði að lifa næsta veirufríu og eðlilegu lífi innanlands með því einu að halda útlendingum frá landinu.  Það reyndist della.  Almenningur hélt, að minni hætta væri á smiti - þegar hún var í reynd óbreytt og magnaðist síðar upp - eftir að hafa fengið skýr skilaboð um það frá stjórnvöldum."  

Nú er komið í ljós, hvaða aðferðum sóttvarnarlæknir beitir stjórnvöld til að hafa sitt fram.  Hann málar skrattann á vegginn. Þetta sást í grein "þríeykisins" í Fréttablaðinu 15. október 2020, sem farið verður í saumana á hér á vefsetrinu síðar. Ef stjórnvöld ekki fari að tillögum hans, þá verði hér óheft fjölgun smita með voveiflegum afleiðingum, hruni sjúkrahúsþjónustunnar og hundruðum dauðsfalla.  Þetta er fyrir neðan allar hellur. 

Jákvæð áhrif af takmörkunum á athafnafrelsi fólks virðast vera stórlega ofmetin, en neikvæðu áhrifin eru gríðarleg á réttindi einstaklinganna, fjárhag þeirra og heilsufar.  Stjórnvöldum ber skylda til að meta ítarlega neikvæðu afleiðingarnar af tillögum sóttvarnarlæknis á móti hinum jákvæðu áður en þær eru afgreiddar af heilbrigðisráðherra og samþykktar af ríkisstjórn.  Það skal ítreka hér, að það eru einstaklingsbundnu sóttvarnirnar, sem öllu skipta til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Borgararnir þurfa að finna til ábyrgðar sinnar og finna, að þeim sé treyst fyrir öryggi sínu og meðborgaranna.  Það er bezta og áhrifaríkasta veiruvörnin. Lokanir og skerðingar á persónufrelsi standa lagalega á veikum stoðum, eru dýrkeyptar og óskilvirkar. 

 Annar maður, Jón Þórisson, skrifaði ekki síður athyglisverðan leiðara í Fréttablaðið 10. október 2020.  Sá bar fyrirsögnina:

"Úr lausu lofti",

og hófst þannig:

"Ein sú mest íþyngjandi ráðstöfun, sem gripið er til í samfélagi manna, er að svipta þá frelsi sínu. Til þess þurfa að liggja ríkar ástæður, og ákvörðunin þarf að styðjast við skýr lagafyrirmæli. 

Um þessar mundir eru þúsundir manna sviptir frelsinu hérlendis og þeim skipað í sóttkví eða einangrun á grundvelli sóttvarnalaga.  Að auki hefur frelsi hinna verið stórkostlega skert með því að setja fjöldamörk á samkomur, mæla fyrir um lágmarksfjarlægð á milli fólks, banna eða takmarka ýmiss konar starfsemi, svo sem íþróttastarfsemi og veitingahúsarekstur og tilmæli um að halda sig í heimahögum. Þá er ónefnt það misráð að loka landamærum. 

Allt setur þetta líf okkar úr skorðum, sem var þó nægjanlega úr lagi gengið fyrir.  Sumir hafa misst lífsviðurværi sitt að hluta eða öllu leyti, og ótti og kvíði grefur um sig. 

Þessar aðgerðir eru byggðar á minnisblöðum frá sóttvarnalækni til heilbrigðisráðherra, sem eftir atvikum ræðir þær í ríkisstjórn áður en þær öðlast gildi stjórnvaldsfyrirmæla.  Einhver misbrestur hefur þó orðið á því síðastnefnda undanfarið. 

Við trúum því, að nauðsynlegt sé að berjast gegn eyðandi afli vágestsins, en höfum gripið til svo stórtækra viðbragða að líkja má við, að meðalið eyðileggi nú meira en því var ætlað að lækna."

Það eru vísbendingar um, að þessar frelsissviptingar yfirvalda, sem þarna eru tíundaðar, hafi lítil áhrif á nýgengi smita.  Þar með fellur lagalegur grundvöllur algerlega undan þessum aðgerðum, sem haft hafa íþyngjandi áhrif á mjög marga íbúa landsins og í heildina alvarleg efnahagsleg áhrif. 

Réttast er að afnema allar núverandi takmarkanir á athafnafrelsi fólks, en halda fast í almenna grímuskyldu, nándartakmörkun, tíðan handþvott, eins og kostur er, og sprittun, þar sem nokkrir koma saman.  Þar sem hópsmit koma upp, ber að loka um stundarsakir , sótthreinsa og rótargreina smitin.  Halda ber áfram smitrakningu og beitingu sóttkvíar.  Á landamærunum verði einföld skimun fyrir komufarþega, nema íbúar hérlendis sæti áfram tvöfaldri skimun og sóttkví. 

 

Að lokum verður hér vitnað til annars meginprentmiðils, sem af hógværð hefur gagnrýnt núverandi bælingarstefnu sóttvarnaryfirvalda.  Forystugreinin þar 9. október 2020 hét:

"Vantar alvöruleiðsögn".

"En vandinn  við aðferðina [sóttvarnaryfirvalda-innsk. BJo], sem við höfum ekki komizt fyrir, er, að við erum ekki ein í heiminum.  Felist okkar veirusigur í því, að einungis lítið sýnishorn af landsmönnum hafi komið sér upp virku mótvægi gegn henni, þá er það gott og blessað.  Það er að segja, ef við erum ein í heiminum.

Það þurfti ekki nema örfáa knáa skíðagarpa, sem komu meira eða minna úr sömu brekkunni, til að setja allt á hvolf hér.  

Ef við náum því í næstu viku að koma smitum aftur niður í núll, þá er eins gott, að umheimurinn láti okkur í friði um langa framtíð.  En það er ekki víst, að hann muni gera það.  Og hvað gerum við þá ?  Skellum við þá sjálf í lás, eins og umheimurinn gerði fyrir okkur síðast og bíðum eftir bóluefni ?  Og þá með hvaða afleiðingum ?"

Það er löngu tímabært, að s.k. stjórnvöld í þessu landi sýni í verki, að þau hafi völdin og valdi þeirri ábyrgð, sem völdunum fylgir, en séu ekki gúmmístimpill af ódýrustu gerð fyrir embættismenn.  

  

 

 

  


Veiruvarnir unnar fyrir gýg ?

Viðbrögð yfirvalda við SARS-CoV-2 veirunni hafa verið yfirdrifin, ef tekið er mið af hættunni, sem lífi og heilsu fólks er búin af að sýkjast af henni.  Hún er bráðsmitandi, og sýktir geta smitað einkennalausir ("ofurdreifarar"), en hún virðist ekki hættulegri en skæður infúensufaraldur, og aldurshópnum 0-35 ára er hún jafnvel síður skeinuhætt en hefðbundinn flensuvírus.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur áætlað, að 2. október 2020 hafi 760 M jarðarbúa smitazt af veirunni og að 1,0 M hafi þá látizt.  Það er 0,13 % dánarhlutfall sýktra. Sennilega er það vanmat á fjölda látinna, og John Ionnadis, faraldursfræðingur, áætlaði þetta hlutfall 0,27 % um miðjan júlí 2020.  Þetta þýðir, að um 10 mánuðum eftir, að veirunnar varð varð vart í Kína, hafa 10 % jarðarbúa sýkzt af henni. Í Svíþjóð er rekin mjög áhugaverð sóttvarnarstefna, og sóttvarnarlæknir Svía, dr Anders Tegnell, áætlaði í byrjun október 2020, að 20 % Svía væru þá orðnir ónæmir fyrir veirunni, margir án þess að hafa orðið veirunnar varir í eigin skrokki. 

Er þetta er skrifað, hefur 3172 sýkinga opinberlega orðið vart hérlendis á rúmlega 7 mánuðum.  Ef 100 % fleiri hafa raunverulega sýkzt, eins og eftir "Bylgju 1", eru sýktir orðnir rúmlega 6000 og dánarhlutfallið hérlendis er þá 0,16 %. Innan við 2 % þjóðarinnar hefur sýkzt eða aðeins um 1/10 af sams konar hlutfalli Svía.  Það gæti verið lítils háttar hærra á höfuðborgarsvæðinu. Yfir þriðjungur íbúa New York er kominn með ónæmi.  Okkur miðar mjög hægt í átt að hjarðónæmi hérlendis vegna þeirrar skefjalausu bælingarstefnu, sem hér er stunduð.  Hún er í raun veru endileysa.  Við þurfum að búa við fyrirkomulag, sem er lífvænlegt í a.m.k. heilt ár héðan í frá, og kannski er enn lengra í öruggt og gott bóluefni.  Síðustu sóttvarnaraðgerðir fyrir um viku virðast engu hafa skilað öðru en skertu persónufrelsi, sem felst t.d. í að mega hvorki fara í heilsurækt né sund og ekki leika golf. Það er kominn tími til að snúa við blaðinu hérlendis, losa um alls kyns opinberar hömlur, en einblína á persónubundnar smitvarnir og opinberar varnir fyrir þá, sem höllum fæti standa gegnvart veirunni, eins og tölfræðin sýnir.  

Hérlendis virðist stefnan vera að lágmarka fjölda smita. Það er kölluð bælingarstefna og er óviðeigandi baráttuaðferð við þessa veiru (SARS-CoV-2). Höfuðborgarsvæðið er þess vegna í léttu útgöngubanni um þessar mundir, sundstaðir og þrekstöðvar m.m. lokaðir.  Tekin var sú dýrkeypta stefna um miðjan ágúst 2020 að skima alla komufarþega til landsins tvisvar og að skipa þeim í um 5 daga sóttkví á milli.  Þegar þetta er skrifað hafa 28 komufarþegar af 41´777  greinzt jákvæðir í seinni skimun, en neikvæðir í hinni fyrri, eða 0,07 %.  Ef fjórðungur þessara komufarþega er búsettur í landinu og er látinn sæta tvöfaldri skimun vegna hærri smitstuðuls en yfirleitt hjá erlendum ferðamönnum, mundu 21 sýktir ferðamenn hafa sloppið framhjá einfaldri skimun af 41´777 alls eða 0,05 %. Á sama tímabili hafa komið upp 1240 C-19 sýkingar í landinu.  Ef smitþáttur þessara erlendu ferðamanna er 0,7, hefði smitum í landinu fjölgað um 36 á þessu tímabili eða um 2,9 % með því að halda áfram með einfalda skimun á landamærunum 19.08.2020, en setja farþega búsetta hér í tvöfalda skimun.  Þetta hefði sáralitlu breytt um gang sýkinganna og væntanlega ekki fjölgað alvarlegum tilvikum C-19 neitt, en a.m.k. 3000 færri launþegar hefðu orðið fyrir barðinu á uppsögnum, sem þýðir 30-90 færri dauðsföll á þriggja ára skeiði af völdum atvinnuleysis, ef ekki rætist úr atvinnuástandinu (samkvæmt erlendum tölfræðirannsóknum). 

Þetta sýnir, hversu misráðin sú ákvörðun heilbrigðisyfirvalda var, með blessun ríkisstjórnar, að skipa fyrir um almenna tvöfalda skimun á landamærunum. Hún er þó aðeins einn þátturinn í rangri sóttvarnarstefnu hér, eins og fram kemur í greinum Þorsteins Siglaugssonar, hagfræðings, í Fréttablaðinu 8. október 2020 og Hauks Arnþórssonar í Morgunblaðinu sama dag.  

Hér verður nú vitnað í forystugrein Fréttablaðsins 2. október 2020 undir heitinu:

"Skipbrot".

"Kórónuveirufaraldurinn hefur valdið efnahagslegum hamförum.  Afleiðingarnar birtast okkur í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Tekjur ríkissjóðs, vegna minni umsvifa í hagkerfinu, dragast stórkostlega saman, á meðan útgjöldin vaxa, einkum til að standa undir kostnaði við aukið atvinnuleysi.  Niðurstaðan er, að samanlagður fjárlagahalli næstu tveggja ára verður um mrdISK 600. 

Minnkandi umfang sóttvarna, bæði hér innanlands og við landamærin, mun ráða miklu um, hversu vel tekst til í viðspyrnunni.  Þeir hinir sömu og töluðu fyrir því að skella landinu í lás í ágúst, stefna, sem hefur beðið skipbrot og orsakað enn meira atvinnuleysi, þrýsta hins vegar nú á hertar aðgerðir - sem er jafnan þeirra eina svar við veiru, sem er ekkert á förum.  Vonandi mun sóttvarnalækni bera gæfa til að horfa ekki á málið með sömu rörsýn að leiðarljósi."

 "Við vitum núna, að lokun landamæranna hefur ekki skilað þeim árangri, sem lagt var upp með.  Það ætti ekki að koma neinum á óvart.  Sóttvarnalæknir Svíþjóðar hefur sagt, að slíkar aðgerðir - þar í landi hafa ferðamenn aldrei þurft að fara í sóttkví - skipti engu máli í stóra samhenginu, og að sagan hafi sýnt, að þær virki aldrei til lengri tíma.  Í stað þess að fylgja sömu stefnu og nágrannaríki okkar kusum við að fara aðra og harkalegri leið með ómældum kostnaði. Rúmlega mánuði síðar er nýgengi smits hérlendis samt með því hæsta, sem þekkist í Evrópu.  Í Þýzkalandi, sem ekki hefur séð ástæðu til að fara að ráðum Skimunarmeistarans og loka landinu, er nýgengi smits t.d. aðeins fjórðungurinn af því, sem það er hér."

 Þess má geta, að hópur lækna í Bandaríkjunum, starfandi við bandaríska háskóla og á háskólasjúkrahúsum, hefur ráðlagt, að þar verði slakað á klónni. "The Great Burlington" hópinn skipa heilbrigðisvísindamenn og faraldursfræðingar.  Þeir vara við því, að bælingarstefnan gegn þessari kórónuveiru muni valda meiru heilsufarstjóni en veiran sjálf, og efnahagstjónið keyri fjölda fólks í fátækt, algerlega að óþörfu.  

Hérlendis virðist vera rekin að ýmsu leyti harðari sóttvarnastefna en annars staðar.  Hún felur í sér sóun verðmæta án árangurs, af því að almenningur hefur nú allt aðra og hættuminni mynd af veirunni en í Bylgju 1.  Þess vegna viðhefur  hann ekki lengur persónulegar sóttvarnir í sama mæli og áður, heldur treystir á opinberar aðgerðir, sem eru vanhugsaðar og hafa litlu skilað, nema vanlíðan og óhamingju margra.  Smitstuðullinn var hár, þegar aðgerðir voru hertar, og hélt áfram að vera um 3, en er nú tekinn að lækka.  Það hefði mjög líklega gerzt, þótt sundstöðum, þrekstöðvum og golfvöllum hefði ekki verið lokað.      Það er sjálfsagt að viðhafa persónubundnar smitvarnir af samvizkusemi, svo að afnema megi sem flestar opinberar takmarkanir. 

Hallmundur Albertsson, lögmaður, hefur borið saman sóttvarnarráðstafanir á Norðurlöndunum, og skrifaði um þennan samanburð í Fréttablaðið 1. október 2020 undir fyrirsögninni:

"Einangrun - er of langt gengið ?"

"Eins og sést á framangreindri umfjöllun er tímalengd einangrunar verulega meira íþyngjandi á Íslandi en í samanburðarlöndunum.  Upphaf einangrunar miðast við þann dag, þegar sjúkdómseinkenni koma fram í samanburðarlöndunum, en miðast við sýnatökudag á Íslandi. Þar getur munað nokkrum dögum.  Þá er tímalengd umtalsvert lengri. Undantekningarlaust skal sá, er greinist á Íslandi, sæta að lágmarki 14 daga einangrun frá sýnatökudegi, en sá frestur er 7-8 dagar frá því sjúkdómseinkenni komu fram í samanburðarlöndum.  Á Íslandi er gerð krafa um 7 einkennalausa daga, en 2-3 í samanburðarlöndunum.  

Á upplýsingasíðum sóttvarnayfirvalda á Íslandi er ekki að finna neinn rökstuðning fyrir því, af hverju frelsissvipting einstaklinga er umtalsvert lengri hér en í þeim löndum, sem við berum okkur helzt saman við og verður ekki haldið fram, að standi okkur að baki í þekkingu á læknisfræði. 

Í 12. gr. stjórnsýslulaga nr 37/1993 er meðalhófsreglan lögfest.  Þar er kveðið á um, að stjórnvöld skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun, þegar lögmætu markmiði, sem stefnt er að, verður ekki náð með öðru og vægara móti.  Skal þess þá gætt, að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. 

Vart þarf að fjölyrða um, að frelsissvipting felur í sér skerðingu á helgustu mannréttindum einstaklinga, sem varin eru af 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu."

 Hér hefur lögmaður fært sannfærandi rök fyrir því, að sóttvarnayfirvöld hérlendis hafi með með óhóflega íþyngjandi og órökstuddum aðgerðum brotið lög landsins, Stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu.  Árangur aðgerðanna er ekki sjáanlegur með eitt hæsta nýgengi smita í Evrópu.  Fulltrúi Almannavarna gagnvart almenningi í þessum málum bítur svo höfuðið af skömminni, þegar hann bregst ókvæða við eðlilegri spurningu frá fréttamanni RÚV, sem útvarpað var á Gufunni í hádegi 11. október 2020, um bann við golfiðkun, með þeim útúrsnúningi, að hann skilji ekki umræðuna.  Er ekki löngu orðið tímabært, að Alþingi taki í tauma þessarar gandreiðar og stöðvi hana ?

Það er nefnilega hárrétt, sem Brynjar Níelsson, Alþingismaður, hefur haldið fram opinberlega, að þessi gandreið heilbrigðisyfirvalda með blessun ríkisstjórnar veldur meira tjóni en gagni.  Sú niðurstaða fæst líka, þegar mælikvarði heilsufars og mannslífa er lagður á verknaðinn, því að efnahagsafleiðingarnar og atvinnumissir, sem leitt hefur af ákvörðunum heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnar, hafa alvarlegar afleiðingar á heilsufar og lífslíkur fleira fólks en aðgerðirnar þyrma. Þess vegna má halda því fram, að yfirþyrmandi aðgerðir sóttvarnayfirvalda á Íslandi gegn þessari veiru, SARS-CoV-2, séu unnar fyrir gýg.

 

 

 

 


Fjárfestingar í raforkukerfinu

Nú er lag að fjárfesta í arðbærum verkefnum og samfélagslega nauðsynlegum verkefnum.  Ástæðurnar eru sögulega lágir vextir og slaki í hagkerfinu af völdum alþjóðlegra sóttvarna, sem hafa leitt til gríðarlegs atvinnuleysis, enda er nú hugur í mönnum hjá orkufyrirtækjunum, sbr þrífösun sveitanna og fækkun loftlína með jarðstrengjum.  Þó er Orkuveita Reykjavíkjur (OR) sér á báti í þessum efnum, og boðskapur forstjóra hennar, Bjarna Bjarnasonar, stingur í stúf við t.d. boðskap Samorku og áform annarra orkufyrirtækja. 

Bjarni Bjarnason bendir réttilega á, að spurn eftir raforku hafi á þessu ári dregizt saman um 1,5 TWh/ár (terawattstund á ári), sem nemur 7,5 % af framleiðslugetu raforkukerfisins.  Hann staðhæfir, að raforkuverð á Íslandi sé ekki lengur samkeppnishæft á alþjóðlegum markaði.  Þessi yfirlýsing hans er mjög mikilvæg, og það er hið markaðsleiðandi fyrirtæki á íslenzka raforkumarkaðinum, sem ber höfuðsök þessarar þróunar, sem er atlaga gegn íslenzku atvinnulífi.

Þótt Ísland sé ekki beintengt við erlend raforkukerfi, er íslenzk raforka samt í samkeppni á t.d. Innri markaði EES, af því að þangað fer mikið af íslenzkri framleiðslu, sem notar rafmagn. 

Þrátt fyrir að óbjörgulega horfi nú um stundir á raforkumarkaðinum, verður að vona og gera ráð fyrir, að viðkomandi ráðherrar, þ.e. formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sem ásamt öðrum Alþingismönnum, sem eru fulltrúar eigendanna, komi vitinu fyrir stjórn Landsvirkjunar eða leysi hana frá störfum ella, því að yfirverðlagning Landsvirkjunar er að valda þjóðfélaginu stórtjóni og mun halda aftur af þeirri viðspyrnu, sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur boðað og er öllum nauðsynleg. 

Nú er atvinnuleysi orðið svo víðtækt á Íslandi af völdum sóttvarnaraðgerða, að horfir til þjóðarböls.  Þetta böl er verra en Kófssjúkdómurinn sjálfur.  Með öllum ráðum þarf að létta þetta böl.  Það er m.a. hægt að gera með því að beita Landsvirkjun til að lækka orkukostnað fyrirtækja og heimila í landinu.

Nú verður vitnað í Markaðinn frá 24. september 2020 undir fyrirsögninni:

"Telur orkuverðið til stóriðju orðið of hátt".

Þessi frétt Fréttablaðsins hófst þannig:

"Raforkusamningar við stórnotendur á Íslandi, sem hafa verið endurnýjaðir á síðustu árum, hafa gert það að verkum, að raforkuverð er ekki lengur samkeppnishæft við verð erlendis.  Af þeim sökum er einsýnt, að fleiri stórnotendur á Íslandi lendi í rekstrarvanda á næstunni.  Þetta er [á] meðal þess, sem kemur fram í umsögn Bjarna Bjarnasonar, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, um Kerfisáætlun Landsnets fyrir árin 2020-2029, sem Fréttablaðið hefur undir höndum.

Í umsögninni segir, að bæði kísilverin á Íslandi, við Helguvík á Suðurnesjum og á Bakka við Skjálfanda, hafi nýlega stöðvað starfsemi.  Þar að auki hafi álver Rio Tinto við Straumsvík dregið mjög úr framleiðslu, og að gagnaverin á Íslandi hafi dregið úr rafmagnskaupum sínum um þriðjung."

Hér gætir mikillar svartsýni á þróun efnahagsmála á Íslandi.  Svona skipstjóri í stórsjó mundi telja tilgangslaust að ausa skektuna og að róa lífróður. Fjármála- og efnahagsráðherra aftur á móti boðar viðspyrnu.  Ástandið á raforkumarkaðinum er að miklu leyti afleiðing af ofurverðlagningu Landsvirkjunar á raforku, sem er úr öllum takti við það, sem gerzt hefur undanfarið ár, t.d. í Noregi og Svíþjóð.  Verðlagning og stirðbusaháttur Landsvirkjunar gagnvart álverunum hér SV-lands og Elkem Íslandi á Grundartanga, gagnaverum o.fl., hefur þegar valdið hér stórtjóni, minni umsvifum og minni fjárfestingum en ella. 

"Að þessu samanlögðu nemur samdráttur í raforkukaupum á Íslandi um 1,5 TWh/ár eða um 7,5 % af árlegri vinnslugetu raforku á Íslandi. Bjarni bætir því jafnframt við í umsögn sinni, að "ekki sé ólíklegt, að álveri Rio Tinto verði lokað á  næstunni", en það myndi þýða, að um 22 % af því rafmagni, sem hægt er að vinna á landinu m.v. núverandi uppsett afl, verði hreinlega óseld."

Hérna er farið frjálslega með.  Hvaðan hefur Bjarni Bjarnason það, að búast megi við lokun ISAL "á næstunni", og hvað er "á næstunni" í hans huga ?  Þótt Rio Tinto hafi afskrifað ISAL í bókum samstæðunnar, hefur stjórn hennar enn hug á að framleiða þá hágæðavöru á Íslandi, sem nú er framleidd í Straumsvík.  Rio Tinto/ISAL-samstæðan  telur sig hins vegar misrétti beitta af hálfu Landsvirkjunar og hefur kært framferði hennar til Samkeppnisstofnunar. Landsvirkjun kann að gera  Rio Tinto ókleift að starfa hér með því að þverskallast við að aðlaga raforkuverðið að heimsmarkaði, og þá verður lokun eigi síðar en 2024, en þá opnast gluggi til endurskoðunar samninga. Deilur við verkalýðsfélögin núna kunna reyndar að setja nýtt strik í reikninginn.  Verkföll eru viðurkennd "force majeure" leið til að stöðva starfsemi.  Það er mjög dýrt að endurgangsetja álver, og slíkt verður ekki farið út í, nema horfur séu á arðbærum rekstri.  

Hlutfallið 22 % af orkuvinnslugetu landsins til Straumsvíkur er löngu úrelt.  Þegar Rio Tinto hætti  við að styrkja straumleiðara kerskála 1 & 2 í Straumsvík, var hluta af umsaminni afl- og orkuaukningu skilað til baka og greiddar skaðabætur vegna óseldrar orku á samningstíma.  Hlutfall ónotaðrar orku í kerfinu vegna lokunar ISAL mundi nema tæplega 17 %. Landsvirkjun má hins vegar ekki ráðstafa 85 % af þessari orku, á meðan hún rukkar Rio Tinto/ISAL fyrir hana (kaupskylda eftir lokun), svo að það er allsendis ótímabært að flækja þessu máli inn í vangaveltur um virkjanaþörf o.þ.h. Hvað téðum forstjóra gengur til með því að vaða á súðum, eins og hann gerir, er óljóst: 

"Í umsögn Bjarna segir jafnframt, að "taumlaus uppbygging áliðnaðar í Kína" valdi því, að alþjóðlegur álmarkaður sé afar erfiður um þessar mundir og að ekkert bendi til þess, að landið fari að rísa í bráð.  Forstjórinn nefnir einnig, að áliðnaður á Vesturlöndum gæti hreinlega lagzt af, ef staða álmarkaða lagist ekki á næstu árum, og eigi það hugsanlega einnig við um álver Alcoa á Reyðarfirði og Norðurál við Grundartanga."

Þetta er svartagallsraus í forstjóra OR.  Álverðið hefur braggazt síðsumars og í haust.  Dettur nokkrum  heilvita manni í hug, að hinum strategískt mikilvæga áliðnaði í Evrópu verði leyft að lognast út af eða hann verði fluttur annað.  Evrópusambandið mun vinna gegn slíku, og þar á bæ er nú þegar rætt um að setja kolefnistoll á innflutt ál inn á Innri markaðinn.  Slíkt mun skakka leikinn, sem er mjög ójafn og ósanngjarn núna.

Þá má benda á nýlegt viðtal í Fréttablaðinu við Gunnar Guðlaugsson, forstjóra Norðuráls, þar sem hann lýsir bjartsýni sinni um framtíð álframleiðslu í Evrópu á grundvelli gæða, sérhæfingar og "grænnar" raforku. Líklegt má telja, að Evrópa verði í fararbroddi þróunar kolefnisfrírrar álframleiðslu, en tilraunaverksmiðja með s.k. eðalskaut mun hefja starfrækslu í rannsóknarmiðstöð Rio Tinto í Frakklandi á næsta ári. 

"Tilefni umsagnar Bjarna er fyrirætlun Landsnets um að fjárfesta fyrir um mrdISK 90 í flutningskerfi raforku á Íslandi á næstu 10 árum.  Bjarni segir í samtali við Fréttablaðið, að þetta myndi þýða, að efnahagsreikningur Landsnets myndi u.þ.b. tvöfaldast.  Flutningskostnaður, sem Landsnet rukkar viðskiptavini sína um, ákvarðast aðallega af eignastofni fyrirtækisins, og þar af leiðandi myndi flutningskostnaður viðskiptavina óumflýjanlega hækka."

Hér er ýmislegs að gæta.  Framkvæmdir Landsnets á síðasta áratugi lágu að miklu leyti í láginni, og þess vegna er brýnt að stöðva fyrirtækið ekki núna með áform sín um að meðaltali 9,0 mrdISK/ár fjárfestingar næsta áratuginn.  Það veitir ekki af þeirri miklu aukningu, sem þar er áformuð, til að reisa nýja og öflugri Byggðalínu frá Hvalfirði til Skriðdals og til að styrkja flutningskerfi Vestfjarða verulega, en þar er afhendingaröryggi raforku óviðunandi og reyndar ekki mannsæmandi. Landsnet getur bætt verulega úr skák, en vegna veikleika í Vesturlínu þurfa Vestfirðingar að verða sjálfum sér nógir um rafmagn fyrir vaxandi íbúafjölda, sífellt öflugra atvinnulíf og orkuskiptin. Þetta eru bara 2 dæmi um fjölmargar áætlaðar framkvæmdir í Kerfisáætlun Landsnets.   

Það er rangt, að flutningsgjald Landsnets þurfi óhjákvæmilega að hækka vegna þessarar innspýtingar í framkvæmdir.  Núna eru einfaldlega óeðlilega miklar arðsemiskröfur gerðar til fyrirtækisins.  Þær þurfa að lækka, og það þarf að leyfa fyrirtækinu að dreifa fjármagnskostnaði á fleiri ár en nú er gert.  Þetta er í höndum Landsreglarans í Orkustofnun (hann á sæti í tæknistjórn ACER-Orkustofnunar ESB).  Hvers vegna ætti Evrópusambandið ekki að leyfa flutningsfyrirtæki raforku á Íslandi að draga úr tjóni þar með því að auka afhendingaröryggið og minnka orkutöpin án þess að krefjast fljóttekinnar arðsemi mannvirkjanna ?  Allt eru þetta þjóðhagslega hagkvæmar framkvæmdir, og Ísland og Noregur gegna lykilhlutverki í aðfangakeðju ESB á sviði framleiðslu úr áli.   

""Sumir stórnotendur rafmagns á Íslandi eru þegar við sársaukamörk, þegar kemur að raforkukostnaði, og það er einsýnt, að hækkandi flutningskostnaður myndi þýða minni kaup á raforku.  Þá þarf Landsnet að hækka verðskrána, sem myndi enn frekar draga úr eftirspurn.  Þarna gæti myndazt spírall, sem ekki endaði vel", segir hann og bætir við, að fjárfestingaáætlun Landsnets byggist á forsendum um vöxt, sem ekki byggi á veruleikanum, eins og hann blasir nú við.  Allverulegar líkur séu á því, að offramboð rafmagns verði á Íslandi til skamms eða langs tíma. "Það þýðir mikið tekjutap fyrir þjóðina, því [að] það getur tekið mörg ár að koma þessu rafmagni í vinnu aftur."" 

Þarna er um að ræða blöndu vanþekkingar og misskilnings.  Sumir stórnotendur, þ.m.t. sá, sem nú á erfiðast uppdráttar, töldu hyggilegra við samningsgerð að tryggja sig gegn hækkun gjaldskráar Landsnets, sem Bjarni Bjarnason telur nú hættu á, með því að semja við Landsvirkjun um, að hún mundi greiða flutningskostnaðinn hverju sinni.  Það var líka sanngjarnt í ljósi mikillar eignaraðildar Landsvirkjunar að Landsneti.  

Það er misskilningur, að hægt sé að fresta bráðnauðsynlegum framkvæmdum Landsnets vegna samdráttar í sölu rafmagns, sem að miklu leyti er sjálfskaparvíti Landsvirkjunar, sem þrjózkast við að aðlaga sig breytingum í nálægum löndum á raforkumarkaði, þegar þær breytingar eru til lækkunar, en taldi sjálfsagt að víkja frá upphaflegri stefnu fyrirtækisins um að beita rafmagninu til að laða að fjárfestingar og auka með því verðmætasköpun í landinu mjög með því að lækka verðið rétt niðurfyrir það, sem þá tíðkaðist í samkeppnislöndunum. Samt var rekstur Landsvirkjunar ætíð arðsamur.  

Síðan kemst Bjarni Bjarnason í mótsögn við sjálfan sig:

"Að mati Bjarna ættu fjárfestingar Landsnets að miðast við að bæta afhendingaröryggi til almennings.  [Gera þær það ekki ? - innsk. BJo.] Með því væri komið í veg fyrir aðstæður, eins og mynduðust á Norðurlandi í vetur, þar sem mikið óveður sló út rafmagni á m.a. stórum svæðum í Eyjafirði.  

Kerfisáætlun Landsnets byggist m.a. á spá Orkustofnunar um þróun raforkunotkunar á Íslandi til næstu áratuga.  Í nýjustu skýrslu orkuspárnefndar stofnunarinnar mun aukin eftirspurn raforku kalla á nýjar virkjanir til ársins 2050, en árleg aukning eftirspurnar raforku er talin munu verða um 1 % fram til ársins 2050."

Auk þess að styrkja flutningslínur og leggja jarðstrengi til að auka ófullnægjandi afhendingaröryggi þarf Landsnet að anna flutningsþörf hámarksafls.  Landsnet leitast líka við að halda orkutöpum flutningskerfisins innan hóflegra marka.  Þannig eru margvíslegar tæknilegar ástæður að baki framkvæmdaþörf Landsnets.  Það getur ekki verið of í lagt að miða við 1 %/ár aukna raforkunotkun landsmanna, þegar þess er gætt, að raforkunotkun og landsframleiðsla haldast í hendur.  Þótt nú sé slaki í hagkerfinu um sinn og þar af leiðandi minni spurn eftir raforku en áður (fallið er óeðlilega mikið vegna okurs einokunarfyrirtækisins Landsvirkjunar), þá er ekkert vit í að draga úr fjárfestingum Landsnets af þeim sökum, enda hafa þær flestar dregizt úr hömlu.

Ofan á aukningu eftirspurnar rafmagns, sem tengist fjölgun fólks og aukinni verðmætasköpun, kemur nú aukning vegna orkuskiptanna, og þar munar fyrst um sinn mest um einkabílaflotann, en hann nemur nú um 280 k (k=þúsund) bifreiðum. Meðalakstur er um 13 kkm/ár, og við íslenzkar aðstæður þarf að reikna með 0,3 kWh/km að meðtöldum töpum frá virkjun.  Ársnotkun hvers einkabíls er þannig 3,9 MWh/ár, og alls flotans 1,1 TWh/ár.   Þetta er nálægt tvöföldun núverandi heimilisnotkunar og 5,5 % aukning m.v.  meðalvinnslugetu núverandi virkjana. 

Það er ekki ólíklegt, að rafvæðing bílaflotans og fleiri tækja á næstu 10 árum muni útheimta þessa orku.  Ef veitufyrirtækjunum tekst vel til við að dreifa álaginu yfir sólarhringinn, mun aðeins þurfa 200 MW uppsett afl til að anna álagstoppinum, en líklegra er, að 400 MW virkjað afl þurfi til þess.  Mikil endurhleðsla að nóttu mun aðeins fara fram, ef hvati til þess kemur fram á markaðnum.  Forsenda er uppsetning snjallorkumæla hjá notendum, og hún hefur enn ekki hafizt í umtalsverðum mæli. 

Hin stærri farartæki munu verða knúin með eldsneyti, sem þarf raforku til að framleiða, t.d. vetni.  Það er líklegt, að á næstu 5 árum komi fram fjárfestir, sem vilji hefja vetnisframleiðslu hér á landi með rafgreiningu á vatni fyrir innlendan og erlendan markað.  Þá margfaldast ofangreind orkuþörf.  Allt tal um, að ekkert þurfi að virkja hér á landi á næstu árum, er úr lausu lofti gripið.  Þeir, sem vilja halda sig við þann afturhaldsboðskap, eru að fórna tækifærum til hagvaxtar og gjaldeyrissköpunar, sem eru undirstaða þess, að hér verði sæmileg lífskjör og unnt að greiða niður Kófsskuldina (yfir mrdISK 1000) tiltölulega hratt.  Til að borð verði fyrir báru ber að stefna að opinberum skuldum undir 25 % af VLF. Það sannast bezt á því, hversu tiltölulega skaðlítil veira getur snarað fjárhag ríkis og sveitarfélaga á fáeinum mánuðum undir kvið. 

"Forsendur Landsnets um 2,2 % aukningu á ári miðast við, að orkuskipti muni ganga hratt fyrir sig, m.a. með örri fjölgun rafbíla.  Bjarni bendir á, að rafbílar kalli ekki á stórtækar fjárfestingar, hvorki í dreifikerfum né virkjunum.  "Ef öllum einkabílum landsins yrði ekið á rafmagni á morgun, þá myndi það kalla á u.þ.b. 3,5 % af því rafmagni, sem við framleiðum í dag.  Nú þegar eru 7,5 % af rafmagni í landinu á lausu og því engin þörf á að virkja til að knýja rafbíla. Þar að auki eru rafbílar í langflestum tilfellum hlaðnir á nóttunni, sem dregur úr álagi á flutningskerfi Landsnets, og því þarf ekki að fjárfesta í flutningskerfinu til að anna eftirspurn vegna rafbíla."

Forstjóri OR fer hér létt yfir sögu og vanmetur orku- og aflþörf vegna rafbíla, sem er alls ekki til eftirbreytni fyrir þá, sem ábyrgir eru fyrir afhendingaröryggi raforku.  Við áætlun sína á raforkuþörf rafbíla virðist hann taka mið af uppgefnum notkunartölum framleiðenda.  Hann gæti hafa notað 0,19 kWh/km og sleppt töpum í dreifikerfi, flutningskerfi og í virkjunum. Fyrir íslenzkar aðstæður (lágt útihitastig, vindasamt) er ráðlegast að reikna með 0,3 kWh/km séð frá virkjun, og þá nemur orkuþörfin ekki 3,5 % af núverandi orkuvinnslugetu, heldur 5,5 %, og á þessum tölum er marktækur munur. 

 Enn óráðlegra er að taka mark á málflutningi Bjarna Bjarnasonar um, að núverandi orkuvinnslugeta í kerfinu umfram eftirspurn á markaði, 7,5 %, sé ástæða til að halla sér á hliðina og virkja ekkert um sinn.  Á fáeinum mánuðum geta aðstæður á markaði gjörbreytzt, og m.v. aðdraganda að virkjun, sem að lágmarki eru 3 ár, en með leyfisveitingum og verkhönnun a.m.k. tvöfalt lengri, er þessi stefna forstjórans ekki ávísun á annað en afl- og orkuskort í landinu, sem ber að forðast í lengstu lög.

Athyglisvert er, að forstjórinn telur enga þörf á umtalsverðum fjárfestingum í veitukerfum OR eða í öðrum dreifiveitum, og heldur ekki í flutningskerfi Landsnets vegna rafbílavæðingar.  Þetta rökstyður hann með innleiðingu snjallorkumæla.  Ánægjulegt er, að OR ætlar að setja háar upphæðir í flýtingu verkefna vegna bágborins atvinnuástands á næsta ári.  Þ.á.m. á að hefja uppsetningu stafrænna orkumæla árið 2021.  Þetta og hagkvæmur næturtaxti fyrir neytendur er alger forsenda fyrir því, að dreifiveitum takist að draga úr fjárfestingarþörf vegna rafbílavæðingar.  Hins vegar getur endurhleðsla utan heimahúsa ekki farið fram að næturlagi, svo að nokkru nemi, og orkan, sem fer á bílana á s.k. hraðhleðslustöðvum, er áreiðanlega umtalsverður hluti heildarorkuþarfar rafmagnsbíla.

Bjarni Bjarnason virðist vera einn á báti innan orkugeirans  með kenningar sínar um virkjanaþörf í nánustu framtíð. Þannig var frétt með eftirfarandi fyrirsögn í Morgunblaðinu 24. september 2020:

"Stækka Reykjanesvirkjun um 30 MW".

Hún hófst svona:

"HS Orka hyggst hefjast handa við 30 MW stækkun Reykjanesvirkjunar á næstunni, og með því verður framleiðslugeta aukin úr 100 MW í 130 MW. Verkfræðingar HS Orku hafa unnið að hönnun og undibúningi þessa síðustu misseri ásamt ráðgjöfum, og eru öll formsatriði í höfn.  Auglýst verður eftir tilboðum í verkið á næstu dögum."  

Í þessu jarðhitavirkjunarfyrirtæki er enginn bilbugur á mönnum.  Þarna eiga úrtölumenn ekki upp á pallborðið, jafnvel ekki þótt jörðin skjálfi undir þeim og kvikuinnskot hækki Þorbjörn, sem er í hlaðvarpa Svartsengisvirkjunar.  Þar er HS Orka með aðra 30 MW stækkun á prjónunum.  Fjárfestingar þar í öðru en hraunvörnum bera þó keim af ofdirfsku, eins og sakir standa.

Því miður er flutningsgerfi Landsnets vanbúið að taka við verulegri viðbótar flutningsþörf til Suðurnesja, ef allt fer á versta veg, og landskerfið getur ekki séð Suðurnesjum fyrir nauðsynlegu og öruggu afli, ef náttúruöflin slá 175 MW afli út úr framleiðslukerfinu.  Það eitt sýnir, hversu fánýtur málflutningur Bjarna Bjarnasonar er um, að engin þörf sé núna á nýjum virkjunum.  Það er þvert á móti mikil þörf fyrir þær afhendingaröryggisins vegna.

Fréttin endaði svona:

""Að stækka virkjanir, sem fyrir eru, eða [að] fá orku frá smávirkjunum, sem framleiða 1-10 MW, er mjög heppilegt m.v. núverandi aðstæður á Íslandi.  Almennt eykst eftirspurn eftir orku [þ.e. afli - innsk. BJo] um 10-20 MW á milli ára, og þessar litlu virkjanir falla vel að þeirri aukningu", segir Tómas Már."    

 

 

 

 


Tækifærin í hrönnum, en doðinn veldur stöðnun

Hagkerfi Íslands, eins og annarra landa, er mjög illa leikið eftir "Wuhan-veiruna", sem þó er ofmetnasta veira, hvað hættu áhrærir, sem um getur.  Þótt hún hafi verið viðkvæmum skeinuhætt, er samt barnaleikur að eiga við hana í samanburði við það, sem skotið getur upp kollinum veirukyns, og nægir að nefna hina skelfilegu ebólu, sem olli mörgum fjörtjóni í Vestur-Afríku fyrir nokkrum árum og var með 10-100 sinnum hærra dánarhlutfall sýktra en SARS-CoV-2-veiran, sem fyrst varð vart við í Wuhan-borg í Kína, svo að vitað sé, í nóvember-desember 2019.

Fjármála- og efnahagsráðherra Íslands hefur sagt, að rétta leiðin út úr kreppunni sé að auka tekjur þjóðarbúsins, auka gjaldeyristekjur og verga landsframleiðslu.  Undir þetta er hægt að taka, en vandinn og e.t.v. vonbrigðin eru þau, að ríkisvaldið skuli ekki liðka til fyrir einkaframtakinu, þar sem það liggur beint við og er ríkinu útlátalítið, á heildina litið.

Áliðnaðurinn er einn af þeim geirum, sem býður upp á þetta, þótt það stingi í stúf við ýmsar fréttir að undanförnu.  Álverðið hefur verið að braggast, og vaxandi skilningur er á því á Innri markaði EES, að sanngjarnt og umhverfislega æskilegt á heimsvísu sé að tollleggja vöru með hliðsjón af kolefnisspori hennar.  Er þá ekki að orðlengja, að staða álvera á Íslandi og í Noregi á markaðinum mundi batna, enda verða samkeppnisskilyrðin þar með eðlilegri.

Njáll Trausti Friðbertsson, Alþingismaður, ritaði góða grein í Morgunblaðið 1. september 2020, sem hann nefndi:

"(Ál)iðnaður, ein af grunnstoðum íslensks efnahagslífs".

Það er mjög ánægjulegt, að þingmaður skuli skilmerkilega í blaðagrein vekja athygli á útflutningsgrein, sem moldvörpur hafa af kunnri smekkleysu sinni grafið undan um langa hríð. 

Því miður hefur sá og höggvið, er hlífa skyldi, en fjandskapur ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar við þessa atvinnustarfsemi frá 2010 hefur fáum dulizt.  Á sama tíma og mætir þingmenn benda á fjárfestingar einkaaðila, t.d. í laxeldi, sem eru strandaðar í leyfisveitingafrumskógi hins opinbera, þvermóðskast Landsvirkjun við að hleypa nýju lífi í fjárfestingar í íslenzkum áliðnaði.

Ef samið verður um lækkun orkuverðs til ISAL úr hæstu hæðum, verður hleypt lífi í framkvæmdir í Straumsvík, sem frestað hefur verið í nokkur ár vegna slæms fjárhags, en lágt afurðaverð og mjög hátt raforkuverð hefur sligað fjárhaginn með alvarlegum afleiðingum fyrir stöðu ISAL innan samsteypu Rio Tinto.

  Á Grundartanga eru merkileg fjárfestingaráform á döfinni, sem eru þó skilyrt við endurnýjaðan raforkusamning við Landsvirkjun.  Landsvirkjun hefur dagað uppi með stefnu sína um stórgróða og arðgreiðslur eftir því.  Hvernig stendur á því, að nú, þegar hæst þarf að hóa, skuli eigandinn, ríkissjóður, ekki beita sér fyrir því, að Landsvirkjun liðki með verðlagningu raforku fyrir nýjum fjárfestingum í landinu, eins og hún var stofnuð til að gera ?  Það væri algerlega í anda boðskapar fjármála- og efnahagsráðherra nú um leið landsmanna út úr kreppunni. 

Grípum niður í grein Njáls Trausta: 

"Það er þó staðreynd, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að stóriðjan á Íslandi og raforkuframleiðsla hefur byggt mikilvægan grunn undir íslenzkt efnahagslíf.  Sem dæmi má nefna mikilvægi álframleiðslunnar í framhaldi af bankahruninu, þar sem gjaldeyristekjur af álframleiðslu ásamt vexti í ferðaþjónustu kom okkur Íslendingum á undraskömmum tíma út úr erfiðri kreppu."

Það munaði mjög mikið um fjárfestingar Rio Tinto í Straumsvík á tímabilinu 2010-2013. Þá var þar fjárfest fyrir MUSD 500, sem á núverandi gengi nemur tæplega mrdISK 70.  Fjárfest var í stækkun afriðlastöðvanna þriggja og nýju þétta- og síuvirki til að hækka aflstuðul við inntak aðveitustöðvar yfir 0,98, keyptir voru viðbótar straumteinar til að kerskálar gætu tekið við hærri straumi frá afriðlastöðvum og framleiðslubúnaði steypuskála var umbylt, svo að í stað álbarra (rétthyrningslaga í þversnið allt að 30 t) yrðu framleiddar álstengur (hringlaga í þversnið),  o.fl. var gert til að styðja við aukna og verðmætari framleiðslu. (Hár aflstuðull bætir nýtingu búnaðar virkjana og flutningskerfis.)

Þá voru og reistar 2 nýjar hreinsistöðvar fyrir kerreykinn til að uppfylla nýjar og strangar kröfur um hámarkslosun flúoríðs í ögnum út í andrúmsloftið og vetnisflúoríðs á gasformi á hvert framleitt tonn áls.  Hefur þetta allt reynzt vel, en Rio Tinto hætti við uppsetningu straumteinanna, þótt slíkir hafi verið settir upp í systurverksmiðjunni, SÖRAL, í Noregi, og sú ákvörðun hefur takmarkað framleiðsluaukninguna og þar með þá framleiðniaukningu, sem að var stefnt með fjárfestingunni.  

Þegar ISAL tók til starfa 1969, var síldin horfin, svo að þessar miklu og stefnumarkandi fjárfestingar í Straumsvík og í Búrfellsvirkjun linuðu kreppuna, sem af síldarleysinu leiddi, og iðnvæðingin, sem í hönd fór, bætti lífskjörin og dró úr efnahagssveiflum í landinu.  ISAL hefur þannig alla tíð frá 1967 (framkvæmdir) jafnað hagsveiflurnar á Íslandi. ISAL getur enn stuðlað að viðspyrnu, ef fyrirtækið fær raforkuna á samkeppnishæfu verði, sem er fjarri lagi nú (tæplega 40 USD/MWh með flutningsgjaldi).

Nú skal enn vitna í Njál Trausta:

"Álframleiðslan á Íslandi er í dag um 16 % af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar [2019: 214/1344], eins og við þekkjum síðustu árin, og kostnaður álvera á Íslandi í fyrra nam um mrdISK 91 innanlands. Það eru beinharðar gjaldeyristekjur fyrir íslenzkt þjóðarbú.  Samkeppnishæfni íslenzkrar álframleiðslu snýr því einna helzt að tveimur þáttum; annars vegar að því, að Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og hins vegar að aðgengi að grænni raforku á hagstæðum kjörum."

 Raforkuverðið, sem ISAL býr við, er um þessar mundir hið hæsta í Evrópu, og þótt víðar væri leitað. Það er fjarri lagi, að rafmagnið sé á hagstæðum kjörum fyrir alla stórkaupendur, og það er ekki hagfellt fyrir seljandann heldur, því að kaupendur hafa af þessum sökum dregið úr kaupunum sem mest þeir mega, og í Straumsvík mun eigandinn neyðast til að stöðva verksmiðjuna löngu áður en samningstímabilið rennur út (2036), ef svo heldur fram sem horfir. 

Rio Tinto/ISAL hefur nú fært ágreining sinn við Landsvirkjun til Samkeppnisstofnunar, og það kann að verða aðeins fyrsta skrefið í langvinnri lögfræðilegri þrætuvegferð, sem getur vel borizt alla leið til ESA í Brüssel.  Það er tæplega eftirsóknarvert fyrir einokunarfyrirtækið Landsvirkjun, sem er sem bergþurs á íslenzkum orkumarkaði.  Frá sjónarmiði ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA gæti þörfin á að skapa raunverulega samkeppni á íslenzka raforkumarkaðinum blasað við og liður í því verið að búta Landsvirkjun niður, en er það þjóðhagslega hagkvæmt ?  Varla.

Áfram hélt Njáll Trausti:

"Í umræðunni, eins og vill oft gerast, þegar um orkusækinn iðnað er að ræða, gleymist að huga að því, að á bak við framleiðsluna er fólk, sem dregur lífsviðurværi sitt af því að starfa þar.  Árið 2019 voru tæplega 1500 manns, sem störfuðu í álverum.  Þá voru stöðugildi verktaka innan álvera 435 og starfsmenn í stóriðjuskóla 105."   

Á meðal þessara 1500 á launaskrá álveranna eru mjög fjölbreytilegar starfsgreinar, sérhæfðir starfsmenn, iðnaðarmenn, iðnfræðingar, verkfræðingar, viðskiptafræðingar o.fl.  Fjölmargir verktakar starfa einnig utan verksmiðjanna auk þessara 435 innan verksmiðjanna, e.t.v. 200-300 ársverk, svo að alls gætu verið 2200 ársverk unnin hérlendis á vegum álveranna, og til viðbótar eru s.k. óbein störf.  Það munar um minna á íslenzka vinnumarkaðinum, því að meðallaun hverrar starfsgreinar í álverunum eru tiltölulega há.  Vaktavinnufólk hefur þar mjög góð kjör, bæði á tvískiptum og þrískiptum vöktum, og bakvaktir drýgja tekjurnar, en eru oft erilsamar. 

Að lokum skrifaði Njáll Trausti:

"Verkefnið, sem við stöndum frammi fyrir, hlýtur þar af leiðandi að felast í því að treysta samkeppnisstöðu íslenzks áliðnaðar.  Ég vil því taka undir orð fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, um, að það er orðið löngu tímabært að fara fram á það í þeirri Evrópusamvinnu, sem Ísland er þátttakandi í, að staðinn verði vörður um [framleiðslu] iðnaðarvöru innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem augljóslega fer fram með mun umhverfisvænni hætti en sú framleiðsla, sem seld er inn á svæðið.

Okkar verkefni er að tryggja orkusæknum iðnaði hér á landi sjálfbærar rekstrarforsendur.  Ég mun því á nýju löggjafarþingi, þegar það kemur saman 1. október n.k., leggja fram skýrslubeiðni til utanríkisráðherra, þar sem óskað verður umfjöllunar um stöðu íslenzkrar álframleiðslu á Íslandi gagnvart EES-samningnum, auk umfjöllunar um framleiðslu  og sölu á umhverfisvænni iðnaðarvörum innan Evrópska efnahagssvæðisins."

Evrópusambandið (ESB) er á pappírnum mjög metnaðarfullt f.h. aðildarlanda sinna og samstarfslanda á Innri markaði EES um, að engin nettólosun verði þaðan á gróðurhúsalofttegundum 2050. Vegna hættu á s.k. kolefnisleka til slóða á þessu sviði er sjálfsagt, að ESB leggi á kolefnistolla, eins og Bjarni Benediktsson og Njáll Trausti Friðbertsson eru talsmenn fyrir.  Ef utanríkisviðskiptaráðherra getur ásamt Norðmönnum veitt þessu máli þann stuðning, sem dugir til að leiða þetta mál til lykta í Brüssel, mun það leiða af sér verðhækkun á áli í Evrópu.  Hafa ber í huga, að megnið af áli Kínverjanna í Evrópu fer í umbræðslu, en t.d. ISAL selur einvörðungu vöru, sem er tilbúin til að fara beint í þrýstimótunarverksmiðjur, þar sem alls konar prófílar, pípur, burðarbitar og rammar, verða til.

Þann 2. september 2020 birtist viðtal í Markaði Fréttablaðsins við Gunnar Guðlaugsson, rafmagnsverkfræðing og forstjóra Norðuráls á Grundartanga, undir fyrirsögninni:  

"Tilbúið að fjárfesta fyrir 14 milljarða".

Af þessu viðtali er ljóst, að það er hugur í mönnum í áliðnaðinum, enda vaxandi markaður fyrir ál, sem tengist orkusparnaði.  Það má ekki láta ríkisfyrirtækið Landsvirkjun þursast áfram og eyðileggja þann vaxtarsprota, sem hagkerfinu nú býðst með erlendri fjárfestingu, áhættulausri fyrir Íslendinga, að koma á legg á Grundartanga.  Ef verkefnið fer í vaskinn vegna ósveigjanleika Landsvirkjunar, þá meina stjórnvöld ekkert með fagurgala um að hvetja til sem mestra fjárfestinga í Kófinu til að slá á atvinnuleysið og leggja grunn að framtíðartekjum. Verður það ófagur minnisvarði um feril núverandi ráðherra, ekki sízt nýsköpunar-, iðnaðar- og ferðamálaráðherra:

Viðtalið var mjög fróðlegt. 

Þar stóð m.a.:

""Það er eðlilegt, að það sé tekizt á um þetta mál [verðlagningu raforku til stóriðju]", nefnir Gunnar.  "Við erum í þeirri sérstöku stöðu hér á Íslandi, að fá fyrirtæki eru að kaupa langstærstan hluta raforkunnar í gegnum langtímasamninga.  Það segir sig auðvitað sjálft, að ef eitthvert þessara fyrirtækja hættir starfsemi, þá er enginn til þess að taka við þeirri raforku, sem þá losnar.  Markaðurinn hér á Íslandi gæti ekki tekið við allri þeirri raforku, sem þá losnar.  Markaðurinn hér á Íslandi gæti ekki tekið við allri þeirri raforku með stuttum fyrirvara.  

Við þessu hefur verið brugðizt með því að taka upp ríka kaupskyldu í samningum.  En þá er í sjálfu sér búið að aftengjast hefðbundnum markaðslögmálum.  Það er frumréttur á markaði að geta ákveðið að kaupa ekki þá vöru eða þjónustu, sem verið er að bjóða til sölu.

En þegar þetta hefur verið tekið úr sambandi, þarf að finna einhverja aðra aðferð til að ákvarða verðið.  Við höfum viljað tengja þetta álverði, og ég held, að það hafi gefið mjög góða raun.  Það hefur afar sjaldan gerzt, að álfyrirtæki hér dragi úr framleiðslu, þegar álverð er lágt vegna þesss, að rafmagnsverðið hefur lagað sig að álverðinu. Svo þegar álverð er hátt, þá njóta raforkufyrirtækin þess líka. 

Með þessu kerfi hafa byggzt upp stór og öflug orkufyrirtæki á grunni álverðstengdra orkusölusamninga.  Mín skoðun er einfaldlega sú, að það kerfi hafi reynzt okkur vel, og við eigum að hugsa okkur vel um áður en við köstum því fyrir róða."

Allt er þetta satt og rétt metið hjá Gunnari Guðlaugssyni.  Það fylgdu kaupskyldunni fleiri kostir fyrir orkuseljanda en hann nefnir.  Einn var tekjutrygging yfir allt greiðslutímabil lána vegna fjárfestingar.  Út á hana fengust mun hagstæðari lánakjör en ella, þar sem áhætta lánveitenda var sáralítil. Þar sem kostnaður virkjunar lækkaði umtalsvert við að auka byrðar orkukaupandans með þessum hætti, var og er sanngjarnt að aðilar deili með sér ávinninginum með lækkuðu raforkuverði.  Auk mjög jafns álags álvera á raforkukerfið, sem færir því betri nýtingu fjárfestinganna, má nefna háan aflstuðul álvera, sem eykur framleiðslugetu virkjana á raunafli og þar með seljanlegum MWh (megawattstundum). 

Allt gerir þetta álver að ákjósanlegum viðskiptavinum íslenzkra orkufyrirtækja, en þorri kostnaðar þeirra eru afborganir og vextir af stofnkostnaði, en rekstrarkostnaður er tiltölulega lágur. Á öllu þessu ríkti góður skilningur innan Landsvirkjunar á tímabilinu 1965-2010.  Árið 2010 varð óheillavænleg stefnubreyting innan fyrirtækisins, reist á vanþekkingu á eðli íslenzka orkugeirans og kolröngum viðhorfum til verðlagningar raforku og þar með skilningsleysi á hlutverki Landsvirkjunar frá upphafi.

"Samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar 2019 var meðalverð til stóriðju 23 USD/MWh; eitthvað í kringum þá tölu yrði ásættanlegt fyrir Norðurál. Þó að Nord Pool-verðið sé lægra en það í augnablikinu, þá værum við reiðubúin að ganga út úr núgildandi samningi við Landsvirkjun gegn því að fá nýjan samning til lengri tíma á þessu bili, t.d. til 20 ára.

Gunnar bætir því við, að ef hægt væri að klára langtíma raforkusamning upp á í kringum 23 USD/MWh, sé Norðurál tilbúið að ráðast í fjárfestingar á Grundartanga." 

 Til að varpa ljósi á hina gríðarlegu mismunun Landsvirkjunar á álversviðskiptavinum sínum, sem Rio Tinto hefur kært til Samkeppnisstofnunar sem markaðsmisbeitingu í skjóli einokunaraðstöðu og mun vafalítið halda áfram með til ESA, ef ekkert vitrænt ætlar að koma frá þessari stofnun, þá er verðið (án flutningsgjalds) til ISAL tæplega 60 % hærra en meðalverðið. Þarna er ríkisfyrirtækið sekt um að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja í sömu grein herfilega.  

Á Grundartanga bjóðast Íslendingum um 85 störf á meðan framkvæmdir standa yfir við að breyta framleiðslulínum steypuskála Norðuráls, svo að þar verði unnt að framleiða álstengur, eins og nú er gert í Straumsvík.  Við þessar nýju framleiðslulínur verða síðan til 40 ný ársverk hjá Norðuráli.  Hér er enn eitt tækifærið, sem ríkinu stendur til boða að liðka fyrir, að verði að raunveruleika.  Allt hjal ráðamanna, iðnaðarráðherra þar á meðal, um nauðsyn fjárfestinga einkaframtaksins til að skapa ný störf og aukin verðmæti fyrir þjóðarbúið, er út í loftið og aðeins marklaust hjal, ef þau skella skollaeyrum við þessu kostaboði. 

Gunnar nefnir, að álverðstenging við orkuverð sé æskileg, sem er alveg rétt.  Hér hlýtur að vera samningsgrundvöllur með 23 USD/MWh m.v. núverandi markaðsverð og síðan hækkandi raforkuverð með hækkandi álverði eftir umsaminni formúlu.  Ríkisstjórnin getur ekki látið steingervinga í Landsvirkjun koma í veg fyrir stækkun þjóðarkökunnar sem leið landsmanna út úr vandanum.  Það verður að beita Landsvirkjun fyrir vagninn, sem nú er fastur í forarpytti.  Þar er nóg afl.

Gunnar Guðlaugsson er með ákveðna sýn á framtíð álvera á Vesturlöndum í samkeppninni við lönd á borð við Kína.  Hann telur, að gæðaál, framleitt með "grænni" raforku og með eins umhverfisvænum hætti og tæknin leyfir hverju sinni, sé "hugsanlega bezti möguleiki álframleiðenda staðsettra á Vesturlöndum".  Við þetta þarf að bæta, að þessi "græna" orka verður að vera til reiðu á verði, sem endurspeglar kostnaðinn við öflun hennar, en ekki á okurverði, sem einokunarfyrirtæki dettur í hug til að geta skilað eigandanum sem hæstum arði.  Arðurinn á að koma fram "í hinum endanum" til ríkisins, eins og Franklin Delano Roosevelt sagði um "New Deal". 

Í lok viðtalsins sagði Gunnar:

"Ég er sannfærður um það, að orkuverð verði mjög samkeppnishæft hér á Vesturlöndum til frambúðar.  Ég get líka nefnt það, að áliðnaður í Noregi er á mjög góðum stað í augnablikinu; því er þetta líka spurning um það, hvernig ríkisstjórnir einstakra landa búa um hnútana, þegar kemur að samkeppnishæfu orkuverði."

Þarna gæti Gunnar verið að vísa til þess, að íslenzka ríkisstjórnin þarf ekki að óttast viðbrögð ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA við ráðstöfunum, sem hér hafa verið viðraðar, því að sambærilegar tilhliðranir hafa átt sér stað annars staðar í EES, m.a. í Noregi, án athugasemda af hálfu ESA, að því bezt er vitað.  Hvers vegna ríkir þessi ægilegi doði í íslenzka stjórnarráðinu ?  Skyldu eyru ráðherranna vera köld ?

  

  

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband