ESA sækir á

ESA (eftirlitsstofnun EFTA) gegnir hlutverki framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) í EFTA-stoð EES-samningsins.  ESA sendir iðulega athugasemdir til íslenzku ríkisstjórnarinnar út af framkvæmd EES-samningsins, sem hér tók gildi 1. janúar 1994. Tvö afdrifaríkustu málin, sem nú eru á döfinni, eru í fyrsta lagi athugasemdir við dómsuppkvaðningar hér, þar sem ekki er sagt gætt að kafla 3 í EES-samninginum ásamt bókun 35 við samninginn. Samkvæmt þessum ákvæðum víkur landsréttur fyrir Evrópurétti. Dómstólar geta ekki tekið mark á því, þar eð Stjórnarskráin bannar þeim það, góðu heilli. Nú stendur upp á ríkisstjórnina að andmæla.  Hún hefur þar íslenzku stjórnarskrána að halda sig við, en slíkt framsal löggjafarvalds er með öllu óheimilt þar, enda allsendis ólýðræðislegt.  

Hitt málið fjallar um reglur um úthlutun nýtingarréttar á ríkislandi og auðlindum þar, t.d. vatnsréttindum.  Árið 2017 framdi ríkisstjórn Íslands það axarskapt að fallast á allar kröfur ESA í þessum efnum.  Þær snerust um, að ríkið yrði að gæta jafnræðis við úthlutun slíkra réttinda og viðhafa aðferð, sem tryggir markaðsverð fyrir nýtingarréttinn.  Að öllum líkindum er ekki  hægt að verða við þessum kröfum ESA öðru vísi en að bjóða nýtingarrétt orkulindanna út á Innri markaði EES, enda væri það í samræmi við kröfur framkvæmdastjórnar ESB á hendur 8 vatnsorkulöndum í ESB.  Sjá þá allir, að  erlendir hagsmunaaðilar í orkugeiranum, loðnir um lófana, geta hér neytt aflsmunar og tryggt sér þessi réttindi.  Þar með er arður erfðasilfurs Íslendinga kominn í annarra hendur.  Að þáverandi utanríkisráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, og forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhansson, skyldu ljá máls á þessu, er óskiljanlegt, enda liggur viðkomandi lagafrumvarp nú á ísi, en af framandlegri ástæðu og ekki á grundvelli innlendrar greiningarvinnu. 

Fari málið um forgang Evrópuréttar fyrir EFTA-dómstólinn, sem er líklegt, verður Ísland í erfiðri stöðu, því að hin EFTA-ríkin í EES-samstarfinu, Noregur og Liechtenstein, hafa viðurkennt þennan forgang í lögum sínum. EES-samningurinn var innleiddur í norskan rétt með s.k. EES-löggjöf, og voru Norðmenn á undan Íslendingum með þennan verknað.  Þar var í gr. 2 svofellt ákvæði um forgang ESB-löggjafarinnar samþykkt af Stórþinginu:

"Bestemmelser i lov, som tjener til å oppfylle Norges forpligtelser etter avtalen, skal i tilfelle konflikt gå foran andre bestemmelser, som regulerer samme forhold.  Tilsvarende gjelder, dersom en forskrift, som tjener til å oppfylle Norges forpligtelser etter avtalen, er i konflikt med en annen forskrift, eller kommer i konflikt med en senere lov."

Lagaákvæði af þessu tagi hefur Alþingi ekki samþykkt, enda bryti slíkt gegn ákvæðum stjórnarskráar Íslands, t.d. gr. 2 og 21.  Ákvæði keimlíkt hinu norska felur í sér framsal löggjafarvalds til ríkjasambands, sem Ísland á ekki aðild að, fótumtreður lýðræðislega stjórnskipun og kemur af þessum sökum ekki til mála hérlendis. 

Á Íslandi bjuggum við við þá stjórnskipun frá 930-1264, að goðarnir sammæltust um lagasetninguna, oft að höfðu samráði við hina gildari bændur, sbr viðkvæðið: "hvað segja bændur", en þaðan í frá og fram að Heimastjórn máttum við búa við lagasetningu, sem meira eða minna kom frá erlendum embættismönnum, og ekki losnuðum við við staðfestingu konungs á lögum fyrr en með nýrri stjórnarskrá og lýðveldisstofnun á Þingvöllum 1944.  Það er þess vegna alger öfugþróun nú, ef Alþingismenn ætla að innleiða aftur það óeðlilega og ólýðræðislega fyrirkomulag, algerlega að þarflausu, að erlendir embættismenn, í þetta skipti niðri á meginlandi Evrópu, semji fyrir oss lög, sem Alþingi er svo ætlað að stimpla inn í íslenzka lagasafnið.

Morgunblaðið birti 5. október 2020 frétt undir fyrirsögninni:

"ESA sendir Íslandi lokaviðvörun":

 

"Sigríður Á. Andersen, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, sagði í samtali við blaðið, að mál þetta hefði áður komið til umræðu, þó ekki hefði fengið sérstaka athygli.  

"Það er enginn vafi í mínum huga, að erlend löggjöf gengur ekki framar íslenzkri löggjöf.  Eitthvert álit frá ESA breytir engu þar um."

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tók í sama streng.  "Mér finnst það blasa við, að kröfugerð ESA samrýmist mjög illa íslenzkri stjórnskipan.  Því þurfa íslenzk stjórnvöld að koma skýrt á framfæri."

Hér er úr vöndu að ráða, því [að] í bókun 35 með EES-samningnum er sagt, að á Evrópska efnahagssvæðinu eigi að gilda sameiginlegar reglur án þess þó að samningsaðila sé gert að framselja löggjafarvald til stofnana þess og að þeim markmiðum skuli náð með málsmeðferð hvers lands um sig.  Á hinn bóginn er þar einnig sagt, að komi til árekstra á milli EES-reglna og annarra settra laga, skuldbindi EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði um, að EES-reglur gildi."

Það er einmitt þetta, sem hefur gerzt og ESA kvartaði yfir, að Hæstiréttur Íslands hefur vikið ESB-rétti til hliðar og tekið íslenzkan rétt framyfir í dómsmálum, og þar með fylgdi hann ákvæðum Stjórnarskráarinnar.  Það sjá allir, að setji Alþingi lög um hið mótsetta, þá er verið að flytja löggjafarvaldið aftur út úr landinu, og við það verður ekki unað, hvað sem tautar og raular í Brüssel eða í hópi innlendra undanhaldsmanna.  

Þann 6. október 2020 birtist viðtal við Ólaf Ísleifsson í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

Forsenda EES var óskert fullveldi.

"Það er fráleitt að gera sér í hugarlund, að [EFTA] dómstóllinn myndi krefjast þess af aðildarríki samningsins [EES], fullvalda ríki, að það grípi til aðgerða, sem ganga gegn stjórnarskránni, nú eða breyti stjórnarskrá sinni."

Að öðru jöfnu væri þetta rétt, en EES-samningurinn er enginn venjulegur samningur.  Með honum eru Íslendingar komnir með aðra löppina inn í ríkjasambandið ESB, þar sem grundvallaratriði þykir, að á þeim sviðum, þar sem stjórnarskrárígildi þess, Lissabon-sáttmálinn, veitir því lögsögu og forræði mála, þar skuli lög þess og reglur gilda ótvírætt.  Í þessu sambandi leggur ESB allan landsrétt að jöfnu, og grundvallarlög aðildarríkja verða að víkja fyrir lögum ESB og lagatúlkunum ESB-dómstólsins. 

Þetta var áréttað í vor, þegar "Rauðhempurnar", stjórnlagadómarar í Karlsruhe, kváðu upp þann dóm, að ESB væri ekki sambandsríki, heldur ríkjasamband, og þess vegna væru stjórnlög Þýzkalands æðri lagasetningu ESB-þingsins.  Þessari túlkun hafnaði ESB-dómstóllinn daginn eftir eða svo, og forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, fyrrverandi varnarmálaráðherra Þýzkalands, áréttaði skömmu síðar, að þannig yrði það að vera, því að annars mundi ESB fljótlega liðast í sundur.  Þarna hafa dómarar EFTA-dómstólsins línuna.  Hið alvarlega fyrir Íslendinga er, að innlendum dómstólum ber að fylgja fordæmi EFTA-dómstólsins samkvæmt EES-samninginum.  Hvað gera bændur þá ?

""Það hlyti að vera mikið umhugsunarefni fyrir slíkan dómstól, ef hann ætlaði að fara að efna til stjórnskipulegs ágreinings við aðildarríki.  Slíkt væri ekki aðeins ögrun við það ríki, heldur öll önnur ríki í því samstarfi", segir Ólafur og bætir við: "Ef Evrópustofnanir vilja grafa undan trausti á því alþjóðlega samstarfi, sem Evrópska efnahagssvæðið er, þá þyrftu þær nú að hugsa sig um tvisvar.""

Allt er þetta satt og rétt hjá Ólafi, svo langt sem það nær.  Trúnaður og skyldur dómara við EFTA-dómstólinn eru hins vegar hvorki við almenn lög né stjórnlög EFTA-ríkjanna, heldur við Evrópurétt, og þeir fylgja jafnan fordæmi ESB-dómstólsins.  Það er þess vegna borin von, að dómsuppkvaðning EFTA-dómstólsins, fari þetta mál fyrir hann, verði Íslendingum í vil. 

 "Ólafur bendir á, að þessar áhyggjur séu ekki nýjar af nálinni.  "Þessi mál voru rædd í kringum þriðja orkupakkann í fyrra.  Þá var margítrekað af hálfu þeirra, sem báru ábyrgð á aðildinni að EES [sennilega er átt við Davíð Oddsson og Jón B. Hannibalsson-innsk. BJo], að það væri alger forsenda aðildar okkar að þeim samningi, að Ísland hefði neitunarvald varðandi þætti, sem snertu fullveldi þjóðarinnar.""

Það er væntanlega svo, að í Sameiginlegu EES-nefndinni hefur Ísland vettvang til að leita eftir undanþágum við lög ESB með traustum rökstuðningi. Þessi vettvangur var hins vegar aldrei nýttur að neinu ráði við umfjöllun neins af fyrstu orkupökkunum þremur. Ísland var í góðri stöðu til að leita eftir allsherjar undanþágu frá orkulöggjöf ESB, en íslenzk stjórnvöld höfðu aldrei hug á því.  Nú er að sjá, hvað gerist með OP#4. 

Forgangsmál löggjafar er hins vegar allt annars eðlis, og meitlað í 3. kafla EES-samningsins, sem Ísland hefur aldrei gert neina athugasemd við.  Það er þess vegna mjög vandræðalegt að setja sig upp á afturfæturnar núna, en betra er seint en aldrei, segir máltækið.  

Hvernig ætli tónninn sé í undanhaldsmönnum á Alþingi núna ?  Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, er þar framarlega í flokki, og eftir honum var þetta haft í sömu frétt:

"En það má spyrja, hvort við verðum ekki, fyrr eða síðar, að fá skýrt framsalsákvæði í stjórnarskrá, sem breið samstaða er um.  Þannig að það liggi fyrir, hvað má og hvað ekki í alþjóðasamstarfi, sem mér sýnist nú, að verði sífellt nauðsynlegra til þess að ná skikki á hlutina í mannheimum."

Logi er eins og álfur út úr hól, þegar hann óskar þess, að breið samstaða geti orðið á Íslandi um að flytja löggjafarvald og dómsvald aftur til útlanda, en um það mundu þær stjórnarskrárbreytingar fjalla, sem hann óskar sér.  Það verður vonandi bið á því, að óskir hans rætist í þeim efnum.

Friðrik Daníelsson og Sigurbjörn Svavarsson í "Frjálsu landi" rituðu grein í Morgunblaðið 13. október 2020  með fyrirsögn, sem ekki er víst, að öll ríkisstjórnin rísi undir:

"Ríkisstjórnin snýst til varnar sjálfstæðinu".

Þar er ofangreint ESA-mál til umfjöllunar, en einnig annað ESA-mál, sem fjallað hefur verið um í a.m.k. tveimur pistlum hér á vefsetrinu.  Það fjallar um þá kröfu ESA, að úthluta skuli afnotarétti af landi í eigu ríkisins ásamt þeim auðlindum, t.d. vatnsréttindum, sem þar er að finna, á markaðsverði til tímalengdar, sem dugi einkafyrirtækjum til ávöxtunar fjármunanna, sem til greiðslu fyrir nýtingarréttinn fara.  Þetta markaðsverð á Innri markaðinum fæst varla, nema með útboði á honum þar, og þá þarf ekki að spyrja að leikslokum.  Íslenzkir aðilar munu verða undir í þeirri samkeppni, og eitthvert orkufyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu mun hreppa hnossið.  Hvernig halda menn, að fari þá með raforkuverðið ?

Við erum þá komin í stöðu vanþróaðra ríkja, sem misst hafa ráðstöfunarrétt náttúruauðlinda sinna úr höndum sér.  Sama mun gerast, ef Ísland gengur alla leið í ESB og fylgt verður stefnu Viðreisnar um uppboð veiðiréttinda í íslenzkri lögsögu á Innri markaði EES. 

 Þetta mál er lengra komið en hið fyrra, því að ESA er fyrir sitt leyti búin að ljúka því.  Hvers vegna ?  Vegna þess að ríkisstjórn Íslands samþykkti 2017 í forsætisráðherratíð Sigurðar Inga og utanríkisráðherratíð Lilju Daggar að verða við öllum kröfum ESA. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir. Núverandi ríkisstjórn lét semja frumvarp til laga til að þóknast ESA, en hún hefur nú lagt það á ís.  Hvers vegna ?  Jú, hún frétti af því, að norska ríkisstjórnin hefði fyrir sitt leyti hafnað sams konar kröfu ESA í garð Norðmanna á þeim forsendum, að ESA kæmi það ekki við, það væri utan valdsviðs ESA að skipta sér af því, hvernig EFTA-ríkin ráðstöfuðu orkulindum sínum. 

Allt er þetta íslenzkri stjórnsýslu og þeim stjórnmálamönnum, sem við hana eru riðnir, til fullkominnar háðungar.  Að íslenzk stjórnvöld skyldu ekki hafa manndóm í sér til að snúast til varnar, eins og Norðmenn, þegar um grundvallarhagsmunamál, eins og úthlutun nýtingarréttar á orkulindum, er að ræða, þýðir, að við höfum enga burði til að standa í krefjandi fjölþjóðlegu samstarfi, eins og EES-samningurinn snýst um.  Grundvallarviðhorfsbreyting til þessa samstarfs þarf að eiga sér stað.  Það hefði ekki verið vitlaust í byrjun að leita í smiðju til Norðmanna, sem eiga sams konar orkuhagsmuna að gæta, til að kanna grundvöll sameiginlegrar afstöðu.  Slíkt dettur tréhestum og undanhaldssinnum ekki til hugar.

Nú verður vitnað í grein Friðriks og Sigurbjörns:

"Frjálst land spurði ríkisstjórnina (26.2.2020), hvort meiningin væri að veita fjárfestum ESB aðgang að íslenzkum orkulindum í framhaldi af "rökstuddu áliti" ESA um, að Ísland virti ekki ákvæði EES um jafnræði íslenzkra og ESB-fjárfesta við útboð virkjunarréttinda.  

Ríkisstjórnin svaraði (2.4.2020), að frumvarp, sem lagt hafði verið fram um málið, hefði verið dregið til baka.       

"Komið hafi upp rökstuddar efasemdir um, að þjónustutilskipunin (nr 123/2006, sem ESA vísaði m.a. til, eigi við um raforkuframleiðslu.  Íslenzk stjórnvöld hafa því ákveðið að fresta fyrirhuguðum lagabreytingum uns betri vissa er fengin fyrir því, hvaða þjóðréttarlegu skuldbindingar hvíla á íslenzka ríkinu að þessu leyti", segir í tilkynningu ríkisstjórnarinnar."

Þetta er aumkvunarvert yfirklór hjá ríkisstjórninni.  Norska ríkisstjórnin lét í ljósi þá skoðun sína við kynningu, sem EFTA-ríkin í EES fengu á þessari þjónustutilskipun, áður en hún gekk í gildi, að tilskipunin gæti ekki spannað nein málefni orkulinda Noregs.  Íslenzku ríkisstjórninni mátti vera þetta ljóst, þannig að afstaða norsku ríkisstjórnarinnar í júní 2019 var ekkert nýnæmi, enda var þar vitnað í upphaflegu bókun Noregs um málið.  Eru íslenzk stjórnvöld algerlega úti á þekju í þessu EES-samstarfi ? 

Aldrei var minnzt á þessi rök í bréfum íslenzku ríkisstjórnarinnar til ESA út af málinu, enda lagði ESA höfuðáherzluna á, að samkeppnisreglur Evrópuréttarins væru brotnar.  Nú vaknar spurningin: var þáverandi ríkisstjórn fús til þess að fórna erfðasilfri Íslendinga í hendur erlendu "auðvaldi", af því að þjóðréttarlegar skyldur hvíldu á Íslandi til þess ?  Hvers konar "eymingjaháttur" viðgengst eiginlega í utanríkisráðuneyti Íslands ?  Hverju mundi það breyta fyrir almenning á Íslandi að leggja þetta utanríkisráðuneyti niður og fela utanríkisráðuneyti Noregs verkefni þess í verktöku ?

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Eru menn virkilega í  einhverjum vafa um það enn þá að það sé lífsnauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að EES samningnum verði sagt upp og það helst fyrir hádegi í gær???????

Jóhann Elíasson, 23.10.2020 kl. 21:00

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Við þurfum aðgangsmiða inn fyrir "Festung Europa".  Hann fæst t.d. með víðtækum fríverzlunarsamningi EFTA við ESB, en sá kemst ekki á koppinn, nema Noregur vilji líka losna úr EES. Framkvæmdastjórn ESB er orðin þreytt á Tveggja stoða kerfinu og vill helzt losna við það.  Það gætu orðið straumhvörf á Stórþinginu í afstöðunni til ESB eftir kosningarnar í september 2021.  Vísbending um þau straumhvörf er, að meirihluti myndaðist nú í vikunni á Stórþinginu gegn ríkisstjórninni um innleiðingu á Járnbrautarpakka 4 frá ESB.  Meirihlutinn óskaði eftir úrskurði Hæstaréttar um það, hvort innleiðing gerðarinnar fæli í sér meira framsal valdheimilda til ESB, þ.e. ERA-járnbrautastofnunar ESB, en stjórnarskráin leyfir.  Þetta var stórfrétt, sem enga athygli hefur fengið á meginmiðlunum íslenzku.  Hvað segir það um þá ?  Það hefur heldur enga athygli vakið, að utanríkisráðherra Íslands fékk bréf frá kollega sínum í Noregi um þessa tilteknu innleiðingu.  Þar var hann að líkindum beðinn um að skrifa undir sameiginlega yfirlýsingu EFTA-landanna (utan Sviss) um, að EFTA-löndin væru sammála um að sniðganga Tveggja stoða regluna.  Ráðuneytið neitar að upplýsa um málið.  Ef ráðherrann undirritar, gerir hann sjálfan sig og formann Sjálfstæðisflokksins að ómerkingum.  Nú er spurningin: er líklegt, að utanríkisráðherra Noregs hefði sent þetta bréf án þess að hafa vilyrði utanríkisráðherra Íslands um undirritun ?  Er hann kannski þegar búinn að undirrita ?  Utanríkisráðuneyti Íslands þegir þunnu hljóði við fyrirspurn Heimssýnar um málið.  Stjórnsýslan er söm við sig. 

Bjarni Jónsson, 24.10.2020 kl. 16:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband