Sóttvarnir á brauðfótum

Það er búið að kosta óhemjumiklu til sóttvarna hérlendis á því herrans ári 2020, og áframhald virðist ætla að verða á því 2021. Á Englandi eru þingmenn Íhaldsflokksins farnir að spyrja um heilsufarslegar og fjárhagslegar afleiðingar sóttvarnaraðgerða þar í landi. Lítið fréttist af slíkum umræðum á Alþingi. Spurningin, sem spyrja ætti núna, er sú, hvort ríkisvaldinu hafi ekki verið veitt of mikil völd yfir lífi fólks, eða það hafi jafnvel tekið sér þau í heimildarleysi. Afleiðingin er langavitleysa herðinga og slakana á sóttvarnaaðgerðum samkvæmt geðþótta sóttvarnarlæknis. Nú virðist hann ekki þora að slaka á frelsistakmörkunum, þótt þær séu í engu samræmi við álagið á heilbrigðiskerfið, hvað þá sýkingatíðnina.

Enginn veit, hvenær hjarðónæmi næst gegn SARS-CoV-2-veirunni með bólusetningum, og enginn veit, hversu lengi mótefnin munu vara í mannslíkamanum. Þau vara tiltölulega stutt af "flensusprautunum", en flensuveirurnar eru afbrigði kórónuveiru. Nýþróuð bóluefni, reist á erfðafræðilegu boðefni (mRNA), eru hins vegar eðlisólík fyrri bóluefnum. 

Þá er ekki hægt að útiloka, að veiran komi aftur, eitthvað stökkbreytt, og valdi usla, eins og aðrar kórónuveirur hafa gert, sem fylgt hafa mannkyni frá upphafi vega. Sóttvarnaryfirvöldum miðar ekkert áfram í þróun sinna grófgerðu aðgerða (10 manna hópatakmörkun), þau eru eins og færilús á tjöruspæni.

Mjög miklar og dýrkeyptar takmarkanir hvíla á þegnunum núna, eins og mara, en virðast hafa lítil áhrif á smittíðni, því að hún tekur sig upp jafnvel áður en boðaðar tilslakanir koma til framkvæmda.  Það eru persónubundnar sóttvarnir og ábyrg hegðun einstaklinganna, sem öllu máli skipta fyrir smitstuðulinn.  Því miður hefur sumum í s.k. þríeyki látið betur að predika og hneykslast á lýðnum en að sýna gott fordæmi með alræmdum afleiðingum.

Nýlegar rannsóknir sýna, að flestir sýktra smita engan, en 10 %-15 % smitbera valda yfir 80 % smitanna.  Þetta gefur til kynna, að almennar takmarkanir og lokanir séu áhrifalítil úrræði, og þau hafa mjög alvarlegar afleiðingar á fjárhag margra, á geðheilsu, á líkamlega heilsu og munu, er frá líður, leggjast sem mara á heilbrigðiskerfið og valda fleiri dauðsföllum en þær hindra.

Að trufla skólasókn ungmenna út af meintum C-19 sóttvörnum er glapræði.  Vernd gegn smitum á að beina að þeim, sem líklegir eru til að fara halloka gegn SARS-CoV-2-veirunni.  Það er vitað, hverjir það eru.  Dánarhlutfall sýktra í Landakotsáfallinu í október-nóvember 2020 var 15 %.  Dánarhlutfall í aldurshópnum 0-35 ára er 0,001 % - 0,01 %.  Í öllum aldurshópum eru veikir einstaklingar, sem þarf að verja, en flestum hinna verður lítið meint af þessum sjúkdómi. Þó eru mismikil eftirköst af öllum veirusjúkdómum hjá um 10 % sýktra.

Það er verið að beita kolrangri, klunnalegri og dýrkeyptri aðferðarfræði af þröngsýni og skammsýni í baráttunni við þennan vágest, eins og "Great Barrington"-sérfræðingahópurinn hefur bent á.  Þar á ofan bætist, að reglugerðir heilbrigðisráðherra orka lagalega mjög tvímælis, eins og hérlendir hæstaréttarlögmenn hafa bent á.  Nú hefur hún látið semja lagafrumvarp um sóttvarnir, sem sætir miklum ádeilum, einkum ákvæði um heimild stjórnvalda til útgöngubanns.  Yfirvöldin kunna ekki með heimildir sínar að fara, og það er alveg þarflaust að veita þeim auknar sóttvarnarheimildir. Öllu nær væri að láta reyna á gjörðir þeirra fyrir dómi, eins og gert hefur verið sums staðar erlendis, t.d. í Þýzkalandi, þar sem stjórnvöld máttu lúta í gras fyrir að fara offari. 

Fréttablaðið hefur verið gagnrýnið á duttlungafullar og harkalegar samfélagslegar sóttvarnir hérlendis, sem eru eins konar "sagan endalausa" með sífelldum endurtekningum, herða-slaka.  Slíkt eyðileggur hvaða þjóðfélag sem er.  Þann 30. október 2020 birtist þar forystugrein eftir Hörð Ægisson, sem vert er að gefa gaum.  Hún hófst á þessa lund:

"Hvað tefur ?"  

"Farsóttin er að dragast á langinn og óvissa um efnahagshorfur að aukast.  Þetta var mat fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans í lok september - fyrra mat í vor var, að faraldurinn myndi ganga hratt yfir - en síðan hefur staðan aðeins versnað enn frekar.  Það kemur tæpast á óvart."

Hvert sótti Seðlabankinn sér þessa röngu ráðgjöf ?  Líklega til "þríeykisins", sem hefur þarna tekið algerlega rangan pól í hæðina einu sinni sem oftar um útbreiðslu þessarar farsóttar.

"Við höfum ákveðið að eftirláta heilbrigðisyfirvöldum að stjórna landinu.  Stefnan er að há stríð við veiru með öllum ráðum, sama hvaða skelfilegu afleiðingar það kann að hafa, uns bóluefni verður tiltækt - sem enginn veit þó, hvenær verður né hvaða virkni það mun hafa.  Um þetta áhættusama veðmál virðist að mestu samstaða innan ríkisstjórnarinnar - ekkert hefur heyrzt frá formanni Sjálfstæðisflokksins, sem gefur ástæðu til að halda annað - þar sem öll önnur sjónarmið en sóttvarnir eru víkjandi."

Að láta heilbrigðisyfirvöldum eftir stjórn landsins kann ekki góðri lukku að stýra.  Það er horft framhjá stórfelldum tekjumissi þjóðarbúsins og fjölda fyrirtækja ásamt atvinnumissi meira en 5000 manns.  Samkvæmt tölfræðilegum rannsóknum geta 150 þeirra misst heilsuna vegna atvinnumissisins og jafnvel týnt lífi fyrir aldur fram.  Sóttvarnaryfirvöld bjarga varla svo mörgum lífum með öllum sínum samfélagslegu takmörkunum og þvingunum, ef frá eru skildar smitrakningar og sóttkví vegna gruns um smit, og alls ekki með sóttkví og PSR-sýnatöku nr 2 fyrir erlenda ferðamenn.  Um innkomandi íbúa landsins gegnir öðru máli.  Smitstuðull þeirra er hár, en lágur fyrir hina, sennilega minni en 1,0.  Í seinni skimun hafa 90 greinzt jákvæðir þrátt fyrir neikvæðni í fyrri skimun, þegar þetta er ritað.  Ef gert er ráð fyrir því, að 60 af þessum 90  séu smitandi erlendir ferðamenn, hafa þeir e.t.v. náð að valda 100 sýkingum innanlands innanlands áður en tekst að komast fyrir upptökin með smitrakningum og sóttkvíum.

Þegar þetta er skrifað, virðast 309/5371=5,75 % af greindum lenda á sjúkrahúsi og 50/5371=0,93 % af greindum lenda í gjörgæzlu.  Samkvæmt þessu kynnu 3 af þessum 60 sýktu erlendu ferðamönnum að hafa lent á sjúkrahúsi hér, en enginn í gjörgæzlu vegna hagstæðrar áhættudreifingar í hópnum.  Af þessu sést, að verið er að fórna miklu meiri lýðheilsutengdum hagsmunum fyrir minniháttar álagsaukningu á sjúkrahúsin vegna C-19 með illa ígrunduðum aðgerðum á landamærunum.

Fjárhagslega er aðgerðin glapræði, því að hún kann að fækka erlendum ferðamönnum hingað um 300 k árið 2020, sem þýðir tekjutap fyrir þjóðarbúið upp á tæplega mrdISK 80. Hér hefur verið tekin ákvörðun fyrir hönd landsmanna með bundið fyrir augu og eyru.  

"Þeir, sem leyfa sér að setja opinberlega fram efasemdir um, að skynsamlega sé að málum staðið, eru umsvifalaust útmálaðir sem brjálæðingar, sem skeyti lítt um líf og heilsu þeirra, sem viðkvæmastir eru fyrir í samfélaginu.  Ekki er þetta á mjög háu plani", skrifaði Hörður Ægisson ennfremur.  Það er hins vegar augljóst af öllum málflutningi, hvorum megin brjálæðið liggur.

Það er kominn tími til, að aðilar vinnumarkaðarins tjái sig opinberlega af þunga um þau glæfralegu tilræði, sem hér eru framin á degi hverjum við atvinnulífið og daglegt líf landsmanna í nafni misskilinna sóttvarna, sem kasta barninu út með baðvatninu, eins og rakið er að ofan.  Frétt í Markaði Fréttablaðsins 26. nóvember 2020 hófst þannig:

""Það er kominn tími til að draga markvisst úr þessari langvarandi óvissu og setja fram skýra áætlun um aðgerðir til loka faraldursins", sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Fréttablaðið.  Þannig verði næstu sóttvarnaraðgerðir fyrirsjáanlegri og um leið líklegar til að njóta breiðs stuðnings í samfélaginu öllu.

Samtök atvinnulífsins kalla eftir því, að stjórnvöld nýti reynsluna af baráttunni við útbreiðslu kórónaveirunnar og útbúi skýran ramma um aðgerðir næstu mánaða.  Þau telja, að sóttvarnaraðgerðir næstu mánaða þurfi að uppfylla 3 skilyrði. 

Í fyrsta lagi, að skýr og tímasett áætlun sé um afléttingu afmarkana.  Í öðru lagi þarf að setja fram töluleg viðmið, þar sem frekari liðkun eða hömlur eru tengdar við nýgengi smita.

Og í þriðja lagi, að sóttvarnarráðstafanir séu innbyrðis samkvæmar, skiljanlegar almenningi og höfðað sé til ábyrgðar hvers og eins um að verja sig og aðra.

"Óvissa um síbreytilegar aðgerðir hefur sett skólahald, starfsemi fyrirtækja og öll áform í samfélaginu í uppnám", segir Halldór. Draga þurfi markvisst úr þessari langvarandi óvissu og setja fram skýra áætlun.""

Þetta er hófstillt gagnrýni fulltrúa atvinnurekendasamtakanna á stefnu sóttvarnaryfirvalda, sem er eins og ósýnilegur fíll í postulínsbúð, því að enginn veit, hver þessi stefna er, en hún veldur þjóðfélaginu alveg gríðarlegu tjóni.  Halli ríkisstjóð á þessu ári vegna aukinna útgjalda og samdráttar hagkerfisins af völdum sóttvarnaraðgerða hérlendis og erlendis er áætlaður mrdISK 260 og svipaður 2021.  Hér er verið að binda ungu kynslóðinni ósæmilegar klyfjar.  Almennt má segja, að hún hafi orðið fórnarlamb stjórnvaldsaðgerða hérlendis í þessum kórónuveirufaraldri, því að nám hennar hefur orðið fyrir skakkaföllum algerlega að óþörfu, þar sem ráðherrar heilbrigðis og mennta hafa farið offari í forræðishyggju sinni gagnvart samfélagshópum, sem átti að láta að mestu í friði.  Þá eru tveir hópar, sem verst hafa orðið fyrir barðinu á atvinnumissi.  Það eru ungt fólk og fólk af erlendum uppruna.  Það eru margir í sniðmenginu, þ.e. ungir og erlendir, sem eiga um sárt að binda. 

Sóttvarnayfirvöld munu bregðast Halldóri Benjamíni og öðrum landsmönnum í þessum efnum.  Þau vilja bara leika af fingrum fram, og líftölfræðingur "numero uno" virðist ekki geta vísað fram á veginn heldur.  Það, sem þarf endilega að gera, til að draga úr tjóninu, sem vitlaus viðbrögð hafa valdið, er að:

1) Aflétta fjöldatakmörkunum í skólarýmum, en viðhalda grímuskyldu í framhldsskólum.  Kennarar gæti sérstakrar varúðar, einkum hinir eldri. 

 

2) Aflétta hömlum af íþróttastarfsemi og leyfa opnun sundstaða og líkamsræktarstöðva gegn því að viðhafa persónubundnar sóttvarnir.

3) Aflétta fjöldatakmörkunum af verzlunum, en þar verði áfram grímuskylda og sprittun. 

4) Leikhús, kvikmyndahús og tónleikahald megi starfrækja eðlilega með allt að 1000 gestum, sem verði með grímur. 

5) Matsölustaðir og barir megi hleypa inn jafnmörgum gestum og geta fengið sæti á tímabilinu kl 1800-2400.  Grímuskylda á meðan ekki er setið.  Sjálfsafgreiðsla ekki leyfð.

6) Á landamærunum þarf strax að liðka til fyrir komum erlendra ferðamanna með því að hleypa ferðamönnum með viðurkennd ónæmisvottorð inn án sýnatöku og láta einfalda sýnatöku duga fyrir fólk með ríkisfang á og komandi frá "grænum eða gulum" svæðum, en aðrir fari í tvöfalda skimun og 2-3 daga sóttkví.  

Eldri borgarar ættu að fara varlega og forðast fjölmenni.  Skjólstæðinga dvalar- og hjúkrunarstofnana þarf að verja sérstaklega vel.  Það á við gagnvart gestum á þessum stofnunum og starfsfólk.  Starfsfólk sæti skimun a.m.k. vikulega. 

Að lokum skal hér vitna í niðurlag umhugsunarverðrar  forystugreinar Harðar Ægissonar í Fréttablaðinu 27. nóvember 2020, sem hét:

"Farið offari".

"Því miður er það að gerast, sem sumir óttuðust.  Embættismenn, sem hafa öðlazt gríðarmikil völd á þessum veirutímum, hafa vanizt þeim óþægilega mikið og eru um margt að fara offari í aðgerðum sínum.  Við því þarf að bregðast.  Nú þegar bóluefni er í augsýn, er ljós við enda ganganna.  Við eigum að nýta þá stöðu, eins og m.a. Samtök atvinnulífsins hafa lagt til [með því] að útbúa skýran ramma um sóttvarnarráðstafanir til næstu mánaða, sem verði tengdar við töluleg viðmið um þróun faraldursins hverju sinni.  Slíkt væri til þess fallið að auka á fyrirsjáanleika aðgerðanna og um leið létta verulega á þeirri óvissu, sem nú er allt um lykjandi. 

Það er ekkert, sem kallar á viðvarandi krísuástand, sem er á góðri leið með að drepa allt samfélagið í dróma fram að þeim tíma, þegar búið verður að að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar.  Það stendur á forystumönnum ríkisstjórnarinnar, ekki þríeykinu, að rétta við kúrsinn, þegar teknar verða afdrifaríkar ákvarðanir um næstu skref."

Hörður stingur á meininu í lokin.  Ástæðan fyrir því í hvílíkt óefni er komið er einmitt sú, að ríkisstjórnin hefur enga forystu veitt í sóttvarnarlegum efnum, þótt með tillögum sínum fari sóttvarnarlæknir augljóslega offari. Hið eina, sem ríkisstjórnin gerir, er að gera tillögur til Alþingis um að ausa úr ríkissjóði, sem hún hefur raunar þegar tæmt og er nú önnum kafin við að binda unga fólkinu þunga bagga. Þetta heitir að stinga hausnum í sandinn.

Hörður Ægisson nefnir, að ríkisstjórnin ætti að setja aðgerðum sínum töluleg viðmið og vitnar til Halldórs Benjamíns í því sambandi.  Sá nefndi reyndar nýgengi smita.  Hvers vegna ?  Það er fremur lélegur mælikvarði, nema við viljum koma í veg fyrir hjarðónæmi, en það er reyndar hið endanlega markmið, að vísu með bólusetningu.  Gallinn er sá, að enginn veit, hversu lengi slíkt ónæmi helzt í blóðinu eða hvort það verður virkt gegn stökkbreyttri veiru.  

Betri mælikvarðar en nýgengi smita fyrir ástæðu til samfélagslegra sóttvarnaaðgerða er fjöldi sjúklinga með þungu vægi á fjölda C-19 sjúklinga á sjúkrahúsi og í gjörgæzlu.  Í þessum skrifuðum orðum er fjöldi sjúklinga 187 og þar af 41 á sjúkrahúsi og 2 í gjörgæzlu.  Samt heldur ríkisstjórnin þjóðinni að tillögu sóttvarnarlæknis í spennitreyju almennra fjöldatakmarkana við 10, lokana á heilsubótarstöðvum og annarra dýrkeyptra takmarkana.  Þetta nær engri átt, enda er sóttvarnarleg skilvirkni þessara takmarkana óljós og í engu samræmi við augljósa ókosti.  Persónubundnar sóttvarnaraðgerðir er það, sem á að halda í heiðri, óháð stétt og stöðu, hvort sem um er að ræða yfirlögregluþjóna eða aðra.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þormar

Víða í Þýskalandi eru mun strangari sóttvarnarráðstafanir heldur en hér á landi. Samt fer dauðsföllum af völdum Covid veirunnar sífellt fjölgandi. Nú deyr þar a.m.k. einn sjúklingur af völdum veirunnar á hverri fimmtu mínútu. 

Hörður Þormar, 6.12.2020 kl. 22:57

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Snilldar pistill og svo sannur.

Ætti að vera skyldulesning fyrir ráðamenn.

M.b.kv.

Sigurður Kristján Hjaltested, 7.12.2020 kl. 09:18

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Hörður.  Já, það er engan veginn bein fylgni á milli opinberra samskiptatakmarkana og fjölda sýkinga, hvað þá dauðsfalla.  Á sýkingatíðnina er hegðun einstaklinganna mesti áhrifavaldurinn.  Fjöldi dauðsfalla er háður sýkingatíðni og getu heilbrigðiskerfa til að hjálpa almenningi, en fer þó mest eftir almennu heilsufarsástandi þjóðfélagsins og því, hvernig til tekst við að verja viðkvæma hópa.  

Bjarni Jónsson, 7.12.2020 kl. 10:01

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Sigurður Kristján;

Þakka þér fyrir umsögnina.  Það er einkenni stjórnvalda, sem eru óviss í sinni sök, að vera treg til að slaka á höftum og bönnum.  Sóttvarnarlæknir er dæmigerður fyrir þetta.  Nú verða stjórnvöld að girða sig í brók og fara að draga úr stórfelldu tjóni, sem sóttvarnarráðstafanir, reistar á þröngsýni ráðgjafanna, hafa leitt yfir samfélagið.  Þetta tjón er ekki einvörðungu efnahagslegs eðlis, heldur ekki síður andlegs og líkamlegs eðlis fyrir lýðheilsuna.  Þessar ráðstafanir eiga sér mjög hæpna lagastoð og eru ástæðulausar m.v. stöðu faraldursins nú og heilbrigðiskerfið.  

Bjarni Jónsson, 7.12.2020 kl. 10:12

5 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Já og síðan er ætlunin að virkja ekki litakóðakerfið vegna þess að þeir sem eru á rauðusvæðunum geta þá leitað á þau gráu... Ég get ekki lesið neitt annað út úr sóttvarnarlögunum en að lokun byggðarlaga sé akkúrat það sem er heimilt og hryggjarstykkið í löggjöfinni. Í samhenginu þá er verið að loka vegum vegna túrista sem myndu ekki ná bílprófi á Íslandi (og þó víðar væri leitað) vegna ófærðar...

Mig setur hljóðann í þessu Orwells dillemu.

Kv.

Sindri Karl Sigurðsson, 7.12.2020 kl. 23:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband