Færsluflokkur: Dægurmál

Borgarlína á brauðfótum

Það getur enginn rekstrargrundvöllur orðið undir Borgarlínu á næstu áratugum einfaldlega af því, að í grennd við hana verða ekki nægilega margir íbúar, sem þurfa á henni að halda, svo að tekjur nálgist rekstrarkostnað, hvað þá að standa undir fjárfestingunni. Verði hún raungerð, verður rekstrarkostnaður hennar hengingaról um háls íbúa þeirra sveitarfélaga, sem þátt taka í verkefninu. Borgarlína er feigðarflan stjórnmálamanna til að leysa vandamál, sem er ekki og verður ekki fyrir hendi í fyrirsjáanlegri framtíð.  Til að skapa vaxandi höfuðborgarsvæði fullnægjandi samgönguúrræði og raunar samgöngulausnir, sem spurn er eftir, þarf að nútímavæða umferðarstýringu á gatnamótum, hætta þeirri vitleysu að gera gangandi kleift að stöðva umferðaræðar (fyrir þá á að gera undirgöng), fjölga akreinum, þar sem það er tímabært, og reisa brýr fyrir mislæg gatnamót.  Þetta ásamt bættum tengingum höfuðborgarinnar til norðurs og austurs og Hafnarfjarðar til vesturs leysir úr vanda bílafjölgunar og verður ekki dýrari en Borgarlínulausnin, sem hefur þann megingalla að leysa engan vanda, af því að hún svarar ekki samgönguþörfum íbúanna. Fé hefur undanfarinn áratug verið sturtað í Strætó án tilætlaðs árangurs, og hlutdeild hans í umferðinni hefur ekki einu sinni náð að vaxa um 1 %.

Óli Björn Kárason, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, ritaði miðvikudagsgrein um Borgarlínuna 29. júlí 2020, sem hann nefndi:

"Á að virða samgöngusáttmálann".

Hann hefur greinilega miklar áhyggjur af því, að núverandi meirihluti í borgarstjórn sé af því taginu, sem ekki er hægt að gera samninga við.  Það er ekki að ástæðulausu, þegar horft er á, hvernig þessi óhæfi meirihluti hagar sér gagnvart Reykjavíkurflugvelli:

"Áætlaður kostnaður [við ný samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu] er um mrdISK 120 á næstu 15 árum.  Ríkissjóður tryggir a.m.k. mrdISK 45, en bein framlög sveitarfélaganna verða mrdISK 15 eða um 1 mrdISK/ár.  Um mrdISK 60 verða fjármagnaðir með flýti- og umferðargjöldum, en þó verða aðrir kostir teknir til skoðunar samhliða orkuskiptum og endurskoðun á skattlagningu á ökutæki og eldsneyti.  Í greinargerð með frumvarpi um stofnun opinbera hlutafélagsins kemur fram, að til greina komi, að ríkið fjármagni þennan hluta uppbyggingarinnar með sérstökum framlögum vegna eignasölu, t.d. með sölu á Íslandsbanka."

Það getur sem sagt farið svo, að ríkið fjármagni 88 % af kostnaðinum við ný samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 2021-2035.  Það er anzi ríflegt í ljósi þess, að aðeins 44 % eiga að fara í stofnvegi.  Annað í þessum framkvæmdahugmyndum, eins og almenningssamgöngur, göngu- og hjólastígar og bætt umferðarstýring, ætti að vera á könnu sveitarfélaganna.  Verst af öllu er þó, að 41 % kostnaðarins munu samkvæmt áætluninni ganga til gæluverkefnis umferðarsérvitringa, sem kallað er Borgarlína og almenningssamgöngur, en þetta viðfangsefni er fullkomlega í lausu lofti, sárafáir munu njóta góðs af því, en fjölmargir bíða tjón af, því að aðalafleiðingin verða auknar umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu vegna þess, að þrengt verður að einkabílnum enn meira en nú er og minna fé verður í vitrænar framkvæmdir, sem leysa umferðarvanda, þ.e. greiða fyrir umferð og minnka slysatíðni.  

"Samkvæmt samkomulaginu  er skipting kostnaðar eftirfarandi:

  • 52,2 milljarðar í stofnvegi
  • 49,6 mrd í innviði Borgarlínu og almenningssamgöngur
  • 8,2 mrd í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng
  • 7,2 mrd í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir

Þá segir orðrétt í undirrituðu samkomulagi:

"Við endanlega útfærslu framkvæmda verður sérstaklega hugað að greiðri tengingu aðliggjandi stofnbrauta, s.s. Sundabrautar, inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins.""

Í þessu síðasta felst vitræn framtíðarsýn, sem er reist á þeirri umferðartæknilegu hugsun, að vegir séu fyrir öll ökutæki, svo að fólk komist sem greiðlegast og öruggast leiðar sinnar, en ekki þeirri undarlegu og afbrigðilegu áráttu, sem einkennt hefur gatnaframkvæmdir Reykjavíkurborgar undir núverandi borgarstjóra, Degi Bergþórusyni, að vegir séu fyrir augað og ein þröng akrein, helzt hlykkjótt, dugi bifreiðum í hvívetna. 

"Margir hafa áhyggjur af því, að kostnaður - stofn- og rekstrarkostnaður - verði miklu hærri en áætlun og vísa til biturrar reynslu skattgreiðenda. En andstaðan á sér einnig rætur í óttanum við, að Borgarlínan ryðji einkabílnum úr vegi - dragi úr valkostum.  Þessi ótti er eðlilegur, þrátt fyrir að sáttmálinn sé skýr; að ráðast í umfangsmiklar samgöngubætur, m.a. á stofnvegum, og tryggja greiðari umferð með bættri umferðarstýringu. 

Og hvernig má annað vera ?  MrdISK 120  samgöngusáttmálinn virðist engu breyta í hugum forystumanna meirihlutans í borgarstjórn." 

Almenningssamgönguþátturinn í þessari áætlun er algert yfirskot og felur í sér sóun fjármuna.  Við íslenzkar aðstæður verður aldrei hægt að ná nógu mörgum farþegum í vagnana, til að meðalnýting þeirra verði nógu há, til að farþegarnir standi undir rekstrarkostnaði.  Hér er algerlega ofvaxið fyrirbrigði á ferðinni m.v. eftirspurnina.  Það virðist eiga að fara út í mrdISK 50 fjárfestingar á næstu 15 árum m.v. væntanlega eftirspurn, sem aldrei verður fyrir hendi, nema í hugskoti nokkurra draumóramanna.  Þetta er auðvitað dæmi um óvandaðan verkefnisundirbúning, sem draga mun langan slóða á eftir sér.  Það má leysa málefni almenningssamgangna með sóma með 30 % þessa kostnaðar, eins og umferðarsérfræðingar hafa bent á.  

Að láta ofstækisfulla viðvaninga á sviði skipulagsmála, eins og nú er að finna í borgarstjórn og búið er að planta niður í borgarkerfið, er ávísun á stórfelld vandræði.  Þetta bendir Óli Björn á:

"Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi pírata og formaður Skipulags- og samgönguráðs, fer mikinn í grein, sem birtist hér í Morgunblaðinu 13. júlí síðastliðinn: "Einkabíllinn er ekki framtíðin".

Borgarfulltrúinn boðar færri "bílaakreinar og færri bílastæði" og Borgarlínu með "stórtækum hjólainnviðum".  Í þessu samhengi er vert að draga fram, að markmið samgöngusáttmálans er skýrt: "að stuðla að auknum lífsgæðum á höfuðborgarsvæðinu með uppbyggingu skilvirkra, hagkvæmra, öruggra og umhverfisvænna samgöngumarkmiða."

Með þessu markmiði er m.a. stefnt að eftirfarandi:

"Að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta."

Það er hvergi í texta þessa samgöngusáttmála minnzt á niðurrif samgönguinnviða fyrir eitt af samgöngutækjunum, einkabílinn.  Þess vegna er ljóst, að píratinn Sigurborg Ósk grefur á ofstækisfullan hátt undan sáttmálanum með því að ætla að nota fjármagn, m.a. frá ríkinu, til að fækka akreinum og bílastæðum.  Þessi afstaða píratans er pírötum lík, en gjörsamlega ótæk, og þess eðlis, að réttast væri að leysa hana frá störfum formanns nefndar, sem fer með skipulagsmál borgarinnar.  Ella hljóta vinstri grænir, borgarstjórinn og flokkssystkini hans í borgarstjórn, ásamt varahjólinu Viðreisn, að svara fyrir afglöpin við næstu sveitarstjórnarkosningar. 

Jónas Elíasson, prófessor, hefur ritað talsvert um Borgarlínuna, og hann varar yfirvöld ríkisins eindregið við því að taka þátt í fjáraustri í verkefni, sem hann telur munu kosta mrdISK 200-600.  Eftir Jónas birtist í Morgunblaðinu 13.07.2020 greinin:

"Borgarlínutrúin".

Þar gat m.a. að líta þetta:

 "En frá sjónarmiði góðra stjórnarhátta er þetta miklu verra [en fjármögnunaráætlun Vaðlaheiðarganga]. Þarna er verið að binda ríkinu mikinn fjárhagslegan bagga án þess, að nokkurt gagn sé í fyrir samfélagið.  Auk þess er verið að stífla mikilvægustu samgönguæðar landsins, þjóðvegina á höfuðborgarsvæðinu. 

Svona lagað gerist ekki, nema í nafni pólitísks rétttrúnaðar, en hann hefur töluvert fylgi [á] meðal fólks, sem trúir á þann misskilning, að mestöll mengun og loftslagsvandræði séu einkabílnum að kenna.  Í mörg ár er búið að reka trúboðsstöð í Borgartúninu, sem predikar, að öll slík vandræði leysist  með Borgarlínu, en engan óraði fyrir, að áróður hennar hefði náð þetta langt. Spyrja má, hvaða trú er þetta, og hvaða gúrú er þarna á bak við ?

Seinni spurningin er ekki erfið.  Gúrúinn á bak við er amerískur prófessor að nafni Scott Rutherford.  Ágætur fræðimaður, sem lézt 2018.  Fyrir um 15 árum hélt hann fyrirlestur við Verkfræðideild HÍ um, hvernig ætti að tvöfalda afköst strætókerfa.  Í þessum fyrirlestri birtist nákvæm uppskrift að strætókerfi Borgarlínunnar.  Auðvitað grunaði manninn ekki, að hann væri að stofna trúarbrögð, enda passa núverandi trúboðar sig á að nefna Scott Rutherford aldrei á nafn, enda voru sporvagnar þeirra upphaflega hugmynd.  

En trúin er þarna; í áróðrinum heitir Borgarlína bættar almannasamgöngur.  Auðvitað þarf að bæta þær, t.d. með því að nota heppilegri aðferð til þeirra fólksflutninga en að senda út um allt galtóma, yfirbyggða vörubíla, sem heita strætó og eyða 45 l/100 km.  Flutningsgeta þeirra er allt of mikil m.v. þörf.  En Borgarlínan tvöfaldar þá flutningsgetu með enn fleiri, stærri og eyðslufrekari vögnum; slíkt bætir ekki almannasamgöngur og er ekki hægt að rökstyðja.  Það er þarna, sem trúin byrjar; á nækvæmlega sama stað og önnur trúarbrögð."

Þarna fer prófessor Jónas langt með að útskýra tilurð hugmyndafræðinnar um Borgarlínu.  Hún verður ekki til sem afurð alvöru skipulagsfræðinga með sérþekkingu á umferðarskipulagningu eða umferðarverkfræðinga með getu til að greina viðfangsefnið og finna á því hagkvæmustu lausn til langs tíma.  Nei, hún virðist verða til á meðal amatöra, viðvaninga án tilhlýðilegrar þekkingar til að finna beztu lausnina með hag samfélagsins alls í fyrirrúmi.  Þetta fólk hefur engan áhuga á að finna fyrirkomulag, sem flytur sem flesta með lágmarks heildarkostnaði, þar sem tekið er tillit til allra þátta, t.d. ferðatíma og þæginda (lífsgæða), heldur hefur það einvörðungu áhuga á að fækka einkabílum með þvingunum og gerræðisgjörningum.  Trúarbrögðin, sem prófessor Jónas nefnir, eru svo til að halda söfnuðinum við efnið, eins og vanalega.  

Þetta er gjörsamlega forkastanleg nálgun viðfangsefnis, sem er þjóðhagslega mikilvægt.  Það verður að kasta henni fyrir róða og beita þess í stað beztu fáanlegu aðferðarfræði, sem auðvitað er að finna innan verkfræðinnar, og hvorki á sviði forspjallsvísinda né guðfræði.  

 


Var iðnaðarráðherra gert rúmrusk ?

Tímamót hafa orðið í deilum Rio Tinto/ISAL og Landsvirkjunar um skilmála raforkuviðskipta fyrirtækjanna.  Ráða má af yfirlýsingu hinna fyrrnefndu, að eigendur ISAL hafi gefizt upp á samskiptunum og samningaumleitunum við Landsvirkjun.  Þessi staða er grafalvarleg fyrir framtíð ISAL, sem með skynsamlegum sveigjanleika af hálfu Landsvirkjunar hefði annars getað starfað út gildistíma raforkusamningsins, þ.e. í 16 ár enn.  Landsvirkjun virðist skáka í því skjólinu, að hún þurfi lítinn sem engan gaum að gefa yfirlýsingu Rio Tinto um, að stöðva verði stórfelldan taprekstur í Straumsvík með því að lækka kostnað ISAL, af því að hún geti gengið að greiðslum 85 % forgangsorkunnar sem vísum. Sá leikur Rio Tinto í þessari stöðu að kæra Landsvirkjun fyrir Samkeppniseftirlitinu er aðeins upphafið að stórfelldu lögfræðiþrefi á milli fyrirtækjanna.  Kæra til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, liggur í loftinu, ef þörf verður á, og allt er þetta til að undirbyggja hina lagalegu stöðu fyrir þeirri afstöðu, að Landsvirkjun hafi í raun með hegðun stjórnendanna fyrirgert rétti sínum til téðra 85 % greiðslna, neyðist eigendurnir til að loka dótturfyrirtæki sínu í Straumsvík.  

Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir birti þann 23. júlí 2020 frétt undir fyrirsögninni:

"Kæra Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins".

Hún hófst þannig:

"Rio Tinto kærði í gær Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins vegna "misnotkunar Landsvirkjunar á yfirburðastöðu fyrirtækisins gagnvart ISAL. Álframleiðandinn segir Landsvirkjun hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína á raforkumarkaði.  Í yfirlýsingu frá Rio Tinto segir, að láti Landsvirkjun "ekki af skaðlegri háttsemi sinni", hafi Rio Tinto ekki annan kost en að íhuga að segja upp orkusamningi sínum og virkja áætlun um lokun. Um 500 manns starfa hjá fyrirtækinu.  Rio Tinto óskar eftir því, að Samkeppniseftirlitið skoði "samkeppnishamlandi háttsemi Landsvirkjunar með mismunandi verðlagningu og langtímaorkusamningum, svo að álver ISAL og önnur íslenzk framleiðsla og fyrirtæki geti keppt á alþjóðavettvangi." 

Alf Barrios, forstjóri Rio Tinto á heimsvísu, segir í tilkynningunni, að ISAL "greiði umtalsvert meira fyrir orku sína en aðrir álframleiðendur á Íslandi, sem grefur undan samkeppnisstöðu fyrirtækisins."  Þá segir Barrios, að ISAL geti ekki haldið álframleiðslu sinni á Íslandi áfram, sé verðlagning orkunnar ekki "gagnsæ, sanngjörn og alþjóðlega samkeppnishæf". 

 Það hlaut að koma að því, að alvarlegar brotalamir á íslenzkum raforkumarkaði yrðu leiddar fram í dagsljósið, og það gerðist á vettvangi Samkeppniseftirlitsins.  Sú staða, sem nú er uppi, að í hópi raforkubirgjanna sé einn aðili með yfirburðastöðu, sem fylgir miskunnarlaust fram því stefnumiði orkupakka Evrópusambandsins, ESB, að orkufyrirtækin eigi einvörðunga að hugsa um eigin hag, reyna að hámarka eigin arð, gengur ekki upp, því að forsenda þess, að orkupakkar ESB geti gengið upp, er frjáls samkeppni, þar sem viðskiptavinir orkufyrirtækjanna hafa frjálst val.  Hér hafa stórnotendur raforku ekkert val.  Ekki verður annað séð en Alf Barrios hafi mikið til síns máls, þannig að úrskurður Samkeppniseftirlitsins gæti orðið örlagavaldur í sögu orkufyrirtækja og stóriðju á Íslandi. Verst, að sú stofnun þykir svifasein. Landsvirkjun í sinni núverandi mynd fær ekki staðizt, nema hún taki upp gjörbreytta verðlagsstefnu, hverfi aftur til fyrri stefnu um að halda raforkuverðinu í landinu í lágmarki til hagsbóta fyrir heimilin og fyrirtækin, en arður orkuveranna verði "tekinn út í hinum endanum", eins og F.D. Roosevelt, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sagði um "New Deal" stefnu sína, þ.e. á notendahliðinni, sem ríkið, eigandi kjölfestufyrirtækja orkugeirans, skattleggur þá með sínum hætti. 

Það, sem við horfum á núna, gæti verið upphafið að skipbroti stefnu Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, sem undir núverandi orkulöggjöf með lögsögu ESA og EFTA-dómstólsins í ágreiningi um samkeppnismál, getur leitt til sundrunar Landsvirkjunar.  Þessi sviðsmynd er grafalvarleg fyrir hagsmuni íslenzka ríkisins og eigandans, þjóðarinnar.  Tveir ráðherrar hafa tjáð sig um málið, og er tjáningin í öðru tilvikinu viturleg, en í hinu tilvikinu óviturleg.  Hér eiga í hlut formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, enda spratt Landsvirkjun á 7. áratug 20. aldar út frá hugmyndafræði forystumanna Sjálfstæðisflokksins, framar öðrum dr Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, sem var einn mesti framfaramaður þeirrar aldar á Íslandi. 

Með ofangreindri frétt birtist í Morgunblaðinu stutt viðtal við fjármála- og efnahagsráðherra undir fyrirsögninni:

"Framhaldið verði að koma í ljós".

Þetta er nokkuð véfréttarlegt, en framhaldið var gott:

"Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segist ekki gera athugasemdir við kæru Rio Tinto til Landsvirkjunar [þ.e. Samkeppniseftirlitsins-innsk. BJo].  "Við búum í landi, þar sem menn geta látið reyna á rétt sinn; það er lítið við því að segja, þegar menn gera það", sagði Bjarni í samtali við mbl.is í gær.  Rio Tinto kærði í gær Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins, en í tilkynningu frá álframleiðandanum segir, að Landsvirkjun hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á raforkumarkaði, og láti Landsvirkjun ekki af "skaðlegri háttsemi sinni", hafi fyrirtækið ekki annan kost en að íhuga að segja upp orkusamningi sínum og virkja áætlun um lokun [verksmiðjunnar].  

Bjarni segir, að koma verði í ljós, hvernig málum vindur áfram.  Bendir hann á, að fjölda álvera í Evrópu hafi verið lokað á undanförnum árum og að á sama tíma hafi ekkert nýtt álver verið reist í álfunni.  "Kína hefur tekið til sín æ stærri hluta heimsframleiðslunnar, sem brýzt út í því, að fyrirtæki, sem eru í rekstrarvanda út af breyttri heimsmynd, láta reyna á sína stöðu", segir Bjarni.  Þá segist hann telja, að ákveðinn tvískinnungur ríki í alþjóðapólitík. Hann segir það tímabært "að fara fram á það, t.d. í Evrópusamvinnu, að staðinn verði vörður um iðnaðarvöru innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem augljóslega fer fram með mun umhverfisvænni hætti en sú framleiðsla, sem er seld inn á svæðið."  

Þetta er hárrétt athugað hjá Bjarna Benediktssyni, og gefa orð hans vonir um, að hann muni beita sér fyrir gerð raforkusamnings, sem gerir áframhaldandi framleiðslu í Straumsvík fjárhagslega lífvænlega. 

Af allt öðrum meiði var sunnudagsgrein iðnaðarráðherra, Þórdísar K.R. Gylfadóttur, í Morgunblaðinu 26.07.2020, en hún einkenndist af málefnafátækt og þunglyndislegu nöldri þess, sem gert hefur verið rúmrusk.  Afstaða þessa ráðherra er að hafa sem minnst afskipti af þjóðmálum, þótt þau heyri undir hana.  Ekki er vitað til, að hún hafi beitt sér neitt til sátta á milli ISAL og Landsvirkjunar.  Róbóti í ráðherraembættinu mundi ekki gera minna gagn. Grein sína nefndi ráðherrann:

"Staða Rio Tinto og ISAL":

Hún hófst þannig:

 "Rio Tinto tilkynnti í vikunni, að fyrirtækið hefði kvartað til Samkeppniseftirlitsins vegna þess, sem það telur vera misnotkun á markaðsráðandi stöðu af hálfu Landsvirkjunar.  Jafnframt segir Rio Tinto, að láti Landsvirkjun ekki af þeirri háttsemi, verði fyrirtækið að íhuga að segja upp orkusamningnum við Landsvirkjun. Með því er gefið í skyn, að álveri fyrirtækisins, ISAL, kunni að verða lokað eftir rúmlega 50 ára starfsemi hér á landi. 

Samkeppniseftirlitið mun fara yfir sjónarmið Rio Tinto, hvað varðar samkeppnislöggjöfina.  Yfirlýsing Rio Tinto um mögulega uppsögn orkusamningsins er hins vegar ekki síður alvarleg.  Yfirlýsingin framkallar að sjálfsögðu óvissu um lífsviðurværi hundraða starfsmanna ISAL og einnig starfsmanna þeirra  mörgu fyrirtækja, sem byggja afkomu sína að verulegu leyti á viðskiptum og þjónustu við álverið.  Hún kallar líka á vangaveltur um áhrifin á Landsvirkjun, sem er í eigu þjóðarinnar í gegnum ríkið, og á Hafnarfjörð og íslenzkt efnahagslíf almennt."

Hér tekur iðnaðarráðherra rangan pól í hæðina, eins og fyrri daginn.  Hún ruglar saman orsök og afleiðingu.  Orsök þess, hvernig komið er, eru gjörbreyttar aðstæður á álmörkuðum og orkumörkuðum, en Landsvirkjun hefur samt þverskallazt við að aðlaga sig breyttri stöðu og hlaupa undir bagga í Straumsvík og gefa starfseminni þar líf. Það er rangt, sem talsmenn Landsvirkjunar halda fram, að verð raforkunnar hafi verið lækkað til ISAL vegna Kófsins. Þetta hefði ráðherrann átt að kynna sér. 

Það lítur út fyrir, að samúð ráðherrans sé öll með Landsvirkjun.  Hún virðist ekki vita eða ekki vilja vita, hversu dólgsleg framkoma manna þar á bæ gagnvart Rio Tinto / ISAL hefur verið.  Það örlar ekki á skilningi þessa ráðherra á því, sem raunverulega er að gerast og rakið er í inngangi þessa vefpistils.  Rio Tinto er að skapa sér lagalega stöðu til að komast undan kaupskyldu raforkunnar í því tilviki, að verulega verði dregin saman seglin eða starfseminni jafnvel hætt í Straumsvík.  

Þess í stað gerir þessi ráðherra tilraun til að þvo hendur sínar af atvinnumissi og efnahagstjóni, sem samdráttur eða stöðvun í Straumsvík leiðir til.  Ætlar hún að bjarga málunum með sæstreng til útlanda ?  Hún veit líklega ekki, að borga þyrfti með orkunni þangað.  Er ekki heil brú í þessum orkupakkaráðherra ?

"Sem fyrr segir varpar Rio Tinto með yfirlýsingu sinni skugga óvissu yfir atvinnu hundraða starfsmanna og mikilvægar framtíðarþekjur Landsvirkjunar, sem er í eigu allrar þjóðarinnar. Í mínum huga orkar tvímælis  að varpa slíkum skugga óvissu án þess að varpa á sama tíma ljósi á uppsagnarákvæði orkusamningsins.  Fyrirtækið kýs að gera mögulega uppsögn að umtalsefni.  Þá er eðlilegt að gera ráð fyrir, að fyrirtækið upplýsi, hvaða skilyrði gilda um slíka uppsögn." 

Af þessum texta er ljóst, að ráðherrann hefur vaknað upp með andfælum, þegar slitnaði upp úr samningaviðræðum Rio Tinto/ISAL við Landsvirkjun og hinir fyrrnefndu kærðu hina síðarnefndu til Samkeppniseftirlitsins.  Þórdísi Kolbrúnu er það mikið kappsmál að gera blóraböggul úr Rio Tinto/ISAL og sannar þar með, að hún glórir hvorki í þróun alþjóðlegs orkuverðs til stóriðju eða samkeppnishæfni álvera á alþjóðamörkuðum.  Hún er bundin í viðjar þess hugsunarháttar orkupakka ESB, að orkufyrirtækin eigi að kappkosta hámarksverð fyrir "vöruna" rafmagn, sama hvað tautar og raular.  Þórdís dæmir sig algerlega úr leik með þessum málflutningi.  Hún hefur ekki unnið heimavinnuna sína sem iðnaðarráðherra, sem er að greina eðli þeirrar stöðu, sem orku- og iðnaðarmál Íslands nú eru í. Hún skákar í því skjólinu, að ákvæðið um kaupskylduna í raforkusamninginum standi naglfast, sama hvernig samningsaðilar haga sér.  Hana skortir hugmyndaflug til að stilla upp nýjum sviðsmyndum, svo að Íslendingar geti lágmarkað tjónið af efnahagsástandi heimsins og komið í veg fyrir yfirvofandi altjón í Straumsvík.  Það altjón er ekki óumfjýjanlegt, þótt Rio Tinto hafi lagt niður mörg álver á undanförnum árum.  Rio Tinto hefur ekki mótað stefnu um að hverfa alfarið frá álframleiðslu í Evrópu, nema starfsskilyrðin þar verði óaðgengileg. 

"Ákvörðun Norsk Hydro um að kaupa ISAL fyrir um tveimur árum endurspeglar líka trú á starfsskilyrðunum á Íslandi, þó að kaupin hafi ekki gengið eftir af öðrum ástæðum."

Þetta er villandi texti hjá ráðherranum.  Innan stjórnar Norsk Hydro ríkti eftirsjá eftir að sleppa miklum iðnaðartækifærum á Austurlandi í byrjun þessarar aldar, og það varð meirihluti innan stjórnarinnar fyrir því að ná loks fótfestu á Íslandi.  Hins vegar voru þar miklar efasemdir um arðbærni ISAL með þáverandi og núverandi kostnaðarmynztri, og efasemdarmenn urðu ofan á, þegar framkvæmdastjóri samkeppnismála ESB lýsti yfir efasemdum um yfirburðastöðu Norsk Hydro á markaði álstanga í Evrópu eftir kaupin.  Það gengur ekki, að ráðherra vaði á súðum, eins og ráðherra iðnaðarmála á Íslandi gerir um þessar mundir. 

Í lokin skrifaði Þórdís K.R. Gylfadóttir:

 "Ástæða er til að ætla, að umhverfisvænar orkulindir Íslands verði áfram eftirsóttar.  Við viljum bjóða upp á samkeppnishæft umhverfi, en við gerum að sjálfsögðu líka kröfu um, að sala á orkuafurðum úr sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar sé arðbær.  Við erum nýbúin að ganga í gegnum langvinna umræðu um þriðja orkupakkann, sem snerist að miklu leyti um nauðsyn þess að standa vörð um sameiginlegar orkuauðlindir okkar.  Af þeirri umræðu hlýtur að leiða, að talað sé gegn því, að við seljum þær á útsölu." 

Þetta er fullkomin froða hjá ráðherranum, og orkupakkaumræðunni snúið á haus.  Hvaða ástæða er til að halda, að orkulindir Íslands séu eftirsóttar ?  Hafa orkuvinnslufyrirtækin gert nokkur ný stórviðskipti með rafmagn, síðan samningurinn við PCC á Bakka var gerður ?  Er ráðherrann að skírskota til áhuga Breta eða annarra á að tengja raforkukerfi Íslands risamarkaði, sem hefði fyrir aðeins einu ári stillt innlendri starfsemi upp við vegg í samkeppninni um rafmagnið, en myndi nú valda öllum viðriðnum aðilum stórtjóni, bæði sæstrengseigendum og virkjunaraðilum á Íslandi, sem lagt hefðu í fjárfestingar vegna slíks ævintýris. 

Hverjir eru "við", þegar ráðherrann skrifar, að við viljum bjóða upp á "samkeppnishæft umhverfi".  Það er a.m.k. ekki Landsvirkjun, því að forráðamenn hennar hafa barið hausnum við steininn og þverskallazt við að horfast í augu við blákaldar staðreyndir orkumarkaðarins. Hvað hefur þessi ráðherra gert til að koma í veg fyrir stórfellt þjóðhagslegt tjón í Straumsvík ?  Það er ekki vitað til, að hún hafi hreyft legg né lið, og það er henni til stórvanza sem stjórnmálamanni.  Ráðherra er reyndar settur á hliðarlínuna með orkupakkalöggjöf ESB, enda markaðinum ætlað að leysa málin.  Vandinn, sem iðnaðarráðherra hefur aldrei skilið, er sá, að hérlendis er enginn markaður í skilningi ESB og orkulöggjafar Sambandsins.   Þess vegna er nú komið sem komið er á vakt Þórdísar K.R. Gylfadóttur, að Landsvirkjun situr á sakabekk hjá Samkeppniseftirlitinu, sökuð um misbeitingu yfirburðastöðu, les einokunarstöðu, á markaði.  Þetta mál getur hæglega lent hjá ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, sem ekki er ólíklegt, að muni þá benda stjórnvöldum hérlendum á, að staða og hlutfallsleg stærð Landsvirkjunar samræmist engan veginn samkeppnislöggjöf Innri markaðar EES.  Iðnaðarráðherra er eins og álfur út úr hól í þessu stórmáli.  

 


Orkumál og orkunýting á umbreytingaskeiði

Það hefur komið fram, að rekstur álvers ISAL í Straumsvík er orðinn fjárhagslega ósjálfbær.  Meginástæðan er hrun álmarkaðanna, en við þær aðstæður verður hár innanlandskostnaður að óbærilegum klyfjum fyrir eigandann, eins og mrdISK 13 í tap árið 2019 ber vitni um.  Mjög hátt raforkuverð, hið langhæsta til stóriðjustarfsemi á Íslandi um þessar mundir, vegur þar þyngst á metunum. 

Sömu sögu er að segja úr kísilgeiranum, bæði járnblendinu og kísilmálmframleiðslunni.  Elkem á Íslandi berst í bökkum með orkuverð, sem gerðardómur dæmdi og Landsvirkjun er óánægð með og hefur lýst áformum um hækkunarkröfur við fyrsta tækifæri. Verði þeirri ósanngjörnu kröfu haldið til streitu, mun Elkem á Íslandi stöðva starfsemi sína á Grundartanga, ef rétt er ráðið í yfirlýsingu nýs forstjóra fyrirtækisins.  PCC á Bakka hefur dregið stórlega saman seglin mun nú jafnvel hafa verið lokað alveg  tímabundið, þótt kaupskylda raforku sé þar við lýði. 

Nú hafa gagnaversrekendur bætzt í hóp bónbjargarmanna.  Af frétt Markaðarins 15. júlí 2020 að dæma óttast þeir yfirvofandi hækkun raforkukostnaðar á Íslandi á næstunni.  Í öllum tilvikum er hér um að ræða viðskiptavini Landsvirkjunar.  Verðlagsstefna hennar er hörð og ósveigjanleg og virðist beinlínis ætluð til að ganga af starfsemi viðskiptavinanna dauðri.  Landsvirkjun er í krafti stærðar sinnar einokunarfyrirtæki, sem nýtur einskis aðhalds frá samkeppni vegna þess, að aðrir leikendur á sviðinu hafa ekki bolmagn til að taka við stórum viðskiptavinum.  Við þessar aðstæður blasir við, hversu forkastanlegt það er af stjórn Landsvirkjunar að taka upp þann þátt orkustefnu Evrópusambandsins, ESB, í Orkupakka #3, sem fjallar um, að hvert fyrirtæki eigi að haga starfsemi sinni til hámörkunar tekna sinna.  Þetta felur reyndar í sér fjárfestingar til að mæta aukinni aflþörf og um leið að auka markaðshlutdeild sína, en undarlega lítið ber á nýjum virkjunaráformum Landsvirkjunar nú, þótt ytri aðstæður séu hinar hagstæðustu til þess. Gælt er við vindorkuver, sem er fáránleg fjárfesting á Íslandi með gríðarlegum umhverfisspjöllum og stóru kolefnisspori á orkueiningu yfir endingartímann. 

Nú hafa Rio Tinto Tinto/ISAL kært Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins fyrir misnotkun á markaðsráðandi aðstöðu sinni.  Að þessu hlaut að koma.  Tímasetningin tengist slitum á samningaviðræðum fyrirtækjanna um endurskoðun raforkusamnings og kann að vera upphafið að miklu lögfræðiþrefi fyrirtækjanna í tengslum við uppgjör þeirra á milli vegna lokunar ISAL áður en núgildandi raforkusamningur rennur sitt skeið á enda árið 2036.   

 

Erfiðleikar orkukræfs iðnaðar eru alþjóðlegir.  Álverksmiðjur á Nýja-Sjálandi hafa aðallega selt ál til Japans, en kínverskar álverksmiðjur eru nær þeim markaði, svo að þær hafa náð þar undirtökunum.  Er það ólíkt Japönum að láta Kínverja komast í ríkjandi stöðu með svo öryggislega mikilvæga vöru sem ál er.  Engu að síður hefur Rio Tinto nú lokið við úttekt sína á rekstraraðstæðum verksmiðju syðst á syðri eyjunni við Tiwai Point og komizt að þeirri niðurstöðu, að verksmiðjan beri sig ekki með núverandi raforkukostnaði á MWh, sem er mjög svipaður og í Straumsvík.  Verksmiðjurnar eru á svipuðum aldri, en Tiwai Point er líklega með töluvert lægri rekstrarkostnað á framleiðslueiningu, því að hún er með 77 % meiri framleiðslugetu og aðdráttarleiðir  hennar fyrir aðalhráefnin eru miklu styttri en Straumsvíkurverksmiðjunnar, þar sem Ástralía er á næsta leiti.  Launakostnaður á hvert framleitt t er nánast örugglega lægri á Nýja-Sjálandi en hérlendis, enda er árlegt tap í Tiwai Point miklu lægra en í Straumsvík. 

Sams konar úttekt á rekstraraðstæðum ISAL er sennilega lokið og þess vegna vitað, hvert er hámarksraforkuverð, sem verksmiðjan getur staðið undir.  Það hefur greinilega enn ekki náðst samkomulag á milli RT/ISAL og Landsvirkjunar um að framlengja líf verksmiðjunnar til 2036, þegar gildistíma raforkusamnings lýkur.  Lýsir það vel öngstrætinu, sem íslenzk iðnaðar-, orku- og atvinnustefna er í, að framtíð þessa stóra vinnustaðar og gjaldeyrislindar skuli hanga á bláþræði stefnu Landsvirkjunar, sem á sér engan bakhjarl í eigendastefnu frá Alþingi. Er alveg stórfurðulegt og ámælisvert, að iðnaðarráðherra skuli við þessar grafalvarlegu aðstæður í atvinnumálum landsins skýla sér á bak við sinn Orkupakka #3, sem setur Landsreglara í þá stöðu, sem ráðherra gegndi áður varðandi orkumálin.  Með hliðsjón af miklum afskiptum ríkisstjórna innan EES á þessum Kófstímum á hún ekki að hika við að láta til sín taka í þessu máli, ef hún hefur bein í nefinu til sáttaumleitana.   

Þórður Gunnarsson á Fréttablaðinu var með umfjöllun um þessi mál í Markaðnum 15. júlí 2020 undir fyrirsögninni:

"Rekið með minna tapi en Straumsvík".

Þar gat m.a. að líta þetta:

"Miklar deilur áttu sér stað á Nýja-Sjálandi fyrir byggingu álversins, en ráðast þurfti í miklar virkjanaframkvæmdir á Manapouri-vatnasvæðinu til að útvega álverinu rafmagn.  Álverið er kaupandi um 13 % allrar framleiddrar raforku á Nýja-Sjálandi, en nú þarf að finna þeirri orku nýjan farveg.  Að sama skapi er þetta skellur fyrir hið staðbundna hagkerfi álversins, en talið er, að um 2500 bein og óbein störf muni tapast vegna lokunar álversins."

Þarna er sem sagt um að ræða meðalstórt álver, sem knúið er raforku frá vatnsorkuveri.  Álverseigandinn fær líklega ekki hærra verð fyrir sína vöru, þótt hún sé framleidd með sjálfbærum hætti.  Á Nýja-Sjálandi er hins vegar nóg af kaupendum raforkunnar, sem verður á lausu, öfugt við það, sem hér á Íslandi verður uppi á teninginum, ef ISAL verður lokað.  Í grein Þórðar Gunnarssonar er haft eftir ónafngreindum, að í Kanada greiði Rio Tinto 26 USD/MWh að flutningsgjaldi meðtöldu til álvera sinna.  Það er ívið lægra en RT/ISAL hefur farið fram á við Landsvirkjun og reyndar gert að úrslitaatriði fyrir áframhaldandi rekstri verksmiðjunnar og fjárfestingum í henni til að halda henni vel gangfærri í 16 ár. Að Landsvirkjun skuli þrjózkast við sýnir, að hún er að verðleggja sig og þar með Ísland út af markaðinum.  Standa ríkisstjórn og Alþingi að baki þeirri stefnumörkun ríkisfyrirtækisins ? 

Að lokum þessi tilvitnun í greinina:   

""Við höfum ekki enn náð samkomulagi við Landsvirkjun um raforkusamning, sem gerir ISAL samkeppnishæft", sagði Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi." 

Þessi stutta tilvitnun sýnir, að skessur Landsvirkjunar leika sér nú með fjöregg iðnaðarins á Íslandi af fullkominni léttúð og skilningsleysi á þjóðhagslegu mikilvægi hans og raunverulegu hlutverki Landsvirkjunar.  

Eitt af uppátækjum núverandi forstjóra Landsvirkjunar var að heimta afnám tengingar raforkuverðs við álverð við endurskoðun samninga.  Þetta er þó eina eðlilega tengingin, sem miðar að því að tryggja sem mest raforkukaup álversins í niðursveiflu og hlutdeild orkusalans í ávinningi uppsveiflunnar.  Þessi tenging tíðkast út um allan heim og er jafnan með gólfi og þaki.  Landsvirkjun álpaðist til að leysa þessa tengingu af hólmi í samningum við Norðurál árið 2016 með tengingu við norðvesturhluta Nord Pool raforkumarkaðarins í Evrópu, sem hefur sáralitla tengingu við hinn alþjóðlega álmarkað.  Í ár hefur Landsvirkjun goldið fyrir þetta og tapað stórlega, enda ekki gert neinar ráðstafanir til að jafna út sveiflurnar á þessum markaði með tryggingum.  Það er eins og viðvaningar í fjármálastjórnun séu í sandkassaleik í háhýsinu ofarlega á Háaleitisbraut.  

Í Markaðnum 1. júlí 2020 var m.a. fjallað um þetta undir fyrirsögninni:

"Tekjufall gæti orðið töluvert á árinu":

"Mikil lækkun á Nord Pool-raforkumarkaðinum í Evrópu kemur illa við Landsvirkjun, en nýjasti raforkusamningur fyrirtækisins við Norðurál, sem tók gildi í nóvember sl. [samkvæmt samningi frá 2016] tekur mið af því verði.  Meðalverð í nóvember sl. var um 42 EUR/MWh, en meðalverð í júní á þessu ári [2020] var ríflega 3 EUR/MWh.  Landsvirkjun hefur ekki keypt neinar áhættuvarnir gegn sveiflum á Nord Pool-verðinu, sem hefur lækkað um meira en 90 % síðastliðið hálft ár."

 

 

""Norðurál kaupir u.þ.b. 1,6 TWh af okkur á hverju ári og eru því kaupandi um 11 % af okkar framleiðslu, þó [að] þeir hafi aldrei náð sama hlutfalli í okkar tekjum.  En það hefur komið mjög á óvart, hvernig Nord Pool hefur þróazt. 

Þarna er ákveðinn forsendubrestur, sem hefur átt sér stað, sem tengist inngripum stjórnvalda með að loka mörkuðunum", segir Hörður.  

Auk fullra miðlunarlóna, einkum í Svíþjóð og í Noregi, hefur mikill samdráttur eftirspurnar rafmagns í Evrópu þrýst rafmagnsverði niður á við."

Lækkun raforkuverðs var hafin í Evrópu áður en kórónuveiran hélt innreið sína þar og stafaði af niðursveiflu efnahagslífsins, sem viðskiptastríð Kína og Bandaríkjanna átti þátt í að framkalla, og af auknu framboði umhverfisvænnar orku. Þetta hefur veikt samkeppnisstöðu gagnavera á Íslandi, en gagnaver í Evrópu kaupa þar eðlilega raforku á verði, sem dregur dám af Nord-Pool heildsöluverði.  Í Markaðnum 15. júlí 2020 var fjallað um þetta undir fyrirsögninni:

"Staða gagnavera fer versnandi".

Upphaf umfjöllunarinnar var þannig:

"Lágt raforkuverð á samkeppnismörkuðum íslenzkra gagnavera skapar talsverðar áskoranir fyrir atvinnugreinina, sem horfir fram á versnandi samkeppnishæfni.

"Hagstætt og fyrirsjáanlegt raforkuverð hefur í gegnum tíðina verið einn af stóru þáttunum, sem hafa skapað íslenzkum gagnaverum það samkeppnisforskot, sem hefur skilað þeim á þann stað, sem þau eru í dag, en til viðbótar við aðgengi að hreinni orku þurfa þau einnig góðar nettengingar og aðgengi að frábæru starfsfólki.   Öll þessi atriði þurfa ætíð að vera samkeppnishæf við það, sem bezt gerist erlendis.  Stór hluti af þeim áskorunum, sem við stöndum frammi fyrir núna, er hins vegar, að Ísland er ekki lengur samkeppnishæft, þegar kemur að raforkuverði, en sú staða er grafalvarleg, sérstaklega í ljósi hægari umsvifa í öðrum útflutningsgreinum", segir Jóhann Þór Jónsson, formaður Samtaka gagnavera, í samtali við Markaðinn."

Aðvörunarbjöllurnar glymja allt um kring.  Vitlaus orkulöggjöf hér m.v. aðstæður á Íslandi og túlkun og fylgni risans á íslenzkum orkumarkaði á henni er að steypa stórnotendum og miðlungsnotendum í fjárhagslega glötun.  Það eru alls engar markaðslegar forsendur fyrir því á Íslandi að reka þá verðlagsstefnu, sem Landsvirkjun gerir, þ.e. að hámarka arð sinn og margtuggnar arðgreiðslur.  Eigandum, ríkissjóði, kemur á hinn bóginn bezt, að hér starfi öflugur og samkeppnisfær iðnaður og önnur atvinnustarfsemi, knúin ódýru gæðarafmagni (mikið afhendingaröryggi og spennu- og tíðnistöðugleiki).  Þá verður arður af eignum ríkisins í raforkukerfinu tekinn út "á hinum endanum", eins og F.D. Roosevelt, Bandaríkjaforseti, orðaði eitt sinn svar sitt við spurningu um lágorkuverðsstefnu "New Deal", sem kippti BNA upp úr kreppufeni 4. áratugar 20. aldarinnar.  

"Jóhann segir, að til viðbótar við lægra orkuverð erlendis, sé mikill munur á kostnaði við flutning og dreifingu á raforku á Íslandi samanborið t.d. við Noreg og Svíþjóð, sem leiðir til þess, að heildarorkukostnaður verði umtalsvert lægri í þessum löndum samanborið við Ísland.  Þá áformar Landsnet fjárfestingu upp á tugi milljarða í flutningskerfi sínu í tengslum við kerfisáætlun til að bæta raforkuöryggi, en það getur orðið til þess, að raforkuverð til stórnotenda hækki umtalsvert á næstu árum." 

Einmitt vegna hins háa flutnings- og dreifingarkostnaðar raforku á Íslandi leiðir orkupakkastefnan um hámörkun arðsemi orkuvinnslufyrirtækjanna óhjákvæmilega til þess, að Ísland verður ósamkeppnishæft á orkusviðinu.  Þess vegna ber að lágmarka verðið m.v. lágmarksarðsemi í stað þess að hámarka það.  Í gamla daga var flutningur og vinnsla á einni hendi, þ.e. Landsvirkjunar, og fyrirtækið notaði einfaldlega hagnaðinn af vinnslunni til að fjármagna flutningsmannvirkin.  Það er hið eðlilega, "með einum eða öðrum hætti", m.v. íslenzkar aðstæður.  

"Við erum nú þegar í ósamkeppnishæfu umhverfi, og frekari hækkanir á flutningskostnaði veita samkeppnishæfni íslenzkra gagnavera þungt högg."

 

 

 

 

 

 

 


Hentar laxeldi Eyjafirði vel ?

Þann 2. júlí 2020 birtist í Bændablaðinu gagnmerk grein eftir "sjálfstæðan ráðgjafa", Jón Örn Pálsson.  Þar var varpað ljósi á nokkrar staðreyndir um strauma, næringarefni o.fl. í Eyjafirði, sem gera hann afar vel hæfan til fiskeldis, þ.á.m. til laxeldis. Það er ótækt að láta undan fordómum í garð laxeldis að óathuguðu máli, heldur virðist einboðið að fela Hafrannsóknarstofnun (Hafi og vatni) þegar í stað að burðarþolsmeta fjörðinn, bæði með opnum og lokuðum eldiskvíum; síðan verði tekin ákvörðun um úthlutun starfsleyfa og rekstrarleyfa á grundvelli áhættugreiningar.  Að slá mikilvæga matvælaframleiðslu í Eyjafirði út af borðinu án þess að nota beztu fáanlegu upplýsingar og aðferðarfræði við ákvarðanatöku, er Eyfirðingum og öðrum landsmönnum ósamboðið.  

Greinin hófst þannig:

"Nýlega hafa sveitarfélög og umhverfisverndarsamtök lagt til, að Eyjafjörður verði friðaður fyrir sjókvíaeldi.  Talið er, að lífríki í firðinum sé í húfi og náttúran skuli njóta vafans.  Í umræðunni er fátt tiltekið, sem hönd er á festandi.  Umræðan virðist hverfast um tilfinningar og fagurfræði, sem þó vissulega eiga fullan rétt á sér."

Það kemur fram í grein Jóns Arnar, að Eyjafjörður henti bezt allra leyfðra fjarða til fiskeldis og að fjarstæða sé, að lífríkinu geti staðið ógn af hóflegu fiskeldi þar.  Umræðan um nýtingu Eyjafjarðar til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar fyrir íbúa Eyjafjarðar virðist þannig vera á algerum villigötum. Það skýtur skökku við að vera ofurviðkvæmur fyrir útliti og mengun fjarðarins, en leyfa á sama tíma óheftan aðgang farþegaskipa án nokkurs undangengins umhverfismats eða áhættugreiningar.  

"Eyjafjörður er um 58 km langur 15 km breiður í fjarðarminni.  Heildarflatarmálið er áætlað 422 km2 (sunnan 66°10N).  Til samanburðar má nefna, að flatarmál Arnarfjarðar á Vestfjörðum er áætlað 343 km2 og rúmmál hans um 19 km3.  Hafrannsóknarstofnun hefur metið burðarþol Arnarfjarðar til fiskeldis 30´000 t.  Þó er fiskeldi aðeins heimilt í hluta af firðinum."

Verðmætasköpun laxeldis í Eyjafirði gæti hæglega numið 20 mrdISK/ár og starfafjöldinn alls verið um 600 ársverk. Straumar í firðinum eru öflugir, og það hentar fiskeldinu og lífríkinu, sem fyrir er, vel.  Víða er straumur 7-9 cm/s á 15 m dýpi og hámarks sjávarfallastraumur 30-70 cm/s.  Straumstefnan er almennt í suður að vestanverðu og í norður að austanverðu.  Vatnsskiptin eru talin vera um ein/viku.  Lífræn mengun er tiltölulega lítil í Eyjafirði:

"Af þessum niðurstöðum má ætla, að "náttúrulegt" innihald af nítri (köfnunarefni) í Eyjafirði sé um 5´300 t og sambærileg tala fyrir fosfór sé um 800 t.  Sem dæmi þá mun 20 kt/ár laxeldi auka uppleyst nítur í firðinum um 12 % (650 t) og fosfór um 7 % (60 t) á ársgrundvelli (til viðbótar kemur fast botnfall, en magn þess ræðst af eldistækni; opnar eða lokaðar eldiskvíar). 

 Af þessu sést, að fullyrðingar um, að lífríki Eyjafjarðar muni stafa ógn af laxeldi þar, eru úr lausu lofti gripnar í áróðursskyni fyrir vafasaman málstað.  Nokkru seinna hugleiddi höfundurinn staðsetningu eldissvæða:

"Staðsetning eldissvæða skiptir máli, og þarf þar að taka tillit til fjölmargra sjónarmiða.  Út frá sjálfbærnisjónarmiðum geta hafstraumar og straumstefnur haft úrslitaáhrif.  Við val á eldistækni skiptir sjávardýpi og öldufar hins vegar meginmáli.  Svo þarf að taka mið af dýralífi, öðrum sjávarnytjum og siglingarleiðum.  Einnig má nefna fagurfræði og jafnvel neikvæða ímynd fiskeldis, sem skiptir sumt fólk mestu máli.  Spyrja má, hvort einhver möguleiki sé á að samræma þessi sjónarmið í Eyjafirði ?  Þeir, sem tala um sjónmengun, nefna gjarnan, að fiskeldi þurfi að fara á land.  Á landi þarf sambærileg framleiðslueining stærra flatarmál en á sjó, og ljósmengun þá meiri af aragrúa hringlaga landkerum.  Hvað með að sleppa þessu bara alveg ?  Það er önnur og lengri umræða.  Ljós eru notuð neðansjávar í sjókvíum.  Yfirborðsljós eru í lágmarki, nema á bátum, sem þjónusta eldiskvíar."   

 Sú gagnrýni, sem sett hefur verið fram á fiskeldið, litast af fordómum og þekkingarleysi á málefninu.  Hún er þess vegna í upphrópanastíl án rökstuddrar málafylgju.  Það er stórfurðulegt, að sveitarfélögin við Eyjafjörðinn skuli ekki þegar hafa mótað sér sameiginlega uppbyggingarstefnu á þessu sviði til stóreflingar atvinnustigi og hag alls Eyjafjarðarsvæðisins. 

 

Þá fór höfundurinn nokkrum orðum um hræðsluáróðurinn gegn sjókvíaeldi:

"Heyrzt hefur, að sjókvíaeldi muni koma í veg fyrir, að hægt verði að stunda hvalaskoðun í Eyjafirði.  Á hverju slík skoðun byggir er erfitt að ráða í.  Sumir hafa einfaldlega neikvæða afstöðu til laxeldis.  Í Noregi og Skotlandi er blómleg ferðaþjónusta, sem byggir á hvalaskoðun, þrátt fyrir öfluga fiskeldisstarfsemi þar við strendur.  Í Noregi eru sjókvíar staðsettar á yfir á yfir 800 aðskildum svæðum og mjög oft nærri farleiðum stærri hvalategunda. Afar fáheyrt er, að þessi stóru sjávarspendýr syndi inn í kvíaþyrpingar eða að einhver vandi fylgi þessu sambýli."

 

"Smábátasjómenn hafa lýst sig andvíga sjókvíaeldi í Eyjafirði.  Fullyrt er, að laxeldi loki fyrir þekkt veiðisvæði og fæli fisk í burtu.  Staðreyndin er reyndar sú, að sjókvíaeldi dregur að sér botnfiska og eykur veiði í nágrenni við kvíaþyrpingar.  Það er vegna þess, að botnfall eykur æti og fjölgar botndýrum á jaðarsvæðum, s.s. smákröbbum, ormum og slöngustjörnum. Sjómenn í Patreksfirði og Tálknafirði eru a.m.k. mjög sáttir við laxeldið þar.  Veiði þorsks og ýsu kemur og fer í takti við starfsemi eldisfyrirtækja.  Á hvíldarári dettur veiðin niður.  Fóðurleifar hafa ekki neikvæð áhrif á heilnæmi sjávarfangs, enda nota eldisfyrirtæki eingöngu fóður, sem inniheldur náttúruleg, lífræn hráefni (engin kemísk tilbúin efni)."

Það er kækur margra að mála skrattann á vegginn, þegar að nýrri atvinnustarfsemi kemur.  Oft reynist þar um ótta við samkeppni um vinnuaflið að ræða, eins og á öldum áður á Íslandi, þar sem eðlilegri atvinnuþróun var hamlað með lagasetningu á Alþingi um vistarbönd o.fl.  Þessi þröngsýni hérlendis hélt landsmönnum um aldir í heljargreipum fátæktarbasls.  Fordómar nútímans taka ekkert tillit til þess samfélagslega taps, sem hlýzt af kærum þeirra og að guggna fyrir áróðri þeirra.  Langtíma afkoma almennings á að njóta vafans við ákvarðanatökur stjórnmálamanna.  

 

 

"Í andmælum við sjókvíaeldi í Eyjafirði hefur verið minnzt á, að lúsin muni stórskaða bleikjustofna, jafnvel útrýma þeim.  Það er afar ósennilegt, að þetta gangi eftir, jafnvel þótt laxeldið fjölgi lúsalirfum umtalsvert.  Dvalartími bleikju í sjó er aðeins 6-10 vikur, frá apríl/maí til júní/júlí.  Á þeim tíma nær lúsin ekki að fullþroskast eða verða skaðleg bleikju.  Þess utan er bleikjan yfirleitt nærri ósasvæðum, þar sem sjórinn er ekki fullsaltur og lúsasmit mun minna.  Reynslan erlendis frá, þar sem sjávarhiti er meiri og þroskahraði lúsa því meiri, sýnir, að bæði bleikja og sjóbirtingur "hreinsa" sig af laxalús með því að synda upp í árósana.  Sjóbirtingur dvelur lengur en bleikja í sjó og hefur því mun meira náttúrulegt lúsasmit. Sjóbirtingur er algengur í Eyjafirði, og því er fyrirfram ljóst, að umfangsmikið hvíldarlaust laxeldi í opnum eldiskvíum mun margfalda lúsasmit, sem ógnar rekstri eldisfyrirtækja, sem enn fremur getur haft neikvæð áhrif á lítinn og viðkvæman laxastofn í Fnjóská.  Það er þó svo heppilegt hérlendis, að vegna sjávarkulda hafa laxaseiðin venjulega yfirgefið árnar og strandsvæðin, þegar nýsmit lúsalirfa hefst á sumrin."    

Það er ljóst af þessum upplýsingum, að Hafrannsóknarstofnun þarf við leyfisveitingar sínar að viðhafa smitgát, og Jón Örn nefnir hvíld eldissvæða sem dæmi um það.  Rétt er að fara rólega af stað við úthlutun eldisleyfa og fylgjast náið með öllum aðstæðum. 

"Að lágmarki þarf 4-5 ársverk til að framleiða 1000 t af laxi og annað eins við slátrun. Til viðbótar kemur bein aðkeypt stoðþjónusta, s.s. kafarar, iðnaðarmenn, flutningar og margt fleira.  Fullvinnsla afurða kallar svo á enn meiri mannskap.  Fiskeldi þarf á að halda vel menntuðu starfsfólki af báðum kynjum.  Eyjafjörður er vaxandi matvælaframleiðslusvæði, og ekki verður annað séð en laxeldi geti verið mikilvægur þáttur í þeirri uppbyggingu.  Háskólasamfélag á Akureyri er mjög vaxandi og gæti orðið gagnkvæmur styrkur af þróunarstarfi í framsæknu, umhverfisvænu fiskeldi.  Mörg verkefni fyrir nemendur og viðfangsefni stærri rannsókna - [yrðu] í túnfætinum.  Þar gæti Háskólinn á Akureyri tekið ákveðna forystu."

Samkvæmt norskri reynslu eru 2 afleidd störf í laxeldi fyrir hvert beint starf við eldi, slátrun og vinnslu.  Þannig eru þar alls 22 ársstörf fyrir hver 1000 t (=1 kt/ár) af eldislaxi, sem slátrað er á ári.  Það er gríðarleg verðmætasköpun í greininni.  Hún er talin nema í Noregi tæplega 40 MISK/ársverk.  Það er engum blöðum um það að fletta, að skynsamlegt er fyrir Eyfirðinga að ljá máls á að taka þátt í þessari arðsömu og umhverfisvænu matvælaframleiðslu, sem virðist geta fallið vel að annarri starfsemi í þessu frjósama héraði.   

 Hvað er bak við yztu sjónar rönd ?

  

 


Er allt með felldu ?

Slegið hefur verið upp sem tímamótauppgötvun, að hérlendis hafi ál verið framleitt með rafgreiningu 500 A straums á súráli án kolefnisskauta og þar af leiðandi án myndunar gróðurhúsalofttegunda. Ekki er ljóst að hvaða leyti tímamót eru fólgin í því, að árið 2020 hafi ál verið rafgreint á Íslandi án koltvíildismyndunar, því að frá árinu 2009 hefur slík framleiðsla farið fram í Tæknimiðstöð Alcoa, utan við Pittsburg í Bandaríkjunum, og slíkt var gert í ýmsum rannsóknarstofnunum í heiminum þar á undan.  Höfundur þessa vefpistils getur ekki séð, að nein tímamót séu fólgin í því að gera á Íslandi, það sem fyrir löngu er búið að gera erlendis.  Jafnvel forseti lýðveldisins hefur verið dreginn inn í tilstandið, og Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda, hefur tekið undir halelújakórinn hérlendis, þótt honum hefði átt að vera fullkunnugt um staðreyndir málsins. Spurningin er, hvort eigendum álverksmiðjanna á Íslandi sé greiði gerður með þessu sjónarspili, því að t.d. tveir þeirra eru komnir á fremsta hlunn með að rafgreina súrál án kolefnisskauta í verksmiðjurekstri, eins og minnzt verður á síðar í þessum pistli.

Þann 25. júní 2020 birtist grein eftir téðan Pétur í Viðskiptablaðinu, þar sem hann hann mærir þá, sem að framangreindri kolefnisfríu rafgreiningu stóðu á Íslandi, undir fyrirsögn, sem tekur af allan vafa um fyrirætlun höfundarins:

"Tímamót í álframleiðslu".

Hún hófst þannig:

"Það markaði tímamót í álframleiðslu á Íslandi, þegar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tók á móti fyrstu álstönginni, sem framleidd er með óvirkum rafskautum í Nýsköpunarmiðstöð Íslands."

Keisarinn er ekki í neinu.  Ef forseti lýðveldisins hefði sagt Justin Trudau, forsætisráðherra Kanada, frá því, hvað honum var afhent þarna, þá hefði sá hinn sami farið að skellihlæja, því að í maí 2018 lagði hann fyrir hönd kanadíska alríkisins stórfé til þróunar tilraunastofukers upp í ker fullrar framleiðslustærðar á vegum fyrirtækisins Elysis, sem er samstarfsfyrirtæki risafyrirtækjanna Rio Tinto og Alcoa.  Til verkefnisins lögðu líka fram fé fylkið Quebec, þar sem fram fer gríðarlega mikil álframleiðsla og þróun á því sviði, og Apple, sem notar dálítið ál og telur þetta samstarf vera hollt fyrir ímyndina.  Alls voru lagðir fram fjármunir að upphæð MUSD 558 eða tæplega mrdISK 80 til þess að þróa tilraunastofuútgáfuna upp í hagkvæma iðnaðarstærð. Við verkefnið starfa 100 manns í Quebec, og ætlunin er, að 1000 manns starfi fyrir Elysis árið 2030.  Þessi þróun mun tryggja störf 10´500 manns í Kanadískum áliðnaði, sem verður sjálfbær eftir innleiðingu þessarar nýju tækni.   

Það er víðar unnið að þessari þróun Elysis en í Quebec.  Í Voreppe í Frakklandi er nú verið að setja upp verksmiðju með nýjum kerum og kerbúnaði.  Verkinu á að ljúka fyrir árslok 2021, þannig að kolefnisfrí framleiðsla áls hefjist þar í iðnaðarmælikvarða á árinu 2022.  Hvað meina menn á Íslandi með sínu tilraunaföndri ?  Er líklegt, að einhver í iðnaðinum sé líklegur til að fjármagna starfsemi, sem augljóslega er töluvert á eftir sinni samtíð ?

Síðan hélt Pétur áfram og fór þar á hundavaði yfir það um hvað tilraunin merkilega snerist um:

"Notuð eru rafskaut úr málmblöndum og keramiki í stað kolefnisskauta, og yrði það bylting, ef tækist að innleiða slíka tækni á stærri skala, því að þá losnar súrefni, en ekki koltvísýringur við álframleiðsluna.  Að verkefninu standa Arctus Metals, sem Jón Hjaltalín Magnússon er í forsvari fyrir, og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, en það hefur notið rannsóknarstyrkja frá Tækniþróunarsjóði frá 2016."

Af þessari lýsingu að dæma er téð tilraunarframleiðsla Arctus Metals og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í engu frábrugðin þeirri, sem fyrir löngu átti sér stað á rannsóknarstofnunum erlendis, bæði í háskólum og hjá alþjóðlegum álfyrirtækjum.  Gamalt vín á nýjum belgjum, sagði einhver. Hvað í ósköpunum ætlast menn fyrir með því að setja fé íslenzkra skattborgara í slíkan leikaraskap hérlendis ?  Stjórnendum Tækniþróunarsjóðs og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands hlýtur að vera ljóst, hversu gríðarlega fjármuni þarf til að þróa lítla tilraunastarfsemi upp í iðnaðarstærð, og að slík þróun er nú tilbúin hjá Elysis og verið að smíða búnað í tilraunaverksmiðju í Voreppe, sem hefja á rekstur um áramótin 2021/2022.  Öllum má ljóst vera, að tilraunir á þessu sviði enda í blindgötu hérlendis vegna þekkingarskorts og fjármagnsskorts.  

"Vakti hann [Jón Hjaltalín Magnússon] athygli á því í sínu erindi, að ef óvirk skaut væru tekin í notkun í álverinu í Straumsvík, þá myndi það framleiða súrefni til jafns við 500 ferkílómetra skóg."

Þetta er hvorki áhugavert né örugglega rétt.  Það er enginn hörgull á súrefni og virðist gert ráð fyrir, að allt súrefnið í koltvíildinu, sem skógurinn tekur upp, losni aftur út í andrúmsloftið sem súrefni.  Það er mjög hæpið, enda verður til vökvi og fast efni við ljóstillífunina, þar sem súrefni er bundið og fer hluti til rótanna.

Það, sem áhugavert er í þessu sambandi, er hins vegar, að álframleiðendur losna við hvimleiðan brennistein og kolaryk úr framleiðsluferlinu og síðast en ekki sízt við koltvíildi, CO2, úr afsoginu. Þetta er þó ekki eina gróðurhúsalofttegundin frá rafgreiningarferlinu, heldur myndast líka öflugar gróðurhúsalofttegundir á borð við C2H4 og C4H6.  Þær munu menn líka losna við úr rafgreiningarferlinu.  Á móti kemur aukin raforkuþörf, því að við bruna kolaskautanna myndaðist varmi í raflausninni. ISAL hefur náð frábærum árangri við að lágmarka myndun þessara gasa, svo að jafngildi gróðurhúsalofttegunda m.v. 215 kt/ár álframleiðslu nemur aðeins 344 kt/ár CO2.  Það er tæplega 7 % af losun frá starfsemi á Íslandi. 

 "Þá ítrekaði hann, það sem áður hefur komið fram, að álframleiðsla losar hvergi minna en á Íslandi.  Munar þar mestu um, að álver á Íslandi eru knúin með sjálfbærum og endurnýjanlegum orkugjöfum, en á heimsvísu er það orka úr jarðefnaeldsneyti á borð við kol og gas, sem losar mest við álframleiðslu.  Þess vegna er kolefnisfótspor álframleiðslu margfalt hærra í löndum á borð við Kína, þar sem 90 % af orkunni er sótt til kolaorkuvera."

Það er hæpið að fullyrða, að "álframleiðsla los[i] hvergi minna en á Íslandi".  Hvað með norskan áliðnað ?  Hann er sá mesti í Evrópu með um 1,2 Mt/ár, sem er um þriðjungi meira en á Íslandi.  Hann fær alla sína orku frá vatnsaflsvirkjunum Noregs, sem yfirleitt er nettóútflytjandi raforku, svo að það er ekki hægt að halda því fram, að jarðefnaeldsneyti knýji norskan áliðnað.  Hvað með vatnsorkulandið Argentínu ?  Þar er áliðnaður, sem reistur var á grundvelli aðgengis að hagkvæmri orku frá vatnsorkuverum, og þannig mætti áfram telja.  Enn fráleitara er að beita prósentureikningi þeim málflutningi til stuðnings, að kolefnisfrí framleiðsla á Íslandi sé umhverfisvænni en t.d. í Kína.  Þessu er í raun öfugt farið, því að Íslendingar hafa náð manna beztum árangri við rekstur álvera, t.d. m.t.t. losunar gróðurhúsalofttegunda.  Fimbulfamb framkvæmdastjóra Samáls ríður ekki við einteyming og er álverum hér ekki til framdráttar:

"Það er reyndar áhugaverð staðreynd, að ef óvirk skaut [þau eru ekki með öllu óvirk, þótt þau hafi margfaldan endingartíma á borð við kolaskautin - innsk. BJo] verða innleidd í íslenzkum álverum, þá verður losun hér á landi hverfandi af álframleiðslu.  En slík tæknibylting dregur einungis úr losun um 15 % í álverum, sem knúin eru með kolum."

Steininn tekur úr í næstu tilvitnun í grein Péturs:

"Enn eru ljón í veginum í frekari tækniþróun, einkum við að skala upp framleiðsluna.  Nú þegar hefur verið lagður grunnur að samstarfi Arctus og NMÍ við álfyrirtækið Trimet um að keyra tilraunaker í fullri stærð í einu af álverum þess í Þýzkalandi.  Fáist íslenzkt fjármagn að verkefninu, verður hönnun og framleiðsla á kerum og stjórnbúnaði unnin á Íslandi."

Það er eins og jólasveinn sé þarna kominn til byggða um hásumarið.  Það er nánast öll þróunarvinnan og allur kostnaðurinn eftir, þótt búið sé að rafgreina "í bala" með 500 A.  Þótt leitað sé með logandi ljósi á heimasíðu hins virðingarverða álfélags Trimet, þá finnst ekki stafkrókur um téð samstarf Arctus, NMÍ og Trimet. Þegar orðin "Arctus Metals" eru slegin inn í leitarvél síðunnar, birtist nákvæmlega ekkert.

  Lokamálsgreinin er annaðhvort óráðshjal eða mjög varhugaverð óskhyggja aðila, sem horfa algerlega framhjá því, hvernig kaupin gerast í álheimum og einnig framhjá hinu augljósa markaðsforskoti, sem Elysis hefur öðlazt. 

Að lokum verður vitnað í aðra kostnaðarsugu, sem Pétur nefnir í grein sinni "Gas í grjót":

"Þá fjallaði BBC nýverið um samstarf íslenzkra stjórnvalda og stóriðju á Íslandi um þróun nýrrar tækni til að dæla niður kolefni, sem myndast við málmframleiðslu.  Ætli bezta lýsingin á því ferli sé ekki "gas í grjót".  Undirstrikað er í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, að til standi að gera það verkefni að veruleika." 

PR í þágu hverra er þetta ?  Þetta er allt of dýr og óskilvirk aðferð fyrir það gríðarlega gasmagn, sem á ferðinni er frá einu álveri.  Mun ódýrara og þjóðhagslega hagkvæmara er, að íslenzki áliðnaðurinn kaupi bindingu koltvíildis af íslenzkum skógarbændum, þangað til umbylting verður gerð á framleiðsluferlinu, svo að gróðurhúsalofttegundir verði þar úr sögunni. 

 Framkvæmdastjóri Samáls má ekki láta frá sér ónákvæmni á borð við þessa, að kolefni myndist við málmframleiðslu.  Það eru að sjálfsögðu ýmiss konar efnasambönd kolefnis við önnur frumefni, sem myndast.  

isal_winter

 

 


Af áliðnaðinum

Framleiðsla undirstöðuefna fyrir iðnað heimsins hefur átt mjög á brattann að sækja á þessu ári, og um þverbak keyrði, þegar bráðsmitandi veirusjúkdómur í öndunarfærum manna barst um allan heim frá Kína, og sér enn ekki fyrir endann á ósköpunum. Nú hafa læknar á Langbarðalandi upplýst um þá niðurstöðu reynslu sinnar og rannsókna, að umrædd kórónaveira geti í raun lagzt á hvaða líffæri líkamans sem er.  Það er nýtt af nálinni og bendir til, að eigi sé allt með felldu um tilurð þessarar veiru.

Þar sem sóttvarnaraðgerðir flestra yfirvalda koma í veg fyrir myndun hjarðónæmis, verður SARS-CoV-2 líklega ógnvaldur, þar til bóluefni hefur verið þróað, e.t.v. árið 2021.  Veiran hefur leikið hagkerfi heimsins grátt, lamað atvinnulífið og spurn eftir undirstöðuefnum á borð við ál, járnblendi og kísil, hefur fallið.  Nýlega komu fréttir af tímabundinni lokun kísilverksmiðju PCC á Bakka, vitað er um viðsjárverða framtíð álvers ISAL í Straumsvík, og samningaviðræður Norðuráls og Verkalýðsfélags Akraness voru mjög þungar, þegar síðast fréttist.  

Eftir þóf og þjark hófust alvöru samningaviðræður um raforkusamninginn á milli ISAL/Rio Tinto og Landsvirkjunar seint í maí 2020.  Ef slitnar upp úr þeim samningaviðræðum, mun ISAL að líkindum stöðva starfsemi sína og kaup á öllum aðföngum, þ.m.t. rafmagni, síðsumars. Ætlunin er að leiða í ljós nú í júlí 2020, hvort samningar um endurskoðun raforkuverðs Landsvirkjunar til ISAL geti náðst.

Ekki þarf að orðlengja, að það yrði enn eitt áfallið fyrir efnahag landsins, og tap gjaldeyristekna, sem raska mun viðskiptajöfnuðinum til hins verra með mögulega slæmum afleiðingum fyrir gengi ISK og verðlagið á Íslandi, ef af stöðvun þessarar starfsemi verður.  Þótt fjárhagstap eigandans af þessari starfsemi hafi síðast liðin 2 ár numið tæplega mrdISK 20, þá hefur íslenzka þjóðarbúið verið með allt sitt á hreinu og notið tugmilljarða gjaldeyristekna á hverju ári vegna greiðslna fyrirtækisins fyrir raforku, vinnu starfsmanna þess og verktaka og fyrir ýmsa aðra þjónustu.  

Lítið spyrst út um gang viðræðnanna, en ýmislegt annað gerist, sem er ekki til þess fallið að bæta andann manna á milli í þessum viðræðum.  Í miðju Kófinu tilkynnti Landsvirkjun um tímabundna lækkun raforkuverðs til viðskiptavina sinna með langtímasamninga til að létta undir með þeim.  Fyrirtækið tilkynnti ISAL um 10 % tímabundna lækkun, sem er aðeins 40 % af hámarkslækkuninni, sem tilkynnt var.  Síðan hvarf fyrirtækið frá þessari lækkun án þess að tilkynna um þá stefnubreytingu opinberlega. Hvers konar stjórnarhættir eru þetta eiginlega ?  Ekki er síður furðulegt að innheimta fyrir maí 2020 fyrir meiri raforku en þá var notuð.  Það hefur verið sameiginlegur skilningur beggja fyrirtækjanna á orkusamninginum hingað til, að ákvæðinu um 86 % kaupskyldu af forgangsorku eigi aðeins að beita við ársuppgjör viðskiptanna.  Nú gæti myndazt inneign ISAL hjá Landsvirkjun, því að það er ætlun fyrirtækisins að auka aftur framleiðsluna kröftuglega, ef samningar takast.  Með framferði Landsvirkjunar, t.d. skammarbréfum til Rio Tinto, syrtir stögut í álinn.  

Innan Landsvirkjunar er orðrómur uppi um, að forstjórinn óttist viðbrögð skuldabréfaeigenda, ef kaupskyldan er ekki innheimt jafnóðum.  Hann virðist þannig hafa lofað upp í ermina á sér í blóra við orkusamningana.  Ef slitnar upp úr samningaviðræðum á milli ISAL/RT og LV og ISAL verður lokað, þá mun Rio Tinto vafalítið láta reyna á það frammi fyrir dómurum að fá verulegan afslátt á kaupskyldunni m.a. vegna þess, að LV hafi ekki gengið til samninga í góðri trú.  Forstjóra ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar virðist verða á hver fingurbrjóturinn öðrum verri.  Hann starfar á ábyrgð stjórnar fyrirtækisins.  Hversu lengi er hún reiðubúin að taka þátt í og ábyrgjast þessa gandreið forstjórans ?

Í Morgunblaðinu 24. júní 2020 birtist frétt Höskuldar Daða Magnússonar um "íslenzka uppgötvun" á sviði álframleiðslu.  Nú veit höfundur þessa vefpistils ekki gjörla um smáatriði þessarar uppgötvunar.  Þó kom það fram, að ál hefði verið framleitt við 500 A straum með þessari nýju tækni og að skautin séu úr keramik og málmum.  Þetta rímar við frumbýlingstilraunir álfyrirtækja um aldamótin síðustu við að framleiða ál án kolefna. Hætt er við, að mikilvægi þessarar "uppgötvunar" sé mjög orðum aukið og í raun séu stór álfyrirtæki miklu lengra komin á þessu sviði en fyrirtækið Arctus Metals og Nýsköpunarmiðstöðin. Hvers vegna er látið eins og það sé í fyrsta sinni undir sólunni, að ál er framleitt kolefnisfrítt ?

Sannleikurinn er sá, að Alcan, sem Rio Tinto keypti fyrir allmörgum árum, og Alcoa hafa stundað rannsóknir í mörg ár með það stefnumið að gera álframleiðsluna kolefnisfría.  Sá áfangi að gera þetta í litlu tilraunakeri við 500 A náðist fyrir fjöldamörgum árum. Með því er björninn ekki unninn. Tæknilegi vandinn er að gera þetta með hagkvæmum og öruggum hætti við fullan iðnaðarstraum.  Þá er átt við 1000 sinnum hærri straum en frumkvöðlar á Íslandi voru að föndra við og básúnuðu síðan sem meiriháttar uppgötvun (technical breakthrough ?). 

Fyrir nokkrum árum stofnuðu fyrirtækin Rio Tinto og Alcoa með sér þróunarfélagið Elysis og lögðu fyrirtækinu til mikið fé.  Þetta þróunarfélag hefur náð svo miklum árangri, án þess að berja sér tiltakanlega á brjóst fyrir það, eins og Ketill, skrækur, gerði á sinni tíð, að nú er verið að framleiða kerbúnað fyrir tilraunaverksmiðju Rio Tinto í Voreppe í Frakklandi (þróunaraðstaða franska ríkisálfélagsins Pechiney, sem Alcan keypti á sinni tíð), sem á að verða tilbúin til rekstrar með  fullum iðnaðarstraumi fyrir árslok 2021. Gangsetning þessarar tilraunaverksmiðju markar raunveruleg tímamót í álheiminum, en ef gjörningur Arctus Metals og Nýsköpunarstöðvarinnar mun hafa einhverja þýðingu, á eftir að útskýra í hverju sérstaðan felst m.v. rannsóknir t.d. rússneska álrisans Rusal.

Frétt Höskuldar bar hið vafasama heiti:

"Íslensk tækni í kapphlaupi við risa á álmarkaði".

Efasemdir hljóta að vakna, þegar þess er gætt, að fyrir 20 árum voru ýmsar rannsóknarstofnanir, t.d. í hinu rótgróna áltæknisamfélagi Tækniháskólans í Þrándheimi, NTNU, að feta sig áfram með kolefnisfría álframleiðslu með lágum straumi. Var þetta iðulega kynnt á námstefnum Tækniháskólans í Þrándheimi, sem haldnar voru annað hvert ár. Hérlendis virðist vera um að ræða gamalt vín á nýjum belgjum, og "íslenzka tæknin", sem áhöld geta verið um, hvort er íslenzk, vera a.m.k. tveimur áratugum á eftir tímanum. Ef um einhverja sérstöðu er að ræða, sem hafi marktæka kosti framyfir t.d. Elysis-tæknina, hefur algerlega mistekizt að koma henni á framfæri.  

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, kom í þessari frétt með fráleita speki.  Hann gerði því skóna, að nýja tæknin myndi hafa minna umhverfislegt gildi, væri hún nýtt Kína, með öll sín kolakyntu orkuver, en á Íslandi.  Lofthjúpur jarðar gerir auðvitað engan greinarmun á því, hvort t.d. 1 Mt/ár eru framleidd með þessari nýju tækni í Kína eða á Íslandi.  Svona málflutningur frá félagi álframleiðenda á Íslandi gerir ekkert gagn.  

Þá var í lok fréttarinnar viðtal við Guðbjörgu Óskarsdóttur, forstöðumann hjá Nýsköpunarmiðsöð Íslands og framkvæmdastjóra Álklasans:

""Við viljum sjá svona lausnir koma sem fyrst hingað til lands, svo [að] það er ánægjulegt, að íslenzkt fyrirtæki sé að vinna að þessari byltingu.  Öll stærstu álfyrirtækin í heiminum eru að horfa til þessarar tækni í framtíðinni", segir Guðbjörg Óskarsdóttir, forstöðumaður hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og framkvæmdastjóri álklasans.  

Guðbjörg segir, að líklega verði þess ekki langt að bíða, að umrædd tækni verði tekin í gagnið.  Á stórum álmarkaði sé pláss fyrir fleiri en eina lausn. 

"Jón Hjaltalín hefur sagt sjálfur, að álver, sem ekki eru tengd þessum stóru, sýni tækni hans áhuga, enda vilja allir vera með svona lausn, þegar hún kemur og er tilbúin.  Það, að íslenzkur frumkvöðull sé kominn þetta langt núna, styrkir samkeppnisforskot hans."" 

Um þetta er vægast að hafa þá umsögn, að orð Guðbjargar lýsi meðvirkni. Það er fráleitt að tala um nýja tækni, þegar í hlut á tilraunastarfsemi í mælikvarðanum 1:1000, því að megnið af þróunarvinnunni er eftir, og hún er að baki í þróunarverkefninu Elysis. Ef um nýja aðferð er að ræða, í hverju lýsir hún sér, og hverjir eru kostir hennar m.v. við löngu þekktar aðferðir háskólasamfélaga og álrisa ? 

Fyrir utan rafkerfið í álverksmiðju, þá er rafgreiningin hjartað í henni.  Í hvoru tveggja liggja gríðarlegar fjárfestingar.  Engum, sem snefil af þekkingu og reynslu hefur af starfsemi þessa geira, dettur í hug, að nokkurt álfyrirtæki kjósi fremur samstarf við smáfyrirtæki og nýgræðing á þessu sviði, sem virðist vera langt á eftir tímanum, en þróaða og reynda tækni, sem tækni Elysis verður eftir áratug. 

Hugtakaruglingur tröllríður umfjöllun sumra fjölmiðla um álframleiðslu.  Hann var áberandi í frétt Markaðar Fréttablaðsins 25. júní 2020 og kom fram í fyrirsögninni:

"Juku framleiðslu hreins áls eftir lokanir á meginlandinu".

Í þessu felst fullkomin mótsögn, því að hreinálsframleiðsla er sérgrein, sem ekki þrífst, ef markaðir "lokast".  Hreinál er yfir 99,9 % ál, sem yfirleitt næst aðeins með flóknu hreinsiferli í steypuskála, en það sem í fyrirsögninni er átt við, er hráál, ómeðhöndlað ál, beint upp úr venjulegum rafgreiningarkerum, sem ekki er notað beint í neina framleiðslu, heldur fer allt í endurbræðslu. Hráál keranna inniheldur vanalega minna en 97,5 % ál.  Þetta hlutfall mun hækka með innleiðingu kolefnisfrírrar framleiðslutækni. Á hrááli og hreináli er grundvallarmunur, og ruglingurinn kann að stafa af ónákvæmri orðanotkun talsmanna sumra álveranna, þó ekki ISAL, því að blaðafulltrúi fyrirtækisins notaði orðið "hráálskubbar", sem getur verið rétt, en einnig eru sums staðar við lýði hleifasteypuvélar, og þar eru steyptir hráálshleifar við þessar og aðrar aðstæður, þar sem ríður á að halda uppi eða auka til muna afkastagetu steypuskálanna án þess að steypa samkvæmt pöntunum.  

Upphaf þessarar fréttar Markaðarins var þannig:

"Þegar kórónuveirufaraldurinn hafði skollið á Evrópu af fullum krafti, brugðust íslenzku álverin við með því að framleiða hreinál í stað sérhæfðara málmblendis að sögn talsmanna álveranna.  Minni orkukaup og afslættir á raforkuverði til stórnotenda munu draga úr tekjum Landsvirkjunar á árinu [2020]."

Þessi frásögn bendir til, að vitleysan eigi rætur að rekja til talsmanna Norðuráls og Fjarðaáls, en þeir mega ekki mæta svona illa lesnir til leiks.

Svo undarlega sem það hljómar, þá hefur stóriðjufyrirtækið, sem hæst verð greiðir fyrir raforku Landsvirkjunar, enn engan Kófsafslátt fengið, þótt fyrirtækið hafi í apríl 2020 tilkynnt ISAL um 10 % lækkun.  Ekki nóg með það, heldur rukkaði fyrirtækið fyrir meiri orku en notuð var í maí.  Þetta heitir ruddaframkoma, þegar ekki er skafið utan af óþverranum. 

Landsvirkjun reyndi í Kófinu að koma sér í mjúkinn hjá eigendum sínum (hún gefur skít í viðskiptavinina), og til marks um slepjuháttinn er eftirfarandi úr sömu frétt:

"Afslættir til stórnotenda einir og sér námu allt að 25 % og munu kosta fyrirtækið a.m.k. mrdISK 1,5 á þessu ári.  Orkukaup álveranna hafa að sama skapi verið minni á þessu ári en hinu síðasta, en ekki liggur fyrir, hversu mikið þessi minni eftirspurn raforku mun kosta Landsvirkjun að sögn talsmanns Landsvirkjunar."

Upphæðin mrdISK 1,5, sem talsmaður Landsvirkjunar segir hana fórna með sjálfskipaðri verðlækkun, er dropi í hafið og t.d. aðeins um 11 % af tapi ISAL 2019.  Það er víða pottur brotinn.

S1-ipu_dec_7-2011

 

 

 

  


Landsreglari tjáir sig

Eins og kunnugt er, gegnir Orkumálastjóri líka hlutverki Landsreglara (National Energy Regulator), sem er æðsti fulltrúi Evrópusambandsins (ESB) hér á landi á sviði orkumála eftir innleiðingu Orkupakka 3 (OP#3).  Hlutverk hans er í stuttu máli að hafa eftirlit með því, að stefnu ESB sé framfylgt hérlendis, eins og hún birtist í orkulöggjöf ESB, innleiddum orkupökkum, og að íslenzkri löggjöf á þessu sviði sé fylgt.  Þar sem ósamræmi er á milli þessa tvenns, skal löggjöf ESB vera rétthærri við túlkun.  Þetta er skýrt tekið fram í EES-samninginum. 

  Nú virðist vera kominn upp ágreiningur á milli Landsreglara og ráðherra umhverfis- og auðlindamála og reyndar einnig Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, því að Ari Trausti Guðmundsson, Alþingismaður VG, hefur andmælt sjónarmiðum Landsreglara um regluverk vindmylla frá A-Ö.  Báðir hafa skrifað í Fréttablaðið um ágreininginn, og Landsreglarinn borið andmælin til baka á sama vettvangi. 

Sá, sem skrifar fyrir hönd Landsreglara, er starfsmaður hans, Skúli Thoroddsen, lögmaður.  Grein hans í Fréttablaðinu þann 17. júní 2020 bar yfirskriftina:

"Vindorka fellur ekki að rammaáætlun".

Hún hófst þannig:

"Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG, segir hér í blaðinu, 12. júní sl., að "vindorka sé hluti af heildarskipulagi orkuvinnslu og falli að rammaáætlun".  Á vegum Landsvirkjunar séu "vindorkuver í orkunýtingarflokki og biðflokki "svokallaðrar rammaáætlunar" og margir myllulundir í skoðun.  Þetta er rangt. 3ja rammaáætlun hefur ekki verið samþykkt, og engir vindlundir eru í núgildandi áætlun. Það er Orkustofnun [les Landsreglari], sem ákveður, hvaða virkjunarkostir eru nægilega skilgreindir, til þess að verkefnisstjórn um rammaáætlun og faghópar, á hennar vegum, geti yfirhöfuð fjallað um þá.  Orkustofnun hefur ekki skilgreint neina vindorkukosti og því engir myllulundir í skoðun á þeim bæ.  

Umhverfisráðherra sagði, aðspurður  um vindorku, það vera "mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, að málefni vindorku heyri undir rammaáætlun".  Atvinnuvegaráðuneytið kveðst aðspurt aldrei hafa haldið þessu fram.  Afstaða þess sé óbreytt, en "þessi mál" séu til umfjöllunar í starfshópi þriggja ráðuneyta og "niðurstöðu verði að vænta innan skamms".  

Þetta er ekki í fyrsta skiptið, sem umhverfis- og auðlindaráðherra skriplar á skötunni, þegar kemur að því lagaumhverfi, sem hann á að starfa eftir.  Hann virðist fljótfærari en góðu hófi gegnir fyrir mann í hans stöðu.  Með Orkupakka #3 fékk Orkustofnun sjálfstæða stöðu innan stjórnkerfisins, og Orkumálastjóri (Landsreglari) er óháður ráðuneytunum, nema um fjárveitingar; staðan hefur ígildi orkuráðherra.  Túlkun Skúla Thoroddsen er vafalítið rétt.  Orkustofnun (Landsreglari) skammtar Verkefnahópi Rammaáætlunar verkefni, og hann getur hvorki hafið sjálfstæða rannsókn á einu né neinu.  Úr því að Orkustofnun ekki hefur enn skilgreint neinn vindorkukost, er allur undirbúningur vindorkuverkefna unninn fyrir gýg.  Það er t.d. algerlega ótímabært fyrir sveitarfélög að breyta aðalskipulagi sínu til að geta hýst vindorkuver innan sinna vébanda.  Það er Landsreglarinn, sem gefur tóninn, á meðan OP#3, eða seinni orkupakkar, hefur hér lagagildi. 

"Tillaga umhverfisráðherra um vindorkukosti í 3ju rammaáætlun, Blöndulund í nýtingarflokk og Búrfellslund í biðflokk, er byggð á hugmynd verkefnastjórnar um "vindorkuver Landsvirkjunar", án afstöðu Orkustofnunar og þannig reist á röngum grunni.  Ráðherra er vissulega frjálst að leggja hana fram sem sína tillögu í þágu Landsvirkjunar þrátt fyrir ágallana og mismuna þar með vindorkufyrirtækjum.  Þar á Alþingi síðasta orðið eða eftir atvikum dómstólar."

 

 "Fyrir liggur, að um orkurannsóknir slíkra kosta [vinds] fer eftir lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, auðlindalögum, sem lög um rammaáætlun vísa til í því sambandi.  Auðlindalögin gilda ekki, hvorki um vind né vindorkurannsóknir.  Sú stefnumörkun, sem felst í rammaáætlun, takmarkar stjórnarbundnar heimildir sveitarfélaga í skipulagsmálum.  Slíkar skerðingar í þágu almannahagsmuna til verndar eða nýtingar á náttúruauðlindum, þurfa ótvíræða, skýra lagastoð, eins og rammaáætlun er varðandi vatnsföll og háhitasvæði.  Hvort rammaáætlun taki til vindorku, ríkir í bezta falli óvissa um.  Sé það svo, kæmi það í hlut Orkustofnunar að skilgreina vindorkulandsvæðin.  Hin "takmörkuðu gæði", sem þannig verða til í eignarlandi sumra - en ekki allra - eða í þjóðlendum, yrði ríkið að bjóða út.  Slíkt útboð tæki til skipulagssvæðis með gildu virkjunarleyfi fyrir vindlund til handa orkufyrirtæki á grundvelli jafnræðis innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ekkert regluverk lýsir slíkum útboðsferli hér á landi, frá afmörkun vindlunda til virkjunarútboðs.  Svo virðist sem umhverfisráðherra vaði reyk um rammaáætlun, villtur vega.  En þessi mál eru annars til umfjöllunar í starfshópi þriggja ráðuneyta, og þaðan er niðurstöðu að vænta "innan Skamms". 

Undirstrikunin er pistilhöfundar til að leggja áherzlu á, að þar heldur Landsreglari Evrópusambandsins um fjaðurstaf.  Umhverfis- og auðlindaráðherra er úti á þekju í þessu máli, og það virðast sumir þingmenn vera líka, t.d. Ari Trausti Guðmundsson, sem stakk niður penna og andmælti Skúla Thoroddsen á sama vettvangi. Í raun og veru er texti Skúla algerlega samhljóma úrskurði ESA árið 2016, sem Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi utanríkisráðherra, féllst á af fullkomnu dómgreindarleysi.  Það verður sem sagt að bjóða nýtingarrétt orkulinda í eigu ríkisins út á Evrópska efnahagssvæðinu.  Það felur í sér stórkostlegt fullveldisafsal yfir auðlindum Íslands, sem hafa mun mjög neikvæð áhrif á lífskjör í landinu.  Héldu menn, að OP#3 mundi bara engin áhrif hafa á Íslandi, ef bara væri móazt við að taka við aflsæstreng frá Innri orkumarkaði ESB ? Orkulindirnar eru í uppnámi, þótt upphaflegi EES-samningurinn spanni þær ekki. 

 burfellmgr-7340


Stórtækar og öfgafullar friðlýsingartillögur

Umhverfis- og auðlindaráðherra án þingsætis hefur viðrað tillögur um risavaxinn Hálendisþjóðgarð, sem engin þörf er fyrir og yrði varðveizlu náttúru að engu leyti hjálplegri en núverandi fyrirkomulag, þar sem sveitarfélög og íbúar (bændur) þeirra koma mest við sögu.  Nóg um það.  Nú hefur hann gengið fram með tillögu, e.t.v. "spill for galleriet", sýndarleik, sem fjallar um friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum.  Jón Gunnarsson, Alþingismaður, sýndi almenningi fram á það með Morgunblaðsgrein sinni 26. maí 2020:

"Að friðlýsa landið og miðin",

að hér er um löglaust framferði ráðherrans að ræða, sem engin sátt getur orðið um á meðal meirihluta þingheims, enda er málið á leiðinni fyrir dómstóla.  

Öfgafullt hugarfar og viðhorf umhverfis- og auðlindaráðherra til reglusetninga um það, hvernig nýta má hálendið og reyndar hefðbundnar orkulindir, hvar sem þær er að finna hérlendis, er sorglegt.  Hvers vegna vill hann stöðugt breyta leikreglunum sínum skoðunum í vil ?  Það verður að þræða hinn gullna meðalveg í þessum efnum, sem felst í að nýta þær orkulindir, sem spurn er eftir, ef fórnarkostnaðurinn "að beztu manna yfirsýn" og með blessun Alþingis er minni en hinn þjóðhagslegi ávinningur.  Spriklið í umhverfis- og auðlinda bendir til, að hann sætti sig ekki við þessa nálgun.  Hann á dálítið bágt að geta ekki spurt kjósendur sína ráða, því að þeir eru engir.  Hann getur aðeins hlustað í bergmálshelli Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Það er ógæfulegt til ákvarðanatöku í þágu þjóðar. 

Nú verður vitnað til hinnar öflugu greinar Jóns:

"Tillaga verkefnisstjórnarinnar og þar með þingsályktunin var því unnin áður en málsmeðferðareglur laganna tóku gildi.  Í þeim felast m.a. verklagsreglur, sem verkefnisstjórn og faghópar skulu fylgja.  Verkefnisstjórn rammaáætlunar 2 vann sem sagt aldrei eftir þessum reglum, því að þær voru ekki til.  Verkefnisstjórnin hafði ekki á þessum tíma (fyrir 2011/2013) það hlutverk að afmarka virkjunarsvæði eða virkjunarkosti.  Af því leiðir, að afmörkun virkjunarsvæða eða virkjunarkosta var ekki hluti af tillögu verkefnisstjórnar og þar með heldur ekki hluti af ályktun Alþingis.  Rammaáætlun 2 skorti því öll fyrirmæli um, hver væru mörk virkjunarsvæða eða virkjunarkosta og þingsályktunin því mjög ófullkomin að þessu leyti."

 

"Það er greinilega úr vöndu að ráða fyrir ráðherra umhverfis- og auðlindamála, þegar ákveða skal leiðina.  En ráðherrann ákvað sem sagt, að lög og verklagsreglur, sem ekki voru til, þegar verkefnisstjórn vann tillögu að ramma 2, og ekki voru í gildi, þegar þingsályktunin frá 2013 var samin og samþykkt, skuli veita leiðsögnina um mörk friðunar."  

 Þetta er góð röksemdafærsla fyrir því, að umhverfis- og auðlindaráðherra veður reyk í tilraunum sínum til friðlýsingar vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum.  Gjörðir ráðherrans eru ólögmætar og út í hött.  Það gengur ekki, að ráðherra gangi erinda sérhagsmunaafla í landinu, sem draga úr möguleikum núverandi og komandi kynslóða til að taka ákvarðanir um atvinnutækifæri, gjaldeyrissparnað eða gjaldeyrissköpun. 

Síðan heldur Jón áfram:

"Í engu tilviki voru heil vatnasvið sett í verndarflokk í rammaáætlun 2, þingsályktun 13/141.  Í öllum tilvikum er talað um virkjunarkosti.  Friðanir eða tillögur þar um verða að taka mið af þessu.  Ekki kemur til álita að friða vatnasvið og árfarvegi, nema rammaáætlun segi það berum orðum."

Jón Gunnarsson er betur að sér en flestir aðrir menn á þingi um þessi mál, baksvið lagasetningar um orkumál og ætlun löggjafans.  Hann er ennfremur víðsýnn þingmaður með þau viðhorf, að fjölbreytileg nýting landsins gæða eigi að fá að njóta sín.  Jón Gunnarsson mun ekki láta ráðherra komast upp með rangsleitni, yfirgang og öfugsnúna lagatúlkun. 

"Ég sat á sínum tíma í þingnefndinni, sem um þetta fjallaði, og í þeim nefndum, sem síðan hafa fjallað um þennan málaflokk.  Vilji löggjafans er alveg skýr í þessum efnum.  Ljóst er, að ef skýringar og stefna ráðherrans fengju að ráða, þarf ekki mikið að velta fyrir sér nýtingu orkuauðlinda okkar.  Ef henni yrði beitt í ýtrasta tilgangi, yrði landið nánast allt friðað fyrir frekari virkjunum.  Það liggur í augum uppi, að löggjafinn var ekki að færa svo mikilvægar ákvarðanir í hendur eins manns, þ.e. umhverfis- og auðlindaráðherra."

Ráðherrann er með brambolti sínu að troða sjónarmiðum jaðarhóps í þjóðfélaginu að sem stefnu ríkisvaldsins.  Þessi stefna er ekki reist á neinum haldbærum rökum, heldur aðeins þeirri tilfinningu, að "náttúran verði að njóta vafans", þótt þjóðin verði að éta, það sem úti frýs.  Þetta er afturhaldssjónarmið reist á rökvillu um, að maðurinn sé eini breytingavaldurinn í náttúrunni.  Hið rétta er, að náttúran sjálf er öflugasti breytandinn og sjónræn áhrif vatnsaflsvirkjanaframkvæmda á náttúruna eru flest lítil og sum til bóta og mörg eru afturkræf.  Kosti og ókosti þarf auðvitað að vega saman og málamiðlanir að gera, en ofstæki á ekki heima í þessum málaflokki frekar en öðrum, þar sem fjallað er um tæknilegar lausnir. 

"Ákvarðanir um friðlýsingarmörk verða augljóslega að vera hluti af ákvörðunum um að setja virkjunarkost í verndarflokk.  Ég vil taka það skýrt fram, að ég er ekki á móti friðlýsingum, en öfgar og útúrsnúningar sem þessir eru í andstöðu við vilja löggjafans.  Ef skilningi ráðherrans yrði fylgt til hins ýtrasta varðandi virkjanakosti í verndarflokki, yrðu möguleikar til nýtingar orkuauðlinda okkar skertir stórkostlega og gerðu út af við möguleika okkar til sóknar á þeim vettvangi."

Þetta er mergurinn málsins.  Ráðherrann stefnir að því að leggja höft á komandi kynslóðir um nýtingu landsins gæða.  Það er í senn ólýðræðislegt og andstætt heilbrigðri skynsemi, því að nýjar kynslóðir búa við nýjar þarfir og ný úrræði til að beizla náttúruna.  Þessi ríkisstjórn er ekki studd af meirihluta þings og þjóðar til slíkra óhæfuverka. 

"Hér eru gríðarlegir þjóðhagslegir hagsmunir undir, og við höfum ekki efni á að skerða möguleika þjóðarinnar til að skapa verðmæti með nýtingu auðlinda sinna.  Málamiðlun í þessu sem öðru þarf að vera það leiðarljós, sem við fylgjum.  Það eru mörg tækifæri til að friða viðkvæmar náttúruperlur án þess, að gengið sé á möguleika okkar að öðru leyti."

 Hér er vel að orði komizt um kjarna málsins.  Það er engin glóra í því að útiloka virkjunartilhögun fyrirfram áður en hún hefur verið sett fram.  Slíkt eru handabakavinnubrögð og fórn verðmæta með bundið fyrir augun.  Þetta virkjanahatur er heimskulegt í ljósi umhverfismála heimsins og í ljósi þarfar þjóðarinnar fyrir aukna gjaldeyrissköpun um 50 mrdISK/ár til að halda í horfinu fyrir vaxandi þjóð, sem er að eldast.   

 Dettifoss

 

 


Hömlulosun

Ætíð er fengur að blaðagreinum Jóhannesar Loftssonar, verkfræðings.  Hann setur oftast fram frumleg og vel rökstudd sjónarmið.  Oft fjallar hann um það, sem efst er á baugi.  Allt á þetta við um Morgunblaðsgrein hans 

"Sumarið er tíminn".

Þar leggur hann til með rökstuddum hætti, að opna ætti landið nú þegar án sýnatöku og greiningar við komuna.  Hann nefnir ekki tilmæli yfirvalda um smitrakningarapp í farsíma ferðamanna, enda kostar slíkt fjárhagslega lítið, og Persónuvernd er búin að leggja blessun sína yfir gjörninginn með þeim varnöglum, sem þar eru. (Áður var reyndar svo að skilja, að appið yrði krafa.)

Við upphaf greinarinnar veltir Jóhannes vöngum yfir þróun bóluefnis.  Hann færir fyrir því rök, að það muni ekki vera væntanlegt á næstunni:

"Þróun bóluefnis fyrir kórónuvírus er vandasamt verkefni.  Slíkt bóluefni hefur aldrei verið þróað fyrir þessa tegund vírusa og óvíst er, hvort það takist frekar en fyrir HIV-vírusinn. Ef það tekst, mun þróunin alltaf taka langan tíma, enda er að mörgu að huga, þegar heilbrigt fólk er "sýkt" með bóluefni.  Bæði þarf að tryggja, að lækningin sé ekki hættulegri en sjúkdómurinn, og verndin, sem bólusetningin veitir, sé nægjanleg, til að áhættan borgi sig.  Óhætt er að segja, að fyrstu væntingar yfirvalda um skjóta úrlausn á kórónufaraldrinum fyrir lok maí [2020] hafi verið óskhyggja.  Nú sjá flestir, að langt er í bóluefni, og gefur framtíðarsýn Lyfjastofnunar Evrópu til kynna, að ár sé í slíkt, ef það þá yfirhöfuð finnst."

 Hafi einhver talið, að vandamál samfara SARS-CoV-2 veirunni á heimsvísu mundu hverfa í maí 2020, er sá hinn sami ekki með báða fæturna á jörðunni.  Þótt veiran hverfi af Íslandi í maí, sem gerðist ekki alveg, þá er hún grasserandi í mörgum löndum, sem við eigum í miklum samskiptum við og verðum að hefja eðlileg samskipti við eigi síðar en 15. júní 2020, ef efnahagurinn á að eiga sér viðreisnar von á næstunni. Nú hefur dómsmálaráðherra tilkynnt, að við munum fylgja Evrópusambandinu (Schengen) að málum, sem ætlar ekki að opna ytri landamæri sín fyrr en í fyrsta lagi 1. júlí 2020.

Bólusetning kann að vera moðreykur einn, því að áhættulítið bóluefni verður varla komið í almenna dreifingu fyrr en 2022 (og verður líklega rándýrt), og þar sem téð veira er "ólíkindatól", kann hún að hafa breytzt nægilega, þegar þar kemur sögu, til að bóluefni virki ekki sem skyldi.  Vona verður, að breytingarnar verði hvorki í átt til meira smitnæmis né þungbærari sýkinga. Venjulega hafa stökkbreytingar virkað til minni skaðsemi þessara veira, en það flýgur fjöllunum hærra, að þessi sé manngerð.  

Hins vegar hafa verið gerðar rannsóknir á virkni veirulyfs, sem beitt hefur verið gegn malaríu og eyðni með góðum árangri, á COVID-19 sjúkdóminn, og gefa niðurstöður til kynna, að sjúklingunum batni fyrr og dauðsföllum fækki mikið.  Ekki var getið um aukaverkanirnar.  Heilbrigðisyfirvöld í mörgum löndum eru nú að leyfa notkun þessa lyfs gegn COVID-19, og mun því áreiðanlega verða beitt hérlendis og annars staðar í Evrópu, ef önnur bylgja faraldursins ríður hér yfir.  

 

 "Lág dánartíðni er ekki það eina, sem svipar með kórónuveiki og flensu.  Vísbendingar eru þegar komnar fram um, að árstíðasveiflur séu í kórónusmitum líkt og þekkt er fyrir flensu.  Á sama tíma og hægt hefur á smitum á norðurhveli jarðar, hefur orðið stökk í smitum í nokkrum löndum á suðurhveli (Síle, Argentínu og Suður-Afríku) samhliða því, að vetur hefur gengið í garð."

 Rúmlega 1800 manns er vitað til, að smitazt hafi hérlendis.  Það er aðeins um 0,5 % íbúanna.  Slembiúrtak ÍE gaf til kynna innan við 1 % smit, en mælingar á ónæmisefnum í blóði bentu til 1,5 %. Það er trúlegt, að þrefalt fleiri hafi smitazt en skráðum smitfjölda nemur.  Sóttvarnalæknir hefur nefnt, að smitfjöldi gæti numið allt að 5 % þjóðarinnar.  Ef svo er, nemur fjöldi dauðsfalla af völdum COVID-19 sjúkdómsins aðeins 0,05 % smitaðra, sem er sambærilegt við venjulegan flensufaraldur.  Í ljósi þessa virðast viðbrögð yfirvalda vítt og breitt um heiminn hafa verið úr hófi fram.  Annars konar áherzlur verður að leggja við næsta sambærilega faraldur.  Beitt hefur verið aðgerðum, sem viðeigandi væru væntanlega við ebólu. 

Þjóðverjar náðu góðum árangri með viðbrögðum sínum.  Þeir notuðu sýnatökur og greiningar til að beina athyglinni að miklum smitstöðum.  Sláturhús landsins reyndust slíkir staðir.  Ástæðan er sú, að þessi kórónuveira þrífst vel og lifir lengi á köldu yfirborði, og kemur þetta heim og saman við skrif Jóhannesar hér að ofan. Hann reit reyndar fleira athyglisvert um áhrif hitastigs og rakastigs:

"Loftraki er einn stærsti áhrifaþáttur í skaðsemi flensu á veturna.  Kalt vetrarloft verður mjög þurrt, þegar það er hitað upp innandyra.  Í þurru lofti endast vírusar lengur, og smitdropaagnir verða minni, þannig að þær svífa lengur í loftinu og smita því lengur. Einnig er varnarkerfi líkamans gegn smiti mun veikara í þurru lofti, og smit minni dropa berast dýpra í öndunarfærin og virðast hættulegri.  

Hlýtt smuarloft ber margfalt meiri raka en kalt vetrarloft.  Það lokar þannig á smitleiðir og eflir náttúrulegar varnir líkamans.  Einnig hjálpar til, að með hækkandi sól batnar D-vítamínstaða líkamans, sem hefur sýnt sig að gagnast gegn kórónuveikinni.  Þessi liðsauki gerir sumarið að bezta tímanum til að eiga við þessa óværu."

Með þessum upplýsingum er Jóhannes að reisa stoðir undir þá ráðleggingu, að nú sé rétti tíminn til að opna landamærin og leyfa óhefta starfsemi í hverju landi um sinn.  Með þessu má draga úr gríðarlegu efnahagstjóni, sem annars er fyrirsjáanlegt, og verður það þó óhjákvæmilega mjög mikið. Jóhannes hélt áfram: 

"Í ljósi þess gríðarlega skaða, sem öll hindrun á komu erlendra ferðamanna mun hafa á möguleika Íslendinga til að takast á við þá erfiðu tíma, sem fram undan eru, er afar mikilvægt, að gengið sé sem vasklegast fram við að opna landið sem fyrst, [á] meðan sumarið er með okkur í liði.  Þó að einhver viðbótar smit berist hingað með sumum þeirra, eru sterkar líkur á, að slíkt verði ekki til vandræða, því [að] ef það er rétt hjá sóttvarnalækni, að allt að 5 % Íslendinga hafi smitazt fram að þessu, þýðir það, að 90 % allra smita á Íslandi urðu til og hurfu af sjálfu sér, án þess að nokkur tæki eftir.  Ef smit verða mildari með hækkandi sól, mun þetta hlutfall skaðlausra smita hækka enn meira á næstu mánuðum."

Þetta er mikilvæg röksemdafærsla.  Þótt hæpið sé, að um sé að ræða svo víðtæk smit í samfélaginu, sem þarna kemur fram, má hiklaust reikna með, að a.m.k. annar hver smitaður hafi ekki orðið var við smit sitt.  Þegar þar við bætist, að 80 % hinna, sem verða varir við einkenni, veikjast aðeins vægt og það hlutfall er sennilega hærra að sumarlagi, virðist áhættan vera svo lítil, að vert sé að taka hana.

Þar sem dánartíðni hefur verið hæst, hefur mistekizt að vernda viðkvæma hópa.  Það verður þess vegna áfram að gæta ýtrustu varkárni gagnvart þeim.  Þetta á við alla þá, sem eru með veiklað ónæmiskerfi eða lítið mótstöðuþrek gagnvart sjúkdómum almennt.  Þetta á t.d. við um dvalarheimili aldraðra og sjúkrahúsin. 

Síðan heldur Jóhannes því fram, og hér skal undir það taka, að farsælast sé að opna landið strax alveg án allra óþarfa og íþyngjandi takmarkana:

"Þær rándýru prófanir, sem yfirvöld ætla að gera á hverjum ferðamanni, eru vanhugsaðar.  Í fyrsta lagi geta slíkar prófanir aldrei tryggt, að smit berist ekki hingað til lands.  Enn verra er þó, að með því að halda vírussmiti niðri yfir sumartímann, [á] meðan auðvelt er að eiga við sjúkdóminn, er verið að flytja vandann yfir á næsta haust, þegar smithætta vex og smit verða lífshættulegri.  Aukið ónæmi yfir sumarið mun draga úr hættunni, sem skapast næsta haust."

Misvísandi upplýsingar hafa borizt um kostnaðinn við sýnatökur og greiningar vegna COVID-19.  Frá Sýkla- og veirufræðideild Landsspítalans, Karli G. Kristinssyni, hafa borizt upplýsingar um tækni, sem lækki kostnaðinn niður í kISK 5-6/greiningu, en við kynningu á þessum valkosti við sóttkví var nefnd talan kISK 50/greiningu.  Ætlunin er að láta þennan kostnað falla á ríkissjóð fyrst um sinn, en síðan að taka kISK 15 gjald af hverjum ferðamanni.  Ætla yfirvöld einhverra annarra þjóða að leggja út í þessa miklu fyrirhöfn með takmörkuðum ávinningi ?  Þessar tafir og óþægindi fyrir ferðamenn auk kostnaðarbyrðar virðast ekki vera réttlætanlegar.  

 

 

 

 

 

 

 


Einhæfni er skaðræði

Hrun ferðaþjónustu á heimsvísu í marz 2020, sem ekki sér fyrir endann á, beinir athyglinni sem aldrei fyrr að mikilvægi fjölbreytilegra gjaldeyristekjulinda landsins.  Þar er hins vegar hægara um að tala en í að komast, enda ber mest á hugmyndum og hugarfóstrum, sem óvíst er, að nokkurn tímann verði barn í brók.  Þess vegna heldur enn fullu gildi sínu sú 60 ára gamla hugmynd að láta orku fallvatnanna knýja orkusækinn iðnað á alþjóðlega samkeppnishæfu orkuverði og skapa þannig landsmönnum verk- og stjórnunarþekkingu, fjárfestingar með erlendu áhættufé og fjölbreytilega vinnu. Málmiðnaðurinn er að vísu um hríð búinn að vera í fjötrum offramleiðslu og niðurgreiðslna frá ríkisverksmiðjum, en hver veit, nema hagur strympu skáni, ef Kínverjar kæra sig ekki um að fara í gamla farið aftur.  

Þann 14. febrúar 2020 gerði Hörður Ægisson, viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins, stríð Landsvirkjunar og ISAL/Rio Tinto að umræðuefni og kallar forystugrein sína:

"Störukeppni" .

Hörður er oft nokkuð skarpskyggn á staðreyndir viðskiptalífsins, en í þessari forystugrein fatast honum víða flugið í ljósi raforkuverðs til ISAL, sem er ekki lengur í neinu samræmi við þróun orkuverðs í heiminum né það, sem kalla mætti samkeppnishæft raforkuverð til áliðnaðar.  "Störukeppnin" hófst þannig:

"Þung staða álversins í Straumsvík (ISAL) er ekki ný af nálinni.  Reksturinn hefur verið óarðbær um langt skeið - tap ISAL frá 2016 nemur yfir mrdISK 20 - og framleiðsla álversins var nýlega minnkuð um 15 % vegna taprekstrarins.  [Hún hefur síðan minnkað til muna vegna kera, sem komizt hafa að lokum endingar sinnar og ekki verið endurnýjuð. Ef lyktir nást í viðræðum um nýtt raforkuverð, má búast við aukinni framleiðslu aftur - innsk. BJo.] Endurnýjaður raforkusamningur við Landsvirkjun fyrir um áratug, þar sem orkuverðið var hækkað og tenging við álverð réttilega [svo ?] afnumin, hefur ekki hjálpað til, en aðrir þættir, einkum erfiðleikar á hrávörumörkuðum, skipta meira máli.  [Álverðstenging er hugsuð að gagnast báðum samningsaðilum, þar sem álverð hefur í sögulegu samhengi verið sveiflukennt.  Þetta afnám var eitt af því, sem veikti samkeppnisstöðu ISAL stórlega - innsk. BJo.] Aðföng hafa hækkað í verði, og á sama tíma hefur heimsmarkaðsverð á áli lækkað verulega.  Með stóraukinni álframleiðslu Kínverja, sem niðurgreidd er af þarlendum stjórnvöldum og stendur nú undir um 60 % af álframleiðslu heimsins, hefur rekstrarumhverfi vestrænna álfyrirtækja versnað til muna.  Útflutningur á áli frá Kína hefur farið vaxandi og haldið niðri álverði.  Ólíklegt er, að þessi staða taki breytingum í náinni framtíð, og álverð verður því áfram undir þrýstingi til lækkunar."

Þetta ritaði Hörður Ægisson um miðjan febrúar 2020 áður en menn á Vesturlöndum fóru almennt að íhuga áhrif COVID-19 heimsfaraldursins.  Verð á aðföngum hefur lækkað m.a. vegna helmingunar olíuverðs.  Evrópa mun leggja áherzlu á að verða ekki háð Kínverjum um ál, sem er "strategískur", þ.e. þjóðhagslega- og öryggislega mikilvægur málmur.  Líklegt má telja, að hömlur verði þess vegna settar á framboð, sem augljóslega ekki er á grundvelli frjálsrar samkeppni, og það er líka óvíst, að Kínverjar telji óbreytta ráðstöfun orkunnar heppilega, en vinnsla þessarar raforku hefur yfirleitt gríðarlega mengun lofts, láðs og lagar í för með sér auk myndunar gróðurhúsalofttegunda. 

 "Er hótun Rio Tinto [um lokun ISAL-innsk. BJo]  trúverðug ?  Fyrir liggur, að álverið er skuldbundið til að kaupa að lágmarki um 80 % raforkunnar af Landsvirkjun fram til 2036 óháð því, hvort álverið verði starfrækt.  Fullvíst má telja, að forsvarsmenn álversins hóti málaferlum, komi Landsvirkjun ekki til móts við kröfur álrisans um lægra orkuverð, þar sem látið verður reyna á ákvæði kaupskyldunnar, og hvort móðurfélagsábyrgð sé fyrir hendi.  Mikilvægt er að hafa í huga þá gríðarlegu hagsmuni, sem eru í húfi.  Verðmæti slíkra langtíma raforkusamninga Landsvirkjunar, sem er í eigu landsmanna, hleypur á mörg hundruð milljörðum [ISK].  Lækkun orkuverðs, jafnvel þótt tímabundin væri, myndi þýða, að Landsvirkjun yrði af umtalsverðum fjárhæðum."

Það er ljóst, að sá markaður, sem Landsvirkjun er á, raforkumarkaðurinn, hefur tekið mikla dýfu á heimsvísu undanfarið.  Framboðið er meira en eftirspurnin, og verðið hefur lækkað mikið á rafmagnsmörkuðum, t.d. Nord Pool, þar sem verðið hefur fallið um a.m.k. helming.  Auðvitað getur Landsvirkjun ekki hagað sér, eins og hún sé óháð þróun til lækkunar, en þurfi jafnan að draga dám af tilhneigingu til hækkunar í nágrannalöndunum.  Viðskiptavinir hennar keppa við fyrirtæki, sem njóta nú mikillar lækkunar orkuverðs.  Ef Landsvirkjun ætlar að halda viðskiptavinum sínum, verður hún að fylgja þróun heimsmarkaðar. 

Ef forráðamenn Landsvirkjunar ætla að skáka í skjóli móðurfélagsábyrgðar á kaupum 85 % forgangsorku, taka þeir gríðarlega áhættu.  Lögfræðingateymi Rio Tinto getur dregið fram margvísleg rök, jafnvel óviðráðanleg öfl heimsfaraldurs, sem valdi því, að félagið eigi rétt að alþjóðalögum á að losna undan skuldbindingum sínum gagnvart viðsemjanda, sem ekki virðist hafa gengið að samningaborði í áratug "í góðri trú". 

"Álverið í Straumsvík er ekki eins og hvert annað fyrirtæki á Íslandi.  Það er einn mikilvægasti og verðmætasti viðskiptavinur Landsvirkjunar - nærri fjórðungur af raforkusölu hennar er til álversins [nær þriðjungur teknanna við fulla framleiðslu-innsk. BJo] -  og verði starfsemi þess hætt hér á landi, yrði það mikið efnahagslegt áfall. Álverið stendur undir um mrdISK 60 í útflutningstekjum á ári, og um 500 manns starfa hjá fyrirtækinu. Vandinn, sem Landsvirkjun kann að standa frammi fyrir, nú þegar minni og stærri viðskiptavinir fullyrða, að orkuverðið sé ekki lengur samkeppnishæft, er, að það verði erfitt að finna aðra kaupendur að því magni af orku, sem gæti losnað á næstu árum - einkum nú, þegar áform um sæstreng til Bretlands virðast því miður [svo !] óraunhæfari en áður.  Það er eins gott, að stjórnendur Landsvirkjunar, sem hafa teflt djarft, séu reiðubúnir með plan B.  Ef ekki, er hætta á, að illa geti farið." 

 Þetta eru að mörgu leyti góðar vangaveltur hjá Herði, en varðandi sæstreng til Bretlands er nauðsynlegt að benda Herði og öðrum á, að hann hefur í raun aldrei verið annað en draumórar fjárplógsmanna og spákaupmanna.  Þeir hafa á seinni árum gælt við það, að Evrópusambandið myndi standa straum af lunga kostnaðarins. Eftir COVID-19 mun ESB varla setja þetta verkefni aftur á forgangsverkefnaskrá sína, þótt verkefnisbakhjarlar verði til að óska þess.  Hvað, sem fjármögnuninni líður, getur verkefnið líklega aldrei orðið þjóðhagslega hagkvæmt fyrir landsmenn, sem eiga megnið af orkunni.  Ástæðan eru mikil töp á leiðinni, og alltaf verður meiri verðmætasköpun við nýtingu orkunnar innanlands en hægt verður að fá fyrir beinan útflutning orkunnar. Hafi Landsvirkjun einhvern tímann haft Plan B í þessu máli, er það farið í vaskinn með COVID-19.

Þann 7. maí 2020 skrifaði Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, grein í Morgunblaðið, sem hún nefndi:

"Landsvirkjun sýnir stuðning í verki".

Hún hófst þannig:

"Viðskiptavinir Landsvirkjunar á stórnotendamarkaði munu njóta sérstakra kjara í 6 mánuði, frá 1. maí til 31. október 2020.  Öllum stórnotendum, sem greiða yfir kostnaðarverði Landsvirkjunar, býðst að lækka raforkuverð niður í kostnaðarverðið.  Þannig sýnir Landsvirkjun stuðning sinn í verki á þessum óvenjulegu tímum.  Samband fyrirtækisins við viðskiptavini þess er hornsteinn starfsemi Landsvirkjunar.

Þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt, að raforka er stór hluti breytilegs framleiðslukostnaðar þeirra.  Raforkuverð er þannig einn af þeim þáttum, sem hafa áhrif á samkeppnishæfni viðskiptavina Landsvirkjunar, en þó ekki sá, sem hefur úrslitaáhrif á fjárhagslega afkomu þeirra.  Þar skiptir afurðaverðið, t.d. verð á áli og kísilmálmi, mestu máli.  Afurðaverð hefur farið lækkandi undanfarin misseri, m.a. vegna offramleiðslu og birgðasöfnunar. 

Raforkuverð á erlendum raforkumörkuðum hefur lækkað talsvert undanfarna mánuði vegna lækkandi verðs á jarðefnaeldsneyti og svo minnkandi eftirspurnar á þessu ári vegna COVID-19."

Hér kveður við annan tón en hjá forstjóra Landsvirkjunar, sem hefur komið svo illa fram við viðskiptavini fyrirtækisins, að þeir forðast hann.  Þeir hafa neyðzt til að sniðganga hann til að fá raunverulega áheyrn fyrir vandamál tengd því, sem hingað til má kalla óraunsæja og þrákelknislega verðlagsstefnu Landsvirkjunar.  

Stefanía Guðrún skrifar hins vegar af meiri fjálgleik um viðmótsþýðleika Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinum en innistæða virðist vera fyrir.  Út frá Ársskýrslu Landsvirkjunar er fljótlegt að finna, að rekstrarkostnaður fyrirtækisins er um MUSD 144 á ári og afborganir og vextir um MUSD 150 á ári.  Heildarkostnaður er þá 294 MUSD/ár.  Með sölu á 14,8 TWh/ár fæst þá meðalkostnaður fyrirtækisins um 20 USD/MWh (=2,9 ISK/kWh). 

Því fer fjarri, að Landsvirkjun hafi hingað til boðið viðskiptavinum þessi kjör.  Hvers vegna fer þetta öfluga ríkisfyrirtæki fram með villandi boðskap ?  Hefur örvænting gripið um sig í háhýsinu við Háaleitisbraut ?

"Öllum stórnotendum, sem greiða yfir kostnaðarverði Landsvirkjunar, mun bjóðast lækkun raforkuverðs niður í kostnaðarverð Landsvirkjunar, sem er á bilinu 28 USD/MWh til 35 USD/MWh eftir því til hvaða virkjana er horft.  Verð til stórnotenda, sem eru núna að borga yfir kostnaðarverði, lækkar því tímabundið um allt að 25 %."

Ekki batnar það.  Framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar vill tengja afsláttinn við virkjanir.  Elztu virkjanir Landsvirkjunar eru allar afskrifaðar, og þar er vinnslukostnaðurinn undir 10 USD/MWh.  Ef t.d. er miðað við elztu verksmiðjuna, ISAL í Straumsvík, þá eru allar virkjanir, sem í samningum hafa verið tengdar henni, afskrifaðar, nema Búðarhálsvirkjun, sem vegur innan við 10 % af heildarþörf verksmiðjunnar.  Þannig má finna út, að meðalkostnaður raforkuvinnslu fyrir ISAL sé um 11 USD/MWh, en raunverð til verksmiðjunnar (án flutningsgjalds) er a.m.k. þrefalt.  Það er mjög mikið, sem fer á milli mála, í málflutningi talsmanna Landsvirkjunar. 

"Markmið aðgerðanna er að verja samkeppnishæfni viðskiptavina Landsvirkjunar og styðja við markaðsstarf þeirra við krefjandi ytri aðstæður.  Horft er til þess, að með aðgerðunum sé verið að hvetja núverandi viðskiptavini á stórnotendamarkaði til þess að styrkja eða auka við starfsemi sína á Íslandi, enda fara langtímahagsmunir Landsvirkjunar og viðskiptavina saman.  Gert er ráð fyrir, að tekjur Landsvirkjunar muni lækka um allt að MUSD 10 vegna þessarar tímabundnu aðgerðar, eða um mrdISK 1,5."

Að orðskrúðinu slepptu er hér fáránleiki nokkur fram settur.  Það er út í hött, að fyrirtækin auki við starfsemi sína á Íslandi á grundvelli 6 mánaða lækkunar, sem er eins og upp í nös á ketti.  Að sýndarmennska Landsvirkjunar sé með eindæmum léttvæg, sést bezt á því, að heildarkostnaður lækkunarinnar fyrir Landsvirkjun er um 1/10 af tapi þess stóriðjufyrirtækis landsins 2019, sem bjó við langhæsta raforkuverðið af hálfu Landsvirkjunar.  

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband