Færsluflokkur: Dægurmál
14.3.2020 | 16:42
Ráðlegging á röngu róli
Það er ekki á hverjum degi, að ráðlegging um aðferðarfræði og samningsmarkmið til annars aðilans í viðkvæmri og viðurhlutamikilli deilu, allra sízt á sviði raforkuviðskipta, sést opinberlega frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, HHÍ, enda ber sú, sem hér verður rýnd, með sér að vera svo illa ígrunduð og ófræðileg í alla staði, að hún er líklega af pólitískum rótum runnin, enda hefur forstöðumaðurinn áður sett sig í dómarasæti um allt of lága arðsemi Landsvirkjunar. Þar er hann á öndverðum meiði við Jón Þór Sturluson, sem rannsakað hefur þessi mál sérstaklega og komizt að þeirri niðurstöðu, að m.v. áhættu fjárfestinga Landsvirkjunar hafi arðsemi hennar verið vel viðunandi, sjá lok þessa pistils.
Í upphafi fréttar Þorsteins Friðriks Halldórssonar og Kristins Inga Jónssonar í Markaði Fréttablaðsins 13. febrúar 2020, sem bar fyrirsögnina:
"Landsvirkjun þurfi ekki að örvænta",
gaf þetta á að líta:
"Engin ástæða er fyrir Landsvirkjun til að örvænta og slá af raforkuverðinu til álversins í Straumsvík, enda er samningur álversins við Landsvirkjun bundinn til ársins 2036. Fyrirtækin gætu komizt að samkomulagi um að skipta ávinningi á milli sín. Þetta segir Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands."
Þetta er fljótfærnisleg yfirlýsing af hálfu forstöðumannsins Sigurðar J. m.t.t. til eðlis máls og þess, sem í húfi er. Forsenda hans virðist vera, að vegna kaupskyldu raforkusamningsins muni RTA heykjast á að loka ISAL, og ef sú yrði samt reyndin, yrði raforkunni strax fundið annað virðisaukandi hlutverk, og þeir 1250 starfsmenn, sem HHÍ áætlar, að hafi bein og óbein störf af starfseminni í Straumsvík, fengju strax jafn vel eða betur borguð störf en þeir misstu. Forstöðumaðurinn Sigurður J býst einnig við, að deiluaðilar myndu ná samkomulagi um að skipta með sér andvirði raforkusölunnar. Þetta eru einberar skýjaborgir og hrein fásinna af forstöðumanninum að bera þetta á borð fyrir almenning. Höldum aðeins áfram með þessa mannvitsbrekku:
""Frá viðskiptalegu sjónarhorni", bætir hann við, "sé ég hins vegar ekki ástæðu fyrir Landsvirkjun til að slá af verðinu. Ef samningurinn er þannig úr garði gerður, að Rio Tinto hefur skuldbundið sig til að kaupa alla þessa raforku, eftir niðurskurðinn í ár, tel ég ekki, að Landsvirkjun sé í slæmri stöðu í bili", segir Sigurður, sem tekur fram, að hann viti ekki með vissu, hvað felist í samningi fyrirtækjanna."
Téður Sigurður virðist telja, að Landsvirkjun eigi að einblína á þrönga fyrirtækishagsmuni sína og láta þjóðarhagsmuni lönd og leið. Það er í samræmi við inntak orkupakkanna frá Evrópusambandinu (ESB), en stríðir algerlega gegn upprunalegu og eðlilegu hlutverki Landsvirkjunar að efla atvinnu og verðmætasköpun í landinu. Sú stefnumörkun tryggir hins vegar, að afrakstur auðlindanýtingarinnar dreifist um allt hagkerfið, nákvæmlega eins og þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson telur ákjósanlegast og lýsti í Morgunblaðsgrein 07.03.2020. Í ESB er ekki verið að nýta náttúruauðlindir, sem eru stór hluti af þjóðarauðnum, til raforkuvinnslu, eins og hér er gert.
Þá er alveg ljóst, að téðum Sigurði hefur verið tjáð, eða hann ímyndar sér, að Landsvirkjun hafi fullkomna tryggingu fyrir orkukaupskyldu RTA til samningsloka 2036, þótt móðurfyrirtækið neyðist til að loka ISAL, af því að Landsvirkjun þverskallast við að koma nægilega til móts við óskir fyrirtækisins um að létta því óbærilegar fjárhagsbyrðar af völdum orkukostnaðar á tímum mjög lágs álverðs.
Þetta er önnur hæpin forsenda Sigurðar, sem ráðlegging hans hvílir á og sýnir, að óviðeigandi ráðgjöf hans sem forstöðumanns HHÍ hvílir á brauðfótum. Ef RTA mætir eintómum þvergirðingi af hálfu Landsvirkjunar, er næsta víst, að RTA mun draga hana fyrir dóm, þar sem reynt mun verða að ógilda kaupskylduna t.d. á þeim forsendum alþjóðalaga, að halli svo mjög á annan aðilann á samningstímanum, að samningurinn verði honum óbærilegur, beri hinum að verða við óskum hans um að endursemja í góðri trú um, að samningurinn verði báðum viðunandi út samningstímabilið. Hvað sem líður efnisatriðum umræddrar ráðleggingar í nafni HHÍ, virðist hún tvímælalaust vera fullkomlega óviðeigandi frumhlaup.
Í "Sögu Landsvirkjunar" árið 2005 skrifaði Jón Þór Sturluson:
"Að teknu tilliti til tímasetningar eigendaframlaga, arðgreiðslna og metins virðis Landsvirkjunar, má reikna út arðsemi þess fjár, sem eigendur hafa bundið í fyrirtækinu á bilinu 5,1 % - 7,4 % [...]. Niðurstaðan er sú, að ef Landsvirkjun væri rekin sem hvert annað einkafyrirtæki og verðlegði raforkuna í samræmi við hámörkun hagnaðar og samkeppni frá keppinautum, væri arðsemi af þeim fjármunum, sem settir hafa verið í fyrirtækið, væntanlega vel ásættanleg, á bilinu 5,1-7,4 % að raungildi."
Hér er lykilatriði til skilnings að taka eftir orðunum "og samkeppni frá keppinautum". Meinið er, að nú er engin "samkeppni frá keppinautum", heldur er raforkuverðið skrúfað purkunarlaust upp í ósjálfbærar hæðir í krafti þessi, að viðskiptavinurinn getur ekki leitað neitt annað með raforkukaup sín. Hann á þá tveggja kosta völ, og eru báðir vondir: að ganga að afarkostum upp á von og óvön um þróun afurðamarkaða sinna eða að afskrifa fjárfestingar sínar og hætta starfseminni (fyrirtækið er óseljanlegt með ósjálfbæran eða engan raforkusamning).
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2020 | 17:44
Styr stendur á milli LV og SI
Það hefur ekki farið framhjá blaðalesendum og sjónvarpsáhorfendum, að styr stendur á milli Landsvirkjunar (LV) og Samtaka iðnaðarins (SI). Um nokkurra ára skeið hefur stjórn SI verið á öndverðum meiði við orkufyrirtækin um útflutning s.k. upprunaábyrgða fyrir raforku. Á heimasíðu samtakanna, https://www.si.is, er m.a. greining Samtakanna á þessu fyrirbrigði, frá 19.02.2020, og niðurstaðan er á þann veg, að þessi útrás þjóni ekki hagsmunum íslenzks atvinnulífs í heildina.
Eftir að tilkynning RTA/ISAL í Straumsvík var gefin út þann 12.02.2020 um það, að eigandinn héldi vart lengur út stöðugt og mikið tap af rekstri ISAL, fóru að birtast einkennilegar skeytasendingar frá forstjóra LV um, að orkusamningur LV við ISAL væri sanngjarn og hinn alþjóðlegi eigandi fyrirtækisins væri bara kominn í áróðursstríð við LV, fyrirtæki þjóðarinnar, til að knýja fram raforkuverðslækkun. Mátti skilja á forstjóranum, að lækkun væri óþörf, enda ætti tapið sér aðrar orsakir. Þessi málflutningur forstjóra LV er fáheyrður og engu líkara en hann sé kominn í krossferð gegn stærstu viðskiptavinum LV. Spyrja má, hvort þessi málflutningur sé uppi hafður með samþykki stjórnar LV og eiganda fyrirtækisins, því að forstjórinn er hér kominn langt út fyrir viðskiptaleg mörk og farinn að reka bullandi pólitík. Allur málflutningur hans er þýddur samstundis og sendur á borð eiganda ISAL og líklega fleiri fjárfesta. Verður hvorki séð, að hann geti orðið viðskiptahagsmunum LV til framdráttar né orðspori Íslands sem heimahöfn erlendra fjárfestinga til að nýta endurnýjanlegar og kolefnisfríar orkulindir Íslands. Þvert á móti bendir margt til, að málflutningur forstjóra LV verði vegna eignarhaldsins á LV túlkaður erlendis sem stefna stjórnvalda, og það stórskaðar ímynd Íslands sem áhugavert fjárfestingarland. Skraf forstjóra stærsta orkufyrirtækis landsins getur orðið landinu þungbærari baggi en útflutningur hans á upprunavottorðum orkunnar, sem fyrirtæki hans vinnur úr íslenzkum orkulindum. Stjórnvöld verða tafarlaust að setja forstjóranum stólinn fyrir dyrnar og sýna gjörólíka afstöðu og stefnumörkun í verki. Linkind og léttúð í þessu máli getur orðið almenningi dýrkeypt.
Samtök iðnaðarins (SI) hafa með réttu haldið því fram, að raforkuverð til miðlungsstórra og stórra raforkunotenda væri í seinni tíð (frá 2011) ekki lengur samkeppnishæft við alþjóðlega markaði. Fyrir þetta og fyrir andstöðu SI við útflutning upprunaábyrgða raforku hefur forstjóri LV opinberlega beint spjótum sínum að SI. Dæmi um þetta gaf á að líta í Morgunblaðinu 22.02.2020 í grein Harðar Arnarsonar undir heitinu:
"Hverra hagsmuna gæta Samtök iðnaðarins ? - Fimm spurningar til samtakanna".
Hún hófst þannig:
"Samtök iðnaðarins og Samál hafa nú um nokkurt skeið staðið í áróðursherferð gegn orkufyrirtækjum í eigu almennings á sama tíma og Rio Tinto, aðildarfyrirtæki þeirra, reynir að fá lækkað raforkuverð.
Reynt er að halda því að almenningi, að Ísland sé ekki "land endurnýjanlegrar orku, og tilraunir gerðar til að koma í veg fyrir, að orkufyrirtækin geti aukið verðmætasköpun fyrir íslenzkt samfélag með þátttöku í viðskiptum með upprunaábyrgðir."
Það er með endemum, að forstjóri LV skuli blanda saman þessum tveimur óskyldu málum. Það er gefið í skyn, að SI og Samál ráðist á LV fyrir útflutning hennar á upprunaábyrgðum, til að hún þurfi að berjast á tveimur vígstöðvum í þeirri von, að Rio Tinto Aluminium verði betur ágengt í viðleitni sinni að draga LV að samningaborðinu. Þessi málflutningur sæmir ekki forstjóra langstærsta raforkufyrirtækis landsins og bendir til, að forstjórinn sé úti á túni sem slíkur og farinn að stunda sína einkapólitík gegn stóriðjufyrirtækjunum í landinu. Auðvitað á hann sínar skoðanasystur og -bræður um þetta hugðarefni sitt, en rekur hann erindi stjórnar Landsvirkjunar, þegar hann hagar sér svona, svo að ekki sé nú minnzt á fulltrúa eigandans, ríkisstjórnina og meirihluta þingheims ?
Nú er svo komið, aðallega fyrir tilstilli LV, að í bókahldi EES og Landsreglarans (Orkustofnunar) koma 55 % seldrar raforku hérlendis úr jarðefnaeldsneyti, 34 % úr kjarnorkuverum og aðeins 11 % úr sjálfbærum orkulindum. Almenn notkun, utan langtímasamninga, nemur um 20 % heildarsölunnar. Öllum almenningi standa miðað við þetta ekki til boða vottorð um sjálfbæran uppruna raforkunnar, sem hann kaupir, því að ESB leggur bann við tvítalningu sömu orkunnar í þessu bókhaldi, og á því er hnykkt í Orkupakka 4 að viðlögðum sektum.
Það er grundvallaratriði á Innri orkumarkaði EES, að engum fyrirtækjum sé mismunað á þessum markaði, heldur njóti þau jafnstöðu án tillits til eignarhalds, staðsetningar og starfsemi. Í Greinargerð SI frá 19.02.2020 er komizt að því, að þessi jafnstöðuregla sé brotin á Íslandi, a.m.k. í tilviki upprunaábyrgðanna:
"Fyrirtækjum á Íslandi er mismunað í kerfi upprunaábyrgða. Upprunaábyrgðir fylgja raforku til almennings og fyrirtækja á almennum markaði, en orkufyrirtækin undanskilja orkusækin fyrirtæki á borð við álver, kísilver og gagnaver. Þau fá ekki upprunaábyrgðir, nema greiða fyrir þær. Það er gagnrýnivert og sætir furðu, að orkufyrirtæki í opinberri eigu mismuni íslenzkum fyrirtækjum með þessum hætti. Austurríki og Spánn hafa sett lagalegar hindranir fyrir sölu upprunaábyrgða."
Landsreglaranum ber að líta á jafnstöðu fyrirtækja innan alls Innri markaðar EES. Hann lætur sig engu varða misskiptingu innan lítils bleðils á því svæði. Öðru máli á að gegna um Alþingismenn. Þeir eiga nú að fara að fordæmi þingmanna í Austurríki og á Spáni að þessu leyti og t.d. að semja um það þingsályktunarillögu, að orkufyrirtækjum, sem trúað hefur verið fyrir nýtingu endurnýjanlegra og kolefnisfrírra orkulinda Íslands, og fengið upprunavottorð í samræmi við það (frá Orkustofnun), skuli bjóða viðskiptavinum sínum á heildsölumarkaði "græn skírteini" gegn vægu gjaldi, er spanni kostnaðinn við umstangið af þessum "grænu skírteinum".
Þannig yrði viðskiptavinum orkufyrirtækjanna sparaður sá kostnaður, sem formaður og framkvæmdastjóri SI hafa fullyrt opinberlega, að hljótist af því að hafa ekki í höndunum þessi skírteini ásamt þeim bletti, sem falli á ímynd Íslands, þegar sjáist þau hlutföll um uppruna orkunnar, sem af útflutningi "grænu skírteinanna" leiðir. Framkvæmdastjóri SI hefur fullyrt, að heildarkostnaður íslenzks atvinnulís af þessu útrásaruppátæki orkufyrirtækjanna nemi margföldum útflutningsverðmætum þeirra. Forstjóri LV hefur beðið hann um að sýna fram á þetta, en ekki verður þess vart í svörum SI á heimasíðu samtakanna við 5 spurningum forstjórans. Ekki verður því trúað, að einvörðungu sé um ágizkun eða huglægt mat framkvæmdastjórans að ræða.
Reynsla höfundar þessa vefpistils er sú, að evrópskir viðskiptavinir hafi verið með á nótunum, en utan Evrópu fylltust menn tortryggni, þegar þeir sáu afleiðingar af útflutningi upprunavottorðanna, og einkum var erfitt að útskýra þessar ankannalegu tölur um uppruna í jarðefnaeldsneyti og kjarnorku fyrir fólki úr Vesturheimi. Ekki er höfundi þessa pistils þó kunnugt um, að viðskipti hafi tapazt eða viðskiptakjör versnað vegna þess arna. Það stendur upp á Samtök iðnaðarins að skýra frá því.
Að lokum er nauðsynlegt að árétta, að verðhækkunarstefna Landsvirkjunar fyrir afurð sína, rafmagnið, er algerlega úr takti við verðþróun orku almennt í heiminum síðan 2011. Til þess að samkeppnishæfni ISAL nú verði sú sama og á upphafstíma nýja orkusamningsins 2011, þarf raforkuverðið að lækka um 30 %. Um þetta snýst deilan.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2020 | 11:43
Úr tvenns konar fjósum
Höfundur þessa vefpistils var fjósamaður m.m. í fáein sumur hjá afa sínum og ömmu fyrir hartnær 60 árum í Vatnsdal í A-Húnavatnssýslu. Lánuðust honum mjaltir þokkalega með mjaltavélinni, svo að heimasætur af næstu bæjum áttu það til að kíkja við og líta á undrin, eða svo hugði ungur fjósamaður. Höfundur kann þess vegna vel að meta nú, þegar líkingamál skírskotar til mjólkurkúa eða fjósa.
Elías Elíasson, verkfræðingur, skrifaði merka grein í Morgunblaðið 25. febrúar 2020, þar sem hann gerði "Straumsvíkurdramað" að umræðuefni og setti á skarplegan hátt í samband við orkulöggjöfina, sem hér hefur verið innleidd og er nánast með húð og hári ættuð úr alls ólíku orkuumhverfi því, sem á Íslandi ríkir af náttúrulegum ástæðum, þ.e. úr fjósum hönnuða Innri markaðar Evrópusambandsins, ESB.
Það er augljós fingurbrjótur að innleiða viðskiptakerfi með raforku, sem reist er á virkri samkeppni birgjanna um viðskiptavini, í fákeppnisumhverfi og raunverulega einokaðan markað á sviði stórsölu til iðnaðar. Þessi fingurbrjótur var framinn með innleiðingu Orkupakka 1 og raforkulögunum 2003, og síðan var vaðið lengra út í ófæruna með Orkupakka 2 (2008) og arftaka hans nr 3 árið 2019.
Athugum, hvernig Elías Elíasson hóf téða Moggagrein sína:
"Blóðmjólkun er bágur búskapur":
"Þar kom að því. Stefna ESB í raforkumálum, innleidd hér með orkupökkum, er farin að ýta stóriðjunni úr landi, og fyrst í röðinni er álverið í Straumsvík. Þetta er búið að liggja í loftinu í mörg ár, en Landsvirkjun reynir enn að telja þjóðinni trú um, að það sé ekki raforkuverðinu að kenna, hvernig komið er. Nú er það orðið alveg skýrt. Landsvirkjun telur sér skylt, samkvæmt reglum ESB, að blóðmjólka viðskiptavini sína, svo lengi sem þeir tóra."
Elías hefur manna mesta þekkingu á orkumörkuðum hérlendis, og það eru yfirgnæfandi líkur á því, að ályktun hans sé rétt. Næsta þrep ályktunarstigans mundi fela í sér, að Landsvirkjun skirrist ekki við að láta skeika að sköpuðu um það, hvort atvinnureksturinn í Straumsvík (eða annars staðar) kiknar undan byrðunum eður ei. Landsvirkjun mun einfaldlega segja sem svo, að hún fylgi þeirri meginreglu raforkuvinnslufyrirtækja á Innri markaði EES að verðleggja orkuna eftir jaðarkostnaðarreglunni, sem við hérlendar aðstæður þýðir, að í öllum samningaviðræðum er á þeim bænum sett upp verð, sem er svipað og áætlaður kostnaður við raforkuvinnslu í næstu virkjun með dágóðri ávöxtun, a.m.k. 7,0 % (meðalávöxtun af fjárfestingum Landsvirkjunar frá upphafi hefur verið á bilinu 5,0 %-7,4 %). Þetta er kolvitlaus aðferðarfræði m.v. íslenzkar aðstæður, þar sem stór hluti fjárfestinganna hefur þegar verið bókhaldslega afskrifaður, og skammtíma jaðarkostnaður (kostnaður við næstu MWh) er nálægt 0. Þessi leið Landsvirkjunar er glötunarvegur, sem leiðir til þess, að iðnaðurinn hrekst úr landi og margt dugnaðarfólk með, sem við þurfum umfram allt á að halda til verðmætasköpunar í landinu. Hér er þess vegna í senn um að ræða stórpólitískt mál og efnahagsmál, sem kippt getur stoðunum undan kaupmætti og efnahagslegum stöðugleika hérlendis. Af þeim orsökum á ekki að líða neinar vífilengjur af hálfu ríkisvaldsins við að leiðrétta kúrsinn hjá sínu fyrirtæki.
Það er algerlega undir hælinn lagt, hvernig orkuverð í Evrópu mun þróast á næstu áratugum. Þannig hefur heildsöluverð á Nord Pool orkumarkaði Norð-Vestur Evrópu lækkað um helming nú á 3 mánaða tímabili. Samkvæmt lágspá (orkustefna Bandaríkjanna ríkjandi) US Energy Information Agency mun raunverð á jarðgasi standa í stað á næstu 30 árum, hækka um 50 % samkvæmt grunnspá (talin sennilegasta þróunin) og 2,6 faldast samkvæmt háspá (orkustefna ESB ræður för). Þannig er óásættanlega mikil áhætta fyrir þjóðarbúskap Íslendinga fólgin í því, sem blasir við sem afleiðing af verðlagningu Landsvirkjunar, að leggja iðnaðinn í rúst og flytja orkuna þess í stað út um sæstreng til hæstbjóðanda í Evrópu.
Í hverju er áhættan fólgin, ef lítið þarf að virkja og erlendir aðilar eiga sæstrenginn ?
Það þarf að reisa 400 kV línur og tengivirki (t.d. afriðla- og áriðlastöð við lendingarstað sæstrengsins), og það þarf að afla gjaldeyristekna, sem vega upp á móti verðmætasköpun iðnaðarins, sem verður fórnarlamb ruðningsáhrifa sæstrengsins. Ef þróun raforkuverðsins á Nord Pool, sem verður markaðurinn fyrir raforku til og frá Íslandi, mun fylgja ofannefndri grunnspá fyrir jarðgas, þá verður tap á þessum viðskiptum í samanburði við að halda núverandi iðnaði gangandi í landinu. Þetta þýðir, að núverandi verðlagningarstefna Landsvirkjunar er hreinræktuð ævintýramennska, og það er stórundarlegt, að fyrirtækið skuli komast svona lengi upp með hana. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt og tímabært, að bæjarstjórn Akraness skuli álykta með þeim hætti að fara eindregið fram á það, að stjórnarformaður Landsvirkjunar stígi fram úr skugga forstjórans og geri bæjarstjórninni og landslýð öllum grein fyrir stefnu Landsvirkjunar, og hvaðan stjórninni komi umboð til þeirrar stefnubreytingar, sem átt hefur sér stað hjá Landsvirkjun.
Verðþróun á áli og orku frá 2010 hefur orðið gjörólík því, sem þá var búizt við eða frá þeirri tíð, er samningaviðræður ISAL/RTA við Landsvirkjun stóðu sem hæst. Álverð hefur lækkað um 20 % og gasverð um 50 %. Auðlindin, sem, Landsvirkjun er trúað fyrir, hefur þannig lækkað að verðgildi á alþjóðlegum mörkuðum, en ekki hækkað, eins og búizt var við. Landsvirkjun hefur ekki aðlagað sig þessari þróun, heldur bætt gráu ofan á svart með verðlagsstefnu, sem fælt hefur nýja viðskiptavini frá og knúið gamla til að draga úr orkukaupum sínum. Þetta er mjög ógæfuleg stefna, sem endar með skipbroti, ef ekki fer fram aðlögun að raunveruleikanum.
Höldum nú áfram með Elías:
"Árið 2011, þegar skrifað var undir nýja samninga við Straumsvík, var álverð á uppleið á ný og talið var, að það mundi halda áfram að hækka, eins og búizt var við, að orkuverð mundi gera, en það fór á annan veg. Eftir skammvinnan verðtopp féll álverðið og hefur ekki náð sér á strik síðan."
Það hefur orðið forsendubrestur fyrir þennan umrædda orkusamning frá 2011, og í honum er einmitt endurskoðunarákvæði, sem grípa má til í slíkum tilvikum. Að vísu er það miðað við árið 2024, en með mrdISK 5-10 tap á ári, er ekki hægt að bíða þangað til.
Elías vill taka upp sveigjanlega verðlagningu raforku, eins og reyndar var við lýði til álveranna allra fram að 2011. Hugmyndin var sú, að báðir aðilar deildu með sér súru og sætu eftir þróun álverðsvísitölu, en fleiri vísitölur koma til greina:
"Þegar framangreind áhætta [álverð, orkuverð, ISK/USD] er skoðuð, er ljóst, að sveigjanlegt gengi krónunnar er ekki nóg til að bregðast við þeim áföllum, sem á íslenzka þjóðarbúinu dynja. Sveigjanlegt raforkuverð gæti bætt þarna úr, en það er tómt mál að tala um markaðsvæðingu að hætti ESB í því samhengi.
Íslenzka raforkukerfið gegnir því hlutverki einu að flytja orku fallvatna og jarðvarma til notenda, og virkjanirnar hafa það hlutverk eitt að breyta þessari orku í flutningshæft form, sem er rafmagn. Það er því rétt að eðli máls að líta á virkjanir sem hluta flutningskerfisins fremur en sem framleiðslueiningar fyrir vöru, enda eru þær frá náttúrunnar hendi misdýrar og geta því ekki keppt hver við aðra á grundvelli jafnstöðu [og markaðslögmála-innsk. BJo]."
Það eru þannig bæði hagsmunir fyrirtækjanna, sem í hlut eiga, og þjóðhagslegir hagsmunir, sem virka hvetjandi til að taka upp sveigjanlega verðlagningu raforku, þar sem hún hefur verið afnumin eða hefur aldrei verið fyrir hendi hérlendis.
Það er eðlisólíkt að framleiða rafmagn úr náttúruauðlindum, eins og á Íslandi, eða í kolakyntum, olíukyntum eða gaskyntum orkuverum eða kjarnorkuverum, eins og algengast er á Innri orkumarkaði ESB, og þess vegna gengur ekki upp að flytja hugmyndafræði um rafmagn sem vöru þaðan til Íslands. Uppstilling Elíasar sýnir einnig, að það er eðlilegt hérlendis að flutningskerfi raforku sé í eigu stærsta orkufyrirtækis ríkisins. Það getur þá byggt upp flutningskerfið með ágóðanum af vinnslunni, eins og gert var 1965-2005, og haldið þannig heildarkostnaði raforkunnar í skefjum fyrir notendur.
Í lok greinar sinnar fjallar Elías um íslenzka orkukerfið í samhengi við orkulöggjöf ESB:
"Ísland er afar smátt þjóðfélag, en það merkir, að fall fyrirtækja, sem teljast smá á erlendan mælikvarða, veldur meiri háttar efnahagslegri truflun hér. Við þurfum því meira svigrúm til að bregðast við slíkum hlutum en orkupakkarnir og EES-samningurinn gefa. Íslenzk stjórnvöld þurfa að losa um þær hömlur, sem þar leggjast á okkur, þannig að við höfum fullt frelsi yfir auðlindum okkar, til mörkunar orkustefnu og mótunar á raforkumarkaði. Orkuauðlindir Íslands og orka þeirra eiga að vera utan EES-samningsins, eins og ætlað var við gerð hans."
Fyrir Íslendinga var bæði óþarfi og óheillaspor, sem á eftir að draga langan slóða á eftir sér, að fella orkumálin undir EES-samninginn. Ísland er ekki á Innri markaði ESB fyrir raforku og landsmenn kæra sig ekki um það, enda mundi slíkt hafa skaðleg áhrif á lífskjörin hér. Hvort hægt er að nema orkupakkana úr gildi á Íslandi án uppsagnar EES-samningsins, er pistilhöfundi ekki ljóst, en fordæmalaust er það og ósennilegt.
Hin Morgunblaðsgreinin með skírskotun til fjóss í þessu sambandi birtist einnig 25. febrúar 2020 í Morgunblaðinu og er eftir Magnús Ægi Magnússon, rekstrarhagfræðing og stjórnarmann í hafnarstjórn Hafnarfjarðarbæjar. Grein hans er undir þeirri sláandi fyrirsögn:
"Straumsvík - að slátra mjóljurkúnni":
"Eins og Stefán E. Stefánsson, blaðamaður, bendir á í Morgunblaðinu 19. febrúar síðastliðinn, er ómögulegt að átta sig á því, hvort það er léttúð eða barnaskapur, sem rekur þetta fólk [gagnrýnendur ISAL] áfram. Freistast maður til þess að halda, að um hvort tveggja sé að ræða auk yfirgripsmikillar vanþekkingar á efnahagsmálum, gangverki efnahagsmála [auk] skilningsleysis á því, hvaðan þeir peningar koma, sem greiða alla okkar gríðarmiklu samneyzlu, svo sem rekstur Landspítala, umhverfisráðuneytisins og Umhverfisstofnunar."
Í upphafi snerist gagnrýnin á ISAL um ótta við erlendar fjárfestingar og áhrif erlendra fjárfesta á íslenzkt atvinnulíf. Þetta var heimóttarlegt og ekki reist á mikilli söguþekkingu, því að atvinnusaga síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. mótaðist af erlendum fjárfestingum í atvinnulífi landsmanna, aðallega á vegum Norðmanna, t.d. í hvalstöðvum og síldarverkun. Þá má ekki gleyma gríðarlegum fjármunum, sem Bretar og Bandaríkjamenn vörðu hér til að búa um sig og klekkja á Þriðja ríkinu. Allar þessar fjárfestingar, einnig í iðnaðaruppbyggingu á seinni hluta 20. aldar og í byrjun 21. aldarinnar, hafa umbylt verkþekkingu og leitt til mikillar gjaldeyrisaflandi verðmætasköpunar í landinu, enda sækjast allar velmegandi þjóðir eftir beinum erlendum fjárfestingum.
Næsta ádeiluefnið var mengun, en strax og tæknin leyfði um 1980 var í Straumsvík hafizt handa við umbyltingu í innri og ytri mengunarvörnum með lokun rafgreiningarkera og uppsetningu hreinsibúnaðar fyrir kerreykinn ásamt fitugildrum og rotþróm á allt frárennsli. Um langt skeið hafa ummerki verksmiðjunnar varla greinzt í gróðri sunnan verksmiðjunnar eða í kræklingi úti fyrir ströndinni, en ástand hans er notað sem mælikvarði á mengun í sjó.
Þriðja og síðasta gagnrýnisefnið er mikil koltvíildislosun og raforkunotkun áliðnaðarins. Þessir gagnrýnendur horfa framhjá því aðalatriði málsins, að sé litið á orkuöflun fyrir álframleiðslu og hana sem heild, þá er koltvíildislosunin á Íslandi innan við 14 % á hvert áltonn á við meðaltalið annars staðar í heiminum. Það gengur ekki upp að vera með miklar áhyggjur af loftslagsmálum í öðru orðinu, en í hinu orðinu að gagnrýna virkjun íslenzkra orkulinda fyrir álframleiðslu.
"Lengstum var gott samkomulag milli Landsvirkjunar og álversins í Straumsvík um fyrirkomulag sölu og kaupa á raforku. Báðir aðilar skildu, að það væri hagur beggja, að vel gengi hjá báðum. Svo virðist sem í kringum árið 2010 hafi þarna orðið breyting á. Komin var til valda í landinu "hrein vinstristjórn", en vinstri menn, sumir hverjir alla vega, hafa alla tíð verið áberandi í andstöðu sinni við byggingu og rekstur álversins og fundið því allt til foráttu.
Nýr forstjóri var ráðinn til Landsvirkjunar og nokkuð víst er, að dagskipun hafi komið til Landsvirkjunar frá ríkisstjórninni um, að nú skyldi brjóta upp raforkusamninga stóriðjufyrirtækjanna og láta þau finna til tevatnsins. Enginn velkist í vafa um það, að Landsvirkjun getur hækkað sitt raforkuverð að vild og þarf hvorki að spyrja kóng né prest um það. En það hafa aldrei þótt mikil búvísindi að slátra mjólkurkúnni."
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2020 | 14:01
Á meðan Róm brennur
Sunnudagspistill iðnaðarráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, 23.02.2020, hét að sönnu:
"Miklir hagsmunir undir".
Hann hófst með minningarorðum um heiðursmanninn Jakob Björnsson, rafmagnsverkfræðing, og var upphafið þannig:
"Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, lézt í liðinni viku. Hann var orkumálastjóri í tæpan aldarfjórðung, eða frá 1973 til 1996, og tók eftir það virkan þátt í þjóðmálaumræðu um orkumálefni. Skýr og afgerandi sjónarmið hans um stóriðju voru áberandi í greinaskrifum hans. [Hann var eindreginn stuðningsmaður þess konar orkunýtingar á Íslandi - innsk. BJo.]"
Jakob Björnsson kenndi við Verkfræði- raunvísindadeild Háskóla Íslands, þegar þessi pistilhöfundur nam þar til verkfræðiprófs í s.k. fyrrihlutanámi þar og var einmitt skipaður þar prófessor af ráðherra vorið, sem pistilhöfundur útskrifaðist þaðan, 1972.
Á þriðja og lokaári þessa fyrri hluta naut þessi pistilhöfundur leiðsagnar hins góða læriföður um myrkviði doðrants eins mikils eftir sænskan prófessor, og bar doðranturinn nafnið "Electrisitetslära". Útskýringar, dæmaleiðsagnir og leiðbeiningar í tímum og í föðurlegum samtölum hans við dolfallna stúdenta að kennslustundum afstöðnum féllu í frjóan jarðveg og voru afar uppörvandi yfirhlöðnum stúdentum. Þannig kynntist pistilhöfundur þessum sómamanni og góða kennara og síðan lítils háttar sem ráðleggjanda eftir heimkomu 1976 að loknu embættisprófi í rafmagnsverkfræði frá Norges Tekniske Högskole í Þrándheimi og vinnu við hönnun rafkerfa um borð í stærsta olíubor- og vinnslupalli Noregs fram að þeim tíma, Statfjord. Minningin um framúrskarandi mann og verkfræðing mun lifa.
Iðnaðarráðherra tíndi síðan til "margvíslegan ávinning af stóriðju". Það er þó vonandi ekki þannig, að iðnaðarráðherra ætli að láta skeika að sköpuðu um það, hvort orkusækinn iðnaður heyri brátt sögunni til á Íslandi, en það er engum vafa undirorpið, að sú mun verða raunin, nema ríkisstjórnin grípi strax í taumana og leggi línuna, sem leiða mundi samstarf Landsvirkjunar og viðskiptavina hennar inn á heillavænlegri brautir en raunin hefur verið síðast liðinn áratug.
Ábyrgð og frumkvæðisskylda iðnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra er mest í þessum efnum, en svo vill til, að þar er um að ræða varaformann og formann Sjálfstæðisflokksins. Flokkur þeirra bjó þau út með gott veganesti á síðasta Landsfundi, vorið 2018. Þau þurfa þess vegna ekki að velkjast í vafa um vilja flokksfólks í þessum efnum. Þeirra er nú að láta hendur standa fram úr ermum. Eftirfarandi kom fram í ályktun Atvinnuveganefndar, sem Landsfundur samþykkti nánast einróma:
"Landsfundur stendur heilshugar á bak við hugmyndir um atvinnuuppbyggingu innanlands í tengslum við hagkvæma nýtingu orkuauðlinda. Íslenzk útflutnings- og framleiðslufyrirtæki skulu njóta þess samkeppnisforskots, sem felst í notkun á grænni íslenzkri orku. Landsfundur leggst gegn því, að græn upprunavottorð séu seld úr landi. Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."
Á þessum grundvelli hafa ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fullt lýðræðislegt umboð til þess að vinda ofan af þeirri öfgafullu og hættulegu verðlagsstefnu, sem nú er rekin af hálfu ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinum hennar, þar sem stórtækustu afleiðingarnar verða augljóslega þær að binda enda á nýtingu innlendra orkulinda til framleiðslu á áli og kísilmálmi fyrir erlenda markaði.
Í Kastljósþætti RÚV 24.02.2020 var Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, annar viðmælenda þáttastjórnandans um upprunavottorð raforku. Þar ýjaði téður forstjóri að því, að erlend stórfyrirtæki á Íslandi stunduðu óleyfilegar bókhaldsbrellur með kostnað aðfanga og afurðaverð sín. Með þessu er forstjórinn kominn út í pólitík, sem enginn hefur falið honum að stunda og hlýtur að hafa afleiðingar fyrir hann, því að það að sá fræjum grunsemda opinberlega um ávirðingar almennt um alla þessa skráðu viðskiptaaðila í kauphöllum heimsins er grafalvarlegt mál og stenzt auðvitað ekki gagnrýna hugsun. T.d. RTA/ISAL í Straumsvík framleiðir einvörðungu álsívalninga af ýmsum melmum og gildleikum. Viðskiptavinirnir eru fjölmargir, yfir 200 framleiðendur alls konar álprófíla fyrir bíla- og byggingariðnaðinn o.fl. Hvernig dettur þessum manni í hug að bera það á borð fyrir alþjóð, að hugsanlega sé RTA/ISAL að selja þessum fjölmörgu viðskiptavinum sínum sínum vörur á undirverði ?
Annað úr þessum þætti, sem bendir til illvígrar pólitíkur af hálfu þessa manns í garð viðskiptavina Landsvirkjunar í eigu erlendra félaga, voru viðbrögð hans við gagnrýni Guðrúnar Hafsteinsdóttur á útflutning upprunavottorða "hreinnar" orku. Hann brást við henni með spurningu um, hvort Samtök iðnaðarins vildu færa alþjóðlegum félögum mrdISK 10-20 á 20 árum. Þetta er óburðugur málflutningur og nánast óskiljanlegur. Er Landsvirkjun að selja upprunaheimildir úr landi til að þær standi ekki stóriðjufyrirtækjum á Íslandi til boða ? Þá verða auðvitað fleiri útundan, því að samkvæmt þessu bókhaldi eru aðeins 11 % seldrar raforku á Íslandi úr endurnýjanlegum orkulindum. Um þetta barnalega stríð forstjórans við stóriðjuna í landinu á orðtakið við, að sér grefur gröf, þótt grafi.
Iðnaðarráðherra hefur enn ekki framfylgt skýrum fyrirmælum Landsfundar til sín um að stöðva sölu upprunavottorða úr landi, enda hefur hún ekki heimild til að grípa með svo almennum hætti inn í starfsemi Innri orkumarkaðar EES. Hún getur hins vegar bannað ríkisfyrirtækjum að stunda þessi viðskipti og gæti t.d. lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis til að freista þess að fá stuðning Alþingis við þá stefnumörkun. Hvers vegna hreyfir hún hvorki legg né lið ? Það er sennilega vegna þess, að hún er andstæð slíku banni, en þá er hún sem ráðherra Sjálfstæðisflokksins komin í andstöðu við stefnumörkun flokksins, sem hlýtur að grafa undan hennar pólitíska ferli innan flokksins. Er þingflokki Sjálfstæðisflokksins stætt á að bera ábyrgð á slíkum ráðherra ?
Þetta er ekki eina stefnumörkun Landsfundar, sem ráðherrar flokksins og reyndar megnið af þingflokkinum hefur beinlínis unnið gegn. Í fersku minni er baráttan um Orkupakka 3 frá ESB, en ekki fer á milli mála, að Landsfundarályktunin hér að ofan, sem hafnar frekara framsali yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana ESB, samræmist engan veginn stuðningi flestra þingmanna flokksins við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að staðfesta gjörning Sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017, sem fól m.a. í sér stofnun embættis Landsreglara (falið undir hatti Orkumálastjóra), sem hefur m.a. með höndum eftirlit með virkni íslenzks raforkumarkaðar og eftirlit með stofnun orkukauphallar að forskrift ESB. Landsreglarinn situr samræmingarfundi hjá ACER-Orkustofnun ESB.
Aftur að tilvitnaðri grein ÞKRG. Hún taldi þar fram ýmsa kosti stóriðjustefnunnar, og var einn þessi:
"Stóriðjustefnan hefur því verið jákvætt framlag Íslands til loftslagsmála, ekki neikvætt, eins og sumir halda fram."
Jakob, heitinn, Björnsson var einmitt óþreytandi við að benda á þessa staðreynd. Heimsmeðaltal af myndun koltvíildisjafngilda í álverum (rafgreining, álsteypa, forskautasamsetning og kerfóðrun) ásamt raforkuvinnslu fyrir þessa framleiðslu er um 11 tCO2eq/tAl, en á Íslandi er þessi losun vel undir 2 tCO2eq/tAl. Við núverandi framleiðslustig áls þýðir þetta, að álverin á Íslandi spara andrúmsloftinu að öllum líkindum 9 MtCO2eq/ár, sem er 64 % meira en nemur allri skráðri losun hérlendis. Til þess liggja 3 meginástæður: Aðalástæðan er orkuöflunin, en hún losar sáralítið koltvíildi í samanburði við orkuöflun úr jarðefnaeldsneyti, sem er algengust erlendis. Önnur ástæðan eru góð tæknileg tök á rafgreiningarferlinu hérlendis, sem þýðir, að mjög lítið er losað af sterkum gróðurhúsalofttegundum á borð við CF4 og C2F6. Þriðja ástæðan er, að rafvæðing steypuskálaofna er langt komin hérlendis og einnig rafvæðing forskautavinnslunnar og kerfóðrunar.
"Í fimmta lagi er stóriðja þrátt fyrir allt fremur stöðug. Gríðarleg fjárfesting liggur að baki, sem ekki verður rifin upp með rótum svo glatt, öfugt við ýmsa aðra starfsemi. Og sveiflurnar geta jafnað út aðrar sveiflur í hagkerfinu. Það sýndi sig m.a. eftir bankahrunið, en ISAL var mögulega eina fyrirtækið, sem réðist í tugmilljarða fjárfestingarverkefni [mrdISK 70-innsk. BJo] beint í kjölfar þess."
Álframleiðslan á Íslandi er reyndar dálítið háð duttlungum náttúrunnar, eins og hinir höfuðatvinnuvegir þjóðarinnar, vegna þess að innrennsli í miðlunarlón vatnsaflsvirkjananna er tilviljunum háð. Ráð er fyrir því gert, að orkubirgirinn geti skert bæði afl og orku í þurrkaárum með vissum skilmálum um allt að 10 % frá hámarksnotkun. Nú sjáum við, að orkuviðtakinn, ISAL, skerðir forgangsorkukaup sín um 15 % vegna stöðunnar á álmörkuðum og á íslenzka raforkumarkaðinum.
Það er ekki algengt, að álverksmiðjur séu fluttar á milli staða, en þess eru þó dæmi, a.m.k. að hluta. Hluti af þýzku verksmiðjunni í Töking var t.d. fluttur upp á Grundartanga 1997.
"Lítill vafi er á því, að sjálf orkusalan hefur orðið arðbærari með hækkandi verði. Það er ekki óeðlilegt, að verð hækki með tímanum; að afslættir séu einkum í boði í upphafi. Og það er ekki stefna okkar að nánast gefa stórfyrirtækjum orkuna til þess að fá störf í staðinn, sem hefur verið nálgunin í a.m.k. einhverjum tilvikum í Kanada, svo [að] dæmi sé tekið."
Hér slær út í fyrir höfundinum. Hún athugar ekki, að vinnslukostnaður rafmagns hefur hækkað í tímans rás að raunvirði vegna þess, að fyrst völdu menn að virkja á hagkvæmasta stað, næsti virkjunarstaður var dýrari á orkueiningu og svo koll af kolli. Þess vegna er ekki gefið, að lágt verð í byrjun hafi verið Landsvirkjun óhagstæðara en hærra raforkuverð síðar. Hitt er aftur á móti staðreynd, að með skuldalækkun Landsvirkjunar hefur meðalkostnaður hennar á MWh lækkað og að ágóðinn hefur þá hækkað mikið, því að samtímis hefur verðið hækkað, og þar stendur hnífurinn einmitt í kúnni.
Að hætti ESB hefur verðlagning Landsvirkjunar til stórnotenda tekið mið af jaðarkostnaðarverði, þ.e. kostnaði næstu virkjunar á MWh. Mismunurinn á ESB og Íslandi að þessu leyti er hins vegar sá, að frjáls samkeppni margra birgja heldur aftur af þeim verðhækkunum, sem kaupendur verða að sætta sig við. Hér er ekkert aðhald að seljanda í einokunarstöðu, þegar hann virðist kæra sig kollóttan um það að tryggja langvarandi viðskiptasamband með sjálfbærum samningum. Það dettur engum í hug "að nánast gefa stórfyrirtækjum orkuna". Þótt verðið til ISAL yrði lækkað um 30 %, svo að raforkukostnaður fyrirtækisins sem hlutfall af tekjum yrði svipaður og í upphafi samningsins 2011, yrði samt myljandi gróði af rekstri Landsvirkjunar.
Það er ankannalegur málflutningur af hálfu ráðherrans, að dæmi séu um, að Kanadamenn nánast gefi stórfyrirtækjum orkuna til að fá störf í staðinn. Í Qubeck og í British Columbia eru stór vatnsföll með stórvirkjunum. Algengt er þar, að stórfyrirtæki hafi fengið virkjanaleyfi og sjái starfsemi sinni, t.d. álverum, fyrir raforku, og selji afganginn inn á landskerfið. Þetta er allt annað fyrirkomulag en ráðherrann lýsir.
Nokkru síðar vék Þórdís Kolbrún að aflsæstreng til útlanda:
"Auðvitað er augljóst, að enginn getur látið sér detta það í hug að selja orkuna frekar um sæstreng án þess að taka allan þennan auka-ávinning með í reikninginn. Jafnaugljóst er, að það væri vitleysa að útiloka um alla framtíð, að það reikningsdæmi geti einhvern tímann gengið upp og banna skoðun á því."
Þetta er þversagnakenndur texti hjá ráðherranum, sem bendir til, að hún sé á báðum áttum. Það er einmitt stefna orkupakkanna frá ESB, að orkufyrirtækin skuli við verðlagningu sína einvörðungu horfa í eiginn barm og engan gaum gefa að þeim "auka-ávinningi", sem annars konar, mildari og víðsýnni verðlagsstefna kynni að hafa. Það er sorglegt, að ráðherrann hefur enn ekki skilið inntak orkupakkanna frá ESB. Í umræðunni um Orkupakka 3 hélt hún því fram, að samkeppnisfyrirkomulag orkupakkanna hefði bætt hag neytenda. Þetta var rekið ofan í hana með skýrslu "Orkunnar okkar" í ágúst 2019. Á sviði stórsölu með raforku er nánast engin samkeppni á milli orkubirgjanna á Íslandi, heldur einokunarfyrirkomulag. Þess vegna eru þessi mál nú komin í algert óefni.
Það er kominn tími til, að þessi iðnaðarráðherra fari að skilja kjarna orkumálanna á Íslandi, hætti að daðra við aflsæstreng á milli Íslands og Innri markaðar ESB, sem núverandi forstjóri Landsvirkjunar vissulega hefur rekið áróður fyrir og er þar trúr orkustefnu ESB, eins og hún birtist í Orkupakka 3, og fari að vinna af einurð í þágu hagsmuna íslenzks iðnaðar og þar með íslenzku þjóðarinnar.
Að lokum skrifaði ráðherrann:
"Ég hef áður vakið máls á því, að skynsamlegt væri að auka gagnsæi um orkusamninga. Það er forsenda vitrænnar umræðu í stað misvel ígrundaðra ágizkana um samkeppnishæfni okkar, þar sem gerólík sjónarmið heyrast. Ég hef lagt mitt af mörkum til þess með því að fá óháð erlent greiningarfyrirtæki til að kortleggja samkeppnisstöðu stóriðju með áherzlu á orkuverð. Það verður fróðlegt að rýna í niðurstöður hennar vor."
Nú hafa iðnaðarráðherra og forstjórar ISAL og Landsvirkjunar öll lýst yfir vilja sínum til að opinbera orkusamningana við stóriðju á Íslandi. Hefði ráðherrann verið sjálfri sér samkvæm, þá hefði hún birt erindisbréf ráðuneytisins til ráðgjafans Fraunhofers á vefsetri ráðuneytisins. Þetta er enn því miður leyndarskjal. Hvernig til tekst með að varpa ljósi á samkeppnishæfni íslenzkrar stóriðju, veltur á ýmsu. Hefur Fraunhofer aðgang að bókhaldi annarra stóriðjufyrirtækja í heiminum, sem eru á sama markaði og íslenzku álfyrirtækin ? Mun Fraunhofer gera grein fyrir umframkostnaði íslenzkrar stóriðju vegna staðsetningar hennar á Íslandi (t.d. flutningskostnaði og launakostnaði) ? Þetta eru mikilvæg atriði, og gagnsemi skýrslu frá rándýrum ráðgjafa er alveg undir erindisbréfinu til hans komin. "Það varðar mest til allra hluta, að undirstaðan sé réttlig fundin."
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2020 | 10:51
Syrtir í álinn
Nú fara saman minnkandi hagvöxtur á alþjóðavísu og á Íslandi. Greiningardeildir hérlendar í viðskiptabönkunum og Seðlabankinn voru í fyrra of bjartsýn um efnahagshorfur hérlendis 2020. Fyrir þremur mánuðum spáði Seðlabankinn 1,6 % hagvexti hérlendis í ár, en nú spáir hann aðeins 0,8 % hagvexti, sem er ávísun á vandræði margra fyrirtækja og mikið atvinnuleysi á íslenzkan mælikvarða. Veiran CoV-1-19 mun að öllum líkindum keyra hagkerfi heimsins í kreppuástand, og sumir spá lausafjárþurrð á borð við fjármálakreppuna 2007-2008.
Það eru í meginatriðum 3 ástæður fyrir líkum á samdrætti íslenzka hagkerfisins, þótt verstu áhrifum veirunnar sé sleppt. Í fyrsta lagi sveiflur í lífríki hafsins, t.d. minni uppsjávarafli, en aukning þorskveiða og hækkun á verði fiskafurða í erlendri mynt ásamt framleiðsluaukningu fiskeldisins hafa reyndar sveiflazt í hina áttina til útjöfnunar.
Í öðru lagi er minnkandi hagvöxtur í heiminum og áframhaldandi kreppuhætta í Evrópusambandinu (ESB) og Japan með stýrivexti þar niðri við 0 og skuldabréfakaup seðlabankanna. Nýja kórónaveiran, CoV-1-19, sem upp gaus í Kína í desember 2019 og varð að skæðum faraldri þar mánuði seinna, hefur alla burði til að setja Kína, annnað stærsta hagkerfi heims, á hliðina, og hún hefur þegar borizt til Vesturlanda. Tölur um sýkta og látna frá Kína eru tortryggilegar. Opinberar tölur um dánarhlutfallið hélzt lengi vel fast frá degi til dags, 2,1 %, sem vekur grunsemdir um, að það kunni að vera miklu hærra, og fréttir frá Taiwan (Formósu) lúta að því. Til að gera sér grein fyrir raunverulegu hlutfalli dauðsfalla þarf að reikna hlutfall látinna sem hlutfall af sýktum á sama tíma og hinir látnu. Þá fæst fimmfalt ofangreint hlutfall, sem setur þessa veiru í flokk, sem er miklu skæðari en spænska veikin 1918-1919, en þá veiktust 63 % íbúa í þéttbýli, og af þeim létust 2,6 %. Þessi óáran hlýtur að hafa mjög neikvæð, tímabundin áhrif á ferðaiðnaðinn í heiminum. Nú sést varla kínverskur ferðamaður á götum Reykjavíkur.
Þriðja ástæða kólnunar íslenzka hagkerfisins í fyrra kom fram í Baksviðsfrétt Stefáns E. Stefánssonar í Morgunblaðinu, 6. febrúar 2020,
"Hagvöxtur helmingi minni í ár en fyrri spá gerði ráð fyrir".
Vitnað var í fund á vegum Seðlabanka Íslands, SÍ, daginn áður:
"Í máli Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings SÍ, á kynningarfundi í gær kom fram, að útflutningur vöru og þjónustu hefði dregizt saman í fyrra um 5,8 %, og væri það mesti samdráttur frá árinu 1991. Þá gerir bankinn ráð fyrir, að enn muni [útflutningurinn] draga[st] saman sem nemi 1,4 % í ár. Gangi sú spá eftir, er það í fyrsta sinn, sem samdráttur mælist samfellt í 2 ár frá árunum 1991-1992."
Þessi rýrnun útflutningstekna landsins stafar að langmestu leyti af færri millilendingarfarþegum og komufarþegum til landsins. Að einhverju leyti stafar þetta af gjaldþroti VOW-air, en þó virðist nægt framboð flugsæta til landsins, enda flugfélögin um 25, sem hingað fljúga. Ferðamönnum til hinna Norðurlandanna fjölgaði í fyrra, svo að ástæða fækkunar hingað er að mestu leyti hátt verðlag. Eftir er að taka áhrif Kína-faraldursins CoV-1-19 með í reikninginn, en þau verða mikil, ef spá faraldursfræðinga um, að 60 %-80 % jarðarbúa smitist af þessari veiru í ár, rætist, og minni álútflutningur og lækkandi álverð eru heldur ekki þarna meðreiknuð.
Samkeppnishæfni landsins hefur dalað eftir Lífskjarasamningana, sem þýðir, að þeir voru of dýrkeyptir, a.m.k. fyrir fyrirtæki, þar sem stór hluti starfsmanna er í neðri hluta launastigans. Það á einmitt við um ferðamannaiðnaðinn. Verkefni ríkisvaldsins er að leggja drögin að endurheimt samkeppnishæfninnar, en það eru engin teikn á lofti um það, nema yfir Svörtuloftum, og þaðan berast þó blendin boð vegna gamallar ákvörðunar FME, sem nú er stjórnað af Svörtuloftum, um aukna eiginfjárbindingu viðskiptabankanna.
Að starfsmenn hjá hinu opinbera skuli nú berjast með kjafti og klóm fyrir meiri hækkunum launa en kveðið er á um í téðum Lífskjarasamningum, er atlaga að þanþoli hagkerfisins og lýsir einhvers konar sjálfstortímingarhvöt og/eða veruleikafirringu, nema hér sé um gamalkunna stéttabaráttu eða hreinræktaða skemmdarverkastarfsemi í anda Marx og Leníns að ræða. Þeir, sem nú skekja sverðin framan í atvinnurekendur, verða að sjá að sér, slíðra þau og sæta betra færis en nú er, þegar hagkerfið riðar til falls vegna fallandi útflutningstekna. Á hinum Norðurlöndunum væri þessi uppákoma útilokuð.
Baldur Arnarson birti 5. febrúar 2020 opnuviðtal í Morgunblaðinu við Sigurð Hannesson, sem gerir sér grein fyrir vandanum, og hvað þarf að gera. Kostnaður fyrirtækjanna er of hár, launakostnaðurinn er sá hæsti innan OECD sem hlutfall af verðmætasköpun þeirra. Við þessu er brugðizt með aðgerðum til að auka skilvirkni fyrirtækjanna og framleiðni vinnuaflsins. Afleiðingin er uppsagnir starfsfólks og aukið atvinnuleysi, en það eru fleiri kostnaðarþættir, sem hafa hækkað, t.d. raforkan.
Það er alveg stórfurðulegt og algert sjálfskaparvíti í ljósi þess, að yfir 90 % raforkugeirans er í opinberri eigu, og hagnaður fyrirtækjanna er meiri en nokkru sinni fyrr. Hið opinbera verður að sýna þá ábyrgðartilfinningu í þessari stöðu að birta stjórnum þessara fyrirtækja þá eigendastefnu að setja samkeppnishæfni íslenzks atvinnulífs ofar á forgangslistann en arðgreiðslur til eigendanna. Slík eigendastefna yrði öllum landsmönnum að gagni og felur ekki í sér mismunun viðskiptavina, á meðan landið er ótengt innri markaðinum fyrir raforku. Þetta er alls engin niðurgreiðsla rafmagns, eins og þó virðist vera stunduð í samkeppnislöndum okkar, enda skulu allar virkjanir reknar með hagnaði. Flutnings- og dreififyrirtækin þarfnast væntanlega tímabundins fjárhagslegs stuðnings vegna átaksþarfar nú á framkvæmdasviðinu án hækkunar gjaldskráa.
Opnuviðtalið bar þessa fyrirsögn:
"Það er óveðursský yfir Íslandi".
Úrdrátturinn hljóðaði þannig:
"Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir hagkerfið á krossgötum. Ef ekki verður gripið til aðgerða, sé hætta á stöðnun í verðmætasköpuninni. Bezta leiðin til að snúa vörn í sókn sé að styrkja samkeppnishæfni landsins og ráðast í uppbyggingu innviða."
Sigurður ræddi um orkuverðið út frá hagsmunum iðnaðarins, en ítreka ber, að hátt orkuverð skerðir samkeppnishæfni alls athafnalífs, og það er útilokað, að íslenzkt atvinnulíf verði samkeppnishæft við evrópskt atvinnulíf með hærra einingarverð rafmagns í heild (raforka, flutningur, dreifing) en virðist nú vera við lýði t.d. í Noregi, Danmörku og Hollandi (ylrækt), að teknu tilliti til niðurgreiðslna í þessum EES-löndum.
Undir fyrirsögninni:
"Orkuverð skerðir samkeppnishæfni",
gaf þetta á að líta:
"Sigurður telur rétt, í samhengi við, að blikur séu á lofti í hagkerfinu, að víkja að áhrifum raforkuverðsins á iðnaðinn:
"Orkusækinn iðnaður hefur skipt miklu máli fyrir hagkerfið. Það var pólitísk ákvörðun á 7. áratugnum að stofna Landsvirkjun, ráðast í uppbyggingu slíks iðnaðar og fá stóra viðskiptavini til landsins. Þessi uppbygging á mikinn þátt í, að lífskjör hér á landi eru jafngóð og raun ber vitni", segir Sigurður. Máli sínu til stuðnings vísar hann til þeirrar niðurstöðu SI, að framlag álframleiðslu til verðmætasköpunar í hagkerfinu nemi um mrdISK 1150 frá gangsetningu álversins í Straumsvík 1969, eða sem samsvari um 40 % af [núverandi] landsframleiðslu [á ári]."
""Þetta hefur því verið vel heppnuð vegferð og skilað þjóðarbúinu miklum verðmætum. Á síðustu árum hafa gagnaver orðið mikilvægur kaupandi raforku. Það er hins vegar engin keðja sterkari en veikasti hlekkurinn, og það á líka við um virðiskeðjuna. Þótt einn hlekkur í keðjunni hámarki sinn styrk, dugar það skammt, ef aðrir hlekkir eru við það að liðast í sundur", segir Sigurður og vísar til hámörkunar á arðgreiðslugetu Landsvirkjunar."
Frá sjónarmiði ríkisins, sem á Landsvirkjun, er það beinlínis óskynsamleg og óhagstæð stefna, sem tekin var upp hjá Landsvirkjun árið 2010 án umræðu á Alþingi, að stórhækka verð á afurð fyrirtækisins, sem eru aðföng þeirra fyrirtækja, sem verðmæti skapa úr orkunni. Þjóðhagslega er hagkvæmara að skapa grundvöll fyrir samkeppnishæfri framleiðslu í landinu með því að vinna upp það óhagræði, sem felst í framleiðslu á Íslandi miðað við hagstæðustu staðsetningar í Evrópu. Ísland á ekki að verða hráefnisland, heldur framleiðslu- og úrvinnsluland, sem hámarkar verðmætasköpunina. Það verður þegar í stað að móta orkufyrirtækjunum þessa eigendastefnu, sem þýðir, að verðlagning raforkunnar ætti að vera sveigjanleg og háð skráðu markaðsverði á afurðum útflutningsfyrirtækja í hópi viðskiptavinanna.
"Lengi vel tryggði orkuverðið hér á landi samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar. Þróunin undanfarinn áratug er hins vegar sú, að orkuverðið hér hefur hækkað á sama tíma og orkuverð erlendis hefur heldur lækkað. Þannig að samkeppnishæfnin er ekki sú, sem hún var. Nú má auðvitað deila um, hvort bilið í orkuverðinu milli landa var allt of mikið, en þetta er í öllu falli staðan núna."
Í upphafi var raforkuverðið ákvarðað þannig, að það stæði undir kostnaði við Búrfellsvirkjun, sem var afar hagstæð, og 220 kV línur frá henni til þéttbýlisins á SV-landi (höfuðborgarsvæðinu) ásamt gasolíuknúinni neyðarrafstöð í Straumsvík, sem einnig þjónaði höfuðborgarsvæðinu fyrst í stað. Þetta var gert til að draga hingað fjárfesta í orkukræfum iðnaði. Síðan var nokkrum sinnum samið um hækkun raforkuverðs til fyrstu verksmiðjanna í Straumsvík og á Grundartanga, og var það ætíð í góðu samkomulagi á milli aðila, enda hafði afhendingaröryggið og þar með gæði raforkunnar tekið stakkaskiptum frá sokkabandsárum Búrfellsvirkjunar.
Samkomulag var um, að raforkuverð til álveranna tæki mið af skráðum alþjóðlegum markaðsverðum áls. Með því vannst, að álverin mundu geta haldið áfram fullri framleiðslu, þótt í móti blési á mörkuðum, og þyrftu hvorki að fækka starfsmönnum né að draga úr orkukaupum sínum. Þegar kom að gerð nýs raforkusamnings 2010 við ISAL, var hins vegar komið annað hljóð í strokkinn hjá Landsvirkjun, sem heimtaði afnám verðtengingar við álmarkaðina, en hins vegar aðra vísitölutengingu, sem er óskyld afkomu bæði álframleiðenda og orkuvinnslufyrirtækja. Þetta reyndist illa, en fjárfestir í álveri er landfræðilega bundinn sinni fjárfestingu, og á þess vegna óhægt um vik, nema verksmiðjan sé talin afskrifuð. Svo háttar ekki til í Straumsvík. Á afarkosti Landsvirkjunar var fallizt, en þegar markaðsaðstæður þróast á verri veg, eins og raunin hefur orðið vegna feiknarlegrar aukningar á framleiðslugetu Kínverja á áli, þá dregur slíkt dilk á eftir sér.
Það mætti hugsa sér aðra og fjölbreytilegri tengingu raforkuverðs til stórnotenda við alþjóðlegar vísitölur, sem varða bæði viðskiptavininn og birginn, t.d. að hluti raforkuverðsins verði tengdur alþjóðlegri vísitölu afurðaverðsins og hluti við alþjóðlega vísitölu orkuverðs, t.d. olíuverðs, en vitað er, að fylgni er á milli raforkuverðs í heiminum og olíuverðs. Við slíkt ættu aðilar beggja vegna borðs að geta sætt sig í bráð og lengd.
"Hyggjast samtök iðnaðarins beita sér fyrir því, að orkuverðið lækki ? "Nei, það gerum við ekki, en við erum að segja, að við verðum að vera samkeppnishæf á öllum sviðum. Það yrði auðvitað áfall, ef kaupendur að orkunni myndu frekar sjá sér hag í því að hætta starfsemi hér á landi en að halda henni áfram. Áhrifin af því yrðu mikil", segir Sigurður. Telur hann raunhæfar líkur á, að stórnotendur raforku hætti starfsemi hér á landi á næstu árum."
SI er auðvitað ekki samningsaðili, en mjög mikilvægur ráðgjafi fyrir félaga sína og stjórnvöld. Það hljóta að blikka rauð ljós núna á skrifstofu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðar- og orkuráðherra m.m., þegar framkvæmdastjóri SI telur raunverulega hættu á, að hluti orkukræfrar starfsemi hérlendis, sem Sjálfstæðisflokkurinn barðist farsællega fyrir að fá til landsins á sinni tíð, leggi senn upp laupana.
"Ég verð að segja það hreint út, að ég er mjög ósammála þeim málflutningi Landsvirkjunar, að orkuverð hér á landi sé mjög samkeppnishæft á sama tíma og stórir viðskiptavinir félagsins eru annaðhvort að draga úr framleiðslu eða kjósa að byggja upp starfsemi í öðrum löndum. Viðbrögð fyrirtækjanna styðja ekki þennan málflutning Landsvirkjunar, sem vísar alltaf til meðalverðs á raforku. En eins og réttilega hefur verið bent á, stendur engum til boða að kaupa á meðalverðinu. Það er eðli slíkra meðaltala, að í þýðinu eru sumar tölur hærri og aðrar lægri."
[Undirstr. BJo.]
Dr Sigurður Hannesson fer ekki með neitt fleipur. Orð hans tala skýru máli um það, að Landsvirkjun hefur neytt einokunaraðstöðu sinnar í samningum um raforkuviðskipti við fyrirtæki með útrunna stórsamninga og farið offari í verðlagningu á afurð náttúruauðlinda Íslands, þótt sanngirnissjónarmið og heilbrigð skynsemi standi til að gæta meðalhófs með atvinnuöryggi og gjaldeyrissköpun að leiðarljósi. Ríkisstjórnin verður að hrista af sér hlekkina og leiðrétta þetta villuráf Landsvirkjunar, og Alþingi, þar sem fulltrúar eigendanna sitja, þarf að ýta henni til verka. Það verður einfaldlega síðan að sjá til, hvort Landsreglarinn gerir einhverjar athugasemdir við þá framgöngu í nafni ACER (Orkustofnunar ESB). Það er þó enginn að ætlast til niðurgreiðslna af hálfu ríkisins á raforkuverðinu, enda samrýmist slíkt engan veginn samkeppnisreglum Innri markaðar EES.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2020 | 14:49
Bölmóður "Besserwisser"
Það er stórfurðuleg fullyrðingagirni, sem gætir hjá sumum "beturvitum", um atvinnustarfsemi, sem þeim virðist vera mjög mjög í nöp við, en hafa þó sáralítið vit á. Á þetta benti skarpur, en þó ekki óskeikull (frekar en aðrir), pistilhöfundur Viðskiptablaðsins, Óðinn, 31. október 30. janúar 2020, í pistlinum:
"Bölmóður spámaður, álskallinn & orkubúskapur".
Upphaf pistilsins gaf tóninn:
"Óðinn undrast það reglulega, hve sumir þeir, sem búa á þessari litlu, afskekktu eyju [svo ?], eru iðnir við að tala hagsmuni fólksins í landinu niður. Veitir eyjarskeggjum þó varla af uppörvun nú eða bara áminningu um staðreyndir málsins: að landið er fagurt og frítt, þjóðin hugmyndarík og harðdugleg og að hún hefur náð einstæðum árangri við að þrífast, eflast og að auðga mannlífið þrátt fyrir fásinnið, erfið búsetuskilyrði og óblíð náttúruöfl.
Það hefur ekki sízt gerzt með aukinni, en ábyrgri nýtingu náttúrugæða landsins, sem vísindi og verkþekking hafa á innan við einni og hálfri öld fært Íslendinga úr hópi fátækustu þjóða í röð þeirra, þar sem almenn velmegun er mest í heimi."
Þarna kemst Óðinn á skáldlegt flug, en sannleikurinn er sá, að úrtölumenn framfaranna hafa á öllum tímum reynt að láta að sér kveða, en undir mismunandi formerkjum og í ólíkum gæruskinnum. Eftir fólksflutningana miklu úr sveitum landsins og "á mölina" á sjö fyrstu áratugum 20. aldarinnar, skapaðist atvinnupólitískur grundvöllur fyrir því að stofna til stóriðnaðar í grennd við þéttbýli, sem knúinn væri af virkjaðri orku vatnsfalla. Landsmenn höfðu hins vegar hvorki næga þekkingu þá né fjárhagslegt bolmagn til að reisa slík mannvirki, og erfitt reyndist að finna fúsa áhættufjárfesta til að ríða á vaðið.
Viðreisnarstjórninni undir forystu dr Bjarna Benediktssonar og Jóhanns Hafstein tókst þetta samt á tímabilinu 1960-1966, en mættu þó feiknarlegu pólitísku moldviðri þeirra, sem töldu eða létu sem erlendar fjárfestingar væru tilræði við sjálfstæði landsmanna. Þessi áróður var runninn undan rifjum kommúnista, sem skildu ekki, að landsmenn þurftu á að halda erlendu fjármagni og þekkingu fyrir sjálfbæra verðmætasköpun og að hún er undirstaða fjárhagslegs og þar með pólitísks sjálfstæðis landsins.
Nú hefur landsmönnum vaxið fiskur um hrygg, og þeir eru fyrir löngu færir um að hanna og reisa sjálfbærar virkjanir á eigin spýtur og að reka stóriðnað í fremstu röð, og íslenzka ríkið hefur jafnvel bolmagn til að eignast meirihluta í fyrirtæki um stóriðjurekstur á borð við Norsk Hydro, eins og norska ríkið, en það er hins vegar ekki minnsta vitglóra í að festa skattfé í svo áhættusömum rekstri. Þess vegna var upprunaleg stefnumörkun ríkisins um að hafa öruggar tekjur af raforkusölu til stóriðjunnar ásamt skatttekjum af viðkomandi fyrirtækjum og starfsmönnum, hvernig sem kaupin gerðust á eyrinni með afurðir hennar, hárrétt.
Nú eru hins vegar komin fram á sjónarsviðið þjóðfélagsöfl, sem setja sig upp á móti nánast öllum framkvæmdum í landinu, sem tengjast frekari orkunýtingu og jafnvel bráðnauðsynlegum endurbótum á núverandi flutningskerfi raforku á milli landshluta. Áfram er þessi barátta háð á hugmyndafræðilegum grunni, en nú algerlega laus við atvinnupólitíska skírskotun eða vísun til sjálfstæðis þjóðarinnar, eins og voru ær og kýr kommúnistanna "í den", heldur er nú hamrað á útliti og meintu skaðlegu inngripi í náttúruna. Málflutningurinn einkennist af tilfinningaþrungnum frösum um náttúruvernd, eins og "náttúran á að njóta vafans", þótt náttúran sjálf sé mesti mögulegi breytingavaldurinn í íslenzku umhverfi, og maðurinn léttvægur í því tilliti, eins og dæmin sanna.
Hér þarf auðvitað að koma að almennri skynsemi og láta ákvarðanatöku fara fram á grundvelli fjárhagslegs mats á kostum og göllum, þar sem fórnarkostnaður náttúru er metinn á móti tekjum af mannvirkjum og tjóni af að láta vera að framkvæma.
"Einmitt til þess [að halda öfgakenndum náttúruverndarsjónarmiðum á lofti- innsk. BJo] var Bölmóður spámaður tekinn tali í Silfrinu á dögunum, en þar var kominn Tómas Guðbjartsson læknir, Lækna-Tómas sjálfur. Sá sparaði ekki stóru orðin og sagði, að álverið í Straumsvík væri í líknandi meðferð, eins og þar væri dauðvona sjúklingur, en það líkingamál af eigin starfsvettvangi notaði hann vafalaust, til þess að enginn efaðist um, að hann vissi um, hvað hann væri að tala."
Bölmóður þessi í læknislíki lætur ósnotrar tilfinningar sínar í ljós í garð starfseminnar í Straumsvík, þegar hann hrapar illilega að niðurstöðu sjúkdómsgreiningar sinnar á ISAL. Innyfli fyrirtækisins eru nefnilega í góðu lagi og að töluverðu leyti aðeins um 8 ára gömul vegna mikilla fjárfestinga Rio Tinto í Straumsvík í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2008, þegar Íslendingar þurftu einmitt mest á fjárfestingum í atvinnustarfsemi að halda. Aðföngin eru hins vegar of dýr m.v. afurðaverðið, en það stendur til bóta, þar sem verð á súráli og kolum er að þokast niður. Raforkuverðið er hins vegar hið hæsta á Norðurlöndunum til sambærilegrar starfsemi, enda t.d. niðurgreitt af ríkissjóði í Noregi til að viðhalda starfsemi stóriðju í dreifðum byggðum Noregs. Er út af fyrir sig einkennilegt, að Samkeppniseftirlitið í Noregi eða ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, skuli ekki opinberlega fetta fingur út í slíka ríkisaðstoð á Innri markaði EES. Ef ISAL er líkami, eins og Tómas, læknir, stillir upp, má líkja raforkuverðinu við blóðtöku, sem ekki gengur lengur, enda raforkukostnaður tæplega 30 % af tekjum fyrirtækisins. Enginn aðili í landinu er tilbúinn að kaupa orkuna, sem ISAL nú notar, eða drjúgan hluta hennar, á viðlíka skilmálum og ISAL má búa við, enda er það langhæsta verðið til áliðnaðarins í landinu og sennilega á Norðurlöndunum. Verðið er þess vegna gjörsamlega ósamkeppnishæft. Samningurinn er óviðunandi og að alþjóðarétti á Rio Tinto þá rétt á endurupptöku samningsins, enda eru forsendur um verðþróun á afurð ISAL brostnar. Ef Landsvirkjun þrjózkast við að semja, verður ISAL lýst gjaldþrota og Rio Tinto mun krefjast þess fyrir rétti með vísun til misbeytingar Landsvirkjunar á einokunarstöðu sinni að losna undan orkukaupskyldu raforkusamningsins. Hér er um leiftursókn stjórnar Rio Tinto að ræða áður en Landsvirkjun gefst kostur á að sýna fram á, að hún hafi aðra viðskiptavini fyrir umrædda orku við fjarlægan enda aflsæstrengs.
Ofangreind ummæli Tómasar, læknis, eru þýðingarlítil í þessu samhengi, en þau eru hins vegar ósmekkleg og bera vott um ótrúlega meinfýsi, sem jaðra við illgirni. Um þau hafði formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, Ágúst Bjarni Garðarsson, eftirfarandi orð á bls. 39 í Morgunblaðinu, 6. febrúar 2020:
"Nýlega sagði Tómas Guðbjartsson, læknir, álverið í Straumsvík vera dauðvona og á líknandi meðferð. Það er dapurlegt að skynja þau viðhorf, sem fram koma í ummælum læknisins til þessa stóra vinnustaðar í landinu og þeirra einstaklinga, sem þar starfa. Í álverinu í Straumsvík starfa um 400 starfsmenn með ólíka menntun og reynslu ásamt því, að álverið er einn stærsti útflytjandi vara frá Íslandi. Það gefur því augaleið, að fyrirtækið er samfélaginu mikilvægt og er eitt af okkar góðu og traustu fyrirtækjum. Málflutningur sem þessi er því óásættanlegur og í raun með öllu óboðlegur."
Það fer ekki á milli mála eftir þennan lestur, að Tómas, læknir, Guðbjartsson, hefur unnið málstað virkjana- og iðnaðarfénda eftirminnilegt tjón með málflutningi sínum.
Téður Bölmóður beitti þó ýmsum áróðursbrögðum í þessum Silfursþætti til að vekja samúð með málflutningi sínum, sem er samt eins loftslagsfjandsamlegur og hugsazt getur. Reyndi hann m.a. að líkja alræmdum fjandskap sínum í garð umhverfisvænstu raforkuvinnslu á jörðunni við baráttu Íslendinga fyrir alþjóðlegri viðurkenningu á 200 mílna lögsögu sinni í kringum Ísland. Þessi samanburður var algerlega út í hött hjá lækninum. Þar voru Íslendingar að berjast fyrir efnahagslegri tilveru sinni, en Bölmóður Besserwisser berst hins vegar gegn því, að orkulindir landsins séu nýttar með aðferðum beztu tækni hvers tíma til að skapa vinnu í landinu og gjaldeyri til að viðhalda jákvæðum viðskiptajöfnuði við útlönd. Áfram með Óðin:
"Íslendingar framleiða ál með endurnýjanlegri og hreinni orku, mestmegnis frá vatnsaflsvirkjunum. Kínverjar framleiða 87 % af áli sínu með kolabruna. Það felst því gríðarlegur tvískinnungur í því að segjast vera umhverfisverndarsinni og vera á móti álverum á Íslandi. Kallar raunar annaðhvort á einbeittan brotavilja eða fádæma vanþekkingu. Því [að] þó að það kunni að vera hægt að halda smitsjúkdómum í skefjum með landamæravörðum, þá virðir mengunin engin landamæri."
Óskir Bölmóðs Besserwissers um, að allar frekari virkjanaframkvæmdir í landinu verði stöðvaðar, eru ósanngjarnar, óraunhæfar og taka ekkert tillit til þess, sem um þessar mundir er kölluð mesta umhverfisvá jarðar; hættan á óviðráðanlegri hlýnun af völdum koltvíildis í andrúmsloftinu. Þessar óskir eru ósanngjarnar vegna þess, að þær vinna gegn eðlilegri þróun verkmenningar og atvinnulífs í landinu, sem fjöldi manns mun hafa lífsviðurværi sitt af og er eitt helzta skattaandlagið til tekjuöflunar fyrir sífellt dýrara heilbrigðiskerfi og annarrar samfélagslegrar þjónustustarfsemi. Óskirnar um að stöðva þessa þróun eru óraunhæfar vegna þeirra gríðarlegu viðbótar verðmæta, sem nýjar virkjanir geta skapað. Þá hefur fólksfjölgun í landinu í för með sér aukna orkuþörf, og orkuskipti á landi, legi og í lofti eru ekki möguleg án nýrra virkjana.
Ávinningur og fórnarkostnaður af virkjunum endurnýjanlegrar orku er hins vegar misjafn. Vítt og breitt um heiminn hafa þjóðir veitt háum fjárhæðum til að niðurgreiða raforku frá vindmyllum og sólarhlöðum vegna þess, að þær hafa ekki í önnur hús að venda með endurnýjanlega orku. Ríkisstjórnir hafa jafnvel niðurgreitt raforkuverð til stóriðju á byggðapólitískum eða þjóðhagslegum grunni.
Hérlendis hefur slíkt sem betur fer ekki komið til tals, en hins vegar hafa ýmsir uppi áform um að reisa vindmyllugarða, sem tengdir yrðu inn á stofnkerfi raforku. Hár fórnarkostnaður fylgir þó vindmyllum. Landnýting þeirra er léleg, mæld í MWh/ár/km2, í samanburði við hefðbundnar íslenzkar virkjanir á fallorku vatns og jarðgufu. Þetta þýðir, að vindmyllugarðar þurfa tiltölulega mikið land og vegna hæðar sinnar sjást þeir mjög víða að. Þeir eru til lýta langt að. Frá vindmyllum stafar skaðlegur hvinur á lágum tíðnum, og fuglum er hætta búin af spöðum á miklum hraða (spaðaendar).
Á Íslandi er ekki sambærileg þörf á að taka á sig þennan fórnarkostnað og víða erlendis, af því að enn er nóg af virkjanakostum endurnýjanlegrar orku í landinu með lægri fórnarkostnað í ISK/MWh/ár en vindmyllugarðar. Þess vegna er áhugi fyrir vindmyllugörðum á Íslandi ótímabær, og kannski verða þær aldrei réttlætanlegar. Það eru þó helzt íbúar í grennd við fyrirhugaða vindmyllugarða, t.d. á Hróðnýjarstöðum við Hvammsfjörð, sem látið hafa andstöðu sína opinberlega í ljós. Á þessu vefsetri hefur verið bent á tiltölulega stórt kolefnisspor uppsettra vindmyllna.
"Tómas sagði í pistli sínum, að ef álverið hætti starfsemi, gæti "Landsvirkjun beitt sér fyrir sölu á raforku til annarrar og uppbyggilegri starfsemi, t.d. grænmetisbænda, og flýtt fyrir rafvæðingu bíla og skipaflotans".
Þetta er aumkvunarverður málflutningur hjá Bölmóði Besserwisser. Á Landsvirkjun að mismuna viðskiptavinum og flokka þá eftir því, hvort þeir stunda "uppbyggilegri starfsemi" en álver eða ekki ? Reyndar hefur Bölmóður sjálfur gefið þarna forskriftina. Það er misskilningur hjá honum og dæmigert fyrir "rörsýn", að orkusala Landsvirkjunar eigi að snúast um annaðhvort eða. Hjá Landsvirkjun á valið að vera hvort tveggja. Rafmagnsálag gróðurhúsa getur verið tiltölulega jafnt, a.m.k. lungann úr árinu, og hefur þess vegna svipuðu hagstæðu einkenni og álag álvers fyrir orkuvinnslufyrirtækið. Ef langtímasamningar takast, ætti Landsvirkjun að geta teygt verðlagningu til gróðurhúsa í átt að því, sem gildir um álverin. Orkunotkun meðalstórs gróðurhúss er hins vegar innan við 0,7 % af orkunotkun minnsta álversins á Íslandi á ári. Gróðurhúsabændur gætu e.t.v. haft samflot um orkusamninga, ef Samkeppnisstofnun leyfir slíkt, en það er varla hægt að bera saman orkusölu til gróðurhúsa og álvera vegna stærðarmunar á samningum.
Það er enn fráleitara að stilla álveri og orkuskiptum bíla- og skipaflotans upp sem valkostum, hvorum gegn öðrum, og tæknin fyrir rafvæðingu alls skipaflotans er enn ekki fyrir hendi. Það er mjög óheilbrigt, þegar læknir fer að bölsótast út í tiltekna atvinnustarfsemi og leggja eitthvað til í staðinn, þegar hvorugur kostanna útilokar hinn. Því miður veður læknirinn á súðum, þegar kemur að umfjöllun um virkjanir og iðnaðarmál. Vonandi heldur hann samt ótrauður áfram að tjá sig, því að hann er duglegur við að varpa ljósi á, hversu lítið ofstækisfullir náttúruverndarsinnar hafa til síns máls.
Óðinn bendir svo á aðra hlið þessa máls, sem eru gróðurhúsaáhrifin, ef farið yrði að tillögu læknisins:
"En hvort ætli skili meiri árangri í minnkun útblásturs að rafvæða íslenzkan bílaflota eða nota endurnýjanlega orkugjafa við framleiðslu áls í heiminum. Svarið er auðvitað augljóst hverjum þeim, sem hugsar um það eitt augnablik."
Allir bölmóðar og "Besserwisserar" þurfa að fara að gera sér grein fyrir því, að þegar meta á, hvort virkja á eða vernda, og einnig, þegar ákveða á til hvers á að nota hina endurnýjanlegu orku, þá verður nú á dögum að taka áhrif orkunýtingarinnar á koltvíildisstyrk andrúmslofts jarðar með í reikninginn. Það virðist hafa farið framhjá "Lækna-Tómasi" í öllum bægslaganginum.
Síðan kemur ályktun Óðins af þessari fremur lágreistu orkumálaumræðu; umræðu, sem fremur sorglegt er, að þurfi að fara fram árið 2020, því að hún er af svipuðum rótum runnin og orkumálaumræðan fyrir 55 árum, þ.e. frá afturhaldinu í landinu:
"Mergurinn málsins er sá, að hér er ekki um annaðhvort eða að ræða. Ekkert er því til fyrirstöðu, að raforka verði nýtt í auknum mæli innanlands til þess að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi, líka til þess að rækta banana fyrir lýðveldið, en að áfram leggi Íslendingar sitt af mörkum til þess að framleiða ál með umhverfisvænum hætti og minnki fyrir vikið losun gróðurhúsalofttegunda."
Við þetta má bæta, því sem er ekki á allra vitorði, að rafgreining súráls fer í íslenzku álverunum fram með fast að því tæknilega mögulegri lágmarksmyndun CO2 og algengt er, að í öðrum álverum verði til a.m.k. tvöfalt lágmarksmagn koltvíildis við framleiðslu hvers áltonns. Þetta stafar af því, að íslenzku verksmiðjurnar hafa náð mjög góðum tæknilegum tökum á rekstrinum við venjulegar aðstæður.
7.2.2020 | 14:45
Mistök við verðlagningu orku
Kostnaður raforkuvinnslu á Íslandi er að yfirgnæfandi hluta fjármagnskostnaður, og þess vegna er hægt að áætla hann með góðri nákvæmni langt fram í tímann. Með því að gera langtímasamninga um orkusölu frá íslenzkum virkjunum er hægt að fjármagna þær með lítilli áhættu. Það þýðir, að þessi verkefni falla í einna lægsta vaxtaflokkinn hjá lánastofnunum. Vegna þess að framleiðsluháður kostnaður þessara virkjana er tiltölulega mjög lágur, er hagkvæmast að reka virkjanirnar stöðugt á sem næst fullu álagi. Þetta er einmitt Akkilesarhæll vindorkuveranna.
Þessi kostnaðaruppbygging hefðbundinna íslenzkra orkuvera, vatnsafls- og gufuaflsvera, hefur auðvitað áhrif á það, hvernig hagkvæmast er fyrir virkjunareiganda að semja um orkusöluna. Í henni þarf að vera hvati til kaupenda til að halda uppi stöðugu álagi og helzt sem næst stöðugu hámarksálagi, hvað sem í skerst á mörkuðum viðskiptavina orkuveranna. M.ö.o. að þessir viðskiptavinir vatnsafls- og gufuaflsvera haldi einna lengst út, þegar á móti blæs á afurðamörkuðum viðskiptavinanna. Á þessu hefur Landsvirkjun flaskað frá 2010, er upprunalegi rafmagnssamningurinn frá 1966 við Alusuisse, með mörgum viðbótum, var endurnýjaður, þar sem gildistími hans var að renna út.
Álmarkaðurinn 2019 var lélegri en árið áður, og enn eru engin handföst batamerki komin í ljós. Markaðurinn hefur þróazt til verri vegar en menn grunaði 2010. Afleiðingin er sú, að ISAL neyðist til að halda framleiðslu sinni 2020 við lágmarkið, sem ákvarðast af kaupskyldu raforkusamningsins, til að draga úr rekstrartapinu. Hin tvö álverin á Íslandi sjá ekki ástæðu til að feta sömu slóð, enda búa þau við umtalsvert lægra raforkuverð samkvæmt eldri samningum. Segir þetta ólíka hátterni sína sögu um áhrif raforkuverðsins á ákvarðanatöku og á afkomuna. Að flíka síðan meðalverðinu og fullyrða, að það sé samkeppnishæft, er ekki lausnarmiðuð nálgun vandamálsins, en Landsvirkjun stingur í hausnum í sandinn og lætur sig hafa þann málflutning.
Nú berast loksins einhver tíðindi ofan úr orku- og iðnaðarráðuneytinu í tilefni af þessu og var ekki vonum fyrr. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefur nú ákveðið að komast til botns í þessu máli og hefur fengið til þess erlendan aðila, sennilega af því að hún treystir því ekki, að rannsókn innlendra aðila, sem þónokkrir gætu leyst þetta verkefni, yrði óvilhöll. Allt er undir því komið, hvernig verklýsing ráðherrans er. Til að komast til botns í því máli, hvort summa orkuverðs, flutningsgjalds og opinberra gjalda á rafmagnið til íslenzkra fyrirtækja með langtímasamninga við íslenzka orkubirgja sé samkeppnishæft, verður að taka alla kostnaðarþætti viðskiptavina þeirra með í reikninginn. Að hrapa að niðurstöðu í þessu máli er verra en að láta vera að rannsaka málið. Hætt er við, að rannsóknin verði æði yfirgripsmikil og dragist á langinn, nema hún sé í upphafi einskorðuð við þann viðskiptavin, sem þyngstar ber byrðarnar af völdum raforkukaupa í þessum hópi, reiknað í USD/MWh.
Nú berast fregnir af því, að viðskiptavinir íslenzks gagnaversfyrirtækis hafi séð sér þann kost vænstan að lækka hjá sér rekstrarkostnað með því að draga úr rafmagnsálaginu. Ber þá allt að sama brunni. Raforkubirgjar á Íslandi fara villur vegar um það, hvað er samkeppnishæft raforkuverð til meðalstórra og stórra raforkunotenda á Íslandi. Þegar þessi mál eru vegin og metin, blasir við, að Landsvirkjun sem langstærsti orkusali landsins á heildsölumarkaði hefur yfirverðlagt afurð íslenzkra orkulinda við gerð nýrra orkusamninga og sérstaklega við endurnýjun gamalla og heldur uppteknum hætti með þeim alvarlegu afleiðingum, sem þessi háttsemi getur haft og er þegar tekin að hafa fyrir íslenzkt þjóðarbú og atvinnustig í bráð og lengd.
Lesendum til glöggvunar verður nú vitnað til fréttar í Markaði Fréttablaðsins, 30. janúar 2020:
"Minnkandi orkukaup í gagnaverum":
""Í okkar tilviki hefur notkun dregizt saman um 10 MW frá því í lok árs 2018 án þess þó, að viðskiptavinum hafi fækkað eða að nýting á plássi sé lakari hjá okkur. Það er ekki ákvörðun, sem Advania Data Centers tekur, heldur hafa viðskiptavinir, sem leigja hjá okkur aðstöðu, ákveðið að draga úr raforkunotkun sinni", segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri Advania Data Centers, í samtali við Fréttablaðið."
Hér er um viðskiptavini að ræða, sem valið geta auðveldlega um orkubirgja, því að það er samkeppni á milli birgjanna í ólíkum löndum um að fá þá. Þetta er ekki eins og með álverseigendurna, sem hafa fjárfest gríðarlega í starfsemi sinni hér, og flutningur er óraunhæfur.
Það fer ekki á milli mála, þegar orkuverð og afkoma viðskiptavina orkubirgjanna eru athuguð, að íslenzkir raforkubirgjar hafa yfirverðlagt sig og þannig glutrað niður sterkri samkeppnisstöðu fyrir klaufaskap og/eða græðgi, sem er farin að koma þeim í koll með minnkuðum sölutekjum. Þetta er algert sjálfskaparvíti, því að auðvitað er vinnslukostnaður raforkunnar ekki hærri hér en á hinum Norðurlöndunum, á Bretlandi eða á Meginlandinu.
Flutnings- og dreifingarkostnaður er þó hærri hér um þessar mundir vegna smæðar, vegalengda og uppskiptingar raforkugeirans samkvæmt orkulöggjöf Evrópusambandsins, ESB, sem innleidd var hér gjörsamlega að óþörfu, enda Ísland ótengt innri orkumarkaði ESB, en vinnslufyrirtækin hefðu þó getað tekið tillit til þessa við verðlagningu sína, þótt arðgreiðslur þeirra hefðu þá vissulega minnkað. Hér er um dæmigerð mistök birgja á samkeppnismarkaði í verðlagningu að ræða. Verktakar, sem svona haga sér, missa strax viðskipti og detta að lokum út af markaðinum. Að hinu öfluga ríkisfyrirtæki Landsvirkjun skuli verða á þessi fingurbrjótur, vitnar um alvarlega gloppu í stjórnkerfi þess og meinloku forstjóra og stjórnar fyrirtækisins.
"Fyrirtækið vinnur nú að uppbyggingu nýs gagnavers í hátæknigarði í Kista-hverfinu í Stokkhólmi. Gagnaverið er það fyrsta, sem Advania Data Centers reisir erlendis, en fyrir eru gagnaver í Hafnarfirði og Reykjanesbæ. Eyjólfur segir ástæðuna fyrir því, að viðskiptavinir séu að draga úr raforkunotkun sinni fyrst og fremst vera hækkandi raforkuverð á Íslandi.
"Þau verð, sem bjóðast á íslenzkum orkumarkaði, hafa verið að hækka og eru orðin of há m.v. okkar helztu samkeppnislönd. Við erum langt frá því að vera samkeppnishæf við Norðurlöndin. Allir stórnotendur ættu að finna fyrir því í sjálfu sér", segir Eyjólfur og bendir á, að orkuverð í miðborg Stokkhólms sé um 20 % lægra en það, sem fyrirtækinu bjóðist á Íslandi."
Það eru slæm tíðindi fyrir Íslendinga, að raforkuverð til stórnotenda í minni kantinum sé jafnvel yfir 20 % hærra á Íslandi en í miðborg Stokkhólms. Þetta sýnir í hnotskurn alvarlegar afleiðingar af áherzlu forstjóra Landsvirkjunar á gróða fyrirtækisins og arðgreiðslur, og að hún er kolröng, því að verðlagning hinnar markaðsráðandi Landsvirkjunar er farin að fæla viðskiptavini frá landinu og er á leiðinni að flæma gamla viðskiptavini á brott. Stjórnir Landsvirkjunar frá 2010 hafa búið sér þessa stefnu, en eigandinn hefur aldrei mótað þessa stefnu og mótaði í upphafi aðra og miklu víðsýnni stefnu til heilla fyrir atvinnulíf landsins.
Gorgeir forstjórans um, að Landsvirkjun muni á næstu árum geta greitt arð í ríkissjóð upp á 10-20 mrdISK/ár er innistæðulaus og ósjálfbær, af því að hann hefur algerlega misreiknað þróun raforkuverðs í nágrannalöndum okkar. Þetta ríkisfyrirtæki, sem hefur markaðsráðandi stöðu á Íslandi, grefur nú undan hagsæld landsmanna með minnkandi orkusölu í stað þess að skjóta undir hana traustum stoðum, eins og það gerði á sínum fyrstu 45 árum. Er þetta ekki einnar messu virði á Alþingi og í ríkisstjórn ?
"Almennt séð er mikil eftirspurn eftir raforku, en það er aftur á móti minni eftirspurn eftir raforku á þeim verðum, sem hafa verið að bjóðast á Íslandi. Gagnaversmarkaðurinn er að vaxa ævintýralega í löndum á borð við Noreg og Svíþjóð, en vöxturinn hefur ekki verið eins mikill á Íslandi. Það eru einfaldar ástæður fyrir því, og ein af þeim er hátt raforkuverð."
Á upphafsárum Landsvirkjunar var haldgóð þekking í fyrirtækinu um það, hvernig raunhæft væri að efla fyrirtækið með samkeppnishæfri verðlagningu raforku frá fyrirtækinu. Neðri mörk verðsins eru að sjálfsögðu s.k. kostnaðarverð, þar sem reiknað er með ávöxtun fjárfestinga til verkefna með mjög litla áhættu. Efri mörkin eru raforkuverð í öðrum löndum, sem sækjast eftir viðkomandi starfsemi, að frádregnu óhagræði og viðbótar áhættu og kostnaði samfara staðsetningu á Íslandi, reiknað á hverja kWh umsaminnar orku. Í upphafi var þessi frádráttarliður stór, því að Íslendingar og Ísland voru óskrifað blað í augum erlendra fjárfesta, og þar af leiðandi var Ísland land mikillar áhættu.
Síðan er mikið vatn runnið til sjávar, en samt eru enn viðbótar kostnaðarliðir, t.d. vegna fjarlægðar frá mörkuðum, sem verður að taka tillit til við verðlagningu raforku hér, ef á að freista fjárfesta til að stofna til og viðhalda atvinnustarfsemi hér. Bæði er, að tekinn hefur verið rangur póll í hæðina um þróun raforkuverðs ytra, og frádráttarliðirnir vanmetnir.
"Eyjólfur segir, að það sé umtalsverður munur á kostnaði við flutning og dreifingu á raforku á Íslandi samanborið við Noreg og Svíþjóð, sem leiðir til þess, að heildarorkukostnaður verði umtalsvert lægri í þessum löndum samanborið við Ísland. Auk þess sé í umfjöllun um orkuverð á Íslandi oft dregin upp villandi mynd samanber það, sem kom fram á kynningarfundi Landsvirkjunar nýlega.
"Þar var verið að bera saman verð á stundarmörkuðum (spot) á Norðurlöndum og meðalverð í raforkusamningum, sem gerðir eru til margra ára og jafnvel áratuga. Raunin er hins vegar sú, að það meðalverð er eitthvert verð, sem enginn getur keypt á og er langt undir þeim verðum, sem okkur og öðrum nýlegum stórnotendum bjóðast.""
Hér er blekkingastarfsemi Landsvirkjunar um boðin orkuverð afhjúpuð. Meðalverðið er ekki í boði, heldur virðist jaðarkostnaðarverð með hárri ávöxtunarkröfu vera lagt til grundvallar bæði til nýrra viðskiptavina og gamalgróinna, þar sem komið er að endurnýjun samninga.
Hér gætir áhrifa frá löggjöf Evrópusambandsins, ESB, s.k. orkupökkum, en fyrsta innleiðingin átti sér stað hérlendis 2003 og sú seinasta 2019. Þar er einmitt kveðið á um aðgreiningu orkuvinnslu, flutnings og dreifingar, og síðan þá hefur heildarorkuverðið hækkað verulega vegna fjármögnunar Landsnets með gjaldskrá sinni, en áður rann fé frá raforkuvinnslunni til uppbyggingar flutningskerfis og dreifiveitna. Nú er í staðinn greiddur arður út úr orkuvinnslufyrirtækjunum til eigenda, og þannig er fé tekið út úr greininni, sem auðvitað hefur sín áhrif á verðlagninguna. Snúa þarf af þeirri braut, hugsanlega með sjóðsstofnun fyrir þennan arð, sem síðan veiti styrktarfé til þess átaks, sem fara þarf í vegna flutningskerfisins (t.d. Byggðalínu) og dreifiveitnanna (afnám loftlína með jarðstrengjum).
Það er reginmisskilningur hjá forstjóra Landsvirkjunar, að íslenzka raforkukerfið sé nú orðið svo burðugt, að hægt sé að taka út úr því stórfé án þess að skaða samkeppnishæfni þess. Hann lét hafa eftirfarandi eftir sér í viðtali við Morgunblaðið 22. janúar 2020:
"Það ræðst auðvitað af fjárfestingarstiginu hjá okkur, hvað fyrirtækið getur greitt í arð. Þær [svo ?] tvöfölduðust á síðasta ári, og þær eiga að geta gert það aftur í ár. Innan eins til tveggja ára geta þessar arðgreiðslur numið 10-20 milljörðum á ári. Ef við ráðumst í stóru verkefnin, sem hér hafa verið nefnd, þá kann það að hafa einhver áhrif, og eins hefur það áhrif, hvernig okkar stærstu viðskiptavinum vegnar á alþjóðamörkuðum. En heilt yfir ætti þessi mynd að geta litið svona út."
Þessi stefna ríkisfyrirtækisins er reist á einokunarstöðu þess um þessar mundir, og hún skilur eftir sig sviðna jörð, eins og hér hefur verið rakið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.1.2020 | 18:28
Öflugt orkukerfi grundvöllur vaxandi verðmætasköpunar
Það er til fyrirmyndar, að kunnáttumenn raforkufyrirtækjanna skrifi greinar í dagblöðin um stefnu þeirra og verkefni í fortíð, nútíð og framtíð, almenningi til glöggvunar á þessum mikilvæga málaflokki, sem snertir hag allra landsmanna. Slíkt hefur Gnýr Guðmundsson, rafmagnsverkfræðingur og yfirmaður greininga hjá Landsneti, tekið sér fyrir hendur meðal annarra, og birtist ágæt grein hans:
"Hvernig bætum við afhendingaröryggi raforku á landsbyggðinni"
í Fréttablaðinu 7. janúar 2020.
Segja má, að tilefnið sé ærið, þ.e.a.s. langvarandi straumleysi á norðanverðu landinu vegna bilana í loftlínum og aðveitustöðvum vegna óveðurs 10.-12. desember 2019.
Gnýr telur lykilatriði að reisa nýja Byggðalínu með meiri flutningsgetu en sú gamla og að hýsa aðveitustöðvarnar. Í þessu skyni ætlar Landsnet að reisa 220 kV línu á stálmöstrum í líkingu við nýju línuna frá Þeistareykjavirkjun að kísilverksmiðjunni á Bakka við Húsavík. Hún þótti standa sig vel í jólaföstuóveðrinu í desember 2019, en þó þurfti að stöðva rekstur hennar í 3 klst til að hreinsa af henni ísingu næst sjónum.
Það var s.k. 10 ára veður á jólaföstunni, og það er ekki ásættanlegt fyrir neytendur, að meginflutningskerfið láti undan óveðri í tugi klukkustunda samfleytt á 10 ára fresti að meðaltali. Engin aðveitustöð í meginflutningskerfinu á að verða straumlaus lengur en 1,0 klst á ári vegna óvænt vegna bilunar.
Á grundvelli margra ára ísingar- og selturannsókna Landsnets ætti fyrirtækið að geta veitt forsögn um hönnun styrkinga fyrir nýju Byggðalínuna, þar sem mest mæðir á vegna ísingar og vinds (samtímis). Einnig er mikilvægt að hagnýta þekkingu á seltustöðum til að auka s.k. skriðlengd ljósboga yfir einangrunarskálarnar með því að velja skálar með stærra yfirborði en hefðbundnar skálar og að fjölga þeim eftir þörfum. Möstrin og þverslárnar þurfa að taka mið af þessu. Fé er ekki vel varið í nýja Byggðalínu, nema hún tryggi viðunandi rekstraröryggi, einnig í 10 ára veðri, en við verðum hins vegar að búast við lengra straumleysi í 50 ára veðri og verra ásamt óvenjulegum jarðskjálftum og eldgosum. Á sumum stöðum (veðravítum) kann þá að vera þörf á hönnun lína m.v. 400 kV rekstrarspennu, eins og reyndar er í 5 220 kV línum á landinu og gefizt hafa vel. Burðarþol og seltuþol þeirra er meira en venjulegra 220 kV lína.
Verður nú vitnað í grein Gnýs:
"Í kerfisáætlun má m.a. finna langtímaáætlun um nýja kynslóð byggðalínu. Hún verður byggð úr stálmöstrum, sambærilegum þeim, sem byggð voru á NA-landi [Þeistareykjalínur-innsk. BJo], sem síður brotna þrátt fyrir ísingu, og mun hafa flutningsgetu, sem fullnægir þörfum landsins næstu áratugina. [Það er mikilvægt, að hægt verði án línutakmarkana að flytja orku á milli landshluta eftir Byggðalínu til að jafna stöðu í miðlunarlónum, því að innrennsli er misskipt í þau frá ári til árs eftir landshlutum - innsk. BJo.]
Þegar verkefninu verður lokið, verða virkjanakjarnar í mismunandi landshlutum samtengdir með fullnægjandi tengingum, og þannig minnka líkur á, að einstök svæði verði rekin í s.k. eyjarekstri og þar með í hættu á að verða fyrir straumleysi við truflun. Einnig mun ný kynslóð byggðalínu gefa nýjum framleiðsluaðilum víða á landinu færi á að tengjast kerfinu og auka þannig skilvirkni og afhendingaröryggi enn frekar."
Með nýjum framleiðsluaðilum á Gnýr sennilega við smávirkjanir og vindmyllugarða, en hængurinn á tengingu þeirra er í mörgum tilvikum hár tengingarkostnaður vegna fjarlægðar. Viðbótar kostnaðurinn lendir á virkjunaraðilum, en samkvæmt Orkupakka #4 á Landsneti.
Það er brýnt að flýta framkvæmdum Landsnets frá því, sem miðað er við í núgildandi kerfisáætlun, þannig að ný 220 kV lína frá Klafastöðum (Brennimel í Hvalfirði) til Fljótsdalsvirkjunar verði tilbúin í rekstur fyrir árslok 2025. Til að hindra að sú flýting valdi hækkun á gjaldskrá Landsnets er eðlilegt, að arður af Landsvirkjun fjármagni flýtinguna. Alþingismenn þurfa að beita sér fyrir þessu á vorþingi 2020, sjá tilvitnanir í tvo stjórnarþingmenn í lok pistils.
"En uppbygging meginflutningskerfis dugir ekki ein og sér til að tryggja afhendingaröryggi. Samkvæmt stefnu stjórnvalda eiga allir afhendingarstaðir [Landsnets-innsk. BJo] í landshlutakerfum að vera komnir með tvöfalt öryggi eigi síðar en árið 2040 (N-1).
Eins og staðan er í dag, eru þó nokkrir afhendingarstaðir í flutningskerfinu, þar sem ekki er um að ræða tvöfalt öryggi, m.a. á Norðurlandi, en einnig á Austurlandi, Vestfjörðum og á Snæfellsnesi. Kerfisáætlun Landsnets hefur m.a. tekið mið af þessari stefnu, og í framkvæmdaáætlun má finna áætlun um tvítengingar hluta af þessum afhendingarstöðum. Má þar nefna Sauðárkrók, Neskaupstað og Húsavík, en aðrir staðir eru einnig á langtímaáætlun, s.s. Dalvík, Fáskrúðsfjörður og sunnanverðir Vestfirðir."
Það er allt of mikill hægagangur í stefnu stjórnvalda við að tvöfalda orkumötun inn að þéttbýlisstöðum, þ.e. að gera rafmagnsflutninginn innan landshlutakerfa að (n-1) kerfi (hringtenging). Þá má önnur fæðingin detta út án þess, að neytendur verði þess varir. Stjórnvöld ættu tafarlaust að breyta markmiðinu um þessa tvítengingu úr 2040 í 2030 og fjármagna flýtinguna, eins og hina, með vaxandi arði af starfsemi Landsvirkjunar. Allir þessir notendur rafmagns, sem hér um ræðir, eiga fullan rétt á því að sitja við sama borð og aðrir landsmenn með tvítengingu frá stofnkerfi rafmagns, og það er skylda stjórnvalda, að gera raunhæfar ráðstafanir til að koma því í kring. Alþingi verður að koma orkuráðherranum í skilning um þetta og/eða styðja við bakið á henni til að svo megi verða á einum áratugi frá jólaföstuóförunum 2019.
Sem dæmi má nefna, að á Dalvík og á sunnanverðum Vestfjörðum á sér stað mikil og vaxandi verðmætasköpun, þar sem fjárfest hefur verið í milljarðavís ISK í atvinnutækjum. Að bjóða íbúum og fyrirtækjum þessara staða upp á bið í allt að tvo áratugi eftir viðunandi rafmagnsöryggi er óásættanlegt, og Alþingi hlýtur að vera sama sinnis. Þingmenn, sem hafna þessari flýtingu, geta varla horft framan í kjósendur í NV- og NA-kjördæmi í næstu kosningabaráttu.
"Kostnaður við lagningu jarðstrengja á 66 kV spennu er á pari við loftlínur, og lagning 66 kV jarðstrengja er víðast hvar tæknilega möguleg. Þó eru svæði, þar sem skammhlaupsafl er það lágt, að ekki er unnt að leggja allar nýjar 66 kV línur í jörðu, og er bygging loftlínu því óhjákvæmileg á þeim svæðum."
Á Vestfjörðum er einmitt ein af orsökum ónógra spennugæða m.v. þarfir nútíma tækjabúnaðar og mikillar sjálfvirkni í atvinnurekstri, að skammhlaupsafl raforkukerfis Vestfjarða er lágt. Það stafar af langri 132 kV geislatengingu við stofnkerfi landsins og fáum og litlum virkjunum á svæðinu. Það er auðvelt að bæta úr hinu síðarnefnda, því að hagkvæmir virkjanakostir finnast á Vestfjörðum, og er a.m.k. einn þeirra kominn í nýtingarflokk Rammaáætlunar og er þegar í undirbúningi. Það er brýnt að virkja sem mest af virkjanakostum í Rammaáætlun á Vestfjörðum. Þar með eru slegnar a.m.k. tvær flugur í einu höggi. Skammhlaupsaflið vex þá nægilega mikið til að hægt sé að færa allar loftlínur Vestfjarða í jörðu, og afhendingaröryggi raforku eykst til mikilla muna án þess að þurfa að grípa til olíubrennslu í neyðarrafstöðinni á Bolungarvík.
Það er vaxandi skilningur á Alþingi fyrir því, að núverandi áform stjórnvalda um uppbyggingu raforkukerfis landsins taka allt of langan tíma. Sigurður Bogi Sævarsson birti frétt í Morgunblaðinu 27. desember 2019 undir yfirskriftinni:
"Þjóðaröryggi í orkumálum verði tryggt".
Hún hófst þannig:
"Endurskoða þarf löggjöf á Íslandi, þar sem helztu innviðir samfélagsins eru greindir og staða þeirra tryggð m.t.t. þjóðaröryggis. Vegir, brýr, virkjanir, flugvellir og fjarskipti geta fallið undir þessa löggjöf og síðast en ekki sízt flutningskerfi raforku.
Þetta segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem eftir nýárið ætlar að óska eftir skýrslu frá stjórnvöldum um stöðu þessara mála. Sé ástæða til, megi leggja fram lagafrumvarp um málið."
Gríðarleg og vaxandi verðmætasköpun á sér stað á þeim landssvæðum, sem urðu fyrir rafmagnstruflunum á jólaföstu 2019. Það er ein af forsendum frekari fjárfestinga þar, að nægt raforkuframboð og afhendingaröryggi þess til jafns við Suð-Vesturlandið verði tryggt. Það er jafnframt réttur íbúanna. Það má skoða þetta í samhengi við fína grein Jóns Gunnarssonar, ritara og þingmanns Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, í Fréttablaðinu, 20. nóvember 2019,
"Nei, er svarið".
Hún hófst þannig:
"Tækifæri okkar í uppbyggingu verðmætasköpunar, sköpun nýrra og fjölbreyttari starfa í tengslum við öfluga byggðaþróun, eru mikil. En stefnu- og aðgerðarleysi okkar í raforkumálum ásamt heimatilbúnum erfiðleikum við uppbyggingu dreifikerfis raforku gerir það að verkum, að fjölmörg tækifæri fara forgörðum eða eiga mjög erfitt uppdráttar."
Ritari Sjálfstæðisflokksins finnur, hvar skórinn kreppir, og veit, hvað þarf til að koma stöðunni í viðunandi horf. Það er ástæða til að ætla, að sama eigi við um meirihluta þingheims. Nú er hagkerfið staðnað og þar af leiðandi vaxandi atvinnuleysi. Til að brjótast út úr stöðnuninni þarf að hefjast handa sem fyrst við virkjanir, sem komnar eru vel á veg í undirbúningi, setja aukinn kraft í styrkingu flutnings- og dreifikerfa raforku og bæta samgöngukerfi landsins, í þéttbýli og í dreifbýli, af nýjum þrótti. Til að viðhalda samkeppnisstöðu landsins dugar ekki að láta innviðina grotna niður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.1.2020 | 14:06
Ranghugmyndir og hálendisþjóðgarður
Orkumálasjóri birti gagnmerka jólahugvekju til landsmanna á jólaföstu 2019 eftir jólaföstuóveðrið á norðanverðu landinu og ófarir þess. Þar benti hann á varasamar ranghugmyndir Landverndar um, hverjum flutningskerfi raforku þjónaði, og lævíslega atlögu auðlindaráðuneytisins að fjölbreytilegri auðlindanýtingu hálendisins, sem virðist sjálfsögð, sé sjálfbærni gætt. Verður nú gripið niður í þennan jólaboðskap Orkumálastjóra, sem nú, "nota bene", gegnir hlutverki Landsreglara á Íslandi samkvæmt Orkupakka 3 (e. National Energy Regulator) fyrir ACER (Orkustofnun Evrópusambandsins). Enn hefur þó ekki frétzt af beinum gjörningum hans í því hlutverki, en þeir eru þó óhjákvæmilegir áður en langt um líður.
Hann getur væntanlega staðfest, að hvergi á Evrópska efnahagssvæðinu setja stjórnvöld upp viðlíka girðingar gagnvart nýtingu endurnýjanlegra orkulinda og auðlindaráðuneytið er með í undirbúningi hérlendis, og hvergi eru viðlíka kæruheimildir við lýði gagnvart stjórnvaldsákvörðunum um framkvæmdir og hér. Við erum eins og hross í hafti fyrir eigin tilverknað, af því að stjórnkerfi ríkisins gengst upp í því að vera kaþólskari en páfinn. Sjálfskaparvítin eru verst.
Stjórnkerfi íslenzka ríkisins er á algerum villigötum með samspil nýtingar og verndunar, og framganga þess er í andstöðu við heilbrigða skynsemi og vinnur þess vegna beinlínis gegn orkuskiptum og loftslagsvænni orkunýtingu. Alþingi verður hér að leiðrétta mjög rangan kúrs, svo að raforkukerfi og samgöngukerfi landsins geti komizt á réttan kjöl sem fyrst.
Úr jólaboðskap Orkumálastjóra 2019:
"Þeir, sem hafa á undanförnum árum barizt harðast gegn nýjum flutningslínum í raforkukerfinu og lagt stein í götu leyfisveitinga og framkvæmda, hvar sem tækifæri gefast, eiga nú í vök að verjast, þegar menn sjá afleiðingar mikilla veikleika í flutnings- og dreifikerfinu. Þeir reyna nú að setja þetta í þann búning, að þeir séu ekki andsnúnir línum, sem þjóna hinum almenna hluta kerfisins, heldur einungis framkvæmdum, sem þjóna stóriðju.
Í umsögn Landverndar um kerfisáætlun Landsnets segir: "Landsnet sem fyrirtæki í eigu almennings ætti að sjá sóma sinn í því að taka þetta [aðgreiningu álags eftir notendahópum-innsk. BJo] skýrt fram í allri umfjöllun um afhendingaröryggi og ætti alls ekki að hafa frumkvæði að hræðsluáróðri, eins og fyrirtækið stóð fyrir í tengslum við ársfund sinn, þar sem talað var um skert þjóðaröryggi. Ef dregið hefur úr þjóðaröryggi vegna lítillar flutningsgetu raforkukerfisins, þarf að tengja það beint við orsakavaldinn: stóriðju.""
Hér varpar Orkumálastjóri ljósi á fádæma ábyrgðarleysi Landverndar, sem snýr út úr eða misskilur gjörsamlega málflutning Landsnets og Orkustofnunar á undanförnum árum um hlutverk flutningskerfis raforku fyrir velferð landsmanna.
Þegar ákvörðun var tekin um 2. orkuskipti landsins vegna olíukreppunnar 1973 og a.m.k. 70 % hækkunar olíuverðs þá, var jafnframt tekin ákvörðun um að tengja alla landsmenn við stærstu og hagkvæmustu virkjanir landsins á Þjórsár/Tungnaársvæðinu með s.k. Byggðalínu. Þessar hagkvæmu virkjanir voru eingöngu mögulegar sem slíkar vegna langtímasamninga um mikla raforkusölu frá þeim til stóriðjuvera. Það er að snúa staðreyndum á haus að halda því fram, eins og Landvernd ítrekað gerir sig seka um, að Byggðalína sé fyrir stóriðju. Það er ekki heil brú í slíkum boðskap, hvorki fyrr né síðar, og þessi málflutningur hennar er aðeins ósvífin tilraun til að sá ranghugmyndum á meðal landeigenda og alls almennings um hlutverk þessarar línu nú og í sögulegu samhengi.
Það verður svo að segja hverja sögu, eins og hún er, að sú staðreynd, að stjórnvöld skuli hafa opnað þröngsýnum og ábyrgðarlausum afturhaldsöflum leið til að þvælast nær endalaust fyrir sjálfsögðum framfaramálum landsins alls og þeim réttlætismálum landsbyggðar að sitja við sama borð og flestir íbúar Suð-Vesturlands gera nú, er vanrækslusynd, sem löggjafinn verður að lagfæra hið fyrsta.
Hálendisþjóðgarður er gæluverkefni, sem fólk af sauðahúsi Landverndar, t.d. auðlindaráðherrann (fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar og kæruglaður þar með afbrigðum), ber mjög fyrir brjósti. Að setja þetta gæluverkefni á oddinn nú vitnar um óábyrga forgangsröðun. Þegar innviðaþörfin hrópar á meira fjármagn, er ekki fjárhagslegt bolmagn til óþarfa leikaraskapar, sem setur skorður við fjölbreytilegri verðmætasköpun úr auðlindum hálendisins.
Auðlindaráðherra veifar gatslitinni dulu um, að hver króna, sem varið er til þessa hálendisþjóðgarðs, muni skapa 22 krónur. Þetta er blaður út í loftið. Hálendisþjóðgarður er ekki gullgæs, heldur byrði og gæluverkefni forræðishyggjunnar, sem ekki getur skapað meira fé en sveitarfélög og fyrirtæki innan þeirra og/eða með starfsleyfi frá þeim geta skapað á þessum vettvangi. Virðisaukinn verður þar af leiðandi enginn við allt þetta umstang.
Það er alger óþarfi að svæla með þessum hætti þriðjung landsins undir forræði ríkisins, þegar ekki hefur enn komið í ljós neinn augljós kostur við eða þörf á miðlægri ákvörðunartöku ríkisins á hálendinu, eins og hins vegar hefur berlega komið í ljós varðandi ýmislegt annað, s.s. þjóðvegi og meginflutningskerfi rafmagns.
Orkumálastjóri, sem er í stöðu til að afla sér víðtækrar yfirsýnar um þessi mál, fordæmdi þessar hálendisþjóðgarðsfyrirætlanir auðlindaráðuneytisins í jólahugvekju sinni í desember 2019:
"Öll starfsemi þar [í auðlindaráðuneyti Íslands-innsk. BJo] virðist mér ganga út á að reisa margfaldar gaddavírsgirðingar í kringum framtíðarkosti okkar til virkjunar jarðhita og vatnsfalla, og koma jafnvel í veg fyrir áframhaldandi rannsóknir á auðlindunum. Allt er þetta gert undir sakleysislegum og auðseljanlegum formerkjum, eins og stofnun hálendisþjóðgarðs og friðlýsingar náttúrusvæða, en hins vegar vandlega sneitt hjá því að meta áhrif þessa á orkuöryggi, atvinnulíf, hagvaxtarmöguleika okkar til lengri tíma, framlag okkar til loftslagsvænnar raforkuvinnslu og svona mætti lengi telja." [Undirstr. BJo.]
Orkumálastjóri skrifar hér beinum orðum, að undirbúningur auðlindaráðuneytisins fyrir stofnun hálendisþjóðgarðs fari fram undir fölskum formerkjum og að með endemum einstrengingslegum aðferðum sé beitt, þar sem þröngsýni fremur en víð sýn á náttúruvernd ráði för. Hér eru svo alvarlegar ásakanir um óheilindi og fúsk ráðuneytis á ferðinni, að nauðsynlegt er fyrir Alþingi að grafast fyrir um þetta mál og stöðva það, ef nauðsyn krefur. Svona vinnubrögð verða engum til gagns, þegar upp er staðið, heldur munu enda sem bjúgverpill í fangi stjórnvalda. Á skal að ósi stemma.
Í Morgunblaðinu birtist efst á bls. 2 þann 27. desember 2019 frétt Sigurðar Boga Sævarssonar með viðtali við Pál Gíslason, verkfræðing, frá Hofi í Vatnsdal, undir fyrirsögninni:
"Þjóðgarðurinn stöðvi landnýtingu".
Páll Gíslason er öllum hnútum kunnugur um sjálfbæra nýtingu hálendisins, enda hefur hann stundað starfsemi í Kerlingarfjöllum um árabil, sem þykir til fyrirmyndar. Ljóst er af orðum Páls, að þjóðgarðsstofnun þessi leysir ekkert vandamál, heldur eykur kostnað ríkisins og verður öllum til ama með skrifræði og einstrengingslegri stefnumörkun og stjórnun, enda hræða sporin frá Vatnajökulsþjóðgarði. Að óþörfu verður gengið hér á forræði sveitarfélaganna yfir skipulagsmálum innan þeirra núverandi vébanda. Forræðishyggjan mun leggja dauða hönd sína á þróun hálendisins, en það er einmitt höfuðatriði að þróa það með aðstoð nútímatækni og fjölbreytilegum viðhorfum. Fréttin hófst þannig:
"Hugmynd um um hálendisþjóðgarð ber að taka með fyrirvara, enda er ávinningurinn óljós. Náttúruvernd á öræfum landsins er forgangsverkefni, en það starf mætti fyrst efla með svæðisbundnu samstarfi sveitarfélaga. Ríkið á að vinna áfram að uppbyggingu stofnvega og flýta orkuskiptum. Aðgerðir, er varða umgengni, byggingu og rekstur þjónustumiðstöðva og fleira eru dæmi um verkefni, sem sveitarfélög eða einkaaðilar gætu sinnt betur. Þetta segir Páll Gíslason hjá Fannborg í Kerlingarfjöllum."
Ríkið á ekki að troða sér inn á svið, sem aðrir geta sinnt betur og eru þekkingarlega betur í stakkinn búnir til að annast. Útþensla ríkisbáknsins er vandamál. Báknið ræður ekki við öll þau verkefni, sem það gín yfir núna, þrátt fyrir mjög íþyngjandi skattheimtu, og ýmis innviðauppbygging, sem eðlilegt er að ríkisvaldið sinni, er í skötulíki. Það er engin ástæða fyrir ríkisvaldið á þessari stundu að þenja sig yfir mestallt hálendi Íslands.
""Ég sé ekki ábata af þunglamalegu stjórnkerfi, þar sem ofuráherzla er lögð á að stöðva nýtingu fallvatna, en það virðist [vera] markmiðið. Blönduð landnýting áfram væri farsælli, þar sem þróa má samspil landbúnaðar, ferðaþjónustu og afþreyingar og orkuvinnslu", segir Páll og heldur áfram:
"Í frumvarpsdrögunum greini ég sterkan vilja til að þrengja [að] eða stöðva frekari nýtingu lands, þ.e. þróun orkuvinnslu og ferðaþjónustu. Slíkt tel ég hvorki mæta nútímakröfum um sjálfbærni né hugmyndum um afþreyingarmöguleika. Virkjanir og uppistöðulón á hálendinu geta stungið í augun, en á móti kemur, að orkan, sem þaðan fæst, er umhverfisvæn og skilar samfélaginu miklu.""
Það er samhljómur með Orkumálastjóra og Páli Gíslasyni, þegar þeir færa fram röksemdir sínar gegn tillögu auðlindaráðherra um hálendisþjóðgarð. Framgangsmáti ráðherrans er ótækur. Við ákvörðun um það með hvaða hætti hálendið verður skipulagt og nytjað, er forkastanlegt að ganga einstrengingslega fram, þannig að aðeins eitt sjónarmið, verndunarsjónarmiðið, ráði ríkjum. Þetta er hættan við að fela einu ráðuneyti í Reykjavík yfirstjórnun þessara mála.
Sjálfbæra nýtingu og afturkræf mannvirki samkvæmt fjölþjóðlegri skilgreiningu á að leggja til grundvallar á hálendinu, þar sem öll sjónarmið mega sín nokkurs. Aðeins þannig næst sæmileg sátt um fyrirkomulag hálendismála. Ráðherrann er á annarri línu og mun þess vegna mæta harðri andstöðu. Saga hans sýnir, að hann á það til að vera nokkuð herskár, þótt mjúkur sé á manninn í fjölmiðlum nú um stundir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.12.2019 | 11:19
Raforku- og fjarskiptaöryggi - stórfelldir almannahagsmunir
Það er á ábyrgð stjórnvalda að tryggja öryggi almennings, og Alþingi ber að hafa eftirlit með stjórnvöldum. Það hefur nú opinberazt, að hvorki fjarskiptakerfi landsins né raforkukerfi eru í stakk búin til að standast þann veðurham, sem búast má við í einhverjum landshlutum á hverjum áratugi. Þetta er áfellisdómur yfir stjórnvöldum, sem þingið verður að láta til sín taka 2020 og hóf reyndar þá vegferð 2019.
Það virðist nú vera samdóma skoðun allra, leikra og lærðra, þingmanna og embættismanna, að við svo búið megi ekki standa. Eftir er þó að sjá, hver hvort hugur fylgir máli. Af umræðunum leiðir, að nægur einhugur ætti að vera fyrir hendi til að gera tafarlaust fjármagnaða áætlun um endurbætur, sem dugi til að koma í veg fyrir straumleysi og fjarskiptaleysi í veðurhami, sem er sambærilegur við jólaföstuóveðrið 2019 á norðanverðu landinu, þegar umbótum lýkur samkvæmt þeirri áætlun. Það ætti ekki að vera seinna en við árslok varðandi 2025 varðandi rafmagnsöryggið.
Nú vita viðkomandi fyrirtæki, aðallega Landsnet og RARIK, hvaða viðmiðun þarf að leggja til grundvallar á hverju landsvæði á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi, í norðanroki eða fárviðri með ísingu og seltu. Áður hafa þessi fyrirtæki haft reynslu af slíku í suðlægum áttum. Það verður ætlazt til þess, að fyrirtækin leggi nú ekki upp með lausnir, sem ekki standast verður, sem vænta má á 10 ára fresti. Það er þjóðhagslega óhagkvæmt að hefja umbætur, sem ekki koma í veg fyrir milljarða ISK tjón á 10 ára fresti (áætlun BJo: mrdISK 5,0 í desember 2019).
Til þess verður ætlazt, að þessi fyrirtæki komi rafmagnsöryggismálum á norðanverðu landinu í þetta horf fyrir árslok 2025. Það er reyndar ekki hægt að ætlast til þess svo fljótt fyrir sumarhúsabyggðir, en fyrir alla staði, þar sem atvinnustarfsemi er stunduð og föst búseta er, verður að ætlast til þess.
Ef í ljós kemur, að fyrirtækin hafa ekki dregið rétta lærdóma af fyrrnefndu jólaföstuveðri, heldur lagt upp með lausnir, sem ekki duga, þá verður það stjórnendum og stjórnum viðkomandi fyrirtækja til mikils hnjóðs, og Alþingismenn, sem verða að vera yfirgæzlumenn almannahagsmuna hér sem endranær, verða að ganga eftir því við ríkisstjórnina, að ekki sé verið að sóa fé í útfærslur, sem menn nú mega vita, að eru of veikar fyrir veður, sem búast má við á hverjum áratugi.
Þann 21. desember 2019 skrifaði Höskuldur Daði Magnússon frétt í Morgunblaðið, sem hann nefndi:
"Raforkustjórar kvaddir til".
Þar tók hann tali þingmann, sem góðu heilli hefur m.a. látið orkumálin sig miklu varða, eins og þingmönnum ber, og sveitarstjóra Húnaþings vestra á Hvammstanga, sem varð einna verst úti í óveðrinu vegna þess m.a., að aðveitustöð Hrútatunga stendur berskjölduð gagnvart ísingu og seltu í norðan hvassviðri við 0°C og vararafstöð vantar í þéttbýlinu þar í sveit:
""Mér hafa fundizt menn ekki vera að taka þetta nægilega alvarlega í gegnum tíðina. Ég held, að það hafi ekki verið almenn vitneskja á svæðinu um það, hversu illa kerfið stóð allt saman", segir Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður."
Þetta er alveg rétt hjá þingmanninum. Það hefur áratugum saman verið látið, eins og Byggðalínan væri nógu örugg, og að styrrinn um hana stæði aðeins um flutningsgetuna. Nú vita menn betur, og menn vita jafnframt fyrir hvers konar veðuráraun þarf að hanna nýja Byggðalínu. Það þýðir ekki lengur fyrir Landsnet að koma með tillögu um eitthvað, sem ekki þolir veðurham og seltu, sem vænta má á 10 ára fresti, eins og kom nú á jólaföstunni. Orkuráðherrann getur á þingi vænzt spurningar á borð við þá, hvort fram komin tillaga Landsnets sé hönnuð til að standa af sér sambland af roki, ísingu og seltu, sem starfsmenn og verktakar Landsnets börðust við af seiglu og harðfylgi á jólaföstu 2019 og ásamt björgunarsveitunum björguðu því, sem bjargað varð. Hin heilbrigða grasrót landsins bregst aldrei, en meiri áhöld eru um stjórnendurna (elítuna), sem minna stundum á vafagemlinga, svo að ekki sé nú minnzt á ormaveika rollu.
""Þetta var gagnlegur fundur [með Guðmundi I. Ásmundssyni og Tryggva Þ. Haraldssyni-innsk. BJo]. Við fengum yfirlit yfir það, hvernig þessi mál hafa þróazt og stöðuna. Ég held, að það hljóti flestir að sjá, hversu mikilvægt er að styrkja og byggja upp flutningskerfi raforku. Maður vill helzt ekki hugsa þá hugsun til enda, hvernig hefði farið, ef 65 % strengjanna hefðu ekki verið komin í jörð", segir Njáll Trausti."
Það eru vafalaust nógu margir nú, sem sjá, að norðanvert landið býr við ófremdarástand, og skömm væri að að láta raunhæfar úrbætur reka lengur á reiðanum. Vel færi á, að áhugasamir þingmenn um þessi málefni legðu fram þingsályktunartillögu um nýja Byggðalínu á milli Fljótsdals og Brennimels (Klafastaða) fyrir árslok 2025, og að allt dreifikerfi landsins til þéttbýlis og atvinnurekstrar fari í jörð á sama tíma og jafnframt dreifistöðvar (rofar og spennar, rafgeymar o.fl.) í hús. Þá hljóta að koma fram stjórnarfrumvörp til nauðsynlegra laga, sem duga til að tryggja framgang þessa máls. Endalausar nefndaskipanir og skýrslugerðir duga ekki einar og sér. Úr því, sem komið er, verður að hraða sér að teikniborðinu og láta verkin tala eða að játa uppgjöf sína gagnvart viðfangsefninu og fá aðra til verksins. Kjósendur munu senn vega það og meta, hverjir og hverjar eru á vetur setjandi.
""Við lögðum áherzlu á það, að hér hafi ekki verið varaafl til staðar og ekki hafi verið mönnuð stöðin í Hrútatungu. Við viljum fá mönnun á svæðið og stærri spenni á Laxárvatn, svo að hægt sé að fá varaafl þaðan, ef það bregzt Hrútatungumegin", segir sveitarstjórinn [í Húnaþingi vestra]."
Varðandi varaaflsþörfina er sjálfsagt af RARIK og öðrum dreifiveitum ásamt Landsneti eftir atvikum að gera nýjar áhættugreiningar í ljósi reynslunnar og nýrra áforma eftir jólaföstuóveðrið 2019. Slíkar áhættugreiningar ættu að fara fram með þátttöku heimamanna.
Varðandi fjarskiptakerfi, sem reyndust vera alltof háð veiturafmagni m.v. mikilvægi þeirra, reynast fjarskiptafyrirtækin ekki hafa haft áhuga fyrir að keppa um viðskiptavini á grundvelli þess, hversu langvarandi samband þau byðu viðskiptavinum sínum í straumleysi. Póst- og fjarskiptastofnun var meðvituð um ófullnægjandi neyðarafl hjá fyrirtækjunum, en ber því við eftir á, að lagaheimild sé ekki fyrir hendi til að ákvarða lágmarks neyðarafl. Þessi embættisfærsla er anzi dauf, svo að ekki sé nú fastara að orði kveðið. Setja þarf hið fyrsta lög, sem skylda Póst- og fjar til að ákvarða lágmarkstímalengd fullrar fjarskiptaþjónustu í straumleysi á hverjum stað og til að hafa virkt eftirlit með neyðaraflkerfum fjarskiptafyrirtækjanna og refsiúrræði, ef út af er brugðið. Í lögum skal taka af tvímæli um, að samstarf fjarskiptafyrirtækjanna um neyðaraflgjafa sé leyfilegt. Ótækt er, að túlkun samkeppnislaga á annan veg valdi verðhækkun til neytenda vegna sjálfsagðs neyðarafls m.v. mikilvægi.
Elías B. Elíasson, sérfræðingur í orkumálum, skrifaði vel ígrundaða grein um afhendingaröryggi raforku, sem birtist í Morgunblaðinu 19. desember 2019,
"Eftir storminn":
"Jólaföstuveðrið og afleiðingar þess sýndu fram á, að flutningskerfið er ekki hannað fyrir þau veður, sem hér geta komið. Stjórnvöld og almenningur áttuðu sig á því og vill ráðstafanir. Fólk á landsbyggðinni, bæði til sveita og í minni bæjarfélögum, býr ekki við það raforkuöryggi, sem þarf í nútíma þjóðfélagi. Stóriðjufyrirtæki kunna að leggja mat á mikilvægi orkuöryggis og verða að taka tillit til þess kostnaðar, sem Landsnet og orkusali bera af öryggiskröfum þeirra, en þegar um öryggi almennings er að ræða, sofa stjórnmálamenn meðan sveitarstjórnir með skipulagsvaldið, náttúruverndarsamtök og einstakir landeigendur þvælast fyrir."
Það er hárrétt, að kjörnum fulltrúum almennings ber að gæta hagsmuna hans gagnvart flutnings-, dreififyrirtækjum og orkusölum (orkuvinnslu) með því að setja fram kröfur um gæði rafmagns, afhendingaröryggi og spennugæði. Þetta geta sveitarstjórnir gert með ályktunum sínum og Alþingismenn t.d. með þingsályktunartillögu með tölusettum viðmiðum og markmiðum fyrir stjórnvöld og lagafrumvarpi um fjármögnun viðbótar kostnaðar vegna hærri öryggiskrafna en Landsnet hingað til hefur áætlað vegna Byggðalínu.
Í "den" fór Landsvirkjun fumlaust þá leið, þegar neikvæð reynsla kom á hefðbundnar 220 kV línur í íslenzkum óveðrum, að veita hagnaði af orkusölunni til að fjárfesta í traustari flutningslínum en evrópskir staðlar kváðu á um. Þetta var og er nauðsynlegt til að veita íslenzkum almenningi og fyrirtækjum hérlendis sams konar raforkugæði, afhendingaröryggi og spennustöðugleika, og almenningur annars staðar í Evrópu býr við.
Þetta var gert með því að reisa 3 línur á Suð-Vesturlandi með einangrunargildi fyrir 400 kV til að standast seltuáraun, þótt málgildi rekstrarspennunnar væri áfram 220 kV. Í framtíðinni kann að verða hagkvæmt og jafnvel nauðsynlegt að hækka þessa 220 kV rekstrarspennu. Sömu leið borgar sig að fara með nýja Byggðalínu um norðanvert landið, því að truflanir, sérstaklega langvinnar, eru dýrar. Seltutruflanir geta einmitt verið langvinnar.
Elías skrifaði í seinni hluta greinarinnar:
"Hér á Íslandi búum við í stóru og fjöllóttu landi og þurfum að fá rafmagn okkar um langan veg frá vatnsorkuverum langt frá næsta þéttbýli í stað þess að byggja kolastöð við bæjarmörkin. Tengingar milli byggðarlaga eru langar og liggja yfir hálendi, þar sem veður eru válynd. Allt hækkar þetta kostnaðinn, sem hver einstaklingur verður að standa undir. Þessi munur á því að rafvæða Ísland og Evrópu var að koma betur og betur í ljós á síðari hluta aldarinnar, sem leið, og stjórnmálamenn fylgdust vel með og voru með í ráðum, þegar þurfti.
Þar varð breyting á með nýjum raforkulögum 2003, þegar innleidd voru lög ESB um markaðsvæðingu raforkunnar. Þar með höfðu stjórnmálamenn minni möguleika á að fylgjast með, og þeim virðist ranglega hafa verið talin trú um, að markaðurinn mundi sjá fyrir nægu öryggi. Þeir sofnuðu á verðinum. Eitthvað hafa þeir rumskað við veðrið nú, en þeir, sem telja flutningslínur vera mengun, rumska ekki."
Hér víkur Elías að miklum kostnaði flutningskerfis raforku fyrir Íslendinga vegna landshátta, veðurlags og dreifðrar byggðar. Hinn valkosturinn (við öflugar samtengingar á milli héraða) er að virkja í hverju héraði og reka nokkur að mestu óháð raforkukerfi í landinu. Sú stefna hefur hvergi í Evrópu verið farin, og Íslendingar hurfu í raun frá þeirri stefnu með uppbyggingu stórvirkjana í landinu, sem grundvallaðar voru á hugmyndinni um hagkvæmni stærðarinnar, sem almenningur um allt land skyldi njóta góðs af.
Til þess þarf öflugar samtengingar á milli landshluta. Þess vegna var Byggðalínan reist, sem taka skyldi við raforku frá Þjórsár/Tungnaársvæðinu og flytja hana til Vestfirðinga, Húnvetninga, Skagfirðinga og Eyfirðinga. Ekki voru allir sammála þessu, og þess vegna var Kröfluvirkjun reist í kjölfar Laxárævintýrisins, en Kröfluvirkjun (jarðgufuöflunin) lenti í miklum hremmingum í byrjun, og haldið var áfram með 132 kV Byggðalínu þangað og síðan áfram að Hryggstekk í Skriðdal árið 1978. Gallinn var sá, að um sýndaröryggi var að ræða, því að í flýti og fjárskorti var ekki nægur gaumur gefinn að afhendingaröryggi og spennugæðum. Nú eru aðrir tímar.
Árið 1973 hækkaði olíuverð á heimsmarkaði um a.m.k. 70 %, og þá var Orkuskiptum #2 hleypt af stokkunum hérlendis, sem aðallega fólust í að leysa olíu af hólmi með rafmagni og jarðhita til upphitunar húsnæðis. Það var yfirvofandi alvarlegur raforkuskortur á Norðurlandi í kjölfarið, og þess vegna var Byggðalínu flýtt eftir föngum, og hún var í raun og veru reist af vanefnum og fullnægði aldrei skilyrðinu um "trausta" samtengingu á milli landshluta.
Það hefur dregizt taumlaust úr hömlu að bæta úr þessu. Það er t.d. vegna meingallaðrar löggjafar um skipulag og leyfisveitingar verklegra framkvæmda. Hér ætti fjármálalega, skipulagslega og leyfisveitingalega að vera um "ríkismálefni" að ræða, þannig að framkvæmdir geti átt sér stað eins snurðulaust og kostur er, þótt sveitarstjórnir kunni að hafa mismunandi skoðanir um framkvæmd. Kæruferlum ætti að stilla í hóf svo sem gert er annars staðar á Norðurlöndum.
Hiklaust ætti að taka aftur upp þann hátt, sem hafður var á um fjármögnun flutningslína 1969-2005, að hagnaði af raforkuvinnslu og heildsölu rafmagns var m.a. varið til uppbyggingar flutningskerfisins. Annað leiðir til svo hás flutningsgjalds, að raforkan verður ósamkeppnishæf hérlendis, eins og dæmin sanna. Eðlilegt er, að fjármagnið haldist þannig innan raforkugeirans, á meðan fjárfestingarþörf hans er mikil og brýn.
Landsreglarinn (The National Energy Regulator) hefur lítið tjáð sig opinberlega um stöðu raforkukerfisins í kjölfar óveðursins, en ætla má, að hann telji slíka fjármögnun ekki samræmast orkulöggjöf Evrópusambandsins, sem er í gildi hér vegna aðildar Íslands að EES og "Orkupakka" 3, sem yfirtók OP#2. Á þetta verður að láta reyna, jafnvel fyrir dómstólum.
Það er hins vegar líka mjög æskilegt út frá öryggislegu sjónarmiði að staðsetja bitastæðar virkjanir utan við hin eldvirku svæði landsins. Þar koma Vestfirðir vissulega upp í hugann, þar sem þar er lítil jarðskjálfta- og gjóskuhætta og talsvert um vatnsafl og auk þess hratt vaxandi orkuþörf og kröfur um raforkugæði frá atvinnulífinu.
Í lok téðrar greinar skrifaði Elías:
"Það sleifarlag, sem núverandi löggjöf veldur í nauðsynlegum endurbótum á flutningskerfinu gengur ekki lengur. Næsti stormur, jafnvel enn verri, getur látið bíða eftir sér í mörg ár, en hann getur líka komið í næsta mánuði. Hér á landi gengur ekki, að stjórnvöld axli ekki að sínum hluta ábyrgð á raforkuöryggi þjóðarinnar. Raforkufyrirtækin þurfa vinnufrið til að tryggja öryggið að sínu leyti, en fá ekki nægan stuðning í gallaðri löggjöf. Alþingi þarf að láta til sín taka og setja réttan hlut ábyrgðarinnar á rétta aðila."
Hér er komið að kjarna máls. Núgildandi raforkulöggjöf er hreinlega ekki sniðin við íslenzkar aðstæður. Stjórnkerfið og Alþingi hafa flutt inn löggjöf, sem hentar ekki hér, þ.e.a.s. myndar ekki réttan ramma til lausnar á aðsteðjandi vanda landsins. Stjórnarráðið og sumir þingmenn kunna að hafa haldið, að það gerði ekkert til, en nú hafa náttúruöflin vonandi sjálf komið vitinu fyrir þá opinberu starfsmenn og stjórnmálamenn, sem um orkumálin eiga að véla. Markaðurinn og Landsreglarinn geta ekki leyst aðsteðjandi vanda, af því að spilað er á tætingslega löggjöf til að koma í veg fyrir þá lausn, sem Landsnet og í sumum tilvikum orkuvinnslufyrirtækin hafa lagt til. Alþingismenn bera ábyrgð á að gera orkulöggjöfina þannig úr garði, að ekki verði hér langvarandi aflskortur vegna vöntunar á nýjum virkjunum og tímabundinn orkuskortur vegna bilana í rafkerfinu af völdum veðurs, sem vænta má á hverjum áratugi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)