Færsluflokkur: Dægurmál

Þverstæðukennd frásögn

"Óþarft að virkja til aukinna orkuskipta" hljómaði fyrirsögn í Fréttablaðinu á bls. 6 þann 17. janúar 2017.  Hún er vægast sagt afar villandi og ber ekki góðum vinnubrögðum vitni, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið.

Ónákvæmnin er yfirþyrmandi, því að við hvað eru "aukin orkuskipti" miðuð ?  Viðbót við hvaða orkuskipti ? Síðan kemur í ljós, hvaðan blaðamaðurinn hefur vizku sína:

"Framkvæmdastjóri Orkuseturs telur hægt að orkuskipta öllum bílaflota Íslendinga með þeirri orku, sem nú er fyrir hendi. 

Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, segir orkuskipti í samgöngum möguleg án þess að virkja þurfi frekar.  "Tíu prósent landsmanna hita hús sín með rafmagni.  Það er hægt að fækka þeim með varmadælum.  Ef við myndum losa helminginn af því rafmagni, sem fer í húshitun, gæti það rafmagn dugað á um 116 þúsund rafbíla.  Einnig má ná miklum sparnaði í raforku með LED-lýsingu á götum sveitarfélaga.  Rafmagnið er til, við þurfum að nýta það betur", sagði Sigurður."

Hér er vaðið á súðum með villandi og óábyrgum hætti, eins og nú skal sýna fram á:

  1. Jarðefnaeldsneytisbílar á landinu voru í árslok 2016 um 240´000 talsins, en með hópbifreiðum, sendibifreiðum og vörubifreiðum taldi flotinn tæplega 280´000 bíla.  Gerum ráð fyrir, að í tilvitnun sé átt sé við fólksbílaflotann.  Áætla má árlega raforkuþörf hans eftir rafvæðingu þannig: E=4,5 MWh/b x 240 kb = 1,1 TWh/ár.  Þessi raforkuþörf samsvarar meðalálagi yfir árið 125 MW, en því fer fjarri, að rafbílaálag á rafkerfið verði jafnt.  Uppsett afl hleðslutækja þessara 240´000 bíla gæti orðið 3600 MW.  Ef samtímaþáttur er 0,2, þá verður hámarksálag um 720 MW af 240´000 fólksbílum og jeppum. 
  2. Á móti þessari álagsaukningu leggur téður Sigurður til, að fjárfest verði í varmadælum, sem spari helming raforkunnar, sem nú fer í rafhitun húsnæðis.  Ætla má, að árleg orka til rafhitunar húsnæðis sé: Eh=40 MWh/íb ár x 7000 íb = 280 GWh/ár með toppafli 50 MWHelmingurinn jafngildir 140 GWh/ár og 25 MW.
  3. Það er einnar stærðargráðu munur á því, sem Sigurður Friðleifsson telur vera lausn og viðfangsefninu, sem er rafvæðing bílaflotans
  4. Hvað dugir "varmadælulausnin" til að rafvæða marga bíla ?  M.v. íslenzkar aðstæður má reikna með raforkunotkun meðalfólksbíls 0,3 kWh/km, og ef meðalaksturinn er 15´000 km/ár, mun einn bíll þurfa raforkuna: Eb=0,3 kWh/km x 15000 km/ár = 4,5 MWh/ár.  Þá dugir "varmadælulausnin" fyrir: n=140000/4,5 = 31´000 bílar eða 13 % af fólksbílaflotanum.  Þetta eru 85´000 færri bílar en Sigurður Friðleifsson slengir fram í tilvitnuðu viðtali. 
  5. Orkusparnaður með LED-væðingu götulampa um land allt gæti e.t.v. haft í för með sér helmingsorkusparnað á við "varmadælulausnina", svo að alls mundu þessar tvær orkusparnaðaraðferðir gefa um 210 GWh/ár, sem er innan við 20 % af raforkunni, sem þarf fyrir núverandi fjölda fólksbíla, sem brenna jarðefnaeldsneyti.  Bæði er, að þeim fer fjölgandi og að þeir eru aðeins hluti af heildarflotanum eða innan við 86 %.
  6. Kostnaðarlega er það alveg út úr kú að tengja þessi tvö sparnaðarverkefni saman við orkuskipti.  Það er miklu ódýrara að virkja og framleiða viðbótar MWh, eins og þarf, en fjárfesta í varmadælum og í mörgum tilvikum vatnsofnum og pípulögnum í stað þilofna eða í LED-lömpum, þar sem meginsparnaðurinn er fólginn í minna viðhaldi, en ekki í orkusparnaði.

Það er mjög ámælisvert að fara með fleipur um mikilvæg verkefni á landsvísu.  Orkuflutningsfyrirtækið Landsnet hefur aftur á móti lagt spilin á borðið, og eftirfarandi er skrifað í þessari umræddu frétt:

"Í skýrslu Landsnets er dregið fram, að ef eigi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, með orkuskiptum, upp á 1,5 milljónir tonna á ári, þurfi um 880 MW af rafmagni til þess."

Megnið af þeirri losun, sem á að hverfa samkvæmt þessari sviðsmynd, kemur frá landumferð.  Það er himinn og haf á milli málflutnings Orkuseturs og Landsnets.  Blekbóndi telur málflutning Landsnets og téða sviðsmynd um aflþörf á réttu róli, ef álaginu verður ekki stýrt.  Blekbóndi hefur hins vegar bent á, að draga má verulega úr aflþörfinni með því að bjóða hagstæðan næturtaxta.  Slíkt breytir þó engu um orkuþörfina.  Að vanmeta hana getur orðið afdrifaríkt. Hitastigshækkun í andrúmslofti 

 


Þrændalög og Vestfirðir

Vestfirðir hafa að mörgu leyti sérstöðu í sögulegu og nútímalegu samhengi.  Þar var frá fornu fari matarkista á miðum skammt undan, og þar var jafnan hægt að sækja björg í bú á vorin í fuglabjörg, þegar matarbirgðir voru að verða upp urnar.  Vestfirðir eru utan jarðskjálfta- og eldgosasvæða.  Hungursneyð heyrði til algerra undantekninga á Vestfjörðum, en sú var ekki reyndin í öðrum landshlutum á erfiðum skeiðum Íslandsbyggðar. 

Drottinn gaf og Drottinn tók, eins og átakanlegir og allt of tíðir sjóskaðar eru dæmi um á öllum öldum Íslandsbyggðar.  Í seinni tíð, eftir myndun þéttbýlis, minnast menn einnig hræðilegra afleiðinga af snjóflóðum á Vestfjörðum.  Allt stendur þetta þó til bóta á okkar tímum með margháttuðum varnaraðgerðum. 

Vestfirðingar hafa jafnan verið taldir miklir og góðir sæfarendur, og fornt dæmi um það er Flóabardagi á 13. öld, er mun fámennara lið Vestfirðinga hafði í fullu tré við vel útbúna Skagfirðinga í sjóorrustu á Húnaflóa. 

Vestfirðingar voru líka harðsnúnir í hernaði á landi og jafnan hallir undir Sturlunga í átökum á 13. öld, og ætíð verður í minnum haft, er mesti herforingi Íslandssögunnar, Sturlungurinn Þórður, kakali, fór með einvalalið 50 knárra Vestfirðinga um landið og lagði það undir sig í leifturstríði gegn andsnúnum höfðingjum þess tíma. 

Saga Vestfjarða í efnalegu tilliti er einnig glæst, og þar voru öflugir kaupmenn með alþjóðleg sambönd, eftir að helsi einokunarverzlunar Danakóngs var aflétt.  Á 19. öldinni voru norskir hvalveiðimenn og hvalverkendur aðsópsmiklir, og hvalstöðvarnar urðu fyrsta stóriðja Íslands, og þar fengu íslenzkir verkamenn í fyrsta skiptið greitt með alþjóðlega gildri mynt í seinni tíma sögu landsins. 

Ef litið er á þróun fiskvinnslu á Vestfjörðum, kemur í ljós, hún hefur orðið mjög neikvæð á tveimur áratugum í kringum síðustu aldamót.  Er kvótakerfinu, sem sett var á 1983 og frjálsu framsali, innleiddu 1991, gjarna kennt um.  Í upphafi fengu Vestfirðingar þó ríkulega úthlutaðan kvóta árið 1984 samkvæmt veiðireynslu vestfirzkra fiskiskipa, en þeir frömdu það glappaskot að selja fljótlega frá sér megnið af veiðiheimildum sínum, eftir að heimild var gefin til slíks með löggjöf 1990. Sagt er, að vestfirzkir útgerðarmenn hafi ekki reiknað með langæi kvótakerfisins. Það var rangt stjórnmálalegt og efnahagslegt mat. 

Árið 1993 voru 17 kt af uppsjávarfiski verkuð á Bolungarvík, ekkert árið 2013. 

Árið 1993 voru 37 kt af botnfiski verkuð á Vestfjörðum, en árið 2013 aðeins 14 kt, og var það allt verkað á Ísafirði og í Hnífsdal.  Minnkunin nam 23 kt eða 62 %, og nam minnkunin á Suðurfjörðunum 10 kt.  Þetta hefur að sjálfsögðu dregið byggðalegan mátt úr Vestfjörðum, og íbúunum hefur fækkað, en nú hefur orðið gleðilegur viðsnúningur í málefnum Vestfjarða, svo að hillir undir nýja stórveldistíð með drjúgri fólksfjölgun, gjaldeyrisöflun og tekjum á mann yfir meðaltali tekna á landinu. 

Þetta er í raun umfjöllunarefni fyrrverandi forseta Alþingis og núverandi formanns stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva, Einars Kristins Guðfinnssonar, EKG, í grein í Fiskifréttum, 15. desember 2016:

"Lítil dæmisaga um byggðamál frá Noregi":

Einar Kristinn hefur frásögnina af ferð sinni til eyjarinnar Freyju í Noregi þannig:

"Fröya er sjálfstætt sveitarfélag, vestasti hluti Syðri-Þrændalaga í Noregi, ekki langt frá Þrándheimi; Niðarósi, sem kemur mjög við sögu í fornsögunum.  Ólíklegt er, að margir Íslendingar þekki þar staðhætti."

Blekbóndi verður þó að gera athugasemd við síðustu málsgreinina vegna þess, að Þrándheimur eða Niðarós, sbr Nidarosdomen á norsku fyrir Niðarósdómkirkju, er mikið menntasetur og skólabær.  Þar var t.d. lengi rekinn eini Tækniháskóli Noregs, NTH-Norges Tekniske Högskole, nú NTNU eftir sameiningu skóla í Þrándheimi, og þar hafa allmargir íslenzkir námsmenn numið alls konar verkfræði við afar góðar kennsluaðstæður, í góðum tengslum við norskan iðnað, og þar er t.d. Rannsóknarstofnun norskra rafveitna (Elektrisitetsforyningens  Forskningsinstitutt-EFI), við búsældarlegt atlæti í fögru umhverfi, og er blekbóndi á meðal fyrrverandi stúdenta þar. 

Ljúka þeir flestir upp einum rómi um gæði þessa náms og góð kynni af norskum frændum, sem eiga vilja hvert bein í Íslendingum, ef svo ber undir.  Af þessum ástæðum hafa allmargir Íslendingar gengið um Niðarós allt frá dögum Kjartans Ólafssonar frá Hjarðarholti, er hann var þar með fríðu föruneyti ofan af Íslandi og þreytti sundiðkan við knáan Noregskonung kristnitökunnar, Ólaf Tryggvason. 

"En hin norræna skírskotun er kannski ekki í dag það, sem fyrst kemur upp í hugann, hvorki í Noregi né á Íslandi. Heldur miklu fremur hitt, að þarna fer fram gríðarlega öflugt laxeldi, sem hefur haft mikil og jákvæð áhrif á byggðina á eyjabyggðinni (sic.).  Það blasti við mér, eins og öðrum, þegar ég heimsótti Fröya fyrir skemmstu.

Líkt og margar sjávarbyggðir háði Fröya sína varnarbaráttu.  En fyrir um áratug snerist dæmið við, svo að um munaði, með uppbyggingu laxeldisins.  Beinum störfum fjölgaði.  Mikil fjárfesting átti sér stað með öllum þeim umsvifum, sem því fylgja.  Upp spruttu nýjar og áður óþekktar atvinnugreinar, sem leiddu af uppbyggingu í eldinu.  Ungt fólk tók að streyma til eyjarinnar.  Fólkinu fjölgaði, og sveitarfélagið varð æ eftirsóttara til búsetu."

Síðan lýsir EKG því, að á einum áratugi, eftir að þessi mikla atvinnuuppbygging hófst, hafi fólksfjölgun orðið 20 % - 25 %, sem er tiltölulega mikil fjölgun, en þó ekki meiri en svo, að hún getur farið fram með skipulegum hætti, og sveitarfélagið getur á sama tíma reist nauðsynlega innviði.  Markaðsrannsóknir sýna, að markaðurinn getur tekið við enn meira magni af eldislaxi á næstu áratugum og að verðþróun verði framleiðendum hagstæð, eða með orðum EKG:

"Laxeldi í Noregi nemur um 1,4 milljónum tonna, hefur tvöfaldazt á síðustu 8 árum, fer vaxandi og spáð, að svo verði áfram."

Þessi sama þróun er nú nýhafin á VestfjörðumNorsk laxeldisfyrirtæki eru að hasla sér þar völl með töluverðum fjárfestingum og færa hinni ungu grein á Vestfjörðum dýrmæta reynslu, þekkingu, öguð vinnubrögð, gæðastjórnun og öryggisstjórnun. 

Ótti ýmissa hérlandsmanna er um erfðablöndun norska eldislaxins við villta íslenzka laxastofna.  Til þess mega fæstir Íslendinga hugsa, en sjávarútvegsfræðingurinn og framkvæmdastjóri Eldis og umhverfis ehf, Jón Örn Pálsson, hefur í grein í Viðskiptablaðinu, 6. október 2016, fært gild rök fyrir því, að hætta á þessari erfðablöndun þurfi alls ekki að standa þróun greinarinnar fyrir þrifum á Íslandi.

  Í Noregi er nú unnið samkvæmt norska staðlinum NS9415 í laxeldisstöðvum, og eru slysasleppingar í svo litlum mæli eftir innleiðingu hans, að villtum stofnum getur ekki stafað erfðafræðileg hætta af.  Árin 2014-2015 er talið, að 6000 eldislaxar, eða 0,002 % (20 ppm) af fjölda laxa í kvíunum, hafi sloppið í norskar ár, sem mundi þýða 400 eldislaxa á ári í íslenzkar ár m.v. 100 kt/ár framleiðslu.  Jón Örn endar grein sína þannig:

"Af því, sem hér hefur verið dregið fram, má ljóst vera, að ekki þarf að fórna einum einasta villtum laxastofni til að byggja upp mikilvæg störf við fiskeldi á landsbyggðinni."

Leiðin virðist greið fyrir Vestfirðinga að finna fjölina sína á ný með því, að laxeldi og afleiddar greinar þess verði í flestum eða öllum fjörðum Vestfjarða sem kjarnastarfsemi, og ferðaþjónustan sem stuðningsstarfsemi.  Með þessu móti skapast skilyrði fyrir ágætis tekjuþróun og innviðauppbyggingu á Vestfjörðum, sem vantað hefur, frá því að vægi fiskveiða og fiskvinnslu minnkaði með þeirri samþjöppun, sem tækniþróun o.fl. hefur knúið áfram.  Svo kölluðum "brothættum byggðum", 10-12 talsins, samkvæmt skilgreiningu Byggðastofnunar fækkar nú að sama skapi. 

 


PISA ríður nú um þverbak

Fyrir tveimur áratugum ferðaðist blekbóndi til hinnar miklu iðnaðar- og viðskiptaborgar Mílanó á Norður-Ítalíu og þaðan með lest til hinnar stórkostlegu höfuðborgar Toskana-héraðs Etrúskanna fornu, Flórens.  Þeir voru á hærra þekkingarstigi en Rómverjar á 1. öld fyrir krist, t.d. í verkfræðilegum og listrænum efnum, en höfðu ekki roð við rómverska hernum, og Rómverjar innlimuðu Etrúskana í ríki sitt og lærðu margt af þeim. Þetta hernám styrkti Rómarveldi mjög. 

Á ferðum blekbónda um Toskana var m.a. komið til hafnarborgarinnar Pisa,og var ætlunin að fara upp í turninn fræga, en þegar að honum var komið, var hann girtur af og lokaður ferðamönnum, því að hallinn var farinn að nálgast hættustig, og voru Ítalir að undirbúa að draga úr hallanum.  Sú aðgerð krafðist mikillar tækniþekkingar og nákvæmra vinnubragða, eins og nærri má geta.

Það er bráðnauðsynlegt, að skólakerfið hlúi að og rækti þá hæfileika, sem í æskunni búa, svo að þjóðfélagið allt megi njóta ávaxta sköpunargleði og frumlegrar hugsunar, þar sem hana er að finna, og frumlegrar hugsunar við lausn óvæntra viðfangsefna, eins og að minnka halla á um 500 ára gömlum turni. Skólakerfið er síður en svo hjálplegt við slíka þróun, á meðan höfuðáherzlan er á að steypa alla einstaklingana í sama mótið. 

Nú eru greinileg teikn á lofti um, að grunnskólinn sói tíma nemenda með slæmu skipulagi, svo að hæfileikar margra þeirra fara í súginn í stað þess að þroskast og dafna, einstaklingsbundið. Þess vegna er rík ástæða til að spyrna hraustlega við fótum með því að losa um viðjar miðstýringar ríkis og sveitarfélaga og virkja einkaframtakið þó án aukinnar beinnar kostnaðarþátttöku aðstandenda barnanna, því að jöfn tækifæri til náms, óháð efnahag, er öflugasta samfélagslega jöfnunartækið og nokkuð góð samstaða um slíkt í þjóðfélaginu. Stefnan er þá sú, að allir fái að njóta sín, en margir detti ekki af vagninum, af því að þeir passi ekki í sniðmát embættismanna og stjórnmálamanna.    

Því er þessi Pisa-saga leidd fram hér, að kunnáttumat 15 ára unglinga frá 2015 með sama nafni, PISA - Programme for International Student Assessment, hefur nýlega verið gert opinbert. Það er skemmst frá að segja, að niðurstaðan er með öllu óviðunandi fyrir Íslendinga, þar sem íslenzku nemendurnir voru undir meðaltali OECD-landanna og á niðurleið. 

Hugmyndir yfirvalda menntamála hérlendis um viðspyrnu og viðsnúning bera þess þó enn ekki merki, að um viti borið fólk, sem vinni fyrir kaupinu sínu, sé að ræða á Menntamálastofnun, þar sem eina hugmyndin, enn sem komið er, er sú að ausa meiru opinberu fé í málaflokkinn. Árangurinn hingað til stendur þó í öfugu hlutfalli við opinberar fjárveitingar, svo að ráðleysið virðist algert á þeim bænum.  Eina huggun Arnórs Guðmundssonar, forstjóra Menntamálastofnunar, er sú, að mesta jafnræðið innan OECD sé á meðal íslenzkra skóla.  Það er slæmur og óviðeigandi mælikvarði, því að einsleitni skólanna kann að vera verulegur hluti meinsemdarinnar í þessu tilviki, þegar góðar fyrirmyndir og valkosti bráðvantar. Það er nefnilega í þessu tilviki jafnað niður á við að hætti kratismans í sinni verstu mynd.  Því verður að linna, ef ekki á mikill sálarháski að hljótast af, og það er framkvæmanlegt strax. 

Vilji er allt, sem þarf, en ef ályktun téðs Arnórs um, að ekki beri "að líta á þessa slæmu niðurstöðu sem áfellisdóm yfir einum né neinum", á að ráða för, þá eru öll sund lokuð áður en lagt er upp í umbótaleiðangur. Skilja má á forstjóra Menntamálastofnunar, að hann vilji láta allt hjakka í sama farinu, aðeins með meiri fjárútlátum. OECD hefur þó komizt að þeirri niðurstöðu, að hafi framlög hins opinbera náð kUSD 50 á nemanda allan tímann hans í grunnskóla, þá sé nemendum gagnslaust, að framlög séu aukin.  Framlögin hér eru hærri en þetta í öllum sveitarfélögum landsins. 

Niðurnjörvuð einhæfni og einsleitni skólanna, þar sem hvata skortir á öllum sviðum til að skara fram úr, er sökudólgurinn.

Ingveldur Geirsdóttir gerði góða grein fyrir PISA í Morgunblaðsfrétt, 7. desember 2016: 

"Nemendur aldrei komið verr út":

"Íslenzkir nemendur koma mjög illa út úr PISA-könnuninni, sem var lögð fyrir 2015.  Niðurstöður hennar voru kynntar í gær, og benda þær til þess, að frammistaða íslenzkra nemenda sé lakari en árið 2012, þegar könnunin var gerð síðast.

PISA-könnunin er alþjóðleg og er lögð fyrir 15 ára nemendur til að mæla lesskilning, læsi á náttúrufræði og stærðfræði [reading, mathematics and science - betri þýðing er lestur, stærðfræði og raunvísindi - innsk. BJo], á þriggja ára fresti. Þetta er eina alþjóðlega samanburðarmælingin á frammistöðu menntakerfisins, sem fram fer hér á landi. 

Niðurstöður PISA 2015 sýna, að íslenzkum nemendum hefur hrakað mikið á síðast liðnum áratug í náttúruvísindum.  Þeim hefur einnig hrakað stöðugt í stærðfræði, frá því að færnin var fyrst metin árið 2003, og lesskilningur hefur minnkað frá 2000 til 2006, en eftir það hefur hann nánast staðið í stað. 

Árangur íslenzkra nemenda er lakari en á hinum Norðurlöndunum í öllum fögunum þremur.  Þá hefur nemendum, sem geta lítið, fjölgað, og afburðanemendum hefur fækkað."  

Ískyggileg lýsing að tarna fyrir samkeppnishæfni þjóðarinnar í náinni framtíð.  Til að við stöndum öðrum þjóðum á sporði, hvert sem litið verður, og til að í landinu verði áfram menningarlegt velferðarsamfélag, verður grunnskólinn að vera í lagi.  Hann er það augljóslega alls ekki núna, og yfirvöld menntamála með Menntamálastofnun framarlega í fylkingu eru greinilega heldur ekki í lagi, því að þau virðast algerlega ráðalaus, og viðbrögðin þar á bæ eru helzt þau, að hella þurfi meiru opinberu fé í málaflokkinn.  Það er vonlaus aðferð, sem hefur verið beitt undanfarin ár og engum árangri skilað.

Verður nú gripið niður í Óðin í Viðskiptablaðinu, 8. desember 2016:

"Reyndar er ekki rétt, að ekkert hafi gerzt í skólamálum, frá því að íslenzkir skólakrakkar tóku fyrst þátt í PISA-könnuninni árið 2000.  Frá árinu 1998 hafa útgjöld sveitarfélaga til grunnskólanna aukizt um 60,9 % á föstu verðlagi, samkvæmt tölum Hagstofunnar.  Kennurum hefur fjölgað um 20,5 %, og þar af hefur kennurum með kennsluréttindi fjölgað um ein 38,3 %, og eru þeir nær einráðir í kennslu í grunnskólum. 

Útgjöld sveitarfélaganna á hvern nemanda hafa aukizt um 56 %, og útgjöld á hvern kennara hafa aukizt um 33,5 % á sama tíma. Þetta hefur allt gerzt á sama tíma og nemendum í grunnskóla hefur aðeins fjölgað um 3,2 %."

Þessi fjáraustur er birtingarmynd rangrar skólastefnu og ráðleysis, enda eru nú útgjöld á hvern grunnskólanemanda einna hæst á Íslandi af samanburðarlöndunum.  Af ofangreindum tölum að dæma lítur út fyrir, að spara megi fé án þess slíkur sparnaður bitni á árangri nemenda. Ýmis kostnaður er orðinn öfgakenndur, t.d. er talið, að fjöldi nemenda, sem skólasálfræðingur úrskurðar, að þurfi sérkennslu, sé nú tífaldur sá fjöldi, sem búast má við, eða 25 %-30 % af heildarfjölda nemenda. 

Í þessu viðfangsefni er hins vegar þrennt, sem þarf aðallega að gefa gaum: nemendur, kennarar og kennsluumgjörðin.

Nemendur þrífast greinilega illa í skólunum (af árangri þeirra að dæma), enda er þeim skipað saman í bekki án tillits til áhuga og getu.  Slíkt kallar Menntamálastofnun skóla án aðgreiningar og hefur lengi verið kratískt trúaratriði, en er sennilega til ills eins fyrir alla hlutaðeigandi.  Þetta er gildishlaðið orðalag og minnir á "Apartheit" eða aðgreingu kynþátta.  Ekkert slíkt er á dagskrá hér, hvorki á grundvelli uppruna, efnahags, litarafts né trúarbragða.  Hér skal fullyrða, að heilbrigður metnaður nemenda fær ekki að njóta sín, nema færni þeirra og geta, sem eru saman í hópi að reyna að tileinka sér boðskap kennarans, sé á svipuðu stigi.  

Við beztu aðstæður fá nemendur að keppa um sæti í þeim bekk, sem hugur þeirra stendur til, eða að verja sæti sitt með því að leggja sig fram.  Með "kerfi án aðgreiningar" fær enginn að njóta sín, hvorki nemendur né kennarar.  Efnilegum nemendum leiðist aðgerðarleysið, og hinir fá minnimáttarkennd, af því að kennarinn er stöðugt að stagla í þeim. Báðir hóparnir verða órólegir og tefja óafvitandi hvor fyrir öðrum. Fyrir kennarann verður starfið mun erfiðara en ella, þar sem mikill munur er á getu nemenda, því að beita verður ólíkum kennsluaðferðum á ólíka nemendur í sömu deild. Afleiðingin verður sú í sinni verstu mynd, að allir dragast niður á lægra plan en nauðsynlegt er.   

Menntun kennara er á háskólastigi, eins og eðlilegt er, en hún var nýlega lengd undirbúningslítið í 5 ár hérlendis.  Þessi gjörningur þarfnast endurskoðunar og sömuleiðis allt námsefni kennara og þjálfun til að miðla þekkingu á raungreinafögum með fullnægjandi hætti, en þar virðist pottur helzt vera brotinn í færni nemenda auk ófullnægjandi lestrarkunnáttu.

 Fæstir kennaranemar koma af raungreinabrautum framhaldsskóla, og hafa þess vegna haft lítinn gáning á slíkum fögum. Það þarfnast þá átaks að verða fær um að miðla slíkri þekkingu af góðri yfirsýn og með líflegum hætti, ef áhugann hefur vantað áður. Það ætti að þjappa kennaranáminu saman á 4 ár í stað útþynningar, eins og nú er, og veita hins vegar kost á framhaldsnámi í 1-2 ár með hærri námsgráðu.  Námskröfur til kennara þarf að herða, svo að tryggt sé, að þeir valdi því vel, sem þeir eiga að miðla. Hvernig skyldu þeir standa sig á PISA-prófi ?

Hvað hafði Óðinn meira að skrifa um árangursleysi fjárausturs í grunnskólann ?:

"Gríðarleg útgjaldaaukning hefur hins vegar ekki skilað neinu, nema versnandi árangri íslenzkra grunnskólanemenda.  Nú er svo komið, að tæpir 9 nemendur eru á hvern grunnskólakennara, en þeir voru tæplega 10,5 árið 1998.  Ef aðeins er miðað við kennara með kennsluréttindi, eru nemendur á hvern slíkan kennara nú 9,5, en voru 12,7 árið 1998. 

Fleiri kennarar, meira menntaðir kennarar og stóraukin útgjöld.  Árangurinn er hins vegar verri en enginn."

Það er áreiðanlegt, að þegar nemendum er hrúgað saman í bekk án tillits til færni, þá kemst kennarinn ekki yfir að aðstoða hvern og einn samkvæmt einstaklingsbundnum þörfum í sama mæli og í einsleitari bekkjardeildum. 

Þegar blekbóndi var í grunnskóla fyrir meira en hálfri öld, þá voru iðulega 30 nemendur í bekk og einn kennari kenndi öll fögin, nema teikningu, tónmennt, söng, leikfimi og sund. Kennslan gekk samt ágætlega, enda voru kennararnir þá afar hæfir (í minningunni), þótt sennilega hafi þeir haft styttri skólagöngu en kennarar, sem útskrifast úr háskóla nú á dögum. Það þarf ekki að orðlengja, að í þá daga var nemendum raðað í deildir eftir getu og áhuga. 

Kennararnir höfðu strangan aga á sjálfum sér og nemendum sínum, og stundum  þurfti að tukta nemendur til, aðallega strákana. Kennararnir ólu líka heilbrigðan metnað með nemendum um að hækka sig upp í betri bekk eða að halda sæti sínu í góðum bekk, þar sem þeir vildu vera.  Einkunnir á skyndiprófum voru lesnar upp, þannig að innbyrðis keppni var á milli nemenda í hverjum bekk.  Þetta jók áhugann fyrir náminu og kynti undir metnaði, sem nemendur tileinkuðu sér.  Allt er þetta með öðrum, verri og vonlausari brag til árangurs nú á dögum, og þess vegna sekkur íslenzki grunnskólinn nú til botns í feni jafnaðarmennskunnar.

Sú óheillaþróun, sem PISA endurspeglar, jafngildir glötuðum tækifærum einstaklinga í tugþúsundavís og gríðarlegu tekjutapi og kostnaðarauka fyrir samfélag, sem eyðileggur möguleika fjölda manns á að þróa með sér þá hæfileika og þroska, sem gott grunnskólakerfi getur leitt fram.  Eina ráðið til úrbóta er kerfisbreyting, þar sem einsleitni og ímynduðum jöfnuði er kastað fyrir róða, en lögð áherzla á fjölbreytni skóla, samkeppni á milli þeirra og á milli nemenda.

Sveitarfélögin keppa nú þegar um hylli íbúanna, og ríkisvaldið þarf að efla þessa samkeppni íbúunum til hagsbóta.  Það þarf að afnema gólf útsvarsins, veita sveitarfélögunum fullt svigrúm við álagningu allra annarra gjalda og síðast, en ekki sízt, þarf að veita þeim frelsi til að keppa sín á milli á grundvelli gæða grunnskólans, sem er á þeirra snærum. 

Þetta þýðir, að skólar í hverju sveitarfélagi eiga að ráða því, hvernig þeir haga niðurröðun nemenda í bekki, og hvernig þeir meta námsárangur.  Þegar kemur að lokaprófi upp úr grunnskóla í 10. bekk, þarf þó e.t.v. samræmd próf í einni eða fáeinum greinum samkvæmt ríkisnámskrá og staðlað árangursmat til að auðvelda val framhaldsskólanna á nemendum. Annars eiga skólarnir að hafa frjálst val um námstilhögun, námsefni og námsmat, en ríkisnámskrá grunnskóla skal aðeins vera til hliðsjónar. Þetta yrði róttæk breyting til að efla sveitarfélög, skóla þeirra, kennara og nemendur til dáða.

Til að auka líkurnar á betri árangri nemenda og meiri starfsánægju kennara en raunin er í einsleitu kerfi opinbers rekstrar þurfa sveitarfélögin að lýsa yfir áhuga sínum á að fjölga rekstrarformum grunnskólanna, breyta rekstrarformi einhvers eða einhverra núverandi skóla, eða að nýir skólar skuli feta sig áfram á braut, sem vel er þekkt erlendis, einnig á hinum Norðurlöndunum, og fellur undir hugtakið einkarekstur, ekki einkavæðing. 

Þar getur t.d. verið um að ræða sjálfseignarstofnun eða hlutafélag.  Skilyrði er, að hið opinbera standi straum af rekstrinum, eins og það gerir nú, með umsömdu greiðsluþaki, svo að hið opinbera skaðist ekki fjárhagslega af þessu fyrirkomulagi, og gjaldtaka af foreldrum verði bönnuð með sama hætti og í skólum með gamla fyrirkomulaginu.  Enginn ætti að skaðast fjárhagslega, en stefnan með þessari tilraun væri að auka frelsi skólastjórnenda og kennara og bæta líðan nemendanna með viðfangsefnum, sem eru í meira samræmi við getu hvers og eins.   

 

 


Eftirlætisiðja lýðskrumara

Af takmörkuðum fréttum um efni stjórnarmyndunarviðræðna má ráða, að einn helzti ásteytingarsteinninn hafi verið fiskveiðistjórnunarkerfið.  Er það lýsandi dæmi um stjórnmálaástandið, að margir stjórnmálamenn skuli finna sér það helzt til dundurs að ráðast á kerfi, sem aflar svo vel í þjóðarbúið, að það er litið á það utanlands frá sem fyrirmynd umbóta á fiskveiðistjórnarkerfum, sem gefizt hafa illa. 

Lýðskrumarar hérlendis hafa beitt óvönduðum meðulum við að rakka niður núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og alls ekki sýnt fram á með rökum, hvers vegna nauðsyn beri til að umturna því.  Hefði samt verið óskandi, áður en stjórnmálamenn taka að ræða breytingar, að hérlendis hefð verið notuð sama aðferð og í Færeyjum, þ.e. fengnir óvilhallir fræðimenn til að semja skýrslu um kosti og galla núverandi kerfis og síðan að leggja fræðileg rök að breytingum á því eða að öðru kerfi, sem væri þjóðhagslega hagkvæmara en núverandi kerfi, því að líklega er samdóma álit allra, að hér skuli vera við lýði fiskveiðistjórnunarkerfi, sem gagnast þjóðinni sem heild bezt til lengdar. Hér ber að geta þess, að beinir hagsmunaaðilar greinarinnar sjálfrar, útgerðarmenn og sjómenn, hafa lýst andstöðu sinni við þá illa þokkuðu hugmynd að bjóða fiskveiðiheimildir upp.  Aðferðin er illa þokkuð, þar sem hún hefur verið reynd, og reyndist hún hvorki nærsamfélaginu né viðkomandi ríkissjóðum vel.

Í byrjun október 2016 var gefin út ný skýrsla nefndar um nýskipan sjávarútvegsmála í Færeyjum, sem nefnd, skipuð af Högna Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja, samdi.  Svo segir í frétt Jóns Birgis Eiríkssonar í Morgunblaðinu 10. október 2016:

"Óvíst, hvort uppboð verður ofan á":

"Skýrslan er hluti af vinnu við endurskoðun á fiskveiðikerfi Færeyinga í ljósi þess, að á næsta ári [2017] rennur út gildistími veiðiheimilda, sem gefnar voru út fyrir 10 árum.  Í skýrslunni er m.a. boðað, að horfið verði frá sóknarmarkskerfi og tekið upp aflamarkskerfi.  Einnig, að hafrannsóknir verði auknar og að jafnaði verði afla landað í Færeyjum og hann unninn þar."

Þetta er haft eftir Steinari Inga Matthíassyni, sérfræðingi hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, SÍF. Höfundar skýrslunnar komust m.ö.o. að þeirri niðurstöðu, að hafna bæri sóknarmarkskerfinu, sem var við lýði í Færeyjum, og "uppboðsleiðinni", sem núverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja er talsmaður fyrir, en taka upp íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið í einhverri mynd ásamt því að efla færeyskar hafrannsóknir.  Það er lærdómsríkt fyrir Íslendinga að kynnast því, hvað mikil fiskveiðiþjóð, sem horfir til allra átta við mótun nýs fiskveiðistjórnunarkerfis frá grunni, telur verða sér helzt til heilla við nýtingu villtra stofna í sjónum, en Færeyingar eru líka mikil fiskeldisþjóð. 

"Steinar Ingi segir Högna Hoydal, sjávarútvegsráðherra, hafa lagt nefndinni skýrar línur áður en vinnan hófst.  Eitt markmiðanna hafi t.a.m. verið að skoða sérstaklega uppboðsleiðina.  "Hann stendur fyrir þá pólitík, að þessi réttindi skuli boðin upp á opinberum uppboðsmarkaði.  Það er pólitíkin, sem hann og hans flokkur reka," segir Steinar Ingi."

Allar veiðiheimildir í færeyskri lögsögu og úr deilistofnum, sem falla í hlut Færeyinga, falla sem sagt í hlut færeyska ríkisins árið 2017, og ríkið getur gert við þær, það sem því sýnist.  Að mati sérfræðinganna á ríkið ekki að bjóða þær upp, heldur á ríkið (Landsstjórnin í Færeyjum) að úthluta núverandi færeyskum útgerðarmönnum aflahlutdeildir.  Þetta er sama staða og Íslendingar voru í 1983, fyrir 33 árum, þegar Alþingi ákvað þessa leið, og að aflahlutdeildir á skip skyldu ráðast af veiðireynslu 1981-1983.

Hvers vegna skyldu sérfræðingarnir hafa komizt að þessari niðurstöðu, sem er í blóra við vilja sjávarútvegsráðherrans ?:

  1. Sérfræðingarnir hafa litið til reynslu Færeyinga af sóknarmarkskerfi og fundið út, að árangur kerfisins væri óviðunandi m.t.t. vaxtar og viðgangs nytjastofnanna, afkomu sjávarútvegsins og verðmætasköpunar, svo að eitthvað sé nefnt.  Sóknarmarkskerfið fékk falleinkunn hjá sérfræðingum og helztu hagsmunaaðilum í Færeyjum á grundvelli eigin reynslu. Reynslan er jafnan ólygnust.
  2. Sérfræðingarnir hafa litið til reynslu fáeinna þjóða af "uppboðsleiðinni". Hún viðgengst enn á Falklandseyjum, brezkum eyjaklasa úti fyrir strönd Argentínu, en eyjarskeggjar stunda ekki fiskveiðar sjálfir að neinu marki, heldur leigja hæstbjóðandi erlendri útgerð veiðiheimildir í tiltekinn tíma. Eistar og Rússar prófuðu "uppboðsleið", en hurfu frá henni að um þremur árum liðnum, af því að hún var að rústa sjávarútvegi í héruðum, þar sem gerð var tilraun með hana.  Hún leiddi til mikillar skuldsetningar útgerða, gjaldþrota og samþjöppunar aflaheimilda á fáar hendur.  Engin nýliðun varð í greininni.  Hið opinbera fékk fyrst um sinn meir í sinn hlut í þessum æfingum, en er frá leið minnkuðu tekjur þess, og að endingu töpuðu allir, og meiri byggðaröskun varð en nokkru sinni áður.  Við öllu þessu hefur verið varað á Íslandi, ef stjórnmálamenn hérlendis láta glepjast af glópagulli. Færeyingar fengu smjörþefinn í sumar af "uppboðsleið" hjá sér.  Fá tilboð bárust, og engir nýir aðilar voru í hópi þátttakenda.  Gagnrýnendur segja, að veiðiréttindin hafi safnazt á færri hendur en áður og erlendar útgerðir eru taldar hafa beitt fyrir sig leppum til að bjóða fyrir sig í aflaheimildirnar.
  3. Téðir sérfræðingar færeyska sjávarútvegsráðherrans hafa vafalaust litið til bræðraþjóðarinnar á eyjunni í norðvestri frá sér, þar sem aflamerkskerfi með frjálsu framsali aflaheimilda hefur verið við lýði í aldarfjórðung. Það var sett á í andstöðu við útgerðarmenn þess tíma í landinu, sennilega af því að þeir sáu fram á miklar aflatakmarkanir samfara kvótasetningu, eins og reyndin varð, og fyrst nú hillir undir svipað aflamagn bolfisktegunda og þá. Lýðskrumarar hérlendir hamra á "gjafakvóta" til þessara útgerðarmanna, en staðreyndin er sú, að útgerðarmenn þess tíma fengu aflahlutdeild úthlutað út á veiðireynslu.  Þá voru veiðiskipin allt of mörg til að veiðar úr minnkandi stofnum gætu borið sig.  Þess vegna var fleirum ekki hleypt að í 7 ár til 1990-1991, er frjálst framsal aflahlutdeilda var heimilað af Alþingi. Síðan þá hafa nánast allar aflahlutdeildir skipt um hendur, þ.e. gengið kaupum og sölum á frjálsum markaði. Sérfræðingar færeysku Landsstjórnarinnar hafa vafalaust einnig litið til traustrar uppbyggingar þorskstofnsins í íslenzku lögsögunni og borið hana saman við hnignandi hrygningarstofn í færeysku lögsögunni og litið til verðmætasköpunar íslenzka sjávarútvegsins, sem er sú mesta, sem þekkist í heiminum á hvert kg úr sjó. 

 

 Viðkvæði lýðskrumara er, að útgerðarmenn greiði ekki nóg til samfélagsins, af því að þeir séu að nýta auðlind í "sameign þjóðarinnar".  Hér er, eins og vænta má, fiskað í gruggugu vatni.  Hvað er nóg, þegar þess er gætt, að bein opinber gjöld sjávarútvegsins 2015 námu miaISK 22,6 eða 32 % af EBITDA-framlegðinni.  Getur einhver bent á starfsgrein á Íslandi, sem greiðir hærri opinber gjöld eða t.d. hærra hlutfall af tekjum sínum til ríkisins ?  Hlutfallið var í þessu tilviki 22,6/275=8,2 %, og sem hlutfall af hagnaði fyrir skatta 22,6/60,1=38 %. 

Opinberu gjöldin skiptust þannig 2015:

  • Tekjuaskattur: miaISK 9,3=13,1 % af framlegð
  • Tryggingagjald:miaISK 5,8= 8,2 % af framlegð
  • Veiðigjöld:    miaISK 7,5=10,6 % af framlegð

Að óbreyttu stefnir í hærri veiðigjöld á fiskveiðiárinu 2017/2018 vegna góðrar afkomu árið 2015, og samkvæmt gildandi lögum fellur þá niður skuldaafsláttur veiðigjalda, sem eitt og sér mun hækka veiðigjöld um miaISK 1,0.  Á næsta fiskveiðiári gætu veiðigjöldin þannig hækkað um miaISK 2,5 eða um þriðjung og komizt upp í miaISK 10. Þetta er mjög alvarlegt fyrir afkomu sjávarútvegsins, því að á árinu 2016 munu tekjur hans dragast saman m.v. 2015 vegna versnandi viðskiptakjara.  Þar vegur gengishækkun ISK um 16 % þyngst.  Í aðalviðskiptalandinu, Bretlandi, hefur gengi gjaldmiðils landsins,sterlingspundsins, lækkað um 30 % gagnvart ISK.  Við svo búið má ekki standa, og vonandi er Seðlabankinn nú að rumska, en hann hefur sofnað á verðinum gagnvart hættulegri gengishækkun, sem efnahagsstöðugleikanum stafar ógn af.

Að teknu tilliti til versnandi markaðsaðstæðna almennt, einkum fyrir makríl og þurrkaðar afurðir, og hækkandi gengis, má búast við miaISK 30 lægri framlegð sjávarútvegs 2016 en 2015, þ.e. að framlegðin verði um miaISK 40, sem er lækkun um miaISK 30 eða 42 %.  Á sama tíma hækka veiðigjöldin, sem sýnir nauðsyn þess að endurskoða og einfalda útreikning þeirra. Í þessu sambandi þarf að benda á, að í aðalsamkeppnislandi Íslands á þessu sviði, Noregi, eru hvorki innheimt veiðigjöld né hafnargjöld af útgerðum, og launatengd gjöld eru þar lægri en hér.  Í Færeyjum og á Grænlandi greiða sjómenn hluta veiðigjalds á móti útgerðum. Í samkeppninni á erlendum mörkuðum hefur staða íslenzka sjávarútvegsins veikzt verulega.

Nú er svo komið, að afl íslenzkra útgerða til fjárfestinga, sem árið 2015 nam miaISK 26 eða 37 % af framlegð, mun veikjast mjög á næsta ári, og fé til ráðstöfunar af framlegð, EBITDA, til fjárfestinga verður mjög af skornum skammti.  Líklegt er þá, að skuldir útgerðanna vaxi aftur, en skuldir sjávarútvegs voru í hámarki árið 2009 í miaISK 494 og lækkuðu niður í miaISK 333 árið 2015 eða um miaISK 161, og skuldastaðan, sem árið 2015 var 333/71=4,7, þ.e. tiltölulega góð, mun vafalaust versna. Þetta fellir viðkomandi sjávarútvegsfyrirtæki í verði á hlutabréfamarkaði og dregur úr lánshæfni þeirra. 

Í ljósi versnandi horfa um tekjur og skuldastöðu sjávarútvegsins er með eindæmum, að stjórnmálamenn skuli sitja yfir því dögum saman með sveittan skallann í stjórnarmyndunarviðræðum, hvernig hægt sé að ná meira fé en nú þegar er gert af sjávarútveginum til þess að fjármagna aukin umsvif ríkisins, sem eru ótímabær fyrr en lækkaðar vaxtagreiðslur ríkissjóðs veita slíkt svigrúm og mundu setja fullþanið hagkerfi úr skorðum. Slíkir stjórnmálamenn eru buddu almennings stórvarasamir.

Líklegt er, að orðin "sameign þjóðarinnar" í umræðunni og í lagatexta fiskveiðistjórnunarlaganna virki á skattaglaða stjórnmálamenn, eins og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, augljóslega eru, eins og blóðfnykur í loftinu virkar á rándýr. Þannig standa vinstri sinnaðir stjórnmálamenn iðulega á öndinni og halda því blákalt fram, alveg út í loftið, að hægt sé að stórauka skattheimtu með aðför skattheimtumanna að atvinnugreinum, sem hagnýta auðlindir landsins.  Er þá látið að því liggja, að fyrirtækin, sem breyta landsins gæðum í fjármuni séu með ótilteknum hætti að arðræna þjóðina um leið.  Þá er horft framhjá því, að greinarnar eru fjárfrekar og sjávarútvegurinn er áhættusöm grein, sem skilar starfsfólki sínu og viðkomandi byggðarlögum góðum tekjum og ríkissjóði meiri beinum og óbeinum tekjum en aðrar starfsgreinar. Að höggva í sama knérunn hefur löngum þótt ógæfulegt. 

Til að siðferðisgrundvöllur eigi að vera fyrir skattheimtu af einni starfsgrein umfram aðrar þarf að hafa greinzt rentusækni í þeirri grein og hún verið metin til fjár.  Rentusækni er það, að fyrirtæki eða starfsgrein sækist eftir og fái úthlutað ávísun á verðmæti úr takmarkaðri auðlind á kostnað annarra fyrirtækja eða þeim sé með einhverju móti hyglað af hinu opinbera við markaðssetningu á afurðum þeirra.  Sem dæmi um rentusæknar greinar má nefna sjókvíaeldi, orkuvirkjanir og fjarskiptageirann, en í þessum geirum fá fyrirtæki úthlutað starfsleyfum og rekstrarleyfum gegn vægu gjaldi, þar sem fleiri eru um hituna en fá. 

Hvers vegna er íslenzki sjávarútvegurinn ekki rentusækinn ?  Það er vegna þess, að útgerðarmennirnir hafa keypt eða leigt til sín veiðiheimildirnar á frjálsum markaði, og sjávarútvegsfyrirtækin selja afurðir sínar á frjálsum markaði, oftast í harðvítugri samkeppni erlendis við niðurgreidda (rentusækna) erlenda starfsemi. 

Hver ráðskast þá með "sameign þjóðarinnar" í þessu sambandi ?  Fyrst er þar til að taka, að enginn getur átt óveiddan fisk í sjó, enda syndir hann frjálst inn og út úr fiskveiðilögsögunni.  Miðin eru almenningur, þar sem "ítala" hefur verið sett af ríkisvaldinu af illri nauðsyn. Þessi "ítala" er aflamark í hverri kvótasettri tegund og aflahlutdeild veiðiskips.  Aflamarkið er sett af ráðherra á grundvelli rannsókna og ráðlegginga Hafrannsóknarstofnunar, en aflahlutdeildin ræðst á frjálsum markaði, og er þessi nýtingarréttur ígildi eignar, sem varinn er af eignarréttarákvæði Stjórnarskráarinnar. Ef Ísland væri í ESB, væru bæði aflamark innan landhelgi Íslands og aflahlutdeildir ákvarðaðar af framkvæmdastjórn ESB og samkvæmt CAP-"Common Agricultural and Fisheries Policy", mætti ekki mismuna veiðiskipum ESB um aðgang að íslenzku landhelginni til lengdar, enda félli hún undir lögsögu ESB.  Er þetta skýringin á því, að íslenzku ESB-flokkarnir vilja brjóta niður gildandi íslenzkt fiskveiðistjórnunarkerfi, eða ræður tilviljun því, afstaðan til ESB og fiskveiðistjórnunar fara saman ?  Tölfræðilega eru litlar líkur á slíkri samleitni, og þess vegna er tilgátan sú, að ekki sé um tilviljun að ræða. 

Að því leyti eru færeysk og íslenzk stjórnvöld í gjörólíkri aðstöðu, þar sem sóknardagaheimildir í færeyskri lögsögu falla allar til Landsstjórnarinnar á næsta ári, þar sem sóknardagakerfið verður aflagt, en íslenzka ríkisstjórnin verður annaðhvort að kaupa aflahlutdeildir íslenzkra útgerðarmanna eða að taka þær eignarnámi og greiða þá fébætur fyrir, ef hún vill leggja af núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og taka upp annað fyrirkomulag, t.d. "uppboðsleið". Skyldi maður halda, að ríkið hafi annað við peningana að gera en að festa þá í útgerð.  Varpar þessi ráðstöfun ríkisins skýru ljósi á, að "uppboðsleið" er ekki markaðsleið, heldur þjóðnýting aflahlutdeilda í felubúningi markaðskerfis, þar sem gera á útgerðarmenn að leiguliðum ríkisins. 

Blekbóndi á engra beinna hagsmuna að gæta varðandi útgerðirnar í landinu eða kvótaeign þeirra né liggja nokkrir venslaþræðir frá honum til útgerðanna, en hann telur samt einsýnt, að ráðleggingar Hafrannsóknarstofnunar og aflamarkskerfið í sameiningu þjóni bezt hagsmunum hans allra þekktra fiskveiðistjórnunarkerfa, sem og þjóðarheildarinnar, og að hlutdeild ríkissjóðs af afrakstri auðlindarinnar hljóti að vera í hámarki til lengdar frá kerfi, þar sem verðmætasköpunin á hverja einingu er í hámarki

Vinstri hreyfingin grænt framboð, VG, hefur boðað hækkun á skattheimtu af einstaklingum og lögaðilum. Það mun leiða til enn meiri þenslu í hagkerfinu, því að fé þessara aðila, sem annars hefði m.a. verið varið til að greiða niður skuldir, spara, viðhalda húsnæði eða tækjum, fjárfesta í betri búnaði, fara á flandur til gamans eða markaðssetningar eða til einhverra annarra þarfa, fara þá í að þenja umsvif ríkissjóðs, sem ekki eru síður verðbólguhvetjandi en einkaneyzla. VG hefur sérstaklega boðað hækkun á veiðigjöldum, þótt fyrir því séu hvorki réttlætisrök, lögfræðileg rök né hagfræðileg rök.  Veiðigjöldin renna beint til ríkissjóðs, en það er lágmarks réttlætiskrafa, að þau séu eyrnamerkt og renni óbeint til sjávarútvegsins aftur sem framlög í hafnabótasjóð, til Hafrannsóknarstofnunar og til Landhelgisgæzlunnar.  Núverandi álagningaraðferð er ótæk, og væri tekjuskattsauki illskárri aðferð.                       Berlaymont sekkur

 

 

 


Æskan og menntakerfið

Fyrir hag almennings á Íslandi skiptir samkeppnishæfni landsins við útlönd meginmáli.  Á síðasta kjörtímabili fór Íslandi mjög fram, hækkaði um 4 sæti frá 2013-2015, hvað samkeppnishæfni varðar, að mati World Economic Forum-Global Competitiveness Index-WEF-GCI, en hrörnun samkeppnishæfni og lífskjara hefur hins vegar verið óumflýjanlegur fylgifiskur vinstri stjórna. 

Samkvæmt skýrslu WEF eru helztu hamlandi þættir á samkeppnishæfni hérlendis: gjaldeyrishöft, skattheimta og verðbólga.  Þessir þættir stóðu allir til bóta árið 2016, og munu þeir draga úr rýrnun samkeppnishæfni af völdum um 20 % styrkingar ISK á árinu.  Nú, 16.11.2016, hafa furðufuglarnir í Peningastefnunefnd Seðlabankans hins vegar ákveðið, að vegna um 5,0 % hagvaxtar 2016 sé óráð að lækka vexti.  Með þessu ráðslagi grefur bankinn undan trúverðugleika hagstjórnarinnar, því að ISK ofrís nú, og slíkt endar aðeins með kollsteypu. Í þessu sambandi má benda á Svíþjóð.  Þar er hagvöxtur um 4 % 2016, en stýrivextir sænska seðlabankans eru neikvæðir.  Hagfræðingarnir, sem þessu ráða í þessum tveimur löndum,virðast hafa gengið í mjög ólíka skóla.  Vonandi bjagar fortíð íslenzka Seðlabankastjórans sem Trotzkyisti ekki lengur viðhorf hans til raunveruleikans. 

Sviss, Singapúr og Bandaríkin eru efst á þessum lista WEF.  Svissneski frankinn, CHF, hefur fallið mjög m.t.t. USD á þessu ári, enda stýrivextir við 0 í Sviss.  Nú eru teikn á lofti um, að USD muni stíga m.v. aðra gjaldmiðla, einkum EUR og GBP, vegna vaxandi hagvaxtar og hækkandi stýrivaxta í upphafi valdatíðar Donalds J. Trump.

Hið merkilega er, m.v. umræðuna í fjölmiðlum, að á Íslandi stendur grunnskólakerfið og heilbrigðiskerfið vel að vígi samkvæmt WEF og skorar 6,6 af 7,0, og er Ísland þar í 7. sæti af 138 löndum. 

Þá er Ísland vel í sveit sett, hvað varðar að tileinka sér nýja tækni, skorar 6,2 og lendir í 8. sæti.

Hið síðast nefnda hlýtur að vera háð menntunarstigi í landinu og gæðum framhalds- og háskóla.  Vitað er hins vegar, að þar er pottur brotinn, svo að slembilukka gæti ráðið mikilli aðlögunarhæfni að nýrri tækni. 

Mennta- og menningarmálaráðherra vinstri stjórnarinnar 2009-2013 reif niður framhaldsskólakerfið með stórfelldum skerðingum á framlögum ríkisins til þess. Það var kreppa, en það er almennt viðurkennt, að við slíkar aðstæður má ekki ráðast á fræðslukerfið, því að það er undirstaðan fyrir viðsnúning.  Þá er mikilvægast að fjárfesta í framtíðinni

Þrátt fyrir þessi afglöp og stórfelld svik við kjósendur VG með umsókn ríkisstjórnar um aðild að ESB og undirlægjuhátt hennar við AGS og kröfuhafa föllnu bankanna, þá er téð Katrín samt vinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar.  Ávirðingar hennar virðast enn ekki festast við hana, svo að hún verðskuldar vissulega heitið Teflón-Kata.

Illugi Gunnarsson, mennta-og menningarmálaráðherra ríkisstjórna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Sigurðar Inga, 2013-2016, er af allt öðru sauðahúsi, enda lét hann hendur standa fram úr ermum við að bæta fyrir kárínur Katrínar í embætti.  Hann skrifaði mjög góða grein í Morgunblaðið 18. október 2016, "Endurreisn framhaldsskólans",

og verður nú vitnað í hana:

"Þegar núverandi ríkisstjórn tók við sumarið 2013, voru framlög á hvern nemanda í framhaldsskólum landsins um kkr 900 á verðlagi 2016.  Á árunum fyrir hrun hafði aðhaldskröfu verið beint að skólunum, en í kjölfar hrunsins var gengið mjög hart fram gagnvart framhaldsskólunum og þeir skornir mjög grimmt niður.  Til að setja kkr 900 framlagið á hvern nemanda í samhengi, þá er framlag á verðlagi ársins 2016 á hvern grunnskólanemanda um kkr 1´700.  Þessi skelfilega lága tala, sem blasti við sumarið 2013, stefndi öllu skólastarfi í voða, og engar raunhæfar áætlanir voru uppi um, hvernig unnið yrði úr þeirri stöðu."

Þessi hrikalega lýsing eftirmanns Teflón-Kötu á viðskilnaði hennar við embætti menntamálaráðherra bendir til, að hún sé óhæfur stjórnandi.  Ekki einvörðungu skar hún framhaldsskólana inn að beini, svo að starfsemi þeirra beið tjón af, heldur var hún svo sinnulaus um starf sitt, að hún lét undir höfuð leggjast að gera áætlun um endurreisnina.  Öll sú vinna féll í skaut eftirmanns hennar í embætti, og hann hafði forgöngu um kerfisbreytingar, sem leggja munu grundvöll að framhalds- og háskólakerfi í fremstu röð og að menntakerfi, sem eykur samkeppnishæfni þjóðfélagsins:

"Fjölmargar ástæður liggja því til grundvallar að fara úr fjögurra ára framhaldsskólakerfi í þriggja ára kerfi.  Ljóst var, að Ísland var eina landið innan OECD, þar sem 14 ár þurfti til að undirbúa ungmenni fyrir háskólanám, en önnur lönd kláruðu það verkefni á 12 eða 13 árum.  Ekki var hægt að víkja sér undan því að breyta þessu, gríðarlegir hagsmunir eru undir fyrir þjóðarbúið allt, og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur metið það svo, að þjóðarframleiðslan muni verða hærri sem nemur 14-17 miökr/ár vegna þessarar breytingar.  Ríkissjóður mun þar af leiðandi fá í sinn hlut um 5-7 miakr/ár í auknar skatttekjur, og munar um minna."

Illugi gat ekki vikizt undan skyldum sínum sem menntamálaráðherra til að auka skilvirkni framhaldsskólanna, um leið og hann skaut traustum fótum undir umbætur með mjög auknum fjárframlögum úr ríkissjóði.  Teflón-Kata átti hins vegar í engum erfiðleikum með það.  Hennar aðferð er að stinga hausnum í sandinn, ef hana grunar, að krefjandi verkefni sé handan við hornið: 

"Það, sem ég ekki sé, það er ekki fyrir hendi."

"Til viðbótar því fjármagni, sem mun bætast við framlög á hvern nemanda vegna styttingarinnar, þá liggur nú fyrir í samþykktri áætlun um ríkisfjármál til ársins 2021 ákvörðun um að auka framlög til framhaldsskólans um miakr 2,6 á þeim tíma, sem áætlunin nær til. 

Þar með mun framlag á hvern nemanda aukast úr rúmum kkr 900 í um kkr 1´570 árið 2021, og svigrúm er til enn frekari hækkana, ef vilji stendur til slíks. 

Þetta mun gjörbreyta öllu starfi framhaldsskólanna, möguleikum þeirra til að sinna hverjum nemanda með fullnægjandi hætti og tryggja, að menntun ungmenna á Íslandi sé jafngóð því, sem bezt gerist í þeim löndum, sem við viljum bera okkur saman við um lífskjör."

Ofan á sveltigildi Teflón-Kötu er Illugi búinn að bæta kkr 670 eða 74 % sem framlagi ríkisins per nemanda á ári að raunvirði.  Þá verður þetta framlag hærra en allra hinna Norðurlandanna, nema Noregs, og 42 % hærra en meðaltal OECD var árið 2012.  Ef svo fer fram sem horfir um þróun efnahagsmála, verður framlag ríkisins á Íslandi hið hæsta á Norðurlöndunum árið 2021. Er það vel að verki verið hjá Illuga og ríkisstjórninni, sem hann sat í 2013-2016. 

Átak er nauðsynlegt á þessu kjörtímabili í fjármögnun háskólanna, svo að góður menntunargrunnur beri hámarks ávöxt.  Illu heilli stöðvaði Teflón-Kata, ásamt öðrum afturhaldsöflum í blóra við vilja stúdenta, framgang frumvarps Illuga um fjárhagslegt stuðningskerfi við stúdenta í lok síðasta þings haustið 2016.  Frumvarpið innihélt fjárhagslega hvata fyrir stúdenta til að standa sig í námi og ljúka því án tafa.  Umbætur Illuga beinast allar að aukinni framleiðni og auknum gæðum, en skilvirkni er eitur í beinum Teflón-Kötu. Þar situr aumingjavæðingin í fyrirrúmi, enda þjónar slíkt flokkshagsmunum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.  Stórskuldugir eilífðarstúdentar, sem aldrei verða borgunarmenn himinhárra skulda við LÍN, eru hennar menn. 

Mjög jákvætt teikn við íslenzka þjóðfélagið er atvinnuþátttaka ungmenna á aldrinum 15-29 ára.  Á meðal aðildarríkja OECD er hún mest á Íslandi eða um 78 %. Aðgerðarleysi og atvinnuleysi ungmenna er í mörgum löndum stórfellt þjóðfélagslegt og efnahagslegt vandamál.

Í Sviðsljósi Björns Jóhanns Björnssonar í Morgunblaðinu, 13. október 2016, stendur þetta í upphafi greinarinnar:

"Atvinnuþátttaka ungmenna hvergi meiri":

"Samkvæmt nýrri skýrslu frá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni, virðast íslenzk ungmenni búa við mun betri aðstæður en [ungmenni] í öðrum löndum.  Þannig er atvinnuþátttaka 15-29 ára um 80 % hér á landi, en hlutfallið er 2 % í Grikklandi og 28 %-37 % á Ítalíu, Spáni og Portúgal."

Að Ísland skuli fá hæstu einkunn innan OECD fyrir atvinnutækifæri til handa ungmennum, er einhver þýðingarmesta umsögn, sem íslenzka þjóðfélagið getur fengið, og vitnar um heilbrigði þess, fólks, atvinnulífs og stjórnarfars, hvað sem úrtöluröddum niðurrifsaflanna líður.  Ýmsar úrtöluraddir telja íslenzka samfélagið of lítið til að geta staðizt sjálfstætt.  Af 35 ríkjum OECD í þessum samanburði er meðaltalið rúmlega 50 % atvinnuþátttaka ungmenna.  Til hvers að vera stór eða hluti af stóru ríkjasambandi, ef það þýðir mun verri aðstæður og færri atvinnutækifæri fyrir nýja kynslóð ?

Þessu tengd eru lífslíkur, sem eru einna hæstar á Íslandi innan OECD, svo og lífsánægjan, sem fær 7,5 af 10,0 á Íslandi. 

Að lokum skal birta hér upplýsingar um fátækt innan OECD, sem sýna svart á hvítu, að jöfnuður er tiltölulega mikill á Íslandi, enda er menntakerfi, eins og hið íslenzka, öflugasta jöfnunartækið:

"Þegar tölur um fátækt eru skoðaðar, er hlutfall ungmenna einna hæst í flestum ríkjum, einkum þar sem ungmenni fara fyrr að heiman.  Á Íslandi er hlutfall ungmenna, sem teljast búa við fátækt, rúm 5 %.  Um 3 % eldri borgara á Íslandi búa við fátækt samkvæmt OECD.  Eru þær tölur frá árinu 2014.

Athygli vekur, að 25 % ungmenna (16-29 ára) í Bandaríkjunum búa við fátækt, um 24 % í Danmörku, 23 % í Noregi og tæp 20 % í Svíþjóð.  Hvað Norðurlöndin varðar, er í skýrslunni sérstaklega bent á, að ungt fólk flytji fyrr úr foreldrahúsum en víðast annars staðar."

Íslendingar geta verið stoltir af þjóðfélagi sínu varðandi aðbúnað ungmenna og tækifæri þeirra til náms og starfa.  Það er þó vissulega hægt að gera betur. Viðskilnaður fráfarandi ríkisstjórnar er glæsilegur í þessum efnum, en hvort ný ríkisstjórn hefur vit á því að beina kröftunum í rétta átt, þ.e. þangað, sem mestu varðar að ná frábærum árangri út frá sanngirnissjónarmiðum og fjárhagslegum ávinningi samfélagsins er önnur saga.  Það er líka undir hælinn lagt, hvort hún ratar rétta braut að ákvörðunarstað eða þvælist bara fyrir framförum.  Sporin hræða.

 

 

 


Vinstrið slegið út af laginu

Hvarvetna um heim hallar á vinstri menn í kosningum til þjóðþinga og í embætti þjóðhöfðingja.  Stundaglas vinstri manna er að tæmast, enda er ferill þeirra ömurlegur í sögulegu samhengi.  Það flæðir um þessar mundir hratt undan þeim. 

Nýjustu dæmin eru frá Íslandi og Bandaríkjunum, BNA. Á Íslandi var mynduð vinstri blokk fyrir kosningar með bramli og brauki, sem kjósendur  síðan höfnuðu sem misheppnuðu tiltæki.  Í BNA unnu repúblikanar, sem á 20. og 21. öldinni hafa yfirleitt verið taldir vera hægra megin við demókrata,  meirihluta í báðum þingdeildum, og frambjóðandi þeirra til forsetaembættisins vann kosningarnar, þótt hann tapaði í flestum skoðanakönnunum og væri "underdog-tapari" í umsögnum flestra fréttastofanna og meira eða minna óalandi og óferjandi í munni flestra álitsgjafanna.  "Elítan" á öllum sviðum, sem borin er uppi af "Wall Street", hefur demókrata í vasanum og hirðir lítt um hagsmuni almúgans, mátti lúta í gras og sleikir nú sár sín, urrandi ill, eins og Samfylkingin á Íslandi, sem kjósendur sýndu rauða spjaldið og fékk aðeins einn kjördæmakjörinn þingmann 29. október 2016, þótt 2 aðrir flytu á fjörur Alþingis sem hvert annað strandgóss. Fyrrverandi varaformaður þeirra er nú komin í embætti hjá samtökum fjármálafyrirtækja.

Þó að blekbóndi sé ekki stjórnmálafræðingur, tekur hann sér Bessaleyfi og skýrir stefnu og sigur Donalds Trumps þannig, að hún miði öll að því að endurreisa framleiðslukerfi Bandaríkjanna, BNA, iðnaðinn, og skapa þannig grundvöll nýrra, vel launaðra og gefandi starfa, draga þannig úr atvinnuleysi bandarískra ríkisborgara, svo að bandaríski Meðal-Jóninn sjái aftur fjölgun dollara á launaseðli sínum eftir 40 ára hlé á því í raundölum talið. 

Í þessu ljósi ber að líta á afstöðu Donalds til ólöglegra innflytjenda í landinu og ráða hans til að stemma stigu við innflæði fólks yfir landamærin.  Fríverzlunarsamninga hefur hann sömuleiðis gagnrýnt, því að ódýr innflutningur hefur ógnað framleiðslustörfum í BNA og haldið launum niðri í slíkum geirum. 

Hatur spákaupmanna, sem kenndir eru við verðbréfahöllina á "Wall Street", á Donald Trump,  má skýra með því, að stefna hans miði að því, að aukinn hluti verðmætasköpunar bandaríska hagkerfisins lendi í vasa launþeganna.  Aukinn launakostnaður fyrirtækjanna dregur að öðru jöfnu úr hagnaði þeirra, og þá minnka arðgreiðslur til fyrirtækjanna, og pappírssnatarnir á "Wall Street" hafa þá minna upp úr krafsinu.  Kosningasigur Trumps og Repúblikanaflokksins og átökin í kosningabaráttunni verða vel skiljanleg í þessu ljósi, en þeir, sem kenna sig við fræðiheitið Stjórnmálafræði á Íslandi hafa ekki borið við að setja stöðu mála í þetta samhengi, heldur fjargviðrazt einfeldningslega út af einstökum atriðum, að því er virðist vegna andúðar og/eða samúðar með persónum og leikendum.  Verður ekki séð til hvers slík "fræðimennska" er eiginlega nýt.

 Stjórnmálaflokkar, sem staðsetja sjálfa sig vinstra megin við miðju í stjórnmálum, þó að sú miðja sé breytileg frá einu landi til annars, og breytist líka í tíma, eins og Bandaríkin eru skýrt dæmi um, eru í hugmyndafræðilegri úlfakreppu, sem kemur fram í kosningaósigrum um víða veröld.  Vinstri menn á Íslandi, sem 29. október 2016 töpuðu kosningum til Alþingis, þegar þeir töldu sér sigurinn vísan vegna  skoðanakannana, sem vitað er nú, t.d. eftir bandarísku kosningarnar, að er lítið að marka, og er í sumum tilvikum hrein "manipúlasjón", þ.e. misnotkun í því augnamiði að afvegaleiða kjósendur. 

Ríkisstjórn Sigurðar Inga, vinsæls og vel metins dýralæknis af Suðurlandi, féll að vísu, en tilburðir Pírata til að mynda vinstri stjórn fyrir kosningar reyndust alls ekki falla meirihluta kjósenda í geð.  Svikabrigzl sjóræningjadrottningarinnar eftir kosningar í garð þeirra (BF), sem þáðu boð hennar um myndun sýndarríkisstjórnar, sem aldrei varð barn í brók, hljóma eins og spangól kjölturakka. Áður lýsti hún því yfir, að Píratar vildu ekki setjast í ríkisstjórn, en nú vilja þeir í ríkisstjórn með Teflon-Kötu.  Hringlandahátturinn ríður ekki við einteyming á þeim bænum.  Tilburðir til stjórnarmyndunar með þessu tætingsliði á vinstri kantinum eru einber tímasóun. 

Aumkvunarverðar tilraunir vinstri flokkanna til stefnumörkunar eru allar reistar á sandi vanþekkingar og/eða rangtúlkunar á staðreyndum.  Með því að sigla undir fölsku flaggi komast þeir einatt til valda og þá bregst ekki, að þeir nota völdin til að hrinda óvinsælli sérvizku sinni í framkvæmd. Sem dæmi má taka hundakúnstir talsmanna vinstri flokkanna, er þeir fiskuðu í gruggugu vatni jöfnunar tekna og eigna í landinu fyrir kosningar til að fá átyllu til skattahækkana eftir kosningar:

Teflon-Kata, formaður VG, lapti eins og vel strokinn köttur upp úr Kjarnanum og Fréttablaðinu á síðustu dögum síðasta þings, þar sem hún reyndi að gera dreifingu fjármagnstekna og launatekna tortryggilega.  Svandís Svavarsdóttir, SS, illyrtur og hugmyndasnauður sameignarsinni, bætir jafnan um betur til að falla samt ekki í skugga Teflon-Kötu, enda er hún meira í ætt við broddgölt áferðar en Teflon-Kata, og sagði á þingi af þessu tilefni, að baráttan á Íslandi stæði nú um það, hvort lítill hópur eigi að taka til sín miklu meira en aðrir og klykkti svo út þannig:

"Hvort útgerðaraðallinn og Panama-yfirstéttin eigi áfram að efnast meira á kostnað hinna.  Við sjáum það á hverjum einasta degi, að hinir ríku verða ríkari, og misskipting er að aukast dag frá degi."

Þessi tilvitnun í Alþingismanninn SS er groddaleg blanda hálfkveðinna vísna og ósanninda í anda stéttastríðs upp á gamla móðinn.  SS virðist vera genetísk afæta. Téðum þingmanni hentar afar illa að fara með rétt mál, enda helgar tilgangurinn meðalið hjá ómerkilegum stjórnmálamönnum. ("Der Erfolg berechtigt den Mittel" var mottó annarra einræðisafla, sem sölsuðu undir sig ríkisstjórnarvald í veiku  Weimar-lýðveldi eftir þingkosningar í janúar 1933.)

Gunnar Jörgen Viggósson gerði aðdróttanir Teflon-Kötu á þingi um aukna misskiptingu tekna og eigna að umræðuefni í pistli, sem hann fékk birtan á Stundinni fyrir kosningar 29.10.2016. 

Hann hrekur allan vaðalinn í Teflon-Kötu og endar pistilinn þannig:

"Meirihluti þeirra fullyrðinga, sem Katrín Jakobsdóttir hafði eftir Fréttablaðinu í gær á Alþingi voru rangar.  Á undanförnum árum hefur þróunin ekki verið sú, að 2 tekjuhæstu tekjutíundir fái greiddan stærri hlut af launum landsmanna.  Sömu tekjutíundir fengu ekki 2 krónur af 3 af aukningu launatekna, og aukning launatekna nam ekki miakr 200 á milli áranna 2013 og 2015."

Teflon-Kata fær hér falleinkunn fyrir slæleg vinnubrögð og skáldskap, þar sem hún veður að óathuguðu máli upp í ræðupúlt Alþingis og slær um sig með upplýsingum frá fjölmiðli án þess að kynna sér sannleiksgildið.  Það litla, sem hún kom í verk í ráðherratíð sinni, var reyndar þessu markinu brennt að standast illa gagnrýni, t.d. frumvarp hennar um lánsfé til stúdenta erlendis án greiningar á lánsfjárþörf í hverju landi. 

Hvað hefur Óðinn að skrifa um þetta í greininni, "Vopnabúr vinstrimanna er tómt"

í Viðskiptablaðinu, 13. október 2016 ?: 

"Tekjujöfnuður eftir skatta er mestur á Íslandi af ríkjum OECD, var það í tíð síðustu ríkisstjórnar [Jóhönnu Sigurðardóttur] og er enn. Samkvæmt GINI stuðlinum hefur heldur dregið saman með tekjuháum og tekjulágum síðastliðin ár, og var stuðullinn 0,4 stigum lægri (meiri jöfnuður) árið 2015 en við lok síðasta kjörtímabils.

Einnig er hægt að skoða þróun eigin fjár einstaklinga síðustu ár, en eigið fé er í einföldu máli eignir að frádregnum skuldum.  Eigið fé einstaklinga á Íslandi hefur aukizt verulega frá árinu 2010, þegar það var í lágmarki eftir fall bankanna.  Alls nemur aukning eigin fjár einstaklinga miökr 1´384,3, sem er 88 % aukning á milli áranna 2010 og 2015. 

Hlutfallslega hefur staða einstæðra foreldra og hjóna með börn batnað mest.  Árið 2010 var eiginfjárstaða einstæðra foreldra neikvæð um miakr 6,0, en var í árslok 2015 jákvæð um miakr 69,4.  Eiginfjárstaða hjóna með börn hefur batnað um 184 % og farið úr miökr 184,8 í miakr 524,3.  Til samanburðar hefur eiginfjárstaða hjóna án barna batnað um 60 % á tímabilinu."

Þessar tölur sýna, svo að ekki verður um villzt, að eignastaða hinna lakar settu í þjóðfélaginu hefur tekið stakkaskiptum á fáeinum árum, og þvert ofan í getsakir þeirra tveggja sameignarsinnuðu og þó ólíku kvenna, sem vitnað var til hér að ofan, þá hefur hagur hinna lakast settu skánað hlutfallslega mest, sem hefur haft jákvæð áhrif á jöfnuðinn.  Þær hafa þannig báðar orðið berar að gaspri um mál, sem hvorug þeirra hefur þó meiri áhuga á en svo, að hvorki formaður VG né formaður þingflokks hennar nennir að kynna sér málið.  Þar er hinum ráðandi öflum rétttrúnaðarsafnaðarins rétt lýst. Þau vaða á súðum.

Óðinn heldur áfram:  

"Hinir efnuðustu eru vissulega að auka verulega við eignir sínar í krónum talið, en hlutfallslega hefur hagur allra annarra batnað meira en þeirra.  Sést þetta til að mynda á því, að árið 2010 átti efnamesta tíundin um 86 % af heildareiginfé landsmanna, en árið 2015 var hlutfallið komið niður í um 64 %."

Sú spurning vaknar, hvort það sé hlutverk ríkisvaldsins að amast við því, að einhverjum vegni fjárhagslega betur en öðrum ?  Ef féð er heiðarlega fengið, þá hefur sjaldnast nokkur skaðast á velgengni annars.  Oft er um að ræða háskólafólk, sem hefur auðgazt af menntun sinni og sérfræðiþekkingu, t.d. læknar, lögfræðingar, verkfræðingar og viðskiptafræðingar, svo að ekki sé nú minnzt á eftirsótta skipsstjórnendur og flugstjóra.  Það er einmitt hin eftirsóknarverða þjóðfélagslega afleiðing menntunar, að hún eykur s.k. þjóðfélagslegan hreyfanleika, þ.e. tilfærslu fólks á milli stétta og tekjuhópa.  Þessi þjóðfélagslegi hreyfanleiki eftir launastiganum er óvíða meiri en á Íslandi, og hann er miklu eftirsóknarverðara og heilbrigðara þjóðfélagseinkenni en tekju- og/eða eignajöfnuður, sem dregur dám af ríkisvæddu ráni, dregur úr hagvexti og minnkar eða dregur úr vexti skattstofnanna.  Með öðrum orðum á ríkisvaldið að leggja meiri áherzlu á jöfnun tækifæra en jöfnun tekna og/eða eigna, sem ríkið gerir einatt með ranglátri skattheimtu.  Það orkar mjög tvímælis að mismuna þegnunum með misharðri skattheimtu og þannig draga úr hvatanum til að sækja sér menntun eða öðruvísi að leggja harðar að sér við tekjuöflun og eignamyndun. 

"Nær hvernig sem á það er litið, hefur jöfnuður verið að aukast síðustu ár, og er allt tal um annað í bezta falli á misskilningi byggt.  Hitt er svo annað, að jöfnuður á ekki að vera sérstakt markmið í sjálfu sér.  Aðalatriðið er það, hvort almenn velsæld sé að aukast eða minnka.  Það, að nágranni Óðins eigi meira í dag en í gær, hefur ekkert með það að gera, hvort hagur Óðins sjálfs hafi vænkazt eða ekki."

Þarna drepur Óðinn á þjóðfélagslega meinsemd, sem er metingur nágranna, kunningja eða stétta um lífskjör.  Þetta kom síðast fram, þegar Kjararáð kvað upp úrskurð um laun Alþingismanna.  Þegar betur var að gáð, fylgdi Kjararáð bara þróun launavísitölu, þó að stökkið væri hátt, en þau hafa verið tiltölulega fá.  Verkalýðsforingjar réðust að Kjararáði fyrir þennan úrskurð, og fór forseti ASÍ þar fremstur.  Það hefur verið upplýst, að hann sé á hærri launum en Alþingismenn verða eftir téðan úrskurð.  Er það eðlilegt ?  Nei, það er ekkert vit í því, að verkalýðsforingi sé á margföldum launum sinna félagsmanna og á hærri launum en þeir/þau, sem setja eiga þjóðinni allri lög, og sjái svo ekki sóma sinn í því að halda þverrifunni saman, þegar öðrum er dæmd leiðrétting launa sinna. 

Á Íslandi eru heimilin að fá ríflega sinn skerf af batnandi hag fyrirtækja og hins opinbera.  Það er ekki svo alls staðar.  Í Bandaríkjunum hafa t.d. miðlungstekjur hvítra karla, miðgildi launatekna þeirra, "median white male earnings", fremur lækkað að raungildi í 40 ár, þ.e. frá 8. áratuginum, raungildi tekna vel ofan miðgildis hafa þó hækkað, en neðan miðgildis lækkað.  Þetta er algerlega óeðlileg launaþróun, og óánægjan brauzt út með sigri "utangarðsmanns" í forkosningum repúblikana og síðar sigri hans í kosningunum 8. nóvember 2016, þar sem hann fékk yfir 300 kjörmenn, að kjörmönnum Michigan meðtöldum, sem vafi leikur um á þessari stundu, af 528, með sigri í um 70 % ríkjanna, meirihluta flokks hans í báðum þingdeildumm og nú eru um 70 % ríkisstjóranna repúblikanar.  Þótt Donald Trump hafi e.t.v. ekki fengið fleiri atkvæði en Mitt Romney 2012, þá fékk Hillary Clinton mun færri atkvæði, um 6 milljónum, en Barack Obama þá, og þetta er þess vegna einn versti ósigur demókrata í manna minnum á landsvísu, þótt halda beri til haga, að þeir fengu fleiri atkvæði alls en repúblikanar í forsetakosningunum, af því að stuðningur er mikill við þá í fjölmennustu ríkjunum, New York ríki og Kaliforníu.  Slíkt nýtist ekkert í kjörmannakerfi BNA.

Áfram skal vitna í Óðin:

"Í þessu ljósi er vert að benda á, að ráðstöfunartekjur heimila [á Íslandi] jukust árið 2015 um 10,8 % frá fyrra ári.  Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 9,6 % á milli ára, og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um 7,9 %.  Þá jukust heildartekjur heimila um 9,5 % á milli áranna 2014 og 2015."

Hér er um einstæðar tölur að ræða í sögulegu samhengi á Íslandi, og á seinni árum finnst svo hröð kaupmáttaraukning vart annars staðar á Vesturlöndum.  Íslendingar eru þess vegna án nokkurs vafa "á réttri leið", enda hafa vinstri flokkarnir engan höggstað fundið á efnahagsstjórnuninni 2013-2016. 

Það er fullkomið vindhögg hjá þeim að reyna að gera sér mat úr tekju- eða eignadreifingunni á Íslandi.  Hún er nánast hvergi jafnari en hér, og alþjóðlegir ráðgjafar hafa bent á, að jafnari tekjudreifing geti orðið skaðleg fyrir samfélagið, því að í tekjumuni felist hvati til að komast í hærra tekjuþrep.  Því fleiri leiðir sem einstaklingarnir hafa til slíks, þeim mun betra.  Það er jafnframt kunnara en frá þurfi að segja, að há sérfræðingslaun eru stór þáttur í samkeppnishæfni landa um fólk með verðmæta alþjóðlega þekkingu fyrir stofnanir og fyrirtæki.  Síðast sannaðist það áþreifanlega eftir læknaverkfallið á Íslandi 2015, þó að nokkrir íslenzkir læknar á erlendri grundu bíði bættrar og langþráðrar vinnuaðstöðu á Landspítalanum.     

 


Umferðaröngþveiti í boði sérvitringa

Ef ekkert verður að gert, sem að kveður í gatnakerfi höfuðborgarinnar, þá stefnir í þreföldun ferðatíma þar á álagstímum m.v. ferðatímann árið 2007, sem þó var ærinn. Að 7 árum liðnum, árið 2023, mun það taka að jafnaði eina klukkustund að komast leiðar sinnar á milli heimilis og vinnu og til baka, ef svo heldur fram sem horfir, sem tók að jafnaði 21 mín árið 2007. 

Þetta er algerlega óviðunandi, hrikalega dýrt á formi tímaeyðslu og eldsneytis og mun rýra loftgæði á höfuðborgarsvæðinu til mikilla muna, því að vélarnar ganga megnið af þessum tíma kaldar í lausagangi við aðstæður, þar sem þær sóta sig og menga mest. Ekki þarf að orðlengja það, að loftgæði eru dauðans alvara, því að árlega verða nokkur snemmbúin dauðsföll af völdum mengunar andrúmslofts af völdum umferðar á höfuðborgarsvæðinu, og vanlíðan margra eykst, þegar loftgæðin eru léleg.

Það er ekki náttúrulögmál, að svona þurfi þetta að vera, eins og er erlendis vegna fjölmennis, langra vegalengda, stilltara veðurfars og mengunar af öðrum völdum.  Þetta er heimatilbúið vandamál heimaalninga í vinstri meirihlutanum í Reykjavík, þar sem vel að merkja glærir Píratar hafa sameinazt hinum hefðbundnu rauðliðum við stjórnun borgarinnar án þess, að hún hafi batnað merkjanlega við það. 

Af hugsjónaástæðum neitar borgarstjórnarmeirihlutinn að horfast í augu við vandamálið með raunsæjum hætti, þ.e. með því að auka flutningsgetu helztu umferðaræða í Reykjavík á annatímum, þ.e. hámarksflutningsgetuna, en ákvað þess í stað að fara í stríð við 78 % vegfarenda, sem kjósa að fara ferða sinna í einkabíl.  Þetta stríð forræðishyggjunnar við einkabílinn hefur borið þann árangur, að fækkað hefur hlutfallslega í hópi vegfarenda í einkabíl um 9 %, en 87 % vegfarenda voru í einkabílum fyrir 9 árum, árið 2007, þ.e. fækkun um 1 %/ár. 

Engu að síður varð 6,5 % aukning umferðar í dæmigerðum talningasniðum Vegagerðarinnar tímabilið janúar-október 2016 m.v. sama tímabil 2015, og er umferðin þar nú 153´021 farartæki á sólarhring, sem er 9,5 % meira en árið 2007. Aukningin stafar af erlendum ferðamönnum, fjölgun bíla og rýmri fjárhag landsmanna, þó að borgarbúar séu skattlagðir upp í rjáfur af vinstri flokkunum, eins og þeim einum er lagið.

  Vegfarendur voru spurðir um meðaltímalengd sína á leiðinni frá heimili til vinnu, og var niðurstaðan 14,0 mín árið 2016 og 10,5 mín árið 2007.  Á þessum grundvelli má búast við hálftíma aðra leið eigi síðar en árið 2023 í boði meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur, sem í blóra við Sjálfstæðisflokkinn í minnihlutanum hefur sett framkvæmdastopp á allar meiriháttar fjárfestingar í gatnakerfi Reykjavíkur með samningi við Vegagerðina um fjárframlög hennar til strætisvagnasamgangna á milli Reykjavíkur og hinna dreifðu byggða landsins.  Ótrúlegt, en satt.  Vegir Dags eru að sönnu órannsakanlegir. 

Í Morgunblaðinu 8. nóvember 2016 birtist fréttin "Mikið álag á gatnakerfið",

þar sem viðtal var við Ólaf Kristin Guðmundsson, umferðarsérfræðing og stjórnarmann í FÍB, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda:

"Ólafur Kr. Guðmundsson segir, að ástandið á Vesturlandsvegi á álagstímum á morgnana gefi glögga mynd af þeim vanda, sem við sé að etja.  Þá nái bílaröðin iðulega frá Grensásvegi alla leið upp að Mosfellsbæ.  Í bílunum sé fólk á leið í vinnu og skóla.

""Miklabrautin annar bara um 60 % af umferðinni með góðu móti.  Það er vegna umferðarljósanna.  Það eina, sem dugir er að setja mislæg gatnamót við öll helztu gatnamótin á Miklubraut og við Sæbraut líka", segir Ólafur. 

Hann segir, að setja þurfi mislæg gatnamót á öllum gatnamótum Miklubrautar, við Grensásveg, Háaleitisbraut, Kringlumýrarbraut og Lönguhlíð.

"Þessi framkvæmd var á aðalskipulagi, en nú er búið að henda henni út", segir Ólafur.  Hann segir, að það sama eigi við um Sæbrautina.  Þar séu fjölmörg ljós, sem tefji umferðina, og á annatímum seinni part dags myndist bílaröð frá miðborginni alla leið austur að Reykjanesbraut.  Umferðin komi í gusum vegna ljósanna, og þess á milli sé brautin tóm."

Með mislægu gatnamótunum, sem umferðarsérfræðingurinn nefnir, má a.m.k. tvöfalda núverandi snurðulausa flutningsgetu Miklubrautar og þannig vinna góðan tíma unz Sundabrúin kemst í gagnið. Það er ekki til neins fyrir sérvitringana í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur að stinga hausnum í sandinn að hætti strútsins og neita að horfast í augu við viðfangsefni borgar og Vegagerðar, sem er að greiða úr umferðaröngþveitinu í Reykjavík og nærsveitum með því að setja mislæg gatnamót á helztu umferðaræðar, fyrst inn á Aðalskipulag, síðan í forhönnun og deiliskipulag og að lokum í verkhönnun á vegum Vegagerðarinnar, og vinna þetta skipulega, hratt og fumlaust. 

Það er þó víðar pottur brotinn en hjá garminum honum Degi, því að Vegagerðin er með "mörg svín á skóginum" vegna fjársveltis frá árinu 2011.  Slíkum sparnaðarráðstöfunum ríkissjóðs má líkja við "að míga í skóinn sinn", og sannast þar enn, að dýrt er að vera fátækur.  Hér fer á eftir lýsing úr fréttaskýringu Morgunblaðsins, 22. september 2016:

"Nýjar tölur sýna, að vetrarumferð á leiðinni á milli Gullfoss og Geysis hefur á 5 árum aukizt um 185 %.

Ólafur Kr. Guðmundsson, sem er tæknistjóri EuroRAP á Íslandi, sem er vegamatsáætlun fyrir öryggi vegakerfis á Íslandi, er ómyrkur í máli, þegar hann er inntur eftir stöðu vegakerfisins:

"Það er að hruni komið mjög víða.  T.d. er vegurinn niður á Hakið við Almannagjá þannig, að hann er allur í holum, sprunginn og brotinn og allar yfirborðsmerkingar horfnar.  Vegurinn upp að Gjábakka er að molna niður, ekki sízt austanmegin, og hann lifir vart sumarið.  Vegurinn á milli Gullfoss og Geysis er mjög illa farinn, siginn, risastórar holur og kantarnir að gefa sig.  Þetta eru fjölfarnir ferðamannavegir og aðeins 2 dæmi af fjölmörgum um ástandið, eins og það er." 

Hann segir, að það dugi engan veginn til að leggja um miaISK 10 til kerfisins á ári. 

"Við þurfum að komast í ríflega miaISK 20 á ári, sem er tvöföldun frá því, sem nú er.  Við vorum að eyða um 2,5 % af VLF í vegakerfið fyrir hrun.  Nú erum við að verja um 1 %, og það er einfaldlega allt of lítið.  Þetta birtist t.d. í því, að hlutfall erlendra ferðamanna í hópi alvarlega slasaðra og látinna hefur hækkað stöðugt.  Það var 12 % árið 2014 og er nú komið í 23 %, það sem af er þessu ári [2016].""

Það er hægt að taka heils hugar undir þetta mat og ráðleggingu umferðar-og vegasérfræðingsins.  Nú er varið úr ríkissjóði um miaISK 25 til Vegagerðarinnar, en sú upphæð dreifist á ólíka liði, t.d. ferjusiglingar, og hún þarf að hækka um að lágmarki 10 miaISK/ár til vegaviðhalds einvörðungu, og heildarfjárfestingar og rekstur vegakerfisins að einkaframkvæmdum meðtöldum að nema um 50 miaISK/ár.   

 

 


Ráðandi öfl hlutu ráðningu

Bandaríkjamenn kusu þriðjudaginn 8. nóvember 2016 til forseta alríkisins mann, sem helztu forkólfar repúblikanaflokksins og fyrrverandi forsetar á vegum þess flokks höfðu neitað að styðja.  Svo kölluð elíta Bandaríkjanna og annarra Vesturlanda vildi ekki sjá Donald Trump í Hvíta húsinu. Það var vegna þess, að þessi auðjöfur var ómeðfærilegur og ekki í vasa valdamikilla sérhagsmunahópa. Donald J. Trump var ekki til sölu. Ekki þarf að hafa mörg orð um fréttastofur og álitsgjafa í þessu sambandi.  Þar er ríkjandi víðast hvar vinstri slagsíða og ósvífnin og hrokinn næg til, að ekki er reynt að draga fjöður yfir svo ófagmannlega starfshætti. Á "The New York Times" hefur útgefandinn nú séð að sér og sent afsökunarbréf til áskrifenda og lofað þar bót og betrun.  Hvenær skyldi skylduáskrifendum RÚV berast afsökunarbeiðni frá Útvarpsráði vegna hlutdrægs fréttaflutnings af atburðum, mönnum og málefnum, innanlands og utan ?  Í tilviki nýafstaðinna kosninga í Bandaríkjunum hefur keyrt um þverbak á RÚV og fréttastofan sett nýtt met í ófaglegri umfjöllun, sem er lituð af persónulegum viðhorfum fréttamanna og valinna álitsgjafa þeirra, sem hunza gjörsamlega hugtakið hlutlægni, eins og þeir eigi fjölmiðilinn sjálfir.

Miðvikudagsútgáfa Morgunblaðsins, daginn eftir, var enn undir áhrifum stjórnmálafræðinga og fréttastofa, sem lagt höfðu allt sitt traust á viðhorfsmælingar, sem látið var í veðri vaka, að með 85 %-95 % öryggi ("confidence level") bentu til, að frambjóðandi demókrata mundi bera sigur úr býtum.  Jafnan var farið með tugguna um, að Hillary Clinton (HC) nyti svo og svo mikils stuðnings umfram frambjóðanda repúblikana í forsetakjörinu, oft meira en 5 %, þótt þetta væru augljóslega villandi upplýsingar, því að 538 kjörmenn allra ríkjanna velja forseta og til að fá stuðning þeirra allra dugar í flestum tilvikum að fá meirihluta greiddra atkvæða, og HC naut stuðnings drjúgs meirihluta í fjölmennustu ríkjunum. Þess vegna endaði hún með fleiri atkvæði í heild, en færri kjörmenn.

Það var mikið fimbulfambað á fréttastofum og á meðal álitsgjafa um meiri stuðning rómansks fólks við HC, en þessir aðilar hefðu átt að staldra við könnun, sem sýndi Donald J. Trump (DJT) með meirihluta á meðal kaþólskra, og reyndar einnig á meðal evangelískra.  Fréttum, sem vilhallar fréttastofur mátu í hag repúblíkananum, var einfaldlega ekki hampað.  Á fréttastofum er vitað, að fréttaflutningur getur verið skoðanamyndandi, og demókratar í Bandaríkjunum, sem ráða yfir flestum fjölmiðlum og fréttastofum í BNA, hafa iðulega unnið dyggilega í þágu málstaðarins, þó að þeir þar með hafi gert sig seka um þöggun og að þegja óþægilegar staðreyndir í hel. Kannast einhver við þessa lýsingu úr heimahögunum ?  Vinstri slagsíða á fréttastofum ríður ekki við einteyming. 

Þótt undarlega hljómi í Evrópu, þá má ætla, að flestir Bandaríkjamenn séu þeirrar skoðunar nú, að "litli maðurinn", sem útblásinn stjórnmálafræðiprófessor við HÍ kallar "taparann", hrósi nú happi í BNA yfir því, að auðjöfurinn, auðvaldsseggurinn Donald J. Trump, skyldi bera sigur úr býtum í nýafstöðnum forsetakosningum í Bandaríkjunum. 

Það er m.a. vegna þess, að hann var algerlega upp á kant við kerfið, "The Establishment", hin ráðandi öfl alls staðar í þjóðfélaginu, sem mótað hafa umræðuna, ráðið ferðinni, sett fram og varið "rétttrúnaðarstefnu" fjármagnsins á "Wall Street", sem svælt hefur undir sig samfélagið á kostnað hins vinnandi manns, sem vill geta aflað sér og sínum tekna á heiðarlegan hátt og gat það, þar til hann var rændur lífsviðurværinu með því að flytja framleiðsluna á ódýrari staði. 

Meirihluta Bandaríkjamanna þykir líklega, sem "landi tækifæranna-Guðs eigin landi" hafi verið rænt í dagsbirtu rétt framan við nefið á þeim.  "Litli maðurinn", sem stjórnmálafræðiprófessorinn Ólafur Þ. Harðarson, svo ósmekklega kallar "taparann", af því að hann missti starfið sitt, veit, að það er ekki hægt að kaupa Donald J. Trump.  Hið sama varð hins vegar ekki sagt um mótherjann.  Hún var undirlægja fjármálaaflanna. Það sýnir mátt lýðræðisins í BNA, að meirihluti kjósenda þar (það voru mun fleiri en HC og DJT í kjöri) skuli hafa þrek til að andæfa þessu ofurvaldi.  HC hefur nú kennt yfirmanni FBI, Comey, um ósigur sinn.  Það er ódrengilegt, því að hann hélt augljóslega yfir henni hlífiskildi, þó að hún hefði gerzt sek um athæfi, sem stofnaði öryggishagsmunum Bandaríkjanna í hættu.  Það er sjaldgæft, að tapari í forsetakjöri tilnefni blóraböggul fyrir sig.

Nú verður vitnað í 3 forystugreinar Morgunblaðsins í kjölfar kosninganna og í Hjörleif Guttormsson, náttúrufræðing og fyrrverandi iðnaðarráðherra:

Forystugreinin "Loksins lokið", 9. nóvember 2016:

"Fjölmiðlar á Vesturlöndum eru langflestir yfirmannaðir af vinstri sinnuðum blaðamönnum.  Hlutfallið er allt annað en almennt gerist í löndunum sjálfum."

Almenningur á Vesturlöndum hefur gert sér grein fyrir þessu og sprautað sig með móteitri gegn einhliða og oft einfeldningslegum frásögnum blaðamanna af mönnum og málefnum.  Það er hægt að skynja vinnustaðaleiðann, sem fæðir af sér óánægju með hlutskipti sitt, mikla gagnrýnisþörf á þjóðfélagið vegna eigin stöðu og öfund gagnvart öllum, sem betur vegnar. 

Í forystugreininni, "Það óvænta gerðist", 10. nóvember 2016, stóð m.a. þetta:

"Kannanir helztu fyrirtækja á þessu sviði sögðu hana [Hillary] hafa 4 % - 7 % stiga forskot á andstæðinginn, utan við öll vikmörk.  Örstutt var til kjördags og óákveðnir fáir.  Á það var bent hér, að þessar kannanir á landsvísu segðu ekki allt.  Ríkin, þar sem minnstu munaði á milli frambjóðenda, segðu aðra sögu."

Vinnubrögð fyrirtækjanna, sem leggja fyrir sig að leggja mælistiku á fylgi kjósenda við fólk og flokka, sæta furðu, því að augljóslega áttu þau að einbeita sér að mælingum í vafaríkjunum, því að fylgi á landsvísu skiptir engu máli.  Allt fylgi umfram 50,01 % kjósenda fellur víðast hvar dautt.  Því verður ekki trúað, að "fagfólkið" hafi ekki gert sér grein fyrir þessu.  Var verið að afvegaleiða almenning og umheiminn með því að gefa í skyn, að HC hefði, þrátt fyrir einkanetþjóna og fleiri "svín á skóginum", byr í seglin ?

"Sérfræðingar sögðu, að "latinos" bæru þungan hug til Trumps eftir glannaleg ummæli hans um innflytjendur (ólöglega) frá Mexikó og öðrum nágrannaríkjum í suðri.  Útgöngukannanir sýndu hins vegar, að Trump fékk yfir 29 % atkvæða í þessum hópi, hærra hlutfall en Romney í baráttunni við Obama.

Ljóst þótti, að Hillary hefði forskot á meðal kvenna.  Nú sýna fyrrnefndar athuganir, að 53 % hvítra kvenna kusu Trump, en aðeins 44 % þeirra Hillary. 

Ýmsar mýtur kosninganna stóðust illa.  Oft er nefnt réttilega, að Trump sé milljarðamæringur.  En fyrir liggur, að demókratar eyddu margfalt hærri fjárhæðum í kosningarnar en Trump gerði.  Fullyrt var, að fjöldafundir, sem Trump hélt með tugþúsundum í hvert sinn, skiluðu sér sjaldnast í kjörklefana.  Raunin varð önnur."

Demókratar virðast hafa rekið lyga- og ófrægingarherferð á hendur Trump og reynt að breiða yfir það, hversu veikur frambjóðandi HC í raun var, hvort sem hún er með Parkinson-veikina, sem kölluð var lungnabólga, eður ei.  Veikleiki hennar lýsti sér t.d. í því, hversu illa henni gekk að við að yfirbuga hinn "róttæka" Sanders.  Að meirihluti hvítra kvenna skyldi hafna henni, kórónar getuleysið.  Í örvæntingu sinni gripu demókratar til þess ráðs að birta klúrt myndband og leiða fram konur, sem Trump átti að hafa "káfað" á.  Allt var þetta fremur klént og ekki eins krassandi og sögurnar af Bill, eiginmanni frambjóðandans og hjálparhellu, en þessi áburður leiddi óneitanlega hugann að lærlingnum í Hvíta húsinu og Miss Jones. 

Nú víkur sögunni að rannsóknum á viðhorfum fólks og atferlisrannsóknum, sem auðvitað eru mikla lengra komnar en misheppnaðar viðhorfskannanir fyrir kosningarnar í BNA gefa til kynna.  Fyrirtækin, sem að þeim stóðu, eru rúin trausti, enda virðast þau bara hafa verið að dreifa boðskap, sem þeim var þóknanlegur, svo að ekki sé nú minnzt á garmana, álitsgjafana:

"Einn af fréttamönnum sjónvarpsstöðvarinnar CBS sagði um kosninganóttina, að í herbúðum Trumps hefði verið stuðzt við rannsóknir brezks fyrirtækis að nafni "Cambridge Analytica" og það hefði nokkurn veginn greint, hvernig landið lægi.

Í frétt í blaðinu Chicago Tribune segir, að Cambridge Analytica segist geta sagt fyrir um það, hvernig flestir kjósendur muni verja atkvæði sínu með því að greina margvíslegar upplýsingar um hvern kjósanda.  Í greininni segir, að fyrirtækið skoði 5 þúsund atriði um hvern og einn og keyri saman við mörg hundruð þúsund persónuleika- og atferliskannanir til að bera kennsl á milljónir kjósenda, sem lítið þurfi til að telja á að kjósa skjólstæðinga þess, í þessu tilviki Trump.  Segir fyrirtækið, að grundvallarmunur sé á þessu og algengustu aðferðunum, sem felast í að nota lýðfræðileg gögn og keyra saman við upplýsingar á borð við áskriftir að tímaritum og aðild að samtökum til að átta sig á pólitískum tilhneigingum fólks."

"Now you are talking, man."  Það er auðvitað búið að þróa tækni fyrir kosningaherferðir, sem eru mun lengra komnar og nákvæmari en skoðanakannanir, sem okkur eru birtar.  Donald Trump virðist einfaldlega hafa varið fé sínu mun betur en forráðamenn kosningasjóða andstæðingsins.  Donald Trump hafði lag á að koma sér í fréttirnar með atferli sínu og fékk þannig ókeypis auglýsingar.  Herfræði hans var úthugsuð, og hann sló gervallri "elítunni" við. Það hlægir blekbónda óneitanlega, að "elítan" skilur ekki enn, að hún hefur orðið að athlægi.

Hjörleifur Guttormsson átti að vanda góða grein í Morgunblaðinu, og að þessu sinni þann 10. nóvember 2016 um téðar kosningar, þar sem hann greinir stöðuna að sínum hætti í greininni:

"Bandarísku kosningarnar snerust um afleiðingar hnattvæðingar":

"Ástæður stóryrtari umræðu nú en áður eru margþættar og endurspegla djúpstæðari klofning í bandarísku samfélagi en dæmi eru um frá lokum Víetnamstríðsins.  Meginorsökin er að margra mati nýfrjálshyggja og hnattvæðing efnahagslífsins, sem mjög var hert á með frjálsum fjármagnsflutningum fyrir aldarfjórðungi.  Verkafólk og millistéttir, sem urðu bjargálna á eftirstríðsárunum, hafa mátt þola ört dvínandi tekjur og atvinnumissi á stórum svæðum þar vestra án þess að eiga sér öfluga málsvara.  Lengi vel voru demókratar í því hlutverki, en í forsetatíð Bill Clintons eftir 1992 var það merki fellt, og forysta demókrata gekk til liðs við peningaöflin á Wall Street."

Sé þetta rétt greining hjá Hjörleifi, sem vart þarf að efast um, þá er ei kyn, þó að keraldið leki, þ.e. þó að meirihluti ríkjanna og kjörmanna þeirra hafi hafnað frú Clinton.  Staðan er þó skrýtin frá evrópsku sjónarhorni séð.  Auðjöfur tekur upp hanzkann fyrir lítilmagnann og lofar að berjast fyrir málstað hans. Auðjöfurinn lofar að færa launamanninum aftur sjálfsvirðingu hans og vinnu með því að byggja upp innviði landsins að nýju og endurheimta störfin.  Auðjöfrinum er treyst til að fást við hin geysivaldamiklu fjárplógsöfl og rétta við hag "litla mannsins".  Þetta er klassísk uppskrift.  Hvorum megin skyldi sá með horn, klaufir og hala halda sig í þessum hildarleik ? 

 

 


Váboðar á bæði borð

Að ofmetnast er dauðasynd.  Íslendingar hafa tilefni til að líta til baka yfir tímabil síðustu 8 ára með velþóknun, enda hefur þjóðin á þessu tímabili risið úr öskustó eins og fuglinn Fönix.

Þjóðin varð að standa á eigin fótum í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, sem hámarki náði á Íslandi í október 2008.  Það var lán í óláni, að allar lánalínur lokuðust og rotið fjármálakerfi hrundi til grunna.  Við þurftum ekki einu sinni á að halda lánum frá Alþjóða gjaldeyrissjóðinum, sem þó voru tekin með harmkvælum og háum vöxtum.  Þau hafa nú öll verið endurgreidd og gott betur.  Nettó fjárhagsstaða hins opinbera hefur ekki verið betri frá því í lok Heimsstyrjaldarinnar síðari.  Þeim auði var sólundað, svo að Íslendingar komust á vonarvöl og voru taldir verðskulda Marshall-aðstoð.  Það verður engin Marshall-aðstoð í boði, ef illa tekst að spila úr núverandi góðu stöðu og sjóðum verður sólundað, eins og veruleg ástæða er til að bera kvíðboga fyrir.

Náttúruöflin eru virkari á Íslandi en víðast hvar og náttúran er hér síkvik.  Það á einnig við um hafið í kringum landið, sem á síðustu árum hefur verið að hlýna og lífríki þess að breytast samkvæmt því.  Sunnudaginn 6. nóvember 2016 fengu landsmenn t.d. þær ískyggilegu fréttir frá sérfræðingum á þessu sviði, að nú væri svo komið, að loðnan veigraði sér við að ganga vestur með Suðurströndinni til hrygninga vegna hlýsjávar.

Ef þetta gengur eftir, mun það ekki aðeins hafa neikvæð áhrif á loðnuveiði innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu, heldur líka neikvæð áhrif á fæðuframboð þorskinum til vaxtar og viðurværis, þannig að jafnvel yrði þorskveiðibrestur í lögsögunni, og fleiri tegundir mundu kunna að forða sér í kjölfarið. 

Sem betur fer eru þetta enn aðeins vangaveltur á rannsóknarstigi eða tilgáta um það, sem líklegt er, að gerist, ef svo fer fram sem horfir um hlýnun sjávar.  Til mótvægis þessari hlýnun af völdum vaxandi lofthita hlýtur að koma um sinn bráðnun Norðurskautsíssins og Grænlandsjökuls.  Er á meðan er.  Vísindamenn eiga þakkir skildar fyrir að upplýsa almenning um vísbendingar, sem þeir komast á snoðir um, þótt óþægilegar séu. 

Það, sem varð Íslendingum til bjargar í áður nefndu hruni var, að þeir stóðu á rétti sínum sem fullvalda þjóð og neituðu að láta Breta og Hollendinga með fulltingi Evrópusambandsins troða öfugum ofan í kokið á sér skuldum "óreiðumanna", sem almenningur hérlendis bar enga ábyrgð á.  Þetta var sögulegur varnarsigur, því að þjóðin var þá sem næst á hnjánum, er þarna var komið, umkomulaus í áfalli og án ytri stuðnings frá öðrum en sínum ágætu nágrönnum og frændum, Færeyingum.  Sem betur fór áttum við þá sem fyrr nokkra kappa, sem ekki lágu á liði sínu, heldur sneru vörn í sókn með meistaralegum hætti. 

Þjóðin var með sína eigin mynt, og hún hrapaði að verðgildi í takti við ástand hagkerfisins.  Þetta skóp landinu viðspyrnu, því að samkeppnishæfnin á erlendum mörkuðum batnaði að sama skapi, og sjávarútvegurinn blómstraði við þessar aðstæður og ól af sér alls konar hliðargreinar og sprota, sem ásamt miklum fjárfestingum hjá ISAL í Straumsvík vegna endurnýjunar og stækkunar, og þar af leiðandi um saminni nýrri vatnsaflsvirkjun Landsvirkjunar við Búðarháls á milli Tungnaár og Þjórsár, áttu þátt í að snúa við óheillaþróun á vinnumarkaði. Þetta ásamt landflótta hélt atvinnuleysi langt undir þeim tölum, sem illa leiknar þjóðir með fastgengisstefnu, t.d. evruna, máttu glíma við.   

Það, sem þó réði úrslitum um viðsnúning á vinnumarkaði, var gosið á Fimmvörðuhálsi og undir Eyjafjallajökli, sem lamaði innanlandsflug og millilandaflug víða í Evrópu og á milli heimsálfa vikum saman.  Þetta kom Íslandi rækilega á kortið á sama tíma og vinsælir ferðamannastaðir lokuðust vegna blóðugra árása ofstækisfullra trúmanna í miðaldamyrkri eyðimarkanna, og af því að hugur margra stóð til Norðurslóða vegna afleiðinga hlýnunar jarðar, sem þar eru áberandi.

Fjöldi erlendra ferðamanna stóð í 0,5 M manns 2008-2010, en strax árið 2011 hófst aukningin, sem hefur verið veldisaukning síðan, þ.e. sívaxandi fjölgun ár frá ári.  Árið 2016 er búizt við 1,8 M manns með flugi til landsins, og sjóleiðina koma líklega 0,1-0,2 M, svo að farþegafjöldinn slagar í 2,0 M í ár.  Arion-banki og Íslandsbanki spá 2,2-2,4 M manns 2017, og er þá ótalinn sægur, sem aðeins millilendir og dvelur um skamma hríð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.  

Hér er um að ræða meðalstigul 0,3 M/ár 2011-2017, og þar sem hann kom algerlega flatt upp á landsmenn, hefur þeim ekki veitzt neitt ráðrúm til að undirbúa sig.  Fyrir vikið eru allir innviðir vanbúnir til að taka við aukningunni, sem hefur neikvæð áhrif á ímynd landsins.  Grunnþörfum hreinlætis hefur ekki einu sinni verið fullnægt með hræðilegum sóðaskap,  sóttkveikjuhættu, vanlíðan og álitshnekki sem afleiðingu. 

Sem dæmi stendur þetta í fréttaskýringu Morgunblaðsins,

"Innviðauppbygging heldur ekki í við fjölgun ferðamanna",

þann 22. september 2016:

"Í annarri skýrslunni, sem EFLA skilaði af sér, kom í ljós, að þörf er á allt að 200 salernum á fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins.  Þörfin er að vísu miðuð við fjölda ferðamanna á stöðunum árið 2015 [sem er furðulegt, því að enginn spáði stöðvun fölgunar það ár - innsk. BJo], og því má gera ráð fyrir því, gangi fjöldaspár eftir [5,0 M árið 2035-innsk. BJo], að þörfin muni sízt minnka á komandi árum.  Telur verkfræðistofan, að það muni kosta miaISK 1,4-2,1 að koma salernunum 200 í gagnið."

Aðeins salernisvæðingin fyrir spáðan fjölda 2017 mun þá kosta allt að miaISK 2,8.  Úthlutað hefur verið 512 styrkjum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða árin 2012-2016 að upphæð alls miaISK 2,9, dreift á alls konar verkefni, og árið 2016 aðeins miaISK 0,6.  Salernismálin verða þannig fyrirsjáanlega enn í ólestri á næsta ári.  Ef forðast á öngþveiti á vinsælustu ferðamannastöðunum og/eða meiriháttar náttúruspjöll, þá verður að skammta fjöldann inn á þessi svæði með svipuðum hætti og gert er erlendis. Mótvægisaðgerð er að stofna til nýrra áfangastaða.  Brýnt er að lækka opinber gjöld af innanlandsflugi og freista þess þannig að draga úr álagi á vegakerfið, einkum á leiðum út frá Reykjavík.

Margt getur orðið til að stöðva aukningu ferðamannafjöldans og jafnvel að snúa þróuninni á verri veg:

Dýrtíð á Íslandi:

Gengi sterlingspunds gagnvart USD hefur dalað um ríflega 20 % síðan Brexit-var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu og er spáð lækkun um 3 % þar til í marz 2017, þegar Theresa May ætlar að hefja úrsagnarferlið.  Þetta og meira fall pundsins gagnvart ISK en líklega öllum öðrum myntum árið 2016 gæti farið að hafa áhrif á kauphegðun Breta, fjölmennasta þjóðernis ferðamanna á Íslandi.  Kaupmáttur þeirra fer nú hratt þverrandi, hagvöxtur er lítill, þótt hann sé meiri en á evrusvæðinu, og atvinnuleysi gæti farið stígandi. 

Íslenzk peningamálayfirvöld fljóta því miður sofandi að feigðarósi og láta enn hjá líða að grípa til nauðsynlegra mótvægisaðgerða til að snúa þessari óheillaþróun við.  Ísland er þess vegna á góðri leið með að verða dýrasta land heims fyrir útlendinga, og slíkt land getur ekki samtímis verið mesta ferðamannaland heims talið í fjölda erlendra ferðamanna per íbúa.  Staða fiskútflytjenda á mörkuðum er í uppnámi og samkeppnishæfni landsins er í voða.

Mettun landsins af ferðamönnum:

Það er engin launung á því, að svo mikil árleg aukning í fjölda erlendra ferðamanna býður hættunni heim, af því að landsmönnum gefst þá ekki kostur á nægum undirbúningi til að taka vel á móti þeim og án þess, að náttúran bíði tjón af. Það verður hörgull á öllu, sem við á að éta, og þjónustan versnar til muna, af því að landsmenn anna ekki fjöldanum.  Þetta skaðar orðsporið, sem strax mun hafa neikvæð áhrif á eftirspurnina.

Náttúruhamfarir:

Katla hefur bært á sér undanfarið og gæti farið í gang "hvenær sem er", ef gostíðni er skoðuð í sögulegu ljósi.  Vonandi er viðbúnaður við Kötlugosi nægur til að hindra manntjón af völdum Kötlugoss í þetta skiptið, en það mun valda tugmilljarðatjóni á mannvirkjum, kvikfé, landi og löskuðu tekjustreymi af völdum rafmagnstruflana og samgöngutruflana. 

Íslenzk náttúra er í sífelldri mótun, og hún er breytingum undirorpin á landi og í sæ.  Íbúarnir á landinu lifa að langmestu leyti á því að nýta þessa síkviku náttúru með einum eða öðrum hætti, og sú staðreynd skapar óstöðugleika í atvinnuumhverfinu.  Hér má þess vegna alltaf búast við sveiflukenndum búskap.  Við slíkar aðstæður er mikilvægt að nota "feitu árin" til að safna í sjóði til "mögru áranna" og auðvitað til að greiða niður skuldir, þannig að svigrúm verði til lántöku, þegar að herðir og nauðsyn krefur. 

 

 

 

 


Hrakfarir uppboðsleiðar

Það er sláandi, að stjórnmálaflokkarnir, sem nú vilja biðja þjóðina um leyfi til að senda inn öðru sinni umsóknarbeiðni til Evrópusambandsins, ESB, hafa allir boðað, að þeir muni á nýhöfnu kjörtímabili berjast fyrir byltingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Ætla þeir að kasta fyrir róða núverandi aflahlutdeildarkerfi með frjálsu framsali, sem þó hefur umbylt stöðu sjávarútvegs til hins betra, skiljanlega þó ekki án fórna, fyrna, þ.e. þjóðnýta aflahlutdeildir, og bjóða þær upp. 

ESB hefur að vísu ekki tekið upp þetta kerfi, en sjávarútvegurinn hér mun komast á vonarvöl, þ.e. á ríkisframfæri, eins og hann er í ESB-löndunum, með þessari fáránlegu þjóðnýtingu, sem er bylting í anda bolsévismans. Í Færeyjum yrði engin þjóðnýting, þótt Færeyingar mundu innleiða uppboðsleið, því að aflahlutdeildir útgerðanna renna úr gildi þar á næsta ári samkvæmt ákvörðun, sem mun hafa verið tekin af Lögþinginu árið 2008.  Í Færeyjum má þó vænta harðra deilna um það, hvort fara á "íslenzku leiðina", "uppboðsleiðina" eða einhverja aðra leið en sóknardagaleið, sem þeir hafa gefizt upp á, ef rétt er skilið.

Á Íslandi virðist "uppboðsleið" aðallega njóta fylgis í pósthólfi 101, á meðal stjórnmálaforkólfa á höfuðborgarsvæðinu og á meðal fáeinna fræðimanna, sem þó eru hvorki sérfræðingar í sjávarútvegsfræðum né í fiskihagfræði. 

Á meðal fólks, sem vinnur í sjávarútvegi, virðist enginn stuðningur vera við "uppboðsleið", hvorki á meðal sjómanna, fiskvinnslufólks né útgerðarmanna.  Þannig hafa forystumenn sjómanna tjáð verulegar áhyggjur sínar af hag umbjóðenda sinna, verði þessari allsendis óþörfu félagslegu tilraunastarfsemi hleypt af stokkunum.  Þeir, sem íhuga afleiðingar "uppboðsleiðar", gera sér glögga grein fyrir því, að atvinnuöryggi í sjávarútvegi getur aðeins versnað við að hverfa frá aflahlutdeildarkerfi til "uppboðsleiðar".  Fyrirtæki, sem annars eru grunnstoðir hinna dreifðu byggða, munu veikjast, og þar með munu mörg sveitarfélög óhjákvæmilega veiklast.  "Uppboðsleið" er þannig aðför að íslenzkum sjávarútvegi og hinum dreifðu byggðum landsins.

Það þarf hins vegar ekki að ímynda sér neitt í þessum efnum, því að það vill svo til, að nokkur reynsla er þegar komin á "uppboðsleið", og hún er svo neikvæð, að með endemum er, að nokkur heilvita maður skuli mæla með innleiðingu hennar á Íslandi og að þar í bendu skuli vera a.m.k. 4 stjórnmálaflokkar, þ.e. Píratahreyfingin, Samfylking, Björt framtíð og Viðreisn. Er það tilviljun, að þetta eru sömu stjórnmálaflokkarnir og stefna leynt og ljóst að innlimun Íslands í Evrópusambandið ?

Þann 13. október 2016 birtist í Fiskifréttum afar fróðleg grein aftir Sigurð Stein Einarsson,

"Er uppboðsleiðin raunhæf ?".  Þar greinir hann frá tilraunum nokkurra þjóða með "uppboðsleið", sem allar eru á eina lund:

eftir skamma hríð hurfu þær frá "uppboðsleiðinni".  Hér verður gripið niður í greininni:

"Eistar buðu upp 10 % aflaheimilda á árunum 2001-2003.  Árið 2003 var árangurinn af uppboðskerfinu metinn, og var niðurstaðan fjarri því að vera jákvæð.  Uppboðskerfið var talið hafa leitt til sóunar á auðlindinni, orðið til þess, að smærri fyrirtæki urðu gjaldþrota og leitt til stórminnkandi starfsöryggis sjómanna.  Fyrst og fremst af þessum ástæðum var ákveðið að hætta uppboðum á aflaheimildum."

Þetta er nákvæmlega það, sem andstæðingar "uppboðsleiðar" hérlendis hafa varað við, að gerast mundi.  Það er í raun borðleggjandi, og reynsla Eista staðfestir það.  Hérlendis eru samt "spekingar", sem fullyrða á grundvelli skrifborðsvinnu sinnar einvörðungu, að "uppboðsleið" sé bezta leiðin til að hámarka skatttekjur ríkissjóðs af sjávarafla.  Þetta stenzt ekki í raun:

"Í austurhluta Rússlands stóð einnig yfir uppboð á aflaheimildum 2001 til 2003.  Vonir stóðu til, að leiðin myndi auka hlut ríkisins í auðlindarentunni, auka gagnsæi varðandi úthlutun á fiskveiðiheimildum og gera atvinnugreinina arðbærari, t.d. með fækkun fiskiskipa.

Aflaheimildirnar, sem boðnar voru út, voru í Austur-Rússlandi og Barentshafi.  Í austurhluta Rússlands störfuðu 160´000 manns við sjávarútveg hjá 1´500 fyrirtækjum.  Mikilvægi sjávarútvegsins í þessum hluta landsins var ótvíræður, og stóð hann undir 27 % allrar framleiðslu á Primorsky-skaga og 55 % framleiðslu á Kamtsjatka.

Árið 2001 var boðin upp 1,0 milljón tonna og 1,2 milljónir tonna árið 2002.  Ekki seldist allt, sem fór á uppboð, en tilboðin í heimildirnar reyndust mun hærri en gert hafði verið ráð fyrir.  Ríkið fékk í sinn hlut miaISK 20,3 árið 2001, miaISK 29,6 2002 og miaISK 38,6 2003.  Bar þetta ekki vitni um stórkostlegan árangur ?

Hér heima hefur samfélagslegum áhrifum uppboðsleiðarinnar lítill gaumur verið gefinn.  Einblínt er á aukinn hlut ríkisins í auðlindarentunni, en ótrúlega lítið er fjallað um áhrif uppboðsleiðarinnar á sjávarbyggðir. Hafa verður í huga, að sjávarútvegsfyrirtæki eru meginstoðir atvinnulífs víða á landsbyggðinni og starfsmenn þeirra á sjó og í landi drjúgur hluti íbúa.  Starfsgrundvöllur fyrirtækjanna skiptir því samfélögin afar miklu máli, en aflaheimildunum byggja þau tilvist sína á. 

Sjávarútvegur í austurhluta Rússlands skilaði miaISK 6 hagnaði árið 2000.  Dramatískur viðsnúningur átti sér hins vegar stað 2001; tap varð af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja á svæðinu, sem nam miöISK 6.  Upplýst var, að árið 2001 væru 90 % sjávarútvegsfyrirtækja á umræddu svæði þegar illa stödd og jafnvel á barmi gjaldþrots.  Þá hófu sveitarfélög á uppboðssvæðinu strax 2001 að kvarta sáran, því að uppboðskerfið leiddi til þess, að 96 % af skatttekjum af sjávarútvegi runnu til ríkisins, en einungis 4 % til sveitarfélaga.  Áður höfðu 34 % af skatttekjum af sjávarútvegi runnið til sveitarfélaga. 

Skuldir sjávarútvegsins á svæðinu fóru úr 30 % af framleiðsluverðmæti ársins 2000 í 66 % af framleiðsluverðmæti ársins 2002, en sú þróun bendir ótvírætt til þess, að sjávarútvegsfyrirtækin hafi boðið of hátt verð í þær heimildir, sem boðnar voru upp.  Fyrir lá, að kvótakaupin voru fjármögnuð með lánsfé, og skuldsetning fyrirtækjanna jókst því hratt.  Fyrir félögin skipti öllu að verða sér úti um kvóta, og sum þeirra gripu til þess ráðs að selja eignir til að fjármagna kvótakaup."

"Uppboðsleiðin" á Íslandi hefur ekki verið útfærð til hlítar, en það má gera því skóna, að þessar lýsingar frá útlöndum megi í miklum mæli heimfæra á Ísland.  Aflahlutdeildarhafar, sem missa kvóta, munu í örvæntingu teygja sig upp í rjáfur á uppboðsmarkaði til að afla sér og sínu fólki lífsviðurværis.  Minni fyrirtækin munu þurfa að skuldsetja sig, og þau munu sennilega fara á hausinn, hvort sem þau hreppa rándýrar aflaheimildir eða sitja eftir slyppar og snauðar.  Útgerðum mun þess vegna á skömmum tíma fækka um nokkur hundruð, e.t.v. 400. 

Eignastaða útgerðanna stórversnar vegna afskrifta aflahlutdeilda og skuldsetningar við kaup aflahlutdeilda, sem rifnar voru af þeim.  Tekjur rýrna með minnkandi aflaheimildum.  Atvinnuöryggi á sjó og í landi fellur undir velsæmismörk.  Mörg minni sjávarplássin munu sjá skriftina á veggnum, og kvótatilflutningur í fortíðinni verður hjóm eitt hjá hörmungunum, sem "uppboðsleiðin" leiðir af sér.  Fræðimenn hafa reyndar sýnt fram á, að kvótakerfið sjálft hafi haft óveruleg áhrif á byggðaþróun Íslands umfram þau áhrif, sem gríðarlegur aflasamdráttur hafði að ráði Hafrannsóknarstofnunar. 

Veiðiheimildir ganga kaupum og sölum og hafa gert frá 1990.  Íslenzkur sjávarútvegur berst nú í bökkum á erlendum fiskmörkuðum í argvítugri samkeppni við niðurgreiddan sjávarútveg, sem yfirleitt greiðir engin veiðigjöld. Hátt gengi ISK fækkar krónum í kassann og dregur mjög úr hagnaði. 

Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi hefur skapað umgjörð góðrar umgengni við auðlindina, betri en önnur fiskveiðistjórnunarkerfi megna.  "Uppboðsleiðin" felur ekki í sér sambærilega hvata til góðrar umgengni um veiðistofnana og aflahlutdeildarkerfið.  Verðmætasköpun aflahlutdeildarkerfis og vísindalega ákvarðaðs aflamarks í hverri tegund er meiri en nokkurra annarra þekktra fiskveiðistjórnunarkerfa, og þess vegna er skattsporið stærst með aflahlutdeildarkerfinu, og þar af leiðandi innbyrðir samfélagið mest í sameiginlega sjóði með aflahlutdeildarkerfi og frjálsu framsali aflahlutdeilda á skip.  Hvers vegna að umbylta kerfi, sem gefur mest ?  Ráðgjafarfyrirtækið McKinsey sá enga ástæðu til þess í viðamikilli úttekt á stjórnarháttum og hagkerfi fyrir örfáum árum, og slíkt er í raun ekki tilraunarinnar virði og væri hið versta glapræði, eins og hér hefur verið rakið. Ný tegund í lögsögu Íslands, makríll

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband