Færsluflokkur: Dægurmál

Langvinnt þrætuepli

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, skrifaði ágæta grein um sögu skipulags fiskveiða við Ísland frá 1983.  Niðurstaða hans var skýr: það verður aldrei sátt í landinu um stjórn fiskveiða.  Þetta er sennilega alveg rétt hjá honum.  Það, sem stjórnvöld ættu að hafa að leiðarljósi við framlagningu frumvarpa til Alþingis um fiskveiðistjórnun hér eftir sem hingað til frá 1983, er að að hámarka afrakstur veiðanna til langs tíma. Slíkt eflir þjóðarhag mest. 

Guðmundur Kristjánsson orðar þetta þannig í lok greinar sinnar:

"Þess vegna segi ég, að það verður aldrei sátt um lög um stjórn fiskveiða. Ef núna koma ný lög um stjórn fiskveiða, þar sem þessi veiðiréttur verður færður ríkissjóði, þá verða þeir, sem hafa keypt þennan rétt, aldrei sáttir.  Ef þessu verður ekki breytt, verða þeir, sem vilja, að ríkissjóður eigi þennan rétt, aldrei sáttir. Þetta er staðan í dag.  Þess vegna segi ég: Það eina, sem hægt er að gera í dag, er, að lög um stjórn fiskveiða endurspegli arðsemi og skynsemi fyrir íslenzka þjóð.  Deilumálið er skipting arðseminnar."

Þetta er vafalaust rétt hjá Guðmundi Kristjánssyni. Seint mun ríkja almenn ánægja með íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið, en það er þó ómótmælanlegt, að það er umhverfisvænsta og skilvirkasta fyrirkomulag fiskveiða á jörðunni. Þess vegna væri guðsþakkarvert, að stjórnmálamenn og aðrir áhugamenn um þrætubókarlist hættu illa grundaðri heilaleikfimi sinni um þetta mál, enda einkennist umræðan um sjávarútveg of mikið af ofstækisfullum fullyrðingum, reistum á vanþekkingu á greininni og þar með því, hvernig hún getur bezt hámarkað verðmætasköpun sína fyrir íslenzka þjóðarbúið. 

Útbólgnir tilfinningaþrælar hafa lengi verið með mikinn belging út af eignfærslu útgerðanna á veiðiheimildum sínum.  Hafa þeir þá látið í það skína, að útgerðirnar hafi tekið það upp hjá sjálfum sér með einu pennastriki að sölsa undir sig eignir þjóðarinnar.  Það er þó öðru nær, því að allar 3 greinar ríkisvaldsins hafa þvingað þetta bókhaldsfyrirkomulag fram, eins og Guðmundur Kristjánsson rakti skilmerkilega í grein sinni:

Á þessum árum, 1990-1993, var allur kvóti/veiðiréttur gjaldfærður, hvort sem það var aflamark eða aflahlutdeild.  En þá kom ríkisskattstjóri í nafni ríkisins [framkvæmdavaldsins - innsk. BJo] og sagði, að þetta væri eign, en ekki kostnaður, og vildi banna útgerðinni að bókfæra þennan kvóta (veiðirétt) sem kostnað.  Útgerðin sagði aftur á móti, að þetta væri ekki eign, þar sem  þetta væri veiðiréttur að ákveðnu magni fisks í íslenzkri fiskveiðilögsögu og ekki eign í skilningi íslenzkra laga.  Ríkisskattstjóri og fjármálaráðherra á þessum tíma  stefndu útgerðinni fyrir dómstóla, og var  niðurstaðan sú í Hæstarétti árið 1993, að útgerðinni væri skylt að færa veiðiréttinn (aflahlutdeild/kvótann) sem eign í efnahagsreikningi.  Síðan hnykkti Alþingi Íslendinga endanlega á þessu ákvæði árið 1997, þar sem það var bannað að afskrifa veiðirétt í ársreikningum íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja. Í dag er þessi veiðiréttur eignfærður í öllum íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum og er þeirra helzta eign." 

Þessi eignfærsluákvörðun íslenzka ríkisvaldsins hefur margvísleg áhrif og hefur af upphlaupsmönnum verið notuð til tilefnislausra árása á sjávarútveginn, sem væri að sölsa undir sig eign þjóðarinnar. Það er öðru nær.  Hins vegar hefur þessi ákvörðun framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds, óneitanlega styrkt aflahlutdeildarkerfið í sessi, því að aflahlutdeildirnar njóta nú verndar eignarréttarákvæða Stjórnarskrárinnar.

Það eru ekki réttarfarsleg skilyrði fyrir hendi til að raungera illa ígrundaðar hugmyndir um fyrningu eða uppboð aflaheimilda.  Það er hið bezta mál, því að þessar hugmyndir eru rekstrarlegt óráð og hafa gefizt hörmulega, þar sem eitthvað í líkingu við þær hefur verið framkvæmt erlendis.

Í heilaleikfimisæfingum sínum hafa innantómir þrætubókarmenn lengi fullyrt, að veiðigjöld á útgerðirnar væru allt of lág.  Þeir eru þó í lausu lofti með stóryrði um þetta, því að þeim hefur láðst að sýna fram á auðlindarentu í sjávarútvegi, en hún var í upphafi lögð fram sem hin fræðilega forsenda slíkrar gjaldheimtu. Þá verður auðvitað líka að hafa í huga, að fyrirtækin, sem íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki keppa við á erlendum mörkuðum eru ekki aðeins yfirleitt töluvert stærri en hin íslenzku, heldur niðurgreidd af yfirvöldum viðkomandi landa. Þess vegna ber að gæta mikillar hófsemi við sérsköttun á íslenzkan sjávarútveg.    

 

 

 

 

 

   

 


Tregða við útgáfu framkvæmdaleyfis í Neðri-Þjórsá

Engum blöðum er um það að fletta, að á framkvæmdatíma virkjunar njóta viðkomandi sveitarfélög góðs af mjög auknum umsvifum.  Verktakar á heimavelli verða yfirleitt mjög uppteknir við fjölbreytilegar hliðar framkvæmdanna, og íbúarnir, ekki sízt ungir, fá uppgripavinnu.  

Þetta er auðvitað ekki nóg. Sveitarfélögin mega ekki bera skarðan hlut frá borði á rekstrartíma virkjunarinnar, en samkvæmt frétt Sigurðar Boga Sævarssonar í Morgunblaðinu 20.02.2023, sem reist er á viðtali við Harald Þór Jónsson, oddvita og sveitarstjóra Skeiða- og Gnúpverjahrepps, er sú einmitt raunin í sveitarfélagi hans.  Það sé vegna þess, að skerðingar framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna teknanna af virkjunum séu hærri en nemur þessum tekjum.  

Fyrir vikið er komin upp tregða í sveitarstjórninni við afgreiðslu framkvæmdaleyfis fyrir Hvammsvirkjun.  Þetta er alvarlegt mál fyrir landsmenn, sem bráðvantar meira af ódýrri og áreiðanlegri sjálfbærri raforku. Að einhverju leyti verður að skrifa þessa stífni, sem upp er komin, á reikning Landsvirkjunar, og kemur þá upp í hugann dómsmál á milli Landsvirkjunar og Fljótsdalshrepps um gjaldtöku af Fljótsdalsvirkjun, sem hreppurinn vann.  Af fréttinni að dæma virðast afar takmarkaðar viðræður hafa farið fram á milli sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Landsvirkjunar um óánægjuefni sveitarstjórnarinnar.  Í ljósi þess, hversu mikið liggur á þessari virkjun, er það áfellisdómur yfir Landsvirkjun og reyndar ríkisstjórninni að hafa ekki nýtt langan meðgöngutíma Orkustofnunar með virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar til að móta stefnu til framtíðar um tekjustreymi af virkjunum til sveitarfélagsins.  Það mundi þá verða fyrirmynd annars staðar í landinu. 

Í árdaga virkjana á Þjórsár-Tugnaársvæðinu þurfti að leita allra leiða til að halda framleiðslukostnaði lágum.  Nú er öldin önnur, því að þessar virkjanir eru að miklu leyti afskrifaðar í bókhaldi Landsvirkjunar, þótt þær haldi áfram að mala gull, jafnvel í meira mæli en nokkru sinni áður.  Á þessum grundvelli er óhætt að semja um gjöld af virkjunum, sem séu meira í samræmi við gjöld af mannvirkjum annars konar starfsemi en virkjana en nú er.  Það mun ekki þurfa að hafa áhrif á verðlagningu raforku frá Landsvirkjun, heldur mun draga aðeins úr gróða ríkisfyrirtækisins og arðgreiðslum þess til ríkissjóðs.  Ánægja heimamanna með þetta nábýli er meira virði en nokkrar MISK í ríkissjóð. 

Téðri frétt Morgunblaðsins, sem bar yfirskriftina:

"Setja fyrirvara við fleiri virkjanir",

lauk þannig:

""Orkuvinnsla í sveitarfélaginu þjónar ekki hagsmunum þess í óbreyttri mynd", segir Haraldur Þór og minnir í þessu sambandi á áform um orkuskipti á Íslandi.  Vegna þeirra þurfi að reisa margar nýjar virkjanir á næstu árum, m.a. í nærumhverfi Skeiða- og Gnúpverjahrepps.  Fá samtöl hafi þó verið [á] milli fulltrúa ríkis og sveitarfélaga um þau mál.  Nú þurfi því að tryggja með lögum, að til áhrifasvæðis virkjana skili sér efnahagslegur ávinningur af orkuvinnslu, sem sé brýnt byggðamál.  Sveitarfélögin þurfi að staldra við í skipulagsmálum, á meðan leikreglunum sé breytt og efnahagslegur ávinningur nærumhverfisins tryggður.  Slíkt sé forsenda orkuskipta og hagvaxtar."

Ríkisstjórnin virðist hafa sofið á verðinum í þessu máli og ekki áttað sig á, að frumkvæðis um lagasetningu er þörf af hennar hálfu til að greiða fyrir framkvæmdaleyfum nýrra virkjana.  Sveitastjórnarráðherra og orkuráðherra virðast þurfa að koma þessu máli í gæfulegri farveg en nú stefnir í með því að taka upp þráðinn við  samtök sveitarfélaganna.  Það gengur ekki að láta þetta dankast, því að á meðan líður tíminn og gangsetning nýrra vatnsaflsvirkjana og jarðgufuvirkjana verður hættulega langt inni í framtíðinni fyrir orkuöryggi landsmanna.  Andvaraleysi stjórnvalda verður landsmönnum dýrt spaug, því að afl- og orkuskerðingar blasa við næstu vetur.  


Leyfa ber sameiningar fyrirtækja í hagræðingarskyni

Á síðum Morgunblaðsins hafa þeir tekizt á um réttmæti framkvæmdar Samkeppniseftirlitsins (SKE) á samkeppnislögunum, Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við HÍ, og Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.  Sá fyrr nefndi hefur bent á, að það er fleira matur en feitt kjöt, þ.e. í þessu tilviki, að sem mestur fjöldi fyrirtækja á hinum litlu íslenzku mörkuðum, sé engin trygging fyrir lægsta mögulega verði til íslenzkra neytenda, því að verðið getur til lengdar ekki orðið lægra en nemur heildar framleiðslukostnaði hjá hagkvæmasta fyrirtækinu. Hann er háður framleiðni fyrirtækisins, og hún er að jafnaði hærri hjá stærri fyrirtækjum en smærri.  Af þessum ástæðum er einstrengingsleg túlkun SKE á samkeppnislögunum óskynsamleg og skaðleg; í raun ósjálfbær, því að erlend samkeppni er yfirleitt fyrir hendi.  Forstjóri þessarar stofnunar þarf að vera mun víðsýnni og betur að sér um hagfræði en nú er reyndin. 

SKE hefur valdið íslenzku atvinnulífi margvíslegum búsifjum með stirðbusahætti, löngum afgreiðslutíma og kröfuhörku, án þess að séð verði, að hagur strympu (neytenda) hafi nokkuð skánað við allan bægslaganginn.  Nýjasta dæmið er um sölu Símans á Mílu, þar sem SKE þvældist fyrir á dæmalaust ófaglegan hátt og hafði upp úr krafsinu að færa mrdISK 10 frá hluthöfum Símans, sem aðallega eru íslenzkir lífeyrissjóðir, til hluthafa franska kaupandans.  

Ragnar Árnason tók í Morgunblaðsgrein sinni 16.02.2023 ágætis dæmi af íslenzka sjávarútveginum; hvernig væri komið fyrir honum, ef SKE hefði lögsögu yfir honum.  Íslenzkar eftirlitsstofnanir setja of oft sand í tannhjól atvinnulífsins að þarflausu, og þess vegna er guðsþakkarvert, að SKE hefur ekki lögsögu yfir þessari eimreið íslenzkra útflutningsgreina.  

Yfirskrift greinarinnar var:

"Enn um hlutverk Samkeppniseftirlitsins":

"Sjávarútvegurinn er eflaust einn skilvirkasti atvinnuvegur landsmanna og mikilvæg stoð efnahagslegrar velsældar í landinu. Hollt er að hugleiða stöðu hans, ef hann þyrfti að búa við ægivald Samkeppniseftirlitsins, en öfugt við fyrirtæki, sem framleiða fyrir innanlandsmarkað, er hann (samkvæmt 3. gr. samkeppnislaga) því undanþeginn. 

Sjávarútvegurinn hefur í vaxandi mæli þróazt í átt að stórfyrirtækjum og lóðréttum samruna veiða, vinnslu og markaðssetningar.  Með þessu hefur honum tekizt að ná mjög mikilli rekstrarhagkvæmni með þeim afleiðingum, að íslenzkur sjávarútvegur er afar samkeppnishæfur á alþjóðlegum mörkuðum. Stendur hann þar raunar í fremstu röð, jafnvel framar þjóðum, sem hafa miklu meiri sjávarauðlindum úr að ausa (eins og t.d. Noregi). [Veiðigjöld tíðkast ekki gagnvart norska sjávarútveginum - innsk. BJo.]

Hver hefði þróun íslenzks sjávarútvegs orðið, ef hann hefði orðið að lúta þeim samkeppnisskilyrðum, sem Samkeppniseftirlitið hefur sett landbúnaði og ýmsum öðrum atvinnugreinum landsmanna ?  Samkeppniseftirlitið hefði þá auðvitað staðið í vegi fyrir sameiningu sjávarútvegsfyrirtækja í stærri fyrirtæki, svo [að] ekki sé minnzt á lóðréttan samruna [á] milli veiða og vinnslu.  Afleiðingin hefði orðið minni framleiðni í íslenzkum sjávarútvegi, hærri framleiðslukostnaður og lakari samkeppnisaðstaða á erlendum mörkuðum.  Þar með hefði framlag sjávarútvegsins til þjóðarbúskaparins orðið minna og hagsæld neytenda að sama skapi lakari." 

Þrátt fyrir harða samkeppni á erlendum mörkuðum hefur íslenzki sjávarútvegurinn náð að blómstra.  Því má þakka skynsamlegri löggjöf um fiskveiðistjórnun og því, að atvinnugreinin hefur sjálf tekið ábyrgð á eigin þróun, og hún hefur augljóslega gefizt vel, eins og Ragnar rekur hér að ofan, enda er sjálfs höndin hollust. 

Sannleikurinn er sá, að völd Samkeppnieftirlitsins eru vandmeðfarin og stofnunin hefur ítrekað farið offari í afskiptum sínum af fyrirætlunum atvinnulífsins til hagræðingar.  Samkeppniseftirlitið á að láta af óhóflegri afskiptasemi sinni og ekki að grípa fram fyrir hendur fyrirtækjanna, nema sterk rök liggi til þess, að inngripið bæti hag landsmanna.  Því hefur farið fjarri hingað til, að SKE hafi rökstutt mál sitt skilmerkilega. Það hefur bara þjösnazt áfram. Nýlegt dæmi er af viðskiptum franska sjóðstýringarfélagsins Ardin France S.A. og Símans um Mílu, þar sem SKE bannaði heildsölusamning um viðskipti Mílu og Símans, og bannið kostaði hluthafa Símans (lífeyrissjóðina) mrdISK 10.  Enginn bannaði öðrum að gera viðlíka heildsölusamninga við Mílu um mikla gagnaflutninga.  Þarna urðu viðskiptavinir Símans fyrir tjóni án þess, að ljóst sé, að viðskiptavinir samkeppnisaðila Símans hafi hagnazt. 

SKE ber að halda sig til hlés, nema vissa sé um, að hagsmunir neytenda séu í húfi, því að yfirleitt eru það hagsmunir landsmanna, að fyrirtæki fái að þróast, eins og þau sjálf telja hagkvæmast, í áttina til meiri framleiðni og lækkunar á einingarkostnaði hverrar framleiddrar vöru eða þjónustueiningar.  Búrókratar ríkisins eru alveg örugglega ekki betur til þess fallnir en stjórnir og eigendur fyrirtækjanna. 

SKE er kaþólskari en páfinn.  Hvernig stóð á því, að SKE komst í mjög löngu máli að þveröfugri niðurstöðu á við norska SKE í máli kjötafurðastöðva landbúnaðarins um samstarf þeirra í millum ?  Norðmenn eru leiðandi í EFTA-hluta EES, og úrskurður norska SKE hefði átt að gefa tóninn innan EFTA.  Nei, ekki aldeilis, Blönddælingurinn lætur ekki framkvæmd samkeppnisreglna EES-svæðisins stjórna afstöðu SKE.  Þar skal hans eigin þrönga sýn og eintrjáningsháttur vera ráðandi, á meðan hann er þar forstjóri.  Þessi frekja og afskiptasemi búrókratans gengur ekki lengur.  Hann er of dýr á fóðrum fyrir neytendur til að geta rekið SKE eftir eigin duttlungum.   


Skýr skilaboð Landsvirkjunar

Í forstjóratíð Harðar Arnarsonar hjá Landsvirkjun hafa sumir stjórnendur þar á bæ, að honum meðtöldum, tjáð sig með hætti, sem ýmsum hefur ekki þótt samræmast hagsmunum eigenda fyrirtækisins, hvað sem gilda kann um sjónarmið stjórnarmanna fyrirtækisins.  Þetta á t.d. við um aflsæstrengstengingu á milli erlendra raforkukerfa og þess íslenzka og vindknúna rafala. 

Nú kveður við nýjan tón, því að Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri vinds og jarðvarma hjá Landsvirkjun, skrifaði vel jarðtengda og fræðandi grein, sem birtist í Morgunblaðinu 17.02.2023 undir fyrirsögninni:

 "Raforkuvinnsla á láði eða legi".

Undir millifyrirsögninni "Eðli vindorku" var gerð grein fyrir því, að með vindafli yrði að fylgja vatnsafl í raforkukerfinu, nema notandinn gæti sætt sig við sveiflur vindaflsins, og sá notandi er vart fyrir hendi á Íslandi.  Af þessum ástæðum er út í hött að leyfa uppsetningu vindspaðaþyrpinga og tengingu þannig knúinna rafala við íslenzka raforkukerfið:

"Til að geta afhent raforku inn á flutningskerfið, sem unnin er með vindorku, þarf að vera [fyrir hendi] jöfnunarafl.  Það er nauðsynlegt til að mæta sveiflum í raforkuvinnslu með vindorku.  M.ö.o.: þegar vindar blása ekki, þarf að vera hægt að vega það upp með jöfnunarafli frá vinnslukerfinu.  Í íslenzka raforkukerfinu getur slíkt afl einungis komið frá vatnsaflsstöðvum, enda er landið ótengt öðrum löndum.  Þá er kerfið ekki hannað til að takast á við miklar aflsveiflur."   

"Also sprach Zarathustra."  Einar Mathiesen veit gjörla, að jarðgufuvirkjanir Landsvirkjunar og annarra eru ekki í færum til að taka upp aflsveiflur í kerfinu vegna innbyggðrar tregðu.  Vatnsorkuverin geta þetta upp að vissu marki og sjá um reglunina í kerfinu núna.  Það sér hver maður í hendi sér, að með öllu er glórulaust að reisa vatnsorkuver til að standa tilbúin að yfirtaka álagið, þegar vind lægir undir hámarks framleiðslumark vindspaðavers.  Framleiðslukostnaður í vatnsorkuveri er lægri en í vindorkuveri, en aðeins ef nýtingartími vatnsorkuversins er samkvæmt hönnunarforsendum þess.  Erlendis eru gasknúin raforkuver reist til að gegna þessu jöfnunarhlutverki, en hér kemur það ekki til greina.  Þessi innflutta hugmyndafræði um vindorkuver fyrir íslenzka raforkukerfið er vanburða.

"Því má halda fram, að raforkuvinnsla með vindorku sé ekki fullbúin vara, nema endanotandi geti tekið á sig sveiflur í notkun, sem fylgir breytilegum orkugjafa, sem vindorka er; þá þarf ekki afljöfnun.  Í umræðu um vindorku er iðulega skautað framhjá þessari staðreynd.  Landsvirkjun er eini rekstraraðilinn á markaðinum, sem hefur yfir að ráða jöfnunarafli. Það afl er afar takmarkað, bæði til skemmri og lengri tíma, eins og fram kom á opnum fundi Landsvirkjunar 2. febrúar [2023] undir yfirskriftinni: "Hvað gerist, þegar vindinn lægir ?", en um hann er fjallað á vef Landsvirkjunar."

Hér staðfestir framkvæmdastjóri vinds og jarðvarma, að vindorkan sé ein og sér lítils virði, nema fyrir þá, sem ekki verða fyrir umtalsverðu tjóni, þótt framboðið sveiflist með vindafari.  Þeir eru sárafáir, ef nokkrir slíkir í landinu.  Þegar þetta er lagt saman við þá staðreynd, að burðarsúlur og vindspaðar hafa skaðleg áhrif á miklu stærra svæði m.v. orkuvinnslugetu en hefðbundnar íslenzkar virkjanir, hlýtur rökrétt ályktun yfirvaalda og annarra að verða sú, að ekkert vit sé í að leyfa þessi mannvirki í íslenzkri náttúru.  Yfirvöld ættu að lágmarki að gera að skilyrði, að orkusölusamningar hafi verið gerðir um viðskipti með alla orkuvinnslugetu mannvirkjanna, þar sem kaupandi sættir við að sæta álagsbreytingum í samræmi við framboð orku frá viðkomandi vindorkuveri. 

Í lokakafla greinarinnar lýsir framkvæmdastjórinn yfir stuðningi við hina klassísku virkjanastefnu Landsvirkjunar.  Það er ánægjuleg tilbreyting við stefin, sem kveðin hafa verið í háhýsinu á Háaleitisbrautinni undanfarin 13 ár.  Það hefur nú að mestu verið rýmt vegna myglu, svo að loftið þar stendur vonandi til bóta.  Millifyrirsögn lokakaflans var: "Ekki sama, hvað það kostar":

"Að velja hagkvæma fjárfestingarkosti til raforkuvinnslu er lykilatriði, þegar kemur að samkeppnishæfni.  Íslendingar hafa byggt upp samkeppnisforskot á alþjóðavísu með vali á hagkvæmum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum - og nú mögulega í einhverjum mæli með vindorkuverum á landi. [Einnig báru Íslendingar gæfu til að gera raforkusamninga um sölu á megninu af orku þessara virkjana og náðu þannig fljótt fullnýtingu fjárfestinganna - innsk. BJo.]  Þessu má ekki glutra niður með því að ráðast í dýrar og óhagkvæmar virkjanir [les vindorkuver - innsk. BJo], sem kosta margfalt á við meðalkostnaðarverð raforku á Íslandi.  

Í endurminningum fyrsta stjórnarformanns Landsvirkjunar og eins af brautryðjendum í orkumálum þjóðarinnar, Jóhannesar Nordal, Lifað með öldinni, kemur fram, að lykillinn að farsælli uppbyggingu orkuvinnslu sé ekki, að áformin séu sem stærst, heldur að finna hagkvæma virkjunarkosti, til heilla fyrir land og þjóð.  Óhætt er að taka undir það."

Vart er hægt að lýsa yfir meiri hollustu við klassíska stefnu Landsvirkjunar en að vitna í æviminningar dr Jóhannesar Nordal og lýsa yfir stuðningi við það, sem þar kemur fram.  Ævintýramennska á sviði sölu raforku um sæstreng til útlanda og að útbía náttúru landsins með vindorkurafölum fellur ekki að klassískri virkjanastefnu ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar.  


Mikið skraf - lítið gert í orkumálum

Nýlega bilaði eldingavari í kerfi Landsnets, sem tengir Suðurnesin við landskerfið.  Þetta er sjaldgæf bilun, en afleiðingarnar urðu nokkurra klukkustunda straumleysi á Suðurnesjum, á meðan bilaði eldingavarinn var fjarlægður og annar settur í staðinn.  Hvernig má það vera, að jarðgufuvirkjanir HS Orku skyldu ekkert nýtast, á meðan Suðurnesjalína 1 var óvirk ?

Ekki er víst, að það sé á almennu vitorði, að jarðgufuvirkjanirnar ráða ekki við reglun álagsins og geta þess vegna ekki starfað án tengingar við landskerfið. Tregða í reglun er akkilesarhæll jarðgufuvirkjana.  Bilunin brá birtu yfir veikleikana, sem Suðurnesjamenn búa við núna, og þann mikla ábyrgðarhluta, sem fylgir því að standa gegn lagningu Suðurnesjalínu 2. Það er með ólíkindum að láta orkuöryggi Suðurnesjamanna með allri þeirri mikilvægu starfsemi, sem þar fer fram, hanga á horriminni vegna meintrar sjónmengunar af loftlínu.  Geta menn ekki séð fegurðina í nauðsynlegu mannvirki fyrir öryggi mannlífs á Suðurnesjum ? 

Þann 10. febrúar 2023 sagði Morgunblaðið frá Viðskiptaþingi á Nordica daginn áður.  Þar kom fram enn einu sinni, að lögfest loftslagsmarkmið Íslands eru í uppnámi, og eru að verða einhvers konar níðstöng, sem beinist að óraunhæfum stjórnmálamönnum, sem settu hrein montmarkmið um 55 % minnkun losunar koltvíildis 2030 m.v. 2005 og kolefnishlutleysi 2040, vilja verða á undan öðrum þjóðum (pólitíkusum) að þessu leyti, en hirða ekki um forsenduna, sem er að afla endurnýjanlegrar orku, sem komið geti í stað jarðefnaeldsneytis. 

Á þessu viðskiptaþingi var smjaðrað fyrir vindorkunni, jafnvel á hafi úti, sem er fráleitt verkefni hér við land, og harmaðar hömlur á erlendum fjárfestingum á þessu sviði.  Hið síðar nefnda er undarlegt m.v., að Ísland er á Innri markaði Evrópusambandsins og EFTA, og hér hefur verið algerlega ótímabær ásókn fyrirtækja þaðan í framkvæmda- og rekstrarleyfi fyrir vindknúna rafala, þótt lagasetningu um þessi mannvirki skorti í landinu. 

Vindorkan kemur óorði á orkuvinnslu í landinu vegna þess, hversu þurftarfrek hún er á land, hversu ágeng,  áberandi og hávaðasöm hún er, mengandi og varasöm  fuglalífi.  Slitrótt raforkuvinnsla er lítils virði.  Eins og jarðgufuvirkjanir þurfa vindrafalaþyrpingar vatnsorkuver með sér til að sjá um reglunina, en jarðgufuvirkjanir hafa þann mikla kost að vera áreiðanlegar í rekstri fyrir grunnálag, en vindspaðaþyrpingar geta sveiflazt fyrirvaralítið úr fullum afköstum í engin afköst. Við þurfum ekki á þessu fyrirbrigði að halda við orkuöflun hér.  Við þurfum að virkja meira vatnsafl og meiri jarðgufu, en þar virðist hnífurinn standa í kúnni. Hvers vegna ?

Forsætisráðherrann og stjórnmálaflokkurinn, sem hún veitir formennsku, eru síður en svo hjálpleg, því að þar er fremur reynt að setja skít í tannhjólin, ef kostur er, eins og ávarp formannsins á téðu Viðskiptaþingi bar með sér:

 "Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði þingið.  Hún sagði orkunýtingu vera eitt stærsta pólitíska ágreiningsefnið á þessari öld, sem jafnvel meiri deila er um en fiskveiðistjórnunarkerfið.  Einnig varpaði hún fram þeirri spurningu, hvaða verðmæti fælust í ósnortinni náttúrunni, og þótt ekki væri hægt að meta fegurð til fjár, þá þyrfti að meta hana til einhvers.  Skapa þurfi sátt um forgangsröðun orku, sem notuð er í orkuskipti.

Einnig kom fram í ávarpi ráðherrans, að orkuskiptin væru ekki eina leiðin í átt að markmiðum um kolefnishlutleysi, heldur eru einnig tækifæri falin í minni sóun og betri nýtingu orku.  Nefndi hún matarsóun sérstaklega í því samhengi."  

Svona þokulúður er hluti af vandamálinu, sem við er að etja, stöðnun á sviði framkvæmda á orkusviðinu.  Ráðherrann þokuleggur sviðið með óljósu og merkingarlitlu tali og dregur þannig dul á, að flokkur hennar ber kápuna á báðum öxlum.  Hann hefur forgöngu um fögur fyrirheit og reyndar algerlega óraunhæf markmið í loftslagsmálum á landsvísu, en á sama tíma þvælist hann fyrir hefðbundnum virkjunum og línulögnum. 

Nú er raforkukerfið þanið til hins ýtrasta vegna framkvæmdaleysis á orkusviði, og slíkt hefur í för með sér, að raforkutöp eru í hámarki líka og stærðargráðu meiri en af matarsóuninni, sem forsætisráðherra er þó hugleikin og er síðlítil.  Ráðið við því er að virkja meira af vatnsföllum og jarðgufu og reisa fleiri flutningslínur. Það liggur þjóðarhagur við að gera þetta, þótt ekki séu allir á einu máli um það. Hlutverk alvöru stjórnmálamanna er að gera það, sem gera þarf, en ekki að horfa í gaupnir sér, þegar gagnrýni heyrist. Jafnstraumsjarðstrengur yfir Sprengisand mun hjálpa mikið til við að stýra raforkukerfi landsins í átt til stöðugleika og lágmörkunar orkutapa. Hann verður vonandi að veruleika á þessum áratugi.   

Um verðmæti hinna ósnortnu víðerna, sem ráðherrann augljóslega telur vera hátt upp í þónokkur, en óskilgreind, má segja, að þau muni fyrst renna upp fyrir mönnum, þegar þeim hefur verið spillt.  Engum blöðum er um það að fletta, að vindrafalaþyrpingar eru stórtækastar í þessum efnum, og þess vegna væri hægt að nálgast "sátt" um orkumálin með því einfaldlega að leggja áform um þessa gerð orkuvera á hilluna, enda eru mótvægisaðgerðir við yfir 200 m há ferlíki óhugsandi, um leið og hefðbundnum íslenzkum virkjanategundum er veittur framgangur, enda falli þær vel að landinu með beitingu nútíma tækni.  Hvers vegna er framvindan jafnhæg og raun ber vitni (kyrrstaða), þegar Rammaáætlun 3 hefur verið samþykkt ?  Það virðist vera mikil deyfð yfir orkufyrirtækjunum.  Hvers vegna ?  Markaðinn hungrar í meiri raforku ? 

"Sæmundur Sæmundsson, formaður sjálfbærnihóps Viðskiptaráðs, kynnti skýrslu þingsins.  Lagði hann áherzlu á í sinni ræðu, að mikilvægt væri að velja virkjanakosti, þó að það væri erfitt val.  [Hvers vegna er það erfitt val - hættið að gæla við vindinn ?-innsk. BJo.]  Hins vegar væri seinagangur í kerfinu, og nauðsynlegt væri að velja, hvar ætti að taka af skarið og virkja.  Nefndi hann máli sínu til stuðnings, að rafmagnsskortur [á] síðustu loðnuvertíð hefði orðið til þess, að allur ávinningur frá notkun rafmagnsbíla frá upphafi hefði þurrkazt út.  Svifasein stjórnsýsla og kærumál stoppi ferli og tefji framkvæmdir, svo [að] árum skipti.  Regluverkið sé sömuleiðis þungt, og regluverk skorti um vindorkuframkvæmdir.  Úr þessu þurfi að bæta."

Það er mikið sjálfskaparvíti, að afturhaldsöfl virðast hafa náð að leggja dauða hönd á orkuframkvæmdir.  Það er stjórnleysi, að ráðherrar láti stofnanir komast upp með að hundsa lögboðna fresti og að kærendur (með veikan málstað) geti nánast lamað framkvæmdaviljann.  Ströng skilyrði þurfa að vera um það, hverjir geta verið lögformlegir hagsmunaaðilar að kærumáli, og ein kæra á einstaka ákvörðun sé hámark, og tími frá ákvörðun að afgreiðslu kæru verði að hámarki 3 mánuðir.  Ekki má láta afturhaldið valda óafturkræfu efnahagstjóni í landinu. Eyðingaröfl á valdi sjúklegrar hugmyndafræði eru látin komast upp með stórfelld skemmdarverk á hagkerfinu.  Jafnvel má stundum segja, að stundum höggvi sá, er hlífa skyldi.  

Nú er sú staða uppi, að aðeins einn sæstrengur heldur uppi tengingu Vestmannaeyja við stofnkerfi rafmagns í landinu.  Þetta þýðir, að atvinnustarfsemi á loðnuvertíðinni í vetur þarf að keyra með dísilknúnum rafölum í Eyjum.  Fyrir jafnfjölmenna og mikilvæga byggð og í Vestmannaeyjum þarf að vera (n-1) raforkufæðing úr landi, þ.e. þótt einn strengur bregðist, á samt að vera hægt að halda uppi fullu álagi í Eyjum.  Landsneti hefur á undanförnum árum ekki tekizt að nýta allt fjárfestingarfé sitt, sumpart vegna andstöðu við framkvæmdir fyrirtækisins.  Lítillar andstöðu afturhaldsafla er þó að vænta við þriðja sæstrenginn út í Eyjar, og þess vegna er einkennilegt af Landsneti að hafa dregið von úr viti að koma á (n-1) tengingu við Heimaey, en slíkt fyrirkomulag er yfirlýst stefna fyrirtækisins hvarvetna á landinu. 

 

  


Samfylkingin hefur keyrt höfuðborgina í þrot

Fjárhagur borgarsjóðs er svo bágborinn, að borgin hefur ekki bolmagn til að fjárfesta, hvorki í stórum samgönguverkefnum né í annars konar stórverkefnum.  Borgarsjóði er haldið á floti með millifærslum úr fyrirtækjum OR-samstæðunnar, enda hafur fjárfestingum þar verið haldið í algeru lágmarki undanfarinn áratug.  Þess vegna hefur ekkert verið virkjað þar, framboð rafmagns og heits vatns hrekkur ekki til fyrir þörfinni á kuldaskeiðum.  Nauðhyggja Samfylkingarinnar segir, að ekki eigi að fjárfesta fyrir toppþörfina.  Það er rangt, því að annars er ekkert borð fyrir báru, þegar bilanir ríða yfir, og samkvæmt Murphy koma þær á versta tíma.  Fyrirbyggjandi viðhald hefur líka verið skorið niður við nögl í borgarfyrirtækjunum, svo að reksturinn er í skötulíki.  Hugmyndafræði Samfylkingarinnar er hugmyndafræði viðvaninga og fúskara. Þannig hugmyndafræði gagnast ekki almenningi.  Samfylkingin á enga samleið með almenningi.  Hún er fyrir sérvitringa, Samtök um bíllausan lífsstíl og aðra slíka.  

Forsendur þess, sem gætu orðið dýrustu verkefnismistök Íslandssögunnar, eru brostnar, svo að það er einboðið að stöðva þá óvissuferð út í fjárhagslegt kviksyndi skattborgara, sem borgarlínan er.

Samfylkingin heldur því fram, að það feli í sér að kasta fé á glæ að auka hreyfanleika umferðarinnar með hefðbundnum umbótum á borð við mislæg gatnamót og fjölgun akreina vegna þess, að þessi mannvirki fyllist strax af bílum samkvæmt lögmáli "orsakaðrar umferðar". Þetta eru falsrök.  "Orsökuð umferð" (induced demand) á ekki við á Íslandi.  Hún er aðeins fyrir hendi í milljónasamfélögum.  Annaðhvort hefur Samfylkingin (Holu-Hjálmar) flutt þessa speki til Íslands af vanþekkingu, enda eru þar amatörar leiðandi um umferðarmál, eða Samfylkingin tók meðvitaða ákvörðun um að kasta ryki í augun á kjósendum til að blekkja þá til fylgilags við borgarlínu. Fyrir hvort tveggja á Samfylkingin skilda falleinkunn.  

Nýjasta spá hermilíkans (Þórarinn Hjaltason-Mbl. 02.02.2023) um stöðu umferðar 2040 sýnir, að bílar í umferðinni þá verða innan við 2 % færri með borgarlínu og nýjum göngu- og hjólastígum en ella.  Þetta er reiðarslag fyrir draumóramenn borgarlínunnar, því að þá dreymdi um 20 % færri bíla.  Þetta þýðir, að hin rándýra borgarlína er vonlaust verkfæri til að fækka bílum, en þannig kynnti Samfylkingin hana til sögunnar.  Nú langar Samfylkinguna mest til að fækka bílum með umferðargjöldum í Reykjavík, en þau virka aðeins til fækkunar, ef þau eru há.  Þau urðu svo óvinsæl í Stafangri, olíubænum á SV-strönd Noregs, að þau voru fljótlega afnumin þar.  Nauðhyggja Samfylkingar mun leiða borgarbúa í algerar ógöngur.  

Stefnumörkun Samfylkingar í umferðarmálum höfuðborgarsvæðisins var hrákasmíði, eins og allt annað, sem frá þeim arma stjórnmálaflokki hefur komið, enda er hún nú hrunin til grunna.  Nú er komið að ríkisvaldinu að kasta rekunum.  Er þörf á afætum í apparati á borð við "Betri samgöngur o.h.f." til að auka hreyfanleika umferðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, eða er þetta opinbera hlutafélag enn eitt dæmið um vandræðagang stjórnmálamanna ?  Vegagerðin er einfær um verklegar framkvæmdir, sem hún hannar til að auka hreyfanleikann.  Það þarf ekki viðbótar afætur í kringum "létta borgarlínu" á akrein hægra megin.  

Fyrrverandi borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, skrifaði góða grein í Moggann 3. febrúar 2023 um borgarmálefni undir fyrirsögninni:

"Samgöngur í ólestri".

Hún hófst þannig:

"Það, sem hefur einkennt meirihlutann í borgarstjórn á þessu kjörtímabili og áður, er óráðsía í fjármálastjórn borgarinnar, stöðug skuldasöfnun og áform um að eyða mörgum tugum milljarða króna í svo kallaða borgarlínu.  Stjórnsýslan er flókin og þunglamaleg, og afgreiðsla erinda einstaklinga og fyrirtækja til borgarinnar tekur ógnartíma, þrátt fyrir að starfsmannafjöldi hafi stóraukizt á undanförnum árum."

Það, sem VÞV gagnrýnir þarna á hæverskan hátt, er í raun og veru eyðilegging Samfylkingarinnar á stjórnkerfi borgarinnar, svo að það stendur lamað eftir, eins og opinberast, þegar hæst á að hóa, t.d. þegar náttúruöflin láta hressilega að sér kveða.  Þetta hefur Samfylkingin gert með því að ráðstjórnarvæða stjórnkerfið, sem felur í sér að setja pólitíska silkihúfu yfir hvert svið, en áður stjórnuðu öflugir embættismenn borginni undir beinni stjórn borgarstjóra, t.d. borgarverkfræðingur. 

"Nú virðist liggja fyrir, að ekkert verði úr aðgerðum á næstu árum til að stórbæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, aðallega rætt um borgarlínu fram og til baka, en sú framkvæmd hefur algjöran forgang hjá meirihlutanum. Óljóst er, hvort hún verði nokkurn tíma að veruleika m.v. núverandi áform.  Nýlega var upplýst, að kostnaður við þá framkvæmd hækki verulega frá upphaflegri áætlun, sé kominn í mrdISK 70 og fyrsti áfangi kosti mrdISK 28.  Sundabraut er seinkað með reglulegu millibili, rætt um Miklubraut í stokk, en nýlega var kynnt, að kostnaður við þá framkvæmd yrði mrdISK 27.  Ljóst er, að ef af þessari framkvæmd verður, muni það valda umferðaröngþveiti í Hlíðunum og nágrenni á framkvæmdatímanum."

Alls staðar, þar sem þessar gagnslausu og glórulausu framkvæmdir verða, munu þær valda umferðaröngþveiti árum saman, t.d. á Suðurlandsbraut.  Þessar síðustu hækkanir ættu að leiða fjárveitingavaldinu fyrir sjónir, hvílíkt fjárhagskviksyndi Samfylkingin er að leiða skattborgarana í með þessu uppátæki amatöra. Ríkisvald og ábyrgir bæjarfulltrúar verða að stöðva þessa vegferð strax.  Enginn tapar á því, nema nokkrar gjörsamlega ábyrgðarlausar afætur. 

"Einnig hefur verið kynnt, að áætlaður kostnaður við Sæbraut í stokk verði mrdISK 17, var upphaflega áætlaður mrdISK 2,2.  Meðan á framkvæmdum stendur, verður alvarleg röskun á allri þeirri gríðarlegu umferð, sem þar fer fram daglega.  Mislæg gatnamót eru bannorð hjá meirihlutanum [á fölskum forsendum orsakaðrar umferðar - innsk. BJo].  Miklu fremur beinist áhugi meirihlutans að því að þrengja nokkrar stofnæðar borgarinnar, fækka bílastæðum og gera bíleigendum eins erfitt fyrir og kostur er. Það væri hægt að fara í einfaldar og árangursríkar umbætur í umferðarmálum á höfuðborgarsvæðinu strax fyrir brotabrot af þeim kostnaði, sem er áætlaður í hin ýmsu stórkarlalegu úrræði, sem fyrirhugað er að hrinda í framkvæmd, úrbætur, sem vegfarendur myndu njóta góðs af strax og tekið yrði eftir.  En meirihlutanum virðist ekki vera órótt yfir því, að kostnaður við samgöngusáttmálann hefur hækkað um mrdISK 50, frá því [að] hann var gerður. Fyrir þá fjárhæð væri t.d. hægt að reisa þjóðarleikvanga í knattspyrnu og frjálsum íþróttum auk hinnar margumræddu þjóðarhallar."  

Þrengingar gatna hafa verið gerðar í nafni umferðaröryggis, en þær og að setja hlykki á göturnar, eins og gert hefur verið við Háaleitisbraut, eru ólíklegar til að leiða til færri slysa.  Þessum aðgerðum ásamt fækkun bílastæða er ætlað að tefja bílstjóra og farþega þeirra enn meir í umferðinni en ella, og lækkun hámarkshraða víða í borginni á umferðargötum, þar sem lækkun hámarkshraða er alger óþarfi og skaðleg fyrir eðlilegt flæði umferðarinnar í borginni, er í sama augnamiði borgaryfirvalda, sem eru í stríði við fjölskyldubílinn.  Þessi hegðun yfirvalda er fáheyrð og algerlega óþörf.  Meirihluti borgarstjórnar getur ekki unnið þetta stríð.  Það er þegar tapað, enda er fjárhagur borgarinnar ónýtur til allra stórframkvæmda.   

  

 

  


Miðstjórn ASÍ á villigötum

Það hefur verið sorglegt að fylgjast með svigurmælum forystumanna verkalýðs í garð ríkissáttasemjara. Viðvaningsháttur og hroki einkennir þá, þeim eru mannasiðir ekki tamir, og steininn hefur tekið úr, þegar þeir í einfeldni sinni hafa hætt sér út í lagatúlkanir um embætti ríkissáttasemjara.  Þar stendur ekki steinn yfir steini. Starfandi forseta ASÍ virðist skorta forystuhæfileika til að leiða ASÍ með ábyrgum og farsælum hætti.  Nú stendur miðstjórnin uppi berrössuð eftir innantómar yfirlýsingar sínar, eftir að sá maður, sem gerzt má vita um heimildir ríkissáttasemjara til að varpa fram miðlunartillögu í kjaradeilu, sem hann telur vera komna í hnút, hefur tjáð sig opinberlega.  

Karítas Ríkharðsdóttir átti stutt og hnitmiðað viðtal við Ásmund Stefánsson, hagfræðing og fyrrverandi forseta ASÍ og fyrrverandi ríkissáttasemjara, í Morgunblaðinu 30. janúar 2023 undir fyrirsögninni:

"Fordæmanleg ósannindi um lagaheimildir".

Ásmundur var algerlega afdráttarlaus í stuðningi sínum við núverandi ríkissáttasemjara.  Allt tal verkalýðsleiðtoga um, að hann hafi farið út fyrir valdheimildir sínar og þannig með réttu fyrirgert trausti, er eintómt blaður.  Viðkomandi verkalýðsleiðtoga hefur sett ofan, og það verður á brattann að sækja fyrir þá að endurheimta snefil af trausti eftir þetta illvíga frumhlaup. 

Viðtalið hófst þannig:

"Það er alveg ljóst, að sáttasemjari hefur þessa heimild til að leggja fram miðlunartillögu og þarf ekkert samþykki deiluaðila til þess. Það er staðreyndin.  Það er í raun fordæmanlegt, að stóru heildarsamtökin skuli fara fram með bein ósannindi í þessu efni", segir Ásmundur Stefánsson, hagfræðingur, fyrrverandi ríkissáttasetjari og fyrrverandi forseti ASÍ í samtali við Morgunblaðið og vísar til ályktunar miðstórnar ASÍ í kjölfar þess, að ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins á fimmtudaginn í síðustu viku [26.01.2023]. 

Í ályktuninni segir um heimild sáttasemjara til að leggja fram miðlunartillögu, að "hún eigi ekki að leggjast fram án þess að hafa a.m.k. þegjandi samþykki beggja aðila."  Ásmundur segir þessa viðmiðun hvergi í lögum." 

Miðstjórn ASÍ undir starfandi forseta hefur sett verulega niður við þessa loðmullulegu  ályktun, sem hefur á sér yfirbragð tilvitnunar í lög, en er í rauninni skáldskapur miðstjórnarinnar.  Hvernig í ósköpunum dettur miðstjórninni í hug að ganga fram með vísvitandi ósannindum í marklausri tilraun sinni til að grafa undan ríkissáttasemjara í eldfimu ástandi ? Þessi framkoma er óábyrg, heimskuleg og fullkomlega óboðleg, og forsetinn  virðist þarna hafa dregið miðstjórnina á asnaeyrunum, eða hann er fullkomlega ófær um veita nokkra leiðsögn af viti. Sýnir þetta enn og aftur, hvers konar ormagryfja verkalýðsforystan er, þegar hún kemur saman.  Þar er ekki stunduð sannleiksleit, heldur ræður sýndarmennska, yfirboð og önnur óvönduð vinnubrögð ferðinni. 

Áfram hélt Ásmundur í viðtalinu við Karítas:

"Það hafa verið samþykktar ályktanir og gefnar út yfirlýsingar um það, að sáttasemjari hafi ekki lagalegt umboð til að koma með miðlunartillögu.  Ég verð í rauninni að lýsa undrun minni á því.  Staðreyndin er, að sáttasemjari hefur þessa heimild samkvæmt lögum, og það fer eftir hans mati á stöðu deilunnar, hvort hann telur rétt að leggja fram miðlunartillögu eða ekki.  Það er engin krafa um það, að verkfall hafi staðið í tiltekinn tíma.  Krafa um t.d. 3 til 4 vikna vinnustöðvun myndi ekki auðvelda sáttastarf.  Krafan er einfaldlega, að hann meti ástandið þannig, að það sé rétt að leggja fram miðlunartillögu.  Þó að menn gefi yfirlýsingar á yfirlýsingar ofan um, að það sé brot, þá haggar það ekki þeirri staðreynd, að fyrir þessu er ekki bara lagaheimild, heldur einnig sterk hefð.  Ósannindi hrekja ekki staðreyndir."

Eftir þessa uppákomu er ljóst, að núverandi miðstjórn ASÍ les lagatexta, eins og Skrattinn Biblíuna og fellir allt að eigin duttlungum.  Þetta er hroðalegt vanþroskamerki og alveg í anda formanns Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, sem lifir í eigin furðuheimi, þar sem viðtekin lögmál gilda ekki.  Þessi miðstjórn hefur þar af leiðandi glatað öllum trúverðugleika og er í raun og veru bara aðhlátursefni.  Þetta hafa menn upp úr viðvaningshætti, ofstæki og flausturslegum vinnubrögðum.  Var við öðru að búast ?

 

 


Virkjanir og sveitarfélögin

Nánast öll raforka frá virkjunum landsins fer inn á stofnkerfi raforku, og þannig eiga allir landsmenn að hafa jafnan aðgang að henni, þótt misbrestur sé á því í raun, bæði hvað afhendingaröryggi og spennugæði áhrærir. Það hefur of lítill gaumur verið gefinn að sveitarfélögunum, þar sem virkjanirnar eru staðsettar, enda er það eðlileg ósk heimamanna, að hluti virkjaðrar orku verði til ráðstöfunar í viðkomandi sveitarfélögum, ef eftirspurn skapast. 

Þetta viðhorf kom fram í góðri Morgunblaðsgrein eftir Harald Þór Jónsson, oddvita og sveitarstjóra í Skeiða- og Gnúpverjahreppi 9. janúar 2023 undir fyrirsögninni:

"Forsenda orkuskipta á Íslandi fyrir árið 2040".

Þar stóð m.a.:

"Ég leyfi mér að fullyrða, að orkuskipti þjóðarinnar gangi ekki eftir, nema haldið verði áfram að virkja þetta mikilvæga orkusvæði.  Þegar ríkisstjórn Íslands setti hins vegar markmið um orkuskipti fyrir Ísland, átti ekkert samtal eða samráð sér stað um það við sveitarfélögin, en samt er það svo, að það eru þau, sem þurfa að setja virkjanir og tengd mannvirki á aðal- og deiliskipulag sitt ásamt því að heimila framkvæmdir.  Nauðsynlegt er að hefja samtalið [á] milli ríkis og sveitarfélaga strax, til þess að orkuskiptin raungerist."

Þetta er þörf og löngu tímabær ábending.  Að samskipti ríkisvalds, stærsta ríkisorkufyrirtækisins og  sveitarfélaga á orkusviðinu skuli vera í lamasessi, eins og höfundurinn rekur, ber vitni um ómarkviss vinnubrögð af hálfu ríkisvaldsins og ríkisorkufélaganna, og er þessi meinbugur sennilega hluti af skýringunni á þeirri úlfakreppu, sem íslenzk orkumál eru í.  

Þjóðarskútunni hefur verið siglt inn í ástand raforkuskorts.  Hann er ekki tímabundinn, eins og löngum áður fyrr, heldur langvarandi. Hann stafar ekki einvörðungu af skorti á rafölum til að svara eftirspurninni, einnig frá nýjum notendum, heldur vegna ónógrar söfnunargetu miðlunarlóna virkjananna, sérstaklega á Tungnaár/Þjórsár-svæðinu. 

Að auka aflgetu virkjananna mun magna orkuvandann, því að aukið vatnsrennsli þarf til að knýja nýja rafala og/eða stærri rafala.  Aðalvandinn er sá, að miðlunargeta Þórisvatns er of lítil.  Til að bæta úr skák þarf 6. áfanga Kvíslaveitu, nýtt Tungnaárlón og Norðlingaölduveitu.  Hvammsvirkjun-95 MW, Holtavirkjun-57 MW og Urriðafossvirkun-140 MW munu bæta mjög úr skák, því að þar mun bætast við um 290 MW afgeta án þess að auka þörfina á miðlunargetu.

Landsvirkjun virðist vilja leysa aðsteðjandi orkuvanda með vindmylluþyrpingum.  Það er þjóðhagslega óhagkvæmt, af því að aðrir valkostir til að auka afl- og orkugetu raforkukerfisins eru hagkvæmari og vegna þess að mun meiri landverndar- og mengunarbyrði verður af vindmylluþyrpingum en vatnsorkuvirkjunum (miðlunum og vatnsaflshverflum með rafölum, spennum, rofum stýribúnaði). Núna hafa einvörðungu um 0,6 % landsins farið undir miðlanir, stöðvarhús, aðrennsli og frárennslu, flutningslínur og vegagerð vegna orkumannvirkja.  Landþörf vindmylluþyrpinga í km2/GWh/ár er tíföld á við vatnsaflsvirkjun með miðlun, ef koma á í veg fyrir gagnkvæm skaðleg áhrif vindmyllanna vegna vindhvirfla (túrbúlens), sem dregur úr nýtni og veldur titringi.  Það er með eindæmum, ef Orkustofnun, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og ráðuneyti orku, umhverfis og loftslags ætla að hrekja Landsvirkjun frá góðum lausnum á vatnsorkusviði til að koma á jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar raforku í landinu og yfir í alveg afleitar lausnir vindorkuhverflanna. 

  "Ég er mikill virkjanasinni.  Ég geri mér grein fyrir því, hvað sú græna orka, sem við framleiðum á Íslandi, hefur gert fyrir lífsgæði þjóðarinnar.  Sem sveitarstjóri og oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps er mér falin sú mikla ábyrgð að reka sveitarfélagið. Tryggja hagsmuni íbúanna.  Tryggja það, að samfélag okkar vaxi og dafni.  Tryggja, að lífsgæði okkar aukist.  Er eðlilegt að breyta byggð í fallegri náttúru, sem er hluti af lífsgæðum íbúanna, yfir í virkjanasvæði, sem hefur sjónrænt áhrifasvæði upp á meira en 50 km2, til að tryggja 1-2 störf til framtíðar í nærumhverfi virkjunarinnar ?  Ég held, að flestir viti svarið.  Eitthvað meira þarf að koma til." 

Það er vafasamt að heimfæra þær fórnir, sem þessar lýsingar oddvitans og sveitarstjórans draga upp mynd af, upp á Hvammsvirkjun.  Stöðvarhúsið verður lítt áberandi, og varla mun bera meira á stíflunni en brú, enda verður þar akfært yfir, og mun sú vegtenging yfir Þjórsá verða sveitarfélögunum beggja vegna lyftistöng. Inntakslónið verður alfarið í árfarveginum og mun fegra sveitina.  Sjónræna áhrifasvæðið, sem hann gerir mikið úr, eykur fjölbreytnina í sveitinni, gerir hana nútímalega og mun draga að henni gesti. 

Það er t.d. ekki hægt að bera náttúruinngrip þessarar virkjunar saman við vindmylluþyrpingu á þessum slóðum.  Slíkt mannvirki fælir frá vegna hávaða og gríðarlegt jarðrask á sér stað vegna graftrar fyrir undirstöðum á stóru svæði, þar sem eru vegslóðar og skurðir fyrir rafstrengi frá vindmyllum að aðveitustöð.  

"Ein af undirstöðum lífsgæða á Íslandi er orkuöflun, sem á sér stað á landsbyggðinni.  Samt er það skrifað í raforkulög, að uppbygging atvinnu, sem þarf mikla raforku, raungerist aldrei í dreifbýli.  Hvers vegna ?  Vegna þess að það er sérstök verðskrá fyrir dreifingu á raforku í dreifbýli og við, sem búum á landsbyggðinni þurfum að greiða hærra verð fyrir dreifingu á rafmagninu en þeir, sem búa í þéttbýli.  Við þurfum að greiða hærra verð fyrir orku, sem verður til í okkar nærumhverfi en þeir, sem nota hana í þéttbýliskjörnum, tugum og hundruðum km frá framleiðslustað.  Þessu þarf að breyta strax."

Þetta er alveg rétt hjá höfundinum og hefur ítrekað verið bent á þetta misrétti hér á vefsetrinu og lagðar til leiðir til úrbóta. Það, sem oddvitinn og sveitarstjórinn vill, er, að Landsvirkjun veiti sveitarfélögunum, sem hlut eiga að veitingu framkvæmdaleyfis fyrir Hvammsvirkjun, aðgang að hluta af orku frá virkjuninni.  Það er eðlilegt sjónarmið, að frá aðveitustöðinni, sem reist verður við Þjórsá til að taka við orku frá virkjunum Neðri-Þjórsár og tengja hana við stofnkerfi landsins, verði rofar fyrir orku innan sveitarfélaganna, u.þ.b. 10 MW.  Í grein höfundar segir, að stofnkostnaður Hvammsvirkjunar verði líklega um mrdISK 50.  Þá má reikna út, að kostnaður við þessa orkuvinnslu verður um 38,9 USD/MWh (5,6 ISK/kWh), og er það sanngjarnt verð frá virkjuninni til innansveitarnota, en til viðbótar kemur flutningskostnaður að aðveitustöðinni, og Landsvirkjun þyrfti að niðurgreiða dreifinguna, þar til stjórnvöld loksins leiðrétta téða mismunun notenda dreifiveitnanna.  Þá er hins vegar höfuðverkur sveitarfélaganna, hverjir eiga að njóta þessara vildarkjara ? 

Að lokum stóð í þessari athyglisverðu grein:

"Ef orkuskipti þjóðarinnar eiga að geta átt sér stað, þá þarf ríkisstjórn Íslands og þingmenn á Alþingi að hefja samtalið við sveitarstjórnir á landsbyggðinni um sanngjarna skiptingu á auðlindinni, sem orkan er. Tryggja þarf jafnt verð á dreifingu raforku í dreifbýli og þéttbýli.  Tryggja þarf, að nærsamfélagið, þar sem orkan á uppsprettu, njóti ávinnings af þeim verðmætum, sem hún skapar, ekki bara á framkvæmdatíma við byggingu virkjana, heldur sem hlutdeild í þeim verðmætum, sem verða til á hverjum tíma með orkuframleiðslunni. Það samtal þarf að hefjast strax til að tryggja, að farsæl orkuskipti þjóðarinnar nái fram að ganga fyrir árið 2040."

Þarna virðist oddvitinn og sveitarstjórinn fara fram á gjald til viðkomandi sveitarfélaga af orkunni frá Hvammsvirkjun, ef hún er seld á hærra verði en nemur framleiðslukostnaði virkjunarinnar (38,9 USD/MWh=5,6 ISK/kWh).  E.t.v. er hægt að semja tímabundið um slíkt, en að auki koma fasteignagjöld í hlut sveitarfélaga, þar sem mannvirki eru staðsett, og arðurinn af ríkisfyrirtækjunum kemur í hlut þessara íbúa, eins og annarra íbúa landsins.  


Skammarstrikið

Menningar- og viðskiptaráðherra er í meira lagi yfirlýsingaglöð, en svo mikið vantar upp á efndir og eftirfylgni, að tala má um verkleysi. Dæmi um þetta er fjölmiðlaheimurinn hérlendi, sem er í úlfakreppu ríkisafskipta og mjög óheilbrigðrar og ósanngjarnrar  samkeppni.  Lilja D. Alfreðsdóttir lýsti því yfir fyrir um ári, að hún ætlaði að laga þá skökku stöðu, sem þarna ríkir, með því að láta skattleggja íslenzkar auglýsingar í erlendum miðlum, aðallega í netheimum, og að draga úr auglýsingum á RÚV o.h.f., "útvarpi allra landsmanna", sem í raun virkar eins og útvarp allra vinstri manna og afæta.

Ekkert af þessu hefur gerzt, erlendu miðlarnir hafa nú sogað til sín helming auglýsingamarkaðarins í ISK talið og umsvif RÚV á þessum markaði aukast stöðugt.  Velta þessa ríkisfjölmiðils er talin munu nema mrdISK 8 í ár, sem er auðvitað váboði, þótt varaformaður Framsóknarflokksins láti enn duga að tala út og suður.  Jafna verður þegar í stað skattheimtuna af öllum fjölmiðlunum, draga RÚV út af auglýsingamarkaði og draga úr umsvifum þess.  Ein rás af hverju tagi er meira en nóg fyrir þennan ríkisrekstur, sem er að verða eins og svarthol fyrir ríkissjóð. 

Staksteinar Morgunblaðsins á þrettándanum 2023 fjölluðu um fjölmiðlahneyksli, sem sem vinstri fjölmiðlarnir hafa reynt að þegja í hel.  Svo virðist sem starfsmenn RÚV-fréttastofu, sem kalla sig "rannsóknarblaðamenn" þar, hafi verið hafðir að ginningarfíflum í Namibíu í Afríku, þar sem yfirvöld rannsaka alvarlegt spillingarmál. Fórnarlamb fréttamanna í þessu máli varð útgerðarfélagið Samherji. 

Þetta félag sætir engri ákæru þar í landi, og þess vegna lítur út fyrir, að óprúttnir menn þar hafi látið líta svo út í augum grobbinna íslenzkra "rannsóknarblaðamanna", að íslenzka útgerðarfélagið hefði hlunnfarið alþýðufólk í Namibíu.  Þessi mynd var dregin upp fyrir áhorfendum Kveiks og lesendum fylgitunglanna, sem frá greinir í téðum Staksteinum:

"Björn Bjarnason skrifar um Fishrot-hneykslið í Namibíu, sem náð hefur hingað og fengið nafnið Samherjamálið. "Yfir lykilblaðamönnum Stundarinnar og Kjarnans hvílir sameiginlegur skuggi lögreglurannsóknar, einn angi Samherjamálsins svo nefnda.  Það má rekja til umfjöllunar í þættinum Kveik í ríkissjónvarpinu 12. nóvember 2019.  Skuggi rannsóknarinnar nær því einnig inn á fréttastofu ríkisútvarpsins", skrifar Björn." 

Þessi skuggi lögreglunnar á Norðurlandi eystra stafar líklega af meintum stuldi gagna úr farsíma skipstjóra nokkurs hjá Samherja.  Augljóslega er þar um alvarlegt mál að ræða, þótt upphlaupsmiðlar hafi ekki gert sér mikinn mat úr því, enda nærri þeim höggvið.  Þarna kom fréttastofa RÚV einnig við sögu, en vonandi verða allir viðkomandi blaðamenn hreinsaðir af sök í þessu máli, því að sönnuð sök væri til vitnis um alvarlegan dómgreindarskort. 

"Þá bendir hann á, að Samherji hafi greitt fyrir veiðirétt undan strönd Namibíu, en svo hafi komið í ljós, að 10 stjórnmálamenn, athafnamenn og lögfræðingar þar í landi, hafi verið sakaðir um mútur og [aðra] spillingu.  Enginn Samherjamaður sæti þó ákæru vegna málsins, sem er umhugsunarvert í ljósi látanna, sem hér urðu."  

Nokkrir íslenzkir blaðamenn voru í einhvers konar krossferð gegn Samherja og töldu sig hafa komizt í feitt og dylgjuðu ótæpilega um refsiverða háttsemi  útgerðarfélagsins þar niðri í Afríku.  Það er með ólíkindum m.v. það, sem á undan er gengið, að hvorki er fram komin ákæra í Namibíu né á Íslandi á hendur téðu útgerðarfélagi eða starfsmönnum þess.  Sú staðreynd vitnar um ótrúlegt dómgreindarleysi Kveiksfólks, sem að þessari þáttagerð kom, og óvönduð vinnubrögð.  Ganga þau nú með veggjum ?

  Tilbúningurinn og vitleysan var á kostnað íslenzkra skattborgara, sem minnast þess að hafa séð Helga Seljan heldur gleiðfættan spígspora sem Sherlock Holmes í Namibíu, og norskum banka var flækt í málið.  Hvernig fór sú rannsókn ?

"Og Björn bendir á frétt Morgunblaðsins í gær um, að yfirlögfræðingur Samherja "hafi leitað til héraðsdóms til að fá rannsókn á hendur sér dæmda ógilda, og að hún verði felld niður".  Lögfræðingurinn hafi haft réttarstöðu sakbornings í 3 ár."

Þetta er dæmi um ótæk vinnubrögð réttarkerfisins, sem ekki geta orðið lögum og rétti í þessu landi til framdráttar.  Skörin er þó tekin að færast upp í bekkinn, þegar í ljós kemur, að ekki er einvörðungu um óhæfni að ræða, heldur er bullandi vanhæfi á ferðinni í þessari rannsókn:

"Svo vill til, að saksóknarinn íslenzki er bróðir blaðamanns Stundarinnar, sem fjallað hefur um þetta mál.  Björn segir óskiljanlegt, hve lengi saksóknarinn sitji yfir málinu án þess, að nokkuð gerist.  "Er hann örmagna andspænis því, eða er það tilefnislaust ?", spyr Björn."

Það er víðar spilling en í Namibíu, en það er ekki sama Jón og séra Jón, allra sízt í vinstri pressunni.  Er ekki löngu tímabært, að "Reichsanwahlt", ríkissaksóknari leysi téðan saksóknara frá málinu ?

 

 

 

 

 

 


Steinrunnið afturhald

Nú berast fregnir af því, að afturhaldsflokkurinn Samfylking njóti nokkurs framgangs í skoðanakönnunum.  Það er einungis til merkis um, að nýjum formanni þessa "jafnaðarflokks" hafi tekizt að villa á sér heimildir og kasta ryki í augu fólks.  Bankadrottningunni og flokkinum hennar má þó aðeins líkja við gamalt vín á nýjum belgjum, enda hefur stefnumiðinu um að troða Íslandi inn í Evrópusambandið (ESB) og að gera evru að lögeyri hér alls ekki verið kastað fyrir róða.  Það er bara búið að breiða yfir það.  Í þessum pistli má sjá, hvernig ábyrgðarleysi og sérhagsmunadekur Samfylkingarinnar skín í gegnum gerðir hennar, þar sem hún er við völd. 

Skýrust merki um stjórnarhætti Samfylkingarinnar birtast í Reykjavík, þar sem hún hefur haft mótandi áhrif á borgarstjórn megnið af þessari öld.  Afleiðingarnar eru ótrúlegar, enda bæði skelfilegar og skammarlegar.  Fjárhagur borgarinnar er í rúst, enda fer lánstraust hennar minnkandi, og fjárfestingargeta hennar hefur ekki verið minni í manna minnum. Samt hefur borgarsjóður blóðmjólkað mjólkurkú sína, OR (Orkuveitu Reykjavíkur), með þeim hroðalegu afleiðingum, að fjárfestingar samstæðunnar hafa verið í lágmarki, enda hefur jarðfræðingurinn á stóli forstjóra samstæðunnar margtekið fram, að engra nýrra virkjana sé þörf. 

Viðhaldi virðist ekki vera sómasamlega sinnt heldur, þannig að umhirða þessarar mjólkurkýr borgarinnar virðist vera í skötulíki.  Forstjóri dótturfélagsins, ON, tekur í sama streng og kveður óráðlegt, að Veitur (annað dótturfyrirtæki) geti fengið heitt vatn til að anna álagstoppum. Þetta er skammarlegt sjónarmið og sýnir fyrirlitningu meirihluta stjórnar OR og borgarstjórnar (les Samfylkingar) á þörfum borgarbúa og annarra viðskiptavina þessa fyrirbrigðis.  Það kom líka á daginn í vetur, að bilun varð í Hellisheiðarvirkjun, þegar mest lá við, svo að loka varð öllum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu í nokkra daga vegna skorts á heitu vatni.  Þetta er dæmi um óstjórn Samfylkingarinnar, þar sem hún nær að setja mark sitt á stjórnarhættina.

Annað svið borgarmálanna, sem varpar ljósi á jaðareðli sérvitringa Samfylkingarinnar, sem hiklaust fórna hagsmunum almennings fyrir sérhagsmuni jaðarhópa á borð við Samtök um bíllausan lífsstíl.  Þetta andframfarasinnaða eðli Samfylkingarinnar gerir hana óstjórntæka, enda sjáum við til hvers stjórnarhættir hennar hafa leitt í Reykjavík. Stjórnkerfi borgarinnar er óstarfhæft, og engin framfaramál á döfinni þar.  Borgarlínan (Sorgarlínan) er hrottalega illa ígrunduð fjárfesting, sem verða mun fjárhag borgarinnar og nágrannasveitarfélaga myllusteinn um háls, því að hún mun ekki draga að sér marktækt hlutfallslega fleiri farþega en núverandi Strætó eða 4 %. Þrátt fyrir sérreinar á miðju, hentar ekki þessi samgöngumáti fleirum. Það vita flestir, en troða á fíflaganginum upp á fjöldann.  Sú mun þó ekki verða raunin.

  Nú er verið að skipuleggja borgina með hliðsjón af Sorgarlínu.  Við Snorrabraut er ætlunin að reisa fjölbýlishús án bílastæða á lóð ÓB á mótum Snorrabrautar og Egilsgötu.  Þar yrði upplagt fyrir starfsfólk Landsspítala að búa, ef það gæti komið bíl sínum eða bílum einhvers staðar fyrir. Þegar kemur að því að selja þessar íbúðir, mun koma í ljós, hvað hefst upp úr því að skipuleggja borg fyrir þarfir, sem eru ekki fyrir hendi hjá almenningi. 

Þann 21. desember 2022 birtist frétt Sigtryggs Sigtryggssonar í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

  "Ekki raunhæft að flýta Sundabraut".

Hún hófst þannig:

"Það er mat Reykjavíkurborgar, að ekki sé raunhæft að flýta framkvæmdum við Sundabraut.  Þær geti ekki hafizt fyrr en árið 2026, eins og áætlanir geri ráð fyrir.  

Þetta kemur fram í umsögn borgarinnar til Alþingis við þingsályktunartillögu Eyjólfs Ármannssonar og annarra þingmanna Flokks fólksins um, að gerð Sundabrautar með brú [á] milli Kleppsvíkur og Gufuness verði hraðað eftir fremsta megni og framkvæmdir hafnar hið fyrsta [eða] eigi síðar en fyrir árslok 2023.  Framkvæmdum verði lokið fyrir árslok 2027 eða fyrr [sic ! fyrir árslok eða fyrr er merkingarlaus tvítekning-innsk. BJo]."  

Sundabraut verður mikið framfaraskref til að létta á umferð í Ártúnsbrekku og um Mosfellsbæ.  Ef ekki mundi ríkja afturhaldsstjórnarstefna í borgarstjórn, hefði hún tekið vel í þessa þingsályktunartillögu, en Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Samfylkingin eiga sér ömurlega sögu í meðhöndlun sinni á Sundabraut, sem hefur þegar valdið miklu samfélagslegu tjóni, enda kom eftirfarandi fram í umræðunni:

"Umsögnin var tekin til umræðu á fundi borgarráðs, sem haldinn var 15.12.2022.  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Hildur Björnsdóttir og Kjartan Magnússon, lögðu fram svohljóðandi bókun:

"Undirbúningur vegna lagningar Sundabrautar er orðin ein mesta sorgarsaga samgöngumála á Íslandi.  Frá árinu 2010 hafa borgarstjórnarmeirihlutar undir forystu Samfylkingarinnar og annarra vinstri flokka gripið til margvíslegra ráða til að tefja framgang verkefnisins og leggja steina í götu þess.  Smáhýsi hafa verið byggð á fyrirhuguðu vegstæði brautarinnar, vildarvinum úthlutað fjölbýlishúsalóðum mun nær umræddu vegstæði en ráðlegt er, sem og landinu undir heppilegustu tengingu brautarinnar við Sæbraut.  Þannig má áfram telja, og virðist það vera stefnumál vinstri flokkanna í borgarstjórn að koma í veg fyrir, að Sundabraut verði að veruleika. Fyrirliggjandi umsögn ber það með sér, að borgaryfirvöld hyggist halda áfram að tefja lagningu Sundabrautar með öllum ráðum.  Ekki kemur á óvart, að fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar, styðji áframhaldandi tafir vegna Sundabrautarverkefnisins, enda hafa þær verið hluti af samgöngustefnu þessara flokka um árabil. Það kemur hins vegar á óvart, ef áðurnefndum flokkum tækist að fá fulltrúa Framsóknarflokksins með sér í þá vegferð að halda tafaleikjunum áfram og spilla þannig enn frekar fyrir þessu þarfa verkefni."

Í sögu Sundabrautarverkefnisins birtist ljóslega afturhaldseðli Samfylkingarinnar.  Þarna er um að ræða framfaramál fyrir tengingu höfuðborgarinnar í norðurátt, sem mun stuðla að styttingu ferðatíma, eldsneytissparnaði og minni losun og létta stórlega á umferðarþunga um Mosfellsbæ.  Þetta innsiglar Reykjavík og nágrannabæina, Kjalarnes, Kjós og Akranes, sem eitt  atvinnusvæði. Samfylkingin hefur sannað afturhaldseðli sitt og útúrboruhátt með því að leggjast í skæruhernað gegn þessu verkefni, eins og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tíunda hér að ofan, og hinn hlálegi "breytingaleiðtogi" Framsóknar reynist Degi leiðitamur og er teymdur á asnaeyrunum út í forað bíllausa lífsstílsins, sem er hjartans mál Samfylkingarinnar.  Flestir hvorki geta né vilja tileinka sér bíllausan lífsstíl.  Sérvitringarnir í borgarstjórn hafa látið teikna nokkur hús í borginni án nokkurs bílastæðis fyrir íbúana, nú síðast fjölbýlishús við Snorrabraut, af því að þar verði "hágæðasamgönguvalkostur", líklega "Sorgarlínan". Það á síðan að tefja umferðina enn meir í Reykjavík og auka á mengunina með því að helminga flutningsgetu Snorrabrautar.  Þetta er algerlega glórulaust og gegn hagsmunum almennings á höfuðborgarsvæðinu.  Allt sýnir þetta, að Samfylkingin er ábyrgðarlaus og þar af leiðandi óstjórntækur stjórnmálaflokkur.  

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband