Færsluflokkur: Umhverfismál
8.11.2017 | 11:30
Rafbílavæðing og heildarlosun CO2
Rafgeymarnir eru Akkilesarhæll rafbílavæðingarinnar, enn sem komið er. Nú er að koma fram á sjónarsviðið tækni til að hlaða þá þráðlaust, jafnvel á ferð, og er notuð til þess hefðbundin 20. aldar rafsegulsviðstækni, reist á kenningum Michaels Faradays frá 1831 og eðlisfræðilíkingum Mawells, og verður gerð grein fyrir þessari tækniþróun í þessari vefgrein, en fyrst verður umhverfislegur ávinningur rafbílavæðingarinnar á Íslandi settur í samhengi við aðra losun.
Özur Lárusson ávarpar hinn dæmigerða frambjóðanda til Alþingis í Morgunblaðsgrein, 26. október 2017,
"Kynntu þér gögnin, ágæti frambjóðandi".
Hann deilir þar réttilega á marga stjórnmálamenn, sem eru með loftslagsmál á vörunum í tíma og ótíma, og leggja þá höfuðáherzlu á rafbílavæðinguna, án þess að athuga, hvað landumferðin vegur hlutfallslega lítið í heildarlosuninni og án þess að gera um leið grein fyrir trúverðugri og skynsamlegri áætlun um að koma þeim innviðum á laggirnar, sem eru forsenda rafbíla í tugþúsunda tali hérlendis.
Özur bendir á í téðri grein, að eldsneytisnýtni farartækja hafi batnað um 35 % undanfarin 10 ár eða um 3,5 %/ár að jafnaði, sem er gríðarlega góður árangur hjá hönnuðum bílvéla, grindar, yfirbyggingar og innmats. Hér leggst á eitt beztun bílvéla með hermun í tölvum, þróun efnistækni og val á eðlisléttari efnum en áður, og lágmörkun loftmótstöðu.
Árið 2016 notuðu landfartæki 274 kt af jarðefnaeldsneyti. Bætt nýtni um 35 % jafngildir tæplega 150 kt/ár elsdsneytissparnaði árið 2016 m.v. eldsneytisnýtnina árið 2006 og minni losun gróðurhúsalofttegunda um rúmlega 470 kt/ár, sem er 4,0 % af heildarlosun Íslendinga vegna orkunotkunar árið 2016. Landfartæki losuðu þá 864 kt af CO2 eða 7,4 % af heildarlosun Íslendinga vegna orkunotkunar, sem nam 11,7 Mt.
"Þá komum við að umræðunni um heildarlosun, en þar er rétt að benda þér á umræður, sem voru á Alþingi á haustmánuðum 2015. Í svari við fyrirspurn, er þáverandi umhverfisráðherra fékk, kemur fram, að aðeins 4 % af heildargróðurhúsalofttegundum komi frá fólksbílum hér á landi, 96 % af þeim eru af öðrum völdum !"
Skoðum þessar staðhæfingar nánar:
Landfartæki eru talin nota 93 % eldsneytis samgöngutækja innanlands, og ætla má, að fólksbílar noti 65 % af því. Eldsneytisnotkun þeirra er þá:
MF=0,93x0,65x295 kt/ár=178 kt árið 2016, sem veldur koltvíildislosun 561 kt/ár. Sem hlutfall af heildarlosun vegna orkunotkunar er þetta: 0,561/11,67=4,8 %. Viðkomandi ráðherra hefur á sinni tíð vafalítið bætt við losun frá landbúnaði og úr uppþurrkuðum mýrum. Frá landbúnaði má ætla, að komið hafi 0,7 Mt af CO2eq. Losun frá framræstu landi var þá (2015) talin nema 11,61 Mt/ár CO2eq, en er núna talin vera 29,5 % minni samkvæmt Umhverfisráðgjöf Íslands í Bændablaðinu, 2. nóvember 2017. Þar er getið um einingarlosun úr þurrkuðum mýrum 19,5 t/ha koltvíildisjafngilda á ári, en hún var áður talin vera 27,64 t/ha per ár CO2eq. Þetta þýðir, að þurrkaðar mýrar senda nú frá sér:
MÞM=19,5x420´000=8,2 Mt/ár CO2eq.
Þá verður hlutfall fólksbíla í heildarlosun:
0,561/20,6=2,7 %.
Skekkja ráðherrans er sennilega fólgin í vanmati á gríðarlegum gróðurhúsaáhrifum millilandaflugsins. Íslenzk millilandaflugfélög notuðu árið 2016 32 PJ (Petajoule) af orku, sem samsvarar 66 % af raforkuvinnslu allra vatnsaflsvirkjana landsins, og viðurkennt er, að gróðurhúsaáhrif við losun gastegunda og fastra agna úr þotuhreyflum í háloftunum eru tæplega þreföld á við sams konar losun á jörðu niðri. Þannig námu þessi jafngildisáhrif 7,11 Mt CO2 (M=milljón) árið 2016 eða 59 % af allri losun Íslendinga vegna orkunotkunar eða 34 % af heild að losun framræsts lands meðtalinni. Með því að bæta henni við losun vegna orkunotkunar, 11,67 Mt, fæst heildarlosun af mannavöldum á Íslandi 2016:
MH=20,6 Mt CO2, og losun vegna orkunotkunar er 57 % af heild.
Özur notar of lág losunargildi fyrir millilandaflug og úreltu töluna fyrir losun framræsts lands, og þess vegna eru hlutfallstölur hans ekki alveg réttar, en ábending hans er rétt: það er gríðarlegu púðri eytt í að minnka mjög litla tölu, 2,7 %. Síðan ávarpar hann frambjóðandann aftur:
"Þá komum við að því, sem þú, ágæti frambjóðandi, telur oftar en ekki [vera] lausnina, sem við eigum að drífa í, og það helzt á morgun. Rafbílavæða þjóðina ! Það markmið er mjög gott og myndi henta okkur sérstaklega vel, svo að, ef það er framkvæmanlegt á þeim hraða, sem þú leggur til, væri það hreint út sagt frábært. Það er bara ekki svo, því miður."
Blekbóndi er þó ósammála Özuri í því, að "frábært" væri að "rafbílavæða þjóðina" á þeim hraða, sem sumir stjórnmálamenn hafa tjáð sig um, ef það væri hægt, sem spannar líklega tímabilið 2030-2040 fyrir verklok. Ástæðan fyrir því, að þessi mikli hraði er óheppilegur, er sú, að mótuð tækni er enn ekki komin fram á sjónarsviðið, heldur er gríðarlega hröð þróun á þessu sviði þessi árin í vetnisrafölum og rafgeymum, svo og í endurhleðslu rafgeymanna.
Í "The Economist", 28. október 2017, er gerð grein fyrir þróun þráðlausrar endurhleðslu rafgeymanna í greininni, "Proof by induction", sem reyndar er stærðfræðilegt hugtak og heitir "þrepasönnun" á íslenzku, svo að þetta er orðaleikur hjá Englendingunum.
Þessi þráðlausa hleðslutækni er reist á rafsegulsviði frá segulspólu með járnkjarna í miðju, einni eða fleiri í palli, sem komið er fyrir við yfirborð jarðar og spanar upp straum í spólum, sem komið er fyrir í undirvagni rafbíla, sem lagt er yfir pallinum. Þennan straum þarf að afriða áður en hann er sendur til rafgeymasetts bílsins. Töpin í þessu hleðsluferli eru sögð vera 11 %, sem er svipað og búast má við frá hústöflu gegnum hleðslutæki og hleðslustreng og að rafgeymasetti bíls. Þessum töpum er yfirleitt alltaf sleppt, þegar fjallað er um orkunýtni rafbíla, sem augljóslega gefur villandi niðurstöðu. Þessi þróun er frumkvöðlastarfsemi, aðallega í Bandaríkjunum, og kostar pallur og móttökubúnaður kominn í bíl og tengdur kUSD 2,5-4,0.
Frumkvöðlafyrirtæki í New York vill fá að koma mörgum hleðslupöllum fyrir í borginni og leigja aðgang að þeim. Bílstjórar geta þá pantað tíma gegnum snjallsímann sinn til pallafnota.
Bílaframleiðendur eru nú að taka við sér með þetta. Athygli vekur, að Toyota hefur tryggt sér afnotarétt af einkaleyfi WiTricity, fyrirtækis í Massachusetts, á spanmóttökubúnaði í bíla, þótt Toyota veðji á vetnisknúna rafala í rafbílum, en önnur fyrirtæki eru að þróa eigin búnað, t.d. Audi, BMW, Daimler, Ford, Jaguar og Volvo.
Fyrirtækið Wave í Utah áformar að setja upp aflmikinn pall við höfnina í Los Angeles, sem risagámalyftari á að nota þar.
Af öðrum líklegum notendum má nefna leigubíla og strætisvagna. Þar sem leigubílar bíða í röð og færa sig smám saman framar, er upplagt að koma fyrir spanpalli, og þurfa leigubílstjórar þá ekki að fara út úr bíl til að hlaða, en nota samt biðtímann til þess.
Sama má segja um strætisvagnana. Þeir geta notað biðtímann til að hlaða, og geta þeir þá ekið í 16 klst og fullhlaðið síðan í 8 klst. Þetta er þegar tíðkað í Milton Keynes, borg norðvestur af London. Þar er spanpallur við sitt hvora endastöð Leiðar 7, þar sem hvor spannpallur hýsir 4 spólur, og er heildarafl palls 120 kW. Hvor spanpallur kostar kUSD 130. Hjá rekstraraðilanum, eFIS, hefur samt verið reiknað út, að kostnaður við hvern slíkan strætisvagn er 0,5 USD/km (54 ISK/km) lægri en fyrir dísilknúinn vagn vegna lægri orku- og viðhaldskostnaðar. Átta vagnar á Leið 7 aka alls 700´000 km/ár, svo að sparnaður á Leið 7 er 350 kUSD/ár. Þetta þýðir, að spanpallar og móttökubúnaður í vögnum borga sig upp á rúmlega 2 árum. Á Íslandi ætti þessi fjárfesting að verða enn arðsamari vegna lægra raforkuverðs en í Milton Keynes.
Hvers vegna heyrist ekkert frá almenningsfyrirtækinu "Strætó" hér og borgaryfirvöldum annað en skrautlegar draumsýnir um "Borgarlínu", sem er svo dýr og óhagkvæm, að sliga mundi fjárhag sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins um ókomin ár ? Er ekki kominn tími til að velta um borðum forræðishyggju og flautaþyrla, og hefja þess í stað samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu, sem kosta miklu minna og gagnast öllum þorra fólks ?
4.11.2017 | 14:54
Íslenzk matvælaframleiðsla
Það er rétt, sem haldið er fram, gagnstætt úrtöluröddum, að vaxandi viðskiptatækifæri bíða íslenzks landbúnaðar. Hann mun hvorki keppa á magni né verði, heldur á gæðum, vottuðum gæðum, á öllum sviðum ræktunar og eldis. Ástæðurnar fyrir tiltölulega björtum horfum eru hlýnandi loftslag og vaxandi meðvitund neytenda um mikilvægi matvælagæða fyrir heilsufar og vellíðan. Grundvöllur gæðanna er takmarkalítið hreint vatn, lítil loftmengun utan þéttbýlis, hreinn jarðvegur og sæmilega hrein strandlengja og sjór næst landi, þótt mikið verk sé óunnið hérlendis til að koma skolphreinsun í bezta mögulega horf. Hreinsun þess er ábótavant og ekki nóg að dæla óþverranum út fyrir stórstraumsfjöru.
Innan íslenzka landbúnaðarins er almenn vitund um styrkleika og veikleika, tækifæri og áhættur innan þessarar margbreytilegu atvinnugreinar. Sem dæmi hafa sauðfjárbændur sett sér markmið um, að kolefnisfótspor lambakjötsins hverfi árið 2022, en það nemur nú 28,6 kg CO2eq/kg lambakjöts. Þetta markmið er til mikillar fyrirmyndar, mun skipa íslenzkri sauðfjárrækt í fremstu röð í umhverfisvernd og mun styrkja samkeppnishæfni hennar innanlands og utan.
Um framtíð íslenzks landbúnaðar tjáði dr Sæmundur Sveinsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, LbhÍ, sig í viðtali við Sigurð Boga Sævarsson í Morgunblaðinu, 2. október 2017, undir fyrirsögninni,
"Styrkist sem matvælaland":
"Hlýnun andrúmsloftsins af völdum gróðurhúsalofttegunda gæti skapað nýjan veruleika og aðstæður í landbúnaði á Íslandi. Viðbúið er, að hlýnun raski öllum skilyrðum til jarð- og kornyrkju ytra, en aftur gætu þau orðið hagfelldari á Íslandi."
Þetta þýðir, að framleiðni í íslenzkum landbúnaði mun vaxa á þessari öld, og á sama tíma mun verð á matvælum fara hækkandi. Alþjóðleg samkeppnishæfni íslenzks landbúnaðar mun þar af leiðandi batna. Þessar viðskiptalega góðu horfur hans ásamt lífsnauðsynlegu hlutverki við fæðuöflun handa landsmönnum, bæði við venjulegar og óvenjulegar ytri aðstæður, leggur yfirvöldum hérlendis þær skyldur á herðar að styðja við landbúnaðinn, þegar á móti blæs, og efla viðgang hans og vöxt. Ísland er matvælaframleiðsluland og getur orðið enn meira framleiðsluland á lífmassa jurta og dýra, þegar fram í sækir, ef skynsamlega er haldið á spilunum. Að mati blekbónda er grænmeti hvergi betra en frá íslenzkum bændum og svo má lengi telja.
Áfram með dr Sæmund:
"Þá vitum við líka, að, ef tekst með ræktun og friðun að koma gróðurhulu á íslenzkan eldfjallajarðveg, sem er mjög algeng jarðvegsgerð hér á landi, getur hann bundið mjög mikið af koltvísýringi í sig, og það væri mótvægi við loftslagsbreytingarnar. Í þessum verkefnum hafa íslenzkir bændur hlutverki að gegna, enda eru þeir mikilvægir vörzlumenn landsins."
Hér er komið að efnilegri nýsköpun innan íslenzks landbúnaðar, sem yfirvöldum ber að stuðla að, að hefjist strax, svo að ávinningur mótvægisaðgerða fari að gera sig gildandi innan 5 ára. Það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir slagsmál við ESB út af tugmilljarða ISK greiðslum þangað frá íslenzkum fyrirtækjum og ríkissjóði eftir CO2 losunaruppgjör 2031 í tengslum við skuldbindingar Íslands á Parísarráðstefnunni í desember 2015 og aðild Íslands að sameiginlegri markmiðasetningu EES um losun frá stóriðjunni, millilandaflugi og millilandasiglingum.
Á skal að ósi stemma, og það jafngildir því að kasta atvinnutækifærum og viðskiptatækifærum á glæ að láta hjá líða að nýta mikið tiltækt landrými á Íslandi til að binda koltvíildi. Einkar athyglisvert, að íslenzkur eldfjallajarðvegur getur bundið óvenjumikið koltvíildi. Meðalbinding með skógrækt hérlendis mun nú nema 7,7 t CO2/ha á ári. Koltvíildisbindingin getur verið sameiginlegt verkefni bænda, stjórnvalda og fyrirtækja, sem sjá fram á, að þau muni vanta koltvíildiskvóta á næsta áratugi og e.t.v. síðar í stað þess að greiða svipaðar eða hærri upphæðir til erlendra aðila fyrir koltvíildiskvóta. Sem dæmi munu álverin þurfa að kaupa sér sívaxandi koltvíildiskvóta, sem gæti numið 1,0 Mt árið 2030. Hann er hægt að útjafna hér með skógrækt á 130 kha lands. Þetta landrými er fyrir hendi, sem sýnir gríðarlega möguleika íslenzkra bænda að sækja fram í atvinnulegum efnum. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að útjafna CO2 hérlendis í stað þess að senda fúlgur fjár utan. Ríkissjóður er eigandi mikilla landareigna, sem leggja má undir þessa starfsemi, og ábyrgðarmenn hans eiga að sýna frumkvæði við að ýta þessari starfsemi úr vör.
Í þessu ljósi er s.k. "eyðibýlastefna", sem fráfarandi landbúnaðarráðherra hefur verið sökuð um að reka gagnvart sauðfjárbændum í nauðum, algert glapræði og eins skammsýn og mest getur verið. Það á ekki að kaupa bændur til að hætta búskap vegna tímabundinna markaðserfiðleika í tiltekinni grein, heldur að aðstoða þá við að koma fleiri stoðum undir starfsemina, eins og hér hefur verið gert að umræðuefni. Stærsta umhverfisvá Íslands er uppblástur lands, og öll landgræðsla er vörn gegn þeirri vá, og í henni felst mikil umhverfisvernd, þótt hún feli í sér byltingarkennda breytingu á gróðurfari.
"Við [LbhÍ] þurfum klárlega að styrkja tengslin við bændur. Því vil ég, að nú verði farið í stefnumótunarvinnu með bændum, fulltrúum hagsmunafélaga þeirra og afurðastöðva og leitað eftir sjónarmiðum fólks um, hver þróunin í landbúnaðinum verði á næstu árum - sú vinna verður gríðarlega þýðingarmikil fyrir mótun á áherzlum skólans til næstu ára."
Þetta er skynsamlega mælt hjá Sæmundi, rektor. Afrakstur þessarar vinnu verður vafalaust tekinn saman í skýrslu, sem stjórnvöld landbúnaðarmála geta notfært sér og fellt inn í sína stefnumörkun. Að lokum sagði Sæmundur í þessu viðtali:
"Við þurfum líka að horfa til þess, hvernig megi auka virði framleiðslu landbúnaðarafurða frekar en magn. Enn fremur verður að tryggja sjálfbærni í framleiðslu þessara afurða. Hér innanlands þarf ekki endilega að auka framleiðsluna, en hún þarf klárlega að verða virðismeiri og til þess þarf þekkingu, og þar gegnir LbhÍ lykilhlutverki."
Vegna verðfalls erlendis blasir við fjárhagsvandi sauðfjárbænda, vegna þess að 35 % framleiðslunnar eru flutt utan um þessar mundir. Það er engin ástæða fyrir ríkissjóð að greiða með útflutningsvöru, en það er full ástæða til að viðhalda lambakjötsframleiðslu í landinu, m.a. til að draga úr líkum á fæðuskorti við hættuaðstæður innanlands eða utan. Þá þarf að styðja við framleiðslu fyrir innanlandsmarkaðinn, þegar verð erlendis eru undir kostnaði við framleiðsluna hér. Þetta verður líklega bezt gert með beingreiðslum, t.d. á 90 % af innanlandsneyzlunni, sem þá nemur um 5900 t. Til að jafna verðsveiflur niður á við má t.d. miða við afurðaverð til bænda síðustu 9 ár á núvirði. Það nemur 582 ISK/kg, en afurðaverð í ár er 369 ISK/kg. Mismunurinn er 213 ISK/kg, og uppbótin verður þá 213 kISK/t x 5900 t/ár = 1,3 miaISK/ár. Þessu fé er betur varið til að viðhalda byggð og atvinnustarfsemi í dreifbýli en til að leggja niður búskap, sem með því að aðlaga sig markaðsaðstæðum er líkleg til bættrar afkomu og arðsemi í framtíðinni, eins og rektorinn benti á.
Ein er sú grein landbúnaðarins, sem meiri opinbera umfjöllun hefur hlotið en sauðfjárræktin, og það er fiskeldið, sem ýmist er stundað sem strandeldi eða landeldi, en verður í framtíðinni e.t.v. stundað í stórkvíum fyrir utan firðina, eins og Norðmenn eru að hefja tilraunir með núna. Mestur vöxtur hérlendis er í laxeldi, en þar hefur ásteytingarsteinninn verið strok eldislaxa úr strandkvíum, og síðan ganga þeirra upp í nærliggjandi ár og hrygning þeirra þar.
Hnífurinn stendur í kúnni með það, hvort áhættan sé nú orðin ásættanlega lítil til að leyfa umtalsvert laxeldi í Ísafjarðardjúpi, a.m.k. 15 kt/ár í fyrsta áfanga. Laxeldisfyrirtækin á Íslandi, sem sjókvíaeldi stunda, hafa nú innleitt nýja og traustari gerð eldiskvía og tileinkað sér ný og stranglega skjalfest vinnubögð samkvæmt norskum gæðastaðli. Fyrsta reynslan af þessari nýju tækni er svo jákvæð, að af henni má draga þá ályktun, að strokhlutfallið úr eldiskvíunum sé svo lágt, að m.v. 30 kt/ár í Ísafjarðardjúpi þurfi ekki að búast við hærra hlutfalli eldislax í ám Ísafjarðardjúps en 4 % af villtum laxi þar, sem er leyfilegt hámark samkvæmt Hafrannsóknarstofnun.
Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir þróun byggðar og atvinnustarfsemi á Vestfjörðum, að yfirvöld dragi ekki lappirnar við að opna á þessa starfsemi í Ísafjarðardjúpi, svo að einhverju nemi. Það hangir reyndar svo mikið á spýtunni, að varðar þjóðarhag, því að laxeldið er svo öflug grein, að framtíðar starfsemi hennar í Ísafjarðardjúpi getur haft mælanleg áhrif á landsframleiðsluna. Þess vegna væri engin goðgá, að Alþingi mundi setja sérlög um laxeldi þar, sem mundi þá verða fordæmisgefandi rammi fyrir sjókvíaeldi almennt.
Geldlax hefur verið nefndur sem valkostur, en geldingin verið bæði ómannúðleg og dýr og fiskurinn þrifizt illa í kjölfarið. Sú aðferð hefur ekki verið vænleg, en nú berast tíðindi frá Noregi um líffræðilega aðferð, sem hindrar myndun kynkirtla í fiskinum. Aðferðin þykir lofa góðu, og hún snýst ekki um erfðabreytingu. Fiskifréttir sögðu frá þessu 19. október 2017 í greininni:
"Risaskref í áttina að eldi á geldlaxi":
"Í fréttatilkynningu frá Nofima [rannsóknarstofnun norska matvælaiðnaðarins] segir, að fiskurinn, sem um ræðir, líti eins út og hegði sér rétt eins og frjór lax. Hins vegar mætti hugmyndin, sem þessi niðurstaða byggir á, mikilli tortryggni, þegar hún var upphaflega kynnt, en aðferðin byggir á því, að fiskurinn er ekki erfðabreyttur, heldur átt við myndun ákveðinna boðefna, svo að kynkirtlamyndun verður fiskinum ómöguleg."
Mikið vatn á eftir að renna til sjávar áður en eldi geldfisks hefst á Íslandi, þar sem téð aðferð er ný af nálinni, miklar rannsóknir eftir í Noregi og síðan leyfisferli á Íslandi. Að bíða eftir geldfiski er ekki gild afsökun stjórnvalda fyrir því að draga lappirnar í þessu leyfismáli fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Það er ekki eftir neinu að bíða fyrir Hafró að endurskoða afstöðu sína á grundvelli nýrra upplýsinga eða ella fyrir Alþingi að setja sérlög um þessa starfsemi.
2.11.2017 | 10:23
Orkuflutningskerfi í bóndabeygju
Rafmagn úr sjálfbærum orkulindum, hitaveitur frá jarðvarmalindum og hagkvæm nýting sjávarauðlindanna umhverfis Ísland, mynda undirstöðu samkeppnishæfs nútíma samfélags á Íslandi. Án einhvers þessa væru þjóðartekjur á mann ekki á meðal hinna hæstu í heimi, heldur jafnvel undir miðbiki í Evrópu, orkukostnaður landsmanna væri hundruðum milljarða ISK hærri á ári en nú er, og mengun væri svo miklu meiri, að sjóndeildarhringur væri ekki í meira en 100 km fjarlægð, heldur e.t.v. í 50 km fjarlægð. Allar þessar 3 náttúruauðlindir skipta þess vegna sköpum fyrir landsmenn í bráð og lengd.
Það er hins vegar ekki nóg að virkja endurnýjanlegar orkulindir og setja þar upp rafala með viðeigandi búnaði, að bora holur eftir heitu vatni og að veiða fiskinn; það verður að koma vörunni til neytandans, svo að allir framleiðsluliðirnir græði, birgirinn, notandinn og hið opinbera. Þetta er yfirleitt ekki vandamál, en það er þó orðið að meiri háttar þjóðarvandamáli, hversu miklir annmarkar eru af mannavöldum á því að flytja raforkuna frá afhendingarstað virkjunar og til dreifiveitu, sem flytur hana til kaupandans. Ríkisvaldið getur ekki liðið, að eitt ár líði á eftir öðru, án þess að mikilvæg atvinnusvæði fái nægt rafmagn, svo að ekki sé nú minnzt á ófullnægjandi afhendingaröryggi á Vestfjörðum. Vekur furðu langlundargerð þingmanna í NA-kjördæmi, að þeir skuli ekki hafa lagt fram þingsályktunartillögu um þetta mikla hagsmunamál Eyfirðinga.
Aðallega stafar þetta af andstöðu íbúa við loftlínulögn í sjónmáli úr hlaðvarpanum. Stundum finnst þeim, að þeir njóti ekki ávinnings af línunni til samræmis við óþægindi og "sjónmengun", sem þeir telja sér trú um, að stafa muni af nýrri loftlínu, jafnvel þótt sú gamla hverfi.
Landsnet (LN) þarf í slíkum tilvikum að koma til móts við íbúana og sýna þeim fram á, að fyrirtækið hafi lágmarkað sjónræn áhrif mannvirkisins, eins og tæknilega er hægt. Þetta þýðir, að minnst áberandi línustæði er valið, t.d. frá þjóðvegi séð, línuturnar valdir þeirrar gerðar, að þeir falli sem bezt að landslaginu og lína færð í jörðu á viðkvæmustu stöðunum (að dómi sveitarstjórnar) í þeim mæli, sem tæknilega er fært. Hafi þetta allt verið skipulagt og kynnt, ætti viðkomandi sveitarstjórn að bera skylda til að samþykkja framkvæmdina án tafar og veita henni öll tilskilin leyfi, enda hlýtur andstæð afstaða að valda sveitarfélaginu stórtjóni, a.m.k. til lengdar.
Sem dæmi um kreppuástand í einu héraði vegna ófullnægjandi flutningsgetu raforku þangað má taka Eyjafjörð og vitna í baksviðsgrein Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu, 13. október 2017,
"Kreppir að um orku á Eyjafjarðarsvæðinu":
""Staðan er vond og langt í úrbætur", segir Elva Gunnlaugsdóttir, verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar. Hún segir, að orkuskortur hamli uppbyggingu.
"Við höfum verið að reyna að koma okkar svæði að, m.a. hjá Íslandsstofu, en þar hrista menn bara hausinn. Við erum ekki að ræða um stóriðju, en til að atvinnulífið geti haldið áfram að blómstra, þarf orku, sem er til í kerfinu. Það vantar bara leiðir til að koma henni til okkar", segir Elva."
Hömlur af þessu tagi eru verri en nokkur viðskiptahöft, þær eyðileggja alls konar tækifæri fyrirtækja og einstaklinga og lama samkeppnihæfni svæðisins. Það varðar þjóðarhag, að stjórnvöld taki þessi mál föstum tökum strax.
"Árni V. Friðriksson, formaður samtaka atvinnurekenda á Akureyri og í nágrenni, segir, að vegna þess, hversu flutningsgetan er lítil til og frá Akureyri, séu fyrirtækin eins og á enda kerfisins. Þegar önnur hvor leiðin lokast, sérstaklega austurlínan, sem er öflugri en vesturlínan, skapist vandamál hjá notendum. Þeir, sem séu við endann, verði verr úti en aðrir, þegar flökt verði á rafmagninu. Bilanir, sem verði langt í burtu, geti bitnað á þeim.
Öflug fyrirtæki eru í matvælaframleiðslu á Akureyri, eins og mjólkursamlag og bjórgerð. Einnig þjónustufyrirtæki og fyrirtæki í málmiðnaði."
Hér kemur fram, að gagnvart öðrum mesta þéttbýliskjarna landsins getur LN ekki uppfyllt grundvallarreglu sína um afhendingaröryggi raforku, s.k. (n-1) reglu, sem snýst um, að notendur eigi ekki að verða fyrir tjóni af einni stakri bilun í flutningskerfinu. Jafnframt þekkist það hvergi í þróuðum löndum, að bilun hjá öðrum raforkunotanda í meira en 200 km fjarlægð valdi flökti á spennu og tíðni hjá öðrum notanda, langt út fyrir fjölþjóðleg viðmiðunarmörk, svo að tjón verði á búnaði og framleiðslu. Þetta setur íslenzka flutningskerfið í hóp frumstæðra flutningskerfa og hamlar verðmætasköpun í landinu. Þetta ástand er gjörsamlega óviðunandi, og nýkjörið Alþingi verður að fjalla af festu og alvöru um úrlausnir, væntanlega undir forystu þingmanna NA-kjördæmis.
Árlegur meðalkostnaður vegna ófyrirséðra bilana á stofnkerfi raforku 2005-2015 var miaISK 1,5 á verðlagi 2015. Þá er ótalið tjón af völdum bilana í dreifiveitum og hjá notendum, en stundum verða bilanir hjá notendum af völdum spennusveiflna með upptök í stofnkerfi eða dreifiveitu. Langflestar fyrirvaralausar bilanir urðu á Vestfjörðum, 150 hjá Orkubúi Vestfjarða (OV) árið 2016, og í flutningskerfi Landsnets verða árlega um 30 slíkar bilanir á 132 kV Vesturlínu og í 66 kV kerfinu á Vestfjörðum, alls um 180 raforkutruflanir á ári eða annan hvern dag að jafnaði. Algerlega óviðunandi ástand raforkukerfis á stóru og sífellt mikilvægara landsvæði.
Eftir því, sem álagið á Vestfjörðum eykst með miklum fjárfestingum í atvinnulífi þar, t.d. í laxeldi, þá verður hver straumleysismínúta dýrari. Með sama áframhaldi verður þess ekki langt að bíða, að ófullnægjandi raforkugæði kosti Vestfirðinga 2,0 miaISK/ár, ef ekkert verður að gert. Með svo frumstætt raforkukerfi verður ekki unnt að efla atvinnulíf á Vestfjörðum sem vert væri og annars væri raunhæft. Samkvæmt núverandi burðarþolsmati Hafrannsóknarstofnunar bera Vestfirðir u.þ.b. 50 kt/ár af laxi til slátrunar. Varlega áætlað mun það standa undir 40 miaISK/ár í veltu, en árlegt tjón vegna rafmagnstruflana gæti numið 5 %/ár af þessari veltu. Þetta er fyrir neðan allar skriður og sýnir, að OV og LN verða að einhenda sér þegar í stað í nauðsynlegar umbætur. Þær hafa þegar beðið allt of lengi.
Rafmagnsgæði á Vestfjörðum geta ekki orðið fullnægjandi með því einvörðungu að færa loftlínur í jörðu og mynda hringtengingu allra helztu aðveitustöðva. Til viðbótar er Vestfirðingum nauðsyn að verða sjálfum sér nógir um raforku, en því fer fjarri, að svo sé nú og vantar rúmlega helming af aflþörfinni eða um 22 MW.
Orku- og aflþörf Vestfirðinga mun vaxa hratt á næstu árum, ef þróun atvinnulífsins þar gengur að óskum, og gæti aflþörfin numið 120 MW árið 2040 með 80 kt/ár fiskeldi (landker meðtalin), 10´000 manna byggð, rafbílavæðingu, rafvæðingu hafnanna og repjuvinnslu fyrir fiskeldið.
Að ráðast fljótlega í virkjun Hvalár á Ströndum, 55 MW, er alls engin goðgá, því að sú þróun atvinnulífs, sem að ofan er nefnd, felur í sér 80 MW viðbótar aflþörf árið 2040 m.v. 2016 og fullnýtingu virkjunarinnar strax eftir gangsetningu með sölu á orku út fyrir Vestfirði. Á innan við einum áratugi munu Vestfirðir geta tekið til sín alla orku Hvalárvirkjunar og Vestfirðingar þurfa þá nýja vatnsaflsvirkjun.
Hér er um að ræða byltingu á högum Vestfirðinga, sem er framkölluð með öflugri uppbyggingu fiskeldis, sem flestir þingmanna NV-kjördæmis geta vafalítið stutt. Slíkur stuðningur er nauðsynlegur, því að þessi atvinnuþróun er útilokuð án innviðauppbyggingar, sem m.a. felur í sér klæddan og burðarmikinn láglendisveg frá Bolungarvík og suður til Bíldudals og frá Patreksfirði til Bjarkarlundar.
31.10.2017 | 10:30
Sæstreng bar ekki hátt í kosningabaráttu 2017
Sæstrengur á milli Íslands og Skotlands hefur stundum vakið talsverða umræðu hérlendis, en hafi hann borið á góma í nýafstaðinni kosningabaráttu um sæti á Alþingi, hefur slíkt farið fram hjá blekbónda. Þann 19. október 2017 birtist þó skrýtin grein í sérblaði Viðskiptablaðsins, "Orka & iðnaður", þó ótengd kosningabaráttunni að því, er virðist, og verður vikið að téðri grein í þessum pistli.
Að lítt rannsökuðu máli ætlar blekbóndi að halda því fram, að stjórnmálaflokkarnir hafi ekki tekið skýra afstöðu með eða á móti aflsæstreng til útlanda. Slíkt afstöðuleysi er hægt að réttlæta með því, að enginn viti enn, hvernig kaupin muni gerast á eyrinni og fyrr sé ekki tímabært að taka afstöðu. Hér verður sýnt fram á í stuttu máli, að enginn viðskiptagrundvöllur er eða verður fyrir þessari hugmynd. Áður en menn fara að mæla þessu verkefni bót ættu þeir að sjá sóma sinn í að leggja fram útreikninga, sem benda til þjóðhagslegrar hagkvæmni verkefnisins. Annars er áróður fyrir þessum sæstreng úr lausu lofti gripinn.
Með vísun til grundvallarafstöðu ættu stjórnmálaflokkarnir hins vegar að vera í færum nú þegar að styðja við hugmyndina um téðan sæstreng eða að hafna henni. Þessi grundvallarafstaða snýst um það, hvernig siðferðilega er réttmætt að nýta náttúruauðlindir Íslands. Á að reyna að hámarka verðmætasköpun úr auðlindunum hér innanlands og þar með að nýta þær til að skapa fjölbreytilega atvinnu hér innanlands, eða á að senda þær utan sem hrávöru og láta aðra um að beita hugviti sínu og markaðssamböndum til verðmætasköpunar ? Þriðji kosturinn er, eins og vant er, að gera ekki neitt. Það heitir í munni sumra "að láta náttúruna njóta vafans" og er ofnotuð klisja.
Tökum dæmi af áliðnaðinum á Íslandi. Hann notar mikla raforku, eða um 14,5 MWh/t Al og framleiðslan er um 0,98 Mt/ár Al. Ætla má, af upplýsingum um tekjur hans og kostnað að dæma, að jafnaðarlega verði um 40 % af veltu hans eftir í landinu.
Álverin eru fjölþættir og flóknir vinnustaðir, sem gera miklar kröfur til sjálfra sín um gæði, umhverfisvernd og öryggi starfsmanna. Allt krefst þetta hátæknilausna, enda eru fjölmargir verkfræðingar, tæknifræðingar, iðnfræðingar o.fl. sérfræðingar að störfum fyrir íslenzku álverin, bæði á launaskrá þeirra og sem verktakar.
Þess vegna er afurðaverð íslenzku álveranna talsvert hærra en hráálsverðið, s.k. LME. Má reikna með 20 % "premíu" eða viðbót að jafnaði, svo að um USD 2500 fáist nú fyrir tonnið af áli frá Íslandi. Þessi framleiðsla væri útilokuð hérlendis án nýtingar hinna endurnýjanlegu orkulinda Íslands, og þess vegna má draga þá ályktun, að með verðmætasköpun hérlendis úr raforkunni fáist: 69 USD/MWh (=2500 x 0,4/14,5) fyrir raforkuna í stað um 30 USD/MWh, sem álverin kaupa raforkuna á. Verðmætasköpunin innanlands nemur tæplega 40 USD/MWh, sem þýðir 2,3 földun orkuverðmætanna fyrir landsmenn með því að nýta orkuna innanlands.
Er mögulegt fyrir sæstreng að keppa við 69 USD/MWh ? Svarið er nei, útreikningar blekbónda hér að neðan benda eindregið til, að sæstrengur sé engan veginn samkeppnisfær við stóriðju um raforkuna á Íslandi. Til marks um það er útboð á vegum National Grid, brezka Landsnets, í haust um kaup á umhverfisvænni orku inn á landskerfið. Mun lægri verð voru boðin en áður hafa þekkzt, t.d. var raforka frá vindmyllum úti fyrir ströndum ("offshore windmills") boðin á 57,5 GBP/MWh, sem samsvaraði 76 USD/MWh. Það verður alls ekki séð, að Englendingar (Skota vantar ekki umhverfisvæna raforku) muni vilja kaupa raforku frá Íslandi við hærra verði en þeir geta fengið innlenda, endurnýjanlega orku á.
Gerum samt ráð fyrir, að vegna niðurgreiðslna brezka ríkisins til vindmyllufyrirtækjanna mundu Englendingar vilja kaupa orku frá Íslandi við enda sæstrengsins í Skotlandi (þá er eftir að flytja orkuna til Englands með talsverðum kostnaði) fyrir 80 USD/MWh.
Þetta er raunar hærra en þjóðhagslegt virði raforkunnar á Íslandi, en munu íslenzku virkjanafyrirtækin fá á bilinu 30 - 69 USD/MWh í sinn hlut fyrir raforkuviðskiptin við Englendinga ? Lægra verðið lætur nærri að vera meðaltal núverandi verða fyrir orku til álveranna, og hærra verðið er lágmark þjóðhagslega hagkvæms raforkuútflutnings.
Virkjanafyrirtækin mundu fá í sinn hlut úr Englandsviðskiptunum: VV=80-FG = 0 (sbr útskýringar að neðan).
þ.e. mismun enska orkuverðsins og orkuflutningsgjaldsins um sæstrenginn og endamannvirki hans. Blekbóndi gerði sér lítið fyrir og reiknaði út, hvaða gjald eigandi sæstrengskerfisins yrði að taka, svo að fjárfesting hans gæti skilað 8 %/ár arðsemi yfir 25 ára afskriftartíma að teknu tilliti til 10 % orkutapa um þessi mannvirki og 2 %/ár af stofnkostnaði í annan rekstrarkostnað.
Ef gert er ráð fyrir 1200 MW flutningsgetu mannvirkjanna og 90 % nýtingu á þeim á ári að jafnaði m.v. fullt álag, nemur orkusalan út af mannvirkjunum 8,6 TWh/ár. (Þetta er um 45 % af núverandi orkusölu á Íslandi.) Sé gert ráð fyrir stofnkostnaði sæstrengsmannvirkja 4,7 MUSD/km, eins og gefið hefur verið upp fyrir sambærilegt sæstrengsverkefni á milli Ísrael og meginlands Grikklands, þá mun "ÍSSKOT" verkefnið kosta MUSD 5´640.
Niðurstaða útreikninganna á þessum forsendum er sú, að fjármagnskostnaður (vextir og afskriftir) nema 535 MUSD/ár og rekstrarkostnaður alls er 149 MUSD/ár.
Heildarkostnaðurinn nemur 684 MUSD/ár, sem útheimtir flutningsgjald um mannvirkin: FG=80 USD/MWh.
Ásgeir Magnússon, blaðamaður, er höfundur áður nefndrar greinar,
"Hverfandi áhrif sæstrengs á orkuverð".
Heiti greinarinnar er illa rökstutt, en hún er reist á skýrslu frá brezku Landsvirkjun. Má benda á þveröfuga reynslu Norðmanna, en norskir raforkuseljendur hafa freistazt til að selja of mikla orku utan og þá lækkað svo mikið í miðlunarlónum Noregs, að þeir hafa orðið að flytja inn rándýra orku til að koma í veg fyrir orkuskort. Á Íslandi er miðlunargetan tiltölulega mun minni en í Noregi, og hér verður að sama skapi meiri hætta á vatnsleysi á veturna, sem þá mundi útheimta innflutning á margföldu innlendu raforkuverði. Hér er um hreinræktaða spákaupmennsku að ræða með alla raforkunotendur hérlendis sem tilraunadýr og hugsanleg fórnarlömb.
Það er ótrúlega yfirborðsleg umfjöllun um orkumál í téðri grein Andrésar, þar sem hvað rekur sig á annars horn. Hér verður birtur úrdráttur til að sýna, hversu lágt er hægt að leggjast í áróðri fyrir samtengingu raforkukerfa Íslands og Englands (um Skotland), sem á sér marga tæknilega og umhverfislega annmarka, sem ekki verða gerðir að umræðuefni hér:
"Kæmi til þess [tengingar raforkukerfa Englands og Íslands-innsk.BJo], má ljóst vera [svo !], að sæstrengur myndi auka tekjur af orkusölu hér á landi [ofangreindir útreikningar benda til annars-innsk.BJo], auka gjaldeyrisflæði til landsins og rjúfa markaðseinangrun raforkumarkaðarins hér á landi [Englendingar mundu verða stærsti einstaki raforkukaupandinn. Það felur í sér mikla viðskiptalega áhættu. - innsk. BJo]. Í framhaldi af því myndu rekstrarskilyrði stóriðju á Íslandi taka að breytast [eru refirnir ekki til þess skornir ? - innsk.BJo], þó að það tæki sinn tíma vegna þeirra löngu samninga, sem þar eru í gildi. [Orkusamningar til langs tíma, 25-35 ára, eru ekki síður í hag virkjanafjárfestisins, því að með slíka afkomutryggingu fær hann hagstæðari lánakjör - innsk. BJo.] Segja má, að stóriðjan hafi verið notuð til orkuútflutnings, en hún getur tæplega keppt við beinan orkuútflutning um sæstreng til lengdar. [Fyrri setningin er rétt, en sú seinni kolröng, eins og útreikningar blekbónda hér að ofan sýna - innsk. BJo.]
Áhrif sæstrengs á atvinnulíf gætu því reynzt töluverð, en sjálfsagt þykir mörgum ekki síðri ávinningur í umhverfisáhrifum þess, að stóriðjan geti vikið. [Þetta er amböguleg málsgrein og virðist reist á dylgjum um, að stóriðjan mengi. Þegar um stærstu raforkunotendurna hérlendis, álverin, er að ræða, er umhverfissporið hverfandi og t.d. ekki merkjanlegt í gróðri við Straumsvík og í lífríkinu úti fyrir ströndinni vegna öflugra mengunarvarna - innsk. BJo.] Fyrir nú utan hitt, að þannig leysi hrein og endurnýjanleg íslenzk orka af hólmi mengandi og óafturkræfa orkugjafa erlendis. [Þetta er hundalógík, því að orkukræf iðjuver hérlendis, sem hætta rekstri, verða að öllum líkindum leyst af hólmi með mengandi og ósjálfbærum orkugjöfum erlendis - innsk. BJo.]
Þekkingarlaust fólk um orku- og iðnaðarmál finnur oft hjá sér þörf til að tjá sig opinberlega með afar neikvæðum og grunnfærnislegum hætti um þennan málaflokk. Það virðist skorta skynsemi til að átta sig á því, að það hlýtur að gera málstað sínum óleik með því að túðra tóma vitleysu.
Hér hefur verið sýnt fram á, að orkuútflutningur um sæstreng frá Íslandi til Skotlands með landtengingu við England getur ekki staðið undir neinum virkjanakostnaði á Íslandi vegna nauðsynlegs flutningsgjalds um sæstrengsmannvirkin. Sæstrengurinn verður sennilega aldrei samkeppnisfær við orkusækinn iðnað á Íslandi.
29.10.2017 | 10:32
Aukið andrými
Þeir eru nokkrir, einnig hérlendis, sem goldið hafa varhug við kenningum um hlýnun jarðar af völdum s.k. gróðurhúsalofttegunda, einkum lífsandans, CO2, sem kallaður hefur verið koltvíildi á íslenzku (ildi=súrefni). Efasemdarmenn töldu sig fá byr í seglin í sumar, er upplýst var um, að andrúmsloft jarðar hefði í raun hlýnað 0,3°C minna árið 2015 frá árinu 1870 en spáð hafði verið með því að bæta 2,0 trilljónum (trn) tonna (1 trilljón=1000 milljarðar) af koltvíildi inn í lofthjúp jarðar í líkönum IPCC (International Panel on Climate Change), eins og talið er, að bætzt hafi við í raun frá 1870-2015. Lofthjúpurinn hefur hingað til sýnt meiri tregðu til hlýnunar en reiknilíkön höfðu verið forrituð fyrir.
Þetta þýðir, að jarðarbúar fá aukið andrúm til að kljást við hlýnun jarðar, því að samkvæmt þessu eykst magn koltvíildisins, sem óhætt er að losa út í andrúmsloftið án hlýnunar um meir en 1,5°C, úr 2,25 trn t í 2,75 trn t CO2. Þetta þýðir, að "kvóti" andrúmsloftsins fyrir CO2 fylist ekki á 7 árum frá 2015, heldur á 21 ári, þ.e. árið 2036, m.v. losun ársins 2015. Þetta gefur von um, að unnt verði að halda afleiðingum hlýnunar í skefjum, en þá verður að bregðast við strax og draga úr losun um 1,2 mia t/ár til að ná núll nettó losun árið 2055. Þess má geta hér, að heildarlosun Íslands án tillits til þurrkaðs lands, en að stærsta losunarvaldinum, millilandafluginu, meðtöldum, nemur um þessar mundir tæplega 12 Mt/ár eða rúmlega 300 ppm (hlutar úr milljón) af heildarlosun í heiminum (án áhrifa breyttrar nýtingar lands).
Nú þegar virðist hámarkslosun hafa verið náð, um 38 mia t/ár, og þróun sjálfbærra orkulinda gengur vel. Ekki heyrist þó mikið af þróun kjarnorku eða samrunaorku, en þróun vindmyllna og sólarhlaðna gengur vel. Á orkuuppboði á Bretlandi í september 2017 tókust samningar um raforku frá vindmyllum úti fyrir ströndu á 57,50 GBP/MWh eða 76 USD/MWh (að vísu enn niðurgreidd af brezka ríkinu), og raforka frá sólarhlöðum á sólríkum stöðum er nú þegar samkeppnishæf við orku frá jarðefnaeldsneytisverum, þ.e. vinnslukostnaður er kominn undir 40 USD/MWh. Rannsóknarstofnun í Potsdam um áhrif loftslagsbreytinga áætlar, að raforka frá sólarhlöðum muni nema 30 %-50 % af raforkunotkun heimsins árið 2050, en hún nemur 2 % núna. Þetta kallar á framleiðslu gríðarlegs magns af sólarkísli, og þótt núverandi framleiðslutækni útheimti tiltölulega mikið magn af kolum í rafskaut ljósbogaofnanna, spara sólarhlöðurnar andrúmsloftinu miklu meira af CO2 á endingartíma sínum en losað er við framleiðsluna. Sama má segja um álið. Fullyrðingar um, að þessi efni, kísill og ál, hafi slæm áhrif á andrúmsloftið, eru úr lausu lofti gripnar, þegar minnkun losunar við notkun þessara efna er tekin með í reikninginn. Eina viðurkennda aðferðafræðin í þessum efnum er að horfa á allt ferli þessara efna frá öflun hráefna til endanlegrar förgunar.
Þann 12. október 2017 birtist í Morgunblaðinu fréttin: "Draga koltvíoxíð úr andrúmslofti":
Þar er sagt frá samstarfi ON-Orku náttúrunnar við svissneska fyrirtækið Climeworks um prófun koltvíildisgleypis við Hellisheiðarvirkjun. Christoph Gebald, annar stofnenda þessa frumkvöðlafyrirtækis, segir:
"Allar rannsóknir benda til þess, að við náum ekki markmiðum Parísarsamkomulagsins, þ.e. að stöðva aukningu á útblæstri gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og ná að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C, með því einu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við verðum líka að vinna að því að hreinsa andrúmsloftið."
Þessar fullyrðingar Svisslendingsins orka mjög tvímælis. Í fyrsta lagi hefur nú þegar tekizt að stöðva árlega aukningu losunar gróðurhúsalofttegunda, og í öðru lagi eru nú 66 % líkur á því að mati IPCC, að takast megi að halda hlýnun innan við 1,5 °C.
Það mun flýta fyrir því að ná núll nettó losun að draga koltvíildi úr andrúmsloftinu. Það eru hins vegar nú þegar til aðrar mun umhverfisvænni og ódýrari aðferðir til þess. Þar á blekbóndi við bindingu með landgræðslu og skógrækt. Slíkt útheimtir að vísu mikið landrými, en það er einmitt fyrir hendi á Íslandi, og þess vegna á þessi gleypir og niðurdæling uppleysts CO2 ekki erindi við íslenzkar aðstæður og er einvörðungu akademískt áhugaverð tilraun.
Gasgleypir Svisslendinganna vegur um 50 t, og þess vegna er ljóst, að framleiðsla hans skilur eftir sig talsvert kolefnisspor. Ferlið er orkukræft og þarfnast mikils heits vatns. Það er þess vegna rándýrt og kostar um 65 kISK/t CO2. Til samanburðar má ætla, að binding með skógrækt á Íslandi kosti innan við 4 kISK/t CO2. Gleypisaðgerðin er meira en 16 sinnum dýrari en hin íslenzka skógrækt, sem viðurkennd hefur verið af IPCC sem fullgild aðferð við bindingu. Afköst téðs gasgleypis og niðurdælingar eru sáralítil eða 50 t/ár CO2. Til samanburðar nást sömu afköst á 6,5 ha lands hérlendis að meðaltali með skógrækt.
Það væri miklu ódýrara og þjóðhagslega hagkvæmara fyrir ON og önnur CO2 myndandi fyrirtæki að semja við íslenzka skógarbændur um bindingu koltvíildis en að standa í þessum akademísku æfingum á Hellisheiði, sem eru e.t.v. PR-vænar, en hvorki sérlega umhverfisvænar né geta þær nokkru sinni orðið samkeppnishæfar.
12.10.2017 | 10:53
Haltrandi rafvæðing
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Landsnet er á eftir tímaáætlunum sínum um uppbyggingu raforkuflutningskerfis landsins. Fyrir vikið er 132 kV flutningskerfið oflestað (Byggðalínuhringurinn), og viðskiptavinir fyrirtækisins, dreifiveitur og endanlegir rafmagnsnotendur líða fyrir þessa stöðu. Þetta hefur komið niður á atvinnuþróun í landinu, t.d. í Eyjafirði, og hefur tafið rafkatlavæðingu fiskimjölsverksmiðja. Málið er í öngstræti og þarfnast atbeina stjórnmálamanna til að uppræta það samfélagslega tjón, sem af þessu hlýzt.
Ástandið verður verra með hverju árinu, sem líður, og kerfið er orðið mjög veikt, þegar það annar ekki toppálagi og hrynur við eina truflun á kerfinu, sem orðið getur fyrirvaralaust vegna atburða í rekstri stórra iðnfyrirtækja, eins og dæmin sanna, eða vegna veðurs. Til að afnema flöskuhálsana, verður að veita áætlunum fyrirtækisins brautargengi strax, enda eru framkvæmdir þess afturkræfar, ef seinni kynslóðir sætta sig ekki við mannvirkin.
Nú eru stjórnarskipti framundan og samkvæmt skoðanakönnunum frá því síðla í september 2017 verður Vinstri hreyfingin grænt framboð forystuafl innan næstu ríkisstjórnar. Vegna hefðbundinnar andstöðu þessa stjórnmálaflokks við nýjar virkjanir og flutningslínur blæs ekki byrlega fyrir raforkumálum landsins næstu árin. Landið, sérstaklega landsbyggðin, má ekki við frekari stöðnun á þessu sviði. Hér er um að ræða stórfellt hagsmunamál byggðanna. Það skyldu landsbyggðarmenn hafa ríkulega í huga, þegar þeir ganga að kjörborðinu 28. október 2017.
Það blasir við, að flokkur, sem í orði kveðnu styður hröð orkuskipti, leggur í raun stein í götu þeirra með andstöðu sinni við nýjar virkjanir og styrkingu flutningskerfisins. Það er fráleitt, sem t.d. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, hefur haldið opinberlega fram, að rafbílavæðing jafngildi aðeins 1-2 % aukningu raforkunotkunar í landinu. Gnýr Guðmundsson, rafmagnsverkfræðingur, hefur komizt að þeirri niðurstöðu í lokaritgerð sinni til meistaraprófs í rafmagnsverkfræði vorið 2017, að árið 2030 verði rafmagnsþörf rafmagnsfartækja á vegum landsins 769 GWh (rúmlega 4 % af núverandi notkun) og aflþörfin 172 MW (rúmlega 8 % af núverandi meðalafli) og að á árinu 2040 verði þessar tölur 1276 GWh (tæplega 7 %) og 324 MW (rúmlega 15 %). Við þetta má bæta 62 MW árið 2030 vegna rafvæðingar fiskimjölsverksmiðja, yfir 100 MW vegna rafvæðingar hafnanna og 87 MW vegna aukningar almennrar notkunar árið 2030 frá 2016, alls a.m.k. 420 MW (20 %) viðbótar aflþörf án stóriðju árið 2030. Að stinga hausnum í sandinn gagnvart þessum staðreyndum jafngildir því að grafa undan orkuskiptunum. Það er þó "system í galskapet" hjá vinstri grænum, því að þeirra háttur er einmitt að stinga hausnum í sandinn, þegar raunveruleikinn knýr dyra í gerviveröld þeirra.
Ef orkuskiptin eiga að verða barn í brók, verður þegar í stað að hefja undirbúning að orkuöflun og orkuflutningi fyrir þau. Treysta menn Vinstri hreyfingunni grænu framboði til að hafa forystu um þessi mál ? Ef sú forysta á að verða öðru vísi en í skötulíki, verður sá flokkur að söðla um, og það eru litlar líkur á, að hugmyndafræðilega gaddfreðnir tréhestar sjái þörf á því eða geti það yfirleitt.
Það má gera því skóna, að kínversk stjórnvöld ætli að leiða Kína til forystu á mörgum tæknisviðum og í heimsviðskiptum og -stjórnmálum, en þau eru ekki gaddfreðnir tréhestar, þótt þau aðhyllist sína eigin útgáfu af kommúnisma. Í Kína er nú stærsti rafbílamarkaður heims, og stjórnvöld í Peking áforma að banna sölu á nýjum bílum, sem einvörðungu eru knúnir jarðefnaeldsneyti, til að draga úr mengun í kínverskum borgum, sem fyrir löngu er orðin háskaleg heilsu manna. Norðmenn eru að íhuga að setja á slíkt bann hjá sér árið 2025 og Frakkar og Bretar 2040. Við hérlendis höfum gullin tækifæri í þessum efnum vegna endurnýjanlegrar og mengunarlítillar raforkuvinnslu og verðum að taka þessi mál föstum tökum, ef við eigum ekki að verða eftirbátar annarra á þessu sviði. Er vinstri grænum treystandi til forystu í þessum efnum ? Stefna þeirra og málflutningur bendir í aðra átt. Þetta og önnur innviðauppbygging mun sitja á hakanum, því að öllum viðbótar skatttekjum mun verða sóað í rekstur, sbr loforðaflaum upp á 200 miaISK/ár.
Nú eru framleiddar um 1,2 M rafbíla á ári í heiminum, en árið 2025 er búizt við, að fjöldi þeirra hafi a.m.k. tífaldazt í 12 M og nemi þá um 10 % markaðarins. Á Íslandi gengur rafbílavæðing óþarflega hægt, og er það vegna vanburðugrar hleðsluaðstöðu. Það er átaks þörf við fjölbýlishús og gististaði.
Um 46 % nýrra bíla fara til bílaleiganna, og þær telja sér enn ekki fært að rafvæða flota sinn af ofangreindum orsökum. Hlutfall tengiltvinnbíla og alrafbíla af heildarsölu nýrra bíla er þess vegna aðeins 9,0 % í ár, þótt hlutfallið til almennra nota sé 16,6 %. Það væri ráð til að hraða þessari þróun að forgangsraða uppsetningu hleðslustöðva í samráði við samtök bílaleiganna.
Hafnir landsins hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til eflingar rafkerfis síns fyrir landtengingu allra skipa í höfn, þ.á.m. skemmtiferðaskipa. Þar af leiðandi þarf ríkissjóður að efla orkusjóð, svo að hann geti veitt höfnunum styrki til að fara af stað með hönnun og háspennulagnir í samvinnu við dreifiveiturnar. Ríkissjóður mun síðan fá til baka virðisaukaskatt af raforkusölunni.
3.10.2017 | 13:31
Verðmætasköpun og draumóramenn
Öll verðmætasköpun samfélagsins á sér stað í fyrirtækjum landsins. Stjórnmálamenn, ríkisvald, embættismenn og sveitarstjórnir, sjá svo um að eyða jafngildi tæplega helmings vergrar landsframleiðslu af verðmætasköpun fyrirtækjanna.
Skýjaglópar og harðsvíraðir vinstri menn virðast enga grein gera sér fyrir því, hvernig verðmæti verða til. Verknaðir og umræður sýna þetta ljóslega. Þeir slátra mjólkurkúnni og éta útsæðið, ef þeir komast í aðstöðu til þess. Þetta lá í augum uppi á dögum vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, og málflutningur ríkisstarfsmannsins, Tómasar Guðbjartssonar, læknis á Landsspítalanum, ber dálítið keim af blindu á það, hvernig verðmæti verða til, og þeirri rörsýn, að eitt útiloki annað, þegar mismunandi verðmætasköpun er annars vegar. Þetta hefur einnig verið nefnt naumhyggja. Sem dæmi þá finnast engin tilvik um það í heiminum, að vatnsaflsvirkjanir hafi haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustu; þvert á móti, vatnsaflsvirkjanir hafa verið aðdráttarafl fyrir ferðamenn, enda hefur vegalagning fyrir virkjanir víða auðveldað ferðamönnum að komast leiðar sinnar.
Tómas, læknir, skrifar enn eina tilfinningaþrungnu greinina í Fréttablaðið, 21. september 2017. Ber þessi grein heitið:
"Þarfnast móðir náttúra umboðsmanns ?
Í greininni svarar ríkisstarfsmaðurinn spurningu sinni játandi; það sé þörf á að bæta í báknið og auka ríkisútgjöldin til þess eins að auka tvíverknað í kerfinu og skörun embætta. Blekbóndi vill aftur á móti halda því fram, að fyrir sé meira en nóg af silkihúfum á ríkisjötunni, sem geri fátt gagnlegt til að létta landanum lífsbaráttuna, en verji of miklum tíma í að fægja á sér klærnar.
Téð grein Tómasar hefst þannig:
"Það er flestum ljóst, sem fylgzt hafa með umræðunni um fyrirhugaða Hvalárvirkjun og stóriðju í Helguvík, að náttúra Íslands á undir högg að sækja. Orkufyrirtæki og erlend stóriðja ásælast vatnsföll okkar og jarðhitasvæði til raforkuframleiðslu."
Hér er gamalkunnug klisja á ferð, fimmtug afturganga frá orðafari Einars, heitins, Olgeirssonar, kommúnistaforingja, í eldheitri umræðu á Alþingi um Búrfellsvirkjun og Alusuisse, fyrsta eiganda ISAL í Straumsvík. Þá var málið samsæri erlends auðvalds og innlendrar borgarastéttar gegn verkalýð landsins um að ræna hann arðinum af orkulindunum á "hausaskeljastað".
Þessi áróður læknisins er alger tímaskekkja, því að nú erum við reynslunni ríkari og vitum, að vatnsaflsvirkjanirnar mala alþýðu landsins gull og knýja fyrirmyndar vinnustaði, hvað aðbúnað starfsmanna, launakjör og mengunarvarnir snertir. Svartagallsraus af þessu tagi sæmir illa háskólaborgara. Honum væri nær að vara við mestu umhverfisvá nútímans, ferðamanninum, og taka upp baráttu til eflingar gróðurþekju lands með stærstu eyðimörk Evrópu. Það gerir hann ekki; þvert á móti ráðleggur hann Vestfirðingum að hætta við Hvalárvirkjun, sem þó verður grundvöllur að uppbyggingu fjölbreytilegs atvinnulífs og orkuskiptum á Vestfjörðum, og einbeita sér að ferðaþjónustu. Það hefur aldrei þótt ráðlegt að setja öll eggin í eina körfu. Þetta er afleit ráðgjöf læknis í Reykjavík til Vestfirðinga.
"Nú eru á teikniborðinu 8 stórvirkjanir á Íslandi. Þær eiga alls að framleiða 419 MW af orku (sic), sem að langmestu leyti (80 %) er hugsuð til stóriðju, ekki sízt kísilvera í Helguvík. Þessar virkjanir kosta gríðarlegt fé, og arðsemi þeirra er umdeild, enda virðist hagnaður af starfseminni, sem þær þjóna, oft á tíðum færður með bókfærslubrögðum til útlanda."
Þessi málflutningur læknisins orkar tvímælis og þarfnast skoðunar:
Á Íslandi er það Verkefnisstjórn Rammaáætlunar, sem gerir tillögu til Alþingis um flokkun orkunýtingarkosta í nýtingu, bið eða vernd. Samkvæmt gildandi Rammaáætlun eru 18 virkjanakostir í nýtingarflokki að aflgetu alls 1421 MW. Þar af eru 6 virkjanir yfir 100 MW og mega e.t.v. kallast stórvirkjanir á íslenzkan mælikvarða. Þær eru (JG=jarðgufa, VA=vatnsafl, VM=vindmyllur):
- Kröfluvirkjun, JG, 150 MW
- Austurengjar, JG, 100 MW
- Sandfell, JG, 100 MW
- Sveifluháls, JG, 100 MW
- Urriðafoss, VA, 140 MW
- Blöndulundur, VM, 100 MW
- Alls 690 MW
Það er áreiðanlega ofsögum sagt, að 4 þessara stórvirkjana séu á hönnunarstigi, hvað þá að búið sé að semja um orkusölu frá 4 stórvirkjunum. Hvaðan í ósköpunum kemur þá lækninum sú vizka, að "arðsemi þeirra [sé] umdeild" ? Hagkvæmniathugun fer ekki fram fyrr en verkhönnun er langt komin og söluverð orku er ljóst.
Lækninum verður tíðrætt um stóriðju og ætíð í niðrandi tóni. Hér skal benda þessum lækni á tvær staðreyndir í sambandi við stóriðju og raforkufyrirtæki á Íslandi:
- Raforkukerfi landsins væri aðeins svipur hjá sjón án stóriðjunnar, enda mundi þá einingarkostnaður (ISK/kWh eða ISK/MW) vera mun hærri en nú er.
- Íslendingar búa við eitt lægsta raforkuverð í heimi. Það stafar af því, að markaður var í landinu fyrir raforkuvinnslu og raforkuflutning í stórum stíl. Stóriðjan hefur gert meira en greiða fyrir sína hlutdeild í raforkukerfiskostnaðinum. Með öðrum orðum: lægsta raforkuverð í heimi væri ekki mögulegt á Íslandi án mikillar raforkusölu samkvæmt langtímasamningum við öflug fyrirtæki, sem njóta trausts lánastofnana, og þar með getur virkjunarfyrirtækið notið hagstæðari lánakjara.
Dylgjur læknisins um bókhaldssvindl og skattaundanskot alþjóðlegra fyrirtækja hér eru í anda annarra einangrunarsinna, sem horn hafa í síðu erlendra fjárfesta hérlendis. Allar vestrænar þjóðir keppast þó um að laða til sín beinar erlendar fjárfestingar, því að þær hafa góð áhrif á hagvöxt og þekkingarstig í þjóðfélaginu og draga úr lánsfjárþörf atvinnulífsins. Viðurkennd endurskoðunarfyrirtæki rýna og árita bókhald þessara fyrirtækja, og það er ótrúlegur barnaskapur hjá lækninum að væna öll þessi fyrirtæki um svindl og svínarí. Gengur hann heill til skógar ?
Að einu leyti hefur blekbóndi samúð með sjónarmiðum læknisins, en það er, þegar hann gagnrýnir hugmyndina um sæstreng á milli Íslands og Skotlands. Hann virðist þó halda, að viðskiptahugmyndin sé sú að senda Skotum "græna orku" til notkunar í Skotlandi. Það er engin þörf á því. Skotar eiga nóg af endurnýjanlegum orkulindum. Hugmyndin er að selja Englendingum íslenzka orku og kaupa af þeim raforku, þegar þörf krefst hérlendis. Slík tenging mun óhjákvæmilega hækka raforkuverðið hérlendis, og íslenzkar orkulindir hrökkva fyrirsjáanlega ekki til fyrir vaxandi þjóð, orkuskipti og sæstreng. Þessi rök nefnir læknirinn þó ekki.
Það slær hins vegar alveg út í fyrir lækninum, þegar hann kveður "tímabært að setja á stofn nýtt embætti; Umboðsmann náttúrunnar, sem gjarna mætti vera kona, því að þær virðast iðulega víðsýnni en karlar, þegar kemur að náttúruvernd." Það væri augljóst brot á jafnréttislögum að auglýsa eftir öðru kyninu í þessa stöðu, en aðalatriðið er, að stöðunni yrði algerlega ofaukið í íslenzku stjórnsýslunni við hliðina á Umhverfisstofnun og Umhverfisráðuneytinu, og að stofnsetja það væri aðeins til að þenja út báknið og að fjölga silkihúfunum. Hver veit, nema það verði eitt af gæluverkefnum nýrrar vinstri stjórnar að stofna þetta þarflausa embætti til þess eins að koma skattpeningum í lóg. Samkvæmt lögmáli Parkinsons yrði þarna komið 10 manna starfslið innan tíðar, sem mundi ekkert annað gera en að tefja afgreiðslu stjórnsýslunnar, og er hún þó nógu hæg fyrir.
Læknirinn gerist skáldlegur á köflum, en þó flækist alltaf rörsýnin fyrir honum, sem t.d. fyrirmunar honum að skilja slagorðið:"nýtum og njótum": "Ég tel ljóst, að unaðsstundir í náttúru Íslands séu í huga flestra Íslendinga og erlendra gesta dýrmætari en kílovattstundir."
Þetta á ekki að vera spurning um annaðhvort eða, heldur hvort tveggja. Tæknin leyfir slíkt nú á dögum. Sjálfbær kílowattstund er unaðsleg í heimi rafmagnslegrar ósjálfbærni, og hún fer vel með unaðsstundum í faðmi náttúrunnar.
15.9.2017 | 10:56
Fasteignir, fiskeldi og orkuöflun
Vestfirðingar berjast nú fyrir því að mega nýta landsins gæði alþýðu allri til hagsbóta. Það er ekki vanþörf á auknum umsvifum athafnalífs á Vestfjörðum, eins og fasteignaverðið er vísbending um, enda er jákvætt samband á milli fasteignaverðs og atvinnuframboðs.
Þetta má lesa út úr nýlegum upplýsingum Byggðastofnunar, sem fékk Þjóðskrá Íslands til að bera saman fasteignaverð í 31 bæ og þorpi víðs vegar um landið m.v. 161,1 m2 einbýlishús. Sams konar samanburður hefur átt sér stað undanfarin ár.
Eignin er ódýrust á Bolungarvík, en hefur undanfarin ár verið ódýrust ýmist á Patreksfirði eða á Vopnafirði. Nú bregður hins vegar svo við, að fasteignamatið hækkaði hlutfallslega mest 2016-2017 á þessum tveimur stöðum. Er engum blöðum um það að fletta, að meginskýringin eru miklar fjárfestingar í fiskeldi á Suðurfjörðum Vestfjarða undanfarin misseri og miklar fjárfestingar HB Granda á Vopnafirði í atvinnutækjum og kaup á þorskkvóta fyrir skip, sem þaðan eru gerð út.
Viðmiðunarhúsið á Bolungarvík kostar aðeins MISK 14,4, en miðgildi fasteignaverðsins á samanburðarstöðunum er MISK 26. Nær það varla kostnaði við slíkt fullfrágengið hús. Að byggja hús á Bolungarvík er greinilega mjög áhættusamt, því að þurfi húsbyggjandi að selja, fær hann aðeins um helming upp í kostnaðinn. Þetta er vítahringur fyrir staði í þessari stöðu. Á Höfn í Hornafirði er sveitarfélagið núna að reyna að rjúfa þennan vítahring með því að stuðla að nýbyggingum íbúðarhúsnæðis fyrir fólk, sem vantar í vinnu þar. Þar sem vinnu vantar, er eina ráðið til að rjúfa þann vítahring að efla framboð fjölbreytilegra starfa.
Nú vill svo til fyrir íbúa við Ísafjarðardjúp, að slík efling athafnalífs er innan seilingar. Fyrir hendi eru fyrirtæki, sem sækjast eftir að hefja laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Allt bendir til, að umskipti til hins betra hafi átt sér stað við hönnun og rekstur laxeldissjókvía, svo að stroktíðni sé innan marka, sem talizt geta skaðleg fyrir "hreint" kyn villtra laxa í laxám, sem ósa eiga út í Ísafjarðardjúp, hvað þá annars staðar.
Það er þess vegna fullt tilefni fyrir Hafrannsóknarstofnun að endurskoða fljótlega áhættumat sitt, enda verður árlegt hámarkstjón í Ísafjarðardjúpi innan við 5 % af næsta öruggri árlegri verðmætasköpun 30 kt laxeldis þar. Raunveruleg áhættugreining vegur saman líkindi tjóns og ávinnings, og niðurstaðan verður þá ótvírætt almannahagsmunum í vil.
Burðarþolsmat Vestfjarða fyrir laxeldi hljóðar upp á 50 kt. Það er varfærnislegt og mun sennilega hækka í tímans rás. Þar við bætist möguleikinn á laxeldi í landkerum. Í heild gæti laxeldi á Vestfjörðum numið 80 kt árið 2040. Orkuþörf þess má áætla 160 GWh/ár og aflþörfina 30 MW.
Ef svo vindur fram sem horfir um atvinnuþróun, mun íbúum á Vestfjörðum fjölga um 5 k (k=þúsund) 2017-2040. Vegna almennrar rafhitunar munu þeir þurfa tiltölulega mikla orku, sem gæti numið 125 GWh/ár og 20 MW.
Rafbílavæðing er framundan á Vestfjörðum, eins og annars staðar á landinu, og gæti þurft 64 GWh/ár og 16 MW að 23 árum liðnum.
Hafnirnar verður að rafvæða með háspenntri dreifingu og gætu stór og smá skip þurft 35 GWh/ár og 8 MW árið 2040 á Vestfjörðum.
Ef spurn verður eftir repjumjöli í fóður fyrir laxinn, gæti vinnsla þess og repjuolíu á skipin þurft 12 GWh/ár og 8 MW.
Alls eru þetta tæplega 400 GWh/ár og 80 MW. Það er alveg útilokað fyrir íbúa og atvinnurekstur á Vestfjörðum að reiða sig á tengingu við landskerfið um Vesturlínu fyrir þessa aukningu. Í fyrsta lagi er þessi orka ekki fyrir hendi í landskerfinu, og eftirspurnin er og verður sennilega umfram framboð á landinu í heild. Í öðru lagi er afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum algerlega óboðlegt um þessar mundir, og á tímum orkuskipta er óásættanlegt að reiða sig á rafmagn frá dísilknúnum rafölum.
Þá er enginn annar raunhæfur kostur en að virkja vatnsafl á Vestfjörðum, og samkvæmt gildandi Rammaáætlun, sem er miðlunarleið ríkisins við val á milli nýtingar orkulinda og verndunar, eru Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun í nýtingarflokki á Vestfjörðum. Líklega er nú verið að vinna að lögformlegu umhverfismati fyrir þá fyrrnefndu að stærð 340 GWh/ár og 55 MW. Hún mun ein ekki duga fyrir aukninguna næstu 2 áratugina á Vestfjörðum. Bændavirkjunum mun fjölga, en meira verður að koma til, svo að Vestfirðir verði raforkulega sjálfbærir, og orkulindirnar eru þar fyrir hendi.
Hægt er að núvirða framlegð Hvalárvirkjunar fyrstu 20 ár starfseminnar, og fæst þá andvirði vatnsréttindanna í ánum, sem leggja virkjuninni til orku. Andvirðið er þannig reiknað miaISK 14,4. Hæstiréttur hefur dæmt, að sveitarfélögum sé heimilt að leggja fasteignagjald á andvirði vatnsréttinda. Sé notað álagningarhlutfallið 0,5 %, fæst árleg upphæð í sveitarsjóð af vatnsréttindum Hvalárvirkjunar 72 MISK/ár. Soltinn sveitarsjóð munar um minna.
Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir, heldur áfram að skrifa greinar í Fréttablaðið með áróðri um það, að "náttúran skuli njóta vafans" og homo sapiens af kvíslinni Vestfirðingar, búsettir á Vestfjörðum, geti étið, það sem úti frýs, hans vegna. Svo hvimleiður sem þessi málflutningur hans kann að þykja, á hann fullan rétt á að hafa þessa skoðun og tjá hana, þar sem honum sýnist. Rökin eru samt varla tæk fyrir nokkurt eldhúsborð á Íslandi. Þann 8. september 2017 birtist eftir téðan lækni grein í Fréttablaðinu:
"Umræða um Hvalárvirkjun á villigötum":
"Ástæðan [fyrir kynningarátaki Tómasar og Ólafs Más Björnssonar, augnlæknis, á landslagi í Árneshreppi] er sú, að okkur hefur fundizt skorta mjög á upplýsingagjöf um framkvæmdina og við teljum, að náttúran á þessu stórkostlega svæði hafi ekki fengið að njóta vafans. Við erum ekki aðeins að beina spjótum okkar að framkvæmdaaðilum virkjunarinnar, HS Orku og Vesturverki, heldur ekki síður að þeim, sem veitt hafa virkjuninni brautargengi í Rammaáætlun og sveitarstjórn Árneshrepps.
Einnig truflar okkur, að eigandi Eyvindarfjarðarár sé ítalskur huldubarón, sem selt hefur vatnsréttindi sín til kanadísks milljarðamærings, Ross Beaty, sem er eigandi 68 % hlutar í HS Orku - fyrirtæki, sem síðan á 70 % í Vesturverki, framkvæmdaaðila virkjunarinnar. Því er vandséð, að íslenzkir eða vestfirzkir hagsmunir séu í forgangi."
Hér er hreinn tittlingaskítur á ferðinni, nöldur af lágkúrulegum toga, sem engan veginn verðskuldar flokkun sem rökstudd, málefnaleg gagnrýni. Síðasta málsgrein læknisins sýnir, að hann er algerlega blindur á hina hlið málsins, sem eru hagsmunir fólksins, sem á Vestfjörðum býr og mun búa þar. Þetta "sjúkdómseinkenni" hefur verið kallað að hafa rörsýn á málefni. Það var sýnt fram á það í fyrrihluta þessarar vefgreinar, að nýtt framfaraskeið á Vestfjörðum stendur og fellur með virkjun, sem annað getur þörfum vaxandi fiskeldis, vaxandi íbúafjölda og orkuskiptum á Vestfjörðum. Að leyfa sér að halda því fram, að slík virkjun þjóni hvorki hagsmunum Vestfirðinga né þjóðarinnar allrar, ber vitni um þjóðfélagslega blindu og tengslaleysi við raunveruleikann, en e.t.v. er einnig um að ræða hroka beturvitans.
11.9.2017 | 11:34
Auðlindastjórnun í ljósi reynslunnar
Frá öndverðu nýttu Íslendingar aðallega gögn og gæði landsins sér til lífsviðurværis, þótt sjórinn væri ætíð nýttur með. Takmörkuðu vinnuafli var aðallega beint að landbúnaðarstörfum, þótt ungir menn væru sendir í verið. Sjórinn tók hins vegar ægilegan toll af sjómönnum, allt þar fiskiskipin urðu öflugri undir lok 19. aldar. Kann hræðilegur fórnarkostnaður að hafa ráðið nokkru um, að sjávarútvegur varð ekki undirstöðuatvinnuvegur hér fyrr en skömmu fyrir aldamótin 1900.
Nú tækni ruddi þá sjávarútvegi brautina. Þilskipin gjörbreyttu aðstöðu sjómanna, hafnargerð hófst og vélvæðing skipanna hóf innreið sína. Hvalveiðar Norðmanna upp úr 1870 hér við land og hvalvinnsla á Vestfjörðum og Austfjörðum umbyltu atvinnuháttum og þar með þjóðlífinu öllu. Árið 1890 námu útflutningstekjur af sjávarafurðum hærri upphæð en útflutningstekjur af landbúnaðarafurðum, sem verið höfðu aðalútflutningsvörur landsmanna frá upphafi, í vöruskiptum og sem gjaldeyrislind. Síðan hefur sjávarútvegur verið undirstöðu atvinnugrein landsmanna.
Nýlega gaf Ágúst Einarsson, prófessor emeritus við Háskólann á Bifröst, út bókina "Fagur fiskur í sjó". Að því tilefni birti Guðsteinn Bjarnason viðtal við fræðimanninn í Fiskifréttum, 31. ágúst 2017:
"Það má segja, að hinar hefðbundnu veiðar og vinnsla standi undir 9 %-11 % af landsframleiðslunni, en þegar sjávarútvegurinn er skoðaður í heild, þá skilar hann okkur ríflega 20 %, því að sjávarútvegurinn hér á landi er svo miklu meira en bara veiðar og vinnsla. Til hans verður líka að telja t.d. veiðarfæragerð og vélsmíði í tengslum við sjávarútveg, en þar erum við með stórfyrirtæki á heimsmælikvarða, eins og Hampiðjuna og Marel og mörg önnur fyrirtæki. Þarna hefur orðið bylting, og þetta gerir sjávarútveginn að mikilvægustu atvinnugrein landsmanna."
Ekki skal í efa draga, að sjávarútvegurinn skapi landsmönnum mestan auðinn allra atvinnugreina, en reiknað með sama hætti stendur iðnaðurinn undir um 20 % landsframleiðslunnar líka. Í sambandi við raforkuiðnaðinn í landinu má geta þess, að ef flytja þyrfti inn olíu til að framleiða þær 18,5 TWh/ár af raforku, sem framleiddar eru með vatnsafli og jarðgufu, sem er auðvitað óraunhæft dæmi, þá næmi andvirði þess innflutnings um 280 miaISK/ár um þessar mundir. Orkuvinnslan í landinu lyftir lífskjörunum og gerir landið samkeppnishæft við útlönd um fólk og fyrirtæki.
Ágúst ræddi einnig um fiskveiðistjórnunina:
"Ástæðan fyrir því, að það hafa verið svo miklar deilur um fiskveiðistjórnina, er sú, að þetta kerfi býr til verðmæti, sem heitir auðlindarenta, og það gerist vegna þess, að aðgangurinn er takmarkaður, en þá vakna spurningar um það, hver á rentuna ? Á að skattleggja þetta sérstaklega t.d. til að efla byggðir landsins."
Umrædd skattlagning er veikasti hlekkur fiskveiðistjórnunarkerfisins. Hún er reist á röngum og úreltum forsendum. Spyrja má grundvallarspurningar varðandi verðmætasköpun sjávarútvegsins á borð við þá, hvers virði óheftur réttur að miðunum sé, þegar ljóst er, að hann mundi valda tapi allra útgerðanna. Hann er einskis virði. Þess vegna er engin ástæða til sérskattlagningar á núverandi útgerðir. Hins vegar má til sanns vegar færa, að útgerðirnar standa í þakkarskuld við ríkisvaldið fyrir að hafa skapað umgjörð sjálfbærrar nýtingar á sjávarauðlindunum. Þess vegna er hóflegt auðlindagjald af útgerðunum sanngjarnt, en afraksturinn á ekki að renna í ríkissjóð, heldur í sjávarútvegssjóð til sveiflujöfnunar innan sjávarútvegsins og fjárfestinga tengdum sjávarútveginum, s.s. í nýju hafrannsóknarskipi Hafrannsóknarstofnunar, þyrlum Landhelgisgæzlu, hafnabótum, rafkerfisstyrkingu hafnanna o.s.frv.
Núverandi afturvirka aðferðarfræði við útreikning auðlindagjalds af sjávarútvegi er ótæk, og mun ganga af litlum og meðalstórum útgerðum dauðum. Hún getur valdið ofsaskattheimtu, þar sem andvirði skattheimtunnar getur numið þriðjungi framlegðar fyrirtækis.
Það er algerlega óskiljanlegt, að sjávarútvegsráðherra skuli leggja blessun sína yfir þá ofstopaskattheimtu af einni atvinnugrein, sem núverandi aðferðarfræði felur í sér, og girða fyrir breytingar fiskveiðiárið 2017/2018, sem henni væri þó í lófa lagið að gera. Reikna ber verðmæti auðlindarinnar, sem er tiltölulega einfalt með núvirðisreikningum meðalframlegðar, deila henni á aflahlutdeildir og taka síðan ákveðna rentu af þessu, allt að 0,5 %/ár, en árleg upphæð mætti aldrei fara yfir 5 % framlegðar á síðasta fiskveiðiári.
Þann 15. júní 2017 birtist viðtal Ásgeirs Ingvarssonar við Hjört Gíslason í Sjávarútvegi-riti Morgunblaðsins, í tilefni þýðingar Hjartar á nýrri bók Óla Samró, færeysks sjávarútvegsráðgjafa og hagfræðings, um mismunandi fiskveiðistjórnunarkerfi:
"Óli Samró kemst að þeirri niðurstöðu í bókinni, að hvergi sé til fiskveiðistjórnunarkerfi, sem gerir ekkert rangt og allt rétt, en kerfi eins og það íslenzka og nýsjálenzka komist næst því að stýra fiskveiðum með hvað skynsamlegustum hætti."
"Í Lettlandi og á Kamchatka í Rússlandi var sú leið [uppboðsleið] prófuð, og í báðum tilvikum var uppboðstilraununum hætt, því að ávinningurinn var ekki sá, sem vonazt hafði verið eftir. Í Rússlandi keyptu Kínverjar allan kvótann, sem var í boði, og í Lettlandi voru það Íslendingar."
Hvernig á að koma í veg fyrir, að fjársterkir aðilar, innanlands eða utan, bjóði hæsta verð í fiskveiðiheimildarnar með leppa sem skjöld og landi síðan aflanum, þar sem þeim sýnist ? Það eru einfeldningar, sem halda, að hægt sé að hafa stjórn á þeim öflum, sem úr læðingi sleppa, þegar slík óþurftar tilraunastarfsemi með grunnatvinnuveg er sett í gang.
Hjörtur ýjar að sjúkdómseinkenni krata og sósíalista, þegar að veiðigjaldaumræðu kemur:
"Það virðist æ algengara, að stjórnmálamenn reyni að afla sér vinsælda með loforðum um að taka enn meira frá sjávarútveginum og nota til ýmissa verkefna. En hafa verður í huga, að sjávarútvegurinn gerir nú þegar mikið fyrir þjóðarhag með beinum og óbeinum störfum, og tíðkast nánast hvergi annars staðar í heiminum, að útgerðir greiði auðlindagjald. Þvert á móti skekkir það samkeppnisstöðu íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja, að keppinautar þeirra í öðrum löndum njóta styrkja frá hinu opinbera."
Skipum, sem úthlutað er veiðiheimildum við Íslandsstrendur, fer fækkandi með hverju árinu og útgerðum fækkar einnig. Hvort tveggja er vísbending um hagræðingu í kerfinu. Hins vegar leikur ekki á tveimur tungum, að núverandi veiðigjaldakerfi flýtir fyrir þessari þróun, og yfirvöld stuðla þannig með ósanngjörnum gjörðum sínum að hraðari samþjöppun í greininni en ella, alveg sérstaklega við núverandi aðstæður mikils tekjusamdráttar í sjávarútvegi.
Alþingi samþykkti í óráði árið 2012 reglur, sem hafa afleiðingar, sem enginn stjórnmálaflokkur vill gangast við sem sinni stefnu. Samt lemur núverandi sjávarútvegsráðherra hausnum við steininn, af því að hún gengur með steinbarn í maganum, sem hefur fengið nafnið "uppboðsleið".
Orkulindir landsins eru líka takmörkuð auðlind, þótt takmörkunin sé annars eðlis en í sjávarútveginum. Yfirvöld úthluta fyrirtækjum virkjanaleyfum, og ekki fá þau öll leyfi til að virkja, þar sem þau hafa hug á og hafa jafnvel rannsakað virkjanasvæði, eins og niðurstaða Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun er órækt vitni um.
Þar að auki hefur Hæstiréttur dæmt sveitarfélagi í vil um, að það mætti leggja fasteignaskatt á vatnsréttindi í fljóti, sem rennur um sveitarfélagið, í hlutfalli við lengd fljótsins í viðkomandi sveitarfélagi (Fljótsdalshreppi). Eina útistandandi ágreiningsefnið við eiganda virkjunarinnar, Landsvirkjun, er, hvaða gjaldflokk megi nota.
Fulltrúar sveitarstjórna í sveitarfélögum, þar sem virkjuð á rennur um, en fáar eða engar fasteignir virkjunarinnar eru staðsettar, berja lóminn og kvarta undan því, að lítið af auðlindarentunni verði eftir í héraðinu. Hvers vegna láta þau ekki meta vatnsréttindin til fjár og leggja síðan á fasteignagjald, sem þau hafa nú réttarheimild til samkvæmt dómafordæmi Hæstaréttar ? Verðmætamatið þarf að vera samkvæmt viðurkenndri reikniaðferð um núvirðingu framtíðarframlegðar allra virkjana í ánni. Fyrir t.d. Þjórsá er ekki um neinar smáupphæðir að ræða og fara vaxandi.
Harðar deilur geisa um laxeldi í sjókvíum hér við land. Sumpart eiga þær deilur rót að rekja til liðins tíma horfinna vinnubragða við þessa atvinnugrein. Undanfarar ákvarðanatöku um starfsleyfi og rekstrarleyfi laxeldisstöðva eru tvíþættir. Í fyrsta lagi burðarþolsmat Hafró á líklegri getu viðkomandi fjarðar til að hreinsa sig af úrgangi og aðskotaefnum frá fiskeldinu og í öðru lagi áhættugreining, þar sem metnar eru líkur á neikvæðum atburðum á borð við eldislaxastrok alla leið upp í nærliggjandi ár, sem leiði til meira en 4 % af eldislaxi í einni á.
Til að reka endahnútinn á áhættugreininguna þarf hins vegar að meta líklegt fjárhagstjón af neikvæðum fylgifiskum laxeldis á móti samfélagslegum fjárhagsávinningi af laxeldinu. Bæði fólk og náttúra verða að fá að njóta vafans til lengdar. Einnig má líta svo á, að íbúarnir séu hluti af náttúrunni á viðkomandi svæði. Sé þetta gert, t.d. fyrir Ísafjarðardjúp, mun koma í ljós, ef lausleg athugun blekbónda er rétt, að hámarkstjónið er vel innan við 5 % af líklegum fjárhagsávinningi samfélagsins (verðmætasköpun) á hverju ári. Slíkt verður að telja, að réttlæti 30 kt/ár leyfisveitingu í Ísafjarðardjúpi, enda sé skaðabótaskylda eldisfyrirtækjanna niður njörvuð.
Í síðari hluta ágústmánaðar 2017 skilaði "Starfshópur um stefnumótun í fiskeldi" skýrslu sinni til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þar var lagt til að bjóða út starfsleyfi til sjókvíaeldis, og fer nú fram vinna við útfærslu þeirra tillagna. Fyrirtækin eiga að fá 6 ára tímabil frá upphafsslátrun úr kvíunum að fyrstu greiðslu auðlindagjalds.
Hér er farið offari í gjaldtöku af atvinnustarfsemi, sem mun koma niður á fjárfestingum og nýsköpun í greininni og klárlega veikja samkeppnishæfni fyrirtækjanna á erlendum mörkuðum, því að þessi hegðun yfirvalda þekkist ekki annars staðar. Annaðhvort bjóða menn upp eða leggja á árlegt auðlindagjald, en alls ekki hvort tveggja.
Verðmætamat á laxeldisauðlindinni gæti numið 4,0 MISK/t. Reksturinn stendur ekki undir svo háu kaupverði, en e.t.v. má vænta tilboðs, sem nær 0,5 MISK/t. Til samanburðar hefur gangverð á þorskkvóta numið 2,5 MISK/t, en þar er yfirleitt um að ræða jaðarverð, þar sem útgerðir eru að bæta við sig kvóta. Ef þessi (0,5 MISK/t) yrði raunin í útboðum, mun kostnaður af leyfiskaupunum, jafnaður á 20 fyrstu rekstrarárin, nema um 6 % af framlegð. Þetta er hátt og skýrir, hvers vegna hámark árlegs auðlindargjalds var í skýrslu téðs starfshóps sett föst upphæð, 15 ISK/kg af sláturlaxi. Í heildina verða leyfisgjöld og auðlindargjald þungur baggi á starfseminni fyrstu árin, jafnvel 10 % af framlegð. Undir núverandi sjávarútvegsráðherra má þó sjávarútvegurinn búa við enn verri kjör, þar sem veiðileyfagjöldin munu nema um miaISK 11 í heildina fiskveiðiárið 2017/2018 samkvæmt reglugerð hennar frá í sumar. Þetta gæti að meðaltali numið 30 % af framlegð, sem er glórulaus gjaldtaka ríkisins.
Til að gera sér í hugarlund, hversu gríðarlegar upphæðir kunna að verða greiddar fyrir laxeldisleyfin, er hægt að taka dæmi af Ísafjarðardjúpi, þar sem burðarþolsmatið hljóðar upp á 30 kt. Ef þetta magn yrði boðið upp, gæti andvirðið numið miaISK 15. Hvert á það að renna ? Réttast væri að stofna sjóð, sem veitir fé til uppbyggingar innviða, sem tengjast fiskeldinu beint.
Ályktunin af öllu þessu er, að það stefnir í ringulreið í auðlindastjórnun landsmanna. Í sjávarútveginum er við lýði ofurgjaldtaka. Veiðileyfagjaldið raskar samkeppnisstöðu íslenzkra útgerða við útlönd og við aðrar atvinnugreinar hérlendis. Samþjöppun í greininni verður svo hröð, að sumar byggðir munu vart fá svigrúm til aðlögunar. Veiðileyfagjaldið á sjávarútveginn er miskunnarlaus rányrkja ríkisins, sem má ekki standa.
Í orku- og fjarskiptageiranum fer ekki fram útboð á virkjanaleyfum eða fjarskiptarásum. Gjald fyrir leyfisveitingar er mjög lágt, og ekkert auðlindargjald er innheimt.
Þetta ósamræmi er óviðunandi og ber vott um afleita stjórnsýslu. Hóflegt gjald ber að taka fyrir aðgang að náttúruauðlind "í sameign þjóðarinnar" eða afnotaréttinn, en það á ekki að refsa fyrirtækjum fyrir þessa nýtingu með því að rukka fyrir hvort tveggja. Heildarkostnaður fyrirtækis af aðgangs- og/eða afnotarétti ætti aldrei að fara yfir 5 % af framlegð þess árið á undan.
Uppboðsleiðin er stórgölluð. Hún getur aldrei farið fram óheft, nema menn sætti sig við, að allur aðgangurinn geti lent hjá öflugasta fyrirtækinu. Að hafa öll eggin í einni körfu er of áhættusamt fyrir yfirvöldin. Á keyptur aðgangur að vera framseljanlegur hverjum sem er ? Það verður að leggja ýmsar hömlur á bjóðendur. Það er mun eðlilegra, að raða fyrirtækjunum landfræðilega rökrétt niður á strandsvæðin og leggja síðan á þau hóflegt árlegt auðlindargjald, t.d. 20 ISK/kg, þó að hámarki 5,0 % af framlegð síðasta árs.
4.9.2017 | 11:21
Orkuskipti útheimta nýjar virkjanir
Vestfirðingar standa nú frammi fyrir byltingu í atvinnuháttum sínum. Það mun verða gríðarleg vítamínsprauta í samfélag þeirra og í þjóðfélagið allt, þegar laxeldi nær tugþúsundum tonna á hverju ári eða á bilinu 50-80 kt/ár, sumt hugsanlega í landkerum. Þarna er að koma til skjalanna ný meiri háttar útflutningsatvinnugrein með öllum þeim jákvæðu hliðaráhrifum, sem slíkum fylgja.
Ný framleiðsla mun útheimta nýtt fólk. Af þeim orsökum mun verða mikil fólksfjölgun á Vestfjörðum á næstu tveimur áratugum. Hagvöxtur verður e.t.v. hvergi á landinu meiri en þar, þar sem Vestfirðingum gæti fjölgað úr 7 k (k=þúsund) í 12 k eða um 70 % á tveimur áratugum. Þetta verður þó ekki hægt án þess að hleypa nýju lífi í innviðauppbygginguna, skólakerfi, heilbrigðiskerfi, vegakerfi og raforkukerfi, svo að eitthvað sé nefnt. Fyrstu hreyfingarnar í þessa veru má merkja með Dýrafjarðargöngum á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, sem einnig mun hýsa háspennustrengi, og niður fara á móti loftlínur í 600 m hæð. Þá er einnig gleðiefni margra, að búið er að auglýsa deiliskipulag fyrir 55 MW Hvalárvirkjun.
Þörf fyrir raforku og rafafl mun aukast gríðarlega á Vestfjörðum samhliða vexti atvinnulífsins og fólksfjölgun. Það dregur ekki úr aukningunni, að megnið af húsnæðinu er rafhitað, ýmist með þilofnum eða heitu vatni frá rafskautakötlum. Ætla má, að starfsemi laxeldisfyrirtækjanna og íbúafjölgunin henni samfara ásamt óbeinu störfunum, sem af henni leiða, muni á tímabilinu 2017-2040 leiða til aukningar á raforkunotkun Vestfjarða um tæplega 300 GWh/ár og aukinni aflþörf 56 MW. Við þessa aukningu bætist þáttur orkuskiptanna, sem fólgin verða í styrkingu á rafkerfum allra hafnanna og rafvæðingu e.t.v. 70 % af fartækjaflotanum.
Nýlega kom fram í fréttum, hversu brýnt mengunarvarnamál landtenging skipa er. Þýzkur sérfræðingur staðhæfði, að mengun frá einu farþegaskipi á sólarhring væri á við mengun alls bílaflota landsmanna í 3 sólarhringa. Yfir 100 farþegaskip venja nú komur sínar til Íslands. Þau koma gjarna við í fleiri en einni höfn. Ef viðvera þeirra hér er að meðaltali 3 sólarhringar, liggja þau hér við landfestar í meira en 300 sólarhringa. Þetta þýðir, að árlega menga þessi farþegaskip 2,5 sinnum meira en allur fartækjafloti landsmanna á landi. Þetta hefur ekki verið tekið með í reikninginn, þegar mengun af völdum ferðamanna hérlendis er til umræðu. Gróðurhúsaáhrif millilandaflugs eru 7,6 sinnum meiri en landumferðarinnar. Þetta fer lágt í umræðunni, af því að millilandaflugið er ekki inni í koltvíildisbókhaldi Íslands. Er ekki kominn tími til, að menn hætti að vísa til ferðaþjónustu sem umhverfisvæns valkosts í atvinnumálum ?
Staðreyndirnar tala sínu máli, en aftur að aukinni raforkuþörf Vestfjarða. Orkuskiptin munu útheimta tæplega 100 GWh/ár og 24 MW. Alls mun aukin raforkuþörf árið 2040 m.v. 2016 nema tæplega 400 GWh/ár og 80 MW. Þetta er 58 % aukning raforkuþarfar og 92 % aukning aflþarfar. Að stinga hausnum í sandinn út af þessu og bregðast ekki við á annan hátt mundi jafngilda því að láta gullið tækifæri úr greipum sér ganga.
Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir, hefur samt skorið upp herör gegn virkjun Hvalár á Ströndum. Hann hefur hlaupið út um víðan völl og þeyst á kústskapti á milli Suðurnesja og Stranda í nýlegum blaðagreinum. Læknir, þessi, berst gegn lífshagsmunamáli Vestfirðinga með úreltum rökum um, að ný raforka, sem verður til á Vestfjörðum, muni fara til stóriðjuverkefna á "SV-horninu". Þetta eru heldur kaldar kveðjur frá lækninum til Vestfirðinga, og hrein bábilja. Þróun atvinnulífs og orkuskipta á Vestfjörðum er algerlega háð styrkingu rafkerfis Vestfjarða með nýjum virkjunum til að auka þar skammhlaupsafl og spennustöðugleika, sem gera mun kleift að stytta straumleysistíma hjá notendum og færa loftlínur í jörðu. Tvöföldun Vesturlínu kemur engan veginn að sama gagni.
Skurðlæknirinn skrifaði grein í Morgunblaðið, 1. september 2017,
"Fyrst Suðurnes - síðan Strandir:
"Virkjunin er kennd við stærsta vatnsfall Vestfjarða, Hvalá, og er sögð "lítil og snyrtileg". Samt er hún 55 MW, sem er langt umfram þarfir Vestfjarða. Enda er orkunni ætlað annað - einkum til stóriðju á SV-horninu."
Hér er skurðlæknirinn á hálum ísi, og hann ætti að láta af ósæmilegri áráttu sinni að vega ódrengilega að hagsmunum fólks með fjarstæðukenndum aðdróttunum. Honum virðist vera annt um vatn, sem fellur fram af klettum í tiltölulega vatnslitlum ám á Ströndum, en hann rekur ekki upp ramakvein sem stunginn grís væri, þótt Landsvirkjun dragi mikið úr vatnsrennsli yfir sumartímann í Þjófafossi og Tröllkonuhlaupi í árfarvegi stórfljótsins Þjórsár og þurrki þessa fossa upp frá september og fram um miðjan maí með Búrfellsvirkjun II. Hvers vegna er ekki "system i galskapet" ?
Mismikið vatnsmagn í þessu sambandi er þó aukaatriði máls. Aðalatriðið er, að það er fyrir neðan allar hellur, að nokkur skuli, með rangfærslum og tilfinningaþrungnu tali um rennandi vatn, gera tilraun til að knésetja ferli Alþingis um virkjanaundirbúning, sem hefst með Rammaáætlun, þar sem valið er á milli nýtingar og verndunar, og heldur svo áfram með umhverfismati, verkhönnun, upptöku í deiliskipulag og framkvæmdaleyfi. Þessi sjálflægni og rörsýn er vart boðleg á opinberum vettvangi.