Færsluflokkur: Umhverfismál
28.4.2018 | 17:28
Fyrir hverja er raforkukerfið ?
Raforkukerfið er undirstaða nútímalífs á heimilum landsins og undirstaða allrar atvinnustarfsemi og þar af leiðandi verðmætasköpunar í landinu, þótt það leiki misveigamikið hlutverk eftir tækjabúnaði og starfsemi.
Því miður hefur Alþingi enn ekki mótað landinu orkustefnu, og sumpart þess vegna hefur leiðandi fyrirtæki landsins á sviði raforkumála, ríkisfyrirtækið Landsvirkjun, leiðzt inn á ankannalegar brautir í stefnumótun. Þar hefur síðan 2010 setið á forstjórastóli maður, sem boðað hefur hámörkun arðs af auðlindum, þar sem Landsvirkjun á nýtingarrétt. Sú stefna hefur aldrei verið rædd, hvað þá samþykkt af fulltrúum eigandans á Alþingi. Forstjórinn hefur boðað 10-20 miaISK/ár arð f.o.m. 2019, en fyrirtækið greiðir þó enn aðeins 1,5 miaISK í arð á ári. Virðist hann í sjálfbirgingshætti hafa tekið of mikið upp í sig og þá horft framhjá óskrifuðum skyldum langstærsta virkjunarfyrirtækis landsins um að anna lunganum af nýrri raforkuþörf á hverjum tíma. Til slíkra fjárfestinga er rétt að nota drjúgan hluta hagnaðarins í stað þess að slá lán og gera þannig vinnslukostnað virkjananna hærri.
Stjórn Landsvirkjunar virðist túlka raforkulögin frá 2003, sem kveða á um frjálsa samkeppni á sviði raforkuvinnslu og sölu rafmagns, þannig, að ætlazt sé til hámörkunar arðs til eigendanna. Þetta er órökstudd og skrýtin túlkun ríkisfyrirtækis og í raun algerlega óþörf stefnubreyting, sem virðist eiga rætur að rekja til sérvizku forstjórans um "evrópskt" orkuverð á Islandi í stað þess að lágmarka orkuverð til almennings, eins og var upprunalegt stefnumið Landsvirkjunar.
Miklu nær er að móta fyrirtækinu þá eigandastefnu, að hagnaður fyrirtækisins skuli ganga til nýfjárfestinga og lækkunar á raforkuverði til almennings, ef afgangur verður. Jafnframt verði Landsvirkjun lagðar þær skyldur á herðar að tryggja, að aldrei verði forgangsorkuskortur á landinu. Það gæti skert samkeppnishæfni fyrirtækisins og þess vegna brotið í bág við Annan orkumarkaðslagabálk ESB, sem er hluti EES-samningsins. Þetta er eitt dæmið um óhagræðið, sem hlýzt hérlendis af að innleiða reglur meginlandsins í lög hérlendis.
Þetta síðasta atriði hefur óneitanlega kostnaðarauka í för með sér, en er þjóðhagslega nauðsynlegt, því að forgangsorkuskortur er 10-1000 sinnum dýrari per kWh en vinnslukostnaður raforkunnar, háð starfseminni, sem fyrir barðinu verður á orkuskortinum.
Landsvirkjun kýs fremur að leysa öryggismálið með sæstreng til Bretlands. Það er mjög slæm lausn af eftirtöldum ástæðum:
- Rekstur slíks sæstrengs felur í sér orkusóun og þar með auðlinda- og fjársóun. Það má hiklaust reikna með 10 % töpum frá virkjunum á Íslandi og inn á flutningskerfi í Skotlandi, þaðan sem reyndar er flöskuháls til Englands. M.v. 1200 MW Ice Link, verða afltöpin 120 MW og orkutöpin tæplega 1,0 TWh/ár. Þetta er svipað og varaafl og varaorka þyrftu að vera til að girða fyrir afl- og orkuskort, ef ófyrirséðir atburðir verða.
- Sæstrengur upp á 1200 MW getur fyrirvaralaust bilað, og bilanatíðni sæstrengja og tengibúnaðar þeirra virðist vera talsvert hærri en gengur og gerist með virkjanir, aðveitustöðvar og línur á landi. Fyrir heilt landskerfi er algert óráð að reiða sig á slíkt. Ef 1200 MW álag fellur skyndilega brott af landskerfinu íslenzka, verða gríðarlegar spennu- og tíðnisveiflur. Til að draga úr tjóni af þeirra völdum, jafnvel víðtæku straumleysi, hugsanlega altæku hruni stofnkerfisins ("black-out"), þarf rándýran búnað hjá Landsneti. Hver borgar hann ? Samkvæmt Orkusambandi ESB lendir kostnaðurinn á innlendum viðskiptavinum Landsnets.
- Sæstrengur þessi mundi taka land fjarri þeim stöðum, þar sem stofnkerfið er sterkt. Þar af leiðandi mundi þurfa að styrkja flutningskerfið verulega vegna sæstrengs, líklega með 400 kV loftlínum frá helztu virkjunum landsins. Andstæðingar þessara framkvæmda verða miklu fleiri (og argvítugri) en andstæðingar bráðnauðsynlegra línulagna til héraða á landinu, sem eru í orkusvelti. Það gæti þurft að skipta um þjóð í landinu til að fá þessa framkvæmd samþykkta af þjóðinni. Framkvæmdin er þess vegna óraunhæf án einhvers konar ólýðræðislegrar valdbeitingar yfirþjóðlegs valds.
- Ice Link, 1200 MW, útheimtir líklega nýjar virkjanir að vinnslugetu 6,0 TWh/ár, en flutningsgeta strengsins nemur um 9,0 GWh/ár. Tal um bætta nýtingu orkukerfisins um 2,0 TWh/ár vegna sæstrengs er út í loftið. Þannig væri hægt að flytja inn 3,0 TWh/ár, og það er líklegt, að svo yrði gert til að mæta þörfum landsmanna fyrir aukna raforku, þ.m.t. orkuskiptanna fyrirhuguðu, en það yrðu þá sýndarorkuskipti að leysa hér jarðolíueldsneyti af hólmi með rafmagni, sem framleitt er með jarðefnaeldsneyti niðri í Evrópu og flutt hingað með ærnum tilkostnaði. Þannig mundi raforkuverðið stórhækka hérlendis og orkuskiptin verða tafsamari, enda varla hagkvæm lengur fyrir þá, sem að þeim standa.
Vilja landsmenn þessi býti ? Nei, það er nánast öruggt, að mikill meirihluti þeirra yrði hundóánægður, jafnvel miður sín, með þessi býti, enda er engin vitglóra í þeim. Heilbrigð skynsemi hefur verið gerð útlæg úr landinu, ef þessi ósköp verða ofan á. Raforkukerfi Íslands er ætlað landsmönnum sjálfum til hagsbóta, en ekki ríkissjóði eða öðrum sjóðum til að græða á í viðskiptum með rafmagn, hvað þá til að framleiða og flytja rafmagn til útlanda til að flýta örlítið fyrir orkuskiptum þar. Af þessum sökum er landsmönnum hollast að viðhalda óskertum yfirráðarétti yfir raforkunni og óskertu ákvarðanavaldi um það, hvort sæstrengur verður lagður frá Íslandi til útlanda eða ekki.
Íslenzka raforkukerfið er vel rekið, en við þurfum fleiri virkjanir, öflugra flutningskerfi, styrkt og endurnýjað dreifikerfi, til aukinnar verðmætasköpunar innanlands, sem staðið getur undir a.m.k. 3,0 % hagvexti á ári og 50 miaISK/ár auknum útflutningstekjum.
Raforkuvinnslan árið 2017 nam um 18,7 TWh, og var hlutur Landsvirkjunar 75 %. Aukið rennsli í ám gaf metvinnslu í stærstu virkjun landsins, Fljótsdalsstöð, ásamt í þremur virkjunum á Þjórsár/Tungnaársvæðinu, Sigöldu, Búðarhálsi og Sultartanga og í Steingrímsstöð í Soginu. Aukin orkuvinnsla án fjárfestinga bætir auðvitað nýtingu virkjananna; framhaldi á því má búast við á næstu árum.
Til að nýta yfirfall á stíflu miðlunarlóns þarf hins vegar að fjárfesta, og það gerir Landsvirkjun nú með Búrfelli 2. Þegar hún verður tekin í rekstur síðar á þessu ári, 2018, verður hægt að draga úr vinnslu jarðgufuvera og taka þær í viðhald á meðan gnótt er vatns í lónum. Oft er það hins vegar þannig, að ekki er gott vatnsár samtímis um allt land, og þá er nauðsynlegt að geta flutt mikið afl á milli landshluta til að koma í veg fyrir staðbundinn orkuskort. Til að sæstrengur mundi nýtast sem varaaflgjafi, þarf að sjálfsögðu að afnema alla flöskuhálsa í flutningskerfinu innanlands.
Hæsti klukkustundartoppur Landsvirkjunar í fyrra var 1831 MW þann 15. desember 2017. Þá var tiltækt afl í virkjunum fyrirtækisins 1881 MW. Mismunurinn er aðeins 50 MW eða 2,7 %. Þetta er allt of lítið varaafl, til að fullnægjandi afhendingaröryggis sé gætt, og þarf a.m.k. að tvöfalda. Það er ljóst af þessu, að Landsvirkjun má ekki láta deigan síga, heldur verður strax að ráðast í nýja virkjun eftir Búrfell 2 og Þeistareyki, en hún hefur dregið lappirnar og virðist ætla að gera virkjanahlé og bíða aflskorts.
Nokkuð hefur verið litið til Vindorkugarða til að bæta úr fyrirsjáanlegum orkuskorti. Engin reynsla er af slíkum hérlendis. Það er annars konar áreiti af þeim en fallvatns- og jarðgufuvirkjunum. Sjónmengun er talsverð, og hljóðmengunin er algerlega ný af nálinni. Af þessum sökum ætti leyfisveiting fyrir vindorkugarð ekki að koma til greina innan 10 km frá byggðu bóli.
Litlum og meðalstórum vatnsvirkjunum mun örugglega fjölga talsvert á næstu áratugum, eins og nú á sér stað í Noregi. Slíkar virkjanir geta malað eigendum sínum gull, er frá líður, og aukið staðbundna orkulega sjálfbærni. Slíkt dregur úr orkuflutningsþörf inn á svæðið, en útrýmir henni aldrei. Dæmi um þetta er fyrirhuguð 55 MW Hvalárvirkjun á Ströndum. Virkjunin er gríðarlegt hagsmunamál fyrir Vestfirðinga og þar með landið allt. Hún veitir Vestfirðingum möguleika á sambærilegu afhendingaröryggi raforku og flestir aðrir landsmenn njóta, ef Vestfirðir verða samtímis hringtengdir um nýja aðveitustöð á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi. Með þessu móti yrði skotið traustri stoð undir byggðir Vestfjarða og öfluga atvinnustarfsemi á sviði fiskeldis, ferðaþjónustu, sjávarútvegs og landbúnaðar. Fyrst um sinn yrðu Vestfirðingar aflögufærir um raforku inn á landskerfið um Vesturlínu, og veitir ekki af, en fljótlega mun þurfa að bæta við virkjunum á Vestfjörðum til að anna þörfum orkuskiptanna og vaxandi mannafla.
Umhverfismál | Breytt 29.4.2018 kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.4.2018 | 09:33
Samflot Íslands með ESB í loftslagsmálum
Yfirvöld á Íslandi hafa ekki útskýrt með viðhlítandi hætti fyrir almenningi, hvaða kostir felast í því fyrir Ísland að hafa samflot með Evrópusambandinu, ESB, í loftslagsmálum. ESB naut góðs af viðmiðunar árinu 1990, en þá voru margar eiturspúandi verksmiðjur án mengunarvarna og brúnkolaorkuver vítt og breitt um Austur-Evrópu, sem lokað var fljótlega eftir fall Járntjaldsins.
ESB-löndin eru hins vegar í vondum málum núna, því að hvorki hefur gengið né rekið við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda undanfarinn áratug, og orkuskipti Þjóðverja, "die Energiewende", eru hreinn harmleikur. Hér er enn eitt málefnasviðið, þar sem EFTA-löndin taka auðmjúk við stefnunni frá ESB, þegar hún loks hefur verið mótuð, án þess að hafa af henni nokkurt gagn, en aftur á móti ýmislegt ógagn og óhagræði vegna ólíkra aðstæðna.
Íslendingar eiga fjölmargra kosta völ til að fást við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda upp á eigin spýtur, sem fólgnir eru í miklu og gróðurvana landrými. Í þessu sambandi er skemmst að minnast merks framtaks Landgræðslunnar við að græða upp Hólasand o.fl. eyðimerkur með seyru. Það hefur og verið bent á mikil flæmi uppþurrkaðs lands, sem ekki eru í ræktun, og að með þeirri einföldu aðgerð að moka ofan í skurði í óræktuðu landi megi draga úr losuninni um:
DL=19,5 t/haár x 357 kha = 7,0 Mt/ár af CO2ígildi
Þetta jafngildir 56 % af allri losun af Íslendinga, 12,4 Mt/ár (án framræsts lands).
Hér er þó nauðsynlegt að gæta varúðar og huga vel að vísindalegri þekkingu, sem aflað hefur verið á þessu sviði. Dr Guðni Þorvaldsson og dr Þorsteinn Guðmundsson, sérfræðingar í jarðrækt og jarðvegsfræði, rituðu grein um þetta efni í Bændablaðið, 22. febrúar 2018,
"Meira um losun gróðurhúsalofttegunda úr votlendi".
Þeir rökstyðja í greininni, "að þekkingu skorti til að hægt [sé] að fara út í jafnvíðtækar aðgerðir og stefnt er að án þess að meta betur, hverju þær [geta] skilað í raun og veru.", og eiga þar við endurbleytingu í landi.
Vísindamennirnir halda því fram, að til að stöðva losun koltvíildis þurfi að sökkva hinu þurrkaða landi algerlega, og þá getur hafizt losun metans, CH4, sem er yfir 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2. Þannig er endurbleytingunni sjaldnast varið, og þá er ver farið en heima setið. Þá halda þeir því fram, að í mólendi stöðvist losun CO2 tiltölulega fljótt eftir framræslu. Þessar niðurstöður eru nógu skýrar til að rökstyðja að leggja á hilluna alla stórfellda endurheimt votlendis til að draga úr losun. Skal nú vitna í vísindamennina:
"Ef lokað er fyrir aðgang súrefnis að jarðveginum, verður mjög lítil losun á koltvísýringi vegna rotnunar á uppsöfnuðu lífrænu efni, en til að stöðva losunina þarf að hækka grunnvatnsstöðuna upp undir yfirborð. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt, að við grunnvatnsstöðu á 40-50 cm dýpi er full losun á koltvísýringi og hún eykst ekki endilega, þó að grunnvatnsstaða sé lækkuð og getur jafnvel minnkað.
Þetta þýðir, að ef grunnvatnsstaðan er ofan 40 cm, en nær ekki yfirborði jarðvegsins, getur orðið töluverð losun á koltvísýringi. Hið sama á við um hláturgas, ef grunnvatnsstaða er há, en ekki við yfirborð. Þá geta skapazt skilyrði fyrir myndun þess, en hláturgas [NO2] er mjög áhrifamikil gróðurhúsalofttegund.
Til að tryggja, að endurheimt votlendis dragi verulega úr losun á koltvísýsingi og hláturgasi, þarf því sem næst að sökkva landinu. Losun á metani eykst hins vegar, þegar landi er sökkt. Það er ekki alls staðar auðvelt að breyta þurrkuðu landi til fyrra horfs.
Víða hefur framræsla, byggingar, vegir og önnur mannvirki breytt vatnasviði landsvæða og skorið á vatnsrennsli úr hlíðum, sem áður rann óhindrað á land, sem lægra liggur. Við þessar aðstæður er ekki gefið, að lokun skurða leiði til þess, að grunnvatn hækki nægilega til að endurheimt hallamýra eða flóa takist. Þá kemur að hinum þættinum í röksendafærslu tvímenninganna, sem er lítil sem engin losun frá vel þurrkuðu mólendi:
"Móajarðvegur inniheldur oft 10-15 % kolefni í efstu lögunum. Það má því vel ímynda sér, að framræst votlendi nái smám saman jafnvægi í efstu lögum jarðvegsins, þegar kolefni er komið niður í það, sem gerist í móajarðvegi. Í neðri jarðlögum getur þó enn verið mór, og það er spurning, hvort hægt sé að koma í veg fyrir, að hann rotni."
Ályktunin er sú, að í stað endurheimta votlendis eigi að beina kröftunum að landgræðslu, einkum með belgjurtum, og að skógrækt. Varðandi hið síðar nefnda runnu þó tvær grímur á blekbónda við lestur greinar Önnu Guðrúnar Þórhallsdóttur, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands, í Bændablaðinu, 22. febrúar 2018. Greinin bar yfirskriftina:
"Skógrækt - er hún rétta framlag Íslands til loftslagsmála ?"
Þar bendir hún t.d. á þátt endurkasts sólarljóssins, sem lítið hefur verið í umræðunni:
"Eðlisfræðilegu þættirnir eru aðallega endurkast sólarljóssins (kallast á fræðimáli albedo) og uppgufun/útgufun plantna og þar með vatnsbúskapur. Hversu mikið hlutur endurkastar eða tekur upp af sólarljósi hefur gríðarleg áhrif á hitastig hans - svartur kassi hitnar mikið í sól, en hvítur helzt nokkuð kaldur. Sama gildir um dökka skógarþekju barrskóga - skógur tekur mjög mikið upp af sólarorkunni, og hitinn helzt að landinu, en endurkastast ekki. Snjór, aftur á móti, getur endurkastað nær öllu sólarljósinu - við finnum greinilega fyrir margföldum sólargeislunum á skíðum."
"Fjölmargar vísindagreinar hafa birzt á undanförnum árum, þar sem verið er að greina áhrif skóga á loftslag. Þeim ber öllum saman um, að nauðsynlegt sé að vernda, viðhalda og auka umfang hitabeltisskóga og skóga á suðlægum breiddargráðum. Á norðurslóðum eigi hins vegar alls ekki að planta skógi, því að hann hækki hitastig jarðar.
Fjölmargar rannsóknir sýna nú, að það eru mörk, hvar skógrækt leiði til kólnunar - norðan við þau mörk leiði skógrækt til hlýnunar. Mörkin hafa verið sett við 40°N breiddar - eða við Suður-Evrópu og jafnvel enn sunnar í Bandaríkjunum."
Halda mætti, að þessi grein Önnu Guðrúnar yrði rothögg á skógrækt hérlendis sem mótvægisaðgerð við losun gróðurhúsalofttegunda. Öðru nær. Kenningin var hrakin í næsta tölublaði Bændablaðsins m.v. ríkjandi aðstæður á Íslandi. Það var gert með greininni:
"Skógrækt er mikilvægur hluti af framlagi Íslands til loftslagsmála", sem Pétur Halldórsson, kynningarstjóri Skógræktarinnar, dr Brynhildur Bjarnadóttir, lektor við Háskólann á Akureyri og dr Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, rituðu. Þau benda á, að niðurstöður Önnu Guðrúnar séu úr hermilíkönum, en ekki raunverulegum mælingum, og forsendur hermilíkananna eigi ekki við á Íslandi.
"Hafrænt loftslag, stopul snjóþekja á láglendi og hlutfallslega lítil og dreifð snjóþekja benda ekki til þess, að hægt sé að yfirfæra forsendur umræddra hermilíkana beint á íslenzkar aðstæður."
"Þegar kolefnisbinding þessara svæða [ólíkra vistkerfa] er tekin með í dæmið, er greinilegt, að svartar sandauðnir á Íslandi bæði gleypa í sig mikinn hita yfir sumarið og þar verður engin kolefnisbinding. Þær hafa því í raun tvöföld neikvæð áhrif á hlýnun jarðar, og það að láta þær standa óhreyfðar hefur sennilega "verstu" áhrifin á hlýnun jarðar. Á öllum hinum svæðunum fer fram kolefnisbinding um vaxtartímann með jákvæðum loftslagsáhrifum."
Að græða sandana upp, fyrst með harðgerðum jarðvegsmyndandi jurtum og síðan með skógrækt, er stærsta tækifæri Íslendinga til mótvægisaðgerða við losun gróðurhúsalofttegunda. Jafngildisbinding, að teknu tilliti til aukins endurkasts sólarljóss og CO2 bindingar í jarðvegi og viði, gæti numið 12 t/ha á ári. Í niðurlagi greinar skrifa þremenningarnir:
"Í ljósi frumniðurstaðna endurskinsmælinga hérlendis er óhætt að fullyrða, að skógrækt á Íslandi sé góð og skilvirk leið til að vinna gegn loftslagsbreytingum. Í raun ætti keppikefli okkar að vera, að breyta sem mestu af svörtu sandauðnunum okkar í skóg, bæði til að auka endurskin og kolefnisbindingu. Um leið og við bindum kolefni, aukum endurskin og drögum úr sandfoki, byggjum við upp auðlind, sem getur með tímanum minnkað innflutning á timbri, olíu og ýmsum öðrum mengunarvöldum og bætt með því hagvarnir þjóðarinnar. Svarið er því: já, skógrækt er rétt framlag Íslands til loftslagsmála."
Ekki verður séð, að slagtogið með ESB í loftslagsmálum sé til nokkurs annars en að auka skriffinnskuna óþarflega, gera aðgerðaáætlun Íslendinga ósveigjanlegri og auka kostnaðinn við mótvægisaðgerðirnar. Að íslenzk fyrirtæki séu að kaupa koltvíildiskvóta af ESB, eins og hefur átt sér stað og mun fyrirsjáanlega verða í milljarða króna vís á næsta áratugi í stað þess að kaupa bindingu koltvíildis af íslenzkum skógarbændum, er slæm ráðstöfun fjár í nafni EES-samstarfsins og ekki sú eina.
16.3.2018 | 10:57
Norsk náttúruverndarsamtök á móti valdatöku ACER
Í Noregi var þegar í kosningabaráttunni fyrir Stórþingskosningarnar 2017 umræða um afstöðuna til þess, hvort Norðmenn ættu að ganga á hönd Orkustofnunar Evrópusambandsins, ACER. Fjórir stjórnmálaflokkar tóku reyndar höndum saman í Orku- og umhverfisnefnd Stórþingsins þegar á árinu 2016 um gagnrýna afstöðu til ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators). Furðulegt andvaraleysi stafar frá Alþingi Íslendinga og grasrótarsamtökum hérlendis í samanburði við líflega lýðræðislega umræðu í Noregi í 2 ár nú. Hverju sætir þessi doði ? Það er verðugt rannsóknarefni, sem líklega hentar bezt stjórnmálafræðingum.
Gleðileg undantekning frá andvaraleysinu hingað til er þó Framsóknarflokkurinn, en hann reið á vaðið með skýrri ályktun á flokksþingi sínu 10.-11. marz 2018, sem er svo skelegg og afdráttarlaus andstöðuyfirlýsing við inngöngu Íslands í Orkusamband ESB, að Framsóknarflokkinum er ókleift að standa að ríkisstjórnarfrumvarpi um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn. Framsóknarflokkurinn hefur þar með brotið ísinn og sagt hingað og ekki lengra með valdatöku ESB-stofnana á afmörkuðum sviðum í þjóðfélaginu.
Í nóvember 2017 sendu 6 náttúruverndar- og útivistarsamtök sameiginlegt bréf til NVE (Norsk vassdrags- og energivesen-Orkustofnun Noregs), þar sem þau létu í ljós áhyggjur vegna gallaðrar umfjöllunar um afleiðingar þess að raungera Kerfisáætlun Statnetts frá 2017 (Statnett er norska Landsnet). Sama átti við um leyfðu sæstrengina til Þýzkalands og Bretlands og leyfisumsóknina fyrir áformaðan Skotlandsstreng, "North Connect". Téð samtök fara fram á, að:
"það fari fram óháð, fagleg áhættugreining fyrir ráðgerða þróun stofnkerfisins, mögulegan aflrekstur (sveiflukennt álag) núverandi virkjana og þörfina fyrir aukna raforkuvinnslu vegna evrópskrar tengingar. Umfjöllun leyfisumsóknar vegna Skotlandsstrengsins skal setja í bið, þar til slíkt mat verður fyrir hendi."
Hér kveður við kunnuglegan tón. Nú stendur svo mikill útflutningur raforku fyrir dyrum í Noregi, að afgangsorkan í norska vatnsvirkjanakerfinu, 20 TWh, er að verða upp urin, og þá þarf auðvitað að huga að nýjum virkjunum, svo að eðlileg orkuskipti getið farið fram, en eins og kunnugt er leiða Norðmenn rafbílavæðinguna.
Á Íslandi er staðan hins vegar þannig samkvæmt gildandi Rammaáætlun, að útflutningur raforku um sæstreng og afnám jarðefnaeldsneytisnotkunar með rafvæðingu geta ekki farið saman sökum orkuskorts. Hlutverk ACER, Orkustofnunar ESB, er að að múlbinda þjóðarhagsmuni í nafni "sameiginlegra hagsmuna" ESB (common interests), og þar af leiðandi verður ekki hlustað á sérhagsmunakvak af þessu tagi frá einstökum þjóðum. ACER hefur nú þegar fullt vald til að valta yfir slík sjónarmið og mun beita því á Íslandi, fái þessi ESB-stofnun vald til þess. Á meðan framlagning slíks frumvarps er boðuð á Alþingi, vofir sú hætta yfir. Væri nú ríkisstjórninni sæmst að fá staðfestingu Alþingis á beitingu lögmæts neitunarvalds gegn téðri viðbót við EES-samninginn.
Samtökin norsku beina síðan sjónum að afleiðingum aflrekstrar vatnsaflsvirkjananna, sem er nýjung í Noregi og bein afleiðing rafmagnsviðskiptanna við útlönd. Nákvæmlega hið sama mun verða uppi á teninginum hérlendis, verði af aflsæstreng hingað. Samtökin vitna til skýrslu verkfræðistofunnar Multiconsult frá ágúst 2017, þar sem gerð er grein fyrir afleiðingum aflrekstrar á umhverfið:
"Sameiginlegt fyrir öll vatnsföll er, að aflrekstur veldur verulegum neikvæðum umhverfisáhrifum. Mikilvægar afleiðingar fyrir lífríkið í vötnum og ám er, að vatn flæðir undan ungfiski, skordýrum og botndýrum við skyndilega breytingu vatnsflæðis. Hlutverk löggjafarinnar um margbreytileika lífríkis og vatnsreglugerðarinnar er að varðveita lífríki vatnasvæðis, og aflrekstur getur stangazt á við þetta. Það verður erfitt að samþætta aukinn aflrekstur vatnsaflsvirkjana okkar við stefnumið vatnsreglugerðarinnar um góða líffræðilega stöðu á vatnasvæðum, og einkum á þetta við um afrekstur rennslisvirkjana."
Ályktun náttúruverndar- og útivistarsamtakanna norsku er m.a., að "krefjast verði af Statnett að stöðva frekari undirbúningsvinnu við sæstrengsverkefni til Bretlands, þar til gerð hefur verið grein fyrir afleiðingunum fyrir náttúruna".
Þar sem eru aflsæstrengir til útlanda, er stórmál á ferðinni fyrir náttúruvernd í vatnsorkulandi, eins og Noregi eða Íslandi. Hérlendis hefur stóriðjuálag verið yfirgnæfandi í raforkukerfinu síðan 1970, og einkenni þess er mjög jafnt álag allan sólarhringinn og allan ársins hring. Það er alger andstæða sæstrengsrekstrar við útlönd. Þar af leiðandi eru skaðleg áhrif hraðfara breytinga á vatnsflæði [m3/s] um vatnsaflsvirkjanir ekki vandamál hér og hljóta þar af leiðandi litla umfjöllun í umhverfismati virkjana. Þegar kemur að áhættugreiningu hérlendis fyrir sæstreng til útlanda, sem vonandi verður þó aldrei þörf á, verður að taka þetta með í reikninginn, því að eðli raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkulindum í ESB er óstöðugleiki umfram annað, og ESB sækist eftir raforku frá Noregi og Íslandi, þegar ekki blæs byrlega og ský dregur fyrir sólu. Þá er ætlunin að tappa af "hinni grænu rafhlöðu" Norðurlandanna. Almenningur í Noregi áttar sig vel á afleiðingum slíkrar spákaupmennsku fyrir atvinnulífið og náttúruna, eins og ráða má af skoðanakönnun nú í marz 2018, þar sem 9 % lýstu sig hlynnt inngöngu Noregs í Orkusamband ESB, 52 % voru á móti og 39 % voru óviss.
Það er óheppilegt að reyna að láta jarðgufuvirkjanirnar hérlendis taka upp sveiflurnar í stað vatnsaflsvirkjana. Gufuvirkjanir þurfa helzt að ganga á stöðugu og tiltölulega miklu álagi m.v. uppsett afl vegna nýtninnar, þar reglunartregða mikil, og heildaraflgeta þeirra er mun minni en vatnsaflsvirkjananna.
Hérlendis hafa hvorki sézt yfirlýsingar með né á móti ACER frá hagsmunasamtökum og stjórnmálaflokkum, nema Framsóknarflokkinum, eins og áður segir, en nú stendur yfir Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, og er þess vænzt, að hann kveði upp úr um afstöðu flokksins til þessa stórmáls. Það hlýtur að reka að því, að fleiri taki afstöðu, og verður fróðlegt að sjá afstöðu t.d. Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og verkalýðsfélaga. Áhyggjur stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka í Noregi hafa verið teknar saman á eftirfarandi hátt:
"Áfram skulu innlend stjórnvöld móta orkustefnu Noregs. Það er ekki óskað eftir orkustefnu, sem felur það í sér að færa völd frá norskum yfirvöldum til yfirþjóðlegra stofnana ESB.
Þegar kemur að afgreiðslum, sem bíða Stórþingsins veturinn 2018, er spurningin um umráðarétt þjóðarinnar sett á oddinn varðandi ACER. Andstæðingar valdaafsals ríkisins krefjast þess, að þingmenn nýti sér neitunarvald sitt gagnvart tengingu við ACER.
Markmið andófsmanna er að fá meirihluta Stórþingsmanna til að hafna ACER-tengingu Noregs. Stjórnmálaflokkarnir AP (Verkamannaflokkur), SP (Miðflokkur), SV (Sósíalistíska vinstrið) og MDG (Græningjar) sömdu sameiginlegt nefndarálit í Orku- umhverfisnefnd í júní 2016, þar sem þeir lýstu efasemdum um tillögu ríkisstjórnarinnar um "ACER-lausn". Í athugun "Nei til EU" fyrir Stórþingskosningar 2017 lagði Krf, Kristilegi þjóðarflokkurinn, sérstaka áherzlu á andstöðu sína við fullveldisframsal til ACER. Það er ekkert öðruvísi í frumvarpi ríkisstjórnarinnar nú en í tillögum hennar þá. Grundvöllur höfnunar á ACER-regluverkinu ætti þess vegna að vera fyrir hendi. Þar eð regluverkið augljóslega felur í sér fullveldisframsal, ætti Stórþingið að geta sameinazt um, að við afgreiðsluna verði viðhöfð krafa Stjórnarskráarinnar um aukinn meirihluta (3/4)."
Ef draga á dám af stjórnmálastöðunni í Noregi og hefðbundinni andstöðu Sjálfstæðisflokksins við fullveldisframsal Alþingis til yfirþjóðlegra stofnana, verður ekki meirihluti fyrir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn hér. Flokkar, sem trúandi er til stuðnings við að leiða stofnun ESB á orkuflutningssviði hér til valda, eru eiginlega bara stjórnarandstöðuflokkarnir Samfylking, Viðreisn og Píratahreyfingin. Hér má þó benda á, að flótti er brostinn á í liði krataflokksins norska vegna andstöðu meirihluta verkalýðshreyfingarinnar og LO-Alþýðusambands Noregs við fullveldisframsalið.
20.1.2018 | 13:52
Loftslagsmál og ríkisstjórnin
Loftslagsmálin fá tiltölulega veglegan sess í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar, og ráðherrum verður tíðrætt um loftslagsmál á hátíðarstundum. Athyglivert er, að megináherzla ríkisstjórnarinnar í þessum efnum er á hafið.
Þetta er nýstárlegt, en skiljanlegt í ljósi hagsmuna Íslands. Landið á mjög mikið undir því, að lífríki hafsins umhverfis það taki ekki kollsteypur, heldur fái að þróast á sjálfbæran hátt, eins og verið hefur alla þessa öld. Þannig segir í sáttmálanum:
"Meginforsenda loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar er að koma í veg fyrir neikvæð áhrif loftslagsbreytinga á lífríki hafsins. Hvergi í heiminum hefur hitastigshækkun orðið jafnmikil og á norðurslóðum. Þannig á Ísland að efla rannsóknir á súrnun sjávar í samráði við vísindasamfélagið og sjávarútveginn. Ísland á enn fremur að ná 40 % samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda m.v. árið 1990 fyrir árið 2030."
Þetta er nokkuð einkennilega orðuð grein. Það er algerlega útilokað fyrir ríkisstjórnina að hafa nokkur mælanleg áhrif á áhrif loftslagsbreytinga á lífríki hafsins. Að stilla þessum "ómöguleika" upp sem meginforsendu loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar gefur til kynna einhvers konar blindingsleik. Loftslagsstefna á ekki að vera barátta við vindmyllur, heldur verður fólk flest að sjá í hendi sér betra líf að afloknum orkuskiptum. Almenningur verður að geta tengt loftslagsstefnu ríkisins við eigin hagsmuni.
Þar sem skrifað er um rannsóknir á súrnun hafsins er auðvitað átt við rannsóknir, sem auðvelda landsmönnum að aðlagast afleiðingum loftslagsbreytinga. Betra hefði verið að gera skýran greinarmun á því, sem ríkisstjórnin hyggst gera annars vegar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hins vegar til að fást við afleiðingar þessarar losunar. Hér er þessu slengt saman í eina bendu, endastöðin kölluð meginforsenda o.s.frv. Viðvaningur í textasmíði virðist hafa farið hamförum við lyklaborðið og ekkert kunna um markmiðasetningu.
Íslendingar geta engin áhrif haft á súrnun hafsins, en þeir geta hins vegar töluverð áhrif haft á hreinleika þess í kringum landið, og það er brýnt að bæta stöðu skolphreinsunarmála verulega, ná megninu af örplastinu í síur og hreinsa sorann frá útrásarvökvanum í stað þess að láta nægja að dæla öllu saman út fyrir stórstraumsfjöru. Slíkt er ekki umhverfisvernd, heldur bráðabirgða þrifaaðgerð í heilsuverndarskyni. Þetta er viðurkennt annars staðar í stjórnarsáttmálanum.
Það þykir léleg markmiðasetning að setja sér markmið um einhverja breytu, sem viðkomandi hefur alls engin áhrif á. Varðandi útblásturinn eru þrenns konar hvatar til að draga úr losun, sem höfðað geta til almennings:
Í fyrsta lagi batnar nærloft bæjarbúa við það að minnka jarðefnaeldsneytið, sem brennt er. Árlega deyr a.m.k. einn tugur manna hérlendis ótímabærum dauðdaga vegna lélegra loftgæða af völdum útblásturs eldsneytisknúinna véla og um fimm tugir af völdum ófullnægjandi loftgæða, sem stafa af ýmsum orsökum.
Í öðru lagi má spara jafngildi u.þ.b. 50 miaISK/ár í gjaldeyri með því að leysa af hólmi vélar í ökutækjum og fiskiskipum, sem knúnar eru jarðefnaeldsneyti. Eigendur ökutækjanna geta sparað sér um 70 % af orkukostnaði benzínbíla með því að fá sér rafbíl í stað benzínbíls.
Í þriðja lagi eru millilandaflug, millilandasiglingar og orkusækinn iðnaður ekki háð markmiðasetningu íslenzku ríkisstjórnarinnar, heldur koltvíildisskattheimtu ESB, sem getur skipt nokkrum milljörðum ISK á ári, er fram í sækir. Þessir losunarvaldar standa undir um 80 % heildarlosunar landsmanna, ef losun frá uppþurrkuðu landi er sleppt. Að draga úr losun sparar fé og verður að vera hagkvæmt til skemmri og lengri tíma, ef markmiðin eiga að nást.
Það er eftir miklu að slægjast að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda, en þótt losun Íslendinga á hvern íbúa landsins sé á meðal hins mesta, sem gerist í heiminum, einnig án losunar frá þurrkuðu landi, eða um 34 t CO2eq/íb, að teknu tilliti til margfeldisáhrifa losunar í háloftunum, þá er þessi losun sem dropi í hafi heimslosunarinnar eða 300 ppm (hlutar úr milljón) af henni. Í þessu ljósi verður að vara við að leggja í miklar ótímabærar fjárfestingar í tækni, sem er nú í hraðri þróun, til þess eins að fullnægja hégómlegum metnaði stjórnmálamanna á kostnað almennings.
Markmiði ríkisstjórnarinnar um 40 % minni losun koltvíildisjafngilda fyrir árið 2030 en árið 1990 verður erfitt að ná, og markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland fyrir árið 2040 er óraunhæft, ef átt er við alla losun, en næst með miklum fjárfestingum, ef eingöngu er átt við innlenda notkun, þ.e. 20 % af heildarlosuninni. Eru Íslendingar tilbúnir til að herða tímabundið sultarólina og fresta brýnni innviðauppbyggingu til að ná markmiði, sem engu máli skiptir í hinu stóra samhengi, hvort næst 5-10 árum seinna ? Það þarf bráðum að svara því.
Virðingarvert er, að í lok loftslagskaflans er minnnzt á að ganga til samstarfs við sauðfjárbændur um kolefnisjöfnun greinarinnar. Til að markmið ríkisstjórnarinnar um loftslagsmál náist, verður hún að virkja bændur til skógræktar og kosta verulegu til við plönturæktun og útplöntun og leggja í því sambandi ríkisjarðir, a.m.k. eyðibýli, undir skógrækt.
Spurning er, hvort bleyting í þurrkuðu landi fæst viðurkennd sem samdráttur í losun. Önnur spurning er, hvort bændur eru ginnkeyptir fyrir slíku með land, sem þeir nota nú sem beitarland. Gagnsemin er umdeilanleg. Það er þess vegna óvarlegt að reikna með miklu frá íbleytingunni, en sums staðar gæti átt vel við að moka ofan í skurði og planta nokkru áður í sama land. Þar mun þá ekki myndast mýri, heldur skógur á þurrlendi.
20.12.2017 | 10:36
Ný ríkisstjórn: umhverfis- og auðlindamál
Orkumál landsins eru fléttuð inn í kafla sáttmála "Fullveldisríkisstjórnarinnar", sem ber heitið "Umhverfis og auðlindamál". Þessi kafli hefst svona:
"Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila. Skoðaðir verða möguleikar á þjóðgörðum á öðrum svæðum."
Að setja þetta sem markmið á kjörtímabilinu 2017-2021 orkar mjög tvímælis. Þetta er stórmál, sem þarf lengri meðgöngutíma, enda hagsmunaaðilarnir mjög margir, t.d. sveitarfélög með skipulagsvald á hluta af miðhálendinu, virkjunarfyrirtæki, Landsnet, hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu og útivistarsamtök. Hætt er við, að afar torvelt, jafnvel ógjörningur, verði að nýta náttúruauðlindir í þjóðgarði með öðrum hætti en að upplifa þær með leyfi.
Brýnt er fyrir ferðaþjónustufyrirtækin og flesta ferðalanga, að vegagerð verði komið í nútímalegt horf með upphækkuðum og klæddum vegi um Kaldadal, Kjalveg (allan) og Sprengisand. Mun fást leyfi til þess í þjóðgarði ? Þetta er ekki einvörðungu hagsmunamál ferðaþjónustunnar, heldur allra vegfarenda og flutningafyrirtækja á milli landshluta. Álag á hringveg 1 mundi minnka, umferðaröryggi aukast og leiðir styttast. Ekki sízt er slíkt hagsmunamál Norður- og Austurlands.
Þjóðgarður er dýr í rekstri með fjölda starfsfólks. Verður miðhálendisþjóðgarður byrði á ríkissjóði eða verður selt inn ? Það verður alls ekki séð, að nauðsyn beri til að gera þetta að forgangsmáli nú, en öfgafullir umhverfisverndarsinnar bera þetta mjög fyrir brjósti nú um stundir. Kannski verður með víðsýnni löggjöf hægt að finna á þessu sáttaflöt, sem flestir geta sætt sig við, en fyrst þarf að sýna fram á gagnsemi aðgerðarinnar.
Vatnajökulsþjóðgarður mun nú þegar vera stærsti þjóðgarður í Evrópu. Norðmenn og Svíar eiga víðfeðm óbyggð víðerni innan sinna landamæra. Hvers vegna hafa þeir ekki stofnað þjóðarða þar, sem spanna mest allar óbyggðirnar ?
Næsta grein í þessum kafla stjórnarsáttmálans fjallar um orkumál. Stefnumörkun þar er þó tiltölulega rýr í roðinu, en í grein síðar vísað til, að "langtímaorkustefna [verði] sett á kjörtímabilinu í samráði við alla þingflokka. Í orkustefnu verði byggt á áætlaðri orkuþörf til langs tíma miðað við stefnu stjórnvalda, til að mynda [fyrir] orkuskipti, og hvernig megi tryggja raforkuframboð fyrir almenning og atvinnulíf. Eigendastefna Landsvirkjunar mun taka mið af orkustefnunni."
Þetta er gott og blessað, og með síðustu málsgreininni er gælum Landsvirkjunar við sæstreng til Bretlands kastað á ruslahauga sögunnar, því að í ljós mun koma, að orkuskiptin og almenn aukning raforkuþarfar fólks og fyrirtækja þarfnast alls þess afls, sem leyfilegt verður að virkja samkvæmt Rammaáætlun.
Nú háttar hins vegar þannig til, að á döfinni er að innleiða þriðju tilskipun ESB í orkumálum á öllu EES-svæðinu. Téð tilskipun færir forræði orkumála frá rétt kjörnum valdhöfum ríkjanna til orkumiðstöðvar ESB, ACER, sem getur ákveðið að styrkja einkafyrirtæki til að leggja sæstreng frá Íslandi til Bretlands og skikkað Landsnet til að tengja hann við stofnkerfi landsins. Tilskipunin kveður á um stofnun raforkukauphallar í hverju landi, og með þessu móti verður hægt að bjóða í raforku frá Íslandi, hvaðan sem er innan EES. Skylt verður að taka hæsta tilboði. Ef Alþingi samþykkir þessa tilskipun sem lög, mun það framvísa fullveldi landsins yfir raforkumálum sínum til Brüssel og ACER. Þar með verður tómt mál að tala um íslenzka orkustefnu, og eigendastefna Landsvirkjunar verður lítils virði. Hvers vegna er ekki minnzt á þetta stórmál í stjórnarsáttmálanum ? Vefst það fyrir stjórnarflokkunum að taka einarða afstöðu gegn innleiðingu þriðju orkutilskipunar ESB á Íslandi ?
Með því, sem skrifað er um flutnings- og dreifikerfi raforku má líta svo á, að ríkisstjórnin skuldbindi sig til að standa við bakið á Landsneti við aukningu á flutningsgetu meginflutningskerfisins í þeim mæli, sem dugar til að leysa úr bráðum, staðbundnum orkuskorti á landinu og til að "tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt".
Þetta má túlka þannig, að ríkisstjórnin muni styðja, að reist verði 220 kV lína frá Blöndu austur um Skagafjörð og til Eyjafjarðar og þaðan um Kröflu til Fljótsdalsvirkjunar og austur að Hryggstekk í Skriðdal með 220 kV jarðstreng um "viðkvæmustu" svæðin í þeim mæli, sem tæknin leyfir.
"Ekki verður ráðizt í línulagnir yfir hálendið", segir þar. Ef hér er átt við loftlínu yfir Sprengisand, er þessi stefnumörkun í samræmi við það, sem blekbóndi hefur haldið fram á þessu vefsetri, þ.e. að skynsamlegt sé að leggja jafnstraumsjarðstreng frá virkjanasvæði Þjórsár/Tungnaár yfir Sprengisand til tengingar við meginflutningskerfi Norð-Austurlands. Samkvæmt núverandi kostnaðaráætlunum Landsnets verður þetta aðeins lítils háttar dýrara en hinn valkosturinn, sem er að leggja 220 kV loftlínu frá t.d. Sigöldu um Suð-Austurland og að Hryggstekk í Skriðdal og loka 220 kV hringnum að vestan með 220 kV línu frá Brennimel við Grundartanga um Vatnshamra, Glerárskóga, Hrútatungu, Laxárvatn og til Blöndu. Allir valkostir gera ráð fyrir 220 kV línu frá Fljótsdalsvirkjun að Kröflu og þaðan til Eyjafjarðar og annarri 220 kV línu frá Blöndu um Skagafjörð til Eyjafjarðar til að tryggja Mið-Norðurlandi næga raforku.
Umhverfislega hefur DC-strengurinn kosti umfram loftlínuna, aflstýringarlega gefur hann möguleika á meiri stöðugleika raforkukerfisins við álagsbreytingar og bilanir en loftlínan, og í stöðugum rekstri gefur hann möguleika á að bezta aflflutningana m.t.t. lágmörkunar afltapa í stofnkerfinu. Að öllu virtu er DC-jarðstrengur yfir Sprengisand ákjósanlegri en langar 220 kV loftlínur, sumpart um áhrifasvæði eldgosa og um ferðaleiðir náttúruunnenda.
Vestfirðir hafa setið á hakanum varðandi afhendingaröryggi raforku, svo að ekki er vanzalaust. Hluti af lausninni á þessu viðfangsefni er, að Landsnet færi 66/33 kV flutningskerfi sitt á Vestfjörðum í jörðu, eins og tæknilega er fært. Þessi aðgerð styðst við stjórnarsáttmálann, og Landsnet ætti þess vegna að setja þessa aðgerð á framkvæmdaáætlun næstu ára hjá sér, enda skapa Dýrafjarðargöngin mikilvæga leið fyrir tengingu á milli suður- og norðurfjarðanna um jarðstreng.
Þetta mun þó ekki duga, heldur er hringtenging raforkuflutningskerfis Vestfjarða nauðsynleg forsenda fyrir viðunandi afhendingaröryggi raforku þar. Til að slík hringtenging komi að gagni, þegar truflun verður á Vesturlínu, sem er oft á ári, þarf að reisa nýja aðveitustöð í Ísafjarðardjúpi, t.d. á Nauteyri, og tengja virkjanir inn á hana, sem gera Vestfirðinga sjálfum sér nóga um raforku. Frá Nauteyri þarf síðan tengingu norður til Ísafjarðar, m.a. um sæstreng, og inn á Vesturlínu eða alla leið að Mjólká.
Höskuldur Daði Magnússon skrifar baksviðsgrein í Morgunblaðið 2. desember 2017:
"Pólitískur ráðherra, ekki fagráðherra":
"Ráðherra [Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra] hefur þegar velt því upp, hvort skynsamlegt sé að reisa Hvalárvirkjun í Árneshreppi. Nefndi hann í viðtali á Rás 2, að skynsamlegt væri að bera saman kosti þess að reisa umrædda virkjun og að stofna þjóðgarð. Hann sagði jafnframt, að sú skýring, að virkjunin myndi auka raforkuöryggi á Vestfjörðum væri langsótt. "Það, sem þarf að laga varðandi raforkumál á Vestfjörðum, er að tryggja betur afhendingaröryggi orku. Þar myndi ég vilja sjá, að horft yrði til, hvaða möguleikar eru til staðar [d. til stede] til að setja raflínur í jörð á þessu svæði.""
Fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar kemur greinilega með böggum hildar inn í ríkisstjórnina, og það á ekki að láta hann komast upp með það múður (bolaskít), sem hann ber hér á borð. Vestfirðingar hljóta að taka á honum, eins og þeirra hefur löngum verið von og vísa. Það er orðinn kækur hjá afturhaldssinnum, sem ekki bera skynbragð á mikilvægi nýrrar raforkuvinnslu fyrir vaxandi samfélag, að stilla stofnun þjóðgarðs á virkjanasvæði upp sem valkosti við virkjanir. Verðmætasköpun í þjóðgarði er fátækleg í samanburði við verðmæti, sem sköpuð eru með starfsemi á borð við laxeldi, sem auðvitað þarf stöðugan aðgang að raforku á hagstæðu verði.
Guðmundur Ingi, nýr umhverfis- og auðlindaráðherra, vill troða þjóðgarði upp á Vestfirðinga, en þeir hafa ekki beðið um hann, svo að hátt fari. Hér kennir óþolandi forræðishyggju, yfirgangs og frekju gagnvart dreifbýlisfólki, sem nú sér mikil tækifæri í fiskeldi. Er Lilja Rafney, Alþingismaður í NV, að biðja um þjóðgarð á Vestfjörðum í stað virkjunar ? Ekki gerði hún það í kosningabaráttunni fyrir Alþingiskosningarnar 28. október 2017, svo að áberandi væri.
Sú staðreynd, að vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum, t.d. Hvalárvirkjun, auka afhendingaröryggi raforku þar, er ekki langsótt, eins og ráðherrann heldur fram, heldur auðskilin þeim, sem ekki stinga hausnum í sandinn. Þegar 132 kV línan Hrútatunga-Glerárskógar-Mjólká bilar, sem gerist oft í illviðrum, þá fá Vestfirðir enga raforku frá stofnkerfi Landsnets, heldur verður þá að keyra olíukyntar neyðarrafstöðvar, t.d. nýlega neyðarrafstöð Landsnets í Bolungarvík, og hrekkur ekki til. Það er auðvitað lágreist framtíðarsýn fyrir ört vaxandi atvinnulíf Vestfjarða að verða að reiða sig á olíukyntar neyðarrafstöðvar oft á ári, sem ekki anna álaginu.
Þá er í sáttmálanum boðað, að sett verði lög um vindorkuver og að samdar verði leiðbeiningar um skipulag og leyfisveitingar fyrir sveitarfélög, þar sem áform eru uppi um uppsetningu vindorkuvera. Hér þarf að taka tillit til séríslenzkra aðstæðna fyrir burðarþol og styrk vindmyllumannvirkja, þar sem vindhviður geta orðið sterkar. Þá þarf að huga að fuglavernd, hávaða, landslagsáhrifum og tæknilegum og viðskiptalegum tengiskilmálum við raforkukerfið í þessu sambandi. Á íslenzkan mælikvarða geta umhverfisáhrif af vindmyllugörðum verið veruleg, og vinnslukostnaður raforku og tengikostnaður við raforkuflutningskerfið sömuleiðis. Hins vegar má oftast hafa af þeim full not, þegar vindur blæs, því að þá má spara vatn í miðlunarlónum vatnsaflsvirkjana.
Í þessum kafla er síðan grein um fráveitur:
"Gera þarf átak í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga, en veruleg þörf er á uppbyggingu í þessum málaflokki."
Þetta er mjög tímabært. Það er ekki fullnægjandi að grófsía og dæla svo soranum út fyrir stórstraumsfjöru. Það þarf fínsíun niður í 5 míkron, t.d. til að fanga megnið af plastögnum áður en þær fara í sjóinn. Þá þarf að gera kröfu um þriggja þrepa hreinsun frá starfsemi, þar sem meðaltal skolps á einhverju 3 mánaða tímabili ársins, sem endurtekur sig á ársfresti, fer yfir s.k. 50 persónueiningar.
Lokagreinin í umhverfis- og auðlindakaflanum er merkileg fyrir ýmsar sakir:
"Dýralíf á Íslandi er hluti af íslenzkri náttúru, sem ber að vernda. Náttúran er auk þess stærsta aðdráttarafl Íslands fyrir ferðamenn. Endurskoða þarf löggjöf um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum."
Hér er boðuð aukin friðun villtra dýra á Íslandi, en þörf á því virðist vera sett í samband við vinsældir Íslands á meðal erlendra ferðamanna. Þetta er ósiðlegt viðhorf. Íslenzku fánuna ber ekki að vernda til að viðhalda straumi erlendra ferðamanna, heldur fyrir hana sjálfa og íbúa landsins af spendýrstegundinni "homo sapiens". Þar að auki er þetta vandmeðfarið, eins og margt annað, sem snertir náttúruvernd, og nægir að nefna offjölgun álfta og gæsa í landinu, sem valdið hefur bændum búsifjum. Þá þykir staðbundin friðun refs orka tvímælis fyrir jafnvægi í náttúrunni. Friðun rjúpu kann að vera tímabær vegna gríðarlegs skotkrafts, sem fylgir nútímalegum vopnabúnaði. Allt er bezt í hófi.
7.12.2017 | 15:08
Sámur, fóstri, og raforkumál á Vestfjörðum
Í nóvember 2017 kom út geysimyndarlegt fríblað, 2. tölublað, 3. árgangs, í 44´000 eintökum, dreift um allt land, nema höfuðborgarsvæðið og Vesturland. Blaðið er afar fróðlegt og hefur að geyma aðsendar greinar um fjölbreytileg málefni, s.s. orkumál og atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum, aflaukningu í vatnsaflsvirkjunum, hækkun sjávaryfirborðs, nokkur þjóðareinkenni landsmanna, loftslagsmál, sorporkustöð á Vestfjörðum og fiskeldi. Hefur blaðið hlotið verðskuldaða athygli og að því gerður góður rómur.
Blekbóndi þessa vefseturs á þarna eina grein, sem hann nefnir "Fjötra eða framfarir" og finna má sem fylgiskjal með þessum pistli. Þar er sett upp sviðsmynd fyrir Vestfirði árið 2040, ef snurðulaus uppbygging atvinnulífs fær að eiga sér stað þar, þ.e. raforkuskortur og samgönguskortur eða léleg gæði á rafmagni og vegasambandi og tregða við leyfisveitingar hamla ekki fullri nýtingu á fiskeldisburðarþoli Vestfjarða.
Að teknu tilliti til títtræddra orkuskipta mun atvinnuuppbygging og íbúafjölgun á Vestfjörðum útheimta á tímabilinu 2016-2040 aflaukningu um 80 MW og orkuaukningu um 400 GWh/ár, ef sú sviðsmynd höfundar, sem þar er sett fram, gengur eftir.
Það verður þess vegna nægur markaður fyrir Hvalárvirkjun, 55 MW, á Vestfjörðum og er þörf á Austurgilsvirkjun, 35 MW, líka, svo að Vestfirðir verði sjálfum sér nægir með raforku. Öðru vísi verður raforkuöryggi Vestfjarða ekki tryggt, því að bilanatíðni Vesturlínu er há, og varla þykir fjárhagslega hagkvæmara og umhverfisvænna að leggja aðra Vesturlínu til viðbótar þeirri, sem fyrir er.
Þegar nýjar virkjanir á Vestfjörðum eru vegnar og metnar, er nauðsynlegt að hafa í huga, að þar stafar þeim ekki sú hætta af náttúruvá, sem virkjunum og línum víða annars staðar á landinu er búin. Elías Elíasson, verkfræðingur og fyrrverandi sérfræðingur í orkumálum hjá Landsvirkjun, skrifaði um aðsteðjandi hættu að raforkuafhendingu á landinu í Morgunblaðsgrein, 5. desember 2017,
"Rétt stefna í orkumálum":
"Í orkulögum eru ákvæði um það, hve vel skuli tryggja notendur raforku gegn truflunum í flutningskerfi. [Þar eru lög núna brotin á Vestfirðingum - innsk. BJo.] Hins vegar eru engin ákvæði um, hve vel skuli tryggja gegn því, að stærstu miðlunarlón tæmist. Þar hefur Landsvirkjun sín viðmið, en hið opinbera ekki. Ljóst er, að ef annaðhvort Hálslón eða Þórisvatn tæmist alveg, þá kemur upp neyðarástand. Þetta getur gerzt, ef rennsli fallvatna verður miklu minna en það viðmið, sem Landsvirkjun notar í áætlanagerð sinni. Þessu geta valdið atburðir, tengdir landinu sjálfu og gerð þess, sem ekki fara framhjá neinum, og má þar nefna:
- Hamfaraflóð tengt eldgosi undir jökli ógna flutningsvirkjum og orkumannvirkjum.
- Eldvirkni skemmir virkjun eða breytir farvegi vatnsfalla.
- Öflugt eldgos, eitt eða fleiri í einu, veldur kólnun á lofthjúpi jarðar. Umskipti í veðurfari þarf hins vegar að staðfesta með mælingum í nokkurn tíma.
- Breytingar á streymi hlýsjávar kringum landið færa kalda sjóinn nær og kæla landið.
- Golfstraumurinn hægir á sér vegna aðstæðna í hafinu.
Á Vestfjörðum stafar virkjunum og línum einna minnst ógn af náttúrunni af öllum stöðum á landinu. Þannig þarf þar ekki að óttast tjón af völdum hamfaraflóða, öskufalls, hraunrennslis eða jarðskjálfta. Af þessum sökum ætti í nafni þjóðaröryggis að leggja áherzlu á virkjanir á Vestfjörðum. Samkvæmt áætlun frá 2016 nemur virkjanlegt, hagkvæmt vatnsafl á Vestfjörðum, að núverandi virkjunum meðtöldum, tæplega 200 MW, sem er um 8 % af núverandi virkjuðu afli til raforkuvinnslu á landinu. Vestfirzkar virkjanir munu aldrei anna stóriðjuálagi, en þær mundu nýtast almenningi vel í neyð, og í venjulegum rekstri er nægur markaður fyrir þær á Vestfjörðum og um landið allt með flutningi um Vesturlínu inn á stofnkerfið.
Í lok greinar sinnar skrifaði Elías:
"Hér er um að ræða áhættuþætti, sem að nokkru leyti eru sérstakir fyrir Ísland, en að nokkru sameiginlegir með Evrópu og Grænlandi. Íslenzka orkukerfið er sérstaklega viðkvæmt vegna víðáttu jöklanna hér, og hve miklu munar á rennsli og þar með orkugetu, ef þeir fara að vaxa í stað þess að minnka.
Hér þarf því að fara fram viðamikil og heildstæð athugun og áhættumat til að ákveða, hvort við eigum að:
- leggja áherzlu á að halda orkuverði lágu, eins og almenningi var á sínum tíma lofað. [Til þess þarf að halda áfram að virkja fyrir stóriðju, sem þá kostar stækkun raforkukerfisins og greiðir í raun orkuverð niður til almennings, eins og verið hefur. Samkvæmt Rammaáætlun og áætlaðri orkuþörf orkuskipta og vaxandi þjóðar virðist orkulindir skorta fyrir þennan valkost - innsk. BJo.]
- Hægja á uppbyggingu til að ná upp arðgreiðslum. [Þessum valkosti má líkja við að éta útsæðið, og hann samrýmist ekki núverandi stefnu stjórnvalda um að ljúka orkuskiptum fyrir árið 2040 - innsk. BJo.]
- Taka frá það, sem eftir er af auðlindinni, til okkar eigin þarfa, eins og orkuskipta. [Þetta er nærtækasti kosturinn, eins og málin horfa nú við, og spannar m.a. aukningu á núverandi stóriðju í þeim mæli, sem rekstrarleyfi fást og orkusamningar takast um - innsk. BJo.]
- Koma upp meiri stóriðju. [Þetta verður ekki raunhæfur kostur að óbreyttu - innsk. BJo.]
Það er sameiginlegt þessum valkostum, að þeir útiloka afar umdeilt verkefni, sem er að virkja og leggja línur að endamannvirki sæstrengs, sem Landsvirkjun o.fl. hafa haft hugmyndir um að selja raforku inn á og kaupa raforku frá, þegar hér verður skortur. Er þá ekki átt við tiltölulega viðráðanlegt verkefni tæknilega séð, sem er sæstrengur til Færeyja, heldur á milli Skotlands og Íslands, um 1200 km leið á allt að 1200 m dýpi. Sá strengur mundi hafa jafna flutningsgetu í sitt hvora átt og mundi umturna núverandi raforkukerfi og verðmyndun raforku í landinu vegna stærðar sinnar, um 1200 MW, sem væri næstum 50 % viðbót við núverandi kerfi.
Sláið á tengilinn hér að neðan til að lesa umrædda grein í Sámi, fóstra.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.12.2017 | 10:54
Risi í hagkerfinu
Það getur verið óheppilegt, að mikill stærðarmunur sé á útflutningsgreinum. Það er út af því, að risinn getur þá hæglega gert öðrum erfitt fyrir og jafnvel rutt þeim úr vegi. Þetta eru svo kölluð ruðningsáhrif, og þeirra hefur vissulega gætt hérlendis frá ferðaþjónustunni, en gjaldeyristekjur hennar eru nú meiri en frá sjávarútvegi og iðnaði til samans. Umfang ferðaþjónustunnar hefur reyndar Síðan 2016 leitt til minni framlegðar í öllum útflutningsgreinum, einnig hjá ferðaþjónustunni sjálfri, og sterk staða ISK í skjóli ríflegs viðskiptaafgangs hefur reyndar dempað vöxt ferðaþjónustunnar, sem brýna nauðsyn bar til.
Vöxtur ferðaþjónustunnar í kjölfar Eyjafjallajökulsgossins hefur verið meiri en innviðir landsins hafa ráðið við, og náttúra landsins hefur sums staðar beðið hnekki sökum ágangs ferðamanna. Þá er alræmd saurmengun á víðavangi sökum skorts á salernisaðstöðu heilsuverndarlegt hneyksli, sem of hraður vöxtur hefur leitt af sér.
Þversögnin í umræðunni um umhverfisleg áhrif ólíkra atvinnugreina er sú, að "eitthvað annað", sem s.k. "umhverfisverndarsinnar" jöpluðu löngum á, þegar þeir voru spurðir um valkost við virkjanir endurnýjanlegra orkulinda og málmiðnað, reyndist vera ferðaþjónusta, en það er þekkt um allan heim, að sú atvinnugrein er stækasti umhverfisskaðvaldur okkar tíma.
Á gististöðum fellur til gríðarlegt magn úrgangs, lífræns og ólífræns, sem er byrði fyrir staðarumhverfið, og ofboðsleg eldsneytisnotkun þessarar orkufreku greinar er stórfelld ógn við lífríki jarðar í sinni núverandi mynd vegna gróðurhúsaáhrifa eldsneytisbrunans. Þau eru þreföld á hvert tonn eldsneytis, sem brennt er í þotuhreyflum í háloftunum m.v. bruna á jörðu niðri, hvort sem bókhald ESB um losun gróðurhúsalofttegunda sýnir það eða ekki.
Flugfélögin í EES-löndunum eru háð úthlutunum á koltvíildiskvóta frá framkvæmdastjórn ESB. Þessi losunarkvóti mun fara síminnkandi og mismuni raunlosunar og leyfislosunar verða flugfélögin að standa skil á með kvótakaupum. Fyrir íslenzku millilandaflugfélögin er langeðlilegast og vafalítið hagkvæmast til langs tíma að semja við íslenzka bændur, skógarbændur og aðra, sem stundað geta skilvirka landgræðslu, að ógleymdri minnkun losunar CO2 með endurbleytingu lands með skurðfyllingum.
Ríkið getur hjálpað til við að koma þessu af stað, t.d. með því að leggja ríkisjarðir, sem nú eru vannýttar, undir þessa starfsemi.
Hjörtur H. Jónsson skrifaði um
"Ruðningsáhrif ferðaþjónustu"
í Morgunblaðið 14. september 2017:
"Niðurstaðan af þessu er, að þótt almennt séu jákvæð tengsl á milli vaxtar ferðaþjónustu og hagvaxtar í þróuðum ríkjum, þá eru tengslin oft á tíðum veik og hverfa, þegar spenna á vinnumarkaði er orðin það mikil, að jafnverðmætar greinar geta ekki lengur keppt við ferðaþjónustuna um vinnuafl og fjármagn.
Fyrst eftir hrunið 2008 bar íslenzkt efnahagslíf mörg einkenni þróunarríkja. Atvinnuleysi var mikið, framleiðni lítil og efnahagslífið tiltölulega einhæft, en raungengið var líka lágt, og vinnuafl gat leitað til útlanda, sem hvort tveggja hjálpaði til. Aðstæður voru því hagstæðar fyrir hraðan vöxt ferðaþjónustunnar, sem fyrst um sinn var nokkurn veginn hrein viðbót við hagkerfið. En þrátt fyrir að til Íslands sé nú komið umtalsvert erlent vinnuafl til starfa í láglaunageirum, þá eru í dag ýmis merki um, að við séum komin á þann stað, að frekari vöxtur ferðaþjónustunnar kosti okkur álíka mikið í öðrum atvinnugreinum og að þar með muni hægja hratt á hagvexti, sem rekja má til ferðaþjónustunnar. Það eru vísbendingar um, að ruðningsáhrif ferðaþjónustunnar vegi í dag mikið til upp á móti ávinninginum af frekari vexti hennar.
Við slíkar aðstæður er rétt að stíga varlega til jarðar, því að ekki er víst, að atvinnugreinar, sem ekki lifa af samkeppnina, geti risið upp á ný, ef bakslag verður í ferðaþjónustu, og þá stöndum við eftir með einhæfara hagkerfi, sem ræður ekki eins vel við breyttar aðstæður."
Það er hægt að taka undir þetta og um leið draga þá ályktun, að fjölgun gistinátta erlendra ferðamanna umfram 5 %/ár á næstu misserum sér efnahagslega beinlínis óæskileg. Hún er líka óæskileg af umhverfisverndarlegum ástæðum. Það er hægt að hafa mikil áhrif á vöxtinn með verðlagningu þjónustunnar. Greinin mun enn um sinn verða í lægra virðisaukaskattsþrepinu, sem er e.t.v. eðlilegt, þar sem í raun er um útflutningsgrein að ræða.
Ferðaþjónustan ætti nú að treysta stöðu sína fremur en að vaxa hratt, t.d. með því að dreifa ferðamönnum miklu betur um landið, aðallega til Austurlands og Vestfjarða. Suðurland er mettað af erlendum ferðamönnum. Innanlandsflugið gæti hér leikið stórt hlutverk, en einnig beint flug til Akureyrar og Egilsstaða að utan og framhaldsflug til Ísafjarðar og annarra innanlandsflugvalla utan Reykjavíkur frá Keflavíkurflugvelli.
Millilandaflugflugfélögin leika aðalhlutverkið í þróun ferðaþjónustu á Íslandi. Þau eru eins og ryksugur með mörg úttök, sem sjúga til sín ferðamenn og dreifa þeim þangað, sem þeim hentar og spurn er eftir. Það er spurn eftir norðrinu núna, af því að það er friðsamt og þar koma gróðurhúsaáhrifin greinilega fram og vekja forvitni fólks. Ef þessum u.þ.b. 30 millilandaflugfélögum, sem hingað hafa vanið komur sínar, þóknast að vekja athygli ferðamanna á dýrð Austurlands og Vestfjarða, þá er björninn unninn.
Nú stendur fyrir dyrum endurnýjun á flugflota Icelandair, en félagið hefur enn stærsta markaðshlutdeild hér. Í ársbyrjun 2013 var gerður samningur á milli Icelandair Group og Boeing-verksmiðjanna um framleiðslu á 16 flugvélum af gerðinni Boeing 737 - MAX fyrir Icelandair og kauprétt á 8 slíkum til viðbótar, alls 24 flugvélum. Þessar 16 umsömdu vélar á að afhenda 2017-2021. Hér eru risaviðskipti á ferð, sem fyrir 16 flugvélar af þessari gerð gætu numið miaISK 150.
Þessar flugvélar bætast í 30 flugvéla hóp, 25 stk Boeing 757-200, 1 stk Boeing 757-300 og 4 stk Boeing 767-300, og er ætlað að leysa af hólmi 26 stk af gerð 757 í fyllingu tímans. Nýju flugvélarnar eru af gerð 737-MAX 8 og 9 og taka þær 160 og 178 farþega, en þær gömlu taka 183 farþega.
Þannig rýrnar flutningsgetan við að setja gerð 737 í rekstur alfarið í stað gerðar 757. Líklegt er þess vegna, að breiðþotum verði bætt í hópinn, því að nýting flugflota Flugleiða er mjög góð.
Nýju flugvélarnar eru sagðar verða 20 % sparneytnari á eldsneyti en samkeppnisvélar. Árið 2016 er talið, að millilandaflugið hafi losað 7,1 Mt af koltvíildisjafngildi, sem þá var langstærsti losunarvaldurinn á eftir framræstu landi, sem gæti hafa losað 8,2 Mt eða 40 % heildar. 7,1 Mt nam þá 59 % losunar Íslendinga án framræsts lands og 35 % að því meðreiknuðu.
Losun millilandaflugsins hefði orðið 1,4 Mt minni árið 2016, ef flugvélarnar hefðu verið 20 % sparneytnari. Íslenzk yfirvöld eru ábyrg fyrir aðeins 2,7 Mt/ár gagnvart Parísarsamkomulaginu til að setja losun millilandaflugsins í samhengi. Flugfélögin og stóriðjufyrirtækin eru ábyrg fyrir öðru, þ.e. 9,7 Mt/ár gagnvart framkvæmdastjórn ESB.
Þrátt fyrir minni losun millilandaflugvéla á hvern farþegakm, mun heildarlosun þeirra vegna flugs til og frá Íslandi líklega aukast á næstu árum vegna meiri flutninga. Ef gert er ráð fyrir 40 % aukningu, þurfa flugfélögin að kaupa um 8 Mt/ár koltvíildiskvóta. Hvað þyrfti að endurvæta mikið land og rækta skóg á stórum fleti til að jafna þetta út, sem dæmi ?
Óræktað, þurrkað land er nú um 3570 km2. Ef helmingur þess, 1800 km2, verður til ráðstöfunar í endurheimt votlendis, má þar útjafna 3,5 Mt/ár eða 44 % af þörf millilandaflugsins. Ef plantað er í þetta endurheimta votlendi, myndast þar reyndar ekki mýri, en 1,1 Mt/ár CO2 bindast í tré og jarðveg. Þá þarf að planta hríslum í 5500 km2 lands til viðbótar.
Þetta jafngildir gríðarlegu skógræktarátaki, aukinni plöntuframleiðslu og auknum mannafla við ræktunarstörf og viðhald skóga. Land fyrir þetta er sennilega fáanlegt, og ríkið getur lagt fram eyðijarðir í sinni eigu í þetta verkefni. Ekki er ráð, nema í tíma sé tekið, svo að þegar í stað þarf að hefjast handa. Samkvæmt öllum sólarmerkjum að dæma, verður um viðskiptalega hagkvæmt verkefni að ræða.
25.11.2017 | 21:57
Laxeldi í lokuðum kvíum
Til að festa núverandi góðu lífskjör í sessi hérlendis verður að auka útflutningsverðmætin um að jafnaði 50 miaISK/ár að núvirði næstu 2 áratugina, ef tekið er mið af mannfjöldaspá og breytingu á lýðfræðilegri samsetningu þjóðarinnar (vaxandi hlutfallslegur fjöldi aldraðra af heild eykur samfélagslegan kostnað).
Ísland hefur að ýmsu leyti sterka stöðu til að verða vaxandi matvælaframleiðsluland. Hlýnandi loft og sjór gefur meiri vaxtarhraða bæði jurta og dýra. Fyrir matvæli er vaxandi, vel borgandi markaður, og Íslendingar geta við markaðssetningu sína teflt fram miklum hreinleika lofts og vatns og nægu af hreinu vatni og umfangi samkvæmt vísindalegri ráðgjöf, m.ö.o. sjálfbærri matvælaframleiðslu.
Laxeldi hefur á þessum áratugi gengið í endurnýjun lífdaganna við Ísland með tilstyrk Norðmanna, sem ásamt Kínverjum eru umsvifamestir á þessu sviði í heiminum. Þeir eru líka í fremstu röð, hvað öryggi og tækni við sjókvíaeldi á laxi varðar.
Nú býðst hérlandsmönnum að kynnast nýrri tækni á sviði laxeldis í lokuðum sjókvíum, sem Norðmenn hafa verið með í þróun síðan 2007. Á vegum fyrirtækisins AkvaFuture AS hófst árið 2014 eldi á laxi í lokuðum sjókvíum á viðskiptalegum grunni. Stefnir fyrirtækið á slátrun 2,0 kt á árinu 2017 og 6,0 kt árið 2019. Þetta er nýmæli, því að áður voru uppi efasemdir um, að hægt væri að ala lax upp í sláturþyngd í lokuðum sjókvíum.
Norðmenn sjá þann meginkost við lokaðar sjókvíar, að í þeim veldur laxalús ekki teljanlegu tjóni, en hún er mikill skaðvaldur í opnum kvíum úti fyrir Noregsströnd, og geta orðið 20 % afföll þar í kvíum af hennar völdum, þegar verst gegnir, samkvæmt Rögnvaldi Guðmundssyni, framkvæmdastjóra AkvaFuture AS í viðtali við Fiskifréttir, 9. nóvember 2017, undir fyrirsögninni:
"Vilja ala lax í stórum stíl í Eyjafirði".
Í umræðunni hérlendis hefur laxeldi í opnum sjókvíum verið gagnrýnt harkalega, einkum af veiðiréttarhöfum villtra laxastofna, og þeir hafa m.a. bent á þessa úrbótaleið, sem Rögnvaldur Guðmundsson hefur nú þróað, enda kveðst hann ekki vita til, að nokkur lax hafi sloppið úr lokuðum sjókvíum á 10 ára tilraunaskeiði.
"Miklir möguleikar eru á að nýta eldistæknina víðar en í Noregi, að sögn Rögnvaldar. Innanverður Eyjafjörður sé í því ljósi talin ákjósanleg staðsetning fyrir lokaðar eldiskvíar, því að þar er bæði skjólgott og hafstraumar miklir og stöðugir."
Það er gleðiefni, að frumkvöðull laxeldis í lokuðum sjókvíum í Noregi skuli nú hafa sótt um starfsleyfi fyrir slíkum rekstri í Eyjafirði, sem er einmitt einn þeirra fjarða, sem íslenzk lög leyfa sjókvíaeldi í. Áætlun Rögnvaldar kveður á um að hefja sjókvíaeldi þar vorið 2019, og fyrsta framleiðslan þaðan berist á markað á fyrsta ársfjórðingi 2021.
Þar sem úrgangur frá kvíunum, sem til botns fellur, verður aðeins um 30 % af því, sem gildir um opnar sjókvíar, má telja fullvíst, að burðarþolsmat fyrir lokaðar kvíar hljóði upp á meira en 20 kt í Eyjafirði áður en lýkur, en það er lífmassinn, sem sótt er um leyfi fyrir. Þar sem bein störf eru um 7 á kt, verður þarna um 140 bein störf að ræða við framleiðslu, slátrun og pökkun. Óbein störf í Eyjafirði gætu orðið 160 vegna þessarar starfsemi og annars staðar 140, samkvæmt norskri reynslu, svo að alls gæti þessi starfsemi skapað 440 ný störf. Þetta myndi styrkja Eyjafjörð mikið sem atvinnusvæði.
Verðmætasköpun hvers beins starfs í laxeldi er í Noregi talin jafngilda MISK 37, svo að verðmætasköpun téðra 20 kt í Eyjafirði mun nema 5,2 miaISK/ár, eða um 0,2 % af VLF. Útflutningsverðmætin gætu numið 16 miaISK/ár. Þetta er aðeins tæplega þriðjungur af nauðsynlegri árlegri aukningu útflutningsverðmæta, sem sýnir í hnotskurn, að landsmenn munu eiga fullt í fangi með að ná fram nauðsynlegri aukningu útflutningsverðmæta á næstu áratugum til að viðhalda hér óskertum lífskjörum og efnahagsstöðugleika.
Staðsetning þessa brautryðjandi laxeldis í Eyjafirði er ágæt. Hann er tiltölulega fjölmennt atvinnusvæði, og þar vantar ný atvinnutækifæri í náinni framtíð. Þá mun geta tekizt áhugavert samstarf laxeldis og fræðasamfélagsins á Akureyri, sem er umtalsvert. Um þennan þátt sagði Rögnvaldur í téðu viðtali:
"Það er mat fyrirtækisins [AkvaFuture AS], að laxeldi í lokuðum eldiskvíum falli vel að áætlunum sveitarfélaganna á Eyjafjarðarsvæðinu. Staðsetningin sé [er] því ákjósanleg, þar sem fyrir er öflugt háskólasamfélag og þjónustustig iðnfyrirtækja er hátt. Ljóst er, að AkvaFuture mun nýta sér sjávartengt háskólasamfélag á Akureyri í sínu þróunarstarfi og nýsköpun."
Það er ekki ólíklegt, að laxeldi geti vaxið um a.m.k. 85 kt/ár frá því, sem nú er. Það jafngildir aukningu útflutningstekna um a.m.k. 70 miaISK/ár, sem dreift á 10 ár gefur 7 miaISK/ár eða 14 % af þeirri meðaltals árlegu aukningu, sem nauðsynleg er. Fleira verður þess vegna að koma til skjalanna. Laxeldið verður samt mikilvægur þáttur í vextinum framundan.
14.11.2017 | 09:24
Kostir og tímabundnir gallar rafmagnsbíla
Rafmagnsbílar komu fram á sjónarsviðið strax í upphafi bílaaldar, enda einfaldari í hönnun og smíði en bílar knúnir sprengihreyfli, en rafbílar stóðust hinum ekki snúning, hvað drægni og "áfyllitíma" varðaði. Þá entust blýrafgeymarnir illa, svo að rafbílar hurfu fljótlega af sjónarsviðinu.
Árið 1973 varð olíukreppa í heiminum, og OPEC-samtök olíuframleiðsluríkja, beittu samtakamætti sínum í fyrsta sinn til að þvinga fram margföldun olíuverðs. Á sama tíma kom fram á sjónarsviðið kraftrafeindatækni ("power electronics") með þróun týristorsins, sem gerði aflstýringu bæði jafnstraums- og riðstraumsbúnaðar (DC og AC) mun einfaldari og fyrirferðarminni en áður hafði verið. Við þessar viðskiptalegu og tæknilegu aðstæður gengu rafbílar í fyrsta sinn í endurnýjun lífdaganna, en þeir náðu þó enn ekki hylli vegna rafgeymanna, sem enn voru gömlu blýrafgeymarnir með brennisteinssýru.
Vegna týristortækninnar og þróunar tölvutækninnar varð á lokaáratugi 20. aldarinnar tæknilegur grundvöllur fyrir því að nýta hinn margreynda, trausta og endingargóða AC-hreyfil, sem er notendavænni en DC-hreyfillinn, því að hann slitnar hægar, þarfnast minna viðhalds og hefur meira vægi (torque) við háan snúningshraða. Gallarnir við hann eru fólgnir í áriðlinum, sem er viðbótar kraftrafeindabúnaður, með rafmagnstöpum, til að breyta jafnstraumi í riðstraum.
Á þessari öld hefur svo orðið gegnumbrot fyrir rafbílinn inn á bílamarkaðinn með nýrri gerð rafgeyma, s.k. liþíum-jón rafgeymar, og vegna örvæntingarfullrar leitar að möguleikum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Liþíum-jón rafgeymar hafa marga kosti umfram hina hefðbundnu blýrafgeyma, s.s. a.m.k. þrefaldan orkuþéttleika (yfir 100 Wh/kg), meiri endingu (a.m.k. 1200 hleðslur), og flestir Li-jón bílrafgeymar þola hraðhleðslu á margföldu venjulegu hleðsluafli upp í 80 % málorku rafgeymanna.
Þrennt er nú helzt haft uppi gegn rafbílum:
- Verð rafbíla er hærra en eldsneytisknúinna bíla vegna þess, að hinir fyrr nefndu hafa enn á sér áhvílandi þróunarkostnað og eru framleiddir í litlu upplagi, innan við 3 % af hinum (tengiltvinnbílar þá taldir með rafbílum). Það eru þó færri íhlutir í rafbílum, og þeir eru í raun einfaldari að gerð. Þegar fram í sækir geta þeir þess vegna orðið ódýrari en eldsneytisknúnir bílar, vegna þess að verð Li-jón rafgeymanna fer enn lækkandi, og kostnaður þeirra er lítt háður verði á liþíum. Viðhaldskostnaður rafbíla er lægri, þótt endurnýjunarkostnaður rafgeyma sé tekinn með í reikninginn. Orkukostnaður rafbíla á Íslandi er innan við 40 % af orkukostnaði benzínbíla m.v. núverandi raforkuverð og benzínverð, að meðtöldum töpum við hleðsluna og þrátt fyrir lágt meðalhitastig hérlendis. Árið 2018 má búast við, að 4 ára eignarhaldskostnaður rafbíla og tengiltvinnbíla á Íslandi verði lægri en eldsneytisbíla vegna lækkandi framleiðslukostnaðar. Samt er ekki búizt við, að sala rafbíla hinna hefðbundnu bílaframleiðenda fari að skila hagnaði fyrr en um og eftir miðjan næsta áratug.
- Akstursdrægni á hverri rafgeymahleðslu þykir of stutt. Meðalakstur fjölskyldubíla hérlendis er um 35 km/dag. Að sumarlagi endist hleðsla tengiltvinnbíla fyrir þennan akstur (orkunýtnin versnar við kólnandi veður um allt að 3 %/°C frá meðalnýtni ársins), og minni rafgeymana í rafbílum þarf þá að hlaða á 2-4 daga fresti. Nú eru hins vegar að koma á markaðinn rafbílar (Chevrolet Bolt, Tesla Model 3) með 75 kWh rafgeyma, og enn stærri rafgeymar eru í stærri Teslu-gerðum. Á 75 kWh komast menn þó 300 km á hleðslu að sumarlagi, sem dugar flestum, a.m.k. á milli hraðhleðslustaða.
- Langan endurhleðslutíma setja margir fyrir sig. Full endurhleðsla á 75 kWh rafgeymum með 15 kW (3x32 A tengill) getur nú farið fram á 5 klst, sem dugir fyrir ódýrasta orkukaupatímabilið erlendis, á milli kl. 0100-0600, en þá fæst orkan sums staðar á hálfvirði, og þannig þarf það að verða hér til að nýta raforkukerfið með bezta móti og lágmarka fjárfestingarþörf. Innleiðing slíkrar gjaldskrár er tímabær og jákvæður, þjóðhagslega hagkvæmur hvati fyrir rafbílainnleiðingu hérlendis.
Nú er að renna upp fyrir bílaframleiðendum, sem ákveðið hafa að venda sínu kvæði í kross og auka framboð á rafbílum til mikilla muna á fyrri hluta næsta áratugar, að framleiðslugeta rafgeymaverksmiðjanna í heiminum er of lítil. Nú eru framleiddar um 2,0 M/ár bifreiða, sem knúnar eru að einhverju leyti með liþíum-jón rafgeymum. Ef meðalstærð rafgeyma í þessar 2 M bifreiða er 25 kWh, þá þarf árleg framleiðslugeta rafgeymaverksmiðjanna að vera 50 GWh/ár, og hún er líklega nálægt þessu gildi núna. Ef framleiða á 10 M rafbíla árið 2025, eins og hugur bílaframleiðenda stendur til (13 % nýrra fjölskyldubíla), t.d. 6 M með drægni 300 km og 4 M með drægni 100 km eða minni (tengiltvinn), þá þá þarf að 11-falda þessa framleiðslugetu á 7 árum. Það er gríðarlegt fjárfestingarátak og gott dæmi um þau útlát, sem orkubyltingin útheimtir.
Þá vaknar spurningin um það, hversu lengi þekktar birgðir liþíums í náttúrunni munu endast ?
Það þarf um 160 g Li/kWh. Fyrir ársframleiðsluna 550 GWh af rafgeymum (áætluð þörf 2025) þarf 88 kt af Li. Þekktur forði af hreinu Li í heiminum er 14 Mt, svo að hann mundi endast í 160 ár, ef hann færi bara í bílarafgeyma.
Um miðja 21. öldina gæti framleiðsla rafbíla hafa aukizt í 70 M bíla með að meðaltali 75 kWh rafgeyma hver. Þá þarf framleiðslugetan að hafa tífaldazt á við 2025 og nema 5250 GWh/ár. Það þýðir árlega þörf fyrir Li í bílarafgeyma 0,84 Mt. Ef 14 Mt verða til ráðstöfunar í bílarafgeyma, verður hægt að halda uppi þessum afköstum í 17 ár. Fyrir miðja öldina verður þess vegna að finna meira af liþíum, og svo vill til, að í höfunum er talið vera gríðarlegt magn eða 230 mia t af Li. Áreiðanlega mun liþíum verða í samkeppni við önnur efni og rafgeymar í samkeppni við annars konar orkuform (geymsluaðferðir orku), er hér verður komið sögu.
Það er reyndar ekki líklegt, að á miklu liþíum úr hafinu verði þörf. Líklegra er, að þegar á næsta áratugi komi fram nýir orkugjafar, t.d. lítil þóríum kjarnorkuver, sem endast muni allan notkunartíma bílsins, og mengunarfríir eldsneytisrafalar, sbr vetnsisknúnir rafalar, eiga mikla þróunarmöguleika fyrir höndum.
11.11.2017 | 13:55
Kolefnissektir, kolefnisbinding og rafbílavæðing
Það er mikið fjasað um loftslagsmál, og Katrín Jakobsdóttir talaði um þau sem eitt aðalmála væntanlegrar ríkisstjórnar hennar, Framsóknar, Samfylkingar og pírata, sem aldrei kom þó undir í byrjun nóvember 2017, þótt eggjahljóð heyrðist vissulega úr ýmsum hornum. Það er þó alls ekki sama, hvernig á þessum loftslagsmálum er haldið fyrir hönd Íslendinga, og landsmönnum hefur nú þegar verið komið í alveg afleita stöðu í þessum efnum með óraunsærri áætlanagerð um losun CO2 og lítilli eftirfylgni með sparnaðar- og mótvægisaðgerðum. Vonandi breytir komandi ríkisstjórn um takt í þessum efnum, þannig að fé verði beint til mótvægisaðgerða innanlands í stað sektargreiðslna til útlanda.
Afleiðing óstjórnarinnar á þessum vettvanfi er sú, að búið er að skuldbinda landsmenn til stórfelldra sektargreiðslna til útlanda vegna framúrkeyrslu á koltvíildiskvótanum, sem yfirvöldin hafa undirgengizt. Þessi kvóti spannar 8 ár, 2013-2020.
Íslenzk yfirvöld hafa samþykkt, að Íslendingar mundu losa að hámarki 15,327 Mt (M=milljón) af koltvíildi, CO2, á þessu tímabili með þeim hætti, sem skilgreind er í Kyoto-bókuninni. Þetta var frá upphafi gjörsamlega óraunhæft, enda nam losunin á 3 fyrstu árunum, 2013-2015, 8,093 Mt, þ.e. 53 % kvótans á 38 % tímabilsins.
Vegna mikils hagvaxtar á tímabilinu 2016-2020 og hægrar framvindu mótvægisaðgerða má búast við árlegri aukningu á þessu tímabili þrátt fyrir 3,5 %/ár sparneytnari bílvélar og jafnvel 5 %/ár nýtniaukningu eldsneytis á fiskiskipaflotanum, svo að losunin verði þá 14,2 Mt árin 2016-2020. Heildarlosunin 2013-2020 gæti þá numið 22,3 Mt, en yfirvöldin eru við sama heygarðshornið og áætla aðeins 21,6 Mt. Hvar eru samsvarandi mótvægisaðgerðir stjórnvalda ? Skrifborðsæfingar búrókrata af þessu tagi eru landsmönnum of dýrkeyptar.
Það er jafnframt útlit fyrir, að skipuleg binding koltvíildis með skógrækt og landgræðslu á þessu seinna Kyoto-tímabili verði minni en stjórnvöld settu fram í aðgerðaáætlun árið 2010. Það er einkennilegur doði, sem gefur til kynna, að of mikið er af fögrum fyrirheitum og blaðri í kringum þessa loftslagsvá og of lítið af beinum aðgerðum, t.d. til að stemma stigu við afleiðingum óhjákvæmilegrar hlýnunar, s.s. hækkandi sjávarborðs. Það er ekki ráð, nema í tíma sé tekið, þegar kemur að varúðarráðstöfunum. Það þarf strax að ráðstafa fé í sjóð til þessara verkefna.
Ein talsvert mikið rædd aðgerð til að draga úr losun CO2 er að moka ofan í skurði til að stöðva rotnunarferli í þornandi mýrum, sem losar í meiri mæli um gróðurhúsalofttegundir en mýrarnar. Áður var talið, að þurrkun ylli losun, sem næmi 27,6 t/ha á ári, og þar sem framræst land næmi 0,42 Mha (=4200 km2), væri árleg losun framræsts lands 11,6 Mt/ár CO2.
Nú hafa nýjar mælingar starfsmanna Landbúnaðarháskóla Íslands sýnt, að þessi einingarlosun er tæplega 30 % minni um þessar mundir en áður var áætlað eða 19,5 t/ha koltvíildisjafngilda, eins og fram kemur í Bændablaðinu, bls. 2, 2. nóvember 2017.
Losun Íslendinga á koltvíldi vegna orkunotkunar, úrgangs, mýrarþurrkunar og annars árið 2016, var þá þannig:
Losun Íslendinga á koltvíildi, CO2, árið 2017:
- Millilandaflug: 7,1 Mt 35 %
- Iðnaður: 2,3 Mt 11 %
- Samgöngur innanlands: 0,9 Mt 4 %
- Landbúnaður: 0,7 Mt 3 %
- Millilandaskip: 0,6 Mt 3 %
- Fiskiskip: 0,4 Mt 2 %
- Úrgangur: 0,3 Mt 1 %
- Orkuvinnsla: 0,2 Mt 1 %
- Ýmislegt: 0,1 Mt 0 %
- Framræst land: 8,2 Mt 40 %
- Heildarlosun: 20,8 Mt 100 %
Til að nýta fjármuni sem bezt við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi Íslendinga er skilvirkast að beina fé í stærstu losunarþættina.
Framræst land vegur þyngst, 40 %. Moka þarf ofan í skurði óræktaðs lands, sem ekki er ætlunin að rækta í fyrirsjáanlegri framtíð, og samtímis að planta þar skógarhríslum til mótvægis við losun, sem ekki er tæknilega unnt að minnka að svo stöddu. Þar vegur millilandaflugið og iðnaðurinn þyngst. Þessir aðilar eru örugglega fúsir til að fjárfesta í slíkri bindingu á Íslandi fremur en að greiða stórfé fyrir losun umfram kvóta til útlanda, enda er slík ráðstöfun fjár hagstæð fyrir þá, eins og sýnt verður fram á hér að neðan.
Mismunur á áætlaðri heildarlosun Íslendinga tímabilið 2013-2020 og úthlutuðum losunarheimildum til þeirra er:
ML= 22,3 Mt-15,3 Mt = 7,0 Mt
Meðaleiningarverð yfir þetta "seinna Kyoto-tímabil" verður e.t.v. 5 EUR/t CO2, en það ríkir þó enn mikil óvissa um þetta verð. Hitt eru menn sammála um, að það verður hærra á tímabilinu 2021-2030, e.t.v. 30 EUR/t.
Líkleg kaupskylda á kvóta árið 2021 fyrir tímabilið 2013-2020 er þannig:
K=7 Mt x 5 EUR/t = MEUR 35 = miaISK 4,4.
Nú er áhugavert að finna út, hversu miklu framræstu landi er hægt að bleyta í (með því að moka ofan í skurði) og síðan að planta hríslum í sama landið fyrir þessa upphæð (og verður þá engin mýri til aftur), og síðan hver einingarkostnaðurinn er á koltvíildinu í þessum tvenns konar mótvægisaðgerðum, þ.e. samdrætti losunar og með bindingu. Svarið verður ákvarðandi um hagkvæmni þess fyrir ríkissjóð og einkafyrirtæki að fjárfesta fremur innanlands en erlendis í koltvíildiskvótum.
Samkvæmt Umhverfisráðgjög Íslands, 2.11.2017, eru afköst og einingarkostnaður við þrenns konar ræktunarlegar mótvægisaðgerðir eftirfarandi:
- Landgræðsla: 2,1 t/ha/ár og 167 kkr/ha
- Skógrækt: 6,2 t/ha/ár og 355 kkr/ha
- Bleyting: 19,5 t/ha/ár og 25 kkr/ha
Þá er hægt að reikna út, hversu mörgum hekturum þurrkaðs lands, A, er hægt að bleyta í og planta í hríslum fyrir miaISK 4,4:
A x (355+25) = 4,4; A = 11,6 kha = 116 km2
Skógræktin bindur CO2: mBI=6,2 x 11,6k=72 kt/ár.
Bleyting minnkar losun:mBL=19,5x 11,6k=226 kt/ár.
Alls nema þessar mótvægisaðgerðir: 298 kt/ár.
Eftir 25 ár hefur þessi bleyting minnkað losun um 5650 kt CO2 og skógrækt bundið (í 20 ár) um 1440 kt CO2.
Alls hefur þá miaISK 4,4 fjárfesting skapað 7090 kt kvóta á einingarkostnaði 621 ISK/t = 5,0 EUR/t.
Sé reiknað með, að skógurinn standi sjálfur undir rekstrarkostnaði með grisjunarviði, þá virðast mótvægisaðgerðir innanlands nú þegar vera samkeppnishæfar á viðskiptalegum forsendum, svo að ekki sé nú minnzt á þjóðhagslegu hagkvæmnina, þar sem um verðmætasköpun innanlands, ný störf og aukningu landsframleiðslu er að ræða. Það er engum vafa undirorpið, að stjórnvöld og fyrirtæki á borð við millilandaflugfélögin, skipafélögin og stóriðjufyrirtækin eiga að semja við bændur og Skógrækt ríkisins um þessa leið.
Er nóg landrými ?
Framræst land er um 4200 km2 að flatarmáli og óræktað land er 85 % af því, þ.e. 3570 km2. Sé helmingur af því tiltækur til þessara nota, þarf téð miaISK 4,4 fjárfesting þá aðeins 6,5 % af tiltæku, óræktuðu og framræstu landi, og það verður vafalaust til reiðu, ef samningar takast.