Færsluflokkur: Umhverfismál

Olíufélög auka vinnsluna

Það er ekki enn komið að toppi olíueftirspurnar í heiminum, heldur ekki á Íslandi, þegar öll jarðefnaeldsneytiseftirspurn (án kola) er meðtalin.  Hér verður vitnað í Hjörleif Guttormsson, náttúrufræðing og fyrrverandi iðnaðarráðherra, en eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu, 18. febrúar 2019:

"Ferðaiðnaðurinn með ómældri losun gróðurhúsalofts frá flugvélum og skemmtiferðum og vöruflutningum loftleiðis heimshorna á milli er oft nefndur sem dæmi um sólund, sem heyra verði sem fyrst sögunni til, eins og einnig skefjalaus notkun einkabílsins.  Hergagnaiðnaður og stríðsátök kóróna síðan feigðarflanið."

Í ljósi þess sess, sem ferðamennskan skipar í lífi Íslendinga og vegna þeirrar stöðu, að ferðaþjónusta er nú aðalatvinnugrein landsmanna, veitir flestum beina vinnu og er aðalgjaldeyrislindin, er þessi hugleiðing Hjörleifs umhugsunarverð.  Það er ekki alls kostar rétt, að eldsneytislosun þessa geira samfélagsins sé ómæld.  Árið 2016 nam t.d. eldsneytisnotkun íslenzkra millilandaflugvéla um 0,79 Mt (milljón tonnum), sem var 84 % meira en notkun farartækja á landi og  fiskiskipa til samans.  Gróðurhúsaáhrif frá íslenzkum millilandaflugvélum voru árið 2016 45 % meiri en gróðurhúsaáhrif allrar annarrar starfsemi á landinu að millilandaskipum meðtöldum, en fyrir utan landnotkun (framræslu lands).

Þannig má halda því fram, að aðalstarfsemi landsmanna sé umhverfislega ósjálfbær. Flugið heyrir undir sameiginlega kvótasetningu EES-ríkjanna, og það er líklegt, að flugfélögin muni þurfa að kaupa sér umtalsverða koltvíildiskvóta á næsta áratug.  Þessi kostnaður Icelandair og VOW  til samans árið 2019 mun losa mrdISK 1,0, og þessi kostnaður fer hækkandi.  Hver ráðstafar öllu þessu fé, sem fer í koltvíildiskaup ? Féð ætti að fara í mótvægisaðgerðir á Íslandi, t.d. skógrækt.  Koltvíildisgjaldið veldur hækkun farmiðaverðs fyrr en síðar, sem mun leiða til fækkunar ferðamanna frá Evrópu.  ESB hefur hins vegar ekki lögsögu yfir flugfélögum með aðsetur utan Evrópu, og koltvíildiskvóti hefur enn ekki verið lagður á flugfélög, sem fljúga til Íslands frá öðrum heimsálfum.

Þessi þróun mun ýta undir nýtingu vetnis til að knýja flugvélar, en vetnið hefur mun meiri orkuþéttleika (kWh/kg) en jarðefnaeldsneyti.  Þarna verður þá framtíðarmarkaður fyrir vetnisverksmiðju á Íslandi.  Það verður engum vandkvæðum háð að finna markað, innanlands og utan, fyrir allt það vetni, sem hægt er að framleiða með raforku, sem nú er rætt um að flytja frá Íslandi um  sæstreng. 1200 km lögn til Bretlands gæti kostað mrdUSD 4-5, sem varla er samkeppnishæf við flutninga með skipi.  

Olíufurstar reikna þó ekki með alvarlegri samkeppni frá vetni, enda er skortur á umhverfisvænni orku til að framleiða það.  Vetni, framleitt með rafgreiningu á Íslandi gefur engu að síður samkeppnishæfan orkukostnað á farartæki m.v. rafmagn af rafgeymum, svo að ekki sé nú minnzt á samanburðinn við núverandi verð jarðefnaeldsneytis, sem er a.m.k. 5-falt dýrara á hvern km.

Exxon Mobil hefur gert áætlun um eldsneytiseftirspurnina á næstu árum og fjárfestingar til að fullnægja henni.  Gangi þessar áætlanir eftir, næst toppur eldsneytisnotkunar jarðarbúa á tímabilinu 2040-2050, sem er tveimur áratugum of seint, til að hemja megi meðalhitastigshækkun á jörðunni innan við 2°C, sem samkvæmt sérfræðingahópi Sameinuðuðu þjóðanna, IPCC, er nauðsynlegt til að hindra stjórnlausa hækkun hitastigs jarðar. 

Samkvæmt áætlun Exxon Mobil mun olíuþörfin aukast um 42 % á tímabilinu 2000-2040 og verða enn hægt stígandi í lok tímabilsins, og gasþörfin mun aukast um 75 % og enn vera hratt stígandi 2040.  Þetta er óbjörgulegt og sýnir, að allt stefnir í óefni, þrátt fyrir yfirlýsingar og heitstrengingar stjórnmálamanna og embættismanna á ráðstefnum.  Markaðurinn verður að taka til sinna ráða, eins og hann hefur gert í Bandaríkjunum með góðum árangri.  Tilburðir stjórnmálamanna til að stjórna þróuninni hafa reynzt vera misheppnaðir.

Exxon Mobil eykur nú vinnslu sína með borunum neðansjávar. Háþróaðri tækni er beitt, t.d. úti fyrir ströndum Guyana í Suður-Ameríku.  Þar borar Exxon Mobil á 2000 m dýpi frá skipi, sem haldið er innan 3 m radíus frá lóðlínu niður að borholu, þaðan sem dælt er upp olíu úr lind, sem metin er nema 5 mrd tunna. Á næstu árum verður Guyana líklega annað mesta olíuríki Suður-Ameríku, næst á eftir Brasilíu, því að sameignarstefnan (kommúnisminn) hefur eyðilagt efnahag Venezúela, en þar eru gríðarlegar olíulindir.

  Exxon Mobil hyggur á vöxt, þrátt fyrir aðvaranir vísindamanna IPCC til heimsbyggðarinnar.  Þannig er stefnt að 25 % meira framboði á gasi og olíu árið 2025 en árið 2017.  Þetta sýnir, að róttækrar tæknibyltingar er þörf til að vinda ofan af því, hversu háð mannkynið er orðið notkun jarðefnaeldsneytis.

Til þess þarf mikið fé, og sennilega er minna fé til ráðstöfunar í þessa nauðsynlegu tækniþróun en til fjárfestinga í gas- og olíuiðnaðinum.  Darren Woods, sem tók við forstjórastarfi í Exxon Mobil af Rex Tillerson 2017, sem um stutta hríð var utanríkisráðherra hjá Donald Trump, hefur tilkynnt um fjárfestingaráform fyrirtækisins upp á mrdUSD 200 á 7 ára tímabili 2019-2025 (triISK 24 - tíföld íslenzk landsframleiðsla á ári).

Eftir forstjóranum Woods var haft nýlega:

"Við metum horfur olíuiðnaðarins til langs tíma. Við sinnum þörfum hagkerfanna fyrir orku miðað við lífskjör fólksins."

Með þessu á forstjórinn væntanlega við, að lífskjör fólks um langa framtíð verði háð nægu framboði á jarðefnaeldsneyti. Það kann þvert á móti að koma senn til gríðarlegs kostnaðarauka af völdum notkunar jarðefnaeldsneytis, sem þá mun rýra lífskjör almennings, því meir sem lengur dregst að leysa þessa orkugjafa af hólmi.  Það er mótsögn í ofangreindum orðum forstjórans og því, að hann segist sammála stefnunni, sem mörkuð var á Parísarráðstefnunni 2015 um að halda hlýnun vel innan við 2,0°C.  Til þess þarf nefnilega olíunotkun að fara að minnka um 2020. Það gerist ekki á meðan olíufyrirtækin halda framboðinu uppi.  Lausnin verður þó auðvitað að koma á neytendahliðinni, svo að eftirspurnin minnki.  Þá mun verðið lækka og ekki mun lengur borga sig að leita nýrra linda.

Jarðgas hefur víða fengið samkeppni frá vind- og sólarorkuverum, og í Bandaríkjunum og víðar hefur það leyst kolaorkuver af hólmi og dregið þannig úr loftmengun og losun gróðurhúsalofttegunda.  Olían hefur áfram sterk tök í flutningageiranum og vinnuvélunum.  Á þessu virðist ekki munu verða mikil breyting á næsta áratugi, því að aðeins 15 % bíla verða rafdrifnir með rafgeymum eða vetni árið 2030 samkvæmt spám, sem taldar hafa verið bjartsýnislegar um þessa rafvæðingu. 

Vörubílar, vinnuvélar, skip og flugvélar munu væntanlega fylgja í kjölfar bílanna.  Þó er vert að gefa gaum að þróun rafkerfa fyrir skip, sem lofar góða um breytingar á næsta áratugi.  Nýja ferjan á milli lands og Eyja mun verða knúin frá 3000 kWh rafgeymum, en endurhleðslutíminn verður aðeins 0,5 klst.  Þetta er ótrúlegt, en er samkvæmt upplýsingum framleiðandans. Þá þarf vissulega háspennta raflögn niður að endurhleðslustað á hafnarbakka.  

Annar möguleiki og áhugaverðari fyrir flutningaskip og togaraflotann er vetnisrafali til að knýja rafkerfi þeirra, þ.m.t. rafhreyflana, sem knýja skipin. Slíkur hefur verið þróaður fyrir minni skip fyrir nokkrum árum með góðum árangri.  Orkuþéttleiki (kWh/kg) vetnis er a.m.k. þrefaldur á við orkuþéttleika flotaolíu, og með framleiðslu vetnis á Íslandi með rafgreiningu úr vatni verður það samkeppnishæft við rafgeyma og með miklu lengri drægni.  

 

  

 

 

 


Orkumál Evrópusambandsins

Staða evrópskra orkumála er slæm og fer versnandi.  Ástæðan er sú, að álfan (vestan Rússlands) er algerlega ósjálfbær með þekkta orkugjafa.  Evrópusambandslöndin stefna nú á að afnema kolakynt orkuver fyrir 2035, og það mun gera ríkin enn háðari orkuaðdráttum erlendis frá, því að eini orkugjafinn, sem leyst getur kolakyntu verin almennilega af hólmi, úraníum-kjarnorkuverin, eiga ekki upp á pallborðið í Evrópusambandinu, ESB, og verða bönnuð í Þýzkalandi frá 2022. Í öðrum pistli verður sagt frá því, hvernig Þjóðverjar hyggjast bregðast við lokun kjarnorkuvera sinna.

Þess vegna er ESB á milli steins og sleggju í orkumálum, og örvæntingin vex.  Við þær aðstæður er ekki rétt að rétta "skrattanum" litla fingur.  Segja má, að Íslendingar hafi gert það með innleiðingu Orkupakka #1 árið 2003, og nú á að taka alla hendina með blöndu af hótunum og fagurgala um Orkupakka #3.

Annars vegar ber brýna nauðsyn til, að ríkin verði óháð kolefnisorkugjöfum, og hins vegar er efnahagsleg nauðsyn að sjá íbúunum og atvinnuvegunum fyrir nægri raforku á viðráðanlegu verði. Forysta Evrópusambandsins telur eðlilegt viðbragð við þessu vandamáli vera að liðka eftir megni fyrir orkuflutningum innan svæðisins, einkum frá jöðrunum, þar sem víða er umframorku að hafa, t.d. á Norðurlöndunum, og inn að framleiðslukjarnanum í ESB, þar sem mest fé er bundið í framleiðslutækjum. Um þetta snúast orkubálkar ESB, sérstaklega Orkupakki #3. Þar er enginn annars bróðir í leik í Evrópusambandinu.

Íslendingar eiga einfaldlega enga samleið með þessari stefnumörkun, og innleiðing Orkupakka #3 getur hreinlega valdið óafturkræfu tjóni á samkeppnishæfni landsins um fólk og fyrirtæki, sem að töluverðu leyti er reist á tiltölulega lágu og stöðugu rafmagnsverði.

Morgunblaðið birti 31. janúar 2019 fróðlega frétt,

"Evrópuríki leggja til atlögu við kolin".

Þar sagði m.a.:

"Fjöldi koladrifinna orkuvera er í Evrópu.  Aðildarríki Evrópusambandsins og Evrópuþingið náðu undir lok síðasta árs [2018] samkomulagi um umbætur á raforkumarkaði svæðisins, þ.á.m. að afnema opinbera styrki til kolaorkuvera fyrir árið 2025."

Á sama tíma og koltvíildisgjald leggst af þunga á rafmagnsverðið, eru skattpeningar sömu rafmagnsnotenda notaðir til að niðurgreiða evrópskar kolanámur í stað þess að flytja inn meira af ódýrari kolum.  Þetta er gert til að viðhalda kolavinnslu í ESB-löndunum, sem er gömul atvinnugrein þar (nú 20´000 manns), og fresta því, að þessi lönd verði enn háðari erlendum orkugjöfum, t.d. jarðgasafhendingu frá Rússum.

Í forysturíki ESB, sem einnig ætlaði að gegna forystuhlutverki við orkuskiptin í Evrópu með stefnunni, sem Þjóðverjar einfaldlega kölluðu "die Energiewende", hefur allt dregizt á langinn í þessum efnum.  Nýlega ráðlagði "Kolanefnd" Þýzkalands stjórnvöldum að loka ekki öllum þýzkum kolakyntum orkuverum fyrr en 2038, en kolakynt orkuver standa nú undir þriðjungi allrar raforkuvinnslu Þýzkalands, sem er meira en nemur allri orkuvinnslu landsins úr endurnýjanlegum lindum. Í Þýzkalandi fjölgar nú kolakyntum raforkuverum, en í Bandaríkjunum fækkar þeim mikið fyrir tilverknað markaðarins, sem velur fremur gaskynt orkuver.

Með þessum seinagangi verða Þjóðverjar eftirbátar  annarra fjölmennra þjóða í Evrópu á þessu sviði.  Frakkar ætla að loka sínum kolakyntu orkuverum fyrir 2022 og Bretar og Ítalir fyrir árið 2025.  

Skýringin á þessu óvenjulega seinlæti Þjóðverja er sú, að hluti af orkuskiptastefnu þeirra er að loka öllum kjarnorkuverum sínum fyrir árið 2022, en hinar þjóðirnar hafa ekki slík áform uppi og byggja jafnvel kjarnorkuver núna.  Tímasetning lokunar kolaorkuvera Þýzkalands er greinilega sniðin við það að veita vísindamönnum landsins nægt svigrúm til þróunar nýrra orkugjafa.  Raunverulegur viðsnúningur í orkumálum meginlandsins verður ekki fyrr en ný tækni hefur verið þróuð til orkuvinnslu.  Þangað til mun ríkja spenna í orkumálunum, orkuverðið mun fara hækkandi í Evrópu, þangað til þessi viðsnúningur verður, og það verður á sama tíma gríðarleg ásókn í allar endurnýjanlegar orkulindir í álfunni.  

Við þessar aðstæður væri algert óráð af okkur Íslendingum að afhenda Evrópusambandinu lykilinn að orkulindum okkar.  Það var áhætta á sínum tíma að fallast á, að EES-samningurinn skyldi spanna orkumálin, en gagnvart þeirri kröfu ESB og hinna EFTA-ríkjanna stóðu Íslendingar einir á móti og töldu sig væntanlega verða að fallast á málið í nafni samstöðu með hinum EFTA-ríkjunum.  Nú er hins vegar þróun þessa orkumálasamstarfs innan ESB komin á slíkt stig, að hagsmunum okkar stafar augljós bein hætta af að ganga lengra en gert var með Orkupakka #2.  

Við verðum að spyrna við fótum, nú þegar komið er að því að gera skylt (var valfrjálst) að innleiða hér uppboðsmarkað á raforku og að innleiða Evrópurétt yfir millilandatengingum fyrir orku; allt undir umsjón Landsreglara, sem verður óháður íslenzkum stjórnvöldum, en undir stjórn ESB (gegnum ESA).  Með því að samþykkja hér innleiðingu á gjörningi, sem gerir oss að leiksoppi ESB í orkumálum, Orkubálk #3, væri Alþingi að færa orkuhungruðu Evrópusambandi erfðasilfur vort á silfurfati.  

 


Undanskot í loftslagsbókhaldi

Þegar fjallað er um losun gróðurhúsalofttegunda af völdum fólks og fyrirtækja hérlendis, er þætti millilandaflugs og millilandasiglinga iðulega sleppt.  Þar með er dregin upp kolröng heildarmynd og gert allt of mikið úr hlut landstarfseminnar í vandamálinu, sem orkuskiptin eiga að leysa.  Samið hefur verið um, að þessir losunarvaldar verði í bókhaldi EES með öðrum slíkum, en hið sama má segja um málmframleiðsluna, en hún er samt í íslenzka bókhaldinu.  Samkrullið við ESB á þessu sviði er til bölvunar fyrir Íslendinga, því að þeir hafa mikla möguleika á sviði kolefnisjöfnunar, en hún þarfnast hins vegar framkvæmdafjár frá losunarfyrirtækjunum.

Heildareldsneytisnotkun landsmanna án kola árið 2016 nam 1,46 Mt (Mt=milljón tonn), og fóru 0,98 Mt eða 68 % af heild til millilandaflugvéla og millilandaskipa.  Af þessu fóru um 80 % til flugsins eða 0,79 Mt.  Vegna þess, að losun gróðurhúsalofttegunda í háloftunum veldur tæplega þreföldum gróðurhúsaáhrifum á hvert losað tonn á við losun á jörðu niðri, jafngilti brennsla 0,79 Mt þotueldsneytis árið 2016 losun 7,11 Mt af CO2eq, sem er 52 % meira en "heildarlosun Íslands samkvæmt mælingum Umhverfisstofnunar", eins og Nína Guðrún Geirsdóttir skilgreindi "heildarlosun Íslands" 2016 í Baksviðsgrein í Morgunblaðinu 30. júlí 2018, en samkvæmt Umhverfisstofnun nam hún 4,67 Mt.  

Hvers vegna er þetta mikla misræmi ?  Losun flugs og siglinga heyrir ekki undir íslenzk yfirvöld, heldur undir Viðskiptakerfi Evrópusambandsins (ESB), sem veitir Íslandi losunarheimildir samkvæmt samkomulagi á milli EFTA-þjóðanna í EES og ESB.  Þetta er ógæfulegt fyrir Íslendinga, því að þar með fer mikið fé úr landi til greiðslu fyrir losun, sem er umfram losunarheimildir. Þegar þetta ESB-kerfi var platað inn á íslenzka embættismenn, hafa þeir ekki gert sér grein fyrir, að hér er tiltölulega meira landrými til afnota fyrir kolefnisjöfnun með landgræðslu en annars staðar. 

Fyrir landgræðslu- og landbótaframkvæmdir á Íslandi til kolefnisjöfnunar er nauðsynlegt til góðs árangurs að fá gjald fyrir umframlosun inn í landið og ekki til ESB.  Innlend kolefnisjöfnun þarf að fá skriðþunga til að verða samkeppnishæf við erlenda, og t.d. skógrækt til kolefnisjöfnunar hefur alla burði til að verða hér samkeppnihæf. Möguleikar Íslands til kolefnisjöfnunar eru meiri en hinna EFTA-landanna, og þess vegna var mjög misráðið af íslenzkum yfirvöldum að flækja landinu inn í þetta samkrull, sem er blindgata og jafngildir glötuðu fé.    

Það er hins vegar ekki "system i galskapet" hjá Umhverfisstofnun, því að hún hefur með í sínu landsbókhaldi útblástur stóriðjunnar, sem þó er undir Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, eins og millilandaflutningarnir.  Hvers vegna er þetta misræmi?

Skal nú vitna í téða Baksviðsgrein,

"Vistvænni þróun samgangna á Íslandi":

"Skýrsla, sem unnin var af Verkfræðistofunni Eflu fyrir Vegagerðina og kom út á dögunum, skýrir frá mengun, er verður af völdum samgangna.

Kemur þar fram, að heildarlosun Íslands, samkvæmt mælingum Umhverfisstofnunar, var 4.670 þúsund tonn CO2 ígilda 2016.  Alls var losun gróðurhúsalofttegunda frá farartækjum á vegum Íslands 920 þúsund tonn CO2 ígilda sama ár, og valda bifreiðar því alls 20 % af heildarlosun landsins.  [Þetta hlutfall er allt of hátt, af því að millilandasamgöngum er sleppt.  Að þeim meðtöldum er hlutfallið 8 % - innsk. BJo.]  

Iðnaðurinn er stærsti þátturinn í þessari jöfnu með 47 % samanborið við 20 % í Evrópu.  [Rétt er, að losun iðnaðarins á koltvíildisígildum 2016 nam um 2,3 Mt, sem eru 19 % af réttri heild og 49 % af heild án millilandasamgangna.  Ef ekki á að telja losun millilandasamgangna með í íslenzka bókhaldinu, af því að þær eru í Viðskiptakerfi ESB, þá ætti af sömu ástæðu ekki heldur að telja losun stóriðjunnar með - innsk. BJo.]  Undir iðnað heyra framleiðsla hráefna og byggingarefna, en einnig framkvæmdir og byggingariðnaður."  

"Losun frá stóriðju eða iðnaði er í sérstöku viðskiptakerfi ESB fyrir losunarheimildir (e. EU ETS).  Kerfið hefur verið starfrækt innan ESB frá árinu 2005, og hafa EFTA-ríkin verið þátttakendur frá 2008.  [Íslenzka stjórnsýslan hélt illa á málum fyrir Íslands hönd og íslenzkra fyrirtækja með því að fella Ísland undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, því að með því var algerlega horft framhjá gríðarlegum möguleikum til kolefnisjöfnunar á Íslandi.  Hana er upplagt að fjármagna með sölu á kolefniskvóta til flugfélaganna og til stóriðjufyrirtækjanna.  Í staðinn þurfa fyrirtækin að greiða eins konar kolefnisskatt til ESB fyrir losun umfram úthlutaðar heimildir frá ESB.  Það er óskiljanlegt, hvernig stjórnvöld hérlendis láta ESB-búrókrata draga sig á asnaeyrunum inn í hvert ESB-kerfið á fætur öðru án þess að koma nokkuð nálægt mótun þess sjálf - innsk. BJo.] 

Fyrirtækjum innan Viðskiptakerfisins er úthlutað ákveðnum fjölda losunarheimilda án endurgjalds á viðskiptatímabilinu 2013-2020.  Stefnt er að því, að árið 2020 verði losun fyrirtækja innan Viðskiptakerfisins 21 % minni en árið 2005.  [Hérlendis má nota sömu viðmiðun og láta heimildir minnka línulega frá því að vera sömu á upphafsárinu 2008 og í raun 2005 í það að verða 21 % minni en í raun 2005 árið 2020.  Draga ætti Ísland út úr þessu EES-samstarfi án þess að slá af kröfunum, en veita þó íslenzkri náttúru tíma til að dafna og skila umtalsverðum bindingarafköstum til kolefnisjöfnunar - innsk. BJo.]

Það virðist vera, að íslenzk yfirvöld vilji helzt líta á það sem sitt meginviðfangsefni á þessu sviði að draga úr losun landumferðar.  Þegar hætta á olíbrennslu að mestu og verða sjálfbær, verður að virkja endurnýjanlegar orkulindir í staðinn, því að orkuþörfin eykst stöðugt, einnig í samgöngugeiranum.  Það er áhugavert að athuga, hvað það útheimtir mikla raforku, MWh/ár, og uppsett afl að rafvæða allan núverandi ökutækjaflota.  Við þessa athugun verður miðað við árið 2016:

  • Einkabílar: 240,5 k x 12,8 kkm/ár x 0,25 kWh/km
  • Rútubílar:    4,3 k x 50,0 kkm/ár x 1,10 kWh/km
  • Sendibílar:  24,5 k x 15,0 kkm/ár x 0,28 kWh/km
  • Vörubílar:   11,1 k x 25,0 kkm/ár x 1,32 kWh/km

Þegar þessi raforkuþörf mismunandi farartækja er lögð saman og bætt við flutnings- og dreifitöpum, fæst, að ný raforkuvinnsla í virkjun þarf að verða 1700 MWh/ár til að anna þessari raforkuþörf rafmagsfartækjanna.  M.v. venjulegan nýtingartíma virkjana á Íslandi þarf 230 MW virkjun til að framleiða þessa raforku, en vegna tiltölulega mikillar afltöku rafgeyma og hleðslutækja rafmagnsbifreiða, má búast við toppálagi frá þessum 280´000 (280 k) ökutækjum um 1000 MW.

Samkvæmt Orkuspárnefnd þarf að virkja 150 MW fram til 2030 til þess einvörðungu að afla raforku til aukinnar almennrar orkunotkunar. Ekki er ólíklegt, að iðnaðurinn þurfi 350 MW aukningu á 12 ára tímabili fram til 2030.  Þar með er virkjanaþörf orðin 1500 MW á næstu 15 árum eða svo, aðallega vegna orkuskipta í samgöngum á landi.  Það eru e.t.v.  10 % af þessu á döfinni, svo að ljóst er, að hér stefnir í algert óefni. 

Hvernig er forystu ríkisvaldsins fyrir orkuskiptunum eiginlega háttað, ef engin fyrirhyggja er sýnd, ekki einu sinni á formi hvatningar til orkufyrirtækjanna um að undirbúa nýja virkjanakosti og til Landsnets um að taka þetta nýja álag inn í Kerfisáætlun sína.  Þess í stað er gefið undir fótinn með að færa Orkustofnun ESB, ACER, lokaorðið um öll málefni raforkuflutninga á Íslandi og til og frá Íslandi, en Kerfisþróunaráætlun ACER felur m.a. í sér sæstrenginn Icelink á milli Íslands og Bretlands.  Þetta er gjörsamlega ótæk og pólitískt óþolandi forgangsröðun stjórnvalda.  Aðgerðaleysi og stefnumörkun í blóra við vilja almennings er eitruð blanda fyrir stjórnmálamenn, sem ætla sér framhaldslíf í pólitíkinni. 

 

 


Akkilesarhæll rafbílavæðingarinnar

Orkuberinn (orkugeymslan-rafgeymar) er Akkilesarhæll rafbílavæðingarinnar. Það stafar af litlum orkuþéttleika (kWh/kg) rafgeymanna og þar af leiðandi tiltölulega lítilli drægni. Vetni vetnisrafalanna hefur mun meiri orkuþéttleika, en orkunýtnin frá framleiðslu vetnis til nýtingar þess er hins vegar slök.

Sumir evrópskir bílaframleiðendur, sem enn hafa ekki sett alrafbíl á markaðinn, boða, að fyrsta kynslóð slíkra muni hafa drægnina 500 km á fullri hleðslu rafgeyma.  Fyrir íslenzkar aðstæður gæti það þýtt um 260 km að jafnaði yfir árið, en drægnin er mjög háð útihitastigi.  Samkvæmt reynslunni af tengiltvinnbíl höfundar gæti meðalnýtni orðið 0,35 kWh/km hérlendis, sem m.v. 90 kWh rafgeymi gefur tæplega 260 km drægni, sem er óþægilega stutt. Þróunin er hins vegar hröð, einnig í rafgeymum, svo að meðalnýtni kann að hafa batnað um 14 % á þremur árum, og þá verður meðaldrægnin 300 km á einni hleðslu árið 2019. 

Valkosturinn við rafgeyma sem orkubera er vetni, H2.  Það gefur kost á lengri drægni á einum vetnisgeymi en 300-500 km, og eru 1000 km fyrir fólksbíl sennilega ekki vandamál, þótt 500 km sé algengari drægni vetnisknúinna bifreiða nú.  Þar af leiðandi þarf færri áfyllistöðvar, og hver 100 % áfylling tekur mun skemmri tíma en hraðhleðsla frá 0 upp í 80 % af orkurýmd rafgeyma.

Orkulega séð hefur orkuberinn vetni þann alvarlega ókost, að orkunýtni hans er aðeins hálfdrættingur á við orkunýtni rafgeymisins, ef orkutöp við vinnslu vetnis eru meðtalin, og svipar þar með til beztu orkunýtni í sprengihreyflinum.  Leggja má eftirfarandi mat á orkunýtnina:

Vetni:   Aðalaðferðin við framleiðslu vetnis, H2, og sú ódýrasta er að skilja vetnissameind frá sameind eldsneytisgass, en það er hins vegar umhverfislega ósjálfbær aðferð.  Þess vegna hefur verið gripið til þess ráðs að sundra (tveimur) vatnssameindum, H2O, með rafstraumi í (tvær) vetnissameindir og eina súrefnissameind (O2).  Ferlið nefnist rafgreining, og þarf 9 kg af vatni til að framleiða 1 kg af vetni og 8 kg af súrefni.  Þetta er umhverfislega sjálfbært ferli, en kostnaðarlega varla vegna dýrs búnaðar og hárra orkutapa, sem eru um 20 %.

Efnarafalar (fuel cells) snúa þessu ferli við og nota vetni til að framleiða rafstraum og gufu.  Þeir eru enn í þróun, eru dýrir í innkaupum (lítið upplag) og dýrir í rekstri, því að orkunýtni þeirra er lág, aðeins um 50 %.  Heildarnýtni vetnisvinnslu og efnarafala:

HNvetni = 0,8 x 0,5 = 40 % (um 30 % að hjólum)

Með sams konar hugleiðingu má leggja mat á nýtni rafbíls með rafgeyma.  Töp við hleðslu rafgeymanna eru um 10 % (gleymist oft, þegar raforkukostnaður rafbíls er reiknaður).  Töp við afhleðslu rafgeymanna eru um 10 %.  Heildarnýtni rafgeyma inn og út:

HNrafg = 0,9 x 0,9 = 81 % (um 65 % að hjólum)

Rafgeymarnir nýta orkuna rúmlega tvöfalt betur en vetnisrafalinn.  Þetta er mikill kostur, en dugar rafgeymunum samt ekki til ótvíræðra yfirburða sökum þess, að þeir hafa enn stórgalla.  Orkuþéttleiki og þar með drægni á hleðslu er miklu minni en vetnisrafalans, og það eru fyrir hendi alvarlegir flöskuhálsar við útvegun torgæfra málma í algengustu rafgeymana, s.k. liþíumrafgeyma.  Verður nú gerð grein fyrir þeim með vísun til The Economist, 24. marz 2018, bls. 65-66:

Kobalt-málmurinn dregur nafn sitt af Kobold, stríðnum þýzkum búálfi, sem hélt sig mikið neðanjarðar samkvæmt þjóðtrúnni.  Kobalt villti um fyrir námuverkamönnum um aldir með því að líta út fyrir að vera verðmætur málmur, en var svo verðlaus og jafnvel skaðlegur, þegar til kastanna kom.  Enn er hætt við, að kobalt valdi vandræðum, nú á stækkandi markaði rafgeyma fyrir rafbíla, sem hver um sig þarf 10 kg af kobalti.  Uppruni vandræðanna er ekki í Þýzkalandi í þetta skiptið, heldur í Kína.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að meira en helmingur þekkts kobalts í jörðu og meira en helmingur vinnslu þess úr jörðu á sér stað í hinu óstöðuga "Lýðræðislega lýðveldi Kongó".  Það er síður þekkt, að 80 % af úrvinnslu kobaltsúlfíða og kobaltoxíða, sem notuð eru í bakskaut liþíum-rafgeymanna, fer fram í Kína.

Mikið af eftirstandandi 20 % úrvinnslunnar á kobaltinu fer fram í Finnlandi, en hráefnið í hana kemur líka frá námu í Kongó, sem að meirihluta til er í eigu kínversks fyrirtækis, "China Molybdenum".

Þann 14. marz 2018 þyngdust áhyggjur bílaframleiðenda og annarra vegna kverkataks Kínverja á kobalt-vinnslu heimsins, þegar GEM, kínverskur rafgeymaframleiðandi, tilkynnti, að hann myndi kaupa þriðjung af kobalti Glencore, stærsta kobaltnámufyrirtækis heims, á árabilinu 2018-2020, jafngildi helmings af heimsframleiðslunni, 110 kt, árið 2017.  

Það er líklegt, að þetta leiði til áframhaldandi verðhækkana á kobalti, en það hefur hækkað úr 26,5 kUSD/t árið 2016, rétt áður en miklar verðhækkanir hófust, og upp fyrir 90 kUSD/t á fyrsta fjórðungi 2018. Núverandi einingarverð á kobalti er meira en 40 sinnum hærra en núverandi verð á óunnu áli á markaði.  Það er til mikils að vinna að þróa nýja gerð rafgeyma, sem t.d. nýta ál (álrafgeymar).

Þessa gríðarlegu áherzlu Kínverja á að tryggja sér hörgulefnið kobalt má rekja til örvæntingarfullra aðgerða þeirra til að tryggja framgang metnaðarfullra ríkisáætlana Kína um að stórauka framleiðslu rafmagnsbíla fyrir innanlandsmarkað til að draga úr hættulegri loftmengun í stórborgum Kína.  Hún veldur tugþúsunda dauðsfalla á ári og er orðin mikið óánægjuefni á meðal borgarbúa í Kína í garð yfirvalda. 

George Heppel hjá ráðgjafarfyrirtækinu CRU segir, að auk kaupa GEM á þriðjungi kobalts frá Glencore, muni kínverska Molybdenum hugsanlega flytja kobaltið sitt frá Kongó til Kína fremur en til Finnlands, og þar með mundu Kínverjar ráða yfir 95 % af kobaltvinnslu heimsins.  Stórir notendur kobalts eru tæknifyrirtæki í Japan og í Suður-Kóreu, og þar hafa menn miklar áhyggjur af ríkjandi stöðu Kínverja sem kobaltbirgjar og ekki að ástæðulausu, ef litið er til reynslunnar af kínverskum yfirvöldum. 

Fáir markaðsgreinendur eiga von á bættu jafnvægi á kobaltmarkaðinum á næstunni.  Námugröfturinn mun líklega vaxa í Kongó, en vaxtarhamlandi verður vafalaust nýleg fimmföldun námuleyfisgjalds fyrir kobalt þar í landi.  Fjárfestingar í kobaltnámum annars staðar auka framboðið varla, því að þar er kobalt aukaafurð við gröft eftir kopar og nikkel.  Jafnvel á núverandi verði er magnþörfin of lítil til að réttlæta framleiðsluaukningu á kobalti þar einvörðungu. Þessi staða kallar á nýjar lausnir með nýjum efnum. 

Eftirspurnaraukning kobalts getur orðið gífurleg, ef spurn eftir rafbílum vex, eins og vonir standa til alls staðar í heiminum.  Mest af kobaltinu fer nú í rafhlöður snjallsíma og ofurmelmi inni í hverflum þotuhreyflanna, en til að anna spurn eftir rafbílum gæti þörf fyrir kobalt í rafgeyma rafbíla aukizt úr 9 kt árið 2017 í 107 kt árið 2026, sem svarar til 10,7 M rafgeyma 2026 í nýja rafbíla, sem verða tæplega 10 % nýrra bíla.  Að auki verða sennilega nokkrar milljónir nýrra bifreiða árið 2026 með vetnisrafala, þannig að allt að 15 % nýs bílaflota gæti þá orðið rafknúinn.  

Hækkandi verð á kobalti mun kannski leiða til nýrrar námuvinnslu, en rafgeymaframleiðendur utan Kína eru samt nú þegar farnir að huga að öðrum valkostum til að verjast kobaltskorti.  Þeir horfa þá til málmsins nikkels.  

Algengustu málmarnir í málmblöndu bakskauta rafgeyma rafbílanna eru nikkel, mangan og kobalt, nefnd NMC, og nikkel, kobalt og ál, nefnd NCA.  Vegna verðhækkana og skorts á kobalti hafa sumir framleiðendur framleitt kobaltrýr bakskaut með því að auka nikkelinnihaldið í að verða áttfalt kobaltmagnið.  Þetta eykur orkurýmd rafgeymanna, en flækir framleiðsluferli bakskautsins, og hættara verður við íkviknun í rekstri rafgeymanna.  Kúnstin er að finna rétta hlutfallið á milli málmanna.

Aukin spurn eftir nikkeli hefur enn ekki leitt til verðhækkana á því vegna offramleiðslugetu frá 2011, þegar verðið lækkaði úr 29 kUSD/t undir 10 kUSD/t árið 2017.  Árið 2017 var framleiðsla nikkels fyrir rafgeyma rafbíla aðeins 35 kt af heildarframleiðslu nikkels, 2,1 Mt.  McKinsey-ráðgjafinn býst við 16-faldri eftirspurnaraukningu árið 2025 upp í 550 kt frá rafgeymaverksmiðjum fyrir rafbíla.  

Þær takmarkanir á frjálsum markaði fyrir bakskautaefni í rafgeyma, sem hér hafa verið reifaðar, eru líklega meginástæða þess, að japanskir og suður-koreanskir bílaframleiðendur verja nú háum upphæðum til þróunar á vetnisrafalanum og á vetnisgeyminum fyrir rafbíla.  Það er mun einfaldara að auka drægni á hverri hleðslu þessara bíla en rafbíla, sem knúnir eru liþíumrafgeymum.  Það mun verða spennandi barátta um rafbílamarkaðinn á milli þessara tvenns konar tæknilausna, sem hér hafa verið nefndar.

Þriðja lausnin getur hæglega rutt hinum tveimur úr vegi, a.m.k. í stórum farartækjum og vinnuvélum.  Það er þóríum-kjarnorkuverið, sem hægt á að verða að sníða að þörfum notandans á mjög stóru stærðarbili, alveg niður í 10 kW.  Helmingunartími úrgangsins er stuttur og geislavirknin nægilega lítil fyrir almenna notkun.  Ending slíks orkugjafa í bíl yrði ekki skemmri en ending bílsins. Á næsta áratugi mun skýrast, hvað ofan á verður í orkuskiptum samgöngugeirans á láði, legi og í lofti.   

 

 

 

 


Sjókvíaeldi og landeldi á laxi

Það eru ranghugmyndir ríkjandi hérlendis um erfðafræðilega hættu, sem að íslenzkum laxastofnum steðja af völdum takmarkaðs laxeldis í sjókvíum hér við land undir eftirliti íslenzkra stofnana.  Það liggur við, að segja megi, að fullpúrítanskra sjónarmiða gæti varðandi sambýli hins norskættaða eldisstofns á Íslandi og villtu íslenzku stofnanna í íslenzkum laxveiðiám. Eldisstofninn er þó orðinn svo háður sínu kvíaumhverfi og fóðrun þar, að hann á mjög erfitt uppdráttar í náttúrulegu umhverfi, ef hann sleppur. Hann er í raun orðinn svo úrkynjaður, að útilokað er, að hann geti sett mark sitt á íslenzka stofna eða valdið tjóni á erfðamengi þeirra.

  Sá norskættaði eldisstofn, sem hér er notazt við, er ekki erfðabreyttur, heldur þróaður í margar kynslóðir til skilvirks búskapar í sjókvíum.  Almennt eru varúðarmörk erfðablöndunar sett við stöðugt 8 % hlutfall aðskotalax af villtum hrygningarlaxi í á, en á Íslandi eru þessi varúðarmörk þó sett við 4 %. Út frá sleppilíkum og fjölda villtra laxa í nærliggjandi ám er leyfilegt eldismagn á tilteknu svæði ákvarðað, að teknu tilliti til burðarþols viðkomandi fjarðar.

Sumir vísindamenn á þessu sviði halda því fram, að hætta verði fyrst á skaðlegum áhrifum erfðablöndunar við yfir 30 % eldislax af villtum laxi stöðugt í á í  meira en áratug samfellt. Miðað við, hversu langt innan hættumarka íslenzka laxeldið verður alltaf, jafnvel þótt núverandi burðarþolsmörkum Hafrannsóknarstofnunar verði náð, þá stappar það nærri móðursýki, hvernig sumir gagnrýna og vara við eldi á þessum norskættaða stofni í sjókvíum við Ísland.  Rekstrarleyfin þarf að ákvarða í ljósi áhættu, þ.e. líkindum og afleiðingum, og ávinnings. Nýleg ákvörðun Hafrannsóknarstofnunar um frestun endurskoðunar á áhættumati fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi og óljós hugmynd um tilraunaeldi þar ollu vonbrigðum í þessu ljósi.  

Tæknilegar kröfur til fiskeldisins vaxa stöðugt og eftirlitið verður jafnframt strangara samkvæmt lögum í bígerð.  Í umræðum á Alþingi 10. apríl 2018 um frumvarp sitt, sem þá var til umræðu, sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

"Það er alveg rétt, að hér er verið að gera grundvallar breytingu, ef svo mætti að orði komast, á starfsemi fiskeldisfyrirtækja og því, sem snýr að eldi í íslenzkum sjó."

Með frumvarpi ráðherra eru meginbreytingarnar þær, að áhættugreining á erfðablöndun verður gerð reglulega og ráðlegt eldismagn endurskoðað í kjölfarið, eldissvæði verður skilgreint og því úthlutað samkvæmt hagstæðasta tilboði frá eldisfyrirtæki, auk þess sem gæðastjórnunarkerfi með innra eftirlitskerfi verður skylda í hverju starfræktu fiskeldisfyrirtæki á og við Ísland. Norski gæðastjórnunarstaðallinn NS 9415, sem er sá strangasti á sínu sviði í heiminum, verður hafður til viðmiðunar. Í húfi fyrir eldisfyrirtækin, ef þau standa sig ekki, er starfsleyfið.  Þetta fyrirkomulag girðir fyrir fúsk og knýr eldisfyrirtækin til stöðugra umbóta.

Með frumvarpinu er Hafrannsóknarstofnun falið að áhættumeta starfsemina á hverju svæði með mest 3 ára millibili.  Í júlí 2017 gaf Hafrannsóknarstofnun í fyrsta skipti út áhættumat vegna erfðablöndunar laxa.  Þá réð stofnunin frá veitingu starfs- og rekstrarleyfa í Ísafjarðardjúpi og Stöðvarfirði vegna nálægðar við laxveiðiár.  Í heildina taldi stofnunin þá óhætt að ala 50 kt/ár af frjóum laxi á Vestfjörðum og 21 kt/ár á Austfjörðum og til viðbótar alls 61 kt/ár af ófrjóum laxi, alls 132 kt/ár.  

Í Morgunblaðinu 6. júlí 2018 var fjallað um nýtt áhættumat Hafrannsóknarstofnunar frá júlí 2018 undir fyrirsögn á bls. 2:

"Áfall fyrir byggðir landsins":

""Þetta kemur okkur auðvitað í opna skjöldu. Við höfum unnið í góðri trú með Hafrannsóknarstofnun í hér um bil eitt ár, þar sem settar voru fram hugmyndir, sem gætu leitt til aukinna framleiðsluheimilda", segir Einar [K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva], en hann telur, að allar efnislegar forsendur hafi verið fyrir hendi til endurskoðunar.  

"Þetta er mikið áfall fyrir atvinnugreinina og fyrirtækin, en ekki síður fyrir þær byggðir, sem höfðu bundið vonir við endurskoðun áhættumatsins vegna þess, að fiskeldismenn höfðu lagt til nýjar eldisaðferðir til að draga úr hættu á erfðablöndun", segir hann.

Í tilkynningu á vef Hafrannsóknarstofnunar segir um ákvörðunina, að í lögum sé ekki heimild til að draga úr eldi, sem leyft hafi verið á grunni áhættumats, reynist leyfilegt eldi vera of mikið.  Því sé ekki ráðlegt að breyta áhættumatinu.""

Þetta er hundalógikk hjá stofnuninni, og hún virðist hér komin út í orðhengilshátt gagnvart fiskeldisfyrirtækjunum.  Rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á einum stað má einfaldlega aldrei fara yfir burðarþolið eða niðurstöðu áhættumats á tilteknu svæði, eftir því hvor talan er lægri.  Hafi fiskeldisfyrirtækið þegar greitt fyrir starfs- og rekstrarleyfi samkvæmt fyrri úthlutun, fær það einfaldlega endurgreiddan mismuninn á grundvelli nýrra vísindalegra niðurstaðna, um leið og það dregur úr framleiðslu samkvæmt áhættumati.  Það er einhvers konar skálkaskjól fyrir Hafrannsóknarstofnun að neita að hækka áhættumatið á grundvelli beztu þekkingar, af því að Alþingi hafi ekki beinlínis fyrirskipað, að fyrirtækin skuli jafnan breyta eldismagni í kjölfar nýrra niðurstaðna áhættumats.  

Hér er Hafrannsóknarstofnun komin út fyrir vísindalegan ramma sinn.  Stjórn stofnunarinnar ber að rýna þessa ákvörðun gaumgæfilega og óska eftir útgáfu nýs áhættumats í stað óljósra fyrirætlana stofnunarinnar um tilraunaeldi í Ísafjarðardjúpi.  Hagur fólksins, sem býr í viðkomandi byggðum, skal njóta vafans, auk þess sem um þjóðhagslega mikilvægan vaxtarbrodd í atvinnulífinu er að ræða.  Þetta á ekki sízt við, þar sem líkurnar eru 0 á óafturkræfum breytingum á einstæðu íslenzku lífríki (það eru engir sértækir íslenzkir laxastofnar í viðkomandi þremur ám í Ísafjarðardjúpi, þeir eru aðfluttir).

Jónatan Þórðarson, fiskeldisfræðingur, ritaði merka grein í Fréttablaðið 22. marz 2018, sem hann nefndi:

"Frey Frostasyni svarað vegna vistspors sjókvíaeldis":

"Svo virðist sem þeir, sem andmæla sjókvíaeldi, séu almennt fylgjandi eldi á landi.  Því er ekki úr vegi að bera saman þessa tvo valkosti, en undirritaður rak stærstu landeldisstöð heims í 16 ár og er því afar vel kunnugur málavöxtum, en hefur varið undanförnum 8 árum í að endurreisa sjókvíaeldi við strendur Íslands.  

Þegar horft er til vistspors laxaframleiðslu eða próteinframleiðslu almennt, er gjarnan litið til 4 þátta:

  1. Hve mikillar orku krefst framleiðslan ?
  2. Hvað verður um úrgang, sem fellur til ?
  3. Hver eru áhrif hugsanlegrar genablöndunar vegna stroks kynbætts eldisfisks ?
  4. Hvað kostar fjárfestingin við framleiðslu á hvert kg í vistspori, og hve mikið er hægt að endurvinna af búnaðinum ?

Fyrirliggjandi staðreyndir eru eftirfarandi:

 
  1. Það kostar 7 kWh af raforku að framleiða 1 kg af laxi í landeldi, þ.e.a.s. að færa laxinum súrefni og fjarlægja úrgangsefni.  Í sjókvíaeldi kostar þetta enga orku.  Ísland á hreina orku, sem hægt er að nota til þessarar framleiðslu, en hún er takmörkuð auðlind og ekki mikið rafmagn til í kerfinu fyrir stórskala framleiðslu.  Frekari virkjanaframkvæmdir eru umdeildar. [Fyrir t.d. 50 kt/ár þyrfti 350 GWh/ár af raforku, sem er tæplega 2 % af núverandi raforkunotkun landsins.  Raforkukostnaðurinn við landeldið er hár og nemur um 15 % af söluandvirði framleiðslunnar, sem dregur að sama skapi úr framlegð starfseminnar-innsk. BJo.]
  2. Úrgangsefni, sem verða til við framleiðsluna í landeldi, er hægt að fanga að miklu leyti og nýta sem áburð, en eigi að síður endar seyran inni í stóra nítur- og fosfathringnum á endanum.  Úrgangur frá sjókvíaeldi fellur að einhverju leyti til botns, en leysist allur upp að lokum og endar með sama hætti inni í stóra nítur- og fosfathringnum.  Þannig er þessi þáttur m.t.t. vistspors afar umdeilanlegur [og sennilega sambærilegur að stærð-innsk. BJo].  
  3. Strok verður æ minna með árunum og búnaðurinn betri og betri með hverju ári, sem líður, með sama hætti og öll önnur tæki þróast með tímanum.  Enginn framleiðandi vill, að lax sleppi, þannig að hvatinn er augljós.  Klárlega má fullyrða, að strok er minna úr strandstöðvum, ef vandað er til verks.  Um neikvæð eða jákvæð áhrif genablöndunar er erfitt að fullyrða, og líffræðingar eru afar ósammála um þennan þátt umræðunnar.  Það vegur hins vegar þungt að benda á rauntölur um afkomu norska laxastofnsins sem afleiðu af auknu eldi.  Hér er um sögulegar rauntölur að ræða, en ekki framreiknaðar tölur, byggðar á veikum faglegum grunni og lélegum rannsóknum.  Þar er ekki hægt að merkja, að aukið eldi hafi neikvæð áhrif á afkomu laxastofnsins í Noregi, þar sem villilaxastofninn þar hefur vaxið hin síðari 15 ár og laxeldi á sama tíma vaxið tífalt. [Hræðslusögur hérlendis af slæmu ástandi villtu norsku laxastofnanna, sem gríðarlegu laxeldi meðfram strönd Noregs hefur verið kennt um, eru algerlega á skjön við þessar staðreyndir Jónatans Þórðarsonar.  Stóryrtar og innihaldslausar fullyrðingar ásamt hrakspám um afleiðingar aukins sjókvíaeldis á laxi hérlendis styðjast ekki við annað en neikvæðar getgátur og þaðan af verra-innsk. BJo.]
  4. Erfitt er að fullyrða, að allar byggingar, sem byggðar eru í landeldi, séu endurnýjanlegar.  Afskriftartími sjókvía er 10-15 ár.  Net, kaðlar og kvíar eru að fullu endurnýttar.  Hér hefur sjókvíaeldi klárlega vinninginn.
Af þessu má ráða, að með nútímatækni við laxeldið sé sjókvíaeldi hreinlega vistvænna en landeldi.  Kostnaður við sjókvíaeldi er mun lægri en við landeldi á hvert framleitt tonn.  Landeldi laxins er þannig ekki samkeppnishæft við sjókvíaeldið.  Það verður þó ljóslega valkostur í framtíðinni, t.d. þar sem jarðhita er að hafa, þegar þolmörkum í leyfðum eldisfjörðum verður náð.
 
Gelding eldislax er á rannsóknar- og tilraunastigi.  Geltur lax hefur hingað til þrifizt illa og orðið mikil afföll við eldið. Óvíst er, hvernig markaðurinn tekur slíkri matvöru.  Það er tómt mál að tala um slíkt sjókvíaeldi við Ísland í umtalsverðum mæli á næstu 5 árum.
 
Áberandi tortryggni gætir víða hérlendis í garð sjókvíaeldis á laxi, mest þó á meðal veiðiréttarhafa og laxveiðimanna.  Fortíð fiskeldis á nokkra sök á þessu.  Með miklum norskum fjárfestingum í greininni hérlendis hefur hins vegar eldisþekkingu vaxið fiskur um hrygg og búnaður, tækni og gæðastjórnun, tekið stakkaskiptum til hins betra. Þá hefur lagaumhverfi greinarinnar skánað. Strokhlutfall úr eldiskvíum og upp í íslenzkar laxveiðiár er einfaldlega  orðið svo lágt, að óþarfi er að hafa áhyggjur af skaðlegum áhrifum erfðablöndunar, enda mun Hafrannsóknarstofnun endurskoða áhættumat sitt á mest þriggja ára fresti til lækkunar eða hækkunar á grundvelli fenginnar rekstrarreynslu á hverjum stað.
 
Laxeldið gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í atvinnulífi og byggðaþróun á Vestfjörðum og Austfjörðum. Starfsemin er þegar farin að gegna þjóðhagslegu hlutverki, og hún hefur burði til að verða einn af vaxtarbroddum gjaldeyrisöflunar á næstu árum.  Til að viðhalda hagvexti og jákvæðum viðskiptajöfnuði þurfa útflutningstekjur landsins að aukast um 50 miaISK/ár í næstu framtíð.  Útflutningstekjur laxeldis eru nú um 15 miaISK/ár og geta hæglega aukizt upp í 100 miaISK/ár að landeldi meðtöldu á einum áratugi.  Til þess verða stjórnvöld þó að sníða greininni sanngjarnan stakk og leyfa henni að vaxa, eins og hún kýs, innan ramma núverandi svæðistakmarkana og "lifandi" burðarþolsmats og áhættumats innan þessara leyfðu svæða.   
 

 


Friðunarárátta úr böndunum

Ef beita á náttúrufriðunarvaldinu til að stöðva virkjunaráform, sem hlotið hafa blessun Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun um vernd og nýtingu orkulinda, hafa fengið samþykki Alþingis og Skipulagsstofnunar, sem skrifað hefur upp á með skilyrðum, þá jafngildir það því að slíta í sundur það friðarferli, sem stjórnvöld landsins hafa reynt að mynda um auðlindanýtingu á landi. 

Það er alveg dæmalaust, að umhverfis- og auðlindaráðherra skuli ljá máls á tillögu Náttúrustofnunar Íslands frá 25. júní 2018 um friðlýsingu á væntanlegu athafna- og nýtingarsvæði Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði.  Um er að ræða stækkun friðlandsins á Hornströndum til suðurs, um 1281 km2 svæði suður um Ófeigsfjarðarheiði.  

Það er ósvífni að hálfu ríkisstofnunar og ólýðræðislegt í hæsta máta af Náttúrustofnun að leggja það til, að ríkið grípi fram fyrir hendur heimamanna, Vestfirðinga og íbúa í Árneshreppi sérstaklega, sem unnið hafa í mörg ár samkvæmt lögskipuðum ferlum að undirbúningi 55 MW, 400 GWh/ár, vatnsaflsvirkjunar á Ströndum, með því að biðja ráðherra um að leggja nýja náttúruminjaskrá um téð svæði fyrir Alþingi í haust.  Þessa aðför að sjálfbæru mannlífi og atvinnulífi á Vestfjörðum á að kæfa í fæðingunni, og það mun Alþingi vonandi gera, því að til þess hefur ráðherra þessi ekki bein í nefinu. 

Hann skrifaði 13. júní 2018 í Fréttablaðið grein um áhugamál sitt:

"Stórfelld tækifæri við friðlýsingar"

"Síðastliðinn föstudag [08.06.2018] kynnti ég í ríkisstjórn áform um átak í friðlýsingum, en í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um það.  Átakið felur í sér að friðlýsa svæði, sem njóta eiga verndar gegn orkunýtingu (verndarflokkur rammaáætlunar) sem og svæði á eldri náttúruverndaráætlunum, sem ályktað hefur verið um að friðlýsa, en hefur ekki verið lokið."

Friðlýsing svæða í nýtingarhluta Rammaáætlunar er þarna ekki á dagskrá ráðherrans, enda eru slík endemi ekki í sáttmála núverandi ríkisstjórnar, þótt þar kenni ýmissa grasa.  Ráðherrann er á pólitísku jarðsprengjusvæði með því að gefa undir fótinn með friðlýsingu á téðu landsvæði.  Hann ætti að forðast að fara fram með offorsi í hinar friðlýsingarnar án samstarfs við og samþykkis viðkomandi sveitarstjórna, bænda og annarra landeigenda.  Friðlýsingu má ekki troða upp á heimamenn af ríkisvaldinu.

Það mun fara eins lítið fyrir Hvaleyrarvirkjun í náttúrunni og hugsazt getur.  Hún verður neðanjarðar að öðru leyti en stíflunum.  Aflið frá henni verður flutt um jarðstreng.  Flúðarennsli verður áfram, þótt það minnki á meðan vatnssöfnun í miðlunarlón á sér stað.  Hönnun er sniðin við lágmarks breytingar á umhverfinu, þannig að útivistargildi svæðisins verður nánast í fullu gildi áfram, þótt verðmætasköpun aukist þar skyndilega úr engu og í meira en 2,4 miaISK/ár, sem gæti orðið andvirði raforkusölunnar frá virkjun m.v. núverandi markaðsverð.  Þessi starfsemi getur orðið fjárhagsleg kjölfesta sveitarfélagsins, sem hýsir mannvirkin, á formi fasteignagjalda og auðlindargjalds o.fl.

Þann 26. júní 2018 staðfesti Skipulagsstofnun loksins breytingu á Aðalskipulagi Árneshrepps vegna framkvæmdanna.  Skipulagsstofnun setti sem skilyrði, að vegagerð yrði í algjöru ágmarki og henni sleppt, þar sem hægt væri.  Þetta er þó ekki til þess fallið að bæta mikið aðgengi ferðamanna að svæðinu, svo að áfram munu þá þeir einir komast þar víða um, sem fráir eru á fæti.  

Þann 7. júní 2018 birtist ágæt grein í Morgunblaðinu eftir Kristin H. Gunnarsson, fyrrverandi Alþingismann, undir fyrirsögninni:

"Hvalá: stórstígar framfarir fyrir Vestfirðinga".

Hún hófst þannig:

"Hvalárvirkjun í Árneshreppi mun verða mikið framfaraskref fyrir Vestfirðinga.  Afhendingaröryggi raforku mun batna mikið, framboð af raforku mun opna möguleika á nýrri atvinnustarfsemi, og útblástursmengun mun minnka verulega.  Þessu verður hægt að ná fram með litlum tilkostnaði hins opinbera, þar sem einkaaðilar munu standa straum af framkvæmdum.  Hvalárvirkjun er 55 MW virkjun og hefur tvisvar verið samþykkt í nýtingarflokk og staðfest af Alþingi."

Þetta eru sterk rök fyrir nytsemi þessarar virkjunar.  Virkjunin er ekki "nice to have" fyrir Vestfirðinga, heldur bráðnauðsynleg til þess, að raforkukerfi Vestfjarða standi undir nafni, en sé ekki hortittur út úr hringtengingu landsins frá Hrútatungu í Hrútafirði.  Til að halda uppi rafspennu í víðfeðmu raforkukerfi, eins og á Vestfjöðum, þarf öflugar virkjanir, og núverandi virkjanir þar hrökkva engan veginn til.  Mikið spennufall jafngildir tiltölulega háum töpum og óstöðugri spennu.  Aðeins hækkun skammhlaupsafls í raforkukerfi Vestfjarða getur dregið þar úr orkutöpum og gefið stífari spennu.  Þetta er síðan skilyrði þess, að tæknilega verði unnt að færa þar loftlínur í jörðu; aðgerð, sem draga mun úr bilanatíðni kerfisins og bæta ásýndina.  Þessar umbætur eru útilokaðar án framkvæmda á borð við Hvalárvirkjun. Jarðstrengir framleiða síðan rýmdarafl, sem virkar enn til spennuhækkunar og aukinna spennugæða á Vestfjörðum, en aukning skammhlaupsafls með nýjum virkjunum á svæðinu verður að koma fyrst.

Kristinn nefnir framtíðar möguleika til enn meiri styrkingar kerfisins, sem aukin raforkunotkun á Vestfjörðum mun kalla á.  Þar er t.d. Austurgilsvirkjun í Skjaldfannardal, sem er í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3.  Þannig eru 85 MW í nýtingarflokki og um 50 MW enn ekki þar.  Alls eru þetta 135 MW með áætlaða vinnslugetu 850 GWh/ár.

Kristinn benti ennfremur á mikilvægi öflugs vestfirsks raforkukerfis fyrir raforkuöryggi landsmanna.  Þar hefur hann mikið til síns máls, því að á Vestfjörðum þarf hvorki að búast við tjóni af völdum jarðskjálfta né eldgosa.  Ofangreint rafafl mundi duga fyrir algera lágmarksnotkun landsmanna í mikilli neyð, þar sem skömmtun yrði að viðhafa.  Vinnslugeta margra virkjana landsmanna getur skyndilega rýrnað verulega, t.d. í jarðskjálftum, þar sem gufuholur verða óvirkar, og/eða í eldgosum, þar sem aska og vikur leggst á miðlunarlón, stíflar vatnsinntakið eða skemmir hverflana.  Vesturlína getur flutt um 100 MW hvora leið.

Af öðru sauðahúsi er annar höfundur um sama efnivið, Tómas, nokkur, Guðbjartsson, "læknir og náttúruverndarsinni".  Hann hefur um hríð fundið hjá sér hvöt til að finna virkjunaráformum í Hvalá allt til foráttu og verið stóryrtur í garð virkjunaraðilans og eigenda hans.  Umfjöllun Tómasar hefur verið mjög einhliða og gildishlaðin, þótt siðferðislega virðist  hann ekki hafa úr háum söðli að detta, ef marka má fréttaskýringu Guðrúnar Erlingsdóttur í Morgunblaðinu 29. júní 2018,

"Háskólinn hefur beðist velvirðingar".

Þar gaf m.a. þetta á að líta:

"Í nóvember 2017 komst sænska siðanefndin að þeirri niðurstöðu, að Macchiarini og meðhöfundar hans [Tómas Guðbjartsson var þeirra á meðal-innsk. BJo] að vísindagreininni í The Lancet hefðu gerzt sekir um vísindalegt misferli." 

Það er mikill áfellisdómur yfir manni, óháð stétt, þegar slíkur aðili sem téð siðanefnd lýsir tilteknum starfsháttum hans sem "vísindalegu misferli".  Væntanlega má almenningur draga af því þá ályktun, að brestur sé í siðferðiskennd þeirra, sem slíkt drýgja.

Síðan segir í tilvitnaðri frétt Guðrúnar Erlingsdóttur:

"Í júní 2018 úrskurðar rektor Karólínsku stofnunarinnar með 38 blaðsíðna rökstuðningi, að Tómas Guðbjartsson ásamt 6 öðrum læknum sé ábyrgur fyrir vísindalegu misferli vegna greinaskrifa í The Lancet árið 2012, en áður en greinin birtist hafði New England Journal of Medicine hafnað greininni."

Þann 19. júní 2018 birtist ein af fjölmörgum greinum téðs Tómasar um fyrirhugaðar framkvæmdir Vesturverks á Ströndum.  Hún hófst þannig:

"Fyrirhuguð Hvalárvirkjun hefur mikið verið til umræðu undanfarið, enda vægast sagt umdeild framkvæmd.  Ástæðan er sú, að með virkjun er verið að fórna stórkostlegri íslenzkri náttúru í hendur HS Orku-jarðhitafyrirtækis í meirihlutaeign umdeildra kanadískra fjárfesta.  Auk þess er ávinningur virkjunar vægast sagt óljós fyrir Vestfirðinga og þá ekki sízt íbúa Árneshrepps."  

Það er með endemum, að maður, með slíka umsögn á bakinu og fram kemur í tilvitnunum frá Svíþjóð hér að ofan, skuli fara á flot í blaðagrein hérlendis með svo gildishlaðna frásögn og hér getur á að líta.  Þótt ekki séu allir sammála um, að rétt sé að fara í þessar framkvæmdir, er gert of mikið úr ágreininginum, þegar gætt er að afgreiðslum Alþingis á málinu og afstöðu sveitarstjórnarinnar fyrir og eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar.  Þá eru líklega langflestir Vestfirðingar fylgjandi því, að framkvæmda- og virkjanaleyfi verði veitt.  Það er hins vegar engu líkara en allir tilburðir Tómasar í þessu máli séu til þess ætlaðir að magna upp ágreining um mál, sem víðtæk sátt hefur þó náðst um.

Að halda því fram, að fyrir þeim fjölda fólks, sem fylgjandi eru þessum framkvæmdum, sem og yfirvöldum landsins, sé ávinningurinn óljós, er mjög afbrigðilegt, enda hefur ávinningurinn oft komið fram opinberlega, og er að nokkru saman tekinn í þessum pistli.  Í ljósi þess, að virkjun þessi verður algerlega afturkræf, er fjarstæðukennt að skrifa, að um fórn til kanadískra fjárfesta sé að ræða á íslenzkri náttúru.  Slík skrif Tómasar eru marklaus.

 

   

 


Umhverfisverndarstefna í skötulíki

Stefna íslenzkra yfirvalda um verndun umhverfis er óbeysin.  Þau hafa skuldbundið landsmenn til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda mikið, eða um 20 % árið 2020 og 40 % árið 2030 m.v. 1990.  Reyndin er sú, að hún verður um 30 % meiri árið 2020 en 1990, og engin trúverðug áætlun hefur litið dagsins ljós um að ná 40 % markinu árið 2030. 

Gróðurfarslegt ástand landsins er slæmt, og hægagangur á að hamla skemmdum lands af völdum ferðamanna, sem víða eru miklu fleiri en takmarkaðar eða engar mótvægisaðgerðir réttlæta.

Við þessar aðstæður mátti lesa þetta í frétt Fréttablaðsins, 25. júní 2018,

"Hefji undirbúning til að kaupa losunarheimildir fyrir Ísland":

"Vinna við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er einnig á eftir áætlun, en hún átti að liggja fyrir á vormánuðum [2018].  Vinnan er leidd af umhverfis- og auðlindaráðherra, en fulltrúar 6 annarra ráðherra koma að vinnu verkefnisstjórnar."

Það er engu líkara en stjórnvöld telji að sinni hálfu nóg að gert með því að leggja á kolefnisgjald og hækka það árlega.  Jafnvel þetta kolefnisgjald er illa ígrundað.  Það er ekki eyrnamerkt, þannig að það veitir engin sóknarfæri á sviðum, þar sem virkilega mundi muna um það í umhverfisvernd, eins og síðar verður að vikið.  Kolefnisgjaldið er lagt á fljótandi jarðefnaeldsneyti, s.s. dísilolíu, svartolíu og benzín. Gjaldið var sett á í neyzlustýringarskyni, fyrst til að örva kaup á dísilbílum og síðan til að flýta fyrir orkuskiptum.  Þar sem það hefur verið lagt á erlendis, hafa þar af leiðandi aðrir skattar verið lækkaðir á móti, svo að tekjuöflun ríkissjóðs stæði óbreytt.  Segja má, að gjaldalegar ívilnanir til rafbílakaupenda hafi verið vísir að slíkri mótvægisaðgerð hérlendis (u.þ.b. 1 miaISK/ár).

Gera má ráð fyrir, að kolefnisgjald skili ríkissjóði miaISK 5,5 í ár og miaISK 6,6 árið 2020.  Stuðningsaðgerðir við orkuskiptin, sem kostaðar eru af ríkissjóði, nema árlega mun lægri upphæðum. Stjórnvöld eru enn á villigötum með innheimtu og ráðstöfun kolefnisgjalds.  Skortur á stefnumörkun tefur fyrir orkuskiptum.  Stjórnvöld eru enn sem komið er hemill fremur en hvati á orkuskiptin, enda hafa þau ekki einu sinni getað tryggt næga raforku til allra landshluta. Á meðan slíkt herfilegt misrétti er við lýði í landinu, að sum héruð séu í raforkusvelti, eru stjórnvöld með allt á hælunum í orkuskiptamálum.   

Einn er sá gjaldstofn kolefnisgjalds, sem bæði er ósanngjarnt og óskynsamlegt að nota, ef álagningin er í þágu orkuskipta.  Þetta eru eldsneytiskaup sjávarútvegsins hérlendis.  Að nota þennan gjaldstofn ósanngjarnt af tveimur ástæðum:

  Í fyrsta lagi hefur sjávarútvegurinn einn allra atvinnugreina nú þegar náð markmiðum ríkisstjórnarinnar um 40 % minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 en 1990.  Fyrir þetta ber að umbuna honum með því að fella kolefnisgjöld af eldsneytiskaupum hans niður og mynda þannig árangurshvata fyrir aðra.  50 % hækkun kolefnisgjalds um síðustu áramót leiddi til 4 % hækkunar á eldsneytiskostnaði sjávarútvegsfyrirtækja, sem er annar stærsti útgjaldaliður sjávarútvegsfyrirtækja á eftir launakostnaði. Á tímum 50 % hækkunar á heimsmarkaðsverði eldsneytis sýnir þessi gjörningur óvitaskap stjórnvalda, sem láta stjórnast af þokukenndri hugmyndafræði í stað markaðsstaðreynda. 

  Í öðru lagi nýtur fiskiskipafloti flestra hinna EES-landanna, t.d. Noregs, Danmerkur, Þýzkalands og Portúgals, undanþágu frá kolefnisgjaldi, eða þeir njóta endurgreiðslna úr viðkomandi ríkissjóði.  Stjórnvöld veikja með þessu alþjóðlega samkeppnisstöðu íslenzka sjávarútvegsins og höggva þar með tvisvar í sama knérunn, sem þykir ógæfulegt. 

Það er ennfremur óskynsamlegt að haga sér með þessum hætti, því að kolefnisgjaldið dregur úr fjárfestingargetu sjávarútvegsins, en fjárfestingar í nýjum fiskiskipum og verksmiðjubúnaði hafa verið undirstaðan að frábærum árangri hans í umhverfisvernd hingað til.  

Þá að markvissri ráðstöfun kolefnisgjaldsins í því skyni að draga úr magni kolefnis í andrúmsloftinu:

  Kolefni, C, berst þangað eftir ýmsum leiðum og ekki einvörðungu við bruna jarðefnaeldsneytis.  Kolefni í andrúmslofti nemur nú 790 Tg (teragrömmum, tera er milljón milljónir), og til samanburðar er um 620 Tg af C í gróðri á jörðunni og 3000-4000 Tg í mold.  Í mold er magn C meira en fjórfalt magn C í andrúmslofti, svo að brýnast er að binda C í vistkerfum jarðar.  Þessar upplýsingar koma fram í grein prófessors Ólafs Arnalds,

"Moldin og hlýnun jarðar", 

í Fréttablaðinu, 27. júní 2018. Af þessu má ráða, hvernig forgangsraða á fjármunum hins opinbera og annarra til að ná mestum árangri fyrir hverja krónu, en íslenzk stjórnvöld hafa enn ekki markað stefnu í þessa átt. Það er hneisa.  Í greininni sagði m.a.:  

"Það er ekki aðeins notkun jarðefnaeldsneytis, sem hefur aukið styrk gróðurhúsalofttegunda; vænn hluti aukningar þeirra í andrúmsloftinu á rætur að rekja til hnignunar vistkerfa.  Ofnýting landbúnaðarlands leiðir til þess, að gengið er á lífrænan forða jarðvegsins, sem getur losað ógrynni CO2 til andrúmsloftsins.  Nýleg skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands leiðir í ljós, að losun af þessu tagi hérlendis er af sambærilegri stærðargráðu og losun frá iðnaði, samgöngum og sjávarútvegi samtals, jafnvel mun meiri. [Þetta þýðir losun a.m.k. 3500 kt CO2 á ári, ef einvörðungu er átt við samgöngur á landi-innsk. BJo.] 

Þá er áætlað, að losun á gróðurhúsalofttegundum frá framræstum votlendum á Íslandi sé meiri en losun frá iðjuverum og samgöngum landsins.  [Þetta þýðir a.m.k. 3000 kt CO2 og er lægra en áður hefur sézt. Hérlendir vísindamenn hafa varað við flausturslegri endurheimt votlendis.  Ef nýja vatnsstaðan nær ekki yfirborðshæð, er verr farið en heima setið-innsk.BJo.]  Það er ákaflega hollt að hafa þetta samhengi hlutanna í huga við ákvarðanatöku á mótvægisaðgerðum vegna hlýnunar andrúmsloftsins."

Því miður virðist Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, vera að miklu leyti úti á þekju í störfum sínum og ekki hafa "samhengi hlutanna í huga við ákvarðanatöku á mótvægisaðgerðum".  Hann hefur tekið tillögu frá Náttúrufræðistofnun Íslands um friðlýsingu lands sunnan Hornstranda og Drangajökuls til athugunar, þótt slík tillaga sé allt of seint fram komin, setji Rammaáætlun um vernd og nýtingu orkuauðlinda í uppnám og fyrirbyggi að líkindum virkjun Hvalár í Ófeigsfirði, sem ásamt fleiri aðgerðum á að draga stórlega úr olíubrennslu í kyndistöðvum (uppsett afl 24 MW) og neyðarrafstöðvum (20 MWe) á Vestfjörðum og mun draga úr raforkutöpum á landsvísu vegna flutnings raforku um langar vegalengdir.  

Í frétt Fréttablaðsins, 25. júní 2018,

"Hefji undirbúning til að kaupa losunarheimildir fyrir Ísland",

var eftirfarandi haft eftir ráðherranum um viðbrögð við lélegum árangri í loftslagsmálum hérlendis:

""Við munum þó væntanlega þurfa að kaupa heimildir vegna fyrri skuldbindinga, sem miðast við árið 2020, en hversu miklar liggur ekki ljóst fyrir að svo stöddu", bætir Guðmundur Ingi við. "Ég vil hefja undirbúning kaupa á heimildum sem fyrst, þannig að Ísland sé í stakk búið til þess fyrr en á eindaga eftir 4-5 ár.  Ljóst er þó, að fjárheimildir þarf fyrir slíkum kaupum.""

Þessi forgangsröðun ráðherrans er fyrir neðan allar hellur.  Það á ekki að koma til mála að henda fé úr ríkissjóði Íslands til greiðslu á koltvíildiskvótum frá útlöndum (ESB).  Hér getur hæglega verið um að ræða upphæð fyrir tímabilið 1990-2020, sem nemur um miaISK 10.  Það ber þess í stað þegar í stað að setja afrakstur kolefnisgjaldsins, þann hluta, sem ekki hefur farið í  mótvægisaðgerðir gegn koltvíildislosun hingað til, til að hefja kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri af miklum krafti. 

Það verður að láta ESB vita, að við getum ekki samtímis greitt háar sektir og farið í skilvirkar mótvægisaðgerðir og að við höfum ákveðið að fara seinni leiðina samkvæmt vísindalegri ráðgjög Landbúnaðarháskóla Íslands og Skógræktar ríkisins.

Á illa saman

 

 


Flutningskerfi á fallanda fæti

Hvernig komið er fyrir flutningskerfi raforku á Íslandi er hneisa fyrir stjórnvöld orkumála í landinu.  Samkvæmt Öðrum orkumarkaðslagabálki ESB, sem er hluti af orkulöggjöf landsins, á að vera eitt flutningsfyrirtæki í landinu, Landsnet, og það á að vera í eigu ríkisins.  Nú hefur iðnaðarráðherra lagt fram frumvarp á Alþingi, sem m.a. kveður á um að falla frá ríkiseign á Landsneti.  Hvernig á þá að tryggja hlutlæga afstöðu Landsnets gagnvart nýjum og gömlum viðskiptavinum og jafnstöðu þeirra allra, t.d. jöfnu aðgengi að flutningskerfinu, ef hagsmunaaðilar munu geta keypt sig inn í Landsnet ? Þessi breytingartillaga iðnaðarráðherra kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum, efni hennar er hvorki á stefnuskrá flokks hennar, Sjálfstæðisflokksins, né samstarfsflokkanna í ríkisstjórn, og hún er andstæð Öðrum orkumarkaðslagabálki ESB, sem þó hefur lagagildi hér.  

Í þessu viðfangi er og rétt að minnast þess, að Landsnet á ekki að skila eigendum sínum beinni ávöxtun, heldur á að miða gjaldskrárnar við, að rekstur standi undir eðlilegu viðhaldi og framlegðin standi undir nauðsynlegum fjárfestingum í flutningskerfinu. Það er eitthvað bogið við þennan málatilbúnað ráðuneytisins, og Alþingismenn eiga ekki að leggja blessun sína yfir loðmullu, sem bæði brýtur í bága við reglur EES og grundvallarviðhorf um einokunarfyrirtæki samkvæmt lögum.    

Höfundur þessa pistils er ekki aðdáandi ríkisrekstrar, en þegar lög kveða á um einokun í einhverri starfsemi, eins og hér um ræðir, þá er ríkiseign nærtækust.  Nú er Landsnet í eigu fjögurra innlendra orkufyrirtækja og þannig óbeint að mestu í eigu ríkisins.  Þetta fyrirkomulag var hugsað til bráðabirgða, hefur reynzt gallað og er umkvörtunarefni á markaði. Það tryggir ekki skýlausa óhlutdrægni Landsnets gagnvart markaðsaðilum, og það er stjórnunarlega of þunglamalegt fyrir aðaleigandann, ríkissjóð, ef hann vill t.d. flýta einhverjum framkvæmdum í þágu þjóðarhags.  

Landsneti hefur gengið illa að þjóna hagsmunum ríkisins, og afleiðingin er fullnýtt og á köflum oflestað flutningskerfi, sem stendur frekari nýtingu umhverfisvænna orkulinda í landinu fyrir þrifum.  Þegar ríkisfyrirtæki stendur ekki undir væntingum, bregzt það þjóðinni, sem líður fyrir slíkt með lakari lífskjörum en ella staðbundið, hér á svæðum orkuskorts, fyrirtækjum vex vart fiskur um hrygg og hagvöxtur verður minni en ella, ef raforku vantar. Nægir hér að nefna Eyjafjarðarsvæðið sem dæmi.

Vanræksla ríkisvaldsins er komin á alvarlegt stig, þegar starfsmaður Landsnets skrifar grein í opinbert sérblað, sem líta má á sem ákall til ríkisstjórnarinnar um hjálp við vanda, sem fyrirtæki hans hefur ekki ráðið við frá stofnun sinni, þ.e. að láta flutningskerfið anna þörfum landsmanna allra, alls staðar á landinu.

Þann 24. maí 2018 birtist grein í Bændablaðinu eftir Jón Skafta Gestsson, sérfræðing á fjármálasviði Landsnets, með heitinu: 

"Raforkukerfi á brúninni".

Með henni birtust 2 kort.  Sýndi annað núverandi "mögulega orkuafhendingu frá meginflutningskerfi" og hitt "mögulega afhendingargetu frá meginflutningskerfi eftir fyrsta áfanga styrkinga", BLA-FLJ. 

Þessi fyrsti áfangi styrkinga Byggðalínu er ný 220 kV lína frá Blönduvirkjun um Rangárvelli á Akureyri til Kröflu og Fljótsdalsvirkjunar ásamt Suð-vesturlínu. Þessi styrking er nú mörgum árum á eftir áætlun, og er staðan svo alvarleg fyrir landsmenn, að Alþingi verður að taka í taumana og breyta þeim leikreglum, sem um þessi mál gilda núna, svo að óhóflegar tafir valdi landsmönnum ekki alvarlegum búsifjum. Það er ekki lengur valkostur að sitja með hendur í skauti og láta sem ekkert sé. Það er á ábyrgðarsviði iðnaðarráðuneytisins og Alþingis, að svo verði gert, en ekkert lífsmark sést í þá áttina.  Það er óásættanlegt m.v. tjónið, sem af aðgerðaleysinu hlýzt.

  Hér verða sveltir afhendingarstaðir raforku taldir upp ásamt afhendingargetu núna og eftir frumstyrkingu:

  • Fitjar: 0 MW, verður 70-150 MW (1) eftir SV-línu
  • Rauðimelur: 0 MW, verður 70-150 MW (1)
  • Brennimelur: 0 MW, verður 30-70 MW (2)
  • Vatnshamrar: 0 MW, verður 30-70 MW (3)
  • Hrútatunga: 10-30 MW, verður 10-30 MW (4)
  • Glerárskógar: 0 MW, verður 10-30 MW (5)
  • Geiradalur: 0 MW, verður 10-30 MW (5)
  • Mjólká: 0 MW, verður 0 MW (6)
  • Laxárvatn: 10-30 MW, verður 30-70 MW (4)
  • Blönduvirkjun: 10-30 MW, verður 30-70 MW (4)
  • Varmahlíð: 0 MW, verður 30-70 MW (7)
  • Rangárvellir: 0, verður 30-70 MW (7)
  • Krafla: 70-150 MW, verður 30-70 MW (8)
  • Þeystareykjavirkjun: 70-150 MW, 30-70 MW (8)
  • Bakki: 70-150 MW, verður 30-70 MW (8)

Ýmislegt vekur athygli við þessar upplýsingar:

 
  1. Þenslusvæðið á Suðurnesjum hefur ekki aðgang að neinni raforku frá aðveitustöðvunum þar fyrr en SV-lína hefur verið lögð. Sú lína er í kæruferli.
  2. Iðnaðarsvæðið á Grundartanga er svelt, þar til BLA-FLJ hefur verið lögð. Dráttur þegar úr hömlu.
  3. Vesturland verður svelt fram að framkvæmd BLA-FLJ.
  4. Norðurland vestra nýtur enn nálægðar sinnar við Blöndu.
  5.  Dalirnir og Vestfirðir eru sveltir.  Dalirnir og Barðaströnd fá úrbót með línu BLA-FLJ, en Vestfirðir ekki.
  6. Vestfirðir eru sveltir og verða áfram þrátt fyrir téða línu BLA-FLJ.  Þetta sýnir svart á hvítu, að fullyrðingar um, að engin þörf sé fyrir nýjar virkjanir á Vestfjörðum, af því að Vestfirðingar hafi Vesturlínu, er eintómt blaður út í loftið, reist á sandi þekkingarleysis á staðreyndum málsins.  Að hagur Vestfirðinga skuli ekkert vænkast í kjölfar fyrsta áfanga styrkingar Byggðalínu, sýnir með glöggum hætti, hversu vaxandi byggðarlögum Vestfjarða með sína öru atvinnuþróun bráðliggur á að fá aðgang að rafmagni frá nýrri virkjun á svæðinu.  Að hefjast handa við Hvalárvirkjun má ekki dragst lengur. Skipulagsstofnun ríkisins tefur nú málið.
  7. Bæði Skagafjörður og Eyjafjörður eru nú þegar og hafa allt of lengi verið í raforkusvelti.  Téður fyrsti áfangi Byggðalínustyrkingar fyrir norðan mun bæta úr brýnustu neyðinni. Eftir þær umbætur mun koma í ljós, hversu mikilvægar nýju virkjanirnar vestan og austan við þetta svæði verða öllu Norðurlandi, þ.e. Vestfjarðavirkjanir og Þeistareykjavirkjun ásamt hugsanlegri stækkun Kröfluvirkjunar.  
  8.  Þingeyjarsýslurnar eru nú einna bezt settar raforkulega  á landinu, hvað orkuvinnslugetu og orkuflutninga varðar.
Þann 26. marz 2018 felldi Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarkaupstaðar til Landsnets vegna Lyklafellslínu 1.  Ætlunin er, að þessi 220 kV loftlína tengi saman aðveitustöðvar Landsnets á Sandskeiði og í Hafnarfirði, sem taka á við meginhlutverki Hamranessstöðvar, því að þangað eiga engar loftlínur að liggja í framtíðinni vegna byggðar.  Framhald uppbyggingar í Skarðshlíðarhverfi í Hafnarfirði er í uppnámi eftir úrskurðinn.
Ógilding téðrar nefndar á framkvæmdaleyfinu er reist á þeirri ályktun hennar, "að ekki sé sýnt fram á, að lagning jarðstrengs í stað háspennulínu sé raunhæfur kostur.  Þá sé ekki "... sýnt fram á, að jarðstrengskostir séu ekki raunhæfir og samanburður á umhverfisáhrifum þeirra og aðalvalkosts framkvæmdaraðila hafi ekki farið fram með þeim hætti, sem lög gera ráð fyrir", eins og komizt er að orði.", svo að vitnað sé í frásögn Morgunblaðsins, 27. marz 2018,
"Lyklafellslínu má ekki leggja".
 
Það er fádæma klaufaskapur af Landsneti og Hafnarfjarðarbæ að gera ekki umhverfismat og framkvæmdaleyfi þannig úr garði, að uppfyllt séu formleg lagaskilyrði.  Hitt er annað, að við blasir, að áhættan, sem Hraunvinir og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands nefna í kæru sinni, þ.e. "hætt[a] vegna mengunar, enda ætti línan að fara um vatnsverndarsvæði, hraunsvæði yrði raskað ..." yrði mun meiri af lagningu 220 kV jarðstrengs eða jarðstrengja um viðkvæmt svæði.  Í stað þess að tefja mikið hagsmunamál á formsatriði hefði úrskurðarnefndinni verið nær að kalla eftir greinargerð frá Hafnarfjarðarbæ um þetta tiltekna atriði.  Á innan við einni viku hefðu Landsnet og Hafnarfjarðarbær getað samið ítarlega greinargerð, þar sem sýnt er fram á, að mun minna umhverfisrask og mun minni hætta á mengunarslysi í viðkvæmu umhverfi verður við lagningu loftlínu en jarðstrengja á 220 kV spennu.
 
Þarna þarf ráðuneyti ferðamála, nýsköpunar og iðnaðar, sem fer með orkumálin, að beita sér fyrir breytingu á erindisbréfi úrskurðarnefndarinnar, svo að vinna hennar verði skilvirkari en nú er.  Þessi endalausu kærumál eru allt of tafsöm og valda allt of miklu samfélagslegu tjóni, eins og nú standa sakir.  
 

 Háspennulína

 


Forrannsókn Alþingis á ACER-málinu

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að nú stendur upp á Alþingi að fjalla um innleiðingu í EES-samninginn á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB, því að í Sameiginlegu EES-nefndinni var 5. maí 2017 illu heilli og algerlega að óþörfu samþykkt í Brüssel að taka þennan gjörning inn í EES-samninginn. Ekkert fréttist af málinu á vorþinginu 2018. Hvers vegna er það ekki dregið fram í dagsljósið, fundinn á því kostur og löstur og síðan afgreitt í samræmi við stefnumörkun stjórnmálaflokkanna ? 

Þjóðþing Noregs og Liechtenstein hafa staðfest það fyrir sitt leyti, og í Noregi myndaðist gjá á milli þings og þjóðar við það.  Alþingi á snöfurmannlega að synja þessum ólögum staðfestingar, enda eru 80 % þjóðarinnar andvíg því, að þessi varasami gjörningur ESB fái lagagildi á Íslandi samkvæmt skoðanakönnun Maskínu um mánaðamótin apríl-maí 2018. 

Pólitískt má ætla, að téður gjörningur ESB njóti lítils stuðnings á Alþingi, því að tveir stjórnarflokkar hafa nýlegar landsfundarsamþykktir gegn ACER í farteski sínu, og af talsmanni þess þriðja í málinu má ætla, að hann sé alfarið á móti líka.  Einn stjórnarandstöðuflokkur hefur á landsþingi sínu markað sér stefnu á móti inngöngu Íslands í Orkusamband ESB.  

Ef Alþingi fær frumvarp til laga til umfjöllunar, ber því á málefnalegan hátt að finna á því kost og löst til að leggja til grundvallar ákvörðun sinni.  Það sem frá ráðuneytum utanríkis- og iðnaðarmála hefur fram að þessu komið um þetta mál, er ótrúleg þynnka og greinilega ekki reist á  faglegri greiningu af neinum toga, fjárhegslegri, lögfræðilegri né rekstrartæknilegri fyrir raforkukerfið.  Blaðrið einkennist af fávizku eða barnalegri trúgirni á áróður búrókrata ESB og/eða stjórnarinnar í Ósló og hreinræktuðum hræðsluáróðri, sem er íslenzkum ráðuneytum ekki til sóma. Í raun er málflutningur þeirra, sem þegar eru gengnir Evrópusambandinu á hönd, óboðlegur íslenzkum almenningi, því að einkenni hans er ömurleg útgáfa af "af því bara" flótta frá raunveruleikanum.  

Það, sem Alþingi þarf að krefjast af ríkisstjórn Íslands, er hún að lokum leggur fram téð ólánsfrumvarp, er vönduð greining á eftirfarandi viðfangsefnum, sem upp mundu koma eftir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB og ACER:

  • Möguleikar Íslands á að hafna tillögu ACER um aflsæstreng eða -sæstrengi til Íslands.
  • Áhrif lagningar og rekstrar aflsæstrengs til útlanda á íslenzka náttúru við sæstrengslandtakið og á lífríki í og við miðlunarlón og virkjaðar ár, þegar virkjanir eru stilltar á hámarksafl til að anna mikilli afleftirspurn frá útlöndum.
  • Áhrif aðildar Íslands að Orkusambandi ESB á rafmagnsverð og flutningsgjald raforku fyrir atvinnulíf og heimili, einnig langtímaáhrif á iðnaðaruppbyggingu og endurskoðun langtímasamninga um raforkusölu innanlands.
  • Áhrif aðildar á þjóðhagsleg verðmæti íslenzkra orkuauðlinda, þ.e. verðmæti auðlindanna fyrir verðmætasköpun á Íslandi og hagsæld íslenzkra heimila.
  • Möguleikar íslenzkra stjórnvalda til að gera sjálf ráðstafanir til að tryggja nægt framboð afls- og orku á íslenzka raforkumarkaðinn, þ.e. möguleikar þeirra til að hafa áhrif á stjórnun aflflæðisins um strenginn.
  • Síðast en ekki sízt þarf að sýna fram á, að valdsvið ACER á Íslandi feli ekki í sér framsal á ríkisvaldi til erlendrar stofnunar, þar sem Ísland ekki er fullgildur aðili.  Ennfremur þarf að sýna fram á með lögfræðilegum rökum, að lögaðilar eða einkaaðilar á Íslandi geti ekki óbeint með ESA sem millilið lent undir valdsviði ACER, t.d. varðandi sektir og aðrar íþyngjandi aðgerðir. 

 


Heimildasöfnun er eitt, rökrétt ályktun annað

kvöldi 13. maí 2018 sýndi RÚV-Sjónvarp heimildarmynd um laxeldi.  Í myndinni voru fallegar landslagsmyndir, aðallega frá Noregsströnd, Vestur-Skotlandi og Svíþjóð, og einnig frá strönd Washington fylgis á NV-strönd Bandaríkjanna.  Með viðtölum við þarlenda o.fl. var gerð grein fyrir mengun, lúsasmiti og erfðablöndun af völdum laxeldis í sjókvíum á þessum svæðum.

Þetta var allt gott og blessað, en svo snaraðist heldur betur á merinni, þegar tekið var til við að heimfæra ófarir og mistök við laxeldi þarlendra á Ísland.  Við það breyttist fræðslumynd í óheflaða áróðursmynd gegn laxeldi í sjókvíum við Ísland.  Nú skal leitast við að finna þessum orðum stað, m.a. með vísun til fræðimanna.

1) Tökum fyrst mengunina.  Þar er aðallega átt við fóðurleifar og úrgang.  Þetta er í raun áburður og næring fyrir fjarðalífið í grennd við kvíarnar, en menn eru sammála um, að heppilegt sé vegna staðbundinnar níturmyndunar og súrefnisþurrðar, sem af uppsöfnun leiðir, að hvíla eldissvæðin, eins og þurfa þykir, í sumum tilvikum 1 ár af hverjum 3.  Eftirlit er að hálfu starfsleyfishafa haft með umhverfinu, opinberir eftirlitsaðilar gera stakar athuganir, og eru þetta væntanlega nauðsynlegar og nægilegar mótvægisaðgerðir gegn þessari mengun.

2)Gert var mikið úr lúsasmiti villtra stofna af eldislaxinum.  Það blasir við, að sú hætta er hverfandi á Íslandi m.v. nefnda staði erlendis. 

Í fyrsta lagi er sjávarhiti svo lágur við Ísland, að sníkjudýrið laxalús þrífst ekki, nema í undantekningartilvikum.  Þetta getur þó breytzt, ef sjórinn heldur áfram að hlýna við Ísland. Lúsin er mikill vágestur í laxeldi við Noreg og Skotland, en hérlendis er notkun lúsareyðis eða sýklalyfja í lágmarki og ætti að verða tilkynningarskyld til rekstrarleyfisveitanda.

Í öðru lagi er sjókvíaeldi aðeins leyft við Ísland á stöðum í grennd við heimkynni um 1 % íslenzku laxastofnanna.  Það er þess vegna út í hött að bera aðstæður á Íslandi saman við t.d. Noreg eða Skotland, þar sem sjókvíaeldi hefur áratugum saman verið staðsett við mynni helztu laxveiðiáa þessara landa.

3)Það var í téðri "heimildarmynd" mikið fimbulfambað um hættuna á erfðablöndun, ef eldislax nær upp í ár hérlendis til að hrygna.  Áhrif einstaka eldislaxa, sem ná að mynda klak með villtum fiski, eru engin merkjanleg á villta stofninn.  Rannsóknir norska fræðimannsins Kevens Glover o.fl. benda til, að þótt hlutfall sleppifiska í á sé 5 %-10 % af villta stofninum í hálfa öld, verði áhrif erfðablöndunar mjög lítil og hamli í engu vexti og viðgangi stofnsins.  Fyrst við hlutfallið 30 %-50% í hálfa öld verða breytingar á villta stofninum augljósar og til hins verra.  Leikmönnum, sem fullyrða allt annað, duga ekki upphrópanir, því að gríðarlegir almannahagsmunir eiga hér í hlut, þar sem 21 starf/kt verða til við laxeldisstarfsemina (7 bein+14 óbein í Noregi), og jafnvel meira á Íslandi, þar sem framleiðslueiningarnar eru minni.

Við áhættumat sitt beitir Hafrannsóknarstofnun varúðarreglu og miðar við 4 % leyfilegt hámark eldislaxa af villtum löxum í á.  Hún metur burðarþol Ísafjarðardjúps 30 kt/ár í sjókvíum.  Það gætu verið 12 M (M=milljón) fiskar.  Villtir laxar í ám, sem renna út í Ísafjarðardjúp, eru fáir, e.t.v. 600 talsins á ári.  Leyfilegt hámarkshlutfall hrygnandi eldislaxa í ám Ísafjarðardjúps er þá 2 ppm (ppm=hlutar úr milljón) af fiskafjölda í sjókvíum. 

Traustari sjókvíar, bætt vinnubrögð og strangur gæðastjórnunarstaðall hafa dregið úr líkum á, að laxar sleppi úr sjókvíum hér við land, um 98 %.  Þessa verða gagnrýnendur sjókvíaeldis á laxi að taka tillit til í málflutningi sínum, ef eitthvert vit á að vera í honum.  Þegar þar að auki er tekið tillit til, að aðeins hluti sleppifisksins ratar upp í árnar og hrygnir þar með eldislaxi, má gera ráð fyrir, að aðeins 1 ppm eldislax í sjókvíum geri þetta hér við land.  Hann getur samt hvergi gert óskunda með því.  Jafnvel í Ísafjarðardjúpi með 30 kt/ár af eldislaxi í sjókvíum, yrði blöndunin innan öryggismarka Hafrannsóknarstofnunar.  Þess vegna ætti henni ekkert að vera að vanbúnaði með að hækka áhættumörkin upp í burðarþolsmörkin þar, og leyfisveitendum með að veita virðurkenndum aðilum starfsleyfi og rekstrarleyfi, sem gjarna gæti farið stighækkandi á 5 árum upp í 30 kt/ár, í enn frekara varúðarskyni, og stöðvun aukningar, ef tilefni gefst til. 

Þann 8. maí 2018 birtist fróðleg grein í Fréttablaðinu eftir Gunnar Stein Gunnarsson, líffræðing, undir fyrirsögninni:

"Stofnanda áhugamannafélagsins IWF svarað".

Þar skrifaði hann m.a. um rannsóknir Kevens Glover, en af niðurstöðum þeirra má ráða, að áhyggjur m.a. hagsmunaaðila hérlendis, s.s. veiðiréttarhafa í ám, sé ástæðulaus út frá líffræðilegum og erfðafræðilegum forsendum:

"Reyndar mætti Ingólfur lesa fræðigreinar af meiri athygli áður en hann ríður fram á ritvöllinn, en í grein Glovers kemur einmitt fram, að því óskildari sem aðkomulaxinn er villta laxinum, þeim mun ósennilegra er, að hann skilji eftir sig spor.

Í grein Glovers kemur fram, að samsetning ákveðinna þátta, eins og lítill árangur eldislaxins við hrygningu, náttúrulegt val, sem hyglir aðlöguðum fenótýpum/genótýpum frá hinum villtu stofnum, sem og fenótýpiskur sveigjanleiki, dregur úr hraða og stærðargráðu breytinga í fenótýpum/genótýpum og líffræðilegum einkennum villta laxastofnsins, sem hefur upplifað innstreymi frá eldislaxi.

Þetta er í samræmi við niðurstöður annarra aðila í fræðaheiminum, svo sem Hindar, Norsku hafrannsóknarstofnunarinnar og fleiri.  Það þarf mikla, stöðuga og viðvarandi innblöndun af eldislaxi í áratugi til að hætta á erfðablöndun sé raunveruleg (Hindar;2006, 2017).  Um þetta eru fræðimenn nokkuð sammála í Noregi og víðar."

Með öðrum orðum er æxlunargeta eldislaxins dauf og náttúran hyglir hinum aðlagaða, villta stofni umfram stofn, sem í margar kynslóðir hefur verið ræktaður af mönnum til að vaxa hratt og verjast lús fremur en að geta af sér öfluga einstaklinga.  Þar af leiðandi er það fyrst við yfir 30 % "innstreymi" samfleytt áratugum saman, sem erfðafræðilegra breytinga tekur að gæta í villtum laxastofnum.  Slíkt er algerlega útilokað við núverandi aðstæður á Íslandi.  

Þá er rétt í þessu samhengi að vekja athygli á grein tveggja norskra prófessora við Landbúnaðarháskólann að Ási og við Háskólann í Björgvin, Erik Slinde og Harald Kyvi, en þeir hafa áhyggjur af úrkynjun villtra laxastofna, sérstaklega við skyldleikaræktun í ám með fáum löxum.  Grein þeirra:

"Viltu bjarga laxinum ? - leggðu þá flugustönginni", 

birtist í Morgunblaðinu, 12. maí 2018:

"Flestir [göngulaxanna] finna sína á, en um 5 % fara í aðra. Þetta skiptir máli; það hindrar skyldleikaræktun, sem hætta er á, séu fáir fiskar í ánni.  Skyldleikaræktun er ógn við laxastofna.  Sloppnir eldislaxar í Noregi synda sumir einnig upp í ár til hrygningar með sínum villtu ættingjum.  Mjög neikvætt, segja yfirvöld.  En eru til sérstök eldislaxagen, sem eru óheppileg, eða eru genin bara venjuleg, gagnleg laxagen ?

Bara brot þeirra laxa, sem synda til hafs úr hverri á, kemur aftur, og í sumum ám er fjöldinn ótrúlega lítill.  Stærsta ógn laxastofna er því veiðin í ánni.  Með vissu má því segja, að vilji maður bjarga villta laxinum, þá eigi maður að leggja veiðistönginni.  Sumir segja hægt að veiða laxinn og sleppa honum aftur.  Það er dýraníð, en úr því að laxinn gefur ekki frá sér hljóð, þá er það kannski í lagi ?"

Þarna kveður við nýjan tón m.v. mest áberandi umræðu á þessu sviði á Íslandi.  Tveir háskólaprófessorar gera því skóna, að takmörkuð blöndun við aðra stofna, eldislax innifalinn, leiði til æskilegrar erfðafræðilegrar fjölbreytni, sem er nauðsynleg til að hindra skaðlega skyldleikaræktun.

Þá er óhjákvæmilegt að gefa gaum að orðum þeirra um dýraníð, og dýraverndarsamtök, veiðiréttareigendur, dýralæknar og lögfræðingar þurfa að komast að niðurstöðu um það, hvort "veiða-sleppa" aðferðarfræðin samræmist núgildandi íslenzkum lögum um dýravernd og velferð dýra.

Norsku prófessorarnir hnykkja á vangaveltum sínum um veiðina á villtum laxi í lok greinar sinnar:

"Veiðin á villtum laxi í ám er umhugsunarverð og má líta á sem umhverfisfjandsamlega.  Það er tímabært, að yfirvöld skoði stjórnun á erfðaefni laxa og laxveiðiáa.  Yfirvöld ættu að spyrja stofnanir sínar um, hvaða markmið þær hafa sett um stjórnun erfðafjölbreytileika, og það ætti að gilda um öll dýr, ekki bara um lax."

Norður-Atlantshafslaxastofnarnir eiga allir undir högg að sækja.  Hér benda tveir fræðimenn á 2 hugsanlegar skýringar, ofveiði og úrkynjun stofnanna vegna skyldleikaræktar innan smárra stofna.  Það er nær að beina sjónum að raunverulegu vandamáli en að upphefja galdraofsóknir á grundvelli þröngsýni og fáfræði, eins og vanalega, gegn mikilvægri atvinnugrein á Íslandi, sem beitir beztu fáanlegu tækni og staðlaðri gæðastjórnun við sjókvíaeldi á eldislaxi.  Tal um geldingar og landeldi er óraunhæft í núverandi viðskiptaumhverfi.  Geldingar þessar geta flokkazt undir dýraníð og landeldið útheimtir mikla orku, ferskvatn og jarðhita.   

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband