Færsluflokkur: Umhverfismál
12.10.2022 | 10:48
Gönuhlaup í loftslagsmálum
Engu máli skiptir fyrir þróun hitastigs á jörðunni, hversu fljótir Íslendingar verða að ná kolefnishlutleysi. Engu að síður hafa leiðandi stjórnmálamenn á Íslandi á borð við forsætisráðherra fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar, Katrínu Jakobsdóttur, beitt sér fyrir því, að Íslendingar verði á undan öðrum þjóðum í heiminum að ná þessu marki. Þetta er sem sagt "futile" eða marklaust markmið. Innihaldsleysið og tvískinningurinn við þessa markmiðssetningu er síðan, að græningjarnir grafa undan þessu markmiði með því að leggjast gegn því, sem er forsenda markmiðsins, að til sé næg áreiðanleg virkjuð orka til að framleiða raforku til að koma í stað jarðefnaeldsneytisins, sem óhjákvæmilegt er að stórminnka notkun á til að ná kolefnishlutleysi. Markmiðið er þannig ómarktækt. Síðan er vaðinn elgurinn í kringum þessi orkuskipti, sem þar að auki eru óraunhæf innan settra tímamarka, af því að nauðsynlegar þróaðar tæknilausnir vantar. Blindur leiðir haltan.
Þann 3. október 2022 birti Morgunblaðið viðtal við forstöðumann Grænvangs, þar sem kenndi ýmissa grasa:
""Loftslagsmál þurfa hvarvetna að vera efst á blaði", segir Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs, sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir. "Græn orkuskipti byggjast á samvinnu fjöldans, þannig að um verkefni ríki samfélagsleg sátt. Umskipti, sem nú eiga sér stað í heiminum, fela í sér mörg sóknartækifæri fyrir Ísland. Munu geta aukið samkeppnishæfni okkar í alþjóðlegu samhengi, en jafnhliða þurfa umskiptin að vera sjálfbær og réttlát. Því eru fram undan spennandi tímar í umbreytingum, þar sem Íslendingar ætla að ná forystu á heimsvísu.""
Hér orkar æði margt tvímælis og annað svo loftkennt, að erfitt er að festa fingur á því. Hvers vegna þurfa loftslagsmál hvarvetna að vera efst á blaði á Íslandi, þótt ljóst sé, að losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi manna hérlendis hafi engin mælanleg áhrif á meinta hlýnun jarðar af mannavöldum og sé ekki umfangsmikil í samanburði við losun náttúrunnar sjálfrar án tilstillis "homo sapiens", m.a. frá eldstöðvum landsins ? Þá hafa landsmenn þegar staðið sig betur en flestar þjóðir aðrar við að sneiða hjá jarðefnaeldsneyti við rafmagnsframleiðslu og upphitun húsnæðis. Hvers vegna liggur svona mikið á, þegar hlutfall jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun landsmanna er nú þegar lægra (15 %) en víðast hvar annars staðar ?
Hefði forstöðumanni Grænvangs ekki verið nær að hefja mál sitt á nauðsyn þess að leggja traustan og sjálfbæran grunn að orkuskiptum á Íslandi ? Sá grunnur felst í að afla raforku úr vatnsföllum landsins og iðrum jarðar. Á meðan það er ekki gert, er allt tal um hröð orkuskipti hérlendis fleipur eitt. Hér stendur upp á stjórnvöld, því að stofnanir ríkisins hafa ekki verið hjálplegar í þessu tilliti, og nægir að nefna Orkustofnun, sem legið hefur nú á umsókn Landsvirkjunar um virkjanleyfi í Neðri-Þjórsá í hálft annað ár. Þetta heitir að draga lappirnar og stuðla að langvarandi raforkuskorti í landinu, sem hamlar hagvexti stórlega og þar með kjörum almennings og afkomu hins opinbera.
""Orkunýting með virkjunum bætti þjóðarhag. Hún styrkti sjálfstæði þjóðarinnar, skapaði meiri stöðugleika og jók samkeppnishæfni okkar í alþjóðlegu samhengi. Það sama er að gerast núna. Verkefnið í dag er stærra og snýr að öllum heiminum, sbr fyrirheit þjóða um að draga úr mengun og halda hlýnun andrúmsloftsins undir 1,5°C, sbr Parísarsamkomulagið. Stærðargráða viðfangsefna er því allt önnur en áður, auk þess sem lönd og jafnvel atvinnugreinar eru tengdari nú en áður. Orkuöflun og -skipti eru alþjóðleg verkefni.""
Það er jákvætt, að þarna er viðurkennt, að virkjanir landsins eru hornsteinn velmegunarinnar í nútímasamfélaginu á Íslandi, en annað þarfnast skýringa af hendi höfundarins. Hvernig getur orkuskiptaverkefnið verið stærra núna en áður, þegar aðeins 15 % heildarorkunotkunarinnar er úr jarðefnaeldsneyti ? Hvernig leggjum við mest af mörkum á heimsvísu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda ? Það er með því að virkja sem mest af stöðugum orkulindum landsins til að verða við óskum stóriðjufyrirtækja um ný orkukaup á Íslandi, hvort sem það eru núverandi stóriðjufyrirtæki á landinu eða önnur. Það er hins vegar ekki á döfinni samkvæmt forstjóra Landsvirkjunar á Haustfundi fyrirtækisins í október 2022. Það fer víða ekki saman hljóð og mynd, þegar umræðan snýst um orkumálin á Íslandi, þ.e.a.s. hún er handan raunveruleikans, enda ríkir stöðnun á því sviði, sem mestu máli skiptir; á sviði stórfelldrar nýrrar hagnýtingar náttúrulegra, hefðbundinna orkulinda landsins.
9.10.2022 | 13:31
Hræsni loftslagspredikara
Gríðarlegt magn af metangasi (CH4) hefur mælzt stíga upp frá jarðgaslindum Rússa og talsvert er um leka á löngum lögnum, sem lítið virðist vera gert með. Þeir, sem létu sprengja í sundur báðar Nord Stream 1 lagnirnar og aðra Nord Stream 2 lögnina, ekki fjarri þverun nýrrar norskrar gaslagnar til Póllands á þessum lögnum [var hún e.t.v. skotmarkið ?], víluðu ekki fyrir sér að valda umhverfisslysi í lögsögu Danmerkur og Svíþjóðar í september 2022 og valda hættuástandi fyrir sæfarendur á Eystrasalti. Nú streymir sjór inn um rifurnar, sem mynduðust, og mun tæring gera skemmdu lagnirnar 3 af 4 ónothæfar.
Norðmenn eru nú aðaleldsneytisgasbirgjar Bretlands og Evrópusambandsins og sjá ESB fyrir 25 % af núverandi þörf. Á sama sólarhring og skemmdarverkið var unnið, var ný gaslögn frá borpöllum Norðmanna úti fyrir ströndinni og um Danmörku alla leið til Póllands tekin í notkun. Þær kenningar eru á lofti, að hin kaldrifjaða aðgerð úti fyrir Borgundarhólmi sé undan rifjum Kremlar runnin í ógnunarskyni við þennan mikilvægasta eldsneytisbirgi frjálsrar Evrópu um þessar mundir.
Björn Lomborg, forseti Kaupmannahafnarhugveitunnar, ritaði eina af athyglisverðum greinum sínum í Morgunblaðið 8. ágúst 2022 undir fyrirsögninni:
"Að leika sér með líf annarra".
Þar stóð m.a. þetta:
"Þjóðverjar endurræsa kolaorkuver sín á meðan Spánverjar og Ítalir tala fyrir aukinni gasframleiðslu í Afríku. Þá er fjöldi Evrópuríkja, sem beðið hafa Botsvana að auka afköstin í kolanámum þarlendum, slíkur, að reikna má með þreföldun í umfangi kolaútflutnings þaðan.
Einn einasti þegn [á] meðal auðþjóða notar meira jarðefnaeldsneyti en samsvarar þeirri orku, sem stendur 23 Afríkubúum til boða. Auður þessara þjóða spratt af umfangsmikilli vinnslu jarðefnaeldsneytis, sem um þessar mundir sér þeim fyrir rúmlega 3/4 þeirrar orku, sem þær nota. Innan við 3 % orku auðþjóðanna rekja uppruna sinn til framleiðslu með sólskini og vindi."
Það er sláandi og varpar ljósi á rangar og óskilvirkar fjárfestingarákvarðanir að setja gríðarupphæðir, oftast með styrkjum úr opinberum sjóðum, í efnismiklar og landfrekar vindmyllur og sólarhlöður, sem þó skila innan við 3 % af orkuvinnslu s.k. auðugra þjóða nú, þegar hæst á að hóa. Forgangsröðunin er kolröng. Nær hefði verið að setja allt þetta opinbera fé í rannsóknir og þróun á kjarnorkutækninni, öruggari tækni með úraníum kjarnakljúfum og þóríum kjarnorkuverum. Vindmyllur eru frumstæð og óskilvirk aðferð við raforkuvinnslu. Þá var glapræði að afhenda Rússlandi allan spilastokkinn og banna jarðgasvinnslu ("fracking") og kjarnorkuver víða í Evrópu. Klóför græningjanna eru alls staðar sama markinu brennd. Til lengdar skaða þau vestræn samfélög. Annars staðar er lítið hlustað á bullið í þeim. Það á ekki að halda dýrum og óáreiðanlegum orkukostum að þjóðum, sem eiga langt í land með að byggja upp raforkukerfi sitt, og það er argasta hræsni að gera það í nafni loftslagsvár. Þessi mistök eru af svipuðu bergi brotin og þau að flýta orkuskiptum á Vesturlöndum, þótt tæknin sé ekki komin á viðunandi stig fyrir þau.
"Nú er lag að rifja upp reynslu indverska þorpsins Dharnai, sem Grænfriðungar einsettu sér árið 2014 að gera að fyrsta sólarorkusamfélagi landsins.
Augu allra fjölmiðla stóðu á Grænfriðungum, þegar þeir lýstu því yfir, að Dharnai neitaði að "falla í gildru jarðefnaeldsneytisiðnaðarins". Daginn, sem skipt var yfir í sólarorku, tæmdust rafhlöðurnar svo á fáeinum klukkustundum. Eftirminnileg er frásögn af dreng nokkrum, sem gat ekki sinnt heimanámi sínu, þar sem rafmagnið dugði ekki til að knýja eina lampa heimilisins.
Þorpsbúum var bannað að nota kæliskápa sína og sjónvarpstæki, þar sem raforkukerfið stæði ekki undir notkuninni. Ekki var heldur hægt að nota rafknúnar eldunarhellur, svo [að] fólkið neyddist til að snúa aftur í hitun með eldiviði, sem olli skelfilegri loftmengun. Um gervöll þróunarríkin deyja milljónir úr innanhússmengun, sem að mati Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar jafnast á við að reykja 2 pakka (af vindlingum] á dag."
Þetta er gott dæmi um skelfilegar afleiðingar þess að hleypa forræðishyggjufólki í hópi fúskara um orkumál að ákvarðanatöku. Þeir skoða engin mál til hlítar, vita vart, hvað áhættugreining felur í sér, en láta stjórnast af blindu hatri á því, sem þeir ímynda sér, að sé hættulegt, í þessu tilviki jarðefnaeldsneyti og í öðrum tilvikum kjarnorkan. Þess eru líklega engin dæmi, að ráð hjátrúarfullra fúskara hafi gefizt vel á nokkru sviði, sem skipta samfélag manna máli. Svipuðu máli gegnir um braskara, sem nota vilja uppboðsmarkað raforku til að græða. Í Noregi ætlar ríkisstjórnin að lina þjáningar raforkukaupenda með niðurgreiðslum á raforkukostnaði, en engu að síður er búizt við mikilli viðarbrennslu á norskum heimilum í vetur til upphitunar húsnæðis. Um rafmagn geta ekki gilt sömu viðskiptalögmál og um vörur, því að það er ekki hægt að safna saman og geyma í umtalsverðum mæli.
"Rafmagn, framleitt með sól og vindi, getur ekki staðið undir iðnaðarframleiðslu né knúið vatnsdælur, dráttarvélar og aðrar vélar - allt það, sem þörf er á til að leysa fólk úr fjötrum fátæktar. Eins og auðþjóðunum er nú að skiljast, eru þessir orkugjafar í grundvallar atriðum ekki til að treysta á. Sólarleysi og logn táknar rafmagnsþurrð. Rafhlöðutækni býður heldur engin svör. Þær rafhlöður, sem til eru í heiminum í dag, nægðu eingöngu til að standa undir orkunotkun heimsbyggðarinnar í 1 mín og 15 sek. Jafnvel árið 2030, í kjölfar umfangsmikillar rafhlöðuframleiðslu, yrði þessi tími ekki orðinn [lengri] en tæpar 12 mín. Til hliðsjónar má hafa vetur í Þýzkalandi, þegar sólarorkuframleiðsla er hvað minnst. Á sama tíma tíma koma [a.m.k.] 5 daga [samfelld] tímabil, rúmar 7000 mín, þegar framleiðsla vindorku er við 0."
Það liggur í augum uppi, að téðir orkugjafar einir og sér eru ónothæfir fyrir notendur, sem reiða sig á áreiðanlega raforkuafhendingu, þegar þeir þurfa á henni að halda, hvenær sem er sólarhringsins. Þar er komið að þeim eiginleikum raforkunnar, sem peningaumsýslumenn, sem hannað hafa markaðskerfi margra landa með raforku, og græningjar, sem predika bráðan heimsendi vegna losunar koltvíildis við bruna jarðefnaeldsneytis, hafa flaskað á: raforkuna verður að framleiða á sama andartaki og aflþörfin í tengdum búnað myndast. Annars rýrna gæði rafmagnsins til allra tengdra notenda á áhrifasvæði skortsins, og hætta getur myndazt á kerfishruni, ef ekki er brugðizt skjótt við.
"Hér eru komnar skýringarnar á því, hvers vegna auðugri þjóðir heimsins munu áfram reiða sig á jarðefnaeldsneyti um áratugi. Alþjóða orkustofnunin spáir því, að jafnvel þótt öll loftslagsumbótaloforðin verði efnd, muni jarðefnaeldsneyti enn verða uppspretta 2/3 hluta orku þessara þjóða árið 2050. Þróunarríkjunum dylst ekki hræsnin í orkuumræðunni, og e.t.v. hefur enginn orðað hlutina haganlegar en Yemi Osanbajo, varaforseti Nígeríu: "Engum í heiminum hefur auðnazt að iðnvæðast með endurnýjanlegri orku einni saman, [þó hafa Afríkuþjóðirnar] verið beðnar að gera það, þótt öllum öðrum í heiminum sé fullkunnugt, að við þurfum gasdrifinn iðnað fyrir viðskiptalífið.""
Þessi alhæfing Nígeríumannsins er röng. Svisslendingar, Norðmenn og Íslendingar iðnvæddust með því að knýja iðnverin með raforku úr vatnsaflsvirkjunum, og það má örugglega finna fleiri slík dæmi. Mikið óvirkjað vatnsafl er enn í Afríku, en sá hængur er á þessum virkjunum, að söfnun vatns í miðlunarlón bregst oftar í Afríku en í Noregi og á Íslandi. Þar með er kominn upp óstöðugleiki á framboðshlið, sem atvinnulífið má ekki við. Það er þó himinn og hafa á milli óstöðugleika raforkuframboðs frá vindorkuverum og sólarhlöðum annars vegar og vatnsorkuverum, a.m.k. hér norðan Alpafjalla, þar sem spáð er vaxandi úrkomu með auknum hlýindum.
Að setja upp vindorkuver á Íslandi er meinloka. Vindorkuver mundu hérlendis hafa hækkunaráhrif á raforkumarkaðinn, og þau draga úr aðdráttarkrafti íslenzkrar náttúru á innlenda og erlenda ferðamenn vegna augljósra lýta á landinu langar leiðir og óþægilegs hávaða. Vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir hafa hins vegar aðdráttarafl fyrir ferðamenn víða. Í upphafi skyldi endirinn skoða, en ekki apa allt eftir útlendingum, þótt þar séu aðstæður ósambærilegar orkuaðstæðum á Íslandi.
6.10.2022 | 10:50
Sókn eftir vindi
Vindorkuforkólfar sækja nú í sig veðrið og reyna að fá aukinn byr í seglin sökum þess, að orkustjórnkerfi landsins hefur brugðizt þeirri frumskyldu sinni að útvega þjóðinni næga orku hverju sinni til að halda uppi háu atvinnustigi í landinu og hagvexti. Þessa ásókn mátti t.d. greina í Morgunblaðinu 21. september 2022 undir fyrirsögninni:
"Tugmilljarða tekjur af vindorku".
Þar er greining á efnahagslegum áhrifum þessarar uppbyggingar, sem munu hafa komið fram í kynningu í Hljóðakletti í Borgarnesi 19.09.2021. Um er að ræða 9 vindorkuver á Vesturlandi að uppsettu afli 687 MW og orkuvinnslugetu 2885 GWh/ár á vegum Qair, Hafþórsstaða, Zephyr og EM Orku. Þessar tölur gefa til kynna áætlaðan nýtingartíma á fullu afli í 4200 klst/ár eða 48 % á ári að jafnaði, sem er ólíklegt að náist, enda verður að reikna með viðhaldstíma og viðgerðartíma, sem lækka munu þennan meðalnýtingartíma.
Ólíkt öðrum þjóðum hafa Íslendingar val um tvenns konar endurnýjanlegar orkulindir auk vindorku, og gefa þær báðar kost á ódýrari raforku en hægt er að fá úr vindorkunni. Vinnsla raforku með smáum og gríðarlega plássfrekum rafölum mun því fyrirsjáanlega hækka rafmagnsverð til almennings á Íslandi og mynda óeðlilega háan gróða hjá eigendum vatnsorkuvera og jarðgufuvera, þegar áform dótturfélags Landsnets um innleiðingu raforkukauphallar að hætti Evrópusambandsins (OP3) hafa rætzt. Þar ræður jaðarverðið, þ.e. næsta verðtilboð ofan þess hæsta, sem tekið er, ákvörðuðu verði fyrir tilboðstímabilið. Jaðarverðtilboðið mun væntanlega koma frá vindmylluþyrpingum, og þannig munu vindmyllueigendur verða mótandi fyrir verðmyndun á markaði, sem er fullkomlega óeðlilegt hérlendis.
Það er þó af landverndarástæðum, sem ótækt er að hleypa vindorkuframkvæmdum af stað í íslenzkri náttúru fyrr en samanburðarathugun hefur farið fram á milli virkjanakosta um landþörf í km2/TWh endingartímans (búast má við, að landþörf fyrir 687 MW vindmyllur nemi 35 km2). Þótt Ísland sé ekki þéttbýlt, eru landsmenn viðkvæmir fyrir gjörbreyttri landnýtingu, eins og orkulindanýting úr náttúru Íslands felur í sér. Þess vegna hlýtur þessi kennistærð, km2/TWh (landþörf m.v. orkuvinnslu á endingartíma virkjunar) að vega þungt, og þar með er hægt að skipa landfrekustu orkuverunum á orkueiningu aftast í röð við leyfisveitingar. Þar virðast vindorkuverin munu skipa sér í þéttan hnapp. Með sama hætti má reikna út kolefnisspor virkjunar með því að taka tillit til framleiðslu á helztu hlutum hennar, uppsetningar og rekstrar. Fljótt á litið skipa vindorkuverin sér þar efst á blað, og ekki bætir plastmengun spaðanna umhverfis vindmyllurnar úr skák. Vindmyllur eru þá ekki sérlega umhverfisvænar, þegar allt kemur til alls.
Hraði mylluspaðaendanna er svo mikill, að fuglar eiga erfitt með að forðast þá, ef þeir eru í grennd. Þessi mikli hraði veldur hvirflum og miklum hávaða, sem berst langar leiðir. Þetta er umhverfisbaggi, sem Íslendingar eiga ekki að venjast frá sínum hefðbundnu virkjunum.
Það er ekkert, sem mælir með leyfisveitingum til raforkuvinnslu af þessu tagi, á meðan fjöldi álitlegra kosta liggur enn ónýttur á formi vatnsafls og jarðgufu. Ásókn vindmyllufyrirtækja eftir framkvæmdaleyfum hérlendis er þess vegna tímaskekkja, og vonandi þurfa landsmenn aldrei að fórna miklu landi undir það gríðarlega umrót, sem vindmyllugarðar hafa í för með sér, enda verður komin ný orkutækni, þegar heppilegir virkjanakostir fallvatns og jarðgufu verða orðnir upp urnir.
Í téðri Morgunblaðsgrein voru tíundaðir tekjustraumar frá 9 vindorkuvirkjunum á Vesturlandi án þess að geta um áætlaðar heildartekjur á tímabilinu 2026-2052. Þeir voru tekjuskattur af raforkuframleiðendum, staðgreiðsla, útsvar til sveitarfélaga, tryggingagjald, umhverfis- og auðlindaskattur, fasteignagjöld og lóðaleiga. Vegna þess að vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir eru hagkvæmari rekstrareiningar en vindorkuver með svipaðri orkuvinnslugetu, hér 2885 GWh/ár, og miklu áreiðanlegri aflgjafar, þá er langlíklegast, að í heildina séð verði þessir tekjustraumar hærri frá hinum hefðbundnu virkjunum Íslendinga.
Frambærileg rök fyrir uppsetningu vindorkuvera á Íslandi eiga enn eftir að koma fram í dagsljósið.
21.9.2022 | 18:24
Að skreyta sig með annarra orkufjöðrum
Í forystugrein Morgunblaðsins 15. september 2022 var orkumálaþáttur stefnuræðu forsætisráðherra kvöldið áður gerður að umfjöllunarefni, eins og verðugt er. Þar blasti við sá tvískinnungur, hræsni og óheilindi, sem einkennir afstöðu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs (VG) til orkumála, landverndar og loftslagsmála hérlendis. Skörin færist þó upp í bekkinn, þegar formaður VG afneitar sögu sinni, flokksins og rótum þessa flokks (Alþýðubandalagsins). Það er jafnan ógeðfellt að verða vitni að því, þegar fólk, ekki sízt stjórnmálafólk, með einfeldningslegum hætti tekur að grobba og skreyta sig með annarra manna fjöðrum. Morgunblaðið benti kurteislega á þetta, en það er engin ástæða til að skafa utan af þessum þætti í fari formanns VG.
Forystugreinin nefndist:
"Orkumál og skautun",
og gerði stefnuræðu forsætisráðherra nokkur skil:
"Í hinu hnattræna samhengi gat forsætisráðherra ekki stillt sig um að minnast á loftslagsmálin, en í þeim efnum hefði hin endurnýjaða ríkisstjórn sett sér ný markmið til þess að minnka útblástur og sagði landið á "fullri ferð út úr kolefnishagkerfinu - inn í nýtt, grænt hagkerfi, en þar voru Katrínu efst í huga orkuskipti í samgöngum og [á] öðrum sviðum raunar einnig, þar sem öld grænna orkugjafa væri hafin."
Þetta er bölvað fleipur hjá forsætisráðherra. Losun gróðurhúsalofttegunda 2022 verður sennilega meiri en 2021, svo að ferðin er aftur á bak, ef þetta er ferð. Það vantar enn forsenduna um "öld grænna orkugjafa". Hérlendis eru þeir fyrir hendi í náttúrunni, og u.þ.b. helmingur fýsilegra virkjanakosta hefur verið virkjaður, flestir þeirra í andstöðu við vinstri græna og forvera þeirra. Ekki gleymist hatrömm andstaða Alþýðubandalagsins við virkjun Þjórsár við Búrfell, og sú virkjun er varla til, sem vinstri grænir hafa ekki lagzt gegn. Hvers vegna leyfist Orkustofnun að draga Landsvirkjun á virkjanaleyfi í Neðri-Þjórsá nú í 15 mánuði ? Það vantar raforku nú í orkuskiptin og eflingu gjaldeyrissköpunar og atvinnu, og þannig verður það fyrirsjáanlega allan þennan áratug. Þess vegna eru orkuskipti í samgöngum og öðru strönduð, og þessi fagurgali forsætisráðherra um losun koltvíildis og orkuskipti er gjörsamlega innantómur. Hún talar tveimur tungum og sitt með hvorri og meinar ekkert með öllu saman. Þetta er ábyrgðarlaust hjal hjá formanni VG.
"Forsætisráðherra sagði, að Íslendingar væru "í einstakri stöðu til að ná fram orkuskiptum í almannaþágu vegna þess, að réttar ákvarðanir hafa verið teknar". Undir það má taka, þótt Katrín hafi raunar vanrækt að geta þess, að hún og hennar fólk lögðust gegn öllum þeim framsýnu ákvörðunum á sínum tíma. Hún rakti og, að það væri mikil gæfa, að Landsvirkjun og Landsnet - helzta orkufyrirtæki landsins og mikilvægasta innviðafyrirtæki þess - væru í almenningseigu."
Hvaða þokuhjal er þetta hjá Katrínu um "réttar ákvarðanir" ? Er hún að afneita fortíð VG og viðurkenna, að flokkurinn og forveri hans hafi allan tímann haft rangt fyrir sér ? Það jafngildir sprengingu í herbúðum þursanna, sem leggjast gegn öllum framförum. Líklegra er, að hún eigi við einhverjar ótaldar ákvarðanir í tíð VG, sem auðvitað þarfnast þá skýringa. Á hvaða vegferð er þetta furðufyrirbrigði eiginlega, sem hefur jafnan stimplað sig inn sem andstæðingur íslenzks atvinnulífs.
Hlutverk Landsvirkjunar við stofnun hennar 1965 var að virkja stórt og reisa öflugt flutningskerfi raforku frá virkjunum til notenda, fyrirtækja og almennings. Hugmyndin var, að stórsala raforku til áliðnaðar mundi fjármagna bæði virkjanir og flutningskerfi. Það gekk eftir, en þessari hugmyndafræði lagðist Alþýðubandalagið, forveri VG, algerlega gegn. Ef afturhaldsstefna þessara vinstri afla hefði ráðið ríkjum allan tímann, væri hér engin Landsvirkjun og ekkert Landsnet í sinni núverandi mynd. VG getur ekki einu sinni með réttu þakkað sér, að þessi fyrirtæki bæði eru í ríkiseigu. VG - flokkur embættismanna og draumóramanna - telur sér nú sæma að skreyta sig með stolnum fjöðrum borgaralegra afla.
""Eins hljótum við að þakka fyrir, að orkukerfið hér á landi er sjálfstætt og undir innlendri stjórn. Nú þegar raforkuverð í Evrópu er himinhátt - þegar almenningur í Noregi, Þýzkalandi, Bretlandi er jafnvel að borga margfalt verð fyrir hita og rafmagn á við okkur - er augljóst, að við erum í öfundsverðri stöðu", sagði forsætisráðherra, en lét að vísu alveg vera að ræða um orkupakkann í því sambandi."
Hræsnin lekur af þessum orðum forsætisráðherra. Hún er svo tvöföld í roðinu, að til háborinnar skammar er. Hún, flokkur hennar og forverar, hafa barizt hatrammlega gegn framförum, sem leitt hafa Íslendinga til núverandi stöðu í orkumálum, og hún situr enn við sinn keip, þegar kemur að leyfisveitingum til nýrra virkjana og flutningslína. Katrín Jakobsdóttir, þáverandi forsætisráðherra, lyfti ekki litla fingri til að koma í veg fyrir lögleiðingu þess Orkupakka 3, sem nú veldur því, að tíföldun hefur orðið í fjölmennustu fylkjum Noregs á verði rafmagns til heimila, þ.m.t. húshitunar, og til fyrirtækja án langtímasamninga. Hvað ætlar þessi dr Jekyll og Mr Hyde í stóli forsætisráðherra Íslands að gera, þegar Landsnet og Landsreglari ACER á Íslandi hyggjast hrinda af stokkunum kauphöll raforku á Íslandi, þar sem tiltæk raforka verður falboðin á uppboðsmarkaði með þeim óhjákvæmilegu afleiðingum, að raforkuverð til almennings mun snarhækka samkvæmt lögmálinu um framboð og eftirspurn ?
"Aftur ítrekaði hún, að þetta væri vegna þess, að góðar og framsýnar ákvarðanir hefðu verið teknar hingað til, þótt Vinstri-græn hafi verið á öndverðum meiði. Það er ekki nefnt forsætisráðherra og flokki hennar til lasts. Þvert á móti ber að fagna aukinni samstöðu um þessi grundvallarmál, því [að] Ísland á, líkt og önnur lönd, allt sitt undir orkugnægð og enn frekar, þegar horft er til framtíðar og bættra lífskjara til frambúðar.
Þessu virðist forsætisráðherra átta sig á og eins hinu, að miklu skipti, hvernig fram verður haldið. Katrín sagði, að þegar kæmi að orkuskiptum og orkuframleiðslu væri frumskylda stjórnvalda við íslenzkan almenning."
Það er óráðlegt að ráða svona bjartsýnislega í orð forsætisráðherra, sem er hræsnari af Guðs náð og tvöföld í roðinu. Hvað meinti hún með ræðunni. Var verið að boða stefnubreytingu VG, "die Wende", eða vendipunkt, eins og hjá Olaf Scholz, kanzlara ? Það er hægt að túlka loðmullu, eins og að "frumskylda stjórnvalda [sé] við íslenzkan almenning" með ýmsu móti. Nema hvað ? Hingað til hefur þessi skylda VG verið, að standa vörð um óraskaða náttúru Íslands, sem er della, því að þessi náttúra er sífelldum breytingum undirorpin, en Mogginn er yfir sig bjartsýnn og spáir vendipunkti hjá VG. Guð láti gott á vita, en VG er forstokkaður ríkisafskipta- og afturhaldsflokkur, sem hefur ekki enn orðið fyrir vitrun:
"Þarna er um afar afdráttarlausa stefnumörkun að ræða, og hún sætir nokkrum tíðindum, ekki sízt fyrir Vinstri-græn. Þar á bænum hafa menn verið ákaflega tvístígandi í þessum efnum, þar sem á togast ýmis illsamrýmanleg grundvallarmarkmið um loftslag eða landvernd, bætt kjör almennings eða skerta neyzlu hans. Nú hefur það skýrzt til muna, og það er vel."
Höfundur þessa vefpistils er engu nær og spáir engum breytingum hjá afturhaldinu. Forsætisráðherra gasprar og geiflar sig. Þegar hún hittir Jens Stoltenberg, er hún ötull baráttumaður bættra varna Vesturlanda gegn ofbeldinu í austri, sem engu eirir, þótt hún pakki umræðunni inn í óskiljanlegt jafnréttismálskrúð um jafnrétti innan NATO. Hér heima er hún á móti þátttöku Íslands í NATO. Þessi ruglandi nægir til að æra óstöðugan. Formaður VG hefur reynzt ófær um að marka flokkinum skýra stefnu í orkumálum, enda gerast kaupin ekki þannig á eyrinni þar á bæ, en Mogginn hefur tekið það að sér í lok forystugreinarinnar. Forsætisráðherra ætti að vera þakklát fyrir:
"Af fyrrnefndum varnagla [forsætisráðherra, ábyrg orkunýting í sátt við náttúruna og í þágu almennings] má einnig draga ályktanir um, að Vinstri-græn geri ekki athugasemdir við orkuöflun fyrir landsmenn, en vilji síður, að hún komi útlendingum til góða. Það vekur hins vegar spurningar um, hversu mikil alvara fylgir heitstrengingum Vinstri-grænna um loftslagsmálin eða vorkunn vegna orkukreppu í Evrópu. Nú eða hvernig eigi að tryggja bætt lífskjör til frambúðar.
Undir lok stefnuræðunnar sagði forsætisráðherra, að á "tímum skautunar og einstefnustjórnmála [skipti] miklu að ná saman um framfaraskref fyrir samfélagið allt". Það er ánægjulegt, að ríkisstjórnin gangi þar á undan með góðu fordæmi málamiðlunar og miklu skiptir, hvernig verður fram haldið."
Það er smásmyglislegt útúrborusjónarmið VG, sem býr að baki einhvers konar útilokunarþörf gagnvart eðlilegri þróun og viðgangi erlendra fjárfestinga í landinu. Þetta er gamalkunnugt stef frá Alþýðubandalaginu, en stingur auðvitað gjörsamlega í stúf við inntak EES-samningsins. Vinstri-grænir lögðust ekki gegn Orkupakka 3, sem þó fól útlendingum mikilvæg ítök í íslenzkum orkumálum, en nú á að mismuna fyrirtækjum í erlendri eigu á Íslandi, þegar kemur að orkuafhendingu hérlendis. Þessi tvískinnungur forsætisráðherra í orkumálum er fyrir neðan allar hellur, gjörsamlega óboðlegur, enda siðlaus.
Það fylgir alls engin alvara heitstrengingum vinstri-grænna, sem Morgunblaðið gerir hér að umræðuefni. Nýjar og miklar virkjanaframkvæmdir eru forsenda allra framfara á sviði orkuskipta og loftslagsmála á Íslandi, og hjá VG hefur alls engin afstöðubreyting orðið til þessara mála, hvað sem túðri forsætisráðherra í ræðustóli Alþingis líður.
20.8.2022 | 13:27
Áhættugreiningu vantar fyrir flutningana
Stórfelldir vikurflutningar eru ráðgerðir frá námu austan Hafurseyjar austan Víkur í Mýrdal og til Þorlákshafnar. Sveitarfélagið Vík leggst ekki gegn námuvinnslunni sjálfri, en á bágt með að sætta sig við fyrirhugað flutningsfyrirkomulag á vikrinum. Ráðgert er að flytja um 1,0 Mt/ár úr námunni eftir þjóðvegum Suðurlands, sem liggja til Þorlákshafnar. Samráð skortir við sveitarstjórnina þar um endastöð þessara flutninga, og hefur sveitarstjórinn lýst því yfir, að ekki komi til mála að samþykkja opinn haug þar, enda skorti lóð undir hann.
Einar Freyr Elínarson tjáði sig með skynsamlegum hætti fyrir hönd sveitarfélagsins Víkur í Mýrdal um þessi efni í viðtali við Morgunblaðið 15. ágúst 2022 undir fyrirsögninni:
"Efasemdir um stórfellda landflutninga".
Viðtalið hófst þannig:
"Við leggjumst ekki gegn námuvinnslu; þarna er skilgreind náma. En við verðum að sjá útfærsluna öðruvísi", segir Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri í Mýrdalshreppi í samtali við Morgunblaðið um áform og mat á umhverfisáhrifum mikilla þungaflutninga með vikur í gegnum sveitarfélagið. Hann segir, að sveitarstjórnin hafi ekki enn fjallað um umhverfismatsskýrsluna, en ljóst sé, að miklar efasemdir séu uppi um þessa landflutninga.
Þá dregur hann í efa það mat, sem lýst er í skýrslunni á áhrifum flutninganna á umferð. Þar eru þau metin óverulega neikvæð."
Hvað liggur að baki þeirri umsögn verkfræðistofunnar, sem ráðin var í þá rannsókn, sem mat á umhverfisáhrifum framkvæmda eða athafna jafnan er, að áhrifin á umferðina verði óverulega neikvæð ? Var gerð áhættugreining til að leiða líkum að áhrifum 30 % aukningar á þungaaumferð, sem Vegagerðin telur, að þessi áform jafngildi, og áhrifin á öryggi vegfarenda af völdum aukins vegaslits og meiri viðhaldsþarfar ? Var lagt mat á afleiðingar aukinnar tilhneigingar til erfiðs aksturs fram úr löngum farartækjum á öllum tímum sólarhrings ? Að öllum þekktum áhættuþáttum meðreiknuðum, hvað má ætla, að slysatíðnin á leið langra flutningabíla aukist mikið með mismunandi örkuml eða jafnvel dauða af völdum þessara flutningabíla með vikur til Þorlákshafnar og til baka til námunnar austan Hafurseyjar ? Hvaða auknum árlegum kostnaði má búast við vegna slysa, dauðdaga og tjóns á farartækjum og aukins vegviðhalds af þessum völdum ?
Af orðalaginu "óverulega neikvæð" mætti ætla, að áhættugreining verkfræðistofunnar hafi leitt í ljós, að vegfarendur framtíðarinnar á leið téðra þungaflutninga og íbúar í grennd við leiðina verði ekki fyrir mælanlegu tjóni eða áreiti af völdum þessara þungaflutninga, heldur aðeins óþægindum og minni háttar töfum á sinni leið. Hér skal varpa fram þeirri tilgátu, að sú niðurstaða standist ekki verkfræðilega rýni, heldur beri vitni um flaustursleg vinnubrögð. Það virðist vanta, það sem við á að éta, í þessa rannsókn.
Miðað við umferðartalningar og upplýsingar um þetta verkefni má áætla, að með viðbótarflutningum um meira en 1,0 Mt/ár (að þunga farartækjanna meðreiknuðum fram og til baka) muni slitið á vegunum verða svipað og frá umferð, sem er 2,5 sinnum meiri en núverandi umferð. Þá vaknar lykilspurningin í þessu máli: hverjar voru hönnunarforsendur leiðarinnar um umferð, sem vegurinn ætti að þola, svo að þáverandi öryggisstöðlum væri fullnægt. Líklegt er, að í tímans rás hafi sú árlega hámarksumferð, sem vegurinn átti að þola, þegar hann var hannaður, lækkað.
Ef verkefnið stendur og fellur með svona miklu álagi á samfélagsinnviði landsmanna, og hér er lagt upp með, á það ekki rétt á sér. Þar með er það þó ekki dauðadæmt, því að aðrar flutningaleiðir eru til, og hafa sumar verið nefndar, enda gætu útflutningsverðmætin frá fullri starfsemi á Mýrdalssandi (vikur og sandblástursefni) numið vel yfir 200 MEUR/ár.
Ein er, að fyrirtækið leggi fram áætlun um lestarteina frá námunni og til Þorlákshafnar. Önnur er viðleguaðstaða úti fyrir ströndinni og dæling efnisins með þrýstilofti úr landi og út í skip. Þriðji möguleikinn er svo að koma upp einhvers konar hafnaraðstöðu í grennd við námuna í samstarfi við sveitarfélagið Vík í Mýrdal.
Nokkrir hafa fjallað um þetta verkefni í fjölmiðlum. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hefur gert þetta verkefni að umfjöllunarefni á vefsetri sínu, og Friðrik Erlingsson, rithöfundur á Hvolsvelli hefur fengið birta grein um efnið í Morgunblaðinu. Þann 16. ágúst 2022 birtist svo forystugrein um efnið í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Á 7 mínútna fresti í öld".
Þar sagði m.a.:
"Það eru ótal dæmi til um það, gömul sem ný, hversu sárgrætilega auðvelt er að fá keyptar umsagnir, sem eiga að vera veittar í krafti sérfræðiþekkingar, þótt þær sýnist vera öndverðar öllu því, sem blasir við hverjum manni, að fái staðizt. Hinu er ekki að leyna, að skýrsla af slíku tagi gæti geymt vott um ólíkindalega gamansemi, þegar niðurstaða hennar er, "að aukning umferðar og hljóðvistar vegna malartrukkanna "hafi nokkuð neikvæð áhrif" eða svo sem miðlungsáhrif m.v., að flokkarnir fyrir ofan heita: "Talsvert neikvæð áhrif, Verulega neikvæð áhrif og Óvissa".
Það er varla hægt að gera því skóna, að höfundum skýrslunnar sé grín í huga, því að málefnið snýst um dauðans alvöru á þjóðvegunum og mögulega verulega skert lífsgæði þeirra, sem vinna og/eða búa í slíkri grennd við flutningaleiðina, að áhrif hefur á hljóðvist á vinnustað eða á heimili. Þetta huglæga mat um nokkuð neikvæð áhrif eða svo sem miðlungsáhrif er svo fljótandi, að það er óboðlegt sem niðurstaða í skýrslu frá verkfræðistofu, enda er lesandinn litlu nær með slíka einkunnagjöf höfundanna.
Hvers vegna var t.d. ekki gerð söfnunarmæling á hávaða við akstursbrautina, þar sem ætla má, að áhrif á hljóðvist verði mest, og viðbótar hávaðinn síðan áætlaður út frá tíðni ferða, hraða og hávaða frá sambærilegum flutningatækjum og búast má við, að verði í þessum vikurflutningum ? Þá væri eitthvað handfast fyrir þá, sem þurfa að fjalla um málið, og hægt að bera niðurstöðuna saman við staðla, sem um hljóðvist fjalla.
Það fara senn að æsast leikar á Mýrdalssandi, því að fyrirtæki er að koma þar upp búnaði til vinnslu efnis úr sandinum til yfirborðshreinsunar. Morgunblaðið sagði frá þessu 18. ágúst 2022 undir fyrirsögninni:
"Tæki til vinnslu sandblástursefnis".
Fréttin hófst þannig:
Tæki til að vinna sandblástursefni eru komin á lóð fyrirtækisins Lavaconcept Iceland ehf við Uxafótarlæk austan við Vík í Mýrdal. Áætlað er að hefja vinnslu og útflutning á næsta ári [2023]. Unnið hefur verið að þessu verkefni frá árinu 2008, og nú er skipulagsferli lokið. Aðstandendur verkefnisins leggja áherzlu á að fá heimamenn í Mýrdal til að vinna sem mest að undirbúningi og síðan vinnslu, þegar þar að kemur, enda var til verkefnisins stofnað til að skapa atvinnu á svæðinu. Steypa þarf undir tækin og leiða rafmagn á svæðið. Áætlað er, að 15-20 störf skapist síðan við vinnsluna."
Með aukinni starfsemi í sveitarfélaginu Vík í Mýrdal, sem þarf að koma framleiðslu sinni um borð í skip til útflutnings, eru vaxandi líkur á, að fjárhagsgrundvöllur verði fyrir hafnargerð, viðleguaðstöðu úti fyrir ströndinni eða lagningu járnbrautarteina frá athafnasvæðunum á Mýrdalssandi og til Þorlákshafnar, ef flutningsgeta þjóðvegarins reynist ekki anna fullri flutningsþörf umræddrar starfsemi á Mýrdalssandi til Þorlákshafnar samkvæmt athugun Vegagerðarinnar eða ef áhættugreining leiðir í ljós óásættanlega meiri slysatíðni á leiðinni eða hávaða í grennd við hana.
17.8.2022 | 12:57
Að finna fjölina sína
Þremur dögum eftir upphaf innrásar Rússlands í Úkraínu hélt kanzlari Þýzkalands, kratinn Olaf Scholz , ræðu í þýzka Sambandsþinginu í Berlín, Bundestag, sem kennd er við "Zeitenwende" eða tímamót. Þýzka þjóðin hafði líklega orðið fyrir meira áfalli við þennan glæpsamlega gjörning Kremlarstjórnarinnar en aðrar vestrænar þjóðir fyrir utan auðvitað saklaus fórnarlömbin, Úkraínumenn sjálfa. Ástæðan var sú, að Þjóðverjar höfðu a.m.k. frá kanzlaratíð kratans Willys Brandts lagt sig fram um að efla vinsamleg samskipti við Rússa og treystu því, að gagnkvæmir viðskiptahagsmunir myndu halda rússneska birninum í skefjum.
Þjóðverjar höfðu í þessu skyni tekið mikla áhættu í orkumálum og reitt sig á ábyrga afstöðu Rússa og áreiðanlega afhendingu kola, olíu og jarðgass, þannig að árið 2021 nam t.d. hlutdeild rússnesks gass af þýzka gasmarkaðinum um 55 % og hafði þá hækkað úr 30 % um aldamótin 2000. Nú um miðjan ágúst 2022 nemur þessi hlutdeild um 25 %, en samt hækkar í birgðatönkum Þjóðverja fyrir jarðgas. Þeir hafa aðlagað sig stríðsástandinu furðufljótt.
Þjóðverjar hafa löngum verið veikir fyrir ævintýrum. Á Íslandi og miklu víðar eru Grímsævintýri alþekkt eða hluti þeirra. Þetta er safn ævintýra hinna ýmsu germönsku ættbálka, sem tala þýzka mállýzku, og safnararnir hafa samræmt mismunandi útgáfur og jafnvel sniðið að eigin höfði.
Eitt ævintýranna fjallar um Karl Katz, geitahirði í Harz-fjöllum í Mið-Þýzkalandi. Dag einn leiðir villuráfandi geit téðan Karl inn í langan helli, þar sem hann hittir skrýtna karla, sem freista hans með drykk, og hann lætur ánetjast og fellur í djúpan svefn. Þegar hann vaknar, skynjar hann fljótt, að svefntími hans verður ekki talinn í klukkustundum, heldur í árum. Heimurinn er breyttur.
Margir Þjóðverjar finna sig nú í sömu stöðu og Karl. Þjóðin hafi verið eins og svefngenglar. Eftir Endursameiningu Þýzkalands voru þeir ánægðir með árangur sinn á sviði efnahagsmála og utanríkismála og trúðu því til hægðarauka, að kerfi þeirra virkaði nánast fullkomlega. Stjórnmálamenn þeirra töldu þeim trú um ævarandi velgengni með lágmarks núningi við umheiminn og auðvitað núll-losun gróðurhúsalofttegunda í nánustu framtíð.
Að vakna síðan upp með andfælum við hávaðann frá rússneskum skriðdrekum, sem héldu með offorsi innreið sína í Evrópuríkið Úkraínu, var hræðileg reynsla. Þjóðverjar upplifa sig ekki, eins og Karl, stadda í framtíðinni, heldur áratugum aftur í fortíðinni. Í stað þess að þeysa á hraðbraut (Autobahn) inn í víðsýnt lýðræðiskerfi, hefur stór hluti heimsins hallazt í átt til ómerkilegs lýðskrums, sem Þjóðverjar þekkja allt of vel úr eigin fortíð.
Í stað þess að njóta tímabils friðsamlegrar samvinnu, sem Þjóðverjar töldu, að þeir hefðu lagt grunninn að, reka Þjóðverjar sig nú á, að krafizt er vopna og hermanna af þeim. Auðlegð Þýzkalands reynist nú ekki stafa einvörðungu af dugnaði íbúanna, eins og ævintýraútgáfan af þýzku þjóðfélagi skáldaði, heldur á ódýrri orku og ódýru vinnuafli, og auðvitað hefur nú komið á daginn, að þessi Vladimir Putin, sem skenkti Þjóðverjum 2 gaslagnir undir Eystrasalti frá Rússlandi, hefur nú reynzt vera úlfur í sauðargæru, einn af grimmustu og miskunnarlausustu úlfum Evrópusögunnar, sem ekki vílar fyrir sér að hóta að sprengja stærsta kjarnorkuver Evrópu í loft upp og staðfestir þannig glæpsamlegt eðli sitt.
Allt, sem forveri Olaf Scholz á kanzlarastóli, Angela Merkel, beitti sér fyrir í orkumálum Þjóðverja, var eins og eftir pöntun frá téðum Putin. Hún "flippaði út-flippte aus" eftir stórflóðið í Fukushima 2011 og lét loka helmingi kjarnorkuvera Þjóðverja strax og setti lokadag á 3 síðustu 31.12.2022, og hún fékk Bundestag til að banna jarðgasvinnslu með vökvaþrýstiaðferð (fracking).
Þjóðverjar hafa ekki farið sömu leið og nágrannarnir í Hollandi, sem nýta enn Groningen gaslindirnar, sem hafa gefið af sér mrdUSD 500 síðan 1959. (Í The Economist var af þessu tilefni 1977 skrifað um hollenzku veikina. Hér er stuðzt við The Economist-23.07.2022-Let the sleeper awaken.) Samt eru gasbirgðir Þjóðverja alls ekki litlar. Um aldamótin 2000 dældu Þjóðverjar upp 20 mrdm3/ár af jarðgasi, sem nam um fjórðungi af gasnotkun Þjóðverja. Þótt jarðfræðingar meti nýtanlegan jarðgasforða Þjóðverja um mrdm3 800, hefur vinnslan hrapað niður í 5-6 mrdm3/ár, sem nemur um 10 % af innflutningi jarðgass frá Rússlandi til Þýzkalands fyrir Úkraínustríð.
Það er sorgleg skýring á þessu. Af jarðfræðilegum ástæðum er nauðsynlegt að beita vökvaþrýstingi á jarðlögin til að ná upp nánast öllu þýzku jarðgasi, en þýzkur almenningur er haldinn óraunhæfum ótta við þessa aðferð, og á þessum tilfinningalega grundvelli tókst Merkel árið 2017 að fá Bundestag til að banna í raun vinnslu jarðgass með vökvaþrýstiaðferð í ábataskyni, þótt þýzk fyrirtæki hafi frá 6. áratugi 20. aldar notað þessa tækni við jarðgasvinnslu án nokkurs skráðs tilviks um umhverfistjón.
Það er ekki erfitt að rekja ástæður téðs ótta almennings. Árið 2008 sótti stórt bandarískt olíufélag, Exxon, um stækkun athafnasvæðis fyrir gasvinnslu fyrirtækisins í Norður-Þýzkalandi með þessari vökvaþrýstiaðferð. Þegar s.k. umhverfisverndarsinnar hópuðust saman til mótmæla, hoppaði Græningjaflokkurinn, sem nú er í ríkisstjórn og þá var í sókn, um borð í mótmælafleyið. Hið sama gerði "Russia Today", málpípa Kremlar, og spann upp aðvaranir um, að þessi tegund gasvinnslu leiddi til geislavirkni, fæðingargalla, hormónaójafnvægis, losunar gríðarlegs magns metans, eitraðs úrgangs og eitrunar fiskistofna. Ekki minni sérfræðingur en náungi að nafni Vladimir Putin lýsti því yfir í ræðustóli á alþjóðlegri ráðstefnu, að téð vökvaþrýstiaðferð gasvinnslu mundi valda því, að sótsvart sull spýttist út um eldhúskrana almennings. Þjóðverjar virðast ginnkeyptir fyrir ævintýrum, en það eru margir aðrir.
Hræðsluáróður af þessu tagi á greiða leið að eyrum almennings. Augljóst er nú til hvers refirnir voru skornir hjá Putin. Hann vildi drepa gasvinnslu Þjóðverja í dróma til að gera þá háða Rússlandi um þennan mikilvæga orkugjafa, og kanzlarinn sjálfur, prestsdóttirin frá Austur-Þýzkalandi, beit á agnið. Það er alls ekki einleikið.
"Að þessu búnu gáfumst við hreinlega upp við að útskýra, að vökvaþrýstivinnsla jarðgass er algerlega örugg", andvarpar Hans-Joachim Kümpel, fyrrverandi formaður meginráðgjafarráðs ríkisstjórnarinnar um jarðfræði. "Ég get í raun ekki áfellzt fólk, sem hefur enga þekkingu á jarðfræði, ef allt, sem það heyrir um viðfangsefnið, eru hryllingssögur."
Þýzkir gasframleiðendur segja, að í ljósi þróaðri, hreinni og öruggari vinnsluaðferða nútímans, gætu þeir tvöfaldað vinnsluafköstin á 18-24 mánuðum, ef þeir fengju tækifærið. Með slíkum afköstum gætu Þjóðverjar dælt upp gasi fram á næstu öld. Slíkt mundi draga úr innflutningsþörf að jafngildi u.þ.b. 15 mrdUSD/ár. Það er ekkert ævintýri. Núverandi ríkisstjórn Þýzkalands er ekki líkleg til að slaka á hömlunum í þessum efnum, þótt hart sverfi að Þjóðverjum, en væri Friedrich Mertz kanzlari væri meiri von til, að heilbrigð skynsemi og öryggishagsmunir væru í fyrirrúmi, en ekki tvístígandi og hálfgerður rolugangur.
Friedrich Mertz er formaður stjórnarandstöðuflokksins CDU, sem er miðhægriflokkur Konrads Adenauers og dr Ludwigs Erhards, og hann er tilbúinn til að leiða Þýzkaland til forystu í Evrópu gegn árásargirni Rússlands undir forystu hins siðblinda Putins, sem nú bítur höfuðið af skömminni með því að setja stærsta kjarnorkuver Evrópu í uppnám, láta rússneska herinn hafast þar við og skjóta þaðan eldflaugum og úr sprengivörpum. Öfugmælin og ósvífnin nálgast hámark, þegar sami Putin sakar Bandaríkjamenn um að lengja í Úkraínustríðinu og efna til ófriðar um allan heim. Margur heldur mig sig. Hann þarf ekki annað en að gefa rússneska hernum fyrirmæli um að hætta blóðugu og illa ígrunduðu árásarstríði sínu í Úkraínu og hverfa inn fyrir rússnesku landamærin til að binda endi á þessi fáránlegu átök, sem hafa gjörsamlega eyðilagt orðstír Rússa. Þrátt fyrir "vatnaskil" hjá kratanum Olaf Scholz, er hann enginn bógur til að finna fjölina sína sem leiðtogi frjálsrar Evrópu við gjörbreyttar aðstæður.
14.8.2022 | 18:05
Hnignun orkuveldis
Frá hruni Ráðstjórnarríkjanna 1990 hefur Rússland sótt í sig veðrið sem orkuútflytjandi, og sú sókn magnaðist, eftir að Boris Jeltsín, þáverandi forseti rússneska ríkjasambandsins, skipaði KGB-foringjann Vladimir Putin, eftirmann sinn, illu heilli. Ætlun Rússa með því að efla vinnslu jarðefnaeldsneytis var að afla dýrmæts gjaldeyris og halda þar með rúblunni uppi; svo og að ná hreðjataki á kaupendum orkunnar, aðallega Evrópuríkjunum. Hvort tveggja tókst, en það tókst þó ekki að Finnlandisera viðskiptalöndin í Evrópu, sem vonir einvaldsins í Kreml vafalítið stóðu til, þegar hann hrinti innrásinni í Úkraínu af stað 24. febrúar 2022.
Þann dag urðu vatnaskil í stjórnmálum Evrópu, því að þjóðunum varð ljóst, að binda yrði endi á öll viðskipti við hið löglausa og árásargjarna ríki, sem nú hafði notað her sinn, fjármagnaðan með hinum verðmæta afrakstri jarðefnaeldsneytisins, í miskunnarlausri og blóðþyrstri tilraun til að leggja undir sig allt nágrannaríkið Úkraínu, sem sneiðum hafði verið stolið af strax 2014.
Þessi endurvakning á skefjalausum ríkishernaði í Evrópu, sem ekki hafði sézt þar frá falli Þriðja ríkisins 8. maí 1945, varð Evrópumönnum og öllum hinum vestræna heimi andlegt áfall og ástæða sjálfsrýni og endurskoðunar á lífsviðhorfi og stefnu. Barátta einræðis og lýðræðisstjórnarfars hefur ekki kristallazt með jafnskýrum hætti í Evrópu síðan vorið 1940, þegar Bretar stóðu einir gegn landvinningum Stór-Þýzkalands.
Gert hefur verið lítið úr viðbrögðum Vesturveldanna til að draga máttinn úr stríðsvél nýlenduveldisins í austri. Björn Bjarnason, fyrrverandi Alþingismaður og ráðherra, telur þær efasemdir orðum auknar og færir fyrir því viðhorfi sínu sterk rök í umræðugrein í Morgunblaðinu, laugardaginn 6. ágúst 2022, undir fyrirsögninni:
"Greining á rússnesku hruni".
Umfjöllunarefnið er þjóðarbúskapur Rússa:
"Í nýlegri skýrslu 5 rannsakenda við Yale-háskóla í Bandaríkjunum um hrikalegar afleiðingar vestrænna refsiaðgerða á efnahag Rússlands segir, að Vladimir Putin, Rússlandsforseti, fylgist náið með verðþróun á olíumörkuðum, enda sé það olía og gas, sem geri Rússa gildandi í heimsbúskapnum; þeir séu 3. stærsti olíuframleiðandi heims, en vegi aðeins 3 %, þegar litið sé til hlutdeildar þeirra í vergri heimsframleiðslu."
Þetta sýnir, hversu furðulega lítið Rússar hafa upp á að bjóða af eftirsóknarverðri framleiðslu annarri en jarðefnaeldsneyti, sem dælt er upp úr jörðunni. Þetta er hvorki í samræmi við landstærðina né mannfjöldann og sýnir djúpstæða meinsemd í rússnesku samfélagi, sem e.t.v. má kalla spillingu valdhafanna, sem gegnsýrir allt þjóðfélagið, einnig herinn.
"Yale-menn segja, að nú glími Rússar við mun meiri vanda við útflutning á hrávöru en almennt er rætt um í fréttum. Heildartekjur þeirra af olíu og gasi hafi lækkað um meira en helming í maí m.v. apríl 2022, sé tekið mið af opinberum rússneskum tölum. Rússar hafi í raun sveigt verulega hjá því framtíðarmarkmiði sínu um að ná lykilstöðu á hrávörumarkaðinum."
Þessar upplýsingar sýna, að hnignun rússneskrar markaðshlutdeildar jarðefnaeldsneytis í heiminum er hafin. Sennilega liggja til þess 2 meginástæður og eru báðar varanlegar. Önnur er lokun aðgengis fyrir Rússa að vestrænni tækniþekkingu á sviði viðhalds, rekstrar og nýborana á vettvangi orkuvinnslu, og þar með lokun á varahluti fyrir kerfi í rekstri og búnað fyrir ný verkefni.
Hin ástæðan er, að viðskiptavinir Rússa hafi fórnað höndum yfir villimannlegu grimmdaræði þeirra í árásarstríði þeirra í Úkraínu, þar sem óbreyttir borgarar og vistarverur þeirra eru helztu skotmörk hins lítilsiglda hers þeirra, og að Rússar hafi af þeim sökum hreinlega séð undir iljar gamalla viðskiptavina sinna. Það hefur óhjákvæmilega afleiðingar að ganga fram með þvílíkum kúgunartilburðum og ofstopa gegn friðsömum nágrönnum, sem ekkert hafa til saka unnið, og reyna í einu vetfangi að breyta heimssögunni. Það er alger tímaskekkja.
"Það skipti e.t.v. enn meira máli, að til þess að snúa viðskiptum sínum í austur verði Putin að ráða yfir tækni til að gera olíu og gas hæf til flutnings í leiðslum frá norðurslóðum til kaupenda. Eftir að erlendir samstarfsaðilar sögðu skilið við rússnesku fyrirtækin Rosneft og Gazprom hafi þessir orkurisar sjálfir enga burði til að geta nýtt sér til gagns gífurlegar olíu- og gaslindir, einkum í Síberíu og á norðurslóðum, og því síður að koma eldsneytinu á markað. Til skamms tíma þýði þetta, að rússneska ríkið fari á mis við lífsnauðsynlegar skatttekjur fyrir utan að tapa stöðu sinni og trúverðugleika á heimsmarkaði og sem félagi í OPEC+ félagsskapnum. Nú verði þeir hins vegar að skríða á hnjánum til Kínverja og Indverja í von um, að þeir kaupi eitthvað af þeim á miklu afsláttarverði."
Á tímabilinu 1999-2014 óx rússnesku millistéttinni fiskur um hrygg, enda jukust tekjur hennar ríflega árlega á þessu tímabili, en síðan hefur ríkt stöðnun og jafnvel afturför, hvað lífskjör millistéttarinnar varðar, og þjóðnýting hefur haldið innreið sína, svo að þjóðfélaginu er tekið að svipa til Ráðstjórnarára 9. áratugar 20. aldarinnar. Þá kemur nú u.þ.b. fimmtungur af tekjum almennings úr ríkissjóði, svo að sú skerðing ríkistekna, sem þarna er gerð að umfjöllunarefni, getur reynzt rússneska ríkissjóðinum þungbær og að lokum skert lífskjör almennings.
Þjóðirnar, sem þarna eru nefndar til sögunnar að taka við jarðefnaeldsneyti af Rússum, Indverjar og Kínverjarar, eru alræmdir prúttarar. Þær munu hikstalaust nýta sér vandræði Rússa á heimsmarkaðinum og heimta af þeim langtímasamninga á tiltölulega lágu verði. Þetta mun draga allan kraft úr hagkerfi Rússa. Rússar eiga fjölda góðra verkfræðinga og vísindamanna, þótt spekileki sé úr þeirra röðum líka, en Rússland er enn með sömu böggum hildar og Ráðstjórnarríkin að geta ekki framleitt hátæknivörur. Þessi veikleiki dæmir Rússland meira eða minna úr leik á heimssviðinu við núverandi aðstæður.
""Þrátt fyrir hugaróra Pútins um sjálfsþurftarbúskap og heimavarning í stað innflutts hefur heimaframleiðslan algjörlega stöðvazt og ræður ekki við að koma í stað þeirra viðskipta, sem horfin eru, hvorki með vörur né mannafla; eftir útþurrkun á nýsköpun og framleiðslu á heimavelli hefur verðlag rokið upp úr öllu valdi ásamt kvíða neytenda", segir Yale-hópurinn.
Skýrsluhöfundarnir 5 benda á, að niðurstöður þeirra stangist á við ítrekaðar fullyrðingar um, að refsiaðgerðirnar skaði þjóðirnar í vestri meira en Rússa. Þeir segja:
"Þegar 5. mánuður innrásarstríðs Rússa hefst, hefur sú almenna skoðun birzt, að einhugur þjóða heims um andstöðu gegn Rússum hafi einhvern veginn þróazt í "efnahagslegt þreytustríð, sem sé Vestrinu dýrkeypt" vegna svo nefndrar "seiglu" og jafnvel "hagsældar" í rússneskum þjóðarbúskapi."
"Þetta eru einfaldlega ósannindi", segir í skýrslunni. Hagsmunir Pútins felast í blekkingum út á við um efnahag Rússa. Inn á við bannar forsetinn, að hernaður hans sé kallaður stríð. Þeir, sem gera það, eru fangelsaðir. Notum frelsið til að greina og lýsa hlutunum, eins og þeir eru."
Lygamaskína rússneska stjórnkerfisins segir enga sögu, eins og hún er, ef lygin setur Rússland og Kremlverja í skárra ljós en sannleikurinn. Rússar virðast stela öllu steini léttara í Úkraínu, jafnvel af heimilum fólks, og sögur gengu um, að rússneskir hermenn hefðu selt þýfið á uppboðsmörkuðum í Hvíta-Rússlandi og í Rússlandi, sem auðvitað gefur til kynna meiri velmegun almennings í Úkraínu en í hinum löndunum tveimur.
Alls konar bolaskítur hefur verið borinn á borð af Putin um ástæður innrásarinnar 24.02.2022. Einfaldasta skýringin er sennilega sönn, af því að hún hefur legið í þagnargildi hjá Kremlverjum. Hún er sú, að um hreinræktað nýlendustríð af gamla skólanum sé að ræða. Frétt í brezka tímaritinu Spectator 12.08.2022 styður þetta. Hún var sú, að Rússar hefðu nú með "blóði og járni" svælt undir sig í Úkraínu síðan 24.02.2022 auðlindir á borð við orkugjafa (kol, olíu, gas), málma og steinefni í jörðu að verðmæti trnGBP 10, sem nemur tæplega 7-faldri vergri landsframleiðslu Rússlands árið 2021.
Putin og ólígarkar hans ætla að skítnýta auðlindir nýlendunnar Úkraínu í eigin auðgunarskyni og til að láta Úkraínu borga fyrir kostnað Rússlands af stríðsrekstrinum í Úkraínu. Þá munu þeir beita sömu kúgunartökunum við enduruppbyggingu Úkraínu og Kremlverjar beittu Austur-Evrópuríkin, sem lentu austan Járntjaldsins eftir Heimsstyrjöldina 1939-1945, að láta þjóðina þræla sjálfa fyrir endurreisninni úr rústunum.
Þetta er ástæðan fyrir því, að forseti Úkraínu, Volodimir Zelenski, leggur höfuðáherzlu á að reka Rússaher út úr Úkraínu og að nýta frystar eigur rússneskra ólígarka og rússneska ríkisins á Vesturlöndum til enduruppbyggingarinnar. Vonandi, Evrópu allrar vegna og hins frjálsa heims alls, verður sú niðurstaðan.
12.7.2022 | 10:30
Orðagjálfur um samkeppnishæfni dugar skammt
Það er rétt, að íslenzkar orkulindir eru samkeppnishæfar sem stendur í alþjóðlegu samhengi, en enginn veit, hversu lengi það varir, og það er auðvitað ekki hægt að tala um, að vara eða þjónusta, hér rafmagn, sem verður fyrst til reiðu eftir 5 ár, sé samkeppnishæf. Sinnuleysi orkufyrirtækja og seinagangur yfirvalda og Alþingis í þessum efnum veldur því, að Ísland getur ekki nú þegar tekið þátt í lífsnauðsynlegum umskiptum úr jarðefnaeldsneyti í rafeldsneyti. Eftir 5 ár, þegar Íslendingar fyrst losna út úr klaufalegri skortstöðu á raforku, gæti nýr og vinsæll orkugjafi verið orðinn tiltækur í fjöldaframleiðslu og þar með samkeppnishæfur við íslenzkar orkulindir. Það er vel þekkt, að í ófremdarástandi verður tækniþróun hröð. Má nefna þóríum kjarnorkuver, stór og lítil, sem skilja eftir sig mun minna geislavirkan úrgang með helmingnartíma, sem telst í áratugum, en ekki árhundruðum eða árþúsundum.
Staksteinar Morgunblaðsins 9. júlí 2022 hittu naglann á höfuðið, eins og fyrri daginn, nú undir fyrirsögninni:
"Ónýtt tækifæri".
Þeir hófust þannig:
"Ísland fylgir sem betur fer ekki jafnvitlausri orkustefnu og löndin á meginlandi Evrópu, sem eru búin að koma sér í mikil vandræði með því að elta öfgafull sjónarmið af ýmsu tagi. Þessar þjóðir eru farnar að gjalda orkustefnuna dýru verði, en þó að Ísland standi betur, hefur það ekki alveg sloppið."
Einkenni á orkustefnu landanna, sem þarna er átt við, er, að þau hafa framselt hluta af sjálfsákvörðunarrétti sínum á sviði orkumála til Evrópusambandsins, ESB. Megininntak orkustefnu ESB er að samtengja orkuflutningskerfi aðildarlandanna með öflugum hætti og að samræma orkustefnur landanna til að búa til samræmdan orkumarkað með jarðgas og rafmagn, sem stjórnað er af ACER-Orkuskrifstofu ESB. Ekki verður séð, að markvert gagn hafi hlotizt af þessu brambolti fyrir aðildarríkin, nú þegar harðnar á dalnum. Orkuskortur hefur leitt til svimandi orkuverðshækkana til heimila og fyrirtækja, þótt ríkisstjórnir hafi varið tugmilljörðum EUR til niðurgreiðslna.
Uppboðsmarkaður orku, sem ESB fyrirskrifar í orkulöggjöf sinni, verður að skrípaleik við þessar aðstæður. Nú vill svo illa til, að EFTA-ríkin í EES glöptust á að innleiða hjá sér þessa orkulöggjöf við gjörólíkar aðstæður þeim, sem ríkja á meginlandinu. Undir umsjón Orkustofnunar hefur Landsnet nú tilkynnt, að fyrirtækið vinni að og sé langt komið með undirbúning innleiðingar á orkukauphöll fyir heildsölumarkað raforku á Íslandi. Við þær skortaðstæður, sem búið er að koma upp á íslenzka raforkumarkaðinum, liggur í augum uppi til hvers þetta feigðarflan mun leiða fyrir neytendur hérlendis.
"Hér hefur of lítið verið virkjað á síðustu árum vegna þess, að of auðvelt er að þvælast fyrir virkjanaáformum eða öðrum framkvæmdum alveg óháð því, hvort þær framkvæmdir hafa verulega skaðleg áhrif á náttúruna eða ekki."
Þetta er hárrétt, og nú hefur Orkustofnun bætzt við dragbítaflokkinn af öllum stofnunum, því að afgreiðsla hennar á umsóknum virkjanafyrirtækja um virkjunarleyfi hefur dregizt úr hömlu, eftir að nýr Orkumálastjóri fór að setja mark sitt á verkefnastjórnina þar. Orkumálastofnun hefur misst sjónar á hlutverki sínu, sem er að leggja faglegt mat á tillögu virkjunarfyrirtækis um virkjunartilhögun. Þetta snýst m.a. um það að meta, hvort bezta tækni sé nýtt við að virkja aflið á virkjunarstað með hliðsjón af lágmarks raski á þeirri náttúru, sem er undir. Stofnunin á að gera þetta sjálf, en ekki að hlaupa út um allar koppagrundir til að leita umsagna. Það er hlutverk annarra.
Athygli vekur, að núverandi Orkumálastjóri virðist vera upptekin af því í hvað orkan fer. Það kemur henni ekki við. Samkvæmt orkulöggjöfinni, sem hún á að standa vörð um, ræður markaðurinn því. Það er ennfremur rangt hjá henni að halda því fram, að "endalaus" spurn sé eftir íslenzkri grænni orku. Svo er alls ekki, enda væri raforkuverð á Íslandi þá í hæstu hæðum. Alvörueftirspurn er takmörkuð með verðlagningunni. Þegar Orkumálastjóri virðist vilja beina nýrri orku einvörðungu í orkuskiptin, er um forræðishyggju að ræða hjá Orkustofnun, sem á ekki heima þar undir núverandi löggjöf, enda virðist hún alveg gleyma því, að atvinnulífið allt þarf meiri orku til að halda uppi atvinnustigi, bættum lífskjörum og sífellt dýrara heilbrigðis- og velferðarkerfi hins opinbera.
"Þetta hefur orðið til þess, að orkuskortur hefur gert vart við sig, sem er með ólíkindum í landi fullu af orku, og nú er svo komið, að við getum ekki nýtt þau tækifæri, sem standa til boða við að skapa meiri tekjur fyrir þjóðarbúið."
Þetta er hverju orði sannara hjá þeim, sem handfjallaði staka steina í þetta skiptið, en svo er helzt að skilja á Orkumálastjóra, að hún sé ekki sama sinnis, af því að ekki hafi enn komið til rafmagnsskömmtunar á heimilum. Forstjóri Landsvirkjunar hefur þó viðurkennt, að raforkukerfið sé þanið til hins ýtrasta, og það er auðvitað alger falleinkunn á framkvæmd orkustefnunnar, sem síðasta ríkisstjórn fékk samþykkta, því að á sama tíma eru 5 ár í, að næsta virkjun fyrirtækisins komist í gagnið.
Framkvæmd kerfisáætlana á að vera þannig, þar sem vel er haldið á málum, að fullnýting aflgetu kerfis og gangsetning nýrrar virkjunar, 35 MW eða stærri, beri upp á sama tíma. Hvernig í ósköpunum má það vera, að Orkumálastjóri komist upp með það við þessar aðstæður að stinga hausnum í sandinn og láta sem ekkert sé ?
Í baksviðsfrétt Morgunblaðsins 9. júlí 2022 undir fyrirsögninni:
"Ísland í kjörstöðu á orkumarkaði",
er viðtal við Pál Erland og hófst þannig:
"Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, segir sterka samkeppnisstöðu íslenzkra orkufyrirtækja um þessar mundir skapa tækifæri til að laða hingað viðskiptavini, sem nýta græna orku til verðmætasköpunar.
"Við Íslendingar þurfum áfram að nýta ýmis tækifæri, sem okkur bjóðast til gjaldeyrissköpunar til að halda uppi lífskjörum á Íslandi. Jafnframt þurfum við að eiga orku í orkuskiptin til að ná þeim metnaðarfullu markmiðum í loftslagsmálum, sem að er stefnt", segir Páll. Skýrt samhengi er [á] milli orkuframboðs og hagvaxtar á Íslandi."
Það er til lítils að fjölyrða um sterka samkeppnisstöðu íslenzkra orkufyrirtækja, þegar þau eiga enga nýja orku til að selja. Hvað verður, ef/þegar þau eignast raforku til að selja nýjum viðskiptavinum, veit enginn, því að bæði er óvíst um kostnað þeirrar raforku og verðið, sem þá mun bjóðast í öðrum löndum. Með töfum hér innanlands hafa dragbítar framfara valdið töfum á orkuskiptum og valdið efnahagslegu tjóni, sem kemur niður á lífskjörum landsmanna. Orkugeirinn er varla nógu beittur til að fást við ormana, sem búnir eru að grafa um sig.
"Haft var eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, í Morgunblaðinu í gær [08.07.2022], að fyrirtækið geti ekki annað eftirspurn eftir orku. Varðandi hækkandi raforkuverð beggja vegna Atlantshafsins benti Hörður á, að hagkerfin hefðu farið skarpt af stað, eftir að faraldrinum lauk, og að það ætti, ásamt örvandi efnahagsaðgerðum og innrás Rússa í Úkraínu, þátt í hækkunum á orkumarkaði."
Sú staðreynd, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun situr uppi með 2 hendur tómar (og báðar í skauti) og mun halda því áfram næstu árin, þegar kemur að nýjum viðskiptasamningum við raforkukaupendur, sem eru fúsir til að greiða uppsett verð fyrir raforkuna, og eru t.d. í matvælaframleiðslu eða í starfsemi, sem tengist orkuskiptum, er reginhneyksli á tímum, þegar heimurinn glímir við mjög alvarlegan orkuskort. Þessi staða sýnir grafalvarlega brotalöm í orkulöggjöfinni og stofnanir ríkisins, sem við sögu koma til að hindra ófremdarástand af þessu tagi, í fyrstu atrennu Orkustofnun, gera aðeins illt verra. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur verk að vinna.
6.7.2022 | 18:41
Landvernd afhjúpuð
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að allt frá útkomu bókarinnar "Limits to Growth" (Endimörk vaxtar) á 7. áratugi 20. aldar, einmitt þegar grundvöllur var lagður að fyrsta meiriháttar virkjanaátaki Íslendinga til að stíga fyrstu umtalsverðu skref til iðnvæðingar í krafti íslenzkra orkulinda, hefur verið við lýði sérlundaður hópur á Vesturlöndum, sem trúir því, að auðlindir jarðar séu að klárast vegna þess, sem þeim finnst vera neyzluæði og kenna að sjálfsögðu auðmagnshagkerfinu um, sem þurfi stöðugan hagvöxt til að þrífast. Þetta þröngsýna viðhorf er reist á fákunnáttu og misskilningi og má alls ekki fá að móta þjóðfélagsþróunina.
Þennan sérvitringahóp hefur dagað uppi, því að ekkert af heimsendaspánum rættist, því að höfundarnir hugsuðu ekki málið til enda. Þeir gleymdu mikilvægum þætti auðmagnshagkerfisins, sem er verðmyndun, en hún er fall af framboði og eftirspurn og mikilvægi vörunnar/þjónustunnar í framleiðslukeðjunni og því, hvort til sé staðkvæmdarvara, sem nota megi í staðinn. Þá þróast ytri aðstæður, t.d. tækni á öllum sviðum, sem lítill gaumur var gefinn í "Endimörkum vaxtar".
Allt hefur þetta leitt til þess, að ekkert þeirra efna, sem spáð var, að yrðu uppurin innan tilgreinds tíma á 20. öldinni, hefur horfið af markaðinum enn. Markaðskraftar ýta í raun undir sjálfbæra auðlindanýtingu, því að hún er hagkvæmust til lengdar. Hringrásarhagkerfið þrífst með vörur, sem ódýrara er að endurvinna en að frumvinna. Gott dæmi um þetta er álið, sem hægt er að vinna aftur og aftur með lítilli rýrnun og tiltölulega lítilli orkunotkun.
Orkulindir Íslands eru fjarri því að vera fullnýttar að teknu tilliti til hófsemi í vernd og nýtingu. Nú hafa verið virkjaðar um 20 TWh/ár í vatnsföllum og jarðgufu til raforkuvinnslu, og hiklaust á með varfærni að vera unnt að bæta a.m.k. 15 TWh/ár við úr sams konar orkulindum. Síðan er spurning, hversu mikið verður ásættanlegt að framleiða með vindmyllum til að anna allri orkueftirspurn um árið 2040, þegar orkuskiptum og kolefnishlutleysi á að verða náð. Þau, sem þá þurfa að velja á milli orkulinda, munu e.t.v. hafa um fleiri kosti að velja en þau, sem nú taka ákvörðun, t.d. þóríum-kjarnorkuver af ýmsum stærðum.
Þau, sem móta stefnuna núna, eru Alþingismenn. Þar er margur sauður í mörgu fé, og spurning, hvort þeir glutra völdunum úr höndum sér með fáfræði og ábyrgðarleysi, t.d. til ACER, orkustofnunar Evrópusambandsins. Reyndar er embættisfærsla æðsta fulltrúa ACER á Íslandi nú um stundir, Orkumálastjóra, alveg afleit, og stærsta dæmið um það er, að Orkustofnun hefur lagzt á umsókn Landsvirkjunar um leyfi til að reisa Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá og tafið afgreiðslu óeðlilega í tæpt ár, en komnir eru um 13 mánuðir síðan stofnunin fékk þessa sjálfsögður umsókn loks í hendur. Þeir eru víða Júmbóarnir og dragbítar embættiskerfisins.
Jónas Elíasson, fyrrverandi verkfræðiprófessor, gerði þingmenn, orkumál og umhverfisvernd að viðfangsefni sínu í Morgunblaðsgrein 30. júní 2022:
"Þingmenn í biðflokki".
Þar gat m.a. að líta þetta:
"Það er alltaf forvitnilegt að fylgjast með umræðum um orku- og umhverfismál á Alþingi. [Það er þó fremur sorglegt en forvitnilegt - innsk. BJo.]. Margir þingmenn nota tækifærið til að belgja sig út í miklum æsingi yfir því, hversu miklir náttúruverndarmenn þeir séu, ekki megi skemma náttúruna fyrir nokkurn mun, "íslenzk náttúra er það dýrmætasta, sem við eigum", sem er satt og rétt, en menn verða að vita, hvað eru náttúruspjöll og hvað ekki, til að geta fylgt þessu eftir."
Sá málflutningur, sem þarna er vitnað til, er endurómur af talsmáta Landverndar og kemur í raun vernd einstakra náttúruminja ekki við, heldur er einfaldlega afturhaldsstefna undir fölsku flaggi rekin af trúflokki, sem trúir því, að til að bjarga jörðunni frá glötun verði að stöðva framleiðsluaukningu á jörðunni og þar með vöxt hagkerfanna, sem þó er undirstaða bættra lífskjara.
Þessu fólki hryllir við aukinni raforkuvinnslu á Íslandi, þótt úr endurnýjanlegum orkulindum sé og engu einstæðu gróðurlendi, landmyndunum eða vatnsföllum sé fórnað fyrir vikið. Þau leggja einfaldlega allar breytingar á náttúrunni af mannavöldum til jafns við óafturvirkt tjón. Þetta ofstækisviðhorf gengur auðvitað ekki upp í siðuðu samfélagi, sem vill reisa auðlindanýtingu á beztu fáanlegu þekkingu. Málamiðlun á milli nýrrar verðmætaköpunar og ósnortinnar náttúru verður að finna, og löggjöf um Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda var tilraun til þess, en þar skipta mælikvarðarnir öllu máli, og illa rökstudd slagsíða til verndunar hefur einkennt þá. Á tímum orkuverðs í himinhæðum í heiminum og orkuskorts, sem sums staðar má jafna við kreppu, er tímabært, að fram fari hlutlæg rýni og endurskoðun á þessum mælikvörðum og vægi þeirra, sem ráða því, hvort Verkefnisstjórn um Rammaáætlun raðar virkjunarkostum í verndar- eða nýtingarflokk. Mikið er í bið vegna meints skorts á gögnum.
"En hvað er til í þessu tali um, að virkjun sé náttúruspjöll ? Nánast ekki neitt. Ef menn eiga að nefna einhver náttúruspjöll, sem íslenzk virkjanagerð hefur valdið, vefst flestum tunga um tönn. Þau eru til, en æstir náttúruverndarmenn hafa bara sjaldnast hugmynd um, hver þau eru. Þeir kunna nöfnin á nýlegum orkuverum, hafa mótmælt þeim öllum, en sitja svo uppi með, að enginn teljandi skaði varð af byggingu þeirra."
Fyrrverandi verkfræðiprófessor, Jónas Elíasson, er ekki líklegur til að fara með neitt fleipur, svo að það má slá því föstu, að virkjanir hingað til hafi ekki valdið neinu óafturkræfu tjóni á íslenzkri náttúru. Ef þessi tilgáta er rétt, má telja afar sennilegt í ljósi stöðugra tækniframfara við slíka hönnun og framkvæmd, að niðurstöður verkefnastjórna Rammaáætlunar hingað til séu gróf yfirskot í þágu verndunarsjónarmiða. Þetta bendir aftur til rangrar aðferðarfræði við mat á kostum og löstum virkjunar. Almennilegar (hlutlægar) skilgreiningar á mælikvörðum matsins vantar.
"Þá gera virkjanir heilmikið gagn í verndun náttúrunnar. Bezta dæmið er líklega Efra-Fall. Þá var útrennsli Þingvallavatns stíflað, og þar með hvarf möguleiki rennslisins til að til að grafa gil í haftið niður í farveg Sogsins og tæma Þingvallavatn, rétt eins og Jökulsá á Brú tæmdi Hálslón og Tungnaá Sigölduvatn á sínum tíma, en Sigöldugljúfur tæmdi vatnið alveg. Það vatn er nú komið til baka sem Sigöldulón, en með heldur lægra vatnsborði en gamla vatnið.
Nær allir ferðamenn á leið til Landmannalauga fara fram hjá virkjanaröðinni í Þjórsá-Tungnaá og hafa ánægju af, enda eru stöðvarhúsin haganlega gerð. Sumir leggja lykkju á leið sína til að skoða Sigöldulónið. Það neikvæða við þessa þróun er, að umferð um Dómadalsleið hefur næstum lagzt af, sem er synd, því [að] sú leið í Landmannalaugar er mjög falleg."
Hægt er að taka undir hvort tveggja hjá verkfræðiprófessornum fyrrverandi, að vatnsaflsvirkjanir draga úr eða stöðva stöðugar náttúrulegar breytingar á náttúrunni, sem flestir eru sammála um, að séu til hins verra, og þess vegna eru vatnsaflsvirkjanir oft til bóta fyrir þróun náttúrunnar. Jöfnun rennslis neðan við virkjaðar ár er jákvæð fyrir fiskgengd í árnar og dregur jafnframt úr landbroti og tjóni á ræktarlandi í flóðum og vegna ísjakareks. Dæmi um þetta eru Neðri-Þjórsá og Blanda, en framburður þeirra á seti og ísi stöðvast að mestu í miðlunarlónunum, svo að þær breytast í góðar veiðiár.
Hitt atriðið er alþekkt staðreynd í öllum löndum vatnsaflsvirkjana, að mannvirkin, stíflur og stöðvarhús, virka sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn, einkum ef virkjunareigandinn setur upp móttökuaðstöðu fyrir áhugasama ferðalanga. Við mat á virkjanakostum hérlendis hefur allt of mikið varið gert úr neikvæðum áhrif virkjana á ferðamennsku. Jákvæðu áhrifin eru yfirgnæfandi.
Að lokum reit Jónas Elíasson:
"Nú er búið að samþykkja nýja [nr 3-innsk. BJo] rammaáætlun á Alþingi. Það telst til tíðinda, að nokkrir þingmenn ákváðu að skella sér í biðflokkinn og styrkja hann. Kjalölduveita og Héraðsvötn voru færð í þann flokk. Þetta er ekki stórt skref, en verulega til bóta. Full þörf er á að virkja jökulvatnið og draga þar með úr landbroti, og þetta á við um báða þessa virkjunarkosti. Bændur í Skagafirði verða oft fyrir búsifjum af völdum Héraðsvatna, en virkjun getur bægt landbroti frá jörðum þeirra, eins og gerzt hefur meðfram Þjórsá og Blöndu. Þannig hjálpa virkjanir til við að varðveita náttúruna. Vel gert, þingmenn."
Það er rík ástæða til að leggja meiri áherzlu á jöfnunaráhrif virkjana á rennslið og þar með á öryggi fólks og fénaðar neðan virkjunar og auðveldari landnotkun og aukið notagildi ánna ásamt eflingu ferðamennskunnar, sem af virkjunum leiðir. Þessir þættir hafa verið vanmetnir hingað til af verkefnisstjórnum um Rammaáætlun. Þessi atriði auk framfara í virkjanatilhögun og mikil verðmætaaukning raforkunnar á síðustu misserum vegna orkuskipta og landvinningastríðs Rússa í Úkraínu getur hæglega lyft virkjanakostum úr verndarflokki og í nýtingarflokk, ef aukin hlutlægni fær að ráða för, og valdið því, að fleiri færist úr biðflokki í nýtingarflokk en í verndarflokk.
3.7.2022 | 13:46
Blekkingaleikur Landverndar
Margir hafa veitt mótsagnakenndum málflutningi Landverndar athygli, en talsmaður hennar og framkvæmdastjóri, Auður Önnu Magnúsdóttir, hefur reynt að skáka lygalaupinum Munchhausen í fjarstæðukenndum frásögnum af því, hvernig lifa mætti betra lífi í landinu með því að kippa um 150 mrdISK/ár út úr hagkerfinu með því að draga saman seglin í orkukræfum iðnaði og setja stoppara á ný virkjanaverkefni.
Það bezta, sem um svona Munchhausen málflutning má segja er, að einfeldningar hafi ofmetnazt og farið inn á svið, sem þeir ráða ekki við. Líklegra er þó, að um vísvitandi blekkingar sé þarna að ræða, þar sem gerð er ósvífin tilraun til að kasta ryki í augu almennings varðandi þjóðhagslega þýðingu iðnaðarins og þörfina á nýjum virkjunum í landinu til að spara jarðefnaeldsneyti og efla hagvöxt sem undirstöðu lífskjarabata almennings og bætts velferðarkerfis.
Það er eins og ábyrgðarlausir viðvaningar véli um mál hjá Landvernd. Hvaða áhrif halda menn, að yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar um, að hún óskaði eftir því í nafni orkuskipta, að orkufyrirtæki með samninga við orkukræfan iðnað tilkynntu þessum viðskiptavinum sínum, að þau stefndu á helmingun orkusölunnar til þeirra við fyrsta tækifæri. Traust fjárfesta, erlendra sem innlenda, í garð íslenzkra stjórnvalda og Íslands sem fjárfestingarlands mundi gufa upp í einni svipan.
Þetta mundi leiða til fjármagnsflótta frá landinu og lækkunar á gengi ISK að sama skapi. Þetta yrði bara upphaf stórfelldrar kjaraskerðingar almennings, og samneyzlan yrði að sjálfsögðu að laga sig að tekjulækkun ríkissjóðs og sveitarsjóða. Þetta er svo foráttuvitlaus boðskapur Landverndar, að vart er á hann orðum eyðandi, en samt hefur framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, SI, dr Sigurður Hannesson, séð sig knúinn til að leggja hér orð í belg. Landvernd hefur á undanförnum árum farið mikinn, tafið mörg framfaramál, ekki sízt með rekistefnu fyrir dómstólum, en nú hefur hún skotið sig í fótinn með yfirgengilegum fíflagangi.
Í Morgunblaðinu 30. júní 2022 tjáðu Sigurður Hannesson og Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs, sig við blaðamenn Morgunblaðsins undir fyrirsögninni:
"Afleiðingin yrði lakari lífskjör".
Upphaf fréttarinnar var þannig:
"Talsmenn Samtaka iðnaðarins (SI) og Viðskiptaráðs eru ósammála þeirri afstöðu framkvæmdastjóra Landverndar til orkumála, sem kom fram í Morgunblaðinu á þriðjudag [28.06.2022].Ekki nægi að forgangsraða þeirri orku, sem þegar er framleidd, til að mæta aukinni orkuþörf í stað þess að fjölga virkjunum, eins og framkvæmdastjóri Landverndar hefur lagt til, að mati Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI."Íslenzkt samfélag hefur hagnazt ríkulega á orkusæknum iðnaði. Innlendur kostnaður álveranna á síðasta ári var mrdISK 123. Það er það, sem varð eftir hér", segir Sigurður. "Nærri 2 þús. manns eru á launaskrá hjá þessum fyrirtækjum ásamt verktökum auk afleiddra starfa." Það er ekkert til, sem heitir "forgangsröðun orku", sem þegar hefur verið samið um, nema í skömmtunarástandi. Landvernd endurvarpar kreppu- og ofríkishugarfari, sem getur ekki leitt til annars en tjóns og líklega lögsókna fyrir dómstólum, jafnvel athugasemda frá ESA og lögsókna gegn orkufyrirtækjunum og/eða eigendum þeirra fyrir ómálefnalega mismunum, þegar aðrar og mun nærtækari lausnir eru í boði. Landvernd er gegnsýrð af forræðishyggju og boðar, að orkufyrirtækin skuli sitja og standa, eins og ríkið (í höndum trúfélaga Landverndar) skipar fyrir. Það er einfaldlega óleyfilegt samkvæmt reglum Innri markaðar EES, og innan ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) er áreiðanlega engin samúð með þeim sérlundaða boðskap Landsverndar, að á Íslandi megi ekki virkja meiri endurnýjanlegar orkulindir, á sama tíma og orkuskorturinn er svo grafalvarlegur í Evrópu, að verið er að ræsa gömul kolaorkuver og hætt er við að loka um 7 kjarnorkuverum um sinn. Der Zeitgeist (andi tímans) er á móti Landvernd, þótt hún þykist boða nútímalega stefnu. Stefna Landverndar er fátæktarstefna, og hún hefur þegar valdið miklu samfélagslegu tjóni með því að tefja orkuframkvæmdir úr hófi fram. Þegar tekið er tillit til fjölda á launaskrá orkukræfs iðnaðar, verktakanna, sem fyrir þennan iðnað vinna, bæði innan verksmiðjugirðinga og utan, til starfsmanna orkufyrirtækjanna og flutningafyrirtækjanna, sem vinna í aðfanga- og frálagskeðju orkukræfs iðnaðar, er varfærið að áætla, að um 12 þúsund ársverk sé þar að ræða, og fleiri bætast þar við á tímum verulegra nýframkvæmda. ""Við yrðum verr sett sem samfélag, ef við ætluðum að fórna verðmætasköpun orkusækins iðnaðar til að framleiða rafeldsneyti í þágu orkuskipta", segir Sigurður. Þá megi ekki gleyma því, að orkusækinn iðnaður, og hugverkaiðnaður að einhverju leyti, séu einu útflutningsgreinarnar, sem nýta eingöngu hreina orku. Aðrar útflutningsgreinar, eins og ferðaþjónusta og sjávarútvegur, noti fyrst og fremst [aðallega] olíu til að knýja verðmætasköpun, sem byggir mikið á flutningum í lofti, á landi og á sjó. Orkuskipti muni þá ganga út á að nota hreina raforku til að framleiða hreina orkugjafa fyrir þessar greinar. Sigurður segir, að þróun í þá átt sé komin á fleygiferð og rifjar upp, að Samskip hafi nýlega fengið myndarlegan styrk úr norskum sjóði til að gera tilraunir með hreina orkugjafa á skip." Umrædd stefnumörkun Landverndar er aðeins enn eitt dæmið um þá þröngsýni, sem ríkir á þeim bæ. Hvergi á Vesturlöndum mundi það verða talið ábyrg ráðstöfun íslenzkra orkufyrirtækja að undirlagi ríkisvaldsins að hætta að selja allt að helming þeirrar sjálfbæru raforku, sem nú fer til orkukræfs iðnaðar á Íslandi, því að sú framleiðsla og jafnvel meira mundi þá færast til landa, sem bjóða raforku að mestu leyti framleidda með jarðefnaeldsneyti. Þannig er boðskapur Landverndar eins umhverfisfjandsamlegur og hugsazt getur á tímum stórfelldrar vöntunar á endurnýjanlegum og kolefnisfríum orkugjöfum. Við ættum yfir höfði okkar útskúfun á alþjóðavettvangi sem umhverfissóðar og blindingjar, sem ekki skilja þá alvarlegu stöðu, sem orkumál heimsins eru í og verða, þar til orkuskipti úr jarðefnaeldsneyti hafa farið fram. Landvernd getur ekki notið snefils af trausti eða tillitssemi eftir þetta síðasta útspil, sem setur hana í hóp umhverfissóða á alþjóðavísu. "Hann [dr Sigurður] bendir á, að við séum engu bættari með að taka orku af iðnaði og nýta til annarra greina. Það auki ekki verðmætasköpun, heldur leiði til stöðnunar og verulegrar afturfarar varðandi lífskjör landsmanna. "Við breytum hvorki lögmálum hagfræðinnar né eðlisfræðinnar. Raunveruleikinn er eins og hann er, og við þurfum að laga okkur að því. Markmið stjórnvalda eru metnaðarfull, og hér er verið að taka ábyrga afstöðu í umhverfismálum í þágu okkar og heimsins alls. Við hljótum að vilja róa að því öllum árum að ná þeim metnaðarfullu markmiðum", segir Sigurður." Þarna flettir framkvæmdastjóri SI á sinn hátt ofan af sértrúarsöfnuðinum, sem kallar sig "Landvernd", en ástundar ekki "ábyrga afstöðu" til umhverfismála og er þess vegna ekkert annað en forstokkaður hópur um stöðnun samfélagsins á öllum sviðum, "núllvöxt", sem auðvitað leiðir óhjákvæmilega til hrörnunar samfélagsins, aukinnar eymdar og fátæktar. Eina leiðin fram á við er að auka skilvirkni á öllum sviðum til að gera landið samkeppnishæfara við útlönd, varfærin og sjálfbær aukin nýting auðlinda með beztu þekkingu og tækni að vopni til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi og auka framleiðslu landsmanna til að standa undir hagvexti og bættum lífskjörum. Téðri frétt Morgunblaðsins lauk þannig: "Jóhannes [Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs] ítrekar, að fjórðungur srarfa á Íslandi sé í iðnaði og þaðan komi fimmtungur landsframleiðslu. Hann segir [því] enn þá ósvarað, hvað eigi að koma í staðinn fyrir stóriðjuna, og hver annar eigi að greiða fyrir uppbyggingu á dreifikerfinu [flutningskerfi raforku-innsk. BJo].Bætir hann við, að Auður nefni ferðaþjónustuna sem betri kost en stóriðju, en að hans mati er ferðaþjónusta ágæt, þangað til hún er það ekki. Vísar hann þá til kórónuveirufaraldursins, og hversu sveiflukenndur ferðamannageirinn er. Að auki tekur hann fram, að ferðaþjónusta sé ekki með háa framleiðni, heldur þvert á móti og krefjist mikils vinnuafls. "Auðvitað þarf alltaf að huga að forgangsröðun orku, en ef við ætlum að viðhalda efnahagslegri velferð þjóðarinnar, verður það ekki gert með því að draga úr orkunotkun þjóðarinnar. Það eru draumórar", tekur Jóhannes fram í lokin." Orkukræfur iðnaður og ferðaþjónusta eru ósambærilegar atvinnugreinar, andstæður að flestu leyti hérlendis. Þar sem hagsmunir þeirra rekast þó engan veginn á hérlendis, fara þessar tvær atvinnugreinar ágætlega saman og höfða til ólíkra aðila í þjóðfélaginu. Saman gera þær hagkerfi og samfélag sterkara. Það er rangt, að virkjanir fæli ferðamenn frá og loftlínum fækkar í landinu. Hérlendar virkjanir eru aðdráttarafl fyrir ferðamenn, en öðru máli gegnir um vindorkuverin. Það er þó önnur saga.