Færsluflokkur: Umhverfismál
30.6.2022 | 20:59
Fjarstæðukenndur afturhaldsáróður
Í landinu hefur alltaf verið andstaða við orkunýtingu til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar, eins og sagan greinir frá allt til Títanfélags Einars Benediktssonar, skálds. Átökin um fyrstu stórvirkjun landsins við Búrfell (Sámstaðamúla) í Þjórsárdal á árunum 1963-1969 eru höfundi þessa vefpistils enn í minni, en þá börðust andstæðingar Viðreisnarstjórnarinnar, Alþýðubandalagið og Framsóknarflokkur, hart gegn Búrfellsvirkjun og stofnun álverksmiðjunnar í Straumsvík við Hafnarfjörð, sem fá átti raforku frá Búrfellsvirkjun.
Virkjuninni var talið margt til foráttu, einkum að rennslistruflanir í jökulvatninu yrðu svo miklar, að stöðva yrði starfsemi virkjunarinnar. ISAL-verksmiðjan var uppnefnd "hausaskeljastaður" og sagt, að fjöldi verkamanna mundi tína þar lífinu strax á byggingarskeiðinu. Fullyrðingaflaumur beturvitanna lætur aldrei að sér hæða.
Þessi fordæðumálflutningur varð sér allur til skammar, enda reistur á fordómum og vanþekkingu. Annað bjó undir. Það mátti ekki tengja Ísland við alþjóðlega peningakerfið (Alþjóðabankinn lánaði Landsvirkjun fé fyrir Búrfellsvirkjun) til hagsbóta fyrir verkalýðinn og þjóðina alla. Það var ennfremur alið á fordómum gegn erlendri fjárfestingu öflugra iðnrekenda, í þessu tilviki svissneska álfélagsins Alusuisse, og 100 % eignarhaldi þess og þar með áhættutöku á ISAL. Þessi brautryðjendastarfsemi í atvinnusögu landsins var sögð þjóðhættuleg af andstæðingum Viðreisnarstjórnarinnar, en hún (Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn), leidd af mikilhæfum leiðtogum, sem hikuðu ekki við að berjast fyrir sannfæringu sinni um gagnsemi þessara breytinga fyrir landið, hélt sínu striki.
Það er næsta víst, að hefði þjóðin ekki notið leiðsagnar Sjálfstæðisflokksins í þessu máli og atvinnustefnu hans, hefðu landsmenn ekki farið inn á braut orkukræfrar iðnaðarframleiðslu á tímum Viðreisnarstjórnarinnar og jafnvel aldrei í þeim mæli, sem nú er (yfir 300 mrdISK/ár útflutningstekjur). Þjóðfélagið stæði þá fjarri því jafntraustum fótum fjárhagslega, verkmenning og öryggi á vinnustað væru fátæklegri og þjóðin væri vafalaust fámennari en nú, því að atvinnuleysi og þekkingarflótti hefðu orðið plága. Þessar voguðu breytingar í atvinnuháttum urðu landsmönnum mikið gæfuspor, en afturhaldið í landinu varð bert að innihaldslausum hræðsluáróðri alveg eins og nú að breyttu breytanda.
Sams konar innihaldslausum hræðsluáróðri er enn beint að landsmönnum, og lengst gengur félagið Landvernd. Framkvæmdastjóri Landverndar, Auður Önnu Magnúsdóttir, stundar ábyrgðarlausan málflutning um orkumál landsins, sem einkennist af innantómum fullyrðingum og klisjum, sem hún af fullkominni ósvífni ber á borð fyrir almenning sem nútímalega stefnumörkun, en er hvorki fugl né fiskur og ekkert annað en draumórakenndur fáránleiki.
Hún gerir sig seka um tilraun til að leiða almenning á þær villigötur, að í stað nýrra virkjana fyrir orkuskipti og atvinnusköpun fyrir vaxandi þjóð bjóðist landsmönnum sá töfrasproti að beina allt að 50 % raforku, sem nú fer til iðnaðarins, frá iðnaðinum án þess, að nokkur verði þess var á tekjuhlið sinni, þegar þessi orka hafi fundið sér nýja notendur. Þetta er vitlausasti málflutningur, sem sézt hefur um raforkumál landsmanna frá því að rafvæðing hófst hérlendis, og er þá langt til jafnað.
Efnismikil og vel rökstudd grein birtist í Morgunblaðinu 27. júní 2022 eftir Jóhannes Stefánsson, lögfræðing Viðskiptaráðs, þar sem hann útskýrir glögglega fyrir lesendum með gröfum, súluriti og hringsneiðmynd, að tillögur Landsverndar mundu í framkvæmd leiða til hruns í lífskjörum landsmanna, eins og nærri má geta. Auður Önnu hjá Landvernd er hins vegar við sama heygarðshornið, þegar Tómas Arnar Þorláksson átti við hana viðtal, sem hann birti í Morgunblaðinu 28. júní 2022 undir einum af fjarstæðukenndum frösum Landverndar í fyrirsögn:
"Forgangsraða orku í stað virkjana".
Viðtalið hófst með ógeðfelldu yfirlæti þekkingarsnauðrar Auðar Önnu á atvinnusköpun og -rekstri:
""Við erum ekki bara einhverjir aumingjar, sem bíða hérna eftir því, að stórfyrirtæki komi og skapi handa okkur vinnu", segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, um grein Jóhannesar Stefánssonar, lögfræðings Viðskiptaráðs, sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Þar tók Jóhannes fram, að tillaga Landverndar um full orkuskipti án aukningar í orkuframleiðslu og neikvæðra áhrifa á efnahagslega velsæld stæðist ekki skoðun."
Það er erfitt að gera sér í hugarlund, hvert Auður Önnu er að fara með svona fráleitri yfirlýsingu. Ef hún hafði í huga sokkabandsár orkukræfs iðnaðar og aðdraganda hans 1964-1969, þá er hún á algerum villigötum, eins og fyrri daginn. Það er yfirlætisfull heimska fólgin í því að kalla menn aumingja, þótt þá skorti þekkingu á framleiðsluferli málma á borð við ál og ráði hvorki yfir nauðsynlegum viðskiptasamböndum né fjármagni til að reisa og reka slíkar verksmiðjur. Allt þetta fengu landsmenn með samningum Viðreisnarstjórnarinnar við Alusuisse, og sá samningur veitti aðgang að láni hjá Alþjóðabankanum á mun hagstæðari viðskiptakjörum en ella. Íslendingar voru hins vegar snarir í snúningum við að tileinka sér framleiðslutæknina og vinnubrögðin við stórverkefni á borð við álver og stóra vatnsaflsvirkjun, og nú standa þeim engir á sporði við tæknilegan rekstur álvera.
Hér er um mikilsverða verkþekkingu að ræða, sem dreifzt hefur um allt samfélagið almenningi til hagsbóta. Þegar framkvæmdastjóri Landverndar leggur til, að íslenzka ríkið, eigandi Landsvirkjunar, stöðvi afhendingu um helmings núverandi raforkuafhendingar til orkukræfs iðnaðar við fyrsta tækifæri, er um að ræða þvílíkan óvitaskap, ábyrgðarleysi og fjarstæðukennt bull, að engu tali tekur. Samtök, sem ráðið hafa talsmann þessarar gerðar til starfa, eru hreinræktað niðurrifsafl í þjóðfélaginu, sem hafa fyrir vikið ekki snefil af trúverðugleika lengur.
"Að mati Auðar er þetta ekki rétt hjá Jóhannesi, og segir hún Landvernd taka þetta allt fyrir í sviðsmyndagreiningu samtakanna, sem sé mjög ítarleg. "Forsendurnar fyrir þessu eru, að við forgangsröðum orkunni, sem við framleiðum nú þegar, en 80 % af þeirri orku fara í stóriðju, sem hagnast á erlendum stórfyrirtækjum", segir Auður, og að hennar mati nýtur íslenzkt samfélag ekki góðs af þessu. Segir hún, að samkvæmt útreikningum þeirra þurfi stóriðjan að draga úr orkunotkun sinni um allt að 50 %."
Þetta er eiginlega óskiljanlegt rugl í Auði Önnu. Hver hagnast á erlendum stórfyrirtækjum ? Eru það ekki raforkufyrirtækin Landsvirkjun, OR, HS Orka og Landsnet ? Hagnaður Landsvirkjunar 2021 varð um mrdISK 30, megnið af honum frá stórnotendum og helmingurinn fór í arðgreiðslur til ríkissjóðs. Það bætist við skattgreiðslur fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra, en bullukollan kveður íslenzkt samfélag "ekki njóta góðs af þessu". Þetta er undirmálsmálflutningur.
"Hvað varðar ályktun Jóhannesar, að orkuskipti án frekari virkjana séu ómöguleg, segir Auður það ekki rétt, nema ef notazt er við lausnir gærdagsins. Segir hún svarið ekki vera að sækja enn frekar í auðlindir. Undirstrikar hún, að það þurfi að koma á hringrásarhagkerfi og virða náttúruauðlindirnar."
Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem Auður Önnu reynir að klæða trúarbrögð sértrúarsafnaðarins í Landvernd í búning nútímalegra viðhorfa, en það er ekkert nútímalegt við farsakenndar firrur í opinberri umræðu annað en falsfréttabragurinn, sem nú tröllríður fréttamiðlunum. Það er engin glóra í því að setja fram atvinnustefnu og efnahagsstefnu á þeim grundvelli, að ekki megi virkja meira af endurnýjanlegum og nánast kolefnisfríum orkulindum í náttúru Íslands án þess að sýna fram á það með haldbærum rökum án trúarlegra stefja á borð við, að náttúran skuli njóta vafans, að unnið hafi verið óafturkræft tjón á náttúrunni hingað til með virkjunum.
Hér verður að greina á milli breytinga og tjóns, en margar breytinganna hafa orðið til góðs fyrir náttúruna, s.s. til að verjast giljagreftri og landbroti og að framkalla nýjar laxveiðiár. Á Íslandi er vert að hafa í huga, að náttúran sjálf er miklu stórtækari breytinga- og tjónvaldur á náttúrunni en íbúar landsins. Stefna Landverndar er í stuttu máli svo laus við að vera nútímaleg, að nútímalegu og fjölbreytilegu velferðarþjóðfélagi verður ekki viðhaldið í landinu, ef sveigja á inn á glórulausa afturhaldsbraut Landverndar. Boðskapur af því tagi, að ekki skuli nýta meiri jarðvarma og vatnsföll eru einsdæmi í landi, þar sem hlutfallslega er jafnlítið nýtt (virkjað) og hérlendis. Það er einhver ofdekursbragur allsnægta yfir boðskap Landverndar.
"Þá bendir Auður á, að bæði Landvernd og tímaritið The Economist hafi sýnt, að verðmætasköpun á hverja orkueiningu á Íslandi sé með því lægsta, sem gerist á heimsvísu. Enn frekar bendir hún á, að mjög fá störf skapist á hverja orkueiningu. Ítrekar hún þá, að ef við breytum því, hvernig við nýtum orkuna, sem er nú þegar framleidd, getum við skapað meiri verðmæti. Tekur hún fram, að fyrir kórónuveirufaraldurinn árið 2019 hafi ferðaþjónustan verið langstærsti útflytjandi vöru og þjónustu."
Þarna reynir Auður Önnu að spyrða Landvernd við hið virta tímarit The Economist, en hér skal fullyrða, að ritstjórn The Economist yrði gáttuð á því rugli, sem Landvernd setur á oddinn í orkumálum Íslands. Það er spurning, hvort téðir útreikningar á verðmætasköpun á orkueiningu hafa verið gerðir, þegar Kínverjar og Rússar dembdu miklu magni málma inn á Evrópumarkaðinn, svo að verðið hríðféll, en nú hefur verð á t.d. áli tvöfaldazt frá fyrri hluta Kófstímans.
Það er þó annar samanburður áhugaverðari, en hann er verg landsframleiðsla á mann, en þar eru Íslendingar á meðal hinna allra hæstu í heiminum og líka í launakostnaði á mann. Það er gríðarleg erlend fjárfesting á hvert MW eða starf í orkukræfum iðnaði. Á slíkum vinnustöðum eru nánast alltaf hærri laun en á hinum, og þetta eru einmitt þau störf, sem sótzt var eftir að fá til Íslands, af því að starfsemin er stöðug, og eigandinn leggur ógjarnan niður starfsemi mikilla fjárfestinga og hárrar skilvirkni, en sú er reynslan af íslenzku starfsfólki verksmiðjanna upp til hópa.
Þegar um sjálfbæra orkunotkun er að ræða, er viðhorfið til verðmætasköpunar á MW auðvitað allt annað en til brennslu jarðefnaeldsneytis, svo að hin seinheppna Auður Önnu hefur hér slysazt til að bera saman epli og appelsínur. Hún virðist telja æskilegt, að ferðaþjónustan á Íslandi, sem ekki flytur út vörur, eins og hún heldur fram, taki við starfsfólkinu, sem missir sín störf, verði farið að tillögum Landverndar. Gerir Auður Önnu sér grein fyrir álagsaukningunni á umhverfið, gangi það eftir, launalækkun fólksins og þeirri miklu ósjálfbæru orkunotkun, sem fylgir hverju starfi í þessari grein ?
"Segir hún að auki útreikninga Jóhannesar ekki rétta, að án frekari orkuframleiðslu muni lífskjör hér á landi versna fyrir árið 2050 og verða svipuð og þau voru rétt eftir árið 2000. "Við erum að leggja til, að lífskjör verði eins og í dag að teknu tilliti til fólksfjölgunar. Til þess þurfum við að forgangsraða orkunni öðruvísi og betur", segir Auður."
Það er kjaftur á keilunni, þegar hún fullyrðir skilmerkilega greinargerð Jóhannesar Stefánssonar ranga og færir fyrir því aðeins það útþvælda slagorð, að "forgangsraða [þurfi] orkunni öðruvísi og betur. Er ekki augljóst, að verði 150 mrdISK/ár teknir út úr hagkerfinu, og það vel launaða fólk, sem þá missir vinnuna, fer að vinna við ferðaþjónustu, eins og virðist vaka fyrir forræðishyggjupostulanum Auði Önnu,eða fari að starfa við að framleiða rafeldsneyti, eða flýi land, þá verði samfélagið að sama skapi fátækara og lífskjör alls almennings lakari ?
Delluhugmyndafræði forræðishyggjupostula, sem engum einkaframtaksmanni mundi hugnast, hefur aldrei vel gefizt í sögunni og alltaf gert almenning fátækari, hafi einhverjar slíkar hókus-pókus- lausnir orðið ofan á. Auður Önnu dregur enga hvíta kanínu upp úr hatti sínum, þótt hún klæðist búningi töframanns. Til þess er hugmyndafræði hennar of illa ígrunduð, full af þverstæðum og raunar algerlega óþörf fórn í anda "Endimarka jarðar". Á Íslandi þarf að afnema afl- og orkuskort tafarlaust og virkja fyrir þörfum orkuskipta og vaxandi útflutningsframleiðslu til lífskjarabata fyrir vaxandi þjóð.
8.6.2022 | 10:37
Vatnsdalsvirkjun - góð hugmynd
Ekki er í fyrirsögn vísað til hinnar fögru sveitar Vatnsdals í Austur-Húnavatnssýslu, þar sem höfundur þessa pistils ól manninn í 7 sumur við störf og leik og kynntist þar hefðbundnum landbúnaði landsmanna, sem þá var í óða önn að vélvæðast, heldur er átt við hérað Hrafna-Flóka á sunnanverðum Vestfjörðum.
Orkubú Vestfjarða hefur kynnt til sögunnar miðlungs stóra virkjun, þar sem virkjunartilhögunin fellur með eindæmum ljúflega að umhverfinu. Kerfislega er staðsetningin alveg kjörin, og virkjunin (20 MW) er hagkvæm, því að þar má framleiða raforku inn á svelt Vestfjarðakerfið fyrir um 4,9 ISK/kWh m.v. upplýsingar í frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 3. júní 2022 undir fyrirsögninni:
"Knúið á um Vatnsdalsvirkjun".
Hún hófst þannig:
"Hugsanleg Vatnsdalsvirkjun í Vatnsfirði mun hafa mjög jákvæð áhrif á raforkuöryggi á Vestfjörðum. Hún hefði tiltölulega lítil umhverfisáhrif að mati orkubússtjóra Orkubús Vestfjarða [OV]. Umsókn fyrirtækisins um rannsóknarleyfi er í vinnslu hjá Orkustofnun [OS]. Forsenda þess, að orkukosturinn verði tekinn til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar er þó, að friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðarfriðlands verði breytt."
Orkustofnun mun nú hafa haft téða umsókn OV til meðhöndlunar í tæpt ár. Þessi langi meðgöngutími OS er óhæfilega og reyndar óbærilega langur í ljósi mikilvægis þess að skýra línur í orkuöflunarmálum Vestfirðinga. Ekki verður séð, að skilvirkni stofnunarinnar hafi aukizt nokkurn skapaðan hlut, síðan stjórnmálafræðingurinn tók við starfi Orkumálastjóra, enda ekki við því að búast. Menntun núverandi orkumálastjóra hjálpar henni ekkert við afgreiðslu þessa máls. Hvað sem því líður er seinagangur OS við afgreiðslu tiltölulega einfaldra mála (s.s. þetta og virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun) óþolandi og ljóst er, að tilfinning stjórnenda þar á bæ fyrir brýnni úrlausn (e. sense of urgency) er ekki fyrir hendi.
"Elías Jónatansson, orkubússtjóri, segir, að tenging Vatnsdalsvirkjunar í Vatnsfirði við flutningskerfið sé aðeins um 20 km. Með 20 MW grunnvirkjun þar og með því að framkvæma áform Landsnets um hringtengingar þaðan og um sunnan- og norðanverða Vestfirði væri hægt að draga úr straumleysistilvikum á þéttbýlisstöðum um 90 %. Slík grunnvirkjun gæti kostað um mrdISK 10 og komizt í gagnið í lok árs 2028. Elías bætir því við, að með því að auka afl virkjunarinnar í 30 MW án mikillar viðbótar framleiðslu [í GWh/ár - innsk. BJo] væri hægt að stýra kerfinu þannig, að ekki þyrfti að grípa til keyrslu olíuknúins varaafls, þótt tengingin við landskerfið rofnaði í einhverjar vikur. Virkjun með auknu afli væri því hjálpleg í loftslagsbókhaldi landsins."
Hér eru álitlegar og efnilegar hugmyndir Vestfirðinga og Landsnets á ferðinni, og eins og áður sagði eru þær arðsamar, jafnvel með 10 MW viðbótar vél, þótt hún mundi nýtast aðallega í neyðarrekstri, þegar Vesturlína er straumlaus, og á meðan hin vél Vatnsdalsvirkjunar er frátengd kerfi vegna viðgerða eða viðhalds. Keyrsla varavéla á olíu rímar ekki við stefnu yfirvalda í loftslagsmálum. Vatnsdalsvirkjun getur orðið mikilvægur tengipunktur flutningskerfis raforku á Vestfjörðum, sem mæta mun sjálfsögðum kröfum íbúa og fyrirtækja þar um aukið afhendingaröryggi. Þess vegna er brýnt að veita þessum góðu hugmyndum brautargengi. Eins og fyrri daginn reynir nú á yfirvöld orkumála, sem verða að fara að hrista af sér slenið.
"Orkubú Vestfjarða sótti um rannsóknarleyfi vegna Vatnsdalsvirkjunar um mitt síðasta ár. Elías segir, að Orkustofnun sé að leita umsagna. Bendir hann á, að Orkustofnun hafi áður veitt fyrirtækinu leyfi til rannsókna í friðlandinu. Það var vegna Helluvirkjunar, en hún er miklu minni og reyndist ekki [vera] hagkvæm."
Það er kyndugt að leita umsagna í heilt ár vegna umsóknar um rannsóknarleyfi. Hjá OS eiga að vera sérfræðingar, sem leitt geta slíka umsókn til lykta á 1-2 mánuðum. Áhuginn hjá stofnuninni á að veita viðskiptavinum sínum góða þjónustu er greinilega ekki lengur fyrir hendi.
"Spurður um áhrif á friðlandið segir Elías, að umhverfisáhrif yrðu lítil á láglendi. Hins vegar yrði rask á landi ofan við 250 m yfir sjávarmáli við byggingu stíflu og stækkun lóna og styrkingu og lengingu vegslóða, en það sjái enginn neðan úr dalnum. Hann bætir því við, að svæðið sé þegar raskað vegna raflína, sem þar liggi yfir. Elías bendir á, að lagning nýs vegar um Dynjandisheiði hafi þegar valdið mun meira raski en búast megi við í Vatnsdal. "Við teljum, að út frá náttúruverndarsjónarmiðum yrði þetta rask talsvert minna en við sambærilegar framkvæmdir víða annars staðar."
Tvö lítil stöðuvötn, Flókavatn og Hólmavatn, munu fara undir miðlunarlónið, svo að breytingin á ásýnd landsins yrði lítil. Stöðvarhúsinu má koma snoturlega fyrir innst í dalnum og verður þá áreiðanlega aðdráttarafl fyrir ferðamanna. Það er staðreynd, að virkjanir á Íslandi eru vinsælir áningarstaðir ferðamanna. Vatnsdalsvirkjun mundi bæta aðgengi ferðamanna að náttúru landsins. Slíka þætti ber að meta meira en forstokkuð fordæmingarviðhorf þeirra, sem dæma áður en virkjunartilhögun er fyrir hendi.
Að lokum stóð í þessari athyglisverðu frétt:
"Elías segir heimilt samkvæmt lögum að aflétta kvöðum í friðlýsingarskilmálum, ef ríkir almannahagsmunir krefjist. Telur hann, að svo hátti til með Vatnsdalsvirkjun, þegar litið sé til orkuöryggis Vestfjarða og möguleika á orkuskiptum á næstu árum og áratugum. Þótt friðlýsingarskilmálum yrði breytt, er það engin trygging fyrir því, að verkefnisstjórn rammaáætlunar gefi grænt ljós á virkjun í Vatnsdal. Einnig á eftir að vinna umhverfismat og fá önnur nauðsynleg leyfi."
Eins og fram kemur í þessari frétt, hefur orkubússtjórinn mikið til síns máls. Hagsmunir Vestfirðinga eru svo ríkir í orkumálum að duga til að rökstyðja endurskoðun friðlýsingarskilmála á þessu virkjunarsvæði.
1.6.2022 | 20:33
Orkuaðsetur á Bakka við Skjálfanda
Þann 26. apríl 2022 barst loks frétt af raunhæfri viðskiptahugmynd um framleiðslu á rafeldsneyti til innanlandsnota og til útflutnings. Í iðngörðum á Bakka við Húsavík er ætlunin að nýta raforku frá stækkun Þeistareykjavirkjunar og stækkun Kröfluvirkjunar eftir atvikum til að framleiða vetni og ammóníak. Með verð á olítunnunni í USD 120 og stígandi, er þetta sennilega orðin raunhæf viðskiptahugmynd nú þegar, þótt forstjóri Landsvirkjunar hafi í útvarpsviðtali að morgni 1. júní 2022 talið, að svo yrði ekki fyrr en að 5 árum liðnum. Téð frétt Morgunblaðsins um þetta efni var undir fyrirsögninni:
"Framleiða rafeldsneyti á Bakka".
Hún hófst þannig:
"Í ljósi markmiða ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlaust Ísland [og] óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040 verður að hraða undirbúningi að framleiðslu rafeldsneytis, eins og vetnis og ammoníaks, að mati Sigurðar Ólasonar, framkvæmdastjóra Green Fuel. Slíkt eldsneyti sé lykilatriði í orkuskiptunum. Fyrirtækið stefnir að byggingu fyrstu stórskala rafeldsneytisverksmiðju landsins á Bakka við Húsavík."
Það er rétt, að orkuskiptin á Íslandi verða aldrei barn í brók án öflugrar rafeldsneytisverksmiðju í landinu, og þess vegna er frétt um þetta frumkvæði einkaframtaksins fagnaðarefni. Að hefjast handa er ekki einvörðungu nauðsyn vegna loftslagsmarkmiðanna, heldur ekki síður til að spara gjaldeyri, þegar líklegt er, að verð á hráolíu verði yfir 100 USD/tunna á næstu árum m.a. vegna viðskiptabanns Vesturlanda á útlagaríkið Rússland, sem unnið hefur til þess að verða einangrað vegna grimmdarlegs og blóðugs yfirgangs við lýðræðislegan og fullvalda nágranna sinn.
Notendur afurðanna verða m.a. fiskiskip, flutningaskip, flutningabílar vöru og fólks og flugvélar. Stór markaður bíður þessarar verksmiðju, en hann mun opnast smátt og smátt vegna vélanna, sem í mörgum tilvikum þarfnast breytinga, enda ekki hannaðar fyrir þessar afurðir sem kjöreldsneyti fyrir hámarksnýtni og endingu.
"Sigurður segist í samtali við Morgunblaðið finna fyrir miklum áhuga og meðbyr. "Green Fuel mun framleiða vetni og ammoníak, sem bæði eru algerlega kolefnislaus í framleiðslu og notkun. Þessar 2 tegundir rafeldsneytis eru því lausn á loftslagsvanda heimsins og munu stuðla að því, að Ísland uppfylli ákvæði Parísarsamkomulagsins varðandi minnkun kolefnisútblásturs. T.d. væri það mikill kostur, ef kaupskipa- og fiskiskipaflotinn næði að skipta út dísilolíu [og flotaolíu - innsk. BJo] yfir í rafeldsneyti", segir Sigurður.
Ammóníakið, sem Green Fuel hyggst framleiða, myndi duga til að knýja þriðjung íslenzka fiskiskipaflotans að sögn Sigurðar. Auk þess mun Green Fuel framleiða vetni í fljótandi formi, sem er álitlegur orkugjafi [orkuberi - innsk. BJo] fyrir þungaflutninga og innanlandsflug á Íslandi."
Það er ekki bara kostur, heldur nauðsyn, að flotinn losi sig úr viðjum eldsneytisinnflutnings og verði um leið kolefnishlutlaus. Vetnið er grunnvaran fyrir allt rafeldsneyti. Til að færa það á vökvaform er vetnið sett undir háan þrýsting og jafnvel kælt líka. Þetta er orkukræft ferli, og minni hagsmunum verður einfaldlega að fórna fyrir meiri til að útvega "græna" raforku í verkið. Þokulúðrar á þingi á borð við Þórunni Sveinbjarnardóttur, þingkonu Samfylkingar, sem í pistli á leiðarasíðu Morgunblaðsins, sem gera þarf nánari skil á þessu vefsetri, bar brigður á það, að virkja þyrfti meira til að vinna bug á raforkuskorti í landinu, reyna sitt til að leggja steina í götu eðlilegrar iðnþróunar í landinu. Forstjóri Landsvirkjunar játar, að raforkueftirspurn í landinu sé nú meiri en raforkuframboðið, í greinarstúfi í Fréttablaðinu 1. júní 2022, en samt situr Orkustofnun á leyfisumsókn fyrirtækis hans um Hvammsvirkjun síðan fyrir um ári, og hann kvartar ekki mikið undan silakeppshættinum opinberlega. Það hvílir ótrúlegur doði yfir stjórnsýslunni í landinu á ögurstund.
"Stefnt er að því að hefja framleiðsluna á Bakka árið 2025, ef samningar ganga eftir. Um er að ræða um 30 MW raforkuþörf [aflþörf - innsk. BJo] í fyrsta áfanga , en 70 MW til viðbótar í seinni áfanga."
Þetta eru alls 100 MW, sem ætti að vera unnt að útvega úr jarðgufugeymum Þingeyinga, en er Landsvirkjun tilbúin í stækkun Þeistareykja og Kröflu ? Lok fréttarinnar hljóðuðu þannig:
"Spurður um helztu magntölur segir Sigurður, að þegar báðir áfangar verði komnir í gagnið [orkunotkun um 800 GWh/ár - innsk. BJo], verði framleiðslan um 105 kt/ár eða 300 t/d af ammóníaki.
Störfin segir Sigurður, að muni skipta tugum, þó [að] of snemmt sé að fullyrða um endanlega tölu. "Verksmiðjan kemur með atvinnu inn á svæðið, bæði í verksmiðjunni sjálfri og hjá þjónustufyrirtæjum í nærumhverfinu", segir Sigurður að lokum."
Hér er örugglega um þjóðhagslega arðsamt fyrirtæki að ræða og mjög líklega um rekstrarlega arðsamt fyrirtæki að ræða, þegar hráolíutunnan er komin vel yfir USD 100, eins og nú. Þess vegna þarf að fara að hefjast handa, en orkuskortur hamlar. Það er næg orka í gufuforðageymum Þeistareykja og Kröflu, og skýtur skökku við, að Landsvirkjun skuli ekki hafa brugðizt betur við og boðað stækkun þessara virkjana. Ekki er ráð, nema í tíma sé tekið, þegar málsmeðferðartími opinberra leyfisveitenda er annars vegar. Það liggja víða dragbítar framfara á fleti fyrir.
27.5.2022 | 21:12
Orkan er undirstaða hagkerfanna
Vegna stríðs í Evrópu herjar orkuskortur víðast hvar í álfunni vestan Rússlands með Ísland og Noreg sem undantekningu. Á fyrsta degi svívirðilegrar innrásar Rússa í Úkraínu voru allar raforkutengingar Úkraínu við Rússland rofnar og landið fasað saman við stofnkerfi Evrópu. Í framtíðinni er líklegt, að Úkraína muni selja "kolefnisfría" raforku til Evrópusambandsins. Rússar hafa rofið raforkuflutninga sína til Finnlands í refsingarskyni fyrir, að Finnar hafa gefið hlutleysisstefnu sína upp á bátinn og óskað eftir inngöngu í varnarbandalagið NATO. Svíar hafa hlaupið í skarðið með að sögn 10 % af finnsku raforkuþörfinni, en eru varla aflögufærir að vetrarlagi vegna lokunar nokkurra kjarnorkuvera sinna. Evrópusambandslöndin hafa lokað á innflutning kola frá Rússlandi og ræða að binda endi á olíuinnflutning þaðan. Að draga úr eldsneytisgasinnflutningi frá Rússlandi er kappsmál margra, en Rússar hafa nú þegar lokað á gasflutning til Póllands og Búlgaríu, af því að ríkisstjórnir þessara landa bönnuðu greiðslur með rúblum. Evrópusambandslöndin stefna á að stöðva öll orkukaup frá Rússum. Í Úkraínu er eldsneytisgas í jörðu, og líklega verður borað þar og öflugar lagnir lagðar til vesturs og tengdar inn á gasstofnlagnir í ESB.
Vegna orkuskorts og mjög mikillar hækkunar orkuverðs í Evrópusambandinu, ESB, siglir sambandið inn í efnahagskreppu vegna minnkandi framleiðslu, enda falla hlutabréf nú ískyggilega. Ef lokað verður senn fyrir rússneska olíu til ESB, spáir "die Bundesbank"-þýzki seðlabankinn yfir 5 % samdrætti hagkerfis Þýzkalands 2022, og hann gæti tvöfaldazt við lokun fyrir rússneskt gas. Bundesbank spáir mrdEUR 180 nettó tapi fyrir þýzka hagkerfið 2022, ef bráðlega verður hætt að kaupa gas af Rússum, sem hefur numið um 45 % af gasþörf Þýzkalands. Eystrasaltslöndin hafa hætt öllum orkukaupum af Rússum, og nú standa spjótin á Þjóðverjum fyrir slælegan hernaðarstuðning við Úkraínumenn og fyrir það að fjármagna tortímingarstríð Putins, alvald Rússlands, með gaskaupum á gríðarháu verði.
Stuðningur Vesturveldanna við Úkraínu frá 24.02.2022 nemur í fjármunum aðeins broti af þessari þýzku tapsfjárhæð. Hún sýnir í hvílíkt óefni Þjóðverjar hafa stefnt efnahag sínum með því að flytja allt að 45 % af gasþörf sinni frá Rússlandi eða tæplega 43 mrdm3/ár. Þeir hafa vanrækt aðrar leiðir, af því að þær eru dýrari, en verða nú að bregðast við skelfilegri stöðu með því að setja upp móttökustöðvar fyrir LNG (jarðgas á vökvaformi) í höfnum sínum og flytja það inn frá Persaflóaríkjunum og Bandaríkjunum (BNA) með tankskipum. Nú stóreykst gasvinnsla með leirsteinsbroti í BNA, og Norðmenn framleiða sem mest þeir mega úr sínum neðansjávarlindum úti fyrir norðanverðum Noregi, en Norðursjávarlindir þeirra, Dana, Hollendinga og Breta, gefa nú orðið lítið.
Þessi efnahagskreppa í ESB og á Bretlandi af völdum orkuskorts er þegar farin að valda verri lífskjörum í Evrópu (Noregur meðtalinn vegna innflutnings á evrópsku raforkuverði til Noregs sunnan Dovre). Á Íslandi hefur eldsneytisverð hækkað gríðarlega og matvælaverð og áburðarverð líka, svo að ekki sé talað um hörmungarástandið á fasteignamarkaðinum af innlendum ástæðum (kreddum). Nautakjötsframleiðendur á Íslandi sjá sína sæng út breidda við þessar aðstæður. Í nafni matvælaöryggis verður ríkisvaldið að grípa inn með neyðarráðstöfunum á innflutningshlið (minnkun innflutnings, tollar), svo að bændur geti forðazt taprekstur og flosni þá ekki upp af búum sínum.
Verðbólgan rýrir lífskjör almennings, en að auka launakostnað fyrirtækja á hverja unna klukkustund umfram framleiðniaukningu til að vega upp á móti rýrnandi kaupmætti virkar einfaldlega sem olía á eld verðbólgunnar.
Á Íslandi er þó allt annað uppi á teninginum í orkulegum og efnahagslegum efnum en erlendis. Það er að vísu raforkuskortur í boði afturhalds, sem ber fyrir sig umhverfisvernd, sem er reist á geðþótta hins sama afturhalds, en ekki á staðlaðri kostnaðar- og ábatagreiningu virkjunarkosta. Það verður bæði að virkja og vernda, svo að þetta er val og lempni er þörf. Í ljósi aðstæðna í heiminum er það siðferðislega og fjárhagslega óverjandi að standa gegn nánast öllum framfaramálum á orkusviðinu hérlendis, sem auðvitað kyrkir möguleika landsmanna til orkuskipta á þeim hraða, sem stjórnvöld dreymir um.
Þann 27. apríl 2022 birtist í Morgunblaðinu baksviðsfrétt, sem varpar ljósi á eina hlið þessa stórmáls. Fyrirsögnin var dæmigerð um ástandið:
"Ekki næg raforka til að knýja orkuskiptin".
Hún hófst þannig:
"Um ein milljón lítra af olíu er flutt til landsins á hverju ári [þetta er 3 stærðargráðum minna en í raun - innsk. BJo]. Það er ígildi allrar orkuvinnslu Landsvirkjunar í dag. [Orkuinnihald þessarar olíu er um 11,1 TWh/ár, en nýtanlegt orkuinnihald er aðeins um 4 TWh/ár. Raforkuvinnsla Landsvirkjunar (nýtanleg) er um 14 TWh/ár, svo að í raun nemur olíuinnflutningurinn aðeins tæplega 30 % af orkuvinnslu Landsvirkjunar - innsk. BJo.] Í umsögn um drög að stefnu stjórnvalda um orkuskipti í flugi bendir fyrirtækið [Landsvirkjun] á, að ekki sé næg raforka til í landinu til að knýja orkuskipti í samgöngum, og það krefjist margra ára undirbúnings og framkvæmdatíma.
Innviðaráðuneytið kynnti á dögunum í samráðsgátt stjórnvalda drög að stefnu og aðgerðaáætlun um orkuskipti í flugi á Íslandi. Grundvallast hún á tillögum nefndar, sem falið var þetta verkefni. Á [m]eðal þess, sem lagt er til, er, að kannaður verði möguleiki á samstarfi við framleiðendur nýrra flugvéla með það að markmiði, að Ísland verði vettvangur prófana á nýrri tækni í flugi. Lagt er til, að unnið verði að því, að allt innanlandsflug verði knúið með endurnýjanlegu eldsneyti fyrir árið 2040. Einnig, að stuðlað verði að uppbyggingu innviða fyrir slíkt eldsneyti á flugvöllum, svo [að] nokkuð sé nefnt."
Miklu skiptir að velja fjárhagslega öflugan samstarfsaðila á sviði tækniþróunar, til að þetta gangi eftir. Það liggur ennfremur beint við, að græna flugvélaeldsneytið, hvert sem það verður, verði framleitt á Íslandi. Það er líklegt, að hið nýja eldsneyti muni innihalda vetni, og þess vegna þarf að koma hérlendis á laggirnar vetnisverksmiðju. Samkeppnishæfnin er háð stærð verksmiðjunnar, og þess vegna er ekki úr vegi að fá vetni í flugvélaeldsneyti og flutningabíla- og vinnuvélaeldsneyti frá verksmiðjunni, sem framleiða á vetni fyrir nýja hérlenda áburðarverksmiðju, en Úkraínustríðið hefur valdið miklum verðhækkunum á áburði, sem enginn veit, hvort eða hvenær gangi til baka vegna viðskiptabanns á útlagaríkið Rússland.
"Í þessu samhengi má minna á, að í uppfærðri orkuspá frá síðasta ári [2021] er sem fyrr ekki gert ráð fyrir raforkuþörf vegna framleiðslu á rafeldsneyti fyrir orkuskipti í flugi. Það er rökstutt með óvissu um það, hvaða tegund rafeldsneytis verði ríkjandi, hvort það verði innflutt eða framleitt innanlands, og hver raforkuþörfin til framleiðslu rafeldsneytis verður, verði það framleitt innanlands. Starfshópur um stöðu og áskoranir í orkumálum benti á það í skýrslu, sem út kom í síðasta mánuði [marz 2022], að til þess að ná fullum orkuskiptum m.a. í flugi og áframhaldandi hagvexti, þyrfti að tvöfalda núverandi orkuframleiðslu í landinu og rúmlega það."
Það er villandi á þessu umbreytingaskeiði á orkusviði, að Orkuspárnefnd sé með vífilengjur, dragi lappirnar og láti líta út fyrir, að orkuvinnsluþörfin sé minni en hún er m.v. áform stjórnvalda í orkuskiptum. Nú verður hún einfaldlega að styðjast við útreikninga starfshóps um stöðu og áskoranir í orkumálum um raforkuþörf innanlandsflugsins og láta hana hefjast árið 2025 og stíga síðan línulega í 15 ár, þar til fullri þörf er náð. Þessi orkuskipti munu tryggja stöðu innanlandsflugsins til langrar framtíðar, og miðstöð þess í Vatnsmýrinni í Reykjavík á ríkisvaldið að tryggja. Útúrboruleg sérvizka einstakra pólitíkusa í Reykjavík verður að víkja fyrir meiri hagsmunum í þessum efnum.
"Þess vegna sé mikilvægt að horfa til annarra áætlana stjórnvalda, sem hafa áhrif á orkuöflun, s.s. heildarendurskoðunar á rammaáætlun og leyfisferlis virkjana og stækkunarverkefna þeirra. Sérstaklega verði horft til leyfisferla vindorkukosta.
Einnig sé mikilvægt að huga að því, að aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum nái í dag ekki yfir það, sem gera þarf til að ná fram þjóðfélagi án jarðefnaeldsneytis árið 2040 - og þar með orkusjálfstæði landsins."
Á þetta hefur verið bent á þessu vefsetri. Téð aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar stendur ekki undir nafni. Nú hefur loftslags-, orku- og umhverfisráðherra lagt fyrir þingið frumvarp um að létta virkjanafyrirtækjum róðurinn við stækkun virkjana í rekstri. Komið hafa fram mótbárur við þetta frumvarp, sem reistar eru á ágizkunum og vænisýki, algerlega í anda tilfinningaþrungins afturhalds í landinu, sem gerir allt til að kynda undir ranghugmyndum um óafturkræft náttúrutjón af mannavöldum og leggja stein í götu orkuframkvæmda í landinu. Fái þau ráðið, verða orkuskiptin hérlendis í skötulíki og hagvöxtur ófullnægjandi fyrir vaxandi þjóð. Það yrði hörmuleg niðurstaða m.v. möguleikana, sem landið býður íbúum sínum upp á, ef skynsemi og bezta tækni fá að ráða för.
Morgunblaðið gerði í baksviðsfrétt 17. maí 2022 grein fyrir þessu undir fyrirsögninni:
"Telja, að horft sé til Kjalölduveitu".
Fréttin hófst þannig:
"Náttúruverndarsamtökin Náttúrugrið telja ekki unnt að rökstyðja aflaukningu þriggja virkjana Landsvirkjunar á Þjórsár-Tungnaár svæðinu, sem gert er ráð fyrir í stjórnarfrumvarpi, að verði heimiluð án þess að fara í gegn um rammaáætlun. Telja félagasamtökin, að sú viðbót við orkuframleiðslu, sem fengist, sé allt of lítil til að standa undir fjárfestingunni. Þess vegna telja þau, að það hangi á spýtunni hjá Landsvirkjun, að samhliða yrði farið í Kjalölduveitu úr Þjórsá."
Þessi málflutningur er reistur á sandi. Þessi áform Landsvirkjunar má skýra í ljósi skortstöðu afls og orku, sem blasir við á næstu 5 árum, þar til meðalstór virkjun (Hvammsvirkjun) tekur til starfa 2027, og er afleiðing athafnaleysis virkjanafyrirtækja og sofandaháttar yfirvalda. Viðbót afl- og orkugetu af þessu tagi við þessar aðstæður er miklu verðmætari en nemur verðinu, sem Landsvirkjun fær núna fyrir afl og orku, því að hún getur komið í veg fyrir afl- og orkuskerðingu, sem kostar viðskiptavinina 10-1000 sinnum meira en núverandi verð á þessari þjónustu. Þar að auki má benda á, að Landsvirkjun væntir aukins vatnsrennslis næstu áratugina vegna hlýinda og meiri úrkomu. Aukið vatnsrennsli hefur þó ekki verið áberandi enn þá.
Landsvirkjun óskar eftir að fá að stækka 3 virkjanir án umhverfismats, Hrauneyjar, Sigöldu og Vatnsfell, um 210 MW (47 % aukning) og býst við að fá út úr því aðeins um 34 GWh/ár (1,3 % aukning). Þessi litla aukning orkuvinnslugetu sýnir, hversu fáránleg þau rök fyrir raforkuútflutningi um sæstreng héðan voru, að þessi útflutningur gerði kleift að nýta allt vatn, sem að virkjununum (Þórisvatni) bærist. Á það var bent á þessu vefsetri, að þessi aukning væri allt of lítil til að geta staðið undir viðskiptum um sæstreng. Þá var reyndar hugmynd Landsvirkjunar að nota aflaukninguna til að selja afl til útlanda á háálagstímanum og flytja inn orku á lágálagstíma. Þetta afl er svo lítið á erlendan mælikvarða, að hæpið er, að nokkur áhugi sé á slíkum viðskiptum og áfram hæpið, að langur og dýr sæstrengur geti reynzt arðbær með svo lítilli notkun.
19.5.2022 | 10:59
Orkan er orðin enn verðmætari
Eftir árás útþenslusinnaðra og fullkomlega glæpsamlegra yfirvalda Rússlands á Úkraínu 24. febrúar 2022 er Evrópa í stríðsástandi. Stríð Rússa við Úkraínumenn er nýlendustríð heimsvaldasinna gegn fullvalda lýðræðislegri menningarþjóð, sem er svo óheppin að búa við drottnunargjarna kúgara í austri. Viðurstyggilegar og níðangurslegar baráttuaðferðir rússneska hersins gagnvart almennum borgurum, íbúðabyggingum, skólum, sjúkrahúsum og fólki á ferðinni á götum úti hafa vakið slíkan viðbjóð, hneykslun og hatur á Rússum, að langur tími mun líða, þar til vestræn ríki munu geta hugsað sér að létta viðskiptaþvingunum af Rússum og að hefja við þá einhver vinsamleg samskipti að nýju. Það mun ekki gerast, á meðan mafíuforinginn og lygalaupurinn, Vladimir Putin, er við völd í Kreml.
Á meðan svo er, verður stöðugt dregið úr viðskiptum Vesturlanda við Rússa með gas og olíu, en kolakaupum mun að mestu vera þegar hætt. Þetta mun leiða til orkuskorts um sinn í Evrópusambandinu (ESB) og á Bretlandi, og í staðinn koma dýrari vörur, fluttar lengra að og jafnvel á öðru formi og miklu dýrara, eins og LNG, sem er kælt gas undir þrýstingi á vökvaformi. Þetta hleypir auðvitað raforkuverðinu enn upp og kyndir undir verðbólgu í viðskiptalöndum Íslands, og íslenzkar orkulindir og rafmagn verða af þessum sökum mjög verðmæt á næstu árum. Er eitthvað að gerast til að mæta aukinni spurn eftir orku á Íslandi ? Það er satt að segja ótrúlega lítið, enda hvílir ríkishrammurinn yfir þessum geira, og hann er lítt næmur á raunveruleg verðmæti, en veltir sér ótæpilega upp úr sýndarverðmætum (og sýndarmennsku).
Einangrun hins skammarlega og ósvífna Rússlands mun hafa áhrif á ýmsum öðrum sviðum viðskiptalífsins. Rússar hafa selt talsvert af fiski inn á evrópska markaði, og fiskverð er þegar tekið að hækka vegna minna framboðs. Svipaða sögu er að segja af málmframleiðslunni, enda er málmverð, þ.m.t. álverð og einnig járnblendi og kísilverð, nú í sögulegum hæðum. Allt styrkir þetta viðskiptajöfnuð Íslands og vegur upp á móti hækkun korns, matarolíu, fóðurs og flestra matvæla. Gengi EUR/ISK < 140, þ.e. styrkur ISK er nú svipaður og í ársbyrjun 2020, fyrir Kóf. Gengið mun enn styrkjast, eftir því sem orkuskiptunum vindur fram, en til þess að framfarir verði á þessu sviði og í atvinnulífinu almennt, sem um munar, þarf virkjanaleyfi fyrir allt að 20 TWh/ár næstu 3 áratugina.
Ýmsar þjóðir hafa nú ákveðið að slá 2 flugur í einu höggi, þ.e. að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og draga úr raforkuáhættu og raforkukostnaði sínum, með stórtækum áætlunum um að reisa kjarnorkuver. Bretar eru gott dæmi um þetta, en þar er nú ekkert rafmagn framleitt með kolaorku í fyrsta sinn í um 140 ár.
Auðvitað eru góðar hugmyndir uppi á Íslandi um aukna raforkuvinnslu, enda er engum blöðum að fletta um þörfina og fjárhagslega ávinninginn af því, en ríkisvaldið hefur lagt sinn lamandi hramm á framkvæmdaviljann. Það er hægt að finna öllum framkvæmdum, einkum utan þéttbýlis, eitthvað til foráttu, og ekki hefur skort úrtöluraddirnar á Íslandi, sem fyllast heilagri vandlætingu beturvitans, þegar að nýjum framkvæmdum á orkusviðinu kemur. Það er hins vegar beint samhengi á milli nútímalegs velferðarsamfélags og raforkunotkunar, og nægir þar að vísa til arðgreiðslna Landsvirkjunar til eiganda síns, ríkissjóðs, 15 mrdISK/ár, sem nægja til að standa straum af árlegri fjárfestingu ríkisins í nýjum Landsspítala við Hringbraut um þessar mundir.
Öfugt við það, sem skýjaglópar predika, er Íslendingum nauðsyn að nýta orkulindir sínar til að knýja atvinnulíf sitt, sívaxandi fjölda heimila og samgöngutæki sín. Þröngsýnispúkar í röðum núllvaxtarsinna setja samt á sig spekingssvip og kasta hnútum og innantómum frösum á borð við tugguna um, að náttúran verði að njóta vafans. Svar tæknigeirans er að kynna vandaðar lausnir, þar sem lágmörkunar inngrips í náttúruna m.v. afköst mannvirkjanna er gætt í hvívetna. Framkvæmdirnar má telja umhverfisvænar og afturhverfar að mestu eða öllu leyti.
Á meðal fórnarlamba ráðleysis hérlendra orkuyfirvalda eru Vestfirðingar. Þeir búa ekki við hringtengingu við landskerfið, og raforkuvinnslugeta þeirra er ófullnægjandi fyrir landshlutann. Þetta kemur sér sérlega illa núna á tímum grózkumikilla fjárfestinga í fiskeldi, sem hefur hleypt nýju blóði í Vestfirðinga í orðsins fyllstu merkingu. Það er algerlega óviðunandi, að ríkisvaldið með doða og sinnuleysi sínu komi í veg fyrir, að fjárfestar virki þar vatn og vind, ef heimamenn sjálfir telja virkjanatilhögun ásættanlega. Þar þarf að láta hendur standa fram úr ermum að settum skynsamlegum og sanngjörnum skilyrðum ríkisvaldsins.
Í Morgunblaðinu 11. apríl 2022 var frétt undir fyrirsögninni:
"Kallað eftir stórri virkjun vestra".
Hún hófst þannig:
"Starfshópur um orkumál á Vestfjörðum telur heppilegt að stefna að því, að raforkukerfi fjórðungsins verði byggt upp að lágmarki með einni öflugri virkjun á vestfirzkan mælikvarða, 20-50 MW að afl[getu]. Einnig verði byggðar fleiri minni virkjanir. Telur hópurinn, að setja mætti það markmið, að búið yrði að byggja virkjanir með a.m.k. 40 MW afl[getu] fyrir árið 2030.
Vestfirðir hafa setið eftir varðandi afhendingaröryggi raforku, og vitnar starfshópurinn til orkustefnu [ríkisins-innsk. BJo] með, að hann eigi að njóta forgangs um úrbætur. Að mati hópsins verður markmiðið að vera það að ná hið minnsta sambærilegu [orku]afhendingaröryggi og stjórnvöld hafa sett sem viðmið fyrir landið í heild."
Undir þetta allt skal taka. Nú er afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum allsendis ófullnægjandi. Það stafar af því, að tenging landshlutans er á einum geisla (132 kV) frá stofnrafkerfi landsins og að innan Vestfjarða skortir 60 kV hringtengingu flutningskerfisins í jörðu.
Að öllu virtu, þ.e. gæðum rafmagns (spennu- og tíðnistöðugleiki, árlegur roftími hjá notendum), umhverfisinngripum og kostnaði (að meðreiknuðum kostnaði óafhentrar orku til notenda)), hefur starfshópurinn mjög sennilega rétt fyrir sér um, að bezta lausnin á orkuvanda Vestfjarða sé, að um 2030 hafi bætzt a.m.k. 40 MW aflgeta við virkjanir svæðisins og á tímabilinu 2022-2030 fari allt raforkuflutnings- og dreifikerfi landshlutans í jörðu, nema 132 kV Vestfjarðalínan frá Glerárskógum. Hún verði áfram eina flutningskerfistengingin við landskerfið. Jafnframt verði hafizt handa við hringtengingu flutningskerfisins innan Vestfjarða. Með þessu móti verður landshlutinn sjálfum sér nógur með rafmagn, nema í bilunartilvikum og e.t.v. í þurrkaárum, en getur selt raforku inn á landskerfið, þegar vel árar í vatnsbúskapnum þar.
Útflutningsverðmæti Vestfjarða frá fiskeldi, fiskveiðum og -vinnslu, ferðaþjónustu o.fl., munu aukast mikið á næstu 15 árum og gætu numið 200 mrdISK/ár eftir 10-20 ár, ef innviðir, sem eru á höndum ríkisins, eins og flutningskerfi rafmagns og vöru og þjónustu (Landsnet, Vegagerðin ásamt leyfisveitingaferli ríkisins fyrir framkvæmdir) hamlar ekki þróun byggðarlagsins, sem þegar er hafin. Ætlar ríkisvaldið að verða dragbítur mikilvægrar byggðaþróunar ? Nú reynir á ráðherra.
Lok fréttarinnar voru þannig:
"Tvær stórar virkjanir á vestfirzkan mælikvarða eru í undirbúningi í landshlutanum, Hvalárvirkjun á Ströndum og Austurgilsvirkjun í Ísafjarðardjúpi. Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki í núgildandi rammaáætlun og Austurgilsvirkjun er í tillögum 3. áfanga rammaáætlunar, sem er til umfjöllunar á Alþingi. Þá er EM orka langt komin með undirbúningsvinnu við vindorkuver í Garpsdal í Gilsfirði. Það er í nýtingarflokki í drögum verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar.
Í tillögum starfshópsins er þó lögð áherzla á Vatnsfjarðarvirkjun, sem Orkubú Vestfjarða hefur verið að skoða. Til þess að hægt sé að ýta hugmyndinni inn í umfjöllun í rammaáætlun þarf að lyfta friðlýsingarskilmálum Friðlandsins í Vatnsfirði, og leggur starfshópurinn til, að umhverfisráðherra skoði það. Einnig leggur hópurinn til, að virkjað verði í Steingrímsfirði, eins og Orkubúið hefur verið með til athugunar."
Hér stendur upp á ríkisvaldið, Alþingi og yfirvöld orkumála. Nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum. Sérstaklega þarf að huga að þessum virkjunarkosti í Vatnsfirði og athuga, hvort væntanleg virkjunartilhögun þar fellur nægilega vel að umhverfinu og hefur nægilega lítið rask í för með sér á framkvæmdaskeiðinu, til að laga megi friðunarskilmála svæðisins að nýrri virkjun þar. Íbúar Vestfjarða ættu að eiga síðasta orðið um slíkar breytingar.
Það er ekki sami hugurinn í Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Orkubúi Vestfjarða (OV) til orkuöflunar, en hjá OR er sú skoðun við lýði, að engin þörf sé á nýrri orkuöflun. Þetta kom fram í frétt í Morgunblaðinu 7. apríl 2022 undir fyrirsögninni:
"Engar nýjar virkjanir í farvatninu".
Hún hófst þannig:
""Það eru engar stórar virkjanir á borðinu hjá okkur", segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, sem var staddur í stórhríð á Fjarðarheiði á leið til Seyðisfjarðar. Á borgarstjórnarfundi á þriðjudag var samþykkt að vísa tillögu Eyþórs Arnalds, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um, að Orkuveitunni verði falið að skoða virkjunarmöguleika á starfssvæði OR til stjórnar OR. Eyþór Arnalds er í stjórn OR og benti á í tillögunni, að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar hafi markmiði um jarðefnaeldsneytislaust Ísland verið flýtt til 2040."
Það er til vitnis um doðann innan OR, að þar á bæ skuli ekki einu sinni vera fyrir hendi vitneskja um "virkjunarmöguleika á starfssvæði OR". Fyrirtækið er greinilega ekki að spila með ríkinu við að auðvelda landsmönnum að losa sig undan klafa jarðefnaeldsneytisins. Síðan lætur forstjórinn í veðri vaka, að bætt nýting aflaðrar orku geti komið í stað öflun nýrrar orku, sem er rangt. Bætt nýting er góð og gild, en vegur lítið í heildina:
""Það er ekki stefna Orkuveitunnar að virkja mikið, en við fylgjum fullnýtingarstefnu og viljum nýta betur þá orku, sem kemur frá gufu og heitu vatni. Við eigum möguleika á að nýta betur, það sem við tökum upp, t.d. í Hverahlíð, þar sem er mikið og öflugt háhitasvæði, sem við nýtum í Hellisheiðarvirkjun. Við leiðum gufuna þaðan rúmlega 5 km, og það mætti hugsanlega byggja þar 15 MW virkjun til að fullnýta þá gufu og aðra sams konar á Nesjavöllum", segir Bjarni og bætir við, að það væri þá verið að auka rafmagnsvinnslu, en ekki að virkja."
Þessi flutningur á gufu úr Hverahlíð til Hellisheiðarvirkjunar var björgunarráðstöfun gagnvart niðurdrætti í gufuforðabúri Hellisheiðarvirkjunar vegna ofnýtingar gufuforðans (meira tekið en inn streymdi). Þessi tregða forstjórans við að virkja ný gufuforðabúr er áhættusöm, því að hún getur leitt til vandræða (afl- og orkuskorts), ef aðstæður breytast í virkjuðu gufuforðabúri, svo að það verði ofnýtt, eins og reyndin var með Hellisheiðarvirkjun.
16.5.2022 | 11:24
Votlendisvitleysan
Loftslagsstefna stjórnvalda er botnlaust fúafen, á meðan stjórnvöld hafa jafnóskýra stefnu í virkjunarmálum og reyndin er. Orkufyrirtækin treysta sér ekki til að semja við nýja viðskiptavini eða gamla um viðbótar forgangsorku, sem nokkru nemi. Sú staða bendir til, að aflgeta kerfisins sé fullnýtt, þegar tekið er tillit til nauðsynlegs reiðuafls og varaafls, sem jafnan verður að vera fyrir hendi í kerfinu til að hindra of mikið spennu- og tíðnifall eða beinlínis skort, ef óvænt atvik verða.
Samt er engin ný virkjun á döfinni yfir 10 MW. HS Orka vinnur að bættri nýtingu, sem gæti aukið afl til ráðstöfunar á næstunni um u.þ.b. 35 MW. Hér verður engin græn orkubylting, eins og stjórnvöld dreymir um, án verulegra nýrra virkjana. Með aðgerðaleysi stjórnvalda í virkjunarmálum og "rammaáætlanir" stjórnar og þings í tómarúmi mun raforkuskortur í landinu hamla hagvexti og orkuskiptum.
Einn þátturinn í "loftslagsstefnu" stjórnvalda er reistur á mjög ótraustum þekkingarlegum grunni, eins og rannsóknir íslenzkra vísindamanna eru nú að leiða í ljós. Þessi þáttur er "endurheimt votlendis" með því að moka ofan í skurði. Þessi aðgerð er aðallega kostuð af ríkissjóði á vegum s.k. Votlendissjóðs. Rökin eru gripin úr lausu lofti, þ.e. frá búrókrötum IPCC (International Panel on Climate Change-undirstofnun Sameinuðu þjóðanna).
Notaðir eru stuðlar frá IPCC til að reikna út minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda við "endurheimt votlendis" án þess að sannreyna þá við íslenzkar aðstæður. Þegar vísindamenn taka nú til við mælingar sínar á bindingu og losun CO2-jafngilda hérlendis, komast þeir að allt annarri niðurstöðu, sem gerir að verkum, að þegar í stað ætti að stöðva fjárútlát úr opinberum sjóðum til þessa flausturslega verkefnis.
Í nýlegri skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands, "Langtímatap kolefnis í framræstu landi" er gerð grein fyrir áfanga í rannsóknum hérlendis á losun úr þurrkuðum mýrum, en miklu fleiri mælingar þarf til að fá heildarmynd af þessari losun fyrir landið allt að teknu tilliti til aldurs skurðanna og frágangs ofanímokstursins. Bændablaðið gerði rækilega grein fyrir þessum tíðindum 7. apríl 2022, og er hér stuðzt við þá umfjöllun:
"Í rannsóknum, sem gerðar voru bæði á framræstu og óröskuðu landi, má greina, að áhrif gosösku í jarðvegi eru umtalsverð á kolefnisbindingu, rotnun og gaslosun. Lofthiti er einnig veigamikill þáttur. Þar kemur líka fram, að "engar losunarrannsóknir hafa verið gerðar á framræstu akurlendi (þ.m.t. framræstum túnum) hér á landi". Samt hafa stjórnvöld og aðrir sett ítrekað fram hástemmdar fullyrðingar um losun á framræstu landi á Íslandi, og byggja þær tölur alfarið á erlendum stuðlum IPCC."
Samkvæmt IPCC losar framræst land mólendis 20,9 t/ha CO2 og 29,0 t/ha túns og akurlendis. Samkvæmt Umhverfisstofnun nam heildarlosun á ábyrgð ríkisstjórnar Íslands og samkvæmt viðskiptakerfi ESB árið 2019 4,7 Mt CO2eq og frá landi 9,1 Mt CO2eq, þar af 8,4 Mt CO2eq frá framræstum mýrum. Þessi háa tala er aðalástæða þess, að stjórnvöld hafa fallizt á að veita fé til að moka ofan í skurði. Fullyrða má, að hún er allt of há, þótt ekki sé unnt enn þá að setja fram áreiðanlega meðaltölu fyrir landið allt.
Núverandi niðurstöður íslenzkra vísindamanna sýna, að losun úr framræstu ræktarlandi sé 3 t/ha CO2 í samanburði við 29,0 t/ha CO2 hjá IPCC. IPCC-stuðullinn er 7 sinnum hærri en sá íslenzki fyrir mólendi, þannig að leiðrétta þarf tölur Umhverfisstofnunar með margföldunarstuðlinum 0,14, þ.e. losun frá þurrkuðu landi gæti verið nálægt 1,2 Mt CO2/ár í stað 8,4 Mt CO2/ár. Mismunurinn er 7,2 Mt CO2/ár, sem er yfir 50 % meira en öll losun Íslands, sem telja á fram samkvæmt Parísarsamkomulaginu 2015.
Með flaustri hafa landbætur á vegum landbúnaðarins verið settar í slæmt ljós í umhverfislegu tilliti, nánast settar í skammarkrókinn. Það er líklegt, að umhverfislegur ávinningur af endurheimt votlendis sé hverfandi og jafnvel neikvæður, því að eftir er að draga frá losun endurmyndaðs votlendis. Þar er um að ræða meira CH4 (metan) á flatareiningu en frá þurrlendinu, en CH4 er um 25 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2 fyrstu 3 áratugina í andrúmsloftinu (tekur efnabreytingum með tímanum). Svona fer fyrir loftslagsstefnunni, þegar blindur leiðir haltan og sýndarmennskan ræður för.
Sýndarmennska fallins borgarstjórnarmeirihluta reið húsum í kosningabaráttunni. Það var m.a. talið "borgarlínu" til gildis, að hún mundi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þessu er þó alveg öfugt farið. Hvað halda menn, að upprif gatna og endurmalbikun muni valda mikilli losun CO2 eða að tafir bílaumferðar muni valda mikilli losun. Bílaflotinn er á leið til rafvæðingar, svo að það er ekki hægt að telja ímyndaða minnkun aksturs fjölskyldnubíls borgarlínunni til tekna í loftslagsbókhaldinu.
Afturhaldið í borginni hefur misbeitt skipulagsvaldi sínu til að tefja mjög fyrir Sundabraut og gösslaðist áfram með Vogahverfið í veg fyrir Sundabraut, en gleymdi að byggja skóla í hverfinu í flaustrinu. Afturhaldið ímyndar sér, að Sundabraut auki losun gróðurhúsalofttegunda, af því að hún "fjölgi" bílum. Sannleikurinn er sá, að orkunotkun umferðarinnar mun minnka umtalsvert vegna styttingar akstursvegalengda og greiðara umferðarflæðis. Stjórnendur Reykjavíkur hafa vaðið áfram í villu og svíma ímyndana, sem falla að hugmyndafræði kratanna og vinglanna, sem með þeim hafa hangið við völd.
26.4.2022 | 20:39
Óttastjórnun af ýmsu tagi
Óttatilfinningin er rík í manninum og tengist viðleitni hans til að sleppa sem bezt út úr aðstæðum, sem hann ræður ekki fyllilega við eða jafnvel alls ekki við. Hrottinn í Kreml, sem gerzt hefur sekur um hryllilega glæpi gegn mannkyni í viðbjóðslegum stríðsrekstri rússneska hersins í Tétseníu, Georgíu, Sýrlandi og nú í Úkraínu, hefur í hótunum við NATO-löndin um að beita kjarnorkuvopnum af lítt skilgreindum tilefnum. Þetta er gert til að vekja ótta Vesturveldanna við að taka beinan þátt í átökunum, t.d. með því að verja lofthelgi Úkraínu, sem mikil þörf er á af mannúðarástæðum. Úkraínumenn hafa nú náð töluverðum árangri í loftvörnum sjálfir, þótt þeir hafi ekki öflugustu tólin til þess (Patriot ?). Þjóðverjar hafa dregið lappirnar skammarlega við að aðstoða Úkraínumenn við varnirnar, en nú hafa þeir lofað að senda þeim eina 50 loftvarnarskriðdreka.
Forstokkaðir einræðisherrar með sjúklegar landvinningahugmyndir skilja hins vegar ekki fyrr en skellur í tönnum, og þess vegna er kominn tími til að NATO setja hinum ofbeldisfulla ómerkingi og þorpara stólinn fyrir dyrnar varðandi villimannlegan hernað Rússa gegn varnarlausum borgurum. Það hefur verið lengi að renna upp fyrir ýmsum, að æðstikoppur í Kreml núna er nýr Hitler.
Það hefur verið meira áberandi á Vesturlöndum undanfarin misserin en áður, að yfirvöld hafa talið sér sæma að skapa ótta í samfélaginu til að hafa sitt fram. Skemmst er að minnast viðbragða sóttvarnayfirvalda við SARS-CoV-2 veirunni í öllum tilbrigðum hennar. Einkenni hennar voru frá því að vera engin og upp í kvef, hálsbólgu, inflúensu og lungnabólgu. Kínverjar gáfu línuna með harkalegum viðbrögðum með lokunum, samkomubönnum og einangrun, eins og búast má við í einræðisríkjum, en með þeirri afleiðingu, að þeir eru alls ekki lausir við veiruna, eins og þó flestir aðrir eru að mestu.
Viðbrögðin á Vesturlöndum hafa víða verið algert yfirskot m.v. tilefni, svipað og að skjóta spörfugl með kanónu. Hið eina, sem dugir gegn veirunni, er náttúrulegt lýðónæmi, því að áhrif bóluefnanna vara aðeins í nokkrar vikur (vörusvik !).
Vesturlönd brugðust misjafnlega við. Þar sem minnstar frelsishömlur voru lagðar á, t.d. í Svíþjóð, mældist engin hækkun á dánartíðni yfir árin 2020-2021 m.v. meðaltal 5 ára á undan, en hömlurnar kostuðu greinilega mannslíf víða annars staðar, eins tölur um heildardánartíðni sýndu, þar sem þær þrengdu mjög að frelsi fólks og lífsgæðum.
Þá ráku sóttvarnaryfirvöld harðan áróður fyrir bólusetningum, jafnvel eftir að í ljós kom, að skaðsemi bóluefnanna var meiri en gagnsemin. Þó kastaði fyrst tólfunum, þegar sóttvarnarlæknirinn hérlendis tók að reka harðan áróður fyrir bólusetningum barna með ónýtum og áhættusömum bóluefnum, þótt almennt væru einkenni barna væg eftir C-19 smit. Cuo bono ?
Fjölmargir maka krókinn af öllum þessum bólusetningum, og kostnaður ríkissjóðs var gríðarhár. Kostnaður sjúkdómsgreininga einna saman nam mrdISK 10, sem er óheyrilegur kostnaður sýnataka og sýnagreininga. Hátt var reitt til höggs af vægu tilefni. Hvað gerist, ef/þegar skelfileg veira á borð við ebólu ber að dyrum ? Brýnt er að breyta stjórnkerfi sóttvarna, og breytingin mun vera í farvatninu hjá heilbrigðisráðherra.
Þá hefur ekki lítið gengið á í fjölmiðlum, en minna í raun, út af meintri hlýnun jarðar, sem rakin er til gróðurhúsaáhrifa nokkurra gastegunda, og starfsemi mannsins kennt um hitastigshækkun, sem sögð er stofna lífinu á jörðunni í sinni núverandi mynd í voða. Tvennum sögum fer af þessari hitastigshækkun, og er annars vegar orðræða SÞ-IPCC og hins vegar t.d. þeirra, sem unnið hafa úr gervihnattamælingum hitastigs í andrúmsloftinu, og ber mikið á milli eða um 3°C í hækkun á 100 árum.
Þann 17. marz 2022 birtist í Fréttablaðinu áhugaverð grein eftir Gunnlaug Jónsson, eðlisfræðing, um þróun hitastigs á Íslandi, sem hét:
"Gleðitíðindi eða áhyggjuefni ?".
Hún hófst þannig:
"Daglega berast nýjar fréttir, sem tengja má við hlýnun jarðar. Kristján Vigfússon, aðjunkt við HR, sagði í Fréttablaðinu 1. febrúar sl. loftslagskvíða barna og ungmenna gríðarlegt áhyggjuefni. Nýleg könnun sýni, að 60 % ungs fólks hafi svo miklar áhyggjur, að þau telji mannkynið dauðadæmt."
Þetta er mjög mikill áfellisdómur yfir framsetningu loftslagspostulanna á meintri óviðráðanlegri hlýnun jarðar. Framsetningin er í anda áróðurspostula í því augnamiði að hræða fólk til að breyta um lífsstíl. Þetta er algerlega óábyrg hegðun þessara postula í ljósi þess, að mæliniðurstöður um hitastigsþróun andrúmsloftsins eru alls ekki einhlítar.
Nákvæmustu og áreiðanlegustu fáanlegu mælingar, sem eru hitastigsmælingar í neðri lögum lofthjúpsins úr gervihnöttum, benda til hækkunar um 1,5°C/100 ár, sem er ekki ávísun á helvíti á jörðu. Í einhliða áróðri SÞ/IPCC hafa Sameinuðu þjóðirnar útilokað nokkra gagnrýna loftslagsfræðinga, t.d. mikla fræðimenn á þessu sviði hjá Alabama-háskóla í BNA, frá skýrslum sínum og greinargerðum um þróun hitastigs á jörðunni.
Þegar minni spámenn taka til við að flytja dómsdagsspár, verða þeir að hafa algerlega traust land undir fótum vegna þess mikla tjóns, sem ógætilegur og illa ígrundaður málflutningur þeirra getur valdið.
"Í þessu samhengi má spyrja sig, hvort eftirfarandi fréttir séu gleðiefni eða áhyggjuefni. Sjófarendur sjá risastóran borgarísjaka á Húnaflóa og hafís, sem er aðeins 17 sjómílur frá landi. Hafís er óvenjumikill á norðurslóðum, og NA-siglingaleiðin fyrir norðan Síberíu lokaðist fyrr en venjulega í haust, þannig að fjöldi flutningaskipa sat fastur í hafís."
Stjórnmálamenn o.fl. hafa mikið hjalað um hitafarið á norðurslóðum og möguleikana á nýtingu, sem opnast við, að ísinn hopar. Þarna lýsir Gunnlaugur afturkippi á NA-siglingaleiðinni. Ef ísbrjótur þarf að fylgja flutningaskipum þessa leið, verður hún ekki hagkvæmari en hefðbundna leiðin um Súez, nema Egyptar taki upp á að hækka verulega gjaldið þar í gegn, eins og komið hefur til tals (vegna aukinnar gjaldeyrisþarfar þeirra í kjölfar hveitiverðshækkana). Skip á NA-leiðinni þurfa að vera sérstaklega styrkt, ef tryggingafélög eiga að fást til að tryggja þau gegn sjótjóni eða óhæfilegum töfum.
Þá er nú svo komið, að mikið af blaðri Hringborðs norðurslóða stenzt ekki, t.d. um, að hægt sé að viðhalda ráðstefnuhaldi o.fl. á þess vegum utan átaka í heiminum. Svívirðileg innrás rússneska hersins í Úkraínu, sem afhjúpaði m.a. landvinningastefnu Rússa í Evrópu til að endurvekja "Stór-Rússland", sem gegnumrotið Rússland nútímans hefur engan lagalegan/siðferðilegan rétt til að krefjast né fjárhagslega/hernaðarlega burði til að standa undir, hefur sannað, að kenningin um, að hægt sé að véla um norðurslóðir í pólitísku/hernaðarlegu tómarúmi er algerlega fráleit, þegar á reynir.
Í lok greinarinnar gerði Gunnlaugur grein fyrir hitastigsþróun á 3 veðurmælistöðvum á Íslandi, í Stykkishólmi, í Reykjavík og á Stórhöfða, í 100 ár, til 2019 og til 2021, með þessum hætti:
"Hlýnun á þessum 3 veðurstöðvum hægir á sér, en gefur ekki í, eins og ætla mætti af umræðu um hlýnun jarðar. Í umræðunni hefur komið fram, að veðurfar á Íslandi muni eftir 100 - 200 ár líkjast veðurfari, eins og það er nú á Skotlandi. Landsvirkjun muni njóta meiri úrkomu og rennslis í ám, og bændum muni ganga betur að rækta korn og þá sérstaklega bygg, en það hentar vel til bruggunar á bjór og Whisky á Skotlandi.
Lítum aðeins nánar á þessa hugmynd með hliðsjón af því, að meðalárshiti í Reykjavík hefur vaxið um 0,28°C á síðustu 100 árum. Meðalhiti í Reykjavík síðustu 100 árin var 4,8°C, meðalhiti í höfuðborg Skotlands, Edinborg, er 9,5°C. Mismunurinn er 4,7°C. Með 0,28°C hlýnun á öld verður hiti í Reykjavík orðinn sambærilegur við hitann í Edinborg eftir nær 17 aldir eða árið 3700. Það virðist því ekki sérstök ástæða til þess að hlakka til eða kvíða breytingum á hita í Reykjavík næstu aldirnar."
Hitastigullinn í Reykjavík í 100 ár til 2019 var 0,36°C/100 ár. Með aðeins 2 ára hliðrun lækkar hitastigullinn um 22 %, sem er mjög mikið. Sagt er, að hitastigullinn vaxi, þegar farið er í átt að pólum jarðar, og það getur skýrt hærri hitastigul í Reykjavík en að meðaltali í gufuhvolfinu samkvæmt gervihnattamælingum, en einnig geta áhrif þéttbýlisins skekkt mæliniðurstöðurnar til hækkunar.
Veðurfræðingar ýmsir hafa skotið landsmönnum skelk í bringu með því, að ein afleiðinga bráðnunar Grænlandsjökuls og minnkunar annarra jökla á norðurhveli væri veiking Golfstraumsins. Ef sú tilgáta væri sönn, hefði slíkt margháttuð slæm áhrif á lífsafkomu Íslendinga, sem stundum eru sagðir búa á mörkum hins byggilega heims. Þann 25. marz 2022 birtist í Morgunblaðinu ánægjuleg frétt, sem afsannar þessa tilgátu, a.m.k. m.v. núverandi stöðu.
Fyrirsögn fréttarinnar var:
"Golfstraumurinn er ekki að veikjast".
"Lars H. Smedsrud, prófessor við Háskólann í Bergen, hefur ásamt fleirum rannsakað gögn frá heilli öld til að sjá, hvernig flutningskerfi hafsins hefur þróazt. Hann segir þau sýna, að flæði Golfstraumsins inn í norðurhöf hafi aukizt. Með auknu flæði hlýs sjávar hafi varmaflutningur norður á bóginn aukizt um 30 %.
"Þetta er alveg rétt. Við [Steingrímur Jónsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun og prófessor við Háskólann á Akureyri og Héðinn Valdimarsson, haffræðingur] skrifuðum greinar um varma- og sjávarflutninginn inn á þetta svæði fyrir nokkrum árum. Okkar framlag var mæling á þessum Norður-Íslands Irminger-straumi á Hornbanka í um 20 ár. Við sáum mikla breytingu frá 1996 til 2000. Þá hækkaði hitastigið og straumurinn jókst, þannig að það varð töluvert mikil aukning á varmaflutninginum norður í höf", segir Steingrímur. Hvernig rímar þetta við kenningar um, að Golfstraumurinn sé að veikjast ?
Það rímar alls ekki við [þær]. Þessar mælingar sýna, að hann er frekar að eflast hérna. En það er bara lítill hluti af Golfstraumnum, sem fer hér norðureftir. Hann er miklu stærri fyrir sunnan Ísland."
Sumir, sem telja sig hafa höndlað stóra sannleik, og að hann eigi brýnt erindi til almennings, eru óþarflega PR-kátir, þ.e. veikir fyrir sviðsljósinu. Með því að draga boðskapinn dökkum dráttum, fær hann áberandi rými og umfjöllun í fjölmiðlum, en þá verður líka að hafa í huga, að hafa skal gát í nærveru sálar. Að vekja tilvistarótta í huga almennings er ábyrgðarhluti, enda oft hræðsluáróður í vafasömu og ankannalegu augnamiði.
28.3.2022 | 10:51
Höfuðborg í gíslingu einstrengingsháttar
Stjórn höfuðborgarinnar virðist hverfast um þá köllun meirihluta borgarstjórnar að umbylta samgönguháttum í borginni. Meirihlutinn vill smala fólki út úr einkabílunum og inn í almenningsvagna. Til þess eru notuð óvægin meðul á borð við myndun tafa og umferðarhnúta. Þá er lóðaúthlutun sniðin við þessa hugmyndafræði með því að hún eigi sér aðallega stað á s.k. þéttingarreitum, helzt á upptakasvæði Borgarlínu, sem allt borgarskipulagið hverfist um núna og hefur smitað yfir í nágrannasveitarfélögin.
Tafirnar auka orkunotkunina og mengunina í borginni, eru óþægilegar fyrir borgarana og kosta stórfé, sennilega um 30 mrdISK/ár (tíminn er peningar) um þessar mundir og fara hratt vaxandi. Þessum töfum er ætlað að hrekja bílstjóra og farþega þeirra út úr bílunum og upp í almenningsvagnana, þótt þeir verði víðast hvar líka fyrir töfum. Til að ráða bót á þessu og auka hraða almenningsvagnanna ætla þessir hugmyndafræðingar forræðishyggjunnar að búa til 2 sérakreinar fyrir miðju gatnanna, þar sem Borgarlínu er ætlað að fara um, og tvínóna þá ekki við að gera þetta á kostnað flutningsgetu núverandi gatna, þ.e. með því að fækka akreinum. Umferðarkerfi borgarinnar er þegar meðal hins frumstæðasta, sem finnst á meðal þróaðra iðnaðarþjóða í sambærilegum bæjarfélögum, og veldur auðvitað alltof hárri slysatíðni og feikilegu tjóni.
Gatnakerfi Bergen er miklu nútímalegra en gatnakerfi Reykjavíkur frá sjónarmiði bílstjóra. Fyrir nokkrum árum var sett á laggirnar keimlík borgarlína þar og ætlunin er að gera á höfuðborgarsvæðinu. Hún átti að draga úr bílaumferð, en reyndin varð sú, að hún gerði það alls ekki. Þar með brast rekstrargrundvöllur undan borgarlínu Bergen. Hvað gerðu borgaryfirvöld þar þá ? Þau settu á "bompenger" eða gatnagjöld á bílana, sem nú þurfa að borga um 1000 ISK/dag fyrir að fara þar um. Sú von borgarstjórans í Reykjavík, að borgarlínan muni flytja 12 % þeirra, sem eru á ferðinni í Reykjavík, á eftir að verða sér rækilega til skammar, því að þjónustustigið fyrir almenning vex ekki nóg m.v. það, sem það er nú, þegar Strætóhlutdeild ferða er 4 %. Borgarlínan er fjárhagslegt kviksyndi, sem auðvelt er að forðast með "léttri" borgarlínu.
Þetta er algerlega fráleit samgöngustefna, því að höfundar hennar reyna með öllu móti að taka ráðin af fólki, hafa vit fyrir því um samgöngumáta þess. Að baki býr ólýðræðislegur hugsunarháttur forræðishyggjunnar.
Með samningi borgarinnar og samgönguráðherra 2011 voru þau afglöp framin að setja allar áformaðar samgöngubætur Vegagerðarinnar á ís í 10 ár með slæmum afleiðingum fyrir umferðaröryggi, mengun og þjóðhagslegan kostnað umferðarinnar. Í staðinn átti ríkissjóður að leggja fram um 1 mrdISK/ár til almenningssamgangna innan borgarinnar og í rútuferðir á milli borgar og landsbyggðar (opinber samkeppni við einkafyrirtæki er afleit hugmynd, en ær og kýr vinstri sinna). Þetta gerræðislega tiltæki fól í sér aðför að umferðaröryggi, því að nú er leitun að jafnlélegu gatnakerfi í um 150 þús. manna borg og í Reykjavík, og er þá ekki átt við viðhaldið, heldur lélegt umferðarflæði.
Það er þyngra en tárum taki, hvernig sérvizka sértrúarhóps veldur stöðnun (hlutfallslegri afturför með fjölgun bíla) umferðarmála og kreppu (gríðarlegum skorti á viðeigandi og hagkvæmum íbúðum) á húsnæðismarkaði.
Með eflingu Strætó með ríkisstuðningi átti að tvöfalda hlutdeild almenningsvagna í heildarfjölda vegfarenda í borginni, en niðurstaðan var næsta fyrirsjáanleg. Hlutdeildin var 4 % í upphafi tímabilsins og var 4 % í lok þessa tilraunatímabils að áratug liðnum. Draumóramenn borgarlínu ætla, að með henni megi þrefalda þessa hlutdeild og að þannig muni hún standa undir rekstrarkostnaði sínum, en það er af og frá. Til þess er óhagræðið fyrir íbúana, sem vanizt hafa einkabil, allt of mikið. Fjárfestingin mun þannig aldrei skila sér, öfugt við mislæg gatnamót og Sundabraut, og reksturinn verður þungur baggi á sveitarfélögunum, sem að þessu gönuskeiði standa. Lífsskilyrði á höfuðborgarsvæðinu munu versna með borgarlínu, en ekki batna, eins og draumóramenn gaspra um.
Fyrri forystugrein Morgunblaðsins 13. desember 2021 hét:
"Blekkingar í borginni".
Þar stóð m.a.:
"Hann [meirihluti borgarstjórnar-innsk. BJo] segist hafa "grænt plan" um uppbyggingu, en staðreyndin er sú, að hann má hvergi sjá grænan blett í borginni án þess að vilja reisa þar nokkurra hæða hús.
Meirihlutinn segist ekki vera á móti einkabílnum, en hann þrengir allar götur, sem hann kemst yfir og fjarlægir bílastæði af miklu kappi. Og þegar hann skipuleggur nýja byggð á grænu blettunum, þá gætir hann þess að hafa vel innan við eitt stæði á íbúð, þannig að flestir íbúarnir, bæði þeir nýju og hinir, sem fyrir voru í hverfinu, lenda í vandræðum.
Auk þessa vill meirihlutinn leggja borgarlínu, sem á víða að taka burt akreinar með þeim augljósu afleiðingum, að umferðin verður enn hægari og teppurnar verri. En það er eins með borgarlínuna og Bústaða- og Fossvogshverfið; hún er ekki endanlega útfærð, þannig að hægt er að halda því fram, að niðurstaðan verði ekki endilega jafnslæm og við blasir. Þetta verður seint talinn heiðarlegur málflutningur í aðdraganda kosninga, en það er ekki hægt að útiloka, að hann verði árangursríkur."
Verkin tala, og flestir íbúar Reykjavíkur á kosningaaldri ættu að geta sannreynt, að núverandi borgarstjórnarmeirihluti siglir undir fölsku flaggi. Hann ætlar af fordild sinni og forstokkun að troða upp á Reykvíkinga lífsháttum, sem eru bæði síðri að gæðum og dýrari en tíðkazt hafa í höfuðborg Íslands. Af siðlegum ástæðum á að losa sig við stjórnmálamenn úr valdastöðum, sem sigla undir fölsku flaggi, hvar í flokki sem þeir standa.
Stjórnmálamennirnir í núverandi meirihluta borgarstjórnar uppfylla ekki lágmarkskröfur um heilindi við hag borgarbúa og raunar landsmanna allra. Andstaðan við að brjóta nýtt land undir byggð hefur framkallað alvarlegan lóðaskort fyrir húsnæði af öllu tagi, sem framkallað hefur hrikalegan framboðsskort húsnæðis (vantar a.m.k. 3000 íbúðir á ári upp á framboðið á höfuðborgarsvæðinu á næsta kjörtímabili, og munar þar mest um þéttingarstefnu byggðar í Reykjavík meðfram borgarlínu).
Angi af sömu þröngsýnu fordildinni (mjög slæmur eiginleiki stjórnmálamanns) er að bægja Vatnsmýrarvellinum burt. Nú lítur út fyrir, að 19 sæta rafknúnar flugvélar verði á markaðinum innan fáeinna ára. Þær verða í upphafi dýrari í innkaupum en sambærilegar vélar knúnar sprengihreyfli, en viðhalds- og orkukostnaður rafknúnu flugvélanna verður miklu lægri, svo að farmiðaverð getur lækkað talsvert. Þessi tækni getur bætt samgöngur á milli margra staða og Reykjavíkur án mengunar og með minni hávaða en verið hefur. Það verður að stöðva aðför borgarstjóra og fylgifiska hans að flugvellinum og hefja þar uppbyggingu á aðstöðu til framtíðar.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, ritaði stórgóða grein í Morgunblaðið 17. febrúar 2022 um óboðlega stjórnun Reykjavíkur um þessar mundir, þar sem allt snýst um að fjölga fólki í grennd við fyrirhugaða borgarlínu, sem er auðvitað fráleit forsenda að borgarskipulagi og lóðaúthlutunum. Ósvífni vinstri meirihlutans í garð íbúa Reykjavíkur og raunar landsins alls á sér engin takmörk, enda verður að flokka valdastöðu þeirra sem slys á lýðræðislegri vegferð.
Fyrirsögn téðrar greinar Mörtu var:
"Húsnæðisskortur í boði borgaryfirvalda".
Þar stóð m.a.:
"Borgarstjórn sér um lóðaúthlutanir í Reykjavík og hefur það því í hendi sér, hvort yfirleitt sé byggt í borginni, hvar, á hversu mörgum lóðum og á hversu dýrum lóðum. Þéttingarstefna meirihlutans fækkaði mjög lóðaúthlutunum og margfaldaði verð á byggingalóðum. Þegar borgaryfirvöld úthlutuðu lóðum úr eigin landi, var það lengi viðmið, að lóðaverð væri um 4 % af heildarbyggingarkostnaði íbúðar. Nú hefur þetta verð margfaldazt og víða tífaldazt. Það gefur því auga leið, að skortur á byggingarlóðum í Reykjavík og margfalt verð á þeim m.v. fyrri tíð eru helztu langtímaástæður fyrir núverandi hækkunum á fasteignamarkaðnum."
Þessi skort- og okurstefna á lóðum undir íbúðir er ófagur vitnisburður um skeytingarleysi borgarstjórnarmeirihlutans gagnvart húsnæðislausu fólki og þeim, sem þurfa að stækka eða minnka við sig. Það er grundvallar mælikvarði á frammistöðu sveitarstjórnarmeirihluta, hvernig honum tekst upp við að skipuleggja nýja íbúðabyggð og svara spurn fólks eftir nýjum lóðum og húsnæði innan sveitarfélagsins. Fyrir frammistöðu sína á þessu sviði og fleiri sviðum, s.s. við meðferð fjár og fjármálastjórnun borgarsjóðs, verðskuldar núverandi borgarstjórnarmeirihluti falleinkunn með lægstu mögulegu einkunn, því að ömurlegri getur frammistaðan vart orðið á þessu sviði.
Með undirfyrirsögninni:
"Framboð og eftirspurn hvað" ,
hélt Marta áfram:
"Hjá borgarstjórn Reykjavíkur blikka hins vegar engin ljós. Hún kærir sig kollótta um framboð og eftirspurn sem og þá spurningu, hvort ungir Reykvíkingar geti keypt þar sína fyrstu íbúð.
Á borgarstjórnarfundi sl. þriðjudag [15.02.2022] fóru fram umræður um fasteignamarkaðinn og húsnæðismálin í Reykjavík að beiðni okkar sjálfstæðismanna. Ýmsar þær tölur, sem hér hefur verið drepið á, komu þar til álita. En það var ekki að sjá, að þær röskuðu ró meirihlutans. Stefnan er skýr: Það, sem byggt verður í Reykjavík, verða sviplaus excel-skjalteiknuð fjölbýlisstórhýsi meðfram Borgarlínu svo há og þétt, að sjaldan sér til sólar á jörðu niðri né glittir í gróður. Einbýlis- og tvíbýlishús eru ekki í boði. Þetta heitir á máli borgaryfirvalda sérlega fjölbreytileg íbúðabyggð."
Þessi frásögn staðfestir, að áttaviti borgarstjórnarmeirihlutans við uppbyggingu í Reykjavík er kolruglaður. Samfylkingin og fylgifiskar hennar í borgarstjórn láta andvana fædda draumsýn um forneskjulegt fyrirkomulag umferðar í borginni stjórna lóðaúthlutunum og skipulagi borgarinnar. Þegar málsvarar þessa steinrunna stjórnmálaflokks taka þátt í umræðum um hinn geigvænlega húsnæðisskort í höfuðborginni, neita þau einstrengingslega að viðurkenna stórfelld stjórnunarleg mistök borgarstjórans, en draga óðar fram blóraböggla á borð við bankana og jafnvel Seðlabankann, sem örvaði hagkerfið í Kófinu með vaxtalækkun.
Þetta heitir að neita að horfa í eigin barm. Slíkum er alls varnað og er alls ekki treystandi til að fara með forræði yfir málefnum almennings, t.d. að stjórna einni höfuðborg. Hinum illa áttaða borgarstjóra Reykjavíkur verður að gefa frí frá borgarstjórastörfum í maí 2022, ef ekki á að verða stórfellt skipulagslegt og pólitískt slys í borginni.
19.3.2022 | 11:45
Stórhuga hugmyndir um vindorkuver
Markaðsdrifin fyrirtæki hafa fyrir löngu eygt mikil viðskiptatækifæri í ömurlegum vandræðagangi íslenzkra stjórnvalda við að gegna þeirri sjálfsögðu skyldu sinni með vísun til þjóðaröryggis að tryggja hér nægt framboð raforku, þ.m.t. til upphitunar húsnæðis, þar sem íbúarnir verða að reiða sig á rafmagn ellegar að brenna olíu.
Vindorkufyrirtæki hafa látið í ljós áhuga sinn á því að stíga með skjótum hætti inn í skortstöðuna, sem stjórnvöld hafa með aðgerðarleysi leyft að myndast. Orku, sem kemur inn í skortstöðu, er hægt að selja á hærra verði en ella, og það getur skapað vindorkuverum á Íslandi rekstargrundvöll, sem þau annars hefðu ekki. Vindorkufyrirtækin hafa sennilega einnig gert sér grein fyrir, að til langs tíma er miðlunargeta íslenzkra miðlunarlóna of lítil til að anna álaginu og þannig eygt möguleika á að selja Landsvirkjun alla þá raforku, sem þeir geta látið af hendi, svo að Landsvirkjun geti sparað vatn. Sama árangri má ná með gufuvirkjunum. Vindorkufyrirtækin hafa kynnt áhuga sinn fyrir vindorkugörðum m.a. á Hróðnýjarstöðum við Búðardal, í Gilsfirði, á Laxárdalsheiði, á Melrakkasléttu og á Mosfellsheiði.
Nú er komin fram hugmynd frá bandarísku félagi um að reisa risavaxið vindorkuver úti fyrir strönd Íslands með uppsettu afli alls 10 GW. Þetta er um ferfalt allt uppsett afl á landi og gæti framleitt um 35 TWh/ár, sem er 75 % meira en framleiðslugeta virkjana á Íslandi um þessar mundir. Viðskiptahugmyndin snýst um að selja orkuna til Bretlands. Aðalmálið í þessu sambandi hlýtur að verða, hvaða áhrif slíkir vindmyllugarðar, 20-40 km frá landi, hafa á öryggi sæfarenda. Af kynningu að dæma gætu þessar vindmyllur orðið tæplega 1000 talsins, og líklega verða reistir dreifistöðvarpallar til að safna orkunni inn á safnskinnur, spenna hana upp og breyta í jafnspennu fyrir flutningsstrengi til Bretlands. Það hljómar sem undarleg viðskiptahugmynd að leita alla leið til Íslands til að setja upp orkuver á hafi úti til að framleiða raforku fyrir Bretland. Eru ekki aðrir kostir nærtækari, t.d. skozku eyjarnar eða Færeyjar ? Líklega kæra íbúarnir þar sig ekki um þessi ferlíki úti fyrir sínum ströndum, sem óhjákvæmilega hafa áhrif á aðra nýtingu hafsvæðanna, s.s. til siglinga og veiða.
Það er fagnaðarefni, hversu áhugasöm ritstjórn Morgunblaðsins er um orkumál, og 12. febrúar 2022 birtist þar frásögn Gunnlaugs Snæs Ólafssonar af þessum áformum og umfjöllun norsku Hafrannsóknarstofnunarinnar (Havforskningsinstituttet-HI) um umhverfisáhrif slíkra mannvirkja:
"Aukinn áhugi hefur verið á uppbyggingu vindmyllugarða í Noregi á undanförnum árum, ekki sízt vegna síhækkandi raforkuverðs, en miklum efasemdum hefur verið lýst um ágæti slíkra áforma.
"Vindorkuver á hafi úti framleiða hljóð, sem flestir fiskar og sjávarspendýr heyra. Hljóðunum má skipta í byggingarhljóð, þ.e. hljóð frá byggingu vindmyllanna og framleiðsluhávaða, hljóð frá vindmyllum, sem eru í gangi", segir í inngangi kafla skýrslunnar um áhrif vindmyllugarða."
Lágtíðnihljóðið smýgur inn um veggi bygginga og er ein af ástæðum þess, að ekki ætti að leyfa staðsetningu vindmylluvera á landi í grennd við íbúðarhúsnæði eða útihús, eins og t.d. á Hróðnýjarstöðum við Hvammsfjörð. Ekki er ólíklegt, að sjávardýrin geti beðið tjón af þessu hljóði líka, en þau hafa tilhneigingu til að safnast að slíkum mannvirkjum.
Þarna er minnzt á Noreg. Óhugnanlegt er að sjá viðurstyggileg vindorkuver upp um fjöll og firnindi Noregs, og hvernig stórum flæmum óspilltrar náttúru hefur verið rótað upp vegna slóðagerðar, skurðgraftar fyrir rafstrengi og graftar fyrir gríðarlegar steyptar undirstöður fyrir hverja burðarsúlu rafala og spaða. Þá er ekki gott til þess að vita, að plasttrefjaagnir slitna frá spöðunum og dreifast um óspillta náttúruna og menga fæðu fugla og spendýra og drykkjarvatn.
Frá HI kom þetta í téðri frásögn blaðamanns:
"Stöðugur lágtíðnihávaði frá túrbínunum [spöðunum-innsk. BJo], á meðan þær [þeir] eru í rekstri, mun fyrst og fremst hafa áhrif á dýrin í og nálægt vindmyllugörðunum. Þar sem botndýr koma sér fyrir á svæðinu og fiskar laðast oft að svæðinu, verða þessir hópar fyrir framleiðsluhávaða í lengri tíma. Stöðugur lágtíðnihávaði getur haft áhrif á hegðun eins og botnblöndun, beit, æxlun, hegðun gegn rándýrum og samskipti, en hversu mikil áhrifin eru m.v. jákvæð áhrif aukins fæðuframboðs og skjóls í vindorkuverum er óþekkt. Einnig eru þekkingareyður um getu sjávardýra til að laga sig að hávaðaáhrifum með tímanum."
Rannsóknir á umhverfisáhrifum vindmylla á hafi úti virðast ekki hafa leitt til neinnar niðurstöðu, þótt um 20 ára reynsla sé af rekstri þeirra úti fyrir ströndum Evrópu og Bandaríkjanna. Þegar við bætast öryggis- og mengunarsjónarmið virðist að svo stöddu gamla slagorðið, sem í öðru samhengi er ekkert annað en skálkaskjól, að náttúran skuli njóta vafans, eiga við.
Norska hafrannsóknarstofnunin er raunverulega bara að velta upp þeim atriðum, sem þarf að rannsaka áður en heimild er veitt til að reisa vindorkuver á hafi úti:
"Hávaði getur, ásamt öðrum áhrifum vindorkuvirkjana (t.d. breytingum á rafsegulsviðum og straummynztri), leitt til breytinga á búsvæðum, sem geta hugsanlega haft neikvæð áhrif, eins og minni æxlun og/eða aukna dánartíðni."
Síðan kemur fram í þessari umfjöllun, að norska ríkisstjórnin er raunverulega að beina vindmyllufjárfestingum á haf út, líklega af því að vaxandi andstaða er á meðal norsks almennings við vindmylluver á landi, enda spara þau Norðmönnum enga jarðefnaeldsneytisbrennslu, eins og reyndin er á meginlandi Evrópu og á Bretlandi. Skilvirkni vindmylla til raforkuvinnslu er lítil m.v. fjármagnsþörf og landþörf. Þess vegna er vindmyllurekstur til raforkuvinnslu hérlendis líklegur til að þrýsta verði raforku upp, sem leiða mun til veikingar á samkeppnishæfni Íslands. Þannig virðist það vera meinloka spákaupmanna, að vindmyllur eigi heima í íslenzku raforkuumhverfi.
"Ríkisstjórnin vill stórfellda fjárfestingu í vindorku á hafi úti, en sýnir engan vilja til að rannsaka afleiðingar þess fyrir nokkra af stærstu fiskistofnum heims. Á Noregur að fjárfesta í blindni, eða ættum við í staðinn að afla vitneskju um afleiðingarnar og tryggja áframhaldandi sjálfbæra stjórnun fiskveiðiauðlinda okkar ?", spyrja talsmenn samtaka norskra útgerðarmanna, Fiskebåt, í grein á vef sínum."
Svipaðs andvaraleysis hefur gætt í Noregi varðandi leyfisveitingar fyrir vindmyllum úti í fallegri fjallanáttúru, þar til þjóðin vaknar nú upp við vondan draum. Þrýstingur hefur verið mikill í Noregi frá vindmyllufyrirtækjunum, því að þau hafa getað flutt raforkuna utan við háu verði, og þá hefur verið hægt að halda því fram, að þessi endurnýjanlega orkuvinnsla dragi úr losun koltvíildis út í andrúmsloftið. Það er næsta víst, að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi munu að svo stöddu hafa uppi svipuð varnaðarorð gegn risavindmyllum úti fyrir Suð-Austurlandi og norskir útgerðarmenn hafa haft uppi gegn vindmyllum við strandlengju Noregs, enda á Noregur, eins og Ísland, enn talsvert eftir af óvirkjuðu vatnsafli og mun verða að bæta við virkjunum vegna orkuskipta og þjóðar í vexti. Að treysta á innflutning raforku utan mesta álagstímans veitir ófullnægjandi afhendingaröryggi raforku fyrir Ísland. Íslendingar eiga einfaldlega að beina fjárfestingargetu raforkuiðnaðar síns í virkjanir á jarðgufu og vatnsafli, þannig að á Íslandi verði alltaf borð fyrir báru á framboðshlið raforkunnar m.v. eftirspurn almenningsveitna og fyrirtækja, sem geta staðið undir arðbærum samningum fyrir íslenzk raforkufyrirtæki. Með þessu móti verður bæði tryggð hámarkshagkvæmni við nýtingu orkulinda landsins og lágmarks unhverfisrask. Er það ekki augljóst ?
14.3.2022 | 11:43
Kjarnorkuver eru forsenda orkuskipta víðast hvar í Evrópu
Frakkar hafa aldrei lagt kjarnorkuna á hilluna og Bretar ekki heldur. Þjóðverjar veðjuðu á mikil og örugg jarðgaskaup frá Rússlandi til að fylla upp í eyður verðleika vindmyllna og sólarhlaða. Nú hafa þeir vaknað upp með andfælum og áttað sig á, að orkuna er ekki unnt að eiga undir Rússum, hverra valdamenn eru haldnir sjúklegum landvinningahugmyndum, eins og tröllriðið hafa rússneskum valdamönnum um aldaraðir, sem og landakortið ber vott um. Hið eina, sem komið getur af fullum krafti í stað jarðefnaeldsneytis til raforkuvinnslu í flestum löndum Evrópu, er kjarnorkan.
Íslendingar eru í sérstöðu, hvað þetta varðar, með orku fallvatna og jarðgufu auk jarðhita undir 100°C til húsahitunar. Þá bregður hins vegar svo við, að einstrengingslegt úrtölufólk, eintrjáningar, sem er fyrirmunað að sjá heildarmyndina og varðar ekkert um þjóðarhag, leggjast af offorsi, af því að rök vantar, gegn frekari nýtingu þessara eftirsóknarverðu orkulinda og hafa fengið þá flugu í höfuðið, að búið sé að virkja nóg. Þau eru í raun að berjast gegn orkuskiptum og aukinni hagsæld í landinu, enda fléttast inn gasprið hugmyndir um, að þjóðin verði að hætta að sækjast eftir hagvexti, en kappkosta í staðinn núllvöxt. Einkabíllinn er óvinur þessara voluðu sálna, líka sá rafvæddi. Afleiðingarnar af glapræði þessara afturhaldsviðhorfa eru sérkapítuli.
Í samningaviðræðunum, sem leiddu til Rio-umhverfisráðstefnunnar árið 1992, eyddi Saudi-Arabía miklum tíma í að fá sett inn orðin "umhverfislega örugg og traust" (environmentally safe and sound) framan við "orkulindir" (energy sources) og "orkuframboð" (energy supplies). Þar sem olía Saudi-Arabíu, sem íbúarnir pumpa upp úr jörðunni í meira mæli en annars staðar þekkist, er nú á dögum ekki talin vera umhverfislega örugg, virðist þetta keppikefli Saudanna þokukennt. Í þá daga var þó ætlun Saudanna öllum, sem létu sig málin varða, ljós: orðalaginu var ætlað að halda kjarnorkunni utan við dagskrá Rio.
Olíukreppur 8. áratugar 20. aldarinnar höfðu hleypt lífi í þróun, hönnun og uppsetningu kjarnorkuvera í mörgum löndum. Á áratugnum fyrir 1992 hafði orðið aukning í notkun raforku frá kjarnorkuverum um 130 %. Það, sem meira var; það voru umræður um að nota raforkuna frá kjarnorkuverunum til að rafgreina vatn og fá þannig vetni í gervieldsneyti. Hvort sem Saudarnir báru umhverfið fyrir brjósti eða ekki, þá gerðu þeir sér ljóst, hvaðan vænta mætti samkeppni.
Varnarviðbrögð þeirra reyndust óþörf. Öfugt við olíukreppurnar hefur baráttan við hlýnun jarðar ekki framkallað hrifningu á kjarnorkunni. Notkun hennar náði hámarki 2006, en árið 2019 var hún aðeins 18 % meiri en en árið 1992. Sem hlutfall af frumorkunotkun heimsins féll hún úr 6.1 % árið 2006 í 4,3 % árið 2019. Skýringarinnar er að leita í því, að eftirlitsaðilar kjarnorkumála hafa stöðugt verið að hlaða utan á regluverkið um kjarnorkuverin nýjum kröfum, sem allar hafa bætt við kostnaði, sem dregið hefur úr fjárhagslegri arðsemi þeirra, en skaðleg áhrif jarðefnaeldsneytis hafa yfirleitt ekki verið látin endurspeglast í verði þess. Þar að auki hafa umhverfisverndarsinnar af tilfinningalegum ástæðum lagzt gegna kjarnorkuverum.
Róttæk lækkun á vinnslukostnaði vindmyllna og sólarhlaðna síðasta áratuginn hefur varðað leið Vesturlanda til kolefnislausrar raforkuvinnslu, en hún leiðir ekki til ákvörðunarstaðarins, af því að raforkukerfin eru órekanleg með þeim án varaafls, og þá er gripið til jarðgasknúinna raforkuvera. Nú hefur orðið kúvending á viðhorfi margra þjóða, t.d. Þjóðverja, til jarðgasöflunar, því að ríkið, sem afhenti þeim áður gas, hefur reynzt vera glæpsamlegt útþensluríki, sem einskis svífst í grimmdarlegri aðför, villimannslegu stríði, við nágrannaríki, sem alls ekki vill aftur lenda undir yfirráðum þessa frumstæða nágranna, sem lýtur forystu siðblindingja af verstu sort, höldnum lygaáráttu og allra handa ranghugmyndum í sínum bunker.
Kjarnorkan hefur sína galla, eins og allar orkulindir. Þegar hún er hins vegar undir eðlilegu faglegu eftirliti, þar sem hönnunin er reist á vönduðum áhættugreiningum, svo að þau eru í raun "fail safe", þ.e. örugg í bilunartilvikum, þá eru þau mjög örugg. Þess vegna er við núverandi aðstæður heimskulegt að loka kjarnorkuverum þessarar gerðar, sem enn hafa ekki lokið öruggu rekstrarskeiði sínu, eins og t.d. Diablo Canyon í Kaliforníu vegna lítils annars en fordóma, eins og einnig átti við um Þýzkaland, sem nú hlýtur að söðla um í þessum efnum, þegar landið sér "skriftina á veggnum". Þess vegna hafa nokkur lönd, í mestum mæli Kína, nú þegar hafið mikið uppbyggingarskeið kjarnorkuvera. Ekki er víst, að þau fullnægi þó öll vestrænum öryggiskröfum, en orkuneyðin og mengunin knýr á um þessa stefnu í Kína. Jafnvel Saudi-Arabarnir hafa nú hoppað á þetta hross.
Þess vegna er nú aukinn þrýstingur á markaðinum, t.d. á Bretlandi og í Frakklandi, að lækka kostnaðinn við kjarnorkuverin. Frakkar, sem nota kjarnorku í ríkum mæli (> 50 %), byggja stór kjarnorkuver, en þeim hefur á seinni árum ekki tekizt að halda sig innan kostnaðaráætlana og tímamarka með þau. Þeir eru nú með ný áform um lítil ver í einingum (SMR), sem eru miklu viðráðanlegri verkefni en hin stóru. Þann 4. nóvember 2021 skrifaði bandarískt félag, NuScale, undir samning um afhendingu 6 slíkra kjarnakljúfa til Rúmeníu, svo að ýmsir sjá nú ljósið.
Að hanna kjarnorkuver í fremur litlum einingum er góð hugmynd, því að þannig má koma við stöðlun á öllum sviðum hönnunar, framleiðslu, flutninga og uppsetningar, sem veitir kost á hagræðingu, er hefur í för með sér sparnað. Regluverkið þarf að vera sveigjanlegt og faglegt, svo að það veiti svigrúm til samkeppni ólíkra framleiðenda. Þetta mun gera kjarnorkuiðnaðinn aftur að góðum jarðvegi fyrir líflega tækniþróun, eins og var raunin á árum áður en reglufarganið lamaði þróunina, svo að kjarnorkan gat ekki veitt jarðefnaeldsneytinu verðuga samkeppni.